The Old Testament of the Holy Bible
1.1 Í upphafi skapaði Guð himin og jörð. 1.2 Jörðin var þá auð og tóm, og myrkur grúfði yfir djúpinu, og andi Guðs sveif yfir vötnunum. 1.3 Guð sagði: 'Verði ljós!' Og það varð ljós. 1.4 Guð sá, að ljósið var gott, og Guð greindi ljósið frá myrkrinu. 1.5 Og Guð kallaði ljósið dag, en myrkrið kallaði hann nótt. Það varð kveld og það varð morgunn, hinn fyrsti dagur. 1.6 Guð sagði: 'Verði festing milli vatnanna, og hún greini vötn frá vötnum.' 1.7 Þá gjörði Guð festinguna og greindi vötnin, sem voru undir festingunni, frá þeim vötnum, sem voru yfir henni. Og það varð svo. 1.8 Og Guð kallaði festinguna himin. Það varð kveld og það varð morgunn, hinn annar dagur. 1.9 Guð sagði: 'Safnist vötnin undir himninum í einn stað, svo að þurrlendið sjáist.' Og það varð svo. 1.10 Guð kallaði þurrlendið jörð, en safn vatnanna kallaði hann sjó. Og Guð sá, að það var gott. 1.11 Guð sagði: 'Láti jörðin af sér spretta græn grös, sáðjurtir og aldintré, sem hvert beri ávöxt eftir sinni tegund með sæði í á jörðinni.' Og það varð svo. 1.12 Jörðin lét af sér spretta græn grös, jurtir með sæði í, hverja eftir sinni tegund, og aldintré með sæði í sér, hvert eftir sinni tegund. Og Guð sá, að það var gott. 1.13 Það varð kveld og það varð morgunn, hinn þriðji dagur. 1.14 Guð sagði: 'Verði ljós á festingu himinsins, að þau greini dag frá nóttu og séu til tákns og til að marka tíðir, daga og ár. 1.15 Og þau séu ljós á festingu himinsins til að lýsa jörðina.' Og það varð svo. 1.16 Guð gjörði tvö stóru ljósin: hið stærra ljósið til að ráða degi og hið minna ljósið til að ráða nóttu, svo og stjörnurnar. 1.17 Og Guð setti þau á festingu himinsins, að þau skyldu lýsa jörðinni 1.18 og ráða degi og nóttu og greina sundur ljós og myrkur. Og Guð sá, að það var gott. 1.19 Það varð kveld og það varð morgunn, hinn fjórði dagur. 1.20 Guð sagði: 'Vötnin verði kvik af lifandi skepnum, og fuglar fljúgi yfir jörðina undir festingu himinsins.' 1.21 Þá skapaði Guð hin stóru lagardýr og allar hinar lifandi skepnur, sem hrærast og vötnin eru kvik af, eftir þeirra tegund, og alla fleyga fugla eftir þeirra tegund. Og Guð sá, að það var gott. 1.22 Og Guð blessaði þau og sagði: 'Frjóvgist og vaxið og fyllið vötn sjávarins, og fuglum fjölgi á jörðinni.' 1.23 Það varð kveld og það varð morgunn, hinn fimmti dagur. 1.24 Guð sagði: 'Jörðin leiði fram lifandi skepnur, hverja eftir sinni tegund: fénað, skriðkvikindi og villidýr, hvert eftir sinni tegund.' Og það varð svo. 1.25 Guð gjörði villidýrin, hvert eftir sinni tegund, fénaðinn eftir sinni tegund og alls konar skriðkvikindi jarðarinnar eftir sinni tegund. Og Guð sá, að það var gott. 1.26 Guð sagði: 'Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd, líkan oss, og hann skal drottna yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir fénaðinum og yfir villidýrunum og yfir öllum skriðkvikindum, sem skríða á jörðinni.' 1.27 Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu. 1.28 Og Guð blessaði þau, og Guð sagði við þau: 'Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.' 1.29 Og Guð sagði: 'Sjá, ég gef ykkur alls konar sáðberandi jurtir á allri jörðinni og alls konar tré, sem bera ávöxtu með sæði í. Það sé ykkur til fæðu. 1.30 Og öllum villidýrum og öllum fuglum loftsins og öllum skriðkvikindum á jörðinni, öllu því, sem hefir lifandi sál, gef ég öll grös og jurtir til fæðu.' Og það varð svo. 1.31 Og Guð leit allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott. Það varð kveld og það varð morgunn, hinn sjötti dagur.
2.1 Þannig algjörðist himinn og jörð og öll þeirra prýði. 2.2 Guð lauk á hinum sjöunda degi verki sínu, er hann hafði gjört, og hvíldist hinn sjöunda dag af öllu verki sínu, er hann hafði gjört. 2.3 Og Guð blessaði hinn sjöunda dag og helgaði hann, því að á honum hvíldist Guð af verki sínu, sem hann hafði skapað og gjört. 2.4 Þetta er sagan um uppruna himins og jarðar, er þau voru sköpuð. 2.5 Þegar Drottinn Guð gjörði jörðina og himininn, var enn alls enginn runnur merkurinnar til á jörðinni, og engar jurtir spruttu enn á mörkinni, því að Drottinn Guð hafði ekki enn látið rigna á jörðina og engir menn voru til þess að yrkja hana, 2.6 en þoku lagði upp af jörðinni, og vökvaði hún allt yfirborð jarðarinnar. 2.7 Þá myndaði Drottinn Guð manninn af leiri jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál. 2.8 Drottinn Guð plantaði aldingarð í Eden langt austur frá og setti þar manninn, sem hann hafði myndað. 2.9 Og Drottinn Guð lét upp vaxa af jörðinni alls konar tré, sem voru girnileg á að líta og góð að eta af, og lífsins tré í miðjum aldingarðinum og skilningstréð góðs og ills. 2.10 Fljót rann frá Eden til að vökva aldingarðinn, og þaðan kvíslaðist það og varð að fjórum stórám. 2.11 Hin fyrsta heitir Píson; hún fellur um allt landið Havíla, þar sem gullið fæst. 2.12 Og gull lands þess er gott. Þar fæst bedolakharpeis og sjóamsteinar. 2.13 Önnur stóráin heitir Gíhon. Hún fellur um allt Kúsland. 2.14 Þriðja stóráin heitir Kíddekel. Hún fellur fyrir vestan Assýríu. Fjórða stóráin er Efrat. 2.15 Þá tók Drottinn Guð manninn og setti hann í aldingarðinn Eden til að yrkja hann og gæta hans. 2.16 Og Drottinn Guð bauð manninum og sagði: 'Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta eftir vild, 2.17 en af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja.' 2.18 Drottinn Guð sagði: 'Eigi er það gott, að maðurinn sé einsamall. Ég vil gjöra honum meðhjálp við hans hæfi.' 2.19 Þá myndaði Drottinn Guð af jörðinni öll dýr merkurinnar og alla fugla loftsins og lét þau koma fyrir manninn til þess að sjá, hvað hann nefndi þau. Og hvert það heiti, sem maðurinn gæfi hinum lifandi skepnum, skyldi vera nafn þeirra. 2.20 Og maðurinn gaf nafn öllum fénaðinum og fuglum loftsins og öllum dýrum merkurinnar. En meðhjálp fyrir mann fann hann enga við sitt hæfi. 2.21 Þá lét Drottinn Guð fastan svefn falla á manninn. Og er hann var sofnaður, tók hann eitt af rifjum hans og fyllti aftur með holdi. 2.22 Og Drottinn Guð myndaði konu af rifinu, er hann hafði tekið úr manninum, og leiddi hana til mannsins. 2.23 Þá sagði maðurinn: 'Þetta er loks bein af mínum beinum og hold af mínu holdi. Hún skal karlynja kallast, af því að hún er af karlmanni tekin.' 2.24 Þess vegna yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr við eiginkonu sína, svo að þau verði eitt hold. 2.25 Og þau voru bæði nakin, maðurinn og kona hans, og blygðuðust sín ekki.
3.1 Höggormurinn var slægari en öll önnur dýr merkurinnar, sem Drottinn Guð hafði gjört. Og hann mælti við konuna: 'Er það satt, að Guð hafi sagt: ,Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum`?' 3.2 Þá sagði konan við höggorminn: 'Af ávöxtum trjánna í aldingarðinum megum við eta, 3.3 en af ávexti trésins, sem stendur í miðjum aldingarðinum, ,af honum,` sagði Guð, ,megið þið ekki eta og ekki snerta hann, ella munuð þið deyja.'` 3.4 Þá sagði höggormurinn við konuna: 'Vissulega munuð þið ekki deyja! 3.5 En Guð veit, að jafnskjótt sem þið etið af honum, munu augu ykkar upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills.' 3.6 En er konan sá, að tréð var gott að eta af, fagurt á að líta og girnilegt til fróðleiks, þá tók hún af ávexti þess og át, og hún gaf einnig manni sínum, sem með henni var, og hann át. 3.7 Þá lukust upp augu þeirra beggja, og þau urðu þess vör, að þau voru nakin, og þau festu saman fíkjuviðarblöð og gjörðu sér mittisskýlur. 3.8 En er þau heyrðu til Drottins Guðs, sem var á gangi í aldingarðinum í kveldsvalanum, þá reyndi maðurinn og kona hans að fela sig fyrir Drottni Guði millum trjánna í aldingarðinum. 3.9 Drottinn Guð kallaði á manninn og sagði við hann: 'Hvar ertu?' 3.10 Hann svaraði: 'Ég heyrði til þín í aldingarðinum og varð hræddur, af því að ég er nakinn, og ég faldi mig.' 3.11 En hann mælti: 'Hver hefir sagt þér, að þú værir nakinn? Hefir þú etið af trénu, sem ég bannaði þér að eta af?' 3.12 Þá svaraði maðurinn: 'Konan, sem þú gafst mér til sambúðar, hún gaf mér af trénu, og ég át.' 3.13 Þá sagði Drottinn Guð við konuna: 'Hvað hefir þú gjört?' Og konan svaraði: 'Höggormurinn tældi mig, svo að ég át.' 3.14 Þá sagði Drottinn Guð við höggorminn: 'Af því að þú gjörðir þetta, skalt þú vera bölvaður meðal alls fénaðarins og allra dýra merkurinnar. Á kviði þínum skalt þú skríða og mold eta alla þína lífdaga. 3.15 Og fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.' 3.16 En við konuna sagði hann: 'Mikla mun ég gjöra þjáningu þína, er þú verður barnshafandi. Með þraut skalt þú börn fæða, og þó hafa löngun til manns þíns, en hann skal drottna yfir þér.' 3.17 Og við manninn sagði hann: 'Af því að þú hlýddir röddu konu þinnar og ást af því tré, sem ég bannaði þér, er ég sagði: ,Þú mátt ekki eta af því,` þá sé jörðin bölvuð þín vegna. Með erfiði skalt þú þig af henni næra alla þína lífdaga. 3.18 Þyrna og þistla skal hún bera þér, og þú skalt eta jurtir merkurinnar. 3.19 Í sveita andlitis þíns skalt þú neyta brauðs þíns, þangað til þú hverfur aftur til jarðarinnar, því að af henni ert þú tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!' 3.20 Og maðurinn nefndi konu sína Evu, því að hún varð móðir allra, sem lifa. 3.21 Og Drottinn Guð gjörði manninum og konu hans skinnkyrtla og lét þau klæðast þeim. 3.22 Drottinn Guð sagði: 'Sjá, maðurinn er orðinn sem einn af oss, þar sem hann veit skyn góðs og ills. Aðeins að hann rétti nú ekki út hönd sína og taki einnig af lífsins tré og eti, og lifi eilíflega!' 3.23 Þá lét Drottinn Guð hann í burt fara úr aldingarðinum Eden til að yrkja jörðina, sem hann var tekinn af. 3.24 Og hann rak manninn burt og setti kerúbana fyrir austan Edengarð og loga hins sveipanda sverðs til að geyma vegarins að lífsins tré.
4.1 Maðurinn kenndi konu sinnar Evu, og hún varð þunguð og fæddi Kain og mælti: 'Sveinbarn hefi ég eignast með hjálp Drottins.' 4.2 Og hún fæddi annað sinn, bróður hans, Abel. Abel varð hjarðmaður, en Kain jarðyrkjumaður. 4.3 Og er fram liðu stundir, færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar. 4.4 En Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og af feiti þeirra. 4.5 Og Drottinn leit með velþóknun til Abels og fórnar hans, en til Kains og fórnar hans leit hann ekki með velþóknun. Þá reiddist Kain ákaflega og varð niðurlútur. 4.6 Þá mælti Drottinn til Kains: 'Hví reiðist þú, og hví ert þú niðurlútur? 4.7 Er því ekki þannig farið: Ef þú gjörir rétt, þá getur þú verið upplitsdjarfur, en ef þú gjörir ekki rétt, þá liggur syndin við dyrnar og hefir hug á þér, en þú átt að drottna yfir henni?' 4.8 Þá sagði Kain við Abel bróður sinn: 'Göngum út á akurinn!' Og er þeir voru á akrinum, réðst Kain á Abel bróður sinn og drap hann. 4.9 Þá sagði Drottinn við Kain: 'Hvar er Abel bróðir þinn?' En hann mælti: 'Það veit ég ekki. Á ég að gæta bróður míns?' 4.10 Og Drottinn sagði: 'Hvað hefir þú gjört? Heyr, blóð bróður þíns hrópar til mín af jörðinni! 4.11 Og skalt þú nú vera bölvaður og burt rekinn af akurlendinu, sem opnaði munn sinn til að taka á móti blóði bróður þíns af þinni hendi. 4.12 Þegar þú yrkir akurlendið, skal það eigi framar gefa þér gróður sinn. Landflótta og flakkandi skalt þú vera á jörðinni.' 4.13 Og Kain sagði við Drottin: 'Sekt mín er meiri en svo, að ég fái borið hana! 4.14 Sjá, nú rekur þú mig burt af akurlendinu, og ég verð að felast fyrir augliti þínu og vera landflótta og flakkandi á jörðinni, og hver, sem hittir mig, mun drepa mig.' 4.15 Þá sagði Drottinn við hann: 'Fyrir því skal hver, sem drepur Kain, sæta sjöfaldri hegningu.' Og Drottinn setti Kain merki þess, að enginn, sem hitti hann, skyldi drepa hann. 4.16 Þá gekk Kain burt frá augliti Drottins og settist að í landinu Nód fyrir austan Eden. 4.17 Kain kenndi konu sinnar, og hún varð þunguð og fæddi Henok. En hann var að byggja borg og nefndi borgina eftir nafni sonar síns Henok. 4.18 Og Henoki fæddist Írad, og Írad gat Mehújael, og Mehújael gat Metúsael, og Metúsael gat Lamek. 4.19 Lamek tók sér tvær konur. Hét önnur Ada, en hin Silla. 4.20 Og Ada ól Jabal. Hann varð ættfaðir þeirra, sem í tjöldum búa og fénað eiga. 4.21 En bróðir hans hét Júbal. Hann varð ættfaðir allra þeirra, sem leika á gígjur og hjarðpípur. 4.22 Og Silla ól einnig son, Túbal-Kain, sem smíðaði úr kopar og járni alls konar tól. Og systir Túbal-Kains var Naama. 4.23 Lamek sagði við konur sínar: Ada og Silla, heyrið orð mín, konur Lameks, gefið gaum ræðu minni! Mann drep ég fyrir hvert mitt sár og ungmenni fyrir hverja þá skeinu, sem ég fæ. 4.24 Verði Kains hefnt sjö sinnum, þá skal Lameks hefnt verða sjö og sjötíu sinnum! 4.25 Og Adam kenndi enn að nýju konu sinnar, og hún ól son og kallaði hann Set. 'Því að nú hefir Guð,' kvað hún, 'gefið mér annað afkvæmi í stað Abels, þar eð Kain drap hann.' 4.26 En Set fæddist og sonur, og nefndi hann nafn hans Enos. Þá hófu menn að ákalla nafn Drottins.
5.1 Þetta er ættarskrá Adams: Þegar Guð skapaði Adam, gjörði Guð hann sér líkan. 5.2 Hann skóp þau mann og konu og blessaði þau og nefndi þau menn, er þau voru sköpuð. 5.3 Adam lifði hundrað og þrjátíu ár. Þá gat hann son í líking sinni, eftir sinni mynd, og nefndi hann Set. 5.4 Og dagar Adams, eftir að hann gat Set, voru átta hundruð ár, og hann gat sonu og dætur. 5.5 Og allir dagar Adams, sem hann lifði, voru níu hundruð og þrjátíu ár. Þá dó hann. 5.6 Þegar Set var orðinn hundrað og fimm ára gamall gat hann Enos. 5.7 Eftir að Set gat Enos lifði hann átta hundruð og sjö ár og gat sonu og dætur. 5.8 Og allir dagar Sets voru níu hundruð og tólf ár, þá andaðist hann. 5.9 Enos var níutíu ára, er hann gat Kenan. 5.10 Og eftir að Enos gat Kenan lifði hann átta hundruð og fimmtán ár og gat sonu og dætur. 5.11 Og allir dagar Enoss voru níu hundruð og fimm ár, þá andaðist hann. 5.12 Þá er Kenan var sjötíu ára, gat hann Mahalalel. 5.13 Og Kenan lifði, eftir að hann gat Mahalalel, átta hundruð og fjörutíu ár og gat sonu og dætur. 5.14 Og allir dagar Kenans urðu níu hundruð og tíu ár, þá andaðist hann. 5.15 Er Mahalalel var sextíu og fimm ára, gat hann Jared. 5.16 Og Mahalalel lifði, eftir að hann gat Jared, átta hundruð og þrjátíu ár og gat sonu og dætur. 5.17 Og allir dagar Mahalalels voru átta hundruð níutíu og fimm ár, þá andaðist hann. 5.18 Er Jared var hundrað sextíu og tveggja ára, gat hann Enok. 5.19 Og Jared lifði, eftir að hann gat Enok, átta hundruð ár og gat sonu og dætur. 5.20 Og allir dagar Jareds voru níu hundruð sextíu og tvö ár, þá andaðist hann. 5.21 Er Enok var sextíu og fimm ára, gat hann Metúsala. 5.22 Og eftir að Enok gat Metúsala gekk hann með Guði þrjú hundruð ár og gat sonu og dætur. 5.23 Og allir dagar Enoks voru þrjú hundruð sextíu og fimm ár. 5.24 Og Enok gekk með Guði og hvarf, af því að Guð nam hann burt. 5.25 Er Metúsala var hundrað áttatíu og sjö ára, gat hann Lamek. 5.26 Og Metúsala lifði, eftir að hann gat Lamek, sjö hundruð áttatíu og tvö ár og gat sonu og dætur. 5.27 Og allir dagar Metúsala voru níu hundruð sextíu og níu ár, þá andaðist hann. 5.28 Er Lamek var hundrað áttatíu og tveggja ára, gat hann son. 5.29 Og hann nefndi hann Nóa og mælti: 'Þessi mun hugga oss í erfiði voru og striti handa vorra, er jörðin, sem Drottinn bölvaði, bakar oss.' 5.30 Og Lamek lifði, eftir að hann gat Nóa, fimm hundruð níutíu og fimm ár og gat sonu og dætur. 5.31 Og allir dagar Lameks voru sjö hundruð sjötíu og sjö ár, þá andaðist hann. 5.32 Og er Nói var fimm hundruð ára, gat hann Sem, Kam og Jafet.
6.1 Er mönnunum tók að fjölga á jörðinni og þeim fæddust dætur, 6.2 sáu synir Guðs, að dætur mannanna voru fríðar, og tóku sér konur meðal þeirra, allar sem þeim geðjuðust. 6.3 Þá sagði Drottinn: 'Andi minn skal ekki ævinlega búa í manninum, með því að hann einnig er hold. Veri dagar hans nú hundrað og tuttugu ár.' 6.4 Á þeim tímum voru risarnir á jörðinni, og einnig síðar, er synir Guðs höfðu samfarir við dætur mannanna og þær fæddu þeim sonu. Það eru kapparnir, sem í fyrndinni voru víðfrægir. 6.5 Er Drottinn sá, að illska mannsins var mikil á jörðinni og að allar hugrenningar hjarta hans voru ekki annað en illska alla daga, 6.6 þá iðraðist Drottinn þess, að hann hafði skapað mennina á jörðinni, og honum sárnaði það í hjarta sínu. 6.7 Og Drottinn sagði: 'Ég vil afmá af jörðinni mennina, sem ég skapaði, bæði mennina, fénaðinn, skriðkvikindin og fugla loftsins, því að mig iðrar, að ég hefi skapað þau.' 6.8 En Nói fann náð í augum Drottins. 6.9 Þetta er saga Nóa: Nói var maður réttlátur og vandaður á sinni öld. Nói gekk með Guði. 6.10 Og Nói gat þrjá sonu: Sem, Kam og Jafet. 6.11 Jörðin var spillt í augsýn Guðs, og jörðin fylltist glæpaverkum. 6.12 Og Guð leit á jörðina, og sjá, hún var spillt orðin, því að allt hold hafði spillt vegum sínum á jörðinni. 6.13 Þá mælti Guð við Nóa: 'Endir alls holds er kominn fyrir minni augsýn, því að jörðin er full af glæpaverkum þeirra. Sjá, ég vil afmá þá af jörðinni. 6.14 Gjör þú þér örk af góferviði. Smáhýsi skalt þú gjöra í örkinni og bræða hana biki utan og innan. 6.15 Og gjör hana svo: Lengd arkarinnar sé þrjú hundruð álnir, breidd hennar fimmtíu álnir og hæð hennar þrjátíu álnir. 6.16 Glugga skalt þú gjöra á örkinni og búa hann til á henni ofanverðri, allt að alin á hæð, og dyr arkarinnar skalt þú setja á hlið hennar og búa til þrjú loft í henni: neðst, í miðju og efst. 6.17 Því sjá, ég læt vatnsflóð koma yfir jörðina til að tortíma öllu holdi undir himninum, sem lífsandi er í. Allt, sem á jörðinni er, skal deyja. 6.18 En við þig mun ég gjöra sáttmála minn, og þú skalt ganga í örkina, þú og synir þínir, og kona þín og sonakonur þínar með þér. 6.19 Af öllum lifandi skepnum, af öllu holdi, skalt þú láta inn í örkina tvennt af hverju, svo að það haldi lífi með þér. Karldýr og kvendýr skulu þau vera: 6.20 Af fuglunum eftir þeirra tegund, af fénaðinum eftir hans tegund og af öllum skriðkvikindum jarðarinnar eftir þeirra tegund. Tvennt af öllu skal til þín inn ganga, til þess að það haldi lífi. 6.21 En tak þú þér af allri fæðu, sem etin er, og safna að þér, að það sé þér og þeim til viðurværis.' 6.22 Og Nói gjörði svo. Allt gjörði hann eins og Guð bauð honum.
7.1 Drottinn sagði við Nóa: 'Gakk þú og allt fólk þitt í örkina, því að þig hefi ég séð réttlátan fyrir augliti mínu í þessari kynslóð. 7.2 Tak þú til þín af öllum hreinum dýrum sjö og sjö, karldýr og kvendýr, en af þeim dýrum, sem ekki eru hrein, tvö og tvö, karldýr og kvendýr. 7.3 Einnig af fuglum loftsins sjö og sjö, karlkyns og kvenkyns, til að viðhalda lífsstofni á allri jörðinni. 7.4 Því að sjö dögum liðnum mun ég láta rigna á jörðina fjörutíu daga og fjörutíu nætur, og ég mun afmá af jörðinni sérhverja skepnu, sem ég hefi gjört.' 7.5 Og Nói gjörði allt eins og Drottinn bauð honum. 7.6 En Nói var sex hundruð ára gamall, þegar vatnsflóðið kom yfir jörðina. 7.7 Og Nói gekk í örkina, og synir hans og kona hans og sonakonur hans með honum, undan vatnsflóðinu. 7.8 Af hreinum dýrum og af þeim dýrum, sem ekki voru hrein, og af fuglum og af öllu, sem skríður á jörðinni, 7.9 kom tvennt og tvennt til Nóa í örkina, karlkyns og kvenkyns, eins og Guð hafði boðið Nóa. 7.10 Eftir sjö daga kom vatnsflóðið yfir jörðina. 7.11 Á sexhundraðasta aldursári Nóa, í öðrum mánuðinum, á seytjánda degi mánaðarins, á þeim degi opnuðust allar uppsprettur hins mikla undirdjúps og flóðgáttir himinsins lukust upp. 7.12 Og steypiregn dundi yfir jörðina fjörutíu daga og fjörutíu nætur. 7.13 Einmitt á þeim degi gekk Nói og Sem, Kam og Jafet, synir Nóa, og kona Nóa og þrjár sonakonur hans með þeim í örkina, 7.14 þau og öll villidýrin eftir sinni tegund og allur fénaðurinn eftir sinni tegund og öll skriðkvikindin, sem skríða á jörðinni, eftir sinni tegund, og allir fuglarnir eftir sinni tegund, allir smáfuglar, allt fleygt. 7.15 Og þau komu til Nóa í örkina tvö og tvö af öllu holdi, sem lífsandi var í. 7.16 Og þau, sem komu, gengu inn, karlkyns og kvenkyns af öllu holdi, eins og Guð hafði boðið honum. Og Drottinn læsti eftir honum. 7.17 Og flóðið var á jörðinni fjörutíu daga. Vatnið óx og lyfti örkinni, og hún hófst yfir jörðina. 7.18 Og vötnin mögnuðust og uxu stórum á jörðinni, en örkin flaut ofan á vatninu. 7.19 Og vötnin mögnuðust ákaflega á jörðinni, svo að öll hin háu fjöll, sem eru undir öllum himninum, fóru í kaf. 7.20 Fimmtán álna hátt óx vatnið, svo að fjöllin fóru í kaf. 7.21 Þá dó allt hold, sem hreyfðist á jörðinni, bæði fuglar, fénaður, villidýr og allir ormar, sem skriðu á jörðinni, og allir menn. 7.22 Allt sem hafði lífsanda í nösum sínum, allt sem var á þurrlendinu, það dó. 7.23 Og þannig afmáði hann sérhverja skepnu, sem var á jörðinni, bæði menn og fénað, skriðkvikindi og fugla loftsins. Það var afmáð af jörðinni. En Nói einn varð eftir, og það sem með honum var í örkinni. 7.24 Og vötnin mögnuðust á jörðinni hundrað og fimmtíu daga.
8.1 Þá minntist Guð Nóa og allra dýranna og alls fénaðarins, sem með honum var í örkinni, og Guð lét vind blása yfir jörðina, svo að vatnið sjatnaði. 8.2 Og uppsprettur undirdjúpsins luktust aftur og flóðgáttir himinsins, og steypiregninu úr loftinu linnti. 8.3 Og vatnið rénaði meir og meir á jörðinni og þvarr eftir hundrað og fimmtíu daga. 8.4 Og örkin nam staðar í sjöunda mánuðinum, á seytjánda degi mánaðarins, á Araratsfjöllunum. 8.5 Og vatnið var að réna allt til hins tíunda mánaðar. Í tíunda mánuðinum, á fyrsta degi mánaðarins, sáust fjallatindarnir. 8.6 Eftir fjörutíu daga lauk Nói upp glugga arkarinnar, sem hann hafði gjört, 8.7 og lét út hrafn. Hann flaug fram og aftur, þangað til vatnið þornaði á jörðinni. 8.8 Þá sendi hann út frá sér dúfu til að vita, hvort vatnið væri þorrið á jörðinni. 8.9 En dúfan fann ekki hvíldarstað fæti sínum og hvarf til hans aftur í örkina, því að vatn var enn yfir allri jörðinni. Og hann rétti út hönd sína og tók hana og fór með hana inn til sín í örkina. 8.10 Og hann beið enn aðra sjö daga og sendi svo dúfuna aftur úr örkinni. 8.11 Þá kom dúfan til hans aftur undir kveld og var þá með grænt olíuviðarblað í nefinu. Þá sá Nói, að vatnið var þorrið á jörðinni. 8.12 Og enn beið hann aðra sjö daga og lét þá dúfuna út, en hún hvarf ekki framar til hans aftur. 8.13 Og á sexhundraðasta og fyrsta ári, í fyrsta mánuðinum, á fyrsta degi mánaðarins, var vatnið þornað á jörðinni. Og Nói tók þakið af örkinni og litaðist um, og var þá yfirborð jarðarinnar orðið þurrt. 8.14 Í öðrum mánuðinum, á tuttugasta og sjöunda degi mánaðarins, var jörðin þurr. 8.15 Þá talaði Guð við Nóa og mælti: 8.16 'Gakk þú úr örkinni, þú og kona þín og synir þínir og sonakonur þínar með þér. 8.17 Og láttu fara út með þér öll dýr, sem með þér eru, af öllu holdi, bæði fuglana og fénaðinn og öll skriðkvikindin, sem skríða á jörðinni. Verði krökkt af þeim á jörðinni, verði þau frjósöm og fjölgi á jörðinni.' 8.18 Þá gekk Nói út og synir hans og kona hans og sonakonur hans með honum. 8.19 Öll dýr, öll skriðkvikindi, allir fuglar, allt, sem bærist á jörðinni, hvað eftir sinni tegund, gekk út úr örkinni. 8.20 Nói reisti þá Drottni altari og tók af öllum hreinum dýrum og hreinum fuglum og fórnaði brennifórn á altarinu. 8.21 Og Drottinn kenndi þægilegan ilm, og Drottinn sagði við sjálfan sig: 'Ég vil upp frá þessu ekki bölva jörðinni framar vegna mannsins, því að hugrenningar mannshjartans eru illar frá bernsku hans, og ég mun upp frá þessu ekki framar deyða allt, sem lifir, eins og ég hefi gjört. 8.22 Meðan jörðin stendur, skal ekki linna sáning og uppskera, frost og hiti, sumar og vetur, dagur og nótt.'
9.1 Guð blessaði Nóa og sonu hans og sagði við þá: 'Verið frjósamir, margfaldist og uppfyllið jörðina. 9.2 Ótti við yður og skelfing skal vera yfir öllum dýrum jarðarinnar, yfir öllum fuglum loftsins, yfir öllu, sem hrærist á jörðinni, og yfir öllum fiskum sjávarins. Á yðar vald er þetta gefið. 9.3 Allt sem hrærist og lifir, skal vera yður til fæðu, ég gef yður það allt, eins og grænu jurtirnar. 9.4 Aðeins hold, sem sálin, það er blóðið, er í, skuluð þér ekki eta. 9.5 En yðar eigin blóðs mun ég hins vegar krefjast. Af hverri skepnu mun ég þess krefjast, og af manninum, af bróður hans, mun ég krefjast lífs mannsins. 9.6 Hver sem úthellir mannsblóði, hans blóði skal af manni úthellt verða. Því að eftir Guðs mynd gjörði hann manninn. 9.7 En ávaxtist þér og margfaldist og vaxið stórum á jörðinni og margfaldist á henni.' 9.8 Og Guð mælti þannig við Nóa og sonu hans, sem voru með honum: 9.9 'Sjá, ég gjöri minn sáttmála við yður og við niðja yðar eftir yður 9.10 og við allar lifandi skepnur, sem með yður eru, bæði við fuglana og fénaðinn og öll villidýrin, sem hjá yður eru, allt, sem út gekk úr örkinni, það er öll dýr jarðarinnar. 9.11 Minn sáttmála vil ég gjöra við yður: Aldrei framar skal allt hold tortímast af vatnsflóði, og aldrei framar mun flóð koma til að eyða jörðina.' 9.12 Og Guð sagði: 'Þetta er merki sáttmálans, sem ég gjöri milli mín og yðar og allra lifandi skepna, sem hjá yður eru, um allar ókomnar aldir: 9.13 Boga minn set ég í skýin, að hann sé merki sáttmálans milli mín og jarðarinnar. 9.14 Og þegar ég dreg ský saman yfir jörðinni og boginn sést í skýjunum, 9.15 þá mun ég minnast sáttmála míns, sem er milli mín og yðar og allra lifandi sálna í öllu holdi, og aldrei framar skal vatnið verða að flóði til að tortíma öllu holdi. 9.16 Og boginn skal standa í skýjunum, og ég mun horfa á hann til þess að minnast hins eilífa sáttmála milli Guðs og allra lifandi sálna í öllu holdi, sem er á jörðinni.' 9.17 Og Guð sagði við Nóa: 'Þetta er teikn sáttmálans, sem ég hefi gjört milli mín og alls holds, sem er á jörðinni.' 9.18 Synir Nóa, sem gengu úr örkinni, voru þeir Sem, Kam og Jafet, en Kam var faðir Kanaans. 9.19 Þessir eru synir Nóa þrír, og frá þeim byggðist öll jörðin. 9.20 Nói gjörðist akuryrkjumaður og plantaði víngarð. 9.21 Og hann drakk af víninu og varð drukkinn og lá nakinn í tjaldi sínu. 9.22 Og Kam, faðir Kanaans, sá nekt föður síns og sagði báðum bræðrum sínum frá, sem úti voru. 9.23 Þá tóku þeir Sem og Jafet skikkjuna og lögðu á herðar sér og gengu aftur á bak og huldu nekt föður síns, en andlit þeirra sneru undan, svo að þeir sáu ekki nekt föður síns. 9.24 Er Nói vaknaði af vímunni, varð hann þess áskynja, hvað sonur hans hinn yngri hafði gjört honum. 9.25 Þá mælti hann: Bölvaður sé Kanaan, auvirðilegur þræll sé hann bræðra sinna. 9.26 Og hann sagði: Lofaður sé Drottinn, Sems Guð, en Kanaan sé þræll þeirra. 9.27 Guð gefi Jafet mikið landrými, og hann búi í tjaldbúðum Sems, en Kanaan sé þræll þeirra. 9.28 Nói lifði eftir flóðið þrjú hundruð og fimmtíu ár. 9.29 Og allir dagar Nóa voru níu hundruð og fimmtíu ár. Þá andaðist hann.
10.1 Þetta er ættartala Nóa sona, Sems, Kams og Jafets. Þeim fæddust synir eftir flóðið. 10.2 Synir Jafets: Gómer, Magog, Madaí, Javan, Túbal, Mesek og Tíras. 10.3 Og synir Gómers: Askenas, Rífat og Tógarma. 10.4 Og synir Javans: Elísa, Tarsis, Kittar og Ródanítar. 10.5 Út frá þeim kvísluðust þeir, sem byggja eylönd heiðingjanna. Þetta eru synir Jafets eftir löndum þeirra, hver eftir sinni tungu, eftir kynþáttum þeirra og samkvæmt þjóðerni þeirra. 10.6 Synir Kams: Kús, Mísraím, Pút og Kanaan. 10.7 Og synir Kúss: Seba, Havíla, Sabta, Raema og Sabteka. Og synir Raema: Séba og Dedan. 10.8 Kús gat Nimrod. Hann tók að gjörast voldugur á jörðinni. 10.9 Hann var mikill veiðimaður fyrir Drottni. Því er máltækið: 'Mikill veiðimaður fyrir Drottni eins og Nimrod.' 10.10 Og upphaf ríkis hans var Babel, Erek, Akkad og Kalne í Sínearlandi. 10.11 Frá þessu landi hélt hann til Assýríu og byggði Níníve, Rehóbót-Ír og Kala, 10.12 og Resen milli Níníve og Kala, það er borgin mikla. 10.13 Mísraím gat Lúdíta, Anamíta, Lekabíta, Naftúkíta, 10.14 Patrúsíta, Kaslúkíta (þaðan eru komnir Filistar) og Kaftóríta. 10.15 Kanaan gat Sídon, frumgetning sinn, og Het 10.16 og Jebúsíta, Amoríta, Gírgasíta, 10.17 Hevíta, Arkíta, Síníta, 10.18 Arvadíta, Semaríta og Hamatíta. Og síðan breiddust út kynkvíslir Kanaanítanna. 10.19 Landamerki Kanaanítanna eru frá Sídon um Gerar allt til Gasa, þá er stefnan til Sódómu og Gómorru og Adma og Sebóím, allt til Lasa. 10.20 Þetta eru synir Kams eftir kynþáttum þeirra, eftir tungum þeirra, samkvæmt löndum þeirra og þjóðerni. 10.21 En Sem, ættfaðir allra Ebers sona, eldri bróðir Jafets, eignaðist og sonu. 10.22 Synir Sems: Elam, Assúr, Arpaksad, Lúd og Aram. 10.23 Og synir Arams: Ús, Húl, Geter og Mas. 10.24 Arpaksad gat Sela, og Sela gat Eber. 10.25 Og Eber fæddust tveir synir. Hét annar Peleg, því að á hans dögum greindist fólkið á jörðinni, en bróðir hans hét Joktan. 10.26 Og Joktan gat Almódad, Salef, Hasarmavet, Jara, 10.27 Hadóram, Úsal, Dikla, 10.28 Óbal, Abímael, Seba, 10.29 Ófír, Havíla og Jóbab. Þessir allir eru synir Joktans. 10.30 Og bústaður þeirra var frá Mesa til Sefar, til austurfjallanna. 10.31 Þetta eru synir Sems, eftir ættkvíslum þeirra, eftir tungum þeirra, samkvæmt löndum þeirra, eftir þjóðerni þeirra. 10.32 Þetta eru ættkvíslir Nóa sona eftir ættartölum þeirra, samkvæmt þjóðerni þeirra, og frá þeim kvísluðust þjóðirnar út um jörðina eftir flóðið.
11.1 Öll jörðin hafði eitt tungumál og ein og sömu orð. 11.2 Og svo bar við, er þeir fóru stað úr stað í austurlöndum, að þeir fundu láglendi í Sínearlandi og settust þar að. 11.3 Og þeir sögðu hver við annan: 'Gott og vel, vér skulum hnoða tigulsteina og herða í eldi.' Og þeir notuðu tigulsteina í stað grjóts og jarðbik í stað kalks. 11.4 Og þeir sögðu: 'Gott og vel, vér skulum byggja oss borg og turn, sem nái til himins, og gjörum oss minnismerki, svo að vér tvístrumst ekki um alla jörðina.' 11.5 Þá steig Drottinn niður til þess að sjá borgina og turninn, sem mannanna synir voru að byggja. 11.6 Og Drottinn mælti: 'Sjá, þeir eru ein þjóð og hafa allir sama tungumál, og þetta er hið fyrsta fyrirtæki þeirra. Og nú mun þeim ekkert ófært verða, sem þeir taka sér fyrir hendur að gjöra. 11.7 Gott og vel, stígum niður og ruglum þar tungumál þeirra, svo að enginn skilji framar annars mál.' 11.8 Og Drottinn tvístraði þeim þaðan út um alla jörðina, svo að þeir urðu af að láta að byggja borgina. 11.9 Þess vegna heitir hún Babel, því að þar ruglaði Drottinn tungumál allrar jarðarinnar, og þaðan tvístraði hann þeim um alla jörðina. 11.10 Þetta er ættartala Sems: Sem var hundrað ára gamall, er hann gat Arpaksad, tveim árum eftir flóðið. 11.11 Og Sem lifði, eftir að hann gat Arpaksad, fimm hundruð ár og gat sonu og dætur. 11.12 Er Arpaksad var þrjátíu og fimm ára, gat hann Sela. 11.13 Og Arpaksad lifði, eftir að hann gat Sela, fjögur hundruð og þrjú ár og gat sonu og dætur. 11.14 Er Sela var þrjátíu ára, gat hann Eber. 11.15 Og Sela lifði, eftir að hann gat Eber, fjögur hundruð og þrjú ár og gat sonu og dætur. 11.16 Er Eber var þrjátíu og fjögurra ára, gat hann Peleg. 11.17 Og Eber lifði, eftir að hann gat Peleg, fjögur hundruð og þrjátíu ár og gat sonu og dætur. 11.18 Er Peleg var þrjátíu ára, gat hann Reú. 11.19 Og Peleg lifði, eftir að hann gat Reú, tvö hundruð og níu ár og gat sonu og dætur. 11.20 Er Reú var þrjátíu og tveggja ára, gat hann Serúg. 11.21 Og Reú lifði, eftir að hann gat Serúg, tvö hundruð og sjö ár og gat sonu og dætur. 11.22 Er Serúg var þrjátíu ára, gat hann Nahor. 11.23 Og Serúg lifði, eftir að hann gat Nahor, tvö hundruð ár og gat sonu og dætur. 11.24 Er Nahor var tuttugu og níu ára, gat hann Tara. 11.25 Og Nahor lifði, eftir að hann gat Tara, hundrað og nítján ár og gat sonu og dætur. 11.26 Er Tara var sjötíu ára, gat hann Abram, Nahor og Haran. 11.27 Þetta er saga Tara: Tara gat Abram, Nahor og Haran, en Haran gat Lot. 11.28 Og Haran dó á undan Tara föður sínum í ættlandi sínu, í Úr í Kaldeu. 11.29 Og Abram og Nahor tóku sér konur. Kona Abrams hét Saraí, en kona Nahors Milka, dóttir Harans, föður Milku og föður Ísku. 11.30 En Saraí var óbyrja, hún átti eigi börn. 11.31 Þá tók Tara Abram son sinn og Lot Haransson, sonarson sinn, og Saraí tengdadóttur sína, konu Abrams sonar síns, og lagði af stað með þau frá Úr í Kaldeu áleiðis til Kanaanlands, og þau komu til Harran og settust þar að. 11.32 Og dagar Tara voru tvö hundruð og fimm ár. Þá andaðist Tara í Harran.
12.1 Drottinn sagði við Abram: 'Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns, til landsins, sem ég mun vísa þér á. 12.2 Ég mun gjöra þig að mikilli þjóð og blessa þig og gjöra nafn þitt mikið, og blessun skalt þú vera. 12.3 Ég mun blessa þá, sem þig blessa, en bölva þeim, sem þér formælir, og af þér skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta.' 12.4 Þá lagði Abram af stað, eins og Drottinn hafði sagt honum, og Lot fór með honum. En Abram var sjötíu og fimm ára að aldri, er hann fór úr Harran. 12.5 Abram tók Saraí konu sína og Lot bróðurson sinn og alla fjárhluti, sem þeir höfðu eignast, og þær sálir, er þeir höfðu fengið í Harran. Og þeir lögðu af stað og héldu til Kanaanlands. Þeir komu til Kanaanlands. 12.6 Og Abram fór um landið, allt þangað er Síkem heitir, allt til Mórelundar. En þá voru Kanaanítar í landinu. 12.7 Þá birtist Drottinn Abram og sagði við hann: 'Niðjum þínum vil ég gefa þetta land.' Og hann reisti þar altari Drottni, sem hafði birst honum. 12.8 Þaðan hélt hann til fjallanna fyrir austan Betel og setti þar tjöld sín, svo að Betel var í vestur, en Aí í austur. Og hann reisti þar Drottni altari og ákallaði nafn Drottins. 12.9 Og Abram færði sig smátt og smátt til Suðurlandsins. 12.10 En hallæri varð í landinu. Þá fór Abram til Egyptalands til að dveljast þar um hríð, því að hallærið var mikið í landinu. 12.11 Og er hann var kominn langt á leið til Egyptalands, sagði hann við Saraí konu sína: 'Sjá, ég veit að þú ert kona fríð sýnum. 12.12 Það mun því fara svo, að þegar Egyptar sjá þig, þá munu þeir segja: ,Þetta er kona hans,` og drepa mig, en þig munu þeir láta lífi halda. 12.13 Segðu fyrir hvern mun, að þú sért systir mín, svo að mér megi líða vel fyrir þínar sakir og ég megi lífi halda þín vegna.' 12.14 Er Abram kom til Egyptalands, sáu Egyptar, að konan var mjög fríð. 12.15 Og höfðingjar Faraós sáu hana og létu mikið af henni við Faraó, og konan var tekin í hús Faraós. 12.16 Og hann gjörði vel við Abram hennar vegna, og hann eignaðist sauði, naut og asna, þræla og ambáttir, ösnur og úlfalda. 12.17 En Drottinn þjáði Faraó og hús hans með miklum plágum vegna Saraí, konu Abrams. 12.18 Þá kallaði Faraó Abram til sín og mælti: 'Hví hefir þú gjört mér þetta? Hví sagðir þú mér ekki, að hún væri kona þín? 12.19 Hví sagðir þú: ,Hún er systir mín,` svo að ég tók hana mér fyrir konu? En þarna er nú konan þín, tak þú hana og far burt.' 12.20 Og Faraó skipaði svo fyrir um Abram, að menn sínir skyldu fylgja honum á braut og konu hans með öllu, sem hann átti.
13.1 Og Abram fór frá Egyptalandi með konu sína og allt, sem hann átti, og Lot fór með honum, til Suðurlandsins. 13.2 Abram var stórauðugur að kvikfé, silfri og gulli. 13.3 Og hann flutti sig smátt og smátt sunnan að allt til Betel, til þess staðar, er tjald hans hafði áður verið, milli Betel og Aí, 13.4 til þess staðar, þar sem hann áður hafði reist altarið. Og Abram ákallaði þar nafn Drottins. 13.5 Lot, sem fór með Abram, átti og sauði, naut og tjöld. 13.6 Og landið bar þá ekki, svo að þeir gætu saman verið, því að eign þeirra var mikil, og þeir gátu ekki saman verið. 13.7 Og sundurþykkja reis milli fjárhirða Abrams og fjárhirða Lots. _ En Kanaanítar og Peresítar bjuggu þá í landinu. 13.8 Þá mælti Abram við Lot: 'Engin misklíð sé milli mín og þín og milli minna og þinna fjárhirða, því að við erum frændur. 13.9 Liggur ekki allt landið opið fyrir þér? Skil þig heldur við mig. Viljir þú fara til vinstri handar, þá fer ég til hægri; og viljir þú fara til hægri handar, þá fer ég til vinstri.' 13.10 Þá hóf Lot upp augu sín og sá, að allt Jórdansléttlendið, allt til Sóar, var vatnsríkt land, eins og aldingarður Drottins, eins og Egyptaland. (Þetta var áður en Drottinn eyddi Sódómu og Gómorru.) 13.11 Og Lot kaus sér allt Jórdansléttlendið, og Lot flutti sig austur á við, og þannig skildu þeir. 13.12 Abram bjó í Kanaanlandi, en Lot bjó í borgunum á sléttlendinu og færði tjöld sín allt til Sódómu. 13.13 En mennirnir í Sódómu voru vondir og stórsyndarar fyrir Drottni. 13.14 Drottinn sagði við Abram, eftir að Lot hafði skilið við hann: 'Hef þú upp augu þín, og litast um frá þeim stað, sem þú ert á, til norðurs, suðurs, austurs og vesturs. 13.15 Því að allt landið, sem þú sér, mun ég gefa þér og niðjum þínum ævinlega. 13.16 Og ég mun gjöra niðja þína sem duft jarðar, svo að geti nokkur talið duft jarðarinnar, þá skulu einnig niðjar þínir verða taldir. 13.17 Tak þig nú upp og far þú um landið þvert og endilangt, því að þér mun ég gefa það.' 13.18 Og Abram færði sig með tjöld sín og kom og settist að í Mamrelundi, sem er í Hebron, og reisti Drottni þar altari.
14.1 Þegar Amrafel var konungur í Sínear, Aríok konungur í Ellasar, Kedorlaómer konungur í Elam og Tídeal konungur í Gojím, bar það til, 14.2 að þeir herjuðu á Bera, konung í Sódómu, á Birsa, konung í Gómorru, á Síneab, konung í Adma, á Semeber, konung í Sebóím, og konunginn í Bela (það er Sóar). 14.3 Allir þessir hittust á Siddímsvöllum. (Þar er nú Saltisjór.) 14.4 Í tólf ár höfðu þeir verið lýðskyldir Kedorlaómer, en á hinu þrettánda ári höfðu þeir gjört uppreisn. 14.5 Og á fjórtánda ári kom Kedorlaómer og þeir konungar, sem með honum voru, og sigruðu Refaítana í Astarot Karnaím, Súsítana í Ham, Emítana á Kírjataímsvöllum 14.6 og Hórítana á fjalli þeirra Seír allt til El-Paran, sem er við eyðimörkina. 14.7 Síðan sneru þeir við og komu til En-Mispat (það er Kades), og fóru herskildi yfir land Amalekíta og sömuleiðis Amoríta, sem bjuggu í Hasason Tamar. 14.8 Þá lögðu þeir af stað, konungurinn í Sódómu, konungurinn í Gómorru, konungurinn í Adma, konungurinn í Sebóím og konungurinn í Bela (það er Sóar), og þeir fylktu liði sínu móti þeim á Síddímsvöllum, 14.9 móti Kedorlaómer, konungi í Elam, Tídeal, konungi í Gojím, Amrafel, konungi í Sínear, og Aríok, konungi í Ellasar, fjórir konungar móti fimm. 14.10 En á Siddímsvöllum var hver jarðbiksgröfin við aðra. Og konungarnir í Sódómu og Gómorru lögðu á flótta og féllu ofan í þær, en þeir, sem af komust, flýðu til fjalla. 14.11 Þá tóku hinir alla fjárhluti, sem voru í Sódómu og Gómorru, og öll matvæli og fóru burt. 14.12 Þeir tóku og Lot, bróðurson Abrams, og fjárhluti hans og fóru burt, en hann átti heima í Sódómu. 14.13 Þá kom maður af flóttanum og sagði Hebreanum Abram tíðindin, en hann bjó þá í lundi Amorítans Mamre, bróður Eskols og Aners, og þeir voru bandamenn Abrams. 14.14 En er Abram frétti, að frændi hans var hertekinn, bjó hann í skyndi þrjú hundruð og átján reynda menn sína, fædda í húsi hans, og elti þá allt til Dan. 14.15 Skipti hann liði sínu í flokka og réðst á þá á náttarþeli, hann og menn hans, og sigraði þá og rak flóttann allt til Hóba, sem er fyrir norðan Damaskus. 14.16 Sneri hann því næst heimleiðis með alla fjárhlutina og bróðurson sinn Lot, og fjárhluti hans hafði hann einnig heim með sér, sömuleiðis konurnar og fólkið. 14.17 En er hann hafði unnið sigur á Kedorlaómer konungi og þeim konungum, sem með honum voru, og hélt heimleiðis, fór konungurinn í Sódómu til fundar við hann í Savedal. (Þar heitir nú Kóngsdalur.) 14.18 Og Melkísedek konungur í Salem kom með brauð og vín, en hann var prestur Hins Hæsta Guðs. 14.19 Og hann blessaði Abram og sagði: 'Blessaður sé Abram af Hinum Hæsta Guði, skapara himins og jarðar! 14.20 Og lofaður sé Hinn Hæsti Guð, sem gaf óvini þína þér í hendur!' Og Abram gaf honum tíund af öllu. 14.21 Konungurinn í Sódómu sagði við Abram: 'Gef mér mennina, en tak þú fjárhlutina.' 14.22 Þá mælti Abram við konunginn í Sódómu: 'Ég upplyfti höndum mínum til Drottins, Hins Hæsta Guðs, skapara himins og jarðar: 14.23 Ég tek hvorki þráð né skóþveng, né nokkuð af öllu sem þér tilheyrir, svo að þú skulir ekki segja: ,Ég hefi gjört Abram ríkan.` 14.24 Ekkert handa mér! Aðeins það, sem sveinarnir hafa neytt, og hlut þeirra manna, sem með mér fóru, Aners, Eskols og Mamre. Þeir mega taka sinn hlut.'
15.1 Eftir þessa atburði kom orð Drottins til Abrams í sýn: 'Óttast þú ekki, Abram, ég er þinn skjöldur, laun þín munu mjög mikil verða.' 15.2 Og Abram mælti: 'Drottinn Guð, hvað ætlar þú að gefa mér? Ég fer héðan barnlaus, og Elíeser frá Damaskus verður erfingi húss míns.' 15.3 Og Abram mælti: 'Sjá, mér hefir þú ekkert afkvæmi gefið, og húskarl minn mun erfa mig.' 15.4 Og sjá, orð Drottins kom til hans: 'Ekki skal hann erfa þig, heldur sá, sem af þér mun getinn verða, hann mun erfa þig.' 15.5 Og hann leiddi hann út og mælti: 'Lít þú upp til himins og tel þú stjörnurnar, ef þú getur talið þær.' Og hann sagði við hann: 'Svo margir skulu niðjar þínir verða.' 15.6 Og Abram trúði Drottni, og hann reiknaði honum það til réttlætis. 15.7 Þá sagði hann við hann: 'Ég er Drottinn, sem leiddi þig út frá Úr í Kaldeu til þess að gefa þér þetta land til eignar.' 15.8 Og Abram mælti: 'Drottinn Guð, hvað skal ég hafa til marks um, að ég muni eignast það?' 15.9 Og hann mælti við hann: 'Fær mér þrevetra kvígu, þrevetra geit, þrevetran hrút, turtildúfu og unga dúfu.' 15.10 Og hann færði honum öll þessi dýr og hlutaði þau sundur í miðju og lagði hvern hlutinn gegnt öðrum. En fuglana hlutaði hann ekki sundur. 15.11 Og hræfuglar flugu að ætinu, en Abram fældi þá burt. 15.12 Er sól var að renna, leið þungur svefnhöfgi á Abram, og sjá: felmti og miklu myrkri sló yfir hann. 15.13 Þá sagði hann við Abram: 'Vit það fyrir víst, að niðjar þínir munu lifa sem útlendingar í landi, sem þeir eiga ekki, og þeir munu þjóna þeim, og þeir þjá þá í fjögur hundruð ár. 15.14 En þá þjóð, sem þeir munu þjóna, mun ég dæma, og síðar munu þeir þaðan fara með mikinn fjárhlut. 15.15 En þú skalt fara í friði til feðra þinna, þú skalt verða jarðaður í góðri elli. 15.16 Hinn fjórði ættliður þeirra mun koma hingað aftur, því að enn hafa Amorítar eigi fyllt mæli synda sinna.' 15.17 En er sól var runnin og myrkt var orðið, kom reykur sem úr ofni og eldslogi, er leið fram á milli þessara fórnarstykkja. 15.18 Á þeim degi gjörði Drottinn sáttmála við Abram og mælti: 'Þínu afkvæmi gef ég þetta land, frá Egyptalandsánni til árinnar miklu, árinnar Efrat: 15.19 land Keníta, Kenissíta, Kadmóníta, 15.20 Hetíta, Peresíta, Refaíta, 15.21 Amoríta, Kanaaníta, Gírgasíta og Jebúsíta.'
16.1 Saraí kona Abrams ól honum ekki börn. En hún hafði egypska ambátt, sem hét Hagar. 16.2 Og Saraí sagði við Abram: 'Heyrðu, Drottinn hefir varnað mér barngetnaðar. Gakk því inn til ambáttar minnar, vera má að hún afli mér afkvæmis.' Og Abram hlýddi orðum Saraí. 16.3 Saraí, kona Abrams, tók Hagar hina egypsku, ambátt sína, er Abram hafði búið tíu ár í Kanaanlandi, og gaf manni sínum Abram hana fyrir konu. 16.4 Og hann gekk inn til Hagar, og hún varð þunguð. En er hún vissi, að hún var með barni, fyrirleit hún húsmóður sína. 16.5 Þá sagði Saraí við Abram: 'Sá óréttur, sem ég verð að þola, bitni á þér! Ég hefi gefið ambátt mína þér í faðm, en er hún nú veit, að hún er með barni, fyrirlítur hún mig. Drottinn dæmi milli mín og þín!' 16.6 En Abram sagði við Saraí: 'Sjá, ambátt þín er á þínu valdi. Gjör þú við hana sem þér gott þykir.' Þá þjáði Saraí hana, svo að hún flýði í burtu frá henni. 16.7 Þá fann engill Drottins hana hjá vatnslind í eyðimörkinni, hjá lindinni á veginum til Súr. 16.8 Og hann mælti: 'Hagar, ambátt Saraí, hvaðan kemur þú og hvert ætlar þú að fara?' Hún svaraði: 'Ég er á flótta frá Saraí, húsmóður minni.' 16.9 Og engill Drottins sagði við hana: 'Hverf þú heim aftur til húsmóður þinnar og gef þig undir hennar vald.' 16.10 Engill Drottins sagði við hana: 'Ég mun margfalda afkvæmi þitt, svo að það verði eigi talið fyrir fjölda sakir.' 16.11 Engill Drottins sagði við hana: 'Sjá, þú ert þunguð og munt son fæða. Hans nafn skalt þú kalla Ísmael, því að Drottinn hefir heyrt kveinstafi þína. 16.12 Hann mun verða maður ólmur sem villiasni, hönd hans mun vera uppi á móti hverjum manni og hvers manns hönd uppi á móti honum, og hann mun búa andspænis öllum bræðrum sínum.' 16.13 Og hún nefndi Drottin, sem við hana talaði, 'Þú ert Guð, sem sér.' Því að hún sagði: 'Ætli ég hafi einnig hér horft á eftir honum, sem hefir séð mig?' 16.14 Þess vegna heitir brunnurinn Beer-lahaj-róí, en hann er á milli Kades og Bered. 16.15 Hagar ól Abram son, og Abram nefndi son sinn, sem Hagar ól honum, Ísmael. 16.16 En Abram var áttatíu og sex ára gamall, þegar Hagar ól honum Ísmael.
17.1 Er Abram var níutíu og níu ára gamall, birtist Drottinn honum og sagði: 'Ég er Almáttugur Guð. Gakk þú fyrir mínu augliti og ver grandvar, 17.2 þá vil ég gjöra sáttmála milli mín og þín, og margfalda þig mikillega.' 17.3 Þá féll Abram fram á ásjónu sína, og Guð talaði við hann og sagði: 17.4 'Sjá, það er ég, sem hefi gjört við þig sáttmála, og þú skalt verða faðir margra þjóða. 17.5 Því skalt þú eigi lengur nefnast Abram, heldur skalt þú heita Abraham, því að föður margra þjóða gjöri ég þig. 17.6 Og ég mun gjöra þig mjög frjósaman og gjöra þig að þjóðum, og af þér skulu konungar koma. 17.7 Og ég gjöri sáttmála milli mín og þín og þinna niðja eftir þig, frá einum ættlið til annars, ævinlegan sáttmála: að vera þinn Guð og þinna niðja eftir þig. 17.8 Og ég mun gefa þér og niðjum þínum eftir þig það land, sem þú nú býr í sem útlendingur, allt Kanaanland til ævinlegrar eignar, og ég skal vera Guð þeirra.' 17.9 Guð sagði við Abraham: 'Þú skalt halda minn sáttmála, þú og niðjar þínir eftir þig, frá einum ættlið til annars. 17.10 Þetta er minn sáttmáli, sem þér skuluð halda, milli mín og yðar og niðja þinna eftir þig: Allt karlkyn meðal yðar skal umskera. 17.11 Yður skal umskera á holdi yfirhúðar yðar, og það sé merki sáttmálans milli mín og yðar. 17.12 Átta daga gömul skal öll sveinbörn umskera meðal yðar, ættlið eftir ættlið, bæði þau, er heima eru fædd, og eins hin, sem keypt eru verði af einhverjum útlendingi, er eigi er af þínum ættlegg. 17.13 Umskera skal bæði þann, sem fæddur er í húsi þínu, og eins þann, sem þú hefir verði keyptan, og þannig sé minn sáttmáli í yðar holdi sem ævinlegur sáttmáli. 17.14 En óumskorinn karlmaður, sá er ekki er umskorinn á holdi yfirhúðar sinnar, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni. Sáttmála minn hefir hann rofið.' 17.15 Guð sagði við Abraham: 'Saraí konu þína skalt þú ekki lengur nefna Saraí, heldur skal hún heita Sara. 17.16 Og ég mun blessa hana, og með henni mun ég einnig gefa þér son. Og ég mun blessa hana, og hún skal verða ættmóðir heilla þjóða, hún mun verða ættmóðir þjóðkonunga.' 17.17 Þá féll Abraham fram á ásjónu sína og hló og hugsaði með sjálfum sér: 'Mun hundrað ára gamall maður eignast barn, og mun Sara níræð barn ala?' 17.18 Og Abraham sagði við Guð: 'Ég vildi að Ísmael mætti lifa fyrir þínu augliti!' 17.19 Og Guð mælti: 'Vissulega skal Sara kona þín fæða þér son, og þú skalt nefna hann Ísak, og ég mun gjöra sáttmála við hann sem ævinlegan sáttmála fyrir niðja hans eftir hann. 17.20 Og að því er Ísmael snertir hefi ég bænheyrt þig. Sjá, ég mun blessa hann og gjöra hann frjósaman og margfalda hann mikillega. Tólf þjóðhöfðingja mun hann geta, og ég mun gjöra hann að mikilli þjóð. 17.21 En minn sáttmála mun ég gjöra við Ísak, sem Sara mun fæða þér um þessar mundir á næsta ári.' 17.22 Og er Guð hafði lokið tali sínu við Abraham, sté hann upp frá honum. 17.23 Þá tók Abraham son sinn Ísmael og alla, sem fæddir voru í hans húsi, og alla, sem hann hafði verði keypta, allt karlkyn meðal heimamanna Abrahams, og umskar hold yfirhúðar þeirra á þessum sama degi, eins og Guð hafði boðið honum. 17.24 Abraham var níutíu og níu ára gamall, er hann var umskorinn á holdi yfirhúðar sinnar. 17.25 Og Ísmael sonur hans var þrettán ára, er hann var umskorinn á holdi yfirhúðar sinnar. 17.26 Á þessum sama degi voru þeir umskornir Abraham og Ísmael sonur hans, 17.27 og allir hans heimamenn. Bæði þeir, er heima voru fæddir, og eins þeir, sem verði voru keyptir af útlendingum, voru umskornir með honum.
18.1 Drottinn birtist Abraham í Mamrelundi, er hann sat í tjalddyrum sínum í miðdegishitanum. 18.2 Og hann hóf upp augu sín og litaðist um, og sjá, þrír menn stóðu gagnvart honum. Og er hann sá þá, skundaði hann til móts við þá úr tjalddyrum sínum og laut þeim til jarðar 18.3 og mælti: 'Herra minn, hafi ég fundið náð í augum þínum, þá gakk eigi fram hjá þjóni þínum. 18.4 Leyfið, að sótt sé lítið eitt af vatni, að þér megið þvo fætur yðar, og hvílið yður undir trénu. 18.5 Og ég ætla að sækja brauðbita, að þér megið styrkja hjörtu yðar, _ síðan getið þér haldið áfram ferðinni, _ úr því að þér fóruð hér um hjá þjóni yðar.' Og þeir svöruðu: 'Gjörðu eins og þú hefir sagt.' 18.6 Þá flýtti Abraham sér inn í tjaldið til Söru og mælti: 'Sæktu nú sem skjótast þrjá mæla hveitimjöls, hnoðaðu það og bakaðu kökur.' 18.7 Og Abraham skundaði til nautanna og tók kálf, ungan og vænan, og fékk sveini sínum, og hann flýtti sér að matbúa hann. 18.8 Og hann tók áfir og mjólk og kálfinn, sem hann hafði matbúið, og setti fyrir þá, en sjálfur stóð hann frammi fyrir þeim undir trénu, meðan þeir mötuðust. 18.9 Þá sögðu þeir við hann: 'Hvar er Sara kona þín?' Hann svaraði: 'Þarna inni í tjaldinu.' 18.10 Og Drottinn sagði: 'Vissulega mun ég aftur koma til þín að ári liðnu í sama mund, og mun þá Sara kona þín hafa eignast son.' En Sara heyrði þetta í dyrum tjaldsins, sem var að baki hans. 18.11 En Abraham og Sara voru gömul og hnigin á efra aldur, svo að kvenlegir eðlishættir voru horfnir frá Söru. 18.12 Og Sara hló með sjálfri sér og mælti: 'Eftir að ég er gömul orðin, skyldi ég þá á munúð hyggja, þar sem bóndi minn er einnig gamall?' 18.13 Þá sagði Drottinn við Abraham: 'Hví hlær Sara og segir: ,Mun það satt, að ég skuli barn fæða svo gömul?` 18.14 Er Drottni nokkuð ómáttugt? Á sinni tíð að vori mun ég aftur koma til þín, og Sara hefir þá eignast son.' 18.15 Og Sara neitaði því og sagði: 'Eigi hló ég,' því að hún var hrædd. En hann sagði: 'Jú, víst hlóst þú.' 18.16 Því næst tóku mennirnir sig upp þaðan og horfðu niður til Sódómu, en Abraham gekk með þeim til að fylgja þeim á veg. 18.17 Þá sagði Drottinn: 'Skyldi ég dylja Abraham þess, sem ég ætla að gjöra, 18.18 þar sem Abraham mun verða að mikilli og voldugri þjóð, og allar þjóðir jarðarinnar munu af honum blessun hljóta? 18.19 Því að ég hefi útvalið hann, til þess að hann bjóði börnum sínum og húsi sínu eftir sig, að þau varðveiti vegu Drottins með því að iðka rétt og réttlæti, til þess að Drottinn láti koma fram við Abraham það, sem hann hefir honum heitið.' 18.20 Og Drottinn mælti: 'Hrópið yfir Sódómu og Gómorru er vissulega mikið, og synd þeirra er vissulega mjög þung. 18.21 Ég ætla því að stíga niður þangað til þess að sjá, hvort þeir hafa fullkomlega aðhafst það, sem hrópað er um. En sé eigi svo, þá vil ég vita það.' 18.22 Og mennirnir sneru í brott þaðan og héldu til Sódómu, en Abraham stóð enn þá frammi fyrir Drottni. 18.23 Og Abraham gekk fyrir hann og mælti: 'Hvort munt þú afmá hina réttlátu með hinum óguðlegu? 18.24 Vera má, að fimmtíu réttlátir séu í borginni. Hvort munt þú afmá þá og ekki þyrma staðnum vegna þeirra fimmtíu réttlátu, sem þar eru? 18.25 Fjarri sé það þér að gjöra slíkt, að deyða hina réttlátu með hinum óguðlegu, svo að eitt gangi yfir réttláta og óguðlega. Fjarri sé það þér! Mun dómari alls jarðríkis ekki gjöra rétt?' 18.26 Og Drottinn mælti: 'Finni ég í Sódómu fimmtíu réttláta innan borgar, þá þyrmi ég öllum staðnum þeirra vegna.' 18.27 Abraham svaraði og sagði: 'Æ, ég hefi dirfst að tala við Drottin, þótt ég sé duft eitt og aska. 18.28 Vera má, að fimm skorti á fimmtíu réttláta. Munt þú eyða alla borgina vegna þessara fimm?' Þá mælti hann: 'Eigi mun ég eyða hana, finni ég þar fjörutíu og fimm.' 18.29 Og Abraham hélt áfram að tala við hann og mælti: 'Vera má, að þar finnist ekki nema fjörutíu.' En hann svaraði: 'Vegna þeirra fjörutíu mun ég láta það ógjört.' 18.30 Og hann sagði: 'Ég bið þig, Drottinn, að þú reiðist ekki, þó að ég tali. Vera má að þar finnist ekki nema þrjátíu.' Og hann svaraði: 'Ég mun ekki gjöra það, finni ég þar þrjátíu.' 18.31 Og hann sagði: 'Æ, ég hefi dirfst að tala við Drottin! Vera má, að þar finnist ekki nema tuttugu.' Og hann mælti: 'Ég mun ekki eyða hana vegna þeirra tuttugu.' 18.32 Og hann mælti: 'Ég bið þig, Drottinn, að þú reiðist ekki, þó að ég tali enn aðeins í þetta sinn. Vera má að þar finnist aðeins tíu.' Og hann sagði: 'Ég mun ekki eyða hana vegna þeirra tíu.' 18.33 Og Drottinn fór í brott, er hann hafði lokið tali sínu við Abraham, en Abraham hvarf aftur heimleiðis.
19.1 Englarnir tveir komu um kveldið til Sódómu. Sat Lot í borgarhliði. Og er hann sá þá, stóð hann upp í móti þeim og hneigði ásjónu sína til jarðar. 19.2 Því næst mælti hann: 'Heyrið, herrar mínir, sýnið lítillæti og komið inn í hús þjóns ykkar, og verið hér í nótt og þvoið fætur ykkar. Getið þið þá risið árla á morgun og farið leiðar ykkar.' En þeir sögðu: 'Nei, við ætlum að hafast við á strætinu í nótt.' 19.3 Þá lagði hann mikið að þeim, uns þeir fóru inn til hans og gengu inn í hús hans. Og hann bjó þeim máltíð og bakaði ósýrt brauð, og þeir neyttu. 19.4 En áður en þeir gengu til hvíldar, slógu borgarmenn, mennirnir í Sódómu, hring um húsið, bæði ungir og gamlir, allur múgurinn hvaðanæva. 19.5 Og þeir kölluðu á Lot og sögðu við hann: 'Hvar eru mennirnir, sem komu til þín í kveld? Leið þú þá út til vor, að vér megum kenna þeirra.' 19.6 Lot gekk þá út til þeirra, út fyrir dyrnar, og lokaði hurðinni að baki sér. 19.7 Og hann sagði: 'Fyrir hvern mun, bræður mínir, fremjið ekki óhæfu. 19.8 Sjá, ég á tvær dætur, sem ekki hafa karlmanns kennt. Ég skal leiða þær út til yðar, gjörið við þær sem yður gott þykir. Aðeins megið þér ekkert gjöra þessum mönnum, úr því að þeir eru komnir undir skugga þaks míns.' 19.9 Þá æptu þeir: 'Haf þig á burt!' og sögðu: 'Þessi náungi er hingað kominn sem útlendingur og vill nú stöðugt vera að siða oss. Nú skulum vér leika þig enn verr en þá.' Og þeir gjörðu ákaflega þröng að honum, að Lot, og gengu nær til að brjóta upp dyrnar. 19.10 Þá seildust mennirnir út og drógu Lot til sín inn í húsið og lokuðu dyrunum. 19.11 En þá, sem voru úti fyrir dyrum hússins, slógu þeir með blindu, smáa og stóra, svo að þeir urðu að gefast upp við að finna dyrnar. 19.12 Mennirnir sögðu við Lot: 'Átt þú hér nokkra fleiri þér nákomna? Tengdasyni, syni, dætur? Alla í borginni, sem þér eru áhangandi, skalt þú hafa á burt héðan, 19.13 því að við munum eyða þennan stað, af því að hrópið yfir þeim fyrir Drottni er mikið, og Drottinn hefir sent okkur til að eyða borgina.' 19.14 Þá gekk Lot út og talaði við tengdasyni sína, sem ætluðu að ganga að eiga dætur hans, og mælti: 'Standið upp skjótt og farið úr þessum stað, því að Drottinn mun eyða borgina.' En tengdasynir hans hugðu, að hann væri að gjöra að gamni sínu. 19.15 En er dagur rann, ráku englarnir eftir Lot og sögðu: 'Statt þú upp skjótt! Tak þú konu þína og báðar dætur þínar, sem hjá þér eru, svo að þú fyrirfarist ekki vegna syndar borgarinnar.' 19.16 En er hann hikaði við, tóku mennirnir í hönd honum og í hönd konu hans og í hönd báðum dætrum hans, af því að Drottinn vildi þyrma honum, og leiddu hann út og létu hann út fyrir borgina. 19.17 Og er þeir höfðu leitt þau út, sögðu þeir: 'Forða þér, líf þitt liggur við! Lít ekki aftur fyrir þig og nem hvergi staðar á öllu sléttlendinu, forða þér á fjöll upp, að þú farist eigi.' 19.18 Þá sagði Lot við þá: 'Æ nei, herra! 19.19 Sjá, þjónn þinn hefir fundið náð í augum þínum, og þú hefir sýnt á mér mikla miskunn að láta mig halda lífi. En ég get ekki forðað mér á fjöll upp, ógæfan getur komið yfir mig og ég dáið. 19.20 Sjá, þarna er borg í nánd, þangað gæti ég flúið, og hún er lítil. Ég vil forða mér þangað _ er hún ekki lítil? _ og ég mun halda lífi.' 19.21 Drottinn sagði við hann: 'Sjá, ég hefi einnig veitt þér þessa bæn, að leggja ekki í eyði borgina, sem þú talaðir um. 19.22 Flýt þér! Forða þér þangað, því að ég get ekkert gjört, fyrr en þú kemst þangað.' Vegna þessa nefna menn borgina Sóar. 19.23 Sólin var runnin upp yfir jörðina, er Lot kom til Sóar. 19.24 Og Drottinn lét rigna yfir Sódómu og Gómorru brennisteini og eldi frá Drottni, af himni. 19.25 Og hann gjöreyddi þessar borgir og allt sléttlendið og alla íbúa borganna og gróður jarðarinnar. 19.26 En kona hans leit við að baki honum og varð að saltstöpli. 19.27 Abraham gekk snemma morguns þangað, er hann hafði staðið frammi fyrir Drottni. 19.28 Og hann horfði niður á Sódómu og Gómorru og yfir allt sléttlendið og sá, að reyk lagði upp af jörðinni, því líkast sem reykur úr ofni. 19.29 En er Guð eyddi borgirnar á sléttlendinu, minntist Guð Abrahams og leiddi Lot út úr eyðingunni, þá er hann lagði í eyði borgirnar, sem Lot hafði búið í. 19.30 Lot fór frá Sóar upp á fjöllin og staðnæmdist þar og báðar dætur hans með honum, því að hann óttaðist að vera kyrr í Sóar, og hann hafðist við í helli, hann og báðar dætur hans. 19.31 Þá sagði hin eldri við hina yngri: 'Faðir okkar er gamall, og enginn karlmaður er eftir á jörðinni, sem samfarir megi við okkur hafa, eins og siðvenja er til alls staðar á jörðinni. 19.32 Kom þú, við skulum gefa föður okkar vín að drekka og leggjast hjá honum, að við megum kveikja kyn af föður okkar.' 19.33 Síðan gáfu þær föður sínum vín að drekka þá nótt, og hin eldri fór og lagðist hjá föður sínum. En hann varð hvorki var við, að hún lagðist niður, né að hún reis á fætur. 19.34 Og morguninn eftir sagði hin eldri við hina yngri: 'Sjá, í nótt lá ég hjá föður mínum. Við skulum nú einnig í nótt gefa honum vín að drekka. Far þú síðan inn og leggst hjá honum, að við megum kveikja kyn af föður okkar.' 19.35 Síðan gáfu þær föður sínum vín að drekka einnig þá nótt, og hin yngri tók sig til og lagðist hjá honum. En hann varð hvorki var við, að hún lagðist niður, né að hún reis á fætur. 19.36 Þannig urðu báðar dætur Lots þungaðar af völdum föður síns. 19.37 Hin eldri ól son og nefndi hann Móab. Hann er ættfaðir Móabíta allt til þessa dags. 19.38 Og hin yngri ól einnig son og nefndi hann Ben-Ammí. Hann er ættfaðir Ammóníta allt til þessa dags.
20.1 Nú flutti Abraham sig þaðan til Suðurlandsins og settist að milli Kades og Súr og dvaldist um hríð í Gerar. 20.2 Og Abraham sagði um Söru konu sína: 'Hún er systir mín.' Þá sendi Abímelek konungur í Gerar menn og lét sækja Söru. 20.3 En Guð kom til Abímeleks í draumi um nóttina og sagði við hann: 'Sjá, þú skalt deyja vegna konu þeirrar, sem þú hefir tekið, því að hún er gift kona.' 20.4 En Abímelek hafði ekki komið nærri henni. Og hann sagði: 'Drottinn, munt þú einnig vilja deyða saklaust fólk? 20.5 Hefir hann ekki sagt við mig: ,Hún er systir mín`? og hún sjálf hefir einnig sagt: ,Hann er bróðir minn?` Í einlægni hjarta míns og með hreinum höndum hefi ég gjört þetta.' 20.6 Og Guð sagði við hann í draumnum: 'Víst veit ég, að þú gjörðir þetta í einlægni hjarta þíns, og ég hefi einnig varðveitt þig frá að syndga gegn mér. Fyrir því leyfði ég þér ekki að snerta hana. 20.7 Fá því nú manninum konu hans aftur, því að hann er spámaður, og mun hann biðja fyrir þér, að þú megir lífi halda. En ef þú skilar henni ekki aftur, þá skalt þú vita, að þú munt vissulega deyja, þú og allir, sem þér tilheyra.' 20.8 Abímelek reis árla um morguninn og kallaði til sín alla þjóna sína og greindi þeim frá öllu þessu. Og mennirnir urðu mjög óttaslegnir. 20.9 Og Abímelek lét kalla Abraham til sín og sagði við hann: 'Hvað hefir þú gjört oss? Og hvað hefi ég misgjört við þig, að þú skyldir leiða svo stóra synd yfir mig og ríki mitt? Verk, sem enginn skyldi fremja, hefir þú framið gegn mér.' 20.10 Og Abímelek sagði við Abraham: 'Hvað gekk þér til að gjöra þetta?' 20.11 Þá mælti Abraham: 'Ég hugsaði: ,Vart mun nokkur guðsótti vera á þessum stað, og þeir munu drepa mig vegna konu minnar.` 20.12 Og þar að auki er hún sannlega systir mín, samfeðra, þótt eigi séum við sammæðra, og hún varð kona mín. 20.13 Og þegar Guð lét mig fara úr húsi föður míns, sagði ég við hana: ,Þessa góðsemi verður þú að sýna mér: Hvar sem við komum, þá segðu um mig: Hann er bróðir minn.'` 20.14 Þá tók Abímelek sauði, naut, þræla og ambáttir og gaf Abraham og fékk honum aftur Söru konu hans. 20.15 Og Abímelek sagði: 'Sjá, land mitt stendur þér til boða. Bú þú þar sem þér best líkar.' 20.16 Og við Söru sagði hann: 'Sjá, ég gef bróður þínum þúsund sikla silfurs. Sjá, það sé þér uppreist í augum allra þeirra, sem með þér eru, og ert þú þannig réttlætt fyrir öllum.' 20.17 Og Abraham bað til Guðs fyrir honum, og Guð læknaði Abímelek og konu hans og ambáttir, svo að þær ólu börn. 20.18 Því að Drottinn hafði lokað sérhverjum móðurkviði í húsi Abímeleks sakir Söru, konu Abrahams.
21.1 Drottinn vitjaði Söru, eins og hann hafði lofað, og Drottinn gjörði við Söru eins og hann hafði sagt. 21.2 Og Sara varð þunguð og fæddi Abraham son í elli hans, um þær mundir, sem Guð hafði sagt honum. 21.3 Og Abraham gaf nafn syni sínum, þeim er honum fæddist, sem Sara fæddi honum, og kallaði hann Ísak. 21.4 Abraham umskar Ísak son sinn, þá er hann var átta daga gamall, eins og Guð hafði boðið honum. 21.5 En Abraham var hundrað ára gamall, þegar Ísak sonur hans fæddist honum. 21.6 Sara sagði: 'Guð hefir gjört mig að athlægi. Hver sem heyrir þetta, mun hlæja að mér.' 21.7 Og hún mælti: 'Hver skyldi hafa sagt við Abraham, að Sara mundi hafa börn á brjósti, og þó hefi ég alið honum son í elli hans.' 21.8 Sveinninn óx og var vaninn af brjósti, og Abraham gjörði mikla veislu þann dag, sem Ísak var tekinn af brjósti. 21.9 En Sara sá son Hagar hinnar egypsku, er hún hafði fætt Abraham, að leik með Ísak, syni hennar. 21.10 Þá sagði hún við Abraham: 'Rek þú burt ambátt þessa og son hennar, því að ekki skal sonur þessarar ambáttar taka arf með syni mínum, með Ísak.' 21.11 En Abraham sárnaði þetta mjög vegna sonar síns. 21.12 Þá sagði Guð við Abraham: 'Lát þig ekki taka sárt til sveinsins og ambáttar þinnar. Hlýð þú Söru í öllu því, er hún segir þér, því að afkomendur þínir munu verða kenndir við Ísak. 21.13 En ég mun einnig gjöra ambáttarsoninn að þjóð, því að hann er þitt afkvæmi.' 21.14 Og Abraham reis árla næsta morgun, tók brauð og vatnsbelg og fékk Hagar, en sveininn lagði hann á herðar henni og lét hana í burtu fara. Hún hélt þá af stað og reikaði um eyðimörkina Beerseba. 21.15 En er vatnið var þrotið á leglinum, lagði hún sveininn inn undir einn runnann. 21.16 Því næst gekk hún burt og settist þar gegnt við, svo sem í örskots fjarlægð, því að hún sagði: 'Ég get ekki horft á að barnið deyi.' Og hún settist þar gegnt við og tók að gráta hástöfum. 21.17 En er Guð heyrði hljóð sveinsins, þá kallaði engill Guðs til Hagar af himni og mælti til hennar: 'Hvað gengur að þér, Hagar? Vertu óhrædd, því að Guð hefir heyrt til sveinsins, þar sem hann liggur. 21.18 Statt þú upp, reistu sveininn á fætur og leiddu hann þér við hönd, því að ég mun gjöra hann að mikilli þjóð.' 21.19 Og Guð lauk upp augum hennar, svo að hún sá vatnsbrunn. Fór hún þá og fyllti belginn vatni og gaf sveininum að drekka. 21.20 Og Guð var með sveininum, og hann óx upp og hafðist við í eyðimörkinni og gjörðist bogmaður. 21.21 Og hann hafðist við í Paraneyðimörk, og móðir hans tók honum konu af Egyptalandi. 21.22 Um sömu mundir bar svo til, að Abímelek og hershöfðingi hans Píkól mæltu þannig við Abraham: 'Guð er með þér í öllu, sem þú gjörir. 21.23 Vinn mér nú eið að því hér við Guð, að þú skulir eigi breyta sviksamlega, hvorki við mig né afkomendur mína. Þú skalt auðsýna mér og landinu, sem þú dvelst í sem útlendingur, hina sömu góðsemi og ég hefi auðsýnt þér.' 21.24 Og Abraham mælti: 'Ég skal vinna þér eið að því.' 21.25 En Abraham átaldi Abímelek fyrir vatnsbrunninn, sem þrælar Abímeleks höfðu tekið með ofríki. 21.26 Þá sagði Abímelek: 'Ekki veit ég, hver það hefir gjört. Hvorki hefir þú sagt mér það né hefi ég heldur heyrt það fyrr en í dag.' 21.27 Þá tók Abraham sauði og naut og gaf Abímelek, og þeir gjörðu sáttmála sín í milli. 21.28 Og Abraham tók frá sjö gimbrar af hjörðinni. 21.29 Þá mælti Abímelek til Abrahams: 'Hvað skulu þessar sjö gimbrar, sem þú hefir tekið frá?' 21.30 Hann svaraði: 'Við þessum sjö gimbrum skalt þú taka af minni hendi, til vitnis um að ég hefi grafið þennan brunn.' 21.31 Þess vegna heitir sá staður Beerseba, af því að þeir sóru þar báðir. 21.32 Þannig gjörðu þeir sáttmála í Beerseba. Síðan tók Abímelek sig upp og Píkól hershöfðingi hans og sneru aftur til Filistalands. 21.33 Abraham gróðursetti tamarisk-runn í Beerseba og ákallaði þar nafn Drottins, Hins Eilífa Guðs. 21.34 Og Abraham dvaldist lengi í Filistalandi.
22.1 Eftir þessa atburði freistaði Guð Abrahams og mælti til hans: 'Abraham!' Hann svaraði: 'Hér er ég.' 22.2 Hann sagði: 'Tak þú einkason þinn, sem þú elskar, hann Ísak, og far þú til Móríalands og fórna honum þar að brennifórn á einu af fjöllunum, sem ég mun segja þér til.' 22.3 Abraham var árla á fótum næsta morgun og lagði á asna sinn, og tók með sér tvo sveina sína og Ísak son sinn. Og hann klauf viðinn til brennifórnarinnar, tók sig upp og hélt af stað, þangað sem Guð sagði honum. 22.4 Á þriðja degi hóf Abraham upp augu sín og sá staðinn álengdar. 22.5 Þá sagði Abraham við sveina sína: 'Bíðið hér hjá asnanum, en við smásveinninn munum ganga þangað til að biðjast fyrir, og komum svo til ykkar aftur.' 22.6 Og Abraham tók brennifórnarviðinn og lagði syni sínum Ísak á herðar, en tók eldinn og hnífinn sér í hönd. Og svo gengu þeir báðir saman. 22.7 Þá mælti Ísak við Abraham föður sinn: 'Faðir minn!' Hann svaraði: 'Hér er ég, sonur minn!' Hann mælti: 'Hér er eldurinn og viðurinn, en hvar er sauðurinn til brennifórnarinnar?' 22.8 Og Abraham sagði: 'Guð mun sjá sér fyrir sauð til brennifórnarinnar, sonur minn.' Og svo gengu þeir báðir saman. 22.9 En er þeir komu þangað, er Guð hafði sagt honum, reisti Abraham þar altari og lagði viðinn á, og batt son sinn Ísak og lagði hann upp á altarið, ofan á viðinn. 22.10 Og Abraham rétti út hönd sína og tók hnífinn til að slátra syni sínum. 22.11 Þá kallaði engill Drottins til hans af himni og mælti: 'Abraham! Abraham!' Hann svaraði: 'Hér er ég.' 22.12 Hann sagði: 'Legg þú ekki hönd á sveininn og gjör þú honum ekkert, því að nú veit ég, að þú óttast Guð, þar sem þú synjaðir mér ekki um einkason þinn.' 22.13 Þá varð Abraham litið upp, og hann sá hrút bak við sig, sem var fastur á hornunum í hrísrunni. Og Abraham fór og tók hrútinn og bar hann fram að brennifórn í stað sonar síns. 22.14 Og Abraham kallaði þennan stað 'Drottinn sér,' svo að það er máltæki allt til þessa dags: 'Á fjallinu, þar sem Drottinn birtist.' 22.15 Engill Drottins kallaði annað sinn af himni til Abrahams 22.16 og mælti: 'Ég sver við sjálfan mig,' segir Drottinn, 'að fyrst þú gjörðir þetta og synjaðir mér eigi um einkason þinn, 22.17 þá skal ég ríkulega blessa þig og stórum margfalda kyn þitt, sem stjörnur á himni, sem sand á sjávarströnd. Og niðjar þínir skulu eignast borgarhlið óvina sinna. 22.18 Og af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta, vegna þess að þú hlýddir minni röddu.' 22.19 Eftir það fór Abraham aftur til sveina sinna, og þeir tóku sig upp og fóru allir saman til Beerseba. Og Abraham bjó enn um hríð í Beerseba. 22.20 Eftir þetta bar svo við, að Abraham var sagt: 'Sjá, Milka hefir og fætt bróður þínum Nahor sonu: 22.21 Ús, frumgetning hans, og Bús, bróður hans, og Kemúel, ættföður Aramea, 22.22 og Kesed, Kasó, Píldas, Jídlaf og Betúel.' En Betúel gat Rebekku. 22.23 Þessa átta fæddi Milka Nahor, bróður Abrahams. 22.24 Og hann átti hjákonu, sem hét Reúma. Hún ól honum og sonu, þá Teba, Gaham, Tahas og Maaka.
23.1 Dagar Söru voru hundrað tuttugu og sjö ár, það var aldur Söru. 23.2 Og Sara dó í Kirjat Arba (það er Hebron) í Kanaanlandi. Og Abraham fór til að harma Söru og gráta hana. 23.3 Síðan gekk hann burt frá líkinu og kom að máli við Hetíta og sagði: 23.4 'Ég er aðkomandi og útlendingur meðal yðar. Látið mig fá legstað til eignar hjá yður, að ég megi koma líkinu frá mér og jarða það.' 23.5 Þá svöruðu Hetítar Abraham og sögðu: 23.6 'Heyr oss fyrir hvern mun, herra minn. Þú ert Guðs höfðingi vor á meðal. Jarða þú líkið í hinum besta af legstöðum vorum. Enginn meðal vor skal meina þér legstað sinn, að þú megir jarða líkið.' 23.7 Þá stóð Abraham upp og hneigði sig fyrir landslýðnum, fyrir Hetítum, 23.8 og mælti við þá: 'Ef það er yðar vilji, að ég megi jarða líkið og koma því frá mér, þá heyrið mig og biðjið fyrir mig Efron Sóarsson, 23.9 að hann láti mig fá Makpelahelli, sem hann á og er yst í landeign hans. Hann láti mig fá hann fyrir fullt verð til grafreits meðal yðar.' 23.10 En Efron sat þar meðal Hetíta. Þá svaraði Hetítinn Efron Abraham, í viðurvist Hetíta, frammi fyrir öllum þeim, sem gengu út og inn um borgarhlið hans, og mælti: 23.11 'Nei, herra minn, heyr mig! Landið gef ég þér, og hellinn, sem í því er, hann gef ég þér líka. Í augsýn samlanda minna gef ég þér hann. Jarða þú þar líkið.' 23.12 Þá hneigði Abraham sig fyrir landslýðnum, 23.13 mælti því næst til Efrons í viðurvist landslýðsins á þessa leið: 'Heyr nú, gef gaum að máli mínu! Ég greiði fé fyrir landið. Tak þú við því af mér, að ég megi jarða líkið þar.' 23.14 Þá svaraði Efron Abraham og mælti: 23.15 'Herra minn, gef fyrir hvern mun gaum að máli mínu! Jörð, sem er fjögur hundruð silfursikla virði, hvað er það okkar í milli? Jarða þú líkið.' 23.16 Og Abraham lét að orðum Efrons, og Abraham vó Efron silfrið, sem hann hafði til tekið í viðurvist Hetíta, fjögur hundruð sikla í gangsilfri. 23.17 Þannig var landeign Efrons, sem er hjá Makpela gegnt Mamre, landeignin og hellirinn, sem í henni var, og öll trén, er í landeigninni voru, innan takmarka hennar hringinn í kring, 23.18 fest Abraham til eignar, í viðurvist Hetíta, frammi fyrir öllum, sem út og inn gengu um borgarhlið hans. 23.19 Eftir það jarðaði Abraham Söru konu sína í helli Makpelalands gegnt Mamre (það er Hebron) í Kanaanlandi. 23.20 Þannig fékk Abraham landið og hellinn, sem í því var, hjá Hetítum til eignar fyrir grafreit.
24.1 Abraham var gamall og hniginn að aldri, og Drottinn hafði blessað Abraham í öllu. 24.2 Þá sagði Abraham við þjón sinn, þann er elstur var í húsi hans og umsjónarmaður yfir öllu, sem hann átti: 24.3 'Legg þú hönd þína undir lend mína, og vinn mér eið að því við Drottin, Guð himinsins og Guð jarðarinnar, að þú skulir ekki taka syni mínum til handa konu af dætrum Kanaaníta, er ég bý á meðal, 24.4 heldur skaltu fara til föðurlands míns og til ættfólks míns, og taka konu handa Ísak syni mínum.' 24.5 Þjónninn svaraði honum: 'En ef konan vill ekki fara með mér til þessa lands, á ég þá að fara með son þinn aftur í það land, sem þú fórst úr?' 24.6 Og Abraham sagði við hann: 'Varastu að fara með son minn þangað! 24.7 Drottinn, Guð himinsins, sem tók mig úr húsi föður míns og úr ættlandi mínu, hann sem hefir talað við mig og svarið mér og sagt: ,Þínum niðjum mun ég gefa þetta land,` hann mun senda engil sinn á undan þér, að þú megir þaðan fá syni mínum konu. 24.8 Og vilji konan ekki fara með þér, þá ertu leystur af eiðnum. En með son minn mátt þú ekki fyrir nokkurn mun fara þangað aftur.' 24.9 Þá lagði þjónninn hönd sína undir lend Abrahams húsbónda síns og vann honum eið að þessu. 24.10 Þá tók þjónninn tíu úlfalda af úlföldum húsbónda síns og lagði af stað, og hafði með sér alls konar dýrgripi húsbónda síns. Og hann tók sig upp og hélt til Mesópótamíu, til borgar Nahors. 24.11 Og hann áði úlföldunum utan borgar hjá vatnsbrunni að kveldi dags, í það mund, er konur voru vanar að ganga út að ausa vatn. 24.12 Og hann mælti: 'Drottinn, Guð húsbónda míns Abrahams. Lát mér heppnast erindi mitt í dag og auðsýn miskunn húsbónda mínum Abraham. 24.13 Sjá, ég stend við vatnslind, og dætur bæjarmanna ganga út að ausa vatn. 24.14 Og ef sú stúlka, sem ég segi við: ,Tak niður skjólu þína, að ég megi drekka,` svarar: ,Drekk þú, og ég vil líka brynna úlföldum þínum,` _ hún sé sú, sem þú hefir fyrirhugað þjóni þínum Ísak, og af því mun ég marka, að þú auðsýnir miskunn húsbónda mínum.' 24.15 Áður en hann hafði lokið máli sínu, sjá, þá kom Rebekka, dóttir Betúels, sonar Milku, konu Nahors, bróður Abrahams, og bar hún skjólu sína á öxlinni. 24.16 En stúlkan var einkar fríð sýnum, mey, og enginn maður hafði kennt hennar. Hún gekk niður að lindinni, fyllti skjólu sína og gekk aftur upp frá lindinni. 24.17 Þá hljóp þjónninn móti henni og mælti: 'Gef mér vatnssopa að drekka úr skjólu þinni.' 24.18 Og hún svaraði: 'Drekk, herra minn!' Og hún tók jafnskjótt skjóluna niður af öxlinni í hönd sér og gaf honum að drekka. 24.19 Og er hún hafði gefið honum að drekka, mælti hún: 'Líka skal ég ausa vatn úlföldum þínum, uns þeir hafa drukkið nægju sína.' 24.20 Og hún flýtti sér og steypti úr skjólu sinni í vatnsstokkinn, og hljóp svo aftur að brunninum að ausa vatn. Og hún jós vatn öllum úlföldum hans. 24.21 En maðurinn starði á hana þegjandi, til þess að komast að raun um, hvort Drottinn hefði látið ferð hans heppnast eða ekki. 24.22 En er úlfaldar hans höfðu drukkið nægju sína, tók maðurinn nefhring úr gulli, sem vó hálfan sikil, og tvö armbönd og dró á hendur henni. Vógu þau tíu sikla gulls. 24.23 Því næst mælti hann: 'Hvers dóttir ert þú? Segðu mér það. Er rúm í húsi föður þíns til að hýsa oss í nótt?' 24.24 Og hún sagði við hann: 'Ég er dóttir Betúels, sonar Milku, sem hún ól Nahor.' 24.25 Þá sagði hún við hann: 'Vér höfum yfrið nóg bæði af hálmi og fóðri, og einnig húsrúm til gistingar.' 24.26 Þá laut maðurinn höfði, bað til Drottins 24.27 og mælti: 'Lofaður sé Drottinn, Guð Abrahams húsbónda míns, sem hefir ekki dregið í hlé miskunn sína og trúfesti við húsbónda minn. Mig hefir Drottinn leitt veginn til húss frænda húsbónda míns.' 24.28 Stúlkan skundaði heim og sagði í húsi móður sinnar frá því, sem við hafði borið. 24.29 Rebekka átti bróður, sem Laban hét, og Laban hljóp til mannsins út að lindinni. 24.30 Og er hann sá hringinn og armböndin á höndum systur sinnar og heyrði orð Rebekku systur sinnar, sem sagði: 'Svona talaði maðurinn við mig,' þá fór hann til mannsins. Og sjá, hann stóð hjá úlföldunum við lindina. 24.31 Og hann sagði: 'Kom þú inn, blessaður af Drottni. Hví stendur þú hér úti? Ég hefi rýmt til í húsinu, og staður er fyrir úlfalda þína.' 24.32 Þá gekk maðurinn inn í húsið, og Laban spretti af úlföldunum og gaf þeim hálm og fóður, en færði honum vatn til að þvo fætur sína og fætur þeirra manna, sem voru með honum. 24.33 Og matur var fram borinn fyrir hann, en hann sagði: 'Eigi vil ég matar neyta fyrr en ég hefi borið upp erindi mitt.' Og menn svöruðu: 'Tala þú!' 24.34 Hann mælti: 'Ég er þjónn Abrahams. 24.35 Drottinn hefir ríkulega blessað húsbónda minn, svo að hann er orðinn auðmaður. Hann hefir gefið honum sauði og naut, silfur og gull, þræla og ambáttir, úlfalda og asna. 24.36 Og Sara, kona húsbónda míns, hefir alið húsbónda mínum son í elli sinni, og honum hefir hann gefið allt, sem hann á. 24.37 Og húsbóndi minn tók af mér eið og sagði: ,Þú mátt eigi konu taka syni mínum af dætrum Kanaaníta, er ég bý hjá, 24.38 heldur skalt þú fara í hús föður míns og til ættingja minna og taka syni mínum konu.` 24.39 Og ég sagði við húsbónda minn: ,Vera má, að konan vilji ekki fara með mér.` 24.40 Og hann svaraði mér: ,Drottinn, fyrir hvers augsýn ég hefi gengið, mun senda engil sinn með þér og láta ferð þína heppnast, svo að þú megir fá konu til handa syni mínum af ætt minni og úr húsi föður míns. 24.41 Þá skaltu vera laus við þann eið, sem þú vinnur mér, ef þú fer til ættingja minna, og vilji þeir ekki gefa þér hana, þá ertu laus við eiðinn, sem ég tek af þér.` 24.42 Og er ég í dag kom að lindinni, sagði ég: ,Drottinn, Guð Abrahams húsbónda míns. Ætlir þú að láta þá för lánast, sem ég nú er að fara, 24.43 þá sjá, ég stend við þessa lind, og fari svo, að sú stúlka, sem kemur hingað til að sækja vatn og ég segi við: Gef mér að drekka vatnssopa úr skjólu þinni, _ 24.44 svarar mér: Drekk þú, og líka skal ég ausa úlföldum þínum vatn, _ hún sé sú kona, sem Drottinn hefir fyrirhugað syni húsbónda míns.` 24.45 En áður en ég hafði lokið þessu tali við sjálfan mig, sjá, þá kom Rebekka út þangað með skjólu sína á öxlinni og gekk niður að lindinni og bar upp vatn. Og ég sagði við hana: ,Gef mér að drekka!` 24.46 Og óðara tók hún skjóluna niður af öxlinni og sagði: ,Drekk þú, og líka skal ég brynna úlföldum þínum.` Og ég drakk, og hún brynnti líka úlföldunum. 24.47 Þá spurði ég hana og mælti: ,Hvers dóttir ert þú?` Og hún sagði: ,Dóttir Betúels, sonar Nahors, sem Milka ól honum.` Lét ég þá hringinn í nef hennar og armböndin á hendur hennar. 24.48 Og ég laut höfði og bað til Drottins, og ég lofaði Drottin, Guð Abrahams húsbónda míns, sem hafði leitt mig hinn rétta veg til að taka bróðurdóttur húsbónda míns syni hans til handa. 24.49 Og nú, ef þér viljið sýna vináttu og tryggð húsbónda mínum, þá segið mér það. En viljið þér það ekki þá segið mér og það, svo að ég geti snúið mér hvort heldur væri til hægri eða vinstri.' 24.50 Þá svöruðu þeir Laban og Betúel og sögðu: 'Þetta er frá Drottni komið. Við getum ekkert við þig sagt, hvorki illt né gott. 24.51 Sjá, Rebekka er á þínu valdi, tak þú hana og far þína leið, að hún verði kona sonar húsbónda þíns, eins og Drottinn hefir sagt.' 24.52 Og er þjónn Abrahams heyrði þessi orð, laut hann til jarðar fyrir Drottni. 24.53 Og þjónninn tók upp skartgripi af silfri og skartgripi af gulli og klæði, og gaf Rebekku, en bróður hennar og móður gaf hann gersemar. 24.54 Því næst átu þeir og drukku, hann og mennirnir, sem með honum voru, og gistu þar um nóttina. Er þeir voru risnir úr rekkju um morguninn, mælti hann: 'Látið mig nú fara heim til húsbónda míns.' 24.55 Þá svöruðu bróðir hennar og móðir: 'Leyf þú stúlkunni að vera hjá oss enn nokkurn tíma eða eina tíu daga. Þá má hún fara.' 24.56 En hann svaraði þeim: 'Tefjið mig ekki! Drottinn hefir látið ferð mína heppnast. Leyfið mér að fara heim til húsbónda míns.' 24.57 Þau sögðu þá: 'Við skulum kalla á stúlkuna og spyrja hana sjálfa.' 24.58 Þá kölluðu þau á Rebekku og sögðu við hana: 'Vilt þú fara með þessum manni?' Og hún sagði: 'Ég vil fara.' 24.59 Þá létu þau Rebekku systur sína og fóstru hennar fara með þjóni Abrahams og mönnum hans. 24.60 Þau blessuðu Rebekku og sögðu við hana: 'Systir vor, vaxi af þér þúsundir þúsunda og eignist niðjar þínir borgarhlið fjandmanna sinna!' 24.61 Þá tók Rebekka sig upp með þernum sínum, og þær riðu úlföldunum og fóru með manninum. Og þjónninn tók Rebekku og fór leiðar sinnar. 24.62 Ísak hafði gengið að Beer-lahaj-róí, því að hann bjó í Suðurlandinu. 24.63 Og Ísak hafði gengið út að áliðnum degi til að hugleiða úti á mörkinni, og hann hóf upp augu sín og sá úlfalda koma. 24.64 Og Rebekka leit upp og sá Ísak. Sté hún þá jafnskjótt niður af úlfaldanum. 24.65 Og hún sagði við þjóninn: 'Hver er þessi maður, sem kemur á móti oss þarna á mörkinni?' Og þjónninn svaraði: 'Það er húsbóndi minn.' Þá tók hún skýluna og huldi sig. 24.66 Og þjónninn sagði Ísak frá öllu því, sem hann hafði gjört. 24.67 Og Ísak leiddi hana í tjald Söru móður sinnar, og tók Rebekku og hún varð kona hans og hann elskaði hana. Og Ísak huggaðist af harmi þeim, er hann bar eftir móður sína.
25.1 Abraham tók sér enn konu. Hún hét Ketúra. 25.2 Og hún ól honum Símran, Joksan, Medan, Midían, Jísbak og Súa. 25.3 Og Joksan gat Séba og Dedan, og synir Dedans voru Assúrítar, Letúsítar og Leúmmítar. 25.4 Og synir Midíans voru: Efa, Efer, Hanok, Abída og Eldaa. Allir þessir eru niðjar Ketúru. 25.5 Abraham gaf Ísak allt, sem hann átti. 25.6 En sonum þeim, sem Abraham hafði átt með hjákonunum, gaf hann gjafir og lét þá, meðan hann enn var á lífi, fara burt frá Ísak syni sínum í austurátt, til austurlanda. 25.7 Þetta eru ævidagar Abrahams, sem hann lifði, hundrað sjötíu og fimm ár. 25.8 Og Abraham andaðist og dó í góðri elli, gamall og saddur lífdaga, og safnaðist til síns fólks. 25.9 Og Ísak og Ísmael synir hans jörðuðu hann í Makpelahelli í landi Efrons, sonar Hetítans Sóars, sem er gegnt Mamre, 25.10 í landi því, sem Abraham hafði keypt af Hetítum, þar var Abraham jarðaður og Sara kona hans. 25.11 Og eftir andlát Abrahams blessaði Guð Ísak son hans. En Ísak bjó hjá Beer-lahaj-róí. 25.12 Þetta er ættartal Ísmaels Abrahamssonar, sem Hagar hin egypska, ambátt Söru, ól honum. 25.13 Og þessi eru nöfn Ísmaels sona, samkvæmt nöfnum þeirra, eftir kynþáttum þeirra. Nebajót var hans frumgetinn son, þá Kedar, Adbeel, Míbsam, 25.14 Misma, Dúma, Massa, 25.15 Hadar, Tema, Jetúr, Nafis og Kedma. 25.16 Þessir eru synir Ísmaels, og þessi eru nöfn þeirra, eftir þorpum þeirra og tjaldbúðum, tólf höfðingjar, eftir ættkvíslum þeirra. 25.17 Og þetta voru æviár Ísmaels: hundrað þrjátíu og sjö ár, _ þá andaðist hann og dó, og safnaðist til síns fólks. 25.18 Og þeir bjuggu frá Havíla til Súr, sem er fyrir austan Egyptaland, í stefnu til Assýríu. Fyrir austan alla bræður sína tók hann sér bústað. 25.19 Þetta er saga Ísaks Abrahamssonar. Abraham gat Ísak. 25.20 Ísak var fertugur að aldri, er hann gekk að eiga Rebekku, dóttur Betúels hins arameíska frá Paddan-aram, systur Labans hins arameíska. 25.21 Ísak bað Drottin fyrir konu sinni, því að hún var óbyrja, og Drottinn bænheyrði hann, og Rebekka kona hans varð þunguð. 25.22 Og er börnin hnitluðust í kviði hennar, sagði hún: 'Sé það svona, hví lifi ég þá?' Gekk hún þá til frétta við Drottin. 25.23 En Drottinn svaraði henni: Þú gengur með tvær þjóðir, og tveir ættleggir munu af skauti þínu kvíslast. Annar verður sterkari en hinn, og hinn eldri mun þjóna hinum yngri. 25.24 Er dagar hennar fullnuðust, að hún skyldi fæða, sjá, þá voru tvíburar í kviði hennar. 25.25 Og hinn fyrri kom í ljós, rauður að lit og allur sem loðfeldur, og var hann nefndur Esaú. 25.26 Og eftir það kom bróðir hans í ljós, og hélt hann um hælinn á Esaú, og var hann nefndur Jakob. En Ísak var sextíu ára, er hún ól þá. 25.27 Er sveinarnir voru vaxnir, gjörðist Esaú slyngur veiðimaður og hafðist við á heiðum, en Jakob var maður gæfur og bjó í tjöldum. 25.28 Og Ísak unni Esaú, því að villibráð þótti honum góð, en Rebekka unni Jakob. 25.29 Einu sinni hafði Jakob soðið rétt nokkurn. Kom þá Esaú af heiðum og var dauðþreyttur. 25.30 Þá sagði Esaú við Jakob: 'Gef mér fljótt að eta hið rauða, þetta rauða þarna, því að ég er dauðþreyttur.' Fyrir því nefndu menn hann Edóm. 25.31 En Jakob mælti: 'Seldu mér fyrst frumburðarrétt þinn.' 25.32 Og Esaú mælti: 'Ég er kominn í dauðann, hvað stoðar mig frumburðarréttur minn?' 25.33 Og Jakob mælti: 'Vinn þú mér þá fyrst eið að því!' Og hann vann honum eiðinn og seldi Jakob frumburðarrétt sinn. 25.34 En Jakob gaf Esaú brauð og baunarétt, og hann át og drakk og stóð upp og gekk burt. Þannig lítilsvirti Esaú frumburðarrétt sinn.
26.1 Hallæri varð í landinu, annað hallæri en hið fyrra, sem var á dögum Abrahams. Fór þá Ísak til Abímeleks Filistakonungs í Gerar. 26.2 Og Drottinn birtist honum og mælti: 'Far þú ekki til Egyptalands. Ver þú kyrr í því landi, sem ég segi þér. 26.3 Dvel þú um hríð í þessu landi, og ég mun vera með þér og blessa þig, því að þér og niðjum þínum mun ég gefa öll þessi lönd, og ég mun halda þann eið, sem ég sór Abraham, föður þínum. 26.4 Og ég mun margfalda niðja þína sem stjörnur himinsins og gefa niðjum þínum öll þessi lönd, og af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta, 26.5 af því að Abraham hlýddi minni röddu og varðveitti boðorð mín, skipanir mínar, ákvæði og lög.' 26.6 Og Ísak staðnæmdist í Gerar. 26.7 Og er menn þar spurðu um konu hans, sagði hann: 'Hún er systir mín,' því að hann þorði ekki að segja: 'Hún er kona mín.' 'Ella kynnu,' hugsaði hann, 'menn þar að myrða mig vegna Rebekku, af því að hún er fríð sýnum.' 26.8 Og svo bar við, er hann hafði verið þar um hríð, að Abímelek Filistakonungur leit út um gluggann og sá, að Ísak lét vel að Rebekku konu sinni. 26.9 Þá kallaði Abímelek á Ísak og mælti: 'Sjá, vissulega er hún kona þín. Og hvernig gast þú sagt: ,Hún er systir mín`?' Og Ísak sagði við hann: 'Ég hugsaði, að ella mundi ég láta lífið fyrir hennar sakir.' 26.10 Og Abímelek mælti: 'Hví hefir þú gjört oss þetta? Hæglega gat það viljað til, að einhver af lýðnum hefði lagst með konu þinni, og hefðir þú þá leitt yfir oss syndasekt.' 26.11 Síðan bauð Abímelek öllum landslýðnum og mælti: 'Hver sem snertir þennan mann og konu hans, skal vissulega deyja.' 26.12 Og Ísak sáði í þessu landi og uppskar hundraðfalt á því ári, því að Drottinn blessaði hann. 26.13 Og maðurinn efldist og auðgaðist meir og meir, uns hann var orðinn stórauðugur. 26.14 Og hann átti sauðahjarðir og nautahjarðir og margt þjónustufólk, svo að Filistar öfunduðu hann. 26.15 Alla þá brunna, sem þjónar föður Ísaks höfðu grafið á dögum Abrahams, föður hans, byrgðu Filistar og fylltu með mold. 26.16 Og Abímelek sagði við Ísak: 'Far þú burt frá oss, því að þú ert orðinn miklu voldugri en vér.' 26.17 Þá fór Ísak þaðan og tók sér bólfestu í Gerardal og bjó þar. 26.18 Og Ísak lét aftur grafa upp brunnana, sem þeir höfðu grafið á dögum Abrahams föður hans og Filistar höfðu aftur byrgt eftir dauða Abrahams, og gaf þeim hin sömu heiti sem faðir hans hafði gefið þeim. 26.19 Þrælar Ísaks grófu í dalnum og fundu þar brunn lifandi vatns. 26.20 En fjárhirðar í Gerar deildu við fjárhirða Ísaks og sögðu: 'Vér eigum vatnið.' Og hann nefndi brunninn Esek, af því að þeir höfðu þráttað við hann. 26.21 Þá grófu þeir annan brunn, en deildu einnig um hann, og hann nefndi hann Sitna. 26.22 Eftir það fór hann þaðan og gróf enn brunn. En um hann deildu þeir ekki, og hann nefndi hann Rehóbót og sagði: 'Nú hefir Drottinn rýmkað um oss, svo að vér megum vaxa í landinu.' 26.23 Og þaðan fór hann upp til Beerseba. 26.24 Þá hina sömu nótt birtist Drottinn honum og mælti: 'Ég er Guð Abrahams, föður þíns. Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Og ég mun blessa þig og margfalda afkvæmi þitt fyrir sakir Abrahams, þjóns míns.' 26.25 Og hann reisti þar altari og ákallaði nafn Drottins og setti þar tjald sitt, og þrælar Ísaks grófu þar brunn. 26.26 Þá kom Abímelek til hans frá Gerar og Akúsat, vinur hans, og Píkól, hershöfðingi hans. 26.27 Þá sagði Ísak við þá: 'Hví komið þér til mín, þar sem þér þó hatið mig og hafið rekið mig burt frá yður?' 26.28 En þeir svöruðu: 'Vér höfum berlega séð, að Drottinn er með þér. Fyrir því sögðum vér: ,Eiður sé milli vor, milli vor og þín,` og vér viljum gjöra við þig sáttmála: 26.29 Þú skalt oss ekki mein gjöra, svo sem vér höfum eigi snortið þig og svo sem vér höfum eigi gjört þér nema gott og látið þig fara í friði, því að þú ert nú blessaður af Drottni.' 26.30 Eftir það gjörði hann þeim veislu, og þeir átu og drukku. 26.31 Og árla morguninn eftir unnu þeir hver öðrum eiða. Og Ísak lét þá í burt fara, og þeir fóru frá honum í friði. 26.32 Þann sama dag bar svo við, að þrælar Ísaks komu og sögðu honum frá brunninum, sem þeir höfðu grafið, og mæltu við hann: 'Vér höfum fundið vatn.' 26.33 Og hann nefndi hann Síba. Fyrir því heitir borgin Beerseba allt til þessa dags. 26.34 Er Esaú var fertugur að aldri, gekk hann að eiga Júdít, dóttur Hetítans Beerí, og Basmat, dóttur Hetítans Elons. 26.35 Og var þeim Ísak og Rebekku sár skapraun að þeim.
27.1 Svo bar til, er Ísak var orðinn gamall og augu hans döpruðust, svo að hann gat ekki séð, að hann kallaði á Esaú, eldri son sinn, og mælti til hans: 'Sonur minn!' Og hann svaraði honum: 'Hér er ég.' 27.2 Og hann sagði: 'Sjá, ég er orðinn gamall og veit ekki, nær ég muni deyja. 27.3 Tak þú nú veiðigögn þín, örvamæli þinn og boga, og far þú á heiðar og veið mér villidýr. 27.4 Og tilreið mér ljúffengan rétt, sem mér geðjast að, og fær mér hann, að ég megi eta, svo að sál mín blessi þig, áður en ég dey.' 27.5 En Rebekka heyrði, hvað Ísak talaði við Esaú son sinn. Og er Esaú var farinn út á heiðar til að veiða villidýr og hafa heim með sér, 27.6 mælti Rebekka við Jakob son sinn á þessa leið: 'Sjá, ég heyrði föður þinn tala við Esaú bróður þinn og segja: 27.7 ,Fær þú mér villibráð og tilreið mér ljúffengan rétt, að ég megi eta og blessa þig í augsýn Drottins, áður en ég dey.` 27.8 Og hlýð þú mér nú, sonur minn, og gjör sem ég segi þér. 27.9 Far þú til hjarðarinnar og fær mér tvö væn hafurkið úr henni, að ég megi tilreiða föður þínum ljúffengan rétt, sem honum geðjast að, 27.10 og skalt þú færa hann föður þínum, að hann megi eta, svo að hann blessi þig, áður en hann deyr.' 27.11 En Jakob sagði við Rebekku móður sína: 'Gáðu að, Esaú bróðir minn er loðinn, en ég er snöggur. 27.12 Vera má að faðir minn þreifi á mér og þyki sem ég hafi viljað dára sig. Mun ég þá leiða yfir mig bölvun, en ekki blessun.' 27.13 En móðir hans sagði við hann: 'Yfir mig komi sú bölvun, sonur minn. Hlýð þú mér aðeins. Farðu og sæktu mér kiðin.' 27.14 Þá fór hann og sótti þau og færði móður sinni. Og móðir hans tilreiddi ljúffengan rétt, sem föður hans geðjaðist að. 27.15 Og Rebekka tók klæðnað góðan af Esaú, eldri syni sínum, sem hún hafði hjá sér í húsinu, og færði Jakob, yngri son sinn, í hann. 27.16 En kiðskinnin lét hún um hendur hans og um hálsinn, þar sem hann var hárlaus. 27.17 Og hún fékk Jakob syni sínum í hendur hinn ljúffenga rétt og brauðið, sem hún hafði gjört. 27.18 Þá gekk hann inn til föður síns og mælti: 'Faðir minn!' Og hann svaraði: 'Hér er ég. Hver ert þú, son minn?' 27.19 Og Jakob sagði við föður sinn: 'Ég er Esaú, sonur þinn frumgetinn. Ég hefi gjört sem þú bauðst mér. Sestu nú upp og et af villibráð minni, svo að sál þín blessi mig.' 27.20 Og Ísak sagði við son sinn: 'Hvernig máttir þú svo skjótlega finna nokkuð, son minn?' Og hann mælti: 'Drottinn, Guð þinn, lét það verða á vegi mínum.' 27.21 Þá sagði Ísak við Jakob: 'Kom þú samt nær, að ég megi þreifa á þér, son minn, hvort þú sannlega ert Esaú sonur minn eða ekki.' 27.22 Jakob gekk þá að Ísak föður sínum, og hann þreifaði á honum og mælti: 'Röddin er rödd Jakobs, en hendurnar eru hendur Esaú.' 27.23 Og hann þekkti hann ekki, því að hendur hans voru loðnar eins og hendur Esaú bróður hans, og hann blessaði hann. 27.24 Og hann mælti: 'Ert þú þá Esaú sonur minn?' Og hann svaraði: 'Ég er hann.' 27.25 Þá sagði hann: 'Kom þú þá með það, að ég eti af villibráð sonar míns, svo að sál mín megi blessa þig.' Og hann færði honum það og hann át, og hann bar honum vín og hann drakk. 27.26 Og Ísak faðir hans sagði við hann: 'Kom þú nær og kyss þú mig, son minn!' 27.27 Og hann gekk að honum og kyssti hann. Kenndi hann þá ilm af klæðum hans og blessaði hann og mælti: Sjá, ilmurinn af syni mínum er sem ilmur af akri, sem Drottinn hefir blessað. 27.28 Guð gefi þér dögg af himni og feiti jarðar og gnægð korns og víns. 27.29 Þjóðir skulu þjóna þér og lýðir lúta þér. Þú skalt vera herra bræðra þinna, og synir móður þinnar skulu lúta þér. Bölvaður sé hver sá, sem bölvar þér, en blessaður sé hver sá, sem blessar þig! 27.30 Er Ísak hafði lokið blessuninni yfir Jakob og Jakob var nýgenginn út frá Ísak föður sínum, þá kom Esaú bróðir hans heim úr veiðiför sinni. 27.31 Og hann tilreiddi einnig ljúffengan rétt og bar föður sínum, og hann mælti við föður sinn: 'Rístu upp, faðir minn, og et af villibráð sonar þíns, svo að sál þín blessi mig.' 27.32 En Ísak faðir hans sagði við hann: 'Hver ert þú?' Og hann mælti: 'Ég er sonur þinn, þinn frumgetinn son Esaú.' 27.33 Þá varð Ísak felmtsfullur harla mjög og mælti: 'Hver var það þá, sem veiddi villidýr og færði mér, svo að ég át af því öllu, áður en þú komst, og blessaði hann? Blessaður mun hann og verða.' 27.34 En er Esaú heyrði þessi orð föður síns, hljóðaði hann upp yfir sig hátt mjög og sáran og mælti við föður sinn: 'Blessa þú mig líka, faðir minn!' 27.35 Og hann mælti: 'Bróðir þinn kom með vélráðum og tók blessun þína.' 27.36 Þá mælti hann: 'Vissulega er hann réttnefndur Jakob, því að tvisvar sinnum hefir hann nú leikið á mig. Frumburðarrétt minn hefir hann tekið, og nú hefir hann einnig tekið blessun mína.' Því næst mælti hann: 'Hefir þú þá enga blessun geymt mér?' 27.37 Og Ísak svaraði og sagði við Esaú: 'Sjá, ég hefi skipað hann herra yfir þig, og ég hefi gefið honum alla bræður sína að þrælum, og ég hefi séð honum fyrir korni og víni. Hvað get ég þá gjört fyrir þig, sonur minn?' 27.38 Og Esaú mælti við föður sinn: 'Hefir þú ekki nema þessa einu blessun til, faðir minn? Blessa mig líka, faðir minn!' Og Esaú tók að gráta hástöfum. 27.39 Þá svaraði Ísak faðir hans og sagði við hann: Fjarri jarðarinnar feiti skal bústaður þinn vera og án daggar af himni ofan. 27.40 En af sverði þínu muntu lifa, og bróður þínum muntu þjóna. En svo mun fara, er þú neytir allrar orku þinnar, að þú munt brjóta sundur ok hans af hálsi þínum. 27.41 Esaú lagði hatur á Jakob sakir þeirrar blessunar, sem faðir hans hafði gefið honum. Og Esaú hugsaði með sjálfum sér: 'Þess mun eigi langt að bíða, að menn munu syrgja föður minn látinn, og skal ég þá drepa Jakob bróður minn.' 27.42 Og Rebekku bárust orð Esaú, eldri sonar hennar. Þá sendi hún og lét kalla Jakob, yngri son sinn, og mælti við hann: 'Sjá, Esaú bróðir þinn hyggur á hefndir við þig og ætlar að drepa þig. 27.43 Og far þú nú að ráðum mínum, sonur minn! Tak þig upp og flý til Labans, bróður míns í Harran, 27.44 og dvel hjá honum nokkurn tíma, þangað til heift bróður þíns sefast, 27.45 þangað til bróður þínum er runnin reiðin við þig og hann hefir gleymt því, sem þú hefir honum í móti gjört. Þá mun ég senda eftir þér og láta sækja þig þangað. Hví skyldi ég missa ykkur báða á einum degi?' 27.46 Rebekka mælti við Ísak: 'Ég er orðin leið á lífinu vegna Hets dætra. Ef Jakob tæki sér konu slíka sem þessar eru, meðal Hets dætra, meðal hérlendra kvenna, hví skyldi ég þá lengur lifa?'
28.1 Þá kallaði Ísak Jakob til sín og blessaði hann. Og hann bauð honum og sagði við hann: 'Þú skalt eigi taka þér konu af Kanaans dætrum. 28.2 Tak þig upp og far til Mesópótamíu, í hús Betúels móðurföður þíns, og tak þér þar konu af dætrum Labans móðurbróður þíns. 28.3 Og Almáttugur Guð blessi þig og gjöri þig frjósaman og margfaldi þig, svo að þú verðir að mörgum kynkvíslum. 28.4 Hann gefi þér blessun Abrahams, þér og niðjum þínum með þér, að þú megir eignast það land, er þú býr í sem útlendingur og Guð gaf Abraham.' 28.5 Síðan sendi Ísak Jakob burt, og hann fór til Mesópótamíu, til Labans Betúelssonar hins arameíska, bróður Rebekku, móður þeirra Jakobs og Esaú. 28.6 En Esaú varð þess vís, að Ísak hafði blessað Jakob og sent hann til Mesópótamíu til að taka sér þar konu, að hann hafði blessað hann, boðið honum og sagt: 'Þú skalt ekki taka þér konu af Kanaans dætrum,' 28.7 og að Jakob hafði hlýðnast föður sínum og móður sinni og farið til Mesópótamíu. 28.8 Þá sá Esaú, að Kanaans dætur geðjuðust eigi Ísak föður hans. 28.9 Fór Esaú því til Ísmaels og tók Mahalat, dóttur Ísmaels Abrahamssonar, systur Nebajóts, sér fyrir konu, auk þeirra kvenna, sem hann átti áður. 28.10 Jakob lagði af stað frá Beerseba og hélt á leið til Harran. 28.11 Og hann kom á stað nokkurn og var þar um nóttina, því að sól var runnin. Og hann tók einn af steinum þeim, er þar voru, og lagði undir höfuð sér, lagðist því næst til svefns á þessum stað. 28.12 Þá dreymdi hann. Honum þótti stigi standa á jörðu og efri endi hans ná til himins, og sjá, englar Guðs fóru upp og ofan eftir stiganum. 28.13 Og sjá, Drottinn stóð hjá honum og sagði: 'Ég er Drottinn, Guð Abrahams föður þíns og Guð Ísaks. Landið, sem þú hvílist á, mun ég gefa þér og niðjum þínum. 28.14 Og niðjar þínir skulu verða sem duft jarðar, og þú skalt útbreiðast til vesturs og austurs, norðurs og suðurs, og af þér munu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta og af þínu afkvæmi. 28.15 Og sjá, ég er með þér og varðveiti þig, hvert sem þú fer, og ég mun aftur flytja þig til þessa lands, því að ekki mun ég yfirgefa þig fyrr en ég hefi gjört það, sem ég hefi þér heitið.' 28.16 Þá vaknaði Jakob af svefni sínum og mælti: 'Sannlega er Drottinn á þessum stað, og ég vissi það ekki!' 28.17 Og ótta sló yfir hann og hann sagði: 'Hversu hræðilegur er þessi staður! Hér er vissulega Guðs hús, og hér er hlið himinsins!' 28.18 Og Jakob reis árla um morguninn og tók steininn, sem hann hafði haft undir höfðinu, og reisti hann upp til merkis og hellti olíu yfir hann. 28.19 Og hann nefndi þennan stað Betel, en áður hafði borgin heitið Lúz. 28.20 Og Jakob gjörði heit og mælti: 'Ef Guð verður með mér og varðveitir mig á þessari ferð, sem ég nú fer, og gefur mér brauð að eta og föt að klæðast, 28.21 og ef ég kemst farsællega aftur heim í hús föður míns, þá skal Drottinn vera minn Guð, 28.22 og þessi steinn, sem ég hefi upp reist til merkis, skal verða Guðs hús, og ég skal færa þér tíundir af öllu, sem þú gefur mér.'
29.1 Jakob hélt áfram ferð sinni og kom til lands austurbyggja. 29.2 Og er hann litaðist um, sjá, þá var þar brunnur á mörkinni, og sjá, þar lágu þrjár sauðahjarðir við hann, því að þeir voru vanir að vatna hjörðunum við þennan brunn. En steinn mikill lá yfir munna brunnsins. 29.3 Og er allar hjarðirnar voru þar saman reknar, veltu þeir steininum frá munna brunnsins og vötnuðu fénu, síðan létu þeir steininn aftur yfir munna brunnsins á sinn stað. 29.4 Þá sagði Jakob við þá: 'Kæru bræður, hvaðan eruð þér?' 29.5 Þeir svöruðu: 'Vér erum frá Harran.' Og hann mælti til þeirra: 'Þekkið þér Laban Nahorsson?' Þeir svöruðu: 'Já, vér þekkjum hann.' 29.6 Og hann mælti til þeirra: 'Líður honum vel?' Þeir svöruðu: 'Honum líður vel. Og sjá, þarna kemur Rakel dóttir hans með féð.' 29.7 Og hann mælti: 'Sjá, enn er mikið dags eftir og ekki kominn tími til að reka saman fénaðinn. Brynnið fénu, farið síðan og haldið því á haga.' 29.8 Þeir svöruðu: 'Það getum vér ekki fyrr en allar hjarðirnar eru saman reknar, þá velta þeir steininum frá munna brunnsins, og þá brynnum vér fénu.' 29.9 Áður en hann hafði lokið tali sínu við þá, kom Rakel með féð, sem faðir hennar átti, því að hún sat hjá. 29.10 En er Jakob sá Rakel, dóttur Labans móðurbróður síns, og fé Labans móðurbróður síns, þá fór hann til og velti steininum frá munna brunnsins og vatnaði fé Labans móðurbróður síns. 29.11 Og Jakob kyssti Rakel og tók að gráta hástöfum. 29.12 Og Jakob sagði Rakel, að hann væri frændi föður hennar og að hann væri sonur Rebekku. En hún hljóp og sagði þetta föður sínum. 29.13 En er Laban fékk fregnina um Jakob systurson sinn, gekk hann skjótlega á móti honum, faðmaði hann að sér og minntist við hann, og leiddi hann inn í hús sitt. En hann sagði Laban alla sögu sína. 29.14 Þá sagði Laban við hann: 'Sannlega ert þú hold mitt og bein!' Og hann var hjá honum heilan mánuð. 29.15 Laban sagði við Jakob: 'Skyldir þú þjóna mér fyrir ekki neitt, þó að þú sért frændi minn? Seg mér, hvert kaup þitt skuli vera.' 29.16 En Laban átti tvær dætur. Hét hin eldri Lea, en Rakel hin yngri. 29.17 Og Lea var daufeygð, en Rakel var bæði vel vaxin og fríð sýnum. 29.18 Og Jakob elskaði Rakel og sagði: 'Ég vil þjóna þér í sjö ár fyrir Rakel, yngri dóttur þína.' 29.19 Laban svaraði: 'Betra er að ég gefi þér hana en að ég gefi hana öðrum manni. Ver þú kyrr hjá mér.' 29.20 Síðan vann Jakob fyrir Rakel í sjö ár, og þótti honum sem fáir dagar væru, sakir ástar þeirrar, er hann bar til hennar. 29.21 Og Jakob sagði við Laban: 'Fá mér nú konu mína, því að minn ákveðni tími er liðinn, að ég megi ganga inn til hennar.' 29.22 Þá bauð Laban til sín öllum mönnum í þeim stað og hélt veislu. 29.23 En um kveldið tók hann Leu dóttur sína og leiddi hana inn til hans, og hann gekk í sæng með henni. 29.24 Og Laban fékk henni Silpu ambátt sína, að hún væri þerna Leu dóttur hans. 29.25 En um morguninn, sjá, þá var það Lea. Og hann sagði við Laban: 'Hví hefir þú gjört mér þetta? Hefi ég ekki unnið hjá þér fyrir Rakel? Hví hefir þú þá svikið mig?' 29.26 Og Laban sagði: 'Það er ekki siður í voru landi að gifta fyrr frá sér yngri dótturina en hina eldri. 29.27 Enda þú út brúðkaupsviku þessarar, þá skulum vér einnig gefa þér hina fyrir þá vinnu, sem þú munt vinna hjá mér í enn önnur sjö ár.' 29.28 Og Jakob gjörði svo og endaði út vikuna með henni. Þá gifti hann honum Rakel dóttur sína. 29.29 Og Laban fékk Rakel dóttur sinni Bílu ambátt sína fyrir þernu. 29.30 Og hann gekk einnig í sæng með Rakel og hann elskaði Rakel meira en Leu. Og hann vann hjá honum í enn önnur sjö ár. 29.31 Er Drottinn sá, að Lea var fyrirlitin, opnaði hann móðurlíf hennar, en Rakel var óbyrja. 29.32 Og Lea varð þunguð og ól son og nefndi hann Rúben, því að hún sagði: 'Drottinn hefir séð raunir mínar. Nú mun bóndi minn elska mig.' 29.33 Og hún varð þunguð í annað sinn og ól son. Þá sagði hún: 'Drottinn hefir heyrt að ég er fyrirlitin. Fyrir því hefir hann einnig gefið mér þennan son.' Og hún nefndi hann Símeon. 29.34 Og enn varð hún þunguð og ól son. Þá sagði hún: 'Nú mun bóndi minn loks hænast að mér, því að ég hefi fætt honum þrjá sonu.' Fyrir því nefndi hún hann Leví. 29.35 Og enn varð hún þunguð og ól son og sagði: 'Nú vil ég vegsama Drottin.' Fyrir því nefndi hún hann Júda. Og hún lét af að eiga börn.
30.1 En er Rakel sá, að hún ól Jakob ekki börn, öfundaði hún systur sína og sagði við Jakob: 'Láttu mig eignast börn, ella mun ég deyja.' 30.2 Jakob reiddist þá við Rakel og sagði: 'Er ég þá Guð? Það er hann sem hefir synjað þér lífsafkvæmis.' 30.3 Þá sagði hún: 'Þarna er Bíla ambátt mín. Gakk þú inn til hennar, að hún megi fæða á skaut mitt og afla mér afkvæmis.' 30.4 Og hún gaf honum Bílu ambátt sína fyrir konu, og Jakob gekk inn til hennar. 30.5 Og Bíla varð þunguð og ól Jakob son. 30.6 Þá sagði Rakel: 'Guð hefir rétt hluta minn og einnig bænheyrt mig og gefið mér son.' Fyrir því nefndi hún hann Dan. 30.7 Og Bíla, ambátt Rakelar, varð þunguð í annað sinn og ól Jakob annan son. 30.8 Þá sagði Rakel: 'Mikið stríð hefi ég þreytt við systur mína og unnið sigur.' Og hún nefndi hann Naftalí. 30.9 Er Lea sá, að hún lét af að eiga börn, tók hún Silpu ambátt sína og gaf Jakob hana fyrir konu. 30.10 Og Silpa, ambátt Leu, ól Jakob son. 30.11 Þá sagði Lea: 'Til heilla!' Og hún nefndi hann Gað. 30.12 Og Silpa, ambátt Leu, ól Jakob annan son. 30.13 Þá sagði Lea: 'Sæl er ég, því að allar konur munu mig sæla segja.' Og hún nefndi hann Asser. 30.14 Rúben gekk eitt sinn út um hveitiskurðartímann og fann ástarepli á akrinum og færði þau Leu móður sinni. Þá sagði Rakel við Leu: 'Gef þú mér nokkuð af ástareplum sonar þíns.' 30.15 En hún svaraði: 'Er það ekki nóg, að þú tekur bónda minn frá mér, viltu nú einnig taka ástarepli sonar míns?' Og Rakel mælti: 'Hann má þá sofa hjá þér í nótt fyrir ástarepli sonar þíns.' 30.16 Er Jakob kom heim um kveldið af akrinum, gekk Lea út á móti honum og sagði: 'Þú átt að ganga inn til mín, því að ég hefi keypt þig fyrir ástarepli sonar míns.' Og hann svaf hjá henni þá nótt. 30.17 En Guð bænheyrði Leu, og hún varð þunguð og ól Jakob hinn fimmta son og sagði: 30.18 'Guð hefir launað mér það, að ég gaf bónda mínum ambátt mína.' Og hún nefndi hann Íssakar. 30.19 Og Lea varð enn þunguð og ól Jakob hinn sjötta son. 30.20 Þá sagði Lea: 'Guð hefir gefið mér góða gjöf. Nú mun bóndi minn búa við mig, því að ég hefi alið honum sex sonu.' Og hún nefndi hann Sebúlon. 30.21 Eftir það ól hún dóttur og nefndi hana Dínu. 30.22 Þá minntist Guð Rakelar og bænheyrði hana og opnaði móðurlíf hennar. 30.23 Og hún varð þunguð og ól son og sagði: 'Guð hefir numið burt smán mína.' 30.24 Og hún nefndi hann Jósef og sagði: 'Guð bæti við mig öðrum syni!' 30.25 Er Rakel hafði alið Jósef, sagði Jakob við Laban: 'Leyf þú mér nú að fara, að ég megi halda heim til átthaga minna og ættlands míns. 30.26 Fá mér konur mínar og börn mín, sem ég hefi þjónað þér fyrir, að ég megi fara, því að þú veist, hvernig ég hefi þjónað þér.' 30.27 Þá sagði Laban við hann: 'Hafi ég fundið náð í augum þínum, þá vertu kyrr. Ég hefi tekið eftir því, að Drottinn hefir blessað mig fyrir þínar sakir.' 30.28 Og hann mælti: 'Set sjálfur upp kaup þitt við mig, og skal ég gjalda það.' 30.29 Jakob sagði við hann: 'Þú veist sjálfur, hvernig ég hefi þjónað þér og hvað fénaður þinn er orðinn hjá mér. 30.30 Því að lítið var það, sem þú áttir, áður en ég kom, en það hefir aukist margfaldlega, og Drottinn hefir blessað þig við hvert mitt fótmál. Og auk þess, hvenær á ég þá að veita forsjá húsi sjálfs mín?' 30.31 Og Laban mælti: 'Hvað skal ég gefa þér?' En Jakob sagði: 'Þú skalt ekkert gefa mér, en viljir þú gjöra þetta, sem ég nú segi, þá vil ég enn þá halda fé þínu til haga og gæta þess. 30.32 Ég ætla í dag að ganga innan um allt fé þitt og skilja úr því hverja flekkótta og spreklótta kind. Og hver svört kind meðal sauðanna og hið spreklótta og flekkótta meðal geitanna, það skal vera kaup mitt. 30.33 Og ráðvendni mín skal eftirleiðis bera mér vitni, er þú kemur að skoða kaup mitt: Allt sem ekki er flekkótt og spreklótt meðal minna geita og svart meðal minna sauða, skal teljast stolið.' 30.34 Og Laban sagði: 'Svo skal þá vera sem þú hefir sagt.' 30.35 Á þeim degi skildi Laban frá alla rílóttu og spreklóttu hafrana, og allar flekkóttu og spreklóttu geiturnar _ allt það, sem hafði á sér einhvern hvítan díla, _ og allt hið svarta meðal sauðanna og fékk sonum sínum. 30.36 Og hann lét vera þriggja daga leið milli sín og Jakobs. En Jakob gætti þeirrar hjarðar Labans, sem eftir varð. 30.37 Jakob tók sér stafi af grænni ösp, möndluviði og hlyni og skóf á þá hvítar rákir með því að nekja hið hvíta á stöfunum. 30.38 Því næst lagði hann stafina, sem hann hafði birkt, í þrærnar, í vatnsrennurnar, sem féð kom að drekka úr, beint fyrir framan féð. En ærnar fengu, er þær komu að drekka. 30.39 Þannig fengu ærnar uppi yfir stöfunum, og ærnar áttu rílótt, flekkótt og spreklótt lömb. 30.40 Jakob skildi lömbin úr og lét féð horfa á hið rílótta og allt hið svarta í fé Labans. Þannig kom hann sér upp sérstökum fjárhópum og lét þá ekki saman við hjörð Labans. 30.41 Og um allan göngutíma vænu ánna lagði Jakob stafina í þrærnar fyrir framan féð, svo að þær skyldu fá uppi yfir stöfunum. 30.42 En er rýru ærnar gengu, lagði hann þá þar ekki. Þannig fékk Laban rýra féð, en Jakob hið væna. 30.43 Og maðurinn varð stórauðugur og eignaðist mikinn fénað, ambáttir og þræla, úlfalda og asna.
31.1 Nú frétti Jakob svofelld ummæli Labans sona: 'Jakob hefir dregið undir sig aleigu föður vors, og af eigum föður vors hefir hann aflað sér allra þessara auðæfa.' 31.2 Og Jakob sá á yfirbragði Labans, að hann bar ekki sama þel til sín sem áður. 31.3 Þá sagði Drottinn við Jakob: 'Hverf heim aftur í land feðra þinna og til ættfólks þíns, og ég mun vera með þér.' 31.4 Þá sendi Jakob og lét kalla þær Rakel og Leu út í hagann, þangað sem hjörð hans var. 31.5 Og hann sagði við þær: 'Ég sé á yfirbragði föður ykkar, að hann ber ekki sama þel til mín sem áður; en Guð föður míns hefir verið með mér. 31.6 Og það vitið þið sjálfar, að ég hefi þjónað föður ykkar af öllu mínu megni. 31.7 En faðir ykkar hefir svikið mig og tíu sinnum breytt kaupi mínu, en Guð hefir ekki leyft honum að gjöra mér mein. 31.8 Þegar hann sagði: ,Hið flekkótta skal vera kaup þitt,` _ fæddi öll hjörðin flekkótt, og þegar hann sagði: ,Hið rílótta skal vera kaup þitt,` _ þá fæddi öll hjörðin rílótt. 31.9 Og þannig hefir Guð tekið fénaðinn frá föður ykkar og gefið mér hann. 31.10 Og um fengitíma hjarðarinnar hóf ég upp augu mín og sá í draumi, að hafrarnir, sem hlupu á féð, voru rílóttir, flekkóttir og dílóttir. 31.11 Og engill Guðs sagði við mig í draumnum: ,Jakob!` Og ég svaraði: ,Hér er ég.` 31.12 Þá mælti hann: ,Lít upp augum þínum og horfðu á: Allir hafrarnir, sem hlaupa á féð, eru rílóttir, flekkóttir og dílóttir; því að ég hefi séð allt, sem Laban hefir gjört þér. 31.13 Ég er Betels Guð, þar sem þú smurðir merkisstein, þar sem þú gjörðir mér heit. Tak þig nú upp, far burt úr þessu landi og hverf aftur til ættlands þíns.'` 31.14 Þá svöruðu þær Rakel og Lea og sögðu við hann: 'Höfum við nokkra hlutdeild og arf framar í húsi föður okkar? 31.15 Álítur hann okkur ekki vandalausar, þar sem hann hefir selt okkur? Og verði okkar hefir hann og algjörlega eytt. 31.16 Aftur á móti eigum við og börn okkar allan þann auð, sem Guð hefir tekið frá föður okkar. Og gjör þú nú allt, sem Guð hefir boðið þér.' 31.17 Þá tók Jakob sig upp og setti börn sín og konur upp á úlfaldana 31.18 og hafði á burt allan fénað sinn og allan fjárhlut sinn, sem hann hafði aflað sér, fjáreign sína, sem hann hafði aflað sér í Mesópótamíu, og hóf ferð sína til Ísaks föður síns í Kanaanlandi. 31.19 Þegar Laban var farinn að klippa sauði sína, þá stal Rakel húsgoðum föður síns. 31.20 Og Jakob blekkti Laban hinn arameíska, með því að hann sagði honum eigi frá því, að hann mundi flýja. 31.21 Þannig flýði hann með allt, sem hann átti. Og hann tók sig upp og fór yfir fljótið og stefndi á Gíleaðsfjöll. 31.22 Laban var sagt það á þriðja degi, að Jakob væri flúinn. 31.23 Þá tók hann frændur sína með sér og elti hann sjö dagleiðir og náði honum á Gíleaðsfjöllum. 31.24 En Guð kom um nóttina til Labans hins arameíska í draumi og sagði við hann: 'Gæt þín, að þú mælir ekkert styggðarorð til Jakobs.' 31.25 Og Laban náði Jakob, sem hafði sett tjöld sín á fjöllunum, og Laban tjaldaði einnig á Gíleaðsfjöllum með frændum sínum. 31.26 Þá mælti Laban við Jakob: 'Hvað hefir þú gjört, að þú skyldir blekkja mig og fara burt með dætur mínar, eins og þær væru herteknar? 31.27 Hví flýðir þú leynilega og blekktir mig og lést mig ekki af vita, svo að ég mætti fylgja þér á veg með fögnuði og söng, með bumbum og gígjum, 31.28 og leyfðir mér ekki að kyssa dætrasonu mína og dætur? Óviturlega hefir þér nú farist. 31.29 Það er á mínu valdi að gjöra yður illt, en Guð föður yðar mælti svo við mig í nótt, er var: ,Gæt þín, að þú mælir ekkert styggðarorð til Jakobs.` 31.30 Og nú munt þú burt hafa farið, af því að þig fýsti svo mjög heim til föður þíns, en hví hefir þú stolið goðum mínum?' 31.31 Þá svaraði Jakob og mælti til Labans: 'Af því að ég var hræddur, því að ég hugsaði, að þú kynnir að slíta dætur þínar frá mér. 31.32 En sá skal ekki lífi halda, sem þú finnur hjá goð þín. Rannsaka þú í viðurvist frænda vorra, hvað hjá mér er af þínu, og tak það til þín.' En Jakob vissi ekki, að Rakel hafði stolið þeim. 31.33 Laban gekk í tjald Jakobs og tjald Leu og í tjald beggja ambáttanna, en fann ekkert. Og hann fór út úr tjaldi Leu og gekk í tjald Rakelar. 31.34 En Rakel hafði tekið húsgoðin og lagt þau í úlfaldasöðulinn og setst ofan á þau. Og Laban leitaði vandlega í öllu tjaldinu og fann ekkert. 31.35 Og hún sagði við föður sinn: 'Herra minn, reiðstu ekki, þótt ég geti ekki staðið upp fyrir þér, því að mér fer að eðlisháttum kvenna.' Og hann leitaði og fann ekki húsgoðin. 31.36 Þá reiddist Jakob og átaldi Laban og sagði við Laban: 'Hvað hefi ég misgjört, hvað hefi ég brotið, að þú eltir mig svo ákaflega? 31.37 Þú hefir leitað vandlega í öllum farangri mínum; hvað hefir þú fundið af öllum þínum búshlutum? Legg það hér fram í viðurvist frænda minna og frænda þinna, að þeir dæmi okkar í milli. 31.38 Ég hefi nú hjá þér verið í tuttugu ár. Ær þínar og geitur hafa ekki látið lömbunum, og hrúta hjarðar þinnar hefi ég ekki etið. 31.39 Það sem dýrrifið var, bar ég ekki heim til þín, það bætti ég sjálfur, þú krafðist þess af mér, hvort sem það hafði verið tekið á degi eða nóttu. 31.40 Ég átti þá ævi, að á daginn þjakaði mér hiti og á nóttinni kuldi, og eigi kom mér svefn á augu. 31.41 Í tuttugu ár hefi ég nú verið á heimili þínu. Hefi ég þjónað þér í fjórtán ár fyrir báðar dætur þínar og í sex ár fyrir hjörð þína, og þú hefir breytt kaupi mínu tíu sinnum. 31.42 Hefði ekki Guð föður míns, Abrahams Guð og Ísaks ótti, liðsinnt mér, þá hefðir þú nú látið mig tómhentan burt fara. En Guð hefir séð þrautir mínar og strit handa minna, og hann hefir dóm upp kveðið í nótt er var.' 31.43 Þá svaraði Laban og sagði við Jakob: 'Dæturnar eru mínar dætur og börnin eru mín börn og hjörðin er mín hjörð, og allt, sem þú sér, heyrir mér til. En hvað skyldi ég gjöra þessum dætrum mínum í dag, eða börnum þeirra, sem þær hafa alið? 31.44 Gott og vel, við skulum gjöra sáttmála, ég og þú, og hann skal vera vitnisburður milli mín og þín.' 31.45 Þá tók Jakob stein og reisti hann upp til merkis. 31.46 Og Jakob sagði við frændur sína: 'Berið að steina.' Og þeir báru að steina og gjörðu grjótvörðu, og þeir mötuðust þar á grjótvörðunni. 31.47 Og Laban kallaði hana Jegar Sahadúta, en Jakob kallaði hana Galeð. 31.48 Og Laban mælti: 'Þessi varða skal vera vitni í dag milli mín og þín.' Fyrir því kallaði hann hana Galeð, 31.49 og Mispa, með því að hann sagði: 'Drottinn sé á verði milli mín og þín, þá er við skiljum. 31.50 Ef þú misþyrmir dætrum mínum og ef þú tekur þér fleiri konur auk dætra minna, þá gæt þess, að þótt enginn maður sé hjá okkur, er Guð samt vitni milli mín og þín.' 31.51 Og Laban sagði við Jakob: 'Sjá þessa vörðu og sjá þennan merkisstein, sem ég hefi reist upp milli mín og þín! 31.52 Þessi varða sé vitni þess og þessi merkissteinn vottur þess, að hvorki skal ég ganga fram hjá þessari vörðu til þín né þú ganga fram hjá þessari vörðu og þessum merkissteini til mín með illt í huga. 31.53 Guð Abrahams og Guð Nahors, Guð föður þeirra, dæmi milli okkar.' Og Jakob sór við ótta Ísaks föður síns. 31.54 Og Jakob slátraði fórnardýrum á fjallinu og bauð frændum sínum til máltíðar, og þeir mötuðust og voru á fjallinu um nóttina. 31.55 Laban reis árla næsta morgun og minntist við sonu sína og dætur og blessaði þau. Því næst hélt Laban af stað og hvarf aftur heim til sín.
32.1 Jakob fór leiðar sinnar. Mættu honum þá englar Guðs. 32.2 Og er Jakob sá þá, mælti hann: 'Þetta eru herbúðir Guðs.' Og hann nefndi þennan stað Mahanaím. 32.3 Jakob gjörði sendimenn á undan sér til Esaú bróður síns til Seír-lands, Edómhéraðs. 32.4 Og hann bauð þeim og sagði: 'Segið svo herra mínum Esaú: ,Svo segir þjónn þinn Jakob: Ég hefi dvalið hjá Laban og verið þar allt til þessa. 32.5 Og ég hefi eignast uxa, asna og sauði, þræla og ambáttir, og sendi ég nú til herra míns að láta hann vita það, svo að ég megi finna náð í augum þínum.'` 32.6 Sendimennirnir komu aftur til Jakobs og sögðu: 'Vér komum til Esaú bróður þíns. Hann er sjálfur á leiðinni á móti þér og fjögur hundruð manns með honum.' 32.7 Þá varð Jakob mjög hræddur og kvíðafullur. Og hann skipti mönnunum, sem með honum voru, og sauðunum, nautunum og úlföldunum í tvo flokka. 32.8 Og hann hugsaði: 'Þó að Esaú ráðist á annan flokkinn og strádrepi hann, þá getur samt hinn flokkurinn komist undan.' 32.9 Og Jakob sagði: 'Guð Abrahams föður míns og Guð Ísaks föður míns, Drottinn, þú sem sagðir við mig: ,Hverf heim aftur til lands þíns og til ættfólks þíns, og ég mun gjöra vel við þig,` _ 32.10 ómaklegur er ég allrar þeirrar miskunnar og allrar þeirrar trúfesti, sem þú hefir auðsýnt þjóni þínum. Því að með stafinn minn einn fór ég þá yfir Jórdan, en nú á ég yfir tveim flokkum að ráða. 32.11 Æ, frelsa mig undan valdi bróður míns, undan valdi Esaú, því að ég óttast hann, að hann komi og höggvi oss niður sem hráviði. 32.12 Og þú hefir sjálfur sagt: ,Ég mun vissulega gjöra vel við þig og gjöra niðja þína sem sand á sjávarströndu, er eigi verður talinn fyrir fjölda sakir.'` 32.13 Og hann var þar þá nótt. Og hann tók gjöf handa Esaú bróður sínum af því, sem hann hafði eignast: 32.14 tvö hundruð geitur og tuttugu geithafra, tvö hundruð ásauðar og tuttugu hrúta, 32.15 þrjátíu úlfaldahryssur með folöldum, fjörutíu kýr og tíu griðunga, tuttugu ösnur og tíu ösnufola. 32.16 Og hann fékk þetta í hendur þjónum sínum, hverja hjörð út af fyrir sig, og mælti við þjóna sína: 'Farið á undan mér og látið vera bil á milli hjarðanna.' 32.17 Og þeim, sem fyrstur fór, bauð hann á þessa leið: 'Þegar Esaú bróðir minn mætir þér og spyr þig og segir: ,Hvers maður ert þú og hvert ætlar þú að fara og hver á þetta, sem þú rekur á undan þér?` 32.18 þá skaltu segja: ,Þjónn þinn Jakob á það. Það er gjöf, sem hann sendir herra mínum Esaú. Og sjá, hann er sjálfur hér á eftir oss.'` 32.19 Á sömu leið bauð hann hinum öðrum og þriðja og öllum þeim, sem hjarðirnar ráku, og mælti: 'Þannig skuluð þér tala við Esaú, þegar þér hittið hann. 32.20 Og þér skuluð einnig segja: ,Sjá, þjónn þinn Jakob kemur sjálfur á eftir oss.'` Því að hann hugsaði: 'Ég ætla að blíðka hann með gjöfinni, sem fer á undan mér. Því næst vil ég sjá hann. Vera má, að hann taki mér þá blíðlega.' 32.21 Þannig fór gjöfin á undan honum, en sjálfur var hann þessa nótt í herbúðunum. 32.22 Og Jakob lagði af stað um nóttina og tók báðar konur sínar og báðar ambáttir sínar og ellefu sonu sína og fór yfir Jabbok á vaðinu. 32.23 Og hann tók þau og fór með þau yfir ána. Og hann fór yfir um með allt, sem hann átti. 32.24 Jakob varð einn eftir, og maður nokkur glímdi við hann, uns dagsbrún rann upp. 32.25 Og er hann sá, að hann gat ekki fellt hann, laust hann hann á mjöðmina, svo að Jakob gekk úr augnakörlunum, er hann glímdi við hann. 32.26 Þá mælti hinn: 'Slepptu mér, því að nú rennur upp dagsbrún.' En hann svaraði: 'Ég sleppi þér ekki, nema þú blessir mig.' 32.27 Þá sagði hann við hann: 'Hvað heitir þú?' Hann svaraði: 'Jakob.' 32.28 Þá mælti hann: 'Eigi skalt þú lengur Jakob heita, heldur Ísrael, því að þú hefir glímt við Guð og menn og fengið sigur.' 32.29 Og Jakob spurði hann og mælti: 'Seg mér heiti þitt.' En hann svaraði: 'Hvers vegna spyr þú mig að heiti?' Og hann blessaði hann þar. 32.30 Og Jakob nefndi þennan stað Peníel, 'því að ég hefi,' kvað hann, 'séð Guð augliti til auglitis og þó haldið lífi.' 32.31 Og er hann fór frá Penúel, rann sólin upp. Var hann þá haltur í mjöðminni. 32.32 Fyrir því eta Ísraelsmenn allt til þessa dags ekki sinina, sem er ofan á augnakarlinum, því að hann hitti mjöðm Jakobs þar sem sinin er undir.
33.1 Jakob hóf upp augu sín og sá Esaú koma og með honum fjögur hundruð manns. Skipti hann þá börnunum niður á Leu og Rakel og báðar ambáttirnar. 33.2 Og hann lét ambáttirnar og þeirra börn vera fremst, þá Leu og hennar börn, og Rakel og Jósef aftast. 33.3 En sjálfur gekk hann á undan þeim og laut sjö sinnum til jarðar, uns hann kom fast að bróður sínum. 33.4 Þá hljóp Esaú á móti honum og faðmaði hann, lagði hendur um háls honum og kyssti hann, og þeir grétu. 33.5 Og Esaú leit upp og sá konurnar og börnin og mælti: 'Hvernig stendur á þessu fólki, sem með þér er?' Og hann svaraði: 'Það eru börnin, sem Guð hefir af náð sinni gefið þjóni þínum.' 33.6 Þá gengu fram ambáttirnar og börn þeirra og hneigðu sig. 33.7 Þá gekk og Lea fram og börn hennar og hneigðu sig, og síðan gengu Jósef og Rakel fram og hneigðu sig. 33.8 Esaú mælti: 'Hvað skal allur þessi hópur, sem ég mætti?' Jakob svaraði: 'Að ég megi finna náð í augum herra míns.' 33.9 Þá mælti Esaú: 'Ég á nóg. Eig þú þitt, bróðir minn!' 33.10 En Jakob sagði: 'Eigi svo. Hafi ég fundið náð í augum þínum, þá þigg þú gjöfina af mér, því að þegar ég sá auglit þitt, var sem ég sæi Guðs auglit, og þú tókst náðarsamlega á móti mér. 33.11 Ég bið þig, að þú þiggir gjöf mína, sem þér var færð, því að Guð hefir verið mér náðugur og ég hefi allsnægtir.' Og hann lagði að honum, svo að hann þá gjöfina. 33.12 Þá mælti Esaú: 'Tökum okkur nú upp og höldum áfram, og skal ég fara á undan þér.' 33.13 En hann svaraði honum: 'Þú sér, herra minn, að börnin eru þróttlítil og að í ferðinni eru lambær og kýr með kálfum, og ræki ég þær of hart einn dag, þá mundi öll hjörðin drepast. 33.14 Fari herra minn á undan þjóni sínum, en ég mun halda á eftir í hægðum mínum, eins og fénaðurinn getur farið, sem ég rek, og eins og börnin geta farið, uns ég kem til herra míns í Seír.' 33.15 Þá mælti Esaú: 'Þá vil ég þó láta eftir hjá þér nokkra af þeim mönnum, sem með mér eru.' Hann svaraði: 'Hver þörf er á því? Lát mig aðeins finna náð fyrir augum herra míns.' 33.16 Síðan fór Esaú þann sama dag leiðar sinnar heim aftur til Seír. 33.17 Og Jakob hélt áfram til Súkkót og byggði sér hús, og handa fénaði sínum gjörði hann laufskála. Fyrir því heitir staðurinn Súkkót. 33.18 Jakob kom heill á hófi til Síkemborgar, sem er í Kanaanlandi, er hann kom frá Mesópótamíu, og hann sló tjöldum fyrir utan borgina. 33.19 Hann keypti landspilduna, sem hann hafði tjaldað á, af sonum Hemors, föður Síkems, fyrir hundrað silfurpeninga. 33.20 Og hann reisti þar altari og kallaði það El-elóhe-Ísrael.
34.1 Dína dóttir Leu, er hún hafði fætt Jakob, gekk út að sjá dætur landsins. 34.2 Þá sá Síkem hana, sonur Hevítans Hemors, höfðingja landsins, og hann tók hana og lagðist með henni og spjallaði hana. 34.3 Og hann lagði mikinn ástarhug á Dínu, dóttur Jakobs, og hann elskaði stúlkuna og talaði vinsamlega við hana. 34.4 Síkem kom að máli við Hemor föður sinn og mælti: 'Tak mér þessa stúlku fyrir konu.' 34.5 En Jakob hafði frétt, að hann hefði svívirt Dínu dóttur hans, en með því að synir hans voru úti í haga með fénað hans, þá lét hann kyrrt vera, þar til er þeir komu heim. 34.6 Þá gekk Hemor, faðir Síkems, út til Jakobs til þess að tala við hann. 34.7 Og synir Jakobs komu heim úr haganum, er þeir heyrðu þetta. Og mennirnir styggðust og urðu stórreiðir, því að hann hafði framið óhæfuverk í Ísrael, er hann lagðist með dóttur Jakobs, og slíkt hefði aldrei átt að fremja. 34.8 Þá talaði Hemor við þá og mælti: 'Síkem sonur minn hefir mikla ást á dóttur yðar. Ég bið að þér gefið honum hana fyrir konu. 34.9 Mægist við oss, gefið oss yðar dætur og takið yður vorar dætur 34.10 og staðnæmist hjá oss, og landið skal standa yður til boða. Verið hér kyrrir og farið um landið og takið yður bólfestu í því.' 34.11 Og Síkem sagði við föður hennar og bræður: 'Ó, að ég mætti finna náð í augum yðar. Hvað sem þér til nefnið, það skal ég greiða. 34.12 Krefjist af mér svo mikils mundar og morgungjafar sem vera skal, og mun ég greiða það, er þér til nefnið, en gefið mér stúlkuna fyrir konu.' 34.13 Þá svöruðu synir Jakobs þeim Síkem og Hemor föður hans, og töluðu með undirhyggju, af því að hann hafði svívirt Dínu systur þeirra, 34.14 og sögðu við þá: 'Eigi megum vér þetta gjöra, að gefa systur vora óumskornum manni, því að það væri oss vanvirða. 34.15 Því aðeins viljum vér gjöra að yðar vilja, að þér verðið eins og vér, með því að láta umskera allt karlkyn meðal yðar. 34.16 Þá skulum vér gefa yður vorar dætur og taka yðar dætur oss til handa og búa hjá yður, svo að vér verðum ein þjóð. 34.17 En viljið þér eigi láta að orðum vorum og umskerast, þá tökum vér dóttur vora og förum burt.' 34.18 Og Hemor og Síkem, syni Hemors, geðjaðist vel tal þeirra. 34.19 Og sveinninn lét ekki á því standa að gjöra þetta, því að hann elskaði dóttur Jakobs. En hann var talinn maður ágætastur í sinni ætt. 34.20 Hemor og Síkem sonur hans komu í hlið borgar sinnar og töluðu við borgarmenn sína og sögðu: 34.21 'Þessir menn bera friðarhug til vor. Látum þá setjast að í landinu og fara allra sinna ferða um það, því að nóg er landrýmið á báðar hendur handa þeim. Dætur þeirra munum vér taka oss fyrir konur og gefa þeim dætur vorar. 34.22 En því aðeins vilja mennirnir gjöra að vorum vilja og búa vor á meðal, svo að vér verðum ein þjóð, að vér látum umskera allt karlkyn meðal vor, eins og þeir eru umskornir. 34.23 Hjarðir þeirra, fjárhlutur þeirra og allur fénaður þeirra, verður það ekki vor eign? Gjörum aðeins að vilja þeirra, svo að þeir staðnæmist hjá oss.' 34.24 Og þeir létu að orðum Hemors og Síkems sonar hans, allir sem gengu út um hlið borgar hans, og allt karlkyn lét umskerast, allir þeir, sem gengu út um hlið borgar hans. 34.25 En svo bar til á þriðja degi, er þeir voru sjúkir af sárum, að tveir synir Jakobs, þeir Símeon og Leví, bræður Dínu, tóku hvor sitt sverð og gengu inn í borgina, sem átti sér einskis ills von, og drápu þar allt karlkyn. 34.26 Drápu þeir einnig Hemor og son hans Síkem með sverðseggjum og tóku Dínu úr húsi Síkems og fóru síðan burt. 34.27 Synir Jakobs réðust að hinum vegnu og rændu borgina, af því að þeir höfðu svívirt systur þeirra. 34.28 Sauði þeirra, naut þeirra og asna, og allt, sem var í borginni, og það, sem var í högunum, tóku þeir. 34.29 Og öll auðæfi þeirra, öll börn þeirra og konur tóku þeir að herfangi og rændu, sömuleiðis allt, sem var í húsunum. 34.30 Jakob sagði við Símeon og Leví: 'Þið hafið stofnað mér í ógæfu með því að gjöra mig illa þokkaðan af landsmönnum, af Kanaanítum og Peresítum. Nú með því að ég er liðfár, munu þeir safnast saman á móti mér og vinna sigur á mér. Verð ég þá afmáður, ég og mitt hús.' 34.31 En þeir svöruðu: 'Átti hann þá að fara með systur okkar eins og skækju?'
35.1 Guð sagði við Jakob: 'Tak þig upp og far upp til Betel og dvel þú þar og gjör þar altari Guði, sem birtist þér, þegar þú flýðir undan Esaú bróður þínum.' 35.2 Jakob sagði við heimafólk sitt og alla, sem með honum voru: 'Kastið burt þeim útlendu goðum, sem þér hafið hjá yður, og hreinsið yður og hafið fataskipti, 35.3 og skulum vér taka oss upp og fara upp til Betel. Vil ég reisa þar altari þeim Guði, sem bænheyrði mig á tíma neyðar minnar og hefir verið með mér á þeim vegi, sem ég hefi farið.' 35.4 Og þeir fengu Jakob öll þau útlendu goð, sem þeir höfðu hjá sér, og hringana, sem þeir höfðu í eyrum sér, og gróf Jakob það undir eikinni, sem er hjá Síkem. 35.5 Því næst fóru þeir af stað. En ótti frá Guði var yfir öllum borgunum, sem voru umhverfis þá, svo að sonum Jakobs var ekki veitt eftirför. 35.6 Og Jakob kom til Lúz, sem er í Kanaanlandi (það er Betel), hann og allt fólkið, sem með honum var. 35.7 Og hann reisti þar altari og kallaði staðinn El-Betel, því að Guð hafði birst honum þar, þegar hann flýði undan bróður sínum. 35.8 Þar andaðist Debóra, fóstra Rebekku, og var jörðuð fyrir neðan Betel, undir eikinni, og fyrir því heitir hún Gráteik. 35.9 Enn birtist Guð Jakob, er hann var á heimleið frá Mesópótamíu, og blessaði hann. 35.10 Og Guð sagði við hann: 'Nafn þitt er Jakob. Eigi skalt þú héðan af Jakob heita, heldur skal nafn þitt vera Ísrael.' Og hann nefndi hann Ísrael. 35.11 Og Guð sagði við hann: 'Ég er Almáttugur Guð. Ver þú frjósamur og auk kyn þitt. Þjóð, já fjöldi þjóða skal frá þér koma, og konungar skulu út ganga af lendum þínum. 35.12 Og landið, sem ég gaf Abraham og Ísak, mun ég gefa þér, og niðjum þínum eftir þig mun ég gefa landið.' 35.13 Því næst sté Guð upp frá honum, þaðan sem hann talaði við hann. 35.14 Jakob reisti upp merki á þeim stað, sem Guð talaði við hann, merkisstein, og dreypti yfir hann dreypifórn og hellti yfir hann olíu. 35.15 Og Jakob nefndi staðinn, þar sem Guð talaði við hann, Betel. 35.16 Þeir tóku sig upp frá Betel. En er þeir áttu skammt eftir ófarið til Efrata, tók Rakel léttasótt og kom hart niður. 35.17 Og er hún kom svo hart niður í barnburðinum, sagði ljósmóðirin við hana: 'Óttast þú ekki, því að nú eignast þú annan son.' 35.18 Og er hún var í andlátinu, _ því að hún dó _, þá nefndi hún hann Benóní, en faðir hans nefndi hann Benjamín. 35.19 Því næst andaðist Rakel og var jörðuð við veginn til Efrata, það er Betlehem. 35.20 Jakob reisti minnismerki á leiði hennar. Þar er legsteinn Rakelar allt til þessa dags. 35.21 Ísrael hélt áfram ferðinni og sló tjöldum sínum hinumegin við Mígdal Eder. 35.22 Meðan Ísrael hafðist við í því byggðarlagi, bar svo við, að Rúben fór og lagðist með Bílu, hjákonu föður síns. Og Ísrael varð þess áskynja. Jakob átti tólf sonu. 35.23 Synir Leu: Rúben, frumgetinn son Jakobs, Símeon, Leví, Júda, Íssakar og Sebúlon. 35.24 Synir Rakelar: Jósef og Benjamín. 35.25 Synir Bílu, þernu Rakelar: Dan og Naftalí. 35.26 Synir Silpu, þernu Leu: Gað og Asser. Þetta eru synir Jakobs, sem honum fæddust í Mesópótamíu. 35.27 Og Jakob kom til Ísaks föður síns í Mamre við Kirjat Arba, það er Hebron, þar sem Abraham og Ísak höfðu dvalist sem útlendingar. 35.28 En dagar Ísaks voru hundrað og áttatíu ár. 35.29 Og Ísak andaðist og dó og safnaðist til síns fólks, gamall og saddur lífdaga, og Esaú og Jakob synir hans jörðuðu hann.
36.1 Þetta er ættartala Esaú, það er Edóms. 36.2 Esaú hafði tekið sér konur af dætrum Kanaaníta: Ada, dóttur Hetítans Elons, og Oholíbama, dóttur Ana, sonar Hórítans Síbeons, 36.3 og Basmat, dóttur Ísmaels, systur Nebajóts. 36.4 Og Ada ól Esaú Elífas, Basmat ól Regúel 36.5 og Oholíbama ól Jehús, Jaelam og Kóra. Þessir eru synir Esaú, sem honum fæddust í Kanaanlandi. 36.6 Esaú tók konur sínar, sonu sína og dætur og allar sálir í húsi sínu og hjörð sína og kvikfénað og allan þann fjárhlut, sem hann hafði aflað sér í Kanaanlandi, og fór í burtu frá Jakob bróður sínum til Seírlands. 36.7 Því að eign þeirra var meiri en svo, að þeir gætu saman verið, og landið, er þeir bjuggu í sem útlendingar, bar þá ekki sökum hjarða þeirra. 36.8 Esaú settist að á Seírfjöllum; en Esaú er Edóm. 36.9 Þetta er saga Esaú, ættföður Edómíta, á Seírfjöllum. 36.10 Þetta eru nöfn Esaú sona: Elífas, sonur Ada, konu Esaú; Regúel, sonur Basmat, konu Esaú. 36.11 Synir Elífas voru: Teman, Ómar, Sefó, Gaetam og Kenas. 36.12 Timna var hjákona Elífas, sonar Esaú, og hún ól Elífas Amalek. Þetta eru synir Ada, konu Esaú. 36.13 Þessir eru synir Regúels: Nahat, Sera, Samma og Missa. Þessir voru synir Basmat, konu Esaú. 36.14 Og þessir voru synir Oholíbama, dóttur Ana, sonar Síbeons, konu Esaú, hún ól Esaú Jehús, Jaelam og Kóra. 36.15 Þessir eru ætthöfðingjar meðal Esaú sona: Synir Elífas, frumgetins sonar Esaú: Höfðinginn Teman, höfðinginn Ómar, höfðinginn Sefó, höfðinginn Kenas, 36.16 höfðinginn Kóra, höfðinginn Gaetam, höfðinginn Amalek. Þessir eru þeir höfðingjar, sem komnir eru frá Elífas í Edómlandi, þessir eru synir Ada. 36.17 Þessir voru synir Regúels, sonar Esaú: Höfðinginn Nahat, höfðinginn Sera, höfðinginn Samma, höfðinginn Missa. Þessir eru þeir höfðingjar, sem komnir eru frá Regúel í Edómlandi, þessir eru synir Basmat, konu Esaú. 36.18 Þessir eru synir Oholíbama, konu Esaú: Höfðinginn Jehús, höfðinginn Jaelam, höfðinginn Kóra. Þessir eru þeir höfðingjar, sem komnir eru frá Oholíbama, dóttur Ana, konu Esaú. 36.19 Þessir eru synir Esaú og þessir eru höfðingjar þeirra, það er Edóm. 36.20 Þessir eru synir Hórítans Seírs, frumbyggjar landsins: Lótan, Sóbal, Síbeon, Ana, 36.21 Díson, Eser og Dísan. Þessir eru höfðingjar Hórítanna, synir Seírs í Edómlandi. 36.22 Synir Lótans voru Hórí og Hemam, og systir Lótans var Timna. 36.23 Þessir eru synir Sóbals: Alvan, Manahat, Ebal, Sefó og Ónam. 36.24 Þessir eru synir Síbeons: Aja og Ana, það er sá Ana, sem fann laugarnar á öræfunum, er hann gætti asna Síbeons föður síns. 36.25 Þessi eru börn Ana: Díson og Oholíbama, dóttir Ana. 36.26 Þessir eru synir Dísons: Hemdan, Esban, Jítran og Keran. 36.27 Þessir eru synir Esers: Bílhan, Saavan og Akan. 36.28 Þessir eru synir Dísans: Ús og Aran. 36.29 Þessir eru höfðingjar Hórítanna: Höfðinginn Lótan, höfðinginn Sóbal, höfðinginn Síbeon, höfðinginn Ana, 36.30 höfðinginn Díson, höfðinginn Eser, höfðinginn Dísan. Þessir eru höfðingjar Hórítanna eftir höfðingjum þeirra í Seírlandi. 36.31 Þessir eru þeir konungar, sem ríktu í Edómlandi, áður en konungar ríktu yfir Ísraelsmönnum: 36.32 Bela, sonur Beórs, var konungur í Edóm, og hét borg hans Dínhaba. 36.33 Og er Bela dó, tók Jóbab, sonur Sera frá Bosra, ríki eftir hann. 36.34 Og er Jóbab dó, tók Húsam frá Temanítalandi ríki eftir hann. 36.35 Og er Húsam dó, tók Hadad, sonur Bedads, ríki eftir hann. Hann vann sigur á Midíanítum á Móabsvöllum, og borg hans hét Avít. 36.36 Og er Hadad dó, tók Samla frá Masreka ríki eftir hann. 36.37 Og er Samla dó, tók Sál frá Rehóbót hjá Efrat ríki eftir hann. 36.38 Og er Sál dó, tók Baal Hanan, sonur Akbórs, ríki eftir hann. 36.39 Og er Baal Hanan sonur Akbórs dó, tók Hadar ríki eftir hann, og hét borg hans Pagú, en kona hans Mehetabeel, dóttir Matredar, dóttur Me-Sahabs. 36.40 Þessi eru nöfn höfðingja þeirra, er frá Esaú eru komnir, eftir ættkvíslum þeirra, eftir bústöðum þeirra, eftir nöfnum þeirra: Höfðinginn Timna, höfðinginn Alva, höfðinginn Jetet, 36.41 höfðinginn Oholíbama, höfðinginn Ela, höfðinginn Pínon, 36.42 höfðinginn Kenas, höfðinginn Teman, höfðinginn Mibsar, 36.43 höfðinginn Magdíel, höfðinginn Íram. Þessir eru höfðingjar Edómíta, eftir bústöðum þeirra í landi því, sem þeir höfðu numið. Þessi Esaú er ættfaðir Edómíta.
37.1 Jakob bjó í landi því, er faðir hans hafði dvalist í sem útlendingur, í Kanaanlandi. 37.2 Þetta er ættarsaga Jakobs. Þegar Jósef var seytján ára gamall, gætti hann sauða með bræðrum sínum. En hann var smásveinn hjá þeim sonum Bílu og sonum Silpu, er voru konur föður hans. Og Jósef bar föður sínum illan orðróm um þá. 37.3 Ísrael unni Jósef mest allra sona sinna, því að hann hafði átt hann í elli sinni. Og hann lét gjöra honum dragkyrtil. 37.4 En er bræður hans sáu, að faðir þeirra elskaði hann meir en alla sonu sína, lögðu þeir hatur á hann og gátu ekki talað við hann vinsamlegt orð. 37.5 Jósef dreymdi draum og sagði hann bræðrum sínum. Hötuðu þeir hann þá enn meir. 37.6 Og hann sagði við þá: 'Heyrið nú draum þennan, sem mig dreymdi: 37.7 Sjá, vér vorum að binda kornbundin á akrinum, og mitt kornbundin reisti sig og stóð upprétt, en yðar kornbundin skipuðu sér umhverfis og lutu mínu kornbundini.' 37.8 Þá sögðu bræður hans við hann: 'Munt þú þá verða konungur yfir oss? Munt þú þá drottna yfir oss?' Og þeir hötuðu hann enn meir sakir drauma hans og sakir orða hans. 37.9 Enn dreymdi hann annan draum og sagði hann bræðrum sínum og mælti: 'Sjá, mig hefir enn dreymt draum: Mér þótti sólin, tunglið og ellefu stjörnur lúta mér.' 37.10 En er hann sagði föður sínum og bræðrum frá þessu, ávítti faðir hans hann og mælti til hans: 'Hvaða draumur er þetta, sem þig hefir dreymt? Munum vér eiga að koma, ég og móðir þín og bræður þínir, og lúta til jarðar fyrir þér?' 37.11 Og bræður hans öfunduðu hann, en faðir hans festi þetta í huga sér. 37.12 Er bræður hans voru að heiman farnir til þess að halda hjörð föður þeirra á haga í Síkem, 37.13 mælti Ísrael við Jósef: 'Bræður þínir halda hjörðinni á beit í Síkem. Kom þú, ég ætla að senda þig til þeirra.' Og hann svaraði honum: 'Hér er ég.' 37.14 Og hann sagði við hann: 'Far þú og vit þú, hvort bræðrum þínum og hjörðinni líður vel, og láttu mig svo vita það.' Og hann sendi hann úr Hebronsdal, og hann kom til Síkem. 37.15 Þá hitti hann maður nokkur, er hann var að reika á víðavangi. Og maðurinn spurði hann og mælti: 'Að hverju leitar þú?' 37.16 Hann svaraði: 'Ég er að leita að bræðrum mínum. Seg mér hvar þeir eru með hjörðina.' 37.17 Og maðurinn sagði: 'Þeir eru farnir héðan, því að ég heyrði þá segja: ,Vér skulum fara til Dótan.'` Fór Jósef þá eftir bræðrum sínum og fann þá í Dótan. 37.18 Er þeir sáu hann álengdar, áður en hann var kominn nærri þeim, tóku þeir saman ráð sín að drepa hann. 37.19 Og þeir sögðu hver við annan: 'Sjá, þarna kemur draumamaðurinn. 37.20 Förum nú til og drepum hann og köstum honum í einhverja gryfjuna og segjum svo, að óargadýr hafi etið hann. Þá skulum vér sjá, hvað úr draumum hans verður.' 37.21 En er Rúben heyrði þetta, vildi hann frelsa hann úr höndum þeirra og mælti: 'Ekki skulum vér drepa hann.' 37.22 Og Rúben sagði við þá, til þess að hann gæti frelsað hann úr höndum þeirra og fært hann aftur föður sínum: 'Úthellið ekki blóði. Kastið honum í þessa gryfju, sem er hér á eyðimörkinni, en leggið ekki hendur á hann.' 37.23 En er Jósef kom til bræðra sinna, færðu þeir hann úr kyrtli hans, dragkyrtlinum, sem hann var í, 37.24 tóku hann og köstuðu honum í gryfjuna. En gryfjan var tóm, ekkert vatn var í henni. 37.25 Settust þeir nú niður að neyta matar. En er þeim varð litið upp, sáu þeir lest Ísmaelíta koma frá Gíleað, og báru úlfaldar þeirra reykelsi, balsam og myrru. Voru þeir á leið með þetta til Egyptalands. 37.26 Þá mælti Júda við bræður sína: 'Hver ávinningur er oss það, að drepa bróður vorn og leyna morðinu? 37.27 Komið, vér skulum selja hann Ísmaelítum, en ekki leggja hendur á hann, því hann er bróðir vor, hold vort og blóð.' Og bræður hans féllust á það. 37.28 En midíanítískir kaupmenn fóru þar fram hjá, tóku Jósef og drógu hann upp úr gryfjunni. Og þeir seldu Jósef Ísmaelítunum fyrir tuttugu sikla silfurs, en þeir fóru með Jósef til Egyptalands. 37.29 En er Rúben kom aftur að gryfjunni, þá var Jósef ekki í gryfjunni. Reif hann þá klæði sín. 37.30 Og hann sneri aftur til bræðra sinna og mælti: 'Sveinninn er horfinn, og hvert skal ég nú fara?' 37.31 Þá tóku þeir kyrtil Jósefs, skáru geithafur og velktu kyrtilinn í blóðinu. 37.32 Því næst sendu þeir dragkyrtilinn og létu færa hann föður sínum með þeirri orðsending: 'Þetta höfum vér fundið. Gæt þú að, hvort það muni vera kyrtill sonar þíns eða ekki.' 37.33 Og hann skoðaði hann og mælti: 'Það er kyrtill sonar míns. Óargadýr hefir etið hann. Sannlega er Jósef sundur rifinn.' 37.34 Þá reif Jakob klæði sín og lagði hærusekk um lendar sínar og harmaði son sinn langan tíma. 37.35 Og allir synir hans og allar dætur hans leituðust við að hugga hann, en hann vildi ekki huggast láta og sagði: 'Með harmi mun ég niður stíga til sonar míns til heljar.' Og faðir hans grét hann. 37.36 En Midíanítar seldu hann til Egyptalands, Pótífar hirðmanni Faraós og lífvarðarforingja.
38.1 Um þessar mundir bar svo við, að Júda fór frá bræðrum sínum og lagði lag sitt við mann nokkurn í Adúllam, sem Híra hét. 38.2 Þar sá Júda dóttur kanversks manns, sem Súa hét, og tók hana og hafði samfarir við hana. 38.3 Og hún varð þunguð og ól son, og hún nefndi hann Ger. 38.4 Og hún varð þunguð í annað sinn og ól son, og hún nefndi hann Ónan. 38.5 Og enn ól hún son og nefndi hann Sela. En hún var í Kesíb, er hún ól hann. 38.6 Og Júda tók konu til handa Ger, frumgetnum syni sínum. Hún hét Tamar. 38.7 En Ger, frumgetinn sonur Júda, var vondur í augum Drottins, svo að Drottinn lét hann deyja. 38.8 Þá mælti Júda við Ónan: 'Gakk þú inn til konu bróður þíns og gegn þú mágskyldunni við hana, að þú megir afla bróður þínum afkvæmis.' 38.9 En með því að Ónan vissi, að afkvæmið skyldi eigi verða hans, þá lét hann sæðið spillast á jörðu í hvert sinn er hann gekk inn til konu bróður síns, til þess að hann aflaði eigi bróður sínum afkvæmis. 38.10 En Drottni mislíkaði það, er hann gjörði, og lét hann einnig deyja. 38.11 Þá sagði Júda við Tamar tengdadóttur sína: 'Ver þú sem ekkja í húsi föður þíns, þangað til Sela sonur minn verður fulltíða.' Því að hann hugsaði: 'Ella mun hann og deyja, eins og bræður hans.' Fór Tamar þá burt og var í húsi föður síns. 38.12 En er fram liðu stundir, andaðist dóttir Súa, kona Júda. Og er Júda lét af harminum, fór hann upp til Timna, til sauðaklippara sinna, hann og Híra vinur hans frá Adúllam. 38.13 Var þá Tamar sagt svo frá: 'Sjá, tengdafaðir þinn fer upp til Timna að klippa sauði sína.' 38.14 Þá fór hún úr ekkjubúningi sínum, huldi sig blæju og hjúpaði sig og settist við hlið Enaímborgar, sem er við veginn til Timna. Því að hún sá, að Sela var orðinn fulltíða, og hún var þó ekki honum gefin fyrir konu. 38.15 Júda sá hana og hugði, að hún væri skækja, því að hún hafði hulið andlit sitt. 38.16 Og hann vék til hennar við veginn og mælti: 'Leyf mér að leggjast með þér!' Því að hann vissi ekki, að hún var tengdadóttir hans. Hún svaraði: 'Hvað viltu gefa mér til þess, að þú megir leggjast með mér?' 38.17 Og hann mælti: 'Ég skal senda þér hafurkið úr hjörðinni.' Hún svaraði: 'Fáðu mér þá pant, þangað til þú sendir það.' 38.18 Þá mælti hann: 'Hvaða pant skal ég fá þér?' En hún svaraði: 'Innsiglishring þinn og festi þína og staf þinn, sem þú hefir í hendinni.' Og hann fékk henni þetta og lagðist með henni, og hún varð þunguð af hans völdum. 38.19 Því næst stóð hún upp, gekk burt og lagði af sér blæjuna og fór aftur í ekkjubúning sinn. 38.20 Og Júda sendi hafurkiðið með vini sínum frá Adúllam, svo að hann fengi aftur pantinn af hendi konunnar, en hann fann hana ekki. 38.21 Og hann spurði menn í þeim stað og sagði: 'Hvar er portkonan, sem sat við veginn hjá Enaím?' En þeir svöruðu: 'Hér hefir engin portkona verið.' 38.22 Fór hann þá aftur til Júda og mælti: 'Ég fann hana ekki, enda sögðu menn í þeim stað: ,Hér hefir engin portkona verið.'` 38.23 Þá mælti Júda: 'Haldi hún því, sem hún hefir, að vér verðum ekki hafðir að spotti. Sjá, ég sendi þetta kið, en þú hefir ekki fundið hana.' 38.24 Að þrem mánuðum liðnum var Júda sagt: 'Tamar tengdadóttir þín hefir drýgt hór, og meira að segja: Hún er þunguð orðin í hórdómi.' Þá mælti Júda: 'Leiðið hana út, að hún verði brennd.' 38.25 En er hún var út leidd, gjörði hún tengdaföður sínum þessa orðsending: 'Af völdum þess manns, sem þetta á, er ég þunguð orðin.' Og hún sagði: 'Hygg þú að, hver eiga muni innsiglishring þennan, festi og staf.' 38.26 En Júda kannaðist við gripina og mælti: 'Hún hefir betri málstað en ég, fyrir þá sök að ég hefi eigi gift hana Sela syni mínum.' Og hann kenndi hennar ekki upp frá því. 38.27 En er hún skyldi verða léttari, sjá, þá voru tvíburar í kviði hennar. 38.28 Og í fæðingunni rétti annar út höndina. Tók þá ljósmóðirin rauðan þráð og batt um hönd hans og sagði: 'Þessi kom fyrr í ljós.' 38.29 En svo fór, að hann kippti aftur að sér hendinni, og þá kom bróðir hans í ljós. Þá mælti hún: 'Hví hefir þú brotist svo fram þér til góða?' Og hún nefndi hann Peres. 38.30 Eftir það fæddist bróðir hans, og var rauði þráðurinn um hönd hans. Og hún nefndi hann Sera.
39.1 Jósef var fluttur til Egyptalands, og Pótífar, hirðmaður Faraós og lífvarðarforingi, maður egypskur, keypti hann af Ísmaelítum, sem hann höfðu þangað flutt. 39.2 En Drottinn var með Jósef, svo að hann varð maður lángefinn, og hann var í húsi húsbónda síns, hins egypska manns. 39.3 Og er húsbóndi hans sá, að Drottinn var með honum og að Drottinn lét honum heppnast allt, sem hann tók sér fyrir hendur, 39.4 þá fann Jósef náð í augum hans og þjónaði honum. Og hann setti hann yfir hús sitt og fékk honum í hendur allt, sem hann átti. 39.5 Og upp frá þeirri stundu, er hann hafði sett Jósef yfir hús sitt og yfir allt, sem hann átti, blessaði Drottinn hús hins egypska manns sakir Jósefs, og blessun Drottins var yfir öllu, sem hann átti innan húss og utan. 39.6 Og hann fól Jósef til umráða allar eigur sínar og var afskiptalaus um allt hjá honum og gekk aðeins að máltíðum. Jósef var vel vaxinn og fríður sýnum. 39.7 Og eftir þetta bar svo til, að kona húsbónda hans renndi augum til Jósefs og mælti: 'Leggstu með mér!' 39.8 En hann færðist undan og sagði við konu húsbónda síns: 'Sjá, húsbóndi minn lítur ekki eftir neinu í húsinu hjá mér, og allar eigur sínar hefir hann fengið mér í hendur. 39.9 Hann hefir ekki meira vald í þessu húsi en ég, og hann fyrirmunar mér ekkert nema þig, með því að þú ert kona hans. Hvernig skyldi ég þá aðhafast þessa miklu óhæfu og syndga á móti Guði?' 39.10 Og þó að hún leitaði til við Jósef með þessum orðum dag eftir dag, þá lét hann ekki að vilja hennar að leggjast með henni og hafa samfarir við hana. 39.11 Þá bar svo til einn dag, er hann gekk inn í húsið til starfa sinna og enginn heimilismanna var þar inni, 39.12 að hún greip í skikkju hans og mælti: 'Leggstu með mér!' En hann lét skikkjuna eftir í hendi hennar og flýði og hljóp út. 39.13 En er hún sá, að hann hafði látið eftir skikkjuna í hendi hennar og var flúinn út, 39.14 þá kallaði hún á heimafólk sitt og mælti við það: 'Sjáið, hann hefir fært oss hebreskan mann til þess að dára oss. Hann kom inn til mín og vildi hafa lagst með mér, en ég æpti hástöfum. 39.15 Og er hann heyrði, að ég hrópaði og kallaði, lét hann skikkju sína eftir hjá mér og flýði og hljóp út.' 39.16 Því næst geymdi hún skikkju hans hjá sér þangað til húsbóndi hans kom heim. 39.17 Sagði hún honum þá sömu söguna og mælti: 'Hebreski þrællinn, sem þú hefir til vor haft, kom til mín til þess að dára mig. 39.18 En þegar ég hrópaði og kallaði, lét hann eftir skikkju sína hjá mér og flýði út.' 39.19 Er húsbóndi hans heyrði orð konu sinnar, er hún talaði við hann svo mælandi: 'Þannig hefir þræll þinn hegðað sér við mig,' þá varð hann ákaflega reiður. 39.20 Og húsbóndi Jósefs tók hann og setti hann í myrkvastofu, þar sem bandingjar konungs voru geymdir, og hann sat þar í myrkvastofunni. 39.21 Drottinn var með Jósef og veitti honum mannahylli og lét hann finna náð í augum forstjóra myrkvastofunnar. 39.22 Og forstjóri myrkvastofunnar fékk Jósef á vald alla bandingjana, sem voru í myrkvastofunni. Og hvað eina, sem þeir gjörðu þar, gjörðu þeir að hans fyrirlagi. 39.23 Forstjóri myrkvastofunnar leit ekki eftir neinu, sem var undir hans hendi, því að Drottinn var með honum. Og hvað sem hann gjörði, það lét Drottinn heppnast.
40.1 Eftir þetta varð sá atburður, að byrlari konungsins í Egyptalandi og bakarinn brutu á móti herra sínum, Egyptalandskonungi. 40.2 Og Faraó reiddist báðum hirðmönnum sínum, yfirbyrlaranum og yfirbakaranum, 40.3 og lét setja þá í varðhald í húsi lífvarðarforingjans, í myrkvastofuna, þar sem Jósef var í haldi. 40.4 Og lífvarðarforinginn setti Jósef til þess að þjóna þeim, og voru þeir nú um hríð í varðhaldi. 40.5 Þá dreymdi þá báða draum, byrlara og bakara konungsins í Egyptalandi, sem haldnir voru í myrkvastofunni, sinn drauminn hvorn sömu nóttina, og hafði hvor draumurinn sína þýðingu. 40.6 Og er Jósef kom inn til þeirra um morguninn, sá hann að þeir voru óglaðir. 40.7 Spurði hann þá hirðmenn Faraós, sem voru með honum í varðhaldi í húsi húsbónda hans, og mælti: 'Hvers vegna eruð þið svo daprir í bragði í dag?' 40.8 En þeir svöruðu honum: 'Okkur hefir dreymt draum, og hér er enginn, sem geti ráðið hann.' Þá sagði Jósef við þá: 'Er það ekki Guðs að ráða drauma? Segið mér þó.' 40.9 Þá sagði yfirbyrlarinn Jósef draum sinn og mælti við hann: 'Mér þótti í svefninum sem vínviður stæði fyrir framan mig. 40.10 Á vínviðinum voru þrjár greinar, og jafnskjótt sem hann skaut frjóöngum, spruttu blóm hans út og klasar hans báru fullvaxin vínber. 40.11 En ég hélt á bikar Faraós í hendinni og tók vínberin og sprengdi þau í bikar Faraós og rétti svo bikarinn að Faraó.' 40.12 Þá sagði Jósef við hann: 'Ráðning draumsins er þessi: Þrjár vínviðargreinarnar merkja þrjá daga. 40.13 Að þrem dögum liðnum mun Faraó hefja höfuð þitt og setja þig aftur inn í embætti þitt. Munt þú þá rétta Faraó bikarinn, eins og áður var venja, er þú varst byrlari hans. 40.14 En minnstu mín, er þér gengur í vil, og gjör þá miskunn á mér að minnast á mig við Faraó, svo að þú megir frelsa mig úr þessu húsi. 40.15 Því að mér var með leynd stolið úr landi Hebrea, og eigi hefi ég heldur hér neitt það til saka unnið, að ég yrði settur í þessa dýflissu.' 40.16 En er yfirbakarinn sá, að ráðning hans var góð, sagði hann við Jósef: 'Mig dreymdi líka, að ég bæri á höfðinu þrjár karfir með hveitibrauði. 40.17 Og í efstu körfunni var alls konar sælgætisbrauð handa Faraó, og fuglarnir átu það úr körfunni á höfði mér.' 40.18 Þá svaraði Jósef og mælti: 'Ráðning draumsins er þessi: Þrjár karfirnar merkja þrjá daga. 40.19 Að þrem dögum liðnum mun Faraó hefja höfuð þitt af þér og festa þig á gálga, og fuglarnir munu eta af þér hold þitt.' 40.20 Og það bar til á þriðja degi, á afmælisdegi Faraós, að hann hélt öllum þjónum sínum veislu. Hóf hann þá upp höfuð yfirbyrlarans og höfuð yfirbakarans í viðurvist þjóna sinna. 40.21 Setti hann yfirbyrlarann aftur í embætti hans, að hann mætti aftur bera Faraó bikarinn, 40.22 en yfirbakarann lét hann hengja, eins og Jósef hafði ráðið drauminn fyrir þá. 40.23 En eigi minntist yfirbyrlarinn Jósefs, heldur gleymdi honum.
41.1 Svo bar við að tveim árum liðnum, að Faraó dreymdi draum. Hann þóttist standa við Níl. 41.2 Og sjá, upp úr ánni komu sjö kýr, fallegar útlits og feitar á hold, og fóru að bíta sefgresið. 41.3 Og sjá, á eftir þeim komu sjö aðrar kýr upp úr ánni, ljótar útlits og magrar á hold, og staðnæmdust hjá hinum kúnum á árbakkanum. 41.4 Og kýrnar, sem ljótar voru útlits og magrar á hold, átu upp hinar sjö kýrnar, sem voru fallegar útlits og feitar á hold. Þá vaknaði Faraó. 41.5 Og hann sofnaði aftur og dreymdi í annað sinn, og sjá, sjö öx uxu á einni stöng, þrýstileg og væn. 41.6 Og sjá, sjö öx, grönn og skrælnuð af austanvindi, spruttu á eftir þeim. 41.7 Og hin grönnu öxin svelgdu í sig þau sjö þrýstilegu og fullu. Þá vaknaði Faraó, og sjá, það var draumur. 41.8 En um morguninn var honum órótt í skapi. Sendi hann því og lét kalla alla spásagnamenn Egyptalands og alla vitringa þess. Og Faraó sagði þeim drauma sína, en enginn gat ráðið þá fyrir Faraó. 41.9 Þá tók yfirbyrlarinn til máls og sagði við Faraó: 'Ég minnist í dag synda minna. 41.10 Faraó reiddist þjónum sínum og setti þá í varðhald í húsi lífvarðarforingjans, mig og yfirbakarann. 41.11 Þá dreymdi okkur sömu nóttina draum, mig og hann, sinn drauminn hvorn okkar, og hafði hvor draumurinn sína þýðingu. 41.12 Þar var með okkur hebreskur sveinn, þjónn hjá lífvarðarforingjanum. Honum sögðum við drauma okkar, og hann réð þá fyrir okkur. Hvorum fyrir sig réð hann eins og draumur hans þýddi. 41.13 Og svo fór sem hann hafði ráðið okkur draumana, því að ég var aftur settur í embætti mitt, en hinn var hengdur.' 41.14 Þá sendi Faraó og lét kalla Jósef, og leiddu þeir hann í skyndi út úr myrkvastofunni. Því næst lét hann skera hár sitt og fór í önnur klæði, gekk síðan inn fyrir Faraó. 41.15 Þá sagði Faraó við Jósef: 'Mig hefir dreymt draum, og enginn getur ráðið hann. En það hefi ég af þér frétt, að þú ráðir hvern draum, sem þú heyrir.' 41.16 Þá svaraði Jósef Faraó og mælti: 'Eigi er það á mínu valdi. Guð mun birta Faraó það, er honum má til heilla verða.' 41.17 Faraó sagði við Jósef: 'Mig dreymdi, að ég stæði á árbakkanum. 41.18 Og sjá, upp úr ánni komu sjö kýr, feitar á hold og fallegar útlits, og fóru að bíta sefgresið. 41.19 Og sjá, á eftir þeim komu upp sjö aðrar kýr, renglulegar og mjög ljótar útlits og magrar á hold. Hefi ég engar séð jafnljótar á öllu Egyptalandi. 41.20 Og hinar mögru og ljótu kýrnar átu sjö fyrri feitu kýrnar. 41.21 En er þær höfðu etið þær, var það ekki á þeim að sjá, að þær hefðu etið þær, heldur voru þær ljótar útlits sem áður. Þá vaknaði ég. 41.22 Og ég sá í draumi mínum, og sjá, sjö öx uxu á einni stöng, full og væn. 41.23 Og sjö öx kornlaus, grönn og skrælnuð af austanvindi, spruttu á eftir þeim. 41.24 Og hin grönnu öxin svelgdu í sig sjö vænu öxin. Ég hefi sagt spásagnamönnunum frá þessu, en enginn getur úr leyst.' 41.25 Þá mælti Jósef við Faraó: 'Draumur Faraós er einn. Það sem Guð ætlar að gjöra, hefir hann boðað Faraó. 41.26 Sjö vænu kýrnar merkja sjö ár, og sjö vænu öxin merkja sjö ár. Þetta er einn og sami draumur. 41.27 Og sjö mögru og ljótu kýrnar, sem á eftir hinum komu, merkja sjö ár, og sjö tómu öxin, sem skrælnuð voru af austanvindi, munu vera sjö hallærisár. 41.28 Það er það, sem ég sagði við Faraó: Það sem Guð ætlar að gjöra, hefir hann sýnt Faraó. 41.29 Sjá, sjö ár munu koma. Munu þá verða miklar nægtir um allt Egyptaland. 41.30 En eftir þau munu koma sjö hallærisár. Munu þá gleymast allar nægtirnar í Egyptalandi og hungrið eyða landið. 41.31 Og eigi mun nægtanna gæta í landinu sakir hallærisins, sem á eftir kemur, því að það mun verða mjög mikið. 41.32 En þar sem Faraó dreymdi tvisvar sinnum hið sama, þá er það fyrir þá sök, að þetta er fastráðið af Guði, og Guð mun skjótlega framkvæma það. 41.33 Fyrir því velji nú Faraó til hygginn og vitran mann og setji hann yfir Egyptaland. 41.34 Faraó gjöri þetta og skipi umsjónarmenn yfir landið og taki fimmtung af afrakstri Egyptalands á sjö nægtaárunum. 41.35 Og þeir skulu safna öllum vistum frá góðu árunum, sem fara í hönd, og draga saman kornbirgðir í borgirnar undir umráð Faraós og geyma. 41.36 Og vistirnar skulu vera forði fyrir landið á sjö hallærisárunum, sem koma munu yfir Egyptaland, að landið farist eigi af hungrinu.' 41.37 Þetta líkaði Faraó vel og öllum þjónum hans. 41.38 Og Faraó sagði við þjóna sína: 'Munum vér finna slíkan mann sem þennan, er Guðs andi býr í?' 41.39 Og Faraó sagði við Jósef: 'Með því að Guð hefir birt þér allt þetta, þá er enginn svo hygginn og vitur sem þú. 41.40 Þig set ég yfir hús mitt, og þínum boðum skal öll mín þjóð hlýða. Að hásætinu einu skal ég þér æðri vera.' 41.41 Faraó sagði við Jósef: 'Sjá, ég set þig yfir allt Egyptaland.' 41.42 Og Faraó tók innsiglishring sinn af hendi sér og dró á hönd Jósefs og lét færa hann í dýrindis línklæði og lét gullmen um háls honum. 41.43 Og hann lét aka honum í öðrum vagni sínum, og menn hrópuðu fyrir honum: 'Lútið honum!' _ og hann setti hann yfir allt Egyptaland. 41.44 Faraó sagði við Jósef: 'Ég er Faraó, en án þíns vilja skal enginn hreyfa hönd eða fót í öllu Egyptalandi.' 41.45 Og Faraó kallaði Jósef Safenat-panea og gaf honum fyrir konu Asenat, dóttur Pótífera, prests í Ón. Og Jósef ferðaðist um Egyptaland. 41.46 Jósef var þrítugur að aldri, er hann stóð frammi fyrir Faraó, Egyptalandskonungi. Því næst fór Jósef burt frá augliti Faraós og ferðaðist um allt Egyptaland. 41.47 Afrakstur landsins var afar mikill sjö nægtaárin. 41.48 Þá safnaði hann saman öllum vistum þeirra sjö ára, er nægtir voru í Egyptalandi, og safnaði vistum í borgirnar. Í sérhverja borg safnaði hann vistunum af þeim ökrum, sem umhverfis hana voru. 41.49 Og Jósef hrúgaði saman korni sem sandi á sjávarströndu, ákaflega miklu, þar til hann hætti að telja, því að tölu varð eigi á komið. 41.50 Jósef fæddust tveir synir áður en fyrsta hallærisárið kom. Þá sonu fæddi honum Asenat, dóttir Pótífera, prests í Ón. 41.51 Og Jósef nefndi hinn frumgetna Manasse, 'því að Guð hefir,' sagði hann, 'látið mig gleyma öllum þrautum mínum og öllu húsi föður míns.' 41.52 En hinn nefndi hann Efraím, 'því að Guð hefir,' sagði hann, 'gjört mig frjósaman í landi eymdar minnar.' 41.53 Og sjö nægtaárin, sem voru í Egyptalandi, liðu á enda, 41.54 og sjö hallærisárin gengu í garð, eins og Jósef hafði sagt. Var þá hallæri í öllum löndum, en í öllu Egyptalandi var brauð. 41.55 En er hungur gekk yfir allt Egyptaland, heimtaði lýðurinn brauð af Faraó. Þá sagði Faraó við alla Egypta: 'Farið til Jósefs, gjörið það, sem hann segir yður.' 41.56 Og hungrið gekk yfir allan heiminn, og Jósef opnaði öll forðabúrin og seldi Egyptum korn, og hungrið svarf að í Egyptalandi. 41.57 Komu menn þá úr öllum löndum til Egyptalands til þess að kaupa korn hjá Jósef, því að hungrið svarf að í öllum löndum.
42.1 Er Jakob frétti, að korn var til í Egyptalandi, þá sagði hann við sonu sína: 'Hví horfið þér hver á annan?' 42.2 Og hann mælti: 'Ég hefi sannfrétt, að korn sé til í Egyptalandi. Farið þangað og kaupið oss þar korn, að vér megum lífi halda og deyjum ekki.' 42.3 Þá lögðu tíu bræður Jósefs af stað til að kaupa korn í Egyptalandi. 42.4 En Benjamín, bróður Jósefs, lét Jakob ekki fara með bræðrum hans, því að hann var hræddur um, að honum kynni að vilja eitthvert slys til. 42.5 Og synir Ísraels komu að kaupa korn meðal annarra, sem komu, því að hungur var í Kanaanlandi. 42.6 En Jósef var stjórnari landsins, hann var sá, sem seldi öllum landslýðnum korn. Og bræður Jósefs komu og lutu honum og hneigðu sig til jarðar. 42.7 Og er Jósef sá bræður sína, þekkti hann þá, en vék ókunnuglega að þeim og talaði harðlega til þeirra og mælti við þá: 'Hvaðan komið þér?' Þeir svöruðu: 'Frá Kanaanlandi, til að kaupa vistir.' 42.8 Jósef þekkti bræður sína, en þeir þekktu hann ekki. 42.9 Og Jósef minntist draumanna, sem hann hafði dreymt um þá, og sagði við þá: 'Þér eruð njósnarmenn, þér eruð komnir til þess að sjá, hvar landið er varnarlaust fyrir.' 42.10 En þeir svöruðu honum: 'Eigi er svo, herra minn, heldur eru þjónar þínir komnir til að kaupa vistir. 42.11 Vér erum allir synir sama manns, vér erum hrekklausir menn, þjónar þínir eru ekki njósnarmenn.' 42.12 En hann sagði við þá: 'Eigi er svo, heldur eruð þér komnir til þess að sjá, hvar landið er varnarlaust fyrir.' 42.13 Þeir svöruðu: 'Vér þjónar þínir erum tólf bræður, synir sama manns í Kanaanlandi. Og sjá, hinn yngsti er nú hjá föður vorum, og einn er eigi framar á lífi.' 42.14 Og Jósef sagði við þá: 'Svo er sem ég sagði við yður: Þér eruð njósnarmenn. 42.15 Með þessu skuluð þér reyndir verða: Svo sannarlega sem Faraó lifir, skuluð þér ekki héðan fara, nema yngsti bróðir yðar komi hingað. 42.16 Sendið einn yðar til að sækja bróður yðar, en þér hinir skuluð vera í varðhaldi, svo að orð yðar verði reynd, hvort þér talið satt. En sé eigi svo, þá eruð þér njósnarmenn, svo sannarlega sem Faraó lifir.' 42.17 Síðan lét hann hafa þá alla í haldi í þrjá daga. 42.18 En á þriðja degi sagði Jósef við þá: 'Þetta skuluð þér gjöra, að þér megið lífi halda, því að ég óttast Guð. 42.19 Ef þér eruð hrekklausir, þá verði einn af yður bræðrum eftir í böndum í dýflissunni, þar sem þér voruð, en farið þér hinir og flytjið heim korn til bjargar þurfandi heimilum yðar. 42.20 Komið svo til mín með yngsta bróður yðar, þá munu orð yðar reynast sönn og þér eigi lífi týna.' Og þeir gjörðu svo. 42.21 Þá sögðu þeir hver við annan: 'Sannlega erum vér í sök fallnir fyrir bróður vorn, því að vér sáum sálarangist hans, þegar hann bað oss vægðar, en vér daufheyrðumst við. Þess vegna erum vér komnir í þessar nauðir.' 42.22 Rúben svaraði þeim og mælti: 'Sagði ég ekki við yður: ,Syndgist ekki á sveininum,` en þér daufheyrðust við. Og sjá, nú er einnig blóðs hans krafist.' 42.23 En þeir vissu ekki, að Jósef skildi þá, því að þeir höfðu túlk. 42.24 Þá vék Jósef frá þeim og grét. Síðan sneri hann til þeirra aftur og talaði við þá og tók Símeon úr flokki þeirra og batt hann fyrir augum þeirra. 42.25 Síðan bauð hann að fylla sekki þeirra korni og láta silfurpeninga hvers eins þeirra aftur í sekk hans og fá þeim nesti til ferðarinnar. Og var svo gjört við þá. 42.26 Þá létu þeir korn sitt upp á asna sína og fóru af stað. 42.27 En er einn af þeim opnaði sekk sinn til að gefa asna sínum fóður á gistingarstaðnum, sá hann silfurpeninga sína, og sjá, þeir lágu ofan á í sekk hans. 42.28 Og hann sagði við bræður sína: 'Silfurpeningar mínir eru komnir aftur, sjá, þeir liggja hér í sekk mínum.' Þá féllst þeim hugur, og skjálfandi litu þeir hver á annan og sögðu: 'Hví hefir Guð gjört oss þetta?' 42.29 Þeir komu til Jakobs föður síns í Kanaanlandi og sögðu honum frá öllu, sem fyrir þá hafði komið, með þessum orðum: 42.30 'Maðurinn, landsherrann, talaði harðlega til vor og fór með oss sem værum vér komnir til landsins í njósnarerindum. 42.31 En vér sögðum við hann: ,Vér erum hrekklausir, vér erum ekki njósnarmenn. 42.32 Vér erum tólf bræður, synir föður vors. Einn er ekki framar á lífi, og sá yngsti er nú hjá föður vorum í Kanaanlandi.` 42.33 Þá sagði maðurinn, landsherrann, við oss: ,Af þessu skal ég marka, hvort þér eruð hrekklausir: Látið einn af yður bræðrum verða eftir hjá mér, og takið korn til bjargar þurfandi heimilum yðar og farið leiðar yðar. 42.34 En komið með yngsta bróður yðar til mín, svo að ég sjái, að þér eruð ekki njósnarmenn, heldur að þér eruð hrekklausir. Þá skal ég skila yður bróður yðar aftur og þér megið fara allra yðar ferða um landið.'` 42.35 En þeir helltu úr sekkjum sínum, sjá, þá var sjóður hvers eins í sekk hans. Og er þeir og faðir þeirra sáu sjóði þeirra, urðu þeir óttaslegnir. 42.36 Jakob faðir þeirra sagði við þá: 'Þér gjörið mig barnlausan. Jósef er farinn, Símeon er farinn, og nú ætlið þér að taka Benjamín. Allt kemur þetta yfir mig.' 42.37 Þá sagði Rúben við föður sinn: 'Þú mátt deyða báða sonu mína, ef ég færi þér hann ekki aftur. Trúðu mér fyrir honum, og ég skal aftur koma með hann til þín.' 42.38 En Jakob sagði: 'Ekki skal sonur minn fara með yður, því að bróðir hans er dáinn og hann er einn eftir, og verði hann fyrir slysi á þeirri leið, sem þér farið, þá leiðið þér hærur mínar með harmi niður til heljar.'
43.1 Hallærið var mikið í landinu. 43.2 Og er þeir höfðu etið upp kornið, sem þeir höfðu sótt til Egyptalands, sagði faðir þeirra við þá: 'Farið aftur og kaupið oss nokkuð af vistum.' 43.3 Þá svaraði Júda honum og mælti: 'Maðurinn lagði ríkt á við oss og sagði: ,Þér skuluð ekki sjá auglit mitt, nema bróðir yðar sé með yður.` 43.4 Ef þú sendir bróður vorn með oss, þá skulum vér fara og kaupa þér vistir. 43.5 En ef þú vilt ekki senda hann með, þá förum vér hvergi, því að maðurinn sagði við oss: ,Þér skuluð ekki sjá auglit mitt, nema bróðir yðar sé með yður.'` 43.6 Ísrael mælti: 'Hví hafið þér gjört mér svo illa til, að segja manninum, að þér ættuð einn bróður enn?' 43.7 Þeir svöruðu: 'Maðurinn spurði ítarlega um oss og ætt vora og sagði: ,Er faðir yðar enn á lífi? Eigið þér einn bróður enn?` Og vér sögðum honum eins og var. Gátum vér vitað, að hann mundi segja: 43.8 ,Komið hingað með bróður yðar`?' Júda sagði við Ísrael föður sinn: 'Láttu sveininn fara með mér. Þá skulum vér taka oss upp og fara af stað, svo að vér megum lífi halda og ekki deyja, bæði vér og þú og börn vor. 43.9 Ég skal ábyrgjast hann, af minni hendi skalt þú krefjast hans. Komi ég ekki með hann aftur til þín og leiði ég hann ekki fram fyrir þig, skal ég vera sekur við þig alla ævi. 43.10 Því að hefðum vér ekki tafið, þá værum vér nú komnir aftur í annað sinn.' 43.11 Þá sagði Ísrael faðir þeirra við þá: 'Ef svo verður að vera, þá gjörið þetta: Takið af gæðum landsins í sekki yðar og færið manninum að gjöf lítið eitt af balsami og lítið eitt af hunangi, reykelsi og myrru, pistasíuhnetur og möndlur. 43.12 Og takið með yður tvöfalt gjald og hafið aftur með yður silfurpeningana, sem komu aftur ofan á í sekkjum yðar. Vera má, að það hafi verið af vangá. 43.13 Og takið bróður yðar. Leggið því næst upp og farið aftur til mannsins. 43.14 Og Almáttugur Guð gefi, að maðurinn sýni yður nú miskunnsemi og láti lausan við yður hinn bróður yðar og Benjamín. Ég hefi hvort sem er þegar orðið fyrir sonamissi.' 43.15 Og mennirnir tóku þessa gjöf; líka tóku þeir tvöfalt gjald með sér og Benjamín. Og þeir lögðu af stað og fóru til Egyptalands og gengu fyrir Jósef. 43.16 Er Jósef sá Benjamín með þeim, sagði hann við ráðsmann sinn: 'Far þú með þessa menn inn í húsið og slátra þú og matreið, því að þessir menn skulu eta með mér miðdegisverð í dag.' 43.17 Og maðurinn gjörði sem Jósef bauð og fór með mennina inn í hús Jósefs. 43.18 Mennirnir urðu hræddir, af því að þeir voru leiddir inn í hús Jósefs, og sögðu: 'Sakir silfurpeninganna, sem aftur komu í sekki vora hið fyrra sinnið, erum vér hingað leiddir, svo að hann geti ráðist að oss og vaðið upp á oss og gjört oss að þrælum og tekið asna vora.' 43.19 Þá gengu þeir til ráðsmanns Jósefs og töluðu við hann úti fyrir dyrum hússins 43.20 og sögðu: 'Æ, herra minn, vér komum hingað í fyrra skiptið að kaupa vistir. 43.21 En svo bar til, er vér komum í áfangastað og opnuðum sekki vora, sjá, þá voru silfurpeningar hvers eins ofan á í sekk hans, silfurpeningar vorir með fullri vigt, og vér erum nú komnir með þá aftur. 43.22 Og annað silfur höfum vér með oss til að kaupa vistir. Eigi vitum vér, hver látið hefir peningana í sekki vora.' 43.23 Hann svaraði: 'Verið ókvíðnir, óttist ekki! Yðar Guð og Guð föður yðar hefir gefið yður fjársjóð í sekki yðar. Silfur yðar er komið til mín.' Síðan leiddi hann Símeon út til þeirra. 43.24 Maðurinn fór með þá inn í hús Jósefs og gaf þeim vatn, að þeir mættu þvo fætur sína, og ösnum þeirra gaf hann fóður. 43.25 Og tóku þeir nú gjöfina fram, að hún væri til taks, er Jósef kæmi um miðdegið, því að þeir höfðu heyrt, að þeir ættu að matast þar. 43.26 Er Jósef kom heim, færðu þeir honum gjöfina, sem þeir höfðu meðferðis, inn í húsið og hneigðu sig til jarðar fyrir honum. 43.27 En hann spurði, hvernig þeim liði, og mælti: 'Líður yðar aldraða föður vel, sem þér gátuð um? Er hann enn á lífi?' 43.28 Þeir svöruðu: 'Þjóni þínum, föður vorum, líður vel. Hann er enn á lífi.' Og þeir hneigðu sig og lutu honum. 43.29 Jósef hóf upp augu sín og sá Benjamín bróður sinn, son móður sinnar, og mælti: 'Er þetta yngsti bróðir yðar, sem þér gátuð um við mig?' Og hann sagði: 'Guð sé þér náðugur, son minn!' 43.30 Og Jósef hraðaði sér burt, því að hjarta hans brann af ást til bróður hans, og hann vék burt til þess að gráta og fór inn í innra herbergið og grét þar. 43.31 Síðan þvoði hann andlit sitt og gekk út, og hann lét ekki á sér sjá og mælti: 'Berið á borð!' 43.32 Og menn báru á borð fyrir hann sér í lagi og fyrir þá sér í lagi og sér í lagi fyrir þá Egypta, sem með honum mötuðust, því að ekki mega Egyptar eta með Hebreum, fyrir því að Egyptar hafa andstyggð á því. 43.33 Og þeim var skipað til sætis gegnt honum, hinum frumgetna eftir frumburðarrétti hans og hinum yngsta eftir æsku hans, og mennirnir litu með undrun hver á annan. 43.34 Og hann lét bera skammta frá sér til þeirra, en skammtur Benjamíns var fimm sinnum stærri en skammtur nokkurs hinna. Og þeir drukku með honum og urðu hreifir.
44.1 Jósef bauð ráðsmanni sínum og mælti: 'Fyll þú sekki mannanna vistum, svo mikið sem þeir geta með sér flutt, og láttu silfurpeninga hvers eins ofan á í sekk hans. 44.2 Og bikar minn, silfurbikarinn, skalt þú láta ofan á í sekk hins yngsta og silfurpeningana fyrir korn hans.' Og hann gjörði eins og Jósef bauð honum. 44.3 Er bjart var orðið næsta morgun, voru mennirnir látnir fara, þeir og asnar þeirra. 44.4 Og er þeir voru komnir út úr borginni, en skammt burt farnir, sagði Jósef við ráðsmann sinn: 'Bregð þú við og veit mönnunum eftirför, og þegar þú nær þeim, skalt þú segja við þá: ,Hví hafið þér launað gott með illu? Hví hafið þér stolið silfurbikar mínum? 44.5 Er það ekki sá, sem herra minn drekkur af og hann spáir í? Þar hafið þér illa gjört.'` 44.6 Og er hann náði þeim, talaði hann þessi orð til þeirra. 44.7 En þeir sögðu við hann: 'Hví talar herra minn þannig? Fjarri sé það þjónum þínum að gjöra slíkt. 44.8 Sjá, það silfur, sem vér fundum ofan á í sekkjum vorum, færðum vér þér aftur frá Kanaanlandi, og hvernig skyldum vér þá stela silfri eða gulli úr húsi herra þíns? 44.9 Hver sá af þjónum þínum, sem bikarinn finnst hjá, skal deyja, og þar að auki skulum vér hinir vera þrælar herra míns.' 44.10 Hann svaraði: 'Sé þá svo sem þér segið. Sá sem hann finnst hjá, veri þræll minn, en þér skuluð vera lausir.' 44.11 Þá flýttu þeir sér að taka ofan hver sinn sekk, og þeir opnuðu hver sinn sekk. 44.12 Og hann leitaði, byrjaði á hinum elsta og endaði á hinum yngsta, og fannst þá bikarinn í sekk Benjamíns. 44.13 Þá rifu þeir klæði sín, létu hver upp á sinn asna og fóru aftur til borgarinnar. 44.14 Júda og bræður hans gengu inn í hús Jósefs, en hann var þar enn þá, og þeir féllu fram fyrir honum til jarðar. 44.15 Þá sagði Jósef við þá: 'Hvílík óhæfa er þetta, sem þér hafið framið? Vissuð þér ekki, að annar eins maður og ég kann að spá?' 44.16 Og Júda mælti: 'Hvað skulum vér segja við herra minn, hvað skulum vér tala og hvernig skulum vér réttlæta oss? Guð hefir fundið misgjörð þjóna þinna. Sjá, vér erum þrælar herra míns, bæði vér og sá, sem bikarinn fannst hjá.' 44.17 Og hann svaraði: 'Fjarri sé mér að gjöra slíkt. Sá maður, sem bikarinn fannst hjá, hann sé þræll minn, en farið þér í friði til föður yðar.' 44.18 Þá gekk Júda nær honum og mælti: 'Æ, herra minn, leyf þjóni þínum að tala nokkur orð í áheyrn herra míns, og reiði þín upptendrist ekki gegn þjóni þínum, því að þú ert sem Faraó. 44.19 Herra minn spurði þjóna sína og mælti: ,Eigið þér föður eða bróður?` 44.20 Og vér sögðum við herra minn: ,Vér eigum aldraðan föður og ungan bróður, sem hann gat í elli sinni. Og bróðir hans er dáinn, og hann er einn á lífi eftir móður sína, og faðir hans elskar hann.` 44.21 Og þú sagðir við þjóna þína: ,Komið með hann hingað til mín, að ég fái litið hann með augum mínum.` 44.22 Og vér sögðum við herra minn: ,Sveinninn má ekki yfirgefa föður sinn, því að yfirgæfi hann föður sinn, mundi það draga hann til dauða.` 44.23 Þá sagðir þú við þjóna þína: ,Ef yngsti bróðir yðar kemur ekki hingað með yður, þá skuluð þér ekki framar fá að sjá auglit mitt.` 44.24 Og þegar vér komum heim til þjóns þíns, föður míns, þá sögðum vér honum ummæli herra míns. 44.25 Og faðir vor sagði: ,Farið aftur og kaupið oss lítið eitt af vistum.` 44.26 Þá svöruðum vér: ,Vér getum ekki farið þangað. Megi yngsti bróðir vor fara með oss, þá skulum vér fara þangað, því að vér fáum ekki að sjá auglit mannsins, ef yngsti bróðir vor er ekki með oss.` 44.27 Og þjónn þinn, faðir minn, sagði við oss: ,Þér vitið, að kona mín ól mér tvo sonu. 44.28 Annar þeirra fór að heiman frá mér, og ég sagði: Vissulega er hann sundur rifinn. _ Og hefi ég ekki séð hann síðan. 44.29 Og ef þér takið nú þennan líka burt frá mér og verði hann fyrir slysi, þá munuð þér leiða hærur mínar með hörmung til heljar.` 44.30 Og komi ég nú til þjóns þíns, föður míns, og sé sveinninn ekki með oss, _ því að hann ann honum sem lífi sínu, _ 44.31 þá mun svo fara, að sjái hann, að sveinninn er eigi með oss, þá deyr hann, og þjónar þínir munu leiða hærur þjóns þíns, föður vors, með harmi til heljar. 44.32 Því að þjónn þinn tók ábyrgð á sveininum við föður minn og sagði: ,Ef ég kem ekki með hann aftur, skal ég vera sekur við föður minn alla ævi.` 44.33 Og lát þú því þjón þinn verða hér eftir sem þræl herra míns í stað sveinsins, en leyf sveininum að fara heim með bræðrum sínum. 44.34 Því að hvernig gæti ég farið heim til föður míns, sé sveinninn ekki með mér? Ég yrði þá að sjá þá hörmung, sem koma mundi yfir föður minn.'
45.1 Jósef gat þá ekki lengur haft stjórn á sér í augsýn allra, sem viðstaddir voru, og kallaði: 'Látið alla ganga út frá mér!' Og enginn maður var inni hjá honum, þegar hann sagði bræðrum sínum hver hann væri. 45.2 Og hann grét hástöfum, svo að Egyptar heyrðu það, og hirðmenn Faraós heyrðu það. 45.3 Jósef mælti við bræður sína: 'Ég er Jósef. Er faðir minn enn á lífi?' En bræður hans gátu ekki svarað honum, svo hræddir urðu þeir við hann. 45.4 Og Jósef sagði við bræður sína: 'Komið hingað til mín!' Og þeir gengu til hans. Hann mælti þá: 'Ég er Jósef bróðir yðar, sem þér selduð til Egyptalands. 45.5 En látið það nú ekki fá yður hryggðar, og setjið það ekki fyrir yður, að þér hafið selt mig hingað, því að til lífs viðurhalds hefir Guð sent mig hingað á undan yður. 45.6 Því að nú hefir hallærið verið í landinu í tvö ár, og enn munu líða svo fimm ár, að hvorki verði plægt né uppskorið. 45.7 En Guð hefir sent mig hingað á undan yður til þess að halda við kyni yðar á jörðinni og sjá lífi yðar borgið, til mikils hjálpræðis. 45.8 Það er því ekki þér, sem hafið sent mig hingað, heldur Guð. Og hann hefir látið mig verða Faraó sem föður og herra alls húss hans og höfðingja yfir öllu Egyptalandi. 45.9 Hraðið yður nú og farið heim til föður míns og segið við hann: ,Svo segir Jósef sonur þinn: Guð hefir gjört mig að herra alls Egyptalands; kom þú til mín og tef eigi. 45.10 Og þú skalt búa í Gósenlandi og vera í nánd við mig, þú og synir þínir og sonasynir þínir og sauðfé þitt og nautgripir þínir og allt, sem þitt er. 45.11 En ég skal sjá þér þar fyrir viðurværi, _ því að enn verður hallæri í fimm ár _, svo að þú komist ekki í örbirgð, þú og þitt hús og allt, sem þitt er.` 45.12 Og nú sjá augu yðar, og augu Benjamíns bróður míns sjá, að ég með eigin munni tala við yður. 45.13 Og segið föður mínum frá allri vegsemd minni á Egyptalandi og frá öllu, sem þér hafið séð, og flýtið yður nú og komið hingað með föður minn.' 45.14 Og hann féll um háls Benjamín bróður sínum og grét, og Benjamín grét um háls honum. 45.15 Og hann minntist við alla bræður sína, faðmaði þá og grét. Eftir það töluðu bræður hans við hann. 45.16 Þau tíðindi bárust til hirðar Faraós: 'Bræður Jósefs eru komnir!' Og lét Faraó og þjónar hans vel yfir því. 45.17 Og Faraó sagði við Jósef: 'Seg þú við bræður þína: ,Þetta skuluð þér gjöra: Klyfjið eyki yðar og haldið af stað og farið til Kanaanlands. 45.18 Takið föður yðar og fjölskyldur yðar og komið til mín, og skal ég gefa yður bestu afurðir Egyptalands, og þér skuluð eta feiti landsins.` 45.19 Og bjóð þú þeim: ,Gjörið svo: Takið yður vagna í Egyptalandi handa börnum yðar og konum yðar og flytjið föður yðar og komið. 45.20 Og hirðið eigi um búshluti yðar, því að hið besta í öllu Egyptalandi skal vera yðar.'` 45.21 Og synir Ísraels gjörðu svo, og Jósef fékk þeim vagna eftir boði Faraós, og hann gaf þeim nesti til ferðarinnar. 45.22 Hann gaf og sérhverjum þeirra alklæðnað, en Benjamín gaf hann þrjú hundruð sikla silfurs og fimm alklæðnaði. 45.23 Og föður sínum sendi hann sömuleiðis tíu asna klyfjaða hinum bestu afurðum Egyptalands og tíu ösnur klyfjaðar korni og brauði og vistum handa föður hans til ferðarinnar. 45.24 Lét hann síðan bræður sína fara, og þeir héldu af stað. Og hann sagði við þá: 'Deilið ekki á leiðinni.' 45.25 Og þeir fóru frá Egyptalandi og komu til Kanaanlands, heim til Jakobs föður síns. 45.26 Og þeir færðu honum tíðindin og sögðu: 'Jósef er enn á lífi og er höfðingi yfir öllu Egyptalandi.' En hjarta hans komst ekki við, því að hann trúði þeim ekki. 45.27 En er þeir báru honum öll orð Jósefs, sem hann hafði við þá talað, og hann sá vagnana, sem Jósef hafði sent til að flytja hann á, þá lifnaði yfir Jakob föður þeirra. 45.28 Og Ísrael sagði: 'Mér er það nóg, að Jósef sonur minn er enn á lífi. Ég vil fara og sjá hann áður en ég dey.'
46.1 Ísrael lagði af stað með allt sitt, og hann kom til Beerseba og færði þar Guði Ísaks föður síns sláturfórn. 46.2 Og Guð talaði við Ísrael í sýn um nóttina og sagði: 'Jakob, Jakob!' Og hann svaraði: 'Hér er ég.' 46.3 Og hann sagði: 'Ég er Guð, Guð föður þíns. Óttast þú ekki að fara til Egyptalands, því að þar mun ég gjöra þig að mikilli þjóð. 46.4 Ég mun fara með þér til Egyptalands, og ég mun líka flytja þig þaðan aftur, og Jósef skal veita þér nábjargirnar.' 46.5 Þá tók Jakob sig upp frá Beerseba, og Ísraels synir fluttu Jakob föður sinn og börn sín og konur sínar á vögnunum, sem Faraó hafði sent til að flytja hann á. 46.6 Og þeir tóku fénað sinn og fjárhluti, sem þeir höfðu aflað sér í Kanaanlandi, og komu til Egyptalands, Jakob og allir niðjar hans með honum. 46.7 Sonu sína og sonasonu, dætur sínar og sonadætur og alla niðja sína flutti hann með sér til Egyptalands. 46.8 Þessi eru nöfn Ísraels sona, sem komu til Egyptalands: Jakob og synir hans: Rúben, frumgetinn son Jakobs. 46.9 Synir Rúbens: Hanok, Pallú, Hesron og Karmí. 46.10 Synir Símeons: Jemúel, Jamín, Óhad, Jakín, Sóar og Sál, sonur kanversku konunnar. 46.11 Synir Leví: Gerson, Kahat og Merarí. 46.12 Synir Júda: Ger, Ónan, Sela, Peres og Sera. En Ger og Ónan dóu í Kanaanlandi. Synir Peres voru: Hesron og Hamúl. 46.13 Synir Íssakars: Tóla, Púva, Job og Símron. 46.14 Synir Sebúlons: Sered, Elon og Jahleel. 46.15 Þessir voru synir Leu, sem hún fæddi Jakob í Mesópótamíu, ásamt Dínu dóttur hans. Allir synir hans og dætur voru að tölu þrjátíu og þrjú. 46.16 Synir Gaðs: Sífjón, Haggí, Súní, Esbon, Erí, Aródí og Arelí. 46.17 Synir Assers: Jimna, Jísva, Jísví, Bría og Sera, systir þeirra. Synir Bría voru: Heber og Malkíel. 46.18 Þessir voru synir Silpu, sem Laban gaf Leu dóttur sinni. Hún ól Jakob þessa, sextán sálir. 46.19 Synir Rakelar, konu Jakobs: Jósef og Benjamín. 46.20 En Jósef fæddust synir í Egyptalandi: Manasse og Efraím, sem Asenat, dóttir Pótífera prests í Ón, ól honum. 46.21 Synir Benjamíns: Bela, Beker, Asbel, Gera, Naaman, Ehí, Rós, Múppím, Húppím og Ard. 46.22 Þetta voru synir Rakelar, sem hún ól Jakob, alls fjórtán sálir. 46.23 Sonur Dans: Húsín. 46.24 Synir Naftalí: Jahseel, Gúní, Jeser og Sillem. 46.25 Þessir voru synir Bílu, sem Laban gaf Rakel dóttur sinni, og þessa ól hún Jakob, sjö sálir alls. 46.26 Allar þær sálir, sem komu með Jakob til Egyptalands og af honum voru komnar, voru sextíu og sex að tölu, auk sonakvenna Jakobs. 46.27 Og synir Jósefs, sem honum höfðu fæðst í Egyptalandi, voru tveir að tölu. Allar þær sálir af ætt Jakobs, sem komu til Egyptalands, voru sjötíu að tölu. 46.28 Jakob sendi Júda á undan sér til Jósefs, að hann vísaði sér veginn til Gósen. Og þeir komu til Gósenlands. 46.29 Þá lét Jósef beita fyrir vagn sinn og fór á móti Ísrael föður sínum til Gósen, og er fundum þeirra bar saman, féll hann um háls honum og grét lengi um háls honum. 46.30 Og Ísrael sagði við Jósef: 'Nú vil ég glaður deyja, fyrst ég hefi séð auglit þitt, að þú ert enn á lífi.' 46.31 Og Jósef sagði við bræður sína og við frændlið föður síns: 'Nú vil ég fara og láta Faraó vita og segja við hann: ,Bræður mínir og frændlið föður míns, sem var í Kanaanlandi, er til mín komið. 46.32 Og mennirnir eru hjarðmenn, því að þeir hafa stundað kvikfjárrækt, og sauði sína og nautpening sinn og allt, sem þeir eiga, hafa þeir haft hingað með sér.` 46.33 Þegar nú Faraó lætur kalla yður og spyr: ,Hver er atvinna yðar?` 46.34 þá skuluð þér svara: ,Kvikfjárrækt hafa þjónar þínir stundað frá barnæsku allt til þessa dags, bæði vér og feður vorir,` _ til þess að þér fáið að búa í Gósenlandi, því að Egyptar hafa andstyggð á öllum hjarðmönnum.'
47.1 Því næst gekk Jósef fyrir Faraó, sagði honum frá og mælti: 'Faðir minn og bræður mínir eru komnir úr Kanaanlandi með sauði sína og nautgripi og allt, sem þeir eiga, og eru nú í Gósenlandi.' 47.2 En hann hafði tekið fimm af bræðrum sínum með sér og leiddi þá fyrir Faraó. 47.3 Þá mælti Faraó við bræður Jósefs: 'Hver er atvinna yðar?' Og þeir svöruðu Faraó: 'Þjónar þínir eru hjarðmenn, bæði vér og feður vorir.' 47.4 Og þeir sögðu við Faraó: 'Vér erum komnir til að staðnæmast um hríð í landinu, því að enginn hagi er fyrir sauði þjóna þinna, af því að hallærið er mikið í Kanaanlandi. Leyf því þjónum þínum að búa í Gósenlandi.' 47.5 Faraó sagði við Jósef: 'Faðir þinn og bræður þínir eru komnir til þín. 47.6 Egyptaland er þér heimilt, lát þú föður þinn og bræður þína búa þar sem landkostir eru bestir. Búi þeir í Gósenlandi, og ef þú þekkir nokkra duglega menn meðal þeirra, þá fel þeim yfirumsjón hjarða minna.' 47.7 Þá fór Jósef inn með Jakob föður sinn og leiddi hann fyrir Faraó. Og Jakob heilsaði Faraó með blessunaróskum. 47.8 Og Faraó sagði við Jakob: 'Hversu gamall ert þú?' 47.9 Og Jakob svaraði Faraó: 'Vegferðartími minn er hundrað og þrjátíu ár. Fáir og illir hafa dagar lífs míns verið og ná ekki þeirri áratölu, er feður mínir náðu á vegferð sinni.' 47.10 Síðan kvaddi Jakob Faraó með blessunaróskum og gekk út frá honum. 47.11 Og Jósef fékk föður sínum og bræðrum bústaði og gaf þeim fasteign í Egyptalandi, þar sem bestir voru landkostir, í Ramseslandi, eins og Faraó hafði boðið. 47.12 Og Jósef sá föður sínum og bræðrum sínum og öllu skylduliði föður síns fyrir viðurværi eftir tölu barnanna. 47.13 Algjör skortur var á neyslukorni um allt landið, því að hallærið var mjög mikið, og Egyptaland og Kanaanland voru að þrotum komin af hungrinu. 47.14 Og Jósef dró saman allt það silfur, sem til var í Egyptalandi og Kanaanlandi, fyrir kornið, sem þeir keyptu, og Jósef skilaði silfrinu í hús Faraós. 47.15 Og er silfur þraut í Egyptalandi og í Kanaanlandi, þá komu allir Egyptar til Jósefs og sögðu: 'Lát oss fá brauð! _ hví skyldum vér deyja fyrir augum þér? _ því að silfur þrýtur.' 47.16 Og Jósef mælti: 'Komið hingað með fénað yðar, ég skal gefa yður korn til neyslu fyrir fénað yðar, ef silfur þrýtur.' 47.17 Þá fóru þeir með fénað sinn til Jósefs, og hann lét þá fá neyslukorn fyrir hestana, sauðféð, nautpeninginn og asnana, og hann birgði þá upp með korni það árið fyrir allan fénað þeirra. 47.18 Og er það árið var liðið, komu þeir til hans næsta ár og sögðu við hann: 'Eigi viljum vér leyna herra vorn því, að silfrið er allt þrotið og kvikfénaður vor er orðinn eign herra vors. Nú er ekki annað eftir handa herra vorum en líkamir vorir og ekrur vorar. 47.19 Hví skyldum vér farast fyrir augsýn þinni, bæði vér og ekrur vorar? Kaup þú oss og ekrur vorar fyrir brauð, þá viljum vér með ekrum vorum vera þrælar Faraós, og gef þú oss sáðkorn, að vér megum lífi halda og ekki deyja og ekrurnar leggist ekki í auðn.' 47.20 Þá keypti Jósef allar ekrur Egypta handa Faraó, því að Egyptar seldu hver sinn akur, þar eð hungrið svarf að þeim. Og þannig eignaðist Faraó landið. 47.21 Og landslýðinn gjörði hann að þrælum frá einum enda Egyptalands til annars. 47.22 Ekrur prestanna einar keypti hann ekki, því að prestarnir höfðu ákveðnar tekjur frá Faraó og þeir lifðu af hinum ákveðnu tekjum sínum, sem Faraó gaf þeim. Fyrir því seldu þeir ekki ekrur sínar. 47.23 Þá sagði Jósef við lýðinn: 'Sjá, nú hefi ég keypt yður og ekrur yðar Faraó til handa. Hér er sáðkorn handa yður, og sáið nú ekrurnar. 47.24 En af ávextinum skuluð þér skila Faraó fimmta hluta, en hina fjóra fimmtuhlutana skuluð þér hafa til þess að sá akrana, og yður til viðurlífis og heimafólki yðar og börnum yðar til framfærslu.' 47.25 Og þeir svöruðu: 'Þú hefir haldið í oss lífinu. Lát oss finna náð í augum þínum, herra minn, og þá viljum vér vera þrælar Faraós.' 47.26 Og Jósef leiddi það í lög, sem haldast allt til þessa dags, að Faraó skyldi fá fimmta hlutann af akurlendi Egypta. Ekrur prestanna einar urðu ekki eign Faraós. 47.27 Ísrael bjó í Egyptalandi, í Gósenlandi, og þeir festu þar byggð og juku kyn sitt, svo að þeim fjölgaði mjög. 47.28 Jakob lifði í seytján ár í Egyptalandi, og dagar Jakobs, æviár hans, voru hundrað fjörutíu og sjö ár. 47.29 Er dró að dauða Ísraels, lét hann kalla Jósef son sinn og sagði við hann: 'Hafi ég fundið náð í augum þínum, þá legg hönd þína undir lend mína og auðsýn mér elsku og trúfesti: Jarða mig ekki í Egyptalandi. 47.30 Ég vil hvíla hjá feðrum mínum, og skalt þú flytja mig burt úr Egyptalandi og jarða mig í gröf þeirra.' Og hann svaraði: 'Ég vil gjöra svo sem þú hefir fyrir mælt.' 47.31 Þá sagði Jakob: 'Vinn þú mér eið að því!' Og hann vann honum eiðinn. Og Ísrael hallaði sér niður að höfðalaginu.
48.1 Eftir þetta bar svo til, að Jósef var sagt: 'Sjá, faðir þinn er sjúkur.' Tók hann þá með sér báða sonu sína, Manasse og Efraím. 48.2 Þetta tjáðu menn Jakob og sögðu: 'Sjá, Jósef sonur þinn kemur til þín.' Þá hreysti Ísrael sig og settist upp í rúminu. 48.3 Jakob sagði við Jósef: 'Almáttugur Guð birtist mér í Lúz í Kanaanlandi og blessaði mig 48.4 og sagði við mig: ,Sjá, ég vil gjöra þig frjósaman og margfalda þig og gjöra þig að fjölda þjóða og gefa niðjum þínum eftir þig þetta land til ævinlegrar eignar.` 48.5 Og nú skulu báðir synir þínir, sem þér fæddust í Egyptalandi áður en ég kom til þín til Egyptalands, heyra mér til. Efraím og Manasse skulu heyra mér til, eins og Rúben og Símeon. 48.6 En það afkvæmi, sem þú hefir getið eftir þá, skal tilheyra þér. Með nafni bræðra sinna skulu þeir nefndir verða í erfð þeirra. 48.7 Þegar ég kom heim frá Mesópótamíu, missti ég Rakel í Kanaanlandi á leiðinni, þegar ég átti skammt eftir ófarið til Efrata, og ég jarðaði hana þar við veginn til Efrata, það er Betlehem.' 48.8 Þá sá Jakob sonu Jósefs og mælti: 'Hverjir eru þessir?' 48.9 Og Jósef sagði við föður sinn: 'Það eru synir mínir, sem Guð hefir gefið mér hér.' Og hann mælti: 'Leiddu þá til mín, að ég blessi þá.' 48.10 En Ísrael var orðinn sjóndapur af elli og sá ekki. Og Jósef leiddi þá til hans, og hann kyssti þá og faðmaði þá. 48.11 Og Ísrael sagði við Jósef: 'Ég hafði eigi búist við að sjá þig framar, og nú hefir Guð meira að segja látið mig sjá afkvæmi þitt.' 48.12 Og Jósef færði þá frá knjám hans og hneigði ásjónu sína til jarðar. 48.13 Jósef tók þá báða, Efraím sér við hægri hönd, svo að hann stóð Ísrael til vinstri handar, og Manasse sér við vinstri hönd, svo að hann stóð Ísrael til hægri handar, og leiddi þá til hans. 48.14 En Ísrael rétti fram hægri hönd sína og lagði á höfuð Efraím, þótt hann væri yngri, og vinstri hönd sína á höfuð Manasse. Hann lagði hendur sínar í kross, því að Manasse var hinn frumgetni. 48.15 Og hann blessaði Jósef og sagði: 'Sá Guð, fyrir hvers augliti feður mínir Abraham og Ísak gengu, sá Guð, sem hefir varðveitt mig frá barnæsku allt fram á þennan dag, 48.16 sá engill, sem hefir frelsað mig frá öllu illu, hann blessi sveinana, og þeir beri nafn mitt og nafn feðra minna Abrahams og Ísaks, og afsprengi þeirra verði stórmikið í landinu.' 48.17 En er Jósef sá, að faðir hans lagði hægri hönd sína á höfuð Efraím, mislíkaði honum það og tók um höndina á föður sínum til þess að færa hana af höfði Efraíms yfir á höfuð Manasse. 48.18 Og Jósef sagði við föður sinn: 'Eigi svo, faðir minn, því að þessi er hinn frumgetni. Legg hægri hönd þína á höfuð honum.' 48.19 En faðir hans færðist undan því og sagði: 'Ég veit það, sonur minn, ég veit það. Einnig hann mun verða að þjóð og einnig hann mun mikill verða, en þó mun yngri bróðir hans verða honum meiri, og afsprengi hans mun verða fjöldi þjóða.' 48.20 Og hann blessaði þá á þessum degi og mælti: 'Með þínu nafni munu Ísraelsmenn óska blessunar og segja: ,Guð gjöri þig sem Efraím og Manasse!'` Hann setti þannig Efraím framar Manasse. 48.21 Og Ísrael sagði við Jósef: 'Sjá, nú dey ég, en Guð mun vera með yður og flytja yður aftur í land feðra yðar. 48.22 En ég gef þér fram yfir bræður þína eina fjallsöxl, sem ég hefi unnið frá Amorítum með sverði mínu og boga.'
49.1 Þá lét Jakob kalla sonu sína og mælti: 'Safnist saman, að ég megi birta yður það, sem fyrir yður liggur á komandi tímum.' 49.2 Skipist saman og hlýðið á, synir Jakobs, hlýðið á Ísrael föður yðar! 49.3 Rúben, þú ert frumgetningur minn, kraftur minn og frumgróði styrkleika míns, fremstur að virðingum og fremstur að völdum. 49.4 En þar eð þú ólgar sem vatnið, skalt þú eigi fremstur vera, því að þú gekkst í hvílu föður þíns. Þá flekkaðir þú hana, gekkst í hjónasæng mína! 49.5 Símeon og Leví eru bræður, tól ofbeldis eru sverð þeirra. 49.6 Sál mín komi ekki á ráðstefnu þeirra, sæmd mín hafi eigi félagsskap við söfnuð þeirra, því að í reiði sinni drápu þeir menn, og í ofsa sínum skáru þeir á hásinar nautanna. 49.7 Bölvuð sé reiði þeirra, því að hún var römm, og bræði þeirra, því að hún var grimm. Ég vil dreifa þeim í Jakob og tvístra þeim í Ísrael. 49.8 Júda, þig munu bræður þínir vegsama. Hönd þín mun vera á hálsi óvina þinna, synir föður þíns skulu lúta þér. 49.9 Júda er ljónshvolpur, frá bráðinni ert þú stiginn upp, sonur minn. Hann leggst niður, hann hvílist sem ljón og sem ljónynja, hver þorir að reka hann á fætur? 49.10 Ekki mun veldissprotinn víkja frá Júda, né ríkisvöndurinn frá fótum hans, uns sá kemur, er valdið hefur, og þjóðirnar ganga honum á hönd. 49.11 Hann bindur við víntré ösnufola sinn, við gæðavínvið son ösnu sinnar, hann þvær klæði sín í víni og möttul sinn í vínberjablóði. 49.12 Vínmóða er í augum hans og tennur hans hvítar af mjólk. 49.13 Sebúlon mun búa við sjávarströndina, við ströndina þar sem skipin liggja, og land hans vita að Sídon. 49.14 Íssakar er beinasterkur asni, sem liggur á milli fjárgirðinganna. 49.15 Og hann sá, að hvíldin var góð og að landið var unaðslegt, og hann beygði herðar sínar undir byrðar og varð vinnuskyldur þræll. 49.16 Dan mun rétta hluta þjóðar sinnar sem hver önnur Ísraels ættkvísl. 49.17 Dan verður höggormur á veginum og naðra í götunni, sem hælbítur hestinn, svo að reiðmaðurinn fellur aftur á bak. 49.18 Þinni hjálp treysti ég, Drottinn! 49.19 Gað _ ræningjaflokkur fer að honum, en hann rekur þá á flótta. 49.20 Asser _ feit er fæða hans, og hann veitir konungakrásir. 49.21 Naftalí er rásandi hind, frá honum koma fegurðarorð. 49.22 Jósef er ungur aldinviður, ungur aldinviður við uppsprettulind, greinar hans teygja sig upp yfir múrinn. 49.23 Bogmenn veittust að honum, skutu að honum og ofsóttu hann, 49.24 en bogi hans reyndist stinnur, og handleggir hans voru fimir. Sá styrkur kom frá Jakobs Volduga, frá Hirðinum, Hellubjargi Ísraels, 49.25 frá Guði föður þíns, sem mun hjálpa þér, frá Almáttugum Guði, sem mun blessa þig með blessun himinsins að ofan, með blessun djúpsins, er undir hvílir, með blessun brjósta og móðurlífs. 49.26 Blessunin, sem faðir þinn hlaut, gnæfði hærra en hin öldnu fjöll, hærra en unaður hinna eilífu hæða. Hún komi yfir höfuð Jósefs og í hvirfil hans, sem er höfðingi meðal bræðra sinna. 49.27 Benjamín er úlfur, sem sundurrífur. Á morgnana etur hann bráð, og á kveldin skiptir hann herfangi. 49.28 Allir þessir eru tólf kynþættir Ísraels, og þetta er það, sem faðir þeirra talaði við þá. Jakob blessaði þá, sérhvern blessaði hann með þeirri blessun, er honum bar. 49.29 Og hann bauð þeim og mælti við þá: 'Ég safnast nú til míns fólks. Jarðið mig hjá feðrum mínum, í hellinum, sem er í landi Efrons Hetíta, 49.30 í hellinum, sem er í Makpelalandi og liggur gegnt Mamre í Kanaanlandi og Abraham keypti með akrinum af Efron Hetíta fyrir grafreit. 49.31 Þar hafa þeir jarðað Abraham og Söru konu hans, þar hafa þeir jarðað Ísak og Rebekku konu hans, og þar hefi ég jarðað Leu. 49.32 Akurinn og hellirinn, sem á honum er, hafði keyptur verið af Hetítum.' 49.33 Og er Jakob hafði lokið þessum fyrirmælum við sonu sína, lagði hann fætur sína upp í hvíluna og andaðist og safnaðist til síns fólks.
50.1 Jósef laut þá ofan að andliti föður síns og grét yfir honum og kyssti hann. 50.2 Og Jósef bauð þjónum sínum, læknunum, að smyrja föður sinn. Og læknarnir smurðu Ísrael, 50.3 en til þess gengu fjörutíu dagar, því að svo lengi stendur á smurningunni. Og Egyptar syrgðu hann sjötíu daga. 50.4 Er sorgardagarnir voru liðnir, kom Jósef að máli við hirðmenn Faraós og mælti: 'Hafi ég fundið náð í augum yðar, þá berið Faraó þessi orð mín: 50.5 Faðir minn tók eið af mér og sagði: ,Sjá, nú mun ég deyja. Í gröf minni, sem ég gróf handa mér í Kanaanlandi, skaltu jarða mig.` Leyf mér því að fara og jarða föður minn. Að því búnu skal ég koma aftur.' 50.6 Og Faraó sagði: 'Far þú og jarða föður þinn, eins og hann lét þig vinna eið að.' 50.7 Og Jósef fór að jarða föður sinn, og með honum fóru allir þjónar Faraós, öldungar hirðarinnar og allir öldungar Egyptalands 50.8 og allir heimilismenn Jósefs, svo og bræður hans og heimilismenn föður hans. Aðeins létu þeir börn sín, sauði sína og nautgripi eftir verða í Gósenlandi. 50.9 Í för með honum voru vagnar og riddarar, og var það stórmikið föruneyti. 50.10 En er þeir komu til Góren-haatad, sem er hinumegin við Jórdan, þá hófu þeir þar harmakvein mikið og hátíðlegt mjög, og hann hélt sorgarhátíð eftir föður sinn í sjö daga. 50.11 Og er landsbúar, Kanaanítar, sáu sorgarhátíðina í Góren-haatad, sögðu þeir: 'Þar halda Egyptar mikla sorgarhátíð.' Fyrir því var sá staður nefndur Abel Mísraím. Liggur hann hinumegin við Jórdan. 50.12 Synir hans gjörðu svo við hann sem hann hafði boðið þeim. 50.13 Og synir hans fluttu hann til Kanaanlands og jörðuðu hann í helli Makpelalands, sem Abraham hafði keypt ásamt akrinum fyrir grafreit af Efron Hetíta, gegnt Mamre. 50.14 Og Jósef fór aftur til Egyptalands, er hann hafði jarðað föður sinn, hann og bræður hans og allir, sem með honum höfðu farið að jarða föður hans. 50.15 Er bræður Jósefs sáu að faðir þeirra var dáinn, hugsuðu þeir: 'En ef Jósef nú fjandskapaðist við oss og launaði oss allt hið illa, sem vér höfum gjört honum!' 50.16 Og þeir gjörðu Jósef svolátandi orðsending: 'Faðir þinn mælti svo fyrir, áður en hann dó: 50.17 ,Þannig skuluð þér mæla við Jósef: Æ, fyrirgef bræðrum þínum misgjörð þeirra og synd, að þeir gjörðu þér illt.` Fyrirgef því misgjörðina þjónum þess Guðs, sem faðir þinn dýrkaði.' Og Jósef grét, er þeir mæltu svo til hans. 50.18 Því næst komu bræður hans sjálfir og féllu fram fyrir honum og sögðu: 'Sjá, vér erum þrælar þínir.' 50.19 En Jósef sagði við þá: 'Óttist ekki, því að er ég í Guðs stað? 50.20 Þér ætluðuð að gjöra mér illt, en Guð sneri því til góðs, til að gjöra það, sem nú er fram komið, að halda lífinu í mörgu fólki. 50.21 Verið því óhræddir, ég skal annast yður og börn yðar.' Síðan hughreysti hann þá og talaði við þá blíðlega. 50.22 Jósef bjó í Egyptalandi, hann og ættlið föður hans. Og Jósef varð hundrað og tíu ára gamall. 50.23 Og Jósef sá niðja Efraíms í þriðja lið. Og synir Makírs, sonar Manasse, fæddust á kné Jósefs. 50.24 Og Jósef sagði við bræður sína: 'Nú mun ég deyja. En Guð mun vissulega vitja yðar og flytja yður úr þessu landi til þess lands, sem hann hefir svarið Abraham, Ísak og Jakob.' 50.25 Og Jósef tók eið af Ísraels sonum og mælti: 'Sannlega mun Guð vitja yðar. Flytjið þá bein mín héðan.'
1.1 Þessi eru nöfn Ísraels sona, sem komu til Egyptalands með Jakob, hver með sitt heimilisfólk: 1.2 Rúben, Símeon, Leví og Júda, 1.3 Íssakar, Sebúlon og Benjamín, 1.4 Dan og Naftalí, Gað og Asser. 1.5 Alls voru niðjar Jakobs sjötíu manns, og Jósef var fyrir í Egyptalandi. 1.6 Og Jósef dó og allir bræður hans og öll sú kynslóð. 1.7 Og Ísraelsmenn voru frjósamir, jukust, margfölduðust og fjölgaði stórum, svo að landið varð fullt af þeim. 1.8 Þá hófst til ríkis í Egyptalandi nýr konungur, sem engin deili vissi á Jósef. 1.9 Hann sagði við þjóð sína: 'Sjá, þjóð Ísraelsmanna er fjölmennari og aflmeiri en vér. 1.10 Látum oss fara kænlega að við hana, ella kynni henni að fjölga um of, og ef til ófriðar kæmi, kynni hún jafnvel að ganga í lið með óvinum vorum og berjast móti oss og fara síðan af landi burt.' 1.11 Og þeir settu verkstjóra yfir hana til þess að þjá hana með þrælavinnu, og hún byggði vistaborgir handa Faraó, Pítóm og Raamses. 1.12 En því meir sem þeir þjáðu hana, því meir fjölgaði henni og breiddist út, svo að þeir tóku að óttast Ísraelsmenn. 1.13 Og Egyptar þrælkuðu Ísraelsmenn vægðarlaust 1.14 og gjörðu þeim lífið leitt með þungri þrælavinnu við leireltu og tigulsteinagjörð og með alls konar akurvinnu, með allri þeirri vinnu, er þeir vægðarlaust þrælkuðu þá með. 1.15 En Egyptalandskonungur mælti til hinna hebresku ljósmæðra _ hét önnur Sifra, en hin Púa: 1.16 'Þegar þið sitjið yfir hebreskum konum,' mælti hann, 'þá lítið á burðarsetið. Sé barnið sveinbarn, þá deyðið það, en sé það meybarn, þá má það lifa.' 1.17 En ljósmæðurnar óttuðust Guð og gjörðu eigi það, sem Egyptalandskonungur bauð þeim, heldur létu sveinbörnin lifa. 1.18 Þá lét Egyptalandskonungur kalla ljósmæðurnar og sagði við þær: 'Hví hafið þér svo gjört, að láta sveinbörnin lifa?' 1.19 Ljósmæðurnar svöruðu Faraó: 'Hebreskar konur eru ólíkar egypskum, því að þær eru hraustar. Áður en ljósmóðirin kemur til þeirra, eru þær búnar að fæða.' 1.20 Og Guð lét ljósmæðrunum vel farnast, og fólkinu fjölgaði og það efldist mjög. 1.21 Og fyrir þá sök, að ljósmæðurnar óttuðust Guð, gaf hann þeim fjölda niðja. 1.22 Þá bauð Faraó öllum lýð sínum og sagði: 'Kastið í ána öllum þeim sveinbörnum, sem fæðast meðal Hebrea, en öll meybörn mega lífi halda.'
2.1 Maður nokkur af Leví ætt gekk að eiga dóttur Leví. 2.2 Og konan varð þunguð og fæddi son. Og er hún sá að sveinninn var fríður, þá leyndi hún honum í þrjá mánuði. 2.3 En er hún mátti eigi leyna honum lengur, tók hún handa honum örk af reyr, bræddi hana með jarðlími og biki, lagði sveininn í hana og lét örkina út í sefið hjá árbakkanum. 2.4 En systir hans stóð þar álengdar til að vita, hvað um hann yrði. 2.5 Þá gekk dóttir Faraós ofan að ánni til að lauga sig, og gengu þjónustumeyjar hennar eftir árbakkanum. Hún leit örkina í sefinu og sendi þernu sína að sækja hana. 2.6 En er hún lauk upp örkinni, sá hún barnið, og sjá, það var sveinbarn og var að gráta. Og hún kenndi í brjósti um það og sagði: 'Þetta er eitt af börnum Hebrea.' 2.7 Þá sagði systir sveinsins við dóttur Faraós: 'Á ég að fara og sækja fyrir þig barnfóstru, einhverja hebreska konu, að hún hafi sveininn á brjósti fyrir þig?' 2.8 Og dóttir Faraós svaraði henni: 'Já, far þú.' En mærin fór og sótti móður sveinsins. 2.9 Og dóttir Faraós sagði við hana: 'Tak svein þennan með þér og haf hann á brjósti fyrir mig, og skal ég launa þér fyrir.' Tók konan þá sveininn og hafði hann á brjósti. 2.10 En er sveinninn var vaxinn, fór hún með hann til dóttur Faraós. Tók hún hann í sonar stað og nefndi hann Móse, því að hún sagði: 'Ég hefi dregið hann upp úr vatninu.' 2.11 Um þær mundir bar svo við, þegar Móse var orðinn fulltíða maður, að hann fór á fund ættbræðra sinna og sá þrældóm þeirra. Sá hann þá egypskan mann ljósta hebreskan mann, einn af ættbræðrum hans. 2.12 Hann skimaði þá í allar áttir, og er hann sá, að þar var enginn, drap hann Egyptann og huldi hann í sandinum. 2.13 Daginn eftir gekk hann út og sá tvo Hebrea vera að þrátta sín á milli. Þá mælti hann við þann, sem á röngu hafði að standa: 'Hví slær þú náunga þinn?' 2.14 En hann sagði: 'Hver skipaði þig höfðingja og dómara yfir okkur? Er þér í hug að drepa mig, eins og þú drapst Egyptann?' Þá varð Móse hræddur og hugsaði með sér: 'Það er þá orðið uppvíst!' 2.15 Er Faraó frétti þennan atburð, leitaði hann eftir að drepa Móse, en Móse flýði undan Faraó og tók sér bústað í Midíanslandi og settist að hjá vatnsbólinu. 2.16 Presturinn í Midíanslandi átti sjö dætur. Þær komu þangað, jusu vatn og fylltu þrórnar til að brynna fénaði föður síns. 2.17 Þá komu að hjarðmenn og bægðu þeim frá. En Móse tók sig til og hjálpaði þeim og brynnti fénaði þeirra. 2.18 Og er þær komu heim til Regúels föður síns, mælti hann: 'Hví komið þér svo snemma heim í dag?' 2.19 Þær svöruðu: 'Egypskur maður hjálpaði oss móti hjarðmönnunum, jós líka vatnið upp fyrir oss og brynnti fénaðinum.' 2.20 Hann sagði þá við dætur sínar: 'Hvar er hann þá? Hvers vegna skilduð þér manninn eftir? Bjóðið honum heim, að hann neyti matar.' 2.21 Móse lét sér vel líka að vera hjá þessum manni, og hann gifti Móse Sippóru dóttur sína. 2.22 Hún ól son, og hann nefndi hann Gersóm, því að hann sagði: 'Gestur er ég í ókunnu landi.' 2.23 Löngum tíma eftir þetta dó Egyptalandskonungur. En Ísraelsmenn andvörpuðu undir ánauðinni og kveinuðu, og ánauðarkvein þeirra sté upp til Guðs. 2.24 Og Guð heyrði andvarpanir þeirra og minntist sáttmála síns við Abraham, Ísak og Jakob. 2.25 Og Guð leit til Ísraelsmanna og kenndist við þá.
3.1 En Móse gætti sauða Jetró tengdaföður síns, prests í Midíanslandi. Og hann hélt fénu vestur yfir eyðimörkina og kom til Guðs fjalls, til Hóreb. 3.2 Þá birtist honum engill Drottins í eldsloga, sem lagði út af þyrnirunna nokkrum. Og er hann gætti að, sá hann, að þyrnirunninn stóð í ljósum loga, en brann ekki. 3.3 Þá sagði Móse: 'Ég vil ganga nær og sjá þessa miklu sýn, hvað til þess kemur, að þyrnirunninn brennur ekki.' 3.4 En er Drottinn sá, að hann vék þangað til að skoða þetta, þá kallaði Guð til hans úr þyrnirunnanum og sagði: 'Móse, Móse!' Hann svaraði: 'Hér er ég.' 3.5 Guð sagði: 'Gakk ekki hingað! Drag skó þína af fótum þér, því að sá staður, er þú stendur á, er heilög jörð.' 3.6 Því næst mælti hann: 'Ég er Guð föður þíns, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.' Þá byrgði Móse andlit sitt, því að hann þorði ekki að líta upp á Guð. 3.7 Drottinn sagði: 'Ég hefi sannlega séð ánauð þjóðar minnar í Egyptalandi og heyrt hversu hún kveinar undan þeim, sem þrælka hana; ég veit, hversu bágt hún á. 3.8 Ég er ofan farinn til að frelsa hana af hendi Egypta og til að leiða hana úr þessu landi og til þess lands, sem er gott og víðlent, til þess lands, sem flýtur í mjólk og hunangi, á stöðvar Kanaaníta, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta. 3.9 Nú með því að kvein Ísraelsmanna er komið til mín, og ég auk þess hefi séð, hversu harðlega Egyptar þjaka þeim, 3.10 þá far þú nú. Ég vil senda þig til Faraós, og þú skalt leiða þjóð mína, Ísraelsmenn, út af Egyptalandi.' 3.11 En Móse sagði við Guð: 'Hver er ég, að ég fari til fundar við Faraó og að ég leiði Ísraelsmenn út af Egyptalandi?' 3.12 Þá sagði hann: 'Sannlega mun ég vera með þér. Og það skalt þú til marks hafa, að ég hefi sent þig, að þá er þú hefir leitt fólkið út af Egyptalandi, munuð þér þjóna Guði á þessu fjalli.' 3.13 Móse sagði við Guð: 'En þegar ég kem til Ísraelsmanna og segi við þá: ,Guð feðra yðar sendi mig til yðar,` og þeir segja við mig: ,Hvert er nafn hans?` hverju skal ég þá svara þeim?' 3.14 Þá sagði Guð við Móse: 'Ég er sá, sem ég er.' Og hann sagði: 'Svo skalt þú segja Ísraelsmönnum: ,Ég er` sendi mig til yðar.' 3.15 Guð sagði enn fremur við Móse: 'Svo skalt þú segja Ísraelsmönnum: ,Drottinn, Guð feðra yðar, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs sendi mig til yðar.` Þetta er nafn mitt um aldur, og þetta er heiti mitt frá kyni til kyns. 3.16 Far nú og safna saman öldungum Ísraels og mæl við þá: ,Drottinn, Guð feðra yðar birtist mér, Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs, og sagði: Ég hefi vitjað yðar og séð, hversu með yður hefir verið farið í Egyptalandi. 3.17 Og ég hefi sagt: Ég vil leiða yður úr ánauð Egyptalands inn í land Kanaaníta, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta, í það land, sem flýtur í mjólk og hunangi.` 3.18 Þeir munu skipast við orð þín og skaltu þá ganga með öldungum Ísraels fyrir Egyptalandskonung, og skuluð þér segja við hann: ,Drottinn, Guð Hebrea, hefir komið til móts við oss. Leyf oss því nú að fara þrjár dagleiðir á eyðimörkina, að vér færum fórnir Drottni, Guði vorum.` 3.19 Veit ég þó, að Egyptalandskonungur mun eigi leyfa yður burtförina, og jafnvel ekki þótt hart sé á honum tekið. 3.20 En ég vil útrétta hönd mína og ljósta Egyptaland með öllum undrum mínum, sem ég mun fremja þar, og þá mun hann láta yður fara. 3.21 Og ég skal láta þessa þjóð öðlast hylli Egypta, svo að þá er þér farið, skuluð þér eigi tómhentir burt fara, 3.22 heldur skal hver kona biðja grannkonu sína og sambýliskonu um silfurgripi og gullgripi og klæði, og það skuluð þér láta sonu yðar og dætur bera, og þannig skuluð þér ræna Egypta.'
4.1 Móse svaraði og sagði: 'Sjá, þeir munu eigi trúa mér og eigi skipast við orð mín, heldur segja: ,Guð hefir ekki birst þér!'` 4.2 Þá sagði Drottinn við hann: 'Hvað er það, sem þú hefir í hendi þér?' Hann svaraði: 'Stafur er það.' 4.3 Hann sagði: 'Kasta þú honum til jarðar!' Og hann kastaði honum til jarðar, og stafurinn varð að höggormi, og hrökk Móse undan honum. 4.4 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Rétt þú út hönd þína og gríp um ormshalann!' Þá rétti hann út hönd sína og tók um hann, og varð hann þá aftur að staf í hendi hans, _ 4.5 'að þeir megi trúa því, að Drottinn, Guð feðra þeirra, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs, hafi birst þér.' 4.6 Drottinn sagði enn fremur við hann: 'Sting hendi þinni í barm þér!' Og hann stakk hendi sinni í barm sér. En er hann tók hana út aftur, var höndin orðin líkþrá og hvít sem snjór. 4.7 Og hann sagði: 'Sting aftur hendi þinni í barm þér!' Og hann stakk hendinni aftur í barm sér. En er hann tók hana aftur út úr barminum, var hún aftur orðin sem annað hold hans. 4.8 'Vilji þeir nú ekki trúa þér eða skipast við hið fyrra jarteiknið, þá munu þeir skipast við hið síðara. 4.9 En ef þeir vilja hvorugu þessu jarteikni trúa eða skipast láta við orð þín, þá skalt þú taka vatn úr ánni og ausa því upp á þurrt land, og mun þá það vatn er þú tekur úr ánni verða að blóði á þurrlendinu.' 4.10 Þá sagði Móse við Drottin: 'Æ, Drottinn, aldrei hefi ég málsnjall maður verið, hvorki áður fyrr né heldur síðan þú talaðir við þjón þinn, því að mér er tregt um málfæri og tungutak.' 4.11 En Drottinn sagði við hann: 'Hver gefur manninum málið, eða hver gjörir hann mállausan eða daufan eða skyggnan eða blindan? Er það ekki ég, Drottinn, sem gjöri það? 4.12 Far nú, ég skal vera með munni þínum og kenna þér, hvað þú skalt mæla.' 4.13 En hann svaraði: 'Æ, Drottinn, send þú einhvern annan.' 4.14 Þá reiddist Drottinn Móse og sagði: 'Þá er Aron bróðir þinn, levítinn! Ég veit að hann er vel máli farinn. Og meira að segja, sjá, hann fer til móts við þig, og þá er hann sér þig, mun hann fagna í hjarta sínu. 4.15 Þú skalt tala til hans og leggja honum orðin í munn, en ég mun vera með munni þínum og munni hans og kenna ykkur, hvað þið skuluð gjöra. 4.16 Hann skal tala fyrir þig til lýðsins, og hann skal vera þér sem munnur, en þú skalt vera honum sem Guð. 4.17 Staf þennan skalt þú hafa í hendi þér. Með honum skalt þú jarteiknin gjöra.' 4.18 Síðan fór Móse heim aftur til Jetró tengdaföður síns og mælti til hans: 'Leyf mér að fara og hverfa aftur til ættbræðra minna, sem á Egyptalandi eru, svo að ég viti, hvort þeir eru enn á lífi.' Og Jetró sagði við Móse: 'Far þú í friði!' 4.19 Drottinn sagði við Móse í Midíanslandi: 'Far þú og hverf aftur til Egyptalands, því að þeir eru allir dauðir, sem leituðu eftir lífi þínu.' 4.20 Þá tók Móse konu sína og sonu, setti þau upp á asna og fór aftur til Egyptalands. Og Móse tók Guðs staf í hönd sér. 4.21 Drottinn sagði við Móse: 'Sjá svo til, þá er þú kemur aftur í Egyptaland, að þú fremjir öll þau undur fyrir Faraó, sem ég hefi gefið þér vald til. En ég mun herða hjarta hans, svo að hann mun eigi leyfa fólkinu að fara. 4.22 En þú skalt segja við Faraó: Svo segir Drottinn: ,Ísraelslýður er minn frumgetinn sonur. 4.23 Ég segi þér: Lát son minn fara, að hann megi þjóna mér. En viljir þú hann eigi lausan láta, sjá, þá skal ég deyða frumgetinn son þinn.'` 4.24 Á leiðinni bar svo við í gistingarstað einum, að Drottinn réðst í móti honum og vildi deyða hann. 4.25 Þá tók Sippóra hvassan stein og afsneið yfirhúð sonar síns og snerti fætur hans og sagði: 'Þú ert sannlega minn blóðbrúðgumi!' 4.26 Þá sleppti hann honum. En ,blóðbrúðgumi` sagði hún vegna umskurnarinnar. 4.27 Drottinn sagði við Aron: 'Far þú út í eyðimörkina til móts við Móse.' Og hann fór og mætti honum á Guðs fjalli og minntist við hann. 4.28 Sagði Móse þá Aroni öll orð Drottins, er hann hafði fyrir hann lagt, og öll þau jarteikn, sem hann hafði boðið honum að gjöra. 4.29 Þeir Móse og Aron fóru nú og stefndu saman öllum öldungum Ísraelsmanna, 4.30 og flutti Aron öll þau orð, er Drottinn hafði mælt við Móse, og hann gjörði táknin í augsýn fólksins. 4.31 Og fólkið trúði. Og er þeir heyrðu, að Drottinn hafði vitjað Ísraelsmanna og litið á eymd þeirra, féllu þeir fram og tilbáðu.
5.1 Eftir það gengu þeir Móse og Aron á fund Faraós og sögðu: 'Svo segir Drottinn, Guð Ísraelsmanna: ,Gef fólki mínu fararleyfi, að það megi halda mér hátíð í eyðimörkinni.'` 5.2 En Faraó sagði: 'Hver er Drottinn, að ég skuli hlýða honum til þess að leyfa Ísrael að fara? Ég þekki ekki Drottin, og Ísrael leyfi ég eigi heldur að fara.' 5.3 Þeir sögðu: 'Guð Hebrea hefir komið til móts við oss. Leyf oss að fara þriggja daga leið út í eyðimörkina til að færa fórnir Drottni, Guði vorum, að hann láti eigi yfir oss koma drepsótt eða sverð.' 5.4 En Egyptalandskonungur sagði við þá: 'Hví viljið þið, Móse og Aron, taka fólkið úr vinnunni? Farið til erfiðis yðar!' 5.5 Og Faraó sagði: 'Nú, þegar fólkið er orðið svo margt í landinu, þá viljið þið láta það hætta að erfiða!' 5.6 Sama dag bauð Faraó verkstjórum þeim, er settir voru yfir fólkið, og tilsjónarmönnum þess og sagði: 5.7 'Upp frá þessu skuluð þér eigi fá fólkinu hálmstrá til að gjöra tigulsteina við, eins og hingað til. Þeir skulu sjálfir fara og safna sér stráum, 5.8 en þó skuluð þér setja þeim fyrir að gjöra jafnmarga tigulsteina og þeir hafa gjört hingað til, og minnkið ekki af við þá, því að þeir eru latir. Þess vegna kalla þeir og segja: ,Vér viljum fara og færa fórnir Guði vorum.` 5.9 Það verður að þyngja vinnuna á fólkinu, svo að það hafi nóg að starfa og hlýði ekki á lygifortölur.' 5.10 Þá gengu verkstjórar fólksins og tilsjónarmenn þess út og mæltu þannig til fólksins: 'Svo segir Faraó: ,Ég læt eigi fá yður nein hálmstrá. 5.11 Farið sjálfir og fáið yður strá, hvar sem þér finnið, en þó skal alls ekkert minnka vinnu yðar.'` 5.12 Þá fór fólkið víðsvegar um allt Egyptaland að leita sér hálmleggja til að hafa í stað stráa. 5.13 En verkstjórarnir ráku eftir þeim og sögðu: 'Ljúkið dag hvern við yðar ákveðna dagsverk, eins og meðan þér höfðuð stráin.' 5.14 Og tilsjónarmenn Ísraelsmanna, sem verkstjórar Faraós höfðu sett yfir þá, voru barðir og sagt við þá: 'Hví hafið þér eigi lokið við yðar ákveðna tigulgerðarverk, hvorki í gær né í dag, eins og áður fyrr?' 5.15 Tilsjónarmenn Ísraelsmanna gengu þá fyrir Faraó, báru sig upp við hann og sögðu: 'Hví fer þú svo með þjóna þína? 5.16 Þjónum þínum eru engin strá fengin, og þó er sagt við oss: ,Gjörið tigulsteina.` Og sjá, þjónar þínir eru barðir og á þitt fólk sök á þessu.' 5.17 En hann sagði: 'Þér eruð latir og nennið engu! Þess vegna segið þér: ,Látum oss fara og færa Drottni fórnir.` 5.18 Farið nú og erfiðið! Og engin strá skal fá yður, en þó skuluð þér inna af hendi hina ákveðnu tigulsteina.' 5.19 Þá sáu tilsjónarmenn Ísraelsmanna í hvert óefni komið var fyrir þeim, þegar sagt var við þá: 'Þér skuluð engu færri tigulsteina gjöra, hinu ákveðna dagsverki skal aflokið hvern dag!' 5.20 Þegar þeir komu út frá Faraó, mættu þeir þeim Móse og Aroni, sem stóðu þar og biðu þeirra. 5.21 Og þeir sögðu við þá: 'Drottinn líti á ykkur og dæmi, þar eð þið hafið gjört oss illa þokkaða hjá Faraó og þjónum hans og fengið þeim sverð í hendur til að drepa oss með.' 5.22 Þá sneri Móse sér aftur til Drottins og sagði: 'Drottinn, hví gjörir þú svo illa við þetta fólk? Hví hefir þú þá sent mig? 5.23 Því síðan ég gekk fyrir Faraó til að tala í þínu nafni, hefir hann misþyrmt þessum lýð, og þú hefir þó alls ekki frelsað lýð þinn.'
6.1 En Drottinn sagði við Móse: 'Þú skalt nú sjá, hvað ég vil gjöra Faraó, því að fyrir voldugri hendi skal hann þá lausa láta, fyrir voldugri hendi skal hann reka þá burt úr landi sínu.' 6.2 Guð talaði við Móse og sagði við hann: 'Ég er Drottinn! 6.3 Ég birtist Abraham, Ísak og Jakob sem Almáttugur Guð, en undir nafninu Drottinn hefi ég eigi opinberast þeim. 6.4 Ég gjörði og við þá sáttmála, að gefa þeim Kanaanland, dvalarland þeirra, er þeir dvöldust í sem útlendingar. 6.5 Ég hefi og heyrt kveinstafi Ísraelsmanna, sem Egyptar hafa að þrælum gjört, og ég hefi minnst sáttmála míns. 6.6 Seg því Ísraelsmönnum: ,Ég er Drottinn. Ég vil leysa yður undan ánauð Egypta og hrífa yður úr þrældómi þeirra og frelsa yður með útréttum armlegg og miklum refsidómum. 6.7 Ég vil útvelja yður til að vera mitt fólk, og ég vil vera yðar Guð, og þér skuluð reyna, að ég er Drottinn, Guð yðar, sem leysi yður undan ánauð Egypta. 6.8 Og ég vil leiða yður inn í það land, sem ég sór að gefa Abraham, Ísak og Jakob, og ég vil gefa yður það til eignar. Ég er Drottinn.'` 6.9 Móse sagði Ísraelsmönnum þetta, en þeir sinntu honum ekki sökum hugleysis og vegna hins stranga þrældóms. 6.10 Þá talaði Drottinn við Móse og sagði: 6.11 'Gakk á tal við Faraó, Egyptalandskonung, og bið hann leyfa Ísraelsmönnum burt úr landi sínu.' 6.12 Og Móse talaði frammi fyrir augliti Drottins og mælti: 'Sjá, Ísraelsmenn vilja eigi gefa gaum að orðum mínum. Hversu mun þá Faraó skipast við þau, þar sem ég er maður málstirður?' 6.13 Þá talaði Drottinn við Móse og Aron og fékk þeim það erindi til Ísraelsmanna og Faraós, Egyptalandskonungs, að þeir skyldu út leiða Ísraelsmenn af Egyptalandi. 6.14 Þessir eru ætthöfðingjar meðal forfeðra þeirra: Synir Rúbens, frumgetins sonar Ísraels: Hanok, Pallú, Hesron og Karmí. Þetta eru kynþættir Rúbens. 6.15 Synir Símeons: Jemúel, Jamín, Óhad, Jakín, Sóhar og Sál, sonur konunnar kanversku. Þetta eru kynþættir Símeons. 6.16 Þessi eru nöfn Leví sona eftir ættbálkum þeirra: Gerson, Kahat og Merarí. En Leví varð hundrað þrjátíu og sjö ára gamall. 6.17 Synir Gersons: Líbní og Símeí eftir kynþáttum þeirra. 6.18 Synir Kahats: Amram, Jísehar, Hebron og Ússíel. En Kahat varð hundrað þrjátíu og þriggja ára gamall. 6.19 Synir Merarí: Mahelí og Músí. Þetta eru kynþættir levítanna eftir ættbálkum þeirra. 6.20 Amram fékk Jókebedar, föðursystur sinnar, og átti hún við honum þá Aron og Móse. En Amram varð hundrað þrjátíu og sjö ára gamall. 6.21 Synir Jísehars: Kóra, Nefeg og Síkrí. 6.22 Synir Ússíels: Mísael, Elsafan og Sítrí. 6.23 Aron fékk Elísebu, dóttur Ammínadabs, systur Nahsons, og átti hún við honum þá Nadab, Abíhú, Eleasar og Ítamar. 6.24 Synir Kóra: Assír, Elkana og Abíasaf. Þetta eru kynþættir Kóraíta. 6.25 Og Eleasar, sonur Arons, gekk að eiga eina af dætrum Pútíels, og hún ól honum Pínehas. Þetta eru ætthöfðingjar levítanna eftir kynþáttum þeirra. 6.26 Það var þessi Aron og Móse, sem Drottinn bauð: 'Leiðið Ísraelsmenn út af Egyptalandi eftir hersveitum þeirra.' 6.27 Það voru þeir, sem boðuðu Faraó, Egyptalandskonungi, að þeir mundu leiða Ísraelsmenn út úr Egyptalandi, þessi Móse og Aron. 6.28 Er Drottinn talaði við Móse í Egyptalandi, 6.29 mælti hann til hans þessum orðum: 'Ég er Drottinn! Seg Faraó, Egyptalandskonungi, allt sem ég segi þér.' 6.30 Og Móse sagði frammi fyrir augliti Drottins: 'Sjá, ég er maður málstirður, hversu má Faraó þá skipast við orð mín?'
7.1 Drottinn sagði við Móse: 'Sjá, ég gjöri þig sem Guð fyrir Faraó, en Aron bróðir þinn skal vera spámaður þinn. 7.2 Þú skalt tala allt sem ég býð þér, en Aron bróðir þinn skal flytja við Faraó, að hann gefi Ísraelsmönnum fararleyfi úr landi sínu. 7.3 En ég vil herða hjarta Faraós og fremja mörg jarteikn og stórmerki í Egyptalandi. 7.4 Faraó mun ekki skipast við orð ykkar, og skal ég þá leggja hönd mína á Egyptaland og leiða hersveitir mínar, þjóð mína, Ísraelsmenn með miklum refsidómum út úr Egyptalandi. 7.5 Skulu Egyptar fá að vita, að ég er Drottinn, þegar ég rétti út hönd mína yfir Egyptaland og leiði Ísraelsmenn burt frá þeim.' 7.6 Móse og Aron gjörðu þetta. Þeir fóru að öllu svo sem Drottinn hafði fyrir þá lagt. 7.7 Var Móse áttræður, en Aron hafði þrjá um áttrætt, er þeir töluðu við Faraó. 7.8 Drottinn talaði við þá Móse og Aron og sagði: 7.9 'Þegar Faraó segir við ykkur: ,Látið sjá stórmerki nokkur,` þá seg þú við Aron: ,Tak staf þinn og kasta honum frammi fyrir Faraó.` Skal hann þá verða að höggormi.' 7.10 Þá gengu þeir Móse og Aron inn fyrir Faraó og gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið þeim, og kastaði Aron staf sínum frammi fyrir Faraó og þjónum hans, og varð stafurinn að höggormi. 7.11 Þá lét Faraó og kalla vitringana og töframennina, og þeir, spásagnamenn Egypta, gjörðu slíkt hið sama með fjölkynngi sinni: 7.12 Kastaði hver þeirra staf sínum, og urðu stafirnir að höggormum. En stafur Arons gleypti þeirra stafi. 7.13 En hjarta Faraós harðnaði, og hann hlýddi þeim ekki, eins og Drottinn hafði sagt. 7.14 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Hjarta Faraós er ósveigjanlegt. Hann vill eigi leyfa fólkinu að fara. 7.15 Far þú á morgun á fund Faraós. Sjá, hann mun ganga til vatns. Skalt þú þá ganga í veg fyrir hann á árbakkanum, og haf í hendi þér staf þann, er varð að höggormi. 7.16 Og þú skalt segja við hann: ,Drottinn, Guð Hebrea, hefir sent mig til þín með þessa orðsending: Leyf fólki mínu að fara, að það megi þjóna mér á eyðimörkinni. En hingað til hefir þú ekki látið skipast. 7.17 Svo segir Drottinn: Af þessu skaltu vita mega, að ég er Drottinn: Með staf þeim, sem ég hefi í hendi mér, lýst ég á vatnið, sem er í ánni, og skal það þá verða að blóði. 7.18 Fiskarnir í ánni skulu deyja og áin fúlna, svo að Egypta skal velgja við að drekka vatn úr ánni.'` 7.19 Þá mælti Drottinn við Móse: 'Seg við Aron: ,Tak staf þinn og rétt hönd þína út yfir vötn Egyptalands, yfir fljót þess og ár, tjarnir og allar vatnsstæður, og skulu þau þá verða að blóði, og um allt Egyptaland skal blóð vera bæði í tréílátum og steinkerum.'` 7.20 Móse og Aron gjörðu sem Drottinn hafði boðið þeim. Hann reiddi upp stafinn og laust vatnið í ánni að ásjáandi Faraó og þjónum hans, og allt vatnið í ánni varð að blóði. 7.21 Fiskarnir í ánni dóu, og áin fúlnaði, svo að Egyptar gátu ekki drukkið vatn úr ánni, og blóð var um allt Egyptaland. 7.22 En spásagnamenn Egypta gjörðu slíkt hið sama með fjölkynngi sinni. Harðnaði þá hjarta Faraós, og hann hlýddi þeim ekki, eins og Drottinn hafði sagt. 7.23 Sneri Faraó þá burt og fór heim til sín og lét þetta ekki heldur á sig fá. 7.24 En allir Egyptar grófu með fram ánni eftir neysluvatni, því að þeir gátu eigi drukkið vatnið úr ánni. 7.25 Liðu svo sjö dagar eftir það, að Drottinn hafði lostið ána.
8.1 Því næst sagði Drottinn við Móse: 'Gakk fyrir Faraó og seg við hann: ,Svo segir Drottinn: Gef lýð mínum fararleyfi, að þeir megi þjóna mér. 8.2 En ef þú synjar honum fararleyfis, þá skal ég þjá allt þitt land með froskum. 8.3 Áin skal mora af froskum. Þeir skulu fara á land upp og skríða inn í höll þína og í svefnherbergi þitt og upp í rekkju þína, inn í hús þjóna þinna og upp á fólk þitt, í bakstursofna þína og deigtrog. 8.4 Og froskarnir skulu skríða upp á þig og fólk þitt og upp á alla þjóna þína.'` 8.5 Og Drottinn sagði við Móse: 'Seg við Aron: ,Rétt út hönd þína og hald staf þínum uppi yfir fljótunum, ánum og tjörnunum, og lát froska koma yfir Egyptaland.'` 8.6 Aron rétti út hönd sína yfir vötn Egyptalands. Komu þá upp froskar og huldu Egyptaland. 8.7 En spásagnamennirnir gjörðu slíkt hið sama með fjölkynngi sinni og létu froska koma yfir Egyptaland. 8.8 Þá lét Faraó kalla Móse og Aron og sagði: 'Biðjið Drottin, að hann láti þessa froska víkja frá mér og frá þjóð minni. Þá skal ég láta fólkið fara, að það megi færa Drottni fórnir.' 8.9 Móse sagði við Faraó: 'Þér skal veitast sú virðing að ákveða, nær ég skuli biðja fyrir þér og fyrir þjónum þínum og fyrir fólki þínu, að froskarnir víki frá þér og úr húsum þínum og verði hvergi eftir nema í ánni.' 8.10 Hann svaraði: 'Á morgun.' Og Móse sagði: 'Svo skal vera sem þú mælist til, svo að þú vitir, að enginn er sem Drottinn, Guð vor. 8.11 Froskarnir skulu víkja frá þér og úr húsum þínum, frá þjónum þínum og frá fólki þínu. Hvergi nema í ánni skulu þeir eftir verða.' 8.12 Síðan gengu þeir Móse og Aron burt frá Faraó og Móse ákallaði Drottin út af froskunum, sem hann hafði koma látið yfir Faraó. 8.13 Og Drottinn gjörði sem Móse beiddist, og dóu froskarnir í húsunum, í görðunum og á ökrunum. 8.14 Hrúguðu menn þeim saman í marga hauga, og varð af illur daunn í landinu. 8.15 En er Faraó sá að af létti, herti hann hjarta sitt og hlýddi þeim ekki, eins og Drottinn hafði sagt. 8.16 Því næst sagði Drottinn við Móse: 'Seg við Aron: ,Rétt út staf þinn og slá duft jarðarinnar, og skal það þá verða að mýi um allt Egyptaland.'` 8.17 Þeir gjörðu svo. Rétti Aron út hönd sína og laust stafnum á duft jarðarinnar, og varð það að mýi á mönnum og fénaði. Allt duft jarðarinnar varð að mýi um allt Egyptaland. 8.18 Og spásagnamennirnir gjörðu slíkt hið sama með fjölkynngi sinni til þess að framleiða mý, en gátu ekki. En mýið lagðist bæði á menn og fénað. 8.19 Þá sögðu spásagnamennirnir við Faraó: 'Þetta er Guðs fingur.' En hjarta Faraós harðnaði, og hann hlýddi þeim ekki, eins og Drottinn hafði sagt. 8.20 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Rís upp árla á morgun og far til fundar við Faraó, er hann gengur til vatns, og seg við hann: ,Svo segir Drottinn: Gef fólki mínu fararleyfi, að þeir megi þjóna mér. 8.21 En leyfir þú eigi fólki mínu að fara, skal ég láta flugur koma yfir þig og þjóna þína, yfir fólk þitt og í hús þín, og hús Egypta skulu full verða af flugum og jafnvel jörðin undir fótum þeirra. 8.22 En á þeim degi vil ég undan taka Gósenland, þar sem mitt fólk hefst við, svo að þar skulu engar flugur vera, til þess að þú vitir, að ég er Drottinn á jörðunni. 8.23 Og ég vil gjöra aðskilnað milli míns fólks og þíns fólks. Á morgun skal þetta tákn verða.'` 8.24 Og Drottinn gjörði svo. Kom þá fjöldi flugna í hús Faraós og hús þjóna hans og yfir allt Egyptaland, svo að landið spilltist af flugunum. 8.25 Þá lét Faraó kalla þá Móse og Aron og sagði: 'Farið og færið fórnir Guði yðar hér innanlands.' 8.26 En Móse svaraði: 'Ekki hæfir að vér gjörum svo, því að vér færum Drottni, Guði vorum, þær fórnir, sem eru Egyptum andstyggð. Ef vér nú bærum fram þær fórnir, sem eru Egyptum andstyggð, að þeim ásjáandi, mundu þeir þá ekki grýta oss? 8.27 Vér verðum að fara þrjár dagleiðir út á eyðimörkina til að færa fórnir Drottni, Guði vorum, eins og hann hefir boðið oss.' 8.28 Þá mælti Faraó: 'Ég vil leyfa yður að fara burt, svo að þér færið fórnir Drottni, Guði yðar, á eyðimörkinni. Aðeins megið þér ekki fara of langt í burt. Biðjið fyrir mér!' 8.29 Móse svaraði: 'Sjá, þegar ég kem út frá þér, vil ég biðja til Drottins, að flugurnar víki frá Faraó og frá þjónum hans og frá fólki hans á morgun. En þá má Faraó ekki oftar prettast um að leyfa fólkinu að fara burt til að færa Drottni fórnir.' 8.30 Þá gekk Móse út frá Faraó og bað til Drottins. 8.31 Og Drottinn gjörði sem Móse bað og lét flugurnar víkja frá Faraó og þjónum hans og fólki hans, svo að ekki ein varð eftir. 8.32 En Faraó herti þá enn hjarta sitt, og ekki leyfði hann fólkinu að fara.
9.1 Því næst sagði Drottinn við Móse: 'Gakk fyrir Faraó og seg við hann: ,Svo segir Drottinn, Guð Hebrea: Gef fólki mínu fararleyfi, að þeir megi þjóna mér. 9.2 En synjir þú þeim fararleyfis, og haldir þú þeim enn lengur, 9.3 sjá, þá skal hönd Drottins koma yfir kvikfénað þinn, sem er í haganum, yfir hesta og asna og úlfalda, nautpening og sauðfé, með harla þungum faraldri. 9.4 Og Drottinn mun gjöra þann mun á kvikfénaði Ísraelsmanna og kvikfénaði Egypta, að engin skepna skal deyja af öllu því, sem Ísraelsmenn eiga.'` 9.5 Og Drottinn tók til ákveðinn tíma og sagði: 'Á morgun mun Drottinn láta þetta fram fara í landinu.' 9.6 Og Drottinn lét þetta fram fara að næsta morgni. Dó þá allur kvikfénaður Egypta, en engin skepna dó af fénaði Ísraelsmanna. 9.7 Þá sendi Faraó menn, og sjá: Engin skepna hafði farist af fénaði Ísraelsmanna. En hjarta Faraós var ósveigjanlegt, og hann gaf fólkinu eigi fararleyfi. 9.8 Því næst sagði Drottinn við Móse og Aron: 'Takið handfylli ykkar af ösku úr ofninum, og skal Móse dreifa henni í loft upp að Faraó ásjáandi. 9.9 Skal hún þá verða að dufti um allt Egyptaland, en af því skal koma bólga, sem brýst út í kýli, bæði á mönnum og fénaði um allt Egyptaland.' 9.10 Þeir tóku þá ösku úr ofninum og gengu fyrir Faraó. Dreifði þá Móse öskunni í loft upp, og kom þá á menn og fénað bólga, sem braust út í kýli. 9.11 En spásagnamennirnir gátu ekki komið á fund Móse sökum bólgunnar, því að bólga kom á spásagnamennina, eins og á alla Egypta. 9.12 En Drottinn herti hjarta Faraós, og hann hlýddi þeim ekki, eins og Drottinn hafði sagt Móse. 9.13 Þá mælti Drottinn við Móse: 'Rís upp árla á morgun, gakk fyrir Faraó og seg við hann: ,Svo segir Drottinn, Guð Hebrea: Gef fólki mínu fararleyfi, að þeir megi þjóna mér. 9.14 Því að í þetta sinn ætla ég að senda allar plágur mínar yfir þig sjálfan, yfir þjóna þína og yfir fólk þitt, svo að þú vitir, að enginn er minn líki á allri jörðinni. 9.15 Því að ég hefði þegar getað rétt út hönd mína og slegið þig og fólk þitt með drepsótt, svo að þú yrðir afmáður af jörðinni. 9.16 En þess vegna hefi ég þig standa látið, til þess að ég sýndi þér mátt minn og til þess að nafn mitt yrði kunngjört um alla veröld. 9.17 Þú stendur enn í móti fólki mínu með því að vilja ekki gefa þeim fararleyfi. 9.18 Sjá, á morgun í þetta mund vil ég láta dynja yfir svo stórfellt hagl, að aldrei hefir slíkt komið á Egyptalandi, síðan landið varð til og allt til þessa dags. 9.19 Fyrir því send nú og tak sem skjótast inn fénað þinn og allt það, er þú átt úti. Allir menn og skepnur, sem úti verða staddar og ekki eru í hús inn látnar og fyrir haglinu verða, munu deyja.'` 9.20 Sérhver af þjónum Faraós, sem óttaðist orð Drottins, hýsti inni hjú sín og fénað. 9.21 En þeir, sem ekki gáfu gaum að orðum Drottins, létu hjú sín og fénað vera úti. 9.22 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Rétt hönd þína til himins og þá skal hagl drífa yfir allt Egyptaland, yfir menn og skepnur, og yfir allan jarðargróða í Egyptalandi.' 9.23 Þá lyfti Móse staf sínum til himins, og Drottinn lét þegar koma reiðarþrumur og hagl. Og eldingum laust á jörð niður, og Drottinn lét hagl dynja yfir Egyptaland. 9.24 Og haglið dundi og eldingunum laust í sífellu niður innan um haglið, er var svo geysistórt, að slíkt hafði ekki komið á öllu Egyptalandi síðan það byggðist. 9.25 Og haglið laust til bana allt það, sem úti var í öllu Egyptalandi, bæði menn og skepnur, og haglið lamdi allan jarðargróða og braut hvert tré merkurinnar. 9.26 Aðeins í Gósenlandi, þar sem Ísraelsmenn bjuggu, kom ekkert hagl. 9.27 Þá sendi Faraó og lét kalla þá Móse og Aron og sagði við þá: 'Að þessu sinni hefi ég syndgað. Drottinn er réttlátur, en ég og mitt fólk höfum á röngu að standa. 9.28 Biðjið til Drottins. Nóg er komið af reiðarþrumum og hagli. Vil ég þá gefa yður fararleyfi, og skuluð þér ekki bíða lengur.' 9.29 Móse svaraði honum: 'Jafnskjótt sem ég er kominn út úr borginni, skal ég fórna höndum til Drottins, og mun þá reiðarþrumunum linna og hagl ekki framar koma, svo að þú vitir, að jörðin tilheyrir Drottni. 9.30 Og veit ég þó, að þú og þjónar þínir óttast ekki enn Drottin Guð.' 9.31 Hör og bygg var niður slegið, því að öx voru komin á byggið og knappar á hörinn. 9.32 En hveiti og speldi var ekki niður slegið, því að þau koma seint upp. 9.33 Því næst gekk Móse burt frá Faraó og út úr borginni og fórnaði höndum til Drottins. Linnti þá reiðarþrumunum og haglinu, og regn streymdi ekki lengur niður á jörðina. 9.34 En er Faraó sá, að regninu, haglinu og reiðarþrumunum linnti, hélt hann áfram að syndga og herti hjarta sitt, hann og þjónar hans. 9.35 Og hjarta Faraós harðnaði, og hann gaf Ísraelsmönnum eigi fararleyfi, eins og Drottinn hafði sagt fyrir munn Móse.
10.1 Því næst sagði Drottinn við Móse: 'Gakk inn fyrir Faraó, því að ég hefi hert hjarta hans og hjörtu þjóna hans til þess að ég fremji þessi tákn mín meðal þeirra 10.2 og til þess að þú getir sagt börnum þínum og barnabörnum frá því, hvernig ég hefi farið með Egypta, og frá þeim táknum, sem ég hefi á þeim gjört, svo að þér vitið, að ég er Drottinn.' 10.3 Síðan gengu þeir Móse og Aron inn fyrir Faraó og sögðu við hann: 'Svo segir Drottinn, Guð Hebrea: ,Hve lengi vilt þú færast undan að auðmýkja þig fyrir mér? 10.4 Gef fólki mínu fararleyfi, að þeir megi þjóna mér, því að færist þú undan að leyfa fólki mínu að fara, þá skal ég á morgun láta engisprettur færast inn yfir landamæri þín. 10.5 Og þær skulu hylja yfirborð landsins, svo að ekki skal sjást til jarðar. Skulu þær upp eta leifarnar, sem bjargað var og þér eigið eftir óskemmdar af haglinu, og naga öll tré yðar, sem spretta á mörkinni. 10.6 Þær skulu fylla hús þín og hús allra þjóna þinna og hús allra Egypta, og hafa hvorki feður þínir né feður feðra þinna séð slíkt, frá því þeir fæddust í heiminn og allt til þessa dags.'` Síðan sneri hann sér við og gekk út frá Faraó. 10.7 Þá sögðu þjónar Faraós við hann: 'Hversu lengi á þessi maður að verða oss að meini? Gef mönnunum fararleyfi, að þeir megi þjóna Drottni Guði sínum! Veistu ekki enn, að Egyptaland er í eyði lagt?' 10.8 Þá voru þeir Móse og Aron sóttir aftur til Faraós og sagði hann við þá: 'Farið og þjónið Drottni Guði yðar! En hverjir eru það, sem ætla að fara?' 10.9 Móse svaraði: 'Vér ætlum að fara með börn vor og gamalmenni. Með sonu vora og dætur, sauðfé vort og nautgripi ætlum vér að fara, því að vér eigum að halda Drottni hátíð.' 10.10 En hann sagði við þá: 'Svo framt sé Drottinn með yður, sem ég gef yður og börnum yðar fararleyfi! Sannlega hafið þér illt í huga. 10.11 Eigi skal svo vera. Farið þér karlmennirnir og þjónið Drottni, því að um það hafið þér beðið.' Síðan voru þeir reknir út frá Faraó. 10.12 Þá mælti Drottinn við Móse: 'Rétt út hönd þína yfir Egyptaland, svo að engisprettur komi yfir landið og upp eti allan jarðargróða, allt það, sem haglið eftir skildi.' 10.13 Þá rétti Móse út staf sinn yfir Egyptaland. Og Drottinn lét austanvind blása inn yfir landið allan þann dag og alla nóttina, en með morgninum kom austanvindurinn með engispretturnar. 10.14 Engispretturnar komu yfir allt Egyptaland, og mesti aragrúi af þeim kom niður í öllum héruðum landsins. Hafði aldrei áður verið slíkur urmull af engisprettum, og mun ekki hér eftir verða. 10.15 Þær huldu allt landið, svo að hvergi sá til jarðar, og þær átu allt gras jarðarinnar og allan ávöxt trjánna, sem haglið hafði eftir skilið, svo að í öllu Egyptalandi varð ekkert grænt eftir, hvorki á trjánum né á jurtum merkurinnar. 10.16 Þá gjörði Faraó í skyndi boð eftir Móse og Aroni og sagði: 'Ég hefi syndgað á móti Drottni Guði yðar, og á móti yður. 10.17 En fyrirgefið mér synd mína aðeins í þetta sinn og biðjið Drottin, Guð yðar, að hann fyrir hvern mun létti þessari voðaplágu af mér.' 10.18 Síðan gekk hann út frá Faraó og bað til Drottins. 10.19 Þá sneri Drottinn veðrinu í mjög hvassan vestanvind, sem tók engispretturnar og fleygði þeim í Rauðahafið, svo að ekki var eftir ein engispretta nokkurs staðar í Egyptalandi. 10.20 En Drottinn herti hjarta Faraós, svo að hann leyfði ekki Ísraelsmönnum burt að fara. 10.21 Því næst sagði Drottinn við Móse: 'Rétt hönd þína til himins, og skal þá koma þreifandi myrkur yfir allt Egyptaland.' 10.22 Móse rétti þá hönd sína til himins, og varð þá niðamyrkur í öllu Egyptalandi í þrjá daga. 10.23 Enginn sá annan, og enginn hreyfði sig, þaðan sem hann var staddur, í þrjá daga, en bjart var hjá öllum Ísraelsmönnum, í híbýlum þeirra. 10.24 Þá lét Faraó kalla Móse og sagði: 'Farið og þjónið Drottni, látið aðeins sauðfénað yðar og nautgripi eftir verða. Börn yðar mega einnig fara með yður.' 10.25 En Móse svaraði: 'Þú verður einnig að fá oss dýr til sláturfórnar og brennifórnar, að vér megum fórnir færa Drottni Guði vorum. 10.26 Kvikfé vort skal og fara með oss, ekki skal ein klauf eftir verða, því að af því verðum vér að taka til þess að þjóna Drottni Guði vorum. En eigi vitum vér, hverju vér skulum fórnfæra Drottni, fyrr en vér komum þangað.' 10.27 En Drottinn herti hjarta Faraós og hann vildi ekki gefa þeim fararleyfi. 10.28 Og Faraó sagði við hann: 'Haf þig á burt frá mér og varast að koma oftar fyrir mín augu, því að á þeim degi, sem þú kemur í augsýn mér, skaltu deyja.' 10.29 Móse svaraði: 'Rétt segir þú. Ég skal aldrei framar koma þér fyrir augu.'
11.1 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Ég vil enn láta eina plágu koma yfir Faraó og Egyptaland. Eftir það mun hann leyfa yður að fara héðan. Þegar hann gefur yður fullt fararleyfi, þá mun hann jafnvel reka yður burt héðan. 11.2 Seg nú í áheyrn fólksins, að hver maður skuli biðja granna sinn og hver kona grannkonu sína um silfurgripi og gullgripi.' 11.3 Drottinn lét fólkið öðlast hylli Egypta, enda var Móse mjög mikils virtur maður í Egyptalandi, bæði af þjónum Faraós og lýðnum. 11.4 Þá sagði Móse: 'Svo segir Drottinn: ,Um miðnætti vil ég ganga mitt í gegnum Egyptaland, 11.5 og þá skulu allir frumburðir í Egyptalandi deyja, frá frumgetnum syni Faraós, sem situr í hásæti sínu, til frumgetnings ambáttarinnar, sem stendur við kvörnina, og allir frumburðir fénaðarins. 11.6 Þá skal verða svo mikið harmakvein um allt Egyptaland, að jafnmikið hefir ekki verið og mun aldrei verða. 11.7 En eigi skal svo mikið sem rakki gelta að nokkrum Ísraelsmanna, hvorki að mönnum né skepnum, svo að þér vitið, að Drottinn gjörir greinarmun á Ísraelsmönnum og Egyptum. 11.8 Þá skulu allir þessir þjónar þínir koma til mín, falla til jarðar fyrir mér og segja: Far þú á burt og allt það fólk, sem þér fylgir, _ og eftir það mun ég á burt fara.'` Síðan gekk hann út frá Faraó og var hinn reiðasti. 11.9 En Drottinn sagði við Móse: 'Faraó mun ekki láta að orðum yðar, svo að stórmerki mín verði mörg í Egyptalandi.' 11.10 En þeir Móse og Aron gjörðu öll þessi stórmerki fyrir Faraó. En Drottinn herti hjarta Faraós, og ekki leyfði hann Ísraelsmönnum að fara burt úr landi sínu.
12.1 Þá mælti Drottinn við þá Móse og Aron í Egyptalandi á þessa leið: 12.2 'Þessi mánuður skal vera upphafsmánuður hjá yður. Hann skal vera fyrsti mánuður ársins hjá yður. 12.3 Talið til alls safnaðar Ísraelsmanna og segið: ,Á tíunda degi þessa mánaðar skal hver húsbóndi taka lamb fyrir fjölskyldu sína, eitt lamb fyrir hvert heimili. 12.4 En sé eitt lamb of mikið fyrir heimilið, þá taki hann og granni hans, sá er næstur honum býr, lamb saman eftir tölu heimilismanna. Eftir því sem hver etur, skuluð þér ætla á um lambið. 12.5 Lambið skal vera gallalaust, hrútlamb veturgamalt, og má vera hvort sem vill ásauðarlamb eða hafurkið. 12.6 Og þér skuluð varðveita það til hins fjórtánda dags þessa mánaðar. Þá skal öll samkoma Ísraelssafnaðar slátra því um sólsetur. 12.7 Þá skulu þeir taka nokkuð af blóðinu og ríða því á báða dyrastafi og dyratré húsa þeirra, þar sem þeir eta lambið. 12.8 Sömu nóttina skulu þeir eta kjötið, steikt við eld. Með ósýrðu brauði og beiskum jurtum skulu þeir eta það. 12.9 Ekki skuluð þér eta neitt af því hrátt eða soðið í vatni, heldur steikt við eld, höfuðið með fótum og innýflum. 12.10 Engu af því skuluð þér leifa til morguns, en hafi nokkru af því leift verið til morguns, þá skuluð þér brenna það í eldi. 12.11 Og þannig skuluð þér neyta þess: Þér skuluð vera gyrtir um lendar yðar, hafa skó á fótum og stafi í höndum. Þér skuluð eta það í flýti. Það eru páskar Drottins. 12.12 Því að þessa sömu nótt vil ég fara um Egyptaland og deyða alla frumburði í Egyptalandi, bæði menn og fénað. Og refsidóma vil ég láta fram koma á öllum goðum Egyptalands. Ég er Drottinn. 12.13 Og blóðið skal vera yður tákn á þeim húsum, þar sem þér eruð: Er ég sé blóðið, mun ég ganga fram hjá yður, og engin skæð plága skal yfir yður koma, þegar ég slæ Egyptaland. 12.14 Þessi dagur skal vera yður endurminningardagur, og þér skuluð halda hann sem hátíð Drottins. Kynslóð eftir kynslóð skuluð þér hann hátíðlegan halda eftir ævarandi lögmáli.` 12.15 ,Í sjö daga skuluð þér eta ósýrt brauð. Þegar á fyrsta degi skuluð þér flytja súrdeig burt úr húsum yðar, því að hver sem etur sýrt brauð frá fyrsta degi til hins sjöunda, hann skal upprættur verða úr Ísrael. 12.16 Á hinum fyrsta degi skuluð þér halda helga samkomu og sömuleiðis á hinum sjöunda degi helga samkomu. Á þeim dögum skal ekkert verk vinna, nema það megið þér tilreiða, sem hver og einn þarf sér til matar. 12.17 Þér skuluð halda helga hátíð hinna ósýrðu brauða, því að einmitt á þessum degi leiddi ég hersveitir yðar út af Egyptalandi. Fyrir því skuluð þér halda heilagt þennan dag, kynslóð eftir kynslóð, eftir ævarandi lögmáli. 12.18 Í fyrsta mánuðinum skuluð þér ósýrt brauð eta frá því um kveldið hinn fjórtánda dag mánaðarins og til þess um kveldið hinn tuttugasta og fyrsta dag mánaðarins. 12.19 Í sjö daga skal súrdeig ekki finnast í húsum yðar, því að hver sem þá etur sýrt brauð, sá maður skal upprættur verða úr söfnuði Ísraels, hvort sem hann er útlendur eða innlendur. 12.20 Þér skuluð ekkert sýrt brauð eta. Í öllum bústöðum yðar skuluð þér eta ósýrt brauð.'` 12.21 Þá stefndi Móse saman öllum öldungum Ísraelsmanna og sagði við þá: 'Farið og takið yður sauðkindur handa heimilum yðar og slátrið páskalambinu. 12.22 Takið ísópsvönd og drepið honum í blóðið, sem er í troginu, og ríðið blóði úr troginu á dyratréð og báða dyrastafina. Og enginn yðar skal fara út fyrir dyr á húsi sínu fyrr en að morgni. 12.23 Því að Drottinn mun fara yfir landið til þess að ljósta Egypta. Hann mun sjá blóðið á dyratrénu og báðum dyrastöfunum, og mun þá Drottinn ganga fram hjá dyrunum og ekki láta eyðandann koma í hús yðar til að ljósta yður. 12.24 Gætið þessa sem ævinlegrar skipunar fyrir þig og börn þín. 12.25 Og þegar þér komið í landið, sem Drottinn mun gefa yður, eins og hann hefir heitið, þá skuluð þér halda þennan sið. 12.26 Og þegar börn yðar segja við yður: ,Hvaða siður er þetta, sem þér haldið?` 12.27 þá skuluð þér svara: ,Þetta er páskafórn Drottins, sem gekk fram hjá húsum Ísraelsmanna í Egyptalandi, þá er hann laust Egypta, en hlífði vorum húsum.'` Þá féll lýðurinn fram og tilbað. 12.28 Og Ísraelsmenn fóru og gjörðu þetta. Þeir gjörðu eins og Drottinn hafði boðið þeim Móse og Aroni. 12.29 Um miðnæturskeið laust Drottinn alla frumburði í Egyptalandi, frá frumgetnum syni Faraós, sem sat í hásæti sínu, allt til frumgetnings bandingjans, sem í myrkvastofu sat, og alla frumburði fénaðarins. 12.30 Þá reis Faraó upp um nóttina, hann og allir þjónar hans, og allir Egyptar. Gjörðist þá mikið harmakvein í Egyptalandi, því að ekki var það hús, að eigi væri lík inni. 12.31 Lét hann kalla þá Móse og Aron um nóttina og sagði: 'Takið yður upp og farið burt frá minni þjóð, bæði þið og Ísraelsmenn. Farið og þjónið Drottni, eins og þið hafið um talað. 12.32 Takið með yður bæði sauðfé yðar og nautgripi, eins og þið hafið um talað, farið því næst af stað og biðjið einnig mér blessunar.' 12.33 Og Egyptar ráku hart eftir fólkinu til þess að koma þeim sem fyrst burt úr landinu, því að þeir sögðu: 'Vér munum allir deyja.' 12.34 Fólkið tók þá deigið, sem það hafði, áður en það sýrðist, batt deigtrogin innan í klæði sín og bar þau á öxlum sér. 12.35 En Ísraelsmenn höfðu gjört eftir fyrirmælum Móse og beðið Egypta um gullgripi og silfurgripi og klæði, 12.36 og hafði Drottinn látið fólkið öðlast hylli Egypta, svo að þeir urðu við bæn þeirra, og þannig rændu þeir Egypta. 12.37 Tóku Ísraelsmenn sig nú upp frá Ramses og fóru til Súkkót, hér um bil sex hundruð þúsund fótgangandi manna, auk barna. 12.38 Þar að auki fór með þeim mikill fjöldi af alls konar lýð, svo og stórar hjarðir sauða og nauta. 12.39 Og þeir bökuðu ósýrðar kökur af deiginu, sem þeir höfðu með sér úr Egyptalandi, því að deigið hafði ekki sýrst, þar eð þeir voru reknir burt úr Egyptalandi og máttu engar viðtafir hafa og höfðu því ekkert búið sér til veganestis. 12.40 Ísraelsmenn höfðu þá búið í Egyptalandi fjögur hundruð og þrjátíu ár. 12.41 Og að liðnum þeim fjögur hundruð og þrjátíu árum, einmitt á þeim degi, fóru allar hersveitir Drottins út af Egyptalandi. 12.42 Þetta er vökunótt Drottins, með því að hann leiddi þá út af Egyptalandi. Þessa sömu nótt halda allir Ísraelsmenn helga sem vökunótt Drottins frá kyni til kyns. 12.43 Drottinn sagði við þá Móse og Aron: 'Þetta eru ákvæðin um páskalambið: Enginn útlendur maður má af því eta. 12.44 Sérhver þræll, sem er verði keyptur, má eta af því, er þú hefir umskorið hann. 12.45 Enginn útlendur búandi eða daglaunamaður má eta af því. 12.46 Menn skulu eta það í einu húsi. Ekkert af kjötinu mátt þú bera út úr húsinu. Ekkert bein í því megið þér brjóta. 12.47 Allur söfnuður Ísraels skal svo gjöra. 12.48 Ef nokkur útlendingur býr hjá þér og vill halda Drottni páska, þá skal umskera allt karlkyn hjá honum, og má hann þá koma og halda hátíðina, og skal hann vera sem innborinn maður. En enginn óumskorinn skal þess neyta. 12.49 Sömu lög skulu vera fyrir innborna menn sem fyrir þá útlendinga, er meðal yðar búa.' 12.50 Allir Ísraelsmenn gjörðu svo, þeir gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið þeim Móse og Aroni. 12.51 Einmitt á þessum degi leiddi Drottinn Ísraelsmenn út af Egyptalandi eftir hersveitum þeirra.
13.1 Þá talaði Drottinn við Móse og sagði: 13.2 'Þú skalt helga mér alla frumburði. Hvað eina sem opnar móðurlíf meðal Ísraelsmanna, hvort heldur er menn eða fénaður, það er mitt.' 13.3 Móse sagði við fólkið: 'Verið minnugir þessa dags, er þér fóruð burt úr Egyptalandi, út úr þrælahúsinu, því með voldugri hendi leiddi Drottinn yður út þaðan: Sýrð brauð má eigi eta. 13.4 Í dag farið þér af stað, í abíb-mánuði. 13.5 Þegar Drottinn leiðir þig inn í land Kanaaníta, Hetíta, Amoríta, Hevíta og Jebúsíta, sem hann sór feðrum þínum að gefa þér, í það land, sem flýtur í mjólk og hunangi, þá skaltu halda þennan sið í þessum sama mánuði. 13.6 Sjö daga skaltu eta ósýrt brauð, og á hinum sjöunda degi skal vera hátíð Drottins. 13.7 Ósýrt brauð skal eta í þá sjö daga, ekkert sýrt brauð má sjást hjá þér, og ekki má heldur súrdeig sjást nokkurs staðar hjá þér innan þinna landamerkja. 13.8 Á þeim degi skaltu gjöra syni þínum grein fyrir þessu og segja: ,Það er sökum þess sem Drottinn gjörði fyrir mig, þá er ég fór út af Egyptalandi.` 13.9 Og þetta skal vera þér til merkis á hendi þinni og til minningar á milli augna þinna, svo að lögmál Drottins sé þér æ á vörum, því með voldugri hendi leiddi Drottinn þig út af Egyptalandi. 13.10 Þessa skipun skaltu því halda á ákveðnum tíma ár frá ári. 13.11 Þegar Drottinn leiðir þig inn í land Kanaaníta, eins og hann sór þér og feðrum þínum, og gefur þér það, 13.12 þá skaltu eigna Drottni allt það, sem opnar móðurlíf. Og allir frumburðir, sem koma undan þeim fénaði, er þú átt, skulu heyra Drottni til, séu þeir karlkyns. 13.13 Alla frumburði undan ösnum skaltu leysa með lambi. Leysir þú ekki, skaltu brjóta þá úr hálsliðum. En alla frumburði manna meðal barna þinna skaltu leysa. 13.14 Og þegar sonur þinn spyr þig á síðan og segir: ,Hvað á þetta að þýða?` þá svara honum: ,Með voldugri hendi leiddi Drottinn oss út af Egyptalandi, úr þrælahúsinu, 13.15 því þegar Faraó synjaði oss þverlega fararleyfis, þá deyddi Drottinn alla frumburði í Egyptalandi, bæði frumburði manna og frumburði fénaðar. Þess vegna fórnfæri ég Drottni öllu, sem opnar móðurlíf, en alla frumburði barna minna leysi ég.` 13.16 Og það skal vera merki á hendi þér og minningarband á milli augna þinna um það, að Drottinn leiddi oss út af Egyptalandi með voldugri hendi.' 13.17 Þegar Faraó hafði gefið fólkinu fararleyfi, leiddi Guð þá ekki á leið til Filistalands, þótt sú leið væri skemmst, _ því að Guð sagði: 'Vera má að fólkið iðrist, þegar það sér, að ófriðar er von, og snúi svo aftur til Egyptalands,' 13.18 _ heldur lét Guð fólkið fara í bug eyðimerkurveginn til Sefhafsins, og fóru Ísraelsmenn vígbúnir af Egyptalandi. 13.19 Móse tók með sér bein Jósefs, því að hann hafði tekið eið af Ísraelsmönnum og sagt: 'Sannlega mun Guð vitja yðar. Flytjið þá bein mín héðan burt með yður.' 13.20 Þeir tóku sig upp frá Súkkót og settu búðir sínar í Etam, þar sem eyðimörkina þrýtur. 13.21 Drottinn gekk fyrir þeim á daginn í skýstólpa til að vísa þeim veg, en á nóttunni í eldstólpa til að lýsa þeim, svo að þeir gætu ferðast nótt sem dag. 13.22 Skýstólpinn vék ekki frá fólkinu á daginn, né heldur eldstólpinn á nóttunni.
14.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 14.2 'Seg Ísraelsmönnum, að þeir snúi aftur og setji búðir sínar fyrir framan Pí-Hakírót, milli Migdóls og hafsins, gegnt Baal Sefón. Þar andspænis skuluð þér setja búðir yðar við hafið. 14.3 Og Faraó mun segja um Ísraelsmenn: ,Þeir fara villir vega í landinu, eyðimörkin hefir innibyrgt þá.` 14.4 Og ég vil herða hjarta Faraós, og hann skal veita þeim eftirför. Ég vil sýna dýrð mína á Faraó og öllum liðsafla hans, svo að Egyptar skulu vita, að ég er Drottinn.' Og þeir gjörðu svo. 14.5 Þegar Egyptalandskonungi var sagt, að fólkið væri flúið, varð hugur Faraós og þjóna hans mótsnúinn fólkinu og þeir sögðu: 'Hví höfum vér gjört þetta, að sleppa Ísrael úr þjónustu vorri?' 14.6 Lét hann þá beita fyrir vagna sína og tók menn sína með sér. 14.7 Og hann tók sex hundruð valda vagna og alla vagna Egyptalands og setti kappa á hvern þeirra. 14.8 En Drottinn herti hjarta Faraós, Egyptalandskonungs, svo að hann veitti Ísraelsmönnum eftirför, því að Ísraelsmenn höfðu farið burt með upplyftri hendi. 14.9 Egyptar sóttu nú eftir þeim, allir hestar og vagnar Faraós, riddarar hans og her hans, og náðu þeim þar sem þeir höfðu sett búðir sínar við hafið, hjá Pí-Hakírót, gegnt Baal Sefón. 14.10 Þegar Faraó nálgaðist, hófu Ísraelsmenn upp augu sín, og sjá, Egyptar sóttu eftir þeim. Urðu Ísraelsmenn þá mjög óttaslegnir og hrópuðu til Drottins. 14.11 Og þeir sögðu við Móse: 'Tókst þú oss burt til þess að deyja hér á eyðimörk, af því að engar væru grafir til í Egyptalandi? Hví hefir þú gjört oss þetta, að fara með oss burt af Egyptalandi? 14.12 Kemur nú ekki fram það, sem vér sögðum við þig á Egyptalandi: ,Lát oss vera kyrra, og viljum vér þjóna Egyptum, því að betra er fyrir oss að þjóna Egyptum en að deyja í eyðimörkinni`?' 14.13 Þá sagði Móse við lýðinn: 'Óttist ekki. Standið stöðugir, og munuð þér sjá hjálpræði Drottins, er hann í dag mun láta fram við yður koma, því að eins og þér sjáið Egyptana í dag, munuð þér aldrei nokkurn tíma framar sjá þá. 14.14 Drottinn mun berjast fyrir yður, en þér skuluð vera kyrrir.' 14.15 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Hví hrópar þú til mín? Seg Ísraelsmönnum, að þeir haldi áfram, 14.16 en lyft þú upp staf þínum og rétt út hönd þína yfir hafið og kljúf það, og Ísraelsmenn skulu ganga á þurru mitt í gegnum hafið. 14.17 Sjá, ég mun herða hjörtu Egypta, svo að þeir skulu sækja á eftir þeim, og ég vil sýna dýrð mína á Faraó og öllum liðsafla hans, á vögnum hans og riddurum. 14.18 Og Egyptar skulu vita, að ég er Drottinn, þá er ég sýni dýrð mína á Faraó, á vögnum hans og riddurum.' 14.19 Engill Guðs, sem gekk á undan liði Ísraels, færði sig og gekk aftur fyrir þá, og skýstólpinn, sem var fyrir framan þá, færðist og stóð að baki þeim. 14.20 Og hann bar á milli herbúða Egypta og herbúða Ísraels, og var skýið myrkt annars vegar, en annars vegar lýsti það upp nóttina, og færðust hvorugir nær öðrum alla þá nótt. 14.21 En Móse rétti út hönd sína yfir hafið, og Drottinn lét hvassan austanvind blása alla nóttina og bægja sjónum burt og gjörði hafið að þurrlendi. Og vötnin klofnuðu, 14.22 og Ísraelsmenn gengu á þurru mitt í gegnum hafið, og vötnin stóðu eins og veggur til hægri og vinstri handar þeim. 14.23 Og Egyptar veittu þeim eftirför og sóttu eftir þeim mitt út í hafið, allir hestar Faraós, vagnar hans og riddarar. 14.24 En á morgunvökunni leit Drottinn yfir lið Egypta í eld- og skýstólpanum, og sló felmti í lið Egypta, 14.25 og hann lét vagna þeirra ganga af hjólunum, svo að þeim sóttist leiðin erfiðlega. Þá sögðu Egyptar: 'Flýjum fyrir Ísrael, því að Drottinn berst með þeim móti Egyptum.' 14.26 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Rétt út hönd þína yfir hafið, og skulu þá vötnin aftur falla yfir Egypta, yfir vagna þeirra og riddara.' 14.27 Móse rétti hönd sína út yfir hafið, og sjórinn féll aftur undir morguninn í farveg sinn, en Egyptar flýðu beint í móti aðfallinu, og keyrði Drottinn þá mitt í hafið. 14.28 Og vötnin féllu að og huldu vagnana og riddarana, allan liðsafla Faraós, sem eftir þeim hafði farið út í hafið. Ekki nokkur einn þeirra komst lífs af. 14.29 En Ísraelsmenn gengu á þurru mitt í gegnum hafið, og vötnin stóðu eins og veggur til hægri og vinstri handar þeim. 14.30 Þannig frelsaði Drottinn Ísrael á þeim degi undan valdi Egypta, og Ísrael sá Egypta liggja dauða á sjávarströndinni. 14.31 Og er Ísrael sá hið mikla undur, sem Drottinn hafði gjört á Egyptum, þá óttaðist fólkið Drottin, og þeir trúðu á Drottin og þjón hans Móse.
15.1 Þá söng Móse og Ísraelsmenn Drottni þennan lofsöng: Ég vil lofsyngja Drottni, því að hann hefir sig dýrlegan gjört, hestum og riddurum steypti hann niður í hafið. 15.2 Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mitt hjálpræði. Hann er minn Guð, og ég vil vegsama hann, Guð föður míns, og ég vil tigna hann. 15.3 Drottinn er stríðshetja, Drottinn er hans nafn. 15.4 Vögnum Faraós og herliði hans varpaði hann í hafið, og hinir völdustu kappar hans drukknuðu í Hafinu rauða. 15.5 Undirdjúpin huldu þá, þeir sukku niður í sjávardjúpið eins og steinn. 15.6 Þín hægri hönd, Drottinn, hefir sýnt sig dýrlega í krafti, þín hægri hönd, Drottinn, sundurkremur fjandmennina. 15.7 Og með mikilleik þinnar hátignar leggur þú mótstöðumenn þína að velli, þú útsendir þína reiði, og hún eyðir þeim eins og hálmleggjum. 15.8 Og fyrir blæstri nasa þinna hlóðust vötnin upp, rastirnar stóðu eins og veggur, öldurnar stirðnuðu mitt í hafinu. 15.9 Óvinurinn sagði: 'Ég skal elta þá, ég skal ná þeim, ég skal skipta herfangi, ég skal skeyta skapi mínu á þeim, ég skal bregða sverði mínu, hönd mín skal eyða þeim.' 15.10 Þú blést með þínum anda, hafið huldi þá, þeir sukku sem blý niður í hin miklu vötn. 15.11 Hver er sem þú, Drottinn, meðal guðanna? Hver er sem þú, dýrlegur að heilagleik, dásamlegur til lofsöngva, þú sem stórmerkin gjörir? 15.12 Þú útréttir þína hægri hönd, jörðin svalg þá. 15.13 Þú hefir leitt fólkið, sem þú frelsaðir, með miskunn þinni, þú fylgdir því með þínum krafti til þíns heilaga bústaðar. 15.14 Þjóðirnar heyrðu það og urðu felmtsfullar, ótti gagntók íbúa Filisteu. 15.15 Þá skelfdust ættarhöfðingjarnir í Edóm, hræðsla greip forystumennina í Móab, allir íbúar Kanaanlands létu hugfallast. 15.16 Skelfingu og ótta sló yfir þá. Fyrir mikilleik þíns armleggs urðu þeir hljóðir sem steinninn, meðan fólk þitt, Drottinn, fór leiðar sinnar, meðan fólkið, sem þú hefir aflað þér, fór leiðar sinnar. 15.17 Þú leiddir þá inn og gróðursettir þá á fjalli arfleifðar þinnar, þeim stað, sem þú, Drottinn, hefir gjört að þínum bústað, þeim helgidóm, sem þínar hendur, Drottinn, hafa reist. 15.18 Drottinn skal ríkja um aldur og að eilífu! 15.19 Þegar hestar Faraós ásamt vögnum hans og riddurum fóru út í hafið, lét Drottinn vötn sjávarins flæða yfir þá, en Ísraelsmenn gengu á þurru mitt í gegnum hafið. 15.20 Þá tók Mirjam spákona, systir Arons, bumbu í hönd sér, og allar konurnar gengu á eftir henni með bumbum og dansi. 15.21 Og Mirjam söng fyrir þeim: Lofsyngið Drottni, því að hann hefir sig dýrlegan gjört, hestum og riddurum steypti hann í hafið. 15.22 Móse lét Ísrael hefja ferð sína frá Sefhafinu, og héldu þeir til Súr-eyðimerkur. Gengu þeir þrjá daga um eyðimörkina og fundu ekkert vatn. 15.23 Þá komu þeir til Mara, en þeir gátu ekki drukkið vatnið fyrir beiskju, því að það var beiskt. Fyrir því var sá staður kallaður Mara. 15.24 Þá möglaði fólkið móti Móse og sagði: 'Hvað eigum vér að drekka?' 15.25 En hann hrópaði til Drottins, og vísaði Drottinn honum þá á tré nokkurt. Kastaði hann því í vatnið, og varð vatnið þá sætt. Þar setti hann þeim lög og rétt, og þar reyndi hann þá. 15.26 Og hann sagði: 'Ef þú hlýðir gaumgæfilega raust Drottins Guðs þíns og gjörir það, sem rétt er fyrir honum, gefur gaum boðorðum hans og heldur allar skipanir hans, þá vil ég engan þann sjúkdóm á þig leggja, sem ég lagði á Egypta, því ég er Drottinn, græðari þinn.' 15.27 Síðan komu þeir til Elím. Þar voru tólf vatnslindir og sjötíu pálmar, og settu þeir búðir sínar þar við vatnið.
16.1 Því næst héldu þeir af stað frá Elím, og allur söfnuður Ísraelsmanna kom til Sín-eyðimerkur, sem liggur milli Elím og Sínaí, á fimmtánda degi hins annars mánaðar eftir burtför þeirra úr Egyptalandi. 16.2 Þá möglaði allur söfnuður Ísraelsmanna gegn Móse og Aroni í eyðimörkinni. 16.3 Og Ísraelsmenn sögðu við þá: 'Betur að vér hefðum dáið fyrir hendi Drottins í Egyptalandi, er vér sátum við kjötkatlana og átum oss sadda af brauði, því að þið hafið farið með oss út á þessa eyðimörk til þess að láta allan þennan mannfjölda deyja af hungri.' 16.4 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Sjá, ég vil láta rigna brauði af himni handa yður, og skal fólkið fara út og safna hvern dag svo miklu sem þarf þann daginn, svo að ég reyni það, hvort það vill breyta eftir mínu lögmáli eða ekki. 16.5 Og er þeir þá á hinum sjötta degi tilreiða það, sem þeir koma heim með, skal það vera tvöfalt við það, sem þeir annars safna daglega.' 16.6 Þá sögðu Móse og Aron við alla Ísraelsmenn: 'Í kveld skuluð þér viðurkenna, að Drottinn hefir leitt yður út af Egyptalandi. 16.7 Og á morgun skuluð þér sjá dýrð Drottins, með því að hann hefir heyrt möglanir yðar gegn Drottni. Því að hvað erum við, að þér möglið gegn okkur?' 16.8 Og Móse sagði: 'Þetta verður, þegar Drottinn gefur yður að kveldi kjöt að eta og brauð til saðnings að morgni, því að Drottinn hefir heyrt möglanir yðar, sem þér beinið gegn honum. Því að hvað erum við? Þér möglið ekki gegn okkur, heldur gegn Drottni.' 16.9 Og Móse sagði við Aron: 'Seg við allan söfnuð Ísraelsmanna: ,Gangið nær í augsýn Drottins, því að hann hefir heyrt möglanir yðar.'` 16.10 Og er Aron talaði þetta til alls safnaðar Ísraelsmanna, sneru þeir sér í móti eyðimörkinni, og sjá, dýrð Drottins birtist í skýinu. 16.11 Drottinn talaði við Móse og sagði: 16.12 'Ég hefi heyrt möglanir Ísraelsmanna. Tala til þeirra og seg: ,Um sólsetur skuluð þér kjöt eta, og að morgni skuluð þér fá saðning yðar af brauði, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn, Guð yðar.'` 16.13 Um kveldið bar svo við, að lynghæns komu og huldu búðirnar, en um morguninn var döggmóða umhverfis búðirnar. 16.14 En er upp létti döggmóðunni, lá eitthvað þunnt, smákornótt yfir eyðimörkinni, þunnt eins og héla á jörðu. 16.15 Þegar Ísraelsmenn sáu þetta, sögðu þeir hver við annan: 'Hvað er þetta?' Því að þeir vissu ekki, hvað það var. Þá sagði Móse við þá: 'Þetta er brauðið, sem Drottinn gefur yður til fæðu. 16.16 En þessi er skipun Drottins: ,Safnið því, eftir því sem hver þarf að eta. Þér skuluð taka einn gómer á mann eftir fólksfjölda yðar, hver handa þeim, sem hann hefir í tjaldi sínu.'` 16.17 Og Ísraelsmenn gjörðu svo, og söfnuðu sumir meira, sumir minna. 16.18 En er þeir mældu það í gómer-máli, hafði sá ekkert afgangs, sem miklu hafði safnað, og þann skorti ekki, sem litlu hafði safnað, heldur hafði hver safnað eftir því sem hann þurfti sér til fæðu. 16.19 Móse sagði við þá: 'Enginn má leifa neinu af því til morguns.' 16.20 En þeir hlýddu ekki Móse, heldur leifðu sumir nokkru af því til morguns. En þá kviknuðu maðkar í því, svo að það fúlnaði, og varð Móse þá reiður þeim. 16.21 Þeir söfnuðu því þá hvern morgun, hver eftir því sem hann þurfti sér til fæðu. En þegar sólin skein heitt, bráðnaði það. 16.22 En á sjötta deginum söfnuðu þeir tvöfalt meira af brauði, tvo gómera á mann. Komu þá allir foringjar lýðsins og sögðu Móse frá. 16.23 En hann sagði við þá: 'Þetta er það, sem Drottinn sagði: ,Á morgun er hvíldardagur, heilagur hvíldardagur Drottins. Bakið það, sem þér viljið baka, og sjóðið það, sem þér viljið sjóða, en allt það, sem af gengur, skuluð þér leggja fyrir og geyma til morguns.'` 16.24 Þeir lögðu það þá fyrir til næsta morguns, eins og Móse bauð, og fúlnaði það ekki né maðkaði. 16.25 Þá sagði Móse: 'Í dag skuluð þér eta það, því að í dag er hvíldardagur Drottins. Í dag finnið þér það ekki á mörkinni. 16.26 Sex daga skuluð þér safna því, en sjöundi dagurinn er hvíldardagur, þá mun ekkert finnast.' 16.27 Og sjöunda daginn gengu nokkrir af fólkinu út til að safna, en fundu ekkert. 16.28 Drottinn sagði við Móse: 'Hversu lengi tregðist þér við að varðveita boðorð mín og lög? 16.29 Lítið á! Vegna þess að Drottinn hefir gefið yður hvíldardaginn, þess vegna gefur hann yður sjötta daginn brauð til tveggja daga. Haldi hver maður kyrru fyrir á sínum stað, enginn fari að heiman á sjöunda deginum.' 16.30 Og fólkið hvíldist á hinum sjöunda degi. 16.31 Ísraelsmenn kölluðu þetta brauð manna. Það líktist kóríanderfræi, var hvítt og á bragðið sem hunangskaka. 16.32 Móse sagði: 'Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið: ,Fyllið einn gómer af því til þess að geyma það handa eftirkomendum yðar, svo að þeir sjái það brauð, sem ég gaf yður að eta í eyðimörkinni, er ég leiddi yður út af Egyptalandi.'` 16.33 Þá sagði Móse við Aron: 'Tak eitt ker og lát í það fullan gómer af manna, og legg það til geymslu frammi fyrir Drottni, svo að það varðveitist handa eftirkomendum yðar.' 16.34 Aron lagði það fyrir framan sáttmálið, til þess að það væri þar geymt, eins og Drottinn hafði boðið Móse. 16.35 Ísraelsmenn átu manna í fjörutíu ár, uns þeir komu í byggt land. Þeir átu manna, uns þeir komu að landamærum Kanaanlands. 16.36 En gómer er tíundi partur af efu.
17.1 Allur söfnuður Ísraelsmanna tók sig nú upp frá Sín-eyðimörk, og fóru þeir í áföngum að boði Drottins og settu herbúðir sínar í Refídím. En þar var ekkert vatn handa fólkinu að drekka. 17.2 Þá þráttaði fólkið við Móse og sagði: 'Gef oss vatn að drekka!' En Móse sagði við þá: 'Hví þráttið þér við mig? Hví freistið þér Drottins?' 17.3 Og fólkið þyrsti þar eftir vatni, og fólkið möglaði gegn Móse og sagði: 'Hví fórstu með oss frá Egyptalandi til þess að láta oss og börn vor og fénað deyja af þorsta?' 17.4 Þá hrópaði Móse til Drottins og sagði: 'Hvað skal ég gjöra við þetta fólk? Það vantar lítið á að þeir grýti mig.' 17.5 En Drottinn sagði við Móse: 'Gakk þú fram fyrir fólkið og tak með þér nokkra af öldungum Ísraels, og tak í hönd þér staf þinn, er þú laust með ána, og gakk svo af stað. 17.6 Sjá, ég mun standa frammi fyrir þér þar á klettinum á Hóreb, en þú skalt ljósta á klettinn, og mun þá vatn spretta af honum, svo að fólkið megi drekka.' 17.7 Og Móse gjörði svo í augsýn öldunga Ísraels. Og hann kallaði þennan stað Massa og Meríba sökum þráttanar Ísraelsmanna, og fyrir því að þeir höfðu freistað Drottins og sagt: 'Hvort mun Drottinn vera meðal vor eður ekki?' 17.8 Þá komu Amalekítar og áttu orustu við Ísraelsmenn í Refídím. 17.9 Þá sagði Móse við Jósúa: 'Vel oss menn og far út og berst við Amalekíta. Á morgun mun ég standa efst uppi á hæðinni og hafa staf Guðs í hendi mér.' 17.10 Jósúa gjörði sem Móse hafði sagt honum og lagði til orustu við Amalekíta, en þeir Móse, Aron og Húr gengu efst upp á hæðina. 17.11 Þá gjörðist það, að alla þá stund, er Móse hélt uppi hendi sinni, veitti Ísraelsmönnum betur, en þegar er hann lét síga höndina, veitti Amalekítum betur. 17.12 En með því að Móse urðu þungar hendurnar, tóku þeir stein og létu undir hann, og settist hann á steininn, en þeir Aron og Húr studdu hendur hans, sinn á hvora hlið, og héldust þannig hendur hans stöðugar allt til sólarlags. 17.13 En Jósúa lagði Amalekíta og lið þeirra að velli með sverðseggjum. 17.14 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Rita þú þetta í bók til minningar og gjör Jósúa það hugfast, því að ég vil vissulega afmá nafn Amalekíta af jörðinni.' 17.15 Og Móse reisti þar altari og nefndi það 'Jahve-nisí'. 17.16 Og hann sagði: 'Með upplyftri hendi að hásæti Drottins sver ég: ,Ófrið mun Drottinn heyja við Amalekíta frá kyni til kyns.'`
18.1 Er Jetró prestur í Midíanslandi, tengdafaðir Móse, heyrði allt það, sem Guð hafði gjört Móse og lýð sínum Ísrael, að Drottinn hafði leitt Ísrael út af Egyptalandi, 18.2 þá tók Jetró, tengdafaðir Móse, Sippóru konu Móse, en hann hafði sent hana aftur, 18.3 og tvo sonu hennar. Hét annar Gersóm, því að hann hafði sagt: 'Gestur er ég í ókunnu landi.' 18.4 Hinn hét Elíeser, því að hann hafði sagt: 'Guð föður míns var mín hjálp, og hann frelsaði mig frá sverði Faraós.' 18.5 En er Jetró, tengdafaðir Móse, kom með sonu hans og konu til hans í eyðimörkina, þar sem hann hafði sett búðir sínar hjá Guðs fjalli, 18.6 þá lét hann segja Móse: 'Ég, Jetró, tengdafaðir þinn, er kominn til þín, og kona þín og báðir synir hennar með henni.' 18.7 Gekk þá Móse út á móti tengdaföður sínum, laut honum og kyssti hann. Og þegar þeir höfðu heilsast, gengu þeir inn í tjaldið. 18.8 Og Móse sagði tengdaföður sínum frá öllu því, sem Drottinn hafði gjört Faraó og Egyptum fyrir sakir Ísraels, frá öllum þeim þrautum, sem þeim höfðu mætt á leiðinni, og hversu Drottinn hafði frelsað þá. 18.9 Og Jetró gladdist af öllum þeim velgjörðum, sem Drottinn hafði auðsýnt Ísrael, þar sem hann hafði frelsað hann undan valdi Egypta. 18.10 Og Jetró sagði: 'Lofaður sé Drottinn fyrir það, að hann frelsaði yður undan valdi Egypta og undan valdi Faraós, fyrir það, að hann frelsaði fólkið undan valdi Egypta. 18.11 Nú veit ég, að Drottinn er öllum guðum meiri, því að hann lét Egyptum hefnast fyrir ofdramb þeirra gegn Ísraelsmönnum.' 18.12 Þá tók Jetró, tengdafaðir Móse, brennifórn og sláturfórnir Guði til handa. Kom þá Aron og allir öldungar Ísraels, til þess að matast með tengdaföður Móse frammi fyrir Guði. 18.13 Daginn eftir settist Móse til að mæla lýðnum lögskil, og stóð fólkið frammi fyrir Móse frá morgni til kvelds. 18.14 En er tengdafaðir Móse sá allt það, sem hann gjörði við fólkið, þá sagði hann: 'Hvað er þetta, sem þú gjörir við fólkið? Hvers vegna situr þú einn saman, en allt fólkið stendur frammi fyrir þér frá morgni til kvelds?' 18.15 Móse svaraði tengdaföður sínum: 'Fólkið kemur til mín til þess að leita Guðs atkvæða. 18.16 Þegar mál gjörist þeirra á milli, koma þeir á fund minn, og ég dæmi milli manna og kunngjöri lög Guðs og boðorð hans.' 18.17 Þá sagði tengdafaðir Móse við hann: 'Eigi er það gott, sem þú gjörir. 18.18 Bæði þreytist þú og eins fólkið, sem hjá þér er, því að þetta starf er þér um megn, þú fær því ekki afkastað einn saman. 18.19 Hlýð nú orðum mínum. Ég vil leggja þér ráð, og mun Guð vera með þér. Þú skalt ganga fram fyrir Guð í nafni fólksins og fram bera málin fyrir Guð. 18.20 Og þú skalt kenna þeim lögin og boðorðin, og sýna þeim þann veg, sem þeir skulu ganga, og þau verk, sem þeir skulu gjöra. 18.21 Og þú skalt velja meðal alls fólksins dugandi menn og guðhrædda, áreiðanlega menn og ósérplægna, og skipa þá foringja yfir lýðinn, suma yfir þúsund, suma yfir hundrað, suma yfir fimmtíu og suma yfir tíu. 18.22 Og þeir skulu mæla lýðnum lögskil á öllum tímum. Öll hin stærri mál skulu þeir láta koma fyrir þig, en sjálfir skulu þeir dæma í öllum smærri málum. Skaltu þannig gjöra þér hægra fyrir, og þeir skulu létta undir með þér. 18.23 Ef þú gjörir þetta, og Guð býður þér það, þá muntu fá risið undir því, og þá mun og allt þetta fólk fara ánægt til heimila sinna.' 18.24 Móse hlýddi orðum tengdaföður síns og gjörði allt, sem hann hafði sagt. 18.25 Og Móse valdi dugandi menn af öllum Ísraels lýð og skipaði þá foringja yfir lýðinn, suma yfir þúsund, suma yfir hundrað, suma yfir fimmtíu, suma yfir tíu. 18.26 Og mæltu þeir lýðnum lögskil á öllum tímum. Vandamálunum skutu þeir til Móse, en sjálfir dæmdu þeir í hinum smærri málum. 18.27 Lét Móse síðan tengdaföður sinn frá sér fara, og hélt hann aftur heim í sitt land.
19.1 Á þriðja mánuði eftir brottför Ísraelsmanna frá Egyptalandi, á þeim degi komu þeir í Sínaí-eyðimörk. 19.2 Þeir tóku sig upp frá Refídím og komu í Sínaí-eyðimörk og settu búðir sínar í eyðimörkinni. Og Ísrael setti búðir sínar þar gegnt fjallinu. 19.3 Gekk Móse þá upp til Guðs, og kallaði Drottinn til hans af fjallinu og sagði: 'Svo skalt þú segja Jakobs niðjum og kunngjöra Ísraelsmönnum: 19.4 ,Þér hafið sjálfir séð, hvað ég hefi gjört Egyptum, og hversu ég hefi borið yður á arnarvængjum og flutt yður til mín. 19.5 Nú ef þér hlýðið minni röddu grandgæfilega og haldið minn sáttmála, þá skuluð þér vera mín eiginleg eign umfram allar þjóðir, því að öll jörðin er mín. 19.6 Og þér skuluð vera mér prestaríki og heilagur lýður.` Þetta eru þau orð, sem þú skalt flytja Ísraelsmönnum.' 19.7 Og Móse fór og stefndi saman öldungum lýðsins og flutti þeim öll þau orð, er Drottinn hafði boðið honum. 19.8 Þá svaraði allur lýðurinn einum munni og sagði: 'Vér viljum gjöra allt það, sem Drottinn býður.' Og Móse flutti Drottni aftur orð fólksins. 19.9 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Sjá, ég vil koma til þín í dimmu skýi, svo að fólkið heyri, er ég tala við þig, og trúi þér ævinlega.' Og Móse flutti Drottni orð lýðsins. 19.10 Þá mælti Drottinn við Móse: 'Far til fólksins og helga þá í dag og á morgun, og lát þá þvo klæði sín, 19.11 og skulu þeir vera búnir á þriðja degi, því að á þriðja degi mun Drottinn ofan stíga á Sínaífjall í augsýn alls lýðsins. 19.12 En þú skalt marka fólkinu svið umhverfis og segja: ,Varist að ganga upp á fjallið eða snerta fjallsræturnar.` Hver sem snertir fjallið, skal vissulega láta líf sitt. 19.13 Engin mannshönd skal snerta hann, heldur skal hann grýttur eða skotinn til bana, hvort það er heldur skepna eða maður, þá skal það ekki lífi halda. Þegar lúðurinn kveður við, skulu þeir stíga upp á fjallið.' 19.14 Þá gekk Móse ofan af fjallinu til fólksins og helgaði fólkið, og þeir þvoðu klæði sín. 19.15 Og hann sagði við fólkið: 'Verið búnir á þriðja degi: Komið ekki nærri nokkurri konu.' 19.16 Á þriðja degi, þegar ljóst var orðið, gengu reiðarþrumur og eldingar, og þykkt ský lá á fjallinu, og heyrðist mjög sterkur lúðurþytur. Skelfdist þá allt fólkið, sem var í búðunum. 19.17 Þá leiddi Móse fólkið út úr búðunum til móts við Guð, og tóku menn sér stöðu undir fjallinu. 19.18 Sínaífjall var allt í einum reyk, fyrir því að Drottinn sté niður á það í eldinum. Mökkurinn stóð upp af því, eins og reykur úr ofni, og allt fjallið lék á reiðiskjálfi. 19.19 Og lúðurþyturinn varð æ sterkari og sterkari. Móse talaði, og Guð svaraði honum hárri röddu. 19.20 Og Drottinn sté niður á Sínaífjall, á fjallstindinn. Og Drottinn kallaði Móse upp á fjallstindinn, og gekk Móse þá upp. 19.21 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Stíg ofan og legg ríkt á við fólkið, að það brjótist ekki upp hingað til Drottins fyrir forvitni sakir og fjöldi af þeim farist. 19.22 Einnig prestarnir, sem annars nálgast Drottin, skulu helga sig, svo að Drottinn gjöri eigi skarð í hóp þeirra.' 19.23 En Móse sagði við Drottin: 'Fólkið getur ekki stigið upp á Sínaífjall, því að þú hefir lagt ríkt á við oss og sagt: ,Set vébönd umhverfis fjallið og helga það.'` 19.24 Og Drottinn sagði við hann: 'Far nú og stíg ofan, og kom því næst upp aftur og Aron með þér. En prestarnir og fólkið má ekki brjótast upp hingað til Drottins, að hann gjöri ekki skarð í hóp þeirra.' 19.25 Móse gekk þá ofan til fólksins og sagði þeim þetta.
20.1 Guð talaði öll þessi orð og sagði: 20.2 'Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. 20.3 Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. 20.4 Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni. 20.5 Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata, 20.6 en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín. 20.7 Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma. 20.8 Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. 20.9 Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk, 20.10 en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín eða skepnur þínar, eða nokkur útlendingur, sem hjá þér er innan borgarhliða þinna, 20.11 því að á sex dögum gjörði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í þeim er, og hvíldist sjöunda daginn. Fyrir því blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann. 20.12 Heiðra föður þinn og móður þína, svo að þú verðir langlífur í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér. 20.13 Þú skalt ekki morð fremja. 20.14 Þú skalt ekki drýgja hór. 20.15 Þú skalt ekki stela. 20.16 Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum. 20.17 Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á.' 20.18 Allt fólkið heyrði og sá reiðarþrumurnar og eldingarnar og lúðurþytinn og fjallið rjúkandi. Og er fólkið sá þetta, skelfdust þeir og stóðu langt í burtu. 20.19 Þeir sögðu þá við Móse: 'Tala þú við oss og vér skulum hlýða, en lát ekki Guð tala við oss, að vér deyjum ekki.' 20.20 Og Móse sagði við fólkið: 'Óttist ekki, því að Guð er kominn til þess að reyna yður og til þess að hans ótti sé yður fyrir augum, svo að þér syndgið ekki.' 20.21 Stóð fólkið þá kyrrt langt í burtu, en Móse gekk að dimma skýinu, sem Guð var í. 20.22 Drottinn mælti við Móse: 'Svo skalt þú segja Ísraelsmönnum: ,Þér hafið sjálfir séð, að ég hefi talað til yðar af himnum. 20.23 Þér skuluð eigi til búa aðra guði jafnhliða mér. Guði af silfri eða guði af gulli skuluð þér ekki búa yður til. 20.24 Þú skalt gjöra mér altari af torfi, og á því skalt þú fórna brennifórnum þínum og þakkarfórnum, sauðum þínum og nautum. Alls staðar þar sem ég læt minnast nafns míns, mun ég koma til þín og blessa þig. 20.25 En gjörir þú mér altari af steinum, þá mátt þú ekki hlaða það af höggnu grjóti, því að berir þú meitil á það, þá vanhelgar þú það. 20.26 Og eigi mátt þú þrep upp ganga að altari mínu, svo að blygðun þín opinberist þar ekki.`
21.1 Þetta eru þau lög, sem þú skalt leggja fyrir þá: 21.2 Þegar þú kaupir hebreskan þræl, skal hann þjóna þér sex ár, en á sjöunda ári skal hann frjáls burt fara án endurgjalds. 21.3 Hafi hann komið einhleypur, skal hann og einhleypur burt fara, en hafi hann kvongaður verið, skal kona hans fara burt með honum. 21.4 Hafi húsbóndi hans fengið honum konu og hafi hún fætt honum sonu eða dætur, þá skal konan og börn hennar heyra húsbónda sínum til, en hann skal fara burt einhleypur. 21.5 En ef þrællinn segir skýlaust: 'Ég elska húsbónda minn, konu mína og börn mín, ég vil ekki frjáls í burtu fara,' 21.6 þá skal húsbóndi hans færa hann til Guðs og leiða hann að dyrunum eða að dyrastafnum, og skal húsbóndi hans stinga al í gegnum eyra honum, og skal hann síðan vera þræll hans ævinlega. 21.7 Þegar maður selur dóttur sína að ambátt, skal hún ekki burt fara á sama hátt sem þrælar. 21.8 Geðjist hún eigi húsbónda sínum, sem ætlað hefir hana sjálfum sér, þá skal hann leyfa að hún sé leyst. Ekki skal hann hafa vald til að selja hana útlendum lýð, með því að hann hefir brugðið heiti við hana. 21.9 En ef hann ætlar hana syni sínum, þá skal hann gjöra við hana sem dóttur sína. 21.10 Taki hann sér aðra konu, skal hann ekki minnka af við hana í kosti eða klæðnaði eða sambúð. 21.11 Veiti hann henni ekki þetta þrennt, þá fari hún burt ókeypis, án endurgjalds. 21.12 Hver sem lýstur mann, svo að hann fær bana af, skal líflátinn verða. 21.13 En hafi hann ekki setið um líf hans, en Guð látið hann verða fyrir honum, þá skal ég setja þér griðastað, sem hann megi í flýja. 21.14 En fremji nokkur þá óhæfu að drepa náunga sinn með svikum, þá skalt þú taka hann, jafnvel frá altari mínu, að hann verði líflátinn. 21.15 Hver sem lýstur föður sinn eða móður sína skal líflátinn verða. 21.16 Hver sem stelur manni og selur hann, eða hann finnst í hans vörslu, hann skal líflátinn verða. 21.17 Hver sem bölvar föður sínum eða móður sinni skal líflátinn verða. 21.18 Þegar menn deila og annar lýstur hinn steini eða hnefa, og fær hann ekki bana af, heldur leggst í rekkju, 21.19 ef hann þá kemst á fætur og gengur úti við staf sinn, þá sé sá sýkn saka, er laust. En bæta skal hann honum verkfallið og láta græða hann til fulls. 21.20 Ef maður lýstur þræl sinn eða ambátt með staf, svo að hann deyr undir hendi hans, þá skal hann refsingu sæta. 21.21 En sé hann með lífi einn dag eða tvo, þá skal hann þó eigi refsingu sæta, því að þrællinn er eign hans verði keypt. 21.22 Ef menn fljúgast á og stjaka við þungaðri konu, svo að henni leysist höfn, en verður ekki annað mein af, þá haldi hann bótum uppi, slíkum sem bóndi konunnar kveður á hann, og greiði eftir mati gjörðarmanna. 21.23 En ef skaði hlýst af, þá skalt þú láta líf fyrir líf, 21.24 auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hönd fyrir hönd, fót fyrir fót, 21.25 bruna fyrir bruna, sár fyrir sár, skeinu fyrir skeinu. 21.26 Ef maður slær þræl sinn eða ambátt á auga og skemmir það, þá skal hann gefa honum frelsi sitt fyrir augað, 21.27 og ef hann lýstur tönn úr þræli sínum eða ambátt, þá gefi hann honum frelsi fyrir tönn sína. 21.28 Ef uxi stangar mann eða konu til bana, þá skal grýta uxann og ekki neyta kjötsins, og er eigandi uxans þá sýkn saka. 21.29 En hafi uxinn verið mannýgur áður og eigandinn verið látinn vita það, og geymir hann ekki uxans að heldur, svo að hann verður manni eða konu að bana, þá skal grýta uxann, en eigandi skal og líflátinn verða. 21.30 En gjörist honum að bæta með fé, þá leysi hann líf sitt með svo miklum bótum sem honum verður gjört að greiða. 21.31 Hvort sem uxinn stangar son eða dóttur, skal með hann fara eftir þessu lagaákvæði. 21.32 Ef uxinn stangar þræl manns eða ambátt, þá skal eigandi gjalda húsbónda þeirra þrjátíu sikla silfurs, og skal grýta uxann. 21.33 Ef maður opnar brunn eða grefur brunn og byrgir eigi aftur, og uxi eða asni fellur í hann, 21.34 þá skal eigandi brunnsins bæta. Hann skal greiða eigandanum fé fyrir, en hafa sjálfur hið dauða. 21.35 Ef uxi manns stangar uxa annars manns til bana, þá skulu þeir selja þann uxann, sem lifir, og skipta verði hans, og einnig skulu þeir skipta dauða uxanum. 21.36 En ef það var kunnugt, að uxinn var mannýgur áður, og eigandi gætti hans ekki að heldur, þá bæti hann uxa fyrir uxa, en hafi sjálfur hinn dauða.
22.1 Ef maður stelur nauti eða sauð, og slátrar eða selur, þá gjaldi hann aftur fimm uxa fyrir einn uxa og fjóra sauði fyrir einn sauð. 22.2 Ef þjófur er staðinn að innbroti og lostinn til bana, þá er vegandinn eigi blóðsekur. 22.3 En ef sól er á loft komin, þá er hann blóðsekur. Þjófurinn skal greiða fullar bætur, en eigi hann ekkert til, skal selja hann í bætur fyrir stuldinn. 22.4 Ef hið stolna finnst lifandi hjá honum, hvort heldur það er uxi, asni eða sauður, þá skal hann gjalda tvöfalt aftur. 22.5 Ef maður beitir akur eða víngarð og lætur fénað sinn ganga lausan og hann gengur í akri annars manns, þá skal hann bæta með því, sem best er á akri hans eða í víngarði hans. 22.6 Ef eldur kviknar og kemst í þyrna og brennur kerfaskrúf, kornstangir eða akur, þá bæti sá fullum bótum, er eldinn kveikti. 22.7 Nú selur maður öðrum manni silfur eða nokkra gripi til varðveislu og því er stolið úr húsi hans, og finnist þjófurinn, þá skal hann gjalda tvöfalt aftur. 22.8 En finnist þjófurinn ekki, þá skal leiða húseigandann fram fyrir Guð, og synji hann fyrir með eiði að hann hafi lagt hendur á eign náunga síns. 22.9 Fari einhver óráðvandlega með uxa, asna, sauð, klæðnað eða hvað annað, er tapast hefir og einhver segir um: 'Það er þetta,' þá skal mál þeirra beggja koma fyrir Guð, og sá sem Guð dæmir sekan skal gjalda náunga sínum tvöfalt. 22.10 Ef maður selur öðrum manni asna eða naut eða sauð eða nokkra aðra skepnu til varðveislu, og hún deyr eða lestist eða er tekin svo að enginn sér, 22.11 þá skal til koma eiður við Drottinn þeirra í millum, að hann lagði ekki hönd á eign náunga síns, og skal eigandi þann eið gildan taka, en hinn bæti engu. 22.12 En hafi því verið stolið frá honum, þá gjaldi hann bætur eigandanum. 22.13 Ef það er dýrrifið, þá skal hann koma með það til sannindamerkis. Það sem dýrrifið er skal hann ekki bæta. 22.14 Ef maður hefir fengið einhvern grip léðan hjá öðrum manni og hann lestist eða deyr, sé eigandi ekki viðstaddur, þá bæti hinn fullum bótum, 22.15 en sé eigandi við, bæti hann engu. Ef það var leigugripur, þá eru bæturnar fólgnar í leigunni. 22.16 Ef maður glepur mey, sem ekki er föstnuð manni, og leggst með henni, þá skal hann hana mundi kaupa sér að eiginkonu. 22.17 En ef faðir hennar vill eigi gifta honum hana, þá skal hann greiða svo mikið silfur sem meyjarmundi svarar. 22.18 Eigi skalt þú láta galdrakonu lífi halda. 22.19 Hver sem hefir samlag við fénað skal líflátinn verða. 22.20 Hver sem færir fórnir nokkrum guði, öðrum en Drottni einum, skal bannfærður verða. 22.21 Útlendum manni skalt þú eigi sýna ójöfnuð né veita honum ágang, því að þér voruð sjálfir útlendingar í Egyptalandi. 22.22 Þér skuluð ekki leggjast á ekkjur eða munaðarleysingja. 22.23 Ef þú leggst á þau, og þau hrópa til mín, mun ég vissulega heyra neyðarkvein þeirra. 22.24 Þá skal reiði mín upptendrast, og ég skal drepa yður með sverði, svo að konur yðar verði ekkjur og börn yðar föðurlaus. 22.25 Ef þú lánar peninga fólki mínu, hinum fátæka, sem hjá þér er, þá skalt þú ekki vera við hann eins og okrari. Þér skuluð ekki taka leigu af honum. 22.26 Ef þú tekur yfirhöfn náunga þíns að veði, þá skila þú honum henni aftur áður sól sest, 22.27 því að hún er hið eina, sem hann hefir til að hylja sig með, hún skýlir líkama hans. Hvað á hann annars að hafa yfir sér, er hann leggst til hvíldar? Þegar hann hrópar til mín, skal ég heyra, því að ég er miskunnsamur. 22.28 Þú skalt ekki lastmæla Guði og ekki bölva höfðingja þíns fólks. 22.29 Lát eigi undan dragast að færa fórn af korngnótt þinni og aldinsafa. Frumgetning sona þinna skalt þú mér gefa. 22.30 Hið sama skalt þú gjöra af nautum þínum og sauðum. Sjö daga skal frumburðurinn vera hjá móður sinni, en hinn áttunda dag skalt þú færa mér hann. 22.31 Helgir menn skuluð þér vera fyrir mér. Það kjöt, sem rifið er af dýrum úti á víðavangi, skuluð þér eigi eta, heldur kasta því fyrir hunda.
23.1 Þú skalt ekki fara með lygikvittu. Þú skalt ekki leggja lið þeim, er með rangt mál fer, til að gjörast ljúgvottur. 23.2 Þú skalt ekki fylgja fjöldanum til illra verka. Ef þú átt svör að veita í sök nokkurri, þá skalt þú ekki á eitt leggjast með margnum til þess að halla réttu máli. 23.3 Ekki skalt þú vera hliðdrægur manni í máli hans, þótt fátækur sé. 23.4 Ef þú finnur uxa óvinar þíns eða asna hans, sem villst hefir, þá fær þú honum hann aftur. 23.5 Sjáir þú asna fjandmanns þíns liggja uppgefinn undir byrði sinni, þá skalt þú hverfa frá því að láta hann einan. Vissulega skalt þú hjálpa honum til að spretta af asnanum. 23.6 Þú skalt ekki halla rétti fátæks manns, sem hjá þér er, í máli hans. 23.7 Forðastu lygimál og ver eigi valdur að dauða saklauss manns og réttláts, því að eigi mun ég réttlæta þann, sem með rangt mál fer. 23.8 Eigi skalt þú mútu þiggja, því að mútan gjörir skyggna menn blinda og umhverfir máli hinna réttlátu. 23.9 Eigi skalt þú veita útlendum manni ágang. Þér vitið sjálfir, hvernig útlendum manni er innanbrjósts, því að þér voruð útlendingar í Egyptalandi. 23.10 Sex ár skalt þú sá jörð þína og safna gróða hennar, 23.11 en sjöunda árið skalt þú láta hana liggja ónotaða og hvílast, svo að hinir fátæku meðal fólks þíns megi eta. Það sem þeir leifa, mega villidýrin eta. Eins skalt þú fara með víngarð þinn og olíutré þín. 23.12 Sex daga skalt þú verk þitt vinna, en sjöunda daginn skalt þú halda heilagt, svo að uxi þinn og asni geti hvílt sig, og sonur ambáttar þinnar og útlendingurinn megi endurnærast. 23.13 Allt sem ég hefi sagt yður, skuluð þér halda. Nafn annarra guða megið þér ekki nefna. Eigi skal það heyrast af þínum munni. 23.14 Þrisvar á ári skalt þú mér hátíð halda. 23.15 Þú skalt halda hátíð hinna ósýrðu brauða. Sjö daga skalt þú eta ósýrt brauð, eins og ég hefi boðið þér, á ákveðnum tíma í abíb-mánuði, því að í þeim mánuði fórst þú út af Egyptalandi. Enginn skal koma tómhentur fyrir mitt auglit. 23.16 Þú skalt halda hátíð frumskerunnar, frumgróðans af vinnu þinni, af því sem þú sáðir í akurinn. Þú skalt halda uppskeruhátíðina við árslokin, er þú alhirðir afla þinn af akrinum. 23.17 Þrem sinnum á ári skal allt þitt karlkyn birtast frammi fyrir herra Drottni. 23.18 Eigi skalt þú fram bera blóð fórnar minnar með sýrðu brauði, og feitin af hátíðafórn minni skal ekki liggja til morguns. 23.19 Hið fyrsta, frumgróða jarðar þinnar, skalt þú færa til húss Drottins Guðs þíns. Þú skalt ekki sjóða kið í mjólk móður sinnar. 23.20 Sjá, ég sendi engil á undan þér til að varðveita þig á ferðinni og leiða þig til þess staðar, sem ég hefi fyrirbúið. 23.21 Haf gát á þér fyrir honum og hlýð hans röddu, móðga þú hann ekki, því að hann mun ekki fyrirgefa misgjörðir yðar, því að mitt nafn er í honum. 23.22 En ef þú hlýðir röddu hans rækilega og gjörir allt, sem ég segi, þá skal ég vera óvinur óvina þinna og mótstöðu veita þínum mótstöðumönnum. 23.23 Engill minn skal ganga á undan þér og leiða þig til Amoríta, Hetíta, Peresíta, Kanaaníta, Hevíta og Jebúsíta, og ég skal afmá þá. 23.24 Þú skalt ekki tilbiðja þeirra guði og ekki dýrka þá og ekki fara að háttum þeirra, heldur skalt þú gjöreyða þeim og með öllu sundur brjóta merkissteina þeirra. 23.25 Þér skuluð dýrka Drottin, Guð yðar, og hann mun blessa brauð þitt og vatn, og ég skal bægja sóttum burt frá þér. 23.26 Engin vanbyrja og engin óbyrja skal finnast í landi þínu. Ég skal fylla tal daga þinna. 23.27 Ógn mína mun ég senda á undan þér og gjöra felmtsfullar allar þær þjóðir, sem þú kemur til, og alla óvini þína mun ég flýja láta fyrir þér. 23.28 Ég skal senda skelfingu á undan þér, og hún skal í burt stökkva Hevítum, Kanaanítum og Hetítum úr augsýn þinni. 23.29 Þó vil ég ekki stökkva þeim burt úr augsýn þinni á einu ári, svo að landið fari ekki í auðn og villidýrunum fjölgi ekki þér til meins. 23.30 Smám saman vil ég stökkva þeim burt úr augsýn þinni, uns þér fjölgar og þú eignast landið. 23.31 Og ég vil setja landamerki þín frá Rauðahafinu til Filistahafs, og frá eyðimörkinni til Fljótsins. Ég mun gefa íbúa landsins á vald yðar, og þú skalt stökkva þeim burt undan þér. 23.32 Þú skalt eigi gjöra sáttmála við þá eða þeirra guði. 23.33 Þeir skulu ekki búa í landi þínu, svo að þeir komi þér ekki til þess að syndga gegn mér, því ef þú dýrkar þeirra guði, mun það verða þér að tálsnöru.'
24.1 Guð sagði við Móse: 'Stíg upp til Drottins, þú og Aron, Nadab og Abíhú og sjötíu af öldungum Ísraels, og skuluð þér falla fram álengdar. 24.2 Móse einn skal koma í nálægð Drottins, en hinir skulu ekki nærri koma, og fólkið skal ekki heldur stíga upp með honum.' 24.3 Og Móse kom og sagði fólkinu öll orð Drottins og öll lagaákvæðin. Svaraði þá fólkið einum munni og sagði: 'Vér skulum gjöra allt það, sem Drottinn hefir boðið.' 24.4 Og Móse skrifaði öll orð Drottins. En næsta morgun reis hann árla og reisti altari undir fjallinu og tólf merkissteina eftir tólf kynkvíslum Ísraels. 24.5 Síðan útnefndi hann unga menn af Ísraelsmönnum, og þeir færðu Drottni brennifórnir og slátruðu uxum til þakkarfórna. 24.6 Og Móse tók helming blóðsins og hellti því í fórnarskálarnar, en hinum helming blóðsins stökkti hann á altarið. 24.7 Því næst tók hann sáttmálsbókina og las upp fyrir lýðnum, en þeir sögðu: 'Vér viljum gjöra allt það, sem Drottinn hefir boðið, og hlýðnast því.' 24.8 Þá tók Móse blóðið, stökkti því á fólkið og sagði: 'Þetta er blóð þess sáttmála, sem Drottinn hefir gjört við yður og byggður er á öllum þessum orðum.' 24.9 Þá stigu þeir upp Móse og Aron, Nadab og Abíhú og sjötíu af öldungum Ísraels. 24.10 Og þeir sáu Ísraels Guð, og var undir fótum hans sem pallur væri, gjörður af safírhellum, og skær sem himinninn sjálfur. 24.11 En hann útrétti eigi hönd sína gegn höfðingjum Ísraelsmanna. Og þeir sáu Guð og átu og drukku. 24.12 Drottinn sagði við Móse: 'Stíg upp á fjallið til mín og dvel þar, og skal ég fá þér steintöflur og lögmálið og boðorðin, er ég hefi skrifað, til þess að þú kennir þeim.' 24.13 Þá lagði Móse af stað og Jósúa, þjónn hans, og Móse sté upp á Guðs fjall. 24.14 En við öldungana sagði hann: 'Verið hér kyrrir, þar til er vér komum aftur til yðar, og sjá, Aron og Húr eru hjá yður. Hver sem mál hefir að kæra, snúi sér til þeirra.' 24.15 Móse sté þá upp á fjallið, en skýið huldi fjallið. 24.16 Og dýrð Drottins hvíldi yfir Sínaífjalli, og skýið huldi það í sex daga, en á sjöunda degi kallaði hann á Móse mitt út úr skýinu. 24.17 Og dýrð Drottins var á að líta fyrir Ísraelsmenn sem eyðandi eldur á fjallstindinum. 24.18 En Móse gekk mitt inn í skýið og sté upp á fjallið, og var Móse á fjallinu í fjörutíu daga og fjörutíu nætur.
25.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 25.2 'Seg Ísraelsmönnum að þeir færi mér gjafir. Af hverjum þeim manni skuluð þér gjöf taka mér til handa, sem gefur hana af fúsum huga. 25.3 Og þessar eru gjafir þær, sem þér skuluð af þeim taka: gull, silfur og eir; 25.4 blár purpuri, rauður purpuri, skarlat, baðmull og geitahár; 25.5 rauðlituð hrútskinn, höfrungaskinn og akasíuviður; 25.6 olía til ljósastikunnar, kryddjurtir til ilmsmyrsla og ilmreykelsis; 25.7 sjóamsteinar og steinar til legginga á hökulinn og brjóstskjöldinn. 25.8 Og þeir skulu gjöra mér helgidóm, að ég búi mitt á meðal þeirra. 25.9 Þér skuluð gjöra hann í öllum greinum eftir þeirri fyrirmynd af tjaldbúðinni og eftir þeirri fyrirmynd af öllum áhöldum hennar, sem ég mun sýna þér. 25.10 Þeir skulu gjöra örk af akasíuviði. Hún skal vera hálf þriðja alin á lengd, hálf önnur alin á breidd og hálf önnur alin á hæð. 25.11 Hana skaltu leggja skíru gulli, innan og utan skaltu gullleggja hana, og umhverfis á henni skaltu gjöra brún af gulli. 25.12 Þú skalt steypa til arkarinnar fjóra hringa af gulli og festa þá við fjóra fætur hennar, sína tvo hringana hvorumegin. 25.13 Þú skalt gjöra stengur af akasíuviði og gullleggja þær. 25.14 Síðan skalt þú smeygja stöngunum í hringana á hliðum arkarinnar, svo að bera megi örkina á þeim. 25.15 Skulu stengurnar vera kyrrar í hringum arkarinnar, eigi má taka þær þaðan. 25.16 Og þú skalt leggja niður í örkina sáttmálið, er ég mun fá þér í hendur. 25.17 Þú skalt og gjöra lok af skíru gulli. Skal það vera hálf þriðja alin á lengd og hálf önnur alin á breidd. 25.18 Og þú skalt gjöra tvo kerúba af gulli, af drifnu smíði skalt þú gjöra þá á hvorum tveggja loksendanum. 25.19 Og lát annan kerúbinn vera á öðrum endanum, en hinn á hinum endanum. Þú skalt gjöra kerúbana áfasta við lokið á báðum endum þess. 25.20 En kerúbarnir skulu breiða út vængina uppi yfir, svo að þeir hylji lokið með vængjum sínum, og andlit þeirra snúa hvort í mót öðru; að lokinu skulu andlit kerúbanna snúa. 25.21 Þú skalt setja lokið ofan yfir örkina, og niður í örkina skalt þú leggja sáttmálið, sem ég mun fá þér. 25.22 Og þar vil ég eiga samfundi við þig og birta þér ofan af arkarlokinu millum beggja kerúbanna, sem standa á sáttmálsörkinni, allt það, er ég býð þér að flytja Ísraelsmönnum. 25.23 Þú skalt og gjöra borð af akasíuviði, tvær álnir á lengd, alin á breidd og hálfa aðra alin á hæð. 25.24 Þú skalt leggja það skíru gulli og gjöra umhverfis á því brún af gulli. 25.25 Umhverfis það skalt þú gjöra lista þverhandar breiðan og búa til brún af gulli umhverfis á listanum. 25.26 Þá skalt þú gjöra til borðsins fjóra hringa af gulli og setja hringana í fjögur hornin, sem eru á fjórum fótum borðsins. 25.27 Skulu hringarnir vera fast upp við listann, svo að í þá verði smeygt stöngum til þess að bera borðið. 25.28 Stengurnar skalt þú gjöra af akasíuviði og gullleggja þær. Á þeim skal borðið bera. 25.29 Og þú skalt gjöra föt þau, sem borðinu tilheyra, skálar og bolla, og ker þau, sem til dreypifórnar eru höfð. Af skíru gulli skalt þú gjöra þau. 25.30 En á borðið skalt þú ætíð leggja skoðunarbrauð frammi fyrir mér. 25.31 Enn fremur skalt þú ljósastiku gjöra af skíru gulli. Með drifnu smíði skal ljósastikan gjör, stétt hennar og leggur. Blómbikarar hennar, knappar hennar og blóm, skulu vera samfastir henni. 25.32 Og sex álmur skulu liggja út frá hliðum hennar, þrjár álmur ljósastikunnar út frá annarri hlið hennar og þrjár álmur ljósastikunnar út frá hinni hlið hennar. 25.33 Þrír bikarar, í lögun sem möndlublóm, skulu vera á fyrstu álmunni, knappur og blóm. Þrír bikarar, í lögun sem möndlublóm, skulu vera á næstu álmunni, knappur og blóm. Svo skal vera á öllum sex álmunum, sem út ganga frá ljósastikunni. 25.34 Og á sjálfri ljósastikunni skulu vera fjórir bikarar í lögun sem möndlublóm, knappar hennar og blóm: 25.35 einn knappur undir tveim neðstu álmunum, samfastur ljósastikunni, og annar knappur undir tveim næstu álmunum, samfastur ljósastikunni, og enn knappur undir tveim efstu álmunum, samfastur ljósastikunni, svo undir sex álmunum, er út ganga frá ljósastikunni. 25.36 Knapparnir og álmurnar skulu vera samfastar henni. Allt skal það gjört með drifnu smíði af skíru gulli. 25.37 Þú skalt gjöra lampa hennar sjö og skalt svo upp setja lampana, að þeir beri birtu yfir svæðið fyrir framan hana. 25.38 Ljósasöx og skarpönnur, sem ljósastikunni fylgja, skulu vera af skíru gulli. 25.39 Af einni talentu skíragulls skal hana gjöra með öllum þessum áhöldum. 25.40 Og sjá svo til, að þú gjörir þessa hluti eftir þeirri fyrirmynd, sem þér var sýnd á fjallinu.
26.1 Tjaldbúðina skalt þú gjöra af tíu dúkum úr tvinnaðri baðmull, bláum purpura, rauðum purpura og skarlati. Skalt þú búa til kerúba á þeim með listvefnaði. 26.2 Hver dúkur skal vera tuttugu og átta álna langur og fjögra álna breiður; allir skulu dúkarnir vera jafnir að máli. 26.3 Fimm dúkarnir skulu tengjast saman hver við annan, og eins skal tengja saman hina fimm dúkana sín í milli. 26.4 Og þú skalt búa til lykkjur af bláum purpura á jaðri ysta dúksins í samfellunni, og eins skalt þú gjöra á jaðri ysta dúksins í hinni samfellunni. 26.5 Skalt þú búa til fimmtíu lykkjur á öðrum dúknum, og eins skalt þú gjöra fimmtíu lykkjur á jaðri þess dúksins, sem er í hinni samfellunni, svo að lykkjurnar standist á hver við aðra. 26.6 Og þú skalt gjöra fimmtíu króka af gulli og tengja saman dúkana hvern við annan með krókunum, svo að tjaldbúðin verði ein heild. 26.7 Þú skalt og gjöra dúka af geitahári til að tjalda með yfir búðina, ellefu að tölu. 26.8 Hver dúkur skal vera þrjátíu álna langur og fjögra álna breiður; allir ellefu dúkarnir skulu vera jafnir að máli. 26.9 Og þú skalt tengja saman fimm dúka sér og sex dúka sér, en sjötta dúkinn skalt þú brjóta upp á sig á framanverðu tjaldinu. 26.10 Og þú skalt búa til fimmtíu lykkjur á jaðri ysta dúksins í annarri samfellunni og eins fimmtíu lykkjur á dúkjaðri hinnar samfellunnar. 26.11 Og þú skalt gjöra fimmtíu eirkróka og krækja krókunum í lykkjurnar, og tengja svo saman tjaldið, að ein heild verði. 26.12 En afgangurinn, sem yfir hefir af tjalddúkunum, hálfi dúkurinn, sem er umfram, skal hanga niður af tjaldbúðinni baka til. 26.13 En sú eina alin beggja vegna, sem yfir hefir af tjalddúkunum á lengdina, skal hanga niður af hliðum tjaldbúðarinnar báðumegin til þess að byrgja hana. 26.14 Þú skalt enn gjöra þak yfir tjaldið af rauðlituðum hrútskinnum og enn eitt þak þar utan yfir af höfrungaskinnum. 26.15 Og þú skalt gjöra þiljuborðin í tjaldbúðina af akasíuviði, og standi þau upp og ofan. 26.16 Hvert borð skal vera tíu álnir á lengd og hálf önnur alin á breidd. 26.17 Á hverju borði skulu vera tveir tappar, báðir sameinaðir. Svo skalt þú gjöra á öllum borðum tjaldbúðarinnar. 26.18 Og þannig skalt þú gjöra borðin í tjaldbúðina: Tuttugu borð í suðurhliðina, 26.19 og skalt þú búa til fjörutíu undirstöður af silfri undir tuttugu borðin, tvær undirstöður undir hvert borð, sína fyrir hvorn tappa. 26.20 Og eins í hina hlið tjaldbúðarinnar, norðurhliðina: tuttugu borð 26.21 og fjörutíu undirstöður af silfri, tvær undirstöður undir hvert borð. 26.22 Í afturgafl búðarinnar, gegnt vestri, skalt þú gjöra sex borð. 26.23 Og tvö borð skalt þú gjöra í búðarhornin á afturgaflinum. 26.24 Og þau skulu vera tvöföld að neðan og sömuleiðis halda fullu máli upp úr allt til hins fyrsta hrings. Þannig skal þeim háttað vera hvorum tveggja, á báðum hornum skulu þau vera. 26.25 Borðin skulu vera átta og með undirstöðum af silfri, sextán undirstöðum, tveim undirstöðum undir hverju borði. 26.26 Því næst skalt þú gjöra slár af akasíuviði, fimm á borðin í annarri hlið búðarinnar 26.27 og fimm slár á borðin í hinni hlið búðarinnar og fimm slár á borðin í afturgafli búðarinnar, gegnt vestri. 26.28 Miðsláin skal vera á miðjum borðunum og liggja alla leið, frá einum enda til annars. 26.29 Og borðin skalt þú gullleggja, en hringana á þeim, sem slárnar ganga í, skalt þú gjöra af gulli. Þú skalt og gullleggja slárnar. 26.30 Og þú skalt reisa tjaldbúðina eins og hún á að vera og þér var sýnt á fjallinu. 26.31 Þú skalt og gjöra fortjald af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull. Skal það til búið með listvefnaði og kerúbar á. 26.32 Og þú skalt festa það á fjóra stólpa af akasíuviði, gulli lagða, með nöglum í af gulli, á fjórum undirstöðum af silfri. 26.33 En þú skalt hengja fortjaldið undir krókana og flytja sáttmálsörkina þangað, inn fyrir fortjaldið, og skal fortjaldið skilja milli hins heilaga og hins allrahelgasta hjá yður. 26.34 Þú skalt setja lokið yfir sáttmálsörkina í hinu allrahelgasta. 26.35 En borðið skalt þú setja fyrir utan fortjaldið og ljósastikuna gagnvart borðinu við suðurhliðvegg búðarinnar, en lát borðið vera við norðurhliðvegginn. 26.36 Þú skalt og gjöra dúkbreiðu fyrir dyr tjaldsins af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, og glitofna. 26.37 Og fyrir dúkbreiðuna skalt þú gjöra stólpa af akasíuviði og gullleggja þá. Naglarnir í þeim skulu vera af gulli, og þú skalt steypa fimm undirstöður af eiri undir þá.
27.1 Þú skalt gjöra altarið af akasíuviði, fimm álna langt og fimm álna breitt _ ferhyrnt skal altarið vera _ og þriggja álna hátt. 27.2 Og þú skalt gjöra hornin á því upp af fjórum hyrningum þess, _ þau horn skulu vera áföst við það _, og þú skalt eirleggja það. 27.3 Þú skalt gjöra ker undir öskuna, eldspaða þá, fórnarskálir, soðkróka og eldpönnur, sem altarinu fylgja. Öll áhöld þess skalt þú gjöra af eiri. 27.4 Þú skalt gjöra um altarið eirgrind, eins og riðið net, og setja fjóra eirhringa á netið, á fjögur horn altarisins. 27.5 Grindina skalt þú festa fyrir neðan umgjörð altarisins undir niðri, svo að netið taki upp á mitt altarið. 27.6 Og þú skalt gjöra stengur til altarisins, stengur af akasíuviði, og eirleggja þær. 27.7 Skal smeygja stöngunum í hringana, og skulu stengurnar vera á báðum hliðum altarisins, þegar það er borið. 27.8 Þú skalt gjöra altarið af borðum, holt að innan. Þeir skulu gjöra það eins og þér var sýnt uppi á fjallinu. 27.9 Þannig skalt þú gjöra forgarð tjaldbúðarinnar: Á suðurhliðinni skulu tjöld vera fyrir forgarðinum úr tvinnaðri baðmull, hundrað álna löng á þá hliðina, 27.10 og tuttugu stólpar með tuttugu undirstöðum af eiri, en naglar stólpanna og hringrandir þeirra skulu vera af silfri. 27.11 Sömuleiðis skulu að norðanverðu langsetis vera hundrað álna löng tjöld og tuttugu stólpar með tuttugu undirstöðum af eiri, en naglar í stólpunum og hringrandir á þeim skulu vera af silfri. 27.12 En á þverhlið forgarðsins að vestanverðu skulu vera fimmtíu álna löng tjöld og tíu stólpar með tíu undirstöðum. 27.13 Þverhlið forgarðsins að austanverðu, mót uppkomu sólar, skal vera fimmtíu álnir, 27.14 og skulu vera fimmtán álna tjöld annars vegar með þremur stólpum og þremur undirstöðum, 27.15 og hins vegar sömuleiðis fimmtán álna tjöld með þremur stólpum og þremur undirstöðum. 27.16 Fyrir hliði forgarðsins skal vera tuttugu álna dúkbreiða af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, glitofin, með fjórum stólpum og fjórum undirstöðum. 27.17 Allir stólpar umhverfis forgarðinn skulu vera með hringröndum af silfri og silfurnöglum og undirstöðurnar af eiri. 27.18 Lengd forgarðsins skal vera hundrað álnir og breiddin fimmtíu álnir og hæðin fimm álnir, úr tvinnaðri baðmull og undirstöðurnar af eiri. 27.19 Öll áhöld tjaldbúðarinnar, til hverrar þjónustugjörðar í henni sem vera skal, svo og allir hælar, sem henni tilheyra, og allir hælar, sem forgarðinum tilheyra, skulu vera af eiri. 27.20 Þú skalt bjóða Ísraelsmönnum að færa þér tæra olíu af steyttum olífuberjum til ljósastikunnar, svo að lampar verði ávallt settir upp. 27.21 Í samfundatjaldinu fyrir utan fortjaldið, sem er fyrir framan sáttmálið, skal Aron og synir hans tilreiða þá frammi fyrir Drottni, frá kveldi til morguns. Er það ævinleg skyldugreiðsla, er á Ísraelsmönnum hvílir frá kyni til kyns.
28.1 Þú skalt taka Aron bróður þinn og sonu hans með honum til þín úr sveit Ísraelsmanna, að hann þjóni mér í prestsembætti, þá Aron, Nadab og Abíhú, Eleasar og Ítamar, sonu Arons. 28.2 Þú skalt gjöra Aroni bróður þínum helg klæði til vegs og prýði. 28.3 Og þú skalt tala við alla hugvitsmenn, sem ég hefi fyllt hugvitsanda, og skulu þeir gjöra Aroni klæði, svo að hann verði vígður til að þjóna mér í prestsembætti. 28.4 Þessi eru klæðin, sem þeir skulu gjöra: Brjóstskjöldur, hökull, möttull, tiglofinn kyrtill, vefjarhöttur og belti. Þeir skulu gjöra Aroni bróður þínum og sonum hans helg klæði, að hann þjóni mér í prestsembætti, 28.5 og skulu þeir til þess taka gull, bláan purpura, rauðan purpura, skarlat og baðmull. 28.6 Þeir skulu gjöra hökulinn af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull með forkunnarlegu hagvirki. 28.7 Á honum skulu vera tveir axlarhlýrar, festir við báða enda hans, svo að hann verði festur saman. 28.8 Og hökullindinn, sem á honum er til að gyrða hann að sér, skal vera með sömu gerð og áfastur honum: af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull. 28.9 Því næst skalt þú taka tvo sjóamsteina og grafa á þá nöfn Ísraels sona: 28.10 Sex af nöfnum þeirra á annan steininn og nöfn hinna sex, er eftir verða, á hinn steininn, eftir aldri þeirra. 28.11 Þú skalt grafa nöfn Ísraels sona á báða steinana með steinskurði, innsiglisgrefti, og greypa þá inn í umgjarðir af gulli. 28.12 Og þú skalt festa báða steinana á axlarhlýra hökulsins, að þeir séu minnissteinar Ísraelsmönnum, og skal Aron bera nöfn þeirra frammi fyrir Drottni á báðum öxlum sér, til minningar. 28.13 Og þú skalt gjöra umgjarðir af gulli 28.14 og tvær festar af skíru gulli. Þú skalt gjöra þær snúnar sem fléttur, og þú skalt festa þessar fléttuðu festar við umgjarðirnar. 28.15 Þú skalt og búa til dómskjöld, gjörðan með listasmíði. Skalt þú búa hann til með sömu gerð og hökulinn; af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull skalt þú gjöra hann. 28.16 Hann skal vera ferhyrndur og tvöfaldur, spannarlangur og spannarbreiður. 28.17 Þú skalt alsetja hann steinum í fjórum röðum: eina röð af karneól, tópas og smaragði, er það fyrsta röðin; 28.18 önnur röðin: karbunkull, safír og jaspis; 28.19 þriðja röðin: hýasint, agat og ametýst; 28.20 og fjórða röðin: krýsolít, sjóam og ónýx. Þeir skulu greyptir vera í gull, hver á sínum stað. 28.21 Steinarnir skulu vera tólf, eftir nöfnum Ísraels sona, og vera með nöfnum þeirra. Þeir skulu vera grafnir með innsiglisgrefti, og skal sitt nafn vera á hverjum þeirra, eftir þeim tólf kynkvíslum. 28.22 Þú skalt gjöra festar til brjóstskjaldarins, snúnar eins og fléttur, af skíru gulli. 28.23 Þú skalt og gjöra til brjóstskjaldarins tvo hringa af gulli og festa þessa tvo hringa á tvö horn brjóstskjaldarins. 28.24 Síðan skalt þú festa báðar gullflétturnar í þessa tvo hringa á hornum brjóstskjaldarins. 28.25 En tvo enda beggja snúnu festanna skalt þú festa við umgjarðirnar tvær og festa þær við axlarhlýra hökulsins, á hann framanverðan. 28.26 Þá skalt þú enn gjöra tvo hringa af gulli og festa þá í tvö horn brjóstskjaldarins, innanvert í þá brúnina, sem að höklinum veit. 28.27 Og enn skalt þú gjöra tvo hringa af gulli og festa þá á báða axlarhlýra hökulsins, neðan til á hann framanverðan, þar sem hann er tengdur saman, fyrir ofan hökullindann. 28.28 Nú skal knýta brjóstskjöldinn með hringum hans við hökulhringana með snúru af bláum purpura, svo að hann liggi fyrir ofan hökullindann, og mun þá eigi brjóstskjöldurinn losna við hökulinn. 28.29 Aron skal bera nöfn Ísraels sona í dómskildinum á brjósti sér, þegar hann gengur inn í helgidóminn, til stöðugrar minningar frammi fyrir Drottni. 28.30 Og þú skalt leggja inn í dómskjöldinn úrím og túmmím, svo að það sé á brjósti Arons, þegar hann gengur inn fyrir Drottin, og Aron skal ávallt bera dóm Ísraelsmanna á brjósti sér frammi fyrir Drottni. 28.31 Hökulmöttulinn skalt þú allan gjöra af bláum purpura. 28.32 Á honum skal vera hálsmál faldað með ofnum borða, eins og á brynju, svo að ekki rifni út úr. 28.33 Á faldi hans skalt þú búa til granatepli af bláum purpura, rauðum purpura og skarlati, á faldi hans allt í kring, og bjöllur af gulli í milli eplanna allt í kring, 28.34 svo að fyrst komi gullbjalla og granatepli, og þá aftur gullbjalla og granatepli, allt í kring á möttulfaldinum. 28.35 Í honum skal Aron vera, þegar hann embættar, svo að heyra megi til hans, þegar hann gengur inn í helgidóminn fram fyrir Drottin og þá er hann gengur út, svo að hann deyi ekki. 28.36 Þú skalt gjöra spöng af skíru gulli og grafa á hana með innsiglisgrefti: ,Helgaður Drottni.` 28.37 Og þú skalt festa hana á snúru af bláum purpura, og skal hún vera á vefjarhettinum. Framan á vefjarhettinum skal hún vera. 28.38 Og hún skal vera á enni Arons, svo að Aron taki á sig galla þá, er verða kunna á hinum helgu fórnum, er Ísraelsmenn fram bera, hverjar svo sem helgigjafir þeirra eru. Hún skal ætíð vera á enni hans til þess að gjöra þær velþóknanlegar fyrir Drottni. 28.39 Þú skalt tiglvefa kyrtilinn af baðmull og gjöra vefjarhött af baðmull og búa til glitofið belti. 28.40 Þú skalt og gjöra kyrtla handa sonum Arons og búa þeim til belti. Einnig skalt þú gjöra þeim höfuðdúka til vegs og prýði. 28.41 Þú skalt færa Aron bróður þinn og sonu hans með honum í það, og þú skalt smyrja þá og fylla hendur þeirra og helga þá til að þjóna mér í prestsembætti. 28.42 Þú skalt og gjöra þeim línbrækur til að hylja með blygðun þeirra. Þær skulu ná frá mjöðmum niður á læri. 28.43 Í þeim skal Aron og synir hans vera, er þeir ganga inn í samfundatjaldið eða nálgast altarið til að embætta í helgidóminum, að þeir eigi baki sér sekt og deyi. Þetta skal vera ævinlegt lögmál fyrir hann og niðja hans eftir hann.
29.1 Þannig skalt þú að fara, er þú vígir þá til þess að þjóna mér í prestsembætti: Tak eitt ungneyti og tvo hrúta gallalausa, 29.2 ósýrt brauð og ósýrðar kökur olíublandaðar og ósýrð flatbrauð olíusmurð. Skalt þú gjöra þau af fínu hveitimjöli. 29.3 Því næst skalt þú láta þau í eina körfu og koma með þau í körfunni, ásamt uxanum og báðum hrútunum. 29.4 Þú skalt koma með Aron og sonu hans að dyrum samfundatjaldsins og lauga þá í vatni. 29.5 Síðan skalt þú taka klæðin og skrýða Aron kyrtlinum, hökulmöttlinum, höklinum og brjóstskildinum, og gyrða hann hökullindanum. 29.6 Þá skalt þú setja vefjarhöttinn á höfuð honum og festa hið heilaga ennishlað á vefjarhöttinn. 29.7 Þá skalt þú taka smurningarolíuna og hella henni yfir höfuð honum og smyrja hann. 29.8 Síðan skalt þú leiða fram sonu hans og færa þá í kyrtla, 29.9 gyrða þá beltum, bæði Aron og sonu hans, og binda á þá höfuðdúka, að þeir hafi prestdóm eftir ævarandi lögmáli, og þú skalt fylla hönd Arons og hönd sona hans. 29.10 Síðan skalt þú leiða uxann fram fyrir samfundatjaldið, og skulu þeir Aron og synir hans leggja hendur sínar á höfuð uxanum. 29.11 En þú skalt slátra uxanum frammi fyrir Drottni, fyrir dyrum samfundatjaldsins. 29.12 Síðan skalt þú taka nokkuð af blóði uxans og ríða því á altarishornin með fingri þínum, en öllu hinu blóðinu skalt þú hella niður við altarið. 29.13 Og þú skalt taka alla netjuna, er hylur iðrin, stærra lifrarblaðið, bæði nýrun og nýrnamörinn og brenna á altarinu. 29.14 En kjöt uxans, húðina og gorið skalt þú brenna í eldi fyrir utan herbúðirnar. Það er syndafórn. 29.15 Því næst skalt þú taka annan hrútinn, og skulu þeir Aron og synir hans leggja hendur sínar á höfuð hrútsins. 29.16 Síðan skalt þú slátra hrútnum, taka blóð hans og stökkva því allt um kring á altarið. 29.17 En hrútinn skalt þú hluta í sundur, þvo innýfli hans og fætur og leggja það ofan á hin stykkin og höfuðið. 29.18 Skalt þú síðan brenna allan hrútinn á altarinu. Það er brennifórn Drottni til handa, þægilegur ilmur; það er eldfórn Drottni til handa. 29.19 Þessu næst skalt þú taka hinn hrútinn, og skulu þeir Aron og synir hans leggja hendur sínar á höfuð hrútsins. 29.20 En þú skalt slátra hrútnum og taka nokkuð af blóði hans og ríða því á hægri eyrnasnepil Arons og hægri eyrnasnepil sona hans og á þumalfingur hægri handar þeirra og á stórutá hægri fótar þeirra og stökkva blóðinu allt um kring á altarið. 29.21 Þú skalt taka nokkuð af blóði því, sem er á altarinu, og nokkuð af smurningarolíunni og stökkva því á Aron og klæði hans, og á sonu hans og klæði sona hans ásamt honum, og verður hann þá helgaður og klæði hans, og synir hans og klæði sona hans ásamt honum. 29.22 Síðan skalt þú taka feitina af hrútnum: rófuna, netjuna, er hylur iðrin, stærra lifrarblaðið, bæði nýrun og nýrnamörinn og hægra lærið _ því að þetta er vígsluhrútur _, 29.23 einn brauðhleif, eina olíuköku og eitt flatbrauð úr körfunni með ósýrðu brauðunum, sem stendur frammi fyrir Drottni. 29.24 Allt þetta skalt þú leggja í hendur Aroni og í hendur sonum hans og veifa því sem veififórn frammi fyrir Drottni. 29.25 Síðan skalt þú taka það af höndum þeirra og brenna það á altarinu ofan á brennifórninni til þægilegs ilms frammi fyrir Drottni. Það er eldfórn Drottni til handa. 29.26 Því næst skalt þú taka bringuna af vígsluhrút Arons og veifa henni sem veififórn frammi fyrir Drottni. Hún skal koma í þinn hlut. 29.27 Þú skalt helga veififórnarbringuna og lyftifórnarlærið, sem veifað og lyft hefir verið, af vígsluhrútnum, bæði Arons og sona hans. 29.28 Og skal Aron og synir hans fá það hjá Ísraelsmönnum eftir ævarandi lögmáli, því að það er fórnargjöf, og sem fórnargjöf skulu Ísraelsmenn fram bera það af þakkarfórnum sínum, sem fórnargjöf þeirra til Drottins. 29.29 Hin helgu klæði Arons skulu synir hans fá eftir hann, svo að þeir verði smurðir í þeim og hendur þeirra verði fylltar í þeim. 29.30 Sá af sonum hans, sem prestur verður í hans stað, skal sjö daga skrýðast þeim, er hann gengur inn í samfundatjaldið til að embætta í helgidóminum. 29.31 Þú skalt taka vígsluhrútinn og sjóða kjöt hans á helgum stað, 29.32 og skulu þeir Aron og synir hans eta kjöt hrútsins og brauðið, sem er í körfunni, fyrir dyrum samfundatjaldsins. 29.33 Og þeir skulu eta þetta, sem friðþægt var með, er hendur þeirra voru fylltar og þeir helgaðir. En óvígður maður má eigi neyta þess, því að það er helgað. 29.34 En verði nokkrar leifar af vígslukjötinu og brauðinu til næsta morguns, þá skalt þú brenna þær leifar í eldi. Það má ekki eta, því að það er helgað. 29.35 Þú skalt svo gjöra við Aron og sonu hans í alla staði, eins og ég hefi boðið þér. Í sjö daga skalt þú fylla hendur þeirra, 29.36 og á hverjum degi skalt þú slátra uxa í syndafórn til friðþægingar og syndhreinsa altarið, er þú friðþægir fyrir það, og skalt þú þá smyrja það til þess að helga það. 29.37 Í sjö daga skalt þú friðþægja fyrir altarið og helga það, og skal þá altarið verða háheilagt. Hver sá, er snertir altarið, skal vera helgaður. 29.38 Þetta er það, sem þú skalt fórna á altarinu: tvö lömb veturgömul dag hvern stöðuglega. 29.39 Öðru lambinu skalt þú fórna að morgni dags, en hinu lambinu skalt þú fórna um sólsetur. 29.40 Með öðru lambinu skal hafa tíunda part úr efu af fínu mjöli, blönduðu við fjórðung úr hín af olíu úr steyttum olífuberjum, og til dreypifórnar fjórðung úr hín af víni. 29.41 Hinu lambinu skalt þú fórna um sólsetur, og hafa við sömu matfórn og dreypifórn sem um morguninn, til þægilegs ilms, til eldfórnar fyrir Drottin. 29.42 Skal það vera stöðug brennifórn hjá yður frá kyni til kyns fyrir dyrum samfundatjaldsins í augsýn Drottins. Þar vil ég eiga samfundi við yður til að tala þar við þig, 29.43 og þar vil ég eiga samfundi við Ísraelsmenn, og það skal helgast af minni dýrð. 29.44 Ég vil helga samfundatjaldið og altarið; Aron og sonu hans vil ég og helga, að þeir þjóni mér í prestsembætti. 29.45 Ég vil búa á meðal Ísraelsmanna og vera þeirra Guð. 29.46 Og þeir skulu viðurkenna, að ég er Drottinn, Guð þeirra, sem leiddi þá út af Egyptalandi, til þess að ég mætti búa meðal þeirra. Ég er Drottinn, Guð þeirra.
30.1 Þú skalt gjöra altari til að brenna á reykelsi. Það skalt þú búa til af akasíuviði. 30.2 Það skal vera álnarlangt og álnarbreitt, ferhyrnt, tveggja álna hátt og horn þess áföst við það. 30.3 Þú skalt leggja það skíru gulli, bæði að ofan og á hliðunum allt í kring, svo og horn þess, og þú skalt gjöra brún af gulli á því allt í kring. 30.4 Þú skalt gjöra á því tvo hringa af gulli fyrir neðan brúnina báðumegin. Þú skalt gjöra þá á báðum hliðum þess, þeir skulu vera til að smeygja í stöngum til að bera það á. 30.5 Og þú skalt gjöra stengurnar af akasíuviði og gullleggja þær. 30.6 Þú skalt setja það fyrir framan fortjaldið, sem er fyrir sáttmálsörkinni, fyrir framan lokið, sem er yfir sáttmálinu, þar sem ég vil eiga samfundi við þig. 30.7 Og Aron skal brenna ilmreykelsi á því, hann skal brenna því á hverjum morgni, þegar hann tilreiðir lampana. 30.8 Þegar Aron setur upp lampana um sólsetur, skal hann og brenna reykelsi. Það skal vera stöðug reykelsisfórn frammi fyrir Drottni hjá yður frá kyni til kyns. 30.9 Þér skuluð ekki fórna annarlegu reykelsi á því, né heldur brennifórn eða matfórn, og eigi megið þér dreypa dreypifórn á því. 30.10 Aron skal friðþægja fyrir horn þess einu sinni á ári. Með blóðinu úr syndafórn friðþægingarinnar skal hann friðþægja fyrir það einu sinni á ári hjá yður frá kyni til kyns. Það er háheilagt fyrir Drottni.' 30.11 Drottinn talaði við Móse og sagði: 30.12 'Þegar þú tekur manntal meðal Ísraelsmanna við liðskönnun, þá skulu þeir hver um sig greiða Drottni gjald til lausnar lífi sínu, þegar þeir eru kannaðir, svo að engin plága komi yfir þá vegna liðskönnunarinnar. 30.13 Þetta skal hver sá gjalda, sem talinn er í liðskönnun: hálfan sikil eftir helgidómssikli _ tuttugu gerur í sikli, _ hálfan sikil sem fórnargjöf til Drottins. 30.14 Hver sem talinn er í liðskönnun, tvítugur og þaðan af eldri, skal greiða Drottni fórnargjöf. 30.15 Hinn ríki skal eigi greiða meira og hinn fátæki ekki minna en hálfan sikil, er þér færið Drottni fórnargjöf til þess að friðþægja fyrir sálir yðar. 30.16 Og þú skalt taka þetta friðþægingargjald af Ísraelsmönnum og leggja það til þjónustu samfundatjaldsins. Það skal vera Ísraelsmönnum til minningar frammi fyrir Drottni, að það friðþægi fyrir sálir yðar.' 30.17 Drottinn talaði við Móse og sagði: 30.18 'Þú skalt gjöra eirker með eirstétt til þvottar, og þú skalt setja það milli samfundatjaldsins og altarisins og láta vatn í það, 30.19 og skulu þeir Aron og synir hans þvo hendur sínar og fætur úr því. 30.20 Þegar þeir ganga inn í samfundatjaldið, skulu þeir þvo sér úr vatni, svo að þeir deyi ekki; eða þegar þeir ganga að altarinu til þess að embætta, til þess að brenna eldfórn Drottni til handa, 30.21 þá skulu þeir þvo hendur sínar og fætur, svo að þeir deyi ekki. Þetta skal vera þeim ævarandi lögmál fyrir hann og niðja hans frá kyni til kyns.' 30.22 Drottinn talaði við Móse og sagði: 30.23 'Tak þér hinar ágætustu kryddjurtir, fimm hundruð sikla af sjálfrunninni myrru, hálfu minna, eða tvö hundruð og fimmtíu sikla, af ilmandi kanelberki og tvö hundruð og fimmtíu sikla af ilmreyr, 30.24 og fimm hundruð sikla af kanelviði eftir helgidómssikli og eina hín af olífuberjaolíu. 30.25 Af þessu skalt þú gjöra heilaga smurningarolíu, ilmsmyrsl, til búin að hætti smyrslara. Skal það vera heilög smurningarolía. 30.26 Með þessu skalt þú smyrja samfundatjaldið og sáttmálsörkina, 30.27 borðið með öllum áhöldum þess, ljósastikuna með öllum áhöldum hennar og reykelsisaltarið, 30.28 brennifórnaraltarið með öllum áhöldum þess, kerið og stétt þess. 30.29 Og skalt þú vígja þau, svo að þau verði háheilög. Hver sem snertir þau, skal vera helgaður. 30.30 Þú skalt og smyrja Aron og sonu hans og vígja þá til að þjóna mér í prestsembætti. 30.31 Þú skalt tala til Ísraelsmanna og segja: ,Þetta skal vera mér heilög smurningarolía hjá yður frá kyni til kyns.` 30.32 Eigi má dreypa henni á nokkurs manns hörund, og með sömu gerð skuluð þér eigi til búa nein smyrsl. Helg er hún, og helg skal hún yður vera. 30.33 Hver sem býr til sams konar smyrsl eða ber nokkuð af þeim á óvígðan mann, skal upprættur verða úr þjóð sinni.' 30.34 Drottinn sagði við Móse: 'Tak þér ilmjurtir, balsam, marnögl og galbankvoðu, ilmjurtir ásamt hreinu reykelsi. Skal vera jafnt af hverju. 30.35 Og þú skalt búa til úr því ilmreykelsi að hætti smyrslara, salti kryddað, hreint og heilagt. 30.36 Og nokkuð af því skalt þú mylja smátt og leggja það fyrir framan sáttmálið í samfundatjaldinu, þar sem ég vil eiga samfundi við þig. Það skal vera yður háheilagt. 30.37 Reykelsi, eins og þú til býr með þessari gerð, megið þér ekki búa til handa yður sjálfum. Skalt þú meta það sem Drottni helgað. 30.38 Skyldi einhver búa til nokkuð þvílíkt til þess að gæða sér með ilm þess, skal hann upprættur verða úr þjóð sinni.'
31.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 31.2 'Sjá, ég hefi kvatt til Besalel Úríson, Húrssonar, af Júda ættkvísl. 31.3 Ég hefi fyllt hann Guðs anda, bæði vísdómi, skilningi, kunnáttu og hvers konar hagleik, 31.4 til þess að upphugsa listaverk og smíða úr gulli, silfri og eiri 31.5 og skera steina til greypingar og til tréskurðar, til þess að vinna að hvers konar smíði. 31.6 Og sjá, ég hefi fengið honum til aðstoðar Oholíab Akísamaksson af Dans ættkvísl. Og öllum hugvitsmönnum hefi ég gefið vísdóm, að þeir megi gjöra allt það, sem ég hefi fyrir þig lagt: 31.7 samfundatjaldið, sáttmálsörkina, lokið, sem er yfir henni, og öll áhöld tjaldsins, 31.8 borðið og áhöld þess, gull-ljósastikuna og öll áhöld hennar og reykelsisaltarið, 31.9 brennifórnaraltarið og öll áhöld þess, kerið og stétt þess, 31.10 glitklæðin, hin helgu klæði Arons prests og prestsþjónustuklæði sona hans, 31.11 smurningarolíuna og ilmreykelsið til helgidómsins. Allt skulu þeir gjöra eins og ég hefi fyrir þig lagt.' 31.12 Drottinn talaði við Móse og sagði: 31.13 'Tala þú til Ísraelsmanna og seg: ,Sannlega skuluð þér halda mína hvíldardaga, því að það er teikn milli mín og yðar frá kyni til kyns, svo að þér vitið, að ég er Drottinn, sá er yður helgar. 31.14 Haldið því hvíldardaginn, því að hann skal vera yður heilagur. Hver sem vanhelgar hann, skal vissulega líflátinn verða, því að hver sem þá vinnur nokkurt verk, sá maður skal upprættur verða úr þjóð sinni. 31.15 Sex daga skal verk vinna, en sjöundi dagurinn er algjör hvíldardagur, helgaður Drottni. Hver sem verk vinnur á hvíldardegi, skal vissulega líflátinn verða. 31.16 Fyrir því skulu Ísraelsmenn gæta hvíldardagsins, svo að þeir haldi hvíldardaginn heilagan frá kyni til kyns sem ævinlegan sáttmála. 31.17 Ævinlega skal hann vera teikn milli mín og Ísraelsmanna, því að á sex dögum gjörði Drottinn himin og jörð, en sjöunda daginn hvíldist hann og endurnærðist.'` 31.18 Þegar Drottinn hafði lokið viðræðunum við Móse á Sínaífjalli, fékk hann honum tvær sáttmálstöflur, steintöflur, ritaðar með fingri Guðs.
32.1 Er fólkið sá, að seinkaði komu Móse ofan af fjallinu, þyrptist fólkið í kringum Aron og sagði við hann: 'Kom og gjör oss guð, er fyrir oss fari, því að vér vitum ekki, hvað af þessum Móse er orðið, manninum, er leiddi oss burt af Egyptalandi.' 32.2 Og Aron sagði við þá: 'Slítið eyrnagullin úr eyrum kvenna yðar, sona og dætra, og færið mér.' 32.3 Þá sleit allt fólkið eyrnagullin úr eyrum sér og færði Aroni, 32.4 en hann tók við því af þeim, lagaði það með meitlinum og gjörði af því steyptan kálf. Þá sögðu þeir: 'Þetta er guð þinn, Ísrael, sem leiddi þig út af Egyptalandi.' 32.5 Og er Aron sá það, reisti hann altari fyrir framan hann, og Aron lét kalla og segja: 'Á morgun skal vera hátíð Drottins.' 32.6 Næsta morgun risu þeir árla, fórnuðu brennifórnum og færðu þakkarfórnir. Síðan settist fólkið niður til að eta og drekka, og því næst stóðu þeir upp til leika. 32.7 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Far þú og stíg ofan, því að fólk þitt, sem þú leiddir út af Egyptalandi, hefir misgjört. 32.8 Skjótt hafa þeir vikið af þeim vegi, sem ég bauð þeim. Þeir hafa gjört sér steyptan kálf, og þeir hafa fallið fram fyrir honum, fært honum fórnir og sagt: ,Þetta er guð þinn, Ísrael, sem leiddi þig út af Egyptalandi.'` 32.9 Drottinn sagði við Móse: 'Ég sé nú, að þessi lýður er harðsvírað fólk. 32.10 Lát mig nú einan, svo að reiði mín upptendrist í gegn þeim og tortími þeim. Síðan vil ég gjöra þig að mikilli þjóð.' 32.11 En Móse reyndi að blíðka Drottin, Guð sinn, og sagði: 'Hví skal, Drottinn, reiði þín upptendrast í gegn fólki þínu, sem þú leiddir út af Egyptalandi með miklum mætti og voldugri hendi? 32.12 Hví skulu Egyptar segja og kveða svo að orði: ,Til ills leiddi hann þá út, til að deyða þá á fjöllum uppi og afmá þá af jörðinni`? Snú þér frá þinni brennandi reiði og lát þig iðra hins illa gegn fólki þínu. 32.13 Minnst þú þjóna þinna, Abrahams, Ísaks og Ísraels, sem þú hefir svarið við sjálfan þig og heitið: ,Ég vil gjöra niðja yðar marga sem stjörnur himinsins, og allt þetta land, sem ég hefi talað um, vil ég gefa niðjum yðar, og skulu þeir eiga það ævinlega.'` 32.14 Þá iðraðist Drottinn hins illa, er hann hafði hótað að gjöra fólki sínu. 32.15 Síðan sneri Móse á leið og gekk ofan af fjallinu með báðar sáttmálstöflurnar í hendi sér. Voru þær skrifaðar báðumegin, svo á einni hliðinni sem á annarri voru þær skrifaðar. 32.16 En töflurnar voru Guðs verk og letrið Guðs letur, rist á töflurnar. 32.17 En er Jósúa heyrði ópið í fólkinu, sagði hann við Móse: 'Það er heróp í búðunum!' 32.18 En Móse svaraði: 'Það er ekki óp sigrandi manna og ekki óp þeirra, er sigraðir verða; söngóm heyri ég.' 32.19 En er Móse nálgaðist herbúðirnar og sá kálfinn og dansinn, upptendraðist reiði hans, svo að hann þeytti töflunum af hendi og braut þær í sundur fyrir neðan fjallið. 32.20 Síðan tók hann kálfinn, sem þeir höfðu gjört, brenndi hann í eldi og muldi hann í duft og dreifði því á vatnið og lét Ísraelsmenn drekka. 32.21 Þá sagði Móse við Aron: 'Hvað hefir þetta fólk gjört þér, að þú skulir hafa leitt svo stóra synd yfir það?' 32.22 Aron svaraði: 'Reiðst eigi, herra. Þú þekkir lýðinn, að hann er jafnan búinn til ills. 32.23 Þeir sögðu við mig: ,Gjör oss guð, er fyrir oss fari, því vér vitum eigi, hvað af þessum Móse er orðið, manninum, er leiddi oss burt af Egyptalandi.` 32.24 Þá sagði ég við þá: ,Hver sem gull hefir á sér, hann slíti það af sér.` Fengu þeir mér það, og kastaði ég því í eldinn, svo varð af því þessi kálfur.' 32.25 Er Móse sá, að fólkið var orðið taumlaust, því að Aron hafði sleppt við það taumnum, svo að þeir voru hafðir að spotti af mótstöðumönnum sínum, 32.26 þá nam Móse staðar í herbúðahliðinu og mælti: 'Hver sem heyrir Drottni til, komi hingað til mín!' Þá söfnuðust allir levítar til hans. 32.27 Og hann sagði við þá: 'Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: ,Hver einn festi sverð á hlið sér, fari síðan fram og aftur frá einu hliði herbúðanna til annars og drepi hver sinn bróður, vin og frænda.'` 32.28 Og levítarnir gjörðu sem Móse bauð þeim, og féllu af fólkinu á þeim degi þrjár þúsundir manna. 32.29 Og Móse sagði: 'Fyllið hendur yðar í dag, Drottni til handa, því að hver maður var á móti syni sínum og bróður, svo að yður veitist blessun í dag.' 32.30 Morguninn eftir sagði Móse við lýðinn: 'Þér hafið drýgt stóra synd. En nú vil ég fara upp til Drottins; má vera, að ég fái friðþægt fyrir synd yðar.' 32.31 Síðan sneri Móse aftur til Drottins og mælti: 'Æ, þetta fólk hefir drýgt stóra synd og gjört sér guð af gulli. 32.32 Ég bið, fyrirgef þeim nú synd þeirra! Ef ekki, þá bið ég, að þú máir mig af bók þinni, sem þú hefir skrifað.' 32.33 En Drottinn sagði við Móse: 'Hvern þann, er syndgað hefir móti mér, vil ég má af bók minni. 32.34 Far nú og leið fólkið þangað, sem ég hefi sagt þér, sjá, engill minn skal fara fyrir þér. En þegar minn vitjunartími kemur, skal ég vitja synda þeirra á þeim.' 32.35 En Drottinn laust fólkið fyrir það, að þeir höfðu gjört kálfinn, sem Aron gjörði.
33.1 Drottinn sagði við Móse: 'Far nú héðan með fólkið, sem þú leiddir burt af Egyptalandi, til þess lands, sem ég sór Abraham, Ísak og Jakob, er ég sagði: ,Niðjum þínum vil ég gefa það.` 33.2 Ég vil senda engil á undan þér og reka burt Kanaaníta, Amoríta, Hetíta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta, _ 33.3 til þess lands, sem flýtur í mjólk og hunangi, því að ekki vil ég sjálfur fara þangað með þér, af því að þú ert harðsvíraður lýður, að eigi tortími ég þér á leiðinni.' 33.4 En er fólkið heyrði þennan ófögnuð, urðu þeir hryggir, og enginn maður bjó sig í skart. 33.5 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Seg Ísraelsmönnum: ,Þér eruð harðsvíraður lýður. Væri ég eitt augnablik með þér á leiðinni, mundi ég tortíma þér. Legg nú af þér skart þitt, svo að ég viti, hvað ég á að gjöra við þig.'` 33.6 Þá lögðu Ísraelsmenn niður skart sitt undir Hórebfjalli og báru það eigi upp frá því. 33.7 Móse tók tjaldið og reisti það fyrir utan herbúðirnar, spölkorn frá þeim, og kallaði það samfundatjald, og varð hver sá maður, er leita vildi til Drottins, að fara út til samfundatjaldsins, sem var fyrir utan herbúðirnar. 33.8 Og þegar Móse gekk út til tjaldsins, þá stóð upp allur lýðurinn og gekk hver út í sínar tjalddyr og horfði á eftir honum, þar til er hann var kominn inn í tjaldið. 33.9 Er Móse var kominn inn í tjaldið, steig skýstólpinn niður og nam staðar við tjalddyrnar, og Drottinn talaði við Móse. 33.10 Og allur lýðurinn sá skýstólpann standa við tjalddyrnar. Stóð þá allt fólkið upp og féll fram, hver fyrir sínum tjalddyrum. 33.11 En Drottinn talaði við Móse augliti til auglitis, eins og maður talar við mann. Því næst gekk Móse aftur til herbúðanna, en þjónn hans, sveinninn Jósúa Núnsson, vék ekki burt úr tjaldinu. 33.12 Móse sagði við Drottin: 'Sjá, þú segir við mig: ,Far með fólk þetta.` En þú hefir ekki látið mig vita, hvern þú ætlar að senda með mér. Og þó hefir þú sagt: ,Ég þekki þig með nafni, og þú hefir einnig fundið náð í augum mínum.` 33.13 Hafi ég nú fundið náð í augum þínum, þá bið ég: Gjör mér kunna þína vegu, að ég megi þekkja þig, svo að ég finni náð í augum þínum, og gæt þess, að þjóð þessi er þinn lýður.' 33.14 Drottinn sagði: 'Auglit mitt mun fara með og búa þér hvíld.' 33.15 Móse sagði við hann: 'Fari auglit þitt eigi með, þá lát oss eigi fara héðan. 33.16 Af hverju mega menn ella vita, að ég og lýður þinn hafi fundið náð í augum þínum? Hvort eigi af því, að þú farir með oss, og ég og þinn lýður verðum ágættir framar öllum þjóðum, sem á jörðu búa?' 33.17 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Einnig þetta, er þú nú mæltir, vil ég gjöra, því að þú hefir fundið náð í augum mínum, og ég þekki þig með nafni.' 33.18 En Móse sagði: 'Lát mig þá sjá dýrð þína!' 33.19 Hann svaraði: 'Ég vil láta allan minn ljóma líða fram hjá þér, og ég vil kalla nafnið Drottinn frammi fyrir þér. Og ég vil líkna þeim, sem ég vil líkna, og miskunna þeim, sem ég vil miskunna.' 33.20 Og enn sagði hann: 'Þú getur eigi séð auglit mitt, því að enginn maður fær séð mig og lífi haldið.' 33.21 Drottinn sagði: 'Sjá, hér er staður hjá mér, og skalt þú standa uppi á berginu. 33.22 En þegar dýrð mín fer fram hjá, vil ég láta þig standa í bergskorunni, og mun ég byrgja þig með hendi minni, uns ég er kominn fram hjá. 33.23 En þegar ég tek hönd mína frá, munt þú sjá á bak mér. En auglit mitt fær enginn maður séð.'
34.1 Drottinn sagði við Móse: 'Högg þér tvær töflur af steini, eins og hinar fyrri voru. Mun ég þá rita á töflurnar þau orð, sem stóðu á hinum fyrri töflunum, er þú braust í sundur. 34.2 Og ver búinn á morgun og stíg árla upp á Sínaífjall og kom þar til mín uppi á fjallstindinum. 34.3 Enginn maður má fara upp þangað með þér, og enginn má heldur láta sjá sig nokkurs staðar á fjallinu. Eigi mega heldur sauðir eða naut vera á beit uppi undir fjallinu.' 34.4 Þá hjó Móse tvær töflur af steini, eins og hinar fyrri. Og hann reis árla næsta morgun og gekk upp á Sínaífjall eins og Drottinn hafði boðið honum og tók í hönd sér báðar steintöflurnar. 34.5 Þá steig Drottinn niður í skýi, en staðnæmdist þar hjá honum og kallaði nafn Drottins. 34.6 Drottinn gekk fram hjá honum og kallaði: 'Drottinn, Drottinn, miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur, 34.7 sem auðsýnir gæsku þúsundum og fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir, en lætur þeirra þó eigi með öllu óhegnt, heldur vitjar misgjörða feðranna á börnum og barnabörnum, já í þriðja og fjórða lið.' 34.8 Móse féll þá skjótlega til jarðar og tilbað. 34.9 Og hann sagði: 'Hafi ég, Drottinn, fundið náð í augum þínum, þá fari Drottinn með oss, því að þetta er harðsvíraður lýður. En fyrirgef oss misgjörðir vorar og syndir, og gjör oss að þinni eign.' 34.10 Drottinn sagði: 'Sjá, ég gjöri sáttmála. Í augsýn alls þíns fólks vil ég gjöra þau undur, að ekki hafa slík verið gjörð í nokkru landi eða hjá nokkurri þjóð, og skal allt fólkið, sem þú ert hjá, sjá verk Drottins, því að furðulegt er það, sem ég mun við þig gjöra. 34.11 Gæt þess, sem ég býð þér í dag: Sjá, ég vil stökkva burt undan þér Amorítum, Kanaanítum, Hetítum, Peresítum, Hevítum og Jebúsítum. 34.12 Varast þú að gjöra nokkurn sáttmála við íbúa lands þess, sem þú kemur til, svo að þeir verði þér ekki að tálsnöru, ef þeir búa á meðal þín, 34.13 heldur skuluð þér rífa niður ölturu þeirra, brjóta í sundur merkissteina þeirra og höggva niður asérur þeirra. 34.14 Þú skalt eigi tilbiðja neinn annan guð, því að Drottinn nefnist vandlætari. Vandlátur Guð er hann. 34.15 Varast að gjöra nokkurn sáttmála við íbúa landsins, því að þeir munu taka fram hjá með guðum sínum og þeir munu færa fórnir guðum sínum, og þér mun verða boðið og þú munt eta af fórnum þeirra. 34.16 Og þú munt taka dætur þeirra handa sonum þínum, og dætur þeirra munu taka fram hjá með guðum sínum og tæla syni þína til að taka fram hjá með guðum þeirra. 34.17 Þú skalt eigi gjöra þér steypta guði. 34.18 Þú skalt halda hátíð hinna ósýrðu brauða. Sjö daga skaltu eta ósýrð brauð, eins og ég hefi boðið þér, á ákveðnum tíma í abíb-mánuði, því að í abíb-mánuði fórst þú út af Egyptalandi. 34.19 Allt það, sem opnar móðurlíf, er mitt, sömuleiðis allur fénaður þinn, sem karlkyns er, frumburðir nauta og sauða. 34.20 En frumburði undan ösnum skaltu leysa með lambi. Leysir þú ekki, skaltu brjóta þá úr hálsliðum. Alla frumburði sona þinna skaltu leysa, og enginn skal tómhentur koma fyrir auglit mitt. 34.21 Sex daga skaltu vinna, en hvílast hinn sjöunda dag, þá skaltu hvílast, hvort heldur er plægingartími eða uppskeru. 34.22 Þú skalt halda viknahátíðina, hátíð frumgróða hveitiuppskerunnar, og uppskeruhátíðina við árslokin. 34.23 Þrem sinnum á ári skal allt þitt karlkyn birtast frammi fyrir Drottni Guði, Guði Ísraels. 34.24 Því að ég mun reka heiðingjana burt frá þér og færa út landamerki þín, og enginn skal áseilast land þitt, þegar þú fer upp til að birtast frammi fyrir Drottni Guði þínum þrem sinnum á ári. 34.25 Þú skalt ekki fram bera blóð fórnar minnar með sýrðu brauði, og páskahátíðarfórnin má ekki liggja til morguns. 34.26 Hið fyrsta, frumgróða jarðar þinnar, skaltu færa til húss Drottins Guðs þíns. Þú skalt ekki sjóða kið í mjólk móður sinnar.' 34.27 Drottinn sagði við Móse: 'Skrifa þú upp þessi orð, því að samkvæmt þessum orðum hefi ég gjört sáttmála við þig og við Ísrael.' 34.28 Og Móse var þar hjá Drottni fjörutíu daga og fjörutíu nætur og át ekki brauð og drakk ekki vatn. Og hann skrifaði á töflurnar orð sáttmálans, tíu boðorðin. 34.29 En er Móse gekk ofan af Sínaífjalli, og hann hafði báðar sáttmálstöflurnar í hendi sér, þegar hann gekk ofan af fjallinu, þá vissi Móse ekki að geislar stóðu af andlitshörundi hans, af því að hann hafði talað við Drottin. 34.30 Og Aron og allir Ísraelsmenn sáu Móse, og sjá: Geislar stóðu af andlitshörundi hans. Þorðu þeir þá ekki að koma nærri honum. 34.31 En Móse kallaði á þá, og sneru þeir þá aftur til hans, Aron og allir leiðtogar safnaðarins, og talaði Móse við þá. 34.32 Eftir það gengu allir Ísraelsmenn til hans, og bauð hann þeim að halda allt það, sem Drottinn hafði við hann talað á Sínaífjalli. 34.33 Er Móse hafði lokið máli sínu við þá, lét hann skýlu fyrir andlit sér. 34.34 En er Móse gekk fram fyrir Drottin til þess að tala við hann, tók hann skýluna frá, þar til er hann gekk út aftur. Því næst gekk hann út og flutti Ísraelsmönnum það, sem honum var boðið. 34.35 Sáu Ísraelsmenn þá andlit Móse, hversu geislar stóðu af andlitshörundi hans. Lét Móse þá skýluna aftur fyrir andlit sér, þar til er hann gekk inn til þess að tala við Guð.
35.1 Móse stefndi saman öllum söfnuði Ísraelsmanna og sagði við þá: 'Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið að gjöra: 35.2 ,Sex daga skal verk vinna, en sjöundi dagurinn skal vera yður helgur hvíldardagur, hátíðarhvíld Drottins. Hver sem verk vinnur á þeim degi, skal líflátinn verða. 35.3 Hvergi skuluð þér kveikja upp eld í híbýlum yðar á hvíldardegi.'` 35.4 Móse talaði til alls safnaðar Ísraelsmanna og mælti: 'Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið: 35.5 ,Færið Drottni gjöf af því, sem þér eigið. Hver sá, er gefa vill af fúsum huga, beri fram gjöf Drottni til handa: gull, silfur og eir; 35.6 bláan purpura, rauðan purpura, skarlat, baðmull og geitahár; 35.7 rauðlituð hrútskinn, höfrungaskinn og akasíuvið; 35.8 olíu til ljósastikunnar, kryddjurtir til smurningarolíu og ilmreykelsis; 35.9 sjóamsteina og steina til legginga á hökulinn og brjóstskjöldinn. 35.10 Og allir hagleiksmenn meðal yðar komi og búi til allt það, sem Drottinn hefir boðið: 35.11 búðina, tjöldin yfir hana, þak hennar, króka, borð, slár, stólpa og undirstöður, 35.12 örkina og stengurnar, er henni fylgja, lokið og fortjaldsdúkbreiðuna, 35.13 borðið og stengurnar, er því fylgja, öll áhöld þess og skoðunarbrauðin, 35.14 ljósastikuna, áhöld þau og lampa, er henni fylgja, og olíu til ljósastikunnar, 35.15 reykelsisaltarið og stengurnar, er því fylgja, smurningarolíuna, ilmreykelsið og dúkbreiðuna fyrir dyrnar, fyrir dyr búðarinnar, 35.16 brennifórnaraltarið og eirgrindina, sem því fylgir, stengur þess og öll áhöld, og kerið með stétt þess, 35.17 tjöld forgarðsins, stólpa hans með undirstöðum og dúkbreiðuna fyrir hlið forgarðsins, 35.18 hæla búðarinnar og hæla forgarðsins og þau stög, sem þar til heyra, 35.19 glitklæðin til embættisgjörðar í helgidóminum, hin helgu klæði Arons prests og prestsþjónustuklæði sona hans.'` 35.20 Því næst gekk allur söfnuður Ísraelsmanna burt frá Móse. 35.21 Komu þá allir, sem gáfu af fúsum huga og með ljúfu geði, og færðu Drottni gjafir til að gjöra af samfundatjaldið og allt það, sem þurfti til þjónustugjörðarinnar í því og til hinna helgu klæða. 35.22 Og þeir komu, bæði menn og konur, allir þeir, sem fúsir voru að gefa, og færðu spangir, eyrnagull, hringa, hálsmen og alls konar gullgripi, svo og hver sá, er færa vildi Drottni gull að fórnargjöf. 35.23 Og hver maður, sem átti í eigu sinni bláan purpura, rauðan purpura, skarlat, baðmull, geitahár, rauðlituð hrútskinn og höfrungaskinn, bar það fram. 35.24 Og hver sem bar fram silfur og eir að fórnargjöf, færði það Drottni að fórnargjöf, og hver sem átti í eigu sinni akasíuvið til hvers þess smíðis, er gjöra skyldi, bar hann fram. 35.25 Og allar hagvirkar konur spunnu með höndum sínum og báru fram spuna sinn: bláan purpura, rauðan purpura, skarlat og baðmull. 35.26 Og allar konur, sem til þess voru fúsar og höfðu kunnáttu til, spunnu geitahár. 35.27 En foringjarnir færðu sjóamsteina og steina til legginga á hökulinn og brjóstskjöldinn, 35.28 og kryddjurtir og olíu til ljósastikunnar og til smurningarolíu og ilmreykelsis. 35.29 Ísraelsmenn færðu Drottni þessar gjafir sjálfviljuglega, hver maður og hver kona, er fúslega vildi láta eitthvað af hendi rakna til alls þess verks, er Drottinn hafði boðið Móse að gjöra. 35.30 Móse sagði við Ísraelsmenn: 'Sjáið, Drottinn hefir kvatt til Besalel Úríson, Húrssonar, af Júda ættkvísl 35.31 og fyllt hann Guðs anda, bæði vísdómi, skilningi, kunnáttu og hvers konar hagleik, 35.32 til þess að upphugsa listaverk og smíða úr gulli, silfri og eiri 35.33 og skera steina til greypingar og til tréskurðar, til þess að vinna að hvers konar hagvirki. 35.34 Hann hefir og gefið honum þá gáfu að kenna öðrum, bæði honum og Oholíab Akísamakssyni af Dans ættkvísl. 35.35 Hann hefir fyllt þá hugviti til alls konar útskurðar, listvefnaðar, glitvefnaðar af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og baðmull, og til dúkvefnaðar, svo að þeir geta framið alls konar iðn og upphugsað listaverk.
36.1 Og skulu þeir Besalel og Oholíab og allir hugvitsmenn, er Drottinn hefir gefið hugvit og kunnáttu, svo að þeir bera skyn á, hvernig gjöra skal allt það verk, er að helgidómsgjörðinni lýtur, gjöra allt eins og Drottinn hefir boðið.' 36.2 Móse lét þá kalla Besalel og Oholíab og alla hugvitsmenn, er Drottinn hafði gefið hugvit, alla þá, sem af fúsum huga gengu að verkinu til að vinna það. 36.3 Tóku þeir við af Móse öllum gjöfunum, sem Ísraelsmenn höfðu fram borið til framkvæmda því verki, er að helgidómsgjörðinni laut. En þeir færðu honum á hverjum morgni eftir sem áður gjafir sjálfviljuglega. 36.4 Þá komu allir hugvitsmennirnir, sem störfuðu að helgidómsgjörðinni í smáu og stóru, hver frá sínu verki, sem þeir voru að vinna, 36.5 og sögðu við Móse á þessa leið: 'Fólkið leggur til miklu meira en þörf gjörist til að vinna það verk, sem Drottinn hefur boðið að gjöra.' 36.6 Þá bauð Móse að láta þetta boð út ganga um herbúðirnar: 'Enginn, hvorki karl né kona, skal framar hafa nokkurn starfa með höndum í því skyni að gefa til helgidómsins.' Lét fólkið þá af að færa gjafir. 36.7 Var þá gnógt verkefni fyrir þá til alls þess, er gjöra þurfti, og jafnvel nokkuð afgangs. 36.8 Gjörðu nú allir hugvitsmenn meðal þeirra, er að verkinu unnu, tjaldbúðina af tíu dúkum. Voru þeir gjörðir af tvinnaðri baðmull, bláum purpura, rauðum purpura og skarlati, og listofnir kerúbar á. 36.9 Hver dúkur var tuttugu og átta álna langur og fjögra álna breiður, og voru allir dúkarnir jafnir að máli. 36.10 Fimm dúkarnir voru tengdir saman hver við annan, og eins voru hinir fimm dúkarnir tengdir saman hver við annan. 36.11 Þá voru gjörðar lykkjur af bláum purpura á jaðri ysta dúksins í samfellunni. Eins var gjört á jaðri ysta dúksins í hinni samfellunni. 36.12 Fimmtíu lykkjur voru gjörðar á öðrum dúknum, og eins voru gjörðar fimmtíu lykkjur á jaðri þess dúksins, sem var í hinni samfellunni, svo að lykkjurnar stóðust á hver við aðra. 36.13 Þá voru gjörðir fimmtíu krókar af gulli og dúkarnir tengdir saman hver við annan með krókunum, svo að tjaldbúðin varð ein heild. 36.14 Því næst voru gjörðir dúkar af geitahári til að tjalda með yfir búðina, ellefu að tölu. 36.15 Hver dúkur var þrjátíu álna langur og fjögra álna breiður, og voru allir ellefu dúkarnir jafnir að máli. 36.16 Þá voru tengdir saman fimm dúkar sér og sex dúkar sér, 36.17 og síðan búnar til fimmtíu lykkjur á jaðri ysta dúksins í annarri samfellunni og eins fimmtíu lykkjur á dúkjaðri hinnar samfellunnar. 36.18 Þá voru gjörðir fimmtíu eirkrókar til að tengja saman tjaldið, svo að það varð ein heild. 36.19 Þá var enn gjört þak yfir tjaldið af rauðlituðum hrútskinnum og enn eitt þak þar utan yfir af höfrungaskinnum. 36.20 Því næst voru gjörð þiljuborðin í tjaldbúðina. Voru þau af akasíuviði og stóðu upp og ofan. 36.21 Var hvert borð tíu álnir á lengd og hálf önnur alin á breidd. 36.22 Á hverju borði voru tveir tappar, báðir sameinaðir. Var svo gjört á öllum borðum tjaldbúðarinnar. 36.23 Og þannig voru borðin í tjaldbúðina gjörð: Tuttugu borð í suðurhliðina, 36.24 og fjörutíu undirstöður af silfri voru búnar til undir tuttugu borðin, tvær undirstöður undir hvert borð, sín fyrir hvorn tappa. 36.25 Og í hina hlið tjaldbúðarinnar, norðurhliðina, voru gjörð tuttugu borð 36.26 og fjörutíu undirstöður af silfri, tvær undirstöður undir hvert borð. 36.27 Í afturgafl búðarinnar, gegnt vestri, voru gjörð sex borð. 36.28 Og tvö borð voru gjörð í búðarhornin á afturgaflinum. 36.29 Voru þau tvöföld að neðan og héldu sömuleiðis fullu máli upp úr allt til hins fyrsta hrings. Þannig var þeim háttað hvorum tveggja á báðum hornunum. 36.30 Borðin voru átta og með undirstöðum af silfri, sextán undirstöðum, tveim undirstöðum undir hverju borði. 36.31 Því næst voru gjörðar slár af akasíuviði, fimm á borðin í annarri hlið búðarinnar 36.32 og fimm slár á borðin í hinni hlið búðarinnar og fimm slár á borðin í afturgafli búðarinnar, gegnt vestri. 36.33 Þá var gjörð miðsláin og látin liggja á miðjum borðunum alla leið, frá einum enda til annars. 36.34 Og voru borðin gulllögð, en hringarnir á þeim, sem slárnar gengu í, gjörðir af gulli. Slárnar voru og gulllagðar. 36.35 Þá var fortjaldið gjört af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull. Var það til búið með listvefnaði og kerúbar á. 36.36 Til þess voru gjörðir fjórir stólpar af akasíuviði. Voru þeir gulllagðir og naglarnir í þeim af gulli, en undir stólpana voru steyptar fjórar undirstöður af silfri. 36.37 Dúkbreiða var og gjörð fyrir dyr tjaldsins, af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, og glitofin, 36.38 svo og fimm stólparnir er henni fylgdu og naglarnir í þeim. Voru stólpahöfuðin gulllögð og hringrandir þeirra, en fimm undirstöðurnar undir þeim voru af eiri.
37.1 Besalel gjörði örkina af akasíuviði. Var hún hálf þriðja alin á lengd, hálf önnur alin á breidd og hálf önnur alin á hæð. 37.2 Og hann lagði hana skíru gulli innan og utan og gjörði umhverfis á henni brún af gulli. 37.3 Og hann steypti til arkarinnar fjóra hringa af gulli til að festa þá við fjóra fætur hennar, sína tvo hringana hvorumegin. 37.4 Þá gjörði hann stengur af akasíuviði og gulllagði þær, 37.5 smeygði síðan stöngunum í hringana á hliðum arkarinnar, svo að bera mátti örkina. 37.6 Þá gjörði hann lok af skíru gulli. Var það hálf þriðja alin á lengd og hálf önnur alin á breidd. 37.7 Og hann gjörði tvo kerúba af gulli, af drifnu smíði gjörði hann þá á hvorum tveggja loksendanum. 37.8 Var annar kerúbinn á öðrum endanum, en hinn á hinum endanum. Gjörði hann kerúbana áfasta við lokið á báðum endum þess. 37.9 En kerúbarnir breiddu út vængina uppi yfir, svo að þeir huldu lokið með vængjum sínum, og andlit þeirra sneru hvort í móti öðru; að lokinu sneru andlit kerúbanna. 37.10 Þá gjörði hann borðið af akasíuviði, tvær álnir á lengd, alin á breidd og hálfa aðra alin á hæð. 37.11 Lagði hann það skíru gulli og gjörði umhverfis á því brún af gulli. 37.12 Umhverfis það gjörði hann lista þverhandar breiðan og bjó til brún af gulli umhverfis á listanum. 37.13 Og hann steypti til borðsins fjóra hringa af gulli og setti hringana í fjögur hornin, sem voru á fjórum fótum borðsins. 37.14 Voru hringarnir fast uppi við listann, svo að í þá yrði smeygt stöngunum til þess að bera borðið. 37.15 Og hann gjörði stengurnar af akasíuviði og gulllagði þær, svo að bera mátti borðið. 37.16 Þá bjó hann til ílátin, er á borðinu skyldu standa, föt þau, er því tilheyrðu, skálar og ker, og bolla þá, er til dreypifórnar eru hafðir, _ af skíru gulli. 37.17 Hann gjörði ljósastikuna af skíru gulli. Með drifnu smíði gjörði hann ljósastikuna, stétt hennar og legg. Blómbikarar hennar, knappar hennar og blóm, voru samfastir henni. 37.18 Og sex álmur lágu út frá hliðum hennar, þrjár álmur ljósastikunnar út frá annarri hlið hennar og þrjár álmur ljósastikunnar út frá hinni hlið hennar. 37.19 Þrír bikarar, í lögun sem möndlublóm, voru á fyrstu álmunni, knappur og blóm. Þrír bikarar, í lögun sem möndlublóm, voru á næstu álmunni, knappur og blóm. Svo var á öllum sex álmunum, sem út gengu frá ljósastikunni. 37.20 Og á sjálfri ljósastikunni voru fjórir bikarar í lögun sem möndlublóm, knappar hennar og blóm: 37.21 einn knappur undir tveim neðstu álmunum, samfastur ljósastikunni, og annar knappur undir tveim næstu álmunum, samfastur ljósastikunni, og enn knappur undir tveim efstu álmunum, samfastur ljósastikunni, svo var undir sex álmunum, er út gengu frá ljósastikunni. 37.22 Knapparnir og álmurnar voru samfastar henni. Allt var það gjört með drifnu smíði af skíru gulli. 37.23 Og hann gjörði lampa hennar sjö og ljósasöx þau og skarpönnur, er henni fylgdu af skíru gulli. 37.24 Af einni talentu skíragulls gjörði hann hana með öllum áhöldum hennar. 37.25 Þá gjörði hann reykelsisaltarið af akasíuviði. Það var álnarlangt og álnarbreitt, ferhyrnt, tveggja álna hátt og horn þess áföst við það. 37.26 Og hann lagði það skíru gulli, bæði að ofan og á hliðunum allt í kring, svo og horn þess, og hann gjörði brún af gulli á því allt í kring. 37.27 Og hann gjörði á því tvo hringa af gulli fyrir neðan brúnina báðumegin, á báðum hliðum þess, til að smeygja í stöngum til að bera það á. 37.28 Og stengurnar gjörði hann af akasíuviði og gulllagði þær. 37.29 Hann bjó og til hina helgu smurningarolíu og hreina ilmreykelsið á smyrslarahátt.
38.1 Þá gjörði hann brennifórnaraltarið af akasíuviði. Það var fimm álna langt og fimm álna breitt, ferhyrnt og þriggja álna hátt. 38.2 Og hann gjörði hornin á því upp af fjórum hyrningum þess, _ þau horn voru áföst við það _, og hann eirlagði það. 38.3 Og hann gjörði öll áhöld, sem altarinu skyldu fylgja: kerin, eldspaðana, fórnarskálirnar, soðkrókana og eldpönnurnar. Öll áhöld þess gjörði hann af eiri. 38.4 Enn fremur gjörði hann um altarið eirgrind, eins og riðið net, fyrir neðan umgjörð þess undir niðri allt upp að miðju þess. 38.5 Og hann steypti fjóra hringa í fjögur horn eirgrindarinnar til að smeygja í stöngunum. 38.6 En stengurnar gjörði hann af akasíuviði og eirlagði þær. 38.7 Og hann smeygði stöngunum í hringana á hliðum altarisins til að bera það á. Hann gjörði það af borðum, holt að innan. 38.8 Því næst gjörði hann eirkerið með eirstétt úr speglum kvenna þeirra, er gegndu þjónustu við dyr samfundatjaldsins. 38.9 Hann gjörði forgarðinn þannig: Á suðurhliðinni voru tjöld fyrir forgarðinum úr tvinnaðri baðmull, hundrað álna löng, 38.10 með tuttugu stólpum og tuttugu undirstöðum af eiri, en naglar í stólpunum og hringrandir á þeim voru af silfri. 38.11 Á norðurhliðinni voru og hundrað álna tjöld með tuttugu stólpum og tuttugu undirstöðum af eiri, en naglarnir í stólpunum og hringrandirnar á þeim voru af silfri. 38.12 Að vestanverðu voru fimmtíu álna löng tjöld með tíu stólpum og tíu undirstöðum, en naglarnir í stólpunum og hringrandirnar á þeim voru af silfri. 38.13 Og að austanverðu, mót uppkomu sólar, voru fimmtíu álna tjöld. 38.14 Voru fimmtán álna tjöld annars vegar með þremur stólpum og þremur undirstöðum, 38.15 og hins vegar, báðumegin við forgarðshliðið, sömuleiðis fimmtán álna tjöld með þremur stólpum og þremur undirstöðum. 38.16 Öll tjöld umhverfis forgarðinn voru úr tvinnaðri baðmull, 38.17 undirstöðurnar undir stólpunum af eiri, naglarnir í stólpunum og hringrandirnar á þeim af silfri og stólpahöfuðin silfurlögð, en á öllum stólpum forgarðsins voru hringrandir af silfri. 38.18 Dúkbreiðan fyrir hliði forgarðsins var glitofin af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, tuttugu álna löng og fimm álna há eftir dúkbreiddinni, eins og tjöld forgarðsins voru. 38.19 Og þar til heyrðu fjórir stólpar og fjórar undirstöður af eiri, en naglarnir í þeim voru af silfri, stólpahöfuðin silfurlögð og hringrandirnar á þeim af silfri. 38.20 Og allir hælarnir til tjaldbúðarinnar og forgarðsins hringinn í kring voru af eiri. 38.21 Þetta er kostnaðarreikningur tjaldbúðarinnar, sáttmálsbúðarinnar, sem gjörður var að boði Móse með aðstoð levítanna af Ítamar, syni Arons prests. 38.22 En Besalel Úríson, Húrssonar, af Júda ættkvísl gjörði allt það, sem Drottinn hafði boðið Móse, 38.23 og með honum var Oholíab Akísamaksson af Dans ættkvísl; hann var hagur á steingröft, listvefnað og glitvefnað af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og baðmull. 38.24 Allt það gull, sem haft var til smíðisins við alla helgidómsgjörðina og fært var að fórnargjöf, var tuttugu og níu talentur og sjö hundruð og þrjátíu siklar eftir helgidóms siklum. 38.25 Silfrið, sem þeir af söfnuðinum, er í manntali voru, lögðu til, var hundrað talentur og seytján hundruð sjötíu og fimm siklar eftir helgidóms siklum, 38.26 hálfsikill á mann, það er hálfur sikill eftir helgidóms sikli, á hvern þann, er talinn var í liðskönnun, tvítugur og þaðan af eldri, og voru það sex hundruð og þrjú þúsund, fimm hundruð og fimmtíu manns. 38.27 Hundrað talenturnar af silfri voru hafðar til að steypa úr undirstöður til helgidómsins og undirstöður til fortjaldsins, hundrað undirstöður úr hundrað talentum, ein talenta í hverja undirstöðu. 38.28 Af seytján hundruð sjötíu og fimm siklunum gjörði hann naglana í stólpana, silfurlagði stólpahöfuðin og bjó til hringrandir á þá. 38.29 Fórnargjafa-eirinn var sjötíu talentur og tvö þúsund og fjögur hundruð siklar. 38.30 Af honum gjörði hann undirstöðurnar til samfundatjalds-dyranna, eiraltarið, eirgrindina, sem því fylgdi, og öll áhöld altarisins, 38.31 undirstöðurnar til forgarðsins allt í kring, undirstöðurnar til forgarðshliðsins, alla hæla til tjaldbúðarinnar og alla hæla til forgarðsins allt í kring.
39.1 Af bláa purpuranum, rauða purpuranum og skarlatinu gjörðu þeir glitklæði til embættisgjörðar í helgidóminum, og þeir gjörðu hin helgu klæði Arons, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 39.2 Hann bjó til hökulinn af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull. 39.3 Þeir beittu út gullið í þynnur, en hann skar þynnurnar í þræði til að vefa þá inn í bláa purpurann, rauða purpurann, skarlatið og baðmullina með forkunnarlegu hagvirki. 39.4 Þeir gjörðu axlarhlýra á hökulinn, og voru þeir festir við hann. Á báðum endum var hann festur við þá. 39.5 Og hökullindinn, sem á honum var til að gyrða hann að sér, var áfastur honum og með sömu gerð: af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 39.6 Og þeir greyptu sjóamsteina inn í umgjarðir af gulli og grófu á þá nöfn Ísraels sona með innsiglisgrefti. 39.7 Festi hann þá á axlarhlýra hökulsins, svo að þeir væru minnissteinar fyrir Ísraelsmenn, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 39.8 Þá bjó hann til brjóstskjöldinn, gjörðan með listasmíði og með sömu gerð og hökullinn, af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull. 39.9 Var hann ferhyrndur. Gjörðu þeir brjóstskjöldinn tvöfaldan. Var hann spannarlangur og spannarbreiður og tvöfaldur. 39.10 Og þeir settu hann fjórum steinaröðum: Eina röð af karneól, tópas og smaragði, var það fyrsta röðin; 39.11 önnur röðin: karbunkull, safír og jaspis; 39.12 þriðja röðin: hýasint, agat og ametýst; 39.13 og fjórða röðin: krýsólít, sjóam og onýx. Voru þeir greyptir í gullumgjarðir, hver á sínum stað. 39.14 Og steinarnir voru tólf, eftir nöfnum Ísraels sona, og með nöfnum þeirra. Voru þeir grafnir með innsiglisgrefti, og var sitt nafn á hverjum þeirra, eftir þeim tólf kynkvíslum. 39.15 Og þeir gjörðu festar til brjóstskjaldarins, snúnar eins og fléttur, af skíru gulli. 39.16 Þeir gjörðu og tvær umgjarðir af gulli og tvo gullhringa, og þessa tvo hringa festu þeir á tvö horn brjóstskjaldarins; 39.17 festu síðan báðar gullflétturnar í þessa tvo hringa á hornum brjóstskjaldarins. 39.18 En tvo enda beggja snúnu festanna festu þeir við umgjarðirnar tvær og festu þær við axlarhlýra hökulsins, á hann framanverðan. 39.19 Þá gjörðu þeir enn tvo hringa af gulli og festu þá í tvö horn brjóstskjaldarins, innanvert í þá brúnina, sem að höklinum vissi. 39.20 Og enn gjörðu þeir tvo hringa af gulli og festu þá á báða axlarhlýra hökulsins, neðan til á hann framanverðan, þar sem hann var tengdur saman, fyrir ofan hökullindann. 39.21 Og knýttu þeir brjóstskjöldinn með hringum hans við hökulhringana með snúru af bláum purpura, svo að hann lægi fyrir ofan hökullindann og brjóstskjöldurinn losnaði ekki við hökulinn, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 39.22 Síðan gjörði hann hökulmöttulinn. Var hann ofinn og allur af bláum purpura, 39.23 og var hálsmál möttulsins á honum miðjum, eins og á brynju, og hálsmálið faldað með borða, svo að ekki skyldi rifna út úr. 39.24 Á möttulfaldinum gjörðu þeir granatepli af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull. 39.25 Þeir gjörðu og bjöllur af skíru gulli og festu bjöllurnar millum granateplanna á möttulfaldinum allt í kring, á millum granateplanna, 39.26 svo að fyrst kom bjalla og granatepli, og þá aftur bjalla og granatepli, allt í kring á möttulfaldinum, til þjónustugjörðar, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 39.27 Þá gjörðu þeir kyrtlana handa Aroni og sonum hans af baðmull, og voru þeir ofnir. 39.28 Sömuleiðis vefjarhöttinn af baðmull og höfuðdúkana prýðilegu af baðmull og línbrækurnar af tvinnaðri baðmull, 39.29 og beltið af tvinnaðri baðmull, bláum purpura, rauðum purpura og skarlati, glitofið, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 39.30 Síðan gjörðu þeir spöngina, hið helga ennishlað, af skíru gulli og letruðu á hana með innsiglisgrefti: 'Helgaður Drottni.' 39.31 Og þeir festu við hana snúru af bláum purpura til að festa hana á vefjarhöttinn ofanverðan, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 39.32 Þannig var nú lokið öllu verki við búð samfundatjaldsins, og gjörðu Ísraelsmenn allt, sem Drottinn hafði boðið Móse. 39.33 Síðan fluttu þeir búðina til Móse: tjaldið með öllum áhöldum þess, krókana, þiljuborðin, slárnar, stólpana og undirstöðurnar, 39.34 þakið úr rauðlituðu hrútskinnunum, þakið úr höfrungaskinnunum og fortjaldsdúkbreiðuna, 39.35 sáttmálsörkina, stengurnar og arkarlokið, 39.36 borðið með öllum þess áhöldum og skoðunarbrauðin, 39.37 gullljósastikuna með lömpum, lömpunum, er raða skyldi, öll áhöld hennar og olíu ljósastikunnar, 39.38 gullaltarið, smurningarolíuna, ilmreykelsið og dúkbreiðuna fyrir tjalddyrnar, 39.39 eiraltarið ásamt eirgrindinni, stengur þess og öll áhöld, kerið og stétt þess, 39.40 forgarðstjöldin, stólpa hans og undirstöður, dúkbreiðuna fyrir hlið forgarðsins, stög þau og hæla, sem þar til heyra, og öll þau áhöld, sem heyra til þjónustugjörð í búðinni, í samfundatjaldinu, 39.41 glitklæðin til embættisgjörðar í helgidóminum, hin helgu klæði Arons prests og prestsþjónustuklæði sona hans. 39.42 Unnu Ísraelsmenn allt verkið, í alla staði svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 39.43 Og Móse leit yfir allt verkið og sjá, þeir höfðu unnið það, svo sem Drottinn hafði fyrir lagt, svo höfðu þeir gjört það. Og Móse blessaði þá.
40.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 40.2 'Á fyrsta degi hins fyrsta mánaðar skalt þú reisa búð samfundatjaldsins. 40.3 Þar skalt þú setja sáttmálsörkina og byrgja fyrir örkina með fortjaldinu. 40.4 Og þú skalt bera borðið þangað og raða því, sem á því skal vera. Síðan skalt þú bera þangað ljósastikuna og setja upp lampa hennar. 40.5 Og þú skalt setja hið gullna reykelsisaltari fyrir framan sáttmálsörkina og hengja dúkbreiðuna fyrir búðardyrnar. 40.6 Og þú skalt setja brennifórnaraltarið fyrir framan dyr samfundatjalds-búðarinnar. 40.7 Og kerið skalt þú setja milli samfundatjaldsins og altarisins og láta vatn í það. 40.8 Síðan skalt þú reisa forgarðinn umhverfis og hengja dúkbreiðu fyrir forgarðshliðið. 40.9 Þá skalt þú taka smurningarolíuna og smyrja búðina og allt, sem í henni er, og vígja hana með öllum áhöldum hennar, svo að hún sé heilög. 40.10 Og þú skalt smyrja brennifórnaraltarið og öll áhöld þess, og þú skalt vígja altarið, og skal altarið þá vera háheilagt. 40.11 Og þú skalt smyrja kerið og stétt þess og vígja það. 40.12 Þá skalt þú leiða Aron og sonu hans að dyrum samfundatjaldsins og þvo þá úr vatni. 40.13 Og þú skalt færa Aron í hin helgu klæði, smyrja hann og vígja, að hann þjóni mér í prestsembætti. 40.14 Þú skalt og leiða fram sonu hans og færa þá í kyrtlana, 40.15 og þú skalt smyrja þá, eins og þú smurðir föður þeirra, að þeir þjóni mér í prestsembætti, og skal smurning þeirra veita þeim ævinlegan prestdóm frá kyni til kyns.' 40.16 Og Móse gjörði svo. Eins og Drottinn hafði boðið honum, svo gjörði hann í alla staði. 40.17 Búðin var reist í fyrsta mánuði hins annars árs, fyrsta dag mánaðarins. 40.18 Reisti Móse búðina, lagði undirstöðurnar, sló upp þiljunum, setti í slárnar og reisti upp stólpana. 40.19 Og hann þandi tjaldvoðina yfir búðina og lagði tjaldþökin þar yfir, eins og Drottinn hafði boðið Móse. 40.20 Hann tók sáttmálið og lagði það í örkina, setti stengurnar í örkina og lét arkarlokið yfir örkina. 40.21 Og hann flutti örkina inn í búðina, setti upp fortjaldsdúkbreiðuna og byrgði fyrir sáttmálsörkina, eins og Drottinn hafði boðið Móse. 40.22 Hann setti borðið inn í samfundatjaldið, við norðurhlið búðarinnar, fyrir utan fortjaldið, 40.23 og hann raðaði á það brauðunum frammi fyrir Drottni, eins og Drottinn hafði boðið Móse. 40.24 Hann setti upp ljósastikuna í samfundatjaldinu gegnt borðinu við suðurhlið búðarinnar. 40.25 Og hann setti upp lampana frammi fyrir Drottni, eins og Drottinn hafði boðið Móse. 40.26 Hann setti upp gullaltarið inni í samfundatjaldinu fyrir framan fortjaldið, 40.27 og brenndi á því ilmreykelsi, eins og Drottinn hafði boðið Móse. 40.28 Síðan hengdi hann dúkbreiðuna fyrir dyr búðarinnar, 40.29 setti brennifórnaraltarið við dyr samfundatjalds-búðarinnar og fórnaði á því brennifórn og matfórn, eins og Drottinn hafði boðið Móse. 40.30 Hann setti kerið milli samfundatjaldsins og altarisins og lét vatn í það til þvottar, 40.31 og þvoðu þeir Móse, Aron og synir hans hendur sínar og fætur úr því. 40.32 Hvert sinn er þeir gengu inn í samfundatjaldið og nálguðust altarið, þvoðu þeir sér, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 40.33 Síðan reisti hann forgarðinn umhverfis búðina og altarið og hengdi dúkbreiðuna fyrir forgarðshliðið, og hafði Móse þá aflokið verkinu. 40.34 Þá huldi skýið samfundatjaldið, og dýrð Drottins fyllti búðina, 40.35 og mátti Móse ekki inn ganga í samfundatjaldið, því að skýið lá yfir því og dýrð Drottins fyllti búðina. 40.36 Hvert sinn er skýið hófst upp frá búðinni, lögðu Ísraelsmenn upp, alla þá stund er þeir voru á ferðinni. 40.37 En er skýið hófst ekki upp, lögðu Ísraelsmenn ekki af stað fyrr en þann dag er skýið hófst upp.
1.1 Drottinn kallaði á Móse og talaði við hann úr samfundatjaldinu og mælti: 1.2 'Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þegar einhver af yður vill færa Drottni fórn, þá skuluð þér færa fórn yðar af fénaðinum, af nautum og sauðum. 1.3 Sé fórn hans brennifórn af nautum, skal það, er hann fórnar, vera karlkyns og gallalaust. Skal hann leiða það að dyrum samfundatjaldsins, svo að hann verði Drottni velþóknanlegur. 1.4 Því næst skal hann leggja hönd sína á höfuð brennifórnarinnar, að hún afli honum velþóknunar og friðþægi fyrir hann. 1.5 Síðan skal hann slátra ungneytinu frammi fyrir Drottni. En synir Arons, prestarnir, skulu fram bera blóðið, og skulu þeir stökkva blóðinu allt í kring utan á altarið, sem stendur við dyr samfundatjaldsins. 1.6 Þá flái hann brennifórnina og hluti hana sundur. 1.7 En synir Arons, prestarnir, skulu gjöra eld á altarinu og leggja við á eldinn. 1.8 Og synir Arons, prestarnir, skulu raða stykkjunum, höfðinu og mörnum ofan á viðinn, sem lagður er á eldinn, sem er á altarinu. 1.9 En innýflin og fæturna skal þvo í vatni, og skal presturinn brenna það allt á altarinu til brennifórnar, eldfórnar þægilegs ilms fyrir Drottin. 1.10 Sé fórnargjöf sú, er hann fram ber til brennifórnar, af sauðfénaði, af sauðkindum eða geitum, þá skal það, er hann fórnar, vera karlkyns og gallalaust. 1.11 Og skal hann slátra því við altarið norðanvert frammi fyrir Drottni, en synir Arons, prestarnir, skulu stökkva blóðinu úr því utan á altarið allt í kring. 1.12 Síðan skal hann hluta það sundur, og skal presturinn raða stykkjunum ásamt höfðinu og mörnum ofan á viðinn, sem lagður er á eldinn, sem er á altarinu. 1.13 En innýflin og fæturna skal þvo í vatni, og skal presturinn fram bera það allt og brenna á altarinu. Er það brennifórn, eldfórn þægilegs ilms fyrir Drottin. 1.14 Vilji hann færa Drottni brennifórn af fuglum, þá taki hann til fórnar sinnar turtildúfur eða ungar dúfur. 1.15 Skal presturinn bera fuglinn að altarinu og klípa af höfuðið og brenna það á altarinu, en blóðið skal kreista út á altarishliðina. 1.16 Og hann skal taka sarpinn með fiðrinu á og kasta honum við austurhlið altarisins, þar sem askan er látin. 1.17 Og hann skal rífa vængina frá, en þó eigi slíta þá af, og skal presturinn brenna hann á altarinu, ofan á viðnum, sem lagður er á eldinn. Er það brennifórn, eldfórn þægilegs ilms fyrir Drottin.
2.1 Þegar einhver vill færa Drottni matfórn, þá skal fórn hans vera fínt mjöl, og skal hann hella yfir það olíu og leggja reykelsiskvoðu ofan á það. 2.2 Og hann skal færa það sonum Arons, prestunum, en presturinn skal taka af því hnefafylli sína, af fína mjölinu og af olíunni, ásamt allri reykelsiskvoðunni, og brenna það á altarinu sem ilmhluta fórnarinnar, sem eldfórn þægilegs ilms fyrir Drottin. 2.3 En það, sem af gengur matfórninni, fái Aron og synir hans sem háhelgan hluta af eldfórnum Drottins. 2.4 Viljir þú færa matfórn af því, sem í ofni er bakað, þá séu það ósýrðar kökur af fínu mjöli olíublandaðar og ósýrð flatbrauð olíusmurð. 2.5 En sé fórnargjöf þín matfórn á pönnu, þá skal hún vera ósýrt brauð af fínu mjöli olíublandað. 2.6 Þú skalt brjóta það í mola og hella yfir það olíu; þá er það matfórn. 2.7 En sé fórn þín matfórn tilreidd í suðupönnu, þá skal hún gjörð af fínu mjöli með olíu. 2.8 Og þú skalt færa Drottni matfórnina, sem af þessu er tilreidd. Skal færa hana prestinum, og hann skal fram bera hana að altarinu. 2.9 En presturinn skal af matfórninni taka ilmhlutann og brenna á altarinu til eldfórnar þægilegs ilms fyrir Drottin. 2.10 En það, sem af gengur matfórninni, fái Aron og synir hans sem háhelgan hluta af eldfórnum Drottins. 2.11 Engin matfórn, sem þér færið Drottni, skal gjörð af sýrðu deigi, því að ekkert súrdeig eða hunang megið þér brenna sem eldfórn Drottni til handa. 2.12 Í frumgróðafórn megið þér færa það Drottni, en upp að altarinu má eigi bera það til þægilegs ilms. 2.13 Allar matfórnir þínar skalt þú salti salta, og þú skalt eigi láta vanta í matfórnir þínar salt þess sáttmála, er Guð þinn hefir við þig gjört. Með öllum fórnum þínum skalt þú salt fram bera. 2.14 Færir þú Drottni frumgróðamatfórn, þá skalt þú fram bera í matfórn af frumgróða þínum öx, bökuð við eld, mulin korn úr nýslegnum kornstöngum. 2.15 Og þú skalt hella olíu yfir hana og leggja reykelsiskvoðu ofan á; þá er það matfórn. 2.16 Og presturinn skal brenna ilmhluta hennar, nokkuð af hinu mulda korni og olíunni, ásamt allri reykelsiskvoðunni, til eldfórnar fyrir Drottin.
3.1 Sé fórn hans heillafórn og færi hann hana af nautpeningi, hvort heldur er karlkyns eða kvenkyns, þá sé það gallalaust, er hann fram ber fyrir Drottin. 3.2 Því næst skal hann leggja hönd sína á höfuð fórnarinnar og slátra henni fyrir dyrum samfundatjaldsins, en synir Arons, prestarnir, skulu stökkva blóðinu allt í kring utan á altarið. 3.3 Skal hann síðan færa Drottni eldfórn af heillafórninni: netjuna, er hylur iðrin, og allan innýflamörinn, 3.4 bæði nýrun og nýrnamörinn, sem liggur innan á mölunum, og stærra lifrarblaðið. Við nýrun skal hann taka það frá. 3.5 Og synir Arons skulu brenna það á altarinu ofan á brennifórninni, sem liggur ofan á viðinum, sem lagður er á eldinn, til eldfórnar þægilegs ilms fyrir Drottin. 3.6 Sé fórnargjöfin, sem hann færir Drottni að heillafórn, af sauðfénaði, þá sé það, er hann fram ber, gallalaust, hvort heldur það er karlkyns eða kvenkyns. 3.7 Færi hann sauðkind að fórnargjöf, þá færi hann hana fram fyrir Drottin. 3.8 Því næst skal hann leggja hönd sína á höfuð fórnarinnar og slátra henni fyrir framan samfundatjaldið, en synir Arons skulu stökkva blóðinu allt í kring utan á altarið. 3.9 Skal hann síðan af heillafórninni færa Drottni í eldfórn mörinn úr henni: rófuna alla _ skal taka hana af fast við rófubeinið, _ netjuna, er hylur iðrin, og allan innýflamörinn, 3.10 bæði nýrun og nýrnamörinn, sem er innan á mölunum, og stærra lifrarblaðið. Við nýrun skal hann taka það frá. 3.11 Og presturinn skal brenna þetta á altarinu sem eldfórnarmat Drottni til handa. 3.12 Sé fórnargjöf hans geitsauður, þá skal hann færa hann fram fyrir Drottin, 3.13 leggja hönd sína á höfuð hans og slátra honum fyrir framan samfundatjaldið, en synir Arons skulu stökkva blóðinu allt í kring utan á altarið. 3.14 Því næst skal hann fram bera af honum sem fórnargjöf, sem eldfórn Drottni til handa, netjuna, er hylur iðrin, og allan innýflamörinn, 3.15 bæði nýrun og nýrnamörinn, sem er innan á mölunum, og stærra lifrarblaðið. Við nýrun skal hann taka það frá. 3.16 Og presturinn skal brenna það á altarinu sem eldfórnarmat þægilegs ilms; allur mör heyrir Drottni til. 3.17 Skal það vera ævinlegt lögmál hjá yður frá kyni til kyns í öllum bústöðum yðar: Þér skuluð engan mör og ekkert blóð eta.'
4.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 4.2 'Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Nú syndgar einhver af vangá í einhverju því, sem Drottinn hefir bannað að gjöra, og gjörir eitthvað af því. 4.3 Ef smurði presturinn syndgar og bakar fólkinu sekt, þá skal hann fyrir synd sína, er hann hefir drýgt, færa Drottni ungneyti gallalaust til syndafórnar. 4.4 Skal hann leiða uxann að dyrum samfundatjaldsins fram fyrir Drottin og leggja hönd sína á höfuð uxans og slátra uxanum frammi fyrir Drottni. 4.5 Skal smurði presturinn taka nokkuð af blóði uxans og bera það inn í samfundatjaldið. 4.6 Skal presturinn drepa fingri sínum í blóðið og stökkva sjö sinnum nokkru af blóðinu frammi fyrir Drottni, fyrir framan fortjald helgidómsins. 4.7 Því næst skal presturinn ríða nokkru af blóðinu á horn ilmreykelsisaltarisins, er stendur í samfundatjaldinu frammi fyrir Drottni, en öllu hinu blóði uxans skal hella niður við brennifórnaraltarið, er stendur við dyr samfundatjaldsins. 4.8 Síðan skal hann taka allan mörinn úr syndafórnaruxanum, _ netjuna, er hylur iðrin, og allan innýflamörinn, 4.9 bæði nýrun og nýrnamörinn, sem er innan á mölunum, og stærra lifrarblaðið; við nýrun skal hann taka það frá _, 4.10 eins og hann er tekinn úr heillafórnarnautinu, og skal presturinn brenna þetta á brennifórnaraltarinu. 4.11 En húð uxans og allt kjötið, ásamt höfðinu og fótunum, innýflunum og gorinu, 4.12 allan uxann skal hann færa út fyrir herbúðirnar á hreinan stað, þangað sem öskunni er hellt út, leggja hann á við og brenna í eldi. Þar sem öskunni er hellt út skal hann brenndur. 4.13 Ef allur Ísraels lýður misgjörir af vangá og það er söfnuðinum hulið og þeir gjöra eitthvað, sem Drottinn hefir bannað, og falla í sekt, 4.14 þá skal söfnuðurinn, þegar syndin, sem þeir hafa drýgt, er vitanleg orðin, færa ungneyti til syndafórnar og leiða það fram fyrir samfundatjaldið. 4.15 Og skulu öldungar safnaðarins leggja hendur sínar á höfuð uxans frammi fyrir Drottni og slátra uxanum frammi fyrir Drottni. 4.16 Og smurði presturinn skal bera nokkuð af blóði uxans inn í samfundatjaldið. 4.17 Og skal presturinn drepa fingri sínum í blóðið og stökkva því sjö sinnum frammi fyrir Drottni, fyrir framan fortjaldið. 4.18 Og nokkru af blóðinu skal hann ríða á horn altarisins, sem er frammi fyrir Drottni, inni í samfundatjaldinu, en öllu hinu blóðinu skal hann hella niður við brennifórnaraltarið, sem er við dyr samfundatjaldsins. 4.19 Og hann skal taka allan mörinn úr honum og brenna á altarinu. 4.20 Þannig skal hann fara með uxann. Eins og hann fór með syndafórnaruxann, svo skal hann með hann fara. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir þá, og þeim mun fyrirgefið verða. 4.21 Skal hann síðan færa uxann út fyrir herbúðirnar og brenna hann, eins og hann brenndi hinn fyrri uxann. Er það syndafórn safnaðarins. 4.22 Þegar leiðtogi syndgar og gjörir af vangá eitthvað, sem Drottinn Guð hans hefir bannað, og verður fyrir það sekur, 4.23 og honum er gjörð vitanleg synd sú, er hann hefir drýgt, þá skal hann færa að fórnargjöf geithafur gallalausan. 4.24 Skal hann leggja hönd sína á höfuð hafursins og slátra honum þar sem brennifórnunum er slátrað, frammi fyrir Drottni. Það er syndafórn. 4.25 Skal presturinn þá taka nokkuð af blóði syndafórnarinnar með fingri sínum og ríða því á horn brennifórnaraltarisins, en hinu blóðinu skal hann hella niður við brennifórnaraltarið. 4.26 En allan mörinn úr honum skal hann brenna á altarinu, eins og mörinn úr heillafórninni. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir hann vegna syndar hans, og honum mun fyrirgefið verða. 4.27 Ef einhver alþýðumaður syndgar af vangá með því að gjöra eitthvað það, sem Drottinn hefir bannað, og verður sekur, 4.28 og honum er gjörð vitanleg synd sú, sem hann hefir drýgt, þá skal hann færa að fórnargjöf geit gallalausa, fyrir synd þá, sem hann hefir drýgt. 4.29 Skal hann leggja hönd sína á höfuð syndafórnarinnar og slátra syndafórninni þar sem brennifórnum er slátrað. 4.30 Síðan skal presturinn taka nokkuð af blóðinu með fingri sínum og ríða því á horn brennifórnaraltarisins, en öllu hinu blóðinu skal hann hella niður við altarið. 4.31 En allan mörinn skal hann taka frá, eins og mörinn úr heillafórninni var tekinn frá, og skal presturinn brenna hann á altarinu til þægilegs ilms fyrir Drottin. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir hann, og honum mun fyrirgefið verða. 4.32 Fram beri hann sauðkind að fórnargjöf til syndafórnar, þá skal það, er hann fram ber, vera ásauður gallalaus. 4.33 Skal hann leggja hönd sína á höfuð syndafórnarinnar og slátra henni til syndafórnar þar sem brennifórnum er slátrað. 4.34 Skal þá presturinn taka nokkuð af blóði syndafórnarinnar með fingri sínum og ríða því á horn brennifórnaraltarisins, en öllu hinu blóðinu skal hann hella niður við altarið. 4.35 En allan mörinn skal hann taka frá, eins og sauðamörinn er tekinn úr heillafórninni, og skal presturinn brenna hann á altarinu ofan á eldfórnum Drottins. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir hann vegna syndar þeirrar, er hann hefir drýgt, og mun honum fyrirgefið verða.
5.1 Nú syndgar einhver, með því að hann hefir heyrt formælingu og getur vitni borið, hvort sem hann hefir séð það sjálfur eða orðið þess vísari, en segir eigi til, og bakar sér þannig sekt, 5.2 eða einhver snertir einhvern óhreinan hlut, hvort það er heldur hræ af óhreinu villidýri eða hræ af óhreinum fénaði eða hræ af óhreinu skriðkvikindi og hann veit ekki af því og verður þannig óhreinn og sekur, 5.3 eða hann snertir mann óhreinan, hverrar tegundar sem óhreinleikinn er, sem hann er óhreinn af, og hann veit eigi af því, en verður þess síðar vís og verður þannig sekur, 5.4 eða fleipri einhver þeim eiði af munni fram, að hann skuli gjöra eitthvað, illt eða gott, hvað sem það nú kann að vera, sem menn fleipra út úr sér með eiði, og hann veit eigi af því, en verður þess síðar vís og verður sekur fyrir eitthvað af þessu, _ 5.5 verði nokkur sekur fyrir eitthvað af þessu, þá skal hann játa synd sína. 5.6 Og hann skal til sektarbóta fyrir synd þá, sem hann hefir drýgt, færa Drottni ásauð úr hjörðinni, ásauð eða geit, í syndafórn. Og presturinn skal friðþægja fyrir hann vegna syndar hans. 5.7 En ef hann á ekki fyrir kind, þá skal hann í sektarbætur fyrir misgjörð sína færa Drottni tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur, aðra í syndafórn, en hina í brennifórn. 5.8 Hann skal færa þær prestinum, og hann skal fram bera þá fyrr, er til syndafórnar er ætluð. Skal hann klípa höfuðið af hálsinum, en slíta þó eigi frá, 5.9 stökkva nokkru af blóði syndafórnarinnar á hlið altarisins, en það, sem eftir er af blóðinu, skal kreist úr og látið drjúpa niður við altarið. Það er syndafórn. 5.10 En hina skal hann tilreiða í brennifórn að réttum sið. Og presturinn skal friðþægja fyrir hann vegna syndar þeirrar, sem hann hefir drýgt, og mun honum fyrirgefið verða. 5.11 En ef hann á ekki fyrir tveimur turtildúfum eða tveimur ungum dúfum, þá skal hann fram bera að fórnargjöf fyrir misgjörð sína tíunda part úr efu af fínu mjöli í syndafórn. Skal hann eigi hella olíu á það né heldur láta á það reykelsiskvoðu, því að það er syndafórn. 5.12 Hann skal færa það prestinum, og presturinn skal taka af því hnefafylli sína sem ilmhluta fórnarinnar og brenna á altarinu ofan á eldfórnum Drottins. Það er syndafórn. 5.13 Og presturinn skal friðþægja fyrir hann fyrir synd þá, er hann hefir drýgt með einhverju þessu, og honum mun fyrirgefið verða. En hitt fái presturinn, eins og matfórnina.' 5.14 Drottinn talaði við Móse og sagði: 5.15 'Nú sýnir einhver þá sviksemi, að draga undan eitthvað af því, sem Drottni er helgað, þá skal hann í sektarbætur færa Drottni hrút gallalausan úr hjörðinni, sem að þínu mati sé eigi minna en tveggja sikla virði, eftir helgidóms sikli, til sektarfórnar. 5.16 Og það, sem hann hefir dregið undan af helgum hlutum, skal hann að fullu bæta og gjalda fimmtungi meira. Skal hann færa það prestinum, og presturinn skal friðþægja fyrir hann með sektarfórnarhrútnum, og mun honum fyrirgefið verða. 5.17 Nú syndgar einhver og gjörir eitthvað, sem Drottinn hefir bannað, og veit eigi af því og verður þannig sekur og misgjörð hvílir á honum, 5.18 þá skal hann færa prestinum hrút gallalausan úr hjörðinni, eftir mati þínu, til sektarfórnar. Og presturinn skal friðþægja fyrir hann fyrir vangæslusynd þá, er hann hefir óafvitandi drýgt, og mun honum fyrirgefið verða. 5.19 Það er sektarfórn. Hann er sannlega sekur orðinn við Drottin.'
6.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 6.2 'Nú syndgar einhver og sýnir sviksemi gegn Drottni og þrætir við náunga sinn fyrir það, sem honum hefir verið trúað fyrir, eða honum hefir verið í hendur selt, eða hann hefir rænt, eða hann hefir haft með ofríki af náunga sínum, 6.3 eða hann hefir fundið eitthvað, sem týnst hefir, og þrætir fyrir það, eða hann með meinsæri synjar fyrir einhvern þann verknað, er menn fremja sér til syndar, _ 6.4 þegar hann syndgar þannig og verður sekur, þá skal hann skila því aftur, sem hann hefir rænt eða með ofríki haft af öðrum eða honum hefir verið trúað fyrir, eða hinu týnda, sem hann hefir fundið, 6.5 eða hverju því, er hann hefir synjað fyrir með meinsæri, og skal hann bæta það fullu verði og gjalda fimmtungi meira. Skal hann greiða það eiganda á þeim degi, er hann færir sektarfórn sína. 6.6 En í bætur Drottni til handa skal hann færa prestinum hrút gallalausan úr hjörðinni, eftir þínu mati, til sektarfórnar. 6.7 Og presturinn skal friðþægja fyrir hann frammi fyrir Drottni, og honum mun fyrirgefið verða, _ hvað sem menn fremja sér til sektar.' 6.8 Drottinn talaði við Móse og sagði: 6.9 'Bjóð Aroni og sonum hans á þessa leið: Þessi eru ákvæðin um brennifórnina: Brennifórnin skal vera á eldstæði altarisins alla nóttina til morguns, og skal altariseldinum haldið lifandi með því. 6.10 Og presturinn skal færa sig í línklæði sín og draga línbrækur yfir hold sitt, taka síðan burt öskuna eftir brennifórnina, er eldurinn hefir eytt á altarinu, og steypa henni niður við hlið altarisins. 6.11 Þá skal hann færa sig úr klæðum sínum og fara í önnur klæði og bera öskuna út fyrir herbúðirnar á hreinan stað. 6.12 Og eldinum á altarinu skal haldið lifandi með því. Hann skal eigi slokkna. Og presturinn skal á hverjum morgni leggja við að eldinum, og hann skal raða brennifórninni ofan á hann og brenna mörinn úr heillafórnunum á honum. 6.13 Eldurinn skal sífellt brenna á altarinu og aldrei slokkna. 6.14 Þessi eru ákvæðin um matfórnina: Synir Arons skulu fram bera hana fyrir Drottin, að altarinu. 6.15 Og hann skal taka af því hnefafylli sína, af fínamjöli matfórnarinnar og olíunni, og alla reykelsiskvoðuna, sem er á matfórninni, og brenna á altarinu til þægilegs ilms, sem ilmhluta hennar fyrir Drottin. 6.16 En það, sem eftir er af henni, skulu Aron og synir hans eta. Ósýrt skal það etið á helgum stað, í forgarði samfundatjaldsins skulu þeir eta það. 6.17 Eigi má baka það með súrdeigi. Ég gef þeim það í þeirra hluta af eldfórnum mínum. Það er háheilagt, eins og syndafórnin og sektarfórnin. 6.18 Allt karlkyn meðal Arons niðja má eta það, frá kyni til kyns ber yður það af eldfórnum Drottins um aldur og ævi. Hver sem snertir það skal vera heilagur.' 6.19 Drottinn talaði við Móse og sagði: 6.20 'Þessi er fórnargjöf Arons og sona hans, sem þeir skulu færa Drottni á smurningardegi sínum: tíundi partur úr efu af fínu mjöli í stöðuga matfórn, helmingurinn af því að morgni og helmingurinn að kveldi. 6.21 Skal tilreiða hana á pönnu með olíu. Þú skalt fram bera hana samanhrærða. Þú skalt brjóta hana í stykki og fórna henni til þægilegs ilms fyrir Drottin. 6.22 Og presturinn, sá af sonum hans, sem smurður er í hans stað, skal tilreiða hana. Er það ævarandi lögmál Drottins, öll skal hún brennd. 6.23 Allar matfórnir presta skulu vera alfórnir. Þær má ekki eta.' 6.24 Drottinn talaði við Móse og sagði: 6.25 'Mæl til Arons og sona hans og seg: Þessi eru ákvæðin um syndafórnina: Á þeim stað, sem brennifórnunum er slátrað, skal syndafórninni slátrað, frammi fyrir Drottni. Hún er háheilög. 6.26 Presturinn, sem fram ber syndafórnina, skal eta hana, á helgum stað skal hún etin, í forgarði samfundatjaldsins. 6.27 Hver sá, er snertir kjöt hennar, skal vera heilagur. Og þegar eitthvað af blóðinu spýtist á klæðin, þá skalt þú þvo það, sem spýtst hefir á, á helgum stað. 6.28 Og leirkerið, sem hún hefir verið soðin í, skal brjóta, en hafi hún verið soðin í eirkeri, þá skal fægja það og skola í vatni. 6.29 Allt karlkyn meðal prestanna má eta hana. Hún er háheilög. 6.30 En enga syndafórn má eta, hafi nokkuð af blóði hennar verið borið inn í samfundatjaldið til friðþægingar í helgidóminum, heldur skal hún brennd í eldi.
7.1 Þessi eru ákvæðin um sektarfórnina: Hún er háheilög. 7.2 Þar sem brennifórninni er slátrað, skal og sektarfórninni slátrað, og skal stökkva blóði hennar allt í kring utan á altarið. 7.3 Og öllum mörnum úr henni skal fórna: rófunni, netjunni, sem hylur iðrin, 7.4 báðum nýrunum, nýrnamörnum, sem liggur innan á mölunum, og stærra lifrarblaðinu. Við nýrun skal taka það frá. 7.5 Og presturinn skal brenna þetta á altarinu sem eldfórn Drottni til handa. Er það sektarfórn. 7.6 Allt karlkyn meðal prestanna má eta hana; á helgum stað skal hún etin; hún er háheilög. 7.7 Skal með sektarfórn farið á sama hátt og syndafórn; eru sömu ákvæði um báðar: Presturinn, sem með þeim friðþægir, skal fá þær. 7.8 Presturinn, sem fram ber brennifórn einhvers manns, skal fá skinnið af brennifórninni, sem hann fram ber. 7.9 Og sérhverja matfórn, sem í ofni er bökuð eða tilreidd í suðupönnu eða á steikarpönnu, fái presturinn, sem fram ber hana. 7.10 En sérhver matfórn, olíublönduð eða þurr, skal tilheyra öllum sonum Arons, svo einum sem öðrum. 7.11 Þessi eru ákvæðin um heillafórnina, sem Drottni er færð: 7.12 Ef einhver fram ber hana til þakkargjörðar, þá skal hann auk þakkarfórnarinnar fram bera ósýrðar kökur olíublandaðar og ósýrð flatbrauð olíusmurð og olíublandaðar kökur, hrærðar úr fínu mjöli. 7.13 Ásamt kökum úr sýrðu deigi skal hann fram bera þessa fórnargáfu sína, auk heilla-þakkarfórnarinnar. 7.14 Og hann skal af henni fram bera eina köku af hverri tegund fórnargáfunnar sem fórnargjöf Drottni til handa. Skal presturinn, er stökkvir blóði heillafórnarinnar, fá hana. 7.15 En kjötið af heilla-þakkarfórninni skal etið sama dag sem fórnin er fram borin. Eigi skal geyma neitt af því til morguns. 7.16 Sé sláturfórn hans heitfórn eða sjálfviljug fórn, þá skal hún etin sama dag sem hann fram ber sláturfórn sína. Þó má eta það, sem af gengur, daginn eftir. 7.17 En það, sem verður eftir af kjöti sláturfórnarinnar á þriðja degi, skal brenna í eldi. 7.18 En sé á þriðja degi nokkuð etið af kjöti heillafórnarinnar, þá mun það eigi verða velþóknanlegt, það skal eigi tilreiknast þeim, er fram bar það. Það skal talið skemmt kjöt. Á hverjum þeim, er etur af því, skal misgjörð hvíla. 7.19 Og það kjöt, sem komið hefir við eitthvað óhreint, skal eigi eta, heldur skal brenna það í eldi. Hvað kjötið að öðru leyti snertir, þá má hver, sem hreinn er, kjöt eta. 7.20 En hver sá, sem etur kjöt af heillafórn, sem Drottni er færð, á meðan hann er óhreinn, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni. 7.21 Og hver sem snertir nokkuð óhreint, hvort heldur það er óhreinn maður eða óhrein skepna, eða hvaða óhrein viðurstyggð sem er, og etur þó af heillafórnarkjöti, sem Drottni er fært, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni.' 7.22 Drottinn talaði við Móse og sagði: 7.23 'Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Engan mör úr nautum, sauðum eða geitum megið þér eta. 7.24 En mör úr sjálfdauðum skepnum eða dýrrifnum má nota til hvers sem vera skal, en með engu móti megið þér eta hann. 7.25 Því að hver sá, sem etur mör úr þeirri skepnu, sem Drottni er færð eldfórn af, sá sem etur hann skal upprættur verða úr þjóð sinni. 7.26 Eigi skuluð þér heldur nokkurs blóðs neyta í neinum af bústöðum yðar, hvorki úr fuglum né fénaði. 7.27 Hver sá, er nokkurs blóðs neytir, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni.' 7.28 Drottinn talaði við Móse og sagði: 7.29 'Tala til Ísraelsmanna og seg: Sá sem færir Drottni heillafórn skal sjálfur fram bera fórnargjöf sína fyrir Drottin af heillafórninni. 7.30 Með sínum eigin höndum skal hann fram bera eldfórnir Drottins: Mörinn ásamt bringunni skal hann fram bera, bringuna til þess að veifa henni sem veififórn frammi fyrir Drottni, 7.31 og skal presturinn brenna mörinn á altarinu, en bringuna skal Aron og synir hans fá. 7.32 Og af heillafórnum yðar skuluð þér gefa prestinum hægra lærið að fórnargjöf. 7.33 Sá af sonum Arons, er fram ber blóðið úr heillafórninni og mörinn, skal fá hægra lærið í sinn hluta. 7.34 Því að bringuna, sem veifa skal, og lærið, sem fórna skal, hefi ég tekið af Ísraelsmönnum, af heillafórnum þeirra, og gefið það Aroni presti og sonum hans. Er það ævinleg skyldugreiðsla, sem á Ísraelsmönnum hvílir. 7.35 Þetta er hluti Arons og hluti sona hans af eldfórnum Drottins, á þeim degi, sem hann leiddi þá fram til þess að þjóna Drottni í prestsembætti, 7.36 sem Drottinn bauð að Ísraelsmenn skyldu greiða þeim, á þeim degi, sem hann smurði þá. Er það ævinleg skyldugreiðsla hjá þeim frá kyni til kyns.' 7.37 Þetta eru ákvæðin um brennifórnir, matfórnir, syndafórnir, sektarfórnir, vígslufórnir og heillafórnir, 7.38 sem Drottinn setti Móse á Sínaífjalli, þá er hann bauð Ísraelsmönnum, að þeir skyldu færa Drottni fórnargjafir sínar í Sínaí-eyðimörk.
8.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 8.2 'Tak Aron og sonu hans með honum, klæðin og smurningarolíuna, syndafórnaruxann, báða hrútana og körfuna með ósýrðu brauðunum 8.3 og stefn þú saman öllum söfnuðinum við dyr samfundatjaldsins.' 8.4 Og Móse gjörði eins og Drottinn bauð honum, og söfnuðurinn kom saman við dyr samfundatjaldsins. 8.5 Móse sagði við söfnuðinn: 'Þetta er það sem Drottinn hefir boðið að gjöra.' 8.6 Því næst leiddi Móse fram Aron og sonu hans og þvoði þá í vatni. 8.7 Og hann lagði yfir hann kyrtilinn, gyrti hann beltinu og færði hann í möttulinn, lagði yfir hann hökulinn og gyrti hann hökullindanum og batt hann þannig að honum. 8.8 Þá festi hann á hann brjóstskjöldinn og lét úrím og túmmím í brjóstskjöldinn. 8.9 Og hann setti vefjarhöttinn á höfuð honum, og framan á vefjarhöttinn setti hann gullspöngina, ennishlaðið helga, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 8.10 Móse tók smurningarolíuna og smurði tjaldbúðina og allt, sem í henni var, og helgaði það. 8.11 Og hann stökkti henni sjö sinnum á altarið og smurði altarið og öll áhöld þess, svo og kerið og stétt þess, til að helga það. 8.12 Því næst hellti hann smurningarolíu á höfuð Aroni og smurði hann til þess að helga hann. 8.13 Síðan leiddi Móse fram sonu Arons, færði þá í kyrtla, gyrti þá belti og batt á þá höfuðdúka, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 8.14 Þá leiddi hann fram syndafórnaruxann, og Aron og synir hans lögðu hendur sínar á höfuð syndafórnaruxans. 8.15 En Móse slátraði honum, tók blóðið og reið því með fingri sínum á horn altarisins allt í kring og syndhreinsaði altarið, en því, sem eftir var af blóðinu, hellti hann niður við altarið, og hann helgaði það með því að friðþægja fyrir það. 8.16 Því næst tók hann allan innýflamörinn, stærra lifrarblaðið, bæði nýrun og nýrnamörinn, og Móse brenndi það á altarinu. 8.17 En uxann sjálfan, bæði húðina af honum, kjötið og gorið, brenndi hann í eldi fyrir utan herbúðirnar, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 8.18 Því næst leiddi hann fram brennifórnarhrútinn, og Aron og synir hans lögðu hendur sínar á höfuð hrútsins. 8.19 Síðan slátraði Móse honum og stökkti blóðinu allt um kring á altarið. 8.20 Og hann hlutaði hrútinn sundur, og Móse brenndi höfuðið, stykkin og mörinn. 8.21 En innýflin og fæturna þvoði hann í vatni. Síðan brenndi Móse allan hrútinn á altarinu. Það var brennifórn þægilegs ilms, það var eldfórn Drottni til handa, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 8.22 Þessu næst leiddi hann fram hinn hrútinn, vígsluhrútinn, og Aron og synir hans lögðu hendur sínar á höfuð hrútsins. 8.23 Og Móse slátraði honum og tók nokkuð af blóði hans og reið því á hægri eyrnasnepil Arons, á þumalfingur hægri handar hans og á stórutá hægri fótar hans. 8.24 Þá leiddi Móse fram sonu Arons og reið nokkru af blóðinu á hægri eyrnasnepil þeirra og á þumalfingur hægri handar þeirra og á stórutá hægri fótar þeirra. Og Móse stökkti blóðinu allt um kring á altarið. 8.25 Og hann tók mörinn: rófuna, allan innýflamörinn, stærra lifrarblaðið, bæði nýrun og nýrnamörinn og hægra lærið. 8.26 Sömuleiðis tók hann úr körfunni með ósýrðu brauðunum, sem stóð frammi fyrir Drottni, eina ósýrða köku og eina olíuköku og eitt flatbrauð og lagði það ofan á mörinn og hægra lærið. 8.27 Og hann lagði það allt í hendur Aroni og í hendur sonum hans og veifaði því til veififórnar frammi fyrir Drottni. 8.28 Síðan tók Móse það af höndum þeirra og brenndi það á altarinu ofan á brennifórninni. Það var vígslufórn til þægilegs ilms, það var eldfórn Drottni til handa. 8.29 Því næst tók Móse bringuna og veifaði henni til veififórnar frammi fyrir Drottni. Fékk Móse hana í sinn hluta af vígsluhrútnum, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 8.30 Og Móse tók nokkuð af smurningarolíunni og nokkuð af blóðinu, sem var á altarinu, og stökkti því á Aron og klæði hans, og á sonu hans og á klæði sona hans ásamt honum. Og hann helgaði Aron og klæði hans, og sonu hans og klæði sona hans ásamt honum. 8.31 Og Móse sagði við Aron og sonu hans: 'Sjóðið kjötið fyrir dyrum samfundatjaldsins og etið það þar ásamt brauðinu, sem er í vígslufórnarkörfunni, svo sem ég bauð, er ég sagði: ,Aron og synir hans skulu eta það.` 8.32 En leifarnar af kjötinu og brauðinu skuluð þér brenna í eldi. 8.33 Og sjö daga skuluð þér ekki ganga burt frá dyrum samfundatjaldsins, uns vígsludagar yðar eru á enda, því að sjö daga skal fylla hendur yðar. 8.34 Svo sem gjört hefir verið í dag hefir Drottinn boðið að gjöra til þess að friðþægja fyrir yður. 8.35 Og við dyr samfundatjaldsins skuluð þér vera sjö daga, bæði dag og nótt, og varðveita boðorð Drottins, svo að þér deyið ekki, því að svo hefir mér verið boðið.' 8.36 Og Aron og synir hans gjörðu allt það, sem Drottinn hafði boðið og Móse flutt þeim.
9.1 Á áttunda degi kallaði Móse fyrir sig Aron og sonu hans og öldunga Ísraels 9.2 og sagði við Aron: 'Tak þér nautkálf í syndafórn og hrút í brennifórn, gallalausa, og leið þá fram fyrir Drottin. 9.3 En til Ísraelsmanna skalt þú tala á þessa leið: ,Takið geithafur í syndafórn, og kálf og sauðkind, bæði veturgömul og gallalaus, í brennifórn, 9.4 og uxa og hrút í heillafórn, til þess að slátra þeim frammi fyrir Drottni, og matfórn olíublandaða, því að í dag mun Drottinn birtast yður.'` 9.5 Og þeir færðu það, sem Móse hafði boðið, fram fyrir samfundatjaldið, og allur söfnuðurinn kom og nam staðar frammi fyrir Drottni. 9.6 Móse sagði: 'Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið. Gjörið það, og mun dýrð Drottins birtast yður.' 9.7 Því næst mælti Móse til Arons: 'Gakk þú að altarinu og fórna syndafórn þinni og brennifórn þinni, og friðþæg þú fyrir þig og fyrir lýðinn. Fram ber því næst fórnargjöf lýðsins og friðþæg fyrir þá, svo sem Drottinn hefir boðið.' 9.8 Aron gekk þá að altarinu og slátraði kálfinum, er honum var ætlaður til syndafórnar. 9.9 En synir Arons færðu honum blóðið, og hann drap fingri sínum í blóðið og reið því á horn altarisins, en hinu blóðinu hellti hann niður við altarið. 9.10 En mörinn, nýrun og stærra lifrarblaðið úr syndafórninni brenndi hann á altarinu, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 9.11 En kjötið og húðina brenndi hann í eldi fyrir utan herbúðirnar. 9.12 Síðan slátraði hann brennifórninni, og synir Arons réttu að honum blóðið, en hann stökkti því allt um kring á altarið. 9.13 Þeir réttu og að honum brennifórnina í stykkjum og höfuðið, og hann brenndi hana á altarinu. 9.14 Og hann þvoði innýflin og fæturna og brenndi á altarinu, ofan á brennifórninni. 9.15 Þá bar hann fram fórnargjöf lýðsins, tók hafurinn, sem ætlaður var lýðnum til syndafórnar, slátraði honum og færði hann í syndafórn, eins og kálfinn áður. 9.16 Hann fram bar og brennifórnina og fórnaði henni að réttum sið. 9.17 Og hann fram bar matfórnina, tók af henni hnefafylli sína og brenndi á altarinu auk morgun-brennifórnarinnar. 9.18 Því næst slátraði hann uxanum og hrútnum til heillafórnar fyrir lýðinn. En synir Arons réttu að honum blóðið, _ en hann stökkti því allt í kring á altarið _, 9.19 svo og mörstykkin úr uxanum og af hrútnum rófuna, netjuna, sem hylur iðrin, nýrun og stærra lifrarblaðið. 9.20 Og þeir lögðu mörinn ofan á bringurnar, en hann brenndi mörinn á altarinu. 9.21 En bringunum og hægra lærinu veifaði Aron til veififórnar frammi fyrir Drottni, svo sem Móse hafði boðið. 9.22 Síðan hóf Aron upp hendur sínar yfir fólkið og blessaði það. Og hann sté niður, er hann hafði fórnað syndafórninni, brennifórninni og heillafórninni. 9.23 Móse og Aron gengu inn í samfundatjaldið, og er þeir komu út aftur, blessuðu þeir fólkið. Birtist þá dýrð Drottins öllum lýðnum. 9.24 Eldur gekk út frá Drottni og eyddi brennifórninni og mörnum á altarinu. En er allur lýðurinn sá þetta, hófu þeir upp fagnaðaróp og féllu fram á ásjónur sínar.
10.1 Nadab og Abíhú, synir Arons, tóku hvor sína eldpönnu og létu eld í þær og lögðu reykelsi ofan á og báru fram fyrir Drottin óvígðan eld, sem hann eigi hafði boðið þeim. 10.2 Gekk þá eldur út frá Drottni og eyddi þeim, og þeir dóu frammi fyrir Drottni. 10.3 Þá sagði Móse við Aron: 'Nú er það fram komið, sem Drottinn sagði: Heilagleik minn vil ég sýna á þeim, sem nálægjast mig, og birta dýrð mína frammi fyrir öllum lýð.' Og Aron þagði. 10.4 Móse kallaði á Mísael og Elsafan, sonu Ússíels, föðurbróður Arons, og sagði við þá: 'Komið og berið burt úr helgidóminum frændur ykkar út fyrir herbúðirnar.' 10.5 Og þeir komu og báru þá í kyrtlum þeirra út fyrir herbúðirnar, eins og Móse hafði sagt. 10.6 Og Móse sagði við Aron og við Eleasar og Ítamar, sonu hans: 'Þér skuluð eigi láta hár yðar flaka, eigi heldur sundur rífa klæði yðar, að þér ekki deyið og hann reiðist ekki öllum söfnuðinum. En bræður yðar, allur Ísraelslýður, gráti yfir þeim eldi, sem Drottinn hefir kveikt. 10.7 Og eigi skuluð þér fara út fyrir dyr samfundatjaldsins, ella munuð þér deyja, því að smurningarolía Drottins er á yður.' Og þeir gjörðu sem Móse bauð. 10.8 Drottinn talaði við Aron og sagði: 10.9 'Hvorki skalt þú né synir þínir drekka vín eða áfengan drykk, þegar þér gangið inn í samfundatjaldið, svo að þér deyið ekki. Það er ævarandi lögmál hjá yður frá kyni til kyns. 10.10 Og þér skuluð gjöra greinarmun á því, sem er heilagt og óheilagt, og á því, sem er hreint og óhreint. 10.11 Og þér skuluð kenna Ísraelsmönnum öll þau lög, er Drottinn hefir gefið þeim fyrir Móse.' 10.12 Móse sagði við Aron og þá Eleasar og Ítamar, sonu hans, er eftir voru á lífi: 'Takið matfórnina, sem eftir er af eldfórnum Drottins, og etið hana ósýrða hjá altarinu, því að hún er háheilög. 10.13 Og þér skuluð eta hana á helgum stað, því að hún er hinn ákveðni hluti þinn og sona þinna af eldfórnum Drottins. Því að svo er mér boðið. 10.14 En bringuna, sem veifa skal, og lærið, sem fórna skal, skuluð þér eta á hreinum stað, þú og synir þínir og dætur þínar með þér, því að þetta er sá ákveðni hluti, sem þér er gefinn og sonum þínum af heillafórnum Ísraelsmanna. 10.15 Lærið, sem fórna skal, og bringuna, sem veifa skal, skulu þeir fram bera ásamt mörstykkja-eldfórnunum til þess að veifa því til veififórnar frammi fyrir Drottni. Síðan skalt þú fá það og synir þínir með þér, sem ævinlega skyldugreiðslu, eins og Drottinn hefir boðið.' 10.16 Og Móse leitaði vandlega að syndafórnarhafrinum, og sjá, hann var upp brenndur. Þá reiddist hann Eleasar og Ítamar, sonum Arons, er eftir voru á lífi, og sagði við þá: 10.17 'Hvers vegna átuð þið ekki syndafórnina á helgum stað? Því að hún er háheilög og hann hefir gefið ykkur hana til þess að burt taka misgjörð safnaðarins og friðþægja fyrir þá frammi fyrir Drottni. 10.18 Sjá, blóð hennar hefir ekki verið borið inn í helgidóminn. Þið áttuð þó að eta hana á helgum stað, eins og ég hafði boðið.' 10.19 En Aron sagði við Móse: 'Sjá, í dag hafa þeir fram borið syndafórn sína og brennifórn fyrir Drottin, og mér hefir slíkt að höndum borið. Hefði ég nú etið syndafórnina í dag, mundi Drottni hafa þóknast það?' Og er Móse heyrði þetta, lét hann sér það vel líka.
11.1 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði við þá: 11.2 'Talið til Ísraelsmanna og segið: Þessi eru þau dýr, er þér megið eta af öllum ferfættum dýrum, sem eru á jörðinni: 11.3 Öll ferfætt dýr, sem hafa klaufir, og þær alklofnar, og jórtra, megið þér eta. 11.4 Af þeim, sem jórtra og klaufir hafa, megið þér þó ekki þessi eta: Úlfaldann, því að hann jórtrar að sönnu, en er eigi klaufhæfður; hann sé yður óhreinn; 11.5 stökkhérann, því að hann jórtrar að sönnu, en hefir eigi klaufir; hann sé yður óhreinn; 11.6 hérann, því að hann jórtrar að sönnu, en hefir eigi klaufir; hann sé yður óhreinn; 11.7 og svínið, því að það hefir að sönnu klaufir, og þær alklofnar, en jórtrar ekki; það sé yður óhreint. 11.8 Kjöt þeirra skuluð þér ekki eta, og hræ þeirra skuluð þér ekki snerta. Þau skulu vera yður óhrein. 11.9 Af lagardýrum megið þér eta þessi: Öll lagardýr, sem hafa sundugga og hreistur, hvort heldur er í sjó eða ám, megið þér eta. 11.10 En af öllu því, sem kvikt er í vötnunum, og af öllum lifandi skepnum, sem eru í vötnunum, séu öll þau dýr í sjó eða ám, sem eigi hafa sundugga og hreistur, yður viðurstyggð. 11.11 Viðurstyggð skulu þau vera yður. Ekki skuluð þér eta kjöt þeirra, og við hræjum þeirra skal yður stugga. 11.12 Öll lagardýr, sem ekki hafa sundugga og hreistur, skulu vera yður viðurstyggð. 11.13 Af fuglunum skal yður stugga við þessum, _ þér skuluð eigi eta þá, þeir eru viðurstyggð _: örninn, skegg-gammurinn og gammurinn, 11.14 gleðan og valakynið, 11.15 allt hrafnakynið, 11.16 strúturinn, svalan, mávurinn og haukakynið, 11.17 uglan, súlan og náttuglan, 11.18 hornuglan, pelíkaninn og hrægammurinn, 11.19 storkurinn og lóukynið, herfuglinn og leðurblakan. 11.20 Öll fleyg skriðkvikindi ferfætt séu yður viðurstyggð. 11.21 Af öllum fleygum skriðkvikindum ferfættum megið þér þau ein eta, er hafa leggi upp af afturfótunum til þess að stökkva með um jörðina. 11.22 Af þeim megið þér eta þessi: arbe-engisprettur, sólam-engisprettur, hargól-engisprettur og hagab-engisprettur. 11.23 En öll önnur fleyg skriðkvikindi ferfætt séu yður viðurstyggð. 11.24 Af þessum dýrum verðið þér óhreinir. Hver sem snertir hræ þeirra, verður óhreinn til kvelds. 11.25 En hver sá, sem ber hræ þeirra, hann skal þvo klæði sín og er óhreinn til kvelds. 11.26 Hvert það ferfætt dýr, sem hefir klaufir, þó eigi alklofnar, og eigi jórtrar, sé yður óhreint. Hver sem þau snertir verður óhreinn. 11.27 Og öll þau, sem ganga á hrömmum sínum, meðal allra dýra ferfættra, séu yður óhrein. Hver sem snertir hræ þeirra, er óhreinn til kvelds. 11.28 Og sá, sem ber hræ þeirra, skal þvo klæði sín og er óhreinn til kvelds. Þau skulu vera yður óhrein. 11.29 Þessi skulu vera yður óhrein á meðal skriðkvikindanna, sem skríða á jörðinni: hreysivislan, músin og eðlukynið, 11.30 skrækeðlan, kóah-eðlan, leta-eðlan, salamandran og kamelljónið. 11.31 Þessi skulu vera yður óhrein meðal allra skriðkvikindanna. Hver sem snertir þau, þegar þau eru dauð, verður óhreinn til kvelds. 11.32 Sérhvað það, er eitthvert af þeim fellur ofan á, þegar þau eru dauð, verður óhreint, hvort heldur er tréílát, klæði, skinn eða sekkur; öll þau áhöld, sem til einhvers eru notuð. Skal það í vatn leggja og er óhreint til kvelds, þá er það hreint. 11.33 Falli eitthvert af þeim ofan í leirker, þá verður allt, sem í því er, óhreint, og kerið skuluð þér brjóta. 11.34 Allur matur, sem etinn er og vatn er látið í, verður óhreinn, og allur drykkur, sem drukkinn er, verður óhreinn, í hvaða keri sem hann er. 11.35 Og sérhvað það, sem hræ þeirra fellur á, verður óhreint. Hvort heldur er ofn eða eldstó, skal það rifið niður. Það er óhreint, og óhreint skal það yður vera. 11.36 Lindir einar og brunnar, það er vatnsstæður, skulu hreinar vera, en sá, sem hræin snertir, verður óhreinn. 11.37 En þó að eitthvað af hræjunum falli á útsæði, sem á að sá, þá er það hreint. 11.38 En ef vatn er látið á sæðið og eitthvað af hræjunum fellur ofan í það, þá sé það yður óhreint. 11.39 Þegar einhver af þeim skepnum deyr, sem yður eru til fæðu, þá skal sá, er snertir dauðan skrokkinn, vera óhreinn til kvelds. 11.40 Og sá, sem etur af skrokknum, skal þvo klæði sín og er óhreinn til kvelds. Og sá, sem ber skrokkinn, skal þvo klæði sín og er óhreinn til kvelds. 11.41 Öll skriðkvikindi, sem skríða á jörðinni, skulu vera yður viðurstyggð. Eigi skal þau eta. 11.42 Öll þau, er skríða á kviðnum, og öll þau, er ganga á fjórum fótum, svo og allar margfætlur meðal allra skriðkvikinda, er skríða á jörðinni, þau skuluð þér eigi eta, því að þau eru viðurstyggð. 11.43 Látið eigi nokkurt skriðkvikindi gjöra yður sjálfa viðurstyggilega, og saurgið yður ekki á þeim, svo að þér verðið óhreinir af þeim. 11.44 Því að ég er Drottinn, Guð yðar. Og helgist og verið heilagir, því að ég er heilagur. Og þér skuluð ekki saurga sjálfa yður á nokkru því skriðkvikindi, sem skríður á jörðinni. 11.45 Því að ég er Drottinn, sem leiddi yður út af Egyptalandi til þess að vera yðar Guð. Þér skuluð vera heilagir, því að ég er heilagur.' 11.46 Þessi eru ákvæðin um ferfættu dýrin, fuglana og allar lifandi skepnur, sem hrærast í vötnunum, og um allar lifandi skepnur, sem jörðin er kvik af, 11.47 svo að menn viti grein óhreinna og hreinna dýra, svo og ætra dýra og óætra.
12.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 12.2 'Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Þegar kona verður léttari og elur sveinbarn, þá skal hún vera óhrein sjö daga. Skal hún vera óhrein, eins og þá daga, sem hún er saurug af klæðaföllum. 12.3 Og á áttunda degi skal umskera hold yfirhúðar hans. 12.4 En konan skal halda sér heima þrjátíu og þrjá daga, meðan á blóðhreinsuninni stendur. Hún skal ekkert heilagt snerta og eigi inn í helgidóminn koma, uns hreinsunardagar hennar eru úti. 12.5 En ef hún elur meybarn, þá skal hún vera óhrein hálfan mánuð, sem þá er hún er saurug af klæðaföllum, og hún skal halda sér heima sextíu og sex daga, meðan á blóðhreinsuninni stendur. 12.6 En þegar hreinsunardagar hennar eru úti, hvort heldur er fyrir son eða dóttur, þá skal hún færa prestinum að dyrum samfundatjaldsins sauðkind veturgamla í brennifórn og unga dúfu eða turtildúfu í syndafórn. 12.7 Skal hann fram bera það fyrir Drottin og friðþægja fyrir hana, og er hún þá hrein af blóðlátum sínum.' Þessi eru ákvæðin um sængurkonuna, hvort heldur barnið er sveinbarn eða meybarn. 12.8 En ef hún á ekki fyrir sauðkind, þá færi hún tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur, aðra í brennifórn, en hina í syndafórn, og skal presturinn friðþægja fyrir hana, og er hún þá hrein.
13.1 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði: 13.2 'Nú tekur einhver þrota, hrúður eða gljádíla í skinnið á hörundi sínu og verður að líkþrárskellu í skinninu á hörundi hans. Þá skal leiða hann fyrir Aron prest eða einhvern af prestunum, sonum hans. 13.3 Og prestur skal líta á skelluna í skinninu á hörundinu, og hafi hárin í skellunni gjörst hvít og beri skelluna dýpra en skinnið á hörundi hans, þá er það líkþrárskella. Og prestur skal líta á hann og dæma hann óhreinan. 13.4 En sé hvítur gljádíli í skinninu á hörundi hans og beri ekki dýpra en skinnið og hafi hárin í honum ekki gjörst hvít, þá skal prestur byrgja inni sjö daga þann, er skelluna hefir tekið. 13.5 Og prestur skal líta á hann á sjöunda degi, og sjái hann að jafnmikið ber á skellunni og hafi skellan ekki færst út í skinninu, þá skal prestur byrgja hann enn inni sjö daga. 13.6 Og prestur skal enn líta á hann á sjöunda degi, og sjái hann þá, að skellan hefir dökknað, og hafi skellan ekki færst út í skinninu, skal prestur dæma hann hreinan. Þá er það hrúður, og hann skal þvo klæði sín og er þá hreinn. 13.7 En færist hrúðrið út í skinninu eftir að hann sýndi sig prestinum til þess að verða dæmdur hreinn, þá skal hann aftur sýna sig prestinum. 13.8 Og prestur skal líta á, og sjái hann, að hrúðrið hefir færst út í skinninu, þá skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrá. 13.9 Nú tekur einhver líkþrárskellu, og skal leiða hann fyrir prest. 13.10 Og prestur skal líta á, og sjái hann, að hvítur þroti er í skinninu og hefir gjört hárin hvít, og lifandi kvika er í þrotanum, 13.11 þá er það gömul líkþrá í skinninu á hörundi hans, og skal prestur dæma hann óhreinan. Hann skal eigi byrgja hann inni, því að hann er óhreinn. 13.12 En brjótist líkþráin út um skinnið og hylji líkþráin allt skinnið frá hvirfli til ilja á þeim, er skellurnar hefir tekið, hvar sem prestur rennir augum til, 13.13 þá skal prestur líta á, og sjái hann, að líkþráin hefir hulið allt hörund hans, þá skal hann dæma hreinan þann, er skellurnar hefir tekið. Hann hefir þá allur gjörst hvítur og er þá hreinn. 13.14 En þegar er ber á kviku holdi á honum, skal hann vera óhreinn. 13.15 Og prestur skal líta á kvika holdið og dæma hann óhreinan. Kvika holdið er óhreint. Þá er það líkþrá. 13.16 En hverfi kvika holdið og gjörist hvítt, þá skal hann ganga fyrir prest. 13.17 Og prestur skal líta á hann, og sjái hann að skellurnar hafa gjörst hvítar, þá skal prestur dæma hreinan þann, er skellurnar hefir tekið. Þá er hann hreinn. 13.18 Nú kemur kýli í hörundið, út í skinnið, og grær, 13.19 og kemur í stað kýlisins hvítur þroti eða gljádíli ljósrauður, þá skal hann sýna sig presti. 13.20 Og prestur skal líta á, og sjái hann, að dílann ber lægra en skinnið og hárin í honum hafa gjörst hvít, skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrársótt, sem brotist hefir út í kýlinu. 13.21 En ef prestur lítur á hann og sér, að engin hvít hár eru í honum og hann er ekki lægri en skinnið og hefir dökknað, þá skal prestur byrgja hann inni sjö daga. 13.22 En færist hann út í skinninu, skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrársótt. 13.23 En ef gljádílinn stendur í stað og færist eigi út, þá er það kýlis-ör, og prestur skal dæma hann hreinan. 13.24 En ef brunasár kemur á hörundið og brunakvikan verður að gljádíla ljósrauðum eða hvítum, 13.25 þá skal prestur líta á hann. Og sjái hann, að hárin í gljádílanum hafa gjörst hvít og ber hann dýpra en skinnið, þá er það líkþrá, sem hefir brotist út í brunanum, og skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrársótt. 13.26 En ef prestur lítur á hann og sér, að engin hvít hár eru í gljádílanum og hann er ekki lægri en skinnið og hefir dökknað, þá skal prestur byrgja hann inni sjö daga. 13.27 Og prestur skal líta á hann á sjöunda degi. Hafi hann þá færst út í skinninu, skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrársótt. 13.28 En ef gljádílinn stendur í stað og hefir eigi færst út í skinninu, en dökknað, þá er það brunaþroti, og skal prestur dæma hann hreinan, því að þá er það bruna-ör. 13.29 Nú tekur karl eða kona skellu í höfuðið eða skeggið. 13.30 Þá skal prestur líta á skelluna, og sjái hann, að hana ber dýpra en skinnið og gulleit visin hár eru í henni, þá skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það skurfa, það er líkþrá í höfði eða skeggi. 13.31 Og er prestur lítur á skurfuskelluna og sér, að hana ber ekki dýpra en skinnið og engin svört hár eru í henni, þá skal prestur byrgja inni sjö daga þann, er skurfuskelluna hefir tekið. 13.32 Og prestur skal líta á skelluna á sjöunda degi, og sjái hann, að skurfan hefir eigi færst út og engin gulleit hár eru í henni og skurfuna ber eigi dýpra en skinnið, 13.33 þá skal hann raka sig, en skurfuna skal hann ekki raka, og prestur skal enn byrgja inni sjö daga þann, er skurfuna hefir tekið. 13.34 Og prestur skal líta á skurfuna á sjöunda degi, og sjái hann, að skurfan hefir eigi færst út í skinninu og hana ber ekki dýpra en skinnið, þá skal prestur dæma hann hreinan. Og hann skal þvo klæði sín og er þá hreinn. 13.35 En ef skurfan færist út í skinninu eftir að hann hefir verið dæmdur hreinn, 13.36 þá skal prestur líta á hann. Og sjái hann, að skurfan hefir færst út í skinninu, þá skal prestur ekki leita að gulleitu hárunum. Þá er hann óhreinn. 13.37 En ef jafnmikið ber á skurfunni og svört hár hafa sprottið í henni, þá er skurfan gróin. Hann er þá hreinn, og prestur skal dæma hann hreinan. 13.38 Nú tekur karl eða kona gljádíla, hvíta gljádíla í skinnið á hörundi sínu, 13.39 þá skal prestur líta á. Og sjái hann, að gljádílarnir í skinninu á hörundi þeirra eru dumb-hvítir, þá er það hringormur, sem hefir brotist út í skinninu. Þá er hann hreinn. 13.40 Nú verður einhver sköllóttur ofan á höfðinu, þá er hann hvirfilskalli og er hreinn. 13.41 Og ef hann verður sköllóttur framan á höfðinu, þá er hann ennisskalli og er hreinn. 13.42 En sé ljósrauð skella í hvirfilskallanum eða ennisskallanum, þá er það líkþrá, er út brýst í hvirfilskalla hans eða ennisskalla. 13.43 Prestur skal þá líta á hann, og sjái hann að skelluþrotinn í hvirfilskalla hans eða ennisskalla er ljósrauður, á að sjá sem líkþrá í skinninu á hörundinu, 13.44 þá er hann maður líkþrár og er óhreinn. Prestur skal sannlega dæma hann óhreinan. Líkþrársóttin er í höfði honum. 13.45 Líkþrár maður, er sóttina hefir, _ klæði hans skulu vera rifin og hár hans flakandi, og hann skal hylja kamp sinn og hrópa: ,Óhreinn, óhreinn!` 13.46 Alla þá stund, er hann hefir sóttina, skal hann óhreinn vera. Hann er óhreinn. Hann skal búa sér. Bústaður hans skal vera fyrir utan herbúðirnar. 13.47 Nú kemur líkþrárskella á fat, hvort heldur er ullarfat eða línfat, 13.48 eða vefnað eða prjónles af líni eða ullu, eða skinn eða eitthvað það, sem af skinni er gjört, 13.49 og sé skellan grænleit eða rauðleit á fatinu eða skinninu eða vefnaðinum eða prjónlesinu eða nokkrum hlut af skinni gjörvum, þá er það líkþrárskella, og skal sýna það prestinum. 13.50 Og prestur skal líta á skelluna og byrgja inni sjö daga það, er skellan er á. 13.51 Og hann skal líta á skelluna á sjöunda degi. Hafi skellan færst út á fatinu eða vefnaðinum eða prjónlesinu eða skinninu, til hverra nota sem skinnið er haft, þá er skellan skæð líkþrá. Þá er það óhreint. 13.52 Og skal brenna fatið eða vefnaðinn eða prjónlesið, hvort það er heldur af ullu eða líni, eða hvern hlut af skinni gjörvan, er skellan er á, því að það er skæð líkþrá. Það skal í eldi brenna. 13.53 En ef prestur lítur á og sér, að skellan hefir eigi færst út í fatinu eða vefnaðinum eða prjónlesinu eða á einhverjum hlut af skinni gjörvum, 13.54 þá skal prestur bjóða að þvo það, sem skellan er á, og hann skal enn byrgja það inni sjö daga. 13.55 Og prestur skal líta á, eftir að það, sem skellan er á, er þvegið, og sjái hann, að skellan hefir eigi breytt lit og skellan hefir eigi færst út, þá er það óhreint. Þú skalt brenna það í eldi, þá er það áta, hvort það er heldur á úthverfunni eða rétthverfunni. 13.56 En ef prestur lítur á og sér, að skellan hefir dökknað, eftir að hún var þvegin, þá skal hann rífa hana af fatinu eða skinninu eða vefnaðinum eða prjónlesinu. 13.57 En komi hún enn í ljós á fatinu eða vefnaðinum eða prjónlesinu eða á nokkrum hlut af skinni gjörvum, þá er það líkþrá, sem er að brjótast út. Þú skalt brenna í eldi það, er skellan er á. 13.58 En það fat eða vefnaður eða prjónles, eða sérhver hlutur af skinni gjör, sem skellan gengur af, ef þvegið er, það skal þvo annað sinn, og er þá hreint.' 13.59 Þessi eru ákvæðin um líkþrársótt í ullarfati eða línfati eða vefnaði eða prjónlesi eða nokkrum hlut af skinni gjörvum, er það skal dæma hreint eða óhreint.
14.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 14.2 'Þetta skulu vera ákvæðin um líkþráan mann, þá er hann er hreinsaður: Skal leiða hann fyrir prest, 14.3 og prestur skal ganga út fyrir herbúðirnar, og prestur skal líta á. Og sjái hann að líkþrárskellan á hinum líkþráa er gróin, 14.4 þá skal presturinn bjóða að taka fyrir þann, er lætur hreinsa sig, tvo hreina fugla lifandi, sedrusvið, skarlat og ísópsvönd. 14.5 Og prestur skal bjóða að slátra öðrum fuglinum í leirker yfir rennandi vatni. 14.6 En lifandi fuglinn, sedrusviðinn, skarlatið og ísópsvöndinn skal hann taka og drepa því, ásamt lifandi fuglinum, í blóð fuglsins, er slátrað var yfir rennandi vatni. 14.7 Og hann skal stökkva sjö sinnum á þann, sem lætur hreinsa sig af líkþránni, og dæma hann hreinan, en sleppa lifandi fuglinum út á víðavang. 14.8 Sá er lætur hreinsa sig, skal þvo klæði sín, raka allt hár sitt og lauga sig í vatni, og er þá hreinn. Og síðan gangi hann í herbúðirnar, en skal þó sjö daga hafast við fyrir utan tjald sitt. 14.9 Og á sjöunda degi skal hann raka allt hár sitt, bæði höfuð sitt, skegg og augabrúnir, _ allt hár sitt skal hann raka. Og hann skal þvo klæði sín og lauga líkama sinn í vatni, og er þá hreinn. 14.10 Á áttunda degi skal hann taka tvö hrútlömb gallalaus og eina gimbur veturgamla gallalausa og þrjá tíunduparta úr efu af fínu mjöli, blönduðu við olíu, í matfórn, og einn lóg af olíu. 14.11 Og presturinn, er hreinsar, skal færa manninn, er lætur hreinsa sig, ásamt þessu fram fyrir Drottin að dyrum samfundatjaldsins. 14.12 Og presturinn skal taka annað hrútlambið og fórna því í sektarfórn, ásamt olíu-lóginum, og veifa hvorutveggja að veififórn frammi fyrir Drottni. 14.13 Og lambinu skal slátra á þeim stað, þar sem syndafórninni er slátrað og brennifórninni, á helgum stað; því að eins og syndafórn heyrir presti, svo er og um sektarfórn. Hún er háheilög. 14.14 Prestur skal taka nokkuð af blóði sektarfórnarinnar, og prestur skal ríða því á hægri eyrnasnepil þess, er lætur hreinsa sig, og á þumalfingur hægri handar hans og á stórutá hægri fótar hans. 14.15 Og prestur skal taka nokkuð af olíu-lóginum og hella í vinstri lófa sér. 14.16 Og prestur skal drepa hægri fingri sínum í olíuna, sem er í vinstri lófa hans, og stökkva olíunni með fingri sínum sjö sinnum frammi fyrir Drottni. 14.17 Og af leifunum af olíunni, sem er í lófa hans, skal prestur ríða á hægri eyrnasnepil þess, er lætur hreinsa sig, og á þumalfingur hægri handar hans og á stórutá hægri fótar hans, ofan á blóðið úr sektarfórninni. 14.18 Og því, sem leift er af olíunni í lófa prestsins, skal hann ríða á höfuð þess, sem lætur hreinsa sig, og prestur skal friðþægja fyrir hann frammi fyrir Drottni. 14.19 Þá skal prestur fórna syndafórninni og friðþægja fyrir þann, er lætur hreinsa sig, vegna óhreinleika hans, og síðan skal hann slátra brennifórninni. 14.20 Og prestur skal fram bera á altarið brennifórnina og matfórnina. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir hann, og er hann þá hreinn. 14.21 En sé hann fátækur og á ekki fyrir þessu, þá skal hann taka eitt hrútlamb í sektarfórn til veifunar, til þess að friðþægt verði fyrir hann, og einn tíunda part úr efu af fínu mjöli, blönduðu við olíu, í matfórn, og lóg af olíu 14.22 og tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur, eftir því sem efni hans leyfa. Skal önnur vera til syndafórnar, en hin til brennifórnar. 14.23 Og hann skal færa þær prestinum á áttunda degi frá hreinsun sinni að dyrum samfundatjaldsins fram fyrir Drottin. 14.24 Og prestur skal taka sektarfórnarlambið og olíu-lóginn, og prestur skal veifa því til veififórnar frammi fyrir Drottni. 14.25 Síðan skal sektarfórnarlambinu slátrað. Prestur skal taka nokkuð af blóði sektarfórnarinnar og ríða á hægri eyrnasnepil þess, er lætur hreinsa sig, og á þumalfingur hægri handar hans og á stórutá hægri fótar hans. 14.26 Og nokkru af olíunni skal prestur hella í vinstri lófa sér. 14.27 Og prestur skal stökkva nokkru af olíunni, sem er í vinstri lófa hans, með hægri fingri sínum sjö sinnum frammi fyrir Drottni. 14.28 Og prestur skal ríða nokkru af olíunni, sem er í lófa hans, á hægri eyrnasnepil þess, er lætur hreinsa sig, og á þumalfingur hægri handar hans og stórutá hægri fótar hans, á þann stað þar sem blóðið úr sektarfórninni er. 14.29 En því, sem leift er af olíunni í lófa prestsins, skal hann ríða á höfuð þess, er lætur hreinsa sig, til þess að friðþægja fyrir hann frammi fyrir Drottni. 14.30 Þá skal hann fórna annarri turtildúfunni eða annarri ungu dúfunni, eftir því sem hann hafði efnin til, 14.31 annarri í syndafórn og hinni í brennifórn, ásamt matfórninni. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir þann, er lætur hreinsa sig, frammi fyrir Drottni.' 14.32 Þetta eru ákvæðin um þann, sem hefir líkþrársótt og ekki á fyrir hreinsun sinni. 14.33 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði: 14.34 'Þá er þér komið í Kanaanland, sem ég mun gefa yður til eignar, og ég læt koma líkþrárskellu á hús í eignarlandi yðar, 14.35 þá skal sá fara, sem húsið á, og greina presti frá og segja: ,Mér virðist sem skella sé á húsinu.` 14.36 Og prestur skal bjóða að láta ryðja húsið áður en prestur gengur inn til þess að líta á skelluna, svo að ekki verði allt óhreint, sem í húsinu er. Síðan skal prestur ganga inn til þess að skoða húsið. 14.37 Og hann skal líta á skelluna, og sjái hann, að skellan á veggjum hússins eru dældir grænleitar eða rauðleitar, og þær ber lægra en vegginn, 14.38 þá skal prestur ganga út úr húsinu að dyrum hússins og byrgja húsið sjö daga. 14.39 Og prestur skal koma aftur á sjöunda degi og líta á, og sjái hann að skellan hefir færst út á veggjum hússins, 14.40 þá skal prestur bjóða að brjóta þá steina úr, sem skellan er á, og varpa þeim á óhreinan stað utan borgar. 14.41 Og húsið skal hann láta skafa allt að innan, og skulu þeir steypa niður vegglíminu, er þeir skafa af, á óhreinan stað utan borgar. 14.42 Og þeir skulu taka aðra steina og setja í stað hinna steinanna, og annað vegglím skal taka og ríða á húsið. 14.43 En ef skellan kemur aftur og brýst út á húsinu, eftir að steinarnir hafa verið brotnir úr og eftir að húsið hefir verið skafið og síðan verið riðið á vegglími, 14.44 þá skal prestur koma og líta á. Og sjái hann að skellan hefir færst út á húsinu, þá er það skæð líkþrá á húsinu. Það er óhreint. 14.45 Og skal rífa húsið, steinana í því, viðina og allt vegglím hússins, og færa út fyrir borgina á óhreinan stað. 14.46 Hver sem gengur inn í húsið alla þá stund, sem það er byrgt, skal vera óhreinn til kvelds. 14.47 Og hver sem hvílir í húsinu, skal þvo klæði sín, og hver sem matar neytir í húsinu, skal þvo klæði sín. 14.48 En ef prestur kemur og lítur á og sér, að skellan hefir ekki færst út á húsinu eftir að riðið var vegglími á húsið, þá skal prestur dæma húsið hreint, því að skellan er þá læknuð. 14.49 Og hann skal taka tvo fugla, sedrusvið, skarlat og ísópsvönd til þess að syndhreinsa húsið. 14.50 Og hann skal slátra öðrum fuglinum í leirker yfir rennandi vatni. 14.51 En sedrusviðinn, ísópsvöndinn, skarlatið og lifandi fuglinn skal hann taka og drepa þeim í blóð fuglsins, er slátrað var, og í rennandi vatnið og stökkva á húsið sjö sinnum. 14.52 Og hann skal syndhreinsa húsið með blóði fuglsins og rennandi vatninu, með lifandi fuglinum, sedrusviðinum, ísópsvendinum og skarlatinu. 14.53 En lifandi fuglinum skal hann sleppa út fyrir borgina, út á víðavang, og friðþægja þannig fyrir húsið, og er það þá hreint.' 14.54 Þetta eru ákvæðin um hvers konar líkþrársótt og skurfu, 14.55 um líkþrá í fati og á húsi, 14.56 um þrota, hrúður og gljádíla, 14.57 til leiðbeiningar um það, hvenær eitthvað er óhreint og hvenær það er hreint. Þetta eru ákvæðin um líkþrá.
15.1 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði: 15.2 'Mælið til Ísraelsmanna og segið við þá: Nú hefir einhver rennsli úr hörundi sínu, og er hann óhreinn vegna rennslisins. 15.3 Og skal svo vera um óhreinleika hans, þá er hann hefir rennsli: Hvort sem rennslið úr hörundi hans gengur út eða stemmist, þá er hann óhreinn. 15.4 Sérhver hvíla skal óhrein vera, ef maður með rennsli hefir legið í henni, og sérhvað það skal óhreint vera, er hann situr á. 15.5 Og hver sem snertir hvílu hans, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds. 15.6 Og sá er sest á nokkuð það, sem maður með rennsli hefir setið á, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds. 15.7 Og sá sem snertir líkama þess, er rennsli hefir, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds. 15.8 Hræki sá, er rennsli hefir, á hreinan mann, þá skal hann þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds. 15.9 Sérhver söðull skal óhreinn vera, ef maður með rennsli ríður í honum. 15.10 Og hver sá, er snertir eitthvað það, sem hefir verið undir honum, skal vera óhreinn til kvelds, og sá, er ber það, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds. 15.11 Og hver sá, er maður með rennsli hefir snortið, og hafi hann eigi skolað hendur sínar í vatni, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds. 15.12 Og leirker skal brjóta, ef maður með rennsli snertir það, en tré-ílát öll skola í vatni. 15.13 Er sá, er rennsli hefir, verður hreinn af rennsli sínu, skal hann telja sjö daga frá hreinsun sinni og þvo klæði sín og lauga líkama sinn í rennandi vatni, og er þá hreinn. 15.14 Og á áttunda degi skal hann taka tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur og ganga fram fyrir Drottin að dyrum samfundatjaldsins og færa þær presti. 15.15 Og prestur skal fórna þeim, annarri í syndafórn og hinni í brennifórn, og prestur skal friðþægja fyrir hann frammi fyrir Drottni vegna rennslis hans. 15.16 Nú lætur einhver sæði, og skal hann lauga allan líkama sinn í vatni og vera óhreinn til kvelds. 15.17 Og hvert það fat eða skinn, sem sæðið hefir komið á, skal þvegið í vatni og vera óhreint til kvelds. 15.18 Og leggist maður með konu og hafi samfarir við hana, þá skulu þau lauga sig í vatni og vera óhrein til kvelds. 15.19 Nú hefir kona rennsli, og rennslið úr holdi hennar er blóð, þá skal hún vera óhrein sjö daga, og hver sem snertir hana, skal vera óhreinn til kvelds. 15.20 Allt það, sem hún liggur á, meðan hún er óhrein, skal vera óhreint, og allt, sem hún situr á, skal vera óhreint. 15.21 Og hver sem snertir hvílu hennar, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds. 15.22 Og hver sem snertir nokkuð það, sem hún hefir setið á, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds. 15.23 Og snerti hann eitthvað, sem er í hvílunni eða á því, sem hún situr á, þá skal hann vera óhreinn til kvelds. 15.24 Og ef einhver samrekkir henni og tíðablóð hennar kemur á hann, þá er hann óhreinn sjö daga, og hver sú hvíla skal óhrein vera, er hann liggur í. 15.25 Nú missir kona blóð marga daga á öðrum tíma en þeim, er hún hefir tíðir, eða hún hefir rennsli fram yfir tíðir sínar, þá skal hún alla þá stund, er hún hefir óhreint rennsli, haga sér eins og þá daga, er hún hefir tíðir. Hún er óhrein. 15.26 Hverja hvílu, sem hún liggur í alla þá stund, sem hún hefir rennsli, skal hún fara með eins og hvílu sína, þá er hún hefir tíðir, og sérhvað það, er hún situr á, skal vera óhreint, eins og þegar hún er óhrein af klæðaföllum. 15.27 Hver sem snertir þetta, skal vera óhreinn, og hann skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds. 15.28 En þá er hún er hrein orðin af rennsli sínu, skal hún telja sjö daga, og eftir það er hún hrein. 15.29 Og á áttunda degi skal hún taka sér tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur og færa þær prestinum að dyrum samfundatjaldsins. 15.30 Og prestur skal fórna annarri í syndafórn og hinni í brennifórn, og prestur skal friðþægja fyrir hana frammi fyrir Drottni vegna hins óhreina rennslis hennar. 15.31 Og þannig skuluð þér vara Ísraelsmenn við óhreinleika þeirra, að þeir deyi ekki í óhreinleika sínum, ef þeir saurga búð mína, sem er meðal þeirra.' 15.32 Þetta eru ákvæðin um þann, sem hefir rennsli, og þann, sem hefir sáðlát, svo að hann verður óhreinn af, 15.33 og um konu, sem hefir tíðir, og þann, sem hefir rennsli, hvort heldur er karl eða kona, og um mann, sem samrekkir konu óhreinni.
16.1 Drottinn talaði við Móse eftir dauða tveggja sona Arons, er þeir gengu fram fyrir Drottin og dóu. 16.2 Og Drottinn sagði við Móse: 'Seg þú Aroni bróður þínum, að hann megi ekki á hverjum tíma sem er ganga inn í helgidóminn inn fyrir fortjaldið, fram fyrir lokið, sem er yfir örkinni, ella muni hann deyja, því að ég mun birtast í skýinu yfir lokinu. 16.3 Með þetta skal Aron koma inn í helgidóminn: Með ungneyti í syndafórn og hrút í brennifórn. 16.4 Hann skal klæðast helgum línkyrtli og hafa línbrækur yfir holdi sínu og gyrða sig línbelti og setja á sig vefjarhött af líni. Þetta eru helg klæði. Og skal hann lauga líkama sinn í vatni og klæðast þeim. 16.5 Af söfnuði Ísraelsmanna skal hann taka tvo geithafra í syndafórn og einn hrút í brennifórn. 16.6 Aron skal leiða fram uxann, sem honum er ætlaður til syndafórnar, og friðþægja fyrir sig og hús sitt. 16.7 Þá skal hann taka báða geithafrana og færa þá fram fyrir Drottin að dyrum samfundatjaldsins. 16.8 Og Aron skal leggja hluti á báða hafrana, einn hlut fyrir Drottin og hinn annan hlut fyrir Asasel. 16.9 Og Aron skal leiða fram hafurinn, sem hlutur Drottins féll á, og fórna honum í syndafórn. 16.10 En hafurinn, sem hlutur Asasels féll á, skal færa lifandi fram fyrir Drottin, til þess að friðþæging fari fram yfir honum og honum sé sleppt til Asasels út á eyðimörkina. 16.11 Aron skal leiða fram uxann, sem honum er ætlaður til syndafórnar, og friðþægja fyrir sig og hús sitt, og hann skal slátra uxanum, sem honum er ætlaður til syndafórnar. 16.12 Hann skal taka eldpönnu fulla af eldsglóðum af altarinu frammi fyrir Drottni og lúkur sínar fullar af smámuldu ilmreykelsi og bera inn fyrir fortjaldið. 16.13 Og hann skal láta reykelsið á eldinn frammi fyrir Drottni, svo að reykelsisskýið hylji lokið, sem er yfir sáttmálinu, og hann deyi ekki. 16.14 Og hann skal taka nokkuð af blóði uxans og stökkva því með fingri sínum ofan á lokið framanvert, og fyrir framan lokið skal hann stökkva sjö sinnum nokkru af blóðinu með fingri sínum. 16.15 Þessu næst skal hann slátra hafrinum, er ætlaður er lýðnum til syndafórnar, og bera blóð hans inn fyrir fortjaldið og fara með blóðið úr honum á sama hátt, eins og hann fór með blóðið úr uxanum, og stökkva því á lokið og fyrir framan lokið, 16.16 og friðþægja þannig fyrir helgidóminn, vegna óhreinleika Ísraelsmanna og vegna misgjörða þeirra, í hverju sem þeir kunna að hafa syndgað. Og eins skal hann fara með samfundatjaldið, sem stendur meðal þeirra, mitt í óhreinleika þeirra. 16.17 Enginn maður má vera inni í samfundatjaldinu, er hann gengur inn til þess að friðþægja í helgidóminum, til þess er hann fer út og hefir friðþægt fyrir sig og hús sitt og fyrir allan Ísraels söfnuð. 16.18 Hann skal ganga út að altarinu, sem stendur frammi fyrir Drottni, og friðþægja fyrir það. Og hann skal taka nokkuð af blóði uxans og nokkuð af blóði hafursins og ríða á horn altarisins allt í kring. 16.19 Og hann skal stökkva nokkru af blóðinu á það sjö sinnum með fingri sínum og hreinsa það og helga það vegna óhreinleika Ísraelsmanna. 16.20 Er hann þannig hefir lokið friðþægingu helgidómsins, samfundatjaldsins og altarisins, skal hann leiða fram lifandi hafurinn. 16.21 Og Aron skal leggja báðar hendur sínar á höfuð hins lifandi hafurs og játa yfir honum öll afbrot Ísraelsmanna og allar misgjörðir þeirra, í hverju sem þeir kunna að hafa syndgað. Og hann skal leggja þær á höfuð hafursins og senda hann út á eyðimörk með manni, sem til þess er ferðbúinn. 16.22 Og hafurinn skal bera á sér öll afbrot þeirra til óbyggða, og hann skal sleppa hafrinum á eyðimörk. 16.23 Og Aron skal ganga inn í samfundatjaldið og færa sig úr línklæðunum, sem hann fór í, er hann gekk inn í helgidóminn, og skilja þau þar eftir. 16.24 Og hann skal lauga líkama sinn í vatni á helgum stað og fara í klæði sín, ganga síðan út og fórna brennifórn sjálfs sín og brennifórn lýðsins, og friðþægja fyrir sig og fyrir lýðinn. 16.25 Og mör syndafórnarinnar skal hann brenna á altarinu. 16.26 Og sá, er fór burt með hafurinn til Asasels, skal þvo klæði sín og lauga líkama sinn í vatni. Síðan gangi hann í herbúðirnar. 16.27 En syndafórnaruxann og syndafórnarhafurinn, hverra blóð var borið inn til friðþægingar í helgidóminum, skal færa út fyrir herbúðirnar og brenna í eldi skinnin af þeim, kjötið og gorið. 16.28 Og sá, er brennir þetta, skal þvo klæði sín og lauga líkama sinn í vatni. Síðan gangi hann í herbúðirnar. 16.29 Þetta skal vera yður ævarandi lögmál: Í sjöunda mánuðinum, á tíunda degi mánaðarins skuluð þér fasta og ekkert verk vinna, hvorki innbornir menn né útlendingar, er meðal yðar búa. 16.30 Því að á þessum degi skal friðþægt verða fyrir yður til þess að hreinsa yður. Af öllum syndum yðar skuluð þér hreinir vera fyrir Drottni. 16.31 Það skal vera yður algjör hvíldardagur, og þér skuluð fasta. Það er ævarandi lögmál. 16.32 En friðþæginguna skal gjöra sá prestur, er smyrja á og vígjast skal til þess, að hann þjóni í prestsembætti í stað föður síns, og skal hann klæðast línklæðunum, hinum helgu klæðum. 16.33 Hann skal friðþægja fyrir hið helgasta, og hann skal friðþægja fyrir samfundatjaldið og altarið, og hann skal friðþægja fyrir prestana og allt fólk safnaðarins. 16.34 Þetta skal vera yður ævarandi lögmál: að friðþægja einu sinni á ári fyrir Ísraelsmenn vegna allra synda þeirra.' Og hann gjörði svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
17.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 17.2 'Tala þú við Aron og sonu hans og alla Ísraelsmenn og seg við þá: Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið og sagt: 17.3 Hver sá af húsi Ísraels, sem slátrar nautgrip eða sauðkind eða geitsauð í herbúðunum, eða slátrar því fyrir utan herbúðirnar, 17.4 og leiðir það ekki að dyrum samfundatjaldsins til þess að færa Drottni það að fórnargjöf fyrir framan búð Drottins, sá maður skal vera blóðsekur. Hann hefir úthellt blóði, og sá maður skal upprættur verða úr þjóð sinni, 17.5 til þess að Ísraelsmenn færi sláturfórnir sínar, er þeir eru vanir að fórna á bersvæði, _ að þeir færi þær prestinum að dyrum samfundatjaldsins Drottni til handa og fórni þeim í heillafórnir Drottni til handa. 17.6 Prestur skal stökkva blóðinu á altari Drottins við dyr samfundatjaldsins og brenna mörinn til þægilegs ilms fyrir Drottin. 17.7 Og þeir skulu eigi framar færa fórnir skógartröllunum, er þeir nú taka fram hjá með. Þetta skal vera þeim ævarandi lögmál frá kyni til kyns. 17.8 Og þú skalt segja við þá: Hver sá af húsi Ísraels eða af útlendum mönnum, er búa meðal þeirra, sem fórnar brennifórn eða sláturfórn 17.9 og færir hana ekki að dyrum samfundatjaldsins til þess að fórna Drottni henni, sá maður skal upprættur verða úr þjóð sinni. 17.10 Hver sá af húsi Ísraels og af útlendum mönnum, er búa meðal þeirra, sem neytir nokkurs blóðs, _ gegn þeim manni, sem neytir blóðs, vil ég snúa augliti mínu og uppræta hann úr þjóð sinni. 17.11 Því að líf líkamans er í blóðinu, og ég hefi gefið yður það á altarið, til þess að með því sé friðþægt fyrir yður, því að blóðið friðþægir með lífinu. 17.12 Fyrir því hefi ég sagt við Ísraelsmenn: ,Enginn maður meðal yðar skal blóðs neyta, né heldur skal nokkur útlendingur, er býr meðal yðar, neyta blóðs.` 17.13 Og hver sá Ísraelsmanna og þeirra manna útlendra, er meðal yðar búa, sem veiðir villidýr eða fugl ætan, hann skal hella niður blóðinu og hylja það moldu. 17.14 Því að svo er um líf alls holds, að saman fer blóð og líf, og fyrir því hefi ég sagt við Ísraelsmenn: ,Þér skuluð ekki neyta blóðs úr nokkru holdi, því að líf sérhvers holds, það er blóð þess. Hver sá, er þess neytir, skal upprættur verða.` 17.15 Og hver sá, er etur sjálfdauða skepnu eða dýrrifna, hvort heldur er innborinn maður eða útlendur, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds. Þá er hann hreinn. 17.16 En þvoi hann þau ekki og laugi ekki hold sitt, þá bakar hann sér sekt.'
18.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 18.2 'Tala þú við Ísraelsmenn og seg við þá: Ég er Drottinn, Guð yðar. 18.3 Þér skuluð ekki gjöra að háttum Egyptalands, þar sem þér bjugguð, og þér skuluð ekki gjöra að háttum Kanaanlands, er ég mun leiða yður inn í, né heldur skuluð þér breyta eftir setningum þeirra. 18.4 Lög mín skuluð þér halda og setningar mínar skuluð þér varðveita, svo að þér breytið eftir þeim. Ég er Drottinn, Guð yðar. 18.5 Þér skuluð því varðveita setningar mínar og lög. Sá sem breytir eftir þeim skal lifa fyrir þau. Ég er Drottinn. 18.6 Enginn yðar skal koma nærri nokkru nánu skyldmenni til þess að bera blygðan þeirra. Ég er Drottinn. 18.7 Þú skalt eigi bera blygðan föður þíns og blygðan móður þinnar. Hún er móðir þín, þú skalt eigi bera blygðan hennar. 18.8 Þú skalt eigi bera blygðan konu föður þíns, það er blygðan föður þíns. 18.9 Blygðan systur þinnar, dóttur föður þíns eða dóttur móður þinnar, hvort heldur hún er fædd heima eða utan heimilis, _ blygðan þeirra skalt þú eigi bera. 18.10 Blygðan sonardóttur þinnar eða dótturdóttur, blygðan þeirra skalt þú eigi bera, því að það er þín blygðan. 18.11 Blygðan dóttur konu föður þíns, afkvæmis föður þíns _ hún er systir þín _, blygðan hennar skalt þú eigi bera. 18.12 Eigi skalt þú bera blygðan föðursystur þinnar, hún er náið skyldmenni föður þíns. 18.13 Eigi skalt þú bera blygðan móðursystur þinnar, því að hún er náið skyldmenni móður þinnar. 18.14 Eigi skalt þú bera blygðan föðurbróður þíns, eigi koma nærri konu hans, því að hún er sifkona þín. 18.15 Eigi skalt þú bera blygðan tengdadóttur þinnar. Hún er kona sonar þíns, eigi skalt þú bera blygðan hennar. 18.16 Eigi skalt þú bera blygðan konu bróður þíns. Það er blygðan bróður þíns. 18.17 Eigi skalt þú bera blygðan konu og dóttur hennar. Sonardóttur hennar eða dótturdóttur skalt þú eigi taka til þess að bera blygðan þeirra. Þær eru náin skyldmenni; það er óhæfa. 18.18 Né heldur skalt þú taka konu auk systur hennar, henni til eljurígs, með því að bera blygðan hennar auk hinnar, meðan hún er á lífi. 18.19 Eigi skalt þú koma nærri konu til að bera blygðan hennar, þá er hún er óhrein af klæðaföllum. 18.20 Þú skalt og eigi hafa holdlegt samræði við konu náunga þíns, svo að þú saurgist af. 18.21 Eigi skalt þú gefa nokkurt afkvæmi þitt til þess, að það sé helgað Mólok, svo að þú vanhelgir eigi nafn Guðs þíns. Ég er Drottinn. 18.22 Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð. 18.23 Þú skalt ekki eiga samlag við nokkra skepnu, svo að þú saurgist af. Né heldur skal kona standa fyrir skepnu til samræðis við hana. Það er svívirðing. 18.24 Saurgið yður ekki með nokkru þvílíku, því að með öllu þessu hafa heiðingjarnir saurgað sig, sem ég mun reka á burt undan yður. 18.25 Og landið saurgaðist, og fyrir því vitjaði ég misgjörðar þess á því, og landið spjó íbúum sínum. 18.26 Varðveitið því setningar mínar og lög og fremjið enga af þessum viðurstyggðum, hvorki innborinn maður né útlendingur, er býr meðal yðar, _ 18.27 því að allar þessar viðurstyggðir hafa landsbúar, er fyrir yður voru, framið, og landið saurgaðist _, 18.28 svo að landið spúi yður ekki, er þér saurgið það, eins og það spjó þeirri þjóð, er fyrir yður var. 18.29 Því að hver sá, er fremur einhverja af þessum viðurstyggðum, þær sálir, sem það gjöra, skulu upprættar verða úr þjóð sinni. 18.30 Varðveitið því boðorð mín, svo að þér fylgið eigi neinum af þeim andstyggilegu venjum, er hafðar voru í frammi fyrir yðar tíð, og saurgið yður ekki með því. Ég er Drottinn, Guð yðar.'
19.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 19.2 'Tala þú til alls safnaðar Ísraelsmanna og seg við þá: Þér skuluð vera heilagir, því að ég, Drottinn, Guð yðar, er heilagur. 19.3 Sérhver óttist móður sína og föður sinn og haldi hvíldardaga mína. Ég er Drottinn, Guð yðar. 19.4 Snúið yður eigi til falsguða og gjörið yður eigi steypta guði. Ég er Drottinn, Guð yðar. 19.5 Er þér slátrið heillafórn Drottni til handa, þá slátrið henni þannig, að hún afli yður velþóknunar. 19.6 Skal eta hana daginn, sem þér fórnið henni, og daginn eftir, en það, sem leift er til þriðja dags, skal brenna í eldi. 19.7 En sé þó etið af því á þriðja degi, þá skal það talið skemmt kjöt. Það mun eigi verða velþóknanlegt. 19.8 Og hver, sem etur það, bakar sér sekt, því að hann hefir vanhelgað það sem helgað er Drottni, og sá maður skal upprættur verða úr þjóð sinni. 19.9 Er þér skerið upp jarðargróður yðar, þá skalt þú eigi skera akur þinn út í hvert horn, né heldur skalt þú tína eftirtíning uppskeru þinnar. 19.10 Og eigi skalt þú gjörtína víngarð þinn, né heldur tína upp niður fallin ber í víngarði þínum. Þú skalt skilja það eftir handa fátækum og útlendingum. Ég er Drottinn, Guð yðar. 19.11 Þér skuluð eigi stela, eigi svíkja, né heldur ljúga hver að öðrum. 19.12 Þér skuluð eigi sverja ranglega við nafn mitt, svo að þú vanhelgir nafn Guðs þíns. Ég er Drottinn. 19.13 Þú skalt eigi beita náunga þinn ofríki, né ræna hann, og kaup daglaunamanns skal eigi vera hjá þér náttlangt til morguns. 19.14 Þú skalt ekki bölva daufum manni, né leggja fótakefli fyrir blindan mann, heldur skalt þú óttast Guð þinn. Ég er Drottinn. 19.15 Eigi skuluð þér ranglæti fremja í dómi. Þú skalt eigi draga taum lítilmagnans, né heldur vera hliðdrægur hinum volduga. Með réttvísi skalt þú dæma náunga þinn. 19.16 Þú skalt eigi ganga um sem rógberi meðal fólks þíns og eigi krefjast blóðs náunga þíns. Ég er Drottinn. 19.17 Þú skalt ekki hata bróður þinn í hjarta þínu. Einarðlega skalt þú ávíta náunga þinn, að þú eigi bakir þér synd hans vegna. 19.18 Eigi skalt þú hefnisamur vera né langrækinn við samlanda þína, en þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ég er Drottinn. 19.19 Þér skuluð varðveita setningar mínar. Þú skalt eigi láta tvær tegundir fénaðar þíns eiga samlag, þú skalt eigi sá akur þinn tvenns konar sæði og eigi skalt þú bera klæði, sem ofin eru af tvenns konar efni. 19.20 Nú hefir einhver holdlegt samræði við konu, og sé hún ambátt manni föstnuð, en hvorki leysingi né frelsingi, þá liggur refsing við. Eigi skal lífláta þau, fyrir því að hún var eigi frelsingi. 19.21 En hann skal færa Drottni sektarfórn sína að dyrum samfundatjaldsins, hrút í sektarfórn. 19.22 Og presturinn skal friðþægja fyrir hann með sektarfórnarhrútnum frammi fyrir Drottni vegna syndar hans, sem hann hefir drýgt. Og honum mun fyrirgefin verða synd hans, sem hann hefir drýgt. 19.23 Er þér komið inn í landið og gróðursetjið alls konar aldintré, þá skuluð þér telja aldinin á þeim sem yfirhúð þeirra. Þrjú ár skuluð þér halda þau fyrir óumskorin; eigi skal neyta þeirra. 19.24 Fjórða árið skulu öll aldin þeirra vera helguð Drottni til lofgjörðar, 19.25 en fimmta árið skuluð þér eta aldin þeirra, svo að þau veiti yður því meiri arð. Ég er Drottinn, Guð yðar. 19.26 Þér skuluð ekkert með blóði eta. Þér skuluð eigi fara með spár né fjölkynngi. 19.27 Þér skuluð eigi kringluskera höfuð yðar, né heldur skalt þú skerða skeggrönd þína. 19.28 Og þér skuluð eigi skera skurði í hold yðar fyrir sakir dauðs manns, né heldur gjöra hörundsflúr á yður. Ég er Drottinn. 19.29 Vanhelga eigi dóttur þína með því að halda henni til saurlifnaðar, að eigi drýgi landið hór og landið fyllist óhæfu. 19.30 Þér skuluð halda hvíldardaga mína og bera lotningu fyrir helgidómi mínum. Ég er Drottinn. 19.31 Leitið eigi til særingaranda né spásagnaranda, farið eigi til frétta við þá, svo að þér saurgist ekki af þeim. Ég er Drottinn, Guð yðar. 19.32 Þú skalt standa upp fyrir hinum gráhærða og heiðra gamalmennið, og þú skalt óttast Guð þinn. Ég er Drottinn. 19.33 Ef útlendur maður býr hjá þér í landi yðar, þá skuluð þér eigi sýna honum ójöfnuð. 19.34 Útlendan mann, sem hjá yður býr, skuluð þér svo með fara sem innborinn mann meðal yðar, og þú skalt elska hann eins og sjálfan þig, því að þér voruð útlendingar í Egyptalandi. Ég er Drottinn, Guð yðar. 19.35 Eigi skuluð þér ranglæti fremja í dómi, stiku, vigt og mæli. 19.36 Þér skuluð hafa réttar vogir, rétta vogarsteina, rétta efu og rétta hín. Ég er Drottinn, Guð yðar, sem leiddi yður út af Egyptalandi. 19.37 Og þér skuluð varðveita allar setningar mínar og öll lög mín og halda þau. Ég er Drottinn.'
20.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 20.2 'Og þú skalt segja við Ísraelsmenn: Hver sá Ísraelsmanna, eða útlendra manna, er búa í Ísrael, sem færir Mólok nokkurt afkvæmi sitt, skal líflátinn verða. Landslýður skal lemja hann grjóti. 20.3 Og ég vil snúa augliti mínu gegn þeim manni og uppræta hann úr þjóð sinni, fyrir þá sök að hann hefir fært Mólok afkvæmi sitt til þess að saurga helgidóm minn og vanhelga heilagt nafn mitt. 20.4 En ef landslýður hylmir yfir með slíkum manni, er hann færir Mólok afkvæmi sitt, og líflætur hann ekki, 20.5 þá vil ég snúa augliti mínu gegn slíkum manni og gegn ætt hans. Og ég mun uppræta hann og alla þá, er verða honum samsekir í því að taka fram hjá með Mólok, úr þjóð þeirra. 20.6 Sá sem leitar til særingaranda og spásagnaranda til þess að taka fram hjá með þeim, gegn honum vil ég snúa augliti mínu og uppræta hann úr þjóð sinni. 20.7 Helgist og verið heilagir, því að ég er Drottinn, Guð yðar. 20.8 Fyrir því skuluð þér varðveita setningar mínar og halda þær. Ég er Drottinn, sá er yður helgar. 20.9 Hver sá, sem bölvar föður sínum eða móður sinni, skal líflátinn verða. Föður sínum eða móður sinni hefir hann bölvað, blóðsök hvílir á honum. 20.10 Þá er einhver drýgir hór með konu annars manns, drýgir hór með konu náunga síns, þá skal líflátinn verða bæði hórkarlinn og hórkonan. 20.11 Og leggist maður með konu föður síns, þá hefir hann berað blygðan föður síns. Þau skulu bæði líflátin verða, blóðsök hvílir á þeim. 20.12 Og leggist maður með tengdadóttur sinni, þá skulu þau bæði líflátin verða. Svívirðing hafa þau framið, blóðsök hvílir á þeim. 20.13 Og leggist maður með karlmanni sem kona væri, þá fremja þeir báðir viðurstyggð. Þeir skulu líflátnir verða, blóðsök hvílir á þeim. 20.14 Og taki maður bæði konu og móður hennar, þá er það óhæfa. Skal brenna hann í eldi ásamt þeim, svo að eigi gangist við óhæfa meðal yðar. 20.15 Og eigi maður samlag við skepnu, þá skal hann líflátinn verða, og skepnuna skuluð þér drepa. 20.16 Og ef kona kemur nærri einhverri skepnu til samræðis við hana, þá skalt þú deyða konuna og skepnuna. Þau skulu líflátin verða, blóðsök hvílir á þeim. 20.17 Nú tekur einhver systur sína, dóttur föður síns eða dóttur móður sinnar, og sér blygðan hennar og hún sér blygðan hans, þá er það skömm. Þau skulu upprætt verða í augsýn samlanda sinna. Blygðan systur sinnar hefir hann berað og bakað sér sekt. 20.18 Leggist maður með konu, sem hefir tíðir, og berar blygðan hennar _ hefir beran gjört brunn hennar og hún hefir sjálf berað brunn blóðs síns _, þá skulu þau bæði upprætt verða úr þjóð sinni. 20.19 Eigi skalt þú bera blygðan móðursystur þinnar eða föðursystur, því að sá maður hefir bert gjört náið skyldmenni sitt, þau hafa bakað sér sekt. 20.20 Og ef einhver leggst með sifkonu sinni, þá hefir hann berað blygðan föðurbróður síns. Þau hafa bakað sér synd, barnlaus skulu þau deyja. 20.21 Og ef einhver tekur konu bróður síns, þá er það saurgun. Blygðan bróður síns hefir hann berað, barnlaus skulu þau vera. 20.22 Varðveitið því allar setningar mínar og öll lög mín og haldið þau, svo að landið, sem ég mun leiða yður inn í, til þess að þér byggið það, spúi yður ekki. 20.23 Þér skuluð ekki breyta eftir setningum þeirrar þjóðar, sem ég rek burt undan yður, því að þeir frömdu allt þetta og þess vegna bauð mér við þeim. 20.24 Fyrir því sagði ég yður: ,Þér skuluð eignast land þeirra, og ég vil gefa yður það til eignar, land sem flýtur í mjólk og hunangi.` Ég er Drottinn, Guð yðar, sem hefi skilið yður frá þjóðunum. 20.25 Gjörið því grein hreinna ferfætlinga og óhreinna, og óhreinna fugla og hreinna, og gjörið yður eigi viðurstyggilega á skepnum, fuglum né neinu, sem hrærist á jörðinni, því sem ég hefi greint frá, til þess að það væri yður óhreint. 20.26 Og þér skuluð vera heilagir fyrir mér, því að ég, Drottinn, er heilagur, og hefi skilið yður frá þjóðunum, til þess að þér skuluð vera mínir. 20.27 Hafi maður eða kona særingaranda eða spásagnaranda, þá skulu þau líflátin verða. Skal lemja þau grjóti, blóðsök hvílir á þeim.'
21.1 Drottinn sagði við Móse: 'Mæl þú til prestanna, sona Arons, og seg við þá: Prestur skal eigi saurga sig á líki meðal fólks síns, 21.2 nema það sé skyldmenni hans, honum mjög náið: móðir hans, faðir hans, sonur hans, dóttir hans, bróðir hans 21.3 eða systir hans, sem er mey og honum nákomin, og eigi er manni gefin, vegna hennar má hann saurga sig. 21.4 Eigi skal hann saurga sig, þar eð hann er höfðingi meðal fólks síns, svo að hann vanhelgi sig. 21.5 Eigi skulu þeir gjöra skalla á höfði sér, eigi raka skeggrönd sína, né heldur skera skurði í hold sitt. 21.6 Þeir skulu vera heilagir fyrir Guði sínum og ekki vanhelga nafn Guðs síns, því að þeir bera fram eldfórnir Drottins, mat Guðs síns. Fyrir því skulu þeir vera heilagir. 21.7 Eigi skulu þeir ganga að eiga skækju eða mey spjallaða, né heldur skulu þeir ganga að eiga konu, er maður hennar hefir rekið frá sér, því að prestur er heilagur fyrir Guði sínum. 21.8 Fyrir því skalt þú halda hann heilagan, því að hann ber fram mat Guðs þíns. Hann skal vera þér heilagur, því að ég er heilagur, Drottinn, sá er yður helgar. 21.9 Og ef prestsdóttir vanhelgar sig með saurlifnaði, þá vanhelgar hún föður sinn. Hana skal brenna í eldi. 21.10 Sá sem er æðsti prestur meðal bræðra sinna, og smurningarolíu hefir verið hellt yfir höfuð honum og hönd hans fyllt, að hann klæðist hinum helgu klæðum, hann skal eigi láta hár sitt flaka og eigi rífa sundur klæði sín. 21.11 Eigi skal hann koma nærri nokkru líki. Vegna föður síns og vegna móður sinnar skal hann eigi saurga sig. 21.12 Og eigi skal hann ganga út úr helgidóminum, svo að hann vanhelgi ekki helgidóm Guðs síns, því að vígsla smurningarolíu Guðs hans er á honum. Ég er Drottinn. 21.13 Hann skal ganga að eiga konu í meydómi hennar. 21.14 Ekkju eða konu brott rekna eða mey spjallaða, skækju, eigi skal hann slíkum kvænast, heldur skal hann taka sér fyrir konu mey af þjóð sinni. 21.15 Eigi skal hann vanhelga afkvæmi sitt meðal fólks síns, því að ég er Drottinn, sá er helgar hann.' 21.16 Drottinn talaði við Móse og sagði: 21.17 'Mæl þú til Arons og seg: Hafi einhver niðja þinna, nú eða í komandi kynslóðum, lýti á sér, þá skal hann eigi ganga fram til þess að bera fram mat Guðs síns. 21.18 Því að enginn sá, er lýti hefir á sér, skal ganga fram, sé hann blindur eða haltur eða örkumlaður í andliti eða hafi ofskapaðan útlim, 21.19 eða sé hann fótbrotinn eða handleggsbrotinn, 21.20 eða hafi hann herðakistil eða sé tærður eða hafi vagl á auga eða kláða eða útbrot eða eistnamar. 21.21 Enginn af niðjum Arons prests, sem lýti hefir á sér, skal koma fram til þess að bera fram eldfórnir Drottins. Lýti er á honum; eigi skal hann koma fram til þess að bera fram mat Guðs síns. 21.22 Mat Guðs síns, bæði af því, sem háheilagt er og heilagt, má hann eta. 21.23 En þó skal hann hvorki ganga inn að fortjaldinu né koma nærri altarinu, því að lýti er á honum, að hann eigi vanhelgi helga dóma mína; því að ég er Drottinn, sá er helgar þá.' 21.24 Þannig talaði Móse við Aron og sonu hans og við alla Ísraelsmenn.
22.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 22.2 'Seg þú Aroni og sonum hans, að þeir skuli halda sér frá helgigjöfum Ísraelsmanna, þeim er þeir helga mér, svo að þeir vanhelgi eigi heilagt nafn mitt. Ég er Drottinn. 22.3 Seg við þá: Hver sá af niðjum yðar, nú og í komandi kynslóðum, er kemur nærri helgigjöfum þeim, er Ísraelsmenn helga Drottni, meðan hann er óhreinn, skal upprættur verða frá augliti mínu. Ég er Drottinn. 22.4 Eigi skal neinn sá af niðjum Arons, sem líkþrár er eða hefir rennsli, eta af helgigjöfunum, uns hann er hreinn. Og sá, er snertir einhvern þann, sem saurgaður er af líki, eða mann sem hefir sáðlát, 22.5 eða sá, sem snert hefir eitthvert skriðkvikindi og saurgast af því, eða mann og saurgast af honum, hverrar tegundar sem óhreinleiki hans er, _ 22.6 sá er snert hefir slíkt, skal vera óhreinn til kvelds. Og eigi skal hann eta af helgigjöfunum nema hann laugi líkama sinn í vatni. 22.7 En jafnskjótt og sól er setst, er hann hreinn, og síðan eti hann af helgigjöfunum, því að það er matur hans. 22.8 Sjálfdauða skepnu eða dýrrifna skal hann eigi eta, svo að hann saurgist af. Ég er Drottinn. 22.9 Þeir skulu því varðveita boðorð mín, svo að þeir baki sér eigi synd fyrir slíkt og deyi vegna þess, fyrir því að þeir vanhelguðu það. Ég er Drottinn, sá er helgar þá. 22.10 Enginn sá, er eigi heyrir skylduliði prests, skal eta helgan dóm. Hvorki hjábýlingur prests né kaupamaður skal eta helgan dóm. 22.11 En kaupi prestur þræl verði, þá skal hann eta af því, svo og sá er fæddur er í húsi hans. Þeir skulu eta af mat hans. 22.12 Eigi skal prestsdóttir, sé hún leikmanni gefin, eta af hinum heilögu fórnargjöfum. 22.13 En sé dóttir prests ekkja eða kona brott rekin og eigi ekki barna og sé horfin aftur í hús föður síns, eins og í æsku hennar, skal hún eta af mat föður síns. En enginn sá, er eigi heyrir skylduliði prests, skal eta af honum. 22.14 Nú etur einhver af vangá helgan dóm, og skal hann þá færa presti hinn helga dóm og greiða fimmtung umfram. 22.15 Þeir skulu eigi vanhelga helgigjafir Ísraelsmanna, það er þeir færa Drottni í lyftifórn, 22.16 svo að þeir baki þeim eigi sekt með misgjörð sinni, er þeir eta helgigjafir þeirra, því að ég er Drottinn, sá er helgar þá.' 22.17 Drottinn talaði við Móse og sagði: 22.18 'Mæl þú til Arons og sona hans og allra Ísraelsmanna og seg við þá: Þá er einhver af húsi Ísraels eða útlendum mönnum í Ísrael ber fram fórnargjöf sína, hvort sem það er einhver heitfórn þeirra eða sjálfviljafórn, sem þeir færa Drottni að brennifórn, 22.19 þá skuluð þér bera hana svo fram, að hún afli yður velþóknunar: gallalausa, karlkyns, af nautum, sauðum eða geitum. 22.20 Eigi skuluð þér bera fram neitt það, er lýti hefir á sér, því að það mun eigi afla yður velþóknunar. 22.21 Nú vill einhver fórna Drottni heillafórn af nautum eða sauðfénaði, hvort heldur er til að efna heit sitt eða í sjálfviljafórn, þá skal það vera gallalaust, til þess að það afli honum velþóknunar. Ekkert lýti sé á því. 22.22 Það sem blint er eða beinbrotið eða sært eða með kýlum eða kláða eða útbrotum, það skuluð þér eigi færa Drottni, og eigi skuluð þér bera Drottni eldfórn af því á altarið. 22.23 En nautkind eða sauðkind, sem hefir lim ofskapaðan eða vanskapaðan, mátt þú fórna í sjálfviljafórn, en sem heitfórn mun hún eigi verða þóknanleg. 22.24 Það sem vanað er með kramningu, marningu, sliti eða skurði, skuluð þér eigi færa Drottni, og þér skuluð eigi slíkt gjöra í landi yðar. 22.25 Né heldur skuluð þér fá neitt af þessu hjá útlendum manni og bera það fram svo sem mat Guðs yðar, því að skemmd er á því. Lýti er á því, það mun eigi afla yður velþóknunar.' 22.26 Drottinn talaði við Móse og sagði: 22.27 'Þá er kálfur, lamb eða kið fæðist, skal það ganga sjö daga undir móðurinni, en átta daga gamalt og þaðan af eldra mun það verða þóknanlega meðtekið sem eldfórnargjöf Drottni til handa. 22.28 Þér skuluð eigi slátra kú eða á sama daginn og afkvæmi hennar. 22.29 Er þér fórnið Drottni þakkarfórn, þá fórnið henni svo, að hún afli yður velþóknunar. 22.30 Skal hún etin samdægurs, eigi skuluð þér leifa neinu af henni til morguns. Ég er Drottinn. 22.31 Varðveitið því skipanir mínar og haldið þær. Ég er Drottinn. 22.32 Og eigi skuluð þér vanhelga heilagt nafn mitt, svo að ég helgist meðal Ísraelsmanna. Ég er Drottinn, sá er yður helgar, 22.33 sá er leiddi yður út af Egyptalandi til þess að vera Guð yðar. Ég er Drottinn.'
23.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 23.2 'Mæl þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Löghátíðir Drottins, er þér skuluð boða sem helgar samkomur _ þessar eru löghátíðir mínar. 23.3 Sex daga skal verk vinna, en sjöunda daginn skal vera helgihvíld, helg samkoma. Þér skuluð ekkert verk vinna. Það er hvíldardagur Drottins í öllum bústöðum yðar. 23.4 Þessar eru löghátíðir Drottins, helgar samkomur, er þér skuluð boða, hverja á sínum tíma. 23.5 Í fyrsta mánuðinum, hinn fjórtánda dag mánaðarins um sólsetur, hefjast páskar Drottins. 23.6 Og fimmtánda dag hins sama mánaðar skal halda Drottni hátíð hinna ósýrðu brauða. Sjö daga skuluð þér eta ósýrt brauð. 23.7 Fyrsta daginn skuluð þér halda helga samkomu. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu. 23.8 Og þér skuluð færa Drottni eldfórn sjö daga. Sjöunda daginn er helg samkoma. Eigi skuluð þér þá fást við neina stritvinnu.' 23.9 Drottinn talaði við Móse og sagði: 23.10 'Mæl þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þá er þér komið í land það, sem ég mun gefa yður, og þér skerið þar upp korn, skuluð þér færa presti fyrsta kornbundinið af uppskeru yðar. 23.11 Og hann skal veifa kornbundininu frammi fyrir Drottni, svo að það afli yður velþóknunar, daginn eftir hvíldardaginn skal presturinn veifa því. 23.12 Þann dag, er þér veifið bundininu, skuluð þér fórna veturgamalli sauðkind gallalausri í brennifórn Drottni til handa. 23.13 Og matfórnin með henni skal vera tveir tíundupartar úr efu af fínu mjöli, blönduðu við olíu, eldfórn þægilegs ilms fyrir Drottin, og dreypifórnin fjórðungur úr hín af víni. 23.14 Eigi skuluð þér eta brauð, bakað korn eða korn úr nýslegnum kornstöngum allt til þess dags, allt til þess er þér hafið fært fórnargjöf Guði yðar. Það skal vera yður ævarandi lögmál frá kyni til kyns í öllum bústöðum yðar. 23.15 Þér skuluð telja frá næsta degi eftir hvíldardaginn, frá þeim degi, er þér færið bundinið í veififórn. Sjö vikur fullar skulu það vera. 23.16 Til næsta dags eftir sjöunda hvíldardaginn skuluð þér telja fimmtíu daga. Þá skuluð þér færa Drottni nýja matfórn. 23.17 Frá bústöðum yðar skuluð þér færa tvö brauð til veififórnar. Skulu þau vera gjörð af tveim tíundupörtum úr efu af fínu mjöli. Þau skulu vera bökuð með súrdeigi _ frumgróðafórn Drottni til handa. 23.18 Og ásamt brauðinu skuluð þér fram bera sjö sauðkindur veturgamlar gallalausar, eitt ungneyti og tvo hrúta. Þau skulu vera brennifórn Drottni til handa ásamt matfórn og dreypifórnum þeim, er til þeirra heyra, eldfórn þægilegs ilms Drottni til handa. 23.19 Og þér skuluð fórna einum geithafri í syndafórn og tveim sauðkindum veturgömlum í heillafórn. 23.20 Og presturinn skal veifa þeim með frumgróðabrauðinu að veififórn frammi fyrir Drottni ásamt sauðkindunum tveimur. Skal það vera Drottni helgað handa prestinum. 23.21 Þennan sama dag skuluð þér láta boð út ganga, þér skuluð halda helga samkomu. Þér skuluð eigi vinna neina stritvinnu. Það er ævarandi lögmál fyrir yður í öllum bústöðum yðar frá kyni til kyns. 23.22 Er þér skerið upp jarðargróður yðar, þá skalt þú eigi skera akur þinn út í hvert horn, né heldur skalt þú tína eftirtíning uppskeru þinnar. Þú skalt skilja það eftir handa fátækum og útlendingum. Ég er Drottinn, Guð yðar.' 23.23 Drottinn talaði við Móse og sagði: 23.24 'Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Í sjöunda mánuðinum, hinn fyrsta dag mánaðarins, skuluð þér halda helgihvíld, minningardag með básúnublæstri, helga samkomu. 23.25 Þér skuluð eigi vinna neina stritvinnu, og þér skuluð færa Drottni eldfórn.' 23.26 Drottinn talaði við Móse og sagði: 23.27 'Tíunda dag þessa hins sjöunda mánaðar er friðþægingardagurinn. Skuluð þér þá halda helga samkomu og fasta og færa Drottni eldfórn. 23.28 Þennan sama dag skuluð þér ekkert verk vinna, því að hann er friðþægingardagur, til þess að friðþægja fyrir yður frammi fyrir Drottni Guði yðar. 23.29 Því að hver sá, er eigi fastar þennan dag, skal upprættur verða úr þjóð sinni. 23.30 Og hvern þann, er eitthvert verk vinnur þennan dag, hann vil ég afmá úr þjóð hans. 23.31 Þér skuluð ekkert verk vinna. Það er ævarandi lögmál fyrir yður frá kyni til kyns í öllum bústöðum yðar. 23.32 Það skal vera yður helgihvíld og þér skuluð fasta. Hinn níunda dag mánaðarins að kveldi, frá aftni til aftans, skuluð þér halda hvíldardag yðar.' 23.33 Drottinn talaði við Móse og sagði: 23.34 'Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Á fimmtánda degi þessa hins sjöunda mánaðar skal halda Drottni laufskálahátíð sjö daga. 23.35 Fyrsta daginn skal vera helg samkoma, þá skuluð þér eigi vinna neina stritvinnu. 23.36 Sjö daga skuluð þér færa Drottni eldfórn. Áttunda daginn skuluð þér halda helga samkomu og færa Drottni eldfórn. Það er hátíðafundur, þá skuluð þér eigi vinna neina stritvinnu. 23.37 Þetta eru löghátíðir Drottins, er þér skuluð boða sem helgar samkomur til þess að færa Drottni eldfórn, brennifórn og matfórn, sláturfórn og dreypifórnir, hverja fórn á sínum degi, 23.38 auk hvíldardaga Drottins og auk gjafa yðar og auk allra heitfórna yðar og auk allra sjálfviljafórna yðar, er þér færið Drottni. 23.39 Á fimmtánda degi hins sjöunda mánaðar, er þér hafið hirt gróður landsins, skuluð þér halda hátíð Drottins sjö daga. Fyrsta daginn skal vera helgihvíld og áttunda daginn skal vera helgihvíld. 23.40 Og fyrsta daginn skuluð þér taka yður aldin af fögrum trjám, pálmviðargreinar og lim af þéttlaufguðum trjám og lækjarpíl, og þér skuluð fagna frammi fyrir Drottni, Guði yðar, í sjö daga. 23.41 Og þér skuluð halda hana helga sem hátíð Drottins sjö daga á ári. Það er ævarandi lögmál fyrir yður frá kyni til kyns: Í sjöunda mánuðinum skuluð þér halda hana. 23.42 Skuluð þér búa í laufskálum sjö daga. Allir innbornir menn í Ísrael skulu þá búa í laufskálum, 23.43 svo að niðjar yðar viti, að ég lét Ísraelsmenn búa í laufskálum, þá er ég leiddi þá út af Egyptalandi. Ég er Drottinn, Guð yðar.' 23.44 Og Móse sagði Ísraelsmönnum löghátíðir Drottins.
24.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 24.2 'Bjóð þú Ísraelsmönnum að færa þér tæra olíu af steyttum olífuberjum til ljósastikunnar, svo að lampar verði ávallt settir upp. 24.3 Fyrir utan fortjald sáttmálsins í samfundatjaldinu skal Aron tilreiða þá frá kveldi til morguns frammi fyrir Drottni stöðuglega. Það er ævarandi lögmál fyrir yður frá kyni til kyns. 24.4 Hann skal raða lömpunum á gull-ljósastikuna frammi fyrir Drottni stöðuglega. 24.5 Þú skalt taka fínt mjöl og baka úr því tólf kökur. Skulu vera tveir tíundupartar úr efu í hverri köku. 24.6 Og þú skalt leggja þær í tvær raðir, sex í hvora röð, á gullborðið frammi fyrir Drottni. 24.7 Og þú skalt láta hjá hvorri röð hreina reykelsiskvoðu, og skal hún vera sem ilmhluti af brauðinu, eldfórn Drottni til handa. 24.8 Á hverjum hvíldardegi skal hann raða þessu frammi fyrir Drottni stöðuglega. Er það ævinlegur sáttmáli af hálfu Ísraelsmanna. 24.9 Skal Aron og synir hans fá það og eta það á helgum stað, því að það heyrir honum sem háhelgur hluti af eldfórnum Drottins eftir ævinlegu lögmáli.' 24.10 Sonur ísraelskrar konu gekk út meðal Ísraelsmanna, en faðir hans var egypskur. Lenti þá sonur ísraelsku konunnar í deilu við ísraelskan mann í herbúðunum. 24.11 Og sonur ísraelsku konunnar lastmælti nafninu og formælti. Þeir leiddu hann fyrir Móse. En móðir hans hét Selómít Díbrísdóttir, af ættkvísl Dans. 24.12 Og þeir settu hann í varðhald, til þess að þeim kæmi úrskurður fyrir munn Drottins. 24.13 Og Drottinn talaði við Móse og sagði: 24.14 'Leið þú lastmælandann út fyrir herbúðirnar, og allir þeir, er heyrt hafa, skulu leggja hendur sínar á höfuð honum, og því næst skal allur söfnuðurinn grýta hann. 24.15 Og þú skalt tala við Ísraelsmenn og segja: ,Hver sá, er formælir Guði sínum, bakar sér synd. 24.16 Og sá er lastmælir nafni Drottins, skal líflátinn verða. Allur söfnuðurinn skal vægðarlaust grýta hann. Hvort heldur er útlendur maður eða innborinn, lastmæli hann nafninu, skal hann líflátinn. 24.17 Og ljósti einhver mann til bana, skal hann líflátinn verða. 24.18 Og sá, er lýstur skepnu til bana, skal bæta hana, líf fyrir líf. 24.19 Og veiti maður náunga sínum áverka, þá skal honum gjört hið sama, sem hann hefir gjört: 24.20 Beinbrot fyrir beinbrot, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hinn sami áverki, er hann hefir veitt öðrum, skal honum veittur. 24.21 Og sá, er lýstur skepnu til bana, skal bæta hana, en sá, er lýstur mann til bana, skal líflátinn. 24.22 Þér skuluð hafa ein lög, hvort heldur útlendur maður eða innborinn á í hlut, því að ég er Drottinn, Guð yðar.'` 24.23 Og Móse talaði við Ísraelsmenn, og þeir leiddu lastmælandann út fyrir herbúðirnar og lömdu hann grjóti. Og Ísraelsmenn gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
25.1 Drottinn talaði við Móse á Sínaífjalli og sagði: 25.2 'Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þegar þér komið í land það, sem ég mun gefa yður, þá skal landið halda Drottni hvíld. 25.3 Sex ár skalt þú sá akur þinn og sex ár skalt þú sniðla víngarð þinn og safna gróðrinum. 25.4 En sjöunda árið skal vera helgihvíld fyrir landið, hvíldartími Drottni til handa. Akur þinn skalt þú ekki sá og víngarð þinn skalt þú ekki sniðla. 25.5 Korn það, er vex sjálfsáið eftir uppskeru þína, skalt þú eigi skera, og vínber óskorins vínviðar þíns skalt þú eigi lesa. Það skal vera hvíldarár fyrir landið. 25.6 Gróður landsins um hvíldartímann skal vera yður til fæðu, þér, þræli þínum og ambátt, kaupamanni þínum og útlendum búanda, er hjá þér dvelja. 25.7 Og fénaði þínum og villidýrunum, sem í landi þínu eru, skal allur gróður þess vera til fæðu. 25.8 Þú skalt telja sjö hvíldarár, sjö ár sjö sinnum, svo að tími þeirra sjö hvíldarára verði fjörutíu og níu ár. 25.9 Og þá skaltu í sjöunda mánuðinum, tíunda dag mánaðarins, láta hvellilúðurinn gjalla. Friðþægingardaginn skuluð þér láta lúðurinn gjalla um gjörvallt land yðar, 25.10 og helga þannig hið fimmtugasta árið og boða frelsi í landinu fyrir alla íbúa þess. Það skal vera yður fagnaðarár. Þá skuluð þér hverfa aftur hver og einn til óðals síns, og þá skuluð þér hverfa aftur hver og einn til ættar sinnar. 25.11 Fagnaðarár skal fimmtugasta árið vera yður. Þér skuluð eigi sá og eigi uppskera það, sem vex sjálfsáið það ár, né heldur skuluð þér þá lesa vínber af óskornum vínviðum. 25.12 Því að það er fagnaðarár. Það sé yður heilagt. Skuluð þér eta af jörðinni það er á henni sprettur. 25.13 Á þessu fagnaðarári skuluð þér hverfa aftur hver og einn til óðals síns. 25.14 Þá er þú selur náunga þínum eitthvað eða þú kaupir eitthvað af náunga þínum, þá skuluð þér eigi sýna hver öðrum ójöfnuð. 25.15 Eftir því, hve mörg ár eru liðin frá fagnaðarári, skalt þú kaupa af náunga þínum, eftir því, hve uppskeruárin eru mörg, skal hann selja þér. 25.16 Því fleiri sem árin eru, því hærra skalt þú setja verðið, og því færri sem árin eru, því lægra skalt þú setja það, því að það er uppskerufjöldinn, sem hann selur þér. 25.17 Og þér skuluð eigi sýna hver öðrum ójöfnuð, heldur skalt þú óttast Guð þinn, því að ég er Drottinn, Guð yðar. 25.18 Fyrir því skuluð þér halda setningar mínar og varðveita lög mín og halda þau, svo að þér megið óhultir búa í landinu. 25.19 Þá mun landið gefa gróður sinn og þér eta yður sadda og búa óhultir í því. 25.20 Og ef þér segið: ,Hvað skulum vér eta sjöunda árið, þá er vér sáum eigi og hirðum eigi gróður vorn?` 25.21 þá vil ég senda yður blessun mína sjötta árið, og mun það leiða fram gróður til þriggja ára. 25.22 Og áttunda árið skuluð þér sá og eta af ávextinum, gamla forðanum. Til hins níunda árs, til þess er gróður þess fæst, skuluð þér eta gamla forðann. 25.23 Landið skal eigi selt fyrir fullt og allt, því að landið er mín eign, því að þér eruð dvalarmenn og hjábýlingar hjá mér. 25.24 Fyrir því skuluð þér í öllu eignarlandi yðar láta land falt til lausnar. 25.25 Ef bróðir þinn gjörist snauður og hann selur nokkuð af óðali sínu, þá skal lausnarmaður hans koma til, sá er það stendur næst, og leysa það, er bróðir hans hefir selt. 25.26 Nú hefir einhver engan lausnarmann, en er kominn svo í efni, að hann á fyrir lausnargjaldinu. 25.27 Þá skal hann telja árin frá því, er hann seldi, en það, sem yfir hefir, skal hann endurgreiða manni þeim, er hann seldi, og hverfur hann þá aftur til óðals síns. 25.28 En hafi hann ekki efni til að leysa, þá skal það, er hann hefir selt, vera í höndum kaupanda til fagnaðarárs. En á fagnaðarárinu gengur það úr eigu hans, og hverfur hann þá aftur til óðals síns. 25.29 Nú selur einhver íbúðarhús í múrgirtri borg, og skal honum heimilt að leysa það í heilt ár frá því, er hann seldi. Lausnarréttur hans skal vera tímabundinn. 25.30 En sé það ekki leyst áður en fullt ár er liðið, þá skal hús í múrgirtri borg verða full eign kaupanda og niðja hans. Það skal eigi ganga úr eigu hans fagnaðarárið. 25.31 En hús í þorpum, sem eigi eru múrgirt allt í kring, skulu talin með landi sveitarinnar. Þau skal jafnan heimilt að leysa, og þau skulu ganga úr eigu kaupanda á fagnaðarárinu. 25.32 Borgir levítanna, húsin í eignarborgum þeirra, skal levítunum heimilt að leysa á hverjum tíma sem er. 25.33 Og ef einhver af levítunum leysir eigi, þá skal selt hús ganga úr eigu kaupanda á fagnaðarárinu, sé það í eignarborg hans, því að húsin í borgum levítanna eru óðalseign þeirra meðal Ísraelsmanna. 25.34 En landið, er liggur undir borgir þeirra, skal eigi selja, því að það er ævinleg eign þeirra. 25.35 Ef bróðir þinn kemst í fátækt og verður ósjálfbjarga hjá þér, þá skalt þú styðja hann sem dvalarmann og hjábýling, svo að hann geti lifað hjá þér. 25.36 Þú skalt eigi taka fjárleigu af honum né aukagjald, heldur skalt þú óttast Guð þinn, svo að bróðir þinn geti lifað hjá þér. 25.37 Þú skalt eigi ljá honum silfur þitt gegn leigu, né heldur hjálpa honum um matvæli þín gegn aukagjaldi. 25.38 Ég er Drottinn, Guð yðar, sem leiddi yður út af Egyptalandi til þess að gefa yður Kanaanland og vera Guð yðar. 25.39 Komist bróðir þinn í fátækt hjá þér og selur sig þér, þá skalt þú ekki láta hann vinna þrælavinnu. 25.40 Sem kaupamaður, sem hjábýlingur skal hann hjá þér vera. Hann skal vinna hjá þér til fagnaðarárs. 25.41 En þá skal hann fara frá þér, og börn hans með honum, og hverfa aftur til ættar sinnar, og hann skal hverfa aftur til óðals feðra sinna. 25.42 Því að þeir eru þjónar mínir, sem ég hefi leitt út af Egyptalandi. Eigi skulu þeir seldir mansali. 25.43 Þú skalt eigi drottna yfir honum með hörku, heldur skalt þú óttast Guð þinn. 25.44 Viljir þú fá þér þræla og ambáttir, þá skuluð þér kaupa þræla og ambáttir af þjóðunum, sem umhverfis yður búa. 25.45 Svo og af börnum hjábýlinga, er hjá yður dvelja, af þeim skuluð þér kaupa og af ættliði þeirra, sem hjá yður er og þeir hafa getið í landi yðar, og þau skulu verða eign yðar. 25.46 Og þér skuluð láta þá ganga í arf til barna yðar eftir yður, svo að þau verði eign þeirra. Þér skuluð hafa þau að ævinlegum þrælum. En yfir bræðrum yðar, Ísraelsmönnum, skuluð þér eigi drottna með hörku, einn yfir öðrum. 25.47 Komist dvalarmaður eða hjábýlingur í efni hjá þér, en bróðir þinn kemst í fátækt hjá honum og selur sig dvalarmanni eða hjábýlingi hjá þér eða afkomanda dvalarmanns ættar, 25.48 þá skal heimilt að leysa hann eftir að hann hefir selt sig. Heimilt skal einhverjum af bræðrum hans að leysa hann, 25.49 eða föðurbróður hans eða bræðrungi hans eða einhverjum náfrænda í ætt hans, eða komist hann sjálfur í efni, þá er honum heimilt að leysa sig. 25.50 Og við þann, sem keypti hann, skal hann reikna frá árinu, er hann seldi sig honum, til fagnaðarársins, og söluverðið skal fara eftir árafjöldanum. Skal hann vera hjá honum ákveðinn tíma, svo sem kaupamaður væri. 25.51 Ef enn eru mörg ár eftir, þá skal hann að tiltölu við árafjöldann endurgreiða lausnargjald sitt af fé því, er hann var keyptur fyrir, 25.52 en ef fá ár eru eftir til fagnaðarárs, þá skal hann og reikna honum þau. Eftir áratölunni skal hann endurgreiða lausnargjald sitt. 25.53 Skal hann sæta sömu kjörum hjá honum eins og sá, sem er kaupamaður ár eftir ár. Hann skal eigi drottna yfir honum með hörku að þér ásjáandi. 25.54 En sé hann ekki leystur með þessum hætti, þá skal hann ganga úr eigu kaupanda fagnaðarárið, hann og börn hans með honum. 25.55 Því að Ísraelsmenn eru þjónar mínir, mínir þjónar eru þeir, sem ég hefi leitt út af Egyptalandi. Ég er Drottinn, Guð yðar.
26.1 Þér skuluð eigi gjöra yður falsguði, né heldur reisa yður skurðgoð eða merkissteina, og eigi setja upp myndasteina í landi yðar til þess að tilbiðja hjá þeim, því að ég er Drottinn, Guð yðar. 26.2 Mína hvíldardaga skuluð þér halda og fyrir mínum helgidómi lotningu bera. Ég er Drottinn. 26.3 Ef þér breytið eftir mínum setningum og varðveitið mínar skipanir og haldið þær, 26.4 þá skal ég jafnan senda yður regn á réttum tíma, og landið mun gefa ávöxt sinn og trén á mörkinni bera aldin sín. 26.5 Skal þá ná saman hjá yður þresking og vínberjatekja, og vínberjatekja og sáning, og þér skuluð eta yður sadda af brauði og búa öruggir í landi yðar. 26.6 Ég vil gefa frið í landinu, og þér skuluð leggjast til hvíldar og enginn skal hræða yður. Óargadýrum vil ég eyða úr landinu, og sverð skal ekki fara um land yðar. 26.7 Og þér skuluð elta óvini yðar, og frammi fyrir yður skulu þeir fyrir sverði hníga. 26.8 Og fimm af yður skulu elta hundrað, og hundrað af yður skulu elta tíu þúsundir, og óvinir yðar skulu frammi fyrir yður fyrir sverði hníga. 26.9 Ég vil snúa mér til yðar og gjöra yður frjósama og margfalda yður, og ég vil gjöra sáttmála minn við yður. 26.10 Og þér munuð eta fyrnt korn, gamlan forða, og þér munuð bera fyrnda kornið út fyrir hinu nýja. 26.11 Og ég mun reisa búð mína meðal yðar, og sál mín skal ekki hafa óbeit á yður. 26.12 Og ég mun ganga meðal yðar og vera Guð yðar, og þér skuluð vera mín þjóð. 26.13 Ég er Drottinn, Guð yðar, sem leiddi yður út af Egyptalandi, til þess að þér væruð eigi þrælar þeirra. Ég braut sundur ok-stengur yðar og lét yður ganga beina. 26.14 En ef þér hlýðið mér ekki og haldið ekki allar þessar skipanir, 26.15 og ef þér hafnið setningum mínum og sál yðar hefir óbeit á dómum mínum, svo að þér haldið ekki allar skipanir mínar, en rjúfið sáttmála minn, 26.16 þá vil ég gjöra yður þetta: Ég vil vitja yðar með skelfingu, tæringu og köldu, svo að augun slokkna og lífið fjarar út. Og þér skuluð sá sæði yðar til einskis, því að óvinir yðar skulu eta það. 26.17 Og ég vil snúa augliti mínu gegn yður, og þér skuluð bíða ósigur fyrir óvinum yðar, og fjandmenn yðar skulu drottna yfir yður, og þér skuluð flýja, þótt enginn elti yður. 26.18 En ef þér viljið þá enn ekki hlýða mér, þá vil ég enn refsa yður sjö sinnum fyrir syndir yðar. 26.19 Og ég vil brjóta ofurdramb yðar, og ég vil gjöra himininn yfir yður sem járn og land yðar sem eir. 26.20 Þá mun kraftur yðar eyðast til ónýtis, land yðar skal eigi gefa ávöxt sinn og trén á jörðinni eigi bera aldin sín. 26.21 Og ef þér gangið í gegn mér og viljið ekki hlýða mér, þá vil ég enn slá yður sjö sinnum, eins og syndir yðar eru til. 26.22 Og ég vil hleypa dýrum merkurinnar inn á meðal yðar, og þau skulu gjöra yður barnlausa, drepa fénað yðar og gjöra yður fámenna, og vegir yðar skulu verða auðir. 26.23 Og ef þér skipist ekki við þessa tyftun mína, heldur gangið í gegn mér, 26.24 þá vil ég einnig ganga gegn yður, þá vil ég einnig slá yður sjö sinnum fyrir syndir yðar. 26.25 Og ég vil láta sverð koma yfir yður, er hefna skal sáttmálans. Munuð þér þá þyrpast inn í borgir yðar, en ég vil senda drepsótt meðal yðar, og þér skuluð seldir í óvina hendur. 26.26 Þá er ég brýt staf brauðsins fyrir yður, munu tíu konur baka yður brauð í einum ofni og færa yður brauðið aftur eftir vigt, og þér munuð eta og ekki verða mettir. 26.27 Og ef þér hlýðið mér eigi þrátt fyrir þetta og gangið í gegn mér, 26.28 þá vil ég einnig ganga í gegn yður með þungri reiði og refsa yður sjö sinnum fyrir syndir yðar. 26.29 Og þér skuluð eta hold sona yðar, og hold dætra yðar skuluð þér eta. 26.30 Og ég vil leggja fórnarhæðir yðar í eyði og kollvarpa sólsúlum yðar og kasta hræjum yðar ofan á búkana af skurðgoðum yðar, og sálu minni mun bjóða við yður. 26.31 Og ég vil leggja borgir yðar í rústir og eyða helgidóma yðar og ekki kenna þægilegan ilm af fórnum yðar. 26.32 Og ég vil eyða landið, svo að óvinum yðar, sem í því búa, skal ofbjóða. 26.33 En yður vil ég tvístra meðal þjóðanna og bregða sverði á eftir yður, og land yðar skal verða auðn og borgir yðar rústir. 26.34 Þá skal landið fá hvíldarár sín bætt upp alla þá stund, sem það er í eyði og þér eruð í landi óvina yðar. Þá skal landið hvílast og bæta upp hvíldarár sín. 26.35 Alla þá stund, sem það er í eyði, skal það njóta hvíldar, þeirrar hvíldar, sem það eigi naut á hvíldarárum yðar, er þér bjugguð í því. 26.36 Og þá af yður, sem eftir verða, vil ég gjöra svo huglausa í löndum óvina þeirra, að þyturinn af fjúkandi laufblaði skal reka þá á flótta og þeir flýja eins og menn flýja undan sverði, og þeir skulu falla, þó að enginn elti. 26.37 Og þeir skulu hrasa hver um annan, eins og flýja skyldi undan sverði, þó að enginn elti, og þér skuluð eigi fá staðist fyrir óvinum yðar. 26.38 Og þér skuluð farast meðal þjóðanna, og land óvina yðar skal upp eta yður. 26.39 Og þeir af yður, sem eftir verða, skulu fyrir sakir misgjörðar sinnar veslast upp í löndum óvina yðar, og þeir skulu veslast upp sakir misgjörða feðra sinna eins og þeir. 26.40 Þá munu þeir játa misgjörð sína og misgjörð feðra sinna, er þeir frömdu með því að rjúfa tryggðir við mig, og hversu þeir hafa gengið í gegn mér _ 26.41 fyrir því gekk ég og í gegn þeim og flutti þá í land óvina þeirra _, já, þá mun óumskorið hjarta þeirra auðmýkja sig og þeir fá misgjörð sína bætta upp. 26.42 Og þá vil ég minnast sáttmála míns við Jakob, og sáttmála míns við Ísak og sáttmála míns við Abraham vil ég einnig minnast, og landsins vil ég minnast. 26.43 Og landið skal verða yfirgefið af þeim og fá hvíldarár sín bætt upp, meðan það er í eyði og þeir eru á brottu, og þeir skulu fá misgjörð sína bætta upp fyrir þá sök og vegna þess, að þeir höfnuðu lögum mínum og sál þeirra hafði óbeit á setningum mínum. 26.44 En jafnvel þá, er þeir eru í landi óvina sinna, hafna ég þeim ekki og býður mér ekki við þeim, svo að ég vilji aleyða þeim og rjúfa þannig sáttmála minn við þá, því að ég er Drottinn, Guð þeirra. 26.45 Og sökum þeirra vil ég minnast sáttmálans við forfeður þeirra, er ég leiddi út af Egyptalandi í augsýn þjóðanna til þess að vera Guð þeirra. Ég er Drottinn.' 26.46 Þetta eru setningar þær, ákvæði og lög, sem Drottinn setti milli sín og Ísraelsmanna á Sínaífjalli fyrir Móse.
27.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 27.2 'Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Ef maður gjörir heit og heitir Drottni mönnum eftir mati þínu, 27.3 þá skalt þú meta karlmann frá tvítugsaldri til sextugs á fimmtíu sikla silfurs eftir helgidóms sikli. 27.4 Sé það kona, þá skalt þú meta hana á þrjátíu sikla. 27.5 Sé það frá fimm til tuttugu ára að aldri, þá skalt þú meta pilt á tuttugu sikla, en stúlku á tíu sikla. 27.6 Sé það frá eins mánaðar til fimm ára að aldri, þá skalt þú meta svein á fimm sikla silfurs, en mey skalt þú meta á þrjá sikla silfurs. 27.7 Sé það sextugt og þaðan af eldra, þá skalt þú, sé það karlmaður, meta hann á fimmtán sikla, en kvenmann á tíu sikla. 27.8 En eigi hann ekki fyrir því, er þú metur, þá skal leiða hann fyrir prest, og prestur skal meta hann. Eftir efnahag þess, er heitið gjörir, skal prestur meta hann. 27.9 Færi menn Drottni fórnargjöf af fénaði, þá skal allt það af honum heilagt vera, sem Drottni er gefið. 27.10 Eigi má hafa kaup á því eða skipta því, vænu fyrir rýrt eða rýru fyrir vænt. Nú eru skipti höfð á skepnum og skulu þær vera heilagar, bæði sú, er látin er í skiptin, og sú, er fyrir kemur. 27.11 En sé það einhver óhreinn fénaður, er eigi má færa Drottni að fórnargjöf, þá skal leiða skepnuna fyrir prest. 27.12 Og prestur skal meta hana, eftir því sem hún er væn eða rýr til, og skal mat þitt, prestur, standa. 27.13 En vilji hann leysa hana, skal hann gjalda fimmtungi meira en þú metur. 27.14 Nú helgar maður Drottni hús sitt að helgigjöf, og skal þá prestur virða það eftir því sem það er gott eða lélegt til. Skal standa við það, sem prestur metur. 27.15 En vilji sá, er hús sitt hefir helgað, leysa það, skal hann gjalda fimmtung umfram virðingarverð þitt, og er það þá hans. 27.16 Helgi maður Drottni nokkuð af óðalslandi sínu, þá skal mat þitt fara eftir útsæðinu: kómer útsæðis af byggi á fimmtíu sikla silfurs. 27.17 Helgi hann land sitt frá fagnaðarári, þá skal standa við mat þitt. 27.18 En helgi hann land sitt eftir fagnaðarár, þá skal prestur reikna honum verðið eftir árunum, sem eftir eru til fagnaðarárs, og skal þá dregið af mati þínu. 27.19 En vilji sá, er helgað hefir land sitt, leysa það, skal hann gjalda fimmtung umfram verð það, er þú metur, og skal hann þá halda því. 27.20 En leysi hann eigi landið, en selur landið öðrum manni skal eigi heimilt að leysa það framar, 27.21 heldur skal landið, er það losnar á fagnaðarárinu, verða helgað Drottni, eins og bannfært land. Skal það verða eign prests. 27.22 Helgi hann Drottni keypt land, sem eigi er af óðalslandi hans, 27.23 þá skal prestur reikna fyrir hann, hve mikil upphæðin verði eftir mati þínu til fagnaðarárs, og skal hann þann dag greiða það, er þú metur, svo sem helgigjöf Drottni til handa. 27.24 En fagnaðarárið hverfur landið aftur undir þann, er hann keypti það af, undir þann, er á það með óðalsrétti. 27.25 Og allt mat þitt skal vera í helgidóms siklum. Skulu vera tuttugu gerur í sikli. 27.26 En frumburði af fénaði, sem Drottni heyra, fyrir því að þeir eru frumbornir, skal enginn helga. Hvort heldur er nautgripur eða sauðkind, þá heyrir það Drottni. 27.27 En sé það af hinum óhreina fénaði, þá skal hann leysa það eftir mati þínu og gjalda fimmtung umfram, en sé það ekki leyst, skal selja það eftir mati þínu. 27.28 Þó skal eigi selja eða leysa nokkurn hlut bannfærðan, það er einhver helgar Drottni með bannfæringu af einhverju því, er hann á, hvort heldur er maður, skepna eða óðalsland hans. Sérhver hlutur bannfærður er alhelgaður Drottni. 27.29 Engan bannfærðan mann má leysa, hann skal líflátinn verða. 27.30 Öll jarðartíund heyrir Drottni, hvort heldur er af ávexti jarðar eða aldinum trjáa. Hún er helguð Drottni. 27.31 En vilji einhver leysa nokkuð af tíund sinni, þá skal hann gjalda fimmtung umfram. 27.32 Öll tíund af nautgripum og sauðfé, öllu því, er gengur undir hirðisstafinn, hver tíunda skepna skal vera helguð Drottni. 27.33 Skal eigi skoða, hvort hún sé væn eða rýr, og eigi hafa skipti á henni. En séu höfð skipti á henni, þá skal bæði hún og sú, er fyrir kemur, vera heilög. Eigi má leysa hana.'
1.1 Drottinn talaði við Móse í Sínaí-eyðimörk, í samfundatjaldinu, á fyrsta degi annars mánaðar á öðru ári eftir brottför þeirra af Egyptalandi og mælti: 1.2 'Takið manntal alls safnaðar Ísraelsmanna eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, alla karlmenn mann fyrir mann. 1.3 Alla herfæra menn í Ísrael frá tvítugs aldri og þaðan af eldri skuluð þér telja eftir hersveitum þeirra, þú og Aron. 1.4 Og með ykkur skal vera einn maður af ættkvísl hverri, og sé hann höfuð ættar sinnar. 1.5 Þessi eru nöfn þeirra manna, er ykkur skulu aðstoða: Af Rúben: Elísúr Sedeúrsson. 1.6 Af Símeon: Selúmíel Súrísaddaíson. 1.7 Af Júda: Nakson Ammínadabsson. 1.8 Af Íssakar: Netanel Súarsson. 1.9 Af Sebúlon: Elíab Helónsson. 1.10 Af Jósefssonum: Af Efraím: Elísama Ammíhúdsson. Af Manasse: Gamlíel Pedasúrsson. 1.11 Af Benjamín: Abídan Gídeóníson. 1.12 Af Dan: Akíeser Ammísaddaíson. 1.13 Af Asser: Pagíel Ókransson. 1.14 Af Gað: Eljasaf Degúelsson. 1.15 Af Naftalí: Akíra Enansson.' 1.16 Þessir voru tilnefndir af söfnuðinum, höfðingjar yfir ættkvíslum feðra sinna. Voru þeir höfuð Ísraels þúsunda. 1.17 Móse og Aron tóku menn þessa, sem nafngreindir eru, 1.18 og stefndu saman öllum söfnuðinum á fyrsta degi annars mánaðar og skrifuðu þá á ættarskrárnar eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, mann fyrir mann. 1.19 Svo sem Drottinn hafði boðið Móse, taldi hann þá í Sínaí-eyðimörk. 1.20 Synir Rúbens, frumgetins sonar Ísraels, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, maður fyrir mann, allir karlmenn frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn, 1.21 þeir er taldir voru af ættkvísl Rúbens, voru 46.500. 1.22 Synir Símeons, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, maður fyrir mann, allir karlmenn frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn, 1.23 þeir er taldir voru af ættkvísl Símeons, voru 59.300. 1.24 Synir Gaðs, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn, 1.25 þeir er taldir voru af ættkvísl Gaðs, voru 45.650. 1.26 Synir Júda, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn, 1.27 þeir er taldir voru af ættkvísl Júda, voru 74.600. 1.28 Synir Íssakars, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn, 1.29 þeir er taldir voru af ættkvísl Íssakars, voru 54.400. 1.30 Synir Sebúlons, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn, 1.31 þeir er taldir voru af ættkvísl Sebúlons, voru 57.400. 1.32 Synir Jósefs: Synir Efraíms, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn, 1.33 þeir er taldir voru af ættkvísl Efraíms, voru 40.500. 1.34 Synir Manasse, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn, 1.35 þeir er taldir voru af ættkvísl Manasse, voru 32.200. 1.36 Synir Benjamíns, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn, 1.37 þeir er taldir voru af ættkvísl Benjamíns, voru 35.400. 1.38 Synir Dans, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn, 1.39 þeir er taldir voru af ættkvísl Dans, voru 62.700. 1.40 Synir Assers, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn, 1.41 þeir er taldir voru af ættkvísl Assers, voru 41.500. 1.42 Synir Naftalí, niðjar þeirra eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, samkvæmt nafnatölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn, 1.43 þeir er taldir voru af ættkvísl Naftalí, voru 53.400. 1.44 Þessir eru þeir, er taldir voru, sem þeir Móse, Aron og höfðingjar Ísraels töldu. Voru þeir tólf, einn fyrir hverja ættkvísl hans. 1.45 Og allir þeir af Ísraelsmönnum, er taldir voru eftir ættum þeirra, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, allir herfærir menn, voru, _ 1.46 allir þeir er taldir voru, voru 603.550. 1.47 En levítarnir, eftir ættbálki sínum, voru eigi taldir meðal þeirra. 1.48 Drottinn talaði við Móse og sagði: 1.49 'Þú skalt þó eigi telja ættkvísl Leví og eigi taka manntal þeirra meðal Ísraelsmanna. 1.50 En þú skalt setja levítana yfir sáttmálsbúðina og yfir öll áhöld hennar og yfir allt, sem til hennar heyrir. Þeir skulu bera búðina og öll áhöld hennar, og þeir skulu þjóna að henni, og þeir skulu tjalda umhverfis búðina. 1.51 Og er búðin tekur sig upp, skulu levítarnir taka hana niður, og þegar reisa skal búðina, skulu levítarnir setja hana upp. En komi nokkur annar þar nærri, skal hann líflátinn verða. 1.52 Ísraelsmenn skulu tjalda hver á sínum stað í herbúðunum og hver hjá sínu merki, eftir hersveitum sínum. 1.53 En levítarnir skulu tjalda umhverfis sáttmálsbúðina, að reiði komi eigi yfir söfnuð Ísraelsmanna. Og levítarnir skulu annast sáttmálsbúðina.' 1.54 Ísraelsmenn gjörðu svo. Þeir gjörðu í alla staði svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
2.1 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði: 2.2 'Sérhver Ísraelsmanna skal tjalda hjá merki sínu, við einkenni ættar sinnar. Skulu þeir tjalda gegnt samfundatjaldinu hringinn í kring. 2.3 Að austanverðu, gegnt upprás sólar, skulu þeir tjalda undir merki Júda herbúða, eftir hersveitum þeirra, og höfuðsmaður Júda sona sé Nakson Ammínadabsson. 2.4 Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 74.600. 2.5 Næst honum skal tjalda ættkvísl Íssakars, og höfuðsmaður Íssakars sona sé Netanel Súarsson. 2.6 Hersveit hans og taldir liðsmenn hans voru 54.400. 2.7 Enn fremur ættkvísl Sebúlons, og höfuðsmaður Sebúlons sona sé Elíab Helónsson. 2.8 Hersveit hans og taldir liðsmenn hans voru 57.400. 2.9 Allir taldir liðsmenn í Júda herbúðum voru 186.400, eftir hersveitum þeirra. Skulu þeir taka sig upp fyrstir. 2.10 Að sunnanverðu skal merki Rúbens herbúða vera, eftir hersveitum þeirra, og höfuðsmaður Rúbens sona sé Elísúr Sedeúrsson. 2.11 Hersveit hans og taldir liðsmenn hans voru 46.500. 2.12 Næst honum skal tjalda ættkvísl Símeons, og höfuðsmaður Símeons sona sé Selúmíel Súrísaddaíson. 2.13 Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 59.300. 2.14 Enn fremur ættkvísl Gaðs, og höfuðsmaður Gaðs sona sé Eljasaf Degúelsson. 2.15 Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 45.650. 2.16 Allir taldir liðsmenn í Rúbens herbúðum voru 151.450, eftir hersveitum þeirra. Skulu þeir taka sig upp næstir hinum fyrstu. 2.17 Þá skal samfundatjaldið taka sig upp ásamt búðum levítanna, í miðjum hernum. Eins og þeir tjalda, svo skulu þeir taka sig upp, hver á sínum stað, eftir merkjum sínum. 2.18 Að vestanverðu skal merki Efraíms herbúða vera, eftir hersveitum þeirra, og höfuðsmaður yfir Efraíms sonum sé Elísama Ammíhúdsson. 2.19 Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 40.500. 2.20 Næst honum ættkvísl Manasse, og höfuðsmaður yfir Manasse sonum sé Gamlíel Pedasúrsson. 2.21 Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 32.200. 2.22 Enn fremur ættkvísl Benjamíns, og höfuðsmaður yfir Benjamíns sonum sé Abídan Gídeóníson. 2.23 Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 35.400. 2.24 Allir taldir liðsmenn í Efraíms herbúðum voru 108.100, eftir hersveitum þeirra. Og þeir skulu hefja ferð sína hinir þriðju. 2.25 Að norðanverðu skal merki Dans herbúða vera, eftir hersveitum þeirra, og höfuðsmaður yfir Dans sonum sé Akíeser Ammísaddaíson. 2.26 Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 62.700. 2.27 Næst honum tjaldi ættkvísl Assers, og höfuðsmaður yfir Assers sonum sé Pagíel Ókransson. 2.28 Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 41.500. 2.29 Enn fremur ættkvísl Naftalí, og höfuðsmaður yfir Naftalí sonum sé Akíra Enansson. 2.30 Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 53.400. 2.31 Allir taldir liðsmenn í Dans herbúðum voru 157.600. Skulu þeir hefja ferð sína síðastir, eftir merkjum sínum.' 2.32 Þessir eru taldir liðsmenn Ísraelsmanna eftir ættum þeirra. Allir taldir liðsmenn í herbúðunum eftir hersveitum þeirra voru 603.550. 2.33 En levítarnir voru ekki taldir meðal Ísraelsmanna, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 2.34 Og Ísraelsmenn gjörðu svo. Að öllu svo sem Drottinn hafði boðið Móse tjölduðu þeir eftir merkjum sínum og hófu ferð, hver eftir kynkvísl sinni, hjá sinni ætt.
3.1 Þessir voru niðjar Arons og Móse, þá er Drottinn talaði við Móse á Sínaífjalli. 3.2 Þessi voru nöfn Arons sona: Nadab frumgetinn og Abíhú, Eleasar og Ítamar. 3.3 Þessi voru nöfn Arons sona, hinna smurðu presta, sem vígðir voru til prestsþjónustu, 3.4 en þeir Nadab og Abíhú dóu fyrir augliti Drottins, þá er þeir báru óvígðan eld fram fyrir Drottin í Sínaí-eyðimörk; en þeir áttu enga sonu. Þeir Eleasar og Ítamar þjónuðu því í prestsembætti frammi fyrir Aroni, föður sínum. 3.5 Drottinn talaði við Móse og sagði: 3.6 'Lát þú ættkvísl Leví koma og leið þú hana fyrir Aron prest, að þeir þjóni honum. 3.7 Þeir skulu annast það, sem annast þarf fyrir hann, og það, sem annast þarf fyrir allan söfnuðinn fyrir framan samfundatjaldið, og gegna þjónustu í búðinni. 3.8 Og þeir skulu sjá um öll áhöld samfundatjaldsins og það, sem annast þarf fyrir Ísraelsmenn, og gegna þjónustu í búðinni. 3.9 Og þú skalt gefa levítana Aroni og sonum hans. Þeir eru honum gefnir af Ísraelsmönnum til fullkominnar eignar. 3.10 En Aron og sonu hans skalt þú setja til þess að annast prestsembætti, og komi óvígður maður þar nærri, skal hann líflátinn verða.' 3.11 Drottinn talaði við Móse og sagði: 3.12 'Sjá, ég hefi tekið levítana af Ísraelsmönnum í stað allra frumburða Ísraelsmanna, þá er opna móðurlíf, og skulu levítarnir vera mín eign. 3.13 Því að ég á alla frumburði. Á þeim degi, er ég laust alla frumburði í Egyptalandi, helgaði ég mér alla frumburði í Ísrael, bæði menn og skepnur. Mínir skulu þeir vera. Ég er Drottinn.' 3.14 Drottinn talaði við Móse í Sínaí-eyðimörk og sagði: 3.15 'Tel þú sonu Leví eftir ættum þeirra og kynkvíslum. Alla karlmenn mánaðargamla og þaðan af eldri skalt þú telja.' 3.16 Og Móse taldi þá að boði Drottins, eins og fyrir hann var lagt. 3.17 Þessir voru synir Leví eftir nöfnum þeirra: Gerson, Kahat og Merarí. 3.18 Þessi eru nöfn Gersons sona eftir kynkvíslum þeirra: Libní og Símeí. 3.19 Synir Kahats eftir kynkvíslum þeirra: Amram og Jísehar, Hebron og Ússíel. 3.20 Synir Merarí eftir kynkvíslum þeirra: Mahelí og Músí. Þessar eru kynkvíslir Leví eftir ættum þeirra. 3.21 Til Gersons telst kynkvísl Libníta og kynkvísl Símeíta. Þessar eru kynkvíslir Gersóníta. 3.22 Þeir er taldir voru af þeim _ eftir tölu á öllum karlkyns, mánaðargömlum og þaðan af eldri _ þeir er taldir voru af þeim, voru 7.500. 3.23 Kynkvíslir Gersóníta tjölduðu að baki búðarinnar, að vestanverðu. 3.24 Og höfuðsmaður yfir ætt Gersóníta var Eljasaf Laelsson. 3.25 Það sem Gersons synir áttu að annast í samfundatjaldinu, var búðin og tjaldið, þakið á því og dúkbreiðan fyrir dyrum samfundatjaldsins, 3.26 forgarðstjöldin og dúkbreiðan fyrir dyrum forgarðsins, sem liggur allt í kringum búðina og altarið, og stögin, sem þar til heyra _ allt sem að því þurfti að þjóna. 3.27 Til Kahats telst kynkvísl Amramíta, kynkvísl Jíseharíta, kynkvísl Hebróníta og kynkvísl Ússíelíta. Þessar eru kynkvíslir Kahatíta. 3.28 Eftir tölu á öllum karlkyns, mánaðargömlum og þaðan af eldri, voru þeir 8.600 og höfðu á hendi að annast helgidóminn. 3.29 Kynkvíslir Kahats sona tjölduðu á hlið við búðina, að sunnanverðu. 3.30 Og ætthöfðingi yfir kynkvíslum Kahatíta var Elísafan Ússíelsson. 3.31 Það sem þeir áttu að annast, var örkin, borðið, ljósastikan, ölturun og hin helgu áhöld, er þeir hafa við þjónustugjörðina, og dúkbreiðan og allt, sem að því þurfti að þjóna. 3.32 Höfðingi yfir höfðingjum levítanna var Eleasar Aronsson prests. Hann hafði umsjón yfir þeim, er höfðu á hendi að annast helgidóminn. 3.33 Til Merarí telst kynkvísl Mahelíta og kynkvísl Músíta. Þessar eru kynkvíslir Merarí. 3.34 Og þeir er taldir voru af þeim, eftir tölu á öllum karlkyns, mánaðargömlum og þaðan af eldri, voru 6.200. 3.35 Ætthöfðingi yfir kynkvíslum Merarí var Súríel Abíhaílsson. Tjölduðu þeir á hlið við búðina, að norðanverðu. 3.36 Merarí sonum var falin hirðing á þiljuborðum búðarinnar, á slám hennar, stólpum og undirstöðum og öllum áhöldum hennar, og allt sem að því þurfti að þjóna, 3.37 á stólpum forgarðsins allt í kring og undirstöðum þeirra, hælum og stögum. 3.38 Fyrir framan búðina, að austanverðu, fyrir framan samfundatjaldið, móti upprás sólar, tjölduðu þeir Móse og Aron og synir hans, og höfðu á hendi að annast helgidóminn, það er annast þurfti fyrir Ísraelsmenn. En komi óvígður maður þar nærri, skal hann líflátinn verða. 3.39 Allir þeir er taldir voru af levítunum, sem þeir Móse og Aron töldu eftir boði Drottins, eftir kynkvíslum þeirra _ allir karlkyns, mánaðargamlir og þaðan af eldri, voru 22.000. 3.40 Drottinn sagði við Móse: 'Tel þú alla frumburði karlkyns meðal Ísraelsmanna, mánaðargamla og þaðan af eldri, og haf þú tölu á nöfnum þeirra. 3.41 Og þú skalt taka levítana mér til handa _ ég er Drottinn _ í stað allra frumburða meðal Ísraelsmanna, og fénað levítanna í stað allra frumburða af fénaði Ísraelsmanna.' 3.42 Móse taldi, svo sem Drottinn hafði boðið honum, alla frumburði meðal Ísraelsmanna. 3.43 Og allir frumburðir karlkyns, eftir nafnatölu, mánaðargamlir og þaðan af eldri, þeir er taldir voru af þeim, voru 22.273. 3.44 Drottinn talaði við Móse og sagði: 3.45 'Tak þú levítana í stað allra frumburða meðal Ísraelsmanna og fénað levítanna í stað fénaðar þeirra, og skulu levítarnir vera mín eign. Ég er Drottinn. 3.46 Og að því er snertir lausnargjald þeirra tvö hundruð sjötíu og þriggja, þeirra af frumburðum Ísraelsmanna, sem umfram eru levítana, 3.47 þá skalt þú taka fimm sikla fyrir hvert höfuð. Eftir helgidómssikli skalt þú taka, tuttugu gerur í sikli. 3.48 Og þú skalt fá Aroni og sonum hans féð til lausnar þeim, sem umfram eru meðal þeirra.' 3.49 Og Móse tók lausnargjaldið af þeim, er umfram voru þá, er leystir voru fyrir levítana. 3.50 Tók hann féð af frumburðum Ísraelsmanna, eitt þúsund þrjú hundruð sextíu og fimm sikla, eftir helgidóms sikli. 3.51 Og Móse seldi lausnargjaldið Aroni og sonum hans í hendur eftir boði Drottins, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
4.1 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði: 4.2 'Takið tölu Kahats sona meðal Leví sona, eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, 4.3 frá þrítugs aldri og þaðan af eldri til fimmtugs aldurs, alla herfæra menn, til þess að gegna störfum við samfundatjaldið. 4.4 Þetta er þjónusta Kahats sona við samfundatjaldið: Hið háheilaga. 4.5 Þegar herinn tekur sig upp, skulu þeir Aron og synir hans ganga inn og taka niður fortjaldsdúkbreiðuna og láta hana yfir sáttmálsörkina. 4.6 Og þeir skulu leggja þar yfir ábreiðu af höfrungaskinni og breiða yfir klæði, sem allt er gjört af bláum purpura, og setja stengurnar í. 4.7 Yfir skoðunarbrauðaborðið skulu þeir breiða klæði af bláum purpura og setja þar á fötin, bollana, kerin og dreypifórnarskálarnar, og hið ævarandi brauð skal vera á því. 4.8 Og yfir þetta skulu þeir breiða skarlatsklæði og leggja þar yfir ábreiðu af höfrungaskinnum og setja stengurnar í. 4.9 Þeir skulu taka klæði af bláum purpura og láta það yfir ljósastikuna, lampa hennar, ljósasöx og skarpönnur, og öll olíukerin, sem notuð eru við hana. 4.10 Og þeir skulu sveipa hana og öll áhöld hennar í ábreiðu af höfrungaskinnum og leggja á börur. 4.11 Yfir gullaltarið skulu þeir breiða klæði af bláum purpura og leggja þar yfir ábreiðu af höfrungaskinnum og setja stengurnar í. 4.12 Og þeir skulu taka öll áhöld þjónustugjörðarinnar, þau er höfð eru til þjónustugjörðar í helgidóminum, og sveipa þau í klæði af bláum purpura og leggja þar yfir ábreiðu af höfrungaskinnum og leggja á börurnar. 4.13 Og þeir skulu sópa öskunni af altarinu og breiða yfir það klæði af rauðum purpura. 4.14 Og þeir skulu leggja á það öll áhöld þess, sem höfð eru til þjónustu á því, eldpönnurnar, soðkrókana, eldspaðana og fórnarskálarnar, öll áhöld altarisins, og skulu þeir breiða yfir það ábreiðu af höfrungaskinnum og setja stengurnar í. 4.15 Er þeir Aron og synir hans hafa lokið því að breiða yfir helgidóminn og öll áhöld helgidómsins, þá er herinn tekur sig upp, skulu Kahats synir þessu næst koma og bera. En eigi skulu þeir koma við helgidóminn, svo að þeir deyi ekki. Þetta er það, sem Kahats synir eiga að bera við samfundatjaldið. 4.16 Eleasar, sonur Arons prests, skal hafa umsjón yfir olíunni til ljósastikunnar, ilmreykelsinu, hinni stöðugu matfórn og smurningarolíunni, umsjón yfir allri búðinni og öllum helgum hlutum, sem í henni eru, og áhöldum, er þar til heyra.' 4.17 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði: 4.18 'Látið ekki kynþátt Kahatítanna upprættan verða úr levítunum, 4.19 heldur farið með þá á þessa leið, að þeir haldi lífi og deyi ekki, er þeir nálgast Hið háheilaga: Aron og synir hans skulu ganga inn og skipa hverjum sína þjónustu og sinn burð. 4.20 En eigi skulu þeir sjálfir ganga inn og sjá helgidóminn, jafnvel eigi eitt augnablik, svo að þeir deyi ekki.' 4.21 Drottinn talaði við Móse og sagði: 4.22 'Tak þú einnig tölu Gersons sona eftir ættum þeirra, eftir kynkvíslum þeirra. 4.23 Skalt þú telja þá frá þrítugs aldri og þaðan af eldri til fimmtugs aldurs, alla þá sem koma til þess að gegna herþjónustu og inna af hendi störf við samfundatjaldið. 4.24 Þetta er þjónusta Gersóníta kynkvíslanna, það sem þeir eiga að annast og bera: 4.25 Þeir skulu bera dúka búðarinnar og samfundatjaldið, þakið á því og ábreiðuna af höfrungaskinnum, sem utan yfir því er, og dúkbreiðuna fyrir dyrum samfundatjaldsins. 4.26 Enn fremur forgarðstjöldin og dúkbreiðuna fyrir dyrum forgarðsins, sem liggur allt í kringum búðina og altarið, og stögin, sem þar til heyra, og öll áhöld við þjónustu þeirra. Allt sem við þetta þarf að gjöra, skulu þeir inna af hendi. 4.27 Eftir boði Arons og sona hans skal öll þjónusta sona Gersóníta fram fara, að því er snertir allt það, er þeir eiga að bera, og allt það, er þeir eiga að annast. Og þér skuluð vísa þeim á allt, sem þeir eiga að bera, með nafni. 4.28 Þetta er þjónusta kynkvísla Gersóníta sona við samfundatjaldið, og það, sem þeir eiga að annast, skal vera undir umsjón Ítamars, sonar Arons prests. 4.29 Sonu Merarí skalt þú telja eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra. 4.30 Skalt þú telja þá frá þrítugs aldri og þaðan af eldri til fimmtugs aldurs, alla þá er ganga í herþjónustu, til þess að inna af hendi störf við samfundatjaldið. 4.31 Og þetta er það, sem þeir eiga að sjá um að bera, allt það sem þeim ber að annast við samfundatjaldið: þiljuborð búðarinnar, slár hennar, stólpar og undirstöður, 4.32 enn fremur stólpar forgarðsins allt í kring og undirstöður þeirra, hælar og stög ásamt öllum áhöldum, er til þess heyra, og öllu því, er við þetta þarf að annast. Og þér skuluð vísa þeim á öll áhöld þau, er þeir eiga að bera, með nafni. 4.33 Þetta er þjónusta kynkvísla Merarí sona. Öll þjónusta þeirra við samfundatjaldið skal vera undir umsjón Ítamars, sonar Arons prests.' 4.34 Móse og Aron og höfðingjar safnaðarins töldu nú sonu Kahatítanna eftir kynkvíslum þeirra og eftir ættum þeirra, 4.35 frá þrítugs aldri og þaðan af eldri til fimmtugs aldurs, alla þá sem ganga í herþjónustu, til þess að inna af hendi störf við samfundatjaldið. 4.36 Og þeir, er taldir voru af þeim eftir kynkvíslum þeirra, voru 2.750. 4.37 Þetta eru þeir, er taldir voru af kynkvíslum Kahatíta, allir þeir er þjónustu gegndu við samfundatjaldið og þeir Móse og Aron töldu að boði Drottins, er Móse flutti. 4.38 Þeir sem taldir voru af Gersons sonum eftir kynkvíslum þeirra og eftir ættum þeirra, 4.39 frá þrítugs aldri og þaðan af eldri til fimmtugs aldurs, allir þeir sem ganga í herþjónustu, til þess að inna af hendi störf við samfundatjaldið _ 4.40 þeir er taldir voru af þeim eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, voru 2.630. 4.41 Þetta eru þeir, er taldir voru af kynkvíslum Gersons sona, allir þeir er þjónustu gegndu við samfundatjaldið og þeir Móse og Aron töldu eftir boði Drottins. 4.42 Þeir sem taldir voru af kynkvíslum Merarí sona, eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, 4.43 frá þrítugs aldri og þaðan af eldri til fimmtugs aldurs, allir þeir sem ganga í herþjónustu, til þess að inna af hendi störf við samfundatjaldið _ 4.44 þeir er taldir voru af þeim eftir kynkvíslum þeirra, voru 3.200. 4.45 Þetta eru þeir, er taldir voru af kynkvíslum Merarí sona og þeir Móse og Aron töldu eftir boði Drottins, er Móse flutti. 4.46 Allir þeir er taldir voru af levítunum og þeir Móse og Aron og höfðingjar Ísraels töldu eftir kynkvíslum þeirra og eftir ættum þeirra, 4.47 frá þrítugs aldri og þaðan af eldri til fimmtugs aldurs, allir þeir sem komu til þess að inna af hendi þjónustustörf eða burðarstörf við samfundatjaldið _ 4.48 þeir er taldir voru af þeim, voru 8.580. 4.49 Eftir boði Drottins var þeim hverjum einum undir umsjón Móse vísað á það, er þeir áttu að annast og þeir áttu að bera. Og þeir voru taldir, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
5.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 5.2 'Bjóð þú Ísraelsmönnum að láta burt fara úr herbúðunum alla menn líkþráa og alla, er rennsli hafa, svo og alla þá, er saurgaðir eru af líki. 5.3 Skuluð þér láta burt fara bæði karla og konur, þér skuluð láta þá fara út fyrir herbúðirnar, svo að þeir saurgi ekki herbúðir sínar, með því að ég bý á meðal þeirra.' 5.4 Og Ísraelsmenn gjörðu svo og létu þá fara út fyrir herbúðirnar. Eins og Drottinn hafði boðið Móse, svo gjörðu Ísraelsmenn. 5.5 Drottinn talaði við Móse og sagði: 'Tala þú til Ísraelsmanna: 5.6 Þá er karl eða kona drýgir einhverja þá synd, er menn hendir, með því að sýna sviksemi gegn Drottni, og sá hinn sami verður sekur, 5.7 þá skulu þau játa synd sína, er þau hafa drýgt, og bæta skulu þau sekt sína fullu verði og gjalda fimmtungi meira og greiða það þeim, er þau hafa orðið sek við. 5.8 En eigi maðurinn engan nákominn ættingja, er sektin verði greidd, þá skal sektin, er greiða skal, heyra Drottni og falla undir prest, auk friðþægingarhrútsins, sem friðþægt er með fyrir þau. 5.9 Sérhver fórnargjöf af öllum helgigjöfum Ísraelsmanna, sem þeir færa prestinum, skal vera hans eign, 5.10 og það sem sérhver helgar, skal vera hans eign. Það sem einhver gefur prestinum, skal vera hans eign.' 5.11 Drottinn talaði við Móse og sagði: 5.12 'Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Nú gjörist kona marglát og reynist ótrú manni sínum. 5.13 Annar maður hefir samræði við hana, en maður hennar veit eigi af. Hún verður eigi uppvís að og hefir þó saurgað sig, og engin vitni eru mót henni og hún er eigi að því staðin. 5.14 En yfir manninn kemur afbrýðisandi, svo að hann verður hræddur um konu sína, og hún hefir saurgað sig. Eða afbrýðisandi kemur yfir mann, og hann verður hræddur um konu sína, þótt hún hafi eigi saurgað sig. 5.15 Þá fari maðurinn með konu sína til prestsins og færi honum fórnargjöfina fyrir hana: tíunda part úr efu af byggmjöli. Eigi skal hann hella yfir það olíu né leggja reykelsiskvoðu ofan á það, því að það er afbrýðismatfórn, minningarmatfórn, sem minnir á misgjörð. 5.16 Presturinn skal taka konuna og leiða hana fram fyrir Drottin. 5.17 Og prestur skal taka heilagt vatn í leirker, og prestur skal taka mold af gólfi búðarinnar og láta í vatnið. 5.18 Og prestur skal leiða konuna fram fyrir Drottin og leysa hár konunnar og fá henni í hendur minningarmatfórnina _ það er afbrýðismatfórn. En á beiskjuvatninu, er bölvan veldur, skal presturinn halda. 5.19 Prestur skal særa hana og segja við konuna: ,Hafi enginn maður hjá þér legið og hafir þú eigi saurgað þig með lauslæti í hjúskap þínum, þá verði þetta beiskjuvatn, sem bölvan veldur, þér ósaknæmt. 5.20 En hafir þú verið lauslát í hjúskapnum og hafir þú saurgast og einhver annar en maður þinn hefir haft samræði við þig,` 5.21 þá skal prestur láta konuna vinna bölvunarsæri, og prestur skal segja við konuna: ,Drottinn gjöri þig að bölvan og að særi meðal fólks þíns, er Drottinn lætur lendar þínar hjaðna og kvið þinn þrútna. 5.22 Og vatn þetta, er bölvan veldur, skal fara í innýfli þín, svo að kviðurinn þrútni og lendarnar hjaðni.` Og konan skal segja: ,Amen, amen!` 5.23 Síðan skal prestur rita formælingu þessa í bók og strjúka hana út í beiskjuvatnið, 5.24 og hann skal láta konuna drekka beiskjuvatnið, er bölvan veldur, svo að vatnið, sem bölvan veldur, fari ofan í hana og verði að beiskju. 5.25 Og presturinn skal taka við afbrýðismatfórninni úr hendi konunnar, og hann skal veifa matfórninni frammi fyrir Drottni og bera hana á altarið. 5.26 Og presturinn skal taka hnefafylli af matfórninni sem ilmhluta hennar og brenna á altarinu. Síðan skal hann láta konuna drekka vatnið. 5.27 Og þegar hann hefir látið hana drekka vatnið, þá skal svo fara, að hafi hún saurgað sig og verið manni sínum ótrú, þá skal vatnið, er bölvan veldur, fara ofan í hana og verða að beiskju, og kviður hennar þrútna og lendar hennar hjaðna, og konan skal verða að bölvan meðal fólks síns. 5.28 En hafi konan ekki saurgað sig og sé hún hrein, þá skal það ekki saka hana, og hún mun geta fengið getnað.' 5.29 Þetta eru lögin um afbrýðisemi, þegar gift kona gjörist marglát og saurgar sig 5.30 eða þegar afbrýðisandi kemur yfir mann og hann verður hræddur um konu sína, þá skal hann leiða konuna fram fyrir Drottin, og prestur skal með hana fara í alla staði eftir lögum þessum. 5.31 Maðurinn skal vera sýkn saka, en konan skal bera sekt sína.
6.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 6.2 'Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Nú vill karl eða kona vinna heit nasírea til þess að helga sig Drottni, 6.3 þá skal hann halda sér frá víni og áfengum drykk. Hann skal hvorki drekka vínsýru né sýru úr áfengum drykk, né heldur skal hann drekka nokkurn vínberjalög, og vínber ný eða þurrkuð skal hann eigi eta. 6.4 Allan bindindistíma sinn skal hann eigi eta neitt það, sem búið er til af vínviði, hvorki kjarna né hýði. 6.5 Allan tíma bindindisheitis hans skal rakhnífur eigi koma á höfuð honum. Uns þeir dagar eru fullnaðir, er hann hefir helgað sig Drottni, skal hann vera heilagur. Skal hann láta höfuðhár sitt vaxa sítt. 6.6 Alla þá stund, er hann hefir helgað sig Drottni, skal hann ekki koma nærri líki. 6.7 Hann skal ekki saurga sig vegna föður síns, vegna móður sinnar, vegna bróður síns eða vegna systur sinnar, er þau deyja, því að helgun Guðs hans er á höfði honum. 6.8 Allan bindindistíma sinn er hann helgaður Drottni. 6.9 Og verði einhver maður bráðkvaddur hjá honum, svo að helgað höfuð hans saurgast, þá skal hann raka höfuð sitt á hreinsunardegi sínum. Á sjöunda degi skal hann raka það. 6.10 Og á áttunda degi skal hann færa prestinum tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur að dyrum samfundatjaldsins. 6.11 Og prestur skal fórna annarri í syndafórn, en hinni í brennifórn og friðþægja fyrir hann, vegna þess að hann hefir syndgast á líki. Og hann skal helga höfuð sitt samdægurs. 6.12 Og hann skal helga sig Drottni bindindistíma sinn og færa veturgamla kind í sektarfórn, en fyrri tíminn skal ónýttur, því að helgun hans var saurguð. 6.13 Þetta eru ákvæðin um nasíreann: Þegar bindindistími hans er liðinn, skal leiða hann að dyrum samfundatjaldsins. 6.14 Og hann skal færa Drottni fórn sína: veturgamalt hrútlamb gallalaust í brennifórn og veturgamla gimbur gallalausa í syndafórn og hrút gallalausan í heillafórn 6.15 og körfu með ósýrðu brauði úr fínu mjöli, kökur olíublandaðar og ósýrð flatbrauð olíusmurð, ásamt matfórninni og dreypifórnunum. 6.16 Og presturinn skal bera það fram fyrir Drottin og fórna syndafórn hans og brennifórn. 6.17 Og hann skal fórna Drottni hrútnum í heillafórn ásamt körfunni með ósýrða brauðinu, og presturinn skal fórna matfórn hans og dreypifórn. 6.18 Nasíreinn skal raka helgað höfuð sitt við dyr samfundatjaldsins og taka helgað höfuðhár sitt og kasta því á eldinn undir heillafórninni. 6.19 Og prestur skal taka soðna bóginn af hrútnum og eina ósýrða köku úr körfunni og eitt ósýrt flatbrauð og fá nasíreanum það í hendur, þá er hann hefir rakað helgað hár sitt. 6.20 Og prestur skal veifa því sem veififórn frammi fyrir Drottni. Það er heilagt og heyrir presti, ásamt bringunni, sem veifa skal, og lærinu, sem fórna skal. Upp frá því má nasíreinn drekka vín. 6.21 Þetta eru ákvæðin um nasírea, sem gjörir heit, um fórnargjöf hans Drottni til handa vegna helgunar hans, auk þess sem hann annars hefir efni á. Samkvæmt heitinu, sem hann hefir unnið, skal hann gjöra, eftir ákvæðunum um bindindi hans.' 6.22 Drottinn talaði við Móse og sagði: 6.23 'Mæl þú til Arons og sona hans og seg: Með þessum orðum skuluð þér blessa Ísraelsmenn: 6.24 Drottinn blessi þig og varðveiti þig! 6.25 Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur! 6.26 Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið! 6.27 Þannig skulu þeir leggja nafn mitt yfir Ísraelsmenn, og ég mun blessa þá.'
7.1 Þá er Móse hafði lokið við að reisa búðina og hafði smurt hana og vígt og öll áhöld hennar og smurt og vígt altarið og öll áhöld þess, 7.2 færðu höfuðsmenn Ísraels fórnir, foringjar fyrir ættum þeirra _ það er höfuðsmenn ættkvíslanna, forstöðumenn hinna töldu, _ 7.3 og þeir færðu fórnargjöf sína fram fyrir Drottin, sex skýlisvagna og tólf naut, einn vagn fyrir hverja tvo höfuðsmenn, og naut fyrir hvern þeirra. Færðu þeir þetta fram fyrir búðina. 7.4 Drottinn talaði við Móse og sagði: 7.5 'Tak þú við þessu af þeim, og það sé haft til þjónustugjörðar við samfundatjaldið, og fá þú þetta levítunum, eftir því sem þjónusta hvers eins er til.' 7.6 Þá tók Móse vagnana og nautin og seldi það levítunum í hendur. 7.7 Gersons sonum fékk hann tvo vagna og fjögur naut, eftir þjónustu þeirra. 7.8 Og Merarí sonum fékk hann fjóra vagna og átta naut, eftir þjónustu þeirra undir umsjón Ítamars, Aronssonar prests. 7.9 En Kahats sonum fékk hann ekkert, því að á þeim hvíldi þjónusta hinna helgu dóma. Skyldu þeir bera þá á herðum sér. 7.10 Höfuðsmennirnir færðu gjafir til vígslu altarisins daginn sem það var smurt, og þeir færðu fórnargjöf sína fram fyrir altarið. 7.11 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Höfuðsmennirnir skulu bera fram fórnargjafir sínar sinn daginn hver til vígslu altarisins.' 7.12 Sá er færði fórnargjöf sína fyrsta daginn, var Nakson Ammínadabsson af ættkvísl Júda. 7.13 Fórnargjöf hans var silfurfat, 130 siklar að þyngd, silfurskál, sjötíu siklar að þyngd eftir helgidómssikli, hvort tveggja fyllt fínu mjöli olíublönduðu, til matfórnar, 7.14 bolli, tíu gullsiklar að þyngd, fullur af reykelsi, 7.15 ungneyti, hrútur og sauðkind veturgömul til brennifórnar, 7.16 geithafur til syndafórnar, 7.17 og til heillafórnar tvö naut, fimm hrútar, fimm kjarnhafrar og fimm sauðkindur veturgamlar. Þetta var fórnargjöf Naksons Ammínadabssonar. 7.18 Annan daginn færði Netanel Súarsson, höfuðsmaður Íssakars, fórn sína. 7.19 Færði hann að fórnargjöf silfurfat, 130 sikla að þyngd, silfurskál, sjötíu sikla að þyngd eftir helgidómssikli, hvort tveggja fullt af fínu mjöli olíublönduðu, til matfórnar, 7.20 bolla, tíu gullsikla að þyngd, fullan af reykelsi, 7.21 ungneyti, hrút og sauðkind veturgamla til brennifórnar, 7.22 geithafur til syndafórnar, 7.23 og til heillafórnar tvö naut, fimm hrúta, fimm kjarnhafra og fimm sauðkindur veturgamlar. Þetta var fórnargjöf Netanels Súarssonar. 7.24 Þriðja daginn höfuðsmaður Sebúlons sona, Elíab Helónsson. 7.25 Fórnargjöf hans var silfurfat, 130 siklar að þyngd, silfurskál, sjötíu siklar að þyngd eftir helgidómssikli, hvort tveggja fullt af fínu mjöli olíublönduðu, til matfórnar, 7.26 bolli, tíu gullsiklar að þyngd, fullur af reykelsi, 7.27 ungneyti, hrútur og sauðkind veturgömul til brennifórnar, 7.28 geithafur til syndafórnar, 7.29 og til heillafórnar tvö naut, fimm hrútar, fimm kjarnhafrar og fimm sauðkindur veturgamlar. Þetta var fórnargjöf Elíabs Helónssonar. 7.30 Fjórða daginn höfuðsmaður Rúbens sona, Elísúr Sedeúrsson. 7.31 Fórnargjöf hans var silfurfat, 130 siklar að þyngd, silfurskál, sjötíu siklar að þyngd eftir helgidómssikli, hvort tveggja fullt af fínu mjöli olíublönduðu, til matfórnar, 7.32 bolli, tíu gullsiklar að þyngd, fullur af reykelsi, 7.33 ungneyti, hrútur og sauðkind veturgömul til brennifórnar, 7.34 geithafur til syndafórnar, 7.35 og til heillafórnar tvö naut, fimm hrútar, fimm kjarnhafrar og fimm sauðkindur veturgamlar. Þetta var fórnargjöf Elísúrs Sedeúrssonar. 7.36 Fimmta daginn höfuðsmaður Símeons sona, Selúmíel Súrísaddaíson. 7.37 Fórnargjöf hans var silfurfat, 130 siklar að þyngd, silfurskál, sjötíu siklar að þyngd eftir helgidómssikli, hvort tveggja fullt af fínu mjöli olíublönduðu, til matfórnar, 7.38 bolli, tíu gullsiklar að þyngd, fullur af reykelsi, 7.39 ungneyti, hrútur og sauðkind veturgömul til brennifórnar, 7.40 geithafur til syndafórnar, 7.41 og til heillafórnar tvö naut, fimm hrútar, fimm kjarnhafrar og fimm sauðkindur veturgamlar. Þetta var fórnargjöf Selúmíels Súrísaddaísonar. 7.42 Sjötta daginn höfuðsmaður Gaðs sona, Eljasaf Degúelsson. 7.43 Fórnargjöf hans var silfurfat, 130 siklar að þyngd, silfurskál, sjötíu siklar að þyngd eftir helgidómssikli, hvort tveggja fullt af fínu mjöli olíublönduðu, til matfórnar, 7.44 bolli, tíu gullsiklar að þyngd, fullur af reykelsi, 7.45 ungneyti, hrútur og sauðkind veturgömul til brennifórnar, 7.46 geithafur til syndafórnar, 7.47 og til heillafórnar tvö naut, fimm hrútar, fimm kjarnhafrar og fimm sauðkindur veturgamlar. Þetta var fórnargjöf Eljasafs Degúelssonar. 7.48 Sjöunda daginn höfuðsmaður Efraíms sona, Elísama Ammíhúdsson. 7.49 Fórnargjöf hans var silfurfat, 130 siklar að þyngd, silfurskál, sjötíu siklar að þyngd eftir helgidómssikli, hvort tveggja fullt af fínu mjöli olíublönduðu, til matfórnar, 7.50 bolli, tíu gullsiklar að þyngd, fullur af reykelsi, 7.51 ungneyti, hrútur og sauðkind veturgömul til brennifórnar, 7.52 geithafur til syndafórnar, 7.53 og til heillafórnar tvö naut, fimm hrútar, fimm kjarnhafrar og fimm sauðkindur veturgamlar. Þetta var fórnargjöf Elísama Ammíhúdssonar. 7.54 Áttunda daginn höfuðsmaður Manasse sona, Gamlíel Pedasúrsson. 7.55 Fórnargjöf hans var silfurfat, 130 siklar að þyngd, silfurskál, sjötíu siklar að þyngd eftir helgidómssikli, hvort tveggja fullt af fínu mjöli olíublönduðu til matfórnar, 7.56 bolli, tíu gullsiklar að þyngd, fullur af reykelsi, 7.57 ungneyti, hrútur og sauðkind veturgömul til brennifórnar, 7.58 geithafur til syndafórnar, 7.59 og til heillafórnar tvö naut, fimm hrútar, fimm kjarnhafrar, og fimm sauðkindur veturgamlar. Þetta var fórnargjöf Gamlíels Pedasúrssonar. 7.60 Níunda daginn höfuðsmaður Benjamíns sona, Abídan Gídeóníson. 7.61 Fórnargjöf hans var silfurfat, 130 siklar að þyngd, silfurskál, sjötíu siklar að þyngd eftir helgidómssikli, hvort tveggja fullt af fínu mjöli olíublönduðu, til matfórnar, 7.62 bolli, tíu gullsiklar að þyngd, fullur af reykelsi, 7.63 ungneyti, hrútur og sauðkind veturgömul til brennifórnar, 7.64 geithafur til syndafórnar, 7.65 og til heillafórnar tvö naut, fimm hrútar, fimm kjarnhafrar og fimm sauðkindur veturgamlar. Þetta var fórnargjöf Abídans Gídeonísonar. 7.66 Tíunda daginn höfuðsmaður Dans sona, Akíeser Ammísaddaíson. 7.67 Fórnargjöf hans var silfurfat, 130 siklar að þyngd, silfurskál, sjötíu siklar að þyngd eftir helgidómssikli, hvort tveggja fullt af fínu mjöli olíublönduðu, til matfórnar, 7.68 bolli, tíu gullsiklar að þyngd, fullur af reykelsi, 7.69 ungneyti, hrútur og sauðkind veturgömul til brennifórnar, 7.70 geithafur til syndafórnar, 7.71 og til heillafórnar tvö naut, fimm hrútar, fimm kjarnhafrar og fimm sauðkindur veturgamlar. Þetta var fórnargjöf Akíesers Ammísaddaísonar. 7.72 Ellefta daginn höfuðsmaður Assers sona, Pagíel Ókransson. 7.73 Fórnargjöf hans var silfurfat, 130 siklar að þyngd, silfurskál, sjötíu siklar að þyngd eftir helgidómssikli, hvort tveggja fullt af fínu mjöli olíublönduðu, til matfórnar, 7.74 bolli, tíu gullsiklar að þyngd, fullur af reykelsi, 7.75 ungneyti, hrútur og sauðkind veturgömul til brennifórnar, 7.76 geithafur til syndafórnar, 7.77 og til heillafórnar tvö naut, fimm hrútar, fimm kjarnhafrar og fimm sauðkindur veturgamlar. Þetta var fórnargjöf Pagíels Ókranssonar. 7.78 Tólfta daginn höfuðsmaður Naftalí sona, Akíra Enansson. 7.79 Fórnargjöf hans var silfurfat, 130 siklar að þyngd, silfurskál, sjötíu siklar að þyngd eftir helgidómssikli, hvort tveggja fullt af fínu mjöli olíublönduðu, til matfórnar, 7.80 bolli, tíu gullsiklar að þyngd, fullur af reykelsi, 7.81 ungneyti, hrútur og sauðkind veturgömul til brennifórnar, 7.82 geithafur til syndafórnar, 7.83 og til heillafórnar tvö naut, fimm hrútar, fimm kjarnhafrar og fimm sauðkindur veturgamlar. Þetta var fórnargjöf Akíra Enanssonar. 7.84 Þetta voru gjafirnar frá höfuðsmönnum Ísraels til vígslu altarisins daginn sem það var smurt: tólf silfurföt, tólf silfurskálar, tólf gullbollar. 7.85 Vó hvert fat 130 sikla silfurs og hver skál sjötíu. Allt silfur ílátanna vó 2.400 sikla eftir helgidómssikli. 7.86 Tólf gullbollar, fullir af reykelsi, hver bolli tíu siklar eftir helgidómssikli. Allt gullið í bollunum vó 120 sikla. 7.87 Öll nautin til brennifórnarinnar voru tólf uxar, auk þess tólf hrútar, tólf sauðkindur veturgamlar, ásamt matfórninni, er þeim fylgdi, og tólf geithafrar í syndafórn. 7.88 Og öll nautin til heillafórnarinnar voru 24 uxar, auk þess sextíu hrútar, sextíu kjarnhafrar og sextíu sauðkindur veturgamlar. Þetta voru gjafirnar til vígslu altarisins, eftir að það hafði verið smurt. 7.89 Þegar Móse gekk inn í samfundatjaldið til þess að tala við Drottin, heyrði hann röddina tala til sín ofan af lokinu, sem er yfir sáttmálsörkinni, fram á milli kerúbanna tveggja, og hann talaði við hann.
8.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 8.2 'Tala þú við Aron og seg við hann: Þá er þú setur upp lampana, skulu lamparnir sjö varpa ljósi sínu fram undan ljósastikunni.' 8.3 Og Aron gjörði svo. Hann setti lampana upp framan á ljósastikuna, eins og Drottinn hafði boðið Móse. 8.4 Þetta var smíðið á ljósastikunni: Hún var gjör af gulli með drifnu smíði, bæði stétt hennar og blóm var drifið smíði. Hafði hann gjört ljósastikuna eftir fyrirmynd þeirri, er Drottinn hafði sýnt Móse. 8.5 Drottinn talaði við Móse og sagði: 8.6 'Skil þú levítana úr Ísraelsmönnum og hreinsa þá. 8.7 Og þetta skalt þú við þá gjöra til þess að hreinsa þá: Stökk þú á þá syndhreinsunarvatni, og þeir skulu láta rakhníf ganga yfir allan líkama sinn og þvo klæði sín og hreinsa sig. 8.8 Og þeir skulu taka ungneyti og matfórn, er því fylgir, fínt mjöl olíublandað, og annað ungneyti skalt þú taka í syndafórn. 8.9 Síðan skalt þú leiða levítana fram fyrir samfundatjaldið og safna saman öllum söfnuði Ísraelsmanna. 8.10 Og þú skalt leiða levítana fram fyrir Drottin, og Ísraelsmenn skulu leggja hendur sínar yfir þá. 8.11 Og Aron skal helga levítana sem fórn frammi fyrir Drottni af hendi Ísraelsmanna, og skulu þeir takast á hendur að gegna þjónustu Drottins. 8.12 En levítarnir skulu leggja hendur sínar á höfuð nautanna. Öðru skal fórna í syndafórn og hinu í brennifórn Drottni til handa til þess að friðþægja fyrir levítana. 8.13 Og þú skalt leiða þá fram fyrir Aron og fram fyrir sonu hans og helga þá sem fórn Drottni til handa. 8.14 Og þú skalt greina þá frá Ísraelsmönnum, svo að þeir heyri mér. 8.15 Því næst skulu levítarnir ganga inn til þess að gegna þjónustu við samfundatjaldið, og þú skalt hreinsa þá og helga þá sem fórn, 8.16 því að þeir eru gefnir mér til fullkominnar eignar af Ísraelsmönnum. Í stað alls þess er opnar móðurlíf, í stað allra frumburða meðal Ísraelsmanna hefi ég tekið þá mér til eignar, 8.17 því að ég á alla frumburði meðal Ísraelsmanna, bæði menn og skepnur. Á þeim degi, er ég laust alla frumburði í Egyptalandi, helgaði ég mér þá. 8.18 Og ég tók levítana í stað allra frumburða meðal Ísraelsmanna. 8.19 Og ég gaf þá Aroni og sonum hans til eignar af Ísraelsmönnum, til þess að þeir gegni þjónustu fyrir Ísraelsmenn í samfundatjaldinu og til þess að þeir friðþægi fyrir Ísraelsmenn, svo að eigi komi plága yfir Ísraelsmenn, þá er Ísraelsmenn koma nærri helgidóminum.' 8.20 Móse og Aron og allur söfnuður Ísraelsmanna gjörði svo við levítana. Gjörðu Ísraelsmenn að öllu leyti svo við þá sem Drottinn hafði boðið Móse um þá. 8.21 Levítarnir syndhreinsuðu sig og þvoðu klæði sín, og Aron helgaði þá sem fórn frammi fyrir Drottni, og Aron friðþægði fyrir þá til þess að hreinsa þá. 8.22 Gengu levítarnir því næst inn til þess að gegna þjónustu sinni í samfundatjaldinu fyrir augliti Arons og fyrir augliti sona hans. Gjörðu þeir svo við levítana sem Drottinn hafði boðið Móse um þá. 8.23 Drottinn talaði við Móse og sagði: 8.24 'Þetta gildir um levítana: Frá því þeir eru tuttugu og fimm ára og þaðan af eldri skulu þeir koma til þess að gegna herþjónustu með þjónustu í samfundatjaldinu. 8.25 En frá því þeir eru fimmtugir skulu þeir láta af þjónustunni og eigi þjóna framar. 8.26 Þeir mega veita bræðrum sínum aðstoð í samfundatjaldinu og annast það, sem annast ber, en þjónustu skulu þeir eigi gegna. Þannig skalt þú fara með levítana, að því er kemur til sýslunar þeirra.'
9.1 Drottinn talaði við Móse í Sínaí-eyðimörk á öðru ári eftir brottför þeirra af Egyptalandi, í fyrsta mánuðinum, og sagði: 9.2 'Ísraelsmenn skulu halda páska á tilteknum tíma. 9.3 Á fjórtánda degi þessa mánaðar um sólsetur skuluð þér halda þá á hinum tiltekna tíma. Eftir öllum skipunum og öllum ákvæðum um þá skuluð þér halda þá.' 9.4 Móse bauð Ísraelsmönnum að halda páskana. 9.5 Og þeir héldu páska í fyrsta mánuðinum, hinn fjórtánda dag mánaðarins, um sólsetur, í Sínaí-eyðimörk. Ísraelsmenn gjörðu að öllu leyti svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 9.6 En þar voru menn, er saurgast höfðu af líki framliðins manns og gátu því eigi haldið páska þennan dag. Gengu þeir fyrir Móse og Aron þennan dag 9.7 og sögðu við hann: 'Vér erum óhreinir af líki framliðins manns; hví skulum vér verða út undan og eigi mega bera fram fórnargjöf Drottins meðal Ísraelsmanna á tilteknum tíma?' 9.8 Móse sagði við þá: 'Bíðið þér, ég ætla að heyra, hvað Drottinn skipar fyrir um yður.' 9.9 Drottinn talaði við Móse og sagði: 9.10 'Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Ef einhver meðal yðar eða meðal niðja yðar er óhreinn af líki eða hann er í langferð, þá skal hann þó halda Drottni páska. 9.11 Á fjórtánda degi hins annars mánaðar, um sólsetur, skulu þeir halda þá; með ósýrðu brauði og beiskum jurtum skulu þeir eta páskalambið. 9.12 Engu skulu þeir leifa af því til morguns, og ekkert bein í því skulu þeir brjóta; skulu þeir halda páska eftir öllum páskalögunum. 9.13 En hver sem er hreinn og ekki á ferð og vanrækir að halda páska, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni, því að hann færði Drottni eigi fórnargjöf á tilteknum tíma. Sá maður skal bera synd sína. 9.14 Nú dvelur útlendur maður hjá yður, og vill hann halda Drottni páska, skal hann þá svo gjöra sem fyrir er mælt í páskalögunum og ákvæðunum um þá. Skulu vera ein lög hjá yður bæði fyrir útlenda menn og innborna.' 9.15 Á þeim degi, sem búðin var reist, huldi skýið búðina _ sáttmálstjaldið _ og um kveldið var það yfir búðinni eins og eldbjarmi allt til morguns. 9.16 Svo var það ávallt: Skýið huldi hana um daga og eldbjarmi um nætur. 9.17 Og í hvert sinn, er skýið hófst upp frá tjaldinu, lögðu Ísraelsmenn upp, og þar sem skýið nam staðar, þar settu Ísraelsmenn herbúðir sínar. 9.18 Að boði Drottins lögðu Ísraelsmenn upp, og að boði Drottins settu þeir herbúðir sínar. Alla þá stund, er skýið hvíldi yfir búðinni, héldu þeir kyrru fyrir í herbúðunum. 9.19 Þegar skýið var yfir búðinni marga daga samfleytt, gættu Ísraelsmenn skipunar Drottins og lögðu ekki upp. 9.20 Stundum var skýið aðeins fáa daga yfir búðinni; að boði Drottins héldu þeir kyrru fyrir í herbúðunum og að boði Drottins lögðu þeir upp. 9.21 Stundum var skýið frá kveldi allt til morguns, og er skýið hófst upp með morgninum, lögðu þeir upp, eða það var daginn og nóttina: Þegar skýið hófst, þá lögðu þeir upp. 9.22 Eða að skýið var tvo daga eða mánuð eða lengri tíma: Þegar það var langdvölum yfir búðinni og hvíldi yfir henni, héldu Ísraelsmenn kyrru fyrir í herbúðunum og lögðu ekki upp, en er það hófst, lögðu þeir upp. 9.23 Að boði Drottins settu þeir herbúðir sínar, og að boði Drottins lögðu þeir upp. Skipunar Drottins gættu þeir að boði Drottins, er Móse flutti.
10.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 10.2 'Gjör þér tvo lúðra af silfri. Með drifnu smíði skalt þú gjöra þá. Skalt þú hafa þá til að kalla saman söfnuðinn og þá er herinn tekur sig upp. 10.3 Og þegar blásið er í þá báða, skal allur söfnuðurinn koma saman hjá þér fyrir dyrum samfundatjaldsins. 10.4 En sé eigi blásið nema í annan þeirra, þá skulu foringjarnir koma til þín, höfuðsmenn Ísraels þúsunda. 10.5 Þegar þér blásið hvellt, skal herinn, sem tjaldar að austanverðu, leggja upp. 10.6 Og þegar þér blásið hvellt í annað sinn, skal herinn, sem tjaldar að sunnanverðu, leggja upp. Skal blása hvellt, þegar leggja skal upp. 10.7 En þegar safna á saman söfnuðinum, skuluð þér blása, en þó eigi hvellt. 10.8 Synir Arons, prestarnir, skulu blása í lúðrana, og skal það vera ævarandi lögmál fyrir yður frá kyni til kyns. 10.9 Þá er þér farið í stríð í landi yðar móti óvinum yðar, sem á yður herja, skuluð þér blása hvellt í lúðrana, og mun yðar minnst verða af Drottni, Guði yðar, og þér frelsaðir verða frá fjandmönnum yðar. 10.10 Á gleðidögum yðar, á löghátíðum yðar og í mánaðarbyrjun skuluð þér og blása í lúðrana við brennifórnir yðar og heillafórnir, og skulu þeir vera yður til minningar frammi fyrir Guði yðar. Ég er Drottinn, Guð yðar.' 10.11 Á öðru ári, í öðrum mánuðinum, á tuttugasta degi mánaðarins hófst skýið upp frá sáttmálsbúðinni. 10.12 Tóku Ísraelsmenn sig þá upp eftir röð úr Sínaí-eyðimörk, og skýið nam staðar í Paran-eyðimörk. 10.13 Þannig lögðu þeir upp í fyrsta skiptið að boði Drottins, er Móse flutti. 10.14 Tók merki herbúða Júda sona sig fyrst upp eftir hersveitum þeirra, en fyrir her hans var Nakson Ammínadabsson. 10.15 Og fyrir her ættkvíslar Íssakars sona var Netanel Súarsson. 10.16 Og fyrir her ættkvíslar Sebúlons sona var Elíab Helónsson. 10.17 Er búðin var ofan tekin, tóku Gersons synir og Merarí synir sig upp. Báru þeir búðina. 10.18 Merki Rúbens herbúða tók sig upp eftir hersveitum þeirra, en fyrir her hans var Elísúr Sedeúrsson. 10.19 Og fyrir her ættkvíslar Símeons sona var Selúmíel Súrísaddaíson. 10.20 Og fyrir her ættkvíslar Gaðs sona var Eljasaf Degúelsson. 10.21 Þá tóku Kahatítar sig upp. Báru þeir hina helgu dóma. En búðin skyldi sett upp, áður en þeir kæmu. 10.22 Merki herbúða Efraíms sona tók sig upp eftir hersveitum þeirra, en fyrir her hans var Elísama Ammíhúdsson. 10.23 Og fyrir her ættkvíslar Manasse sona var Gamlíel Pedasúrsson. 10.24 Og fyrir her ættkvíslar Benjamíns sona var Abídan Gídeóníson. 10.25 Merki herbúða Dans sona tók sig upp eftir hersveitum þeirra. Fór það síðast allra herbúðanna, en fyrir her hans var Akíeser Ammísaddaíson. 10.26 Og fyrir her ættkvíslar Assers sona var Pagíel Ókransson. 10.27 Og fyrir her ættkvíslar Naftalí sona var Akíra Enansson. 10.28 Þessi var röðin á Ísraelsmönnum eftir hersveitum þeirra, er þeir lögðu upp. 10.29 Þá sagði Móse við Hóbab Regúelsson Midíaníta, tengdaföður Móse: 'Vér leggjum nú upp áleiðis til þess staðar, sem Drottinn hét, að hann mundi gefa oss. Kom þú með oss, og munum vér gjöra vel við þig, því að Drottinn hefir heitið Ísrael góðu.' 10.30 Hóbab svaraði: 'Eigi vil ég fara, heldur mun ég halda heim í land mitt og til ættfólks míns.' 10.31 En Móse sagði: 'Eigi mátt þú yfirgefa oss, af því að þú veist, hvar vér getum tjaldað í eyðimörkinni, og skalt þú vera oss sem auga. 10.32 Og farir þú með oss og oss hlotnast þau gæði, sem Drottinn vill veita oss, þá munum vér gjöra vel við þig.' 10.33 Héldu þeir nú frá fjalli Drottins þrjár dagleiðir, en sáttmálsörk Drottins fór á undan þeim þrjár dagleiðir til þess að velja hvíldarstað handa þeim. 10.34 Og ský Drottins var yfir þeim á daginn, er þeir tóku sig upp úr herbúðunum. 10.35 En er örkin tók sig upp, sagði Móse: 'Rís þú upp, Drottinn, svo að óvinir þínir tvístrist og fjendur þínir flýi fyrir þér.' 10.36 Og er hún nam staðar, sagði hann: 'Hverf þú aftur, Drottinn, til hinna tíu þúsund þúsunda Ísraels.'
11.1 Lýðurinn tók að mögla hátt gegn Drottni yfir böli sínu. Og er Drottinn heyrði það, upptendraðist reiði hans. Kviknaði þá eldur frá Drottni meðal þeirra og eyddi ysta hluta herbúðanna. 11.2 Þá kveinaði lýðurinn fyrir Móse, og Móse bað til Drottins. Tók þá eldurinn að slokkna. 11.3 Var staður þessi kallaður Tabera, því að eldur Drottins kviknaði meðal þeirra. 11.4 Útlendur lýður, sem með þeim var, fylltist lysting. Tóku Ísraelsmenn þá einnig að kveina og sögðu: 'Hver gefur oss nú kjöt að eta? 11.5 Víst munum vér eftir fiskinum, sem vér átum á Egyptalandi fyrir ekki neitt, eftir agúrkunum, melónunum, graslauknum, blómlauknum og hnapplauknum. 11.6 En nú örmagnast sála vor. Hér er alls ekki neitt, vér sjáum ekkert nema þetta manna.' 11.7 Manna var eins og kóríanderfræ og að útliti sem bedolakharpeis. 11.8 Fólkið fór á víð og dreif og tíndi, og þeir möluðu það í handkvörnum eða steyttu það í mortéli, suðu því næst í pottum og gjörðu úr því kökur, en það var á bragðið eins og olíukökur. 11.9 Og þegar dögg féll á nóttum yfir herbúðirnar, þá féll og manna yfir þær. 11.10 Móse heyrði fólkið gráta, hvern með sitt skuldalið fyrir dyrum tjalds síns. Upptendraðist þá reiði Drottins ákaflega, og féll Móse það illa. 11.11 Móse sagði við Drottin: 'Hví gjörir þú svo illa við þjón þinn, og hví hefi ég eigi fundið náð í augum þínum, að þú skulir leggja á mig byrði alls þessa fólks? 11.12 Hefi ég gengið þungaður að öllu þessu fólki? Hefi ég borið það í heiminn, að þú skulir segja við mig: ,Ber það í faðmi þér, eins og barnfóstri ber brjóstmylking,` _ inn í landið, sem þú sórst feðrum þeirra? 11.13 Hvaðan á ég að fá kjöt til að gefa öllu þessu fólki? Því að þeir gráta fyrir mér og segja: ,Gef oss kjöt að eta!` 11.14 Ég rís ekki einn undir öllu þessu fólki, því að það er mér of þungt. 11.15 Og ef þú ætlar að fara svona með mig, þá deyð mig heldur hreinlega, ef ég hefi fundið náð í augum þínum, svo að ég þurfi eigi að horfa upp á ógæfu mína.' 11.16 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Safna þú mér sjötíu mönnum af öldungum Ísraels, sem þú veist að eru öldungar meðal fólksins og tilsjónarmenn þess, og skalt þú fara með þá að samfundatjaldinu, svo að þeir skipi sér þar ásamt þér. 11.17 Og ég vil stíga niður og tala þar við þig, og ég vil taka af anda þeim, sem yfir þér er, og leggja yfir þá, svo að þeir beri með þér byrði fólksins og þú berir hana ekki einn. 11.18 Og til fólksins skalt þú mæla: ,Helgið yður til morguns. Þá skuluð þér fá kjöt að eta. Því að þér hafið kveinað í eyru Drottins og sagt: Hver gefur oss kjöt að eta? því að vel leið oss í Egyptalandi. _ Og Drottinn mun gefa yður kjöt að eta. 11.19 Þér skuluð ekki eta það einn dag, og ekki tvo daga, og ekki fimm daga, og ekki tíu daga, og ekki tuttugu daga, 11.20 heldur heilan mánuð, þangað til það gengur út af nösum yðar og yður býður við því, af því að þér hafið hafnað Drottni, sem meðal yðar er, og kveinað fyrir augliti hans og sagt: Hví fórum vér burt úr Egyptalandi?'` 11.21 Þá sagði Móse: 'Fólkið, sem ég er með, er sex hundruð þúsund fótgangandi manna, og þú segir: ,Ég vil gefa þeim kjöt að eta í heilan mánuð.` 11.22 Á þá að slátra sauðum og nautum handa þeim, svo að þeim nægi? Eða á að safna saman öllum fiskum í sjónum handa þeim, svo að þeim nægi?' 11.23 Drottinn sagði við Móse: 'Er þá hönd Drottins stutt orðin? Nú skalt þú sjá, hvort orð mín koma fram við þig eða ekki.' 11.24 Móse gekk burt og bar fólkinu orð Drottins og safnaði saman sjötíu manns af öldungum fólksins og lét þá skipa sér umhverfis tjaldið. 11.25 Og Drottinn sté niður í skýinu og talaði við hann, og hann tók af anda þeim, sem yfir honum var, og lagði hann yfir öldungana sjötíu. Og er andinn kom yfir þá, spáðu þeir, og aldrei síðan. 11.26 Tveir menn höfðu orðið eftir í herbúðunum. Hét annar Eldad, en hinn Medad, og andinn kom yfir þá _ voru þeir meðal hinna skráðu, en höfðu ekki gengið út að tjaldinu _, og þeir spáðu í herbúðunum. 11.27 Þá kom ungmenni hlaupandi og sagði Móse og mælti: 'Eldad og Medad eru að spá í herbúðunum!' 11.28 Jósúa Núnsson, er þjónað hafði Móse frá æsku, svaraði og sagði: 'Móse, herra minn, bannaðu þeim það!' 11.29 En Móse sagði við hann: 'Tekur þú upp þykkjuna fyrir mig? Ég vildi að allur lýður Drottins væri spámenn, svo að Drottinn legði anda sinn yfir þá.' 11.30 Og Móse gekk aftur í herbúðirnar, hann og öldungar Ísraels. 11.31 Þá tók að blása vindur frá Drottni, og flutti hann lynghæns frá sjónum og varp þeim yfir herbúðirnar, svo sem dagleið í allar áttir, hringinn í kringum herbúðirnar, og um tvær álnir frá jörðu. 11.32 Og fólkið fór til allan þann dag og alla nóttina og allan daginn eftir og safnaði lynghænsum. Sá sem minnstu safnaði, safnaði tíu kómer. Og þeir breiddu þau allt í kringum herbúðirnar. 11.33 Meðan kjötið var enn milli tanna þeirra, áður en það var upp unnið, upptendraðist reiði Drottins gegn fólkinu, og Drottinn lét þar verða mjög mikinn mannfelli meðal fólksins. 11.34 Og staður þessi var nefndur Kibrót-hattava, því að þar grófu þeir fólkið, er fyllst hafði græðgi. 11.35 Frá Kibrót-hattava hélt lýðurinn til Haserót, og þeir staðnæmdust í Haserót.
12.1 Mirjam og Aron mæltu í gegn Móse vegna blálensku konunnar, er hann hafði gengið að eiga, því að hann hafði gengið að eiga blálenska konu. 12.2 Og þau sögðu: 'Hefir Drottinn aðeins talað við Móse? Hefir hann ekki talað við okkur líka?' Og Drottinn heyrði það. 12.3 En maðurinn Móse var einkar hógvær, framar öllum mönnum á jörðu. 12.4 Þá talaði Drottinn allt í einu til Móse, Arons og Mirjam: 'Farið þið þrjú til samfundatjaldsins!' Og þau gengu þangað þrjú. 12.5 Þá sté Drottinn niður í skýstólpanum og nam staðar í tjalddyrunum og kallaði á Aron og Mirjam, og þau gengu bæði fram. 12.6 Og hann sagði: 'Heyrið orð mín! Þegar spámaður er meðal yðar, þá birtist ég honum í sýn, eða tala við hann í draumi. 12.7 Ekki er því þannig farið um þjón minn Móse. Honum er trúað fyrir öllu húsi mínu. 12.8 Ég tala við hann munni til munns, berlega og eigi í ráðgátum, og hann sér mynd Drottins. Og hví skirrðust þið þá eigi við að mæla í gegn þjóni mínum, í gegn Móse?' 12.9 Reiði Drottins upptendraðist gegn þeim, og hann fór burt. 12.10 Og skýið vék burt frá tjaldinu, og sjá, Mirjam var orðin líkþrá, hvít sem snjór. Aron sneri sér að Mirjam, og sjá, hún var orðin líkþrá. 12.11 Þá sagði Aron við Móse: 'Æ, herra minn! Lát okkur eigi gjalda þess, að við breyttum heimskulega og syndguðum. 12.12 Æ, lát hana eigi vera sem andvana burð, sem helmingurinn af holdinu er rotnaður á, þá er hann kemur af móðurlífi.' 12.13 Móse hrópaði til Drottins: 'Æ, Guð! Gjör hana aftur heila!' 12.14 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Ef faðir hennar hefði hrækt í andlit henni, mundi hún þá eigi hafa orðið að bera kinnroða í sjö daga? Skal hún í sjö daga vera inni byrgð utan herbúða, en eftir það má taka hana inn aftur.' 12.15 Og Mirjam var byrgð inni sjö daga fyrir utan herbúðirnar, og lýðurinn lagði ekki upp fyrr en Mirjam var aftur inn tekin. 12.16 Eftir þetta lagði lýðurinn upp frá Haserót og setti herbúðir sínar í Paran-eyðimörk.
13.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 13.2 'Send þú menn til að kanna Kanaanland, er ég mun gefa Ísraelsmönnum. Þér skuluð senda einn mann af ættkvísl hverri, og sé hver þeirra höfðingi meðal þeirra.' 13.3 Og Móse sendi þá úr Paran-eyðimörk að boði Drottins. Þeir menn voru allir höfuðsmenn meðal Ísraelsmanna, 13.4 og þessi eru nöfn þeirra: Af ættkvísl Rúbens: Sammúa Sakkúrsson. 13.5 Af ættkvísl Símeons: Safat Hóríson. 13.6 Af ættkvísl Júda: Kaleb Jefúnneson. 13.7 Af ættkvísl Íssakars: Jígeal Jósefsson. 13.8 Af ættkvísl Efraíms: Hósea Núnsson. 13.9 Af ættkvísl Benjamíns: Paltí Rafúson. 13.10 Af ættkvísl Sebúlons: Gaddíel Sódíson. 13.11 Af ættkvísl Jósefs, af ættkvísl Manasse: Gaddí Súsíson. 13.12 Af ættkvísl Dans: Ammíel Gemallíson. 13.13 Af ættkvísl Assers: Setúr Míkaelsson. 13.14 Af ættkvísl Naftalí: Nakbí Vofsíson. 13.15 Af ættkvísl Gaðs: Geúel Makíson. 13.16 Þessi eru nöfn þeirra manna, sem Móse sendi til að kanna landið. En Móse kallaði Hósea Núnsson Jósúa. 13.17 Móse sendi þá til að kanna Kanaanland og sagði við þá: 'Farið þér inn í Suðurlandið og gangið á fjöll upp 13.18 og skoðið landið, hvernig það er, og fólkið, sem í því býr, hvort það er hraustlegt eða veiklegt, fátt eða margt, 13.19 og hvernig landið er, sem það býr í, hvort það er gott eða illt, og hvernig bæirnir eru, sem það býr í, hvort það eru tjöld eða víggirtar borgir, 13.20 og hvernig landið er, hvort það er feitt eða magurt, hvort þar eru skógar eða ekki. Og verið hugrakkir og komið með nokkuð af ávöxtum landsins.' En þetta var á öndverðum vínberjatíma. 13.21 Héldu þeir nú norður eftir og könnuðu landið frá Síneyðimörk allt til Rehób, þangað sem leið liggur til Hamat. 13.22 Þeir fóru inn í Suðurlandið og komu til Hebron. Þar voru þeir Ahíman, Sesaí og Talmaí Anakssynir (en Hebron var reist sjö árum fyrr en Sóan í Egyptalandi). 13.23 Þeir komu í Eskóldal og sniðu þar af vínviðargrein með einum vínberjaklasa og báru hann tveir á stöng milli sín, þar að auki nokkur granatepli og nokkrar fíkjur. 13.24 Var staður þessi kallaður Eskóldalur vegna klasans, sem Ísraelsmenn skáru þar af. 13.25 Þeir sneru aftur að fjörutíu dögum liðnum og höfðu þá kannað landið. 13.26 Og þeir héldu heimleiðis og komu til Móse og Arons og alls safnaðar Ísraelsmanna í Paran-eyðimörk, til Kades, og sögðu þeim og öllum söfnuðinum af ferðum sínum og sýndu þeim ávöxtu landsins. 13.27 Þeir sögðu Móse frá og mæltu: 'Vér komum í landið, þangað sem þú sendir oss, og að sönnu flýtur það í mjólk og hunangi, og þetta er ávöxtur þess. 13.28 En það er hraust þjóð, sem í landinu býr, og borgirnar eru víggirtar og stórar mjög, og Anaks sonu sáum vér þar einnig. 13.29 Amalekítar byggja Suðurlandið, og Hetítar, Jebúsítar og Amorítar byggja fjalllendið, og Kanaanítar búa við sjóinn og meðfram Jórdan.' 13.30 Kaleb stöðvaði kurr lýðsins gegn Móse og mælti: 'Förum þangað og leggjum það undir oss, því að vér munum fá unnið það.' 13.31 En þeir menn, er með honum höfðu farið, sögðu: 'Oss er ofvaxið að fara mót þessari þjóð, því að hún er sterkari en vér.' 13.32 Og þeir sem kannað höfðu landið, sögðu Ísraelsmönnum illt af því og mæltu: 'Landið, sem vér fórum um til þess að kanna það, er land sem etur upp íbúa sína, og allt fólkið, sem vér sáum þar, eru risavaxnir menn. 13.33 Og vér sáum þar risa, Anakssonu, sem eru risa ættar, og vér vorum í augum sjálfra vor sem engisprettur, og eins vorum vér í þeirra augum.'
14.1 Þá æpti allur söfnuðurinn upp yfir sig, og fólkið grét þá nótt. 14.2 Og allir Ísraelsmenn mögluðu gegn Móse og Aroni, og allur söfnuðurinn sagði við þá: 'Guð gæfi, að vér hefðum dáið í Egyptalandi eða vér hefðum dáið í þessari eyðimörk! 14.3 Hví leiðir Drottinn oss inn í þetta land til þess að falla fyrir sverði? Konur vorar og börn munu verða að herfangi. Mun oss eigi betra að snúa aftur til Egyptalands?' 14.4 Og þeir sögðu hver við annan: 'Tökum oss foringja og hverfum aftur til Egyptalands!' 14.5 Þá féllu þeir Móse og Aron á ásjónur sínar frammi fyrir allri samkomu safnaðar Ísraelsmanna. 14.6 En Jósúa Núnsson og Kaleb Jefúnneson, tveir þeirra, sem kannað höfðu landið, rifu klæði sín. 14.7 Og þeir sögðu við allan söfnuð Ísraelsmanna: 'Land það, sem vér fórum um til þess að kanna það, er mesta ágætisland. 14.8 Ef Drottinn hefir á oss velþóknun, þá mun hann flytja oss inn í þetta land og gefa oss það, landið, sem flýtur í mjólk og hunangi. 14.9 Gjörið aðeins ekki uppreisn móti Drottni og hræðist ekki landsfólkið, því að þeir eru brauð vort. Vikin er frá þeim vörn þeirra, en Drottinn er með oss! Hræðist þá eigi!' 14.10 Allur söfnuðurinn vildi berja þá grjóti, en þá birtist dýrð Drottins í samfundatjaldinu öllum Ísraelsmönnum. 14.11 Drottinn sagði við Móse: 'Hversu lengi mun þessi þjóð halda áfram að fyrirlíta mig, og hversu lengi munu þeir vantreysta mér, þrátt fyrir öll þau tákn, sem ég hefi gjört meðal þeirra? 14.12 Mun ég nú slá þá með drepsótt og tortíma þeim, en þig mun ég gjöra að þjóð, meiri og voldugri en þeir eru.' 14.13 Móse sagði við Drottin: 'En Egyptar hafa heyrt, að þú hafir með mætti þínum flutt þennan lýð burt frá þeim, 14.14 og þeir hafa sagt það íbúum þessa lands. Þeir hafa heyrt, að þú, Drottinn, sért meðal þessa fólks, að þú, Drottinn, hafir birst þeim augliti til auglitis, og að ský þitt standi yfir þeim og að þú gangir fyrir þeim í skýstólpa um daga og í eldstólpa um nætur. 14.15 Ef þú nú drepur fólk þetta sem einn mann, munu þjóðir þær, er spurnir hafa af þér haft, mæla á þessa leið: 14.16 ,Af því að Drottinn megnaði eigi að leiða þennan lýð inn í landið, sem hann hafði svarið þeim, þá slátraði hann þeim í eyðimörkinni.` 14.17 Sýn nú mátt þinn mikinn, Drottinn minn, eins og þú hefir heitið, þá er þú sagðir: 14.18 ,Drottinn er þolinmóður og gæskuríkur, fyrirgefur misgjörðir og afbrot, en lætur þau þó eigi með öllu óhegnd, heldur vitjar misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið.` 14.19 Fyrirgef misgjörðir þessa fólks eftir mikilli miskunn þinni og eins og þú hefir fyrirgefið þessu fólki frá Egyptalandi og hingað.' 14.20 Drottinn sagði: 'Ég fyrirgef, eins og þú biður. 14.21 En svo sannarlega sem ég lifi og öll jörðin er full af dýrð Drottins: 14.22 Allir þeir menn, sem séð hafa dýrð mína og tákn mín, þau er ég gjörði í Egyptalandi og í eyðimörkinni, og nú hafa freistað mín tíu sinnum og óhlýðnast röddu minni, 14.23 þeir skulu vissulega ekki sjá landið, sem ég sór feðrum þeirra. Og engir þeirra manna, sem mig hafa fyrirlitið, skulu sjá það. 14.24 En af því að annar andi er yfir þjóni mínum Kaleb, og af því að hann hefir fylgt mér trúlega, þá vil ég leiða hann inn í landið, sem hann fór til, og niðjar hans skulu eignast það. 14.25 En Amalekítar og Kanaanítar búa á láglendinu. Snúið við á morgun og farið í eyðimörkina leiðina til Sefhafs.' 14.26 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði: 14.27 'Hversu lengi á ég að umbera þennan illa lýð, sem möglar í gegn mér? Ég hefi heyrt kurr Ísraelsmanna, er þeir hafa gjört í gegn mér. 14.28 Seg þú þeim: ,Svo sannarlega sem ég lifi _ segir Drottinn _, eins og þér hafið talað í mín eyru, svo mun ég við yður gjöra. 14.29 Í þessari eyðimörk skuluð þér dauðir hníga, allir þér, sem taldir voruð, með fullri tölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, þér sem möglað hafið í gegn mér. 14.30 Þér skuluð vissulega ekki koma inn í landið, sem ég sór að gefa yður til bústaðar, nema Kaleb Jefúnneson og Jósúa Núnsson. 14.31 En börn yðar, er þér sögðuð að verða mundu að herfangi, þau mun ég flytja þangað, og þau munu fá að kynnast landinu, sem þér höfnuðuð. 14.32 En sjálfir skuluð þér dauðir hníga í þessari eyðimörk. 14.33 Og synir yðar skulu fara með hjarðir um eyðimörkina í fjörutíu ár og gjalda fráhvarfs yðar, uns þér allir liggið dauðir í eyðimörkinni. 14.34 Eins og þér voruð í fjörutíu daga að kanna landið, svo skuluð þér bera misgjörð yðar í fjörutíu ár, eitt ár fyrir hvern dag, og fá að reyna, hvað það er að vera yfirgefinn af mér.` 14.35 Ég Drottinn hefi sagt: ,Sannarlega mun ég svo gjöra við allan þennan illa lýð, sem gjört hefir samblástur móti mér. Í þessari eyðimörk skulu þeir farast og þar skulu þeir deyja.'` 14.36 Þeir menn, sem Móse hafði sent til að kanna landið og aftur hurfu og komu öllum lýðnum til að mögla móti honum með því að segja illt af landinu, _ 14.37 þeir menn, sem lastað höfðu landið, biðu bráðan bana fyrir augliti Drottins. 14.38 En Jósúa Núnsson og Kaleb Jefúnneson lifðu eftir af þeim mönnum, sem farið höfðu að kanna landið. 14.39 Móse flutti öllum Ísraelsmönnum þessi orð. Varð fólkið þá mjög sorgbitið. 14.40 Og þeir risu árla um morguninn og gengu upp á fjallshrygginn og sögðu: 'Hér erum vér! Viljum vér nú fara til þess staðar, sem Drottinn hefir talað um, því að vér höfum syndgað!' 14.41 Þá mælti Móse: 'Hví brjótið þér boð Drottins? Það mun eigi lánast! 14.42 Farið eigi, því að Drottinn er eigi meðal yðar, svo að þér bíðið eigi ósigur fyrir óvinum yðar. 14.43 Amalekítar og Kanaanítar eru þar fyrir yður, og þér munuð falla fyrir sverði. Sökum þess að þér hafið snúið baki við Drottni, mun Drottinn eigi með yður vera.' 14.44 En þeir létu eigi af þrályndi sínu og fóru upp á fjallstindinn, en sáttmálsörk Drottins og Móse viku eigi úr herbúðunum. 14.45 Þá komu Amalekítar og Kanaanítar, er á fjalli þessu bjuggu, ofan, unnu sigur á þeim og tvístruðu þeim alla leið til Horma.
15.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 15.2 'Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þegar þér komið í land það, sem ég mun gefa yður til bólfestu, 15.3 og þér færið Drottni eldfórn, hvort heldur er brennifórn eða sláturfórn, til að efna heit eða í sjálfviljafórn eða í tilefni af löghátíðum yðar, til þess að gjöra Drottni þægilegan ilm af nautum eða sauðfénaði, 15.4 þá skal sá, er færir Drottni fórnargjöf sína, jafnframt bera fram í matfórn einn tíunda part úr efu af fínu mjöli, blönduðu við einn fjórða part úr hín af olíu. 15.5 En af víni í dreypifórn skalt þú fórna einum fjórða parti úr hín með brennifórn eða sláturfórn með hverri sauðkind. 15.6 Eða sé það með hrút, þá skalt þú fórna tveim tíundu pörtum úr efu af fínu mjöli, blönduðu við þriðjung hínar af olíu í matfórn, 15.7 en af víni í dreypifórn þriðjung hínar. Skalt þú fram bera það sem þægilegan ilm Drottni til handa. 15.8 Og þegar þú fórnar ungneyti í brennifórn eða sláturfórn til þess að efna heit eða í heillafórn Drottni til handa, 15.9 þá skal fram bera í matfórn með ungneytinu þrjá tíundu parta úr efu af fínu mjöli, blönduðu við hálfa hín af olíu, 15.10 en af víni skalt þú fram bera í dreypifórn hálfa hín sem eldfórn þægilegs ilms Drottni til handa. 15.11 Skal svo gjört við sérhvern uxa, sérhvern hrút, við sérhvert lamb, hvort heldur er af sauðkindum eða geitum. 15.12 Eftir tölunni á því, sem þér fórnið, skuluð þér svo gjöra við hverja skepnu eftir tölu þeirra. 15.13 Sérhver innborinn maður skal fara eftir þessu, þegar hann færir Drottni eldfórn þægilegs ilms. 15.14 Og ef útlendingur dvelur um hríð meðal yðar eða einhver, sem tekið hefir sér fastan bústað meðal yðar, og hann fórnar Drottni eldfórn þægilegs ilms, þá skal hann gjöra svo sem þér gjörið. 15.15 Að því er söfnuðinn snertir, þá skulu vera ein lög bæði fyrir yður og útlendan mann, er hjá yður dvelur. Er það ævarandi lögmál frá kyni til kyns. Fyrir Drottni gildir hið sama um útlendan mann sem um yður. 15.16 Ein lög og einn réttur skal vera bæði fyrir yður og útlendan mann, sem með yður dvelur.' 15.17 Drottinn talaði við Móse og sagði: 15.18 'Tala þú við Ísraelsmenn og seg við þá: Þegar þér komið í land það, er ég mun leiða yður inn í, 15.19 þá skuluð þér færa Drottni fórn, er þér etið af brauði landsins. 15.20 Sem frumgróða af deigi yðar skuluð þér fórna köku að fórnargjöf. Eins og fórnargjöfinni af láfanum, svo skuluð þér fórna henni. 15.21 Af frumgróðanum af deigi yðar skuluð þér gefa Drottni fórnargjöf frá kyni til kyns. 15.22 Ef yður yfirsést og þér haldið eigi öll þessi boðorð, sem Drottinn hefir lagt fyrir Móse, 15.23 allt það sem Drottinn hefir boðið yður fyrir munn Móse, frá þeim degi, er Drottinn bauð það og upp frá því, frá kyni til kyns, 15.24 og ef misgjörðin er framin án þess söfnuðurinn viti af, þá skal allur söfnuðurinn fórna ungneyti í brennifórn til þægilegs ilms fyrir Drottin, ásamt matfórn og dreypifórn, er því fylgja, að réttum sið, og geithafri í syndafórn. 15.25 Og presturinn skal friðþægja fyrir allan söfnuð Ísraelsmanna, og þeim mun fyrirgefið verða. Því að það var yfirsjón, og þeir hafa fram borið fórnargjöf sína, eldfórn Drottni til handa, svo og syndafórn sína, fram fyrir Drottin vegna yfirsjónar sinnar. 15.26 Og öllum söfnuði Ísraelsmanna mun fyrirgefið verða, svo og útlendum manni, er meðal yðar dvelur, því að yfirsjónin féll á allan söfnuðinn. 15.27 Ef einhver maður syndgar af vangá, skal hann fórna veturgamalli geit í syndafórn. 15.28 Og presturinn skal frammi fyrir Drottni friðþægja fyrir þann, er yfirsjón hefir hent og syndgað hefir af vangá, til þess að friðþægja fyrir hann, og honum mun fyrirgefið verða. 15.29 Þér skuluð hafa ein lög fyrir þann, er gjörir eitthvað af vangá, bæði fyrir mann innborinn meðal Ísraelsmanna og fyrir útlending, er dvelur meðal þeirra. 15.30 En sá maður, er fremur eitthvað af ásetningi, hvort heldur er innborinn maður eða útlendingur, hann smánar Drottin, og skal sá maður upprættur verða úr þjóð sinni, 15.31 því að hann hefir virt orð Drottins að vettugi og brotið boðorð hans. Slíkur maður skal vægðarlaust upprættur verða; misgjörð hans hvílir á honum.' 15.32 Meðan Ísraelsmenn voru í eyðimörkinni, stóðu þeir mann að því að bera saman við á hvíldardegi. 15.33 Og þeir sem hittu hann, þar sem hann var að bera saman viðinn, færðu hann fyrir Móse og Aron og fyrir allan söfnuðinn. 15.34 Og þeir settu hann í varðhald, því að enginn úrskurður var til um það, hversu með hann skyldi fara. 15.35 En Drottinn sagði við Móse: 'Manninn skal af lífi taka. Allur söfnuðurinn skal berja hann grjóti fyrir utan herbúðirnar.' 15.36 Þá færði allur söfnuðurinn hann út fyrir herbúðirnar og barði hann grjóti til bana, eins og Drottinn hafði boðið Móse. 15.37 Drottinn talaði við Móse og sagði: 15.38 'Tala þú við Ísraelsmenn og seg við þá, að þeir skuli gjöra sér skúfa á skaut klæða sinna, frá kyni til kyns, og festa snúru af bláum purpura við skautskúfana. 15.39 Og það skal vera yður merkiskraut: Þegar þér horfið á það, skuluð þér minnast allra boðorða Drottins, svo að þér breytið eftir þeim og hlaupið ekki eftir fýsnum hjarta yðar né augna, en með því leiðist þér til hjáguðadýrkunar. 15.40 Þannig skuluð þér muna öll mín boðorð og breyta eftir þeim og vera heilagir fyrir Guði yðar. 15.41 Ég er Drottinn Guð yðar, sem leiddi yður út af Egyptalandi til þess að vera yðar Guð. Ég er Drottinn Guð yðar.'
16.1 Kóra, sonur Jísehars, Kahats sonar, Leví sonar, gjörði uppreisn, ásamt þeim Datan og Abíram, sonum Elíabs, Pallú sonar, Rúbens sonar. 16.2 Þeir risu upp í móti Móse og með þeim tvö hundruð og fimmtíu manns af Ísraelsmönnum. Voru það höfuðsmenn safnaðarins og fulltrúar, nafnkunnir menn. 16.3 Þeir söfnuðust saman í gegn þeim Móse og Aroni og sögðu við þá: 'Nú er nóg komið! Allur söfnuðurinn er heilagur, og Drottinn er meðal þeirra. Hví hefjið þið ykkur þá upp yfir söfnuð Drottins?' 16.4 Er Móse heyrði þetta, féll hann fram á ásjónu sína. 16.5 Því næst mælti hann við Kóra og allan flokk hans og sagði: 'Á morgun mun Drottinn kunnugt gjöra, hver hans er og hver heilagur er og hvern hann lætur nálgast sig. Og þann sem hann kýs sér, mun hann láta nálgast sig. 16.6 Gjörið þetta: Takið yður eldpönnur, Kóra og allur flokkur hans, 16.7 látið eld í þær og leggið á reykelsi fyrir augliti Drottins á morgun. Og sá, sem Drottinn kýs sér, hann skal vera heilagur. Nú er nóg komið, Leví synir!' 16.8 Móse sagði við Kóra: 'Heyrið, Leví synir! 16.9 Sýnist yður það lítils vert, að Ísraels Guð greindi yður frá söfnuði Ísraels til þess að láta yður nálgast sig, til þess að þér skylduð gegna þjónustu við búð Drottins og standa frammi fyrir söfnuðinum til að þjóna honum? 16.10 Og hann lét þig nálgast sig og alla bræður þína, Leví sonu, með þér, og nú viljið þér einnig ná í prestsembættið! 16.11 Fyrir því hefir þú og allur þinn flokkur gjört samblástur í gegn Drottni, því að hvað er Aron, að þér möglið í gegn honum?' 16.12 Og Móse lét kalla þá Datan og Abíram, Elíabs sonu, en þeir svöruðu: 'Eigi munum vér koma. 16.13 Sýnist þér það lítils vert, að þú leiddir oss brott úr því landi, er flýtur í mjólk og hunangi, til þess að láta oss deyja í eyðimörkinni, úr því þú vilt einnig gjörast drottnari yfir oss? 16.14 Þú hefir og eigi leitt oss inn í land, er flýtur í mjólk og hunangi, né gefið oss akra og víngarða til eignar. Hvort ætlar þú, að þú megir stinga augun úr mönnum þessum? Eigi munum vér koma!' 16.15 Þá varð Móse afar reiður og sagði við Drottin: 'Lít ekki við fórn þeirra! Eigi hefi ég tekið svo mikið sem asna frá þeim né gjört nokkrum þeirra mein.' 16.16 Þá sagði Móse við Kóra: 'Þú og allur flokkur þinn skuluð á morgun koma fram fyrir Drottin, þú og þeir og Aron. 16.17 Og takið hver sína eldpönnu og leggið á reykelsi og færið því næst hver sína eldpönnu fram fyrir Drottin _ tvö hundruð og fimmtíu eldpönnur. Þú og Aron skuluð og hafa hver sína eldpönnu.' 16.18 Tóku þeir nú hver sína eldpönnu og létu eld í þær og lögðu á reykelsi. Og þeir námu staðar fyrir dyrum samfundatjaldsins, svo og þeir Móse og Aron. 16.19 Og Kóra safnaði í móti þeim öllum flokki sínum fyrir dyrum samfundatjaldsins. Þá birtist dýrð Drottins öllum söfnuðinum, 16.20 og Drottinn talaði við þá Móse og Aron og sagði: 16.21 'Skiljið ykkur frá þessum hóp, og mun ég á augabragði eyða þeim.' 16.22 En Móse og Aron féllu fram á ásjónur sínar og sögðu: 'Guð, Guð lífsandans í öllu holdi! Hvort munt þú reiðast öllum söfnuðinum, þótt einn maður syndgi?' 16.23 Þá talaði Drottinn við Móse og sagði: 16.24 'Mæl þú til safnaðarins og seg: Farið burt af búðarsvæði þeirra Kóra, Datans og Abírams.' 16.25 Móse stóð upp og gekk til Datans og Abírams, og öldungar Ísraels fylgdu honum. 16.26 Og hann talaði til safnaðarins og sagði: 'Víkið burt frá tjöldum þessara óguðlegu manna, og komið ekki nærri neinu því, er þeir eiga, að þér farist eigi vegna allra synda þeirra.' 16.27 Fóru þeir þá burt af búðarsvæði þeirra Kóra, Datans og Abírams. En þeir Datan og Abíram höfðu gengið út og stóðu úti fyrir tjalddyrum sínum og konur þeirra, synir og ungbörn. 16.28 Móse mælti þá: 'Af þessu skuluð þér vita mega, að Drottinn hefir sent mig til að gjöra öll þessi verk, og að ég hefi eigi gjört þau eftir hugþótta mínum. 16.29 Ef þessir menn deyja á sama hátt og allir menn eru vanir að deyja, og verði þeir fyrir hinu sama, sem allir menn verða fyrir, þá hefir Drottinn ekki sent mig. 16.30 En ef Drottinn gjörir nýjan hlut og jörðin lýkur upp munni sínum og svelgir þá og allt, sem þeir eiga, svo að þeir fara lifandi niður til Heljar, þá megið þér af því marka, að þessir menn hafa smáð Drottin.' 16.31 Og er hann hafði lokið máli sínu, þá sprakk jörðin undir fótum þeirra, 16.32 og jörðin opnaði munn sinn og svalg þá og fjölskyldur þeirra, svo og alla menn Kóra og allan fjárhlut þeirra. 16.33 Og þeir fóru lifandi niður til Heljar og allt, sem þeir áttu, og jörðin luktist saman yfir þeim, og þeir fórust mitt úr söfnuðinum. 16.34 En allur Ísrael, er umhverfis þá var, flýði við óp þeirra, því að þeir hugsuðu: Ella mun jörðin svelgja oss. 16.35 Og eldur gekk út frá Drottni og eyddi þeim tvö hundruð og fimmtíu mönnum, er báru fram reykelsið. 16.36 Drottinn talaði við Móse og sagði: 16.37 'Seg þú Eleasar, syni Arons prests, að hann skuli taka eldpönnurnar út úr brunanum, en dreif þú eldinum langt burt, því að þær eru heilagar. 16.38 Eldpönnur þessara syndara, sem fyrirgjört hafa lífi sínu, skulu beittar út í þunnar plötur og klætt með þeim altarið, því að þeir báru þær fram fyrir Drottin, og eru þær því heilagar. Skulu þær vera Ísraelsmönnum til tákns.' 16.39 Eleasar prestur tók eirpönnurnar, er þeir höfðu borið fram, sem brunnið höfðu, og hann beitti þær út og klæddi með þeim altarið, 16.40 Ísraelsmönnum til minningar um það, að enginn annarlegur maður, sem eigi er af ætt Arons, má ganga fram til þess að bera reykelsi fram fyrir Drottin, að eigi fari eins fyrir honum og Kóra og flokki hans, eins og Drottinn hafði sagt honum fyrir munn Móse. 16.41 Daginn eftir möglaði allur söfnuður Ísraelsmanna í gegn þeim Móse og Aroni og sagði: 'Þið hafið myrt lýð Drottins!' 16.42 En er múgurinn safnaðist saman í gegn þeim Móse og Aroni, varð þeim litið til samfundatjaldsins, og sjá, skýið huldi það og dýrð Drottins birtist. 16.43 Gengu þeir Móse og Aron þá fram fyrir samfundatjaldið. 16.44 Drottinn talaði við Móse og sagði: 16.45 'Víkið burt frá þessum söfnuði, og mun ég eyða honum á augabragði!' En þeir féllu fram á ásjónur sínar. 16.46 Og Móse sagði við Aron: 'Tak eldpönnuna og lát eld í hana af altarinu, legg á reykelsi og far í skyndi til safnaðarins og friðþæg fyrir hann, því að reiði er út gengin frá Drottni, plágan byrjuð.' 16.47 Aron tók hana, eins og Móse bauð, og hljóp inn í miðjan söfnuðinn, og sjá, plágan var byrjuð meðal fólksins. Og hann lagði á reykelsið og friðþægði fyrir lýðinn. 16.48 Og er hann stóð milli hinna dauðu og hinna lifandi, þá staðnaði plágan. 16.49 En þeir sem fórust í plágunni, voru fjórtán þúsundir og sjö hundruð, auk þeirra er fórust sökum Kóra. 16.50 Og Aron gekk aftur til Móse að dyrum samfundatjaldsins, og var plágan stöðnuð.
17.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 17.2 'Tala þú við Ísraelsmenn og fá hjá þeim tólf stafi, einn staf hjá ættkvísl hverri, hjá öllum höfuðsmönnum ættkvísla þeirra. Rita þú nafn hvers eins á staf hans. 17.3 En nafn Arons skalt þú rita á staf Leví, því að einn stafur skal vera fyrir höfuð ættkvíslar þeirra. 17.4 Og þú skalt leggja þá niður í samfundatjaldinu, fyrir framan sáttmálið, þar sem ég á samfundi við yður. 17.5 Og það skal verða, að stafur þess manns, sem ég kýs, skal laufgast, að ég megi hefta kurr Ísraelsmanna, er þeir mögla í gegn yður.' 17.6 Móse talaði við Ísraelsmenn, og allir höfuðsmenn þeirra fengu honum stafi, hver höfðingi einn staf eftir ættkvíslum þeirra, tólf stafi alls, og var stafur Arons meðal stafa þeirra. 17.7 Og Móse lagði stafina fram fyrir Drottin í sáttmálstjaldinu. 17.8 Er Móse gekk inn í sáttmálstjaldið daginn eftir, sjá, þá var stafur Arons, stafur Levíættar, laufgaður. Voru blöð sprottin á honum, blóm sprungin út og bar hann fullvaxnar möndlur. 17.9 Bar Móse nú alla stafina út frá augliti Drottins til allra Ísraelsmanna, svo að þeir sæju þá, og tóku þeir hver sinn staf. 17.10 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Ber staf Arons inn aftur fram fyrir sáttmálið, að hann sé þar geymdur til tákns fyrir þá, sem óhlýðnir eru, og kurr þeirra gegn mér taki enda, ella munu þeir deyja.' 17.11 Og Móse gjörði svo, hann gjörði svo sem Drottinn bauð honum. 17.12 En Ísraelsmenn sögðu við Móse: 'Sjá, vér förumst, það er úti um oss, það er úti um oss alla! 17.13 Hver sem kemur nærri, hver sem kemur nærri búð Drottins, týnir lífi. Munum vér þá allir farast?'
18.1 Drottinn sagði við Aron: 'Þú og synir þínir og ættleggur feðra þinna með þér skulu sæta hegningu fyrir það, sem brotið er á móti helgidóminum, og þú og synir þínir með þér skuluð sæta hegningu fyrir það, sem yður verður á í prestsembætti yðar. 18.2 Þú skalt taka með þér bræður þína, kynkvísl Leví, ættkvísl föður þíns. Þeir skulu vera þér við hönd og þjóna þér, þegar þú og synir þínir með þér eruð frammi fyrir sáttmálstjaldinu. 18.3 Og þeir skulu gegna því, er við þarf við þína þjónustu og við þjónustu alls tjaldsins. Þó skulu þeir eigi koma nærri hinum helgu áhöldum né altarinu, ella munu þeir deyja, bæði þeir og þér. 18.4 Og þeir skulu vera þér við hönd og annast það, sem annast þarf við samfundatjaldið, alla þjónustu við tjaldið, en eigi skal óvígður maður koma til yðar. 18.5 En þér skuluð annast það, sem annast þarf í helgidóminum og við altarið, svo að eigi komi reiði framar yfir Ísraelsmenn. 18.6 Og sjá, ég hefi tekið bræður yðar, levítana, úr Ísraelsmönnum sem gjöf yður til handa, sem þá, er gefnir hafa verið Drottni, til þess að gegna þjónustu við samfundatjaldið. 18.7 En þú og synir þínir með þér skuluð annast prestsembætti yðar í öllum þeim hlutum, er varða altarið og þjónustuna fyrir innan fortjaldið, þar skuluð þér gegna þjónustu. Ég fel yður prestdóminn og veiti yður þá þjónustu að gjöf. Komi nokkur annar þar nærri, skal hann lífi týna.' 18.8 Drottinn sagði við Aron: 'Sjá, ég gef þér það, sem varðveitast á af fórnargjöfum mínum. Af öllum helgigjöfum Ísraelsmanna gef ég þér og sonum þínum þær í þeirra hlut. Er það ævinleg skyldugreiðsla. 18.9 Þetta skal heyra þér af hinum háhelgu gjöfum, að því fráteknu, sem brenna skal: Allar fórnargjafir þeirra, bæði matfórnir, syndafórnir og sektarfórnir, er þeir færa mér í bætur. Eru þær háhelgar, og skulu heyra þér og sonum þínum. 18.10 Þú skalt eta þær á háhelgum stað. Allt karlkyn skal eta þær. Skulu þær vera þér heilagar. 18.11 Og þetta skal heyra þér sem fórnargjöf af öðrum gjöfum þeirra, af öllum veififórnum Ísraelsmanna: Ég gef þér þær, og sonum þínum og dætrum með þér. Er það ævinleg skyldugreiðsla. Allir hreinir menn í húsi þínu skulu eta þær. 18.12 Allt hið besta af olíunni og allt hið besta af aldinleginum og korninu, frumgróðann af því _ það er þeir gefa Drottni _ það hefi ég gefið þér. 18.13 Frumgróðinn af öllu því, er vex í landi þeirra og þeir færa Drottni, skal heyra þér. Allir hreinir menn í húsi þínu skulu eta hann. 18.14 Sérhver hlutur bannfærður í Ísrael skal heyra þér. 18.15 Allt það sem opnar móðurlíf, af öllu holdi, er menn færa Drottni, hvort heldur er menn eða skepnur, skal heyra þér. Þó skalt þú leysa láta frumburði manna, og frumburði óhreinna dýra skalt þú og leysa láta. 18.16 Og að því er snertir lausnargjald þeirra, þá skalt þú láta leysa þá, úr því þeir eru mánaðargamlir, eftir mati þínu, með fimm siklum, eftir helgidómssikli, tuttugu gerur í sikli. 18.17 En frumburði af nautum, sauðum eða geitum skalt þú ekki leysa láta. Þeir eru heilagir. Blóði þeirra skalt þú stökkva á altarið, og mörinn úr þeim skalt þú brenna sem eldfórn þægilegs ilms Drottni til handa. 18.18 En kjötið af þeim skal heyra þér. Það skal heyra þér, eins og veifibringan og hægra lærið. 18.19 Allar fórnargjafir af helgigjöfunum, sem Ísraelsmenn færa Drottni, hefi ég gefið þér og sonum þínum og dætrum með þér. Er það ævinleg skyldugreiðsla. Það er ævinlegur sáttmáli, helgaður með salti, fyrir augliti Drottins fyrir þig og niðja þína ásamt þér.' 18.20 Drottinn sagði við Aron: 'Þú skalt ekkert óðal eignast í landi þeirra og ekki eiga hlutskipti meðal þeirra. Ég er hlutskipti þitt og óðal þitt meðal Ísraelsmanna. 18.21 Og sjá, ég gef levítunum alla tíund í Ísrael til eignar fyrir þjónustuna, er þeir inna af hendi, þjónustuna við samfundatjaldið. 18.22 Og Ísraelsmenn skulu eigi framar koma nærri samfundatjaldinu, svo að þeir baki sér ekki synd og deyi. 18.23 Heldur skulu levítarnir gegna þjónustu við samfundatjaldið, og skulu sæta hegningu fyrir það, sem þeim verður á. Skal það vera ævarandi lögmál hjá yður frá kyni til kyns, en þeir skulu ekki eiga óðul meðal Ísraelsmanna. 18.24 Því að tíund Ísraelsmanna, er þeir færa Drottni að fórnargjöf, hefi ég gefið levítunum til eignar, þess vegna hefi ég sagt þeim, að þeir skuli ekki eiga óðul meðal Ísraelsmanna.' 18.25 Drottinn talaði við Móse og sagði: 18.26 'Þú skalt tala við levítana og segja við þá: Þegar þér meðtakið tíundina frá Ísraelsmönnum, er ég hefi gefið yður til eignar og þeir skulu greiða yður, þá skuluð þér færa Drottni fórnargjöf af henni, tíund af tíundinni. 18.27 Og þessi fórnargjöf yðar skal reiknast yður sem væri það korn af láfanum eða gnótt úr vínþrönginni. 18.28 Þannig skuluð og þér færa Drottni fórnargjöf af allri þeirri tíund, er þér meðtakið frá Ísraelsmönnum, og af henni skuluð þér fá Aroni presti fórnargjöf Drottins. 18.29 Af öllu því, sem yður gefst, skuluð þér færa Drottni fórnargjöf, af öllu hinu besta af því, helgigjöfina, sem af því skal fram bera. 18.30 Og þú skalt segja við þá: Þegar þér hafið fram borið hið besta af því, þá skal hitt reiknast levítunum sem afurðir úr láfanum eða afurðir úr vínþrönginni. 18.31 Þér megið eta það hvar sem þér viljið, bæði þér og skyldulið yðar, því að það eru laun yðar fyrir þjónustu yðar við samfundatjaldið. 18.32 Og þér munuð ekki baka yður synd vegna þess, ef þér fram berið hið besta af því, og þá munuð þér eigi vanhelga helgigjafir Ísraelsmanna og eigi deyja.'
19.1 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði: 19.2 'Þetta er ákvæði í lögmálinu, er Drottinn hefir boðið, er hann sagði: Seg við Ísraelsmenn, að þeir skuli færa þér rauða kvígu gallalausa, sem engin lýti hefir og ekki hefir verið leidd undir ok. 19.3 Skuluð þér fá hana Eleasar presti, og skal því næst færa hana út fyrir herbúðirnar og slátra henni í augsýn hans. 19.4 Og Eleasar prestur skal taka af blóði hennar með fingri sínum og stökkva sjö sinnum af blóði hennar mót framhlið samfundatjaldsins. 19.5 Síðan skal brenna kvíguna fyrir augum hans. Skal brenna bæði húðina, kjötið og blóðið, ásamt gorinu. 19.6 Þá skal prestur taka sedrusvið, ísópsvönd og skarlat og kasta á bálið, þar sem kvígan brennur. 19.7 Því næst skal prestur þvo klæði sín og lauga líkama sinn í vatni. Síðan gangi hann í herbúðirnar. Þó skal prestur vera óhreinn til kvelds. 19.8 Sömuleiðis skal sá, sem brennir hana, þvo klæði sín í vatni og lauga líkama sinn í vatni. Hann skal og vera óhreinn til kvelds. 19.9 Síðan skal einhver, sem hreinn er, safna saman öskunni af kvígunni og láta hana á hreinan stað fyrir utan herbúðirnar, svo að hún sé geymd handa söfnuði Ísraelsmanna í hreinsunarvatn. Þetta er syndafórn. 19.10 En sá sem safnar saman öskunni af kvígunni, skal þvo klæði sín og vera óhreinn til kvelds. Þetta skal vera ævinlegt lögmál fyrir Ísraelsmenn og fyrir þá útlendinga, er dvelja meðal þeirra: 19.11 Sá sem snertir lík, af hvaða manni sem vera skal, hann skal vera óhreinn sjö daga. 19.12 Hann skal syndhreinsa sig með hreinsunarvatninu á þriðja degi og á sjöunda degi, og er þá hreinn. En ef hann syndhreinsar sig ekki á þriðja degi og á sjöunda degi, mun hann eigi hreinn verða. 19.13 Hver sem snertir dauðan mann, lík af dauðum manni, og syndhreinsar sig ekki, hann saurgar búð Drottins, og skal sá maður upprættur verða úr Ísrael. Af því að hreinsunarvatninu var ekki stökkt á hann, er hann óhreinn. Óhreinleiki hans loðir enn við hann. 19.14 Þetta skulu lög vera, þegar maður deyr í tjaldi: Hver sem inn í tjaldið gengur, og hver sem í tjaldinu er, skal vera óhreinn sjö daga. 19.15 Og hvert opið ílát, sem ekki er bundið yfir, skal vera óhreint. 19.16 Og hver sem úti á víðavangi snertir lík af vegnum manni eða látnum manni eða mannabein eða gröf, hann skal vera óhreinn sjö daga. 19.17 En handa þeim, er saurgað hefir sig, skal taka ösku af brenndu syndafórninni, láta hana í ker og hella yfir hana rennandi vatni. 19.18 Síðan skal hreinn maður taka ísópsvönd, dýfa í vatnið og stökkva á tjaldið og öll ílátin og á þá menn, sem þar voru inni, svo og á þann, er snert hefir mannabein eða lík af vegnum manni eða látnum eða gröf. 19.19 Og skal hinn hreini stökkva á hinn óhreina á þriðja degi og á sjöunda degi, og hann skal syndhreinsa hann á sjöunda degi. Því næst skal hann þvo klæði sín og lauga sig í vatni, og er hann þá hreinn að kveldi. 19.20 En ef einhver saurgar sig og syndhreinsar sig ekki, _ sá maður skal upprættur verða úr söfnuðinum, því að hann hefir saurgað helgidóm Drottins. Hreinsunarvatni hefir ekki verið stökkt á hann, hann er óhreinn. 19.21 Skal þetta vera yður ævinlegt lögmál. Sá sem stökkvir hreinsunarvatninu, skal þvo klæði sín, og sá sem snertir hreinsunarvatnið, skal vera óhreinn til kvelds. 19.22 Og allt það, sem hinn óhreini snertir, skal vera óhreint, og ef maður snertir hann, skal hann vera óhreinn til kvelds.'
20.1 Ísraelsmenn, allur söfnuðurinn, komu í eyðimörkina Sín í fyrsta mánuðinum, og lýðurinn settist um kyrrt í Kades. Þar dó Mirjam og var þar grafin. 20.2 Fólkið hafði ekki vatn. Söfnuðust þeir þá saman í gegn Móse og Aroni. 20.3 Og lýðurinn þráttaði við Móse og sagði: 'Guð gæfi að vér hefðum dáið, þá er bræður vorir dóu fyrir augliti Drottins. 20.4 Hví leidduð þið söfnuð Drottins í eyðimörk þessa, að vér og fénaður vor dæjum þar? 20.5 Hví létuð þið oss í burt fara af Egyptalandi, til þess að leiða oss í þennan vonda stað, þar sem eigi verður sáð, engar fíkjur vaxa né vínviður né granatepli, og eigi er vatn til að drekka?' 20.6 Móse og Aron gengu þá burt frá söfnuðinum að dyrum samfundatjaldsins og féllu fram á ásjónur sínar. Birtist þeim þá dýrð Drottins. 20.7 Drottinn talaði við Móse og sagði: 20.8 'Tak stafinn og safna saman lýðnum, þú og Aron bróðir þinn, og mælið við klettinn í áheyrn þeirra, og mun hann vatn gefa. Og þú skalt leiða út vatn handa þeim af klettinum og gefa fólkinu og fénaði þeirra að drekka.' 20.9 Þá sótti Móse stafinn inn í helgidóminn, eins og Drottinn hafði boðið honum. 20.10 Og Móse og Aron söfnuðu saman lýðnum við klettinn, og Móse sagði við þá: 'Heyrið þér, þrjóskir menn. Hvort munum vér leiða mega vatn út af kletti þessum handa yður?' 20.11 Síðan hóf Móse upp hönd sína og laust klettinn tveim sinnum með staf sínum. Spratt þá upp vatn mikið, svo að fólkið drakk og fénaður þeirra. 20.12 Þá sagði Drottinn við Móse og Aron: 'Fyrir því að þið trúðuð mér eigi, svo að þið helguðuð mig í augum Ísraelsmanna, þá skuluð þið eigi leiða söfnuð þennan inn í landið, sem ég hefi gefið þeim.' 20.13 Þetta eru Meríbavötn, þar sem Ísraelsmenn þráttuðu við Drottin og hann sýndi heilagleik sinn á þeim. 20.14 Móse sendi frá Kades menn á fund Edómkonungs: 'Svo mælir bróðir þinn Ísrael: Þú þekkir allar þær þrautir, er oss hafa mætt. 20.15 Feður vorir fóru suður til Egyptalands, og vér höfum verið í Egyptalandi langa ævi og hafa Egyptar þjáð oss, sem og feður vora. 20.16 En vér hrópuðum til Drottins, og hann heyrði bæn vora og sendi engil, og leiddi hann oss brott af Egyptalandi. Og sjá, nú erum vér í Kades, borginni við landamæri þín. 20.17 Leyf oss að fara um land þitt. Eigi munum vér fara yfir akra né víngarða, og eigi munum vér drekka vatn úr brunnum, heldur munum vér fara Konungsveg og eigi hneigja af til hægri handar eða vinstri, þar til er vér erum komnir út úr landi þínu.' 20.18 En Edóm svaraði honum: 'Eigi mátt þú fara um land mitt, ella mun ég fara í móti þér með sverði.' 20.19 Þá sögðu Ísraelsmenn við hann: 'Vér munum þræða brautarveginn, og ef vér drekkum af vatni þínu, ég og fénaður minn, þá mun ég fé fyrir gjalda. Hér er eigi til meira mælst en að ég megi fara um fótgangandi.' 20.20 En hann sagði: 'Eigi mátt þú fara um landið.' Og Edóm fór í móti honum með miklu liði og sterkri hendi. 20.21 Og er Edóm skoraðist undan að leyfa Ísrael yfirför um land sitt, þá sneri Ísrael af leið frá honum. 20.22 Nú lögðu þeir upp frá Kades, og Ísraelsmenn, allur söfnuðurinn, komu til fjallsins Hór. 20.23 Og Drottinn talaði við Móse og Aron á Hórfjalli, við landamæri Edómlands, og sagði: 20.24 'Aron skal safnast til fólks síns, því að eigi skal hann komast í það land, sem ég hefi gefið Ísraelsmönnum, af því að þið þrjóskuðust gegn skipan minni hjá Meríbavötnum. 20.25 Tak þú Aron og Eleasar son hans og leið þá upp á Hórfjall. 20.26 Fær þú Aron úr klæðum sínum og skrýð Eleasar son hans þeim, en Aron skal safnast til fólks síns og deyja þar.' 20.27 Móse gjörði svo sem Drottinn bauð honum, og þeir gengu upp á Hórfjall í augsýn alls fólksins. 20.28 Og Móse færði Aron úr klæðum hans og skrýddi Eleasar son hans þeim. Og Aron dó þar á háfjallinu. Gengu þeir Móse og Eleasar þá niður af fjallinu. 20.29 En er allt fólkið sá, að Aron var andaður, grétu allir Ísraelsmenn Aron þrjátíu daga.
21.1 Er kanverski konungurinn í Arad, sem bjó í Suður-Kanaan, spurði, að Ísrael kæmi Atarím-veginn, þá réðst hann á Ísrael og hertók nokkra þeirra. 21.2 Þá gjörði Ísrael Drottni heit og sagði: 'Ef þú gefur lýð þennan á mitt vald, skal ég banni helga borgir þeirra.' 21.3 Og Drottinn heyrði raust Ísraels og seldi Kanaanítana þeim í hendur. Og þeir helguðu þá banni og borgir þeirra, og var staðurinn kallaður Horma. 21.4 Lögðu þeir þá upp frá Hórfjalli leiðina til Rauðahafs til þess að fara í kringum Edómland. En lýðnum féllst hugur á leiðinni. 21.5 Og lýðurinn talaði í gegn Guði og í gegn Móse: 'Hví leidduð þið oss brott af Egyptalandi, til þess að vér dæjum í eyðimörkinni. Hér er hvorki brauð né vatn, og vér erum orðnir leiðir á þessu léttmeti.' 21.6 Þá sendi Drottinn eitraða höggorma meðal lýðsins, og þeir bitu fólkið, svo að margt manna dó af Ísrael. 21.7 Þá gekk lýðurinn til Móse og sagði: 'Vér höfum syndgað, því að vér höfum talað í gegn Drottni og í gegn þér. Bið þú til Drottins, að hann taki höggormana frá oss.' Móse bað þá fyrir lýðnum. 21.8 Og Drottinn sagði við Móse: 'Gjör þér eiturorm og set hann á stöng, og það skal verða, að hver sem bitinn er og lítur á hann, skal lífi halda.' 21.9 Móse gjörði höggorm af eiri og setti á stöng. Og það varð, að ef höggormur hafði bitið einhvern og hann leit til eirormsins, þá hélt hann lífi. 21.10 Eftir þetta lögðu Ísraelsmenn upp og settu búðir sínar í Óbót. 21.11 Og þeir lögðu upp frá Óbót og settu búðir sínar í Íje-Haabarím í eyðimörkinni, sem er fyrir austan Móab. 21.12 Þaðan lögðu þeir upp og settu búðir sínar í Sered-dal. 21.13 Þaðan lögðu þeir upp og settu búðir sínar hinum megin við Arnon, sem er í eyðimörkinni og kemur upp í landi Amoríta. Arnon skilur lönd Móabíta og Amoríta. 21.14 Fyrir því segir svo í bókinni um bardaga Drottins: Vaheb í Súfa og Arnondalir 21.15 og dalahlíðarnar, er ná þangað, sem Ar liggur, og liggja upp að löndum Móabíta. 21.16 Þaðan héldu þeir til Beer. Það er brunnurinn, sem Drottinn talaði um við Móse: 'Safna saman lýðnum, ég vil gefa þeim vatn.' 21.17 Þá söng Ísrael þetta kvæði: Vell þú upp, brunnur! Syngið í móti honum! 21.18 Brunnur, sem höfðingjarnir grófu og göfugmenni þjóðarinnar holuðu innan með veldissprota, með stöfum sínum. Frá eyðimörkinni héldu þeir til Mattana, 21.19 og frá Mattana til Nahalíel, og frá Nahalíel til Bamót, 21.20 og frá Bamót í dalinn, sem liggur í Móabslandi, að Pisgatindi, sem mænir yfir öræfin. 21.21 Ísrael sendi menn á fund Síhons Amorítakonungs og lét segja honum: 21.22 'Leyf mér að fara um land þitt. Eigi munum vér hneigja af út á akra né víngarða, og eigi munum vér drekka vatn úr brunnum, heldur munum vér fara Konungsveg, þar til vér erum komnir út úr landi þínu.' 21.23 En Síhon leyfði eigi Ísrael að fara um land sitt. Hann safnaði að sér öllum lýð sínum og fór í móti Ísrael inn í eyðimörkina. Og er hann kom til Jahsa, lagði hann til orustu við Ísrael. 21.24 En Ísrael vann sigur á honum með sverðseggjum og lagði undir sig land hans frá Arnon til Jabbok, allt að Ammónítum, því að landamerki Ammóníta voru ekki auðunnin. 21.25 Ísrael tók allar þessar borgir og settist að í öllum borgum Amoríta, í Hesbon og öllum þorpunum þar í kring. 21.26 Hesbon var borg Síhons Amorítakonungs. Hafði hann átt í ófriði við hinn fyrri konung Móabíta og tekið frá honum allt land hans að Arnon. 21.27 Fyrir því sögðu háðskáldin: Komið til Hesbon! Endurreist og grundvölluð verði borg Síhons! 21.28 Því að eldur gekk út frá Hesbon, logi frá borg Síhons. Hann eyddi Ar í Móab, lávörðum Arnonhæða. 21.29 Vei þér, Móab! Það er úti um þig, Kamoss lýður! Kamos lét sonu sína verða flóttamenn og dætur sínar herteknar verða af Síhon, Amorítakonungi. 21.30 Vér skutum á þá. Gjöreydd var Hesbon allt til Díbon, og vér fórum herskildi yfir, svo að eldurinn bálaðist upp allt til Medeba. 21.31 Ísrael settist nú að í landi Amoríta. 21.32 En Móse sendi njósnarmenn til Jaser, og þeir unnu hana og þorpin þar í kring og ráku burt Amorítana, sem þar bjuggu. 21.33 Sneru þeir nú við og héldu veginn, sem liggur til Basan. En Óg, konungur í Basan, fór í móti þeim með öllu liði sínu til þess að heyja bardaga hjá Edreí. 21.34 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Eigi skalt þú óttast hann, því að ég gef hann og lið hans allt og land hans í þínar hendur, og skalt þú svo fara með hann, eins og þú fórst með Síhon, Amorítakonung, er bjó í Hesbon.' 21.35 Og þeir felldu hann og sonu hans og allt hans lið, svo að enginn var eftir skilinn, er undan kæmist, og lögðu þeir land hans undir sig.
22.1 Ísraelsmenn lögðu upp og settu búðir sínar á Móabsheiðum, hinumegin Jórdanar gegnt Jeríkó. 22.2 En Balak Sippórsson sá allt það, sem Ísrael gjörði Amorítum. 22.3 Urðu Móabítar þá næsta hræddir við lýðinn, því að hann var fjölmennur, og það stóð þeim stuggur af Ísraelsmönnum. 22.4 Þá sögðu Móabítar við öldunga Midíansmanna: 'Nú mun mannfjöldi þessi upp eta allt í kringum oss, eins og uxar eta grængresi í haga.' Balak Sippórsson var um þær mundir konungur í Móab. 22.5 Sendi hann menn á fund Bíleams Beórssonar, til Petór, sem er við Efrat, í land samlanda sinna, til þess að sækja hann, og lét segja honum: 'Sjá, þjóð nokkur er komin frá Egyptalandi. Þekur hún land allt og hefir nú tekið sér bólfestu gagnvart mér. 22.6 Kom því og bölva þjóð þessari fyrir mig, því að hún er mér ofurefli. Vera má, að ég fái þá sigrast á henni og stökkt henni úr landi, því að ég veit, að sá er blessaður, sem þú blessar, og sá bölvaður, sem þú bölvar.' 22.7 Öldungar Móabíta og öldungar Midíansmanna fóru nú af stað og höfðu með sér spásagnarlaunin. Komu þeir til Bíleams og fluttu honum orð Balaks. 22.8 Bíleam sagði við þá: 'Verið hér í nótt, og mun ég svara yður, eftir því sem Drottinn segir mér.' Og höfðingjar Móabíta voru hjá Bíleam um nóttina. 22.9 En Guð kom til Bíleams og sagði: 'Hvaða menn eru það, sem hjá þér eru?' 22.10 Bíleam sagði við Guð: 'Balak Sippórsson, konungur í Móab, hefir gjört mér þessa orðsending: 22.11 ,Sjá, þjóð nokkur er hér komin af Egyptalandi, og þekur hún landið allt. Kom því og bið henni bölbæna fyrir mig. Vera má, að ég geti þá barist við hana og stökkt henni burt.'` 22.12 En Guð sagði við Bíleam: 'Eigi skalt þú fara með þeim, og eigi skalt þú bölva þessari þjóð, því að hún er blessuð.' 22.13 Morguninn eftir reis Bíleam árla og sagði við höfðingja Balaks: 'Farið heim í land yðar, því að Drottinn vill ekki leyfa mér að fara með yður.' 22.14 Og höfðingjar Móabíta héldu af stað og komu til Balaks og sögðu: 'Bíleam færðist undan að fara með oss.' 22.15 Balak sendi þá enn höfðingja, fleiri og göfuglegri en þessir voru. 22.16 Og er þeir komu á fund Bíleams, sögðu þeir við hann: 'Balak Sippórsson mælir svo: ,Lát þú ekkert aftra þér frá að koma á minn fund. 22.17 Ég vil veita þér mikla sæmd, og allt sem þú segir mér, skal ég gjöra. Kom því og bið lýð þessum bölbæna.'` 22.18 En Bíleam svaraði og sagði við þjóna Balaks: 'Þó að Balak gæfi mér hús sitt fullt af silfri og gulli, gæti ég samt ekki brugðið af boði Drottins, Guðs míns, hvorki í smáu né stóru. 22.19 En verið þér nú einnig hér í nótt, að ég megi vita, hvað Drottinn enn vill við mig tala.' 22.20 Þá kom Guð til Bíleams um nóttina og sagði við hann: 'Ef menn þessir eru komnir til að sækja þig, þá rís þú upp og far með þeim, og gjör þó það eitt, er ég býð þér.' 22.21 Bíleam reis því árla um morguninn, söðlaði ösnu sína og fór með höfðingjum Móabíta. 22.22 En reiði Guðs upptendraðist af því, að hann fór, og engill Drottins stóð í götunni fyrir honum. En hann reið ösnu sinni, og tveir sveinar hans voru með honum. 22.23 Og er asnan sá engil Drottins standa í götunni með brugðið sverð í hendi, sneri hún af götunni og fór út á grundina, en Bíleam barði ösnuna til þess að koma henni aftur á götuna. 22.24 Þá gekk engill Drottins í öngvegið milli víngarðanna, og var grjótgarður á báðar hliðar. 22.25 Og er asnan sá engil Drottins, þrengdi hún sér upp að garðinum og varð fótur Bíleams í milli. Barði hann hana þá aftur. 22.26 Þá gekk engill Drottins enn fram fyrir og nam staðar í einstigi, þar sem ekki varð vikið til hægri né vinstri. 22.27 Og er asnan sá engil Drottins, lagðist hún undir Bíleam. Þá reiddist Bíleam og barði hana með staf sínum. 22.28 Drottinn lauk þá upp munni ösnunnar, og hún sagði við Bíleam: 'Hvað hefi ég gjört þér, er þú hefir nú barið mig þrisvar?' 22.29 En Bíleam sagði við ösnuna: 'Af því að þú hefir dregið dár að mér. Væri svo vel, að ég hefði sverð í hendi, mundi ég óðara drepa þig.' 22.30 Þá sagði asnan við Bíleam: 'Er ég eigi asna þín, er þú hefir riðið alla þína ævi fram á þennan dag? Hefi ég nokkurn tíma verið vön að gjöra þér þetta?' En hann sagði: 'Nei.' 22.31 Þá lauk Drottinn upp augum Bíleams, svo að hann sá engil Drottins standa í götunni með brugðið sverð í hendi, og hann laut honum og féll fram á ásjónu sína. 22.32 En engill Drottins sagði við hann: 'Hví hefir þú nú barið ösnu þína þrisvar sinnum? Sjá, það er ég, sem kominn er til að standa fyrir þér, því að þessi för er háskaleg í mínum augum. 22.33 Asnan sá mig og vék þrisvar úr vegi fyrir mér. Hefði hún ekki vikið fyrir mér, mundi ég nú þegar hafa deytt þig, en hana mundi ég hafa látið lífi halda.' 22.34 Þá sagði Bíleam við engil Drottins: 'Ég hefi syndgað, því að ég vissi ekki að þú stóðst fyrir mér á veginum. Vil ég því snúa aftur, ef þér mislíkar.' 22.35 En engill Drottins sagði við Bíleam: 'Far þú með mönnunum, en ekki mátt þú tala annað en það, sem ég mun segja þér.' Bíleam fór þá með höfðingjum Balaks. 22.36 Er Balak frétti að Bíleam kæmi, fór hann út í móti honum til Ír-Móab, sem liggur á landamærunum við Arnon, á ystu landamærunum. 22.37 Og Balak sagði við Bíleam: 'Sendi ég ekki menn til þín til þess að sækja þig? Hví komst þú þá ekki til mín? Mun ég eigi þess megnugur að veita þér sæmd fyrir?' 22.38 En Bíleam sagði við Balak: 'Sjá, ég er nú kominn til þín. En mun ég fá mælt nokkuð? Þau orð, sem Guð leggur mér í munn, þau mun ég mæla.' 22.39 Bíleam fór þá með Balak, og þeir komu til Kirjat Kúsót. 22.40 Og Balak fórnaði nautum og sauðum og sendi Bíleam og höfðingjum þeim, sem með honum voru. 22.41 Um morguninn eftir tók Balak Bíleam með sér og fór með hann upp til fórnarhæðar Baals, en þaðan sá hann ysta hluta herbúða Ísraels.
23.1 Þá mælti Bíleam við Balak: 'Gjör þú mér hér sjö ölturu og fá mér hingað sjö uxa og sjö hrúta.' 23.2 Og Balak gjörði sem Bíleam sagði, og Balak og Bíleam fórnuðu uxa og hrút á altari hverju. 23.3 Bíleam sagði við Balak: 'Statt þú hér hjá brennifórn þinni, ég ætla að ganga burt. Vera má að Drottinn kunni að koma til móts við mig, en hvað sem hann birtir mér, skal ég tjá þér.' Fór hann þá upp á skóglausa hæð. 23.4 Og Guð kom til móts við Bíleam, og Bíleam sagði við hann: 'Ég hefi búið sjö ölturu og fórnað uxa og hrút á hverju altari.' 23.5 Drottinn lagði þá Bíleam orð í munn og sagði: 'Far þú aftur til Balaks, og mæl svo sem ég segi þér.' 23.6 Fór hann þá aftur til hans. Og sjá, hann stóð hjá brennifórn sinni og allir höfðingjar Móabs með honum. 23.7 Flutti hann þá kvæði sitt og mælti: Til Mesópótamíu lét Balak sækja mig, konungur Móabs, til hinna austlægu fjalla. 'Kom þú, bölva Jakob fyrir mig, kom þú, formæl Ísrael!' 23.8 Hvernig má ég biðja bölbæna þeim, er Guð eigi biður bölbæna, og hvernig má ég formæla þeim, er Drottinn eigi formælir? 23.9 Af fjallstindinum sé ég hann, og af hæðunum lít ég hann. Hann er þjóðflokkur, sem býr einn sér og telur sig eigi meðal hinna þjóðanna. 23.10 Hver mun telja mega duft Jakobs, og hver mun fá tölu komið á fjöld Ísraels? Deyi önd mín dauða réttlátra og verði endalok mín sem þeirra. 23.11 Þá sagði Balak við Bíleam: 'Hvað hefir þú gjört mér? Ég fékk þig til þess að biðja óvinum mínum bölbæna, og sjá, þú hefir margblessað þá.' 23.12 En Bíleam svaraði og sagði: 'Hvort hlýt ég eigi að mæla það eitt, er Drottinn leggur mér í munn?' 23.13 Þá sagði Balak við Bíleam: 'Kom með mér á annan stað, þar er þú mátt sjá þá, _ þó munt þú aðeins fá séð ysta hluta þeirra, alla munt þú eigi sjá þá, _ og bið þeim þar bölbæna fyrir mig.' 23.14 Og hann tók hann með sér upp á Njósnarvöll, upp á Pisgatind, og reisti þar sjö ölturu og fórnaði. 23.15 Þá mælti Bíleam við Balak: 'Statt þú hér hjá brennifórn þinni, meðan ég fer þangað til móts við Guð.' 23.16 Drottinn kom til móts við Bíleam og lagði honum orð í munn og sagði: 'Far þú aftur til Balaks, og mæl svo sem ég segi þér.' 23.17 Gekk hann þá til hans, og sjá, hann stóð hjá brennifórn sinni og höfðingjar Móabs með honum. Og Balak mælti við hann: 'Hvað sagði Drottinn?' 23.18 Flutti Bíleam þá kvæði sitt og mælti: Rís þú upp, Balak, og hlýð á! Hlusta þú á mig, Sippórs sonur! 23.19 Guð er ekki maður, að hann ljúgi, né sonur manns, að hann sjái sig um hönd. Skyldi hann segja nokkuð og gjöra það eigi, tala nokkuð og efna það eigi? 23.20 Sjá, að blessa var mér falið, fyrir því blessa ég og tek það eigi aftur. 23.21 Eigi sést óheill með Jakob, né heldur má mein líta með Ísrael. Drottinn, Guð hans, er með honum, og konungsfögnuður er hjá honum. 23.22 Sá Guð, sem leiddi þá af Egyptalandi, er honum sem horn vísundarins. 23.23 Því að eigi er galdur með Jakob né fjölkynngi með Ísrael. Nú verður það eitt sagt um Jakob og Ísrael: Hversu mikla hluti hefir Guð gjört! 23.24 Hann er þjóðflokkur, sem rís upp eins og ljónynja og reisir sig sem ljón, hann leggst ekki niður fyrr en hann hefir etið bráð og drukkið blóð veginna manna. 23.25 Þá sagði Balak við Bíleam: 'Þú skalt hvorki biðja honum bölbæna né blessa hann.' 23.26 En Bíleam svaraði og sagði við Balak: 'Hefi ég ekki sagt þér: ,Allt það, sem Drottinn býður, það mun ég gjöra`?' 23.27 Þá mælti Balak við Bíleam: 'Kom þú, ég vil fara með þig á annan stað. Vera má að Guði þóknist, að þú biðjir þeim þar bölbæna fyrir mig.' 23.28 Tók Balak þá Bíleam með sér upp á Peórtind, sem mænir yfir öræfin. 23.29 Þá mælti Bíleam við Balak: 'Gjör þú mér hér sjö ölturu og fá mér hingað sjö uxa og sjö hrúta.' 23.30 Og Balak gjörði sem Bíleam mælti og fórnaði uxa og hrút á altari hverju.
24.1 Þegar Bíleam sá, að það var gott í augum Guðs að blessa Ísrael, gekk hann ekki burt eins og í fyrri skiptin til að leita spáfrétta, heldur hélt á leið til eyðimerkurinnar. 24.2 Og er Bíleam hóf upp augu sín og sá Ísrael, þar sem hann lá í herbúðum eftir kynkvíslum sínum, kom andi Guðs yfir hann. 24.3 Flutti hann þá kvæði sitt og mælti: Svo mælir Bíleam Beórsson, svo mælir maðurinn, sem byrgð hefir augun. 24.4 Svo mælir hann, sem heyrir orð Guðs, sem sér sýn Hins Almáttuga, hnígandi niður og með upp loknum augum: 24.5 Hve fögur eru tjöld þín, Jakob! bústaðir þínir, Ísrael! 24.6 Eins og víðir árdalir, eins og aldingarðar á fljótsbökkum, eins og alóetré, er Drottinn hefir gróðursett, eins og sedrustré við vötn. 24.7 Vatn rennur úr skjólum hans, og sáð hans hefir nægt vatn. Konungur hans mun meiri verða en Agag, og konungdómur hans mun verða vegsamlegur. 24.8 Sá Guð, sem leiddi hann af Egyptalandi, er honum sem horn vísundarins. Hann upp etur óvinaþjóðir, og bein þeirra brýtur hann og nístir þá með örvum sínum. 24.9 Hann leggst niður, hvílist sem ljón og sem ljónynja, _ hver þorir að reka hann á fætur? Blessaður sé hver sá, sem blessar þig, en bölvaður sé hver sá, sem bölvar þér. 24.10 Balak reiddist þá Bíleam mjög og barði saman hnefunum og sagði við Bíleam: 'Til þess að biðja bölbæna óvinum mínum kallaði ég þig, en sjá, þú hefir nú blessað þá þrem sinnum. 24.11 Far þú því sem skjótast heim til þín! Ég hugðist veita þér mikla sæmd, en sjá, Drottinn hefir svipt þig þeirri sæmd.' 24.12 Þá sagði Bíleam við Balak: 'Mælti ég eigi þegar við sendimenn þá, er þú gjörðir til mín, þessum orðum: 24.13 ,Þó að Balak gæfi mér hús sitt fullt af silfri og gulli, gæti ég samt ekki brugðið af boði Drottins til þess að gjöra gott eða illt eftir hugþótta mínum. Það sem Drottinn mælir, það mun ég mæla`? 24.14 Og sjá, nú fer ég til minnar þjóðar. Kom, ég vil segja þér fyrir, hvað þessi þjóð mun gjöra þinni þjóð á komandi tímum.' 24.15 Flutti hann þá kvæði sitt og mælti: Svo mælir Bíleam Beórsson, svo mælir maðurinn, sem byrgð hefir augun. 24.16 Svo mælir hann, sem heyrir orð Guðs og þekkir ráð hins hæsta, sem sér sýn Hins Almáttuga, hnígandi niður og með upp loknum augum: 24.17 Ég sé hann, þó eigi nú, ég lít hann, þó eigi í nánd. Stjarna rennur upp af Jakob, og veldissproti rís af Ísrael. Hann lýstur sundur þunnvangann á Móab og hvirfilinn á öllum hávaðamönnum. 24.18 Og Edóm mun verða þegnland og Seír mun verða þegnland _ þessir óvinir hans, en Ísrael eykur vald sitt. 24.19 Frá Jakob mun drottnari koma og eyða flóttamönnum í borgunum. 24.20 En er hann leit Amalekíta, flutti hann kvæði sitt og mælti: Fremstur af þjóðunum er Amalek, en að lyktum hnígur hann í valinn. 24.21 Og er hann leit Keníta, flutti hann kvæði sitt og mælti: Traustur er bústaður þinn, og hreiður þitt er byggt á kletti. 24.22 Og þó er Kain eyðingin vís. Brátt mun Assúr flytja þig burt hernuminn. 24.23 Og hann flutti kvæði sitt og mælti: Vei, hver mun fá lífi haldið, er Guð lætur þetta að bera! 24.24 Og skip koma vestan frá Kýpur, og þau lægja Assúr og þau lægja Eber. En hann mun og hníga í valinn. 24.25 Síðan tók Bíleam sig upp, hélt af stað og hvarf aftur heimleiðis, og Balak fór einnig leiðar sinnar.
25.1 Meðan Ísrael dvaldi í Sittím, tók lýðurinn að drýgja hór með Móabs dætrum. 25.2 Buðu þær lýðnum til fórnarmáltíða goða sinna, og lýðurinn át og tilbað goð þeirra. 25.3 Og Ísrael hafði mök við Baal Peór. Upptendraðist þá reiði Drottins gegn Ísrael. 25.4 Drottinn sagði við Móse: 'Tak með þér alla höfðingja lýðsins og líflát þá úti undir berum himni fyrir Drottni, svo að hin ákafa reiði Drottins hverfi í brott frá Ísrael.' 25.5 Móse sagði þá við dómarana í Ísrael: 'Drepi nú hver um sig þá af sínum mönnum, er mök hafa haft við Baal Peór.' 25.6 Sjá, einn af Ísraelsmönnum kom og hafði með sér midíanska konu til bræðra sinna í augsýn Móse og alls safnaðar Ísraelsmanna, er þeir voru grátandi fyrir dyrum samfundatjaldsins. 25.7 En er Pínehas, sonur Eleasars Aronssonar prests, sá það, gekk hann fram úr söfnuðinum og tók spjót í hönd sér. 25.8 Fór hann á eftir Ísraelsmanninum inn í svefnhýsið og lagði þau bæði í gegn, Ísraelsmanninn og konuna, gegnum kviðinn. Staðnaði þá plágan meðal Ísraelsmanna. 25.9 En þeir sem dóu í plágunni, voru tuttugu og fjórar þúsundir. 25.10 Drottinn talaði við Móse og sagði: 25.11 'Pínehas, sonur Eleasars Aronssonar prests, hefir bægt reiði minni frá Ísraelsmönnum með því að vandlæta meðal þeirra með mínu vandlæti. Hefi ég því eigi gjöreytt Ísraelsmönnum í vandlæti mínu. 25.12 Seg því: ,Sjá, ég gef honum minn friðarsáttmála. 25.13 Hann og niðjar hans eftir hann skulu hljóta sáttmála ævarandi prestdóms fyrir það, að hann vandlætti vegna Guðs síns og friðþægði fyrir Ísraelsmenn.'` 25.14 Hinn vegni Ísraelsmaður, sá er veginn var ásamt midíönsku konunni, hét Simrí Salúson. Var hann höfðingi eins ættleggs meðal Símeoníta. 25.15 Og midíanska konan, sem vegin var, hét Kosbí Súrsdóttir, en hann var höfðingi yfir ættstofni einum í Midían. 25.16 Og Drottinn talaði við Móse og sagði: 'Kreppið að Midíansmönnum og fellið þá, 25.17 því að þeir hafa komið yður í krappan stað með brögðum þeim, er þeir beittu yður, bæði að því er snertir dýrkun Peórs og systur þeirra, Kosbí, dóttur midíanska höfðingjans, hennar sem vegin var, þá er plágan reið yfir sökum dýrkunar Peórs.'
26.1 Eftir pláguna sagði Drottinn við Móse og Eleasar Aronsson prests: 26.2 'Takið manntal alls safnaðar Ísraelsmanna, þeirra er tvítugir eru og þaðan af eldri, eftir ættum þeirra, allra þeirra sem vopnfærir eru í Ísrael.' 26.3 Og Móse og Eleasar prestur töldu þá á Móabsheiðum, við Jórdan gegnt Jeríkó, 26.4 frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, eins og Drottinn hafði boðið Móse. Ísraelsmenn, þeir er fóru af Egyptalandi, voru: 26.5 Rúben, frumgetinn sonur Ísraels. Synir Rúbens: Hanok, frá honum er komin kynkvísl Hanokíta, frá Pallú kynkvísl Pallúíta, 26.6 frá Hesrón kynkvísl Hesróníta, frá Karmí kynkvísl Karmíta. 26.7 Þessar eru kynkvíslir Rúbeníta. En þeir sem taldir voru af þeim, voru 43.730. 26.8 Synir Pallú: Elíab; 26.9 og synir Elíabs: Nemúel, Datan og Abíram. Það voru þessir Datan og Abíram, fulltrúar safnaðarins, sem þráttuðu við Móse og við Aron í flokki Kóra, þá er þeir þráttuðu við Drottin. 26.10 Opnaði jörðin þá munn sinn og svalg þá og Kóra, þá er flokkurinn fórst, með því að eldur eyddi tvö hundruð og fimmtíu manns, og urðu þeir til tákns. 26.11 En synir Kóra fórust þó ekki. 26.12 Synir Símeons, eftir kynkvíslum þeirra: frá Nemúel er komin kynkvísl Nemúelíta, frá Jamín kynkvísl Jamíníta, frá Jakín kynkvísl Jakíníta, 26.13 frá Sera kynkvísl Seraíta, frá Sál kynkvísl Sálíta. 26.14 Þessar eru kynkvíslir Símeoníta, 22.200. 26.15 Synir Gaðs, eftir kynkvíslum þeirra: frá Sefón er komin kynkvísl Sefóníta, frá Haggí kynkvísl Haggíta, frá Súní kynkvísl Súníta, 26.16 frá Osní kynkvísl Osníta, frá Erí kynkvísl Eríta, 26.17 frá Aród kynkvísl Aródíta, frá Arelí kynkvísl Arelíta. 26.18 Þessar eru ættkvíslir Gaðs sona, þeir er taldir voru af þeim, 40.500. 26.19 Synir Júda voru Ger og Ónan, en Ger og Ónan dóu í Kanaanlandi. 26.20 Synir Júda, eftir kynkvíslum þeirra: frá Sela er komin kynkvísl Selaníta, frá Peres kynkvísl Peresíta, frá Sera kynkvísl Seraíta. 26.21 Synir Peres voru: frá Hesrón kynkvísl Hesróníta, frá Hamúl kynkvísl Hamúlíta. 26.22 Þessar eru kynkvíslir Júda, þeir er taldir voru af þeim, 76.500. 26.23 Synir Íssakars, eftir kynkvíslum þeirra: frá Tóla er komin kynkvísl Tólaíta, frá Púva kynkvísl Púníta, 26.24 frá Jasjúb kynkvísl Jasjúbíta, frá Símron kynkvísl Símroníta. 26.25 Þessar eru kynkvíslir Íssakars, þeir er taldir voru af þeim, 64.300. 26.26 Synir Sebúlons, eftir kynkvíslum þeirra: frá Sered er komin kynkvísl Seredíta, frá Elon kynkvísl Eloníta, frá Jahleel kynkvísl Jahleelíta. 26.27 Þessar eru kynkvíslir Sebúloníta, þeir er taldir voru af þeim, 60.500. 26.28 Synir Jósefs, eftir kynkvíslum þeirra: Manasse og Efraím. 26.29 Synir Manasse: frá Makír er komin kynkvísl Makíríta, en Makír gat Gíleað, frá Gíleað er komin kynkvísl Gíleaðíta. 26.30 Þessir eru synir Gíleaðs: Jeser, frá honum er komin kynkvísl Jesríta, frá Helek kynkvísl Helekíta, 26.31 frá Asríel kynkvísl Asríelíta, frá Síkem kynkvísl Síkemíta, 26.32 frá Semída kynkvísl Semídaíta, frá Hefer kynkvísl Hefríta. 26.33 En Selofhað sonur Hefers átti enga sonu, heldur aðeins dætur. Dætur Selofhaðs hétu Mahla, Nóa, Hogla, Milka og Tirsa. 26.34 Þessar eru kynkvíslir Manasse, og þeir sem taldir voru af þeim, 52.700. 26.35 Þessir eru synir Efraíms, eftir kynkvíslum þeirra: frá Sútela er komin kynkvísl Sútelaíta, frá Beker kynkvísl Bekeríta, frá Tahan kynkvísl Tahaníta. 26.36 Þessir voru synir Sútela: frá Eran kynkvísl Eraníta. 26.37 Þessar eru kynkvíslir Efraíms sona, þeir er taldir voru af þeim, 32.500. Þessir eru synir Jósefs eftir kynkvíslum þeirra. 26.38 Synir Benjamíns, eftir kynkvíslum þeirra: frá Bela er komin kynkvísl Belaíta, frá Asbel kynkvísl Asbelíta, frá Ahíram kynkvísl Ahíramíta, 26.39 frá Súfam kynkvísl Súfamíta, frá Húfam kynkvísl Húfamíta. 26.40 Synir Bela voru Ard og Naaman, frá Ard er komin kynkvísl Ardíta, frá Naaman kynkvísl Naamíta. 26.41 Þessir eru synir Benjamíns, eftir kynkvíslum þeirra, og þeir sem taldir voru af þeim, 45.600. 26.42 Þessir eru synir Dans, eftir kynkvíslum þeirra: frá Súham er komin kynkvísl Súhamíta. Þessar eru kynkvíslir Dans, eftir kynkvíslum þeirra. 26.43 Allar kynkvíslir Súhamíta, þeir er taldir voru af þeim, 64.400. 26.44 Synir Assers, eftir kynkvíslum þeirra: frá Jímna er komin kynkvísl Jímníta, frá Jísví kynkvísl Jísvíta, frá Bría kynkvísl Brííta, 26.45 frá sonum Bría: frá Heber kynkvísl Hebríta, frá Malkíel kynkvísl Malkíelíta. 26.46 Dóttir Assers hét Sera. 26.47 Þessar eru kynkvíslir Assers sona, þeir er taldir voru af þeim, 53.400. 26.48 Synir Naftalí, eftir kynkvíslum þeirra: frá Jahseel er komin kynkvísl Jahseelíta, frá Gúní kynkvísl Gúníta, 26.49 frá Jeser kynkvísl Jisríta, frá Sillem kynkvísl Sillemíta. 26.50 Þessar eru kynkvíslir Naftalí, eftir kynkvíslum þeirra, sem taldir voru af þeim, 45.400. 26.51 Þetta voru þeir, sem taldir voru af Ísraelsmönnum, 601.730. 26.52 Drottinn talaði við Móse og sagði: 26.53 'Meðal þessara skal landinu skipta til eignar eftir nafnatölu. 26.54 Þeirri kynkvísl, sem mannmörg er, skalt þú fá mikið land til eignar, en þeirri, sem fámenn er, lítið land til eignar. Sérhverjum skal land gefið til eignar í réttu hlutfalli við talda menn hans. 26.55 Þó skal landinu skipt með hlutkesti, svo að þeir hljóti það til eignar eftir nöfnum ættstofnanna. 26.56 Eftir því sem hlutkestið segir til, skal eignum skipt milli þeirra, svo sem þeir eru margir og fáir til.' 26.57 Þessir eru levítarnir, sem taldir voru, eftir kynkvíslum þeirra: frá Gerson er komin kynkvísl Gersoníta, frá Kahat kynkvísl Kahatíta, frá Merarí kynkvísl Meraríta. 26.58 Þessar eru kynkvíslir Leví: kynkvísl Libníta, kynkvísl Hebroníta, kynkvísl Mahelíta, kynkvísl Músíta, kynkvísl Kóraíta. Kahat gat Amram. 26.59 Og kona Amrams hét Jókebed, dóttir Leví; fæddist hún Leví í Egyptalandi. En hún fæddi Amram þá Aron og Móse og systur þeirra Mirjam. 26.60 Og Aroni fæddust Nadab, Abíhú, Eleasar og Ítamar. 26.61 En Nadab og Abíhú dóu, er þeir báru annarlegan eld fram fyrir Drottin. 26.62 Þeir sem taldir voru af levítum, voru 23.000, allt karlkyn mánaðargamalt og þaðan af eldra. Þeir voru ekki taldir með Ísraelsmönnum, af því að þeim var eigi fengið land til eignar meðal Ísraelsmanna. 26.63 Þetta er manntalið, sem Móse og Eleasar prestur tóku, er þeir töldu Ísraelsmenn á Móabsheiðum, við Jórdan gegnt Jeríkó. 26.64 Enginn þeirra var á manntalinu, sem Móse og Aron prestur tóku meðal Ísraelsmanna í Sínaí-eyðimörk, 26.65 því að Drottinn hafði sagt um þá: 'Þeir skulu vissulega deyja í eyðimörkinni,' enda var enginn orðinn eftir af þeim nema Kaleb Jefúnneson og Jósúa Núnsson.
27.1 Þá komu dætur Selofhaðs Heferssonar, Gíleaðssonar, Makírssonar, Manassesonar, af kynkvíslum Manasse Jósefssonar. Þær hétu Mahla, Nóa, Hogla, Milka og Tirsa. 27.2 Gengu þær fyrir Móse og Eleasar prest og fyrir höfuðsmennina og allan söfnuðinn, fyrir dyrum samfundatjaldsins, og sögðu: 27.3 'Faðir vor dó í eyðimörkinni, og var hann þó ekki í flokki þeirra manna, er samblástur gjörðu gegn Drottni, í flokki Kóra, því að hann dó vegna sinnar eigin syndar. En hann átti enga sonu. 27.4 Hvers vegna á nú nafn föður vors að hverfa úr ætt hans, af því að hann átti engan son? Fá oss óðal meðal bræðra föður vors.' 27.5 Móse flutti mál þeirra fyrir Drottin. 27.6 Og Drottinn sagði við Móse: 'Dætur Selofhaðs hafa rétt að mæla. 27.7 Fá þeim óðalsland meðal bræðra föður þeirra, og þú skalt láta eignarland föður þeirra ganga til þeirra. 27.8 En til Ísraelsmanna skalt þú mæla þessum orðum: ,Nú deyr maður og á ekki son. Skuluð þér þá láta eignarland hans ganga til dóttur hans. 27.9 En eigi hann enga dóttur, þá skuluð þér fá bræðrum hans eignarland hans. 27.10 En eigi hann enga bræður, þá skuluð þér fá föðurbræðrum hans eignarland hans. 27.11 En eigi faðir hans enga bræður, þá skuluð þér fá nánasta skyldmenni hans í ættinni eignarland hans, hann skal eignast það.'` Þetta skulu lög vera með Ísraelsmönnum, svo sem Drottinn hefir boðið Móse. 27.12 Drottinn sagði við Móse: 'Gakk þú hér upp á Abarímfjall og lít yfir landið, sem ég hefi gefið Ísraelsmönnum. 27.13 Og er þú hefir litið það, skalt þú einnig safnast til þíns fólks, eins og Aron bróðir þinn gjörði, 27.14 sökum þess að þið þrjóskuðust gegn skipun minni í Síneyðimörk, þá er lýðurinn möglaði og þið skylduð helga mig fyrir augum þeirra með vatninu.' _ Þar eru nú Meríbavötn hjá Kades í Síneyðimörk. 27.15 En Móse talaði við Drottin og sagði: 27.16 'Drottinn, Guð lífsandans í öllu holdi, setji mann yfir lýðinn, 27.17 sem gangi út fyrir þeim og gangi inn fyrir þeim, sem leiði þá út og leiði þá inn, svo að söfnuður Drottins sé eigi eins og hjörð, sem engan hirði hefir.' 27.18 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Tak þú Jósúa Núnsson, mann sem andi er í, og legg hönd þína yfir hann. 27.19 Leið hann fyrir Eleasar prest og fram fyrir allan söfnuðinn og skipa hann í embætti í augsýn þeirra. 27.20 Og þú skalt leggja yfir hann af tign þinni, svo að allur söfnuður Ísraelsmanna hlýði honum. 27.21 Og hann skal ganga fyrir Eleasar prest, en Eleasar leita úrskurðar með úrím fyrir hann frammi fyrir Drottni. Að hans boði skulu þeir ganga út, og að hans boði skulu þeir ganga inn, hann og allir Ísraelsmenn með honum og allur söfnuðurinn.' 27.22 Og Móse gjörði eins og Drottinn hafði boðið honum. Tók hann Jósúa og leiddi hann fyrir Eleasar prest og fram fyrir allan söfnuðinn, 27.23 lagði því næst hendur sínar yfir hann og skipaði hann í embætti, eins og Drottinn hafði sagt fyrir Móse.
28.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 28.2 'Bjóð þú Ísraelsmönnum og seg við þá: Þér skuluð gæta þess að færa mér á tilteknum tíma fórnargjöf mína, mat minn af eldfórnunum til þægilegs ilms, er mér ber. 28.3 Og þú skalt segja við þá: Þetta er eldfórnin, sem þér skuluð færa Drottni: Tvær sauðkindur veturgamlar, gallalausar, á dag í stöðuga brennifórn. 28.4 Annarri sauðkindinni skalt þú fórna að morgni, hinni skalt þú fórna að kveldi um sólsetur, 28.5 og tíunda parti úr efu af fínu mjöli, blönduðu við fjórðung úr hín af olíu úr steyttum olíuberjum, í matfórn. 28.6 Er það hin stöðuga brennifórn, sem færð var undir Sínaífjalli til þægilegs ilms, sem eldfórn Drottni til handa. 28.7 Í dreypifórn skal fylgja hverri sauðkind fjórðungur úr hín. Í helgidóminum skalt þú dreypa Drottni dreypifórn af áfengum drykk. 28.8 Hinni sauðkindinni skalt þú fórna um sólsetur, með sömu matfórn sem um morguninn og þeirri dreypifórn, er henni fylgir, sem eldfórn þægilegs ilms Drottni til handa. 28.9 Á hvíldardegi skal fórna tveim sauðkindum veturgömlum gallalausum, og tveim tíundu pörtum úr efu af fínu mjöli, blönduðu við olíu, í matfórn, og dreypifórninni, er henni fylgir. 28.10 Þetta er brennifórnin, sem færa skal á hverjum hvíldardegi, auk hinnar stöðugu brennifórnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgir. 28.11 Á fyrsta degi hvers mánaðar skuluð þér færa Drottni í brennifórn tvö ungneyti, einn hrút og sjö sauðkindur veturgamlar gallalausar, 28.12 og þrjá tíundu parta úr efu af fínu mjöli, blönduðu við olíu, í matfórn með hverju nauti, tvo tíundu parta af fínu mjöli, blönduðu við olíu, í matfórn með hrútnum, 28.13 og einn tíunda part af fínu mjöli, blönduðu við olíu, í matfórn með hverri sauðkind, sem brennifórn þægilegs ilms, sem eldfórn Drottni til handa. 28.14 Dreypifórnirnar, er þeim fylgja, skulu vera hálf hín af víni með hverju nauti, þriðjungur úr hín með hrútnum og fjórðungur úr hín með hverri sauðkind. Þetta er brennifórnin, sem fórna skal á hverjum mánuði árið um kring. 28.15 Auk þess einn geithafur í syndafórn Drottni til handa. Skal fórna honum auk hinnar stöðugu brennifórnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgir. 28.16 Í fyrsta mánuðinum, á fjórtánda degi mánaðarins, eru páskar Drottins. 28.17 Og á fimmtánda degi hins sama mánaðar er hátíð. Í sjö daga skal eta ósýrt brauð. 28.18 Fyrsta daginn er haldin helg samkoma. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu. 28.19 Og þér skuluð færa Drottni í eldfórn, í brennifórn tvö ungneyti, einn hrút og sjö sauðkindur veturgamlar. Skuluð þér hafa þær gallalausar. 28.20 Og í matfórn með þeim fínt mjöl, blandað við olíu. Skuluð þér fórna þremur tíundu pörtum með hverju nauti og tveimur tíundu pörtum með hrútnum. 28.21 Einum tíunda parti skalt þú fórna með hverri þeirra sjö sauðkinda. 28.22 Enn fremur einn hafur í syndafórn til þess að friðþægja fyrir yður. 28.23 Þessu skuluð þér fórna, auk morgunbrennifórnarinnar, sem fram er borin í hina stöðugu brennifórn. 28.24 Þessu skuluð þér fórna á degi hverjum í sjö daga sem eldfórnarmat þægilegs ilms Drottni til handa. Skal fórna því auk hinnar stöðugu brennifórnar og dreypifórnarinnar, er honum fylgir. 28.25 Sjöunda daginn skuluð þér halda helga samkomu. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu. 28.26 Frumgróðadaginn, þegar þér færið Drottni nýja matfórn, á viknahátíð yðar, skuluð þér halda helga samkomu. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu. 28.27 Og í brennifórn þægilegs ilms Drottni til handa skuluð þér færa tvö ungneyti, einn hrút og sjö sauðkindur veturgamlar. 28.28 Og í matfórn með þeim fínt mjöl, blandað við olíu, þrjá tíundu parta með hverju nauti, tvo tíundu parta með hrútnum, 28.29 einn tíunda part með hverri þeirra sjö sauðkinda; 28.30 einn geithafur til þess að friðþægja fyrir yður. 28.31 Auk hinnar stöðugu brennifórnar og matfórnarinnar, er henni fylgir, skuluð þér fórna þessu, ásamt dreypifórnunum, er því fylgja. Skuluð þér hafa það gallalaust.
29.1 Í sjöunda mánuðinum, á fyrsta degi mánaðarins, skuluð þér halda helga samkomu. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu. Þann dag skal blásið í básúnur hjá yður. 29.2 Í brennifórn til þægilegs ilms fyrir Drottin skuluð þér þá fórna einu ungneyti, einum hrút og sjö veturgömlum sauðkindum gallalausum. 29.3 Og í matfórn með þeim fínt mjöl blandað við olíu, þrjá tíundu parta með nautinu, tvo tíundu parta með hrútnum, 29.4 og einn tíunda part með hverri þeirra sjö sauðkinda. 29.5 Enn fremur einn geithafur í syndafórn til þess að friðþægja fyrir yður, _ 29.6 auk tunglkomu-brennifórnarinnar og matfórnarinnar, er henni fylgir, og hinnar stöðugu brennifórnar og matfórnarinnar, er henni fylgir, og dreypifórnanna, er þeim fylgja, að réttum sið _ til þægilegs ilms, sem eldfórn Drottni til handa. 29.7 Tíunda daginn í þessum sama sjöunda mánuði skuluð þér halda helga samkomu og fasta. Þá skuluð þér ekkert verk vinna. 29.8 En í brennifórn skuluð þér færa Drottni til þægilegs ilms eitt ungneyti, einn hrút og sjö sauðkindur veturgamlar. Skuluð þér hafa þær gallalausar. 29.9 Og í matfórn með þeim fínt mjöl blandað við olíu, þrjá tíundu parta með nautinu, tvo tíundu parta með hrútnum, 29.10 einn tíunda part með hverri þeirra sjö sauðkinda. 29.11 Enn fremur einn geithafur í syndafórn, auk syndafórnar til friðþægingar, og stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar, er henni fylgir, og dreypifórnanna, er þeim fylgja. 29.12 Á fimmtánda degi hins sjöunda mánaðar skuluð þér halda helga samkomu. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu, heldur halda Drottni hátíð í sjö daga. 29.13 Þér skuluð færa í brennifórn, í eldfórn þægilegs ilms Drottni til handa, þrettán ungneyti, tvo hrúta og fjórtán sauðkindur veturgamlar. Skulu þær vera gallalausar. 29.14 Og í matfórn með þeim fínt mjöl olíublandað, þrjá tíundu parta með hverju þeirra þrettán nauta, tvo tíundu parta með hvorum þeirra tveggja hrúta 29.15 og einn tíunda part með hverri þeirra fjórtán sauðkinda. 29.16 Enn fremur einn geithafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgja. 29.17 Annan daginn tólf ungneyti, tvo hrúta og fjórtán veturgamlar sauðkindur gallalausar, 29.18 og matfórn og dreypifórnir með nautunum, hrútunum og sauðkindunum, eftir tölu þeirra, að réttum sið. 29.19 Enn fremur einn geithafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar, er henni fylgir, og dreypifórnanna, er þeim fylgja. 29.20 Þriðja daginn ellefu naut, tvo hrúta og fjórtán veturgamlar sauðkindur gallalausar, 29.21 og matfórn og dreypifórnir með nautunum, hrútunum og sauðkindunum, eftir tölu þeirra, að réttum sið. 29.22 Enn fremur einn hafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgja. 29.23 Fjórða daginn tíu naut, tvo hrúta og fjórtán veturgamlar sauðkindur gallalausar, 29.24 matfórn og dreypifórnir með nautunum, hrútunum og sauðkindunum, eftir tölu þeirra, að réttum sið. 29.25 Enn fremur einn geithafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgja. 29.26 Fimmta daginn níu naut, tvo hrúta og fjórtán veturgamlar sauðkindur gallalausar, 29.27 og matfórn og dreypifórnir með nautunum, hrútunum og sauðkindunum, eftir tölu þeirra, að réttum sið. 29.28 Enn fremur einn hafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgja. 29.29 Sjötta daginn átta naut, tvo hrúta og fjórtán veturgamlar sauðkindur gallalausar, 29.30 og matfórn og dreypifórnir með nautunum, hrútunum og sauðkindunum, eftir tölu þeirra, að réttum sið. 29.31 Enn fremur einn hafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar og dreypifórnanna, er henni fylgja. 29.32 Sjöunda daginn sjö naut, tvo hrúta og fjórtán veturgamlar sauðkindur gallalausar, 29.33 og matfórn og dreypifórnir með nautunum, hrútunum og sauðkindunum, eftir tölu þeirra, að réttum sið. 29.34 Enn fremur einn hafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgja. 29.35 Áttunda daginn skuluð þér halda hátíðastefnu. Eigi skuluð þér vinna neina stritvinnu. 29.36 Og þér skuluð færa í brennifórn, í eldfórn þægilegs ilms Drottni til handa, eitt naut, einn hrút og sjö veturgamlar sauðkindur gallalausar, 29.37 matfórn og dreypifórnir með nautinu, hrútnum og sauðkindunum, eftir tölu þeirra, að réttum sið. 29.38 Enn fremur einn hafur í syndafórn, auk stöðugu brennifórnarinnar og matfórnarinnar og dreypifórnarinnar, er henni fylgja. 29.39 Þessu skuluð þér fórna Drottni á löghátíðum yðar, auk heitfórna yðar og sjálfviljafórna, hvort heldur eru brennifórnir, matfórnir, dreypifórnir eða heillafórnir.' 29.40 Og Móse lagði að öllu leyti svo fyrir Ísraelsmenn sem Drottinn hafði boðið honum.
30.1 Móse talaði við höfuðsmenn ættkvísla Ísraelsmanna á þessa leið: 'Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið. 30.2 Nú gjörir maður Drottni heit eða vinnur eið að því að leggja á sig bindindi, og skal hann þá eigi bregða orði sínu. Hann skal að öllu leyti svo gjöra sem hann hefir talað. 30.3 Ef kona gjörir Drottni heit og leggur á sig bindindi, meðan hún er í æsku í föðurhúsum, 30.4 og faðir hennar veit af heitinu eða bindindinu, er hún hefir á sig lagt, en segir ekkert við hana, þá skulu öll heit hennar standa og hvert það bindindi, er hún hefir á sig lagt. 30.5 En ef faðir hennar bannar henni jafnskjótt sem hann fær vitneskju um það, þá skulu öll heit hennar ógild vera og hvert það bindindi, er hún hefir á sig lagt, og Drottinn mun fyrirgefa henni, af því að faðir hennar bannaði henni. 30.6 En giftist hún, og heit hvíla á henni og óvarlega töluð orð, er hún hefir bundið sig með, 30.7 og maður hennar heyrir það og segir ekkert við hana, þá skulu heit hennar standa og hvert það bindindi, er hún hefir á sig lagt. 30.8 En ef maður hennar bannar henni jafnskjótt sem hann fær vitneskju um, ógildir hann heitið, sem á henni hvílir, og óvarkárnisorðin, er hún hefir bundið sig með, og Drottinn mun fyrirgefa henni. 30.9 Heit ekkju eða konu brottrekinnar _ allt sem hún hefir bundist, er skuldbindandi fyrir hana. 30.10 En gjöri hún heit í húsi manns síns eða leggi á sig bindindi með eiði, 30.11 og maður hennar heyrir það og segir ekkert við hana og bannar henni ekki, þá skulu öll heit hennar standa og hvert það bindindi, er hún hefir á sig lagt. 30.12 En ef maður hennar ógildir jafnskjótt og hann fær vitneskju um, þá skal allt, sem komið hefir yfir varir hennar, ógilt vera, hvort heldur eru heit eða bindindisskuldbinding. Maður hennar hefir ógilt það, og Drottinn mun fyrirgefa henni. 30.13 Sérhvert heit og sérhvern skuldbindingareið um að fasta getur maður hennar staðfest eða ógilt. 30.14 En ef maður hennar segir alls ekkert við hana dag eftir dag, þá staðfestir hann öll heit hennar eða allar þær skuldbindingar, er á henni hvíla. Hann hefir staðfest þær með því að segja ekkert við hana, þá er hann fékk vitneskju um það. 30.15 En ef hann ógildir þær eftir að hann hefir fengið vitneskju um, þá tekur hann á sig misgjörð hennar.' 30.16 Þetta eru þau ákvæði, er Drottinn bauð Móse að gilda skyldu milli manns og konu, milli föður og dóttur, meðan hún er í æsku og í föðurhúsum.
31.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 31.2 'Hefn þú Ísraelsmanna á Midíanítum. Eftir það skalt þú safnast til þíns fólks.' 31.3 Móse talaði við lýðinn og sagði: 'Hervæðið menn af yður til herfarar, og skulu þeir fara á móti Midíansmönnum til þess að koma fram hefnd Drottins á Midíansmönnum. 31.4 Skuluð þér senda þúsund manns af ættkvísl hverri af öllum ættkvíslum Ísraels til herfararinnar.' 31.5 Voru þá látnir til af þúsundum Ísraels þúsund af ættkvísl hverri, tólf þúsund herbúinna manna. 31.6 Og Móse sendi þá, þúsund manns af ættkvísl hverri, til herfarar, og með þeim Pínehas, son Eleasars prests, og hafði hann með sér hin helgu áhöld og hvellilúðrana. 31.7 Og þeir börðust við Midíansmenn, eins og Drottinn hafði boðið Móse, og drápu alla karlmenn. 31.8 Þeir drápu og konunga Midíansmanna, auk annarra, er þeir felldu: Eví, Rekem, Súr, Húr og Reba, fimm konunga Midíansmanna. Bíleam Beórsson drápu þeir og með sverði. 31.9 Ísraelsmenn tóku að herfangi konur Midíansmanna og börn þeirra og rændu öllum eykjum þeirra, öllum fénaði þeirra og öllum eigum þeirra. 31.10 En þeir lögðu eld í allar borgir þeirra, sem þeir bjuggu í, og í allar tjaldbúðir þeirra. 31.11 Og þeir tóku allt ránsféð og allt herfangið, bæði menn og skepnur, 31.12 og færðu Móse og Eleasar presti og söfnuði Ísraelsmanna hið hertekna fólk, herfangið og ránsféð í herbúðirnar, til Móabsheiða, sem eru við Jórdan gegnt Jeríkó. 31.13 Móse og Eleasar prestur og allir höfuðsmenn safnaðarins gengu í móti þeim út fyrir herbúðirnar. 31.14 Reiddist Móse þá hersveitarforingjunum, bæði þeim er settir voru yfir þúsundir og þeim er settir voru yfir hundruð og komu úr leiðangrinum, 31.15 og sagði við þá: 'Gáfuð þér öllum konum líf? 31.16 Sjá, það voru einmitt þær, sem urðu tilefni til þess, að Ísraelsmenn að ráði Bíleams sýndu Drottni ótrúmennsku vegna Peórs, svo að plágan kom yfir söfnuð Drottins. 31.17 Drepið því öll piltbörn. Drepið og allar þær konur, er samræði hafa átt við karlmann, 31.18 en látið öll stúlkubörn, er eigi hafa átt samræði við karlmann, lifa handa yður. 31.19 En sjálfir skuluð þér hafast við fyrir utan herbúðirnar í sjö daga. Hver sem drepið hefir mann og hver sem snert hefir veginn mann, þér skuluð syndhreinsa yður á þriðja degi og sjöunda degi, svo og þeir, er þér hafið tekið að herfangi. 31.20 Þér skuluð og syndhreinsa allan klæðnað, alla hluti af skinni gjörva, allt sem gjört er úr geitahárum, svo og öll tréílát.' 31.21 Og Eleasar prestur sagði við hermennina, er gengið höfðu í bardagann: 'Þetta er ákvæði í lögmálinu, er Drottinn hefir boðið Móse. 31.22 En láta skuluð þér gull, silfur, eir, járn, tin og blý, 31.23 allt sem eld þolir, ganga í gegnum eld, og er það þá hreint. Þó skal það enn syndhreinsað með hreinsunarvatni. En allt sem eigi þolir eld, skuluð þér láta ganga í gegnum vatn. 31.24 Og þér skuluð þvo klæði yðar á sjöunda degi, og eruð þá hreinir. Eftir það megið þér koma í herbúðirnar.' 31.25 Drottinn talaði við Móse og sagði: 31.26 'Tel þú herfangið, bæði menn og skepnur, þú og Eleasar prestur og ætthöfðingjar safnaðarins, 31.27 og skipt þú herfanginu til helminga milli þeirra, er vopnaviðskiptin áttu, þeirra er í leiðangurinn fóru, og alls safnaðarins. 31.28 Og þú skalt taka í skattgjald Drottni til handa af bardagamönnunum, þeim er í leiðangurinn fóru, eina sál af hverjum fimm hundruðum _ af mönnum, nautgripum, ösnum og smáfénaði. 31.29 Takið það af þeirra helmingi, og skalt þú fá það Eleasar presti sem fórnargjöf Drottni til handa. 31.30 En af helmingi Ísraelsmanna skalt þú taka frá eina af hverjum fimmtíu _ af mönnum, nautgripum, ösnum og smáfénaði, af öllum skepnum, og fá levítunum, sem annast búð Drottins.' 31.31 Og Móse og Eleasar prestur gjörðu eins og Drottinn hafði boðið Móse. 31.32 En herfangið _ það sem eftir var af ránsfé því, er herfólkið hafði rænt _ voru 675.000 af sauðfénaði, 31.33 72.000 af nautgripum 31.34 og 61.000 asnar, 31.35 og alls 32.000 konur er eigi höfðu átt samræði við karlmann. 31.36 En helmingshlutur þeirra, er í leiðangurinn fóru, var að tölu 337.500 af sauðfénaði, 31.37 og skattgjaldið til handa Drottni af sauðfénaðinum var 675, 31.38 af nautgripum 36.000, og skattgjaldið af þeim Drottni til handa 72, 31.39 asnarnir 30.500, og skattgjaldið af þeim Drottni til handa 61, 31.40 og mennirnir 16.000, og skattgjaldið af þeim Drottni til handa 32 sálir. 31.41 Móse fékk Eleasar presti fórnarskattgjaldið Drottni til handa, eins og Drottinn hafði boðið Móse. 31.42 Og af helmingnum, er Ísraelsmenn fengu og Móse skipti frá hermönnunum _ 31.43 en í hluta safnaðarins kom: af sauðfénaði 337.500, 31.44 af nautgripum 36.000, 31.45 af ösnum 30.500 31.46 og af mönnum 16.000, _ 31.47 af helmingnum, er Ísraelsmenn fengu, tók Móse frá einn af hverjum fimmtíu, bæði af mönnum og skepnum, og fékk levítunum, er annast búð Drottins, eins og Drottinn hafði boðið Móse. 31.48 Höfuðsmennirnir yfir þúsundum hersins, fyrirliðarnir fyrir þúsundunum og fyrirliðarnir fyrir hundruðunum, gengu nú fram fyrir Móse 31.49 og sögðu við Móse: 'Vér þjónar þínir höfum talið bardagamennina, er vér áttum yfir að ráða, og vér söknum eigi neins af þeim. 31.50 Fyrir því færum vér Drottni að fórnargjöf hver það, er hann hefir komist yfir af gullgripum: armhringa, armbönd, fingurgull, eyrnagull og hálsmen, til þess að friðþægja fyrir sálir vorar fyrir Drottni.' 31.51 Þeir Móse og Eleasar tóku við gullinu af þeim. Var það alls konar listasmíði. 31.52 En gullið, sem þeir færðu Drottni að fórnargjöf, var alls 16.750 siklar, og var það frá fyrirliðunum fyrir þúsundunum og frá fyrirliðunum fyrir hundruðunum. 31.53 Hermennirnir höfðu rænt hver handa sér. 31.54 Og þeir Móse og Eleasar prestur tóku við gullinu af fyrirliðunum fyrir þúsundunum og hundruðunum og færðu það í samfundatjaldið, Ísraelsmönnum til minningar frammi fyrir Drottni.
32.1 Synir Rúbens og synir Gaðs áttu mikið kvikfé og mjög vænt, og er þeir litu Jaserland og Gíleaðland, sáu þeir að það var gott búfjárland. 32.2 Synir Gaðs og synir Rúbens komu þá og sögðu við þá Móse og Eleasar prest og höfuðsmenn safnaðarins á þessa leið: 32.3 'Atarót, Díbon, Jaser, Nimra, Hesbon, Eleale, Sebam, Nebó og Beón, 32.4 landið, sem Drottinn vann fyrir söfnuði Ísraels, er búfjárland gott, og þjónar þínir eiga búfé.' 32.5 Og þeir sögðu: 'Ef vér höfum fundið náð í augum þínum, þá fái þjónar þínir land þetta til eignar. Far eigi með oss yfir Jórdan.' 32.6 Þá sagði Móse við sonu Gaðs og sonu Rúbens: 'Eiga bræður yðar að fara í hernað, en þér setjast hér að? 32.7 Hví teljið þér hug úr Ísraelsmönnum að fara yfir um, inn í landið, sem Drottinn hefir gefið þeim? 32.8 Svo gjörðu og feður yðar, þá er ég sendi þá frá Kades Barnea til að skoða landið. 32.9 Þeir fóru alla leið norður í Eskóldal og skoðuðu landið, en töldu svo hug úr Ísraelsmönnum, að þeir vildu ekki fara inn í landið, sem Drottinn hafði gefið þeim. 32.10 Þann dag upptendraðist reiði Drottins, svo að hann sór og sagði: 32.11 ,Þeir menn, er fóru af Egyptalandi tvítugir og þaðan af eldri, skulu ekki fá að sjá landið, sem ég sór Abraham, Ísak og Jakob, því að þeir hafa ekki fylgt mér trúlega, 32.12 nema Kaleb Jefúnneson Kenissíti og Jósúa Núnsson, því að þeir hafa trúlega fylgt Drottni.` 32.13 Og reiði Drottins upptendraðist gegn Ísrael og hann lét þá reika um eyðimörkina í fjörutíu ár, þar til er öll sú kynslóð var liðin undir lok, er gjört hafði það, sem illt var fyrir augliti Drottins. 32.14 Og sjá, nú hafið þér risið upp í stað feðra yðar, þér afsprengi syndugra manna, til þess að gjöra hina brennandi reiði Drottins gegn Ísrael enn þá meiri. 32.15 Ef þér snúið yður frá honum, þá mun hann láta þá reika enn lengur um eyðimörkina, og þér munuð steypa öllum þessum lýð í glötun.' 32.16 Þeir gengu til hans og sögðu: 'Vér viljum byggja hér fjárbyrgi fyrir búsmala vorn og bæi handa börnum vorum. 32.17 En sjálfir munum vér fara vígbúnir fyrir Ísraelsmönnum, þar til er vér höfum komið þeim á sinn stað. En börn vor skulu búa í víggirtum borgum, sökum íbúa landsins. 32.18 Eigi munum vér snúa heim aftur fyrr en Ísraelsmenn hafa hlotið hver sinn erfðahlut. 32.19 Vér munum eigi taka eignarland með þeim þar hinumegin Jórdanar, því að vér höfum hlotið til eignar landið hér austanmegin Jórdanar.' 32.20 Þá sagði Móse við þá: 'Ef þér viljið gjöra þetta, ef þér viljið búast til bardaga fyrir augliti Drottins, 32.21 og ef sérhver vígbúinn maður meðal yðar fer yfir Jórdan fyrir augliti Drottins, uns hann hefir rekið óvini sína burt frá sér, 32.22 og þér snúið ekki aftur fyrr en landið er undirokað fyrir augliti Drottins, þá skuluð þér vera sýknir saka fyrir Drottni og fyrir Ísrael, og land þetta skal verða yðar eign fyrir augliti Drottins. 32.23 En ef þér gjörið eigi svo, sjá, þá syndgið þér gegn Drottni, og þér munuð fá að kenna á synd yðar, er yður mun í koll koma. 32.24 Byggið yður bæi handa börnum yðar og byrgi handa fé yðar, og gjörið svo sem þér hafið látið um mælt.' 32.25 Þá sögðu synir Gaðs og synir Rúbens við Móse: 'Þjónar þínir munu gjöra eins og þú býður, herra. 32.26 Börn vor, konur vorar, fénaður vor og allir eykir vorir skulu verða eftir hér í bæjunum í Gíleað. 32.27 En þjónar þínir skulu fara yfir um, allir þeir sem herbúnir eru, fyrir augliti Drottins til hernaðar, eins og þú býður, herra.' 32.28 Og Móse gaf Eleasar presti, Jósúa Núnssyni og ætthöfðingjum Ísraelsmanna skipun um þá 32.29 og sagði við þá: 'Ef synir Gaðs og synir Rúbens, allir þeir sem vígbúnir eru, fara með yður yfir Jórdan til hernaðar fyrir augliti Drottins og þér undirokið landið, þá gefið þeim Gíleaðland til eignar. 32.30 En ef þeir fara eigi vígbúnir yfir um með yður, þá skulu þeir fá eignarlönd með yður í Kanaanlandi.' 32.31 Synir Gaðs og synir Rúbens svöruðu og sögðu: 'Það sem Drottinn hefir sagt þjónum þínum, það viljum vér gjöra. 32.32 Vér viljum fara yfir um vígbúnir fyrir augliti Drottins, inn í Kanaanland, en óðalseign vor skal vera fyrir handan Jórdan.' 32.33 Þá fékk Móse þeim sonum Gaðs, sonum Rúbens og hálfri ættkvísl Manasse Jósefssonar konungsríki Síhons Amorítakonungs og konungsríki Ógs, konungs í Basan, landið og borgirnar í því, ásamt umhverfunum, borgir landsins allt í kring. 32.34 Þá reistu synir Gaðs Díbon, Atarót, Aróer, 32.35 Aterót Sófan, Jaser, Jogbeha, 32.36 Bet Nimra og Bet Haran. Voru það víggirtar borgir og fjárbyrgi. 32.37 Synir Rúbens reistu Hesbon, Eleale, Kirjataím, 32.38 Nebó, Baal Meon, með breyttu nafni, og Síbma, og þeir gáfu borgunum, er þeir reistu, ný nöfn. 32.39 Synir Makírs Manassesonar fóru til Gíleað og unnu það og ráku burt Amoríta, sem þar voru. 32.40 Og Móse fékk Makír Manassesyni Gíleað, og festi hann þar byggð. 32.41 En Jaír, sonur Manasse, fór og vann þorp þeirra og nefndi það Jaírs-þorp. 32.42 Og Nóba fór og vann Kenat og borgirnar þar umhverfis og nefndi það Nóba eftir nafni sínu.
33.1 Þessir voru áfangar Ísraelsmanna, er þeir fóru af Egyptalandi, hver hersveit fyrir sig, undir forystu þeirra Móse og Arons. 33.2 Móse færði í letur að boði Drottins staðina, sem þeir lögðu upp frá, eftir áföngum þeirra, og þessir voru áfangar þeirra frá einum áfangastað til annars: 33.3 Þeir lögðu upp frá Ramses í fyrsta mánuðinum, á fimmtánda degi hins fyrsta mánaðar. Daginn eftir páska lögðu Ísraelsmenn af stað óhikað, að Egyptum öllum ásjáandi, 33.4 meðan Egyptar voru að jarða alla frumburðina, er Drottinn hafði fyrir þeim deytt, og Drottinn hafði látið refsidóma ganga yfir goð þeirra. 33.5 Ísraelsmenn lögðu upp frá Ramses og settu búðir sínar í Súkkót. 33.6 Þeir lögðu upp frá Súkkót og settu búðir sínar í Etam, þar sem eyðimörkina þrýtur. 33.7 Þeir lögðu upp frá Etam og sneru leið sinni til Pí-Hakírót, sem er fyrir austan Baal Sefón, og settu búðir sínar fyrir austan Mígdól. 33.8 Þeir lögðu upp frá Pí-Hakírót og fóru þvert yfir hafið inn í eyðimörkina. Og þeir fóru þriggja daga leið í Etameyðimörk og settu búðir sínar í Mara. 33.9 Þeir lögðu upp frá Mara og komu til Elím. En í Elím voru tólf vatnslindir og sjötíu pálmaviðir. Þar settu þeir búðir sínar. 33.10 Þeir lögðu upp frá Elím og settu búðir sínar við Sefhafið. 33.11 Þeir lögðu upp frá Sefhafinu og settu búðir sínar í Síneyðimörk. 33.12 Þeir lögðu upp frá Síneyðimörk og settu búðir sínar í Dofka. 33.13 Þeir lögðu upp frá Dofka og settu búðir sínar í Alús. 33.14 Þeir lögðu upp frá Alús og settu búðir sínar í Refídím. Þar hafði lýðurinn ekki vatn að drekka. 33.15 Þeir lögðu upp frá Refídím og settu búðir sínar í Sínaí-eyðimörk. 33.16 Þeir lögðu upp frá Sínaí-eyðimörk og settu búðir sínar í Kibrót-hattava. 33.17 Þeir lögðu upp frá Kibrót-hattava og settu búðir sínar í Haserót. 33.18 Þeir lögðu upp frá Haserót og settu búðir sínar í Ritma. 33.19 Þeir lögðu upp frá Ritma og settu búðir sínar í Rimmón Peres. 33.20 Þeir lögðu upp frá Rimmón Peres og settu búðir sínar í Líbna. 33.21 Þeir lögðu upp frá Líbna og settu búðir sínar í Ríssa. 33.22 Þeir lögðu upp frá Ríssa og settu búðir sínar í Kehelata. 33.23 Þeir lögðu upp frá Kehelata og settu búðir sínar á Seferfjalli. 33.24 Þeir lögðu upp frá Seferfjalli og settu búðir sínar í Harada. 33.25 Þeir lögðu upp frá Harada og settu búðir sínar í Makhelót. 33.26 Þeir lögðu upp frá Makhelót og settu búðir sínar í Tahat. 33.27 Þeir lögðu upp frá Tahat og settu búðir sínar í Tera. 33.28 Þeir lögðu upp frá Tera og settu búðir sínar í Mitka. 33.29 Þeir lögðu upp frá Mitka og settu búðir sínar í Hasmóna. 33.30 Þeir lögðu upp frá Hasmóna og settu búðir sínar í Móserót. 33.31 Þeir lögðu upp frá Móserót og settu búðir sínar í Bene Jaakan. 33.32 Þeir lögðu upp frá Bene Jaakan og settu búðir sínar í Hór Haggiðgað. 33.33 Þeir lögðu upp frá Hór Haggiðgað og settu búðir sínar í Jotbata. 33.34 Þeir lögðu upp frá Jotbata og settu búðir sínar í Abróna. 33.35 Þeir lögðu upp frá Abróna og settu búðir sínar í Esjón Geber. 33.36 Þeir lögðu upp frá Esjón Geber og settu búðir sínar í Síneyðimörk, það er Kades. 33.37 Þeir lögðu upp frá Kades og settu búðir sínar á Hórfjalli, á landamærum Edómlands. 33.38 Og Aron prestur fór að boði Drottins upp á Hórfjall og andaðist þar á fertugasta ári eftir brottför Ísraelsmanna af Egyptalandi, í fimmta mánuðinum, á fyrsta degi mánaðarins. 33.39 Aron var hundrað tuttugu og þriggja ára, þegar hann andaðist á Hórfjalli. 33.40 Og Kanaanítinn, konungurinn í Arad, sem bjó í suðurhluta Kanaanlands, spurði komu Ísraelsmanna. 33.41 Þeir lögðu upp frá Hórfjalli og settu búðir sínar í Salmóna. 33.42 Þeir lögðu upp frá Salmóna og settu búðir sínar í Fúnón. 33.43 Þeir lögðu upp frá Fúnón og settu búðir sínar í Óbót. 33.44 Þeir lögðu upp frá Óbót og settu búðir sínar í Íje Haabarím, Móabslandi. 33.45 Þeir lögðu upp frá Íjím og settu búðir sínar í Díbon Gað. 33.46 Þeir lögðu upp frá Díbon Gað og settu búðir sínar í Almón Díblataím. 33.47 Þeir lögðu upp frá Almón Díblataím og settu búðir sínar í Abarímfjöllum, fyrir austan Nebó. 33.48 Þeir lögðu upp frá Abarímfjöllum og settu búðir sínar á Móabsheiðum við Jórdan, gegnt Jeríkó. 33.49 Settu þeir búðir sínar við Jórdan frá Bet Hajesímót til Abel Hasittím á Móabsheiðum. 33.50 Drottinn talaði við Móse á Móabsheiðum við Jórdan, gegnt Jeríkó, og sagði: 33.51 'Mæl þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þegar þér eruð komnir yfir um Jórdan inn í Kanaanland, 33.52 skuluð þér stökkva burt undan yður öllum íbúum landsins og eyða öllum myndasteinum þeirra, þér skuluð og eyða öllum steyptum goðalíkneskjum þeirra og leggja fórnarhæðir þeirra í eyði. 33.53 Og þér skuluð kasta eign yðar á landið og festa byggð í því, því að yður hefi ég gefið landið til eignar. 33.54 Og þér skuluð fá erfðahluti í landinu eftir hlutkesti, hver ættkvísl fyrir sig. Þeirri ættkvísl, sem mannmörg er, skuluð þér fá mikinn erfðahlut, en þeirri, sem fámenn er, skuluð þér fá lítinn erfðahlut. Þar sem hlutur hvers eins fellur, það skal verða hans, eftir kynkvíslum feðra yðar skuluð þér fá það í erfðahlut. 33.55 En ef þér stökkvið ekki íbúum landsins burt undan yður, þá munu þeir af þeim, er þér skiljið eftir, verða þyrnar í augum yðar og broddar í síðum yðar, og þeir munu veita yður þungar búsifjar í landinu, sem þér búið í, 33.56 og þá mun svo fara, að ég mun gjöra svo við yður sem ég hafði fyrirhugað að gjöra við þá.'
34.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 34.2 'Bjóð þú Ísraelsmönnum og seg við þá: Þegar þér komið inn í Kanaanland, þá skal það vera landið, sem þér hljótið til eignar, Kanaanland til ystu ummerkja. 34.3 Suðurhliðin skal vera: frá Síneyðimörk meðfram Edóm. Og austurendi suðurtakmarkanna skal vera suðurendi Dauðahafs. 34.4 Þaðan skulu takmörkin liggja í boga fyrir sunnan Sporðdrekaskarð og ná yfir til Sín og endir þeirra vera fyrir sunnan Kades Barnea. Skulu þau liggja til Hasar Addar og ná yfir til Asmón. 34.5 Frá Asmón skulu takmörkin liggja í boga til Egyptalandsár og alla leið til sjávar. 34.6 Að vesturtakmörkum skuluð þér hafa hafið mikla; þetta skulu vera vesturtakmörkin. 34.7 Norðurtakmörkin skulu vera þessi: Frá hafinu mikla skuluð þér taka stefnu á Hórfjall. 34.8 Frá Hórfjalli skuluð þér taka stefnu þangað sem leið liggur til Hamat, og þaðan alla leið til Sedad. 34.9 Skulu takmörkin ná til Sífrón og enda í Hasar Enan. Þetta skulu vera landamerki yðar að norðanverðu. 34.10 Að austanverðu skuluð þér setja merkjalínuna frá Hasar Enan til Sefam. 34.11 En frá Sefam skulu landamerkin liggja suður til Ribla, fyrir austan Aín. Þaðan skulu landamerkin liggja niður eftir og nema við fjallhrygginn fyrir austan Genesaretvatn. 34.12 Og landamerkin skulu liggja niður með Jórdan og enda við Dauðahafið. Þessi skulu merki vera lands yðar hringinn í kring.' 34.13 Og Móse bauð Ísraelsmönnum og sagði: 'Þetta er landið, sem þér skuluð fá til eignar með hlutkesti og Drottinn bauð að gefa níu ættkvíslunum og hálfri. 34.14 Því að ættkvísl Rúbens sona, hver ætt fyrir sig, og ættkvísl Gaðs sona, hver ætt fyrir sig, og hálf ættkvísl Manasse hafa fengið sinn eignarhluta. 34.15 Tvær ættkvíslirnar og hálf hafa fengið sinn eignarhluta hinumegin Jórdanar, gegnt Jeríkó, austanmegin.' 34.16 Drottinn talaði við Móse og sagði: 34.17 'Þessi eru nöfn þeirra manna, er skipta skulu landinu milli yðar: Eleasar prestur og Jósúa Núnsson 34.18 og einn höfðingi af ættkvísl hverri til að skipta landinu, 34.19 og þessi eru nöfn þeirra: af ættkvísl Júda: Kaleb Jefúnneson, 34.20 af ættkvísl Símeons sona: Samúel Ammíhúdsson, 34.21 af ættkvísl Benjamíns: Elídad Kislónsson, 34.22 af ættkvísl Dans sona: Búkí Joglíson höfðingi, 34.23 af sonum Jósefs: af ættkvísl Manasse sona: Hanníel Efóðsson höfðingi, 34.24 af ættkvísl Efraíms sona: Kemúel Siftansson höfðingi; 34.25 af ættkvísl Sebúlons sona: Elísafan Parnaksson höfðingi, 34.26 af ættkvísl Íssakars sona: Paltíel Asansson höfðingi, 34.27 af ættkvísl Assers sona: Akíhúð Selómíson höfðingi, 34.28 af ættkvísl Naftalí sona: Pedahel Ammíhúdsson höfðingi.' 34.29 Þessir voru þeir, er Drottinn bauð að skipta skyldu landeignum milli Ísraelsmanna í Kanaanlandi.
35.1 Drottinn talaði við Móse á Móabsheiðum við Jórdan, gegnt Jeríkó, og sagði: 35.2 'Bjóð þú Ísraelsmönnum, að þeir fái levítunum borgir til íbúðar af óðalseignum sínum, og til beitar skuluð þér fá þeim landið kringum borgirnar. 35.3 Og borgirnar skulu vera þeim til íbúðar, og beitilandið, er undir þær liggur, skal vera fyrir gripi þeirra, fénað þeirra og allar aðrar skepnur þeirra. 35.4 Og beitilandið hjá borgunum, er þér fáið levítunum, skal vera þúsund álnir út frá borgarveggnum hringinn í kring. 35.5 Og fyrir utan borgina skuluð þér mæla austurhliðina tvö þúsund álnir, suðurhliðina tvö þúsund álnir, vesturhliðina tvö þúsund álnir og norðurhliðina tvö þúsund álnir, en borgin sjálf sé í miðju. Þetta beitiland í kringum borgirnar skulu þeir fá. 35.6 Og að því er kemur til borganna, er þér eigið að fá levítunum, þá skuluð þér láta af hendi griðastaðina sex, til þess að þangað megi flýja menn, er víg hafa unnið, en auk þeirra skuluð þér fá þeim fjörutíu og tvær borgir. 35.7 Borgirnar, er þér fáið levítunum, skulu vera fjörutíu og átta borgir alls, ásamt með beitilandi því, er undir þær liggur. 35.8 Og að því er kemur til borganna, er þér eigið að láta af óðali Ísraelsmanna, þá skuluð þér láta mannmörgu ættkvíslirnar leggja til fleiri, en hinar fámennu færri. Hver einn skal fá levítunum af borgum sínum í réttu hlutfalli við erfðahlut þann, er hann hefir fengið.' 35.9 Drottinn talaði við Móse og sagði: 35.10 'Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þegar þér eruð komnir yfir um Jórdan inn í Kanaanland, 35.11 þá veljið yður haganlegar borgir. Skulu það vera yður griðastaðir, að þangað megi flýja vegendur, þeir er óviljandi hafa orðið manni að bana. 35.12 Borgirnar skulu vera yður hæli fyrir hefnanda, svo að vegandinn týni eigi lífi áður en hann hefir komið fyrir dóm safnaðarins. 35.13 En griðastaðirnir, sem þér látið af hendi, skulu vera sex. 35.14 Skuluð þér láta þrjár borgir hinumegin Jórdanar og þrjár borgir í Kanaanlandi. Griðastaðir skulu þær vera. 35.15 Skulu þessar sex borgir vera griðastaðir bæði fyrir Ísraelsmenn og dvalarmenn og hjábýlinga meðal yðar, svo að þangað megi flýja hver sá, er orðið hefir manni að bana óviljandi. 35.16 Hafi hann lostið hann með járntóli, svo að hann beið bana af, þá er hann manndrápari, og manndrápara skal vissulega af lífi taka. 35.17 Hafi hann lostið hann með stein í hendi, er getur orðið manni að bana, svo að hann beið bana af, þá er hann manndrápari; manndrápara skal vissulega af lífi taka. 35.18 Eða hafi hann lostið hann með trétól í hendi, er getur orðið manni að bana, svo að hann beið bana af, þá er hann manndrápari; manndrápara skal vissulega af lífi taka. 35.19 Hefndarmaðurinn skal drepa vegandann, hann skal drepa hann, ef hann hittir hann. 35.20 Og hrindi hann honum af hatri eða kasti í hann af ásetningi, svo að hann bíður bana af, 35.21 eða ljósti hann af fjandskap með hendinni, svo að hann bíður bana af, þá skal sá, er laust hann, vissulega líflátinn verða; hann er manndrápari. Hefndarmaðurinn skal drepa vegandann, þegar hann hittir hann. 35.22 En hafi hann hrundið honum óvart, en eigi af fjandskap, eða kastað í hann einhverju verkfæri, þó eigi af ásettu ráði, 35.23 eða hann kastar til hans steini, sem getur orðið manni að bana, án þess að sjá hann, svo að hann bíður bana af, og var þó ekki óvinur hans og ætlaði ekki að gjöra honum mein, 35.24 þá dæmi söfnuðurinn milli vegandans og hefndarmannsins eftir lögum þessum. 35.25 Og söfnuðurinn skal forða veganda undan hefndarmanninum og söfnuðurinn skal láta flytja hann aftur í griðastað þann, er hann hafði flúið í, og skal hann dvelja þar uns æðsti presturinn deyr, sem smurður hefur verið með heilagri olíu. 35.26 En ef vegandi fer út fyrir landamerki griðastaðar þess, er hann hefir í flúið, 35.27 og hefndarmaður hittir hann fyrir utan landamerki griðastaðar hans, og hefndarmaður vegur veganda, þá er hann eigi blóðsekur. 35.28 Því að vegandi skal dvelja í griðastað sínum uns æðsti prestur deyr, en eftir dauða æðsta prests má hann hverfa aftur til óðalslands síns. 35.29 Þetta skulu vera lög hjá yður frá kyni til kyns í öllum bústöðum yðar. 35.30 Nú drepur einhver mann, og skal þá manndráparann af lífi taka eftir framburði votta. Þó má ekki kveða upp dauðadóm yfir manni eftir framburði eins vitnis. 35.31 Og eigi skuluð þér taka bætur fyrir líf manndrápara, sem er dauðasekur, heldur skal hann af lífi tekinn verða. 35.32 Eigi skuluð þér heldur leyfa manni að leysa sig með fébótum undan því að flýja í griðastað sinn, heldur megi hverfa aftur og búa í landinu áður en prestur deyr. 35.33 Og þér skuluð eigi vanhelga landið, sem þér eruð í, því að blóðið vanhelgar landið, og landið fær eigi friðþæging fyrir það blóð, sem úthellt er í því, nema með blóði þess, sem úthellti því. 35.34 Og þú skalt ekki saurga landið, sem þér búið í, með því að ég bý í því. Ég, Drottinn, bý meðal Ísraelsmanna.'
36.1 Ætthöfðingjarnir af kynkvísl Gíleaðs sona, Makírssonar, Manassesonar, af kynkvíslum Jósefs sona, gengu fram og töluðu fyrir augliti Móse og fyrir augliti höfuðsmannanna, ætthöfðingja Ísraelsmanna, 36.2 og sögðu: 'Drottinn hefir boðið þér, herra, að fá Ísraelsmönnum landið til eignar með hlutkesti. Þér var og, herra, boðið af Drottni að fá eignarhluta Selofhaðs bróður vors dætrum hans í hendur. 36.3 Giftist þær nú einhverjum af sonum annarra ættkvísla Ísraelsmanna, þá tekst erfð þeirra af erfð feðra vorra og bætist við erfð þess ættleggs, er þær giftast í, og tekst þannig af erfðahluta vorum. 36.4 Og þegar fagnaðarár Ísraelsmanna kemur, þá verður erfð þeirra bætt við erfð þess ættleggs, er þær giftast í, og erfð þeirra tekst af erfð ættleggs feðra vorra.' 36.5 Þá gaf Móse Ísraelsmönnum svofelld fyrirmæli að boði Drottins: 'Ættleggur Jósefs sona hefir rétt að mæla! 36.6 Þetta eru fyrirmæli Drottins um dætur Selofhaðs: Þær mega giftast hverjum sem þær vilja; aðeins skulu þær giftast einhverjum úr föðurætt sinni, 36.7 svo að erfð Ísraelsmanna gangi eigi frá einum ættlegg til annars, heldur skulu allir Ísraelsmenn halda fast í erfð föðurættar sinnar. 36.8 Sérhver dóttir af ættkvíslum Ísraelsmanna, er erfð hlýtur, skal giftast í föðurætt sína, svo að hver Ísraelsmanna erfi föðurleifð sína 36.9 og erfð gangi eigi frá einum ættlegg til annars, heldur skulu allir ættleggir Ísraelsmanna halda fast í erfð sína.' 36.10 Dætur Selofhaðs gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið Móse, 36.11 og giftust þær Mahla, Tirsa, Hogla, Milka og Nóa, dætur Selofhaðs, sonum föðurbræðra sinna. 36.12 Giftust þær mönnum af kynkvísl sona Manasse Jósefssonar, og varð erfð þeirra kyrr í ættlegg föðurættar þeirra.
1.1 Þessi eru þau orð, er Móse talaði við allan Ísrael hinumegin Jórdanar í eyðimörkinni, á sléttlendinu gegnt Súf, á milli Paran, Tófel, Laban, Haserót og Dí-Sahab. ( 1.2 Eru ellefu dagleiðir frá Hóreb til Kades Barnea, þegar farin er leiðin, sem liggur til Seírfjalla.) 1.3 Á fertugasta ári, á fyrsta degi hins ellefta mánaðar, birti Móse Ísraelsmönnum allt það, er Drottinn hafði boðið honum um þá, 1.4 eftir að hann hafði unnið á Síhon Amorítakonungi, sem hafði aðsetur í Hesbon, og Óg, konungi í Basan, sem hafði aðsetur í Astarót, hjá Edreí. 1.5 Hinumegin Jórdanar, í Móabslandi, tók Móse að skýra lögmál þetta og mælti: 1.6 Drottinn, Guð vor, talaði við oss á Hóreb á þessa leið: 'Þér hafið nú dvalið nógu lengi á þessu fjalli. 1.7 Snúið á leið, leggið af stað og haldið til fjalllendis Amoríta og allra nábúa þeirra á sléttlendinu, í fjalllendinu, á láglendinu, í Suðurlandinu, á sjávarströndinni, inn í land Kanaaníta og til Líbanon, allt til fljótsins mikla, Efratfljótsins. 1.8 Sjá, ég fæ yður landið. Farið og takið til eignar landið, sem Drottinn sór feðrum yðar, Abraham, Ísak og Jakob, að gefa þeim og niðjum þeirra eftir þá.' 1.9 Þá sagði ég við yður: 'Ég rís ekki einn undir yður. 1.10 Drottinn, Guð yðar, hefir margfaldað yður, og sjá, þér eruð í dag að fjölda til sem stjörnur himins. 1.11 Drottinn, Guð feðra yðar, gjöri yður þúsund sinnum fleiri en þér eruð og blessi yður, eins og hann hefir heitið yður. 1.12 Hvernig fæ ég einn borið þyngslin af yður, þunga yðar og deilur yðar! 1.13 Veljið til vitra menn, skynsama og valinkunna af hverri kynkvísl yðar, og mun ég skipa þá höfðingja yfir yður.' 1.14 Þá svöruðuð þér mér og sögðuð: 'Það er vel til fallið að gjöra það, sem þú talar um.' 1.15 Tók ég þá ætthöfðingja yðar, vitra menn og valinkunna, og skipaði þá höfðingja yfir yður, suma yfir þúsund, suma yfir hundrað, suma yfir fimmtíu, suma yfir tíu, og tilsjónarmenn meðal ættkvísla yðar. 1.16 Ég lagði þá svo fyrir dómendur yðar: 'Hlýðið á mál bræðra yðar og dæmið réttlátlega, hvort heldur mann greinir á við bróður sinn eða útlending, er hjá honum dvelur. 1.17 Gjörið yður eigi mannamun í dómum, hlýðið jafnt á lágan sem háan. Hræðist engan mann, því að dómurinn er Guðs. En ef eitthvert mál er yður ofvaxið, þá skjótið því til mín, og skal ég sinna því.' 1.18 Þannig lagði ég þá fyrir yður allt það, er þér skylduð gjöra. 1.19 Því næst lögðum vér upp frá Hóreb og fórum yfir alla eyðimörkina miklu og hræðilegu, sem þér hafið séð, leiðina til fjalllendis Amoríta, eins og Drottinn Guð vor hafði fyrir oss lagt. Og vér komum til Kades Barnea. 1.20 Þá sagði ég við yður: 'Þér eruð komnir að fjalllendi Amoríta, sem Drottinn, Guð vor, gefur oss. 1.21 Sjá, Drottinn Guð þinn hefir fengið þér landið. Far þú og tak það til eignar, eins og Drottinn, Guð feðra þinna, hefir boðið þér. Óttast þú eigi og lát eigi hugfallast.' 1.22 Þá genguð þér allir til mín og sögðuð: 'Sendum menn á undan oss, að þeir megi kanna landið fyrir oss og færa oss fregnir af veginum, sem vér eigum að fara, og af borgunum, er vér munum koma til.' 1.23 Mér féll þetta vel í geð, og tók ég tólf menn af yður, einn mann af ættkvísl hverri. 1.24 Og þeir fóru af stað og héldu norður til fjalla og komust í Eskóldal og könnuðu landið. 1.25 Tóku þeir með sér nokkuð af ávöxtum landsins og færðu oss. Og þeir fluttu oss fregnir og sögðu: 'Gott er landið, sem Drottinn Guð vor gefur oss.' 1.26 En þér vilduð eigi fara þangað og óhlýðnuðust skipun Drottins, Guðs yðar. 1.27 Og þér mögluðuð í tjöldum yðar og sögðuð: 'Af því að Drottinn hataði oss, hefir hann leitt oss burt af Egyptalandi til þess að selja oss í hendur Amorítum, svo að þeir eyði oss. 1.28 Hvert erum vér að fara? Bræður vorir hafa skelft hjörtu vor með því að segja: ,Fólkið er stærra og hærra að vexti en vér. Borgirnar eru stórar og víggirtar hátt í loft upp. Vér höfum meira að segja séð þar Anakíta.'` 1.29 Þá sagði ég við yður: 'Látið eigi hugfallast og hræðist þá ekki. 1.30 Drottinn Guð yðar, sem fyrir yður fer, mun berjast fyrir yður, eins og hann hjálpaði yður bersýnilega í Egyptalandi 1.31 og á eyðimörkinni, þar sem þú sást, hvernig Drottinn, Guð þinn bar þig, eins og faðir ber barn sitt, alla þá leið, er þér hafið farið, þar til er þér komuð hingað.' 1.32 En þrátt fyrir allt þetta vilduð þér ekki treysta Drottni Guði yðar, 1.33 sem gekk á undan yður á leiðinni til að leita upp tjaldstaði handa yður, á næturnar í eldi til þess að vísa yður veginn, sem þér ættuð að halda, en á daginn í skýi. 1.34 En er Drottinn heyrði umtölur yðar, varð hann reiður, sór og sagði: 1.35 'Sannlega skal enginn af þessum mönnum, af þessari illu kynslóð, fá að sjá landið góða, sem ég sór að gefa feðrum yðar, 1.36 nema Kaleb Jefúnneson, hann skal fá að sjá það. Honum mun ég gefa landið, sem hann hefir stigið fæti á, og sonum hans, sökum þess að hann hefir fylgt Drottni trúlega.' 1.37 Drottinn reiddist mér einnig yðar vegna og sagði: 'Þú skalt ekki heldur komast þangað. 1.38 Jósúa Núnsson, sem stendur fyrir augliti þínu, hann skal komast þangað. Tel þú hug í hann, því að hann mun úthluta því Ísrael til eignar. 1.39 Börn yðar, sem þér sögðuð að mundu verða fjandmönnunum að bráð, og synir yðar, sem í dag vita eigi grein góðs og ills, munu komast þangað. Þeim vil ég gefa það, og þeir skulu fá það til eignar. 1.40 En þér skuluð snúa á leið og halda inn í eyðimörkina, leiðina til Sefhafsins.' 1.41 Þá svöruðuð þér og sögðuð við mig: 'Vér höfum syndgað gegn Drottni. Vér viljum fara og berjast, eins og Drottinn Guð vor hefir boðið oss.' Og þér gyrtuð yður, hver sínum hervopnum, og tölduð það hægðarleik að leggja upp á fjöllin. 1.42 Þá sagði Drottinn við mig: 'Seg þeim: ,Þér skuluð eigi fara þangað og eigi berjast, því að ég er eigi meðal yðar, svo að þér bíðið eigi ósigur fyrir óvinum yðar.'` 1.43 Og ég talaði til yðar, en þér gegnduð ekki, heldur óhlýðnuðust skipun Drottins og gjörðuð yður svo djarfa að leggja upp á fjöllin. 1.44 Fóru þá Amorítar, sem bjuggu á fjöllum þessum, í móti yður, eltu yður, eins og býflugur gjöra, og tvístruðu yður alla leið frá Seír til Horma. 1.45 Og þér hurfuð aftur og grétuð frammi fyrir Drottni, en Drottinn heyrði ekki bænir yðar og hlýddi ekki á yður. 1.46 Þannig hélduð þér kyrru fyrir í Kades langan tíma, eins langan tíma og þér dvölduð þar.
2.1 Síðan snerum vér á leið og héldum inn í eyðimörkina, leiðina til Sefhafsins, eins og Drottinn hafði boðið mér, og vér fórum í kringum Seírfjöll marga daga. 2.2 Þá sagði Drottinn við mig: 2.3 'Þér hafið farið nógu lengi í kringum fjöll þessi. Haldið nú í norður. 2.4 En bjóð þú lýðnum og seg: ,Þér farið nú yfir landamerki bræðra yðar, Esaú sona, sem búa í Seír, og þeir munu verða hræddir við yður. En gætið þess vandlega 2.5 að gjöra þeim engan ófrið, því að ekki mun ég gefa yður svo mikið sem þverfet af landi þeirra, því að ég hefi gefið Esaú Seírfjöll til eignar. 2.6 Mat skuluð þér kaupa af þeim fyrir silfur, að þér megið eta, og vatn skuluð þér einnig kaupa af þeim fyrir silfur, að þér megið drekka. 2.7 Því að Drottinn Guð þinn hefir blessað þig í öllu, sem þú hefir tekið þér fyrir hendur. Hann hefir borið umhyggju fyrir för þinni um þessa miklu eyðimörk. Í fjörutíu ár hefir Drottinn Guð þinn nú verið með þér; ekkert hefir þig skort.'` 2.8 Síðan héldum vér áfram burt frá bræðrum vorum Esaú sonum, sem búa í Seír, burt frá veginum yfir sléttlendið, burt frá Elat og Esjón Geber, og beygðum við og héldum leiðina til Móabseyðimerkur. 2.9 Þá sagði Drottinn við mig: 'Leitið eigi á Móabíta og hefjið engan ófrið við þá, því að eigi mun ég gefa þér neitt af landi þeirra til eignar, með því að ég hefi gefið Lots sonum Ar til eignar. 2.10 (Emítar bjuggu þar forðum, mikil þjóð og fjölmenn og stórvaxin, eins og Anakítar. 2.11 Þeir voru og taldir Refaítar, eins og Anakítar, en Móabítar kölluðu þá Emíta. 2.12 Hórítar bjuggu og forðum í Seír, en Esaú synir hröktu þá burt og eyddu þeim, en settust sjálfir að löndum þeirra, eins og Ísrael gjörði við eignarland sitt, er Drottinn hafði gefið þeim.) 2.13 Takið yður nú upp og farið yfir Seredá.' Og vér fórum yfir Seredá. 2.14 Í þrjátíu og átta ár vorum vér á leiðinni frá Kades Barnea, til þess er vér fórum yfir Seredá, uns öll kynslóðin, hinir vopnfæru menn, var dáin úr herbúðunum, eins og Drottinn hafði svarið þeim. 2.15 Hönd Drottins var einnig á móti þeim, svo að hann eyddi þeim úr herbúðunum, uns enginn þeirra var eftir. 2.16 En er allir vopnfærir menn af lýðnum voru dánir, 2.17 þá mælti Drottinn til mín þessum orðum: 2.18 'Þú fer í dag um land Móabíta, fram hjá Ar, 2.19 og munt þú þá koma í nánd við Ammóníta, en eigi skalt þú leita á þá né gjöra þeim nokkurn ófrið, því að eigi mun ég gefa þér neitt af landi Ammóníta til eignar, með því að ég hefi gefið Lots sonum það til eignar. 2.20 (Það er og talið land Refaíta. Refaítar bjuggu þar forðum og kölluðu Ammónítar þá Samsúmmíta, 2.21 mikil þjóð og fjölmenn og stórvaxin, eins og Anakítar. En Drottinn eyddi þeim fyrir Ammónítum, svo að þeir eignuðust lönd þeirra og settust að í þeirra stað, 2.22 eins og hann gjörði fyrir Esaú sonu, sem búa í Seír, þá er hann eyddi Hórítum fyrir þeim, svo að þeir eignuðust lönd þeirra og settust að í þeirra stað, og er svo enn í dag. 2.23 Svo var og um Avíta, sem bjuggu í þorpum allt til Gasa. Kaftórítar komu frá Kaftór og eyddu þeim og settust sjálfir að löndum þeirra.) 2.24 Takið yður nú upp og haldið af stað og farið yfir Arnoná. Sjá, ég hefi gefið á þitt vald Amorítann Síhon, konung í Hesbon, og land hans. Tak nú til að vinna landið og legg til orustu við hann. 2.25 Skal ég láta það hefjast í dag, að öllum þjóðum undir himninum standi af þér ótti og hræðsla. Ef þær heyra þig nefndan á nafn, skulu þær fá í sig hræðslu og kvíða fyrir þér.' 2.26 Þá gjörði ég menn úr Kedemóteyðimörk á fund Síhons, konungs í Hesbon, með svolátandi friðarorð: 2.27 'Leyf mér að fara um land þitt. Mun ég fara rétta þjóðleið og skal ég eigi sveigja af til hægri né vinstri. 2.28 Mat munt þú selja mér fyrir silfur, að ég megi eta, og vatn skalt þú láta mig fá fyrir silfur, að ég megi drekka. Leyf mér aðeins að fara um fótgangandi _, 2.29 eins og þeir leyfðu mér, Esaú synir, sem búa í Seír, og Móabítar, sem búa í Ar _, uns ég fer yfir Jórdan inn í landið, sem Drottinn Guð vor gefur oss.' 2.30 En Síhon, konungur í Hesbon, vildi ekki leyfa oss að fara um land sitt, því að Drottinn Guð þinn herti anda hans og gjörði hjarta hans þverúðarfullt, af því að hann vildi gefa hann í þínar hendur, eins og nú er fram komið. 2.31 Drottinn sagði við mig: 'Sjá, ég hefi byrjað að selja þér í hendur Síhon og land hans. Tak nú til að vinna það, svo að þú megir eignast land hans.' 2.32 Fór Síhon þá í móti oss með öllu liði sínu og átti orustu við oss hjá Jahas. 2.33 En Drottinn Guð vor gaf hann á vort vald, svo að vér unnum sigur á honum, sonum hans og öllu liði hans. 2.34 Þá unnum vér og á sama tíma allar borgir hans og gjöreyddum hverja borg að karlmönnum, konum og börnum. Vér létum engan undan komast. 2.35 Fénaðinn einn tókum vér að herfangi, svo og ránsfenginn úr borgunum, er vér höfðum unnið. 2.36 Frá Aróer, sem liggur á bakka Arnonár, og frá borginni, sem liggur í dalnum, alla leið til Gíleað var engin sú borg, er oss væri ókleift að vinna. Drottinn Guð vor gaf þær allar á vort vald. 2.37 Aðeins komst þú ekki nærri landi Ammóníta, héraðinu fram við Jabboká, borgunum í fjalllendinu, né nokkru því, sem Drottinn Guð vor hafði bannað oss.
3.1 Snerum vér nú á leið og héldum veginn, sem liggur til Basan. En Óg, konungur í Basan, fór í móti oss með öllu liði sínu til þess að heyja bardaga hjá Edreí. 3.2 Þá sagði Drottinn við mig: 'Eigi skalt þú óttast hann, því að ég gef hann og lið hans allt og land hans í þínar hendur, og skalt þú svo fara með hann eins og þú fórst með Síhon, Amorítakonung, er bjó í Hesbon.' 3.3 Drottinn Guð vor gaf oss þannig og í hendur Óg, konung í Basan, og lið hans allt, og vér felldum hann, svo að enginn var eftir skilinn, er undan kæmist. 3.4 Þá unnum vér allar borgir hans. Var engin sú borg, að vér eigi næðum henni frá þeim: sextíu borgir, allt Argóbhérað, konungsríki Ógs í Basan. 3.5 Allt voru þetta borgir víggirtar háum múrveggjum, hliðum og slagbröndum, auk mikils fjölda af óumgirtum þorpum. 3.6 Og vér gjöreyddum þær, eins og vér höfðum áður gjört við Síhon, konung í Hesbon, með því að gjöreyða hverja borg að karlmönnum, konum og börnum. 3.7 En fénaðinn allan og ránsfenginn úr borgunum tókum vér að herfangi. 3.8 Þannig tókum vér í það skipti úr höndum beggja Amorítakonunga land allt hinumegin Jórdanar frá Arnoná til Hermonfjalls 3.9 (Hermon kalla Sídoningar Sirjon, en Amorítar kalla það Senír), 3.10 allar borgir á sléttlendinu, Gíleað allt og Basan, alla leið til Salka og Edreí, þær borgir í Basan, er heyrðu konungsríki Ógs. 3.11 Því að Óg, konungur í Basan, var sá eini, sem eftir var af Refaítum. Sjá, líkkista hans var gjör úr járni og er enn til í Rabba hjá Ammónítum. Hún er níu álna löng og fjögra álna breið eftir venjulegu alinmáli. 3.12 Þetta land tókum vér þá til eignar. Frá Aróer, sem liggur við Arnoná, og hálft Gíleaðfjalllendi og borgirnar í því gaf ég Rúbenítum og Gaðítum, 3.13 en það, sem eftir var af Gíleað, og allt Basan, konungsríki Ógs, gaf ég hálfri ættkvísl Manasse, allt Argóbhérað. Basan allt er kallað Refaítaland. 3.14 Jaír, son Manasse, nam allt Argóbhérað allt að landamærum Gesúríta og Maakatíta og kallaði það, sem sé Basan, eftir nafni sínu Jaírsþorp, og helst það nafn enn í dag. 3.15 Makír gaf ég Gíleað, 3.16 og Rúbenítum og Gaðítum gaf ég land frá Gíleað suður að Arnoná, í dalinn miðjan, _ voru það suðurtakmörkin, _ og alla leið að Jabboká, sem er á landamærum Ammóníta. 3.17 Enn fremur sléttlendið með Jórdan á mörkum, frá Genesaretvatni suður að vatninu á sléttlendinu, Saltasjó, undir Pisgahlíðum, austanmegin. 3.18 Þá bauð ég yður og sagði: 'Drottinn Guð yðar hefir gefið yður þetta land til eignar. Farið vígbúnir fyrir bræðrum yðar, Ísraelsmönnum, allir þér sem vopnfærir eruð. 3.19 En konur yðar og börn og búsmali yðar _ ég veit að þér eigið mikinn fénað _ skal verða eftir í borgunum, sem ég hefi gefið yður, 3.20 þar til er Drottinn Guð yðar veitir bræðrum yðar hvíld, eins og yður, og þeir hafa líka tekið til eignar land það, er Drottinn Guð yðar gefur þeim hinumegin Jórdanar. Þá megið þér snúa aftur, hver til óðals síns, er ég hefi gefið yður.' 3.21 Jósúa bauð ég þá og sagði: 'Þú hefir séð allt það með eigin augum, sem Drottinn Guð yðar hefir gjört þessum tveimur konungum. Eins mun Drottinn fara með öll þau konungaríki, sem þú ert á leið til. 3.22 Eigi skuluð þér óttast þau, því að Drottinn Guð yðar berst fyrir yður.' 3.23 Þá bað ég Drottin líknar og sagði: 3.24 'Ó Drottinn Guð! Þú hefir nú þegar sýnt þjóni þínum, hve mikill þú ert og hve sterk hönd þín er, því að hver er sá guð á himni eða jörðu, sem gjöri önnur eins verk og þú og jafnmikil máttarverk? 3.25 Æ, leyf mér að fara yfir um og sjá landið góða, sem er hinumegin Jórdanar, þetta fagra fjalllendi og Líbanon.' 3.26 En Drottinn reiddist mér yðar vegna og bænheyrði mig ekki, og Drottinn sagði við mig: 'Nóg um það. Tala eigi meira um þetta mál við mig. 3.27 Far þú upp á Pisgatind og horf þú í vestur, norður, suður og austur og lít það með augum þínum, því að þú munt ekki komast yfir hana Jórdan. 3.28 En skipa þú Jósúa foringja og tel hug í hann og gjör hann öruggan, því að hann skal fara yfir um fyrir þessu fólki og hann skal skipta milli þeirra landinu, sem þú sér.' 3.29 Dvöldum vér nú um hríð í dalnum á móts við Bet Peór.
4.1 Heyr þú nú, Ísrael, lög þau og ákvæði, sem ég kenni yður, til þess að þér haldið þau, svo að þér megið lifa og komast inn í það land, sem Drottinn, Guð feðra yðar, gefur yður, og fá það til eignar. 4.2 Þér skuluð engu auka við þau boðorð, sem ég legg fyrir yður, né heldur draga nokkuð frá, svo að þér varðveitið skipanir Drottins Guðs yðar, sem ég legg fyrir yður. 4.3 Þér hafið séð með eigin augum, hvað Drottinn gjörði sakir Baal Peór, því að öllum þeim mönnum, sem fylgdu Baal Peór, eyddi Drottinn Guð þinn úr samfélagi yðar. 4.4 En þér, sem hélduð yður fast við Drottin Guð yðar, lifið allir fram á þennan dag. 4.5 Sjá, ég hefi kennt yður lög og ákvæði, eins og Drottinn Guð minn lagði fyrir mig, til þess að þér breytið eftir þeim í því landi, sem þér haldið nú inn í til þess að taka það til eignar. 4.6 Varðveitið þau því og haldið þau, því að það mun koma á yður orði hjá öðrum þjóðum fyrir visku og skynsemi. Þegar þær heyra öll þessi lög, munu þær segja: 'Það er vissulega viturt og skynsamt fólk, þessi mikla þjóð.' 4.7 Því að hvaða stórþjóð er til, sem hafi guð, er henni sé eins nálægur eins og Drottinn Guð vor er oss, hvenær sem vér áköllum hann? 4.8 Og hver er sú stórþjóð, er hafi svo réttlát lög og ákvæði, eins og allt þetta lögmál er, sem ég legg fyrir yður í dag? 4.9 En vara þig og gæt vandlega sálar þinnar, að eigi gleymir þú þeim hlutum, sem þú hefir séð með eigin augum, og að það ekki líði þér úr minni alla ævidaga þína, og þú skalt gjöra þá kunna börnum þínum og barnabörnum. 4.10 Gleym þú eigi deginum, þegar þú stóðst frammi fyrir Drottni Guði þínum hjá Hóreb, og Drottinn sagði við mig: 'Safna þú lýðnum saman fyrir mig. Ég ætla að láta þá heyra orð mín, svo að þeir læri að óttast mig alla þá daga, sem þeir lifa á jörðinni, og kenni það einnig börnum sínum.' 4.11 Þér komuð þá fram og námuð staðar undir fjallinu, en fjallið logaði allt í eldi upp í háan himin. Fylgdi því myrkur, ský og sorti. 4.12 Og Drottinn talaði við yður út úr eldinum. Hljóm orðanna heyrðuð þér, en mynd sáuð þér enga, þér heyrðuð aðeins hljóminn. 4.13 Þá birti hann yður sáttmála sinn, sem hann bauð yður að halda, tíu boðorðin, og hann reit þau á tvær steintöflur. 4.14 Þá bauð Drottinn mér að kenna yður lög og ákvæði, svo að þér gætuð breytt eftir þeim í því landi, er þér haldið nú yfir til, til þess að taka það til eignar. 4.15 Gætið yðar því vandlega, líf yðar liggur við _ því að þér sáuð enga mynd á þeim degi, þegar Drottinn talaði við yður hjá Hóreb út úr eldinum, _ 4.16 að þér ekki mannspillið yður á því að búa yður til skurðgoð í mynd einhvers líkneskis, hvort heldur er í líki karls eða konu, 4.17 í líki einhvers ferfætlings, sem til er á jörðinni, í líki einhvers fleygs fugls, er flýgur í loftinu, 4.18 í líki einhvers dýrs, sem skríður á jörðinni, eða í líki einhvers fisks, sem til er í vötnunum undir jörðinni, 4.19 og að þú eigi, þegar þú lyftir augum þínum til himins og sér sólina, tunglið og stjörnurnar, allan himinsins her, látir tælast til þess að falla fram fyrir þeim og dýrka þau. Því að Drottinn Guð þinn hefir skipt þeim meðal allra þjóða undir himninum. 4.20 Yður hefir Drottinn tekið að sér og leitt yður út úr járnbræðsluofninum, út úr Egyptalandi, svo að þér skylduð verða eignarþjóð hans, sem og hefir verið til þessa. 4.21 Drottinn reiddist mér yðar vegna, svo að hann sór, að ég skyldi ekki komast yfir Jórdan og ekki komast inn í góða landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar, 4.22 heldur hlýt ég að deyja í þessu landi og fæ ekki að komast yfir Jórdan. En þér munuð komast yfir um og fá þetta góða land til eignar. 4.23 Gætið yðar, að þér gleymið ekki sáttmálanum, er Drottinn Guð yðar hefir við yður gjört, og búið yður ekki til skurðgoð í mynd einhvers þess, er Drottinn Guð þinn hefir bannað þér. 4.24 Því að Drottinn Guð þinn er eyðandi eldur, vandlátur Guð. 4.25 Þegar þér hafið getið börn og barnabörn, og hafið ílengst í landinu, _ ef þér þá mannspillið yður á því að búa til skurðgoð í einhverri mynd og gjörið það, sem illt er í augum Drottins Guðs yðar, svo að þér egnið hann til reiði, 4.26 þá kveð ég í dag bæði himin og jörð til vitnis móti yður, að þá munuð þér brátt eyðast úr því landi, er þér haldið nú inn í yfir Jórdan til þess að fá það til eignar. Þér munuð þá eigi lifa þar mörg árin, heldur verða gjöreyddir. 4.27 Og Drottinn mun þá dreifa yður meðal þjóðanna, svo að af yður skal einungis eftir verða lítill hópur meðal heiðingja þeirra, er Drottinn leiðir yður burt til. 4.28 Þar munuð þér þjóna þeim guðum, sem eru handaverk manna, stokkar og steinar, sem eigi sjá og eigi heyra og eigi eta og eigi finna lykt. 4.29 Þar munt þú leita Drottins Guðs þíns, og þú munt finna hann, ef þú leitar hans af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni. 4.30 Þegar þú ert í nauðum staddur og allt þetta kemur yfir þig, þá munt þú, á komandi tímum, snúa þér til Drottins Guðs þíns og hlýða hans röddu. 4.31 Því að Drottinn Guð þinn er miskunnsamur Guð. Hann mun eigi yfirgefa þig né afmá þig, og hann mun eigi gleyma sáttmálanum, er hann sór feðrum þínum. 4.32 Spyr þig fyrir um fyrri tíma, sem verið hafa á undan þér, allt frá þeim tíma, er Guð skóp mennina á jörðinni, og frá einu heimsskauti til annars, hvort nokkurn tíma hafi orðið svo miklir hlutir eða nokkuð slíkt heyrst, 4.33 hvort nokkur þjóð hafi heyrt raust Guðs út úr eldinum, eins og þú hefir heyrt, og þó haldið lífi. 4.34 Eða hvort Guð hefir til reynt nokkurn tíma að koma sjálfur til þess að ná þjóð af annarri þjóð með máttarverkum, táknum og undrum, með styrjöld, sterkri hendi, útréttum armlegg og miklum skelfingum, eins og Drottinn Guð þinn gjörði við yður í Egyptalandi í augsýn þinni. 4.35 Þetta hefir þú fengið að sjá, svo að þú mættir vita, að Drottinn, hann er Guð, og enginn nema hann einn. 4.36 Af himni hefir hann látið þig heyra sína raust til þess að kenna þér, og á jörðu hefir hann látið þig sjá hinn mikla eld sinn, og þú hefir heyrt orð hans út úr eldinum. 4.37 Og fyrir því að hann elskaði feður þína og útvaldi niðja þeirra eftir þá og leiddi þig sjálfur af Egyptalandi með hinum mikla mætti sínum 4.38 til þess að stökkva burt undan þér þjóðum, sem eru stærri og sterkari en þú ert, en leiða þig þangað og gefa þér land þeirra til eignar, eins og nú er fram komið, 4.39 þá ber þér í dag að kannast við það og hugfesta það, að Drottinn, hann er Guð á himnum uppi og á jörðu niðri og enginn annar. 4.40 Þú skalt varðveita boð hans og skipanir, sem ég legg fyrir þig í dag, svo að þér vegni vel og börnum þínum eftir þig, og til þess að þú alla daga megir dvelja langa ævi í landinu, sem Drottinn Guð þinn gefur þér. 4.41 Þá skildi Móse frá þrjár borgir hinumegin Jórdanar, austanmegin, 4.42 til þess að þangað mætti flýja hver sá vegandi, er óviljandi hefði vegið náunga sinn og eigi verið óvinur hans áður _ að hann mætti flýja í einhverja af borgum þessum og halda lífi: 4.43 Beser í eyðimörkinni á sléttlendinu handa Rúbenítum, Ramót í Gíleað handa Gaðítum og Gólan í Basan handa Manassítum. 4.44 Þetta er lögmálið, sem Móse lagði fyrir Ísraelsmenn. 4.45 Þetta eru fyrirmæli þau, lög og ákvæði, sem Móse birti Ísraelsmönnum, þá er þeir fóru af Egyptalandi, 4.46 hinumegin Jórdanar, í dalnum gegnt Bet Peór í landi Síhons Amorítakonungs, sem hafði aðsetur í Hesbon og Móse og Ísraelsmenn felldu, er þeir fóru af Egyptalandi. 4.47 Þeir lögðu undir sig land hans, svo og land Ógs, konungs í Basan, land Amorítakonunganna beggja, hinumegin Jórdanar, austanmegin, 4.48 frá Aróer, sem liggur á bakka Arnonár, allt til Síón, það er Hermon, 4.49 og allt sléttlendið hinumegin Jórdanar, austanmegin, allt að vatninu á sléttlendinu undir Pisgahlíðum.
5.1 Móse kallaði saman allan Ísrael og sagði við þá: Heyr þú, Ísrael, lög þau og ákvæði, sem ég birti yður í dag. Lærið þau og varðveitið þau, svo að þér haldið þau. 5.2 Drottinn Guð vor gjörði við oss sáttmála á Hóreb. 5.3 Ekki gjörði Drottinn þennan sáttmála við feður vora, heldur við oss, oss sem hér erum allir lifandi í dag. 5.4 Drottinn talaði við yður á fjallinu augliti til auglitis út úr eldinum. 5.5 Ég stóð þá á milli Drottins og yðar til þess að flytja yður orð Drottins, því að þér hræddust eldinn og fóruð ekki upp á fjallið. Hann sagði: 5.6 'Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. 5.7 Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. 5.8 Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér, engar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eða því, sem er á jörðu niðri, eða því, sem er í vötnunum undir jörðinni. 5.9 Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, og í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata, 5.10 en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín. 5.11 Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma. 5.12 Gættu þess að halda hvíldardaginn heilagan, eins og Drottinn Guð þinn hefir boðið þér. 5.13 Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk, 5.14 en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín, uxi þinn eða asni eða nokkur skepna, eða útlendingur, sem hjá þér er innan þinna borgarhliða, svo að þræll þinn og ambátt þín geti hvílt sig eins og þú. 5.15 Og minnstu þess, að þú varst þræll á Egyptalandi og að Drottinn Guð þinn leiddi þig út þaðan með sterkri hendi og útréttum armlegg. Þess vegna bauð Drottinn Guð þinn þér að halda hvíldardaginn. 5.16 Heiðra föður þinn og móður þína, eins og Drottinn Guð þinn hefir boðið þér, svo að þú verðir langlífur og svo að þér vegni vel í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér. 5.17 Þú skalt ekki morð fremja. 5.18 Þú skalt ekki drýgja hór. 5.19 Þú skalt ekki stela. 5.20 Þú skalt ekki bera falsvitni gegn náunga þínum. 5.21 Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, og ekki ágirnast hús náunga þíns, ekki land hans, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á.' 5.22 Þessi orð talaði Drottinn með hárri röddu til alls safnaðar yðar á fjallinu út úr eldinum, skýinu og sortanum. Bætti hann þar engu við, og hann ritaði þau á tvær steintöflur og fékk mér þær. 5.23 Er þér heyrðuð röddina út úr myrkrinu og fjallið stóð í björtu báli, þá genguð þér til mín, allir höfðingjar ættkvísla yðar og öldungar yðar, 5.24 og sögðuð: 'Sjá, Drottinn Guð vor hefir sýnt oss dýrð sína og mikilleik, og vér heyrðum rödd hans úr eldinum. Vér höfum séð það í dag, að Guð getur talað við mann, og maðurinn þó haldið lífi. 5.25 Hví skulum vér þá deyja? því að þessi mikli eldur ætlar að eyða oss. Ef vér höldum áfram að hlusta á raust Drottins Guðs vors, munum vér deyja. 5.26 Því að hver er sá af öllu holdi, að hann hafi heyrt rödd hins lifandi Guðs tala út úr eldinum, eins og vér, og þó haldið lífi? 5.27 Far þú og hlýð þú á allt það, sem Drottinn Guð vor segir, og seg þú oss allt það, er Drottinn Guð vor talar við þig, svo að vér megum hlýða á það og breyta eftir því.' 5.28 Drottinn heyrði ummæli yðar, er þér töluðuð við mig, og Drottinn sagði við mig: 'Ég heyrði ummæli þessa fólks, er þeir töluðu við þig. Er það allt vel mælt, sem þeir sögðu. 5.29 Ó, að þeir hefðu slíkt hugarfar, að þeir óttuðust mig og varðveittu allar skipanir mínar alla daga, svo að þeim vegni vel og börnum þeirra um aldur og ævi. 5.30 Far þú og seg þeim: ,Hverfið aftur í tjöld yðar!` 5.31 En þú, þú skalt standa hér hjá mér meðan ég legg fyrir þig allar þær skipanir, lög og ákvæði, sem þú átt að kenna þeim, svo að þeir breyti eftir þeim í því landi, sem ég gef þeim til eignar.' 5.32 Gætið því þess að gjöra svo sem Drottinn Guð yðar hefir boðið yður. Víkið eigi frá því, hvorki til hægri né vinstri. 5.33 Gangið í öllu þann veg, sem Drottinn Guð yðar hefir boðið yður, svo að þér megið lífi halda og yður vegni vel og þér lifið lengi í landinu, sem þér fáið til eignar.
6.1 Þetta eru þá skipanir þær, lög og ákvæði, sem Drottinn Guð yðar hefir boðið, að þér skylduð læra og breyta eftir í því landi, er þér haldið nú yfir til, til þess að fá það til eignar, 6.2 svo að þú óttist Drottin Guð þinn og varðveitir öll lög hans og skipanir, sem ég legg fyrir þig, bæði þú sjálfur og sonur þinn og sonarsonur þinn, alla ævidaga þína og svo að þú verðir langlífur. 6.3 Heyr því, Ísrael, og gæt þess að breyta eftir þeim, svo að þér vegni vel og yður megi fjölga stórum, eins og Drottinn, Guð feðra þinna, hefir heitið þér, í landi, sem flýtur í mjólk og hunangi. 6.4 Heyr Ísrael! Drottinn er vor Guð; hann einn er Drottinn! 6.5 Þú skalt elska Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni og af öllum mætti þínum. 6.6 Þessi orð, sem ég legg fyrir þig í dag, skulu vera þér hugföst. 6.7 Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum og tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur. 6.8 Þú skalt binda þau til merkis á hönd þér og hafa þau sem minningarbönd á milli augna þinna 6.9 og þú skalt skrifa þau á dyrastafi húss þíns og á borgarhlið þín. 6.10 Þegar Drottinn Guð þinn leiðir þig inn í landið, sem hann sór feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakob, að gefa þér, stórar og fagrar borgir, sem þú hefir ekki reist, 6.11 og hús full af öllum góðum hlutum, án þess að þú hafir fyllt þau, og úthöggna brunna, sem þú hefir eigi út höggvið, víngarða og olíutré, sem þú hefir ekki gróðursett, og þú etur og verður saddur, 6.12 þá gæt þú þín, að þú gleymir ekki Drottni, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. 6.13 Drottin Guð þinn skalt þú óttast, og hann skalt þú dýrka og við nafn hans skalt þú sverja. 6.14 Eigi skuluð þér elta neina aðra guði af guðum þjóða þeirra, er umhverfis yður búa _, 6.15 því að Drottinn Guð þinn, sem býr hjá þér, er vandlátur Guð, _ til þess að eigi upptendrist reiði Drottins Guðs þíns í gegn þér og hann eyði þér úr landinu. 6.16 Eigi skuluð þér freista Drottins Guðs yðar, eins og þér freistuðuð hans í Massa. 6.17 Varðveitið kostgæfilega skipanir Drottins Guðs yðar og fyrirmæli hans og lög, þau er hann hefir fyrir þig lagt. 6.18 Þú skalt gjöra það, sem rétt er og gott í augum Drottins, svo að þér vegni vel og þú komist inn í og fáir til eignar landið góða, sem Drottinn sór feðrum þínum, 6.19 með því að hann stökkvir burt öllum óvinum þínum undan þér, eins og Drottinn hefir heitið. 6.20 Þegar sonur þinn spyr þig á síðan og segir: 'Hvað eiga fyrirmælin, lögin og ákvæðin að þýða, sem Drottinn Guð vor hefir fyrir yður lagt?' 6.21 þá skalt þú segja við son þinn: 'Vér vorum þrælar Faraós í Egyptalandi, en Drottinn leiddi oss af Egyptalandi með sterkri hendi. 6.22 Og hann gjörði mikil og skæð tákn og undur á hendur Egyptalandi, Faraó og öllu húsi hans að oss ásjáandi. 6.23 Og hann leiddi oss út þaðan til þess að fara með oss hingað og gefa oss landið, sem hann sór feðrum vorum. 6.24 Og hann bauð oss að halda öll þessi lög með því að óttast Drottin Guð vorn, svo að oss mætti vegna vel alla daga og hann halda oss á lífi, eins og allt til þessa. 6.25 Og vér munum taldir verða réttlátir, ef vér gætum þess að breyta eftir öllum þessum skipunum fyrir augliti Drottins Guðs vors, eins og hann hefir boðið oss.'
7.1 Þegar Drottinn Guð þinn leiðir þig inn í landið, sem þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar, og hann hefir stökkt burt undan þér mörgum þjóðum: Hetítum, Gírgasítum, Amorítum, Kanaanítum, Peresítum, Hevítum og Jebúsítum, sjö þjóðum, sem eru fjölmennari og voldugri en þú, _ 7.2 og er Drottinn Guð þinn gefur þær á vald þitt og þú sigrast á þeim, þá skalt þú gjöreyða þeim. Þú skalt eigi gjöra sáttmála við þær né sýna þeim vægð. 7.3 Og eigi skalt þú mægjast við þær. Þú skalt hvorki gefa sonum þeirra dætur þínar né heldur taka dætur þeirra til handa sonum þínum. 7.4 Því að þær mundu snúa sonum þínum frá hlýðni við mig og koma þeim til að dýrka aðra guði. Mundi reiði Drottins þá upptendrast í gegn yður og hann eyða þér skyndilega. 7.5 Heldur skuluð þér svo með þá fara: Þér skuluð rífa niður ölturu þeirra, brjóta í sundur merkissteina þeirra, höggva sundur asérur þeirra og brenna skurðgoð þeirra í eldi. 7.6 Því að þú ert Drottni Guði þínum helgaður lýður. Þig hefir Drottinn Guð þinn kjörið til að vera eignarlýður hans um fram allar þjóðir, sem eru á yfirborði jarðarinnar. 7.7 Ekki var það fyrir þá sök, að þér væruð fjölmennari en allar aðrar þjóðir, að Drottinn lagði ást á yður og kjöri yður, því að þér eruð allra þjóða minnstir. 7.8 En sökum þess að Drottinn elskar yður og af því að hann vildi halda eiðinn, sem hann sór feðrum yðar, þá leiddi hann yður burt með sterkri hendi og leysti þig úr þrælahúsinu, undan valdi Faraós, Egyptalandskonungs. 7.9 Fyrir því skalt þú vita, að Drottinn Guð þinn er hinn sanni Guð, hinn trúfasti Guð, er heldur sáttmálann og miskunnsemina í þúsund ættliði við þá, sem elska hann og varðveita boðorð hans. 7.10 En þeim, sem hann hata, geldur hann líka hverjum og einum sjálfum með því að láta þá farast. Hann dregur það eigi fyrir þeim, sem hata hann; hverjum og einum geldur hann þeim sjálfum. 7.11 Fyrir því skalt þú varðveita skipanir þær, lög og ákvæði, sem ég legg fyrir þig í dag, svo að þú breytir eftir þeim. 7.12 Ef þér nú hlýðið lögum þessum og varðveitið þau og breytið eftir þeim, þá mun Drottinn Guð þinn halda við þig þann sáttmála og miskunnsemi, sem hann sór feðrum þínum. 7.13 Hann mun elska þig, blessa þig og margfalda þig, og hann mun blessa ávöxt kviðar þíns og ávöxt lands þíns, korn þitt, aldinlög þinn og olíu þína, viðkomu nautgripa þinna og burði hjarðar þinnar í landinu, sem hann sór feðrum þínum að gefa þér. 7.14 Þú munt blessuð verða öllum þjóðum framar, meðal karlmanna þinna og kvenmanna skal enginn vera ófrjósamur, né heldur meðal fénaðar þíns. 7.15 Og Drottinn mun bægja frá þér hvers konar sjúkleik, og enga af hinum vondu egypsku sóttum, sem þú þekkir, mun hann á þig leggja, heldur mun hann senda þær öllum þeim, er þig hata. 7.16 En þú skalt eyða öllum þeim þjóðum, sem Drottinn Guð þinn gefur á þitt vald. Þú skalt ekki líta þær vægðarauga og þú skalt eigi dýrka guði þeirra, því að það mundi verða þér að tálsnöru. 7.17 Ef þú skyldir segja í hjarta þínu: 'Þessar þjóðir eru fjölmennari en ég; hvernig fæ ég rekið þær burt?' 7.18 þá ver þú ekki hræddur við þær. Minnstu þess, hvað Drottinn Guð þinn gjörði við Faraó og alla Egypta, 7.19 hinna miklu máttarverka, er þú sást með eigin augum, táknanna og stórmerkjanna, og hvernig Drottinn Guð þinn leiddi þig út með sterkri hendi og útréttum armlegg. Eins mun Drottinn, Guð þinn, fara með allar þær þjóðir, sem þú nú ert hræddur við. 7.20 Já, jafnvel skelfingu mun Drottinn Guð þinn senda meðal þeirra, uns allir þeir eru dauðir, sem eftir hafa orðið og falið hafa sig fyrir þér. 7.21 Þú skalt ekki hræðast þá, því að Drottinn, Guð þinn, er með þér, hinn mikli og ógurlegi Guð. 7.22 Drottinn Guð þinn mun stökkva þessum þjóðum á burt undan þér smám saman; þú mátt ekki eyða þeim skjótlega, svo að villidýrunum fjölgi eigi um of fyrir þig. 7.23 En Drottinn Guð þinn mun gefa þær á þitt vald og koma miklum ruglingi á þær, uns þær eru gjöreyddar. 7.24 Og hann mun gefa konunga þeirra í hendur þér, og þú munt afmá nöfn þeirra undir himninum. Enginn mun standast fyrir þér, uns þú hefir gjöreytt þeim. 7.25 Skurðlíkneski guða þeirra skalt þú brenna í eldi. Þú skalt eigi girnast silfrið og gullið, sem á þeim er, né taka það handa þér, svo að það verði þér eigi að tálsnöru, því að slíkt er andstyggilegt fyrir Drottni Guði þínum. 7.26 Og eigi skalt þú færa andstyggilegan hlut inn í hús þitt, svo að þú fallir ekki í sama bannið, sem hann er í. Þú skalt hafa megnan viðbjóð og andstyggð á því, því að það er bannfærður hlutur.
8.1 Öll þau boðorð, sem ég legg fyrir yður í dag, skuluð þér varðveita til eftirbreytni, svo að þér megið lifa og margfaldast og komast inn í landið, sem Drottinn sór feðrum yðar, og fá það til eignar. 8.2 Þú skalt minnast þess, hversu Drottinn Guð þinn hefir leitt þig alla leiðina þessi fjörutíu ár í eyðimörkinni til þess að auðmýkja þig og reyna þig, svo að hann kæmist að raun um, hvað þér býr í hjarta, hvort þú mundir halda boðorð hans eða ekki. 8.3 Hann auðmýkti þig og lét þig þola hungur og gaf þér síðan manna að eta, sem þú eigi þekktir áður né heldur feður þínir þekktu, svo að þú skyldir sjá, að maðurinn lifir eigi á einu saman brauði, heldur að maðurinn lifir á sérhverju því, er fram gengur af munni Drottins. 8.4 Klæði þín hafa ekki slitnað á þér og fætur þínir hafa ekki þrútnað í þessi fjörutíu ár. 8.5 Ver því sannfærður um það, að eins og maður agar son sinn, svo agar Drottinn Guð þinn þig. 8.6 Varðveittu boðorð Drottins Guðs þíns, svo að þú gangir á hans vegum og óttist hann. 8.7 Drottinn Guð þinn leiðir þig inn í gott land, inn í land, þar sem nóg er af vatnslækjum, lindum og djúpum vötnum, sem spretta upp í dölum og á fjöllum, 8.8 inn í land, þar sem nóg er af hveiti og byggi, vínviði, fíkjutrjám og granateplatrjám, inn í land, þar sem nóg er af olíutrjám og hunangi, 8.9 inn í land, þar sem þú munt ekki eiga við fátækt að búa og þar sem þig mun ekkert bresta, inn í land, þar sem steinarnir eru járn og þar sem þú getur grafið kopar úr fjöllunum. 8.10 Og þegar þú hefir etið og ert orðinn mettur, þá skalt þú vegsama Drottin Guð þinn fyrir landið góða, sem hann gaf þér. 8.11 Gæt þín, að þú gleymir ekki Drottni Guði þínum og haldir svo eigi boðorð hans, ákvæði og lög, sem ég legg fyrir þig í dag. 8.12 Lát eigi, þegar þú hefir etið og ert mettur orðinn og hefir reist fögur hús og býr í þeim, 8.13 þegar nautgripum þínum og sauðfénaði þínum fjölgar, þegar silfur þitt og gull eykst og allt sem þú átt, 8.14 lát þá eigi hjarta þitt ofmetnast og gleym eigi Drottni Guði þínum, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu, 8.15 sem leiddi þig um eyðimörkina miklu og hræðilegu, þar sem voru eitraðir höggormar og sporðdrekar og vatnslaust þurrlendi, og leiddi fram vatn handa þér af tinnuhörðum klettinum, 8.16 hann sem gaf þér manna að eta í eyðimörkinni, er feður þínir eigi þekktu, svo að hann gæti auðmýkt þig og svo að hann gæti reynt þig, en gjört síðan vel við þig á eftir. 8.17 Og seg þú ekki í hjarta þínu: 'Minn eigin kraftur og styrkur handar minnar hefir aflað mér þessara auðæfa.' 8.18 Minnstu heldur Drottins Guðs þíns, því að hann er sá, sem veitir þér kraft til að afla auðæfanna, til þess að hann fái haldið þann sáttmála, er hann sór feðrum þínum, eins og líka fram hefir komið til þessa. 8.19 En ef þú gleymir Drottni Guði þínum og eltir aðra guði, dýrkar þá og fellur fram fyrir þeim, þá votta ég yður í dag, að þér munuð gjörsamlega farast. 8.20 Eins og þjóðirnar, er Drottinn eyðir fyrir yður, svo munuð þér og farast, af því að þér hlýdduð ekki röddu Drottins Guðs yðar.
9.1 Heyr Ísrael! Þú fer nú í dag yfir Jórdan til þess að leggja undir þig þjóðir, sem eru stærri og voldugri en þú ert, stórar borgir og víggirtar hátt í loft upp, 9.2 stórt og hávaxið fólk, Anakítana, sem þú þekkir og hefir sjálfur heyrt sagt um: 'Hver fær staðist fyrir Anaks sonum?' 9.3 Vit það því nú, að það er Drottinn Guð þinn, er fyrir þér fer sem eyðandi eldur. Hann mun eyða þeim og leggja þær að velli fyrir augliti þínu, svo að þú skjótlega getir rekið þær burt og gjöreytt þeim, eins og Drottinn hefir heitið þér. 9.4 Þegar Drottinn Guð þinn hefir rekið þær á burt undan þér, þá mátt þú ekki segja í hjarta þínu: 'Sökum míns eigin réttlætis hefir Drottinn leitt mig inn í þetta land og fengið mér það til eignar,' þar eð það er vegna guðleysis þessara þjóða, að Drottinn stökkvir þeim á burt undan þér. 9.5 Það er ekki vegna réttlætis þíns eða hreinskilni hjarta þíns, að þú fær land þeirra til eignar, heldur er það vegna guðleysis þessara þjóða, að Drottinn Guð þinn stökkvir þeim á burt undan þér, og til þess að halda það loforð, er Drottinn sór feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakob. 9.6 Vita skaltu því, að það er ekki vegna réttlætis þíns, að Drottinn, Guð þinn, gefur þér þetta góða land til eignar, því að þú ert harðsvíraður lýður. 9.7 Minnstu þess og gleym því eigi, hvernig þú reittir Drottin Guð þinn til reiði í eyðimörkinni. Frá því þú fyrst lagðir af stað úr Egyptalandi og þar til, er þér komuð hingað, hafið þér óhlýðnast Drottni. 9.8 Hjá Hóreb reittuð þér Drottin til reiði, og Drottinn reiddist yður svo, að hann ætlaði að tortíma yður. 9.9 Ég var þá farinn upp á fjallið til þess að taka á móti steintöflunum, töflunum, sem sáttmálinn var á, er Drottinn hafði gjört við yður, og ég dvaldi á fjallinu í fjörutíu daga og fjörutíu nætur, án þess að neyta matar eða drekka vatn. 9.10 Drottinn fékk mér tvær steintöflur, ritaðar með fingri Guðs, og á þeim voru öll þau orð, er Drottinn hafði talað til yðar á fjallinu út úr eldinum, daginn sem þér voruð þar saman komnir. 9.11 Og er fjörutíu dagar og fjörutíu nætur voru liðnar, fékk Drottinn mér báðar steintöflurnar, sáttmálstöflurnar. 9.12 Drottinn sagði við mig: 'Statt þú upp, far þú skjótt niður héðan, því að fólk þitt, sem þú leiddir burt af Egyptalandi, hefir misgjört. Skjótt hafa þeir vikið af þeim vegi, sem ég bauð þeim; þeir hafa gjört sér steypt líkneski.' 9.13 Og hann sagði við mig: 'Ég sé nú, að þessi lýður er harðsvírað fólk. 9.14 Lát mig í friði, svo að ég geti gjöreytt þeim og afmáð nöfn þeirra undir himninum, og ég mun gjöra þig að sterkari og fjölmennari þjóð en þessi er.' 9.15 Þá sneri ég á leið og gekk ofan af fjallinu, en fjallið stóð í björtu báli, og hélt ég á báðum sáttmálstöflunum í höndunum. 9.16 Og ég leit til, og sjá: Þér höfðuð syndgað móti Drottni, Guði yðar, þér höfðuð gjört yður steyptan kálf og höfðuð þannig skjótt vikið af þeim vegi, sem Drottinn hafði boðið yður. 9.17 Þá þreif ég báðar töflurnar og þeytti þeim af báðum höndum og braut þær í sundur fyrir augunum á yður. 9.18 Og ég varp mér niður fyrir augliti Drottins, eins og hið fyrra sinnið, fjörutíu daga og fjörutíu nætur, og át ekki brauð og drakk ekki vatn, vegna allra yðar synda, sem þér höfðuð drýgt með því að gjöra það, sem illt var í augum Drottins, svo að þér egnduð hann til reiði. 9.19 Því að ég var hræddur við þá reiði og heift, sem Drottinn bar til yðar, að hann ætlaði að tortíma yður. Og Drottinn bænheyrði mig einnig í þetta sinn. 9.20 Drottinn reiddist einnig mjög Aroni, svo að hann ætlaði að tortíma honum, en ég bað og fyrir Aroni í það sama sinn. 9.21 En synd yðar, kálfinn, sem þér höfðuð gjört, tók ég og brenndi í eldi og muldi hann vandlega í smátt, uns hann varð að fínu dufti, og duftinu kastaði ég í lækinn, sem rann þar ofan af fjallinu. 9.22 Enn fremur reittuð þér Drottin til reiði í Tabera, í Massa og hjá Kibrót-hattava. 9.23 Og þegar Drottinn sendi yður frá Kades Barnea og sagði: 'Farið og takið til eignar landið, sem ég hefi gefið yður,' þá óhlýðnuðust þér skipun Drottins Guðs yðar og trúðuð honum ekki og hlýdduð ekki raustu hans. 9.24 Þér hafið verið Drottni óhlýðnir frá því ég þekkti yður fyrst. 9.25 Svo féll ég fram fyrir augliti Drottins þá fjörutíu daga og fjörutíu nætur, sem ég varp mér niður, því að hann kvaðst mundu tortíma yður. 9.26 Og ég bað Drottin og sagði: 'Drottinn Guð! Eyðilegg eigi þinn lýð og þína eign, sem þú frelsaðir með þínum mikla krafti, sem þú út leiddir af Egyptalandi með voldugri hendi. 9.27 Minnstu þjóna þinna, Abrahams, Ísaks og Jakobs! Lít ekki á þvermóðsku þessa fólks, guðleysi þess og synd, 9.28 svo að menn geti eigi sagt í landi því, sem þú leiddir oss út úr: ,Af því að Drottinn megnaði eigi að leiða þá inn í landið, sem hann hafði heitið þeim, og af því að hann hataði þá, hefir hann farið með þá burt til þess að láta þá deyja í eyðimörkinni.` 9.29 Því að þín þjóð eru þeir og þín eign, sem þú út leiddir með miklum mætti þínum og útréttum armlegg þínum.'
10.1 Í það sama sinn sagði Drottinn við mig: 'Högg þér tvær töflur af steini, eins og hinar fyrri voru, og kom til mín upp á fjallið. Þú skalt og gjöra þér örk af tré. 10.2 Ég ætla að rita á töflurnar þau orð, sem stóðu á hinum fyrri töflunum, er þú braust í sundur, og skalt þú síðan leggja þær í örkina.' 10.3 Ég gjörði þá örk af akasíuviði og hjó tvær töflur af steini eins og hinar fyrri, gekk því næst upp á fjallið með báðar töflurnar í hendi mér. 10.4 Þá ritaði Drottinn á töflurnar með sama letri og áður tíu boðorðin, þau er hann hafði talað til yðar á fjallinu út úr eldinum, daginn sem þér voruð þar saman komnir. Síðan fékk hann mér þær. 10.5 Þá sneri ég á leið og gekk ofan af fjallinu og lagði töflurnar í örkina, er ég hafði gjört, og þar voru þær geymdar, eins og Drottinn hafði fyrir mig lagt. ( 10.6 Ísraelsmenn fóru frá Beerót Bene Jaakan til Mósera. Þar dó Aron og var jarðaður þar, og Eleasar sonur hans varð prestur í hans stað. 10.7 Þaðan fóru þeir til Gúdgóda, og frá Gúdgóda til Jotbata, þar sem gnægð er vatnslækja. 10.8 Þá skildi Drottinn ættkvísl Leví frá til þess að bera sáttmálsörk Drottins, til þess að standa frammi fyrir Drottni og þjóna honum og til að blessa í hans nafni, og er svo enn í dag. 10.9 Fyrir því fékk Leví eigi hlut né óðal með bræðrum sínum. Drottinn er óðal hans, eins og Drottinn Guð þinn hefir heitið honum.) 10.10 En ég dvaldi á fjallinu fjörutíu daga og fjörutíu nætur, eins og hið fyrra sinnið, og Drottinn bænheyrði mig einnig í þetta skiptið: Drottinn vildi ekki tortíma þér. 10.11 Og Drottinn sagði við mig: 'Tak þig upp og hald af stað, til þess að þú megir fara fyrir lýðnum, er hann leggur upp, svo að þeir komist inn í og fái til eignar land það, sem ég sór feðrum þeirra að gefa þeim.' 10.12 Og nú, Ísrael, hvers krefst Drottinn Guð þinn af þér nema þess, að þú óttist Drottin Guð þinn og gangir því ávallt á hans vegum, og að þú elskir hann og að þú þjónir Drottni Guði þínum af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni 10.13 með því að halda skipanir hans og lög, er ég legg fyrir þig í dag, og þér er fyrir bestu? 10.14 Sjá, Drottni Guði þínum heyrir himinninn og himnanna himnar, jörðin og allt, sem á henni er, 10.15 og þó hneigðist Drottinn að feðrum þínum einum, svo að hann elskaði þá, og hann útvaldi yður, niðja þeirra, eftir þá af öllum þjóðum, og er svo enn í dag. 10.16 Umskerið því yfirhúð hjarta yðar og verið ekki lengur harðsvíraðir. 10.17 Því að Drottinn Guð yðar, hann er Guð guðanna og Drottinn drottnanna, hinn mikli, voldugi og óttalegi Guð, sem eigi gjörir sér mannamun og þiggur eigi mútur. 10.18 Hann rekur réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar og elskar útlendinginn, svo að hann gefur honum fæði og klæði. 10.19 Elskið því útlendinginn, því að þér voruð sjálfir útlendingar í Egyptalandi. 10.20 Drottin Guð þinn skalt þú óttast, hann skalt þú dýrka, við hann skalt þú halda þér fast og við nafn hans skalt þú sverja. 10.21 Hann er þinn lofstír og hann er þinn Guð, sá er gjört hefir fyrir þig þessa miklu og óttalegu hluti, sem augu þín hafa séð. 10.22 Sjötíu að tölu voru feður þínir, þá er þeir fóru til Egyptalands, en nú hefir Drottinn Guð þinn gjört þig að fjölda til sem stjörnur himins.
11.1 Fyrir því skalt þú elska Drottin Guð þinn og varðveita boðorð hans, lög, ákvæði og skipanir alla daga. 11.2 Viðurkennið í dag _ því að ekki á ég orðastað við börn yðar, sem eigi hafa þekkt það né séð _, viðurkennið ögun Drottins Guðs yðar, mikilleik hans, hina sterku hönd hans og útréttan armlegg hans, 11.3 tákn hans og verk, sem hann gjörði í Egyptalandi á Faraó Egyptalandskonungi og öllu landi hans, 11.4 hversu hann fór með herlið Egypta, hesta þeirra og vagna, hversu hann lét vötn Sefhafsins flæða yfir þá, er þeir veittu yður eftirför, og tortímdi þeim fram á þennan dag, 11.5 og hversu hann gjörði til yðar í eyðimörkinni allt til þess er þér komuð hingað, 11.6 og hversu hann fór með Datan og Abíram, sonu Elíabs Rúbenssonar, hversu jörðin lauk upp munni sínum og svalg þá mitt á meðal allra Ísraelsmanna, ásamt fjölskyldum þeirra og tjöldum og öllum lifandi skepnum, sem voru í fylgd með þeim. 11.7 Því að augu yðar hafa séð öll hin miklu verk, sem Drottinn hefir gjört. 11.8 Fyrir því skuluð þér varðveita allar þær skipanir, sem ég legg fyrir þig í dag, til þess að þér verðið sterkir, komist inn í og fáið til eignar land það, er þér haldið nú yfir til, til þess að taka það til eignar, 11.9 og til þess að þér megið lifa langa ævi í landinu, sem Drottinn sór feðrum yðar að gefa þeim og niðjum þeirra, _ landi, sem flýtur í mjólk og hunangi. 11.10 Landið sem þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar, það er ekki eins og Egyptaland, þaðan sem þér fóruð, þar sem þú sáðir sæði þínu og vökvaðir landið með fæti þínum eins og kálgarð, 11.11 heldur er land það, er þér haldið nú yfir til, til þess að taka það til eignar, fjallaland og dala, og drekkur vatn af himnum þegar rignir, 11.12 land, sem Drottinn Guð þinn annast. Stöðuglega hvíla augu Drottins Guðs þíns yfir því frá ársbyrjun til ársloka. 11.13 Ef þér hlýðið skipunum mínum trúlega, þeim er ég legg fyrir yður í dag: að elska Drottin Guð yðar, og þjóna honum af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar, _ 11.14 þá mun ég gefa landi yðar regn á réttum tíma, haustregn og vorregn, svo að þú megir hirða korn þitt, aldinlög þinn og olíu þína. 11.15 Þá mun ég og láta gras spretta í högum þínum handa skepnum þínum, svo að þú megir eta og saddur verða. 11.16 Gætið yðar, að hjarta yðar láti ekki tælast og þér víkið ekki af leið og dýrkið aðra guði og fallið fram fyrir þeim, 11.17 ella mun reiði Drottins upptendrast í gegn yður, og hann mun loka himninum, svo að eigi komi regn og jörðin gefi eigi ávöxt sinn, og þér munuð skjótlega eyðast úr landinu góða, sem Drottinn gefur yður. 11.18 Fyrir því skuluð þér leggja þessi orð mín á hjarta yðar og huga, og þér skuluð binda þau til merkis á hönd yðar og hafa þau sem minningarbönd á milli augna yðar. 11.19 Og þér skuluð kenna þau börnum yðar með því að tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur. 11.20 Og þú skalt skrifa þau á dyrastafi húss þíns og á borgarhlið þín, 11.21 til þess að þér og börn yðar megið lifa í landinu, sem Drottinn sór feðrum yðar að gefa þeim, svo lengi sem himinn er yfir jörðu. 11.22 Ef þér varðveitið kostgæfilega allar þessar skipanir, sem ég legg fyrir yður að halda: að elska Drottin Guð yðar, að ganga ávallt á hans vegum og halda yður fast við hann, _ 11.23 þá mun Drottinn stökkva burt undan yður öllum þessum þjóðum, og þér munuð leggja undir yður þjóðir, sem eru stærri og voldugri en þér. 11.24 Hver sá staður, er þér stígið fæti á, skal verða yðar eign. Frá eyðimörkinni allt til Líbanon, frá fljótinu, Efratfljótinu, allt til vesturhafsins skal land yðar ná. 11.25 Enginn mun standast fyrir yður. Ótta við yður og skelfingu mun Drottinn Guð yðar láta koma yfir hvert það land, er þér stígið fæti á, eins og hann hefir heitið yður. 11.26 Sjá, ég legg fyrir yður í dag blessun og bölvun: 11.27 blessunina, ef þér hlýðið skipunum Drottins Guðs yðar, sem ég býð yður í dag, 11.28 en bölvunina, ef þér hlýðið ekki skipunum Drottins Guðs yðar og víkið af þeim vegi, sem ég býð yður í dag, til þess að elta aðra guði, sem þér eigi hafið þekkt. 11.29 Þegar Drottinn Guð þinn leiðir þig inn í landið, sem þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar, þá skalt þú leggja blessunina á Garísímfjall og bölvunina á Ebalfjall. 11.30 En þau eru hinumegin Jórdanar, vestanvert við sólarlagsveginn, í landi Kanaanítanna, þeirra er búa á sléttlendinu, gegnt Gilgal, hjá Mórelundi. 11.31 Þér farið nú yfir Jórdan til þess að komast inn í og taka til eignar landið, sem Drottinn Guð yðar gefur yður, og þér munuð fá það til eignar og setjast að í því. 11.32 Gætið þess þá að halda öll þau lög og ákvæði, sem ég legg fyrir yður í dag.
12.1 Þetta eru lög þau og ákvæði, sem þér skuluð gæta að breyta eftir í landi því, sem Drottinn, Guð feðra þinna, gefur þér til eignar, alla þá daga sem þér lifið á jörðinni. 12.2 Þér skuluð gjöreyða alla þá staði, þar sem þjóðirnar, er þér leggið undir yður, hafa dýrkað guði sína, á háum fjöllum, á hæðum og undir hverju grænu tré. 12.3 Þér skuluð rífa niður ölturu þeirra, brjóta í sundur merkissteina þeirra, brenna asérur þeirra í eldi, höggva sundur skurðlíkneski guða þeirra og afmá nafn þeirra úr þeim stað. 12.4 Eigi skuluð þér svo breyta við Drottin Guð yðar, 12.5 heldur skuluð þér leita til þess staðar, sem Drottinn Guð yðar mun til velja úr öllum kynkvíslum yðar til þess að láta nafn sitt búa þar, og þangað skalt þú fara. 12.6 Þangað skuluð þér færa brennifórnir yðar og sláturfórnir, tíundir yðar og það, sem þér færið að fórnargjöf, heitfórnir yðar og sjálfviljafórnir, og frumburði nautgripa yðar og sauðfénaðar. 12.7 Og þar skuluð þér halda fórnarmáltíð frammi fyrir Drottni Guði yðar og gleðja yður ásamt fjölskyldum yðar yfir öllu því, er þér hafið aflað, yfir því, sem Drottinn Guð þinn hefir blessað þig með. 12.8 Þér megið ekki hegða yður þá eins og vér hegðum oss hér nú, er hver gjörir það, sem honum gott þykir, 12.9 því að þér eruð ekki enn komnir á hvíldarstaðinn né til arfleifðarinnar, sem Drottinn Guð þinn gefur þér. 12.10 En þegar þér eruð komnir yfir Jórdan og hafið setst að í landinu, sem Drottinn Guð yðar lætur yður fá til eignar, og þegar hann hefir veitt yður frið fyrir öllum óvinum yðar allt í kring og þér búið óhultir, 12.11 þá skal sá staður, er Drottinn Guð yðar velur til þess að láta nafn sitt búa þar, vera staðurinn, sem þér færið til allt sem ég býð yður: brennifórnir yðar og sláturfórnir, tíundir yðar og það sem þér færið að fórnargjöf og allar útvaldar heitfórnir yðar, er þér heitið Drottni. 12.12 Og þér skuluð gleðjast frammi fyrir Drottni Guði yðar, þér og synir yðar og dætur, þrælar yðar og ambáttir, ásamt levítunum, sem eru innan borgarhliða yðar, því að þeir hafa eigi hlutskipti né óðal með yður. 12.13 Gæt þín, að þú fórnir ekki brennifórnum þínum á hverjum þeim stað, er þér ræður við að horfa, 12.14 heldur á þeim stað, er Drottinn velur í einhverri af kynkvíslum þínum. Þar skalt þú fórna brennifórnum þínum og þar skalt þú gjöra allt það, sem ég býð þér. 12.15 Þó mátt þú slátra og eta kjöt eftir eigin vild þinni innan allra borgarhliða þinna, eftir þeirri blessun, er Drottinn Guð þinn gefur þér. Bæði óhreinn maður og hreinn mega eta það, sem væri það skógargeit eða hjörtur. 12.16 Aðeins megið þér ekki eta blóðið; þú skalt hella því á jörðina sem vatni. 12.17 Þú mátt eigi eta innan borgarhliða þinna tíund af korni þínu, aldinlegi þínum og olíu þinni, né frumburði nautgripa þinna og sauðfénaðar, né nokkuð af heitfórnum þínum, er þú hefir heitið, né sjálfviljafórnir þínar, né nokkuð, sem þú færir að fórnargjöf, 12.18 heldur skalt þú eta það frammi fyrir Drottni Guði þínum, á þeim stað, sem Drottinn Guð þinn velur, þú og sonur þinn og dóttir þín og þræll þinn og ambátt þín og levítinn, sem er innan borgarhliða þinna, og þú skalt gleðjast frammi fyrir Drottni Guði þínum yfir öllu því, sem þú hefir aflað. 12.19 Gæt þín, að þú setjir ekki levítana hjá alla þá daga, sem þú lifir í landi þínu. 12.20 Þegar Drottinn Guð þinn færir út landamerki þín, eins og hann hefir heitið þér, og þú segir: 'Ég vil eta kjöt!' af því að þig lystir að eta kjöt, þá mátt þú eta kjöt, eins og þig lystir. 12.21 Ef sá staður, sem Drottinn Guð þinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar, er mjög langt í burtu frá þér, þá skalt þú slátra af nautum þínum og sauðum, sem Drottinn hefir gefið þér, eins og ég hefi fyrir þig lagt, og þú skalt eta það innan borgarhliða þinna eins og þig lystir. 12.22 Aðeins skalt þú eta það eins og menn eta skógargeit eða hjört; bæði óhreinn maður og hreinn mega eta það. 12.23 Þó skalt þú varast það grandgæfilega að neyta blóðsins, því að blóðið er lífið, og þú skalt ekki eta lífið með kjötinu. 12.24 Þú skalt ekki neyta þess, þú skalt hella því á jörðina sem vatni. 12.25 Þú skalt ekki neyta þess, svo að þér vegni vel og börnum þínum eftir þig, er þú gjörir það sem rétt er í augum Drottins. 12.26 En helgigjafir þínar, þær er þér ber að færa, og heitfórnir þínar skalt þú taka og fara með þær til þess staðar, sem Drottinn velur. 12.27 Og þú skalt fram bera brennifórnir þínar, kjötið og blóðið, á altari Drottins Guðs þíns, og blóðinu úr sláturfórnum þínum skal hella á altari Drottins Guðs þíns, en kjötið skalt þú eta. 12.28 Varðveit þú og hlýð þú öllum þessum boðorðum, sem ég legg fyrir þig, svo að þér vegni vel og börnum þínum eftir þig ævinlega, er þú gjörir það, sem gott er og rétt í augum Drottins Guðs þíns. 12.29 Þegar Drottinn Guð þinn upprætir þær þjóðir fyrir þér, er þú heldur nú til, til þess að leggja þær undir þig, og er þú hefir lagt þær undir þig og ert setstur að í landi þeirra, 12.30 þá gæt þín, að þú freistist ekki til þess að taka upp siðu þeirra, eftir að þeir eru eyddir burt frá þér, og að þú farir ekki að spyrjast fyrir um guði þeirra og segja: 'Hvernig dýrkuðu þessar þjóðir guði sína, svo að ég geti og farið eins að?' 12.31 Þú skalt eigi breyta svo við Drottin Guð þinn, því að allt sem andstyggilegt er Drottni, það er hann hatar, hafa þær gjört til heiðurs guðum sínum, því að jafnvel sonu sína og dætur hafa þær brennt í eldi til heiðurs guðum sínum. 12.32 Þér skuluð gæta þess að halda öll þau boðorð, sem ég legg fyrir yður. Þú skalt engu auka við þau né heldur draga nokkuð undan.
13.1 Ef spámaður eða draumamaður rís upp meðal yðar og boðar þér tákn eða undur, 13.2 og táknið eða undrið rætist, það er hann hafði boðað þér og sagt um leið: 'Vér skulum snúa oss til annarra guða (þeirra er þú hefir eigi þekkt), og vér skulum dýrka þá!' 13.3 þá skalt þú ekki hlýða á orð þess spámanns eða draumamanns, því að Drottinn Guð yðar reynir yður til þess að vita, hvort þér elskið Drottin Guð yðar af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar. 13.4 Drottni Guði yðar skuluð þér fylgja og hann skuluð þér óttast, og skipanir hans skuluð þér varðveita og raustu hans skuluð þér hlýða, og hann skuluð þér dýrka og við hann skuluð þér halda yður fast. 13.5 En spámann þann eða draumamann skal deyða, því að hann hefir prédikað uppreisn gegn Drottni Guði yðar, sem leiddi yður út af Egyptalandi og leysti þig úr þrælahúsinu, til þess að tæla þig burt af þeim vegi, sem Drottinn Guð þinn bauð þér að ganga. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér. 13.6 Ef bróðir þinn, sonur móður þinnar, eða sonur þinn eða dóttir þín eða konan í faðmi þínum eða vinur þinn, sem þú elskar eins og lífið í brjósti þínu, ginnir þig einslega og segir: 'Vér skulum fara og dýrka aðra guði,' þá er hvorki þú né feður þínir hafa þekkt, 13.7 af guðum þeirra þjóða, sem kringum yður eru, hvort heldur þær eru nálægar þér eða fjarlægar þér, frá einu heimsskauti til annars, 13.8 þá skalt þú eigi gjöra að vilja hans og eigi hlýða á hann, og þú skalt ekki líta hann vægðarauga og þú skalt ekki þyrma honum né hylma yfir með honum, 13.9 heldur skalt þú drepa hann, þín hönd skal fyrst á lofti vera gegn honum til þess að deyða hann, og því næst hönd alls lýðsins. 13.10 Þú skalt lemja hann grjóti til bana, af því að hann leitaðist við að tæla þig frá Drottni Guði þínum, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. 13.11 Og allur Ísrael skal heyra það og skelfast, svo að enginn hafist framar að slíkt ódæði þín á meðal. 13.12 Ef þú heyrir sagt um einhverja af borgum þínum, þeim er Drottinn Guð þinn gefur þér til þess að búa í: 13.13 'Varmenni nokkur eru upp komin þín á meðal, og hafa þau tælt samborgara sína og sagt: ,Vér skulum fara og dýrka aðra guði, þá er þér þekkið ekki,'` 13.14 þá skalt þú rækilega rannsaka það, grennslast eftir og spyrjast fyrir, og ef það reynist satt vera, að slík svívirðing hafi framin verið þín á meðal, 13.15 þá skalt þú fella íbúa þeirrar borgar með sverðseggjum, bannfæra borgina og allt, sem í henni er, og fénaðinn í henni með sverðseggjum. 13.16 Allt herfangið úr henni skalt þú bera saman á torgið og brenna síðan borgina og allt herfangið í eldi sem eldfórn Drottni Guði þínum til handa, og hún skal verða ævarandi rúst og aldrei framar endurreist verða. 13.17 Og ekkert af hinu bannfærða skal loða við hendur þínar, til þess að Drottinn megi láta af hinni brennandi reiði sinni og auðsýni þér miskunnsemi, og til þess að hann miskunni þér og margfaldi þig, eins og hann sór feðrum þínum, 13.18 er þú hlýðir raustu Drottins Guðs þíns með því að varðveita allar skipanir hans, þær er ég legg fyrir þig í dag, og gjörir það sem rétt er í augum Drottins Guðs þíns.
14.1 Þér eruð börn Drottins, Guðs yðar. Þér skuluð eigi rista skinnsprettur á yður né raka yður krúnu eftir framliðinn mann. 14.2 Því að þú ert Drottni Guði þínum helgaður lýður, og þig hefir Drottinn kjörið til að vera eignarlýður hans umfram allar þjóðir, sem á jörðinni eru. 14.3 Þú skalt ekki eta neitt viðbjóðslegt. 14.4 Þessi eru þau ferfætt dýr, sem þér megið eta: naut, sauðfé og geitfé, 14.5 hirtir, skógargeitur, dáhirtir, steingeitur, fjallageitur, antílópur og gemsur. 14.6 Öll ferfætt dýr, sem hafa klaufir, og þær alklofnar, og jórtra, megið þér eta. 14.7 Af þeim sem jórtra, og af þeim sem alklofnar klaufir hafa, megið þér þó ekki þessi eta: Úlfaldann, hérann og stökkhérann, því að þeir jórtra að sönnu, en hafa eigi klaufir; þeir séu yður óhreinir, _ 14.8 og svínið, því að það hefir að sönnu klaufir, en jórtrar ekki; það sé yður óhreint. Kjöt þeirra skuluð þér ekki eta, og hræ þeirra skuluð þér ekki snerta. 14.9 Af lagardýrunum megið þér eta þessi: Öll þau, sem hafa sundugga og hreistur, megið þér eta, 14.10 en öll þau, sem ekki hafa sundugga og hreistur, megið þér ekki eta; þau séu yður óhrein. 14.11 Alla hreina fugla megið þér eta, 14.12 en þessa megið þér ekki eta: örninn, skegggamminn og gamminn, 14.13 gleðuna og fálkakynið, _ 14.14 allt hrafnakynið, _ 14.15 strútinn, svöluna, mávinn og haukakynið, _ 14.16 ugluna, náttugluna og hornugluna, 14.17 pelíkanann, hrægamminn og súluna, 14.18 storkinn og lóukynið, herfuglinn og leðurblökuna. 14.19 Öll fleyg skriðkvikindi séu yður óhrein; þau má eigi eta. 14.20 Öll hrein flugdýr megið þér eta. 14.21 Þér skuluð ekki eta neitt sjálfdautt. Útlendum manni, sem er innan borgarhliða þinna, mátt þú gefa það til að eta, eða selja það aðkomnum manni, því að þú ert Drottni Guði þínum helgaður lýður. Þú skalt ekki sjóða kið í mjólk móður sinnar. 14.22 Þú skalt tíunda vandlega allan ávöxt af útsæði þínu, allt það er vex á mörkinni, á ári hverju, 14.23 og þú skalt eta frammi fyrir Drottni Guði þínum á þeim stað, sem hann velur til þess að láta nafn sitt búa þar, tíundina af korni þínu, aldinlegi þínum og olíu þinni og frumburði nautgripa þinna og sauðfénaðar, svo að þú lærir að óttast Drottin Guð þinn alla daga. 14.24 Og sé vegurinn of langur fyrir þig og getir þú eigi borið það, af því að staðurinn, sem Drottinn Guð þinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar, er langt í burtu frá þér, þegar Drottinn Guð þinn hefir blessað þig, 14.25 þá skalt þú koma því í peninga, taka silfrið með þér og geyma þess vel og fara til þess staðar, er Drottinn Guð þinn velur. 14.26 Og fyrir silfrið skalt þú kaupa hvað sem þig lystir, nautgripi, sauðfé, vín, áfengan drykk eða hvað annað, sem þig langar í, og þú skalt neyta þess þar frammi fyrir Drottni Guði þínum og gleðja þig ásamt fjölskyldu þinni. 14.27 Og levítana, sem eru innan borgarhliða þinna, skalt þú ekki setja hjá, því að þeir hafa ekki hlut né óðal með þér. 14.28 Þriðja hvert ár skalt þú færa út alla tíund af ávexti þínum það árið og leggja hana niður innan borgarhliða þinna, 14.29 svo að levítar, því að þeir hafa ekki hlut né óðal með þér, útlendingar, munaðarleysingjar og ekkjur þær, sem eru innan borgarhliða þinna, megi koma og eta sig mett, til þess að Drottinn Guð þinn blessi þig í öllu því, er þú tekur þér fyrir hendur að gjöra.
15.1 Sjöunda hvert ár skalt þú veita umlíðun skulda. 15.2 En þeirri umlíðun er svo farið: Sérhver lánardrottinn skal veita umlíðun á því, sem hann hefir lánað náunga sínum. Hann skal eigi ganga hart að náunga sínum og bróður, því að umlíðun hefir boðuð verið Drottni til dýrðar. 15.3 Að útlendum manni mátt þú ganga hart, en það, sem þú átt hjá bróður þínum, skalt þú líða hann um. 15.4 Reyndar mun enginn fátækur hjá þér vera, því að Drottinn mun blessa þig ríkulega í landi því, sem Drottinn Guð þinn gefur þér sem arf til eignar, 15.5 ef þú aðeins hlýðir kostgæfilega raustu Drottins Guðs þíns með því að gæta þess að halda allar þessar skipanir, sem ég legg fyrir þig í dag. 15.6 Því að Drottinn Guð þinn hefir blessað þig, eins og hann hefir heitið þér, svo að þú munt lána mörgum þjóðum, en sjálfur eigi þurfa að taka lán, og þú munt drottna yfir mörgum þjóðum, en þær munu eigi drottna yfir þér. 15.7 Ef með þér er fátækur maður, einhver af bræðrum þínum, í einhverri af borgum þínum í landi þínu, því er Drottinn Guð þinn gefur þér, þá skalt þú ekki herða hjarta þitt og eigi afturlykja hendi þinni fyrir fátækum bróður þínum, 15.8 heldur skalt þú upp ljúka hendi þinni fyrir honum og lána honum fúslega það, er nægi til að bæta úr skorti hans. 15.9 Gæt þín, að eigi komi sú ódrengskaparhugsun upp í hjarta þínu: 'Sjöunda árið, umlíðunarárið, er fyrir hendi!' og að þú lítir eigi fátækan bróður þinn óblíðu auga og gefir honum ekkert, svo að hann hrópi til Drottins yfir þér, og það verði þér til syndar. 15.10 Miklu fremur skalt þú gefa honum og eigi gjöra það með illu geði, því að fyrir það mun Drottinn Guð þinn blessa þig í öllu verki þínu og í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur, 15.11 því að aldrei mun fátækra vant verða í landinu. Fyrir því býð ég þér og segi: Þú skalt fúslega upp ljúka hendi þinni fyrir bróður þínum, fyrir þurfamanninum og hinum fátæka í landi þínu. 15.12 Ef bróðir þinn, hebreskur maður eða hebresk kona, selur sig þér, þá skal hann þjóna þér í sex ár, en sjöunda árið skalt þú láta hann lausan frá þér fara. 15.13 Og þegar þú lætur hann lausan frá þér fara, þá skalt þú ekki láta hann fara tómhentan. 15.14 Þú skalt gjöra hann vel úr garði og gefa honum af hjörð þinni, úr láfa þínum og vínþröng þinni, þú skalt gefa honum af því, sem Drottinn Guð þinn hefir blessað þig með. 15.15 Og þú skalt minnast þess, að þú varst þræll í Egyptalandi og að Drottinn Guð þinn leysti þig. Fyrir því legg ég þetta fyrir þig í dag. 15.16 En segi hann við þig: 'Ég vil ekki fara frá þér,' af því að honum er orðið vel við þig og skyldulið þitt, með því að honum líður vel hjá þér, 15.17 þá skalt þú taka al og stinga í gegnum eyra honum inn í hurðina, og skal hann síðan vera þræll þinn ævinlega. Á sömu leið skalt þú og fara með ambátt þína. 15.18 Lát þér eigi fallast um það, þótt þú eigir að láta hann lausan frá þér fara, því að í sex ár hefir hann unnið þér tvöfalt, miðað við kaup kaupamanns. Og Drottinn Guð þinn mun blessa þig í öllu, sem þú gjörir. 15.19 Alla frumburði karlkyns, sem fæðast á meðal nautgripa þinna og sauðfjár þíns, skalt þú helga Drottni Guði þínum. Frumburði nauta þinna skalt þú ekki hafa til vinnu né klippa frumburði sauðfjár þíns. 15.20 Frammi fyrir augliti Drottins Guðs þíns skalt þú eta þá á ári hverju á þeim stað, sem Drottinn velur, ásamt skylduliði þínu. 15.21 En ef einhver lýti eru á þeim, ef þeir eru haltir eða blindir eða hafa einhvern annan slæman galla, þá skalt þú eigi fórna þeim Drottni Guði þínum. 15.22 Innan borgarhliða þinna skalt þú eta þá, og það jafnt óhreinn sem hreinn, sem væri það skógargeit eða hjörtur. 15.23 Blóðsins eins skalt þú ekki neyta; þú skalt hella því á jörðina sem vatni.
16.1 Gæt þess að halda Drottni Guði þínum páska í abíbmánuði, því að í abíbmánuði leiddi Drottinn Guð þinn þig á náttarþeli út af Egyptalandi. 16.2 Og þú skalt slátra sauðum og nautum í páskafórn til handa Drottni Guði þínum á þeim stað, sem Drottinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar. 16.3 Þú mátt ekki eta sýrt brauð með því; í sjö daga skalt þú eta með því ósýrð brauð, neyðarbrauð _ því að í flýti fórst þú af Egyptalandi, _ til þess að þú minnist brottfarardags þíns af Egyptalandi alla ævi þína. 16.4 Ekki má súrdeig sjást nokkurs staðar hjá þér innan þinna landamerkja í sjö daga, og ekkert af kjöti því, er þú fórnar að kveldi fyrsta daginn, skal liggja náttlangt til morguns. 16.5 Þú mátt eigi slátra páskafórninni í einhverri af borgum þeim, er Drottinn Guð þinn gefur þér, 16.6 heldur skalt þú slátra páskafórninni á þeim stað, sem Drottinn Guð þinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar, að kveldi um sólarlagsbil, 16.7 í það mund, er þú fórst af Egyptalandi. Og þú skalt sjóða það og eta á þeim stað, sem Drottinn Guð þinn velur, og morguninn eftir skalt þú snúa á leið og halda heim til tjalda þinna. 16.8 Sex daga skalt þú eta ósýrð brauð, og sjöunda daginn skal vera hátíðafundur til handa Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna. 16.9 Sjö vikur skalt þú telja. Frá þeim tíma, er sigðin fyrst var borin að kornstöngunum, skalt þú byrja að telja sjö vikur. 16.10 Þá skalt þú halda Drottni Guði þínum viknahátíðina með sjálfviljagjöfum þeim, er þú innir af hendi, eftir því sem Drottinn Guð þinn hefir blessað þig. 16.11 Og þú skalt gleðjast frammi fyrir Drottni Guði þínum, þú og sonur þinn og dóttir þín, þræll þinn og ambátt þín og levítinn, sem er innan borgarhliða þinna, og útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan, sem með þér eru, á þeim stað, sem Drottinn Guð þinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar. 16.12 Og þú skalt minnast þess, að þú varst þræll í Egyptalandi, og þú skalt gæta þess að halda þessi lög. 16.13 Laufskálahátíðina skalt þú halda í sjö daga, er þú alhirðir af láfa þínum og úr vínþröng þinni. 16.14 Og þú skalt gleðjast á hátíð þinni, þú og sonur þinn og dóttir þín, þræll þinn og ambátt þín og levítinn, útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan, sem eru innan borgarhliða þinna. 16.15 Í sjö daga skalt þú halda Drottni Guði þínum hátíð á þeim stað, sem Drottinn velur, því að Drottinn Guð þinn mun láta þér blessast allan jarðargróða þinn og öll handaverk þín. Fyrir því skalt þú gleðjast mikillega. 16.16 Þrem sinnum á ári skal allt þitt karlkyn birtast frammi fyrir Drottni Guði þínum á þeim stað, sem hann mun velja: á hátíð hinna ósýrðu brauða, á viknahátíðinni og á laufskálahátíðinni. Og fyrir Drottin skal enginn koma tómhentur. 16.17 Hver og einn skal koma með það, er hann getur látið af hendi rakna, eftir þeirri blessun, sem Drottinn Guð þinn hefir veitt þér. 16.18 Dómendur og tilsjónarmenn skalt þú skipa í öllum borgum þínum, þeim er Drottinn Guð þinn gefur þér, eftir ættkvíslum þínum, og þeir skulu dæma lýðinn réttlátum dómi. 16.19 Þú skalt eigi halla réttinum. Þú skalt eigi gjöra þér mannamun og eigi þiggja mútu, því að mútan blindar augu hinna vitru og umhverfir máli hinna réttlátu. 16.20 Réttlætinu einu skalt þú fram fylgja, til þess að þú megir lifa og fá til eignar landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér. 16.21 Þú skalt ekki gróðursetja aséru af neins konar tré hjá altari Drottins Guðs þíns, því er þú gjörir þér. 16.22 Þú skalt ekki reisa þér neinn merkisstein, þann er Drottinn Guð þinn hatar.
17.1 Þú skalt ekki fórna Drottni Guði þínum nokkru því nauti eða sauð, sem lýti er á, einhver slæmur galli, því að það er andstyggilegt Drottni Guði þínum. 17.2 Ef hjá þér finnst, í einhverri af borgum þínum, þeim er Drottinn Guð þinn gefur þér, maður eða kona, er gjörir það sem illt er í augum Drottins Guðs þíns, með því að rjúfa sáttmála hans, 17.3 og fer og dýrkar aðra guði og fellur fram fyrir þeim, eða fyrir sólinni eða tunglinu eða öllum himinsins her, er ég hefi eigi leyft, 17.4 og verði þér sagt frá þessu og þú heyrir það, þá skalt þú rækilega rannsaka það, og ef það reynist satt vera, að slík svívirðing hafi framin verið í Ísrael, 17.5 þá skalt þú leiða mann þann eða konu, er slíkt ódæði hefir framið, að borgarhliðinu _ manninn eða konuna, og lemja þau grjóti til bana. 17.6 Eftir framburði tveggja eða þriggja vitna skal sá líflátinn verða, er fyrir dauðasök er hafður. Eigi skal hann líflátinn eftir framburði eins vitnis. 17.7 Vitnin skulu fyrst reiða hönd gegn honum til þess að deyða hann, og því næst allur lýðurinn. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér. 17.8 Ef þér er um megn að dæma í einhverju máli: manndrápsmáli, máli um eignarrétt, meiðslamáli _ í einhverjum þrætumálum innan borgarhliða þinna, þá skalt þú hafa þig til vegar og fara til þess staðar, er Drottinn Guð þinn velur, 17.9 og þú skalt ganga fyrir levítaprestana og dómarann, sem þá er, og þú skalt spyrja þá ráða, og þeir skulu segja þér dómsatkvæðið. 17.10 Og þú skalt fara eftir því atkvæði, sem þeir segja þér á þeim stað, sem Drottinn velur, og þú skalt gæta þess að gjöra allt eins og þeir segja þér fyrir. 17.11 Eftir þeim fyrirmælum, sem þeir tjá þér, og eftir þeim dómi, sem þeir segja þér, skalt þú fara. Þú skalt eigi víkja frá atkvæðinu, sem þeir segja þér, hvorki til hægri né vinstri. 17.12 En ef nokkur gjörir sig svo djarfan, að hann vill eigi hlýða á prestinn, sem stendur þar í þjónustu Drottins Guðs þíns, eða á dómarann _ sá maður skal deyja, og þú skalt útrýma hinu illa úr Ísrael, 17.13 svo að allur lýðurinn heyri það og skelfist og enginn sýni framar slíka ofdirfsku. 17.14 Þegar þú ert kominn inn í landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér, og þú hefir fengið það til eignar og ert setstur þar að og segir: 'Ég vil taka mér konung, eins og allar þjóðirnar, sem í kringum mig eru,' 17.15 þá skalt þú taka þann til konungs yfir þig, sem Drottinn Guð þinn útvelur. Mann af bræðrum þínum skalt þú taka til konungs yfir þig. Eigi mátt þú setja útlendan mann yfir þig, þann sem eigi er bróðir þinn. 17.16 Eigi skal hann hafa marga hesta, né heldur fara aftur með lýðinn til Egyptalands til þess að afla sér margra hesta, með því að Drottinn hefir sagt við yður: 'Þér skuluð aldrei snúa aftur þessa leið.' 17.17 Hann skal og eigi hafa margar konur, svo að hjarta hans gjörist eigi fráhverft, og hann skal eigi draga saman ógrynni af silfri og gulli. 17.18 Og þegar hann nú er setstur í hásæti konungdóms síns, þá skal hann fá lögmál þetta hjá levítaprestunum og rita eftirrit af því handa sér í bók. 17.19 Og hann skal hafa hana hjá sér og lesa í henni alla ævidaga sína, til þess að hann læri að óttast Drottin Guð sinn og gæti þess að halda öll fyrirmæli þessa lögmáls og þessi ákvæði, 17.20 að hann ofmetnist eigi í hjarta sínu yfir bræður sína og víki eigi frá boðorðunum, hvorki til hægri né vinstri, svo að hann megi um langa ævi ríkjum ráða í Ísrael, hann og synir hans.
18.1 Eigi skulu levítaprestarnir, öll kynkvísl Leví, fá hlut og óðal með Ísrael. Á eldfórnum Drottins og erfðahluta hans skulu þeir lifa. 18.2 En óðal skulu þeir eigi fá meðal bræðra sinna. Drottinn er óðal þeirra, eins og hann hefir heitið þeim. 18.3 Þessi skulu vera réttindi prestanna af hálfu lýðsins, af hálfu þeirra manna, er fórna sláturfórn, hvort heldur er nauti eða sauð: Presti skal gefa bóginn, báða kjammana og vinstrina. 18.4 Frumgróðann af korni þínu, aldinlegi þínum og olíu þinni og fyrstu ullina, sem þú klippir af sauðfé þínu, skalt þú gefa honum. 18.5 Því að Drottinn Guð þinn hefir útvalið hann af öllum kynkvíslum þínum, til þess að hann og synir hans gegni þjónustu í nafni Drottins alla daga. 18.6 Nú kemur levíti úr einhverri af borgum þínum í öllum Ísrael, þar er hann dvelur sem útlendingur _ og hann má koma eftir vild sinni _ til þess staðar, er Drottinn velur, 18.7 og má hann þá gegna þjónustu í nafni Drottins Guðs síns eins og allir bræður hans, levítarnir, er standa þar frammi fyrir Drottni. 18.8 Þeir skulu fá jafnan hlut til viðurværis, án tillits til þess, er hann fær fyrir selda séreign sína. 18.9 Þegar þú kemur inn í landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér, þá skalt þú ekki taka upp svívirðingar þessara þjóða. 18.10 Eigi skal nokkur finnast hjá þér, sá er láti son sinn eða dóttur ganga gegnum eldinn, eða sá er fari með galdur eða spár eða fjölkynngi, eða töframaður 18.11 eða gjörningamaður eða særingamaður eða spásagnamaður eða sá er leiti frétta af framliðnum. 18.12 Því að hver sá, er slíkt gjörir, er Drottni andstyggilegur, og fyrir slíkar svívirðingar rekur Drottinn Guð þinn þá burt undan þér. 18.13 Þú skalt vera grandvar gagnvart Drottni Guði þínum. 18.14 Því að þessar þjóðir, er þú rekur nú burt, hlýða á spásagnamenn og galdramenn, en þér hefir Drottinn Guð þinn eigi leyft slíkt. 18.15 Spámann mun Drottinn Guð þinn upp vekja meðal þín, af bræðrum þínum, slíkan sem ég er. Á hann skuluð þér hlýða. 18.16 Mun þannig fyllilega rætast það, er þú baðst Drottin Guð þinn um hjá Hóreb, daginn sem þér voruð þar saman komnir, er þú sagðir: 'Eigi vildi ég lengur þurfa að heyra raust Drottins Guðs míns né oftar að sjá þennan mikla eld, svo að ég deyi ekki.' 18.17 Þá sagði Drottinn við mig: 'Vel er það mælt, sem þeir segja. 18.18 Ég vil upp vekja þeim spámann meðal bræðra þeirra, slíkan sem þú ert, og ég mun leggja honum mín orð í munn, og hann skal mæla til þeirra allt það, er ég býð honum. 18.19 Og hvern þann, er eigi vill hlýða á orð mín, þau er hann mun flytja í mínu nafni, hann mun ég krefja reikningsskapar. 18.20 En sá spámaður, sem dirfist að tala í mínu nafni það, er ég hefi eigi boðið honum að tala, og sá sem talar í nafni annarra guða, sá spámaður skal deyja. 18.21 Ef þú segir í hjarta þínu: ,Hvernig fáum vér þekkt úr þau orð, er Drottinn hefir ekki talað?` 18.22 þá vit, að þegar spámaður talar í nafni Drottins og það rætist eigi né kemur fram, þá eru það orð, sem Drottinn hefir eigi talað. Af ofdirfsku sinni hefir spámaðurinn talað það, þú þarft ekki að hræðast hann.'
19.1 Þegar Drottinn Guð þinn upprætir þær þjóðir, hverra land Drottinn Guð þinn gefur þér, og er þú hefir lagt þær undir þig og ert setstur að í borgum þeirra og húsum, 19.2 þá skalt þú skilja frá þrjár borgir í landi þínu, því er Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar. 19.3 Þú skalt leggja veg að þeim og skipta gjörvöllu landi þínu, því er Drottinn Guð þinn lætur þig eignast, í þrjá hluti, og skal það vera til þess að þangað megi flýja hver sá, er mann vegur. 19.4 Svo skal vera um veganda þann, er þangað flýr til þess að forða lífi sínu: Ef maður drepur náunga sinn óviljandi og hefir eigi verið óvinur hans áður, 19.5 svo sem þegar maður fer með náunga sínum í skóg að fella tré og hann reiðir upp öxina til að höggva tréð, en öxin hrýtur af skaftinu og lendir á náunga hans, svo að hann fær bana af _ sá maður má flýja í einhverja af borgum þessum og forða svo lífi sínu, 19.6 til þess að hefndarmaðurinn elti ekki vegandann meðan móðurinn er á honum og nái honum, af því að vegurinn er langur, og drepi hann, þótt hann sé ekki dauðasekur, með því að hann var ekki óvinur hans áður. 19.7 Fyrir því býð ég þér og segi: Þú skalt skilja þrjár borgir frá. 19.8 Og ef Drottinn Guð þinn færir út landamerki þín, eins og hann hefir svarið feðrum þínum, og hann gefur þér gjörvallt landið, sem hann hét að gefa feðrum þínum, 19.9 svo framarlega sem þú gætir þess að halda allar þessar skipanir, sem ég legg fyrir þig í dag, með því að elska Drottin Guð þinn og ganga á hans vegum alla daga, þá skalt þú enn bæta þrem borgum við þessar þrjár, 19.10 til þess að saklausu blóði verði eigi úthellt í landi þínu, því er Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar, og blóðsök falli eigi á þig. 19.11 En ef maður hatast við náunga sinn og situr um hann, ræðst á hann og lýstur hann til bana og flýr síðan í einhverja af borgum þessum, 19.12 þá skulu öldungar þeirrar borgar, er hann á heima í, senda þangað og sækja hann og selja í hendur hefndarmanni til lífláts. 19.13 Þú skalt ekki líta hann vægðarauga, heldur hreinsa Ísrael af saklausra manna blóði, svo að þér vegni vel. 19.14 Þú skalt eigi færa úr stað landamerki náunga þíns, þau er forfeðurnir hafa sett, á arfleifð þinni, er þú munt eignast í landinu, sem Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar. 19.15 Eigi skal eitt vitni koma fram gegn manni, þá er um einhvern glæp eða einhverja synd er að ræða _ hvaða synd sem það nú er, sem hann hefir drýgt. Því aðeins skal framburður gildur vera, að tveir eða þrír vottar beri. 19.16 Nú rís falsvottur gegn einhverjum og ber á hann lagabrot, 19.17 og skulu þá báðir þeir, er kærumálið eiga saman, ganga fram fyrir Drottin, fyrir prestana og dómarana, sem þá eru í þann tíma, 19.18 og dómararnir skulu rannsaka það rækilega, og ef þá reynist svo, að votturinn er ljúgvottur, að hann hefir borið lygar á bróður sinn, 19.19 þá skuluð þér gjöra svo við hann sem hann hafði hugsað að gjöra við bróður sinn, og þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér. 19.20 Og hinir munu heyra það og skelfast og eigi framar hafast að slíkt ódæði þín á meðal. 19.21 Eigi skalt þú líta slíkt vægðarauga: Líf fyrir líf, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hönd fyrir hönd, fót fyrir fót.
20.1 Þegar þú fer í hernað við óvini þína og þú sér hesta og vagna og liðfleiri her en þú ert, þá skalt þú ekki óttast þá, því að Drottinn Guð þinn er með þér, hann sem leiddi þig burt af Egyptalandi. 20.2 Og þegar að því er komið, að þér leggið til orustu, þá skal presturinn ganga fram og mæla til lýðsins 20.3 og segja við þá: 'Heyr, Ísrael! Þér leggið í dag til orustu við óvini yðar. Látið ekki hugfallast, óttist ekki, skelfist ekki og hræðist þá ekki, 20.4 því að Drottinn Guð yðar fer með yður til þess að berjast fyrir yður við óvini yðar og veita yður fulltingi.' 20.5 Því næst skulu tilsjónarmennirnir mæla til lýðsins og segja: 'Hver sá maður, er reist hefir nýtt hús, en hefir ekki vígt það, skal fara og snúa heim aftur, svo að hann falli ekki í orustunni og annar maður vígi það. 20.6 Hver sá maður, sem plantað hefir víngarð, en hefir engar hans nytjar haft, skal fara og snúa heim aftur, svo að hann falli ekki í orustunni og annar maður hafi hans not. 20.7 Hver sá maður, er fastnað hefir sér konu, en hefir ekki enn gengið að eiga hana, skal fara og snúa heim aftur, svo að hann falli ekki í orustunni og annar maður gangi að eiga hana.' 20.8 Enn fremur skulu tilsjónarmennirnir mæla til lýðsins og segja: 'Hver sá maður, sem hræddur er og hugdeigur, skal fara og snúa heim aftur, svo að bræðrum hans fallist ekki hugur eins og honum.' 20.9 Og er tilsjónarmennirnir hafa lokið því að mæla til lýðsins, skal skipa hershöfðingja yfir liðið. 20.10 Þegar þú býst til að herja á borg, þá skalt þú bjóða henni frið. 20.11 Og ef hún veitir friðsamleg andsvör og lýkur upp fyrir þér, þá skal allur lýðurinn, sem í henni finnst, vera þér ánauðugur og þjóna þér. 20.12 En vilji hún ekki gjöra frið við þig, heldur eiga ófrið við þig, þá skalt þú setjast um hana, 20.13 og þegar Drottinn Guð þinn gefur hana í hendur þér, skalt þú deyða með sverðseggjum allt karlkyn, sem í henni er, 20.14 en konum, börnum og fénaði og öllu, sem er í borginni, öllu herfanginu, mátt þú ræna handa þér og neyta herfangs óvina þinna, þess er Drottinn Guð þinn gefur þér. 20.15 Svo skalt þú fara með allar þær borgir, sem eru mjög í fjarska við þig og ekki eru af borgum þessara þjóða. 20.16 En í borgum þessara þjóða, sem Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar, skalt þú enga mannssál láta lífi halda. 20.17 Miklu fremur skalt þú gjöreyða þeim: Hetítum, Amorítum, Kanaanítum, Peresítum, Hevítum og Jebúsítum, eins og Drottinn Guð þinn hefir fyrir þig lagt, 20.18 til þess að þeir kenni yður ekki að taka upp allar þær svívirðingar, er þeir hafa í frammi haft guðum sínum til vegsemdar, og þér syndgið gegn Drottni Guði yðar. 20.19 Þegar þú verður að sitja lengi um einhverja borg til þess að taka hana herskildi, þá skalt þú ekki spilla trjám hennar með því að bera að þeim exi, því að þú getur etið af þeim aldinin, og þú skalt ekki höggva þau, því að hvort munu tré merkurinnar vera menn, svo að þau þurfi að vera í umsát þinni? 20.20 Þau tré ein, er þú veist að eigi bera æt aldin, þeim mátt þú spilla og höggva þau til þess að reisa úr þeim hervirki gegn borg þeirri, er á í ófriði við þig, uns hún fellur.
21.1 Ef maður finnst veginn í landi því, er Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar, liggjandi úti á víðavangi, en enginn veit, hver hann hefir drepið, 21.2 þá skulu öldungar þínir og dómendur fara út og mæla fjarlægðina til borganna, er liggja hringinn í kringum hinn vegna. 21.3 Og sú borg, sem næst er hinum vegna, _ öldungar þeirrar borgar skulu taka kvígu, sem eigi hefir höfð verið til vinnu né gengið hefir undir oki. 21.4 Því næst skulu öldungar borgarinnar fara með kvíguna ofan í dal með sírennandi vatni, sem hvorki er yrktur né sáinn, og þar í dalnum skulu þeir brjóta kvíguna úr hálsliðnum. 21.5 Þá skulu prestarnir, synir Leví, ganga fram, _ því að þá hefir Drottinn Guð þinn útvalið til að þjóna sér og til þess að blessa í nafni Drottins, og eftir atkvæði þeirra skal skera úr öllum þrætumálum og meiðslamálum _, 21.6 og allir öldungar þeirrar borgar, þeir er næstir eru hinum vegna, skulu þvo hendur sínar yfir kvígunni, sem hálsbrotin var í dalnum, 21.7 og þeir skulu taka til orða og segja: 'Vorar hendur hafa ekki úthellt þessu blóði og augu vor hafa ekki séð það. 21.8 Fyrirgef, Drottinn, lýð þínum, Ísrael, er þú hefir leyst, og lát ekki lýð þinn Ísrael gjalda saklauss blóðs!' Og þeim skal blóðsökin upp gefin verða. 21.9 Þannig skalt þú hreinsa þig af saklausra manna blóði, svo að þér vegni vel, er þú gjörir það sem rétt er í augum Drottins. 21.10 Þegar þú fer í hernað við óvini þína og Drottinn Guð þinn gefur þá í hendur þér og þú hertekur fólk meðal þeirra, 21.11 og þú sér meðal hinna herteknu konu fríða sýnum og fellir hug til hennar og vilt taka hana þér fyrir konu, 21.12 þá skalt þú leiða hana inn í hús þitt, og hún skal raka höfuð sitt og skera neglur sínar 21.13 og fara úr fötum þeim, er hún var hernumin í. Síðan skal hún dvelja í húsi þínu og gráta föður sinn og móður heilan mánuð. Eftir það mátt þú ganga inn til hennar og samrekkja henni og hún vera kona þín. 21.14 En fari svo, að þú hafir eigi lengur þokka til hennar, þá skalt þú láta hana algjörlega lausa og mátt alls eigi selja hana við verði. Þú skalt ekki fara með hana sem ambátt, fyrir því að þú hefir spjallað hana. 21.15 Ef maður á tvær konur, og hefir mætur á annarri en lætur sér fátt um hina, og þær fæða honum sonu, bæði sú er hann hefir mætur á og sú er hann lætur sér fátt um, og frumgetni sonurinn er sonur þeirrar, er hann lætur sér fátt um, 21.16 þá skal honum ekki heimilt vera, er hann skiptir því sem hann á meðal sona sinna, að gjöra son konunnar, sem hann hefir mætur á, frumgetinn fram yfir son þeirrar, er hann lætur sér fátt um og frumgetinn er, 21.17 heldur skal hann viðurkenna frumgetninginn, son þeirrar, er hann lætur sér fátt um, og gefa honum tvöfaldan hlut af öllu því, er hann á, því að hann er frumgróði styrkleika hans, honum heyrir frumburðarrétturinn. 21.18 Ef maður á þrjóskan son og ódælan, sem eigi vill hlýða föður sínum og móður, og hann hlýðnast þeim ekki að heldur, þótt þau hirti hann, 21.19 þá skal faðir hans og móðir taka hann og fara með hann til öldunga borgar hans, að borgarhliðinu, þar sem hann á heima, 21.20 og segja við öldunga borgar hans: 'Þessi sonur okkar er þrjóskur og ódæll og vill ekki hlýða okkur, hann er svallari og drykkjurútur.' 21.21 Skulu þá allir borgarmenn lemja hann grjóti til bana. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér, og allur Ísrael skal heyra það og skelfast. 21.22 Þegar maður drýgir synd, sem varðar lífláti, og hann er líflátinn og þú hengir hann á tré, 21.23 þá skal líkami hans ekki vera náttlangt á trénu, heldur skalt þú jarða hann samdægurs. Því að sá er bölvaður af Guði, sem hengdur er, og þú skalt ekki saurga land þitt, það er Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar.
22.1 Þegar þú sér naut eða sauð bróður þíns á slæðingi, þá skalt þú ekki ganga fram hjá þeim, heldur skalt þú reka þau aftur til bróður þíns. 22.2 En ef bróðir þinn býr eigi í grennd við þig eða ef þú þekkir hann ekki, þá skalt þú taka það heim til þín og hafa hjá þér, uns bróðir þinn leitar þess. Þá skalt þú fá honum það aftur. 22.3 Eins skalt þú og fara með asna hans, og eins skalt þú fara með klæðnað hans, og eins skalt þú fara með hvern þann týndan hlut, er bróðir þinn hefir misst og þú fundið. Þú mátt eigi leiða það hjá þér. 22.4 Ef þú sér asna eða uxa bróður þíns liggja afvelta á veginum, þá skalt þú ekki ganga fram hjá þeim. Þú skalt vissulega hjálpa honum til að reisa þá á fætur. 22.5 Eigi skal kona ganga í karlmannsbúningi og eigi skal karlmaður fara í kvenmannsföt, því að hver sá, er slíkt gjörir, er Drottni Guði þínum andstyggilegur. 22.6 Ef fuglshreiður verður fyrir þér á leið þinni, uppi í tré eða á jörðinni, með ungum í eða eggjum, og móðirin liggur á ungunum eða eggjunum, þá skalt þú ekki taka móðurina ásamt ungunum. 22.7 Þú skalt sleppa móðurinni, en taka ungana eina, til þess að þér vegni vel og þú lifir langa ævi. 22.8 Þegar þú reisir nýtt hús, skalt þú gjöra brjóstrið allt í kring uppi á þakinu, svo að ekki bakir þú húsi þínu blóðsekt, ef einhver kynni að detta ofan af því. 22.9 Þú skalt eigi sá víngarð þinn tvenns konar sæði, svo að allt falli ekki undir helgidóminn, sæðið, sem þú sáir, og eftirtekjan af víngarðinum. 22.10 Þú skalt ekki plægja með uxa og asna saman. 22.11 Þú skalt ekki fara í föt, sem ofin eru af tvenns konar efni, af ull og hör saman. 22.12 Þú skalt gjöra þér skúfa á fjögur skaut skikkju þinnar, þeirrar er þú sveipar um þig. 22.13 Nú gengur maður að eiga konu, en fær óbeit á henni, er hann hefir samrekkt henni, 22.14 og ber á hana svívirðilegar sakir og ófrægir hana og segir: 'Ég gekk að eiga þessa konu, en er ég kom nærri henni, fann ég ekki meydómsmerki hjá henni,' 22.15 þá skulu foreldrar stúlkunnar taka meydómsmerki hennar og fara með þau til öldunga borgarinnar í borgarhliðið, 22.16 og faðir stúlkunnar skal segja við öldungana: 'Dóttur mína gaf ég þessum manni að eiginkonu, en hann hefir óbeit á henni. 22.17 Nú ber hann svívirðilegar sakir á hana og segir: ,Ég fann eigi meydómsmerki hjá dóttur þinni.` En hér eru sannanir fyrir meydómi dóttur minnar!' Og þau skulu breiða út rekkjuklæðið í augsýn öldunga borgarinnar. 22.18 Og öldungar borgarinnar skulu taka manninn og refsa honum, 22.19 og þeir skulu gjöra bætur á hendur honum, hundrað sikla silfurs, og greiða þá föður stúlkunnar, fyrir það að hann ófrægði mey í Ísrael. Og hún skal vera kona hans, honum skal eigi heimilt að skilja við hana alla ævi sína. 22.20 En ef það reynist satt, og sönnur verða eigi á það færðar að stúlkan hafi hrein mey verið, 22.21 þá skal fara með stúlkuna að húsdyrum föður hennar, og borgarmenn skulu lemja hana grjóti til bana, því að hún hefir framið óhæfuverk í Ísrael, með því að hórast í föðurgarði. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér. 22.22 Ef maður er staðinn að því að liggja hjá konu annars manns, þá skulu þau bæði deyja, maðurinn, sem lá hjá konunni, og konan sjálf. Þannig skalt þú útrýma hinu illa úr Ísrael. 22.23 Nú er mey manni föstnuð, og karlmaður hittir hana innan borgar og leggst með henni, 22.24 þá skuluð þér leiða þau bæði að borgarhliðinu og lemja þau grjóti til bana, stúlkuna vegna þess að hún kallaði ekki, þó að hún væri inni í borginni, og manninn vegna þess að hann spjallaði konu náunga síns. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér. 22.25 En ef maðurinn hittir föstnuðu stúlkuna úti á víðavangi, og hann tekur hana með valdi og leggst með henni, þá skal maðurinn einn deyja, sá er með henni lagðist. 22.26 En stúlkunni skalt þú ekkert gjöra. Hún hefir ekki framið neitt það, sem dauða sé vert, því að hér stóð eins á og þegar maður ræðst á náunga sinn og drepur hann. 22.27 Því að þar sem hann hitti hana úti á víðavangi, kann fastnaða stúlkan að hafa kallað, en enginn verið við til að hjálpa henni. 22.28 Ef maður hittir mey, sem eigi er föstnuð, og hann tekur hana og leggst með henni og komið er að þeim, 22.29 þá skal maðurinn, er lagðist með henni, greiða föður stúlkunnar fimmtíu sikla silfurs, en hún skal verða kona hans, fyrir því að hann hefir spjallað hana. Honum skal eigi heimilt að skilja við hana alla ævi sína. 22.30 Eigi skal maður ganga að eiga konu föður síns né fletta upp ábreiðu föður síns.
23.1 Enginn sá, er meiddur hefir verið eistnamari eða hreðurskorinn, má vera í söfnuði Drottins. 23.2 Enginn bastarður má vera í söfnuði Drottins, jafnvel ekki tíundi maður frá honum má vera í söfnuði Drottins. 23.3 Enginn Ammóníti eða Móabíti má vera í söfnuði Drottins. Jafnvel ekki tíundi maður frá þeim má vera í söfnuði Drottins að eilífu, 23.4 vegna þess að þeir komu ekki í móti yður með brauð og vatn, þá er þér voruð á leiðinni frá Egyptalandi, og vegna þess að þeir keyptu í móti þér Bíleam Beórsson frá Petór í Mesópótamíu til þess að bölva þér. 23.5 En Drottinn Guð þinn vildi ekki hlýða á Bíleam, og Drottinn Guð þinn sneri bölvaninni í blessan fyrir þig, af því að Drottinn Guð þinn elskaði þig. 23.6 Þú skalt aldrei alla ævi þína láta þér annt um farsæld þeirra og velgengni. 23.7 Þú skalt eigi hafa andstyggð á Edómítum, því að þeir eru bræður þínir. Þú skalt eigi hafa andstyggð á Egyptum, því að þú dvaldir sem útlendingur í landi þeirra. 23.8 Afkomendur þeirra í þriðja lið mega vera í söfnuði Drottins. 23.9 Þegar þú fer í hernað móti óvinum þínum, þá skalt þú gæta þín við öllum illum hlutum. 23.10 Ef einhver, sem með þér er, er ekki hreinn vegna þess, sem hann hefir hent um nóttina, þá skal hann ganga út fyrir herbúðirnar og má eigi koma inn í herbúðirnar, 23.11 en að áliðnum degi skal hann lauga sig í vatni, og er sól er setst, má hann aftur ganga inn í herbúðirnar. 23.12 Þú skalt og hafa afvikinn stað fyrir utan herbúðirnar. Þangað skalt þú fara erinda þinna. 23.13 Og þú skalt hafa spaða í tækjum þínum, og er þú þarft að setjast niður úti, þá skalt þú grafa holu með honum, moka því næst aftur yfir og hylja saurindin. 23.14 Því að Drottinn Guð þinn er á gangi um herbúðir þínar til þess að frelsa þig og gefa óvini þína á þitt vald; fyrir því skulu herbúðir þínar helgar vera, svo að hann sjái ekkert óþokkalegt hjá þér og snúi sér burt frá þér. 23.15 Þú skalt eigi framselja í hendur húsbónda þræl, sem flúið hefir til þín frá húsbónda sínum. 23.16 Hann skal setjast að hjá þér, í landi þínu, á þeim stað, er hann sjálfur velur, í einhverri af borgum þínum, þar sem honum best líkar. Þú skalt ekki sýna honum ójöfnuð. 23.17 Á meðal Ísraels dætra má engin vera, sú er helgi sig saurlifnaði, og á meðal Ísraels sona má enginn vera, sá er helgi sig saurlifnaði. 23.18 Þú skalt eigi bera skækjulaun eða hundsgjald inn í hús Drottins Guðs þíns eftir neinu heiti, því að einnig hvort tveggja þetta er Drottni Guði þínum andstyggilegt. 23.19 Þú skalt ekki taka fjárleigu af bróður þínum, hvorki fyrir peninga, matvæli né nokkurn hlut annan, er ljá má gegn leigu. 23.20 Af útlendum manni mátt þú taka fjárleigu, en af bróður þínum mátt þú ekki taka fjárleigu, til þess að Drottinn Guð þinn blessi þig í öllu því, er þú tekur þér fyrir hendur í landinu, sem þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar. 23.21 Þegar þú gjörir Drottni Guði þínum heit, þá skalt þú ekki láta dragast að efna það, því að ella mun Drottinn Guð þinn krefjast þess af þér og það verða þér til syndar. 23.22 En þótt þú sleppir því að gjöra heit, þá hvílir engin sekt á þér fyrir það. 23.23 Það sem komið hefir yfir varir þínar, skalt þú halda og breyta eftir því, eins og þú sjálfviljuglega hefir heitið Drottni Guði þínum, það sem þú hefir talað með munni þínum. 23.24 Þegar þú kemur í víngarð náunga þíns, þá mátt þú eta vínber eins og þig lystir, þar til er þú ert mettur, en í ker þitt mátt þú ekkert láta. 23.25 Þegar þú kemur á kornakur náunga þíns, þá mátt þú tína öx með hendinni, en sigð mátt þú ekki sveifla yfir kornstöngum náunga þíns.
24.1 Ef maður gengur að eiga konu og samrekkir henni, en hún finnur síðan ekki náð í augum hans, af því að hann verður var við eitthvað viðbjóðslegt hjá henni, og hann skrifar henni skilnaðarskrá og fær henni í hendur og lætur hana fara burt af heimili sínu, _ 24.2 ef hún því næst, eftir að hún er farin burt af heimili hans, fer og giftist öðrum manni, 24.3 en þessi seinni maður leggur líka óvild á hana og skrifar henni skilnaðarskrá og fær henni í hendur, og lætur hana fara burt af heimili sínu _, eða ef seinni maðurinn, sem kvæntist henni, deyr, 24.4 þá má ekki fyrri maður hennar, sá er við hana skildi, taka hana aftur sér að eiginkonu, eftir að hún er saurguð orðin, því að slíkt er andstyggilegt fyrir Drottni, og þú skalt eigi flekka landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar. 24.5 Þegar maður er nýkvæntur, þá skal hann ekki fara í hernað og engar álögur skulu á hann lagðar. Hann skal vera frjáls maður fyrir heimili sitt eitt ár, svo að hann gleðji konu sína, er hann hefir gengið að eiga. 24.6 Eigi skal taka kvörn eða efri kvarnarstein að veði, því að það væri að taka líf mannsins að veði. 24.7 Ef maður verður uppvís að því að stela einhverjum af bræðrum sínum, einhverjum af Ísraelsmönnum, og hann fer með hann sem þræl eða selur hann, þá skal slíkur þjófur deyja. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér. 24.8 Gæt þín í líkþrárveikindum að athuga vandlega og fara eftir öllu því, sem levítaprestarnir tjá yður. Þér skuluð gæta þess að gjöra svo sem ég hefi fyrir þá lagt. 24.9 Minnstu þess, hvað Drottinn Guð þinn gjörði við Mirjam á leiðinni, þá er þér fóruð af Egyptalandi. 24.10 Þegar þú lánar náunga þínum eitthvað, hvað sem það svo er, þá skalt þú eigi ganga inn í hús hans til þess að taka veð af honum. 24.11 Þú skalt staðnæmast úti fyrir, og sá, er þú lánar, skal færa þér veðið út. 24.12 Og ef það er snauður maður, þá skalt þú ekki leggjast til hvíldar með veð hans, 24.13 heldur skalt þú skila honum aftur veðinu um sólarlagsbil, svo að hann geti lagst til hvíldar í yfirhöfn sinni og blessi þig, og það mun talið verða þér til réttlætis fyrir augliti Drottins Guðs þíns. 24.14 Þú skalt eigi beita fátækan og þurfandi daglaunamann ofríki, hvort sem hann er einn af bræðrum þínum eða útlendingum þeim, er dvelja í landi þínu innan borgarhliða þinna. 24.15 Þú skalt greiða honum kaup hans sama daginn, áður en sól sest, _ því að hann er fátækur, og hann langar til að fá það _, svo að hann hrópi ekki til Drottins yfir þér og það verði þér til syndar. 24.16 Feður skulu ekki líflátnir verða ásamt börnunum, og börn skulu ekki líflátin verða ásamt feðrunum. Hver skal líflátinn verða fyrir sína eigin synd. 24.17 Þú skalt ekki halla rétti útlends manns eða munaðarleysingja. Þú skalt ekki taka fatnað ekkjunnar að veði. 24.18 Og þú skalt minnast þess, að þú varst þræll í Egyptalandi og að Drottinn Guð þinn leysti þig þaðan. Fyrir því býð ég þér að gjöra þetta. 24.19 Þegar þú sker upp korn á akri þínum og gleymir kornbundini úti á akrinum, þá skalt þú ekki snúa aftur til að sækja það. Útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan mega fá það, til þess að Drottinn Guð þinn blessi þig í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur. 24.20 Þegar þú slær ávexti af olíutrjám þínum, þá skalt þú ekki gjöra eftirleit í greinum trjánna. Útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan mega fá það. 24.21 Þegar þú tínir víngarð þinn, þá skalt þú ekki gjöra eftirleit. Útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan mega fá það. 24.22 Þú skalt minnast þess, að þú varst þræll í Egyptalandi, fyrir því býð ég þér að gjöra þetta.
25.1 Þegar deila rís milli manna og þeir koma fyrir dóm, og dómur hefir upp kveðinn verið yfir þeim með þeim hætti, að hinn saklausi hefir verið sýknaður, en hinn seki dæmdur sekur, 25.2 og hinn seki hefir unnið til húðstroku, þá skal dómarinn láta leggja hann niður og láta slá hann í viðurvist sinni eins mörg högg og hæfir misgjörð hans. 25.3 Hann má láta slá hann fjörutíu högg, en ekki fleiri, til þess að bróðir þinn verði ekki fyrirlitlegur í augum þínum, ef haldið er áfram að slá hann enn mörg högg. 25.4 Þú skalt ekki múlbinda uxann, er hann þreskir. 25.5 Þegar bræður búa saman og einn þeirra deyr og á engan son, þá skal kona hins látna ekki giftast neinum manni úrættis. Mágur hennar skal ganga inn til hennar og taka hana sér fyrir konu og gegna mágskyldunni við hana, 25.6 en fyrsti sonurinn, er hún fæðir, skal teljast sonur hins látna bróður hans, svo að nafn hans afmáist ekki úr Ísrael. 25.7 En ef manninn fýsir eigi að ganga að eiga bróðurkonu sína, þá skal hún ganga upp í borgarhliðið, til öldunganna, og segja: 'Mágur minn færist undan að halda við nafni bróður síns í Ísrael. Hann vill ekki gegna mágskyldunni við mig.' 25.8 Öldungar borgar hans skulu þá kalla hann fyrir og tala við hann, og ef hann stendur fastur fyrir og segir: 'Mig fýsir eigi að ganga að eiga hana,' 25.9 þá skal mágkona hans ganga að honum í viðurvist öldunganna, draga skóinn af fæti honum, hrækja framan í hann, taka til máls og segja: 'Svo skal fara með hvern þann, er eigi vill reisa við ætt bróður síns.' 25.10 Og ætt hans skal í Ísrael nefnd Berfótsætt. 25.11 Þegar tveir menn eru í áflogum, og kona annars hleypur að til þess að hjálpa manni sínum úr höndum þess, er slær hann, og hún réttir út höndina og tekur um hreðjar honum, 25.12 þá skalt þú höggva af henni höndina og eigi líta hana vægðarauga. 25.13 Þú skalt ekki hafa tvenns konar vogarsteina í sjóði þínum, annan stærri og hinn minni. 25.14 Þú skalt ekki hafa tvenns konar efu í húsi þínu, aðra stærri og hina minni. 25.15 Þú skalt hafa nákvæma og rétta vog, þú skalt hafa nákvæma og rétta efu, til þess að þú lifir lengi í landinu, sem Drottinn Guð þinn gefur þér. 25.16 Því að hver sá, er slíkt gjörir, hver sá er ranglæti fremur, er Drottni Guði þínum andstyggilegur. 25.17 Minnstu þess, hvernig Amalekítar fóru með þig á leiðinni, þá er þér fóruð af Egyptalandi, 25.18 hvernig þeir réðust á þig á leiðinni og unnu á þeim, er aftastir fóru, öllum þeim er þreyttir voru og aftur úr drógust, þegar þú varst orðinn lúinn og uppgefinn, _ og óttuðust ekki Guð. 25.19 Fyrir því skalt þú, þegar Drottinn Guð þinn veitir þér hvíld fyrir öllum óvinum þínum allt í kringum þig í landinu, sem Drottinn Guð þinn gefur þér sem arf til eignar, afmá nafn Amalekíta af jörðinni. Gleym því ekki.
26.1 Þegar þú ert kominn inn í landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar, og þú hefir tekið það til eignar og ert setstur að í því, 26.2 þá skalt þú taka nokkuð af frumgróða alls ávaxtar landsins, er þú fær af landi þínu, því er Drottinn Guð þinn gefur þér, láta það í körfu og fara með það til þess staðar, er Drottinn Guð þinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar. 26.3 Þú skalt fara til prestsins, sem þá er, og segja við hann: 'Ég játa í dag fyrir Drottni Guði þínum, að ég er kominn inn í landið, sem Drottinn sór feðrum vorum að gefa oss.' 26.4 Og presturinn skal taka körfuna af hendi þér og setja hana niður fyrir framan altari Drottins Guðs þíns. 26.5 Þá skalt þú taka til máls og segja frammi fyrir Drottni Guði þínum: 'Faðir minn var umreikandi Aramei, og hann fór suður til Egyptalands fáliðaður og dvaldist þar sem útlendingur og varð þar að mikilli, sterkri og fjölmennri þjóð. 26.6 En Egyptar fóru illa með oss og þjáðu oss og lögðu á oss þunga þrælavinnu. 26.7 Þá hrópuðum vér til Drottins, Guðs feðra vorra, og Drottinn heyrði raust vora og sá eymd vora, þraut og ánauð. 26.8 Og Drottinn flutti oss af Egyptalandi með sterkri hendi og útréttum armlegg, með mikilli skelfingu og með táknum og undrum. 26.9 Og hann leiddi oss hingað og gaf oss þetta land, land, sem flýtur í mjólk og hunangi. 26.10 Og nú færi ég hér frumgróðann af ávexti landsins, þess er þú, Drottinn, hefir gefið mér.' Því næst skalt þú setja það niður frammi fyrir Drottni Guði þínum og falla fram fyrir Drottni Guði þínum. 26.11 Og þú skalt gleðjast yfir öllum þeim gæðum, sem Drottinn Guð þinn hefir gefið þér, þú og skyldulið þitt, og levítinn og útlendingurinn, sem hjá þér eru. 26.12 Þegar þú hefir greitt alla tíund af afrakstri þínum þriðja árið, tíundarárið, og hefir fengið hana í hendur levítanum, útlendingnum, munaðarleysingjanum og ekkjunni, svo að þau megi eta hana innan borgarhliða þinna og verða mett, 26.13 þá skalt þú segja frammi fyrir Drottni Guði þínum: 'Ég hefi flutt hið heilaga burt úr húsinu og fengið það í hendur levítanum, útlendingnum, munaðarleysingjanum og ekkjunni og farið þannig nákvæmlega eftir boðorði þínu, því er þú hefir fyrir mig lagt. Ég hefi eigi breytt út af neinu boðorða þinna né gleymt nokkru þeirra. 26.14 Ég hefi eigi etið neitt af því í sorg minni, eigi flutt neitt af því burt, er ég var óhreinn, og eigi gefið dauðum manni neitt af því. Ég hefi hlýtt raustu Drottins Guðs míns og gjört allt eins og þú hefir fyrir mig lagt. 26.15 Lít niður frá þínum heilaga bústað, frá himnum, og blessa þú lýð þinn Ísrael og landið, sem þú hefir gefið oss, eins og þú sórst feðrum vorum, land sem flýtur í mjólk og hunangi.' 26.16 Í dag býður Drottinn Guð þinn þér að halda þessi lög og ákvæði. Þú skalt því varðveita þau og halda þau af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni. 26.17 Þú hefir látið Drottin lýsa yfir því í dag, að hann vilji vera þinn Guð og að þér skuluð ganga á hans vegum og varðveita lög hans, skipanir og ákvæði og hlýða hans raustu. 26.18 Og Drottinn hefir látið þig lýsa yfir því í dag, að þú viljir vera hans eignarlýður, eins og hann hefir boðið þér, og að þú viljir varðveita allar skipanir hans, 26.19 svo að hann geti hafið þig yfir allar þjóðir, er hann hefir skapað, til lofs, frægðar og heiðurs, og þú sért Drottni Guði þínum helgaður lýður, eins og hann hefir sagt.
27.1 Móse og öldungar Ísraels buðu lýðnum og sögðu: 'Varðveitið allar þær skipanir, sem ég legg fyrir yður í dag. 27.2 Og þegar þér eruð komnir yfir Jórdan inn í landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér, þá skalt þú reisa upp stóra steina og strjúka þá utan kalki 27.3 og rita á þá öll orð lögmáls þessa, þá er þú ert kominn yfir um, til þess að þú komist inn í landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér, land sem flýtur í mjólk og hunangi, eins og Drottinn, Guð feðra þinna, hefir heitið þér. 27.4 Og þegar þér eruð komnir yfir Jórdan, þá skuluð þér reisa upp þessa steina, sem ég hefi mælt fyrir um í dag, á Ebalfjalli og strjúka þá utan kalki. 27.5 Þú skalt og reisa Drottni Guði þínum þar altari, altari af steinum. Þú mátt ekki bera að þeim járntól. 27.6 Af óhöggnum steinum skalt þú reisa altari Drottins Guðs þíns, og á því skalt þú fórna Drottni Guði þínum brennifórnum. 27.7 Og þú skalt slátra heillafórnum og eta þær þar og gleðjast frammi fyrir Drottni Guði þínum. 27.8 Og þú skalt rita á steinana öll orð þessa lögmáls mjög greinilega.' 27.9 Móse og levítaprestarnir töluðu til alls Ísraels og sögðu: 'Ver hljóður og hlýð á, Ísrael! Í dag ert þú orðinn lýður Drottins, Guðs þíns. 27.10 Fyrir því skalt þú hlýða raustu Drottins Guðs þíns og halda skipanir hans og lög, sem ég legg fyrir þig í dag.' 27.11 Þennan sama dag bauð Móse lýðnum og sagði: 27.12 'Þessir skulu standa á Garísímfjalli til þess að blessa lýðinn, þegar þér eruð komnir yfir Jórdan: Símeon, Leví, Júda, Íssakar, Jósef og Benjamín. 27.13 Og þessir skulu standa á Ebalfjalli til að lýsa bölvan: Rúben, Gað, Asser, Sebúlon, Dan og Naftalí. 27.14 Levítarnir skulu taka til máls og segja með hárri raustu við alla Ísraelsmenn: 27.15 Bölvaður er sá maður, sem býr til skurðgoð eða steypt líkneski, andstyggð Drottni, handaverk smiðs, og reisir það á laun! Og allur lýðurinn skal svara: Amen. 27.16 Bölvaður er sá, sem óvirðir föður sinn eða móður sína! Og allur lýðurinn skal segja: Amen. 27.17 Bölvaður er sá, sem færir úr stað landamerki náunga síns! Og allur lýðurinn skal segja: Amen. 27.18 Bölvaður er sá, sem leiðir blindan mann af réttri leið! Og allur lýðurinn skal segja: Amen. 27.19 Bölvaður er sá, sem hallar rétti útlends manns, munaðarleysingja eða ekkju! Og allur lýðurinn skal segja: Amen. 27.20 Bölvaður er sá, sem leggst með konu föður síns, því að hann hefir flett upp ábreiðu föður síns! Og allur lýðurinn skal segja: Amen. 27.21 Bölvaður er sá, sem hefir samlag við nokkra skepnu! Og allur lýðurinn skal segja: Amen. 27.22 Bölvaður er sá, sem leggst með systur sinni, hvort heldur hún er dóttir föður hans eða dóttir móður hans! Og allur lýðurinn skal segja: Amen. 27.23 Bölvaður er sá, sem leggst með tengdamóður sinni! Og allur lýðurinn skal segja: Amen. 27.24 Bölvaður er sá, sem vegur náunga sinn á laun! Og allur lýðurinn skal segja: Amen. 27.25 Bölvaður er sá, sem lætur múta sér til þess að vega saklausan mann! Og allur lýðurinn skal segja: Amen. 27.26 Bölvaður er sá, sem eigi heldur í gildi orðum þessa lögmáls með því að breyta eftir þeim! Og allur lýðurinn skal segja: Amen.'
28.1 Ef þú hlýðir grandgæfilega raustu Drottins Guðs þíns, svo að þú varðveitir og heldur allar skipanir hans, þær er ég legg fyrir þig í dag, þá mun Drottinn Guð þinn hefja þig yfir allar þjóðir á jörðu, 28.2 og þá munu fram við þig koma og á þér rætast allar þessar blessanir, ef þú hlýðir raustu Drottins Guðs þíns: 28.3 Blessaður ert þú í borginni og blessaður ert þú á akrinum. 28.4 Blessaður er ávöxtur kviðar þíns og ávöxtur lands þíns og ávöxtur fénaðar þíns, viðkoma nautgripa þinna og burðir hjarðar þinnar. 28.5 Blessuð er karfa þín og deigtrog þitt. 28.6 Blessaður ert þú, þegar þú gengur inn, og blessaður ert þú, þegar þú gengur út. 28.7 Drottinn mun láta óvini þína bíða ósigur fyrir þér, þá er upp rísa í móti þér. Um einn veg munu þeir fara í móti þér, en um sjö vegu munu þeir flýja undan þér. 28.8 Drottinn láti blessun fylgja þér í forðabúrum þínum og í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur, og hann blessi þig í landinu, sem Drottinn Guð þinn gefur þér. 28.9 Drottinn gjöri þig að lýð, sem heilagur er fyrir honum, eins og hann hefir svarið þér, ef þú varðveitir skipanir Drottins Guðs þíns og gengur á hans vegum. 28.10 Og allar þjóðir á jörðinni munu þá sjá, að þú hefir nefndur verið eftir nafni Drottins, og þær munu óttast þig. 28.11 Drottinn mun veita þér gnægð gæða í ávexti kviðar þíns og í ávexti fénaðar þíns og í ávexti lands þíns í landi því, sem Drottinn sór feðrum þínum að gefa þér. 28.12 Drottinn mun upp ljúka fyrir þér forðabúrinu sínu hinu góða, himninum, til þess að gefa landi þínu regn á réttum tíma og blessa öll verk handa þinna, og þú munt fé lána mörgum þjóðum, en sjálfur eigi þurfa að taka fé að láni. 28.13 Drottinn mun gjöra þig að höfði og eigi að hala, og þú skalt stöðugt stíga upp á við, en aldrei færast niður á við, ef þú hlýðir skipunum Drottins Guðs þíns, þeim er ég legg fyrir þig í dag, til þess að þú varðveitir þær og breytir eftir þeim, 28.14 og ef þú víkur ekki frá neinu boðorða þeirra, er ég legg fyrir yður í dag, hvorki til hægri né vinstri, til þess að elta aðra guði og þjóna þeim. 28.15 En ef þú hlýðir ekki raustu Drottins Guðs þíns, svo að þú varðveitir og haldir allar skipanir hans og lög, er ég legg fyrir þig í dag, þá munu fram við þig koma og á þér hrína allar þessar bölvanir: 28.16 Bölvaður ert þú í borginni og bölvaður ert þú á akrinum. 28.17 Bölvuð er karfa þín og deigtrog þitt. 28.18 Bölvaður er ávöxtur kviðar þíns og ávöxtur lands þíns, viðkoma nautgripa þinna og burðir hjarðar þinnar. 28.19 Bölvaður ert þú, þegar þú gengur inn, og bölvaður ert þú, þegar þú gengur út. 28.20 Drottinn mun senda yfir þig bölvun, skelfing og ógnun í öllu því, er þú tekur þér fyrir hendur að gjöra, uns þú gjöreyðist og fyrirferst skyndilega sökum illra verka þinna _ sökum þess, að þú yfirgafst mig. 28.21 Drottinn mun láta drepsóttina við þig loða, þar til er hann eyðir þér úr landi því, er þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar. 28.22 Drottinn mun slá þig með tæring og köldu, hita og bruna, með ofþurrki, korndrepi og gulnan, og mun þetta ásækja þig uns þú líður undir lok. 28.23 Himinninn yfir höfði þér skal verða sem eir og jörðin undir fótum þér sem járn. 28.24 Í stað regns mun Drottinn láta ryk og sandfok koma yfir land þitt; það mun falla yfir þig af himni, uns þú ert gjöreyddur. 28.25 Drottinn mun láta þig bíða ósigur fyrir óvinum þínum. Um einn veg munt þú fara í móti þeim, en um sjö vegu munt þú flýja undan þeim, og þú munt verða grýla fyrir öll konungsríki jarðarinnar. 28.26 Og hræ þín munu verða æti fyrir alla fugla himinsins og fyrir dýr jarðarinnar, og enginn mun fæla þau burt. 28.27 Drottinn mun slá þig með egypskum kaunum: með kýlum, kláða og útbrotum, svo að þú skalt verða ólæknandi. 28.28 Drottinn mun slá þig með vitfirring, blindni og hugarsturlan. 28.29 Þú munt fálma um hábjartan dag, eins og blindur maður fálmar í myrkri, og þú munt enga gæfu hljóta á vegum þínum, og þú munt alla daga sæta tómri undirokun og ránskap, og enginn mun hjálpa þér. 28.30 Þú munt festa þér konu, en annar maður mun leggjast með henni. Þú munt reisa hús, en eigi búa í því. Þú munt planta víngarð, en engar hans nytjar hafa. 28.31 Uxa þínum mun slátrað verða fyrir augunum á þér, en þú munt ekki fá neitt af honum að eta. Asna þínum mun rænt verða að þér ásjáandi, en hann mun eigi hverfa aftur til þín. Sauðir þínir munu seldir verða í hendur óvinum þínum, og enginn mun hjálpa þér. 28.32 Synir þínir og dætur munu seldar verða í hendur annarri þjóð, og augu þín skulu horfa á það og daprast af þrá eftir þeim allan daginn, en þú skalt eigi fá að gjört. 28.33 Ávöxt lands þíns og allt það, er þú hefir aflað þér með striti þínu, mun þjóð ein eta, sem þú ekki þekkir, og þú munt sæta áþján einni og undirokun alla daga, 28.34 og þú munt verða vitstola út af því, er þú verður að horfa upp á. 28.35 Drottinn mun slá þig með illkynjuðum ólæknandi kaunum á knjám og fótleggjum, frá iljum og allt upp á hvirfil. 28.36 Drottinn mun leiða þig og konung þinn, þann er þú munt taka yfir þig, til þeirrar þjóðar, er hvorki þú né feður þínir hafa þekkt, og þar munt þú þjóna öðrum guðum, stokkum og steinum. 28.37 Og þú munt verða að undri, orðskvið og spotti meðal allra þjóða, þeirra er Drottinn leiðir þig til. 28.38 Mikið kornsæði munt þú færa út á akrana, en litlu skalt þú aftur inn safna, því að engisprettur skulu upp eta það. 28.39 Þú munt planta víngarða og yrkja þá, en vín munt þú hvorki drekka né leggja fyrir til geymslu, því að maðkurinn mun eyða því. 28.40 Þú munt hafa olíutré um allt land þitt, en með olíu munt þú eigi smyrja þig, því að olífur þínar munu detta af. 28.41 Þú munt geta sonu og dætur, en ekki fá að njóta þeirra, því að þau munu fara í útlegð. 28.42 Öll tré þín og ávöxt lands þíns munu engispretturnar leggja undir sig. 28.43 Útlendingurinn, sem hjá þér er, mun stíga hærra og hærra upp yfir þig, en þú færast lengra og lengra niður á við. 28.44 Hann mun lána þér, en þú munt eigi lána honum, hann mun verða höfuðið, en þú munt verða halinn. 28.45 Allar þessar bölvanir munu koma fram á þér, elta þig og á þér hrína, uns þú ert gjöreyddur, af því að þú hlýddir ekki raustu Drottins Guðs þíns, að varðveita skipanir hans og lög, þau er hann fyrir þig lagði, 28.46 og þær skulu fylgja þér og niðjum þínum ævinlega sem tákn og undur. 28.47 Fyrir því að þú þjónaðir ekki Drottni Guði þínum með gleði og fúsu geði, af því að þú hafðir allsnægtir, 28.48 þá skalt þú þjóna óvinum þínum, þeim er Drottinn sendir í móti þér, hungraður og þyrstur, klæðlaus og farandi alls á mis, og hann mun leggja járnok á háls þér, uns hann hefir gjöreytt þér. 28.49 Drottinn mun stefna í móti þér þjóð einni úr fjarlægð, frá enda jarðarinnar, og kemur hún fljúgandi eins og örn, þjóð, hverrar tungu þú ekki skilur, 28.50 illúðlegri þjóð, sem eigi skeytir manngrein gamalmenna og enga vægð sýnir ungmennum. 28.51 Og hún mun eta ávöxt fénaðar þíns og ávöxt lands þíns, uns þú ert gjöreyddur. Hún mun ekki leifa þér korni, aldinlegi og olíu, viðkomu nauta þinna né burði hjarðar þinnar, uns hún hefir gjört út af við þig. 28.52 Hún mun gjöra umsát um þig í öllum borgum þínum, uns hinir háu og rammgjörvu múrar þínir, sem þú treystir á, eru hrundir um land þitt allt. Og hún mun gjöra umsát um þig í öllum borgum þínum alls staðar í landi þínu, því er Drottinn Guð þinn gefur þér. 28.53 Og þú munt eta ávöxt kviðar þíns, holdið af sonum þínum og dætrum, þeim er Drottinn Guð þinn hefir gefið þér. Svo nærri mönnum mun umsátrið ganga og þær hörmungar, er þú munt sæta af óvinum þínum. 28.54 Jafnvel sá maður meðal þín, sem mjúklífur er og mjög kveifarlegur, mun óblíðu auga líta bróður sinn, konuna í faðmi sínum og þau börnin sín, er hann enn á eftir, 28.55 og eigi tíma að gefa neinu af þeim neitt af holdi barna sinna, sem hann etur, af því að hann hefir ekkert annað til. Svo nærri mönnum mun umsátrið ganga og þær hörmungar, er þú munt sæta af óvinum þínum í öllum borgum þínum. 28.56 Mjúklíf og kveifarleg kona meðal þín, sem aldrei hefir reynt að tylla fæti sínum á jörðina af kveifarhætti og tepruskap, mun óblíðu auga líta manninn í faðmi sínum, son sinn og dóttur sína, 28.57 og fylgjuna, sem út gengur af skauti hennar, og börn sín, þau er hún elur, því að hún etur þau sjálf á laun, þegar allar bjargir eru bannaðar. Svo nærri mönnum mun umsátrið ganga og þær hörmungar, er þú munt sæta af óvinum þínum í öllum borgum þínum. 28.58 Ef þú gætir þess eigi að halda öll fyrirmæli þessa lögmáls, þau er rituð eru í þessari bók, með því að óttast þetta dýrlega og hræðilega nafn, DROTTINN GUÐ ÞINN, 28.59 þá mun Drottinn slá þig og niðja þína með feiknaplágum, með miklum plágum og þrálátum, með illkynjuðum sjúkdómum og þrálátum, 28.60 og hann mun aftur láta yfir þig koma allar hinar egypsku sóttir, þær er þú hræðist, og þær munu við þig loða. 28.61 Auk þess mun Drottinn láta yfir þig koma alla þá sjúkdóma og allar þær plágur, sem ekki eru ritaðar í þessari lögmálsbók, uns þú ert gjöreyddur. 28.62 Aðeins fámennur hópur skal eftir verða af yður, í stað þess að þér áður voruð sem stjörnur himins að fjölda til, af því að þú hlýddir eigi raustu Drottins Guðs þíns. 28.63 Og eins og Drottinn áður fyrri hafði yndi af því að gjöra vel við yður og margfalda yður, eins mun Drottinn hafa yndi af að tortíma yður og gjöreyða, og þér munuð verða reknir burt úr því landi, er þér haldið nú inn í til þess að taka það til eignar. 28.64 Og Drottinn mun dreifa þér meðal þjóðanna frá einu heimsskauti til annars, og þar munt þú þjóna öðrum guðum, sem hvorki þú né feður þínir hafa þekkt, stokkum og steinum. 28.65 Og meðal þessara þjóða munt þú eigi mega búa í næði, og hvergi mun hvíldarstaður vera á fæti þínum, heldur mun Drottinn gefa þér þar skjálfandi hjarta, þrotnandi augu og ráðþrota sál. 28.66 Líf þitt mun leika fyrir þér sem á þræði, og þú munt hræddur vera nótt og dag og aldrei vera ugglaus um líf þitt. 28.67 Á morgnana muntu segja: 'Ó, að það væri komið kveld!' og á kveldin muntu segja: 'Ó, að það væri kominn morgunn!' sökum hræðslu þeirrar, er gagntekið hefir hjarta þitt, og sökum þess, er þú verður að horfa upp á. 28.68 Drottinn mun flytja þig aftur til Egyptalands á skipum, þá leið, er ég sagði um við þig: 'Þú skalt aldrei framar líta hana!' Og þar munuð þér boðnir verða óvinum yðar til kaups að þrælum og ambáttum, en enginn vilja kaupa.
29.1 Þessi eru orð sáttmálans, sem Drottinn bauð Móse að gjöra við Ísraelsmenn í Móabslandi, auk sáttmálans, sem hann gjörði við þá hjá Hóreb. 29.2 Móse kallaði saman allan Ísrael og sagði við þá: Þér hafið séð allt það, sem Drottinn gjörði fyrir augum yðar í Egyptalandi við Faraó og alla þjóna hans og allt land hans, 29.3 hin miklu máttarverk, er þú hefir séð með eigin augum, hin miklu tákn og undur. 29.4 En allt fram á þennan dag hefir Drottinn ekki gefið yður hjarta til að skilja með, augu til að sjá eða eyru til að heyra. 29.5 Ég leiddi yður í fjörutíu ár um eyðimörkina. Föt yðar slitnuðu ekki á yður, og skór þínir slitnuðu ekki á fótum þér, 29.6 brauð átuð þér ekki, og vín eða áfengan drykk drukkuð þér ekki, til þess að þér mættuð skilja, að ég er Drottinn, Guð yðar. 29.7 Er þér komuð hingað, og Síhon, konungur í Hesbon, og Óg, konungur í Basan, fóru í móti oss til orustu, þá unnum vér sigur á þeim 29.8 og tókum land þeirra og gáfum það Rúbenítum, Gaðítum og hálfri ættkvísl Manasse til eignar. 29.9 Varðveitið því orð þessa sáttmála og breytið eftir þeim, til þess að yður lánist vel allt, sem þér gjörið. 29.10 Þér standið í dag allir frammi fyrir Drottni, Guði yðar: höfuðsmenn yðar, ættkvíslir yðar, öldungar yðar, tilsjónarmenn yðar, allir karlmenn í Ísrael, 29.11 börn yðar og konur og útlendingar þínir, sem eru í herbúðum þínum, _ bæði viðarhöggsmenn og vatnsberar þínir _, 29.12 til þess að gangast undir sáttmála Drottins, Guðs þíns, og í eiðfest samfélag við hann, er Drottinn Guð þinn gjörir við þig í dag, 29.13 til þess að hann gjöri þig í dag að sínum lýð og hann sé þinn Guð, eins og hann hefir heitið þér og eins og hann hefir svarið feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakob. 29.14 En ég gjöri ekki þennan sáttmála og þetta eiðfesta samfélag við yður eina, 29.15 heldur bæði við þá, sem standa hér með oss í dag frammi fyrir Drottni Guði vorum, og einnig við þá, sem ekki eru hér með oss í dag. 29.16 Þér vitið sjálfir, að vér bjuggum á Egyptalandi og hvernig vér komumst mitt í gegnum þær þjóðir, er þér urðuð að fara gegnum. 29.17 Og þér sáuð viðurstyggðir þeirra og skurðgoð þeirra úr tré og steinum, silfri og gulli, sem hjá þeim voru. 29.18 Aðeins að eigi sé meðal yðar karl eða kona eða heimili eða ættkvísl, sem í dag snúi hjarta sínu frá Drottni Guði vorum og gangi að dýrka guði þessara þjóða! Aðeins að eigi sé meðal yðar rót, sem beri eitur og malurt að ávexti! _ 29.19 enginn sem telji sig sælan í hjarta sínu og segi, er hann heyrir orð þessa eiðfesta sáttmáls: 'Mér mun vel farnast, þótt ég gangi fram í þrjósku hjarta míns.' Slíkt mundi leiða til þess, að hið vökvaða yrði afmáð ásamt hinu þurra. 29.20 Drottinn mun eigi vilja fyrirgefa honum, heldur mun reiði Drottins og vandlæting þá bálast gegn slíkum manni, og öll bölvunin, sem rituð er í þessari bók, mun þá á honum hvíla, og Drottinn mun afmá nafn hans af jörðinni. 29.21 Og Drottinn mun skilja slíka ættkvísl úr öllum ættkvíslum Ísraels henni til glötunar, samkvæmt öllum bölvunum sáttmálans, sem ritaður er í þessari lögmálsbók. 29.22 Hin komandi kynslóð, börn yðar, sem upp munu vaxa eftir yður, og útlendir menn, sem koma munu af fjarlægu landi, munu segja, er þeir sjá plágur þær og sóttir, er Drottinn hefir lagt á land þetta, _ 29.23 landið er allt orðið að brennisteini, salti og brunaskellum, þar verður eigi sáð og ekkert sprettur þar og engin jurt kemur þar upp úr jörðinni, en allt er umturnað eins og Sódóma og Gómorra, Adma og Sebóím, er Drottinn umturnaði í reiði sinni og heift _, 29.24 já, allar þjóðir munu segja: 'Hvers vegna hefir Drottinn farið svo með þetta land? Hvernig stendur á þessari miklu ofsareiði?' 29.25 Þá munu menn svara: 'Af því að þeir yfirgáfu sáttmála Drottins, Guðs feðra sinna, sem hann gjörði við þá, er hann leiddi þá af Egyptalandi, 29.26 en gengu að dýrka aðra guði og falla fram fyrir þeim, guði, er þeir þekktu eigi og hann hafði eigi úthlutað þeim. 29.27 Fyrir því upptendraðist reiði Drottins gegn landi þessu, svo að hann lét yfir þá koma alla þá bölvun, sem rituð er í þessari bók. 29.28 Og Drottinn sleit þá upp úr landi þeirra í reiði og heift og mikilli gremju og þeytti þeim í annað land, og er svo enn í dag.' 29.29 Hinir leyndu hlutir heyra Drottni Guði vorum, en það, sem opinberað er, heyrir oss og börnum vorum ævinlega, svo að vér megum breyta eftir öllum orðum lögmáls þessa.
30.1 Þegar allt þetta, blessunin og bölvunin, sem ég hefi lagt fyrir þig í dag, kemur fram við þig, og þú hugfestir það meðal allra þeirra þjóða, er Drottinn Guð þinn rekur þig til, 30.2 og þú snýr þér aftur til Drottins Guðs þíns og hlýðir raustu hans í öllu, sem ég býð þér í dag, bæði þú og börn þín, af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni, 30.3 þá mun Drottinn Guð þinn snúa við högum þínum og miskunna þér og safna þér aftur saman frá öllum þjóðum, þeim er Drottinn Guð þinn hefir dreift þér á meðal. 30.4 Þótt þínir brottreknu væru yst við skaut himins, þá mun Drottinn Guð þinn saman safna þér þaðan og sækja þig þangað. 30.5 Og Drottinn Guð þinn mun leiða þig inn í landið, sem feður þínir áttu, og þú skalt taka það til eignar, og hann mun gjöra enn betur til þín og fjölga þér enn meir en feðrum þínum. 30.6 Drottinn Guð þinn mun umskera hjarta þitt og hjarta niðja þinna, svo að þú elskir Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni, til þess að þú megir lifa. 30.7 Og Drottinn Guð þinn mun láta allar þessar bölvanir bitna á óvinum þínum og fjendum, þeim er hafa ofsótt þig. 30.8 En þú munt aftur hlýða raustu Drottins og halda allar skipanir hans, þær er ég legg fyrir þig í dag. 30.9 Drottinn Guð þinn mun veita þér gnægð gæða í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur, í ávexti kviðar þíns og í ávexti fénaðar þíns og í ávexti lands þíns, því að Drottinn mun aftur gleðjast yfir þér, þér til heilla, eins og hann gladdist yfir feðrum þínum, 30.10 ef þú hlýðir raustu Drottins Guðs þíns og varðveitir skipanir hans og lög, sem rituð eru í þessari lögmálsbók, ef þú snýr þér til Drottins Guðs þíns af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni. 30.11 Þetta boðorð, sem ég legg fyrir þig í dag, er þér eigi um megn, og það er eigi fjarlægt þér. 30.12 Ekki er það uppi í himninum, svo að þú þurfir að segja: 'Hver ætli fari fyrir oss upp í himininn og sæki það handa oss og kunngjöri oss það, svo að vér megum breyta eftir því?' 30.13 Og það er eigi hinumegin hafsins, svo að þú þurfir að segja: 'Hver ætli fari fyrir oss yfir hafið og sæki það handa oss og kunngjöri oss það, svo að vér megum breyta eftir því?' 30.14 Heldur er orðið harla nærri þér, í munni þínum og hjarta þínu, svo að þú getur breytt eftir því. 30.15 Sjá, ég hefi í dag lagt fyrir þig líf og heill, dauða og óheill. 30.16 Ef þú hlýðir skipunum Drottins Guðs þíns, þeim er ég legg fyrir þig í dag, að elska Drottin Guð þinn, ganga á hans vegum og varðveita skipanir hans, lög og ákvæði, þá munt þú lifa og margfaldast, og Drottinn Guð þinn mun blessa þig í landi því, er þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar. 30.17 En ef hjarta þitt gjörist fráhverft og þú verður óhlýðinn og lætur tælast til að falla fram fyrir öðrum guðum og dýrka þá, 30.18 þá boða ég yður í dag, að þér munuð gjörsamlega farast. Þér munuð þá eigi lifa mörg árin í landi því, er þér haldið nú inn í yfir Jórdan til þess að taka það til eignar. 30.19 Ég kveð í dag bæði himin og jörð til vitnis móti yður, að ég hefi lagt fyrir þig lífið og dauðann, blessunina og bölvunina. Veldu þá lífið, til þess að þú og niðjar þínir megi lifa, 30.20 með því að elska Drottin Guð þinn, hlýða raustu hans og halda þér fast við hann, því að undir því er líf þitt komið og langgæður aldur þinn, svo að þú megir búa í landinu, sem Drottinn sór feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakob, að gefa þeim.
31.1 Móse fór og flutti öllum Ísrael þessi orð 31.2 og sagði við þá: 'Ég er nú hundrað og tuttugu ára. Ég get ekki lengur gengið út og inn, og Drottinn hefir sagt við mig: ,Þú skalt ekki komast yfir hana Jórdan.` 31.3 Drottinn Guð þinn fer sjálfur yfir um fyrir þér, hann mun sjálfur eyða þessum þjóðum fyrir þér, svo að þú getir tekið lönd þeirra til eignar. Jósúa skal fara yfir um fyrir þér, eins og Drottinn hefir sagt. 31.4 Og Drottinn mun fara með þær eins og hann fór með Síhon og Óg, konunga Amoríta, og land þeirra, sem hann eyddi. 31.5 Og Drottinn mun gefa þær yður á vald, og þér skuluð fara með þær nákvæmlega eftir skipun þeirri, er ég hefi fyrir yður lagt. 31.6 Verið hughraustir og öruggir, óttist eigi og hræðist þá eigi, því að Drottinn Guð þinn fer sjálfur með þér. Hann mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.' 31.7 Móse kallaði þá á Jósúa og sagði við hann í augsýn alls Ísraels: 'Vertu hughraustur og öruggur, því að þú munt leiða þetta fólk inn í landið, sem Drottinn sór feðrum þeirra að gefa þeim, og þú munt skipta því milli þeirra. 31.8 Og Drottinn mun sjálfur fara fyrir þér, hann mun vera með þér, hann mun eigi sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig. Óttast þú eigi og lát eigi hugfallast.' 31.9 Móse ritaði lögmál þetta og fékk það í hendur prestunum, sonum Leví, er bera sáttmálsörk Drottins, og öllum öldungum Ísraels. 31.10 Og Móse lagði svo fyrir þá: 'Sjöunda hvert ár, umlíðunarárið, á laufskálahátíðinni, 31.11 þegar allur Ísrael kemur til að birtast fyrir augliti Drottins Guðs þíns á þeim stað, sem hann velur, þá skalt þú lesa lögmál þetta fyrir öllum Ísrael í heyranda hljóði. 31.12 Safna þú saman lýðnum, bæði körlum, konum og börnum, og útlendingum þeim, sem hjá þér eru innan borgarhliða þinna, til þess að þeir hlýði á og til þess að þeir læri að óttast Drottin Guð yðar og gæti þess að halda öll orð þessa lögmáls. 31.13 Og börn þeirra, þau er enn ekki þekkja það, skulu hlýða á og læra að óttast Drottin Guð yðar alla þá daga, sem þér lifið í því landi, er þér haldið nú inn í yfir Jórdan til þess að taka það til eignar.' 31.14 Drottinn sagði við Móse: 'Sjá, andlátstími þinn nálgast. Kalla þú á Jósúa og gangið inn í samfundatjaldið, svo að ég megi leggja fyrir hann skipanir mínar.' Þá fóru þeir Móse og Jósúa og gengu inn í samfundatjaldið. 31.15 En Drottinn birtist í tjaldinu í skýstólpa, og skýstólpinn nam staðar við tjalddyrnar. 31.16 Drottinn sagði við Móse: 'Sjá, þú munt nú leggjast til hvíldar hjá feðrum þínum. Þá mun lýður þessi rísa upp og taka fram hjá með útlendum guðum lands þess, er hann heldur nú inn í, en yfirgefa mig og rjúfa sáttmála minn, þann er ég við hann gjörði. 31.17 Þá mun reiði mín upptendrast gegn þeim, og ég mun yfirgefa þá og byrgja auglit mitt fyrir þeim, og lýðurinn mun eyddur verða og margs konar böl og þrengingar yfir hann koma. Þá mun hann segja: ,Vissulega er þetta böl yfir mig komið, af því að Guð minn er ekki hjá mér.` 31.18 En á þeim degi mun ég byrgja auglit mitt vandlega vegna allrar þeirrar illsku, sem hann hefir í frammi haft, er hann sneri sér til annarra guða. 31.19 Skrifa þú nú upp kvæði þetta og kenn það Ísraelsmönnum, legg þeim það í munn, til þess að kvæði þetta megi verða mér til vitnisburðar gegn Ísraelsmönnum. 31.20 Því að ég mun leiða þá inn í landið, sem ég sór feðrum þeirra, sem flýtur í mjólk og hunangi, og þeir munu eta og verða saddir og feitir og snúa sér til annarra guða og dýrka þá, en mér munu þeir hafna og rjúfa sáttmála minn. 31.21 Og þegar margs konar böl og þrengingar koma yfir þá, þá mun kvæði þetta bera vitni gegn þeim, því að það mun eigi gleymast í munni niðja þeirra. Því að ég veit, hvað þeim býr innanbrjósts nú þegar, áður en ég hefi leitt þá inn í landið, sem ég sór feðrum þeirra.' 31.22 Og Móse skrifaði upp kvæði þetta þann hinn sama dag og kenndi það Ísraelsmönnum. 31.23 Drottinn lagði skipanir sínar fyrir Jósúa Núnsson og sagði: 'Vertu hughraustur og öruggur, því að þú munt leiða Ísraelsmenn inn í landið, sem ég sór þeim, og ég mun vera með þér.' 31.24 Þegar Móse hafði algjörlega lokið því að rita orð þessa lögmáls í bók, 31.25 þá bauð hann levítunum, sem bera sáttmálsörk Drottins, og sagði: 31.26 'Takið lögmálsbók þessa og leggið hana við hliðina á sáttmálsörk Drottins Guðs yðar, svo að hún geymist þar til vitnisburðar gegn þér. 31.27 Því að ég þekki mótþróa þinn og þrjósku. Sjá, meðan ég enn er lifandi hjá yður í dag, hafið þér óhlýðnast Drottni, og hvað mun þá síðar verða að mér dauðum! 31.28 Safnið saman til mín öllum öldungum ættkvísla yðar og tilsjónarmönnum yðar, að ég megi flytja þeim þessi orð í heyranda hljóði og kveðja himin og jörð til vitnis móti þeim. 31.29 Því að ég veit, að eftir dauða minn munuð þér gjörspillast og víkja af þeim vegi, sem ég hefi boðið yður. Þá mun og ógæfan koma yfir yður á komandi tímum, er þér gjörið það sem illt er í augum Drottins, svo að þér egnið hann til reiði með athæfi yðar.' 31.30 Móse flutti þá öllum söfnuði Ísraels orð þessa kvæðis, uns því var lokið:
32.1 Hlustið, þér himnar, því að nú mun ég mæla, og jörðin hlýði á mál munns míns! 32.2 Kenning mín streymi sem regn, ræða mín drjúpi sem dögg, eins og gróðrarskúrir á grængresið og sem þungaregn á jurtirnar. 32.3 Ég vil kunngjöra nafn Drottins: Gefið Guði vorum dýrðina! 32.4 Bjargið _ fullkomin eru verk hans, því að allir vegir hans eru réttlæti. Trúfastur Guð og tállaus, réttlátur og réttvís er hann. 32.5 Synir hans eru spilltir orðnir, blettur er á þeim, rangsnúin og rammspillt kynslóð. 32.6 Ætlið þér að launa Drottni þannig, þú heimska og óvitra þjóð? Er hann ekki faðir þinn, sá er skóp þig, sá er gjörði þig og myndaði? 32.7 Minnstu fyrri tíða, hyggið að árum liðinna alda! Spyr föður þinn, að hann megi fræða þig, gamalmenni þín, að þau megi segja þér frá! 32.8 Þá er hinn hæsti skipti óðulum meðal þjóðanna, þá er hann greindi í sundur mannanna börn, þá skipaði hann löndum þjóðflokkanna eftir tölu Ísraels sona. 32.9 Því að hlutskipti Drottins er lýður hans, Jakob úthlutuð arfleifð hans. 32.10 Hann fann hann í eyðimerkurlandi og í óbyggðum, innan um öskrið á öræfunum. Hann verndaði hann, hugði að honum, hann varðveitti hann sem sjáaldur auga síns. 32.11 Eins og örn, sem vekur upp hreiður sitt og svífur yfir ungum sínum, svo útbreiddi hann vængi sína, tók hann upp og bar hann á flugfjöðrum sínum. 32.12 Drottinn einn leiddi hann, og enginn annar guð var með honum. 32.13 Hann lét hann fram bruna á hæðum landsins og lét hann njóta ávaxtar akursins. Hann lét hann sjúga hunang úr klettunum og olífuolíu úr tinnusteinunum. 32.14 Hann ól hann á kúarjóma og sauðamjólk, ásamt feitu kjöti af dilkum og hrútum. Hann gaf honum Basan-uxa og kjarnhafra, ásamt nýrnafeiti hveitisins. Þrúgnablóð drakkst þú sem kostavín. 32.15 En Jesjúrún varð feitur og sparkaði aftur undan sér, _ feitur varðst þú, digur og sællegur! Þá hafnaði hann Guði, skapara sínum, og fyrirleit bjarg hjálpræðis síns. 32.16 Þeir vöktu vandlæti hans með útlendum guðum, egndu hann til reiði með andstyggðum. 32.17 Þeir færðu fórnir vættum, sem ekki eru Guð, guðum, sem þeir höfðu eigi þekkt, nýjum guðum, nýlega upp komnum, er feður yðar höfðu engan beyg af. 32.18 Um bjargið, sem þig hafði getið, hirtir þú ekki og gleymdir þeim Guði, sem þig hafði alið. 32.19 Drottinn sá það og hafnaði þeim af gremju við sonu sína og dætur. 32.20 Og hann sagði: Ég vil byrgja auglit mitt fyrir þeim, ég ætla að sjá, hver afdrif þeirra verða. Því að þeir eru rangsnúin kynslóð, börn, sem engin tryggð er í. 32.21 Þeir hafa vakið vandlæti mitt með því, sem ekki er Guð, egnt mig til reiði með hinum fánýtu goðum sínum. Nú mun ég vekja vandlæti þeirra með því, sem ekki er þjóð, egna þá til reiði með heiðnum lýð. 32.22 Því að eldur kviknaði í nösum mér, og hann logar lengst niður í undirheima, eyðir jörðina og ávöxtu hennar og kveikir í undirstöðum fjallanna. 32.23 Ég vil hrúga yfir þá margs konar böli, eyða á þá öllum örvum mínum. 32.24 Þótt þeir séu megraðir af hungri og tærðir af sýki og eitraðri sótt, þá mun ég hleypa tönnum villidýranna á þá, ásamt eitri þeirra, er í duftinu skríða. 32.25 Sverðið mun eyða þeim úti fyrir, en hræðslan í húsum inni, bæði yngismönnum og meyjum, brjóstmylkingum og gráhærðum öldungum. 32.26 Ég mundi segja: Ég vil blása þeim burt, afmá minning þeirra meðal mannanna! _ 32.27 ef ég óttaðist ekki, að mér mundi gremjast við óvinina, að mótstöðumenn þeirra mundu leggja það út á annan veg, að þeir mundu segja: Hönd vor var á lofti, og það var ekki Drottinn, sem gjörði allt þetta! 32.28 Því að þeir eru ráðþrota þjóð, og hjá þeim eru engin hyggindi. 32.29 Ef þeir væru vitrir, þá mundu þeir sjá þetta, hyggja að, hver afdrif þeirra munu verða. 32.30 Hvernig gæti einn maður elt þúsund og tveir rekið tíu þúsundir á flótta, ef bjarg þeirra hefði ekki selt þá, ef Drottinn hefði ekki ofurselt þá? 32.31 Því að bjarg þeirra er ekki eins og vort bjarg _ um það geta óvinir vorir dæmt. 32.32 Því að vínviður þeirra er af vínviði Sódómu, af akurlöndum Gómorru. Vínber þeirra eru eitruð vínber, þrúgur þeirra beiskar. 32.33 Vín þeirra er höggormsólyfjan og banvænt nöðrueitur. 32.34 Er þetta ekki geymt hjá mér, innsiglað í forðabúrum mínum? 32.35 Mín er hefndin og mitt að endurgjalda, þá er þeir gjörast valtir á fótum. Því að glötunardagur þeirra er nálægur, og það ber óðfluga að, er fyrir þeim liggur. 32.36 Drottinn mun rétta hluta þjóðar sinnar og aumkast yfir þjóna sína, þá er hann sér, að öll hjálp er úti og enginn er framar til, þræll né frelsingi. 32.37 Þá mun hann segja: Hvar eru nú guðir þeirra, bjargið, er þeir leituðu hælis hjá, 32.38 sem átu feiti fórna þeirra og drukku vín dreypifórna þeirra? Rísi þeir nú upp og hjálpi yður, veri þeir yður nú hlíf! 32.39 Sjáið nú, að ég, ég er hann, og að enginn guð er til nema ég! Ég deyði og ég lífga, ég særi og ég græði, og enginn getur frelsað af minni hendi. 32.40 Því að ég lyfti hendi minni til himins og segi: Svo sannarlega sem ég lifi eilíflega, _ 32.41 þegar ég hefi hvesst mitt blikandi sverð, og ég legg hönd á dóminn, þá mun ég efna hefnd við mótstöðumenn mína og endurgjalda þeim, er hata mig! 32.42 Ég vil gjöra örvar mínar drukknar af blóði, og sverð mitt skal hold eta _ af blóði veginna manna og hertekinna, af höfði fyrirliða óvinanna. 32.43 Vegsamið, þjóðir, lýð hans! því að hann hefnir blóðs þjóna sinna. Hann efnir hefnd við mótstöðumenn sína og friðþægir fyrir land síns lýðs. 32.44 Móse kom og flutti lýðnum öll orð þessa kvæðis í heyranda hljóði, hann og Hósea Núnsson. 32.45 Og er Móse hafði lokið að mæla öll þessi orð til alls Ísraels, 32.46 sagði hann við þá: 'Hugfestið öll þau orð, sem ég flyt yður í dag, til þess að þér getið brýnt þau fyrir börnum yðar, svo að þau gæti þess að halda öll orð þessa lögmáls. 32.47 Því að það er ekkert hégómamál fyrir yður, heldur er það líf yðar, og fyrir þetta orð munuð þér lifa langa ævi í landinu, sem þér haldið nú inn í yfir Jórdan til þess að taka það til eignar.' 32.48 Þann hinn sama dag talaði Drottinn við Móse og sagði: 32.49 'Far þú þarna upp á Abarímfjall, upp á Nebófjall, sem er í Móabslandi gegnt Jeríkó, og lít yfir Kanaanland, sem ég gef Ísraelsmönnum til eignar. 32.50 Og þú skalt deyja á fjallinu, er þú fer upp á, og safnast til þíns fólks, eins og Aron bróðir þinn dó á Hórfjalli og safnaðist til síns fólks, 32.51 af því að þið sýnduð mér ótrúmennsku mitt á meðal Ísraelsmanna hjá Meríbavötnum við Kades í Síneyðimörk, af því að þið helguðuð mig ekki meðal Ísraelsmanna. 32.52 Því að handan yfir skalt þú fá að líta landið, en inn í landið, sem ég gef Ísraelsmönnum, skalt þú ekki komast.'
33.1 Þessi er blessunin, er guðsmaðurinn Móse blessaði með Ísraelsmenn, áður en hann andaðist: 33.2 Drottinn kom frá Sínaí og rann upp fyrir þeim á Seír. Hann lét ljós sitt skína frá Paranfjöllum og kom frá hinum helgu tíu þúsundum, eldingarnar í hægri hendi hans voru þeim til varnar. 33.3 Já, hann elskar sinn lýð, allir hans heilögu eru í hans hendi. Og þeir fara eftir leiðsögu þinni, sérhver þeirra meðtekur af orðum þínum. 33.4 Móse setti oss lögmál, óðal Jakobs safnaðar. 33.5 Og Drottinn varð konungur í Jesjúrún, þá er höfðingjar lýðsins söfnuðust saman, ættkvíslir Ísraels allar samt. 33.6 Lifi Rúben og deyi ekki, þannig að menn hans verði fáir að tölu. 33.7 Og þetta er blessunin um Júda: Heyr, Drottinn, bænir Júda, og leið hann aftur til þjóðar sinnar, _ með höndum sínum hefir hann barist fyrir hana _ og ver þú honum hjálp gegn fjendum hans. 33.8 Og um Leví sagði hann: Túmmím þín og úrím heyra mönnum hollvinar þíns, þess er þú reyndir hjá Massa og barðist gegn hjá Meríbavötnum, 33.9 _ heyra þeim, er sagði um föður og móður: Ég sá þau ekki, er eigi kannaðist við bræður sína og leit eigi við börnum sínum. Því að þeir varðveittu orð þitt og héldu sáttmála þinn. 33.10 Þeir kenna Jakob dóma þína og Ísrael lögmál þitt, þeir bera reykelsi fyrir vit þín og alfórn á altari þitt. 33.11 Blessa, Drottinn, styrkleik hans, og lát þér þóknast verk handa hans. Myl sundur lendar óvina hans og þeirra er hata hann, svo að þeir fái eigi risið upp aftur. 33.12 Um Benjamín sagði hann: Ljúflingur Drottins býr óhultur hjá honum. Hann verndar hann alla daga og hefir tekið sér bólfestu milli hálsa hans. 33.13 Um Jósef sagði hann: Blessað af Drottni er land hans með himinsins dýrmætustu gjöf, dögginni, og með djúpinu, er undir hvílir, 33.14 með hinu dýrmætasta, er sólin framleiðir, og með hinu dýrmætasta, sem tunglin láta spretta, 33.15 með hinu besta á hinum eldgömlu fjöllum og með hinu dýrmætasta á hinum eilífu hæðum, 33.16 með hinu dýrmætasta af jörðinni og öllu því, sem á henni er, og með þóknun hans, sem bjó í þyrnirunninum. Þetta komi yfir höfuð Jósefs og í hvirfil hans, sem er höfðingi meðal bræðra sinna! 33.17 Prýðilegur er frumgetinn uxi hans, og horn hans eru sem horn vísundarins. Með þeim rekur hann þjóðir undir, allt til endimarka jarðarinnar. Þetta eru tíu þúsundir Efraíms, og þetta eru þúsundir Manasse! 33.18 Um Sebúlon sagði hann: Gleðst þú, Sebúlon, yfir sæförum þínum, og þú, Íssakar, yfir tjöldum þínum! 33.19 Þjóðflokkum bjóða þeir til fjallsins, þar fórna þeir réttum fórnum, því að þeir munu sjúga í sig nægtir hafsins og hina huldustu fjársjóðu sandsins. 33.20 Um Gað sagði hann: Blessaður sé sá, sem veitir Gað landrými! Hann hefir lagst niður sem ljónynja, og rífur sundur arm og hvirfil. 33.21 Hann valdi sér landið, er fyrst var tekið, því að þar var landshluti geymdur ætthöfðingja. Og hann kom með höfðingjum lýðsins, hann framkvæmdi réttlæti Drottins og dóma hans ásamt Ísrael. 33.22 Um Dan sagði hann: Dan er ljónshvolpur, sem kemur stökkvandi frá Basan. 33.23 Um Naftalí sagði hann: Naftalí, saddur velþóknunar og fullur af blessun Drottins, tak þú sjó og Suðurland til eignar! 33.24 Um Asser sagði hann: Blessaðastur af sonunum sé Asser! Veri hann eftirlæti bræðra sinna og vökvi fót sinn í olíu! 33.25 Slár þínar séu af járni og eir, og afl þitt réni eigi fyrr en ævina þrýtur! 33.26 Enginn er sem Guð Jesjúrúns, er ekur yfir himininn til hjálpar þér og á skýjunum í tign sinni! 33.27 Hæli er hinn eilífi Guð, og hið neðra eru eilífir armar. Hann stökkti óvinum þínum undan þér og sagði: Gjöreyð! 33.28 Og síðan bjó Ísrael óhultur, lind Jakobs ein sér, í landi korns og vínlagar, þar sem himinninn lætur dögg drjúpa. 33.29 Heill þér, Ísrael! Hver er sem þú? _ lýður, sigursæll fyrir hjálp Drottins! Hann er skjöldur þíns fulltingis, og hann er sverð tignar þinnar. Óvinir þínir munu smjaðra fyrir þér, og þú munt fram bruna á hæðum þeirra.
34.1 Og Móse gekk neðan af Móabsheiðum upp á Nebófjall, Pisgatind, sem er gegnt Jeríkó. Þaðan sýndi Drottinn honum gjörvallt landið: Gíleað allt til Dan, 34.2 allt Naftalí og Efraímsland og Manasse, og allt Júdaland allt til vesturhafsins, 34.3 og Suðurlandið og Jórdan-sléttlendið, dalinn hjá Jeríkó, pálmaborginni, allt til Sóar. 34.4 Og Drottinn sagði við hann: 'Þetta er landið, sem ég sór Abraham, Ísak og Jakob, er ég sagði: ,Niðjum þínum vil ég gefa það!` Ég hefi látið þig líta það eigin augum, en yfir um þangað skalt þú ekki komast.' 34.5 Móse, þjónn Drottins, dó þar í Móabslandi, eins og Drottinn hafði sagt, 34.6 og hann var grafinn í dalnum í Móabslandi, gegnt Bet Peór, en enginn maður veit enn til þessa dags, hvar gröf hans er. 34.7 Og Móse var hundrað og tuttugu ára gamall, er hann andaðist. Eigi glapnaði honum sýn, og eigi þvarr þróttur hans. 34.8 Ísraelsmenn grétu Móse á Móabsheiðum í þrjátíu daga, þá enduðu sorgargrátsdagarnir eftir Móse. 34.9 En Jósúa Núnsson var fullur vísdómsanda, því að Móse hafði lagt hendur sínar yfir hann, og Ísraelsmenn hlýddu honum og gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 34.10 En eigi reis framar upp í Ísrael annar eins spámaður og Móse, er Drottinn umgekkst augliti til auglitis, 34.11 þegar litið er til allra þeirra tákna og undra, er Drottinn hafði sent hann til að gjöra í Egyptalandi á Faraó og öllum þjónum hans og öllu landi hans,
1.1 Eftir andlát Móse, þjóns Drottins, mælti Drottinn við Jósúa Núnsson, þjónustumann Móse, á þessa leið: 1.2 'Móse, þjónn minn, er andaður. Rís þú nú upp og far yfir ána Jórdan með allan þennan lýð, inn í landið, sem ég gef þeim, Ísraelsmönnum. 1.3 Hvern þann stað, er þér stígið fæti á, mun ég gefa yður, eins og ég sagði Móse. 1.4 Frá eyðimörkinni og Líbanon allt til fljótsins mikla, Efratfljótsins, allt land Hetíta, allt til hafsins mikla mót sólar setri skal land yðar ná. 1.5 Enginn mun standast fyrir þér alla ævidaga þína. Svo sem ég var með Móse, svo mun ég og með þér vera. Ég mun eigi sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig. 1.6 Ver þú hughraustur og öruggur, því að þú skalt skipta meðal þessa lýðs landi því, er ég sór feðrum þeirra að gefa þeim. 1.7 Ver þú aðeins hughraustur og harla öruggur að gæta þess að breyta eftir öllu lögmálinu, því er Móse þjónn minn fyrir þig lagði. Vík eigi frá því, hvorki til hægri né vinstri, til þess að þér lánist vel allt, sem þú tekur þér fyrir hendur. 1.8 Eigi skal lögmálsbók þessi víkja úr munni þínum, heldur skalt þú hugleiða hana um daga og nætur, til þess að þú gætir þess að gjöra allt það, sem í henni er skrifað, því að þá munt þú gæfu hljóta á vegum þínum og breyta viturlega. 1.9 Hefi ég ekki boðið þér: Ver þú hughraustur og öruggur? Lát eigi hugfallast og óttast eigi, því að Drottinn Guð þinn er með þér í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur.' 1.10 Þá bauð Jósúa tilsjónarmönnum lýðsins á þessa leið: 1.11 'Farið um allar herbúðirnar og bjóðið lýðnum og segið: ,Búið yður veganesti, því að þrem dögum liðnum skuluð þér fara yfir ána Jórdan, svo að þér komist inn í og fáið til eignar landið, sem Drottinn, Guð yðar, gefur yður til eignar.'` 1.12 En við Rúbeníta, Gaðíta og hálfa ættkvísl Manasse mælti Jósúa á þessa leið: 1.13 'Minnist þess, sem Móse, þjónn Drottins, bauð yður, er hann sagði: ,Drottinn, Guð yðar, mun veita yður hvíld og gefa yður þetta land.` 1.14 Konur yðar, börn yðar og búsmali skal eftir verða í landi því, er Móse gaf yður hinumegin Jórdanar, en þér skuluð fara hertygjaðir fyrir bræðrum yðar, allir þér sem vopnfærir eruð, og veita þeim fulltingi, 1.15 þar til er Drottinn veitir bræðrum yðar hvíld eins og yður, og þeir hafa líka tekið til eignar land það, sem Drottinn, Guð yðar, gefur þeim. Þá skuluð þér snúa aftur í eignarland yðar og setjast þar að, í landinu, sem Móse, þjónn Drottins, gaf yður hinumegin Jórdanar, austanmegin.' 1.16 Þeir svöruðu Jósúa á þessa leið: 'Vér skulum gjöra allt sem þú býður oss, og fara hvert sem þú sendir oss. 1.17 Eins og vér í öllu hlýddum Móse, svo viljum vér og hlýða þér. Veri Drottinn, Guð þinn, með þér, eins og hann var með Móse. 1.18 Hver sá er þverskallast gegn skipun þinni og hlýðir ekki orðum þínum í öllu, sem þú býður oss, skal líflátinn verða. Vertu aðeins hughraustur og öruggur.'
2.1 Jósúa Núnsson sendi tvo njósnarmenn leynilega frá Sittím og sagði: 'Farið og skoðið landið og Jeríkó!' Þeir fóru og komu í hús portkonu einnar, er Rahab hét, og tóku sér þar gistingu. 2.2 Konunginum í Jeríkó var sagt: 'Sjá, hingað komu menn nokkrir í kveld af Ísraelsmönnum til þess að kanna landið.' 2.3 Sendi þá konungurinn í Jeríkó til Rahab og lét segja henni: 'Sel fram mennina, sem til þín eru komnir, þá er komnir eru í hús þitt, því að þeir eru komnir til þess að kanna allt landið.' 2.4 En konan tók mennina báða og leyndi þeim. Og hún sagði: 'Satt er það, menn komu til mín, en eigi vissi ég hvaðan þeir voru, 2.5 og er loka skyldi borgarhliðinu í rökkrinu, fóru mennirnir burt. Eigi veit ég hvert þeir hafa farið. Veitið þeim eftirför sem skjótast, þá munuð þér ná þeim.' 2.6 En hún hafði leitt þá upp á þakið og falið þá undir hörjurtarleggjum, sem breiddir voru á þakið. 2.7 Menn konungs veittu þeim eftirför veginn til Jórdanar, að vöðunum. Og borgarhliðinu var lokað, þá er leitarmennirnir voru út farnir. 2.8 Áður en njósnarmennirnir gengu til hvílu, gekk hún til þeirra upp á þakið 2.9 og sagði við þá: 'Ég veit, að Drottinn hefir gefið yður land þetta og að ótti við yður er yfir oss kominn og að allir landsbúar hræðast yður. 2.10 Því að frétt höfum vér, að Drottinn þurrkaði fyrir yður vatnið í Sefhafi, þá er þér fóruð af Egyptalandi, og hvað þér hafið gjört við Amorítakonungana tvo, þá Síhon og Óg, hinumegin Jórdanar, að þér eydduð þeim með öllu. 2.11 Síðan vér heyrðum þetta, er æðra komin í brjóst vor, og enginn hugur er í nokkrum manni, þegar yður skal mæta, því að Drottinn, Guð yðar, er Guð á himnum uppi og á jörðu niðri. 2.12 Sverjið mér nú við Drottin, að fyrst ég sýndi ykkur miskunn, þá skuluð þið og miskunn sýna húsi föður míns og gefið mér um það óbrigðult merki, 2.13 að þið viljið láta föður minn og móður, bræður mína og systur halda lífi, og alla, sem þeim heyra, og frelsa oss frá dauða!' 2.14 Mennirnir svöruðu henni: 'Við setjum líf okkar í veð fyrir yður, ef þú lætur ekki vitnast erindi okkar. Og þegar Drottinn gefur oss land þetta, þá skulum vér auðsýna þér miskunn og trúfesti.' 2.15 Þá lét hún þá síga í festi út um gluggann, því að hús hennar stóð við borgarmúrinn og sjálf bjó hún úti við múrinn. 2.16 Og hún sagði við þá: 'Haldið til fjalla, svo að leitarmennirnir finni ykkur ekki, og leynist þar þrjá daga, uns leitarmennirnir eru aftur horfnir. Eftir það getið þið farið leiðar ykkar.' 2.17 Mennirnir sögðu við hana: 'Lausir viljum við vera eiðs þess, er þú lést okkur sverja þér, 2.18 nema svo verði, að þegar vér komum inn í landið, þá bindir þú í gluggann, þann er þú lést okkur síga út um, festina þessa rauðu, og kallir saman í hús þitt föður þinn og móður og bræður þína og allt heimilisfólk föður þíns, 2.19 en gangi nokkur út fyrir húsdyr þínar, þá er hann sjálfur valdur að dauða sínum, en við sýknir, en verði hönd lögð á nokkurn þann, sem í þínu húsi er, þá skal dauði hans verða gefinn okkur að sök. 2.20 Og ef þú lætur vitnast erindi okkar, þá erum við lausir þess eiðs, er þú lést okkur sverja þér.' 2.21 Hún sagði: 'Svo skal vera sem þið segið!' Lét hún þá síðan fara, og þeir gengu burt, en hún batt rauðu festina í gluggann. 2.22 Gengu þeir þá á burt og héldu til fjalla og dvöldust þar þrjá daga, uns leitarmennirnir voru aftur heim horfnir. Höfðu leitarmennirnir leitað þeirra alla leiðina, en ekki fundið. 2.23 Hurfu þá þessir tveir menn aftur og gengu niður af fjöllunum og fóru yfir um og komu til Jósúa Núnssonar og sögðu honum frá öllu, er fyrir þá hafði komið. 2.24 Og þeir sögðu við Jósúa: 'Drottinn hefir gefið allt landið oss í hendur, enda hræðast allir landsbúar oss.'
3.1 Morguninn eftir reis Jósúa árla. Lögðu þeir nú upp frá Sittím og komu að Jórdan, hann og allir Ísraelsmenn, og voru þar um nóttina, áður þeir færu yfir um. 3.2 En að þremur dögum liðnum fóru tilsjónarmennirnir um allar herbúðirnar 3.3 og buðu lýðnum og sögðu: 'Þegar þér sjáið sáttmálsörk Drottins, Guðs yðar, og levítaprestana bera hana, þá leggið upp frá yðar stað og farið á eftir henni. 3.4 Látið þó vera um tveggja þúsund álna bil millum yðar og hennar og komið ekki nærri henni. Megið þér þá vita, hvaða veg þér eigið að fara, því að þér hafið aldrei farið þann veg áður.' 3.5 Þá sagði Jósúa við lýðinn: 'Helgið yður, því að á morgun mun Drottinn gjöra undursamlega hluti meðal yðar.' 3.6 Og við prestana sagði Jósúa: 'Takið upp sáttmálsörkina og farið yfir um á undan lýðnum.' Þeir tóku þá upp sáttmálsörkina og fóru yfir um á undan lýðnum. 3.7 Drottinn sagði við Jósúa: 'Í dag mun ég taka til að mikla þig í augsýn alls Ísraels, svo að þeir megi vita, að ég er með þér, eins og ég var með Móse. 3.8 En bjóð þú prestunum, sem bera sáttmálsörkina, á þessa leið: Þegar þér komið í vatnsbrúnina í Jórdan, þá nemið þar staðar í ánni.' 3.9 Og Jósúa sagði við Ísraelsmenn: 'Komið hingað og heyrið orð Drottins, Guðs yðar!' 3.10 Og Jósúa mælti: 'Af þessu skuluð þér vita mega, að lifandi Guð er á meðal yðar og að hann vissulega mun stökkva burt undan yður Kanaanítum, Hetítum, Hevítum, Peresítum, Gírgasítum, Amorítum og Jebúsítum: 3.11 Sjá, sáttmálsörk hans, sem er Drottinn allrar veraldar, mun fara á undan yður út í Jórdan. 3.12 Veljið yður nú tólf menn af ættkvíslum Ísraels, einn mann af ættkvísl hverri. 3.13 Og þegar prestarnir, sem bera sáttmálsörk Drottins, hans sem er Drottinn allrar veraldar, stíga fæti í vatn Jórdanar, þá mun vatnið í Jórdan stöðvast, vatnið, sem ofan að kemur, og standa sem veggur.' 3.14 Fólkið tók sig nú upp úr tjöldum sínum til þess að fara yfir um Jórdan, og prestarnir, sem báru sáttmálsörkina, fóru fyrir lýðnum. 3.15 Og er þeir, sem örkina báru, komu að Jórdan, og prestarnir, sem báru örkina, drápu fótum sínum í vatnsbrúnina (en Jórdan flóði yfir alla bakka allan kornskurðartímann), 3.16 þá stóð vatnið kyrrt, það er ofan að kom, og hófst upp sem veggur mjög langt burtu, við Adam, borgina, sem liggur hjá Sartan. En það sem rann niður til vatnsins á sléttlendinu, Saltasjós, rann allt til þurrðar. Og lýðurinn fór yfir um gegnt Jeríkó. 3.17 En prestarnir, sem báru sáttmálsörk Drottins, stóðu kyrrir á þurru mitt í Jórdan, meðan allur Ísrael fór yfir um á þurru, þar til er allt fólkið var komið yfir um Jórdan.
4.1 Er allt fólkið var komið yfir um Jórdan, mælti Drottinn við Jósúa á þessa leið: 4.2 'Veljið yður tólf menn af lýðnum, einn mann af ættkvísl hverri, 4.3 og bjóðið þeim og segið: Takið upp tólf steina hér úr Jórdan miðri, á þeim stað, þar sem prestarnir stóðu kyrrir, og berið þá yfir um með yður og setjið þá niður þar sem þér hafið náttstað í nótt.' 4.4 Þá kallaði Jósúa tólf menn, sem hann kvaddi til af Ísraelsmönnum, einn mann af ættkvísl hverri. 4.5 Og Jósúa sagði við þá: 'Farið fyrir örk Drottins, Guðs yðar, út í Jórdan miðja, og taki hver yðar einn stein sér á herðar, eftir tölu ættkvísla Ísraelsmanna. 4.6 Skal þetta vera tákn meðal yðar. Þegar synir yðar spyrja á síðan og segja: ,Hvað eiga steinar þessir að jarteina?` 4.7 þá skuluð þér segja við þá: ,Það, að vatnið í Jórdan stöðvaðist fyrir sáttmálsörk Drottins, þá er hún fór yfir Jórdan. Vatnið í Jórdan stöðvaðist, og þessir steinar skulu vera Ísraelsmönnum til minningar ævinlega.'` 4.8 Og Ísraelsmenn gjörðu svo sem Jósúa bauð, og tóku tólf steina upp úr Jórdan miðri, eins og Drottinn hafði lagt fyrir Jósúa, eftir tölu ættkvísla Ísraelsmanna, og báru þá yfir um með sér, þangað er þeir höfðu náttstað, og settu þá þar niður. 4.9 Og Jósúa reisti tólf steina í Jórdan miðri á þeim stað, sem prestarnir, þeir er sáttmálsörkina báru, höfðu staðið, og eru þeir þar enn í dag. 4.10 En prestarnir, sem örkina báru, stóðu í Jórdan miðri, uns öllu því var lokið, sem Drottinn hafði boðið Jósúa að segja lýðnum samkvæmt öllu því, sem Móse hafði boðið Jósúa. Og lýðurinn flýtti sér að fara yfir um. 4.11 Og er allur lýðurinn var kominn yfir um, þá fór og örk Drottins yfir um og prestarnir, sem fóru fyrir lýðnum. 4.12 Rúbens synir, Gaðs synir og hálf ættkvísl Manasse fóru hertygjaðir fyrir Ísraelsmönnum, eins og Móse hafði fyrir þá lagt. 4.13 Um fjörutíu þúsundir vígbúinna manna að tölu héldu þeir yfir á Jeríkóvöllu fyrir augliti Drottins til hernaðar. 4.14 Á þeim degi miklaði Drottinn Jósúa í augsýn alls Ísraels, og þeir óttuðust hann alla ævi hans, eins og þeir höfðu óttast Móse. 4.15 Drottinn sagði við Jósúa: 4.16 'Bjóð þú prestunum, sem bera sáttmálsörkina, að stíga upp úr Jórdan.' 4.17 Bauð Jósúa þá prestunum og mælti: 'Stígið upp úr Jórdan!' 4.18 Og jafnskjótt sem prestarnir, er báru sáttmálsörk Drottins, voru komnir upp úr Jórdan og þeir höfðu stigið fótum á þurrt land, féll vatnið í Jórdan aftur í farveg sinn, og hún flóði sem áður yfir alla bakka. 4.19 Lýðurinn kom upp úr Jórdan á tíunda degi hins fyrsta mánaðar og setti búðir sínar í Gilgal, við austurtakmörkin á Jeríkó. 4.20 Og steinana tólf, er þeir höfðu tekið upp úr Jórdan, reisti Jósúa í Gilgal. 4.21 Mælti hann þá til Ísraelsmanna á þessa leið: 'Þegar synir yðar á síðan spyrja feður sína og segja: ,Hvað eiga steinar þessir að jarteina?` 4.22 þá skuluð þér gjöra það kunnugt og segja: ,Ísrael gekk á þurru yfir ána Jórdan, 4.23 með því að Drottinn Guð yðar þurrkaði vatnið í Jórdan fyrir yður, þar til er þér voruð komnir yfir um, eins og Drottinn Guð yðar gjörði við Sefhafið, er hann þurrkaði það fyrir oss, þar til er vér vorum komnir yfir um, 4.24 til þess að allar þjóðir á jörðu mættu vita, að hönd Drottins er sterk, svo að þær óttuðust Drottin Guð yðar alla daga.'`
5.1 Allir konungar Amoríta, þeirra er bjuggu fyrir vestan Jórdan, og allir konungar Kanaaníta, sem búa við hafið, heyrðu, að Drottinn hefði þurrkað vatnið í Jórdan fyrir Ísraelsmönnum, uns þeir voru komnir yfir um. Þá kom þeim æðra í brjóst og þeim féllst hugur fyrir Ísraelsmönnum. 5.2 Í það mund sagði Drottinn við Jósúa: 'Gjör þér steinhnífa og umsker Ísraelsmenn öðru sinni.' 5.3 Jósúa gjörði sér þá steinhnífa og umskar Ísraelsmenn á Yfirhúðahæð. 5.4 En sú var orsök til þess, að Jósúa umskar þá, að allur lýðurinn, sem af Egyptalandi fór, karlmennirnir, allir vígir menn, höfðu dáið í eyðimörkinni á leiðinni, eftir að þeir voru farnir af Egyptalandi. 5.5 Allir þeir, er þaðan fóru, höfðu verið umskornir, en allir þeir, sem fæðst höfðu í eyðimörkinni á leiðinni eftir brottför þeirra af Egyptalandi, höfðu eigi verið umskornir. 5.6 Í fjörutíu ár fóru Ísraelsmenn um eyðimörkina, uns allt það fólk, allir vígir menn, er farið höfðu af Egyptalandi, voru dánir, því að þeir hlýddu ekki raust Drottins. Þess vegna hafði Drottinn svarið þeim, að þeir skyldu ekki fá að sjá landið, sem hann sór feðrum þeirra að gefa oss, _ land, sem flýtur í mjólk og hunangi. 5.7 En hann hafði látið sonu þeirra koma í þeirra stað. Þá umskar Jósúa, því að þeir voru óumskornir, þar eð þeir höfðu eigi verið umskornir á leiðinni. 5.8 Er gjörvallt fólkið hafði verið umskorið, héldu þeir kyrru fyrir, hver á sínum stað, í herbúðunum, uns þeir voru grónir. 5.9 Þá sagði Drottinn við Jósúa: 'Í dag hefi ég velt af yður brigsli Egypta!' Fyrir því heitir þessi staður Gilgal fram á þennan dag. 5.10 Þegar Ísraelsmenn höfðu sett búðir sínar í Gilgal, héldu þeir páska á Jeríkóvöllum, hinn fjórtánda dag mánaðarins, að kveldi. 5.11 Og daginn eftir páska átu þeir ósýrð brauð og bakað korn af gróðri landsins, einmitt þennan dag. 5.12 Daginn eftir þraut manna, er þeir átu af gróðri landsins, og upp frá því fengu Ísraelsmenn ekki manna, heldur átu þeir af gróðri Kanaanlands það árið. 5.13 Það bar til, er Jósúa var staddur hjá Jeríkó, að hann leit upp og sá, hvar maður stóð gegnt honum með brugðið sverð í hendi. Jósúa gekk til hans og sagði við hann: 'Hvort ert þú vor maður eða af óvinum vorum?' 5.14 Hann svaraði: 'Nei! heldur er ég fyrirliði fyrir hersveit Drottins. Nú er ég kominn.' Þá féll Jósúa fram á ásjónu sína til jarðar, laut og sagði: 'Hvað vilt þú, herra, mæla við þjón þinn?' 5.15 Þá sagði fyrirliðinn fyrir hersveit Drottins við Jósúa: 'Drag skó þína af fótum þér, því að það er heilagur staður, er þú stendur á!' Og Jósúa gjörði svo.
6.1 Hliðum Jeríkó hafði verið lokað, og var borgin harðlokuð vegna Ísraelsmanna, svo að enginn maður komst þar út né inn. 6.2 Þá sagði Drottinn við Jósúa: 'Sjá, nú gef ég Jeríkó í þínar hendur, konung hennar og kappa. 6.3 Og þér skuluð, allir vígir menn, ganga kringum borgina, hringinn í kringum borgina einu sinni. Svo skalt þú gjöra í sex daga. 6.4 Og sjö prestar skulu bera sjö lúðra úr hrútshornum fyrir örkinni, og sjöunda daginn skuluð þér ganga sjö sinnum kringum borgina, og prestarnir þeyta lúðrana. 6.5 En þegar hrútshornið kveður við, þá skal allur lýðurinn æpa heróp mikið, jafnskjótt og þér heyrið lúðurhljóminn. Mun þá borgarmúrinn hrynja til grunna og lýðurinn mega upp ganga, hver þar sem hann er staddur.' 6.6 Þá lét Jósúa Núnsson kalla prestana og sagði við þá: 'Þér skuluð bera sáttmálsörkina, og sjö prestar skulu bera sjö lúðra úr hrútshornum fyrir örk Drottins.' 6.7 Og við lýðinn sagði hann: 'Farið og gangið kringum borgina, en þeir sem hertygjaðir eru, skulu fara fyrir örk Drottins.' 6.8 Er Jósúa hafði talað til lýðsins, gengu sjö prestarnir, þeir er báru lúðrana sjö úr hrútshornunum, fram fyrir augliti Drottins og þeyttu lúðrana, en sáttmálsörk Drottins fór á eftir þeim. 6.9 Þeir sem hertygjaðir voru, gengu á undan prestunum, þeim sem lúðrana þeyttu, en múgurinn fylgdi eftir örkinni, og var í sífellu blásið í lúðrana. 6.10 Og Jósúa bauð lýðnum á þessa leið: 'Þér skuluð ekki æpa heróp og enga háreysti gjöra og ekkert orð mæla, fyrr en ég segi við yður: ,Æpið nú heróp!` Þá skuluð þér æpa heróp.' 6.11 Og hann lét fara með örk Drottins hringinn í kringum borgina einu sinni. Síðan gengu menn til herbúðanna og voru um nóttina í herbúðunum. 6.12 Jósúa reis árla um morguninn. Tóku nú prestarnir örk Drottins, 6.13 og prestarnir sjö, þeir er báru lúðrana sjö úr hrútshornunum fyrir örk Drottins, gengu og þeyttu lúðrana í sífellu, og þeir, sem hertygjaðir voru, gengu á undan þeim, en múgurinn fylgdi eftir örk Drottins, og var í sífellu blásið í lúðrana. 6.14 Þeir gengu og einu sinni kringum borgina annan daginn, fóru síðan aftur til herbúðanna. Svo gjörðu þeir í sex daga. 6.15 Hinn sjöunda dag risu þeir, þegar er lýsti af degi, og gengu með sama hætti kringum borgina sjö sinnum. Þennan daginn gengu þeir sjö sinnum kringum borgina. 6.16 En í sjöunda sinnið þeyttu prestarnir lúðrana. Þá sagði Jósúa við lýðinn: 'Æpið nú heróp, því að Drottinn hefir gefið yður borgina. 6.17 En borgin skal með banni helguð Drottni og allt sem í henni er. Portkonan Rahab ein skal lífi halda, svo og allir þeir, sem með henni eru í húsinu, því að hún leyndi sendimönnunum, er vér sendum. 6.18 Gætið yðar aðeins fyrir hinu bannfærða, að þér eigi girnist neitt af því og takið það, og leiðið með því bannfæring yfir herbúðir Ísraels og stofnið þeim í ógæfu. 6.19 Allt silfur og gull, og allir hlutir, sem af eiri eða járni eru gjörðir, skulu vera Drottni helgaðir og koma í féhirslu Drottins.' 6.20 Þá æpti lýðurinn heróp, og þeir þeyttu lúðrana. Og er lýðurinn heyrði lúðurhljóminn, æpti lýðurinn heróp mikið. Hrundi þá múrinn til grunna, en lýðurinn gekk inn í borgina, hver þar sem hann var staddur. Þannig unnu þeir borgina. 6.21 Og þeir bannfærðu allt, sem í borginni var, bæði karla og konur, unga og gamla, naut og sauði og asna, með sverðseggjum. 6.22 En við mennina tvo, er kannað höfðu landið, sagði Jósúa: 'Farið í hús portkonunnar og leiðið burt þaðan konuna og alla, sem henni heyra, eins og þið sóruð henni.' 6.23 Fóru þá sveinarnir, þeir er njósnað höfðu, og leiddu Rahab burt, föður hennar og móður, bræður hennar og alla, sem henni heyrðu. Þeir leiddu og burt alla ættmenn hennar og settu þá fyrir utan herbúðir Ísraels. 6.24 En borgina brenndu þeir í eldi og allt, sem í henni var. Aðeins silfur og gull og hluti þá, sem af eiri eða járni voru gjörðir, lögðu þeir í féhirslu húss Drottins. 6.25 En portkonunni Rahab og ættliði föður hennar gaf Jósúa líf, svo og öllum þeim, er henni heyrðu, og bjó hún og niðjar hennar meðal Ísraels upp frá því fram á þennan dag, fyrir því að hún leyndi sendimönnunum, er Jósúa hafði sent til þess að kanna Jeríkó. 6.26 Í það mund lýsti Jósúa þessari bannfæringu: 'Bölvaður sé sá maður fyrir Drottni, sem fer til og reisir að nýju þessa borg, Jeríkó! Frumgetning sinn skal hann missa, þegar hann leggur undirstöður hennar, og yngsta son sinn, er hann reisir hlið hennar.' 6.27 En Drottinn var með Jósúa, og barst orðstír hans um allt landið.
7.1 En Ísraelsmenn fóru sviksamlega með hið bannfærða. Akan Karmíson, Sabdísonar, Serakssonar, af Júda ættkvísl, tók af hinu bannfærða. Upptendraðist þá reiði Drottins gegn Ísraelsmönnum. 7.2 Nú sendi Jósúa menn frá Jeríkó til Aí, sem er hjá Betaven, fyrir austan Betel, og sagði við þá: 'Farið og kannið landið.' Og mennirnir fóru og könnuðu Aí. 7.3 Þeir sneru aftur til Jósúa og sögðu við hann: 'Lát ekki allan lýðinn fara upp þangað. Hér um bil tvær eða þrjár þúsundir manna geta farið og unnið Aí. Ómaka eigi allan lýðinn þangað, því að þeir eru fáliðaðir fyrir.' 7.4 Þá fóru þangað hér um bil þrjár þúsundir manns af lýðnum, en þeir flýðu fyrir Aí-mönnum. 7.5 Og Aí-menn felldu hér um bil þrjátíu og sex menn af þeim og eltu þá frá borgarhliðinu alla leið að grjótnámunum og unnu sigur á þeim í hlíðinni. Þá æðraðist lýðurinn og varð að gjalti. 7.6 Jósúa reif klæði sín og féll fram á ásjónu sína til jarðar fyrir örk Drottins og lá þar allt til kvelds, hann og öldungar Ísraels, og jusu mold yfir höfuð sér. 7.7 Og Jósúa sagði: 'Æ, Drottinn Guð, hví leiddir þú lýð þennan yfir Jórdan, ef þú selur oss nú í hendur Amorítum, til þess að þeir gjöri út af við oss? Ó að vér hefðum látið oss það lynda að vera kyrrir hinumegin Jórdanar! 7.8 Æ, Drottinn, hvað á ég að segja, nú þegar Ísrael hefir orðið að flýja fyrir óvinum sínum? 7.9 Og þegar Kanaanítar og aðrir landsbúar spyrja þetta, munu þeir umkringja oss og afmá nafn vort af jörðinni. Hvað ætlar þú þá að gjöra til að halda uppi þínu mikla nafni?' 7.10 Drottinn sagði við Jósúa: 'Rís þú upp! Hví liggur þú hér fram á ásjónu þína? 7.11 Ísrael hefir syndgað, þeir hafa rofið sáttmála minn, þann er ég bauð þeim að halda. Þeir hafa tekið af hinu bannfærða, þeir hafa stolið, þeir hafa leynt því og lagt það hjá sínum munum. 7.12 Fyrir því fá Ísraelsmenn eigi staðist fyrir óvinum sínum, heldur leggja þeir á flótta fyrir þeim, því að þeir eru í banni. Ég vil eigi vera með yður eftir þetta, ef þér eyðið eigi hinu bannfærða, sem meðal yðar er. 7.13 Rís þú upp, helga þú lýðinn og seg: ,Helgið yður til morgundagsins,` því að svo segir Drottinn, Ísraels Guð: ,Bannfærðir hlutir eru hjá þér, Ísrael! Þú munt eigi fá staðist fyrir óvinum þínum, uns þér hafið komið hinum bannfærðu hlutum burt frá yður.` 7.14 Á morgun snemma skuluð þér leiddir verða fram eftir ættkvíslum yðar, og sú ættkvísl, sem Drottinn lætur hlut falla á, skal ganga fram eftir kynþáttum, og sá kynþáttur, sem Drottinn lætur hlut falla á, skal ganga fram eftir ættum, og af þeirri ætt, sem Drottinn lætur hlut falla á, skulu karlmennirnir ganga fram, hver út af fyrir sig. 7.15 En þann skal brenna í eldi, sem hið bannfærða finnst hjá, svo og allt, sem hann á, því að hann hefir rofið sáttmála Drottins og framið óhæfuverk í Ísrael.' 7.16 Jósúa reis árla morguninn eftir og leiddi Ísrael fram, hverja ættkvísl út af fyrir sig. Kom þá upp hlutur Júda ættkvíslar. 7.17 Þá leiddi hann fram kynþáttu Júda, og kom upp hlutur Seraks kynþáttar. Því næst leiddi hann fram kynþátt Seraks, hverja ætt út af fyrir sig, og kom upp hlutur Sabdí ættar. 7.18 Síðan leiddi hann fram ætt hans, hvern karlmann út af fyrir sig, og kom þá upp hlutur Akans Karmísonar, Sabdísonar, Serakssonar, af Júda ættkvísl. 7.19 Þá sagði Jósúa við Akan: 'Sonur minn, gef þú Drottni, Ísraels Guði, dýrðina og gjör játningu fyrir honum. Seg mér, hvað þú hefir gjört, leyn mig engu.' 7.20 Akan svaraði Jósúa og sagði: 'Sannlega hefi ég syndgað gegn Drottni, Ísraels Guði. Svo og svo hefi ég gjört. 7.21 Ég sá meðal herfangsins fagra skikkju sínearska, tvö hundruð sikla silfurs, og gullstöng eina, er vó fimmtíu sikla. Ég ágirntist þetta og tók það. Og sjá, það er fólgið í jörðu í tjaldi mínu og silfrið undir.' 7.22 Jósúa sendi þá sendimenn þangað. Þeir runnu til tjaldsins, og sjá, það var fólgið í tjaldi hans, og silfrið undir. 7.23 Og þeir tóku það úr tjaldinu og færðu það Jósúa og öllum Ísraelsmönnum og lögðu það niður frammi fyrir Drottni. 7.24 Þá tók Jósúa Akan Seraksson, silfrið, skikkjuna, gullstöngina, sonu hans og dætur, uxa hans, asna og sauðfé, svo og tjald hans og allt, sem hann átti, í viðurvist alls Ísraels, og fór með það upp í Akordal. 7.25 Þá sagði Jósúa: 'Hví hefir þú stofnað oss í ógæfu? Drottinn stofni þér í ógæfu í dag!' Og allur Ísrael lamdi hann grjóti, og þeir brenndu þá í eldi og grýttu þá. 7.26 Gjörðu þeir steindys mikla yfir hann, og er hún þar enn í dag. Og Drottinn lét af hinni brennandi reiði sinni. Fyrir því heitir þessi staður Akordalur allt fram á þennan dag.
8.1 Drottinn sagði við Jósúa: 'Óttast þú eigi og lát eigi hugfallast. Tak með þér allt herliðið, og tak þig upp og far til Aí. Sjá, ég mun gefa konunginn í Aí, fólk hans, borg og land í þínar hendur. 8.2 Og þú skalt fara með Aí og konung hennar eins og þú fórst með Jeríkó og konung hennar. Þó megið þér taka herfang það og fénað þann, sem þar er, yður til handa. Settu launsátur að baki borgarinnar.' 8.3 Þá tók Jósúa sig upp með allt herliðið og hélt til Aí. En Jósúa valdi nú þrjátíu þúsundir hraustra manna og sendi þá af stað um nóttina 8.4 og lagði svo fyrir þá: 'Sjáið til! Þér skuluð liggja í launsátri að baki borgarinnar, en verið ekki mjög langt frá borginni og verið allir viðbúnir. 8.5 Sjálfur mun ég fara til borgarinnar með alla mína menn, og er þeir fara út í móti oss, eins og hið fyrra sinnið, munum vér flýja undan þeim. 8.6 Og þeir munu veita oss eftirför, uns vér höfum teygt þá burt frá borginni, því að þeir munu segja: ,Nú flýja þeir fyrir oss, eins og hið fyrra sinnið,` og vér munum flýja fyrir þeim. 8.7 Þá skuluð þér spretta upp úr launsátrinu og taka borgina, því að Drottinn, Guð yðar, mun gefa hana á yðar vald. 8.8 En er þér hafið tekið borgina herskildi, skuluð þér leggja eld í borgina. Gjörið það, sem Drottinn segir. Gefið nú gætur að; ég hefi boðið yður það.' 8.9 Sendi Jósúa þá nú af stað, og fóru þeir í launsátrið og námu staðar milli Betel og Aí, vestanvert við Aí. En Jósúa hafðist við um nóttina meðal lýðsins. 8.10 Morguninn eftir reis Jósúa árla og kannaði liðið. Fór hann því næst sjálfur og öldungar Ísraels fyrir liðinu upp til Aí. 8.11 Og allt herliðið, sem með honum var, fór upp þangað. Héldu þeir fram, þar til er þeir komu gegnt borginni. Þar settu þeir herbúðir sínar fyrir norðan Aí, og var dalurinn milli þeirra og Aí. 8.12 Því næst tók hann um fimm þúsundir manns og setti þá í launsátur milli Betel og Aí, vestanvert við borgina. 8.13 Þeir fylktu nú liðinu, öllum hernum, sem var fyrir norðan borgina, og afturliðinu fyrir vestan borgina. En Jósúa fór þessa sömu nótt ofan í dalinn miðjan. 8.14 Er konungurinn í Aí varð þessa vís, höfðu borgarmenn hraðan á, risu árla og fóru út í móti Ísrael til orustu, hann og allt hans lið, á ákveðnum stað gegnt Jórdandalnum. En hann vissi ekki, að honum var búin launsát að borgar baki. 8.15 En Jósúa og allur Ísrael létust bíða ósigur fyrir þeim og flýðu á leið til eyðimerkurinnar. 8.16 Voru þá allir menn, er í borginni voru, kvaddir til að reka flóttann, og veittu þeir Jósúa eftirför og létu teygjast burt frá borginni. 8.17 Varð enginn maður eftir í Aí og Betel, sá er eigi færi eftir Ísrael; skildu þeir eftir opna borgina og veittu Ísrael eftirför. 8.18 Þá sagði Drottinn við Jósúa: 'Rétt þú út spjót það, sem þú hefir í hendi þér, gegn Aí, því að ég mun gefa hana þér á vald.' Og Jósúa rétti út spjótið, sem hann hafði í hendi sér, gegn borginni. 8.19 Þá spratt launsátursliðið hratt upp úr stað sínum. Skunduðu þeir að, er hann rétti út höndina, fóru inn í borgina og tóku hana, lögðu því næst sem skjótast eld í borgina. 8.20 En er Aí-menn sneru sér við, sáu þeir að reyk lagði upp af borginni til himins, og brast þá nú þróttur, svo að þeir máttu í hvoruga áttina flýja, og liðið, sem flúið hafði til eyðimerkurinnar, snerist nú í móti þeim, er rekið höfðu flóttann. 8.21 En er Jósúa og allur Ísrael sáu, að launsátursliðið hafði tekið borgina og að reykinn lagði upp af borginni, þá hurfu þeir aftur og gjörðu áhlaup á Aí-menn. 8.22 Hinir komu þá og úr borginni út í móti þeim, og urðu þeir nú milli Ísraelsmanna, sem umkringdu þá á alla vegu. Felldu þeir þá, svo að enginn var eftir skilinn, sá er undan kæmist eða forðaði lífi sínu. 8.23 En konunginum í Aí náðu þeir lifandi á sitt vald og fóru með hann til Jósúa. 8.24 Er Ísrael hafði drepið alla Aí-búa úti á víðavangi, í eyðimörkinni, þangað sem þeir höfðu veitt þeim eftirför, og þeir voru allir fallnir fyrir sverðseggjum, svo að enginn þeirra var eftir, þá hurfu allir Ísraelsmenn aftur til Aí og felldu íbúana með sverðseggjum. 8.25 Og allir þeir, sem féllu á þeim degi, bæði karlar og konur, voru tólf þúsund manns, allir Aí-búar. 8.26 Jósúa dró ekki að sér höndina, sem hann hélt í spjótinu, uns hann hafði gjöreytt öllum Aí-búum. 8.27 En fénaðinum og herfangi því, er í borginni var, rændu Ísraelsmenn sér til handa eftir boði Drottins, því er hann hafði lagt fyrir Jósúa. 8.28 Jósúa brenndi Aí og gjörði hana að ævinlegri grjóthrúgu, eyðirúst, fram á þennan dag. 8.29 Og konunginn í Aí lét hann hengja á tré og lét hann hanga til kvelds, en um sólarlagsbil bauð Jósúa að taka líkama hans ofan af trénu. Köstuðu þeir honum út fyrir borgarhliðið og gjörðu yfir hann steindys mikla, og er hún þar enn í dag. 8.30 Jósúa reisti Drottni, Ísraels Guði, altari á Ebalfjalli, 8.31 eins og Móse, þjónn Drottins, hafði boðið Ísraelsmönnum, samkvæmt því sem skrifað er í lögmálsbók Móse, altari af óhöggnum steinum, er járntól hafði ekki verið borið að. Og þeir fórnuðu Drottni brennifórnum á því og slátruðu heillafórnum. 8.32 Og hann skrifaði þar á steinana eftirrit af lögmáli Móse, því er hann hafði skrifað í augsýn Ísraelsmanna. 8.33 Og allur Ísrael, öldungar hans, tilsjónarmenn og dómarar stóðu báðumegin við örkina, gegnt levítaprestunum, er báru sáttmálsörk Drottins, bæði útlendir menn og innbornir, annar helmingurinn utan í Garísímfjalli og hinn helmingurinn utan í Ebalfjalli, samkvæmt því sem Móse, þjónn Drottins, hafði boðið, að blessa Ísraelslýð. 8.34 Og eftir það las hann upp öll orð lögmálsins, blessunina og bannfæringuna, samkvæmt öllu því, sem skrifað er í lögmálsbókinni. 8.35 Ekkert orð af því, er Móse hafði boðið, var úr fellt. Jósúa las það allt upp fyrir öllum söfnuði Ísraels, einnig fyrir konum og börnum og útlendingum þeim, er með þeim höfðu farið.
9.1 Þegar allir konungar þeir, sem bjuggu hinumegin Jórdanar, í fjalllendinu, á láglendinu og á öllu strandlendinu við hafið mikla gegnt Líbanon _ Hetítar, Amorítar, Kanaanítar, Peresítar, Hevítar og Jebúsítar _ spurðu þetta, 9.2 þá söfnuðust þeir saman, allir sem einn maður, til þess að berjast við Jósúa og Ísrael. 9.3 En íbúar í Gíbeon fréttu, hvernig Jósúa hafði farið með Jeríkó og Aí. 9.4 Beittu þeir nú líka slægð. Fóru þeir og fengu sér veganesti, tóku gamla sekki á asna sína, og gamla, rifna og samanbundna vínbelgi, 9.5 og gamla, bætta skó á fætur sér og fóru í gömul föt, og allt brauð, sem þeir höfðu í nesti, var hart og komið í mola. 9.6 Fóru þeir á fund Jósúa í herbúðirnar í Gilgal og sögðu við hann og Ísraelsmenn: 'Vér erum komnir frá fjarlægu landi, gjörið nú sáttmála við oss!' 9.7 Þá svöruðu Ísraelsmenn Hevítunum: 'Vera má, að þér búið meðal vor. Hvernig megum vér þá gjöra sáttmála við yður?' 9.8 Þá sögðu þeir við Jósúa: 'Vér erum þjónar þínir.' Jósúa sagði við þá: 'Hverjir eruð þér og hvaðan komið þér?' 9.9 Þeir sögðu við hann: 'Vér þjónar þínir erum komnir frá mjög fjarlægu landi fyrir sakir nafns Drottins Guðs þíns, því að vér höfum heyrt hans getið, svo og alls þess, er hann gjörði Egyptum, 9.10 sem og þess, hvernig hann fór með báða Amorítakonungana, sem bjuggu hinumegin Jórdanar, þá Síhon konung í Hesbon og Óg konung í Basan, sem bjó í Astarót. 9.11 Fyrir því sögðu öldungar vorir og allir íbúar lands vors við oss: ,Takið yður veganesti og farið til fundar við þá og segið við þá: Vér erum þjónar yðar, gjörið nú sáttmála við oss.` 9.12 Sjáið hér brauð vort. Vér tókum það nýbakað oss til nestis að heiman, þá er vér lögðum af stað á yðar fund, en sjá, nú er það orðið hart og komið í mola. 9.13 Og vínbelgir þessir voru nýir, þegar vér létum á þá, en sjá, nú eru þeir farnir að rifna, og þessi klæði vor og skór vorir eru slitnir orðnir á þessari afar löngu leið.' 9.14 Þá tóku Ísraelsmenn nokkuð af nesti þeirra, en atkvæða Drottins leituðu þeir ekki. 9.15 Hét Jósúa þeim þá friði og gjörði þann sáttmála við þá, að hann skyldi láta þá lífi halda, og höfuðsmenn safnaðarins bundu það svardögum við þá. 9.16 Þremur dögum eftir að þeir höfðu gjört þennan sáttmála við þá, spurðist það, að þeir væru þar úr grenndinni og að þeir byggju mitt á meðal þeirra. 9.17 Ísraelsmenn lögðu þá upp og komu á þriðja degi til borga þeirra, en borgir þeirra voru Gíbeon, Kefíra, Beerót og Kirjat Jearím. 9.18 Og Ísraelsmenn drápu þá eigi, því að höfuðsmenn safnaðarins höfðu svarið þeim grið í nafni Drottins, Ísraels Guðs. Möglaði þá allur söfnuðurinn gegn höfuðsmönnunum. 9.19 Þá sögðu allir höfuðsmennirnir við gjörvallan söfnuðinn: 'Vér höfum svarið þeim grið í nafni Drottins, Ísraels Guðs. Fyrir því megum vér nú eigi snerta þá. 9.20 Þetta munum vér við þá gjöra og láta þá lífi halda, svo að eigi komi yfir oss reiði vegna eiðsins, er vér sórum þeim.' 9.21 Og höfuðsmennirnir sögðu: 'Þeir skulu lífi halda!' Og þeir urðu viðarhöggsmenn og vatnsberar fyrir allan söfnuðinn, eins og höfuðsmennirnir höfðu sagt þeim. 9.22 Þá lét Jósúa kalla þá og mælti við þá á þessa leið: 'Hví svikuð þér oss, er þér sögðuð: ,Vér eigum heima mjög langt í burtu frá yður,` þar sem þér þó búið mitt á meðal vor? 9.23 Fyrir því skuluð þér nú vera bölvaðir og jafnan vera þrælar upp frá þessu, bæði viðarhöggsmenn og vatnsberar fyrir hús Guðs míns.' 9.24 Þá svöruðu þeir Jósúa og sögðu: 'Oss þjónum þínum var frá því sagt, að Drottinn, Guð þinn, hefði heitið Móse, þjóni sínum, að gefa yður allt landið, en eyða öllum landsbúum fyrir yður. Fyrir því urðum vér hræddir um líf vort fyrir yður og tókum því þetta til bragðs. 9.25 En nú erum vér á þínu valdi. Far þú með oss svo sem þér þykir gott og rétt vera.' 9.26 Og Jósúa fór svo með þá og frelsaði þá úr höndum Ísraelsmanna, svo að þeir dræpu þá ekki. 9.27 Og hann gjörði þá á þeim degi að viðarhöggsmönnum og vatnsberum fyrir söfnuðinn og fyrir altari Drottins á þeim stað, er hann mundi til velja, og er svo enn í dag.
10.1 Er Adónísedek, konungur í Jerúsalem, frétti að Jósúa hefði unnið Aí og gjöreytt hana, að hann hefði farið með Aí og konung hennar eins og hann fór með Jeríkó og konung hennar, og að Gíbeonbúar hefðu gjört frið við Ísrael og byggju meðal þeirra, 10.2 þá urðu þeir mjög hræddir, því að Gíbeon var stór borg, engu minni en konungaborgirnar, og hún var stærri en Aí og allir borgarbúar hreystimenn. 10.3 Sendi Adónísedek, konungur í Jerúsalem, þá til Hóhams, konungs í Hebron, til Pírams, konungs í Jarmút, til Jafía, konungs í Lakís, og til Debírs, konungs í Eglon, og lét segja þeim: 10.4 'Komið til móts við mig og veitið mér fulltingi, að vér megum vinna Gíbeon, því að hún hefir gjört frið við Jósúa og Ísraelsmenn.' 10.5 Þá söfnuðust saman fimm konungar Amoríta og fóru þangað með öllu liði sínu: konungurinn í Jerúsalem, konungurinn í Hebron, konungurinn í Jarmút, konungurinn í Lakís og konungurinn í Eglon. Settust þeir um Gíbeon og tóku að herja á hana. 10.6 Gíbeonmenn sendu þá til Jósúa í herbúðirnar í Gilgal, og létu segja honum: 'Slá ekki hendi þinni af þjónum þínum. Kom sem skjótast oss til hjálpar og veit oss fulltingi, því að allir konungar Amoríta, þeirra er búa í fjalllendinu, hafa safnast saman í móti oss.' 10.7 Þá fór Jósúa frá Gilgal með allt lið sitt og alla kappa sína. 10.8 Drottinn sagði við Jósúa: 'Þú skalt ekki hræðast þá, því að ég mun gefa þá í þínar hendur. Enginn þeirra mun fá staðist fyrir þér.' 10.9 Jósúa kom nú að þeim óvörum, því að hann hélt áfram ferðinni alla nóttina frá Gilgal. 10.10 Og Drottinn gjörði þá felmtsfulla fyrir Ísrael og biðu þeir mikinn ósigur við Gíbeon, en hinir eltu þá í áttina til stígsins, er liggur upp að Bet Hóron, og felldu menn á flóttanum allt til Aseka og Makeda. 10.11 En er þeir flýðu fyrir Ísrael og voru á leið niður frá Bet Hóron, þá lét Drottinn stóra steina falla yfir þá af himni alla leið til Aseka, svo að þeir dóu. Voru þeir fleiri, er féllu fyrir haglsteinunum, en þeir, er Ísraelsmenn drápu með sverðseggjum. 10.12 Þá talaði Jósúa við Drottin, þann dag er Drottinn gaf Amoríta á vald Ísraelsmönnum, og hann mælti í áheyrn Ísraels: Sól statt þú kyrr í Gíbeon, og þú, tungl, í Ajalondal! 10.13 Og sólin stóð kyrr, og tunglið staðnaði, uns lýðurinn hafði hefnt sín á óvinum sínum. Svo er skrifað í Bók hinna réttlátu. Þá staðnaði sólin á miðjum himni og hraðaði sér eigi að ganga undir nær því heilan dag. 10.14 Og enginn dagur hefir þessum degi líkur verið, hvorki fyrr né síðar, að Drottinn skyldi láta að orðum manns, því að Drottinn barðist fyrir Ísrael. 10.15 Jósúa fór þá aftur til herbúðanna í Gilgal og allur Ísrael með honum. 10.16 Konungarnir fimm, er fyrr var getið, flýðu og leyndust í hellinum hjá Makeda. 10.17 Þá var Jósúa sagt svo frá: 'Konungarnir fimm eru fundnir. Þeir leynast í hellinum hjá Makeda.' 10.18 Þá sagði Jósúa: 'Veltið stórum steinum fyrir hellismunnann og setjið menn við hann til að gæta þeirra. 10.19 En sjálfir skuluð þér eigi staðar nema. Veitið óvinum yðar eftirför, vinnið á þeim, sem aftastir fara, og látið þá ekki komast inn í borgir sínar, því að Drottinn, Guð yðar, hefir gefið þá yður á vald.' 10.20 Er Jósúa og Ísraelsmenn höfðu unnið mikinn sigur á þeim, svo að þeir voru frá með öllu (en þeir af þeim, er undan höfðu komist, höfðu farið inn í víggirtu borgirnar), 10.21 þá sneri allt liðið aftur til Jósúa í herbúðirnar við Makeda heilu og höldnu. Þorði enginn framar orð að mæla gegn Ísraelsmönnum. 10.22 Þá sagði Jósúa: 'Opnið hellismunnann og leiðið þessa fimm konunga út til mín úr hellinum.' 10.23 Þeir gjörðu svo og leiddu þessa fimm konunga til hans úr hellinum: konunginn í Jerúsalem, konunginn í Hebron, konunginn í Jarmút, konunginn í Lakís og konunginn í Eglon. 10.24 Og er þeir höfðu leitt konunga þessa út til Jósúa, þá kallaði Jósúa saman alla menn í Ísrael og sagði við fyrirliða hermannanna, þá er með honum höfðu farið: 'Komið hingað og stígið fæti á háls konungum þessum!' Þeir gengu þá fram og stigu fæti á háls þeim. 10.25 Þá sagði Jósúa við þá: 'Óttist ekki og látið ekki hugfallast, verið hughraustir og öruggir, því að svo mun Drottinn fara með alla óvini yðar, er þér berjist við.' 10.26 Eftir það lét Jósúa drepa þá, og er hann hafði líflátið þá, lét hann hengja þá á fimm tré, og þeir héngu á trjánum allt til kvelds. 10.27 En er komið var undir sólarlag, bauð Jósúa að taka þá ofan af trjánum. Þá köstuðu þeir þeim í hellinn, sem þeir höfðu leynst í, og báru síðan stóra steina fyrir hellismunnann, og eru þeir þar enn í dag. 10.28 Þennan sama dag vann Jósúa Makeda og tók hana herskildi, og hann bannfærði konung hennar, svo og borgina og alla þá menn, sem í henni voru. Lét hann engan komast undan, og með konunginn í Makeda fór hann eins og hann hafði farið með konunginn í Jeríkó. 10.29 Síðan fór Jósúa og allur Ísrael með honum frá Makeda til Líbna og herjaði á Líbna. 10.30 Og Drottinn gaf einnig hana í hendur Ísrael, svo og konung hennar, og hann tók hana herskildi og drap alla þá menn, er í henni voru. Lét hann þar engan komast undan, og hann fór með konung hennar eins og hann hafði farið með konunginn í Jeríkó. 10.31 Því næst fór Jósúa og allur Ísrael með honum frá Líbna til Lakís og settist um hana og herjaði á hana. 10.32 Og Drottinn gaf Lakís í hendur Ísrael, og hann vann hana á öðrum degi og tók hana herskildi og drap alla menn, sem í henni voru, öldungis eins og hann hafði farið með Líbna. 10.33 Þá fór Hóram, konungur í Geser, til liðs við Lakís, en Jósúa felldi hann og lið hans, svo að enginn þeirra komst undan. 10.34 Því næst fór Jósúa og allur Ísrael með honum frá Lakís til Eglon, og þeir settust um hana og herjuðu á hana. 10.35 Og þeir unnu hana samdægurs og tóku hana herskildi, og alla menn, er í henni voru, bannfærði hann þennan sama dag, öldungis eins og hann hafði farið með Lakís. 10.36 Þá fór Jósúa og allur Ísrael með honum frá Eglon til Hebron, og þeir herjuðu á hana. 10.37 Og þeir unnu hana og tóku hana herskildi; og þeir felldu konung hennar og alla íbúana í borgunum þar umhverfis og alla menn, sem í henni voru, svo að enginn komst undan, öldungis eins og hann hafði farið með Eglon, og hann bannfærði borgina og alla menn, er í henni voru. 10.38 Þá sneri Jósúa og allur Ísrael með honum aftur til Debír og herjaði á hana. 10.39 Náði hann henni og konungi hennar og öllum borgunum þar umhverfis á sitt vald; felldu þeir þá með sverðseggjum og bannfærðu alla menn, er í henni voru, svo að enginn komst undan. Eins og hann hafði farið með Hebron, svo fór hann og með Debír og konung hennar, og eins og hann hafði farið með Líbna og konung hennar. 10.40 Þannig braut Jósúa undir sig landið allt: fjalllendið, suðurlandið, láglendið og hlíðarnar _, og hann felldi alla konunga þeirra, svo að enginn komst undan, og bannfærði allt, sem lífsanda dró, eins og Drottinn, Ísraels Guð, hafði boðið honum. 10.41 Og Jósúa lagði undir sig land allt frá Kades Barnea til Gasa og allt Gósenland til Gíbeon. 10.42 Og alla þessa konunga og land þeirra vann Jósúa í einu, því að Drottinn, Ísraels Guð, barðist fyrir Ísrael. 10.43 Sneri nú Jósúa og allur Ísrael með honum aftur til herbúðanna í Gilgal.
11.1 Þegar Jabín, konungur í Hasór, spurði þessi tíðindi, gjörði hann orð Jóbab, konungi í Madón, svo og konunginum í Simron og konunginum í Aksaf 11.2 og konungunum, sem fyrir norðan bjuggu, í fjalllendinu, á sléttlendinu fyrir sunnan Kínneret, á láglendinu og á Dórhæðum úti við hafið, 11.3 Kanaanítum, bæði fyrir austan og vestan, Amorítum, Hetítum, Peresítum, Jebúsítum í fjalllendinu og Hevítum neðan undir Hermon í Mispalandi. 11.4 Héldu þeir af stað með allan sinn her; var það mannfjöldi svo mikill sem sandur á sjávarströnd. Höfðu þeir fjölda hesta og vagna. 11.5 Allir þessir konungar áttu með sér stefnu, fóru síðan og settu herbúðir sínar allir samt hjá Merómvötnum og bjuggust að eiga orustu við Ísrael. 11.6 Þá sagði Drottinn við Jósúa: 'Ekki skalt þú hræðast þá, því að á morgun í þetta mund mun ég láta þá alla liggja fallna frammi fyrir Ísrael. Þú skalt skera sundur hásinarnar á hestum þeirra og brenna vagna þeirra í eldi.' 11.7 Og Jósúa kom að þeim óvörum hjá Merómvötnum með allan sinn her, og gjörðu þeir áhlaup á þá. 11.8 Og Drottinn gaf þá í hendur Ísrael, og þeir unnu sigur á þeim og eltu þá allt til Sídon hinnar miklu og til Misrefót Majím og allt austur í Mispedal, og þeir felldu þá, svo að enginn af þeim komst undan. 11.9 Og Jósúa fór með þá, eins og Drottinn hafði sagt honum: Hann skar sundur hásinarnar á hestum þeirra og brenndi vagna þeirra í eldi. 11.10 Þá sneri Jósúa aftur og vann Hasór og felldi konung hennar með sverði, en Hasór var fyrrum höfuðborg allra þessara konungsríkja. 11.11 Og þeir felldu alla menn, er í henni voru, með sverðseggjum, með því að þeir bannfærðu þá. Var engin lifandi sála eftir skilin, og Hasór brenndi hann í eldi. 11.12 Jósúa náði á sitt vald öllum borgum þessara konunga, svo og konungunum sjálfum, og hann felldi þá með sverðseggjum, með því að hann bannfærði þá, eins og Móse, þjónn Drottins, hafði boðið. 11.13 Þó lögðu Ísraelsmenn ekki eld í neinar þær borgir, sem stóðu uppi á hæðum, nema Hasór eina; hana brenndi Jósúa. 11.14 En öllu herfangi úr borgum þessum rændu Ísraelsmenn sér til handa, svo og fénaðinum, en menn alla felldu þeir með sverðseggjum, uns þeir höfðu gjöreytt þeim. Létu þeir enga lifandi sálu eftir. 11.15 Eins og Drottinn hafði boðið Móse, þjóni sínum, svo hafði Móse boðið Jósúa, og svo gjörði Jósúa. Hann lét ekkert ógjört af því, sem Drottinn hafði boðið Móse. 11.16 Þannig lagði Jósúa undir sig allt þetta land: fjalllendið, allt suðurlandið, allt Gósenland, láglendið, sléttlendið, svo og Ísraelsfjöll og láglendið, sem að þeim liggur, 11.17 frá Skallabergi, sem liggur upp til Seír, til Baal Gað í Líbanonsdal undir Hermonfjalli. Og öllum konungum þeirra náði hann á sitt vald, vann sigur á þeim og lét drepa þá. 11.18 Um langa hríð átti Jósúa í orustum við konunga þessa. 11.19 Engin var sú borg, er friðsamlega gengi Ísraelsmönnum á vald, nema Hevítar, þeir er bjuggu í Gíbeon. Allt unnu þeir með hernaði. 11.20 Því að það var frá Drottni komið, að hann stælti hjörtu þeirra til að fara í móti Ísrael til bardaga, til þess að þeir yrðu vægðarlaust bannfærðir og gjöreyddir, eins og Drottinn hafði boðið Móse. 11.21 Í það mund fór og Jósúa og eyddi Anakítum úr fjalllendinu við Hebron, úr Debír, úr Anab og úr öllum Júdafjöllum og úr öllum Ísraelsfjöllum. Jósúa bannfærði þá, ásamt borgum þeirra. 11.22 Engir Anakítar urðu eftir í landi Ísraelsmanna, aðeins í Gasa, Gat og Asdód urðu nokkrir eftir. 11.23 Jósúa vann allt landið, öldungis eins og Drottinn hafði boðið Móse, og Jósúa gaf það Ísraelsmönnum til eignar, hverri ættkvísl sinn hluta. Eftir það létti ófriði af landinu.
12.1 Þessir eru konungar landsins, þeir er Ísraelsmenn unnu sigur á og tóku lönd af hinumegin Jórdanar, austanmegin, frá Arnoná til Hermonfjalls og allt sléttlendið austanmegin: 12.2 Síhon, Amorítakonungur, sem bjó í Hesbon og réð landi frá Aróer, sem liggur á bakka Arnonár, og dalnum miðjum og hálfu Gíleað að Jabboká, sem er á landamærum Ammóníta, 12.3 og sléttlendinu að Genesaretvatni að austanverðu og að vatninu á sléttlendinu, Saltasjó, að austanverðu, suður undir Bet Jesímót, og til suðurs að Pisgahlíðum. 12.4 Sömuleiðis land Ógs, konungs í Basan, sem var einn þeirra Refaíta, er eftir voru, og bjó í Astarót og Edreí 12.5 og réð yfir Hermonfjöllum, Salka og öllu Basan, að landamærum Gesúra og Maakatíta, og yfir hálfu Gíleað, að landamærum Síhons, konungs í Hesbon. 12.6 Móse, þjónn Drottins, og Ísraelsmenn höfðu unnið sigur á þeim, og Móse, þjónn Drottins, hafði gefið Rúbenítum, Gaðítum og hálfri ættkvísl Manasse landið til eignar. 12.7 Þessir eru konungar landsins, þeir er Jósúa og Ísraelsmenn unnu sigur á fyrir vestan Jórdan, frá Baal Gað í Líbanonsdal til Skallabergs, sem liggur upp til Seír, _ en landið gaf Jósúa ættkvíslum Ísraels til eignar eftir skiptingu þeirra _, 12.8 í fjalllendinu, á láglendinu, á sléttlendinu, í fjallahlíðunum, í eyðimörkinni og í suðurlandinu, _ land Hetíta, Amoríta, Kanaaníta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta: 12.9 Konungurinn í Jeríkó einn, konungurinn í Aí, sem er hjá Betel, einn, 12.10 konungurinn í Jerúsalem einn, konungurinn í Hebron einn, 12.11 konungurinn í Jarmút einn, konungurinn í Lakís einn, 12.12 konungurinn í Eglon einn, konungurinn í Geser einn, 12.13 konungurinn í Debír einn, konungurinn í Geder einn, 12.14 konungurinn í Horma einn, konungurinn í Arad einn, 12.15 konungurinn í Líbna einn, konungurinn í Adúllam einn, 12.16 konungurinn í Makeda einn, konungurinn í Betel einn, 12.17 konungurinn í Tappúa einn, konungurinn í Hefer einn, 12.18 konungurinn í Afek einn, konungurinn í Saron einn, 12.19 konungurinn í Madón einn, konungurinn í Hasór einn, 12.20 konungurinn í Simrón Meróm einn, konungurinn í Aksaf einn, 12.21 konungurinn í Taanak einn, konungurinn í Megíddó einn, 12.22 konungurinn í Kedes einn, konungurinn í Jokneam hjá Karmel einn, 12.23 konungurinn í Dór í Dórshæðum einn, konungur heiðingjanna í Gilgal einn, 12.24 konungurinn í Tirsa einn, _ alls þrjátíu og einn konungur.
13.1 Þegar Jósúa var orðinn gamall og hniginn að aldri, sagði Drottinn við hann: 'Þú ert orðinn gamall og hniginn að aldri, en mjög mikið af landinu er enn óunnið. 13.2 Þetta er landið, sem enn er eftir: Öll héruð Filista og allt land Gesúra; 13.3 frá Síhór, sem rennur fram með Egyptalandi að austanverðu, til landamæra Ekron í norðri _ það telst með landi Kanaaníta _, fimm höfðingjar Filistanna í Gasa, Asdód, Askalon, Gat og Ekron, svo og Avítar í suðri, 13.4 allt land Kanaaníta og Meara, sem heyrir Sídoningum, allt til Afek, til landamæra Amoríta, 13.5 og land Giblíta og allt Líbanon í austri, frá Baal Gað undir Hermonfjalli allt þangað, er leið liggur til Hamat. 13.6 Allir fjallabúarnir frá Líbanon til Misrefót Majím, allir Sídoningar, _ ég mun stökkva þeim burt undan Ísraelsmönnum. En legg þú á hluti og skipt því meðal Ísraels til eignar, eins og ég hefi boðið þér. 13.7 Skipt þú nú landi þessu til eignar níu ættkvíslunum og hálfri ættkvísl Manasse.' 13.8 Með hálfri ættkvísl Manasse hafa Rúbenítar og Gaðítar fengið sinn eignarhluta, er Móse gaf þeim hinumegin Jórdanar, austanmegin. Móse, þjónn Drottins, gaf þeim hann: 13.9 landið frá Aróer, sem liggur á bakka Arnonár, og borginni, sem liggur í dalnum miðjum, og allt sléttlendið frá Medeba til Díbon, 13.10 svo og allar borgir, er átti Síhon, Amorítakonungur, er sat í Hesbon, allt til landamæra Ammóníta. 13.11 Enn fremur Gíleað og land Gesúra og Maakatíta, Hermonfjöll öll og allt Basan til Salka, 13.12 allt konungsríki Ógs í Basan, sem sat í Astarót og Edreí. Hann var einn eftir af Refaítum; en Móse vann sigur á þeim og stökkti þeim burt. 13.13 Aftur á móti stökktu Ísraelsmenn Gesúrum og Maakatítum ekki burt, heldur búa Gesúrar og Maakatítar meðal Ísraels allt fram á þennan dag. 13.14 En ættkvísl Leví gaf hann ekkert óðal. Eldfórnir Drottins, Ísraels Guðs, eru óðal hans, eins og hann hét honum. 13.15 Móse fékk kynkvíslum Rúbens sona land eftir ættum þeirra. 13.16 Fengu þeir land frá Aróer, sem liggur á bakka Arnonár, og frá borginni, sem liggur í dalnum miðjum, og allt sléttlendið hjá Medeba, 13.17 Hesbon og allar borgirnar þar umhverfis, sem liggja á sléttlendinu, Díbon, Bamót Baal, Bet-Baal-Meon, 13.18 Jahsa, Kedemót, Mefaat, 13.19 Kirjataím, Síbma, Seret Sahar á fellinu í dalnum, 13.20 og Bet Peór, Pisgahlíðar og Bet Jesímót, 13.21 enn fremur allar borgir á sléttlendinu og allt konungsríki Síhons, Amorítakonungs, sem sat í Hesbon og Móse vann sigur á ásamt höfðingjum Midíaníta: Eví, Rekem, Súr, Húr og Reba, jörlum Síhons, sem bjuggu í landinu. 13.22 Ísraelsmenn drápu og spásagnamanninn Bíleam Beórsson með sverði, auk annarra, er þeir felldu. 13.23 Og vesturtakmörkum Rúbens sona réð Jórdan alla leið. Þetta er óðal Rúbens sona eftir ættum þeirra, borgirnar og þorpin, sem að liggja. 13.24 Móse fékk kynkvísl Gaðs, Gaðs sonum, land eftir ættum þeirra. 13.25 Fengu þeir land sem hér segir: Jaser og allar borgirnar í Gíleað og hálft land Ammóníta, allt til Aróer, sem liggur fyrir austan Rabba, 13.26 og frá Hesbon til Ramat Mispe og Betóním, og frá Mahanaím til Lídebír landamæra. 13.27 Enn fremur í dalnum: Bet Haram, Bet Nimra, Súkkót og Safón, leifarnar af konungsríki Síhons, konungs í Hesbon, og Jórdan á mörkum allt að suðurenda Genesaretvatns, austanmegin Jórdanar. 13.28 Þetta er óðal Gaðs sona eftir ættum þeirra, borgirnar og þorpin, er að liggja. 13.29 Móse fékk hálfri ættkvísl Manasse land. Fékk hálf kynkvísl Manasse sona land eftir ættum sínum sem hér segir. 13.30 Land þeirra náði frá Mahanaím yfir allt Basan, allt konungsríki Ógs, konungs í Basan, og öll Jaírs-þorp, sem liggja í Basan, sextíu borgir. 13.31 Enn fremur yfir hálft Gíleað og Astarót og Edreí, höfuðstaði konungsríkis Ógs í Basan. Þetta fengu Makírs synir, Manassesonar, helmingurinn af Makírs sonum eftir ættum þeirra. 13.32 Þetta voru lönd þau, er Móse úthlutaði á Móabsvöllum hinumegin Jórdanar gegnt Jeríkó, austanmegin. 13.33 En ættkvísl Leví gaf Móse ekkert óðal. Drottinn, Ísraels Guð, er óðal þeirra, eins og hann hefir heitið þeim.
14.1 Þetta er það, sem Ísraelsmenn fengu að arfleifð í Kanaanlandi, það sem Eleasar prestur, Jósúa Núnsson og ætthöfðingjar kynkvísla Ísraelsmanna úthlutuðu þeim 14.2 með hlutkesti til arfleifðar, eins og Drottinn hafði skipað fyrir meðalgöngu Móse um níu kynkvíslirnar og hálfa. 14.3 Móse hafði gefið tveimur kynkvíslunum og hálfri óðul hinumegin Jórdanar, en levítunum hafði hann eigi gefið óðal meðal þeirra. 14.4 Jósefs synir voru tvær kynkvíslir, Manasse og Efraím, og levítunum gáfu þeir ekki hlut í landinu, heldur aðeins borgir til að búa í og beitilandið, er lá undir þær, handa fénaði þeirra og skepnum. 14.5 Eins og Drottinn hafði boðið Móse, svo gjörðu Ísraelsmenn og skiptu landinu. 14.6 Þá gengu Júda synir fyrir Jósúa í Gilgal, og Kaleb Jefúnneson, Kenisíti, sagði við hann: 'Þér er kunnugt um, hvað Drottinn sagði við guðsmanninn Móse um mig og þig í Kades Barnea. 14.7 Þá var ég fertugur að aldri, er Móse, þjónn Drottins, sendi mig frá Kades Barnea að kanna landið, og bar ég honum það, er ég vissi sannast. 14.8 En bræður mínir, sem með mér fóru, skelfdu hjörtu lýðsins, en ég fylgdi Drottni Guði mínum trúlega. 14.9 Og þann dag sór Móse og sagði: ,Sannlega skal land það, sem þú steigst fæti á, vera þín eign og sona þinna ævinlega, því að þú fylgdir Drottni Guði mínum trúlega.` 14.10 Og sjá, nú hefir Drottinn látið mig lifa, eins og hann lofaði, í þessi fjörutíu og fimm ár, síðan Drottinn sagði þetta við Móse, meðan Ísrael hefir farið um eyðimörkina, og sjá, nú hefi ég fimm um áttrætt. 14.11 Og enn í dag er ég eins hraustur og þegar Móse sendi mig. Orka mín er enn hin sama og hún var þá til að berjast og til að ganga út og inn. 14.12 Gef mér nú fjalllendi þetta, sem Drottinn talaði um þann dag, því að þú hlýddir sjálfur á þann dag. Anakítar eru þar og stórar, víggirtar borgir. Vera má, að Drottinn veiti mér fulltingi, svo ég fái stökkt þeim burt, eins og Drottinn hefir heitið.' 14.13 Jósúa blessaði hann og gaf Kaleb Jefúnnesyni Hebron að arfleifð. 14.14 Fyrir því fékk Kaleb Jefúnneson, Kenisíti, Hebron að arfleifð, og er svo enn í dag, sökum þess að hann fylgdi Drottni, Ísraels Guði, trúlega. 14.15 En Hebron hét áður Kirjat Arba, eftir Arba þeim, er mestur var meðal Anakíta. Eftir það létti ófriði af landinu.
15.1 Hlutur sá, er kynkvísl Júda sona fékk eftir ættum þeirra, lá að landamærum Edóms, suður undir Síneyðimörk, syðst í landinu. 15.2 Suðurtakmörkin að landi þeirra voru frá enda Saltasjós, frá víkinni, er snýr til suðurs, 15.3 og lágu fyrir sunnan Sporðdrekaskarð og yfir til Sín og upp eftir fyrir sunnan Kades Barnea og yfir til Hesron, þaðan upp til Adar og því næst í boga til Karka. 15.4 Þaðan lágu þau yfir til Asmón og alla leið til Egyptalandsár, og síðast lágu takmörkin til sjávar. Þetta skulu vera landamerki þeirra að sunnanverðu. 15.5 Austurtakmörkin voru Saltisjór, allt til þess er Jórdan fellur í hann. Norðurmörkin lágu frá nyrstu vík vatnsins, þar sem Jórdan fellur í það. 15.6 Þaðan lágu takmörkin upp til Bet Hogla og fram hjá Bet Araba að norðanverðu og þaðan upp til steins Bóhans, Rúbenssonar. 15.7 Þá lágu takmörkin upp til Debír úr Akordal, þaðan í norður til Gilgal, sem liggur þar gegnt sem upp er gengið til Adúmmím, sem er sunnanvert við lækinn. Þaðan lágu takmörkin yfir til En-Semesvatns og þaðan alla leið að Rógel-lind. 15.8 Þaðan lágu landamerkin upp til Hinnomssonardals, að Jebúsítaöxl sunnanverðri; þar heitir nú Jerúsalem. Þaðan lágu landamerkin upp á fjallstindinn, sem er beint í vestur frá Hinnomsdal og við norðurendann á Refaímdal. 15.9 Frá fjallstindinum beygðust landamerkin til Neftóavatnslindar og lágu þaðan til borganna á Efronfjalli. Þaðan beygðust landamerkin til Baala; þar heitir nú Kirjat Jearím. 15.10 Frá Baala lágu landamerkin í boga vestur til Seírfjalls og þaðan yfir að öxl Jearímfjalls norðanverðri, það er Kesalon; og þaðan ofan til Bet Semes og yfir til Timna. 15.11 Þá lágu landamerkin norður til Ekron-axlar, þaðan beygðust þau til Síkrón og yfir til Baala-fjalls og alla leið til Jabneel, og síðast lágu takmörkin til sjávar. 15.12 Vesturtakmörkunum réð hafið mikla alla leið. Þetta voru landamerki Júda sona hringinn í kring, eftir ættum þeirra. 15.13 Kaleb Jefúnnesyni gaf hann hlut meðal Júda sona, eins og Drottinn hafði boðið Jósúa, sem sé borg Arba, föður Anaks; það er Hebron. 15.14 Og Kaleb rak þaðan þrjá sonu Anaks: Sesaí, Ahíman og Talmaí, afkomendur Anaks. 15.15 Þaðan fór hann móti Debír-búum, en Debír hét áður Kirjat Sefer. 15.16 Kaleb sagði: 'Hver sem leggur Kirjat Sefer undir sig og vinnur hana, honum skal ég gefa Aksa dóttur mína að konu.' 15.17 Þá vann Otníel Kenasson, bróðir Kalebs, borgina, og hann gaf honum Aksa dóttur sína að konu. 15.18 Þegar hún skyldi heim fara með bónda sínum, eggjaði hún hann þess, að hann skyldi beiðast lands nokkurs af föður hennar. Steig hún þá niður af asnanum. Kaleb spurði hana þá: 'Hvað viltu?' 15.19 Hún svaraði: 'Gef mér gjöf nokkra, af því að þú hefir gefið mig til Suðurlandsins. Gef mér því vatnsbrunna.' Gaf hann henni þá brunna hið efra og brunna hið neðra. 15.20 Þetta er óðal kynkvíslar Júda sona, eftir ættum þeirra. 15.21 Syðstu borgirnar í kynkvísl Júda sona, við landamæri Edóms, í Suðurlandinu voru: Kabseel, Eder, Jagúr, 15.22 Kína, Dímóna, Adada, 15.23 Kedes, Hasór og Jítnan, 15.24 Síf, Telem, Bealót, 15.25 Hasór Hadatta og Keríjót Hesron, það er Hasór; 15.26 Amam, Sema, Mólada, 15.27 Hasar Gadda, Hesmon, Bet Pelet, 15.28 Hasar Súal, Beerseba og Bisjótja, 15.29 Baala, Ijím, Esem, 15.30 Eltólað, Kesíl, Horma, 15.31 Siklag, Madmanna, Sansanna, 15.32 Lebaót, Silhím, Aín og Rimmon, _ alls tuttugu og níu borgir og þorpin, er að liggja. 15.33 Á láglendinu: Estaól, Sórea, Asna, 15.34 Sanóa og En Ganním, Tappúa og Enam, 15.35 Jarmút og Adúllam, Sókó, Aseka, 15.36 Saaraím, Adítaím, Gedera og Gederótaím, _ fjórtán borgir og þorpin, er að liggja. 15.37 Senan, Hadasa, Migdal Gað, 15.38 Dílean, Mispe og Jokteel, 15.39 Lakís, Boskat, Eglon, 15.40 Kabbón, Lahmas, Kitlís 15.41 og Gederót, Bet Dagón, Naama og Makeda, _ sextán borgir og þorpin, er að liggja. 15.42 Líbna, Eter, Asan, 15.43 Jifta, Asna, Nesíb, 15.44 Kegíla, Aksíb og Maresa, _ níu borgir og þorpin, er að liggja. 15.45 Ekron með smáborgum hennar og þorpum. 15.46 Frá Ekron og vestur að hafi allt það, sem er á hlið við Asdód, og þorpin, er að liggja. 15.47 Asdód með smáborgum hennar og þorpum, Gasa með smáborgum hennar og þorpum, allt til Egyptalandsár, en vesturtakmörkum réð hafið mikla. 15.48 Í fjalllendinu: Samír, Jattír, Sókó, 15.49 Danna, Kirjat Sanna, það er Debír; 15.50 Anab, Estemó, Aním, 15.51 Gósen, Hólon og Gíló, _ ellefu borgir og þorpin, er að liggja. 15.52 Arab, Dúma, Esean, 15.53 Janúm, Bet Tappúa, Afeka, 15.54 Húmta, Kirjat Arba, það er Hebron; og Síór, _ níu borgir og þorpin, er að liggja. 15.55 Maon, Karmel, Síf, Júta, 15.56 Jesreel, Jokdeam, Sanóa, 15.57 Kaín, Gíbea og Timna, _ tíu borgir og þorpin, er að liggja. 15.58 Halhúl, Bet Súr, Gedór, 15.59 Maarat, Bet Anót og Eltekón, _ sex borgir og þorpin er að liggja. 15.60 Kirjat Baal, það er Kirjat Jearím; og Rabba, _ tvær borgir og þorpin, er að liggja. 15.61 Í eyðimörkinni: Bet Araba, Middín, Sekaka, 15.62 Nibsan, Saltborgin og Engedí, _ sex borgir og þorpin er að liggja. 15.63 En Jebúsítana, sem bjuggu í Jerúsalem, gátu Júda synir ekki rekið burt. Fyrir því hafa Jebúsítar búið í Jerúsalem ásamt Júda sonum fram á þennan dag.
16.1 Síðan kom upp hlutur Jósefs sona, og hlutu þeir land austan frá Jórdan, gegnt Jeríkó, til Jeríkóvatna, eyðimörkina, sem liggur frá Jeríkó upp á Betelfjöll. 16.2 Frá Betel lágu landamerkin til Lúz, þaðan yfir til lands Arkíta, til Atarót, 16.3 þaðan ofan á við og í vestur, til lands Jafletíta, að landamærum Bet Hóron neðri og allt til Geser, og þaðan alla leið til sjávar. 16.4 Synir Jósefs, Manasse og Efraím, fengu óðal sitt. 16.5 Þetta var land Efraíms sona, eftir ættum þeirra: Takmörk ættaróðals þeirra voru að austan Aterót Addar til Bet Hóron efri, 16.6 og takmörkin lágu út að hafi. Að norðan var Mikmetat, þaðan beygðu landamerkin af austur á við til Taanat Síló og þar fram hjá austur fyrir Janóha. 16.7 En frá Janóha lágu þau ofan á við til Atarót og Naarat, lentu hjá Jeríkó og lágu þaðan að Jórdan. 16.8 Frá Tappúa lágu landamerkin í vestur til Kana-lækjar og þaðan alla leið til sjávar. Þetta er óðal kynkvíslar Efraíms sona, eftir ættum þeirra, 16.9 auk þess borgirnar, sem skildar voru frá handa Efraíms sonum í ættaróðali Manasse sona _ allar borgirnar og þorpin, er að lágu. 16.10 En ekki ráku þeir burt Kanaanítana, sem bjuggu í Geser. Fyrir því búa Kanaanítar meðal Efraíms fram á þennan dag og urðu vinnuskyldir þrælar.
17.1 Kynkvísl Manasse fékk sinn hlut, því að hann var frumgetningur Jósefs. Makír, frumgetningur Manasse, faðir Gíleaðs, fékk Gíleað og Basan, því að hann var bardagamaður. 17.2 Og hinir synir Manasse fengu sinn hluta eftir ættum þeirra: synir Abíesers, synir Heleks, synir Asríels, synir Sekems, synir Hefers og synir Semída. Þessir voru synir Manasse Jósefssonar í karllegginn, eftir ættum þeirra. 17.3 En Selofhað Hefersson, Gíleaðssonar, Makírssonar, Manassesonar, átti enga sonu, heldur dætur einar, og hétu þær Mahla, Nóa, Hogla, Milka og Tirsa. 17.4 Þær gengu fyrir Eleasar prest, Jósúa Núnsson og höfuðsmennina og sögðu: 'Drottinn bauð Móse að gefa oss óðal meðal bræðra vorra.' Gaf hann þeim þá eftir boði Drottins óðal meðal bræðra föður þeirra. 17.5 Komu þá tíu hlutir á Manasse, auk Gíleaðlands og Basans, sem liggja hinumegin Jórdanar, 17.6 með því að dætur Manasse fengu óðal meðal sona hans, en Gíleaðland fengu hinir synir Manasse. 17.7 Landamerki Manasse lágu frá Asser til Mikmetat, sem liggur fyrir austan Síkem; þaðan lágu landamærin til hægri, til þeirra sem bjuggu í En-Tappúa. 17.8 Tappúasveit fékk Manasse, en Tappúaborg, sem lá við takmörk Manasse, fengu Efraíms synir. 17.9 Þá lágu landamerkin niður að Kana-læk, fyrir sunnan lækinn. Þessar borgir heyra Efraím mitt á meðal borga Manasse. Þaðan lágu landamerki Manasse norðan með læknum og alla leið til sjávar. 17.10 Það sem var að sunnanverðu, átti Efraím, en það sem var að norðanverðu, átti Manasse, og hafið réð takmörkum hans. Að norðanverðu lágu lönd þeirra að Asser og að austanverðu að Íssakar. 17.11 En í Íssakar og Asser fékk Manasse: Bet Sean og smáborgirnar, er að liggja, Jibleam og smáborgirnar, er að liggja, íbúana í Dór og smáborgirnar, er að liggja, íbúana í Endór og smáborgirnar, er að liggja, íbúana í Taanak og smáborgirnar, er að liggja, og íbúana í Megiddó og smáborgirnar, er að liggja, þ. e. hæðirnar þrjár. 17.12 En ekki gátu Manasse synir stökkt íbúum þessara borga burt, og þannig fengu Kanaanítar haldið bústað í landi þessu. 17.13 En þegar Ísraelsmenn efldust, gjörðu þeir Kanaaníta sér vinnuskylda, en ráku þá ekki algjörlega burt. 17.14 Þá báru Jósefs synir sig upp við Jósúa og sögðu: 'Hví hefir þú ekki gefið mér nema eitt hlutskipti og einn hlut að óðali, og er ég þó fjölmennur, þar sem Drottinn hefir blessað mig allt til þessa?' 17.15 Jósúa sagði við þá: 'Ef þú ert orðinn svo fjölmennur, þá far þú upp í skóginn og ryð þér þar til bólstaða í landi Peresíta og Refaíta, ef of þröngt er orðið um þig á Efraímfjöllum.' 17.16 Þá sögðu Jósefs synir: 'Fjalllendið nægir oss eigi, því að allir Kanaanítar, þeir er á sléttlendinu búa, hafa járnvagna, bæði þeir sem búa í Bet Sean og þorpunum, er að liggja, og þeir sem búa á Jesreelsléttunni.' 17.17 Þá sagði Jósúa við hús Jósefs, við Efraím og Manasse: 'Þú ert orðinn fjölmennur, og styrkur þinn er mikill. Þú skalt fá meira en einn erfðahluta, 17.18 því að fjalllendið skal vera þitt. Ef það er skógi vaxið, þá verður þú að ryðja hann, þá munt þú og eignast fjalladrögin. Því að þú verður að reka Kanaanítana burt, fyrst þeir hafa járnvagna og fyrst þeir eru sterkir.'
18.1 Allur söfnuður Ísraelsmanna safnaðist saman í Síló, og reistu þeir þar samfundatjaldið, enda höfðu þeir nú lagt landið undir sig. 18.2 En enn þá voru eftir sjö ættkvíslir meðal Ísraelsmanna, sem eigi höfðu skipt arfleifð sinni. 18.3 Jósúa sagði þá við Ísraelsmenn: 'Hversu lengi ætlið þér að vera svo tómlátir, að fara ekki og taka til eignar land það, sem Drottinn, Guð feðra yðar, hefir gefið yður? 18.4 Veljið nú þrjá menn af ættkvísl hverri, og mun ég senda þá út. Skulu þeir halda af stað og fara um landið og skrifa lýsingu á landinu með tilliti til þess, að því á að skipta meðal þeirra. Skulu þeir síðan koma aftur til mín. 18.5 Því næst skulu þeir skipta því í sjö hluti. Júda skal halda sínu landi í suðri, og hús Jósefs skal halda sínu landi í norðri. 18.6 En þér skuluð skrifa lýsingu landsins í sjö hlutum og færa mér hingað, síðan mun ég varpa hlutum fyrir yður hér frammi fyrir augliti Drottins, Guðs vors. 18.7 En levítarnir fá eigi hlut meðal yðar, heldur er prestdómur Drottins óðal þeirra. En Gað og Rúben og hálf ættkvísl Manasse hafa fengið sinn erfðahluta hinumegin Jórdanar, austanmegin, þann er Móse, þjónn Drottins, gaf þeim.' 18.8 Þá tóku mennirnir, er fóru að skrifa lýsingu landsins, sig upp og héldu af stað, og Jósúa bauð þeim og mælti: 'Farið nú og ferðist um landið og skrifið lýsingu þess, komið síðan aftur til mín. Mun ég þá varpa hlutum fyrir yður hér frammi fyrir Drottni í Síló.' 18.9 Og mennirnir héldu af stað og fóru um landið og skrifuðu lýsingu þess í bók eftir borgunum í sjö hlutum. Síðan komu þeir til Jósúa í herbúðirnar í Síló. 18.10 Og Jósúa varpaði hlutum fyrir þá í Síló frammi fyrir Drottni, og Jósúa skipti þar landinu meðal Ísraelsmanna eftir skiptingu þeirra. 18.11 Kom nú upp hlutur kynkvíslar Benjamíns sona eftir ættum þeirra, og lá það land, er þeim hlotnaðist, milli Júda sona og Jósefs sona. 18.12 Landamerki þeirra að norðanverðu lágu frá Jórdan og upp á hálsinn fyrir norðan Jeríkó, og þaðan vestur á fjöllin og alla leið til eyðimerkurinnar hjá Betaven. 18.13 Þaðan lágu landamerkin yfir til Lúz, yfir á hálsinn fyrir sunnan Lúz, það er Betel. Þaðan lágu landamerkin niður til Aterót Addar, yfir á fjallið, sem er fyrir sunnan Bet Hóron neðri. 18.14 Þá beygðust landamerkin við og lágu í suðvestur frá fjallinu, sem er fyrir sunnan Bet Hóron, og lágu alla leið til Kirjat Baal, það er Kirjat Jearím, borg Júda sona. Þetta voru vesturtakmörkin. 18.15 Suðurtakmörkin lágu frá útjaðrinum á Kirjat Jearím, og lágu þau í vestur og gengu út að Neftóavatnslind. 18.16 Þá lágu landamerkin niður að enda fjallsins, sem liggur andspænis Hinnomssonardal og norðanvert í Refaímdal, þaðan niður Hinnomsdal að Jebúsíta-öxl sunnanverðri, og þaðan niður að Rógel-lind. 18.17 Þaðan beygðust þau norður á við og lágu til En-Semes, og þaðan til Gelílót, sem liggur þar gegnt sem upp er gengið til Adúmmím, þaðan niður til steins Bóhans, Rúbenssonar, 18.18 þaðan yfir á hálsinn, sem liggur gegnt Araba norðanvert, og þaðan niður til Araba. 18.19 Þaðan lágu landamerkin norðan fram með hálsinum hjá Bet Hogla og alla leið að nyrstu vík Saltasjós, þar sem Jórdan fellur suður í hann. Þetta voru suðurtakmörkin. 18.20 Að austanverðu réð Jórdan mörkum. Þessi voru landamærin hringinn í kringum arfleifð Benjamíns, eftir ættum þeirra. 18.21 Borgir kynkvíslar Benjamíns sona, eftir ættum þeirra, voru: Jeríkó, Bet Hogla, Emek Kesís, 18.22 Bet Araba, Semaraím, Betel, 18.23 Avím, Para, Ofra, 18.24 Kefar Ammóní, Ofní og Geba, tólf borgir og þorpin er að liggja. 18.25 Gíbeon, Rama, Beerót, 18.26 Mispe, Kefíra, Mósa, 18.27 Rekem, Jirpeel, Tarala, 18.28 Sela, Elef, Jebúsítaborg, það er Jerúsalem, Gíbeat og Kirjat, fjórtán borgir og þorpin er að liggja. Þetta var arfleifð Benjamíns sona eftir ættum þeirra.
19.1 Næst kom upp hlutur Símeons, kynkvíslar Símeons sona eftir ættum þeirra, en arfleifð þeirra lá inni í arfleifð Júda sona miðri. 19.2 Þeir fengu að arfleifð: Beerseba og Seba, Mólada, 19.3 Hasar Súal, Bala, Esem, 19.4 Eltólað, Betúl, Horma, 19.5 Siklag, Bet Markabót, Hasar Súsa, 19.6 Bet Lebaót og Sarúhen, þrettán borgir og þorpin, er að liggja. 19.7 Aín, Rimmon, Eter og Asan, fjórar borgir og þorpin, er að liggja, 19.8 auk þess öll þau þorp, er lágu kringum borgir þessar allt til Baalat Beer, Rama suðurlandsins. Þetta var arfleifð kynkvíslar Símeons sona, eftir ættum þeirra. 19.9 Arfleifð Símeons sona var nokkur hluti af landshluta Júda sona, því að hluti Júda sona var of stór fyrir þá, og fyrir því fengu Símeons synir arfleifð í miðri arfleifð þeirra. 19.10 Þá kom upp þriðji hluturinn. Það var hlutur Sebúlons sona eftir ættum þeirra, og náðu landamerki arfleifðar þeirra allt til Saríd. 19.11 Og landamerki þeirra lágu í vestur upp til Marala, þaðan út til Dabbeset og lentu hjá læknum, sem rennur fyrir austan Jokneam. 19.12 Til austurs aftur á móti, gegnt upprás sólar, lágu þau frá Saríd til landamæra Kislót Tabors, þaðan til Daberat og þaðan upp til Jafía. 19.13 Þaðan lágu þau í austur, mót upprás sólar, yfir til Gat Hefer, til Et Kasín, síðan til Rimmon, sem nær allt til Nea. 19.14 Og landamerkin beygðu þar við, norður til Hannatón, og alla leið til Jifta-El-dals, 19.15 ásamt Katat, Nahalal, Simron, Jidala og Betlehem, tólf borgir og þorpin, er að liggja. 19.16 Þetta var arfleifð Sebúlons sona, eftir ættum þeirra: þessar borgir og þorpin, er að liggja. 19.17 Þá kom upp fjórði hluturinn. Það var hlutur Íssakars, Íssakars sona eftir ættum þeirra. 19.18 Og land þeirra tók yfir: Jesreel, Kesúllót, Súnem, 19.19 Hafaraím, Síón, Anaharat, 19.20 Rabbít, Kisjon, Ebes, 19.21 Remet, En-Ganním, En-Hadda og Bet Passes. 19.22 Og landamerkin náðu til Tabor, Sahasíma og Bet Semes, og alla leið til Jórdanar, sextán borgir og þorpin er að liggja. 19.23 Þetta var arfleifð kynkvíslar Íssakars sona eftir ættum þeirra, borgirnar og þorpin er að liggja. 19.24 Þá kom upp fimmti hluturinn. Það var hlutur kynkvíslar Assers sona, eftir ættum þeirra. 19.25 Og land þeirra tók yfir: Helkat, Halí, Beten, Aksaf, 19.26 Allammelek, Amead og Míseal, og þau náðu vestur að Karmel og Síhór Libnat. 19.27 Þaðan lágu þau í austur til Bet Dagón, og náðu að Sebúlon og Jifta-El-dal í norðri, Bet Emek og Negíel, og lágu norður til Kabúl, 19.28 Ebron, Rehób, Hammon og Kana, allt til hinnar miklu Sídon. 19.29 Þaðan beygðust landamerkin til Rama og allt til hinnar víggirtu borgar Týrus, og þaðan aftur til Hósa og þaðan alla leið til sjávar, frá því er Aksíbhéraði sleppir. 19.30 Auk þess Akkó, Afek og Rehób, tuttugu og tvær borgir og þorpin, er að liggja. 19.31 Þetta var arfleifð kynkvíslar Assers sona, eftir ættum þeirra, þessar borgir og þorpin, er að liggja. 19.32 Þá kom upp sjötti hluturinn. Það var hlutur Naftalí, Naftalí sona eftir ættum þeirra. 19.33 Og landamerki þeirra lágu frá Helef, frá eikunum hjá Saananním, Adamí Nekeb og Jabneel allt til Lakkúm og alla leið að Jórdan. 19.34 Þaðan gengu landamærin í vestur til Asnót Tabor, þaðan út til Húkkók, náðu til Sebúlons að sunnanverðu, til Assers að vestanverðu og til Júda við Jórdan gegnt upprás sólar. 19.35 Og víggirtar borgir voru þar: Siddím, Ser, Hammat, Rakkat, Kinneret, 19.36 Adama, Rama, Hasór, 19.37 Kedes, Edreí, En Hasór, 19.38 Jirón, Migdal, El, Horem, Bet Anat og Bet Semes _ nítján borgir og þorpin, er að liggja. 19.39 Þetta var arfleifð kynkvíslar Naftalí sona eftir ættum þeirra, borgirnar og þorpin, er að liggja. 19.40 Loks kom upp sjöundi hluturinn, og var það hlutur kynkvíslar Dans sona, eftir ættum þeirra. 19.41 Og landamerkin að arfleifð þeirra voru Sorea, Estaól, Ír-Semes, 19.42 Saalabbín, Ajalon, Jitla, 19.43 Elón, Timnat, Ekron, 19.44 Elteke, Gibbetón, Baalat, 19.45 Jehúd, Bene Berak, Gat Rimmon, 19.46 Me-Jarkón og Rakkon, ásamt landinu gegnt Jafó. 19.47 En land Dans sona gekk undan þeim. Þá fóru Dans synir og herjuðu á Lesem, unnu hana og tóku hana herskildi, slógu síðan eign sinni á hana og settust þar að og nefndu hana Dan eftir nafni Dans, föður þeirra. 19.48 Þetta var arfleifð kynkvíslar Dans sona eftir ættum þeirra, þessar borgir og þorpin, er að liggja. 19.49 Er Ísraelsmenn höfðu skipt landinu öllu til ystu ummerkja, gáfu þeir Jósúa Núnssyni óðal meðal sín. 19.50 Eftir boði Drottins gáfu þeir honum borg þá, er hann sjálfur kaus, en það var Timnat Sera í Efraímfjöllum. Hann byggði upp borgina og bjó þar síðan. 19.51 Þessar voru arfleifðirnar, er þeir Eleasar prestur, Jósúa Núnsson og ætthöfðingjar kynkvísla Ísraelsmanna úthlutuðu með hlutkesti í Síló frammi fyrir Drottni, við dyr samfundatjaldsins. Höfðu þeir nú lokið því að skipta landinu.
20.1 Drottinn talaði við Jósúa á þessa leið: 20.2 'Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Takið nú til griðastaðina, þá er ég hefi talað um við yður fyrir Móse, 20.3 að þangað megi flýja vegandi, sá er af vangá, óviljandi, hefir orðið manni að bana, svo að þeir séu yður hæli fyrir hefnanda. 20.4 Hann má flýja í einhverja af borgum þessum og nema staðar rétt fyrir utan borgarhliðið og skýra þar frá máli sínu í áheyrn öldunga borgar þeirrar. Skulu þeir taka við honum inn í borgina og fá honum stað, svo að hann megi búa hjá þeim. 20.5 Og ef hefnandinn eltir hann, þá skulu þeir eigi framselja vegandann í hendur honum, þar eð hann óviljandi hefir orðið náunga sínum að bana og eigi verið óvinur hans áður. 20.6 Og hann skal hafa aðsetur í borg þeirri, þar til er hann hefir komið fyrir dóm safnaðarins, þar til sá æðsti prestur er dáinn, sem þá er. Þá má vegandinn hverfa aftur og fara heim til sinnar borgar og síns húss, þeirrar borgar, er hann flýði úr.' 20.7 Þá helguðu þeir Kedes í Galíleu á Naftalífjöllum, Síkem á Efraímfjöllum og Kirjat Arba, það er Hebron, á Júdafjöllum. 20.8 En hinumegin Jórdanar, gegnt Jeríkó að austanverðu, létu þeir af hendi Beser í eyðimörkinni, á sléttlendinu, af kynkvísl Rúbens, Ramót í Gíleað af kynkvísl Gaðs og Gólan í Basan af kynkvísl Manasse. 20.9 Þetta voru borgirnar, sem tilteknar voru handa öllum Ísraelsmönnum og útlendingum þeim, er meðal þeirra dvöldust, að þangað mætti flýja hver sá maður, sem óviljandi hefði orðið manni að bana, svo að hann þyrfti ekki að deyja fyrir hendi hefnandans, þar til er hann hefði staðið fyrir máli sínu frammi fyrir söfnuðinum.
21.1 Ætthöfðingjar levítanna gengu fyrir þá Eleasar prest, Jósúa Núnsson og ætthöfðingja kynkvísla Ísraelsmanna 21.2 og töluðu þannig til þeirra í Síló í Kanaanlandi: 'Drottinn bauð fyrir Móse að oss skyldi borgir gefa til bústaða, svo og beitilandið, er að þeim liggur, handa fénaði vorum.' 21.3 Þá gáfu Ísraelsmenn levítunum af óðulum sínum, eftir boði Drottins, þessar borgir og beitilönd þau, er að þeim lágu. 21.4 Nú kom upp hlutur ætta Kahatíta, og fengu þá meðal levítanna synir Arons prests með hlutkesti þrettán borgir hjá Júda kynkvísl, Símeons kynkvísl og Benjamíns kynkvísl. 21.5 Hinir synir Kahats fengu með hlutkesti tíu borgir frá ættum Efraíms kynkvíslar og frá Dans kynkvísl og frá hálfri kynkvísl Manasse. 21.6 Synir Gersons fengu með hlutkesti þrettán borgir frá ættum Íssakars kynkvíslar, frá Assers kynkvísl, frá Naftalí kynkvísl og frá hálfri kynkvísl Manasse í Basan. 21.7 Merarí synir fengu tólf borgir eftir ættum þeirra frá Rúbens kynkvísl, frá Gaðs kynkvísl og frá Sebúlons kynkvísl. 21.8 Ísraelsmenn gáfu levítunum borgir þessar og beitilandið, er að þeim liggur, eftir hlutkesti, eins og Drottinn hafði boðið fyrir meðalgöngu Móse. 21.9 Þeir gáfu af kynkvísl Júda sona og af kynkvísl Símeons sona þessar borgir, sem hér eru nafngreindar. 21.10 Af ættum Kahatíta meðal Leví sona fengu Arons synir þær, af því að fyrsti hluturinn hlotnaðist þeim. 21.11 Þeim gáfu þeir Kirjat-Arba, er átt hafði Arba, faðir Anaks, það er Hebron, á Júdafjöllum og beitilandið umhverfis hana. 21.12 En akurland borgarinnar og þorpin, er að henni lágu, gáfu þeir Kaleb Jefúnnesyni til eignar. 21.13 Sonum Arons prests gáfu þeir: Hebron, sem var griðastaður vígsekra, og beitilandið, er að henni lá, Líbna og beitilandið, er að henni lá, 21.14 Jattír og beitilandið, er að henni lá, Estemóa og beitilandið, er að henni lá, 21.15 Hólon og beitilandið, er að henni lá, Debír og beitilandið, er að henni lá, 21.16 Asan og beitilandið, er að henni lá, Jútta og beitilandið, er að henni lá, og Bet Semes og beitilandið er að henni lá _ níu borgir frá þessum tveimur ættkvíslum. 21.17 Af Benjamíns kynkvísl: Gíbeon og beitilandið, er að henni lá, Geba og beitilandið, er að henni lá, 21.18 Anatót og beitilandið, er að henni lá, og Almón og beitilandið, er að henni lá _ fjórar borgir. 21.19 Þannig hlutu synir Arons, prestarnir, þrettán borgir alls og beitilönd þau, er að þeim lágu. 21.20 Að því er snertir ættir þeirra Kahats sona, er töldust til levítanna, hinna Kahats sonanna, þá fengu þær borgir þær, er þeim hlotnuðust frá Efraíms kynkvísl. 21.21 Þeir gáfu þeim Síkem, sem var griðastaður vígsekra, og beitilandið, er að henni lá, á Efraímfjöllum, Geser og beitilandið, er að henni lá, 21.22 Kibsaím og beitilandið, er að henni lá, og Bet Hóron og beitilandið, er að henni lá _ fjórar borgir. 21.23 Frá kynkvísl Dans: Elteke og beitilandið, er að henni lá, Gibbetón og beitilandið, er að henni lá, 21.24 Ajalon og beitilandið, er að henni lá, og Gat Rimmon og beitilandið, er að henni lá _ fjórar borgir. 21.25 Frá hálfri kynkvísl Manasse: Taanak og beitilandið, er að henni lá, og Jibleam og beitilandið, er að henni lá _ tvær borgir. 21.26 Ættir hinna Kahats sonanna hlutu þannig tíu borgir alls og beitilönd þau, er að þeim lágu. 21.27 Af ættum levítanna fengu Gersons synir frá hálfri kynkvísl Manasse: Gólan í Basan, griðastað vígsekra, og beitilandið, er að henni lá, og Beestera og beitilandið, er að henni lá _ tvær borgir. 21.28 Frá Íssakars kynkvísl: Kisjón og beitilandið, er að henni lá, Daberat og beitilandið, er að henni lá, 21.29 Jarmút og beitilandið, er að henni lá, og En-Ganním og beitilandið, er að henni lá _ fjórar borgir. 21.30 Frá Assers kynkvísl: Míseal og beitilandið, er að henni lá, Abdón og beitilandið, er að henni lá, 21.31 Helkat og beitilandið, er að henni lá, og Rehób og beitilandið, er að henni lá _ fjórar borgir. 21.32 Frá Naftalí kynkvísl: Kedes í Galíleu, griðastað vígsekra, og beitilandið, er að henni lá, Hammót Dór og beitilandið, er að henni lá, og Kartan og beitilandið er að henni lá _ þrjár borgir. 21.33 Þannig hlutu Gersonítar eftir ættum þeirra, þrettán borgir alls og beitilönd þau, er að þeim lágu. 21.34 Ættir Merarí sona, þeirra Leví sona, er enn voru eftir, fengu frá Sebúlons kynkvísl: Jokneam og beitilandið, er að henni lá, Karta og beitilandið, er að henni lá, 21.35 Dimna og beitilandið, er að henni lá, og Nahalal og beitilandið, er að henni lá _ fjórar borgir. 21.36 Frá Rúbens kynkvísl: Beser í eyðimörkinni, griðastað vígsekra, og beitilandið, er að henni lá, Jahsa og beitilandið, er að henni lá, 21.37 Kedemót og beitilandið, er að henni lá, og Mefaat og beitilandið, er að henni lá _ fjórar borgir. 21.38 Frá Gaðs kynkvísl: Ramót í Gíleað, griðastað vígsekra, og beitilandið, er að henni lá, Mahanaím og beitilandið, er að henni lá, 21.39 Hesbon og beitilandið, er að henni lá, og Jaeser og beitilandið, er að henni lá _ fjórar borgir alls. 21.40 Þannig fengu Merarí synir, eftir ættum þeirra, þeir er enn voru eftir af ættum levítanna, í sitt hlutskipti tólf borgir alls. 21.41 Borgir þær, er levítarnir fengu inni í eignarlöndum Ísraelsmanna, voru fjörutíu og átta alls, og beitilöndin, er að þeim lágu. 21.42 Og allar þessar borgir voru hver um sig ein borg með beitilandi umhverfis. Var svo um allar þessar borgir. 21.43 Drottinn gaf Ísrael allt landið, er hann hafði svarið að gefa feðrum þeirra, og þeir tóku það til eignar og settust þar að. 21.44 Og Drottinn lét þá búa í friði á alla vegu, öldungis eins og hann hafði svarið feðrum þeirra. Enginn af öllum óvinum þeirra fékk staðist fyrir þeim, Drottinn gaf alla óvini þeirra í hendur þeim. 21.45 Ekkert brást af öllum fyrirheitum þeim, er Drottinn hafði gefið húsi Ísraels. Þau rættust öll.
22.1 Þá kallaði Jósúa Rúbeníta, Gaðíta og hálfa kynkvísl Manasse fyrir sig 22.2 og sagði við þá: 'Þér hafið haldið allt það, sem Móse, þjónn Drottins, bauð yður. Þér hafið og hlýtt röddu minni í öllu því, er ég hefi fyrir yður lagt. 22.3 Þennan langa tíma allt fram á þennan dag hafið þér fylgi veitt bræðrum yðar og varðveitt hlýðni við boðorð Drottins, Guðs yðar. 22.4 En nú hefir Drottinn, Guð yðar, veitt bræðrum yðar hvíld, eins og hann hafði heitið þeim. Snúið því nú á leið og farið til tjalda yðar, til eignarlands yðar, þess er Móse, þjónn Drottins, gaf yður hinumegin Jórdanar. 22.5 Gætið þess einungis, að þér haldið vel boðorð það og lögmál, er Móse, þjónn Drottins, fyrir yður lagði: að þér elskið Drottin Guð yðar, gangið ávallt á vegum hans, geymið boð hans, haldið yður fast við hann og þjónið honum af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar.' 22.6 Síðan blessaði Jósúa þá og lét þá burt fara, og þeir héldu til tjalda sinna. 22.7 Hálfri ættkvísl Manasse hafði Móse gefið land í Basan, en hinum helmingnum hafði Jósúa gefið land með bræðrum þeirra vestanmegin Jórdanar. Og þegar Jósúa lét þá burt fara til tjalda sinna, blessaði hann þá enn fremur 22.8 og sagði við þá: 'Hverfið nú aftur til tjalda yðar með mikil auðæfi, mjög mikinn fénað, með silfur og gull, eir og járn, og með mjög mikið af klæðnaði; miðlið bræðrum yðar nokkru af því, er þér hafið tekið að herfangi af óvinum yðar.' 22.9 Þá sneru þeir Rúbens synir, Gaðs synir og hálf ættkvísl Manasse aftur og skildu við Ísraelsmenn í Síló, sem er í Kanaanlandi og héldu til Gíleaðlands, eignarlands síns, þar sem þeir höfðu fest byggð eftir boði Drottins, er Móse flutti. 22.10 Er Rúbens synir og Gaðs synir og hálf ættkvísl Manasse komu til héraðsins við Jórdan, sem er í Kanaanlandi, reistu þeir þar altari við Jórdan, og var það mikið til að sjá. 22.11 Ísraelsmenn fengu þá svolátandi fregn: 'Sjá, Rúbens synir og Gaðs synir og hálf ættkvísl Manasse hafa reist altari við landamæri Kanaanlands, í héruðunum við Jórdan, þeim megin er Ísraelsmenn eiga land.' 22.12 Og er Ísraelsmenn spurðu það, þá safnaðist allur lýður Ísraelsmanna saman í Síló til þess að fara í móti þeim til hernaðar. 22.13 Þá sendu Ísraelsmenn Pínehas, son Eleasars prests, til Rúbens sona og Gaðs sona og hálfrar ættkvíslar Manasse til Gíleaðlands, 22.14 og með honum tíu höfuðsmenn, einn höfuðsmann af ætt hverri af öllum kynkvíslum Ísraels. Var hver þeirra höfðingi yfir ættum feðra sinna meðal þúsunda Ísraels. 22.15 Og er þeir komu til Rúbens sona og Gaðs sona og hálfrar ættkvíslar Manasse til Gíleaðlands, þá mæltu þeir við þá á þessa leið: 22.16 'Svo segir allur söfnuður Drottins: Hvílík er sú ótrúmennska, sem þér hafið sýnt gegn Guði Ísraels, að þér í dag hafið snúið yður burt frá Drottni, er þér hafið reist yður altari, að þér í dag hafið gjört uppreisn gegn Drottni! 22.17 Er oss ekki nógur glæpur sá, að vér tilbáðum Peór, og höfum vér ekki hreinsað oss af þeim glæp fram á þennan dag, enda kom plágan yfir söfnuð Drottins vegna hans. Og þér snúið yður í dag burt frá Drottni! 22.18 Mun þá svo fara: Þér gjörið í dag uppreisn gegn Drottni, og á morgun mun hann úthella reiði sinni yfir allan söfnuð Ísraels. 22.19 Ef land það er óhreint, er þér hafið hlotið til eignar, þá komið yfir í eignarland Drottins, þar sem búð Drottins hefir aðsetur, og setjist að meðal vor. En gjörið ekki uppreisn gegn Drottni og gjörið ekki uppreisn gegn oss með því að reisa yður altari annað en altari Drottins Guðs vors. 22.20 Kom ekki reiði Guðs yfir allan söfnuð Ísraels, þá er Akan Seraksson fór sviksamlega með hið bannfærða? Hann dó ekki einn fyrir glæp sinn.' 22.21 Þá svöruðu þeir Rúbens synir og Gaðs synir og hálf ættkvísl Manasse og sögðu við höfðingja Ísraels þúsunda: 22.22 'Drottinn, hinn máttki Guð, Drottinn, hinn máttki Guð, hann veit það, og Ísrael skal vita það: Ef það er gjört í uppreisnar eða sviksemi skyni við Drottin, þá hjálpi hann oss eigi í dag! 22.23 Vér höfum ekki reist oss altari til þess að snúa oss burt frá Drottni. Ef það er gjört til þess að færa þar brennifórn og matfórn, eða til þess að fórna þar heillafórnum, þá hefni Drottinn þess! 22.24 Heldur höfum vér gjört það af hræðslu við, hvernig fara kynni, með því að vér hugsuðum: Síðar kynnu synir yðar að segja við sonu vora: ,Hvað kemur Drottinn, Ísraels Guð, yður við? 22.25 Drottinn hefir sett Jórdan sem landamerki milli vor og yðar Rúbens sona og Gaðs sona. Þér eigið enga hlutdeild í Drottni!` Kynnu þá synir yðar að koma sonum vorum til þess að hætta að óttast Drottin. 22.26 Fyrir því sögðum vér: Vér skulum reisa oss altari, ekki til brennifórna og ekki til sláturfórna, 22.27 heldur skal það vera til vitnis fyrir oss og fyrir yður, og fyrir niðja vora eftir oss, að vér viljum gegna þjónustu Drottins fyrir augliti hans með brennifórnum vorum, sláturfórnum og heillafórnum, og að synir yðar geti ekki á síðan sagt við sonu vora: ,Þér eigið enga hlutdeild í Drottni!` 22.28 Og vér hugsuðum: Ef þeir síðar mæla svo til vor eða niðja vorra, þá munum vér segja: Lítið á lögunina á því Drottins altari, sem feður vorir hafa gjört, ekki til brennifórna eða sláturfórna, heldur átti það að vera til vitnis fyrir oss og yður. 22.29 Því fer fjarri, að vér vildum gjöra uppreisn gegn Drottni og snúa oss burt frá Drottni í dag með því að reisa altari til brennifórna, matfórna og sláturfórna, annað en altari Drottins Guðs vors, það er stendur fyrir framan búð hans.' 22.30 Þegar Pínehas prestur og höfuðsmenn safnaðarins, höfðingjar Ísraels þúsunda, sem með honum voru, heyrðu andsvör þau, er Rúbens synir og Gaðs synir og Manasse synir veittu, þá létu þeir sér það vel líka. 22.31 Og Pínehas, sonur Eleasars prests, sagði við Rúbens sonu og Gaðs sonu og Manasse sonu: 'Í dag höfum vér sannreynt, að Drottinn er á meðal vor, þar sem þér hafið ekki sýnt ótrúmennsku gegn Drottni í þessu. Nú hafið þér frelsað Ísraelsmenn undan hendi Drottins.' 22.32 Síðan sneri Pínehas, sonur Eleasars prests, og höfuðsmennirnir heim aftur frá Rúbens sonum og Gaðs sonum í Gíleaðlandi til Kanaanlands til Ísraelsmanna og færðu þeim þessi svör. 22.33 Létu Ísraelsmenn sér það vel líka, og þeir lofuðu Guð og hugðu ekki framar á að fara herför á móti þeim til þess að eyða land það, er Rúbens synir og Gaðs synir bjuggu í. 22.34 Og Rúbens synir og Gaðs synir nefndu altarið Vitni, því að það er vitni þess milli vor, að Drottinn er hinn sanni Guð.
23.1 Löngum tíma eftir þetta, þá er Drottinn hafði veitt Ísrael frið fyrir öllum óvinum þeirra hringinn í kring, og Jósúa var orðinn gamall og hniginn að aldri, 23.2 þá kallaði Jósúa saman allan Ísrael, öldunga hans og höfðingja, dómendur hans og tilsjónarmenn og sagði við þá: 'Ég gjörist nú gamall og aldurhniginn. 23.3 Þér hafið sjálfir séð allt það, sem Drottinn Guð yðar, hefir gjört öllum þessum þjóðum yðar vegna, því að Drottinn Guð yðar hefir sjálfur barist fyrir yður. 23.4 Sjáið, með hlutkesti hefi ég úthlutað yður til handa löndum þessara þjóða, sem enn eru eftir, ættkvíslum yðar til eignar, og löndum þjóðanna, sem ég hefi eytt, allt frá Jórdan til hafsins mikla gegnt sólar setri. 23.5 Og Drottinn Guð yðar mun sjálfur reka þá burt frá yður og stökkva þeim undan yður, og þér munuð fá land þeirra til eignar, eins og Drottinn Guð yðar hefir heitið yður. 23.6 Reynist nú mjög staðfastir í því að halda og gjöra allt það, sem ritað er í lögmálsbók Móse, án þess að víkja frá því til hægri né vinstri, 23.7 svo að þér blandist eigi við þessar þjóðir, sem enn eru eftir hjá yður. Nefnið eigi guði þeirra á nafn, sverjið eigi við þá, þjónið þeim eigi og fallið eigi fram fyrir þeim, 23.8 heldur haldið yður fast við Drottin Guð yðar, eins og þér hafið gjört fram á þennan dag. 23.9 Fyrir því stökkti Drottinn undan yður miklum og voldugum þjóðum, og enginn hefir getað staðist fyrir yður fram á þennan dag. 23.10 Einn yðar elti þúsund, því að Drottinn Guð yðar barðist sjálfur fyrir yður, eins og hann hefir heitið yður. 23.11 Gætið þess því vandlega _ líf yðar liggur við _ að elska Drottin Guð yðar. 23.12 Því ef þér gjörist fráhverfir og samlagið yður leifum þjóða þessara, sem enn eru eftir hjá yður, mægist við þær og blandist við þær, og þær við yður, 23.13 þá vitið fyrir víst, að Drottinn Guð yðar mun eigi halda áfram að stökkva þessum þjóðum burt undan yður, heldur munu þær verða yður snara og fótakefli, svipa á síður yðar og þyrnar í augum yðar, uns þér eruð afmáðir úr þessu góða landi, sem Drottinn Guð yðar hefir gefið yður. 23.14 Sjá, ég geng nú veg allrar veraldar, en þér skuluð vita af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar, að ekkert hefir brugðist af öllum þeim fyrirheitum, er Drottinn Guð yðar hefir gefið yður. Öll hafa þau rætst, ekkert af þeim hefir brugðist. 23.15 En eins og öll þau fyrirheit, sem Drottinn Guð yðar hefir gefið yður, hafa rætst á yður, eins mun Drottinn láta allar hótanir sínar rætast á yður, uns hann hefir gjöreytt yður úr þessu góða landi, sem Drottinn Guð yðar hefir gefið yður. 23.16 Ef þér rjúfið sáttmála Drottins Guðs yðar, þann er hann fyrir yður lagði, og farið og þjónið öðrum guðum og fallið fram fyrir þeim, þá mun reiði Drottins upptendrast í gegn yður, og þér munuð fljótt hverfa úr landinu góða, sem hann hefir gefið yður.'
24.1 Jósúa stefndi saman öllum ættkvíslum Ísraels í Síkem og kallaði fyrir sig öldunga Ísraels og höfðingja hans, dómendur hans og tilsjónarmenn, og þeir gengu fram fyrir auglit Guðs. 24.2 Þá mælti Jósúa við allan lýðinn: 'Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Forfeður yðar bjuggu í fyrndinni fyrir handan Efrat, þeir Tara, faðir Abrahams og Nahors, og dýrkuðu aðra guði. 24.3 Þá tók ég Abraham forföður yðar handan yfir Fljótið og lét hann fara fram og aftur um allt Kanaanland, og ég margfaldaði kyn hans og gaf honum Ísak. 24.4 Og Ísak gaf ég þá Jakob og Esaú. Og Esaú gaf ég Seírfjöll, að hann skyldi taka þau til eignar, en Jakob og synir hans fóru suður til Egyptalands. 24.5 Síðan sendi ég Móse og Aron og laust Egyptaland með undrum þeim, er ég framdi þar. Síðar leiddi ég yður út þaðan. 24.6 Ég leiddi feður yðar út af Egyptalandi, og þér komuð að Sefhafinu. En Egyptar veittu feðrum yðar eftirför með vögnum og riddurum til hafsins. 24.7 Þá hrópuðu þeir til Drottins, og ég setti myrkur milli yðar og Egypta, og lét hafið falla yfir þá, svo að það huldi þá. Og þér sáuð með eigin augum, hvernig ég fór með Egypta. Eftir það dvölduð þér langa hríð í eyðimörkinni. 24.8 Síðan leiddi ég yður inn í land Amoríta, sem bjuggu hinumegin Jórdanar, og þeir börðust við yður, en ég gaf þá í hendur yður, og þér tókuð land þeirra til eignar, og ég eyddi þeim fyrir yður. 24.9 Þá reis upp Balak Sippórsson, konungur í Móab, og barðist við Ísrael. Sendi hann þá og lét kalla Bíleam Beórsson til þess að bölva yður. 24.10 En ég vildi ekki heyra Bíleam, og hann blessaði yður þvert á móti. Frelsaði ég yður þannig úr höndum hans. 24.11 Þá fóruð þér yfir Jórdan og komuð til Jeríkó. Og Jeríkóbúar börðust við yður, þeir Amorítar, Peresítar, Kanaanítar, Hetítar, Girgasítar, Hevítar og Jebúsítar, en ég gaf þá í yðar hendur. 24.12 Þá sendi ég skelfingu á undan yður, og stökkti Amorítakonungunum tveimur burt undan yður, en hvorki kom sverð þitt né bogi þinn þessu til leiðar. 24.13 Ég gaf yður land, sem þér ekkert höfðuð fyrir haft, og borgir, sem þér höfðuð ekki reist, en tókuð yður samt bólfestu í þeim, og víngarða og olíutré, sem þér hafið ekki gróðursett, en njótið nú ávaxta þeirra. 24.14 Óttist því Drottin og þjónið honum einlæglega og dyggilega, og kastið burt guðum þeim, er feður yðar þjónuðu fyrir handan Fljótið og í Egyptalandi, og þjónið Drottni. 24.15 En líki yður ekki að þjóna Drottni, kjósið þá í dag, hverjum þér viljið þjóna, hvort heldur guðum þeim, er feður yðar þjónuðu, þeir er bjuggu fyrir handan Fljótið, eða guðum Amoríta, hverra land þér nú byggið. En ég og mínir ættmenn munum þjóna Drottni.' 24.16 Þá svaraði lýðurinn og sagði: 'Fjarri sé það oss að yfirgefa Drottin og þjóna öðrum guðum. 24.17 Því að Drottinn er vor Guð, hann sem leitt hefir oss og feður vora af Egyptalandi, úr þrælahúsinu, og gjört hefir þessi miklu undur að oss ásjáandi og varðveitt oss á allri þeirri leið, sem vér höfum nú farið, og meðal allra þeirra þjóða, þar sem vér höfum lagt um leið vora. 24.18 Og Drottinn stökkti burt undan oss öllum þjóðunum og Amorítum, íbúum landsins. Vér viljum einnig þjóna Drottni, því að hann er vor Guð!' 24.19 Jósúa sagði þá við lýðinn: 'Þér getið ekki þjónað Drottni, því að hann er heilagur Guð. Vandlátur Guð er hann. Hann mun ekki umbera misgjörðir yðar og syndir. 24.20 Ef þér yfirgefið Drottin og þjónið útlendum guðum, þá mun hann snúast gegn yður og láta illt yfir yður koma og tortíma yður, í stað þess að hann áður hefir gjört vel til yðar.' 24.21 Þá sagði lýðurinn við Jósúa: 'Nei, því að Drottni viljum vér þjóna.' 24.22 Þá sagði Jósúa við lýðinn: 'Þér eruð vottar að því gegn sjálfum yður, að þér hafið kosið að þjóna Drottni.' Þeir sögðu: 'Vér erum það.' 24.23 Jósúa sagði: 'Kastið nú burt útlendu guðunum, sem hjá yður eru, og hneigið hjörtu yðar til Drottins, Ísraels Guðs.' 24.24 Lýðurinn sagði við Jósúa: 'Drottni Guði vorum viljum vér þjóna og hlýða hans röddu.' 24.25 Á þeim degi gjörði Jósúa sáttmála við lýðinn og setti honum lög og rétt þar í Síkem. 24.26 Og Jósúa ritaði þessi orð í lögmálsbók Guðs, tók því næst stein mikinn og reisti hann þar upp undir eikinni, sem stóð í helgidómi Drottins. 24.27 Og Jósúa sagði við allan lýðinn: 'Sjá, steinn þessi skal vera vitni gegn oss, því að hann hefir heyrt öll orðin, sem Drottinn hefir við oss talað, og hann skal vera vitni gegn yður, til þess að þér afneitið ekki Guði yðar.' 24.28 Síðan lét Jósúa fólkið fara, hvern til síns óðals. 24.29 Eftir þessa atburði andaðist Jósúa Núnsson, þjónn Drottins, hundrað og tíu ára gamall, 24.30 og var hann grafinn í eignarlandi sínu, hjá Timnat Sera, sem liggur á Efraímfjöllum, fyrir norðan Gaasfjall. 24.31 Ísrael þjónaði Drottni meðan Jósúa var á lífi og öldungar þeir, er lifðu Jósúa og þekktu öll þau verk, er Drottinn hafði gjört fyrir Ísrael. 24.32 Bein Jósefs, sem Ísraelsmenn höfðu haft með sér sunnan af Egyptalandi, grófu þeir í Síkem, í landspildu þeirri, sem Jakob hafði keypt af sonum Hemors, föður Síkems, fyrir hundrað kesíta, og varð hún eign Jósefs sona.
1.1 Eftir andlát Jósúa spurðu Ísraelsmenn Drottin og sögðu: 'Hver af oss skal fyrstur fara í móti Kanaanítum til þess að berjast við þá?' 1.2 Drottinn sagði: 'Júda skal fara í móti þeim, sjá, ég gef landið í hendur honum.' 1.3 Júda sagði við Símeon, bróður sinn: 'Far þú með mér inn í minn hluta, svo að við báðir megum berjast við Kanaanítana. Þá skal ég líka fara með þér inn í þinn hluta.' Fór þá Símeon með honum. 1.4 Og Júda fór, og Drottinn gaf Kanaaníta og Peresíta í hendur þeirra, og lögðu þeir þá að velli í Besek, _ tíu þúsundir manna. 1.5 Þeir fundu Adóní Besek í Besek og börðust við hann og unnu sigur á Kanaanítum og Peresítum. 1.6 En Adóní Besek flýði og veittu þeir honum eftirför, tóku hann höndum og hjuggu af honum þumalfingurna og stórutærnar. 1.7 Þá mælti Adóní Besek: 'Sjötíu konungar, sem höggnir voru af þumalfingur og stórutær, urðu að tína upp mola undir borði mínu. Eins og ég hefi gjört, svo geldur Guð mér.' Síðan fóru þeir með hann til Jerúsalem og þar dó hann. 1.8 Júda synir herjuðu á Jerúsalem og unnu hana, felldu íbúana með sverðseggjum og lögðu síðan eld í borgina. 1.9 Eftir það héldu Júda synir ofan þaðan til þess að berjast við Kanaaníta, þá er bjuggu á fjöllunum, í Suðurlandinu og á láglendinu. 1.10 Júda fór móti Kanaanítunum, sem bjuggu í Hebron, en Hebron hét áður Kirjat Arba. Og þeir unnu sigur á Sesaí, Ahíman og Talmaí. 1.11 Þaðan fóru þeir móti Debír-búum, en Debír hét áður Kirjat Sefer. 1.12 Kaleb sagði: 'Hver sem leggur Kirjat Sefer undir sig og vinnur hana, honum skal ég gefa Aksa dóttur mína að konu.' 1.13 Otníel Kenasson, bróðir Kalebs og honum yngri, vann þá borgina, og hann gaf honum Aksa dóttur sína að konu. 1.14 Þegar hún skyldi heim fara með bónda sínum, eggjaði hún hann þess, að hann skyldi beiðast lands nokkurs af föður hennar. Steig hún þá niður af asnanum. Kaleb spurði hana þá: 'Hvað viltu?' 1.15 Hún svaraði honum: 'Gef mér gjöf nokkra, af því að þú hefir gefið mig til Suðurlandsins. Gef mér því vatnsbrunna.' Gaf hann henni þá brunna hið efra og brunna hið neðra. 1.16 Synir Kenítans, tengdaföður Móse, höfðu farið úr pálmaborginni með sonum Júda upp í Júdaeyðimörk, sem liggur fyrir sunnan Arad, og þeir fóru og settust að meðal lýðsins. 1.17 En Júda fór með Símeon bróður sínum, og þeir unnu sigur á Kanaanítunum, sem bjuggu í Sefat, og helguðu hana banni. Fyrir því var borgin nefnd Horma. 1.18 Júda vann Gasa og land það, er undir hana lá, og Askalon og land það, er undir hana lá, og Ekron og land það, er undir hana lá. 1.19 Og Drottinn var með Júda, svo að þeir náðu undir sig fjalllendinu, en þá, sem bjuggu á sléttlendinu, fengu þeir eigi rekið burt, því að þeir höfðu járnvagna. 1.20 Þeir gáfu Kaleb Hebron, eins og Móse hafði boðið, og þeir ráku þaðan þá Anaks sonu þrjá. 1.21 En Jebúsítana, sem bjuggu í Jerúsalem, gátu Benjamíns synir ekki rekið burt. Fyrir því hafa Jebúsítar búið í Jerúsalem ásamt Benjamíns sonum fram á þennan dag. 1.22 Ættmenn Jósefs fóru líka upp til Betel, og Drottinn var með þeim. 1.23 Og ættmenn Jósefs létu njósna í Betel, en borgin hét áður Lúz. 1.24 Þá sáu njósnarmennirnir mann koma út úr borginni og sögðu við hann: 'Sýn oss, hvar komast má inn í borgina, og munum vér sýna þér miskunn.' 1.25 Og hann sýndi þeim, hvar komast mætti inn í borgina, og þeir tóku borgina herskildi, en manninum og öllu fólki hans leyfðu þeir brottgöngu. 1.26 Maðurinn fór til lands Hetíta og reisti þar borg og nefndi hana Lúz. Heitir hún svo enn í dag. 1.27 Manasse rak eigi burt íbúana í Bet Sean og smáborgunum, er að lágu, í Taanak og smáborgunum, er að lágu, íbúana í Dór og smáborgunum, er að lágu, íbúana í Jibleam og smáborgunum, er að lágu, né íbúana í Megiddó og smáborgunum, er að lágu; og þannig fengu Kanaanítar haldið bústað í landi þessu. 1.28 En er Ísrael efldist, gjörði hann Kanaaníta sér vinnuskylda, en rak þá ekki algjörlega burt. 1.29 Efraím rak eigi burt Kanaanítana, sem bjuggu í Geser; þannig héldu Kanaanítar áfram að búa í Geser meðal þeirra. 1.30 Sebúlon rak eigi burt íbúana í Kitrón né íbúana í Nahalól; þannig héldu Kanaanítar áfram að búa meðal þeirra og urðu þeim vinnuskyldir. 1.31 Asser rak eigi burt íbúana í Akkó né íbúana í Sídon, eigi heldur í Ahlab, Aksíd, Helba, Afík og Rehób. 1.32 Fyrir því bjuggu Asserítar meðal Kanaaníta, er fyrir voru í landinu, því að þeir ráku þá eigi burt. 1.33 Naftalí rak eigi burt íbúana í Bet Semes né íbúana í Bet Anat; fyrir því bjó hann meðal Kanaaníta, er fyrir voru í landinu, en íbúarnir í Bet Semes og Bet Anat urðu þeim vinnuskyldir. 1.34 Amorítar þrengdu Dans sonum upp í fjöllin og liðu þeim ekki að koma niður á sléttlendið. 1.35 Þannig fengu Amorítar haldið bústað í Har Heres, í Ajalon og Saalbím, en með því að ætt Jósefs var þeim yfirsterkari, urðu þeir vinnuskyldir. 1.36 Landamæri Amoríta lágu frá Sporðdrekaskarði, frá klettinum og þar upp eftir.
2.1 Engill Drottins kom frá Gilgal til Bókím og mælti: 'Ég leiddi yður út af Egyptalandi og færði yður í það land, sem ég sór feðrum yðar, og ég sagði: ,Ég mun aldrei rjúfa sáttmála minn við yður, 2.2 en þér megið ekki gjöra sáttmála við íbúa þessa lands, heldur skuluð þér rífa niður ölturu þeirra.` En þér hafið ekki hlýtt raustu minni. Hví hafið þér gjört þetta? 2.3 Fyrir því segi ég einnig: ,Ég mun ekki stökkva þeim burt undan yður, og þeir munu verða broddar í síðum yðar og guðir þeirra verða yður að tálsnöru.'` 2.4 Er engill Drottins hafði mælt þessum orðum til allra Ísraelsmanna, þá hóf lýðurinn upp raust sína og grét. 2.5 Og þeir nefndu stað þennan Bókím, og færðu þar Drottni fórn. 2.6 Síðan lét Jósúa fólkið frá sér fara, og héldu þá Ísraelsmenn hver til síns óðals til þess að taka landið til eignar. 2.7 Og lýðurinn þjónaði Drottni meðan Jósúa var á lífi og meðan öldungar þeir, sem lifðu Jósúa, voru á lífi, þeir er séð höfðu öll hin miklu verk Drottins, er hann gjörði fyrir Ísrael. 2.8 Þá andaðist Jósúa Núnsson, þjónn Drottins, hundrað og tíu ára gamall. 2.9 Og hann var grafinn í eignarlandi sínu, hjá Timnat Heres á Efraímfjöllum, fyrir norðan Gaasfjall. 2.10 En er öll sú kynslóð hafði líka safnast til feðra sinna, reis upp önnur kynslóð eftir hana, er eigi þekkti Drottin né þau verk, er hann hafði gjört fyrir Ísrael. 2.11 Þá gjörðu Ísraelsmenn það, sem illt var í augum Drottins, og þjónuðu Baölum, 2.12 og yfirgáfu Drottin, Guð feðra sinna, er leitt hafði þá af Egyptalandi, og eltu aðra guði, af guðum þjóða þeirra, er bjuggu umhverfis þá, og féllu fram fyrir þeim og egndu Drottin til reiði. 2.13 Og þeir yfirgáfu Drottin og þjónuðu Baal og Astörtum. 2.14 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ísrael, og hann gaf þá á vald ránsmönnum og þeir rændu þá, og hann seldi þá í hendur óvinum þeirra allt í kringum þá, svo að þeir fengu eigi framar staðist fyrir óvinum sínum. 2.15 Hvert sem þeir fóru, var hönd Drottins í móti þeim til óhamingju, eins og Drottinn hafði sagt og eins og Drottinn hafði svarið þeim. Komust þeir þá í miklar nauðir. 2.16 En Drottinn vakti upp dómara, og þeir frelsuðu þá úr höndum þeirra, er þá rændu. 2.17 En þeir hlýddu ekki heldur dómurum sínum, heldur tóku fram hjá með öðrum guðum og féllu fram fyrir þeim. Þeir viku brátt af vegi feðra sinna, sem hlýddu boðum Drottins; þeir breyttu ekki svo. 2.18 Þegar Drottinn vakti þeim upp dómara, þá var Drottinn með dómaranum og frelsaði þá úr höndum óvina þeirra á meðan dómarinn var á lífi, því að Drottinn kenndi í brjósti um þá, er þeir kveinuðu undan kúgurum sínum og kvölurum. 2.19 En er dómarinn andaðist, breyttu þeir að nýju verr en feður þeirra, með því að elta aðra guði til þess að þjóna þeim og falla fram fyrir þeim. Þeir létu eigi af gjörðum sínum né þrjóskubreytni sinni. 2.20 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ísrael og hann sagði: 'Af því að þetta fólk hefir rofið sáttmála minn, þann er ég lagði fyrir feður þeirra, og ekki hlýtt minni raustu, 2.21 þá mun ég ekki heldur framar stökkva burt undan þeim nokkrum manni af þjóðum þeim, sem Jósúa skildi eftir, er hann andaðist. 2.22 Ég vil reyna Ísrael með þeim, hvort þeir varðveita veg Drottins og ganga hann, eins og feður þeirra gjörðu, eða ekki.' 2.23 Þannig lét Drottinn þjóðir þessar vera kyrrar án þess að reka þær burt bráðlega, og hann gaf þær eigi í hendur Jósúa.
3.1 Þessar þjóðir lét Drottinn vera kyrrar til þess að reyna Ísrael með þeim, alla þá, er ekkert höfðu haft að segja af öllum bardögunum um Kanaan. 3.2 Þetta gjörði hann einungis til þess, að hinar komandi kynslóðir Ísraelsmanna mættu kynnast hernaði, sem eigi höfðu kynnst slíku áður. 3.3 Þessar eru þjóðirnar: Fimm höfðingjar Filistanna, allir Kanaanítar, Sídoningar og Hevítar, sem bjuggu á Líbanonfjöllum, frá fjallinu Baal Hermon allt þangað, er leið liggur til Hamat. 3.4 Voru þeir eftir til þess að reyna Ísrael með þeim, svo að augljóst yrði, hvort þeir vildu hlýða boðorðum Drottins, er hann hafði sett feðrum þeirra fyrir meðalgöngu Móse. 3.5 Þannig bjuggu Ísraelsmenn mitt á meðal Kanaaníta, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta. 3.6 Gengu þeir að eiga dætur þeirra og giftu sonum þeirra dætur sínar, og þjónuðu guðum þeirra. 3.7 Ísraelsmenn gjörðu það, sem illt var í augum Drottins, og gleymdu Drottni, Guði sínum, og þjónuðu Baölum og asérum. 3.8 Upptendraðist þá reiði Drottins gegn Ísrael, svo að hann seldi þá í hendur Kúsan Rísjataím, konungi í Aram í Norður-Mesópótamíu, og Ísraelsmenn þjónuðu Kúsan Rísjataím í átta ár. 3.9 Þá hrópuðu Ísraelsmenn til Drottins, og Drottinn vakti Ísraelsmönnum upp hjálparmann, er hjálpaði þeim, Otníel Kenasson, bróður Kalebs og honum yngri. 3.10 Andi Drottins kom yfir hann, svo að hann rétti hluta Ísraels. Fór hann í hernað, og Drottinn gaf Kúsan Rísjataím, konung í Aram, í hendur honum, og hann varð Kúsan Rísjataím yfirsterkari. 3.11 Var síðan friður í landi í fjörutíu ár. Þá andaðist Otníel Kenasson. 3.12 Ísraelsmenn gjörðu enn af nýju það, sem illt var í augum Drottins. Þá efldi Drottinn Eglón, konung í Móab, móti Ísrael, af því að þeir gjörðu það, sem illt var í augum Drottins. 3.13 Hann safnaði að sér Ammónítum og Amalekítum, fór því næst og vann sigur á Ísrael, og þeir náðu pálmaborginni á sitt vald. 3.14 Ísraelsmenn þjónuðu Eglón, konungi í Móab, í átján ár. 3.15 Þá hrópuðu Ísraelsmenn til Drottins, og Drottinn vakti þeim upp hjálparmann, Ehúð, son Gera Benjamíníta, en hann var maður örvhentur. Ísraelsmenn sendu hann með skatt á fund Eglóns, konungs í Móab. 3.16 Ehúð hafði smíðað sér sax tvíeggjað, spannarlangt. Hann gyrti sig því undir klæðum á hægri hlið. 3.17 Og hann færði Eglón, konungi í Móab, skattinn, en Eglón var maður digur mjög. 3.18 Er hann hafði borið fram skattinn, lét hann mennina fara, er borið höfðu skattinn. 3.19 En sjálfur sneri hann aftur hjá skurðmyndunum í Gilgal. Ehúð sagði við konung: 'Leyndarmál hefi ég að segja þér, konungur.' Konungur sagði: 'Þei!' og allir þeir gengu út, er kringum hann stóðu. 3.20 Þá gekk Ehúð til hans, þar sem hann sat aleinn í hinum svala þaksal sínum, og mælti: 'Ég hefi erindi frá Guði við þig.' Stóð konungur þá upp úr sæti sínu. 3.21 En Ehúð greip til vinstri hendinni og þreif sverðið á hægri hlið sér og lagði því í kvið honum. 3.22 Gekk blaðið á kaf og upp yfir hjöltu, svo að fal blaðið í ístrunni, því að eigi dró hann saxið úr kviði honum. Gekk hann þá út á þakið. 3.23 Síðan gekk Ehúð út í gegnum forsalinn og lukti dyrunum á þaksalnum á eftir sér og skaut loku fyrir. 3.24 En er hann var út genginn, komu þjónar konungs og sáu þeir að dyrnar á þaksalnum voru lokaðar og sögðu: 'Hann hefir víst setst niður erinda sinna inni í svala herberginu.' 3.25 Biðu þeir nú, þar til er þeim leiddist biðin. Og er hann enn ekki lauk upp dyrunum á þaksalnum, þá tóku þeir lykilinn og luku upp, og lá þá herra þeirra dauður á gólfinu. 3.26 Ehúð hafði komist undan meðan þeir hinkruðu við. Hann var kominn út að skurðmyndunum og komst undan til Seíra. 3.27 Og er hann var þangað kominn, lét hann þeyta lúður á Efraímfjöllum. Fóru Ísraelsmenn þá með honum ofan af fjöllunum, en hann var fyrir þeim. 3.28 Og hann sagði við þá: 'Fylgið mér, því að Drottinn hefir gefið óvini yðar, Móabítana, í hendur yður.' Fóru þeir þá ofan á eftir honum og náðu öllum vöðum á Jórdan yfir til Móab og létu engan komast þar yfir. 3.29 Og þá felldu þeir af Móabítum um tíu þúsundir manna, og voru það allt sterkir menn og hraustir. Enginn komst undan. 3.30 Þannig urðu Móabítar á þeim degi að beygja sig undir vald Ísraels. Var nú friður í landi um áttatíu ár. 3.31 Eftir Ehúð kom Samgar Anatsson. Hann felldi af Filistum sex hundruð manna með staf, er menn reka með naut. Þannig frelsaði hann einnig Ísrael.
4.1 Þegar Ehúð var dáinn, gjörðu Ísraelsmenn enn að nýju það, sem illt var í augum Drottins. 4.2 Og Drottinn seldi þá í hendur Jabín, Kanaans konungi, sem hafði aðsetur í Hasór. Hershöfðingi hans hét Sísera og bjó hann í Haróset Hagojím. 4.3 Og Ísraelsmenn hrópuðu til Drottins, því að hann átti níu hundruð járnvagna og hafði kúgað Ísraelsmenn harðlega í tuttugu ár. 4.4 Kona hét Debóra. Hún var spákona og eiginkona manns þess, er Lapídót hét. Hún var dómari í Ísrael um þessar mundir. 4.5 Hún sat undir Debórupálma milli Rama og Betel á Efraímfjöllum, og Ísraelsmenn fóru þangað upp til hennar, að hún legði dóm á mál þeirra. 4.6 Hún sendi boð og lét kalla til sín Barak Abínóamsson frá Kedes í Naftalí og sagði við hann: 'Sannlega hefir Drottinn, Ísraels Guð, boðið svo: ,Far þú og hald til Taborfjalls og haf með þér tíu þúsundir manna af Naftalí sonum og Sebúlons sonum. 4.7 Og ég mun leiða Sísera, hershöfðingja Jabíns, með vögnum hans og liði til þín að Kísonlæk, og ég mun gefa hann í hendur þínar.'` 4.8 Barak sagði við hana: 'Fara mun ég, ef þú fer með mér, en viljir þú eigi fara með mér, mun ég hvergi fara.' 4.9 Hún svaraði: 'Víst mun ég með þér fara. En enga frægð munt þú hafa af för þessari, sem þú fer, því að Drottinn mun selja Sísera í konu hendur.' Síðan tók Debóra sig upp og fór með Barak til Kedes. 4.10 Þá kallaði Barak saman Sebúlon og Naftalí í Kedes, og tíu þúsundir manna fóru með honum, og Debóra var í för með honum. 4.11 Heber Keníti hafði skilist við Kain, við niðja Hóbabs, tengdaföður Móse, og sló hann tjöldum sínum allt að eikinni hjá Saanaím, sem er hjá Kedes. 4.12 Nú var Sísera sagt frá því, að Barak Abínóamsson væri farinn upp á Taborfjall. 4.13 Dró Sísera þá saman alla vagna sína, níu hundruð járnvagna, og allt það lið, er með honum var, frá Haróset Hagojím til Kísonlækjar. 4.14 Þá sagði Debóra við Barak: 'Rís þú nú upp, því að nú er sá dagur kominn, er Drottinn mun selja Sísera í þínar hendur. Sannlega er Drottinn farinn á undan þér.' Fór Barak þá ofan af Taborfjalli, og tíu þúsundir manna fylgdu honum. 4.15 Og Drottinn gjörði Sísera felmtsfullan og alla vagna hans og allan hans her með sverðseggjum frammi fyrir Barak, svo að Sísera hljóp af vagni sínum og flýði undan á fæti. 4.16 En Barak elti vagnana og herinn allt til Haróset Hagojím, og allur her Sísera féll fyrir sverðseggjum. Enginn komst undan. 4.17 Sísera flýði á fæti til tjalds Jaelar, konu Hebers Keníta, því að friður var milli Jabíns, konungs í Hasór, og húss Hebers Keníta. 4.18 Þá gekk Jael út í móti Sísera og sagði við hann: 'Gakk inn, herra minn, gakk inn til mín, vertu óhræddur.' Og hann gekk inn til hennar í tjaldið, og hún lagði ábreiðu yfir hann. 4.19 Þá sagði hann við hana: 'Gef mér vatnssopa að drekka, því að ég er þyrstur.' Hún leysti þá frá mjólkurbelg og gaf honum að drekka, og breiddi síðan ofan á hann aftur. 4.20 Þá sagði hann við hana: 'Stattu í tjalddyrunum, og ef einhver kemur og spyr þig og segir: ,Er nokkur hér?` þá seg þú: ,Nei.'` 4.21 Jael, kona Hebers, þreif tjaldhæl og tók hamar í hönd sér og gekk hljóðlega inn til hans og rak hælinn gegnum þunnvangann, svo að hann gekk í jörð niður, en Sísera var sofnaður fastasvefni, því að hann var þreyttur. Varð þetta hans bani. 4.22 Í sama bili kom Barak og var að elta Sísera. Jael gekk þá út í móti honum og sagði við hann: 'Kom þú hingað, og mun ég sýna þér þann mann, sem þú leitar að.' Og hann gekk inn til hennar, og lá þá Sísera þar dauður með hælinn gegnum þunnvangann. 4.23 Þannig lægði Guð á þeim degi Jabín, Kanaans konung, fyrir Ísraelsmönnum. 4.24 Og hönd Ísraelsmanna lagðist æ þyngra og þyngra á Jabín, Kanaans konung, uns þeir að lokum gjörðu út af við hann.
5.1 Þá sungu þau Debóra og Barak Abínóamsson á þessa leið: 5.2 Foringjar veittu forystu í Ísrael, og fólkið kom sjálfviljuglega, lofið því Drottin! 5.3 Heyrið, þér konungar, hlustið á, þér höfðingjar! Drottin vil ég vegsama, ég vil lofa hann, lofsyngja Drottni, Ísraels Guði. 5.4 Drottinn, þegar þú braust út frá Seír, þegar þú brunaðir fram frá Edómvöllum, þá nötraði jörðin og himnarnir drupu, já, skýin létu vatn niður streyma. 5.5 Fjöllin skulfu fyrir Drottni, sjálft Sínaí fyrir Drottni, Ísraels Guði. 5.6 Á dögum Samgars Anatssonar, á dögum Jaelar, voru þjóðbrautir mannlausar, og vegfarendur fóru krókóttar leiðir. 5.7 Fyrirliða vantaði í Ísrael, uns þú komst fram, Debóra, uns þú komst fram, móðir í Ísrael! 5.8 Menn kusu sér nýja guði. Þá var barist við borgarhliðin. Skjöldur sást ei né spjót meðal fjörutíu þúsunda í Ísrael. 5.9 Hjarta mitt heyrir leiðtogum Ísraels, þeim er komu sjálfviljuglega fram meðal fólksins. Lofið Drottin! 5.10 Þér, sem ríðið bleikrauðum ösnum, þér, sem hvílið á ábreiðum, og þér, sem farið um veginn, hugsið um það. 5.11 Fjarri hávaða bogmannanna, meðal vatnsþrónna, þar víðfrægja menn réttlætisverk Drottins, réttlætisverk fyrirliða hans í Ísrael. Þá fór lýður Drottins niður að borgarhliðunum. 5.12 Vakna þú, vakna þú, Debóra, vakna þú, vakna þú, syng kvæði! Rís þú upp, Barak, og leið burt bandingja þína, Abínóams sonur! 5.13 Þá fóru ofan leifar göfugmennanna, lýður Drottins steig ofan mér til hjálpar meðal hetjanna. 5.14 Frá Efraím fóru þeir ofan í dalinn, á eftir þér, Benjamín, meðal liðsflokka þinna. Frá Makír fóru ofan leiðtogar og frá Sebúlon þeir, er báru liðstjórastafinn, 5.15 og fyrirliðarnir í Íssakar með Debóru, og eins og Íssakar, svo og Barak. Hann steypti sér á hæla honum ofan í dalinn. Við Rúbens læki voru miklar ráðagerðir. 5.16 Hví sast þú milli fjárgirðinganna og hlustaðir á pípublástur hjarðmannanna? Við Rúbens læki voru miklar ráðagerðir. 5.17 Gíleað hélt kyrru fyrir hinumegin Jórdanar og Dan, _ hvers vegna dvaldi hann við skipin? Asser sat kyrr við sjávarströndina og hélt kyrru fyrir við víkur sínar. 5.18 Sebúlon er lýður, sem hætti lífi sínu í dauðann, og Naftalí, á hæðum landsins. 5.19 Konungar komu og börðust, þá börðust konungar Kanaans við Taanak hjá Megiddóvötnum. Silfur fengu þeir ekkert að herfangi. 5.20 Af himni börðust stjörnurnar, af brautum sínum börðust þær við Sísera, 5.21 Kísonlækur skolaði þeim burt, orustulækurinn, lækurinn Kíson. Gakk fram, sál mín, öfluglega! 5.22 Þá hlumdu hófar hestanna, af reiðinni, reið kappanna. 5.23 'Bölvið Merós!' sagði engill Drottins, já, bölvið íbúum hennar, af því að þeir komu ekki Drottni til hjálpar, Drottni til hjálpar meðal hetjanna. 5.24 Blessuð framar öllum konum veri Jael, kona Hebers Keníta, framar öllum konum í tjaldi veri hún blessuð! 5.25 Vatn bað hann um, mjólk gaf hún, í skrautlegri skál rétti hún honum rjóma. 5.26 Hún rétti út hönd sína eftir hælnum, hægri hönd sína eftir smíðahamrinum og sló Sísera, mölvaði haus hans, laust sundur þunnvanga hans og klauf inn úr. 5.27 Hann hné fyrir fætur henni, féll út af og lá þar. Hann hné fyrir fætur henni, féll út af, þar sem hann hné niður, þar lá hann dauður. 5.28 Út um gluggann skimar og kallar móðir Sísera, út um grindurnar: 'Hví seinkar vagni hans? Hvað tefur ferð hervagna hans?' 5.29 Hinar vitrustu af hefðarfrúm hennar svara henni, já, sjálf hefir hún upp fyrir sér orð þeirra: 5.30 'Efalaust hafa þeir fengið herfang og verið að skipta því, eina ambátt, tvær ambáttir á mann, litklæði handa Sísera að herfangi, litklæði, glitofin, að herfangi, litklæði, tvo glitofna dúka um háls mér!' 5.31 Svo farist allir óvinir þínir, Drottinn! En þeir, sem hann elska, eru sem sólaruppkoman í ljóma sínum. Var nú friður í landi í fjörutíu ár.
6.1 Ísraelsmenn gjörðu það, sem illt var í augum Drottins. Þá gaf Drottinn þá í hendur Midíans í sjö ár. 6.2 Og Midían varð Ísrael yfirsterkari. Gjörðu Ísraelsmenn sér þá fylgsni á fjöllum uppi, hella og vígi fyrir Midían. 6.3 Og þegar Ísrael sáði, komu Midíanítar, Amalekítar og austurbyggjar og fóru í móti honum. 6.4 Og þeir settu herbúðir sínar gegn Ísraelsmönnum og eyddu gróðri landsins alla leið til Gasa og skildu enga lífsbjörg eftir í Ísrael, ekki heldur sauði, naut eða asna. 6.5 Þeir fóru norður þangað með kvikfénað sinn og tjöld sín. Kom slíkur aragrúi af þeim, sem engisprettur væru. Varð engri tölu komið á þá né úlfalda þeirra, og brutust þeir inn í landið til að eyða það. 6.6 Var Ísrael þá mjög þjakaður af völdum Midíans, og Ísraelsmenn hrópuðu til Drottins. 6.7 Og er Ísraelsmenn hrópuðu til Drottins undan Midían, 6.8 þá sendi Drottinn spámann til Ísraelsmanna, og hann sagði við þá: 'Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég leiddi yður út af Egyptalandi og færði yður út úr þrælahúsinu, 6.9 og ég frelsaði yður úr höndum Egypta og úr höndum allra þeirra, er yður kúguðu, og ég stökkti þeim burt undan yður og gaf yður land þeirra. 6.10 Og ég sagði við yður: ,Ég er Drottinn, Guð yðar. Þér skuluð ekki óttast guði Amorítanna, í hverra landi þér búið.` En þér hlýdduð ekki minni röddu.' 6.11 Þá kom engill Drottins og settist undir eikina í Ofra, er átti Jóas Abíesríti, en Gídeon sonur hans var að þreskja hveiti í vínþröng til þess að forða því undan Midían. 6.12 Og engill Drottins birtist honum og sagði við hann: 'Drottinn er með þér, hrausta hetja!' 6.13 Þá sagði Gídeon við hann: 'Æ, herra minn, ef Drottinn er með oss, hví hefir þá allt þetta oss að hendi borið? Og hvar eru öll dásemdarverk hans, þau er feður vorir hafa skýrt oss frá, segjandi: ,Já, Drottinn leiddi oss út af Egyptalandi!` En nú hefir Drottinn hafnað oss og gefið oss í hendur Midíans.' 6.14 Þá sneri Drottinn sér til hans og mælti: 'Far af stað í þessum styrkleika þínum, og þú munt frelsa Ísrael úr höndum Midíans. Það er ég, sem sendi þig.' 6.15 Gídeon svaraði honum: 'Æ, herra, hvernig á ég að frelsa Ísrael? Sjá, minn ættleggur er aumasti ættleggurinn í Manasse, og ég er lítilmótlegastur í minni ætt.' 6.16 Þá sagði Drottinn við hann: 'Ég mun vera með þér, og þú munt sigra Midíaníta sem einn maður væri.' 6.17 Gídeon svaraði honum: 'Hafi ég fundið náð í augum þínum, þá gjör mér tákn þess, að það sért þú, er við mig talar. 6.18 Far ekki héðan burt, fyrr en ég kem aftur til þín og færi hingað út fórnargjöf mína og set hana fram fyrir þig.' Og Drottinn sagði: 'Ég mun bíða hér, þar til er þú kemur aftur.' 6.19 Þá fór Gídeon og tilreiddi hafurkið og ósýrðar kökur úr einni efu mjöls. Lagði hann kjötið í körfu, en lét súpuna í krukku og kom með þetta út til hans undir eikina og bar það fram. 6.20 En engill Guðs sagði við hann: 'Tak þú kjötið og ósýrðu kökurnar og legg það á klett þennan og hell súpunni yfir.' Hann gjörði svo. 6.21 Engill Drottins rétti þá út staf þann, sem hann hafði í hendi, og snart kjötið og ósýrðu kökurnar með stafsendanum. Kom þá eldur upp úr klettinum og eyddi kjötinu og ósýrðu kökunum, en engill Drottins hvarf sjónum hans. 6.22 Þá sá Gídeon, að það hafði verið engill Drottins. Og Gídeon sagði: 'Vei, Drottinn Guð, því að ég hefi séð engil Drottins augliti til auglitis!' 6.23 Og Drottinn sagði við hann: 'Friður sé með þér. Óttast ekki, þú munt ekki deyja!' 6.24 Gídeon reisti Drottni þar altari og nefndi það: Drottinn er friður. Stendur það enn í dag í Ofra Abíesrítanna. 6.25 Þessa sömu nótt sagði Drottinn við hann: 'Tak uxa föður þíns og annan uxa, sjö vetra gamlan, og brjót Baalsaltari föður þíns og högg þú upp aséruna, sem hjá því er. 6.26 Reis því næst Drottni, Guði þínum, vandað altari efst uppi á borg þessari, tak síðan annan uxann og ber fram brennifórn ásamt viðinum úr asérunni, er þú heggur upp.' 6.27 Þá tók Gídeon tíu menn af sveinum sínum og gjörði svo sem Drottinn hafði sagt honum. En með því að hann óttaðist, að hann mundi eigi geta gjört þetta að degi til fyrir ættmennum sínum og borgarmönnum, þá gjörði hann það um nótt. 6.28 En er borgarmenn risu árla morguninn eftir, þá var Baalsaltarið brotið og höggin upp aséran, sem hjá því var, og öðrum uxanum hafði verið fórnað á nýreista altarinu. 6.29 Þá sögðu þeir hver við annan: 'Hver hefir gjört þetta?' Og þeir rannsökuðu og leituðu, og sögðu: 'Gídeon Jóasson hefir gjört þetta.' 6.30 Þá sögðu borgarmenn við Jóas: 'Sel fram son þinn, og skal hann deyja, því að hann hefir brotið Baalsaltarið og höggvið upp aséruna, sem hjá því var.' 6.31 En Jóas sagði við alla þá, sem hjá honum stóðu: 'Ætlið þér að taka upp mál fyrir Baal, eða ætlið þér að fara að hjálpa honum? Hver sá, sem tekur upp mál fyrir hann, skal lífi týna áður næsti dagur rennur upp. Ef hann er Guð, þá sæki hann sjálfur mál sitt, úr því að altari hans hefir verið brotið.' 6.32 Upp frá þeirri stundu var Gídeon nefndur Jerúbbaal, af því að menn sögðu: 'Baal sæki mál á hendur honum,' fyrir því að hann braut altari hans. 6.33 Nú höfðu allir Midíanítar, Amalekítar og austurbyggjar safnast saman. Fóru þeir yfir um Jórdan og settu herbúðir sínar á Jesreel-sléttu. 6.34 En andi Drottins kom yfir Gídeon, og þeytti hann lúðurinn, og Abíesrítar söfnuðust saman til fylgdar við hann. 6.35 Hann sendi og sendiboða út um allan Manasse; safnaðist hann og til fylgdar við hann. Hann sendi og sendiboða til Assers, Sebúlons og Naftalí; fóru þeir og til fylgdar við hann. 6.36 Þá sagði Gídeon við Guð: 'Ef þú ætlar að frelsa Ísrael fyrir mínar hendur, eins og þú hefir sagt, 6.37 sjá, þá legg ég ullarreyfi út á láfann. Ef dögg er þá á reyfinu einu, en jörð öll er þurr, þá veit ég að þú munt frelsa Ísrael fyrir mínar hendur, eins og þú hefir sagt.' 6.38 Og það varð svo. Morguninn eftir reis hann árla og kreisti reyfið, og vatt hann þá dögg úr reyfinu, fulla skál af vatni. 6.39 En Gídeon sagði við Guð: 'Lát eigi reiði þína upptendrast gegn mér, þó að ég tali enn aðeins í þetta sinn. Ég ætla aðeins einu sinni enn að gjöra tilraun með reyfið. Skal nú reyfið eitt þurrt vera, en jörð öll vot af dögg.' 6.40 Og Guð gjörði svo á þeirri nóttu. Var reyfið eitt þurrt, en jörð var öll vot af dögg.
7.1 Nú tók Jerúbbaal, það er Gídeon, sig árla upp og allt liðið, er með honum var, og settu þeir herbúðir sínar hjá Haródlind, en herbúðir Midíans voru fyrir norðan hann, hinumegin við Mórehæð þar á sléttunni. 7.2 Drottinn sagði við Gídeon: 'Liðið er of margt, sem með þér er, til þess að ég vilji gefa Midían í hendur þeirra, ella kynni Ísrael að hrokast upp gegn mér og segja: ,Mín eigin hönd hefir frelsað mig.` 7.3 Kalla því nú í eyru fólksins og seg: Hver sá, sem hræddur er og hugdeigur, snúi við og fari aftur frá Gíleaðfjalli.' Þá sneru aftur tuttugu og tvær þúsundir af liðinu, en tíu þúsundir urðu eftir. 7.4 Þá sagði Drottinn við Gídeon: 'Enn er liðið of margt. Leið þú þá ofan til vatnsins, og mun ég reyna þá þar fyrir þig. Sá sem ég þá segi um við þig: ,þessi skal með þér fara,` hann skal með þér fara, en hver sá, er ég segi um við þig: ,þessi skal ekki með þér fara,` hann skal ekki fara.' 7.5 Leiddi Gídeon þá liðið niður til vatnsins. Og Drottinn sagði við Gídeon: 'Öllum þeim, sem lepja vatnið með tungu sinni, eins og hundar gjöra, skalt þú skipa sér, og sömuleiðis öllum þeim, sem krjúpa á kné til þess að drekka úr lófa sínum, er þeir færa upp að munni sér.' 7.6 En þeir, sem löptu vatnið, voru þrjú hundruð að tölu, en allt hitt liðið kraup á kné til þess að drekka vatnið. 7.7 Þá sagði Drottinn við Gídeon: 'Með þeim þrem hundruðum manna, sem lapið hafa, mun ég frelsa yður og gefa Midían í hendur yðar, en allt hitt liðið skal fara, hver heim til sín.' 7.8 Þá tóku þeir til sín veganesti liðsins og lúðra þeirra, en alla aðra Ísraelsmenn lét hann burt fara, hvern til síns heimkynnis, og hélt aðeins þrem hundruðum manna eftir. Og herbúðir Midíans voru fyrir neðan hann á sléttunni. 7.9 Hina sömu nótt sagði Drottinn við Gídeon: 'Rís þú upp og far ofan í herbúðirnar, því að ég hefi gefið þær í þínar hendur. 7.10 En ef þú ert hræddur að fara ofan þangað, þá far þú með Púra, svein þinn, til herbúðanna, 7.11 og hlustaðu á, hvað þeir segja. Mun þá hugur þinn styrkjast svo, að þú fer ofan í herbúðirnar.' Þá fór hann og Púra sveinn hans til ystu hermannanna, sem voru í herbúðunum. 7.12 Midíanítar, Amalekítar og allir austurbyggjar höfðu reist herbúðir á sléttunni, sem engisprettur að fjölda til, og úlfaldar þeirra voru óteljandi, sem sandur á sjávarströndu að fjölda til. 7.13 Þegar Gídeon kom þangað, var maður nokkur að segja félaga sínum draum með þessum orðum: 'Sjá, mig dreymdi draum, og þótti mér byggbrauðskaka velta sér að herbúðum Midíans, og komst hún alla leið að tjaldinu og rakst á það, svo að það féll, og kollvelti því, svo að tjaldið lá flatt.' 7.14 Þá svaraði hinn: 'Þetta er ekkert annað en sverð Ísraelítans Gídeons Jóassonar. Guð hefir gefið Midían og allar herbúðirnar í hendur hans.' 7.15 Er Gídeon hafði heyrt frásöguna um drauminn og ráðningu hans, féll hann fram og tilbað. Sneri hann síðan aftur til herbúða Ísraels og sagði: 'Rísið upp, því að Drottinn hefir gefið herbúðir Midíans í yðar hendur.' 7.16 Þá skipti hann þeim þrem hundruðum manna í þrjá flokka og fékk þeim öllum lúðra í hönd og tómar krúsir og blys í krúsunum. 7.17 Og hann sagði við þá: 'Lítið á mig og gjörið sem ég. Þegar ég kem að útjaðri herbúðanna, þá gjörið eins og ég gjöri. 7.18 Þegar ég því þeyti lúðurinn og allir þeir, sem með mér eru, þá skuluð þér líka þeyta lúðrana kringum allar herbúðirnar og segja: ,Sverð Drottins og Gídeons!'` 7.19 Gídeon og það hundrað manna, er með honum var, komu að útjaðri herbúðanna í byrjun miðvarðtíðarinnar. Var þá einmitt nýbúið að setja verðina. Þá þeyttu þeir lúðrana og brutu sundur krúsirnar, sem þeir báru í höndum sér. 7.20 Þeyttu nú flokkarnir þrír lúðrana og brutu krúsirnar, tóku blysin í vinstri hönd sér og lúðrana í hægri hönd sér til þess að þeyta þá, og æptu: 'Sverð Drottins og Gídeons!' 7.21 Stóðu þeir kyrrir, hver á sínum stað, umhverfis herbúðirnar, en í herbúðunum komst allt í uppnám, og flýðu menn nú með ópi miklu. 7.22 Og er þeir þeyttu þrjú hundruð lúðrana, þá beindi Drottinn sverðum þeirra gegn þeirra eigin mönnum um allar herbúðirnar, og flýði allur herinn til Bet Sitta, á leið til Serera, að árbakkanum við Abel Mehóla hjá Tabbat. 7.23 Nú voru kallaðir saman Ísraelsmenn úr Naftalí, Asser og öllum Manasse, og þeir veittu Midían eftirför. 7.24 Gídeon hafði og sent sendimenn um öll Efraímfjöll og látið segja: 'Farið ofan í móti Midían og varnið þeim yfirferðar yfir árnar allt til Bet Bara og yfir Jórdan.' Þá var öllum Efraímítum stefnt saman, og þeir vörnuðu þeim yfirferðar yfir árnar allt til Bet Bara og yfir Jórdan. 7.25 Og þeir handtóku tvo höfðingja Midíaníta, þá Óreb og Seeb, og drápu Óreb hjá Órebskletti, en Seeb drápu þeir hjá Seebsvínþröng. Síðan veittu þeir Midíanítum eftirför. En höfuðin af Óreb og Seeb færðu þeir Gídeon hinumegin Jórdanar.
8.1 Efraímítar sögðu við Gídeon: 'Hví gjörðir þú oss þetta, að kalla oss eigi? Heldur hefir þú farið einn til þess að berjast við Midíaníta.' Og þeir þráttuðu ákaflega við hann. 8.2 Þá sagði hann við þá: 'Hvað hefi ég nú gjört í samanburði við yður? Er ekki eftirtíningur Efraíms betri en vínberjatekja Abíesers? 8.3 Í yðar hendur hefir Guð gefið höfðingja Midíans, þá Óreb og Seeb. Hvað hefi ég megnað að gjöra í samanburði við yður?' Og er hann hafði þetta mælt, sefaðist reiði þeirra við hann. 8.4 Gídeon kom nú að Jórdan og fór yfir hana með þau þrjú hundruð manna, er með honum voru, en þeir voru þreyttir orðnir að reka flóttann. 8.5 Og hann sagði við Súkkótbúa: 'Gefið liðinu, sem fylgir mér, brauðhleifa, því að þeir eru þreyttir orðnir, þar eð ég er að elta þá Seba og Salmúna, Midíans konunga.' 8.6 En höfðingjarnir í Súkkót sögðu: 'Eru þeir Seba og Salmúna þegar gengnir þér svo í greipar, að vér megum gefa her þínum brauð?' 8.7 Þá sagði Gídeon: 'Sé það svo! Þegar Drottinn gefur Seba og Salmúna í mínar hendur, þá skal ég þreskja hold yðar með þyrnum eyðimerkurinnar og með þistlum.' 8.8 Þaðan fór hann til Penúel og mælti við þá á sömu leið. En Penúelbúar svöruðu honum hinu sama og Súkkótbúar höfðu svarað. 8.9 Þá sagði hann og við Penúelbúa á þessa leið: 'Þegar ég kem aftur heilu og höldnu, mun ég brjóta niður kastala þennan.' 8.10 Þeir Seba og Salmúna voru í Karkór og herlið þeirra með þeim, um fimmtán þúsundir manna, allir þeir, er eftir voru af öllum her austurbyggja, en eitt hundrað og tuttugu þúsundir vopnaðra manna voru fallnar. 8.11 Fór Gídeon nú tjaldbúaleið fyrir austan Nóba og Jogbeha og réðst á herbúðirnar, þá er herinn uggði eigi að sér. 8.12 Þeir Seba og Salmúna flýðu, en hann elti þá og tók höndum báða Midíanskonungana Seba og Salmúna, og tvístraði öllum hernum. 8.13 Eftir það sneri Gídeon Jóasson aftur úr leiðangrinum hjá Heresstígnum. 8.14 Og hann tók höndum svein nokkurn frá Súkkótbúum og kvaddi hann sagna, og sveinninn skrifaði upp fyrir hann höfðingjana í Súkkót og öldungana, sjötíu og sjö manns. 8.15 Og er hann kom til Súkkótbúa, sagði hann: 'Hér eru þú þeir Seba og Salmúna, er þér hædduð mig fyrir og sögðuð: ,Eru þeir Seba og Salmúna þegar gengnir svo í greipar þér, að vér megum gefa þreyttum mönnum þínum brauð?'` 8.16 Og hann tók öldunga borgarinnar og þyrna eyðimerkurinnar og þistla og lét Súkkótbúa kenna á þeim. 8.17 Og hann braut niður kastalann í Penúel og drap borgarbúa. 8.18 Síðan sagði hann við Seba og Salmúna: 'Hvernig voru þeir menn í hátt, er þið drápuð hjá Tabor?' Þeir sögðu: 'Þeir voru alveg eins og þú. Voru þeir allir slíkir ásýndum sem væru þeir konungssynir.' 8.19 Þá sagði hann: 'Þeir hafa verið bræður mínir, synir móður minnar. Svo sannarlega sem Drottinn lifir: Ef þið hefðuð gefið þeim líf, mundi ég ekki hafa drepið ykkur.' 8.20 Því næst sagði hann við Jeter, frumgetinn son sinn: 'Far þú til og drep þá!' En sveinninn brá ekki sverði sínu, því að hann bar ekki hug til, enda var hann ungur að aldri. 8.21 En þeir Seba og Salmúna sögðu: 'Far þú sjálfur til og vinn á okkur, því að afl fylgir aldri manns.' Fór þá Gídeon til og drap þá Seba og Salmúna og tók tinglin, sem voru um hálsana á úlföldum þeirra. 8.22 Þá sögðu Ísraelsmenn við Gídeon: 'Drottna þú yfir oss, bæði þú og sonur þinn og sonarsonur þinn, því að þú hefir frelsað oss af hendi Midíans.' 8.23 En Gídeon sagði við þá: 'Eigi mun ég drottna yfir yður, og eigi mun sonur minn heldur drottna yfir yður. Drottinn skal yfir yður drottna.' 8.24 Þá sagði Gídeon við þá: 'Bónar vil ég biðja yður. Gefið mér allir eyrnahringa þá, er þér hafið fengið að herfangi,' _ en Ísmaelítar báru eyrnahringa af gulli. 8.25 Þeir svöruðu: 'Vér viljum fúslega gefa þér þá.' Og þeir breiddu út skikkju og köstuðu þangað hver og einn eyrnahringum þeim, er þeir höfðu fengið að herfangi. 8.26 En þyngd þessara eyrnahringa af gulli, er hann beiðst hafði, var eitt þúsund og sjö hundruð siklar gulls, fyrir utan tinglin, eyrnaperlurnar og purpuraklæðin, sem Midíanskonungarnir báru, og fyrir utan festar þær, sem voru um hálsana á úlföldum þeirra. 8.27 Og Gídeon gjörði úr því hökul og reisti hann upp í borg sinni, í Ofra, og allur Ísrael tók þar fram hjá með honum, og það varð Gídeon og húsi hans að tálsnöru. 8.28 Þannig urðu Midíanítar að lúta í lægra haldi fyrir Ísraelsmönnum og máttu aldrei síðan höfuð hefja. Var nú friður í landi í fjörutíu ár, meðan Gídeon var á lífi. 8.29 Því næst hélt Jerúbbaal Jóasson heim til sín og bjó í sínu húsi. 8.30 Gídeon átti sjötíu sonu, sem út gengnir voru af lendum hans, því að hann átti margar konur. 8.31 Og hjákona hans, sú er hann átti í Síkem, fæddi honum og son, og hann nefndi hann Abímelek. 8.32 Gídeon Jóasson dó í góðri elli og var grafinn í gröf Jóasar, föður síns, í Ofra Abíesrítanna. 8.33 En er Gídeon var dáinn, tóku Ísraelsmenn enn af nýju fram hjá með Baölum, og gjörðu Sáttmála-Baal að guði sínum. 8.34 Og Ísraelsmenn minntust ekki Drottins, Guðs síns, sem frelsað hafði þá úr höndum allra óvina þeirra hringinn í kring, 8.35 og ekki auðsýndu þeir heldur kærleika húsi Jerúbbaals, Gídeons, fyrir allt hið góða, sem hann hafði gjört Ísrael.
9.1 Abímelek Jerúbbaalsson fór til Síkem til móðurbræðra sinna og talaði við þá og við allt frændlið móðurættar sinnar á þessa leið: 9.2 'Talið svo í eyru allra Síkembúa: ,Hvort mun yður betra, að sjötíu menn, allir synir Jerúbbaals, drottni yfir yður, eða að einn maður drottni yfir yður?` Minnist þess og, að ég er yðar hold og bein.' 9.3 Móðurbræður hans töluðu öll þessi orð um hann í eyru Síkembúa, svo að hugur þeirra hneigðist að Abímelek, því að þeir sögðu: 'Hann er bróðir vor.' 9.4 Þeir gáfu honum sjötíu sikla silfurs úr musteri Sáttmála-Baals, og Abímelek leigði fyrir það lausingja og óvendismenn og gjörðist fyrirliði þeirra. 9.5 Því næst fór hann til húss föður síns í Ofra og drap bræður sína, sonu Jerúbbaals, sjötíu manns á einum steini. Jótam, yngsti sonur Jerúbbaals, varð einn eftir, því að hann hafði falið sig. 9.6 En allir Síkembúar söfnuðust nú saman og allir þeir, sem bjuggu í Síkemkastala, og fóru til og tóku Abímelek til konungs hjá merkisteinseikinni, sem er hjá Síkem. 9.7 Er Jótam spurði þetta, fór hann og nam staðar á tindi Garísímfjalls, hóf upp raust sína, kallaði og mælti til þeirra: 'Heyrið mig, Síkembúar, svo að Guð heyri yður! 9.8 Einu sinni fóru trén að smyrja konung sér til handa. Og þau sögðu við olíutréð: Ver þú konungur yfir oss! 9.9 En olíutréð sagði við þau: Á ég að yfirgefa feiti mína, sem Guð og menn virða mig fyrir, og fara að sveima uppi yfir trjánum? 9.10 Þá sögðu trén við fíkjutréð: Kom þú og ver þú konungur yfir oss! 9.11 En fíkjutréð sagði við þau: Á ég að yfirgefa sætleik minn og ágætan ávöxt minn og fara að sveima uppi yfir trjánum? 9.12 Þá sögðu trén við vínviðinn: Kom þú og ver þú konungur yfir oss! 9.13 En vínviðurinn sagði við þau: Á ég að yfirgefa vínlög minn, sem gleður bæði Guð og menn, og fara að sveima uppi yfir trjánum? 9.14 Þá sögðu öll trén við þyrninn: Kom þú og ver þú konungur yfir oss! 9.15 En þyrnirinn sagði við trén: Ef það er alvara yðar að smyrja mig til konungs, þá komið og fáið yður skjól í skugga mínum. En ef svo er eigi, þá gangi eldur út frá þyrninum og eyði sedrustrjánum á Líbanon. 9.16 Nú ef þér hafið sýnt hreinskilni og einlægni í því að taka Abímelek til konungs, og ef þér hafið gjört vel við Jerúbbaal og hús hans og ef þér hafið breytt við hann, eins og hann hafði til unnið _ 9.17 því að fyrir yður barðist faðir minn og stofnaði lífi sínu í hættu, og yður frelsaði hann úr höndum Midíans, 9.18 en þér hafið í dag risið upp í gegn húsi föður míns og drepið sonu hans, sjötíu að tölu, á einum steini og tekið Abímelek, son ambáttar hans, til konungs yfir Síkembúa, af því að hann er bróðir yðar _ 9.19 ef þér því hafið sýnt Jerúbbaal og húsi hans hreinskilni og einlægni í dag, þá gleðjist yfir Abímelek, og hann gleðjist þá og yfir yður. 9.20 En ef svo er eigi, þá gangi eldur út frá Abímelek og eyði Síkembúum og þeim, sem búa í Síkemkastala, og þá gangi eldur út frá Síkembúum og þeim, sem búa í Síkemkastala, og eyði Abímelek.' 9.21 Síðan lagði Jótam á flótta og flýði burt og fór til Beer. Þar settist hann að, til þess að vera óhultur fyrir Abímelek bróður sínum. 9.22 Abímelek réð nú fyrir Ísrael í þrjú ár. 9.23 Þá lét Guð sundurþykkis anda koma upp milli Abímeleks og Síkembúa, svo að Síkembúar rufu tryggðir við Abímelek, 9.24 til þess að hefnd kæmi fyrir níðingsverkið á þeim sjötíu sonum Jerúbbaals og að blóð þeirra kæmi yfir Abímelek, bróður þeirra, sem drepið hafði þá, og yfir Síkembúa, sem styrkt höfðu hann til að drepa bræður hans. 9.25 Settu Síkembúar þá menn í launsát í móti honum hæst á fjöllum uppi, og rændu þeir alla þá, er um veginn fóru fram hjá þeim. Og Abímelek var sagt frá því. 9.26 Þá kom Gaal Ebedsson og bræður hans, og héldu þeir inn í Síkem, og Síkembúar fengu traust á honum. 9.27 Þeir fóru út á akurinn og lásu vínberin í víngörðum sínum og tróðu þau og héldu hátíð, fóru inn í musteri guðs síns og átu og drukku og bölvuðu Abímelek. 9.28 Og Gaal Ebedsson sagði: 'Hver er Abímelek og hverjir erum vér í Síkem, að vér eigum að lúta honum? Er hann ekki sonur Jerúbbaals og Sebúl höfuðsmaður hans? Lútið mönnum Hemors, föður Síkems! En hví skyldum vér eiga að lúta honum? 9.29 Ég vildi að fólk þetta væri undir minni hendi, þá skyldi ég ekki vera lengi að reka Abímelek burt og segja við Abímelek: Auk her þinn og kom út!' 9.30 Er Sebúl, höfuðsmaður borgarinnar, spurði ummæli Gaals Ebedssonar, upptendraðist reiði hans, 9.31 og sendi hann menn á laun til Abímeleks og lét segja honum: 'Sjá, Gaal Ebedsson og bræður hans eru komnir til Síkem og æsa þeir borgina upp í móti þér. 9.32 Tak þig því upp um nótt með liðið, sem hjá þér er, og leggstu í launsátur úti á víðavangi, 9.33 og að morgni, þegar sól rennur upp, þá skalt þú vera árla á fótum og ráðast á borgina. Þá mun hann og liðið, sem með honum er, fara út í móti þér, og skalt þú þá með hann fara svo sem þú færð færi á.' 9.34 Þá tók Abímelek sig upp um nótt með allt liðið, sem hjá honum var, og þeir lögðust í launsát í fjórum flokkum móti Síkem. 9.35 Og er Gaal Ebedsson kom út og nam staðar fyrir utan borgarhliðið, þá spratt Abímelek upp úr launsátinni og liðið, sem með honum var. 9.36 Og Gaal sá liðið og sagði við Sebúl: 'Sjá, þarna kemur fólk ofan af fjöllunum.' En Sebúl sagði við hann: 'Þú sérð skuggann í fjöllunum og ætlar menn vera.' 9.37 En Gaal hélt áfram að mæla og sagði: 'Sjá, þarna kemur fólk ofan af háhæðinni, og einn hópur kemur frá veginum að spásagnaeikinni.' 9.38 Þá mælti Sebúl við hann: 'Hvar eru nú stóryrði þín, er þú sagðir: ,Hver er Abímelek, að vér eigum að lúta honum?` Er þetta ekki liðið, sem þú fyrirleist? Láttu nú sjá, far út og berst við það.' 9.39 Fór Gaal þá fyrir Síkembúum og barðist við Abímelek. 9.40 En Abímelek sótti svo hart að honum, að hann flýði fyrir honum, og varð þar mannfall mikið allt að borgarhliðinu. 9.41 Eftir það dvaldist Abímelek í Arúma, en Sebúl rak Gaal og bræður hans burt, svo að þeir fengu ekki að búa í Síkem. 9.42 En daginn eftir fór fólkið út á akurinn, og sögðu menn Abímelek frá því. 9.43 Þá tók hann lið sitt og skipti því í þrjár sveitir og lagðist í launsát úti á víðavangi, og er hann sá fólkið koma út úr borginni, réðst hann á það og vann sigur á því. 9.44 Abímelek sjálfur og sveitin, sem með honum var, þusti fram og nam staðar fyrir borgarhliðinu, en báðar hinar sveitirnar gjörðu áhlaup á alla þá, sem úti á víðavangi voru, og unnu sigur á þeim. 9.45 Því næst herjaði Abímelek á borgina allan þann dag og vann borgina, og drap fólkið, sem í henni var; braut síðan niður borgina og stráði yfir hana salti. 9.46 Er allir þeir menn, sem bjuggu í Síkemkastala, heyrðu þetta, gengu þeir inn í hvelfinguna í musteri Sáttmála-guðs. 9.47 Og er Abímelek var sagt frá því, að allir menn í Síkemkastala hefðu safnast þar saman, 9.48 þá fór Abímelek upp á Salmónfjall með allt liðið, sem hjá honum var. Og Abímelek tók öxi í hönd sér og hjó af trjágrein, hóf á loft og lagði á herðar sér og sagði við liðið, sem með honum var: 'Gjörið nú sem skjótast slíkt hið sama, er þér sáuð mig gjöra.' 9.49 Þá hjó og allt fólkið hver sína grein, og fylgdu þeir Abímelek og báru að hvelfingunni og lögðu síðan eld í hvelfinguna yfir þeim, svo að allir menn í Síkemkastala dóu, hér um bil eitt þúsund karla og kvenna. 9.50 Síðan fór Abímelek til Tebes og settist um Tebes og vann hana. 9.51 En í miðri borginni var sterkur turn. Þangað flýðu allir menn og konur, já, allir borgarbúar. Lokuðu þeir sig þar inni og stigu síðan upp á þakið á turninum. 9.52 Nú kom Abímelek að turninum og gjörði áhlaup á hann. En er hann gekk að dyrum turnsins, til þess að leggja eld í hann, 9.53 þá kastaði kona ein efri kvarnarsteini í höfuð Abímelek og mölvaði sundur hauskúpuna. 9.54 Þá kallaði hann sem skjótast til skjaldsveins síns og mælti við hann: 'Bregð sverði þínu og deyð mig, svo að eigi verði um mig sagt: Kona drap hann!' Þá lagði sveinn hans hann í gegn, og varð það hans bani. 9.55 En er Ísraelsmenn sáu, að Abímelek var dauður, fóru þeir hver heim til sín. 9.56 Þannig galt Guð illsku Abímeleks, þá er hann hafði í frammi haft við föður sinn, er hann drap sjötíu bræður sína. 9.57 Og Guð lét alla illsku Síkembúa koma þeim í koll. Rættist þannig á þeim formæling Jótams Jerúbbaalssonar.
10.1 Eftir Abímelek reis upp Tóla Púason, Dódóssonar, maður af Íssakar, til að frelsa Ísrael. Hann bjó í Samír á Efraímfjöllum, 10.2 og var hann dómari í Ísrael í tuttugu og þrjú ár. Síðan andaðist hann og var grafinn í Samír. 10.3 Eftir hann reis upp Jaír Gíleaðíti og var dómari í Ísrael í tuttugu og tvö ár. 10.4 Hann átti þrjátíu sonu, sem riðu á þrjátíu ösnufolum, þeir áttu þrjátíu borgir. Eru þær kallaðar Jaírs-þorp allt fram á þennan dag. Þær liggja í Gíleaðlandi. 10.5 Síðan andaðist Jaír og var grafinn í Kamón. 10.6 Ísraelsmenn gjörðu enn að nýju það, sem illt var í augum Drottins, og dýrkuðu Baala og Astörtur, guði Arams, guði Sídonar, guði Móabs, guði Ammóníta og guði Filista, og yfirgáfu Drottin og dýrkuðu hann ekki. 10.7 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ísrael, og hann seldi þá í hendur Filistum og í hendur Ammónítum. 10.8 Og þeir þjáðu og þjökuðu Ísraelsmenn það ár. Í átján ár þjökuðu þeir alla Ísraelsmenn, sem bjuggu hinumegin Jórdanar í landi Amoríta, þá er bjuggu í Gíleað. 10.9 Enn fremur fóru Ammónítar yfir Jórdan til þess að herja einnig á Júda, Benjamín og Efraíms hús, svo að Ísrael komst í miklar nauðir. 10.10 Þá hrópuðu Ísraelsmenn til Drottins og sögðu: 'Vér höfum syndgað móti þér, því að vér höfum yfirgefið Guð vorn og dýrkað Baala.' 10.11 En Drottinn sagði við Ísraelsmenn: 'Hafa ekki Egyptar, Amorítar, Ammónítar, Filistar, 10.12 Sídoningar, Amalekítar og Midíanítar kúgað yður? Þá hrópuðuð þér til mín og ég frelsaði yður úr höndum þeirra. 10.13 En þér hafið yfirgefið mig og dýrkað aðra guði. Fyrir því vil ég eigi framar hjálpa yður. 10.14 Farið og hrópið til guða þeirra, er þér hafið kjörið. Hjálpi þeir yður, þegar þér eruð í nauðum.' 10.15 Þá sögðu Ísraelsmenn við Drottin: 'Vér höfum syndgað. Gjör við oss rétt sem þér líkar, frelsa oss aðeins í dag.' 10.16 Síðan köstuðu þeir burt frá sér útlendu guðunum og dýrkuðu Drottin. Eirði hann þá illa eymd Ísraels. 10.17 Þá var Ammónítum stefnt saman, og settu þeir herbúðir sínar í Gíleað. Og Ísraelsmenn söfnuðust saman og settu herbúðir sínar í Mispa. 10.18 En lýðurinn, höfðingjarnir í Gíleað sögðu hver við annan: 'Hver er sá maður, er fyrstur vill hefja ófrið við Ammóníta? Hann skal vera höfðingi yfir öllum Gíleaðbúum!'
11.1 Jefta Gíleaðíti var kappi mikill, en hann var skækjuson. Gíleað hafði getið Jefta, 11.2 og er kona Gíleaðs fæddi honum sonu og synir hennar uxu upp, þá ráku þeir Jefta burt og sögðu við hann: 'Eigi skalt þú taka arf í ætt vorri, því að þú ert sonur annarrar konu.' 11.3 Þá flýði Jefta burt frá bræðrum sínum og settist að í landinu Tób. Þá söfnuðust til Jefta lausingjar og fylgdu þeir honum. 11.4 Nokkrum tíma eftir þetta hófu Ammónítar hernað á hendur Ísrael. 11.5 En er Ammónítar herjuðu á Ísrael, lögðu öldungarnir í Gíleað af stað til þess að sækja Jefta í landið Tób. 11.6 Og þeir sögðu við Jefta: 'Kom þú og ver þú fyrirliði vor, og munum vér berjast við Ammóníta.' 11.7 Jefta sagði við öldungana í Gíleað: 'Hafið þér ekki lagt hatur á mig og rekið mig burt úr ætt minni? Hví komið þér þá nú til mín, þá er þér eruð í nauðum staddir?' 11.8 Öldungarnir í Gíleað sögðu við Jefta: 'Fyrir því erum vér nú aftur komnir til þín, og ef þú fer með oss og berst við Ammóníta, þá skalt þú vera höfðingi vor, allra þeirra er búa í Gíleað.' 11.9 Þá sagði Jefta við öldungana í Gíleað: 'Ef þér sækið mig til þess að berjast við Ammóníta, og Drottinn gefur þá á mitt vald, þá vil ég vera höfðingi yfir yður!' 11.10 Þá sögðu öldungarnir í Gíleað við Jefta: 'Drottinn veri heyrnarvottur að tali voru og hegni oss, ef vér gjörum eigi það, sem þú hefir mælt.' 11.11 Og Jefta fór með öldungunum í Gíleað, og lýðurinn tók hann til höfðingja yfir sig og fyrirliða. Og Jefta talaði öll orð sín frammi fyrir Drottni í Mispa. 11.12 Þá gjörði Jefta sendimenn á fund konungs Ammóníta og lét segja honum: 'Hvað er þér á höndum við mig, er þú hefir farið í móti mér til þess að herja á land mitt?' 11.13 Konungur Ammóníta svaraði sendimönnum Jefta: 'Ísrael lagði undir sig land mitt, þá er hann fór af Egyptalandi, frá Arnon til Jabbok og að Jórdan. Skila þú því nú aftur með góðu!' 11.14 Jefta gjörði enn menn á fund Ammónítakonungs 11.15 og lét segja honum: 'Svo segir Jefta: Ísrael lagði ekki undir sig Móabsland né land Ammóníta, 11.16 því að þegar þeir fóru af Egyptalandi og Ísrael hafði farið um eyðimörkina að Sefhafi og var kominn til Kades, 11.17 þá gjörði Ísrael menn á fund Edómkonungs og lét segja honum: ,Leyf mér að fara um land þitt!` En Edómkonungur daufheyrðist við. Þá sendi hann og til Móabskonungs, en hann vildi ekki. Hélt Ísrael nú kyrru fyrir í Kades, 11.18 hélt síðan áfram um eyðimörkina og fór í bug kringum Edómland og Móabsland og kom austan að Móabslandi og setti búðir sínar hinumegin Arnon. En inn yfir landamæri Móabs komu þeir ekki, því að Arnon ræður landamærum Móabs. 11.19 Þá gjörði Ísrael sendimenn á fund Síhons Amorítakonungs, konungs í Hesbon, og Ísrael lét segja honum: ,Leyf oss að fara um land þitt, þangað sem ferðinni er heitið.` 11.20 En Síhon treysti eigi Ísrael svo, að hann vildi leyfa honum að fara um land sitt, heldur safnaði Síhon öllu liði sínu, og settu þeir herbúðir sínar í Jahsa, og hann barðist við Ísrael. 11.21 En Drottinn, Ísraels Guð, gaf Síhon og allt hans lið í hendur Ísraels, svo að þeir unnu sigur á þeim, og lagði Ísrael undir sig allt land Amoríta, er byggðu það land. 11.22 Lögðu þeir þannig undir sig allt land Amoríta frá Arnon að Jabbok, og frá eyðimörkinni að Jórdan. 11.23 Drottinn, Guð Ísraels, hefir því stökkt Amorítum burt undan lýð sínum Ísrael, og nú ætlar þú að taka land hans til eignar? 11.24 Hvort tekur þú ekki til eignar það, sem Kamos, guð þinn, gefur þér til eignar? Svo tökum vér og til eignar land allra þeirra, sem Drottinn, Guð vor, stökkvir burt undan oss. 11.25 Og hvort munt þú nú vera nokkru betri en Balak Sippórsson, konungur í Móab? Átti hann í deilum við Ísrael eða fór hann með hernað á hendur þeim? 11.26 Þar sem Ísrael hefir búið í Hesbon og smáborgunum, er að liggja, og í Aróer og smáborgunum, er að liggja, og í öllum borgunum, sem liggja meðfram Arnon báðumegin, í þrjú hundruð ár, hvers vegna hafið þér þá ekki náð þeim aftur allan þennan tíma? 11.27 Ég hefi ekki gjört þér neitt mein, en þú beitir mig ranglæti, er þú herjar á mig. Drottinn, dómarinn, dæmi í dag milli Ísraelsmanna og Ammóníta!' 11.28 En konungur Ammóníta sinnti ekki orðum Jefta, þeim er hann lét færa honum. 11.29 Þá kom andi Drottins yfir Jefta, og hann fór um Gíleað og Manasse og hann fór til Mispe í Gíleað, og frá Mispe í Gíleað fór hann í móti Ammónítum. 11.30 Og Jefta gjörði Drottni heit og sagði: 'Ef þú gefur Ammóníta í hendur mér, 11.31 þá skal sá, er fyrstur gengur út úr dyrum húss míns í móti mér, er ég sný aftur heilu og höldnu frá Ammónítum, heyra Drottni, og skal ég fórna honum að brennifórn.' 11.32 Síðan fór Jefta í móti Ammónítum til þess að berjast við þá, og Drottinn gaf þá í hendur honum. 11.33 Hann vann mjög mikinn sigur á þeim frá Aróer alla leið til Minnít, tuttugu borgir, og til Abel-Keramím. Þannig urðu Ammónítar að lúta í lægra haldi fyrir Ísraelsmönnum. 11.34 En er Jefta kom heim til húss síns í Mispa, sjá, þá gekk dóttir hans út í móti honum með bumbum og dansi. Hún var einkabarnið hans. Hann átti engan son né dóttur nema hana. 11.35 Og er hann sá hana, reif hann klæði sín og sagði: 'Æ, dóttir mín, mjög beygir þú mig nú. Sjálf veldur þú mér nú sárustum trega. Ég hefi upp lokið munni mínum gagnvart Drottni, og ég get ekki tekið það aftur.' 11.36 En hún sagði við hann: 'Faðir minn, ef þú hefir upp lokið munni þínum gagnvart Drottni, þá gjör þú við mig eins og fram gengið er af munni þínum, fyrst Drottinn hefir látið þig koma fram hefndum á óvinum þínum, Ammónítum.' 11.37 Og enn sagði hún við föður sinn: 'Gjör þetta fyrir mig: Lát mig fá tveggja mánaða frest, svo að ég geti farið hér ofan í fjöllin og grátið það með stallsystrum mínum, að ég verð að deyja ung mær.' 11.38 Hann sagði: 'Far þú!' og lét hana burt fara í tvo mánuði. Fór hún þá burt með stallsystrum sínum og grét það á fjöllunum, að hún varð að deyja ung mær. 11.39 En að tveim mánuðum liðnum sneri hún aftur til föður síns, og hann gjörði við hana samkvæmt heiti því, er hann hafði unnið. En hún hafði aldrei karlmann kennt. Og varð það siður í Ísrael: 11.40 Ár frá ári fara Ísraels dætur að lofsyngja dóttur Jefta Gíleaðíta, fjóra daga á ári hverju.
12.1 Efraímsmönnum var stefnt saman. Þeir héldu í norður og sögðu við Jefta: 'Hví hefir þú farið að berjast við Ammóníta og eigi kvatt oss þér til fylgdar? Nú munum vér leggja eld í hús þitt yfir þér.' 12.2 Þá sagði Jefta við þá: 'Ég og þjóð mín áttum í miklum deilum við Ammóníta. Beiddist ég þá liðs hjá yður, en þér hjálpuðuð mér ekki úr höndum þeirra. 12.3 Og er ég sá, að þér ætluðuð ekki að hjálpa mér, þá lagði ég líf mitt í hættu og fór í móti Ammónítum, og Drottinn gaf þá í hendur mér. Hvers vegna komið þér þá í dag til mín til þess að berjast við mig?' 12.4 Og Jefta safnaði saman öllum mönnum í Gíleað og barðist við Efraímíta, og unnu Gíleaðsmenn sigur á Efraímítum, því að Efraímítar höfðu sagt: 'Þér eruð flóttamenn frá Efraím! Gíleað liggur mitt í Efraím, mitt í Manasse.' 12.5 Gíleaðítar settust um Jórdanvöðin yfir til Efraím. Og þegar flóttamaður úr Efraím sagði: 'Leyf mér yfir um!' þá sögðu Gíleaðsmenn við hann: 'Ert þú Efraímíti?' Ef hann svaraði: 'Nei!' 12.6 þá sögðu þeir við hann: 'Segðu ,Sjibbólet.'` Ef hann þá sagði: 'Sibbólet,' og gætti þess eigi að bera það rétt fram, þá gripu þeir hann og drápu hann við Jórdanvöðin. Féllu þá í það mund af Efraím fjörutíu og tvær þúsundir. 12.7 Jefta var dómari í Ísrael í sex ár. Síðan andaðist Jefta Gíleaðíti og var grafinn í einni af Gíleaðs borgum. 12.8 Eftir Jefta var Íbsan frá Betlehem dómari í Ísrael. 12.9 Hann átti þrjátíu sonu, og þrjátíu dætur gifti hann burt frá sér, og þrjátíu konur færði hann sonum sínum annars staðar að. Hann var dómari í Ísrael í sjö ár. 12.10 Síðan andaðist Íbsan og var grafinn í Betlehem. 12.11 Eftir hann var Elón Sebúloníti dómari í Ísrael. Hann var dómari í Ísrael í tíu ár. 12.12 Síðan andaðist Elón Sebúloníti og var grafinn í Ajalon í Sebúlon-landi. 12.13 Eftir hann var Abdón Híllelsson Píratóníti dómari í Ísrael. 12.14 Hann átti fjörutíu sonu og þrjátíu sonasonu, sem riðu sjötíu ösnufolum. Hann var dómari í Ísrael í átta ár. 12.15 Síðan andaðist Abdón Híllelsson Píratóníti og var grafinn í Píratón í Efraímlandi á Amalekítafjöllum.
13.1 Ísraelsmenn gjörðu enn að nýju það, sem illt var í augum Drottins. Þá gaf Drottinn þá í hendur Filistum í fjörutíu ár. 13.2 Maður er nefndur Manóa. Hann var frá Sorea, af ætt Daníta. Kona hans var óbyrja og hafði eigi barn alið. 13.3 Engill Drottins birtist konunni og sagði við hana: 'Sjá, þú ert óbyrja og hefir eigi barn alið, en þú munt þunguð verða og son ala. 13.4 Og haf nú gætur á þér, drekk hvorki vín né áfengan drykk, og et ekkert óhreint. 13.5 Því sjá, þú munt þunguð verða og ala son, og skal rakhnífur ekki koma á höfuð hans, því að sveinninn skal vera Guði helgaður allt í frá móðurlífi, og hann mun byrja að frelsa Ísrael af hendi Filista.' 13.6 Þá fór konan og sagði við mann sinn á þessa leið: 'Guðsmaður nokkur kom til mín, og var hann ásýndum sem engill Guðs, ægilegur mjög; en ég spurði hann ekki, hvaðan hann væri, og nafn sitt sagði hann mér ekki. 13.7 Hann sagði við mig: ,Sjá, þú munt þunguð verða og son ala. Drekk því hvorki vín né áfengan drykk, og et ekkert óhreint, því að sveinninn skal vera Guði helgaður allt í frá móðurlífi til dauðadags.'` 13.8 Þá bað Manóa Drottin og sagði: 'Æ, herra! Lát guðsmanninn, sem þú sendir, koma til okkar aftur, svo að hann megi kenna okkur, hvernig við eigum að fara með sveininn, sem fæðast á.' 13.9 Guð heyrði bæn Manóa, og engill Guðs kom aftur til konunnar. Var hún þá stödd úti á víðavangi og maður hennar Manóa ekki hjá henni. 13.10 Þá hljóp konan sem skjótast og sagði manni sínum frá og mælti við hann: 'Sjá, maðurinn, sem til mín kom um daginn, hefir birst mér.' 13.11 Þá reis Manóa upp og fór á eftir konu sinni, og hann kom til mannsins og sagði við hann: 'Ert þú maðurinn, sem talaði við konuna?' Hann svaraði: 'Já.' 13.12 Þá sagði Manóa: 'Ef það nú kemur fram, sem þú hefir sagt, hvernig á þá að fara með sveininn, og hvað á hann að gjöra?' 13.13 Engill Drottins sagði við Manóa: 'Konan skal forðast allt það, sem ég hefi sagt henni. 13.14 Hún skal ekkert það eta, er af vínviði kemur, ekki drekka vín né áfengan drykk, og ekkert óhreint eta. Hún skal gæta alls þess, er ég hefi boðið henni.' 13.15 Þá sagði Manóa við engil Drottins: 'Leyf okkur að tefja þig stundarkorn, svo að við getum matbúið handa þér hafurkið.' 13.16 En engill Drottins sagði við Manóa: 'Þó að þú fáir mig til að tefja, þá et ég samt ekki af mat þínum. En ef þú vilt tilreiða brennifórn, þá fær þú hana Drottni.' 13.17 Því að Manóa vissi ekki, að það var engill Drottins. Þá sagði Manóa við engil Drottins: 'Hvert er nafn þitt? Því að rætist orð þín, munum við tigna þig.' 13.18 Engill Drottins svaraði honum: 'Hví spyr þú um nafn mitt? Nafn mitt er undursamlegt.' 13.19 Þá tók Manóa geithafurinn og matfórnina og færði það Drottni á kletti einum. Þá varð undur mikið að þeim Manóa og konu hans ásjáandi. 13.20 Því að þegar logann lagði upp af altarinu til himins, þá fór engill Drottins upp í altarisloganum. Og er þau Manóa og kona hans sáu það, féllu þau fram á ásjónur sínar til jarðar. 13.21 Eftir það birtist engill Drottins eigi framar Manóa og konu hans. Þá sá Manóa að það hafði verið engill Drottins. 13.22 Manóa sagði við konu sína: 'Vissulega munum við deyja, því að við höfum séð Guð!' 13.23 En kona hans svaraði honum: 'Ef Drottinn hefði viljað deyða okkur, þá hefði hann eigi þegið brennifórn og matfórn af okkur, né látið okkur sjá allt þetta, og þá hefði hann eigi nú látið okkur heyra slíka hluti.' 13.24 Og konan ól son og nefndi hann Samson; og sveinninn óx upp, og Drottinn blessaði hann. 13.25 Og andi Drottins tók að knýja hann í herbúðum Dans millum Sorea og Estaól.
14.1 Samson fór niður til Timna og sá konu eina þar í Timna. Var hún ein af dætrum Filista. 14.2 Síðan fór hann heim aftur og sagði föður sínum og móður frá þessu og mælti: 'Ég hefi séð konu eina í Timna. Er hún ein af dætrum Filista. Takið þið hana nú mér til handa að eiginkonu.' 14.3 En faðir hans og móðir sögðu við hann: 'Er þá engin kona meðal dætra frænda þinna og í öllu fólki mínu, að þú þurfir að fara og taka þér konu af Filistum, sem eru óumskornir?' Samson svaraði föður sínum: 'Tak hana mér til handa, því að hún geðjast augum mínum.' 14.4 En faðir hans og móðir vissu ekki, að þetta var frá Drottni, og að hann leitaði færis við Filistana. Um þær mundir drottnuðu Filistar yfir Ísrael. 14.5 Þá fóru þau Samson og faðir hans og móðir niður til Timna. Og er þau komu að víngörðum Timna, þá kom ungt ljón öskrandi í móti honum. 14.6 Þá kom andi Drottins yfir hann, svo að hann sleit það sundur, eins og menn slíta sundur hafurkið, og hann hafði þó ekkert í hendinni. En eigi sagði hann föður sínum né móður frá því, er hann hafði gjört. 14.7 Síðan fór Samson ofan og talaði við konuna, og hún geðjaðist augum hans. 14.8 Eftir nokkurn tíma kom hann aftur að sækja hana. Vék hann þá af leið til þess að sjá dauða ljónið, og sjá, býflugur voru í ljónshræinu og hunang. 14.9 Og hann tók það í lófa sér, hélt síðan áfram og át, og hann fór til föður síns og móður og gaf þeim, og þau átu. En ekki sagði hann þeim frá því, að hann hefði tekið hunangið úr ljónshræinu. 14.10 Því næst fór faðir hans ofan til konunnar, og gjörði Samson þar veislu, því að sá var háttur ungra manna. 14.11 En er þeir sáu hann, fengu þeir honum þrjátíu brúðarsveina, er vera skyldu með honum. 14.12 Og Samson sagði við þá: 'Ég mun bera upp fyrir yður gátu eina. Ef þér fáið ráðið hana á þessum sjö veisludögum og getið hennar, þá mun ég gefa yður þrjátíu kyrtla og þrjátíu hátíðaklæðnaði. 14.13 En ef þér getið ekki ráðið hana, þá skuluð þér gefa mér þrjátíu kyrtla og þrjátíu hátíðaklæðnaði.' Þeir svöruðu honum: 'Ber þú upp gátu þína, svo að vér megum heyra hana.' 14.14 Þá sagði hann við þá: 'Æti gekk út af etanda og sætleiki gekk út af hinum sterka.' Og liðu svo þrír dagar að þeir gátu ekki ráðið gátuna. 14.15 Á fjórða degi sögðu þeir við konu Samsonar: 'Ginn þú bónda þinn til að segja oss ráðningu gátunnar, ella munum vér þig í eldi brenna og hús föður þíns. Hafið þér boðið oss til þess að féfletta oss? Er ekki svo?' 14.16 Þá grét kona Samsonar og sagði við hann: 'Hatur hefir þú á mér, en enga ást, þú hefir borið upp gátu fyrir samlöndum mínum, en ekki sagt mér ráðningu hennar.' Hann svaraði henni: 'Sjá, ég hefi ekki sagt föður mínum og móður minni ráðningu hennar og ætti þó að segja þér hana?' 14.17 Og hún grét og barmaði sér við hann sjö dagana, sem veislan stóð yfir, og á sjöunda degi sagði hann henni ráðninguna, af því að hún gekk svo fast á hann. En hún sagði samlöndum sínum ráðningu gátunnar. 14.18 Þá sögðu borgarmenn við hann á sjöunda degi, áður sól settist: 'Hvað er sætara en hunang? Og hvað er sterkara en ljón?' Samson sagði við þá: 'Ef þér hefðuð ekki erjað með kvígu minni, munduð þér ekki hafa ráðið gátu mína.' 14.19 Þá kom andi Drottins yfir hann, svo að hann fór ofan til Askalon og drap þrjátíu menn af þeim, tók klæðnaði þeirra og gaf þá þeim að hátíðaklæðum, er ráðið höfðu gátuna. Og hann varð ákaflega reiður og fór upp til húss föður síns. 14.20 En kona Samsonar giftist brúðarsveini hans, þeim er hann hafði valið sér að svaramanni.
15.1 Að nokkrum tíma liðnum kom Samson um hveitiuppskerutímann að vitja konu sinnar og hafði með sér hafurkið. Og hann sagði við föður hennar: 'Leyf mér að ganga inn í afhýsið til konu minnar!' En faðir hennar vildi ekki leyfa honum inn að ganga. 15.2 Og faðir hennar sagði: 'Ég var fullviss um, að þú hefðir fengið megna óbeit á henni og gifti hana því brúðarsveini þínum, en yngri systir hennar er fríðari en hún, hana skalt þú fá í hennar stað.' 15.3 Þá sagði Samson við þá: 'Nú ber ég enga sök á því við Filista, þó að ég vinni þeim mein.' 15.4 Síðan fór Samson og veiddi þrjú hundruð refi, tók blys, sneri hölunum saman og batt eitt blys millum hverra tveggja hala. 15.5 Síðan kveikti hann í blysunum og sleppti því næst refunum inn á kornakra Filista og brenndi þannig bæði kerfaskrúf, óslegið korn, víngarða og olíugarða. 15.6 Þá sögðu Filistar: 'Hver hefir gjört þetta?' Og menn svöruðu: 'Samson, tengdasonur Timnítans, því að hann hefir tekið frá honum konuna og gift hana brúðarsveini hans.' Þá fóru Filistar upp þangað og brenndu hana inni og föður hennar. 15.7 En Samson sagði við þá: 'Fyrst þér aðhafist slíkt, mun ég ekki hætta fyrr en ég hefi hefnt mín á yður.' 15.8 Síðan barði hann svo óþyrmilega á þeim, að sundur gengu lær og leggir. Og hann fór þaðan og settist að í Etamklettaskoru. 15.9 Þá fóru Filistar upp eftir og settu herbúðir sínar í Júda og dreifðu sér um Lekí. 15.10 Og Júdamenn sögðu: 'Hví hafið þér farið í móti oss?' En þeir svöruðu: 'Vér erum hingað komnir til þess að binda Samson, svo að vér megum með hann fara sem hann hefir farið með oss.' 15.11 Þá fóru þrjú þúsund manns frá Júda ofan til Etamklettaskoru og sögðu við Samson: 'Veist þú ekki, að Filistar drottna yfir oss? Hví hefir þú þá gjört oss þetta?' Hann svaraði þeim: 'Eins og þeir fóru með mig, svo hefi ég farið með þá.' 15.12 Þeir sögðu við hann: 'Vér erum hingað komnir til að binda þig, svo að vér getum selt þig í hendur Filista.' Þá sagði Samson við þá: 'Vinnið mér eið að því, að þér sjálfir skulið ekki drepa mig.' 15.13 Þeir svöruðu honum: 'Nei, vér munum aðeins binda þig og selja þig í hendur þeirra _ en drepa þig munum vér ekki.' Og þeir bundu hann með tveimur reipum nýjum og fóru með hann burt frá klettinum. 15.14 En er Samson kom til Lekí, fóru Filistar með ópi miklu í móti honum. Þá kom andi Drottins yfir hann, og urðu reipin, sem voru um armleggi hans, sem þræðir í eldi brunnir, og hrukku fjötrarnir sundur af höndum hans. 15.15 Og hann fann nýjan asnakjálka, rétti út höndina og tók hann og laust með honum þúsund manns. 15.16 Þá sagði Samson: 'Með asnakjálka hefi ég gjörsamlega flegið þá, með asnakjálka hefi ég banað þúsund manns!' 15.17 Og er hann hafði mælt þetta, varpaði hann kjálkanum úr hendi sér, og var þessi staður upp frá því nefndur Ramat Lekí. 15.18 En Samson var mjög þyrstur og hrópaði því til Drottins og mælti: 'Þú hefir veitt þennan mikla sigur fyrir hönd þjóns þíns, en nú hlýt ég að deyja af þorsta og falla í hendur óumskorinna manna!' 15.19 Þá klauf Guð holuna, sem var í Lekí, svo að vatn rann fram úr henni. En er hann hafði drukkið, kom andi hans aftur og hann lifnaði við. Fyrir því var hún nefnd Hrópandans lind. Hún er í Lekí fram á þennan dag. 15.20 En Samson var dómari í Ísrael um daga Filista í tuttugu ár.
16.1 Samson fór til Gasa. Þar sá hann portkonu eina og gekk inn til hennar. 16.2 Þá var Gasabúum sagt svo frá: 'Samson er hér kominn.' En þeir umkringdu hann og gjörðu honum fyrirsát alla nóttina í borgarhliðinu, en höfðu þó hljótt um sig alla nóttina, með því að þeir hugsuðu: Þegar birtir af degi, skulum vér drepa hann. 16.3 En Samson svaf til miðrar nætur. En um miðja nótt reis hann á fætur, þreif hurðirnar á borgarhliðinu, ásamt báðum dyrastöfunum, og kippti þeim upp ásamt slagbrandinum og lagði á herðar sér og bar þær efst upp á fjallið, sem er gegnt Hebron. 16.4 Eftir þetta bar svo við, að Samson felldi ástarhug til konu einnar í Sórekdal. Hún hét Dalíla. 16.5 Höfðingjar Filista komu til hennar og sögðu við hana: 'Ginn þú hann og komstu að því, í hverju hið mikla afl hans er fólgið og með hverju móti vér fáum yfirbugað hann, svo að vér getum bundið hann og þjáð hann, og munum vér gefa þér hver um sig eitt þúsund sikla silfurs og hundraði betur.' 16.6 Dalíla sagði þá við Samson: 'Seg mér, í hverju hið mikla afl þitt er fólgið og með hverju þú verður bundinn, svo að menn eigi alls kostar við þig.' 16.7 Samson svaraði henni: 'Ef menn binda mig með sjö nýjum strengjum, sem ekki eru þurrir orðnir, þá gjörist ég linur og verð eins og hver annar maður.' 16.8 Þá færðu höfðingjar Filista henni sjö nýja strengi, sem ekki voru þurrir orðnir, og hún batt hann með þeim. 16.9 En mennina, er um hann sátu, hafði hún hjá sér í svefnhúsinu. Því næst sagði hún við hann: 'Filistar yfir þig, Samson!' Þá sleit hann sundur strengina, eins og hörþráður slitnar sundur, er hann kennir elds, og ekki varð komist fyrir afl hans. 16.10 Þá sagði Dalíla við Samson: 'Sjá, þú hefir blekkt mig og logið að mér! Seg mér nú, með hverju þú verður bundinn.' 16.11 Hann svaraði henni: 'Ef menn binda mig með nýjum reipum, sem ekki hafa verið höfð til neinnar vinnu, þá gjörist ég linur og verð sem hver annar maður.' 16.12 Þá tók Dalíla ný reipi og batt hann með þeim og sagði við hann: 'Filistar yfir þig, Samson!' og mennirnir, er um hann sátu, voru í svefnhúsinu. En hann sleit þau af armleggjum sér sem þráður væri. 16.13 Og Dalíla sagði við Samson: 'Enn hefir þú blekkt mig og logið að mér. Seg mér, með hverju þú verður bundinn.' En hann sagði við hana: 'Ef þú vefur hárlokkana sjö á höfði mér saman við uppistöðuna í vef.' 16.14 Og hún festi þá með nagla og sagði við hann: 'Filistar yfir þig, Samson!' Þá vaknaði hann af svefninum og kippti út vefjarnaglanum og uppistöðunni. 16.15 Þá sagði hún við hann: 'Hvernig getur þú sagt: Ég elska þig! þar sem þú ert ekki einlægur við mig? Þrisvar sinnum hefir þú nú blekkt mig og ekki sagt mér, í hverju hið mikla afl þitt sé fólgið.' 16.16 En er hún nauðaði á honum alla daga með orðum sínum og gekk á hann fastlega, þá varð hann dauðleiður á því 16.17 og sagði henni allt hjarta sitt og mælti til hennar: 'Aldrei hefir rakhnífur komið á höfuð mitt, því að ég er Guði helgaður í frá móðurlífi. Væri nú hár mitt skorið, þá hyrfi afl mitt frá mér og ég gjörðist linur og yrði sem allir menn aðrir.' 16.18 Þegar Dalíla sá, að hann hafði sagt henni allt hjarta sitt, þá sendi hún og lét kalla höfðingja Filista, og lét hún segja þeim: 'Nú skuluð þér koma, því að hann hefir sagt mér allt hjarta sitt.' Þá fóru höfðingjar Filista til hennar og höfðu silfrið með sér. 16.19 En hún svæfði hann á skauti sínu og kallaði á mann og lét hann skera hárlokkana sjö af höfði honum. Og hún tók að þjá hann, en afl hans var frá honum horfið. 16.20 Þá sagði hún: 'Filistar yfir þig, Samson!' Þá vaknaði hann af svefninum og hugsaði: Ég slepp í þetta sinn sem hin fyrri og slít mig lausan! En hann vissi ekki, að Drottinn var vikinn frá honum. 16.21 Filistar tóku hann höndum og stungu úr honum augun og fóru með hann niður til Gasa og bundu hann eirfjötrum, og varð hann að draga kvörn í dýflissunni. 16.22 En höfuðhár hans tók aftur að vaxa, eftir að það hafði verið skorið. 16.23 Nú söfnuðust höfðingjar Filista saman til þess að færa Dagón, guði sínum, fórn mikla og til þess að gjöra sér glatt, með því að þeir sögðu: 'Guð vor hefir gefið Samson, óvin vorn, í vorar hendur.' 16.24 Og er fólkið sá hann, vegsömuðu þeir guð sinn, því að þeir sögðu: 'Guð vor hefir gefið óvin vorn í vorar hendur, hann sem eytt hefir land vort og drepið hefir marga menn af oss.' 16.25 En er þeir nú gjörðust glaðir, sögðu þeir: 'Látið sækja Samson, til þess að hann skemmti oss.' Létu þeir nú sækja Samson úr dýflissunni, og varð hann að skemmta þeim. Og þeir höfðu sett hann milli súlnanna. 16.26 Þá sagði Samson við sveininn, sem leiddi hann: 'Slepptu mér og leyfðu mér að þreifa á súlunum, sem húsið hvílir á, svo að ég geti stutt mig upp við þær.' 16.27 En húsið var fullt af körlum og konum. Þar voru og allir höfðingjar Filista, og uppi á þakinu voru um þrjú þúsund karla og kvenna, sem horfðu á, er Samson skemmti. 16.28 Þá hrópaði Samson til Drottins og sagði: 'Drottinn Guð! Minnstu mín! Styrk mig nú, Guð, í þetta eina sinn, svo að ég geti hefnt mín á Filistum fyrir bæði augun mín í einu!' 16.29 Því næst þreif Samson í báðar miðsúlurnar, sem húsið hvíldi á, hægri hendinni í aðra og vinstri hendinni í hina, og treysti á. 16.30 Þá mælti Samson: 'Deyi nú sála mín með Filistum!' Síðan lagðist hann á af öllu afli, svo að húsið féll ofan á höfðingjana og allt fólkið, er í því var, og þeir dauðu, sem hann drap um leið og hann beið bana, voru fleiri en þeir, er hann hafði drepið um ævina. 16.31 Bræður hans fóru ofan og allt ættfólk hans, og tóku þeir hann og fóru upp þaðan með hann og jörðuðu hann millum Sorea og Estaól, í gröf Manóa föður hans. En hann hafði verið dómari í Ísrael í tuttugu ár.
17.1 Maður hét Míka. Hann var frá Efraímfjöllum. 17.2 Hann sagði við móður sína: 'Þeir ellefu hundruð siklar silfurs, sem hafa verið teknir frá þér og þú hefir beðið bölbæna fyrir og talað það í mín eyru, _ sjá, það silfur er nú hjá mér. Ég var sá, sem tók það.' Þá sagði móðir hans: 'Blessaður veri sonur minn af Drottni.' 17.3 Síðan skilaði hann móður sinni þessum ellefu hundruð siklum silfurs aftur, og móðir hans sagði: 'Ég helga að öllu leyti Drottni silfrið úr minni hendi til heilla fyrir son minn, til þess að úr því verði gjört útskorið og steypt líkneski, og fyrir því fæ ég þér það nú aftur.' 17.4 Er hann hafði skilað móður sinni aftur silfrinu, þá tók móðir hans tvö hundruð sikla silfurs og fékk þá gullsmið, og hann gjörði úr þeim útskorið og steypt líkneski, og það var í húsi Míka. 17.5 Þessi maður, Míka, átti goðahús, og hann bjó til hökullíkneski og húsgoð, og hann vígði einn sona sinna, og varð hann prestur hans. 17.6 Í þá daga var enginn konungur í Ísrael. Hver maður gjörði það, er honum vel líkaði. 17.7 Í Betlehem í Júda var ungur maður, af ætt Júda. Hann var levíti og var þar dvalarmaður. 17.8 Þessi maður fór burt úr borginni Betlehem í Júda til þess að fá sér dvalarvist, hvar sem hann gæti. Og hann kom upp í Efraímfjöll, til húss Míka, og ætlaði að halda áfram ferð sinni. 17.9 Míka sagði við hann: 'Hvaðan kemur þú?' Hann svaraði honum: 'Ég er levíti frá Betlehem í Júda, og er ég á ferðalagi til þess að fá mér dvalarvist, hvar sem ég get.' 17.10 Þá sagði Míka við hann: 'Sestu að hjá mér, og skaltu vera faðir minn og prestur, og ég mun gefa þér tíu sikla silfurs um árið og fullan klæðnað og viðurværi þitt.' Og levítinn gekk inn til hans. 17.11 Levítinn lét sér vel líka að setjast að hjá manninum, og fór hann með hinn unga mann sem væri hann einn af sonum hans. 17.12 Og Míka setti levítann inn í embætti, og varð hinn ungi maður prestur hans og var í húsi Míka. 17.13 Þá sagði Míka: 'Nú veit ég, að Drottinn muni gjöra vel við mig, af því að ég hefi levíta fyrir prest.'
18.1 Í þá daga var enginn konungur í Ísrael, og í þá daga var ættkvísl Daníta að leita sér að arfleifð til búsetu, því að henni hafði eigi til þess dags hlotnast nein arfleifð meðal ættkvísla Ísraels. 18.2 Dans synir sendu þá fimm hrausta menn af kynþætti sínum, úr sínum hóp, frá Sorea og Estaól til þess að kanna landið og rannsaka það, og sögðu við þá: 'Farið og rannsakið landið.' Og þeir komu upp í Efraímfjöll, til húss Míka, og voru þar nætursakir. 18.3 Þegar þeir voru staddir hjá húsi Míka, þekktu þeir málfæri hins unga manns, levítans, og viku þangað og sögðu við hann: 'Hver hefir fært þig hingað? Hvað hefst þú hér að og hverja kosti hefir þú hér?' 18.4 Og hann sagði við þá: 'Svo og svo hefir Míka gjört við mig. Hann leigði mig, og gjörðist ég prestur hans.' 18.5 Þá sögðu þeir við hann: 'Gakk þú til frétta við Guð, svo að vér fáum að vita, hvort för sú muni lánast, sem vér nú erum að fara.' 18.6 Presturinn svaraði þeim: 'Farið heilir. Förin, sem þér eruð að fara, er Drottni þóknanleg.' 18.7 Síðan fóru mennirnir fimm leiðar sinnar og komu til Laís, og sáu þeir að fólkið, sem bjó þar, var óhult um sig að hætti Sídoninga, öruggt og óhult, og að ekki var skortur á neinu þar í landi og að fólkið var auðugt. Þeir voru og langt frá Sídoningum og höfðu engin mök við neinn. 18.8 Og þeir komu til bræðra sinna í Sorea og Estaól. Og bræður þeirra sögðu við þá: 'Hvað hafið þér að segja?' 18.9 Þeir svöruðu: 'Af stað! Vér skulum fara í móti þeim, því að vér höfum séð landið, og sjá, það er mjög gott. Og þér eruð aðgjörðalausir! Verið ekki tregir að leggja af stað í ferð þessa til þess að taka landið til eignar. 18.10 Þegar þér komið þangað, munuð þér hitta ugglaust fólk, og landið er víðáttumikið á allar hliðar, því að Guð hefir gefið það í yðar hendur, land, þar sem ekki er skortur á neinu því, sem til er á jörðinni.' 18.11 Þá tóku sig upp þaðan, frá Sorea og Estaól, sex hundruð menn, búnir hervopnum, af kynþætti Daníta. 18.12 Héldu þeir norður eftir og settu herbúðir sínar í Kirjat Jearím í Júda. Fyrir því er sá staður kallaður 'Dans herbúðir' fram á þennan dag, sjá, það er fyrir vestan Kirjat Jearím. 18.13 Þaðan fóru þeir yfir á Efraímfjöll og komu til húss Míka. 18.14 Þá hófu mennirnir fimm máls, þeir er farið höfðu til Laís til þess að kanna landið, og sögðu við frændur sína: 'Vitið þér, að í þessum húsum er hökullíkneski, húsgoð, skurðlíkneski og steypt líkneski? Hyggið nú að, hvað þér eigið að gjöra!' 18.15 Og þeir viku þangað og komu í hús hins unga manns, levítans, í hús Míka, og spurðu hann, hvernig honum liði. 18.16 En þeir sex hundruð menn, sem voru af sonum Dans, stóðu búnir hervopnum fyrir utan hliðið, 18.17 og mennirnir fimm, sem farið höfðu að kanna landið, fóru upp og komu þangað, tóku skurðlíkneskið, hökullíkneskið, húsgoðin og steypta líkneskið. En presturinn stóð fyrir utan hliðið og þeir sex hundruð menn, búnir hervopnum. 18.18 En er þeir voru komnir inn í hús Míka, þá tóku þeir skurðlíkneskið, hökullíkneskið, húsgoðin og steypta líkneskið. Og presturinn sagði við þá: 'Hvað hafist þér að?' 18.19 En þeir svöruðu honum: 'Þegi þú! Legg þú hönd þína á munn þér og far með oss, og ver þú faðir vor og prestur! Er þér það betra að vera heimilisprestur eins manns heldur en að vera prestur hjá ættkvísl og kynþætti í Ísrael?' 18.20 Prestur tók þessu feginsamlega og tók hökullíkneskið, húsgoðin og skurðlíkneskið og slóst í för með mönnunum. 18.21 Sneru þeir nú á leið og héldu af stað og létu börn og búsmala og verðmæta hluti fara á undan sér. 18.22 En er þeir voru komnir langt í burt frá húsi Míka, þá voru þeir menn, sem bjuggu í húsunum hjá húsi Míka, kallaðir saman, og eltu þeir Dans syni og náðu þeim. 18.23 Og þeir kölluðu til Dans sona, og sneru þeir sér þá við og sögðu við Míka: 'Hvað stendur til fyrir þér, er þú kemur svo fjölmennur?' 18.24 Hann svaraði: 'Þér hafið tekið guði mína, sem ég hafði gjört mér, og prestinn, og eruð farnir burt. Hvað á ég þá eftir? Hvernig getið þér þá spurt mig: Hvað stendur til fyrir þér?' 18.25 Þá sögðu Dans synir við hann: 'Haf engin orð við oss, ella kynnu gremjufullir menn að ráðast á yður og þú verða valdur að því, að bæði þú og þitt hús týni lífi.' 18.26 Síðan fóru Dans synir leiðar sinnar. En Míka sá, að þeir voru honum ofurefli, og sneri því við og fór aftur heim til sín. 18.27 Þeir tóku skurðlíkneskið, sem Míka hafði til búið, svo og prestinn, sem hann hafði haft, og réðust á Laís, ugglaust fólk og óhult um sig, og felldu þá með sverðseggjum, en lögðu eld í borgina. 18.28 Og þar var enginn, sem kæmi þeim til hjálpar, því að borgin lá langt frá Sídon og þeir höfðu ekki mök við nokkurn mann, enda lá borgin í dalnum, sem er hjá Bet-Rehób. Síðan endurreistu þeir borgina og settust þar að. 18.29 Þeir nefndu borgina Dan, eftir nafni Dans, föður þeirra, er fæddist Ísrael, en í öndverðu hafði borgin heitið Laís. 18.30 Og Dans synir reistu upp skurðlíkneskið handa sér, og Jónatan Gersómsson, Mósesonar, og synir hans voru prestar hjá ættkvísl Daníta, til þess er fólkið var flutt burt úr landinu. 18.31 Og þeir settu upp skurðlíkneski Míka handa sér, það er hann hafði til búið, og stóð það alla þá stund er Guðs hús var í Síló.
19.1 Um þær mundir bar svo til _ en þá var enginn konungur í Ísrael _ að levíti nokkur bjó innst inni í Efraímfjöllum, og tók hann sér að hjákonu kvenmann nokkurn frá Betlehem í Júda. 19.2 En þessi hjákona hans var honum ótrú og fór frá honum til húss föður síns í Betlehem í Júda og var þar fjögra mánaða tíma. 19.3 En maður hennar tók sig upp og fór eftir henni til þess að tala um fyrir henni og til þess að sækja hana, og hafði hann með sér svein sinn og tvo asna. Hún leiddi hann þá inn í hús föður síns, og er faðir stúlkunnar sá hann, gladdist hann yfir komu hans. 19.4 En tengdafaðir hans, faðir stúlkunnar, hélt honum, svo að hann dvaldist hjá honum í þrjá daga. Átu þeir og drukku og voru þar um nóttina. 19.5 En fjórða daginn risu þeir árla um morguninn og bjóst hinn nú til ferðar. Þá sagði faðir stúlkunnar við tengdason sinn: 'Hresstu þig fyrst á matarbita og síðan megið þið fara.' 19.6 Þá settust þeir niður og átu báðir saman og drukku. En faðir stúlkunnar sagði við manninn: 'Lát þér það lynda að vera í nótt, og lát liggja vel á þér.' 19.7 En maðurinn bjóst til að fara. Þá lagði tengdafaðir hans svo að honum, að hann settist aftur og var þar um nóttina. 19.8 Fimmta daginn reis hann árla um morguninn og ætlaði að halda af stað. Þá sagði faðir stúlkunnar: 'Hresstu þig þó fyrst, og bíðið þið uns degi hallar.' Og þeir átu báðir saman. 19.9 En er maðurinn bjóst til að fara, ásamt hjákonu sinni og sveini sínum, þá sagði tengdafaðir hans, faðir stúlkunnar, við hann: 'Það er orðið áliðið og dagur að kveldi kominn; verið í nótt. Sjá, degi hallar. Ver þú í nótt og láttu liggja vel á þér, en á morgun getið þið lagt upp snemma, svo að þú getir náð heim til þín.' 19.10 En maðurinn vildi ekki vera um nóttina, heldur bjóst til ferðar og hélt af stað og komst norður á móts við Jebús, það er Jerúsalem, og hann hafði með sér tvo söðlaða asna og hjákonu sína. 19.11 Þegar þau voru hjá Jebús og mjög var liðið á dag, þá sagði sveinninn við húsbónda sinn: 'Kom þú, við skulum fara inn í þessa Jebúsíta borg og gista þar.' 19.12 En húsbóndi hans sagði við hann: 'Ekki skulum við fara inn í borg ókunnugra manna, þar sem engir Ísraelsmenn búa, höldum heldur áfram til Gíbeu.' 19.13 Og hann sagði við svein sinn: 'Kom þú, við skulum fara í einhvern af stöðunum og gista í Gíbeu eða Rama.' 19.14 Síðan héldu þeir áfram leið sína, en sól gekk undir, er þeir voru hjá Gíbeu, sem heyrir Benjamín. 19.15 Viku þeir þar af leið til þess að fara inn í Gíbeu til gistingar. Og er hann kom þangað, staðnæmdist hann á bæjartorginu, en enginn tók þau inn í hús sitt til gistingar. 19.16 Maður nokkur gamall kom frá vinnu sinni utan af akri um kveldið. Hann var frá Efraímfjöllum og bjó sem útlendingur í Gíbeu, en mennirnir, sem þarna bjuggu, voru Benjamínítar. 19.17 Og er honum varð litið upp, sá hann ferðamanninn á bæjartorginu. Þá sagði gamli maðurinn: 'Hvert ætlar þú að fara og hvaðan kemur þú?' 19.18 Hinn svaraði honum: 'Við komum frá Betlehem í Júda og ætlum innst inn í Efraímfjöll. Þaðan er ég. Ég fór suður til Betlehem og er nú á heimleið, en enginn hefir boðið mér hér inn til sín. 19.19 Við höfum bæði hálm og fóður handa ösnum okkar, svo og brauð og vín handa mér og ambátt þinni og sveininum, sem er með þjónum þínum. Hér er einskis vant.' 19.20 Þá sagði gamli maðurinn: 'Vertu velkominn! Lofaðu mér nú að annast allt, sem þig kann að bresta, en úti máttu ekki liggja í nótt hér á torginu.' 19.21 Og hann leiddi hann inn í hús sitt og gaf ösnunum, og þau þvoðu fætur sína og átu og drukku. 19.22 Nú sem þau gæddu sér, sjá, þá umkringdu borgarmenn _ hrakmenni nokkur _ húsið, lömdu utan hurðina og kölluðu til gamla mannsins, húsbóndans: 'Leið út manninn, sem til þín er kominn, að vér megum kenna hans.' 19.23 Þá gekk maðurinn, húsbóndinn, út til þeirra og sagði við þá: 'Nei, bræður mínir, fyrir hvern mun fremjið ekki óhæfu. Fyrst þessi maður er kominn inn í mitt hús, þá fremjið ekki slíka svívirðingu. 19.24 Hér er dóttir mín, sem er mey, og hjákona hans, ég ætla að leiða þær út, og þær megið þér taka nauðugar og gjöra við þær sem yður vel líkar, en á manni þessum skuluð þér ekki fremja slíka svívirðingu.' 19.25 En mennirnir vildu ekki hlýða á hann. Þá þreif maðurinn í hjákonu sína og leiddi hana út á strætið til þeirra, og þeir kenndu hennar og misþyrmdu henni alla nóttina, allt til morguns, og slepptu henni ekki fyrr en dagur rann. 19.26 Þegar birta tók af degi, kom konan og féll niður fyrir húsdyrum mannsins, þar sem bóndi hennar var inni, og lá þar, uns bjart var orðið. 19.27 En er bóndi hennar reis um morguninn og lauk upp húsdyrunum og gekk út og ætlaði að halda af stað, sjá, þá lá konan, hjákona hans, úti fyrir dyrunum með hendurnar á þröskuldinum. 19.28 Hann mælti þá til hennar: 'Stattu upp, við skulum halda af stað!' _ en fékk ekkert svar. Þá lét hann hana upp á asnann, og maðurinn tók sig upp og hélt heim til sín. 19.29 En er hann kom heim, tók hann hníf, þreif hjákonu sína og hlutaði hana alla sundur í tólf hluti og sendi þá út um alla Ísraels byggð. 19.30 En hverjum þeim, er sá það, varð að orði: 'Eigi hefir slíkt við borið og eigi hefir slíkt sést síðan er Ísraelsmenn fóru af Egyptalandi allt fram á þennan dag! Hugleiðið þetta, leggið á ráð og segið til!'
20.1 Þá lögðu allir Ísraelsmenn af stað, og safnaðist lýðurinn saman sem einn maður frá Dan til Beerseba, svo og Gíleaðland, fram fyrir Drottin í Mispa. 20.2 Og höfðingjar alls lýðsins, allar ættkvíslir Ísraels, gengu fram í söfnuði Guðs fólks _ fjögur hundruð þúsund fótgangandi menn, vopnum búnir. 20.3 Benjamíns synir fréttu, að Ísraelsmenn væru farnir upp til Mispa. Ísraelsmenn sögðu: 'Segið frá, hvernig atvikaðist óhæfuverk þetta.' 20.4 Þá svaraði levítinn, maður konunnar, er myrt hafði verið, og sagði: 'Ég kom til Gíbeu, sem heyrir Benjamín, ásamt hjákonu minni og ætlaði að vera þar nætursakir. 20.5 Þá risu Gíbeubúar upp á móti mér og umkringdu húsið um nóttina og létu ófriðlega. Mig hugðust þeir að drepa og hjákonu minni nauðguðu þeir svo, að hún beið bana af. 20.6 Þá tók ég hjákonu mína og hlutaði hana sundur og sendi hana út um allt arfleifðarland Ísraels, því að þeir höfðu framið níðingsverk og óhæfu í Ísrael. 20.7 Þér eruð hér allir, Ísraelsmenn! Kveðið nú upp tillögur yðar og ráð!' 20.8 Þá reis upp allur lýður, sem einn maður væri, og sagði: 'Enginn af oss skal fara heim til sín og enginn snúa heim til húss síns. 20.9 Og nú skulum vér fara þannig að við Gíbeu: Vér skulum ráðast gegn henni eftir hlutkesti. 20.10 Vér skulum taka tíu menn af hundraði af öllum ættkvíslum Ísraels og hundrað af þúsundi og þúsund af tíu þúsundum til þess að sækja vistir handa liðinu. Þegar þeir koma aftur, verður farið með Gíbeu í Benjamín með öllu svo sem maklegt er fyrir óhæfuverk það, er þeir hafa framið í Ísrael.' 20.11 Þá söfnuðust allir Ísraelsmenn saman í móti borginni, allir samhuga sem einn maður væri. 20.12 Ættkvíslir Ísraels sendu menn um alla ættkvísl Benjamíns og létu þá segja: 'Hvílík óhæfa er þetta, sem framin hefir verið yðar á meðal. 20.13 Framseljið því hrakmennin í Gíbeu, svo að vér fáum drepið þá og upprætt hið illa úr Ísrael.' En Benjamíns synir vildu ekki gefa gaum orðum bræðra sinna, Ísraelsmanna. 20.14 Söfnuðust Benjamíns synir þá saman úr borgunum til Gíbeu til þess að fara í hernað móti Ísraelsmönnum. 20.15 En Benjamíns synir, þeir er úr borgunum komu, voru á þeim degi tuttugu og sex þúsundir vopnaðra manna að tölu, auk Gíbeu-búa, en þeir voru sjö hundruð að tölu, einvala lið. 20.16 Af öllu þessu liði voru sjö hundruð úrvals menn örvhentir. Hæfðu þeir allir hárrétt með slöngusteini og misstu ekki. 20.17 En Ísraelsmenn voru að tölu, fyrir utan Benjamín, fjögur hundruð þúsund vopnaðra manna, og voru þeir allir hermenn. 20.18 Ísraelsmenn tóku sig upp og fóru upp til Betel og gengu til frétta við Guð og sögðu: 'Hver af oss skal fyrstur fara í hernaðinn móti Benjamíns sonum?' Drottinn svaraði: 'Júda skal fyrstur fara'. 20.19 Ísraelsmenn tóku sig upp um morguninn og settu herbúðir sínar hjá Gíbeu. 20.20 Og Ísraelsmenn fóru til bardaga í móti Benjamín, og Ísraelsmenn fylktu sér til orustu gegn þeim nálægt Gíbeu. 20.21 Þá fóru Benjamíns synir út úr Gíbeu og lögðu að velli tuttugu og tvær þúsundir manna af Ísrael á þeim degi. 20.22 En lið Ísraelsmanna herti upp hugann, og fylktu þeir sér af nýju til orustu á þeim stað, sem þeir höfðu fylkt sér hinn fyrri daginn. 20.23 Og Ísraelsmenn fóru upp eftir og grétu frammi fyrir Drottni allt til kvelds, og þeir gengu til frétta við Drottin og sögðu: 'Eigum vér enn að leggja til orustu við sonu Benjamíns, bróður vors?' Drottinn svaraði: 'Farið á móti þeim.' 20.24 Fóru Ísraelsmenn nú í móti Benjamíns sonum á öðrum degi. 20.25 Og Benjamín fór út í móti þeim úr Gíbeu á öðrum degi, og lögðu þeir enn að velli átján þúsund manns af Ísraelsmönnum, og voru þeir allir vopnum búnir. 20.26 Þá fóru allir Ísraelsmenn og allur lýðurinn upp eftir og komu til Betel og höfðust þar við grátandi fyrir augliti Drottins og föstuðu þann dag til kvelds. Og þeir fórnuðu brennifórnum og heillafórnum fyrir augliti Drottins. 20.27 Síðan gengu Ísraelsmenn til frétta við Drottin, en þar var sáttmálsörk Guðs í þá daga, 20.28 og Pínehas, sonur Eleasars Aronssonar, gegndi þjónustu fyrir augliti hans í þá daga. Þeir sögðu: 'Eigum vér enn að leggja til orustu við sonu Benjamíns, bróður vors, eða eigum vér að hætta?' Drottinn svaraði: 'Farið, því að á morgun mun ég gefa þá í yðar hendur.' 20.29 Nú setti Ísrael menn í launsát hringinn í kringum Gíbeu. 20.30 Og Ísraelsmenn fóru í móti Benjamíns sonum á þriðja degi og fylktu þeir sér gegnt Gíbeu, eins og hin fyrri skiptin. 20.31 Þá fóru Benjamíns synir út á móti liðinu og létu teygjast burt frá borginni og tóku að fella nokkra af liðinu, eins og hin fyrri skiptin, úti á þjóðvegunum (annar þeirra liggur upp til Betel, en hinn til Gíbeu yfir haglendið), um þrjátíu manns af Ísrael. 20.32 Þá hugsuðu Benjamíns synir: 'Þeir bíða ósigur fyrir oss eins og í fyrsta sinnið.' En Ísraelsmenn höfðu sagt: 'Vér skulum flýja, svo að vér fáum teygt þá frá borginni út á þjóðvegina.' 20.33 Og allir Ísraelsmenn tóku sig upp úr sínum stað og fylktu sér í Baal Tamar, og þeir Ísraelsmanna, er í launsát voru, þustu fram úr sínum stað fyrir vestan Geba. 20.34 Því næst sóttu tíu þúsundir einvala liðs úr öllum Ísrael fram móti Gíbeu og tókst þar hörð orusta, en hinir vissu ekki að ógæfan vofði yfir þeim. 20.35 Þannig lét Drottinn Benjamín bíða ósigur fyrir Ísrael, og Ísraelsmenn drápu tuttugu og fimm þúsund og eitt hundrað manns af Benjamín á þeim degi, og voru þeir allir vopnum búnir. 20.36 Þá sáu Benjamíns synir, að þeir höfðu beðið ósigur. Ísraelsmenn gáfu Benjamín rúm, því að þeir treystu launsátinni, er þeir höfðu sett hjá Gíbeu. 20.37 En þeir, sem í launsátinni voru, spruttu upp og geystust fram mót Gíbeu og fóru til og felldu alla borgarbúa með sverðseggjum. 20.38 Það var samkomulag milli Ísraelsmanna og þeirra, er í launsátinni voru, að þeir skyldu láta reyk leggja upp af borginni til merkis. 20.39 Þegar nú Ísraelsmenn snerust á flótta í bardaganum og Benjamínítar tóku að fella nokkra af Ísraelsmönnum, um þrjátíu manns, með því að þeir hugsuðu: 'Þeir hafa þegar beðið ósigur fyrir oss, eins og í fyrstu orustunni!' 20.40 þá tók merkið að stíga upp af borginni, reykjarmökkurinn, og er Benjamínítar sneru sér við, sjá, þá stóð öll borgin í björtu báli. 20.41 Þá sneru Ísraelsmenn við, og sló felmti á Benjamíníta, því að þeir sáu, að ógæfan var yfir þá komin. 20.42 Sneru þeir nú undan Ísraelsmönnum á leið til eyðimerkurinnar, og hélst þó orustan á hælum þeim, og þeir, sem komu úr borgunum, drápu þá mitt á meðal þeirra. 20.43 Þeir umkringdu Benjamíníta, eltu þá og tróðu þá undir fótum sér, þar sem þeir höfðu leitað sér hvíldar, alla leið austur fyrir Gíbeu. 20.44 Og þar féllu af Benjamín átján þúsundir manna, og voru það allt hraustir menn. 20.45 Þá sneru þeir á flótta til eyðimerkurinnar að Rimmónkletti, og í eftirleitinni um þjóðvegina drápu þeir fimm þúsund manns, og þeir eltu þá allt til Gídeóm og drápu enn af þeim tvö þúsund manns. 20.46 Þannig féllu alls af Benjamín á þeim degi tuttugu og fimm þúsundir vopnbúinna manna, og voru það allt hraustir menn. 20.47 Þá sneru þeir á flótta til eyðimerkurinnar að Rimmónkletti, sex hundruð manns, og höfðust við hjá Rimmónkletti í fjóra mánuði. 20.48 En Ísraelsmenn sneru aftur til Benjamíns sona og felldu þá með sverðseggjum, bæði menn og fénað og allt, sem þeir fundu. Þeir lögðu og eld í allar borgirnar, sem fyrir þeim urðu.
21.1 Ísraelsmenn höfðu unnið eið í Mispa og sagt: 'Enginn af oss skal gifta Benjamíníta dóttur sína.' 21.2 Og lýðurinn fór til Betel, og þeir dvöldu þar fram á kveld fyrir augliti Guðs og hófu þar mikið harmakvein 21.3 og sögðu: 'Drottinn, Ísraels Guð! Hví hefir þetta við borið í Ísrael, að nú skuli vanta eina ættkvíslina í Ísrael?' 21.4 Morguninn eftir reis lýðurinn árla og reisti þar altari og fórnaði brennifórnum og heillafórnum. 21.5 Því næst sögðu Ísraelsmenn: 'Mun nokkur vera sá af öllum ættkvíslum Ísraels, er ekki hafi komið upp hingað til Drottins með söfnuðinum?' Því að það hafði verið föstum svardögum bundið, að hver sá, er ekki kæmi upp til Drottins í Mispa, sá hinn sami skyldi lífi týna. 21.6 Og Ísraelsmenn tók sárt til Benjamíns bróður síns og þeir sögðu: 'Nú er ein ættkvísl upphöggvin úr Ísrael! 21.7 Hvernig eigum vér að fara að því að útvega þeim konur, sem eftir eru, þar eð vér höfum unnið Drottni eið að því að gifta þeim eigi neina af dætrum vorum?' 21.8 Þá sögðu þeir: 'Er nokkur sá af ættkvíslum Ísraels, er ekki hafi farið upp til Drottins í Mispa?' Og sjá, frá Jabes í Gíleað hafði enginn komið í herbúðirnar til samkomunnar. 21.9 Fór nú fram liðskönnun, og sjá, enginn var þar af íbúum Jabes í Gíleað. 21.10 Þá sendi lýðurinn þangað tólf þúsundir hraustra manna og lagði svo fyrir þá: 'Farið og fellið íbúana í Jabes í Gíleað með sverðseggjum, ásamt konum og börnum. 21.11 En þannig skuluð þér að fara: Alla karlmenn og allar konur, er samræði hafa átt við mann, skuluð þér banni helga, en meyjar skuluð þér láta lífi halda.' Þeir gjörðu svo. 21.12 Og þeir fundu meðal íbúanna í Jabes í Gíleað fjögur hundruð meyjar, er eigi höfðu samræði átt við mann, og þeir fóru með þær til herbúðanna í Síló, sem er í Kanaanlandi. 21.13 Þá sendi allur lýðurinn og lét tala við Benjamíns sonu, þá er voru hjá Rimmónkletti, og bauð þeim frið. 21.14 Þá hurfu Benjamínítar aftur og þeir gáfu þeim konur þær, er þeir höfðu látið lífi halda af konunum í Jabes í Gíleað. Þær voru þó ekki nógu margar handa þeim. 21.15 Lýðinn tók sárt til Benjamíns, því að Drottinn hafði höggvið skarð í ættkvíslir Ísraels. 21.16 Þá sögðu öldungar lýðsins: 'Hvernig eigum vér að fara að því að útvega þeim, sem eftir eru, konur, því að konur hafa verið gjöreyddar úr Benjamín?' 21.17 Og þeir sögðu: 'Hvernig mega þeir af Benjamínítum, er undan hafa komist, halda arfleifð sinni, svo að eigi verði ættkvísl afmáð úr Ísrael? 21.18 En ekki getum vér gift þeim neina af dætrum vorum.' Því að Ísraelsmenn höfðu svarið: 'Bölvaður sé sá, sem gefur Benjamín konu!' 21.19 Þá sögðu þeir: 'Sjá, hátíð Drottins er árlega haldin í Síló, sem liggur fyrir norðan Betel, fyrir austan þjóðveginn, sem liggur frá Betel upp til Síkem, og fyrir sunnan Lebóna.' 21.20 Og þeir lögðu svo fyrir Benjamíns sonu: 'Farið og liggið í leyni í víngörðunum. 21.21 Og er þér sjáið Sílódætur ganga út til dansleika, þá skuluð þér spretta upp úr víngörðunum og ræna yður sinni konunni hver af Sílódætrum. Farið síðan heim í Benjamínsland. 21.22 En þegar feður þeirra eða bræður koma að kæra þetta fyrir oss, þá skulum vér segja við þá: ,Gefið oss þær, því að vér fengum engar konur í stríðinu. Þér hafið ekki heldur gefið þeim þær. Ef svo væri, þá væruð þér sekir.'` 21.23 Benjamíns synir gjörðu svo og tóku sér konur, eins og þeir voru margir til, meðal dansmeyjanna, sem þeir rændu. Síðan fóru þeir og hurfu aftur til óðals síns og reistu að nýju borgirnar og bjuggu í þeim. 21.24 Þá fóru og Ísraelsmenn þaðan, hver til sinnar kynkvíslar og sinnar ættar, og þeir héldu þaðan hver til óðals síns.
1.1 Í þá daga, er dómararnir stjórnuðu, bar svo til, að hallæri var í landinu. Fór þá maður nokkur frá Betlehem í Júda til þess að dveljast sem útlendingur í Móabslandi ásamt konu sinni og tveimur sonum sínum. 1.2 Þessi maður hét Elímelek og kona hans Naomí, en synir hans tveir Mahlón og Kiljón. Þau voru af Efrataætt frá Betlehem í Júda. Þau komu til Móabslands og dvöldust þar. 1.3 Þá dó Elímelek, maður Naomí, en hún lifði eftir með báðum sonum sínum. 1.4 Þeir gengu að eiga móabítískar konur, og hét önnur Orpa, en hin Rut. Og þeir bjuggu þar hér um bil tíu ár. 1.5 Þá dóu þeir líka báðir, Mahlón og Kiljón, og konan lifði ein eftir báða sonu sína og mann sinn. 1.6 Þá bjóst Naomí til að hverfa aftur heim frá Móabslandi með tengdadætrum sínum, því að hún hafði heyrt í Móabslandi, að Drottinn hefði vitjað lýðs síns og gefið þeim brauð. 1.7 Lagði hún nú af stað þaðan, er hún hafði verið, og báðar tengdadætur hennar með henni. En er þær voru farnar á leið til þess að hverfa aftur til Júdalands, 1.8 þá sagði Naomí við báðar tengdadætur sínar: 'Farið, snúið við, hvor um sig til húss móður sinnar. Drottinn auðsýni ykkur gæsku, eins og þið hafið auðsýnt hinum látnu og mér. 1.9 Drottinn gefi ykkur, að þið megið finna athvarf hvor um sig í húsi manns síns.' Síðan kyssti hún þær. En þær tóku að gráta hástöfum 1.10 og sögðu við hana: 'Nei, við viljum hverfa aftur með þér til þíns fólks!' 1.11 Naomí svaraði: 'Hverfið aftur, dætur mínar! Hví viljið þið fara með mér? Mun ég enn bera sonu í skauti mínu, er verða megi menn ykkar? 1.12 Hverfið aftur, dætur mínar, farið heim, því að ég er orðin of gömul til að giftast aftur. En setjum nú svo, að ég hugsaði: ,Ég hefi enn von,` og að ég giftist meira að segja í kveld og fæddi einnig sonu, ættuð þið fyrir þá sök að bíða, til þess er þeir yrðu fulltíða? 1.13 Ættuð þið fyrir þá sök að loka ykkur inni og ekki giftast? Nei, dætur mínar, mig tekur mjög sárt til ykkar, því að hönd Drottins hefir lagst þungt á mig.' 1.14 Þá tóku þær enn að gráta hástöfum. Og Orpa kvaddi tengdamóður sína með kossi, en Rut gat ekki slitið sig frá henni. 1.15 Þá mælti Naomí: 'Sjá, mágkona þín er snúin heim aftur til síns fólks og síns guðs. Far þú heim aftur á eftir mágkonu þinni.' 1.16 En Rut svaraði: 'Leggðu eigi að mér um það að yfirgefa þig og hverfa aftur, en fara eigi með þér, því að hvert sem þú fer, þangað fer ég, og hvar sem þú náttar, þar nátta ég. Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð. 1.17 Hvar sem þú deyr, þar dey ég, og þar vil ég vera grafin. Hvað sem Drottinn lætur fram við mig koma, þá skal dauðinn einn aðskilja mig og þig.' 1.18 Og er Naomí sá, að hún var fastráðin í því að fara með henni, hætti hún að tala um fyrir henni. 1.19 Síðan héldu þær báðar áfram, uns þær komu til Betlehem. En er þær komu til Betlehem, komst öll borgin í uppnám út af þeim og konur sögðu: 'Er þetta Naomí?' 1.20 Og hún sagði við þær: 'Kallið mig ekki Naomí, kallið mig Mara, því að hinn Almáttki hefir búið mér beiska harma. 1.21 Rík fór ég héðan, en tómhenta hefir Drottinn látið mig aftur hverfa. Hví kallið þér mig Naomí, úr því Drottinn hefir vitnað í móti mér og hinn Almáttki hrellt mig?' 1.22 Þannig hvarf Naomí heim aftur og með henni Rut hin móabítíska, tengdadóttir hennar, sem heim hvarf frá Móabslandi. Þær komu til Betlehem í byrjun byggskurðar.
2.1 Naomí átti þar frænda manns síns, ríkan mann af ætt Elímeleks, og hét hann Bóas. 2.2 Og Rut hin móabítíska sagði við Naomí: 'Ég ætla að fara út á akurinn og tína upp öx á eftir einhverjum þeim, er kann að sýna mér velvild.' Naomí svaraði henni: 'Far, þú, dóttir mín!' 2.3 Rut fór og tíndi á akrinum á eftir kornskurðarmönnunum, og henni vildi svo vel til, að teig þennan átti Bóas, sem var í ætt við Elímelek. 2.4 Og sjá, Bóas kom frá Betlehem og sagði við kornskurðarmennina: 'Drottinn sé með yður!' Þeir svöruðu: 'Drottinn blessi þig!' 2.5 Bóas mælti við þjón sinn, sem settur var yfir kornskurðarmennina: 'Hverjum heyrir þessi stúlka til?' 2.6 Þjónninn, sem settur var yfir kornskurðarmennina, svaraði og sagði: 'Það er móabítísk stúlka, sú sem kom aftur með Naomí frá Móabslandi. 2.7 Hún sagði: ,Leyf mér að tína upp og safna saman meðal bundinanna á eftir kornskurðarmönnunum.` Og hún kom og hefir verið að frá því í morgun og þangað til nú og hefir ekki gefið sér neinn tíma til að hvíla sig.' 2.8 Þá sagði Bóas við Rut: 'Heyr þú, dóttir mín! Far þú ekki á annan akur til þess að tína, og far þú heldur ekki héðan, en haltu þig hér hjá stúlkum mínum. 2.9 Gef þú gætur að þeim akri, þar sem kornskurðarmennirnir skera upp, og gakk þú á eftir þeim. Ég hefi boðið piltunum að amast ekki við þér. Og ef þig þyrstir, þá gakk að ílátunum og drekk af því, sem piltarnir ausa.' 2.10 Þá féll hún fram á ásjónu sína og laut niður að jörðu og sagði við hann: 'Hvers vegna sýnir þú mér þá velvild að víkja mér góðu, þar sem ég þó er útlendingur?' 2.11 Bóas svaraði og sagði við hana: 'Mér hefir verið sagt allt af því, hvernig þér hefir farist við tengdamóður þína eftir dauða manns þíns, og að þú hefir yfirgefið föður þinn og móður og ættland þitt og farið til fólks, sem þú þekktir ekki áður. 2.12 Drottinn umbuni verk þitt, og laun þín verði fullkomin, er þú hlýtur af Drottni, Ísraels Guði, þar sem þú ert komin að leita skjóls undir vængjum hans.' 2.13 Rut sagði: 'Ó, að ég mætti finna náð í augum þínum, herra minn, því að þú hefir huggað mig og talað vinsamlega við ambátt þína, og er ég þó ekki einu sinni jafningi ambátta þinna.' 2.14 Er matmálstími kom, sagði Bóas við hana: 'Kom þú hingað og et af brauðinu og dýf bita þínum í vínediksblönduna.' Þá settist hún hjá kornskurðarmönnunum, og hann rétti henni bakað korn, og hún át sig sadda og leifði. 2.15 Síðan stóð hún upp og fór að tína. Þá lagði Bóas svo fyrir pilta sína: 'Hún má einnig tína millum bundinanna, og gjörið henni ekkert mein 2.16 og dragið jafnvel öx út úr hnippunum handa henni og látið eftir liggja, svo að hún megi tína, og eigi skuluð þér atyrða hana.' 2.17 Síðan tíndi hún á akrinum allt til kvelds. Og er hún barði kornið úr því, er hún hafði tínt, þá var það hér um bil efa af byggi. 2.18 Hún tók það og fór inn í borgina, og sá tengdamóðir hennar, hvað hún hafði tínt. Því næst tók hún fram það, er hún hafði leift, þá er hún var södd orðin, og fékk henni. 2.19 Þá sagði tengdamóðir hennar við hana: 'Hvar hefir þú tínt í dag og hvar hefir þú unnið? Blessaður sé sá, sem vikið hefir þér góðu!' Hún sagði tengdamóður sinni frá, hjá hverjum hún hefði unnið, og mælti: 'Maðurinn, sem ég hefi unnið hjá í dag, heitir Bóas.' 2.20 Þá sagði Naomí við tengdadóttur sína: 'Blessaður sé hann af Drottni, sem hefir ekki látið af miskunn sinni við lifandi og látna.' Og Naomí sagði við hana: 'Maðurinn er okkur nákominn; hann er einn af lausnarmönnum okkar.' 2.21 Þá sagði Rut hin móabítíska: 'Hann sagði og við mig: ,Haltu þig hjá mínum piltum, uns þeir hafa lokið öllum kornskurði hjá mér.'` 2.22 Og Naomí sagði við Rut, tengdadóttur sína: 'Það er gott, dóttir mín, að þú farir út með ambáttum hans. Þá munu menn eigi áreita þig á öðrum akri.' 2.23 Síðan hélt hún sig hjá stúlkum Bóasar, þá er hún var að tína, uns byggskurðinum og hveitiskurðinum var lokið. Eftir það var hún kyrr hjá tengdamóður sinni.
3.1 Naomí, tengdamóðir Rutar, sagði við hana: 'Dóttir mín, á ég ekki að útvega þér athvarf, til þess að þér vegni vel? 3.2 Þú hefir verið með stúlkunum hans Bóasar, en hann er frændi okkar. Sjá, hann varpar í nótt bygginu í láfa sínum. 3.3 Þvo þér nú og smyr þig og far í önnur föt og gakk ofan í láfann, en láttu ekki manninn verða varan við þig fyrr en hann hefir etið og drukkið. 3.4 En þegar hann leggst til hvíldar, þá taktu eftir, hvar hann leggst niður, og gakk þú þangað og flettu upp ábreiðunni til fóta honum og leggst þar niður. Hann mun þá segja þér, hvað þú átt að gjöra.' 3.5 Og hún svaraði henni: 'Ég vil gjöra allt, sem þú segir.' 3.6 Síðan gekk hún ofan í láfann og gjörði allt svo sem tengdamóðir hennar hafði fyrir hana lagt. 3.7 Er Bóas hafði etið og drukkið og var í góðu skapi, þá fór hann og lagðist til hvíldar við endann á kornbingnum. Þá kom hún hljóðlega, fletti upp ábreiðunni til fóta honum og lagðist niður. 3.8 En um miðnætti varð manninum bilt við, og er hann settist upp, sjá, þá lá kona til fóta honum. 3.9 Og hann sagði: 'Hver ert þú?' Hún svaraði: 'Ég er Rut ambátt þín. Breið þú væng þinn yfir ambátt þína, því að þú ert lausnarmaður.' 3.10 Þá sagði hann: 'Blessuð sért þú af Drottni, dóttir mín! Þú hefir nú síðast sýnt elsku þína enn betur en áður, með því að elta ekki ungu mennina, hvorki fátækan né ríkan. 3.11 Og ver þú nú óhrædd, dóttir mín. Að öllu, svo sem þú segir, mun ég við þig gjöra, því að allir samborgarmenn mínir vita, að þú ert væn kona. 3.12 Nú er það að vísu satt, að ég er lausnarmaður, en þó er til annar lausnarmaður, sem er nákomnari en ég. 3.13 Vertu hér í nótt, en á morgun, ef hann þá vill leysa þig, gott og vel, þá gjöri hann það, en vilji hann ekki leysa þig, þá mun ég leysa þig, svo sannarlega sem Drottinn lifir. Liggðu nú kyrr til morguns.' 3.14 Hún lá til fóta honum til morguns. Þá stóð hún upp, áður en menn gátu þekkt hvor annan. Því að hann hugsaði: 'Það má eigi spyrjast, að konan hafi komið í láfann.' 3.15 Og hann sagði: 'Kom þú með möttulinn, sem þú ert í, og haltu honum út.' Og hún hélt honum út. Þá mældi hann sex mæla byggs og lyfti á hana. Síðan fór hún inn í borgina. 3.16 Er Rut kom til tengdamóður sinnar, mælti hún: 'Hvernig gekk þér, dóttir mín?' Þá sagði hún henni frá öllu því, er maðurinn hafði við hana gjört. 3.17 Og hún sagði: 'Þessa sex mæla byggs gaf hann mér, því að hann sagði: ,Þú mátt ekki fara heim til tengdamóður þinnar með tvær hendur tómar.'` 3.18 Þá sagði Naomí: 'Ver þú nú kyrr, dóttir mín, uns þú fréttir, hvernig málum lýkur, því að maðurinn mun ekki hætta fyrr en hann leiðir þetta mál til lykta í dag.'
4.1 Bóas gekk upp í borgarhliðið og settist þar. Þá bar svo við, að lausnarmaðurinn gekk fram hjá, sá er Bóas hafði talað um. Bóas sagði: 'Kom þú og sestu hér, þú þarna!' Og hann sneri þangað og settist niður. 4.2 Þá tók hann tíu menn af öldungum borgarinnar og sagði: 'Setjist hér!' Og þeir settust niður. 4.3 Síðan sagði hann við lausnarmanninn: 'Akurland það, er Elímelek frændi okkar átti, hefir Naomí selt, sú sem heim er komin úr Móabslandi. 4.4 Og ég hugsaði, að ég skyldi láta þig vita það og segja: ,Kaup það nú í viðurvist þeirra, er hér eru, og í viðurvist öldunga fólks míns.` Ef þú vilt leysa, þá leystu. En ef þú vilt ekki leysa, þá segðu mér frá því, svo að ég viti það. Því að enginn er til, sem getur leyst, nema þú, og ég eftir þig.' Hinn sagði: 'Ég ætla að leysa.' 4.5 Þá sagði Bóas: 'Um leið og þú kaupir landið af Naomí, hefir þú og keypt Rut hina móabítísku, ekkju hins framliðna, til þess að reisa nafn hins framliðna á arfleifð hans.' 4.6 Þá sagði lausnarmaðurinn: 'Ég get ekki leyst það handa mér, því að þá kynni ég að spilla arfleifð minni. Leys þú handa þér það, sem ég átti að leysa, því að ég get ekki leyst það.' 4.7 Það var fyrrum siður í Ísrael við endurlausn og skipti, er menn vildu staðfesta allar gjörðir, að annar tók af sér skóinn og fékk hinum. Þetta var vottfesting í Ísrael. 4.8 Þá sagði lausnarmaðurinn við Bóas: 'Kaup þú það handa þér!' og tók af sér skóinn. 4.9 Bóas sagði við öldungana og allt fólkið: 'Þér eruð í dag vottar að því, að ég hefi keypt af Naomí allt það, sem Elímelek átti, svo og allt það, sem þeir Kiljón og Mahlón áttu. 4.10 Einnig hefi ég keypt Rut hina móabítísku, ekkju Mahlóns, mér að konu, til þess að reisa nafn hins framliðna á arfleifð hans, svo að nafn hins framliðna upprætist eigi meðal bræðra hans og úr borgarhliði hans. Þér eruð vottar þess í dag.' 4.11 Þá sagði allt fólkið, sem var í hliðinu, og öldungarnir: 'Vér erum vottar að því. Drottinn gjöri konuna, sem í hús þitt kemur, slíka sem þær voru Rakel og Lea, er báðar reistu Ísraels hús. Veitist þér vald í Efrata og verðir þú frægur í Betlehem. 4.12 Og verði hús þitt sem hús Peres, sem Tamar fæddi Júda, fyrir afsprengi það, sem Drottinn gefur þér við þessari ungu konu.' 4.13 Síðan gekk Bóas að eiga Rut, og hún varð kona hans. Og hann gekk inn til hennar, og Drottinn veitti henni getnað, og ól hún son. 4.14 Þá sögðu konurnar við Naomí: 'Lofaður sé Drottinn, sem eigi hefir látið þig bresta lausnarmann í dag, svo að nafn hans mun nefnt verða í Ísrael. 4.15 Hann mun verða huggun þín og ellistoð, því að tengdadóttir þín, sem elskar þig, hefir alið hann, hún, sem er þér betri en sjö synir.' 4.16 Naomí tók barnið og lagði það á skaut sér og varð fóstra þess. 4.17 Og grannkonurnar gáfu honum nafn og sögðu: 'Naomí er fæddur sonur!' og nefndu hann Óbeð. Hann var faðir Ísaí, föður Davíðs. 4.18 Þetta er ættartala Peres: Peres gat Hesron, 4.19 og Hesron gat Ram, og Ram gat Ammínadab, 4.20 og Ammínadab gat Nakson, og Nakson gat Salmón, 4.21 og Salmón gat Bóas, og Bóas gat Óbeð,
1.1 Maður er nefndur Elkana. Hann var frá Ramataím-Sófím, frá Efraímfjöllum; hann var sonur Jeróhams Elíhúsonar, Tóhúsonar, Súfssonar Efraímíta. 1.2 Elkana átti tvær konur. Hét önnur Hanna, en hin Peninna. Peninna átti börn, en Hanna átti engin börn. 1.3 Þessi maður fór á ári hverju úr borg sinni til þess að biðjast fyrir og til þess að færa Drottni allsherjar fórnir í Síló. En þar voru báðir synir Elí, Hofní og Pínehas, prestar Drottins. 1.4 Í hvert sinn er Elkana fórnaði, þá gaf hann Peninnu, konu sinni, og öllum sonum hennar og dætrum sinn hlut hverju. 1.5 Hann gaf Hönnu ekki nema einn hlut, þótt hann elskaði hana, en Drottinn hafði lokað móðurkviði hennar. 1.6 Elja hennar skapraunaði henni einnig til þess að reita hana til reiði, af því að Drottinn hafði lokað móðurkviði hennar. 1.7 Svo gjörði Elkana ár eftir ár, í hvert skipti sem þau fóru upp til húss Drottins, og þannig skapraunaði hún henni. Hanna grét og neytti eigi matar. 1.8 Þá sagði Elkana, maður hennar, við hana: 'Hanna, hví grætur þú og hví neytir þú eigi matar og hví liggur svo illa á þér? Er ég þér ekki betri en tíu synir?' 1.9 Og Hanna stóð upp, þá er þau höfðu etið í Síló og þá er þau höfðu drukkið. En Elí prestur sat á stól við dyrastafinn á musteri Drottins. 1.10 Hanna var sárhrygg. Hún bað til Drottins og grét mjög, 1.11 gjörði heit og mælti: 'Drottinn allsherjar! Ef þú lítur á eymd ambáttar þinnar og minnist mín og gleymir eigi ambátt þinni og gefur ambátt þinni son, þá skal ég gefa hann Drottni alla daga ævi hans, og eigi skal rakhnífur koma á höfuð honum.' 1.12 Er hún gjörði lengi bæn sína fyrir augliti Drottins, og Elí tók eftir munni hennar, _ 1.13 en Hanna mæltist fyrir í hljóði; bærðust aðeins varirnar, en rödd hennar heyrðist ekki _, þá hélt Elí, að hún væri drukkin. 1.14 Þá sagði Elí við hana: 'Hversu lengi ætlar þú að láta sjá þig drukkna? Láttu vímuna renna af þér!' 1.15 Hanna svaraði og sagði: 'Nei, herra minn, ég er kona með hryggð í hjarta. Vín hefi ég ekki drukkið né áfengan drykk, en ég hefi úthellt hjarta mínu fyrir Drottni. 1.16 Ætla þú eigi, að ambátt þín sé afhrak, því að af mínum mikla harmi og trega hefi ég talað hingað til.' 1.17 Elí svaraði og sagði: 'Far þú í friði. Ísraels Guð mun veita þér það, er þú hefir beðið hann um.' 1.18 Hanna mælti: 'Ó að ambátt þín mætti finna náð í augum þínum!' Síðan fór konan leiðar sinnar og mataðist og var eigi framar með döpru bragði. 1.19 Morguninn eftir risu þau árla og gjörðu bæn sína fyrir augliti Drottins, sneru síðan aftur og komu heim til Rama. Og Elkana kenndi Hönnu konu sinnar, og Drottinn minntist hennar. 1.20 Og er ár var liðið, hafði Hanna orðið þunguð og alið son, og hún nefndi hann Samúel, 'því að ég hefi beðið Drottin um hann.' 1.21 Elkana fór nú með alla fjölskyldu sína til þess að færa Drottni hina árlegu fórn og áheit sitt. 1.22 En Hanna fór ekki, heldur sagði við mann sinn: 'Ég fer ekki fyrr en sveinninn er vaninn af brjósti. Þá fer ég með hann, svo að hann birtist fyrir augliti Drottins og verði þar ávallt upp frá því.' 1.23 Elkana, maður hennar, sagði við hana: 'Gjör þú sem þér vel líkar. Ver þú kyrr heima, uns þú hefir vanið hann af brjósti. Drottinn láti aðeins orð þín rætast.' Síðan var konan kyrr heima og hafði son sinn á brjósti, uns hún vandi hann af. 1.24 En er hún hafði vanið hann af brjósti, fór hún með hann og hafði með sér þriggja ára gamalt naut og eina efu mjöls og legil víns. Og hún fór með hann í hús Drottins í Síló. En sveinninn var þá ungur. 1.25 Þau slátruðu nautinu og fóru með sveininn til Elí. 1.26 Og hún sagði: 'Heyr, herra minn! Svo sannarlega sem þú lifir, herra minn, er ég kona sú, er stóð hér hjá þér til þess að gjöra bæn mína til Drottins. 1.27 Um svein þennan gjörði ég bæn mína, og Drottinn veitti mér bæn mína, sem ég bað hann um. 1.28 Fyrir því vil ég og ljá Drottni hann. Svo lengi sem hann lifir, skal hann vera Drottni léður.' Og þau féllu þar fram fyrir Drottin.
2.1 Hanna gjörði bæn sína og mælti: Hjarta mitt fagnar í Drottni, horn mitt er hátt upp hafið fyrir fulltingi Guðs míns. Munnur minn er upp lokinn gegn óvinum mínum, því að ég gleðst yfir þinni hjálp. 2.2 Enginn er heilagur sem Drottinn, því að enginn er til nema þú, ekkert bjarg er til sem vor Guð. 2.3 Mælið eigi án afláts drambyrði, ósvífni komi eigi út af munni yðar. Því að Drottinn er Guð, sem allt veit, og af honum eru verkin vegin. 2.4 Bogi kappanna er sundur brotinn, en máttfarnir menn gyrðast styrkleika. 2.5 Mettir leigja sig fyrir brauð, en hungraðir njóta hvíldar. Óbyrjan fæðir jafnvel sjö, en margra barna móðirin mornar og þornar. 2.6 Drottinn deyðir og lífgar, færir til Heljar niður og leiðir upp þaðan. 2.7 Drottinn gjörir fátækan og ríkan, niðurlægir og upphefur. 2.8 Hann reisir hinn lítilmótlega úr duftinu, lyftir hinum snauða upp úr skarninu, leiðir þá til sætis hjá þjóðhöfðingjum og setur þá á tignarstól. Því að Drottni heyra stólpar jarðarinnar, á þá setti hann jarðríkið. 2.9 Fætur sinna guðhræddu varðveitir hann, en hinir guðlausu farast í myrkri, því að fyrir eigin mátt sigrar enginn. 2.10 Þeir sem berjast móti Drottni, verða sundur molaðir, hann lætur þrumur af himni koma yfir þá. Drottinn dæmir endimörk jarðarinnar. Hann veitir kraft konungi sínum og lyftir upp horni síns smurða. 2.11 Síðan fór Elkana heim til sín í Rama, en sveinninn gegndi þjónustu Drottins hjá Elí presti. 2.12 Synir Elí voru hrakmenni. Þeir skeyttu ekki um Drottin, 2.13 né hvað prestinum bar með réttu af hálfu lýðsins. Hvenær sem einhver færði sláturfórn, þá kom sveinn prestsins, meðan verið var að sjóða kjötið, með þrítenntan fork í hendinni 2.14 og rak hann ofan í ketilinn, eða pottinn eða suðupönnuna eða grýtuna, og allt sem upp kom á forkinum, það tók presturinn handa sér. Svo fóru þeir með alla Ísraelsmenn, sem komu þangað til Síló. 2.15 Meira að segja, áður en fitan var brennd, kom sveinn prestsins og sagði við þann, sem fórnaði: 'Gef mér kjöt til þess að steikja handa prestinum. Hann vill ekki taka við soðnu kjöti af þér, heldur hráu.' 2.16 Segði maðurinn þá við hann: 'Fyrst verður þó að brenna fituna; tak síðan slíkt er þú girnist!' þá svaraði hann: 'Nei, heldur skalt þú gefa það nú þegar, ella mun ég taka það með valdi.' 2.17 Synd hinna ungu manna var mjög mikil frammi fyrir Drottni, því að þeir lítilsvirtu fórn Drottins. 2.18 En Samúel gegndi þjónustu frammi fyrir Drottni sem ungur sveinn, skrýddur línhökli. 2.19 Og móðir hans var vön að gjöra honum lítinn möttul og færði honum hann á ári hverju, þá er hún kom með manni sínum til þess að færa hina árlegu fórn. 2.20 Þá blessaði Elí Elkana og konu hans og sagði: 'Drottinn gefi þér afkvæmi við þessari konu í stað hans, er léður var Drottni.' Síðan fóru þau heim til sín. 2.21 Og Drottinn vitjaði Hönnu, og hún varð þunguð og fæddi þrjá sonu og tvær dætur. En sveinninn Samúel óx upp hjá Drottni. 2.22 Elí gjörðist mjög gamall og heyrði allt um það, hvernig synir hans fóru með allan Ísrael og að þeir legðust með konum þeim, sem gegndu þjónustu við dyr samfundatjaldsins. 2.23 Og hann sagði við þá: 'Hvers vegna hegðið þið ykkur svo? Því að ég hefi heyrt allan þennan lýð tala um illt athæfi ykkar. 2.24 Eigi má svo vera, synir mínir! Það er ekki fallegur orðrómur, sem ég heyri lýð Drottins vera að breiða út. 2.25 Syndgi maður á móti öðrum manni, þá sker Guð úr, en syndgi maður móti Drottni, hver má þá biðja honum líknar?' En þeir hlýddu ekki orðum föður síns, því að Drottinn vildi deyða þá. 2.26 En sveinninn Samúel óx og þroskaðist og varð æ þekkari bæði Drottni og mönnum. 2.27 Guðsmaður einn kom til Elí og sagði við hann: 'Svo segir Drottinn: Ég opinberaði mig ættmönnum föður þíns, þá er þeir heyrðu til húsi Faraós í Egyptalandi, 2.28 og ég valdi mér þá fyrir presta úr öllum ættkvíslum Ísraels, til þess að þeir gengju upp að altari mínu til að færa reykelsisfórn og bæru hökul frammi fyrir mér, og ég hefi gefið húsi föður þíns allar eldfórnir Ísraelsmanna. 2.29 Hvers vegna fótum troðið þér sláturfórnir mínar og matfórnir, sem ég hefi fyrirskipað í bústað mínum? Og þú metur sonu þína meira en mig, er þér feitið yður á hinu besta af öllum fórnum Ísraels, lýðs míns! 2.30 Fyrir því segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég hefi sagt: ,Þitt hús og hús föður þíns skal ganga fyrir augliti mínu eilíflega.` En nú segir Drottinn: Það sé fjarri mér. Því að ég heiðra þá, sem mig heiðra, en þeir, sem fyrirlíta mig, munu til skammar verða. 2.31 Sjá, þeir tímar munu koma, að ég sundurbrýt arm þinn og arm ættar þinnar, svo að enginn verður gamall í húsi þínu. 2.32 Og þú munt sjá ofsjónum yfir þeirri farsæld, sem Ísrael mun hlotnast, og aldrei framar skal nokkur verða gamall í húsi þínu. 2.33 En einum af þínum vil ég eigi útrýma frá altari mínu. En ég mun láta augu þín daprast og sálu þína örmagnast, og öll viðkoma húss þíns skal falla fyrir sverði manna. 2.34 Og þetta skal vera þér merkið, sem koma mun fram á báðum sonum þínum, Hofní og Pínehas: Á sama degi munu þeir báðir deyja. 2.35 En ég mun skipa mér til handa trúan prest, og hann mun gjöra að mínum vilja og mínu skapi. Honum mun ég reisa stöðugt hús, og hann skal ganga fyrir augliti míns smurða alla daga. 2.36 Þá mun það verða, að hver sá, sem eftir er í húsi þínu, mun koma til að lúta honum til þess að fá smáskilding eða brauðhleif, og segja: ,Kom þú mér niður við eitthvert prestsembættið, svo að ég fái brauðbita að eta.'`
3.1 Sveinninn Samúel gegndi þjónustu Drottins hjá Elí. Orð frá Drottni var sjaldgæft á þeim dögum, vitranir voru þá fátíðar. 3.2 Þá bar svo til einn dag, að Elí svaf á sínum vanalega stað. En augu hans voru tekin að daprast, svo að hann var hættur að sjá, 3.3 og enn var ekki slokknað á Guðs lampa, en Samúel svaf í musteri Drottins, þar sem Guðs örk var. 3.4 Þá kallaði Drottinn á Samúel. Hann svaraði: 'Hér er ég.' 3.5 Og hann hljóp til Elí og sagði: 'Hér er ég, því að þú kallaðir á mig.' En Elí sagði: 'Ég hefi ekki kallað. Far þú aftur að sofa.' Fór hann þá og lagðist til svefns. 3.6 En Drottinn kallaði enn að nýju: 'Samúel!' Og Samúel reis upp og fór til Elí og sagði: 'Hér er ég, því að þú kallaðir á mig.' En hann sagði: 'Ég hefi ekki kallað, sonur minn. Leggst þú aftur til svefns.' 3.7 En Samúel þekkti ekki enn Drottin, og honum hafði ekki enn birst orð frá Drottni. 3.8 Þá kallaði Drottinn enn á Samúel, í þriðja skiptið. Og hann reis upp og fór til Elí og sagði: 'Hér er ég, því að þú kallaðir á mig.' Þá skildi Elí, að það var Drottinn, sem var að kalla á sveininn. 3.9 Fyrir því sagði Elí við Samúel: 'Far þú og leggstu til svefns, og verði nú á þig kallað, þá svara þú: ,Tala þú, Drottinn, því að þjónn þinn heyrir.'` Fór Samúel þá og lagðist til svefns á sínum stað. 3.10 Þá kom Drottinn og gekk fram og kallaði sem hin fyrri skiptin: 'Samúel! Samúel!' Og Samúel svaraði: 'Tala þú, því að þjónn þinn heyrir.' 3.11 Drottinn mælti þá við Samúel: 'Þá hluti mun ég gjöra í Ísrael, að óma mun fyrir báðum eyrum allra þeirra, er það heyra. 3.12 Á þeim degi mun ég láta fram koma á Elí allt það, er ég hefi talað um hús hans _ frá upphafi til enda. 3.13 Því að ég hefi kunngjört honum, að ég muni dæma hús hans að eilífu vegna misgjörðar þeirrar, er honum var kunn, að synir hans leiddu bölvun yfir sig, og þó hafði hann ekki taum á þeim. 3.14 Og fyrir því hefi ég svarið húsi Elí: Sannlega skal eigi verða friðþægt fyrir misgjörð Elí húss með sláturfórn eða matfórn að eilífu.' 3.15 Lá Samúel nú kyrr allt til morguns. Og um morguninn reis hann árla og lauk upp dyrunum á húsi Drottins. En Samúel þorði ekki að segja Elí frá sýninni. 3.16 Elí kallaði á Samúel og sagði: 'Samúel, sonur minn!' Hann svaraði: 'Hér er ég.' 3.17 Elí sagði: 'Hvað var það, sem hann talaði við þig? Leyndu mig því ekki. Guð láti þig gjalda þess nú og síðar, ef þú leynir mig nokkru af því, sem hann talaði við þig.' 3.18 Þá sagði Samúel honum allt saman og leyndi hann engu. En Elí sagði: 'Hann er Drottinn. Gjöri hann það, sem honum þóknast!' 3.19 Samúel óx, og Drottinn var með honum og lét ekkert af því, er hann hafði boðað, falla til jarðar. 3.20 Og allur Ísrael frá Dan til Beerseba kannaðist við, að Samúel væri falið að vera spámaður Drottins. 3.21 Og Drottinn hélt áfram að birtast í Síló, og Drottinn opinberaðist Samúel í Síló með orði sínu.
4.1 Orð Samúels kom til alls Ísraels. Og Ísrael fór í móti Filistum til hernaðar, og settu þeir herbúðir sínar hjá Ebeneser, en Filistar settu herbúðir sínar hjá Afek. 4.2 Og Filistar fylktu liði sínu gegn Ísrael, og hallaðist bardaginn: Ísrael beið ósigur fyrir Filistum, og þeir felldu í valinn á vígvellinum um fjögur þúsund manns. 4.3 Og er lýðurinn kom aftur í herbúðirnar, þá sögðu öldungar Ísraels: 'Hví hefir Drottinn látið oss bíða ósigur í dag fyrir Filistum? Vér skulum sækja sáttmálsörk Drottins til Síló, og þegar hún er komin hér meðal vor, mun hún frelsa oss af hendi óvina vorra.' 4.4 Þá sendi lýðurinn menn til Síló, og þeir tóku þaðan sáttmálsörk Drottins allsherjar, hans sem situr uppi yfir kerúbunum. Báðir synir Elí, þeir Hofní og Pínehas, fóru með sáttmálsörk Guðs. 4.5 En þegar sáttmálsörk Drottins kom í herbúðirnar, þá laust allur Ísrael upp svo miklu fagnaðarópi, að jörðin dundi. 4.6 Þegar Filistar heyrðu óminn af fagnaðarópinu, sögðu þeir: 'Hvað merkir þetta glymjandi fagnaðaróp í herbúðum Hebrea?' Og er þeir urðu þess vísir, að örk Drottins væri komin í herbúðirnar, 4.7 þá urðu þeir skelkaðir, því að þeir hugsuðu: 'Guð er kominn til þeirra í herbúðirnar,' og sögðu: 'Vei oss, því að slíkt hefir aldrei áður til borið! 4.8 Vei oss! Hver mun frelsa oss af hendi þessara voldugu guða? Það voru þessir guðir, sem lustu Egypta með alls konar plágum í eyðimörkinni. 4.9 Herðið ykkur upp og verið menn, Filistar, svo að þér verðið ekki ánauðugir Hebreum, eins og þeir hafa verið yður ánauðugir. Verið því menn og berjist!' 4.10 Og Filistar börðust, og Ísrael hafði ósigur, og þeir flýðu, hver heim til sín. Og mannfallið var mjög mikið: féllu af Ísrael þrjátíu þúsundir fótgangandi manna. 4.11 Og Guðs örk var tekin, og báðir synir Elí, þeir Hofní og Pínehas, létu lífið. 4.12 Benjamíníti nokkur hljóp úr orustunni og kom til Síló þennan sama dag í rifnum klæðum og með mold á höfði sér. 4.13 Og er hann kom, sjá, þá sat Elí á stól við hliðið og starði út á veginn, því að hann var hugsjúkur um örk Guðs. Og er maðurinn kom að segja þessi tíðindi í borginni, þá tók öll borgin að kveina. 4.14 En er Elí heyrði óminn af harmakveininu, sagði hann: 'Hvað merkir þessi háreysti?' Og maðurinn hraðaði sér og kom og sagði Elí tíðindin. 4.15 En Elí var níutíu og átta ára gamall og augu hans stirðnuð, svo að hann mátti ekki sjá. 4.16 Og maðurinn sagði við Elí: 'Ég kem úr orustunni, ég flýði í dag úr orustunni.' Þá sagði Elí: 'Hvernig hefir það gengið, sonur minn?' 4.17 Maðurinn, sem tíðindin flutti, svaraði og mælti: 'Ísrael er flúinn fyrir Filistum, og líka var mikið mannfall meðal fólksins, og einnig eru báðir synir þínir, þeir Hofní og Pínehas, dauðir, og Guðs örk er tekin.' 4.18 En er hann nefndi Guðs örk, þá féll Elí aftur á bak úr stólnum við hliðið og hálsbrotnaði, og varð það hans bani, því að hann var gamall maður og þungur. En hann hafði verið dómari í Ísrael í fjörutíu ár. 4.19 Tengdadóttir hans, kona Pínehasar, var þunguð og komin að falli, og er hún heyrði tíðindin, að Guðs örk væri tekin og tengdafaðir hennar og maður dauðir, þá hné hún niður og fæddi, því að jóðsóttin kom yfir hana. 4.20 En er hún var komin í dauðann, sögðu konurnar, er yfir henni stóðu: 'Óttast ekki, því að þú hefir son fætt.' En hún svaraði engu og gaf því engan gaum, 4.21 heldur nefndi sveininn Íkabóð og sagði: 'Horfin er vegsemdin frá Ísrael' _ vegna þess að Guðs örk var tekin, og vegna tengdaföður síns og manns síns. 4.22 Hún sagði: 'Horfin er vegsemdin frá Ísrael, því að Guðs örk er tekin.'
5.1 Filistar höfðu tekið Guðs örk og flutt hana frá Ebeneser til Asdód. 5.2 Nú tóku þeir Guðs örk og fluttu hana í musteri Dagóns og settu hana við hliðina á Dagón. 5.3 En er Asdód-menn risu árla morguninn eftir, sjá, þá lá Dagón á grúfu á gólfinu fyrir framan örk Drottins. Tóku þeir þá Dagón og settu hann aftur á sinn stað. 5.4 Og þeir risu árla um morguninn daginn eftir, og sjá, þá lá Dagón á grúfu á gólfinu fyrir framan örk Drottins. Höfuð Dagóns og báðar hendur voru brotnar af honum og lágu á þröskuldinum, bolurinn einn var eftir af Dagón. ( 5.5 Fyrir því stíga prestar Dagóns og allir þeir, sem ganga inn í musteri Dagóns, ekki á þröskuld Dagóns í Asdód, og helst það enn í dag.) 5.6 Hönd Drottins lá þungt á Asdód-mönnum, hann skelfdi þá og sló þá með kýlum, bæði Asdód og héraðið umhverfis. 5.7 En þegar Asdód-búar sáu, að þetta var þannig, þá sögðu þeir: 'Örk Ísraels Guðs skal eigi lengur hjá oss vera, því að hörð er hönd hans á oss og á Dagón, guði vorum.' 5.8 Þá gjörðu þeir út sendimenn og söfnuðu saman öllum höfðingjum Filista til sín og sögðu: 'Hvað eigum vér að gjöra við örk Ísraels Guðs?' Þeir sögðu: 'Flytja skal örk Ísraels Guðs til Gat.' Og þeir fluttu örk Ísraels Guðs þangað. 5.9 En eftir að þeir höfðu flutt hana þangað, þá kom hönd Drottins yfir borgina með feikna mikilli skelfingu. Hann sló borgarbúa, bæði smáa og stóra, svo að kýli brutust út um þá. 5.10 Þá sendu þeir Guðs örk til Ekron. En er Guðs örk kom til Ekron, þá kveinuðu Ekroningar og sögðu: 'Þeir hafa flutt til mín örk Ísraels Guðs til þess að deyða mig og fólk mitt!' 5.11 Þá gjörðu þeir út sendimenn og söfnuðu saman öllum höfðingjum Filista og sögðu: 'Sendið burt örk Ísraels Guðs, svo að hún komist á sinn stað og deyði mig ekki og fólk mitt.' Því að dauðans angist hafði gripið alla borgina. Hönd Guðs lá þar mjög þungt á. 5.12 Þeir menn, sem eigi dóu, urðu slegnir kýlum, og kvein borgarinnar sté upp til himins.
6.1 Örk Drottins var sjö mánuði í Filistalandi. 6.2 Og Filistar kölluðu prestana og spásagnarmennina og sögðu: 'Hvað eigum vér að gjöra við örk Drottins? Segið oss til, hvernig vér eigum að senda hana heim á sinn stað.' 6.3 Þeir svöruðu: 'Ef þér sendið burt örk Ísraels Guðs, þá sendið hana ekki gjafalaust, heldur greiðið henni sektarfórn. Þá munuð þér heilir verða, og yður mun verða kunnugt, hvers vegna hönd hans hefir ekki frá yður vikið.' 6.4 Þá sögðu Filistar: 'Hvaða sektarfórn eigum vér að greiða henni?' Þeir svöruðu: 'Fimm kýli af gulli og fimm mýs af gulli, eins og höfðingjar Filista eru margir til, því að sama plágan hefir gengið yfir yður og höfðingja yðar. 6.5 Búið nú til myndir af kýlum yðar og myndir af músum yðar, þeim er eyða landið, og gefið Ísraels Guði dýrðina: Má vera að hann létti þá af yður hendi sinni og af guði yðar og af landi yðar. 6.6 Hvers vegna viljið þér herða hjörtu yðar, eins og Egyptar og Faraó hertu hjarta sitt? Var ekki svo, að þegar hann hafði leikið þá hart, þá slepptu þeir þeim, svo að þeir fóru burt? 6.7 Og takið nú og gjörið nýjan vagn og tvær kýr, sem kálfar ganga undir og ok hefir ekki komið á, og beitið kúnum fyrir vagninn, en takið kálfana undan þeim og farið heim með þá. 6.8 Takið síðan örk Drottins og setjið hana á vagninn, en gullgripi þá, er þér greiðið henni í sektarfórn, skuluð þér láta í kistil við hlið hennar. Látið hana síðan fara leiðar sinnar. 6.9 Og hyggið að: Ef hún fer veginn til síns lands upp til Bet Semes, þá er það hann, sem hefir látið oss þessa miklu ógæfu að höndum bera. En fari hún ekki veginn, þá vitum vér, að ekki er það hönd hans, sem hefir lostið oss; þá er það tilviljun, er oss hefir að höndum borið.' 6.10 Og menn gjörðu svo. Þeir tóku tvær kýr, er kálfar gengu undir, og beittu þeim fyrir vagninn, en kálfana byrgðu þeir inni heima. 6.11 Síðan settu þeir örk Drottins á vagninn, svo og kistilinn með gullmúsunum og kýlamyndunum. 6.12 Og kýrnar fóru beina leið til Bet Semes. Þræddu þær brautina og bauluðu án afláts og viku hvorki til hægri né vinstri, og höfðingjar Filista fóru á eftir þeim allt að landamærum Bet Semes. 6.13 Bet Semes-búar voru að hveitiuppskeru í dalnum. Varð þeim nú litið upp og sáu þeir örkina, og urðu þeir fegnir að sjá hana. 6.14 Og vagninn kom inn á akur Jósúa í Bet Semes og nam þar staðar. En þar var stór steinn. Og þeir klufu viðinn úr vagninum og fórnuðu kúnum í brennifórn Drottni til handa. 6.15 En levítarnir tóku örk Drottins niður og kistilinn, sem hjá henni var og gullgripirnir voru í, og settu á stóra steininn. Og Bet Semes-búar fórnuðu brennifórnum og slátruðu sláturfórnum á þeim degi Drottni til handa. 6.16 Og höfðingjar Filistanna fimm sáu það og fóru þann sama dag aftur til Ekron. 6.17 En þessi voru gullkýlin, sem Filistar greiddu Drottni í sektarfórn: eitt fyrir Asdód, eitt fyrir Gasa, eitt fyrir Askalon, eitt fyrir Gat, eitt fyrir Ekron, 6.18 auk þess gullmýsnar, jafnmargar og allar borgir Filistahöfðingjanna fimm, bæði víggirtu borgirnar og bændaþorpin. Og stóri steinninn, er þeir settu örk Drottins niður á, er vottur þessa fram á þennan dag á akri Jósúa í Bet Semes. 6.19 Drottinn laust nokkra af mönnunum í Bet Semes, af því að þeir skoðuðu örk Drottins, og hann laust af fólkinu sjötíu manns. En fólkið harmaði það, að Drottinn hafði gjört svo mikið mannfall meðal fólksins. 6.20 Og Bet Semes-búar sögðu: 'Hver fær staðist fyrir Drottni, þessum heilaga Guði? Og til hvers mun hann nú fara, er hann fer frá oss?' 6.21 Þá gerðu þeir sendimenn á fund íbúanna í Kirjat Jearím og létu segja þeim: 'Filistar hafa skilað aftur örk Drottins; komið hingað og flytjið hana til yðar.'
7.1 Og íbúarnir í Kirjat Jearím komu og sóttu örk Drottins og fluttu hana í hús Abínadabs á hæðinni, og vígðu þeir Eleasar son hans til þess að gæta arkar Drottins. 7.2 Frá þeim degi, er örkin kom til Kirjat Jearím, leið langur tími, og urðu það tuttugu ár. Þá sneri allt Ísraels hús sér til Drottins. 7.3 Samúel sagði við allt Ísraels hús: 'Ef þér viljið snúa yður til Drottins af öllu hjarta, þá fjarlægið hin útlendu goð frá yður og Astörturnar og snúið hjarta yðar til Drottins og þjónið honum einum. Mun hann þá frelsa yður af hendi Filista.' 7.4 Þá köstuðu Ísraelsmenn burt Baölum og Astörtum og þjónuðu Drottni einum. 7.5 Samúel sagði: 'Stefnið saman öllum Ísrael í Mispa, og skal ég þá biðja fyrir yður til Drottins.' 7.6 Söfnuðust þeir þá saman í Mispa og jusu vatn og úthelltu því fyrir Drottni. Og þeir föstuðu þann dag og sögðu þar: 'Vér höfum syndgað móti Drottni!' Og Samúel dæmdi Ísraelsmenn í Mispa. 7.7 En er Filistar heyrðu, að Ísraelsmenn höfðu safnast saman í Mispa, þá fóru höfðingjar Filista á móti Ísrael. Og er Ísraelsmenn heyrðu það, urðu þeir hræddir við Filista. 7.8 Og Ísraelsmenn sögðu við Samúel: 'Lát eigi af að hrópa til Drottins, Guðs vors, fyrir oss, að hann frelsi oss af hendi Filista.' 7.9 Þá tók Samúel dilklamb og fórnaði í brennifórn _ alfórn _ Drottni til handa. Og Samúel hrópaði til Drottins fyrir Ísrael, og Drottinn bænheyrði hann. 7.10 En meðan Samúel var að fórna brennifórninni, voru Filistar komnir í nánd til að berjast við Ísrael. En Drottinn sendi þrumuveður með miklum gný yfir Filista á þeim degi og gjörði þá felmtsfulla, svo að þeir biðu ósigur fyrir Ísrael. 7.11 Og Ísraelsmenn fóru út frá Mispa og eltu Filista og drápu þá á flóttanum, allt þar til komið var niður fyrir Betkar. 7.12 Þá tók Samúel stein og reisti hann upp milli Mispa og Jesjana og kallaði hann Ebeneser og sagði: 'Hingað til hefir Drottinn hjálpað oss.' 7.13 Þannig voru Filistar yfirbugaðir, og komu þeir ekki framar inn í land Ísraels. Og hönd Drottins var gegn Filistum meðan Samúel lifði. 7.14 En borgir þær, sem Filistar höfðu tekið frá Ísrael, komu aftur undir Ísrael, frá Ekron allt til Gat, og landinu, er að þeim lá, náði Ísrael einnig úr höndum Filista. Og friður komst á milli Ísraels og Amoríta. 7.15 Samúel dæmdi Ísrael meðan hann lifði. 7.16 Og hann ferðaðist um á ári hverju og kom til Betel, Gilgal og Mispa og dæmdi Ísrael á öllum þessum stöðum. 7.17 Og hann sneri aftur til Rama, því að þar átti hann heima, og þar dæmdi hann Ísrael. Og hann reisti Drottni þar altari.
8.1 Er Samúel var orðinn gamall, setti hann sonu sína dómara yfir Ísrael. 8.2 Frumgetinn sonur hans hét Jóel, en annar sonur hans Abía. Þeir dæmdu í Beerseba. 8.3 En synir hans fetuðu ekki í fótspor hans, heldur hneigðust þeir til ágirndar og þágu mútur og hölluðu réttinum. 8.4 Þá söfnuðust allir öldungar Ísraels saman og fóru á fund Samúels í Rama 8.5 og sögðu við hann: 'Sjá, þú ert nú orðinn gamall og synir þínir feta ekki í fótspor þín. Set oss því konung til að dæma oss, eins og er hjá öllum öðrum þjóðum.' 8.6 En Samúel mislíkaði það, að þeir sögðu: 'Gef oss konung til þess að dæma oss!' Og Samúel bað til Drottins. 8.7 Drottinn sagði við Samúel: 'Lát þú að orðum lýðsins í öllu því, sem þeir biðja þig um, því að þeir hafa ekki hafnað þér, heldur hafa þeir hafnað mér, að ég skuli ekki lengur vera konungur yfir þeim. 8.8 Svona hafa þeir ávallt breytt frá þeim degi, er ég leiddi þá út af Egyptalandi, allt fram á þennan dag. Þeir hafa yfirgefið mig og þjónað öðrum guðum. Öldungis á sama hátt fara þeir nú og með þig. 8.9 Lát því nú að orðum þeirra. Þó skalt þú vara þá alvarlega við, og segja þeim háttu konungsins, sem ríkja á yfir þeim.' 8.10 Þá sagði Samúel lýðnum, sem heimti af honum konung, öll orð Drottins 8.11 og mælti: 'Þessi mun verða háttur konungsins, sem yfir yður á að ríkja: Sonu yðar mun hann taka og setja þá við vagn sinn og á hesta sína, og þeir munu hlaupa fyrir vagni hans, 8.12 og hann mun skipa þá höfuðsmenn yfir þúsund og höfuðsmenn yfir fimmtíu, og setja þá til að plægja akurland sitt og skera upp korn sitt og gjöra hernaðartygi sín og ökutygi. 8.13 Og dætur yðar mun hann taka og láta þær búa til smyrsl, elda og baka. 8.14 Og bestu lendur yðar, víngarða og olífugarða mun hann taka og gefa þjónum sínum, 8.15 og af sáðlöndum yðar og víngörðum mun hann taka tíund og gefa hana geldingum sínum og þjónum sínum. 8.16 Og þræla yðar og ambáttir og hina bestu uxa yðar og asna yðar mun hann taka og hafa til sinna verka. 8.17 Af sauðfénaði yðar mun hann taka tíund, en sjálfir munuð þér verða þrælar hans. 8.18 Þá munuð þér hrópa undan konungi yðar, er þér þá hafið kjörið yður, en þá mun Drottinn ekki svara yður.' 8.19 En fólkið vildi ekki hlýða fortölum Samúels og sagði: 'Nei, konungur skal yfir oss vera, 8.20 svo að vér séum eins og allar aðrar þjóðir, og konungur vor skal dæma oss og vera fyrirliði vor og heyja bardaga vora.' 8.21 Samúel hlýddi á öll ummæli lýðsins og tjáði þau fyrir Drottni. 8.22 En Drottinn sagði við Samúel: 'Lát þú að orðum þeirra og set yfir þá konung.' Þá sagði Samúel við Ísraelsmenn: 'Farið burt, hver til síns heimkynnis.'
9.1 Maður er nefndur Kís. Hann var úr Benjamín og var sonur Abíels, Serórssonar, Bekóratssonar, Afíasonar, sonar Benjamíníta nokkurs, auðugur maður. 9.2 Hann átti son, er Sál hét, fyrirmannlegan og fríðan. Enginn af Ísraelsmönnum var fríðari en hann. Hann var höfði hærri en allur lýður. 9.3 Ösnur Kíss, föður Sáls, týndust, og Kís sagði við Sál, son sinn: 'Tak með þér einn af sveinunum og farðu og leitaðu að ösnunum.' 9.4 Og þeir fóru um Efraímfjöll og þeir fóru um Salísaland, en fundu þær ekki. Síðan fóru þeir um Saalímland, en þær voru þar eigi. Þá fóru þeir um Benjamínsland, en fundu þær ekki. 9.5 En er þeir voru komnir í Súf-land, þá sagði Sál við svein sinn, þann er með honum var: 'Kom þú, við skulum snúa við, svo að faðir minn fari ekki að undrast um okkur, í stað þess að hugsa um ösnurnar.' 9.6 Sveinninn svaraði honum: 'Sjá, í borg þessari er guðsmaður einn, og er maðurinn frægur. Allt rætist, sem hann segir. Nú skulum við fara þangað; má vera að hann segi okkur, hvaða leið við eigum að halda.' 9.7 Sál sagði við hann: 'Sjá, ef við förum, hvað eigum við þá að færa manninum? Því að brauðið er þrotið í malpokum okkar og gjöf höfum við enga að færa guðsmanninum. Hvað höfum við?' 9.8 Þá svaraði sveinninn Sál aftur og mælti: 'Sjá, ég hefi hjá mér fjórðung úr silfursikli. Hann ætla ég að gefa guðsmanninum, til þess að hann segi okkur, hvaða leið við eigum að halda.' ( 9.9 Fyrrum komust menn svo að orði í Ísrael, þá er þeir gengu til frétta við Guð: 'Komið, vér skulum fara til sjáandans!' Því að þeir, sem nú eru kallaðir spámenn, voru fyrrum kallaðir sjáendur.) 9.10 Þá sagði Sál við svein sinn: 'Þú hefir rétt að mæla. Kom þú, við skulum fara!' Síðan fóru þeir til borgarinnar, þar sem guðsmaðurinn var. 9.11 Er þeir voru að ganga upp stíginn upp að borginni, hittu þeir stúlkur, sem gengu út að sækja vatn, og sögðu við þær: 'Er sjáandinn hér?' 9.12 Þær svöruðu þeim og sögðu: 'Já, hann er rétt á undan ykkur. Hann er alveg nýkominn til borgarinnar, því að lýðurinn ætlar í dag að færa sláturfórnir á fórnarhæðinni. 9.13 Óðara en þið komið inn í borgina, munuð þið finna hann, áður en hann gengur upp á fórnarhæðina til að eta, því að lýðurinn etur ekki fyrr en hann kemur, af því að hann blessar fórnirnar; eftir það eta þeir, sem boðnir eru. Og gangið nú upp þangað, því að einmitt nú munuð þið finna hann.' 9.14 Síðan gengu þeir upp til borgarinnar. Þegar þeir komu inn í borgina, sjá, þá gekk Samúel út á móti þeim og ætlaði upp á fórnarhæðina. 9.15 Nú hafði Drottinn, daginn áður en Sál kom, opinberað Samúel þetta: 9.16 'Í þetta mund á morgun mun ég senda til þín mann úr Benjamínslandi, og skalt þú smyrja hann til höfðingja yfir lýð minn Ísrael, og hann mun frelsa minn lýð af hendi Filistanna, því að ég hefi séð ánauð míns lýðs, og kvein hans hefir borist til mín.' 9.17 En er Samúel sá Sál, sagði Drottinn við hann: 'Þetta er maðurinn, sem ég sagði um við þig: ,Hann skal drottna yfir mínum lýð.'` 9.18 Sál gekk þá til Samúels í miðju borgarhliðinu og mælti: 'Seg mér, hvar á sjáandinn heima?' 9.19 Samúel svaraði Sál og mælti: 'Ég er sjáandinn. Gakk á undan mér upp á fórnarhæðina. Þið skuluð eta með mér í dag, en á morgun snemma mun ég láta þig fara og fræða þig um allt það, er þú ber fyrir brjósti. 9.20 Og að því er snertir ösnurnar, sem töpuðust hjá þér fyrir þremur dögum, þá vertu ekki áhyggjufullur út af þeim, því að þær eru fundnar. En hver mun hljóta allar hnossir Ísraels, hver nema þú og öll ætt föður þíns?' 9.21 Sál svaraði og mælti: 'Er ég ekki Benjamíníti, kominn af einni af hinum minnstu kynkvíslum Ísraels, og ætt mín hin lítilmótlegasta af öllum ættum Benjamíns kynkvíslar? Hví mælir þú þá slíkt við mig?' 9.22 Samúel tók Sál og svein hans og leiddi þá inn í matsalinn, og hann vísaði þeim til sætis efst meðal boðsmannanna, en þeir voru um þrjátíu manns. 9.23 Og Samúel sagði við matsveininn: 'Kom þú nú með stykkið, sem ég fékk þér og sagði þér að taka frá.' 9.24 Þá bar matsveinninn fram bóginn og rófuna og setti fyrir Sál. Og Samúel mælti: 'Sjá, það sem afgangs varð, er nú sett fyrir þig. Et, því að á hinum ákveðna tíma var það geymt þér, þá er sagt var: Ég hefi boðið fólkinu!' Og Sál át með Samúel þann dag. 9.25 Og þeir gengu niður af hæðinni ofan í borgina, og var búið um Sál á þakinu, og lagðist hann til svefns. 9.26 Þegar lýsti af degi, kallaði Samúel á Sál uppi á þakinu og mælti: 'Rís nú á fætur, svo að ég geti fylgt þér á leið.' Þá reis Sál á fætur, og þeir gengu báðir út, hann og Samúel. 9.27 En er þeir voru komnir út fyrir borgina, sagði Samúel við Sál: 'Segðu sveininum að fara á undan okkur, _ og hann fór á undan _ en statt þú kyrr, svo að ég megi flytja þér orð frá Guði.'
10.1 Þá tók Samúel buðk með olífuolíu og hellti yfir höfuð honum og minntist við hann og mælti: 'Nú hefir Drottinn smurt þig til höfðingja yfir lýð sinn Ísrael, og þú skalt drottna yfir lýð Drottins og þú skalt frelsa hann af hendi óvina hans. Og þetta skalt þú til marks hafa um, að Drottinn hefir smurt þig til höfðingja yfir arfleifð sína: 10.2 Þegar þú ert farinn frá mér í dag, munt þú hitta tvo menn við gröf Rakelar á Benjamíns landamærum hjá Selsa, og þeir munu segja við þig: ,Ösnurnar, sem þú fórst að leita að, eru fundnar. En faðir þinn er hættur að hugsa um ösnurnar og farinn að undrast um ykkur og segir: Hvað á ég að gjöra viðvíkjandi syni mínum?` 10.3 Og þegar þú nú heldur áfram þaðan og kemur að Taboreik, þá munu þrír menn mæta þér þar, sem eru á leið upp til Guðs í Betel. Einn þeirra ber þrjú kið, annar ber þrjá brauðhleifa og hinn þriðji ber vínlegil. 10.4 Þeir munu heilsa þér og gefa þér tvö brauð; skalt þú þiggja þau af þeim. 10.5 Eftir það munt þú koma til Gíbeu Guðs, þar sem súla Filista stendur. Og þegar þú kemur inn í borgina, þá munt þú mæta hóp spámanna, sem eru á leið ofan af fórnarhæðinni með hörpur, bumbur, hljóðpípur og gígjur á undan sér og sjálfir eru í spámannlegum guðmóði. 10.6 Þá mun andi Drottins koma yfir þig, svo að þú munt komast í spámannlegan guðmóð með þeim og verða annar maður. 10.7 Og þegar þú sér þessi tákn koma fram, þá neyt þess færis, sem þér býðst, því að Guð er með þér. 10.8 Og þú skalt fara á undan mér ofan til Gilgal. Og sjá, ég mun koma heim til þín og bera fram brennifórnir og fórna heillafórnum. Þú skalt bíða í sjö daga, þar til er ég kem til þín, og þá skal ég láta þig vita, hvað þú átt að gjöra.' 10.9 Þegar Sál nú sneri sér við og gekk burt frá Samúel, þá umbreytti Guð hjarta hans, og öll þessi tákn komu fram þennan sama dag. 10.10 Er þeir komu til Gíbeu, kom hópur spámanna á móti honum. Og andi Guðs kom yfir hann, svo að hann komst í spámannlegan guðmóð meðal þeirra. 10.11 En þegar allir þeir, sem þekkt höfðu hann áður, sáu, að guðmóður var kominn á hann eins og á spámennina, þá sögðu menn hver við annan: 'Hvað kemur að syni Kíss? Er og Sál meðal spámannanna?' 10.12 Þá svaraði maður nokkur þaðan og sagði: 'Hver er þá faðir þeirra?' Þaðan er máltækið komið: 'Er og Sál meðal spámannanna?' 10.13 En er hinn spámannlegi guðmóður var af honum, þá fór hann heim til sín. 10.14 Þá sagði föðurbróðir Sáls við hann og við svein hans: 'Hvert fóruð þið?' Og hann sagði: 'Að leita að ösnunum. Og þegar við fundum þær hvergi, þá fórum við til Samúels.' 10.15 Þá sagði föðurbróðir Sáls: 'Seg mér frá, hvað Samúel sagði við ykkur.' 10.16 Og Sál sagði við föðurbróður sinn: 'Hann sagði okkur, að ösnurnar væru fundnar.' En það, sem Samúel hafði sagt um konungdóminn, frá því sagði hann honum eigi. 10.17 Samúel kallaði lýðinn saman til Drottins í Mispa 10.18 og sagði við Ísraelsmenn: 'Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég hefi leitt Ísrael út af Egyptalandi, og ég hefi frelsað yður undan valdi Egypta og undan valdi allra þeirra konungsríkja, er kúguðu yður. 10.19 En þér hafið í dag hafnað Guði yðar, sem hjálpað hefir yður úr öllum nauðum yðar og þrengingum, og sagt: ,Nei, heldur skalt þú setja konung yfir oss.` En gangið nú fram fyrir Drottin eftir ættkvíslum yðar og þúsundum.' 10.20 Síðan lét Samúel allar ættkvíslir Ísraels ganga fram, og féll hlutur á Benjamíns ættkvísl. 10.21 Þá lét hann Benjamíns ættkvísl ganga fram eftir kynþáttum hennar, og féll hlutur á kynþátt Matríta. Þá lét hann kynþátt Matríta ganga fram mann fyrir mann, og féll hlutur á Sál Kísson. Var hans þá leitað, en hann fannst ekki. 10.22 Þá spurðust þeir enn fyrir hjá Drottni: 'Er maðurinn kominn hingað?' Drottinn svaraði: 'Sjá, hann hefir falið sig hjá farangrinum.' 10.23 Þá hlupu þeir þangað og sóttu hann. Og er hann gekk fram meðal lýðsins, þá var hann höfði hærri en allur lýður. 10.24 Og Samúel sagði við allan lýðinn: 'Hafið þér séð, að hann sem Drottinn hefir útvalið, er slíkur, að enginn er hans líki meðal alls fólksins?' Þá æpti allur lýðurinn og sagði: 'Konungurinn lifi!' 10.25 Og Samúel sagði lýðnum réttindi konungdómsins og skrifaði þau í bók og lagði hana til geymslu frammi fyrir Drottni. Síðan lét Samúel allan lýðinn burt fara, hvern heim til sín. 10.26 Þá fór og Sál heim til Gíbeu, og með honum fóru hraustmennin, sem Guð hafði snortið hjartað í. 10.27 En hrakmenni nokkur sögðu: 'Hvað ætli þessi hjálpi oss?' Og þeir fyrirlitu hann og færðu honum engar gjafir, en hann lét sem hann vissi það ekki.
11.1 Nahas Ammóníti fór og settist um Jabes í Gíleað. Þá sögðu allir Jabesbúar við Nahas: 'Gjör þú sáttmála við oss, og munum vér þjóna þér.' 11.2 Nahas Ammóníti svaraði þeim: 'Með þeim kostum vil ég gjöra sáttmála við yður, að ég stingi út á yður öllum hægra augað og gjöri öllum Ísrael háðung með því.' 11.3 Öldungarnir í Jabes sögðu við hann: 'Gef oss sjö daga frest, og munum vér senda sendiboða um allt Ísraels land, og ef enginn þá hjálpar oss, munum vér gefast upp fyrir þér.' 11.4 Þegar sendiboðarnir komu til Gíbeu Sáls og báru upp erindi sitt í áheyrn lýðsins, þá hóf allur lýðurinn upp raust sína og grét. 11.5 Og sjá, þá kom Sál á eftir nautunum utan af akri. Og Sál mælti: 'Hvað ber til þess, að fólkið er að gráta?' Og þeir sögðu honum erindi Jabesmanna. 11.6 Þá kom andi Guðs yfir Sál, er hann heyrði þessi tíðindi, og varð hann reiður mjög. 11.7 Og hann tók tvo uxa og brytjaði þá og sendi stykkin um allt Ísraels land með sendiboðunum og lét þá orðsending fylgja: 'Svo skal farið með naut hvers þess manns, er eigi fylgir Sál og Samúel í hernað.' Þá kom ótti Drottins yfir fólkið, svo að þeir lögðu af stað sem einn maður. 11.8 Og hann kannaði liðið í Besek, og voru þá Ísraelsmenn þrjú hundruð þúsund og Júdamenn þrjátíu þúsund. 11.9 Og þeir sögðu við sendiboðana, sem komnir voru: 'Segið svo mönnunum í Jabes í Gíleað: Á morgun um hádegisbil skal yður koma hjálp.' Og sendimennirnir komu og sögðu Jabesbúum frá þessu, og urðu þeir glaðir við. 11.10 Og Jabesbúar sögðu við Nahas: 'Á morgun munum vér gefast upp fyrir yður. Þá getið þér gjört við oss hvað sem yður gott þykir.' 11.11 En morguninn eftir skipti Sál liðinu í þrjá flokka, og brutust þeir inn í herbúðirnar um morgunvökuna og felldu Ammóníta fram til hádegis. Og þeir, sem af komust, dreifðust víðsvegar, svo að ekki urðu eftir af þeim tveir saman. 11.12 Þá sagði fólkið við Samúel: 'Hverjir voru það, sem sögðu: ,Á Sál að verða konungur yfir oss?` Framseljið þá menn, svo að vér getum drepið þá.' 11.13 En Sál sagði: 'Engan mann skal deyða á þessum degi, því að í dag hefir Drottinn veitt Ísrael sigur.' 11.14 Samúel sagði við lýðinn: 'Komið, vér skulum fara til Gilgal og endurnýja þar konungdóminn.' 11.15 Þá fór allur lýðurinn til Gilgal og gjörði Sál þar að konungi frammi fyrir Drottni í Gilgal. Og þeir fórnuðu þar heillafórnum frammi fyrir Drottni, og Sál og allir Ísraelsmenn glöddu sig þar mikillega.
12.1 Samúel mælti til alls Ísraels: 'Sjá, ég hefi látið að orðum yðar í öllu því, sem þér hafið beiðst af mér, og ég hefi sett yfir yður konung. 12.2 Og sjá, nú gengur konungurinn frammi fyrir yður, en ég er orðinn gamall og grár fyrir hærum, og synir mínir eru meðal yðar. En ég hefi gengið fyrir augliti yðar frá barnæsku fram á þennan dag. 12.3 Hér er ég, vitnið á móti mér frammi fyrir Drottni og hans smurða: Hvers uxa hefi ég tekið? Og hvers asna hefi ég tekið? Og hvern hefi ég féflett? Hverjum hefi ég sýnt ofríki? Og af hverjum hefi ég þegið mútu eða jafnvel eina skó? Vitnið móti mér, og mun ég gjalda yður það aftur.' 12.4 Þeir svöruðu: 'Eigi hefir þú féflett oss, og eigi hefir þú sýnt oss ofríki, og við engu hefir þú af nokkurs manns hendi tekið.' 12.5 Hann sagði við þá: 'Drottinn sé vitni móti yður, og hans smurði sé vitni í dag, að þér hafið ekkert fundið í minni hendi.' Og þeir sögðu: 'Já, þeir skulu vera vitni!' 12.6 Þá sagði Samúel við lýðinn: 'Drottinn sé vitni, hann sem skóp Móse og Aron og leiddi feður yðar út af Egyptalandi. 12.7 Gangið nú fram, til þess að ég deili á yður frammi fyrir Drottni og minni yður á allar velgjörðir Drottins, sem hann hefir auðsýnt yður og feðrum yðar. 12.8 Þegar Jakob var kominn til Egyptalands, þjáðu Egyptar þá. Þá hrópuðu feður yðar til Drottins, og Drottinn sendi Móse og Aron, og þeir leiddu feður yðar út af Egyptalandi, og hann fékk þeim bústað í þessu landi. 12.9 En þeir gleymdu Drottni, Guði sínum. Þá seldi hann þá í hendur Sísera, hershöfðingja Jabíns konungs í Hasór, og í hendur Filistum og í hendur Móabskonungi, svo að þeir herjuðu á þá. 12.10 En þeir hrópuðu til Drottins og sögðu: ,Vér höfum syndgað, þar sem vér höfum yfirgefið Drottin og þjónað Baölum og Astörtum; en frelsa oss nú af hendi óvina vorra, þá skulum vér þjóna þér.` 12.11 Þá sendi Drottinn Jerúbbaal, Barak, Jefta og Samúel og frelsaði yður af hendi óvina yðar allt í kring, svo að þér bjugguð óhultir. 12.12 En er þér sáuð, að Nahas, konungur Ammóníta, fór í móti yður, þá sögðuð þér við mig: ,Nei, konungur skal drottna yfir oss!` _ en Drottinn, Guð yðar, er þó konungur yðar. 12.13 Þarna er nú konungurinn, sem þér hafið valið, sem þér hafið beðið um. Drottinn hefir nú sett yfir yður konung. 12.14 Ef þér óttist Drottin og þjónið honum og hlýðið hans raustu og óhlýðnist ekki skipun Drottins, og ef þér, bæði þér sjálfir og konungurinn, sem ríkir yfir yður, fylgið Drottni, Guði yðar, þá fer vel, 12.15 en ef þér hlýðið ekki raustu Drottins og óhlýðnist skipun Drottins, þá mun hönd Drottins vera á móti yður og konungi yðar. 12.16 Gangið nú fram og sjáið þann mikla atburð, er Drottinn lætur verða fyrir augum yðar. 12.17 Er nú ekki hveitiuppskera? Ég ætla að biðja Drottin að senda þrumur og regn. Þá skuluð þér kannast við og skilja, hversu mikið illt þér gjörðuð í augum Drottins, er þér beiddust að fá konung.' 12.18 Og Samúel ákallaði Drottin, og Drottinn sendi þrumur og regn þennan sama dag. Þá varð lýðurinn mjög hræddur við Drottin og við Samúel. 12.19 Og allur lýðurinn sagði við Samúel: 'Bið til Drottins Guðs þíns fyrir þjónum þínum, svo að vér deyjum ekki, því að vér höfum bætt þeirri misgjörð ofan á allar syndir vorar, að vér höfum beiðst konungs.' 12.20 Samúel sagði við lýðinn: 'Óttist ekki. Þér hafið að vísu framið þessa misgjörð, en víkið nú ekki frá Drottni og þjónið Drottni af öllu hjarta yðar 12.21 og eltið ekki fánýtin, sem að engu liði eru og eigi frelsa, því að fánýt eru þau. 12.22 Því að Drottinn mun eigi útskúfa lýð sínum vegna síns mikla nafns, af því að Drottni hefir þóknast að gjöra yður að sínum lýð. 12.23 Og fjarri sé það mér að syndga á móti Drottni með því að hætta að biðja fyrir yður. Ég vil kenna yður hinn góða og rétta veg. 12.24 Óttist aðeins Drottin og þjónið honum trúlega af öllu hjarta yðar, því sjáið, hversu mikið hann hefir fyrir yður gjört. 12.25 En ef þér breytið illa, þá verður bæði yður og konungi yðar í burtu kippt.'
13.1 Sál var þrítugur að aldri, þá er hann varð konungur, og ríkti í tvö ár yfir Ísrael. 13.2 Sál valdi sér þrjú þúsund manns af Ísrael. Af þeim voru tvö þúsund hjá Sál í Mikmas og á Betelfjöllum, en eitt þúsund hjá Jónatan í Gíbeu í Benjamín. Hitt liðið lét hann brott fara, hvern heim til sín. 13.3 Jónatan drap landstjóra Filista, sem sat í Geba, og Filistar fréttu það. Og Sál lét þeyta lúður um allt landið og sagði: 'Hebrear skulu heyra það.' 13.4 Og allur Ísrael heyrði sagt: 'Sál hefir drepið landstjóra Filista, og Filistar hafa andstyggð á Ísrael.' Og liðinu var stefnt saman til þess að fara með Sál til Gilgal. 13.5 Filistar söfnuðust saman til að berjast við Ísrael, þrjú þúsund vagnar og sex þúsund riddarar og fótgöngulið, svo margt sem sandur á sjávarströndu, og þeir lögðu af stað og settu herbúðir sínar í Mikmas fyrir austan Betaven. 13.6 Og er Ísraelsmenn sáu, að þeir voru komnir í kreppu, því að að þeim þrengdi, þá faldi liðið sig í hellum, jarðholum, klettaskorum, gjótum og gryfjum. 13.7 Nokkrir Hebreanna fóru yfir vöðin á Jórdan yfir í Gaðs land og Gíleaðs. Sál var enn í Gilgal, en allt liðið hafði flúið burt frá honum fyrir hræðslu sakir. 13.8 Og hann beið í sjö daga, til þess tíma, er Samúel hafði til tekið, en Samúel kom ekki til Gilgal, og fólkið dreifðist burt frá honum. 13.9 Þá sagði Sál: 'Færið mér hingað brennifórnina og heillafórnirnar.' Og hann fórnaði brennifórninni. 13.10 En er hann hafði fórnað brennifórninni, sjá, þá kom Samúel. Og Sál gekk út á móti honum til þess að heilsa honum. 13.11 Og Samúel mælti: 'Hvað hefir þú gjört?' Sál svaraði: 'Þegar ég sá, að liðið dreifðist burt frá mér og að þú komst ekki á tilteknum tíma, en Filistar söfnuðust saman í Mikmas, 13.12 þá hugsaði ég: ,Nú munu Filistar fara ofan á móti mér til Gilgal, áður en ég hefi blíðkað Drottin.` Fyrir því herti ég upp hugann og fórnaði brennifórninni.' 13.13 Þá sagði Samúel við Sál: 'Heimskulega hefir þér farið. Þú hefir ekki gætt skipunar Drottins, Guðs þíns, sem hann fyrir þig lagði, því að nú hefði Drottinn staðfest konungdóm þinn yfir Ísrael að eilífu. 13.14 En nú mun konungdómur þinn ekki standa. Drottinn hefir leitað sér að manni eftir sínu hjarta, og hann hefir Drottinn skipað höfðingja yfir lýð sinn, því að þú hefir ekki gætt þess, er Drottinn fyrir þig lagði.' 13.15 Þá tók Samúel sig upp og fór frá Gilgal og hélt leiðar sinnar. En leifarnar af liðinu fóru á eftir Sál í móti herliðinu. Og er þeir voru komnir frá Gilgal til Gíbeu í Benjamín, þá kannaði Sál liðið, sem hjá honum var, um sex hundruð manns. 13.16 Sál og Jónatan sonur hans og liðið, sem með þeim var, sátu í Geba í Benjamín, en Filistar höfðu sett herbúðir sínar í Mikmas. 13.17 Ránssveit fór út úr herbúðum Filista í þrem hópum. Einn hópurinn stefndi veginn til Ofra inn í Sjúal-land, 13.18 annar hópurinn stefndi veginn til Bet Hóron, og þriðji hópurinn stefndi veginn til hæðarinnar, sem gnæfir yfir Sebóímdalinn gegnt eyðimörkinni. 13.19 Enginn járnsmiður var til í öllu Ísraelslandi, því að Filistar hugsuðu: 'Hebrear mega ekki smíða sverð eða spjót.' ( 13.20 Ísraelsmenn urðu að fara ofan til Filista, ef þeir vildu láta hvessa plógjárn sín, haka, axir og sigðir. 13.21 Gjaldið var tveir þriðju úr sikli fyrir plógjárn og haka, og þriðjungur úr sikli fyrir gaffla og axir og fyrir að setja brodd á broddstaf.) 13.22 Þannig hafði gjörvallt liðið, sem var með Sál og Jónatan, hvorki sverð né spjót í höndum orustudaginn, en Sál og Jónatan sonur hans höfðu það. 13.23 Varðflokkur Filista fór nú og settist í skarðið hjá Mikmas.
14.1 Svo bar við einn dag, að Jónatan sonur Sáls sagði við skjaldsvein sinn: 'Kom þú, við skulum fara yfir til varðflokks Filista, sem er þarna hinumegin.' En hann sagði ekki föður sínum frá því. 14.2 En Sál sat utanvert við Gíbeu undir granateplatrénu, sem er hjá Mígron, og liðið, sem hann hafði með sér, var hér um bil sex hundruð manns. 14.3 Og Ahía, sonur Ahítúbs, bróður Íkabóðs, Pínehassonar, Elísonar, prests Drottins í Síló, bar hökulinn. En liðið vissi ekki, að Jónatan hafði farið. 14.4 Á milli klifanna, sem Jónatan vildi um fara yfir til varðflokks Filistanna, var hvor hamarinn sínum megin. Hét annar Bóses, en hinn Sene. 14.5 Annar hamarinn var að norðanverðu og var brattur, gegnt Mikmas, en hinn að sunnanverðu, gegnt Geba. 14.6 Jónatan sagði við skjaldsvein sinn: 'Kom þú, við skulum fara yfir til varðflokks þessara óumskornu manna. Vera má, að Drottinn framkvæmi eitthvað oss í hag, því að ekkert getur tálmað Drottni að veita sigur, hvort heldur er með mörgum eða fáum.' 14.7 Skjaldsveinninn svaraði honum: 'Gjör þú öldungis eins og þér leikur hugur á, sjá, ég mun fylgja þér. Vil ég það eitt, er þú vilt.' 14.8 Jónatan mælti: 'Sjá, við förum nú yfir til mannanna og látum þá sjá okkur. 14.9 Ef þeir þá kalla til okkar: ,Nemið staðar, þangað til vér komum til ykkar!` þá skulum við standa kyrrir, þar sem við erum staddir, og eigi fara upp til þeirra. 14.10 En ef þeir kalla: ,Komið hingað upp til vor!` þá skulum við fara upp þangað, því að þá hefir Drottinn gefið þá í okkar hendur. Skulum við hafa það að marki.' 14.11 Síðan létu þeir báðir varðflokk Filistanna sjá sig, og Filistar sögðu: 'Sjá, Hebrear koma fram úr holunum, sem þeir hafa falið sig í.' 14.12 Þá kölluðu varðmennirnir til Jónatans og skjaldsveins hans: 'Komið hingað upp til vor, og skulum vér segja ykkur tíðindi.' Þá sagði Jónatan við skjaldsvein sinn: 'Kom nú upp á eftir mér, því að Drottinn hefir gefið þá í hendur Ísraels.' 14.13 Og Jónatan klifraði upp á höndum og fótum og skjaldsveinn hans á eftir honum. Þá lögðu þeir á flótta fyrir Jónatan. En hann felldi þá, og skjaldsveinn hans vann á þeim á eftir honum. 14.14 Og þeir sem Jónatan og skjaldsveinn hans lögðu að velli í þessu fyrsta áhlaupi, voru um tuttugu manns, eins og þegar plógur flettir sundur sverðinum á dagplægi lands. 14.15 Þá sló ótta yfir herbúðirnar á völlunum og yfir allt liðið. Varðsveitin og ránsflokkurinn urðu einnig skelkaðir, og landið nötraði, og varð það að mikilli skelfingu. 14.16 Sjónarverðir Sáls í Gíbeu í Benjamín lituðust um, og sjá, þá var allt á tjá og tundri í herbúðum Filista. 14.17 Og Sál sagði við mennina, sem með honum voru: 'Kannið nú liðið og hyggið að, hver frá oss hefir farið.' Könnuðu þeir þá liðið, og vantaði þá Jónatan og skjaldsvein hans. 14.18 Þá mælti Sál við Ahía: 'Kom þú með hökulinn!' _ því að hann bar þá hökulinn frammi fyrir Ísraelsmönnum. 14.19 En meðan Sál var að tala við prestinn, varð ysinn í herbúðum Filista æ meiri og meiri, svo að Sál sagði við prestinn: 'Hættu við það!' 14.20 Og Sál og allt liðið, sem með honum var, safnaðist saman. En er þeir komu í orustuna, sjá, þá reiddi þar hver sverð að öðrum, og allt var í uppnámi. 14.21 En Hebrear þeir, er að undanförnu höfðu lotið Filistum og farið höfðu með þeim í stríðið, snerust nú og í móti þeim og gengu í lið með Ísraelsmönnum, þeim er voru með Sál og Jónatan. 14.22 Og er allir Ísraelsmenn, þeir er falið höfðu sig á Efraímfjöllum, fréttu, að Filistar væru lagðir á flótta, þá veittu þeir þeim og eftirför til þess að berjast við þá. 14.23 Þannig veitti Drottinn Ísrael sigur á þeim degi. Orustan þokaðist fram hjá Betaven, 14.24 og Ísraelsmenn voru mæddir orðnir þann dag. Þá gjörði Sál mikið glappaverk. Hann lét liðið vinna svolátandi eið: 'Bölvaður sé sá, sem neytir matar áður en kveld er komið og ég hefi hefnt mín á óvinum mínum!' Fyrir því bragðaði enginn af liðinu mat. 14.25 En nú voru hunangsbú á völlunum. 14.26 Og er liðið kom að hunangsbúunum, sjá, þá voru býflugurnar flognar út, en þrátt fyrir það bar enginn hönd að munni, því að liðið hræddist eiðinn. 14.27 En Jónatan hafði eigi hlýtt á, þá er faðir hans lét liðið vinna eiðinn. Hann rétti því út enda stafsins, sem hann hafði í hendinni, og dýfði honum í hunangsseiminn og bar hönd sína að munni sér. Urðu augu hans þá aftur fjörleg. 14.28 Þá tók einn úr liðinu til máls og sagði: 'Faðir þinn hefir látið liðið vinna svolátandi eið: ,Bölvaður sé sá, sem matar neytir í dag!'` En liðið var þreytt. 14.29 Jónatan svaraði: 'Faðir minn leiðir landið í ógæfu. Sjáið, hversu fjörleg augu mín eru, af því að ég bragðaði ögn af þessu hunangi. 14.30 Hversu miklu meira mundi mannfallið hafa verið meðal Filista en það nú er orðið, ef liðið hefði etið nægju sína í dag af herfangi óvinanna, er það náði.' 14.31 Og þeir felldu Filista á þeim degi frá Mikmas til Ajalon, og liðið var mjög þreytt. 14.32 Og liðið fleygði sér yfir herfangið, og tóku þeir bæði sauðfé, naut og kálfa og slátruðu á jörðinni, og fólkið át kjötið með blóðinu. 14.33 Og menn sögðu Sál frá því og mæltu: 'Sjá, fólkið syndgar móti Drottni með því að eta kjötið með blóðinu.' Sál sagði: 'Þér drýgið glæp. Veltið hingað til mín stórum steini.' 14.34 Og Sál mælti: 'Gangið út meðal fólksins og segið þeim: ,Hver og einn af yður komi til mín með sinn uxa og sína sauðkind og slátrið þeim hér og etið, svo að þér syndgið ekki á móti Drottni með því að eta það með blóðinu.'` Þá kom hver og einn af liðinu um nóttina með það, er hann hafði, og þeir slátruðu því þar. 14.35 Og Sál reisti Drottni altari. Það var fyrsta altarið, sem hann reisti Drottni. 14.36 Og Sál mælti: 'Vér skulum fara á eftir Filistum í nótt og ræna meðal þeirra, þar til er birtir af degi, og engan af þeim láta eftir verða.' Þeir sögðu: 'Gjör þú allt, sem þér gott þykir.' En presturinn sagði: 'Vér skulum ganga hér fram fyrir Guð.' 14.37 Sál gekk þá til frétta við Guð: 'Á ég að fara á eftir Filistum? Munt þú gefa þá í hendur Ísrael?' En hann svaraði honum engu þann dag. 14.38 Þá sagði Sál: 'Gangið hingað, allir höfðingjar fólksins, og grennslist eftir og komist að raun um, hver drýgt hefir þessa synd í dag. 14.39 Því að svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er veitt hefir Ísrael sigur, þó að það væri Jónatan sonur minn, sem hefði drýgt hana, þá skyldi hann láta lífið.' En enginn svaraði honum af öllu fólkinu. 14.40 Þá sagði hann við allan Ísrael: 'Verið þér öðrumegin, en ég og Jónatan sonur minn skulum vera hinumegin.' Lýðurinn sagði við Sál: 'Gjör þú sem þér gott þykir.' 14.41 Þá mælti Sál: 'Drottinn, Ísraels Guð, hví svaraðir þú ekki þjóni þínum í dag? Ef þessi misgjörð hvílir á mér eða Jónatan syni mínum, Drottinn, Ísraels Guð, þá lát þú úrím koma upp, en ef hún hvílir á lýð þínum Ísrael, þá lát þú túmmím koma upp.' Þá kom upp hlutur Jónatans og Sáls, en fólkið gekk undan. 14.42 Og Sál mælti: 'Hlutið með mér og Jónatan syni mínum!' Kom þá upp hlutur Jónatans. 14.43 Og Sál sagði við Jónatan: 'Segðu mér, hvað hefir þú gjört?' Þá sagði Jónatan honum frá því og mælti: 'Ég bragðaði aðeins ögn af hunangi á stafsendanum, sem ég hafði í hendinni. Sjá, hér er ég, fyrir það á ég að láta lífið?' 14.44 Sál svaraði: 'Guð gjöri við mig það, er hann vill: lífið verður þú að láta, Jónatan!' 14.45 En lýðurinn sagði við Sál: 'Á Jónatan að láta lífið, hann sem unnið hefir þennan mikla sigur í Ísrael? Fjarri sé það! Svo sannarlega sem Drottinn lifir, skal ekki eitt höfuðhár hans falla til jarðar, því að með Guðs hjálp hefir hann unnið í dag.' Og fólkið leysti Jónatan út undan lífláti. 14.46 Og Sál kom aftur, er hann hafði elt Filista, en Filistar fóru heim til sín. 14.47 Þá er Sál hafði hlotið konungdóm yfir Ísrael, háði hann ófrið við alla óvini sína allt í kring: við Móab, við Ammóníta, við Edóm, við konunginn í Sóba og við Filista, og hvert sem hann sneri sér, vann hann sigur. 14.48 Hann sýndi og hreysti og vann sigur á Amalek og frelsaði Ísrael af hendi þeirra, er rændu hann. 14.49 Synir Sáls voru Jónatan, Jísví og Malkísúa; og dætur hans tvær hétu: hin eldri Merab og hin yngri Míkal. 14.50 Og kona Sáls hét Ahínóam, dóttir Ahímaas. Og hershöfðingi hans hét Abner, sonur Ners, föðurbróður Sáls. 14.51 Því að Kís, faðir Sáls, og Ner, faðir Abners, voru synir Abíels. 14.52 Og ófriðurinn við Filista var harður alla ævi Sáls, og sæi Sál einhvern kappa eða eitthvert hraustmenni, þá tók hann þann mann í sína sveit.
15.1 Samúel sagði við Sál: 'Drottinn sendi mig til þess að smyrja þig til konungs yfir lýð sinn Ísrael. Hlýð því boði Drottins. 15.2 Svo segir Drottinn allsherjar: Ég vil hefna þess, er Amalek gjörði Ísrael, að hann gjörði honum farartálma, þá er hann fór af Egyptalandi. 15.3 Far því og vinn sigur á Amalek og helgaðu hann banni og allt, sem hann á. Og þú skalt ekki þyrma honum, heldur skalt þú deyða bæði karla og konur, börn og brjóstmylkinga, naut og sauðfé, úlfalda og asna.' 15.4 Sál bauð þá út liði og kannaði það í Telam: tvö hundruð þúsundir fótgönguliðs og tíu þúsundir Júdamanna. 15.5 Og Sál kom til höfuðborgar Amaleks og setti launsát í dalinn. 15.6 Og Sál sagði við Keníta: 'Komið, víkið undan, farið burt frá Amalekítum, svo að ég tortími yður ekki með þeim, því að þér sýnduð öllum Ísraelsmönnum góðvild, þá er þeir fóru af Egyptalandi.' Þá viku Kenítar burt frá Amalek. 15.7 Sál vann sigur á Amalek frá Havíla suður undir Súr, sem liggur fyrir austan Egyptaland. 15.8 Og Agag, konung Amaleks, tók hann höndum lifandi, en fólkið allt bannfærði hann með sverðseggjum. 15.9 Þó þyrmdi Sál og fólkið Agag og bestu sauðunum og nautunum, öldu og feitu skepnunum, og öllu því, sem vænt var, og vildu ekki bannfæra það. En allt það af fénaðinum, sem var lélegt og rýrt, bannfærðu þeir. 15.10 Þá kom orð Drottins til Samúels svohljóðandi: 15.11 'Mig iðrar þess, að ég gjörði Sál að konungi, því að hann hefir snúið baki við mér og eigi framkvæmt boð mín.' Þá reiddist Samúel og hrópaði til Drottins alla nóttina. 15.12 Og Samúel lagði snemma af stað næsta morgun til þess að hitta Sál. Og Samúel var sagt svo frá: 'Sál er kominn til Karmel, og sjá, hann hefir reist sér minnismerki. Því næst sneri hann við og hélt áfram og er farinn ofan til Gilgal.' 15.13 Þegar Samúel kom til Sáls, mælti Sál til hans: 'Blessaður sért þú af Drottni, ég hefi framkvæmt boð Drottins.' 15.14 En Samúel mælti: 'Hvaða sauðajarmur er það þá, sem ómar í eyru mér, og hvaða nautaöskur er það, sem ég heyri?' 15.15 Sál svaraði: 'Þeir komu með það frá Amalekítum, af því að fólkið þyrmdi bestu sauðunum og nautunum til þess að fórna þeim Drottni Guði sínum, en hitt höfum vér bannfært.' 15.16 Samúel sagði við Sál: 'Hættu nú, og mun ég kunngjöra þér það, sem Drottinn hefir talað við mig í nótt.' Sál sagði við hann: 'Tala þú!' 15.17 Samúel mælti: 'Er ekki svo, að þótt þú sért lítill í þínum augum, þá ert þú þó höfuð Ísraels ættkvísla, því að Drottinn smurði þig til konungs yfir Ísrael? 15.18 Og Drottinn sendi þig í leiðangur og sagði: ,Far þú og bannfær syndarana, Amalekíta, og berst við þá, uns þú hefir gjöreytt þeim.` 15.19 Hvers vegna hefir þú þá ekki hlýtt boði Drottins, heldur fleygt þér yfir herfangið og gjört það, sem illt var í augum Drottins?' 15.20 Þá mælti Sál við Samúel: 'Ég hefi hlýtt boði Drottins og hefi farið í leiðangur þann, er Drottinn sendi mig í, og hefi komið hingað með Agag, Amaleks konung, og Amalek hefi ég banni helgað. 15.21 En fólkið tók sauði og naut af herfanginu, hið besta af því bannfærða, til þess að fórna því í Gilgal Drottni Guði þínum til handa.' 15.22 Samúel mælti: 'Hefir þá Drottinn eins mikla velþóknun á brennifórnum og sláturfórnum eins og á hlýðni við boð sín? Nei, hlýðni er betri en fórn, gaumgæfni betri en feiti hrútanna. 15.23 Þrjóska er ekki betri en galdrasynd, og þvermóðska er ekki betri en hjáguðadýrkun og húsgoð. Af því að þú hefir hafnað skipun Drottins, þá hefir hann og hafnað þér og svipt þig konungdómi.' 15.24 Sál mælti við Samúel: 'Ég hefi syndgað, þar eð ég hefi brotið boð Drottins og þín fyrirmæli, en ég óttaðist fólkið og lét því að orðum þess. 15.25 Fyrirgef mér nú synd mína og snú þú við með mér, svo að ég megi falla fram fyrir Drottni.' 15.26 Samúel svaraði Sál: 'Ég sný ekki við með þér. Af því að þú hefir hafnað skipun Drottins, þá hefir og Drottinn hafnað þér og svipt þig konungdómi yfir Ísrael.' 15.27 Samúel sneri sér nú við og ætlaði að ganga burt. Þá greip Sál í lafið á skikkju hans, og rifnaði það af. 15.28 Þá mælti Samúel til hans: 'Rifið hefir Drottinn frá þér í dag konungdóminn yfir Ísrael og gefið hann öðrum, sem er betri en þú. 15.29 Ekki lýgur heldur vegsemd Ísraels, og ekki iðrar hann, því að hann er ekki maður, að hann iðri.' 15.30 Sál mælti: 'Ég hefi syndgað, en sýn mér þó þá virðingu frammi fyrir öldungum þjóðar minnar og frammi fyrir Ísrael að snúa við með mér, svo að ég megi falla fram fyrir Drottni Guði þínum.' 15.31 Þá sneri Samúel við og fór með Sál, og Sál féll fram fyrir Drottni. 15.32 Og Samúel mælti: 'Færið mér Agag, Amaleks konung.' Og Agag gekk til hans kátur. Og Agag mælti: 'Sannlega er nú beiskja dauðans á brott vikin.' 15.33 Þá mælti Samúel: 'Eins og sverð þitt hefir gjört konur barnlausar, svo skal nú móðir þín vera barnlaus öðrum konum framar.' Síðan hjó Samúel Agag banahögg frammi fyrir Drottni í Gilgal. 15.34 Því næst fór Samúel til Rama, en Sál fór heim til sín í Gíbeu Sáls. 15.35 Og Samúel sá ekki Sál upp frá því allt til dauðadags, því að Samúel var sorgmæddur út af Sál, og Drottin iðraði þess, að hann hafði gjört Sál konung yfir Ísrael.
16.1 Drottinn sagði við Samúel: 'Hversu lengi ætlar þú að vera sorgmæddur út af Sál, þar sem ég hefi þó hafnað honum og svipt hann konungdómi yfir Ísrael? Fyll þú horn þitt olíu og legg af stað; ég sendi þig til Ísaí Betlehemíta, því að ég hefi kjörið mér konung meðal sona hans.' 16.2 Samúel svaraði: 'Hversu má ég fara? Frétti Sál það, mun hann drepa mig.' En Drottinn sagði: 'Tak þú með þér kvígu og segðu: ,Ég er kominn til þess að færa Drottni fórn.` 16.3 Og bjóð þú Ísaí til fórnarmáltíðarinnar, og ég skal sjálfur láta þig vita, hvað þú átt að gjöra, og þú skalt smyrja mér þann, sem ég mun segja þér.' 16.4 Samúel gjörði það, sem Drottinn sagði. Og er hann kom til Betlehem, gengu öldungar borgarinnar í móti honum hræddir í huga og sögðu: 'Kemur þú góðu heilli?' 16.5 Hann svaraði: 'Já, ég er kominn til þess að færa Drottni fórn. Helgið yður og komið með mér til fórnarmáltíðarinnar.' Og hann helgaði Ísaí og sonu hans og bauð þeim til fórnarmáltíðarinnar. 16.6 En er þeir komu, sá Samúel Elíab og hugsaði: 'Vissulega stendur hér frammi fyrir Drottni hans smurði.' 16.7 En Drottinn sagði við Samúel: 'Lít þú ekki á skapnað hans og háan vöxt því að ég hefi hafnað honum. Guð lítur ekki á það, sem mennirnir líta á. Mennirnir líta á útlitið, en Drottinn lítur á hjartað.' 16.8 Þá kallaði Ísaí á Abínadab og leiddi hann fyrir Samúel. En hann mælti: 'Ekki hefir Drottinn heldur kjörið þennan.' 16.9 Þá leiddi Ísaí fram Samma. En Samúel mælti: 'Ekki hefir Drottinn heldur kjörið þennan.' 16.10 Þannig leiddi Ísaí fram sjö sonu sína fyrir Samúel, en Samúel sagði við Ísaí: 'Engan af þessum hefir Drottinn kjörið.' 16.11 Og Samúel sagði við Ísaí: 'Eru þetta allir sveinarnir?' Hann svaraði: 'Enn er hinn yngsti eftir, og sjá, hann gætir sauða.' Samúel sagði við Ísaí: 'Send eftir honum og lát sækja hann, því að vér setjumst ekki til borðs fyrr en hann er kominn hingað.' 16.12 Þá sendi hann eftir honum og lét hann koma, en hann var rauðleitur, fagureygur og vel vaxinn. Og Drottinn sagði: 'Statt þú upp, smyr hann, því að þessi er það.' 16.13 Þá tók Samúel olíuhornið og smurði hann mitt á meðal bræðra hans. Og andi Drottins kom yfir Davíð upp frá þeim degi. En Samúel tók sig upp og fór til Rama. 16.14 Andi Drottins var vikinn frá Sál, en illur andi frá Drottni sturlaði hann. 16.15 Þá sögðu þjónar Sáls við hann: 'Illur andi frá Guði sturlar þig. 16.16 Herra vor þarf ekki nema að skipa; þjónar þínir standa frammi fyrir þér og munu leita upp mann, sem kann að leika hörpu. Þá mun svo fara, að þegar hinn illi andi frá Guði kemur yfir þig, og hann leikur hörpuna hendi sinni, þá mun þér batna.' 16.17 Og Sál sagði við þjóna sína: 'Finnið mér mann, sem vel leikur á strengjahljóðfæri, og færið mér hann.' 16.18 Þá svaraði einn af sveinunum og mælti: 'Sjá, ég hefi séð son Ísaí Betlehemíta, sem kann að leika á strengjahljóðfæri og er hreystimenni og bardagamaður, vel máli farinn og vaxinn vel, og Drottinn er með honum.' 16.19 Þá gjörði Sál menn til Ísaí og lét segja honum: 'Sendu Davíð son þinn til mín, þann er sauðanna gætir.' 16.20 Þá tók Ísaí tíu brauð, vínbelg og einn geithafur og sendi Sál með Davíð syni sínum. 16.21 Og Davíð kom til Sáls og þjónaði honum. Lagði Sál mikinn þokka á hann og gjörði hann að skjaldsveini sínum. 16.22 Þá sendi Sál til Ísaí og lét segja honum: 'Lát þú Davíð ganga í þjónustu mína, því að hann fellur mér vel í geð.' 16.23 Og jafnan þegar hinn illi andi frá Guði kom yfir Sál, þá tók Davíð hörpuna og lék hana hendi sinni. Þá bráði af Sál og honum batnaði, og hinn illi andi vék frá honum.
17.1 Filistar drógu nú saman hersveitir sínar til bardaga, og söfnuðust þeir saman í Sókó, sem heyrir Júda, og settu þeir herbúðir sínar hjá Efes-Dammím, milli Sókó og Aseka. 17.2 En Sál og Ísraelsmenn söfnuðust saman og settu herbúðir sínar í Eikidalnum og bjuggust til bardaga í móti Filistum. 17.3 Og Filistar stóðu á fjalli öðrumegin og Ísraelsmenn stóðu á fjalli hinumegin, svo að dalurinn var á milli þeirra. 17.4 Þá gekk hólmgöngumaður fram úr fylkingum Filista. Hét hann Golíat og var frá Gat. Hann var á hæð sex álnir og spönn betur. 17.5 Hann hafði eirhjálm á höfði og var í spangabrynju, og vó brynjan fimm þúsund sikla eirs. 17.6 Hann hafði legghlífar af eiri á fótum sér og skotspjót af eiri á herðum sér. 17.7 En spjótskaft hans var sem vefjarrifur, og fjöðurin vó sex hundruð sikla járns. Skjaldsveinn hans gekk á undan honum. 17.8 Golíat gekk fram og kallaði til fylkinga Ísraels og mælti til þeirra: 'Hví farið þér í leiðangur og búist til bardaga? Er ég ekki Filisti og þér þjónar Sáls? Veljið yður mann, sem komi hingað ofan til mín. 17.9 Sé hann fær um að berjast við mig og felli mig, þá skulum vér vera yðar þrælar, en beri ég hærra hlut og felli hann, þá skuluð þér vera vorir þrælar og þjóna oss.' 17.10 Og Filistinn mælti: 'Ég hefi smánað fylkingar Ísraels í dag. Fáið til mann, að við megum berjast.' 17.11 Og þegar Sál og allur Ísrael heyrði þessi ummæli Filistans, þá skelfdust þeir og urðu mjög hræddir. 17.12 Davíð var sonur Ísaí, sem var Efratíti í Betlehem í Júda. Ísaí átti átta sonu. Á Sáls dögum var maðurinn orðinn gamall og hniginn að aldri. 17.13 Og þrír elstu synir Ísaí höfðu farið með Sál í stríðið. Og synir hans þrír, sem í stríðið höfðu farið, hétu: hinn elsti Elíab, annar Abínadab og hinn þriðji Samma. 17.14 En Davíð var yngstur. Þrír hinir eldri höfðu farið með Sál. 17.15 Og við og við fór Davíð frá Sál til þess að gæta sauða föður síns í Betlehem. 17.16 En Filistinn gekk fram morgna og kveld og bauð sig fram fjörutíu daga. 17.17 Dag nokkurn sagði Ísaí við Davíð son sinn: 'Tak þú efu af þessu bakaða korni handa bræðrum þínum og þessi tíu brauð og flýt þér og færðu bræðrum þínum þetta í herbúðirnar. 17.18 Og þessa tíu mjólkurosta skalt þú færa hersveitarforingjanum, og fáðu að vita, hvernig bræðrum þínum líður, og komdu með jarteikn frá þeim. 17.19 En Sál og þeir og allir Ísraelsmenn eru í Eikidalnum og eru að berjast við Filista.' 17.20 Davíð reis árla morguninn eftir og fékk sauðina hirði nokkrum til geymslu og lyfti á sig og hélt af stað, eins og Ísaí hafði boðið honum. Þegar hann kom til herbúðanna, gekk herinn fram í fylkingu, og æptu þeir heróp. 17.21 Stóðu nú hvorir tveggja búnir til bardaga, Ísrael og Filistar, hvor fylkingin gegnt annarri. 17.22 Og Davíð skildi við sig það, er hann hafði meðferðis, hjá manni þeim, er gætti farangursins, og hljóp að fylkingunni og kom og spurði bræður sína, hvernig þeim liði. 17.23 En meðan hann var að tala við þá, sjá, þá gekk fram hólmgöngumaðurinn _ hann hét Golíat, Filisti frá Gat _ úr fylkingum Filistanna og mælti sömu orðum sem fyrr, og Davíð hlýddi á. 17.24 En er Ísraelsmenn sáu manninn, hörfuðu þeir allir undan honum og voru mjög hræddir. 17.25 Og einn Ísraelsmanna sagði: 'Hafið þér séð manninn, sem kemur þarna? Hann kemur til þess að smána Ísrael. Hverjum þeim, sem fellir hann, vill konungurinn veita mikil auðæfi og gefa honum dóttur sína og gjöra ætt hans skattfrjálsa í Ísrael.' 17.26 Þá sagði Davíð við þá, sem næstir honum stóðu: 'Hverju verður þeim manni umbunað, sem fellir Filista þennan og rekur svívirðing af Ísrael? Því að hver er þessi óumskorni Filisti, er dirfist að smána herfylkingar lifanda Guðs?' 17.27 Og fólkið talaði til hans þessum sömu orðum: 'Þessu verður þeim umbunað, sem fellir hann.' 17.28 En er Elíab, elsti bróðir hans, heyrði, hvað hann talaði við mennina, þá reiddist hann Davíð og mælti: 'Til hvers ert þú hingað kominn, og hjá hverjum skildir þú eftir þessa fáu sauði í eyðimörkinni? Ég þekki ofdirfsku þína og vonsku hjarta þíns: Þú ert hingað kominn til þess að horfa á bardagann.' 17.29 Davíð svaraði: 'Nú, hvað hefi ég þá gjört? Var mér ekki frjálst að spyrja?' 17.30 Og hann sneri sér frá honum og til annars og mælti á sömu leið, og fólkið svaraði honum hinu sama sem hið fyrra skiptið. 17.31 En er það spurðist, sem Davíð hafði sagt, þá sögðu menn Sál frá því, og lét hann þá sækja hann. 17.32 Davíð sagði við Sál: 'Enginn láti hugfallast! Þjónn þinn mun fara og berjast við Filista þennan.' 17.33 Sál sagði við Davíð: 'Þú ert ekki fær um að fara móti Filista þessum og berjast við hann, því að þú ert ungmenni, en hann hefir verið bardagamaður frá barnæsku sinni.' 17.34 Davíð sagði við Sál: 'Þjónn þinn gætti sauða hjá föður sínum. Ef þá kom ljón eða björn og tók kind úr hjörðinni, 17.35 þá hljóp ég á eftir honum og felldi hann og reif kindina úr gini hans, en ef hann réðst í móti mér, þreif ég í kampa hans og laust hann til bana. 17.36 Bæði ljón og björn hefir þjónn þinn drepið, og þessum óumskorna Filista skal reiða af eins og þeim, því að hann hefir smánað herfylkingar lifanda Guðs.' 17.37 Og Davíð mælti: 'Drottinn, sem frelsaði mig úr klóm ljónsins og úr klóm bjarnarins, hann mun frelsa mig af hendi þessa Filista.' Þá mælti Sál við Davíð: 'Far þú þá, og Drottinn mun vera með þér.' 17.38 Og Sál færði Davíð í brynjukufl sinn og setti eirhjálm á höfuð honum og færði hann í brynju. 17.39 Og Davíð gyrti sig sverði sínu utan yfir brynjukuflinn og fór að ganga, því að hann hafði aldrei reynt það áður. Þá sagði Davíð við Sál: 'Ég get ekki gengið í þessu, því að ég hefi aldrei reynt það áður.' Og þeir færðu Davíð úr þessu, 17.40 en hann tók staf sinn í hönd sér og valdi sér fimm hála steina úr gilinu og lét þá í smalatöskuna, sem hann hafði með sér, í skreppuna, og tók sér slöngvu í hönd og gekk á móti Filistanum. 17.41 Filistinn gekk nær og nær Davíð, og maðurinn, sem bar skjöld hans, gekk á undan honum. 17.42 En er Filistinn leit til og sá Davíð, fyrirleit hann hann, af því að hann var ungmenni og rauðleitur og fríður sýnum. 17.43 Og Filistinn sagði við Davíð: 'Er ég þá hundur, að þú kemur með staf á móti mér?' Og Filistinn formælti Davíð við guð sinn. 17.44 Og Filistinn mælti við Davíð: 'Kom þú til mín, svo að ég gefi fuglum loftsins og dýrum merkurinnar hold þitt.' 17.45 Davíð sagði við Filistann: 'Þú kemur á móti mér með sverð og lensu og spjót, en ég kem á móti þér í nafni Drottins allsherjar, Guðs herfylkinga Ísraels, sem þú hefir smánað. 17.46 Í dag mun Drottinn gefa þig í mínar hendur, og ég mun leggja þig að velli og höggva af þér höfuðið, og hræ þitt og hræin af her Filista mun ég í dag gefa fuglum loftsins og dýrum merkurinnar, svo að öll jörðin viðurkenni, að Guð er í Ísrael, 17.47 og til þess að allur þessi mannsafnaður komist að raun um, að Drottinn veitir ekki sigur með sverði og spjóti, því að bardaginn er Drottins, og hann mun gefa yður í vorar hendur.' 17.48 Og er Filistinn fór af stað og gekk fram og fór í móti Davíð, þá flýtti Davíð sér og hljóp að fylkingunni í móti Filistanum. 17.49 Og Davíð stakk hendi sinni ofan í smalatöskuna og tók úr henni stein og slöngvaði og hæfði Filistann í ennið, og steinninn festist í enni hans, og féll hann á grúfu til jarðar. 17.50 Þannig sigraði Davíð Filistann með slöngvu og steini og felldi hann og drap hann, og þó hafði Davíð ekkert sverð í hendi. 17.51 Þá hljóp Davíð að og gekk til Filistans, tók sverð hans og dró það úr slíðrum og drap hann og hjó af honum höfuðið með því. En er Filistar sáu, að kappi þeirra var dauður, lögðu þeir á flótta. 17.52 En Ísraelsmenn og Júdamenn lögðu af stað og æptu heróp og eltu Filista allt til Gat og að borgarhliði Ekron, svo að Filistar lágu vegnir jafnvel á veginum, sem lá inn um borgarhliðið bæði í Gat og Ekron. 17.53 Og Ísraelsmenn sneru aftur og hættu að elta Filista og rændu herbúðir þeirra. 17.54 En Davíð tók höfuð Filistans og hafði með sér til Jerúsalem, en vopn hans lagði hann í tjald sitt. 17.55 Þegar Sál sá Davíð fara móti Filistanum, mælti hann við Abner hershöfðingja: 'Abner, hvers son er sveinn þessi?' Abner svaraði: 'Svo sannarlega sem þú lifir, konungur, veit ég það ekki.' 17.56 Konungurinn mælti: 'Spyr þú að, hvers sonur þetta ungmenni sé.' 17.57 Og er Davíð sneri aftur og hafði lagt Filistann að velli, þá tók Abner hann og leiddi hann fyrir Sál, en hann hélt á höfði Filistans í hendi sér. 17.58 Og Sál sagði við hann: 'Hvers son ert þú, sveinn?' Davíð svaraði: 'Sonur þjóns þíns Ísaí Betlehemíta.'
18.1 Þegar Davíð hafði endað tal sitt við Sál, þá lagði Jónatan ást mikla við Davíð og unni honum sem lífi sínu. 18.2 Og Sál tók Davíð að sér upp frá þeim degi og leyfði honum ekki að fara heim aftur til föður síns. 18.3 Og Jónatan gjörði fóstbræðralag við Davíð, af því að hann unni honum sem lífi sínu. 18.4 Og Jónatan fór úr skikkju sinni, sem hann var í, og gaf Davíð hana, svo og brynjukufl sinn og jafnvel sverð sitt, boga sinn og belti. 18.5 Og Davíð fór í leiðangra. Var hann giftudrjúgur, hvert sem Sál sendi hann. Setti Sál hann því yfir hermennina. Og hann var vel þokkaður af öllum lýð og einnig þjónum Sáls. 18.6 Þegar þeir komu heim, þá er Davíð hafði lagt Filistann að velli, þá gengu konur úr öllum borgum Ísraels syngjandi og dansandi út í móti Sál konungi, með bumbum, strengleik og mikilli gleði. 18.7 Og konurnar stigu dansinn, hófu upp söng og mæltu: Sál felldi sín þúsund, en Davíð sín tíu þúsund. 18.8 Þá varð Sál reiður mjög, og honum mislíkuðu þessi orð og hann sagði: 'Davíð hafa þær gefið tíu þúsundin, en mér hafa þær gefið þúsundin. Nú vantar hann ekki nema konungdóminn!' 18.9 Og Sál leit Davíð öfundarauga ávallt upp frá því. 18.10 Daginn eftir kom illur andi frá Guði yfir Sál, og æði greip hann inni í húsinu, en Davíð var að leika hörpuna hendi sinni, eins og hann var vanur að gjöra á degi hverjum, og Sál hafði spjót í hendi. 18.11 Þá reiddi Sál spjótið og hugsaði með sér: 'Ég skal reka það gegnum Davíð og inn í vegginn.' En Davíð skaut sér tvívegis undan. 18.12 Sál var hræddur við Davíð, því að Drottinn var með honum, en var vikinn frá Sál. 18.13 Fyrir því lét Sál hann frá sér og gjörði hann að hersveitarforingja. Var hann nú fyrir liðinu bæði þegar það fór og kom. 18.14 En Davíð var giftudrjúgur í öllu, sem hann tók sér fyrir hendur, af því að Drottinn var með honum. 18.15 Og er Sál sá, að hann var giftusamur mjög, tók honum að standa uggur af honum. 18.16 En allur Ísrael og Júda elskaði Davíð, því að hann gekk jafnan þeirra fremstur. 18.17 Sál sagði við Davíð: 'Sjá, ég vil gefa þér Merab, eldri dóttur mína, fyrir konu. En þú verður að reynast mér hraustur maður og þú verður að heyja bardaga Drottins!' En Sál hugsaði með sér: 'Ég skal ekki leggja hönd á hann, en Filistar skulu leggja hönd á hann.' 18.18 Davíð sagði við Sál: 'Hver er ég og hvert er kyn mitt, ætt föður míns í Ísrael, að ég skuli verða tengdasonur konungsins?' 18.19 En er sá tími kom, að gifta skyldi Davíð Merab, dóttur Sáls, þá var hún gefin Adríel frá Mehóla fyrir konu. 18.20 En Míkal, dóttir Sáls, elskaði Davíð. Og Sál var sagt frá því, og honum líkaði það vel. 18.21 Þá hugsaði Sál með sér: 'Ég vil gefa honum hana, svo að hún verði honum að tálsnöru og Filistar leggi hönd á hann.' Og Sál sagði í annað sinn við Davíð: 'Þú skalt verða tengdasonur minn í dag.' 18.22 Og Sál bauð þjónum sínum: 'Talið leynilega við Davíð og segið: ,Sjá, konungur hefir mætur á þér, og allir þjónar hans elska þig, og því skalt þú mægjast við konung.'` 18.23 Þjónar Sáls töluðu þessi orð í eyru Davíðs. En Davíð sagði: 'Sýnist yður það lítils um vert að mægjast við konung, þar sem ég er maður fátækur og lítilsháttar?' 18.24 Þjónar Sáls báru honum þetta og sögðu: 'Slíkum orðum hefir Davíð mælt.' 18.25 Þá sagði Sál: 'Mælið svo við Davíð: ,Eigi girnist konungur annan mund en hundrað yfirhúðir Filista til þess að hefna sín á óvinum konungs.'` En Sál hugsaði sér að láta Davíð falla fyrir hendi Filista. 18.26 Og þjónar hans báru Davíð þessi orð, og Davíð líkaði það vel að eiga að mægjast við konung. En tíminn var enn ekki liðinn, 18.27 er Davíð tók sig upp og lagði af stað með menn sína og drap hundrað manns meðal Filista. Og Davíð fór með yfirhúðir þeirra og lagði þær allar með tölu fyrir konung, til þess að hann næði mægðum við konung. Þá gaf Sál honum Míkal dóttur sína fyrir konu. 18.28 Sál sá það æ betur og betur, að Drottinn var með Davíð og að allur Ísrael elskaði hann. 18.29 Þá varð Sál enn miklu hræddari við Davíð. Varð Sál nú óvinur Davíðs alla ævi. 18.30 Og höfðingjar Filistanna fóru í leiðangur. En í hvert skipti, sem þeir fóru í leiðangur, varð Davíð giftudrýgri en allir þjónar Sáls, svo að nafn hans varð víðfrægt.
19.1 Sál talaði við Jónatan son sinn og við alla þjóna sína um að drepa Davíð. En Jónatan, sonur Sáls, hafði miklar mætur á Davíð. 19.2 Fyrir því sagði Jónatan Davíð frá þessu og mælti: 'Sál faðir minn situr um að drepa þig. Ver því var um þig á morgun snemma og fel þig og ver þú kyrr í því leyni. 19.3 En ég ætla sjálfur að fara út og nema staðar við hlið föður míns á mörkinni, þar sem þú ert, og ég ætla að tala um þig við föður minn; og ef ég verð nokkurs vísari, mun ég segja þér það.' 19.4 Jónatan talaði vel um Davíð við Sál föður sinn og sagði við hann: 'Syndgast þú ekki, konungur, á Davíð þjóni þínum, því að hann hefir ekki syndgað á móti þér og verk hans hafa verið þér mjög gagnleg. 19.5 Hann lagði líf sitt í hættu og felldi Filistann, og þannig veitti Drottinn öllum Ísrael mikinn sigur. Þú sást það og gladdist. Hvers vegna vilt þú syndgast á saklausu blóði með því að deyða Davíð án saka?' 19.6 Sál skipaðist við orð Jónatans og sór: 'Svo sannarlega sem Drottinn lifir, þá skal hann ekki verða drepinn.' 19.7 Þá kallaði Jónatan á Davíð og tjáði honum öll þessi orð. Síðan leiddi Jónatan Davíð til Sáls, og hann var hjá honum sem áður. 19.8 Er ófriður hófst að nýju, fór Davíð og barðist við Filista og felldi mikinn fjölda af þeim, svo að þeir flýðu fyrir honum. 19.9 Þá kom illur andi frá Drottni yfir Sál; en hann sat í húsi sínu og hafði spjót í hendi sér, og Davíð lék hörpuna hendi sinni. 19.10 Þá reyndi Sál að reka Davíð í gegn með spjótinu upp við vegginn, en hann skaut sér undan Sál, svo að hann rak spjótið inn í vegginn. Og Davíð flýði og komst undan. 19.11 Hina sömu nótt sendi Sál sendimenn í hús Davíðs til þess að hafa gætur á honum, svo að hann fengi drepið hann um morguninn. En Míkal, kona hans, sagði Davíð frá og mælti: 'Ef þú forðar ekki lífi þínu í nótt, þá verður þú drepinn á morgun.' 19.12 Þá lét Míkal Davíð síga niður út um gluggann, og hann fór og flýði og komst undan. 19.13 Síðan tók Míkal húsgoðið og lagði í rúmið, og hún lagði blæju úr geitarhári yfir höfðalagið og breiddi ábreiðu yfir. 19.14 Og þegar Sál sendi menn til þess að sækja Davíð, þá sagði hún: 'Hann er sjúkur.' 19.15 Þá sendi Sál mennina aftur til að vitja um Davíð og sagði: 'Færið mér hann í rúminu, til þess að ég geti drepið hann.' 19.16 En er sendimennirnir komu, sjá, þá lá húsgoðið í rúminu og geitarhársblæjan yfir höfðalaginu. 19.17 Þá sagði Sál við Míkal: 'Hví hefir þú svikið mig svo og látið óvin minn í burt fara, svo að hann hefir komist undan?' Míkal sagði við Sál: 'Hann sagði við mig: ,Lát mig komast burt, ella mun ég drepa þig!'` 19.18 Davíð flýði og komst undan og kom til Samúels í Rama og sagði honum frá öllu, sem Sál hafði gjört honum. Og hann fór með Samúel og þeir bjuggu í Najót. 19.19 Nú var Sál sagt svo frá: 'Sjá, Davíð er í Najót í Rama!' 19.20 Sendi Sál þá menn til að sækja Davíð. En er þeir sáu hóp spámanna, sem voru í spámannlegum guðmóði, og Samúel standa þar sem foringja þeirra, þá kom Guðs andi yfir sendimenn Sáls, svo að þeir komust einnig í spámannlegan guðmóð. 19.21 Og menn sögðu Sál frá þessu, og hann sendi aðra menn, en þeir komust einnig í spámannlegan guðmóð. Þá sendi Sál enn menn hið þriðja sinn, en þeir komust einnig í spámannlegan guðmóð. 19.22 Þá fór hann sjálfur til Rama. Og er hann kom að vatnsþrónni miklu í Sekó, þá spurði hann og mælti: 'Hvar eru þeir Samúel og Davíð?' Og menn sögðu: 'Þeir eru í Najót í Rama.' 19.23 En er hann fór þaðan til Najót í Rama, þá kom og Guðs andi yfir hann, og var hann stöðugt í spámannlegum guðmóði alla leiðina til Najót í Rama. 19.24 Þá fór hann einnig af klæðum sínum, og hann var líka í spámannlegum guðmóði frammi fyrir Samúel og lá þar nakinn allan þennan dag og alla nóttina. Fyrir því segja menn: 'Er og Sál meðal spámannanna?'
20.1 Davíð flýði frá Najót í Rama og kom til Jónatans og sagði: 'Hvað hefi ég gjört? Í hverju hefi ég misgjört og í hverju hefi ég syndgað á móti föður þínum, fyrst hann situr um líf mitt?' 20.2 Jónatan sagði við hann: 'Það skal aldrei verða! Þú munt eigi lífi týna. Sjá, faðir minn gjörir ekkert, hvorki stórt né smátt, að hann láti mig eigi vita það. Og hví skyldi faðir minn þá leyna mig þessu? Nei, slíkt á sér ekki stað.' 20.3 Davíð svaraði aftur og mælti: 'Faðir þinn veit það vel, að þér þykir vænt um mig, og hugsar með sér: ,Jónatan má eigi vita þetta, það kynni að fá honum hryggðar.` En svo sannarlega sem Drottinn lifir og þú lifir: Milli mín og dauðans er aðeins eitt fótmál.' 20.4 Jónatan sagði við Davíð: 'Hvað sem þú biður um mun ég fyrir þig gjöra.' 20.5 Þá sagði Davíð við Jónatan: 'Sjá, á morgun er tunglkomudagur, og ég get ekki með neinu móti setið til borðs með konunginum. Leyf mér því að fara burt, svo að ég geti falið mig úti á víðavangi til kvelds. 20.6 Ef nú faðir þinn saknar mín, þá skalt þú segja: ,Davíð beiddist leyfis af mér að mega bregða sér til Betlehem, föðurborgar sinnar, því að ársfórn allrar ættarinnar fer þar fram.` 20.7 Ef hann þá segir: ,Það er gott!` þá er þjóni þínum óhætt, en verði hann reiður, þá vit, að hann hefir illt af ráðið. 20.8 Auðsýn nú þjóni þínum kærleika, úr því að þú hefir látið þjón þinn ganga í Drottins-fóstbræðralag við þig. En hafi ég misgjört, þá drep þú mig sjálfur. Hví skyldir þú fara með mig til föður þíns?' 20.9 Jónatan mælti: 'Lát þér eigi koma það til hugar! Ef ég yrði þess áskynja, að faðir minn hafi illt af ráðið gegn þér, mundi ég þá ekki segja þér frá því?' 20.10 Davíð sagði við Jónatan: 'Hver lætur mig nú vita, hvort faðir þinn svarar þér illu til?' 20.11 Jónatan sagði við Davíð: 'Kom þú, við skulum ganga út á víðavang.' Og þeir gengu báðir út á víðavang. 20.12 En Jónatan sagði við Davíð: 'Drottinn, Ísraels Guð, veri vitni: Þegar ég á morgun um þetta leyti hefi komist eftir, hvað föður mínum býr í skapi, og ég sé að þér er óhætt, mun ég senda til þín og láta þig vita. 20.13 Drottinn láti mig gjalda þess nú og síðar, ef faðir minn hefir illt í huga gegn þér, og ég læt þig ekki vita það. Ég leyfi þér að fara, svo að þú megir fara óhultur. Drottinn mun vera með þér, eins og hann hefir verið með föður mínum. 20.14 Og vilt þú ekki, verði ég þá enn á lífi, auðsýna mér miskunn Drottins, svo að ég týni eigi lífi? 20.15 Og svipt hús mitt aldrei miskunn þinni, og þegar Drottinn upprætir alla óvini Davíðs af jörðinni, 20.16 þá skal nafn Jónatans eigi verða slitið frá húsi Davíðs. Drottinn hefni Davíðs á óvinum hans!' 20.17 Jónatan vann Davíð enn eið við ást þá, er hann bar til hans, því að hann unni honum hugástum. 20.18 Og Jónatan sagði við hann: 'Á morgun er tunglkomudagur. Þá verður þín saknað, því að sæti þitt mun verða autt. 20.19 En á þriðja degi mun þín mjög verða saknað. Þá skalt þú fara til þess staðar, þar sem þú fólst þig fyrri daginn, og sestu hjá þeim hól. 20.20 Ég mun þá á þriðja degi skjóta örvum í hólinn, eins og ég væri að skjóta til marks. 20.21 Og sjá, ég mun senda sveininn og segja: ,Farðu og sæktu örina.` Ef ég nú kalla til sveinsins: ,Sjá, örin liggur hérnamegin við þig, kom þú með hana!` þá skalt þú koma heim, því að þá er þér óhætt og ekkert er að, svo sannarlega sem Drottinn lifir. 20.22 En ef ég kalla svo til piltsins: ,Örin liggur hinumegin við þig!` þá far þú, því að Drottinn hefir þá sent þig burt. 20.23 En viðvíkjandi því, sem við höfum talað, ég og þú, þá er Drottinn vitni milli mín og þín að eilífu.' 20.24 Þá fól Davíð sig úti á víðavangi. Er tunglkomudagurinn kom, settist konungur undir borð að máltíð. 20.25 Sat konungur í sæti sínu, eins og vant var, í sætinu við vegginn, en Jónatan sat gegnt honum, og Abner sat við hliðina á Sál. En sæti Davíðs var autt. 20.26 Þó sagði Sál ekkert þann dag, því að hann hugsaði: 'Það er tilviljun: hann er ekki hreinn. Hann hefir ekki látið hreinsa sig.' 20.27 En daginn eftir tunglkomuna var sæti Davíðs enn autt. Þá sagði Sál við Jónatan son sinn: 'Hvers vegna hefir sonur Ísaí ekki komið til máltíðar, hvorki í gær né í dag?' 20.28 Jónatan svaraði Sál: 'Davíð beiddist þess af mér að mega fara til Betlehem. 20.29 Hann sagði: ,Leyf mér að fara, því að vér ætlum að halda ættarfórn í borginni, og bræður mínir hafa beðið mig að koma, og hafi ég fundið náð í augum þínum, þá lofaðu mér að komast burt, svo að ég geti heimsótt bræður mína.` Fyrir því hefir hann ekki komið að konungsborði.' 20.30 Þá reiddist Sál Jónatan og sagði við hann: 'Þú sonur þrjóskrar móður! Ætli ég viti ekki að þú ert vinur Ísaísonar, þér til skammar, og blygðun móður þinnar til skammar! 20.31 Því að alla þá stund, sem Ísaísonur er lifandi á jörðinni, munt þú og konungdómur þinn eigi fastur standa. Send því nú og lát koma með hann til mín, því að hann er dauðamaður.' 20.32 Þá svaraði Jónatan Sál föður sínum og sagði við hann: 'Hví skal deyða hann? Hvað hefir hann gjört?' 20.33 Þá snaraði Sál að honum spjótinu og ætlaði að leggja hann í gegn. Sá Jónatan þá, að faðir hans hafði fastráðið að drepa Davíð. 20.34 Og Jónatan stóð upp frá borðinu ævareiður og neytti ekki matar annan tunglkomudaginn, því að hann tók sárt til Davíðs, af því að faðir hans hafði smánað hann. 20.35 Morguninn eftir gekk Jónatan út á víðavang á þeim tíma, er þeir Davíð höfðu til tekið, og var ungur sveinn með honum. 20.36 Og hann sagði við svein sinn: 'Hlauptu og sæktu örina, sem ég ætla að skjóta.' Sveinninn hljóp af stað, en hann skaut örinni yfir hann fram. 20.37 En er sveinninn kom þar að, er örin lá, sem Jónatan hafði skotið, þá kallaði Jónatan á eftir sveininum og sagði: 'Örin liggur hinumegin við þig!' 20.38 Og Jónatan kallaði enn á eftir sveininum: 'Áfram, flýttu þér, stattu ekki kyrr!' Og sveinn Jónatans tók upp örina og færði húsbónda sínum. 20.39 En sveinninn vissi ekki neitt. Þeir Jónatan og Davíð vissu einir, hvað þetta átti að þýða. 20.40 Og Jónatan fékk sveini sínum vopn sín og sagði við hann: 'Farðu með þau inn í borgina.' 20.41 Sveinninn fór nú heim, en Davíð reis upp undan hólnum, féll fram á ásjónu sína til jarðar og laut þrisvar sinnum, og þeir kysstu hvor annan og grétu hvor með öðrum, þó Davíð miklu meir. 20.42 Og Jónatan sagði við Davíð: 'Far þú í friði. En viðvíkjandi því, sem við báðir höfum unnið eið að í nafni Drottins, þá sé Drottinn vitni milli mín og þín, og milli minna niðja og þinna niðja að eilífu.' Síðan hélt Davíð af stað og fór burt, en Jónatan gekk inn í borgina.
21.1 Davíð kom til Nób, til Ahímeleks prests, en Ahímelek gekk skelkaður í móti Davíð og mælti til hans: 'Hví ert þú einsamall og enginn maður með þér?' 21.2 Davíð svaraði Ahímelek presti: 'Konungur fól mér erindi nokkurt og sagði við mig: ,Enginn maður má vita neitt um erindi það, er ég sendi þig í og ég hefi falið þér.` Fyrir því hefi ég stefnt sveinunum á vissan stað. 21.3 Og ef þú hefir nú fimm brauð hjá þér, þá gef mér þau, eða hvað sem fyrir hendi er.' 21.4 Prestur svaraði Davíð og sagði: 'Ég hefi ekkert óheilagt brauð hjá mér, en heilagt brauð er til, _ aðeins að sveinarnir hafi haldið sér frá konum.' 21.5 Davíð svaraði presti og mælti til hans: 'Já, vissulega. Kvenna hefir oss verið varnað undanfarið. Þegar ég fór að heiman, voru ker sveinanna heilög. Að vísu er þetta ferðalag óheilagt, en nú verður allt helgað!' 21.6 Þá gaf prestur honum heilagt brauð, því að þar var ekkert brauð, nema skoðunarbrauðin, sem tekin eru burt frá augliti Drottins, en volg brauð lögð í stað þeirra, þá er þau eru tekin. 21.7 En þar var þennan dag einn af þjónum Sáls, inni byrgður fyrir augliti Drottins. Hann hét Dóeg og var Edómíti og yfirmaður hirða Sáls. 21.8 Davíð sagði við Ahímelek: 'Hefir þú ekki spjót eða sverð hér hjá þér? Því að ég tók hvorki sverð mitt né vopn mín með mér, svo bar bráðan að um konungs erindi.' 21.9 Þá sagði prestur: 'Hér er sverð Golíats Filista, sem þú lagðir að velli í Eikidal, sveipað dúk á bak við hökulinn. Ef þú vilt hafa það, þá tak það, því að hér er ekkert annað en það.' Davíð sagði: 'Það er sverða best, fá mér það.' 21.10 Síðan tók Davíð sig upp og flýði þennan sama dag fyrir Sál, og kom til Akís konungs í Gat. 21.11 Og þjónar Akís sögðu við hann: 'Er þetta ekki Davíð, konungur landsins? Var það ekki um hann, að sungið var við dansinn: Sál felldi sín þúsund og Davíð sín tíu þúsund?' 21.12 Davíð festi þessi orð í huga og var mjög hræddur við Akís konung í Gat. 21.13 Fyrir því gjörði hann sér upp vitfirringu fyrir augum þeirra og lét sem óður maður innan um þá, sló á vængjahurðir hliðsins sem á bumbu og lét slefuna renna ofan í skeggið. 21.14 Þá sagði Akís við þjóna sína: 'Þér sjáið að maðurinn er vitstola. Hví komið þér með hann til mín? 21.15 Hefi ég ekki nóg af vitfirringum, úr því að þér hafið komið með þennan til að ærast frammi fyrir mér? Hvað á hann að gjöra í mitt hús?'
22.1 Davíð fór þaðan og komst undan í Adúllamhelli. Og er bræður hans og allt hús föður hans fréttu það, komu þeir þangað til hans. 22.2 Og allir nauðstaddir menn söfnuðust til hans og allir þeir, sem komnir voru í skuldir, svo og allir þeir, er óánægðir voru, og gjörðist hann höfðingi þeirra. Voru nú með honum um fjögur hundruð manns. 22.3 Davíð fór þaðan til Mispe í Móab og sagði við Móabskonung: 'Leyf föður mínum og móður minni að vera hér hjá yður, uns ég fæ að vita, hvað Guð gjörir við mig.' 22.4 Síðan skildi hann þau eftir hjá Móabskonungi, og þau voru hjá honum meðan Davíð var í virkinu. 22.5 Og Gað spámaður sagði við Davíð: 'Þú skalt ekki vera kyrr í virkinu. Haf þig á braut og far til Júda.' Þá fór Davíð af stað og kom í Heretskóg. 22.6 Nú fréttir Sál, að Davíð sé fundinn og þeir menn, sem með honum voru. Sál sat í Gíbeu undir tamarisktrénu á hæðinni og hafði spjót í hendi, og allir þjónar hans stóðu umhverfis hann. 22.7 Þá mælti Sál við þjóna sína, sem stóðu umhverfis hann: 'Heyrið, þér Benjamínítar! Ætli Ísaísonur gefi yður öllum akra og víngarða og gjöri yður alla að hersveitarforingjum og hundraðshöfðingjum? 22.8 Þér hafið allir gjört samsæri á móti mér, og enginn sagði mér frá því, þegar sonur minn gjörði bandalag við Ísaíson, og enginn yðar hefir kennt í brjósti um mig og sagt mér frá því, að sonur minn hefir eflt þegn minn til fjandskapar í móti mér, eins og nú er fram komið.' 22.9 Þá tók Dóeg Edómíti til máls, _ en hann stóð hjá þjónum Sáls _ og mælti: 'Ég sá Ísaíson koma til Nób, til Ahímeleks Ahítúbssonar, 22.10 og gekk hann til frétta við Drottin fyrir hann. Hann gaf honum og vistir, og sverð Golíats Filista fékk hann honum.' 22.11 Þá sendi konungur eftir Ahímelek presti Ahítúbssyni og öllu frændliði hans, prestunum í Nób, og þeir komu allir á konungs fund. 22.12 Þá mælti Sál: 'Heyr þú, Ahítúbsson!' Hann svaraði: 'Hér er ég, herra minn!' 22.13 Sál mælti til hans: 'Hví hafið þið gjört samsæri í móti mér, þú og Ísaíson, þar sem þú fékkst honum brauð og sverð og gekkst til frétta við Guð fyrir hann, svo að hann gæti risið til fjandskapar í gegn mér, eins og nú er fram komið?' 22.14 Ahímelek svaraði konungi og mælti: 'Hver er svo trúr sem Davíð meðal allra þjóna þinna, tengdasonur konungsins, foringi lífvarðar þíns og mikils metinn í húsi þínu? 22.15 Er þetta þá í fyrsta sinni, sem ég geng til frétta við Guð fyrir hann? Fjarri fer því. Konungur má eigi gefa þjóni sínum og öllu frændliði mínu sök á þessu, því að þjónn þinn vissi alls ekki neitt um þetta.' 22.16 En konungur mælti: 'Þú skalt lífið láta, Ahímelek, þú og allt frændlið þitt.' 22.17 Og konungur mælti til varðmannanna, sem hjá honum stóðu: 'Komið hingað og deyðið presta Drottins, því að einnig þeir hafa hjálpað Davíð. Og þótt þeir vissu, að hann var að flýja, þá létu þeir mig ekki vita það.' En þjónar konungs vildu ekki leggja hendur á presta Drottins. 22.18 Þá sagði konungur við Dóeg: 'Kom þú hingað og drep þú prestana.' Og Dóeg Edómíti gekk þangað, og hann drap prestana og deyddi á þeim degi áttatíu og fimm menn, sem báru línhökul. 22.19 Og Nób, borg prestanna, eyddi hann með sverðseggjum; bæði karla og konur, börn og brjóstmylkinga, uxa, asna og sauði felldi hann með sverðseggjum. 22.20 Aðeins einn af sonum Ahímeleks Ahítúbssonar komst undan. Hann hét Abjatar og flýði til Davíðs og gekk í sveit með honum. 22.21 Og Abjatar sagði Davíð frá, að Sál hefði myrt presta Drottins. 22.22 Davíð sagði við Abjatar: 'Ég vissi það þá þegar, úr því að Dóeg Edómíti var þar, að hann mundi segja Sál frá því. Ég á sök á lífláti allra ættmenna þinna. 22.23 Vertu hjá mér og óttast ekki, því að sá sem leitar eftir mínu lífi, leitar eftir þínu lífi. Hjá mér er þér óhætt.'
23.1 Menn fluttu Davíð þessi tíðindi: 'Sjá, Filistar herja á Kegílu og ræna kornláfana.' 23.2 Þá gekk Davíð til frétta við Drottin og sagði: 'Á ég að fara og herja á þessa Filista?' Drottinn sagði við Davíð: 'Far þú og herja á Filistana og frelsaðu Kegílu.' 23.3 En menn Davíðs sögðu við hann: 'Sjá, vér erum hræddir um oss hér í Júda, hvað mun þá, ef vér förum til Kegílu á móti herfylkingum Filista?' 23.4 Þá gekk Davíð enn til frétta við Drottin, og Drottinn svaraði honum og sagði: 'Tak þig upp og far til Kegílu, því að ég mun gefa Filista í hendur þér.' 23.5 Síðan fór Davíð og menn hans til Kegílu, og hann herjaði á Filista, rak fénað þeirra burt og lagði fjölda þeirra að velli. Þannig frelsaði Davíð þá, sem bjuggu í Kegílu. 23.6 Þegar Abjatar Ahímeleksson flýði til Davíðs, þá hafði hann með sér hökul. 23.7 Sál var sagt frá því, að Davíð væri kominn til Kegílu. Þá mælti Sál: 'Guð hefir selt hann mér á vald, því að hann hefir sjálfur byrgt sig inni með því að fara inn í borg með hliðum og slagbröndum.' 23.8 Og Sál stefndi öllum lýðnum saman til hernaðar til þess að fara til Kegílu og gjöra umsát um Davíð og menn hans. 23.9 Þegar Davíð frétti, að Sál sæti á svikráðum við sig, sagði hann við Abjatar prest: 'Kom þú hingað með hökulinn.' 23.10 Og Davíð mælti: 'Drottinn, Ísraels Guð! Þjónn þinn hefir sannspurt, að Sál ætli sér að koma til Kegílu til þess að eyða borgina mín vegna. 23.11 Hvort munu Kegílubúar framselja mig í hendur honum? Mun Sál koma hingað, eins og þjónn þinn hefir spurt? Drottinn, Ísraels Guð! Gjör það kunnugt þjóni þínum.' Drottinn svaraði: 'Já, hann mun koma.' 23.12 Þá mælti Davíð: 'Hvort munu Kegílubúar framselja mig og menn mína í hendur Sál?' Drottinn svaraði: 'Já, það munu þeir gjöra.' 23.13 Þá tók Davíð sig upp og hans menn, um sex hundruð manns, og þeir lögðu af stað frá Kegílu og sveimuðu víðsvegar. En er Sál frétti, að Davíð hefði forðað sér burt frá Kegílu, þá hætti hann við herförina. 23.14 Davíð hafðist við í eyðimörkinni uppi í fjallvígjum, og hann hafðist við á fjöllunum í Sífeyðimörku. Og Sál leitaði hans alla daga, en Guð gaf hann ekki í hendur honum. 23.15 Davíð varð hræddur, þegar Sál lagði af stað til þess að sækjast eftir lífi hans. Davíð var þá í Hóres í Sífeyðimörku. 23.16 Og Jónatan, sonur Sáls, tók sig upp og fór á fund Davíðs í Hóres og hughreysti hann í nafni Guðs 23.17 og sagði við hann: 'Óttast þú ekki, því að Sál faðir minn mun eigi hendur á þér festa, en þú munt verða konungur yfir Ísrael, og mun ég þá ganga þér næstur. Sál faðir minn veit og þetta.' 23.18 Og þeir gjörðu báðir sáttmála fyrir augliti Drottins. Og Davíð var kyrr í Hóres, en Jónatan fór heim til sín. 23.19 Þá komu Sífítar til Sáls í Gíbeu og sögðu: 'Veistu að Davíð felur sig hjá oss í fjallvígjunum í Hóres, í Hahakílahæðunum, sunnarlega í Júdaóbyggðum? 23.20 Og ef þig nú fýsir, konungur, að koma þangað, þá kom þú. Vort hlutverk verður það þá að framselja hann í hendur konungi.' 23.21 Sál mælti: 'Blessaðir séuð þér af Drottni, fyrir það að þér kennduð í brjósti um mig. 23.22 Farið nú og takið enn vel eftir og kynnið yður og komist sem fyrst að raun um, hvar hann heldur sig, því að mér hefir verið sagt, að hann sé slægur mjög. 23.23 Og njósnið nú og kynnið yður öll þau fylgsni, er hann kann að felast í, og færið mér síðan örugga fregn af, og mun ég þá með yður fara. Og ef hann er í landinu, þá skal ég leita hann uppi meðal allra Júda þúsunda.' 23.24 Þá tóku þeir sig upp og fóru á undan Sál til Síf. Davíð var þá með mönnum sínum í Maoneyðimörk, á sléttlendinu syðst í Júdaóbyggðum. 23.25 Og Sál fór að leita hans með mönnum sínum. Sögðu menn Davíð frá því, og fór hann þá niður að hamrinum, sem er í Maoneyðimörk. Og er Sál heyrði það, veitti hann Davíð eftirför inn í Maoneyðimörk. 23.26 Sál og menn hans fóru öðrumegin við fjallið, en Davíð og hans menn hinumegin við það. Davíð flýtti sér nú í angist að komast undan Sál, en Sál og menn hans voru að því komnir að umkringja Davíð og menn hans og taka þá höndum. 23.27 En þá kom sendimaður til Sáls og mælti: 'Kom þú nú skjótt, því að Filistar hafa brotist inn í landið.' 23.28 Þá hvarf Sál aftur og lét af að elta Davíð, en sneri í móti Filistum. Fyrir því var sá staður nefndur Aðskilnaðarklettur.
24.1 Davíð fór þaðan og hafðist við uppi í fjallvígjum við Engedí. 24.2 Og þegar Sál kom aftur úr herförinni móti Filistum, báru menn honum tíðindi og sögðu: 'Sjá, Davíð er í Engedí-eyðimörk.' 24.3 Þá tók Sál þrjár þúsundir manns, einvalalið úr öllum Ísrael, og lagði af stað til að leita Davíðs og hans manna austan í Steingeitahömrum. 24.4 Og hann kom að fjárbyrgjunum við veginn. Þar var hellir, og gekk Sál inn í hann erinda sinna. En Davíð og hans menn höfðu lagst fyrir innst í hellinum. 24.5 Þá sögðu menn Davíðs við hann: 'Nú er dagurinn kominn, sá er Drottinn talaði um við þig: ,Sjá, ég mun gefa óvin þinn í hendur þér, svo að þú getir við hann gjört það, er þér vel líkar.'` Og Davíð stóð upp og sneið leynilega lafið af skikkju Sáls. 24.6 En eftir á sló samviskan Davíð, að hann hafði sniðið lafið af skikkju Sáls. 24.7 Og hann sagði við menn sína: 'Drottinn láti það vera fjarri mér, að ég gjöri slíkt við herra minn, Drottins smurða, að ég leggi hönd á hann, því að Drottins smurði er hann.' 24.8 Og Davíð átaldi menn sína harðlega og leyfði þeim ekki að ráðast á Sál. Sál stóð upp og gekk út úr hellinum og fór leiðar sinnar. 24.9 Þá reis Davíð upp og gekk út úr hellinum og kallaði á eftir Sál: 'Minn herra konungur!' Þá leit Sál aftur, en Davíð hneigði andlit sitt til jarðar og laut honum. 24.10 Og Davíð sagði við Sál: 'Hví hlýðir þú á tal þeirra manna, sem segja: ,Sjá, Davíð situr um að vinna þér mein`? 24.11 Sjá, nú hefir þú sjálfur séð, hversu Drottinn gaf þig í mínar hendur í dag í hellinum. Og menn eggjuðu mig á að drepa þig, en ég þyrmdi þér og hugsaði með mér: ,Ég skal eigi leggja hendur á herra minn, því að Drottins smurði er hann.` 24.12 En líttu á, faðir, já líttu á lafið af skikkju þinni í hendi mér. Af því, að ég sneið lafið af skikkju þinni og drap þig ekki _ af því mátt þú skynja og skilja, að ég bý eigi yfir illsku og svikum og að ég hefi eigi syndgað á móti þér. En þú situr um að ráða mig af dögum. 24.13 Drottinn dæmi milli mín og þín, og Drottinn hefni mín á þér, en hendur legg ég ekki á þig. 24.14 Eins og gamalt máltæki segir: ,Ills er af illum von,` en hendur legg ég ekki á þig. 24.15 Hvern eltir Ísraelskonungur? Hvern ofsækir þú? Dauðan hund, eina fló! 24.16 Drottinn sé dómari og dæmi okkar í milli og sjái til og flytji mál mitt og reki réttar míns í hendur þér.' 24.17 Þegar Davíð hafði mælt þessum orðum til Sáls, þá kallaði Sál: 'Er það ekki þín rödd, Davíð sonur minn?' og Sál tók að gráta hástöfum. 24.18 Og hann mælti til Davíðs: 'Þú ert réttlátari en ég, því að þú hefir gjört mér gott, en ég hefi gjört þér illt. 24.19 Og þú hefir í dag aukið á það góða, sem þú hefir auðsýnt mér, þar sem Drottinn seldi mig í þínar hendur, en þú drapst mig ekki. 24.20 Því að hitti einhver óvin sinn, mun hann þá láta hann fara leiðar sinnar í friði? En Drottinn mun umbuna þér þennan dag góðu, fyrir það sem þú gjörðir mér. 24.21 Og sjá, nú veit ég, að þú munt konungur verða og að konungdómur Ísraels mun staðfestast í þinni hendi. 24.22 Vinn mér því eið að því við Drottin, að þú skulir ekki uppræta niðja mína eftir mig og ekki afmá nafn mitt úr ætt minni.' 24.23 Og Davíð vann Sál eið að því. Fór Sál því næst heim til sín, en Davíð og menn hans fóru upp í fjallvígið.
25.1 Samúel dó, og allur Ísrael safnaðist saman og syrgði hann, og var hann grafinn hjá húsi sínu í Rama. Davíð tók sig upp og fór ofan í Maoneyðimörk. 25.2 En í Maon var maður, er bú átti í Karmel. Hann var auðugur mjög og átti þrjú þúsund sauðfjár og eitt þúsund geitur. Hann var þá að klippa sauði sína í Karmel. 25.3 Maður þessi hét Nabal og kona hans Abígail. Hún var kona vitur og fríð sýnum, en hann maður harður og illur viðureignar. Hann var af ætt Kalebs. 25.4 Og Davíð frétti í eyðimörkinni, að Nabal væri að klippa sauði sína. 25.5 Þá sendi Davíð tíu sveina. Og Davíð sagði við sveinana: 'Farið til Karmel og gangið á fund Nabals og berið honum kveðju mína 25.6 og mælið svo við bróður minn: Heill sért þú og heill sé húsi þínu og heill sé öllu, sem þú átt. 25.7 Nú hefi ég heyrt, að verið sé að klippa sauði þína. Fjárhirðar þínir hafa með oss verið og vér höfum þeim ekkert mein gjört, enda hefir þeim einskis vant orðið allan þann tíma, er þeir hafa verið í Karmel. 25.8 Spyr þú sveina þína, og munu þeir segja þér hið sanna. Lát því sveinana finna náð í augum þínum, því að á hátíðardegi erum vér komnir. Gef því þjónum þínum og Davíð syni þínum það, sem þú hefir fyrir hendi.' 25.9 Þegar sveinar Davíðs komu á fund Nabals, fluttu þeir honum öll þessi orð í nafni Davíðs og þögnuðu síðan. 25.10 En Nabal svaraði þjónum Davíðs og mælti: 'Hver er Davíð? Og hver er Ísaíson? Margir gjörast þeir nú þrælarnir, sem strjúka frá húsbændum sínum. 25.11 Á ég að taka brauð mitt og vín og sláturfé mitt, sem ég hefi slátrað handa sauðaklippurum mínum, og gefa það mönnum, sem ég ekki einu sinni veit hvaðan eru?' 25.12 Þá sneru sveinar Davíðs á leið og hurfu aftur og komu og fluttu honum öll þessi orð. 25.13 Þá mælti Davíð til sinna manna: 'Gyrðið yður nú, hver sínu sverði!' Og þeir gyrtu sig, hver sínu sverði. Síðan gyrtist og Davíð sínu sverði, og lögðu þeir nú af stað undir forystu Davíðs, um fjögur hundruð manns, en tvö hundruð urðu eftir hjá farangrinum. 25.14 Einn af sveinum Nabals sagði Abígail, konu Nabals, frá þessu og mælti: 'Sjá, Davíð gjörði sendimenn úr eyðimörkinni með kveðju til húsbónda vors, en hann jós yfir þá fáryrðum. 25.15 Og menn þessir hafa þó verið mjög góðir við oss. Oss hefir ekkert mein verið gjört og oss hefir einskis vant orðið allan þann tíma, er vér héldum oss nálægt þeim, meðan vér vorum í haganum. 25.16 Þeir voru sem varnargarður í kringum oss bæði um nætur og daga allan þann tíma, er vér héldum fénu til haga nálægt þeim. 25.17 Hygg nú að og sjá til, hvað þú skalt gjöra, því að ógæfa er búin húsbónda vorum og öllu húsi hans, en hann er slíkt hrakmenni, að ekki má við hann mæla.' 25.18 Þá brá Abígail við og tók tvö hundruð brauð og tvo vínlegla, fimm tilreidda sauði og fimm mæla af bökuðu korni, hundrað rúsínukökur og tvö hundruð fíkjukökur og klyfjaði með asna 25.19 og sagði við sveina sína: 'Farið á undan mér, sjá, ég kem á eftir yður.' En Nabal manni sínum sagði hún ekki frá þessu. 25.20 Og er hún kom ríðandi á asna ofan fjallið og var í hvarfi, sjá, þá kom Davíð með menn sína ofan í móti henni, og rakst hún þar á þá. 25.21 En Davíð hafði sagt: 'Já, til einskis hefi ég varðveitt allt, sem sá maður átti á eyðimörkinni, svo að einskis varð vant af öllu, sem hann átti. Hann hefir launað mér gott með illu. 25.22 Guð láti Davíð gjalda þess nú og síðar, ef ég læt eftir verða einn karlmann af öllu því, sem hann á, þegar birtir á morgun.' 25.23 En er Abígail sá Davíð, sté hún sem skjótast niður af asnanum og féll fram á ásjónu sína fyrir Davíð og laut til jarðar. 25.24 Og hún féll honum til fóta og mælti: 'Sökin hvílir á mér, herra minn! Leyf ambátt þinni að tala við þig og hlýð á orð ambáttar þinnar. 25.25 Skeyt eigi, herra minn, um hrakmenni þetta, hann Nabal, því að hann ber nafn með réttu. Heimskingi heitir hann og heimskur er hann. En ég, ambátt þín, hefi ekki séð sveinana, er þú, herra minn, sendir. 25.26 Og nú, herra minn, svo sannarlega sem Drottinn lifir, og svo sannarlega sem þú lifir og Drottinn hefir aftrað þér frá að úthella blóði og hefna þín sjálfur, þá verði nú óvinir þínir sem Nabal og allir þeir, sem sitja um að gjöra þér illt, herra! 25.27 Og gáfu þessa, sem þerna þín hefir fært þér, herra minn, lát nú gefa hana sveinunum, sem eru í fylgd með þér, herra minn! 25.28 Fyrirgef afbrot ambáttar þinnar, því að veita mun Drottinn herra mínum staðfast hús, af því að herra minn heyir bardaga Drottins, og illt mun ekki finnast í fari þínu meðan þú lifir. 25.29 Og rísi einhver maður upp til þess að ofsækja þig og sitja um líf þitt, þá sé líf herra míns bundið í bundini lifandi manna hjá Drottni, Guði þínum, en lífi óvina þinna þeyti hann burt úr slöngvunni. 25.30 Og þegar Drottinn veitir þér, herra minn, öll þau gæði, er hann hefir þér heitið, og hefir skipað þig höfðingja yfir Ísrael, 25.31 þá mun það ekki verða þér til ásteytingar né herra mínum að samviskubiti, að herra minn hafi úthellt blóði að orsakalausu og hefnt sín sjálfur. En þegar Drottinn gjörir vel við þig, herra minn, þá minnstu ambáttar þinnar.' 25.32 Þá mælti Davíð til Abígail: 'Lofaður veri Drottinn, Ísraels Guð, sem sendi þig í dag á minn fund. 25.33 Og blessuð séu hyggindi þín og blessuð sért þú sjálf, sem aftrað hefir mér í dag frá að baka mér blóðskuld og að hefna mín sjálfur. 25.34 En svo sannarlega sem Drottinn, Ísraels Guð, lifir, sem varðveitt hefir mig frá að gjöra þér illt, hefðir þú eigi hraðað þér svo á minn fund, þá myndi eigi nokkur af mönnum Nabals hafa beðið morguns ódrepinn.' 25.35 Og Davíð tók við því af henni, sem hún færði honum, og sagði við hana: 'Far þú í friði heim til þín. Sjá, ég hefi hlýtt á mál þitt og veitt þér bæn þína.' 25.36 Þegar Abígail kom til Nabals, þá hafði hann veislu í húsi sínu, sem konungsveisla væri. Var Nabal hinn kátasti og drukkinn mjög. Sagði hún honum ekkert, hvorki smátt né stórt, fyrr en birti morguninn eftir. 25.37 En um morguninn, þá er víman var runnin af Nabal, sagði kona hans honum öll þessi tíðindi. Þá dó hjartað í brjósti honum og hann varð sem steinn. 25.38 Og að eitthvað tíu dögum liðnum laust Drottinn Nabal, svo að hann dó. 25.39 Þegar Davíð frétti, að Nabal væri dáinn, mælti hann: 'Lofaður sé Drottinn, sem hefnt hefir svívirðu minnar á Nabal og haldið hefir þjóni sínum frá illu. En illsku Nabals hefir Drottinn látið honum sjálfum í koll koma.' Sendi þá Davíð menn til Abígail þess erindis, að hann vill fá hennar sér til eiginkonu. 25.40 Þjónar Davíðs komu til Abígail í Karmel og mæltu svo til hennar: 'Davíð hefir sent oss á þinn fund þess erindis, að hann vill fá þín sér til eiginkonu.' 25.41 Þá stóð hún upp og hneigði andlit sitt til jarðar og mælti: 'Sjá, ambátt þín er þess albúin að gjörast þerna til þess að þvo fætur þjóna herra míns.' 25.42 Síðan bjó Abígail sig í skyndi og steig á bak asna sínum, svo og meyjar hennar fimm, þær er með henni fóru. Hún fór með sendimönnum Davíðs og varð kona hans. 25.43 Akínóam frá Jesreel hafði Davíð fengið sér til eiginkonu, og báðar urðu þær konur hans. 25.44 En Sál hafði gefið Míkal dóttur sína, konu Davíðs, Paltí Laíssyni frá Gallím.
26.1 Sífítar komu til Sáls í Gíbeu og sögðu: 'Veistu, að Davíð hefir falið sig í Hahakílahæðunum, gegnt Júdaóbyggðum?' 26.2 Þá tók Sál sig upp og fór ofan í Sífeyðimörk og með honum þrjú þúsund manns, valdir menn af Ísrael, til þess að leita Davíðs í Sífeyðimörk. 26.3 Og Sál setti herbúðir sínar í Hahakílahæðunum, við veginn gegnt Júdaóbyggðum. En Davíð hélt sig á eyðimörkinni. En er hann frétti, að Sál væri kominn í eyðimörkina til þess að elta hann, 26.4 sendi Davíð út njósnarmenn og fékk að vita með vissu, að Sál var kominn. 26.5 Þá tók Davíð sig upp og kom þangað sem Sál hafði sett herbúðir sínar. Og er Davíð sá, hvar Sál og Abner Nersson, hershöfðingi hans, hvíldu _ en Sál hvíldi í vagnborg og liðsmenn hans lágu í tjöldum sínum umhverfis hann _, 26.6 þá kom hann að máli við Akímelek Hetíta og Abísaí Serújuson, bróður Jóabs, og sagði: 'Hver vill fara með mér inn í herbúðirnar til Sáls?' Abísaí mælti: 'Ég skal fara með þér.' 26.7 En er þeir Davíð og Abísaí komu að liðinu um nótt, þá lá Sál sofandi í vagnborginni, og spjót hans var rekið í jörðu að höfði honum, en Abner og liðsmennirnir lágu í kringum hann. 26.8 Þá sagði Abísaí við Davíð: 'Í dag hefir Guð selt óvin þinn í hendur þér. Nú mun ég reka spjótið gegnum hann og ofan í jörðina með einu lagi; eigi mun ég þurfa að leggja til hans tvisvar.' 26.9 En Davíð sagði við Abísaí: 'Drep þú hann ekki, því að hver leggur svo hönd á Drottins smurða, að hann sleppi hjá hegningu?' 26.10 Og Davíð mælti enn fremur: 'Svo sannarlega sem Drottinn lifir, vissulega mun annaðhvort Drottinn ljósta hann eða dauða hans ber að hendi með náttúrlegum hætti, eða hann fer í hernað og fellur. 26.11 Drottinn láti það vera fjarri mér að leggja hendur á Drottins smurða. En tak þú nú spjótið, sem er þarna að höfði honum, og vatnsskálina, og förum síðan.' 26.12 Og Davíð tók spjótið og vatnsskálina að höfði Sáls, og síðan fóru þeir leiðar sinnar, en enginn sá það og enginn varð þess var og enginn vaknaði, heldur voru þeir allir sofandi, því að þungur svefn frá Drottni var á þá siginn. 26.13 Þá gekk Davíð yfir á hæð eina þar gegnt við og nam þar staðar allfjarri, svo að mikið bil var í milli þeirra. 26.14 Þá kallaði Davíð til liðsins og Abners Nerssonar og mælti: 'Hvort mátt þú heyra mál mitt, Abner?' Abner svaraði og sagði: 'Hver ert þú, sem kallar til konungsins?' 26.15 Davíð sagði við Abner: 'Ert þú ekki karlmenni, og hver er þinn líki í Ísrael? Hví hefir þú ekki vakað yfir herra þínum, konunginum? Því að einn maður úr liðinu kom og ætlaði að drepa konunginn, herra þinn. 26.16 Þar hefir þér illa farið. Svo sannarlega sem Drottinn lifir, eruð þér dauða verðir fyrir það, að þér hafið ekki vakað yfir herra yðar, yfir Drottins smurða. Og hygg nú að, hvar spjót konungsins er og hvar vatnsskálin er, sem stóð að höfði honum.' 26.17 En Sál þekkti málróm Davíðs og mælti: 'Er þetta ekki málrómur þinn, Davíð sonur minn?' Davíð svaraði: 'Jú, málrómur minn er það, herra konungur!' 26.18 Og Davíð mælti: 'Hví ofsækir þú, herra minn, þjón þinn? Hvað hefi ég þá gjört, og hvað illt er í minni hendi? 26.19 Og hlýð því, minn herra konungur, á mál þjóns þíns. Hafi Drottinn egnt þig upp á móti mér, þá lát hann finna ilm af fórnarreyk, en ef menn hafa gjört það, þá séu þeir bölvaðir fyrir Drottni, þar sem þeir hafa nú flæmt mig burt, svo að ég má eigi halda hóp með eign Drottins, með því að þeir segja: ,Far þú, þjóna þú öðrum guðum!` 26.20 En lát eigi blóð mitt falla á jörð langt burtu frá augliti Drottins, því að Ísraels konungur er lagður af stað til þess að ná lífi mínu, eins og menn elta akurhænu á fjöllum.' 26.21 Þá mælti Sál: 'Ég hefi syndgað. Hverf aftur, Davíð sonur minn, því að ég skal aldrei framar gjöra þér mein, fyrst þú þyrmdir lífi mínu í dag. Sjá, ég hefi breytt heimskulega, og mér hefir mikillega yfirsést.' 26.22 Davíð svaraði og sagði: 'Hér er spjót konungs, komi nú einn af sveinunum hingað og sæki það. 26.23 En Drottinn umbunar hverjum manni ráðvendni hans og trúfesti. Drottinn hafði gefið þig í hendur mínar í dag, en ég vildi ekki leggja hendur á Drottins smurða. 26.24 Og sjá, eins og líf þitt var mikilsvert í mínum augum í dag, svo veri og líf mitt mikilsvert í augum Drottins, og hann virðist að frelsa mig úr öllum nauðum.' 26.25 Og Sál mælti til Davíðs: 'Blessaður ver þú, Davíð sonur minn. Þú munt bæði verða mikill í framkvæmdum og giftudrjúgur.' Síðan fór Davíð leiðar sinnar, en Sál sneri aftur heim til sín.
27.1 Davíð hugsaði með sjálfum sér: 'Nú fell ég einhvern daginn fyrir hendi Sáls. Nú er það ráð vænst, að ég forði mér undan til Filistalands. Þá gefst Sál upp við að elta mig um allt Ísraelsland, og ég slepp úr greipum honum.' 27.2 Síðan tók Davíð sig upp og fór með þau sex hundruð manns, er með honum voru, yfir til Akís Maókssonar, konungs í Gat. 27.3 Og Davíð settist að hjá Akís í Gat, bæði hann og menn hans, hver með sína fjölskyldu, Davíð með báðum konum sínum: Akínóam frá Jesreel og Abígail, þá er átt hafði Nabal í Karmel. 27.4 Og þegar Sál frétti, að Davíð væri flúinn til Gat, þá hætti hann að leita hans. 27.5 Davíð sagði við Akís: 'Hafi ég fundið náð í augum þínum, þá lát þú fá mér bústað í einhverri borg landsins. Hví skal þjónn þinn búa hjá þér í höfuðborginni?' 27.6 Þá fékk Akís honum Siklag þann sama dag. Fyrir því liggur Siklag enn í dag undir Júda konunga. 27.7 En sá tími, sem Davíð bjó í Filistalandi, var eitt ár og fjórir mánuðir. 27.8 Davíð og menn hans fóru herför og gjörðu árás á Gesúríta, Gírsíta og Amalekíta, því að þeir bjuggu í landinu, sem náði frá Telam alla leið til Súr og Egyptalands. 27.9 Og þegar Davíð braust inn í þessi lönd, lét hann hvorki menn né konur lífi halda, en tók sauðfé og nautgripi, asna og úlfalda og klæði, sneri síðan við og fór aftur til Akís. 27.10 Og ef Akís spurði: 'Hvar hafið þér á ráðist í dag?' þá svaraði Davíð: 'Í Júda sunnan til,' eða: 'Á suðurland Jerahmeelíta,' eða: 'Á suðurland Keníta.' 27.11 En Davíð lét hvorki menn né konur lífi halda til þess að flytja það til Gat, með því að hann hugsaði: 'Þau kynnu að segja eftir oss og taka svo til orða: Svo hefir Davíð að farið.' Og sá var siður hans allan þann tíma, sem hann bjó í Filistalandi. 27.12 Og Akís trúði Davíð, með því að hann hugsaði: 'Honum er ekki lengur vært hjá þjóð sinni Ísrael, og fyrir því mun hann ævinlega verða í minni þjónustu.'
28.1 Í þann tíma drógu Filistar saman her sinn og bjuggust að fara í hernað móti Ísrael. Og Akís sagði við Davíð: 'Vita skaltu, að þú verður að fara með mér í leiðangurinn, bæði þú og menn þínir.' 28.2 Davíð svaraði Akís: 'Nú skalt þú fá að reyna, hverju þjónn þinn fær orkað.' Og Akís sagði við Davíð: 'Þá skipa ég þig höfuðvörð minn allar stundir.' 28.3 Samúel var dáinn, og allur Ísrael hafði syrgt hann og jarðað hann í Rama, hans eigin borg. En Sál hafði gjört landræka alla andasæringamenn og spásagnamenn. 28.4 Nú söfnuðust Filistar saman og komu og settu herbúðir sínar í Súnem. Þá safnaði Sál saman öllum Ísrael og setti herbúðir sínar á Gilbóafjalli. 28.5 En þegar Sál sá her Filista, varð hann hræddur og missti móðinn. 28.6 Sál gekk til frétta við Drottin, en Drottinn svaraði honum ekki, hvorki í draumum né með úrím né fyrir milligöngu spámannanna. 28.7 Þá sagði Sál við þjóna sína: 'Leitið fyrir mig að særingakonu, svo að ég geti farið til hennar og leitað frétta hjá henni.' Og þjónar hans sögðu við hann: 'Í Endór er særingakona.' 28.8 Sál gjörði sig torkennilegan og klæddist dularbúningi og lagði af stað og tveir menn með honum. Þeir komu til konunnar um nótt, og Sál sagði: 'Lát þú andann spá mér og lát koma fram þann, er ég nefni til við þig.' 28.9 Konan svaraði honum: 'Sjá, þú veist, hvað Sál hefir gjört, að hann hefir upprætt úr landinu alla andasæringamenn og spásagnamenn. Hví leggur þú þá snöru fyrir mig til þess að deyða mig?' 28.10 Þá vann Sál henni eið við Drottin og mælti: 'Svo sannarlega sem Drottinn lifir skal engin sök á þig falla fyrir þetta.' 28.11 Þá sagði konan: 'Hvern viltu að ég láti koma fram?' Hann svaraði: 'Lát þú Samúel koma fram fyrir mig.' 28.12 En er konan sá Samúel, hljóðaði hún upp yfir sig. Og konan sagði við Sál: 'Hví hefir þú svikið mig? Þú ert Sál.' 28.13 En konungurinn mælti til hennar: 'Ver þú óhrædd. En hvað sér þú?' Og konan sagði við Sál: 'Ég sé anda koma upp úr jörðinni.' 28.14 Hann sagði við hana: 'Hvernig er hann í hátt?' Hún svaraði: 'Gamall maður stígur upp og er hjúpaður skikkju.' Þá skildi Sál, að það var Samúel, og hneigði andlit sitt til jarðar og laut honum. 28.15 Þá sagði Samúel við Sál: 'Hví hefir þú ónáðað mig og látið kalla mig fram?' Sál mælti: 'Ég er í miklum nauðum staddur. Filistar herja á mig, og Guð er frá mér vikinn og svarar mér ekki lengur, hvorki fyrir milligöngu spámannanna né í draumum. Fyrir því lét ég kalla þig, til þess að þú segir mér, hvað ég á að gjöra.' 28.16 Samúel svaraði: 'Hví spyr þú mig þá, fyrst Drottinn er frá þér vikinn og orðinn óvinur þinn? 28.17 Drottinn hefir þá við þig gjört, eins og hann hefir sagt fyrir minn munn. Drottinn hefir rifið frá þér konungdóminn og gefið hann öðrum, gefið Davíð hann. 28.18 Af því að þú hlýddir ekki boði Drottins og framkvæmdir ekki hans brennandi reiði á Amalek, fyrir því hefir Drottinn gjört þér þetta í dag. 28.19 Og Drottinn mun og gefa Ísrael ásamt þér í hendur Filista, og á morgun munt þú og synir þínir hjá mér vera. Drottinn mun og gefa her Ísraels í hendur Filista.' 28.20 Þá varð Sál hræddur og féll endilangur til jarðar, og hann skelfdist mjög af orðum Samúels. Hann var og magnþrota, því að hann hafði eigi matar neytt allan daginn og alla nóttina. 28.21 Konan gekk nú til Sáls, og er hún sá, hversu mjög hann var felmtsfullur, sagði hún við hann: 'Sjá, ambátt þín hefir hlýtt raustu þinni, og ég hefi lagt líf mitt í hættu, og ég hefi gjört það, sem þú baðst mig um. 28.22 Hlýð þú þá líka raust ambáttar þinnar: Ég ætla að færa þér matarbita, og skalt þú eta, svo að þér aukist þróttur og þú getir farið leiðar þinnar.' 28.23 En hann færðist undan og sagði: 'Eigi vil ég eta.' En er bæði menn hans og konan lögðu að honum, þá lét hann að orðum þeirra og stóð upp af gólfinu og settist á rúmið. 28.24 Og konan átti alikálf í húsinu. Slátraði hún honum í skyndi, tók mjöl, hnoðaði það og bakaði úr því ósýrðar kökur. 28.25 Síðan bar hún það fyrir Sál og menn hans, og er þeir höfðu etið, tóku þeir sig upp og lögðu af stað þessa sömu nótt.
29.1 Filistar drógu nú saman allan her sinn hjá Afek, en Ísrael setti herbúðir sínar við lindina hjá Jesreel. 29.2 Og höfðingjar Filista komu með hundruð sín og þúsundir, og Davíð og menn hans komu síðastir með Akís. 29.3 Þá sögðu höfðingjar Filista: 'Hvað eiga þessir Hebrear hér að gjöra?' Akís sagði við höfðingja Filista: 'Það er Davíð, hirðmaður Sáls konungs í Ísrael, sem nú hefir með mér verið í tvö ár, og hefi ég ekki haft neitt út á hann að setja frá þeirri stundu, er hann gjörðist minn maður, og allt fram á þennan dag.' 29.4 Höfðingjar Filista reiddust honum og sögðu við hann: 'Lát þú manninn hverfa heim aftur. Fari hann á sinn stað, þar sem þú hefir sett hann, en eigi skal hann með oss fara í bardagann, svo að hann snúist ekki á móti oss í orustunni. Með hverju gæti hann betur náð aftur hylli herra síns en með höfðum þessara manna? 29.5 Var það ekki þessi sami Davíð, sem sungið var um við dansinn: Sál felldi sín þúsund og Davíð sín tíu þúsund?' 29.6 Þá lét Akís kalla Davíð og sagði við hann: 'Svo sannarlega sem Drottinn lifir ert þú ráðvandur, og ég uni því vel, að þú gangir út og inn með mér í herbúðunum, því að ég hefi ekki orðið neins ills var hjá þér frá þeirri stundu, er þú komst til mín, og allt fram á þennan dag, en höfðingjunum er ekki um þig. 29.7 Hverf því aftur og far í friði, svo að þú gjörir ekki neitt það, sem höfðingjum Filista mislíkar.' 29.8 Þá sagði Davíð við Akís: 'Hvað hefi ég þá gjört, og hvað hefir þú haft út á þjón þinn að setja, frá þeirri stundu, er ég gjörðist þinn maður, og allt fram á þennan dag, að ég skuli ekki mega fara og berjast við óvini herra míns, konungsins?' 29.9 Akís svaraði og sagði við Davíð: 'Ég veit, að þú ert í mínum augum góður, sem værir þú engill Guðs, en höfðingjar Filista segja: ,Eigi skal hann með oss fara í bardagann.` 29.10 Rís þú því árla á morgun, ásamt mönnum herra þíns, sem með þér komu, og farið þér þangað sem ég hefi sett yður, og ætlaðu mér ekkert illt, því að vel er mér til þín, _ og rísið þá árla á morgun og haldið af stað, þegar birtir.' 29.11 Reis nú Davíð árla um morguninn og menn hans og lögðu af stað heim aftur til Filistalands, en Filistar fóru upp í Jesreel.
30.1 Þegar Davíð og menn hans komu til Siklag á þriðja degi, þá höfðu Amalekítar gjört herhlaup á Suðurlandið og á Siklag, unnið Siklag og brennt hana. 30.2 Höfðu þeir hertekið konur og allt, sem í henni var, bæði smátt og stórt. Engan mann höfðu þeir drepið, en haft fólkið á burt með sér og farið síðan leiðar sinnar. 30.3 Og er Davíð og menn hans komu til borgarinnar, sjá, þá var hún brunnin, en konur þeirra, synir og dætur hertekin. 30.4 Þá tók Davíð og liðið, sem með honum var, að gráta hástöfum, uns þeir voru uppgefnir að gráta. 30.5 Báðar konur Davíðs höfðu verið herteknar, Akínóam frá Jesreel og Abígail, er átt hafði Nabal í Karmel. 30.6 Var Davíð nú mjög nauðulega staddur, því að liðið hafði við orð að grýta hann, því að menn voru allir sárhryggir vegna sona sinna og dætra. En Davíð hressti sig upp í Drottni, Guði sínum. 30.7 Og Davíð sagði við Abjatar prest, son Ahímeleks: 'Fær mér hingað hökulinn.' Og Abjatar fór með hökulinn til Davíðs. 30.8 Og Davíð gekk til frétta við Drottin og mælti: 'Á ég að elta þennan ræningjaflokk? Mun ég ná þeim?' Hann svaraði honum: 'Eltu þá, því að þú munt vissulega ná þeim og fá bjargað.' 30.9 Þá lagði Davíð af stað, hann og þau sex hundruð manns, sem hjá honum voru, og þeir komu að Besórlæk. Þar námu þeir staðar, er eftir urðu. 30.10 Og Davíð hélt áfram með fjögur hundruð manns, en tvö hundruð manns urðu þar eftir, því að þeir máttu eigi yfir Besórlæk komast vegna þreytu. 30.11 Þá fundu þeir egypskan mann úti á víðavangi og fóru með hann til Davíðs, og þeir gáfu honum mat að eta og vatn að drekka. 30.12 Þeir gáfu honum sneið af fíkjuköku og tvær rúsínukökur, og át hann það og lifnaði við, því að hann hafði ekki mat etið né vatn drukkið í þrjá daga og þrjár nætur. 30.13 Og Davíð sagði við hann: 'Hvers maður ert þú og hvaðan ert þú?' Hann svaraði: 'Ég er egypskur sveinn, þræll Amalekíta nokkurs. Húsbóndi minn skildi mig hér eftir, af því að ég varð sjúkur fyrir þrem dögum. 30.14 Vér gjörðum herhlaup á suðurland Kreta og á land, sem liggur undir Júda, svo og á suðurland Kalebs, og Siklag brenndum vér upp.' 30.15 Og Davíð sagði við hann: 'Viltu vísa mér leið til ræningjaflokks þessa?' Hann svaraði: 'Vinn þú mér eið að því við Guð að drepa mig ekki og framselja mig ekki í hendur húsbónda míns, þá skal ég vísa þér leið til ræningjaflokks þessa.' 30.16 Og hann veitti þeim leiðsögu þangað. Ránsmennirnir höfðu þá dreifst um allt landið og átu og drukku og gjörðu sér glaðan dag vegna hins mikla herfangs, sem þeir höfðu tekið í Filistalandi og í Júdalandi. 30.17 Og Davíð barði á þeim frá því í dögun og allt til kvelds og helgaði þá banni, svo að enginn þeirra komst undan, nema fjögur hundruð sveinar, sem stigu á bak úlföldum og flýðu. 30.18 Þann veg náði Davíð aftur öllu því, sem Amalekítar höfðu rænt. Og báðum konum sínum bjargaði Davíð. 30.19 Þá vantaði ekkert, hvorki smátt né stórt, hvorki herfang né sonu og dætur, né nokkuð það, er ránsmennirnir höfðu rænt. Davíð kom aftur með það allt. 30.20 Þá tóku þeir alla sauðina og nautin og leiddu fram fyrir hann og sögðu: 'Þetta er herfang Davíðs.' 30.21 En er Davíð kom til þeirra tvö hundruð manna, er gefist höfðu upp, svo að þeir máttu ekki fylgja honum, og fyrir því verið skildir eftir við Besórlæk, þá fóru þeir í móti Davíð og liðinu, sem með honum var. Og er Davíð kom með liðið, þá heilsuðu þeir þeim. 30.22 Þá tóku allir ódrengir og varmenni meðal manna þeirra, er með Davíð höfðu farið, til máls og sögðu: 'Fyrst þeir fóru ekki með oss, þá viljum vér ekki láta þá fá neitt af herfanginu, sem vér höfum bjargað. Þó má hver maður fá konu sína og sonu. Það mega þeir taka með sér og fara síðan.' 30.23 En Davíð sagði: 'Breytið eigi svo, eftir að Drottinn hefir oss slíkt í té látið og varðveitt oss og selt oss í hendur ræningjaflokk þann, sem á oss hafði ráðist. 30.24 Og hver mun verða á yðar máli í þessu efni? Nei, sama hlut og sá fær, er í bardagann fer, sama hlut skal og sá fá, sem verður eftir hjá farangrinum. Allir skulu þeir fá jafnan hlut.' 30.25 Og við það sat upp frá þeim degi. Og hann gjörði það að lögum og venju í Ísrael, og hefir það haldist fram á þennan dag. 30.26 Þegar Davíð kom til Siklag, sendi hann öldungunum í Júda, vinum sínum, nokkuð af herfanginu með þessari orðsending: 'Sjá, þetta er gjöf yður til handa af herfangi óvina Drottins.' 30.27 Sömuleiðis þeim í Betel, þeim í Ramot-Negeb, þeim í Jattír, 30.28 þeim í Aroer, þeim í Sífmót, þeim í Estemóa, 30.29 þeim í Rakal, þeim í borgum Jerahmeelíta, þeim í borgum Keníta, 30.30 þeim í Horma, þeim í Bór Asan, þeim í Atak, 30.31 þeim í Hebron, og til allra þeirra staða, þar sem Davíð hafði um farið með menn sína.
31.1 Filistar höfðu lagt til orustu við Ísrael. Höfðu Ísraelsmenn flúið fyrir Filistum, og lágu margir fallnir á Gilbóafjalli. 31.2 Filistar eltu Sál og sonu hans og felldu Jónatan, Abínadab og Malkísúa, sonu Sáls. 31.3 Var nú gjör hörð atlaga að Sál, og höfðu nokkrir bogmannanna komið auga á hann. Varð hann þá mjög hræddur við bogmennina. 31.4 Þá sagði Sál við skjaldsvein sinn: 'Bregð þú sverði þínu og legg mig í gegn með því, svo að óumskornir menn þessir komi ekki og fari háðulega með mig.' En skjaldsveinninn vildi ekki gjöra það, því að hann var mjög hræddur. Þá tók Sál sverðið og lét fallast á það. 31.5 Og er skjaldsveinninn sá, að Sál var dauður, þá lét hann og fallast á sverð sitt og dó með honum. 31.6 Þannig létu þeir líf sitt, Sál, synir hans þrír og skjaldsveinn hans, allir þennan sama dag. 31.7 Er Ísraelsmenn, þeir er bjuggu hinumegin við sléttlendið og þeir er bjuggu hinumegin Jórdanar, sáu, að Ísraelsmenn voru flúnir, og Sál og synir hans fallnir, þá yfirgáfu þeir borgir sínar og lögðu á flótta. Og Filistar komu og settust að í þeim. 31.8 Daginn eftir komu Filistar að ræna valinn. Fundu þeir þá Sál og sonu hans þrjá fallna á Gilbóafjalli. 31.9 Hjuggu þeir af honum höfuðið og flettu hann herklæðum og gjörðu sendimenn um allt Filistaland til þess að flytja skurðgoðum sínum og lýðnum gleðitíðindin. 31.10 Og þeir lögðu vopn hans í hof Astörtu, en lík hans hengdu þeir upp á borgarmúrinn í Bet San. 31.11 En er íbúarnir í Jabes í Gíleað fréttu, hvernig Filistar höfðu farið með Sál, 31.12 þá tóku sig til allir vopnfærir menn, gengu alla nóttina og tóku lík Sáls og lík sona hans ofan af borgarmúrnum í Bet San. Síðan héldu þeir heim til Jabes og brenndu þar líkin.
1.1 Eftir dauða Sáls, þá er Davíð var heim kominn og hafði unnið sigur á Amalekítum og hann hafði verið tvo daga um kyrrt í Siklag, 1.2 þá kom skyndilega þriðja daginn maður úr herbúðum Sáls. Var hann í rifnum klæðum og hafði ausið mold yfir höfuð sér. Og er hann kom til Davíðs, féll hann til jarðar og laut honum. 1.3 Og Davíð sagði við hann: 'Hvaðan kemur þú?' Hann svaraði honum: 'Ég komst undan úr herbúðum Ísraels.' 1.4 Davíð sagði við hann: 'Hvernig hefir gengið? Seg mér það.' Hann svaraði: 'Liðið er flúið úr orustunni, og margir úr liðinu eru líka fallnir og dauðir. Líka eru þeir Sál og Jónatan sonur hans dauðir.' 1.5 Þá sagði Davíð við manninn, sem flutti honum tíðindin: 'Hvernig veistu það, að þeir Sál og Jónatan sonur hans eru dauðir?' 1.6 Þá svaraði maðurinn, sem flutti honum tíðindin: 'Alveg af tilviljun kom ég upp á Gilbóafjall. Þar hitti ég Sál. Studdist hann við spjót sitt, en vagnar og riddarar voru á hælum honum. 1.7 Hann sneri sér þá við, og er hann sá mig, kallaði hann á mig, og ég svaraði: ,Hér er ég.` 1.8 Og hann sagði við mig: ,Hver ert þú?` Ég svaraði: ,Ég er Amalekíti.` 1.9 Þá sagði hann við mig: ,Kom þú hingað til mín og deyð þú mig, því að mig sundlar, og þó er ég enn með fullu fjöri.` 1.10 Þá gekk ég til hans og vann á honum, því að ég vissi að hann gat ekki lifað eftir ófarir sínar. Tók ég kórónuna af höfði honum og hringinn af armlegg hans og færi ég þér nú, herra minn!' 1.11 Þá þreif Davíð í klæði sín og reif þau sundur. Svo gjörðu og allir menn, þeir er með honum voru. 1.12 Og þeir syrgðu og grétu og föstuðu til kvelds sakir Sáls og Jónatans sonar hans og sakir lýðs Drottins og húss Ísraels, af því að þeir voru fallnir fyrir sverði. 1.13 Þá sagði Davíð við manninn, sem flutti honum tíðindin: 'Hvaðan ert þú?' Hann svaraði: 'Ég er sonur hjábýlings nokkurs, sem er Amalekíti.' 1.14 Þá sagði Davíð við hann: 'Hvernig dirfðist þú að hefja hönd til þess að drepa Drottins smurða?' 1.15 Og Davíð kallaði á einn af sveinunum og mælti: 'Kom þú hingað og drep hann.' Og hann hjó hann banahögg. 1.16 En Davíð mælti til hans: 'Blóð þitt komi yfir höfuð þér! því að þú hefir sjálfur kveðið upp dóm yfir þér, er þú sagðir: ,Ég hefi deytt Drottins smurða.'` 1.17 Davíð orti þetta sorgarkvæði eftir þá Sál og Jónatan son hans, 1.18 og hann bauð að kenna Júda sonum Kvæðið um bogann. Sjá, það er ritað í Bók hinna réttlátu: 1.19 Prýðin þín, Ísrael, liggur vegin á fjöllum þínum. En að hetjurnar skuli vera fallnar! 1.20 Segið ekki frá því í Gat, kunngjörið það eigi á Askalon-strætum, svo að dætur Filista fagni eigi og dætur óumskorinna hlakki eigi. 1.21 Þér Gilbóafjöll, eigi drjúpi dögg né regn á yður, þér svikalönd, því að þar var snarað burt skildi kappanna, skildi Sáls, sem eigi verður framar olíu smurður. 1.22 Frá blóði hinna vegnu, frá feiti kappanna hörfaði bogi Jónatans ekki aftur, og eigi hvarf sverð Sáls heim við svo búið. 1.23 Sál og Jónatan, ástúðugir og ljúfir í lífinu, skildu eigi heldur í dauðanum. Þeir voru örnum léttfærari, ljónum sterkari. 1.24 Ísraels dætur, grátið Sál! Hann skrýddi yður skarlati yndislega, hann festi gullskart á klæðnað yðar. 1.25 En að hetjurnar skyldu falla í bardaganum og Jónatan liggja veginn á hæðum þínum! 1.26 Sárt trega ég þig, bróðir minn Jónatan, mjög varstu mér hugljúfur! Ást þín var mér undursamlegri en ástir kvenna. 1.27 En að hetjurnar skuli vera fallnar og hervopnin glötuð!
2.1 Eftir þetta spurði Davíð Drottin á þessa leið: 'Á ég að fara til einhverrar af borgunum í Júda?' Drottinn svaraði honum: 'Já.' Þá sagði Davíð: 'Hvert á ég að fara?' Hann svaraði: 'Til Hebron.' 2.2 Þá fór Davíð þangað, og með honum báðar konur hans, þær Akínóam frá Jesreel og Abígail, er átt hafði Nabal í Karmel. 2.3 Davíð lét og mennina, sem hjá honum voru, fara, hvern með sína fjölskyldu, og þeir settust að í borgunum kringum Hebron. 2.4 Þá komu Júdamenn til Hebron og smurðu Davíð til konungs yfir Júda hús. Nú var Davíð sagt svo frá: 'Íbúarnir í Jabes Gíleað hafa jarðað Sál.' 2.5 Þá gjörði Davíð menn á fund íbúanna í Jabes í Gíleað og lét segja við þá: 'Verið blessaðir af Drottni fyrir það, að þér hafið sýnt þetta kærleiksverk á herra yðar Sál, að jarða hann. 2.6 Drottinn sýni yður nú kærleika og trúfesti. En ég vil og yður góðu launa, sakir þess að þér gjörðuð þetta. 2.7 Og verið nú hughraustir og látið á sjá, að þér séuð vaskir menn. Því að Sál, herra yðar, er dauður, enda hefir Júda hús smurt mig til konungs yfir sig.' 2.8 Abner Nersson, hershöfðingi Sáls, tók Ísbóset, son Sáls, og fór með hann yfir til Mahanaím 2.9 og gjörði hann að konungi yfir Gíleað, Asserítum, Jesreel, Efraím, Benjamín og yfir öllum Ísrael. 2.10 Ísbóset, sonur Sáls, var fertugur, þá er hann varð konungur yfir Ísrael, og hann ríkti í tvö ár. Júda hús eitt fylgdi Davíð. 2.11 Og tíminn, sem Davíð var konungur í Hebron, yfir Júda húsi, var sjö ár og sex mánuðir. 2.12 Abner Nersson fór með þjóna Ísbósets, sonar Sáls, frá Mahanaím til Gíbeon. 2.13 Jóab Serújuson fór og með þjóna Davíðs frá Hebron, og varð fundur þeirra við Gíbeontjörn, og settust þeir sínum megin hvorir við tjörnina. 2.14 Þá sagði Abner við Jóab: 'Standi upp sveinar hvorra tveggja og leiki nokkuð til skemmtunar oss.' Jóab kvað að svo skyldi vera. 2.15 Þá stóðu þeir upp og gengu fram eftir tölu: tólf fyrir Benjamíns ættkvísl, fyrir Ísbóset, son Sáls, og tólf af þjónum Davíðs. 2.16 Þeir þrifu hver í annars koll og lögðu sverði hver í annars síðu, svo að þeir féllu hver með öðrum. Var sá staður kallaður Branda-akur, og er hann hjá Gíbeon. 2.17 Tókst þá mjög hörð orusta á þeim degi, og fór Abner og Ísraelsmenn halloka fyrir mönnum Davíðs. 2.18 Þar voru þrír synir Serúju, þeir Jóab, Abísaí og Asahel, en Asahel var frár á fæti sem skógargeitin í haganum. 2.19 Og Asahel rann eftir Abner og veik hvorki til hægri né vinstri, heldur elti hann einan. 2.20 Þá sneri Abner sér við og mælti: 'Ert það þú, Asahel?' Hann kvað svo vera. 2.21 Þá sagði Abner við hann: 'Vík þú annaðhvort til hægri eða vinstri, og ráðst þú á einhvern af sveinunum og tak hertygi hans.' En Asahel vildi ekki láta af að elta hann. 2.22 Þá mælti Abner aftur við Asahel: 'Lát af að elta mig! Hví skyldi ég leggja þig að velli? Hvernig gæti ég þá litið upp á Jóab bróður þinn?' 2.23 En hann vildi ekki af láta. Þá lagði Abner spjótinu aftur fyrir sig í kvið honum, svo að út gekk um bakið, og féll hann dauður niður þar sem hann stóð. En allir þeir, er komu þangað sem Asahel hafði fallið niður dauður, námu staðar. 2.24 Jóab og Abísaí eltu Abner, og er sól gekk undir, voru þeir komnir til Gíbeat Amma, sem liggur fyrir austan Gía, á leiðinni til Gíbeonóbyggða. 2.25 Þá söfnuðust Benjamínítar saman til liðs við Abner og urðu einn flokkur, og námu þeir staðar efst uppi á hæð einni. 2.26 Þá kallaði Abner til Jóabs og mælti: 'Á þá sverðið sífellt að eyða? Veistu eigi, að beisk munu verða endalokin? Hversu lengi ætlar þú að draga að segja liðinu að láta af að elta bræður sína?' 2.27 Jóab svaraði: 'Svo sannarlega sem Drottinn lifir, hefðir þú ekki talað, þá hefði liðið ekki látið af að elta bræður sína fyrr en á morgun.' 2.28 Síðan þeytti Jóab lúðurinn, og nam þá allt liðið staðar og lét af að elta Ísrael og hætti að berjast. 2.29 En Abner og menn hans fóru yfir Jórdandalinn alla þá nótt, fóru því næst yfir Jórdan og gengu öll þrengslin og komust til Mahanaím. 2.30 Er Jóab hafði látið af að elta Abner, þá safnaði hann saman öllu liðinu, og vantaði þá aðeins nítján manns af mönnum Davíðs og Asahel, 2.31 en menn Davíðs höfðu lagt að velli þrjú hundruð og sextíu manns af Benjamínítum, af mönnum Abners. 2.32 En Asahel tóku þeir og jörðuðu hann hjá föður hans í Betlehem. Því næst hélt Jóab og menn hans áfram ferðinni alla nóttina og komu til Hebron í dögun.
3.1 Þegar ófriðurinn milli Sáls húss og Davíðs húss tók að gjörast langvinnur, þá efldist Davíðs hús meir og meir, en Sáls húsi hnignaði meir og meir. 3.2 Davíð fæddust synir í Hebron: Frumgetinn sonur hans var Amnon, með Akínóam frá Jesreel. 3.3 Annar sonur hans var Kíleab, með Abígail, er átt hafði Nabal í Karmel, hinn þriðji Absalon, sonur Maöku, dóttur Talmaí, konungs í Gesúr, 3.4 hinn fjórði Adónía, sonur Haggítar, hinn fimmti Sefatja, sonur Abítalar, 3.5 og hinn sjötti Jitream, með Eglu, konu Davíðs. Þessir fæddust Davíð í Hebron. 3.6 Meðan ófriðurinn stóð milli Sáls húss og Davíðs húss, var Abner öflugur fylgismaður Sáls húss. 3.7 Sál hafði átt hjákonu, er Rispa hét og var Ajasdóttir. Og Ísbóset, sonur Sáls, sagði við Abner: 'Hví hefir þú gengið í eina sæng með hjákonu föður míns?' 3.8 Abner reiddist mjög orðum Ísbósets og mælti: 'Er ég sá hundshaus, að ég haldi með Júda? Enn í dag auðsýni ég elsku húsi Sáls, föður þíns, vandamönnum hans og vinum, og ég hefi ekki framselt þig í hendur Davíðs, og þó ásakar þú mig í dag um konumál. 3.9 Guð gjöri mér það, er hann vill, nú og síðar: Eins og Drottinn hefir svarið Davíð, svo skal ég við hann gjöra: 3.10 flytja konungdóminn frá húsi Sáls og reisa hásæti Davíðs yfir Ísrael og Júda, frá Dan til Beerseba.' 3.11 Hinn gat ekki svarað Abner einu orði af hræðslu við hann. 3.12 Þá gjörði Abner sendimenn á fund Davíðs í Hebron með þessa orðsending: 'Hvers er landið?' Og: 'Gjör þú sáttmála við mig, þá mun ég veita þér fulltingi til að snúa öllum Ísrael til fylgis við þig.' 3.13 Davíð svaraði: 'Gott og vel, ég vil gjöra sáttmála við þig. En eins krefst ég af þér: Þú skalt ekki líta ásjónu mína fyrr en þú færir mér Míkal, dóttur Sáls, þá er þú kemur til þess að líta ásjónu mína.' 3.14 Og Davíð gjörði sendimenn á fund Ísbósets, sonar Sáls, með þá orðsending: 'Fá mér konu mína Míkal, er ég festi mér fyrir hundrað filistayfirhúðir.' 3.15 Þá sendi Ísbóset og lét taka hana frá manni hennar, Paltíel Laíssyni. 3.16 Og maður hennar fylgdi henni með miklum gráti til Bahúrím. Þá sagði Abner við hann: 'Farðu nú heim aftur!' Fór hann þá aftur heim. 3.17 Abner hafði átt tal við öldunga Ísraels og sagt: 'Þér hafið þegar fyrir löngu æskt þess, að Davíð yrði konungur yðar. 3.18 Látið nú af því verða, því að Drottinn hefir sagt við Davíð: ,Fyrir hönd Davíðs, þjóns míns, mun ég frelsa lýð minn Ísrael af hendi Filista og af hendi allra óvina þeirra.'` 3.19 Abner kom og að máli við Benjamíníta. Því næst hélt Abner á fund Davíðs í Hebron til þess að segja honum frá, hversu Ísrael og allt Benjamíns hús vildi allt vera láta. 3.20 En er Abner kom til Davíðs í Hebron og með honum tveir tigir manna, þá gjörði Davíð Abner veislu og mönnunum, sem með honum voru. 3.21 Þá sagði Abner við Davíð: 'Ég vil taka mig til og fara og safna öllum Ísrael utan um herra minn, konunginn, til þess að þeir gjöri sáttmála við þig, og þú verðir konungur yfir öllum þeim, sem þín sála girnist.' Síðan lét Davíð Abner burt fara í friði. 3.22 Rétt í þessu komu menn Davíðs og Jóab heim úr ránsferð, og fluttu þeir með sér mikið herfang. En Abner var þá ekki hjá Davíð í Hebron, því að hann hafði látið hann í burt fara í friði. 3.23 Þegar Jóab nú kom og allur herinn, sem með honum var, færðu menn Jóab þessi tíðindi: 'Abner Nersson kom hingað á konungs fund, og hann lét hann fara aftur burt í friði.' 3.24 Þá gekk Jóab fyrir konung og mælti: 'Hvað hefir þú gjört? Abner hefir komið hingað til þín! Hví lést þú hann frjálsan í brott fara? 3.25 Veistu ekki, að Abner Nersson hefir komið til þess að fleka þig og til þess að verða vísari um hátterni þitt og fá vitneskju um allt, sem þú hefir fyrir stafni?' 3.26 Og er Jóab var genginn út frá Davíð, þá sendi hann menn eftir Abner, og þeir komu með hann aftur frá Sírabrunni. Davíð vissi ekki af þessu. 3.27 En er Abner var aftur kominn til Hebron, veik Jóab honum á eintal afsíðis í borgarhliðinu og lagði hann þar í kviðinn, svo að hann beið bana af _ til hefnda fyrir víg Asahels bróður síns. 3.28 En er Davíð síðar frétti það, sagði hann: 'Saklaus er ég og mitt ríki fyrir Drottni að eilífu af blóði Abners Nerssonar! 3.29 Komi það yfir höfuð Jóabs og yfir alla ætt hans! Aldrei verði í ætt Jóabs þeirra vant, er rennsli hafa og líkþráir eru, sem ganga við hækju, falla fyrir sverði eða vantar brauð!' 3.30 En Jóab og Abísaí bróðir hans myrtu Abner, af því að hann hafði drepið Asahel bróður þeirra hjá Gíbeon í bardaga. 3.31 Og Davíð sagði við Jóab og allt fólkið, sem hjá honum var: 'Rífið klæði yðar og gyrðist hærusekk og gangið kveinandi fyrir Abner!' En Davíð konungur gekk á eftir líkbörunum. 3.32 Og þeir jörðuðu Abner í Hebron, og hóf þá konungur grát við gröf Abners, og allur lýðurinn grét líka. 3.33 Og konungur orti þessi sorgarljóð eftir Abner: Varð þá Abner að deyja dauða guðleysingjans? 3.34 Hendur þínar voru ekki bundnar, og fætur þínir voru ekki fjötraðir. Þú ert fallinn, eins og menn falla fyrir níðingum. Þá grét allur lýðurinn enn meira yfir honum. 3.35 Allur lýðurinn kom og vildi fá Davíð til að neyta matar meðan enn var dagur, en Davíð sór og mælti: 'Guð láti mig gjalda þess nú og síðar, ef ég smakka brauð eða nokkuð annað fyrir sólarlag.' 3.36 Allur lýðurinn tók eftir því og líkaði þeim það vel. Reyndar líkaði öllum lýðnum vel allt það, sem konungurinn gjörði. 3.37 Og allt fólkið og allur Ísrael sannfærðist um það á þeim degi, að konungur væri ekki valdur að vígi Abners Nerssonar. 3.38 Konungur mælti og við menn sína: 'Vitið þér ekki, að höfðingi og mikill maður er í dag fallinn í Ísrael? 3.39 En ég má mín enn lítils, þótt ég sé smurður til konungs, og þessir menn, Serújusynir, eru mér yfirsterkari. Drottinn gjaldi þeim, sem níðingsverkið hefir unnið, svo sem hann á skilið fyrir níðingsverk sitt!'
4.1 Er Ísbóset sonur Sáls frétti, að Abner væri dauður í Hebron, féllust honum hendur, og allur Ísrael varð óttasleginn. 4.2 Ísbóset sonur Sáls hafði tvo menn hjá sér, foringja fyrir ránsflokkum. Hét annar þeirra Baana, en hinn Rekab. Þeir voru synir Rimmóns frá Beerót, af kynþætti Benjamíns, því að Beerót telst með Benjamín. 4.3 En Beerótbúar voru flúnir til Gittaím, og hafa þeir verið þar sem hjábýlingar fram á þennan dag. 4.4 Jónatan, sonur Sáls, átti son lama á báðum fótum. Hann var fimm vetra gamall, þegar fregnin kom um Sál og Jónatan frá Jesreel. Þá tók fóstra hans hann og flýði, en í ofboðinu, er hún flýði, féll hann og varð lami. Hann hét Mefíbóset. 4.5 Synir Rimmóns frá Beerót, þeir Rekab og Baana, lögðu af stað og komu, þá er heitast var dags, í hús Ísbósets. Hafði hann þá lagt sig um miðdegið. 4.6 En stúlkan, sem dyranna gætti, hafði verið að hreinsa hveiti, og hafði hana syfjað og var hún sofandi. Þeir Rekab og Baana bróðir hans læddust því inn. 4.7 Og er þeir komu inn í húsið, þá lá Ísbóset í hvílu sinni í svefnhúsi sínu. En þeir báru vopn á hann og unnu á honum og hjuggu af honum höfuðið. Því næst tóku þeir höfuð hans og héldu áfram alla nóttina veginn yfir Jórdandalinn. 4.8 Og þeir færðu Davíð í Hebron höfuðið af Ísbóset og mæltu við konunginn: 'Hér er höfuð Ísbósets, sonar Sáls, óvinar þíns, sem sat um líf þitt. Drottinn hefir nú látið herra mínum, konunginum, verða hefndar auðið á Sál og niðjum hans.' 4.9 Davíð svaraði Rekab og Baana bróður hans, þeim sonum Rimmóns frá Beerót, og mælti til þeirra: 'Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er frelsað hefir líf mitt úr öllum nauðum: 4.10 Þann mann, sem færði mér tíðindin: ,Sjá, Sál er dauður!` og hugðist færa mér gleðitíðindi, hann lét ég handtaka og drepa í Siklag og galt honum þann veg sögulaunin. 4.11 Og þegar illir menn nú hafa myrt saklausan mann í hvílu sinni í hans eigin húsi, skyldi ég þá ekki miklu fremur krefjast blóðs hans af ykkar hendi og afmá ykkur af jörðinni?' 4.12 Síðan bauð Davíð sveinum sínum að drepa þá. Þeir gjörðu svo og hjuggu af þeim hendur og fætur og hengdu þá upp hjá tjörninni í Hebron. En höfuð Ísbósets tóku þeir og jörðuðu það í gröf Abners í Hebron.
5.1 Allar ættkvíslir Ísraels komu til Davíðs í Hebron og sögðu: 'Sjá, vér erum hold þitt og bein! 5.2 Þegar um langa hríð, á meðan Sál var konungur yfir oss, hefir þú verið fyrir Ísrael, bæði þegar hann lagði af stað í stríð og þegar hann kom heim. Auk þess hefir Drottinn við þig sagt: ,Þú skalt vera hirðir þjóðar minnar Ísraels, og þú skalt vera höfðingi yfir Ísrael!'` 5.3 Allir öldungar Ísraels komu til konungsins í Hebron, og Davíð konungur gjörði við þá sáttmála í Hebron, frammi fyrir augliti Drottins, og þeir smurðu Davíð til konungs yfir Ísrael. 5.4 Þrjátíu ára gamall var Davíð, þá er hann varð konungur, og fjörutíu ár ríkti hann. 5.5 Í Hebron ríkti hann sjö ár og sex mánuði yfir Júda, og í Jerúsalem ríkti hann þrjátíu og þrjú ár yfir öllum Ísrael og Júda. 5.6 Konungur og menn hans fóru til Jerúsalem í móti Jebúsítum, sem bjuggu í því héraði. Jebúsítar sögðu við Davíð: 'Þú munt eigi komast hér inn, heldur munu blindir menn og haltir reka þig burt.' Með því áttu þeir við: 'Davíð mun ekki komast hér inn.' 5.7 En Davíð tók vígið Síon, það er Davíðsborg. 5.8 Davíð sagði á þeim degi: 'Hver sem vill vinna sigur á Jebúsítum, skal fara um göngin til þess að komast að ,þeim höltu og blindu`, sem Davíð hatar í sálu sinni.' Þaðan er komið máltækið: 'Blindir og haltir komast ekki inn í musterið.' 5.9 Því næst settist Davíð að í víginu, og nefndi hann það Davíðsborg. Hann reisti og víggirðingar umhverfis, frá Milló og þaðan inn á við. 5.10 Og Davíð efldist meir og meir, og Drottinn, Guð allsherjar, var með honum. 5.11 Híram, konungur í Týrus, gjörði menn á fund Davíðs og sendi honum sedrustré, trésmiði og steinhöggvara, og reistu þeir höll handa Davíð. 5.12 Og Davíð kannaðist við, að Drottinn hefði staðfest konungdóm hans yfir Ísrael og eflt konungsríki hans fyrir sakir þjóðar sinnar Ísraels. 5.13 Davíð tók sér enn hjákonur og konur í Jerúsalem, eftir að hann var farinn burt frá Hebron, og Davíð fæddust enn synir og dætur. 5.14 Þetta eru nöfn þeirra sona, sem honum fæddust í Jerúsalem: Sammúa, Sóbab, Natan, Salómon, 5.15 Jíbhar, Elísúa, Nefeg, Jafía, 5.16 Elísama, Eljada og Elífelet. 5.17 Þegar Filistar heyrðu að Davíð væri smurður til konungs yfir Ísrael, lögðu þeir af stað að leita Davíðs. Og er Davíð frétti það, fór hann ofan í fjallvígið. 5.18 Og Filistar komu og dreifðu sér um Refaímdal. 5.19 Þá gekk Davíð til frétta við Drottin og sagði: 'Á ég að fara móti Filistum? Munt þú gefa þá í hendur mér?' Drottinn svaraði Davíð: 'Far þú, því að ég mun vissulega gefa Filista í hendur þér.' 5.20 Þá fór Davíð til Baal Perasím. Og Davíð vann þar sigur á þeim og sagði: 'Drottinn hefir skolað burt óvinum mínum fyrir mér, eins og þegar vatn ryður sér rás.' Fyrir því var sá staður nefndur Baal Perasím. 5.21 En þeir létu þar eftir skurðgoð sín, og Davíð og menn hans tóku þau. 5.22 Filistar komu aftur og dreifðu sér um Refaímdal. 5.23 Þá gekk Davíð til frétta við Drottin, og hann svaraði: 'Far þú eigi í móti þeim. Far þú í bug og kom að baki þeim og ráð á þá fram undan bakatrjánum. 5.24 Og þegar þú heyrir þyt af ferð í krónum bakatrjánna, þá skalt þú hraða þér, því að þá fer Drottinn fyrir þér til þess að ljósta her Filista.' 5.25 Og Davíð gjörði eins og Drottinn bauð honum og vann sigur á Filistum frá Geba alla leið til Geser.
6.1 Davíð safnaði enn saman öllu einvalaliði í Ísrael, þrjátíu þúsund manns. 6.2 Síðan tók Davíð sig upp og lagði af stað með allt það lið, sem hjá honum var, til Baala í Júda til þess að flytja þaðan örk Guðs, sem kennd er við nafn Drottins allsherjar, hans sem situr uppi yfir kerúbunum. 6.3 Og þeir óku örk Guðs á nýjum vagni og tóku hana úr húsi Abínadabs, því er stóð á hæðinni, og stýrðu þeir Ússa og Ahjó, synir Abínadabs, vagninum. 6.4 Ússa gekk með örk Guðs, en Ahjó gekk fyrir örkinni. 6.5 Og Davíð og allt Ísraels hús dansaði fyrir Drottni af öllum mætti, með söng, gígjum, hörpum, bumbum, bjöllum og skálabumbum. 6.6 En er þeir komu að þreskivelli Nakóns, greip Ússa hendinni í örk Guðs og hélt fast í hana, því að slakað hafði verið á taumhaldinu við akneytin. 6.7 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ússa, og Guð laust hann þar, af því að hann hafði gripið hendi sinni í örkina, og dó hann þar hjá örk Guðs. 6.8 En Davíð féll það þungt, að Drottinn hafði lostið Ússa svo hart, og hefir þessi staður verið nefndur Peres Ússa allt fram á þennan dag. 6.9 Davíð varð hræddur við Drottin á þeim degi og sagði: 'Hvernig má þá örk Drottins komast til mín?' 6.10 Og Davíð vildi ekki flytja örk Drottins til sín í Davíðsborg, heldur sneri hann með hana til húss Óbeð Edóms í Gat. 6.11 Og örk Drottins var síðan í húsi Óbeð Edóms í Gat þrjá mánuði, og Drottinn blessaði Óbeð Edóm og allt hans hús. 6.12 En er Davíð konungi komu þau tíðindi: 'Drottinn hefir blessað hús Óbeð Edóms og allt, sem hann á, sakir Guðs arkar,' þá lagði Davíð af stað og sótti örk Guðs í hús Óbeð Edóms og flutti hana til Davíðsborgar með fögnuði. 6.13 Og er þeir, sem báru örk Drottins, höfðu gengið sex skref, fórnaði hann nauti og alikálfi. 6.14 Og Davíð dansaði af öllum mætti fyrir Drottni, og var Davíð þá gyrtur línhökli. 6.15 Og Davíð og allt Ísraels hús flutti örk Drottins upp með fagnaðarópi og lúðurhljómi. 6.16 En er örk Drottins kom í Davíðsborg, leit Míkal, dóttir Sáls, út um gluggann, og er hún sá Davíð konung vera að hoppa og dansa fyrir Drottni, fyrirleit hún hann í hjarta sínu. 6.17 Þeir fluttu örk Drottins inn og settu hana á sinn stað í tjaldi því, sem Davíð hafði reisa látið yfir hana, og Davíð færði brennifórnir frammi fyrir Drottni og heillafórnir. 6.18 Og er Davíð hafði fært brennifórnina og heillafórnirnar, blessaði hann lýðinn í nafni Drottins allsherjar. 6.19 Hann úthlutaði og öllu fólkinu, öllum múg Ísraels, bæði körlum og konum, hverjum fyrir sig einni brauðköku, einu kjötstykki og einni rúsínuköku. Síðan fór allur lýðurinn burt, hver heim til sín. 6.20 En er Davíð kom heim til þess að heilsa fólki sínu, gekk Míkal, dóttir Sáls, á móti honum og mælti: 'Tígulegur var Ísraelskonungurinn í dag, þar sem hann beraði sig í dag í augsýn ambátta þjóna sinna, eins og þegar einhver af argasta skrílnum berar sig!' 6.21 Þá sagði Davíð við Míkal: 'Fyrir Drottni vil ég dansa. Hann hefir tekið mig fram yfir föður þinn og fram yfir allt hans hús og skipað mig höfðingja yfir lýð Drottins, yfir Ísrael, og fyrir Drottni vil ég leika 6.22 og lítillækka mig enn meir en þetta og líta smáum augum á sjálfan mig. En með ambáttunum, sem þú talaðir um, hjá þeim mun ég verða vegsamlegur.' 6.23 Míkal, dóttir Sáls, var barnlaus til dauðadags.
7.1 Svo bar til, þá er konungur sat í höll sinni _ en Drottinn hafði þá veitt honum frið fyrir öllum óvinum hans allt í kring _, 7.2 að konungur sagði við Natan spámann: 'Sjá, ég bý í höll af sedrusviði, en örk Guðs býr undir tjalddúk.' 7.3 Natan svaraði konungi: 'Far þú og gjör allt, sem þér er í hug, því að Drottinn er með þér.' 7.4 En hina sömu nótt kom orð Drottins til Natans, svohljóðandi: 7.5 'Far og seg þjóni mínum Davíð: Svo segir Drottinn: Ætlar þú að reisa mér hús til að búa í? 7.6 Ég hefi ekki búið í húsi, síðan ég leiddi Ísraelsmenn út af Egyptalandi, allt fram á þennan dag, heldur ferðaðist ég í tjaldi og búð. 7.7 Alla þá stund, er ég hefi um farið meðal Ísraelsmanna, hefi ég þá sagt nokkurt orð í þá átt við nokkurn af dómurum Ísraels, er ég setti til að vera hirða lýðs míns, Ísraels: ,Hví reisið þér mér ekki hús af sedrusviði?` 7.8 Nú skalt þú svo segja þjóni mínum Davíð: Svo segir Drottinn allsherjar: Ég tók þig úr haglendinu, frá hjarðmennskunni, og setti þig höfðingja yfir lýð minn, Ísrael. 7.9 Ég hefi verið með þér í öllu, sem þú hefir tekið þér fyrir hendur, og upprætt alla óvini þína fyrir þér. Ég mun gjöra nafn þitt sem nafn hinna mestu manna, sem á jörðinni eru, 7.10 og fá lýð mínum Ísrael stað og gróðursetja hann þar, svo að hann geti búið á sínum stað og geti verið öruggur framvegis. Níðingar skulu ekki þjá hann framar eins og áður, 7.11 frá því er ég setti dómara yfir lýð minn Ísrael, og ég vil veita þér frið fyrir öllum óvinum þínum. Og Drottinn boðar þér, að hann muni reisa þér hús. 7.12 Þegar ævi þín er öll og þú leggst hjá feðrum þínum, mun ég hefja son þinn eftir þig, þann er frá þér kemur, og staðfesta konungdóm hans. 7.13 Hann skal reisa hús mínu nafni, og ég mun staðfesta konungsstól hans að eilífu. 7.14 Ég vil vera honum faðir, og hann skal vera mér sonur, svo að þótt honum yfirsjáist, þá mun ég hirta hann með manna vendi og manns barna höggum, 7.15 en miskunn mína mun ég ekki frá honum taka, eins og ég tók hana frá fyrirrennara þínum. 7.16 Hús þitt og ríki skal stöðugt standa fyrir mér að eilífu. Hásæti þitt skal vera óbifanlegt að eilífu.' 7.17 Natan flutti Davíð öll þessi orð og sagði honum sýn þessa alla. 7.18 Þá gekk Davíð konungur inn og settist niður frammi fyrir Drottni og mælti: 'Hver er ég, Drottinn Guð, og hvað er hús mitt, að þú skulir hafa leitt mig til þessa? 7.19 Og þér nægði það eigi, Drottinn Guð, heldur hefir þú og fyrirheit gefið um hús þjóns þíns langt fram í aldir, og það meira að segja á mannlegan hátt, Drottinn Guð. 7.20 En hvað má Davíð enn við þig mæla? Þú þekkir sjálfur þjón þinn, Drottinn Guð! 7.21 Sakir þjóns þíns og að þínum vilja hefir þú gjört þetta, að boða þjóni þínum alla þessa miklu hluti. 7.22 Fyrir því ert þú mikill, Drottinn Guð, því að enginn er sem þú, og enginn er Guð nema þú samkvæmt öllu því, er vér höfum heyrt með eyrum vorum. 7.23 Og hvaða þjóð önnur á jörðinni jafnast við þína þjóð, Ísrael, að Guð hafi framgengið og endurleyst hana sér að eignarlýð og aflað sér frægðar? Þú gjörðir fyrir þá þessa miklu hluti og hræðilegu, að stökkva burt þjóðum og guðum þeirra undan þínu fólki, sem þú hafðir endurleyst af Egyptalandi. 7.24 Þú hefir gjört lýð þinn Ísrael að þínum lýð um aldur og ævi, og þú, Drottinn, gjörðist Guð þeirra. 7.25 Og lát þú, Drottinn Guð, fyrirheit það, er þú hefir gefið um þjón þinn og um hús hans, stöðugt standa um aldur og ævi, og gjör þú svo sem þú hefir heitið. 7.26 Þá mun nafn þitt mikið verða að eilífu og hljóða svo: Drottinn allsherjar, Guð yfir Ísrael _ og hús þjóns þíns Davíðs mun stöðugt standa fyrir þér. 7.27 Því að þú, Drottinn allsherjar, Guð Ísraels, hefir birt þjóni þínum þetta: ,Ég mun reisa þér hús.` Fyrir því hafði þjónn þinn djörfung til að bera þessa bæn fram fyrir þig. 7.28 Og nú, Drottinn Guð, þú ert Guð og þín orð eru sannleikur, og þú hefir gefið þjóni þínum þetta dýrlega fyrirheit. 7.29 Virst þú nú að blessa hús þjóns þíns, svo að það sé til að eilífu fyrir þínu augliti. Því að þú, Drottinn Guð, hefir fyrirheit gefið, og fyrir blessun þína mun hús þjóns þíns blessað verða að eilífu.'
8.1 Eftir þetta vann Davíð sigur á Filistum og braut þá undir sig og tók tauma höfuðstaðarins úr höndum Filista. 8.2 Hann vann og sigur á Móabítum og mældi þá með vað, það er að segja, hann lét þá leggjast niður á jörðina og mældi tvo vaði til lífláts og eina vaðlengd til að halda lífi. Þannig urðu Móabítar skattskyldir þegnar Davíðs. 8.3 Davíð vann og sigur á Hadadeser Rehóbssyni, konungi í Sóba, þá er hann fór leiðangur til að ná aftur ríki við Efrat. 8.4 Vann Davíð af honum eitt þúsund og sjö hundruð riddara og tuttugu þúsundir fótgönguliðs. Lét Davíð skera sundur hásinarnar á öllum stríðshestunum og hélt aðeins hestum fyrir hundrað stríðsvagna eftir. 8.5 Og er Sýrlendingar frá Damaskus komu til liðs við Hadadeser, konung í Sóba, þá felldi Davíð tuttugu og tvö þúsund manns af Sýrlendingum. 8.6 Og Davíð setti landstjóra á Sýrlandi, því er kennt er við Damaskus, og urðu Sýrlendingar skattskyldir þegnar Davíðs. Þannig veitti Drottinn Davíð sigur, hvert sem hann fór. 8.7 Davíð tók og hina gullnu skjöldu, er þjónar Hadadesers höfðu borið, og flutti þá til Jerúsalem. 8.8 Auk þess tók Davíð konungur afar mikið af eir í Beta og Berótaj, borgum Hadadesers. 8.9 Þegar Tóú, konungur í Hamat, frétti að Davíð hefði lagt að velli allan her Hadadesers, 8.10 þá sendi Tóú Hadóram son sinn á fund Davíðs konungs til þess að heilsa á hann og árna honum heilla, er hann hafði barist við Hadadeser og unnið sigur á honum _ því að Tóú átti í ófriði við Hadadeser _, og hafði hann með sér gripi af silfri, gulli og eiri. 8.11 Gripina helgaði Davíð konungur einnig Drottni, ásamt silfri því og gulli, er hann hafði helgað frá öllum þeim þjóðum, er hann hafði undirokað: 8.12 frá Edóm, Móab, Ammónítum, Filistum, Amalek og af herfangi Hadadesers Rehóbssonar, konungs í Sóba. 8.13 Davíð jók orðstír sinn, þá er hann sneri aftur og hafði unnið sigur á Sýrlendingum, með því að vinna sigur á Edómítum í Saltdalnum, átján þúsund manns. 8.14 Og hann setti landstjóra í Edóm. Um allt Edóm setti hann landstjóra, og þannig urðu allir Edómítar þegnar Davíðs. En Drottinn veitti Davíð sigur, hvert sem hann fór. 8.15 Davíð ríkti yfir öllum Ísrael og lét alla þjóð sína njóta laga og réttar. 8.16 Jóab Serújuson var fyrir hernum, og Jósafat Ahílúðsson var ríkisritari. 8.17 Sadók Ahítúbsson og Ahímelek Abjatarsson voru prestar og Seraja kanslari. 8.18 Benaja Jójadason var fyrir Kretum og Pletum, og synir Davíðs voru prestar.
9.1 Davíð sagði: 'Er nú nokkur maður eftir orðinn af húsi Sáls? Honum vil ég miskunn auðsýna fyrir sakir Jónatans.' 9.2 Af húsi Sáls var til maður, er Síba hét. Hann var kallaður á fund Davíðs. Og konungur sagði við hann: 'Ert þú Síba?' Hann svaraði: 'Þinn þjónn!' 9.3 Þá mælti konungur: 'Er nokkur eftir af húsi Sáls, að ég megi auðsýna honum miskunn Guðs?' Síba sagði við konung: 'Enn er á lífi sonur Jónatans og er lami á báðum fótum.' 9.4 Þá sagði konungur við hann: 'Hvar er hann?' Síba sagði við konung: 'Hann er í húsi Makírs Ammíelssonar í Lódebar.' 9.5 Þá sendi Davíð konungur og lét sækja hann í hús Makírs Ammíelssonar í Lódebar. 9.6 Og Mefíbóset Jónatansson, Sálssonar, gekk fyrir Davíð, féll fram á ásjónu sína og laut honum. Og Davíð sagði: 'Mefíbóset!' Hann svaraði: 'Hér er þjónn þinn.' 9.7 Þá mælti Davíð til hans: 'Ver þú óhræddur, því að ég vil auðsýna þér miskunn fyrir sakir Jónatans, föður þíns, og fá þér aftur allar jarðeignir Sáls forföður þíns, og þú skalt jafnan eta við mitt borð.' 9.8 Þá laut hann og mælti: 'Hvað er þjónn þinn þess, að þú skiptir þér af dauðum hundi, eins og mér?' 9.9 Síðan kallaði konungur á Síba, þjón Sáls, og mælti til hans: 'Allt sem Sál átti, og allt sem hús hans átti gef ég syni herra þíns. 9.10 Skalt þú nú yrkja landið fyrir hann ásamt sonum þínum og þrælum og hirða af því, svo að sonur herra þíns hafi fæðu og megi eta. En Mefíbóset, sonur herra þíns, skal jafnan eta við mitt borð.' Og Síba átti fimmtán sonu og tuttugu þræla. 9.11 Síba sagði við konung: 'Þjónn þinn mun gjöra að öllu svo sem minn herra konungurinn hefir boðið þjóni sínum.' Og Mefíbóset át við borð Davíðs, svo sem væri hann einn konungssona. 9.12 Mefíbóset átti ungan son, sem Míka hét. Allir sem bjuggu í húsi Síba, voru þjónar Mefíbósets. 9.13 En Mefíbóset bjó í Jerúsalem, því að hann át jafnan við borð konungs. Hann var haltur á báðum fótum.
10.1 Eftir þetta bar svo til, að konungur Ammóníta dó, og tók Hanún sonur hans ríki eftir hann. 10.2 Þá sagði Davíð: 'Ég vil sýna Hanún Nahassyni vináttu, eins og faðir hans sýndi mér vináttu.' Síðan sendi Davíð þjóna sína til að hugga hann eftir föðurmissinn. En er þjónar Davíðs komu í land Ammóníta, 10.3 þá sögðu höfðingjar Ammóníta við Hanún, herra sinn: 'Hyggur þú, að Davíð vilji heiðra föður þinn, er hann gjörir menn á þinn fund til að hugga þig? Mun Davíð ekki hafa sent þjóna sína á þinn fund til þess að njósna í borginni og kanna hana og kollvarpa henni síðan?' 10.4 Þá lét Hanún taka þjóna Davíðs og raka af þeim hálft skeggið og skera af þeim klæðin til hálfs, upp á þjóhnappa, og lét þá síðan fara. 10.5 Davíð voru sögð þessi tíðindi, og sendi hann þá menn á móti þeim, _ því að mennirnir voru mjög svívirtir _, og konungur lét segja þeim: 'Verið í Jeríkó, uns skegg yðar er vaxið, og komið síðan heim aftur.' 10.6 En er Ammónítar sáu, að þeir höfðu gjört sig illa þokkaða hjá Davíð, sendu þeir menn og tóku á mála Sýrlendinga frá Bet Rehób og Sýrlendinga frá Sóba, tuttugu þúsundir fótgönguliðs, svo og konunginn í Maaka með þúsund manns, og tólf þúsund manns frá Tób. 10.7 En er Davíð frétti það, sendi hann Jóab af stað með allan herinn, það er að segja kappana. 10.8 Ammónítar fóru og út og fylktu liði sínu fyrir utan borgarhliðið, en Sýrlendingarnir frá Sóba og Rehób, svo og mennirnir frá Tób og Maaka, stóðu úti á víðavangi einir sér. 10.9 En er Jóab sá, að honum var búinn bardagi bæði að baki og að framan, valdi hann úr öllu einvalaliði Ísraels og fylkti því á móti Sýrlendingum. 10.10 Hitt liðið fékk hann Abísaí bróður sínum, og fylkti hann því á móti Ammónítum. 10.11 Og Jóab mælti: 'Ef Sýrlendingar bera mig ofurliði, þá verður þú að hjálpa mér, en ef Ammónítar bera þig ofurliði, þá mun ég koma þér til hjálpar. 10.12 Vertu hughraustur, og sýnum nú af oss karlmennsku fyrir þjóð vora og borgir Guðs vors, en Drottinn gjöri það, sem honum þóknast.' 10.13 Síðan lagði Jóab og liðið, sem með honum var, til orustu við Sýrlendinga, og þeir flýðu fyrir honum. 10.14 En er Ammónítar sáu, að Sýrlendingar flýðu, lögðu þeir og á flótta fyrir Abísaí og leituðu inn í borgina. En Jóab sneri heim frá Ammónítum og fór til Jerúsalem. 10.15 Þegar Sýrlendingar sáu, að þeir höfðu beðið ósigur fyrir Ísrael, söfnuðust þeir saman. 10.16 Og Hadadeser sendi boð og bauð út Sýrlendingum, sem voru hinumegin við Efrat, og þeir komu til Helam, og Sóbak, hershöfðingi Hadadesers, var fyrir þeim. 10.17 Og er Davíð var sagt frá því, þá safnaði hann saman öllum Ísrael, fór yfir Jórdan og kom til Helam. Sýrlendingar fylktu liði sínu í móti Davíð og börðust við hann. 10.18 En Sýrlendingar flýðu fyrir Ísrael, og Davíð felldi sjö hundruð vagnkappa og fjörutíu þúsund manns af Sýrlendingum. Hann særði og hershöfðingja þeirra, Sóbak, svo að hann dó þar. 10.19 En er konungarnir, sem voru lýðskyldir Hadadeser, sáu, að þeir höfðu beðið ósigur fyrir Ísrael, sömdu þeir allir frið við Ísrael og gjörðust lýðskyldir honum. Upp frá því þorðu Sýrlendingar ekki að veita Ammónítum lið.
11.1 Svo bar til árið eftir, um það leyti sem konungar eru vanir að fara í hernað, að Davíð sendi Jóab af stað með menn sína og allan Ísrael. Þeir herjuðu á Ammóníta og settust um Rabba, en Davíð sat heima í Jerúsalem. 11.2 Nú vildi svo til eitt kvöld, að Davíð reis upp úr hvílu sinni og fór að ganga um gólf uppi á þaki konungshallarinnar. Sá hann þá ofan af þakinu konu vera að lauga sig. En konan var forkunnar fögur. 11.3 Þá sendi Davíð og spurðist fyrir um konuna, og var honum sagt: 'Það er Batseba Elíamsdóttir, kona Úría Hetíta.' 11.4 Og Davíð sendi menn og lét sækja hana. Og hún kom til hans, og hann lagðist með henni, því að hún hafði hreinsað sig af óhreinleika sínum. Síðan fór hún aftur heim til sín. 11.5 En konan var þunguð orðin, og hún sendi og lét Davíð vita það og mælti: 'Ég er með barni.' 11.6 Davíð gjörði þá Jóab boð: 'Sendu Úría Hetíta til mín.' Og Jóab sendi Úría til Davíðs. 11.7 En er Úría kom á hans fund, spurði Davíð, hvernig Jóab liði og hvernig honum liði og hvernig hernaðurinn gengi. 11.8 Því næst sagði Davíð við Úría: 'Gakk þú nú heim til þín og lauga fætur þína.' Gekk Úría þá burt úr konungshöllinni, og var gjöf frá konungi borin á eftir honum. 11.9 En Úría lagðist til hvíldar fyrir dyrum konungshallarinnar hjá öðrum þjónum herra síns, en fór ekki heim til sín. 11.10 Menn sögðu Davíð frá því og mæltu: 'Úría er ekki farinn heim til sín.' Þá sagði Davíð við Úría: 'Þú ert kominn úr ferð, _ hvers vegna ferð þú ekki heim til þín?' 11.11 Þá sagði Úría við Davíð: 'Örkin og Ísrael og Júda búa í laufskálum, og herra minn Jóab og menn herra míns hafast við úti á bersvæði, _ og þá ætti ég að fara heim til mín til þess að eta og drekka og hvíla hjá konu minni? Svo sannarlega sem Drottinn lifir og þú lifir, það gjöri ég ekki.' 11.12 Þá sagði Davíð við Úría: 'Vertu þá hér líka í dag, en á morgun gef ég þér fararleyfi.' Var Úría þann dag í Jerúsalem. 11.13 Daginn eftir hafði Davíð hann í boði sínu, og hann át og drakk með honum, og hann gjörði hann drukkinn. En um kvöldið gekk hann burt og lagðist til hvíldar hjá þjónum herra síns, en fór ekki heim til sín. 11.14 Morguninn eftir skrifaði Davíð Jóab bréf og sendi það með Úría. 11.15 Í bréfinu skrifaði hann svo: 'Setjið Úría fremstan í bardagann, þar sem hann er harðastur, og hörfið aftur undan frá honum, svo að hann verði ofurliði borinn og falli.' 11.16 Jóab sat um borgina og skipaði nú Úría þar til orustu, sem hann vissi að hraustir menn voru fyrir. 11.17 Gjörðu borgarmenn síðan úthlaup og börðust við Jóab. Féllu þá nokkrir af liðinu, af þjónum Davíðs. Þá lét og Úría Hetíti líf sitt. 11.18 Þá sendi Jóab mann og lét segja Davíð, hvernig farið hefði í orustunni, 11.19 og hann lagði svo fyrir sendimanninn: 'Þegar þú hefir sagt konungi sem greinilegast frá bardaganum, 11.20 og konungur þá verður reiður og segir við þig: ,Hví fóruð þér svo nærri borginni í orustu? Vissuð þér ekki að þeir mundu skjóta á yður ofan af borgarveggnum? 11.21 Hver felldi Abímelek Jerúbbesetsson? Kastaði ekki kona kvarnarsteini á hann ofan af borgarveggnum, svo að hann dó í Tebes? Hví fóruð þér svo nærri borgarveggnum?` _ þá skalt þú segja: ,Þjónn þinn, Úría Hetíti, lét og lífið.'` 11.22 Síðan fór sendimaðurinn og kom og flutti Davíð allt, sem Jóab hafði fyrir hann lagt, hvernig farið hefði í orustunni. Varð þá Davíð reiður Jóab og sagði við sendimanninn: 'Hví fóruð þér svo nærri borginni í orustu? Vissuð þér ekki að það mundi verða kastað á yður ofan af borgarveggnum? Hver felldi Abímelek Jerúbbesetsson? Kastaði ekki kona kvarnarsteini á hann ofan af borgarveggnum, svo að hann dó í Tebes? Hví fóruð þér svo nærri borgarveggnum?' 11.23 Þá sagði sendimaðurinn við Davíð: 'Mennirnir voru oss yfirsterkari og voru komnir í móti oss út á bersvæði. Fyrir því urðum vér að sækja að þeim allt að borgarhliðinu. 11.24 En þá skutu skotmennirnir á þjóna þína niður af borgarveggnum, og féllu þá nokkrir af mönnum konungs, og þjónn þinn, Úría Hetíti, lét og lífið.' 11.25 Þá sagði Davíð við sendimanninn: 'Svo skalt þú segja Jóab: ,Láttu þetta ekki á þig fá, því að sverðið verður ýmist þessum eða hinum að bana. Sæk þú vasklega að borginni og brjót hana` _ og teldu þannig hug í hann.' 11.26 En er kona Úría frétti, að maður hennar Úría var fallinn, harmaði hún bónda sinn. 11.27 En þegar sorgardagarnir voru liðnir, sendi Davíð og tók hana heim til sín, og hún varð kona hans og fæddi honum son. En Drottni mislíkaði það, sem Davíð hafði gjört.
12.1 Drottinn sendi Natan til Davíðs, og Natan kom til hans og sagði við hann: 'Tveir menn voru í sömu borg. Annar var ríkur, hinn fátækur. 12.2 Hinn ríki átti fjölda sauða og nauta, 12.3 en hinn fátæki átti ekki nema eitt gimbrarlamb, sem hann hafði keypt og alið. Það óx upp hjá honum og með börnum hans, það át af mat hans og drakk af bikar hans og svaf við brjóst hans og var eins og dóttir hans. 12.4 Þá kom gestur til ríka mannsins, og hann tímdi ekki að taka neinn af sauðum sínum eða nautum til þess að matreiða fyrir ferðamanninn, sem til hans var kominn, heldur tók gimbrarlamb fátæka mannsins og matbjó það fyrir manninn, sem kominn var til hans.' 12.5 Þá reiddist Davíð manninum ákaflega og sagði við Natan: 'Svo sannarlega sem Drottinn lifir: Sá maður, sem slíkt hefir aðhafst, er dauðasekur, 12.6 og lambið skal hann borga sjöfaldlega, fyrst hann gjörði slíkt og hafði enga meðaumkun.' 12.7 En Natan sagði við Davíð: 'Þú ert maðurinn! Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég hefi smurt þig til konungs yfir Ísrael, og ég hefi frelsað þig af hendi Sáls, 12.8 og ég gaf þér hús herra þíns og lagði konur herra þíns upp að brjósti þér, og ég hefi fengið þér Ísraels hús og Júda _ og hefði það verið of lítið, mundi ég hafa bætt einhverju við þig. 12.9 Hví hefir þú fyrirlitið orð Drottins með því að aðhafast það, sem honum mislíkar? Úría Hetíta hefir þú fellt með sverði. Konu hans hefir þú tekið þér fyrir konu, en sjálfan hann hefir þú myrt með sverði Ammóníta. 12.10 Fyrir því skal sverðið aldrei víkja burt frá húsi þínu, sakir þess að þú fyrirleist mig og tókst konu Úría Hetíta þér fyrir konu. 12.11 Svo segir Drottinn: Sjá, ég læt ólán koma yfir þig frá húsi þínu og tek konur þínar fyrir augunum á þér og gef þær öðrum manni, svo að hann hvíli hjá konum þínum að sólinni ásjáandi. 12.12 Þú hefir gjört þetta með launung, en ég mun framkvæma þetta í augsýn alls Ísraels og í augsýn sólarinnar.' 12.13 Þá sagði Davíð við Natan: 'Ég hefi syndgað móti Drottni.' Natan sagði við Davíð: 'Drottinn hefir og fyrirgefið þér synd þína. Þú munt ekki deyja. 12.14 En sakir þess, að þú hefir smánað Drottin með athæfi þínu, þá skal sá sonur, sem þér er fæddur, vissulega deyja.' 12.15 Síðan fór Natan heim til sín. Drottinn sló barnið, sem kona Úría hafði fætt Davíð, svo að það varð sjúkt. 12.16 Og Davíð leitaði Guðs vegna sveinsins og fastaði, og er hann kom heim, lagðist hann til svefns á gólfinu um nóttina. 12.17 Þá gengu elstu mennirnir í húsi hans til hans til þess að fá hann til að rísa upp af gólfinu, en hann vildi það ekki og neytti ekki matar með þeim. 12.18 En á sjöunda degi dó barnið. Og þjónar Davíðs þorðu ekki að segja honum, að barnið væri dáið, því að þeir hugsuðu með sér: 'Sjá, meðan barnið lifði, töluðum vér við hann, en hann ansaði oss ekki. Hvernig ættum vér þá nú að segja við hann: ,Barnið er dáið!` Hann kynni að fremja voðaverk.' 12.19 En Davíð sá, að þjónar hans voru að hvísla hver að öðrum, og skildi hann þá, að barnið væri dáið. Og Davíð sagði við þjóna sína: 'Er barnið dáið?' og þeir sögðu: 'Já, það er dáið.' 12.20 Þá stóð Davíð upp af gólfinu, laugaðist og smurði sig og hafði klæðaskipti. Síðan gekk hann í hús Drottins og baðst fyrir og fór því næst heim til sín og bað um mat. Var honum þá borinn matur, og hann neytti. 12.21 Þá sögðu þjónar hans við hann: 'Hvað er þetta, sem þú hefir gjört? Meðan barnið lifði, fastaðir þú og grést vegna þess, en þegar barnið var dáið, stóðst þú upp og mataðist?' 12.22 Hann svaraði: 'Meðan barnið var á lífi, fastaði ég og grét, því að ég hugsaði: ,Hver veit nema Drottinn miskunni mér, og barnið fái að lifa?` 12.23 En fyrst það er nú dáið, hvers vegna ætti ég þá að fasta? Mun ég geta látið það hverfa aftur? Ég fer til þess, en það kemur eigi aftur til mín.' 12.24 Davíð huggaði Batsebu, konu sína, og hann gekk inn til hennar og lagðist með henni, og hún ól son. Og hann nefndi hann Salómon. Drottinn elskaði hann 12.25 og lét Natan spámann flytja þau boð, að hann skyldi heita Jedídjah vegna Drottins. 12.26 Jóab herjaði á Rabba, borg Ammóníta, og vann lágborgina. 12.27 Og hann gjörði menn til Davíðs og sagði: 'Ég hefi herjað á Rabba og þegar unnið lágborgina. 12.28 Safna nú saman því sem eftir er af liðinu og sest um borgina og vinn hana, svo að ég vinni ekki borgina og hún verði ekki kennd við mig.' 12.29 Þá safnaði Davíð saman öllu liðinu og fór til Rabba og herjaði á hana og vann hana. 12.30 Hann tók kórónu Milkóms af höfði honum. Hún vó talentu gulls, og í henni var dýrindis steinn. Davíð setti hana á höfuð sér og flutti mjög mikið herfang burt úr borginni. 12.31 Hann flutti og burt fólkið, sem þar var, og setti það við sagirnar, járnfleygana og járnaxirnar og lét það vinna að tígulsteinagjörð. Svo fór hann með allar borgir Ammóníta. Síðan fór Davíð ásamt öllu liðinu aftur heim til Jerúsalem.
13.1 Nú segir frá því, að Absalon sonur Davíðs átti fríða systur, sem hét Tamar, og Amnon sonur Davíðs felldi hug til hennar. 13.2 Og Amnon píndist svo, að hann varð sjúkur út af Tamar, systur sinni, því að hún var mey, og Amnon virtist eigi unnt að gjöra henni neitt. 13.3 En Amnon átti vin, sem Jónadab hét, sonur Símea, bróður Davíðs. Jónadab þessi var mjög kænn maður. 13.4 Og hann sagði við Amnon: 'Hví megrast þú svo, konungsson, dag frá degi? Viltu ekki segja mér það?' Amnon sagði við hann: 'Ég felli hug til Tamar, systur Absalons bróður míns.' 13.5 Þá sagði Jónadab við hann: 'Leggst þú í rekkju og lát sem þú sért sjúkur, og þegar faðir þinn kemur til þess að vitja um þig, þá skaltu segja við hann: ,Lát Tamar systur mína koma og gefa mér að eta. Ef hún byggi til matinn fyrir augum mér, svo að ég gæti horft á, þá mundi ég eta úr hendi hennar.'` 13.6 Síðan lagðist Amnon og lést vera sjúkur. En er konungur kom að vitja um hann, sagði Amnon við konung: 'Lát Tamar systur mína koma og gjöra tvær kökur að mér áhorfandi, svo að ég megi eta þær úr hendi hennar.' 13.7 Þá sendi Davíð boð heim til Tamar og lét segja henni: 'Far þú í hús Amnons bróður þíns og matreið handa honum.' 13.8 Þá gekk Tamar í hús Amnons bróður síns, en hann lá í rúminu. Og hún tók deig og hnoðaði og gjörði úr því kökur að honum áhorfandi og bakaði kökurnar. 13.9 Og hún tók pönnuna og steypti úr henni frammi fyrir honum, en hann vildi ekki eta. Og Amnon mælti: 'Látið alla ganga út frá mér.' Og allir gengu út frá honum. 13.10 Þá sagði Amnon við Tamar: 'Kom þú með matinn inn í svefnhúsið, svo að ég megi eta úr hendi þinni.' Og Tamar tók kökurnar, sem hún hafði gjört, og færði Amnon bróður sínum inn í svefnhúsið. 13.11 En er hún rétti honum þær að eta, þreif hann til hennar og sagði við hana: 'Kom þú og leggst með mér, systir mín!' 13.12 En hún sagði við hann: 'Nei, bróðir minn, svívirð mig eigi, því að slíkt viðgengst ekki í Ísrael. Frem þú eigi slíka óhæfu. 13.13 Og hvað ætti ég af mér að gjöra með vansæmd mína? Og þú mundir talinn eitt hið versta varmenni í Ísrael. Tala þú heldur við konung, því að hann mun ekki synja þér um mig.' 13.14 En hann vildi ekki hlýða orðum hennar, heldur lét hana kenna aflsmunar og nauðgaði henni og lagðist með henni. 13.15 En síðan fékk Amnon mjög mikla óbeit á henni, svo að hin mikla óbeit, er hann hafði á henni, var meiri en ástin, sem hann hafði haft á henni. Og Amnon sagði við hana: 'Statt upp og haf þig á burt.' 13.16 Þá sagði hún við hann: 'Nei, bróðir minn, því að þetta væri enn meira vonskuverk en það, er þú hefir á mér framið, að senda mig nú burt.' En hann vildi ekki hlýða orðum hennar. 13.17 Og hann kallaði á svein sinn, er þjónaði honum, og mælti: 'Kom þessari konu burt frá mér út á götuna, og lokaðu dyrunum á eftir henni.' 13.18 En hún var í dragkyrtli, því að svo voru fyrrum konungsdætur klæddar, meðan þær voru meyjar. Og þjónn hans fór með hana út á götuna og lokaði dyrunum á eftir henni. 13.19 Þá jós Tamar mold yfir höfuð sér og reif sundur dragkyrtilinn sem hún var í, lagði síðan hönd á höfuð sér og gekk hljóðandi burt. 13.20 Og Absalon bróðir hennar sagði við hana: 'Hefir Amnon bróðir þinn verið með þér? Þegi þú nú, systir mín, hann er bróðir þinn. Láttu þetta ekki á þig fá.' Og Tamar dvaldi ein og yfirgefin í húsi Absalons bróður síns. 13.21 Þegar Davíð konungur frétti allt þetta, varð hann reiður mjög, en hann vildi eigi hryggja Amnon son sinn, því að hann elskaði hann, af því að hann var frumgetningur hans. 13.22 En Absalon mælti eigi orð við Amnon, hvorki illt né gott, því að Absalon hataði Amnon fyrir það, að hann hafði svívirt Tamar systur hans. 13.23 Tveimur árum síðar bar svo við, að Absalon lét klippa sauði sína í Baal Hasór, sem er hjá Efraím, og bauð hann til öllum sonum konungs. 13.24 Absalon gekk og fyrir konung og mælti: 'Sjá, þjónn þinn lætur nú klippa sauði sína, og bið ég að konungurinn og þjónar hans komi með þjóni þínum.' 13.25 En konungur sagði við Absalon: 'Nei, sonur minn, eigi skulum vér allir fara, svo að vér gjörum þér eigi átroðning.' Og þótt Absalon legði að honum, vildi hann ekki fara, en bað hann vel fara. 13.26 Þá sagði Absalon: 'Fyrst þú vilt ekki fara, þá leyf þú að Amnon bróðir minn fari með oss.' Konungur svaraði honum: 'Hví skal hann með þér fara?' 13.27 En Absalon lagði fast að honum. Lét hann þá Amnon fara með honum og alla konungssonu. Absalon gjörði veislu, svo sem konungsveisla væri. 13.28 Og hann lagði svo fyrir sveina sína: 'Gefið gætur, þegar Amnon gjörist hreifur af víninu og ég segi við yður: ,Drepið Amnon!` _ þá skuluð þér vega hann. Óttist ekki, það er ég, sem lagt hefi þetta fyrir yður. Verið hugrakkir og sýnið karlmennsku.' 13.29 Og sveinar Absalons gjörðu svo við Amnon sem Absalon hafði fyrir þá lagt. Þá spruttu allir synir konungs upp, stigu á bak múlum sínum og flýðu. 13.30 Meðan þeir voru á leiðinni, kom sú fregn til konungs, að Absalon hefði drepið alla sonu konungs og að enginn þeirra væri eftir skilinn. 13.31 Þá stóð konungur upp og reif sundur klæði sín og lagðist á jörðu, og allir þjónar hans, þeir er stóðu umhverfis hann, rifu sundur klæði sín. 13.32 Þá tók Jónadab, sonur Símea, bróður Davíðs, til máls og sagði: 'Herra minn, hugsa þú ekki, að þeir hafi drepið alla hina ungu menn, sonu konungsins, því að Amnon einn er dauður, enda vissi á illt svipurinn, sem legið hefir um munn Absalons, síðan er Amnon nauðgaði Tamar systur hans. 13.33 Minn herra konungurinn láti þetta því eigi á sig fá og hugsi ekki, að allir synir konungsins séu dauðir. Nei, Amnon einn er dauður.' 13.34 Absalon flýði. En er varðsveininum varð litið upp, sá hann margt manna koma ofan fjallið á veginum til Hórónaím. Varðmaðurinn kom og sagði konungi frá og mælti: 'Ég sá menn koma af veginum til Hórónaím niður undan fjallinu.' 13.35 Þá sagði Jónadab við konung: 'Sjá, þar koma synir konungsins. Svo hefir allt til gengið, sem þjónn þinn sagði.' 13.36 Og er hann hafði lokið máli sínu, sjá, þá komu synir konungs og grétu hástöfum. Konungur og þjónar hans tóku þá að gráta ákaflega. 13.37 Absalon flýði og fór til Talmaí Ammíhúðssonar konungs í Gesúr. Og konungur harmaði son sinn alla daga. 13.38 Absalon flýði og fór til Gesúr og var þar í þrjú ár. 13.39 En konungur þráði að fara til Absalons, því að hann hafði huggast látið yfir því, að Amnon var dáinn.
14.1 Og er Jóab Serújuson sá, að Absalon var konungi enn hjartfólginn, 14.2 þá sendi Jóab til Tekóa og lét sækja þangað vitra konu og sagði við hana: 'Þú skalt láta sem þú sért harmþrungin og klæðast sorgarbúningi. Smyr þig ekki með olíu, heldur vertu eins og kona, er um langan tíma hefir syrgt látinn mann. 14.3 Gakk síðan fyrir konung og mæl til hans á þessa leið: _' og Jóab lagði henni orð í munn. 14.4 Síðan gekk konan frá Tekóa fyrir konung, féll fram á ásjónu sína til jarðar og sýndi honum lotningu og mælti: 'Hjálpa mér, konungur!' 14.5 Konungur sagði við hana: 'Hvað gengur að þér?' Hún svaraði: 'Æ, ég er ekkja og maður minn er dáinn. 14.6 Ambátt þín átti tvo sonu. Þeir urðu missáttir úti á akri og enginn var til að skilja þá. Laust þá annar þeirra bróður sinn og drap hann. 14.7 Sjá, þá reis öll ættin upp á móti ambátt þinni og sagði: ,Sel fram bróðurmorðingjann, og munum vér drepa hann fyrir líf bróður hans, er hann myrti, og tortíma erfingjanum um leið.` Og þann veg vilja þeir slökkva þann neista, sem mér er eftir skilinn, svo að maðurinn minn láti hvorki eftir sig nafn né niðja á jörðinni.' 14.8 Og konungur sagði við konuna: 'Far þú heim til þín. Skipa mun ég fyrir um mál þitt.' 14.9 En konan frá Tekóa sagði við konunginn: 'Á mér hvíli sektin, minn herra konungur, og á ættfólki mínu, en konungurinn sé sýkn saka og hásæti hans.' 14.10 Þá sagði konungur: 'Ef einhver segir eitthvað við þig, þá kom þú með hann til mín, og skal hann eigi framar áreita þig.' 14.11 Þá mælti hún: 'Minnstu, konungur, Drottins, Guðs þíns, svo að hefnandinn gjöri ekki enn meira tjón, og þeir tortími ekki syni mínum.' Hann svaraði: 'Svo sannarlega sem Drottinn lifir, skal ekki eitt hár sonar þíns falla til jarðar.' 14.12 Þá mælti konan: 'Leyf þú ambátt þinni að tala eitt orð við þig, minn herra konungur!' Hann svaraði: 'Tala þú.' 14.13 Þá mælti konan: 'Hvers vegna hefir þú slíkt í hyggju gegn Guðs lýð? Og fyrst konungurinn hefir kveðið upp þennan dóm, þá er hann sem sekur maður, þar sem hann lætur ekki útlaga sinn hverfa heim aftur. 14.14 Því að deyja hljótum vér, og vér erum eins og vatn, sem hellt er á jörðina og eigi verður náð upp aftur, og Guð hrífur eigi burt líf þess manns, sem á það hyggur að láta ekki útlagann vera lengur útskúfaðan frá sér. 14.15 En fyrir því er ég komin til þess að tala þessi orð við minn herra konunginn, að fólkið gjörði mig hrædda. Þá hugsaði ambátt þín með sér: ,Ég skal tala við konunginn. Má vera að konungurinn gjöri bón ambáttar sinnar. 14.16 Því að konungurinn mun gjöra þá bón ambáttar sinnar að frelsa hana af hendi mannsins, sem leitast við að afmá bæði mig og son minn úr arfleifð Guðs.` 14.17 Þá hugsaði þerna þín með sjálfri sér: ,Orð míns herra konungsins skulu verða mér til fróunar, því að minn herra konungurinn líkist í því engli Guðs, að hann hlýðir á gott og illt.` Og Drottinn Guð þinn sé með þér.' 14.18 Þá svaraði konungur og sagði við konuna: 'Leyn þú mig engu, er ég vil spyrja þig.' Konan svaraði: 'Tala þú, minn herra konungur!' 14.19 Þá mælti konungur: 'Er ekki Jóab í ráðum með þér um allt þetta?' Konan svaraði og sagði: 'Svo sannarlega sem þú lifir, minn herra konungur, er eigi unnt að fara utan um nokkuð af því, sem minn herra konungurinn hefir sagt, hvorki til hægri né vinstri handar. Það var einmitt þjónn þinn Jóab, sem bauð mér þetta, og hann lagði þernu þinni öll þessi orð í munn. 14.20 Jóab þjónn þinn hefir gjört þetta til þess að láta málið líta öðruvísi út, en herra minn jafnast við engil Guðs að visku, svo að hann veit allt, sem við ber á jörðinni.' 14.21 Þá sagði konungur við Jóab: 'Gott og vel, ég skal gjöra það. Far þú og sæk þú sveininn Absalon.' 14.22 Þá féll Jóab fram á andlit sitt til jarðar og laut konungi og kvaddi hann og mælti: 'Nú veit þjónn þinn, að ég hefi fundið náð í augum míns herra konungsins, þar sem konungurinn hefir látið að orðum þjóns síns.' 14.23 Síðan lagði Jóab af stað og fór til Gesúr og hafði Absalon aftur heim með sér til Jerúsalem. 14.24 En konungur sagði: 'Fari hann heim til sín, en fyrir mín augu skal hann ekki koma.' Þá fór Absalon heim til sín og kom ekki fyrir augu konungs. 14.25 Í öllum Ísrael var enginn maður eins fríður og Absalon, og fór mikið orð af því. Frá hvirfli til ilja voru engin lýti á honum. 14.26 Og þegar hann lét skera hár sitt, _ en hann lét jafnan skera það á árs fresti, af því að það varð honum svo þungt, að hann hlaut að láta skera það _, þá vó hárið af höfði hans tvö hundruð sikla á konungsvog. 14.27 Og Absalon fæddust þrír synir og ein dóttir, er Tamar hét. Hún var kona fríð sýnum. 14.28 Absalon var svo tvö ár í Jerúsalem, að hann kom ekki fyrir augu konungs. 14.29 Þá sendi hann boð til Jóabs þess erindis, að hann færi til konungs, en Jóab vildi ekki koma til hans. Sendi hann þá í annað sinn, en hann vildi ekki koma. 14.30 Þá sagði Absalon við þjóna sína: 'Sjáið, Jóab á akur áfastan við minn og þar hefir hann bygg. Farið og kveikið í honum.' Og þjónar Absalons kveiktu í akrinum. 14.31 Þá fór Jóab af stað og kom í hús Absalons og sagði við hann: 'Hví hafa þjónar þínir kveikt í akri mínum?' 14.32 Absalon sagði við Jóab: 'Sjá, ég sendi boð til þín og lét segja: ,Kom þú hingað og vil ég senda þig til konungs með þessa orðsending: Til hvers kom ég frá Gesúr? Betra væri mér að vera þar enn. En nú vil ég fá að koma fyrir augu konungs. Sé ég sekur, þá drepi hann mig.'` 14.33 Þá gekk Jóab fyrir konung og sagði honum þetta. Lét hann þá kalla Absalon, og gekk hann fyrir konung og laut á andlit sitt til jarðar fyrir konungi. Og konungur kyssti Absalon.
15.1 Eftir þetta bar það til, að Absalon fékk sér vagna og hesta og fimmtíu menn, sem fyrir honum hlupu. 15.2 Og hann lagði það í vana sinn að nema staðar snemma morguns við veginn, sem lá inn að borgarhliðinu. Og hann kallaði á hvern þann mann, er í máli átti og fyrir því leitaði á konungs fund til þess að fá úrskurð hans, og mælti: 'Frá hvaða borg ert þú?' Og segði hann: 'Þjónn þinn er af einni ættkvísl Ísraels,' 15.3 þá sagði Absalon við hann: 'Sjá, málefni þitt er gott og rétt, en konungur hefir engan sett, er veiti þér áheyrn.' 15.4 Og Absalon sagði: 'Ég vildi óska að ég væri skipaður dómari í landinu, svo að hver maður, sem ætti í þrætu eða hefði mál að sækja, gæti komið til mín. Þá skyldi ég láta hann ná rétti sínum.' 15.5 Og þegar einhver kom til hans til þess að lúta honum, rétti hann fram höndina, dró hann að sér og kyssti hann. 15.6 Svo gjörði Absalon við alla Ísraelsmenn, þá er leituðu á konungs fund til þess að fá úrskurð hans. Og þann veg stal Absalon hjörtum Ísraelsmanna. 15.7 Og það bar til fjórum árum síðar, að Absalon sagði við konung: 'Leyf mér að fara og efna heit mitt í Hebron, það er ég hefi gjört Drottni. 15.8 Því að þjónn þinn gjörði svolátandi heit, þá er hann dvaldist í Gesúr á Sýrlandi: ,Ef Drottinn flytur mig aftur til Jerúsalem, þá skal ég þjóna Drottni.'` 15.9 Konungur svaraði honum: 'Far þú í friði!' Lagði hann þá af stað og fór til Hebron. 15.10 En Absalon gjörði menn á laun til allra ættkvísla Ísraels með svolátandi orðsending: 'Þegar þér heyrið lúðurhljóm, þá segið: ,Absalon er konungur orðinn í Hebron!'` 15.11 Með Absalon fóru tvö hundruð manns úr Jerúsalem, er hann kvaddi til farar með sér. Fóru þeir í grandleysi og vissu ekki, hvað undir bjó. 15.12 Og er Absalon var að fórnum, sendi hann eftir Akítófel Gílóníta, ráðgjafa Davíðs, til Gíló, ættborgar hans. Og samsærið magnaðist og æ fleiri og fleiri menn gengu í lið með Absalon. 15.13 Nú komu menn til Davíðs og sögðu honum: 'Hugur Ísraelsmanna hefir snúist til Absalons.' 15.14 Þá sagði Davíð við alla þjóna sína, þá er með honum voru í Jerúsalem: 'Af stað! Vér skulum flýja, því að öðrum kosti munum vér ekki komast undan Absalon. Hraðið yður, svo að hann komi ekki skyndilega og nái oss, færi oss ógæfu að höndum og taki borgina herskildi.' 15.15 Þjónar konungs svöruðu honum: 'Alveg eins og minn herra konungurinn vill, sjá, vér erum þjónar þínir.' 15.16 Þá lagði konungur af stað og allt hans hús með honum. En konungur lét tíu hjákonur eftir verða til þess að gæta hússins. 15.17 Konungur lagði af stað og allir þjónar hans með honum. Og þeir námu staðar við ysta húsið, 15.18 en allt fólkið og allir Kretar og Pletar gengu fram hjá honum. Enn fremur gengu allir menn Íttaís frá Gat, sex hundruð manns, er komnir voru með honum frá Gat, fram hjá í augsýn konungs. 15.19 Þá sagði konungur við Íttaí frá Gat: 'Hvers vegna fer þú og með oss? Snú aftur og ver með hinum konunginum, því að þú ert útlendingur og meira að segja útlægur gjör úr átthögum þínum. 15.20 Þú komst í gær, og í dag ætti ég að fá þig til að reika um með oss, þar sem ég verð að fara þangað sem verkast vill. Snú þú aftur og haf með þér sveitunga þína. Drottinn mun auðsýna þér miskunn og trúfesti.' 15.21 En Íttaí svaraði konungi: 'Svo sannarlega sem Drottinn lifir, og svo sannarlega sem minn herra konungurinn lifir: Á þeim stað, sem minn herra konungurinn verður _ hvort sem það verður til dauða eða lífs, _ þar mun og þjónn þinn verða.' 15.22 Þá sagði Davíð við Íttaí: 'Jæja, far þú þá fram hjá.' Þá fór Íttaí frá Gat fram hjá og allir hans menn og öll börnin, sem með honum voru. 15.23 En allt landið grét hástöfum, meðan allt fólkið gekk fram hjá. En konungur stóð í Kídrondal, meðan allt fólkið gekk fram hjá honum í áttina til olíutrésins, sem er í eyðimörkinni. 15.24 Þar var og Sadók, og Abjatar og allir levítarnir með honum. Báru þeir sáttmálsörk Guðs. Og þeir settu niður örk Guðs, uns allur lýðurinn úr borginni var kominn fram hjá. 15.25 Og konungur sagði við Sadók: 'Flyt þú örk Guðs aftur inn í borgina. Finni ég náð í augum Drottins, mun hann leiða mig heim aftur og láta mig sjá sjálfan sig og bústað sinn. 15.26 En ef hann hugsar svo: ,Ég hefi ekki þóknun á þér,` _ þá er ég hér, gjöri hann við mig sem honum gott þykir.' 15.27 Þá mælti konungur við Sadók höfuðprest: 'Far þú aftur til borgarinnar í friði og Akímaas sonur þinn og Jónatan sonur Abjatars _ báðir synir ykkar með ykkur. 15.28 Hyggið að! Ég ætla að hafast við hjá vöðunum í eyðimörkinni, þar til er mér kemur frá yður tíðindasögn.' 15.29 Síðan fluttu þeir Sadók og Abjatar örk Guðs aftur til Jerúsalem og dvöldust þar. 15.30 Davíð gekk upp Olíufjallið. Fór hann grátandi og huldu höfði. Hann gekk berfættur, og allt fólkið, sem með honum var, huldi höfuð sín og gekk grátandi. 15.31 Og er Davíð bárust þau tíðindi, að Akítófel væri meðal þeirra, er samsærið höfðu gjört við Absalon, þá sagði Davíð: 'Gjör þú, Drottinn, ráð Akítófels að heimsku.' 15.32 En er Davíð var kominn efst upp á fjallið, þar sem menn voru vanir að tilbiðja Guð, þá mætti honum Húsaí Arkíti í rifnum kyrtli og með mold á höfði sér. 15.33 Davíð sagði við hann: 'Farir þú með mér, verður þú mér til þyngsla. 15.34 En ef þú fer aftur til borgarinnar og segir við Absalon: ,Þér vil ég þjóna, konungur. Föður þínum hefi ég áður þjónað, en nú vil ég þjóna þér,` _ þá getur þú ónýtt ráð Akítófels fyrir mig. 15.35 Þar hefir þú hjá þér prestana Sadók og Abjatar. Allt sem þú fréttir úr konungshöllinni, skalt þú segja prestunum Sadók og Abjatar. 15.36 Þeir hafa þar hjá sér báða sonu sína, Sadók Akímaas og Abjatar Jónatan. Látið þá færa mér öll þau tíðindi, sem þér fáið.' 15.37 Síðan fór Húsaí, stallari Davíðs, til borgarinnar. Absalon fór og til Jerúsalem.
16.1 En er Davíð var kominn spölkorn frá hæðinni, kom Síba, sveinn Mefíbósets, í móti honum með tvo söðlaða asna, klyfjaða tvö hundruð brauðum, hundrað rúsínukökum, hundrað aldinkökum og vínlegli. 16.2 Konungur mælti við Síba: 'Hvað ætlar þú að gjöra við þetta?' Síba svaraði: 'Asnarnir eru ætlaðir konungsfólkinu til reiðar, brauðin og aldinin til matar þjónustuliðinu og vínið til drykkjar þeim, er örmagnast kunna á eyðimörkinni.' 16.3 Þá mælti konungur: 'Hvar er sonur herra þíns?' Síba svaraði konungi: 'Hann er kyrr í Jerúsalem, því að hann hugsaði: ,Í dag mun Ísraels hús fá mér aftur konungsríki föður míns.'` 16.4 Þá sagði konungur við Síba: 'Sjá, allt sem Mefíbóset á, það sé þitt!' Síba mælti: 'Ég hneigi mig! Mætti ég jafnan finna náð í augum þínum, minn herra konungur.' 16.5 Þegar Davíð konungur kom til Bahúrím, kom þaðan maður af kynþætti Sáls, sem Símeí hét, Gerason. Hann kom bölvandi og ragnandi 16.6 og kastaði steinum að Davíð og öllum þjónum Davíðs konungs, en allt fólkið og allir kapparnir gengu til hægri og vinstri hliðar honum. 16.7 En Símeí komst svo að orði í formælingum sínum: 'Burt, burt, blóðhundurinn og hrakmennið! 16.8 Nú lætur Drottinn þér í koll koma allt blóð ættar Sáls, í hvers stað þú ert konungur orðinn, og Drottinn hefir gefið konungdóminn í hendur Absalon syni þínum, og nú er ógæfan yfir þig komin, af því að þú ert blóðhundur.' 16.9 Þá mælti Abísaí Serújuson við konung: 'Hví skal þessi dauði hundur formæla mínum herra konunginum? Lát mig fara og stýfa af honum hausinn.' 16.10 En konungur svaraði: 'Hvað hefi ég saman við yður að sælda, Serújusynir? Ef hann formælir og ef Drottinn hefir sagt honum: ,Formæl Davíð!` _ hver vogar þá að segja: ,Hví gjörir þú þetta?'` 16.11 Og Davíð sagði við Abísaí og við alla þjóna sína: 'Sjá, fyrst sonur minn, sem út genginn er af lendum mínum, situr um líf mitt, hví þá ekki þessi Benjamíníti? Látið hann í friði og lofið honum að formæla, því að Drottinn hefir sagt honum það. 16.12 Vera má að Drottinn líti á eymd mína og bæti mér formæling hans í dag með góðu.' 16.13 Síðan fór Davíð og menn hans leiðar sinnar, en Símeí gekk í fjallshlíðinni á hlið við hann og formælti honum í sífellu, kastaði steinum að honum og lét moldarhnausana dynja á honum. 16.14 Síðan kom konungur og allt fólkið, sem með honum var, uppgefið til Jórdanar og hvíldi sig þar. 16.15 Absalon og allir Ísraelsmenn komu til Jerúsalem og Akítófel með honum. 16.16 Og er Húsaí Arkíti, vinur Davíðs, kom til Absalons, sagði Húsaí við hann: 'Konungurinn lifi! Konungurinn lifi!' 16.17 Þá sagði Absalon við Húsaí: 'Er þetta kærleikur þinn til vinar þíns? Hvers vegna fórst þú ekki með vini þínum?' 16.18 Húsaí sagði þá við Absalon: 'Nei, því að þann, sem Drottinn og þessi lýður og allir Ísraelsmenn velja, hans maður vil ég vera, og hjá honum vil ég dveljast. 16.19 Og í annan stað: Hverjum veiti ég þjónustu? Er það ekki syni hans? Eins og ég hefi veitt föður þínum þjónustu, svo mun ég og veita þér.' 16.20 Þá sagði Absalon við Akítófel: 'Leggið nú ráð á, hvað vér skulum gjöra!' 16.21 Akítófel sagði við Absalon: 'Gakk þú inn til hjákvenna föður þíns, sem hann lét eftir verða til þess að gæta hallarinnar. Mun þá allur Ísrael frétta, að þú sért orðinn óþokkaður af föður þínum, og mun þá öllum þínum mönnum vaxa hugur.' 16.22 Þá tjölduðu þeir fyrir Absalon á þakinu, og Absalon gekk inn til hjákvenna föður síns í augsýn alls Ísraels. 16.23 En þau ráð, er Akítófel réð, þóttu í þá daga eins góð og gild, sem gengið væri til frétta við Guð, _ svo mikils máttu sín öll ráð Akítófels, bæði hjá Davíð og Absalon.
17.1 Síðan sagði Akítófel við Absalon: 'Ég ætla að velja úr tólf þúsund manns, leggja af stað og veita Davíð eftirför þegar í nótt 17.2 og ráðast á hann, meðan hann er þreyttur og ráðþrota, og skjóta honum skelk í bringu. Mun þá allt liðið, sem með honum er, leggja á flótta, en ég mun drepa konunginn einan. 17.3 Síðan mun ég leiða aftur allt fólkið til þín, eins og þegar brúður hverfur aftur til manns síns. Það er þó ekki nema einn maður, sem þú vilt feigan, en allur lýðurinn mun hafa frið.' 17.4 Þetta ráð geðjaðist Absalon vel og öllum öldungum Ísraels. 17.5 Og Absalon sagði: 'Kallið og á Húsaí Arkíta, svo að vér megum einnig heyra, hvað hann leggur til.' 17.6 Þá kom Húsaí til Absalons, og Absalon sagði við hann: 'Þannig hefir Akítófel talað. Eigum vér að gjöra það, sem hann segir? Ef eigi, þá tala þú!' 17.7 Þá sagði Húsaí við Absalon: 'Ráð það, er Akítófel að þessu sinni hefir ráðið, er ekki gott.' 17.8 Og Húsaí sagði: 'Þú þekkir föður þinn og menn hans, að þeir eru hinir mestu kappar og grimmir í skapi, eins og birna á mörkinni, sem rænd er húnum sínum. Auk þess er faðir þinn maður vanur bardögum og lætur eigi fyrir berast um nætur hjá liðinu. 17.9 Sjá, hann mun nú hafa falið sig í einhverri gryfjunni eða einhvers staðar annars staðar. Ef nokkrir af þeim falla í fyrstu og það spyrst, munu menn segja: ,Lið það, sem fylgir Absalon, hefir beðið ósigur.` 17.10 Þá mun svo fara, að jafnvel hreystimennið með ljónshjartað mun láta hugfallast, því að allur Ísrael veit, að faðir þinn er hetja og þeir hraustmenni, sem með honum eru. 17.11 En þetta er mitt ráð: Allur Ísrael frá Dan til Beerseba skal saman safnast til þín, svo fjölmennur sem sandur á sjávarströndu, og sjálfur fer þú meðal þeirra. 17.12 Og ef vér þá hittum hann einhvers staðar, hvar sem hann nú kann að finnast, þá skulum vér steypa oss yfir hann, eins og dögg fellur á jörðu, og af honum og öllum þeim mönnum, sem með honum eru, skal ekki einn eftir verða. 17.13 Og ef hann leitar inn í einhverja borg, skal allur Ísrael bera vaði að þeirri borg, og síðan skulum vér draga hana ofan í ána, uns þar finnst ekki einu sinni steinvala.' 17.14 Þá sagði Absalon og allir Ísraelsmenn: 'Betra er ráð Húsaí Arkíta en ráð Akítófels!' Því að Drottinn hafði ákveðið að ónýta hið góða ráð Akítófels, til þess að hann gæti látið ógæfuna koma yfir Absalon. 17.15 Þá sagði Húsaí við prestana Sadók og Abjatar: 'Það og það hefir Akítófel ráðið Absalon og öldungum Ísraels, og það og það hefi ég ráðið. 17.16 Sendið því sem skjótast og segið Davíð: ,Lát þú eigi fyrirberast í nótt við vöðin í eyðimörkinni, heldur far þú yfir um, svo að konungur og allt liðið, sem með honum er, tortímist ekki skyndilega.'` 17.17 En Jónatan og Akímaas stóðu við Rógel-lind, og stúlka nokkur var vön að fara og færa þeim tíðindin, en þeir fóru þá jafnan og sögðu Davíð konungi frá, því að þeir máttu ekki láta sjá, að þeir kæmu inn í borgina. 17.18 En sveinn nokkur sá þá og sagði Absalon frá. Fóru þeir þá báðir brott í skyndi og komu til húss manns nokkurs í Bahúrím, sem átti brunn í húsagarði sínum, og stigu þeir ofan í brunninn, 17.19 en húsfreyja tók dúk og breiddi yfir brunninn og stráði yfir grjónum, að eigi skyldi á bera. 17.20 Menn Absalons komu til konunnar í húsið og sögðu: 'Hvar eru þeir Akímaas og Jónatan?' Konan svaraði þeim: 'Þeir eru farnir yfir ána.' Þeir leituðu, en fundu þá ekki, og sneru aftur til Jerúsalem. 17.21 En er þeir voru burt farnir, stigu Jónatan og Akímaas upp úr brunninum, héldu áfram og fluttu Davíð konungi tíðindin. Og þeir sögðu við Davíð: 'Takið yður upp og farið sem skjótast yfir ána, því að þau ráð hefir Akítófel ráðið móti yður.' 17.22 Þá tók Davíð sig upp og allt liðið, sem með honum var, og fóru yfir Jórdan. Og er lýsti af degi, var enginn sá, er ekki hefði farið yfir Jórdan. 17.23 En er Akítófel sá, að eigi var farið að ráðum hans, söðlaði hann asna sinn, lagði af stað og fór heim til sín í borg sína, ráðstafaði húsi sínu og hengdi sig, og lét þannig líf sitt. Var hann síðan jarðaður hjá föður sínum. 17.24 Davíð var kominn til Mahanaím, þegar Absalon fór yfir Jórdan, og allir Ísraelsmenn með honum. 17.25 Absalon hafði sett Amasa yfir herinn í stað Jóabs, en Amasa var sonur Ísmaelíta nokkurs, er Jítra hét og gengið hafði inn til Abígal, dóttur Nahas, systur Serúju, móður Jóabs. 17.26 Ísrael og Absalon settu herbúðir sínar í Gíleaðlandi. 17.27 En er Davíð kom til Mahanaím, fluttu þeir Sóbí Nahasson frá Rabba, borg Ammóníta, Makír Ammíelsson frá Lódebar og Barsillaí Gíleaðíti frá Rógelím þangað 17.28 hvílur, ábreiður, skálar og leirker og færðu Davíð og liðinu, sem með honum var, hveiti, bygg, mjöl, bakað korn, baunir, flatbaunir, 17.29 hunang, rjóma, sauði og osta úr kúamjólk til að eta, því að þeir hugsuðu: 'Liðið er orðið hungrað, þreytt og þyrst á eyðimörkinni.'
18.1 Davíð kannaði nú liðið, sem með honum var, og setti yfir þá þúsundhöfðingja og hundraðshöfðingja. 18.2 Og Davíð skipti liðinu í þrennt. Var þriðjungur undir forustu Jóabs, þriðjungur undir forustu Abísaí Serújusonar, bróður Jóabs, og þriðjungur undir forustu Íttaí frá Gat. Og konungur sagði við liðið: 'Ég er fastráðinn í að fara með yður í stríðið.' 18.3 Liðið svaraði: 'Þú skalt hvergi fara. Því að þótt vér flýjum, munu þeir eigi hirða um oss, og þótt helmingurinn af oss félli, mundu þeir ekki hirða um oss, því að þú ert sem tíu þúsundir af oss. Er og betra, að þú sért viðbúinn að koma oss til liðs úr borginni.' 18.4 Þá sagði konungur við þá: 'Svo vil ég gjöra, sem yður líst.' Þá nam konungur staðar öðrumegin við borgarhliðið, en allt liðið hélt af stað, hundruðum og þúsundum saman. 18.5 En konungur lagði svo fyrir þá Jóab, Abísaí og Íttaí: 'Farið vægilega með sveininn Absalon.' Og allt liðið heyrði konung bjóða hershöfðingjunum svo um Absalon. 18.6 Síðan hélt liðið út til bardaga við Ísrael, og hófst orusta í Efraímskógi. 18.7 Biðu Ísraelsmenn þar ósigur fyrir Davíðs mönnum. Varð þar mikið mannfall á þeim degi: tuttugu þúsund manns. 18.8 Dreifðist bardaginn þar um allt landið, og varð skógurinn fleiri mönnum að líftjóni heldur en sverðið hafði orðið þann dag. 18.9 Þá vildi svo til, að Absalon rakst á menn Davíðs. Absalon reið múl einum, og rann múllinn inn undir þétt lim mikillar eikar og festist höfuð hans í eikinni. Hékk hann þar milli himins og jarðar, en múllinn, sem hann reið, rann undan honum. 18.10 Þetta sá maður nokkur, sagði Jóab frá því og mælti: 'Sjá, ég sá Absalon hanga í eik einni.' 18.11 Þá sagði Jóab við manninn, sem færði honum tíðindin: 'Nú, fyrst þú sást hann, hví vannst þú þá ekki þegar á honum? Þá skyldi ég hafa gefið þér tíu sikla silfurs og belti.' 18.12 Þá sagði maðurinn við Jóab: 'Þó að taldir væru í lófa mér þúsund siklar silfurs, mundi ég samt ekki leggja hönd á konungsson, því að í áheyrn vorri lagði konungur svo fyrir þig, Abísaí og Íttaí: ,Gætið sveinsins Absalons.` 18.13 En ef ég hefði breytt sviksamlega við hann _ og enginn hlutur er konungi hulinn _, þá mundir þú hafa staðið fjarri.' 18.14 Þá sagði Jóab: 'Ekki má ég þá lengur tefja hjá þér,' _ greip þrjú skotspjót og rak þau í brjóst Absalons. En með því að hann var enn með lífi í limi eikarinnar, 18.15 þustu að tíu knapar, skjaldsveinar Jóabs, og lustu Absalon til bana. 18.16 Þá lét Jóab þeyta lúðurinn, og liðið hætti að elta Ísrael, því að Jóab stöðvaði herinn. 18.17 Síðan tóku þeir Absalon, köstuðu honum í gryfju eina mikla þar í skóginum og urpu yfir hann afar mikla steindys, en allir Ísraelsmenn flýðu, hver heim til sín. 18.18 Absalon hafði þegar í lifanda lífi tekið merkissteininn í Kóngsdal og reist hann sér að minnisvarða, með því að hann hugsaði: 'Ég á engan son til að halda uppi nafni mínu,' og nefnt merkissteininn nafni sínu. Fyrir því er hann enn í dag nefndur Absalonsvarði. 18.19 Akímaas Sadóksson mælti: 'Ég ætla að hlaupa og færa konungi fagnaðartíðindin, að Drottinn hafi rétt hluta hans á óvinum hans.' 18.20 En Jóab sagði við hann: 'Þú ert ekki maður til að flytja tíðindin í dag. Öðru sinni getur þú flutt tíðindin, en í dag getur þú ekki flutt tíðindin, því að konungsson er dauður.' 18.21 Því næst sagði Jóab við Blálendinginn: 'Far þú og seg konunginum það, sem þú hefir séð.' Þá laut Blálendingurinn Jóab og hljóp af stað. 18.22 Akímaas Sadóksson kom enn að máli við Jóab og mælti: 'Komi hvað sem koma vill: Leyf og mér að fara og hlaupa á eftir Blálendingnum.' Jóab svaraði: 'Til hvers viltu vera að hlaupa þetta, sonur minn, þar sem þér þó eigi munu greidd verða nein sögulaunin.' 18.23 Hann svaraði: 'Komi hvað sem koma vill: Ég hleyp.' Þá sagði Jóab við hann: 'Hlauptu þá!' Þá hljóp Akímaas af stað veginn yfir Jórdansléttlendið og komst á undan Blálendingnum. 18.24 Davíð sat milli borgarhliðanna tveggja. En sjónarvörðurinn steig upp á þak hliðsins upp á múrinn, hóf upp augu sín og sá, hvar maður kom hlaupandi einn saman. 18.25 Sjónarvörðurinn kallaði og sagði konungi frá því. En konungur mælti: 'Ef hann fer einn saman, þá flytur hann góð tíðindi.' En hinn hljóp í sífellu og bar hann óðum nær. 18.26 Þá sá sjónarvörðurinn annan mann koma hlaupandi. Kallaði sjónarvörðurinn þá niður í hliðið og mælti: 'Þarna kemur annar maður hlaupandi einn saman.' Þá mælti konungur: 'Sá mun og flytja góð tíðindi.' 18.27 Þá sagði sjónarvörðurinn: 'Mér sýnist hlaup hins fyrra vera líkt hlaupi Akímaas Sadókssonar.' Konungur mælti: 'Hann er drengur góður og mun koma með góð tíðindi.' 18.28 Akímaas bar þá að og mælti hann við konung: 'Sit heill!' og laut á ásjónu sína til jarðar fyrir konungi og mælti: 'Lofaður sé Drottinn, Guð þinn, sem framselt hefir þá menn, er upplyftu hendi sinni gegn mínum herra, konunginum.' 18.29 Konungur mælti: 'Líður sveininum Absalon vel?' Akímaas svaraði: 'Ég sá mannþröng mikla, er Jóab sendi þjón þinn af stað, en ekki vissi ég hvað um var að vera.' 18.30 Þá sagði konungur: 'Gakk til hliðar og stattu þarna.' Og hann gekk til hliðar og nam þar staðar. 18.31 Í því kom Blálendingurinn. Og Blálendingurinn sagði: 'Minn herra konungurinn meðtaki þau fagnaðartíðindi, að Drottinn hefir rétt hluta þinn í dag á öllum þeim, er risið hafa í gegn þér.' 18.32 Þá sagði konungur við Blálendinginn: 'Líður sveininum Absalon vel?' Blálendingurinn mælti: 'Fari svo fyrir óvinum míns herra konungsins og öllum þeim, er gegn þér rísa til að vinna þér tjón, sem sveini þessum!' 18.33 Þá varð konungi bilt. Gekk hann upp í þaksalinn uppi yfir hliðinu og grét. Og er hann gekk, mælti hann svo: 'Sonur minn Absalon, sonur minn, sonur minn Absalon! Ó, að ég hefði dáið í þinn stað, Absalon, sonur minn, sonur minn!'
19.1 Jóab var sagt: 'Sjá, konungur grætur og harmar Absalon.' 19.2 Snerist þá sigurinn í hryggð fyrir öllu liðinu á þeim degi, því að liðið fékk þann dag þá fregn: 'Konungur tregar son sinn.' 19.3 Þann dag læddist liðið inn í borgina, eins og sá her læðist, er sú skömm hefir hent að flýja úr orustu. 19.4 En konungur huldi andlit sitt, og konungur kveinaði hástöfum: 'Sonur minn Absalon, Absalon sonur minn, sonur minn!' 19.5 Þá gekk Jóab inn í höllina fyrir konung og mælti: 'Þú hefir í dag gjört opinbera hneisu öllum þjónum þínum, sem í dag hafa frelsað líf þitt, líf sona þinna og dætra, líf kvenna þinna og líf hjákvenna þinna 19.6 með því að sýna þeim elsku, er hata þig, og hatur þeim, er elska þig. Í dag hefir þú sýnt, að þú átt enga hershöfðingja eða þjóna, því að nú veit ég, að væri Absalon á lífi, en vér nú allir dauðir, þá mundi þér það vel líka. 19.7 Rís því nú upp, gakk út og tala vinsamlega við þjóna þína, því að það sver ég við Drottin, að gangir þú ekki út, mun ekki einn maður eftir verða í nótt með þér, og er þér það verra en öll ógæfa, er yfir þig hefir komið frá barnæsku þinni fram á þennan dag.' 19.8 Þá stóð konungur upp og settist í borgarhliðið. Og er öllu liðinu var sagt: 'Sjá, konungur situr í borgarhliðinu,' þá gekk allt liðið fyrir konung. Nú var Ísrael flúinn, hver heim til sín. 19.9 Þá þráttaði lýðurinn í öllum ættkvíslum Ísraels sín í millum og sagði: 'Konungur hefir frelsað oss af hendi óvina vorra, og hann hefir bjargað oss undan valdi Filista, en nú er hann flúinn úr landi undan Absalon, 19.10 en Absalon, sem vér smurðum til konungs yfir oss, er fallinn í orustu. Hvað dvelur yður þá að færa konunginn heim aftur?' 19.11 Þessi ummæli alls Ísraels bárust konungi til eyrna. En Davíð konungur sendi til prestanna Sadóks og Abjatars og lét segja þeim: 'Mælið svo til öldunga Júda: ,Hvers vegna viljið þér vera manna síðastir til þess að færa konung aftur til hallar sinnar? 19.12 Þér eruð ættbræður mínir, þér eruð bein mitt og hold. Hvers vegna viljið þér vera síðastir til að færa konung heim aftur?` 19.13 Og segið Amasa: ,Sannlega ert þú bein mitt og hold _ Guð láti mig gjalda þess nú og síðar, ef þú verður ekki hershöfðingi hjá mér alla ævi í stað Jóabs.'` 19.14 Hann sneri þannig hjörtum allra Júdamanna sem eins manns væri, svo að þeir gjörðu konungi þessi orð: 'Snú þú aftur með alla menn þína.' 19.15 Konungur sneri nú heimleiðis og kom að Jórdan, en Júdamenn komu til Gilgal til þess að fara í móti konungi og flytja konung yfir Jórdan. 19.16 Símeí Gerason Benjamíníti frá Bahúrím hafði hraðan á og fór ofan með Júdamönnum til móts við Davíð konung 19.17 og þúsund manns af Benjamín með honum. En Síba, ármaður Sáls, var ásamt fimmtán sonum sínum og tuttugu þjónum sínum kominn til Jórdanar á undan konungi. 19.18 Höfðu þeir farið yfir á vaðinu til þess að flytja konungsfólkið yfir og gjöra það, er honum þóknaðist. Og er konungur ætlaði að fara yfir Jórdan, féll Símeí Gerason honum til fóta 19.19 og mælti við hann: 'Herra minn tilreikni mér ekki misgjörð mína og minnst ekki þess, er þjónn þinn gjörði illa á þeim degi, er minn herra konungurinn fór burt úr Jerúsalem, og erf það eigi við mig, 19.20 því að þjónn þinn veit að ég hefi syndgað, en sjá, nú er ég kominn fyrstur allra manna af Jósefs ætt til þess að ganga til móts við minn herra konunginn.' 19.21 Þá tók Abísaí Serújuson til máls og sagði: 'Ætti ekki Símeí að láta lífið fyrir það, að hann formælti Drottins smurða?' 19.22 Þá mælti Davíð: 'Hvað hefi ég saman við yður að sælda, Serújusynir, þar sem þér í dag gjörist mótstöðumenn mínir? Ætti að lífláta nokkurn mann í Ísrael í dag? Eða veit ég eigi, að ég í dag er konungur yfir Ísrael?' 19.23 Síðan sagði konungur við Símeí: 'Þú skalt eigi deyja.' Og konungur vann honum eið að því. 19.24 Mefíbóset, sonarsonur Sáls, fór og ofan til móts við konung. Hafði hann eigi hirt fætur sína, greitt kamp sinn né þvegið klæði sín frá þeim degi, er konungur fór burt, til þess dags, er hann kom aftur heill á húfi. 19.25 Og er hann nú kom frá Jerúsalem til móts við konung, sagði konungur við hann: 'Hví fórst þú ekki með mér, Mefíbóset?' 19.26 Hann svaraði: 'Minn herra konungur, þjónn minn sveik mig. Því að ég sagði við hann: ,Söðla þú ösnu fyrir mig, svo að ég megi ríða henni og fara með konungi` _ því að þjónn þinn er fótlami. 19.27 Og hann hefir rægt þjón þinn við minn herra konunginn. En minn herra konungurinn er sem engill Guðs, og gjör nú sem þér líkar. 19.28 Því að allt ættfólk föður míns átti einskis að vænta af mínum herra konunginum, nema dauðans, en þá tókst þú þjón þinn meðal mötunauta þinna. Hvaða rétt hefi ég þá framar og hvers framar að beiðast af konungi?' 19.29 Þá sagði konungur við hann: 'Hví fjölyrðir þú enn um þetta? Ég segi: Þú og Síba skuluð skipta landinu.' 19.30 Þá sagði Mefíbóset við konung: 'Hann má jafnvel taka það allt, fyrst minn herra konungurinn er kominn heim heill á húfi.' 19.31 Barsillaí Gíleaðíti kom og frá Rógelím og fór með konungi til Jórdan til þess að fylgja honum yfir Jórdan. 19.32 En Barsillaí var gamall mjög, áttræður að aldri. Hafði hann birgt konung að vistum, meðan hann dvaldist í Mahanaím, því að hann var maður vellauðugur. 19.33 Þá mælti konungur við Barsillaí: 'Þú skalt með mér fara, og mun ég ala önn fyrir þér í ellinni hjá mér í Jerúsalem.' 19.34 Barsillaí svaraði konungi: 'Hversu mörg æviár á ég enn ólifuð, að ég skyldi fara með konungi til Jerúsalem? 19.35 Ég stend nú á áttræðu. Má ég lengur greina milli góðs og ills, eða mun þjónn þinn finna bragð af því, sem ég et og drekk, eða fæ ég lengur heyrt rödd söngvaranna og söngmeyjanna? Hví skyldi þjónn þinn lengur vera mínum herra konunginum til byrði? 19.36 Þjónn þinn vildi fylgja konunginum spölkorn, en hví vill konungur endurgjalda mér verk þetta? 19.37 Leyf þjóni þínum að snúa aftur, svo að ég megi deyja í borg minni, hjá gröf föður míns og móður. En hér er þjónn þinn Kímham, fari hann með mínum herra konunginum, gjör við hann slíkt er þér líkar!' 19.38 Þá mælti konungur: 'Kímham skal með mér fara, og mun ég við hann gjöra slíkt er þér líkar, og hvað það er þú beiðist af mér, mun ég veita þér.' 19.39 Nú fór allt liðið yfir Jórdan. Þá fór og konungur yfir. Og konungur minntist við Barsillaí og bað hann vel fara, en hann sneri aftur heim til sín. 19.40 Því næst fór konungur til Gilgal, og fór Kímham með honum. Allt lið Júdamanna fór með konungi, svo og helmingur af Ísraelsliðinu. 19.41 Og sjá, allir Ísraelsmenn komu til konungs, og þeir sögðu við konung: 'Hví hafa bræður vorir, Júdamenn, stolið þér og farið með konunginn og fólk hans yfir Jórdan, og alla menn Davíðs með honum?' 19.42 Þá sögðu allir Júdamenn við Ísraelsmenn: 'Konungur er oss skyldur. Hví reiðist þér af þessu? Höfum vér etið nokkuð af eigum konungs eða höfum vér numið hann burt?' 19.43 Þá svöruðu Ísraelsmenn Júdamönnum og sögðu: 'Vér eigum tíu hluti í konunginum. Auk þess erum vér frumgetningurinn, en þér ekki. Hví hafið þér lítilsvirt oss? Og komum vér ekki fyrstir fram með þá ósk að færa konung heim aftur?' Og ummæli Júdamanna voru harðari en ummæli Ísraelsmanna.
20.1 Þar var staddur óþokki nokkur, sem Seba hét Bíkríson, Benjamíníti. Hann þeytti lúðurinn og sagði: 'Vér eigum enga hlutdeild í Davíð og engan erfðahlut í Ísaísyni. Hver fari heim til sín, Ísrael!' 20.2 Þá gengu allir Ísraelsmenn undan Davíð og á hönd Seba Bíkrísyni, en Júdamenn fóru með konungi sínum frá Jórdan til Jerúsalem. 20.3 Þegar Davíð kom til hallar sinnar í Jerúsalem, lét konungur taka hjákonurnar tíu, er hann hafði skilið eftir til þess að gæta hallarinnar, og setti þær í varðhald og ól þar önn fyrir þeim, en eigi hafði hann samfarir við þær. Lifðu þær þannig innibyrgðar til dauðadags sem ekkjur lifandi manna. 20.4 Því næst sagði konungur við Amasa: 'Kalla þú saman Júdamenn áður þrjár sólir eru af lofti. Ver þá og sjálfur hér.' 20.5 Lagði nú Amasa af stað til þess að kalla saman Júda. En er honum seinkaði fram yfir þann tíma, er til var tekinn við hann, 20.6 sagði Davíð við Abísaí: 'Nú mun Seba Bíkríson vinna oss enn meira tjón en Absalon. Tak þú menn herra þíns og veit honum eftirför, svo að hann nái ekki víggirtum borgum og veiti oss þungar búsifjar.' 20.7 Lögðu þá af stað með honum menn Jóabs og Kretar og Pletar og kapparnir allir. Lögðu þeir af stað frá Jerúsalem til þess að veita Seba Bíkrísyni eftirför. 20.8 En er þeir voru hjá stóra steininum, sem er hjá Gíbeon, mætti Amasa þeim. Jóab var klæddur brynjukufli sínum og gyrtur sverði utan yfir hann, og voru sverðsslíðrin fest við lend honum. Hljóp sverðið úr slíðrunum og féll til jarðar. 20.9 Þá sagði Jóab við Amasa: 'Líður þér vel, bróðir minn?' Greip Jóab þá hægri hendinni í skegg Amasa, sem hann vildi kyssa hann. 20.10 En Amasa hafði ekki tekið eftir sverðinu, er Jóab hafði í vinstri hendi sér. Lagði Jóab því í kvið honum, svo að út féllu iðrin. Eigi lagði hann til hans aftur, því að hann var þegar dauður. Jóab og Abísaí, bróðir hans, fóru eftir Seba Bíkrísyni. 20.11 En einn af mönnum Jóabs stóð kyrr hjá Amasa og kallaði: 'Hver sá sem hefir mætur á Jóab og aðhyllist Davíð, hann fylgi Jóab!' 20.12 En Amasa lá og veltist í blóði sínu á miðjum veginum, og er maðurinn sá, að allt liðið stóð kyrrt, dró hann Amasa til hliðar út af veginum og varp yfir hann klæði, er hann sá, að hver maður nam staðar, sem að honum kom. 20.13 En er hann hafði komið honum burt af veginum, fylgdi hver maður Jóab til þess að veita Seba Bíkrísyni eftirför. 20.14 Seba fór um allar ættkvíslir Ísraels, allt til Abel Bet Maaka, og allir Bíkrítar söfnuðust saman og fóru með honum. 20.15 En Jóab og menn hans komu og umkringdu hann í Abel Bet Maaka og hlóðu virkisvegg gegn borginni upp að varnargarðinum. Gekk nú allt liðið, er með Jóab var, sem ákafast fram í því að brjóta múrinn. 20.16 Þá kallaði kona nokkur vitur af borginni: 'Heyrið, heyrið! Segið við Jóab: ,Kom þú hingað, ég vil tala við þig.'` 20.17 Þá gekk hann til hennar, og konan mælti: 'Ert þú Jóab?' Hann kvað svo vera. Og hún sagði við hann: 'Hlýð þú á orð ambáttar þinnar!' Hann svaraði: 'Ég heyri.' 20.18 Þá mælti hún á þessa leið: 'Forðum var það haft að orðtæki: ,Spyrjið að því í Abel, og þá var málið á enda kljáð.` 20.19 Vér erum meðal hinna friðsömu og trúu í Ísrael, en þú leitast við að gjöreyða borg og móður í Ísrael. Hví spillir þú arfleifð Drottins?' 20.20 Jóab svaraði og sagði: 'Það er fjarri mér! Ég vil engu spilla og engu eyða. 20.21 Eigi er þessu svo farið, heldur hefir maður nokkur frá Efraímfjöllum, sem Seba heitir, Bíkríson, lyft hendi sinni gegn Davíð konungi. Framseljið hann einan, og mun ég þegar hverfa frá borginni.' Þá sagði konan við Jóab: 'Sjá, höfði hans skal kastað verða til þín yfir múrinn.' 20.22 Síðan talaði konan af viturleik sínum við alla borgarbúa, svo að þeir hjuggu höfuð af Seba Bíkrísyni og fleygðu því út til Jóabs. Þá lét hann blása liðinu frá borginni, og fór hver heim til sín, en Jóab sneri aftur til Jerúsalem til konungs. 20.23 Jóab var fyrir öllum hernum, Benaja Jójadason fyrir Kretum og Pletum. 20.24 Adóníram var yfir kvaðarmönnum, Jósafat Ahílúðsson var ríkisritari, 20.25 Seja var kanslari, Sadók og Abjatar prestar. 20.26 Enn fremur var Íra Jaíríti prestur hjá Davíð.
21.1 Á dögum Davíðs varð hallæri í þrjú ár samfleytt. Gekk þá Davíð til frétta við Drottin, en Drottinn svaraði: 'Á Sál og ætt hans hvílir blóðsök fyrir það, að hann drap Gíbeoníta.' 21.2 Þá lét konungur kalla Gíbeoníta og sagði við þá _ (Gíbeonítar heyrðu ekki til Ísraelsmönnum, heldur leifum Amoríta, og þótt Ísraelsmenn hefðu unnið þeim eiða, leitaðist Sál við að drepa þá, af vandlætingasemi vegna Ísraelsmanna og Júda.) _ 21.3 Og Davíð sagði við Gíbeoníta: 'Hvað á ég að gjöra fyrir yður, og með hverju á ég að friðþægja, til þess að þér blessið arfleifð Drottins?' 21.4 Þá sögðu Gíbeonítar við hann: 'Það er ekki silfur og gull, sem vér sækjumst eftir af Sál og ætt hans, og engan mann viljum vér feigan í Ísrael.' Hann svaraði: 'Hvað segið þér, að ég eigi að gjöra fyrir yður?' 21.5 Þá sögðu þeir við konung: 'Maðurinn sem eyddi oss og hugði að afmá oss, svo að vér værum ekki lengur til í öllu Ísraels landi, _ 21.6 af niðjum hans skulu oss fengnir sjö menn, svo að vér megum bera þá út fyrir Drottin í Gíbeon á fjalli Drottins.' Konungur sagði: 'Ég skal fá yður þá.' 21.7 Konungur þyrmdi þó Mefíbóset, Jónatanssyni, Sálssonar, vegna eiðs þess við Drottin, er þeir höfðu unnið hvor öðrum, Davíð og Jónatan, sonur Sáls. 21.8 En konungur tók báða sonu Rispu Ajasdóttur, er hún hafði fætt Sál, Armóní og Mefíbóset, og fimm sonu Merab, dóttur Sáls, er hún hafði fætt Adríel Barsillaísyni frá Mehóla, 21.9 og fékk þá í hendur Gíbeonítum. Og þeir báru þá út fyrir Drottin á fjallinu, svo að þeir dóu sjö saman. Voru þeir teknir af lífi fyrstu daga uppskerunnar. 21.10 En Rispa Ajasdóttir tók hærusekk og breiddi hann út á klettinum handa sér að hvílurúmi, frá byrjun uppskerunnar þar til er regn streymdi af himni yfir þá, og eigi leyfði hún fuglum himinsins að setjast að þeim um daga, né dýrum merkurinnar um nætur. 21.11 En er Davíð var sagt frá, hvað Rispa Ajasdóttir, hjákona Sáls, hafði gjört, 21.12 fór Davíð og sótti bein Sáls og bein Jónatans sonar hans til Jabesmanna í Gíleað, en þeir höfðu stolið þeim á torginu í Bet San, þar sem Filistar höfðu hengt þá upp, daginn sem Filistar drápu Sál á Gilbóa. 21.13 Hann kom þaðan með bein Sáls og bein Jónatans sonar hans. Var síðan safnað saman beinum hinna útbornu 21.14 og þau grafin með beinum Sáls og beinum Jónatans sonar hans í landi Benjamíns í Sela, í gröf Kíss föður hans. Var allt gjört sem konungur bauð, og eftir það líknaði Guð landinu. 21.15 Enn áttu Filistar ófrið við Ísrael. Fór Davíð með menn sína til þess að berjast við Filista, og varð Davíð móður. 21.16 Þá hugði Jisbi Benob, einn af niðjum Refaíta (spjót hans vó þrjú hundruð sikla eirs, og hann var gyrtur nýju sverði), að drepa Davíð. 21.17 Þá kom Abísaí Serújuson honum til hjálpar og hjó Filistann banahögg. Þá sárbændu menn Davíðs hann og sögðu: 'Þú mátt eigi framar með oss fara í hernað, svo að þú slökkvir eigi lampa Ísraels.' 21.18 Seinna tókst enn orusta hjá Gób við Filista. Þá drap Sibbekaí Húsatíti Saf, sem og var einn af niðjum Refaíta. 21.19 Og enn tókst orusta hjá Gób við Filista. Þá drap Elkanan, sonur Jaare Orgím frá Betlehem, Golíat frá Gat, en spjótskaft hans var sem vefjarrifur. 21.20 Og er enn tókst orusta hjá Gat, var þar tröllaukinn maður, er hafði sex fingur á hvorri hendi og sex tær á hvorum fæti, tuttugu og fjögur að tölu. Var hann og kominn af Refaítum. 21.21 Hann smánaði Ísrael, en Jónatan sonur Símea, bróður Davíðs, drap hann. 21.22 Þessir fjórir voru komnir af Refaítum í Gat, og féllu þeir fyrir Davíð og mönnum hans.
22.1 Davíð flutti Drottni orð þessa ljóðs, þá er Drottinn frelsaði hann af hendi allra óvina hans og af hendi Sáls. 22.2 Hann mælti: Drottinn er bjarg mitt og vígi, hann er sá sem hjálpar mér. 22.3 Guð minn er hellubjarg mitt, þar sem ég leita hælis, skjöldur minn og horn hjálpræðis míns, háborg mín og hæli, frelsari minn, sem frelsar mig frá ofbeldi. 22.4 Lofaður sé Drottinn, hrópa ég, og ég frelsast frá óvinum mínum. 22.5 Brimöldur dauðans umkringdu mig, elfur glötunarinnar skelfdu mig, 22.6 snörur Heljar luktu um mig, möskvar dauðans féllu yfir mig. 22.7 Í angist minni kallaði ég á Drottin, og til Guðs míns hrópaði ég. Í helgidómi sínum heyrði hann raust mína, óp mitt barst til eyrna honum. 22.8 Jörðin bifaðist og nötraði, undirstöður fjallanna skulfu, þær bifuðust, því að hann var reiður. 22.9 Reykur gekk fram úr nösum hans og eyðandi eldur af munni hans, glóðir brunnu út frá honum. 22.10 Hann sveigði himininn og steig niður, og skýsorti var undir fótum hans. 22.11 Hann steig á bak kerúb og flaug af stað og sveif á vængjum vindarins. 22.12 Hann gjörði myrkrið í kringum sig að skýli, regnsortann og skýþykknið. 22.13 Frá ljómanum fyrir honum flugu hagl og eldglæringar. 22.14 Drottinn þrumaði af himni, hinn hæsti lét raust sína gjalla. 22.15 Hann skaut örvum sínum og tvístraði þeim, lét eldingarnar leiftra og hræddi þá. 22.16 Þá sá í mararbotn, og undirstöður jarðarinnar urðu berar fyrir ógnum Drottins, fyrir andgustinum úr nösum hans. 22.17 Hann seildist niður af hæðum og greip mig, dró mig upp úr hinum miklu vötnum. 22.18 Hann frelsaði mig frá hinum sterku óvinum mínum, frá fjandmönnum mínum, er voru mér yfirsterkari. 22.19 Þeir réðust á mig á mínum óheilladegi, en Drottinn var mín stoð. 22.20 Hann leiddi mig út á víðlendi, hann frelsaði mig, af því að hann hafði þóknun á mér. 22.21 Drottinn fór með mig eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna galt hann mér, 22.22 því að ég hefi varðveitt vegu Drottins og hefi ekki reynst ótrúr Guði mínum. 22.23 Allar skipanir hans hefi ég fyrir augum og frá boðorðum hans hefi ég ekki vikið. 22.24 Ég var lýtalaus fyrir honum og gætti mín við misgjörðum. 22.25 Drottinn galt mér eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna fyrir augliti hans. 22.26 Gagnvart ástríkum ert þú ástríkur, gagnvart ráðvöndum ráðvandur, 22.27 gagnvart hreinum hreinn, en gagnvart rangsnúnum ert þú afundinn. 22.28 Þú hjálpar þjáðum lýð, en gjörir alla hrokafulla niðurlúta. 22.29 Já, þú ert lampi minn, Drottinn, Guð minn lýsir mér í myrkrinu. 22.30 Fyrir þína hjálp hleyp ég yfir virkisgrafir, fyrir hjálp Guðs míns stekk ég yfir borgarveggi. 22.31 Vegur Guðs er lýtalaus, orð Drottins er skírt. Skjöldur er hann öllum þeim, sem leita hælis hjá honum. 22.32 Því að hver er Guð, nema Drottinn, og hver er hellubjarg, utan vor Guð? 22.33 Sá Guð, sem gyrðir mig styrkleika og gjörir veg minn sléttan. 22.34 Hann gjörir fætur mína sem hindanna og veitir mér fótfestu á hæðunum. 22.35 Hann æfir hendur mínar til hernaðar, svo að armar mínir benda eirbogann. 22.36 Þú gafst mér skjöld hjálpræðis þíns, og lítillæti þitt gjörði mig mikinn. 22.37 Þú rýmdir til fyrir skrefum mínum og ökklar mínir riðuðu ekki. 22.38 Ég elti óvini mína og náði þeim, og sneri ekki aftur fyrr en ég hafði gjöreytt þeim. 22.39 Ég gjöreyddi þeim og molaði þá sundur, svo að þeir risu ekki upp framar og hnigu undir fætur mér. 22.40 Þú gyrtir mig styrkleika til ófriðarins, beygðir fjendur mína undir mig. 22.41 Þú lést mig sjá bak óvina minna, þeim eyddi ég, sem hata mig. 22.42 Þeir hrópuðu, en enginn kom til hjálpar, þeir hrópuðu til Drottins, en hann svaraði þeim ekki. 22.43 Ég muldi þá sem mold á jörð, tróð þá fótum sem skarn á strætum. 22.44 Þú frelsaðir mig úr fólkorustum, gjörðir mig að höfðingja þjóðanna. Lýður, sem ég þekkti ekki, þjónar mér. 22.45 Framandi menn smjaðra fyrir mér, óðara en þeir heyra mín getið, hlýða þeir mér. 22.46 Framandi menn dragast upp og koma skjálfandi fram úr fylgsnum sínum. 22.47 Lifi Drottinn, lofað sé mitt bjarg, og hátt upp hafinn sé Guð hjálpræðis míns! 22.48 Þú Guð, sem veittir mér hefndir og braust þjóðir undir mig, 22.49 sem hreifst mig úr höndum óvina minna og hófst mig yfir mótstöðumenn mína. Frá ójafnaðarmönnum frelsaðir þú mig. 22.50 Fyrir því vil ég vegsama þig, Drottinn, meðal þjóðanna og lofsyngja þínu nafni. 22.51 Hann veitir konungi sínum mikla hjálp og auðsýnir miskunn sínum smurða, Davíð og niðjum hans að eilífu.
23.1 Þetta eru síðustu orð Davíðs: Svo mælti Davíð Ísaíson, svo mælti maðurinn, er hátt var settur, hinn smurði Jakobs Guðs, ljúflingur Ísraels ljóða. 23.2 Andi Drottins talaði í mér og hans orð er á minni tungu. 23.3 Ísraels Guð talaði, bjarg Ísraels mælti við mig: 'Sá sem ríkir yfir mönnum með réttvísi, sá sem ríkir í ótta Guðs, 23.4 hann er eins og dagsbirtan, þegar sólin rennur upp á heiðríkju-morgni, þegar grasið sprettur í glaðasólskini eftir regn.' 23.5 Já, er ekki hús mitt svo fyrir Guði? Því að hann hefir gjört við mig eilífan sáttmála, ákveðinn í öllum greinum og áreiðanlegan. Já, allt sem verður mér til heilla og gleði, skyldi hann ekki veita því vöxt? 23.6 En varmennin, þau eru öll eins og þyrnar, sem út er kastað, því að enginn tekur á þeim með hendinni. 23.7 Hver, sem rekst á þau, vopnast járni og spjótskafti, og í eldi munu þau brennd verða til kaldra kola. 23.8 Þetta eru nöfnin á köppum Davíðs: Ísbaal Hakmóníti, höfðingi hinna þriggja. Hann veifaði spjóti sínu yfir átta hundruð vegnum í einu. 23.9 Honum næstur er, meðal kappanna þriggja, Eleasar Dódóson, Ahóhíti. Hann var með Davíð í Pas Dammím, en Filistar höfðu safnast þar saman til orustu. En er Ísraelsmenn hörfuðu undan, 23.10 stóð hann fastur fyrir og barði á Filistum, uns hann varð þreyttur í hendinni, og hönd hans var kreppt um sverðið, og Drottinn veitti mikinn sigur á þeim degi. Og liðið sneri aftur með honum aðeins til rána. 23.11 Næstur honum er Samma Ageson, Hararíti. Filistar söfnuðust saman og fóru til Lekí, en þar var akurspilda, alsprottin flatbaunum. En er fólkið flýði fyrir Filistum, 23.12 nam hann staðar í spildunni miðri, náði henni og vann sigur á Filistum. Veitti Drottinn þannig mikinn sigur. 23.13 Einu sinni fóru þrír af höfðingjunum þrjátíu og komu til Davíðs í hamrinum, í Adúllamvíginu, en flokkur af Filistum lá í herbúðum í Refaímdal. 23.14 Þá var Davíð í víginu, en varðsveit Filista var þá í Betlehem. 23.15 Þá þyrsti Davíð og hann sagði: 'Hver vill sækja mér vatn í brunninn í Betlehem, sem er þar við hliðið?' 23.16 Þá brutust kapparnir þrír gegnum herbúðir Filista, jusu vatni úr brunninum í Betlehem, sem þar er við hliðið, tóku það og færðu Davíð. En hann vildi ekki drekka það, heldur dreypti því Drottni til handa 23.17 og mælti: 'Drottinn láti það vera fjarri mér að gjöra slíkt! Get ég drukkið blóð þeirra manna, sem stofnuðu lífi sínu í hættu með því að fara?' _ og hann vildi ekki drekka það. Þetta gjörðu kapparnir þrír. 23.18 Abísaí, bróðir Jóabs, sonur Serúju, var fyrir hinum þrjátíu. Hann veifaði spjóti sínu yfir þrjú hundruð vegnum og var frægur meðal hinna þrjátíu. 23.19 Af hinum þrjátíu var hann í heiðri hafður og var foringi þeirra, en til jafns við þá þrjá komst hann ekki. 23.20 Benaja Jójadason, hraustmenni, frægur fyrir afreksverk sín, var frá Kabseel. Hann drap báða sonu Aríels frá Móab. Hann sté ofan í brunn og drap þar ljón einn dag, er snjóað hafði. 23.21 Hann drap og egypskan mann tröllaukinn. Egyptinn hafði spjót í hendi, en hann fór á móti honum með staf, reif spjótið úr hendi Egyptans og drap hann með hans eigin spjóti. 23.22 Þetta gjörði Benaja Jójadason. Hann var frægur meðal þrjátíu kappanna. 23.23 Af hinum þrjátíu var hann í heiðri hafður, en til jafns við þá þrjá komst hann ekki. Davíð setti hann yfir lífvörð sinn. 23.24 Meðal hinna þrjátíu voru: Asahel, bróðir Jóabs, Elkanan Dódóson frá Betlehem, 23.25 Samma frá Haród, Elíka frá Haród, 23.26 Heles frá Pelet, Íra Íkkesson frá Tekóa, 23.27 Abíeser frá Anatót, Síbbekaí frá Húsa, 23.28 Salmón frá Ahó, Maharaí frá Netófa, 23.29 Heled Baanason frá Netófa, Íttaí Ríbaíson frá Gíbeu í Benjamíns ættkvísl, 23.30 Benaja frá Píraton, Híddaí frá Nahale Gaas, 23.31 Abi Albon frá Bet Araba, Asmavet frá Bahúrím, 23.32 Eljahba frá Saalbón, Jasen Gúníti, 23.33 Jónatan Sammason frá Harar, Ahíam Sararsson frá Arar, 23.34 Elífelet Ahasbaíson frá Maaka, Elíam Akítófelsson frá Gíló, 23.35 Hesró frá Karmel, Paaraí Arkíti, 23.36 Jígal Natansson frá Sóba, Baní frá Gað, 23.37 Selek Ammóníti, Naharaí frá Beerót, skjaldsveinn Jóabs Serújusonar, 23.38 Íra frá Jattír, Gareb frá Jattír, 23.39 Úría Hetíti. Til samans þrjátíu og sjö.
24.1 Reiði Drottins upptendraðist enn gegn Ísrael. Egndi hann þá Davíð upp í móti þeim með því að segja: 'Far þú og tel Ísrael og Júda.' 24.2 Þá sagði konungur við Jóab og hershöfðingjana, sem með honum voru: 'Farið um allar ættkvíslir Ísraels frá Dan til Beerseba og teljið fólkið, til þess að ég fái að vita, hve margt fólkið er.' 24.3 Jóab svaraði konungi: 'Drottinn Guð þinn margfaldi lýðinn _ hversu margir, sem þeir nú kunna að vera _ hundrað sinnum og láti minn herra konunginn lifa það. En hvers vegna vill minn herra konungurinn gjöra þetta?' 24.4 En Jóab og hershöfðingjarnir máttu eigi gjöra annað en það, sem konungur bauð. Gekk þá Jóab og hershöfðingjarnir burt frá konungi til þess að taka manntal í Ísrael. 24.5 Þeir fóru yfir Jórdan og byrjuðu á Aróer og borginni, sem er í dalnum í áttina til Gað og Jaser. 24.6 Síðan komu þeir til Gíleað, og til lands Hetíta, í nánd við Kades. Þá komu þeir til Dan, og frá Dan beygðu þeir við í áttina til Sídon. 24.7 Því næst komu þeir til Týruskastala og til allra borga Hevíta og Kanaaníta, fóru síðan til suðurlandsins í Júda, til Beerseba. 24.8 En er þeir höfðu farið um land allt, komu þeir eftir níu mánuði og tuttugu daga til Jerúsalem. 24.9 Og Jóab sagði konungi töluna, sem komið hafði út við manntalið: Í Ísrael voru átta hundruð þúsundir vopnfærra manna vopnbúinna, en í Júda fimm hundruð þúsundir manns. 24.10 En samviskan sló Davíð, er hann hafði látið telja fólkið. Þá sagði Davíð við Drottin: 'Mjög hefi ég syndgað með því, sem ég hefi gjört. En Drottinn, tak nú burt misgjörð þjóns þíns, því að mjög óviturlega hefir mér til tekist.' 24.11 Er Davíð reis morguninn eftir, kom orð Drottins til Gaðs spámanns, sjáanda Davíðs, svolátandi: 24.12 'Far þú og seg við Davíð: Svo segir Drottinn: Þrjá kosti set ég þér, kjós einn af þeim, og mun ég svo við þig gjöra.' 24.13 Þá gekk Gað til Davíðs, sagði honum frá þessu og mælti til hans: 'Hvað kýst þú, að hungur komi í þrjú ár yfir land þitt, eða að þú verðir að flýja í þrjá mánuði fyrir óvinum þínum og sverðið elti þig, eða drepsótt geisi þrjá daga í landi þínu? Hugsaðu þig nú um, og sjá til, hverju ég á að svara þeim, sem sendi mig.' 24.14 Þá sagði Davíð við Gað: 'Ég er í miklum nauðum staddur. Látum oss falla í hendur Drottins, því að mikil er miskunn hans, en í manna hendur vil ég ekki falla.' 24.15 Davíð kaus þá drepsóttina, en hveitiuppskeran stóð yfir, þegar sóttin byrjaði, og af lýðnum frá Dan til Beerseba dóu sjötíu þúsund manns. 24.16 En er engillinn rétti út hönd sína gegn Jerúsalem til þess að eyða hana, þá iðraði Drottin hins illa, og hann sagði við engilinn, sem eyddi fólkinu: 'Nóg er að gjört! Drag nú að þér höndina!' En engill Drottins var þá hjá þreskivelli Aravna Jebúsíta. 24.17 Þegar Davíð sá, hversu engillinn drap niður fólkið, þá sagði hann við Drottin: 'Sjá, ég hefi syndgað, og ég hefi misgjört. En þetta er hjörð mín, _ hvað hefir hún gjört? Lát hönd þína leggjast á mig og ættmenn mína.' 24.18 Þann dag kom Gað til Davíðs og mælti við hann: 'Far þú og reis Drottni altari á þreskivelli Aravna Jebúsíta.' 24.19 Og Davíð fór eftir boði Gaðs, eins og Drottinn hafði skipað. 24.20 Og er Aravna leit upp og sá konung og menn hans koma til sín, þá gekk hann í móti þeim og laut á ásjónu sína til jarðar fyrir konungi. 24.21 Og Aravna mælti: 'Hví kemur minn herra konungurinn til þjóns síns?' Davíð svaraði: 'Til þess að kaupa af þér þreskivöllinn, svo að ég geti reist Drottni altari og plágunni megi létta af lýðnum.' 24.22 Aravna svaraði Davíð: 'Taki minn herra konungurinn það, sem honum þóknast, og fórni. Sjá, hér eru nautin til brennifórnar og þreskisleðarnir og aktygin af nautunum til eldiviðar. 24.23 Allt þetta, konungur, gefur Aravna konunginum.' Og Aravna mælti við konung: 'Drottinn, Guð þinn, sé þér náðugur!' 24.24 En konungur sagði við Aravna: 'Eigi svo, en kaupa vil ég það verði af þér, því að ekki vil ég færa Drottni, Guði mínum, það í brennifórnir, er ég hefi kauplaust þegið.' Síðan keypti Davíð þreskivöllinn og nautin fyrir fimmtíu sikla silfurs.
1.1 Davíð konungur var nú orðinn gamall og hniginn að aldri, og þótt hann væri þakinn sængurfötum, gat honum ekki hitnað. 1.2 Fyrir því sögðu þjónar hans við hann: 'Það ætti að leita að yngismey handa mínum herra konunginum til þess að þjóna konunginum og hjúkra honum. Skal hún liggja við brjóst þitt, til þess að mínum herra konunginum megi hitna.' 1.3 Síðan var leitað að fríðri stúlku í öllu Ísraelslandi, og fundu menn Abísag frá Súnem og fóru með hana til konungs. 1.4 En stúlkan var forkunnar fríð og hjúkraði konungi og þjónaði honum, en konungur kenndi hennar ekki. 1.5 Adónía sonur Haggítar hreykti sér upp og hugsaði með sér: 'Ég vil verða konungur.' Og hann fékk sér vagna og hesta og fimmtíu menn, sem fyrir honum hlupu. 1.6 En faðir hans hafði aldrei angrað hann á ævinni með því að segja við hann: 'Hví hefir þú gjört þetta?' Auk þess var hann mjög fríður sýnum og næstur Absalon að aldri. 1.7 Hann átti og ráðstefnur við Jóab Serújuson og Abjatar prest, og fylgdu þeir Adónía að málum. 1.8 En Sadók prestur, Benaja Jójadason, Natan spámaður, Símeí, Reí og kappar Davíðs fylgdu eigi Adónía. 1.9 Adónía slátraði sauðum og nautum og alikálfum hjá Höggormssteini, sem er hjá Rógel-lind, og bauð til öllum bræðrum sínum, konungssonunum, og öllum Júdamönnum, þegnum konungs. 1.10 En Natan spámanni, Benaja og köppunum og Salómon bróður sínum bauð hann ekki. 1.11 Þá mælti Natan við Batsebu, móður Salómons, á þessa leið: 'Hefir þú ekki heyrt, að Adónía sonur Haggítar er orðinn konungur, og Davíð, herra vor, veit það ekki? 1.12 Kom þú nú, og vil ég leggja þér ráð, hversu þú megir forða lífi þínu og lífi Salómons sonar þíns. 1.13 Far þú og gakk fyrir Davíð konung og seg við hann: ,Hefir þú ekki, minn herra konungur, unnið ambátt þinni eið og sagt: Salómon sonur þinn skal verða konungur eftir mig, og hann skal sitja í hásæti mínu? Hví er þá Adónía orðinn konungur?` 1.14 Sjá, meðan þú enn ert að tala þar við konung, skal ég koma á eftir þér og staðfesta orð þín.' 1.15 Þá gekk Batseba fyrir konung inn í svefnhúsið, en konungur var þá gamall mjög, og Abísag frá Súnem þjónaði honum. 1.16 Batseba hneigði sig og laut konungi. Konungur mælti: 'Hvað er þér á höndum?' 1.17 Hún sagði við hann: 'Herra minn, þú hefir unnið ambátt þinni svolátandi eið við Drottin, Guð þinn: ,Salómon sonur þinn skal verða konungur eftir mig, og hann skal sitja í hásæti mínu.` 1.18 En sjá, nú er Adónía orðinn konungur, og þú veist það ekki, minn herra konungur! 1.19 Hann hefir slátrað fjölda af uxum, alikálfum og sauðum og boðið til öllum konungssonum og Abjatar presti og Jóab hershöfðingja, en Salómon þjóni þínum hefir hann ekki boðið. 1.20 Og nú standa augu allra Ísraelsmanna á þér, minn herra konungur, að þú gjörir kunnugt, hver sitja skuli í hásæti míns herra konungsins eftir þinn dag. 1.21 Ella mun svo fara, þegar minn herra konungurinn hvílir hjá feðrum sínum, að ég og Salómon sonur minn munum talin óbótamenn.' 1.22 En meðan hún var að tala við konung, kom Natan spámaður. 1.23 Og konungi var sagt: 'Natan spámaður er hér kominn.' Gekk hann þá inn fyrir konung og laut á ásjónu sína til jarðar fyrir konungi 1.24 og mælti: 'Minn herra konungur, hefir þú sagt: ,Adónía skal vera konungur eftir mig, og hann skal sitja í hásæti mínu?` 1.25 Því að hann fór niður eftir í dag og slátraði fjölda af uxum, alikálfum og sauðum og bauð til öllum konungssonunum, hershöfðingjunum og Abjatar presti. Þeir eru nú að eta og drekka hjá honum og hrópa: ,Adónía konungur lifi!` 1.26 En mér, þjóni þínum, Sadók presti, Benaja Jójadasyni og Salómon þjóni þínum bauð hann ekki. 1.27 Er þetta orðið að tilhlutun míns herra konungsins, þar sem þú hefir ekki gjört þjónum þínum kunnugt, hver sitja skuli í hásæti míns herra konungsins eftir þinn dag?' 1.28 Þá svaraði Davíð konungur og mælti: 'Kallið á Batsebu!' Gekk hún þá inn fyrir konung. Og er hún stóð frammi fyrir konungi, 1.29 sór konungur og sagði: 'Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er frelsað hefir líf mitt úr öllum nauðum: 1.30 Eins og ég sór þér við Drottin, Ísraels Guð, og sagði: Salómon sonur þinn skal verða konungur eftir mig, og hann skal sitja í hásæti mínu í minn stað _ svo vil ég staðfesta það í dag.' 1.31 Þá hneigði Batseba ásjónu sína til jarðar, laut konungi og mælti: 'Minn herra Davíð konungur lifi eilíflega!' 1.32 Þá sagði Davíð konungur: 'Kallið á Sadók prest, Natan spámann og Benaja Jójadason.' Þeir gengu síðan fyrir konung. 1.33 Og konungur sagði við þá: 'Takið með yður þjóna herra yðar, setjið Salómon son minn á múl minn og farið með hann til Gíhonlindar. 1.34 Skal Sadók prestur og Natan spámaður smyrja hann þar til konungs yfir Ísrael. Þeytið síðan lúðurinn og hrópið: ,Salómon konungur lifi!` 1.35 Komið síðan með honum hingað, og skal hann þá koma og setjast í hásæti mitt og vera konungur í minn stað, því að hann hefi ég skipað til að vera höfðingja yfir Ísrael og Júda.' 1.36 Þá svaraði Benaja Jójadason konungi og mælti: 'Veri það svo; Drottinn, Guð míns herra konungsins, gefi það. 1.37 Eins og Drottinn hefir verið með mínum herra konunginum, svo sé hann og með Salómon og hefji hásæti hans enn hærra en hásæti míns herra, Davíðs konungs.' 1.38 Þá fóru þeir Sadók prestur, Natan spámaður, Benaja Jójadason og Kretar og Pletar og settu Salómon á múl Davíðs konungs og fóru með hann til Gíhonlindar. 1.39 Þá tók Sadók prestur olíuhornið úr tjaldinu og smurði Salómon. Þá þeyttu þeir lúðurinn, og allur lýðurinn hrópaði: 'Lifi Salómon konungur!' 1.40 Síðan fór allur lýðurinn heim aftur með honum, og menn blésu á hljóðpípur og létu feginslátum, svo að við sjálft lá, að jörðin rifnaði af ópi þeirra. 1.41 Adónía og allir þeir, sem hann hafði í boði sínu, heyrðu þetta, er þeir höfðu lokið máltíðinni. Þegar Jóab heyrði lúðurhljóminn, mælti hann: 'Hví er öll borgin í uppnámi?' 1.42 En er hann var þetta að mæla, kom Jónatan, sonur Abjatars prests. Þá sagði Adónía: 'Kom þú hingað, því að þú ert sæmdarmaður og munt flytja góð tíðindi.' 1.43 Þá svaraði Jónatan og sagði við Adónía: 'Það er nú svo! Herra vor, Davíð konungur, hefir gjört Salómon að konungi. 1.44 Konungur hefir sent með honum Sadók prest, Natan spámann, Benaja Jójadason og Kreta og Pleta, og þeir hafa sett hann á múl konungs. 1.45 Og þeir Sadók prestur og Natan spámaður hafa smurt hann til konungs við Gíhonlind. Þaðan fóru þeir heim fagnandi, svo að öll borgin er komin í uppnám. Þetta er hávaðinn, sem þér hafið heyrt. 1.46 Salómon hefir meira að segja setst í konungshásætið. 1.47 Sömuleiðis komu þjónar konungs til þess að árna herra vorum, Davíð konungi, heilla, og sögðu: ,Guð þinn gjöri nafn Salómons enn víðfrægara en nafn þitt, og hefji hásæti hans enn hærra en hásæti þitt!` og hneigði konungur sig í hvílu sinni. 1.48 Konungur hefir og mælt svo: ,Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð, sem í dag hefir skipað eftirmann í hásæti mitt og látið mér auðnast að líta það.'` 1.49 Þá skelfdust allir boðsgestir Adónía, héldu af stað, og fór hver leiðar sinnar. 1.50 En Adónía var hræddur við Salómon, hélt af stað og fór burt og greip um altarishornin. 1.51 Var Salómon sagt frá því með svofelldum orðum: 'Sjá, Adónía er hræddur við Salómon konung, heldur um altarishornin og segir: ,Salómon konungur sverji mér í dag, að hann skuli ekki láta taka þjón sinn af lífi.'` 1.52 Þá sagði Salómon: 'Komi hann fram sem góður drengur skal ekki eitt af hárum hans falla til jarðar, en reynist hann ódrengur skal hann lífi týna.' 1.53 Þá sendi Salómon konungur og lét taka hann frá altarinu, og er hann kom og laut Salómon konungi, sagði Salómon við hann: 'Far þú heim til þín.'
2.1 Þegar dauðadagur Davíðs nálgaðist, lagði hann svo fyrir Salómon son sinn: 2.2 'Ég geng nú veg allrar veraldar, en ver þú hugrakkur og lát sjá, að þú sért maður. 2.3 Gæt þú þess, sem Drottinn, Guð þinn, af þér heimtar, að þú gangir á vegum hans og haldir lög hans, boðorð, ákvæði og fyrirmæli, eins og skrifað er í lögmáli Móse, svo að þú verðir lánsamur í öllu, sem þú gjörir og hvert sem þú snýr þér, 2.4 svo að Drottinn efni orð sín, þau er hann hefir við mig talað, er hann sagði: ,Ef synir þínir varðveita vegu sína, með því að ganga dyggilega fyrir augliti mínu af öllu hjarta sínu og allri sálu sinni, þá skal þig,` _ mælti hann _ ,ekki vanta eftirmann í hásæti Ísraels.` 2.5 Þú veist og sjálfur, hvað Jóab Serújuson hefir gjört mér, hversu hann hefir farið með báða hershöfðingja Ísraels, þá Abner Nersson og Amasa Jetersson, þar sem hann myrti þá og vann þannig víg í griðum og ataði blóði beltið um lendar sér og skóna á fótum sér, eins og í ófriði væri. 2.6 Neyt þú hygginda þinna og lát eigi hærur hans fara til Heljar í friði. 2.7 En sýn þú mildi sonum Barsillaí Gíleaðíta og lát þá vera meðal þeirra, sem eta við borð þitt, því að svo gjörðu þeir til mín, þá er ég flýði fyrir Absalon, bróður þínum. 2.8 Símeí Gerasson Benjamíníti frá Bahúrím er og með þér. Hann formælti mér gífurlega, þá er ég fór til Mahanaím. En hann kom til móts við mig niður að Jórdan, og vann ég honum svolátandi eið við Drottin: ,Ég skal eigi láta drepa þig.` 2.9 En þú skalt eigi láta honum óhegnt, því að þú ert maður vitur og munt vita, hvað þú átt að gjöra við hann, til þess að þú getir sent hærur hans blóðugar til Heljar.' 2.10 Síðan lagðist Davíð til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður í Davíðsborg. 2.11 En sá tími, sem Davíð hafði ríkt yfir Ísrael, var fjörutíu ár. Í Hebron ríkti hann sjö ár og í Jerúsalem ríkti hann þrjátíu og þrjú ár. 2.12 Og Salómon settist í hásæti Davíðs föður síns, og efldist ríki hans mjög. 2.13 Þá fór Adónía, sonur Haggítar, til Batsebu, móður Salómons. Hún sagði: 'Kemur þú góðu heilli?' Hann svaraði: 'Svo er víst.' 2.14 Síðan mælti hann: 'Ég á erindi við þig.' Hún mælti: 'Tala þú!' 2.15 Þá mælti hann: 'Þú veist sjálf, að konungdómurinn tilheyrði mér og að allur Ísrael hafði augastað á mér sem konungsefni, en nú hefir þetta farið á annan veg og konungdómurinn lent hjá bróður mínum, því að Drottinn hafði ákvarðað honum hann. 2.16 Nú bið ég þig einnar bónar. Vísa þú mér ekki frá.' Hún sagði við hann: 'Tala þú!' 2.17 Þá mælti hann: 'Bið þú Salómon konung _ því að hann mun ekki vísa þér frá _ að gefa mér Abísag frá Súnem fyrir konu.' 2.18 Batseba mælti: 'Gott og vel, ég skal sjálf túlka mál þitt við konung.' 2.19 Þá gekk Batseba á fund Salómons konungs til þess að tala máli Adónía við hann. Konungur stóð upp á móti henni, laut henni og settist síðan í hásæti sitt og lét setja fram stól handa konungsmóður. Settist hún til hægri handar konungi. 2.20 Þá mælti hún: 'Ég bið þig einnar lítillar bónar. Vísa þú mér eigi frá.' Konungur sagði við hana: 'Bið þú, móðir mín. Eigi mun ég vísa þér frá.' 2.21 Þá mælti hún: 'Leyf þú, að Abísag frá Súnem verði gefin Adónía, bróður þínum, fyrir konu.' 2.22 Þá svaraði Salómon konungur og sagði við móður sína: 'Hví biður þú um Abísag frá Súnem til handa Adónía? Bið heldur um konungsríkið honum til handa, því að hann er bróðir minn mér eldri, og Abjatar prestur og Jóab Serújuson eru stuðningsmenn hans.' 2.23 Og Salómon konungur sór við Drottin og mælti: 'Guð gjöri við mig hvað sem hann vill nú og síðar: Fyrir beiðni þessa skal Adónía lífinu týna. 2.24 Og nú, svo sannarlega sem Drottinn lifir, er mér hefir til valda komið og sett mig í hásæti Davíðs föður míns og reist mér hús, eins og hann hafði heitið: Adónía skal líflátinn þegar í dag!' 2.25 Síðan sendi Salómon konungur Benaja Jójadason með þessu erindi. Vann hann á honum, og lét Adónía þannig líf sitt. 2.26 En við Abjatar prest sagði konungur: 'Far þú til bús þíns í Anatót, því að þú ert dauða sekur. En eigi vil ég drepa þig að sinni, því að þú hefir borið örk Drottins Guðs fyrir Davíð föður mínum og allar þær nauðir, sem faðir minn þoldi, hefir þú þolað með honum.' 2.27 Síðan rak Salómon Abjatar burt, svo að hann væri eigi lengur prestur Drottins, til þess að orð Drottins skyldu rætast, þau er hann talaði um hús Elí í Síló. 2.28 Nú spyr Jóab þessi tíðindi. En Jóab hafði fylgt Adónía að málum, en Absalon hafði hann eigi fylgt að málum. Jóab flýði þá til tjalds Drottins og greip um altarishornin. 2.29 Salómon konungi var þá sagt: 'Jóab er flúinn í tjald Drottins og stendur við altarið.' Sendi þá Salómon Benaja Jójadason og sagði: 'Far þú og vinn á honum.' 2.30 Fór þá Benaja til tjalds Drottins og mælti til Jóabs: 'Svo segir konungur: Gakk þú út.' Jóab svaraði: 'Nei, hér vil ég deyja.' Færði Benaja þá konungi svar hans og sagði: 'Svo mælti Jóab, og svo svaraði hann mér.' 2.31 Konungur sagði við hann: 'Gjör sem hann sagði. Vinn þú á honum og jarða hann og hreinsa þannig af mér og ætt minni blóð það, er Jóab úthellti án saka. 2.32 Drottinn láti blóð hans koma honum í koll, þar sem hann vó tvo menn, er réttlátari voru og betri en hann, og myrti þá með sverði, án þess að Davíð faðir minn vissi af því, þá Abner Nersson, hershöfðingja Ísraels, og Amasa Jetersson, hershöfðingja Júda. 2.33 Skal blóð þeirra koma Jóab í koll og niðjum hans að eilífu, en Davíð og niðjar hans, hús hans og hásæti hljóti að eilífu heill af Drottni.' 2.34 Síðan fór Benaja Jójadason, vann á honum og drap hann, og var hann grafinn í húsi sínu í eyðimörkinni. 2.35 Og konungur skipaði Benaja Jójadason yfir herinn í hans stað, og Sadók prest skipaði hann í stað Abjatars. 2.36 Því næst sendi konungur boð og lét kalla Símeí og sagði við hann: 'Reis þér hús í Jerúsalem og bú þar, en eigi mátt þú fara neitt þaðan. 2.37 En það skaltu vita fyrir víst, að á þeim degi, sem þú fer þaðan og gengur yfir Kídronlæk, skaltu deyja. Mun þá blóð þitt sjálfum þér í koll koma.' 2.38 Símeí svaraði konungi: 'Það læt ég mér vel líka. Eins og minn herra konungurinn hefir sagt, svo skal þjónn þinn gjöra.' Og Símeí bjó í Jerúsalem langa hríð. 2.39 Eftir þrjú ár bar svo við, að tveir þrælar Símeí struku til Akís Maakasonar, konungs í Gat. Og Símeí var sagt svo frá: 'Þrælar þínir eru í Gat.' 2.40 Þá tók Símeí sig til, söðlaði asna sinn og hélt til Gat til Akís til þess að leita að þrælum sínum, og Símeí fór og hafði heim með sér þræla sína frá Gat. 2.41 Var nú Salómon sagt frá því, að Símeí hefði farið frá Jerúsalem til Gat og væri kominn heim aftur. 2.42 Þá sendi konungur boð og lét kalla Símeí og sagði við hann: 'Hefi ég ekki sært þig við Drottin og lagt ríkt á við þig og sagt: ,Það skaltu vita fyrir víst, að á þeim degi, sem þú gengur að heiman og fer eitthvað burt, skaltu deyja.` Og þú sagðir við mig: ,Ég hefi heyrt það og læt mér vel líka.` 2.43 Hvers vegna hefir þú ekki haldið eið þann, er Drottni var svarinn, og skipun þá er ég fyrir þig lagði?' 2.44 Enn fremur mælti konungur við Símeí: 'Þú þekkir alla þá illsku og ert þér hennar meðvitandi, er þú hafðir í frammi við Davíð föður minn, og mun nú Drottinn láta þér illsku þína í koll koma. 2.45 En Salómon konungur blessist og hásæti Davíðs standi stöðugt fyrir Drottni að eilífu.' 2.46 Og konungur bauð Benaja Jójadasyni, og hann fór og vann á honum, og lét hann þannig líf sitt.
3.1 Þegar Salómon konungur var orðinn fastur í sessi, mægðist hann við Faraó Egyptalandskonung og fékk dóttur Faraós og flutti hana til Davíðsborgar, uns hann hafði lokið við að reisa höll sína, musteri Drottins og múra umhverfis Jerúsalem. 3.2 En lýðurinn fórnaði enn á fórnarhæðunum, því að allt til þess tíma var ekkert hús reist nafni Drottins. 3.3 En Salómon elskaði Drottin, svo að hann hélt lög Davíðs föður síns, en þó færði hann sláturfórnir og reykelsisfórnir á fórnarhæðunum. 3.4 Konungur fór til Gíbeon til þess að fórna þar, því að það var aðalfórnarhæðin. Fórnaði Salómon þúsund brennifórnum á því altari. 3.5 Í Gíbeon vitraðist Drottinn Salómon í draumi um nótt, og Guð sagði: 'Bið mig þess, er þú vilt að ég veiti þér.' 3.6 Þá sagði Salómon: 'Þú auðsýndir þjóni þínum, Davíð föður mínum, mikla miskunn, þar eð hann gekk fyrir augliti þínu í trúmennsku, réttlæti og hjartans einlægni við þig. Og þú lést haldast við hann þessa miklu miskunn og gafst honum son, sem situr í hásæti hans, eins og nú er fram komið. 3.7 Nú hefir þú þá, Drottinn Guð minn, gjört þjón þinn að konungi í stað Davíðs föður míns. En ég er unglingur og kann ekki fótum mínum forráð. 3.8 Og þjónn þinn er mitt á meðal þjóðar þinnar, er þú hefir útvalið, mikillar þjóðar, er eigi má telja eða tölu á koma fyrir fjölda sakir. 3.9 Gef því þjóni þínum gaumgæfið hjarta til að stjórna þjóð þinni og til að greina gott frá illu. Því að hver gæti annars stjórnað þessari fjölmennu þjóð þinni?' 3.10 Drottni líkaði vel, að Salómon bað um þetta. 3.11 Þá sagði Guð við hann: 'Af því að þú baðst um þetta, en baðst ekki um langlífi þér til handa eða auðlegð eða líf óvina þinna, heldur baðst um vitsmuni til að skynja, hvað rétt er í málum manna, 3.12 þá vil ég veita þér bæn þína. Ég gef þér hyggið og skynugt hjarta, svo að þinn líki hefir ekki verið á undan þér og mun ekki koma eftir þig. 3.13 Og líka gef ég þér það, sem þú baðst ekki um, bæði auðlegð og heiður, svo að þinn líki skal eigi verða meðal konunganna alla þína daga. 3.14 Og ef þú gengur á mínum vegum og varðveitir boðorð mín og skipanir, eins og Davíð faðir þinn gjörði, þá mun ég gefa þér langa lífdaga.' 3.15 Síðan vaknaði Salómon, og sjá: Það var draumur. Og er hann var kominn til Jerúsalem, gekk hann fyrir sáttmálsörk Drottins og bar fram brennifórnir og fórnaði heillafórnum og gjörði veislu öllum þjónum sínum. 3.16 Tvær portkonur komu til konungs og gengu fyrir hann. 3.17 Og önnur konan sagði: 'Með leyfi, herra minn! Ég og kona þessi búum í sama húsinu, og ól ég barn í húsinu hjá henni. 3.18 En á þriðja degi eftir að ég hafði alið barnið, ól og kona þessi barn. Og við vorum saman og enginn annar hjá okkur í húsinu. Við vorum tvær einar í húsinu. 3.19 Þá dó sonur þessarar konu um nótt, af því að hún hafði lagst ofan á hann. 3.20 En hún reis á fætur um miðja nótt og tók son minn frá mér, meðan ambátt þín svaf, og lagði hann að brjósti sér, en dauða soninn sinn lagði hún að brjósti mér. 3.21 En er ég reis um morguninn og ætlaði að gefa syni mínum að sjúga, sjá, þá var hann dauður! Og er ég virti hann fyrir mér um morguninn, sjá, þá var það ekki sonur minn, sá er ég hafði fætt.' 3.22 En hin konan sagði: 'Nei, það er minn sonur, sem er lifandi, en þinn sonur er dauður.' En sú fyrri sagði: 'Nei, það er þinn sonur, sem er dauður, en minn sonur, sem er lifandi.' Þannig þráttuðu þær frammi fyrir konungi. 3.23 Þá mælti konungur: 'Önnur segir: ,Það er minn sonur, sem er lifandi, og þinn sonur, sem er dauður.` En hin segir: ,Nei, það er þinn sonur, sem er dauður, en minn sonur, sem er lifandi.'` 3.24 Og konungur sagði: 'Færið mér sverð.' Og þeir færðu konungi sverðið. 3.25 Þá mælti konungur: 'Höggvið sundur barnið, sem lifir, í tvo hluti og fáið sinn helminginn hvorri.' 3.26 Þá sagði konan, sem átti lifandi barnið, við konung, _ því að ástin til barnsins brann í brjósti hennar _, hún mælti: 'Æ, herra minn, gefið henni barnið, sem lifir, en deyðið það ekki.' En hin sagði: 'Njóti þá hvorug okkar þess. Höggvið það sundur!' 3.27 Þá svaraði konungur og sagði: 'Fáið hinni konunni barnið, sem lifir, en deyðið það ekki. Hún er móðir þess.' 3.28 Og allur Ísrael heyrði dóminn, sem konungur hafði dæmt. Og þeir óttuðust konung, því að þeir sáu, að hann var gæddur guðlegri speki til þess að kveða upp dóma.
4.1 Salómon konungur var konungur yfir öllum Ísrael, og 4.2 þessir voru æðstu embættismenn hans: Asarja Sadóksson var prestur, 4.3 Elíhóref og Ahía Sísasynir voru kanslarar, Jósafat Ahílúðsson var ríkisritari, 4.4 Benaja Jójadason var yfir hernum, Sadók og Abjatar voru prestar, 4.5 Asarja Natansson var yfir fógetunum, Sabúð Natansson var prestur og vinur konungs. 4.6 Ahísar var stallari, Adóníram Abdason var yfir kvaðarmönnum. 4.7 Salómon hafði tólf fógeta yfir öllum Ísrael. Skyldu þeir birgja konung og hirð hans að vistum sinn mánuðinn hver á ári hverju. 4.8 Og þetta eru nöfn þeirra: Ben Húr á Efraímfjöllum, 4.9 Ben Deker í Makas og í Saalbím og Bet Semes og Elon, allt að Bet Hanan. 4.10 Ben Heseð í Arúbbót, honum tilheyrði Sókó og allt Heferland, 4.11 Ben Abínadab hafði allt Dórhálendi, átti hann Tafat, dóttur Salómons fyrir konu. 4.12 Baana Ahílúðsson: Taanak og Megiddó og allt Bet Sean, sem liggur hjá Saretan fyrir neðan Jesreel, frá Bet Sean til Abel Mehóla, allt vestur fyrir Jokmeam, 4.13 Ben Geber í Ramót í Gíleað, honum tilheyrðu þorp Jaírs Manassesonar í Gíleað og landsspildan Argób í Basan, sextíu stórar borgir, með múrveggjum og slagbröndum af eiri, 4.14 Ahínadab Íddóson í Mahanaím, 4.15 Akímaas í Naftalí, hann hafði og gengið að eiga Basmat, dóttur Salómons. 4.16 Baana Húsaíson í Asser og Bealót, 4.17 Jósafat Parúason í Íssakar, 4.18 Símeí Elason í Benjamín, 4.19 Geber Úríson í Gíleaðlandi, landi Síhons Amorítakonungs og Ógs, konungs í Basan. Og einn fógeti var í Júda. 4.20 Júda og Ísrael voru fjölmennir, sem sandur á sjávarströndu, þeir átu og drukku og voru glaðir. 4.21 Salómon drottnaði yfir öllum konungaríkjum frá Efrat til Filistalands og til landamæra Egyptalands. Færðu þeir Salómon skatt og voru þegnskyldir honum alla ævi hans. 4.22 Og Salómon þurfti daglega til matar þrjátíu kór af hveiti og sextíu kór af mjöli, 4.23 tíu alda uxa og tuttugu uxa haggenga og hundrað sauði, auk hjarta, skógargeita, dáhjarta og alifugla. 4.24 Því að hann réð yfir öllu landi fyrir vestan Efrat, frá Tífsa til Gasa, yfir öllum konungum fyrir vestan Efrat, og hafði frið á allar hliðar hringinn í kring, 4.25 svo að Júda og Ísrael bjuggu öruggir, hver maður undir sínu víntré og fíkjutré, frá Dan til Beerseba, alla ævi Salómons. 4.26 Og Salómon hafði fjörutíu þúsund vagnhesta og tólf þúsund ríðandi menn. 4.27 Og fógetar þessir birgðu Salómon konung að vistum og alla þá, er komu að borði Salómons konungs, sinn mánuðinn hver. Létu þeir ekkert skorta. 4.28 Og bygg og hey handa akhestunum og gæðingunum fluttu þeir þangað, er hann var, hver eftir því sem honum bar. 4.29 Og Guð veitti Salómon afar mikla speki og visku og djúpsæi andans, sem sandur er margur á sjávarströnd, 4.30 og speki Salómons var meiri en speki allra austurbyggja og öll speki Egyptalands. 4.31 Og hann var allra manna vitrastur, vitrari en Etan Esrahíti og Heman og Kalkól og Darda Mahólssynir, og hann var nafnfrægur með öllum þjóðum umhverfis. 4.32 Hann mælti þrjú þúsund orðskviðu, og ljóð hans voru eitt þúsund og fimm að tölu. 4.33 Og hann talaði um trén, allt frá sedrustrjánum á Líbanon til ísópsins, sem sprettur á múrveggnum. Og hann talaði um fénað og fugla, orma og fiska, 4.34 og menn komu af öllum þjóðum til þess að heyra speki Salómons, frá öllum konungum jarðarinnar, er heyrðu speki hans getið.
5.1 Híram konungur í Týrus sendi þjóna sína til Salómons, því hann hafði heyrt að hann hefði verið smurður til konungs í stað föður síns, en Híram hafði ætíð verið góðvinur Davíðs. 5.2 Og Salómon sendi boð til Hírams og lét segja honum: 5.3 'Þú veist sjálfur, að Davíð faðir minn mátti eigi reisa hús nafni Drottins, Guðs síns, vegna ófriðar þess, er hann varð að eiga í á allar hliðar, uns Drottinn lagði óvini hans undir iljar honum. 5.4 En nú hefir Drottinn, Guð minn, veitt mér frið allt umhverfis. Á ég engan mótstöðumann og ekkert er framar að meini. 5.5 Fyrir því hefi ég í hyggju að reisa hús nafni Drottins, Guðs míns, eins og Drottinn sagði við Davíð, föður minn, er hann mælti: ,Sonur þinn, er ég set í hásæti þitt í þinn stað, hann skal reisa hús mínu nafni.` 5.6 Bjóð því nú að höggva sedrustré á Líbanon handa mér, og þjónar mínir skulu vera með þínum þjónum. Skal ég greiða þér kaup fyrir þjóna þína, slíkt er þú sjálfur tiltekur. Því að þú veist sjálfur, að með oss er enginn maður, er kunni að skógarhöggi sem Sídoningar.' 5.7 Þegar Híram heyrði orðsending Salómons, varð hann harla glaður og sagði: 'Lofaður sé Drottinn í dag, er gefið hefir Davíð vitran son til að ríkja yfir þessari fjölmennu þjóð.' 5.8 Og Híram sendi menn til Salómons og lét segja honum: 'Ég hefi heyrt þá orðsending, er þú gjörðir mér. Skal ég gjöra að ósk þinni um sedrusviðinn og kýpresviðinn. 5.9 Mínir menn skulu flytja viðinn ofan frá Líbanon til sjávar, og ég skal láta leggja hann í flota í sjónum og flytja þangað sem þú segir til um. Þar læt ég taka sundur flotana, en þú lætur sækja. En þú skalt gjöra að ósk minni og láta mig fá vistir handa hirð minni.' 5.10 Og Híram lét Salómon fá eins mikið af sedrusviði og kýpresviði og hann vildi. 5.11 En Salómon lét Híram fá tuttugu þúsund kór af hveiti til matar fyrir hirð hans og tuttugu þúsund bat af olíu úr steyttum olífuberjum. Þetta lét Salómon Híram fá á ári hverju. 5.12 Og Drottinn hafði veitt Salómon speki, eins og hann hafði heitið honum. Og það fór vel á með þeim Híram og Salómon, og þeir gjörðu sáttmála sín á milli. 5.13 Salómon konungur bauð út kvaðarmönnum úr öllum Ísrael, og urðu kvaðarmennirnir þrjátíu þúsundir að tölu. 5.14 Og hann sendi þá til skiptis til Líbanon, tíu þúsundir á mánuði hverjum. Skyldu þeir vera einn mánuð á Líbanon, en tvo mánuði heima hjá sér. Adóníram var yfir kvaðarmönnum. 5.15 Og Salómon hafði sjötíu þúsund burðarmenn og áttatíu þúsund steinhöggvara í fjöllunum, 5.16 auk yfirfógeta Salómons, er fyrir verkinu stóðu, þrjú þúsund og þrjú hundruð að tölu. Skyldu þeir hafa umsjón með þeim mönnum, er verkið unnu. 5.17 Og að boði konungs hjuggu þeir stóra steina, úthöggna steina, til þess að byggja musterisgrunninn úr höggnu grjóti. 5.18 Og smiðir Salómons og Hírams og Gíblítar hjuggu þá til, undirbjuggu viðinn og steinana til þess að reisa musterið.
6.1 Á fjögur hundruð og áttugasta ári frá því, er Ísraelsmenn fóru af Egyptalandi, fjórða árið, sem Salómon ríkti yfir Ísrael, í sívmánuði _ það er öðrum mánuðinum _ reisti hann Drottni musterið. 6.2 Musterið, sem Salómon konungur reisti Drottni, var sextíu álnir á lengd, tuttugu álnir á breidd og þrjátíu álnir á hæð. 6.3 Forsalurinn fyrir framan musterishúsið var tuttugu álnir á breidd fram með musterisendanum og tíu álnir á dýpt fram af musterinu. 6.4 Hann gjörði glugga á musterið með föstum grindum fyrir. 6.5 Og upp að musterisveggnum hringinn í kring reisti hann þriggja hæða hliðarhús _ upp að musterisveggjunum, hringinn í kringum aðalhúsið og innhúsið og gjörði stúkur allt í kring. 6.6 Fyrsta hæð þessa hliðarhúss var fimm álnir á breidd, miðhæðin sex álnir á breidd, og efsta hæðin sjö álnir á breidd, því að hann hafði sett stalla utan á musterið hringinn í kring, til þess að bitarnir skyldu ekki ganga inn í musterisveggina. 6.7 Þegar musterið var reist var byggt úr steinum, sem höfðu verið höggnir til, er grjótið var tekið, svo að hvorki heyrðist hamarshljóð né axar, né nokkurs annars járntóls, meðan á byggingu musterisins stóð. 6.8 Dyrnar á fyrstu hæð hliðarhússins voru á suðurhlið musterisins, og var gengið upp um hringstiga upp á miðhæðina og þaðan upp á efstu hæð. 6.9 Þannig reisti hann musterið og lauk við það og þakti musterið með bjálkum og þiljum úr sedrusviði. 6.10 Hann reisti hliðarhús utan um allt musterið, fimm álnir á hæð hver hæð, og tengdi þau við musterið með sedrusviði. 6.11 Þá kom orð Drottins til Salómons svolátandi: 6.12 'Þú hefir byggt þetta hús. Ef þú gengur eftir boðorðum mínum og breytir eftir lögum mínum og varðveitir allar skipanir mínar með því að ganga eftir þeim, þá mun ég efna heit mitt við þig, er ég gaf Davíð föður þínum, 6.13 og ég mun búa meðal Ísraelsmanna og eigi yfirgefa lýð minn Ísrael.' 6.14 Þannig byggði Salómon musterið og lauk við það. 6.15 Salómon þiljaði musterisveggina að innan með sedrusviði. Frá gólfi hússins upp að loftbjálkum þiljaði hann það að innan með viði og lagði gólf í húsið úr kýpresviðarborðum. 6.16 Og hann þiljaði tuttugu álnir aftan af húsinu neðan frá gólfi og upp undir bjálka með sedrusviði. Gjörði hann þannig úr því að innan innhús, það er Hið allrahelgasta. 6.17 Húsið var fjörutíu álnir, það er aðalhúsið fyrir framan innhúsið. 6.18 Innan á musterinu var sedrusviður, útskorinn með hnöppum og blómstrum. Var það allt af sedrusviði, og sá hvergi í stein. 6.19 Hann bjó út innhús, Hið allrahelgasta, inni í musterinu, til þess að þangað mætti flytja sáttmálsörk Drottins. 6.20 Og fyrir framan innhúsið _ en það var tuttugu álnir á lengd, tuttugu álnir á breidd og tuttugu álnir á hæð, og hann lagði það skíru gulli _ gjörði hann altari af sedrusviði. 6.21 Salómon lagði musterið með skíru gulli að innan, og dró gullfestar fyrir kórinn og lagði hann gulli. 6.22 Og allt húsið lagði hann gulli _ algjörlega allt húsið. Einnig lagði hann gulli allt altarið, sem tilheyrði innhúsinu. 6.23 Hann gjörði í innhúsinu tvo kerúba af olíuviði, tíu álna háa. 6.24 Hvor vængur annars kerúbsins var fimm álnir, og hvor vængur hins kerúbsins fimm álnir, svo að tíu álnir voru frá enda annars vængsins til enda hins vængsins. 6.25 Báðir kerúbarnir voru tíu álnir, báðir voru þeir jafnstórir og eins að gerð. 6.26 Annar kerúbinn var tíu álnir á hæð, svo og hinn kerúbinn. 6.27 Og hann setti kerúbana upp inni í Hinu allrahelgasta, og breiddu þeir út vængina, svo að annar vængur annars nam við vegginn og hinn vængur hins kerúbsins nam við hinn vegginn, en í miðju húsinu námu vængir þeirra hvor við annan. 6.28 Og hann lagði kerúbana gulli. 6.29 Hann lét skera út á veggina hringinn í kring kerúba, pálma og blómfléttur, inni og fyrir utan. 6.30 Gólf hússins lagði hann og gulli, inni og fyrir utan. 6.31 Fyrir dyr innhússins lét hann gjöra vængjahurð úr olíuviði. Umgjörðin yfir dyrunum og dyrastafirnir mynduðu fimmhyrning. 6.32 Á báðar vængjahurðirnar, sem voru úr olíuviði, lét hann skera kerúba, pálma og blómfléttur og leggja gulli, en kerúbana og pálmana lagði hann slegnu gulli. 6.33 Og fyrir dyr aðalhússins lét hann sömuleiðis gjöra ferstrenda dyrastafi af olíuviði 6.34 og tvær vængjahurðir af kýpresviði. Var hvor vængurinn um sig gjörður af tveimur hlerum, er léku á hjörum. 6.35 Og hann lét skera kerúba, pálma og blómfléttur á þá og lagði það gulli, sem út var skorið. 6.36 Hann gjörði vegginn um innri forgarðinn úr þrem lögum af höggnum steini og einu lagi af sedrusbjálkum. 6.37 Á fjórða ári var grundvöllurinn lagður að húsi Drottins, í sívmánuði. 6.38 Og á ellefta ári, í búlmánuði _ það er áttunda mánuðinum _ var húsið fullgjört í öllum greinum, með öllu sem því tilheyrði. Í sjö ár var hann að byggja það.
7.1 Höll sína var Salómon að byggja í þrettán ár og fullgjörði þannig allt sitt hús. 7.2 Hann byggði Líbanonsskógarhúsið, er var hundrað álnir á lengd, fimmtíu álnir á breidd og þrjátíu álnir á hæð á þrem sedrussúlnaröðum, og á súlunum hvíldu bjálkar af sedrusviði. 7.3 Og það var þakið sedrusviði uppi yfir hliðarherbergjunum, er hvíldu á fjörutíu og fimm súlum, fimmtán í hverri röð. 7.4 Gluggaraðirnar voru þrjár, og ljóri gegnt ljóra þrem sinnum. 7.5 Og allar dyr og allir ljórar voru ferhyrndir, og ljóri var gegnt ljóra þrem sinnum. 7.6 Hann gjörði súlnasal, fimmtíu álnir á lengd og þrjátíu álnir á breidd, og forsal þar fyrir framan og súlur og pall þar fyrir framan. 7.7 Hann byggði hásætissal, þar sem hann kvað upp dóma _ dómhöllina _, og hún var þiljuð sedrusviði frá gólfi til lofts. 7.8 Og hús hans sjálfs, þar er hann bjó, í öðrum garðinum, inn af forsalnum, var gjört á sama hátt. Salómon gjörði og hús, eins og forsalinn, handa dóttur Faraós, er hann hafði gengið að eiga. 7.9 Allt þetta var byggt af úthöggnum steinum, er voru höggnir til eftir máli, sagaðir með sög innan og utan, frá undirstöðum og upp á veggbrúnir, og að utan allt að forgarðinum mikla. 7.10 Og undirstaðan var úr úthöggnum steinum, stórum steinum, tíu álna steinum og átta álna steinum. 7.11 Og þar á ofan voru úthöggnir steinar, höggnir eftir máli, og sedrusviður. 7.12 Og forgarðurinn mikli var gjörður allt um kring af þrem lögum af höggnum steini og einu lagi af sedrusbjálkum, svo og innri forgarður musteris Drottins og forgarðurinn að súlnasal hallarinnar. 7.13 Salómon konungur sendi menn og lét sækja Híram frá Týrus. 7.14 Hann var sonur ekkju nokkurrar af ættkvísl Naftalí, en faðir hans var ættaður frá Týrus og var koparsmiður. Var hann fullur hagleiks, skilnings og kunnáttu til að gjöra alls konar smíðar af eiri. Hann kom til Salómons konungs og smíðaði allar smíðar fyrir hann. 7.15 Híram steypti báðar súlurnar af eiri. Önnur súlan var átján álnir á hæð, og tólf álna langan þráð þurfti til þess að ná utan um hana. Súlan var fjögurra fingra þykk, hol að innan. Á sama hátt gjörði hann hina súluna. 7.16 Og hann gjörði tvö höfuð steypt af eiri til þess að setja ofan á súlurnar. Var hvort höfuð fimm álnir á hæð. 7.17 Á höfðunum, sem voru á súlunum, var sem riðið net og fléttur, gjörðar af festum, sjö fyrir hvort höfuð. 7.18 Og hann gjörði granatepli, tvær raðir allt í kring, utan á öðru netinu, til þess að hylja höfuðin, sem voru ofan á súlunum, eins gjörði hann á hinu höfðinu. 7.19 Höfuðin, sem voru ofan á súlunum í forsalnum, voru liljumynduð, fjórar álnir. 7.20 Á báðum súlunum voru höfuð, einnig að ofan, hjá bungunni undir riðna netinu. Granateplin voru tvö hundruð að tölu, í röðum hringinn í kringum hitt höfuðið. 7.21 Hann reisti súlurnar við forsal aðalhússins. Hann reisti hægri súluna og kallaði hana Jakín, og hann reisti vinstri súluna og kallaði hana Bóas. 7.22 Og efst voru súlurnar liljumyndaðar. Þannig var súlnasmíðinu lokið. 7.23 Og Híram gjörði hafið, og var það steypt af eiri. Það var tíu álnir af barmi og á, kringlótt og fimm álnir á dýpt, og þrjátíu álna snúra lá um það. 7.24 En neðan á barminum allt í kring voru hnappar, tíu á hverri alin, er mynduðu hring utan um hafið, tvær raðir af hnöppum, og voru þeir samsteyptir hafinu. 7.25 Það stóð á tólf nautum. Sneru þrjú í norður, þrjú í vestur, þrjú í suður, þrjú í austur. Hvíldi hafið á þeim, og sneru allir bakhlutir þeirra inn. 7.26 Það var þverhandarþykkt og barmur þess í laginu sem barmur á bikar, líkt og liljublóm. Það tók tvö þúsund bat. 7.27 Híram gjörði og vagnana, tíu að tölu, af eiri. Var hver vagn fjórar álnir á lengd, fjórar álnir á breidd og þrjár álnir á hæð. 7.28 En hver vagnanna var svo gjörður: Á þeim voru speld milli brúnalistanna. 7.29 En á speldunum, sem voru milli brúnalistanna, voru ljón, naut og kerúbar, og eins á brúnalistunum. Og bæði fyrir ofan og fyrir neðan ljónin og nautin voru hangandi blómfestar. 7.30 Á hverjum vagni voru fjögur hjól af eiri og öxlar af eiri. Á fjórum hornum hvers vagns voru þverslár. Voru þverslárnar steyptar undir kerið. Gegnt hverri þeirra voru blómfestar. 7.31 Opin á kerunum voru fyrir innan þverslárnar, alin á hæð, og voru þau kringlótt, hálf önnur alin. Og einnig á börmum opsins voru grafnar myndir. Speldin voru ferskeytt, ekki kringlótt. 7.32 Hjólin fjögur voru undir speldunum og hjólhaldararnir festir við vagninn. En hvert hjól var hálf önnur alin á hæð. 7.33 Og hjólin voru gjörð eins og vagnhjól. Haldarar þeirra, hringir, spelir og nafir, _ allt var það steypt. 7.34 Á fjórum hornum hvers vagns voru fjórar þverslár. Gengu þverslárnar upp af vögnunum. 7.35 Uppi á hverjum vagni var eins konar standur, hálf alin á hæð, alls staðar sívalur. Og ofan á vagninum voru haldarar hans og speld og gengu upp úr honum. 7.36 Á fleti haldara hans og á speld hans gróf hann kerúba, ljón og pálma, eftir því sem rúm var til á hverju, og blómfestar í kring. 7.37 Á þennan hátt gjörði hann vagnana tíu. Þeir voru allir eins steyptir, jafnstórir og af sömu gerð. 7.38 Þá gjörði hann tíu ker af eiri. Tók hvert ker fjörutíu bat, og var hvert þeirra fjórar álnir að þvermáli. Eitt ker var á hverjum pallanna tíu. 7.39 Og hann setti fimm vagnanna hægra megin í húsið og fimm vinstra megin. En hafið setti hann hægra megin við húsið, í austur, gegnt suðri. 7.40 Og Híram gjörði kerin, eldspaðana og fórnarskálarnar, og þannig lauk hann við allar þær smíðar, er hann hafði gjört fyrir Salómon konung í hús Drottins: 7.41 tvær súlur og tvær kúlur á súlnahöfðunum og bæði riðnu netin, er hylja áttu báðar kúlurnar á súlnahöfðunum, 7.42 og fjögur hundruð granateplin á bæði netin, tvær raðir af granateplum á hvort net, er hylja áttu báðar kúlurnar á súlnahöfðunum. 7.43 Enn fremur vagnana tíu og kerin tíu á vögnunum, 7.44 og hafið og tólf nautin undir hafinu, 7.45 og katlana, eldspaðana og fórnarskálarnar. Öll þessi áhöld, er Híram hafði gjört fyrir Salómon konung í hús Drottins, voru úr skyggðum eiri. 7.46 Lét konungur steypa þau á Jórdansléttlendinu í leirmótum, milli Súkkót og Saretan. 7.47 Salómon lét áhöldin vera óvegin, af því að þau voru afar mörg. Þyngd eirsins var eigi rannsökuð. 7.48 Og Salómon gjörði öll þau áhöld, sem voru í húsi Drottins: gullaltarið og borðið, sem skoðunarbrauðin lágu á, af gulli, 7.49 og ljósastikurnar, fimm hægra megin og fimm vinstra megin, fyrir framan innhúsið af skíru gulli, og blómin, lampana og ljósasöxin af gulli, 7.50 og katlana, skarbítana, fórnarskálarnar, bollana, eldpönnurnar af skíru gulli. Hjarirnar á vængjahurðum innsta hússins, Hins allrahelgasta, og á vængjahurðum musterisins, aðalhússins, voru og af gulli. 7.51 Og er öllu því verki var lokið, er Salómon konungur lét gjöra í húsi Drottins, þá flutti hann helgigjafir Davíðs föður síns inn í það, silfrið og gullið, en áhöldin lét hann í féhirslur Drottins húss.
8.1 Þá safnaði Salómon saman öldungum Ísraels og öllum foringjum kynþáttanna, ætthöfðingjum Ísraelsmanna, til sín í Jerúsalem til þess að flytja sáttmálsörk Drottins upp eftir frá Davíðsborg, það er Síon. 8.2 Þá söfnuðust allir Ísraelsmenn til Salómons konungs í etaním-mánuði á hátíðinni (er sá mánuður hinn sjöundi). 8.3 Þá komu allir öldungar Ísraels, og prestarnir tóku örkina. 8.4 Og þeir fluttu örk Drottins og samfundatjaldið og öll hin helgu áhöld, er í tjaldinu voru. Fluttu prestarnir og levítarnir þau upp eftir. 8.5 En Salómon konungur og allur Ísraelssöfnuður, er safnast hafði til hans, stóð ásamt honum frammi fyrir örkinni. Fórnuðu þeir sauðum og nautum, er eigi varð tölu né ætlan á komið fyrir fjölda sakir. 8.6 Og prestarnir fluttu sáttmálsörk Drottins á sinn stað, í innhús musterisins, inn í Hið allrahelgasta, inn undir vængi kerúbanna. 8.7 Kerúbarnir breiddu út vængina þar yfir, er örkin stóð, og þannig huldu þeir örkina og stengur hennar ofan frá. 8.8 Stengurnar voru svo langar, að stangarendarnir sáust frá helgidóminum fyrir framan innhúsið, en utan að sáust þeir ekki. Og þær hafa verið þar fram á þennan dag. 8.9 Í örkinni var ekkert nema steintöflurnar tvær, er Móse hafði lagt þar við Hóreb, töflur sáttmálans, er Drottinn gjörði við Ísraelsmenn, þá er þeir fóru af Egyptalandi. 8.10 En er prestarnir gengu út úr helgidóminum, fyllti ský hús Drottins, 8.11 og máttu prestarnir eigi inn ganga fyrir skýinu til þess að gegna þjónustu, því að dýrð Drottins fyllti hús Drottins. 8.12 Þá mælti Salómon: Sólina setti hann á himininn, en Drottinn hefir sjálfur sagt, að hann vilji búa í dimmu. 8.13 Nú hefi ég byggt þér hús til bústaðar, aðseturstað handa þér um eilífð. Svo er ritað í ljóðabókinni. 8.14 Þá sneri konungur sér við og blessaði allan Ísraelssöfnuð, en allur Ísraelssöfnuður stóð. 8.15 Og hann mælti: 'Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð, er talaði með munni sínum við Davíð föður minn og efndi með hendi sinni það, er hann lofaði, þá er hann sagði: 8.16 ,Frá því er ég leiddi lýð minn Ísrael út af Egyptalandi, hefi ég ekki útvalið neina borg af öllum ættkvíslum Ísraels til þess að byggja þar hús, þar sem nafn mitt skyldi búa. En nú hefi ég útvalið Jerúsalem, til þess að nafn mitt búi þar, og ég útvaldi Davíð, til þess að hann skyldi ríkja yfir lýð mínum Ísrael.` 8.17 Davíð faðir minn hafði í hyggju að reisa hús nafni Drottins, Ísraels Guðs, 8.18 en Drottinn sagði við Davíð föður minn: ,Vel gjörðir þú, er þú ásettir þér að reisa hús nafni mínu. 8.19 En eigi skalt þú reisa húsið, heldur skal sonur þinn, sá er út gengur af lendum þínum, reisa hús nafni mínu.` 8.20 Og Drottinn hefir efnt orð sín, þau er hann talaði, því að ég kom í stað Davíðs föður míns og settist í hásæti Ísraels, svo sem Drottinn hafði heitið, og hefi nú reist hús nafni Drottins, Ísraels Guðs. 8.21 Og þar bjó ég örkinni stað, sem í er sáttmál Drottins, það er hann gjörði við feður vora, þá er hann leiddi þá út af Egyptalandi.' 8.22 Og Salómon gekk fyrir altari Drottins í viðurvist alls Ísraelssafnaðar, fórnaði höndum til himins 8.23 og mælti: 'Drottinn, Guð Ísraels, enginn guð er sem þú á himnum uppi eða á jörðu niðri, þú sem heldur sáttmálann og miskunnsemina við þjóna þína, þá er ganga fyrir augliti þínu af öllu hjarta sínu, 8.24 þú sem hefir haldið það við þjón þinn, Davíð föður minn, er þú hést honum. Þú talaðir það með munni þínum og efndir það með hendi þinni, eins og nú er fram komið. 8.25 Efn nú, Drottinn, Ísraels Guð, við þjón þinn Davíð föður minn, það er þú hést honum, þá er þú sagðir: ,Eigi skal þig vanta eftirmann frammi fyrir mér, er sitji í hásæti Ísraels, ef synir þínir aðeins varðveita vegu mína með því að ganga fyrir augliti mínu, eins og þú hefir gengið fyrir augliti mínu.` 8.26 Lát nú, Ísraels Guð, rætast orð þín, þau er þú talaðir við þjón þinn, Davíð föður minn. 8.27 En mun Guð í sannleika búa á jörðu? Sjá, himinninn og himnanna himnar taka þig ekki, hve miklu síður þá þetta hús, sem ég hefi reist. 8.28 En snú þér, Drottinn Guð minn, að bæn þjóns þíns og grátbeiðni hans, að þú heyrir ákall það og bæn, er þjónn þinn ber fram fyrir þig í dag: 8.29 að augu þín séu opin yfir þessu húsi dag og nótt, yfir þeim stað, er þú hefir um sagt: ,Þar skal nafn mitt búa` _ að þú heyrir bæn þá, er þjónn þinn biður á þessum stað. 8.30 Og heyr þú grátbeiðni þjóns þíns og lýðs þíns Ísraels, er þeir fram bera á þessum stað, já heyr þú hana þar er þú býr á himnum, og fyrirgef, er þú heyrir. 8.31 Ef einhver gjörir á hluta náunga síns, og hann verður eiðs krafinn og látinn sverja, og hann kemur og vinnur eiðinn fyrir altari þínu í húsi þessu, þá heyr þú það á himnum. 8.32 Lát til þín taka og dæm þjóna þína með því að sakfella hinn seka og láta honum gjörðir hans í koll koma, en sýkna hinn saklausa og umbuna honum eftir réttlæti hans. 8.33 Ef lýður þinn Ísrael bíður ósigur fyrir óvinum sínum, af því að þeir hafa syndgað í móti þér, og þeir snúa sér til þín og játa þitt nafn og biðja og grátbæna þig í þessu húsi, 8.34 þá heyr þú það á himnum og fyrirgef synd lýðs þíns Ísraels og leið þá aftur heim til þess lands, sem þú gafst feðrum þeirra. 8.35 Ef himinninn er byrgður, svo að eigi nær að rigna, af því að þeir hafa syndgað í móti þér, og þeir biðja á þessum stað og játa nafn þitt og snúa sér frá syndum sínum, af því að þú auðmýkir þá, 8.36 þá heyr þú það á himnum og fyrirgef synd þjóna þinna og lýðs þíns Ísraels, því að þú kennir þeim þann góða veg, sem þeir eiga að ganga, og gef regn yfir land þitt, það er þú hefir gefið þínum lýð til eignar. 8.37 Ef hallæri verður í landinu, ef drepsótt kemur, eða korndrep eða gulnan, engisprettur eða jarðvargar, ef óvinir hans þrengja að honum í einhverri af borgum hans, eða plágu eða sótt ber að höndum, þá heyr þú, 8.38 ef einhver maður af lýð þínum Ísrael ber fram bæn eða grátbeiðni, af því að hann kennir angurs í hjarta sínu, og fórnar höndum til þessa húss _ 8.39 þá heyr þú það á himnum, aðseturstað þínum, og fyrirgef og lát til þín taka og gef sérhverjum eins og hann hefir til unnið og svo sem þú þekkir hjarta hans _ því að þú einn þekkir hjörtu allra manna _ 8.40 til þess að þeir óttist þig alla þá stund, er þeir lifa í landinu, er þú gafst feðrum vorum. 8.41 Ef útlendingur, sem eigi er af lýð þínum Ísrael, en kemur úr fjarlægu landi vegna nafns þíns _ 8.42 því að þeir munu heyra getið um þitt mikla nafn, þína sterku hönd og útréttan armlegg þinn _ ef hann kemur hingað og biður frammi fyrir þessu húsi, 8.43 þá heyr þú það á himnum, aðseturstað þínum, og gjör allt það, sem útlendingurinn biður þig um, til þess að öllum þjóðum jarðarinnar verði kunnugt nafn þitt og þær óttist þig, eins og lýður þinn Ísrael, og til þess að þær megi vita, að hús þetta, sem ég hefi byggt, er kennt við þig. 8.44 Ef lýður þinn fer í ófrið í móti óvinum sínum, þangað sem þú sendir þá, og þeir biðja til Drottins og snúa sér í áttina til borgarinnar, sem þú hefir útvalið, og hússins, sem ég hefi reist þínu nafni, 8.45 þá heyr þú á himnum bæn þeirra og grátbeiðni og rétt þú hlut þeirra. 8.46 Ef þeir syndga í gegn þér _ því að enginn er sá, er eigi syndgi _ og þú reiðist þeim og gefur þá á vald óvinum þeirra, og sigurvegarar þeirra flytja þá hernumda til fjandmannalandsins, hvort sem þangað er langt eða skammt, 8.47 og þeir taka sinnaskipti í landinu, þar sem þeir eru hernumdir, og þeir snúa sér og grátbæna þig í landi sigurvegara sinna og segja: ,Vér höfum syndgað og vér höfum misgjört, vér höfum breytt óguðlega,` 8.48 og þeir snúa sér til þín af öllu hjarta sínu og allri sálu sinni í landi óvina sinna, er hafa flutt þá burt hernumda, og þeir biðja til þín og snúa sér í áttina til lands síns, þess er þú gafst feðrum þeirra, til borgarinnar, sem þú hefir útvalið, og til hússins, sem ég hefi reist þínu nafni, 8.49 þá heyr þú á himnum, aðseturstað þínum, bæn þeirra og grátbeiðni, og rétt þú hlut þeirra 8.50 og fyrirgef lýð þínum það, sem þeir misgjörðu í móti þér, og öll afbrotin, sem þeir drýgðu gegn þér, og lát þá hljóta miskunn af hendi þeirra, er þá hafa hernumið, svo að þeir miskunni þeim. 8.51 Því að þeir eru þinn lýður og þín eign, sem þú leiddir út af Egyptalandi, út úr járnbræðsluofninum. 8.52 Lát opin vera augu þín fyrir grátbeiðni þjóns þíns og grátbeiðni lýðs þíns Ísraels, að þú bænheyrir þá, hvenær sem þeir biðja þig. 8.53 Því að þú hefir skilið þá frá öllum þjóðum jarðarinnar þér til eignar, eins og þú hést fyrir þjón þinn Móse, þá er þú, Drottinn Guð, leiddir feður vora af Egyptalandi.' 8.54 Þegar Salómon hafði lokið þessari bæn og grátbeiðni til Drottins, þá stóð hann upp frammi fyrir altari Drottins, þar sem hann hafði kropið á kné og fórnað höndum til himins. 8.55 Gekk hann nú fram og blessaði allan Ísraelssöfnuð hárri röddu og mælti: 8.56 'Lofaður sé Drottinn, sem veitt hefir hvíld lýð sínum Ísrael, eins og hann hefir heitið. Ekkert af öllum hans dýrlegu fyrirheitum, sem hann gaf fyrir þjón sinn Móse, hefir brugðist. 8.57 Drottinn, Guð vor, sé með oss, eins og hann hefir verið með feðrum vorum. Hann yfirgefi oss ekki og útskúfi oss ekki, 8.58 heldur hneigi hjörtu vor til sín, svo að vér göngum jafnan á hans vegum og varðveitum öll hans boðorð, lög og ákvæði, þau er hann lagði fyrir feður vora. 8.59 Og þessi mín orð, er ég hefi fram borið fyrir Drottin með grátbeiðni, séu nálæg Drottni, Guði vorum, dag og nótt, svo að hann rétti hlut þjóns síns og lýðs síns Ísraels, eftir því sem þörf gjörist á degi hverjum, 8.60 til þess að allar þjóðir á jörðinni komist að raun um, að Drottinn er Guð og enginn annar. 8.61 Hjörtu yðar séu heil og óskipt gagnvart Drottni, Guði vorum, svo að þér breytið eftir lögum hans og haldið boðorð hans, eins og nú.' 8.62 Þá fórnaði konungur og allur Ísrael með honum sláturfórnum frammi fyrir Drottni. 8.63 Salómon fórnaði tuttugu og tvö þúsund nautum og hundrað og tuttugu þúsund sauðum í heillafórn, er hann færði Drottni. Þannig vígði konungur og allir Ísraelsmenn hús Drottins. 8.64 Þann dag vígði konungur miðhluta forgarðsins, sem er fyrir framan hús Drottins, því að þar fórnaði hann brennifórninni og matfórninni og hinum feitu stykkjum heillafórnanna, því að eiraltarið, sem stóð frammi fyrir Drottni, var of lítið til þess að geta tekið brennifórnina, matfórnina og hin feitu stykki heillafórnanna. 8.65 Þannig hélt Salómon hátíðina og allur Ísrael með honum, mikill söfnuður, norðan þaðan er leið liggur til Hamat, allt suður til Egyptalandsár. Þeir héldu hátíð frammi fyrir Drottni, Guði vorum, í sjö daga, og aðra sjö daga, fjórtán daga alls. 8.66 En áttunda daginn lét hann fólkið frá sér fara. Og þeir kvöddu konung og fóru heim til sín, glaðir og í góðu skapi yfir öllum þeim gæðum, sem Drottinn hafði veitt Davíð þjóni sínum og lýð sínum Ísrael.
9.1 Þá er Salómon hafði lokið að byggja musteri Drottins og konungshöllina og allt annað, er hann fýsti að gjöra, 9.2 þá vitraðist Drottinn honum í annað sinn, eins og hann hafði vitrast honum í Gíbeon. 9.3 Og Drottinn sagði við hann: 'Ég hefi heyrt bæn þína og grátbeiðni, sem þú barst fram fyrir mig. Ég hefi helgað þetta hús, sem þú hefir reist, með því að ég læt nafn mitt búa þar að eilífu, og augu mín og hjarta skulu dvelja þar alla daga. 9.4 Ef þú nú gengur fyrir augliti mínu, eins og Davíð faðir þinn gjörði, í hreinskilni hjartans og einlægni, svo að þú gjörir allt, sem ég hefi fyrir þig lagt, og heldur lög mín og ákvæði, 9.5 þá vil ég staðfesta hásæti konungdóms þíns yfir Ísrael að eilífu, eins og ég hét Davíð föður þínum, er ég sagði: ,Eigi skal þig vanta eftirmann í hásæti Ísraels.` 9.6 En ef þér snúið baki við mér, þér og synir yðar, og varðveitið eigi boðorð mín og lög, þau er ég hefi lagt fyrir yður, en farið og þjónið öðrum guðum og fallið fram fyrir þeim, 9.7 þá mun ég uppræta Ísrael úr því landi, sem ég gaf þeim, og húsinu, sem ég hefi helgað nafni mínu, mun ég burt snara frá augliti mínu, og Ísrael skal verða að orðskvið og spotti meðal allra þjóða. 9.8 Og þetta hús, svo háreist sem það er _ hver sem gengur fram hjá því, honum mun blöskra og hann mun blístra. Og er menn spyrja: ,Hvers vegna hefir Drottinn leikið svo hart þetta land og þetta hús?` 9.9 munu menn svara: ,Af því að þeir yfirgáfu Drottin, Guð sinn, er leiddi feður þeirra af Egyptalandi, og héldu sér að öðrum guðum, féllu fram fyrir þeim og þjónuðu þeim. Fyrir því hefir Drottinn leitt yfir þá alla þessa ógæfu.'` 9.10 Að tuttugu árum liðnum, þá er Salómon hafði reist bæði húsin, musteri Drottins og konungshöllina _ 9.11 en Híram konungur í Týrus hafði hjálpað Salómon um sedrusvið, kýpresvið og gull, eins og hann vildi _, þá gaf Salómon konungur Híram tuttugu borgir í Galíleuhéraði. 9.12 Og Híram fór frá Týrus til þess að skoða borgirnar, er Salómon hafði gefið honum, en honum líkuðu þær ekki. 9.13 Þá sagði hann: 'Hvaða borgir eru þetta, sem þú hefir gefið mér, bróðir?' Fyrir því hafa þær verið kallaðar Kabúlhérað fram á þennan dag. 9.14 En Híram sendi konungi hundrað og tuttugu talentur gulls. 9.15 Svo stóð á vinnuskyldu þeirri, er Salómon konungur lagði á til þess að byggja musteri Drottins og höll sína, Milló og múra Jerúsalem, Hasór, Megiddó og Geser: 9.16 Faraó Egyptalandskonungur hafði farið herferð og unnið Geser og lagt eld í hana, en drepið Kanaanítana, sem bjuggu í borginni, og síðan gefið hana dóttur sinni, konu Salómons, í heimanmund. 9.17 En Salómon reisti Geser að nýju _ og Neðri Bethóron, 9.18 og Baalat og Tamar í óbyggðinni í landinu, 9.19 og allar vistaborgirnar, sem Salómon átti, og vagnliðsborgirnar og riddaraborgirnar, og allt sem Salómon fýsti að byggja í Jerúsalem, á Líbanon og í öllu ríki sínu: 9.20 Allt það fólk, sem eftir var af Amorítum, Hetítum, Peresítum, Hevítum og Jebúsítum, sem eigi heyrðu til Ísraelsmönnum, 9.21 niðjar þeirra, sem enn voru eftir í landinu og Ísraelsmenn eigi höfðu getað helgað banni _ á þá lagði Salómon skylduvinnu, og er svo enn í dag. 9.22 En af Ísraelsmönnum gjörði Salómon enga að þrælum, en þeir voru hermenn, embættismenn hans, hershöfðingjar hans, vagnkappar hans og foringjar fyrir vagnliði hans og riddaraliði. 9.23 Æðstu fógetarnir, er settir voru yfir verk Salómons, voru fimm hundruð og fimmtíu að tölu. Höfðu þeir eftirlit með mönnum þeim, er að verkinu unnu. 9.24 Óðara en dóttir Faraós var farin úr Davíðsborg í hús sitt, það er hann hafði reist handa henni, byggði hann Milló. 9.25 Þrisvar sinnum á ári fórnaði Salómon brennifórnum og heillafórnum á altarinu, er hann hafði reist Drottni, og færði auk þess reykelsisfórnir á því altari, sem stóð frammi fyrir Drottni. Þannig fullgjörði hann musterið. 9.26 Salómon konungur lét og smíða skip í Esjón Geber, sem liggur hjá Elat á strönd Rauðahafs, í Edómlandi. 9.27 Og Híram sendi á skipin menn sína, farmenn vana sjómennsku, ásamt mönnum Salómons. 9.28 Og þeir fóru til Ófír og sóttu þangað gull _ fjögur hundruð og tuttugu talentur _ og færðu það Salómon konungi.
10.1 Þegar drottningin í Saba spurði orðstír Salómons og orðróminn af húsinu, sem Salómon hafði reisa látið nafni Drottins, kom hún til þess að reyna hann með gátum. 10.2 Hún kom til Jerúsalem með mjög miklu föruneyti, með úlfalda, klyfjaða kryddjurtum og afar miklu gulli og gimsteinum. Og er hún kom til Salómons, bar hún upp fyrir honum allt, sem henni bjó í brjósti. 10.3 En Salómon svaraði öllum spurningum hennar. Var enginn hlutur hulinn konungi, er hann eigi gæti úr leyst fyrir hana. 10.4 Og er drottningin frá Saba sá alla speki Salómons og húsið, sem hann hafði reisa látið, 10.5 matinn á borði hans, bústaði þjóna hans og frammistöðu skutilsveina hans og klæði þeirra, byrlara hans og brennifórn hans, þá er hann fram bar í húsi Drottins, þá varð hún frá sér numin 10.6 og sagði við konung: 'Satt var það, er ég heyrði í landi mínu um þig og speki þína. 10.7 En ég trúði ekki orðrómnum, fyrr en ég kom og sá það með eigin augum. Og þó hafði ég ekki frétt helminginn. Þú ert miklu vitrari og auðugri en ég hafði frétt. 10.8 Sælir eru menn þínir, sælir þessir þjónar þínir, sem stöðugt standa frammi fyrir þér og heyra speki þína. 10.9 Lofaður sé Drottinn, Guð þinn, sem hafði þóknun á þér, svo að hann setti þig í hásæti Ísraels. Af því að Drottinn elskar Ísrael eilíflega, gjörði hann þig að konungi til að iðka rétt og réttlæti.' 10.10 Síðan gaf hún konungi hundrað og tuttugu talentur gulls og afar mikið af kryddjurtum og gimsteina. Hefir aldrei síðan hingað komið eins mikið af kryddjurtum eins og það, er drottningin frá Saba gaf Salómon konungi. 10.11 Sömuleiðis komu skip Hírams, er sóttu gull til Ófír, með afar mikið af rauðum sandelviði og gimsteinum frá Ófír. 10.12 Konungur lét gjöra handrið í hús Drottins og konungshöllina af sandelviðnum, svo og gígjur og hörpur handa söngmönnunum. Hefir aldrei slíkur sandelviður hingað komið eða sést hér fram á þennan dag. 10.13 Salómon konungur gaf drottningunni frá Saba allt, er hún girntist og kaus sér, auk þess er hann gaf henni af sinni konunglegu rausn. Hélt hún síðan heimleiðis og fór í land sitt með föruneyti sínu. 10.14 Gullið, sem Salómon fékk á einu ári, var sex hundruð sextíu og sex talentur gulls að þyngd 10.15 auk þess, sem kom inn í tollum frá varningsmönnum og við verslun kaupmanna og frá öllum konungum Araba og jörlum landsins. 10.16 Og Salómon konungur lét gjöra tvö hundruð skildi af slegnu gulli _ fóru sex hundruð siklar gulls í hvern skjöld _, 10.17 og þrjú hundruð buklara af slegnu gulli, fóru þrjár mínur gulls í hvern buklara. Lét konungur leggja þá í Líbanonsskógarhúsið. 10.18 Konungur lét og gjöra hásæti mikið af fílabeini og lagði það skíru gulli. 10.19 Gengu sex þrep upp að hásætinu, og efst var hásætið kringlótt að aftan. Bríkur voru báðumegin sætisins, og stóðu tvö ljón við bríkurnar. 10.20 Og tólf ljón stóðu á þrepunum, sex hvorumegin. Slík smíð hefir aldrei verið gjörð í nokkru konungsríki. 10.21 Öll voru drykkjarker Salómons konungs af gulli, og öll áhöld í Líbanonsskógarhúsinu voru af skíru gulli, ekkert af silfri, því að silfur var einskis metið á dögum Salómons. 10.22 Konungur hafði Tarsis-skip í förum með skipum Hírams. Þriðja hvert ár komu Tarsis-skipin heim hlaðin gulli og silfri, fílabeini, öpum og páfuglum. 10.23 Salómon konungur bar af öllum konungum jarðarinnar að auðlegð og visku. 10.24 Og allan heiminn fýsti að sjá Salómon til þess að heyra visku hans, sem Guð hafði lagt honum í brjóst. 10.25 Komu þeir þá hver með sína gjöf, silfurgripi og gullgripi, klæði og vopn, kryddjurtir, hesta og múla, ár eftir ár. 10.26 Og Salómon safnaði vögnum og riddurum, og hafði hann fjórtán hundruð vagna og tólf þúsund riddara. Lét hann þá vera í vagnliðsborgunum og með konungi í Jerúsalem. 10.27 Og konungur gjörði silfur eins algengt í Jerúsalem og grjót og sedrusvið eins og mórberjatrén, sem vaxa á láglendinu. 10.28 Hesta sína fékk Salómon frá Egyptalandi, og sóttu kaupmenn konungs þá í hópum og guldu fé fyrir, 10.29 svo að hver vagn, sem fenginn var sunnan af Egyptalandi, kostaði sex hundruð sikla silfurs, en hver hestur hundrað og fimmtíu. Og á þennan hátt voru og hestar fluttir út fyrir milligöngu þeirra til allra konunga Hetíta og konunga Sýrlendinga.
11.1 Salómon konungur unni mörgum útlendum konum auk dóttur Faraós, móabítískum, ammónítískum, edómítískum, sídonskum og hetítskum _ 11.2 konum af þeim þjóðum, er Drottinn hafði sagt um við Ísraelsmenn: ,Þér skuluð ekki eiga mök við þær, og þær skulu ekki eiga mök við yður. Þær munu vissulega snúa hjörtum yðar til guða sinna` _ til þeirra felldi Salómon ástarhug. 11.3 Hann átti sjö hundruð eiginkonur og þrjú hundruð hjákonur, og konur hans sneru hjarta hans afleiðis. 11.4 Og er Salómon var kominn á gamalsaldur, sneru konur hans hjarta hans til annarra guða, og hjarta hans var ekki einlægt gagnvart Drottni, Guði hans, eins og hjarta Davíðs föður hans hafði verið. 11.5 Og Salómon elti Astarte, goð Sídoninga, og Milkóm, viðurstyggð Ammóníta. 11.6 Salómon gjörði það sem illt var í augum Guðs og sýndi ekki Drottni fullkomna hlýðni, eins og gjört hafði Davíð faðir hans. 11.7 Þá reisti Salómon fórnarhæð fyrir Kamos, viðurstyggð Móabíta, á fjallinu sem liggur fyrir austan Jerúsalem, og fyrir Mólok, viðurstyggð Ammóníta. 11.8 Og svo gjörði hann fyrir allar hinar útlendu konur sínar, sem færðu goðum sínum reykelsisfórnir og sláturfórnir. 11.9 En Drottinn reiddist Salómon fyrir það, að hann sneri hjarta sínu frá Drottni, Ísraels Guði, sem þó hafði vitrast honum tvisvar 11.10 og bannað honum að elta aðra guði, en hann hafði ekki haldið það, sem Drottinn bauð honum. 11.11 Fyrir því sagði Drottinn við Salómon: 'Sökum þess, að þú hefir farið svo að ráði þínu og eigi haldið sáttmálann við mig, né skipanir þær, er ég fyrir þig lagði, þá mun ég rífa frá þér konungdóminn og fá hann í hendur þjóni þínum. 11.12 Þó mun ég ekki gjöra það meðan þú ert á lífi, vegna Davíðs föður þíns, en frá syni þínum mun ég rífa hann. 11.13 Samt mun ég eigi rífa frá honum allt konungsríkið. Eina ættkvísl mun ég fá syni þínum í hendur, vegna Davíðs þjóns míns og vegna Jerúsalem, sem ég hefi útvalið.' 11.14 Drottinn vakti Salómon upp mótstöðumann, Hadad Edómíta. Hann var af konungsættinni í Edóm. 11.15 Þá er Davíð var að eyða Edómítum og Jóab hershöfðingi fór til þess að grafa hina föllnu og drap alla karlmenn í Edóm ( 11.16 Jóab og allur Ísrael var þar sex mánuði, uns hann hafði gjöreytt öllum karlmönnum í Edóm), 11.17 þá flýði Hadad með nokkra Edómíta, er verið höfðu þjónar föður hans, og hélt til Egyptalands, en Hadad var þá unglingur. 11.18 Þeir tóku sig upp frá Midían og komu til Paran. Og þeir tóku menn með sér frá Paran og komu til Egyptalands, til Faraós Egyptalandskonungs. Hann gaf Hadad hús og fékk honum uppeldi og gaf honum land. 11.19 Hadad varð mjög þokkaður af Faraó, og gifti hann honum eldri systur Takpenes konu sinnar. 11.20 Og systir Takpenes fæddi honum Genúbat, son hans. En Takpenes ól hann upp í höll Faraós, og þannig varð Genúbat kyrr í höll Faraós meðal barna Faraós. 11.21 En er Hadad frétti til Egyptalands, að Davíð væri lagstur til hvíldar hjá feðrum sínum og að Jóab hershöfðingi væri dáinn, þá sagði Hadad við Faraó: 'Veit mér orlof, að ég megi fara til ættlands míns.' 11.22 Faraó svaraði honum: 'Hvers er þér vant hjá mér, fyrst þú vilt fara til ættlands þíns?' Hadad svaraði: 'Einskis, en veit mér þó fararleyfi.' 11.23 Og Guð vakti Salómon upp annan mótstöðumann, Resón Eljadason, er hlaupist hafði á brott frá Hadadeser, konungi í Sóba, húsbónda sínum. 11.24 Hann safnaði að sér mönnum og gjörðist foringi fyrir ránsflokki, þá er Davíð eyddi Sýrlendingum. Hann vann Damaskus, settist þar að og varð konungur í Damaskus. 11.25 Hann var mótstöðumaður Ísraels meðan Salómon var á lífi, auk þess óskunda, er Hadad gjörði. Hann hafði óbeit á Ísrael og var konungur yfir Sýrlandi. 11.26 Jeróbóam Nebatsson, Efraímíti frá Sereda, þjónn Salómons, gjörði og uppreisn gegn konungi. Móðir hans hét Serúa og var ekkja. 11.27 Þannig atvikaðist uppreisnin: Salómon var að byggja Milló og byggði fyrir skarðið, sem var á borg Davíðs föður hans. 11.28 Jeróbóam þessi var mesti dugnaðarmaður, og er Salómon sá, að þessi ungi maður var iðjumaður, setti hann hann yfir alla kvaðarmenn Jósefs ættar. 11.29 En svo bar til um þetta leyti, að Jeróbóam fór burt úr Jerúsalem, og Ahía spámaður frá Síló mætti honum á leiðinni. Ahía var klæddur nýrri yfirhöfn, og voru þeir tveir einir úti á víðavangi. 11.30 Þá þreif Ahía nýju yfirhöfnina, sem hann var í, reif hana sundur í tólf hluti 11.31 og sagði við Jeróbóam: 'Tak þú þér tíu hluti. Því að svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Sjá, ég ríf konungdóminn frá Salómon og gef þér tíu ættkvíslirnar, 11.32 en einni ættkvíslinni skal hann halda, sakir þjóns míns Davíðs og sakir Jerúsalem, borgarinnar, sem ég hefi útvalið af öllum ættkvíslum Ísraels, 11.33 sökum þess að þeir hafa yfirgefið mig og fallið fram fyrir Astarte, goði Sídoninga, Kamos, goði Móabíta, og Milkóm, goði Ammóníta, og eigi gengið á mínum vegum með því að gjöra það, sem rétt er í mínum augum, og halda lög mín og ákvæði, eins og gjörði Davíð faðir hans. 11.34 En eigi vil ég taka af honum allt ríkið, heldur vil ég láta hann vera þjóðhöfðingja alla ævi, sakir Davíðs þjóns míns, er ég útvaldi, en hann hélt ákvæði mín og lög. 11.35 En ég vil taka konungdóminn frá syni hans og gefa þér hann, tíu ættkvíslirnar. 11.36 En syni hans mun ég gefa eina ættkvísl, svo að þjónn minn Davíð hafi ávallt lampa fyrir augliti mínu í Jerúsalem, borginni, sem ég hefi útvalið til þess að láta nafn mitt búa þar. 11.37 En þig vil ég taka til þess að ríkja yfir öllu, sem þú girnist, og til að vera konungur yfir Ísrael. 11.38 Og ef þú hlýðir öllu, sem ég býð þér, og gengur á mínum vegum, gjörir það sem rétt er í mínum augum og heldur lög mín og boðorð, eins og Davíð þjónn minn gjörði, þá vil ég vera með þér og reisa þér stöðugt hús, eins og ég reisti Davíð, og fá þér Ísrael. 11.39 En niðja Davíðs mun ég auðmýkja sakir þessa, þó eigi um aldur og ævi.' 11.40 En Salómon leitaðist við að ráða Jeróbóam af dögum, en Jeróbóam tók sig upp og flýði til Egyptalands, til Sísaks konungs í Egyptalandi, og var hann í Egyptalandi, þar til er Salómon andaðist. 11.41 Það, sem meira er að segja um Salómon og allt það, er hann gjörði, og um speki hans, það er ritað í Annálum Salómons. 11.42 Og sá tími, er Salómon var konungur í Jerúsalem yfir öllum Ísrael, var fjörutíu ár. 11.43 Og Salómon lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður í borg Davíðs föður síns. Og Rehabeam sonur hans tók ríki eftir hann.
12.1 Rehabeam fór til Síkem, því að allur Ísrael var kominn þangað til þess að taka hann til konungs. 12.2 En er Jeróbóam Nebatsson frétti (hann var enn í Egyptalandi, þangað sem hann hafði flúið undan Salómon konungi), að Salómon væri dáinn, sneri hann heim frá Egyptalandi. 12.3 Þeir sendu boð og létu kalla hann. Þá kom Jeróbóam og allur söfnuður Ísraels og mæltu til Rehabeams á þessa leið: 12.4 'Faðir þinn lagði á oss hart ok, en gjör þú nú léttari hina hörðu ánauð föður þíns og hið þunga ok, er hann á oss lagði, og munum vér þjóna þér.' 12.5 Hann svaraði þeim: 'Farið nú burt og komið aftur til mín að þrem dögum liðnum.' Og lýðurinn fór burt. 12.6 Þá ráðgaðist Rehabeam konungur við öldungana, sem þjónað höfðu Salómon föður hans meðan hann lifði, og mælti: 'Hver andsvör ráðið þér mér að gefa þessum mönnum?' 12.7 Þeir svöruðu honum og mæltu: 'Ef þú í dag verður lýð þessum eftirlátur, lætur að orðum þeirra, gjörir að vilja þeirra og tekur vel máli þeirra, munu þeir verða þér eftirlátir alla daga.' 12.8 En Rehabeam hafnaði ráði því, er öldungarnir réðu honum, en ráðgaðist við unga menn, er vaxið höfðu upp með honum og nú þjónuðu honum, 12.9 og sagði við þá: 'Hver ráð gefið þér til, hversu vér skulum svara lýð þessum, er talað hefir til mín á þessa leið: ,Gjör léttara ok það, er faðir þinn á oss lagði`?' 12.10 Þá svöruðu honum hinir ungu menn, er vaxið höfðu upp með honum: 'Svo skalt þú svara lýð þessum, er sagði við þig: ,Faðir þinn gjörði ok vort þungt, en gjör þú oss það léttara` _ svo skalt þú mæla til þeirra: ,Litlifingur minn er digrari en lendar föður míns. 12.11 Hafi faðir minn lagt á yður þungt ok, mun ég gjöra ok yðar enn þyngra. Faðir minn refsaði yður með keyrum, en ég mun refsa yður með gaddasvipum.'` 12.12 Og Jeróbóam og allur lýðurinn kom til Rehabeams á þriðja degi, eins og konungur hafði sagt, þá er hann mælti: 'Komið til mín aftur á þriðja degi.' 12.13 Þá veitti konungur lýðnum hörð andsvör og fór eigi að ráðum þeim, er öldungarnir höfðu ráðið honum, 12.14 en talaði til þeirra á þessa leið, að ráði hinna ungu manna: 'Faðir minn gjörði ok yðar þungt, en ég mun gjöra ok yðar enn þyngra. Faðir minn refsaði yður með keyrum, en ég mun refsa yður með gaddasvipum.' 12.15 Þannig veitti konungur lýðnum enga áheyrn, því að svo var til stillt af Drottni, til þess að hann gæti látið rætast orð sín, þau er hann hafði talað til Jeróbóams Nebatssonar fyrir munn Ahía frá Síló. 12.16 Er allur Ísrael sá, að konungur veitti þeim enga áheyrn, þá lét lýðurinn þessi svör í móti koma: 'Hverja hlutdeild eigum vér í Davíð? Engan erfðahlut eigum vér í Ísaísyni. Far heim til þín, Ísrael! Gæt þú þíns eigin húss, Davíð!' Síðan fór Ísrael heim til sín. 12.17 En yfir þeim Ísraelsmönnum, er bjuggu í Júdaborgum, var Rehabeam konungur. 12.18 Rehabeam konungur sendi til þeirra Adóníram, sem var yfir kvaðarmönnum, en allur Ísrael lamdi hann grjóti til bana, og Rehabeam konungur hljóp í skyndi á vagn sinn og flýði til Jerúsalem. 12.19 Þannig gekk Ísrael undan ætt Davíðs, og stendur svo enn í dag. 12.20 Þegar Ísraelslýður heyrði, að Jeróbóam væri aftur kominn, sendu þeir og kölluðu hann á þingið og tóku hann til konungs yfir allan Ísrael. En enginn fylgdi Davíðsætt, nema Júda-ættkvísl ein. 12.21 Er Rehabeam kom til Jerúsalem, safnaði hann saman öllum Júdamönnum og Benjamíns-ættkvísl, hundrað og áttatíu þúsundum einvalaliðs, til þess að berjast við Ísraelsríki og ná konungdóminum aftur undir Rehabeam, son Salómons. 12.22 En orð Guðs kom til Semaja guðsmanns, svolátandi: 12.23 'Tala þú svo til Rehabeams, sonar Salómons, konungs í Júda, og til Júdamanna og Benjamíns-ættkvíslar og til alls hins lýðsins: 12.24 Svo segir Drottinn: Farið eigi og berjist eigi við bræður yðar Ísraelsmenn. Fari hver heim til sín, því að að minni tilhlutun er þetta orðið.' Og er þeir heyrðu orð Drottins, hurfu þeir aftur, eins og Drottinn bauð. 12.25 Jeróbóam víggirti Síkem á Efraímfjöllum og settist þar að. Þaðan fór hann og víggirti Penúel. 12.26 Og Jeróbóam hugsaði með sér: 'Nú mun konungdómurinn aftur hverfa undir Davíðsætt. 12.27 Ef lýður þessi fer upp til Jerúsalem til þess að færa sláturfórnir í musteri Drottins, þá mun hjarta lýðs þessa aftur hverfa til Rehabeams Júdakonungs, herra hans, en mig munu þeir myrða og ganga svo aftur á hönd Rehabeam Júdakonungi.' 12.28 Þá hugsaði konungur ráð sitt, lét gjöra tvo gullkálfa og mælti til lýðsins: 'Nógu lengi hafið þér farið upp til Jerúsalem. Sjá, hér er guð þinn, Ísrael, sá er leiddi þig út af Egyptalandi.' 12.29 Setti hann annan í Betel, en hinn setti hann í Dan. 12.30 En þetta varð til syndar, og lýðurinn gekk fram fyrir annan þeirra alla leið til Dan. 12.31 Hann gjörði og hof á hæðunum og gjörði að prestum óvalda menn, er ekki voru niðjar Leví. 12.32 Og Jeróbóam setti hátíð fimmtánda dag hins áttunda mánaðar, eins og hátíðina, sem haldin var í Júda, og hann gekk upp að altarinu. Þannig gjörði hann í Betel til þess að færa fórnir kálfunum, er hann hafði gjöra látið, og hann setti hæðaprestana, er hann hafði skipað, til þjónustu í Betel. 12.33 Jeróbóam gekk upp að altarinu, er hann hafði gjöra látið í Betel á fimmtánda degi hins áttunda mánaðar, í þeim mánuði er hann hafði ákveðið að eigin geðþótta til hátíðahalds fyrir Ísraelsmenn. Hann gekk upp að altarinu til þess að færa reykelsisfórn.
13.1 Og sjá, þegar Jeróbóam stóð fyrir altarinu til þess að færa þar reykelsisfórn, kom guðsmaður nokkur frá Júda til Betel að boði Drottins 13.2 og æpti gegn altarinu að boði Drottins og mælti: 'Altari, altari! Svo segir Drottinn: Sonur mun fæðast húsi Davíðs, Jósía að nafni. Hann mun á þér slátra hæðaprestunum, þeim er færa reykelsisfórnir á þér, og mannabeinum mun á þér brennt verða.' 13.3 Og hann boðaði tákn þann dag og mælti: 'Þetta er tákn þess, að Drottinn hafi talað: Sjá, altarið mun rifna og askan, sem á því er, steypast niður.' 13.4 Þegar konungur heyrði orð guðsmannsins, þau er hann æpti gegn altarinu í Betel, þá bandaði Jeróbóam með hendinni frá altarinu og mælti: 'Takið hann höndum!' Þá visnaði hönd hans, er hann hafði bandað með móti honum, og hann gat ekki dregið hana að sér aftur. 13.5 En altarið rifnaði og askan steyptist niður af altarinu, samkvæmt tákninu, er guðsmaðurinn hafði boðað eftir skipun Drottins. 13.6 Þá tók konungur til máls og mælti við guðsmanninn: 'Blíðka þú Drottin, Guð þinn, og bið fyrir mér, svo að ég geti aftur dregið höndina að mér.' Þá blíðkaði guðsmaðurinn Drottin, svo að konungur gat aftur dregið að sér höndina, og varð hún jafngóð. 13.7 Því næst mælti konungur við guðsmanninn: 'Kom þú heim með mér og hress þig, og mun ég gefa þér gjöf nokkra.' 13.8 En guðsmaðurinn mælti við konung: 'Þótt þú gæfir mér hálfa aleigu þína, þá mundi ég samt eigi með þér fara, og eigi mundi ég matar neyta og eigi vatn drekka á þessum stað. 13.9 Því að svo hefir mér boðið verið fyrir orð Drottins, er var á þessa leið: ,Þú skalt eigi matar neyta né vatn drekka, og þú skalt eigi snúa aftur sömu leiðina sem þú komst.'` 13.10 Síðan fór hann burt aðra leið og sneri eigi aftur sömu leiðina sem hann hafði farið til Betel. 13.11 Í Betel bjó gamall spámaður. Og synir hans komu og sögðu honum frá öllu því, sem guðsmaðurinn hafði gjört í Betel þennan dag, og orð þau, er hann hafði talað til konungs. Og er þeir sögðu föður sínum frá þessu, 13.12 mælti faðir þeirra til þeirra: 'Hvaða leið fór hann?' Og synir hans sýndu honum, hvaða leið guðsmaðurinn, sem kominn var frá Júda, hefði farið. 13.13 Og hann sagði við sonu sína: 'Söðlið mér asnann.' Og þeir söðluðu asnann fyrir hann og hann steig á bak, 13.14 hélt á eftir guðsmanninum og fann hann, þar sem hann sat undir eik nokkurri. Hann mælti til hans: 'Ert þú guðsmaðurinn, sem kom frá Júda?' Hinn svaraði: 'Er ég víst.' 13.15 Þá sagði gamli spámaðurinn við hann: 'Kom þú heim með mér og neyt matar.' 13.16 Hinn mælti: 'Ég get eigi snúið við með þér né með þér farið, mun og hvorki matar neyta né vatn drekka á þessum stað. 13.17 Því að við mig hefir verið sagt fyrir orð Drottins: ,Þú skalt hvorki neyta þar matar né vatn drekka, þú skalt ekki snúa aftur sömu leiðina sem þú komst.'` 13.18 Gamli spámaðurinn sagði þá við hann: 'Ég er einnig spámaður, eins og þú, og engill hefir talað við mig eftir orði Drottins á þessa leið: ,Far þú með hann aftur heim til þín, að hann megi matar neyta og vatn drekka.'` En hann laug að honum. 13.19 Sneri hann þá við með honum og neytti matar í húsi hans og drakk vatn. 13.20 En er þeir sátu undir borðum, kom orð Drottins til spámannsins, er snúið hafði hinum aftur. 13.21 Og hann kallaði til guðsmannsins, er kominn var frá Júda, og mælti: 'Svo segir Drottinn: Sökum þess að þú óhlýðnaðist skipun Drottins og varðveittir eigi boð það, er Drottinn, Guð þinn, fyrir þig lagði, 13.22 heldur snerir við og neyttir matar og drakkst vatn á þeim stað, er hann sagði um við þig: ,Þú skalt þar eigi matar neyta né vatn drekka` _ þá skal lík þitt eigi koma í gröf feðra þinna.' 13.23 En er gamli spámaðurinn hafði etið og drukkið, lét hann söðla asnann fyrir spámanninn, er hann hafði snúið aftur. 13.24 Hélt hann nú af stað, en ljón mætti honum á leiðinni og drap hann. Og lík hans lá þar endilangt á veginum, og asninn stóð yfir því, og ljónið stóð yfir líkinu. 13.25 Og er menn fóru þar fram hjá, sáu þeir líkið liggja endilangt á veginum og ljónið standandi yfir líkinu. Þá komu þeir og sögðu frá því í borginni, þar sem gamli spámaðurinn átti heima. 13.26 Og er spámaðurinn, er snúið hafði hinum aftur, heyrði þetta, mælti hann: 'Það er guðsmaðurinn, sem óhlýðnaðist skipun Drottins. Fyrir því hefir Drottinn gefið hann ljóninu. Það hefir mulið hann sundur og drepið hann eftir orði Drottins, er hann hafði til hans talað.' 13.27 Þá mælti hann til sona sinna: 'Söðlið mér asnann.' Þeir gjörðu svo. 13.28 Síðan hélt hann af stað og fann lík hans liggjandi endilangt á veginum, og asnann og ljónið standandi yfir líkinu. En ljónið hafði hvorki etið líkið né mulið sundur asnann. 13.29 Þá tók spámaðurinn upp lík guðsmannsins, lagði það á asnann og flutti það til borgarinnar til þess að harma hann og jarða. 13.30 Og hann lagði lík hans í gröf sína, og menn hörmuðu hann, segjandi: 'Æ, bróðir minn!' 13.31 En er hann hafði jarðað hann, sagði hann við sonu sína: 'Þegar ég dey, þá jarðið mig í þeirri gröf, sem guðsmaðurinn er jarðaður í. Leggið mín bein hjá hans beinum. 13.32 Því að orðin, sem hann að boði Drottins æpti gegn altarinu í Betel og gegn öllum hæðahofunum í borgum Samaríu, munu vissulega rætast.' 13.33 Ekki sneri Jeróbóam sér eftir þennan atburð frá sínum vonda vegi, heldur gjörði að nýju óvalda menn að hæðaprestum. Hann vígði hvern sem vildi, og varð sá hinn sami þannig hæðaprestur. 13.34 En þetta varð húsi Jeróbóams til syndar og til þess að uppræta það og afmá af jörðinni.
14.1 Í þann tíma sýktist Abía, sonur Jeróbóams. 14.2 Þá sagði Jeróbóam við konu sína: 'Far nú og klæð þig dularbúningi, svo að enginn megi kenna, að þú ert kona Jeróbóams, og far til Síló. Þar er Ahía spámaður, sá er um mig sagði, að ég mundi verða konungur yfir lýð þessum. 14.3 Og tak með þér tíu brauð og kökur og krús með hunangi og gakk þú inn til hans. Hann mun segja þér, hvernig fara mun um sveininn.' 14.4 Kona Jeróbóams gjörði svo, lagði af stað og fór til Síló, og gekk inn í hús Ahía. Ahía mátti ekki sjá, því að augu hans voru stirðnuð af elli. 14.5 En Drottinn hafði sagt við Ahía: 'Sjá, kona Jeróbóams kemur til þess að leita frétta hjá þér um son sinn, því að hann er sjúkur. Svo og svo skalt þú til hennar mæla.' Þegar hún kom og lést vera önnur en hún var, 14.6 og Ahía heyrði fótatak hennar, er hún kom að dyrunum, þá sagði hann: 'Kom þú inn, kona Jeróbóams! Hvers vegna læst þú vera önnur en þú ert, þar sem ég þó er sendur til þín með hörð tíðindi? 14.7 Far þú og seg Jeróbóam: Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Sakir þess að ég hóf þig upp af alþýðu manna og gjörði þig að höfðingja yfir lýð mínum Ísrael, 14.8 og svipti ætt Davíðs konungdóminum og fékk þér hann í hendur, en þú hefir eigi verið sem þjónn minn Davíð, er hélt boðorð mín og var mér hlýðinn af öllu hjarta, svo að hann gjörði það eitt, er rétt var í mínum augum, 14.9 heldur hefir þú gjört meira illt en allir þeir, sem á undan þér voru, og hefir farið og gjört þér aðra guði, og það steypt líkneski, til þess að egna mig til reiði, og hefir kastað mér aftur fyrir þig _ 14.10 sakir þessa leiði ég ógæfu yfir hús Jeróbóams og mun uppræta fyrir honum hvern karlmann, bæði þræl og frelsingja í Ísrael. Og ég mun sópa burt húsi Jeróbóams, eins og saur er sópað burt, uns úti er um hann með öllu. 14.11 Hvern þann er deyr af ættmennum Jeróbóams innan borgar, munu hundar eta, og hvern þann, sem deyr úti á víðavangi, munu fuglar himins eta, því að Drottinn hefir talað það. 14.12 En statt þú nú upp og far heim til þín. Þegar þú stígur fæti inn í borgina, mun sveinninn deyja. 14.13 Og allur Ísrael mun harma hann, og menn munu grafa hann, því að hann er sá eini af ætt Jeróbóams, er greftrun mun hljóta, af því að eitthvað hefir það verið í fari hans, er Drottni, Guði Ísraels, geðjaðist að í ætt Jeróbóams. 14.14 Og Drottinn mun skipa konung yfir Ísrael, er uppræta mun hús Jeróbóams. Þetta er dagurinn, og hvað er nú þegar farið að koma fram? 14.15 Drottinn mun slá Ísrael, eins og reyrinn riðar í vatninu, og hann mun útrýma Ísrael úr þessu góða landi, er hann gaf feðrum þeirra, og tvístra þeim fyrir austan Efrat, af því að þeir hafa gjört sér asérur og egnt Drottin til reiði. 14.16 Og hann mun ofurselja Ísrael vegna synda þeirra, er Jeróbóam hefir drýgt og komið Ísrael til að drýgja.' 14.17 Þá stóð kona Jeróbóams upp, hélt af stað og kom til Tirsa, en er hún steig yfir þröskuld hússins, dó sveinninn. 14.18 Og þeir grófu hann og allur Ísrael harmaði hann, og rættist þannig orð Drottins, er hann hafði talað fyrir munn þjóns síns, Ahía spámanns. 14.19 Það sem meira er að segja um Jeróbóam, hvernig hann herjaði og hvernig hann ríkti, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 14.20 Og sá tími, sem Jeróbóam ríkti, var tuttugu og tvö ár. Þá lagðist hann til hvíldar hjá feðrum sínum, en Nadab sonur hans tók ríki eftir hann. 14.21 Rehabeam sonur Salómons varð konungur í Júda. Rehabeam hafði einn um fertugt, þá er hann varð konungur, og seytján ár ríkti hann í Jerúsalem, borginni, sem Drottinn hafði útvalið af öllum ættkvíslum Ísraels til þess að láta nafn sitt búa þar. Móðir hans hét Naama og var ammónítísk. 14.22 Júda gjörði það sem illt var í augum Drottins, og þeir vöktu vandlæting hans enn meir en feður þeirra höfðu gjört með öllum þeim syndum, er þeir drýgðu. 14.23 Því að einnig þeir gjörðu sér fórnarhæðir, merkissteina og asérur á öllum háum hólum og undir hverju grænu tré. 14.24 Þeir menn voru og í landinu, er helguðu sig saurlifnaði. Þeir aðhöfðust alla þá sömu svívirðing, sem þær þjóðir frömdu, er Drottinn hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum. 14.25 Á fimmta ríkisári Rehabeams fór Sísak Egyptalandskonungur herför móti Jerúsalem 14.26 og tók fjársjóðu Drottins húss og fjársjóðu konungshallarinnar, tók það allt saman. Hann tók og alla gullskildina, sem Salómon hafði gjöra látið. 14.27 En Rehabeam konungur lét í þeirra stað gjöra eirskildi og fékk þá höfuðsmönnum lífvarðarins til geymslu, þeim er geyma dyra á höll konungs. 14.28 Og í hvert sinn er konungur gekk í hús Drottins, báru varðliðsmennirnir skildina, og fóru síðan með þá aftur í herbergi varðliðsmannanna. 14.29 Það sem meira er að segja um Rehabeam, og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga. 14.30 Þeir áttu ávallt í ófriði saman, Rehabeam og Jeróbóam. 14.31 Og Rehabeam lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður hjá feðrum sínum í Davíðsborg. En móðir hans hét Naama og var ammónítísk. Og Abía sonur hans tók ríki eftir hann.
15.1 Á átjánda ríkisári Jeróbóams Nebatssonar varð Abía konungur yfir Júda. 15.2 Þrjú ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Maaka, dóttir Absalons. 15.3 Hann drýgði allar sömu syndirnar, er faðir hans hafði fyrir honum haft, og hjarta hans var ekki óskipt gagnvart Drottni, Guði hans, eins og hjarta Davíðs forföður hans. 15.4 Því að það var eingöngu Davíðs vegna, að Drottinn, Guð hans, gaf honum lampa í Jerúsalem, að hann hóf sonu hans eftir hann og lét Jerúsalem standa, 15.5 af því að Davíð hafði gjört það sem rétt var í augum Drottins og aldrei á ævi sinni vikið frá neinu því, er hann hafði fyrir hann lagt, nema hvernig hann fór með Úría Hetíta. 15.6 Rehabeam átti í ófriði við Jeróbóam alla ævi. 15.7 Það, sem meira er að segja um Abía, og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga. Og þeir áttu í ófriði saman, Abía og Jeróbóam. 15.8 Og Abía lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í Davíðsborg. Og Asa sonur hans tók ríki eftir hann. 15.9 Á tuttugasta ríkisári Jeróbóams, konungs í Ísrael, varð Asa konungur yfir Júda. 15.10 Fjörutíu og eitt ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Maaka, dóttir Absalons. 15.11 Asa gjörði það sem rétt var í augum Drottins, eins og Davíð forfaðir hans. 15.12 Hann rak þá menn úr landi, er helgað höfðu sig saurlifnaði, og útrýmdi öllum skurðgoðum, sem forfeður hans höfðu gjöra látið. 15.13 Hann svipti jafnvel Maöku móður sína drottningartigninni, fyrir það að hún hafði gjöra látið hræðilegt asérulíkneski. Og Asa hjó sundur þetta hræðilega líkneski hennar og brenndi það í Kídrondal. 15.14 En hæðirnar voru ekki afnumdar. Þó var hjarta Asa óskipt gagnvart Drottni alla ævi hans. 15.15 Hann lét og flytja í hús Drottins helgigjafir föður síns, svo og helgigjafir sínar _ silfur, gull og áhöld. 15.16 En þeir áttu ófrið saman alla ævi, Asa og Basa konungur í Ísrael. 15.17 Og Basa, konungur í Ísrael, fór herför á móti Júda og víggirti Rama, svo að enginn maður gæti komist út eða inn hjá Asa Júdakonungi. 15.18 Þá tók Asa allt silfrið og gullið, sem enn var eftir í féhirslum húss Drottins, og fjársjóðu konungshallarinnar og seldi í hendur mönnum sínum. Síðan sendi Asa konungur þá til Benhadads Tabrimmonssonar, Hesíonssonar, konungs á Sýrlandi, er bjó í Damaskus, með þessa orðsending: 15.19 'Sáttmáli er milli mín og þín, milli föður míns og föður þíns. Sjá, ég sendi þér gjöf í silfri og gulli. Skalt þú nú rjúfa bandalag þitt við Basa Ísraelskonung, svo að hann hafi sig á burt frá mér.' 15.20 Benhadad tók vel máli Asa konungs og sendi hershöfðingja sína móti borgum Ísraels og vann Íjón og Dan og Abel-Bet-Maaka og allt Kinnerót, svo og allt Naftalí-land. 15.21 Þegar Basa spurði það, hætti hann að víggirða Rama og sneri heim til Tirsa. 15.22 En Asa konungur bauð út öllum Júdamönnum _ enginn var undanskilinn. Og þeir fluttu burt steinana og viðinn, sem Basa hafði víggirt Rama með, og víggirti Asa konungur með þeim Geba í Benjamín og Mispa. 15.23 Það sem meira er að segja um Asa og hreystiverk hans og allt það, er hann gjörði, og borgirnar, sem hann víggirti, það er allt ritað í Árbókum Júdakonunga. Þó má geta þess, að á efri árum gjörðist hann fótaveikur. 15.24 Og Asa lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í borg Davíðs, forföður síns. Og Jósafat sonur hans tók ríki eftir hann. 15.25 Nadab, sonur Jeróbóams, varð konungur yfir Ísrael á öðru ríkisári Asa, konungs í Júda, og ríkti hann tvö ár yfir Ísrael. 15.26 Hann gjörði það sem illt var í augum Drottins og fetaði í fótspor föður síns og drýgði þær syndir, er hann hafði drýgt og komið Ísrael til að drýgja. 15.27 En Basa, sonur Ahía af ætt Íssakars, hóf samsæri gegn honum og vann sigur á honum við Gibbeton, sem Filistar áttu. En Nadab og allur Ísrael sátu þá um Gibbeton. 15.28 Þannig drap Basa hann á þriðja ríkisári Asa, konungs í Júda, og tók ríki eftir hann. 15.29 En er hann var konungur orðinn, drap hann alla ætt Jeróbóams. Hann lét engan eftir verða af konungsættinni, þann er anda dró, uns hann hafði gjöreytt henni, og rættist þannig orð Drottins, sem hann hafði talað fyrir munn þjóns síns, Ahía frá Síló, 15.30 vegna synda Jeróbóams, þeirra er hann hafði drýgt og komið Ísrael til að drýgja, er hann egndi Drottin, Guð Ísraels, til reiði. 15.31 Það sem meira er að segja um Nadab og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 15.32 En þeir áttu ófrið saman alla ævi, Asa og Basa, konungur í Ísrael. 15.33 Á þriðja ríkisári Asa, konungs í Júda, varð Basa, sonur Ahía, konungur yfir öllum Ísrael, og ríkti hann tuttugu og fjögur ár í Tirsa. 15.34 Hann gjörði það sem illt var í augum Drottins og fetaði í fótspor Jeróbóams og drýgði þær syndir, er hann hafði drýgt og komið Ísrael til að drýgja.
16.1 En orð Drottins kom til Jehú Hananísonar gegn Basa, svolátandi: 16.2 'Sakir þess að ég hefi hafið þig úr duftinu og gjört þig höfðingja yfir lýð mínum Ísrael, en þú fetar í fótspor Jeróbóams og kemur lýð mínum Ísrael til að syndga, svo að þeir egna mig til reiði með syndum sínum, 16.3 þá mun ég sópa burt Basa og ætt hans, og fara með ætt þína eins og ætt Jeróbóams Nebatssonar. 16.4 Hvern þann, er deyr af ætt Basa innan borgar, munu hundar eta, og hvern þann, er deyr af henni úti á víðavangi, munu fuglar himins eta.' 16.5 Það sem meira er að segja um Basa og það er hann gjörði og hreystiverk hans, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 16.6 Og Basa lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í Tirsa, og Ela sonur hans tók ríki eftir hann. 16.7 En fyrir munn Jehú spámanns Hananísonar kom dómsorð Drottins yfir Basa og ætt hans, bæði vegna alls þess illa, er hann hafði aðhafst í augsýn Drottins með því að egna hann til reiði með handaverkum sínum, svo að fyrir honum færi sem fyrir ætt Jeróbóams, og líka vegna þess, að hann hafði eytt henni. 16.8 Á tuttugasta og sjötta ríkisári Asa, konungs í Júda, varð Ela, sonur Basa, konungur yfir Ísrael og ríkti hann tvö ár í Tirsa. 16.9 En Simrí, þjónn hans, foringi fyrir helmingi vagnliðsins, hóf samsæri gegn honum. Og er Ela drakk sig drukkinn í Tirsa, í húsi Arsa, dróttseta í Tirsa, 16.10 þá kom þar Simrí og vann á honum og drap hann, á tuttugasta og sjöunda ríkisári Asa, konungs í Júda, og tók ríki eftir hann. 16.11 En er hann var konungur orðinn og setstur í hásæti, drap hann alla ættmenn Basa _ lét hann engan karlmann eftir verða af konungsættinni _ svo og vandamenn hans og vini. 16.12 Þannig gjöreyddi Simrí allri ætt Basa, og rættist svo orð Drottins, sem hann hafði talað gegn Basa fyrir munn Jehú spámanns, 16.13 sakir allra synda hans og synda Ela sonar hans, þeirra er þeir höfðu drýgt og komið Ísrael til að drýgja, að þeir egndu Drottin, Guð Ísraels, til reiði með hinum fánýtu goðum sínum. 16.14 Það sem meira er að segja um Ela og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 16.15 Á tuttugasta og sjöunda ríkisári Asa, konungs í Júda, varð Simrí konungur og ríkti sjö daga í Tirsa. En liðið sat þá um Gibbeton, sem Filistar áttu. 16.16 Og er liðið, sem lá í herbúðunum, frétti að Simrí hefði hafið samsæri og drepið konung, þá tók allur Ísrael Omrí, hershöfðingja í Ísrael, til konungs þann dag þar í herbúðunum. 16.17 Þá hélt Omrí og allur Ísrael með honum frá Gibbeton og settist um Tirsa. 16.18 En er Simrí sá að borgin var unnin, gekk hann inn í vígi konungshallarinnar og lagði eld í konungshöllina yfir höfði sér og beið svo bana 16.19 sakir synda þeirra, er hann hafði drýgt með því að gjöra það sem illt var í augum Drottins, með því að feta í fótspor Jeróbóams og drýgja sömu syndirnar, sem hann hafði drýgt, með því að koma Ísrael til að syndga. 16.20 Það sem meira er að segja um Simrí og samsærið, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 16.21 Þá skiptist Ísraelslýður. Fylgdi annar hluti lýðsins Tibní Gínatssyni og vildi gjöra hann að konungi, en hinn hlutinn fylgdi Omrí. 16.22 En þeir, sem Omrí fylgdu, urðu hinum yfirsterkari, er fylgdu Tibní Gínatssyni. En er Tibní var dauður, varð Omrí konungur. 16.23 Á þrítugasta og fyrsta ríkisári Asa, konungs í Júda, varð Omrí konungur yfir Ísrael og ríkti tólf ár. Sex ár ríkti hann í Tirsa. 16.24 Hann keypti Samaríufjall af Semer fyrir tvær talentur silfurs, og reisti byggð á fjallinu og kenndi borgina, sem hann byggði, við Semer, er átt hafði fjallið, og nefndi Samaríu. 16.25 Omrí gjörði það sem illt var í augum Drottins og hegðaði sér verr en allir þeir, sem verið höfðu á undan honum, 16.26 og fetaði að öllu leyti í fótspor Jeróbóams Nebatssonar og drýgði sömu syndirnar, sem hann hafði komið Ísrael til að drýgja, svo að þeir egndu Drottin, Guð Ísraels, til reiði með hinum fánýtu goðum sínum. 16.27 Það sem meira er að segja um Omrí og allt sem hann gjörði og hreystiverk hans, þau er hann vann, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 16.28 Og Omrí lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í Samaríu. Og Akab sonur hans tók ríki eftir hann. 16.29 Akab, sonur Omrí, varð konungur yfir Ísrael á þrítugasta og áttunda ríkisári Asa, konungs í Júda, og hann ríkti yfir Ísrael í Samaríu tuttugu og tvö ár. 16.30 Akab, sonur Omrí, gjörði það sem illt var í augum Drottins, og hegðaði sér verr en allir þeir, sem verið höfðu á undan honum. 16.31 Og hann lét sér ekki nægja að drýgja sömu syndirnar og Jeróbóam Nebatsson, heldur gekk hann að eiga Jesebel, dóttur Etbaals Sídoningakonungs. Fór hann þá og þjónaði Baal og tilbað hann. 16.32 Og hann reisti Baal altari í musteri Baals, er hann hafði gjöra látið í Samaríu. 16.33 Akab lét og gjöra aséru. Og hann gjörði enn fleira til að egna Drottin, Guð Ísraels, til reiði, framar öllum Ísraelskonungum, sem á undan honum höfðu verið. 16.34 Á hans dögum reisti Híel frá Betel Jeríkó að nýju. Missti hann frumgetning sinn, Abíram, er hann lagði undirstöður hennar, og yngsta son sinn, Segúb, er hann reisti hlið hennar. Var það samkvæmt orði Drottins, því er hann hafði talað fyrir munn Jósúa Núnssonar.
17.1 Elía Tisbíti, frá Tisbe í Gíleað, sagði við Akab: 'Svo sannarlega sem Drottinn, Guð Ísraels, lifir, sá er ég þjóna, skal þessi árin hvorki drjúpa dögg né regn, nema ég segi.' 17.2 Og orð Drottins kom til hans, svolátandi: 17.3 'Far þú héðan og hald austur á bóginn, og fel þig við lækinn Krít, sem er fyrir austan Jórdan. 17.4 Og þú skalt drekka úr læknum, og hröfnunum hefi ég boðið að fæða þig þar.' 17.5 Hann gjörði sem Drottinn bauð honum, fór og settist að við lækinn Krít, sem er fyrir austan Jórdan. 17.6 Og hrafnarnir færðu honum brauð og kjöt á morgnana og brauð og kjöt á kveldin, og úr læknum drakk hann. 17.7 En eftir nokkurn tíma þornaði lækurinn upp, því að eigi hafði komið skúr á jörð. 17.8 Þá kom orð Drottins til hans, svolátandi: 17.9 'Tak þig upp og far til Sarefta, sem tilheyrir Sídon, og sest þar að. Sjá, ég hefi boðið ekkju nokkurri þar að fæða þig.' 17.10 Þá tók hann sig upp og fór til Sarefta. Og er hann kom að borgarhliðinu, var ekkja þar að tína saman viðarkvisti. Hann kallaði til hennar og mælti: 'Sæk þú mér dálítið af vatni í ílátinu, að ég megi drekka.' 17.11 Og hún fór að sækja það, en hann kallaði á eftir henni og mælti: 'Færðu mér líka brauðbita.' 17.12 Hún svaraði: 'Svo sannarlega sem Drottinn, Guð þinn, lifir, á ég enga köku til, heldur aðeins hnefa mjöls í skjólu og lítið eitt af viðsmjöri í krús. Og sjá, ég er að tína saman fáeina viðarkvisti. Síðan ætla ég heim og matbúa þetta handa mér og syni mínum, að við megum eta það og deyja síðan.' 17.13 En Elía sagði við hana: 'Óttast ekki! Far þú heim og gjör sem þú sagðir. Gjör þú mér samt fyrst litla köku af því og fær mér út hingað, en matreið síðan handa þér og syni þínum. 17.14 Því að svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Mjölskjólan skal eigi tóm verða og viðsmjörið í krúsinni ekki þrjóta, allt til þess dags, er Drottinn gefur regn á jörð.' 17.15 Þá fór hún og gjörði eins og Elía hafði sagt, og hún hafði nóg að eta, bæði hún og hann og sonur hennar, um langa hríð. 17.16 Mjölskjólan varð ekki tóm og viðsmjörið í krúsinni þraut ekki, samkvæmt orði Drottins, því er hann hafði talað fyrir munn Elía. 17.17 Eftir þetta bar svo við, að sonur húsfreyju sýktist, og elnaði honum svo mjög sóttin, að hann dró eigi lengur andann. 17.18 Þá mælti hún við Elía: 'Hvað á ég saman við þig að sælda, guðsmaður? Þú ert til mín kominn til að minna á misgjörð mína og til að láta son minn deyja.' 17.19 En Elía sagði við hana: 'Fá þú mér son þinn.' Og hann tók hann úr kjöltu hennar og bar hann upp á loft, þar sem hann hafðist við, og lagði hann í rekkju sína. 17.20 Og hann kallaði til Drottins og mælti: 'Drottinn, Guð minn, ætlar þú líka að fara svo illa með ekkjuna, sem ég gisti hjá, að láta son hennar deyja?' 17.21 Og hann teygði sig þrisvar yfir sveininn og kallaði til Drottins og mælti: 'Drottinn, Guð minn, lát sál þessa sveins aftur til hans hverfa!' 17.22 Og Drottinn heyrði bæn Elía, og sál sveinsins kom aftur í hann, svo að hann lifnaði við. 17.23 En Elía tók sveininn og bar hann ofan af loftinu niður í húsið og fékk hann móður hans. Og Elía mælti: 'Sjá þú, sonur þinn er lifandi.' 17.24 Þá sagði konan við Elía: 'Nú veit ég, að þú ert guðsmaður og að orð Drottins í munni þínum er sannleikur.'
18.1 Löngu síðar kom orð Drottins til Elía, á þriðja ári þurrksins, svolátandi: 'Far og lát Akab sjá þig. Ég ætla að gefa regn á jörð.' 18.2 Þá fór Elía, til þess að láta Akab sjá sig. Hallærið var mikið í Samaríu. 18.3 Kallaði Akab þá Óbadía dróttseta fyrir sig. En Óbadía óttaðist Drottin mjög. 18.4 Fyrir því tók Óbadía, þá er Jesebel útrýmdi spámönnum Drottins, hundrað spámenn og fal þá, sína fimmtíu menn í hvorum helli, og birgði þá upp með brauði og vatni. 18.5 Akab sagði við Óbadía: 'Kom þú, við skulum fara um landið og leita uppi allar vatnslindir og alla læki. Vera má, að við finnum gras, svo að við getum haldið lífinu í hestum og múlum og þurfum ekki að fella nokkurn hluta af skepnunum.' 18.6 Síðan skiptu þeir með sér landinu til yfirferðar. Akab fór einn sér í aðra áttina, og Óbadía fór einn sér í hina áttina. 18.7 En er Óbadía var á leiðinni, sjá, þá mætti Elía honum. Og er hann þekkti hann, féll hann fram á ásjónu sína og mælti: 'Ert það þú, herra minn Elía?' 18.8 Hann svaraði honum: 'Er ég víst. Far og seg herra þínum: Elía er hér!' 18.9 En Óbadía mælti: 'Hvað hefi ég misgjört, er þú vilt selja þjón þinn í hendur Akab, svo að hann drepi mig? 18.10 Svo sannarlega sem Drottinn, Guð þinn, lifir, er engin sú þjóð til og ekkert það konungsríki, að herra minn hafi ekki sent þangað til þess að leita þín, og ef sagt var: ,Hann er hér ekki!` þá lét hann konungsríkið og þjóðina vinna eið að því, að enginn hefði hitt þig. 18.11 Og þó segir þú nú: ,Far og seg herra þínum: Elía er hér!` 18.12 En færi ég nú frá þér, þá mundi andi Drottins hrífa þig, ég veit ekki hvert, og ef ég þá kæmi til þess að segja Akab frá þessu, og hann fyndi þig ekki, þá mundi hann drepa mig, og þó hefir þjónn þinn óttast Drottin í frá barnæsku. 18.13 Hefir ekki herra minn frétt, hvað ég gjörði, er Jesebel drap spámenn Drottins, að ég fal hundrað manns af spámönnum Drottins, sína fimmtíu manns í hvorum helli, og birgði þá upp með brauði og vatni? 18.14 Og þó segir þú nú: ,Far og seg herra þínum: Elía er hér!` til þess að hann drepi mig.' 18.15 En Elía svaraði: 'Svo sannarlega sem Drottinn allsherjar lifir, sá er ég þjóna, mun ég láta Akab sjá mig þegar í dag.' 18.16 Þá fór Óbadía til móts við Akab og sagði honum frá þessu. Fór þá Akab til fundar við Elía. 18.17 En er Akab sá Elía, sagði Akab við hann: 'Ert þú þar, skaðvaldur Ísraels?' 18.18 Elía svaraði: 'Eigi hefi ég valdið Ísrael skaða, heldur þú og ætt þín, þar sem þér hafið virt boð Drottins að vettugi og þú elt Baalana. 18.19 En send þú nú og stefn til mín öllum Ísrael á Karmelfjalli, svo og þeim fjögur hundruð og fimmtíu Baalsspámönnum og þeim fjögur hundruð Aséruspámönnum, er eta við borð Jesebelar.' 18.20 Þá sendi Akab út á meðal allra Ísraelsmanna og stefndi spámönnunum til Karmelfjalls. 18.21 Þá gekk Elía fram fyrir allan lýðinn og mælti: 'Hversu lengi ætlið þér að haltra til beggja hliða? Sé Drottinn hinn sanni Guð, þá fylgið honum, en ef Baal er það, þá fylgið honum.' En lýðurinn svaraði honum engu orði. 18.22 Þá mælti Elía til lýðsins: 'Ég er einn eftir af spámönnum Drottins, en spámenn Baals eru fjögur hundruð og fimmtíu. 18.23 Fáið oss nú tvö naut. Skulu Baalsspámenn velja sér annað nautið og hluta það sundur og leggja á viðinn, en leggja eigi eld að, en ég mun fórna hinu nautinu og leggja á viðinn, en leggja eigi eld að. 18.24 Ákallið síðan nafn yðar guðs, en ég mun ákalla nafn Drottins. Sá guð, sem svarar með eldi, er hinn sanni Guð.' Þá svaraði allur lýðurinn og sagði: 'Þetta er vel mælt.' 18.25 Þá sagði Elía við spámenn Baals: 'Veljið yður nú annað nautið og fórnið fyrst, því að þér eruð svo margir, og ákallið nafn yðar guðs, en leggið eigi eld að.' 18.26 Þá tóku þeir nautið og fórnuðu því og ákölluðu nafn Baals frá morgni og til hádegis og sögðu: 'Baal, svara þú oss!' En þar var steinhljóð og ekkert svar. Og þeir höltruðu kringum altarið, sem þeir höfðu gjört. 18.27 En er komið var hádegi, tók Elía að gjöra gys að þeim og mælti: 'Kallið hárri röddu, því að hann er guð. Hann er hugsi, eða hefir brugðið sér burt, eða er farinn í ferð. Ef til vill er hann sofnaður og verður fyrst að vakna.' 18.28 En þeir kölluðu hárri röddu og ristu á sig skinnsprettur að sínum sið með sverðum og spjótum, uns þeim blæddi. 18.29 En er komið var fram yfir hádegi, komust þeir í guðmóð, þar til bera átti fram matfórnina. En þar var steinhljóð og ekkert svar og engin áheyrn. 18.30 Þá sagði Elía við allan lýðinn: 'Gangið hingað til mín!' Og allur lýðurinn gekk til hans. Þá reisti hann við altari Drottins, er niður hafði verið rifið. 18.31 Og Elía tók tólf steina, eftir ættkvíslatölu sona Jakobs _ þess manns er orð Drottins hafði komið til, svolátandi: ,Ísrael skalt þú heita!` _ 18.32 og reisti af steinunum altari í nafni Drottins og gjörði skurð umhverfis altarið, á stærð við reit, er í fara tvær seur útsæðis. 18.33 Síðan lagði hann viðinn á altarið, hlutaði sundur nautið og lagði það ofan á viðinn. 18.34 Því næst mælti hann: 'Fyllið fjórar skjólur með vatni og hellið yfir brennifórnina og viðinn.' Þeir gjörðu svo. Þá mælti hann: 'Gjörið það aftur.' Og þeir gjörðu það aftur. Og enn mælti hann: 'Gjörið það í þriðja sinn.' Og þeir gjörðu það í þriðja sinn. 18.35 Og vatnið rann allt í kringum altarið. Jafnvel skurðinn fyllti hann vatni. 18.36 En í það mund, er matfórnina skyldi fram bera, gekk Elía spámaður fram og mælti: 'Drottinn, Guð Abrahams, Ísaks og Ísraels! Lát í dag kunnugt verða, að þú ert Guð í Ísrael og ég þjónn þinn og að ég hefi gjört alla þessa hluti að þínu boði. 18.37 Bænheyr mig, Drottinn! Bænheyr mig, að lýður þessi megi komast að raun um, að þú, Drottinn, ert hinn sanni Guð, og að þú snýrð aftur hjörtum þeirra.' 18.38 Þá féll eldur Drottins niður og eyddi brennifórninni, viðnum, steinunum og grassverðinum, og vatnið í skurðinum þurrkaði hann einnig upp. 18.39 Og er allur lýðurinn sá það, féllu þeir fram á ásjónur sínar og sögðu: 'Drottinn er hinn sanni Guð, Drottinn er hinn sanni Guð!' 18.40 En Elía sagði við þá: 'Takið höndum spámenn Baals. Látið engan þeirra komast undan!' Og þeir handtóku þá, og Elía fór með þá niður að Kísonlæk og banaði þeim þar. 18.41 Síðan mælti Elía við Akab: 'Far þú upp eftir, et og drekk, því að ég heyri þyt af regni.' 18.42 Þá fór Akab upp eftir til þess að eta og drekka. En Elía fór efst upp á Karmel, beygði sig til jarðar og setti andlitið milli hnjánna. 18.43 Því næst sagði hann við svein sinn: 'Gakk þú upp og lít út til hafs.' Hann gekk upp, litaðist um og mælti: 'Það er ekkert að sjá.' Elía mælti: 'Far þú aftur.' Og sveinninn fór aftur og aftur, sjö sinnum. 18.44 En í sjöunda sinnið sagði hann: 'Nú stígur lítið ský, sem mannshönd, upp úr hafinu.' Þá sagði Elía: 'Far og seg Akab: ,Beit fyrir vagninn og far ofan, svo að regnið teppi þig ekki.'` 18.45 Eftir örskamma stund varð himinninn dimmur af skýjum og vindi, og það kom hellirigning. En Akab steig á vagn sinn og ók til Jesreel. 18.46 En hönd Drottins hreif Elía, og hann gyrti lendar sínar og hljóp á undan Akab alla leið til Jesreel.
19.1 Akab sagði Jesebel frá öllu því, sem Elía hafði gjört og hversu hann hafði drepið alla spámennina með sverði. 19.2 Þá sendi hún mann á fund Elía og lét segja honum: 'Guðirnir gjöri mér hvað sem þeir vilja nú og síðar: Á morgun í þetta mund skal ég fara svo með líf þitt, sem farið hefir verið með líf sérhvers þeirra.' 19.3 Þá varð hann hræddur, tók sig upp og hélt af stað til þess að forða lífi sínu. Hann kom til Beerseba, sem er í Júda. Þar lét hann eftir svein sinn. 19.4 En sjálfur fór hann eina dagleið á eyðimörku og kom þar sem gýfilrunnur var og settist undir hann. Þá óskaði hann sér að hann mætti deyja og mælti: 'Mál er nú, Drottinn, að þú takir líf mitt, því að mér er eigi vandara um en feðrum mínum.' 19.5 Síðan lagðist hann fyrir undir gýfilrunninum og sofnaði. Og sjá, engill snart hann og mælti til hans: 'Statt upp og et.' 19.6 Litaðist hann þá um og sá, að eldbökuð kaka lá að höfði honum og vatnskrús. Át hann þá og drakk og lagðist síðan aftur fyrir. 19.7 En engill Drottins kom aftur öðru sinni, snart hann og mælti: 'Statt upp og et, því að annars verður leiðin þér of löng.' 19.8 Stóð hann þá upp, át og drakk og hélt áfram fyrir kraft fæðunnar fjörutíu daga og fjörutíu nætur, uns hann kom að Hóreb, fjalli Guðs. 19.9 Þar gekk hann inn í helli og hafðist þar við um nóttina. Þá kom orð Drottins til hans: 'Hvað ert þú hér að gjöra, Elía?' 19.10 Hann svaraði: 'Ég hefi verið vandlætingasamur vegna Drottins, Guðs allsherjar, því að Ísraelsmenn hafa virt að vettugi sáttmála þinn, rifið niður ölturu þín og drepið spámenn þína með sverði, svo að ég er einn eftir orðinn, og sitja þeir nú um líf mitt.' 19.11 Þá sagði Drottinn: 'Gakk þú út og nem staðar á fjallinu frammi fyrir mér.' Og sjá, Drottinn gekk fram hjá, og mikill og sterkur stormur, er tætti fjöllin og molaði klettana, fór fyrir Drottni, en Drottinn var ekki í storminum. 19.12 Og eftir storminn kom landskjálfti, en Drottinn var ekki í landskjálftanum. Og eftir landskjálftann kom eldur, en Drottinn var ekki í eldinum. En eftir eldinn heyrðist blíður vindblær hvísla. 19.13 Og er Elía heyrði það, huldi hann andlit sitt með skikkju sinni, gekk út og nam staðar við hellisdyrnar. Sjá, þá barst rödd að eyrum honum og mælti: 'Hvað ert þú hér að gjöra, Elía?' 19.14 Hann svaraði: 'Ég hefi verið vandlætingasamur vegna Drottins, Guðs allsherjar, því að Ísraelsmenn hafa virt að vettugi sáttmála þinn, rifið niður ölturu þín og drepið spámenn þína með sverði, svo að ég er einn eftir orðinn, og sitja þeir nú um líf mitt.' 19.15 En Drottinn sagði við hann: 'Far þú aftur leiðar þinnar til Damaskuseyðimerkur og far inn í borgina og smyr Hasael til konungs yfir Sýrland. 19.16 Jehú Nimsíson skalt þú smyrja til konungs yfir Ísrael, og Elísa Safatsson frá Abel Mehóla skalt þú smyrja til spámanns í þinn stað. 19.17 Hvern þann, er kemst undan sverði Hasaels, mun Jehú drepa, og hvern þann, er kemst undan sverði Jehú, mun Elísa drepa. 19.18 Þó vil ég láta eftir verða í Ísrael sjö þúsundir, öll þau kné, sem eigi hafa beygt sig fyrir Baal, og alla þá munna, er eigi hafa kysst hann.' 19.19 Síðan fór Elía þaðan og hitti Elísa Safatsson. Hann var að plægja. Gengu tólf sameyki á undan honum, og sjálfur var hann með hinu tólfta. Þá gekk Elía til hans og lagði skikkju sína yfir hann. 19.20 Þá skildi hann eftir yxnin, rann eftir Elía og mælti: 'Leyf þú mér fyrst að minnast við föður minn og móður, síðan skal ég fara með þér.' Elía svaraði honum: 'Far og snú aftur, en mun hvað ég hefi gjört þér.' 19.21 Þá sneri hann aftur og skildi við hann, tók sameykin og slátraði þeim og sauð kjötið af þeim við aktygin af yxnunum og gaf fólkinu að eta. Síðan tók hann sig upp og fór á eftir Elía og gjörðist þjónn hans.
20.1 Benhadad konungur á Sýrlandi dró saman allan her sinn. Voru þrjátíu og tveir konungar með honum, með hestum og vögnum, og hann fór, settist um Samaríu og gjörði áhlaup á hana. 20.2 Og hann sendi menn til Akabs Ísraelskonungs inn í borgina 20.3 og lét segja honum: 'Svo segir Benhadad: Silfur þitt og gull er mitt, svo og hinar fegurstu konur þínar og synir.' 20.4 Ísraelskonungur svaraði og sagði: 'Eins og þú vilt vera láta, minn herra konungur. Ég er þinn og allt, sem ég á.' 20.5 Og sendimennirnir komu aftur og sögðu: 'Svo segir Benhadad: Ég hefi gjört þér þessa orðsending: Þú skalt gefa mér silfur þitt og gull, konur þínar og sonu. 20.6 Þegar ég á morgun í þetta mund sendi menn mína til þín, munu þeir rannsaka hús þitt og hús þinna manna, og skulu þeir taka og hafa á burt með sér sérhvað það, sem þeir ágirnast.' 20.7 Þá kallaði Ísraelskonungur alla öldunga landsins fyrir sig og mælti: 'Hyggið að og sjáið, að hann býr yfir illu, því að hann sendi til mín eftir konum mínum og sonum, silfri mínu og gulli, og synjaði ég honum þess ekki.' 20.8 Þá sögðu allir öldungarnir og allur lýðurinn við hann: 'Gegn þú eigi þessu og samþykk þú það eigi.' 20.9 Þá sagði Akab við sendimenn Benhadads: 'Segið mínum herra konunginum: Allt það, sem þú gjörðir þjóni þínum orð um í fyrstu, vil ég gjöra, en þetta get ég ekki gjört.' Þá fóru sendimennirnir og færðu honum svarið. 20.10 Þá sendi Benhadad til hans og lét segja: 'Guðirnir gjöri mér hvað sem þeir vilja, nú og síðar: Rykið í Samaríu mun eigi nægja til þess að fylla lúkurnar á öllu þessu liði, sem með mér er.' 20.11 En Ísraelskonungur svaraði og sagði: 'Segið honum: Eigi skyldi sá, er hervæðist, hrósa sér sem sá, er leggur af sér vopnin.' 20.12 Þegar Benhadad heyrði þetta svar, þar sem hann sat að drykkju með konungunum í laufskálunum, mælti hann til sinna manna: 'Færið fram hervélarnar.' Og þeir færðu þær fram gegnt borginni. 20.13 En spámaður nokkur gekk fyrir Akab Ísraelskonung og mælti: 'Svo segir Drottinn: Sér þú allan þennan mikla manngrúa? Hann gef ég þér í hendur í dag, svo að þú viðurkennir, að ég er Drottinn.' 20.14 Þá mælti Akab: 'Fyrir hvers fulltingi?' Spámaðurinn svaraði: 'Svo segir Drottinn: Fyrir fulltingi sveina héraðshöfðingjanna.' Þá spurði Akab: 'Hver á að hefja orustuna?' Hinn svaraði: 'Þú.' 20.15 Þá kannaði Akab sveina héraðshöfðingjanna, og voru þeir tvö hundruð þrjátíu og tveir. Og að því búnu kannaði hann allt liðið, alla Ísraelsmenn, sjö þúsund manns. 20.16 Um hádegið réðu þeir til útgöngu, en Benhadad sat þá ölvaður að drykkju í laufskálunum, hann og þeir þrjátíu og tveir konungar, er komnir voru honum til liðs. 20.17 Sveinar héraðshöfðingjanna fóru fremstir. Þá sendi Benhadad menn til að njósna. Þeir sögðu honum svo frá: 'Menn fara út frá Samaríu.' 20.18 Þá sagði hann: 'Hvort sem þeir fara út til þess að biðjast friðar eða til þess að berjast, þá takið þá höndum lifandi.' 20.19 Og er sveinar héraðshöfðingjanna og liðið, sem þeim fylgdi, fóru út af borginni 20.20 drápu þeir hver sinn mann. Flýðu þá Sýrlendingar, en Ísraelsmenn eltu þá. Og Benhadad Sýrlandskonungur komst undan á vagnhesti með nokkra riddara. 20.21 En Ísraelskonungur fór út og náði hestunum og vögnunum. Og hann vann mikinn sigur á Sýrlendingum. 20.22 Þá gekk spámaður fyrir Ísraelskonung og mælti til hans: 'Ver hugrakkur og hygg vandlega að, hvað þú skulir gjöra, því að næsta ár mun Sýrlandskonungur fara með her á hendur þér.' 20.23 Menn Sýrlandskonungs sögðu við hann: 'Guð Ísraelsmanna er fjallaguð, þess vegna urðu þeir oss yfirsterkari, en ef vér mættum berjast við þá á jafnsléttu, mundum vér vissulega vinna sigur á þeim. 20.24 En gjör þú þetta: Vík öllum konungunum frá völdum og set jarla í þeirra stað. 20.25 Safna síðan að þér jafnfjölmennu liði sem það lið var, er þú misstir, og jafnmörgum hestum og jafnmörgum vögnum sem þú misstir, og skulum vér berjast við þá á jafnsléttu, og munum vér vissulega sigrast á þeim.' Fór hann að ráðum þeirra og gjörði svo. 20.26 Árið eftir kannaði Benhadad Sýrlendinga og hélt til Afek til þess að berjast við Ísraelsmenn. 20.27 En Ísraelsmenn voru og kannaðir og birgðir að vistum, og fóru þeir í móti þeim, og settu Ísraelsmenn herbúðir gegnt þeim. Voru þeir sem tveir geitfjárhópar, en Sýrlendingar fylltu landið. 20.28 Þá gekk guðsmaður nokkur fram, talaði til Ísraelskonungs og mælti: 'Svo segir Drottinn: Sakir þess að Sýrlendingar hafa sagt: ,Drottinn er fjallaguð, en enginn dalaguð` _ þá vil ég gefa þennan mikla manngrúa í þínar hendur, svo að þér kannist við, að ég er Drottinn.' 20.29 Þannig lágu þeir í herbúðunum, hverir gegnt öðrum, í sjö daga, en á sjöunda degi tókst orusta, og felldu Ísraelsmenn hundrað þúsundir fótgönguliðs af Sýrlendingum á einum degi. 20.30 En þeir, sem eftir urðu, flýðu til Afek, inn í borgina, en þá féll borgarmúrinn á þau tuttugu og sjö þúsund manns, sem eftir voru. Benhadad var og flúinn og komst inn í borgina, úr einu herberginu í annað. 20.31 Þá sögðu menn hans við hann: 'Vér höfum heyrt, að konungar Ísraelshúss séu miskunnsamir konungar. Skulum vér nú gyrðast hærusekk um lendar vorar og vefja bandi um höfuð vor og ganga síðan fyrir Ísraelskonung. Má vera að hann gefi þér líf.' 20.32 Síðan gyrtust þeir hærusekk um lendar sér, vöfðu bandi um höfuð sér og gengu síðan á fund Ísraelskonungs og sögðu: 'Þjónn þinn Benhadad segir: Gef þú mér líf.' Akab svaraði: 'Er hann enn á lífi? Hann er bróðir minn.' 20.33 Þetta þótti mönnunum góðs viti, og flýttu þeir sér að taka hann á orðinu og sögðu: 'Benhadad er bróðir þinn!' En Akab mælti: 'Farið og sækið hann.' Þá gekk Benhadad út til hans, og hann lét hann stíga upp í vagninn til sín. 20.34 Og Benhadad sagði við hann: 'Borgunum, sem faðir minn tók frá föður þínum, skal ég skila aftur, og þú mátt gjöra þér torg í Damaskus, eins og faðir minn gjörði í Samaríu.' 'Hvað mig snertir,' mælti Akab, 'þá vil ég láta þig lausan með þessum skilmálum.' Og hann gjörði við hann sáttmála og lét hann í brott fara. 20.35 Maður nokkur af spámannasveinunum sagði við félaga sinn eftir orði Drottins: 'Slá þú mig!' En maðurinn færðist undan að slá hann. 20.36 Þá sagði spámaðurinn við hann: 'Sökum þess að þú hlýddir ekki raust Drottins, þá mun ljón ljósta þig jafnskjótt og þú gengur burt frá mér.' Og er hann gekk í burt frá honum, mætti ljón honum og drap hann. 20.37 Og spámaðurinn hitti annan mann og mælti: 'Slá þú mig!' Og maðurinn sló hann, svo að hann varð sár. 20.38 Síðan fór spámaðurinn burt og gekk í veg fyrir konung og gjörði sig ókennilegan með því að binda fyrir augun. 20.39 En er konungur fór fram hjá, kallaði hann til konungs og mælti: 'Þjónn þinn fór í bardagann. Þá gekk maður fram úr fylkingunni, færði mér mann og sagði: ,Geymdu þennan mann. Komist hann í burt, þá skal líf þitt við liggja, eða þú skalt greiða talentu silfurs.` 20.40 En svo fór, að þar sem þjónn þinn hafði í hinu og þessu að snúast, þá varð maðurinn allur á burtu.' Ísraelskonungur sagði við hann: 'Það er þinn dómur. Þú hefir sjálfur kveðið hann upp.' 20.41 Þá tók hann í skyndi bandið frá augunum, og Ísraelskonungur þekkti hann, að hann var einn af spámönnunum. 20.42 Spámaðurinn mælti þá til hans: 'Svo segir Drottinn: Sökum þess að þú slepptir þeim manni úr hendi þér, sem ég hafði banni helgað, þá skal líf þitt koma fyrir hans líf og þín þjóð fyrir hans þjóð.' 20.43 Og Ísraelskonungur hélt heim til sín, hryggur og reiður, og kom til Samaríu.
21.1 Eftir þetta bar það til, er nú skal greina: Nabót Jesreelíti átti víngarð í Jesreel, rétt hjá höll Akabs konungs í Samaríu. 21.2 Og Akab kom að máli við Nabót og sagði: 'Lát mig fá víngarð þinn, að ég megi hafa hann að matjurtagarði, því að hann er í nánd við hús mitt, og ég skal láta þig fá fyrir hann betri víngarð, eða, ef þú vilt það heldur, þá skal ég greiða þér andvirði hans í peningum.' 21.3 En Nabót sagði við Akab: 'Drottinn forði mér frá að farga til þín arfleifð feðra minna.' 21.4 Þá kom Akab heim í höll sína, hryggur og reiður út af því, sem Nabót Jesreelíti hafði sagt við hann, er hann mælti: ,Ég farga ekki til þín arfleifð feðra minna.` Og hann lagðist í rekkju og sneri sér til veggjar og neytti eigi matar. 21.5 Þá kom Jesebel kona hans til hans og sagði við hann: 'Hví ert þú svo hryggur í skapi, að þú vilt ekki matar neyta?' 21.6 Hann svaraði henni: 'Komi ég að máli við Nabót Jesreelíta og segi við hann: ,Lát mig fá víngarð þinn fyrir peninga, eða, ef þú vilt það heldur, þá skal ég láta þig fá fyrir hann annan víngarð,` þá segir hann: ,Ég farga ekki víngarði mínum til þín.'` 21.7 Þá mælti Jesebel kona hans við hann: 'Ert þú sá, sem nú hefir konungsvald í Ísrael? Rís þú upp, neyt matar og lát liggja vel á þér. Ég skal útvega þér víngarð Nabóts Jesreelíta.' 21.8 Síðan skrifaði hún bréf undir nafni Akabs og innsiglaði það með innsigli hans og sendi bréfið til öldunga og tignarmanna borgar Nabóts, samborgarmanna hans. 21.9 En í bréfinu skrifaði hún á þessa leið: 'Látið boða föstu og látið Nabót sitja efstan meðal fólksins, 21.10 og látið tvö varmenni sitja gegnt honum, er vitni gegn honum, og segi: ,Þú hefir lastmælt Guði og konunginum!` Leiðið hann síðan út og grýtið hann til bana.' 21.11 Og samborgarmenn hans, öldungarnir og tignarmennirnir, sem bjuggu í borg hans, gjörðu eins og Jesebel hafði gjört þeim boð um, eins og skrifað var í bréfinu, sem hún hafði sent þeim. 21.12 Þeir létu boða föstu og létu Nabót sitja efstan meðal fólksins. 21.13 Síðan komu varmennin tvö og settust gegnt honum. Og varmennin vitnuðu gegn Nabót í áheyrn fólksins og sögðu: 'Nabót hefir lastmælt Guði og konunginum.' Og þeir leiddu hann út fyrir borgina og lömdu hann grjóti til bana. 21.14 Síðan sendu þeir til Jesebelar og létu segja: 'Nabót var grýttur og er dauður.' 21.15 Þegar Jesebel heyrði, að Nabót hefði grýttur verið og væri dauður, þá sagði hún við Akab: 'Rís nú á fætur og kasta eign þinni á víngarð Nabóts Jesreelíta, sem hann vildi eigi láta falan við þig fyrir peninga, því að Nabót er nú ekki á lífi, heldur er hann dauður.' 21.16 Og er Akab heyrði, að Nabót væri dauður, reis hann á fætur og fór ofan í víngarð Nabóts Jesreelíta til þess að kasta á hann eign sinni. 21.17 En orð Drottins kom til Elía Tisbíta, svolátandi: 21.18 'Tak þú þig upp, far ofan eftir, til fundar við Akab Ísraelskonung, sem býr í Samaríu. Hann er nú í víngarði Nabóts. Er hann farinn þangað ofan til þess að kasta á hann eign sinni. 21.19 Mæl þú til hans á þessa leið: ,Svo segir Drottinn: Hefir þú myrt og líka tekið eignina?` Og mæl enn fremur til hans: ,Svo segir Drottinn: Þar sem hundarnir sleiktu blóð Nabóts, þar skulu og hundar sleikja þitt blóð.'` 21.20 Og Akab sagði við Elía: 'Hefir þú fundið mig, fjandmaður minn?' Hann svaraði: 'Hefi ég víst. Af því að þú hefir ofurselt þig til að gjöra það, sem illt er í augum Drottins, 21.21 þá leiði ég ógæfu yfir þig og sópa þér burt og uppræti hvern karlmann af ætt Akabs, bæði þræl og frelsingja í Ísrael. 21.22 Og ég mun fara með ætt þína eins og með ætt Jeróbóams Nebatssonar og ætt Basa Ahíasonar vegna reiði þeirrar, er þú hefir egnt mig til, og af því að þú hefir komið Ísrael til að syndga.' 21.23 Og einnig um Jesebel talaði Drottinn á þessa leið: 'Hundar skulu eta Jesebel hjá Jesreelmúrum. 21.24 Hvern þann, er deyr af Akabsætt innan borgar, munu hundar eta, og hvern þann, sem deyr úti á víðavangi, munu fuglar himins eta.' 21.25 Alls enginn hefir verið, er ofurselt hafi sig, eins og Akab, til að gjöra það sem illt var í augum Drottins, og ginnti Jesebel kona hans hann til þess. 21.26 Og hann breytti mjög svívirðilega með því að elta skurðgoðin, alveg eins og Amorítar gjörðu, þeir er Drottinn stökkti burt undan Ísraelsmönnum. 21.27 En er Akab heyrði þessi orð, reif hann klæði sín og lagði hærusekk á bert hold sitt og fastaði. Og hann svaf í hærusekknum og gekk hljóðlega. 21.28 Þá kom orð Drottins til Elía Tisbíta, svolátandi: 21.29 'Hefir þú séð, hversu Akab lægir sig fyrir mér? Af því að hann hefir lægt sig fyrir mér, mun ég eigi leiða ógæfuna yfir meðan hann lifir, en á dögum sonar hans mun ég leiða ógæfuna yfir ætt hans.'
22.1 Nú héldu þeir kyrru fyrir í þrjú ár, og var enginn ófriður milli Sýrlands og Ísraels. 22.2 En á þriðja ári fór Jósafat konungur í Júda á fund Ísraelskonungs. 22.3 Og Ísraelskonungur sagði við þjóna sína: 'Vita munuð þér, að vér eigum Ramót í Gíleað, en vér höfumst eigi að og tökum hana ekki frá Sýrlandskonungi.' 22.4 Þá mælti hann við Jósafat: 'Hvort munt þú fara með mér í hernað til Ramót í Gíleað?' Jósafat sagði við Ísraelskonung: 'Eitt skal yfir báða ganga, mig og þig, mína þjóð og þína þjóð, mína hesta og þína hesta.' 22.5 Og Jósafat sagði við Ísraelskonung: 'Gakk þú fyrst til frétta og vit hvað Drottinn segir.' 22.6 Þá stefndi Ísraelskonungur saman spámönnunum, um fjögur hundruð manns, og sagði við þá: 'Á ég að fara og herja á Ramót í Gíleað, eða á ég að hætta við það?' Spámennirnir svöruðu: 'Far þú, og Drottinn mun gefa hana í hendur konungi.' 22.7 En Jósafat mælti: 'Er hér ekki enn einhver spámaður Drottins, að vér mættum leita frétta hjá honum?' 22.8 Ísraelskonungur mælti til Jósafats: 'Enn er einn eftir, er vér gætum látið ganga til frétta við Drottin, en mér er lítið um hann gefið, því að hann spáir mér aldrei góðu, heldur illu einu. Hann heitir Míka Jimlason.' Jósafat sagði: 'Eigi skyldi konungur svo mæla.' 22.9 Þá kallaði Ísraelskonungur einn af hirðmönnunum og mælti: 'Sæk sem skjótast Míka Jimlason.' 22.10 En Ísraelskonungur og Jósafat Júdakonungur sátu hvor í sínu hásæti skrýddir purpuraklæðum úti fyrir borgarhliði Samaríu, og allir spámennirnir spáðu frammi fyrir þeim. 22.11 Þá gjörði Sedekía Kenaanason sér horn úr járni og mælti: 'Svo segir Drottinn: Með þessum munt þú reka Sýrlendinga undir, uns þú hefir gjöreytt þeim.' 22.12 Og allir spámennirnir spáðu á sömu leið og sögðu: 'Far þú til Ramót í Gíleað. Þú munt giftudrjúgur verða, og Drottinn mun gefa hana í hendur þér.' 22.13 Sendimaðurinn, sem farinn var að sækja Míka, mælti til hans á þessa leið: 'Sjá, spámennirnir hafa einum munni boðað konungi hamingju. Mæl þú sem þeir og boða þú hamingju.' 22.14 En Míka svaraði: 'Svo sannarlega sem Drottinn lifir, það sem Drottinn til mín talar, það mun ég mæla.' 22.15 Þegar hann kom til konungs, mælti konungur til hans: 'Míka, eigum vér að fara og herja á Ramót í Gíleað, eða eigum vér að hætta við það?' Þá sagði Míka við hann: 'Far þú. Þú munt giftudrjúgur verða, og Drottinn mun gefa hana í hendur konungi!' 22.16 Þá sagði konungur við hann: 'Hversu oft á ég að særa þig um, að þú segir mér eigi annað en sannleikann í nafni Drottins?' 22.17 Þá mælti Míka: 'Ég sá allan Ísrael tvístrast um fjöllin, eins og hirðislausa sauði, og Drottinn sagði: ,Þessir hafa engan herra. Fari þeir í friði hver heim til sín.'` 22.18 Þá sagði Ísraelskonungur við Jósafat: 'Fer nú eigi sem ég sagði þér: Hann spáir mér aldrei góðu, heldur illu einu?' 22.19 Þá mælti Míka: 'Eigi er svo! Heyr orð Drottins! Ég sá Drottin sitja í hásæti sínu og allan himins her standa á tvær hendur honum. 22.20 Og Drottinn sagði: ,Hver vill ginna Akab til þess að fara til Ramót í Gíleað og falla þar?` Og einn sagði þetta og annar hitt. 22.21 Þá gekk fram andi, staðnæmdist frammi fyrir Drottni og mælti: ,Ég skal ginna hann.` Og Drottinn sagði við hann: ,Með hverju?` 22.22 Hann mælti: ,Ég ætla að fara og verða lygiandi í munni allra spámanna hans.` Þá mælti Drottinn: ,Þú skalt ginna hann og þér mun takast það. Far og gjör svo!` 22.23 Þannig hefir þá Drottinn lagt lygianda í munn öllum þessum spámönnum þínum, þar sem Drottinn hefir þó ákveðið að leiða yfir þig ógæfu.' 22.24 Þá gekk að Sedekía Kenaanason, laust Míka kinnhest og mælti: 'Hvaða leið hefir andi Drottins farið frá mér til þess að tala við þig?' 22.25 Þá mælti Míka: 'Það munt þú sjá á þeim degi, er þú fer í felur úr einu herberginu í annað.' 22.26 Þá mælti Ísraelskonungur: 'Takið Míka og færið hann Amón borgarstjóra og Jóas konungssyni 22.27 og segið: ,Svo segir konungur: Kastið manni þessum í dýflissu og gefið honum brauð og vatn af skornum skammti, þar til er ég kem aftur heill á húfi.'` 22.28 Þá mælti Míka: 'Komir þú aftur heill á húfi, þá hefir Drottinn eigi talað fyrir minn munn,' og hann mælti: 'Heyri það allir lýðir!' 22.29 Síðan fóru þeir Ísraelskonungur og Jósafat Júdakonungur til Ramót í Gíleað. 22.30 Og Ísraelskonungur sagði við Jósafat: 'Ég mun klæðast dularbúningi og ganga í orustuna, en þú skalt vera klæddur búningi þínum.' Klæddist þá Ísraelskonungur dularbúningi og gekk í orustuna. 22.31 En Sýrlandskonungur hafði boðið foringjunum fyrir vagnliði sínu, sem voru þrjátíu og tveir, á þessa leið: 'Þér skuluð eigi berjast við neinn, hvorki smáan né stóran, nema Ísraelskonung einan.' 22.32 Og er foringjarnir fyrir vagnliðinu sáu Jósafat, sögðu þeir: 'Þetta er vissulega Ísraelskonungurinn,' og sneru í móti honum til þess að berjast við hann. Þá kallaði Jósafat hátt. 22.33 Og er foringjarnir fyrir vagnliðinu sáu, að það var ekki Ísraelskonungur, þá hættu þeir að elta hann. 22.34 En maður nokkur lagði ör á streng og skaut af handahófi og kom á Ísraelskonung milli brynbeltis og pansara. Þá mælti hann við kerrusvein sinn: 'Snú þú við og kom mér burt úr bardaganum, því að ég er sár.' 22.35 Var bardaginn hinn harðasti um daginn, og konungur stóð í vagninum andspænis Sýrlendingum allt til kvölds, og blóðið úr sárinu rann ofan í vagninn, og dó hann um kvöldið. 22.36 En um sólsetur kvað svolátandi óp við um allan herinn: 'Hver fari heim til sinnar borgar og síns lands, 22.37 því að konungur er dauður.' Og þeir komu til Samaríu og jörðuðu konung í Samaríu. 22.38 En er vagninn var þveginn við Samaríutjörn, þá sleiktu hundar blóðið og portkonur lauguðu sig þar eftir orði Drottins, því er hann hafði talað. 22.39 Það sem meira er að segja um Akab og allt, sem hann gjörði, og um fílabeinshúsið, sem hann reisti, og allar borgirnar, sem hann byggði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 22.40 Og Akab lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og Ahasía sonur hans tók ríki eftir hann. 22.41 Jósafat, sonur Asa, varð konungur yfir Júda á fjórða ríkisári Akabs, konungs í Ísrael. 22.42 Jósafat var þrjátíu og fimm ára að aldri, er hann tók ríki, og tuttugu og fimm ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Asúba Sílhídóttir. 22.43 Hann fetaði að öllu í fótspor Asa föður síns og veik ekki frá þeim, með því að hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins. 22.44 Þó voru fórnarhæðirnar ekki afnumdar. Enn þá fórnaði lýðurinn sláturfórnum og reykelsisfórnum á hæðunum. 22.45 Og Jósafat hafði frið við Ísraelskonung. 22.46 Það sem meira er að segja um Jósafat og hreystiverk hans, þau er hann vann, og hvernig hann herjaði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga. 22.47 Hann eyddi og úr landinu leifum þeirra manna, er helgað höfðu sig saurlifnaði og eftir höfðu orðið á dögum Asa föður hans. 22.48 Þá var enginn konungur í Edóm. Jarl nokkur var þar konungur. 22.49 Jósafat hafði gjöra látið Tarsisskip, er fara skyldu til Ófír að sækja gull, en eigi varð af ferðinni, því að skipin brotnuðu við Esjón Geber. 22.50 Þá sagði Ahasía Akabsson við Jósafat: 'Lát mína menn fara með þínum mönnum á skipunum.' En Jósafat vildi ekki. 22.51 Og Jósafat lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í borg Davíðs forföður síns. Og Jóram sonur hans tók ríki eftir hann. 22.52 Ahasía sonur Akabs varð konungur í Samaríu yfir Ísrael á seytjánda ríkisári Jósafats, konungs í Júda, og hann ríkti yfir Ísrael tvö ár. 22.53 Hann gjörði það sem illt var í augum Drottins og fetaði í fótspor föður síns og móður og í fótspor Jeróbóams Nebatssonar, er komið hafði Ísrael til að syndga.
1.1 Eftir dauða Akabs braust Móab undan Ísrael. 1.2 Ahasía féll ofan um grindurnar á loftsal sínum í Samaríu og varð sjúkur. Þá gjörði hann út sendimenn og sagði við þá: 'Farið og gangið til frétta við Baal Sebúb, guðinn í Ekron, hvort ég muni heill verða af þessum sjúkdómi.' 1.3 En engill Drottins sagði við Elía Tisbíta: 'Tak þig upp og far á móti sendimönnum konungsins í Samaríu og seg við þá: ,Það er víst enginn guð til í Ísrael, úr því þér farið til þess að ganga til frétta við Baal Sebúb, guðinn í Ekron? 1.4 Fyrir því segir Drottinn svo: Úr rekkjunni, sem þú nú ert lagstur í, skalt þú ekki rísa, heldur skalt þú deyja.'` Síðan fór Elía burt. 1.5 Þá er sendimennirnir komu aftur til konungs, sagði hann við þá: 'Hví eruð þér komnir aftur?' 1.6 Þeir svöruðu honum: 'Maður kom á móti oss og sagði við oss: ,Farið og snúið aftur heim til konungsins, er yður sendi, og segið við hann: Svo segir Drottinn: Það er víst enginn guð til í Ísrael, úr því þú sendir til þess að leita frétta hjá Baal Sebúb, guðinum í Ekron. Fyrir því skalt þú eigi rísa úr rekkjunni, sem þú nú ert lagstur í, heldur skalt þú deyja.'` 1.7 Þá mælti konungur við þá: 'Hvernig var sá maður í hátt, sem kom á móti yður og talaði þessi orð við yður?' 1.8 Þeir svöruðu honum: 'Hann var í skinnfeldi og gyrður leðurbelti um lendar sér.' Þá mælti hann: 'Það hefir verið Elía frá Tisbe.' 1.9 Þá sendi konungur fimmtíumannaforingja og fimmtíu menn hans með honum til Elía. Fór hann þá upp til hans _ en hann sat efst uppi á fjalli _ og sagði við hann: 'Þú guðsmaður! Konungur segir: Kom þú ofan!' 1.10 Elía svaraði og sagði við fimmtíumannaforingjann: 'Sé ég guðsmaður, þá falli eldur af himni og eyði þér og þínum fimmtíu mönnum.' Féll þá eldur af himni og eyddi honum og mönnum hans fimmtíu. 1.11 Og konungur sendi aftur til hans annan fimmtíumannaforingja og fimmtíu menn hans með honum. Fór hann upp og sagði við hann: 'Þú guðsmaður, svo segir konungur: Kom sem skjótast ofan!' 1.12 En Elía svaraði og sagði við þá: 'Sé ég guðsmaður, þá falli eldur af himni og eyði þér og þínum fimmtíu mönnum.' Féll þá eldur Guðs af himni og eyddi honum og mönnum hans fimmtíu. 1.13 Þá sendi konungur enn þriðja fimmtíumannaforingjann og fimmtíu menn hans með honum. Og fimmtíumannaforinginn þriðji fór upp, og er hann kom þangað, féll hann á kné fyrir Elía, grátbændi hann og mælti til hans: 'Þú guðsmaður, þyrm nú lífi mínu og lífi þessara fimmtíu þjóna þinna. 1.14 Sjá, eldur er fallinn af himni og hefir eytt báðum fyrri fimmtíumannaforingjunum og fimmtíu mönnum þeirra. En þyrm þú lífi mínu.' 1.15 Þá sagði engill Drottins við Elía: 'Far þú ofan með honum og ver óhræddur við hann.' Stóð hann þá upp og fór ofan með honum til konungs 1.16 og sagði við hann: 'Svo segir Drottinn: Af því að þú gjörðir út sendimenn til þess að leita frétta hjá Baal Sebúb, guðinum í Ekron, _ það er víst enginn guð til í Ísrael, er leita megi frétta hjá _ þá skalt þú eigi rísa úr rekkjunni, sem þú nú ert lagstur í, heldur skalt þú deyja.' 1.17 Og hann dó eftir orði Drottins, því er Elía hafði talað. Og Jóram bróðir hans tók ríki eftir hann á öðru ríkisári Jórams Jósafatssonar, konungs í Júda, því að hann átti engan son. 1.18 En það sem meira er að segja um Ahasía, hvað hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.
2.1 Þegar Drottinn ætlaði að láta Elía fara til himins í stormviðri, voru þeir Elía og Elísa á leið frá Gilgal. 2.2 Þá sagði Elía við Elísa: 'Vertu hér kyrr, því að Drottinn hefir sent mig til Betel.' En Elísa svaraði: 'Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, mun ég eigi við þig skilja.' Fóru þeir þá ofan til Betel. 2.3 Spámannasveinar þeir, er voru í Betel, gengu út á móti Elísa og sögðu við hann: 'Veist þú að Drottinn ætlar í dag að nema herra þinn burt yfir höfði þér?' Elísa svaraði: 'Veit ég það líka. Verið hljóðir!' 2.4 Þá sagði Elía við hann: 'Elísa, vertu hér kyrr, því að Drottinn hefir sent mig til Jeríkó.' Hann svaraði: 'Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, mun ég eigi við þig skilja.' Fóru þeir þá til Jeríkó. 2.5 Þá gengu spámannasveinar þeir, er voru í Jeríkó, til Elísa og sögðu við hann: 'Veist þú að Drottinn ætlar í dag að nema herra þinn burt yfir höfði þér?' Elísa svaraði: 'Veit ég það líka. Verið hljóðir!' 2.6 Þá sagði Elía við hann: 'Vertu hér kyrr, því að Drottinn hefir sent mig til Jórdanar.' Hann svaraði: 'Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, mun ég eigi við þig skilja.' Fóru þeir þá báðir saman. 2.7 En fimmtíu manns af spámannasveinunum fóru og námu staðar til hliðar í nokkurri fjarlægð, en hinir báðir gengu að Jórdan. 2.8 Þá tók Elía skikkju sína, braut hana saman og sló á vatnið. Skipti það sér þá til beggja hliða, en þeir gengu báðir yfir um á þurru. 2.9 En er þeir voru komnir yfir um, sagði Elía við Elísa: 'Bið þú mig einhvers, er ég megi veita þér, áður en ég verð numinn burt frá þér.' Elísa svaraði: 'Mættu mér þá hlotnast tveir hlutar af andagift þinni.' 2.10 Þá mælti Elía: 'Til mikils hefir þú mælst. En ef þú sér mig, er ég verð numinn burt frá þér, þá mun þér veitast það, ella eigi.' 2.11 En er þeir héldu áfram og voru að tala saman, þá kom allt í einu eldlegur vagn og eldlegir hestar og skildu þá að, og Elía fór til himins í stormviðri. 2.12 Og er Elísa sá það, kallaði hann: 'Faðir minn, faðir minn, þú Ísraels vagn og riddarar!' Og hann sá hann ekki framar. Þá þreif hann í klæði sín og reif þau sundur í tvo hluti. 2.13 Síðan tók hann upp skikkju Elía, er fallið hafði af honum, sneri við og gekk niður á Jórdanbakka, 2.14 tók skikkju Elía, er fallið hafði af honum, sló á vatnið og sagði: 'Hvar er nú Drottinn, Guð Elía?' En er hann sló á vatnið, skipti það sér til beggja hliða, en Elísa gekk yfir um. 2.15 Þegar spámannasveinarnir í Jeríkó sáu það hinumegin, sögðu þeir: 'Andi Elía hvílir yfir Elísa.' Gengu þeir í móti honum, lutu til jarðar fyrir honum 2.16 og sögðu við hann: 'Sjá, hér eru fimmtíu röskir menn með þjónum þínum. Lát þá fara og leita að herra þínum, ef andi Drottins kynni að hafa hrifið hann og varpað honum á eitthvert fjallið eða ofan í einhvern dalinn.' En Elísa mælti: 'Eigi skuluð þér senda þá.' 2.17 En er þeir lögðu mjög að honum, mælti hann: 'Sendið þér þá.' Sendu þeir þá fimmtíu manns, og leituðu þeir hans í þrjá daga, en fundu hann ekki. 2.18 Sneru þeir þá aftur til Elísa, og var hann þá enn í Jeríkó. Þá sagði hann við þá: 'Sagði ég yður ekki, að þér skylduð ekki fara?' 2.19 Borgarmenn Jeríkó sögðu við Elísa: 'Borg þessi liggur að vísu vel, eins og þú sjálfur sérð, herra, en vatnið er vont, og landið veldur því, að konur fæða fyrir tímann.' 2.20 Hann sagði við þá: 'Færið mér nýja skál og látið í hana salt.' Þeir gjörðu svo. 2.21 Og hann gekk út að uppsprettu vatnsins, kastaði saltinu í hana og mælti: 'Svo segir Drottinn: Ég gjöri vatn þetta heilnæmt. Upp frá þessu skal það eigi valda dauða né ótímaburði.' 2.22 Þá varð vatnið heilnæmt samkvæmt orði Elísa, því er hann hafði talað, og er svo enn í dag. 2.23 Þaðan hélt hann til Betel. Og er hann gekk upp veginn, gengu smásveinar út úr borginni, hæddu hann og kölluðu til hans: 'Kom hingað, skalli! Kom hingað, skalli!' 2.24 Sneri hann sér þá við, og er hann sá þá, formælti hann þeim í nafni Drottins. Þá komu tvær birnur út úr skóginum og rifu í sundur fjörutíu og tvo af drengjunum. 2.25 Þaðan fór hann til Karmelfjalls og sneri þaðan aftur til Samaríu.
3.1 Jóram, sonur Akabs, varð konungur í Samaríu yfir Ísrael á átjánda ríkisári Jósafats Júdakonungs og ríkti tólf ár. 3.2 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, þó ekki eins og faðir hans og móðir hans, því að hann tók burt Baalsmerkissteinana, sem faðir hans hafði gjöra látið. 3.3 En við syndir Jeróbóams Nebatssonar, er hann hafði komið Ísrael til að drýgja, hélt hann fast og lét ekki af þeim. 3.4 Mesa, konungur í Móab, átti miklar hjarðir. Greiddi hann Ísraelskonungi í skatt hundrað þúsund lömb og ull af hundrað þúsund hrútum. 3.5 En er Akab var dáinn, braust Móabskonungur undan Ísraelskonungi. 3.6 Lagði Jóram konungur þá af stað frá Samaríu og kannaði allan Ísrael. 3.7 Hann sendi og þegar til Jósafats Júdakonungs og lét segja honum: 'Móabskonungur hefir brotist undan mér. Vilt þú fara með mér í hernað á móti Móabítum?' 'Fara mun ég,' svaraði hann, 'ég sem þú, mín þjóð sem þín þjóð, mínir hestar sem þínir hestar.' 3.8 Og hann sagði: 'Hvaða leið eigum við að fara?' Jóram svaraði: 'Leiðina um Edómheiðar.' 3.9 Fóru þeir nú af stað, Ísraelskonungur, Júdakonungur og konungurinn í Edóm. Og er þeir höfðu farið sjö dagleiðir, hafði herinn ekkert vatn og ekki heldur skepnurnar, sem þeir höfðu með sér. 3.10 Þá sagði Ísraelskonungur: 'Æ, Drottinn hefir kallað þessa þrjá konunga til þess að selja þá í hendur Móabítum.' 3.11 En Jósafat mælti: 'Er hér enginn spámaður Drottins, að vér getum látið hann ganga til frétta við Drottin?' Þá svaraði einn af þjónum Ísraelskonungs og sagði: 'Hér er Elísa Safatsson, sem hellt hefir vatni á hendur Elía.' 3.12 Jósafat sagði: 'Hjá honum er orð Drottins!' Síðan gengu þeir Ísraelskonungur, Jósafat og konungurinn í Edóm ofan til hans. 3.13 En Elísa sagði við Ísraelskonung: 'Hvað á ég saman við þig að sælda? Gakk þú til spámanna föður þíns og til spámanna móður þinnar.' Ísraelskonungur svaraði honum: 'Nei, því að Drottinn hefir kallað þessa þrjá konunga til þess að selja þá í hendur Móabítum.' 3.14 Þá mælti Elísa: 'Svo sannarlega sem Drottinn allsherjar lifir, sá er ég þjóna: Væri það ekki vegna Jósafats Júdakonungs, þá skyldi ég ekki renna til þín auga né virða þig viðlits. 3.15 En sækið þér nú hörpuleikara.' Í hvert sinn sem hörpuleikarinn sló hörpuna, hreif hönd Drottins Elísa. 3.16 Og hann mælti: 'Svo segir Drottinn: Gjörið gryfju við gryfju í dal þessum, 3.17 því að svo segir Drottinn: Þér munuð hvorki sjá vind né regn, og þó mun þessi dalur fyllast vatni, svo að þér megið drekka, svo og her yðar og skepnur. 3.18 En Drottni þykir þetta of lítið, hann mun og gefa Móabíta í hendur yðar. 3.19 Og þér munuð vinna allar víggirtar borgir og allar úrvalsborgir, fella öll aldintré og stemma allar vatnslindir, og öllum góðum ökrum munuð þér spilla með grjóti.' 3.20 Morguninn eftir, í það mund er matfórnin er fram borin, kom allt í einu vatn úr áttinni frá Edóm, svo að landið fylltist vatni. 3.21 En er allir Móabítar heyrðu, að konungarnir væru komnir til þess að herja á þá, var öllum boðið út, er vopnum máttu valda, og námu þeir staðar á landamærunum. 3.22 En er þeir risu um morguninn og sólin skein á vatnið, sýndist Móabítum álengdar vatnið vera rautt sem blóð. 3.23 Þá sögðu þeir: 'Þetta er blóð! Konungunum hlýtur að hafa lent saman og þeir hafa unnið hvor á öðrum, og nú er að hirða herfangið, Móabítar!' 3.24 En er þeir komu að herbúðum Ísraels, þustu Ísraelsmenn út og börðu á Móabítum, svo að þeir flýðu fyrir þeim. Síðan brutust þeir inn í landið og unnu nýjan sigur á Móabítum. 3.25 En borgirnar brutu þeir niður, og á alla góða akra vörpuðu þeir sínum steininum hver og fylltu þá grjóti, og allar vatnslindir stemmdu þeir og öll aldintré felldu þeir, uns eigi var annað eftir en steinmúrarnir í Kír Hareset. Umkringdu slöngvumennirnir hana og köstuðu á hana. 3.26 En er Móabskonungur sá, að hann mundi fara halloka í orustunni, tók hann með sér sjö hundruð manna, er sverð báru, til þess að brjótast út þar sem Edómkonungur var fyrir, en þeir gátu það ekki. 3.27 Þá tók hann frumgetinn son sinn, er taka átti ríki eftir hann, og fórnaði honum í brennifórn á múrnum. Kom þá mikil hryggð yfir Ísrael, og héldu þeir burt þaðan og hurfu aftur heim í land sitt.
4.1 Ein af konum spámannasveinanna kallaði til Elísa og mælti: 'Þjónn þinn, maðurinn minn, er dáinn, og þú veist, að þjónn þinn óttaðist Drottin. Nú er lánssalinn kominn til að taka báða drengina mína sér að þrælum.' 4.2 En Elísa sagði við hana: 'Hvað á ég að gjöra fyrir þig? Seg þú mér, hvað þú átt til heima.' Hún svaraði: 'Ambátt þín á ekkert til heima, nema krús með olífuolíu.' 4.3 Þá mælti hann: 'Far þú þá og fá til láns ílát utan húss hjá öllum nágrönnum þínum, tóm ílát, og heldur fleiri en færri. 4.4 Gakk því næst inn og loka dyrunum á eftir þér og sonum þínum og hell í öll þessi ílát og set þau frá þér jafnóðum og þau fyllast.' 4.5 Gekk hún þá burt frá honum. Og hún lokaði dyrunum á eftir sér og sonum sínum. Þeir báru að henni, en hún hellti í. 4.6 En er ílátin voru full, sagði hún við son sinn: 'Fær mér enn ílát.' Hann sagði við hana: 'Það er ekkert ílát eftir.' Þá hætti olífuolían að renna. 4.7 Fór hún þá og sagði guðsmanninum frá, en hann sagði: 'Far þú nú og sel olíuna og gjald skuld þína, en haf til viðurlífis þér og sonum þínum það, sem afgangs verður.' 4.8 Það bar til einn dag, að Elísa gekk yfir til Súnem. Þar var auðug kona, og lagði hún að honum að þiggja mat hjá sér. Og í hvert sinn, sem hann fór um, gekk hann þar inn til að matast. 4.9 Og hún sagði við mann sinn: 'Heyrðu, ég sé að það er heilagur guðsmaður, sem stöðuglega fer um hjá okkur. 4.10 Við skulum gjöra lítið loftherbergi með múrveggjum og setja þangað rúm og borð og stól og ljósastiku, svo að hann geti farið þangað, þegar hann kemur til okkar.' 4.11 Einn dag kom Elísa þar, gekk inn í loftherbergið og lagðist þar til svefns. 4.12 Síðan sagði hann við Gehasí, svein sinn: 'Kalla þú á súnemsku konuna.' Og hann kallaði á hana, og hún gekk fyrir hann. 4.13 Þá sagði hann við Gehasí: 'Seg þú við hana: ,Þú hefir haft alla þessa fyrirhöfn fyrir okkur, hvað á ég að gjöra fyrir þig? Þarft þú að láta tala máli þínu við konung eða við hershöfðingjann?'` Hún svaraði: 'Ég bý hér á meðal ættfólks míns.' 4.14 Þá sagði Elísa við Gehasí: 'Hvað á ég þá að gjöra fyrir hana?' Gehasí mælti: 'Jú, hún á engan son, og maður hennar er gamall.' 4.15 Þá sagði Elísa: 'Kalla þú á hana.' Og hann kallaði á hana, og hún nam staðar í dyrunum. 4.16 Þá mælti hann: 'Að ári um þetta leyti munt þú faðma að þér son.' En hún mælti: 'Nei, herra minn, þú guðsmaður, skrökva þú eigi að ambátt þinni.' 4.17 En konan varð þunguð og ól son næsta ár í sama mund, eins og Elísa hafði heitið henni. 4.18 Þegar sveinninn var kominn á legg, gekk hann einn dag til föður síns, út til kornskurðarmannanna. 4.19 Þá sagði hann við föður sinn: 'Æ, höfuðið á mér, höfuðið á mér!' En faðir hans sagði við svein sinn: 'Ber þú hann til móður sinnar.' 4.20 Og hann tók hann og færði hann móður hans, og hann sat í kjöltu hennar til hádegis, þá dó hann. 4.21 Þá gekk hún upp, lagði hann í rekkju guðsmannsins, lokaði að honum og gekk burt. 4.22 Þá kallaði hún á mann sinn og sagði við hann: 'Send þú mér einn af sveinunum og eina ösnu. Ég ætla sem skjótast að fara til fundar við guðsmanninn og koma síðan aftur.' 4.23 En hann mælti: 'Hvers vegna ætlar þú að fara til hans í dag? Það er hvorki tunglkomudagur né hvíldardagur.' Hún mælti: 'Það gjörir ekkert til!' 4.24 Síðan söðlaði hún ösnuna og sagði við svein sinn: 'Rektu nú hart! Linaðu eigi á, uns ég segi þér.' 4.25 Síðan fór hún og kom til guðsmannsins á Karmelfjalli. En er guðsmaðurinn sá hana álengdar, sagði hann við Gehasí, svein sinn: 'Þetta er konan frá Súnem! 4.26 Hlaup þú nú á móti henni og seg við hana: ,Hvernig líður þér, hvernig líður manni þínum, hvernig líður drengnum?'` Hún svaraði: 'Okkur líður vel.' 4.27 En er hún kom á fjallið til guðsmannsins, tók hún um fætur honum. Þá gekk Gehasí að og vildi hrinda henni frá. En guðsmaðurinn mælti: 'Láttu hana vera, því að hún er harmþrungin mjög, og Drottinn hefir leynt mig því og eigi látið mig vita það.' 4.28 Þá mælti hún: 'Hefi ég beðið herra minn um son? Sagði ég ekki: ,Drag mig ekki á tálar?'` 4.29 Þá sagði hann við Gehasí: 'Gyrð þú lendar þínar, tak staf minn í hönd þér og far af stað. Þó að einhver mæti þér, þá heilsaðu honum ekki, og þó að einhver heilsi þér, þá taktu ekki undir við hann, og legg staf minn yfir andlit sveinsins.' 4.30 En móðir sveinsins mælti: 'Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, þá fer ég ekki frá þér.' Stóð hann þá upp og fór með henni. 4.31 Gehasí var farinn á undan þeim og hafði lagt stafinn yfir andlit sveinsins, en þar var steinhljóð og ekkert lífsmark. Þá sneri hann við í móti honum og sagði honum svo frá: 'Ekki vaknar sveinninn!' 4.32 Þegar Elísa kom inn í húsið, þá lá sveinninn dauður í rekkju hans. 4.33 Þá gekk hann inn og lokaði dyrunum að þeim báðum og bað til Drottins. 4.34 Síðan steig hann upp í og lagðist yfir sveininn, lagði sinn munn yfir hans munn, sín augu yfir hans augu og sínar hendur yfir hans hendur og beygði sig yfir hann. Hitnaði þá líkami sveinsins. 4.35 Þá kom hann aftur, gekk einu sinni aftur og fram um húsið, fór síðan upp og beygði sig yfir hann. Þá hnerraði sveinninn sjö sinnum. Því næst lauk hann upp augunum. 4.36 Þá kallaði Elísa á Gehasí og sagði: 'Kalla þú á súnemsku konuna.' Og hann kallaði á hana, og hún kom til hans. Þá sagði hann: 'Tak við syni þínum!' 4.37 Þá kom hún og féll til fóta honum og laut til jarðar. Síðan tók hún son sinn og fór burt. 4.38 Elísa kom aftur til Gilgal meðan hallæri var í landinu. Og er spámannasveinarnir sátu frammi fyrir honum, sagði hann við svein sinn: 'Settu upp stóra pottinn og sjóð rétt matar handa spámannasveinunum.' 4.39 Þá gekk einn út í hagann að tína jurtir og fann villivafteinung og tíndi á honum yfirhöfn sína fulla af villi-agúrkum, fór síðan heim og brytjaði þær í matarpottinn, því að þeir þekktu þær ekki. 4.40 Síðan helltu þeir upp fyrir mennina til að eta. En er þeir brögðuðu á matnum, hljóðuðu þeir upp yfir sig og sögðu: 'Dauðinn er í pottinum, þú guðsmaður!' og þeir gátu ekki etið það. 4.41 En hann mælti: 'Komið með mjöl!' Og hann kastaði því í pottinn. Síðan sagði hann: 'Hell nú upp fyrir fólkið, að það megi eta.' Þá var ekkert skaðvænt í pottinum. 4.42 Maður kom frá Baal Salísa og færði guðsmanninum frumgróðabrauð, tuttugu byggbrauð og mulið korn í mal sínum. Og Elísa sagði: 'Gefðu fólkinu það að eta.' 4.43 En þjónn hans mælti: 'Hvernig get ég borið þetta hundrað mönnum?' Hann svaraði: 'Gefðu fólkinu það að eta. Því að svo segir Drottinn: Þeir munu eta og leifa.' 4.44 Þá lagði hann það fyrir þá, en þeir neyttu og gengu frá leifðu, eins og Drottinn hafði sagt.
5.1 Naaman, hershöfðingi Sýrlandskonungs, var í miklum metum hjá herra sínum og í hávegum hafður, því að undir forustu hans hafði Drottinn veitt Sýrlendingum sigur. Var maðurinn hinn mesti kappi, en líkþrár. 5.2 Sýrlendingar höfðu farið herför í smáflokkum og haft burt af Ísraelslandi unga stúlku. Þjónaði hún konu Naamans. 5.3 Hún sagði við húsmóður sína: 'Ég vildi óska að húsbóndi minn væri kominn til spámannsins í Samaríu. Hann mundi losa hann við líkþrána.' 5.4 Þá fór Naaman og sagði herra sínum frá á þessa leið: 'Svo og svo hefir stúlkan frá Ísraelslandi talað.' 5.5 Þá mælti Sýrlandskonungur: 'Far þú, ég skal senda Ísraelskonungi bréf.' Lagði Naaman þá af stað og tók með sér tíu talentur silfurs, sex þúsund sikla gulls og tíu alklæðnaði. 5.6 Hann færði Ísraelskonungi bréfið, er var á þessa leið: 'Þegar bréf þetta kemur þér í hendur, þá skalt þú vita, að ég hefi sent til þín Naaman þjón minn, og skalt þú losa hann við líkþrá hans.' 5.7 En er Ísraelskonungur hafði lesið bréfið, reif hann klæði sín og mælti: 'Er ég þá Guð, er deytt geti og lífgað, fyrst hann gjörir mér orð um að losa mann við líkþrá hans? Megið þér þar sjá og skynja, að hann leitar saka við mig.' 5.8 En er Elísa, guðsmaðurinn, frétti, að Ísraelskonungur hefði rifið klæði sín, sendi hann til konungs og lét segja honum: 'Hví rífur þú klæði þín? Komi hann til mín, þá skal hann komast að raun um, að til er spámaður í Ísrael.' 5.9 Þá kom Naaman með hesta sína og vagna og nam staðar úti fyrir húsdyrum Elísa. 5.10 Þá sendi Elísa mann til hans og lét segja honum: 'Far og lauga þig sjö sinnum í Jórdan, þá mun hold þitt komast í samt lag og þú munt hreinn verða!' 5.11 Þá varð Naaman reiður og gekk burt og mælti: 'Ég hugði þó, að hann mundi koma út til mín og ganga að mér og ákalla nafn Drottins, Guðs síns, veifa hendinni í áttina til helgistaðarins og koma þannig líkþránni burt. 5.12 Eru ekki Abana og Farfar, fljótin hjá Damaskus, betri en allar ár í Ísrael? Gæti ég ekki laugað mig í þeim og orðið hreinn?' Sneri hann sér þá við og hélt burt í reiði. 5.13 Þá gengu þjónar hans til hans, töluðu til hans og sögðu: 'Ef spámaðurinn hefði skipað þér eitthvað erfitt, mundir þú þá ekki hafa gjört það? Hve miklu fremur þá, er hann hefir sagt þér: ,Lauga þig og munt þú hreinn verða`?' 5.14 Þá fór hann ofan eftir og dýfði sér sjö sinnum niður í Jórdan, eins og guðsmaðurinn hafði sagt. Varð þá hold hans aftur sem hold á ungum sveini, og hann varð hreinn. 5.15 Þá hvarf hann aftur til guðsmannsins og allt hans föruneyti, og er hann kom þangað, gekk hann fyrir hann og mælti: 'Nú veit ég, að enginn Guð er til í neinu landi nema í Ísrael, og þigg nú gjöf af þjóni þínum.' 5.16 En Elísa mælti: 'Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er ég þjóna: Ég tek ekki við neinu!' Og þótt hann legði að honum að taka við því, þá færðist hann undan. 5.17 Þá mælti Naaman: 'Ef ekki, þá lát þó gefa þjóni þínum mold á tvo múla, því að þjónn þinn mun eigi framar færa brennifórnir og sláturfórnir neinum guðum öðrum en Drottni. 5.18 Það eitt verður Drottinn að fyrirgefa þjóni þínum: Þegar herra minn gengur í musteri Rimmons til þess að biðjast þar fyrir, og hann þá styðst við hönd mína, svo að ég fell fram í musteri Rimmons, þegar hann fellur fram í musteri Rimmons, _ það verður Drottinn að fyrirgefa þjóni þínum.' 5.19 En Elísa mælti til hans: 'Far þú í friði.' En er Naaman var kominn spölkorn frá honum, 5.20 þá sagði Gehasí, sveinn Elísa, guðsmannsins, við sjálfan sig: 'Sjá, herra minn hefir hlíft Naaman þessum sýrlenska og ekki þegið af honum það, sem hann kom með. Svo sannarlega sem Drottinn lifir, þá skal ég hlaupa á eftir honum og þiggja eitthvað af honum.' 5.21 Hélt Gehasí nú á eftir Naaman. En er Naaman sá mann koma hlaupandi á eftir sér, stökk hann af vagninum, gekk í móti honum og mælti: 'Er nokkuð að?' 5.22 Gehasí svaraði: 'Nei, en herra minn sendir mig og lætur segja þér: ,Rétt í þessu komu til mín frá Efraímfjöllum tveir sveinar af spámannasveinunum. Gef mér handa þeim talentu silfurs og tvo alklæðnaði.'` 5.23 Naaman svaraði: 'Gjör þú mér þann greiða að taka við tveimur talentum!' Og hann lagði að honum og batt tvær talentur silfurs í tvo sjóðu, svo og tvo alklæðnaði og fékk tveimur sveinum sínum, og báru þeir það fyrir honum. 5.24 En er þeir komu á hæðina, þá tók Gehasí við því af þeim, geymdi það í húsinu og lét mennina fara burt, og fóru þeir leiðar sinnar. 5.25 Síðan fór hann inn og gekk fyrir herra sinn. En Elísa sagði við hann: 'Hvaðan kemur þú, Gehasí?' Hann svaraði: 'Þjónn þinn hefir alls ekkert farið.' 5.26 Og Elísa sagði við hann: 'Ég fylgdi þér í anda, þegar maðurinn sneri frá vagni sínum í móti þér. Nú hefir þú fengið silfur og munt fá klæði, olíutré, víngarða, sauði og naut, þræla og ambáttir. 5.27 En líkþrá Naamans mun ávallt loða við þig og niðja þína.' Gekk hann þá burt frá honum hvítur sem snjór af líkþrá.
6.1 Spámannasveinarnir sögðu við Elísa: 'Húsrýmið, þar sem vér búum hjá þér, er of lítið fyrir oss. 6.2 Leyf oss að fara ofan að Jórdan og taka þar sinn bjálkann hver, til þess að vér getum gjört oss bústað.' Hann mælti: 'Farið þér!' 6.3 En einn af þeim mælti: 'Gjör oss þann greiða að fara með þjónum þínum.' Hann mælti: 'Ég skal fara.' 6.4 Síðan fór hann með þeim. Þegar þeir komu að Jórdan, tóku þeir að höggva tré. 6.5 En er einn þeirra var að fella bjálka, hraut öxin af skafti út á ána. Hljóðaði hann þá upp yfir sig og mælti: 'Æ, herra minn _ og það var lánsöxi!' 6.6 Þá sagði guðsmaðurinn: 'Hvar datt hún?' Og er hann sýndi honum staðinn, sneið hann af viðargrein, skaut henni þar ofan í ána og lét járnið fljóta. 6.7 Síðan sagði hann: 'Náðu henni nú upp!' Þá rétti hann út höndina og náði henni. 6.8 Þegar Sýrlandskonungur átti í ófriði við Ísrael, ráðgaðist hann um við menn sína og mælti: 'Á þeim og þeim stað skuluð þér leggjast í launsátur.' 6.9 En guðsmaðurinn sendi til Ísraelskonungs og lét segja honum: 'Varast þú að fara fram hjá þessum stað, því að Sýrlendingar liggja þar í launsátri.' 6.10 Þá sendi Ísraelskonungur á þann stað, sem guðsmaðurinn hafði nefnt við hann. Varaði hann konung þannig við í hvert sinn, og gætti hann sín þar, og það oftar en einu sinni eða tvisvar. 6.11 Út af þessu varð Sýrlandskonungur órór í skapi, kallaði á menn sína og sagði við þá: 'Getið þér ekki sagt mér, hver af vorum mönnum ljóstrar upp fyrirætlunum vorum við Ísraelskonung?' 6.12 Þá sagði einn af þjónum hans: 'Því er eigi svo farið, minn herra konungur, heldur flytur Elísa spámaður, sem er í Ísrael, Ísraelskonungi þau orð, sem þú talar í svefnherbergi þínu.' 6.13 Þá sagði hann: 'Farið og vitið, hvar hann er, svo að ég geti sent menn og látið sækja hann.' Var honum þá sagt, að hann væri í Dótan. 6.14 Þá sendi hann þangað hesta og vagna og mikinn her. Komu þeir þangað um nótt og slógu hring um borgina. 6.15 Þegar Elísa kom út árla næsta morgun, umkringdi her með hestum og vögnum borgina. Þá sagði sveinn hans við hann: 'Æ, herra minn, hvað eigum við nú til bragðs að taka?' 6.16 Hann svaraði: 'Óttast ekki, því að fleiri eru þeir, sem með okkur eru, en þeir, sem með þeim eru.' 6.17 Og Elísa gjörði bæn sína og mælti: 'Drottinn, opna þú augu hans, svo að hann sjái.' Þá opnaði Drottinn augu sveinsins, og sá hann þá, að fjallið var alþakið hestum og eldlegum vögnum hringinn í kringum Elísa. 6.18 Fóru Sýrlendingar nú niður í móti honum, en Elísa gjörði bæn sína til Drottins og mælti: 'Slá fólk þetta með blindu.' Þá sló hann það með blindu eftir beiðni Elísa. 6.19 Síðan sagði Elísa við þá: 'Þetta er ekki vegurinn og þetta er ekki borgin. Komið með mér, ég skal fylgja yður til mannsins, sem þér leitið að.' Og hann fór með þá til Samaríu. 6.20 En er þeir komu til Samaríu, mælti Elísa: 'Drottinn, opna þú nú augu þeirra, svo að þeir sjái.' Þá opnaði Drottinn augu þeirra, og þeir sáu, að þeir voru komnir inn í miðja Samaríu. 6.21 En er Ísraelskonungur sá þá, sagði hann við Elísa: 'Faðir minn, á ég að höggva þá niður?' 6.22 En hann svaraði: 'Eigi skalt þú höggva þá niður. Ert þú vanur að höggva þá niður, er þú hertekur með sverði þínu og boga? Set fyrir þá brauð og vatn, svo að þeir megi eta og drekka. Síðan geta þeir farið heim til herra síns.' 6.23 Þá bjó hann þeim mikla máltíð, og þeir átu og drukku. Síðan lét hann þá í burt fara, og fóru þeir heim til herra síns. Upp frá þessu komu ránsflokkar Sýrlendinga eigi framar inn í land Ísraels. 6.24 Eftir þetta bar svo til, að Benhadad Sýrlandskonungur dró saman allan her sinn og fór og settist um Samaríu. 6.25 Þá varð hungur svo mikið í Samaríu, er þeir sátu um hana, að asnahöfuð kostaði áttatíu sikla silfurs og fjórðungur úr kab af dúfnadrit fimm sikla silfurs. 6.26 Þegar Ísraelskonungur var á gangi uppi á borgarveggnum, kallaði kona nokkur til hans og mælti: 'Hjálpa þú, herra konungur!' 6.27 Hann mælti: 'Ef Drottinn hjálpar þér ekki, hvaðan á ég þá að taka hjálp handa þér? Úr láfanum eða úr vínþrönginni?' 6.28 Og konungur sagði við hana: 'Hvað viltu þá?' Hún svaraði: 'Konan þarna sagði við mig: ,Sel fram son þinn og skulum við eta hann í dag, en á morgun skulum við eta minn son.` 6.29 Suðum við síðan minn son og átum hann. En er ég sagði við hana daginn eftir: ,Sel þú fram son þinn og skulum við eta hann,` þá fal hún son sinn.' 6.30 Er konungur heyrði þessi ummæli konunnar, reif hann klæði sín þar sem hann stóð á múrnum. Sá þá lýðurinn, að hann hafði hærusekk á líkama sínum innstan klæða. 6.31 Þá sagði hann: 'Guð gjöri mér hvað sem hann vill nú og síðar, ef höfuðið situr á Elísa Safatssyni til kvölds.' 6.32 En Elísa sat í húsi sínu, og öldungarnir sátu hjá honum. Sendi þá konungur mann á undan sér, en áður en sendimaðurinn kom til hans, sagði Elísa við öldungana: 'Vitið þér, að þessi morðhundur hefir sent hingað til þess að höggva af mér höfuðið? Gætið þess að loka dyrunum, þegar sendimaðurinn kemur, og standið fyrir hurðinni, svo að hann komist ekki inn. Heyrist ekki þegar fótatak húsbónda hans á eftir honum?' 6.33 Meðan hann var að segja þetta við þá, kom konungur þegar ofan til hans og mælti: 'Sjá, hvílíka ógæfu Drottinn lætur yfir dynja. Hví skyldi ég lengur vona á Drottin?'
7.1 En Elísa mælti: 'Heyrið orð Drottins. Svo segir Drottinn: Á morgun í þetta mund mun ein sea af fínu mjöli kosta einn sikil og tvær seur af byggi einn sikil í borgarhliði Samaríu.' 7.2 Riddari sá, er konungur studdist við, svaraði þá guðsmanninum og mælti: 'Þótt Drottinn gjörði raufar á himininn, hvernig mætti þetta verða?' Elísa svaraði: 'Þú munt sjá það með eigin augum, en einskis af því neyta.' 7.3 Fjórir menn líkþráir voru úti fyrir borgarhliði Samaríu. Sögðu þeir hver við annan: 'Hví eigum vér að sitja hér, þangað til vér deyjum? 7.4 Ef vér segjum: ,Vér skulum fara inn í borgina,` þá er hungur í borginni og þá munum vér deyja þar, og ef vér sitjum hér kyrrir, munum vér og deyja. Skulum vér því fara yfir í herbúðir Sýrlendinga. Ef þeir láta oss lífi halda, þá lifum vér, en drepi þeir oss, þá deyjum vér.' 7.5 Stóðu þeir síðan upp í rökkrinu til þess að fara yfir í herbúðir Sýrlendinga. En er þeir komu út að herbúðum Sýrlendinga, þá var þar enginn maður. 7.6 Drottinn hafði látið heyrast í herbúðir Sýrlendinga vagnagný og jódyn, gný af miklu herliði, svo að þeir sögðu hver við annan: 'Sjá, Ísraelskonungur hefir leigt gegn oss konunga Hetíta og konunga Egyptalands til þess að ráðast á oss.' 7.7 Þá hlupu þeir upp í rökkrinu og flýðu og létu eftir tjöld sín og hesta og asna _ herbúðirnar eins og þær voru _ og flýðu til þess að forða lífinu. 7.8 En er hinir líkþráu menn komu út að herbúðunum, gengu þeir inn í eitt tjaldið, átu og drukku, höfðu þaðan silfur, gull og klæði og gengu burt og fólu það. Síðan komu þeir aftur, gengu inn í annað tjald, höfðu og nokkuð þaðan, gengu burt og fólu. 7.9 Því næst sögðu þeir hver við annan: 'Þetta er ekki rétt gjört af oss. Þessi dagur er dagur fagnaðartíðinda. En ef vér þegjum og bíðum þangað til í býti á morgun, þá mun það oss í koll koma. Vér skulum því fara og flytja tíðindin í konungshöllina.' 7.10 Síðan fóru þeir, kölluðu til hliðvarða borgarinnar og sögðu þeim svo frá: 'Vér komum í herbúðir Sýrlendinga. Þar var þá enginn maður, og engin mannsraust heyrðist, en hestar og asnar stóðu þar bundnir og tjöldin eins og þau voru.' 7.11 Þá kölluðu hliðverðirnir og menn sögðu frá því inni í konungshöllinni. 7.12 Þá reis konungur upp um nóttina og sagði við menn sína: 'Ég skal segja yður, hvað Sýrlendingar ætla nú að gjöra oss. Þeir vita, að vér sveltum. Hafa þeir því farið burt úr herbúðunum til þess að fela sig úti á mörkinni, með því að þeir hugsa: Þegar þeir fara út úr borginni, skulum vér taka þá höndum lifandi og brjótast inn í borgina.' 7.13 Þá tók einn af mönnum hans til máls og sagði: 'Taki menn fimm af hestunum, sem eftir eru. Fyrir þeim, sem hér eru eftir skildir, fer eins og fyrir öllum fjölda Ísraels, sem þegar er farinn veg allrar veraldar. Skulum vér senda þá til þess að vita, hvað um er að vera.' 7.14 Tóku þeir þá tvo vagna með hestum fyrir. Sendi konungur þá á eftir her Sýrlendinga og sagði: 'Farið og gætið að!' 7.15 Fóru þeir þá á eftir þeim alla leið til Jórdanar, og var allur vegurinn þakinn klæðum og vopnum, sem Sýrlendingar höfðu varpað frá sér, er þeir flýðu í ofboði. Sneru sendimennirnir þá við og fluttu konungi tíðindin. 7.16 Þá gekk lýðurinn út og rændi herbúðir Sýrlendinga, og fór þá svo, að ein sea af fínu mjöli kostaði einn sikil og tvær seur af byggi einn sikil, eins og Drottinn hafði sagt. 7.17 En konungur setti riddarann, er hann hafði stuðst við, til að gæta hliðsins, og tróð lýðurinn hann undir í hliðinu, svo að hann beið bana samkvæmt því orði guðsmannsins, er hann hafði talað, þá er konungur fór ofan til hans. 7.18 Því að þegar guðsmaðurinn sagði við konunginn: 'Í þetta mund á morgun munu tvær seur af byggi kosta einn sikil og ein sea af fínu mjöli einn sikil í Samaríuhliði,' 7.19 þá svaraði riddarinn guðsmanninum og sagði: 'Sjá, þótt Drottinn gjörði raufar á himininn, hvernig mætti slíkt verða?' En Elísa svaraði: 'Þú munt sjá það með eigin augum, en einskis af því neyta.' 7.20 Og svo fór fyrir honum. Lýðurinn tróð hann undir í hliðinu, svo að hann beið bana.
8.1 Elísa talaði við konuna, er soninn átti, sem hann hafði lífgað, á þessa leið: 'Tak þig upp og far burt með fólk þitt og sest þú að einhvers staðar erlendis, því að Drottinn kallar sjö ára hallæri yfir landið, og er það þegar komið.' 8.2 Þá tók konan sig upp og gjörði eins og guðsmaðurinn sagði, fór burt með fólk sitt og dvaldist sjö ár í Filistalandi. 8.3 Að sjö árunum liðnum kom konan aftur heim frá Filistalandi og lagði af stað til þess að biðja konung ásjár um hús sitt og akra. 8.4 Konungur var þá að tala við Gehasí, þjón guðsmannsins, og sagði: 'Seg mér af öllum stórmerkjunum, sem Elísa hefir gjört.' 8.5 Og er hann var að segja konungi, hvernig hann hefði lífgað hinn dána, þá kom konan, er soninn átti, sem hann hafði lífgað, og bað konung ásjár um hús sitt og akra. Þá sagði Gehasí: 'Minn herra konungur! Þetta er konan, og þetta er sonur hennar, sá er Elísa lífgaði.' 8.6 Konungur spurði konuna, og sagði hún honum frá. Fékk konungur henni einn af hirðmönnunum og sagði við hann: 'Sjá þú um, að hún fái aftur allt, sem hún á, svo og allan afrakstur akranna frá þeim degi, er hún fór úr landi, allt til þessa dags.' 8.7 Elísa kom til Damaskus. Þá lá Benhadad Sýrlandskonungur sjúkur. Og er honum var sagt: 'Guðsmaðurinn er kominn hingað,' 8.8 þá sagði konungur við Hasael: 'Tak með þér gjöf nokkra og far til fundar við guðsmanninn og lát hann ganga til frétta við Drottin, hvort ég muni aftur heill verða af sjúkleik þessum.' 8.9 Hasael fór þá til fundar við hann og tók með sér gjöf nokkra, alls konar gersemar úr Damaskus, klyfjar á fjörutíu úlfalda. Og er hann kom, gekk hann fyrir hann og mælti: 'Sonur þinn, Benhadad Sýrlandskonungur, sendir mig til þín og lætur spyrja: ,Mun ég aftur heill verða af sjúkleik þessum?'` 8.10 Elísa svaraði honum: 'Far og seg honum: ,Víst munt þú heill verða,` þótt Drottinn hafi birt mér, að hann muni deyja.' 8.11 Og guðsmaðurinn starði fram fyrir sig og skelfdist harla mjög og grét. 8.12 Þá sagði Hasael: 'Hví grætur þú, herra minn?' Hann svaraði: 'Af því að ég veit, hvílíkt böl þú munir búa Ísraelsmönnum. Þú munt leggja eld í víggirtar borgir þeirra, drepa æskumenn þeirra með sverði, slá ungbörnum þeirra niður við og rista á kvið þungaðar konur þeirra.' 8.13 Hasael svaraði: 'Hvað er þjónn þinn, hundurinn sá, að hann megi vinna slík stórvirki?' Þá mælti Elísa: 'Drottinn hefir sýnt mér þig svo sem konung yfir Sýrlandi.' 8.14 Síðan fór Hasael burt frá Elísa, og er hann kom til herra síns, sagði konungur við hann: 'Hvað sagði Elísa við þig?' Hann svaraði: 'Hann sagði mér að þú mundir áreiðanlega heill verða.' 8.15 En daginn eftir tók Hasael ábreiðu, dýfði henni í vatn og breiddi hana yfir andlit honum, svo að hann kafnaði. Og Hasael tók ríki eftir hann. 8.16 Á fimmta ríkisári Jórams Akabssonar Ísraelskonungs varð Jóram Jósafatsson konungur í Júda. 8.17 Hann var þrjátíu og tveggja ára gamall, þá er hann varð konungur, og átta ár ríkti hann í Jerúsalem. 8.18 Hann fetaði í fótspor Ísraelskonunga, eins og Akabs ætt gjörði, því að hann var kvæntur dóttur Akabs. Þannig gjörði hann það, sem illt var í augum Drottins. 8.19 En Drottinn vildi ekki afmá Júda, vegna Davíðs þjóns síns, samkvæmt því, er hann hafði heitið honum, að gefa honum ávallt lampa fyrir augliti hans. 8.20 Á hans dögum brutust Edómítar undan yfirráðum Júda og tóku konung yfir sig. 8.21 Þá fór Jóram með öllu vagnliðinu yfir til Saír. Hann tók sig upp um nóttina og barði á Edómítum, sem héldu honum í herkví, svo og á foringjum vagnliðsins, og flýði liðið til heimkynna sinna. 8.22 Þannig brutust Edómítar undan yfirráðum Júda, og er svo enn í dag. Þá braust og Líbna undan um sama leyti. 8.23 Það sem meira er að segja um Jóram og allt sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga. 8.24 Og Jóram lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í borg Davíðs. Og Ahasía sonur hans tók ríki eftir hann. 8.25 Á tólfta ríkisári Jórams Akabssonar Ísraelskonungs tók ríki Ahasía, Jóramsson Júdakonungs. 8.26 Ahasía var tuttugu og tveggja ára gamall, þá er hann varð konungur, og ríkti hann eitt ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Atalía, sonardóttir Omrí Ísraelskonungs. 8.27 Hann fetaði í fótspor Akabs ættar og gjörði það sem illt var í augum Drottins, eins og ætt Akabs, því að hann var í mægðum við ætt Akabs. 8.28 Ahasía fór herför með Jóram Akabssyni í móti Hasael Sýrlandskonungi til Ramót í Gíleað, en Sýrlendingar særðu Jóram. 8.29 Þá sneri Jóram konungur aftur til þess að láta græða sár sín í Jesreel, þau er Sýrlendingar höfðu veitt honum við Rama, þá er hann barðist við Hasael Sýrlandskonung. En Ahasía Jóramsson Júdakonungur fór ofan til Jesreel til þess að vitja um Jóram Akabsson, af því að hann var sjúkur.
9.1 Elísa spámaður kallaði einn af spámannasveinunum og sagði við hann: 'Gyrð þú lendar þínar, tak þessa flösku af olífuolíu með þér og far til Ramót í Gíleað. 9.2 Og er þú ert þangað kominn, skalt þú svipast þar um eftir Jehú Jósafatssyni, Nimsísonar. Gakk síðan til hans og bið hann standa upp frá félögum sínum og far með hann inn í innsta herbergið. 9.3 Því næst skalt þú hella olífuolíunni yfir höfuð honum og segja: ,Svo segir Drottinn: Ég smyr þig til konungs yfir Ísrael.` Opna þú síðan dyrnar og flýt þér burt og dvel eigi.' 9.4 Fór þá sveinninn, sveinn spámannsins, til Ramót í Gíleað. 9.5 En er hann kom þangað, sátu herforingjarnir þar saman. Og hann mælti: 'Ég á erindi við þig, herforingi!' Jehú svaraði: 'Við hvern af oss?' Hann svaraði: 'Við þig, herforingi!' 9.6 Þá stóð hann upp og gekk inn í húsið. Og hann hellti olíu yfir höfuð honum og sagði við hann: 'Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég smyr þig til konungs yfir lýð Drottins, yfir Ísrael. 9.7 Þú skalt útrýma ætt Akabs, herra þíns, svo að ég fái þann veg komið fram hefndum á Jesebel fyrir blóð þjóna minna, spámannanna, og fyrir blóð allra þjóna Drottins. 9.8 Já, öll ætt Akabs skal fyrirfarast, og ég mun uppræta fyrir Akabsætt hvern karlmann, bæði þræl og frelsingja í Ísrael. 9.9 Og ég mun fara með ætt Akabs eins og með ætt Jeróbóams Nebatssonar og ætt Basa Ahíasonar. 9.10 En Jesebel skulu hundar eta í landareign Jesreelborgar, og enginn skal jarða hana.' Síðan lauk hann upp hurðinni og flýtti sér burt. 9.11 En er Jehú kom út til þjóna herra síns, sögðu þeir við hann: 'Er nokkuð að? Hvers vegna er þessi vitfirringur til þín kominn?' Hann svaraði þeim: 'Þér þekkið manninn og tal hans.' 9.12 Þá sögðu þeir: 'Það er ósatt mál! Seg oss það.' Þá sagði hann: 'Svo og svo hefir hann við mig talað og sagt: ,Svo segir Drottinn: Ég smyr þig til konungs yfir Ísrael.'` 9.13 Þá tóku þeir í skyndi hver sína yfirhöfn og lögðu fyrir fætur honum á sjálfar tröppurnar, þeyttu lúðurinn og hrópuðu: 'Jehú er konungur orðinn!' 9.14 Þannig hóf Jehú Jósafatsson, Nimsísonar, samsæri gegn Jóram, en Jóram og allur Ísrael hafði varið Ramót í Gíleað fyrir Hasael Sýrlandskonungi. 9.15 En síðan hafði Jóram konungur snúið aftur til þess að láta græða sár sín í Jesreel, þau er Sýrlendingar höfðu veitt honum, þá er hann barðist við Hasael Sýrlandskonung. Jehú mælti: 'Ef þér viljið fylgja mér, þá látið engan undan komast út úr borginni til þess að segja tíðindin í Jesreel.' 9.16 Síðan steig Jehú á vagn sinn og hélt til Jesreel, því að þar lá Jóram, og Ahasía Júdakonungur var kominn þangað til að vitja um Jóram. 9.17 Varðmaður stóð uppi á turninum í Jesreel, og er hann sá flokk Jehú koma, sagði hann: 'Ég sé flokk manna.' Þá mælti Jóram: 'Tak riddara og send móti þeim til þess að spyrja þá, hvort þeir fari með friði.' 9.18 Riddarinn fór í móti honum og sagði: 'Konungur lætur spyrja, hvort þér farið með friði.' Jehú svaraði: 'Hvað varðar þig um það? Snú við og fylg mér.' Varðmaðurinn sagði frá því og mælti: 'Sendimaðurinn er kominn til þeirra, en kemur ekki aftur.' 9.19 Þá sendi hann annan riddara, og er hann kom til þeirra, sagði hann: 'Konungur lætur spyrja, hvort þér farið með friði.' Jehú svaraði: 'Hvað varðar þig um það? Snú við og fylg mér.' 9.20 Varðmaðurinn sagði frá því og mælti: 'Hann er kominn til þeirra, en kemur ekki aftur. Er þar ekið, sem aki þar Jehú Nimsíson, því að hann ekur eins og vitlaus maður.' 9.21 Þá bauð Jóram að beita fyrir vagn sinn. Og er beitt hafði verið fyrir vagn hans, fóru þeir Jóram Ísraelskonungur og Ahasía Júdakonungur af stað, hvor á sínum vagni. Fóru þeir í móti Jehú og hittu hann á landspildu Nabóts Jesreelíta. 9.22 En er Jóram sá Jehú, sagði hann: 'Fer þú með friði, Jehú?' Hann svaraði: 'Hvað er um frið að ræða, meðan Jesebel móðir þín heldur áfram með hórdóm sinn og hina margvíslegu töfra sína?' 9.23 Þá sneri Jóram við og lagði á flótta og kallaði til Ahasía: 'Svik, Ahasía!' 9.24 En Jehú þreif boga sinn og skaut Jóram milli herða, svo að örin gekk í gegnum hjartað, og hné hann niður í vagni sínum. 9.25 Þá sagði hann við Bídkar, riddara sinn: 'Tak hann og kasta honum á landspildu Nabóts Jesreelíta, því að þú manst víst, að ég og þú riðum báðir á eftir Akab föður hans, þá er Drottinn kvað upp þessi dómsorð gegn honum: 9.26 ,Sannarlega sá ég í gær blóð Nabóts og blóð barna hans, segir Drottinn, og mun ég launa þér á landspildu þessari, segir Drottinn.` Tak hann því og kasta honum á landspilduna eftir orði Drottins.' 9.27 Þegar Ahasía Júdakonungur sá þetta, flýði hann í áttina til garðhússins. En Jehú elti hann og sagði: 'Hann líka! Skjótið hann í vagninum!' Og þeir skutu hann á Gúr-stígnum, sem er hjá Jibleam. Og hann flýði til Megiddó og dó þar. 9.28 Síðan settu menn hans hann á vagn og fluttu hann til Jerúsalem og jörðuðu hann í gröf hans hjá feðrum hans í borg Davíðs. 9.29 En Ahasía hafði orðið konungur í Júda á ellefta ríkisári Jórams Akabssonar. 9.30 Nú kom Jehú til Jesreel. En er Jesebel frétti það, smurði hún sig í kringum augun skrýddi höfuð sitt og horfði út um gluggann. 9.31 Og er Jehú kom í hliðið, kallaði hún: 'Hvernig líður Simrí, sem myrti herra sinn?' 9.32 En hann leit upp í gluggann og mælti: 'Hver er með mér, hver?' Og er tveir eða þrír hirðmenn litu út til hans, 9.33 sagði hann: 'Kastið henni ofan!' Og þeir köstuðu henni ofan, og slettist þá blóð hennar á vegginn og hestana, og tróðu þeir hana undir fótunum. 9.34 En hann gekk inn og át og drakk. Síðan sagði hann: 'Lítið eftir þessari bölvuðu konu og jarðið hana, því að konungsdóttir er hún.' 9.35 Þá fóru þeir til þess að jarða hana, en fundu ekkert af henni, nema hauskúpuna og fætur og hendur. 9.36 Og er þeir komu aftur og sögðu honum frá, mælti hann: 'Rætast nú orð Drottins, þau er hann talaði fyrir munn þjóns síns Elía frá Tisbe: ,Á landareign Jesreelborgar skulu hundar eta hold Jesebelar, 9.37 og hræ Jesebelar skal liggja á landareign Jesreelborgar sem tað á túni, svo að menn skulu ekki geta sagt: Það er Jesebel.'`
10.1 Í Samaríu voru sjötíu synir Akabs. Og Jehú skrifaði bréf og sendi þau til Samaríu til höfðingja borgarinnar og til öldunganna og þeirra, sem fóstruðu sonu Akabs. Þau voru á þessa leið: 10.2 'Þá er þér fáið þetta bréf, þér sem hafið hjá yður sonu herra yðar og hafið yfir að ráða vögnum og hestum, víggirtum borgum og hervopnum, 10.3 þá veljið hinn besta og hæfasta af sonum herra yðar og setjið hann í hásæti föður síns og berjist fyrir ætt herra yðar.' 10.4 Þeir urðu mjög hræddir og sögðu: 'Sjá, tveir konungar fengu eigi reist rönd við honum, hvernig skyldum vér þá fá staðist?' 10.5 Þá sendu þeir dróttseti, borgarstjóri, öldungarnir og fóstrarnir til Jehú og létu segja honum: 'Vér erum þínir þjónar, og vér viljum gjöra allt, sem þú býður oss. Vér munum engan til konungs taka. Gjör sem þér vel líkar.' 10.6 Þá skrifaði hann þeim annað bréf á þessa leið: 'Ef þér viljið fylgja mér og hlýða skipun minni, þá takið höfuðin af sonum herra yðar og komið til mín í þetta mund á morgun til Jesreel.' En synir konungsins, sjötíu manns, voru hjá stórmennum borgarinnar, er ólu þá upp. 10.7 En er bréfið kom til þeirra, tóku þeir konungssonu og slátruðu þeim, sjötíu manns, og lögðu höfuð þeirra í körfur og sendu honum til Jesreel. 10.8 Og er sendimaður kom og sagði Jehú, að þeir væru komnir með höfuð konungssona, þá sagði hann: 'Leggið þau í tvær hrúgur úti fyrir borgarhliðinu til morguns.' 10.9 En um morguninn fór hann út þangað, gekk fram og mælti til alls lýðsins: 'Þér eruð saklausir. Sjá, ég hefi hafið samsæri í gegn herra mínum og drepið hann, en hver hefir unnið á öllum þessum? 10.10 Kannist þá við, að ekkert af orðum Drottins hefir fallið til jarðar, þau er hann talaði gegn ætt Akabs. Drottinn hefir framkvæmt það, er hann talaði fyrir munn þjóns síns Elía.' 10.11 Og Jehú drap alla þá, er eftir voru af ætt Akabs í Jesreel, svo og alla höfðingja hans, vildarmenn og presta, svo að enginn varð eftir, sá er undan kæmist. 10.12 Síðan tók Jehú sig upp og fór til Samaríu. Og er hann kom til Bet Eked Haróím við veginn, 10.13 þá mætti hann bræðrum Ahasía Júdakonungs og sagði: 'Hverjir eruð þér?' Þeir svöruðu: 'Vér erum bræður Ahasía og ætlum að heimsækja konungssonu og sonu konungsmóður.' 10.14 Þá sagði hann: 'Takið þá höndum lifandi.' Og þeir tóku þá höndum lifandi og slátruðu þeim og fleygðu þeim í gryfjuna hjá Bet Eked, fjörutíu og tveimur mönnum, og var enginn af þeim eftir skilinn. 10.15 Og er hann fór þaðan, hitti hann Jónadab Rekabsson, er kom í móti honum. Hann heilsaði honum og sagði við hann: 'Ert þú einlægur við mig, eins og ég er við þig?' Jónadab svaraði: 'Svo er víst.' Þá mælti Jehú: 'Ef svo er, þá rétt mér hönd þína.' Þá rétti hann honum hönd sína, og hann lét hann stíga upp í vagninn til sín 10.16 og mælti: 'Kom með mér, þá skalt þú fá að sjá, hversu ég vandlæti vegna Drottins.' Síðan lét hann hann fara með sér á vagni sínum. 10.17 Og er hann var kominn til Samaríu, drap hann alla, er eftir voru af Akabsætt í Samaríu, uns hann hafði gjöreytt þeim, samkvæmt orði Drottins, því er hann hafði talað til Elía. 10.18 Því næst stefndi Jehú saman öllum lýðnum og sagði við þá: 'Akab dýrkaði Baal slælega, Jehú mun dýrka hann betur. 10.19 Kallið því til mín alla spámenn Baals, alla dýrkendur hans og alla presta hans. Engan má vanta, því að ég ætla að halda blótveislu mikla fyrir Baal. Skal enginn sá lífi halda, er lætur sig vanta.' En þar beitti Jehú brögðum til þess að tortíma dýrkendum Baals. 10.20 Og Jehú sagði: 'Boðið hátíðasamkomu fyrir Baal.' Þeir gjörðu svo. 10.21 Og Jehú sendi um allan Ísrael. Þá komu allir dýrkendur Baals, svo að enginn var eftir, sá er eigi kæmi. Og þeir gengu í musteri Baals, og musteri Baals varð fullt enda á milli. 10.22 Síðan sagði hann við umsjónarmann fatabúrsins: 'Tak út klæði handa öllum dýrkendum Baals.' Og hann tók út klæði handa þeim. 10.23 Síðan gekk Jehú og Jónadab Rekabsson með honum í musteri Baals, og hann sagði við dýrkendur Baals: 'Gætið að og lítið eftir, að eigi sé hér meðal yðar neinn af þjónum Drottins, heldur dýrkendur Baals einir.' 10.24 Síðan gekk hann inn til þess að færa sláturfórnir og brennifórnir. En Jehú hafði sett áttatíu manns fyrir utan dyrnar og sagt: 'Hver sá er lætur nokkurn af mönnum þeim, er ég fæ yður í hendur, sleppa undan, hann skal láta sitt líf fyrir hans líf.' 10.25 Þegar Jehú hafði lokið við að færa brennifórnina, sagði hann við varðliðsmennina og riddarana: 'Gangið inn og brytjið þá niður, enginn má út komast.' Og þeir brytjuðu þá niður með sverði og köstuðu þeim út. Og varðliðsmennirnir og riddararnir ruddust alla leið inn í innhús Baalsmusterisins 10.26 og tóku asérurnar út úr musteri Baals og brenndu þær. 10.27 Og þeir rifu niður merkisstein Baals, rifu síðan musteri Baals og gjörðu úr því náðhús, og er svo enn í dag. 10.28 Þannig útrýmdi Jehú allri Baalsdýrkun í Ísrael. 10.29 En af syndum Jeróbóams Nebatssonar, er hann hafði komið Ísrael til að drýgja, af þeim lét Jehú ekki _ dýrkun gullkálfanna í Betel og í Dan. 10.30 Og Drottinn sagði við Jehú: 'Með því að þú hefir leyst vel af hendi það, er rétt var í mínum augum, og farið alveg mér að skapi með ætt Akabs, þá skulu niðjar þínir í fjórða lið sitja í hásæti Ísraels.' 10.31 En Jehú hirti eigi um að breyta eftir lögmáli Drottins, Ísraels Guðs, af öllu hjarta sínu. Hann lét eigi af syndum Jeróbóams, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja. 10.32 Um þessar mundir byrjaði Drottinn að sneiða af Ísrael. Hasael vann sigur á þeim á öllum landamærum Ísraels. 10.33 Frá Jórdan austur á bóginn lagði hann undir sig allt Gíleaðland, Gaðíta, Rúbeníta og Manassíta, frá Aróer, sem er við Arnoná, bæði Gíleað og Basan. 10.34 En það sem meira er að segja um Jehú og allt, sem hann gjörði, og öll hreystiverk hans, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 10.35 Og Jehú lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og var hann grafinn í Samaríu. Og Jóahas sonur hans tók ríki eftir hann. 10.36 En sá tími, er Jehú ríkti yfir Ísrael í Samaríu, voru tuttugu og átta ár.
11.1 Þá er Atalía móðir Ahasía sá, að sonur hennar var dauður, fór hún til og lét drepa alla konungsættina. 11.2 Þá tók Jóseba, dóttir Jórams konungs, systir Ahasía, Jóas Ahasíason á laun úr hóp konungssonanna, er deyða átti, og fól hann og fóstru hans í svefnherberginu. Þannig leyndi hún honum fyrir Atalíu, svo að hann var ekki drepinn. 11.3 Og hann var hjá henni á laun sex ár í musteri Drottins, meðan Atalía ríkti yfir landinu. 11.4 En á sjöunda ári sendi Jójada prestur menn og lét sækja hundraðshöfðingja lífvarðarins og varðliðsins og lét þá koma til sín í musteri Drottins. Og hann gjörði við þá sáttmála og lét þá vinna eið í musteri Drottins. Síðan sýndi hann þeim konungsson 11.5 og lagði svo fyrir þá: 'Svo skuluð þér gjöra: Þriðjungur yðar, þér er heim farið hvíldardaginn, skuluð halda vörð í konungshöllinni. 11.6 Skal einn þriðjungurinn vera í Súrhliði, annar í hliðinu bak við varðliðsmennina, svo að þér haldið vörð í konungshöllinni. 11.7 Og báðir hinir þriðjungsflokkar yðar, allir þeir, er fara út hvíldardaginn til þess að halda vörð í musteri Drottins hjá konunginum, 11.8 þér skuluð fylkja yður um konung, allir með vopn í hendi, og hver sá, er vill brjótast gegnum raðirnar, skal drepinn verða. Skuluð þér þannig vera með konungi, þá er hann fer út og þegar hann kemur heim.' 11.9 Hundraðshöfðingjarnir fóru með öllu svo sem Jójada prestur hafði boðið, sóttu hver sína menn, bæði þá er heim fóru hvíldardaginn og þá er út fóru hvíldardaginn og komu til Jójada prests. 11.10 Og presturinn fékk hundraðshöfðingjunum spjótin og skjölduna, er átt hafði Davíð konungur og voru í musteri Drottins. 11.11 Og varðliðsmennirnir námu staðar, allir með vopn í hendi, allt í kringum konung, frá suðurhlið musterisins að norðurhlið þess, frammi fyrir altarinu og frammi fyrir musterinu. 11.12 Þá leiddi hann konungsson fram og setti á hann kórónuna og hringana. Tóku þeir hann til konungs og smurðu hann, klöppuðu lófum saman og hrópuðu: 'Konungurinn lifi!' 11.13 En er Atalía heyrði ópið í varðliðsmönnunum og lýðnum, þá kom hún til lýðsins í musteri Drottins. 11.14 Sá hún þá, að konungur stóð við súluna, svo sem siður var til, og hún sá höfuðsmennina og lúðursveinana hjá konungi og allan landslýðinn fagnandi og blásandi í lúðrana. Þá reif Atalía klæði sín og kallaði: 'Samsæri, samsæri!' 11.15 En Jójada prestur bauð hundraðshöfðingjunum, fyrirliðum hersins, og mælti til þeirra: 'Leiðið hana út milli raðanna og drepið með sverði hvern, sem fer á eftir henni.' Því að prestur hafði sagt: ,Eigi skal hana drepa í musteri Drottins.` 11.16 Síðan lögðu þeir hendur á hana, og er hún var komin inn í konungshöllina um hrossahliðið, var hún drepin þar. 11.17 Jójada gjörði sáttmála milli Drottins og konungs og lýðsins, að þeir skyldu vera lýður Drottins, svo og milli konungs og lýðsins. 11.18 Síðan fór allur landslýður inn í musteri Baals og reif það. Ölturu hans og líkneskjur molbrutu þeir, en Mattan, prest Baals, drápu þeir fyrir ölturunum. Síðan setti prestur varðflokka við musteri Drottins, 11.19 og hann tók hundraðshöfðingjana, lífvörðinn og varðliðsmennina og allan landslýðinn, og fóru þeir með konung ofan frá musteri Drottins og gengu um varðliðshliðið inn í konungshöllina, og hann settist í konungshásætið. 11.20 Allur landslýður fagnaði og borgin sefaðist. En Atalíu drápu þeir með sverði í konungshöllinni. 11.21 Jóas var sjö vetra gamall, þá er hann varð konungur.
12.1 Á sjöunda ríkisári Jehú varð Jóas konungur, og fjörutíu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Sibja og var frá Beerseba. 12.2 Jóas gjörði það, sem rétt var í augum Drottins alla ævi sína, af því að Jójada prestur hafði kennt honum. 12.3 Þó voru fórnarhæðirnar ekki afnumdar. Enn þá fórnaði lýðurinn sláturfórnum og reykelsisfórnum á hæðunum. 12.4 Og Jóas sagði við prestana: 'Allt fé, sem borið er í musteri Drottins sem helgigjafir, fé, sem lagt er á einhvern eftir mati _ fé, sem menn eru metnir eftir _ svo og allt það fé, sem einhver af eigin hvötum ber í musteri Drottins, 12.5 skulu prestarnir taka til sín, hver af sínum ráðunaut. En þeir skulu og með því gjöra við skemmdir á musterinu, allar skemmdir, sem á því finnast.' 12.6 En á tuttugasta og þriðja ríkisári Jóasar konungs höfðu prestarnir enn ekki gjört við skemmdir á musterinu. 12.7 Þá lét Jóas konungur kalla Jójada yfirprest og hina prestana og mælti til þeirra: 'Hvers vegna gjörið þér ekki við skemmdir á musterinu? Nú skuluð þér eigi framar taka við neinu fé af ráðunautum yðar, heldur skuluð þér láta það af hendi fyrir skemmdum á musterinu.' 12.8 Og prestarnir gengu að þeim kostum að taka ekki við fé af lýðnum, en vera og eigi skyldir að gjöra við skemmdir á musterinu. 12.9 Síðan tók Jójada prestur kistu nokkra, boraði gat á lokið og setti hana hjá altarinu, hægra megin, þegar gengið er inn í musteri Drottins, og létu prestarnir, þeir er geymdu inngöngudyra, í hana allt það fé, er borið var í musteri Drottins. 12.10 Og er þeir sáu, að mikið fé var komið í kistuna, kom kanslari konungs þangað og æðsti presturinn, og bundu þeir saman allt fé, sem fannst í musteri Drottins, og töldu það. 12.11 Fengu þeir síðan féð, er vegið hafði verið, verkstjórunum í hendur, þeim er höfðu umsjón með musteri Drottins, en þeir greiddu það trésmiðunum og byggingamönnunum, er störfuðu við musteri Drottins, 12.12 svo og múrurunum og steinsmiðunum og til þess að kaupa fyrir við og höggna steina til þess að gjöra við skemmdir á musteri Drottins, og til alls sem borga þurfti fyrir viðgjörð á musterinu. 12.13 Þó voru eigi gjörðir neinir silfurkatlar, skarbítar, fórnarskálar, lúðrar né nokkurs konar áhöld úr gulli eða silfri í musteri Drottins, af fé því, sem borið var í musteri Drottins, 12.14 heldur fengu menn það verkamönnunum, til þess að þeir fyrir það gjörðu við musteri Drottins. 12.15 En ekki héldu menn reikning við menn þá, er þeir fengu féð í hendur, til þess að þeir greiddu það verkamönnunum, heldur gjörðu þeir það upp á æru og trú. 12.16 En sektarfórnarféð og syndafórnarféð var eigi borið í musteri Drottins. Það áttu prestarnir. 12.17 Um þær mundir kom Hasael Sýrlandskonungur, herjaði á Gat og vann hana. En er Hasael ætlaði að fara til Jerúsalem, 12.18 þá tók Jóas Júdakonungur allar helgigjafir þær, er þeir Jósafat, Jóram og Ahasía forfeður hans, Júdakonungar, höfðu helgað, svo og helgigjafir sínar og allt gullið, er til var í fjárhirslum musteris Drottins og konungshallarinnar, og sendi það Hasael Sýrlandskonungi. Hætti hann þá við að fara til Jerúsalem. 12.19 En það sem meira er að segja um Jóas og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga. 12.20 Þjónar Jóasar hófust handa, gjörðu samsæri og drápu Jóas í Milló-húsi, þar sem gatan liggur niður til Silla. 12.21 Þeir Jósakar Símeatsson og Jósabad Sómersson, þjónar hans, unnu á honum, og hann var grafinn hjá feðrum sínum í Davíðsborg. Og Amasía sonur hans tók ríki eftir hann.
13.1 Á tuttugasta og þriðja ríkisári Jóasar Ahasíasonar Júdakonungs varð Jóahas Jehúson konungur yfir Ísrael í Samaríu og ríkti seytján ár. 13.2 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, og drýgði sömu syndirnar og Jeróbóam Nebatsson, þær er hann hafði komið Ísrael til að drýgja. Hann lét ekki af þeim. 13.3 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ísrael, og hann gaf þá í hendur Hasael Sýrlandskonungi og Benhadad syni Hasaels allan þann tíma. 13.4 En Jóahas blíðkaði Drottin, og Drottinn bænheyrði hann, því að hann sá ánauð Ísraels, hversu Sýrlandskonungur kúgaði þá. 13.5 Og Drottinn sendi Ísrael hjálparmann, svo að þeir losnuðu undan valdi Sýrlendinga, og Ísraelsmenn bjuggu í tjöldum sínum sem áður. 13.6 Þó létu þeir eigi af syndum Jeróbóams ættar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja. Þeir héldu áfram að drýgja þær. Aséran stóð og kyrr í Samaríu. 13.7 Jóahas átti ekkert lið eftir nema fimmtíu riddara, tíu vagna og tíu þúsund fótgönguliða, því að Sýrlandskonungur hafði gjöreytt þeim og gjört þá sem ryk við þreskingu. 13.8 Það sem meira er að segja um Jóahas og allt, sem hann gjörði, og hreystiverk hans, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 13.9 Og Jóahas lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og hann var grafinn í Samaríu. Og Jóas sonur hans tók ríki eftir hann. 13.10 Á þrítugasta og sjöunda ríkisári Jóasar Júdakonungs varð Jóas Jóahasson konungur yfir Ísrael í Samaríu og ríkti sextán ár. 13.11 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins. Hann lét ekki af neinum syndum Jeróbóams Nebatssonar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja. Hann hélt áfram að drýgja þær. 13.12 Það sem meira er að segja um Jóas og allt, sem hann gjörði, og hreystiverk hans, hversu hann háði ófrið við Amasía Júdakonung, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 13.13 Og Jóas lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og Jeróbóam settist í hásæti hans. Og Jóas var grafinn í Samaríu hjá Ísraelskonungum. 13.14 Elísa tók sótt, er leiddi hann til bana. Fór þá Jóas konungur í Ísrael ofan til hans, grét yfir honum og sagði: 'Faðir minn, faðir minn, þú Ísraels vagn og riddarar!' 13.15 En Elísa sagði við hann: 'Tak boga og örvar.' Og hann færði honum boga og örvar. 13.16 Þá sagði hann við Ísraelskonunginn: 'Legg hönd þína á bogann.' Hann gjörði svo. Þá lagði Elísa hendur sínar ofan á hendur konungs. 13.17 Síðan mælti hann: 'Opna þú gluggann gegnt austri.' Og hann gjörði svo. Þá sagði Elísa: 'Skjót!' Og hann skaut. Og Elísa mælti: 'Sigurör frá Drottni! Já, sigurör yfir Sýrlendingum! Þú munt vinna sigur á Sýrlendingum í Afek, uns þeir eru gjöreyddir.' 13.18 Síðan sagði hann: 'Tak örvarnar.' Og hann tók þær. Þá sagði hann við Ísraelskonunginn: 'Slá þú á jörðina.' Og hann sló þrisvar sinnum, en hætti síðan. 13.19 Þá gramdist guðsmanninum við hann og sagði: 'Þú hefðir átt að slá fimm eða sex sinnum, þá mundir þú hafa unnið sigur á Sýrlendingum, uns þeir hefðu verið gjöreyddir, en nú munt þú aðeins vinna þrisvar sinnum sigur á Sýrlendingum.' 13.20 Elísa dó og var grafinn. En ræningjaflokkar frá Móab brutust þá inn í landið á ári hverju. 13.21 Og svo bar við, er verið var að grafa mann nokkurn, að menn komu allt í einu auga á ræningjaflokk. Fleygðu þeir þá manninum í gröf Elísa og höfðu sig á brott. En er maðurinn snart bein Elísa, þá lifnaði hann og reis á fætur. 13.22 Hasael Sýrlandskonungur kreppti að Ísrael alla ævi Jóahasar. 13.23 En Drottinn miskunnaði þeim og sá aumur á þeim og sneri sér til þeirra sakir sáttmála síns við Abraham, Ísak og Jakob. Vildi hann eigi, að þeir skyldu tortímast, hafði og eigi útskúfað þeim frá augliti sínu til þessa. 13.24 Og er Hasael Sýrlandskonungur var dáinn og Benhadad sonur hans hafði tekið ríki eftir hann, 13.25 þá tók Jóas Jóahasson borgirnar aftur frá Benhadad Hasaelssyni, þær er Hasael hafði tekið frá Jóahas föður hans í ófriði. Vann Jóas þrisvar sinnum sigur á honum og náði aftur borgum Ísraels.
14.1 Á öðru ríkisári Jóasar Jóahassonar Ísraelskonungs varð Amasía Jóasson konungur í Júda. 14.2 Hann var tuttugu og fimm ára að aldri, þá er hann varð konungur, og tuttugu og níu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jóaddan og var frá Jerúsalem. 14.3 Hann gjörði það sem rétt var í augum Drottins, þó eigi eins og Davíð forfaðir hans. Hann breytti í alla staði eins og Jóas faðir hans hafði breytt. 14.4 Aðeins voru fórnarhæðirnar ekki afnumdar. Enn þá fórnaði lýðurinn sláturfórnum og reykelsisfórnum á hæðunum. 14.5 En er Amasía var orðinn fastur í sessi, lét hann drepa þá menn sína, er drepið höfðu konunginn föður hans. 14.6 En börn morðingjanna lét hann ekki af lífi taka, samkvæmt því, sem skrifað er í lögmálsbók Móse, þar sem Drottinn mælir svo fyrir: ,Feður skulu ekki líflátnir verða ásamt börnunum, og börn skulu ekki líflátin verða ásamt feðrunum, heldur skal hver líflátinn verða fyrir sína eigin synd.` 14.7 Það var hann, sem vann sigur á Edómítum í Saltdalnum, tíu þúsundum manns, og tók Sela herskildi og nefndi hana Jokteel, og heitir hún svo enn í dag. 14.8 Þá gjörði Amasía sendimenn á fund Jóasar Jóahassonar, Jehúsonar Ísraelskonungs með svolátandi orðsending: 'Nú skulum við reyna með okkur.' 14.9 Þá sendi Jóas Ísraelskonungur Amasía Júdakonungi þau andsvör: 'Þistillinn á Líbanon gjörði sedrustrénu á Líbanon svolátandi orðsending: ,Gef þú syni mínum dóttur þína að konu.` En villidýrin á Líbanon gengu yfir þistilinn og tróðu hann sundur. 14.10 Af því að þú vannst mikinn sigur á Edómítum, hefir þú fyllst ofmetnaði. Njót þú frægðarinnar og sit kyrr heima. Hví vilt þú egna ógæfuna sjálfum þér og Júda til falls?' 14.11 En Amasía gaf þessu engan gaum. Þá fór Jóas Ísraelskonungur af stað, og varð fundur þeirra, hans og Amasía Júdakonungs, í Bet Semes, er tilheyrir Júda. 14.12 Beið Júda þar ósigur fyrir Ísrael, og flýðu þeir hver til síns heima. 14.13 En Jóas Ísraelskonungur tók höndum Amasía Júdakonung, son Jóasar Ahasíasonar, í Bet Semes og fór með hann til Jerúsalem. Hann braut niður múra Jerúsalem frá Efraímhliði allt að hornhliðinu, fjögur hundruð álnir. 14.14 Því næst tók hann allt gull og silfur og öll áhöld, er fundust í musteri Drottins og í fjárhirslum konungshallarinnar, svo og gísla, og sneri síðan aftur heim til Samaríu. 14.15 Það sem meira er að segja um Jóas, það sem hann gjörði og hreystiverk hans og hversu hann barðist við Amasía Júdakonung, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 14.16 Og Jóas lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í Samaríu hjá Ísraelskonungum. Og Jeróbóam sonur hans tók ríki eftir hann. 14.17 En Amasía Jóasson Júdakonungur lifði fimmtán ár eftir dauða Jóasar Jóahassonar Ísraelskonungs. 14.18 En það sem meira er að segja um Amasía, það er ritað í Árbókum Júdakonunga. 14.19 Og menn gjörðu samsæri gegn Amasía í Jerúsalem. Flýði hann þá til Lakís. En þeir sendu á eftir honum til Lakís og létu drepa hann þar. 14.20 Fluttu þeir hann síðan á hestum, og var hann grafinn í Jerúsalem hjá feðrum sínum í Davíðsborg. 14.21 Þá tók allur Júdalýður Asaría, þótt hann væri eigi nema sextán vetra gamall, og gjörði hann að konungi í stað Amasía föður hans. 14.22 Hann víggirti Elat og vann hana aftur undir Júda, eftir að konungurinn var lagstur til hvíldar hjá feðrum sínum. 14.23 Á fimmtánda ríkisári Amasía Jóassonar Júdakonungs varð Jeróbóam, sonur Jóasar Ísraelskonungs, konungur í Samaríu og ríkti fjörutíu og eitt ár. 14.24 Hann gjörði það sem illt var í augum Drottins. Lét hann eigi af neinum syndum Jeróbóams Nebatssonar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja. 14.25 Hann vann aftur Ísraelsland, þaðan frá, er leið liggur til Hamat, allt að vatninu á sléttlendinu, samkvæmt orði Drottins, Ísraels Guðs, því er hann hafði talað fyrir munn þjóns síns, Jónasar spámanns Amíttaísonar frá Gat Hefer. 14.26 Drottinn hafði séð, að eymd Ísraels var mjög beisk. Þrælar og frelsingjar voru horfnir, og enginn var sá, er hjálpaði Ísrael. 14.27 En þó hafði Drottinn ekki sagt, að hann mundi afmá nafn Ísraels af jörðinni, enda frelsaði hann þá fyrir Jeróbóam Jóasson. 14.28 Það sem meira er að segja um Jeróbóam og allt, sem hann gjörði, og hreystiverk hans, hversu hann herjaði og hversu hann vann aftur Damaskus og Hamat, er fyrrum tilheyrði Júda, undir Ísrael, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 14.29 Og Jeróbóam lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í Samaríu hjá Ísraelskonungum. Og Sakaría sonur hans tók ríki eftir hann.
15.1 Á tuttugasta og sjöunda ríkisári Jeróbóams Ísraelskonungs tók ríki Asaría sonur Amasía Júdakonungs. 15.2 Hann var sextán vetra gamall, er hann varð konungur, og fimmtíu og tvö ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jekolja og var frá Jerúsalem. 15.3 Hann gjörði það sem rétt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði Amasía faðir hans. 15.4 Þó voru fórnarhæðirnar eigi afnumdar. Enn þá fórnaði lýðurinn sláturfórnum og reykelsisfórnum á hæðunum. 15.5 Og Drottinn sló konung, svo að hann varð líkþrár til dauðadags. Bjó hann kyrr í höll sinni, einn sér, en Jótam konungsson veitti forstöðu höllinni og dæmdi mál landsmanna. 15.6 Það sem meira er að segja um Asaría og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga. 15.7 Og Asaría lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í Davíðsborg. Og Jótam sonur hans tók ríki eftir hann. 15.8 Á þrítugasta og áttunda ríkisári Asaría Júdakonungs varð Sakaría Jeróbóamsson konungur yfir Ísrael í Samaríu og ríkti sex mánuði. 15.9 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, svo sem gjört höfðu forfeður hans. Hann lét eigi af syndum Jeróbóams Nebatssonar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja. 15.10 Sallúm Jabesson hóf samsæri gegn honum og drap hann í Jibleam og tók ríki eftir hann. 15.11 Það sem meira er að segja um Sakaría, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 15.12 Rættist þannig orð Drottins, það er hann hafði talað til Jehú: ,Niðjar þínir í fjórða lið skulu sitja í hásæti Ísraels.` Og það varð svo. 15.13 Sallúm Jabesson varð konungur á þrítugasta og níunda ríkisári Ússía Júdakonungs og ríkti mánaðartíma í Samaríu. 15.14 Þá fór Menahem Gadíson frá Tirsa, kom til Samaríu og drap Sallúm Jabesson í Samaríu og tók ríki eftir hann. 15.15 Það sem meira er að segja um Sallúm og samsærið, sem hann hóf, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 15.16 Þá eyddi Menahem Tappúa og öllu, sem í henni var, og allt landið umhverfis hana frá Tirsa, af því að menn höfðu eigi lokið borgarhliðum upp fyrir honum, og allar þungaðar konur í borginni lét hann rista á kvið. 15.17 Á þrítugasta og níunda ríkisári Asaría Júdakonungs varð Menahem Gadíson konungur yfir Ísrael og ríkti tíu ár í Samaríu. 15.18 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins. Hann lét ekki af neinum syndum Jeróbóams Nebatssonar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja. 15.19 Á hans dögum réðst Púl Assýríukonungur inn í landið, og Menahem gaf Púl þúsund talentur silfurs til liðsinnis við sig og til þess að tryggja konungdóm sinn. 15.20 Bauð Menahem öllum Ísrael, öllum auðmönnum, að greiða Assýríukonungi féð: fimmtíu sikla silfurs hverjum. Sneri þá Assýríukonungur heim aftur og hafði eigi lengri dvöl þar í landi. 15.21 Það sem meira er að segja um Menahem og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 15.22 Og Menahem lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og Pekaja sonur hans tók ríki eftir hann. 15.23 Á fimmtugasta ríkisári Asaría Júdakonungs varð Pekaja Menahemsson konungur yfir Ísrael í Samaríu og ríkti tvö ár. 15.24 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins. Hann lét eigi af syndum Jeróbóams Nebatssonar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja. 15.25 Peka Remaljason riddari hans hóf samsæri gegn honum og drap hann í Samaríu, í vígi konungshallarinnar, ásamt Argób og Arje, og voru fimmtíu manns af Gíleaðítum með honum. Og er hann hafði stytt honum aldur, tók hann ríki eftir hann. 15.26 Það sem meira er að segja um Pekaja og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 15.27 Á fimmtugasta og öðru ríkisári Asaría Júdakonungs varð Peka Remaljason konungur yfir Ísrael í Samaríu og ríkti tuttugu ár. 15.28 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins. Hann lét ekki af syndum Jeróbóams Nebatssonar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja. 15.29 Á dögum Peka Ísraelskonungs kom Tíglat Píleser Assýríukonungur og tók Íjón, Abel Bet Maaka, Janóa, Kedes, Hasór, Gíleað og Galíleu, allt Naftalíland, og herleiddi íbúana til Assýríu. 15.30 Þá hóf Hósea Elason samsæri gegn Peka Remaljasyni, drap hann og tók ríki eftir hann, á tuttugasta ríkisári Jótams Ússíasonar. 15.31 Það sem meira er að segja um Peka og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 15.32 Á öðru ríkisári Peka Remaljasonar Ísraelskonungs tók ríki Jótam, sonur Ússía Júdakonungs. 15.33 Hann var tuttugu og fimm ára gamall, þá er hann varð konungur, og sextán ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jerúsa Sadóksdóttir. 15.34 Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði Ússía faðir hans. 15.35 Þó voru fórnarhæðirnar ekki afnumdar. Enn þá fórnaði lýðurinn sláturfórnum og reykelsisfórnum á hæðunum. Hann reisti efra hliðið á musteri Drottins. 15.36 Það sem meira er að segja um Jótam og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga. 15.37 Um þær mundir tók Drottinn að hleypa þeim Resín Sýrlandskonungi og Peka Remaljasyni á Júda. 15.38 Og Jótam lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í borg Davíðs forföður síns. Og Akas sonur hans tók ríki eftir hann.
16.1 Á seytjánda ríkisári Peka Remaljasonar tók ríki Akas, sonur Jótams Júdakonungs. 16.2 Akas var tvítugur að aldri, þá er hann varð konungur, og sextán ár ríkti hann í Jerúsalem. Hann gjörði ekki það, sem rétt var í augum Drottins, Guðs hans, svo sem Davíð forfaðir hans, 16.3 heldur fetaði hann í fótspor Ísraelskonunga. Hann lét jafnvel son sinn ganga gegnum eldinn og drýgði þannig sömu svívirðingarnar og þær þjóðir, er Drottinn hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum. 16.4 Hann fórnaði og sláturfórnum og reykelsisfórnum á fórnarhæðunum og hólunum og undir hverju grænu tré. 16.5 Í þann tíma fóru þeir Resín Sýrlandskonungur og Peka Remaljason Ísraelskonungur upp til Jerúsalem til þess að herja á hana. Settust þeir um Akas, en fengu eigi unnið hann. 16.6 Um þær mundir vann Resín Sýrlandskonungur Elat aftur undir Edóm og rak Júdamenn burt frá Elat, en Edómítar komu til Elat og hafa búið þar fram á þennan dag. 16.7 Akas gjörði sendimenn á fund Tíglat Pílesers Assýríukonungs og lét segja honum: 'Ég er þjónn þinn og sonur! Kom og frelsa mig undan valdi Sýrlandskonungs og undan valdi Ísraelskonungs, er ráðist hafa á mig.' 16.8 Og Akas tók silfrið og gullið, sem var í musteri Drottins og fjárhirslum konungshallarinnar, og sendi Assýríukonungi að gjöf. 16.9 Assýríukonungur tók vel máli hans. Síðan fór Assýríukonungur herför til Damaskus, tók borgina herskildi og herleiddi íbúana til Kír, en Resín lét hann af lífi taka. 16.10 Akas konungur fór nú til Damaskus til fundar við Tíglat Píleser Assýríukonung og sá þá altarið, er var í Damaskus. Sendi þá Akas konungur Úría presti uppdrátt og fyrirmynd af altarinu, er var alveg eins og það. 16.11 Og Úría prestur reisti altarið. Gjörði Úría prestur með öllu svo sem Akas konungur hafði sent boð um frá Damaskus, áður en hann kom frá Damaskus. 16.12 Þá er konungur kom frá Damaskus og leit altarið, þá gekk hann að altarinu og 16.13 fórnaði á því brennifórn sinni og matfórn, dreypti dreypifórn sinni og stökkti blóði heillafórna sinna á altarið. 16.14 En eiraltarið, er stóð frammi fyrir Drottni, færði hann þaðan sem það var fyrir framan musterið, milli nýja altarisins og musteris Drottins, og setti það að norðanverðu við altarið. 16.15 Og Akas konungur lagði svo fyrir Úría prest: 'Á stóra altarinu skalt þú fórna morgunbrennifórninni og kvöldmatfórninni, brennifórn konungs og matfórn hans, brennifórnum allrar alþýðu í landinu og matfórnum hennar og dreypifórnum. Og öllu blóði brennifórnanna og öllu blóði sláturfórnanna skalt þú stökkva á það. En um eiraltarið ætla ég að skoða huga minn.' 16.16 Og Úría prestur gjörði allt svo sem Akas konungur hafði boðið. 16.17 Akas konungur lét og brjóta speldin af vögnum kerlauganna og tók kerin ofan af þeim. Þá lét hann og taka hafið ofan af eirnautunum, er undir því stóðu, og setja á steingólfið. 16.18 Og hvíldardagsganginn, er tjaldaður var, og þeir höfðu gjört í musterinu, og ytri konungsganginn tók hann burt úr musteri Drottins til þess að þóknast Assýríukonungi. 16.19 Það sem meira er að segja um Akas og það, er hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga. 16.20 Og Akas lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í Davíðsborg. Og Hiskía sonur hans tók ríki eftir hann.
17.1 Á tólfta ríkisári Akasar Júdakonungs varð Hósea Elason konungur í Samaríu yfir Ísrael og ríkti níu ár. 17.2 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, þó ekki eins og Ísraelskonungar þeir, er verið höfðu á undan honum. 17.3 Salmaneser Assýríukonungur fór herför í móti honum, og varð Hósea lýðskyldur honum og galt honum skatt. 17.4 En er Assýríukonungur varð þess var, að Hósea bjó yfir svikum við hann, þar sem hann gjörði menn á fund Só Egyptalandskonungs og greiddi Assýríukonungi eigi framar árlega skattinn, eins og verið hafði, þá tók Assýríukonungur hann höndum og lét fjötra hann í dýflissu. 17.5 Og Assýríukonungur herjaði landið allt og fór til Samaríu og sat um hana í þrjú ár. 17.6 En á níunda ríkisári Hósea vann Assýríukonungur Samaríu og herleiddi Ísrael til Assýríu. Fékk hann þeim bústað í Hala og við Habór, fljótið í Gósan, og í borgum Meda. 17.7 Þannig fór, af því að Ísraelsmenn höfðu syndgað gegn Drottni, Guði sínum, þeim er leiddi þá út af Egyptalandi, undan valdi Faraós Egyptalandskonungs, og dýrkað aðra guði. 17.8 Þeir fóru og að siðum þeirra þjóða, er Drottinn hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum, og að siðum Ísraelskonunga, er þeir sjálfir höfðu sett. 17.9 Þá gjörðu og Ísraelsmenn það, er rangt var gagnvart Drottni, Guði þeirra, og byggðu sér fórnarhæðir í öllum borgum sínum, jafnt varðmannaturnum sem víggirtum borgum. 17.10 Þeir reistu sér merkissteina og asérur á öllum háum hólum og undir hverju grænu tré 17.11 og fórnuðu þar reykelsisfórnum á öllum hæðum eins og þjóðirnar, er Drottinn hafði rekið burt undan þeim. Aðhöfðust þeir það sem illt var og egndu Drottin til reiði. 17.12 Og þeir dýrkuðu skurðgoð, er Drottinn hafði sagt um við þá: ,Þér skuluð eigi gjöra slíkt.` 17.13 Og þó hafði Drottinn aðvarað Ísrael og Júda fyrir munn allra spámannanna, allra sjáandanna, og sagt: ,Snúið aftur frá yðar vondu vegum og varðveitið skipanir mínar og boðorð í öllum greinum samkvæmt lögmálinu, er ég lagði fyrir feður yðar, og því er ég bauð yður fyrir munn þjóna minna, spámannanna.` 17.14 En þeir hlýddu ekki, heldur þverskölluðust eins og feður þeirra, er eigi treystu Drottni, Guði sínum. 17.15 Þeir virtu að vettugi lög hans og sáttmála, þann er hann hafði gjört við feður þeirra, og boðorð hans, þau er hann hafði fyrir þá lagt, og eltu fánýt goð og breyttu heimskulega að dæmi þjóðanna, er umhverfis þá voru, þótt Drottinn hefði bannað þeim að breyta eftir þeim. 17.16 Þeir yfirgáfu öll boð Drottins, Guðs síns, og gjörðu sér steypt líkneski, tvo kálfa, og þeir gjörðu asérur, féllu fram fyrir öllum himinsins her og dýrkuðu Baal. 17.17 Þeir létu sonu sína og dætur ganga gegnum eldinn, fóru með galdur og fjölkynngi og ofurseldu sig til að gjöra það, sem illt var í augum Drottins, til þess að egna hann til reiði. 17.18 Þá reiddist Drottinn Ísrael ákaflega og rak þá burt frá augliti sínu. Ekkert varð eftir nema Júdaættkvísl ein. 17.19 Júdamenn héldu ekki heldur boðorð Drottins, Guðs síns. Þeir fóru að siðum Ísraelsmanna, er þeir sjálfir höfðu sett. 17.20 Fyrir því hafnaði Drottinn öllu Ísraels kyni og auðmýkti þá og gaf þá í hendur ræningjum, þar til er hann útskúfaði þeim frá augliti sínu. 17.21 Þegar Drottinn hafði slitið Ísrael frá ætt Davíðs og þeir höfðu tekið Jeróbóam Nebatsson til konungs, þá tældi Jeróbóam Ísrael til að snúa sér frá Drottni og kom þeim til að drýgja mikla synd. 17.22 Og Ísraelsmenn drýgðu allar sömu syndirnar, sem Jeróbóam hafði drýgt. Þeir létu eigi af þeim, 17.23 þar til er Drottinn rak Ísrael burt frá augliti sínu, eins og hann hafði sagt fyrir munn allra þjóna sinna, spámannanna. Þannig var Ísrael herleiddur burt úr landi sínu til Assýríu og hefir verið þar fram á þennan dag. 17.24 Assýríukonungur flutti inn fólk frá Babýloníu, frá Kúta, frá Ava, frá Hamat og frá Sefarvaím og lét það setjast að í borgum Samaríu í stað Ísraelsmanna. Tóku þeir Samaríu til eignar og settust að í borgum hennar. 17.25 En með því að þeir dýrkuðu ekki Drottin, fyrst eftir að þeir voru setstir þar að, þá sendi Drottinn ljón meðal þeirra. Ollu þau manntjóni meðal þeirra. 17.26 Þá sögðu menn svo við Assýríukonung: 'Þjóðirnar, er þú fluttir burt og lést setjast að í borgum Samaríu, vita eigi, hver dýrkun landsguðnum ber. Fyrir því hefir hann sent ljón meðal þeirra, og sjá, þau deyða þá, af því að þeir vita ekki, hvað landsguðnum ber.' 17.27 Þá skipaði Assýríukonungur svo fyrir: 'Látið einn af prestunum fara þangað, þeim er ég flutti burt þaðan, að hann fari og setjist þar að og kenni þeim, hver dýrkun landsguðnum ber.' 17.28 Þá kom einn af prestunum, þeim er þeir höfðu flutt burt úr Samaríu, og settist að í Betel. Hann kenndi þeim, hvernig þeir ættu að dýrka Drottin. 17.29 Samverjar gjörðu sér sína guði, hver þjóðflokkur út af fyrir sig, og settu þá í hæðahofin, er þeir höfðu reist, hver þjóðflokkur út af fyrir sig í sínum borgum, þeim er þeir bjuggu í. 17.30 Babýloníumenn gjörðu líkneski af Súkkót Benót, Kútmenn gjörðu líkneski af Nergal, Hamatmenn gjörðu líkneski af Asíma, 17.31 Avítar gjörðu líkneski af Nibkas og Tartak, en Sefarvítar brenndu börn sín til handa Adrammelek og Anammelek, Sefarvaím-guðum. 17.32 Þeir dýrkuðu einnig Drottin og gjörðu menn úr sínum hóp að hæðaprestum. Báru þeir fram fórnir fyrir þá í hæðahofunum. 17.33 Þannig dýrkuðu þeir Drottin, en þjónuðu einnig sínum guðum að sið þeirra þjóða, er þeir höfðu verið fluttir frá. 17.34 Fram á þennan dag fara þeir að fornum siðum. Þeir dýrka ekki Drottin og breyta ekki eftir lögum hans og ákvæðum og lögmáli því og boðorði, er Drottinn lagði fyrir sonu Jakobs, þess er hann gaf nafnið Ísrael. 17.35 En Drottinn hafði gjört sáttmála við þá og boðið þeim á þessa leið: ,Þér skuluð eigi dýrka neina aðra guði, eigi falla fram fyrir þeim, eigi þjóna þeim né færa þeim fórnir, 17.36 en Drottin, sem leiddi yður af Egyptalandi með miklum mætti og útréttum armlegg _ hann skuluð þér dýrka, fyrir honum skuluð þér falla fram og honum skuluð þér fórnir færa. 17.37 En lög þau og ákvæði, lögmál og boðorð, er hann hefir ritað handa yður, skuluð þér varðveita, svo að þér haldið þau alla daga, og þér skuluð eigi dýrka aðra guði. 17.38 Og sáttmálanum, er ég hefi við yður gjört, skuluð þér ekki gleyma, og þér skuluð eigi dýrka aðra guði, 17.39 en Drottin, Guð yðar, skuluð þér dýrka, og mun hann þá frelsa yður af hendi allra óvina yðar.` 17.40 Samt hlýddu þeir ekki, heldur fóru þeir að fornum siðum. 17.41 Þannig dýrkuðu þá þessar þjóðir Drottin, en þjónuðu þó um leið skurðgoðum sínum. Börn þeirra og barnabörn breyta og enn í dag eins og feður þeirra breyttu.
18.1 Á þriðja ríkisári Hósea Elasonar Ísraelskonungs tók ríki Hiskía Akasson Júdakonungs. 18.2 Hann var tuttugu og fimm ára gamall, þá er hann varð konungur, og tuttugu og níu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Abía Sakaríadóttir. 18.3 Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, að öllu svo sem gjört hafði Davíð forfaðir hans. 18.4 Hann afnam fórnarhæðirnar, braut merkissteinana, hjó í sundur aséruna og mölvaði eirorminn, þann er Móse hafði gjöra látið, því að allt til þess tíma höfðu Ísraelsmenn fært honum reykelsisfórnir, og var hann nefndur Nehústan. 18.5 Hiskía treysti Drottni, Ísraels Guði, svo að eftir hann var enginn honum líkur meðal allra Júdakonunga og eigi heldur neinn þeirra, er á undan honum höfðu verið. 18.6 Hann hélt sér fast við Drottin, veik eigi frá honum og varðveitti boðorð hans, þau er Drottinn hafði lagt fyrir Móse. 18.7 Og Drottinn var með honum. Í öllu því, er hann tók sér fyrir hendur, var hann lánsamur. Hann braust undan Assýríukonungi og var ekki lengur lýðskyldur honum. 18.8 Hann vann og sigur á Filistum alla leið til Gasa og eyddi landið umhverfis hana, jafnt varðmannaturna sem víggirtar borgir. 18.9 En á fjórða ríkisári Hiskía konungs _ það er á sjöunda ríkisári Hósea Elasonar Ísraelskonungs _ fór Salmaneser Assýríukonungur herför gegn Samaríu og settist um hana. 18.10 Unnu þeir hana eftir þrjú ár. Á sjötta ríkisári Hiskía _ það er á níunda ríkisári Hósea Ísraelskonungs _ var Samaría unnin. 18.11 Og Assýríukonungur herleiddi Ísrael til Assýríu og lét þá setjast að í Hala og við Habór, fljótið í Gósan, og í borgum Meda, 18.12 af því að þeir höfðu ekki hlýtt raustu Drottins, Guðs þeirra, heldur rofið sáttmála hans, allt það er Móse, þjónn Drottins, hafði boðið. Þeir höfðu hvorki hlýtt því né breytt eftir því. 18.13 Á fjórtánda ríkisári Hiskía konungs fór Sanheríb Assýríukonungur herför gegn öllum víggirtum borgum í Júda og vann þær. 18.14 Þá sendi Hiskía Júdakonungur boð til Assýríukonungs til Lakís og lét segja honum: 'Ég hefi syndgað, far aftur burt frá mér. Mun ég greiða þér slíkt gjald, er þú á mig leggur.' Þá lagði Assýríukonungur þrjú hundruð talentur silfurs og þrjátíu talentur gulls á Hiskía Júdakonung. 18.15 Greiddi þá Hiskía allt silfur, er til var í musteri Drottins og fjárhirslum konungshallarinnar. 18.16 Um þær mundir tók Hiskía gullið af dyrunum á musteri Drottins og af dyrastöfunum, er Hiskía Júdakonungur hafði lagt þá með, og fékk Assýríukonungi. 18.17 Þá sendi Assýríukonungur yfirhershöfðingja sinn, höfuðsmann og marskálk með miklu liði frá Lakís til Jerúsalem á fund Hiskía konungs. Fóru þeir af stað og komu til Jerúsalem og námu staðar hjá vatnsstokknum úr efri tjörninni, sem er við veginn út á bleikivöllinn. 18.18 Og er þeir komu á fund konungs, þá gengu þeir Eljakím Hilkíason dróttseti, Sébna kanslari og Jóak Asafsson ríkisritari út til þeirra. 18.19 Marskálkur konungs mælti til þeirra: 'Segið Hiskía: Svo segir hinn mikli konungur, Assýríukonungur: Hvert er það athvarf, er þú treystir á? 18.20 Þú hyggur víst, að munnfleiprið eitt sé næg ráðagerð og liðstyrkur til hernaðar. Á hvern treystir þú þá svo, að þú skulir hafa gjört uppreisn í gegn mér? 18.21 Nú, þú treystir þá á þennan brotna eirstaf, á Egyptaland! Hann stingst upp í höndina á hverjum þeim, er við hann styðst, og fer í gegnum hana. Slíkur er Faraó Egyptalandskonungur öllum þeim, er á hann treysta. 18.22 Og ef þér segið við mig: ,Vér treystum á Drottin, Guð vorn,` eru það þá ekki fórnarhæðir hans og ölturu, sem Hiskía hefir numið burt, er hann sagði við Júdamenn og Jerúsalembúa: ,Fyrir þessu altari skuluð þér fram falla í Jerúsalem?` 18.23 Kom til og veðja við herra minn, Assýríukonunginn: Ég skal fá þér tvö þúsund hesta, ef þú getur sett riddara á þá. 18.24 Hvernig munt þú fá rekið af höndum þér einn höfuðsmann meðal hinna minnstu þjóna herra míns? Og þó treystir þú á Egyptaland vegna hervagnanna og riddaranna! 18.25 Hvort mun ég nú hafa farið til þessa staðar án vilja Drottins til þess að eyða hann? Drottinn sagði við mig: ,Far þú inn í þetta land og eyð það.'` 18.26 Þá sögðu þeir Eljakím Hilkíason, Sébna og Jóak við marskálk konungs: 'Tala þú við þjóna þína á arameísku, því að vér skiljum hana, en tala eigi við oss á Júda tungu í áheyrn fólksins, sem uppi er á borgarveggnum.' 18.27 En marskálkurinn sagði við þá: 'Hefir herra minn sent mig til herra þíns eða til þín til þess að flytja þetta erindi? Hefir hann ekki sent mig til þeirra manna, sem þar sitja uppi á borgarveggnum og eiga þann kost fyrir höndum ásamt yður að eta sinn eigin saur og drekka þvag sitt?' 18.28 Þá gekk marskálkurinn fram og kallaði hárri röddu á Júda tungu, tók til máls og sagði: 'Heyrið orð hins mikla konungs, Assýríukonungs! 18.29 Svo segir konungurinn: Látið eigi Hiskía tæla yður, því að hann fær ekki frelsað yður af hans hendi. 18.30 Og látið eigi Hiskía koma yður til að treysta á Drottin með því að segja: ,Drottinn mun vissulega frelsa oss, og þessi borg skal ekki verða Assýríukonungi í hendur seld.` 18.31 Hlustið eigi á Hiskía! Því að svo segir Assýríukonungur: Gjörið frið við mig og gangið mér á hönd, þá skal hver yðar mega eta af sínum vínviði og sínu fíkjutré og hver yðar drekka vatn úr sínum brunni, 18.32 þar til er ég kem og flyt yður í annað eins land og yðar land, í kornland og aldinlagar, í brauðland og víngarða, í olíuviðarland og hunangs, svo að þér megið lifa og eigi deyja. Hlustið því eigi á Hiskía! Því að hann ginnir yður, er hann segir: ,Drottinn mun frelsa oss.` 18.33 Hefir nokkur af guðum þjóðanna frelsað land sitt undan hendi Assýríukonungs? 18.34 Hvar eru guðir Hamatborgar og Arpadborgar? Hvar eru guðir Sefarvaím, Hena og Íva? Hafa þeir frelsað Samaríu undan minni hendi? 18.35 Hverjir eru þeir af öllum guðum landanna, er frelsað hafi lönd sín undan minni hendi, svo að Drottinn skyldi fá frelsað Jerúsalem undan minni hendi?' 18.36 En lýðurinn þagði og svaraði honum engu orði, því að skipun konungs var þessi: 'Svarið honum eigi.' 18.37 En þeir Eljakím Hilkíason dróttseti, Sébna kanslari og Jóak Asafsson ríkisritari gengu á fund Hiskía með sundurrifnum klæðum og fluttu honum orð marskálksins.
19.1 Þegar Hiskía konungur heyrði þetta, reif hann klæði sín, huldi sig hærusekk og gekk í hús Drottins. 19.2 En Eljakím dróttseta og Sébna kanslara og prestaöldungana sendi hann klædda hærusekk til Jesaja spámanns Amozsonar, 19.3 og skyldu þeir segja við hann: 'Svo segir Hiskía: Þessi dagur er neyðar-, hirtingar- og háðungardagur, því að barnið er komið í burðarliðinn, en krafturinn er enginn til að fæða. 19.4 Vera má, að Drottinn Guð þinn heyri öll orð marskálksins, er sendur er af Assýríukonungi herra sínum til að spotta hinn lifandi Guð, og láti hegnt verða þeirra orða, er Drottinn Guð þinn hefir heyrt. En bið þú fyrir leifunum, sem enn eru eftir.' 19.5 Þegar þjónar Hiskía konungs komu til Jesaja, 19.6 sagði Jesaja við þá: 'Segið svo herra yðar: Svo segir Drottinn: Óttast þú eigi smánaryrði þau, er þú hefir heyrt sveina Assýríukonungs láta sér um munn fara í gegn mér. 19.7 Sjá, ég læt hann verða þess hugar, að þegar hann spyr tíðindi, skal hann hverfa aftur heim í land sitt, og þá skal ég láta hann fyrir sverði falla í sínu eigin landi.' 19.8 Síðan sneri marskálkurinn aftur og hitti Assýríukonung, þar sem hann sat um Líbna, því að hann hafði frétt, að hann væri farinn burt frá Lakís. 19.9 Þar kom honum svolátandi fregn af Tírhaka Blálandskonungi: 'Hann er lagður af stað til þess að berjast við þig.' Gjörði Assýríukonungur þá aftur sendimenn til Hiskía með þessari orðsending: 19.10 'Segið svo Hiskía Júdakonungi: Lát eigi Guð þinn, er þú treystir á, tæla þig, er þú hugsar: ,Jerúsalem verður eigi seld í hendur Assýríukonungi.` 19.11 Sjá, þú hefir sjálfur heyrt, hverju Assýríukonungar hafa fram farið við öll lönd, hversu þeir hafa gjöreytt þau, og munt þú þá frelsaður verða? 19.12 Hvort hafa guðir þjóðanna, er feður mínir hafa að velli lagt, frelsað þær _ Gósan, Haran og Resef og Edenmenn, sem voru í Telessar? 19.13 Hvar er nú konungurinn í Hamat og konungurinn í Arpad og konungurinn í Sefarvaímborg, Hena og Íva?' 19.14 Hiskía tók við bréfinu af sendimönnunum og las það. Síðan gekk hann upp í hús Drottins og rakti það sundur frammi fyrir Drottni. 19.15 Og Hiskía gjörði bæn sína frammi fyrir Drottni og sagði: 'Drottinn, Ísraels Guð, þú sem situr uppi yfir kerúbunum, þú einn ert Guð yfir öllum konungsríkjum jarðar, þú hefir gjört himin og jörð. 19.16 Hneig, Drottinn, eyra þitt og heyr. Opna, Drottinn, auga þitt og sjá! Heyr þú orð Sanheríbs, er hann hefir sent til að smána með hinn lifandi Guð. 19.17 Satt er það, Drottinn, að Assýríukonungar hafa gjöreytt öllum þjóðum og löndum þeirra 19.18 og kastað guðum þeirra á eld, því að þeir voru ekki guðir, heldur handaverk manna, stokkar og steinar, svo að þeir gátu gjört þá að engu. 19.19 En Drottinn, Guð vor, frelsa oss nú af hans hendi, svo að öll konungsríki jarðar megi við kannast, að þú, Drottinn, einn ert Guð!' 19.20 Þá sendi Jesaja Amozson til Hiskía og lét segja honum: 'Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Þar sem þú hefir beðið til mín um hjálp gegn Sanheríb Assýríukonungi, þá hefi ég heyrt það. 19.21 Þetta er orðið, er Drottinn hefir um hann sagt: Mærin, dóttirin Síon, fyrirlítur þig og gjörir gys að þér. Dóttirin Jerúsalem skekur höfuðið á eftir þér. 19.22 Hvern hefir þú smánað og spottað og gegn hverjum hefir þú hafið upp raustina og lyft augum þínum í hæðirnar? Gegn Hinum Heilaga í Ísrael! 19.23 Þú hefir látið sendimenn þína smána Drottin og sagt: ,Með fjölda hervagna minna steig ég upp á hæðir fjallanna, efst upp á Líbanonfjall. Ég hjó hin hávöxnu sedrustré þess og hin ágætu kýprestré þess. Ég braust upp í efsta herbergi þess, inn í aldinskóginn, þar sem hann var þéttastur. 19.24 Ég gróf til vatns og drakk útlent vatn, og með iljum fóta minna þurrkaði ég upp öll vatnsföll Egyptalands.` 19.25 Hefir þú þá ekki tekið eftir því, að ég hefi ráðstafað þessu svo fyrir löngu og hagað því svo frá öndverðu? Og nú hefi ég látið það koma fram, svo að þú mættir leggja víggirtar borgir í eyði og gjöra þær að eyðilegum grjóthrúgum. 19.26 En íbúar þeirra voru aflvana og skelfdust því og urðu sér til minnkunar. Jurtir vallarins og grængresið varð sem gras á þekjum og í hlaðvarpa. 19.27 Ég sé þig þegar þú stendur og þegar þú situr, og ég veit af því, þegar þú fer og kemur, svo og um ofsa þinn gegn mér. 19.28 Sökum ofsa þíns í gegn mér og af því að ofmetnaður þinn er kominn mér til eyrna, þá vil ég setja hring minn í nasir þínar og bitil minn í munn þér og færa þig aftur sama veg og þú komst. 19.29 Og þetta skalt þú til marks hafa: Þetta árið munuð þér eta sjálfsáið korn, annað árið sjálfvaxið korn, en þriðja árið munuð þér sá og uppskera, planta víngarða og eta ávöxtu þeirra. 19.30 Og leifarnar af Júda húsi, sem komist hafa undan, skulu að nýju festa rætur að neðan og bera ávöxt að ofan. 19.31 Því að frá Jerúsalem munu leifar út ganga og þeir, er undan komust, frá Síonfjalli. Vandlæti Drottins allsherjar mun þessu til vegar koma. 19.32 Já, svo segir Drottinn um Assýríukonung: Eigi skal hann inn komast í þessa borg, engri ör þangað inn skjóta, engan herskjöld að henni bera og engan virkisvegg hlaða gegn henni. 19.33 Hann skal aftur snúa sömu leiðina sem hann kom, og inn í þessa borg skal hann ekki koma _ segir Drottinn. 19.34 Og ég vil vernda þessa borg og frelsa hana, mín vegna og vegna Davíðs þjóns míns.' 19.35 En þessa sömu nótt fór engill Drottins og laust hundrað áttatíu og fimm þúsundir manns í herbúðum Assýringa. Og er menn risu morguninn eftir, sjá, þá voru þeir allir liðin lík. 19.36 Þá tók Sanheríb Assýríukonungur sig upp, hélt af stað og sneri heim aftur og sat um kyrrt í Níníve. 19.37 En er hann eitt sinn baðst fyrir í hofi Nísroks, guðs síns, unnu synir hans, Adrammelek og Sareser, á honum með sverði. Þeir komust undan á flótta til Araratlands, en Asarhaddon sonur hans tók ríki eftir hann.
20.1 Um þær mundir tók Hiskía sótt og var að dauða kominn. Þá kom Jesaja Amozson spámaður til hans og sagði við hann: 'Svo segir Drottinn: Ráðstafa húsi þínu, því að þú munt deyja og eigi lifa.' 20.2 Þá sneri Hiskía andliti sínu til veggjar, bað til Drottins og mælti: 20.3 'Æ, Drottinn, minnstu þess, að ég hefi gengið fyrir augliti þínu með trúmennsku og einlægu hjarta og gjört það, sem þér er þóknanlegt.' Og hann grét sáran. 20.4 En áður en Jesaja var kominn út úr miðforgarði hallarinnar, kom orð Drottins til hans, svolátandi: 20.5 'Snú aftur og seg Hiskía, höfðingja lýðs míns: Svo segir Drottinn, Guð Davíðs forföður þíns: Ég hefi heyrt bæn þína og séð tár þín. Sjá, ég mun lækna þig. Á þriðja degi munt þú ganga upp í hús Drottins. 20.6 Og ég mun enn leggja fimmtán ár við aldur þinn, og ég mun frelsa þig og þessa borg af hendi Assýríukonungs, og ég mun vernda þessa borg, mín vegna og vegna Davíðs þjóns míns.' 20.7 Þá bauð Jesaja: 'Komið með fíkjudeig.' Sóttu þeir það og lögðu á kýlið. Þá batnaði honum. 20.8 En Hiskía sagði við Jesaja: 'Hvað skal ég hafa til marks um, að Drottinn muni lækna mig og að ég megi aftur ganga upp í hús Drottins á þriðja degi?' 20.9 Þá svaraði Jesaja: 'Þetta skalt þú til marks hafa af Drottni, að hann muni efna það, sem hann hefir heitið: Á skugginn að færast tíu stig fram, eða á hann að færast aftur um tíu stig?' 20.10 Hiskía svaraði: 'Það er hægðarleikur fyrir skuggann að færast niður um tíu stig _ nei, skugginn skal færast aftur um tíu stig.' 20.11 Þá hrópaði Jesaja spámaður til Drottins, og hann lét skuggann á stigunum, sem færst hafði niður á sólskífu Akasar, færast aftur um tíu stig. 20.12 Um þær mundir sendi Meródak Baladan Baladansson, konungur í Babýlon, bréf og gjafir til Hiskía, því að hann hafði frétt, að hann hefði verið sjúkur, en væri nú aftur heill orðinn. 20.13 Og Hiskía fagnaði komu þeirra og sýndi þeim alla féhirslu sína, silfrið og gullið, ilmjurtirnar og hina dýru olíu og vopnabúr sitt og allt sem til var í fjársjóðum hans. Var enginn sá hlutur í höll Hiskía eða nokkurs staðar í ríki hans, að eigi sýndi hann þeim. 20.14 Þá kom Jesaja spámaður til Hiskía konungs og sagði við hann: 'Hvert var erindi þessara manna og hvaðan eru þeir til þín komnir?' Hiskía svaraði: 'Af fjarlægu landi eru þeir komnir, frá Babýlon.' 20.15 Þá sagði hann: 'Hvað sáu þeir í höll þinni?' Hiskía svaraði: 'Allt, sem í höll minni er, hafa þeir séð. Enginn er sá hlutur í fjársjóðum mínum, að eigi hafi ég sýnt þeim.' 20.16 Þá sagði Jesaja við Hiskía: 'Heyr þú orð Drottins: 20.17 Sjá, þeir dagar munu koma, að allt, sem er í höll þinni, og það sem feður þínir hafa saman dregið allt til þessa dags, mun flutt verða til Babýlon. Ekkert skal eftir verða _ segir Drottinn. 20.18 Og nokkrir af sonum þínum, sem af þér munu koma og þú munt geta, munu teknir verða og gjörðir að hirðsveinum í höll konungsins í Babýlon.' 20.19 En Hiskía sagði við Jesaja: 'Gott er það orð Drottins, er þú hefir talað.' Því að hann hugsaði: 'Farsæld og friður helst þó meðan ég lifi.' 20.20 Það sem meira er að segja um Hiskía og öll hreystiverk hans, hversu hann bjó til tjörnina og vatnsstokkinn og leiddi vatnið inn í borgina, það er ritað í Árbókum Júdakonunga. 20.21 Og Hiskía lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum. Og Manasse sonur hans tók ríki eftir hann.
21.1 Manasse var tólf ára gamall, þá er hann varð konungur, og fimmtíu og fimm ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Hefsíba. 21.2 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, og drýgði þannig sömu svívirðingarnar sem þær þjóðir, er Drottinn hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum. 21.3 Hann byggði að nýju fórnarhæðirnar, er Hiskía faðir hans hafði afmáð, reisti Baal ölturu og lét gjöra aséru, eins og Akab Ísraelskonungur hafði gjöra látið, dýrkaði allan himinsins her og þjónaði þeim. 21.4 Hann reisti og ölturu í musteri Drottins, því er Drottinn hafði um sagt: 'Í Jerúsalem vil ég láta nafn mitt búa.' 21.5 Og hann reisti ölturu fyrir allan himinsins her í báðum forgörðum musteris Drottins. 21.6 Hann lét og son sinn ganga gegnum eldinn, fór með spár og fjölkynngi og skipaði særingamenn og spásagna. Hann aðhafðist margt það, sem illt er í augum Drottins, og egndi hann til reiði. 21.7 Hann setti asérulíkneskið, er hann hafði gjöra látið, í musterið, er Drottinn hafði sagt um við Davíð og Salómon, son hans: 'Í þessu húsi og í Jerúsalem, sem ég hefi útvalið af öllum ættkvíslum Ísraels, vil ég láta nafn mitt búa að eilífu. 21.8 Og ég vil eigi framar láta Ísrael fara landflótta úr landi því, er ég gaf feðrum þeirra, svo framarlega sem þeir gæta þess að breyta að öllu svo sem ég hefi boðið þeim, að öllu eftir lögmáli því, er Móse þjónn minn fyrir þá lagði.' 21.9 En þeir hlýddu eigi, og Manasse leiddi þá afvega, svo að þeir breyttu verr en þær þjóðir, er Drottinn hafði eytt fyrir Ísraelsmönnum. 21.10 Þá talaði Drottinn fyrir munn þjóna sinna, spámannanna, á þessa leið: 21.11 'Sakir þess að Manasse Júdakonungur hefir drýgt þessar svívirðingar, sem verri eru en allt það, sem Amorítar aðhöfðust, þeir er á undan honum voru, og einnig komið Júda til að syndga með skurðgoðum sínum _ 21.12 fyrir því mælir Drottinn, Ísraels Guð, svo: Ég mun leiða ógæfu yfir Jerúsalem og Júda, svo að óma mun fyrir báðum eyrum allra þeirra, er það heyra. 21.13 Ég mun draga mælivað yfir Jerúsalem, eins og fyrrum yfir Samaríu, og mælilóð, eins og yfir Akabsætt, og þurrka Jerúsalem burt, eins og þegar þurrkað er af skál og skálinni síðan hvolft, þegar þurrkað hefir verið af henni. 21.14 Og ég mun útskúfa leifum arfleifðar minnar og gefa þá í hendur óvinum þeirra, svo að þeir verði öllum óvinum sínum að bráð og herfangi, 21.15 vegna þess að þeir hafa gjört það, sem illt er í augum mínum, og egnt mig til reiði frá þeim degi, er feður þeirra fóru burt af Egyptalandi, allt fram á þennan dag.' 21.16 Manasse úthellti og mjög miklu saklausu blóði, þar til er hann hafði fyllt Jerúsalem með því enda á milli, auk þeirrar syndar sinnar, að hann kom Júda til að gjöra það sem illt var í augum Drottins. 21.17 Það sem meira er að segja um Manasse og allt, sem hann gjörði, og synd hans, þá er hann drýgði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga. 21.18 Og Manasse lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í gröf sinni í garði Ússa. Og Amón sonur hans tók ríki eftir hann. 21.19 Amón hafði tvo um tvítugt, þá er hann varð konungur, og tvö ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Mesúllemet Harúsdóttir og var frá Jotba. 21.20 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, svo sem gjört hafði Manasse faðir hans, 21.21 og fetaði algjörlega í fótspor föður síns og þjónaði skurðgoðunum, sem faðir hans hafði þjónað, og féll fram fyrir þeim. 21.22 Hann yfirgaf Drottin, Guð feðra sinna, og gekk eigi á vegum hans. 21.23 Þjónar Amóns gjörðu samsæri gegn honum og drápu konung í höll hans. 21.24 En landslýðurinn drap alla mennina, er gjört höfðu samsæri gegn Amón konungi. Síðan tók landslýðurinn Jósía son hans til konungs eftir hann. 21.25 Það sem meira er að segja um Amón, það er hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga. 21.26 Og hann var grafinn í gröf sinni í garði Ússa. Og Jósía sonur hans tók ríki eftir hann.
22.1 Jósía var átta vetra gamall, þá er hann varð konungur, og þrjátíu og eitt ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jedída Adajadóttir og var frá Boskat. 22.2 Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, og fetaði algjörlega í fótspor Davíðs forföður síns og veik hvorki af til hægri né vinstri. 22.3 Á átjánda ríkisári Jósía konungs sendi konungur Safan Asaljason, Mesúllamssonar, kanslara, í musteri Drottins og sagði: 22.4 'Gakk þú til Hilkía æðsta prests og innsigla fé það, er borið hefir verið í musteri Drottins, það er dyraverðirnir hafa safnað saman af lýðnum, 22.5 og fá það í hendur verkstjórunum, þeim er umsjón hafa með musteri Drottins, þeir skulu fá það í hendur verkamönnunum, sem vinna að því í musteri Drottins að gjöra við skemmdir á musterinu, 22.6 trésmiðunum og byggingamönnunum og múrurunum, svo og til að kaupa fyrir við og höggna steina til þess að gjöra við musterið. 22.7 Þó er ekki haldinn reikningur við þá á fénu, sem þeim var fengið í hendur, heldur gjöra þeir það upp á æru og trú.' 22.8 Þá mælti Hilkía æðsti prestur við Safan kanslara: 'Ég hefi fundið lögbók í musteri Drottins.' Og Hilkía fékk Safan bókina og hann las hana. 22.9 Síðan fór Safan kanslari til konungs og skýrði konungi frá erindislokum og mælti: 'Þjónar þínir hafa látið af hendi fé það, er var í musteri Drottins, og fengið í hendur verkstjórunum, sem umsjón hafa með musteri Drottins.' 22.10 Og Safan kanslari sagði konungi frá og mælti: 'Hilkía prestur fékk mér bók.' Og Safan las hana fyrir konungi. 22.11 En er konungur heyrði orð lögbókarinnar, reif hann klæði sín. 22.12 Og hann bauð þeim Hilkía presti, Ahíkam Safanssyni, Akbór Míkajasyni, Safan kanslara og Asaja konungsþjóni á þessa leið: 22.13 'Farið og gangið til frétta við Drottin fyrir mig og fyrir lýðinn og fyrir allan Júda um þessa nýfundnu bók, því að mikil er heift Drottins, sú er upptendruð er í gegn oss, af því að feður vorir hafa eigi hlýtt orðum bókar þessarar með því að gjöra að öllu svo sem skrifað er í henni.' 22.14 Þá fóru þeir Hilkía prestur, Ahíkam, Akbór, Safan og Asaja til Huldu spákonu, konu Sallúms Tikvasonar, Harhasonar, klæðageymis. Bjó hún í Jerúsalem í öðru borgarhverfi, og töluðu þeir við hana. 22.15 Hún mælti við þá: 'Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Segið manninum, er sendi yður til mín: 22.16 Svo segir Drottinn: Sjá, ég leiði ógæfu yfir þennan stað og íbúa hans, allar ógnanir bókar þessarar, er Júdakonungur hefir lesið, 22.17 fyrir því að þeir hafa yfirgefið mig og fært öðrum guðum reykelsisfórnir og egnt mig til reiði með öllum handaverkum sínum, og heift mín skal upptendrast gegn þessum stað og eigi slokkna. 22.18 En segið svo Júdakonungi, þeim er sendi yður til þess að ganga til frétta við Drottin: Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: 22.19 Af því að hjarta þitt hefir komist við og þú auðmýktir þig fyrir Drottni, er þú heyrðir, hvað ég hafði talað gegn þessum stað og íbúum hans, að þeir skyldu verða undrunarefni og formælingar, og af því að þú reifst klæði þín og grést frammi fyrir mér, þá hefi ég og bænheyrt þig _ segir Drottinn. 22.20 Fyrir því vil ég láta þig safnast til feðra þinna, að þú megir komast með friði í gröf þína, og augu þín þurfi ekki að horfa upp á alla þá ógæfu, er ég leiði yfir þennan stað.' Fluttu þeir konungi svarið.
23.1 Þá sendi konungur út menn til þess að safna til sín öllum öldungum í Júda og Jerúsalem. 23.2 Og konungur gekk upp í musteri Drottins og með honum allir Júdamenn og Jerúsalembúar, svo og prestarnir og spámennirnir og allur lýðurinn, bæði ungir og gamlir, og hann las í áheyrn þeirra öll orð sáttmálsbókarinnar, er fundist hafði í musteri Drottins. 23.3 Og konungur gekk að súlunni og gjörði þann sáttmála frammi fyrir Drottni, að fylgja Drottni og varðveita skipanir hans, fyrirmæli og lög af öllu hjarta og af allri sálu til þess að fullnægja þannig orðum sáttmála þessa, þau er rituð voru í þessari bók. Og allur lýðurinn gekkst undir sáttmálann. 23.4 Síðan bauð konungur Hilkía æðsta presti og óæðri prestunum og dyravörðunum að taka burt úr aðalhúsi musteris Drottins öll áhöld, þau er gjörð höfðu verið handa Baal og Aséru og öllum himinsins her. Og hann lét brenna þau fyrir utan Jerúsalem á Kídronvöllum, og askan af þeim var flutt til Betel. 23.5 Hann rak og burt skurðgoðaprestana, er Júdakonungar höfðu skipað og fært höfðu reykelsisfórnir á fórnarhæðunum í borgum Júda og í grenndinni við Jerúsalem, svo og þá er fært höfðu Baal fórnir og sólinni, tunglinu, stjörnumerkjunum og öllum himinsins her. 23.6 Hann lét flytja aséruna burt úr musteri Drottins, út fyrir Jerúsalem, og brenndi hana í Kídrondal, muldi hana mjölinu smærra og stráði duftinu á grafir múgamanna. 23.7 Þá braut hann og niður hús þeirra manna, er helgað höfðu sig saurlifnaði, þau er voru við musteri Drottins, þar sem konur ófu hjúpa á aséruna. 23.8 Hann lét alla presta koma frá borgunum í Júda og afhelgaði fórnarhæðirnar, þar sem prestarnir höfðu fórnað, frá Geba til Beerseba. Hann braut og niður hæðir hafurlíkneskjanna, sem stóðu úti fyrir hliði Jósúa borgarstjóra, en það er á vinstri hönd, þá er inn er gengið um borgarhliðið. 23.9 Þó máttu hæðaprestarnir eigi ganga upp að altari Drottins í Jerúsalem, heldur átu þeir ósýrð brauð meðal bræðra sinna. 23.10 Hann afhelgaði brennslugrófina í Hinnomssonardal, til þess að enginn léti framar son sinn eða dóttur ganga gegnum eldinn Mólok til handa. 23.11 Hann tók og burt hesta þá, sem Júdakonungar höfðu sett til vegsemdar sólinni við innganginn að musteri Drottins, nálægt herbergi Netan Meleks hirðmanns, sem var í forgarðinum. En vagna sólarinnar brenndi hann í eldi. 23.12 Og ölturun, sem voru á þakinu yfir veggsvölum Akasar, er Júdakonungar höfðu reist, og ölturun, er Manasse hafði reist í báðum forgörðum musteris Drottins, reif konungur niður, og hann skundaði þaðan og kastaði öskunni af þeim í Kídrondal. 23.13 Konungur afhelgaði og fórnarhæðirnar, sem voru fyrir austan Jerúsalem, sunnanvert við Skaðræðisfjall, og Salómon Ísraelskonungur hafði reist Astarte, viðurstyggð Sídoninga, og Kamos, viðurstyggð Móabíta, og Milkóm, svívirðing Ammóníta. 23.14 Hann braut og sundur merkissteinana og hjó sundur asérurnar og fyllti staðinn, þar sem þær höfðu verið, með mannabeinum. 23.15 Sömuleiðis altarið í Betel, fórnarhæðina, sem Jeróbóam Nebatsson hafði gjöra látið, sá er kom Ísrael til að syndga _ einnig þetta altari og fórnarhæðina reif hann niður. Og hann brenndi aséruna og muldi hana mjölinu smærra. 23.16 En er Jósía sneri sér við og sá grafirnar, sem voru þar á fjallinu, þá sendi hann menn og lét sækja beinin í grafirnar, brenndi þau á altarinu og afhelgaði það samkvæmt orði Drottins, því er guðsmaðurinn hafði boðað, sá er boðaði þessa hluti. 23.17 Síðan sagði hann: 'Hvaða legsteinn er þetta, sem ég sé?' Og borgarmenn svöruðu honum: 'Það er gröf guðsmannsins, sem kom frá Júda og boðaði þessa hluti, sem þú hefir nú gjört, gegn altarinu í Betel.' 23.18 Þá mælti hann: 'Látið hann vera, enginn ónáði bein hans!' Þannig létu þeir bein hans og bein spámannsins, sem kominn var frá Samaríu, vera í friði. 23.19 Auk þess afnam Jósía öll hæðahofin, sem voru í borgum Samaríu, þau er Ísraelskonungar höfðu reist til þess að egna Drottin til reiði, og fór alveg eins með þau eins og hann hafði gjört í Betel. 23.20 Og hann slátraði öllum hæðaprestunum, sem þar voru, á ölturunum og brenndi mannabein á þeim. Síðan sneri hann aftur til Jerúsalem. 23.21 Konungur bauð öllum lýðnum á þessa leið: 'Haldið Drottni Guði yðar páska, eins og ritað er í sáttmálsbók þessari.' 23.22 Engir slíkir páskar höfðu haldnir verið frá því á dögum dómaranna, er dæmt höfðu í Ísrael, né heldur alla daga Ísraelskonunga og Júdakonunga, 23.23 en á átjánda ríkisári Jósía konungs voru Drottni haldnir þessir páskar í Jerúsalem. 23.24 Enn fremur eyddi Jósía þeim mönnum, er höfðu þjónustuanda, svo og spásagnamönnum, húsgoðum og skurðgoðum og öllum þeim viðurstyggðum, er sáust í Júda og Jerúsalem, til þess að fullnægja fyrirmælum lögmálsins, þeim er rituð voru í bókinni, sem Hilkía prestur hafði fundið í musteri Drottins. 23.25 Og hans maki hafði enginn konungur verið á undan honum, er svo hafði snúið sér til Drottins af öllu hjarta sínu, allri sálu sinni og öllum mætti sínum, alveg eftir lögmáli Móse, og eftir hann kom enginn honum líkur. 23.26 Þó lét Drottinn eigi af sinni brennandi heiftarreiði, af því að reiði hans var upptendruð gegn Júda vegna allrar þeirrar móðgunar, er Manasse hafði egnt hann með. 23.27 Og Drottinn mælti: 'Ég vil einnig afmá Júda frá augliti mínu eins og ég hefi afmáð Ísrael, og ég vil hafna þessari borg, er ég hefi útvalið, Jerúsalem, og musterinu, er ég sagði um, að nafn mitt skyldi vera þar.' 23.28 Það sem meira er að segja um Jósía og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga. 23.29 Á hans dögum fór Faraó Nekó Egyptalandskonungur herför móti Assýríukonungi austur að Efratfljóti. Þá fór Jósía konungur í móti honum, en Nekó drap hann í Megiddó, þegar er hann sá hann. 23.30 Óku menn hans honum dauðum frá Megiddó, fluttu hann til Jerúsalem og grófu hann í gröf hans. En landslýðurinn tók Jóahas Jósíason og smurði hann og tók hann til konungs í stað föður hans. 23.31 Jóahas var tuttugu og þriggja ára að aldri, þá er hann varð konungur, og þrjá mánuði ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Hamútal Jeremíadóttir og var frá Líbna. 23.32 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört höfðu forfeður hans. 23.33 Faraó Nekó lét fjötra hann í Ribla í Hamathéraði, til þess að hann skyldi eigi framar ríkja í Jerúsalem, og lagði skattgjald á landið, hundrað talentur silfurs og tíu talentur gulls. 23.34 Og Faraó Nekó gjörði Eljakím Jósíason að konungi í stað Jósía föður hans og breytti nafni hans í Jójakím, en tók Jóahas með sér, og fór hann til Egyptalands og dó þar. 23.35 Jójakím greiddi Faraó silfur og gull. Hann varð að leggja skatt á landið til þess að geta goldið fé það, er Faraó krafðist. Heimti hann silfrið og gullið saman af landslýðnum, eftir því sem jafnað hafði verið niður á hvern og einn, til þess að geta greitt Faraó Nekó það. 23.36 Jójakím var tuttugu og fimm ára að aldri, þá er hann varð konungur, og ellefu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Sebúdda Pedajadóttir og var frá Rúma. 23.37 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört höfðu forfeður hans.
24.1 Á hans dögum fór Nebúkadnesar konungur í Babýlon herför þangað, og varð Jójakím honum lýðskyldur í þrjú ár. Síðan brá hann trúnaði við hann. 24.2 Þá sendi Drottinn í móti Jójakím ránsflokka Kaldea, ránsflokka Sýrlendinga, ránsflokka Móabíta og ránsflokka Ammóníta. Hann sendi þá gegn Júda til þess að eyða landið samkvæmt orði Drottins, því er hann hafði talað fyrir munn þjóna sinna, spámannanna. 24.3 Að boði Drottins fór svo fyrir Júda, til þess að hann gæti rekið þá burt frá augliti sínu sakir synda Manasse samkvæmt öllu því, er hann hafði gjört, 24.4 svo og sakir þess saklausa blóðs, er hann hafði úthellt, svo að hann fyllti Jerúsalem saklausu blóði _ það vildi Drottinn ekki fyrirgefa. 24.5 Það sem meira er að segja um Jójakím og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga. 24.6 Og Jójakím lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og Jójakín sonur hans tók ríki eftir hann. 24.7 En Egyptalandskonungur fór enga herför framar úr landi sínu, því að konungurinn í Babýlon hafði unnið land allt frá Egyptalandsá að Efratfljóti, það er legið hafði undir Egyptalandskonung. 24.8 Jójakín var átján ára gamall, þá er hann varð konungur, og þrjá mánuði ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Nehústa Elnatansdóttir og var frá Jerúsalem. 24.9 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði faðir hans. 24.10 Um þær mundir fóru þjónar Nebúkadnesars, konungs í Babýlon, herför til Jerúsalem, og varð borgin í umsátri. 24.11 Og Nebúkadnesar Babelkonungur kom sjálfur til borgarinnar, þá er þjónar hans sátu um hana. 24.12 Gekk þá Jójakín Júdakonungur út á móti Babelkonungi ásamt móður sinni, þjónum sínum, herforingjum og hirðmönnum, og Babelkonungur tók hann höndum á áttunda ríkisstjórnarári hans. 24.13 Og hann flutti þaðan alla fjársjóðu musteris Drottins og fjársjóðu konungshallarinnar og tók gullið af öllum áhöldum, er Salómon Ísraelskonungur hafði gjöra látið í musteri Drottins, eins og Drottinn hafði sagt. 24.14 Og Nebúkadnesar herleiddi alla Jerúsalem og alla höfðingja og alla vopnfæra menn, tíu þúsund að tölu, svo og alla trésmiði og járnsmiði. Ekkert var eftir skilið nema almúgafólk landsins. 24.15 Og hann herleiddi Jójakín til Babýlon. Og konungsmóður og konur konungsins og hirðmenn hans og höfðingja landsins herleiddi hann og frá Jerúsalem til Babýlon. 24.16 Svo og alla vopnfæra menn, sjö þúsund að tölu, og trésmiði og járnsmiði, þúsund að tölu, er allir voru hraustir hermenn, _ þá herleiddi Nebúkadnesar til Babýlon. 24.17 Og konungurinn í Babýlon skipaði Mattanja föðurbróður Jójakíns konung í hans stað og breytti nafni hans í Sedekía. 24.18 Sedekía var tuttugu og eins árs að aldri, þá er hann varð konungur, og ellefu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Hamútal Jeremíadóttir og var frá Líbna. 24.19 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði Jójakím. 24.20 Vegna reiði Drottins fór svo fyrir Jerúsalem og Júda, uns hann hafði burtsnarað þeim frá augliti sínu. En Sedekía brá trúnaði við Babelkonung.
25.1 Á níunda ríkisári Sedekía, á tíunda degi hins tíunda mánaðar, kom Nebúkadnesar Babelkonungur með allan sinn her til Jerúsalem og settist um hana, og þeir reistu hervirki hringinn í kringum hana. 25.2 Varð borgin þannig í umsátri fram á ellefta ríkisár Sedekía konungs. 25.3 Í fjórða mánuðinum, á níunda degi mánaðarins, er hungrið tók að sverfa að borginni og landslýður var orðinn vistalaus, 25.4 þá var brotið skarð inn í borgina. Og konungur og allir hermennirnir flýðu um nóttina gegnum hliðið milli beggja múranna, sem er hjá konungsgarðinum, þótt Kaldear umkringdu borgina. Konungur hélt leiðina til sléttlendisins, 25.5 en her Kaldea veitti honum eftirför og náði honum á Jeríkóvöllum, er allur her hans hafði tvístrast burt frá honum. 25.6 Tóku þeir konung höndum og fluttu hann til Ribla til Babelkonungs. Hann kvað upp dóm hans. 25.7 Drápu þeir sonu Sedekía fyrir augum hans, en Sedekía lét hann blinda og binda eirfjötrum. Síðan fluttu þeir hann til Babýlon. 25.8 Í fimmta mánuði, á sjöunda degi mánaðarins _ það er á nítjánda ríkisári Nebúkadnesars Babelkonungs _ kom Nebúsaradan lífvarðarforingi, vildarþjónn Babelkonungs, til Jerúsalem 25.9 og brenndi musteri Drottins og konungshöllina og öll hús í Jerúsalem, og öll hús stórmennanna brenndi hann í eldi. 25.10 En allur Kaldeaher, sá er var með lífvarðarforingjanum, reif niður múrana umhverfis Jerúsalem. 25.11 En leifar lýðsins _ þá er eftir voru í borginni _ og liðhlaupana, þá er hlaupist höfðu í lið með Babelkonungi og þá sem eftir voru af iðnaðarmönnum, herleiddi Nebúsaradan lífvarðarforingi til Babýlon. 25.12 En af almúga landsins lét lífvarðarforinginn nokkra verða eftir sem víngarðsmenn og akurkarla. 25.13 Eirsúlurnar, er voru hjá musteri Drottins, og vagna kerlauganna og eirhafið, er voru í musteri Drottins, brutu Kaldear sundur og fluttu eirinn til Babýlon. 25.14 Og katlana, eldspaðana, skarbítana, bollana og öll eiráhöldin, er notuð voru við guðsþjónustuna, tóku þeir. 25.15 Þá tók og lífvarðarforinginn eldpönnurnar og fórnarskálarnar _ allt sem var af gulli og silfri. 25.16 Súlurnar tvær, hafið og vagnana, er Salómon hafði gjöra látið í musteri Drottins _ eirinn úr öllum þessum áhöldum varð eigi veginn. 25.17 Önnur súlan var átján álnir á hæð, og eirhöfuð var ofan á henni, og höfuðið var fimm álnir á hæð, og riðið net og granatepli voru umhverfis höfuðið, allt af eiri, og eins var á riðna netinu á hinni súlunni. 25.18 Og lífvarðarforinginn tók Seraja höfuðprest og Sefanía annan prest og dyraverðina þrjá. 25.19 Og úr borginni tók hann hirðmann einn, er skipaður var yfir hermennina, og fimm menn af þeim, er daglega litu auglit konungs, er fundust í borginni, og ritara hershöfðingjans, þess er bauð út landslýðnum, og sextíu manns af sveitafólki, því er fannst í borginni _ 25.20 þá tók Nebúsaradan lífvarðarforingi og flutti þá til Ribla til Babelkonungs. 25.21 En Babelkonungur lét drepa þá í Ribla í Hamathéraði. Þannig var Júda herleiddur úr landi sínu. 25.22 Yfir lýðinn, sem eftir varð í Júda, þann er Nebúkadnesar Babelkonungur lét þar eftir verða, yfir þá setti hann Gedalja, son Ahíkams Safanssonar. 25.23 Og er allir hershöfðingjarnir og menn þeirra fréttu, að Babelkonungur hefði skipað Gedalja landstjóra, fóru þeir til Mispa á fund Gedalja, þeir Ísmael Netanjason, Jóhanan Kareason, Seraja Tanhúmetsson frá Netófa og Jaasanja frá Maaka ásamt mönnum sínum. 25.24 Vann Gedalja þeim eið og mönnum þeirra og sagði við þá: 'Óttist eigi Kaldea. Verið kyrrir í landinu og þjónið Babelkonungi, og mun yður vel vegna.' 25.25 En á sjöunda mánuði kom Ísmael Netanjason, Elísamasonar, af konungsættinni, og tíu menn með honum, og drápu Gedalja og þá Júdamenn og Kaldea, sem hjá honum voru í Mispa. 25.26 Þá tók allur lýðurinn sig upp, bæði smáir og stórir, og hershöfðingjarnir og fóru til Egyptalands, því að þeir voru hræddir við Kaldea. 25.27 Á þrítugasta og sjöunda útlegðarári Jójakíns Júdakonungs, í tólfta mánuðinum, tuttugasta og sjöunda dag mánaðarins, náðaði Evíl Meródak Babelkonungur, árið sem hann kom til ríkis, Jójakín Júdakonung og tók hann úr dýflissunni. 25.28 Og hann talaði vingjarnlega við hann og setti stól hans ofar stólum hinna konunganna, sem hjá honum voru í Babýlon. 25.29 Og Jójakín fór úr bandingjafötum sínum og borðaði stöðuglega með konungi meðan hann lifði.
1.1 Adam, Set, Enos. 1.2 Kenan, Mahalalel, Jared. 1.3 Henok, Methúsala, Lamek. 1.4 Nói, Sem, Kam og Jafet. 1.5 Synir Jafets voru: Gómer, Magóg, Madaí, Javan, Túbal, Mesek og Tíras. 1.6 Synir Gómers: Askenas, Rífat og Tógarma. 1.7 Synir Javans: Elísa, Tarsis, Kittar og Ródanítar. 1.8 Synir Kams: Kús, Mísraím, Pút og Kanaan. 1.9 Synir Kúss: Seba, Havíla, Sabta, Raema og Sabteka. Og synir Raema: Séba og Dedan. 1.10 Og Kús gat Nimrod. Hann tók að gjörast voldugur á jörðinni. 1.11 Mísraím gat Lúdíta, Anamíta, Lehabíta, Naftúkíta, 1.12 Patrúsíta, Kaslúkíta (þaðan eru komnir Filistar) og Kaftóríta. 1.13 Kanaan gat Sídon, frumgetning sinn, og Het, 1.14 og Jebúsíta, Amoríta, Gírgasíta, 1.15 Hevíta, Arkíta, Síníta, 1.16 Arvadíta, Semaríta og Hamatíta. 1.17 Synir Sems: Elam, Assúr, Arpaksad, Lúd, Aram, Ús, Húl, Geter og Mas. 1.18 Og Arpaksad gat Sela og Sela gat Eber. 1.19 Og Eber fæddust tveir synir. Hét annar Peleg, því að á hans dögum greindist fólkið á jörðinni, en bróðir hans hét Joktan. 1.20 Og Joktan gat Almódad, Salef, Hasarmavet, Jara, 1.21 Hadóram, Úsal, Dikla, 1.22 Ebal, Abímael, Séba, 1.23 Ófír, Havíla og Jóbab. Þessir allir voru synir Joktans. 1.24 Sem, Arpaksad, Sela, 1.25 Eber, Peleg, Reú, 1.26 Serúg, Nahor, Tara, 1.27 Abram, það er Abraham. 1.28 Synir Abrahams: Ísak og Ísmael. 1.29 Þetta er ættartal þeirra: Nebajót var frumgetinn sonur Ísmaels, þá Kedar, Adbeel, Míbsam, 1.30 Misma, Dúma, Massa, Hadad, Tema, 1.31 Jetúr, Nafis og Kedma. Þessir voru synir Ísmaels. 1.32 Synir Ketúru, hjákonu Abrahams: Hún ól Símran, Joksan, Medan, Midían, Jísbak og Súa. Og synir Joksans voru: Séba og Dedan. 1.33 Og synir Midíans: Efa, Efer, Hanok, Abída og Eldaa. Allir þessir voru niðjar Ketúru. 1.34 Abraham gat Ísak. Synir Ísaks voru Esaú og Ísrael. 1.35 Synir Esaú: Elífas, Regúel, Jehús, Jaelam og Kóra. 1.36 Synir Elífas voru: Teman, Ómar, Sefí, Gaetam, Kenas, Timna og Amalek. 1.37 Synir Regúels voru: Nahat, Sera, Samma og Missa. 1.38 Og synir Seírs: Lótan, Sóbal, Síbeon, Ana, Díson, Eser og Dísan. 1.39 Og synir Lótans: Hórí og Hómam, og systir Lótans var Timna. 1.40 Synir Sóbals voru: Aljan, Manahat, Ebal, Sefí og Ónam. Og synir Síbeons: Aja og Ana. 1.41 Sonur Ana: Díson. Og synir Dísons: Hamran, Esban, Jítran og Keran. 1.42 Synir Esers voru: Bílhan, Saavan og Jaakan. Synir Dísans voru: Ús og Aran. 1.43 Þessir eru þeir konungar, sem ríktu í Edómlandi, áður en konungar ríktu yfir Ísraelsmönnum: Bela, sonur Beórs, og hét borg hans Dínhaba. 1.44 Og er Bela dó, tók Jóbab, sonur Sera frá Bosra, ríki eftir hann. 1.45 Og er Jóbab dó, tók Húsam frá Temanítalandi ríki eftir hann. 1.46 Og er Húsam dó, tók Hadad sonur Bedads ríki eftir hann. Hann vann sigur á Midíanítum á Móabsvöllum, og borg hans hét Avít. 1.47 Og er Hadad dó, tók Samla frá Masreka ríki eftir hann. 1.48 Og er Samla dó, tók Sál frá Rehóbót hjá Fljótinu ríki eftir hann. 1.49 Og er Sál dó, tók Baal Hanan, sonur Akbórs, ríki eftir hann. 1.50 Og er Baal Hanan dó, tók Hadad ríki eftir hann, og hét borg hans Pagí, en kona hans Mehetabeel, dóttir Madredar, dóttur Me-Sahabs. 1.51 Og Hadad dó. Og höfðingjar Edómíta voru: höfðinginn Timna, höfðinginn Alva, höfðinginn Jetet, 1.52 höfðinginn Oholíbama, höfðinginn Ela, höfðinginn Pínon, 1.53 höfðinginn Kenas, höfðinginn Teman, höfðinginn Mibsar, 1.54 höfðinginn Magdíel, höfðinginn Íram. Þessir voru höfðingjar Edómíta.
2.1 Þessir voru synir Ísraels: Rúben, Símeon, Leví og Júda, Íssakar og Sebúlon, 2.2 Dan, Jósef og Benjamín, Naftalí, Gað og Asser. 2.3 Synir Júda: Ger, Ónan og Sela, þrír að tölu, er dóttir Súa, kanverska konan, ól honum. En Ger, frumgetinn sonur Júda, var vondur fyrir augliti Drottins, svo að Drottinn lét hann deyja. 2.4 Tamar tengdadóttir hans ól honum Peres og Sera. Synir Júda voru alls fimm. 2.5 Synir Peres: Hesron og Hamúl. 2.6 Synir Sera: Simrí, Etan, Heman, Kalkól og Dara _ fimm alls. 2.7 Synir Karmí: Akar, sá er steypti Ísrael í ógæfu með því að fara sviksamlega með hið bannfærða. 2.8 Og synir Etans: Asarja. 2.9 Og synir Hesrons, er fæddust honum: Jerahmeel, Ram og Kelúbaí. 2.10 Ram gat Ammínadab, og Ammínadab gat Nahson, höfuðsmann Júdamanna. 2.11 Nahson gat Salma, Salma gat Bóas, 2.12 Bóas gat Óbeð, Óbeð gat Ísaí. 2.13 Ísaí gat Elíab frumgetning sinn, þá Abínadab, Símea hinn þriðja, 2.14 Netaneel hinn fjórða, Raddaí hinn fimmta, 2.15 Ósem hinn sjötta, Davíð hinn sjöunda. 2.16 Og systur þeirra voru þær Serúja og Abígail, og synir Serúju voru: Abísaí, Jóab og Asahel, þrír að tölu. 2.17 En Abígail ól Amasa, og faðir Amasa var Jeter Ísmaelíti. 2.18 Kaleb, sonur Hesrons, gat börn við Asúbu konu sinni og við Jeríót. Þessir voru synir hennar: Jeser, Sóbab og Ardon. 2.19 Og er Asúba andaðist, gekk Kaleb að eiga Efrat og ól hún honum Húr, 2.20 en Húr gat Úrí og Úrí gat Besaleel. 2.21 Síðan gekk Hesron inn til dóttur Makírs, föður Gíleaðs, og tók hana sér fyrir konu. Var hann þá sextíu ára gamall. Hún ól honum Segúb. 2.22 Og Segúb gat Jaír. Hann átti tuttugu og þrjár borgir í Gíleaðlandi. 2.23 En Gesúrítar og Sýrlendingar tóku Jaírs-þorp frá þeim, Kenat og þorpin þar í kring, sextíu borgir alls. Allir þessir voru niðjar Makírs, föður Gíleaðs. 2.24 Og eftir andlát Hesrons í Kaleb Efrata ól Abía kona hans honum Ashúr, föður Tekóa. 2.25 Synir Jerahmeels, frumgetins sonar Hesrons: Ram, frumgetningurinn, og Búna, Óren, Ósem og Ahía. 2.26 En Jerahmeel átti aðra konu, er Atara hét. Hún var móðir Ónams. 2.27 Synir Rams, frumgetins sonar Jerahmeels: Maas, Jamín og Eker. 2.28 Og synir Ónams voru: Sammaí og Jada; og synir Sammaí: Nadab og Abísúr. 2.29 En kona Abísúrs hét Abíhaíl. Hún ól honum Akban og Mólíd. 2.30 Og synir Nadabs voru: Seled og Appaím, en Seled dó barnlaus. 2.31 Og synir Appaíms: Jíseí, og synir Jíseí: Sesan, og synir Sesans: Ahelaí. 2.32 Og synir Jada, bróður Sammaí: Jeter og Jónatan, en Jeter dó barnlaus. 2.33 Og synir Jónatans voru: Pelet og Sasa. Þessir voru niðjar Jerahmeels. 2.34 Og Sesan átti enga sonu, heldur dætur einar. En Sesan átti egypskan þræl, er Jarha hét. 2.35 Og Sesan gaf Jarha þræli sínum dóttur sína fyrir konu, og hún ól honum Attaí. 2.36 Og Attaí gat Natan, Natan gat Sabat, 2.37 Sabat gat Eflal, Eflal gat Óbeð, 2.38 Óbeð gat Jehú, Jehú gat Asarja, 2.39 Asarja gat Heles, Heles gat Eleasa, 2.40 Eleasa gat Sísemaí, Sísemaí gat Sallúm, 2.41 Sallúm gat Jekamja og Jekamja gat Elísama. 2.42 Synir Kalebs, bróður Jerahmeels: Mesa, frumgetinn sonur hans _ hann var faðir Sífs _ svo og synir Maresa, föður Hebrons. 2.43 Synir Hebrons voru: Kóra, Tappúa, Rekem og Sema. 2.44 Og Sema gat Raham, föður Jorkeams, og Rekem gat Sammaí. 2.45 En sonur Sammaí var Maon, og Maon var faðir að Bet Súr. 2.46 Og Efa, hjákona Kalebs, ól Haran, Mósa og Gases, en Haran gat Gases. 2.47 Synir Jehdaí: Regem, Jótam, Gesan, Pelet, Efa og Saaf. 2.48 Maaka, hjákona Kalebs, ól Seber og Tírkana. 2.49 Og enn ól hún Saaf, föður Madmanna, Sefa, föður Makbena og föður Gíbea, en dóttir Kalebs var Aksa. 2.50 Þessir voru synir Kalebs. Synir Húrs, frumgetins sonar Efrata: Sóbal, faðir að Kirjat Jearím, 2.51 Salma, faðir að Betlehem, Haref, faðir að Bet Gader. 2.52 Og Sóbal, faðir að Kirjat Jearím, átti fyrir sonu: Haróe, hálft Menúhót 2.53 og ættirnar frá Kirjat Jearím, svo og Jítríta, Pútíta, Súmatíta og Mísraíta. Frá þeim eru komnir Sóreatítar og Estaólítar. 2.54 Synir Salma: Betlehem og Netófatítar, Atarót, Bet Jóab og helmingur Manatíta, það er Sóreíta, 2.55 og ættir fræðimannanna, er búa í Jabes, Tíreatítar, Símeatítar og Súkatítar. Þetta eru Kínítar, er komnir eru frá Hammat, föður Rekabs ættar.
3.1 Þessir eru synir Davíðs, er hann eignaðist í Hebron: Ammon, frumgetningurinn, við Akínóam frá Jesreel; annar var Daníel, við Abígail frá Karmel; 3.2 hinn þriðji Absalon, sonur Maöku, dóttur Talmaí konungs í Gesúr; hinn fjórði Adónía, sonur Haggítar; 3.3 hinn fimmti Sefatja, við Abítal; hinn sjötti Jitream, við Eglu, konu sinni. 3.4 Sex fæddust honum í Hebron. Þar ríkti hann sjö ár og sex mánuði, en í Jerúsalem ríkti hann þrjátíu og þrjú ár. 3.5 Og þessa eignaðist hann í Jerúsalem: Símea, Sóbab, Natan og Salómon _ fjóra alls _ við Batsúa Ammíelsdóttur, 3.6 enn fremur Jíbhar, Elísama, Elífelet, 3.7 Nóga, Nefeg, Jafía, 3.8 Elísama, Eljada, Elífelet _ níu alls. 3.9 Þetta eru allir synir Davíðs, að hjákvennasonum eigi meðtöldum. En systir þeirra var Tamar. 3.10 Sonur Salómons var Rehabeam, hans son var Abía, hans son Asa, hans son Jósafat, 3.11 hans son Jóram, hans son Ahasía, hans son Jóas, 3.12 hans son Amasía, hans son Asaría, hans son Jótam, 3.13 hans son Akas, hans son Hiskía, hans son Manasse, 3.14 hans son Amón, hans son Jósía. 3.15 Og synir Jósía voru: Jóhanan, frumgetningurinn, annar Jójakím, þriðji Sedekía, fjórði Sallúm. 3.16 Og synir Jójakíms: Jekonja, sonur hans; hans son var Sedekía. 3.17 Synir Jekonja, hins herleidda: Sealtíel, sonur hans, 3.18 Malkíram, Pedaja, Seneassar, Jekamja, Hósama og Nedabja. 3.19 Synir Pedaja voru: Serúbabel og Símeí, og synir Serúbabels: Mesúllam og Hananja. Systir þeirra var Selómít. 3.20 Og enn fremur Hasúba, Óhel, Berekía, Hasadja, Júsab Hesed _ fimm alls. 3.21 Synir Hananja voru: Pelatja og Jesaja, synir Refaja, synir Arnans, synir Óbadía, synir Sekanja. 3.22 Synir Sekanja voru: Semaja, og synir Semaja: Hattúa, Jígeal, Baría, Nearja og Safat _ sex alls. 3.23 Synir Nearja voru: Eljóenaí, Hiskía, Asríkam _ þrír alls. 3.24 En synir Eljóenaí voru: Hódavja, Eljasíb, Pelaja, Akkúb, Jóhanan, Delaja, Ananí _ sjö alls.
4.1 Synir Júda: Peres, Hesron, Karmí, Húr og Sóbal. 4.2 En Reaja, sonur Sóbals, gat Jahat, Jahat gat Ahúmaí og Lahad. Þetta eru ættir Sóreatíta. 4.3 Þessir voru synir Etams: Jesreel, Jisma, Jídbas, en systir þeirra hét Haselelpóní. 4.4 Enn fremur Penúel, faðir Gedórs, og Eser, faðir Húsa. Þetta eru synir Húrs, frumburðar Efrata, föður að Betlehem. 4.5 Ashúr, faðir að Tekóa, átti tvær konur, Heleu og Naeru. 4.6 Og Naera ól honum Ahússam, Hefer, Temní og Ahastaríta. Þetta eru synir Naeru. 4.7 Og synir Heleu voru: Seret, Jísehar og Etnam. 4.8 En Kós gat Anúb, Sóbeba og ættir Aharhels, sonar Harúms. 4.9 En Jaebes var fyrir bræðrum sínum, og móðir hans nefndi hann Jaebes og mælti: 'Ég hefi alið hann með harmkvælum.' 4.10 Og Jaebes ákallaði Guð Ísraels og mælti: 'Blessa þú mig og auk landi við mig, og verði hönd þín með mér, og bæg þú ógæfunni frá mér, svo að engin harmkvæli komi yfir mig.' Og Guð veitti honum það, sem hann bað um. 4.11 En Kelúb, bróðir Súha, gat Mehír. Hann er faðir Estóns. 4.12 En Estón gat Bet Rafa, Pasea og Tehinna, föður að borg Nahasar; þetta eru Rekamenn. 4.13 Synir Kenas: Otníel og Seraja. Og synir Otníels: Hatat. 4.14 En Meonotaí gat Ofra, og Seraja gat Jóab, föður að Smiðadal, því að þeir voru smiðir. 4.15 Synir Kalebs Jefúnnesonar: Írú, Ela og Naam; synir Ela: Kenas. 4.16 Synir Jehalelels: Síf, Sífa, Tirja og Asareel. 4.17 Synir Esra: Jeter, Mered, Efer og Jalon. Og þessir eru synir Bitju, dóttur Faraós, er gekk að eiga Mered: Hún ól Mirjam, Sammaí og Jísba, föður Estemóa. 4.18 En kona hans, er var frá Júda, ól Jered, föður að Gedór, og Heber, föður að Sókó, og Jekútíel, föður að Sanóa. 4.19 Synir konu Hódía, systur Nahams: faðir Kegílu, Garmíta, Estemóa og Maakatíta. 4.20 Synir Símons: Amnon, Rinna, Ben Hanan og Tílon; og synir Jíseí: Sóhet og sonur Sóhets. 4.21 Synir Sela, sonar Júda: Ger, faðir Leka, Laeda, faðir Maresa, og ættir baðmullarverkmannanna frá Bet Asbea, 4.22 enn fremur Jókím og mennirnir frá Kóseba, Jóas og Saraf, er unnu Móab og Jasúbí Lehem. Þetta eru fornar sögur. 4.23 Þeir voru leirkerasmiðir og byggðu Netaím og Gedera. Hjá konungi, við þjónustu hans, þar bjuggu þeir. 4.24 Synir Símeons: Nemúel, Jamín, Jaríb, Sera, Sál. 4.25 Hans sonur var Sallúm, hans son Mibsam, hans son Misma. 4.26 Og synir Misma voru: Hammúel, sonur hans, hans son Sakkúr, hans son Símeí. 4.27 Símeí átti sextán sonu og sex dætur, en bræður hans áttu eigi margt barna, og ætt þeirra varð eigi svo fjölmenn sem Júdamenn. 4.28 Þeir bjuggu í Beerseba, Mólada, Hasar Súal, 4.29 Bílha, Esem, Tólad, 4.30 Betúel, Harma, Siklag, 4.31 Bet Markabót, Hasar Súsím, Bet Bíreí og Saaraím. Þetta voru borgir þeirra, þangað til Davíð tók ríki. 4.32 Og þorp þeirra voru: Etam, Ain, Rimmon, Tóken og Asan _ fimm borgir, 4.33 og auk þess öll þau þorp, er lágu kringum borgir þessar, allt til Baal. Þetta voru bústaðir þeirra, og höfðu þeir ættartal fyrir sig. 4.34 Mesóbab, Jamlek, Jósa, sonur Amasja, 4.35 Jóel, Jehú, sonur Jósíbja, Serajasonar, Asíelssonar, 4.36 og Eljóenaí, Jaakoba, Jesóhaja, Asaja, Adíel, Jesímíel og Benaja, 4.37 Sísa, sonur Sífeí, Allonssonar, Jedajasonar, Simrísonar, Semajasonar; 4.38 þessir menn sem hér eru nafngreindir, voru höfðingjar í ættum sínum, og hafa ættir þeirra orðið mjög fjölmennar. 4.39 Og þeir fóru þaðan, er leið liggur til Gedór, allt þar til kemur austur fyrir dalinn, til þess að leita haglendis fyrir sauði sína. 4.40 Og þeir fundu feitt og gott haglendi, og landrými var þar mikið, og rólegt var þar og friðsamlegt, því að þeir, er áður höfðu byggt þar, voru komnir af Kam. 4.41 Þá komu þeir, sem hér eru nafngreindir, á dögum Hiskía Júdakonungs, eyddu tjöldum þeirra og drápu Meúníta, sem þar voru, og gjöreyddu þeim allt fram á þennan dag og bjuggu þar eftir þá, því að þar var haglendi fyrir sauði þeirra. 4.42 Og af þeim Símeonsniðjum fóru fimm hundruð manns til Seírfjalla, og voru þeir Pelatja, Nearja, Refaja og Ússíel, synir Jíseí, fyrir þeim. 4.43 Drápu þeir hinar síðustu leifar Amalekíta og bjuggu þar allt fram á þennan dag.
5.1 Synir Rúbens, frumgetnings Ísraels _ því að frumgetningurinn var hann, en er hann hafði flekkað hvílu föður síns, var frumgetningsrétturinn veittur sonum Jósefs, sonar Ísraels (þó skyldu þeir eigi teljast frumgetnir í ættartölum); 5.2 því að Júda var voldugastur bræðra sinna, og einn af niðjum hans varð höfðingi, en frumgetningsréttinn fékk Jósef _ 5.3 synir Rúbens, frumgetins sonar Ísraels, voru Hanok, Pallú, Hesron og Karmí. 5.4 Synir Jóels: Semaja, sonur hans, hans son var Góg, hans son Símeí, 5.5 hans son Míka, hans son Reaja, hans son Baal, 5.6 hans son Beera, er Tílgat Pilneser Assýríukonungur herleiddi. Hann var höfðingi fyrir Rúbensniðjum. 5.7 Og frændur hans eftir ættum þeirra, eins og þeir voru skráðir í ættartölum eftir uppruna þeirra, voru: Hinn fyrsti var Jeíel, þá Sakaría 5.8 og Bela Asasson, Semasonar, Jóelssonar. Hann bjó í Aróer og allt að Nebó og Baal Meon. 5.9 Og gegnt austri bjó hann allt að eyðimörkinni, er liggur í vestur frá Efratfljóti, því að þeir áttu hjarðir miklar í Gíleaðlandi. 5.10 En á dögum Sáls áttu þeir í ófriði við Hagríta, og er Hagrítar voru fallnir fyrir þeim, settust þeir að í tjöldum þeirra, er voru með allri austurhlið Gíleaðs. 5.11 Niðjar Gaðs bjuggu andspænis þeim í Basanlandi, allt til Salka. 5.12 Var Jóel helstur þeirra, þá Safam og Jaenaí og Safat í Basan. 5.13 Og frændur þeirra eftir ættum þeirra voru: Míkael, Mesúllam, Seba, Jóraí, Jaekan, Sía og Eber, sjö alls. 5.14 Þessir eru synir Abíhaíls, Húrísonar, Jaróasonar, Gíleaðssonar, Míkaelssonar, Jesísaísonar, Jahdósonar, Bússonar. 5.15 Var Ahí Abdíelsson, Gúnísonar, ætthöfðingi þeirra. 5.16 Og þeir bjuggu í Gíleað, í Basan og þorpunum umhverfis, og í öllum beitilöndum Sarons, svo langt sem þau náðu. 5.17 Þessir allir voru skráðir á dögum Jótams Júdakonungs og á dögum Jeróbóams Ísraelskonungs. 5.18 Rúbensniðjar, Gaðsniðjar og hálf kynkvísl Manasse, þeir er hraustir menn voru, báru skjöld og sverð, bentu boga og kunnu að hernaði, fjörutíu og fjögur þúsund, sjö hundruð og sextíu herfærir menn, 5.19 áttu í ófriði við Hagríta og við Jetúr, Nafís og Nódab. 5.20 Og þeir fengu liðveislu gegn þeim, og Hagrítar og allir bandamenn þeirra gáfust þeim á vald. Því að meðan á bardaganum stóð, höfðu þeir hrópað til Guðs um hjálp, og bænheyrði hann þá, af því að þeir treystu honum. 5.21 Höfðu þeir burt með sér að herfangi hjarðir þeirra, fimmtíu þúsund úlfalda, tvö hundruð og fimmtíu þúsund sauði, tvö þúsund asna og hundrað þúsund manns. 5.22 Því að margir voru þeir, er voru lagðir sverði og féllu, því að ófriðurinn var háður að Guðs ráði. Bjuggu þeir þar eftir þá fram til herleiðingar. 5.23 Þeir, er tilheyrðu hálfri Manassekynkvísl, bjuggu í landinu frá Basan til Baal Hermon og til Seír og Hermonfjalls. Voru þeir fjölmennir, 5.24 og voru þessir ætthöfðingjar þeirra: Efer, Jíseí, Elíel, Asríel, Jeremía, Hódavja og Jahdíel. Voru þeir kappar miklir og nafnkunnir menn, höfðingjar í ættum sínum. 5.25 En er þeir sýndu ótrúmennsku Guði feðra sinna og tóku fram hjá með guðum þjóðflokka þeirra, er fyrir voru í landinu, en Guð hafði eytt fyrir þeim, 5.26 þá æsti Guð Ísraels reiði Púls Assýríukonungs og reiði Tílgat Pilnesers, Assýríukonungs, og herleiddi hann Rúbensniðja, Gaðsniðja og hálfa kynkvísl Manasse og flutti þá til Hala, Habór, Hara og Gósanfljóts, og er svo enn í dag.
6.1 Synir Leví: Gersom, Kahat og Merarí. 6.2 Og synir Kahats: Amram, Jísehar, Hebron og Ússíel. 6.3 Og synir Amrams: Aron, Móse og Mirjam. Og synir Arons: Nadab, Abíhú, Eleasar og Ítamar. 6.4 Eleasar gat Pínehas, Pínehas gat Abísúa, 6.5 Abísúa gat Búkkí, Búkkí gat Ússí, 6.6 Ússí gat Serahja, Serahja gat Merajót, 6.7 Merajót gat Amarja, Amarja gat Ahítúb, 6.8 Ahítúb gat Sadók, Sadók gat Akímaas, 6.9 Akímaas gat Asarja, Asarja gat Jóhanan, 6.10 Jóhanan gat Asarja, hann sem var prestur í musterinu, er Salómon byggði í Jerúsalem. 6.11 En Asarja gat Amarja, Amarja gat Ahítúb, 6.12 Ahítúb gat Sadók, Sadók gat Sallúm, 6.13 Sallúm gat Hilkía, Hilkía gat Asarja, 6.14 Asarja gat Seraja, Seraja gat Jósadak. 6.15 En Jósadak fór burt, þegar Drottinn lét Nebúkadnesar herleiða Júdamenn og Jerúsalembúa. 6.16 Synir Leví: Gersom, Kahat og Merarí. 6.17 Og þessi eru nöfn á sonum Gersoms: Libní og Símeí. 6.18 Og synir Kahats voru: Amram, Jísehar, Hebron og Ússíel. 6.19 Synir Merarí: Mahelí og Músí. Og þessar eru ættir levíta eftir ættfeðrum þeirra. 6.20 Frá Gersom eru komnir: Libní, sonur hans, hans son Jahat, hans son Simma, 6.21 hans son Jóa, hans son Íddó, hans son Sera, hans son Jeatraí. 6.22 Synir Kahats: Ammínadab, sonur hans, hans son Kóra, hans son Assír, 6.23 hans son Elkana, hans son Ebjasaf, hans son Assír, 6.24 hans son Tahat, hans son Úríel, hans son Ússía, hans son Sál. 6.25 Og synir Elkana: Amasaí og Ahímót, 6.26 hans sonur Elkana, hans son Sofaí, hans son Nahat, 6.27 hans son Elíab, hans son Jeróham, hans son Elkana. 6.28 Og synir Samúels voru: Jóel, frumgetningurinn, og hinn annar Abía. 6.29 Synir Merarí: Mahelí, hans son var Libní, hans son Símeí, hans son Ússa, 6.30 hans son Símea, hans son Haggía, hans son Asaja. 6.31 Þessir eru þeir, er Davíð skipaði til söngs í húsi Drottins, er örkin hafði fundið hæli. 6.32 Þjónuðu þeir við sönginn fyrir dyrum samfundatjalds-búðarinnar, uns Salómon reisti musteri Drottins í Jerúsalem, og gegndu þeir þjónustu sinni eftir reglum þeim, er fyrir þá voru lagðar. 6.33 Þessir eru þeir, er þjónustu þessari gegndu og synir þeirra: Af sonum Kahatíta: Heman, söngvarinn, Jóelsson, Samúelssonar, 6.34 Elkanasonar, Jeróhamssonar, Elíelssonar, Tóasonar, 6.35 Súfssonar, Elkanasonar, Mahatssonar, Amasaísonar, 6.36 Elkanasonar, Jóelssonar, Asaríasonar, Sefaníasonar, 6.37 Tahatssonar, Assírssonar, Ebjasafssonar, Kórasonar, 6.38 Jíseharssonar, Kahatssonar, Levísonar, Ísraelssonar. 6.39 Bróðir hans var Asaf, er stóð honum til hægri handar, Asaf Berekíason, Símeasonar, 6.40 Míkaelssonar, Baasejasonar, Malkíasonar, 6.41 Etnísonar, Serasonar, Adajasonar, 6.42 Etanssonar, Simmasonar, Simmeísonar, 6.43 Jahatssonar, Gersomssonar, Levísonar. 6.44 Og bræður þeirra, synir Merarí, stóðu til vinstri handar: Etan Kísíson, Abdísonar, Mallúkssonar, 6.45 Hasabjasonar, Amasjasonar, Hilkíasonar, 6.46 Amsísonar, Banísonar, Semerssonar, 6.47 Mahelísonar, Músísonar, Merarísonar, Levísonar. 6.48 Og bræður þeirra, levítarnir, voru settir yfir alla þjónustuna við musterisbústað Guðs. 6.49 En Aron og synir hans fórnuðu á brennifórnaraltarinu og reykelsisaltarinu og önnuðust öll störf í Hinu allrahelgasta og að friðþægja fyrir Ísrael _ að öllu leyti eins og Móse, þjónn Guðs, hafði fyrirskipað. 6.50 Og þessir eru synir Arons: Eleasar, sonur hans, hans son Pínehas, hans son Abísúa, 6.51 hans son Búkkí, hans son Ússí, hans son Serahja, 6.52 hans son Merajót, hans son Amaría, hans son Ahítúb, 6.53 hans son Sadók, hans son Akímaas. 6.54 Þetta eru bústaðir þeirra, taldir eftir tjaldbúðum í héraði þeirra: Niðjum Arons, ætt Kahatíta _ því að fyrsti hluturinn hlotnaðist þeim _ 6.55 gáfu þeir Hebron í Júdalandi og beitilandið umhverfis hana. 6.56 En akurland borgarinnar og þorpin, er að henni lágu, gáfu þeir Kaleb Jefúnnesyni. 6.57 En sonum Arons gáfu þeir griðastaðinn Hebron, enn fremur Líbna og beitilandið, er að henni lá, Jattír og Estamóa og beitilandið, er að henni lá, 6.58 Hólon og beitilandið, er að henni lá, Debír og beitilandið, er að henni lá, 6.59 Asan og beitilandið, er að henni lá, og Bet Semes og beitilandið, er að henni lá. 6.60 Og frá Benjamínsættkvísl: Geba og beitilandið, er að henni lá, Allemet og beitilandið, er að henni lá, og Anatót og beitilandið, er að henni lá. Alls voru borgir þeirra þrettán, og beitilöndin, er að þeim lágu. 6.61 Aðrir synir Kahats fengu tíu borgir eftir hlutkesti frá ættum Efraímskynkvíslar og Danskynkvíslar og frá hálfri Manassekynkvísl. 6.62 En synir Gersoms fengu þrettán borgir eftir ættum þeirra frá Íssakarskynkvísl, Asserskynkvísl, Naftalíkynkvísl og frá Manassekynkvísl í Basan. 6.63 Synir Merarí fengu eftir hlutkesti tólf borgir eftir ættum þeirra, frá Rúbenskynkvísl, Gaðskynkvísl og frá Sebúlonskynkvísl. 6.64 Þannig gáfu Ísraelsmenn levítum borgirnar og beitilöndin, er að þeim lágu, 6.65 og þeir gáfu eftir hlutkesti frá kynkvísl Júdasona, frá kynkvísl Símeonssona og frá kynkvísl Benjamínssona þessar borgir, sem þeir nafngreindu. 6.66 Og að því er snertir ættir þeirra Kahatssona, þá fengu þeir borgir þær, er þeim hlotnuðust, frá Efraímskynkvísl. 6.67 Og þeir gáfu þeim griðastaðinn Síkem og beitilandið, er að henni lá, á Efraímfjöllum, enn fremur Geser og beitilandið, er að henni lá, 6.68 Jokmeam og beitilandið, er að henni lá, Bet Hóron og beitilandið, er að henni lá, 6.69 Ajalon og beitilandið, er að henni lá, og Gat Rimmon og beitilandið, er að henni lá. 6.70 Og frá hálfri Manassekynkvísl: Aner og beitilandið, er að henni lá, og Jíbleam og beitilandið, er að henni lá _ fyrir ættir hinna Kahatssona. 6.71 Synir Gersoms fengu frá ætt hálfrar Manassekynkvíslar: Gólan í Basan og beitilandið, er að henni lá, og Astarót og beitilandið, er að henni lá. 6.72 Og frá Íssakarskynkvísl: Kedes og beitilandið, er að henni lá, Dabrat og beitilandið, er að henni lá, 6.73 Ramót og beitilandið, er að henni lá, og Anem og beitilandið, er að henni lá. 6.74 Og frá Asserskynkvísl: Masal og beitilandið, er að henni lá, Abdón og beitilandið, er að henni lá, 6.75 Húkok og beitilandið, er að henni lá, og Rehób og beitilandið, er að henni lá. 6.76 Og frá Naftalíkynkvísl: Kedes í Galíl og beitilandið, er að henni lá, Hammót og beitilandið, er að henni lá, og Kirjataím og beitilandið, er að henni lá. 6.77 Þeir synir Merarí, er enn voru eftir, fengu frá Sebúlonskynkvísl: Rimmónó og beitilandið, er að henni lá, og Tabór og beitilandið, er að henni lá. 6.78 Og hinumegin Jórdanar, gegnt Jeríkó, fyrir austan Jórdan, fengu þeir frá Rúbenskynkvísl: Beser í eyðimörkinni og beitilandið, er að henni lá, Jahsa og beitilandið, er að henni lá, 6.79 Kedemót og beitilandið, er að henni lá, og Mefaat og beitilandið, er að henni lá. 6.80 Og frá Gaðskynkvísl: Ramót í Gíleað og beitilandið, er að henni lá, Mahanaím og beitilandið, er að henni lá, 6.81 Hesbon og beitilandið, er að henni lá, og Jaser og beitilandið, er að henni lá.
7.1 Synir Íssakars: Tóla, Púa, Jasúb og Simron _ fjórir alls. 7.2 Synir Tóla: Ússí, Refaja, Jeríel, Jahemaí, Jíbsam og Samúel. Voru þeir höfðingjar í ættum sínum í Tóla, kappar miklir í ættum sínum; voru þeir á dögum Davíðs tuttugu og tvö þúsund og sex hundruð að tölu. 7.3 Synir Ússí voru: Jísrahja; synir Jísrahja: Míkael, Óbadía, Jóel, Jissía, alls fimm ætthöfðingjar. 7.4 Og til þeirra töldust eftir ættum þeirra, eftir frændliði þeirra, hermannasveitir, þrjátíu og sex þúsund manns, því að þeir áttu margar konur og börn. 7.5 Og frændur þeirra, allar ættir Íssakars, voru kappar miklir. Töldust þeir alls vera áttatíu og sjö þúsundir. 7.6 Synir Benjamíns: Bela, Beker, Jedíael _ þrír alls. 7.7 Og synir Bela: Esbón, Ússí, Ússíel, Jerímót og Írí, fimm alls. Voru þeir ætthöfðingjar og kappar miklir, og töldust þeir að vera tuttugu og tvö þúsund þrjátíu og fjórir. 7.8 Og synir Bekers: Semíra, Jóas, Elíeser, Eljóenaí, Omrí, Jeremót, Abía, Anatót og Alemet. Allir þessir voru synir Bekers. 7.9 Og þeir töldust eftir ættum sínum, ætthöfðingjum sínum, er voru kappar miklir, tuttugu þúsund og tvö hundruð. 7.10 Og synir Jedíaels: Bílhan; og synir Bílhans: Jeús, Benjamín, Ehúð, Kenaana, Setan, Tarsis og Ahísahar. 7.11 Allir þessir voru synir Jedíaels, ætthöfðingjar, kappar miklir, seytján þúsund og tvö hundruð vígra manna. 7.12 Súppím og Húppím voru synir Írs, en Húsím sonur Akers. 7.13 Synir Naftalí: Jahsíel, Gúní, Jeser og Sallúm, synir Bílu. 7.14 Synir Manasse: Asríel, er kona hans ól. Hin sýrlenska hjákona hans ól Makír, föður Gíleaðs. 7.15 Og Makír tók konu handa Húppím og Súppím, en systir hans hét Maaka. Hinn annar hét Selófhað, og Selófhað átti dætur. 7.16 Og Maaka, kona Makírs, ól son og nefndi hann Peres. En bróðir hans hét Seres, og synir hans voru Úlam og Rekem. 7.17 Og synir Úlams: Bedan. Þessir eru synir Gíleaðs Makírssonar, Manassesonar. 7.18 En Hammóleket systir hans ól Íshód, Abíeser og Mahela. 7.19 Og synir Semída voru: Ahjan, Sekem, Líkhí og Aníam. 7.20 Synir Efraíms: Sútela, hans son var Bered, hans son Tahat, hans son Eleada, hans son Tahat, 7.21 hans son Sóbad, hans son Sútela, Eser og Elead, en Gat-menn, þeir er fæddir voru í landinu, drápu þá, er þeir fóru til þess að ræna hjörðum þeirra. 7.22 Þá harmaði Efraím faðir þeirra lengi, og bræður hans komu til þess að hugga hann. 7.23 Og hann gekk inn til konu sinnar, og hún varð þunguð og ól son, og hann nefndi hann Bería, því að ógæfu hafði að borið í húsi hans. 7.24 En dóttir hans var Seera. Hún byggði neðri og efri Bet Hóron og Ússen Seera. 7.25 Og sonur hans var Refa og Resef. Hans son var Tela, hans son Tahan, 7.26 hans son Laedan, hans son Ammíhúd, hans son Elísama, 7.27 hans son Nún, hans son Jósúa. 7.28 Óðal þeirra og bústaðir voru: Betel og þorpin umhverfis, austur að Naaran og vestur að Geser og þorpunum umhverfis, enn fremur Síkem og þorpin umhverfis til Aja og þorpanna umhverfis. 7.29 Og í höndum Manassesona voru: Bet Sean og þorpin umhverfis, Taana og þorpin umhverfis, Megiddó og þorpin umhverfis, Dór og þorpin umhverfis. Þar bjuggu synir Jósefs, sonar Ísraels. 7.30 Synir Assers: Jímna, Jísva, Jísví og Bería, og systir þeirra var Seera. 7.31 Og synir Bería: Heber og Malkíel. Hann er faðir Birsaíts. 7.32 En Heber gat Jaflet, Semer, Hótam og Súu, systur þeirra. 7.33 Og synir Jaflets: Pasak, Bímehal og Asvat. Þessir voru synir Jaflets. 7.34 Og synir Semers: Ahí, Róhga, Húbba og Aram. 7.35 Og synir Helems, bróður hans: Sófa, Jímna, Seles og Amal. 7.36 Synir Sófa voru: Súa, Harnefer, Súal, Berí, Jímra, 7.37 Beser, Hód, Samma, Silsa, Jítran og Beera. 7.38 Og synir Jeters: Jefúnne, Pispa og Ara. 7.39 Og synir Úlla: Ara, Hanníel og Risja. 7.40 Allir þessir voru synir Assers, ætthöfðingjar, frábærir kappar, höfðingjar meðal þjóðhöfðingja. Töldust þeir, er skráðir voru til herþjónustu, tuttugu og sex þúsundir manns.
8.1 Benjamín gat Bela, frumgetning sinn, annan Asbel, þriðja Ahra, 8.2 fjórða Nóha, fimmta Rafa. 8.3 Og Bela átti að sonum: Addar, Gera, Abíhúd, 8.4 Abísúa, Naaman, Ahóa, 8.5 Gera, Sefúfan og Húram. 8.6 Þessir voru synir Ehúðs _ þessir voru ætthöfðingjar Gebabúa, og þeir herleiddu þá til Manahat, 8.7 og Naaman, Ahía og Gera, hann herleiddi þá _ hann gat Ússa og Ahíhúd. 8.8 Saharaím gat í Móabslandi, er hann hafði rekið þær frá sér, Húsím og Baöru konur sínar _ 8.9 þá gat hann við Hódes konu sinni: Jóbab, Síbja, Mesa, Malkam, 8.10 Jeús, Sokja og Mirma. Þessir voru synir hans, ætthöfðingjar. 8.11 Og við Húsím gat hann Abítúb og Elpaal. 8.12 Og synir Elpaals voru: Eber, Míseam og Semer. Hann byggði Ónó og Lód og þorpin umhverfis. 8.13 Bería og Sema _ þeir voru ætthöfðingjar Ajalonbúa, þeir ráku burt íbúana í Gat _ 8.14 og Elpaal bróðir hans og Sasak og Jeremót. 8.15 Sebadja, Arad, Eder, 8.16 Míkael, Jispa og Jóha voru synir Bería. 8.17 Sebadja, Mesúllam, Hiskí, Heber, 8.18 Jísmeraí, Jíslía og Jóbab voru synir Elpaals. 8.19 Jakím, Síkrí, Sabdí, 8.20 Elíenaí, Silletaí, Elíel, 8.21 Adaja, Beraja og Simrat voru synir Símeí. 8.22 Jíspan, Eber, Elíel, 8.23 Abdón, Síkrí, Hanan, 8.24 Hananja, Elam, Antótía, 8.25 Jífdeja og Penúel voru synir Sasaks. 8.26 Samseraí, Seharja, Atalja, 8.27 Jaaresja, Elía og Síkrí voru synir Jeróhams. 8.28 Þessir voru ætthöfðingjar í ættum sínum, höfðingjar. Þeir bjuggu í Jerúsalem. 8.29 Í Gíbeon bjuggu: Jegúel, faðir að Gíbeon, og kona hans hét Maaka. 8.30 Frumgetinn sonur hans var Abdón, þá Súr, Kís, Baal, Ner, Nadab, 8.31 Gedór, Ahjó og Seker. 8.32 En Míklót gat Símea. Einnig þeir bjuggu andspænis bræðrum sínum, hjá bræðrum sínum í Jerúsalem. 8.33 Ner gat Kís, og Kís gat Sál, og Sál gat Jónatan, Malkísúa, Abínadab og Esbaal. 8.34 Og sonur Jónatans var Meríbaal, og Meríbaal gat Míka, 8.35 og synir Míka voru: Píton, Melek, Tarea og Akas. 8.36 En Akas gat Jóadda, Jóadda gat Alemet, Asmavet og Simrí. Simrí gat Mósa, 8.37 Mósa gat Bínea, hans son var Rafa, hans son Eleasa, hans son Asel. 8.38 En Asel átti sex sonu. Þeir hétu: Asríkam, Bokrú, Ísmael, Searja, Óbadía og Hanan. Allir þessir voru synir Asels. 8.39 Synir Eseks bróður hans voru: Úlam, frumgetningurinn, annar Jeús, þriðji Elífelet. 8.40 Og synir Úlams voru kappar miklir, bogmenn góðir og áttu marga sonu og sonasonu, hundrað og fimmtíu alls. Allir þessir heyra til Benjamínssona.
9.1 Allir Ísraelsmenn voru skráðir í ættartölur. Eru þeir ritaðir í bók Ísraelskonunga. Og Júdamenn voru herleiddir til Babel sakir ótrúmennsku þeirra. 9.2 En hinir fyrri íbúar, er voru í landeign þeirra og borgum, voru Ísraelsmenn, prestarnir, levítarnir og musterisþjónarnir. 9.3 Og í Jerúsalem bjuggu menn af Júdasonum, Benjamínssonum, Efraímssonum og Manassesonum: 9.4 Útaí Ammíhúdsson, Omrísonar, Imrísonar, Banísonar, er var af niðjum Peres, sonar Júda. 9.5 Og af Sílónítum: Asaja, frumgetningurinn og synir hans. 9.6 Og af niðjum Sera: Jegúel. Og bræður þeirra voru sex hundruð og níutíu alls. 9.7 Af Benjamínítum: Sallúm Mesúllamsson, Hódavjasonar, Hassenúasonar, 9.8 enn fremur Jíbneja Jeróhamsson, Ela Ússíson, Míkrísonar, Mésúllam Sefatjason, Regúelssonar, Jíbnejasonar, 9.9 og bræður þeirra eftir ættum þeirra, níu hundruð fimmtíu og sex alls. Allir þessir menn voru ætthöfðingjar í ættum sínum. 9.10 Af prestunum: Jedaja, Jójaríb, Jakín 9.11 og Asarja Hilkíason, Mesúllamssonar, Sadókssonar, Merajótssonar, Ahítúbssonar, höfuðsmaður yfir musteri Guðs. 9.12 Enn fremur Adaja Jeróhamsson, Pashúrssonar, Malkíasonar, og Maesí Adíelsson, Jahserasonar, Mesúllamssonar, Mesillemítssonar, Immerssonar. 9.13 Og bræður þeirra, ætthöfðingjar, voru alls eitt þúsund, sjö hundruð og sextíu, dugandi menn til þess að gegna þjónustu við musteri Guðs. 9.14 Af levítunum: Semaja Hassúbsson, Asríkamssonar, Hasabjasonar, af Meraríniðjum. 9.15 Enn fremur Bakbakkar, Heres, Galal, Mattanja Míkason, Síkrísonar, Asafssonar, 9.16 og Óbadía Semajason, Galalssonar, Jedútúnssonar og Berekía Asason, Elkanasonar, er bjó í þorpum Netófatíta. 9.17 Hliðverðirnir: Sallúm, Akkúb, Talmon og Ahíman og bræður þeirra. Var Sallúm æðstur, 9.18 og gætir hann enn konungshliðsins gegnt austri. Þetta eru hliðverðirnir í hópi levíta. 9.19 En Sallúm Kóreson, Ebjasafssonar, Kórasonar, og bræður hans, er voru af ætt hans, Kóraítarnir, höfðu þjónustu á hendi, þar sem þeir gættu þröskulda tjaldsins. Höfðu feður þeirra gætt dyranna í herbúðum Drottins, 9.20 og var Pínehas Eleasarsson forðum höfðingi þeirra. Drottinn sé með honum! 9.21 En Sakaría Meselemjason gætti dyra samfundatjalds-búðarinnar. 9.22 Alls voru þessir, er teknir voru til þess að vera dyraverðir, tvö hundruð og tólf. Voru þeir skráðir í ættartölur í þorpum sínum _ höfðu þeir Davíð og Samúel, sjáandinn, skipað þá í embætti þeirra _, 9.23 voru þeir og synir þeirra við hliðin á húsi Drottins, tjaldbúðinni, til þess að gæta þeirra. 9.24 Stóðu hliðverðirnir gegnt hinum fjórum áttum, gegnt austri, vestri, norðri og suðri. 9.25 En bræður þeirra, er bjuggu í þorpum sínum, áttu að koma inn við og við, sjö daga í senn, til þess að aðstoða þá, 9.26 því að þeir, fjórir yfirhliðverðirnir, höfðu stöðugt starf á hendi. Þetta eru levítarnir. Þeir höfðu og umsjón með herbergjum og fjársjóðum Guðs húss, 9.27 og héldu til um nætur umhverfis musteri Guðs, því að þeir áttu að halda vörð, og á hverjum morgni áttu þeir að ljúka upp. 9.28 Og nokkrir þeirra áttu að sjá um þjónustuáhöldin. Skyldu þeir telja þau, er þeir báru þau út og inn. 9.29 Og nokkrir skyldu sjá um áhöldin, og það öll hin helgu áhöld, og hveitimjölið, vínið og olíuna, reykelsið og kryddjurtirnar, 9.30 og nokkrir af sonum prestanna skyldu gjöra smyrsl af kryddjurtunum, 9.31 en Mattitja, einum af levítum, frumgetningi Sallúms Kóraíta, var falinn pönnubaksturinn. 9.32 Og nokkrir af Kahatítum, bræðrum þeirra, skyldu sjá um raðsettu brauðin og leggja þau fram á hverjum hvíldardegi. 9.33 Söngvararnir, ætthöfðingjar levíta, búa í herbergjunum, lausir við önnur störf, því að þeir hafa starfs að gæta dag og nótt. 9.34 Þessir eru ætthöfðingjar levíta eftir ættum þeirra, höfðingjar. Þeir bjuggu í Jerúsalem. 9.35 Í Gíbeon bjuggu: Jeíel, faðir að Gíbeon, og kona hans hét Maaka. 9.36 Og frumgetinn sonur hans var Abdón, þá Súr, Kís, Baal, Ner, Nadab, 9.37 Gedór, Ahjó, Sakaría og Miklót. 9.38 En Miklót gat Símeam. Einnig þeir bjuggu andspænis bræðrum sínum, hjá bræðrum sínum í Jerúsalem. 9.39 Ner gat Kís og Kís gat Sál, og Sál gat Jónatan, Malkísúa, Abínadab og Esbaal. 9.40 Og sonur Jónatans var Meríbaal, og Meríbaal gat Míka. 9.41 Og synir Míka voru: Píton, Melek, Tahrea og Akas. 9.42 En Akas gat Jaera, Jaera gat Alemet, Asmavet og Simrí, en Simrí gat Mósa, 9.43 Mósa gat Bínea. Hans son var Refaja, hans son Eleasa, hans son Asel. 9.44 En Asel átti sex sonu. Þeir hétu: Asríkam, Bokrú, Ísmael, Searja, Óbadía, Hanan. Þessir eru synir Asels.
10.1 Filistar höfðu lagt til orustu við Ísrael. Höfðu Ísraelsmenn flúið fyrir Filistum, og lágu margir fallnir á Gilbóafjalli. 10.2 Og Filistar eltu Sál og sonu hans og felldu Jónatan, Abínadab og Malkísúa, sonu Sáls. 10.3 Var nú gjörð hörð atlaga að Sál, og höfðu bogmenn komið auga á hann. Varð hann þá hræddur við bogmennina. 10.4 Þá sagði Sál við skjaldsvein sinn: 'Bregð þú sverði þínu og legg mig í gegn með því, svo að óumskornir menn þessir komi ekki og fari háðulega með mig.' En skjaldsveinninn vildi ekki gjöra það, því að hann var mjög hræddur. Þá tók Sál sverðið og lét fallast á það. 10.5 Og er skjaldsveinninn sá, að Sál var dauður, þá lét hann og fallast á sverð sitt og dó. 10.6 Þannig létu þeir líf sitt, Sál, synir hans þrír og allir ættmenn hans. Létu þeir lífið saman. 10.7 Þegar allir Ísraelsmenn þeir er á sléttlendinu bjuggu, sáu, að Ísraelsmenn voru flúnir, og Sál og synir hans fallnir, þá yfirgáfu þeir borgir sínar og lögðu á flótta. Og Filistar komu og settust að í þeim. 10.8 Daginn eftir komu Filistar að ræna valinn. Fundu þeir þá Sál og sonu hans þrjá fallna á Gilbóafjalli. 10.9 Flettu þeir hann klæðum og tóku höfuð hans og herklæði og gjörðu sendimenn um allt Filistaland til þess að flytja skurðgoðum sínum og lýðnum gleðitíðindin. 10.10 Og þeir lögðu vopn hans í hof guðs síns, en hauskúpu hans festu þeir upp í hofi Dagóns. 10.11 Þegar allir þeir, er bjuggu í Jabes í Gíleað, fréttu allt það, er Filistar höfðu gjört við Sál, 10.12 þá tóku sig til allir vopnfærir menn, tóku lík Sáls og lík sona hans og fluttu þau til Jabes. Síðan jörðuðu þeir bein þeirra undir eikinni í Jabes og föstuðu í sjö daga. 10.13 Þannig lét Sál líf sitt sakir ótrúmennsku sinnar við Drottin, sakir þess að hann eigi varðveitti boð Drottins, og einnig sakir þess, að hann hafði gengið til frétta við vofu, 10.14 en við Drottin hafði hann eigi gengið til frétta. Hann lét hann þess vegna deyja, en konungdóminn hverfa undir Davíð Ísaíson.
11.1 Þá söfnuðust allir Ísraelsmenn til Davíðs í Hebron og sögðu: 'Sjá, vér erum hold þitt og bein! 11.2 Þegar um langa hríð, meðan Sál var konungur, hefir þú verið fyrir Ísrael, bæði þegar hann lagði af stað í stríð og þegar hann kom heim. Auk þess hefir Drottinn, Guð þinn, við þig sagt: ,Þú skalt vera hirðir þjóðar minnar Ísraels, og þú skalt vera höfðingi yfir þjóð minni Ísrael!'` 11.3 Þá komu allir öldungar Ísraels til konungsins í Hebron, og Davíð gjörði við þá sáttmála í Hebron, frammi fyrir augliti Drottins, og þeir smurðu Davíð til konungs yfir Ísrael eftir orði Drottins fyrir munn Samúels. 11.4 Og Davíð og allur Ísrael fór til Jerúsalem, það er Jebús, og þar voru Jebúsítar landsbúar. 11.5 Þá sögðu Jebúsbúar við Davíð: 'Þú munt eigi komast hér inn!' En Davíð tók vígið Síon, það er Davíðsborg. 11.6 Þá mælti Davíð: 'Hver sá, er fyrstur vinnur sigur á Jebúsítum, skal verða höfuðsmaður og herforingi!' Gekk þá fyrstur upp Jóab Serújuson og varð höfuðsmaður. 11.7 Því næst settist Davíð að í víginu, fyrir því nefndu menn það Davíðsborg. 11.8 Og hann víggirti borgina allt í kring, frá Milló og alla leið umhverfis, en aðra hluta borgarinnar hressti Jóab við. 11.9 Og Davíð efldist meir og meir, og Drottinn allsherjar var með honum. 11.10 Þessir eru helstir kappar Davíðs, er öfluglega studdu hann til konungstignar, ásamt öllum Ísrael, til þess að gjöra hann að konungi samkvæmt boði Drottins til Ísraels. 11.11 Og þetta er talan á köppum Davíðs: Jasóbeam Hakmóníson, höfðingi þeirra þriggja. Hann veifaði spjóti sínu yfir þrjú hundruð vegnum í einu. 11.12 Honum næstur er Eleasar Dódóson, Ahóhíti. Hann var meðal kappanna þriggja. 11.13 Hann var með Davíð í Pas Dammím, en Filistar höfðu safnast þar saman til orustu. En þar var akurspilda, alsprottin byggi. En er fólkið flýði fyrir Filistum, 11.14 námu þeir staðar í spildunni miðri, náðu henni og unnu sigur á Filistum. Veitti Drottinn þannig mikinn sigur. 11.15 Einu sinni fóru þrír af höfðingjunum þrjátíu til Davíðs í hamrinum, í Adúllamvíginu, en her Filista lá í herbúðum í Refaímdal. 11.16 Þá var Davíð í víginu, en varðsveit Filista var þá í Betlehem. 11.17 Þá þyrsti Davíð og sagði: 'Hver vill sækja mér vatn í brunninn í Betlehem, sem er þar við hliðið?' 11.18 Þá brutust þeir þrír gegnum herbúðir Filista, jusu vatn úr brunninum í Betlehem, sem er þar við hliðið, tóku það og færðu Davíð. En Davíð vildi ekki drekka það, heldur dreypti því Drottni til handa 11.19 og mælti: 'Guð minn láti það vera fjarri mér að gjöra slíkt. Ætti ég að drekka blóð þessara manna, er hættu lífi sínu, því að með því að hætta lífi sínu sóttu þeir það.' Og hann vildi ekki drekka það. Þetta gjörðu kapparnir þrír. 11.20 Abísaí, bróðir Jóabs, var fyrir þeim þrjátíu. Hann veifaði spjóti sínu yfir þrjú hundruð vegnum og var frægur meðal þeirra þrjátíu. 11.21 Af þeim þrjátíu var hann í heiðri hafður og var foringi þeirra, en til jafns við þá þrjá komst hann ekki. 11.22 Benaja Jójadason, hraustmenni, frægur fyrir afreksverk sín, var frá Kabseel. Hann drap báða sonu Aríels frá Móab. Hann sté ofan í brunn og drap þar ljón einn dag, er snjóað hafði. 11.23 Hann drap og egypskan mann tröllaukinn, fimm álna háan. Egyptinn hafði spjót í hendi, digurt sem vefjarrif, en hann fór á móti honum með staf, reif spjótið úr hendi Egyptans og drap hann með hans eigin spjóti. 11.24 Þetta gjörði Benaja Jójadason. Hann var frægur meðal kappanna þrjátíu. 11.25 Af þeim þrjátíu var hann í heiðri hafður, en til jafns við þá þrjá komst hann ekki. Davíð setti hann yfir lífvörð sinn. 11.26 Og hraustu kapparnir voru: Asahel, bróðir Jóabs, Elhanan Dódóson frá Betlehem, 11.27 Sammót frá Harór, Heles frá Palon, 11.28 Íra Íkkesson frá Tekóa, Abíeser frá Anatót, 11.29 Sibbekaí frá Húsa, Ílaí frá Ahó, 11.30 Maharaí frá Netófa, Heled Baanason frá Netófa, 11.31 Íttaí Ríbaíson frá Gíbeu í Benjamíns ættkvísl, Benaja frá Píraton, 11.32 Húraí frá Nahale Gaas, Abíel frá Araba, 11.33 Asmavet frá Bahúrím, Eljahba frá Saalbón, 11.34 Hasem frá Gíson, Jónatan Sageson frá Harar, 11.35 Ahíam Sakarsson frá Harar, Elífal Úrsson, 11.36 Hefer frá Mekera, Ahía frá Palon, 11.37 Hesró frá Karmel, Naaraí Esbaíson, 11.38 Jóel, bróðir Natans, Míbhar Hagríson, 11.39 Selek Ammóníti, Nahraí frá Beerót, skjaldsveinn Jóabs Serújusonar, 11.40 Íra frá Jattír, Gareb frá Jattír, 11.41 Úría Hetíti, Sabad Ahlaíson, 11.42 Adína Sísason, niðji Rúbens, höfðingi Rúbensniðja, og þrjátíu manns með honum, 11.43 Hanan Maakason og Jósafat frá Meten, 11.44 Ússía frá Astera, Sama og Jeíel Hótamssynir frá Aróer, 11.45 Jedíael Simríson og Jóha Tísíti, bróðir hans, 11.46 Elíel frá Mahanaím og Jeríbaí og Jósavja Elnaamssynir og Jítma Móabíti, 11.47 Elíel, Óbeð og Jaasíel frá Mesóbaja.
12.1 Þessir eru þeir, er komu til Davíðs í Siklag, er hann var landflótta fyrir Sál Kíssyni. Voru og þeir meðal kappanna, er veittu honum vígsgengi. 12.2 Höfðu þeir boga að vopni og voru leiknir að slöngva steinum með hægri og vinstri hendi og að skjóta örvum af boga: Af frændum Sáls, af Benjamínítum: 12.3 Ahíeser höfuðsmaður og Jóas, Hassemaasynir frá Gíbeu, Jesíel og Pelet Asmavetssynir, Beraka og Jehú frá Anatót, 12.4 Jismaja frá Gíbeon, kappi meðal þeirra þrjátíu og foringi þeirra þrjátíu, Jeremía, Jehasíel, Jóhanan og Jósabad frá Gedera, 12.5 Elúsaí, Jerímót, Bealja, Semarja og Sefatja frá Haríf, 12.6 Elkana, Jissía, Asareel, Jóeser og Jasóbeam Kóraítar, 12.7 Jóela og Sebadja Jeróhamssynir frá Gedór. 12.8 Af Gaðítum gengu kappar miklir, hermenn, búnir til bardaga, er skjöld báru og spjót, í lið með Davíð í fjallvíginu í eyðimörkinni. Voru þeir ásýndum sem ljón og fráir sem skógargeitur á fjöllum. 12.9 Var Eser höfðingi þeirra, annar var Óbadía, þriðji Elíab, 12.10 fjórði Mismanna, fimmti Jeremía, 12.11 sjötti Attaí, sjöundi Elíel, 12.12 áttundi Jóhanan, níundi Elsabad, 12.13 tíundi Jeremía, ellefti Makbannaí. 12.14 Þessir voru af niðjum Gaðs, og voru þeir hershöfðingjar. Var hinn minnsti þeirra einn saman hundrað manna maki, en hinn mesti þúsund. 12.15 Þessir voru þeir, er fóru yfir Jórdan í fyrsta mánuðinum, er hún flóði yfir alla bakka, og stökktu burt öllum dalbyggjum til austurs og vesturs. 12.16 En nokkrir af Benjamíns- og Júdaniðjum komu til Davíðs í fjallvígið. 12.17 Gekk Davíð þá út til þeirra, tók til máls og sagði við þá: 'Ef þér komið til mín með friði til þess að veita mér lið, þá vil ég fúslega gjöra bandalag við yður, en ef þér komið til að svíkja mig í hendur óvinum mínum, þótt ég hafi ekkert illt aðhafst, þá sjái Guð feðra vorra það og hegni.' 12.18 Þá kom andi yfir Amasaí, höfðingja fyrir hinum þrjátíu, og mælti hann: 'Þínir erum vér, Davíð, og með þér, þú Ísaísonur. Heill, heill sé þér, og heill liðsmönnum þínum, því að Guð þinn hjálpar þér.' Tók þá Davíð við þeim og gjörði þá að foringjum fyrir sveit sinni. 12.19 Af Manasse gengu í lið með Davíð, þá er hann fór með Filistum til bardaga við Sál _ þó liðsinntu þeir þeim ekki, því að höfðingjar Filista réðu ráðum sínum, sendu hann burt og sögðu: 'Hann kynni að ganga í lið með Sál, herra sínum, og gæti það orðið vor bani' _ 12.20 þegar hann kom til Siklag, þá gengu í lið með honum af Manasse: Adna, Jósabad, Jedíael, Míkael, Jósabad, Elíhú og Silletaí, þúsundhöfðingjar Manasse. 12.21 Veittu þessir Davíð lið gegn ræningjaflokkum, því að allir voru þeir kappar miklir, og urðu þeir foringjar í hernum. 12.22 Því að dag frá degi komu menn til liðs við Davíð, uns herinn var mikill orðinn sem guðsher. 12.23 Þetta er manntal á höfðingjum þeirra hertygjaðra manna, er komu til Davíðs í Hebron til þess að fá honum í hendur konungdóm Sáls eftir boði Drottins: 12.24 Júdamenn, er skjöld báru og spjót, voru 6.800 herbúinna manna. 12.25 Af Símeonsniðjum 7.100 hraustir hermenn. 12.26 Af Levíniðjum: 4.600 12.27 og auk þess Jójada, höfðingi Aronsættar, og 3.700 manns með honum. 12.28 Og Sadók, ungur maður, hinn mesti kappi. Voru 22 herforingjar í ætt hans. 12.29 Af Benjamínsniðjum, frændum Sáls, voru 3.000, en allt til þessa héldu flestir þeirra trúnað við ætt Sáls. 12.30 Af Efraímsniðjum 20.800 nafnkunnra manna í ættum sínum. 12.31 Af hálfri Manassekynkvísl 18.000 manna, er nafngreindir voru til þess að fara og taka Davíð til konungs. 12.32 Af Íssakarsniðjum, er báru skyn á tíðir og tíma, svo að þeir vissu, hvað Ísrael skyldi hafast að, 200 höfðingjar, og lutu allir frændur þeirra boði þeirra. 12.33 Af Sebúlon gengu í herinn 50.000 vígra manna, er höfðu alls konar hervopn, allir með einum huga til þess að hjálpa. 12.34 Af Naftalí fóru þúsund höfðingjar og með þeim 37.000 manna, er skjöld báru og spjót. 12.35 Af Dansniðjum 28.600 manna, er búnir voru til bardaga. 12.36 Af Asser gengu í herinn 40.000 vígra manna. 12.37 Af þeim hinumegin Jórdanar, af Rúbensniðjum, Gaðsniðjum og hálfri ættkvísl Manasse: 120.000 manna, með alls konar vopn til hernaðar. 12.38 Allir þessir hermenn, er skipaðir voru í fylkingu, komu samhuga til Hebron til þess að taka Davíð til konungs yfir allan Ísrael. Voru og allir aðrir Ísraelsmenn samhuga í því að taka Davíð til konungs. 12.39 Og þeir dvöldust þar þrjá daga hjá Davíð og neyttu matar og drykkjar, því að frændur þeirra höfðu búið þeim beina. 12.40 Auk þess færðu þeir, er bjuggu í nágrenni við þá, allt að Íssakar, Sebúlon og Naftalí, vistir á ösnum, úlföldum, múlum og nautum, mjölmat, fíkjukökur, rúsínukökur, vín, olíu og naut og sauði í ríkum mæli, því að gleði var í Ísrael.
13.1 Davíð ráðgaðist um við þúsundhöfðingjana og við hundraðshöfðingjana, við alla höfðingjana. 13.2 Og Davíð mælti við Ísraelssöfnuð: 'Ef yður líkar svo, og virðist það vera komið frá Drottni, Guði vorum, þá skulum vér senda til frænda vorra, sem eftir eru orðnir í öllum héruðum Ísraels, svo og til prestanna og levítanna í borgunum með beitilöndunum, er að þeim liggja, og skulu þeir safnast til vor. 13.3 Skulum vér sækja örk Guðs vors, því að á dögum Sáls höfum vér ekki spurt um hana.' 13.4 Svaraði þá allur söfnuður, að svo skyldi gjöra, því að öllum lýðnum leist þetta rétt vera. 13.5 Kallaði þá Davíð saman allan Ísrael, frá Síhór í Egyptalandi, allt þar til, er leið liggur til Hamat, til þess að flytja örk Guðs frá Kirjat Jearím. 13.6 Og Davíð og allur Ísrael fór til Baala, til Kirjat Jearím, sem er í Júda, til þess að flytja þaðan örk Guðs, sem kennd er við nafn Drottins, hans, sem situr uppi yfir kerúbunum. 13.7 Og þeir óku örk Drottins á nýjum vagni úr húsi Abínadabs, og stýrðu þeir Ússa og Ahjó vagninum. 13.8 Og Davíð og allur Ísrael dansaði fyrir Guði af öllum mætti, með söng, gígjum, hörpum, bumbum, skálabumbum og lúðrum. 13.9 En er komið var að þreskivelli Kídons, rétti Ússa út höndina til þess að grípa í örkina, því að slakað hafði verið á taumhaldinu við akneytin. 13.10 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ússa, og hann laust hann þar, af því að hann hafði gripið hendi sinni í örkina, og dó hann þar fyrir augliti Guðs. 13.11 En Davíð féll það þungt, að Drottinn hafði lostið Ússa svo hart, og hefir þessi staður verið nefndur Peres Ússa allt fram á þennan dag. 13.12 Davíð varð hræddur við Guð á þeim degi og sagði: 'Hvernig má ég þá flytja örk Guðs til mín?' 13.13 Og Davíð flutti ekki örkina til sín í Davíðsborg, heldur sneri hann með hana til húss Óbeð Edóms í Gat. 13.14 Og örk Guðs var þrjá mánuði í húsi Óbeð Edóms, í húsi hans, og Drottinn blessaði hús Óbeð Edóms og allt það, er hans var.
14.1 Híram, konungur í Týrus, gjörði menn á fund Davíðs og sendi honum sedrustré, steinhöggvara og trésmiði til þess að reisa höll handa honum. 14.2 Davíð kannaðist þá við, að Drottinn hefði staðfest konungdóm hans yfir Ísrael, að konungdómur sinn væri hátt upp hafinn fyrir sakir þjóðar hans, Ísraels. 14.3 Davíð tók sér enn konur í Jerúsalem, og Davíð gat enn sonu og dætur. 14.4 Þetta eru nöfn þeirra sona, sem hann eignaðist í Jerúsalem: Sammúa, Sóbab, Natan, Salómon, 14.5 Jíbhar, Elísúa, Elpelet, 14.6 Nóga, Nefeg, Jafía, 14.7 Elísama, Beeljada og Elífelet. 14.8 Þegar Filistar heyrðu, að Davíð væri smurður til konungs yfir allan Ísrael, lögðu allir Filistar af stað að leita Davíðs. Og er Davíð frétti það, fór hann í móti þeim. 14.9 Og Filistar komu og dreifðu sér um Refaímdal. 14.10 Þá gekk Davíð til frétta við Guð og sagði: 'Á ég að fara móti Filistum? Munt þú gefa þá í hendur mér?' Drottinn svaraði honum: 'Far þú, ég mun gefa þá í hendur þér.' 14.11 Héldu þeir þá til Baal Perasím. Og Davíð vann þar sigur á þeim, og Davíð sagði: 'Guð hefir látið mig skola burt óvinum mínum, eins og þegar vatn ryður sér rás.' Fyrir því var sá staður nefndur Baal Perasím. 14.12 En þeir létu þar eftir guði sína, og voru þeir brenndir á báli að boði Davíðs. 14.13 Filistar komu aftur og dreifðu sér um dalinn. 14.14 Þá gekk Davíð enn til frétta við Guð, og Guð svaraði honum: 'Far þú eigi í móti þeim. Far þú í bug og kom að baki þeim og ráð á þá fram undan bakatrjánum. 14.15 Og þegar þú heyrir þyt af ferð í krónum bakatrjánna, þá skalt þú leggja til orustu, því að þá fer Guð fyrir þér til þess að ljósta her Filista.' 14.16 Og Davíð gjörði eins og Guð bauð honum og vann sigur á her Filista frá Gíbeon til Geser. 14.17 Og frægð Davíðs barst um öll lönd, og Drottinn lét ótta við hann koma yfir allar þjóðir.
15.1 Davíð byggði hús handa sér í Davíðsborg, og hann bjó stað handa örk Guðs og reisti tjald fyrir hana. 15.2 Þá sagði Davíð: 'Enginn má bera örk Guðs nema levítarnir, því að þá hefir Drottinn valið til þess að bera örk Guðs og til þess að þjóna sér að eilífu.' 15.3 Síðan stefndi Davíð öllum Ísrael saman til Jerúsalem til þess að flytja örk Drottins á sinn stað, þann er hann hafði búið handa henni. 15.4 Og Davíð stefndi saman niðjum Arons og levítunum: 15.5 Af Kahatsniðjum: Úríel, er var þeirra helstur, og frændum hans, hundrað og tuttugu alls. 15.6 Af Meraríniðjum: Asaja, er var þeirra helstur, og frændum hans, tvö hundruð og tuttugu alls. 15.7 Af Gersómsniðjum: Jóel, er var þeirra helstur, og frændum hans, hundrað og þrjátíu alls. 15.8 Af Elísafansniðjum: Semaja, er var þeirra helstur, og frændum hans, tvö hundruð alls. 15.9 Af Hebronsniðjum: Elíel, er var þeirra helstur, og frændum hans, áttatíu alls. 15.10 Af Ússíelsniðjum: Ammínadab, er var þeirra helstur, og frændum hans, hundrað og tólf alls. 15.11 Síðan kallaði Davíð á Sadók og Abjatar presta og Úríel, Asaja, Jóel, Semaja, Elíel og Ammínadab levíta, 15.12 og mælti við þá: 'Þér eruð ætthöfðingjar levíta. Helgið yður og frændur yðar og flytjið örk Drottins, Ísraels Guðs, á þann stað, er ég hefi búið handa henni. 15.13 Af því að þér voruð eigi við hið fyrra skipti, hefir Drottinn Guð vor lostið oss, af því að vér leituðum hans eigi svo sem vera bar.' 15.14 Þá helguðu prestarnir og levítarnir sig til þess að flytja örk Drottins, Ísraels Guðs, upp eftir. 15.15 Síðan báru niðjar levíta örk Guðs, eins og Móse hafði fyrirskipað eftir boði Drottins, á stöngum á herðum sér. 15.16 Því næst bauð Davíð höfðingjum levíta að setja frændur þeirra, söngmennina, með hljóðfærum þeirra, hörpum, gígjum og skálabumbum, til þess að þeir skyldu láta fagnaðarglaum kveða við. 15.17 Settu levítar til þess Heman Jóelsson, og af frændum hans Asaf Berekíason, og af Meraríniðjum, frændum sínum, Etan Kúsajason, 15.18 og með þeim frændur þeirra af öðrum flokki: Sakaría Jaasíelsson, Semíramót, Jehíel, Únní, Elíat, Benaja, Maaseja, Mattitja, Elífelehú, Mikneja, Óbeð Edóm og Jeíel hliðverði. 15.19 Auk þess söngvarana Heman, Asaf og Etan með skálabumbum úr eiri, til þess að syngja hátt, 15.20 og Sakaría, Asíel, Semíramót, Jehíel, Únní, Elíat, Maaseja og Benaja með hörpur, til þess að syngja háu raddirnar, 15.21 og Mattitja, Elífelehú, Mikneja, Óbeð Edóm, Jeíel og Asaja með gígjur, til þess að syngja lægri raddirnar. 15.22 Kenanja, er var helstur levítanna við arkarburðinn, sá um arkarburðinn, því að hann bar skyn á það. 15.23 Berekía og Elkana voru hliðverðir arkarinnar. 15.24 Sebanja, Jósafat, Netaneel, Amasaí, Sakaría, Benaja og Elíeser prestar þeyttu lúðra frammi fyrir örk Guðs, og Óbeð Edóm og Jehía voru hliðverðir arkarinnar. 15.25 Davíð og öldungar Ísraels og þúsundhöfðingjarnir fóru til þess að flytja sáttmálsörk Drottins með fögnuði úr húsi Óbeð Edóms. 15.26 Og er Guð hjálpaði levítunum, er báru sáttmálsörk Drottins, fórnuðu þeir sjö nautum og sjö hrútum. 15.27 Og Davíð var klæddur baðmullarkyrtli, svo og allir levítarnir, er örkina báru, og söngmennirnir og Kenanja, burðarstjóri, æðstur söngmannanna, en Davíð bar línhökul. 15.28 Og allur Ísrael flutti sáttmálsörk Drottins upp eftir með fagnaðarópi og lúðurhljómi, með lúðrum og skálabumbum, og létu hljóma hörpur og gígjur. 15.29 En er sáttmálsörk Drottins kom í Davíðsborg, leit Míkal, dóttir Sáls, út um gluggann. Og er hún sá Davíð konung vera að hoppa og dansa, fyrirleit hún hann í hjarta sínu.
16.1 Og þeir fluttu örk Guðs inn og settu hana í tjaldið, sem Davíð hafði reisa látið yfir hana, og þeir færðu brennifórnir og heillafórnir. 16.2 Og er Davíð hafði fært brennifórnina og heillafórnirnar, blessaði hann lýðinn í nafni Drottins 16.3 og úthlutaði öllum Ísraelsmönnum, körlum sem konum, sinn brauðhleifinn hverjum, kjötstykki og rúsínuköku. 16.4 Davíð setti menn af levítum til þess að gegna þjónustu frammi fyrir örk Drottins og til þess að tigna, lofa og vegsama Drottin, Guð Ísraels. 16.5 Var Asaf helstur þeirra og honum næstur gekk Sakaría, þá Jeíel, Semíramót, Jehíel, Mattitja, Elíab, Benaja, Óbeð Edóm og Jeíel með hljóðfærum, hörpum og gígjum, en Asaf lét skálabumburnar kveða við, 16.6 og Benaja og Jehasíel prestar þeyttu stöðugt lúðrana frammi fyrir sáttmálsörk Guðs. 16.7 Á þeim degi fól Davíð í fyrsta sinni Asaf og frændum hans að syngja 'Lofið Drottin.' 16.8 Lofið Drottin, ákallið nafn hans, gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna! 16.9 Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum, talið um öll hans dásemdarverk. 16.10 Hrósið yður af hans helga nafni, hjarta þeirra, er leita Drottins, gleðjist. 16.11 Leitið Drottins og máttar hans, stundið sífellt eftir augliti hans. 16.12 Minnist dásemdarverka hans, þeirra er hann gjörði, tákna hans og refsidóma munns hans, 16.13 þér niðjar Ísraels, þjónar hans, þér synir Jakobs, hans útvöldu. 16.14 Hann er Drottinn, Guð vor, um víða veröld ganga dómar hans. 16.15 Hann minnist að eilífu sáttmála síns, orðs þess, er hann hefir gefið þúsundum kynslóða, 16.16 sáttmálans, er hann gjörði við Abraham, og eiðs síns við Ísak, 16.17 þess er hann setti sem lög fyrir Jakob, eilífan sáttmála fyrir Ísrael, 16.18 þá er hann mælti: 'Þér mun ég gefa Kanaanland sem erfðahlut þinn.' 16.19 Þegar þeir voru fámennur hópur, örfáir, og bjuggu þar sem útlendingar, 16.20 og fóru frá einni þjóð til annarrar, og frá einu konungsríki til annars lýðs, 16.21 leið hann engum að kúga þá og hegndi konungum þeirra vegna. 16.22 'Snertið eigi við mínum smurðu, og gjörið eigi spámönnum mínum mein.' 16.23 Syngið Drottni, öll lönd, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag. 16.24 Segið frá dýrð hans meðal heiðingjanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra þjóða. 16.25 Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, og óttalegur er hann öllum guðum framar. 16.26 Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en Drottinn hefir gjört himininn. 16.27 Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans, máttur og fögnuður í bústað hans. 16.28 Tjáið Drottni, þér þjóðakynkvíslir, tjáið Drottni vegsemd og vald. 16.29 Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, færið gjafir og komið fram fyrir hann. Fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða, 16.30 titrið fyrir honum, öll lönd. Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki. 16.31 Himinninn gleðjist og jörðin fagni, menn segi meðal heiðingjanna: 'Drottinn hefir tekið konungdóm!' 16.32 Hafið drynji og allt, sem í því er, foldin fagni og allt, sem á henni er. 16.33 Öll tré skógarins kveði fagnaðarópi fyrir Drottni, því að hann kemur til þess að dæma jörðina. 16.34 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu! 16.35 og segið: 'Hjálpa þú oss, Guð hjálpræðis vors. Safna þú oss saman og frelsa þú oss frá heiðingjunum, að vér megum lofa þitt heilaga nafn, víðfrægja lofstír þinn.' 16.36 Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð frá eilífð til eilífðar. Og allur lýður sagði: 'Amen!' og 'Lof sé Drottni!' 16.37 Og Davíð lét þá Asaf og frændur hans verða þar eftir frammi fyrir sáttmálsörk Drottins til þess að hafa stöðugt þjónustu á hendi frammi fyrir örkinni, eftir því sem á þurfti að halda dag hvern. 16.38 En Óbeð Edóm og frændur þeirra, sextíu og átta, Óbeð Edóm Jedítúnsson og Hósa, skipaði hann hliðverði. 16.39 Sadók prest og frændur hans, prestana, setti hann frammi fyrir bústað Drottins á hæðinni, sem er í Gíbeon, 16.40 til þess stöðugt að færa Drottni brennifórnir á brennifórnaraltarinu, kvelds og morgna, og að fara með öllu svo, sem skrifað er í lögmáli Drottins, því er hann lagði fyrir Ísrael. 16.41 Og með þeim voru þeir Heman, Jedútún og aðrir þeir er kjörnir voru, þeir er með nafni voru til þess kvaddir að lofa Drottin, því að miskunn hans varir að eilífu. 16.42 Og með þeim voru þeir Heman og Jedútún með lúðra og skálabumbur handa söngmönnunum og hljóðfæri fyrir söng guðsþjónustunnar. En þeir Jedútúnssynir voru hliðverðir. 16.43 Síðan fór allur lýðurinn burt, hver heim til sín, en Davíð hvarf aftur til þess að heilsa fólki sínu.
17.1 Svo bar til, þá er Davíð sat í höll sinni, að Davíð sagði við Natan spámann: 'Sjá, ég bý í höll af sedrusviði, en sáttmálsörk Drottins undir tjalddúkum.' 17.2 Natan svaraði Davíð: 'Gjör þú allt, sem þér er í hug, því að Guð er með þér.' 17.3 En hina sömu nótt kom orð Guðs til Natans: 17.4 'Far þú og seg Davíð þjóni mínum: Svo segir Drottinn: Eigi skalt þú reisa mér hús til að búa í. 17.5 Ég hefi ekki búið í húsi síðan er ég leiddi Ísraelsmenn út, allt fram á þennan dag, heldur ferðaðist ég í tjaldi og búð. 17.6 Alla þá stund, er ég hefi um farið meðal allra Ísraelsmanna, hefi ég þá sagt nokkurt orð í þá átt við nokkurn af dómurum Ísraels, þá er ég setti til að vera hirða lýðs míns: ,Hví reisið þér mér ekki hús af sedrusviði?` _ 17.7 Og nú skalt þú svo segja þjóni mínum Davíð: Svo segir Drottinn allsherjar: Ég tók þig úr haglendinu frá hjarðmennskunni og setti þig höfðingja yfir lýð minn Ísrael. 17.8 Ég hefi verið með þér í öllu, sem þú hefir tekið þér fyrir hendur, og upprætt alla óvini þína fyrir þér. Ég mun gjöra nafn þitt sem nafn hinna mestu manna, sem á jörðinni eru, 17.9 og fá lýð mínum Ísrael stað og gróðursetja hann þar, svo að hann geti búið á sínum stað og geti verið öruggur framvegis. Níðingar skulu eigi eyða honum framar eins og áður, 17.10 frá því er ég setti dómara yfir lýð minn Ísrael, og ég mun lægja alla fjandmenn þína. Og ég boða þér, að Drottinn mun reisa þér hús. 17.11 Þegar ævi þín er öll og þú gengur til feðra þinna, mun ég hefja afspring þinn eftir þig, einn af sonum þínum, og staðfesta konungdóm hans. 17.12 Hann skal reisa mér hús og ég mun staðfesta hásæti hans að eilífu. 17.13 Ég vil vera honum faðir og hann skal vera mér sonur, og miskunn mína mun ég ekki frá honum taka, eins og ég tók hana frá fyrirrennara þínum, 17.14 heldur mun ég setja hann yfir hús mitt og ríki að eilífu, og hásæti hans skal vera óbifanlegt um aldur.' 17.15 Natan flutti Davíð öll þessi orð og sagði honum sýn þessa alla. 17.16 Þá gekk Davíð konungur inn og settist niður frammi fyrir Drottni og mælti: 'Hver er ég, Drottinn Guð, og hvað er hús mitt, að þú skulir hafa leitt mig til þessa? 17.17 Og það nægði þér ekki, Guð, heldur hefir þú fyrirheit gefið um hús þjóns þíns langt fram í aldir, og það meira að segja á mannlegan hátt, Drottinn Guð. 17.18 En hvað má Davíð enn við þig mæla? Þú þekkir sjálfur þjón þinn. 17.19 Drottinn, sakir þjóns þíns og að þínum vilja hefir þú gjört þetta, að boða þjóni þínum alla þessa miklu hluti. 17.20 Drottinn, enginn er sem þú, og enginn er Guð nema þú, samkvæmt öllu því, er vér höfum heyrt með eyrum vorum. 17.21 Og hvaða þjóð önnur á jörðinni jafnast við þjóð þína Ísrael, að Guð hafi farið og keypt sér hana að eignarlýð, aflað sér frægðar og gjört fyrir hana mikla hluti og hræðilega: stökkt burt undan lýð sínum annarri þjóð og guði hennar? 17.22 Þú hefir gjört lýð þinn Ísrael að þínum lýð um aldur og ævi, og þú, Drottinn, gjörðist Guð þeirra. 17.23 Og lát nú, Drottinn, fyrirheit það, er þú hefir gefið um þjón þinn og um hús hans, standa stöðugt um aldur og ævi, og gjör þú svo sem þú hefir heitið. 17.24 Þá mun nafn þitt reynast traust og verða mikið að eilífu og hljóða svo: Drottinn allsherjar, Guð Ísraels, Ísraels Guð _ og hús þjóns þíns Davíðs mun stöðugt standa fyrir þér. 17.25 Því að þú, Guð minn, hefir birt þjóni þínum, að þú munir reisa honum hús. Fyrir því hafði þjónn þinn djörfung til að bera þessa bæn fram fyrir þig. 17.26 Og nú, Drottinn, þú ert Guð, og þú hefir gefið þjóni þínum þetta dýrlega fyrirheit, 17.27 virst þú nú að blessa hús þjóns þíns, svo að það sé til að eilífu fyrir þínu augliti. Því að það, sem þú, Drottinn, blessar, er blessað að eilífu.'
18.1 Eftir þetta vann Davíð sigur á Filistum og braut þá undir sig, og náði Gat og borgunum umhverfis hana úr höndum Filista. 18.2 Hann vann og sigur á Móabítum, og þannig urðu Móabítar skattskyldir þegnar Davíðs. 18.3 Davíð vann og sigur á Hadareser, konungi í Sóba, er liggur á leið til Hamat, þá er hann fór leiðangur til að festa ríki sitt við Efratfljót. 18.4 Vann Davíð af honum þúsund vagna, sjö þúsund riddara og tuttugu þúsundir fótgönguliðs. Lét Davíð skera sundur hásinarnar á öllum stríðshestunum og hélt aðeins einu hundraði eftir. 18.5 Þegar Sýrlendingar frá Damaskus komu til liðs við Hadareser, konung í Sóba, þá felldi Davíð tuttugu og tvö þúsund manns af Sýrlendingum. 18.6 Og Davíð setti landstjóra á Sýrlandi, því er kennt er við Damaskus, og urðu Sýrlendingar skattskyldir þegnar Davíðs. Þannig veitti Drottinn Davíð sigur, hvert sem hann fór. 18.7 Davíð tók og hina gullnu skjöldu, er þjónar Hadaresers höfðu borið, og flutti til Jerúsalem. 18.8 Auk þess tók Davíð afar mikið af eiri í Teba og Kún, borgum Hadaresers. Af því gjörði Salómon eirhafið, súlurnar og eiráhöldin. 18.9 Þegar Tóú, konungur í Hamat, frétti að Davíð hefði lagt að velli allan her Hadaresers, konungs í Sóba, 18.10 þá sendi Tóú Hadóram son sinn á fund Davíðs konungs til þess að heilsa á hann og árna honum heilla, er hann hafði barist við Hadareser og unnið sigur á honum, því að Tóú átti í ófriði við Hadareser. Og með honum sendi hann alls konar gripi af gulli, silfri og eiri. 18.11 Gripina helgaði Davíð konungur einnig Drottni, ásamt silfri því og gulli, er hann hafði haft á burt frá öllum þjóðum: frá Edóm, Móab, Ammónítum, Filistum og Amalek. 18.12 Og Abísaí Serújuson vann sigur á Edómítum í Saltdalnum, átján þúsundum manns. 18.13 Og hann setti landstjóra í Edóm, og allir Edómítar urðu þegnar Davíðs. En Drottinn veitti Davíð sigur, hvert sem hann fór. 18.14 Og Davíð ríkti yfir öllum Ísrael og lét alla þjóð sína njóta laga og réttar. 18.15 Jóab Serújuson var fyrir hernum og Jósafat Ahílúðsson var ríkisritari, 18.16 Sadók Ahítúbsson og Abímelek Abjatarsson voru prestar og Savsa kanslari. 18.17 Benaja Jójadason var fyrir Kretum og Pletum, og synir Davíðs voru hinir fyrstu við hönd konungi.
19.1 Eftir þetta bar svo til, að Nahas Ammónítakonungur andaðist, og tók Hanún sonur hans ríki eftir hann. 19.2 Þá sagði Davíð: 'Ég vil sýna Hanún Nahassyni vináttu, því að faðir hans sýndi mér vináttu.' Síðan sendi Davíð sendimenn til þess að hugga hann eftir föðurmissinn. En er þjónar Davíðs komu í land Ammóníta til Hanúns til þess að hugga hann, 19.3 þá sögðu höfðingjar Ammóníta við Hanún: 'Hyggur þú að Davíð vilji heiðra föður þinn, er hann gjörir menn á þinn fund til að hugga þig? Munu ekki þjónar hans vera komnir á þinn fund til þess að njósna í borginni og til þess að eyðileggja og kanna landið?' 19.4 Þá lét Hanún taka þjóna Davíðs og nauðraka þá og skera af þeim klæðin til hálfs, upp á þjóhnappa, og lét þá síðan fara. 19.5 Fóru menn þá og sögðu Davíð af mönnunum, og sendi hann þá á móti þeim _ því að mennirnir voru mjög svívirtir _ og konungur lét segja þeim: 'Verið í Jeríkó uns skegg yðar er vaxið, og komið síðan heim aftur.' 19.6 En er Ammónítar sáu, að þeir höfðu gjört sig illa þokkaða hjá Davíð, þá sendu þeir Hanún og Ammónítar þúsund talentur silfurs til þess að leigja sér vagna og riddara hjá Sýrlendingum í Mesópótamíu og hjá Sýrlendingum í Maaka og Sóba. 19.7 Leigðu þeir sér síðan þrjátíu og tvö þúsund vagna og konunginn í Maaka og lið hans, komu þeir og settu herbúðir fyrir framan Medeba. Og Ammónítar söfnuðust saman úr borgum sínum og komu til bardagans. 19.8 En er Davíð frétti það, sendi hann Jóab af stað með allan kappaherinn. 19.9 Ammónítar fóru og út og fylktu liði sínu við borgarhliðið, en konungarnir, er komnir voru, stóðu úti á víðavangi einir sér. 19.10 Þegar Jóab sá, að honum var búinn bardagi, bæði að baki og að framan, valdi hann úr öllu einvalaliði Ísraels og fylkti því á móti Sýrlendingum. 19.11 Hitt liðið fékk hann Abísaí bróður sínum, og fylktu þeir því á móti Ammónítum. 19.12 Og Jóab mælti: 'Ef Sýrlendingar bera mig ofurliði, þá verður þú að hjálpa mér, en ef Ammónítar bera þig ofurliði, mun ég hjálpa þér. 19.13 Vertu hughraustur og sýnum nú af oss karlmennsku fyrir þjóð vora og borgir Guðs vors, en Drottinn gjöri það sem honum þóknast.' 19.14 Síðan lagði Jóab og liðið, sem með honum var, til orustu við Sýrlendinga, og þeir flýðu fyrir honum. 19.15 En er Ammónítar sáu, að Sýrlendingar flýðu fyrir Jóab, lögðu þeir og á flótta fyrir Abísaí bróður hans og leituðu inn í borgina. En Jóab fór til Jerúsalem. 19.16 Þegar Sýrlendingar sáu, að þeir höfðu beðið ósigur fyrir Ísrael, þá sendu þeir menn og buðu út Sýrlendingum, sem voru hinumegin við Efrat, og Sófak, hershöfðingi Hadaresers, var fyrir þeim. 19.17 Og er Davíð var sagt frá því, þá safnaði hann saman öllum Ísrael, fór yfir Jórdan og kom til Helam, og fylkti í móti þeim. Sýrlendingar fylktu liði sínu í móti Davíð og börðust við hann. 19.18 En Sýrlendingar flýðu fyrir Ísrael, og Davíð felldi sjö þúsund vagnkappa og fjörutíu þúsund manns af fótgönguliði, og Sófak hershöfðingja drap hann. 19.19 En er þjónar Hadaresers sáu, að þeir höfðu beðið ósigur fyrir Ísrael, sömdu þeir frið við Davíð og gjörðust lýðskyldir honum. Upp frá því vildu Sýrlendingar eigi veita Ammónítum lið.
20.1 Á næsta ári, um það leyti er konungar fara í hernað, hélt Jóab út með liðinu og herjaði land Ammóníta. Og hann kom og settist um Rabba, en Davíð dvaldist í Jerúsalem. Og Jóab vann Rabba og braut hana. 20.2 Og Davíð tók kórónu Milkóms af höfði honum og komst að raun um, að hún vó talentu gulls, og í henni var dýrindis steinn. Davíð setti hana á höfuð sér og flutti mjög mikið herfang burt úr borginni. 20.3 Hann flutti og burt fólkið, sem þar var, og setti það við sagirnar, járnfleygana og axirnar, og svo fór Davíð með allar borgir Ammóníta. Síðan fór Davíð ásamt öllu liðinu aftur heim til Jerúsalem. 20.4 Seinna tókst enn orusta hjá Geser við Filista. Þá drap Sibbekaí Húsatíti Sippaí, einn af niðjum Refaíta, og urðu þeir að lúta í lægra haldi. 20.5 Og enn tókst orusta við Filista. Þá drap Elkanan Jaírsson Lahmí, bróður Golíats frá Gat. Spjótskaft hans var sem vefjarrifur. 20.6 Og er enn tókst orusta hjá Gat, var þar tröllaukinn maður, er hafði sex fingur á hvorri hendi og sex tær á hvorum fæti, tuttugu og fjögur að tölu. Var hann og kominn af Refaítum. 20.7 Hann smánaði Ísrael, en Jónatan, sonur Símea, bróður Davíðs, drap hann. 20.8 Þessir voru komnir af Refaítum í Gat, og féllu þeir fyrir Davíð og mönnum hans.
21.1 Satan hófst í gegn Ísrael og egndi Davíð til þess að telja Ísrael. 21.2 Þá mælti Davíð við Jóab og höfðingja lýðsins: 'Farið og teljið Ísrael frá Beerseba til Dan og látið mig vita það, svo að ég fái að vita tölu á þeim.' 21.3 Jóab svaraði: 'Drottinn margfaldi lýðinn _ hversu margir sem þeir nú kunna að vera _ hundrað sinnum. Þeir eru þó, minn herra konungur, allir þjónar herra míns. Hví æskir herra minn þessa? Hvers vegna á það að verða Ísrael til áfellis?' 21.4 En Jóab mátti eigi gjöra annað en það, sem konungur bauð. Lagði Jóab þá af stað og fór um allan Ísrael og kom síðan aftur til Jerúsalem. 21.5 Og Jóab sagði Davíð töluna, er komið hafði út við manntalið: Í öllum Ísrael voru ein milljón og hundrað þúsundir vopnaðra manna, og í Júda fjögur hundruð og sjötíu þúsundir vopnaðra manna. 21.6 En Leví og Benjamín taldi hann eigi, því að Jóab hraus hugur við skipun konungs. 21.7 En þetta verk var illt í augum Guðs, og laust hann Ísrael. 21.8 Þá sagði Davíð við Guð: 'Mjög hefi ég syndgað, er ég framdi þetta verk, en nú, tak þú burt misgjörð þjóns þíns, því að mjög óviturlega hefir mér til tekist.' 21.9 En Drottinn talaði til Gaðs, sjáanda Davíðs, á þessa leið: 21.10 'Far þú og mæl svo við Davíð: Svo segir Drottinn: Þrjá kosti set ég þér, kjós einn af þeim, og mun ég svo við þig gjöra.' 21.11 Þá gekk Gað til Davíðs og sagði við hann: 'Svo segir Drottinn: Kjós þér, 21.12 annaðhvort að hungur verði í þrjú ár, eða að þú verðir að flýja í þrjá mánuði fyrir óvinum þínum og sverð fjandmanna þinna nái þér, eða að sverð Drottins og drepsótt geisi í landinu í þrjá daga og engill Drottins valdi eyðingu í öllu Ísraelslandi. Hygg nú að, hverju ég eigi að svara þeim, er sendi mig.' 21.13 Davíð svaraði Gað: 'Ég er í miklum nauðum staddur. Falli ég þá í hendur Drottins, því að mikil er miskunn hans, en í manna hendur vil ég ekki falla.' 21.14 Drottinn lét þá drepsótt koma í Ísrael, og féllu sjötíu þúsundir manns af Ísrael. 21.15 Og Guð sendi engil til Jerúsalem til þess að eyða hana, og er hann var að eyða hana, leit Drottinn til og hann iðraði hins illa, og sagði við engilinn, er eyddi fólkinu: 'Nóg er að gjört! Drag nú að þér höndina!' En engill Drottins var þá hjá þreskivelli Ornans Jebúsíta. 21.16 Og Davíð hóf upp augu sín og sá engil Drottins standa milli himins og jarðar með brugðið sverð í hendi, er hann beindi gegn Jerúsalem. Þá féll Davíð og öldungarnir fram á andlit sér, klæddir hærusekkjum. 21.17 Og Davíð sagði við Guð: 'Var það eigi ég, er bauð að telja fólkið? Það er ég, sem hefi syndgað og breytt mjög illa, en þetta er hjörð mín, _ hvað hefir hún gjört? Drottinn, Guð minn, lát hönd þína leggjast á mig og ættmenn mína, en eigi á lýð þinn til þess að valda mannhruni.' 21.18 En engill Drottins bauð Gað að segja Davíð, að Davíð skyldi fara upp eftir til þess að reisa Drottni altari á þreskivelli Ornans Jebúsíta. 21.19 Og Davíð fór upp eftir að boði Gaðs, því er hann hafði talað í nafni Drottins. 21.20 Og er Ornan sneri sér við, sá hann konung koma og fjóra sonu hans með honum, en Ornan var að þreskja hveiti. 21.21 Og er Davíð kom til Ornans, leit Ornan upp og sá Davíð. Gekk hann þá út af þreskivellinum og laut á ásjónu sína til jarðar fyrir Davíð. 21.22 Þá mælti Davíð við Ornan: 'Lát þú þreskivöllinn af hendi við mig, svo að ég geti reist Drottni þar altari _ skalt þú selja mér það fullu verði _ og plágunni megi létta af lýðnum.' 21.23 Ornan svaraði Davíð: 'Tak þú það. Minn herra konungurinn gjöri sem honum þóknast. Sjá, ég gef nautin til brennifórnar og þreskisleðana til eldiviðar og hveitið til matfórnar, allt gef ég það.' 21.24 En Davíð konungur sagði við Ornan: 'Eigi svo, en kaupa vil ég það fullu verði, því að eigi vil ég taka það sem þitt er Drottni til handa og færa brennifórn, er ég hefi kauplaust þegið.' 21.25 Síðan greiddi Davíð Ornan sex hundruð sikla gulls fyrir völlinn. 21.26 Og Davíð reisti Drottni þar altari og fórnaði brennifórnum og heillafórnum, og er hann ákallaði Drottin, svaraði hann honum með því að senda eld af himnum á brennifórnaraltarið. 21.27 Og Drottinn bauð englinum að slíðra sverð sitt. 21.28 Þá er Davíð sá, að Drottinn svaraði honum á þreskivelli Ornans Jebúsíta, þá færði hann þar fórnir. 21.29 En bústaður Drottins, er Móse hafði gjört í eyðimörkinni, og brennifórnaraltarið voru um það leyti á hæðinni í Gíbeon. 21.30 En Davíð gat eigi gengið fram fyrir það til þess að leita Guðs, því að hann var hræddur við sverð engils Drottins.
22.1 Og Davíð mælti: 'Þetta sé hús Drottins Guðs, og þetta sé altari fyrir brennifórnir Ísraels.' 22.2 Og Davíð bauð að stefna saman útlendingum þeim, er voru í Ísraelslandi, og hann setti steinhöggvara til þess að höggva til steina, til þess að reisa af musteri Guðs. 22.3 Davíð dró og að afar mikið af járni í nagla á hliðhurðirnar og í spengurnar, og svo mikið af eiri, að eigi varð vegið, 22.4 og sedrustré, svo að eigi varð tölu á komið, því að Sídoningar og Týrverjar færðu Davíð afar mikið af sedrustrjám. 22.5 Davíð hugsaði með sér: 'Salómon sonur minn er ungur og óþroskaður, en musterið, er Drottni á að reisa, á að vera afar stórt, til frægðar og prýði um öll lönd. Ég ætla því að viða að til þess.' Og Davíð viðaði afar miklu að fyrir andlát sitt. 22.6 Síðan kallaði hann Salómon son sinn, og fól honum að reisa musteri Drottni, Guði Ísraels. 22.7 Og Davíð mælti við Salómon: 'Sonur minn! Ég hafði í hyggju að reisa musteri nafni Drottins, Guðs míns. 22.8 En orð Drottins kom til mín, svolátandi: Þú hefir úthellt miklu blóði og háð miklar orustur. Þú skalt eigi reisa musteri nafni mínu, því að miklu blóði hefir þú hellt til jarðar fyrir augliti mínu. 22.9 En þér mun sonur fæðast. Hann mun verða kyrrlátur maður, og ég mun veita honum ró fyrir öllum fjandmönnum hans allt um kring, því að Salómon skal hann heita, og ég mun veita frið og kyrrð í Ísrael um hans daga. 22.10 Hann skal reisa musteri nafni mínu, hann skal vera mér sonur og ég honum faðir, og ég mun staðfesta konungsstól hans yfir Ísrael að eilífu. 22.11 Drottinn sé nú með þér, sonur minn, svo að þú verðir auðnumaður og reisir musteri Drottins, Guðs þíns, eins og hann hefir um þig heitið. 22.12 Veiti Drottinn þér aðeins hyggindi og skilning og skipi þig yfir Ísrael, og að þú megir varðveita lögmál Drottins, Guðs þíns. 22.13 Þá munt þú auðnumaður verða, ef þú varðveitir setninga þá og boðorð og breytir eftir þeim, er Drottinn lagði fyrir Móse um Ísrael. Ver þú hughraustur og öruggur! Óttast ekki og ver hvergi hræddur. 22.14 Sjá, þrátt fyrir þrautir mínar hefi ég dregið að til musteris Drottins hundrað þúsund talentur gulls, milljón talentur silfurs, og svo mikið af eiri og járni, að eigi verður vegið, því að afar mikið er af því. Viða og steina hefi ég einnig aflað, og mátt þú þar enn við auka. 22.15 Með þér er og margt starfsmanna, steinhöggvarar, steinsmiðir og trésmiðir og alls konar hagleiksmenn til alls konar smíða 22.16 af gulli, silfri, eiri og járni, er eigi verður tölu á komið. Upp nú, og tak til starfa og Drottinn sé með þér.' 22.17 Og Davíð bauð öllum höfðingjum Ísraels að liðsinna Salómon syni sínum og mælti: 22.18 'Drottinn Guð yðar er með yður og hefir veitt yður frið allt um kring, því að hann hefir selt frumbyggja landsins mér á vald, og landið er undirokað fyrir augliti Drottins og fyrir augliti lýðs hans. 22.19 Beinið þá hjörtum yðar og hug yðar að því að leita Drottins, Guðs yðar. Takið yður til og reisið helgidóm Drottins Guðs, svo að þér getið flutt sáttmálsörk Drottins og hin helgu áhöld Guðs í musterið, er reisa á nafni Drottins.'
23.1 Þá er Davíð var gamall orðinn og saddur lífdaga, gjörði hann Salómon son sinn að konungi yfir Ísrael. 23.2 Og hann stefndi saman öllum höfðingjum Ísraels, prestunum og levítunum. 23.3 Levítarnir voru taldir, þrítugir og þaðan af eldri, og höfðatala þeirra var þrjátíu og átta þúsund karlmenn. 23.4 'Af þeim skulu tuttugu og fjögur þúsund vera fyrir verkum við hús Drottins, sex þúsund skulu vera embættismenn og dómarar, 23.5 fjögur þúsund hliðverðir, og fjögur þúsund skulu lofa Drottin með áhöldum þeim, er ég hefi látið gjöra til þess að vegsama með,' sagði Davíð. 23.6 Davíð skipti þeim í flokka eftir þeim Gerson, Kahat og Merarí, Levísonum. 23.7 Til Gersonsniðja töldust Laedan og Símeí. 23.8 Synir Laedans voru: Jehíel, er var fyrir þeim, Setam og Jóel, þrír alls. 23.9 Synir Símeí voru: Selómít, Hasíel og Haran, þrír alls. Voru þeir ætthöfðingjar Laedansættar. 23.10 Og synir Símeí: Jahat, Sína, Jeús og Bería. Þessir voru synir Símeí, fjórir alls. 23.11 Var Jahat fyrir þeim, þá Sína, en Jeús og Bería áttu eigi margt barna, svo að þeir töldust ein ætt, einn flokkur. 23.12 Synir Kahats: Amram, Jísehar, Hebron og Ússíel, fjórir alls. 23.13 Synir Amrams: Aron og Móse. En Aron var greindur frá hinum, til þess að hann skyldi verða vígður sem háheilagur ásamt sonum sínum, um aldur og ævi, til þess að þeir skyldu brenna reykelsi frammi fyrir Drottni, þjóna honum og lofa nafn hans um aldur og ævi. 23.14 Og að því er snertir guðsmanninn Móse, þá voru synir hans taldir til Levíkynkvíslar. 23.15 Synir Móse voru Gersóm og Elíeser. 23.16 Sonur Gersóms: Sebúel höfðingi. 23.17 En sonur Elíesers var Rehabja höfðingi. Aðra sonu átti Elíeser eigi, en synir Rehabja voru afar margir. 23.18 Sonur Jísehars: Selómít höfðingi. 23.19 Synir Hebrons: Jería höfðingi, annar Amarja, þriðji Jehasíel, fjórði Jekameam. 23.20 Synir Ússíels: Míka höfðingi, annar Jissía. 23.21 Synir Merarí: Mahlí og Músí. Synir Mahlí: Eleasar og Kís. 23.22 En Eleasar dó svo, að hann átti enga sonu, heldur dætur einar, og tóku þeir Kíssynir, frændur þeirra, þær sér að konum. 23.23 Synir Músí voru: Mahlí, Eder og Jeremót, þrír alls. 23.24 Þessir eru þeir Levíniðjar eftir ættum þeirra, ætthöfðingjar þeir, er taldir voru af þeim, eftir nafnatölu og höfða, er höfðu það starf á hendi að þjóna í musteri Drottins, tvítugir og þaðan af eldri. 23.25 Davíð mælti: 'Drottinn, Guð Ísraels, hefir veitt lýð sínum hvíld, og býr nú að eilífu í Jerúsalem. 23.26 Levítarnir þurfa því ekki lengur að bera búðina og öll þau áhöld, er að starfi hennar lúta.' ( 23.27 Því að eftir síðustu fyrirmælum Davíðs voru levítar taldir, tvítugir og þaðan af eldri). 23.28 Embætti þeirra er að aðstoða Aronsniðja, gegna þjónustu við musteri Drottins, hafa umsjón með forgörðunum og klefunum og ræstingu á öllum hinum helgu munum, og gegna störfunum við hús Guðs, 23.29 annast um raðsettu brauðin, hveitimjölið í matfórnirnar, hin ósýrðu flatbrauð, pönnuna og hið samanhrærða, og hvers konar mæli og stiku, 23.30 og að koma fram á hverjum morgni til þess að lofa og vegsama Drottin, og eins á kveldin, 23.31 og að færa Drottni hverja brennifórn á hvíldardögum, tunglkomudögum og löghátíðum, allar þær, sem ákveðið er að stöðugt skuli færa Drottni. 23.32 Hafa þeir störf á hendi við samfundatjaldið og störf við helgidóminn og störf hjá Aronsniðjum, frændum sínum, við þjónustuna í musteri Drottins.
24.1 Aronsniðjar höfðu og flokkaskipun fyrir sig. Synir Arons voru: Nadab, Abíhú, Eleasar og Ítamar. 24.2 En Nadab og Abíhú dóu á undan föður sínum og áttu eigi sonu, og urðu svo þeir Eleasar og Ítamar prestar. 24.3 Og þeir Davíð og Sadók af Eleasarsniðjum og Ahímelek af Ítamarsniðjum skiptu þeim niður í starfsflokka eftir embættum þeirra. 24.4 En það kom í ljós, að af Eleasarsniðjum voru fleiri höfðingjar en af Ítamarsniðjum. Fyrir því skiptu menn þeim svo, að af Eleasarsniðjum urðu sextán ætthöfðingjar, en átta af Ítamarsniðjum. 24.5 Og hvorum tveggja skiptu menn eftir hlutkesti, því að helgidómshöfðingjar og Guðs höfðingjar voru af niðjum Eleasars og af niðjum Ítamars. 24.6 Og Semaja Netaneelsson ritari, einn af levítum, skráði þá í viðurvist konungs og höfðingjanna og Sadóks prests og Ahímeleks Abjatarssonar og ætthöfðingja prestanna og levítanna. Var ein ætt tekin frá af Eleasar og ein af Ítamar. 24.7 Fyrsti hluturinn féll á Jójaríb, annar á Jedaja, 24.8 þriðji á Harím, fjórði á Seórím, 24.9 fimmti á Malkía, sjötti á Mijamín, 24.10 sjöundi á Hakkos, áttundi á Abía, 24.11 níundi á Jesúa, tíundi á Sekanja, 24.12 ellefti á Eljasíb, tólfti á Jakím, 24.13 þrettándi á Húppa, fjórtándi á Jesebeab, 24.14 fimmtándi á Bilga, sextándi á Immer, 24.15 seytjándi á Hesír, átjándi á Happísses, 24.16 nítjándi á Pelashja, tuttugasti á Jeheskel, 24.17 tuttugasti og fyrsti á Jakín, tuttugasti og annar á Gamúl, 24.18 tuttugasti og þriðji á Delaja, tuttugasti og fjórði á Maasja. 24.19 Er það starfskvöð þeirra að fara inn í musteri Drottins, eftir þeim reglum, er Aron forfaðir þeirra hafði sett, samkvæmt því, er Drottinn, Guð Ísraels, hafði boðið honum. 24.20 En að því er snertir aðra niðja Leví, þá voru af Amramsniðjum Súbael, af Súbaelsniðjum Jehdeja, 24.21 af Rehabja, af Rehabjaniðjum Jissía höfðingi, 24.22 af Jíseharítum Selómót, af Selómótsniðjum Jahat, 24.23 en af niðjum Hebrons: Jería höfðingi, annar Amarja, þriðji Jehasíel, fjórði Jekameam. 24.24 Niðjar Ússíels voru: Míka, af niðjum Míka var Samír. 24.25 Bróðir Míka var Jissía, af niðjum Jissía var Sakaría. 24.26 Niðjar Merarí voru Mahlí og Músí og niðjar Jaasía, sonar hans. 24.27 Niðjar Merarí frá Jaasía syni hans voru: Sóham, Sakkúr og Íbrí. 24.28 Frá Mahlí var Eleasar kominn. Hann átti eigi sonu. 24.29 Frá Kís: Synir Kís: Jerahmeel. 24.30 Niðjar Músí voru: Mahlí, Eder og Jerímót. Þessir voru niðjar levíta eftir ættum þeirra. 24.31 Þeir vörpuðu og hlutkesti, eins og frændur þeirra, Aronsniðjar, í viðurvist Davíðs konungs og Sadóks og Ahímeleks og ætthöfðingja prestanna og levítanna, ætthöfðingjarnir eins og yngri frændur þeirra.
25.1 Þeir Davíð og hershöfðingjarnir tóku og frá til þjónustu niðja Asafs, Hemans og Jedútúns, er að spámannahætti lofuðu Guð með gígjum, hörpum og skálabumbum. Og tala þeirra, er starf höfðu við þessa þjónustu, var: 25.2 Af Asafsniðjum: Sakkúr, Jósef, Netanja og Asarela, synir Asafs, undir stjórn Asafs, er lék eins og spámaður eftir fyrirsögn konungs. 25.3 Af Jedútún: Synir Jedútúns: Gedalja, Serí, Jesaja, Hasabja, Mattitja, Símeí, sex alls, undir stjórn Jedútúns föður síns, er lék á gígju eins og spámaður, þá er lofa skyldi Drottin og vegsama hann. 25.4 Af Heman: Synir Hemans: Búkkía, Mattanja, Ússíel, Sebúel, Jerímót, Hananja, Hananí, Elíata, Giddaltí, Rómamtí Eser, Josbekasa, Mallótí, Hótír, Mahasíót. 25.5 Allir þessir voru synir Hemans, sjáanda konungs, er horn skyldu hefja að boði Guðs. Og Guð gaf Heman fjórtán sonu og þrjár dætur. 25.6 Allir þessir voru við sönginn í musteri Drottins undir stjórn föður þeirra með skálabumbur, hörpur og gígjur til þess að gegna þjónustu í musteri Guðs undir forustu konungs, Asafs, Jedútúns og Hemans. 25.7 Og talan á þeim og frændum þeirra, er lærðir voru í ljóðum Drottins, og allir voru vel að sér, var tvö hundruð áttatíu og átta. 25.8 Og þeir vörpuðu hlutkesti um starfið, yngri sem eldri, kennarar sem lærisveinar. 25.9 Fyrsti hlutur fyrir Asaf féll á Jósef, sonu hans og bræður, tólf alls, annar á Gedalja, sonu hans og bræður, tólf alls, 25.10 þriðji á Sakkúr, sonu hans og bræður, tólf alls, 25.11 fjórði á Jísrí, sonu hans og bræður, tólf alls, 25.12 fimmti á Netanja, sonu hans og bræður, tólf alls, 25.13 sjötti á Búkkía, sonu hans og bræður, tólf alls, 25.14 sjöundi á Jesarela, sonu hans og bræður, tólf alls, 25.15 áttundi á Jesaja, sonu hans og bræður, tólf alls, 25.16 níundi á Mattanja, sonu hans og bræður, tólf alls, 25.17 tíundi á Símeí, sonu hans og bræður, tólf alls, 25.18 ellefti á Asareel, sonu hans og bræður, tólf alls, 25.19 tólfti á Hasabja, sonu hans og bræður, tólf alls, 25.20 þrettándi á Súbael, sonu hans og bræður, tólf alls, 25.21 fjórtándi á Mattitja, sonu hans og bræður, tólf alls, 25.22 fimmtándi á Jeremót, sonu hans og bræður, tólf alls, 25.23 sextándi á Hananja, sonu hans og bræður, tólf alls, 25.24 seytjándi á Josbekasa, sonu hans og bræður, tólf alls, 25.25 átjándi á Hananí, sonu hans og bræður, tólf alls, 25.26 nítjándi á Mallótí, sonu hans og bræður, tólf alls, 25.27 tuttugasti á Elíjata, sonu hans og bræður, tólf alls, 25.28 tuttugasti og fyrsti á Hótír, sonu hans og bræður, tólf alls, 25.29 tuttugasti og annar á Giddaltí, sonu hans og bræður, tólf alls, 25.30 tuttugasti og þriðji á Mahasíót, sonu hans og bræður, tólf alls, 25.31 tuttugasti og fjórði á Rómamtí Eser, sonu hans og bræður, tólf alls.
26.1 Að því er snertir hliðvarðaflokkana, þá voru þar af Kóraítum: Meselemja Kóreson af Asafsniðjum. 26.2 En synir Meselemja voru: Sakaría, frumgetningurinn, annar Jedíael, þriðji Sebadja, fjórði Jatníel, 26.3 fimmti Elam, sjötti Jóhanan, sjöundi Elíóenaí. 26.4 Synir Óbeð Edóms voru: Semaja, frumgetningurinn, annar Jósabad, þriðji Jóa, fjórði Sakar, fimmti Netaneel, 26.5 sjötti Ammíel, sjöundi Íssakar, áttundi Pegúlletaí, því að Guð hafði blessað hann. 26.6 En Semaja, syni hans, fæddust og synir, er réðu í ættum sínum, því að þeir voru hinir röskustu menn. 26.7 Synir Semaja voru: Otní, Refael, Óbeð og Elsabat. Bræður þeirra voru Elíhú og Semakja, dugandi menn. 26.8 Allir þessir voru af niðjum Óbeð Edóms, þeir og synir þeirra og bræður, dugandi menn, vel hæfir til þjónustunnar, sextíu og tveir alls frá Óbeð Edóm. 26.9 Meselemja átti og sonu og bræður, dugandi menn, átján alls. 26.10 Synir Hósa, er var af Meraríniðjum, voru: Simrí höfðingi; þótt eigi væri hann frumgetningurinn, þá gjörði faðir hans hann að höfðingja; 26.11 annar Hilkía, þriðji Tebalja, fjórði Sakaría. Synir og bræður Hósa voru þrettán alls. 26.12 Þessum hliðvarðaflokkum eftir ætthöfðingjum hlotnaðist starf við þjónustuna í húsi Drottins, þeim sem frændum þeirra. 26.13 Og menn vörpuðu hlutkesti um hvert hlið fyrir sig, eftir ættum, yngri sem eldri. 26.14 Fyrir hliðið gegnt austri féll hluturinn á Selemja. Menn vörpuðu og hlutkesti fyrir Sakaría son hans, hygginn ráðgjafa, og féll hans hlutur á hliðið gegnt norðri, 26.15 fyrir Óbeð Edóm gegnt suðri, og fyrir son hans á geymsluhúsið, 26.16 fyrir Súppím og Hósa gegnt vestri við Sallekethliðið, við götuna, sem liggur upp eftir, hver varðstöðin við aðra. 26.17 Við hliðið gegnt austri voru sex levítar, gegnt norðri fjórir dag hvern, gegnt suðri fjórir dag hvern, og við geymsluhúsið tveir og tveir. 26.18 Við Parbar gegnt vestri: fjórir fyrir götuna, tveir fyrir Parbar. 26.19 Þessir eru hliðvarðaflokkarnir af Kóraítaniðjum og af Meraríniðjum. 26.20 Levítar frændur þeirra höfðu umsjón með fjársjóðum Guðs húss og með helgigjafafjársjóðunum. 26.21 Niðjar Laedans, niðjar Gersoníta, Laedans, ætthöfðingjar Laedansættar Gersoníta, Jehíelítar, 26.22 niðjar Jehíelíta, Setam og Jóel bróðir hans höfðu umsjón með fjársjóðum í húsi Drottins. 26.23 Að því er snertir Amramíta, Jíseharíta, Hebroníta og Ússíelíta, 26.24 þá var Sebúel Gersómsson, Mósesonar, yfirumsjónarmaður yfir fjársjóðunum. 26.25 Og að því er snertir frændur þeirra frá Elíeser, þá var Rehabja sonur hans, hans son Jesaja, hans son Jóram, hans son Sikrí, hans son Selómít. 26.26 Höfðu þeir Selómít þessi og bræður hans umsjón með öllum helgigjafafjársjóðunum, þeim er Davíð konungur og ætthöfðingjarnir, þúsundhöfðingjarnir og hundraðshöfðingjarnir og herforingjarnir höfðu helgað _ 26.27 úr ófriði og af herfangi höfðu þeir helgað það til þess að endurbæta með musteri Drottins, 26.28 og allt, er Samúel sjáandi, Sál Kísson, Abner Nersson og Jóab Serújuson höfðu helgað, allt hið helgaða, var undir umsjón Selómíts og bræðra hans. 26.29 Af Jíseharítum höfðu þeir Kenanja og synir hans á hendi hin veraldlegu störf í Ísrael, sem embættismenn og dómarar. 26.30 Af Hebronítum höfðu þeir Hasabja og frændur hans, dugandi menn, seytján hundruð alls, á hendi stjórnarstörf Ísraels hérna megin Jórdanar, að vestanverðu. Stóðu þeir fyrir öllum störfum Drottins og þjónustu konungs. 26.31 Til Hebroníta taldist Jería, höfðingi Hebroníta eftir kyni þeirra og ættum _ voru þeir kannaðir á fertugasta ríkisári Davíðs, og fundust meðal þeirra hinir röskustu menn í Jaser í Gíleað _ 26.32 og frændur hans, röskir menn, tvö þúsund og sjö hundruð ætthöfðingjar alls. Setti Davíð konungur þá yfir Rúbensniðja, Gaðsniðja og hálfa kynkvísl Manasseniðja, að því er snertir öll erindi Guðs og erindi konungsins.
27.1 Þessir eru Ísraelsmenn eftir tölu þeirra, ætthöfðingjar, þúsundhöfðingjar, hundraðshöfðingjar og starfsmenn þeirra, er þjónuðu konungi í öllum flokkastörfum, er komu og fóru mánuð eftir mánuð, alla mánuði ársins. Voru í flokki hverjum tuttugu og fjögur þúsund manns. 27.2 Yfir fyrsta flokki, í fyrsta mánuði, var Jasóbeam Sabdíelsson, og voru tuttugu og fjögur þúsund manns í flokki hans. 27.3 Var hann af Peresniðjum og fyrir öllum herforingjum í fyrsta mánuði. 27.4 Yfir flokki annars mánaðarins var Eleasar Dódaíson, Ahóhíti. Fyrir flokki hans var höfðinginn Miklót, og voru tuttugu og fjögur þúsund manns í flokki hans. 27.5 Þriðji hershöfðinginn, í þriðja mánuðinum, var Benaja, sonur Jójada prests, höfðingi, og voru tuttugu og fjögur þúsund manns í flokki hans. 27.6 Var Benaja þessi kappi meðal þeirra þrjátíu og fyrir þeim þrjátíu. Var Ammísabad sonur hans fyrir flokki hans. 27.7 Fjórði var Asahel, bróðir Jóabs, fjórða mánuðinn, og eftir hann Sebadja sonur hans. Voru tuttugu og fjögur þúsund manns í flokki hans. 27.8 Fimmti hershöfðinginn var Samhút Jísraíti, fimmta mánuðinn. Voru tuttugu og fjögur þúsund manns í flokki hans. 27.9 Sjötti var Íra Íkkesson frá Tekóa, sjötta mánuðinn. Voru tuttugu og fjögur þúsund manns í flokki hans. 27.10 Sjöundi var Heles Pelóníti af Efraímsniðjum, sjöunda mánuðinn. Voru tuttugu og fjögur þúsund manns í flokki hans. 27.11 Áttundi var Sibbekaí Húsatíti af Seraítum, áttunda mánuðinn. Voru tuttugu og fjögur þúsund manns í flokki hans. 27.12 Níundi var Abíeser frá Anatót af Benjamínsniðjum, níunda mánuðinn. Voru tuttugu og fjögur þúsund manns í flokki hans. 27.13 Tíundi var Maharaí frá Netófa af Seraítum, tíunda mánuðinn. Voru tuttugu og fjögur þúsund manns í flokki hans. 27.14 Ellefti var Benaja frá Píraton af Efraímsniðjum, ellefta mánuðinn. Voru tuttugu og fjögur þúsund manns í flokki hans. 27.15 Tólfti var Heldaí frá Netófa af ætt Otníels, tólfta mánuðinn, og voru tuttugu og fjögur þúsund manns í flokki hans. 27.16 Þessir voru yfir kynkvíslum Ísraels: Af Rúbensniðjum var höfðingi Elíeser Síkríson. Af Símeonsniðjum Sefatja Maakason. 27.17 Af Leví Hasabja Kemúelsson. Af Aron Sadók. 27.18 Af Júda Elíhú, einn af bræðrum Davíðs. Af Íssakar Omrí Míkaelsson. 27.19 Af Sebúlon Jismaja Óbadíason. Af Naftalí Jerímót Asríelsson. 27.20 Af Efraímsniðjum Hósea Asasjason. Af hálfri Manassekynkvísl Jóel Pedajason. 27.21 Af hálfri Manassekynkvísl í Gíleað Íddó Sakaríason. Af Benjamín Jaasíel Abnersson. 27.22 Af Dan Asareel Jeróhamsson. Þessir voru höfðingjar Ísraelskynkvísla. 27.23 En Davíð lét ekki telja þá, er yngri voru en tvítugir, því að Drottinn hafði heitið því að gjöra Ísraelsmenn marga sem stjörnur himins. 27.24 Hafði Jóab Serújuson byrjað á að telja, en eigi lokið við, því að sakir þessa kom reiði yfir Ísrael, og talan var eigi skráð með tölunum í árbókum Davíðs konungs. 27.25 Asmavet Adíelsson hafði umsjón með fjársjóðum konungs og Jónatan Ússíasson með eignunum á mörkinni, í borgunum, þorpunum og köstulunum. 27.26 Esrí Kelúbsson hafði umsjón með jarðyrkjumönnum, er störfuðu að akuryrkju, 27.27 Símeí frá Rama yfir víngörðunum, og Sabdí Sifmíti yfir vínforðanum í víngörðunum, 27.28 Baal Hanan frá Geder yfir olíutrjánum og mórberjatrjánum á láglendinu og Jóas yfir olíuforðanum. 27.29 Yfir nautunum, er gengu á Saron, hafði Sítraí frá Saron umsjón, yfir nautunum, er gengu í dölunum, Safat Adlaíson, 27.30 yfir úlföldunum Óbíl Ísmaelíti, yfir ösnunum Jehdeja frá Merónót, 27.31 yfir sauðfénaðinum Jasis Hagríti. Allir þessir voru umráðamenn yfir eignum Davíðs konungs. 27.32 Jónatan, föðurbróðir Davíðs, var ráðgjafi. Var hann vitur maður og fróður. Jehíel Hakmóníson var með sonum konungs, 27.33 Akítófel var ráðgjafi konungs og Húsaí Arkíti var stallari konungs. 27.34 Næstur Akítófel gekk Jójada Benajason og Abjatar. Jóab var hershöfðingi konungs.
28.1 Davíð stefndi til Jerúsalem öllum höfðingjum Ísraels, höfðingjum fyrir kynkvíslunum og flokkshöfðingjunum, þeim er konungi þjónuðu, þúsundhöfðingjunum og hundraðshöfðingjunum og ráðsmönnum yfir öllum eignum og fénaði konungs og sona hans, og auk þess hirðmönnunum og köppunum og öllum röskum mönnum. 28.2 Þá stóð Davíð konungur upp og mælti: 'Hlustið á mig, þér bræður mínir og lýður minn! Ég hafði í hyggju að reisa hvíldarstað fyrir sáttmálsörk Drottins og fyrir fótskör Guðs vors, og dró að föng til byggingarinnar. 28.3 En Guð sagði við mig: ,Þú skalt eigi reisa hús nafni mínu, því að þú ert bardagamaður og hefir úthellt blóði.` 28.4 Drottinn Guð Ísraels kaus mig af allri ætt minni, að ég skyldi ævinlega vera konungur yfir Ísrael. Því að Júda hefir hann kjörið til þjóðhöfðingja, og í ættkvísl Júda ætt mína, og meðal sona föður míns þóknaðist honum að gjöra mig að konungi yfir öllum Ísrael. 28.5 Og af öllum sonum mínum _ því að Drottinn hefir gefið mér marga sonu _ kaus hann Salómon son minn, að hann skyldi sitja á konungsstóli Drottins yfir Ísrael. 28.6 Hann sagði við mig: ,Salómon sonur þinn, hann skal reisa musteri mitt og forgarða mína, því að hann hefi ég kjörið mér fyrir son, og ég vil vera honum faðir. 28.7 Og ég mun staðfesta konungdóm hans að eilífu, ef hann stöðugt heldur boð mín og fyrirskipanir, eins og nú.` 28.8 Og nú, að öllum Ísrael ásjáanda, frammi fyrir söfnuði Drottins og í áheyrn Guðs vors: Varðveitið kostgæfilega öll boðorð Drottins, Guðs yðar, að þér megið eiga þetta góða land og láta það ganga að erfðum til niðja yðar um aldur og ævi. 28.9 Og þú, Salómon, sonur minn, lær að þekkja Guð föður þíns og þjóna honum af öllu hjarta og með fúsu geði, því að Drottinn rannsakar öll hjörtu og þekkir allar hugrenningar. Ef þú leitar hans, mun hann gefa þér kost á að finna sig; ef þú yfirgefur hann, mun hann útskúfa þér um aldur. 28.10 Gæt nú að, því að Drottinn hefir kjörið þig til þess að reisa helgidómshús. Gakk öruggur að verki.' 28.11 Síðan fékk Davíð Salómon syni sínum fyrirmynd að forsalnum og herbergjum hans, fjárhirslum, loftherbergjum, innherbergjum og arkarherberginu, 28.12 svo og fyrirmynd að öllu því, er hann hafði í huga: að forgörðum musteris Drottins og herbergjunum allt í kring, féhirslum Guðs húss og fjárhirslunum fyrir helgigjafirnar, 28.13 áætlun um flokka prestanna og levítanna og öll embættisstörf í musteri Drottins, og um öll þjónustuáhöld í musteri Drottins, 28.14 og áætlun um þyngd gullsins, sem á þurfti að halda í öll áhöld við hvers konar embættisstörf; og um þyngd silfuráhaldanna, sem á þurfti að halda við hvers konar embættisstörf; 28.15 og um efnið í gullstjakana og gulllampana, er á þeim voru, eftir þyngd hvers stjaka og lampa hans; og um efnið í silfurstjakana eftir þyngd hvers stjaka og lampa hans, eftir því sem hver stjaki var ætlaður til; 28.16 og um þyngd gullsins í hvert af borðunum fyrir raðsettu brauðin; og um silfrið í silfurborðin; 28.17 og um þyngd soðkrókanna og fórnarskálanna og bollanna úr skíru gulli og þyngd gullbikaranna og silfurbikaranna, hvers fyrir sig; 28.18 og um þyngd reykelsisaltarisins úr hreinsuðu gulli. Og hann fékk honum fyrirmynd að vagninum, gullkerúbunum, er breiddu út vængina og huldu sáttmálsörk Drottins. 28.19 'Allt þetta,' kvað Davíð, 'er skráð í riti frá hendi Drottins. Hann hefir frætt mig um öll störf, er vinna á eftir fyrirmyndinni.' 28.20 Síðan mælti Davíð við Salómon son sinn: 'Ver hughraustur og öruggur og kom þessu til framkvæmdar. Óttast ekki og lát eigi hugfallast, því að Drottinn Guð, Guð minn, mun vera með þér. Hann mun eigi sleppa af þér hendinni og eigi yfirgefa þig, uns lokið er öllum störfum til þjónustugjörðar í musteri Drottins. 28.21 Hér eru og prestaflokkar og levíta til alls konar þjónustu við musteri Guðs, og hjá þér eru menn til alls konar starfa, verkhyggnir menn, fúsir til allra starfa, og enn fremur hlýða höfðingjarnir og allur lýðurinn öllum skipunum þínum.'
29.1 Davíð konungur mælti til alls safnaðarins: 'Salómon sonur minn, hinn eini, er Guð hefir kjörið, er ungur og óreyndur, en starfið er mikið, því að eigi er musteri þetta manni ætlað, heldur Drottni Guði. 29.2 Ég hefi af öllum mætti dregið að fyrir musteri Guðs míns, gull í gulláhöldin, silfur í silfuráhöldin, eir í eiráhöldin, járn í járnáhöldin og tré í tréáhöldin, sjóamsteina og steina til að greypa inn, gljásteina og mislita steina, alls konar dýra steina og afar mikið af alabastursteinum. 29.3 Enn fremur vil ég, sakir þess að ég hefi mætur á musteri Guðs míns, gefa það, er ég á af gulli og silfri, til musteris Guðs míns, auk alls þess, er ég hefi dregið að fyrir helgidóminn: 29.4 Þrjú þúsund talentur af gulli og það af Ófírgulli, sjö þúsund talentur af skíru silfri til þess að klæða með veggina í herbergjunum 29.5 og til þess að útvega gull í gulláhöldin og silfur í silfuráhöldin, og til alls konar listasmíða. Hver er nú fús til þess að færa Drottni ríflega fórnargjöf í dag?' 29.6 Þá kváðust ætthöfðingjarnir, höfðingjar kynkvísla Ísraels, þúsundhöfðingjarnir og hundraðshöfðingjarnir og ráðsmennirnir yfir störfum í konungsþjónustu vera fúsir til þess, 29.7 og þeir gáfu til Guðs húss fimm þúsund talentur gulls, tíu þúsund Daríus-dali, tíu þúsund talentur silfurs, átján þúsund talentur eirs og hundrað þúsund talentur járns. 29.8 Og hver sá, er átti gimsteina, gaf þá í féhirslu húss Drottins, er Jehíel Gersoníti hafði umsjón yfir. 29.9 Þá gladdist lýðurinn yfir örlæti þeirra, því að þeir höfðu af heilum hug fært Drottni sjálfviljagjafir, og Davíð konungur gladdist einnig stórum. 29.10 Þá lofaði Davíð Drottin, að öllum söfnuðinum ásjáanda, og Davíð mælti: 'Lofaður sért þú, Drottinn, Guð Ísraels, forföður vors, frá eilífð til eilífðar. 29.11 Þín, Drottinn, er tignin, mátturinn og dýrðin, vegsemdin og hátignin, því að allt er þitt, á himni og jörðu. Þinn er konungdómurinn, Drottinn, og sá, er gnæfir yfir alla sem höfðingi. 29.12 Auðlegðin og heiðurinn koma frá þér; þú drottnar yfir öllu, máttur og megin er í hendi þinni, og á þínu valdi er það, að gjöra hvern sem vera skal mikinn og máttkan. 29.13 Og nú, Guð vor, vér lofum þig og tignum þitt dýrlega nafn. 29.14 Því að hvað er ég, og hvað er lýður minn, að vér skulum vera færir um að gefa svo mikið sjálfviljuglega? Nei, frá þér er allt, og af þínu höfum vér fært þér gjöf. 29.15 Því að vér erum aðkomandi og útlendingar fyrir þér, eins og allir feður vorir. Sem skuggi eru dagar vorir á jörðunni, og engin er vonin. 29.16 Drottinn, Guð vor, öll þessi auðæfi, er vér höfum dregið að til þess að reisa þér _ þínu heilaga nafni _ hús, frá þér eru þau og allt er það þitt. 29.17 Og ég veit, Guð minn, að þú rannsakar hjartað og hefir þóknun á hreinskilni. Ég hefi með hreinum hug og sjálfviljuglega gefið allt þetta, og ég hefi með gleði horft á, hversu lýður þinn, sem hér er, færir þér sjálfviljagjafir. 29.18 Drottinn, Guð feðra vorra, Abrahams, Ísaks og Jakobs, varðveit þú slíkar hugrenningar í hjarta lýðs þíns að eilífu, og bein hjörtum þeirra til þín. 29.19 En gef þú Salómon syni mínum einlægt hjarta, að hann megi varðveita boðorð þín, vitnisburði og fyrirskipanir, og að hann megi gjöra allt þetta og reisa musterið, er ég hefi dregið að föng til.' 29.20 Síðan mælti Davíð til alls safnaðarins: 'Lofið Drottin, Guð yðar!' Lofaði þá allur söfnuðurinn Drottin, Guð feðra sinna, hneigðu sig og lutu Drottni og konungi. 29.21 Næsta morgun færðu þeir Drottni sláturfórn og færðu honum í brennifórn: þúsund naut, þúsund hrúta og þúsund lömb, og drykkjarfórnir, er við áttu, svo og sláturfórnir í ríkum mæli fyrir allan Ísrael. 29.22 Átu þeir svo og drukku frammi fyrir Drottni þann dag í miklum fagnaði og tóku Salómon, son Davíðs, öðru sinni til konungs og smurðu hann þjóðhöfðingja Drottni til handa, en Sadók til prests. 29.23 Sat Salómon þannig sem konungur Drottins í hásæti í stað Davíðs föður síns og var auðnumaður, og allir Ísraelsmenn hlýddu honum. 29.24 Og allir höfðingjarnir og kapparnir, svo og allir synir Davíðs konungs, hylltu Salómon konung. 29.25 Og Drottinn gjörði Salómon mjög vegsamlegan í augum allra Ísraelsmanna og veitti honum tignarmikinn konungdóm, svo að enginn konungur í Ísrael hafði slíkan haft á undan honum. 29.26 Davíð Ísaíson ríkti yfir öllum Ísrael. 29.27 En sá tími, er hann ríkti yfir Ísrael, var fjörutíu ár. Í Hebron ríkti hann sjö ár, en í Jerúsalem ríkti hann þrjátíu og þrjú. 29.28 Dó hann í góðri elli, saddur lífdaga, auðæfa og sæmdar, og tók Salómon sonur hans ríki eftir hann. 29.29 En saga Davíðs konungs frá upphafi til enda er skráð í Sögu Samúels sjáanda, svo og í Sögu Natans spámanns og í Sögu Gaðs sjáanda.
1.1 Salómon sonur Davíðs festist í konungdómi, og Drottinn, Guð hans, var með honum og gjörði hann mjög vegsamlegan. 1.2 Og Salómon lét boð fara um allan Ísrael, til þúsundhöfðingjanna og hundraðshöfðingjanna, dómaranna og allra höfðingjanna í öllum Ísrael, ætthöfðingjanna, 1.3 og fór Salómon síðan og allur söfnuðurinn með honum til fórnarhæðarinnar í Gíbeon, því að þar var samfundatjald Guðs, það er Móse, þjónn Drottins, hafði gjöra látið á eyðimörkinni. 1.4 Örk Guðs hafði Davíð þar á móti flutt frá Kirjat Jearím, þangað er Davíð hafði búið henni stað, því að hann hafði reist tjald fyrir hana í Jerúsalem. 1.5 Eiraltarið, er Besaleel Úríson, Húrssonar, hafði gjört, var og þar, frammi fyrir bústað Drottins, og Salómon og söfnuðurinn leituðu hans þar. 1.6 Og Salómon færði Drottni fórnir þar á eiraltarinu, er heyrði til samfundatjaldinu, og færði hann honum þar þúsund brennifórnir. 1.7 Þá nótt vitraðist Guð Salómon og sagði við hann: 'Bið þú þess, er þú vilt að ég veiti þér.' 1.8 Og Salómon svaraði Guði: 'Þú auðsýndir Davíð föður mínum mikla miskunn, og þú hefir gjört mig að konungi eftir hann. 1.9 Lát þá, Drottinn Guð, fyrirheit þitt til Davíðs föður míns standa stöðugt. Því að þú hefir gjört mig að konungi yfir lýð, sem er margur eins og duft jarðar. 1.10 Gef mér þá visku og þekkingu, að ég megi ganga út og inn frammi fyrir lýð þessum. Því að hver getur annars stjórnað þessum fjölmenna lýð þínum?' 1.11 Þá mælti Guð við Salómon: 'Sakir þess, að þetta bjó þér í hjarta, og þú baðst eigi um auðlegð, fé og sæmd, eða um líf þeirra, er hata þig, og baðst eigi heldur um langlífi, heldur baðst þér visku og þekkingar, að þú gætir stjórnað lýð mínum, er ég hefi gjört þig að konungi yfir, 1.12 þá er viska og þekking veitt þér, og auðlegð, fé og sæmd vil ég veita þér, meiri en haft hefir nokkur konungur á undan þér og meiri en nokkur mun hafa eftir þig.' 1.13 Síðan hélt Salómon burt frá fórnarhæðinni í Gíbeon, frá staðnum fyrir framan samfundatjaldið, til Jerúsalem, og ríkti yfir Ísrael. 1.14 Salómon safnaði vögnum og riddurum, og hafði hann fjórtán hundruð vagna og tólf þúsund riddara. Lét hann þá vera í vagnliðsborgunum og með konungi í Jerúsalem. 1.15 Og konungur gjörði silfur og gull eins algengt í Jerúsalem og grjót, og sedrusvið eins og mórberjatrén, sem vaxa á láglendinu. 1.16 Hesta sína fékk Salómon frá Egyptalandi, og sóttu kaupmenn konungs þá í hópum og guldu fé fyrir, 1.17 svo að hver vagn, er þeir fengu og komu með frá Egyptalandi, kostaði sex hundruð sikla silfurs, en hver hestur hundrað og fimmtíu. Og á þennan hátt voru og hestar fluttir út fyrir milligöngu þeirra til allra konunga Hetíta og konunga Sýrlendinga.
2.1 Salómon bauð að reisa skyldi musteri nafni Drottins og konungshöll handa sjálfum sér. 2.2 Og Salómon taldi frá sjötíu þúsund burðarmenn og áttatíu þúsund steinhöggvara á fjöllunum, og setti þrjú þúsund og sex hundruð umsjónarmenn yfir þá. 2.3 Og Salómon gjörði Húram, konungi í Týrus, svolátandi orðsending: 'Eins og þú breyttir við Davíð föður minn, er þú sendir honum sedrustré, svo að hann gæti byggt sér höll til bústaðar, 2.4 svo ætla ég nú að reisa musteri nafni Drottins, Guðs míns, er ég ætla að helga honum, til þess að færa ilmreykelsisfórnir frammi fyrir honum, til þess stöðugt að annast um raðsettu brauðin, til þess að færa brennifórn kvelds og morgna, á hvíldardögum, tunglkomudögum og löghátíðum Drottins, Guðs vors. Skal svo vera um aldur og ævi í Ísrael. 2.5 Og musterið, er ég ætla að reisa, á að verða mikið, því að vor Guð er meiri en allir guðir. 2.6 En hver myndi vera fær um að reisa honum hús? Því að himinninn og himnanna himnar taka hann ekki, og hver er ég, að ég reisi honum hús, nema ef vera skyldi til þess að brenna reykelsi frammi fyrir honum. 2.7 Send þú mér nú mann, sem er hagur á gull, silfur, eir og járn, kann að vinna úr rauðum purpura, skarlati og bláum purpura, og kann að útskurði, ásamt þeim hagleiksmönnum, er með mér eru í Júda og Jerúsalem og Davíð faðir minn hefir til fengið. 2.8 Send þú mér og sedrusvið, kýpresvið og sandelvið frá Líbanon, því að ég veit, að menn þínir kunna að því að höggva tré á Líbanon, og skulu mínir menn vera með þínum mönnum. 2.9 Og ég þarf á afar miklum viði að halda, því að musterið, er ég ætla að reisa, á að verða mikið og undursamlegt. 2.10 En viðarhöggsmönnunum frá þér, þeim er trén höggva, gef ég til matar tuttugu þúsund kór af hveiti og tuttugu þúsund kór af byggi, tuttugu þúsund bat af víni og tuttugu þúsund bat af olíu.' 2.11 Húram, konungur í Týrus, svaraði bréflega og sendi til Salómons: 'Af því að Drottinn elskar lýð sinn, hefir hann gjört þig að konungi yfir þeim.' 2.12 Og Húram mælti: 'Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, er gjört hefir himin og jörð, að hann hefir gefið Davíð konungi vitran son, sem hefir til að bera skyn og hyggindi til þess að reisa Drottni musteri og sjálfum sér konungshöll. 2.13 Og nú sendi ég mann, vitran og velkunnandi, Húram Abí, 2.14 son konu af Dans ætt, en faðir hans er týrverskur maður. Hann kann að smíða úr gulli, silfri, eiri og járni, steini og tré og að vinna úr rauðum og bláum purpura, baðmull og skarlati, kann að hvers konar útskurði, og getur gjört hverja þá smíð, er honum verður falin, ásamt hagleiksmönnum þínum og hagleiksmönnum Davíðs föður þíns, herra míns. 2.15 Sendi þá herra minn þjónum sínum hveitið, byggið, olíuna og vínið, sem hann hefir um mælt. 2.16 En vér skulum höggva tré á Líbanon, eins mikið og þú þarft, og færa þér þau í flotum sjóveg til Jafó, og mátt þú þá flytja þau upp til Jerúsalem.' 2.17 Og Salómon taldi útlenda menn, er voru í Ísraelslandi, eftir tali því á þeim, er Davíð faðir hans hafði gjöra látið, og reyndust þeir að vera hundrað fimmtíu og þrjú þúsund og sex hundruð. 2.18 Af þeim gjörði hann sjötíu þúsund að burðarmönnum, áttatíu þúsund að steinhöggvurum í fjöllunum og þrjú þúsund og sex hundruð að umsjónarmönnum til þess að halda fólkinu til vinnu.
3.1 Salómon byrjaði á að byggja musteri Drottins í Jerúsalem á Móríafjalli, þar sem Drottinn hafði birst Davíð föður hans, á stað þeim, er Davíð hafði búið á þreskivelli Ornans Jebúsíta. 3.2 Og hann byrjaði að byggja á öðrum degi í öðrum mánuði á fjórða ríkisári sínu. 3.3 Og þessi var grundvöllurinn, er Salómon lagði að musterisbyggingu Guðs: Lengdin var sextíu álnir að fornu máli, og breiddin tuttugu álnir. 3.4 Og forsalurinn fyrir framan musterishúsið var tíu álnir á breidd, en tuttugu álnir á lengd fram með musterisendanum, og hundrað og tuttugu álnir á hæð, og hann lagði hann innan skíru gulli. 3.5 En stærra húsið þiljaði hann með kýpresborðum og lagði það fínu gulli og setti þar á pálma og festar. 3.6 Enn fremur bjó hann húsið dýrindis steinum til prýði, en gullið var Parvaímgull. 3.7 Og hann lagði húsið, bjálkana, þröskuldana, svo og veggi þess og hurðir gulli, og lét skera kerúba út á veggjunum. 3.8 Hann gjörði og Hið allrahelgasta. Var það tuttugu álnir á lengd, eins og musterið var á breiddina, og tuttugu álnir á breidd, og bjó það fínu gulli, sex hundruð talentum. 3.9 Og naglarnir vógu fimmtíu sikla gulls, og loftherbergin lagði hann og gulli. 3.10 En í Hinu allrahelgasta gjörði hann tvo kerúba, haglega skorna og lagði þá gulli. 3.11 Vængir kerúbanna voru báðir saman tíu álna langir. Annar vængur annars kerúbsins, fimm álna langur, nam húsvegginn, en hinn vængurinn, er og var fimm álnir á lengd, nam við væng hins kerúbsins. 3.12 Annar fimm álna langur vængur hins kerúbsins nam og húsvegginn, en hinn vængurinn, er og var fimm álnir á lengd, snart væng hins kerúbsins. 3.13 Voru vængir kerúba þessara tuttugu álnir, útbreiddir. Stóðu þeir á fótum sér, og sneru andlit þeirra að húsinu. 3.14 Og hann gjörði fortjaldið af bláum og rauðum purpura, skarlati og baðmull og gjörði kerúba á því. 3.15 Hann gjörði og tvær súlur, þrjátíu og fimm álna háar, fyrir framan húsið, en hnúðurinn, er efst var á hvorri, var fimm álnir. 3.16 Hann gjörði og festar og lét þær á súlnahöfuðin, þá gjörði hann hundrað granatepli og setti á festarnar. 3.17 Og hann reisti súlurnar fyrir framan aðalhúsið, aðra til hægri og hina til vinstri. Nefndi hann hægri súluna Jakín, en hina vinstri Bóas.
4.1 Hann gjörði altari af eiri, tuttugu álna langt, tuttugu álna breitt og tíu álna hátt. 4.2 Hann gjörði og hafið, og var það steypt af eiri. Það var tíu álnir af barmi og á, kringlótt og fimm álnir á dýpt, og þrjátíu álna snúra lá um það. 4.3 En neðan við það voru nautalíkneski allt í kring _ var hvert þeirra tíu álnir _ er mynduðu hring um hafið, tvær raðir af nautum, og voru þau samsteypt hafinu. 4.4 Það stóð á tólf nautum, sneru þrjú í norður, þrjú í vestur, þrjú í suður, þrjú í austur. Hvíldi hafið á þeim og sneru allir bakhlutir þeirra inn. 4.5 Það var þverhandarþykkt og barmur þess í laginu sem barmur á bikar, líkt og liljublóm. Það rúmaði þrjú þúsund bat. 4.6 Þá gjörði hann tíu ker. Setti hann fimm hægra megin og fimm vinstra megin til þvottar. Skyldi skola í þeim, það er til brennifórnar skyldi hafa, en hafið var til þvottar fyrir prestana. 4.7 Hann gjörði og gullljósastikurnar tíu, eftir ákvæðunum um þær, og setti í aðalhúsið, fimm hægra megin og fimm vinstra megin. 4.8 Þá gjörði hann tíu borð og setti í aðalhúsið, fimm hægra megin og fimm vinstra megin, svo gjörði hann og hundrað fórnarskálar úr gulli. 4.9 Hann gjörði og prestaforgarðinn og forgarðinn mikla og dyr á forgarðinn, og vængjahurðirnar í þeim lagði hann eiri, 4.10 en hafið setti hann hægra megin, í austur, gegnt suðri. 4.11 Og Húram gjörði katlana, eldspaðana og fórnarskálarnar, og lauk svo Húram við að vinna að starfi því, er hann leysti af hendi fyrir Salómon konung í musteri Guðs: 4.12 tvær súlur og tvær kúlur á súlnahöfðunum og bæði riðnu netin, er hylja áttu báðar kúlurnar á súlnahöfðunum, 4.13 og fjögur hundruð granateplin á bæði netin, tvær raðir af granateplum á hvort net, er hylja áttu báðar kúlurnar á súlnahöfðunum, 4.14 enn fremur vagnana tíu og kerin tíu á þeim, 4.15 og hafið og tólf nautin undir hafinu, 4.16 og katlana, eldspaðana, soðkrókana og öll tilheyrandi áhöld gjörði Húram Abí fyrir Salómon konung til musteris Drottins, úr skyggðum eiri. 4.17 Lét konungur steypa þau á Jórdansléttlendinu í leirmótum, milli Súkkót og Sereda. 4.18 Og Salómon lét gjöra afar mikið af öllum þessum áhöldum, þyngd eirsins var eigi rannsökuð. 4.19 Og Salómon lét gjöra öll þau áhöld, sem voru í húsi Drottins: gullaltarið, borðin undir skoðunarbrauðin, 4.20 ljósastikurnar og lampa þeirra, að á þeim skyldi kveikt verða fyrir framan innhúsið, eins og lög stóðu til _ af skíru gulli, 4.21 og blómin, lampana og ljósasöxin af gulli _ og það af besta gulli _ 4.22 og skarbítana, fórnarskálarnar, bollana, eldpönnurnar af skíru gulli. Og að því er snertir dyr musterisins, þá voru innri vængjahurðir þeirra, þær er lágu inn í Hið allrahelgasta, og vængjahurðir musterisins, þær er lágu inn í aðalhúsið, af gulli.
5.1 Og er öllu því verki var lokið, er Salómon lét gjöra að musteri Drottins, þá flutti hann helgigjafir Davíðs föður síns inn í það, silfrið og gullið, en öll áhöldin lét hann í féhirslur Drottins húss. 5.2 Þá safnaði Salómon saman öldungum Ísraels og öllum foringjum kynþáttanna, ætthöfðingjum Ísraelsmanna, til Jerúsalem til þess að flytja sáttmálsörk Drottins upp eftir frá Davíðsborg, það er Síon. 5.3 Þá söfnuðust allir Ísraelsmenn til konungs í etaním-mánuði á hátíðinni. (Er sá mánuður hinn sjöundi). 5.4 Þá komu allir öldungar Ísraels, og levítarnir tóku örkina, 5.5 og þeir fluttu örkina og samfundatjaldið og öll hin helgu áhöld, er í tjaldinu voru. Fluttu levítaprestarnir þau upp eftir. 5.6 En Salómon konungur og allur Ísraelssöfnuður, er safnast hafði til hans, stóð frammi fyrir örkinni. Fórnuðu þeir sauðum og nautum, er eigi varð tölu né ætlan á komið fyrir fjölda sakir. 5.7 Og prestarnir fluttu sáttmálsörk Drottins á sinn stað, í innhús musterisins, inn í Hið allrahelgasta, inn undir vængi kerúbanna. 5.8 Og kerúbarnir breiddu út vængina þar yfir, er örkin stóð, og þannig huldu kerúbarnir örkina og stengur hennar ofan frá. 5.9 Og stengurnar voru svo langar, að stangarendarnir sáust frá helgidóminum fyrir framan innhúsið, en utan að sáust þeir ekki. Og þær hafa verið þar fram á þennan dag. 5.10 Í örkinni var ekkert nema töflurnar tvær, er Móse lét þar við Hóreb, töflur sáttmálans, er Drottinn gjörði við Ísraelsmenn, þá er þeir fóru af Egyptalandi. 5.11 En er prestarnir gengu út úr helgidóminum _ því að allir prestarnir, er viðstaddir voru, höfðu helgað sig, flokkaskiptingar var eigi gætt, 5.12 og allir levítasöngmenn, Asaf, Heman og Jedútún og synir þeirra og bræður, stóðu þar, klæddir baðmullarskikkjum, með skálabumbur, hörpur og gígjur, að austanverðu við altarið, og hjá þeim hundrað og tuttugu prestar, er þeyttu lúðra, 5.13 en lúðramenn og söngmenn áttu að byrja í senn og einraddað að lofa og vegsama Drottin _ og er menn létu lúðra og skálabumbur kveða við og hin önnur hljóðfæri og þakkargjörð til Drottins 'því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu,' þá fyllti ský musterið, musteri Drottins, 5.14 og máttu prestarnir eigi inn ganga fyrir skýinu til þess að gegna þjónustu, því að dýrð Drottins fyllti hús Guðs.
6.1 Þá mælti Salómon: Drottinn hefir sagt, að hann vilji búa í dimmu. 6.2 Nú hefi ég byggt hús þér til bústaðar og aðseturstað handa þér um eilífð. 6.3 Þá sneri konungur sér við og blessaði allan Ísraelssöfnuð, en allur Ísraelssöfnuður stóð. 6.4 Og hann mælti: 'Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð, er talaði með munni sínum við Davíð föður minn og efndi með hendi sinni það, er hann lofaði, þá er hann sagði: 6.5 ,Frá því er ég leiddi lýð minn út af Egyptalandi, hefi ég ekki útvalið neina borg af öllum ættkvíslum Ísraels til þess að byggja þar hús, þar sem nafn mitt skyldi búa, hefi og eigi útvalið neinn mann til þess að vera höfðingi yfir lýð mínum Ísrael. 6.6 En nú hefi ég útvalið Jerúsalem, til þess að nafn mitt búi þar, og ég útvaldi Davíð, til þess að hann skyldi ríkja yfir lýð mínum Ísrael.` 6.7 Og Davíð faðir minn hafði í hyggju að reisa hús nafni Drottins, Ísraels Guðs, 6.8 en Drottinn sagði við Davíð föður minn: ,Vel gjörðir þú, er þú ásettir þér að reisa hús nafni mínu. 6.9 En eigi skalt þú reisa húsið, heldur skal sonur þinn, sá er út gengur af lendum þínum, reisa hús nafni mínu.` 6.10 Og Drottinn hefir efnt orð sín, þau er hann talaði, því að ég kom í stað Davíðs föður míns og settist í hásæti Ísraels, svo sem Drottinn hafði heitið, og hefi nú reist hús nafni Drottins, Ísraels Guðs. 6.11 Og þar setti ég örkina, sem í er sáttmál Drottins, það er hann gjörði við Ísraelsmenn.' 6.12 Síðan gekk hann fyrir altari Drottins í viðurvist alls Ísraelssafnaðar og fórnaði höndum _ 6.13 því að Salómon hafði gjöra látið pall af eiri og sett í miðjan forgarðinn. Var hann fimm álnir á lengd, fimm álnir á breidd og þrjár álnir á hæð. Sté hann upp á hann, féll á kné í viðurvist alls Ísraelssafnaðar og fórnaði höndum til himins 6.14 og mælti: 'Drottinn, Guð Ísraels, enginn guð er sem þú á himni eða jörðu, þú sem heldur sáttmálann og miskunnsemina við þjóna þína, þá er ganga fyrir augliti þínu af öllu hjarta sínu, 6.15 þú sem hefir haldið það við þjón þinn, Davíð föður minn, er þú hést honum. Þú talaðir það með munni þínum og efndir það með hendi þinni, eins og nú er fram komið. 6.16 Efn nú, Drottinn, Ísraels Guð, við þjón þinn Davíð, föður minn, það er þú hést honum, þá er þú sagðir: ,Eigi skal þig vanta eftirmann frammi fyrir mér, er sitji í hásæti Ísraels, ef synir þínir aðeins varðveita vegu sína með því að ganga eftir lögmáli mínu, eins og þú hefir gengið fyrir augliti mínu.` 6.17 Og lát nú, Drottinn, Ísraels Guð, rætast orð þín, þau er þú talaðir við Davíð þjón þinn. 6.18 En mun Guð í sannleika búa með mönnum á jörðu? Sjá, himinninn og himnanna himnar taka þig ekki, hve miklu síður þá þetta hús, sem ég hefi reist. 6.19 En snú þér, Drottinn, Guð minn, að bæn þjóns þíns og grátbeiðni hans, að þú heyrir ákall það og bæn, er þjónn þinn ber fram fyrir þig: 6.20 að augu þín séu opin fyrir þessu húsi dag og nótt, yfir þeim stað, er þú hefir um sagt, að þar skulir þú láta nafn þitt búa, _ að þú heyrir bæn þá, er þjónn þinn biður á þessum stað. 6.21 Og heyr þú grátbeiðni þjóns þíns og lýðs þíns Ísraels, er þeir bera fram á þessum stað, já, heyr þú hana frá aðseturstað þínum, frá himnum, og fyrirgef, er þú heyrir. 6.22 Ef einhver gjörir á hluta náunga síns, og hann verður eiðs krafinn og látinn sverja, og hann kemur og vinnur eiðinn fyrir altari þínu í húsi þessu, 6.23 þá heyr þú það frá himnum, lát til þín taka og dæm þjóna þína, með því að sakfella hinn seka og láta honum gjörðir hans í koll koma, en sýkna hinn saklausa og umbuna honum eftir réttlæti hans. 6.24 Ef lýður þinn Ísrael bíður ósigur fyrir óvinum sínum, af því að þeir hafa syndgað á móti þér, og þeir snúa sér og játa þitt nafn og biðja og grátbæna þig í þessu húsi, 6.25 þá heyr þú það frá himnum og fyrirgef synd lýðs þíns Ísraels og leið þá aftur heim til þess lands, er þú gafst þeim og feðrum þeirra. 6.26 Ef himinninn er byrgður, svo að eigi nær að rigna, af því að þeir hafa syndgað í móti þér, og þeir biðja á þessum stað og játa nafn þitt og snúa sér frá syndum sínum, af því að þú auðmýkir þá, 6.27 þá heyr þú það á himnum og fyrirgef synd þjóna þinna og lýðs þíns Ísraels, er þú kennir þeim þann góða veg, sem þeir eiga að ganga, og gef regn yfir land þitt, það er þú hefir gefið þínum lýð til eignar. 6.28 Ef hallæri verður í landinu, ef drepsótt kemur eða korndrep eða gulnan, engisprettur eða jarðvargar, ef óvinir hans þrengja að honum í einhverri af borgum hans, eða einhver plága eða sótt _ 6.29 ef þá einhver maður af öllum lýð þínum Ísrael ber fram einhverja bæn eða grátbeiðni, af því að hann finnur til angurs og sársauka og fórnar höndum til þessa húss, 6.30 þá heyr þú það frá himnum, aðseturstað þínum, og fyrirgef og gef sérhverjum eins og hann hefir til unnið og svo sem þú þekkir hjarta hans _ því að þú einn þekkir hjörtu manna _ 6.31 til þess að þeir óttist þig og gangi á vegum þínum alla þá stund, er þeir lifa í landinu, er þú gafst feðrum vorum. 6.32 Ef útlendingur, sem eigi er af lýð þínum Ísrael, en kemur úr fjarlægu landi sakir þíns mikla nafns, þinnar sterku handar og þíns útrétta armleggs _ ef þeir koma hingað og biðja frammi fyrir þessu húsi, 6.33 þá heyr þú það frá himnum, aðseturstað þínum, og gjör allt það, sem útlendingurinn biður þig um, til þess að öllum þjóðum jarðarinnar verði kunnugt nafn þitt og þær óttist þig eins og lýður þinn Ísrael, og til þess að þær megi vita, að hús þetta, sem ég hefi byggt, er kennt við þig. 6.34 Ef lýður þinn fer í ófrið í móti óvinum sínum, þangað sem þú sendir þá, og þeir biðja til þín og snúa sér í áttina til borgar þessarar, sem þú hefir útvalið, og hússins, sem ég hefi reist þínu nafni, 6.35 þá heyr þú frá himnum bæn þeirra og grátbeiðni og rétt þú hlut þeirra. 6.36 Ef þeir syndga í gegn þér _ því að enginn er sá er eigi syndgi _ og þú reiðist þeim og gefur þá á vald óvinum þeirra, og sigurvegarar þeirra flytja þá hernumda til lands, langt eða skammt í burtu, 6.37 og þeir taka sinnaskipti í landinu, þar sem þeir eru hernumdir, og þeir snúa sér og grátbæna þig í útlegðarlandi sínu og segja: ,Vér höfum syndgað, vér höfum misgjört og vér höfum breytt óguðlega,` 6.38 og þeir snúa sér til þín af öllu hjarta sínu og allri sálu sinni í útlegðarlandi sínu, þangað sem þeir hafa flutt þá hernumda, og þeir biðjast fyrir og snúa sér í áttina til lands síns, þess er þú gafst feðrum þeirra, til borgarinnar, sem þú hefir útvalið, og til hússins, sem ég hefi reist þínu nafni, 6.39 þá heyr þú frá himnum, aðseturstað þínum, bæn þeirra og grátbeiðni, rétt þú hlut þeirra og fyrirgef lýð þínum það, sem þeir misgjörðu í móti þér. 6.40 Svo veri þá, Guð minn, augu þín opin og eyru þín gaumgæfin á bæn þá, er fram er borin á þessum stað. 6.41 Tak þig þá upp, Drottinn Guð, og far á hvíldarstað þinn, þú og örk máttar þíns. Prestar þínir, Drottinn Guð, séu klæddir hjálpræði, og þínir guðhræddu gleðjist yfir gæfunni. 6.42 Drottinn Guð, vísa þínum smurða eigi frá, minnst þú náðarveitinganna við Davíð þjón þinn.'
7.1 Þegar Salómon hafði lokið bæn sinni, kom eldur af himni og eyddi brennifórninni og sláturfórninni, og dýrð Drottins fyllti húsið. 7.2 Og prestarnir máttu eigi inn ganga í musteri Drottins, því að dýrð Drottins fyllti hús Drottins. 7.3 Og er allir Ísraelsmenn sáu, að eldinum laust niður og að dýrð Drottins steig niður yfir húsið, þá hneigðu þeir ásjónur sínar til jarðar, niður á steingólfið, lutu og lofuðu Drottin: 'því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.' 7.4 Þá fórnaði konungur og allur lýðurinn sláturfórnum frammi fyrir Drottni. 7.5 Salómon konungur fórnaði tuttugu og tvö þúsund nautum og hundrað og tuttugu þúsund sauðum í heillafórn. Þannig vígði konungur og allur lýðurinn musteri Guðs. 7.6 En prestarnir stóðu á sínum stað, og sömuleiðis levítarnir með hljóðfæri Drottins, þau er Davíð konungur hafði gjöra látið til þess að þakka Drottni: 'Því að miskunn hans varir að eilífu,' og þeir léku lofsöng Davíðs, en andspænis þeim þeyttu prestarnir lúðra, en allur Ísrael stóð. 7.7 Og Salómon vígði miðhluta forgarðsins, er liggur frammi fyrir musteri Drottins, því að þar fórnaði hann brennifórnum og hinum feitu stykkjum heillafórnanna. Því að eiraltarið, það er Salómon hafði gjöra látið, gat eigi tekið brennifórnirnar og matfórnirnar og feitu stykkin. 7.8 Þannig hélt Salómon þá hátíðina í sjö daga og allur Ísrael með honum _ afar mikill söfnuður, þaðan frá er leið liggur til Hamat, allt til Egyptalandsár. 7.9 Og áttunda daginn héldu þeir hátíðasamkomu, því að sjö daga voru þeir að vígja altarið, og hátíðina héldu þeir í sjö daga. 7.10 En á tuttugasta og þriðja degi hins sjöunda mánaðar lét hann lýðinn fara heim til sín, glaðan og í góðu skapi yfir þeim gæðum, sem Drottinn hafði veitt Davíð og Salómon og lýð sínum Ísrael. 7.11 Þá er Salómon hafði lokið að byggja musteri Drottins og konungshöllina og hafði fengið farsællega framgengt öllu því, er honum bjó í huga að gjöra í húsi Drottins og í höll sinni, 7.12 þá vitraðist Drottinn honum á náttarþeli og sagði við hann: 'Ég hefi heyrt bæn þína og útvalið mér þennan stað að fórnahúsi. 7.13 Þegar ég byrgi himininn, svo að eigi nær að rigna, og þegar ég býð engisprettum að rótnaga landið, og þegar ég læt drepsótt koma meðal lýðs míns, 7.14 og lýður minn, sá er við mig er kenndur, auðmýkir sig, og þeir biðja og leita auglitis míns og snúa sér frá sínum vondu vegum, þá vil ég heyra þá frá himnum, fyrirgefa þeim syndir þeirra og græða upp land þeirra. 7.15 Skulu augu mín vera opin og eyru mín gaumgæfin gagnvart bæn þeirri, er fram er borin á þessum stað. 7.16 Og nú hefi ég útvalið og helgað þetta hús, til þess að nafn mitt megi búa þar að eilífu, og skulu augu mín og hjarta vera þar alla daga. 7.17 Og ef þú gengur fyrir augliti mínu, svo sem gjörði Davíð faðir þinn, með því að fara með öllu svo sem ég hefi þér um boðið, og þú heldur ákvæði mín og lög, 7.18 þá mun ég staðfesta hásæti konungdóms þíns, eins og ég hátíðlega hét Davíð föður þínum, þá er ég sagði: ,Eigi skal þig vanta eftirmann til þess að ríkja yfir Ísrael.` 7.19 En ef þér snúið baki við mér og fyrirlátið ákvæði mín og skipanir, er ég hefi fyrir yður lagt, en farið og þjónið öðrum guðum og fallið fram fyrir þeim, 7.20 þá mun ég útrýma þeim úr landi mínu, því er ég gaf þeim, og húsi þessu, sem ég hefi helgað nafni mínu, mun ég burt snara frá augliti mínu og gjöra það að orðskvið og spotti meðal allra þjóða. 7.21 Og þetta hús, svo háreist sem það er _ hverjum sem gengur fram hjá því, mun blöskra. Og ef hann þá spyr: ,Hvers vegna hefir Drottinn leikið svo hart þetta land og þetta hús?` 7.22 munu menn svara: ,Af því að þeir yfirgáfu Drottin, Guð feðra sinna, er leiddi þá út af Egyptalandi, og héldu sér að öðrum guðum, féllu fram fyrir þeim og þjónuðu þeim. Fyrir því hefir hann leitt yfir þá alla þessa ógæfu.'`
8.1 Að tuttugu árum liðnum, þá er Salómon hafði byggt musteri Drottins og höll sína _ 8.2 en borgirnar, er Húram hafði látið af hendi við Salómon, þær víggirti Salómon og lét Ísraelsmenn setjast þar að _ 8.3 þá hélt Salómon til Hamat hjá Sóba og náði henni á sitt vald. 8.4 Og hann víggirti Tadmor í eyðimörkinni og allar vistaborgirnar, þær er hann byggði í Hamat. 8.5 Þá víggirti hann og Efri Bethóron og Neðri Bethóron og gjörði að köstulum með múrum, hliðum og slagbröndum, 8.6 enn fremur Baalat og allar vistaborgirnar, er Salómon átti, og allar vagnliðsborgirnar og riddaraborgirnar og allt, sem Salómon fýsti að byggja í Jerúsalem, á Líbanon og í öllu ríki sínu. 8.7 Allt það fólk, sem eftir var af Hetítum, Amorítum, Peresítum, Hevítum og Jebúsítum, er eigi heyrðu til Ísraelsmönnum, 8.8 niðjar þeirra, sem enn voru eftir í landinu og Ísraelsmenn eigi höfðu útrýmt, á þá lagði Salómon skylduvinnu, og er svo enn í dag. 8.9 En af Ísraelsmönnum gjörði Salómon enga að þrælum til þess að vinna að fyrirtækjum sínum, en þeir voru hermenn, foringjar fyrir vagnköppum hans og foringjar fyrir vagnliði hans og riddaraliði. 8.10 Æðstu fógetar Salómons konungs voru tvö hundruð og fimmtíu að tölu. Þeir höfðu eftirlit með mönnum. 8.11 Og dóttur Faraós færði Salómon frá Davíðsborg í hús það, er hann hafði byggt handa henni, því að hann sagði: 'Eigi skal ég láta konu búa í höll Davíðs Ísraelskonungs, því að helgir eru þeir staðir, þangað sem örk Drottins hefir komið.' 8.12 Þá færði Salómon Drottni brennifórnir á altari Drottins, því er hann hafði reist fyrir framan forsalinn, 8.13 svo að hann færði fórnir eins og við átti á degi hverjum samkvæmt skipunum Móse, á hvíldardögunum, tunglkomudögunum og löghátíðunum, þrisvar á ári _ á hátíð hinna ósýrðu brauða, á viknahátíðinni og á laufskálahátíðinni. 8.14 Og eftir fyrirmælum Davíðs föður síns setti hann prestaflokkana til þjónustu þeirra og levítana til starfs þeirra, að syngja lofsöngva og vera prestunum til aðstoðar, svo sem við átti á degi hverjum, og hliðverðina setti hann við sérhvert hlið, eftir flokkaskipun þeirra, því að svo hafði guðsmaðurinn Davíð um boðið. 8.15 Var hvergi brugðið af skipun konungs um prestana og levítana og féhirslurnar. 8.16 Var þannig lokið við öll störf Salómons, frá þeim degi, er grundvöllurinn var lagður að musteri Drottins, og þangað til Salómon lauk við musteri Drottins. 8.17 Þá fór Salómon til Esjón Geber og til Elót á strönd hafsins í Edómlandi. 8.18 En Húram sendi honum með mönnum sínum skip og menn, vana sjóferðum. Og þeir komust til Ófír ásamt mönnum Salómons og sóttu þangað fjögur hundruð og fimmtíu talentur gulls og færðu Salómon konungi.
9.1 Þá er drottningin í Saba spurði orðstír Salómons, kom hún til Jerúsalem með mjög miklu föruneyti og með úlfalda, klyfjaða kryddjurtum og afar miklu gulli og gimsteinum, til þess að reyna Salómon með gátum. Og er hún kom til Salómons, bar hún upp fyrir honum allt, sem henni bjó í brjósti. 9.2 En Salómon svaraði öllum spurningum hennar. Var enginn hlutur hulinn Salómon, er hann gæti eigi leyst úr fyrir hana. 9.3 Og er drottningin frá Saba sá speki Salómons og húsið, sem hann hafði reisa látið, 9.4 matinn á borði hans, bústaði þjóna hans og frammistöðu skutilsveina hans og klæði þeirra, byrlara hans og klæði þeirra og brennifórn hans, þá er hann fram bar í húsi Drottins, þá varð hún frá sér numin 9.5 og sagði við konung: 'Satt var það, er ég heyrði í landi mínu um þig og speki þína. 9.6 En ég trúði ekki orðum þeirra fyrr en ég kom og sá það með eigin augum. Og þó hafði ég ekki frétt helminginn um gnótt speki þinnar. Þú ert meiri orðróm þeim, er ég hefi heyrt. 9.7 Sælir eru menn þínir og sælir þessir þjónar þínir, sem stöðugt standa frammi fyrir þér og heyra speki þína. 9.8 Lofaður sé Drottinn, Guð þinn, sem hafði þóknun á þér, svo að hann setti þig í hásæti sitt sem konung Drottins, Guðs þíns. Af því að Guð þinn elskar Ísrael, svo að hann vill láta hann standa að eilífu, gjörði hann þig að konungi yfir þeim til þess að iðka rétt og réttvísi.' 9.9 Síðan gaf hún konungi hundrað og tuttugu talentur gulls og afar mikið af kryddjurtum og gimsteina. Hefir aldrei síðan verið annað eins af kryddjurtum og drottningin frá Saba gaf Salómon konungi. 9.10 Sömuleiðis komu og þjónar Húrams og þjónar Salómons, þeir er gull sóttu til Ófír, með sandelvið og gimsteina. 9.11 Og konungur lét gjöra handrið í hús Drottins og í konungshöllina af sandelviðnum, svo og gígjur og hörpur handa söngmönnunum. Hafði ei áður slíkt sést í Júdalandi. 9.12 Salómon konungur gaf drottningunni frá Saba allt, er hún girntist og kaus sér, auk þess, er hún hafði fært konungi. Hélt hún síðan heimleiðis og fór í land sitt með föruneyti sínu. 9.13 Gullið, sem Salómon fékk á einu ári, var sex hundruð sextíu og sex talentur gulls að þyngd, 9.14 auk þess er kom inn frá varningsmönnum og þess er kaupmennirnir komu með. Auk þess færðu allir konungar Arabíu og jarlar landsins Salómon gull og silfur. 9.15 Og Salómon konungur lét gjöra tvö hundruð skildi af slegnu gulli, fóru sex hundruð siklar af slegnu gulli í hvern skjöld, 9.16 og þrjú hundruð buklara af slegnu gulli, fóru þrjú hundruð siklar gulls í hvern buklara. Lét konungur leggja þá í Líbanonsskógarhúsið. 9.17 Konungur lét og gjöra hásæti mikið af fílabeini og lagði það skíru gulli. 9.18 Gengu sex þrep upp að hásætinu, og fótskör úr gulli var fest á hásætið. Bríkur voru báðum megin sætisins, og stóðu tvö ljón við bríkurnar. 9.19 Og tólf ljón stóðu á þrepunum sex, báðum megin. Slík smíð hefir aldrei verið gjörð í nokkru konungsríki. 9.20 Öll voru drykkjarker Salómons konungs af gulli, og öll áhöld í Líbanonsskógarhúsinu voru af skíru gulli, ekkert af silfri, því að silfur var einskis metið á dögum Salómons. 9.21 Því að konungur hafði skip, er fóru til Tarsis með mönnum Húrams. Þriðja hvert ár komu Tarsis-skipin heim, hlaðin gulli og silfri, fílabeini, öpum og páfuglum. 9.22 Salómon konungur bar af öllum konungum jarðarinnar að auðlegð og visku. 9.23 Og alla konunga jarðarinnar fýsti að sjá Salómon til þess að heyra visku hans, sem Guð hafði lagt honum í brjóst. 9.24 Komu þeir þá hver með sína gjöf, silfurgripi og gullgripi, klæði, vopn og kryddjurtir, hesta og múla, ár eftir ár. 9.25 Og Salómon átti fjögur þúsund vagneyki og vagna og tólf þúsund riddara. Lét hann þá vera í vagnliðsborgunum og með konungi í Jerúsalem. 9.26 Og hann drottnaði yfir öllum konungum frá Efrat allt til Filistalands og til landamæra Egyptalands. 9.27 Og konungur gjörði silfur eins algengt í Jerúsalem og grjót, og sedrusvið eins og mórberjatrén, sem vaxa á láglendinu. 9.28 Og menn fluttu hesta úr Egyptalandi og úr öllum löndum handa Salómon. 9.29 Annað af sögu Salómons er frá upphafi til enda skráð í Sögu Natans spámanns og í Spádómi Ahía frá Síló og í Vitrun Íddós sjáanda um Jeróbóam Nebatsson. 9.30 Salómon ríkti í Jerúsalem yfir öllum Ísrael í fjörutíu ár. 9.31 Og hann lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður í borg Davíðs föður síns. Og Rehabeam sonur hans tók ríki eftir hann.
10.1 Rehabeam fór til Síkem, því að allur Ísrael var kominn þangað til þess að taka hann til konungs. 10.2 En er Jeróbóam Nebatsson frétti (hann var í Egyptalandi, þangað sem hann hafði flúið undan Salómon konungi) að Salómon væri dáinn, sneri Jeróbóam heim frá Egyptalandi. 10.3 Og þeir sendu boð og létu kalla hann. Þá kom Jeróbóam og allur Ísrael og mæltu til Rehabeams á þessa leið: 10.4 'Faðir þinn lagði á oss hart ok, en gjör nú léttari hina hörðu ánauð föður þíns og hið þunga ok, er hann á oss lagði, og munum vér þjóna þér.' 10.5 Hann svaraði þeim: 'Farið nú burt og komið aftur til mín að þrem dögum liðnum.' Og lýðurinn fór burt. 10.6 Þá ráðgaðist Rehabeam konungur við öldungana, sem þjónað höfðu Salómon föður hans meðan hann lifði, og mælti: 'Hver andsvör ráðið þér mér að gefa þessum mönnum?' 10.7 Þeir svöruðu honum og mæltu: 'Ef þú í dag verður lýð þessum eftirlátur, verður þeim náðugur og tekur vel máli þeirra, munu þeir verða þér eftirlátir alla daga.' 10.8 En hann hafnaði ráði því, er öldungarnir réðu honum, en ráðgaðist við unga menn, er vaxið höfðu upp með honum og nú þjónuðu honum, 10.9 og hann sagði við þá: 'Hver ráð gefið þér til, hversu vér skulum svara lýð þessum, er talað hefir til mín á þessa leið: ,Gjör léttara ok það, er faðir þinn á oss lagði`?' 10.10 Þá svöruðu honum hinir ungu menn, er vaxið höfðu upp með honum: 'Svo skalt þú svara lýðnum, er sagði við þig: ,Faðir þinn gjörði ok vort þungt, en gjör þú oss það léttara` _ svo skalt þú tala til þeirra: ,Litlifingur minn er digrari en lendar föður míns. 10.11 Hafi faðir minn lagt á yður þungt ok, mun ég gjöra ok yðar enn þyngra. Faðir minn refsaði yður með keyrum, en ég mun refsa yður með gaddasvipum.'` 10.12 Og Jeróbóam og allur lýðurinn kom til Rehabeams á þriðja degi, eins og konungur hafði sagt, þá er hann mælti: 'Komið til mín aftur á þriðja degi.' 10.13 Þá veitti konungur þeim hörð andsvör, og Rehabeam konungur fór eigi að ráðum öldunganna, 10.14 en talaði til þeirra á þessa leið að ráði hinna ungu manna: 'Faðir minn gjörði ok yðar þungt, en ég mun gjöra það enn þyngra. Faðir minn refsaði yður með keyrum, en ég mun refsa yður með gaddasvipum.' 10.15 Þannig veitti konungur lýðnum enga áheyrn, því að svo var til stillt af Guði, til þess að Drottinn gæti látið rætast orð sín, þau er hann hafði talað til Jeróbóams Nebatssonar, fyrir munn Ahía frá Síló. 10.16 Þá er allur Ísrael sá, að konungur veitti þeim enga áheyrn, þá veitti lýðurinn konungi þessi andsvör: Hverja hlutdeild eigum vér í Davíð? Engan erfðahlut eigum vér í Ísaísyni. Far heim til þín, hver Ísraelsmaður! Gæt þú þíns eigin húss, Davíð! Síðan fór allur Ísrael, hver heim til sín. 10.17 En yfir þeim Ísraelsmönnum, er bjuggu í Júdaborgum, var Rehabeam konungur. 10.18 Rehabeam konungur sendi Hadóram, sem var yfir kvaðarmönnum, en Ísraelsmenn lömdu hann grjóti til bana, en Rehabeam konungur hljóp í skyndi á vagn sinn og flýði til Jerúsalem. 10.19 Þannig gekk Ísrael undan ætt Davíðs, og stendur svo enn í dag.
11.1 En er Rehabeam kom til Jerúsalem, safnaði hann saman Júdamönnum og Benjamínsættkvísl, hundrað og áttatíu þúsundum einvalaliðs, til þess að berjast við Ísrael og ná konungdóminum aftur undir Rehabeam. 11.2 En orð Drottins kom til Semaja guðsmanns, svolátandi: 11.3 'Tala þú svo til Rehabeams, sonar Salómons, konungs í Júda, og til allra Ísraelsmanna í Júda og Benjamín: 11.4 Svo segir Drottinn: Farið eigi og berjist eigi við bræður yðar. Fari hver heim til sín, því að minni tilhlutun er þetta orðið.' Og er þeir heyrðu orð Drottins, hurfu þeir aftur og hættu við að fara á móti Jeróbóam. 11.5 Rehabeam bjó síðan í Jerúsalem. Og hann gjörði nokkrar borgir í Júda að köstulum, 11.6 og hann gjörði Betlehem, Etam, Tekóa, 11.7 Bet Súr, Sókó, Adúllam, 11.8 Gat, Maresa, Síf, 11.9 Adóraím, Lakís, Aseka, 11.10 Sorea, Ajalon og Hebron, sem eru í Júda og Benjamín, að kastalaborgum. 11.11 Gjörði hann kastalana rammgjörva, setti þar höfðingja fyrir og lét þar forða vista, olíu og víns. 11.12 Og í hverja borg lét hann skjöldu og spjót, og víggirti þær afar rammlega. Og Júda og Benjamín lutu honum. 11.13 Prestarnir og levítarnir, er voru um allan Ísrael, komu úr öllum héruðum sínum og gengu honum til handa. 11.14 Því að levítarnir yfirgáfu beitilönd sín og óðul og fóru til Júda og Jerúsalem, því að Jeróbóam og synir hans höfðu rekið þá úr prestþjónustu fyrir Drottni, 11.15 og hafði hann sjálfur skipað sér presta fyrir fórnarhæðirnar og skógartröllin og kálfana, er hann hafði gjöra látið. 11.16 Og þeim fylgdu þeir af öllum ættkvíslum Ísraels, er lögðu hug á að leita Drottins, Guðs Ísraels. Komu þeir til Jerúsalem til þess að færa fórnir Drottni, Guði feðra þeirra. 11.17 Og þeir efldu Júdaríki og styrktu Rehabeam, son Salómons, í þrjú ár. Því að þeir fetuðu í fótspor Davíðs og Salómons í þrjú ár. 11.18 Og Rehabeam tók sér fyrir konu Mahalat, dóttur Jerímóts Davíðssonar og Abíhaílar, dóttur Elíabs Ísaísonar. 11.19 Ól hún honum sonu: Jeús, Semarja og Saham. 11.20 Og eftir hana fékk hann Maöku Absalonsdóttur. Hún ól honum Abía, Attaí, Sísa og Selómít. 11.21 Og Rehabeam unni Maöku Absalonsdóttur meira en öllum öðrum konum sínum og hjákonum, því að hann hafði tekið sér átján konur og sextíu hjákonur, og gat tuttugu og átta sonu og sextán dætur. 11.22 Og Rehabeam gjörði Abía, son Maöku, að ætthöfðingja, að höfðingja meðal bræðra sinna, því að hann hugðist mundu gjöra hann að konungi. 11.23 Og hann fór hyggilega að ráði sínu og skipti öllum sonum sínum niður á öll héruð í Júda og Benjamín, niður á allar kastalaborgir, fékk þeim gnóttir vista og bað þeim fjölda kvenna.
12.1 En er konungdómur Rehabeams var fastur orðinn, og hann sjálfur orðinn fastur í sessi, þá yfirgaf hann lögmál Drottins og allur Ísrael með honum. 12.2 Á fimmta ríkisári Rehabeams fór Sísak Egyptalandskonungur herför móti Jerúsalem _ af því að þeir höfðu sýnt Drottni ótrúmennsku _ 12.3 með tólf hundruð vögnum og sextíu þúsund riddurum. Mátti eigi koma tölu á fólk það, er með honum kom frá Egyptalandi: Líbýumenn, Súkítar og Blálendingar. 12.4 Hann tók kastalaborgirnar, þær er voru í Júda, og komst allt til Jerúsalem. 12.5 En Semaja spámaður kom til Rehabeams og höfðingja Júda, er hörfað höfðu fyrir Sísak til Jerúsalem, og mælti til þeirra: 'Svo segir Drottinn: Þér hafið yfirgefið mig, svo ofursel ég og yður á vald Sísaks.' 12.6 Þá auðmýktu þeir sig, höfðingjar Ísraels og konungur, og sögðu: 'Réttlátur er Drottinn!' 12.7 En er Drottinn sá, að þeir höfðu auðmýkt sig, kom orð Drottins til Semaja, svolátandi: 'Þeir hafa auðmýkt sig; ég skal eigi tortíma þeim, heldur fulltingja þeim að nokkru, og eigi hella reiði minni yfir Jerúsalem fyrir Sísak. 12.8 Þó skulu þeir verða lýðskyldir honum, að þeir megi læra að þekkja muninn á að þjóna mér og á að þjóna heiðnum konungum.' 12.9 Síðan fór Sísak Egyptalandskonungur herför móti Jerúsalem og tók fjársjóðu húss Drottins og fjársjóðu konungshallarinnar, tók það allt saman. Hann tók og gullskjölduna, er Salómon hafði gjöra látið. 12.10 Rehabeam konungur lét í þeirra stað gjöra eirskjöldu og fékk þá höfuðsmönnum lífvarðarins til geymslu, þeim er geyma dyra á höll konungs. 12.11 Og í hvert sinn, er konungur gekk í hús Drottins, komu varðliðsmennirnir og báru þá, og fóru síðan með þá aftur í herbergi varðliðsmannanna. 12.12 En er hann auðmýkti sig, hvarf reiði Drottins frá honum og tortímdi honum eigi með öllu; enn þá var þó eitthvað gott til í Júda. 12.13 Og Rehabeam konungur efldist í Jerúsalem og sat að völdum, því að Rehabeam hafði einn um fertugt, þá er hann varð konungur, og seytján ár ríkti hann í Jerúsalem, borginni sem Drottinn hafði útvalið af öllum ættkvíslum Ísraels til þess að láta nafn sitt búa þar. En móðir hans hét Naama og var ammónítísk. 12.14 Og hann breytti illa, því að hann lagði eigi hug á að leita Drottins. 12.15 En saga Rehabeams, frá upphafi til enda, er rituð í Sögu Semaja spámanns og Íddós sjáanda, í ættartölunum. Og ófriður stóð ávallt milli Rehabeams og Jeróbóams. 12.16 Og Rehabeam lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður í Davíðsborg. Og Abía sonur hans tók ríki eftir hann.
13.1 Á átjánda ríkisári Jeróbóams varð Abía konungur yfir Júda. 13.2 Þrjú ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Maaka Úríelsdóttir frá Gíbeu. En þeir áttu í ófriði saman, Abía og Jeróbóam. 13.3 Og Abía hóf ófriðinn með hraustu herliði, fjögur hundruð þúsundum einvalaliðs, en Jeróbóam fylkti til orustu á móti honum átta hundruð þúsundum einvalaliðs, hraustum köppum. 13.4 Þá gekk Abía upp á Semaraímfjall í Efraímfjöllum og mælti: 'Hlýðið á mig, Jeróbóam og allur Ísrael! 13.5 Hvort vitið þér eigi að Drottinn, Ísraels Guð, veitti Davíð ævarandi konungdóm yfir Ísrael, honum og niðjum hans, með saltsáttmála? 13.6 En Jeróbóam Nebatsson, þjónn Salómons, sonar Davíðs, hófst handa og gjörði uppreisn gegn herra sínum. 13.7 Og að honum söfnuðust lausingjar og hrakmenni, og þeir urðu yfirsterkari Rehabeam syni Salómons, en Rehabeam var ungur og hugdeigur og fékk eigi veitt þeim viðnám. 13.8 Og nú hyggist þér munu veita viðnám konungdómi Drottins, þeim er niðjar Davíðs hafa á hendi, af því að þér eruð mjög fjölmennir, og gullkálfarnir, þeir er Jeróbóam hefir gjöra látið yður að guðum, eru með yður. 13.9 Hafið þér þá eigi rekið burt presta Drottins, niðja Arons, og levítana, og gjört yður presta að sið heiðinna þjóða? Hver sá, er kom til þess að láta fylla hönd sína með ungt naut og sjö hrúta, hann varð prestur falsguðanna. 13.10 En vor Guð er Drottinn, vér höfum eigi yfirgefið hann, og niðjar Arons hafa á hendi prestþjónustu fyrir Drottin, og levítar hafa störf á hendi 13.11 og færa Drottni á hverjum morgni og hverju kveldi brennifórnir og ilmreykelsi og leggja brauð í raðir á borðið úr skíru gulli og kveikja á hverju kveldi á gullstjakanum og lömpum hans. Því að vér gætum ákvæða Drottins, Guðs vors, en þér hafið yfirgefið hann. 13.12 Og sjá! Guð er með oss í broddi fylkingar og prestar hans með hvellilúðrana til þess að blása til atlögu gegn yður. Þér Ísraelsmenn! Berjist eigi gegn Drottni, Guði feðra yðar, því að þér munuð engu fá framgengt.' 13.13 En Jeróbóam lét þá, er lágu í launsátri, fara í kring til þess að koma að baki þeim. Voru þeir gagnvart Júdamönnum, en launsátursliðið að baki þeim. 13.14 Og er Júdamenn sneru sér við, sáu þeir að þeim var búinn bardagi bæði að baki og að framan. Þá hrópuðu þeir til Drottins, og prestarnir þeyttu lúðrana, 13.15 og Júdamenn æptu heróp, og er Júdamenn æptu heróp, þá laust Guð Jeróbóam og allan Ísrael í augsýn Abía og Júda. 13.16 Og Ísraelsmenn flýðu fyrir Júdamönnum, og Guð gaf þá þeim á vald. 13.17 Og Abía og lið hans felldu þá unnvörpum, svo að fimm hundruð þúsund einvalaliðs féllu af Ísraelsmönnum, vopnum vegnir. 13.18 Þannig urðu Ísraelsmenn að lúta í lægra haldi um þær mundir, og Júdamenn urðu yfirsterkari, því að þeir studdust við Drottin, Guð feðra þeirra. 13.19 En Abía veitti Jeróbóam eftirför og vann af honum borgir: Betel og þorpin umhverfis hana, Jesana og þorpin umhverfis hana og Efron og þorpin umhverfis hana. 13.20 Og Jeróbóam var máttvana síðan, meðan Abía lifði, og Drottinn laust hann, svo að hann dó. 13.21 En Abía efldist, og hann tók sér fjórtán konur og gat tuttugu og tvo sonu og sextán dætur. 13.22 En það sem meira er að segja um Abía, athafnir hans og orð, það er ritað í Skýringum Íddós spámanns.
14.1 Og Abía lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður í Davíðsborg. Og Asa sonur hans tók ríki eftir hann. Á hans dögum var friður í landi í tíu ár. 14.2 Asa gjörði það, sem gott var og rétt í augum Drottins, Guðs síns. 14.3 Hann afnam hin útlendu ölturu og fórnarhæðirnar, braut sundur merkissteinana og hjó sundur asérurnar. 14.4 Og hann bauð Júdamönnum að leita Drottins, Guðs feðra þeirra, og breyta eftir lögmáli hans og skipunum. 14.5 Hann afnam hæðirnar og sólsúlurnar úr öllum Júdaborgum, og ríkið naut friðar um hans daga. 14.6 Hann reisti kastala í Júda, því að friður var í landi og enginn átti í ófriði við hann þau árin, því að Drottinn veitti honum frið. 14.7 Og hann sagði við Júdamenn: 'Látum oss reisa borgir þessar og girða um þær með múrum og turnum, hurðum og slagbröndum, því að enn þá er landið oss opið, af því að vér höfum leitað Drottins, Guðs vors. Vér höfum leitað hans, og hann hefir veitt oss frið allt um kring.' Byggðu þeir síðan og gekk það vel. 14.8 Og Asa hafði her, er skjöld bar og spjót, úr Júda þrjú hundruð þúsund og úr Benjamín tvö hundruð og áttatíu þúsund manna, er buklara báru og boga bentu. Voru þeir allir hinir mestu kappar. 14.9 En Sera Blálendingur fór í móti þeim með milljón hermanna og þrjú hundruð vagna og komst allt til Maresa. 14.10 Fór Asa út í móti honum, og fylktu þeir sér til orustu í Sefatadal hjá Maresa. 14.11 Og Asa ákallaði Drottin, Guð sinn, og sagði: 'Drottinn, enginn nema þú getur hjálpað lítilmagnanum gegn hinum voldugu. Hjálpa þú oss, Drottinn, Guð vor, því að við þig styðjumst vér, og í þínu nafni höfum vér farið á móti þessum mannfjölda. Drottinn, þú ert vor Guð, gagnvart þér er dauðlegur maðurinn máttvana.' 14.12 Og Drottinn lét Blálendingana bíða ósigur fyrir Asa og fyrir Júdamönnum, svo að Blálendingar flýðu. 14.13 En Asa og lið það, er með honum var, veittu þeim eftirför til Gerar, og féll lið af Blálendingum, svo að enginn þeirra var eftir á lífi, því að þeir féllu unnvörpum fyrir Drottni og fyrir her hans. Höfðu þeir þaðan afar mikið herfang. 14.14 Þeir unnu og allar borgir umhverfis Gerar, því að ótti við Drottin var kominn yfir þær. Rændu þeir síðan allar borgirnar, því að þar var miklu að ræna. 14.15 Þá náðu þeir og hjarðtjöldunum og höfðu á burt með sér að herfangi fjölda sauða og úlfalda, og sneru síðan aftur til Jerúsalem.
15.1 Þá kom andi Guðs yfir Asarja Ódeðsson. 15.2 Gekk hann fram fyrir Asa og mælti til hans: 'Hlýðið á mig, þér Asa og allur Júda og Benjamín. Drottinn er með yður, ef þér eruð með honum. Ef þér leitið hans, mun hann gefa yður kost á að finna sig, en ef þér yfirgefið hann, mun hann yfirgefa yður. 15.3 En langan tíma hefir Ísrael verið án hins sanna Guðs, án presta, er fræddu hann, og án lögmáls. 15.4 Og er þeir voru í nauðum staddir, sneru þeir sér til Drottins, Ísraels Guðs, og leituðu hans, og hann gaf þeim kost á að finna sig. 15.5 Um þær mundir voru engar tryggðir fyrir þá, er fóru eða komu, heldur var hið mesta griðaleysi meðal allra íbúa héraðanna. 15.6 Þjóð rakst á þjóð og borg á borg, því að Drottinn hræddi þá með hvers konar nauðum. 15.7 En verið þér öruggir og látið yður eigi fallast hendur, því að breytni yðar mun umbun hljóta.' 15.8 En er Asa heyrði orð þessi og spádóm Ódeðs spámanns, þá herti hann upp hugann og útrýmdi viðurstyggðunum úr öllu landi Júda og Benjamíns, svo og úr borgum þeim, er hann hafði unnið á Efraímfjöllum, en endurnýjaði altari Drottins, það er var frammi fyrir forsal Drottins. 15.9 Síðan stefndi hann saman öllum Júda og Benjamín og aðkomumönnum þeim, er hjá þeim voru af Efraím, Manasse og Símeon, því að fjöldi manna af Ísrael hafði gengið honum á hönd, er þeir sáu að Drottinn, Guð hans, var með honum. 15.10 Og þeir komu saman í Jerúsalem í þriðja mánuði á fimmtánda ríkisári Asa. 15.11 Og á þeim degi færðu þeir Drottni í sláturfórn af herfanginu, er þeir höfðu fengið: sjö hundruð naut og sjö þúsund sauði. 15.12 Og þeir bundust þeim sáttmála, að leita Drottins, Guðs feðra þeirra, af öllu hjarta sínu og allri sálu sinni, 15.13 og skyldi hver sá, er eigi leitaði Drottins, Guðs Ísraels, líflátinn, yngri sem eldri, karl eða kona. 15.14 Sóru þeir síðan Drottni eiða með hárri röddu og lustu upp fagnaðarópi, en lúðrar og básúnur kváðu við. 15.15 Og allur Júda gladdist yfir eiðnum, því að þeir höfðu eið unnið af öllu hjarta sínu og leitað hans af öllum huga sínum. Gaf Drottinn þeim því kost á að finna sig og veitti þeim frið allt um kring. 15.16 Asa konungur svipti jafnvel Maöku, móður sína, drottningartigninni, fyrir það, að hún hafði gjöra látið hræðilegt aséru-líkneski. Og Asa hjó sundur þetta hræðilega líkneski hennar, muldi það og brenndi það í Kídrondal. 15.17 En fórnarhæðirnar voru ekki afnumdar úr Ísrael. Þó var hjarta Asa óskipt alla ævi hans. 15.18 Hann lét og flytja í hús Guðs helgigjafir föður síns, svo og helgigjafir sínar, silfur, gull og áhöld. 15.19 Og enginn ófriður var fram að þrítugasta og fimmta ríkisári Asa.
16.1 Á þrítugasta og sjötta ríkisári Asa fór Basa Ísraelskonungur herför á móti Júda og víggirti Rama, svo að enginn maður gæti komist út eða inn hjá Asa Júdakonungi. 16.2 Þá tók Asa silfur og gull úr fjárhirslum húss Drottins og konungshallarinnar og sendi Benhadad Sýrlandskonungi, er bjó í Damaskus, með þessari orðsending: 16.3 'Sáttmáli er milli mín og þín, milli föður míns og föður þíns. Sjá, ég sendi þér silfur og gull: Skalt þú nú rjúfa bandalag þitt við Basa Ísraelskonung, svo að hann hafi sig á burt frá mér.' 16.4 Benhadad tók vel máli Asa konungs og sendi hershöfðingja sína móti borgum Ísraels og unnu þeir Íjón, Dan og Abel Maím og öll forðabúr í Naftalí borgum. 16.5 Þegar Basa spurði það, lét hann af að víggirða Rama og hætti við starf sitt. 16.6 En Asa konungur bauð út öllum Júdamönnum, og fluttu þeir burt steinana og viðinn, sem Basa hafði víggirt Rama með, og víggirti hann með þeim Geba og Mispa. 16.7 En um þetta leyti kom Hananí sjáandi til Asa Júdakonungs og sagði við hann: 'Sakir þess að þú studdist við Sýrlandskonung, en studdist ekki við Drottin, Guð þinn, sakir þess er her Sýrlandskonungs genginn þér úr greipum. 16.8 Voru ekki Blálendingar og Líbýumenn mikill her, með afar marga vagna og riddara? En af því þú studdist við Drottin, gaf hann þá þér á vald. 16.9 Því að augu Drottins hvarfla um alla jörðina, til þess að hann megi sýna sig máttkan þeim til hjálpar, sem eru heils hugar við hann. Þér hefir farið heimskulega í þessu, því að héðan í frá munu menn stöðugt eiga í ófriði við þig.' 16.10 En Asa rann í skap við sjáandann og setti hann í stokkhúsið, því að hann var honum reiður fyrir þetta. Asa sýndi og sumum af lýðnum ofríki um þessar mundir. 16.11 Saga Asa er frá upphafi til enda rituð í bókum Júda- og Ísraelskonunga. 16.12 Á þrítugasta og níunda ríkisári sínu gjörðist Asa fótaveikur, og varð sjúkleiki hans mjög mikill. En einnig í sjúkleik sínum leitaði hann ekki Drottins, heldur læknanna. 16.13 Og Asa lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og dó á fertugasta og fyrsta ríkisári sínu. 16.14 Og hann var grafinn í gröf sinni, er hann hafði látið höggva út handa sér í Davíðsborg. Og hann var lagður á líkbekk, er fylltur var kryddjurtum og alls konar smyrslum, blönduðum ilmreykelsi, og afar mikil brenna var gjörð honum til heiðurs.
17.1 Jósafat sonur hans tók ríki eftir hann og efldi sig gegn Ísrael. 17.2 Hann setti herlið í allar víggirtar borgir í Júda og lét fógeta í Júdaland og Efraímborgir, þær er Asa faðir hans hafði unnið. 17.3 Og Drottinn var með Jósafat, því að hann gekk á hinum fyrri vegum Davíðs forföður síns og leitaði ekki Baalanna, 17.4 heldur leitaði Guðs föður síns og fór eftir skipunum hans og breytti ekki sem Ísrael. 17.5 Þess vegna staðfesti Drottinn konungdóminn í hendi hans, svo að allur Júda færði Jósafat gjafir, svo að honum hlotnaðist afar mikil auðlegð og sæmd. 17.6 Og með því að honum óx hugur á vegum Drottins, þá afnam hann og fórnarhæðirnar og asérurnar úr Júda. 17.7 En á þriðja ríkisári sínu sendi hann höfðingja sína Benhaíl, Óbadía, Sakaría, Netaneel og Míkaja til þess að kenna í Júdaborgum, 17.8 og með þeim levítana Semaja, Netanja, Sebadja, Asahel, Semíramót, Jónatan, Adónía, Tobía og Tob Adónía levíta, og ásamt þeim prestana Elísama og Jóram. 17.9 Þeir kenndu í Júda og höfðu með sér lögbók Drottins, og fóru um allar borgir í Júda og kenndu lýðnum. 17.10 Og ótti við Drottin kom yfir öll heiðnu ríkin, er voru umhverfis Júda, svo að þau lögðu eigi í ófrið við Jósafat. 17.11 Og nokkrir af Filistum færðu Jósafat gjafir og silfur í skatt. Einnig færðu Arabar honum fénað: sjö þúsund og sjö hundruð hrúta og sjö þúsund og sjö hundruð geithafra. 17.12 Og þannig varð Jósafat æ voldugri, svo að yfir tók, og hann reisti hallir og vistaborgir í Júda. 17.13 Hafði hann afar mikinn vistaforða í Júdaborgum, og hermenn hafði hann í Jerúsalem, hina mestu kappa. 17.14 Og þetta er tala þeirra eftir ættum þeirra: Af Júda voru þúsundhöfðingjar: Adna höfuðsmaður og þrjú hundruð þúsund hraustir kappar með honum. 17.15 Honum næstur gekk Jóhanan höfuðsmaður og tvö hundruð og áttatíu þúsund manns með honum. 17.16 Honum næstur var Amasja Síkríson, er sjálfviljuglega hafði gengið Drottni á hönd, og tvö hundruð þúsund hraustir kappar með honum. 17.17 En af Benjamín voru: Eljada kappi og tvö hundruð þúsund manns með honum, vopnaðir bogum og buklurum, 17.18 og honum næstur Jósabad og hundrað og áttatíu þúsund herbúinna manna með honum. 17.19 Þessir voru þeir, er konungi þjónuðu, auk þeirra, er konungur hafði sett í víggirtar borgir í öllu Júdalandi.
18.1 Jósafat hlotnaðist afar mikil auðlegð og sæmd, og hann mægðist við Akab. 18.2 Eftir nokkur ár fór hann á fund Akabs til Samaríu. Þá slátraði Akab fjölda sauða og nauta handa honum og mönnum þeim, er með honum voru, og ginnti hann að fara með sér til að herja á Ramót í Gíleað. 18.3 Þá mælti Akab Ísraelskonungur við Jósafat Júdakonung: 'Hvort munt þú fara með mér til Ramót í Gíleað?' Hann svaraði honum: 'Eitt skal yfir báða ganga, mig og þig, mína þjóð og þína þjóð. Skal ég fara með þér til bardagans.' 18.4 Og Jósafat sagði við Ísraelskonung: 'Gakk þú fyrst til frétta og vit, hvað Drottinn segir.' 18.5 Þá stefndi Ísraelskonungur saman spámönnunum, fjögur hundruð manns, og sagði við þá: 'Á ég að fara og herja á Ramót í Gíleað, eða á ég að hætta við það?' Þeir svöruðu: 'Far þú, og Guð mun gefa hana í hendur konungi.' 18.6 En Jósafat mælti: 'Er hér ekki enn einhver spámaður Drottins, að vér mættum leita frétta hjá honum?' 18.7 Ísraelskonungur mælti til Jósafats: 'Enn er einn eftir, er vér gætum látið ganga til frétta við Drottin, en mér er lítið um hann gefið, því að hann spáir mér aldrei góðu, heldur ávallt illu. Hann heitir Míka Jimlason.' Jósafat sagði: 'Eigi skyldi konungur svo mæla.' 18.8 Þá kallaði Ísraelskonungur einn af hirðmönnunum og mælti: 'Sæk sem skjótast Míka Jimlason.' 18.9 En Ísraelskonungur og Jósafat Júdakonungur sátu hvor í sínu hásæti, skrýddir purpuraklæðum úti fyrir borgarhliði Samaríu, og allir spámennirnir spáðu frammi fyrir þeim. 18.10 Þá gjörði Sedekía Kenaanason sér horn úr járni og mælti: 'Svo segir Drottinn: Með þessum munt þú reka Sýrlendinga undir, uns þú hefir gjöreytt þeim.' 18.11 Og allir spámennirnir spáðu á sömu leið og sögðu: 'Far þú til Ramót í Gíleað. Þú munt giftudrjúgur verða, og Drottinn mun gefa hana í hendur konungi.' 18.12 Sendimaðurinn, sem farinn var að sækja Míka, mælti til hans á þessa leið: 'Sjá, spámennirnir hafa einum munni boðað konungi hamingju. Mæl þú sem þeir og boða þú hamingju.' 18.13 En Míka mælti: 'Svo sannarlega sem Drottinn lifir: Það sem Guð minn til mín talar, það mun ég mæla.' 18.14 Þegar hann kom til konungs, mælti konungur til hans: 'Míka, eigum vér að fara og herja á Ramót í Gíleað, eða eigum vér að hætta við það?' Þá sagði hann: 'Farið, þér munuð giftudrjúgir verða, og þeir munu gefnir verða yður á vald!' 18.15 Þá sagði konungur við hann: 'Hversu oft á ég að særa þig um, að þú segir mér eigi annað en sannleikann í nafni Drottins?' 18.16 Þá mælti hann: 'Ég sá allan Ísrael tvístrast um fjöllin eins og hirðislausa sauði, og Drottinn sagði: Þessir hafa engan herra. Fari þeir í friði hver heim til sín.' 18.17 Þá sagði Ísraelskonungur við Jósafat: 'Fer nú eigi sem ég sagði þér: Hann spáir mér eigi góðu, heldur illu einu?' 18.18 Þá mælti hann: 'Eigi er svo. Heyrið orð Drottins! Ég sá Drottin sitja í hásæti sínu og allan himins her standa á tvær hendur honum. 18.19 Og Drottinn sagði: ,Hver vill ginna Akab Ísraelskonung til þess að fara til Ramót í Gíleað og falla þar?` Og einn sagði þetta og annar hitt. 18.20 Þá gekk fram andi, staðnæmdist frammi fyrir Drottni og mælti: ,Ég skal ginna hann.` Og Drottinn sagði við hann: ,Með hverju?` 18.21 Hann mælti: ,Ég ætla að fara og verða lygiandi í munni allra spámanna hans.` Þá mælti hann: ,Þú skalt ginna hann, og þér mun takast það. Far og gjör svo!` 18.22 Þannig hefir þá Drottinn lagt lygianda í munn þessum spámönnum þínum, þar sem Drottinn hefir þó ákveðið að leiða yfir þig ógæfu.' 18.23 Þá gekk að Sedekía Kenaanason, laust Míka kinnhest og mælti: 'Hvaða leið hefir andi Drottins farið frá mér til þess að tala við þig?' 18.24 Þá mælti Míka: 'Það munt þú sjá á þeim degi, er þú fer í felur úr einu herberginu í annað.' 18.25 Þá mælti Ísraelskonungur: 'Takið Míka og færið hann Amón borgarstjóra og Jóas konungssyni 18.26 og segið: ,Svo segir konungur: Kastið manni þessum í dýflissu og gefið honum brauð og vatn af skornum skammti, þar til er ég kem aftur heill á húfi.'` 18.27 Þá mælti Míka: 'Komir þú aftur heill á húfi, þá hefir Drottinn eigi talað fyrir minn munn.' Og hann mælti: 'Heyri það allir lýðir!' 18.28 Síðan fóru þeir Ísraelskonungur og Jósafat Júdakonungur til Ramót í Gíleað. 18.29 Og Ísraelskonungur sagði við Jósafat: 'Ég mun klæðast dularbúningi og ganga í orustuna, en þú skalt vera klæddur búningi þínum.' Klæddist þá Ísraelskonungur dularbúningi, og gengu þeir í orustuna. 18.30 En Sýrlandskonungur hafði boðið foringjunum fyrir vagnliði sínu á þessa leið: 'Þér skuluð eigi berjast við neinn, hvorki smáan né stóran, nema Ísraelskonung einan!' 18.31 Og er foringjarnir fyrir vagnliðinu sáu Jósafat, sögðu þeir: 'Þetta er Ísraelskonungurinn!' og umkringdu hann til að berjast við hann. Þá kallaði Jósafat hátt, og Drottinn hjálpaði honum og Guð ginnti þá burt frá honum. 18.32 Og er foringjarnir fyrir vagnliðinu sáu, að það var ekki Ísraelskonungur, þá hættu þeir að elta hann. 18.33 En maður nokkur lagði ör á streng og skaut af handahófi, og kom á Ísraelskonung milli brynbeltis og pansara. Þá mælti hann við kerrusveininn: 'Snú þú við og kom mér burt úr bardaganum, því að ég er sár.' 18.34 Var bardaginn hinn harðasti um daginn, og Ísraelskonungur stóð í vagninum andspænis Sýrlendingum allt til kvölds, og dó hann um sólsetur.
19.1 Jósafat Júdakonungur sneri við heim til sín til Jerúsalem, heill á húfi. 19.2 Þá gekk Jehú sjáandi Hananíson fyrir hann og mælti til Jósafats konungs: 'Hjálpar þú hinum óguðlegu og elskar þú þá, er hata Drottin? Sakir þessa liggur á þér reiði Drottins. 19.3 Þó er nokkuð gott fundið í fari þínu, því að þú hefir útrýmt asérunum úr landinu og beint huga þínum að því að leita Guðs.' 19.4 En Jósafat dvaldist í Jerúsalem nokkurn tíma. Síðan fór hann aftur um meðal lýðsins frá Beerseba allt til Efraímfjalla og sneri heim til Drottins, Guðs feðra þeirra. 19.5 Hann skipaði og dómara í landinu, í öllum víggirtum borgum í Júda, í hverri borg. 19.6 Og hann sagði við dómarana: 'Gætið að, hvað þér gjörið, því að eigi dæmið þér í umboði manna, heldur Drottins, og hann er með yður í dómum. 19.7 Veri þá ótti Drottins yfir yður, hafið gát á breytni yðar, því að hjá Drottni, Guði vorum, er ekkert ranglæti eða manngreinarálit, né mútur þegnar.' 19.8 En einnig í Jerúsalem skipaði Jósafat menn af levítunum og prestunum og ætthöfðingjum Ísraels til þess að gegna dómarastörfum Drottins og réttarþrætum Jerúsalembúa. 19.9 Og hann lagði svo fyrir þá: 'Svo skuluð þér breyta í ótta Drottins, með trúmennsku og af heilum hug. 19.10 Og í hverri þrætu, er kemur fyrir yður frá bræðrum yðar, þeim er búa í borgum sínum, hvort sem það er vígsök eða um lögmál eða boðorð eða lög eða ákvæði, þá skuluð þér vara þá við, svo að þeir verði ekki sekir við Drottin, og reiði komi yfir yður og bræður yðar. Svo skuluð þér breyta, að þér verðið ekki sekir. 19.11 En Amarja höfuðprestur skal vera fyrir yður í öllum málefnum Drottins, og Sebadja Ísmaelsson, höfðingi Júda ættar, í öllum málefnum konungs, og levítana hafið þér fyrir starfsmenn. Gangið öruggir til starfa. Drottinn mun vera með þeim, sem góður er.'
20.1 Svo bar til eftir þetta, að Móabítar og Ammónítar og nokkrir af Meúnítum með þeim fóru á móti Jósafat til bardaga. 20.2 Og menn komu og fluttu Jósafat svolátandi tíðindi: 'Afar mikill mannfjöldi kemur á móti þér handan yfir hafið, frá Edóm, og eru þeir þegar í Haseson Tamar, það er Engedí.' 20.3 Þá varð Jósafat hræddur og tók að leita Drottins, og lét boða föstu um allan Júda. 20.4 Þá söfnuðust Júdamenn saman til þess að leita Drottins. Komu menn einnig úr öllum Júdaborgum til þess að leita Drottins. 20.5 En Jósafat gekk fram í söfnuði Júda og Jerúsalem, í musteri Drottins, úti fyrir nýja forgarðinum 20.6 og mælti: 'Drottinn, Guð feðra vorra! Þú ert Guð á himnum, þú drottnar yfir öllum ríkjum heiðingjanna. Í þinni hendi er máttur og megin, og fyrir þér fær enginn staðist. 20.7 Þú hefir, Guð vor, stökkt íbúum lands þessa undan lýð þínum Ísrael og gefið það niðjum Abrahams vinar þíns um aldur og ævi. 20.8 Og þeir settust þar að og byggðu þér þar helgidóm, þínu nafni, og mæltu: 20.9 ,Ef ógæfa dynur yfir oss, ófriður, refsidómur, drepsótt eða hallæri, þá munum vér ganga fram fyrir þetta hús og fram fyrir þig, því að þitt nafn býr í húsi þessu, og vér munum hrópa til þín í nauðum vorum, að þú megir heyra og hjálpa.` 20.10 Og sjá, hér eru nú Ammónítar og Móabítar og Seírfjalla-búar. Meðal þeirra leyfðir þú eigi Ísraelsmönnum að koma, þá er þeir komu frá Egyptalandi, heldur hörfuðu þeir frá þeim og eyddu þeim eigi. 20.11 Og nú launa þeir oss og koma til þess að hrekja oss frá óðali þínu, er þú hefir veitt oss til eignar. 20.12 Guð vor, munt þú eigi láta dóm yfir þá ganga? Því að vér erum máttvana gagnvart þessum mikla mannfjölda, er kemur í móti oss. Vér vitum eigi, hvað vér eigum að gjöra, heldur mæna augu vor til þín.' 20.13 En allir Júdamenn stóðu frammi fyrir Drottni, ásamt ungbörnum þeirra, konum og sonum. 20.14 Þá kom andi Drottins yfir Jehasíel Sakaríason, Benajasonar, Jeíelssonar, Mattanjasonar, levíta af Asafsniðjum, þar í söfnuðinum 20.15 og hann mælti: 'Hlýðið á allir Júdamenn og Jerúsalembúar og þú Jósafat konungur: Svo segir Drottinn við yður: Hræðist eigi né skelfist fyrir þessum mikla mannfjölda, því að eigi er yður búinn bardaginn, heldur Guði. 20.16 Farið í móti þeim á morgun. Þeir munu halda upp Sís-stíginn, og þér munuð mæta þeim í dalbotninum austan við Jerúel-eyðimörk. 20.17 En eigi þurfið þér að berjast við þá, skipið yður aðeins í fylkingu, standið kyrrir og sjáið liðsinni Drottins við yður, þér Júdamenn og Jerúsalembúar. Óttist eigi og skelfist eigi. Farið í móti þeim á morgun, og Drottinn mun vera með yður.' 20.18 Þá laut Jósafat fram á ásjónu sína til jarðar, og allir Júdamenn og Jerúsalembúar féllu fram fyrir Drottin til þess að tilbiðja Drottin. 20.19 Síðan stóðu upp levítarnir, er voru af Kahatítaniðjum og Kóraítaniðjum, til þess að lofa Drottin, Guð Ísraels, með afar hárri röddu. 20.20 Og næsta morgun tóku þeir sig upp í býtið og fóru til Tekóa-eyðimerkur, og er þeir fóru út, gekk Jósafat fram og mælti: 'Heyrið mig, þér Júdamenn og Jerúsalembúar! Treystið Drottni, Guði yðar, þá munuð þér fá staðist, trúið spámönnum hans, þá munuð þér giftudrjúgir verða!' 20.21 Síðan réðst hann um við lýðinn og skipaði söngvara Drottni til handa, að þeir skyldu hefja lofsöngva í helgum skrúða, þá er þeir færu út á undan hermönnunum, og segja: 'Lofið Drottin, því að miskunn hans varir að eilífu.' 20.22 En er þeir hófu fagnaðarópið og lofsönginn, setti Drottinn launsátur móti Ammónítum, Móabítum og Seírfjalla-búum, er fóru í móti Júda, og þeir biðu ósigur. 20.23 Ammónítar og Móabítar hófust gegn Seírfjalla-búum til þess að gjöreyða þeim og tortíma, og er þeir höfðu gjörsigrað Seírbúa, þá hjálpuðu þeir til að tortíma hver öðrum. 20.24 Og er Júdamenn komu á hæðina, þaðan er sjá mátti yfir eyðimörkina, og lituðust um eftir mannfjöldanum, sjá, þá voru þeir hnignir dauðir til jarðar, og enginn hafði undan komist. 20.25 En Jósafat kom með mönnum sínum til þess að taka af þeim herfang. Fundu þeir afar mikið af fénaði og munum og klæðum og dýrum áhöldum og rændu handa sér svo miklu, að þeir gátu eigi borið. Og þeir voru þrjá daga að taka af þeim herfang, því að mikið var af því. 20.26 En á fjórða degi söfnuðust þeir saman í Lofgjörðardal, því að þar lofuðu þeir Drottin. Fyrir því heitir sá staður Lofgjörðardalur fram á þennan dag. 20.27 Síðan sneru allir Júdamenn og Jerúsalembúar, og Jósafat fremstur í flokki, með fögnuði á leið til Jerúsalem, því að Drottinn hafði veitt þeim fögnuð yfir óvinum þeirra. 20.28 Og þeir héldu inn í Jerúsalem, í hús Drottins, með hörpum, gígjum og lúðrum. 20.29 En ótti við Guð kom yfir öll heiðnu ríkin, er menn fréttu, að Drottinn hefði barist við óvini Ísraels. 20.30 Og friður var í ríki Jósafats, og Guð hans veitti honum frið allt um kring. 20.31 Og Jósafat ríkti yfir Júda. Hann var þrjátíu og fimm ára gamall, þá er hann varð konungur, og tuttugu og fimm ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Asúba Sílhídóttir. 20.32 Hann fetaði í fótspor Asa föður síns og veik eigi frá þeim, með því að hann gjörði það sem rétt var í augum Drottins. 20.33 Þó voru fórnarhæðirnar ekki afnumdar, og enn þá sneri lýðurinn eigi hjörtum sínum til Guðs feðra þeirra. 20.34 Það sem meira er að segja um Jósafat, er frá upphafi til enda ritað í Sögu Jehú Hananísonar, sem tekin er upp í bók Ísraelskonunga. 20.35 Eftir þetta gjörði Jósafat Júdakonungur samband við Ahasía Ísraelskonung. Hann breytti óguðlega. 20.36 En Jósafat gjörði samband við hann til þess að gjöra skip, er færu til Tarsis, og þeir gjörðu skip í Esjón Geber. 20.37 Þá spáði Elíesar Dódavahúson frá Maresa gegn Jósafat og mælti: 'Sakir þess að þú gjörðir samband við Ahasía, ónýtir Drottinn fyrirtæki þitt.' Og skipin brotnuðu og gátu eigi farið til Tarsis.
21.1 Og Jósafat lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í Davíðsborg. Og Jóram sonur hans tók ríki eftir hann. 21.2 Jóram átti bræður, sonu Jósafats: Asarja, Jehíel, Sakaría, Asarjahú, Míkael og Sefatja. Allir þessir voru synir Jósafats Ísraelskonungs. 21.3 Og faðir þeirra hafði gefið þeim miklar gjafir í silfri og gulli og skartgripum, svo og kastalaborgir í Júda, en konungdóminn fékk hann Jóram í hendur, því að hann var frumgetningurinn. 21.4 En er Jóram hafði náð völdum yfir ríki föður síns og var orðinn fastur í sessi, þá lét hann drepa alla bræður sína og auk þess nokkra af höfðingjum Ísraels með sverði. 21.5 Jóram var þrjátíu og tveggja ára gamall, þá er hann varð konungur, og átta ár ríkti hann í Jerúsalem. 21.6 Og hann fetaði í fótspor Ísraelskonunga, eins og Akabsætt gjörði, því að hann var kvæntur dóttur Akabs. Þannig gjörði hann það, sem illt var í augum Drottins. 21.7 En Drottinn vildi eigi afmá ætt Davíðs, sakir sáttmála þess, er hann hafði gjört við Davíð, og samkvæmt því, er hann hafði heitið, að gefa honum og niðjum hans lampa alla daga. 21.8 Á hans dögum brutust Edómítar undan yfirráðum Júda og tóku konung yfir sig. 21.9 Þá fór Jóram með höfðingjum sínum og öllu vagnliðinu yfir til Saír. Hann tók sig upp um nóttina og barði á Edómítum, sem héldu honum í herkví, svo og á foringjum vagnliðsins. 21.10 Þannig brutust Edómítar undan yfirráðum Júda og hafa aldrei lotið þeim síðan. Þá braust og Líbna um sama leyti undan yfirráðum hans, af því að hann hafði yfirgefið Drottin, Guð feðra sinna. 21.11 Einnig hann gjörði fórnarhæðir í Júdaborgum, ginnti Jerúsalembúa til skurðgoðadýrkunar og tældi Júda. 21.12 Þá kom til hans bréf frá Elía spámanni, er svo hljóðaði: 'Svo segir Drottinn, Guð Davíðs forföður þíns: Sakir þess að þú fetaðir eigi í fótspor Jósafats föður þíns og Asa Júdakonungs, 21.13 heldur fetaðir í fótspor Ísraelskonunga og ginntir Júda og Jerúsalembúa til skurðgoðadýrkunar, eins og Akabsætt ginnti menn til skurðgoðadýrkunar, og lést auk þessa drepa bræður þína, ættmenn þína, er betri voru en þú, 21.14 þá mun Drottinn ljósta lýð þinn, sonu þína og konur og alla eign þína áfelli miklu. 21.15 En sjálfur munt þú taka sjúkleik, iðrakvöl, uns iður þín loks falla út af sjúkdóminum.' 21.16 Og Drottinn æsti reiði Filista og Araba, þeirra er búa hjá Blálendingum, gegn Jóram, 21.17 svo að þeir fóru herför gegn Júda, brutust inn og höfðu burt með sér að herfangi allt fémætt, er var í konungshöllinni, og auk þess sonu hans og konur. Varð enginn eftir af sonum hans nema Jóahas, er var yngstur sona hans. 21.18 En ofan á allt þetta laust Drottinn hann með ólæknandi iðrasjúkleik. 21.19 Og eftir alllangan tíma, að liðnum nær tveim árum, féllu iður hans út af sjúkdóminum, og dó hann eftir miklar þjáningar. En þjóð hans gjörði ekkert bál honum til heiðurs eins og feðrum hans. 21.20 Hann var þrjátíu og tveggja ára gamall, þá er hann varð konungur, og átta ár ríkti hann í Jerúsalem. Fór hann svo, að enginn óskaði hans aftur, og var hann jarðaður í Davíðsborg, þó eigi í konungagröfunum.
22.1 Síðan tóku Jerúsalembúar Ahasía, yngsta son hans, til konungs eftir hann, því að ræningjaflokkurinn, er komið hafði til herbúðanna ásamt Aröbunum, hafði drepið alla þá, er eldri voru, og þannig tók Ahasía ríki, sonur Jórams Júdakonungs. 22.2 Ahasía var fjörutíu og tveggja ára gamall, þá er hann varð konungur, og eitt ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Atalía, sonardóttir Omrí. 22.3 Hann fetaði líka í fótspor Akabsættar, því að móðir hans fékk hann til óguðlegs athæfis með ráðum sínum. 22.4 Og hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, eins og ættmenn Akabs, því að þeir voru ráðgjafar hans eftir dauða föður hans, sjálfum honum til tjóns. 22.5 Að þeirra ráðum var það og, að hann fór herför með Jóram Akabssyni Ísraelskonungi í móti Hasael Sýrlandskonungi, til Ramót í Gíleað, en Sýrlendingar særðu Jóram. 22.6 Þá sneri hann aftur til þess að láta græða sár sín í Jesreel, þau er hann hafði fengið við Rama, þá er hann barðist við Hasael Sýrlandskonung. En Ahasía Jóramsson Júdakonungur fór ofan til Jesreel til þess að vitja um Jóram Akabsson, af því að hann lá sjúkur. 22.7 En það var að Guðs tilstilli, til hrakfara fyrir Ahasía, að hann fór til Jórams. Þegar hann var þangað kominn, fór hann með Jóram á móti Jehú Nimsísyni, er Drottinn hafði smyrja látið til þess að afmá Akabs ætt. 22.8 Og er Jehú háði dóm yfir Akabsætt, hitti hann hershöfðingja Júdamanna og bræðrasonu Ahasía, er þjónuðu Ahasía, og lét drepa þá. 22.9 Síðan lét hann leita Ahasía, og var hann handtekinn, en hann hafði falið sig í Samaríu. Var hann færður Jehú og drepinn. En síðan jörðuðu menn hann, því að þeir sögðu: 'Hann er afkomandi Jósafats, þess er leitaði Drottins af öllu hjarta sínu.' En enginn var sá af ætt Ahasía, er fær væri um að taka við konungdómi. 22.10 Þegar Atalía móðir Ahasía sá, að sonur hennar var dauður, fór hún til og lét drepa alla konungsætt Júda. 22.11 Þá tók Jósabat, dóttir Jórams konungs, Jóas Ahasíason á laun úr hóp konungssonanna, er deyða átti, og fól hann og fóstru hans í svefnherberginu. Þannig fól Jósabat, dóttir Jórams konungs, kona Jójada prests, hann _ því að hún var systir Ahasía _ fyrir Atalíu, svo að hún lét eigi drepa hann. 22.12 Og hann var hjá þeim á laun sex ár í musteri Guðs, meðan Atalía ríkti yfir landinu.
23.1 En á sjöunda ári herti Jójada upp hugann og tók hundraðshöfðingjana Asarja Jeróhamsson, Ísmael Jóhanansson, Asarja Óbeðsson, Maaseja Adajason og Elísafat Síkríson sér að bandamönnum. 23.2 Fóru þeir um í Júda og stefndu saman levítunum úr öllum Júdaborgum, og ætthöfðingjum Ísraels, og komu þeir til Jerúsalem. 23.3 Og allur söfnuðurinn gjörði sáttmála við konung í musteri Guðs. Og hann mælti til þeirra: 'Sjá, konungsson skal vera konungur, svo sem Drottinn hefir heitið um niðja Davíðs. 23.4 Svo skuluð þér gjöra: Þriðjungur yðar, prestanna og levítanna, þér er heim farið hvíldardaginn, skuluð vera hliðverðir. 23.5 Þriðjungur skal vera í konungshöllinni og þriðjungur í Jesód-hliði, en almúgi skal vera í forgörðum musteris Drottins. 23.6 En í musteri Drottins má enginn stíga fæti nema prestarnir og levítar þeir, er þjónustu gegna, þeir mega inn ganga, því að þeir eru helgaðir. En allur annar lýður skal gæta fyrirmæla Drottins. 23.7 Og levítarnir skulu fylkja sér um konung, allir með vopn í hendi, og hver sá, er vill brjótast inn í musterið, skal drepinn verða. Skuluð þér þannig vera með konungi, þá er hann kemur heim og þá er hann fer út.' 23.8 Levítarnir og allir Júdamenn fóru með öllu svo sem Jójada prestur hafði um boðið, sóttu hver sína menn, bæði þá er heim fóru hvíldardaginn og þá er út fóru hvíldardaginn, því að Jójada prestur hafði eigi látið flokkana burt fara. 23.9 Og Jójada prestur fékk hundraðshöfðingjunum spjótin, buklarana og skjölduna, er átt hafði Davíð konungur og voru í musteri Guðs. 23.10 Og hann fylkti öllum lýðnum _ hver maður hafði skotvopn í hendi _ allt í kringum konung, frá suðurhlið musterisins að norðurhlið musterisins, frammi fyrir altarinu og frammi fyrir musterinu. 23.11 Þá leiddu menn konungsson fram og settu á hann kórónuna, fengu honum lögin og tóku hann til konungs, en Jójada og synir hans smurðu hann og hrópuðu: 'Konungurinn lifi!' 23.12 En er Atalía heyrði ópið í lýðnum og varðliðsmönnunum, og hversu þeir fögnuðu konungi, þá kom hún til lýðsins í musteri Drottins. 23.13 Sá hún þá konung standa við súlu sína við innganginn, og höfuðsmennina og lúðursveinana hjá konungi, og allan landslýðinn fagnandi og blásandi í lúðrana, og söngvarana með hljóðfærunum, er gáfu merki til fagnaðarópsins. Þá reif Atalía klæði sín og mælti: 'Samsæri, samsæri!' 23.14 En Jójada prestur lét hundraðshöfðingjana, fyrirliða hersins, ganga fram og mælti til þeirra: 'Leiðið hana út milli raðanna, og hver sem fer á eftir henni skal drepinn með sverði.' Því að prestur hafði sagt: 'Drepið hana eigi í musteri Drottins.' 23.15 Síðan lögðu menn hendur á hana, og er hún var komin þangað, er leið liggur inn um hrossahliðið að konungshöllinni, þá drápu þeir hana þar. 23.16 Jójada gjörði sáttmála milli sín og alls lýðsins og konungs, að þeir skyldu vera lýður Drottins. 23.17 Síðan fór allur lýðurinn inn í musteri Baals og reif það niður. Ölturu hans og líkneskjur brutu þeir, en Mattan, prest Baals, drápu þeir fyrir ölturunum. 23.18 Síðan setti Jójada varðflokka við musteri Drottins, undir forustu levítaprestanna, er Davíð hafði skipað í flokka til þjónustu við musteri Drottins, til þess að bera fram brennifórnir Drottins, eftir því sem ritað er í Móselögmáli, með fögnuði og söng, samkvæmt fyrirmælum Davíðs. 23.19 Þá setti hann hliðverði við hliðin á musteri Drottins, til þess að enginn skyldi inn komast, er á einhvern hátt væri óhreinn. 23.20 Síðan tók hann hundraðshöfðingjana, göfugmennin og yfirmenn lýðsins, svo og landslýðinn allan, og fór með konung ofan frá musteri Drottins. Og er þeir voru komnir inn í konungshöllina um efra hliðið, þá settu þeir konung í konungshásætið. 23.21 Allur landslýður fagnaði og borgin sefaðist. En Atalíu drápu þeir með sverði.
24.1 Jóas var sjö vetra gamall, þá er hann varð konungur, og fjörutíu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Sibja og var frá Beerseba. 24.2 Jóas gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, meðan Jójada prestur lifði. 24.3 Og Jójada tók tvær konur honum til handa, og hann gat sonu og dætur. 24.4 Síðan ásetti Jóas sér að reisa við musteri Drottins. 24.5 Stefndi hann þá saman prestunum og levítunum og sagði við þá: 'Farið um Júdaborgir og safnið fé úr öllum Ísrael til þess að gjöra við musteri Guðs yðar, og skuluð þér vinda bráðan bug að erindi þessu.' En levítarnir fóru að engu ótt. 24.6 Þá kallaði konungur Jójada æðsta prest og sagði við hann: 'Hvers vegna hefir þú eigi annast um að levítarnir heimti inn úr Júda og Jerúsalem skatta þá, er Móse, þjónn Drottins, lagði á Ísraelssöfnuð til lögmálstjaldsins?' 24.7 Því að illkvendið Atalía og synir hennar hafa brotist inn í musteri Guðs og þar á ofan eytt öllum helgigjöfum musteris Drottins í Baalana. 24.8 Síðan gjörðu menn kistu að boði konungs og settu hana fyrir utan hliðið á musteri Drottins. 24.9 Var þá kunngjört í Júda og Jerúsalem, að færa skyldi Drottni skatt þann, er Móse, þjónn Guðs, hafði lagt á Ísrael í eyðimörkinni. 24.10 Fögnuðu þá allir höfuðsmennirnir og allur lýðurinn og komu með skattinn og lögðu í kistuna, uns hún var full. 24.11 Og í hvert sinn, er hann lét levítana fara með kistuna til umsjónarmanns konungs, þegar þeir sáu að féð var mikið orðið, þá kom kanslari konungs og umboðsmaður æðsta prestsins. Tæmdu þeir kistuna og fóru síðan aftur með hana á sinn stað. Gjörðu þeir svo dag eftir dag og söfnuðu ógrynni fjár. 24.12 Og konungur og Jójada fengu það verkstjórunum, er stóðu fyrir vinnunni við musteri Drottins, en þeir leigðu steinhöggvara og trésmiði til þess að reisa við musteri Drottins, svo og járnsmiði og eirsmiði til þess að gjöra við musteri Drottins. 24.13 Og verkstjórarnir unnu, svo að viðgjörðinni miðaði áfram hjá þeim, og færðu þeir musteri Guðs aftur í gott lag eftir ákveðnu máli og gengu vel frá því. 24.14 Og er þeir höfðu lokið því, færðu þeir konungi og Jójada afganginn af fénu, og voru af því gjörð áhöld fyrir hús Drottins _ áhöld til guðsþjónustu og fórnfæringa, skálar og gull- og silfuráhöld. Brennifórnir voru færðar í musteri Drottins alla ævi Jójada. 24.15 En Jójada varð gamall og saddur lífdaga, og hann dó. Var hann hundrað og þrjátíu ára gamall, er hann dó. 24.16 Og hann var grafinn í Davíðsborg hjá konungunum, því að hann hafði breytt vel í Ísrael, svo og gagnvart Guði og musteri hans. 24.17 En eftir andlát Jójada komu höfuðsmenn Júda og lutu konungi, og hlýddi þá konungur á þá. 24.18 Og þeir yfirgáfu musteri Drottins, Guðs feðra sinna, og þjónuðu asérunum og líkneskjunum. Kom þá reiði yfir Júda og Jerúsalem fyrir þessa sök þeirra. 24.19 Og hann sendi spámenn meðal þeirra, til þess að snúa þeim aftur til Drottins. Þeir áminntu þá, en þeir gáfu því engan gaum. 24.20 En andi Guðs hreif Sakaría, son Jójada prests, svo að hann gekk fyrir lýðinn og mælti til þeirra: 'Svo segir Guð: Hvers vegna rjúfið þér boðorð Drottins og sviptið yður allri hamingju? Sakir þess að þér hafið yfirgefið Drottin, þá yfirgefur hann yður.' 24.21 Þá sórust þeir saman gegn honum og lömdu hann grjóti að boði konungs í forgarði musteris Drottins. 24.22 Og Jóas konungur minntist eigi ástar þeirrar, er Jójada faðir hans hafði sýnt honum, heldur lét drepa son hans. En hann mælti í andarslitrunum: 'Drottinn sér það og mun hegna!' 24.23 Þá er ár var liðið, fór her Sýrlendinga í móti honum. En er þeir komu til Júda og Jerúsalem, drápu þeir alla þjóðhöfðingja meðal lýðsins, og sendu allt herfangið til konungsins í Damaskus. 24.24 Þótt her Sýrlendinga væri fámennur, er þeir komu, gaf Drottinn samt afar mikinn her á vald þeirra, af því að þeir höfðu yfirgefið Drottin, Guð feðra sinna, og yfir Jóas létu þeir ganga refsidóma. 24.25 En er þeir héldu burt frá honum _ þeir létu hann eftir fársjúkan _, þá gjörðu þjónar hans samsæri gegn honum vegna blóðsakarinnar á syni Jójada prests og drápu hann í rekkju hans. Lét hann þannig líf sitt, og var hann grafinn í Davíðsborg, en eigi var hann grafinn í konungagröfunum. 24.26 Þessir voru þeir, er samsæri gjörðu gegn honum: Sabad, sonur Símeatar hinnar ammónsku, og Jósabad, sonur Simrítar hinnar móabítísku. 24.27 En um sonu hans og upphæð skatts þess, er á hann var lagður, og byggingu Guðs musteris, er ritað í Skýringum konungabókarinnar. Og Amasía sonur hans tók ríki eftir hann.
25.1 Amasía tók ríki, þá er hann var tuttugu og fimm ára gamall, og tuttugu og níu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jóaddan og var frá Jerúsalem. 25.2 Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, þó eigi með óskiptu hjarta. 25.3 En er hann var orðinn fastur í sessi, lét hann drepa þá menn sína, er drepið höfðu konunginn föður hans. 25.4 En börn þeirra lét hann ekki af lífi taka, heldur fór eftir því, sem ritað er í lögmálinu, í Mósebók, þar sem Drottinn mælir svo fyrir: 'Feður skulu ekki láta lífið ásamt börnunum, og börn skulu ekki láta lífið ásamt feðrunum, heldur skal hver láta lífið fyrir sína eigin synd.' 25.5 Og Amasía stefndi Júdamönnum saman og skipaði þeim niður eftir ættum, eftir þúsundhöfðingjum og hundraðshöfðingjum úr öllum Júda og Benjamín. Síðan kannaði hann þá, tvítuga og þaðan af eldri, og komst að raun um, að þeir voru þrjú hundruð þúsund einvalaliðs, herfærir menn, er borið gátu spjót og skjöld. 25.6 Hann tók og á mála hundrað þúsund kappa af Ísrael fyrir hundrað talentur silfurs. 25.7 En guðsmaður nokkur kom til hans og mælti: 'Þú konungur! Eigi skyldi Ísraelsher fara með þér, því að Drottinn er eigi með Ísrael, með neinum af Efraímsniðjum, 25.8 heldur skalt þú fara einn saman. Gakk þú öruggur til bardaga, annars kann Guð að láta þér veita miður fyrir óvinum þínum, því að það er á Guðs valdi að veita fulltingi og láta veita miður.' 25.9 Amasía svaraði guðsmanninum: 'Hvernig á þá að fara með þessar hundrað talentur, er ég hefi gefið Ísraelshersveitinni?' Guðsmaðurinn svaraði: 'Það er á valdi Drottins að gefa þér miklu meira en það.' 25.10 Þá skildi Amasía frá hersveitina, er komin var til hans úr Efraím, til þess að þeir skyldu halda heimleiðis. Urðu þeir þá sárreiðir Júdamönnum og sneru heimleiðis ofsareiðir. 25.11 En Amasía herti upp hugann, fór með menn sína, hélt til Saltdals og vann sigur á Seírítum, tíu þúsundum manns. 25.12 En aðra tíu þúsund handtóku Júdamenn lifandi. Fóru þeir með þá fram á klettasnös og hrundu þeim ofan af klettasnösinni, svo að brotnaði í þeim hvert bein. 25.13 Þeir af hersveitinni, er Amasía hafði látið aftur hverfa, svo að þeir eigi máttu fara með honum til bardagans, þeir réðust inn í Júdaborgir, frá Samaríu til Bet Hóron, drápu þar þrjú þúsund manns og rændu miklu herfangi. 25.14 En er Amasía var kominn heim eftir sigurinn yfir Edómítum, þá hafði hann með sér guði Seíríta og setti þá upp hjá sér svo sem guði. Laut hann þeim og brenndi reykelsi þeim til handa. 25.15 Þá varð Drottinn reiður Amasía og hann sendi spámann til hans. Hann mælti til hans: 'Hvers vegna leitar þú guða þjóðar þessarar, er eigi gátu frelsað þjóð sína úr hendi þinni?' 25.16 En er hann talaði til hans, þá mælti konungur við hann: 'Höfum vér gjört þig að ráðgjafa konungs? Hættu, eða þú verður barinn.' Þá hætti spámaðurinn og mælti: 'Nú veit ég, að Guð hefir afráðið að tortíma þér, fyrst þú breyttir svo og vilt eigi hlýða á ráð mitt.' 25.17 Síðan réð Amasía Júdakonungur ráðum sínum og gjörði menn á fund Jóasar Jóahassonar, Jehúsonar, Ísraelskonungs, með svolátandi orðsending: 'Nú skulum við reyna með okkur.' 25.18 Þá sendi Jóas Ísraelskonungur Amasía Júdakonungi þau andsvör: 'Þistillinn á Líbanon gjörði sedrustrénu á Líbanon svolátandi orðsending: Gef þú syni mínum dóttur þína að konu. En villidýrin á Líbanon gengu yfir þistilinn og tróðu hann sundur. 25.19 Þú hugsar: Ég hefi unnið mikinn sigur á Edómítum og þú hefir fyllst ofmetnaði. Sit þú nú kyrr heima! Hví vilt þú egna ógæfuna sjálfum þér og Júda til falls?' 25.20 En Amasía gaf þessu engan gaum, því að svo var til stillt af Guði til þess að ofurselja þá fjandmönnunum, af því að þeir höfðu leitað Edómsguða. 25.21 Þá fór Jóas Ísraelskonungur af stað, og varð fundur þeirra, hans og Amasía Júdakonungs, í Bet Semes, er liggur undir Júda. 25.22 Beið Júda þar ósigur fyrir Ísrael, og flýðu þeir hver til síns heima. 25.23 En Jóas Ísraelskonungur tók höndum Amasía Júdakonung, son Jóasar Jóahassonar, í Bet Semes, og fór með hann til Jerúsalem. Hann braut niður múra Jerúsalem, frá Efraímhliði allt að hornhliðinu, fjögur hundruð álnir. 25.24 Því næst tók hann allt gull og silfur og öll áhöld, er fundust í musteri Guðs hjá Óbeð Edóm, svo og fjársjóðu konungshallarinnar og gíslana, og sneri síðan aftur heim til Samaríu. 25.25 Amasía Jóasson Júdakonungur lifði fimmtán ár eftir dauða Jóasar Jóahassonar Ísraelskonungs. 25.26 En það sem meira er að segja um Amasía, er frá upphafi til enda ritað í bók Júda- og Ísraelskonunga. 25.27 Og upp frá því, er Amasía veik frá Drottni, gjörðu menn samsæri gegn honum í Jerúsalem. Flýði hann þá til Lakís, en þeir sendu á eftir honum til Lakís og létu drepa hann þar. 25.28 Fluttu þeir hann síðan á hestum, og var hann grafinn hjá feðrum sínum í Davíðsborg.
26.1 Þá tók allur Júdalýður Ússía, þótt hann væri eigi nema sextán vetra gamall, og gjörði hann að konungi í stað Amasía föður hans. 26.2 Hann víggirti Elót og vann hana aftur undir Júda, eftir að konungurinn var lagstur til hvíldar hjá feðrum sínum. 26.3 Ússía var sextán vetra gamall, þá er hann varð konungur, og fimmtíu og tvö ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jekolja og var frá Jerúsalem. 26.4 Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði Amasía faðir hans. 26.5 Hann leitaði Guðs kostgæfilega, meðan Sakaría var á lífi, er fræddi hann í guðsótta, og meðan hann leitaði Drottins, veitti Guð honum gengi. 26.6 Hann fór í hernað og herjaði á Filista, reif niður múrana í Gat og múrana í Jabne og múrana í Asdod, og reisti borgir í Asdodhéraði og Filistalandi. 26.7 Og Guð veitti honum gegn Filistum og Aröbum, þeim er bjuggu í Gúr Baal, og gegn Meúnítum. 26.8 Ammónítar færðu og Ússía skatt, og frægð hans barst allt til Egyptalands, því að hann varð mjög voldugur. 26.9 Og Ússía reisti turna í Jerúsalem, á hornhliðinu, á dalhliðinu og í króknum og víggirti þá. 26.10 Hann reisti og turna í eyðimörkinni, og lét höggva út fjölda af brunnum, því að hann átti stórar hjarðir, bæði á láglendinu og á sléttunni, svo og akurmenn og víngarðsmenn í fjöllunum og á Karmel, því að hann hafði mætur á landbúnaði. 26.11 Ússía hafði og her, er gegndi herþjónustu og fór í hernað í flokkum, allir þeir, er Jeíel ritari og Maaseja tilsjónarmaður höfðu kannað undir umsjón Hananja, eins af höfuðsmönnum konungs. 26.12 Ætthöfðingjarnir, kapparnir, voru alls tvö þúsund og sex hundruð að tölu. 26.13 En undir þeim stóð her, er í voru þrjú hundruð og sjö þúsund og fimm hundruð manns, er inntu herþjónustu af hendi af mestu hreysti, til þess að veita konungi gegn fjandmönnunum. 26.14 Fékk Ússía þeim, öllum hernum, skjöldu, spjót, hjálma, pansara, boga og slöngusteina. 26.15 Þá lét hann og gjöra í Jerúsalem vélar með miklum hagleik. Skyldu þær vera í turnunum og hornunum til að skjóta með örvum og stórum steinum. Og frægð hans barst til fjarlægra landa, því að honum hlotnaðist dásamlegt liðsinni, uns hann var voldugur orðinn. 26.16 En er hann var voldugur orðinn, varð hann drembilátur, og það svo, að hann aðhafðist óhæfu og braut á móti Drottni, Guði sínum, er hann gekk inn í musteri Drottins til þess að brenna reykelsi á reykelsisaltarinu. 26.17 Gekk þá Asarja prestur á eftir honum og með honum áttatíu duglegir prestar Drottins. 26.18 Þeir stóðu í móti Ússía konungi og sögðu við hann: 'Það er eigi þitt, Ússía, að brenna reykelsi fyrir Drottni, heldur prestanna, niðja Arons, er vígðir eru til þess að færa reykelsisfórnir. Far þú út úr helgidóminum, því að þú ert brotlegur orðinn, og verður þér það eigi til sæmdar fyrir Drottni Guði.' 26.19 En Ússía reiddist, þar sem hann hélt á reykelsiskerinu í hendinni til þess að færa reykelsisfórn, og er hann reiddist prestunum, braust líkþrá út á enni honum að prestunum ásjáandi í musteri Drottins, við reykelsisaltarið. 26.20 Og er Asarja höfuðprestur og allir prestarnir litu á hann, þá var hann líkþrár á enninu. Ráku þeir hann þá út þaðan, og sjálfur flýtti hann sér og í burt, því að Drottinn hafði lostið hann. 26.21 Þannig varð Ússía konungur líkþrár til dauðadags. Bjó hann kyrr í höll sinni sem líkþrár, því að hann var útilokaður frá musteri Drottins, en Jótam sonur hans veitti forstöðu konungshöllinni og dæmdi mál landsmanna. 26.22 En það, sem meira er að segja um Ússía, hefir Jesaja Amozson spámaður ritað frá upphafi til enda. 26.23 Og Ússía lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og var grafinn hjá feðrum sínum á bersvæði hjá konungagröfunum, því að menn sögðu: 'Hann er líkþrár!' Og Jótam sonur hans tók ríki eftir hann.
27.1 Jótam var tuttugu og fimm ára gamall, þá er hann varð konungur, og sextán ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jerúsa Sadóksdóttir. 27.2 Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði Ússía faðir hans. Þó fór hann eigi inn í musteri Drottins. En lýðurinn aðhafðist enn óhæfu. 27.3 Hann reisti efra hliðið á musteri Drottins, og af Ófelmúr byggði hann mikið. 27.4 Þá reisti hann og borgir í Júdafjöllum, og í skógunum reisti hann hallir og turna. 27.5 Hann átti og í ófriði við konunga Ammóníta og vann sigur á þeim. Guldu Ammónítar honum það ár hundrað talentur silfurs, tíu þúsund kór hveitis og tíu þúsund kór byggs. Færðu Ammónítar honum þetta einnig annað og þriðja árið. 27.6 Varð Jótam þannig æ voldugri, því að hann gekk veg sinn fyrir augliti Drottins, Guðs síns. 27.7 Það sem meira er að segja um Jótam og um alla bardaga hans og fyrirtæki, það er ritað í bók Ísraels- og Júdakonunga. 27.8 Hann var tuttugu og fimm ára gamall, þá er hann varð konungur, og sextán ár ríkti hann í Jerúsalem. 27.9 Og Jótam lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og var grafinn í Davíðsborg. Og Akas sonur hans tók ríki eftir hann.
28.1 Akas var tvítugur að aldri, þá er hann varð konungur, og sextán ár ríkti hann í Jerúsalem. Hann gjörði ekki það, sem rétt var í augum Drottins, svo sem Davíð forfaðir hans, 28.2 heldur fetaði hann í fótspor Ísraelskonunga, og lét auk þess gjöra steypt líkneski, Baölunum til handa. 28.3 Hann brenndi og reykelsi í Hinnomssonardal, lét sonu sína ganga gegnum eldinn, og drýgði þannig sömu svívirðingarnar og þær þjóðir, er Drottinn hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum. 28.4 Hann fórnaði og sláturfórnum og reykelsisfórnum á hæðunum og hólunum og undir hverju grænu tré. 28.5 Þá gaf Drottinn, Guð hans, hann á vald Sýrlandskonungi, og unnu þeir sigur á honum og höfðu burt með sér hernumda fjöldamarga af mönnum hans, og fluttu til Damaskus. Auk þessa var hann og gefinn Ísraelskonungi á vald, og vann hann mikinn sigur á honum. 28.6 Og Peka Remaljason drap á einum degi í Júda hundrað og tuttugu þúsundir, allt hrausta menn, af því að þeir höfðu yfirgefið Drottin, Guð feðra sinna. 28.7 En Síkrí, kappi úr Efraím, drap Maaseja konungsson og Asríkam hallarstjóra og Elkana, er næstur gekk konungi. 28.8 Og Ísraelsmenn höfðu burt með sér tvö hundruð þúsund af herteknu fólki frá frændum sínum, konur, sonu og dætur, tók af þeim afar mikið herfang og fóru með herfangið til Samaríu. 28.9 En þar var spámaður Drottins, er Ódeð hét. Hann fór út, gekk fram fyrir herinn, er kom til Samaríu, og mælti til þeirra: 'Sjá, af því að Drottinn, Guð feðra yðar, var reiður Júdamönnum, gaf hann þá yður á vald, svo að þér gátuð drepið þá niður með þeirri reiði, er nær til himins. 28.10 Og nú hyggið þér að gjöra þessa Júdamenn og Jerúsalembúa að þrælum yðar og ambáttum. En eruð þér þá eigi sjálfir sekir við Drottin, Guð yðar? 28.11 Hlýðið því á mig og sendið aftur fangana, er þér hafið haft burt hernumda frá frændum yðar, því að hin brennandi reiði Drottins vofir yfir yður.' 28.12 Þá risu nokkrir af höfðingjum Efraímíta, þeir Asarja Jóhanansson, Berekía Mesillemótsson, Hiskía Sallúmsson og Amasa Hadlaíson upp í gegn þeim, er komu úr herförinni, 28.13 og sögðu við þá: 'Þér skuluð eigi fara með fangana hingað, því að þér ætlið að auka við syndir vorar og sekt, í viðbót við sekt þá við Drottin, er á oss hvílir. Því að sekt vor er mikil, og brennandi reiði vofir yfir Ísrael.' 28.14 Þá slepptu hermennirnir föngunum og herfanginu í viðurvist höfuðsmannanna og alls safnaðarins. 28.15 Gengu þá til menn þeir, er til þess voru kvaddir með nafni, og önnuðust fangana. Klæddu þeir af herfanginu alla þá, er naktir voru meðal þeirra, gáfu þeim klæði og skó og að eta og drekka og smurðu þá, settu alla þá á asna, er uppgefnir voru, og fluttu þá til Jeríkó, pálmaborgarinnar, til frænda þeirra, og sneru síðan heim aftur til Samaríu. 28.16 Um þessar mundir sendi Akas konungur til Assýríukonunga til þess að biðja sér liðveislu. 28.17 Þá komu og Edómítar, unnu sigur á Júdamönnum og færðu burt bandingja. 28.18 En Filistar réðust inn í borgirnar á láglendinu og í Júda sunnanverðu, tóku Bet Semes, Ajalon, Gederót og Sókó og þorpin umhverfis hana, Timna og þorpin umhverfis hana og Gimsó og þorpin umhverfis hana, og settust þar að. 28.19 Því að Drottinn lægði Júda sakir Akasar Ísraelskonungs, því að hann hafði framið gegndarlausa óhæfu í Júda og sýnt Drottni mikla ótrúmennsku. 28.20 Þá fór Tílgat-Pilneser Assýríukonungur í móti honum og kreppti að honum, en veitti honum eigi lið. 28.21 Því að Akas ruplaði musteri Drottins og konungshöllina og höfuðsmennina, og gaf Assýríukonungi, en það kom honum að engu haldi. 28.22 Og um þær mundir, sem hann kreppti að honum, sýndi hann, Akas konungur, Drottni ótrúmennsku enn að nýju. 28.23 Hann færði fórnir guðunum í Damaskus, þeim er höfðu unnið sigur á honum, og mæltu: 'Það eru guðir Sýrlandskonunga, er hafa hjálpað þeim. Þeim vil ég færa fórnir, til þess að þeir hjálpi mér.' En þeir urðu honum og öllum Ísrael til falls. 28.24 Og Akas safnaði saman áhöldum Guðs húss og braut sundur áhöld Guðs húss. Hann lokaði og dyrunum á musteri Drottins, en gjörði sér ölturu í hverju horni í Jerúsalem. 28.25 Og í sérhverri Júdaborg gjörði hann fórnarhæðir til þess að brenna reykelsi fyrir öðrum guðum, og egndi þannig Drottin, Guð feðra sinna, til reiði. 28.26 Það sem meira er að segja um hann og öll fyrirtæki hans, bæði fyrr og síðar, það er ritað í bók Júda- og Ísraelskonunga. 28.27 Og Akas lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í borginni, í Jerúsalem, því að eigi var hann færður í grafir Ísraelskonunga. Og Hiskía sonur hans tók ríki eftir hann.
29.1 Hiskía varð konungur, þá er hann var tuttugu og fimm ára gamall og tuttugu og níu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Abía Sakaríadóttir. 29.2 Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, að öllu svo sem gjört hafði Davíð forfaðir hans. 29.3 Í fyrsta mánuði á fyrsta ríkisári sínu opnaði hann dyrnar að musteri Drottins, og gjörði við þær. 29.4 Síðan lét hann prestana og levítana koma og stefndi þeim saman á auða svæðinu austan til. 29.5 Og hann sagði við þá: 'Hlýðið á mig, þér levítar! Helgið nú sjálfa yður og helgið musteri Drottins, Guðs feðra yðar, og útrýmið viðurstyggðinni úr helgidóminum. 29.6 Því að feður vorir hafa sýnt ótrúmennsku og gjört það, sem illt var í augum Drottins, Guðs vors, og yfirgefið hann. Þeir sneru augliti sínu burt frá bústað Drottins og sneru við honum bakinu. 29.7 Þá hafa þeir og læst dyrunum að forsalnum, slökkt á lömpunum, eigi brennt reykelsi og eigi fært Guði Ísraels brennifórn í helgidóminum. 29.8 Fyrir því kom reiði Drottins yfir Júda og Jerúsalem, og hann lét þá sæta misþyrmingu og gjörði þá að undri og athlægi, svo sem þér sjáið með eigin augum. 29.9 Nú eru þá feður vorir fallnir fyrir sverðseggjum, og synir vorir og dætur og konur eru hernumdar fyrir þetta. 29.10 Nú hefi ég einsett mér að gjöra sáttmála við Drottin, Guð Ísraels, til þess að hin brennandi reiði hans megi hverfa frá oss. 29.11 Verið þá eigi skeytingarlausir, synir mínir! Því að yður hefir Drottinn útvalið til þess að standa frammi fyrir sér, til þess að þjóna sér, og til þess að þér skuluð vera þjónustumenn hans og brenna reykelsi honum til handa.' 29.12 Þá gengu fram levítarnir: Mahat Amasaíson og Jóel Asarjason af Kahatítaniðjum. Af Meraríniðjum: Kís Abdíson og Asarja Jehallelelsson. Af Gersonítum: Jóa Simmason og Eden Jóason. 29.13 Af Elísafsniðjum: Simrí og Jeíel. Af Asafsniðjum: Sakaría og Mattanja. 29.14 Af Hemansniðjum: Jehíel og Símeí. Af Jedútúnsniðjum: Semaja og Ússíel. 29.15 Stefndu þeir saman frændum sínum, helguðu sig og komu að boði konungs til þess að hreinsa musteri Drottins eftir fyrirmælum Drottins. 29.16 Og prestarnir fóru inn í musteri Drottins til þess að hreinsa það, og fóru með allt óhreint, er þeir fundu í musteri Drottins, út í forgarð musteris Drottins. Tóku levítarnir við því til þess að fara með það út í Kídronlæk. 29.17 Hófu þeir helgunina hinn fyrsta dag hins fyrsta mánaðar, og á áttunda degi mánaðarins voru þeir komnir að forsal Drottins. Helguðu þeir síðan musteri Drottins á átta dögum, og á sextánda degi hins fyrsta mánaðar var verkinu lokið. 29.18 Gengu þeir þá inn fyrir Hiskía konung og sögðu: 'Vér höfum hreinsað allt musteri Drottins og brennifórnaraltarið og öll áhöld þess, svo og borðið fyrir raðabrauðin og öll áhöld þess. 29.19 Og öll þau áhöld, er Akas konungur smáði af ótrúmennsku sinni, höfum vér sett fram og helgað. Standa þau nú frammi fyrir altari Drottins.' 29.20 Næsta morgun snemma stefndi Hiskía konungur saman höfuðsmönnum borgarinnar og fór upp í musteri Drottins. 29.21 Færðu þeir þá sjö naut, sjö hrúta, sjö lömb og sjö geithafra í syndafórn fyrir ríkið og fyrir helgidóminn og fyrir Júda. Og hann bauð niðjum Arons, prestunum, að færa hana á altari Drottins. 29.22 Slátruðu þeir þá nautunum, og tóku prestarnir við blóðinu og stökktu á altarið. Síðan slátruðu þeir hrútunum og stökktu blóðinu á altarið. Þá slátruðu þeir lömbunum og stökktu blóðinu á altarið. 29.23 Síðan færðu þeir syndafórnarhafrana fram fyrir konung og söfnuðinn, og lögðu þeir hendur sínar á þá. 29.24 Síðan slátruðu prestarnir þeim og færðu blóð þeirra í syndafórn á altarinu til þess að friðþægja fyrir allan Ísrael, því að konungur hafði fyrirskipað brennifórnina og syndafórnina fyrir allan Ísrael. 29.25 Og hann setti levítana í musteri Drottins með skálabumbur, hörpur og gígjur, samkvæmt fyrirmælum Davíðs og Gaðs, sjáanda konungs, og Natans spámanns. Því að þessi fyrirmæli voru að tilstilli Drottins, fyrir munn spámanna hans. 29.26 Stóðu þá levítarnir með hljóðfæri Davíðs, og prestarnir með lúðra. 29.27 Þá bauð Hiskía að láta brennifórnina á altarið og er brennifórnin var hafin, hófst og söngur Drottins og lúðrarnir kváðu við undir forustu hljóðfæra Davíðs Ísraelskonungs. 29.28 Þá féll allur söfnuðurinn fram, söngurinn kvað við og lúðrarnir gullu, allt þetta, þar til er brennifórninni var lokið. 29.29 Og er fórnfæringunni var lokið, beygði konungur kné sín og allir þeir, er með honum voru, og féllu fram. 29.30 Bauð þá Hiskía konungur og höfuðsmennirnir levítunum að syngja Drottni lofsöng með orðum Davíðs og Asafs sjáanda, og sungu þeir lofsönginn með gleði, hneigðu sig og féllu fram. 29.31 Þá tók Hiskía til máls og sagði: 'Nú hafið þér vígt yður Drottni. Gangið nú fram og farið með sláturfórnir og þakkarfórnir í musteri Drottins.' Færði þá söfnuðurinn sláturfórnir og þakkarfórnir, og hver, sem til þess var fús, færði brennifórnir. 29.32 En talan á brennifórnunum, er söfnuðurinn færði, var: sjötíu naut, hundrað hrútar og tvö hundruð lömb. Var allt þetta ætlað til brennifórnar Drottni til handa. 29.33 Og þakkarfórnirnar voru sex hundruð naut og þrjú þúsund sauðir. 29.34 En prestarnir voru of fáir, svo að þeir gátu ekki flegið öll brennifórnardýrin. Hjálpuðu þá frændur þeirra, levítarnir, þeim, uns starfinu var lokið og prestarnir helguðu sig, því að levítarnir höfðu einlægari áhuga á því að helga sig en prestarnir. 29.35 Auk þessa voru færðar margar brennifórnir, ásamt hinum feitu stykkjum heillafórnanna og dreypifórnum þeim, er brennifórnunum fylgdu. Þannig var þjónustunni við musteri Drottins komið í lag. 29.36 En Hiskía og allur lýðurinn gladdist yfir því, er Guð hafði búið lýðnum, því að þessu var komið í kring samstundis.
30.1 Síðan sendi Hiskía menn til alls Ísraels og Júda og ritaði einnig bréf til Efraíms og Manasse um að koma til musteris Drottins í Jerúsalem til þess að halda Drottni, Guði Ísraels, páska. 30.2 Réð konungur það af og höfuðsmenn hans og allur söfnuðurinn í Jerúsalem, að halda páska í öðrum mánuðinum. 30.3 Því að um þetta leyti gátu þeir eigi haldið þá, sakir þess að eigi höfðu nægilega margir prestar helgað sig og lýðnum var eigi enn stefnt saman til Jerúsalem. 30.4 Leist konungi og söfnuðinum öllum þetta rétt, 30.5 og kváðu því svo á, að boða skyldi um allan Ísrael frá Beerseba til Dan, að menn skyldu koma til þess að halda Drottni, Guði Ísraels, páska í Jerúsalem, því að þeir höfðu eigi haldið þá eins fjölmennir og fyrir var mælt. 30.6 Þá fóru hraðboðarnir með bréf frá konungi og höfuðsmönnum hans um allan Ísrael og Júda, og mæltu svo eftir boði konungs: 'Þér Ísraelsmenn! Snúið aftur til Drottins, Guðs Abrahams, Ísaks og Ísraels, til þess að hann snúi sér að leifunum, er komist hafa undan af yður úr hendi Assýríukonungs. 30.7 Verið eigi sem feður yðar og frændur, er sýndu ótrúmennsku Drottni, Guði feðra sinna, svo að hann ofurseldi þá eyðileggingunni, svo sem þér sjáið. 30.8 Þverskallist því eigi svo sem feður yðar, réttið Drottni höndina og komið til helgidóms hans, er hann hefir helgað að eilífu, og þjónið Drottni, Guði yðar, svo að hin brennandi reiði hans megi hverfa frá yður. 30.9 Því að ef þér snúið yður til Drottins, þá munu bræður yðar og synir finna miskunn hjá þeim, er hafa flutt þá burt hernumda, svo að þeir megi hverfa heim aftur til þessa lands. Því að náðugur og miskunnsamur er Drottinn, Guð yðar, og hann mun eigi snúa augliti sínu frá yður, ef þér snúið yður aftur til hans.' 30.10 Og hraðboðarnir fóru úr einni borginni í aðra í Efraím- og Manasselandi og allt til Sebúlons, en menn hlógu að þeim og gjörðu gys að þeim. 30.11 Þó lægðu sig nokkrir menn af Asser, Manasse og Sebúlon, og komu til Jerúsalem. 30.12 Einnig í Júda réð hönd Guðs, svo að hann gaf þeim eindrægni til þess að fylgja boði því, er konungur og höfuðsmennirnir höfðu látið út ganga að boði Drottins. 30.13 Síðan safnaðist fjöldi fólks saman í Jerúsalem til þess að halda hátíð hinna ósýrðu brauða í öðrum mánuði. Var það afar mikill söfnuður. 30.14 Hófust þeir þá handa og afnámu ölturun, er voru í Jerúsalem, svo afnámu þeir og öll reykelsisölturun og fleygðu í Kídronlæk. 30.15 Síðan slátruðu þeir páskalambinu á fjórtánda degi hins annars mánaðar, og prestarnir og levítarnir blygðuðust sín og færðu brennifórnir í musteri Drottins. 30.16 Og þeir gengu fram á sinn ákveðna stað, eins og þeim var fyrir sett samkvæmt lögmáli guðsmannsins Móse. Stökktu prestarnir blóðinu, er þeir höfðu tekið við því hjá levítunum. 30.17 Því að margir voru þeir í söfnuðinum, er eigi höfðu helgað sig, en levítarnir sáu um slátrun á páskalömbunum fyrir alla þá, er eigi voru hreinir, til þess að helga þau Drottni. 30.18 Því að fjöldi lýðsins, margir úr Efraím, Manasse, Íssakar og Sebúlon höfðu eigi hreinsað sig, og neyttu eigi páskalambsins á þann hátt, sem fyrir er mælt, en Hiskía bað fyrir þeim og sagði: 'Drottinn, sem er góður, fyrirgefi 30.19 hverjum er leggur hug á að leita Guðs, Drottins, Guðs feðra sinna, enda þótt hann eigi sé svo hreinn sem sæmir helgidóminum.' 30.20 Og Drottinn bænheyrði Hiskía og þyrmdi lýðnum. 30.21 Svo héldu þá Ísraelsmenn, þeir er voru í Jerúsalem, hátíð hinna ósýrðu brauða í sjö daga með miklum fögnuði, og prestarnir og levítarnir lofuðu Drottin dag eftir dag af öllum mætti. 30.22 Og Hiskía talaði vinsamlega við alla levítana, er sýndu góðan skilning á þjónustu Drottins. Átu þeir síðan hátíðarfórnina í sjö daga og slátruðu heillafórnum og lofuðu Drottin, Guð feðra sinna. 30.23 Og allur söfnuðurinn réð það af að halda hátíð aðra sjö daga, og héldu þeir svo fagnaðarhátíð í sjö daga. 30.24 Því að Hiskía Júdakonungur hafði gefið söfnuðinum þúsund naut og sjö þúsund sauði, og höfuðsmennirnir höfðu gefið söfnuðinum þúsund naut og tíu þúsund sauði. Og fjöldi presta helgaði sig. 30.25 Svo fagnaði þá allur Júdasöfnuður og prestarnir og levítarnir og allur söfnuður þeirra, er komnir voru úr Ísrael, og útlendingarnir, er komnir voru úr Ísraelslandi, og þeir er bjuggu í Júda. 30.26 Og mikill fögnuður var í Jerúsalem, því að síðan á dögum Salómons, sonar Davíðs Ísraelskonungs, hafði slíkt eigi borið við í Jerúsalem. 30.27 Og levítaprestarnir stóðu upp og blessuðu lýðinn, og hróp þeirra var heyrt og bæn þeirra komst til hins heilaga bústaðar hans, til himins.
31.1 Þegar öllu þessu var lokið, fóru allir Ísraelsmenn, er þar voru viðstaddir, til Júda-borga, brutu sundur merkissteinana, hjuggu sundur asérurnar og rifu niður fórnarhæðirnar og ölturun í öllum Júda, Benjamín, Efraím og Manasse, uns þeim var gjöreytt. Fóru síðan allir Ísraelsmenn aftur til borga sinna, hver til síns óðals. 31.2 Hiskía setti presta- og levítaflokkana, eftir flokkaskipun þeirra _ hvern eftir sinni presta- eða levíta-þjónustu við brennifórnir eða heillafórnir _ til þess að þjóna og syngja lof og þakkargjörð í herbúðahliðum Drottins. 31.3 Og skerfur sá, er konungur lagði til af eigum sínum, gekk til brennifórnanna, til brennifórnanna kvelds og morgna, svo og til brennifórnanna á hvíldardögunum, tunglkomudögunum og löghátíðunum, samkvæmt því sem ritað er í lögmáli Drottins. 31.4 Og hann bauð lýðnum, Jerúsalembúum, að gefa prestunum og levítunum þeirra skerf, svo að þeir mættu halda fast við lögmál Drottins. 31.5 Og er þetta boð barst út, reiddu Ísraelsmenn fram ríkulega frumgróða af korni, aldinlegi, olíu, hunangi og öllum jarðargróða, og færðu tíundir af öllu. 31.6 En Ísraelsmenn og Júdamenn, er bjuggu í Júdaborgum, þeir færðu og tíundir af nautum og sauðum og tíundir af helgigjöfunum, er helgaðar voru Drottni, Guði þeirra, og lögðu bing við bing. 31.7 Tóku þeir að hrúga upp bingjunum í þriðja mánuði og luku við það í sjöunda mánuði. 31.8 Kom þá Hiskía og höfuðsmennirnir, litu á bingina og lofuðu Drottin og lýð hans Ísrael. 31.9 Og er Hiskía spurði prestana og levítana um bingina, 31.10 þá svaraði honum Asarja, höfuðprestur af ætt Sadóks, og sagði: 'Frá því er byrjað var á að færa gjafir í musteri Drottins, höfum vér etið oss sadda og haft þó afar mikið afgangs, því að Drottinn hefir blessað lýð sinn, svo að vér höfum þessi kynstur afgangs.' 31.11 Þá bauð Hiskía, að gjöra skyldi klefa í musteri Drottins, og er svo var gjört, 31.12 færðu menn þangað ráðvandlega gjafirnar og tíundirnar og helgigjafirnar. Var Kananja levíti umsjónarmaður yfir þeim, og Símeí bróðir hans næstur honum, 31.13 en Jehíel, Asasja, Nahat, Asahel, Jerímót, Jósabad, Elíel, Jismakja, Mahat og Benaja voru skipaðir Kananja og Símeí bróður hans til aðstoðar við umsjónina, eftir boði Hiskía konungs og Asarja, höfuðsmanns yfir musteri Guðs. 31.14 Og Kóre Jimnason levíti, hliðvörður að austanverðu, hafði umsjón með sjálfviljagjöfunum, er færðar voru Guði, til þess að afhenda gjafir Drottins og hinar háhelgu gjafir. 31.15 En undir honum stóðu Eden, Minjamín, Jesúa, Semaja, Amarja og Sekanja, og skyldu þeir með samviskusemi skipta með frændum sínum í prestaborgunum, bæði eldri og yngri, eftir flokkum þeirra, 31.16 auk þeirra af karlkyni, er skráðir voru í ættartölur, þrevetrum og þaðan af eldri, öllum þeim, er komu í musteri Drottins, svo sem á þurfti að halda dag hvern, til þess að rækja störf sín eftir flokkum samkvæmt þjónustu sinni. 31.17 Og prestarnir voru skráðir í ættartölur eftir ættum, svo og levítarnir, tvítugir og þaðan af eldri, samkvæmt þjónustu þeirra og flokkaskipun. 31.18 Voru þeir skráðir í ættartölur ásamt börnum þeirra, konum, sonum og dætrum úr allri stéttinni, því að hinum helgu hlutum átti að skipta ráðvandlega. 31.19 Auk þess höfðu prestarnir, niðjar Arons, menn á lendum þeim, er voru á beitilöndunum, er lágu undir borgir þeirra, í sérhverri borg _ menn er skráðir voru með nafni _ og skyldu þeir fá öllum karlmönnum af prestunum og öllum levítunum, er skráðir voru í ættartölur, sinn skerf. 31.20 Svo gjörði Hiskía í öllum Júda, og hann gjörði það, sem gott var og rétt og ráðvandlegt fyrir Drottni, Guði hans. 31.21 Og í hverju því verki, er hann tók sér fyrir hendur viðvíkjandi þjónustunni við musteri Guðs, og lögmálinu og boðinu um að leita Guðs síns, breytti hann af heilum hug og varð auðnumaður.
32.1 Eftir þessa atburði og eftir að hann hafði sýnt trúmennsku þessa, kom Sanheríb Assýríukonungur. Hann réðst inn í Júda, settist um víggirtar borgir og hugðist ná þeim á sitt vald. 32.2 Og er Hiskía varð þess vís, að Sanheríb kæmi og ætlaði sér að ráða á Jerúsalem, 32.3 þá réðst hann um við höfuðsmenn sína og kappa að stemma vatnslindirnar utanborgar, og veittu þeir honum stuðning. 32.4 Kom þá saman fjöldi fólks og stemmdu allar lindir og lækinn, er rann um mitt landið, og sögðu: 'Hvers vegna ættu Assýríukonungar að finna gnóttir vatns, er þeir koma?' 32.5 Hann herti því upp hugann, gjörði alls staðar við múrinn, þar sem hann var brotinn niður, gekk upp á turnana og ytri múrinn úti fyrir, víggirti Milló í Davíðsborg og lét gjöra afar mikið af skotvopnum og skjöldum. 32.6 Síðan skipaði hann herforingja yfir lýðinn og stefndi þeim til sín á torginu við borgarhliðið, talaði vinsamlega til þeirra og mælti: 32.7 'Verið hughraustir og öruggir, óttist eigi né hræðist Assýríukonung og allan þann manngrúa, sem með honum er, því að sá er meiri, sem með oss er, en með honum. 32.8 Því að hann styður mannlegur máttur, en með oss er Drottinn, Guð vor, til þess að hjálpa oss og heyja orustur vorar.' Og lýðurinn treysti á orð Hiskía Júdakonungs. 32.9 Eftir þetta sendi Sanheríb Assýríukonungur þjóna sína til Jerúsalem _ en sjálfur var hann hjá Lakís og allt lið hans hjá honum _ á fund Hiskía Júdakonungs og allra Júdamanna, þeirra er voru í Jerúsalem, með svolátandi orðsending: 32.10 'Svo segir Sanheríb Assýríukonungur: Á hvað treystið þér, er þér sitjið innikrepptir í Jerúsalem? 32.11 Vissulega ginnir Hiskía yður til þess að láta yður deyja úr hungri og þorsta, er hann segir: ,Drottinn, Guð vor, mun frelsa oss af hendi Assýríukonungs!` 32.12 Hefir þá ekki Hiskía þessi afnumið fórnarhæðir hans og ölturu, er hann bauð Júdamönnum og Jerúsalembúum á þessa leið: ,Þér eigið að falla fram fyrir einu altari, og á því einu megið þér brenna reykelsi?` 32.13 Vitið þér eigi hvað ég hefi gjört og feður mínir við allar þjóðir í löndunum? Gátu þjóðguðir landanna frelsað lönd þeirra af hendi minni? 32.14 Hver er sá af öllum guðum þessara þjóða, sem feður mínir hafa gjöreytt, er hafi getað frelsað lýð sinn af hendi minni, svo að yðar Guð geti frelsað yður af hendi minni? 32.15 Látið því eigi Hiskía tæla yður né ginna á slíkan hátt. Trúið honum eigi! Því að eigi hefir neinn guð nokkurrar þjóðar eða ríkis getað frelsað lýð sinn af hendi minni eða feðra minna. Hve miklu síður mun þá yðar Guð frelsa yður af hendi minni?' 32.16 Og enn fleira töluðu þjónar hans gegn Drottni Guði og gegn Hiskía þjóni hans. 32.17 Hann ritaði og bréf til þess að smána Drottin, Guð Ísraels, og tala gegn honum, á þessa leið: 'Eins og þjóðguðir landanna eigi frelsuðu þjóðir sínar af hendi minni, svo mun og Guð Hiskía eigi frelsa sinn lýð af hendi minni.' 32.18 Og þeir kölluðu með hárri röddu á Júda tungu til lýðsins í Jerúsalem, er var á múrunum, til þess að gjöra þá hrædda og felmtsfulla, svo að þeir gætu náð borginni, 32.19 og töluðu um Guð Jerúsalemborgar eins og um guði heiðnu þjóðanna, sem eru handaverk manna. 32.20 Þá er Hiskía konungur og Jesaja spámaður Amozson báðust fyrir út af þessu, og hrópuðu til himins, 32.21 þá sendi Drottinn engil, og drap hann alla kappa, höfuðsmenn og herforingja í herbúðum Assýríukonungs, svo að hann sneri aftur með sneypu heim í land sitt. En er hann kom í hof guðs síns, þá felldu hans eigin synir hann þar með sverði. 32.22 Þannig frelsaði Drottinn Hiskía og Jerúsalembúa af hendi Sanheríbs Assýríukonungs og af hendi allra annarra, og veitti þeim frið allt um kring. 32.23 Og margir færðu Drottni gjafir til Jerúsalem, og Hiskía Júdakonungi gersemar, og eftir þetta var hann frægur talinn meðal allra þjóða. 32.24 Um þessar mundir tók Hiskía sótt og var að dauða kominn. Þá bað hann til Drottins, og talaði hann til hans og gaf honum tákn. 32.25 En Hiskía endurgalt eigi velgjörð þá, er honum var sýnd, heldur varð drembilátur, og kom því reiði yfir hann og yfir Júda og Jerúsalem. 32.26 Þá lægði Hiskía dramb sitt, bæði hann og Jerúsalembúar, og kom því reiði Drottins eigi yfir þá meðan Hiskía lifði. 32.27 Og Hiskía bjó við afar mikinn auð og sæmd. Hann lét gjöra féhirslur handa sér fyrir silfur og gull og dýra steina, svo og fyrir kryddjurtir, skjöldu og alls konar verðmæta muni, 32.28 forðabúr fyrir korn-, aldinlagar- og olíu-afurðirnar, svo og hús fyrir alls konar kvikfénað og fjárborgir fyrir hjarðirnar. 32.29 Og hann lét gjöra borgir handa sér og aflaði sér fjölda hjarða af sauðum og nautum, því að Guð veitti honum afar miklar eignir. 32.30 Hiskía þessi stemmdi og efri uppsprettur Gíhonlindar, og veitti vatninu niður eftir að Davíðsborg vestanverðri, og Hiskía varð auðnumaður í öllu því, er hann tók sér fyrir hendur. 32.31 Þess vegna gaf Guð hann í hendur sendimanna Babelhöfðingjanna, er sendir voru til hans til þess að frétta um táknið, er orðið hafði í landinu, aðeins til þess að reyna hann, svo að hann mætti fá að vita um allt það, er honum bjó í huga. 32.32 Það sem meira er að segja um Hiskía og góðverk hans, það er ritað í vitrun Jesaja Amozsonar spámanns, í bók Júda- og Ísraelskonunga. 32.33 Og Hiskía lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og var grafinn þar sem gengið er upp að gröfum Davíðsniðja, og allur Júda og Jerúsalembúar sýndu honum sæmd, er hann andaðist. Og Manasse sonur hans tók ríki eftir hann.
33.1 Manasse var tólf ára gamall, þá er hann varð konungur, og fimmtíu og fimm ár ríkti hann í Jerúsalem. 33.2 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, og drýgði þannig sömu svívirðingarnar sem þær þjóðir, er Drottinn hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum. 33.3 Hann reisti af nýju fórnarhæðirnar, er Hiskía faðir hans hafði rífa látið, reisti Baölunum ölturu og lét gjöra asérur, dýrkaði allan himinsins her og þjónaði þeim. 33.4 Hann reisti og ölturu í musteri Drottins, því er Drottinn hafði um sagt: 'Í Jerúsalem skal nafn mitt búa að eilífu!' 33.5 Og hann reisti ölturu fyrir allan himinsins her í báðum forgörðum musteris Drottins. 33.6 Hann lét og sonu sína ganga gegnum eldinn í Hinnomssonardal, fór með spár og fjölkynngi og töfra og skipaði særingamenn og spásagna. Hann aðhafðist margt það, sem illt var í augum Drottins og egndi hann til reiði. 33.7 Hann setti skurðgoðið, er hann hafði gjöra látið, í musteri Guðs, er Guð hafði sagt um við Davíð og Salómon son hans: 'Í þessu húsi og í Jerúsalem, sem ég hefi útvalið af öllum ættkvíslum Ísraels, vil ég láta nafn mitt búa að eilífu. 33.8 Og ég vil eigi framar láta Ísrael fara landflótta úr landi því, er ég gaf feðrum þeirra, svo framarlega sem þeir gæta þess að breyta að öllu svo sem ég hefi boðið þeim, að öllu eftir lögmáli því og lögum og ákvæðum, er gefin voru fyrir Móse.' 33.9 En Manasse leiddi Júda og Jerúsalembúa afvega, svo að þeir breyttu verr en þær þjóðir, er Drottinn hafði eytt fyrir Ísraelsmönnum. 33.10 Og Drottinn talaði til Manasse og til lýðs hans, en þeir gáfu því engan gaum. 33.11 Þá lét Drottinn hershöfðingja Assýríukonungs ráðast að þeim; þeir tóku Manasse höndum með krókum, bundu hann eirfjötrum og fluttu hann til Babýlon. 33.12 En er hann var í nauðum staddur, reyndi hann að blíðka Drottin, Guð sinn, og lægði sig mjög fyrir Guði feðra sinna. 33.13 Og er hann bað hann, þá bænheyrði Drottinn hann. Hann heyrði grátbeiðni hans og lét hann hverfa heim aftur til Jerúsalem í ríki sitt. Komst þá Manasse að raun um, að Drottinn er Guð. 33.14 Eftir þetta reisti hann ytri múr fyrir Davíðsborg að vestanverðu við Gíhon í dalnum, og þangað að, er gengið er inn í Fiskhliðið, reisti hann í kringum Ófel, og gjörði hann mjög háan. Hann setti og herforingja í allar kastalaborgir í Júda. 33.15 Þá útrýmdi hann og útlendu guðunum og líkneskinu úr musteri Drottins, svo og öllum ölturunum, er hann hafði reisa látið á musterisfjalli Drottins og í Jerúsalem, og fleygði þeim út fyrir borgina. 33.16 En altari Drottins reisti hann við, og færði á því heillafórnir og þakkarfórnir, og Júdamönnum bauð hann að þjóna Drottni, Guði Ísraels. 33.17 En þó færði lýðurinn enn þá fórnir á hæðunum, en samt aðeins Drottni, Guði sínum. 33.18 Það sem meira er að segja um Manasse og bæn hans til Guðs hans, svo og orð sjáandanna, er töluðu til hans í nafni Drottins, Guðs Ísraels, það er ritað í Sögu Ísraelskonunga. 33.19 En um bæn hans og hvernig hann var bænheyrður, og um allar syndir hans og ótrúmennsku, svo og um staðina, þar sem hann reisti fórnarhæðir og setti asérur og líkneski, áður en hann lægði sig, um það er ritað í sögu sjáandanna. 33.20 Og Manasse lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður í höll sinni. Og Amón sonur hans tók ríki eftir hann. 33.21 Amón hafði tvo um tvítugt, þá er hann varð konungur, og tvö ár ríkti hann í Jerúsalem. 33.22 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, svo sem gjört hafði Manasse faðir hans. Öllum skurðgoðunum, er Manasse faðir hans hafði gjöra látið, færði Amón margar fórnir og þjónaði þeim. 33.23 En hann lægði sig eigi fyrir Drottni, svo sem gjört hafði Manasse faðir hans, heldur jók hann á sök sína. 33.24 Þjónar hans gjörðu samsæri í gegn honum, og drápu hann í höll hans. 33.25 En landslýðurinn drap alla mennina, er gjört höfðu samsæri gegn Amón konungi. Síðan tók landslýðurinn Jósía son hans til konungs eftir hann.
34.1 Jósía var átta vetra gamall, þá er hann varð konungur, og þrjátíu og eitt ár ríkti hann í Jerúsalem. 34.2 Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, og fetaði í fótspor Davíðs forföður síns og veik hvorki af til hægri né vinstri. 34.3 Á áttunda ríkisári sínu, er hann sjálfur var enn ungur að aldri, tók hann að leita Guðs Davíðs, forföður síns, og á tólfta ári tók hann að rýma burt úr Júda og Jerúsalem fórnarhæðum og asérum, skurðgoðum og líkneskjum. 34.4 Ölturu Baalanna voru rifin niður að honum ásjáandi, og sólsúlurnar, er á þeim voru, hjó hann sundur, og asérurnar og skurðgoðin og líkneskin braut hann sundur og muldi þau, og stráði duftinu á grafir þeirra, er höfðu fært þeim fórnir. 34.5 Og bein prestanna brenndi hann á ölturum þeirra, og hreinsaði svo Júda og Jerúsalem. 34.6 Og í borgum Manasse og Efraíms og Símeons og allt til Naftalí, allt um kring í eyðiborgum þeirra, 34.7 reif hann niður ölturun, mölvaði og muldi asérurnar og skurðgoðin, og hjó sundur sólsúlurnar í öllu Ísraelslandi. Síðan sneri hann heim aftur til Jerúsalem. 34.8 Á átjánda ríkisári hans, meðan hann var að hreinsa landið og musterið, sendi hann Safan Asaljason og Maaseja borgarstjóra og Jóak Jóahasson ríkisritara til þess að láta gjöra við musteri Drottins, Guðs síns. 34.9 Og er þeir komu til Hilkía æðsta prests, afhentu þeir fé það, er fært hafði verið musteri Guðs, það er levítarnir, þröskuldsverðirnir, höfðu safnað af Manasse, Efraím og öllum öðrum Ísraelsmönnum, og öllum Júda og Benjamín og Jerúsalembúum. 34.10 Fengu þeir það í hendur verkstjórunum, þeim er umsjón höfðu með musteri Drottins, en þeir fengu það í hendur verkamönnunum, er unnu að því í musteri Drottins að bæta skemmdir og gjöra við musterið. 34.11 Fengu þeir það í hendur trésmiðunum og byggingamönnunum til þess að kaupa fyrir höggna steina og viðu í tengibjálka, svo og til að fá viðu í hús þau, er Júdakonungar höfðu látið falla. 34.12 Unnu mennirnir að verkinu upp á æru og trú, en yfir þá voru settir til umsjónar þeir Jahat og Óbadía, levítar af Meraríniðjum, og Sakaría og Mesúllam af Kahatítaniðjum. Og levítarnir _ hver sá, er kunni á hljóðfæri _ 34.13 voru settir yfir burðarmennina, og umsjónarmenn voru yfir öllum þeim, er nokkurt starf höfðu á hendi. Nokkrir af levítunum voru og ritarar og tilsjónarmenn og hliðverðir. 34.14 En er þeir reiddu fram féð, er borið var í musteri Drottins, fann Hilkía prestur lögmálsbók Drottins, er gefin var fyrir Móse. 34.15 Þá tók Hilkía til máls og mælti við Safan kanslara: 'Ég hefi fundið lögmálsbókina í musteri Drottins.' Og Hilkía fékk Safan bókina. 34.16 Fór þá Safan með bókina til konungs og skýrði honum jafnframt frá erindislokum og mælti: 'Þjónar þínir hafa gjört allt það, er þeim var falið á hendur. 34.17 Þeir hafa og afhent fé það, er var í musteri Drottins, og fengið í hendur umsjónarmönnunum og verkstjórunum.' 34.18 Og Safan kanslari sagði konungi frá og mælti: 'Hilkía prestur fékk mér bók.' Og Safan las í henni fyrir konungi. 34.19 En er konungur heyrði lögmálsorðin, reif hann klæði sín. 34.20 Og konungur bauð þeim Hilkía, Ahíkam Safanssyni, Abdón Míkajasyni, Safan kanslara og Asaja konungsþjóni á þessa leið: 34.21 'Farið og gangið til frétta við Drottin fyrir mig og fyrir leifarnar af Ísrael og Júda um bókina, sem fundin er, því að mikil er heift Drottins, er hann hefir úthellt yfir oss, af því að feður vorir hafa eigi gefið gætur að boði Drottins með því að gjöra að öllu svo sem skrifað er í bók þessari.' 34.22 Fór þá Hilkía með þeim, er konungur hafði til þess kvatt, til Huldu spákonu, konu Sallúms Tókhatssonar, Hasrasonar, klæðageymis. Bjó hún í Jerúsalem í öðru borgarhverfi, og töluðu þeir við hana um þetta. 34.23 Hún mælti við þá: 'Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Segið manninum, er sendi yður til mín: 34.24 Svo segir Drottinn: Sjá, ég leiði ógæfu yfir þennan stað og íbúa hans, allar þær formælingar, er ritaðar eru í bókinni, er lesin var fyrir Júdakonungi, 34.25 fyrir því að þeir hafa yfirgefið mig og fært öðrum guðum reykelsisfórnir og egnt mig til reiði með öllum handaverkum sínum, þess vegna úthellti ég reiði minni yfir þennan stað, og hún skal eigi slokkna. 34.26 En segið svo Júdakonungi, þeim er sendi yður til þess að ganga til frétta við Drottin: Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: 34.27 Af því að hjarta þitt hefir komist við og þú hefir auðmýkt þig fyrir Guði, er þú heyrðir orð hans gegn þessum stað og íbúum hans, og af því að þú auðmýktir þig fyrir mér og reifst klæði þín og grést frammi fyrir mér, þá hefi ég bænheyrt þig, _ segir Drottinn. 34.28 Sjá, ég vil láta þig safnast til feðra þinna, að þú megir komast með friði í gröf þína, og augu þín þurfi ekki að horfa upp á alla þá ógæfu, er ég leiði yfir þennan stað.' Fluttu þeir konungi svarið. 34.29 Þá sendi konungur og safnaði saman öllum öldungum í Júda og Jerúsalem. 34.30 Og konungur gekk upp í musteri Drottins og með honum allir Júdamenn og Jerúsalembúar, svo og prestarnir og levítarnir og allur lýðurinn, bæði gamlir og ungir, og hann las í áheyrn þeirra öll orð sáttmálsbókarinnar, er fundist hafði í musteri Drottins. 34.31 Og konungur gekk á sinn stað og gjörði þann sáttmála frammi fyrir Drottni, að fylgja Drottni og varðveita skipanir hans, fyrirmæli og lög af öllu hjarta sínu og allri sálu sinni, til þess að breyta þannig eftir orðum sáttmálans, þeim er rituð voru í þessari bók. 34.32 Og hann lét alla þá, er voru í Jerúsalem og Benjamín, gangast undir sáttmálann, og Jerúsalembúar breyttu samkvæmt sáttmála Guðs, Guðs feðra þeirra. 34.33 En Jósía afnam allar svívirðingar úr öllum héruðum Ísraelsmanna, og þröngvaði öllum þeim, er voru í Ísrael, til þess að þjóna Drottni Guði sínum. Meðan hann var á lífi, viku þeir eigi frá því að fylgja Drottni, Guði feðra sinna.
35.1 Síðan hélt Jósía Drottni páska í Jerúsalem, og var páskalambinu slátrað hinn fjórtánda fyrsta mánaðar. 35.2 Þá setti hann prestana til starfa þeirra og taldi hug í þá til þjónustu við musteri Drottins. 35.3 En við levítana, er fræddu allan Ísrael og helgaðir voru Drottni, sagði hann: 'Setjið örkina helgu í musterið, það er Salómon, sonur Davíðs, Ísraelskonungur, lét reisa. Þér þurfið eigi framar að bera hana á öxlunum. Þjónið nú Drottni Guði yðar og lýð hans Ísrael. 35.4 Verið þá reiðubúnir eftir ættum yðar í flokkum yðar, samkvæmt reglugjörð Davíðs Ísraelskonungs og samkvæmt konungsbréfi Salómons sonar hans. 35.5 Skipið yður í helgidóminn eftir ættflokkum frænda yðar, leikmannanna, og fyrir hvern flokk skal vera ein sveit af levítaættum. 35.6 Slátrið síðan páskalambinu og helgið yður og tilreiðið það fyrir frændur yðar, svo að þér breytið samkvæmt boði Drottins fyrir Móse.' 35.7 Jósía fékk leikmönnunum sauði og lömb og kið, allt til páskafórnar fyrir alla, er þar voru, þrjátíu þúsund að tölu, og þrjú þúsund naut. Voru þau úr eign konungs. 35.8 En höfuðsmenn hans færðu sjálfviljagjafir handa lýðnum og prestunum og levítunum. Hilkía, Sakaría og Jehíel, höfuðsmenn yfir musteri Guðs, gáfu prestunum í páskafórn tvö þúsund og sex hundruð lömb og þrjú hundruð naut. 35.9 En Kananja og Semaja og Netaneel, bræður hans, svo og Hasabja, Jeíel og Jósabad, höfðingjar levíta, gáfu levítum til páskafórnar fimm þúsund lömb og fimm hundruð naut. 35.10 Var svo þjónustunni fyrir komið, og gengu prestarnir á sinn stað, svo og levítar eftir flokkum sínum samkvæmt boði konungs. 35.11 Var síðan páskalambinu slátrað, og stökktu prestarnir blóðinu úr hendi sinni, en levítarnir flógu. 35.12 Og þeir tóku brennifórnina frá til þess að fá hana ættflokkum leikmannanna, til þess að þeir skyldu færa hana Drottni, svo sem fyrir er mælt í Mósebók, og svo gjörðu þeir og við nautin. 35.13 Síðan steiktu þeir páskalambið við eld, svo sem lög stóðu til, suðu helgigjafirnar í pottum og kötlum og skálum, og færðu tafarlaust hverjum leikmanni. 35.14 En síðan matreiddu þeir handa sér og prestunum, því að prestarnir, niðjar Arons, voru að færa brennifórnir og feit stykki fram á nótt, og matreiddu levítarnir því handa sér og prestunum, niðjum Arons. 35.15 Og söngvararnir, niðjar Asafs, voru á sínum stað eftir boði Davíðs, Asafs, Hemans og Jedútúns, sjáanda konungs, og hliðverðir voru við hvert hlið. Þurftu þeir eigi að fara frá starfi sínu, því að frændur þeirra, levítarnir, matbjuggu fyrir þá. 35.16 Var þannig allri þjónustu Drottins komið fyrir þann dag, er menn héldu páska og færðu brennifórnir á altari Drottins, að boði Jósía konungs. 35.17 Þannig héldu Ísraelsmenn, þeir er viðstaddir voru, páska í þann tíma, svo og hátíð hinna ósýrðu brauða í sjö daga. 35.18 En engir slíkir páskar höfðu haldnir verið í Ísrael frá því á dögum Samúels spámanns, og engir af Ísraelskonungum höfðu haldið páska, svo sem Jósía konungur gjörði og prestarnir og levítarnir og allir Júda- og Ísraelsmenn, þeir er viðstaddir voru, og Jerúsalembúar. 35.19 Á átjánda ríkisári Jósía voru páskar þessir haldnir. 35.20 Eftir allt þetta, er Jósía hafði komið musterinu aftur í lag, fór Nekó Egyptalandskonungur herför til þess að heyja orustu hjá Karkemis við Efrat. Þá fór Jósía út í móti honum. 35.21 En hann gjörði menn á fund hans og lét segja honum: 'Hvað þurfum við að eigast við, Júdakonungur? Nú kem ég eigi í móti þér, heldur í móti mínum forna fjanda, og Guð hefir boðið mér að flýta mér. Freista þú eigi fangs við guðinn, sem með mér er, svo að hann tortími þér ekki.' 35.22 En Jósía vildi eigi hörfa undan honum, heldur klæddist dularbúningi til þess að berjast við hann, og hlýddi eigi á orð Nekós, er þó voru af Guðs munni, og fór til bardaga á Megiddóvöllum. 35.23 En bogmennirnir skutu á Jósía konung. Þá mælti konungur við þjóna sína: 'Komið mér burt héðan, því að ég er sár mjög.' 35.24 Tóku þá þjónar hans hann af vagninum og óku honum á næsta vagni hans, og er þeir komu með hann til Jerúsalem, þá dó hann og var grafinn í gröfum feðra sinna. Allir Júdamenn og Jerúsalembúar hörmuðu Jósía, 35.25 og Jeremía orti harmljóð eftir Jósía, og allir söngmenn og söngkonur hafa talað um Jósía í harmljóðum sínum fram á þennan dag. Og menn gjörðu þau að ákvæði fyrir Ísrael, og eru þau rituð í harmljóðunum. 35.26 Það sem meira er að segja um Jósía og góðverk hans, er voru samkvæm því, sem ritað er í lögmáli Drottins, 35.27 svo og saga hans frá upphafi til enda, það er ritað í bók Ísraels- og Júdakonunga.
36.1 Landslýðurinn tók Jóahas Jósíason og gjörði hann að konungi í Jerúsalem eftir föður hans. 36.2 Jóahas var tuttugu og þriggja ára að aldri, þá er hann varð konungur, og þrjá mánuði ríkti hann í Jerúsalem. 36.3 En Egyptalandskonungur rak hann frá ríki, til þess að hann skyldi eigi framar ríkja í Jerúsalem, og lagði skattgjald á landið, hundrað talentur silfurs og tíu talentur gulls. 36.4 Og Egyptalandskonungur gjörði Eljakím bróður hans að konungi yfir Júda og Jerúsalem, og breytti nafni hans í Jójakím. En Jóahas bróður hans tók Nekó og flutti til Egyptalands. 36.5 Jójakím var tuttugu og fimm ára að aldri, þá er hann varð konungur, og ellefu ár ríkti hann í Jerúsalem. Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, Guðs síns. 36.6 Gegn honum fór Nebúkadnesar konungur í Babýlon herför og batt hann eirfjötrum til þess að flytja hann til Babýlon. 36.7 Af áhöldum musteris Drottins flutti Nebúkadnesar og nokkuð til Babýlon og lét þau í höll sína í Babýlon. 36.8 En það sem meira er að segja um Jójakím og svívirðingar hans, er hann aðhafðist, og annað illt, er fannst í fari hans, það er ritað í bók Ísraels- og Júdakonunga. Og Jójakín sonur hans tók ríki eftir hann. 36.9 Jójakín var átta vetra gamall, þá er hann varð konungur, og þrjá mánuði og tíu daga ríkti hann í Jerúsalem. Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins. 36.10 En að ári liðnu sendi Nebúkadnesar konungur og lét flytja hann til Babýlon, ásamt verðmætum áhöldum úr musteri Drottins, en gjörði Sedekía bróður hans að konungi yfir Júda og Jerúsalem. 36.11 Sedekía var tuttugu og eins árs að aldri, þá er hann varð konungur, og ellefu ár ríkti hann í Jerúsalem. 36.12 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, Guðs síns, hann auðmýkti sig eigi fyrir Jeremía spámanni, er talaði í nafni Drottins. 36.13 Sedekía rauf þá trúnaðareiða, er Nebúkadnesar konungur hafði látið hann vinna sér við Guð. En hann þverskallaðist og herti hjarta sitt, svo að hann sneri sér eigi til Drottins, Guðs Ísraels. 36.14 Þá sýndu og allir höfðingjar prestanna og lýðsins mikla ótrúmennsku með því að drýgja allar sömu svívirðingarnar og heiðingjarnir, og saurguðu svo musteri Drottins, það er hann hafði helgað í Jerúsalem. 36.15 Og Drottinn, Guð feðra þeirra, sendi þeim stöðugt áminningar fyrir sendiboða sína, því að hann vildi þyrma lýð sínum og bústað sínum. 36.16 En þeir smánuðu sendiboða Guðs, fyrirlitu orð hans og gjörðu gys að spámönnum hans, uns reiði Drottins við lýð hans var orðin svo mikil, að eigi mátti við gjöra. 36.17 Hann lét Kaldeakonung fara herför gegn þeim, og drap hann æskumenn þeirra með sverði í helgidómi þeirra. Þyrmdi hann hvorki æskumönnum né ungmeyjum, öldruðum né örvasa _ allt gaf Guð honum á vald. 36.18 Og öll áhöld Guðs húss, stór og smá, svo og fjársjóðu Drottins húss og fjársjóðu konungs og höfðingja hans _ allt flutti hann til Babýlon. 36.19 Þeir brenndu musteri Guðs, rifu niður Jerúsalem-múra, lögðu eld í allar hallir í henni, svo að allt verðmætt í henni týndist. 36.20 Og þá sem komist höfðu undan sverðinu, herleiddi hann til Babýloníu, og urðu þeir þjónar hans og sona hans, uns Persaríki náði yfirráðum, 36.21 til þess að rætast skyldi orð Drottins fyrir munn Jeremía: 'Þar til er landið hefir fengið hvíldarár sín bætt upp, alla þá stund, sem það var í eyði, naut það hvíldar, uns sjötíu ár voru liðin.' 36.22 En á fyrsta ríkisári Kýrusar Persakonungs blés Drottinn Kýrusi Persakonungi því í brjóst _ til þess að orð Drottins fyrir munn Jeremía rættust _, að láta boð út ganga um allt ríki sitt, og það í konungsbréfi, svolátandi boðskap:
1.1 Á fyrsta ríkisári Kýrusar Persakonungs blés Drottinn honum því í brjóst _ til þess að orð Drottins fyrir munn Jeremía rættust _ að láta boð út ganga um allt ríki sitt, og það í konungsbréfi, á þessa leið: 1.2 'Svo segir Kýrus Persakonungur: Öll konungsríki jarðarinnar hefir Drottinn, Guð himnanna, gefið mér, og hann hefir skipað mér að reisa sér musteri í Jerúsalem í Júda. 1.3 Hver sá meðal yðar, sem tilheyrir þjóð hans, með honum sé Guð hans, og hann fari heim til Jerúsalem í Júda og reisi musteri Drottins, Ísraels Guðs. Hann er sá Guð, sem býr í Jerúsalem. 1.4 Og hvern þann, sem enn er eftir, á sérhverjum þeim stað þar sem hann dvelst sem útlendingur, hann skulu menn á þeim stað styrkja með silfri og gulli og lausafé og kvikfénaði, auk sjálfviljagjafa til Guðs musteris í Jerúsalem.' 1.5 Þá tóku ætthöfðingjar Júda og Benjamíns og prestarnir og levítarnir sig upp _ allir þeir, er Guð hafði blásið því í brjóst að fara og reisa musteri Drottins í Jerúsalem. 1.6 Og allir nágrannar þeirra hjálpuðu þeim um áhöld úr silfri, um gull, um lausafé og um kvikfénað og um gersemar, auk alls þess, er menn gáfu sjálfviljuglega. 1.7 Kýrus konungur lét af hendi kerin úr musteri Drottins, þau er Nebúkadnesar hafði flutt burt frá Jerúsalem og sett í musteri guðs síns. 1.8 Kýrus Persakonungur fékk þau í hendur Mítredat féhirði, og hann taldi þau út í hendur Sesbasar, höfðingja Júdaættkvíslar. 1.9 En talan á þeim var þessi: 30 gullskálar, 1.000 silfurskálar, 29 pönnur, 1.10 30 könnur af gulli, silfurkönnur minni háttar: 410, önnur ker 1.000 _ 1.11 öll kerin af gulli og silfri til samans 5.400. Allt þetta flutti Sesbasar með sér, þá er hinir herleiddu voru fluttir frá Babýlon heim til Jerúsalem.
2.1 Þessir eru þeir úr skattlandinu, er heim fóru úr herleiðingarútlegðinni, þeir er Nebúkadnesar konungur í Babýlon hafði herleitt til Babýlon og nú sneru aftur til Jerúsalem og Júda, hver til sinnar borgar, 2.2 þeir sem komu með Serúbabel, Jósúa, Nehemía, Seraja, Reelja, Mordekai, Bilsan, Mispar, Bigvaí, Rehúm og Baana. Talan á mönnum Ísraelslýðs var: 2.3 Niðjar Parós: 2.172. 2.4 Niðjar Sefatja: 372. 2.5 Niðjar Ara: 775. 2.6 Niðjar Pahat Móabs, sem sé niðjar Jesúa og Jóabs: 2.812. 2.7 Niðjar Elams: 1.254. 2.8 Niðjar Sattú: 945. 2.9 Niðjar Sakkaí: 760. 2.10 Niðjar Baní: 642. 2.11 Niðjar Bebaí: 623. 2.12 Niðjar Asgads: 1.222. 2.13 Niðjar Adóníkams: 666. 2.14 Niðjar Bigvaí: 2.056. 2.15 Niðjar Adíns: 454. 2.16 Niðjar Aters, frá Hiskía: 98. 2.17 Niðjar Besaí: 323. 2.18 Niðjar Jóra: 112. 2.19 Niðjar Hasúms: 223. 2.20 Niðjar Gibbars: 95. 2.21 Ættaðir frá Betlehem: 123. 2.22 Menn frá Netófa: 56. 2.23 Menn frá Anatót: 128. 2.24 Ættaðir frá Asmavet: 42. 2.25 Ættaðir frá Kirjat Jearím, Kefíra og Beerót: 743. 2.26 Ættaðir frá Rama og Geba: 621. 2.27 Menn frá Mikmas: 122. 2.28 Menn frá Betel og Aí: 223. 2.29 Ættaðir frá Nebó: 52. 2.30 Niðjar Magbis: 156. 2.31 Niðjar Elams hins annars: 1.254. 2.32 Niðjar Haríms: 320. 2.33 Ættaðir frá Lód, Hadíd og Ónó: 725. 2.34 Ættaðir frá Jeríkó: 345. 2.35 Ættaðir frá Senaa: 3.630. 2.36 Prestarnir: Niðjar Jedaja, af ætt Jesúa: 973. 2.37 Niðjar Immers: 1.052. 2.38 Niðjar Pashúrs: 1.247. 2.39 Niðjar Haríms: 1.017. 2.40 Levítarnir: Niðjar Jesúa og Kadmíels, af niðjum Hódavja: 74. 2.41 Söngvararnir: niðjar Asafs: 128. 2.42 Niðjar hliðvarðanna: niðjar Sallúms, niðjar Aters, niðjar Talmóns, niðjar Akúbs, niðjar Hatíta, niðjar Sóbaí _ alls 139. 2.43 Musterisþjónarnir: niðjar Síha, niðjar Hasúfa, niðjar Tabbaóts, 2.44 niðjar Kerós, niðjar Síaha, niðjar Padóns, 2.45 niðjar Lebana, niðjar Hagaba, niðjar Akúbs, 2.46 niðjar Hagabs, niðjar Salmaí, niðjar Hanans, 2.47 niðjar Giddels, niðjar Gahars, niðjar Reaja, 2.48 niðjar Resíns, niðjar Nekóda, niðjar Gassams, 2.49 niðjar Ússa, niðjar Pasea, niðjar Besaí, 2.50 niðjar Asna, niðjar Meúníta, niðjar Nefísíta, 2.51 niðjar Bakbúks, niðjar Hakúfa, niðjar Harhúrs, 2.52 niðjar Baselúts, niðjar Mehída, niðjar Harsa, 2.53 niðjar Barkós, niðjar Sísera, niðjar Tema, 2.54 niðjar Nesía, niðjar Hatífa. 2.55 Niðjar þræla Salómons: niðjar Sótaí, niðjar Sóferets, niðjar Perúda, 2.56 niðjar Jaala, niðjar Darkóns, niðjar Giddels, 2.57 niðjar Sefatja, niðjar Hattils, niðjar Pókeret Hassebaíms, niðjar Ami. 2.58 Allir musterisþjónarnir og niðjar þræla Salómons voru 392. 2.59 Og þessir eru þeir, sem fóru heim frá Tel Mela, Tel Harsa, Kerúb, Addan, Immer, en kunnu eigi að greina ætt sína og uppruna, hvort þeir væru komnir af Ísrael: 2.60 Niðjar Delaja, niðjar Tobía, niðjar Nekóda: 652. 2.61 Og af niðjum prestanna: Niðjar Habaja, niðjar Hakkós, niðjar Barsillaí, er gengið hafði að eiga eina af dætrum Barsillaí Gíleaðíta og nefndur hafði verið nafni þeirra. 2.62 Þessir leituðu að ættartölum sínum, en þær fundust ekki. Var þeim því hrundið frá prestdómi. 2.63 Og landstjórinn sagði þeim, að þeir mættu ekki eta af hinu háheilaga, þar til er kæmi fram prestur, er kynni að fara með úrím og túmmím. 2.64 Allur söfnuðurinn var til samans 42.360, 2.65 auk þræla þeirra og ambátta, er voru 7.337. Þeir höfðu 200 söngvara og söngkonur. 2.66 Hestar þeirra voru 736, múlar 245, 2.67 úlfaldar 435, asnar 6.720. 2.68 Og sumir ætthöfðingjanna gáfu, er þeir komu til musteris Drottins í Jerúsalem, sjálfviljagjafir til musteris Guðs, til þess að það yrði reist á sínum stað. 2.69 Gáfu þeir hver eftir efnum sínum í byggingarsjóðinn: í gulli 6.100 daríka og í silfri 5.000 mínur, og 100 prestserki. 2.70 Þannig settust prestarnir og levítarnir og nokkrir af lýðnum og söngvararnir og hliðverðirnir og musterisþjónarnir að í borgum sínum. Og allur Ísrael tók sér bólfestu í borgum sínum.
3.1 En er sjöundi mánuðurinn kom, og Ísraelsmenn voru í borgunum, safnaðist lýðurinn saman eins og einn maður í Jerúsalem. 3.2 Þá tóku þeir sig til, Jósúa Jósadaksson og bræður hans, prestarnir, og Serúbabel Sealtíelsson og bræður hans, og reistu altari Ísraels Guðs, til þess að á því yrðu færðar brennifórnir eftir því, sem fyrir er mælt í lögmáli guðsmannsins Móse. 3.3 Og þeir reistu altarið þar, er það áður hafði staðið, því að þeim stóð ótti af landsbúum, og færðu Drottni brennifórnir á því, morgunbrennifórnir og kveldbrennifórnir. 3.4 Og þeir héldu laufskálahátíðina, eftir því sem fyrir er mælt, og báru fram brennifórnir á degi hverjum með réttri tölu, að réttum sið, það er við átti á hverjum degi, 3.5 og því næst hinar stöðugu brennifórnir, og fórnir tunglkomuhátíðanna og allra hinna helgu löghátíða Drottins, svo og fórnir allra þeirra, er færðu Drottni sjálfviljafórn. 3.6 Frá fyrsta degi hins sjöunda mánaðar byrjuðu þeir að færa Drottni brennifórnir, og hafði þá eigi enn verið lagður grundvöllur að musteri Drottins. 3.7 Og þeir gáfu steinsmiðunum og trésmiðunum silfur og Sídoningum og Týrusmönnum mat og drykk og olífuolíu til að flytja sedrusvið frá Líbanon sjóleiðis til Jafó samkvæmt leyfi Kýrusar Persakonungs þeim til handa. 3.8 Á öðru ári eftir heimkomu þeirra til húss Guðs í Jerúsalem, í öðrum mánuðinum, byrjuðu þeir Serúbabel Sealtíelsson og Jósúa Jósadaksson og aðrir bræður þeirra, prestarnir og levítarnir og allir þeir, er komnir voru úr útlegðinni til Jerúsalem, að setja levíta, tvítuga og þaðan af eldri, til að hafa eftirlit með byggingu húss Drottins. 3.9 Og þannig gengu þeir Jósúa, synir hans og bræður hans, Kadmíel og synir hans, synir Hódavja, synir Henadads, svo og synir þeirra og bræður þeirra, levítarnir, sem einn maður að því verki að hafa eftirlit með þeim, er unnu að byggingu Guðs húss. 3.10 Og er smiðirnir lögðu grundvöllinn að musteri Drottins, námu prestarnir þar staðar í embættisskrúða með lúðra og levítarnir, niðjar Asafs, með skálabumbur, til þess að vegsama Drottin eftir tilskipun Davíðs Ísraelskonungs. 3.11 Og þeir hófu að lofa og vegsama Drottin fyrir það, að hann er góður og að miskunn hans við Ísrael er eilíf. Og allur lýðurinn laust upp miklu fagnaðarópi og lofaði Drottin fyrir það, að grundvöllur var lagður að húsi Drottins. 3.12 En margir af prestunum og levítunum og ætthöfðingjunum _ öldungar þeir, er séð höfðu hið fyrra musterið _ grétu hástöfum, þegar grundvöllur þessa húss var lagður að þeim ásjáandi, en margir æptu líka fagnaðar- og gleðióp. 3.13 Og lýðurinn gat ekki greint fagnaðarópin frá gráthljóðunum í fólkinu, því að lýðurinn laust upp miklu fagnaðarópi, og heyrðist ómurinn langar leiðir.
4.1 En er mótstöðumenn Júda og Benjamíns heyrðu, að þeir, er heim voru komnir úr herleiðingunni, væru að reisa Drottni, Ísraels Guði, musteri, 4.2 þá gengu þeir fyrir Serúbabel og ætthöfðingjana og sögðu við þá: 'Vér viljum byggja með yður, því að vér leitum yðar Guðs, eins og þér, og honum höfum vér fórnir fært síðan daga Asarhaddons Assýríukonungs, þess er flutti oss hingað.' 4.3 En Serúbabel og Jósúa og aðrir ætthöfðingjar Ísraels sögðu við þá: 'Vér höfum ekkert saman við yður að sælda um bygginguna á húsi Guðs vors, heldur ætlum vér að reisa það einir saman Drottni, Ísraels Guði, eins og Kýrus konungur, konungur í Persíu, hefir boðið oss.' 4.4 Þá gjörðu landsbúar Júdalýð huglausan og hræddu þá frá að byggja, 4.5 og þeir keyptu menn til að leggja ráð í móti þeim til þess að ónýta fyrirætlun þeirra, alla ævi Kýrusar Persakonungs og þar til er Daríus Persakonungur tók ríki. 4.6 Á ríkisárum Ahasverusar, í byrjun ríkisstjórnar hans, rituðu þeir ákæru gegn íbúunum í Júda og Jerúsalem. 4.7 En á dögum Artahsasta rituðu þeir Bislam, Mítredat, Tabeel og aðrir samborgarar hans til Artahsasta, konungs í Persíu. En bréfið var ritað á arameísku og útlagt. 4.8 Rehúm umboðsmaður og Simsaí ritari skrifuðu Artahsasta konungi bréf um Jerúsalembúa á þessa leið: 4.9 'Rehúm umboðsmaður og Simsaí ritari og aðrir samborgarar þeirra, Dínear, Afarsatkear, Tarpelear, Afarsear, Arkevear, Babýloníumenn, Súsankear, Dehear, Elamítar 4.10 og þær aðrar þjóðir, er hinn mikli og víðfrægi Asnappar flutti burt og setti niður í borginni Samaríu og í öðrum héruðum hinumegin Fljóts,' og svo framvegis. 4.11 Þetta er afrit af bréfinu, sem þeir sendu Artahsasta konungi: 'Þjónar þínir, mennirnir í héraðinu hinumegin við Fljótið, og svo framvegis. 4.12 Það sé konunginum vitanlegt, að Gyðingar þeir, er fóru upp eftir frá þér til vor, eru komnir til Jerúsalem. Eru þeir að reisa að nýju þessa óeirðargjörnu og vondu borg, fullgjöra múrana og gjöra við grundvöllinn. 4.13 Nú sé það konunginum vitanlegt, að ef borg þessi verður endurreist og múrar hennar fullgjörðir, þá munu þeir hvorki borga skatt, toll né vegagjald, og það mun að lokum verða konunginum tekjumissir. 4.14 Nú með því að vér etum salt hallarinnar og oss sæmir ekki að horfa upp á skaða konungs, þá sendum vér og látum konunginn vita þetta, 4.15 til þess að leitað verði í ríkisannálum forfeðra þinna. Þá munt þú finna í ríkisannálunum og komast að raun um, að borg þessi er óeirðargjörn borg og skaðvæn konungum og skattlöndum og að menn hafa gjört uppreisn í henni frá alda öðli. Fyrir því hefir og borg þessi verið lögð í eyði. 4.16 Vér látum konunginn vita, að ef borg þessi verður reist að nýju og múrar hennar fullgjörðir, þá er úti um landeign þína hinumegin Fljóts.' 4.17 Konungur sendi úrskurð til Rehúms umboðsmanns og Simsaí ritara og til annarra samborgara þeirra, sem bjuggu í Samaríu og öðrum héruðum hinumegin Fljóts: 'Heill og friður! og svo framvegis. 4.18 Bréfið, sem þér senduð til vor, hefir verið lesið greinilega fyrir mér. 4.19 Og er ég hafði svo fyrirskipað, leituðu menn og fundu, að þessi borg hefir frá alda öðli sýnt konungum mótþróa og að óeirðir og uppreist hafa verið gjörðar í henni. 4.20 Og voldugir konungar hafa drottnað yfir Jerúsalem og ráðið fyrir öllum héruðum hinumegin Fljóts, og skattur og tollur og vegagjald hefir verið greitt þeim. 4.21 Skipið því svo fyrir, að menn þessir hætti, svo að borg þessi verði eigi endurreist, uns ég læt skipun út ganga. 4.22 Og gætið yðar, að þér sýnið ekkert tómlæti í þessu, svo að eigi hljótist af mikið tjón fyrir konungana.' 4.23 Jafnskjótt sem afritið af bréfi Artahsasta konungs hafði verið lesið fyrir þeim Rehúm og Simsaí ritara og samborgurum þeirra, fóru þeir með skyndi til Jerúsalem til Gyðinga og neyddu þá með ofríki og ofbeldi til að hætta. 4.24 Þá var hætt við bygginguna á musteri Guðs í Jerúsalem, og lá hún niðri þar til á öðru ríkisári Daríusar Persakonungs.
5.1 Haggaí spámaður og Sakaría Íddósson, spámennirnir, spáðu hjá Gyðingum, þeim er voru í Júda og Jerúsalem, í nafni Ísraels Guðs, sem yfir þeim var. 5.2 Þá fóru þeir Serúbabel Sealtíelsson og Jósúa Jósadaksson til og hófu að byggja musteri Guðs í Jerúsalem, og spámenn Guðs voru með þeim og aðstoðuðu þá. 5.3 Um þær mundir komu til þeirra Tatnaí, landstjóri héraðsins hinumegin Fljóts, og Star Bósnaí og samborgarar þeirra og mæltu til þeirra á þessa leið: 'Hver hefir leyft yður að reisa þetta hús og fullgjöra þessa múra?' 5.4 Síðan mæltu þeir til þeirra á þessa leið: 'Hvað heita menn þeir, er reisa stórhýsi þetta?' 5.5 En auga Guðs þeirra vakti yfir öldungum Gyðinga, svo að menn gátu ekki stöðvað þá, þar til er málið kæmi til Daríusar og bréfleg skipun um þetta væri komin aftur. 5.6 Afrit af bréfinu, sem þeir Tatnaí, landstjóri héraðsins hinumegin Fljóts, og Star Bósnaí og samborgarar hans, Afarsekear, sem bjuggu í héraðinu hinumegin Fljóts, sendu Daríusi konungi, _ 5.7 skýrslu sendu þeir honum og þannig var ritað í henni: 'Hvers kyns heill Daríusi konungi! 5.8 Konunginum sé vitanlegt, að vér höfum farið til skattlandsins Júda, til musteris hins mikla Guðs. Er verið að byggja það úr stórum steinum, og eru bjálkar settir inn í veggina. Er unnið kostgæfilega að verki þessu, og miðar því vel áfram hjá þeim. 5.9 Því næst spurðum vér öldungana á þessa leið: ,Hver hefir leyft yður að reisa þetta hús og fullgjöra þessa múra?` 5.10 Líka spurðum vér þá að heiti til þess að láta þig vita, svo að vér gætum skrifað upp nöfn þeirra manna, er forustuna hafa. 5.11 Og þeir svöruðu oss á þessa leið: ,Vér erum þjónar Guðs himinsins og jarðarinnar og reisum að nýju musterið, sem byggt var fyrir ævalöngu, og reisti það og fullgjörði mikill konungur í Ísrael. 5.12 En af því að feður vorir höfðu egnt Guð himinsins til reiði, þá ofurseldi hann þá í hendur Nebúkadnesars Babelkonungs, Kaldeans. Hann lagði musteri þetta í eyði og flutti lýðinn til Babýloníu. 5.13 En á fyrsta ári Kýrusar, konungs í Babýlon, veitti Kýrus konungur leyfi til að endurreisa þetta musteri Guðs. 5.14 Og einnig gull- og silfuráhöldin úr húsi Guðs, þau er Nebúkadnesar hafði haft á burt úr musterinu í Jerúsalem og flutt til musterisins í Babýlon, þau tók Kýrus konungur úr musterinu í Babýlon, og voru þau fengin manni þeim, er hann hafði skipað landstjóra og Sesbasar hét. 5.15 Og hann sagði við hann: ,Tak áhöld þessi, far og legg þau í musterið í Jerúsalem. Hús Guðs skal aftur reist verða á sínum fyrra stað.` 5.16 Síðan kom Sesbasar þessi og lagði grundvöllinn að húsi Guðs í Jerúsalem, og síðan fram á þennan dag hafa menn verið að byggja það, og enn er því ekki lokið. 5.17 Og nú, ef konunginum þóknast svo, þá sé gjörð leit í fjárhirslu konungsins þar í Babýlon, hvort svo sé, að Kýrus hafi veitt leyfi til að reisa þetta musteri Guðs í Jerúsalem, og konungur láti oss vita vilja sinn í þessu máli.'
6.1 Þá gaf Daríus konungur út þá skipun, að leita skyldi í skjalasafnshúsinu, þar sem og fjársjóðirnir voru lagðir fyrir til geymslu í Babýlon, 6.2 og bókrolla fannst í Ahmeta, borginni, sem er í skattlandinu Medíu. Og í henni var ritað á þessa leið: 'Merkisatburður. 6.3 Á fyrsta ári Kýrusar konungs gaf Kýrus konungur út svolátandi skipun: Hús Guðs í Jerúsalem skal endurreist verða, til þess að menn megi þar færa fórnir, og grundvöllur þess skal lagður. Það skal vera sextíu álnir á hæð og sextíu álnir á breidd. 6.4 Lög af stórum steinum skulu vera þrjú og eitt lag af tré, og kostnaðurinn skal greiddur úr konungshöllinni. 6.5 Einnig skal gull- og silfuráhöldunum úr húsi Guðs, þeim er Nebúkadnesar hafði á burt úr musterinu í Jerúsalem og flutti til Babýlon, verða skilað aftur, svo að hvert þeirra komist aftur í musterið í Jerúsalem á sinn stað, og þú skalt leggja þau í hús Guðs.' 6.6 'Fyrir því skuluð þér _ Tatnaí, landstjóri héraðsins hinumegin Fljóts, Star Bósnaí og samborgarar þeirra, Afarsekear, í héraðinu hinumegin Fljóts _ halda yður þar frá. 6.7 Látið byggingu þessa Guðs húss í friði. Landstjóra Gyðinga og öldungum þeirra er heimilt að endurreisa þetta Guðs hús á sínum fyrra stað. 6.8 Og ég hefi gefið út skipun um, hvað þér skuluð láta þessum öldungum Gyðinga í té til byggingar þessa Guðs húss. Skal mönnum þessum greiddur kostnaðurinn skilvíslega af tekjum konungs, þeim er hann hefir af sköttum úr héraðinu hinumegin Fljóts, og það tafarlaust. 6.9 Og það sem með þarf, bæði ung naut, hrúta og lömb til brennifórna handa Guði himnanna, hveiti, salt, vín og olíu, það skal láta þeim í té, eftir fyrirsögn prestanna í Jerúsalem, á degi hverjum, og það prettalaust, 6.10 til þess að þeir megi færa Guði himnanna fórnir þægilegs ilms og biðja fyrir lífi konungsins og sona hans. 6.11 Og ég hefi gefið út þá skipun, að ef nokkur maður breytir á móti úrskurði þessum, þá skuli taka bjálka úr húsi hans og hann hengdur upp og negldur á hann, en hús hans skal fyrir þá sök gjöra að mykjuhaug. 6.12 En sá Guð, sem lætur nafn sitt búa þar, kollsteypi öllum þeim konungum og þjóðum, sem rétta út hönd sína til þess að breyta út af þessu eða til þess að brjóta niður þetta hús Guðs í Jerúsalem. Ég, Daríus, hefi gefið út þessa skipun. Skal hún kostgæfilega framkvæmd.' 6.13 Þá fóru þeir Tatnaí, landstjóri héraðsins hinumegin Fljóts, Star Bósnaí og samborgarar þeirra nákvæmlega eftir fyrirmælum þeim, er Daríus konungur hafði sent. 6.14 Og öldungar Gyðinga byggðu, og miðaði þeim vel áfram fyrir spámannsstarf þeirra Haggaí spámanns og Sakaría Íddóssonar. Og þannig luku þeir byggingunni samkvæmt skipun Ísraels Guðs og samkvæmt skipun Kýrusar og Daríusar og Artahsasta Persakonungs. 6.15 Og hús þetta var fullgjört á þriðja degi adarmánaðar, það er á sjötta ríkisári Daríusar konungs. 6.16 Og Ísraelsmenn _ prestarnir og levítarnir og aðrir þeir, er komnir voru heim úr herleiðingunni _ héldu vígsluhátíð þessa Guðs húss með fögnuði. 6.17 Og þeir fórnuðu við vígslu þessa Guðs húss hundrað nautum, tvö hundruð hrútum og fjögur hundruð lömbum og í syndafórn fyrir allan Ísrael tólf geithöfrum eftir tölu Ísraels ættkvísla. 6.18 Og þeir skipuðu presta eftir flokkum þeirra og levíta eftir deildum þeirra, til þess að gegna þjónustu Guðs í Jerúsalem, samkvæmt fyrirmælum Mósebókar. 6.19 Og þeir, sem heim voru komnir úr herleiðingunni, héldu páska hinn fjórtánda dag hins fyrsta mánaðar. 6.20 Því að prestarnir og levítarnir höfðu hreinsað sig allir sem einn maður, allir voru hreinir. Og þeir slátruðu páskalambinu fyrir alla þá, er heim voru komnir úr herleiðingunni, og fyrir bræður þeirra, prestana, og fyrir sjálfa sig. 6.21 Síðan neyttu Ísraelsmenn þess, þeir er aftur voru heim komnir úr herleiðingunni, og allir þeir, er skilið höfðu sig frá saurugleik hinna heiðnu þjóða landsins og gengið í flokk með þeim, til þess að leita Drottins, Ísraels Guðs. 6.22 Og þannig héldu þeir hátíð hinna ósýrðu brauða í sjö daga með fögnuði, því að Drottinn hafði glatt þá og snúið hjarta Assýríukonungs til þeirra, svo að hann styrkti hendur þeirra við byggingu musteris Guðs, Ísraels Guðs.
7.1 Eftir þessa atburði, á ríkisárum Artahsasta Persakonungs, fór Esra Serajason, Asarjasonar, Hilkíasonar, 7.2 Sallúmssonar, Sadókssonar, Ahítúbssonar, 7.3 Amarjasonar, Asarjasonar, Merajótssonar, 7.4 Serahjasonar, Ússísonar, Búkkísonar, 7.5 Abísúasonar, Pínehassonar, Eleasarssonar, Aronssonar æðsta prests, _ 7.6 þessi Esra fór heim frá Babýlon. En hann var fræðimaður, vel að sér í Móselögum, er Drottinn, Ísraels Guð, hefir gefið, og konungur veitti honum allar bænir hans, með því að hönd Drottins, Guðs hans, var yfir honum. 7.7 Og nokkrir af Ísraelsmönnum og af prestunum, levítunum, söngvurunum, hliðvörðunum og musterisþjónunum fóru með honum til Jerúsalem á sjöunda ríkisári Artahsasta konungs. 7.8 Og hann kom til Jerúsalem í fimmta mánuðinum, það var á sjöunda ríkisári konungs. 7.9 Því að hinn fyrsta dag hins fyrsta mánaðar bjó hann ferð sína frá Babýlon, og hinn fyrsta dag hins fimmta mánaðar kom hann til Jerúsalem, með því að Guð hans hélt náðarsamlega hönd sinni yfir honum. 7.10 Því að Esra hafði snúið huga sínum að því að rannsaka lögmál Drottins og breyta eftir því og að kenna lög og rétt í Ísrael. 7.11 Þetta er afrit af bréfinu, sem Artahsasta konungur fékk Esra presti, fræðimanninum, sem fróður var í ákvæðum boðorða Drottins og í lögum hans, þeim er hann hafði sett Ísrael: 7.12 'Artahsasta, konungur konunganna, til Esra prests hins fróða í lögmáli Guðs himnanna, og svo framvegis. 7.13 Ég hefi gefið út skipun um, að hver sá í ríki mínu af Ísraelslýð og af prestum hans og levítum, sem vill fara til Jerúsalem, skuli fara með þér, 7.14 þar eð þú ert sendur af konungi og sjö ráðgjöfum hans, til þess að gjöra rannsóknir um Júda og Jerúsalem, samkvæmt lögmáli Guðs þíns, sem þú hefir í höndum, 7.15 og til að flytja silfur það og gull, sem konungur og ráðgjafar hans sjálfviljuglega hafa gefið Ísraels Guði, þeim er bústað á í Jerúsalem, 7.16 svo og allt það silfur og gull, er þú fær í öllu Babelskattlandi, ásamt sjálfviljagjöfum lýðsins og prestanna, sem og gefa sjálfviljuglega til musteris Guðs síns í Jerúsalem. 7.17 Fyrir því skalt þú með allri kostgæfni kaupa fyrir fé þetta naut, hrúta, lömb og matfórnir og dreypifórnir þær, er þar til heyra, og fram bera þær á altarinu í húsi Guðs yðar í Jerúsalem. 7.18 Og það sem þér og bræðrum þínum þóknast að gjöra við afganginn af silfrinu og gullinu, það skuluð þér gjöra samkvæmt vilja Guðs yðar. 7.19 En áhöldin, sem þér munu verða fengin til guðsþjónustunnar í húsi Guðs þíns, þeim skalt þú skila óskertum frammi fyrir Guði í Jerúsalem. 7.20 Og annað það, er með þarf við hús Guðs þíns og þú kannt að þurfa að greiða, það skalt þú greiða úr féhirslu konungs. 7.21 Og ég, Artahsasta konungur, hefi gefið út skipun til allra féhirða í héraðinu hinumegin Fljóts: Allt það, er Esra prestur, sá er fróður er í lögmáli Guðs himnanna, biður yður um, það skal kostgæfilega í té látið, 7.22 allt að hundrað talentur silfurs og allt að hundrað kór af hveiti og allt að hundrað bat af víni og allt að hundrað bat af olífuolíu og salt ómælt. 7.23 Allt það, sem þörf er á samkvæmt skipun Guðs himnanna, skal kostgæfilega gjört fyrir hús Guðs himnanna, til þess að reiði komi ekki yfir ríki konungs og sona hans. 7.24 En yður gefst til vitundar, að engum er heimilt að leggja skatt, toll eða vegagjald á nokkurn prest eða levíta, söngvara, dyravörð, musterisþjón eða starfsmann við þetta musteri Guðs. 7.25 En þú, Esra, skipa þú samkvæmt visku Guðs þíns, þeirri er þú hefir í hendi þér, dómendur og stjórnendur, til þess að þeir dæmi mál manna hjá öllum lýð í héraðinu hinumegin Fljóts _ hjá þeim er þekkja lög Guðs þíns. Og þeim, er ekki þekkir þau, honum skuluð þér kenna. 7.26 En hver sá, er eigi breytir eftir lögmáli Guðs þíns og lögmáli konungsins, á honum skal dómur vendilega framkvæmdur verða, hvort heldur er til dauða eða til útlegðar eða til fjárútláta eða til fangelsisvistar.' 7.27 Lofaður sé Drottinn, Guð feðra vorra, sem blásið hefir konunginum slíku í brjóst, að gjöra musteri Drottins í Jerúsalem dýrlegt, 7.28 og hneigt til mín hylli konungs og ráðgjafa hans og allra hinna voldugu höfðingja konungs! Og ég tók í mig hug, með því að hönd Drottins, Guðs míns, hvíldi yfir mér, og safnaði saman höfðingjum Ísraels til þess að fara heim með mér.
8.1 Þessir eru ætthöfðingjar þeirra _ og þetta er ættarskrá þeirra _ er fóru með mér heim frá Babýlon, þá er Artahsasta konungur sat að völdum: 8.2 Af niðjum Pínehasar: Gersóm. Af niðjum Ítamars: Daníel. Af niðjum Davíðs: Hattús, 8.3 sonur Sekanja. Af niðjum Parós: Sakaría og með honum skráðir af karlmönnum 150. 8.4 Af niðjum Pahat-Móabs: Eljehóenaí Serajason og með honum 200 karlmenn. 8.5 Af niðjum Sattú: Sekanja Jahasíelsson og með honum 300 karlmenn. 8.6 Af niðjum Adíns: Ebed Jónatansson og með honum fimm tugir karlmanna. 8.7 Af niðjum Elams: Jesaja Ataljason og með honum sjö tugir karlmanna. 8.8 Af niðjum Sefatja: Sebadía Míkaelsson og með honum átta tugir karlmanna. 8.9 Af niðjum Jóabs: Óbadía Jehíelsson og með honum 218 karlmenn. 8.10 Af niðjum Baní: Selómít Jósifjason og með honum 160 karlmenn. 8.11 Af niðjum Bebaí: Sakaría Bebaíson og með honum 28 karlmenn. 8.12 Af niðjum Asgads: Jóhanan Hakkatansson og með honum 110 karlmenn. 8.13 Af niðjum Adóníkams, síðkomnir, og þessi voru nöfn þeirra: Elífelet, Jeíel og Semaja, og með þeim 60 karlmenn. 8.14 Af niðjum Bigvaí: Útaí og Sabbúd og með þeim 70 karlmenn. 8.15 Ég safnaði þeim saman við fljótið, sem rennur um Ahava, og lágum vér þar í tjöldum í þrjá daga. En er ég hugði að fólkinu og prestunum, þá fann ég þar engan af niðjum Leví. 8.16 Þá sendi ég eftir Elíeser, Aríel, Semaja, Elnatan, Jaríb, Elnatan, Natan, Sakaría og Mesúllam, ætthöfðingjum, og Jójaríb og Elnatan, kennurum, 8.17 og bauð þeim að fara til Íddós, höfðingja í Kasifjabyggð, og lagði þeim orð í munn, er þeir skyldu flytja Íddó, bræðrum hans og musterisþjónunum í Kasifjabyggð, til þess að þeir mættu útvega oss þjónustumenn í musteri Guðs vors. 8.18 Og með því að hönd Guðs vors hvíldi náðarsamlega yfir oss, þá færðu þeir oss vel kunnandi mann af niðjum Mahelí Levísonar, Ísraelssonar, og Serebja og sonu hans og bræður _ átján alls, 8.19 og Hasabja og með honum Jesaja af niðjum Merarí, bræður hans og sonu þeirra _ tuttugu alls, 8.20 og af musterisþjónunum, sem Davíð og höfðingjar hans höfðu sett til að þjóna levítunum: tvö hundruð og tuttugu musterisþjóna. Þeir voru allir nefndir með nafni. 8.21 Og ég lét boða þar föstu við fljótið Ahava, til þess að vér skyldum auðmýkja oss fyrir Guði vorum til að biðja hann um farsællega ferð fyrir oss, börn vor og allar eigur vorar. 8.22 Því að ég fyrirvarð mig að biðja konung um herlið og riddara til verndar fyrir óvinum á leiðinni. Því að vér höfum sagt konungi: 'Hönd Guðs vors hvílir yfir öllum þeim, sem leita hans, þeim til góðs, en máttur hans og reiði yfir öllum þeim, sem yfirgefa hann.' 8.23 Vér föstuðum því og báðum Guð um þetta, og hann bænheyrði oss. 8.24 Síðan valdi ég tólf úr af prestahöfðingjunum og Serebja, Hasabja og með þeim tíu af bræðrum þeirra, 8.25 og vó þeim út silfrið og gullið og áhöldin _ gjöfina til húss Guðs vors, er konungur og ráðgjafar hans og höfðingjar hans og allir Ísraelsmenn, þeir er þar voru, höfðu gefið. 8.26 Og þannig vó ég í hendur þeirra sex hundruð og fimmtíu talentur í silfri, hundrað talentur í silfuráhöldum, hundrað talentur í gulli. 8.27 Auk þess tuttugu gullkönnur, þúsund daríka virði, og tvö ker af gullgljáum góðum eiri, dýrmæt sem gull. 8.28 Og ég sagði við þá: 'Þér eruð helgaðir Drottni, og áhöldin eru heilög, og silfrið og gullið eru sjálfviljagjöf til Drottins, Guðs feðra yðar. 8.29 Gætið því þessa og varðveitið það, þar til er þér vegið það aftur út í augsýn prestahöfðingjanna og levítanna og ætthöfðingja Ísraels í Jerúsalem í herbergi musteris Drottins.' 8.30 Síðan tóku prestarnir og levítarnir við silfrinu og gullinu og áhöldunum eftir vigt til þess að flytja það til Jerúsalem, til musteris Guðs vors. 8.31 Því næst lögðum vér upp frá fljótinu Ahava hinn tólfta dag hins fyrsta mánaðar og héldum til Jerúsalem, og hönd Guðs vors hvíldi yfir oss, svo að hann frelsaði oss undan valdi óvina og stigamanna. 8.32 Og vér komum til Jerúsalem og dvöldumst þar í þrjá daga. 8.33 En á fjórða degi var silfrið og gullið og áhöldin vegin út í musteri Guðs vors í hendur Meremóts prests Úríasonar, _ og með honum var Eleasar Pínehasson, og með þeim voru levítarnir Jósabad Jesúason og Nóadja Binnúíson _ 8.34 allt saman með tölu og vigt. Og öll vigtin var þá skrifuð upp. 8.35 Þeir er heim komu úr herleiðingunni, þeir hernumdu, er aftur sneru, færðu Ísraels Guði brennifórnir: tólf naut fyrir allan Ísrael, níutíu og sex hrúta, sjötíu og sjö lömb, tólf hafra í syndafórn _ allt sem brennifórn Drottni til handa. 8.36 Og þeir fengu jörlum konungs og landstjórunum í héraðinu hinumegin Fljóts konungsboðin, og þeir aðstoðuðu lýðinn og musteri Guðs.
9.1 Þegar þessu var lokið, komu höfðingjarnir til mín og sögðu: 'Ísraelslýður og prestarnir og levítarnir hafa ekki haldið sér frá hinum heiðnu íbúum landsins, sem skylt hefði verið vegna viðurstyggða þeirra, frá Kanaanítum, Hetítum, Peresítum, Jebúsítum, Ammónítum, Móabítum, Egyptum og Amórítum, 9.2 því að þeir hafa tekið sér og sonum sínum konur af dætrum þeirra, og þannig hefir hinn heilagi ættstofn haft mök við hina heiðnu íbúa landsins, og hafa höfðingjarnir og yfirmennirnir gengið á undan í þessu tryggðrofi.' 9.3 Þegar ég heyrði þetta, reif ég kyrtil minn og yfirhöfn mína, reytti hár mitt og skegg og sat agndofa. 9.4 Þá söfnuðust til mín allir þeir, er óttuðust orð Ísraels Guðs, út af tryggðrofi hinna hernumdu, en ég sat agndofa allt til kveldfórnar. 9.5 En er að kveldfórninni var komið, stóð ég upp frá föstu minni og reif um leið enn að nýju kyrtil minn og yfirhöfn mína. Síðan féll ég á kné, fórnaði höndum til Drottins, Guðs míns, 9.6 og sagði: 'Guð minn, ég fyrirverð mig og blygðast mín að hefja auglit mitt til þín, ó minn Guð! Því að misgjörðir vorar eru vaxnar oss yfir höfuð og sekt vor orðin svo mikil, að hún nær til himins. 9.7 Allt frá dögum feðra vorra fram á þennan dag höfum vér verið í mikilli sekt, og vegna misgjörða vorra höfum vér verið ofurseldir, konungar vorir og prestar vorir, í hendur konunga heiðinna landa, undir sverðin, til herleiðingar, til ráns og til háðungar, eins og enn í dag á sér stað. 9.8 En nú höfum vér um örskamma stund hlotið miskunn frá Drottni, Guði vorum, með því að hann lét oss eftir verða leifar, er af komust, og veitti oss bólfestu á sínum heilaga stað, til þess að Guð vor léti gleðina skína úr augum vorum og veitti oss ofurlítinn nýjan lífsþrótt í ánauð vorri. 9.9 Því að ánauðugir erum vér. Þó hefir Guð vor eigi yfirgefið oss í ánauð vorri, heldur hagað því svo, að vér fundum náð fyrir augliti Persakonunga, svo að þeir veittu oss nýjan lífsþrótt til að koma upp musteri Guðs vors og reisa það úr rústum og útvega oss umgirtan bústað í Júda og Jerúsalem. 9.10 Og hvað eigum vér nú að segja, Guð vor, eftir allt þetta? Því að vér höfum yfirgefið boðorð þín, 9.11 sem þú hefir fyrir oss lagt fyrir munn þjóna þinna, spámannanna, er þú sagðir: ,Landið, er þér haldið inn í til þess að taka það til eignar, er óhreint land vegna saurugleika hinna heiðnu landsbúa, vegna viðurstyggða þeirra, er þeir í saurgun sinni hafa fyllt það með landshornanna milli. 9.12 Fyrir því skuluð þér hvorki gefa dætur yðar sonum þeirra né taka dætur þeirra sonum yðar að konum, og um aldur og ævi skuluð þér ekki leitast við að efla farsæld þeirra og velgengni, til þess að þér eflist og fáið að njóta landsins gæða og megið láta börnum yðar það eftir í arf um aldur og ævi.` 9.13 Og eftir allt það, sem yfir oss er komið vegna vondra verka vorra og vorrar miklu sektar _ því að þú, Guð vor, hefir vægt oss og ekki hegnt oss, svo sem vér áttum skilið fyrir misgjörð vora, og veitt oss slíkar leifar _ 9.14 ættum vér þá enn að nýju að brjóta boðorð þín og mægjast við þær þjóðir, sem aðhafast slíkar svívirðingar? Mundir þú eigi reiðast oss, þar til er vér værum gjöreyddir, svo að engar leifar væru eftir né nokkrir þeir, er undan hefðu komist? 9.15 Drottinn, Ísraels Guð, þú ert réttlátur! Vér erum eftir skildir sem leifar, er undan hafa komist, svo sem sjá má þann dag í dag. Sjá, vér stöndum frammi fyrir þér í sekt vorri, því að það er eigi unnt að standast fyrir þér vegna þessa.'
10.1 Meðan Esra baðst þannig fyrir og bar fram játning sína grátandi og knéfallandi frammi fyrir musteri Guðs, safnaðist til hans mjög mikill skari Ísraelsmanna, karlar og konur og börn, því að fólkið grét hástöfum. 10.2 Þá tók Sekanja Jehíelsson, af niðjum Elams, til máls og sagði við Esra: 'Vér höfum brotið á móti Guði vorum, þar sem vér höfum gengið að eiga útlendar konur af hinum heiðnu íbúum landsins. Þó er ekki öll von úti fyrir Ísrael í þessu efni. 10.3 Fyrir því skulum vér nú gjöra sáttmála við Guð vorn um að reka burt allar þessar konur og börn þau, er af þeim eru fædd, eftir ráðum herra míns og þeirra manna, er óttast boðorð Guðs vors, og það skal verða farið eftir lögmálinu. 10.4 Rís upp, því að mál þetta hvílir á þér, og vér munum styðja þig. Hertu nú upp hugann og framkvæmdu þetta.' 10.5 Þá reis Esra upp og lét presta- og levítahöfðingjana og allan Ísrael vinna eið að því, að þeir skyldu hegða sér eftir þessu, og unnu þeir eiðinn. 10.6 Og Esra reis upp og gekk burt þaðan er hann hafði verið, fyrir framan musteri Guðs, og inn í herbergi Jóhanans Eljasíbssonar. Þar var hann um nóttina og neytti hvorki brauðs né drakk vatn, því að hann var hryggur yfir tryggðrofi hinna herleiddu. 10.7 Og menn létu boð út ganga um Júda og Jerúsalem til allra þeirra, er heim voru komnir úr herleiðingunni, að safnast saman í Jerúsalem. 10.8 Og hver sá, er eigi kæmi innan þriggja daga, samkvæmt ráðstöfun höfðingjanna og öldunganna _ allar eigur hans skyldu banni helgaðar og hann sjálfur rekinn úr söfnuði hinna herleiddu. 10.9 Þá söfnuðust allir Júdamenn og Benjamíns saman í Jerúsalem á þriðja degi, það var í níunda mánuðinum, á tuttugasta degi mánaðarins. Og allt fólkið sat á auða svæðinu fram undan musteri Guðs, skjálfandi út af þessu og af því að stórrigning var. 10.10 Þá stóð Esra prestur upp og mælti til þeirra: 'Þér hafið rofið tryggðir, með því að ganga að eiga útlendar konur, til þess að auka á sekt Ísraels. 10.11 Gjörið því játningu frammi fyrir Drottni, Guði feðra yðar, og gjörið hans vilja og skiljið yður frá hinum heiðnu íbúum landsins og frá hinum útlendu konum.' 10.12 Og allur söfnuðurinn svaraði og sagði með hárri röddu: 'Svo sem þú hefir sagt, þannig er oss skylt að breyta. 10.13 En fólkið er margt og rigningatími, svo að vér getum ekki staðið úti. Þetta er og meira en eins eða tveggja daga verk, því að vér höfum margfaldlega brotið í þessu efni. 10.14 Gangi því höfðingjar vorir fram fyrir allan söfnuðinn, og allir þeir í borgum vorum, er gengið hafa að eiga útlendar konur, skulu koma hver á tilteknum tíma, og með þeim öldungar hverrar borgar og dómarar hennar, þar til er þeir hafa snúið hinni brennandi reiði Guðs vors frá oss að því er mál þetta snertir.' 10.15 Þeir Jónatan Asahelsson og Jahseja Tikvason einir mótmæltu þessu, og Mesúllam og Sabtaí levíti studdu þá. 10.16 Þeir, sem heim voru komnir úr herleiðingunni, gjörðu svo, og Esra prestur valdi sér menn, ætthöfðingja hinna einstöku ætta, og þá alla með nafni, og settust þeir á ráðstefnu hinn fyrsta dag hins tíunda mánaðar til þess að rannsaka málið. 10.17 Og þeir höfðu að öllu leyti útkljáð mál þeirra manna, er gengið höfðu að eiga útlendar konur, fyrir fyrsta dag hins fyrsta mánaðar. 10.18 Af niðjum prestanna fundust þessir, er gengið höfðu að eiga útlendar konur: Af niðjum Jósúa Jósadakssonar og bræðrum hans: Maaseja, Elíeser, Jaríb og Gedalja. 10.19 Lofuðu þeir með handsali að reka frá sér konur sínar og að fórna hrút vegna sektar sinnar. 10.20 Af niðjum Immers: Hananí og Sebadía. 10.21 Af afkomendum Haríms: Maaseja, Elía, Semaja, Jehíel og Úsía. 10.22 Af niðjum Pashúrs: Eljóenaí, Maaseja, Ísmael, Netaneel, Jósabad og Elasa. 10.23 Af levítunum: Jósabad, Símeí og Kelaja _ það er Kelíta, Petahja, Júda og Elíeser. 10.24 Af söngvurunum: Eljasíb. Af hliðvörðunum: Sallúm, Telem og Úrí. 10.25 Af Ísrael: Af niðjum Parós: Ramja, Jisía, Malkía, Míjamín, Eleasar, Malkía og Benaja. 10.26 Af niðjum Elams: Mattanja, Sakaría, Jehíel, Abdí, Jeremót og Elía. 10.27 Af niðjum Sattú: Eljóenaí, Eljasíb, Mattanja, Jeremót, Sabad og Asísa. 10.28 Af niðjum Bebaí: Jóhanan, Hananja, Sabbaí og Atlaí. 10.29 Af niðjum Baní: Mesúllam, Mallúk og Adaja, Jasúb, Seal, Jeramót. 10.30 Af niðjum Pahat Móabs: Adna, Kelal, Benaja, Maaseja, Mattanja, Besaleel, Binnúí og Manasse. 10.31 Niðjar Haríms: Elíeser, Jisía, Malkía, Semaja, Símeon, 10.32 Benjamín, Mallúk, Semarja. 10.33 Af niðjum Hasúms: Matnaí, Mattatta, Sabad, Elífelet, Jeremaí, Manasse, Símeí. 10.34 Af niðjum Baní: Maadaí, Amram, Úel, 10.35 Benaja, Bedja, Kelúhí, 10.36 Vanja, Meremót, Eljasíb, 10.37 Mattanja, Matnaí, Jaasaí, 10.38 Baní, Binnúí, Símeí, 10.39 Selemja, Natan, Adaja, 10.40 Maknadbaí, Sasaí, Saraí, 10.41 Asareel, Selemja, Semarja, 10.42 Sallúm, Amarja, Jósef. 10.43 Af niðjum Nebós: Jeíel, Mattija, Sabad, Sebína, Jaddaí, Jóel, Benaja.
1.1 Frásögn Nehemía Hakalíasonar. Í kislevmánuði tuttugasta árið, þá er ég var í borginni Súsa, 1.2 kom Hananí, einn af bræðrum mínum, ásamt nokkrum mönnum frá Júda. Spurði ég þá um Gyðinga, þá er undan komust, þá er eftir voru af hinum herleiddu, og um Jerúsalem. 1.3 Og þeir svöruðu mér: 'Leifarnar _ þeir er eftir eru af hinum herleiddu þar í skattlandinu, eru mjög illa staddir og í fyrirlitningu, með því að múrar Jerúsalem eru niður brotnir og borgarhliðin í eldi brennd.' 1.4 Þegar ég heyrði þessi tíðindi, þá settist ég niður og grét og harmaði dögum saman, og ég fastaði og var á bæn til Guðs himnanna. 1.5 Og ég sagði: 'Æ, Drottinn, Guð himnanna, þú mikli og ógurlegi Guð, sem heldur sáttmálann og miskunnsemina við þá, sem elska hann og varðveita boðorð hans. 1.6 Lát eyra þitt vera gaumgæfið og augu þín opin, til þess að þú heyrir bæn þjóns þíns, þá er ég nú bið frammi fyrir þér bæði daga og nætur sakir Ísraelsmanna, þjóna þinna, með því að ég játa syndir Ísraelsmanna, er þeir hafa drýgt móti þér. Ég og ættfólk mitt höfum og syndgað. 1.7 Vér höfum breytt illa gagnvart þér og ekki varðveitt boðorðin, lögin og ákvæðin, er þú lagðir fyrir Móse, þjón þinn. 1.8 Minnstu orðsins, er þú bauðst Móse, þjóni þínum, segjandi: ,Ef þér bregðið trúnaði, mun ég tvístra yður meðal þjóðanna. 1.9 En þegar þér hverfið aftur til mín og varðveitið boðorð mín og breytið eftir þeim _ þótt yðar brottreknu væru yst við skaut himinsins, þá mun ég saman safna þeim þaðan og leiða þá til þess staðar, er ég hefi valið til þess að láta nafn mitt búa þar.` 1.10 Því að þínir þjónar eru þeir og þinn lýður, er þú frelsaðir með miklum mætti þínum og með sterkri hendi þinni. 1.11 Æ, herra, lát eyra þitt vera gaumgæfið að bæn þjóns þíns og bæn þjóna þinna, er fúslega óttast nafn þitt. Farsæl þjón þinn í dag og lát hann finna meðaumkun hjá manni þessum.' Ég var þá byrlari hjá konungi.
2.1 Í nísanmánuði á tuttugasta ríkisári Artahsasta konungs, þá er vín stóð fyrir framan konung, tók ég vínið og rétti að honum, án þess að láta á því bera við hann, hve illa lá á mér. 2.2 En konungur sagði við mig: 'Hví ert þú svo dapur í bragði, þar sem þú ert þó ekki sjúkur? Það hlýtur að liggja illa á þér.' Þá varð ég ákaflega hræddur. 2.3 Og ég sagði við konung: 'Konungurinn lifi eilíflega! Hví skyldi ég ekki vera dapur í bragði, þar sem borgin, er geymir grafir forfeðra minna, er í eyði lögð og hlið hennar í eldi brennd?' 2.4 Þá sagði konungur við mig: 'Hvers beiðist þú þá?' Þá gjörði ég bæn mína til Guðs himnanna; 2.5 síðan mælti ég til konungs: 'Ef konungi þóknast svo og ef þú telur þjón þinn til þess færan, þá send mig til Júda, til borgar þeirrar, er geymir grafir forfeðra minna, til þess að ég endurreisi hana.' 2.6 Konungur mælti til mín _ en drottning sat við hlið honum: 'Hversu lengi mun ferð þín standa yfir, og hvenær kemur þú aftur?' Og konungi þóknaðist að senda mig, og ég tiltók ákveðinn tíma við hann. 2.7 Og ég sagði við konung: 'Ef konunginum þóknast svo, þá lát fá mér bréf til landstjóranna í héraðinu hinumegin Fljóts, til þess að þeir leyfi mér að fara um lönd sín, þar til er ég kem til Júda, 2.8 og bréf til Asafs, skógarvarðar konungsins, til þess að hann láti mig fá við til þess að gjöra af bjálka í hlið kastalans, er heyrir til musterisins, og til borgarmúranna og til hússins, er ég mun fara í.' Og konungur veitti mér það, með því að hönd Guðs míns hvíldi náðarsamlega yfir mér. 2.9 Og er ég kom til landstjóranna í héraðinu hinumegin Fljóts, þá fékk ég þeim bréf konungs. Konungur sendi og með mér höfuðsmenn og riddara. 2.10 En er Sanballat Hóroníti og Tobía þjónn, Ammónítinn, spurðu það, gramdist þeim það mikillega, að kominn skyldi vera maður til að annast hagsmuni Ísraelsmanna. 2.11 Og ég kom til Jerúsalem, og er ég hafði verið þar þrjá daga, 2.12 fór ég á fætur um nótt og fáeinir menn með mér, án þess að hafa sagt nokkrum manni frá því, er Guð minn blés mér í brjóst að gjöra fyrir Jerúsalem, og án þess að nokkur skepna væri með mér, nema skepnan, sem ég reið. 2.13 Og ég fór út um Dalshliðið um nóttina og í áttina til Drekalindar og Mykjuhliðs, og ég skoðaði múra Jerúsalem, hversu þeir voru rifnir niður og hlið hennar í eldi brennd. 2.14 Síðan hélt ég áfram til Lindarhliðs og Konungstjarnar. Þá var skepnunni ekki lengur fært að komast áfram undir mér. 2.15 Gekk ég þá upp í dalinn um nóttina og skoðaði múrinn. Síðan kom ég aftur inn um Dalshliðið og sneri heim. 2.16 En yfirmennirnir vissu ekki, hvert ég hafði farið né hvað ég ætlaði að gjöra, með því að ég hafði enn ekki neitt sagt Gyðingum né prestunum né tignarmönnunum né yfirmönnunum né öðrum þeim, er að verkinu unnu. 2.17 Og ég sagði nú við þá: 'Þér sjáið, hversu illa vér erum staddir, þar sem Jerúsalem er í eyði lögð og hlið hennar í eldi brennd. Komið, vér skulum endurreisa múra Jerúsalem, svo að vér verðum ekki lengur hafðir að spotti.' 2.18 Og ég sagði þeim, hversu náðarsamlega hönd Guðs míns hefði hvílt yfir mér, svo og orð konungs, þau er hann talaði til mín. Þá sögðu þeir: 'Vér viljum fara til og byggja!' Og þeir styrktu hendur sínar til hins góða verksins. 2.19 En er Sanballat Hóroníti og Tobía þjónn, Ammónítinn, og Gesem Arabi spurðu þetta, gjörðu þeir gys að oss, sýndu oss fyrirlitningu og sögðu: 'Hvað er þetta, sem þér hafið fyrir stafni? Ætlið þér að gjöra uppreisn móti konunginum?' 2.20 En ég svaraði þeim og sagði við þá: 'Guð himnanna, hann mun láta oss takast þetta, en vér þjónar hans munum fara til og byggja. En þér eigið enga hlutdeild né rétt né minning í Jerúsalem.'
3.1 Þá tóku þeir sig til, Eljasíb æðsti prestur og bræður hans, prestarnir, og reistu Sauðahliðið _ vígðu þeir það og settu hurðirnar í það _ og allt að Hammeaturni _ hann vígðu þeir _ allt að Hananelturni. 3.2 Næstir honum byggðu Jeríkómenn, og næstur þeim byggði Sakkúr Imríson. 3.3 Fiskhliðið byggðu Senaamenn. Þeir gjörðu þar dyraumbúnað og settu hurðirnar í það, lokurnar og slagbrandana. 3.4 Næstur þeim hlóð upp Meremót Úríason, Hakkóssonar. Næstur honum hlóð upp Mesúllam Berekíason, Mesesabeelssonar. Næstur honum hlóð upp Sadók Baanason. 3.5 Næstir honum hlóðu upp Tekóamenn, en göfugmenni þeirra beygðu ekki háls sinn undir þjónustu herra síns. 3.6 Við gamla hliðið gjörðu þeir Jójada Paseason og Mesúllam Besódíason. Þeir gjörðu þar dyraumbúnað og settu hurðirnar í það, lokurnar og slagbrandana. 3.7 Næstir þeim hlóðu upp Melatja Gíbeoníti og Jadón Merónótíti og meðal þeirra menn frá Gíbeon og Mispa, sem lutu hástól landstjórans í héraðinu hinumegin Fljóts. 3.8 Næstur þeim hlóð upp Ússíel Harhajason og með honum gullsmiðirnir. Næstur honum hlóð upp Hananja, einn af smyrslasölunum. Og þeir steinlögðu Jerúsalem allt að breiða múrnum. 3.9 Næstur honum hlóð upp Refaja Húrsson, höfðingi yfir hálfu héraðinu kringum Jerúsalem. 3.10 Næstur honum hlóð upp Jedaja Harúmafsson, og það gegnt húsi sínu. Næstur honum hlóð upp Hattús Hasabnejason. 3.11 Annan part hlóðu upp þeir Malkía Harímsson og Hasúb Pahat Móabsson, svo og baksturofnsturninn. 3.12 Næstur þeim hlóð upp Sallúm Hallóhesson, höfðingi yfir hinum helming héraðsins kringum Jerúsalem _ hann og dætur hans. 3.13 Við Dalshliðið gjörði Hanún og Sanóabúar _ þeir byggðu það og settu hurðirnar í það, lokurnar og slagbrandana _ og þúsund álnir af múrnum, allt að Mykjuhliðinu. 3.14 Við Mykjuhliðið gjörði Malkía Rekabsson, höfðingi yfir Bet Keremhéraði _ hann byggði það og setti hurðirnar í það, lokurnar og slagbrandana. 3.15 Við Lindarhliðið gjörði Sallún Kol Hóseson, höfðingi yfir Mispahéraði _ hann byggði það, gjörði þak á það, setti hurðirnar í það, lokurnar og slagbrandana _, enn fremur múrinn hjá vatnsveitutjörninni að Kóngsgarðinum og allt að tröppunum, er liggja niður frá Davíðsborg. 3.16 Næstur á eftir honum hlóð upp Nehemía Asbúksson, höfðingi yfir hálfu Bet Súrhéraði, þar til komið var gegnt gröfum Davíðs og að tilbúnu tjörninni og kappahúsinu. 3.17 Næstir á eftir honum hlóðu upp levítarnir, og var Rehúm Baníson fyrir þeim. Næstur þeim hlóð upp Hasabja, höfðingi yfir hálfu Kegíluhéraði, fyrir sitt hérað. 3.18 Næstir á eftir honum hlóðu upp bræður þeirra og fyrir þeim Bavvaí Henadadsson, höfðingi yfir hinum helming Kegíluhéraðs. 3.19 Næstur þeim hlóð upp Eser Jesúason, höfðingi yfir Mispa, annan part, gegnt þar sem gengið er upp í vopnabúrið á horninu. 3.20 Næstur á eftir honum, upp fjallið, hlóð upp Barúk Sabbaíson, annan part, frá horninu að dyrunum á húsi Eljasíbs æðsta prests. 3.21 Næstur á eftir honum hlóð upp Meremót Úríason, Hakkóssonar, annan part, frá dyrunum á húsi Eljasíbs að endanum á húsi Eljasíbs. 3.22 Næstir á eftir honum hlóðu upp prestarnir, menn þar úr grenndinni. 3.23 Næstir á eftir þeim hlóðu upp þeir Benjamín og Hassúb, gegnt húsi sínu. Næstur á eftir þeim hlóð upp Asarja Maasejason, Ananjasonar, hjá húsi sínu. 3.24 Næstur á eftir honum hlóð upp Binnúí Henadadsson, annan part, frá húsi Asarja að horninu, þar að sem múrinn beygir við. 3.25 Palal Úsaíson gegnt horninu og efri turninum, sem gengur út úr höll konungs og heyrir til varðgarðsins. Næstur á eftir honum Pedaja Parósson. 3.26 En musterisþjónarnir bjuggu í Ófel, austur á móts við Vatnshliðið og turninn, er þar gengur fram. 3.27 Næstir á eftir honum hlóðu upp Tekóamenn, annan part, gegnt stóra turninum, er þar gekk fram, allt að Ófelmúrnum. 3.28 Fyrir ofan Hrossahliðið hlóðu prestarnir upp hver gegnt húsi sínu. 3.29 Næstur á eftir þeim hlóð upp Sadók Immersson gegnt húsi sínu. Næstur á eftir honum hlóð upp Semaja Sekanjason, vörður Austurhliðsins. 3.30 Næstir á eftir honum hlóðu upp þeir Hananja Selemjason og Hanún, sjötti sonur Salafs, annan part. Næstur á eftir þeim hlóð upp Mesúllam Berekíason, gegnt klefa sínum. 3.31 Næstur á eftir honum hlóð upp Malkía, einn af gullsmiðunum, allt að húsi musterisþjónanna, og kaupmennirnir gegnt Mífkaðhliðinu og allt að hornsvölunum. 3.32 Og milli hornsvalanna og Sauðahliðsins hlóðu gullsmiðirnir og kaupmennirnir.
4.1 Þá er Sanballat heyrði, að vér værum að endurreisa múrinn, varð hann reiður og gramdist honum það mjög. Og hann gjörði gys að Gyðingum 4.2 og talaði í áheyrn bræðra sinna og herliðs Samaríu og mælti: 'Hvað hafa Gyðingarnir fyrir stafni, þeir vesalingar? Skyldu þeir hætta við það aftur? Munu þeir fórna? Ætli þeir ljúki við það í dag? Munu þeir gjöra steinana í rústahaugunum lifandi, þar sem þeir þó eru brunnir?' 4.3 Og Tobía Ammóníti stóð hjá honum og mælti: 'Hvað sem þeir nú eru að byggja _ ef refur stigi á það, þá mundi steinveggur þeirra hrynja undan honum!' 4.4 Heyr, Guð vor, hversu vér erum smánaðir! Lát háð þeirra koma þeim sjálfum í koll og framsel þá til ráns hernumda í öðru landi. 4.5 Hyl eigi misgjörð þeirra, og synd þeirra afmáist aldrei fyrir augliti þínu, því að þeir hafa egnt þig til reiði í augsýn þeirra, sem eru að byggja. 4.6 En vér héldum áfram að byggja múrinn og allur múrinn varð fullgjör upp að miðju, og hafði lýðurinn áhuga á verkinu. 4.7 En er Sanballat og Tobía og Arabar og Ammónítar og Asdódmenn heyrðu, að farið væri að gjöra við múra Jerúsalem, að skörðin væru tekin að fyllast, urðu þeir mjög reiðir. 4.8 Og þeir tóku sig allir saman um að koma og herja á Jerúsalem og gjöra þar spell. 4.9 En vér gjörðum bæn vora til Guðs vors og settum vörð gegn þeim bæði dag og nótt af ótta fyrir þeim. 4.10 En Gyðingar sögðu: 'Burðarmennirnir gefast upp og rústirnar eru miklar og þá getum vér ekki byggt múrinn.' 4.11 En mótstöðumenn vorir hugsuðu: 'Þeir skulu ekkert vita og einskis varir verða, fyrr en vér ráðumst á þá og brytjum þá niður og gjörum enda á verkinu.' 4.12 En er Gyðingar þeir, sem bjuggu í grennd við þá, komu og sögðu við oss sjálfsagt tíu sinnum, úr öllum áttum: 'Þér verðið að koma til vor!' 4.13 þá lét ég staðar nema á lægstu stöðunum bak við múrinn, á sólbrunnu stöðunum, þar lét ég lýðinn nema staðar eftir ættum, með sverðum sínum, lensum og bogum. 4.14 Og ég litaðist um, reis upp og sagði við tignarmennina og yfirmennina og hitt fólkið: 'Eigi skuluð þér óttast þá. En minnist Drottins, hins mikla og ógurlega, og berjist fyrir bræður yðar, sonu yðar, dætur yðar, konur yðar og hús yðar.' 4.15 En er óvinir vorir heyrðu, að vér værum orðnir þess vísir og að Guð hefði ónýtt ráðagjörð þeirra, þá gátum vér allir snúið aftur að múrnum, hver til sinnar vinnu. 4.16 En frá þeim degi vann aðeins helmingur sveina minna að verkinu. Hinn helmingur þeirra hélt á lensunum, skjöldunum, bogunum og pönsurunum, en foringjarnir stóðu bak við alla Júdamenn, þá er voru að byggja upp múrinn. 4.17 En burðarmennirnir voru búnir til bardaga. Með annarri hendinni unnu þeir að verkinu, en með hinni héldu þeir á skotspjótinu. 4.18 Og þeir sem hlóðu voru allir gyrtir sverði um lendar sér og hlóðu þannig, en lúðursveinninn stóð hjá mér. 4.19 Og ég sagði við tignarmennina og yfirmennina og aðra af lýðnum: 'Verkið er stórt og umfangsmikið, og vér erum tvístraðir á múrnum, langt í burtu hver frá öðrum. 4.20 Þar sem þér heyrið lúðurhljóminn, þangað skuluð þér safnast til vor. Guð vor mun berjast fyrir oss.' 4.21 Þannig unnum vér að verkinu, en helmingur þeirra hélt á lensunum, frá því er morgunroðinn færðist upp á himininn og þar til er stjörnurnar komu fram. 4.22 Þá sagði ég og við lýðinn: 'Allir skulu vera í Jerúsalem á næturnar, ásamt sveinum sínum, til þess að þeir séu vörður fyrir oss á nóttunni, en vinni að verkinu á daginn.' 4.23 En ég og bræður mínir og sveinar mínir og varðmennirnir, er fylgdu mér, vér fórum aldrei af klæðum, og sérhver hafði skotspjót sitt við hægri hlið sér.
5.1 En það varð mikið kvein meðal lýðsins og meðal kvenna þeirra yfir bræðrum þeirra, Gyðingunum. 5.2 Sumir sögðu: 'Sonu vora og dætur verðum vér að veðsetja. Vér verðum að fá korn, svo að vér megum eta og lífi halda.' 5.3 Og aðrir sögðu: 'Akra vora, víngarða og hús verðum vér að veðsetja. Vér verðum að fá korn í hallærinu!' 5.4 Og enn aðrir sögðu: 'Vér höfum tekið fé að láni upp á akra vora og víngarða í konungsskattinn. 5.5 Og þótt hold vort sé eins og hold bræðra vorra, börn vor eins og börn þeirra, þá verðum vér nú að gjöra sonu vora og dætur að ánauðugum þrælum, og sumar af dætrum vorum eru þegar orðnar ánauðugar, og vér getum ekkert við því gjört, þar eð akrar vorir og víngarðar eru á annarra valdi.' 5.6 Þá varð ég mjög reiður, er ég heyrði kvein þeirra og þessi ummæli. 5.7 Og ég hugleiddi þetta með sjálfum mér og taldi á tignarmennina og yfirmennina og sagði við þá: 'Þér beitið okri hver við annan!' Og ég stefndi mikið þing í móti þeim 5.8 og sagði við þá: 'Vér höfum keypt lausa bræður vora, Gyðingana, sem seldir voru heiðingjunum, svo oft sem oss var unnt, en þér ætlið jafnvel að selja bræður yðar, svo að þeir verði seldir oss.' Þá þögðu þeir og gátu engu svarað. 5.9 Og ég sagði: 'Það er ekki fallegt, sem þér eruð að gjöra. Ættuð þér ekki heldur að ganga í ótta Guðs vors vegna smánaryrða heiðingjanna, óvina vorra? 5.10 Bæði ég og bræður mínir og sveinar mínir höfum líka lánað þeim silfur og korn. Vér skulum því láta þessa skuldakröfu niður falla. 5.11 Gjörið það fyrir mig að skila þeim aftur þegar í dag ökrum þeirra og víngörðum þeirra og olífugörðum þeirra og húsum þeirra, og látið niður falla skuldakröfuna um silfrið og kornið, um vínberjalöginn og olíuna, er þér hafið lánað þeim.' 5.12 Þá sögðu þeir: 'Vér viljum skila því aftur og einskis krefjast af þeim. Vér viljum gjöra sem þú segir.' Þá kallaði ég á prestana og lét þá vinna eið að því, að þeir skyldu fara eftir þessu. 5.13 Ég hristi og skikkjubarm minn og sagði: 'Þannig hristi Guð sérhvern þann, er eigi heldur þetta loforð, burt úr húsi hans og frá eign hans, og þannig verði hann gjörhristur og tæmdur.' Og allur þingheimur sagði: 'Svo skal vera!' Og þeir vegsömuðu Drottin. Og lýðurinn breytti samkvæmt þessu. 5.14 Frá þeim degi, er hann setti mig til að vera landstjóri þeirra, í Júda _ frá tuttugasta ríkisári Artahsasta konungs til þrítugasta og annars ríkisárs hans, tólf ár _ naut ég heldur ekki, né bræður mínir, landstjóra-borðeyrisins. 5.15 En hinir fyrri landstjórar, þeir er á undan mér voru, höfðu kúgað lýðinn og tekið af þeim fjörutíu sikla silfurs á dag fyrir brauði og víni. Auk þess höfðu sveinar þeirra drottnað yfir lýðnum. En ekki breytti ég þannig, því að ég óttaðist Guð. 5.16 Ég vann og að byggingu þessa múrs, og höfðum vér þó ekki keypt neinn akur, og allir sveinar mínir voru þar saman safnaðir að byggingunni. 5.17 En Gyðingar og yfirmennirnir, hundrað og fimmtíu að tölu, svo og þeir er komu til mín frá þjóðunum, er bjuggu umhverfis oss, átu við mitt borð. 5.18 Og það sem matreitt var á hverjum degi _ eitt naut, sex úrvals-kindur og fuglar _, það var matreitt á minn kostnað, og tíunda hvern dag nægtir af alls konar víni. En þrátt fyrir þetta krafðist ég ekki landstjóra-borðeyris, því að lýður þessi var í mikilli ánauð. 5.19 Virstu, Guð minn, að muna mér til góðs allt það, sem ég hefi gjört fyrir þennan lýð.
6.1 Þegar þeir Sanballat, Tobía og Gesem hinn arabíski og aðrir óvinir vorir spurðu það, að ég hefði byggt upp múrinn og að ekkert skarð væri framar í hann, þótt ég þá hefði eigi enn sett hurðir í hliðin, 6.2 þá sendu þeir Sanballat og Gesem til mín og létu segja mér: 'Kom þú, svo að vér megum eiga fund með oss í einhverju af þorpunum í Ónódalnum.' En þeir höfðu í hyggju að gjöra mér illt. 6.3 Þá gjörði ég menn til þeirra og lét segja þeim: 'Ég hefi mikið starf með höndum og get því eigi komið ofan eftir. Hví ætti verkið að bíða, af því að ég yfirgæfi það og færi ofan til ykkar?' 6.4 Fjórum sinnum sendu þeir til mín á þennan hátt, og ég svaraði þeim á sömu leið. 6.5 Þá sendi Sanballat enn í fimmta sinn til mín, og það svein sinn með opið bréf í hendi. 6.6 Í því var ritað: 'Sú saga gengur hjá þjóðunum, og Gasmú segir hið sama, að þú og Gyðingar hyggið á uppreisn _ fyrir því sért þú að byggja upp múrinn _ og þú ætlir að verða konungur þeirra, eins og sjá megi á öllu. 6.7 Þú hefir og sett spámenn til þess að gjöra það hljóðbært um þig í Jerúsalem og segja: ,Hann sé konungur í Júda.` Og nú mun slíkur orðrómur berast konungi til eyrna. Kom því, og skulum vér eiga fund með oss.' 6.8 Þá sendi ég til hans og lét segja honum: 'Ekkert slíkt á sér stað, sem þú talar um, heldur hefir þú spunnið það upp frá eigin brjósti.' 6.9 Því að þeir ætluðu allir að gjöra oss hrædda og hugsuðu: 'Þeim munu fallast hendur og hætta við verkið, svo að því verður eigi lokið.' Styrk því nú hendur mínar! 6.10 Og ég gekk inn í hús Semaja Delajasonar, Mehetabeelssonar, en hann hafði lokað sig inni. Hann sagði: 'Við skulum fara saman inn í musteri Guðs, inn í aðalhúsið, og loka síðan dyrum aðalhússins, því að þeir munu koma til að drepa þig, já, um nótt munu þeir koma til að drepa þig.' 6.11 En ég sagði: 'Ætti slíkur maður sem ég að flýja? Og hver er sá minn líki, sem geti farið inn í aðalhúsið og haldið lífi? Ég fer hvergi.' 6.12 Og ég sá, að Guð hafði ekki sent hann, heldur hafði hann spáð mér þessu, af því að Tobía og Sanballat höfðu keypt hann. 6.13 Til þess var hann keyptur, að ég skyldi verða hræddur og gjöra þetta og drýgja synd. Og það hefði orðið þeim tilefni til ills umtals, til þess að þeir gætu ófrægt mig. 6.14 Mundu, Guð minn, þeim Tobía og Sanballat þessar aðgjörðir þeirra, svo og spákonunni Nóadja og hinum spámönnunum, sem ætluðu að hræða mig. 6.15 Og múrinn var fullgjör hinn tuttugasta og fimmta elúlmánaðar, á fimmtíu og tveim dögum. 6.16 Og er allir óvinir vorir spurðu þetta, urðu allar þjóðirnar, sem bjuggu umhverfis oss, hræddar, og þær lækkuðu mjög í eigin áliti, því að þær könnuðust við, að fyrir hjálp Guðs vors hafði verki þessu orðið lokið. 6.17 Í þann tíð rituðu og tignarmenn Júdalýðs mörg bréf og sendu Tobía, og frá Tobía komu líka bréf til þeirra. 6.18 Því að margir í Júda voru bundnir honum með eiði, því að hann var tengdasonur Sekanja Arasonar, og Jóhanan sonur hans hafði gengið að eiga dóttur Mesúllams Berekíasonar. 6.19 Þeir töluðu og um mannkosti hans við mig og báru honum aftur orð mín. Bréf hafði og Tobía sent til þess að hræða mig.
7.1 Þegar nú múrinn var byggður, setti ég hurðirnar í, og hliðvörðunum og söngvurunum og levítunum var falið eftirlitið. 7.2 Og ég skipaði Hananí bróður minn og Hananja, yfirmann vígisins, yfir Jerúsalem, því að hann var svo áreiðanlegur maður og guðhræddur, að fáir voru hans líkar. 7.3 Og ég sagði við þá: 'Ekki skal ljúka upp hliðum Jerúsalem fyrr en sól er komin hátt á loft, og áður en verðirnir fara burt, skal hurðunum lokað og slár settar fyrir. Og það skal setja verði af Jerúsalembúum, hvern á sína varðstöð, og það hvern gegnt húsi sínu.' 7.4 Borgin var víðáttumikil og stór, en fátt fólk í henni og engin nýbyggð hús. 7.5 Þá blés Guð minn mér því í brjóst að safna saman tignarmönnunum, yfirmönnunum og lýðnum, til þess að láta taka manntal eftir ættum. Og ég fann ættarskrá þeirra, er fyrst höfðu farið heim, og þar fann ég ritað: 7.6 Þessir eru þeir úr skattlandinu, er heim fóru úr herleiðingarútlegðinni, þeir er Nebúkadnesar Babelkonungur hafði herleitt og nú sneru aftur til Jerúsalem og Júda, hver til sinnar borgar, 7.7 þeir sem komu með Serúbabel, Jósúa, Nehemía, Asarja, Raamja, Nahamaní, Mordekai, Bilsan, Misperet, Bigvaí, Nehúm og Baana. Talan á mönnum Ísraelslýðs var: 7.8 Niðjar Parós: 2.172. 7.9 Niðjar Sefatja: 372. 7.10 Niðjar Ara: 652. 7.11 Niðjar Pahat Móabs, sem sé niðjar Jesúa og Jóabs: 2.818. 7.12 Niðjar Elams: 1.254. 7.13 Niðjar Sattú: 845. 7.14 Niðjar Sakkaí: 760. 7.15 Niðjar Binnúí: 648. 7.16 Niðjar Bebaí: 628. 7.17 Niðjar Asgads: 2.322. 7.18 Niðjar Adóníkams: 667. 7.19 Niðjar Bigvaí: 2.067. 7.20 Niðjar Adíns: 655. 7.21 Niðjar Aters, frá Hiskía: 98. 7.22 Niðjar Hasúms: 328. 7.23 Niðjar Besaí: 324. 7.24 Niðjar Harífs: 112. 7.25 Ættaðir frá Gíbeon: 95. 7.26 Ættaðir frá Betlehem og Netófa: 188. 7.27 Menn frá Anatót: 128. 7.28 Menn frá Bet Asmavet: 42. 7.29 Menn frá Kirjat Jearím, Kefíra og Beerót: 743. 7.30 Menn frá Rama og Geba: 621. 7.31 Menn frá Mikmas: 122. 7.32 Menn frá Betel og Aí: 123. 7.33 Menn frá Nebó: 52. 7.34 Niðjar Elams hins annars: 1.254. 7.35 Niðjar Haríms: 320. 7.36 Ættaðir frá Jeríkó: 345. 7.37 Ættaðir frá Lód, Hadíd og Ónó: 721. 7.38 Ættaðir frá Senaa: 3.930. 7.39 Prestarnir: Niðjar Jedaja, af ætt Jesúa: 973. 7.40 Niðjar Immers: 1.052. 7.41 Niðjar Pashúrs: 1.247. 7.42 Niðjar Haríms: 1.017. 7.43 Levítarnir: Niðjar Jesúa og Kadmíels, af niðjum Hódeja: 74. 7.44 Söngvararnir: Niðjar Asafs: 148. 7.45 Hliðverðirnir: Niðjar Sallúms, niðjar Aters, niðjar Talmóns, niðjar Akúbs, niðjar Hatíta, niðjar Sóbaí: 138. 7.46 Musterisþjónarnir: Niðjar Síha, niðjar Hasúfa, niðjar Tabbaóts, 7.47 niðjar Kerós, niðjar Sía, niðjar Padóns, 7.48 niðjar Lebana, niðjar Hagaba, niðjar Salmaí, 7.49 niðjar Hanans, niðjar Giddels, niðjar Gahars, 7.50 niðjar Reaja, niðjar Resíns, niðjar Nekóda, 7.51 niðjar Gassams, niðjar Ússa, niðjar Pasea, 7.52 niðjar Besaí, niðjar Meúníta, niðjar Nefísíta, 7.53 niðjar Bakbúks, niðjar Hakúfa, niðjar Harhúrs, 7.54 niðjar Baselíts, niðjar Mehída, niðjar Harsa, 7.55 niðjar Barkós, niðjar Sísera, niðjar Tema, 7.56 niðjar Nesía, niðjar Hatífa. 7.57 Niðjar þræla Salómons: Niðjar Sótaí, niðjar Sóferets, niðjar Perída, 7.58 niðjar Jaala, niðjar Darkóns, niðjar Giddels, 7.59 niðjar Sefatja, niðjar Hattils, niðjar Pókeret Hassebaíms, niðjar Amóns. 7.60 Allir musterisþjónarnir og niðjar þræla Salómons voru 392. 7.61 Og þessir eru þeir, sem fóru heim frá Tel Mela, Tel Harsa, Kerúb, Addón og Immer, en kunnu eigi að greina ætt sína og uppruna, hvort þeir væru komnir af Ísrael: 7.62 niðjar Delaja, niðjar Tobía, niðjar Nekóda: 642. 7.63 Og af prestunum: niðjar Hobaja, niðjar Hakkós, niðjar Barsillaí, er gengið hafði að eiga eina af dætrum Barsillaí Gíleaðíta og nefndur hafði verið nafni þeirra. 7.64 Þessir leituðu að ættartölum sínum, en þær fundust ekki. Var þeim því hrundið frá prestdómi. 7.65 Og landstjórinn sagði þeim, að þeir mættu ekki eta af hinu háheilaga, þar til er kæmi fram prestur, er kynni að fara með úrím og túmmím. 7.66 Allur söfnuðurinn var til samans 42.360, 7.67 auk þræla þeirra og ambátta, er voru 7.337. Þeir höfðu 245 söngvara og söngkonur. 7.68 Hestar þeirra voru 736, múlar 245, 7.69 úlfaldar 435, asnar 6.720. 7.70 Og nokkur hluti ætthöfðingjanna gaf til byggingarinnar. Landstjórinn gaf í sjóðinn: í gulli 1.000 daríka, 50 fórnarskálar og 530 prestserki. 7.71 Og sumir ætthöfðingjanna gáfu í byggingarsjóðinn: í gulli 20.000 daríka og í silfri 2.200 mínur. 7.72 Og það, sem hitt fólkið gaf, var: í gulli 20.000 daríkar og í silfri 2.000 mínur og 67 prestserkir. 7.73 Þannig tóku prestarnir og levítarnir og hliðverðirnir og söngvararnir og nokkrir af lýðnum og musterisþjónarnir og allur Ísrael sér bólfestu í borgum sínum. En er sjöundi mánuðurinn kom, voru Ísraelsmenn í borgum sínum.
8.1 Allur lýðurinn safnaðist saman eins og einn maður á torginu fyrir framan Vatnshliðið. Og þeir báðu Esra fræðimann að sækja lögmálsbók Móse, er Drottinn hafði sett Ísrael. 8.2 Þá kom Esra prestur með lögmálið fram fyrir söfnuðinn, bæði karla og konur og alla þá, er vit höfðu á að taka eftir, á fyrsta degi hins sjöunda mánaðar. 8.3 Og hann las upp úr því á torginu, sem er fyrir framan Vatnshliðið, frá birtingu til hádegis, í viðurvist karla og kvenna og þeirra barna, er vit höfðu á, og eyru alls lýðsins hlýddu á lögmálsbókina. 8.4 Esra fræðimaður stóð á háum trépalli, er menn höfðu gjört til þessa, og hjá honum stóðu Mattitja, Sema, Anaja, Úría, Hilkía og Maaseja, honum til hægri hliðar, og honum til vinstri hliðar Pedaja, Mísael, Malkía, Hasúm, Hasbaddana, Sakaría og Mesúllam. 8.5 Og Esra lauk upp bókinni í augsýn alls fólksins, því að hann stóð hærra en allur lýðurinn, og þegar hann lauk henni upp, stóð allur lýðurinn upp. 8.6 Og Esra lofaði Drottin, hinn mikla Guð, og allur lýðurinn svaraði: 'Amen! amen!' og fórnuðu þeir um leið upp höndunum og beygðu sig og féllu fram á ásjónur sínar til jarðar fyrir Drottni. 8.7 Og levítarnir Jesúa, Baní, Serebja, Jamín, Akkúb, Sabtaí, Hódía, Maaseja, Kelíta, Asarja, Jósabad, Hanan og Pelaja skýrðu lögmálið fyrir lýðnum, en fólkið var kyrrt á sínum stað. 8.8 Þeir lásu skýrt upp úr bókinni, lögmáli Guðs, og útskýrðu það, svo að menn skildu hið upplesna. 8.9 Og Nehemía _ það er landstjórinn _ og Esra prestur, fræðimaðurinn, og levítarnir, sem fræddu lýðinn, sögðu við gjörvallan lýðinn: 'Þessi dagur er helgaður Drottni, Guði yðar. Sýtið eigi né grátið!' Því að allur lýðurinn grét, þegar þeir heyrðu orð lögmálsins. 8.10 Og Esra sagði við þá: 'Farið og etið feitan mat og drekkið sæt vín og sendið þeim skammta, sem ekkert er tilreitt fyrir, því að þessi dagur er helgaður Drottni vorum. Verið því eigi hryggir, því að gleði Drottins er hlífiskjöldur yðar.' 8.11 Og levítarnir sefuðu allan lýðinn með því að segja: 'Verið hljóðir, því að þessi dagur er heilagur. Verið því eigi hryggir.' 8.12 Þá fór allt fólkið til þess að eta og drekka og senda skammta og halda mikla gleðihátíð, því að þeir höfðu skilið þau orð, er menn höfðu kunngjört þeim. 8.13 Daginn eftir söfnuðust ætthöfðingjar alls lýðsins, prestarnir og levítarnir saman hjá Esra fræðimanni til þess að gefa gaum að orðum lögmálsins. 8.14 Þá fundu þeir ritað í lögmálinu, er Drottinn hafði sett þeim fyrir Móse, að Ísraelsmenn skyldu búa í laufskálum á hátíðinni í sjöunda mánuðinum, 8.15 og að þeir ættu að kunngjöra og láta boð út ganga í öllum borgum sínum og í Jerúsalem á þessa leið: 'Farið upp í fjöll og komið með greinar af olíuviði og greinar af villi-olíuviði og greinar af mýrtusviði og greinar af pálmaviði og greinar af þéttlaufguðum trjám, til þess að gjöra af laufskála, eins og skrifað er.' 8.16 Og fólkið fór og sótti greinar, og þeir gjörðu sér laufskála hver á sínu húsþaki og í forgörðum sínum og í forgörðum Guðs húss og á torginu fyrir framan Vatnshliðið og á torginu fyrir framan Efraímhliðið. 8.17 Og allur söfnuðurinn, þeir er aftur voru heim komnir úr herleiðingunni, byggðu laufskála og bjuggu í laufskálunum. Því að Ísraelsmenn höfðu eigi gjört það síðan á dögum Jósúa Núnssonar allt til þessa dags, og varð þar því mjög mikil gleði. 8.18 Og það var lesið upp úr lögmálsbók Guðs á degi hverjum, frá fyrsta degi til hins síðasta dags. Og þeir héldu hátíð í sjö daga, og áttunda daginn var hátíðasamkoma, eins og fyrirskipað var.
9.1 Á tuttugasta og fjórða degi þessa mánaðar söfnuðust Ísraelsmenn saman og föstuðu og klæddust hærusekk og jusu mold yfir höfuð sér. 9.2 Og niðjar Ísraels skildu sig frá öllum útlendingum, og þeir gengu fram og játuðu syndir sínar og misgjörðir feðra sinna. 9.3 Og þeir stóðu upp þar sem þeir voru, og menn lásu upp úr lögmálsbók Drottins, Guðs þeirra, fjórða hluta dagsins, og annan fjórða hluta dagsins játuðu þeir syndir sínar og féllu fram fyrir Drottni, Guði sínum. 9.4 Á levíta-pallinum stóðu þeir Jesúa, Baní, Kadmíel, Sebanja, Búnní, Serebja, Banní og Kenaní og hrópuðu með hárri röddu til Drottins, Guðs þeirra. 9.5 Og levítarnir Jesúa, Kadmíel, Baní, Hasabneja, Serebja, Hódía, Sebanja, Petahja sögðu: 'Standið upp og vegsamið Drottin, Guð yðar, frá eilífð til eilífðar! Menn vegsami þitt dýrlega nafn, sem hafið er yfir alla vegsaman og lofgjörð! 9.6 Þú, Drottinn, þú einn ert Drottinn! Þú hefir skapað himininn, himnanna himna og allan þeirra her, jörðina og allt, sem á henni er, hafið og allt, sem í því er, og þú gefur því öllu líf, og himinsins her hneigir þér. 9.7 Það ert þú, Drottinn Guð, sem kjörið hefir Abram og leitt hann út frá Úr í Kaldeu og gefið honum nafnið Abraham. 9.8 Og með því að þú reyndir hann að trúmennsku gagnvart þér, þá gjörðir þú sáttmála við hann um að gefa niðjum hans land Kanaaníta, Hetíta, Amóríta, Peresíta, Jebúsíta og Gírgasíta. Og þú efndir orð þín, því að þú ert réttlátur. 9.9 Og er þú sást eymd feðra vorra í Egyptalandi og heyrðir neyðaróp þeirra við Rauðahafið, 9.10 þá gjörðir þú tákn og undur á Faraó og á öllum þjónum hans og á öllum lýð í landi hans, því að þú vissir að þeir höfðu sýnt þeim ofstopa. Og þannig afrekaðir þú þér mikið nafn fram á þennan dag. 9.11 Og þú klaufst hafið fyrir þeim, svo að þeir gengu á þurru mitt í gegnum hafið. En þeim, sem eltu þá, steyptir þú í sjávardjúpið eins og steini, í ströng vötn. 9.12 Og þú leiddir þá í skýstólpa um daga og í eldstólpa um nætur, til þess að lýsa þeim á veginum, sem þeir áttu að fara. 9.13 Og þú steigst niður á Sínaífjall og talaðir við þá af himnum og gafst þeim sanngjörn ákvæði, réttlát lög og góða setninga og boðorð. 9.14 Og þú gjörðir þeim kunnugan hinn heilaga hvíldardag þinn, og boðorð, setninga og lögmál settir þú þeim fyrir þjón þinn Móse. 9.15 Og þú gafst þeim brauð af himni við hungri þeirra og leiddir vatn af hellunni handa þeim við þorsta þeirra, og þú bauðst þeim að koma til þess að taka landið til eignar, sem þú hafðir svarið að gefa þeim. 9.16 En feður vorir urðu ofstopafullir og þverskölluðust og hlýddu ekki boðorðum þínum. 9.17 Þeir vildu ekki hlýða og minntust ekki dásemdarverka þinna, þeirra er þú hafðir á þeim gjört, en gjörðust harðsvíraðir og völdu sér í þverúð sinni fyrirliða til að snúa aftur til ánauðar sinnar. En þú ert Guð, sem fús er á að fyrirgefa, náðugur og miskunnsamur, þolinmóður og elskuríkur, og yfirgafst þá ekki. 9.18 Jafnvel þá, er þeir gjörðu sér steyptan kálf og sögðu: ,Þetta er guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi,` og frömdu miklar guðlastanir, 9.19 þá yfirgafst þú þá ekki á eyðimörkinni vegna þinnar miklu miskunnar. Skýstólpinn veik ekki frá þeim um daga, til þess að leiða þá á veginum, né eldstólpinn um nætur, til þess að lýsa þeim á veginum, sem þeir áttu að fara. 9.20 Og þú gafst þeim þinn góða anda til þess að fræða þá, og þú hélst ekki manna þínu frá munni þeirra og gafst þeim vatn við þorsta þeirra. 9.21 Fjörutíu ár ólst þú önn fyrir þeim á eyðimörkinni, svo að þá skorti ekkert. Föt þeirra slitnuðu ekki og fætur þeirra þrútnuðu ekki. 9.22 Og þú gafst þeim konungsríki og þjóðir og skiptir þeim til ystu takmarka, og þeir lögðu undir sig land Síhons og land konungsins í Hesbon og land Ógs, konungs í Basan. 9.23 Og þú gjörðir niðja þeirra svo marga sem stjörnur á himni og leiddir þá inn í það land, er þú hafðir heitið feðrum þeirra, að þeir skyldu komast inn í til þess að taka það til eignar. 9.24 Og niðjarnir komust þangað og tóku landið til eignar, og þú lagðir íbúa landsins, Kanaanítana, undir þá og gafst þá á þeirra vald, bæði konunga þeirra og íbúa landsins, svo að þeir gætu með þá farið eftir geðþótta sínum. 9.25 Og þeir unnu víggirtar borgir og feitt land og tóku til eignar hús, full af öllum góðum hlutum, úthöggna brunna, víngarða og olífugarða og ógrynni af aldintrjám. Og þeir átu og urðu saddir og feitir og lifðu í sællífi fyrir þína miklu gæsku. 9.26 En þeir gjörðust þverbrotnir og gjörðu uppreisn gegn þér og vörpuðu lögmáli þínu að baki sér, og spámenn þína, þá er áminntu þá til þess að snúa þeim aftur til þín, þá drápu þeir og frömdu miklar guðlastanir. 9.27 Þá gafst þú þá í hendur óvina þeirra, og þeir þjáðu þá. En þegar þeir voru í nauðum staddir, hrópuðu þeir til þín, og þú heyrðir þá af himnum og gafst þeim frelsara af mikilli miskunn þinni, er frelsuðu þá úr höndum óvina þeirra. 9.28 En er þeir höfðu fengið hvíld, tóku þeir aftur að gjöra það sem illt var fyrir augliti þínu. Þá ofurseldir þú þá óvinum þeirra, svo að þeir drottnuðu yfir þeim. Þá hrópuðu þeir aftur til þín, og þú heyrðir þá af himnum og bjargaðir þeim af miskunn þinni mörgum sinnum. 9.29 Og þú áminntir þá til þess að snúa þeim aftur til lögmáls þíns. En þeir voru hrokafullir og hlýddu ekki boðorðum þínum og syndguðu gegn skipunum þínum, þeim er hver sá skal af lifa, er breytir eftir þeim. Þeir þverskölluðust, gjörðust harðsvíraðir og hlýddu ekki. 9.30 Og þú umbarst þá í mörg ár og áminntir þá með anda þínum fyrir spámenn þína, en þeir heyrðu ekki. Þá ofurseldir þú þá á vald heiðinna þjóða, 9.31 en sökum þinnar miklu miskunnar gjörðir þú eigi alveg út af við þá og yfirgafst þá eigi, því að þú ert náðugur og miskunnsamur Guð. 9.32 Og nú, Guð vor, þú mikli, voldugi og ógurlegi Guð, þú sem heldur sáttmálann og miskunnsemina, lát þér eigi litlar þykja allar þær þrautir, er vér höfum orðið að sæta: konungar vorir, höfðingjar vorir, prestar vorir, spámenn vorir, feður vorir og gjörvallur lýður þinn, frá því á dögum Assýríukonunga og fram á þennan dag. 9.33 En þú ert réttlátur í öllu því, sem yfir oss hefir komið, því að þú hefir auðsýnt trúfesti, en vér höfum breytt óguðlega. 9.34 Konungar vorir, höfðingjar vorir, prestar vorir og feður vorir hafa ekki heldur haldið lögmál þitt né hlýtt skipunum þínum og aðvörunum, er þú hefir aðvarað þá með. 9.35 Og þótt þeir byggju í sínu eigin konungsríki og við mikla velsæld, er þú veittir þeim, og í víðlendu og frjósömu landi, er þú gafst þeim, þá þjónuðu þeir þér ekki og létu eigi af illskubreytni sinni. 9.36 Sjá, nú erum vér þrælar, og landið, sem þú gafst feðrum vorum, til þess að þeir nytu ávaxta þess og gæða, _ sjá, í því erum vér þrælar. 9.37 Það veitir konungunum sinn mikla ávöxt, þeim er þú settir yfir oss vegna synda vorra. Þeir drottna yfir líkömum vorum og fénaði eftir eigin hugþótta, og vér erum í miklum nauðum.' 9.38 Sakir alls þessa gjörðum vér fasta skuldbindingu og skrifuðum undir hana. Og á hinu innsiglaða skjali stóðu nöfn höfðingja vorra, levíta og presta.
10.1 Á hinum innsigluðu skjölum stóðu: Nehemía landstjóri Hakalíason og Sedekía, 10.2 Seraja, Asarja, Jeremía, 10.3 Pashúr, Amarja, Malkía, 10.4 Hattús, Sebanja, Mallúk, 10.5 Harím, Meremót, Óbadía, 10.6 Daníel, Ginnetón, Barúk, 10.7 Mesúllam, Abía, Míjamín, 10.8 Maasja, Bilgaí, Semaja, _ þetta voru prestarnir. 10.9 Levítarnir: Jesúa Asanjason, Binnúí, einn af niðjum Henadads, Kadmíel, 10.10 og bræður þeirra: Sebanja, Hódía, Kelíta, Pelaja, Hanan, 10.11 Míka, Rehób, Hasabja, 10.12 Sakkúr, Serebja, Sebanja, 10.13 Hódía, Baní, Benínú. 10.14 Höfðingjar lýðsins: Parós, Pahat Móab, Elam, Sattú, Baní, 10.15 Búní, Asgad, Bebaí, 10.16 Adónía, Bigvaí, Adín, 10.17 Ater, Hiskía, Assúr, 10.18 Hódía, Hasúm, Besaí, 10.19 Haríf, Anatót, Nóbaí, 10.20 Magpías, Mesúllam, Hesír, 10.21 Mesesabeel, Sadók, Jaddúa, 10.22 Pelatja, Hanan, Anaja, 10.23 Hósea, Hananja, Hassúb, 10.24 Hallóhes, Pílha, Sóbek, 10.25 Rehúm, Hasabna, Maaseja, 10.26 Ahía, Hanan, Anan, 10.27 Mallúk, Harím og Baana. 10.28 Og hinir af lýðnum _ prestarnir, levítarnir, hliðverðirnir, söngvararnir, musterisþjónarnir og allir þeir, sem skilið höfðu sig frá hinum heiðnu íbúum landsins og gengist undir lögmál Guðs, konur þeirra, synir og dætur, allir þeir er komnir voru til vits og ára, 10.29 _ gengu í flokk með bræðrum sínum, göfugmennum þeirra, og bundu það eiðum og svardögum, að þeir skyldu breyta eftir lögmáli Guðs, því er gefið var fyrir Móse, þjón Guðs, og varðveita og halda öll boðorð Drottins, herra vors, og skipanir hans og lög: 10.30 Að vér skyldum ekki gifta dætur vorar hinum heiðnu íbúum landsins, né heldur taka dætur þeirra sonum vorum til handa. 10.31 Enn fremur, að þegar hinir heiðnu íbúar landsins kæmu með torgvörur og alls konar korn á hvíldardegi til sölu, þá skyldum vér eigi kaupa það af þeim á hvíldardegi eða öðrum helgum degi. Og að vér skyldum láta landið hvílast sjöunda árið og gefa upp öll veðlán. 10.32 Enn fremur lögðum vér á oss þá föstu kvöð að gefa þriðjung sikils á ári til þjónustunnar í musteri Guðs vors, 10.33 til raðsettu brauðanna, hinnar stöðugu matfórnar og hinnar stöðugu brennifórnar, til fórnanna á hvíldardögum og tunglkomudögum, til hátíðafórnanna, þakkarfórnanna og syndafórnanna, til þess að friðþægja fyrir Ísrael, og til allra starfa í musteri Guðs vors. 10.34 Og vér, prestarnir, levítarnir og lýðurinn vörpuðum hlutum um viðargjöfina, um að færa viðinn í musteri Guðs vors eftir ættum vorum á tilteknum tíma á ári hverju til þess að brenna honum á altari Drottins Guðs vors, eins og fyrir er mælt í lögmálinu. 10.35 Vér skuldbundum oss og til að færa frumgróða akurlands vors og frumgróða allra aldina af hvers konar trjám á ári hverju í musteri Drottins, 10.36 og sömuleiðis frumburði sona vorra og fénaðar, eins og fyrir er mælt í lögmálinu, og að færa frumburði nauta vorra og sauðfjár í musteri Guðs vors, til prestanna, er gegna þjónustu í musteri Guðs vors. 10.37 Frumgróðann af deigi voru og fórnargjöfum vorum og aldinum allra trjáa, aldinlegi og olíu viljum vér og færa prestunum inn í herbergi musteris Guðs vors og levítunum tíund af akurlandi voru, því að þeir, levítarnir, heimta saman tíundina í öllum akuryrkjuborgum vorum. 10.38 Og prestur, Aronsniðji, skal vera hjá levítunum, þá er þeir heimta saman tíundina, og levítarnir skulu færa tíund tíundarinnar upp í musteri Guðs vors, inn í herbergi féhirslunnar. 10.39 Því að í þessi herbergi skulu Ísraelsmenn og levítarnir færa fórnargjöf korns og aldinlagar og olífuolíu, þar eð hin helgu ker, prestarnir, er þjónustu gegna, hliðverðirnir og söngvararnir eru þar. Og eigi viljum vér yfirgefa musteri Guðs vors.
11.1 Höfðingjar lýðsins settust að í Jerúsalem, en hinir af lýðnum vörpuðu hlutkesti til þess að flytja einn af hverjum tíu inn, að hann tæki sér bústað í Jerúsalem, borginni helgu, en hinir níu tíundupartarnir bjuggu í borgunum. 11.2 Og lýðurinn blessaði alla þá menn, sem sjálfviljuglega réðu af að búa í Jerúsalem. 11.3 Þessir eru höfðingjar skattlandsins, þeir er bjuggu í Jerúsalem og í Júdaborgum _ þeir bjuggu í borgum sínum, hver á eign sinni: Ísrael, prestarnir, levítarnir, musterisþjónarnir og niðjar þræla Salómons. 11.4 Í Jerúsalem bjuggu bæði Júdamenn og Benjamínítar. Af Júdamönnum: Ataja Ússíason, Sakaríasonar, Amarjasonar, Sefatjasonar, Mahalaleelssonar, af niðjum Peres, 11.5 og Maaseja Barúksson, Kol-Hósesonar, Hasajasonar, Adajasonar, Jójaríbssonar, Sakaríasonar, sonar Sílónítans. 11.6 Allir niðjar Peres, þeir er bjuggu í Jerúsalem, voru samtals 468 vopnfærir menn. 11.7 Af Benjamínítum: Sallú Mesúllamsson, Jóedssonar, Pedajasonar, Kólajasonar, Maasejasonar, Ítíelssonar, Jesajasonar, 11.8 og eftir honum Gabbaí Sallaí, samtals 928. 11.9 Jóel Síkríson var yfirmaður þeirra, og Júda Hasnúason var annar maður æðstur yfir borginni. 11.10 Af prestunum: Jedaja, Jójaríb, Jakín, 11.11 Seraja Hilkíason, Mesúllamssonar, Sadókssonar, Merajótssonar, Ahítúbssonar, höfuðsmaður yfir musteri Guðs, 11.12 og bræður þeirra, sem önnuðust störfin við musterið, samtals 822, og Adaja Jeróhamsson, Pelaljasonar, Amsísonar, Sakaríasonar, Pashúrssonar, Malkíasonar, 11.13 og bræður hans, ætthöfðingjar, samtals 242, og Amassaí Asareelsson, Ahsaísonar, Mesillemótssonar, Immerssonar, 11.14 og bræður þeirra, dugandi menn, samtals 128. Yfirmaður þeirra var Sabdíel Haggedólímsson. 11.15 Af levítunum: Semaja Hassúbsson, Asríkamssonar, Hasabjasonar, Búnnísonar, 11.16 og Sabtaí og Jósabad, sem settir voru yfir utanhússverkin við musteri Guðs og báðir af flokki levítahöfðingjanna, 11.17 og Mattanja Míkason, Sabdísonar, Asafssonar, forsöngvarinn, sá er byrjaði lofsönginn við bænagjörðina, og Bakbúkja, annar maður æðstur af bræðrum hans, og Abda Sammúason, Galalssonar, Jedútúnssonar, 11.18 allir levítarnir í borginni helgu samtals 284. 11.19 Hliðverðirnir: Akkúb, Talmón og bræður þeirra, þeir er héldu vörð við hliðin, samtals 172. 11.20 Aðrir Ísraelsmenn, prestarnir og levítarnir, bjuggu í öllum hinum borgum Júda, hver á eign sinni. 11.21 Musterisþjónarnir bjuggu á Ófel, og Síha og Gispa voru settir yfir musterisþjónana. 11.22 Yfirmaður levítanna í Jerúsalem var Ússí Baníson, Hasabjasonar, Mattanjasonar, Míkasonar, af niðjum Asafs, söngvurunum við þjónustuna í musteri Guðs. 11.23 Því að konungleg skipun hafði verið gefin út um þá, og var visst gjald ákveðið handa söngvurunum, það er þeir þurftu með á degi hverjum. 11.24 Petaja Mesesabeelsson, einn af niðjum Sera Júdasonar, var umboðsmaður konungsins í öllu því, er lýðinn varðaði. 11.25 Að því er snertir þorpin í sveitum þeirra, þá bjuggu nokkrir af Júdamönnum í Kirjat Arba og smáborgunum þar í kring, í Díbon og smáborgunum þar í kring, í Jekabeel og þorpunum þar í kring, 11.26 í Jesúa, í Mólada, í Bet Pelet, 11.27 í Hasar Súal og í Beerseba og smáborgunum þar í kring, 11.28 í Siklag og í Mekóna og smáborgunum þar í kring, 11.29 í En Rimmon, í Sorea, í Jarmút, 11.30 Sanóa, Adúllam og þorpunum þar í kring, í Lakís og sveitunum þar í kring, í Aseka og smáborgunum þar í kring. Þeir höfðu tekið sér bólfestu frá Beerseba allt norður að Hinnomsdal. 11.31 Benjamínítar bjuggu allt frá Geba, í Mikmas, Aja, Betel og smáborgunum þar í kring, 11.32 í Anatót, Nób, Ananja, 11.33 Hasór, Rama, Gittaím, 11.34 Hadíd, Sebóím, Neballat, 11.35 Lód og Ónó, í Smiðadal. 11.36 Og af levítunum bjuggu sumar Júda-deildirnar í Benjamín.
12.1 Þessir eru prestarnir og levítarnir, sem heim fóru með þeim Serúbabel Sealtíelssyni og Jósúa: Seraja, Jeremía, Esra, 12.2 Amarja, Mallúk, Hattús, 12.3 Sekanja, Rehúm, Meremót, 12.4 Íddó, Ginntóí, Abía, 12.5 Míjamín, Maadja, Bílga, 12.6 Semaja, Jójaríb, Jedaja, 12.7 Sallú, Amók, Hilkía og Jedaja. Þetta voru höfðingjar prestanna og bræðra þeirra á dögum Jósúa. 12.8 Levítarnir: Jósúa, Binnúí, Kadmíel, Serebja, Júda, Mattanja. Stjórnaði hann og bræður hans lofsöngnum. 12.9 Bakbúkja og Únní, bræður þeirra, stóðu gegnt þeim til þjónustugjörðar. 12.10 Jósúa gat Jójakím, og Jójakím gat Eljasíb, og Eljasíb gat Jójada, 12.11 og Jójada gat Jónatan, og Jónatan gat Jaddúa. 12.12 Á dögum Jójakíms voru þessir ætthöfðingjar meðal prestanna: Meraja fyrir Seraja, Hananja fyrir Jeremía, 12.13 Mesúllam fyrir Esra, Jóhanan fyrir Amarja, 12.14 Jónatan fyrir Mallúkí, Jósef fyrir Sebanja, 12.15 Adna fyrir Harím, Helkaí fyrir Merajót, 12.16 Sakaría fyrir Íddó, Mesúllam fyrir Ginnetón, 12.17 Síkrí fyrir Abía, . . . fyrir Minjamín, Piltaí fyrir Módaja, 12.18 Sammúa fyrir Bílga, Jónatan fyrir Semaja, 12.19 Matnaí fyrir Jójaríb, Ússí fyrir Jedaja, 12.20 Kallaí fyrir Sallaí, Eber fyrir Amók, 12.21 Hasabja fyrir Hilkía, Netaneel fyrir Jedaja. 12.22 Levítarnir: Á dögum Eljasíbs, Jójada, Jóhanans og Jaddúa voru ætthöfðingjarnir skráðir og prestarnir allt fram að ríkisstjórn Daríusar hins persneska. 12.23 Af niðjum Leví voru ætthöfðingjarnir skráðir í árbókina, og það fram á daga Jóhanans Eljasíbssonar. 12.24 Höfðingjar levítanna voru: Hasabja, Serebja, Jósúa, Baní, Kadmíel og bræður þeirra, er stóðu gegnt þeim til þess að vegsama Guð með því að syngja lofsönginn, samkvæmt fyrirmælum guðsmannsins Davíðs, hvor söngflokkurinn gegnt öðrum. 12.25 Mattanja, Bakbúkja, Óbadía, Mesúllam, Talmón og Akkúb voru hliðverðir, er héldu vörð hjá geymsluhúsunum við hliðin. 12.26 Þessir voru ætthöfðingjarnir á dögum Jójakíms Jósúasonar, Jósadakssonar, og á dögum Nehemía landstjóra og Esra prests hins fróða. 12.27 Þá er vígja skyldi múra Jerúsalem, sóttu menn levítana frá öllum stöðum þeirra til þess að fara með þá til Jerúsalem, svo að þeir mættu halda vígsluhátíð með fagnaðarlátum og þakkargjörð og með söng, skálabumbum, hörpum og gígjum. 12.28 Þá söfnuðust söngflokkarnir saman, bæði úr nágrenninu kringum Jerúsalem og úr þorpum Netófatíta 12.29 og frá Bet Gilgal og Gebasveitum og Asmavet, því að söngvararnir höfðu byggt sér þorp kringum Jerúsalem. 12.30 Og prestarnir og levítarnir hreinsuðu sig og hreinsuðu því næst lýðinn og hliðin og múrana. 12.31 Og ég lét höfðingja Júda stíga upp á múrinn og fylkti tveimur stórum lofgjörðarsöngflokkum og skrúðsveitum. Gekk annar söngflokkurinn til hægri uppi á múrnum til Mykjuhliðs, 12.32 og á eftir þeim gekk Hósaja og helmingurinn af höfðingjum Júda, 12.33 og Asarja, Esra og Mesúllam, 12.34 Júda og Benjamín og Semaja og Jeremía, 12.35 og nokkrir af prestlingunum með lúðra: Sakaría Jónatansson, Semajasonar, Mattanjasonar, Míkajasonar, Sakkúrssonar, Asafssonar, 12.36 og bræður hans, Semaja og Asareel, Mílalaí, Gílalaí, Maaí, Netaneel og Júda, Hananí, með hljóðfæri Davíðs guðsmannsins. Og Esra fræðimaður gekk fremstur þeirra 12.37 alla leið til Lindarhliðs, og þaðan fóru þeir beint upp tröppurnar, sem liggja upp að Davíðsborg, þar sem gengið er upp á múrinn, fyrir ofan höll Davíðs og austur að Vatnshliði. 12.38 Hinn söngflokkurinn gekk til vinstri, en ég og hinn helmingur lýðsins á eftir honum, uppi á múrnum, yfir Ofnaturn og allt að Breiðamúr, 12.39 og yfir Efraímhlið og Gamla hliðið og Fiskhlið og Hananelturn og Meaturn og allt að Sauðahliði, og námu þeir staðar við Dýflissuhlið. 12.40 Þannig námu báðir söngflokkarnir staðar hjá musteri Guðs, og ég og helmingur yfirmannanna með mér, 12.41 og prestarnir Eljakím, Maaseja, Minjamín, Míkaja, Eljóenaí, Sakaría, Hananja með lúðra, 12.42 og Maaseja, Semaja, Eleasar, Ússí, Jóhanan, Malkía, Elam og Eser. Og söngvararnir létu til sín heyra, og Jisrahja var yfirmaður þeirra. 12.43 Og menn fórnuðu miklum fórnum þennan dag og glöddust, því að Guð hafði veitt þeim mikla gleði, og konur og börn glöddust líka, svo að gleði Jerúsalem spurðist víðsvegar. 12.44 Þennan sama dag voru skipaðir tilsjónarmenn yfir klefana, sem hafðir voru að forðabúrum fyrir fórnargjafir, frumgróðafórnir og tíundir, til þess að þangað væri safnað greiðslum þeim af ökrunum umhverfis borgirnar, er prestunum og levítunum báru eftir lögmálinu, því að Júda gladdist yfir prestunum og levítunum, þeim er þjónustu gegndu. 12.45 Þeir gættu þess, sem gæta átti við Guð þeirra, og þess sem gæta átti við hreinsunina. Svo gjörðu og söngvararnir og hliðverðirnir, samkvæmt fyrirmælum Davíðs og Salómons sonar hans, 12.46 því að þegar forðum, á dögum Davíðs og Asafs, yfirmanns söngvaranna, var til lofgjörðar- og þakkargjörðarsöngur til handa Guði. 12.47 Og allir Ísraelsmenn inntu af hendi á dögum Serúbabels og á dögum Nehemía greiðslurnar til söngvaranna og hliðvarðanna, það er með þurfti á degi hverjum, og þeir greiddu levítunum helgigjafir, og levítarnir greiddu Arons niðjum helgigjafir.
13.1 Þann dag var lesið upp úr Mósebók fyrir lýðnum, og fannst þá skrifað í henni, að hvorki Ammóníti né Móabíti mættu nokkru sinni koma í söfnuð Guðs, 13.2 vegna þess að þeir komu ekki í móti Ísraelsmönnum með brauð og vatn og keyptu í móti þeim Bíleam til að bölva þeim, en Guð vor sneri bölvaninni í blessan. 13.3 Og er þeir heyrðu lögmálið, skildu þeir alla útlendinga úr Ísrael. 13.4 Áður en þetta varð, hafði Eljasíb prestur, frændi Tobía, sá er settur var yfir herbergi musteris Guðs vors, 13.5 látið útbúa stórt herbergi handa Tobía, en þar höfðu menn áður látið matfórnina, reykelsið og áhöldin og tíund af korni, aldinlegi og olíu, hið fyrirskipaða gjald til levíta, söngvara og hliðvarða, svo og fórnargjafir til prestanna. 13.6 Meðan allt þetta gjörðist, var ég ekki í Jerúsalem, því að á þrítugasta og öðru ríkisári Artahsasta konungs í Babýlon fór ég til konungsins. En að nokkrum tíma liðnum beiddist ég orlofs af konungi. 13.7 Og er ég kom til Jerúsalem, sá ég hvílíka óhæfu Eljasíb hafði gjört vegna Tobía með því að útbúa handa honum klefa í forgörðum Guðs musteris. 13.8 Mér mislíkaði þetta stórum, og kastaði ég öllum húsgögnum Tobía út úr herberginu 13.9 og bauð að hreinsa herbergin, bar síðan aftur inn þangað áhöld Guðs musteris, matfórnina og reykelsið. 13.10 Ég komst og að því, að greiðslurnar til levítanna höfðu eigi verið inntar af hendi, svo að levítarnir og söngvararnir, er þjónustunni áttu að gegna, voru allir flúnir út á lendur sínar. 13.11 Þá taldi ég á yfirmennina og sagði: 'Hvers vegna er hús Guðs yfirgefið?' Og ég stefndi þeim saman og setti þá á sinn stað. 13.12 Þá færðu allir Júdamenn tíundina af korni, aldinlegi og olíu í forðabúrin, 13.13 og ég skipaði yfir forðabúrin þá Selemja prest og Sadók fræðimann, og Pedaja af levítunum, og þeim til aðstoðar Hanan Sakkúrsson, Mattanjasonar, því að þeir voru taldir áreiðanlegir og það var þeirra skylda að útdeila bræðrum sínum. 13.14 Mundu mér þetta, Guð minn, og afmá eigi góðverk mín, þau er ég hefi gjört fyrir hús Guðs míns og þjónustu hans. 13.15 Um sömu mundir sá ég í Júda menn vera að troða vínlagarþrær á hvíldardegi og flytja heim kornbundin og aðra vera að klyfja asna víni, vínberjum, fíkjum og alls konar þungavöru og koma með þá á hvíldardegi til Jerúsalem. Og ég áminnti þá, þegar þeir seldu matvæli. 13.16 Og Týrusmenn, sem setst höfðu þar að, fluttu þangað fisk og alls konar torgvöru og seldu Júdamönnum það á hvíldardögum í Jerúsalem. 13.17 Þá taldi ég á tignarmenn Júda og sagði við þá: 'Hvílík óhæfa er það, sem þér hafið í frammi, að vanhelga hvíldardaginn! 13.18 Hafa eigi feður yðar breytt svo og Guð vor þess vegna látið alla þessa ógæfu yfir oss dynja og yfir þessa borg? En þér aukið enn meir á reiði hans við Ísrael með því að vanhelga hvíldardaginn.' 13.19 Og þegar myrkt var orðið í borgarhliðum Jerúsalem og hvíldardagur fór í hönd, þá bauð ég að loka skyldi hliðunum, og enn fremur bauð ég að eigi skyldi opna þau aftur fyrr en að hvíldardeginum liðnum. Og ég setti nokkra af sveinum mínum við borgarhliðin, til þess að engin þungavara kæmi inn á hvíldardegi. 13.20 Þá náttuðu kaupmenn og þeir, er seldu alls konar torgvöru, fyrir utan Jerúsalem, einu sinni eða tvisvar. 13.21 Þá áminnti ég þá og sagði við þá: 'Hví náttið þér úti fyrir borgarmúrunum? Ef þér gjörið það oftar, legg ég hendur á yður.' Upp frá því komu þeir ekki á hvíldardegi. 13.22 Þá bauð ég levítunum, að þeir skyldu hreinsa sig og koma síðan og gæta borgarhliðanna, til þess að helga þannig hvíldardaginn. Mundu mér og þetta, Guð minn, og þyrm mér af mikilli miskunn þinni. 13.23 Um þær mundir sá ég og Gyðinga, sem gengið höfðu að eiga konur frá Asdód eða ammónítískar eða móabítískar konur. 13.24 Og börn þeirra töluðu að hálfu leyti asdódsku eða tungu sinnar þjóðar, en kunnu ekki að tala Júda-tungu. 13.25 Og ég taldi á þá og bað þeim bölbæna, já, barði nokkra af þeim og hárreytti þá, og ég særði þá við Guð: 'Þér skuluð ekki gifta dætur yðar sonum þeirra, né taka nokkra af dætrum þeirra til handa sonum yðar eða sjálfum yður. 13.26 Syndgaði ekki Salómon, konungur Ísraels, í þessu? Meðal allra hinna mörgu þjóða var enginn konungur slíkur sem hann, og svo elskaður var hann af Guði, að Guð gjörði hann að konungi yfir öllum Ísrael. En einnig hann teygðu útlendar konur til syndar. 13.27 Og eigum vér nú að heyra það um yður, að þér fremjið alla þessa miklu óhæfu, að sýna Guði vorum ótrúmennsku með því að ganga að eiga útlendar konur?' 13.28 Og einn af sonum Jójada, Eljasíbssonar æðsta prests, var tengdasonur Sanballats Hóroníta. Fyrir því rak ég hann frá mér. 13.29 Mundu þeim það, Guð minn, að þeir hafa saurgað prestdóminn og hið heilaga heit prestdómsins og levítanna. 13.30 Og þannig hreinsaði ég þá af öllu útlendu, og ég ákvað, hvaða þjónustu prestarnir og levítarnir skyldu inna af hendi, hver í sínu verki,
1.1 Það bar til á dögum Ahasverusar _ það er Ahasverusar þess, er ríkti frá Indlandi til Blálands yfir hundrað tuttugu og sjö skattlöndum _ 1.2 í þá daga er Ahasverus konungur sat á konungsstóli sínum í borginni Súsa, 1.3 á þriðja ríkisári hans, að hann hélt veislu öllum höfðingjum sínum og þjónum. Sátu þá hershöfðingjarnir í Persíu og Medíu, tignarmennirnir og skattlandstjórarnir í boði hans. 1.4 Sýndi hann þá auðæfi síns veglega konungdóms og dýrðarskraut tignar sinnar í marga daga _ hundrað og áttatíu daga. 1.5 Og er þessir dagar voru liðnir, hélt konungur veislu öllu fólki, sem var í borginni Súsa, bæði háum og lágum, í sjö daga, í forgarðinum að hallargarði konungs. 1.6 Þar héngu hvítir baðmullardúkar og purpurabláir, festir með snúrum af býssus og rauðum purpura í silfurhringa og á marmarasúlum, legubekkirnir voru úr gulli og silfri, á gólfi lögðu alabastri, hvítum marmara, perlumóðursteini og svörtum marmara. 1.7 En drykkir voru inn bornir í gullkerum, og voru hver kerin öðrum ólík, og þar var gnægð konunglegs víns, eins og konunglegu örlæti sómir. 1.8 Og drykkjan fór fram eftir því fyrirmæli, að enginn skyldi halda drykk að mönnum, því að konungur hafði lagt svo fyrir alla frammistöðumenn í höll sinni, að þeir skyldu svo gjöra sem hverjum manni þóknaðist. 1.9 Vastí drottning hélt og konum veislu í konunglegri höll, er Ahasverus konungur átti. 1.10 En á sjöunda degi, þá er konungur var hreifur af víni, bauð hann Mehúman, Bista, Harbóna, Bigta og Abagta, Setar og Karkas, þeim sjö hirðmönnum, er þjónuðu Ahasverusi konungi, 1.11 að sækja Vastí drottningu og leiða hana inn fyrir konung með konunglega kórónu á höfði, til þess að hann gæti sýnt þjóðunum og höfðingjunum fegurð hennar, því að hún var fríð sýnum. 1.12 En Vastí drottning vildi ekki koma eftir boði konungs, er hirðmennirnir fluttu. Þá reiddist konungur ákaflega, og heiftin brann honum í brjósti. 1.13 Og konungur sagði við vitringana, sem þekktu tímana _ því að þannig voru orð konungs lögð fyrir alla þá, er þekktu lög og rétt, 1.14 og þeir, sem stóðu honum næstir, voru Karsena, Setar, Admata, Tarsis, Meres, Marsena og Memúkan, sjö höfðingjar Persa og Meda, er litu auglit konungs og höfðu æðstu sætin í ríkinu _: 1.15 'Hverjum dómi skal Vastí drottning sæta að lögum fyrir það, að hún hlýddi eigi orðsending Ahasverusar konungs, þeirri er hirðmennirnir fluttu?' 1.16 Þá sagði Memúkan í áheyrn konungs og höfðingjanna: 'Vastí drottning hefir ekki einungis brotið á móti konunginum, heldur einnig á móti öllum höfðingjunum og öllum þjóðunum, sem búa í öllum skattlöndum Ahasverusar konungs. 1.17 Því að athæfi drottningar mun berast út til allra kvenna og gjöra eiginmenn þeirra fyrirlitlega í augum þeirra, er sagt verður: ,Ahasverus konungur bauð að leiða Vastí drottningu fyrir sig, en hún kom ekki.` 1.18 Og þegar í dag munu hefðarfrúr Persa og Meda, þær er frétt hafa athæfi drottningar, segja þetta öllum höfðingjum konungs, og mun það valda fullnógri fyrirlitningu og reiði. 1.19 Ef konungi þóknast svo, þá láti hann konunglegt boð út ganga og sé það ritað í lög Persa og Meda, svo að því verði ekki breytt, að Vastí skuli ekki framar koma fyrir auglit Ahasverusar konungs, og konunglega tign hennar gefi konungur annarri, sem er betri en hún. 1.20 Þegar nú úrskurður konungs, er hann kveður upp, verður kunnur um allt ríki hans, sem er mjög stórt, þá munu allar konur sýna mönnum sínum virðingu, bæði háum og lágum.' 1.21 Þessi tillaga geðjaðist bæði konunginum og höfðingjunum, og konungur fór að ráðum Memúkans. 1.22 Og hann sendi bréf til allra skattlanda konungs, í sérhvert land eftir skrift þess lands og til sérhverrar þjóðar á hennar tungu, að hver maður skyldi vera húsbóndi á sínu heimili og mæla allt það, er honum líkaði.
2.1 Eftir þessa atburði, þá er Ahasverusi konungi var runnin reiðin, minntist hann Vastí og þess, er hún hafði gjört, svo og þess, hver dómur hafði yfir hana gengið. 2.2 Þá sögðu menn konungs, þeir er honum þjónuðu: 'Leiti menn að ungum, fríðum meyjum handa konunginum, 2.3 og konungur setji til menn um öll skattlönd ríkis síns, er safni saman öllum ungum, fríðum meyjum til borgarinnar Súsa, í kvennabúrið, undir umsjá Hegaí, geldings konungs, þess er geymir kvennanna, svo að hann annist um hreinsunarundirbúning þeirra. 2.4 Og sú stúlka, sem þóknast konungi, verði drottning í stað Vastí.' Þetta líkaði konungi vel, og hann gjörði svo. 2.5 En í borginni Súsa var Gyðingur nokkur, að nafni Mordekai Jaírsson, Símeísonar, Kíssonar, Benjamíníti, 2.6 er fluttur hafði verið frá Jerúsalem með þeim hernumdu, er fluttir voru burt með Jekonja Júdakonungi, þeim er Nebúkadnesar Babel-konungur flutti burt. 2.7 Og hann var fósturfaðir Hadassa, það er Esterar, dóttur föðurbróður hans, því að hún var föður- og móðurlaus. Og stúlkan var fagurvaxin og fríð sýnum, og er faðir hennar og móðir önduðust, þá hafði Mordekai tekið hana sér í dóttur stað. 2.8 Er boð konungs og tilskipun hans varð kunn og safnað var saman mörgum stúlkum til borgarinnar Súsa undir umsjá Hegaí, þá var og Ester tekin til konungshallarinnar, undir umsjá Hegaí kvennavarðar. 2.9 Og stúlkan geðjaðist honum og fann náð fyrir augum hans. Fyrir því flýtti hann sér að fá henni það, er hún þurfti til hreinsunarundirbúnings síns, og þann mat, er henni bar, svo og að fá henni þær sjö þernur úr konungshöllinni, er henni voru ætlaðar. Og hann fór með hana og þernur hennar á besta staðinn í kvennabúrinu. 2.10 Ester hafði ekki sagt, hverrar þjóðar hún væri né frá ætt sinni, því að Mordekai hafði boðið henni að segja eigi frá því. 2.11 En Mordekai gekk á degi hverjum fyrir framan forgarð kvennabúrsins til þess að vita, hvernig Ester liði og hvað um hana yrði. 2.12 Og er röðin kom að hverri stúlku um sig, að hún skyldi ganga inn fyrir Ahasverus konung, eftir tólf mánaða undirbúningsfrest samkvæmt kvennalögunum _ því að svo langur tími gekk til hreinsunarundirbúnings þeirra: sex mánuðir með myrruolíu og sex mánuðir með ilmsmyrslum og öðru því, er til undirbúnings kvenna heyrir _ 2.13 þegar stúlkan þá gekk inn fyrir konung, var henni fengið allt, er hún bað um, að það færi með henni úr kvennabúrinu til konungshallarinnar. 2.14 Um kveldið gekk hún inn, en að morgni sneri hún aftur í hið annað kvennabúr, undir umsjá Saasgasar, geldings konungs, þess er geymdi hjákvennanna. Mátti hún þá eigi framar koma inn fyrir konung, nema ef konungi hefði geðjast vel að henni og hún væri sérstaklega kölluð. 2.15 Þegar nú röðin kom að Ester, dóttur Abíhaíls, föðurbróður Mordekai, er hann hafði tekið sér í dóttur stað, að hún skyldi inn ganga fyrir konung, þá bað hún ekki um neitt, nema það sem Hegaí geldingur konungs, kvennavörðurinn, tiltók. Og Ester fann náð í augum allra þeirra, er hana sáu. 2.16 Og Ester var tekin inn til Ahasverusar konungs, inn í hina konunglegu höll hans, í tíunda mánuðinum _ það er tebetmánuður _ á sjöunda ríkisstjórnarári hans. 2.17 Og konungur fékk meiri ást á Ester en öllum öðrum konum, og hún ávann sér náð hans og þokka, meir en allar hinar meyjarnar. Og hann setti hina konunglegu kórónu á höfuð henni og gjörði hana að drottningu í stað Vastí. 2.18 Og konungur hélt mikla veislu öllum höfðingjum sínum og þjónum, Esterar-veislu, lét halda hvíldardag í skattlöndunum og gaf gjafir með konunglegu örlæti. 2.19 Þá er meyjum var í annað sinn safnað og Mordekai sat í konungshliði _ 2.20 en Ester hafði ekki sagt frá ætt sinni eða hverrar þjóðar hún væri, svo sem Mordekai hafði boðið henni, með því að Ester hlýddi fyrirmælum Mordekai, eins og þegar hún var í fóstri hjá honum _ 2.21 í þann tíma, þá er Mordekai sat í konungshliði, reiddust Bigtan og Teres, tveir geldingar konungs, af þeim er geymdu dyranna, og leituðu eftir að leggja hendur á Ahasverus konung. 2.22 Þessa varð Mordekai áskynja og sagði Ester drottningu frá því, en Ester sagði konungi frá í nafni Mordekai. 2.23 Og er málið var rannsakað og þetta reyndist satt að vera, þá voru þeir báðir festir á gálga. Og þetta var ritað í árbókina í viðurvist konungs.
3.1 Eftir þessa atburði veitti Ahasverus konungur Haman Hamdatasyni Agagíta mikinn frama og hóf hann til vegs og setti stól hans ofar öllum stólum höfðingja þeirra, er með honum voru. 3.2 Og allir þjónar konungs, þeir er voru í hliði konungs, féllu á kné og lutu Haman, því að svo hafði konungur um hann boðið. En Mordekai féll hvorki á kné né laut honum. 3.3 Þá sögðu þjónar konungs, þeir er voru í konungshliði, við Mordekai: 'Hví brýtur þú boð konungs?' 3.4 Höfðu þeir daglega orð á þessu við hann, en hann hlýddi þeim ekki. Sögðu þeir þá Haman frá því til þess að sjá, hvort orð Mordekai yrðu tekin gild, því að hann hafði sagt þeim, að hann væri Gyðingur. 3.5 Og er Haman sá, að Mordekai féll eigi á kné né laut honum, þá fylltist Haman reiði. 3.6 En honum þótti einskis vert að leggja hendur á Mordekai einan, því að menn höfðu sagt honum frá, hverrar þjóðar Mordekai var, og leitaðist Haman því við að gjöreyða öllum Gyðingum, sem voru í öllu ríki Ahasverusar, samlöndum Mordekai. 3.7 Í fyrsta mánuðinum _ það er í mánuðinum nísan _ á tólfta ríkisári Ahasverusar konungs var varpað púr, það er hlutkesti, í viðurvist Hamans, frá einum degi til annars og frá einum mánuði til annars, og féll hlutkestið á þrettánda dag hins tólfta mánaðar _ það er mánaðarins adar. 3.8 Og Haman sagði við Ahasverus konung: 'Ein er sú þjóð, sem lifir dreifð og fráskilin meðal þjóðanna í öllum skattlöndum ríkis þíns. Og lög þeirra eru frábrugðin lögum allra annarra þjóða, og lög konungs halda þeir ekki, og hlýðir eigi að konungur láti þá afskiptalausa. 3.9 Ef konungi þóknast svo, þá verði skriflega fyrirskipað að afmá þá. En tíu þúsund talentur silfurs skal ég vega í hendur fjárgæslumönnunum, svo að þeir flytji það í féhirslur konungs.' 3.10 Þá dró konungur innsiglishring sinn af hendi sér og fékk hann Haman Hamdatasyni Agagíta, fjandmanni Gyðinga. 3.11 Síðan sagði konungur við Haman: 'Silfrið er þér gefið, og með þjóðina mátt þú fara svo sem þér vel líkar.' 3.12 Þá var skrifurum konungs stefnt saman, þrettánda dag hins fyrsta mánaðar, og var nú skrifað með öllu svo sem Haman mælti fyrir til jarla konungs og til landstjóranna í öllum skattlöndunum og til höfðingja allra þjóðanna, í hvert skattland með skrift þess lands og til hverrar þjóðar á hennar tungu. Var þetta skrifað í nafni Ahasverusar konungs og innsiglað með innsiglishring konungs. 3.13 Og bréfin voru send með hraðboðum í öll skattlönd konungs, þess efnis, að eyða skyldi, deyða og tortíma öllum Gyðingum, bæði ungum og gömlum, börnum og konum, á einum degi, þrettánda dag hins tólfta mánaðar _ það er mánaðarins adar _ og ræna fjármunum þeirra. 3.14 Eftirrit af bréfinu skyldi gefið út sem lög í hverju skattlandi, til þess að gjöra þetta kunnugt öllum þjóðunum, svo að þær gætu verið viðbúnar þennan dag. 3.15 Hraðboðarnir fóru af stað í skyndi að boði konungs, þegar er lögin voru útgefin í borginni Súsa. Og konungur og Haman settust að drykkju, en felmt sló á bæinn Súsa.
4.1 En er Mordekai varð alls þessa áskynja, er gjörst hafði, þá reif hann klæði sín, klæddist sekk og ösku, gekk út í miðja borgina og kveinaði hástöfum og beisklega. 4.2 Síðan gekk hann fast að konungshliðinu, því að enginn mátti inn ganga í konungshliðið klæddur hærusekk. 4.3 Og í öllum þeim skattlöndum, þar sem skipun konungs og lagaboð hans kom, varð mikill harmur meðal Gyðinga og fasta, grátur og kveinan. Flestir breiddu undir sig sekk og ösku. 4.4 Þá komu þjónustumeyjar Esterar og geldingar hennar og sögðu henni frá þessu. Varð drottning þá mjög óttaslegin. Og hún sendi klæði, er Mordekai skyldi færður í og hann fara úr sekknum, en hann vildi ekki taka við þeim. 4.5 Þá kallaði Ester Hatak til sín, einn af geldingum konungs, er hann hafði sett til að þjóna henni, og bauð honum að fara til Mordekai og fá að vita, hvað þetta ætti að þýða og hverju það sætti. 4.6 Þá gekk Hatak til Mordekai út á bæjartorgið, er var fyrir utan konungshliðið. 4.7 En Mordekai sagði honum allt, sem fyrir hann hafði komið, og upphæð fjárins, er Haman hafði heitið að vega í féhirslur konungs fyrir Gyðinga, til þess að fá þeim eytt. 4.8 Auk þess fékk hann honum eftirrit af konungsbréfi því, er út hafði verið gefið í Súsa, um að eyða þeim. Skyldi hann sýna Ester það og segja henni frá og bjóða henni að ganga fyrir konung og biðja hann miskunnar og leita vægðar hjá honum þjóð sinni til handa. 4.9 Og Hatak kom og flutti Ester orð Mordekai. 4.10 En Ester sagði við Hatak og bauð honum að flytja Mordekai það: 4.11 ,Öllum þjónum konungs og fólkinu í skattlöndum konungs er kunnugt, að um hvern þann mann eða konu, sem gengur fyrir konung inn í hinn innri forgarð og er eigi kallaður, gilda ein lög, að hann skal af lífi taka, nema konungur rétti út í móti honum gullsprotann sem merki þess, að hann megi lífi halda. En ég hefi eigi verið kölluð inn fyrir konung nú í þrjátíu daga.` 4.12 Og Mordekai voru flutt orð Esterar. 4.13 Þá lét Mordekai skila aftur til Esterar: ,Ekki skalt þú ímynda þér, að þú ein af öllum Gyðingum komist undan, af því að þú ert í höll konungs. 4.14 Því þótt svo færi, að þú þegðir nú, þá mun Gyðingum samt koma frelsun og hjálp úr einhverjum öðrum stað, en þú og ættfólk þitt munuð farast. Hver veit nema þú sért til ríkis komin einmitt vegna þessara tíma!` 4.15 Þá lét Ester skila aftur til Mordekai: 4.16 ,Far þú og kalla saman alla Gyðinga, sem nú eru í Súsa, og fastið mín vegna, etið hvorki né drekkið í þrjá daga, hvorki nótt né dag. Ég og þjónustumeyjar mínar munum og fasta á sama hátt. Síðan mun ég ganga inn fyrir konung, þótt það sé í móti lögunum, og ef ég þá á að farast, þá ferst ég.` 4.17 Gekk Mordekai þá burt og fór með öllu svo sem Ester hafði boðið honum.
5.1 En á þriðja degi skrýddist Ester konunglegum skrúða og gekk inn í hinn innri forgarð konungshallarinnar, gegnt konungshöllinni, en konungur sat í konungshásæti sínu í konungshöllinni gegnt dyrum hallarinnar. 5.2 En er konungur leit Ester drottningu standa í forgarðinum, fann hún náð í augum hans, og konungur rétti út í móti Ester gullsprotann, er hann hafði í hendi sér. Þá gekk Ester nær og snart oddinn á sprotanum. 5.3 Og konungur sagði við hana: 'Hvað er þér á höndum, Ester drottning, og hvers beiðist þú? Þótt það væri helmingur ríkisins, þá skal þér það veita.' 5.4 Þá mælti Ester: 'Ef konunginum þóknast svo, þá komi konungurinn, ásamt Haman, í dag til veislu þeirrar, er ég hefi búið honum.' 5.5 Þá sagði konungur: 'Sækið Haman í skyndi, svo að vér megum gjöra það, sem Ester hefir um beðið.' Þegar nú konungur, ásamt Haman, var kominn til veislunnar, er Ester hafði búið, 5.6 sagði konungur við Ester, þá er þau voru sest að víndrykkjunni: 'Hver er bæn þín? Hún skal veitast þér. Og hvers beiðist þú? Þótt það væri helmingur ríkisins, þá skal það í té látið.' 5.7 Þá svaraði Ester og sagði: 'Bæn mín og beiðni er þessi: 5.8 Hafi ég fundið náð í augum konungsins og þóknist konunginum að veita mér bæn mína og gjöra það, er ég beiðist, þá komi konungurinn og Haman til veislu þeirrar, er ég mun búa þeim. Mun ég þá á morgun gjöra það, sem konungurinn hefir óskað.' 5.9 Þann dag gekk Haman burt glaður og í góðu skapi. En er Haman sá Mordekai í konungshliðinu og að hann hvorki stóð upp fyrir honum né hrærði sig, þá fylltist Haman reiði gegn Mordekai. 5.10 Þó stillti Haman sig. En er hann kom heim til sín, sendi hann og lét sækja vini sína og Seres konu sína. 5.11 Sagði Haman þeim frá hinum miklu auðæfum sínum og fjölda sona sinna og frá öllum þeim frama, sem konungur hafði veitt honum, og hversu konungur hefði hafið hann til vegs framar öðrum höfðingjum sínum og þjónum. 5.12 Og Haman mælti: 'Já, Ester drottning lét engan koma með konungi til veislu þeirrar, er hún gjörði, nema mig. Hún hefir og boðið mér á morgun með konunginum. 5.13 En allt þetta er mér ekki nóg, meðan ég sé Mordekai Gyðing sitja í konungshliði.' 5.14 Þá sagði Seres kona hans við hann og allir vinir hans: 'Lát reisa fimmtíu álna háan gálga, og talaðu á morgun um það við konung, að Mordekai verði festur á hann. Far síðan glaður með konungi til veislunnar.' Þetta ráð líkaði Haman vel og lét hann reisa gálgann.
6.1 En þessa nótt gat konungur ekki sofið. Bauð hann þá að koma með Annálabókina, og var hún lesin fyrir konungi. 6.2 Þá fannst þar skrifað, hversu Mordekai hefði komið upp um þá Bigtan og Teres, tvo geldinga konungs, af þeim er geymdu dyranna, sem höfðu leitast við að leggja hönd á Ahasverus konung. 6.3 Þá sagði konungur: 'Hverja sæmd og upphefð hefir Mordekai hlotið fyrir þetta?' Þá sögðu sveinar konungs, þeir er þjónuðu honum: 'Hann hefir ekkert hlotið fyrir.' 6.4 Og konungur sagði: 'Hver er í forgarðinum?' Í sama bili hafði Haman komið inn í ytri forgarð konungshallarinnar til þess að tala um það við konung að láta festa Mordekai á gálga þann, er hann hafði reist handa honum. 6.5 Og sveinar konungs sögðu við hann: 'Sjá, Haman stendur í forgarðinum.' Konungur mælti: 'Látið hann koma inn.' 6.6 En er Haman var inn kominn, sagði konungur við hann: 'Hvað á að gjöra við þann mann, er konungur vill heiður sýna?' Þá hugsaði Haman með sjálfum sér: 'Hverjum mun konungur vilja heiður sýna öðrum en mér?' 6.7 Og Haman sagði við konung: 'Ef konungur vill sýna einhverjum heiður, 6.8 þá skal sækja konunglegan skrúða, sem konungur hefir klæðst, og hest, sem konungur hefir riðið, og konungleg kóróna er sett á höfuð hans. 6.9 Og skrúðann og hestinn skal fá í hendur einum af höfðingjum konungs, tignarmönnunum, og færa þann mann, sem konungur vill sýna heiður, í skrúðann og láta hann ríða hestinum um borgartorgið og hrópa fyrir honum: Þannig er gjört við þann mann, er konungur vill heiður sýna.' 6.10 Þá sagði konungur við Haman: 'Sæk sem skjótast skrúðann og hestinn, svo sem þú hefir sagt, og gjör þannig við Mordekai Gyðing, sem situr hér í konungshliði. Lát ekkert niður falla af öllu því, er þú hefir sagt.' 6.11 Þá sótti Haman skrúðann og hestinn, færði Mordekai í og lét hann ríða um borgartorgið og hrópaði fyrir honum: 'Þannig er gjört við þann mann, er konungurinn vill heiður sýna.' 6.12 Síðan sneri Mordekai aftur í konungshliðið. En Haman skundaði heim til sín, hryggur og með huldu höfði. 6.13 Og Haman sagði Seres konu sinni og öllum vinum sínum frá öllu því, er fyrir hann hafði komið. Þá sögðu vitringar hans við hann og Seres kona hans: 'Ef Mordekai, sem þú ert tekinn að falla fyrir, er af ætt Gyðinga, þá megnar þú ekkert á móti honum, heldur munt þú gjörsamlega falla fyrir honum.' 6.14 Meðan þeir voru enn við hann að tala, komu geldingar konungs, og fóru þeir í skyndi með Haman til veislunnar, er Ester hafði búið.
7.1 Þá er þeir konungur og Haman voru komnir til þess að drekka hjá Ester drottningu, 7.2 þá sagði konungur við Ester einnig þennan hinn annan dag, þá er þau voru setst að víndrykkjunni: 'Hver er bón þín, Ester drottning? Hún mun veitast þér. Og hvers beiðist þú? Þótt það væri helmingur ríkisins, þá skal það í té látið.' 7.3 Þá svaraði Ester drottning og sagði: 'Hafi ég fundið náð í augum þínum, konungur, og þóknist konunginum svo, þá sé mér gefið líf mitt vegna bænar minnar og þjóð minni vegna beiðni minnar. 7.4 Því að vér erum seldir, ég og þjóð mín, til eyðingar, deyðingar og tortímingar. Og ef vér hefðum aðeins verið seldir að þrælum og ambáttum, þá mundi ég hafa þagað, þótt mótstöðumaðurinn hefði eigi verið fær um að bæta konungi skaðann.' 7.5 Þá mælti Ahasverus konungur og sagði við Ester drottningu: 'Hver er sá og hvar er sá, er dirfðist að gjöra slíkt?' 7.6 Ester mælti: 'Mótstöðumaðurinn og óvinurinn er þessi vondi Haman!' En Haman varð hræddur við konung og drottningu. 7.7 Og konungur stóð upp frá víndrykkjunni í reiði og gekk út í hallargarðinn, en Haman stóð eftir til þess að biðja Ester drottningu um líf sitt, því að hann sá sér ógæfu búna af konungi. 7.8 En þegar konungur kom aftur utan úr hallargarðinum inn í veislusalinn, þá hafði Haman látið fallast á hvílubekk þann, sem Ester sat á. Þá sagði konungur: 'Mun hann einnig ætla að nauðga drottningunni hjá mér hér í höllinni?' Óðara en þessi orð voru komin út af vörum konungs, huldu menn auglit Hamans. 7.9 Og Harbóna, einn af geldingum þeim, er þjónuðu konungi, mælti: 'Sjá, gálginn, sem Haman lét gjöra handa Mordekai, sem þó hafði talað það, er konungi varð til heilla, stendur búinn í húsagarði Hamans, fimmtíu álna hár.' Þá mælti konungur: 'Festið hann á hann!' 7.10 Og þeir festu Haman á gálgann, sem hann hafði reisa látið handa Mordekai. Þá rann konungi reiðin.
8.1 Þennan sama dag gaf Ahasverus konungur Ester drottningu hús Hamans, fjandmanns Gyðinga. En Mordekai gekk fyrir konung, því að Ester hafði sagt honum, hvað hann væri sér. 8.2 Og konungur dró innsiglishringinn af hendi sér, þann er hann hafði látið taka af Haman, og fékk Mordekai hann. En Ester setti Mordekai yfir hús Hamans. 8.3 Og Ester talaði enn við konung, féll honum til fóta og bað hann grátandi að ónýta illskuráð Hamans Agagíta, þau er hann hafði upp hugsað gegn Gyðingum. 8.4 En konungur rétti gullsprotann út í móti Ester. Þá stóð Ester upp og gekk fyrir konung 8.5 og mælti: 'Ef konunginum þóknast svo og hafi ég fundið náð í augum hans og sé konunginum það ekki ógeðfellt og ef hann hefir mætur á mér, þá sé nú gefin út skrifleg skipun til þess að afturkalla bréfin, ráðagerð Hamans Hamdatasonar Agagíta, þau er hann ritaði til þess að láta eyða Gyðingum í öllum skattlöndum konungs. 8.6 Því að hvernig mundi ég fá afborið að horfa upp á ógæfu þá, er koma á yfir þjóð mína, og hvernig mundi ég fá afborið að horfa upp á tortíming kynsmanna minna?' 8.7 Þá sagði Ahasverus konungur við Ester drottningu og Mordekai Gyðing: 'Sjá, hús Hamans hefi ég gefið Ester, og sjálfur hefir hann verið festur á gálga, fyrir þá sök, að hann hafði lagt hendur á Gyðinga. 8.8 En skrifið þið nú um Gyðinga það er ykkur líkar í nafni konungs og innsiglið það með innsiglishring konungs. Því að ekkert það bréf, sem skrifað er í nafni konungs og innsiglað með innsiglishring konungs, verður afturkallað.' 8.9 Og skrifurum konungs var þá stefnt saman, hinn tuttugasta og þriðja dag hins þriðja mánaðar _ það er mánaðarins sívan _ og var þá skrifað með öllu svo sem Mordekai bauð, til Gyðinga og til jarlanna og til landstjóranna og til höfðingja skattlandanna frá Indlandi til Blálands, til skattlandanna hundrað tuttugu og sjö, í hvert skattland með skrift þess lands og til hverrar þjóðar á hennar tungu, og einnig til Gyðinga með þeirra skrift og á þeirra tungu. 8.10 Og hann skrifaði í nafni Ahasverusar konungs og innsiglaði með innsiglishring konungs, og hann sendi bréf með ríðandi hraðboðum, sem riðu fyrirmannagæðingum úr stóði konungs, 8.11 þar sem konungur leyfði Gyðingum í öllum borgum að safnast saman og verja líf sitt og að eyða, deyða og tortíma öllum liðsafla þeirrar þjóðar og lands, er sýndi þeim fjandskap, jafnvel börnum og konum, og ræna fjármunum þeirra, 8.12 á einum degi í öllum skattlöndum Ahasverusar konungs, hinn þrettánda dag hins tólfta mánaðar _ það er mánaðarins adar. 8.13 Eftirrit af bréfinu skyldi gefið út sem lög í hverju skattlandi til þess að gjöra þetta kunnugt öllum þjóðunum og til þess að Gyðingar skyldu vera viðbúnir þennan dag að hefna sín á óvinum sínum. 8.14 Hraðboðarnir, sem riðu fyrirmannagæðingunum, fóru af stað með skyndingu og flýti, að boði konungs, þegar er lagaboðið var gefið út í borginni Súsa. 8.15 En Mordekai gekk út frá konungi í konunglegum skrúða, purpurabláum og hvítum, með stóra gullkórónu og í möttli úr býssus og rauðum purpura, og í borginni Súsa varð gleði mikil og fögnuður. 8.16 Og hjá Gyðingum var ljós og gleði, fögnuður og dýrð. 8.17 Og í öllum skattlöndum og öllum borgum, þar sem skipun konungs og lagaboð hans kom, var gleði og fögnuður meðal Gyðinga, veisluhöld og hátíðisdagur. Og margir hinna heiðnu landsbúa gjörðust Gyðingar, því að ótti við Gyðinga var yfir þá kominn.
9.1 Og þrettánda dag hins tólfta mánaðar _ það er mánaðarins adar _, þá er skipun konungs og lagaboði hans skyldi fullnægt, þann dag er óvinir Gyðinga höfðu vonað að fá yfirbugað þá, en nú þvert á móti Gyðingar sjálfir skyldu yfirbuga fjendur sína, 9.2 þá söfnuðust Gyðingar saman í borgum sínum um öll skattlönd Ahasverusar konungs til þess að leggja hendur á þá, er þeim leituðu tjóns. Og enginn fékk staðist fyrir þeim, því að ótti við þá var kominn yfir allar þjóðir. 9.3 Og allir höfðingjar skattlandanna og jarlarnir og landstjórarnir og embættismenn konungs veittu Gyðingum lið, því að ótti við Mordekai var yfir þá kominn. 9.4 Því að Mordekai var mikill orðinn við hirð konungs, og orðstír hans fór um öll skattlöndin, því að maðurinn Mordekai varð æ voldugri og voldugri. 9.5 Og Gyðingar unnu á óvinum sínum með sverði, drápu þá og tortímdu þeim, og fóru þeir með hatursmenn sína eftir geðþekkni sinni. 9.6 Og í borginni Súsa drápu Gyðingar og tortímdu fimm hundruðum manns. 9.7 Og þeir drápu Parsandata, Dalfón, Aspata, 9.8 Pórata, Adalja, Arídata, 9.9 Parmasta, Arísaí, Arídaí og Vajesata, 9.10 tíu sonu Hamans Hamdatasonar, fjandmanns Gyðinga. En eigi lögðu þeir hendur á fjármuni manna. 9.11 Þennan sama dag var tala þeirra, sem vegnir höfðu verið í borginni Súsa, flutt konungi. 9.12 Og konungur sagði við Ester drottningu: 'Í borginni Súsa hafa Gyðingar drepið og tortímt fimm hundruð manns og tíu sonu Hamans. Hvað munu þeir hafa gjört í öðrum skattlöndum konungs? Og hver er bæn þín? Hún skal veitast þér. Og hvers beiðist þú frekar? Það skal í té látið.' 9.13 Þá mælti Ester: 'Ef konunginum þóknast svo, þá sé Gyðingum, þeim sem eru í borginni Súsa, leyft að fara hinu sama fram á morgun sem í dag, og þá tíu sonu Hamans festi menn á gálga.' 9.14 Og konungur bauð að svo skyldi gjöra, og fyrirskipun var útgefin í Súsa, og synir Hamans tíu voru festir á gálga. 9.15 Og Gyðingar í Súsa söfnuðust og saman hinn fjórtánda dag adarmánaðar og drápu þrjú hundruð manns í Súsa. En eigi lögðu þeir hendur á fjármuni þeirra. 9.16 En aðrir Gyðingar, þeir er bjuggu í skattlöndum konungs, söfnuðust saman og vörðu líf sitt með því að hefna sín á óvinum sínum og drepa sjötíu og fimm þúsundir meðal fjandmanna sinna _ en eigi lögðu þeir hendur á fjármuni þeirra _ 9.17 hinn þrettánda dag adarmánaðar, og þeir tóku sér hvíld hinn fjórtánda og gjörðu hann að veislu- og gleðidegi. 9.18 En Gyðingar þeir, sem bjuggu í Súsa, höfðu safnast saman bæði hinn þrettánda og hinn fjórtánda mánaðarins, og tóku þeir sér hvíld hinn fimmtánda og gjörðu hann að veislu- og gleðidegi. 9.19 Fyrir því halda Gyðingar í sveitunum, þeir er búa í sveitaþorpunum, hinn fjórtánda dag adarmánaðar sem gleði-, veislu- og hátíðisdag og senda þá hver öðrum matgjafir. 9.20 Mordekai skrásetti þessa viðburði og sendi bréf til allra Gyðinga í öllum skattlöndum Ahasverusar konungs, bæði nær og fjær, 9.21 til þess að gjöra þeim að skyldu að halda árlega helgan fjórtánda og fimmtánda dag adarmánaðar _ 9.22 eins og dagana, sem Gyðingar fengu hvíld frá óvinum sínum, og mánuðinn, er hörmung þeirra snerist í fögnuð og hryggð þeirra í hátíðisdag _ með því að gjöra þá að veisludögum og fagnaðar og senda þá hver öðrum matgjafir og fátækum ölmusu. 9.23 Og Gyðingar lögleiddu að gjöra það, er þeir höfðu upp byrjað og Mordekai hafði skrifað þeim. 9.24 Með því að Haman Hamdatason Agagíti, fjandmaður allra Gyðinga, hafði hugsað það ráð upp gegn Gyðingum að eyða þeim og varpað púr, það er hlutkesti, til að afmá þá og eyða þeim, 9.25 en konungur hafði fyrirskipað með bréfi, þá er Ester gekk fyrir hann, að hið vonda ráð, er hann hafði upphugsað gegn Gyðingum, skyldi honum sjálfum í koll koma og hann og synir hans skyldu festir á gálga, 9.26 fyrir því voru þessir dagar kallaðir púrím, eftir orðinu púr. Þess vegna _ vegna allra orða þessa bréfs, bæði vegna þess, er þeir sjálfir höfðu séð, og hins, er þeir höfðu orðið fyrir _ 9.27 gjörðu Gyðingar það að skyldu og lögleiddu það sem venju, er eigi mætti út af bregða, bæði fyrir sig og niðja sína og alla þá, er sameinuðust þeim, að halda þessa tvo daga helga árlega, samkvæmt fyrirskipuninni um þá og á hinum ákveðna tíma, 9.28 og að þessara daga skyldi verða minnst og þeir helgir haldnir af hverri kynslóð og hverri ætt, í hverju skattlandi og í hverri borg, svo að þessir púrímdagar skyldu eigi líða undir lok meðal Gyðinga og minning þeirra aldrei í gleymsku falla hjá niðjum þeirra. 9.29 Og Ester drottning, dóttir Abíhaíls, og Mordekai Gyðingur rituðu bréf og beittu þar öllu valdi sínu til þess að gjöra að lögum þetta annað bréf um púrím. 9.30 Og hann sendi bréf til allra Gyðinga í skattlöndin hundrað tuttugu og sjö, um allt ríki Ahasverusar, friðar- og sannleiksorð, 9.31 til þess að lögleiða þessa púrímdaga á hinum ákveðna tíma, eins og Mordekai Gyðingur og Ester drottning höfðu lögleitt þá fyrir þá, eins og þeir höfðu lögleitt ákvæðin um föstur og harmakvein, er þeim skyldi fylgja, fyrir sig og niðja sína. 9.32 Og skipun Esterar gjörði púrímákvæði þessi að lögum, og var hún rituð í bók.
10.1 Og Ahasverus konungur lagði skatt á landið og eyjar hafsins. 10.2 En öll verk máttar hans og hreysti og lýsing á vegsemd Mordekai, þeirri er konungur hóf hann til, það er ritað í Árbókum Medíu- og Persíukonunga.
1.1 Einu sinni var maður í Ús-landi. Hann hét Job. Hann var maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar. 1.2 Hann átti sjö sonu og þrjár dætur, 1.3 og aflafé hans var sjö þúsund sauða, þrjú þúsund úlfalda, fimm hundruð sameyki nauta, fimm hundruð ösnur og mjög mörg hjú, og var maður sá meiri öllum austurbyggjum. 1.4 Synir hans voru vanir að fara og búa veislu heima hjá sér, hver sinn dag, og þeir buðu systrum sínum þremur að eta og drekka með sér. 1.5 En er veisludagar voru liðnir, sendi Job eftir þeim og helgaði þau. Reis hann árla morguns og fórnaði brennifórn fyrir hvert þeirra. Því að Job hugsaði: 'Vera má að börn mín hafi syndgað og formælt Guði í hjarta sínu.' Svo gjörði Job alla daga. 1.6 Nú bar svo til einn dag, að synir Guðs komu til þess að ganga fyrir Drottin, og kom Satan og meðal þeirra. 1.7 Mælti þá Drottinn til Satans: 'Hvaðan kemur þú?' Satan svaraði Drottni og sagði: 'Ég hefi verið að reika um jörðina og arka fram og aftur um hana.' 1.8 Og Drottinn mælti til Satans: 'Veittir þú athygli þjóni mínum Job? því að enginn er hans líki á jörðu, maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar.' 1.9 Og Satan svaraði Drottni og sagði: 'Ætli Job óttist Guð fyrir ekki neitt? Hefir þú ekki lagt skjólgarð um hann og hús hans og allt, sem hann á, hringinn í kring? 1.10 Handaverk hans hefir þú blessað, og fénaður hans breiðir sig um landið. 1.11 En rétt þú út hönd þína og snert þú allt, sem hann á, og mun hann þá formæla þér upp í opið geðið.' 1.12 Þá mælti Drottinn til Satans: 'Sjá, veri allt, sem hann á, á þínu valdi, en á sjálfan hann mátt þú ekki leggja hönd þína.' Gekk Satan þá burt frá augliti Drottins. 1.13 Nú bar svo til einn dag, er synir hans og dætur átu og drukku vín í húsi elsta bróður síns, 1.14 að sendimaður kom til Jobs og sagði: 'Nautin voru að plægja og ösnurnar voru á beit rétt hjá þeim. 1.15 Gjörðu þá Sabear athlaup og tóku þau, en sveinana drápu þeir. Ég einn komst undan til að flytja þér tíðindin.' 1.16 En áður en hann hafði lokið máli sínu, kom annar og sagði: 'Eldur Guðs féll af himni og kveikti í hjörðinni og sveinunum og eyddi þeim. Ég einn komst undan til að flytja þér tíðindin.' 1.17 En áður en sá hafði lokið máli sínu, kom annar og sagði: 'Kaldear fylktu þremur flokkum, gjörðu áhlaup á úlfaldana og tóku þá, en sveinana drápu þeir. Ég einn komst undan til að flytja þér tíðindin.' 1.18 Áður en sá hafði lokið máli sínu, kom annar og sagði: 'Synir þínir og dætur átu og drukku vín í húsi elsta bróður síns. 1.19 Kom þá skyndilega fellibylur austan yfir eyðimörkina og lenti á fjórum hornum hússins, svo að það féll ofan yfir sveinana, og þeir dóu. Ég einn komst undan til að flytja þér tíðindin.' 1.20 Þá stóð Job upp og reif skikkju sína og skar af sér hárið, og féll til jarðar, tilbað 1.21 og sagði: Nakinn kom ég af móðurskauti og nakinn mun ég aftur þangað fara. Drottinn gaf og Drottinn tók, lofað veri nafn Drottins. 1.22 Í öllu þessu syndgaði Job ekki, og ekki átaldi hann Guð heimskulega.
2.1 Nú bar svo til einn dag, að synir Guðs komu til þess að ganga fyrir Drottin, og kom Satan og meðal þeirra. 2.2 Mælti þá Drottinn til Satans: 'Hvaðan kemur þú?' Og Satan svaraði Drottni og sagði: 'Ég hefi verið að reika um jörðina og arka fram og aftur um hana.' 2.3 Og Drottinn mælti til Satans: 'Veittir þú athygli þjóni mínum Job? því að enginn er hans líki á jörðu, maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar. Og enn þá er hann staðfastur í ráðvendni sinni, og þó hefir þú egnt mig gegn honum til að vinna honum tjón án saka.' 2.4 Og Satan svaraði Drottni og sagði: 'Nær er skinnið en skyrtan, og fyrir líf sitt gefur maðurinn allt sem hann á. 2.5 En rétt þú út hönd þína og snert þú bein hans og hold, og þá mun hann formæla þér upp í opið geðið.' 2.6 Þá mælti Drottinn til Satans: 'Sjá, veri hann á þínu valdi, en þyrma skalt þú lífi hans.' 2.7 Þá gekk Satan burt frá augliti Drottins og sló Job illkynjuðum kaunum frá hvirfli til ilja. 2.8 Og Job tók sér leirbrot til að skafa sig með, þar sem hann sat í öskunni. 2.9 Þá sagði kona hans við hann: 'Heldur þú enn fast við ráðvendni þína? Formæltu Guði og farðu að deyja!' 2.10 En hann sagði við hana: 'Þú talar svo sem heimskar konur tala. Fyrst vér höfum þegið hið góða af Guði, ættum vér þá ekki einnig að taka hinu vonda?' Í öllu þessu syndgaði Job ekki með vörum sínum. 2.11 Þegar vinir Jobs þrír fréttu, að öll þessi ógæfa væri yfir hann komin, þá komu þeir hver frá sínum stað, þeir Elífas Temaníti, Bildad Súíti og Sófar Naamíti, og töluðu sig saman um að fara og votta honum samhryggð sína og hugga hann. 2.12 En er þeir hófu upp augu sín álengdar, þekktu þeir hann ekki. Tóku þeir þá að gráta hástöfum, rifu skikkjur sínar og jusu mold yfir höfuð sér hátt í loft upp. 2.13 Og þannig sátu þeir hjá honum á jörðu sjö daga og sjö nætur, og enginn þeirra yrti á hann, því að þeir sáu, hversu mikil kvöl hans var.
3.1 Loks lauk Job upp munni sínum og bölvaði fæðingardegi sínum. 3.2 Hann tók til máls og sagði: 3.3 Farist sá dagur, sem ég fæddist á, og nóttin, sem sagði: Sveinbarn er getið! 3.4 Sá dagur verði að myrkri, Guð á hæðum spyrji ekki eftir honum, engin dagsbirta ljómi yfir honum. 3.5 Myrkur og niðdimma heimti hann aftur, skýflókar leggist um hann, dagmyrkvar skelfi hann. 3.6 Sú nótt _ myrkrið hremmi hana, hún gleðji sig eigi meðal ársins daga, hún komi eigi í tölu mánaðanna. 3.7 Sjá, sú nótt verði ófrjó, ekkert fagnaðaróp heyrist á henni. 3.8 Þeir sem bölva deginum, formæli henni, _ þeir sem leiknir eru í að egna Levjatan. 3.9 Myrkvist stjörnur aftureldingar hennar, vænti hún ljóss, en það komi ekki, og brágeisla morgunroðans fái hún aldrei litið, 3.10 af því að hún lokaði eigi fyrir mér dyrum móðurlífsins og byrgði ei ógæfuna fyrir augum mínum. 3.11 Hví dó ég ekki í móðurkviði, _ andaðist jafnskjótt og ég var kominn af móðurlífi? 3.12 Hvers vegna tóku kné á móti mér og hví voru brjóst til handa mér að sjúga? 3.13 Því þá lægi ég nú og hvíldist, væri sofnaður og hefði frið 3.14 hjá konungum og ráðherrum jarðarinnar, þeim er reistu sér hallir úr rústum, 3.15 eða hjá höfðingjum, sem áttu gull, þeim er fylltu hús sín silfri. 3.16 Eða ég væri ekki til eins og falinn ótímaburður, eins og börn, sem aldrei hafa séð ljósið. 3.17 Í gröfinni hætta hinir óguðlegu hávaðanum, og þar hvílast hinir örmagna. 3.18 Bandingjarnir hafa þar allir ró, heyra þar eigi köll verkstjórans. 3.19 Smár og stór eru þar jafnir, og þrællinn er þar laus við húsbónda sinn. 3.20 Hví gefur Guð ljós hinum þjáðu og líf hinum sorgbitnu? 3.21 þeim sem þrá dauðann, en hann kemur ekki, sem grafa eftir honum ákafara en eftir fólgnum fjársjóðum, 3.22 þeim sem mundu gleðjast svo, að þeir réðu sér ekki fyrir kæti, fagna, ef þeir fyndu gröfina; 3.23 _ þeim manni, sem enga götu sér og Guð hefir girt inni? 3.24 Því að andvörp eru orðin mitt daglegt brauð, og kvein mitt úthellist sem vatn. 3.25 Því að óttaðist ég eitthvað, þá hitti það mig, og það sem ég hræddist, kom yfir mig. 3.26 Ég mátti eigi næðis njóta, eigi friðar, eigi hvíldar, þá kom ný mæða.
4.1 Þá svaraði Elífas frá Teman og mælti: 4.2 Munt þú taka því illa, þótt maður dirfist að yrða á þig? Og þó, hver fær orða bundist? 4.3 Sjá, þú hefir áminnt marga, og magnþrota hendur hefir þú styrkt. 4.4 Þann sem hrasaði, reistu orð þín á fætur, og hnígandi hnén gjörðir þú stöðug. 4.5 En nú, þegar það kemur yfir þig, gefst þú upp, þegar það nær þér sjálfum, missir þú móðinn. 4.6 Er ekki guðhræðsla þín athvarf þitt og þitt grandvara líferni von þín? 4.7 Hugsaðu þig um: Hver er sá, er farist hafi saklaus, og hvar hefir hinum réttvísu verið tortímt? 4.8 Að því, er ég hefi séð: Þeir sem plægðu rangindi og sáðu óhamingju, þeir einir hafa uppskorið það. 4.9 Fyrir andgusti Guðs fórust þeir, fyrir reiðiblæstri hans urðu þeir að engu. 4.10 Öskur ljónsins og rödd óargadýrsins, _ tennur ljónshvolpanna eru brotnar sundur. 4.11 Ljónið ferst, af því að það vantar bráð, og hvolpar ljónynjunnar tvístrast. 4.12 En til mín laumaðist orð, og eyra mitt nam óminn af því _ 4.13 í heilabrotunum, sem nætursýnirnar valda, þá er þungur svefnhöfgi er fallinn yfir mennina. 4.14 Ótti kom yfir mig og hræðsla, svo að öll bein mín nötruðu. 4.15 Og vindgustur straukst fram hjá andliti mínu, hárin risu á líkama mínum. 4.16 Þarna stóð það _ útlitið þekkti ég ekki _, einhver mynd fyrir augum mínum, ég heyrði ymjandi rödd: 4.17 'Er maðurinn réttlátur fyrir Guði, nokkur mannkind hrein fyrir skapara sínum? 4.18 Sjá, þjónum sínum treystir hann ekki, og hjá englum sínum finnur hann galla, 4.19 hvað þá hjá þeim, sem búa í leirhúsum, þeim sem eiga rót sína að rekja til moldarinnar, sem marðir eru sundur sem mölur væri. 4.20 Milli morguns og kvelds eru þeir molaðir sundur, án þess að menn gefi því gaum, tortímast þeir gjörsamlega. 4.21 Tjaldstaginu er kippt upp, þeir deyja, og það í vanhyggju sinni.'
5.1 Kalla þú bara! Ætli nokkur svari þér? og til hvers af hinum heilögu viltu snúa þér? 5.2 Því að gremjan drepur heimskingjann, og öfundin deyðir einfeldninginn. 5.3 Ég hefi að vísu séð heimskingjann festa djúpar rætur, en varð þó skyndilega að formæla bústað hans. 5.4 Börn hans eru fjarlæg hjálpinni, þau eru troðin niður í hliðinu, og enginn bjargar. 5.5 Uppskeru hans etur hinn hungraði, já, jafnvel inn í þyrna sækir hann hana, og hinir þyrstu þrá eigur hans. 5.6 Því að óhamingjan vex ekki upp úr moldinni, og mæðan sprettur ekki upp úr jarðveginum. 5.7 Nei, maðurinn fæðist til mæðu, eins og neistarnir fljúga upp í loftið. 5.8 En ég mundi snúa mér til hins Almáttka og bera málefni mitt upp fyrir Guði, 5.9 honum, sem gjörir mikla hluti og órannsakanlega, dásemdarverk, sem eigi verða talin, 5.10 sem gefur regn á jörðina og sendir vatn yfir vellina 5.11 til þess að hefja hina lítilmótlegu hátt upp, og til þess að hinir sorgbitnu öðlist mikla sælu; 5.12 honum, sem gjörir að engu áform hinna lævísu, svo að hendur þeirra koma engu varanlegu til leiðar, 5.13 sem veiðir vitringana í slægð þeirra, svo að ráð hinna slungnu kollsteypast. 5.14 Á daginn reka þeir sig á myrkur, og sem um nótt þreifa þeir fyrir sér um hádegið. 5.15 Þannig frelsar hann munaðarleysingjann úr gini þeirra og fátæklinginn undan valdi hins sterka. 5.16 Þannig er von fyrir hinn vesala, og illskan lokar munni sínum. 5.17 Sjá, sæll er sá maður, er Guð hirtir, lítilsvirð því eigi ögun hins Almáttka. 5.18 Því að hann særir, en bindur og um, hann slær, og hendur hans græða. 5.19 Úr sex nauðum frelsar hann þig, og í hinni sjöundu snertir þig ekkert illt. 5.20 Í hallærinu frelsar hann þig frá dauða og í orustunni undan valdi sverðsins. 5.21 Fyrir svipu tungunnar ert þú falinn og þarft ekkert að óttast, er eyðingin kemur. 5.22 Að eyðing og hungri getur þú hlegið, og villidýrin þarft þú ekki að óttast. 5.23 Því að þú ert í bandalagi við steina akurlendisins, og dýr merkurinnar eru í sátt við þig. 5.24 Og þú munt komast að raun um, að tjald þitt er heilt, þú kannar bústað þinn og saknar einskis. 5.25 Og þú munt komast að raun um, að niðjar þínir eru margir og afsprengi þitt sem gras á jörðu. 5.26 Í hárri elli munt þú ganga inn í gröfina, eins og kornbundinið er látið í hlöðuna á sínum tíma. 5.27 Sjá, þetta höfum vér útgrundað, þannig er það. Heyr þú það og set það vel á þig!
6.1 Þá svaraði Job og sagði: 6.2 Ó að gremja mín væri vegin og ógæfa mín lögð á vogarskálar! 6.3 Hún er þyngri en sandur hafsins, fyrir því hefi ég eigi taumhald á tungu minni. 6.4 Því að örvar hins Almáttka sitja fastar í mér, og andi minn drekkur í sig eitur þeirra. Ógnir Guðs steðja að mér. 6.5 Rymur skógarasninn yfir grængresinu, eða öskrar nautið yfir fóðri sínu? 6.6 Verður hið bragðlausa etið saltlaust, eða er gott bragð að hvítunni í egginu? 6.7 Matur minn fær mér ógleði, mig velgir við að snerta hann. 6.8 Ó að ósk mín uppfylltist, og Guð léti von mína rætast! 6.9 Ég vildi að Guði þóknaðist að merja mig sundur, rétta út höndina og skera lífsþráð minn sundur! 6.10 Þá væri það þó enn huggun mín _ og ég skyldi hoppa af gleði í vægðarlausri kvölinni _ að ég hefi aldrei afneitað orðum hins Heilaga. 6.11 Hver er kraftur minn, að ég skyldi þreyja, og hver verða endalok mín, að ég skyldi vera þolinmóður? 6.12 Er þá kraftur minn kletta kraftur, eða er líkami minn af eiri? 6.13 Er ég ekki með öllu hjálparvana og öll frelsun frá mér hrakin? 6.14 Hrelldur maður á heimting á meðaumkun hjá vini sínum, enda þótt hann hætti að óttast hinn Almáttka. 6.15 Bræður mínir brugðust eins og lækur, eins og farvegur lækja, sem flóa yfir, 6.16 sem gruggugir eru af ís og snjórinn hverfur ofan í. 6.17 Jafnskjótt og þeir bakast af sólinni, þorna þeir upp, þegar hitnar, hverfa þeir burt af stað sínum. 6.18 Kaupmannalestirnar beygja af leið sinni, halda upp í eyðimörkina og farast. 6.19 Kaupmannalestir frá Tema skyggndust eftir þeim, ferðamannahópar frá Saba reiddu sig á þá. 6.20 Þeir urðu sér til skammar fyrir vonina, þeir komu þangað og urðu sneyptir. 6.21 Þannig eruð þér nú orðnir fyrir mér, þér sáuð skelfing og skelfdust. 6.22 Hefi ég sagt: 'Færið mér eitthvað og borgið af eigum yðar fyrir mig, 6.23 frelsið mig úr höndum óvinarins og leysið mig undan valdi kúgarans'? 6.24 Fræðið mig, og ég skal þegja, og sýnið mér, í hverju mér hefir á orðið. 6.25 Hversu áhrifamikil eru einlægninnar orð, en hvað sanna átölur yðar? 6.26 Hafið þér í hyggju að ásaka orð? Ummæli örvilnaðs manns hverfa út í vindinn. 6.27 Þér munduð jafnvel hluta um föðurleysingjann og selja vin yðar. 6.28 Og nú _ ó að yður mætti þóknast að líta á mig, ég mun vissulega ekki ljúga upp í opið geðið á yður. 6.29 Snúið við, fremjið eigi ranglæti, já, snúið við, enn þá hefi ég rétt fyrir mér. 6.30 Er ranglæti á minni tungu, eða ætli gómur minn greini ekki hvað illt er?
7.1 Er ekki líf mannsins á jörðinni herþjónusta og dagar hans sem dagar daglaunamanns? 7.2 Eins og þræll, sem þráir forsælu, og eins og daglaunamaður, sem bíður eftir kaupi sínu, 7.3 svo hafa mér hlotnast mæðumánuðir og kvalanætur orðið hlutskipti mitt. 7.4 Þegar ég leggst til hvíldar, hugsa ég: 'Nær mun ég rísa á fætur?' Og kveldið er langt, og ég fæ mig fullsaddan á að bylta mér uns aftur eldir. 7.5 Líkami minn er þakinn ormum og moldarskánum, húð mín skorpnar og rifnar upp aftur. 7.6 Dagar mínir eru hraðfleygari en vefjarskyttan, og þeir hverfa án vonar. 7.7 Minnstu þess, Guð, að líf mitt er andgustur! Aldrei framar mun auga mitt gæfu líta. 7.8 Það auga, sem nú sér mig, mun eigi líta mig framar, augu þín leita mín, en ég er horfinn. 7.9 Eins og skýið eyðist og hverfur, svo kemur og sá eigi aftur, er niður stígur til Heljar. 7.10 Hann hverfur aldrei aftur til húss síns, og heimili hans þekkir hann eigi framar. 7.11 Ég ætla þá ekki heldur að hafa taum á tungu minni, ég ætla að tala í hugarangist minni, ég ætla að kveina í sálarkvöl minni. 7.12 Er ég haf eða sjóskrímsl, svo að þú þurfir að setja vörð yfir mig? 7.13 Þegar ég hugsa með sjálfum mér: 'Rúmið mitt skal hugga mig, hvílan mín létta mér hörmung mína' 7.14 þá hræðir þú mig með draumum og skelfir mig með sýnum, 7.15 svo að ég kýs heldur að kafna, heldur að deyja en að vera slík beinagrind. 7.16 Ég er leiður á þessu _ ekki lifi ég eilíflega _, slepptu mér, því að dagar mínir eru andartak. 7.17 Hvað er maðurinn, að þú metir hann svo mikils og að þú snúir huga þínum til hans? 7.18 að þú heimsækir hann á hverjum morgni og reynir hann á hverri stundu? 7.19 Hvenær ætlar þú loks að líta af mér, loks að sleppa mér, meðan ég renni niður munnvatninu? 7.20 Hafi ég syndgað _ hvað get ég gert þér, þú vörður manna? Hvers vegna hefir þú mig þér að skotspæni, svo að ég er sjálfum mér byrði? 7.21 Og hví fyrirgefur þú mér eigi synd mína og nemur burt sekt mína? Því að nú leggst ég til hvíldar í moldu, og leitir þú mín, þá er ég eigi framar til.
8.1 Þá svaraði Bildad frá Súa og sagði: 8.2 Hversu lengi ætlar þú slíkt að mæla og orðin í munni þínum að vera hvass vindur? 8.3 Hallar þá Guð réttinum, eða hallar hinn Almáttki réttlætinu? 8.4 Hafi börn þín syndgað móti honum, þá hefir hann selt þau misgjörð þeirra á vald. 8.5 En ef þú leitar Guðs og biður hinn Almáttka miskunnar _ 8.6 ef þú ert hreinn og einlægur _ já, þá mun hann þegar vakna til að sinna þér og endurreisa bústað þíns réttlætis. 8.7 Þá mun þinn fyrri hagur virðast lítilfjörlegur, en framtíðarhagur þinn vaxa stórum. 8.8 Spyr þú hina fyrri kynslóð og gef þú gaum að reynslu feðranna. 8.9 Vér erum síðan í gær og vitum ekkert, því að skuggi eru dagar vorir á jörðunni. 8.10 En þeir munu fræða þig, segja þér það og bera fram orð úr sjóði hjarta síns: 8.11 'Sprettur pappírssefið þar sem engin mýri er? vex störin nema í vatni? 8.12 Enn stendur hún í blóma og verður eigi slegin, en hún skrælnar fyrr en nokkurt annað gras.' 8.13 Svo fer fyrir hverjum þeim, sem gleymir Guði, og von hins guðlausa verður að engu. 8.14 Athvarf hans brestur sundur, og köngullóarvefur er það, sem hann treystir. 8.15 Hann styðst við hús sitt, en það stendur ekki, hann heldur sér fast í það, en það stenst ekki. 8.16 Hann er safarík skríðandi flétta í sólskini, sem teygir jarðstöngla sína um garðinn 8.17 og vefur rótum sínum um grjóthrúgur og læsir sig milli steinanna. 8.18 En ef hann er upprættur frá stað sínum, þá afneitar staðurinn honum og segir: 'Ég hefi aldrei séð þig!' 8.19 Sjá, þetta er öll gleði hans, og aðrir spretta í staðinn upp úr moldinni. 8.20 Sjá, Guð hafnar ekki hinum ráðvanda og heldur ekki í hönd illgjörðamanna. 8.21 Enn mun hann fylla munn þinn hlátri og varir þínar fagnaðarópi. 8.22 Þeir sem hata þig, munu skömminni klæðast, og tjald hinna óguðlegu mun horfið vera.
9.1 Þá svaraði Job og sagði: 9.2 Vissulega, ég veit að það er svo, og hvernig ætti maðurinn að hafa rétt fyrir sér gagnvart Guði? 9.3 Þóknist honum að deila við hann, getur hann ekki svarað einni spurningu af þúsund. 9.4 Hann er vitur í hjarta og máttkur að afli _ hver þrjóskaðist gegn honum og sakaði eigi? _ 9.5 Hann sem flytur fjöll, svo að þau vita ekki af, hann sem kollvarpar þeim í reiði sinni, 9.6 hann sem hrærir jörðina úr stað, svo að stoðir hennar leika á reiðiskjálfi, 9.7 hann sem býður sólinni, og hún rennur ekki upp, og setur innsigli fyrir stjörnurnar, 9.8 hann sem þenur út himininn aleinn, og gengur á háöldum sjávarins, 9.9 hann sem skóp Vagnstirnið og Óríon, Sjöstjörnuna og forðabúr sunnanvindsins, 9.10 hann sem gjörir mikla hluti og órannsakanlega og dásemdarverk, er eigi verða talin, 9.11 sjá, hann gengur fram hjá mér, en ég sé hann ekki, hann strýkst fram hjá, en ég verð hans ekki var. 9.12 Þegar hann þrífur til, hver vill þá aftra honum, hver vill segja við hann: 'Hvað gjörir þú?' 9.13 Guð heldur ekki aftur reiði sinni, bandamenn hafdrekans beygðu sig undir hann. 9.14 Hversu miklu síður mundi ég þá geta svarað honum, geta valið orð mín gagnvart honum, 9.15 ég sem ekki mætti svara, þótt ég hefði rétt fyrir mér, heldur verð að beiðast miskunnar af dómara mínum. 9.16 Þótt ég kallaði og hann svaraði mér, þá mundi ég ekki trúa, að hann hlustaði á mig. 9.17 Miklu fremur mundi hann hvæsa á mig í stormviðri og margfalda sár mín án saka, 9.18 aldrei leyfa mér að draga andann, heldur metta mig beiskri kvöl. 9.19 Sé um kraft að ræða, er mátturinn hans, sé um rétt að ræða, hver vill þá stefna honum? 9.20 Þótt ég hefði rétt fyrir mér, þá mundi munnur minn sakfella mig, þótt ég væri saklaus, mundi hann koma á mig sektinni. 9.21 Saklaus er ég, ég hirði ekkert um líf mitt, ég virði að vettugi tilveru mína! 9.22 Mér stendur á sama um það. Fyrir því segi ég: hann tortímir jafnt saklausum sem óguðlegum. 9.23 Þegar svipan deyðir snögglega, þá gjörir hann gys að örvænting hinna saklausu. 9.24 Jörðin er gefin í vald hinna óguðlegu, hann byrgir fyrir andlitið á dómendum hennar. Sé það ekki hann _ hver þá? 9.25 Dagar mínir voru skjótari en hraðboði, liðu svo hjá, að þeir litu enga hamingju. 9.26 Þeir brunuðu áfram eins og reyrbátar, eins og örn, sem steypir sér niður á æti. 9.27 Ef ég segi: Ég ætla að gleyma volæði mínu, ég ætla að breyta andlitssvip mínum og vera kátur, _ 9.28 þá hryllir mig við öllum þjáningum mínum, því ég veit þú sýknar mig ekki. 9.29 Ég á nú að vera sekur, hví skyldi ég þá vera að mæðast til ónýtis? 9.30 Þótt ég þvægi mér úr snjó og hreinsaði hendur mínar í lút, 9.31 þá mundir þú dýfa mér ofan í forarvilpu, svo að klæðum mínum byði við mér. 9.32 Guð er ekki maður eins og ég, að ég geti svarað honum, að við getum gengið saman fyrir réttinn. 9.33 Enginn er sá, er úr skeri okkar í milli, er lagt geti hönd sína á okkur báða. 9.34 Hann taki vönd sinn frá mér og láti ekki skelfing sína hræða mig, 9.35 þá vil ég tala og eigi óttast hann, því að svo er mér eigi farið hið innra.
10.1 Mér býður við lífi mínu, ég ætla því að gefa kveinstöfum mínum lausan tauminn, ætla að tala í sálarkvöl minni. 10.2 Ég segi við Guð: Sakfell mig ekki! lát mig vita, hvers vegna þú deilir við mig. 10.3 Er það ávinningur fyrir þig, að þú undirokar, að þú hafnar verki handa þinna, en lætur ljós skína yfir ráðagerð hinna óguðlegu? 10.4 Hefir þú holdleg augu, eða sér þú eins og menn sjá? 10.5 Eru dagar þínir eins og dagar mannanna, eru ár þín eins og mannsævi, 10.6 er þú leitar að misgjörð minni og grennslast eftir synd minni, 10.7 þótt þú vitir, að ég er ekki sekur, og að enginn frelsar af þinni hendi? 10.8 Hendur þínar hafa skapað mig og myndað mig, allan í krók og kring, og samt ætlar þú að tortíma mér? 10.9 Minnstu þó þess, að þú myndaðir mig sem leir, og nú vilt þú aftur gjöra mig að dufti. 10.10 Hefir þú ekki hellt mér sem mjólk og hleypt mig sem ost? 10.11 Hörundi og holdi klæddir þú mig og ófst mig saman úr beinum og sinum. 10.12 Líf og náð veittir þú mér, og umsjá þín varðveitti andardrátt minn. 10.13 En þetta falst þú í hjarta þínu, ég veit þú hafðir slíkt í hyggju. 10.14 Ef ég syndgaði, þá ætlaðir þú að hafa gætur á mér og eigi sýkna mig af misgjörð minni. 10.15 Væri ég sekur, þá vei mér! Og þótt ég væri réttlátur, þá mundi ég samt ekki bera höfuð mitt hátt, mettur af smán og þjakaður af eymd. 10.16 Og ef ég reisti mig upp, þá mundir þú elta mig sem ljón, og ávallt að nýju sýna á mér undramátt þinn. 10.17 Þú mundir leiða fram ný vitni á móti mér og herða á gremju þinni gegn mér, senda nýjan og nýjan kvalaher á hendur mér. 10.18 Hvers vegna útleiddir þú mig þá af móðurlífi? Ég hefði átt að deyja, áður en nokkurt auga leit mig! 10.19 Ég hefði átt að verða eins og ég hefði aldrei verið til, verið borinn frá móðurkviði til grafar! 10.20 Eru ekki dagar mínir fáir? Slepptu mér, svo að ég megi gleðjast lítið eitt, 10.21 áður en ég fer burt og kem aldrei aftur, fer í land myrkurs og niðdimmu, 10.22 land svartamyrkurs sem um hánótt, land niðdimmu og skipuleysis, þar sem birtan sjálf er sem svartnætti.
11.1 Þá svaraði Sófar frá Naama og sagði: 11.2 Á ekki að svara orðagjálfrinu, og á málskrafsmaðurinn að hafa rétt fyrir sér? 11.3 Ættu stóryrði þín að koma mönnum til að þegja, og ættir þú að spotta og enginn sneypa þig, 11.4 þar sem þú segir: 'Kenning mín er rétt, og ég er hreinn í augum Guðs'? 11.5 En _ ó að Guð vildi tala og ljúka upp vörum sínum í móti þér 11.6 og kunngjöra þér leyndardóma spekinnar, að í þeim felast margföld hyggindi, þá mundir þú kannast við, að Guð hegnir ekki til fulls misgjörð þinni. 11.7 Getur þú náð til botns í Guði eða komist til ystu takmarka hins Almáttka? 11.8 Himinhá er speki hans _ hvað fær þú gjört? dýpri en undirheimar _ hvað fær þú vitað? 11.9 Hún er lengri en jörðin að víðáttu og breiðari en hafið. 11.10 Ef hann ryðst fram og hneppir í varðhald og stefnir dómþing _ hver aftrar honum? 11.11 Því að hann þekkir varmennin og sér ranglætið, þótt hann sé ekki að veita því athygli. 11.12 Verður óvitur maður hygginn? og fæðist skógarösnu-folald sem maður? 11.13 Ef þú undirbýr hjarta þitt og breiðir út lófa þína til hans, 11.14 _ ef misgjörð er í hendi þinni, þá fjarlæg hana, og lát eigi órétt búa í tjöldum þínum _ 11.15 já, þá munt þú flekklaus hefja höfuð þitt, munt standa fastur og eigi þurfa að óttast. 11.16 Já, þá munt þú gleyma mæðu þinni, þú munt minnast hennar sem vatns, er runnið er fram hjá. 11.17 Og lífið mun renna upp bjartara en hádegið, þótt dimmi, þá mun það verða sem morgunn. 11.18 Og þú munt vera öruggur, því að enn er von, og skyggnist þú um, getur þú lagst óhultur til hvíldar. 11.19 Og þú hvílist, og enginn hræðir þig, og margir munu reyna að koma sér í mjúkinn hjá þér. 11.20 En augu hinna óguðlegu daprast, fyrir þá er fokið í öll skjól, og þeirra eina von er að gefa upp andann.
12.1 Þá svaraði Job og sagði: 12.2 Já, vissulega, miklir menn eruð þér, og með yður mun spekin deyja út! 12.3 En ég hefi vit eins og þér, ekki stend ég yður að baki, og hver er sá, er eigi viti slíkt! 12.4 Athlægi vinar síns _ það má ég vera, ég sem kallaði til Guðs, og hann svaraði mér, _ ég, hinn réttláti, hreinlyndi, er að athlægi! 12.5 'Ógæfan er fyrirlitleg' _ segir hinn öruggi, 'hún hæfir þeim, sem skrikar fótur.' 12.6 Tjöld spellvirkjanna standa ósködduð, og þeir lifa áhyggjulausir, sem egna Guð til reiði, og sá sem þykist bera Guð í hendi sér. 12.7 En spyr þú skepnurnar, og þær munu kenna þér, fugla loftsins, og þeir munu fræða þig, 12.8 eða villidýrin, og þau munu kenna þér, og fiskar hafsins munu kunngjöra þér. 12.9 Hver þeirra veit ekki að hönd Drottins hefir gjört þetta? 12.10 Í hans hendi er líf alls hins lifanda og andi sérhvers mannslíkama. 12.11 Prófar eyrað ekki orðin, eins og gómurinn smakkar matinn? 12.12 Hjá öldruðum mönnum er speki, og langir lífdagar veita hyggindi. 12.13 Hjá Guði er speki og máttur, hans eru ráð og hyggindi. 12.14 Þegar hann rífur niður, þá verður eigi byggt upp aftur, þegar hann setur einhvern í fangelsi, þá verður ekki lokið upp. 12.15 Þegar hann stíflar vötnin, þá þorna þau upp, þegar hann hleypir þeim, þá umturna þau jörðinni. 12.16 Hjá honum er máttur og viska, á valdi hans er sá er villist, og sá er í villu leiðir. 12.17 Hann leiðir ráðherra burt nakta og gjörir dómara að fíflum. 12.18 Hann leysir fjötra konunganna og bindur reipi um lendar sjálfra þeirra. 12.19 Hann leiðir presta burt nakta og steypir þeim, sem sitja fastir í sessi. 12.20 Hann rænir reynda menn málinu og sviptir öldungana dómgreind. 12.21 Hann hellir fyrirlitning yfir tignarmennin og gjörir slakt belti hinna sterku. 12.22 Hann grefur hið hulda fram úr myrkrinu og dregur niðdimmuna fram í birtuna. 12.23 Hann veitir þjóðunum vöxt og eyðir þeim, útbreiðir þjóðirnar og leiðir þær burt. 12.24 Hann firrir þjóðhöfðingja landsins viti og lætur þá villast um veglaus öræfi. 12.25 Þeir fálma í ljóslausu myrkri, og hann lætur þá skjögra eins og drukkinn mann.
13.1 Sjá, allt þetta hefir auga mitt séð og eyra mitt heyrt og sett það á sig. 13.2 Það sem þér vitið, það veit ég líka, ekki stend ég yður að baki. 13.3 En ég vil tala til hins Almáttka og mig langar til að þreyta málsókn við Guð. 13.4 Því að sannlega samtvinnið þér lygar og eruð gagnslausir gutlarar allir saman. 13.5 Ó að þér vilduð steinþegja, þá mætti meta yður það til mannvits. 13.6 Heyrið átölur mínar og hlustið á ásakanir vara minna. 13.7 Viljið þér mæla það, sem rangt er, Guði til varnar, og honum til varnar mæla svik? 13.8 Viljið þér draga taum hans, eða viljið þér taka málstað Guðs? 13.9 Ætli það fari vel, þegar hann rannsakar yður, eða ætlið þér að leika á hann, eins og leikið er á menn? 13.10 Nei, hegna, hegna mun hann yður, ef þér eruð hlutdrægir í leyni. 13.11 Hátign hans mun skelfa yður, og ógn hans mun falla yfir yður. 13.12 Spakmæli yðar eru ösku-orðskviðir, vígi yðar eru leirvígi. 13.13 Þegið og látið mig í friði, þá mun ég mæla, og komi yfir mig hvað sem vill. 13.14 Ég stofna sjálfum mér í hættu og legg lífið undir. 13.15 Sjá, hann mun deyða mig _ ég bíð hans, aðeins vil ég verja breytni mína fyrir augliti hans. 13.16 Það skal og verða mér til sigurs, því að guðlaus maður kemur ekki fyrir auglit hans. 13.17 Hlýðið því gaumgæfilega á ræðu mína, og vörn mín gangi yður í eyru. 13.18 Sjá, ég hefi undirbúið málið, ég veit, að ég verð dæmdur sýkn. 13.19 Hver er sá, er deila vilji við mig? þá skyldi ég þegja og gefa upp andann. 13.20 Tvennt mátt þú, Guð, ekki við mig gjöra, þá skal ég ekki fela mig fyrir augliti þínu. 13.21 Tak hönd þína burt frá mér, og lát ekki skelfing þína hræða mig. 13.22 Kalla því næst, og mun ég svara, eða ég skal tala, og veit þú mér andsvör í móti. 13.23 Hversu margar eru þá misgjörðir mínar og syndir? Kunngjör mér afbrot mín og synd mína! 13.24 Hvers vegna byrgir þú auglit þitt og ætlar, að ég sé óvinur þinn? 13.25 Ætlar þú að skelfa vindþyrlað laufblað og ofsækja þurrt hálmstrá, 13.26 er þú dæmir mér beiskar kvalir og lætur mig erfa misgjörðir æsku minnar, 13.27 er þú setur fætur mína í stokk og aðgætir alla vegu mína og markar hring kringum iljar mínar? 13.28 _ Þessi maður dettur þó sundur eins og maðksmoginn viður, eins og möletið fat.
14.1 Maðurinn, af konu fæddur, lifir stutta stund og mettast órósemi. 14.2 Hann rennur upp og fölnar eins og blóm, flýr burt eins og skuggi og hefir ekkert viðnám. 14.3 Og yfir slíkum heldur þú opnum augum þínum og dregur mig fyrir dóm hjá þér! 14.4 Hvernig ætti hreinn að koma af óhreinum? Ekki einn! 14.5 Ef dagar hans eru ákvarðaðir, tala mánaða hans tiltekin hjá þér, hafir þú ákveðið takmark hans, er hann fær eigi yfir komist, 14.6 þá lít þú af honum, til þess að hann fái hvíld, svo að hann megi fagna yfir degi sínum eins og daglaunamaður. 14.7 Því að tréð hefir von, sé það höggvið, þá skýtur það nýjum frjóöngum, og teinungurinn kemur áreiðanlega upp. 14.8 Jafnvel þótt rót þess eldist í jörðinni, og stofn þess deyi í moldinni, 14.9 þá brumar það við ilminn af vatninu, og á það koma greinar eins og unga hríslu. 14.10 En deyi maðurinn, þá liggur hann flatur, og gefi manneskjan upp andann _ hvar er hún þá? 14.11 Eins og vatnið hverfur úr stöðuvatninu og fljótið grynnist og þornar upp, 14.12 þannig leggst maðurinn til hvíldar og rís eigi aftur á fætur. Hann rumskar ekki, meðan himnarnir standa og vaknar ekki af svefninum. 14.13 Ó að þú vildir geyma mig í dánarheimum, fela mig, uns reiði þinni linnir, setja mér tímatakmark og síðan minnast mín! 14.14 Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur? þá skyldi ég þreyja alla daga herþjónustu minnar, þar til er lausnartíð mín kæmi. 14.15 Þú mundir kalla, og ég _ ég mundi svara þér, þú mundir þrá verk handa þinna. 14.16 Því að þá mundir þú telja spor mín, eigi vaka yfir synd minni. 14.17 Afbrot mín lægju innsigluð í böggli, og á misgjörð mína drægir þú hvítan lit. 14.18 En eins og fjallið molnar sundur, er það hrynur, og kletturinn færist úr stað sínum, 14.19 eins og vatnið holar steinana og vatnsflóðin skola burt jarðarleirnum, svo hefir þú gjört von mannsins að engu. 14.20 Þú ber hann ofurliði að eilífu, og hann fer burt, þú afmyndar ásjónu hans og rekur hann á brott. 14.21 Komist börn hans til virðingar, þá veit hann það ekki, séu þau lítilsvirt, verður hann þess ekki var. 14.22 Aðeins kennir líkami hans eigin sársauka, og sál hans hryggist yfir sjálfum honum.
15.1 Þá svaraði Elífas frá Teman og sagði: 15.2 Skyldi vitur maður svara með vindkenndri visku og fylla brjóst sitt austanstormi _ 15.3 sanna mál sitt með orðum, sem ekkert gagna, og ræðum, sem engu fá áorkað? 15.4 Auk þess rífur þú niður guðsóttann og veikir lotninguna, sem Guði ber. 15.5 Því að misgjörð þín leggur þér orð í munn og þú velur þér lævísra tungu. 15.6 Þinn eigin munnur sakfellir þig, ekki ég, og varir þínar vitna í gegn þér. 15.7 Fæddist þú fyrstur manna og ert þú í heiminn borinn fyrr en hæðirnar? 15.8 Hefir þú hlustað í ráði Guðs og hrifsað til þín spekina? 15.9 Hvað veist þú, er vér eigi vissum, hvað skilur þú, er oss væri ókunnugt? 15.10 Til eru og öldungar, gráhærðir menn, vor á meðal, auðgari að ævidögum en faðir þinn. 15.11 Er huggun Guðs þér lítils virði og mildileg orðin sem þú heyrir? 15.12 Hvers vegna hrífur gremjan þig og hví ranghvolfast augu þín, 15.13 er þú snýr reiði þinni gegn Guði og lætur þér slík orð um munn fara? 15.14 Hvað er maðurinn, að hann geti verið hreinn, og sá verið réttlátur, sem af konu er fæddur? 15.15 Sjá, sínum heilögu treystir Hann ekki, og himinninn er ekki hreinn í augum hans, 15.16 hvað þá hinn andstyggilegi og spillti, maðurinn, sem drekkur ranglætið eins og vatn. 15.17 Ég vil fræða þig, heyr þú mig, og það sem ég hefi séð, frá því vil ég segja, 15.18 því er vitringarnir kunngjörðu _ og duldu ekki _ svo sem arfsögn frá feðrum sínum, 15.19 en þeim einum var landið gefið, og enginn útlendingur hafði enn farið um meðal þeirra. 15.20 Alla ævi sína kvelst hinn óguðlegi og öll þau ár, sem geymd eru ofbeldismanninum. 15.21 Skelfingarhljóð óma í eyrum honum, á friðartímum ræðst eyðandinn á hann. 15.22 Hann trúir því ekki, að hann komist út úr myrkrinu, og hann er kjörinn undir sverðið. 15.23 Hann reikar um til þess að leita sér brauðs _ hvar er það? _ hann veit að ógæfudagurinn bíður hans. 15.24 Neyð og angist skelfa hann, hún ber hann ofurliði eins og konungur, sem búinn er til atlögu, 15.25 af því hann útrétti hönd sína gegn Guði og reis þrjóskur í móti hinum Almáttka, 15.26 rann í móti honum illvígur undir þykkum bungum skjalda sinna. 15.27 Hann þakti andlit sitt spiki og safnaði fitu á lendar sér, 15.28 settist að í eyddum borgum, í húsum, er enginn átti í að búa og ákveðið var, að verða skyldu að rústum. 15.29 Hann verður ekki ríkur, og eigur hans haldast ekki við, og kornöx hans svigna ekki til jarðar. 15.30 Hann kemst eigi undan myrkrinu, frjóanga hans mun loginn svíða, og fyrir reiðiblæstri hans ferst hann. 15.31 Hann skyldi ekki reiða sig á hégóma; hann villist, því að hégómi verður umbun hans. 15.32 Það rætist fyrir skapadægur hans, og pálmagrein hans grænkar eigi. 15.33 Hann hristir af sér súr berin eins og vínviðurinn og varpar af sér blómunum eins og olíutréð. 15.34 Því að sveit hinna óguðlegu er ófrjó, og eldur eyðir tjöldum mútugjafanna. 15.35 Þeir ganga þungaðir með mæðu og ala ógæfu, og kviður þeirra undirbýr svik.
16.1 Þá svaraði Job og sagði: 16.2 Ég hefi heyrt nóg af slíku, hvimleiðir huggarar eruð þér allir saman. 16.3 Er orðavindurinn nú á enda? eða hvað knýr þig til andsvara? 16.4 Ég gæti líka talað eins og þér, ef þér væruð í mínum sporum, gæti spunnið saman ræður gegn yður og hrist yfir yður höfuðið, 16.5 ég gæti styrkt yður með munni mínum, og meðaumkun vara minna mundi lina þjáning yðar. 16.6 Þótt ég tali, þá linar ekki kvöl mína, og gjöri ég það ekki, hvaða létti fæ ég þá? 16.7 Miklu fremur hefir Guð nú örþreytt mig, _ þú hefir eytt öllu ættliði mínu, 16.8 hefir hremmt mig, og það er vitni í móti mér. Sjúkdómur minn rís í gegn mér, ákærir mig upp í opið geðið. 16.9 Reiði hans slítur mig sundur og ofsækir mig, hann nístir tönnum í móti mér, andstæðingur minn hvessir á mig augun. 16.10 Þeir glenna upp ginið í móti mér, löðrunga mig til háðungar, allir saman gjöra þeir samtök í móti mér. 16.11 Guð gefur mig á vald ranglátra og varpar mér í hendur óguðlegra. 16.12 Ég lifði áhyggjulaus, þá braut hann mig sundur, hann þreif í hnakkann á mér og molaði mig sundur og reisti mig upp sér að skotspæni. 16.13 Skeyti hans fljúga kringum mig, vægðarlaust sker hann sundur nýru mín, hellir galli mínu á jörðu. 16.14 Hann brýtur í mig skarð á skarð ofan og gjörir áhlaup á mig eins og hetja. 16.15 Ég hefi saumað sekk um hörund mitt og stungið horni mínu ofan í moldina. 16.16 Andlit mitt er þrútið af gráti, og svartamyrkur hvílir yfir hvörmum mínum, 16.17 þótt ekkert ranglæti sé í hendi minni og bæn mín sé hrein. 16.18 Jörð, hyl þú eigi blóð mitt, og kvein mitt finni engan hvíldarstað! 16.19 En sjá, á himnum er vottur minn og vitni mitt á hæðum. 16.20 Vinir mínir gjöra gys að mér _ til Guðs lítur auga mitt grátandi, 16.21 að hann láti manninn ná rétti sínum gagnvart Guði og skeri úr milli mannsins og vinar hans. 16.22 Því að senn eru þessi fáu ár á enda, og ég fer burt þá leiðina, sem ég aldrei sný aftur.
17.1 Andi minn er bugaður, dagar mínir þrotnir, gröfin bíður mín. 17.2 Vissulega eru þeir enn að gjöra gys að mér! Auga mitt verður að horfa upp á móðganir þeirra! 17.3 Set veð, gakk í ábyrgð fyrir mig hjá þér, Guð, hver mun annars taka í hönd mér? 17.4 Því að hjörtum þeirra hefir þú varnað vits, fyrir því munt þú ekki láta þá sigri hrósa. 17.5 Hver sem með svikum framselur vini sína að herfangi, _ augu barna hans munu daprast. 17.6 Hann hefir gjört mig að orðskviði meðal manna, og ég verð að láta hrækja í andlit mitt. 17.7 Fyrir því dapraðist auga mitt af harmi, og limir mínir eru allir orðnir sem skuggi. 17.8 Réttvísir menn skelfast yfir því, og hinn saklausi fárast yfir hinum óguðlega. 17.9 En hinn réttláti heldur fast við sína leið, og sá sem hefir hreinar hendur, verður enn styrkari. 17.10 En komið þér allir hingað aftur, og ég mun ekki finna neinn vitran mann meðal yðar. 17.11 Dagar mínir eru liðnir, fyrirætlanir mínar sundurtættar, _ hin dýrasta eign hjarta míns. 17.12 Nóttina gjöra þeir að degi, ljósið á að vera nær mér en myrkrið. 17.13 Þegar ég vonast eftir að dánarheimar verði híbýli mitt, bý mér hvílu í myrkrinu, 17.14 þegar ég kalla gröfina 'föður minn', ormana 'móður mína og systur' _ 17.15 hvar er þá von mín, já, von mín _ hver eygir hana? 17.16 Að slagbröndum Heljar stígur hún niður, þá er ég um leið fæ hvíld í moldu.
18.1 Þá svaraði Bildad frá Súa og sagði: 18.2 Hversu lengi ætlið þér að halda áfram þessu orðaskaki? Látið yður segjast, og því næst skulum vér talast við. 18.3 Hvers vegna erum vér metnir sem skepnur, orðnir heimskir í yðar augum? 18.4 Þú, sem tætir sjálfan þig sundur í reiði þinni, _ á jörðin þín vegna að fara í auðn og bjargið að færast úr stað sínum? 18.5 Ljós hins óguðlega slokknar, og logi elds hans skín ekki. 18.6 Ljósið myrkvast í tjaldi hans, og það slokknar á lampanum yfir honum. 18.7 Hans öflugu skref verða stutt, og ráðagjörð sjálfs hans steypir honum, 18.8 því að hann rekst í netið með fætur sína, og hann gengur í möskvunum. 18.9 Möskvi festist um hæl hans, lykkjan herðist að honum. 18.10 Snaran liggur falin á jörðinni, og gildran liggur fyrir honum á stígnum. 18.11 Skelfingar hræða hann allt um kring og hrekja hann áfram, hvar sem hann gengur. 18.12 Ógæfu hans tekur að svengja, og glötunin bíður búin eftir falli hans. 18.13 Hún tærir húð hans, og frumburður dauðans etur limu hans. 18.14 Hann er hrifinn burt úr tjaldi sínu, er hann treysti á, og það lætur hann ganga til konungs skelfinganna. 18.15 Í tjaldi hans býr það, sem eigi er hans, brennisteini er stráð yfir bústað hans. 18.16 Að neðan þorna rætur hans, að ofan visna greinar hans. 18.17 Minning hans hverfur af jörðunni, og nafn hans er ekki nefnt á völlunum. 18.18 Menn hrinda honum frá ljósinu út í myrkrið og reka hann burt af jarðríki. 18.19 Hann mun hvorki eiga börn né buru meðal þjóðar sinnar, og enginn, sem undan hefir komist, er í híbýlum hans. 18.20 Yfir skapadægri hans skelfast eftirkomendurnir, og hrylling grípur þá, er fyrr voru uppi. 18.21 Já, svo fer um bústaði hins rangláta og svo um samastað þess manns, sem eigi þekkir Guð.
19.1 Þá svaraði Job og sagði: 19.2 Hversu lengi ætlið þér að angra sál mína og mylja mig sundur með orðum? 19.3 Þér hafið þegar smánað mig tíu sinnum, þér skammist yðar ekki fyrir að misþyrma mér. 19.4 Og hafi mér í raun og veru orðið á, þá varðar það mig einan. 19.5 Ef þér í raun og veru ætlið að hrokast upp yfir mig, þá sannið mér svívirðing mína. 19.6 Kannist þó við, að Guð hafi hallað rétti mínum og umkringt mig með neti sínu. 19.7 Sjá, ég kalla: Ofbeldi! og fæ ekkert svar, ég kalla á hjálp, en engan rétt er að fá. 19.8 Guð hefir girt fyrir veg minn, svo að ég kemst ekki áfram, og stigu mína hylur hann myrkri. 19.9 Heiðri mínum hefir hann afklætt mig og tekið kórónuna af höfði mér. 19.10 Hann brýtur mig niður á allar hliðar, svo að ég fari burt, og slítur upp von mína eins og tré. 19.11 Hann lætur reiði sína bálast gegn mér og telur mig óvin sinn. 19.12 Skarar hans koma allir saman og leggja braut sína gegn mér og setja herbúðir sínar kringum tjald mitt. 19.13 Bræður mína hefir hann gjört mér fráhverfa, og vinir mínir vilja eigi framar við mér líta. 19.14 Skyldmenni mín láta ekki sjá sig, og kunningjar mínir hafa gleymt mér. 19.15 Skjólstæðingar húss míns og þernur mínar álíta mig aðkomumann, og ég er orðinn útlendingur í augum þeirra. 19.16 Kalli ég á þjón minn, svarar hann ekki, ég verð að sárbæna hann með munni mínum. 19.17 Andi minn er konu minni framandlegur, og bræður mínir forðast mig. 19.18 Jafnvel börnin fyrirlíta mig, standi ég upp, spotta þau mig. 19.19 Alla mína alúðarvini stuggar við mér, og þeir sem ég elskaði, hafa snúist á móti mér. 19.20 Bein mín límast við hörund mitt og hold, og ég hefi sloppið með tannholdið eitt. 19.21 Aumkið mig, aumkið mig, vinir mínir, því að hönd Guðs hefir lostið mig. 19.22 Hví ofsækið þér mig eins og Guð og verðið eigi saddir á holdi mínu? 19.23 Ó að orð mín væru skrifuð upp, ó að þau væru skráð í bók 19.24 með járnstíl og blýi, að eilífu höggvin í klett! 19.25 Ég veit, að lausnari minn lifir, og hann mun síðastur ganga fram á foldu. 19.26 Og eftir að þessi húð mín er sundurtætt og allt hold er af mér, mun ég líta Guð. 19.27 Ég mun líta hann mér til góðs, já, augu mín sjá hann, og það eigi sem andstæðing, _ hjartað brennur af þrá í brjósti mér! 19.28 Þegar þér segið: 'Vér skulum ofsækja hann, rót ógæfunnar er hjá honum sjálfum að finna!' 19.29 þá hræðist ógn sverðsins, því að sverðið er refsing syndar. Þá munuð þér komast að raun um, að til er dómur.
20.1 Þá svaraði Sófar frá Naama og sagði: 20.2 Fyrir því veita hugsanir mínar mér andsvör og af því að það sýður í mér: 20.3 Ég verð að hlusta á háðulegar ávítur, en andi minn gefur mér skilning að svara. 20.4 Veist þú, að svo hefir það verið frá eilífð, frá því er menn voru settir á jörðina, 20.5 að fögnuður óguðlegra er skammær og að gleði hins guðlausa varir örskotsstund? 20.6 Þó að sjálfbirgingskapur hans nemi við himin og höfuð hans nái upp í skýin, 20.7 þá verður hann þó eilíflega að engu eins og hans eigin saur, þeir, sem sáu hann, segja: Hvar er hann? 20.8 Hann líður burt eins og draumur, svo að hann finnst ekki, og hverfur eins og nætursýn. 20.9 Augað, sem á hann horfði, sér hann eigi aftur, og bústaður hans lítur hann aldrei framar. 20.10 Börn hans sníkja á snauða menn, og hendur þeirra skila aftur eigum hans. 20.11 Þótt bein hans séu full af æskuþrótti, leggjast þau samt með honum í moldu. 20.12 Þótt hið illa sé honum sætt í munni, þótt hann feli það undir tungu sinni, 20.13 þótt hann treini sér það og vilji ekki sleppa því og haldi því eftir í miðjum gómnum, 20.14 þá breytist þó fæðan í innýflum hans, _ í nöðrugall í kviði honum. 20.15 Auð gleypti hann _ hann verður að æla honum aftur, Guð keyrir hann úr kviði hans. 20.16 Nöðrueitur saug hann, tunga eiturormsins deyðir hann. 20.17 Hann má ekki gleðjast yfir lækjum, yfir rennandi ám hunangs og rjóma. 20.18 Hann lætur af hendi aflaféð og gleypir það eigi, auðurinn sem hann græddi, veitir honum eigi eftirvænta gleði. 20.19 Því að hann kúgaði snauða og lét þá eftir hjálparlausa, sölsaði undir sig hús, en byggði ekki. 20.20 Því að hann þekkti enga ró í maga sínum, þó fær hann eigi forðað því, sem honum er dýrmætast. 20.21 Ekkert komst undan græðgi hans, fyrir því er velsæld hans eigi varanleg. 20.22 Þótt hann hafi allsnægtir, kemst hann í nauðir, allt magn mæðunnar kemur yfir hann. 20.23 Þá verður það: Til þess að fylla kvið hans sendir Guð í hann sína brennandi reiði og lætur mat sínum rigna yfir hann. 20.24 Flýi hann fyrir járnvopnunum, þá borar eirboginn hann í gegn. 20.25 Hann dregur örina út, þá kemur hún út um bakið, og hinn blikandi oddur kemur út úr galli hans _ skelfing grípur hann. 20.26 Allur ófarnaður er geymdur auðæfum hans, eldur, sem enginn blæs að, eyðir honum, hann etur það, sem eftir er í tjaldi hans. 20.27 Himinninn afhjúpar misgjörð hans, og jörðin gjörir uppreisn í móti honum. 20.28 Gróði húss hans fer í útlegð, rennur burt í allar áttir á degi reiðinnar. 20.29 Þetta er óguðlegs manns hlutskipti frá Guði og arfleifð sú, sem honum er úthlutuð af hinum Almáttka.
21.1 Þá svaraði Job og sagði: 21.2 Hlustið gaumgæfilega á mál mitt, og látið það vera huggun af yðar hendi. 21.3 Unnið mér þess, að ég tali, og þegar ég hefi talað út, þá mátt þú hæða. 21.4 Er ég þá að kvarta yfir mönnum? eða hví skyldi ég ekki vera óþolinmóður? 21.5 Lítið til mín og undrist og leggið hönd á munn! 21.6 Já, þegar ég hugsa um það, skelfist ég, og hryllingur fer um mig allan. 21.7 Hvers vegna lifa hinir óguðlegu, verða gamlir, já, magnast að krafti? 21.8 Niðjar þeirra dafna fyrir augliti þeirra hjá þeim og afsprengi þeirra fyrir augum þeirra. 21.9 Hús þeirra eru óhult og óttalaus, og hirtingarvöndur Guðs kemur ekki niður á þeim. 21.10 Boli þeirra kelfir og kemur að gagni, kýr þeirra ber og lætur ekki kálfi. 21.11 Þeir hleypa út börnum sínum eins og lambahjörð, og smásveinar þeirra hoppa og leika sér. 21.12 Þeir syngja hátt undir með bumbum og gígjum og gleðjast við hljóm hjarðpípunnar. 21.13 Þeir eyða dögum sínum í velgengni og fara til Heljar í friði, 21.14 og þó sögðu þeir við Guð: 'Vík frá oss _ að þekkja þína vegu girnumst vér eigi. 21.15 Hvað er hinn Almáttki, að vér skyldum dýrka hann, og hvað skyldi það stoða oss að leita hans í bæn?' 21.16 Sjá, gæfa þeirra er ekki á þeirra valdi, _ ráðlag óguðlegra er fjarri mér. 21.17 Hversu oft slokknar þá á lampa hinna óguðlegu, og hversu oft kemur ógæfa þeirra yfir þá? Hversu oft deilir Guð þeim hlutskiptum í reiði sinni? 21.18 Hversu oft verða þeir sem strá fyrir vindi og sem sáðir, er stormurinn feykir burt? 21.19 'Guð geymir börnum hans óhamingju hans.' Endurgjaldi hann honum sjálfum, svo að hann fái að kenna á því! 21.20 Sjái augu sjálfs hans glötun hans, og drekki hann sjálfur af reiði hins Almáttka! 21.21 Því að hvað hirðir hann um hús sitt eftir dauðann, þegar tala mánaða hans er fullnuð? 21.22 Ætla menn að kenna Guði visku eða dæma hinn hæsta? 21.23 Einn deyr í mestu velgengni, fullkomlega áhyggjulaus og ánægður, 21.24 trog hans eru full af mjólk, og mergurinn í beinum hans er safamikill. 21.25 Og annar deyr með beiskju í huga og hefir aldrei notið hamingjunnar. 21.26 Þeir hvíla báðir í duftinu, og maðkarnir hylja þá. 21.27 Sjá, ég þekki hugsanir yðar og fyrirætlanir, að beita mig ofbeldi. 21.28 Þegar þér segið: 'Hvar er hús harðstjórans og hvar er tjaldið, sem hinir óguðlegu bjuggu í?' 21.29 hafið þér þá ekki spurt vegfarendur, _ og sönnunum þeirra munuð þér ekki hafna _ 21.30 að á degi glötunarinnar er hinum vonda þyrmt, á reiðinnar degi er þeim skotið undan. 21.31 Hver setur honum breytni hans fyrir sjónir? Og þegar hann gjörir eitthvað, hver endurgeldur honum? 21.32 Og til grafar er hann borinn og vakað er yfir legstaðnum. 21.33 Moldarhnausar dalsins liggja mjúklega ofan á honum, og eftir honum flykkjast allir menn, eins og óteljandi eru á undan honum farnir. 21.34 Og hvernig megið þér þá hugga mig með hégóma, og andsvör yðar _ sviksemin ein er eftir!
22.1 Þá svaraði Elífas frá Teman og sagði: 22.2 Vinnur maðurinn Guði gagn? Nei, sjálfum sér vinnur vitur maður gagn. 22.3 Er það ábati fyrir hinn Almáttka, að þú ert réttlátur, eða ávinningur, að þú lifir grandvöru lífi? 22.4 Er það vegna guðsótta þíns, að hann refsar þér, að hann dregur þig fyrir dóm? 22.5 Er ekki vonska þín mikil og misgjörðir þínar óþrjótandi? 22.6 Því að þú tókst veð af bræðrum þínum að ástæðulausu og færðir fáklædda menn úr flíkum þeirra. 22.7 Þú gafst ekki hinum örmagna vatn að drekka, og hinum hungraða synjaðir þú brauðs. 22.8 En hinn voldugi átti landið, og virðingarmaðurinn bjó í því. 22.9 Ekkjur lést þú fara burt tómhentar, og armleggir munaðarleysingjanna voru brotnir sundur. 22.10 Fyrir því eru snörur allt í kringum þig, og fyrir því skelfir ótti þig skyndilega! 22.11 Eða sér þú ekki myrkrið og vatnaflauminn, sem hylur þig? 22.12 Er ekki Guð himinhár? og lít þú á hvirfil stjarnanna, hve hátt þær gnæfa! 22.13 Og þú segir: 'Hvað veit Guð? Getur hann dæmt gegnum skýsortann? 22.14 Skýin skyggja á hann, svo að hann sér ekki, og hann gengur á himinhvelfingunni.' 22.15 Ætlar þú að halda fortíðar leið, þá er ranglátir menn hafa farið? 22.16 Þeir er kippt var burt fyrir tímann og grundvöllur þeirra skolaðist burt sem straumur, 22.17 þeir er sögðu við Guð: 'Vík frá oss! og hvað gæti hinn Almáttki gjört fyrir oss?' 22.18 og það þó hann fyllti hús þeirra blessun. _ Hugarfar óguðlegra sé fjarri mér! 22.19 Hinir réttlátu sjá það og gleðjast, og hinn saklausi gjörir gys að þeim: 22.20 'Vissulega er andstæðingur vor að engu orðinn, og eldurinn hefir eytt leifum þeirra.' 22.21 Vingast þú við Guð, þá muntu vera í friði, við það mun blessun yfir þig koma. 22.22 Tak á móti kenning af munni hans, og fest þér orð hans í hjarta. 22.23 Ef þú snýr þér til hins Almáttka, auðmýkir þig, ef þú rekur ranglætið langt burt frá tjaldi þínu _ 22.24 já, varpaðu gullinu í duftið og skíragullinu ofan í lækjamölina! _ 22.25 þá skal hinn Almáttki vera gull þitt, vera þér hið skærasta silfur. 22.26 Já, þá munt þú hafa yndi af hinum Almáttka og lyfta augliti þínu til Guðs. 22.27 Biðjir þú til hans, bænheyrir hann þig, og heit þín munt þú greiða. 22.28 Og áformir þú eitthvað, mun þér heppnast það, og birta skína yfir vegu þína. 22.29 Þegar þeir liggja niður á við, þá kallar þú 'Upp á við!' og hinum auðmjúka hjálpar hann. 22.30 Hann bjargar jafnvel þeim, sem ekki er saklaus, já, hann bjargast fyrir hreinleik handa þinna.
23.1 Þá svaraði Job og sagði: 23.2 Enn sem fyrr munu kveinstafir mínir verða taldir uppreisn, hönd Guðs hvílir þungt á andvörpum mínum. 23.3 Ég vildi að ég vissi, hvernig ég ætti að finna hann, hvernig ég gæti komist fram fyrir dómstól hans! 23.4 Þá mundi ég útskýra málið fyrir honum og fylla munn minn sönnunum. 23.5 Ég mundi fá að vita, hverju hann svaraði mér, og heyra hvað hann segði við mig. 23.6 Mundi hann deila við mig í mikilleik máttar síns? Nei, hann mundi veita mér óskipta athygli. 23.7 Þá mundi hreinskilinn maður þreyta málsókn við hann, og ég mundi að eilífu losna við dómara minn. 23.8 En fari ég í austur, þá er hann þar ekki, og í vestur, þar verð ég hans eigi var. 23.9 Þótt hann hafist að í norðri, þá sé ég hann ekki, og sveigi hann á leið til suðurs, fæ ég ekki litið hann. 23.10 En hann veit, hvernig breytni mín hefir verið, ef hann prófaði mig, mundi ég reynast sem gull. 23.11 Fótur minn hefir þrætt spor hans, ég hefi haldið veg hans og eigi hneigt af leið. 23.12 Frá skipun vara hans hefi ég ekki vikið, hefi varðveitt í brjósti mér orð munns hans. 23.13 En hann er samur við sig _ hver aftrar honum? Ef hann girnist eitthvað, gjörir hann það. 23.14 Já, hann framkvæmir það, er hann hefir ætlað mér, og mörgu slíku býr hann yfir. 23.15 Þess vegna skelfist ég auglit hans. Hugleiði ég það, hræðist ég hann. 23.16 Já, Guð hefir gjört mig hugdeigan, og hinn Almáttki skotið mér skelk í bringu. 23.17 Því að það er ekki vegna ógæfunnar, að ég stend örþrota, né vegna sjálfs mín, þótt niðdimman hylji mig.
24.1 Hvers vegna eru ekki hegningartímar geymdir af hinum Almáttka, 24.2 og hví sjá þeir ekki daga hans, sem á hann trúa? Menn færa landamerki úr stað, ræna hjörðum og halda þeim á beit. 24.3 Asna munaðarleysingjanna reka menn burt og taka uxa ekkjunnar að veði. 24.4 Þeir hrinda hinum fátæku út af veginum, hinir bágstöddu í landinu verða allir að fela sig. 24.5 Já, sem skógarasnar á öræfum ganga þeir út til starfa sinna, leitandi að fæðu, eyðimörkin veitir þeim brauð handa börnunum. 24.6 Á akrinum uppskera þeir fóður sitt og fara í eftirleit í víngarði hins óguðlega. 24.7 Naktir liggja þeir um nætur, klæðlausir, og hafa enga ábreiðu í kuldanum. 24.8 Þeir eru gagndrepa af fjallaskúrunum, og hælislausir faðma þeir klettinn. 24.9 Menn slíta föðurleysingjana af brjóstinu og taka veð af hinum bágstöddu. 24.10 Naktir ganga þeir, klæðlausir, og hungraðir bera þeir kornbundin. 24.11 Í olífugörðum annarra pressa þeir olíu, troða vínlagarþrór og kveljast af þorsta. 24.12 Úr borgunum heyrast stunur deyjandi manna, sálir hinna drepnu hrópa á hefnd, en Guð gefur ekki gaum að óhæfunni. 24.13 Slíkir menn eru ljósfjendur orðnir, þeir þekkja ekki vegu hans og halda sig ekki á stigum hans. 24.14 Með morgunsárinu fer morðinginn á fætur og drepur hinn volaða og snauða, og á nóttunni læðist þjófurinn. 24.15 Og auga hórkarlsins bíður eftir rökkrinu, og hann segir: 'Ekkert auga sér mig,' og dregur skýlu fyrir andlitið. 24.16 Í myrkrinu brjótast þeir inn í hús, á daginn loka þeir sig inni, þeir þekkja ekki ljósið. 24.17 Því að öllum er þeim niðamyrkrið morgunn, því að þeir eru nákunnugir skelfingum niðamyrkursins. 24.18 Fljótt berst hann burt með straumnum, bölvaður verður erfðahluti hans í landinu, hann snýr eigi framar á leið til víngarðanna. 24.19 Þurrkur og hiti hrífa snjóvatnið burt, Hel þann, er svo hefir syndgað. 24.20 Móðurskautið gleymir honum, ormarnir gæða sér á honum. Hans er eigi framar minnst, og ranglætið verður brotið sundur eins og tré, 24.21 hann sem rændi óbyrjuna, er ekki fæddi, og enga velgjörð sýndi ekkjunni. 24.22 En Guð heldur samt hinum volduga við með mætti sínum, slíkur maður rís aftur upp, þótt hann væri tekinn að örvænta um lífið. 24.23 Guð veitir honum að lifa óhultur, og hann er studdur, og augu hans vaka yfir vegum hans. 24.24 Hátt standa þeir, en eftir stundarkorn eru þeir horfnir. Þeir hníga, þeir eru hrifnir burt eins og allir aðrir og sviðnir af eins og höfuð kornaxins. 24.25 Og ef það er eigi svo, _ hver vill þá sanna, að ég sé lygari, og gjöra ræðu mína að engu?
25.1 Þá svaraði Bildad frá Súa og sagði: 25.2 Hans er drottinvald og ótti, hans sem lætur frið ríkja í hæðum sínum. 25.3 Verður tölu komið á hersveitir hans, og yfir hverjum rennur ekki upp ljós hans? 25.4 Hvernig ætti maðurinn þá að vera réttlátur hjá Guði, og hvernig ætti sá að vera hreinn, sem af konu er fæddur? 25.5 Sjá, jafnvel tunglið, það er ekki bjart, og stjörnurnar eru ekki hreinar í augum hans, 25.6 hvað þá maðurinn, maðkurinn, og mannssonurinn, ormurinn!
26.1 Þá svaraði Job og sagði: 26.2 En hvað þú hefir hjálpað hinum þróttlausa, stutt hinn máttvana armlegg! 26.3 En hvað þú hefir ráðið hinum óvitra og kunngjört mikla speki! 26.4 Fyrir hverjum hefir þú flutt ræðu þína, og hvers andi var það, sem gekk fram úr þér? 26.5 Andar hinna framliðnu í undirdjúpunum skelfast ásamt vötnunum og íbúum þeirra. 26.6 Naktir liggja undirheimar fyrir Guði og undirdjúpin skýlulaus. 26.7 Hann þenur norðrið út yfir auðninni og lætur jörðina svífa í tómum geimnum, 26.8 hann bindur vatnið saman í skýjum sínum, og þó brestur skýflókinn ekki undir því, 26.9 hann byrgir fyrir ásjónu hásætis síns með því að breiða ský sitt yfir hana. 26.10 Marklínu hefir hann dregið hringinn í kring á haffletinum, þar sem mætast ljós og myrkur. 26.11 Stoðir himinsins nötra og hræðast ógnun hans. 26.12 Með mætti sínum æsir hann hafið, og með hyggindum sínum sundurmolar hann hafdrekann. 26.13 Fyrir andgusti hans verður himinninn heiður, hönd hans leggur í gegn hinn flughraða dreka. 26.14 Sjá, þetta eru aðeins ystu takmörk vega hans, og hversu lágt hvísl er það, sem vér heyrum! En þrumu máttarverka hans _ hver skilur hana?
27.1 Og Job hélt áfram að flytja ræðu sína og mælti: 27.2 Svo sannarlega sem Guð lifir, sá er svipt hefir mig rétti mínum, og hinn Almáttki, er hryggt hefir sálu mína: 27.3 meðan lífsönd er í mér og andi Guðs í nösum mínum, 27.4 skulu varir mínar ekki tala ranglæti og tunga mín ekki mæla svik. 27.5 Fjarri sé mér að játa, að þér hafið rétt að mæla. Þar til er ég gef upp andann, læt ég ekki taka frá mér sakleysi mitt. 27.6 Ég held fast í réttlæti mitt og sleppi því ekki, hjarta mitt átelur mig ekki fyrir neinn daga minna. 27.7 Fyrir óvini mínum fari eins og hinum óguðlega og fyrir mótstöðumanni mínum eins og hinum rangláta. 27.8 Því að hvaða von hefir guðlaus maður, þegar skorið er á þráðinn, þá er Guð hrífur burt líf hans? 27.9 Ætli Guð heyri óp hans, þá er neyð kemur yfir hann? 27.10 Eða getur hann haft yndi af hinum Almáttka, hrópað til Guðs, hvenær sem vera skal? 27.11 Ég vil fræða yður um hönd Guðs, eigi leyna því, er hinn Almáttki hefir í hyggju. 27.12 Sjá, þér hafið allir séð það sjálfir, hví farið þér þá með slíka heimsku? 27.13 Þetta er hlutskipti óguðlegs manns hjá Guði, arfleifð ofbeldismanns, sú er hann fær frá hinum Almáttka: 27.14 Eignist hann mörg börn, þá er það handa sverðinu, og afkvæmi hans mettast eigi af brauði. 27.15 Þeir af fólki hans er af komast, verða jarðaðir af drepsóttinni, og ekkjur þeirra halda engan harmagrát. 27.16 Þegar hann hrúgar saman silfri eins og sandi og hleður saman klæðum sem leir, 27.17 þá hleður hann þeim saman, en hinn réttláti klæðist þeim, og silfrinu deilir hinn saklausi. 27.18 Hann hefir byggt hús sitt eins og köngulló og svo sem skála, er varðmaður reisir sér. 27.19 Ríkur leggst hann til hvíldar _ hann gjörir það eigi oftar, hann lýkur upp augunum, og þá er allt farið. 27.20 Skelfingar ná honum eins og vatnaflaumur, um nótt hrífur stormurinn hann burt. 27.21 Austanvindurinn hefur hann á loft, svo að hann þýtur áfram, og feykir honum burt af stað hans. 27.22 Vægðarlaust sendir hann skeyti sín á hann, fyrir hendi hans flýr hann í skyndi _ 27.23 þá skella menn saman lófum yfir honum og blístra hann burt frá bústað hans.
28.1 Að sönnu á silfrið upptökustað og gullið, sem menn hreinsa, fundarstað. 28.2 Járn er tekið úr jörðu, og steinn er bræddur að eiri. 28.3 Maðurinn hefir gjört enda á myrkrinu, og til ystu takmarka rannsakar hann steinana, sem faldir eru í kolniðamyrkri. 28.4 Hann brýtur námugöng fjarri þeim, sem í dagsbirtunni búa, gleymdur mannafótum, fjarlægur mönnum hangir hann, svífur hann. 28.5 Upp úr jörðinni sprettur brauð, en niðri í henni er öllu umturnað eins og af eldi. 28.6 Safírinn finnst í grjóti jarðarinnar, og gullkorn fær sá er grefur. 28.7 Örninn þekkir eigi veginn þangað, og valsaugað sér hann ekki, 28.8 hin drembnu rándýr ganga hann eigi, ekkert ljón fer hann. 28.9 Á tinnusteinana leggur maðurinn hönd sína, umturnar fjöllunum frá rótum. 28.10 Hann heggur göng í björgin, og auga hans sér alls konar dýrindi. 28.11 Hann bindur fyrir vatnsæðarnar, til þess að þær tárist ekki, og leiðir leynda hluti fram í dagsbirtuna. 28.12 En spekin, hvar er hana að finna, og hvar á viskan heima? 28.13 Enginn maður þekkir veginn til hennar, og hana er ekki að finna á landi lifenda. 28.14 Undirdjúpið segir: 'Í mér er hún ekki!' og hafið segir: 'Ekki er hún hjá mér!' 28.15 Hún fæst ekki fyrir skíragull, og ekki verður silfur reitt sem andvirði hennar. 28.16 Eigi verður hún Ófírgulli goldin né dýrum sjóam- og safírsteinum. 28.17 Gull og gler kemst ekki til jafns við hana, og hún fæst ekki í skiptum fyrir ker af skíragulli. 28.18 Kóralla og krystalla er ekki að nefna, og að eiga spekina er meira um vert en perlur. 28.19 Tópasar Blálands komast ekki til jafns við hana, hún verður ekki goldin með hreinasta gulli. 28.20 Já spekin, hvaðan kemur hún, og hvar á viskan heima? 28.21 Hún er falin augum allra þeirra er lifa, og fuglum loftsins er hún hulin. 28.22 Undirdjúpin og dauðinn segja: 'Með eyrum vorum höfum vér heyrt hennar getið.' 28.23 Guð veit veginn til hennar, og hann þekkir heimkynni hennar. 28.24 Því að hann sér til endimarka jarðar, lítur allt, sem undir himninum er. 28.25 Þá er hann ákvað þunga vindarins og ákvarðaði takmörk vatnsins, 28.26 þá er hann setti regninu lög og veg eldingunum, 28.27 þá sá hann hana og kunngjörði hana, fékk henni stað og rannsakaði hana einnig. 28.28 Og við manninn sagði hann: 'Sjá, að óttast Drottin _ það er speki, og að forðast illt _ það er viska.'
29.1 Og Job hélt áfram að flytja ræðu sína og mælti: 29.2 Ó að mér liði eins og forðum daga, eins og þá er Guð varðveitti mig, 29.3 þá er lampi hans skein yfir höfði mér, og ég gekk við ljós hans í myrkrinu, 29.4 eins og þá er ég var á sumri ævi minnar, þá er vinátta Guðs var yfir tjaldi mínu, 29.5 þá er hinn Almáttki var enn með mér og börn mín hringinn í kringum mig, 29.6 þá er ég óð í rjóma, og olífuolían rann í lækjum úr klettinum hjá mér, 29.7 þá er ég gekk út í borgarhliðið, upp í borgina, bjó mér sæti á torginu. 29.8 Þegar sveinarnir sáu mig, földu þeir sig, og öldungarnir risu úr sæti og stóðu. 29.9 Höfðingjarnir hættu að tala og lögðu hönd á munn sér. 29.10 Rödd tignarmannanna þagnaði, og tunga þeirra loddi við góminn. 29.11 Því að ef eyra heyrði, taldi það mig sælan, og ef auga sá, bar það mér vitni. 29.12 Því að ég bjargaði bágstöddum, sem hrópuðu á hjálp, og munaðarleysingjum, sem enga aðstoð áttu. 29.13 Blessunarósk aumingjans kom yfir mig, og hjarta ekkjunnar fyllti ég fögnuði. 29.14 Ég íklæddist réttlætinu, og það íklæddist mér, ráðvendni mín var mér sem skikkja og vefjarhöttur. 29.15 Ég var auga hins blinda og fótur hins halta. 29.16 Ég var faðir hinna snauðu, og málefni þess, sem ég eigi þekkti, rannsakaði ég. 29.17 Ég braut jaxlana í hinum rangláta og reif bráðina úr tönnum hans. 29.18 Þá hugsaði ég: 'Í hreiðri mínu mun ég gefa upp andann og lifa langa ævi, eins og Fönix-fuglinn. 29.19 Rót mín er opin fyrir vatninu, og döggin hefir náttstað á greinum mínum. 29.20 Heiður minn er æ nýr hjá mér, og bogi minn yngist upp í hendi minni.' 29.21 Þeir hlustuðu á mig og biðu og hlýddu þegjandi á tillögu mína. 29.22 Þá er ég hafði talað, tóku þeir eigi aftur til máls, og ræða mín draup niður á þá. 29.23 Þeir biðu mín eins og regns, og opnuðu munn sinn, eins og von væri á vorskúr. 29.24 Ég brosti til þeirra, þegar þeim féllst hugur, og ljós auglitis míns gjörðu þeir aldrei dapurt. 29.25 Fús lagði ég leið til þeirra og sat þar efstur, sat þar sem konungur umkringdur af hersveit sinni, eins og huggari harmþrunginna.
30.1 En nú hlæja þeir að mér, sem yngri eru en ég, mundi ég þó ekki hafa virt feður þeirra þess að setja þá hjá fjárhundum mínum. 30.2 Hvað hefði og kraftur handa þeirra stoðað mig, þar sem þeir aldrei verða fullþroska? 30.3 Þeir eru örmagna af skorti og hungri, naga þurrt landið, sem í gær var auðn og eyðimörk. 30.4 Þeir reyta hrímblöðku hjá runnunum, og gýfilrætur er fæða þeirra. 30.5 Þeir eru flæmdir úr félagi manna, menn æpa að þeim eins og að þjóf, 30.6 svo að þeir verða að hafast við í hræðilegum gjám, í jarðholum og berghellum. 30.7 Milli runnanna rymja þeir, og undir netlunum safnast þeir saman, 30.8 guðlaust og ærulaust kyn, útreknir úr landinu. 30.9 Og nú er ég orðinn þeim að háðkvæði og orðinn umtalsefni þeirra. 30.10 Þeir hafa andstyggð á mér, koma ekki nærri mér og hlífast jafnvel ekki við að hrækja framan í mig. 30.11 Þar sem Guð hefir leyst streng sinn og beygt mig, þá sleppa þeir og beislinu fram af sér gagnvart mér. 30.12 Mér til hægri handar vex hyski þeirra upp, fótum mínum hrinda þeir frá sér og leggja glötunarbrautir sínar gegn mér. 30.13 Þeir hafa rifið upp stig minn, að falli mínu styðja þeir, sem engan hjálparmann eiga. 30.14 Þeir koma sem inn um vítt múrskarð, velta sér áfram innan um rústir. 30.15 Skelfingar hafa snúist móti mér, tign mín er ofsótt eins og af stormi, og gæfa mín er horfin eins og ský. 30.16 Og nú rennur sála mín sundur í tárum, eymdardagar halda mér föstum. 30.17 Nóttin nístir bein mín, svo að þau losna frá mér, og hinar nagandi kvalir mínar hvílast ekki. 30.18 Fyrir mikilleik máttar hans er klæðnaður minn aflagaður, hann lykur fast um mig, eins og hálsmál kyrtils míns. 30.19 Guð hefir kastað mér ofan í saurinn, svo að ég er orðinn eins og mold og aska. 30.20 Ég hrópa til þín, en þú svarar ekki, ég stend þarna, en þú starir á mig. 30.21 Þú ert orðinn grimmur við mig, með krafti handar þinnar ofsækir þú mig. 30.22 Þú lyftir mér upp á vindinn, lætur mig þeytast áfram, og þú lætur mig farast í stormgný. 30.23 Því að ég veit, að þú vilt leiða mig til Heljar, í samkomustað allra þeirra er lifa. 30.24 En _ rétta menn ekki út höndina, þegar allt hrynur? eða hrópa menn ekki á hjálp, þegar þeir eru að farast? 30.25 Eða grét ég ekki yfir þeim, sem átti illa daga, og hryggðist ekki sál mín vegna fátæklingsins? 30.26 Já, ég bjóst við góðu, en þá kom illt, vænti ljóss, en þá kom myrkur. 30.27 Það sýður í innýflum mínum án afláts, eymdardagar eru yfir mig komnir. 30.28 Svartur geng ég um, þó ekki af sólarhita, ég stend upp, í söfnuðinum hrópa ég á hjálp. 30.29 Ég er orðinn bróðir sjakalanna og félagi strútsfuglanna. 30.30 Hörund mitt er orðið svart og flagnar af mér, og bein mín eru brunnin af hita. 30.31 Og fyrir því varð gígja mín að gráti og hjarðpípa mín að harmakveini.
31.1 Ég hafði gjört sáttmála við augu mín; hvernig hefði ég þá átt að líta til yngismeyjar? 31.2 Og hvert væri þá hlutskiptið frá Guði hér að ofan og arfleifðin frá hinum Almáttka af hæðum? 31.3 Er það ekki glötun fyrir glæpamanninn og ógæfa fyrir þá, er illt fremja? 31.4 Sér hann ekki vegu mína, og telur hann ekki öll mín spor? 31.5 Hafi ég gengið með lyginni og fótur minn hraðað sér til svika _ 31.6 vegi Guð mig á rétta vog, til þess að hann viðurkenni sakleysi mitt! _ 31.7 hafi spor mín vikið af leið, hjarta mitt farið eftir fýsn augna minna og flekkur loðað við hendur mínar, 31.8 þá eti annar það, sem ég sái, og frjóangar mínir verði rifnir upp með rótum. 31.9 Hafi hjarta mitt látið ginnast vegna einhverrar konu, og hafi ég staðið á hleri við dyr náunga míns, 31.10 þá mali kona mín fyrir annan, og aðrir menn leggist með henni. 31.11 Því að slíkt væri óhæfa og glæpur, sem dómurum ber að hegna fyrir, 31.12 því að það væri eldur, sem eyðir ofan í undirdjúpin og hlyti að uppræta allar eigur mínar. 31.13 Hafi ég lítilsvirt rétt þjóns míns eða þernu minnar, þá er þau áttu í deilu við mig, 31.14 hvað ætti ég þá að gjöra, þegar Guð risi upp, og hverju svara honum, þegar hann rannsakaði? 31.15 Hefir eigi sá er mig skóp, skapað þjón minn í móðurlífi, og hefir ekki hinn sami myndað okkur í móðurkviði? 31.16 Hafi ég synjað fátækum bónar og látið augu ekkjunnar daprast, 31.17 hafi ég etið bitann minn einn; og munaðarleysinginn ekkert fengið af honum _ 31.18 nei, frá barnæsku minni hefir hann vaxið upp hjá mér sem hjá föður og frá móðurlífi hefi ég leitt hann _ 31.19 hafi ég séð aumingja klæðlausan og snauðan mann ábreiðulausan, 31.20 hafi lendar hans ekki blessað mig og hafi honum ekki hitnað við ullina af sauðum mínum; 31.21 hafi ég reitt hnefann að munaðarleysingjanum, af því að ég sá mér liðsvon í borgarhliðinu, 31.22 þá detti axlir mínar frá herðunum og handleggur minn brotni úr axlarliðnum. 31.23 Því að glötunin frá Guði var mér skelfileg, og gegn hátign hans megna ég ekkert. 31.24 Hafi ég gjört gullið að athvarfi mínu og nefnt skíragullið fulltrúa minn, 31.25 hafi ég glaðst yfir því, að auður minn var mikill og að hönd mín aflaði svo ríkulega, 31.26 hafi ég horft á sólina, hversu hún skein, og á tunglið, hversu dýrlega það óð áfram, 31.27 og hafi hjarta mitt þá látið tælast í leynum, svo að ég bæri hönd að munni og kyssti hana, 31.28 það hefði líka verið hegningarverð synd, því að þá hefði ég afneitað Guði á hæðum. 31.29 Hafi ég glaðst yfir óförum fjandmanns míns og hlakkað yfir því, að ógæfa kom yfir hann _ 31.30 nei, aldrei hefi ég leyft munni mínum svo að syndga að ég með formælingum óskaði dauða hans. 31.31 Hafa ekki heimilismenn mínir sagt: 'Hvenær hefir nokkur farið ósaddur frá borði hans?' 31.32 ég lét ekki aðkomumann nátta á bersvæði, heldur opnaði ég dyr mínar fyrir ferðamanninum. 31.33 Hafi ég hulið yfirsjónir mínar, eins og menn gjöra, og falið misgjörð mína í brjósti mínu, 31.34 af því að ég hræddist mannfjöldann, og af því að fyrirlitning ættanna fældi mig, svo að ég hafði hægt um mig og fór ekki út fyrir dyr, 31.35 Ó að ég hefði þann, er hlusta vildi á mig! Hér er undirskrift mín _ hinn Almáttki svari mér! Sá sem mig ákærir, skrifi sitt ákæruskjal! 31.36 Vissulega skyldi ég bera það á öxlinni, binda það sem höfuðsveig um ennið, 31.37 ég skyldi segja Guði frá hverju spori mínu og ganga sem höfðingi fram fyrir hann! Hér enda ræður Jobs. 31.38 hafi akurland mitt hrópað undan mér og öll plógför þess grátið, 31.39 hafi ég etið gróður þess endurgjaldslaust og slökkt líf eiganda þess, 31.40 þá spretti þyrnar upp í stað hveitis og illgresi í stað byggs.
32.1 Og þessir þrír menn hættu að svara Job, því að hann þóttist vera réttlátur. 32.2 Þá upptendraðist reiði Elíhú Barakelssonar Búsíta af Rams kynstofni. Upptendraðist reiði hans gegn Job, af því að hann taldi sig hafa á réttu að standa gagnvart Guði. 32.3 Reiði hans upptendraðist og gegn vinum hans þremur, fyrir það að þeir fundu engin andsvör til þess að sanna Job, að hann hefði á röngu að standa. 32.4 En Elíhú hafði beðið með að mæla til Jobs, því að hinir voru eldri en hann. 32.5 En er Elíhú sá, að mennirnir þrír gátu engu svarað, upptendraðist reiði hans. 32.6 Þá tók Elíhú Barakelsson Búsíti til máls og sagði: Ég er ungur að aldri, en þér eruð öldungar, þess vegna fyrirvarð ég mig og kom mér eigi að því að kunngjöra yður það, sem ég veit. 32.7 Ég hugsaði: Aldurinn tali, og árafjöldinn kunngjöri speki! 32.8 En _ það er andinn í manninum og andblástur hins Almáttka, sem gjörir þá vitra. 32.9 Elstu mennirnir eru ekki ávallt vitrastir, og öldungarnir skynja eigi, hvað réttast er. 32.10 Fyrir því segi ég: Hlýð á mig, nú ætla einnig ég að kunngjöra það, sem ég veit. 32.11 Sjá, ég beið eftir ræðum yðar, hlustaði á röksemdir yðar, uns þér fynduð orðin, sem við ættu. 32.12 Og að yður gaf ég gaum, en sjá, enginn sannfærði Job, enginn yðar hrakti orð hans. 32.13 Segið ekki: 'Vér höfum hitt fyrir speki, Guð einn fær sigrað hann, en enginn maður!' 32.14 Gegn mér hefir hann ekki sett fram neinar sannanir, og með yðar orðum ætla ég ekki að svara honum. 32.15 Þeir eru skelkaðir, svara eigi framar, þeir standa uppi orðlausir. 32.16 Og ætti ég að bíða, þar sem þeir þegja, þar sem þeir standa og svara eigi framar? 32.17 Ég vil og svara af minni hálfu, ég vil og kunngjöra það, sem ég veit. 32.18 Því að ég er fullur af orðum, andinn í brjósti mínu knýr mig. 32.19 Sjá, brjóst mitt er sem vín, er ekki fær útrás, ætlar að rifna, eins og nýfylltir belgir. 32.20 Ég ætla að tala til þess að létta á mér, ætla að opna varir mínar og svara. 32.21 Ég ætla ekki að draga taum neins, og ég ætla engan að skjalla. 32.22 Því að ég kann ekki að skjalla, ella kynni skapari minn bráðlega að kippa mér burt.
33.1 En heyr þú, Job, ræðu mína, og hlýð þú á öll orð mín. 33.2 Sjá, ég opna munn minn, og tunga mín talar í gómi mínum. 33.3 Orð mín eru hjartans hreinskilni, og það sem varir mínar vita, mæla þær í einlægni. 33.4 Andi Guðs hefir skapað mig, og andblástur hins Almáttka gefur mér líf. 33.5 Ef þú getur, þá svara þú mér, bú þig út í móti mér og gakk fram. 33.6 Sjá, ég stend eins og þú gagnvart Guði, ég er og myndaður af leiri. 33.7 Sjá, hræðsla við mig þarf eigi að skelfa þig og þungi minn eigi þrýsta þér niður. 33.8 En þú hefir sagt í eyru mér, og ég heyrði hljóm orðanna: 33.9 'Hreinn er ég, laus við afbrot, saklaus er ég, og hjá mér er engin misgjörð. 33.10 En Guð reynir að finna tilefni til fjandskapar við mig og ætlar að ég sé óvinur hans. 33.11 Hann setur fætur mína í stokk og aðgætir alla vegu mína.' 33.12 Sjá, í þessu hefir þú rangt fyrir þér, svara ég þér, því að Guð er meiri en maður. 33.13 Hví hefir þú þráttað við hann, að hann svaraði engu öllum orðum þínum? 33.14 Því að vissulega talar Guð einu sinni, já, tvisvar, en menn gefa því ekki gaum. 33.15 Í draumi, í nætursýn, þá er þungur svefnhöfgi er fallinn yfir mennina, í blundi á hvílubeði, 33.16 opnar hann eyru mannanna og innsiglar viðvörunina til þeirra 33.17 til þess að fá manninn til þess að láta af gjörðum sínum og forða manninum við drambsemi. 33.18 Hann hlífir sálu hans við gröfinni og lífi hans frá því að farast fyrir skotvopni. 33.19 Maðurinn er og agaður með kvölum á sæng sinni, og stríðið geisar stöðuglega í beinum hans. 33.20 Þá vekur lífshvötin óbeit hjá honum á brauðinu og sál hans á uppáhaldsfæðunni. 33.21 Hold hans eyðist og verður óásjálegt, og beinin, sem sáust ekki áður, verða ber, 33.22 svo að sál hans nálgast gröfina og líf hans engla dauðans. 33.23 En ef þar er hjá honum árnaðarengill, talsmaður, einn af þúsund til þess að boða manninum skyldu hans, 33.24 og miskunni hann sig yfir hann og segi: 'Endurleys hann og lát hann eigi stíga niður í gröfina, ég hefi fundið lausnargjaldið,' 33.25 þá svellur hold hans af æskuþrótti, hann snýr aftur til æskudaga sinna. 33.26 Hann biður til Guðs, og Guð miskunnar honum, lætur hann líta auglit sitt með fögnuði og veitir manninum aftur réttlæti hans. 33.27 Hann syngur frammi fyrir mönnum og segir: 'Ég hafði syndgað og gjört hið beina bogið, og þó var mér ekki goldið líku líkt. 33.28 Guð hefir leyst sálu mína frá því að fara ofan í gröfina, og líf mitt gleður sig við ljósið.' 33.29 Sjá, allt þetta gjörir Guð tvisvar eða þrisvar við manninn 33.30 til þess að hrífa sál hans frá gröfinni, til þess að lífsins ljós megi leika um hann. 33.31 Hlýð á, Job, heyr þú mig, ver þú hljóður og lát mig tala. 33.32 Hafir þú eitthvað að segja, þá svara mér, tala þú, því að gjarnan vildi ég, að þú reyndist réttlátur. 33.33 Ef svo er eigi þá heyr þú mig, ver hljóður, að ég megi kenna þér speki.
34.1 Og Elíhú tók aftur til máls og sagði: 34.2 Heyrið, þér vitrir menn, orð mín, og þér fróðir menn, hlustið á mig. 34.3 Því að eyrað prófar orðin, eins og gómurinn smakkar matinn. 34.4 Vér skulum rannsaka, hvað rétt er, komast að því hver með öðrum, hvað gott er. 34.5 Því að Job hefir sagt: 'Ég er saklaus, en Guð hefir svipt mig rétti mínum. 34.6 Þótt ég hafi rétt fyrir mér, stend ég sem lygari, banvæn ör hefir hitt mig, þótt ég hafi í engu brotið.' 34.7 Hvaða maður er eins og Job, sem drekkur guðlast eins og vatn 34.8 og gefur sig í félagsskap við þá, sem illt fremja, og er í fylgi við óguðlega menn? 34.9 Því að hann hefir sagt: 'Maðurinn hefir ekkert gagn af því að vera í vinfengi við Guð.' 34.10 Fyrir því, skynsamir menn, heyrið mig! Fjarri fer því, að Guð aðhafist illt og hinn Almáttki fremji ranglæti. 34.11 Nei, hann geldur manninum verk hans og lætur manninum farnast eftir breytni hans. 34.12 Já, vissulega fremur Guð ekki ranglæti, og hinn Almáttki hallar ekki réttinum. 34.13 Hver hefir fengið honum jörðina til varðveislu, og hver hefir grundvallað allan heiminn? 34.14 Ef hann hugsaði aðeins um sjálfan sig, ef hann drægi til sín anda sinn og andardrátt, 34.15 þá mundi allt hold gefa upp andann og maðurinn aftur verða að dufti. 34.16 Hafir þú vit, þá heyr þú þetta, hlusta þú á hljóm orða minna. 34.17 Getur sá stjórnað, sem hatar réttinn? Eða vilt þú dæma hinn réttláta, volduga? 34.18 þann sem segir við konunginn: 'Þú varmenni!' við tignarmanninn: 'Þú níðingur!' 34.19 sem ekki dregur taum höfðingjanna og gjörir ekki ríkum hærra undir höfði en fátækum, því að handaverk hans eru þeir allir. 34.20 Skyndilega deyja þeir, og það um miðja nótt, fólkið verður skelkað, og þeir hverfa, og hinn sterki er hrifinn burt, en eigi af manns hendi. 34.21 Því að augu Guðs hvíla yfir vegum hvers manns, og hann sér öll spor hans. 34.22 Ekkert það myrkur er til eða sú niðdimma, að illgjörðamenn geti falið sig þar. 34.23 Því að Guð þarf ekki fyrst að gefa manni gaum, til þess að hann komi fyrir dóm hans. 34.24 Hann brýtur hina voldugu sundur rannsóknarlaust og setur aðra í þeirra stað. 34.25 Þannig þekkir hann verk þeirra og steypir þeim um nótt, og þeir verða marðir sundur. 34.26 Hann hirtir þá sem misgjörðamenn í augsýn allra manna, 34.27 vegna þess að þeir hafa frá honum vikið og vanrækt alla vegu hans 34.28 og látið kvein hins fátæka berast til hans, en hann heyrði kvein hinna voluðu. 34.29 Haldi hann kyrru fyrir, hver vill þá sakfella hann? og byrgi hann auglitið, hver fær þá séð hann? Þó vakir hann yfir þjóð og einstaklingi, 34.30 til þess að guðlausir menn skuli ekki drottna, til þess að þeir séu ekki snörur lýðsins. 34.31 Því að segir nokkur við Guð: 'Mér hefir verið hegnt og breyti þó ekki illa. 34.32 Kenn þú mér það, sem ég sé ekki. Hafi ég framið ranglæti, skal ég eigi gjöra það framar'? 34.33 Á hann að endurgjalda eftir geðþótta þínum, af því að þú hafnar? því að þú átt að velja, en ekki ég. Og seg nú fram það, er þú veist! 34.34 Skynsamir menn munu segja við mig, og vitur maður, sem á mig hlýðir: 34.35 'Job talar ekki hyggilega, og orð hans eru ekki skynsamleg.' 34.36 Ó að Job mætti reyndur verða æ að nýju, af því að hann svarar eins og illir menn svara. 34.37 Því að hann bætir misgjörð ofan á synd sína, hann klappar saman höndunum framan í oss og heldur langar ræður móti Guði.
35.1 Og Elíhú tók enn til máls og sagði: 35.2 Hyggur þú það vera rétt, kallar þú það 'réttlæti mitt fyrir Guði,' 35.3 að þú spyr, hvað það stoði þig? 'Hvaða gagn hefi ég af því, fremur en ef ég syndgaði?' 35.4 Ég ætla að veita þér andsvör í móti og vinum þínum með þér. 35.5 Horf þú á himininn og sjá, virtu fyrir þér skýin, sem eru hátt yfir þér. 35.6 Syndgir þú, hvað getur þú gjört honum? Og séu afbrot þín mörg, hvaða skaða gjörir þú honum? 35.7 Sért þú ráðvandur, hvað gefur þú honum, eða hvað þiggur hann af þinni hendi? 35.8 Mann, eins og þig, varðar misgjörð þín og mannsins barn ráðvendni þín. 35.9 Menn æpa að sönnu undan hinni margvíslegu kúgan, kveina undan armlegg hinna voldugu, 35.10 en enginn þeirra segir: 'Hvar er Guð, skapari minn, sá er leiðir fram lofsöngva um nótt, 35.11 sem fræðir oss meira en dýr merkurinnar og gjörir oss vitrari en fugla loftsins?' 35.12 Þá æpa menn _ en hann svarar ekki _ undan drambsemi hinna vondu. 35.13 Nei, hégómamál heyrir Guð eigi, og hinn Almáttki gefur því engan gaum, 35.14 hvað þá, er þú segir, að þú sjáir hann ekki. Málið er lagt fram fyrir hann, og þú átt að bíða eftir honum. 35.15 En nú, af því að reiði hans hefir eigi refsað, á hann alls eigi að hafa vitað neitt um yfirsjónina! 35.16 En Job opnar munninn til að mæla hégóma, heldur langar ræður í vanhyggju sinni.
36.1 Og Elíhú hélt áfram og sagði: 36.2 Haf þolinmæði við mig enn stutta stund, að ég megi fræða þig, því að enn má margt segja Guði til varnar. 36.3 Ég ætla að sækja þekking mína langar leiðir og sanna, að skapari minn hafi á réttu að standa. 36.4 Því að vissulega fer ég eigi með ósannindi, maður með fullkominni þekking stendur frammi fyrir þér. 36.5 Sjá, Guð er voldugur, þó fyrirlítur hann engan, voldugur að andans krafti. 36.6 Hann viðheldur ekki lífi hins óguðlega, en veitir hinum voluðu rétt þeirra. 36.7 Hann hefir ekki augun af hinum réttláta, og hjá konungum í hásætinu lætur hann þá sitja að eilífu, til þess að þeir séu hátt upp hafnir. 36.8 Og þótt þeir verði viðjum reyrðir, veiddir í snörur eymdarinnar, 36.9 og hann setur þeim fyrir sjónir gjörðir þeirra og afbrot þeirra að þeir breyttu drambsamlega, 36.10 og hann opnar eyru þeirra fyrir umvönduninni og segir að þeir skuli snúa sér frá ranglæti, _ 36.11 ef þeir þá hlýða og þjóna honum, þá eyða þeir dögum sínum í velgengni og árum sínum í unaði. 36.12 En hlýði þeir ekki, þá farast þeir fyrir skotvopnum, gefa upp andann í vanhyggju sinni. 36.13 Því að vonskufullir í hjarta ala þeir með sér reiði, hrópa eigi á hjálp, þegar hann fjötrar þá. 36.14 Önd þeirra deyr í æskublóma og líf þeirra eins og hórsveina. 36.15 En hann frelsar hinn bágstadda með bágindum hans og opnar eyru þeirra með þrengingunni. 36.16 Einnig þig ginnir hann út úr gini neyðarinnar út á víðlendi, þar sem engin þrengsli eru, og það sem kemur á borð þitt, er fullt af feiti. 36.17 En ef þú vinnur til dóms hins óguðlega, þá munu dómur og réttur hremma þig. 36.18 Lát því eigi reiðina ginna þig til spotts, og lát eigi stærð lausnargjaldsins tæla þig. 36.19 Mun hróp þitt koma þér úr nauðunum eða nokkur áreynsla krafta þinna? 36.20 Þráðu eigi nóttina, þá er þjóðir sópast burt af stöðvum sínum. 36.21 Gæt þín, snú þér eigi að ranglæti, því að það kýst þú heldur en að líða. 36.22 Sjá, Guð er háleitur í framkvæmdum máttar síns, hver er slíkur kennari sem hann? 36.23 Hver hefir fyrirskipað honum veg hans, og hver dirfist að segja: 'Þú hefir gjört rangt'? 36.24 Minnstu þess, að þú vegsamir verk hans, það er mennirnir syngja um lofkvæði. 36.25 Allir menn horfa með fögnuði á það, dauðlegur maðurinn lítur það úr fjarska. 36.26 Já, Guð er mikill og vér þekkjum hann ekki, tala ára hans órannsakanleg. 36.27 Því að hann dregur upp vatnsdropana og lætur ýra úr þoku sinni, 36.28 regnið, sem skýin láta niður streyma, drjúpa yfir marga menn. 36.29 Og hver skilur útbreiðslu skýjanna og dunurnar í tjaldi hans? 36.30 Sjá, hann breiðir ljós sitt út kringum sig og hylur djúp hafsins. 36.31 Því að með því dæmir hann þjóðirnar, með því veitir hann fæðu í ríkum mæli. 36.32 Hendur sínar hylur hann ljósi og býður því út gegn fjandmanni sínum. 36.33 Þruma hans boðar komu hans, hans sem lætur reiði sína geisa gegn ranglætinu.
37.1 Já, yfir þessu titrar hjarta mitt og hrökkur upp úr stað sínum. 37.2 Heyrið, heyrið drunur raddar hans og hvininn, sem út fer af munni hans. 37.3 Undir öllum himninum lætur hann eldinguna þjóta og leiftur sitt út á jaðra jarðarinnar. 37.4 Á eftir því kemur öskrandi skrugga, hann þrumar með sinni tignarlegu raust og heldur eldingunum ekki aftur, þá er raust hans lætur til sín heyra. 37.5 Guð þrumar undursamlega með raust sinni, hann sem gjörir mikla hluti, er vér eigi skiljum. 37.6 Því að hann segir við snjóinn: 'Fall þú á jörðina,' og eins við hellirigninguna og hennar dynjandi helliskúrir. 37.7 Hann innsiglar hönd sérhvers manns, til þess að allir menn viðurkenni verk hans. 37.8 Þá fara villidýrin í fylgsni sín og hvílast í bælum sínum. 37.9 Stormurinn kemur úr forðabúrinu og kuldinn af norðanvindunum. 37.10 Fyrir andgust Guðs verður ísinn til, og víð vötnin eru lögð í læðing. 37.11 Hann hleður skýin vætu, tvístrar leifturskýi sínu víðsvegar. 37.12 En það snýst í allar áttir, eftir því sem hann leiðir það, til þess að það framkvæmi allt það er hann býður því, á yfirborði allrar jarðarinnar. 37.13 Hann lætur því ljósta niður, hvort sem það er til hirtingar eða til að vökva jörðina eða til að blessa hana. 37.14 Hlýð þú á þetta, Job, stattu kyrr og gef gaum að dásemdum Guðs. 37.15 Skilur þú, hvernig Guð felur þeim hlutverk þeirra og lætur leiftur skýja sinna skína? 37.16 Skilur þú, hvernig skýin svífa, dásemdir hans, sem fullkominn er að vísdómi, 37.17 þú, sem fötin hitna á, þá er jörðin mókir í sunnanmollu? 37.18 Þenur þú út með honum heiðhimininn, sem fastur er eins og steyptur spegill? 37.19 Kenn oss, hvað vér eigum að segja við hann! Vér megnum ekkert fram að færa fyrir myrkri. 37.20 Á að segja honum, að ég ætli að tala? Eða hefir nokkur sagt, að hann óski að verða gjöreyddur? 37.21 Og nú sjá menn að sönnu ekki ljósið, sem skín skært að skýjabaki, en vindurinn þýtur áfram og sópar skýjunum burt. 37.22 Gullið kemur úr norðri, um Guð lykur ógurlegur ljómi. 37.23 Vér náum eigi til hins Almáttka, til hans, sem er mikill að mætti. En réttinn og hið fulla réttlæti vanrækir hann ekki. 37.24 Fyrir því óttast mennirnir hann, en hann lítur ekki við neinum sjálfbirgingum.
38.1 Þá svaraði Drottinn Job úr stormviðrinu og sagði: 38.2 Hver er sá, sem myrkvar ráðsályktun Guðs með óskynsamlegum orðum? 38.3 Gyrð lendar þínar eins og maður, þá mun ég spyrja þig, og þú skalt fræða mig. 38.4 Hvar varst þú, þegar ég grundvallaði jörðina? Seg fram, ef þú hefir þekkingu til. 38.5 Hver ákvað mál hennar _ þú veist það! _ eða hver þandi mælivaðinn yfir hana? 38.6 Á hvað var stólpum hennar hleypt niður, eða hver lagði hornstein hennar, 38.7 þá er morgunstjörnurnar sungu gleðisöng allar saman og allir guðssynir fögnuðu? 38.8 Og hver byrgði hafið inni með hurðum, þá er það braust fram, gekk út af móðurkviði, 38.9 þá er ég fékk því skýin að klæðnaði og svartaþykknið að reifum? 38.10 þá er ég braut því takmörk og setti slagbranda fyrir og hurðir 38.11 og mælti: 'Hingað skaltu komast og ekki lengra, hér skulu þínar hreyknu hrannir brotna!' 38.12 Hefir þú nokkurn tíma á ævi þinni boðið út morgninum, vísað morgunroðanum á stað hans, 38.13 til þess að hann gripi í jaðar jarðarinnar og hinir óguðlegu yrðu hristir af henni? 38.14 Hún breytist eins og leir undir signeti, og allt kemur fram eins og á klæði. 38.15 Og hinir óguðlegu verða sviptir ljósinu og hinn upplyfti armleggur sundur brotinn. 38.16 Hefir þú komið að uppsprettum hafsins og gengið á botni undirdjúpsins? 38.17 Hafa hlið dauðans opnast fyrir þér og hefir þú séð hlið svartamyrkursins? 38.18 Hefir þú litið yfir breidd jarðarinnar? Seg fram, fyrst þú veist það allt saman. 38.19 Hvar er vegurinn þangað sem ljósið býr, og myrkrið _ hvar á það heima, 38.20 svo að þú gætir flutt það heim í landareign þess og þekktir göturnar heim að húsi þess? 38.21 Þú veist það, því að þá fæddist þú, og tala daga þinna er há! 38.22 Hefir þú komið til forðabúrs snjávarins og séð forðabúr haglsins, 38.23 sem ég hefi geymt til tíma neyðarinnar, til orustu- og ófriðardagsins? 38.24 Hvar er vegurinn þangað sem ljósið skiptist og austanvindurinn dreifist yfir jörðina? 38.25 Hver hefir búið til rennu fyrir steypiregnið og veg fyrir eldingarnar 38.26 til þess að láta rigna yfir mannautt land, yfir eyðimörkina, þar sem enginn býr, 38.27 til þess að metta auðnir og eyðilönd og láta grængresi spretta? 38.28 Á regnið föður eða hver hefir getið daggardropana? 38.29 Af kviði hverrar er ísinn útgenginn, og hrím himinsins _ hver fæddi það? 38.30 Vötnin þéttast eins og steinn, og yfirborð fljótsins verður samfrosta. 38.31 Getur þú þrengt sjöstirnis-böndin eða fær þú leyst fjötra Óríons? 38.32 Lætur þú stjörnumerki dýrahringsins koma fram á sínum tíma og leiðir þú Birnuna með húnum hennar? 38.33 Þekkir þú lög himinsins eða ákveður þú yfirráð hans yfir jörðunni? 38.34 Getur þú lyft raust þinni upp til skýsins, svo að vatnaflaumurinn hylji þig? 38.35 Getur þú sent eldingarnar, svo að þær fari og segi við þig: 'Hér erum vér!' 38.36 Hver hefir lagt vísdóm í hin dimmu ský eða hver hefir gefið loftsjónunum vit? 38.37 Hver telur skýin með visku, og vatnsbelgir himinsins _ hver hellir úr þeim, 38.38 þegar moldin rennur saman í kökk og hnausarnir loða hver við annan? 38.39 Veiðir þú bráðina fyrir ljónynjuna, og seður þú græðgi ungljónanna, 38.40 þá er þau kúra í bæli sínu og vaka yfir veiði í þéttum runni? 38.41 Hver býr hrafninum fæðu hans, þá er ungar hans hrópa til Guðs, flögra til og frá ætislausir?
39.1 Veist þú tímann, nær steingeiturnar bera? Gefur þú gaum að fæðingarhríðum hindanna? 39.2 Telur þú mánuðina, sem þær ganga með, og veist þú tímann, nær þær bera? 39.3 Þær leggjast á knén, fæða kálfa sína, þær losna fljótt við kvalir sínar. 39.4 Kálfar þeirra verða sterkir, vaxa í haganum, fara burt og koma ekki aftur til þeirra. 39.5 Hver hefir látið skógarasnann ganga lausan og hver hefir leyst fjötra villiasnans, 39.6 sem ég hefi gefið eyðivelli að bústað og saltsléttu að heimkynni? 39.7 Hann hlær að hávaða borgarinnar, hann heyrir ekki köll rekstrarmannsins. 39.8 Það sem hann leitar uppi á fjöllunum, er haglendi hans, og öllu því sem grænt er, sækist hann eftir. 39.9 Mun vísundurinn vera fús til að þjóna þér eða mun hann standa um nætur við stall þinn? 39.10 Getur þú bundið vísundinn með bandinu við plógfarið eða mun hann herfa dalgrundirnar á eftir þér? 39.11 Reiðir þú þig á hann, af því að kraftur hans er mikill, og trúir þú honum fyrir arði þínum? 39.12 Treystir þú honum til að flytja sáð þitt heim og til að safna því á þreskivöll þinn? 39.13 Strúthænan baðar glaðlega vængjunum, en er nokkurt ástríki í þeim vængjum og flugfjöðrum? 39.14 Nei, hún fær jörðinni egg sín og lætur þau hitna í moldinni 39.15 og gleymir, að fótur getur brotið þau og dýr merkurinnar troðið þau sundur. 39.16 Hún er hörð við unga sína, eins og hún ætti þá ekki, þótt fyrirhöfn hennar sé árangurslaus, þá er hún laus við ótta, 39.17 því að Guð synjaði henni um visku og veitti henni enga hlutdeild í hyggindum. 39.18 En þegar hún sveiflar sér í loft upp, þá hlær hún að hestinum og þeim sem á honum situr. 39.19 Gefur þú hestinum styrkleika, klæðir þú makka hans flaksandi faxi? 39.20 Lætur þú hann stökkva eins og engisprettu? Fagurlega frýsar hann, en hræðilega! 39.21 Hann krafsar upp grundina og kætist af styrkleikanum, hann fer út á móti hertygjunum. 39.22 Hann hlær að hræðslunni og skelfist ekki og hopar ekki fyrir sverðinu. 39.23 Á baki hans glamrar í örvamælinum, spjót og lensa leiftra. 39.24 Með hávaða og harki hendist hann yfir jörðina og eigi verður honum haldið, þá er lúðurinn gellur. 39.25 Í hvert sinn er lúðurinn gellur, hvíar hann, og langar leiðir nasar hann bardagann, þrumurödd fyrirliðanna og herópið. 39.26 Er það fyrir þín hyggindi að haukurinn lyftir flugfjöðrunum, breiðir út vængi sína í suðurátt? 39.27 Er það eftir þinni skipun að örninn flýgur svo hátt og byggir hreiður sitt hátt uppi? 39.28 Á klettunum á hann sér býli og ból, á klettasnösum og fjallatindum. 39.29 Þaðan skyggnist hann að æti, augu hans sjá langar leiðir. 39.30 Og ungar hans svelgja blóð, og hvar sem vegnir menn liggja, þar er hann.
40.1 Og Drottinn mælti til Jobs og sagði: 40.2 Vill ámælismaðurinn þrátta við hinn Almáttka? Sá er sakir ber á Guð, svari hann þessu! 40.3 Þá svaraði Job Drottni og sagði: 40.4 Sjá, ég er of lítilmótlegur, hverju á ég að svara þér? Ég legg hönd mína á munninn. 40.5 Einu sinni hefi ég talað, og endurtek það eigi, _ tvisvar, og gjöri það ekki oftar. 40.6 Þá svaraði Drottinn Job úr stormviðrinu og sagði: 40.7 Gyrð lendar þínar eins og maður. Ég mun spyrja þig, og þú skalt fræða mig. 40.8 Ætlar þú jafnvel að gjöra rétt minn að engu, dæma mig sekan, til þess að þú standir réttlættur? 40.9 Hefir þú þá armlegg eins og Guð, og getur þú þrumað með slíkri rödd sem hann? 40.10 Skrýð þig vegsemd og tign, íklæð þig dýrð og ljóma! 40.11 Lát úthellast strauma reiði þinnar og varpa til jarðar með einu tilliti sérhverjum dramblátum. 40.12 Auðmýk þú sérhvern dramblátan með einu tilliti, og troð þú hina óguðlegu niður þar sem þeir standa. 40.13 Byrg þú þá í moldu alla saman, loka andlit þeirra inni í myrkri, 40.14 þá skal ég líka lofa þig, fyrir það að hægri hönd þín veitir þér fulltingi. 40.15 Sjá, nykurinn sem ég hefi skapað eins og þig, hann etur gras eins og naut. 40.16 Sjá, kraftur hans er í lendum hans og afl hans í kviðvöðvunum. 40.17 Hann sperrir upp stertinn eins og sedrustré, lærsinar hans eru ofnar saman. 40.18 Leggir hans eru eirpípur, beinin eins og járnstafur. 40.19 Hann er frumgróði Guðs verka, sá er skóp hann, gaf honum sverð hans. 40.20 Fjöllin láta honum grasbeit í té, og þar leika sér dýr merkurinnar. 40.21 Hann liggur undir lótusrunnum í skjóli við reyr og sef. 40.22 Lótusrunnarnir breiða skugga yfir hann, lækjarpílviðirnir lykja um hann. 40.23 Sjá, þegar vöxtur kemur í ána, skelfist hann ekki, hann er óhultur, þótt fljót belji á skolti hans. 40.24 Getur nokkur veitt hann með því að ganga framan að honum, getur nokkur dregið taug gegnum nasir hans?
41.1 Getur þú veitt krókódílinn á öngul, getur þú heft tungu hans með snæri? 41.2 Dregur þú seftaug gegnum nasir hans og rekur þú krók gegnum kjálka honum? 41.3 Ætli hann beri fram fyrir þig margar auðmjúkar bænir eða mæli til þín blíðum orðum? 41.4 Mun hann gjöra við þig sáttmála, svo að þú takir hann að ævinlegum þræli? 41.5 Munt þú leika þér að honum eins og litlum fugli og getur þú bundið hann fastan fyrir smámeyjar þínar? 41.6 Manga fiskveiðafélagar um hann, skipta þeir honum meðal kaupmanna? 41.7 Getur þú fyllt húð hans broddum og haus hans skutlum? 41.8 Legg hönd þína á hann _ hugsaðu þér, hvílík viðureign! Þú gjörir það ekki aftur. 41.9 Já, von mannsins bregst, hann fellur þegar flatur fyrir sjóninni einni saman. 41.10 Enginn er svo fífldjarfur, að hann þori að egna hann, _ og hver er þá sá, er þori að ganga fram fyrir mitt auglit? 41.11 Hver hefir að fyrra bragði gefið mér, svo að ég ætti að endurgjalda? Allt sem undir himninum er, það er mitt! 41.12 Ég vil ekki þegja um limu hans, né um styrkleik og fegurð vaxtar hans. 41.13 Hver hefir flett upp skjaldkápu hans að framan, hver fer inn undir tvöfaldan tanngarð hans? 41.14 Hver hefir opnað hliðin að gini hans? Ógn er kringum tennur hans. 41.15 Tignarprýði eru skjaldaraðirnar, lokaðar með traustu innsigli. 41.16 Hver skjöldurinn liggur fast að öðrum, ekkert loft kemst á milli þeirra. 41.17 Þeir eru fastir hver við annan, eru svo samfelldir, að þeir verða eigi skildir sundur. 41.18 Þegar hann hnerrar, standa ljósgeislar úr nösum hans, og augu hans eru sem brágeislar morgunroðans. 41.19 Úr gini hans standa blys, eldneistar ganga fram úr honum. 41.20 Úr nösum hans stendur eimur, eins og upp úr sjóðandi potti, sem kynt er undir með sefgrasi. 41.21 Andi hans kveikir í kolum, og logi stendur úr gini hans. 41.22 Kraftur situr á hálsi hans, og angist stökkur á undan honum. 41.23 Vöðvar holds hans loða fastir við, eru steyptir á hann og hreyfast ekki. 41.24 Hjarta hans er hart sem steinn, já, hart sem neðri kvarnarsteinn. 41.25 Þegar hann stökkur upp, skelfast kapparnir, þeir verða ringlaðir af hræðslu. 41.26 Ráðist einhver að honum með sverði, þá vinnur það eigi á, eigi heldur lensa, skotspjót eða ör. 41.27 Hann metur járnið sem strá, eirinn sem maðksmoginn við. 41.28 Eigi rekur örin hann á flótta, slöngusteinarnir verða hálmur fyrir honum. 41.29 Kylfur metur hann sem hálmstrá, og að hvin spjótsins hlær hann. 41.30 Neðan á honum eru oddhvöss brot, hann markar för í aurinn sem för eftir þreskisleða. 41.31 Hann lætur vella í djúpinu sem í potti, gjörir hafið eins og smyrslaketil. 41.32 Aftur undan honum er ljósrák, ætla mætti, að sjórinn væri silfurhærur. 41.33 Enginn er hans maki á jörðu, hans sem skapaður er til þess að kunna ekki að hræðast. 41.34 Hann lítur niður á allt hátt, hann er konungur yfir öllum drembnum dýrum.
42.1 Þá svaraði Job Drottni og sagði: 42.2 Ég veit, að þú megnar allt, og engu ráði þínu verður varnað fram að ganga. 42.3 'Hver er sá, sem myrkvar ráðsályktun Guðs í hyggjuleysi?' Fyrir því hefi ég talað án þess að skilja, um hluti, sem mér voru of undursamlegir og ég þekkti eigi. 42.4 'Hlusta þú, ég ætla að tala. Ég mun spyrja þig, og þú skalt fræða mig.' 42.5 Ég þekkti þig af afspurn, en nú hefir auga mitt litið þig! 42.6 Fyrir því tek ég orð mín aftur og iðrast í dufti og ösku. 42.7 Eftir að Drottinn hafði mælt þessum orðum til Jobs, sagði Drottinn við Elífas Temaníta: 'Reiði mín er upptendruð gegn þér og báðum vinum þínum, því að þér hafið ekki talað rétt um mig eins og þjónn minn Job. 42.8 Takið yður því sjö naut og sjö hrúta og farið til þjóns míns Jobs og fórnið brennifórn fyrir yður, og Job þjónn minn skal biðja fyrir yður, því aðeins vegna hans mun ég ekki láta yður gjalda heimsku yðar, með því að þér hafið ekki talað rétt um mig eins og þjónn minn Job.' 42.9 Þá fóru þeir Elífas Temaníti, Bildad Súíti og Sófar Naamíti og gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið þeim. Og Drottinn lét að bæn Jobs. 42.10 Og Drottinn sneri við högum Jobs, þá er hann bað fyrir vinum sínum; og hann gaf Job allt sem hann hafði átt, tvöfalt aftur. 42.11 Þá komu til hans allir bræður hans og allar systur hans og allir þeir, er áður höfðu verið kunningjar hans, og neyttu máltíðar með honum í húsi hans, vottuðu honum samhryggð sína og hugguðu hann út af öllu því böli, sem Drottinn hafði látið yfir hann koma. Og þeir gáfu honum hver einn kesíta og hver einn hring af gulli. 42.12 En Drottinn blessaði síðari æviár Jobs enn meir en hin fyrri, og hann eignaðist fjórtán þúsund sauða, sex þúsund úlfalda, þúsund sameyki nauta og þúsund ösnur. 42.13 Hann eignaðist og sjö sonu og þrjár dætur. 42.14 Og hann nefndi eina Jemímu, aðra Kesíu og hina þriðju Keren Happúk. 42.15 Og eigi fundust svo fríðar konur í öllu landinu sem dætur Jobs, og faðir þeirra gaf þeim arf með bræðrum þeirra. 42.16 Og Job lifði eftir þetta hundrað og fjörutíu ár og sá börn sín og barnabörn, fjóra ættliði.
1.1 Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra, eigi gengur á vegi syndaranna og eigi situr í hópi þeirra, er hafa Guð að háði, 1.2 heldur hefir yndi af lögmáli Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt. 1.3 Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum. 1.4 Svo fer eigi hinum óguðlega, heldur sem sáðum, er vindur feykir. 1.5 Þess vegna munu hinir óguðlegu eigi standast í dóminum og syndugir eigi í söfnuði réttlátra. 1.6 Því að Drottinn þekkir veg réttlátra, en vegur óguðlegra endar í vegleysu.
2.1 Hví geisa heiðingjarnir og hví hyggja þjóðirnar á fánýt ráð? 2.2 Konungar jarðarinnar ganga fram, og höfðingjarnir bera ráð sín saman gegn Drottni og hans smurða: 2.3 'Vér skulum brjóta sundur fjötra þeirra, vér skulum varpa af oss viðjum þeirra.' 2.4 Hann sem situr á himni hlær. Drottinn gjörir gys að þeim. 2.5 Því næst talar hann til þeirra í reiði sinni, skelfir þá í bræði sinni: 2.6 'Ég hefi skipað konung minn á Síon, fjallið mitt helga.' 2.7 Ég vil kunngjöra ályktun Drottins: Hann mælti við mig: 'Þú ert sonur minn. Í dag gat ég þig. 2.8 Bið þú mig, og ég mun gefa þér þjóðirnar að erfð og endimörk jarðar að óðali. 2.9 Þú skalt mola þá með járnsprota, mölva þá sem leirsmiðs ker.' 2.10 Verið því hyggnir, þér konungar, látið yður segjast, þér dómarar á jörðu. 2.11 Þjónið Drottni með ótta og fagnið með lotningu. 2.12 Hyllið soninn, að hann reiðist eigi og vegur yðar endi í vegleysu, 2.13 því að skjótt bálast upp reiði hans. Sæll er hver sá er leitar hælis hjá honum.
3.1 Sálmur Davíðs, þá er hann flýði fyrir Absalon syni sínum. 3.2 Drottinn, hversu margir eru mótstöðumenn mínir, margir eru þeir er rísa upp í móti mér. 3.3 Margir segja um mig: 'Hann fær enga hjálp hjá Guði!' [Sela] 3.4 En þú, Drottinn, ert hlífiskjöldur minn, þú ert sæmd mín og lætur mig bera höfuð mitt hátt. 3.5 Þá er ég hrópa til Drottins, svarar hann mér frá fjallinu sínu helga. [Sela] 3.6 Ég leggst til hvíldar og sofna, ég vakna aftur, því að Drottinn hjálpar mér. 3.7 Ég óttast eigi hinn óteljandi manngrúa, er fylkir sér gegn mér á allar hliðar. 3.8 Rís þú upp, Drottinn, hjálpa mér, Guð minn, því að þú hefir lostið fjandmenn mína kinnhest, brotið tennur illvirkjanna. 3.9 Hjá Drottni er hjálpin, blessun þín komi yfir lýð þinn! [Sela]
4.1 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðssálmur. 4.2 Svara mér, er ég hrópa, þú Guð réttlætis míns! Þá er að mér kreppti, rýmkaðir þú um mig, ver mér náðugur og heyr bæn mína. 4.3 Þér menn! Hversu lengi á sæmd mín að sæta smán? Hversu lengi ætlið þér að elska hégómann og leita til lyginnar? [Sela] 4.4 Þér skuluð samt komast að raun um, að Drottinn sýnir mér dásamlega náð, að Drottinn heyrir, er ég hrópa til hans. 4.5 Skelfist og syndgið ekki. Hugsið yður um í hvílum yðar og verið hljóðir. [Sela] 4.6 Færið réttar fórnir og treystið Drottni. 4.7 Margir segja: 'Hver lætur oss hamingju líta?' Lyft yfir oss ljósi auglitis þíns, Drottinn. 4.8 Þú hefir veitt hjarta mínu meiri gleði en menn hafa af gnægð korns og vínlagar. 4.9 Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum.
5.1 Til söngstjórans. Með hljóðpípu. Davíðssálmur. 5.2 Heyr orð mín, Drottinn, gef gaum að andvörpum mínum. 5.3 Hlýð þú á kveinstafi mína, konungur minn og Guð minn, því að til þín bið ég. 5.4 Drottinn, á morgnana heyrir þú rödd mína, á morgnana legg ég bæn mína fram fyrir þig, og ég bíð þín. 5.5 Þú ert eigi sá Guð, er óguðlegt athæfi líki, hinir vondu fá eigi að dveljast hjá þér. 5.6 Hinir hrokafullu fá eigi staðist fyrir þér, þú hatar alla er illt gjöra. 5.7 Þú tortímir þeim, sem lygar mæla, á blóðvörgum og svikurum hefir Drottinn andstyggð. 5.8 En ég fæ að ganga í hús þitt fyrir mikla miskunn þína, fæ að falla fram fyrir þínu heilaga musteri í ótta frammi fyrir þér. 5.9 Drottinn, leið mig eftir réttlæti þínu sakir óvina minna, gjör sléttan veg þinn fyrir mér. 5.10 Einlægni er ekki til í munni þeirra, hjarta þeirra er glötunardjúp. Kok þeirra er opin gröf, með tungu sinni hræsna þeir. 5.11 Dæm þá seka, Guð, falli þeir sakir ráðagjörða sinna, hrind þeim burt sakir hinna mörgu afbrota þeirra, því að þeir storka þér. 5.12 Allir kætast, er treysta þér, þeir fagna að eilífu, því að þú verndar þá. Þeir sem elska nafn þitt gleðjast yfir þér. 5.13 Því að þú, Drottinn, blessar hinn réttláta, hlífir honum með náð þinni eins og með skildi.
6.1 Til söngstjórans. Með strengjaleik á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur. 6.2 Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni. 6.3 Líkna mér, Drottinn, því að ég örmagnast, lækna mig, Drottinn, því að bein mín tærast. 6.4 Sál mín er óttaslegin, en þú, ó Drottinn _ hversu lengi? 6.5 Snú þú aftur, Drottinn, frelsa sálu mína, hjálpa mér sakir elsku þinnar. 6.6 Því að enginn minnist þín í dánarheimum, hver skyldi lofa þig hjá Helju? 6.7 Ég er þreyttur af andvörpum mínum, ég lauga rekkju mína í tárum, læt hvílu mína flóa hverja nótt. 6.8 Augu mín eru döpruð af harmi, orðin sljó sakir allra óvina minna. 6.9 Farið frá mér, allir illgjörðamenn, því að Drottinn hefir heyrt grátraust mína. 6.10 Drottinn hefir heyrt grátbeiðni mína, Drottinn tekur á móti bæn minni. 6.11 Allir óvinir mínir skulu verða til skammar og skelfast mjög, hraða sér sneyptir burt.
7.1 Davíðssálmur, er hann kvað fyrir Drottni sakir Kús Benjamíníta. 7.2 Drottinn, Guð minn, hjá þér leita ég hælis, hjálpa mér undan öllum ofsækjendum mínum og bjarga mér, 7.3 svo að þeir rífi mig ekki í sundur eins og ljón, tæti mig í sundur og enginn bjargi mér. 7.4 Drottinn, Guð minn, hafi ég gjört þetta: sé ranglæti í höndum mínum, 7.5 hafi ég illt gjört þeim er lifðu í friði við mig, eða gjört fjandmönnum mínum mein að ástæðulausu, 7.6 þá elti mig óvinur minn og nái mér, troði líf mitt til jarðar og varpi sæmd minni í duftið. [Sela] 7.7 Rís þú upp, Drottinn, í reiði þinni, hef þig gegn ofsa fjandmanna minna og vakna mér til hjálpar, þú sem hefir fyrirskipað réttan dóm. 7.8 Söfnuður þjóðanna umkringi þig, og tak þú sæti uppi yfir honum á hæðum. 7.9 Þú Drottinn, sem dæmir þjóðirnar, lát mig ná rétti mínum, Drottinn, samkvæmt réttlæti mínu og ráðvendni. 7.10 Lát endi á verða illsku óguðlegra, en styrk hina réttlátu, þú, sem rannsakar hjörtun og nýrun, réttláti Guð! 7.11 Guð heldur skildi fyrir mér, hann hjálpar hinum hjartahreinu. 7.12 Guð er réttlátur dómari, hann reiðist illskunni dag hvern. 7.13 Vissulega hvetur hinn óguðlegi aftur sverð sitt, bendir boga sinn og leggur til hæfis, 7.14 en sjálfum sér hefir hann búið hin banvænu vopn, skotið brennandi örvum. 7.15 Já, hann getur illsku, er þungaður af ranglæti og elur tál. 7.16 Hann gróf gröf og gjörði hana djúpa, en sjálfur fellur hann í gryfjuna er hann gjörði. 7.17 Ranglæti hans kemur sjálfum honum í koll, og ofbeldi hans fellur í höfuð honum sjálfum. 7.18 Ég vil lofa Drottin fyrir réttlæti hans og lofsyngja nafni Drottins hins hæsta.
8.1 Til söngstjórans. Á gittít. Davíðssálmur. 8.2 Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina! Þú breiðir ljóma þinn yfir himininn. 8.3 Af munni barna og brjóstmylkinga hefir þú gjört þér vígi til varnar gegn óvinum þínum, til þess að þagga niður í hefndargirni óvinarins. 8.4 Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað, 8.5 hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess? 8.6 Þú lést hann verða litlu minni en Guð, með sæmd og heiðri krýndir þú hann. 8.7 Þú lést hann ríkja yfir handaverkum þínum, allt lagðir þú að fótum hans: 8.8 sauðfénað allan og uxa, og auk þess dýr merkurinnar, 8.9 fugla loftsins og fiska hafsins, allt það er fer hafsins vegu. 8.10 Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!
9.1 Til söngstjórans. Almút labben. Davíðssálmur. 9.2 Ég vil lofa þig, Drottinn, af öllu hjarta, segja frá öllum þínum dásemdarverkum. 9.3 Ég vil gleðjast og kætast yfir þér, lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti. 9.4 Óvinir mínir hörfuðu undan, hrösuðu og fórust fyrir augliti þínu. 9.5 Já, þú hefir látið mig ná rétti mínum og flutt mál mitt, setst í hásætið sem réttlátur dómari. 9.6 Þú hefir hastað á þjóðirnar, tortímt hinum óguðlegu, afmáð nafn þeirra um aldur og ævi. 9.7 Óvinirnir eru liðnir undir lok _ rústir að eilífu _ og borgirnar hefir þú brotið, minning þeirra er horfin. 9.8 En Drottinn ríkir að eilífu, hann hefir reist hásæti sitt til dóms. 9.9 Hann dæmir heiminn með réttvísi, heldur réttlátan dóm yfir þjóðunum. 9.10 Og Drottinn er vígi orðinn hinum kúguðu, vígi á neyðartímum. 9.11 Þeir er þekkja nafn þitt, treysta þér, því að þú, Drottinn, yfirgefur eigi þá, er þín leita. 9.12 Lofsyngið Drottni, þeim er býr á Síon, gjörið stórvirki hans kunn meðal þjóðanna. 9.13 Því að hann sem blóðs hefnir hefir minnst þeirra, hann hefir eigi gleymt hrópi hinna hrjáðu: 9.14 'Líkna mér, Drottinn, sjá þú eymd mína, er hatursmenn mínir baka mér, þú sem lyftir mér upp frá hliðum dauðans, 9.15 að ég megi segja frá öllum lofstír þínum, fagna yfir hjálp þinni í hliðum Síonardóttur.' 9.16 Lýðirnir eru fallnir í gryfju þá, er þeir gjörðu, fætur þeirra festust í neti því, er þeir lögðu leynt. 9.17 Drottinn er kunnur orðinn: Hann hefir háð dóm, hinn óguðlegi festist í því, er hendur hans höfðu gjört. [Strengjaleikur. Sela] 9.18 Hinir óguðlegu hrapa til Heljar, allar þjóðir er gleyma Guði. 9.19 Hinum snauða verður eigi ávallt gleymt, von hinna hrjáðu bregst eigi sífellt. 9.20 Rís þú upp, Drottinn! Lát eigi dauðlega menn verða yfirsterkari, lát þjóðirnar hljóta dóm fyrir augliti þínu. 9.21 Skjót lýðunum skelk í bringu, Drottinn! Lát þá komast að raun um, að þeir eru dauðlegir menn. [Sela]
10.1 Hví stendur þú fjarri, Drottinn, hví byrgir þú augu þín á neyðartímum? 10.2 Hinn óguðlegi ofsækir hina hrjáðu í hroka sínum, þeir flækjast í vélum þeim, er þeir hafa upp hugsað. 10.3 Hinn óguðlegi lofar Guð fyrir það, er sála hans girnist, og hinn ásælni prísar Drottin, sem hann fyrirlítur. 10.4 Hinn óguðlegi segir í drambsemi sinni: 'Hann hegnir eigi!' 'Guð er ekki til' _ svo hugsar hann í öllu. 10.5 Fyrirtæki hans heppnast ætíð, dómar þínir fara hátt yfir höfði hans, alla fjandmenn sína kúgar hann. 10.6 Hann segir í hjarta sínu: 'Ég verð eigi valtur á fótum, frá kyni til kyns mun ég eigi í ógæfu rata.' 10.7 Munnur hans er fullur af formælingum, svikum og ofbeldi, undir tungu hans býr illska og ranglæti. 10.8 Hann situr í launsátri í þorpunum, í skúmaskotinu drepur hann hinn saklausa, augu hans skima eftir hinum bágstöddu. 10.9 Hann gjörir fyrirsát í fylgsninu eins og ljón í skógarrunni; hann gjörir fyrirsát til þess að ná hinum volaða, hann nær honum í snöru sína, í net sitt. 10.10 Kraminn hnígur hann niður, hinn bágstaddi fellur fyrir klóm hans. 10.11 Hann segir í hjarta sínu: 'Guð gleymir því, hann hefir hulið auglit sitt, sér það aldrei.' 10.12 Rís þú upp, Drottinn! Lyft þú upp hendi þinni, Guð! Gleym eigi hinum voluðu. 10.13 Hvers vegna á hinn óguðlegi að sýna Guði fyrirlitningu, segja í hjarta sínu: 'Þú hegnir eigi'? 10.14 Þú gefur gaum að mæðu og böli til þess að taka það í hönd þína. Hinn bágstaddi felur þér það; þú ert hjálpari föðurlausra. 10.15 Brjót þú armlegg hins óguðlega, og er þú leitar að guðleysi hins vonda, finnur þú það eigi framar. 10.16 Drottinn er konungur um aldur og ævi, heiðingjum er útrýmt úr landi hans. 10.17 Þú hefir heyrt óskir hinna voluðu, Drottinn, þú eykur þeim hugrekki, hneigir eyra þitt. 10.18 Þú lætur hina föðurlausu og kúguðu ná rétti sínum. Eigi skulu menn af moldu framar beita kúgun.
11.1 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Hjá Drottni leita ég hælis. Hvernig getið þér sagt við mig: 'Fljúg sem fugl til fjallanna!' 11.2 Því að nú benda hinir óguðlegu bogann, leggja örvar sínar á streng til þess að skjóta í myrkrinu á hina hjartahreinu. 11.3 Þegar stoðirnar eru rifnar niður, hvað megna þá hinir réttlátu? 11.4 Drottinn er í sínu heilaga musteri, hásæti Drottins er á himnum, augu hans sjá, sjónir hans rannsaka mennina. 11.5 Drottinn rannsakar hinn réttláta og hinn óguðlega, og þann er elskar ofríki, hatar hann. 11.6 Á óguðlega lætur hann rigna glóandi kolum, eldur og brennisteinn og brennheitur vindur er þeirra mældi bikar. 11.7 Því að Drottinn er réttlátur og hefir mætur á réttlætisverkum. Hinir hreinskilnu fá að líta auglit hans.
12.1 Til söngstjórans. Á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur. 12.2 Hjálpa þú, Drottinn, því að hinir trúuðu eru á brottu, hinir dygglyndu horfnir frá mönnunum. 12.3 Lygi tala þeir hver við annan, með mjúkfláum vörum og tvískiptu hjarta tala þeir. 12.4 Ó að Drottinn vildi eyða öllum mjúkfláum vörum, öllum tungum er tala drambsamleg orð, 12.5 þeim er segja: 'Með tungunni munum vér sigra, varir vorar hjálpa oss, hver er drottnari yfir oss?' 12.6 'Sakir kúgunar hinna hrjáðu, sakir andvarpa hinna fátæku vil ég nú rísa upp,' segir Drottinn. 'Ég vil veita hjálp þeim, er þrá hana.' 12.7 Orð Drottins eru hrein orð, skírt silfur, sjöhreinsað gull. 12.8 Þú, Drottinn, munt vernda oss, varðveita oss fyrir þessari kynslóð um aldur. 12.9 Hinir guðlausu vaða alls staðar uppi, og hrakmenni komast til vegs meðal mannanna.
13.1 Til söngstjórans. Davíðssálmur. 13.2 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að gleyma mér með öllu? Hversu lengi ætlar þú að hylja auglit þitt fyrir mér? 13.3 Hversu lengi á ég að bera sút í sál, harm í hjarta dag frá degi? Hversu lengi á óvinur minn að hreykja sér upp yfir mig? 13.4 Lít til, svara mér, Drottinn, Guð minn, hýrga augu mín, að ég sofni ekki svefni dauðans, 13.5 að óvinur minn geti ekki sagt: 'Ég hefi borið af honum!' að fjandmenn mínir geti ekki fagnað yfir því, að mér skriðni fótur. 13.6 Ég treysti á miskunn þína; hjarta mitt fagnar yfir hjálp þinni. Ég vil syngja fyrir Drottni, því að hann hefir gjört vel til mín.
14.1 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Heimskinginn segir í hjarta sínu: 'Guð er ekki til.' Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er. 14.2 Drottinn lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs. 14.3 Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er _ ekki einn. 14.4 Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, allir illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Drottin? 14.5 Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, því að Guð er hjá kynslóð réttlátra. 14.6 Þér megið láta ráð hinna hrjáðu til skammar verða, því að Drottinn er samt athvarf þeirra. 14.7 Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Drottinn snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna og Ísrael gleðjast.
15.1 Davíðssálmur Drottinn, hver fær að gista í tjaldi þínu, hver fær að búa á fjallinu þínu helga? 15.2 Sá er fram gengur í flekkleysi og iðkar réttlæti og talar sannleik af hjarta, 15.3 sá er eigi talar róg með tungu sinni, eigi gjörir öðrum mein og eigi leggur náunga sínum svívirðing til; 15.4 sem fyrirlítur þá er illa breyta, en heiðrar þá er óttast Drottin, sá er sver sér í mein og bregður eigi af, 15.5 sá er eigi lánar fé sitt með okri og eigi þiggur mútur gegn saklausum _ sá er þetta gjörir, mun eigi haggast um aldur.
16.1 Davíðs-miktam. Varðveit mig, Guð, því að hjá þér leita ég hælis. 16.2 Ég segi við Drottin: 'Þú ert Drottinn minn, ég á engin gæði nema þig.' 16.3 Á hinum heilögu sem í landinu eru og hinum dýrlegu _ á þeim hefi ég alla mína velþóknun. 16.4 Miklar eru þjáningar þeirra, er kjörið hafa sér annan guð. Ég vil eigi dreypa þeirra blóðugu dreypifórnum og eigi taka nöfn þeirra mér á varir. 16.5 Drottinn er hlutskipti mitt og minn afmældi bikar; þú heldur uppi hlut mínum. 16.6 Mér féllu að erfðahlut indælir staðir, og arfleifð mín líkar mér vel. 16.7 Ég lofa Drottin, er mér hefir ráð gefið, jafnvel um nætur er ég áminntur hið innra. 16.8 Ég hefi Drottin ætíð fyrir augum, þegar hann er mér til hægri handar, skriðnar mér ekki fótur. 16.9 Fyrir því fagnar hjarta mitt, sál mín gleðst, og líkami minn hvílist í friði, 16.10 því að þú ofurselur Helju eigi líf mitt, leyfir eigi að þinn trúaði sjái gröfina. 16.11 Kunnan gjörir þú mér veg lífsins, gleðignótt er fyrir augliti þínu, yndi í hægri hendi þinni að eilífu.
17.1 Bæn Davíðs. Heyr, Drottinn, á réttvíst málefni, hlýð á hróp mitt, ljá eyra bæn minni, er ég flyt með tállausum vörum. 17.2 Lát rétt minn út ganga frá augliti þínu, augu þín sjá hvað rétt er. 17.3 Þá er þú rannsakar hjarta mitt, prófar það um nætur, reynir mig í eldi, þá finnur þú engar illar hugsanir hjá mér, munnur minn heldur sér í skefjum. 17.4 Hvað sem aðrir gjöra, þá hefi ég eftir orði vara þinna forðast vegu ofbeldismannsins. 17.5 Skref mín fylgdu sporum þínum, mér skriðnaði ekki fótur. 17.6 Ég kalla á þig, því að þú svarar mér, ó Guð, hneig eyru þín til mín, hlýð á orð mín. 17.7 Veit mér þína dásamlegu náð, þú sem hjálpar þeim er leita hælis við þína hægri hönd fyrir ofsækjendum. 17.8 Varðveit mig sem sjáaldur augans, fel mig í skugga vængja þinna 17.9 fyrir hinum guðlausu, er sýna mér ofbeldi, fyrir gráðugum óvinum, er kringja um mig. 17.10 Mörhjörtum sínum hafa þeir lokað, með munni sínum mæla þeir drambsamleg orð. 17.11 Hvar sem ég geng, umkringja þeir mig, þeir beina augum sínum að því að varpa mér til jarðar. 17.12 Þeir líkjast ljóni er langar í bráð, ungu ljóni, er liggur í felum. 17.13 Rís upp, Drottinn! Far í móti óvininum og varpa honum niður, frelsa mig undan hinum óguðlega með sverði þínu. 17.14 Frelsa mig undan mönnunum með hendi þinni, Drottinn, undan mönnum heimsins, sem hafa hlutskipti sitt í lífinu og þú kviðfyllir gæðum þínum. Þeir eru ríkir að sonum og skilja börnum sínum eftir nægtir sínar. 17.15 En ég mun sakir réttlætisins skoða auglit þitt, þá er ég vakna, mun ég mettast af mynd þinni.
18.1 Til söngstjórans. Eftir Davíð, þjón Drottins, er flutti Drottni orð þessara ljóða, þá er Drottinn frelsaði hann af hendi allra óvina hans og af hendi Sáls. 18.2 Hann mælti: Ég elska þig, Drottinn, þú styrkur minn. 18.3 Drottinn, bjarg mitt og vígi og frelsari minn, Guð minn, hellubjarg mitt, þar sem ég leita hælis, skjöldur minn og horn hjálpræðis míns, háborg mín! 18.4 Lofaður sé Drottinn, hrópa ég, og ég frelsast frá óvinum mínum. 18.5 Brimöldur dauðans umkringdu mig, elfur glötunarinnar skelfdu mig, 18.6 snörur Heljar luktu um mig, möskvar dauðans féllu yfir mig. 18.7 Í angist minni kallaði ég á Drottin, og til Guðs míns hrópaði ég. Hann heyrði raust mína í helgidómi sínum, og óp mitt barst til eyrna honum. 18.8 Jörðin bifaðist og nötraði, undirstöður fjallanna skulfu, þær bifuðust, því að hann var reiður, 18.9 reykur gekk fram úr nösum hans og eyðandi eldur af munni hans, glóðir brunnu út frá honum. 18.10 Hann sveigði himininn og steig niður, og skýsorti var undir fótum hans. 18.11 Hann steig á bak kerúb og flaug af stað og sveif á vængjum vindarins. 18.12 Hann gjörði myrkur að skýli sínu, regnsorta og skýþykkni að fylgsni sínu allt um kring. 18.13 Frá ljómanum fyrir honum brutust hagl og eldglæringar gegnum ský hans. 18.14 Þá þrumaði Drottinn á himnum, og Hinn hæsti lét raust sína gjalla. 18.15 Hann skaut örvum sínum og tvístraði óvinum sínum, lét eldingar leiftra og hræddi þá. 18.16 Þá sá í mararbotn, og undirstöður jarðarinnar urðu berar fyrir ógnun þinni, Drottinn, fyrir andgustinum úr nösum þínum. 18.17 Hann seildist niður af hæðum og greip mig, dró mig upp úr hinum miklu vötnum. 18.18 Hann frelsaði mig frá hinum sterku óvinum mínum, frá fjandmönnum mínum, er voru mér yfirsterkari. 18.19 Þeir réðust á mig á mínum óheilladegi, en Drottinn var mín stoð. 18.20 Hann leiddi mig út á víðlendi, frelsaði mig, af því að hann hafði þóknun á mér. 18.21 Drottinn fer með mig eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna geldur hann mér, 18.22 því að ég hefi varðveitt vegu Drottins og hefi ekki reynst ótrúr Guði mínum. 18.23 Allar skipanir hans hefi ég fyrir augum, og boðorðum hans þokaði ég eigi burt frá mér. 18.24 Ég var lýtalaus fyrir honum og gætti mín við misgjörðum. 18.25 Fyrir því galt Drottinn mér eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna fyrir augliti hans. 18.26 Gagnvart ástríkum ert þú ástríkur, gagnvart ráðvöndum ráðvandur, 18.27 gagnvart hreinum hreinn, en gagnvart rangsnúnum ert þú afundinn. 18.28 Þú hjálpar þjáðum lýð, en gjörir hrokafulla niðurlúta. 18.29 Já, þú lætur lampa minn skína, Drottinn, Guð minn, þú lýsir mér í myrkrinu. 18.30 Því að fyrir þína hjálp brýt ég múra, fyrir hjálp Guðs míns stekk ég yfir borgarveggi. 18.31 Vegur Guðs er lýtalaus, orð Drottins er hreint, skjöldur er hann öllum þeim sem leita hælis hjá honum. 18.32 Hver er Guð nema Drottinn, og hver er hellubjarg utan vor Guð? 18.33 Sá Guð sem gyrðir mig styrkleika og gjörir veg minn sléttan, 18.34 sem gjörir fætur mína sem hindanna og veitir mér fótfestu á hæðunum, 18.35 sem æfir hendur mínar til hernaðar, svo að armar mínir benda eirbogann. 18.36 Og þú gafst mér skjöld hjálpræðis þíns, og hægri hönd þín studdi mig, og lítillæti þitt gjörði mig mikinn. 18.37 Þú rýmdir til fyrir skrefum mínum, og ökklar mínir riðuðu ekki. 18.38 Ég elti óvini mína og náði þeim og sneri ekki aftur, fyrr en ég hafði gjöreytt þeim. 18.39 Ég molaði þá sundur, þeir máttu eigi upp rísa, þeir hnigu undir fætur mér. 18.40 Þú gyrtir mig styrkleika til ófriðarins, beygðir fjendur mína undir mig. 18.41 Þú lést mig sjá bak óvina minna, og fjendum mínum eyddi ég. 18.42 Þeir hrópuðu, en enginn kom til hjálpar, þeir hrópuðu til Drottins, en hann svaraði þeim ekki. 18.43 Og ég muldi þá sem mold á jörð, tróð þá fótum sem saur á strætum. 18.44 Þú frelsaðir mig úr fólkorustum, gjörðir mig að höfðingja þjóðanna, lýður sem ég þekkti ekki þjónar mér. 18.45 Óðara en þeir heyra mín getið, hlýða þeir mér, útlendingar smjaðra fyrir mér. 18.46 Útlendingar dragast upp og koma skjálfandi fram úr fylgsnum sínum. 18.47 Lifi Drottinn, lofað sé mitt bjarg, og hátt upp hafinn sé Guð hjálpræðis míns, 18.48 sá Guð sem veitti mér hefndir og braut þjóðir undir mig, 18.49 sem hreif mig úr höndum óvina minna. Og yfir mótstöðumenn mína hófst þú mig, frá ójafnaðarmönnum frelsaðir þú mig. 18.50 Fyrir því vil ég vegsama þig, Drottinn, meðal þjóðanna og lofsyngja þínu nafni. 18.51 Hann veitir konungi sínum mikla hjálp og auðsýnir miskunn sínum smurða, Davíð og niðjum hans að eilífu.
19.1 Til söngstjórans. Davíðssálmur. 19.2 Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa. 19.3 Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki. 19.4 Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra. 19.5 Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina, og orð þeirra ná til endimarka heims. Þar reisti hann röðlinum tjald. 19.6 Hann er sem brúðguminn, er gengur út úr svefnhúsi sínu, hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt. 19.7 Við takmörk himins rennur hann upp, og hringferð hans nær til enda himins, og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans. _________ 19.8 Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran. 19.9 Fyrirmæli Drottins eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð Drottins eru skír, hýrga augun. 19.10 Ótti Drottins er hreinn, varir að eilífu. Ákvæði Drottins eru sannleikur, eru öll réttlát. 19.11 Þau eru dýrmætari heldur en gull, já, gnóttir af skíru gulli, og sætari en hunang, já, hunangsseimur. 19.12 Þjónn þinn varðveitir þau kostgæfilega, að halda þau hefir mikil laun í för með sér. 19.13 En hver verður var við yfirsjónirnar? Sýkna mig af leyndum brotum! 19.14 Og varðveit þjón þinn fyrir ofstopamönnum, lát þá eigi drottna yfir mér. Þá verð ég lýtalaus og sýknaður af miklu afbroti. 19.15 Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir auglit þitt, þú Drottinn, hellubjarg mitt og frelsari!
20.1 Til söngstjórans. Davíðssálmur. 20.2 Drottinn bænheyri þig á degi neyðarinnar, nafn Jakobs Guðs bjargi þér. 20.3 Hann sendi þér hjálp frá helgidóminum, styðji þig frá Síon. 20.4 Hann minnist allra fórnargjafa þinna og taki brennifórn þína gilda. [Sela] 20.5 Hann veiti þér það er hjarta þitt þráir, og veiti framgang öllum áformum þínum. 20.6 Ó að vér mættum fagna yfir sigri þínum og veifa fánanum í nafni Guðs vors. Drottinn uppfylli allar óskir þínar. 20.7 Nú veit ég, að Drottinn veitir hjálp sínum smurða, svarar honum frá sínum helga himni, í máttarverkum kemur fulltingi hægri handar hans fram. 20.8 Hinir stæra sig af vögnum sínum og stríðshestum, en vér af nafni Drottins, Guðs vors. 20.9 Þeir fá knésig og falla, en vér rísum og stöndum uppréttir. 20.10 Drottinn! Hjálpa konunginum og bænheyr oss, er vér hrópum.
21.1 Til söngstjórans. Davíðssálmur. 21.2 Drottinn, yfir veldi þínu fagnar konungurinn, hve mjög kætist hann yfir hjálp þinni! 21.3 Þú hefir gefið honum það er hjarta hans þráði, um það sem varir hans báðu, neitaðir þú honum eigi. [Sela] 21.4 Því að þú kemur í móti honum með hamingjublessunum, setur gullna kórónu á höfuð honum. 21.5 Um líf bað hann þig, það veittir þú honum, fjöld lífdaga um aldur og ævi. 21.6 Mikil er sæmd hans fyrir þína hjálp, vegsemd og heiður veittir þú honum. 21.7 Já, þú hefir veitt honum blessun að eilífu, þú gleður hann með fögnuði fyrir augliti þínu. 21.8 Því að konungurinn treystir Drottni, og vegna elsku Hins hæsta bifast hann eigi. 21.9 Hönd þín nær til allra óvina þinna, hægri hönd þín nær til allra hatursmanna þinna. 21.10 Þú gjörir þá sem glóandi ofn, er þú lítur á þá. Drottinn tortímir þeim í reiði sinni, og eldurinn eyðir þeim. 21.11 Ávöxtu þeirra afmáir þú af jörðunni og afkvæmi þeirra úr mannheimi, 21.12 því að þeir hafa stofnað ill ráð í gegn þér, búið fánýtar vélar. 21.13 Því að þú rekur þá á flótta, miðar á andlit þeirra með boga þínum. 21.14 Hef þig, Drottinn, í veldi þínu! Vér viljum syngja og kveða um máttarverk þín!
22.1 Til söngstjórans. Lag: Hind morgunroðans. Davíðssálmur. 22.2 Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig? Ég hrópa, en hjálp mín er fjarlæg. 22.3 'Guð minn!' hrópa ég um daga, en þú svarar ekki, og um nætur, en ég finn enga fró. 22.4 Og samt ert þú Hinn heilagi, sá er ríkir uppi yfir lofsöngvum Ísraels. 22.5 Þér treystu feður vorir, þeir treystu þér, og þú hjálpaðir þeim, 22.6 til þín hrópuðu þeir, og þeim var bjargað, þér treystu þeir og urðu ekki til skammar. 22.7 En ég er maðkur og eigi maður, til spotts fyrir menn og fyrirlitinn af lýðnum. 22.8 Allir þeir er sjá mig gjöra gys að mér, bregða grönum og hrista höfuðið. 22.9 'Hann fól málefni sitt Drottni. Hann hjálpi honum! hann frelsi hann, því að hann hefir þóknun á honum!' 22.10 Já, þú leiddir mig fram af móðurlífi, lést mig liggja öruggan við brjóst móður minnar. 22.11 Til þín var mér varpað frá móðurskauti, frá móðurlífi ert þú Guð minn. 22.12 Ver eigi fjarri mér, því að neyðin er nærri, og enginn hjálpar. 22.13 Sterk naut umkringja mig, Basans uxar slá hring um mig. 22.14 Þeir glenna upp ginið í móti mér sem bráðsólgið, öskrandi ljón. 22.15 Mér er hellt út sem vatni, og öll bein mín eru gliðnuð sundur; hjarta mitt er sem vax, bráðnað sundur í brjósti mér; 22.16 gómur minn er þurr sem brenndur leir, og tungan loðir föst í munni mér. Og í duft dauðans leggur þú mig. 22.17 Því að hundar umkringja mig, hópur illvirkja slær hring um mig, hendur mínar og fætur hafa þeir gegnumstungið. 22.18 Ég get talið öll mín bein _ þeir horfa á og hafa mig að augnagamni, 22.19 þeir skipta með sér klæðum mínum og kasta hlut um kyrtil minn. 22.20 En þú, ó Drottinn, ver eigi fjarri! þú styrkur minn, skunda mér til hjálpar, 22.21 frelsa líf mitt undan sverðinu og sál mína undan hundunum. 22.22 Frelsa mig úr gini ljónsins, frá hornum vísundarins. Þú hefir bænheyrt mig! 22.23 Ég vil kunngjöra bræðrum mínum nafn þitt, í söfnuðinum vil ég lofa þig! 22.24 Þér sem óttist Drottin, lofið hann! Tignið hann, allir niðjar Jakobs! Dýrkið hann, allir niðjar Ísraels! 22.25 Því að hann hefir eigi fyrirlitið né virt að vettugi neyð hins hrjáða og eigi hulið auglit sitt fyrir honum, heldur heyrt, er hann hrópaði til hans. 22.26 Frá þér kemur lofsöngur minn í stórum söfnuði, heit mín vil ég efna frammi fyrir þeim er óttast hann. 22.27 Snauðir munu eta og verða mettir, þeir er leita Drottins munu lofa hann. Hjörtu yðar lifni við að eilífu. 22.28 Endimörk jarðar munu minnast þess og hverfa aftur til Drottins og allar ættir þjóðanna falla fram fyrir augliti hans. 22.29 Því að ríkið heyrir Drottni, og hann er drottnari yfir þjóðunum. 22.30 Já, fyrir honum munu öll stórmenni jarðar falla fram, fyrir honum munu beygja sig allir þeir er hníga í duftið. En ég vil lifa honum, 22.31 niðjar mínir munu þjóna honum. Komandi kynslóðum mun sagt verða frá Drottni, 22.32 og lýð sem enn er ófæddur mun boðað réttlæti hans, að hann hefir framkvæmt það.
23.1 Davíðssálmur. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. 23.2 Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta. 23.3 Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns. 23.4 Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig. 23.5 Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyr höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur. 23.6 Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína, og í húsi Drottins bý ég langa ævi.
24.1 Davíðssálmur. Drottni heyrir jörðin og allt sem á henni er, heimurinn og þeir sem í honum búa. 24.2 Því að hann hefir grundvallað hana á hafinu og fest hana á vötnunum. 24.3 _ Hver fær að stíga upp á fjall Drottins, hver fær að dveljast á hans helga stað? 24.4 _ Sá er hefir óflekkaðar hendur og hreint hjarta, eigi sækist eftir hégóma og eigi vinnur rangan eið. 24.5 Hann mun blessun hljóta frá Drottni og réttlætingu frá Guði hjálpræðis síns. 24.6 _ Þessi er sú kynslóð er leitar Drottins, stundar eftir augliti þínu, þú Jakobs Guð. [Sela] _________ 24.7 _ Þér hlið, lyftið höfðum yðar, hefjið yður, þér öldnu dyr, að konungur dýrðarinnar megi inn ganga. 24.8 _ Hver er þessi konungur dýrðarinnar? _ Það er Drottinn, hin volduga hetja, Drottinn, bardagahetjan. 24.9 _ Þér hlið, lyftið höfðum yðar, hefjið yður, þér öldnu dyr, að konungur dýrðarinnar megi inn ganga. 24.10 _ Hver er þessi konungur dýrðarinnar? _ Drottinn hersveitanna, hann er konungur dýrðarinnar. [Sela]
25.1 Davíðssálmur. 25.2 Til þín, Drottinn, hef ég sál mína, Guð minn, þér treysti ég. Lát mig eigi verða til skammar, lát eigi óvini mína hlakka yfir mér. 25.3 Hver sá er á þig vonar, mun eigi heldur verða til skammar, þeir verða til skammar, er ótrúir eru að raunalausu. 25.4 Vísa mér vegu þína, Drottinn, kenn mér stigu þína. 25.5 Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér, því að þú ert Guð hjálpræðis míns, allan daginn vona ég á þig. 25.6 Minnst þú miskunnar þinnar, Drottinn, og kærleiksverka, því að þau eru frá eilífð. 25.7 Minnst eigi æskusynda minna og afbrota, minnst mín eftir elsku þinni sakir gæsku þinnar, Drottinn. 25.8 Góður og réttlátur er Drottinn, þess vegna vísar hann syndurum veginn. 25.9 Hann lætur hina hrjáðu ganga eftir réttlætinu og kennir hinum þjökuðu veg sinn. 25.10 Allir vegir Drottins eru elska og trúfesti fyrir þá er gæta sáttmála hans og vitnisburða. 25.11 Sakir nafns þíns, Drottinn, fyrirgef mér sekt mína, því að hún er mikil. 25.12 Ef einhver óttast Drottin, mun hann kenna honum veg þann er hann á að velja. 25.13 Sjálfur mun hann búa við hamingju, og niðjar hans eignast landið. 25.14 Drottinn sýnir trúnað þeim er óttast hann, og sáttmála sinn gjörir hann þeim kunnan. 25.15 Augu mín mæna ætíð til Drottins, því að hann greiðir fót minn úr snörunni. 25.16 Snú þér til mín og líkna mér, því að ég er einmana og hrjáður. 25.17 Angist sturlar hjarta mitt, leið mig úr nauðum mínum. 25.18 Lít á eymd mína og armæðu og fyrirgef allar syndir mínar. 25.19 Lít á, hversu margir óvinir mínir eru, með rangsleitnishatri hata þeir mig. 25.20 Varðveit líf mitt og frelsa mig, lát mig eigi verða til skammar, því að hjá þér leita ég hælis. 25.21 Lát ráðvendni og hreinskilni gæta mín, því að á þig vona ég. 25.22 Frelsa Ísrael, ó Guð, úr öllum nauðum hans.
26.1 Davíðssálmur. Lát mig ná rétti mínum, Drottinn, því að ég geng fram í grandvarleik og þér treysti ég óbifanlega. 26.2 Rannsaka mig, Drottinn, og reyn mig, prófa hug minn og hjarta. 26.3 Því að ég hefi elsku þína fyrir augum, og ég geng í sannleika þínum. 26.4 Ég tek mér eigi sæti hjá lygurum og hefi eigi umgengni við fláráða menn. 26.5 Ég hata söfnuð illvirkjanna, sit eigi meðal óguðlegra. 26.6 Ég þvæ hendur mínar í sakleysi og geng í kringum altari þitt, Drottinn, 26.7 til þess að láta lofsönginn hljóma og segja frá öllum þínum dásemdarverkum. 26.8 Drottinn, ég elska bústað húss þíns og staðinn þar sem dýrð þín býr. 26.9 Hríf eigi sál mína burt með syndurum né líf mitt með morðingjum, 26.10 þeim er hafa svívirðing í höndum sér og hægri höndina fulla af mútugjöfum. 26.11 En ég geng fram í grandvarleik, frelsa mig og líkna mér. 26.12 Fótur minn stendur á sléttri grund, í söfnuðunum vil ég lofa Drottin.
27.1 Davíðssálmur. Drottinn er ljós mitt og fulltingi, hvern ætti ég að óttast? Drottinn er vígi lífs míns, hvern ætti ég að hræðast? 27.2 Þegar illvirkjarnir nálgast mig til þess að fella mig, þá verða það andstæðingar mínir og óvinir, sem hrasa og falla. 27.3 Þegar her sest um mig, óttast hjarta mitt eigi, þegar ófriður hefst í gegn mér, er ég samt öruggur. 27.4 Eins hefi ég beðið Drottin, það eitt þrái ég: Að ég fái að dveljast í húsi Drottins alla ævidaga mína til þess að fá að skoða yndisleik Drottins, sökkva mér niður í hugleiðingar í musteri hans. 27.5 Því að hann geymir mig í skjóli á óheilladeginum, hann felur mig í fylgsnum tjalds síns, lyftir mér upp á klett. 27.6 Þess vegna hefst upp höfuð mitt yfir óvini mína umhverfis mig, að ég með fögnuði megi færa fórnir í tjaldi hans, syngja og leika Drottni. 27.7 Heyr, Drottinn, ég hrópa hátt, sýn mér miskunn og svara mér! 27.8 Mér er hugsað til þín, er sagðir: 'Leitið auglitis míns!' Ég vil leita auglitis þíns, Drottinn. 27.9 Hyl eigi auglit þitt fyrir mér, vísa þjóni þínum eigi frá í reiði. Þú hefir verið fulltingi mitt, hrind mér eigi burt og yfirgef mig eigi, þú Guð hjálpræðis míns. 27.10 Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur Drottinn mig að sér. 27.11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, leið mig um slétta braut sakir óvina minna. 27.12 Ofursel mig eigi græðgi andstæðinga minna, því að falsvitni rísa í gegn mér og menn er spúa rógmælum. 27.13 Ég treysti því að fá að sjá gæsku Drottins á landi lifenda! 27.14 Vona á Drottin, ver öruggur og hugrakkur, já, vona á Drottin.
28.1 Davíðssálmur. Til þín, Drottinn, hrópa ég, þú bjarg mitt, ver eigi hljóður gagnvart mér. Ef þú þegir við mér, verð ég sem þeir, er til grafar eru gengnir. 28.2 Heyr þú á grátbeiðni mína, er ég hrópa til þín, er ég lyfti höndum mínum til Hins allrahelgasta í musteri þínu. 28.3 Hríf mig eigi á burt með óguðlegum og með illgjörðamönnum, þeim er tala vinsamlega við náunga sinn, en hafa illt í hyggju. 28.4 Launa þeim eftir verkum þeirra, eftir þeirra illu breytni, launa þeim eftir verkum handa þeirra, endurgjald þeim það er þeir hafa aðhafst. 28.5 Því að þeir hyggja eigi á verk Drottins né handaverk hans, hann rífi þá niður og reisi þá eigi við aftur. 28.6 Lofaður sé Drottinn, því að hann hefir heyrt grátbeiðni mína. 28.7 Drottinn er vígi mitt og skjöldur, honum treysti hjarta mitt. Ég hlaut hjálp, því fagnar hjarta mitt, og með ljóðum mínum lofa ég hann. 28.8 Drottinn er vígi lýð sínum og hjálparhæli sínum smurða. 28.9 Hjálpa lýð þínum og blessa eign þína, gæt þeirra og ber þá að eilífu.
29.1 Davíðssálmur. Tjáið Drottni vegsemd, þér guðasynir, tjáið Drottni vegsemd og vald. 29.2 Tjáið Drottni dýrð þá er nafni hans hæfir, fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða. 29.3 Raust Drottins hljómar yfir vötnunum, Guð dýrðarinnar lætur þrumur drynja, Drottinn ríkir yfir hinum miklu vötnum. 29.4 Raust Drottins hljómar með krafti, raust Drottins hljómar með tign. 29.5 Raust Drottins brýtur sundur sedrustré, Drottinn brýtur sundur sedrustrén á Líbanon. 29.6 Hann lætur Líbanonfjöll hoppa eins og kálfa og Hermonfjall eins og ungan vísund. 29.7 Raust Drottins klýfur eldsloga. 29.8 Raust Drottins lætur eyðimörkina skjálfa, Drottinn lætur Kadeseyðimörk skjálfa. 29.9 Raust Drottins lætur hindirnar bera fyrir tímann og gjörir skógana nakta, og allt í helgidómi hans segir: Dýrð! 29.10 Drottinn situr í hásæti uppi yfir flóðinu, Drottinn mun ríkja sem konungur að eilífu. 29.11 Drottinn veitir lýð sínum styrkleik, Drottinn blessar lýð sinn með friði.
30.1 Musterisvígsluljóð. Davíðssálmur. 30.2 Ég tigna þig, Drottinn, því að þú hefir bjargað mér og eigi látið óvini mína hlakka yfir mér. 30.3 Drottinn, Guð minn, ég hrópaði til þín og þú læknaðir mig. 30.4 Drottinn, þú heimtir sál mína úr Helju, lést mig halda lífi, er aðrir gengu til grafar. 30.5 Syngið Drottni lof, þér hans trúuðu, vegsamið hans heilaga nafn. 30.6 Andartak stendur reiði hans, en alla ævi náð hans. Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni. 30.7 En ég uggði eigi að mér og hugsaði: 'Aldrei skriðnar mér fótur.' 30.8 Drottinn, af náð þinni hafðir þú gjört bjarg mitt stöðugt, en nú huldir þú auglit þitt og ég skelfdist. 30.9 Til þín, Drottinn, kallaði ég, og Drottin grátbændi ég: 30.10 'Hver ávinningur er í dauða mínum, í því að ég gangi til grafar? Getur duftið lofað þig, kunngjört trúfesti þína? 30.11 Heyr, Drottinn, og líkna mér, ó Drottinn, ver þú hjálpari minn!' 30.12 Þú breyttir grát mínum í gleðidans, leystir af mér hærusekkinn og gyrtir mig fögnuði, 30.13 að sál mín megi lofsyngja þér og eigi þagna. Drottinn, Guð minn, ég vil þakka þér að eilífu.
31.1 Til söngstjórans. Davíðssálmur. 31.2 Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar. Bjarga mér eftir réttlæti þínu, 31.3 hneig eyru þín til mín, frelsa mig í skyndi, ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar. 31.4 Því að þú ert bjarg mitt og vígi, og sakir nafns þíns munt þú leiða mig og stjórna mér. 31.5 Þú munt draga mig úr neti því, er þeir lögðu leynt fyrir mig, því að þú ert vörn mín. 31.6 Í þínar hendur fel ég anda minn, þú frelsar mig, Drottinn, þú trúfasti Guð! 31.7 Ég hata þá, er dýrka fánýt falsgoð, en Drottni treysti ég. 31.8 Ég vil gleðjast og fagna yfir miskunn þinni, því að þú hefir litið á eymd mína, gefið gætur að sálarneyð minni 31.9 og eigi ofurselt mig óvinunum, en sett fót minn á víðlendi. 31.10 Líkna mér, Drottinn, því að ég er í nauðum staddur, döpruð af harmi eru augu mín, sál mín og líkami. 31.11 Ár mín líða í harmi og líf mitt í andvörpum, mér förlast kraftur sakir sektar minnar, og bein mín tærast. 31.12 Ég er að spotti öllum óvinum mínum, til háðungar nábúum mínum og skelfing kunningjum mínum: þeir sem sjá mig á strætum úti flýja mig. 31.13 Sem dáinn maður er ég gleymdur hjörtum þeirra, ég er sem ónýtt ker. 31.14 Ég heyri illyrði margra, _ skelfing er allt um kring _ þeir bera ráð sín saman móti mér, hyggja á að svipta mig lífi. 31.15 En ég treysti þér, Drottinn, ég segi: 'Þú ert Guð minn!' 31.16 Í þinni hendi eru stundir mínar, frelsa mig af hendi óvina minna og ofsækjenda. 31.17 Lát ásjónu þína lýsa yfir þjón þinn, hjálpa mér sakir elsku þinnar. 31.18 Ó Drottinn, lát mig eigi verða til skammar, því að ég ákalla þig. Lát hina guðlausu verða til skammar, hverfa hljóða til Heljar. 31.19 Lát lygavarirnar þagna, þær er mæla drambyrði gegn réttlátum með hroka og fyrirlitningu. 31.20 Hversu mikil er gæska þín, er þú hefir geymt þeim er óttast þig, og auðsýnir þeim er leita hælis hjá þér frammi fyrir mönnunum. 31.21 Þú hylur þá í skjóli auglitis þíns fyrir svikráðum manna, felur þá í leyni fyrir deilum tungnanna. 31.22 Lofaður sé Drottinn, því að hann hefir sýnt mér dásamlega náð í öruggri borg. 31.23 Ég hugsaði í angist minni: 'Ég er burtrekinn frá augum þínum.' En samt heyrðir þú grátraust mína, er ég hrópaði til þín. 31.24 Elskið Drottin, allir þér hans trúuðu, Drottinn verndar trúfasta, en geldur í fullum mæli þeim er ofmetnaðarverk vinna. 31.25 Verið öruggir og hughraustir, allir þér er vonið á Drottin.
32.1 Davíðsmaskíl. Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin. 32.2 Sæll er sá maður er Drottinn tilreiknar eigi misgjörð, sá er eigi geymir svik í anda. 32.3 Meðan ég þagði, tærðust bein mín, allan daginn kveinaði ég, 32.4 því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér, lífsvökvi minn þvarr sem í sumarbreiskju. [Sela] 32.5 Þá játaði ég synd mína fyrir þér og fól eigi misgjörð mína. Ég mælti: 'Ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni,' og þú fyrirgafst syndasekt mína. [Sela] 32.6 Þess vegna biðji þig sérhver trúaður, meðan þig er að finna. Þótt vatnsflóðið komi, nær það honum eigi. 32.7 Þú ert skjól mitt, þú leysir mig úr nauðum, með frelsisfögnuði umkringir þú mig. [Sela] 32.8 Ég vil fræða þig og vísa þér veginn, er þú átt að ganga, ég vil kenna þér og hafa augun á þér: 32.9 Verið eigi sem hestar eða skynlausir múlar; með taum og beisli verður að temja þrjósku þeirra, annars nálgast þeir þig ekki. 32.10 Miklar eru þjáningar óguðlegs manns, en þann er treystir Drottni umlykur hann elsku. 32.11 Gleðjist yfir Drottni og fagnið, þér réttlátir, kveðið fagnaðarópi, allir hjartahreinir!
33.1 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni! Hreinlyndum hæfir lofsöngur. 33.2 Lofið Drottin með gígjum, leikið fyrir honum á tístrengjaða hörpu. 33.3 Syngið honum nýjan söng, knýið strengina ákaft með fagnaðarópi. 33.4 Því að orð Drottins er áreiðanlegt, og öll verk hans eru í trúfesti gjörð. 33.5 Hann hefir mætur á réttlæti og rétti, jörðin er full af miskunn Drottins. 33.6 Fyrir orð Drottins voru himnarnir gjörðir og öll þeirra prýði fyrir anda munns hans. 33.7 Hann safnaði vatni hafsins sem í belg, lét straumana í forðabúr. 33.8 Öll jörðin óttist Drottin, allir heimsbúar hræðist hann, 33.9 því að hann talaði _ og það varð, hann bauð _ þá stóð það þar. 33.10 Drottinn ónýtir ráð þjóðanna, gjörir að engu áform lýðanna, 33.11 en ráð Drottins stendur stöðugt um aldur, áform hjarta hans frá kyni til kyns. 33.12 Sæl er sú þjóð er á Drottin að Guði, sá lýður er hann hefir kjörið sér til eignar. 33.13 Drottinn lítur niður af himni, sér öll mannanna börn, 33.14 frá bústað sínum virðir hann fyrir sér alla jarðarbúa, 33.15 hann sem myndað hefir hjörtu þeirra allra og gefur gætur að öllum athöfnum þeirra. 33.16 Eigi sigrar konungurinn fyrir gnótt herafla síns, eigi bjargast kappinn fyrir ofurafl sitt. 33.17 Svikull er víghestur til sigurs, með ofurafli sínu bjargar hann ekki. 33.18 En augu Drottins hvíla á þeim er óttast hann, á þeim er vona á miskunn hans. 33.19 Hann frelsar þá frá dauða og heldur lífinu í þeim í hallæri. 33.20 Sálir vorar vona á Drottin, hann er hjálp vor og skjöldur. 33.21 Já, yfir honum fagnar hjarta vort, hans heilaga nafni treystum vér. 33.22 Miskunn þín, Drottinn, sé yfir oss, svo sem vér vonum á þig.
34.1 Sálmur Davíðs, þá er hann gjörði sér upp vitfirringu frammi fyrir Abímelek, svo að Abímelek rak hann í burt, og hann fór burt. 34.2 Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni. 34.3 Sál mín hrósar sér af Drottni, hinir hógværu skulu heyra það og fagna. 34.4 Miklið Drottin ásamt mér, tignum í sameiningu nafn hans. 34.5 Ég leitaði Drottins, og hann svaraði mér, frelsaði mig frá öllu því er ég hræddist. 34.6 Lítið til hans og gleðjist, og andlit yðar skulu eigi blygðast. 34.7 Hér er volaður maður sem hrópaði, og Drottinn heyrði hann og hjálpaði honum úr öllum nauðum hans. 34.8 Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá. 34.9 Finnið og sjáið, að Drottinn er góður, sæll er sá maður er leitar hælis hjá honum. 34.10 Óttist Drottin, þér hans heilögu, því að þeir er óttast hann líða engan skort. 34.11 Ung ljón eiga við skort að búa og svelta, en þeir er leita Drottins fara einskis góðs á mis. 34.12 Komið, börn, hlýðið á mig, ég vil kenna yður ótta Drottins. 34.13 Ef einhver óskar lífs, þráir lífdaga til þess að njóta hamingjunnar, 34.14 þá varðveit tungu þína frá illu og varir þínar frá svikatali, 34.15 forðast illt og gjörðu gott, leita friðar og legg stund á hann. 34.16 Augu Drottins hvíla á réttlátum, og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra. 34.17 Auglit Drottins horfir á þá er illa breyta, til þess að afmá minningu þeirra af jörðunni. 34.18 Ef réttlátir hrópa, þá heyrir Drottinn, úr öllum nauðum þeirra frelsar hann þá. 34.19 Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann. 34.20 Margar eru raunir réttláts manns, en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum. 34.21 Hann gætir allra beina hans, ekki eitt af þeim skal brotið. 34.22 Ógæfa drepur óguðlegan mann, þeir er hata hinn réttláta, skulu sekir dæmdir. 34.23 Drottinn frelsar líf þjóna sinna, enginn sá er leitar hælis hjá honum, mun sekur dæmdur.
35.1 Davíðssálmur. Deil þú, Drottinn, við þá er deila við mig, berst þú við þá er berjast við mig. 35.2 Tak skjöld og törgu og rís upp mér til hjálpar. 35.3 Tak til spjót og öxi til þess að mæta ofsækjendum mínum, seg við sál mína: 'Ég er hjálp þín!' 35.4 Lát þá er sitja um líf mitt hljóta smán og svívirðing, lát þá hverfa aftur með skömm, er ætla að gjöra mér illt. 35.5 Lát þá verða sem sáðir fyrir vindi, þegar engill Drottins varpar þeim um koll. 35.6 Lát veg þeirra verða myrkan og hálan, þegar engill Drottins eltir þá. 35.7 Því að ástæðulausu hafa þeir lagt net sitt leynt fyrir mig, að ástæðulausu hafa þeir grafið gryfju fyrir mig. 35.8 Lát tortíming koma yfir þá, er þá varir minnst, lát netið, er þeir hafa lagt leynt, veiða sjálfa þá, lát þá falla í þeirra eigin gryfju. 35.9 En sál mín skal kætast yfir Drottni, gleðjast yfir hjálpræði hans. 35.10 Öll bein mín skulu segja: 'Drottinn, hver er sem þú, er frelsar hinn umkomulausa frá þeim sem er honum yfirsterkari, hinn hrjáða og snauða frá þeim sem rænir hann?' 35.11 Ljúgvottar rísa upp, þeir spyrja mig um það sem ég veit ekki um. 35.12 Þeir launa mér gott með illu, einsemd varð hlutfall mitt. 35.13 En þegar þeir voru sjúkir, klæddist ég hærusekk, þjáði mig með föstu og bað með niðurlútu höfði, 35.14 gekk um harmandi, sem vinur eða bróðir ætti í hlut, var beygður eins og sá er syrgir móður sína. 35.15 En þeir fagna yfir hrösun minni og safnast saman, útlendingar og ókunnugir menn safnast saman móti mér, mæla lastyrði og þagna eigi. 35.16 Þeir freista mín, smána og smána, nísta tönnum í gegn mér. 35.17 Drottinn, hversu lengi vilt þú horfa á? Frelsa sál mína undan eyðileggingu þeirra, mína einmana sál undan ljónunum. 35.18 Þá vil ég lofa þig í miklum söfnuði, vegsama þig í miklum mannfjölda. 35.19 Lát eigi þá sem án saka eru óvinir mínir, hlakka yfir mér, lát eigi þá sem að ástæðulausu hata mig, skotra augunum. 35.20 Því að frið tala þeir eigi, og móti hinum kyrrlátu í landinu hugsa þeir upp sviksamleg orð. 35.21 Þeir glenna upp ginið í móti mér, segja: 'Hæ, hæ! Nú höfum vér séð það með eigin augum!' 35.22 Þú hefir séð það, Drottinn, ver eigi hljóður, Drottinn, ver eigi langt í burtu frá mér. 35.23 Vakna, rís upp og lát mig ná rétti mínum, Guð minn og Drottinn, til þess að flytja mál mitt. 35.24 Dæm mig eftir réttlæti þínu, Drottinn, Guð minn, og lát þá eigi hlakka yfir mér, 35.25 lát þá ekki segja í hjarta sínu: 'Hæ! Ósk vor er uppfyllt!' lát þá ekki segja: 'Vér höfum gjört út af við hann.' 35.26 Lát þá alla verða til skammar og hljóta kinnroða, er hlakka yfir ógæfu minni, lát þá íklæðast skömm og svívirðing, er hreykja sér upp gegn mér. 35.27 Lát þá kveða fagnaðarópi og gleðjast, er unna mér réttar, lát þá ætíð segja: 'Vegsamaður sé Drottinn, hann sem ann þjóni sínum heilla!' 35.28 Og tunga mín skal boða réttlæti þitt, lofstír þinn liðlangan daginn.
36.1 Til söngstjórans. Eftir Davíð, þjón Drottins. 36.2 Rödd syndarinnar talar til hins guðlausa í fylgsnum hjarta hans, enginn guðsótti býr í huga hans. 36.3 Hún smjaðrar fyrir honum í augum hans og misgjörð hans verður uppvís og hann verður fyrir hatri. 36.4 Orðin af munni hans eru tál og svik, hann er hættur að vera hygginn og breyta vel. 36.5 Í hvílu sinni hyggur hann á tál, hann fetar vonda vegu, forðast eigi hið illa. 36.6 Drottinn, til himna nær miskunn þín, til skýjanna trúfesti þín. 36.7 Réttlæti þitt er sem fjöll Guðs, dómar þínir sem reginhaf. Mönnum og skepnum hjálpar þú, Drottinn. 36.8 Hversu dýrmæt er miskunn þín, ó Guð, mannanna börn leita hælis í skugga vængja þinna. 36.9 Þau seðjast af feiti húss þíns, og þú lætur þau drekka úr lækjum unaðsemda þinna. 36.10 Hjá þér er uppspretta lífsins, í þínu ljósi sjáum vér ljós. 36.11 Lát miskunn þína haldast við þá er þekkja þig, og réttlæti þitt við þá sem hjartahreinir eru. 36.12 Lát eigi fót hins hrokafulla troða á mér né hönd óguðlegra hrekja mig burt. 36.13 Þar eru illgjörðamennirnir fallnir, þeim er varpað um koll og þeir fá eigi risið upp aftur.
37.1 Davíðssálmur. Ver eigi of bráður vegna illvirkjanna, öfunda eigi þá er ranglæti fremja, 37.2 því að þeir fölna skjótt sem grasið, visna sem grænar jurtir. 37.3 Treyst Drottni og gjör gott, bú þú í landinu og iðka ráðvendni, 37.4 þá munt þú gleðjast yfir Drottni, og hann mun veita þér það sem hjarta þitt girnist. 37.5 Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá. 37.6 Hann mun láta réttlæti þitt renna upp sem ljós og rétt þinn sem hábjartan dag. 37.7 Ver hljóður fyrir Drottni og vona á hann. Ver eigi of bráður vegna þeirra er vel gengur, vegna þess manns er svik fremur. 37.8 Lát af reiði og slepp heiftinni, ver eigi of bráður, það leiðir til ills eins. 37.9 Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á Drottin, fá landið til eignar. 37.10 Innan stundar eru engir guðlausir til framar, þegar þú gefur gætur að stað þeirra, eru þeir horfnir. 37.11 En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu. 37.12 Óguðlegur maður býr yfir illu gegn réttlátum, nístir tönnum gegn honum. 37.13 Drottinn hlær að honum, því að hann sér að dagur hans kemur. 37.14 Óguðlegir bregða sverðinu og benda boga sína til þess að fella hinn hrjáða og snauða, til þess að brytja niður hina ráðvöndu. 37.15 En sverð þeirra lendir í þeirra eigin hjörtum, og bogar þeirra munu brotnir verða. 37.16 Betri er lítil eign réttláts manns en auðlegð margra illgjarnra, 37.17 því að armleggur illgjarnra verður brotinn, en réttláta styður Drottinn. 37.18 Drottinn þekkir daga ráðvandra, og arfleifð þeirra varir að eilífu. 37.19 Á vondum tímum verða þeir eigi til skammar, á hallæristímum hljóta þeir saðning. 37.20 En óguðlegir farast, og óvinir Drottins eru sem skraut vallarins: þeir hverfa _ sem reykur hverfa þeir. 37.21 Guðlaus maður tekur lán og borgar eigi, en hinn réttláti er mildur og örlátur. 37.22 Því að þeir sem Drottinn blessar, fá landið til eignar, en hinum bannfærðu verður útrýmt. 37.23 Frá Drottni kemur skrefum mannsins festa, þegar hann hefir þóknun á breytni hans. 37.24 Þótt hann falli, þá liggur hann ekki flatur, því að Drottinn heldur í hönd hans. 37.25 Ungur var ég og gamall er ég orðinn, en aldrei sá ég réttlátan mann yfirgefinn né niðja hans biðja sér matar. 37.26 Ætíð er hann mildur og lánar, og niðjar hans verða öðrum til blessunar. 37.27 Forðastu illt og gjörðu gott, þá munt þú búa kyrr um aldur, 37.28 því að Drottinn hefir mætur á réttlæti og yfirgefur ekki sína trúuðu. Þeir verða eilíflega varðveittir, en niðjar óguðlegra upprætast. 37.29 Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur. 37.30 Munnur réttláts manns mælir speki og tunga hans talar það sem rétt er. 37.31 Lögmál Guðs hans er í hjarta hans, eigi skriðnar honum fótur. 37.32 Hinn guðlausi skimar eftir hinum réttláta og situr um að drepa hann, 37.33 en Drottinn ofurselur hann honum ekki og lætur hann ekki ganga sekan frá dómi. 37.34 Vona á Drottin og gef gætur að vegi hans, þá mun hann hefja þig upp, að þú erfir landið, og þú skalt horfa á, þegar illvirkjum verður útrýmt. 37.35 Ég sá hinn óguðlega í ofstopa sínum og þenja sig út sem grænt tré á gróðrarstöðvum sínum, 37.36 og ég gekk fram hjá, og sjá, hann var þar ekki framar, ég leitaði hans, en hann fannst ekki. 37.37 Gef gætur að hinum ráðvanda og lít á hinn hreinskilna, því að friðsamir menn eiga framtíð fyrir höndum, 37.38 en afbrotamönnum verður útrýmt öllum samt, framtíðarvon óguðlegra bregst. 37.39 Hjálp réttlátra kemur frá Drottni, hann er hæli þeirra á neyðartímum. 37.40 Drottinn liðsinnir þeim og bjargar þeim, bjargar þeim undan hinum óguðlega og hjálpar þeim, af því að þeir leituðu hælis hjá honum.
38.1 Davíðssálmur. Minningarljóð. 38.2 Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni. 38.3 Örvar þínar standa fastar í mér, og hönd þín liggur þungt á mér. 38.4 Enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum sakir reiði þinnar, ekkert heilt í beinum mínum sakir syndar minnar. 38.5 Misgjörðir mínar ganga mér yfir höfuð, sem þung byrði eru þær mér of þungar orðnar. 38.6 Ódaun leggur af sárum mínum, rotnun er í þeim sakir heimsku minnar. 38.7 Ég er beygður og mjög bugaður, ráfa um harmandi daginn langan. 38.8 Lendar mínar eru fullar bruna, og enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum. 38.9 Ég er lémagna og kraminn mjög, kveina af angist hjartans. 38.10 Drottinn, öll mín þrá er þér kunn og andvörp mín eru eigi hulin þér. 38.11 Hjarta mitt berst ákaft, kraftur minn er þrotinn, jafnvel ljós augna minna er horfið mér. 38.12 Ástvinir mínir og kunningjar hörfa burt fyrir kröm minni, og frændur mínir standa fjarri. 38.13 Þeir er sitja um líf mitt, leggja snörur fyrir mig, þeir er leita mér meins, mæla skaðræði og hyggja á svik allan liðlangan daginn. 38.14 En ég er sem daufur, ég heyri það ekki, og sem dumbur, er eigi opnar munninn, 38.15 ég er sem maður er eigi heyrir og engin andmæli eru í munni hans. 38.16 Því að á þig, Drottinn, vona ég, þú munt svara mér, Drottinn minn og Guð minn, 38.17 því að ég segi: 'Lát þá eigi hlakka yfir mér, eigi hælast um af því, að mér skriðni fótur.' 38.18 Því að ég er að falli kominn, og þjáningar mínar eru mér æ fyrir augum. 38.19 Ég játa misgjörð mína, harma synd mína, 38.20 og þeir sem án saka eru óvinir mínir, eru margir, fjölmargir þeir er hata mig að ástæðulausu. 38.21 Þeir gjalda mér gott með illu, sýna mér fjandskap, af því ég legg stund á það sem gott er. 38.22 Yfirgef mig ekki, Drottinn, Guð minn, ver ekki fjarri mér, 38.23 skunda til liðs við mig, Drottinn, þú hjálp mín.
39.1 Til söngstjórans, eftir Jedútún. Davíðssálmur. 39.2 Ég sagði: 'Ég vil gefa gætur að vegum mínum, að ég drýgi eigi synd með tungunni, ég vil leggja haft á munn minn, meðan hinn illgjarni er í nánd við mig.' 39.3 Ég var hljóður og þagði, en kvöl mín ýfðist. 39.4 Hjartað brann í brjósti mér, við andvörp mín logaði eldurinn upp, ég sagði: 39.5 'Lát mig, Drottinn, sjá afdrif mín og hvað mér er útmælt af dögum, lát mig sjá, hversu skammær ég er. 39.6 Sjá, örfáar þverhendur hefir þú gjört daga mína, og ævi mín er sem ekkert fyrir þér. Andgustur einn eru allir menn. [Sela] 39.7 Sem tómur skuggi gengur maðurinn um, gjörir háreysti um hégómann einan, hann safnar í hrúgur, en veit eigi hver þær hlýtur.' 39.8 Hvers vona ég þá, Drottinn? Von mín er öll á þér. 39.9 Frelsa mig frá öllum syndum mínum, lát mig eigi verða heimskingjum að spotti. 39.10 Ég þegi, ég opna eigi munninn, því að þú hefir talað. 39.11 Lát plágu þína víkja frá mér, ég verð að engu fyrir krafti handar þinnar. 39.12 Þá er þú beitir hirtingu við manninn fyrir misgjörð hans, lætur þú yndisleik hans eyðast, sem mölur væri. Andgustur einn eru allir menn. [Sela] 39.13 Heyr bæn mína, Drottinn, og hlýð á kvein mitt, ver eigi hljóður við tárum mínum, því að ég er aðkomandi hjá þér, útlendingur eins og allir feður mínir. 39.14 Lít af mér, svo að hýrna megi yfir mér, áður en ég fer burt og er eigi til framar.
40.1 Til söngstjórans. Davíðssálmur. 40.2 Ég hefi sett alla von mína á Drottin, og hann laut niður að mér og heyrði kvein mitt. 40.3 Hann dró mig upp úr glötunargröfinni, upp úr hinni botnlausu leðju, og veitti mér fótfestu á kletti, gjörði mig styrkan í gangi. 40.4 Hann lagði mér ný ljóð í munn, lofsöng um Guð vorn. Margir sjá það og óttast og treysta Drottni. 40.5 Sæll er sá maður, er gjörir Drottin að athvarfi sínu og snýr sér eigi til hinna dramblátu né þeirra er snúist hafa afleiðis til lygi. 40.6 Mörg hefir þú, Drottinn, Guð minn, gjört dásemdarverk þín og áform þín oss til handa, ekkert kemst í samjöfnuð við þig. Ef ég ætti að boða þau og kunngjöra, eru þau fleiri en tölu verði á komið. 40.7 Á sláturfórnum og matfórnum hefir þú enga þóknun, _ þú hefir gefið mér opin eyru _ brennifórnir og syndafórnir heimtar þú eigi. 40.8 Þá mælti ég: 'Sjá, ég kem, í bókrollunni eru mér reglur settar. 40.9 Að gjöra vilja þinn, Guð minn, er mér yndi, og lögmál þitt er hið innra í mér.' 40.10 Ég hefi boðað réttlætið í miklum söfnuði, ég hefi eigi haldið vörunum aftur, það veist þú, Drottinn! 40.11 Ég leyndi eigi réttlæti þínu í hjarta mér, ég kunngjörði trúfesti þína og hjálpræði og dró eigi dul á náð þína og tryggð í hinum mikla söfnuði. 40.12 Tak þá eigi miskunn þína frá mér, Drottinn, lát náð þína og trúfesti ætíð vernda mig. 40.13 Því að ótal hættur umkringja mig, misgjörðir mínar hafa náð mér, svo að ég má eigi sjá, þær eru fleiri en hárin á höfði mér, mér fellst hugur. 40.14 Lát þér, Drottinn, þóknast að frelsa mig, skunda, Drottinn, mér til hjálpar. 40.15 Lát þá verða til skammar og hljóta kinnroða, er sitja um líf mitt, lát þá hverfa aftur með skömm, er óska mér ógæfu. 40.16 Lát þá verða forviða yfir smán sinni, er hrópa háð og spé. 40.17 En allir þeir er leita þín skulu gleðjast og fagna yfir þér, þeir er unna hjálpræði þínu skulu sífellt segja: 'Vegsamaður sé Drottinn!' 40.18 Ég er hrjáður og snauður, en Drottinn ber umhyggju fyrir mér. Þú ert fulltingi mitt og frelsari, tef eigi, Guð minn!
41.1 Til söngstjórans. Davíðssálmur. 41.2 Sæll er sá er gefur gaum að bágstöddum, á mæðudeginum bjargar Drottinn honum. 41.3 Drottinn varðveitir hann og lætur hann njóta lífs og sælu í landinu. Og eigi ofurselur þú hann græðgi óvina hans. 41.4 Drottinn styður hann á sóttarsænginni, þegar hann er sjúkur, breytir þú beð hans í hvílurúm. 41.5 Ég sagði: 'Ver mér náðugur, Drottinn, lækna sál mína, því að ég hefi syndgað móti þér.' 41.6 Óvinir mínir biðja mér óbæna: 'Hvenær skyldi hann deyja og nafn hans hverfa?' 41.7 Og ef einhver kemur til þess að vitja mín, talar hann tál. Hjarta hans safnar að sér illsku, hann fer út og lætur dæluna ganga. 41.8 Allir hatursmenn mínir hvískra um mig, þeir hyggja á illt mér til handa: 41.9 'Hann er altekinn helsótt, hann er lagstur og rís eigi upp framar.' 41.10 Jafnvel sá er ég lifði í sátt við, sá er ég treysti, sá er etið hefir af mat mínum, lyftir hæl sínum í móti mér. 41.11 En þú, Drottinn, ver mér náðugur og lát mig aftur rísa á fætur, að ég megi endurgjalda þeim. 41.12 Af því veit ég, að þú hefir þóknun á mér, að óvinur minn hlakkar ekki yfir mér. 41.13 Vegna sakleysis míns hélst þú mér uppi og lætur mig standa frammi fyrir augliti þínu að eilífu. _________ 41.14 Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, frá eilífð til eilífðar. Amen. Amen.
42.1 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl. 42.2 Eins og hindin, sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó Guð. 42.3 Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði. Hvenær mun ég fá að koma og birtast fyrir augliti Guðs? 42.4 Tár mín urðu fæða mín dag og nótt, af því menn segja við mig allan daginn: 'Hvar er Guð þinn?' 42.5 Um það vil ég hugsa og úthella sál minni, sem í mér er, hversu ég gekk fram í mannþrönginni, leiddi þá til Guðs húss með fagnaðarópi og lofsöng, með hátíðaglaumi. 42.6 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn. 42.7 Guð minn, sál mín er beygð í mér, fyrir því vil ég minnast þín frá Jórdan- og Hermonlandi, frá litla fjallinu. 42.8 Eitt flóðið kallar á annað, þegar fossar þínir duna, allir boðar þínir og bylgjur ganga yfir mig. 42.9 Um daga býður Drottinn út náð sinni, og um nætur syng ég honum ljóð, bæn til Guðs lífs míns. 42.10 Ég mæli til Guðs: 'Þú bjarg mitt, hví hefir þú gleymt mér? hví verð ég að ganga harmandi, kúgaður af óvinum?' 42.11 Háð fjandmanna minna er sem rotnun í beinum mínum, er þeir segja við mig allan daginn: 'Hvar er Guð þinn?' 42.12 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
43.1 Lát mig ná rétti mínum, Guð, berst fyrir málefni mínu gegn miskunnarlausri þjóð, bjarga mér frá svikulum og ranglátum mönnum. 43.2 Því að þú ert sá Guð, sem er mér vígi, hví hefir þú útskúfað mér? hví verð ég að ganga um harmandi, kúgaður af óvinum? 43.3 Send ljós þitt og trúfesti þína, þau skulu leiða mig, þau skulu fara með mig til fjallsins þíns helga, til bústaðar þíns, 43.4 svo að ég megi inn ganga að altari Guðs, til Guðs minnar fagnandi gleði, og lofa þig með gígjuhljómi, ó Guð, þú Guð minn. 43.5 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
44.1 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl. 44.2 Guð, með eyrum vorum höfum vér heyrt, feður vorir hafa sagt oss frá dáð þeirri, er þú drýgðir á dögum þeirra, frá því, er þú gjörðir forðum daga. 44.3 Þú stökktir burt þjóðum, en gróðursettir þá, þú lékst lýði harðlega, en útbreiddir þá. 44.4 Eigi unnu þeir landið með sverðum sínum, og eigi hjálpaði armleggur þeirra þeim, heldur hægri hönd þín og armleggur þinn og ljós auglitis þíns, því að þú hafðir þóknun á þeim. 44.5 Þú einn ert konungur minn, ó Guð, bjóð út hjálp Jakobsætt til handa. 44.6 Fyrir þína hjálp rekum vér fjandmenn vora undir, og fyrir þitt nafn troðum vér mótstöðumenn vora fótum. 44.7 Ég treysti eigi boga mínum, og sverð mitt veitir mér eigi sigur, 44.8 heldur veitir þú oss sigur yfir fjandmönnum vorum og lætur hatursmenn vora verða til skammar. 44.9 Af Guði hrósum vér oss ætíð og lofum nafn þitt að eilífu. [Sela] 44.10 Og þó hefir þú útskúfað oss og látið oss verða til skammar og fer eigi út með hersveitum vorum. 44.11 Þú lætur oss hörfa undan fjandmönnum, og hatursmenn vorir taka herfang. 44.12 Þú selur oss fram sem fénað til slátrunar og tvístrar oss meðal þjóðanna. 44.13 Þú selur lýð þinn fyrir gjafverð, tekur ekkert verð fyrir hann. 44.14 Þú lætur oss verða til háðungar nágrönnum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss. 44.15 Þú gjörir oss að orðskvið meðal lýðanna, lætur þjóðirnar hrista höfuðið yfir oss. 44.16 Stöðuglega stendur smán mín mér fyrir sjónum, og skömm hylur auglit mitt, 44.17 af því ég verð að heyra spott og lastmæli og horfa á óvininn og hinn hefnigjarna. 44.18 Allt þetta hefir mætt oss, og þó höfum vér eigi gleymt þér og eigi rofið sáttmála þinn. 44.19 Hjarta vort hefir eigi horfið frá þér né skref vor beygt út af vegi þínum, 44.20 en samt hefir þú kramið oss sundur á stað sjakalanna og hulið oss niðdimmu. 44.21 Ef vér hefðum gleymt nafni Guðs vors og fórnað höndum til útlendra guða, 44.22 mundi Guð eigi verða þess áskynja, hann sem þekkir leyndarmál hjartans? 44.23 En þín vegna erum vér stöðugt drepnir, erum metnir sem sláturfé. 44.24 Vakna! Hví sefur þú, Drottinn? Vakna, útskúfa oss eigi um aldur! 44.25 Hví hylur þú auglit þitt, gleymir eymd vorri og kúgun? 44.26 Sál vor er beygð í duftið, líkami vor loðir við jörðina. 44.27 Rís upp, veit oss lið og frelsa oss sakir miskunnar þinnar.
45.1 Til söngstjórans. Lag: Liljur. Kóraítamaskíl. Brúðkaupskvæði. 45.2 Hjarta mitt svellur af ljúfum orðum, ég flyt konungi kvæði mitt, tunga mín er sem penni hraðritarans. 45.3 Fegurri ert þú en mannanna börn, yndisleik er úthellt yfir varir þínar, fyrir því hefir Guð blessað þig að eilífu. 45.4 Gyrð lendar þínar sverði, þú hetja, ljóma þínum og vegsemd. 45.5 Sæk fram sigursæll sakir tryggðar og réttlætis, hægri hönd þín mun sýna þér ógurlega hluti. 45.6 Örvar þínar eru hvesstar, þjóðir falla að fótum þér, fjandmenn konungs eru horfnir. 45.7 Hásæti þitt er Guðs hásæti um aldur og ævi, sproti ríkis þíns er réttlætis-sproti. 45.8 Þú elskar réttlæti og hatar ranglæti, fyrir því hefir Guð, þinn Guð, smurt þig með fagnaðarolíu framar félögum þínum. 45.9 Myrra og alóe og kassía eru öll þín klæði, frá fílabeinshöllinni gleður strengleikurinn þig. 45.10 Konungadætur eru meðal vildarkvenna þinna, konungsbrúðurin stendur þér til hægri handar í skrúða Ófír-gulls. 45.11 'Heyr, dóttir, og hneig eyra þitt! Gleym þjóð þinni og föðurlandi, 45.12 að konungi megi renna hugur til fegurðar þinnar, því að hann er herra þinn og honum átt þú að lúta. 45.13 Frá Týrus munu menn koma með gjafir, auðugustu menn lýðsins leita hylli þinnar.' 45.14 Eintómt skraut er konungsdóttirin, perlum sett og gullsaumi eru klæði hennar. 45.15 Í glitofnum klæðum er hún leidd fyrir konung, meyjar fylgja henni, vinkonur hennar eru færðar fram fyrir þig. 45.16 Þær eru leiddar inn með fögnuði og gleði, þær fara inn í höll konungs. 45.17 Í stað feðra þinna komi synir þínir, þú munt gjöra þá að höfðingjum um land allt. 45.18 Ég vil gjöra nafn þitt minnisstætt öllum komandi kynslóðum, þess vegna skulu þjóðir lofa þig um aldur og ævi.
46.1 Til söngstjórans. Eftir Kóraíta. Fyrir kvenraddir. Ljóð. 46.2 Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum. 46.3 Fyrir því hræðumst vér eigi, þótt jörðin haggist og fjöllin bifist og steypist í skaut sjávarins. 46.4 Látum vötnin gnýja og freyða, látum fjöllin gnötra fyrir æðigangi hafsins. [Sela] 46.5 Elfar-kvíslir gleðja Guðs borg, heilagan bústað Hins hæsta. 46.6 Guð býr í henni, eigi mun hún bifast, Guð hjálpar henni, þegar birtir af degi. 46.7 Þjóðir gnúðu, ríki riðuðu, raust hans þrumaði, jörðin nötraði. 46.8 Drottinn hersveitanna er með oss, Jakobs Guð vort vígi. [Sela] 46.9 Komið, skoðið dáðir Drottins, hversu hann framkvæmir furðuverk á jörðu. 46.10 Hann stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar, brýtur bogann, slær af oddinn, brennir skjöldu í eldi. 46.11 'Verið kyrrir og viðurkennið, að ég er Guð, hátt upphafinn meðal þjóðanna, hátt upphafinn á jörðu.' 46.12 Drottinn hersveitanna er með oss, Jakobs Guð vort vígi. [Sela]
47.1 Til söngstjórans. Kóraítasálmur. 47.2 Klappið saman lófum, allar þjóðir, fagnið fyrir Guði með gleðiópi. 47.3 Því að Drottinn, Hinn hæsti, er ógurlegur, voldugur konungur yfir gjörvallri jörðinni. 47.4 Hann leggur undir oss lýði og þjóðir fyrir fætur vora. 47.5 Hann útvaldi handa oss óðal vort, fremdarhnoss Jakobs, sem hann elskar. [Sela] 47.6 Guð er upp stiginn með fagnaðarópi, með lúðurhljómi er Drottinn upp stiginn. 47.7 Syngið Guði, syngið, syngið konungi vorum, syngið! 47.8 Því að Guð er konungur yfir gjörvallri jörðinni, syngið Guði lofsöng! 47.9 Guð er orðinn konungur yfir þjóðunum, Guð er setstur í sitt heilaga hásæti. 47.10 Göfugmenni þjóðanna safnast saman ásamt lýð Abrahams Guðs. Því að Guðs eru skildir jarðarinnar, hann er mjög hátt upphafinn.
48.1 Ljóð. Kóraítasálmur. 48.2 Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur í borg vors Guðs, á sínu helga fjalli. 48.3 Yndisleg rís hún, gleði alls landsins, Síonarhæð, yst í norðri, borg hins mikla konungs. 48.4 Guð hefir í höllum hennar kunngjört sig sem vígi. 48.5 Því sjá, konungarnir áttu með sér stefnu, héldu fram saman. 48.6 Óðara en þeir sáu, urðu þeir agndofa, skelfdust, flýðu. 48.7 Felmtur greip þá samstundis, angist sem jóðsjúka konu. 48.8 Með austanvindinum brýtur þú Tarsis-knörru. 48.9 Eins og vér höfum heyrt, svo höfum vér séð í borg Drottins hersveitanna, í borg vors Guðs. Guð lætur hana standa að eilífu. [Sela] 48.10 Guð, vér ígrundum elsku þína inni í musteri þínu. 48.11 Eins og nafn þitt, Guð, svo hljómi lofgjörð þín til endimarka jarðar. Hægri hönd þín er full réttlætis. 48.12 Síonfjall gleðst, Júdadætur fagna vegna dóma þinna. 48.13 Kringið um Síon, gangið umhverfis hana, teljið turna hennar. 48.14 Hyggið að múrgirðing hennar, skoðið hallir hennar, til þess að þér getið sagt komandi kynslóð, 48.15 að slíkur sé Drottinn, Guð vor. Um aldur og ævi mun hann leiða oss.
49.1 Fyrir kvenraddir. Til söngstjórans. Kóraítasálmur. 49.2 Heyrið þetta, allar þjóðir, hlustið á, allir heimsbúar, 49.3 bæði lágir og háir, jafnt ríkir sem fátækir! 49.4 Munnur minn talar speki, og ígrundun hjarta míns er hyggindi. 49.5 Ég hneigi eyra mitt að spakmæli, ræð gátu mína við gígjuhljóm. 49.6 Hví skyldi ég óttast á mæðudögunum, þá er hinir lævísu óvinir mínir umkringja mig með illsku, 49.7 þeir sem reiða sig á auðæfi sín og stæra sig af sínu mikla ríkidæmi. 49.8 Enginn maður fær keypt bróður sinn lausan né greitt Guði lausnargjald fyrir hann. 49.9 Lausnargjaldið fyrir líf þeirra mundi verða of hátt, svo að hann yrði að hætta við það að fullu, 49.10 ætti hann að halda áfram að lifa ævinlega og líta ekki í gröfina. 49.11 Nei, hann sér, að vitrir menn deyja, að fífl og fáráðlingar farast hver með öðrum og láta öðrum eftir auðæfi sín. 49.12 Grafir verða heimkynni þeirra að eilífu, bústaðir þeirra frá kyni til kyns, jafnvel þótt þeir hafi kennt lendur við nafn sitt. 49.13 Maðurinn í allri sinni vegsemd stenst ekki, hann verður jafn skepnunum sem farast. 49.14 Svo fer þeim sem eru þóttafullir, og þeim sem fylgja þeim og hafa þóknun á tali þeirra. [Sela] 49.15 Þeir stíga niður til Heljar eins og sauðahjörð, dauðinn heldur þeim á beit, og hinir hreinskilnu drottna yfir þeim, þá er morgnar, og mynd þeirra eyðist, Hel verður bústaður þeirra. 49.16 En mína sál mun Guð endurleysa, því að hann mun hrífa mig úr greipum Heljar. [Sela] 49.17 Óttast þú ekki, þegar einhver verður ríkur, þegar dýrð húss hans verður mikil, 49.18 því að hann tekur ekkert af því með sér, þegar hann deyr, auður hans fer ekki niður þangað á eftir honum. 49.19 Hann telur sig sælan meðan hann lifir: 'Menn lofa þig, af því að þér farnast vel.' 49.20 _ Hann verður þó að fara til kynslóðar feðra sinna, sem aldrei að eilífu sjá ljósið. 49.21 Maðurinn í vegsemd, en hyggindalaus, verður jafn skepnunum sem farast.
50.1 Asafs-sálmur. Drottinn er alvaldur Guð, hann talar og kallar á jörðina frá upprás sólar til niðurgöngu hennar. 50.2 Frá Síon, ímynd fegurðarinnar, birtist Guð í geisladýrð. 50.3 Guð vor kemur og þegir ekki. Eyðandi eldur fer fyrir honum, og í kringum hann geisar stormurinn. 50.4 Hann kallar á himininn uppi og á jörðina, til þess að dæma lýð sinn: 50.5 'Safnið saman dýrkendum mínum, þeim er gjört hafa sáttmála við mig með fórnum.' 50.6 Þá kunngjörðu himnarnir réttlæti hans, því að Guð er sá sem dæmir. [Sela] 50.7 'Heyr, þjóð mín, og lát mig tala, Ísrael, og lát mig áminna þig, ég er Drottinn, Guð þinn! 50.8 Eigi er það vegna fórna þinna, að ég ávíta þig, brennifórnir þínar eru stöðuglega frammi fyrir mér. 50.9 Ég þarf ekki að taka uxa úr húsi þínu né geithafra úr stíu þinni, 50.10 því að mín eru öll skógardýrin og skepnurnar á fjöllum þúsundanna. 50.11 Ég þekki alla fugla á fjöllunum, og mér er kunnugt um allt það sem hrærist á mörkinni. 50.12 Væri ég hungraður, mundi ég ekki segja þér frá því, því að jörðin er mín og allt sem á henni er. 50.13 Et ég nauta kjöt, eða drekk ég hafra blóð? 50.14 Fær Guði þakkargjörð að fórn og gjald Hinum hæsta þannig heit þín. 50.15 Ákalla mig á degi neyðarinnar, og ég mun frelsa þig, og þú skalt vegsama mig.' 50.16 En við hinn óguðlega segir Guð: 'Hvernig dirfist þú að telja upp boðorð mín og taka sáttmála minn þér í munn, 50.17 þar sem þú þó hatar aga og varpar orðum mínum að baki þér? 50.18 Sjáir þú þjóf, leggur þú lag þitt við hann, og við hórkarla hefir þú samfélag. 50.19 Þú hleypir munni þínum út í illsku, og tunga þín bruggar svik. 50.20 Þú situr og bakmælir bróður þínum og ófrægir son móður þinnar. 50.21 Slíkt hefir þú gjört, og ég ætti að þegja? Þú heldur, að ég sé líkur þér! Ég mun hegna þér og endurgjalda þér augljóslega. 50.22 Hyggið að þessu, þér sem gleymið Guði, til þess að ég sundurrífi ekki og enginn fái bjargað. 50.23 Sá sem færir þakkargjörð að fórn, heiðrar mig, og þann sem breytir grandvarlega, vil ég láta sjá hjálpræði Guðs.'
51.1 Til söngstjórans. Sálmur Davíðs, 51.2 þá er Natan spámaður kom til hans, eftir að hann hafði gengið inn til Batsebu. 51.3 Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi. 51.4 Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni, 51.5 því að ég þekki sjálfur afbrot mín, og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum. 51.6 Gegn þér einum hefi ég syndgað og gjört það sem illt er í augum þínum. Því ert þú réttlátur, er þú talar, hreinn, er þú dæmir. 51.7 Sjá, sekur var ég, er ég varð til, syndugur, er móðir mín fæddi mig. 51.8 Sjá, þú hefir þóknun á hreinskilni hið innra, og í fylgsnum hjartans kennir þú mér visku! 51.9 Hreinsa mig með ísóp, svo að ég verði hreinn, þvo mig, svo að ég verði hvítari en mjöll. 51.10 Lát mig heyra fögnuð og gleði, lát kætast beinin sem þú hefir sundurmarið. 51.11 Byrg auglit þitt fyrir syndum mínum og afmá allar misgjörðir mínar. 51.12 Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda. 51.13 Varpa mér ekki burt frá augliti þínu og tak ekki þinn heilaga anda frá mér. 51.14 Veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis og styð mig með fúsleiks anda, 51.15 að ég megi kenna afbrotamönnum vegu þína og syndarar megi hverfa aftur til þín. 51.16 Frelsa mig frá dauðans háska, Guð hjálpræðis míns, lát tungu mína fagna yfir réttlæti þínu. 51.17 Drottinn, opna varir mínar, svo að munnur minn kunngjöri lof þitt! 51.18 Þú hefir ekki þóknun á sláturfórnum _ annars mundi ég láta þær í té _ og að brennifórnum er þér ekkert yndi. 51.19 Guði þekkar fórnir eru sundurmarinn andi, sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta. 51.20 Gjör vel við Síon sakir náðar þinnar, reis múra Jerúsalem! 51.21 Þá munt þú hafa þóknun á réttum fórnum, á brennifórn og alfórn, þá munu menn bera fram uxa á altari þitt.
52.1 Til söngstjórans. Maskíl eftir Davíð, 52.2 þá er Dóeg Edómíti kom og sagði Sál frá og mælti til hans: Davíð er kominn í hús Ahímeleks. 52.3 Hví stærir þú þig af vonskunni, harðstjóri? Miskunn Guðs varir alla daga! 52.4 Tunga þín býr yfir skaðræði, eins og beittur rakhnífur, þú svikaforkur! 52.5 Þú elskar illt meir en gott, lygi fremur en sannsögli. [Sela] 52.6 Þú elskar hvert skaðræðisorð, þú fláráða tunga! 52.7 Því mun og Guð brjóta þig niður fyrir fullt og allt, hrífa þig burt og draga þig út úr tjaldi þínu og uppræta þig úr landi lifenda. [Sela] 52.8 Hinir réttlátu munu sjá það og óttast, og þeir munu hlæja að honum: 52.9 'Þetta er maðurinn, sem ekki gjörði Guð að vernd sinni, heldur treysti á hin miklu auðæfi sín og þrjóskaðist í illsku sinni.' 52.10 En ég er sem grænt olíutré í húsi Guðs, treysti á Guðs náð um aldur og ævi. 52.11 Ég vil vegsama þig að eilífu, því að þú hefir því til vegar komið, kunngjöra fyrir augum þinna trúuðu, að nafn þitt sé gott.
53.1 Til söngstjórans. Með makalatlagi. Davíðs-maskíl. 53.2 Heimskinginn segir í hjarta sínu: 'Enginn Guð er til!' Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er. 53.3 Guð lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs. 53.4 Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er, ekki einn. 53.5 Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Guð? 53.6 Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, þar sem ekkert er að óttast, því að Guð tvístrar beinum þeirra, er setja herbúðir móti þér. Þú lætur þá verða til skammar, því að Guð hefir hafnað þeim. 53.7 Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Guð snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna, Ísrael gleðjast.
54.1 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Maskíl eftir Davíð, 54.2 þá er Sifítar komu og sögðu við Sál: Veistu að Davíð felur sig hjá oss? 54.3 Hjálpa mér, Guð, með nafni þínu, rétt hlut minn með mætti þínum. 54.4 Guð, heyr þú bæn mína, ljá eyra orðum munns míns. 54.5 Því að erlendir fjandmenn hefjast gegn mér og ofríkismenn sækjast eftir lífi mínu, eigi hafa þeir Guð fyrir augum. [Sela] 54.6 Sjá, Guð er mér hjálpari, það er Drottinn er styður mig. 54.7 Hið illa mun fjandmönnum mínum í koll koma, lát þá hverfa af trúfesti þinni. 54.8 Þá vil ég færa þér sjálfviljafórnir, lofa nafn þitt, Drottinn, að það sé gott, 54.9 því að það hefir frelsað mig úr hverri neyð, og auga mitt hefir svalað sér á að horfa á óvini mína.
55.1 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðs-maskíl. 55.2 Hlýð, ó Guð, á bæn mína, fel þig eigi fyrir grátbeiðni minni. 55.3 Veit mér athygli og svara mér. Ég kveina í harmi mínum og styn 55.4 sakir háreysti óvinarins, sakir hróps hins óguðlega, því að þeir steypa yfir mig ógæfu og ofsækja mig grimmilega. 55.5 Hjartað berst ákaft í brjósti mér, ógnir dauðans falla yfir mig, 55.6 ótti og skelfing er yfir mig komin, og hryllingur fer um mig allan, 55.7 svo að ég segi: 'Ó að ég hefði vængi eins og dúfan, þá skyldi ég fljúga burt og finna hvíldarstað, 55.8 já, ég skyldi svífa langt burt, ég skyldi gista í eyðimörkinni. [Sela] 55.9 Ég skyldi flýta mér að leita mér hælis fyrir þjótandi vindum og veðri.' 55.10 Rugla, Drottinn, sundra tungum þeirra, því að ég sé kúgun og deilur í borginni. 55.11 Dag og nótt ganga þær um á múrum hennar, en ógæfa og armæða eru þar inni fyrir. 55.12 Glötun er inni í henni, ofbeldi og svik víkja eigi burt frá torgi hennar. 55.13 Því að það er eigi óvinur sem hæðir mig _ það gæti ég þolað, og eigi hatursmaður minn er hreykir sér yfir mig _ fyrir honum gæti ég farið í felur, 55.14 heldur þú, jafningi minn, vinur minn og kunningi, 55.15 við sem vorum ástúðarvinir, sem gengum í eindrægni saman í Guðs hús. 55.16 Dauðinn komi yfir þá; stígi þeir lifandi niður til Heljar, því að illska er í bústöðum þeirra, í hjörtum þeirra. 55.17 En ég hrópa til Guðs, og Drottinn mun hjálpa mér. 55.18 Kvöld og morgna og um miðjan dag harma ég og styn, og hann heyrir raust mína. 55.19 Hann endurleysir sál mína og gefur mér frið, svo að þeir geta eigi nálgast mig, því að mótstöðumenn mínir eru margir. 55.20 Guð mun heyra, og hann er ríkir frá eilífð mun lægja þá. [Sela] Þeir breytast ekki og óttast eigi Guð. 55.21 Vinur minn lagði hendur á þann er lifði í sátt við hann, hann rauf sáttmál sitt. 55.22 Hálli en smjör er tunga hans, en ófriður er í hjarta hans, mýkri en olía eru orð hans, og þó brugðin sverð. 55.23 Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér, hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum. 55.24 Og þú, ó Guð, munt steypa þeim niður í grafardjúpið. Morðingjar og svikarar munu eigi ná hálfum aldri, en ég treysti þér.
56.1 Til söngstjórans. Lag: Dúfan í fjarlægum eikilundi. Miktam eftir Davíð, þá er Filistar gripu hann í Gat. 56.2 Ver mér náðugur, Guð, því að menn kremja mig, liðlangan daginn kreppa bardagamenn að mér. 56.3 Fjandmenn mínir kremja mig liðlangan daginn, því að margir eru þeir, sem berjast gegn mér. 56.4 Þegar ég er hræddur, treysti ég þér. 56.5 Með Guðs hjálp mun ég lofa orð hans, Guði treysti ég, ég óttast eigi. Hvað getur hold gjört mér? 56.6 Þeir spilla málefnum mínum án afláts, allt það er þeir hafa hugsað í gegn mér, er til ills. 56.7 Þeir áreita mig, þeir sitja um mig, þeir gefa gætur að ferðum mínum, eins og þeir væntu eftir að ná lífi mínu. 56.8 Sakir ranglætis þeirra verður þeim engrar undankomu auðið, steyp þjóðunum í reiði þinni, ó Guð. 56.9 Þú hefir talið hrakninga mína, tárum mínum er safnað í sjóð þinn, já, rituð í bók þína. 56.10 Fyrir því skulu óvinir mínir hörfa undan, er ég hrópa, það veit ég, að Guð liðsinnir mér. 56.11 Með Guðs hjálp mun ég lofa orð hans, með hjálp Drottins mun ég lofa orð hans. 56.12 Guði treysti ég, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér? 56.13 Á mér hvíla, ó Guð, heit við þig, ég vil gjalda þér þakkarfórnir, 56.14 af því þú hefir frelsað sál mína frá dauða og fætur mína frá hrösun, svo að ég megi ganga frammi fyrir Guði í ljósi lífsins.
57.1 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Miktam eftir Davíð, þá er hann flýði inn í hellinn fyrir Sál. 57.2 Ver mér náðugur, ó Guð, ver mér náðugur! Því að hjá þér leitar sál mín hælis, og í skugga vængja þinna vil ég hælis leita, uns voðinn er liðinn hjá. 57.3 Ég hrópa til Guðs, hins hæsta, þess Guðs, er kemur öllu vel til vegar fyrir mig. 57.4 Hann sendir af himni og hjálpar mér, þegar sá er kremur mig spottar. [Sela] Guð sendir náð sína og trúfesti. 57.5 Ég verð að liggja meðal ljóna, er eldi fnæsa. Tennur þeirra eru spjót og örvar, og tungur þeirra eru bitur sverð. 57.6 Sýn þig himnum hærri, ó Guð, dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina! 57.7 Þeir hafa lagt net fyrir fætur mína, sál mín er beygð. Þeir hafa grafið gryfju fyrir framan mig, sjálfir falla þeir í hana. [Sela] 57.8 Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, hjarta mitt er stöðugt, ég vil syngja og leika. 57.9 Vakna þú, sál mín, vakna þú, harpa og gígja, ég vil vekja morgunroðann. 57.10 Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn, vegsama þig meðal þjóðanna, 57.11 því að miskunn þín nær til himna og trúfesti þín til skýjanna. 57.12 Sýn þig himnum hærri, ó Guð, dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina.
58.1 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Davíðs-miktam. 58.2 Talið þér í sannleika það sem rétt er, þér guðir? Dæmið þér mennina með sanngirni? 58.3 Nei, allir aðhafist þér ranglæti á jörðu, hendur yðar vega út ofbeldi. 58.4 Hinir illu eru frá móðurlífi viknir af leið, lygarar fara villir vegar frá móðurskauti. 58.5 Eitur þeirra er eins og höggormseitur, þeir eru eins og dauf naðra, sem lokar eyrunum 58.6 til þess að heyra ekki raust særingamannsins né hins slungna töframanns. 58.7 Guð, brjót sundur tennurnar í munni þeirra, mölva jaxlana úr ljónunum, Drottinn! 58.8 Lát þá hverfa eins og vatn, sem rennur burt; miði hann örvum sínum á þá, þá hníga þeir, 58.9 eins og snigillinn, sem rennur í sundur og hverfur, ótímaburður konunnar, er eigi sá sólina. 58.10 Áður en pottar yðar kenna hitans af þyrnunum, hvort sem þyrnarnir eru grænir eða glóandi, feykir hann hinum illa burt. 58.11 Þá mun hinn réttláti fagna, af því að hann hefir fengið að sjá hefndina, hann mun lauga fætur sína í blóði hinna óguðlegu. 58.12 Þá munu menn segja: Hinn réttláti hlýtur þó ávöxt; það er þó til Guð, sem dæmir á jörðunni.
59.1 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Miktam eftir Davíð, þá er Sál sendi menn og þeir héldu vörð um húsið til þess að drepa hann. 59.2 Frelsa mig frá óvinum mínum, Guð minn, bjarga mér frá fjendum mínum. 59.3 Frelsa mig frá illgjörðamönnunum og hjálpa mér gegn morðingjunum, 59.4 því sjá, þeir sitja um líf mitt, hinir sterku áreita mig, þótt ég hafi ekki brotið eða syndgað, Drottinn. 59.5 Þótt ég hafi eigi misgjört, hlaupa þeir að og búast til áhlaups. Vakna þú mér til liðveislu og lít á! 59.6 En þú, Drottinn, Guð hersveitanna, Ísraels Guð, vakna þú til þess að vitja allra þjóðanna, þyrm eigi neinum fráhverfum syndara. [Sela] 59.7 Á hverju kvöldi koma þeir aftur, ýlfra eins og hundar og sveima um borgina. 59.8 Sjá, það freyðir úr munni þeirra, sverð eru á vörum þeirra, því að _ 'Hver heyrir?' 59.9 En þú, Drottinn, hlærð að þeim, þú gjörir gys að öllum þjóðunum. 59.10 Vígi mitt, um þig vil ég kveða, því að Guð er háborg mín. 59.11 Guð kemur í móti mér með náð sinni, Guð lætur mig sjá óvini mína auðmýkta. 59.12 Drep þá eigi, svo að lýður minn gleymi eigi, lát þá reika fyrir veldi þínu og steyp þeim af stóli, þú Drottinn, skjöldur vor, 59.13 sakir syndar munns þeirra, orðsins af vörum þeirra, og lát þá verða veidda í hroka þeirra, og sakir formælinga þeirra og lygi, er þeir tala. 59.14 Afmá þá í reiði, afmá þá, uns þeir eru eigi framar til, og lát þá kenna á því, að Guð ríkir yfir Jakobsætt, allt til endimarka jarðar. [Sela] 59.15 Á hverju kveldi koma þeir aftur, ýlfra eins og hundar og sveima um borgina. 59.16 Þeir reika um eftir æti og urra, ef þeir verða eigi saddir. 59.17 En ég vil kveða um mátt þinn og fagna yfir náð þinni á hverjum morgni, því að þú hefir gjörst háborg mín og athvarf á degi neyðar minnar. 59.18 Vígi mitt, um þig vil ég kveða, því að Guð er háborg mín, minn miskunnsami Guð.
60.1 Til söngstjórans. Lag: Vitnisburðarliljan. Miktam eftir Davíð, til fræðslu, 60.2 þá er hann barðist við Sýrlendinga frá Mesópotamíu og Sýrlendinga frá Sóba, og Jóab sneri við og vann sigur á Edómítum í Saltdalnum, tólf þúsund manns. 60.3 Guð, þú hefir útskúfað oss og tvístrað oss, þú reiddist oss _ snú þér aftur að oss. 60.4 Þú lést jörðina gnötra og rofna, gjör við sprungur hennar, því að hún reikar. 60.5 Þú lést lýð þinn kenna á hörðu, lést oss drekka vímuvín. 60.6 Þú hefir gefið þeim, er óttast þig, hermerki, að þeir mættu flýja undan bogunum. [Sela] 60.7 Hjálpa þú með hægri hendi þinni og bænheyr oss, til þess að ástvinir þínir megi frelsast. 60.8 Guð hefir sagt í helgidómi sínum: 'Ég vil fagna, ég vil skipta Síkem, mæla út Súkkót-dal. 60.9 Ég á Gíleað og ég á Manasse, og Efraím er hlíf höfði mínu, Júda veldissproti minn. 60.10 Móab er mundlaug mín, í Edóm fleygi ég skónum mínum, yfir Filisteu fagna ég.' 60.11 Hver vill fara með mig í örugga borg, hver vill flytja mig til Edóm? 60.12 Þú hefir útskúfað oss, ó Guð, og þú, Guð, fer eigi út með hersveitum vorum. 60.13 Veit oss lið gegn fjandmönnunum, því að mannahjálp er ónýt. 60.14 Með Guðs hjálp munum vér hreystiverk vinna, og hann mun troða óvini vora fótum.
61.1 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Eftir Davíð. 61.2 Heyr, ó Guð, hróp mitt, gef gaum bæn minni. 61.3 Frá endimörkum jarðar hrópa ég til þín, meðan hjarta mitt örmagnast. Hef mig upp á bjarg það, sem mér er of hátt. 61.4 Leið mig, því að þú ert orðinn mér hæli, öruggt vígi gegn óvinum. 61.5 Lát mig gista í tjaldi þínu um eilífð, leita hælis í skjóli vængja þinna. [Sela] 61.6 Því að þú, ó Guð, hefir heyrt heit mín, þú hefir uppfyllt óskir þeirra er óttast nafn þitt. 61.7 Þú munt lengja lífdaga konungs, láta ár hans vara frá kyni til kyns. 61.8 Hann skal sitja um eilífð frammi fyrir Guði, lát miskunn og trúfesti varðveita hann. 61.9 Þá vil ég lofsyngja nafni þínu um aldur, og efna heit mín dag frá degi.
62.1 Til söngstjórans. Fyrir Jedútún. Davíðssálmur. 62.2 Bíð róleg eftir Guði, sála mín, frá honum kemur hjálpræði mitt. 62.3 Hann einn er klettur minn og hjálpræði, háborg mín _ ég verð eigi valtur á fótum. 62.4 Hversu lengi ætlið þér að ryðjast allir saman gegn einum manni til að fella hann eins og hallan vegg, eins og hrynjandi múr? 62.5 Þeir ráðgast um það eitt að steypa honum úr tign hans, þeir hafa yndi af lygi, þeir blessa með munninum, en bölva í hjartanu. [Sela] 62.6 Bíð róleg eftir Guði, sála mín, því að frá honum kemur von mín. 62.7 Hann einn er klettur minn og hjálpræði, háborg mín _ ég verð eigi valtur á fótum. 62.8 Hjá Guði er hjálpræði mitt og vegsemd, minn örugga klett og hæli mitt hefi ég í Guði. 62.9 Treyst honum, allur þjóðsöfnuðurinn, úthellið hjörtum yðar fyrir honum, Guð er vort hæli. [Sela] 62.10 Hégóminn einn eru mennirnir, tál eru mannanna börn, á metaskálunum lyftast þeir upp, einber hégómi eru þeir allir saman. 62.11 Treystið eigi ránfeng og alið eigi fánýta von til rændra muna, þótt auðurinn vaxi, þá gefið því engan gaum. 62.12 Eitt sinn hefir Guð talað, tvisvar hefi ég heyrt það: 'Hjá Guði er styrkleikur.' 62.13 Já, hjá þér, Drottinn, er miskunn, því að þú geldur sérhverjum eftir verkum hans.
63.1 Sálmur eftir Davíð, þá er hann var í Júda-eyðimörk. 63.2 Drottinn, þú ert minn Guð, þín leita ég, sál mína þyrstir eftir þér, hold mitt þráir þig, í þurru landi, örþrota af vatnsleysi. 63.3 Þannig hefi ég litast um eftir þér í helgidóminum til þess að sjá veldi þitt og dýrð, 63.4 því að miskunn þín er mætari en lífið. Varir mínar skulu vegsama þig. 63.5 Þannig skal ég lofa þig meðan lifi, hefja upp hendurnar í þínu nafni. 63.6 Sál mín mettast sem af merg og feiti, og með fagnandi vörum lofar þig munnur minn, 63.7 þá er ég minnist þín í hvílu minni, hugsa um þig á næturvökunum. 63.8 Því að þú ert mér fulltingi, í skugga vængja þinna fagna ég. 63.9 Sál mín heldur sér fast við þig, hægri hönd þín styður mig. 63.10 Þeir sem sitja um líf mitt sjálfum sér til glötunar, munu hverfa í djúp jarðar. 63.11 Þeir munu verða ofurseldir sverðseggjum, verða sjakölunum að bráð. 63.12 Konungurinn skal gleðjast yfir Guði, hver sá er sver við hann, skal sigri hrósa, af því að munni lygaranna hefir verið lokað.
64.1 Til söngstjórans. Davíðssálmur. 64.2 Heyr, ó Guð, raust mína, er ég kveina, varðveit líf mitt fyrir ógnum óvinarins. 64.3 Skýl mér fyrir bandalagi bófanna, fyrir óaldarflokki illvirkjanna, 64.4 er hvetja tungur sínar sem sverð, leggja örvar sínar, beiskyrðin, á streng 64.5 til þess að skjóta í leyni á hinn ráðvanda, skjóta á hann allt í einu, hvergi hræddir. 64.6 Þeir binda fastmælum með sér ill áform, tala um að leggja leynisnörur, þeir hugsa: 'Hver ætli sjái það?' 64.7 Þeir upphugsa ranglæti: 'Vér erum tilbúnir, vel ráðin ráð!' því að hugskot hvers eins og hjarta er fullt véla. 64.8 Þá lýstur Guð þá með örinni, allt í einu verða þeir sárir, 64.9 og tunga þeirra verður þeim að falli. Allir þeir er sjá þá, munu hrista höfuðið. 64.10 Þá mun hver maður óttast og kunngjöra dáðir Guðs og gefa gætur að verkum hans. 64.11 Hinn réttláti mun gleðjast yfir Drottni og leita hælis hjá honum, og allir hjartahreinir munu sigri hrósa.
65.1 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð. 65.2 Þér ber lofsöngur, Guð, á Síon, og við þig séu heitin efnd. 65.3 Þú sem heyrir bænir, til þín kemur allt hold. 65.4 Margvíslegar misgjörðir urðu mér yfirsterkari, en þú fyrirgafst afbrot vor. 65.5 Sæll er sá er þú útvelur og lætur nálægjast þig til þess að búa í forgörðum þínum, að vér megum seðjast af gæðum húss þíns, helgidómi musteris þíns. 65.6 Með óttalegum verkum svarar þú oss í réttlæti, þú Guð hjálpræðis vors, þú athvarf allra jarðarinnar endimarka og fjarlægra stranda, 65.7 þú sem festir fjöllin með krafti þínum, gyrtur styrkleika, 65.8 þú sem stöðvar brimgný hafsins, brimgnýinn í bylgjum þess og háreystina í þjóðunum, 65.9 svo að þeir er búa við endimörk jarðar óttast tákn þín, austrið og vestrið lætur þú fagna. 65.10 Þú hefir vitjað landsins og vökvað það, blessað það ríkulega með læk Guðs, fullum af vatni, þú hefir framleitt korn þess, því að þannig hefir þú gjört það úr garði. 65.11 Þú hefir vökvað plógför þess, jafnað plóggarða þess, með regnskúrum hefir þú mýkt það, blessað gróður þess. 65.12 Þú hefir krýnt árið með gæsku þinni, og vagnspor þín drjúpa af feiti. 65.13 Það drýpur af heiðalöndunum, og hæðirnar girðast fögnuði. 65.14 Hagarnir klæðast hjörðum, og dalirnir hyljast korni. Allt fagnar og syngur.
66.1 Til söngstjórans. Ljóð. Sálmur. Fagnið fyrir Guði, gjörvallt jarðríki, 66.2 syngið um hans dýrlega nafn, gjörið lofstír hans vegsamlegan. 66.3 Mælið til Guðs: Hversu óttaleg eru verk þín, sakir mikilleiks máttar þíns hræsna óvinir þínir fyrir þér. 66.4 Öll jörðin lúti þér og lofsyngi þér, lofsyngi nafni þínu. [Sela] 66.5 Komið og sjáið verkin Guðs, sem er óttalegur í breytni sinni gagnvart mönnunum. 66.6 Hann breytti hafinu í þurrlendi, þeir fóru fótgangandi yfir ána. Þá glöddumst vér yfir honum. 66.7 Hann ríkir um eilífð sakir veldis síns, augu hans gefa gætur að þjóðunum, uppreistarmenn mega eigi láta á sér bæra. [Sela] 66.8 Þér lýðir, lofið Guð vorn og látið hljóma lofsöng um hann. 66.9 Hann veitti sálum vorum lífið og lét oss eigi verða valta á fótum. 66.10 Því að þú hefir rannsakað oss, ó Guð, hreinsað oss, eins og silfur er hreinsað. 66.11 Þú hefir varpað oss í fangelsi, lagt byrði á lendar vorar. 66.12 Þú hefir látið menn ganga yfir höfuð vor, vér höfum farið gegnum eld og vatn, en nú hefir þú leitt oss út á víðan vang. 66.13 Ég kem í hús þitt með brennifórnir, efni heit mín við þig, 66.14 þau er varir mínar hétu og munnur minn nefndi, þá er ég var í nauðum staddur. 66.15 Ég færi þér brennifórn af feitum dýrum, ásamt fórnarilm af hrútum, ég fórna nautum og höfrum. [Sela] 66.16 Komið, hlýðið til, allir þér er óttist Guð, að ég megi segja frá, hvað hann hefir gjört fyrir mig. 66.17 Til hans hrópaði ég með munni mínum, en lofgjörð lá undir tungu minni. 66.18 Ef ég hygg á illt í hjarta mínu, þá heyrir Drottinn ekki. 66.19 En Guð hefir heyrt, gefið gaum að bænarópi mínu. 66.20 Lofaður sé Guð, er eigi vísaði bæn minni á bug né tók miskunn sína frá mér.
67.1 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Sálmur. Ljóð. 67.2 Guð sé oss náðugur og blessi oss, hann láti ásjónu sína lýsa meðal vor, [Sela] 67.3 svo að þekkja megi veg þinn á jörðunni og hjálpræði þitt meðal allra þjóða. 67.4 Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa. 67.5 Gleðjast og fagna skulu þjóðirnar, því að þú dæmir lýðina réttvíslega og leiðir þjóðirnar á jörðunni. [Sela] 67.6 Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa. 67.7 Jörðin hefir gefið ávöxt sinn, Guð, vor Guð, blessar oss. 67.8 Guð blessi oss, svo að öll endimörk jarðar megi óttast hann.
68.1 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð. 68.2 Guð rís upp, óvinir hans tvístrast, þeir sem hata hann flýja fyrir augliti hans. 68.3 Eins og reykur eyðist, eyðast þeir, eins og vax bráðnar í eldi, tortímast óguðlegir fyrir augliti Guðs. 68.4 En réttlátir gleðjast, fagna fyrir augliti Guðs og kætast stórum. 68.5 Syngið fyrir Guði, vegsamið nafn hans, leggið braut fyrir hann er ekur gegnum öræfin. Drottinn heitir hann, fagnið fyrir augliti hans. 68.6 Hann er faðir föðurlausra, vörður ekknanna, Guð í sínum heilaga bústað. 68.7 Guð lætur hina einmana hverfa heim aftur, hann leiðir hina fjötruðu út til hamingju, en uppreisnarseggir skulu búa í hrjóstrugu landi. 68.8 Ó Guð, þegar þú fórst út á undan lýð þínum, þegar þú brunaðir fram um öræfin, [Sela] 68.9 þá nötraði jörðin, og himnarnir drupu fyrir Guði, Drottni frá Sínaí, fyrir Guði, Ísraels Guði. 68.10 Ríkulegu regni dreyptir þú, ó Guð, á arfleifð þína, það sem vanmegnaðist, styrktir þú. 68.11 Staðinn þar sem söfnuður þinn dvelur, bjóst þú hinum hrjáðu, ó Guð, sakir gæsku þinnar. 68.12 Drottinn lætur orð sín rætast, konurnar sem sigur boða eru mikill her: 68.13 'Konungar hersveitanna flýja, þeir flýja, en hún sem heima situr skiptir herfangi. 68.14 Hvort viljið þér liggja milli fjárgirðinganna? Vængir dúfunnar eru lagðir silfri og fjaðrir hennar íbleiku gulli.' 68.15 Þegar Hinn almáttki tvístraði konungunum, þá snjóaði á Salmon. 68.16 Guðs fjall er Basansfjall, tindafjall er Basansfjall. 68.17 Hví lítið þér, tindafjöll, öfundarauga það fjall er Guð hefir kjörið sér til bústaðar, þar sem Drottinn samt mun búa um eilífð? 68.18 Hervagnar Guðs eru tíþúsundir, þúsundir á þúsundir ofan. Hinn alvaldi kom frá Sínaí til helgidómsins. 68.19 Þú steigst upp til hæða, hafðir á burt bandingja, tókst við gjöfum frá mönnum, jafnvel uppreisnarmönnum, að þú, Drottinn, Guð, mættir búa þar. 68.20 Lofaður sé Drottinn, er ber oss dag eftir dag, Guð er hjálpráð vort. [Sela] 68.21 Guð er oss hjálpræðisguð, og Drottinn alvaldur bjargar frá dauðanum. 68.22 Já, Guð sundurmolar höfuð óvina sinna, hvirfil þeirra, er ganga í sekt sinni. 68.23 Drottinn hefir sagt: 'Ég vil sækja þá til Basan, flytja þá frá djúpi hafsins, 68.24 að þú megir troða þá til bana, að tungur hunda þinna megi fá sinn hlut af óvinunum.' 68.25 Menn horfa á inngöngu þína, ó Guð, inngöngu Guðs míns og konungs í musterið. 68.26 Söngvarar eru í fararbroddi, þá strengleikarar, ásamt yngismeyjum, er berja bumbur. 68.27 Lofið Guð á hátíðarsamkundum, lofið Drottin, þér sem eruð af uppsprettu Ísraels. 68.28 Þar er Benjamín litli, er ríkir yfir þeim, höfðingjar Júda í þyrpingu, höfðingjar Sebúlons, höfðingjar Naftalí. 68.29 Bjóð út, ó Guð, styrkleik þínum, þeim styrkleik sem þú hefir auðsýnt oss 68.30 frá musteri þínu í Jerúsalem. Konungar skulu færa þér gjafir. 68.31 Ógna þú dýrinu í sefinu, uxaflokkunum ásamt bolakálfum þjóðanna, sem troða menn fótum sökum ágirndar sinnar á silfri. Tvístra þú þjóðum, er unna ófriði! 68.32 Það koma sendiherrar frá Egyptalandi, Bláland færir Guði gjafir hröðum höndum. 68.33 Þér konungsríki jarðar, syngið Guði, syngið Drottni lof, [Sela] 68.34 honum sem ekur um himnanna himna frá eilífð, hann lætur raust sína gjalla, hina voldugu raust. 68.35 Tjáið Guði dýrð, yfir Ísrael er hátign hans og máttur hans í skýjunum. 68.36 Ógurlegur er Guð í helgidómi sínum, Ísraels Guð veitir lýðnum mátt og megin. Lofaður sé Guð!
69.1 Til söngstjórans. Liljulag. Davíðssálmur. 69.2 Hjálpa mér, ó Guð, því að vötnin ætla að drekkja mér. 69.3 Ég er sokkinn niður í botnlausa leðju og hefi enga fótfestu, ég er kominn ofan í vatnadjúp og bylgjurnar ganga yfir mig. 69.4 Ég hefi æpt mig þreyttan, er orðinn brennandi þurr í kverkunum, augu mín eru döpruð orðin af að þreyja eftir Guði mínum. 69.5 Fleiri en hárin á höfði mér eru þeir er hata mig að ástæðulausu, fleiri en bein mín þeir sem án saka eru óvinir mínir. Því sem ég hefi eigi rænt, hefi ég samt orðið að skila aftur. 69.6 Þú, Guð, þekkir heimsku mína, og sakir mínar dyljast þér eigi. 69.7 Lát eigi þá, er vona á þig, verða til skammar mín vegna, ó Drottinn, Drottinn hersveitanna, lát eigi þá er leita þín, verða til svívirðingar mín vegna, þú Guð Ísraels. 69.8 Þín vegna ber ég háðung, þín vegna hylur svívirðing auglit mitt. 69.9 Ég er ókunnur orðinn bræðrum mínum og óþekktur sonum móður minnar. 69.10 Vandlæting vegna húss þíns hefir uppetið mig, og smánanir þeirra er smána þig, hafa lent á mér. 69.11 Ég hefi þjáð mig með föstu, en það varð mér til háðungar. 69.12 Ég gjörði hærusekk að klæðnaði mínum, og ég varð þeim að orðskvið. 69.13 Þeir er sitja í hliðinu, ræða um mig, og þeir er drekka áfengan drykk, syngja um mig. 69.14 En ég bið til þín, Drottinn, á stund náðar þinnar. Svara mér, Guð, í trúfesti hjálpræðis þíns sakir mikillar miskunnar þinnar. 69.15 Drag mig upp úr leðjunni, svo að ég sökkvi eigi, lát mig björgun hljóta frá hatursmönnum mínum og úr hafdjúpinu. 69.16 Lát eigi vatnsbylgjurnar ganga yfir mig, né djúpið svelgja mig, og lát eigi brunninn lykja aftur op sitt yfir mér. 69.17 Bænheyr mig, Drottinn, sakir gæsku náðar þinnar, snú þér að mér eftir mikilleik miskunnar þinnar. 69.18 Hyl eigi auglit þitt fyrir þjóni þínum, því að ég er í nauðum staddur, flýt þér að bænheyra mig. 69.19 Nálgast sál mína, leys hana, frelsa mig sakir óvina minna. 69.20 Þú þekkir háðung mína og skömm og svívirðing, allir fjendur mínir standa þér fyrir sjónum. 69.21 Háðungin kremur hjarta mitt, svo að ég örvænti. Ég vonaði, að einhver mundi sýna meðaumkun, en þar var enginn, og að einhverjir mundu hugga, en fann engan. 69.22 Þeir fengu mér malurt til matar, og við þorstanum gáfu þeir mér vínsýru að drekka. 69.23 Svo verði þá borðið fyrir framan þá að snöru, og að gildru fyrir þá sem ugglausir eru. 69.24 Myrkvist augu þeirra, svo að þeir sjái eigi, og lát lendar þeirra ávallt riða. 69.25 Hell þú reiði þinni yfir þá og lát þína brennandi gremi ná þeim. 69.26 Búðir þeirra verði eyddar og enginn búi í tjöldum þeirra, 69.27 því að þann sem þú hefir lostið, ofsækja þeir og auka þjáningar þeirra er þú hefir gegnumstungið. 69.28 Bæt sök við sök þeirra og lát þá eigi ganga inn í réttlæti þitt. 69.29 Verði þeir afmáðir úr bók lifenda og eigi skráðir með réttlátum. 69.30 En ég er volaður og þjáður, hjálp þín, ó Guð, mun bjarga mér. 69.31 Ég vil lofa nafn Guðs í ljóði og mikla það í lofsöng. 69.32 Það mun Drottni líka betur en uxar, ungneyti með hornum og klaufum. 69.33 Hinir auðmjúku sjá það og gleðjast, þér sem leitið Guðs _ hjörtu yðar lifni við. 69.34 Því að Drottinn hlustar á hina fátæku og fyrirlítur eigi bandingja sína. 69.35 Hann skulu lofa himinn og jörð, höfin og allt sem í þeim hrærist. 69.36 Því að Guð veitir Síon hjálp og reisir við borgirnar í Júda, og menn skulu búa þar og fá landið til eignar. 69.37 Niðjar þjóna hans munu erfa það, og þeir er elska nafn hans, byggja þar.
70.1 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Minningarljóð. 70.2 Guð, lát þér þóknast að frelsa mig, Drottinn, skunda mér til hjálpar. 70.3 Lát þá verða til skammar og hljóta kinnroða, er sitja um líf mitt, lát þá hverfa aftur með skömm, er óska mér ógæfu. 70.4 Lát þá hörfa undan sakir smánar sinnar, er hrópa háð og spé. 70.5 En allir þeir er leita þín, skulu gleðjast og fagna yfir þér, þeir er unna hjálpræði þínu, skulu sífellt segja: 'Vegsamaður sé Guð!' 70.6 Ég er þjáður og snauður, hraða þér til mín, ó Guð. Þú ert fulltingi mitt og frelsari, dvel eigi, Drottinn!
71.1 Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar. 71.2 Frelsa mig og bjarga mér eftir réttlæti þínu, hneig eyru þín til mín og hjálpa mér. 71.3 Ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar, því að þú ert bjarg mitt og vígi. 71.4 Guð minn, bjarga mér úr hendi illgjarnra, undan valdi illvirkja og harðstjóra. 71.5 Því að þú ert von mín, þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku. 71.6 Við þig hefi ég stuðst frá móðurlífi, frá móðurskauti hefir þú verið skjól mitt, um þig hljómar ætíð lofsöngur minn. 71.7 Ég er mörgum orðinn sem undur, en þú ert mér öruggt hæli. 71.8 Munnur minn er fullur af lofstír þínum, af dýrð þinni daginn allan. 71.9 Útskúfa mér eigi í elli minni, yfirgef mig eigi, þá er þróttur minn þverrar. 71.10 Því að óvinir mínir tala um mig, þeir er sitja um líf mitt, bera ráð sín saman: 71.11 'Guð hefir yfirgefið hann. Eltið hann og grípið hann, því að enginn bjargar.' 71.12 Guð, ver eigi fjarri mér, Guð minn, skunda til liðs við mig. 71.13 Lát þá er sýna mér fjandskap farast með skömm, lát þá íklæðast háðung og svívirðing, er óska mér ógæfu. 71.14 En ég vil sífellt vona og auka enn á allan lofstír þinn. 71.15 Munnur minn skal segja frá réttlæti þínu, frá hjálpsemdum þínum allan daginn, því að ég veit eigi tölu á þeim. 71.16 Ég vil segja frá máttarverkum Drottins, ég vil boða réttlæti þitt, það eitt. 71.17 Guð, þú hefir kennt mér frá æsku, og allt til þessa kunngjöri ég dásemdarverk þín. 71.18 Yfirgef mig eigi, ó Guð, þegar ég er gamall orðinn og grár fyrir hærum, að ég megi kunngjöra styrkleik þinn komandi kynslóð. 71.19 Máttur þinn og réttlæti þitt, ó Guð, nær til himins, þú sem hefir framið stórvirki, Guð, hver er sem þú? 71.20 Þú sem hefir látið oss horfa upp á miklar nauðir og ógæfu, þú munt láta oss lifna við að nýju og láta oss aftur stíga upp úr undirdjúpum jarðar. 71.21 Þú munt auka við tign mína og aftur veita mér huggun. 71.22 Þá vil ég lofa trúfesti þína með hörpuleik, Guð minn, leika á gígju fyrir þér, þú Hinn heilagi í Ísrael. 71.23 Varir mínar skulu fagna, er ég leik fyrir þér, og sál mín er þú hefir leyst. 71.24 Þá skal og tunga mín tala um réttlæti þitt liðlangan daginn, því að þeir urðu til skammar, já hlutu kinnroða, er óskuðu mér ógæfu.
72.1 Eftir Salómon. Guð, sel konungi í hendur dóma þína og konungssyni réttlæti þitt, 72.2 að hann dæmi lýð þinn með réttvísi og þína þjáðu með sanngirni. 72.3 Fjöllin beri lýðnum frið og hálsarnir réttlæti. 72.4 Hann láti hina þjáðu meðal lýðsins ná rétti sínum, hann hjálpi hinum snauðu og kremji kúgarann. 72.5 Þá mun hann lifa meðan sólin skín og tunglið ber birtu, frá kyni til kyns. 72.6 Hann mun falla sem regn á slægjuland, sem regnskúrir, er vökva landið. 72.7 Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til. 72.8 Og hann skal ríkja frá hafi til hafs, frá Fljótinu til endimarka jarðar. 72.9 Fjandmenn hans skulu beygja kné fyrir honum og óvinir hans sleikja duftið. 72.10 Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum skulu koma með gjafir, konungarnir frá Saba og Seba skulu færa skatt. 72.11 Og allir konungar skulu lúta honum, allar þjóðir þjóna honum. 72.12 Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir. 72.13 Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann. 72.14 Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans. 72.15 Hann mun lifa og menn munu gefa honum Saba-gull, menn munu sífellt biðja fyrir honum, blessa hann liðlangan daginn. 72.16 Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum, í gróðri þess mun þjóta eins og í Líbanon, og menn skulu spretta upp í borgunum eins og gras úr jörðu. 72.17 Nafn hans mun vara að eilífu, meðan sólin skín mun nafn hans gróa. Og með honum skulu allar ættkvíslir jarðarinnar óska sér blessunar, allar þjóðir munu hann sælan segja. 72.18 Lofaður sé Drottinn, Guð, Ísraels Guð, sem einn gjörir furðuverk, 72.19 og lofað sé hans dýrlega nafn um eilífð, og öll jörðin fyllist dýrð hans. Amen, amen. 72.20 Bænir Davíðs Ísaísonar eru á enda.
73.1 Asafs-sálmur. Vissulega er Guð góður við Ísrael, við þá sem hjartahreinir eru. 73.2 Nærri lá, að fætur mínir hrösuðu, lítið vantaði á, að ég skriðnaði í skrefi, 73.3 því að ég fylltist gremju út af hinum hrokafullu, þegar ég sá gengi hinna guðlausu. 73.4 Þeir hafa engar hörmungar að bera, líkami þeirra er heill og hraustur. 73.5 Þeim mætir engin mæða sem öðrum mönnum, og þeir verða eigi fyrir neinum áföllum eins og aðrir menn. 73.6 Fyrir því er hrokinn hálsfesti þeirra, þeir eru sveipaðir ofríki eins og yfirhöfn. 73.7 Frá mörhjarta kemur misgjörð þeirra, girndir þeirra ganga fram úr öllu hófi. 73.8 Þeir spotta og tala af illsku, mæla kúgunarorð í mikilmennsku sinni. 73.9 Með munni sínum snerta þeir himininn, en tunga þeirra er tíðförul um jörðina. 73.10 Fyrir því aðhyllist lýðurinn þá og teygar gnóttir vatns. 73.11 Þeir segja: 'Hvernig ætti Guð að vita og Hinn hæsti að hafa nokkra þekkingu?' 73.12 Sjá, þessir menn eru guðlausir, og þó lifa þeir ætíð áhyggjulausir og auka efni sín. 73.13 Vissulega hefi ég til ónýtis haldið hjarta mínu hreinu og þvegið hendur mínar í sakleysi, 73.14 ég þjáist allan daginn, og á hverjum morgni bíður mín hirting. 73.15 Ef ég hefði haft í hyggju að tala þannig, sjá, þá hefði ég brugðið trúnaði við kyn barna þinna. 73.16 En ég hugsaði um, hvernig ég ætti að skilja það, það var erfitt í augum mínum, 73.17 uns ég kom inn í helgidóma Guðs og skildi afdrif þeirra: 73.18 Vissulega setur þú þá á sleipa jörð, þú lætur þá falla í rústir. 73.19 Sviplega verða þeir að auðn, líða undir lok, tortímdir af skelfingum. 73.20 Eins og draum er maður vaknar, þannig fyrirlítur þú, Drottinn, mynd þeirra, er þú ríst á fætur. 73.21 Þegar beiskja var í hjarta mínu og kvölin nísti hug minn, 73.22 þá var ég fáráðlingur og vissi ekkert, var sem skynlaus skepna gagnvart þér. 73.23 En ég er ætíð hjá þér, þú heldur í hægri hönd mína. 73.24 Þú munt leiða mig eftir ályktun þinni, og síðan munt þú taka við mér í dýrð. 73.25 Hvern á ég annars að á himnum? Og hafi ég þig, hirði ég eigi um neitt á jörðu. 73.26 Þótt hold mitt og hjarta tærist, er Guð bjarg hjarta míns og hlutskipti mitt um eilífð. 73.27 Því sjá, þeir sem fjarlægjast þig, farast, þú afmáir alla þá, sem eru þér ótrúir. 73.28 En mín gæði eru það að vera nálægt Guði, ég hefi gjört Drottin að athvarfi mínu og segi frá öllum verkum þínum.
74.1 Asafs-maskíl. Hví hefir þú, Guð, hafnað oss að fullu, hví rýkur reiði þín gegn gæsluhjörð þinni? 74.2 Haf í minni söfnuð þinn, er þú aflaðir forðum og leystir til þess að vera kynkvísl óðals þíns, haf í minni Síonfjall, þar sem þú hefir tekið þér bústað. 74.3 Bein þú skrefum þínum til hinna endalausu rústa: Öllu hafa óvinirnir spillt í helgidóminum! 74.4 Fjandmenn þínir grenjuðu inni á samkomustað þínum, reistu upp hermerki sín. 74.5 Eins og menn sem reiða hátt axir í þykkum skógi, 74.6 höggva þeir allan útskurð, mölva með exi og hamri. 74.7 Þeir hafa lagt eld í helgidóm þinn, vanhelgað bústað nafns þíns til grunna. 74.8 Þeir hugsuðu með sjálfum sér: 'Vér skulum tortíma þeim öllum.' Þeir brenndu öll samkomuhús Guðs í landinu. 74.9 Vér sjáum eigi merki vor, þar er enginn spámaður framar, og enginn er hjá oss sem veit hve lengi. 74.10 Hversu lengi, ó Guð, á fjandmaðurinn að hæða, á óvinurinn að spotta nafn þitt um aldur? 74.11 Hví dregur þú að þér hönd þína, hví geymir þú hægri hönd þína í barmi þér? 74.12 Og þó er Guð konungur minn frá fornum tíðum, sá er framkvæmir hjálpræðisverk á jörðu. 74.13 Þú klaufst hafið með mætti þínum, þú braust sundur höfuð drekans á vatninu, 74.14 þú molaðir sundur hausa Levjatans, gafst hann dýrum eyðimerkurinnar að æti. 74.15 Þú lést lindir og læki spretta upp, þú þurrkaðir upp sírennandi ár. 74.16 Þinn er dagurinn og þín er nóttin, þú gjörðir ljós og sól. 74.17 Þú settir öll takmörk jarðarinnar, sumar og vetur hefir þú gjört. 74.18 Minnst þess, Drottinn, að óvinurinn lastmælir, og heimskur lýður smánar nafn þitt. 74.19 Ofursel eigi villidýrunum sál turtildúfu þinnar, gleym eigi um aldur lífi þinna hrjáðu. 74.20 Gef gætur að sáttmála þínum, því að skúmaskot landsins eru full af bælum ofríkisins. 74.21 Lát eigi þann er kúgun sætir, snúa aftur með svívirðing, lát hina hrjáðu og snauðu lofa nafn þitt. 74.22 Rís upp, Guð, berst fyrir málefni þínu, minnst þú háðungar þeirrar, er þú sætir af heimskingjum daginn á enda. 74.23 Gleym eigi hrópi fjenda þinna, glaumkæti andstæðinga þinna, þeirri er sífellt stígur upp.
75.1 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Asafs-sálmur. Ljóð. 75.2 Vér lofum þig, ó Guð, vér lofum þig, og þeir er ákalla nafn þitt, segja frá dásemdarverkum þínum. 75.3 'Þegar mér þykir tími til kominn, dæmi ég réttvíslega. 75.4 Þótt jörðin skjálfi með öllum þeim, er á henni búa, þá hefi ég samt fest stoðir. [Sela] 75.5 Ég segi við hina hrokafullu: Sýnið eigi hroka! og við hina óguðlegu: Hefjið eigi hornin! 75.6 Hefjið eigi hornin gegn himninum, mælið eigi drambyrði hnakkakerrtir!' 75.7 Því að hvorki frá austri né vestri né frá eyðimörkinni kemur neinn, sem veitt geti uppreisn, 75.8 heldur er Guð sá sem dæmir, hann niðurlægir annan og upphefur hinn. 75.9 Því að bikar er í hendi Drottins með freyðandi víni, fullur af kryddi. Af því skenkir hann, já, dreggjar þess súpa og sötra allir óguðlegir menn á jörðu. 75.10 En ég vil fagna að eilífu, lofsyngja Jakobs Guði. 75.11 Öll horn óguðlegra verða af höggvin, en horn réttlátra skulu hátt gnæfa.
76.1 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Asafs-sálmur. Ljóð. 76.2 Guð er augljós orðinn í Júda, í Ísrael er nafn hans mikið. 76.3 Skáli hans er í Salem og bústaður hans á Síon. 76.4 Þar braut hann sundur leiftur bogans, skjöld og sverð og hervopn. [Sela] 76.5 Þú birtist dýrlegur, ógurlegri en hin öldnu fjöll. 76.6 Hinir harðsvíruðu urðu öðrum að herfangi, þeir sofnuðu svefni sínum, og hendurnar brugðust öllum hetjunum. 76.7 Fyrir ógnun þinni, Jakobs Guð, hnigu bæði vagnar og hestar í dá. 76.8 Þú ert ógurlegur, og hver fær staðist fyrir þér, er þú reiðist? 76.9 Frá himnum gjörðir þú dóm þinn heyrinkunnan, jörðin skelfdist og kyrrðist, 76.10 þegar Guð reis upp til dóms til þess að hjálpa öllum hrjáðum á jörðu. [Sela] 76.11 Því að reiði mannsins verður að lofa þig, leifum reiðinnar gyrðir þú þig. 76.12 Vinnið heit og efnið þau við Drottin, Guð yðar, allir þeir sem eru umhverfis hann, skulu færa gjafir hinum óttalega, 76.13 honum sem lægir ofstopa höfðingjanna, sem ógurlegur er konungum jarðarinnar.
77.1 Til söngstjórans. Fyrir Jedútún. Asafs-sálmur. 77.2 Ég kalla til Guðs og hrópa, kalla til Guðs, að hann megi heyra til mín. 77.3 Þegar ég er í nauðum, leita ég Drottins, rétti út hendur mínar um nætur og þreytist ekki, sál mín er óhuggandi. 77.4 Ég minnist Guðs og kveina, ég styn, og andi minn örmagnast. [Sela] 77.5 Þú heldur uppi augnalokum mínum, mér er órótt og ég má eigi mæla. 77.6 Ég íhuga fyrri daga, ár þau sem löngu eru liðin, 77.7 ég minnist strengjaleiks míns um nætur, ég hugleiði í hjarta mínu, og andi minn rannsakar. 77.8 Mun Drottinn þá útskúfa um eilífð og aldrei framar vera náðugur? 77.9 Er miskunn hans lokið um eilífð, fyrirheit hans þrotin um aldir alda? 77.10 Hefir Guð gleymt að sýna líkn, byrgt miskunn sína með reiði? [Sela] 77.11 Þá sagði ég: 'Þetta er kvöl mín, að hægri hönd Hins hæsta hefir brugðist.' 77.12 Ég víðfrægi stórvirki Drottins, ég vil minnast furðuverka þinna frá fyrri tíðum, 77.13 ég íhuga allar athafnir þínar, athuga stórvirki þín. 77.14 Guð, helgur er vegur þinn, hver er svo mikill Guð sem Drottinn? 77.15 Þú ert Guð, sá er furðuverk gjörir, þú hefir kunngjört mátt þinn meðal þjóðanna. 77.16 Með máttugum armlegg frelsaðir þú lýð þinn, sonu Jakobs og Jósefs. [Sela] 77.17 Vötnin sáu þig, ó Guð, vötnin sáu þig og skelfdust, og undirdjúpin skulfu. 77.18 Vatnið streymdi úr skýjunum, þrumuraust drundi úr skýþykkninu, og örvar þínar flugu. 77.19 Reiðarþrumur þínar kváðu við, leiftur lýstu um jarðríki, jörðin skalf og nötraði. 77.20 Leið þín lá gegnum hafið, stígar þínir gegnum mikil vötn, og spor þín urðu eigi rakin. 77.21 Þú leiddir lýð þinn eins og hjörð fyrir Móse og Aron.
78.1 Asafs-maskíl. Hlýð þú, lýður minn, á kenning mína, hneigið eyrun að orðum munns míns. 78.2 Ég vil opna munn minn með orðskviði, mæla fram gátur frá fornum tíðum. 78.3 Það sem vér höfum heyrt og skilið og feður vorir sögðu oss, 78.4 það viljum vér eigi dylja fyrir niðjum þeirra, er vér segjum seinni kynslóð frá lofstír Drottins og mætti hans og dásemdarverkum og þeim undrum er hann gjörði. 78.5 Hann setti reglu í Jakob og skipaði lögmál í Ísrael, sem hann bauð feðrum vorum að kunngjöra sonum þeirra, 78.6 til þess að seinni kynslóð mætti skilja það og synir þeir er fæðast mundu, mættu ganga fram og segja sonum sínum frá því, 78.7 og setja traust sitt á Guð og eigi gleyma stórvirkjum Guðs, heldur varðveita boðorð hans, 78.8 og eigi verða sem feður þeirra, þrjósk og ódæl kynslóð, kynslóð með óstöðugu hjarta og anda sem var Guði ótrúr. 78.9 Niðjar Efraíms, herbúnir bogmenn, sneru við á orustudeginum. 78.10 Þeir héldu eigi sáttmála Guðs og færðust undan að fylgja lögmáli hans. 78.11 Þeir gleymdu stórvirkjum hans og dásemdum hans, er hann hafði látið þá horfa á. 78.12 Í augsýn feðra þeirra hafði hann framið furðuverk í Egyptalandi og Sóanhéraði. 78.13 Hann klauf hafið og lét þá fara yfir og lét vatnið standa sem vegg. 78.14 Hann leiddi þá með skýinu um daga og alla nóttina með eldskini. 78.15 Hann klauf björg í eyðimörkinni og gaf þeim gnóttir að drekka eins og úr stórvötnum, 78.16 hann lét læki spretta upp úr klettinum og vatnið streyma niður sem fljót. 78.17 Þó héldu þeir áfram að syndga í gegn honum, að rísa í gegn Hinum hæsta í eyðimörkinni. 78.18 Þeir freistuðu Guðs í hjörtum sínum, er þeir kröfðust matar þess er þeir girntust 78.19 og töluðu gegn Guði og sögðu: 'Skyldi Guð geta búið borð í eyðimörkinni? 78.20 Víst sló hann á klettinn, svo að vatnið vall upp og lækir streymdu, en skyldi hann líka geta gefið brauð eða veitt lýð sínum kjöt?' 78.21 Fyrir því reiddist Drottinn, er hann heyrði þetta, eldur bálaði upp gegn Jakob og reiði steig upp gegn Ísrael, 78.22 af því að þeir trúðu eigi á Guð né treystu hjálp hans. 78.23 Og hann bauð skýjunum að ofan og opnaði hurðir himinsins, 78.24 lét manna rigna yfir þá til matar og gaf þeim himnakorn; 78.25 englabrauð fengu menn að eta, fæði sendi hann þeim til saðningar. 78.26 Hann lét austanvindinn taka sig upp í himninum og leiddi sunnanvindinn að með mætti sínum. 78.27 Hann lét kjöti rigna yfir þá sem dufti og vængjuðum fuglum sem sjávarsandi, 78.28 og hann lét þá falla niður í búðir sínar, umhverfis bústað sinn. 78.29 Átu þeir og urðu vel saddir, og græðgi þeirra sefaði hann. 78.30 En meðan þeir voru eigi horfnir frá græðgi sinni, meðan fæðan enn var í munni þeirra, 78.31 þá steig reiði Guðs upp í gegn þeim. Hann deyddi hina gildustu meðal þeirra og lagði að velli æskumenn Ísraels. 78.32 Þrátt fyrir allt þetta héldu þeir áfram að syndga og trúðu eigi á dásemdarverk hans. 78.33 Þá lét hann daga þeirra hverfa í hégóma og ár þeirra enda í skelfingu. 78.34 Þegar hann deyddi þá, leituðu þeir hans, sneru sér og spurðu eftir Guði 78.35 og minntust þess, að Guð var klettur þeirra og Guð hinn hæsti frelsari þeirra. 78.36 Þeir beittu við hann fagurgala með munni sínum og lugu að honum með tungum sínum. 78.37 En hjarta þeirra var eigi stöðugt gagnvart honum, og þeir voru eigi trúir sáttmála hans. 78.38 En hann er miskunnsamur, hann fyrirgefur misgjörðir og tortímir eigi, hann stillir reiði sína hvað eftir annað og hleypir eigi fram allri bræði sinni. 78.39 Hann minntist þess, að þeir voru hold, andgustur, sem líður burt og snýr eigi aftur. 78.40 Hversu oft þrjóskuðust þeir við hann í eyðimörkinni, hryggðu hann á öræfunum. 78.41 Og aftur freistuðu þeir Guðs og móðguðu Hinn heilaga í Ísrael. 78.42 Þeir minntust eigi handar hans, eður dags þess, er hann frelsaði þá frá fjandmönnum þeirra, 78.43 hann sem gjörði tákn sín í Egyptalandi og undur sín í Sóanhéraði. 78.44 Hann breytti ám þeirra í blóð og lækjum þeirra, svo að þeir fengu eigi drukkið. 78.45 Hann sendi flugur meðal þeirra, er bitu þá, og froska, er eyddu þeim. 78.46 Hann gaf engisprettunum afurðir þeirra og jarðvörgunum uppskeru þeirra. 78.47 Hann eyddi vínvið þeirra með haglhríð og mórberjatré þeirra með frosti. 78.48 Hann ofurseldi haglhríðinni fénað þeirra og eldingunni hjarðir þeirra. 78.49 Hann sendi heiftarreiði sína í gegn þeim, æði, bræði og nauðir, sveitir af sendiboðum ógæfunnar. 78.50 Hann ruddi braut reiði sinni, þyrmdi eigi sálum þeirra við dauðanum og ofurseldi drepsóttinni líf þeirra. 78.51 Hann laust alla frumburði í Egyptalandi, frumgróða styrkleikans í tjöldum Kams. 78.52 Hann lét lýð sinn leggja af stað sem sauði og leiddi þá eins og hjörð í eyðimörkinni. 78.53 Hann leiddi þá öruggt, svo að þeir óttuðust eigi, en óvini þeirra huldi hafið. 78.54 Hann fór með þá til síns helga héraðs, til fjalllendis þess, er hægri hönd hans hafði aflað. 78.55 Hann stökkti þjóðum undan þeim, skipti þeim niður eins og erfðahlut og lét kynkvíslir Ísraels setjast að í tjöldum þeirra. 78.56 En þeir freistuðu í þrjósku sinni Guðs hins hæsta og gættu eigi vitnisburða hans. 78.57 Þeir viku af leið, rufu trúnað sinn, eins og feður þeirra, brugðust eins og svikull bogi. 78.58 Þeir egndu hann til reiði með fórnarhæðum sínum, vöktu vandlæti hans með skurðgoðum sínum. 78.59 Guð heyrði það og reiddist og fékk mikla óbeit á Ísrael. 78.60 Hann hafnaði bústaðnum í Síló, tjaldi því, er hann hafði reist meðal mannanna, 78.61 hann ofurseldi hernáminu vegsemd sína og fjandmannshendi prýði sína. 78.62 Hann seldi lýð sinn undir sverðseggjar og reiddist arfleifð sinni. 78.63 Æskumönnum hans eyddi eldurinn og meyjar hans misstu brúðsöngs síns. 78.64 Prestar hans féllu fyrir sverðseggjum, og ekkjur hans fengu engan líksöng flutt. 78.65 Þá vaknaði Drottinn eins og af svefni, eins og hetja, sem hefir látið sigrast af víni. 78.66 Hann barði fjandmenn sína á bakhlutina, lét þá sæta eilífri háðung. 78.67 Samt hafnaði hann tjaldi Jósefs og útvaldi eigi kynkvísl Efraíms, 78.68 heldur útvaldi hann Júda kynkvísl, Síonfjall, sem hann elskar. 78.69 Hann reisti helgidóm sinn sem himinhæðir, grundvallaði hann að eilífu eins og jörðina. 78.70 Hann útvaldi þjón sinn Davíð og tók hann frá fjárbyrgjunum. 78.71 Hann sótti hann frá lambánum til þess að vera hirðir fyrir Jakob, lýð sinn, og fyrir Ísrael, arfleifð sína. 78.72 Og Davíð var hirðir fyrir þá af heilum hug og leiddi þá með hygginni hendi.
79.1 Asafs-sálmur. Guð, heiðingjar hafa brotist inn í óðal þitt, þeir hafa saurgað þitt heilaga musteri og lagt Jerúsalem í rústir. 79.2 Þeir hafa gefið lík þjóna þinna fuglum himins að fæðu og villidýrunum hold dýrkenda þinna. 79.3 Þeir hafa úthellt blóði þeirra sem vatni umhverfis Jerúsalem, og enginn jarðaði þá. 79.4 Vér erum til háðungar nábúum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss. 79.5 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að vera reiður, á vandlæti þitt að brenna sem eldur án afláts? 79.6 Hell þú reiði þinni yfir heiðingjana, sem eigi þekkja þig, og yfir konungsríki, er eigi ákalla nafn þitt. 79.7 Því að þeir hafa uppetið Jakob og lagt bústað hans í eyði. 79.8 Lát oss eigi gjalda misgjörða forfeðra vorra, lát miskunn þína fljótt koma í móti oss, því að vér erum mjög þjakaðir. 79.9 Hjálpa þú oss, Guð hjálpræðis vors, sakir dýrðar nafns þíns, frelsa oss og fyrirgef syndir vorar sakir nafns þíns. 79.10 Hví eiga heiðingjarnir að segja: 'Hvar er Guð þeirra?' Lát fyrir augum vorum kunna verða á heiðingjunum hefndina fyrir úthellt blóð þjóna þinna. 79.11 Lát andvörp bandingjanna koma fram fyrir þig, leys þá sem komnir eru í dauðann, með þínum sterka armlegg, 79.12 og gjald nágrönnum vorum sjöfalt háðungina er þeir hafa sýnt þér, Drottinn. 79.13 En vér, lýður þinn og gæsluhjörð þín, munum lofa þig um eilífð, kunngjöra lofstír þinn frá kyni til kyns.
80.1 Til söngstjórans. Liljulag. Asafs-vitnisburður. Sálmur. 80.2 Hirðir Ísraels, hlýð á, þú sem leiddir Jósef eins og hjörð, þú sem ríkir uppi yfir kerúbunum, birst þú í geisladýrð. 80.3 Tak á mætti þínum frammi fyrir Efraím, Benjamín og Manasse og kom oss til hjálpar! 80.4 Guð, snú oss til þín aftur og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast. 80.5 Drottinn, Guð hersveitanna, hversu lengi ætlar þú að vera reiður þrátt fyrir bænir lýðs þíns? 80.6 Þú hefir gefið þeim tárabrauð að eta og fært þeim gnægð tára að drekka. 80.7 Þú hefir gjört oss að þrætuefni nágranna vorra, og óvinir vorir gjöra gys að oss. 80.8 Guð hersveitanna leið oss aftur til þín og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast. 80.9 Þú kipptir upp vínvið úr Egyptalandi, stökktir burt þjóðum, en gróðursettir hann, 80.10 þú rýmdir til fyrir honum, hann festi rætur og fyllti landið. 80.11 Fjöllin huldust í skugga hans og sedrustré Guðs af greinum hans. 80.12 Hann breiddi út álmur sínar til hafsins og teinunga sína til Fljótsins. 80.13 Hví hefir þú brotið niður múrveggina um hann, svo að allir vegfarendur tína berin? 80.14 Skógargeltirnir naga hann, og öll dýr merkurinnar bíta hann. 80.15 Guð hersveitanna, æ, snú þú aftur, lít niður af himni og sjá og vitja vínviðar þessa 80.16 og varðveit það sem hægri hönd þín hefir plantað, og son þann, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa. 80.17 Hann er brenndur í eldi og upphöggvinn, fyrir ógnun auglitis þíns farast þeir. 80.18 Lát hönd þína hvíla yfir manninum við þína hægri hönd, yfir mannsins barni, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa, 80.19 þá skulum vér eigi víkja frá þér. Viðhald lífi voru, þá skulum vér ákalla nafn þitt. 80.20 Drottinn, Guð hersveitanna, snú oss til þín aftur, lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.
81.1 Til söngstjórans. Á gittít. Asafs-sálmur. 81.2 Fagnið fyrir Guði, styrkleika vorum, látið gleðióp gjalla Guði Jakobs. 81.3 Hefjið lofsöng og berjið bumbur, knýið hinar hugljúfu gígjur og hörpur. 81.4 Þeytið lúðurinn á tunglkomudögum, við tunglfylling á hátíðisdegi vorum. 81.5 Því að þetta eru lög fyrir Ísrael, boðorð Jakobs Guðs. 81.6 Hann gjörði það að reglu í Jósef, þá er hann fór út í móti Egyptalandi. Ég heyri mál, sem ég þekki eigi: 81.7 'Ég hefi losað herðar hans við byrðina, hendur hans eru sloppnar við burðarkörfuna. 81.8 Þú kallaðir í neyðinni, og ég frelsaði þig, ég bænheyrði þig í þrumuskýi, reyndi þig hjá Meríbavötnum. [Sela] 81.9 Heyr, lýður minn, að ég megi áminna þig, ó, að þú, Ísrael, vildir heyra mig! 81.10 Enginn annar guð má vera meðal þín, og engan útlendan guð mátt þú tilbiðja. 81.11 Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, opna munn þinn, að ég megi seðja þig. 81.12 En lýður minn heyrði eigi raust mína, og Ísrael var mér eigi auðsveipur. 81.13 Þá sleppti ég þeim í þrjósku hjartna þeirra, þeir fengu að ganga eftir eigin geðþótta. 81.14 Ó, að lýður minn vildi heyra mig, Ísrael ganga á mínum vegum, 81.15 þá skyldi ég skjótt lægja óvini þeirra, og snúa hendi minni gegn fjendum þeirra. 81.16 Hatursmenn Drottins skyldu hræsna fyrir honum og ógæfutími þeirra vara að eilífu. 81.17 Ég skyldi gefa þér hið kjarnbesta hveiti að eta og seðja þig á hunangi úr klettunum.'
82.1 Asafs-sálmur. Guð stendur á guðaþingi, heldur dóm mitt á meðal guðanna: 82.2 'Hversu lengi ætlið þér að dæma með rangsleitni og draga taum hinna óguðlegu? [Sela] 82.3 Rekið réttar bágstaddra og föðurlausra, látið hinn þjáða og fátæka ná rétti sínum, 82.4 bjargið bágstöddum og snauðum, frelsið þá af hendi óguðlegra.' 82.5 Þeir hafa eigi skyn né skilning, þeir ráfa í myrkri, allar undirstöður jarðarinnar riða. 82.6 Ég hefi sagt: 'Þér eruð guðir og allir saman synir Hins hæsta, 82.7 en sannlega skuluð þér deyja sem menn, falla sem einn af höfðingjunum.' 82.8 Rís upp, ó Guð, dæm þú jörðina, því að þú ert erfðahöfðingi yfir öllum þjóðum.
83.1 Ljóð. Asafs-sálmur. 83.2 Guð, ver eigi hljóður, ver eigi þögull og hald eigi kyrru fyrir, ó Guð! 83.3 Því sjá, óvinir þínir gjöra hark, og hatursmenn þínir hefja höfuðið, 83.4 þeir bregða á slæg ráð gegn lýð þínum, bera ráð sín saman gegn þeim er þú geymir. 83.5 Þeir segja: 'Komið, látum oss uppræta þá, svo að þeir séu ekki þjóð framar, og nafns Ísraels verði eigi framar minnst!' 83.6 Því að þeir hafa einhuga borið saman ráð sín, gegn þér hafa þeir gjört bandalag: 83.7 Edómtjöld og Ísmaelítar, Móab og Hagrítar, 83.8 Gebal, Ammon og Amalek, Filistea ásamt Týrusbúum. 83.9 Assúr hefir einnig gjört bandalag við þá og ljær armlegg sinn Lots-sonum. [Sela] 83.10 Far með þá eins og Midían, eins og Sísera, eins og Jabín við Kísonlæk, 83.11 þeim var útrýmt hjá Endór, urðu að áburði á jörðina. 83.12 Gjör þá, göfugmenni þeirra, eins og Óreb og Seeb, og alla höfðingja þeirra eins og Seba og Salmúna, 83.13 þá er sögðu: 'Vér viljum kasta eign vorri á vengi Guðs.' 83.14 Guð vor, gjör þá sem rykmökk, sem hálmleggi fyrir vindi. 83.15 Eins og eldur, sem brennir skóginn, eins og logi, sem bálast upp um fjöllin, 83.16 svo skalt þú elta þá með ofviðri þínu, skelfa þá með fellibyl þínum. 83.17 Lát andlit þeirra fyllast sneypu, að þeir megi leita nafns þíns, Drottinn! 83.18 Lát þá verða til skammar og skelfast um aldur, lát þá sæta háðung og tortímast, 83.19 að þeir megi komast að raun um, að þú einn heitir Drottinn, Hinn hæsti yfir allri jörðunni.
84.1 Til söngstjórans. Á gittít. Kóraíta-sálmur. 84.2 Hversu yndislegir eru bústaðir þínir, Drottinn hersveitanna. 84.3 Sálu mína langaði til, já, hún þráði forgarða Drottins, nú fagnar hjarta mitt og hold fyrir hinum lifanda Guði. 84.4 Jafnvel fuglinn hefir fundið hús, og svalan á sér hreiður, þar sem hún leggur unga sína: ölturu þín, Drottinn hersveitanna, konungur minn og Guð minn! 84.5 Sælir eru þeir, sem búa í húsi þínu, þeir munu ætíð lofa þig. [Sela] 84.6 Sælir eru þeir menn, sem finna styrk hjá þér, er þeir hugsa til helgigöngu. 84.7 Er þeir fara gegnum táradalinn, umbreyta þeir honum í vatnsríka vin, og haustregnið færir honum blessun. 84.8 Þeim eykst æ kraftur á göngunni og fá að líta Guð á Síon. 84.9 Drottinn, Guð hersveitanna, heyr bæn mína, hlýð til, þú Jakobs Guð. [Sela] 84.10 Guð, skjöldur vor, sjá og lít á auglit þíns smurða! 84.11 Því að einn dagur í forgörðum þínum er betri en þúsund aðrir, heldur vil ég standa við þröskuldinn í húsi Guðs míns en dvelja í tjöldum óguðlegra. 84.12 Því að Drottinn Guð er sól og skjöldur, náð og vegsemd veitir Drottinn. Hann synjar þeim engra gæða, er ganga í grandvarleik. 84.13 Drottinn hersveitanna, sæll er sá maður, sem treystir þér.
85.1 Til söngstjórans. Kóraíta-sálmur. 85.2 Þú hefir haft þóknun á landi þínu, Drottinn, snúið við hag Jakobs, 85.3 þú hefir fyrirgefið misgjörð lýðs þíns, hulið allar syndir þeirra. [Sela] 85.4 Þú hefir dregið að þér alla bræði þína, látið af heiftarreiði þinni. 85.5 Snú þér til vor aftur, þú Guð hjálpræðis vors, og lát af gremju þinni í gegn oss. 85.6 Ætlar þú að vera oss reiður um eilífð, láta reiði þína haldast við frá kyni til kyns? 85.7 Vilt þú eigi láta oss lifna við aftur, svo að lýður þinn megi gleðjast yfir þér? 85.8 Lát oss, Drottinn, sjá miskunn þína og veit oss hjálpræði þitt! 85.9 Ég vil hlýða á það sem Guð Drottinn talar. Hann talar frið til lýðs síns og til dýrkenda sinna og til þeirra, er snúa hjarta sínu til hans. 85.10 Já, hjálp hans er nálæg þeim er óttast hann, og vegsemdir munu búa í landi voru. 85.11 Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast. 85.12 Trúfesti sprettur upp úr jörðunni, og réttlæti lítur niður af himni. 85.13 Þá gefur og Drottinn gæði, og land vort veitir afurðir sínar. 85.14 Réttlæti fer fyrir honum, og friður fylgir skrefum hans.
86.1 Davíðs-bæn. Hneig eyra þitt, Drottinn, og bænheyr mig, því að ég er hrjáður og snauður. 86.2 Vernda líf mitt, því að ég er helgaður þér, hjálpa þú, Guð minn, þjóni þínum, er treystir þér. 86.3 Ver mér náðugur, Drottinn, því þig ákalla ég allan daginn. 86.4 Gleð þú sál þjóns þíns, því að til þín, Drottinn, hef ég sál mína. 86.5 Þú, Drottinn, ert góður og fús til að fyrirgefa, gæskuríkur öllum þeim er ákalla þig. 86.6 Hlýð, Drottinn, á bæn mína og gef gaum grátbeiðni minni. 86.7 Þegar ég er í nauðum staddur ákalla ég þig, því að þú bænheyrir mig. 86.8 Enginn er sem þú meðal guðanna, Drottinn, og ekkert er sem þín verk. 86.9 Allar þjóðir, er þú hefir skapað, munu koma og falla fram fyrir þér, Drottinn, og tigna nafn þitt. 86.10 Því að þú ert mikill og gjörir furðuverk, þú einn, ó Guð! 86.11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, lát mig ganga í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt. 86.12 Ég vil lofa þig, Drottinn, Guð minn, af öllu hjarta og heiðra nafn þitt að eilífu, 86.13 því að miskunn þín er mikil við mig, og þú hefir frelsað sál mína frá djúpi Heljar. 86.14 Ofstopamenn hefjast gegn mér, ó Guð, og hópur ofríkismanna sækist eftir lífi mínu, eigi hafa þeir þig fyrir augum. 86.15 En þú, Drottinn, ert miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður og gæskuríkur og harla trúfastur. 86.16 Snú þér að mér og ver mér náðugur, veit þjóni þínum kraft þinn og hjálpa syni ambáttar þinnar. 86.17 Gjör þú tákn til góðs fyrir mig, að hatursmenn mínir megi horfa á það sneyptir, að þú, Drottinn, hjálpar mér og huggar mig.
87.1 Kóraíta-sálmur. Ljóð. 87.2 Drottinn grundvallaði borg sína á heilögum fjöllum, hann elskar hlið Síonar framar öllum bústöðum Jakobs. 87.3 Dýrlega er talað um þig, þú borg Guðs. [Sela] 87.4 Ég nefni Egyptaland og Babýlon vegna játenda minna þar, hér er Filistea og Týrus, ásamt Blálandi, einn er fæddur hér, annar þar. 87.5 En Síon kallast móðirin, hver þeirra er fæddur í henni, og hann, Hinn hæsti, verndar hana. 87.6 Drottinn telur saman í þjóðaskránum, einn er fæddur hér, annar þar. [Sela] 87.7 Og menn syngja eins og þeir er stíga dans: 'Allar uppsprettur mínar eru í þér.'
88.1 Ljóð. Kóraíta-sálmur. Til söngstjórans. Syngist með Makalat-lagi. Hemans-maskíl Esraíta. 88.2 Drottinn, Guð minn, ég kalla um daga, um nætur hrópa ég frammi fyrir þér. 88.3 Lát bæn mína koma fyrir þig, hneig eyra að hrópi mínu, 88.4 því að sál mín er mett orðin af böli, og líf mitt nálægist Hel. 88.5 Ég er talinn með þeim, sem gengnir eru til grafar, ég er sem magnþrota maður. 88.6 Mér er fenginn bústaður með framliðnum, eins og vegnum mönnum, er liggja í gröfinni, er þú minnist eigi framar, því að þeir eru hrifnir burt úr hendi þinni. 88.7 Þú hefir lagt mig í gryfju undirheima, í myrkrið niðri í djúpinu. 88.8 Reiði þín hvílir á mér, og alla boða þína hefir þú látið skella á mér. [Sela] 88.9 Þú hefir fjarlægt frá mér kunningja mína, gjört mig að andstyggð í augum þeirra. Ég er byrgður inni og kemst ekki út, 88.10 augu mín eru döpruð af eymd. Ég ákalla þig, Drottinn, dag hvern, breiði út hendurnar í móti þér. 88.11 Gjörir þú furðuverk vegna framliðinna, eða munu hinir dauðu rísa upp til þess að lofa þig? [Sela] 88.12 Er sagt frá miskunn þinni í gröfinni, frá trúfesti þinni í undirdjúpunum? 88.13 Eru furðuverk þín kunngjörð í myrkrinu eða réttlæti þitt í landi gleymskunnar? 88.14 En ég hrópa til þín, Drottinn, og á morgnana kemur bæn mín fyrir þig. 88.15 Hví útskúfar þú, Drottinn, sálu minni, hylur auglit þitt fyrir mér? 88.16 Ég er hrjáður og aðþrengdur frá æsku, ég ber skelfingar þínar og er ráðþrota. 88.17 Reiðiblossar þínir ganga yfir mig, ógnir þínar eyða mér. 88.18 Þær umkringja mig eins og vötn allan liðlangan daginn, lykja um mig allar saman. 88.19 Þú hefir fjarlægt frá mér ástvini og félaga og gjört myrkrið að kunningja mínum.
89.1 Etans-maskíl Esraíta. 89.2 Um náðarverk Drottins vil ég syngja að eilífu, kunngjöra trúfesti þína með munni mínum frá kyni til kyns, 89.3 því að ég hefi sagt: Náð þín er traust að eilífu, á himninum grundvallaðir þú trúfesti þína. 89.4 Ég hefi gjört sáttmála við minn útvalda, unnið Davíð þjóni mínum svolátandi eið: 89.5 'Ég vil staðfesta ætt þína að eilífu, reisa hásæti þitt frá kyni til kyns.' [Sela] 89.6 Þá lofuðu himnarnir dásemdarverk þín, Drottinn, og söfnuður heilagra trúfesti þína. 89.7 Því að hver er í himninum jafn Drottni, hver er líkur Drottni meðal guðasonanna? 89.8 Guð er ægilegur í hópi heilagra, mikill er hann og óttalegur öllum þeim, sem eru umhverfis hann. 89.9 Drottinn, Guð hersveitanna, hver er sem þú? Þú ert voldugur, Drottinn, og trúfesti þín er umhverfis þig. 89.10 Þú ræður yfir ofstopa hafsins, þegar öldur þess hefjast, stöðvar þú þær. 89.11 Þú knosaðir skrímslið eins og veginn mann, með þínum volduga armi tvístraðir þú óvinum þínum. 89.12 Þinn er himinninn, þín er og jörðin, þú hefir grundvallað veröldina og allt sem í henni er. 89.13 Þú hefir skapað norðrið og suðrið, Tabor og Hermon fagna yfir nafni þínu. 89.14 Þú hefir máttugan armlegg, hönd þín er sterk, hátt upphafin hægri hönd þín. 89.15 Réttlæti og réttvísi er grundvöllur hásætis þíns, miskunn og trúfesti ganga frammi fyrir þér. 89.16 Sæll er sá lýður, sem þekkir fagnaðarópið, sem gengur í ljósi auglitis þíns, Drottinn. 89.17 Þeir gleðjast yfir nafni þínu alla daga og fagna yfir réttlæti þínu, 89.18 því að þú ert þeirra máttug prýði, og sakir velþóknunar þinnar munt þú hefja horn vort, 89.19 því að Drottni heyrir skjöldur vor, konungur vor Hinum heilaga í Ísrael. 89.20 Þá talaðir þú í sýn til dýrkanda þíns og sagðir: 'Ég hefi sett kórónu á kappa, ég hefi upphafið útvaldan mann af lýðnum. 89.21 Ég hefi fundið Davíð þjón minn, smurt hann með minni heilögu olíu. 89.22 Hönd mín mun gjöra hann stöðugan og armleggur minn styrkja hann. 89.23 Óvinurinn skal eigi ráðast að honum, og ekkert illmenni skal kúga hann, 89.24 heldur skal ég gjöra út af við fjendur hans að honum ásjáandi, og hatursmenn hans skal ég ljósta. 89.25 Trúfesti mín og miskunn skulu vera með honum, og fyrir sakir nafns míns skal horn hans gnæfa hátt. 89.26 Ég legg hönd hans á hafið og hægri hönd hans á fljótin. 89.27 Hann mun segja við mig: Þú ert faðir minn, Guð minn og klettur hjálpræðis míns. 89.28 Og ég vil gjöra hann að frumgetning, að hinum hæsta meðal konunga jarðarinnar. 89.29 Ég vil varðveita miskunn mína við hann að eilífu, og sáttmáli minn við hann skal stöðugur standa. 89.30 Ég læt niðja hans haldast við um aldur og hásæti hans meðan himinninn er til. 89.31 Ef synir hans hafna lögmáli mínu og ganga eigi eftir boðum mínum, 89.32 ef þeir vanhelga lög mín og varðveita eigi boðorð mín, 89.33 þá vil ég vitja afbrota þeirra með vendinum og misgjörða þeirra með plágum, 89.34 en miskunn mína mun ég ekki frá honum taka og eigi bregða trúfesti minni. 89.35 Ég vil eigi vanhelga sáttmála minn og eigi breyta því, er mér hefir af vörum liðið. 89.36 Ég hefi einu sinni svarið við heilagleik minn og mun aldrei svíkja Davíð: 89.37 Niðjar hans skulu haldast við um aldur og hásæti hans sem sólin fyrir mér. 89.38 Það skal standa stöðugt að eilífu sem tunglið, svo sannarlega sem áreiðanlegt vitni er á himnum.' [Sela] 89.39 Og þó hefir þú útskúfað og hafnað og reiðst þínum smurða. 89.40 Þú hefir riftað sáttmálanum við þjón þinn, vanhelgað kórónu hans og fleygt henni til jarðar. 89.41 Þú hefir brotið niður alla múrveggi hans og lagt virki hans í eyði. 89.42 Allir vegfarendur ræna hann, hann er til háðungar orðinn nágrönnum sínum. 89.43 Þú hefir hafið hægri hönd fjenda hans, glatt alla óvini hans. 89.44 Þú hefir og látið sverðseggjar hans hörfa undan og eigi látið hann standast í bardaganum. 89.45 Þú hefir látið endi á verða vegsemd hans og hrundið hásæti hans til jarðar. 89.46 Þú hefir stytt æskudaga hans og hulið hann skömm. [Sela] 89.47 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að dyljast, á reiði þín ætíð að brenna sem eldur? 89.48 Minnst þú, Drottinn, hvað ævin er, til hvílíks hégóma þú hefir skapað öll mannanna börn. 89.49 Hver er sá, er lifi og sjái eigi dauðann, sá er bjargi sálu sinni úr greipum Heljar. [Sela] 89.50 Hvar eru þín fyrri náðarverk, ó Drottinn, þau er þú í trúfesti þinni sórst Davíð? 89.51 Minnst, ó Drottinn, háðungar þjóna þinna, að ég verð að bera í skauti smánan margra þjóða, 89.52 er óvinir þínir, Drottinn, smána mig með, smána fótspor þíns smurða. _________ 89.53 Lofaður sé Drottinn að eilífu. Amen. Amen.
90.1 Bæn guðsmannsins Móse. Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. 90.2 Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. 90.3 Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: 'Hverfið aftur, þér mannanna börn!' 90.4 Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka. 90.5 Þú hrífur þá burt, sem í svefni, þá er að morgni voru sem gróandi gras. 90.6 Að morgni blómgast það og grær, að kveldi fölnar það og visnar. 90.7 Vér hverfum fyrir reiði þinni, skelfumst fyrir bræði þinni. 90.8 Þú hefir sett misgjörðir vorar fyrir augu þér, vorar huldu syndir fyrir ljós auglitis þíns. 90.9 Allir dagar vorir hverfa fyrir reiði þinni, ár vor líða sem andvarp. 90.10 Ævidagar vorir eru sjötíu ár og þegar best lætur áttatíu ár, og dýrsta hnossið er mæða og hégómi, því að þeir líða í skyndi og vér fljúgum burt. 90.11 Hver þekkir styrkleik reiði þinnar og bræði þína, svo sem hana ber að óttast? 90.12 Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta. 90.13 Snú þú aftur, Drottinn. Hversu lengi er þess að bíða, að þú aumkist yfir þjóna þína? 90.14 Metta oss að morgni með miskunn þinni, að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora. 90.15 Veit oss gleði í stað daga þeirra, er þú hefir lægt oss, ára þeirra, er vér höfum illt reynt. 90.16 Lát dáðir þínar birtast þjónum þínum og dýrð þína börnum þeirra. 90.17 Hylli Drottins, Guðs vors, sé yfir oss, styrk þú verk handa vorra.
91.1 Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta, sá er gistir í skugga Hins almáttka, 91.2 sá er segir við Drottin: 'Hæli mitt og háborg, Guð minn, er ég trúi á!' 91.3 Hann frelsar þig úr snöru fuglarans, frá drepsótt glötunarinnar, 91.4 hann skýlir þér með fjöðrum sínum, undir vængjum hans mátt þú hælis leita, trúfesti hans er skjöldur og verja. 91.5 Eigi þarft þú að óttast ógnir næturinnar, eða örina, sem flýgur um daga, 91.6 drepsóttina, er reikar um í dimmunni, eða sýkina, er geisar um hádegið. 91.7 Þótt þúsund falli þér við hlið og tíu þúsund þér til hægri handar, þá nær það ekki til þín. 91.8 Þú horfir aðeins á með augunum, sér hversu óguðlegum er endurgoldið. 91.9 Þitt hæli er Drottinn, þú hefir gjört Hinn hæsta að athvarfi þínu. 91.10 Engin ógæfa hendir þig, og engin plága nálgast tjald þitt. 91.11 Því að þín vegna býður hann út englum sínum til þess að gæta þín á öllum vegum þínum. 91.12 Þeir munu bera þig á höndum sér, til þess að þú steytir ekki fót þinn við steini. 91.13 Þú skalt stíga ofan á höggorma og nöðrur, troða fótum ljón og dreka. 91.14 'Af því að hann leggur ást á mig, mun ég frelsa hann, ég bjarga honum, af því að hann þekkir nafn mitt. 91.15 Ákalli hann mig, mun ég bænheyra hann, ég er hjá honum í neyðinni, ég frelsa hann og gjöri hann vegsamlegan. 91.16 Ég metta hann með fjöld lífdaga og læt hann sjá hjálpræði mitt.'
92.1 Gott er að lofa Drottin og lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti, 92.2 að kunngjöra miskunn þína að morgni og trúfesti þína um nætur 92.3 á tístrengjað hljóðfæri og hörpu með strengjaleik gígjunnar. 92.4 Þú hefir glatt mig, Drottinn, með dáð þinni, yfir handaverkum þínum fagna ég. 92.5 Hversu mikil eru verk þín, Drottinn, harla djúpar hugsanir þínar. 92.6 Fíflið eitt skilur eigi, og fáráðlingurinn einn skynjar eigi þetta. 92.7 Þegar óguðlegir greru sem gras og allir illgjörðamennirnir blómguðust, þá var það til þess að þeir skyldu afmáðir verða að eilífu, 92.8 en þú sem ert á hæðum, ert til að eilífu, Drottinn. 92.9 Því sjá, óvinir þínir, Drottinn, því sjá, óvinir þínir farast, allir illgjörðamennirnir tvístrast. 92.10 En mig lætur þú bera hornið hátt eins og vísundinn, mig hressir þú með ferskri olíu. 92.11 Auga mitt lítur með gleði á fjandmenn mína, eyra mitt heyrir með gleði um níðingana, er rísa gegn mér. 92.12 Hinir réttlátu gróa sem pálminn, vaxa sem sedrustréð á Líbanon. 92.13 Þeir eru gróðursettir í húsi Drottins, gróa í forgörðum Guðs vors. 92.14 Jafnvel í hárri elli bera þeir ávöxt, þeir eru safamiklir og grænir. 92.15 Þeir kunngjöra, að Drottinn er réttlátur, klettur minn, sem ekkert ranglæti er hjá.
93.1 Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir íklæðst hátign, Drottinn hefir skrýðst, hann hefir spennt sig belti styrkleika síns og fest jörðina, svo að hún haggast eigi. 93.2 Hásæti þitt stendur stöðugt frá öndverðu, frá eilífð ert þú. 93.3 Straumarnir hófu upp, Drottinn, straumarnir hófu upp raust sína, straumarnir hófu upp dunur sínar. 93.4 Drottinn á hæðum er tignarlegri en gnýr mikilla, tignarlegra vatna, tignarlegri en boðar hafsins. 93.5 Vitnisburðir þínir eru harla áreiðanlegir, húsi þínu hæfir heilagleiki, ó Drottinn, um allar aldir.
94.1 Drottinn, Guð hefndarinnar, Guð hefndarinnar, birst þú í geisladýrð! 94.2 Rís þú upp, dómari jarðar, endurgjald ofstopamönnunum það er þeir hafa aðhafst! 94.3 Hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn, hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn að fagna? 94.4 Þeir ausa úr sér drambyrðum, allir illvirkjarnir rembast. 94.5 Þeir kremja lýð þinn, Drottinn, þjá arfleifð þína, 94.6 drepa ekkjur og aðkomandi og myrða föðurlausa 94.7 og segja: 'Drottinn sér það ekki, Jakobs Guð tekur eigi eftir því.' 94.8 Takið eftir, þér hinir fíflsku meðal lýðsins, og þér fáráðlingar, hvenær ætlið þér að verða hyggnir? 94.9 Mun sá eigi heyra, sem eyrað hefir plantað, mun sá eigi sjá, sem augað hefir til búið? 94.10 Skyldi sá er agar þjóðirnar eigi hegna, hann sem kennir mönnunum þekkingu? 94.11 Drottinn þekkir hugsanir mannsins, að þær eru einber hégómi. 94.12 Sæll er sá maður, er þú agar, Drottinn, og fræðir í lögmáli þínu, 94.13 til þess að hlífa honum við mótlætisdögunum, uns gröf er grafin fyrir óguðlega. 94.14 Því að Drottinn hrindir eigi burt lýð sínum og yfirgefur eigi arfleifð sína, 94.15 heldur mun rétturinn hverfa aftur til hins réttláta, og honum munu allir hjartahreinir fylgja. 94.16 Hver rís upp mér til hjálpar gegn illvirkjunum, hver gengur fram fyrir mig gegn illgjörðamönnunum? 94.17 Ef Drottinn veitti mér eigi fulltingi, þá mundi sál mín brátt hvíla í dauðaþögn. 94.18 Þegar ég hugsaði: 'Mér skriðnar fótur,' þá studdi mig miskunn þín, Drottinn. 94.19 Þegar miklar áhyggjur lögðust á hjarta mitt, hressti huggun þín sálu mína. 94.20 Mun dómstóll spillingarinnar vera í bandalagi við þig, hann sem býr öðrum tjón undir yfirskini réttarins? 94.21 Þeir ráðast á líf hins réttláta og sakfella saklaust blóð. 94.22 En Drottinn er mér háborg og Guð minn klettur mér til hælis. 94.23 Hann geldur þeim misgjörð þeirra og afmáir þá í illsku þeirra, Drottinn, Guð vor, afmáir þá.
95.1 Komið, fögnum fyrir Drottni, látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors. 95.2 Komum með lofsöng fyrir auglit hans, syngjum gleðiljóð fyrir honum. 95.3 Því að Drottinn er mikill Guð og mikill konungur yfir öllum guðum. 95.4 Í hans hendi eru jarðardjúpin, og fjallatindarnir heyra honum til. 95.5 Hans er hafið, hann hefir skapað það, og hendur hans mynduðu þurrlendið. 95.6 Komið, föllum fram og krjúpum niður, beygjum kné vor fyrir Drottni, skapara vorum, 95.7 því að hann er vor Guð, og vér erum gæslulýður hans og hjörð sú, er hann leiðir. Ó að þér í dag vilduð heyra raust hans! 95.8 Herðið eigi hjörtu yðar eins og hjá Meríba, eins og daginn við Massa í eyðimörkinni, 95.9 þegar feður yðar freistuðu mín, reyndu mig, þótt þeir sæju verk mín. 95.10 Í fjörutíu ár hafði ég viðbjóð á þessari kynslóð, og ég sagði: 'Þeir eru andlega villtur lýður og þekkja ekki vegu mína.' 95.11 Þess vegna sór ég í reiði minni: 'Þeir skulu eigi ganga inn til hvíldar minnar.'
96.1 Syngið Drottni nýjan söng, syngið Drottni öll lönd! 96.2 Syngið Drottni, lofið nafn hans, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag. 96.3 Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða. 96.4 Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, óttalegur er hann öllum guðum framar. 96.5 Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en Drottinn hefir gjört himininn. 96.6 Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans, máttur og prýði í helgidómi hans. 96.7 Tjáið Drottni lof, þér kynkvíslir þjóða, tjáið Drottni vegsemd og vald. 96.8 Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, færið gjafir og komið til forgarða hans, 96.9 fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða, titrið fyrir honum, öll lönd! 96.10 Segið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki, hann dæmir þjóðirnar með réttvísi. 96.11 Himinninn gleðjist og jörðin fagni, hafið drynji og allt sem í því er, 96.12 foldin fagni og allt sem á henni er, öll tré skógarins kveði fagnaðaróp, 96.13 fyrir Drottni, því að hann kemur, hann kemur til þess að dæma jörðina. Hann mun dæma heiminn með réttlæti og þjóðirnar eftir trúfesti sinni.
97.1 Drottinn er konungur orðinn! jörðin fagni, eyjafjöldinn gleðjist. 97.2 Ský og sorti eru umhverfis hann, réttlæti og réttvísi eru grundvöllur hásætis hans, 97.3 eldur fer fyrir honum og bálast umhverfis spor hans. 97.4 Leiftur hans lýsa um jarðríki, jörðin sér það og nötrar. 97.5 Björgin bráðna sem vax fyrir Drottni, fyrir Drottni gjörvallrar jarðarinnar. 97.6 Himnarnir kunngjöra réttlæti hans, og allar þjóðir sjá dýrð hans. 97.7 Allir skurðgoðadýrkendur verða til skammar, þeir er stæra sig af falsguðunum. Allir guðir falla fram fyrir honum. 97.8 Síon heyrir það og gleðst, Júdadætur fagna sakir dóma þinna, Drottinn. 97.9 Því að þú, Drottinn, ert Hinn hæsti yfir gjörvallri jörðunni, þú ert hátt hafinn yfir alla guði. 97.10 Drottinn elskar þá er hata hið illa, hann verndar sálir dýrkenda sinna, frelsar þá af hendi óguðlegra. 97.11 Ljós rennur upp réttlátum og gleði hjartahreinum. 97.12 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni, vegsamið hans heilaga nafn.
98.1 Sálmur. Syngið Drottni nýjan söng, því að hann hefir gjört dásemdarverk, hægri hönd hans hjálpaði honum og hans heilagi armleggur. 98.2 Drottinn hefir kunngjört hjálpræði sitt, fyrir augum þjóðanna opinberaði hann réttlæti sitt. 98.3 Hann minntist miskunnar sinnar við Jakob og trúfesti sinnar við Ísraels ætt. Öll endimörk jarðar sáu hjálpræði Guðs vors. 98.4 Látið gleðióp gjalla fyrir Drottni, öll lönd, hefjið gleðisöng, æpið fagnaðaróp og lofsyngið. 98.5 Leikið fyrir Drottni á gígju, á gígju með lofsöngshljómi, 98.6 með lúðrum og básúnuhljómi, látið gleðióp gjalla fyrir konunginum Drottni. 98.7 Hafið drynji og allt sem í því er, heimurinn og þeir sem í honum lifa. 98.8 Fljótin skulu klappa lof í lófa, fjöllin fagna öll saman 98.9 fyrir Drottni sem kemur til að dæma jörðina. Hann dæmir heiminn með réttlæti og þjóðirnar með réttvísi.
99.1 Drottinn er konungur orðinn! Þjóðirnar skjálfi. Hann situr uppi yfir kerúbunum, jörðin nötri. 99.2 Drottinn er mikill á Síon og hátt upp hafinn yfir alla lýði. 99.3 Þeir skulu lofa nafn þitt, hið mikla og óttalega. Heilagur er hann! 99.4 Þú ert voldugur konungur, sem elskar réttinn, þú hefir staðfest réttvísina, rétt og réttlæti hefir þú framið í Jakob. 99.5 Tignið Drottin, Guð vorn, og fallið fram fyrir fótskör hans. Heilagur er hann! 99.6 Móse og Aron eru meðal presta hans, Samúel meðal þeirra er ákalla nafn hans, þeir ákalla Drottin og hann bænheyrir þá. 99.7 Hann talar til þeirra í skýstólpanum, því að þeir gæta vitnisburða hans og laganna, er hann gaf þeim. 99.8 Drottinn, Guð vor, þú bænheyrir þá, þú reynist þeim fyrirgefandi Guð og sýknar þá af gjörðum þeirra. 99.9 Tignið Drottin Guð vorn, og fallið fram fyrir hans heilaga fjalli, því að heilagur er Drottinn, Guð vor.
100.1 Þakkarfórnar-sálmur. Öll veröldin fagni fyrir Drottni! 100.2 Þjónið Drottni með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng! 100.3 Vitið, að Drottinn er Guð, hann hefir skapað oss, og hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð. 100.4 Gangið inn um hlið hans með lofsöng, í forgarða hans með sálmum, lofið hann, vegsamið nafn hans. 100.5 Því að Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns.
101.1 Davíðssálmur. Ég vil syngja um miskunn og rétt, lofsyngja þér, Drottinn. 101.2 Ég vil gefa gætur að vegi hins ráðvanda _ hvenær kemur þú til mín? Í grandvarleik hjartans vil ég ganga um í húsi mínu. 101.3 Ég læt mér eigi til hugar koma neitt níðingsverk. Ég hata þá sem illa breyta, þeir fá engin mök við mig að eiga. 101.4 Rangsnúið hjarta skal frá mér víkja, ég kannast eigi við hinn vonda. 101.5 Rægi einhver náunga sinn í leyni, þagga ég niður í honum. Hver sem er hrokafullur og drembilátur í hjarta, hann fæ ég ekki þolað. 101.6 Augu mín horfa á hina trúföstu í landinu, að þeir megi búa hjá mér. Sá sem gengur grandvarleikans vegu, hann skal þjóna mér. 101.7 Enginn má dvelja í húsi mínu, er svik fremur. Sá er lygar mælir stenst eigi fyrir augum mínum. 101.8 Á hverjum morgni þagga ég niður í öllum óguðlegum í landinu. Ég útrými úr borg Drottins öllum illgjörðamönnum.
102.1 Bæn hrjáðs manns, þá er hann örmagnast og úthellir kveini sínu fyrir Drottni. 102.2 Drottinn, heyr þú bæn mína og hróp mitt berist til þín. 102.3 Byrg eigi auglit þitt fyrir mér, þegar ég er í nauðum staddur, hneig að mér eyra þitt, þegar ég kalla, flýt þér að bænheyra mig. 102.4 Því að dagar mínir hverfa sem reykur, bein mín brenna sem eldur. 102.5 Hjarta mitt er mornað og þornað sem gras, því að ég gleymi að neyta brauðs míns. 102.6 Sakir kveinstafa minna er ég sem skinin bein. 102.7 Ég líkist pelíkan í eyðimörkinni, er sem ugla í rústum. 102.8 Ég ligg andvaka og styn eins og einmana fugl á þaki. 102.9 Daginn langan smána óvinir mínir mig, fjandmenn mínir formæla með nafni mínu. 102.10 Ég et ösku sem brauð og blanda drykk minn tárum 102.11 sakir reiði þinnar og bræði, af því að þú hefir tekið mig upp og varpað mér burt. 102.12 Dagar mínir eru sem hallur skuggi, og ég visna sem gras. 102.13 En þú, Drottinn, ríkir að eilífu, og nafn þitt varir frá kyni til kyns. 102.14 Þú munt rísa upp til þess að miskunna Síon, því að tími er kominn til þess að líkna henni, já, stundin er komin. 102.15 Þjónar þínir elska steina hennar og harma yfir öskuhrúgum hennar. 102.16 Þá munu þjóðirnar óttast nafn Drottins og allir konungar jarðarinnar dýrð þína, 102.17 því að Drottinn byggir upp Síon og birtist í dýrð sinni. 102.18 Hann snýr sér að bæn hinna nöktu og fyrirlítur eigi bæn þeirra. 102.19 Þetta skal skráð fyrir komandi kynslóð, og þjóð, sem enn er ósköpuð, skal lofa Drottin. 102.20 Því að Drottinn lítur niður af sínum helgu hæðum, horfir frá himni til jarðar 102.21 til þess að heyra andvarpanir bandingjanna og leysa börn dauðans, 102.22 að þau mættu kunngjöra nafn Drottins í Síon og lofstír hans í Jerúsalem, 102.23 þegar þjóðirnar safnast saman og konungsríkin til þess að þjóna Drottni. 102.24 Hann hefir bugað kraft minn á ferð minni, stytt daga mína. 102.25 Ég segi: Guð minn, tak mig eigi burt á miðri ævinni. Ár þín vara frá kyni til kyns. 102.26 Í öndverðu grundvallaðir þú jörðina, og himnarnir eru verk handa þinna. 102.27 Þeir líða undir lok, en þú varir. Þeir fyrnast sem fat, þú skiptir þeim sem klæðum, og þeir hverfa. 102.28 En þú ert hinn sami, og þín ár fá engan enda. 102.29 Synir þjóna þinna munu búa kyrrir og niðjar þeirra standa stöðugir fyrir augliti þínu.
103.1 Davíðssálmur. Lofa þú Drottin, sála mín, og allt sem í mér er, hans heilaga nafn, 103.2 lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans. 103.3 Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein, 103.4 leysir líf þitt frá gröfinni, krýnir þig náð og miskunn. 103.5 Hann mettar þig gæðum, þú yngist upp sem örninn. 103.6 Drottinn fremur réttlæti og veitir rétt öllum kúguðum. 103.7 Hann gjörði Móse vegu sína kunna og Ísraelsbörnum stórvirki sín. 103.8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur. 103.9 Hann þreytir eigi deilur um aldur og er eigi eilíflega reiður. 103.10 Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum, 103.11 heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann. 103.12 Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss. 103.13 Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann. 103.14 Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold. 103.15 Dagar mannsins eru sem grasið, hann blómgast sem blómið á mörkinni, 103.16 þegar vindur blæs á hann er hann horfinn, og staður hans þekkir hann ekki framar. 103.17 En miskunn Drottins við þá er óttast hann varir frá eilífð til eilífðar, og réttlæti hans nær til barnabarnanna, 103.18 þeirra er varðveita sáttmála hans og muna að breyta eftir boðum hans. 103.19 Drottinn hefir reist hásæti sitt á himnum, og konungdómur hans drottnar yfir alheimi. 103.20 Lofið Drottin, þér englar hans, þér voldugu hetjur, er framkvæmið boð hans, er þér heyrið hljóminn af orði hans. 103.21 Lofið Drottin, allar hersveitir hans, þjónar hans, er framkvæmið vilja hans. 103.22 Lofið Drottin, öll verk hans, á hverjum stað í ríki hans. Lofa þú Drottin, sála mín.
104.1 Lofa þú Drottin, sála mín! Drottinn, Guð minn, þú ert harla mikill. Þú ert klæddur hátign og vegsemd. 104.2 Þú hylur þig ljósi eins og skikkju, þenur himininn út eins og tjalddúk. 104.3 Þú hvelfir hásal þinn í vötnunum, gjörir ský að vagni þínum, og ferð um á vængjum vindarins. 104.4 Þú gjörir vindana að sendiboðum þínum, bálandi eld að þjónum þínum. 104.5 Þú grundvallar jörðina á undirstöðum hennar, svo að hún haggast eigi um aldur og ævi. 104.6 Hafflóðið huldi hana sem klæði, vötnin náðu upp yfir fjöllin, 104.7 en fyrir þinni ógnun flýðu þau, fyrir þrumurödd þinni hörfuðu þau undan með skelfingu. 104.8 Þau gengu yfir fjöllin, steyptust niður í dalina, þangað sem þú hafðir búið þeim stað. 104.9 Þú settir takmörk, sem þau mega ekki fara yfir, þau skulu ekki hylja jörðina framar. 104.10 Þú sendir lindir í dalina, þær renna milli fjallanna, 104.11 þær svala öllum dýrum merkurinnar, villiasnarnir slökkva þorsta sinn. 104.12 Yfir þeim byggja fuglar himins, láta kvak sitt heyrast milli greinanna. 104.13 Þú vökvar fjöllin frá hásal þínum, jörðin mettast af ávexti verka þinna. 104.14 Þú lætur gras spretta handa fénaðinum og jurtir, sem maðurinn ræktar, til þess að framleiða brauð af jörðinni 104.15 og vín, sem gleður hjarta mannsins, olíu, sem gjörir andlitið gljáandi, og brauð, sem hressir hjarta mannsins. 104.16 Tré Drottins mettast, sedrustrén á Líbanon, er hann hefir gróðursett 104.17 þar sem fuglarnir byggja hreiður, storkarnir, er hafa kýprestrén að húsi. 104.18 Hin háu fjöll eru handa steingeitunum, klettarnir eru hæli fyrir stökkhérana. 104.19 Þú gjörðir tunglið til þess að ákvarða tíðirnar, sólin veit, hvar hún á að ganga til viðar. 104.20 Þegar þú gjörir myrkur, verður nótt, og þá fara öll skógardýrin á kreik. 104.21 Ljónin öskra eftir bráð og heimta æti sitt af Guði. 104.22 Þegar sól rennur upp, draga þau sig í hlé og leggjast fyrir í fylgsnum sínum, 104.23 en þá fer maðurinn út til starfa sinna, til vinnu sinnar fram á kveld. 104.24 Hversu mörg eru verk þín, Drottinn, þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað. 104.25 Þar er hafið, mikið og vítt á alla vegu, þar er óteljandi grúi, smá dýr og stór. 104.26 Þar fara skipin um og Levjatan, er þú hefir skapað til þess að leika sér þar. 104.27 Öll vona þau á þig, að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma. 104.28 Þú gefur þeim, og þau tína, þú lýkur upp hendi þinni, og þau mettast gæðum. 104.29 Þú byrgir auglit þitt, þá skelfast þau, þú tekur aftur anda þeirra, þá andast þau og hverfa aftur til moldarinnar. 104.30 Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til, og þú endurnýjar ásjónu jarðar. 104.31 Dýrð Drottins vari að eilífu, Drottinn gleðjist yfir verkum sínum, 104.32 hann sem lítur til jarðar, svo að hún nötrar, sem snertir við fjöllunum, svo að úr þeim rýkur. 104.33 Ég vil ljóða um Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum meðan ég er til. 104.34 Ó að mál mitt mætti falla honum í geð! Ég gleðst yfir Drottni. 104.35 Ó að syndarar mættu hverfa af jörðunni og óguðlegir eigi vera til framar. Vegsama þú Drottin, sála mín. Halelúja.
105.1 Þakkið Drottni, ákallið nafn hans, gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna! 105.2 Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum, talið um öll hans dásemdarverk. 105.3 Hrósið yður af hans helga nafni, hjarta þeirra er leita Drottins gleðjist. 105.4 Leitið Drottins og máttar hans, stundið sífellt eftir augliti hans. 105.5 Minnist dásemdarverka hans, þeirra er hann gjörði, tákna hans og refsidóma munns hans, 105.6 þér niðjar Abrahams, þjónar hans, þér synir Jakobs, hans útvöldu. 105.7 Hann er Drottinn, vor Guð, um víða veröld ganga dómar hans. 105.8 Hann minnist að eilífu sáttmála síns, orðs þess, er hann hefir gefið þúsundum kynslóða, 105.9 sáttmálans, er hann gjörði við Abraham, og eiðs síns við Ísak, 105.10 þess er hann setti sem lög fyrir Jakob, eilífan sáttmála fyrir Ísrael, 105.11 þá er hann mælti: Þér mun ég gefa Kanaanland sem erfðahlut yðar. 105.12 Þegar þeir voru fámennur hópur, örfáir og bjuggu þar útlendingar, 105.13 þá fóru þeir frá einni þjóð til annarrar og frá einu konungsríki til annars lýðs. 105.14 Hann leið engum að kúga þá og hegndi konungum þeirra vegna. 105.15 'Snertið eigi við mínum smurðu og gjörið eigi spámönnum mínum mein.' 105.16 Þá er hann kallaði hallæri yfir landið, braut í sundur hverja stoð brauðsins, 105.17 þá sendi hann mann á undan þeim, Jósef var seldur sem þræll. 105.18 Þeir þjáðu fætur hans með fjötrum, hann var lagður í járn, 105.19 allt þar til er orð hans rættust, og orð Drottins létu hann standast raunina. 105.20 Konungur sendi boð og lét hann lausan, drottnari þjóðanna leysti fjötra hans. 105.21 Hann gjörði hann að herra yfir húsi sínu og að drottnara yfir öllum eigum sínum, 105.22 að hann gæti fjötrað höfðingja eftir vild og kennt öldungum hans speki. 105.23 Síðan kom Ísrael til Egyptalands, Jakob var gestur í landi Kams. 105.24 Og Guð gjörði lýð sinn mjög mannmargan og lét þá verða fleiri en fjendur þeirra. 105.25 Hann sneri hjörtum Egypta til haturs við lýð sinn, til lævísi við þjóna sína. 105.26 Hann sendi Móse, þjón sinn, og Aron, er hann hafði útvalið, 105.27 hann gjörði tákn sín á þeim og undur í landi Kams. 105.28 Hann sendi sorta og myrkvaði landið, en þeir gáfu orðum hans engan gaum, 105.29 hann breytti vötnum þeirra í blóð og lét fiska þeirra deyja, 105.30 land þeirra varð kvikt af froskum, alla leið inn í svefnherbergi konungs, 105.31 hann bauð, þá komu flugur, mývargur um öll héruð þeirra, 105.32 hann gaf þeim hagl fyrir regn, bálandi eld í land þeirra, 105.33 hann laust vínvið þeirra og fíkjutré og braut sundur trén í héruðum þeirra, 105.34 hann bauð, þá kom jarðvargur og óteljandi engisprettur, 105.35 sem átu upp allar jurtir í landi þeirra og átu upp ávöxtinn af jörð þeirra, 105.36 hann laust alla frumburði í landi þeirra, frumgróða alls styrkleiks þeirra. 105.37 Síðan leiddi hann þá út með silfri og gulli, enginn hrasaði af kynkvíslum hans. 105.38 Egyptaland gladdist yfir burtför þeirra, því að ótti við þá var fallinn yfir þá. 105.39 Hann breiddi út ský sem hlíf og eld til þess að lýsa um nætur. 105.40 Þeir báðu, þá lét hann lynghæns koma og mettaði þá með himnabrauði. 105.41 Hann opnaði klett, svo að vatn vall upp, rann sem fljót um eyðimörkina. 105.42 Hann minntist síns heilaga heits við Abraham þjón sinn 105.43 og leiddi lýð sinn út með gleði, sína útvöldu með fögnuði. 105.44 Og hann gaf þeim lönd þjóðanna, það sem þjóðirnar höfðu aflað með striti, fengu þeir til eignar, 105.45 til þess að þeir skyldu halda lög hans og varðveita lögmál hans. Halelúja.
106.1 Halelúja! Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu. 106.2 Hver getur sagt frá máttarverkum Drottins, kunngjört allan lofstír hans? 106.3 Sælir eru þeir, sem gæta réttarins, sem iðka réttlæti alla tíma. 106.4 Minnst þú mín, Drottinn, með velþóknun þeirri, er þú hefir á lýð þínum, vitja mín með hjálpræði þínu, 106.5 að ég megi horfa með unun á hamingju þinna útvöldu, gleðjast yfir gleði þjóðar þinnar, fagna með eignarlýð þínum. 106.6 Vér höfum syndgað ásamt feðrum vorum, höfum breytt illa og óguðlega. 106.7 Feður vorir í Egyptalandi gáfu eigi gætur að dásemdarverkum þínum, minntust eigi þinnar miklu miskunnar og sýndu Hinum hæsta þrjósku hjá Hafinu rauða. 106.8 Þó hjálpaði hann þeim sakir nafns síns til þess að kunngjöra mátt sinn. 106.9 Hann hastaði á Hafið rauða, svo að það þornaði upp, og lét þá ganga um djúpin eins og um eyðimörk. 106.10 Hann frelsaði þá af hendi hatursmanna þeirra og leysti þá af hendi óvinanna. 106.11 Vötnin huldu fjendur þeirra, ekki einn af þeim komst undan. 106.12 Þá trúðu þeir orðum hans, sungu honum lof. 106.13 En þeir gleymdu fljótt verkum hans, treystu eigi á ráð hans. 106.14 Þeir fylltust lysting í eyðimörkinni og freistuðu Guðs í öræfunum. 106.15 Þá veitti hann þeim bæn þeirra og sendi þeim megurð. 106.16 Þá öfunduðust þeir við Móse í herbúðunum, við Aron, hinn heilaga Drottins. 106.17 Jörðin opnaðist og svalg Datan og huldi flokk Abírams, 106.18 eldur kviknaði í flokki þeirra, loginn brenndi hina óguðlegu. 106.19 Þeir bjuggu til kálf hjá Hóreb og lutu steyptu líkneski, 106.20 og létu vegsemd sína í skiptum fyrir mynd af uxa, er gras etur. 106.21 Þeir gleymdu Guði, frelsara sínum, þeim er stórvirki gjörði í Egyptalandi, 106.22 dásemdarverk í landi Kams, óttaleg verk við Hafið rauða. 106.23 Þá hugði hann á að tortíma þeim, ef Móse, hans útvaldi, hefði eigi gengið fram fyrir hann og borið af blakið, til þess að afstýra reiði hans, svo að hann skyldi eigi tortíma. 106.24 Þeir fyrirlitu hið unaðslega land og trúðu eigi orðum hans. 106.25 Þeir mögluðu í tjöldum sínum og hlýddu eigi á raust Drottins. 106.26 Þá lyfti hann hendi sinni gegn þeim og sór að láta þá falla í eyðimörkinni, 106.27 tvístra niðjum þeirra meðal þjóðanna og dreifa þeim um löndin. 106.28 Þeir dýrkuðu Baal Peór og átu fórnir dauðra skurðgoða. 106.29 Þeir egndu hann til reiði með athæfi sínu, og braust því út plága meðal þeirra. 106.30 En Pínehas gekk fram og skar úr, og þá staðnaði plágan. 106.31 Og honum var reiknað það til réttlætis, frá kyni til kyns, að eilífu. 106.32 Þeir reittu hann til reiði hjá Meríba-vötnum, þá fór illa fyrir Móse þeirra vegna, 106.33 því að þeir sýndu þrjósku anda hans, og honum hrutu ógætnisorð af vörum. 106.34 Þeir eyddu eigi þjóðunum, er Drottinn hafði boðið þeim, 106.35 heldur lögðu þeir lag sitt við heiðingjana og lærðu athæfi þeirra. 106.36 Þeir dýrkuðu skurðgoð þeirra, og þau urðu þeim að snöru, 106.37 þeir færðu að fórnum sonu sína og dætur sínar illum vættum 106.38 og úthelltu saklausu blóði, blóði sona sinna og dætra, er þeir fórnfærðu skurðgoðum Kanaans, svo að landið vanhelgaðist af blóðskuldinni. 106.39 Þeir saurguðust af verkum sínum og frömdu tryggðrof með athæfi sínu. 106.40 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn lýð hans, og hann fékk viðbjóð á arfleifð sinni. 106.41 Hann gaf þá á vald heiðingjum, og hatursmenn þeirra drottnuðu yfir þeim. 106.42 Óvinir þeirra þjökuðu þá, og þeir urðu að beygja sig undir vald þeirra. 106.43 Mörgum sinnum bjargaði hann þeim, en þeir sýndu þrjósku í ráði sínu og urðu að lúta sakir misgjörðar sinnar. 106.44 Samt leit hann á neyð þeirra, er hann heyrði kvein þeirra. 106.45 Hann minntist sáttmála síns við þá og aumkaðist yfir þá sakir sinnar miklu miskunnar 106.46 og lét þá finna miskunn hjá öllum þeim er höfðu haft þá burt hernumda. 106.47 Hjálpa þú oss, Drottinn, Guð vor, og safna oss saman frá þjóðunum, að vér megum lofa þitt heilaga nafn, víðfrægja lofstír þinn. 106.48 Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð, frá eilífð til eilífðar. Og allur lýðurinn segi: Amen! Halelúja.
107.1 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu. 107.2 Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja, þeir er hann hefir leyst úr nauðum 107.3 og safnað saman úr löndunum, frá austri og vestri, frá norðri og suðri. 107.4 Þeir reikuðu um eyðimörkina, um veglaus öræfin, og fundu eigi byggilegar borgir, 107.5 þá hungraði og þyrsti, sál þeirra vanmegnaðist í þeim. 107.6 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann bjargaði þeim úr angist þeirra 107.7 og leiddi þá um slétta leið, svo að þeir komust til byggilegrar borgar. 107.8 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn, 107.9 því að hann mettaði magnþrota sál og fyllti hungraða sál gæðum. 107.10 Þeir sem sátu í myrkri og niðdimmu, bundnir eymd og járnum, 107.11 af því að þeir höfðu þrjóskast við orðum Guðs og fyrirlitið ráð Hins hæsta, 107.12 svo að hann beygði hug þeirra með mæðu, þeir hrösuðu, og enginn liðsinnti þeim. 107.13 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann frelsaði þá úr angist þeirra, 107.14 hann leiddi þá út úr myrkrinu og niðdimmunni og braut sundur fjötra þeirra. 107.15 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn, 107.16 því að hann braut eirhliðin og mölvaði járnslárnar. 107.17 Heimskingjar, er vegna sinnar syndsamlegu breytni og vegna misgjörða sinna voru þjáðir, 107.18 þeim bauð við hverri fæðu og voru komnir nálægt hliðum dauðans. 107.19 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann frelsaði þá úr angist þeirra, 107.20 hann sendi út orð sitt og læknaði þá og bjargaði þeim frá gröfinni. 107.21 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn, 107.22 og færa þakkarfórnir og kunngjöra verk hans með fögnuði. 107.23 Þeir sem fóru um hafið á skipum, ráku verslun á hinum miklu vötnum, 107.24 þeir hafa séð verk Drottins og dásemdir hans á djúpinu. 107.25 Því að hann bauð og þá kom stormviðri, sem hóf upp bylgjur þess. 107.26 Þeir hófust til himins, sigu niður í djúpið, þeim féllst hugur í neyðinni. 107.27 Þeir römbuðu og skjögruðu eins og drukkinn maður, og öll kunnátta þeirra var þrotin. 107.28 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, og hann leiddi þá úr angist þeirra. 107.29 Hann breytti stormviðrinu í blíðan blæ, svo að bylgjur hafsins urðu hljóðar. 107.30 Þá glöddust þeir, af því að þær kyrrðust, og hann lét þá komast í höfn þá, er þeir þráðu. 107.31 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn, 107.32 vegsama hann á þjóðarsamkomunni og lofa hann í hóp öldunganna. 107.33 Hann gjörir fljótin að eyðimörk og uppsprettur að þurrum lendum, 107.34 frjósamt land að saltsléttu sakir illsku íbúanna. 107.35 Hann gjörir eyðimörkina að vatnstjörnum og þurrlendið að uppsprettum 107.36 og lætur hungraða menn búa þar, að þeir megi grundvalla byggilega borg, 107.37 sá akra og planta víngarða og afla afurða. 107.38 Og hann blessar þá, svo að þeir margfaldast stórum og fénað þeirra lætur hann eigi fækka. 107.39 Og þótt þeir fækki og hnígi niður sakir þrengingar af böli og harmi, 107.40 þá hellir hann fyrirlitning yfir tignarmenn og lætur þá villast um veglaus öræfi, 107.41 en bjargar aumingjanum úr eymdinni og gjörir ættirnar sem hjarðir. 107.42 Hinir réttvísu sjá það og gleðjast, og öll illska lokar munni sínum. 107.43 Hver sem er vitur, gefi gætur að þessu, og menn taki eftir náðarverkum Drottins.
108.1 Ljóð. Davíðssálmur. 108.2 Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, ég vil syngja og leika, vakna þú, sála mín! 108.3 Vakna þú, harpa og gígja, ég vil vekja morgunroðann. 108.4 Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn, vegsama þig meðal þjóðanna, 108.5 því að miskunn þín er himnum hærri, og trúfesti þín nær til skýjanna. 108.6 Sýn þig himnum hærri, ó Guð, og dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina, 108.7 til þess að ástvinir þínir megi frelsast. Hjálpa þú með hægri hendi þinni og bænheyr mig. 108.8 Guð hefir sagt í helgidómi sínum: 'Ég vil fagna, ég vil skipta Síkem, mæla út Súkkót-dal. 108.9 Ég á Gíleað, ég á Manasse, og Efraím er hlíf höfði mínu, Júda veldissproti minn. 108.10 Móab er mundlaug mín, í Edóm fleygi ég skónum mínum, yfir Filisteu fagna ég.' 108.11 Hver vill fara með mig í örugga borg, hver vill flytja mig til Edóm? 108.12 Þú hefir útskúfað oss, ó Guð, og þú, Guð, fer eigi út með hersveitum vorum. 108.13 Veit oss lið gegn fjandmönnunum, því að mannahjálp er ónýt. 108.14 Með Guðs hjálp munum vér hreystiverk vinna, og hann mun troða óvini vora fótum.
109.1 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Þú Guð lofsöngs míns, ver eigi hljóður, 109.2 því að óguðlegan og svikulan munn opna þeir í gegn mér, tala við mig með ljúgandi tungu. 109.3 Með hatursorðum umkringja þeir mig og áreita mig að ástæðulausu. 109.4 Þeir launa mér elsku mína með ofsókn, en ég gjöri ekki annað en biðja. 109.5 Þeir launa mér gott með illu og elsku mína með hatri. 109.6 Set óguðlegan yfir mótstöðumann minn, og ákærandinn standi honum til hægri handar. 109.7 Hann gangi sekur frá dómi og bæn hans verði til syndar. 109.8 Dagar hans verði fáir, og annar hljóti embætti hans. 109.9 Börn hans verði föðurlaus og kona hans ekkja. 109.10 Börn hans fari á flæking og vergang, þau verði rekin burt úr rústum sínum. 109.11 Okrarinn leggi snöru fyrir allar eigur hans, og útlendir fjandmenn ræni afla hans. 109.12 Enginn sýni honum líkn, og enginn aumkist yfir föðurlausu börnin hans. 109.13 Niðjar hans verði afmáðir, nafn hans útskafið í fyrsta ættlið. 109.14 Misgjörðar feðra hans verði minnst af Drottni og synd móður hans eigi afmáð, 109.15 séu þær ætíð fyrir sjónum Drottins og hann afmái minningu þeirra af jörðunni 109.16 sakir þess, að hann mundi eigi eftir að sýna elsku, heldur ofsótti hinn hrjáða og snauða og hinn ráðþrota til þess að drepa hann. 109.17 Hann elskaði bölvunina, hún bitni þá á honum, hann smáði blessunina, hún sé þá fjarri honum. 109.18 Hann íklæddist bölvuninni sem kufli, hún læsti sig þá inn í innyfli hans sem vatn og í bein hans sem olía, 109.19 hún verði honum sem klæði, er hann sveipar um sig, og sem belti, er hann sífellt gyrðist. 109.20 Þetta séu laun andstæðinga minna frá Drottni og þeirra, er tala illt í gegn mér. 109.21 En þú, Drottinn Guð, breyt við mig eftir gæsku miskunnar þinnar, frelsa mig sakir nafns þíns, 109.22 því að ég er hrjáður og snauður, hjartað berst ákaft í brjósti mér. 109.23 Ég hverf sem hallur skuggi, ég er hristur út eins og jarðvargar. 109.24 Kné mín skjögra af föstu, og hold mitt tærist af viðsmjörsskorti. 109.25 Ég er orðinn þeim að spotti, þegar þeir sjá mig, hrista þeir höfuðið. 109.26 Veit mér lið, Drottinn, Guð minn, hjálpa mér eftir miskunn þinni, 109.27 að þeir megi komast að raun um, að það var þín hönd, að það varst þú, Drottinn, sem gjörðir það. 109.28 Bölvi þeir, þú munt blessa, verði þeir til skammar, er rísa gegn mér, en þjónn þinn gleðjist. 109.29 Andstæðingar mínir íklæðist svívirðing, sveipi um sig skömminni eins og skikkju. 109.30 Ég vil lofa Drottin mikillega með munni mínum, meðal fjölmennis vil ég vegsama hann, 109.31 því að hann stendur hinum snauða til hægri handar til þess að hjálpa honum gegn þeim er sakfella hann.
110.1 Davíðssálmur. Svo segir Drottinn við herra minn: 'Sest þú mér til hægri handar, þá mun ég leggja óvini þína sem fótskör að fótum þér.' 110.2 Drottinn réttir út þinn volduga sprota frá Síon, drottna þú mitt á meðal óvina þinna! 110.3 Þjóð þín kemur sjálfboða á valdadegi þínum. Í helgu skrauti frá skauti morgunroðans kemur dögg æskuliðs þíns til þín. 110.4 Drottinn hefir svarið, og hann iðrar þess eigi: 'Þú ert prestur að eilífu, að hætti Melkísedeks.' 110.5 Drottinn er þér til hægri handar, hann knosar konunga á degi reiði sinnar. 110.6 Hann heldur dóm meðal þjóðanna, fyllir allt líkum, hann knosar höfuð um víðan vang. 110.7 Á leiðinni drekkur hann úr læknum, þess vegna ber hann höfuðið hátt.
111.1 Halelúja. Ég vil lofa Drottin af öllu hjarta, í félagi og söfnuði réttvísra. 111.2 Mikil eru verk Drottins, verð íhugunar öllum þeim, er hafa unun af þeim. 111.3 Tign og vegsemd eru verk hans og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu. 111.4 Hann hefir látið dásemdarverka sinna minnst verða, náðugur og miskunnsamur er Drottinn. 111.5 Hann hefir gefið fæðu þeim, er óttast hann, hann minnist að eilífu sáttmála síns. 111.6 Hann hefir kunngjört þjóð sinni kraft verka sinna, með því að gefa þeim eignir heiðingjanna. 111.7 Verk handa hans eru trúfesti og réttvísi, öll fyrirmæli hans eru áreiðanleg, 111.8 örugg um aldur og ævi, framkvæmd í trúfesti og réttvísi. 111.9 Hann hefir sent lausn lýð sínum, skipað sáttmála sinn að eilífu, heilagt og óttalegt er nafn hans. 111.10 Upphaf speki er ótti Drottins, hann er fögur hyggindi öllum þeim, er iðka hann. Lofstír hans stendur um eilífð.
112.1 Halelúja. Sæll er sá maður, sem óttast Drottin og hefir mikla unun af boðum hans. 112.2 Niðjar hans verða voldugir á jörðunni, ætt réttvísra mun blessun hljóta. 112.3 Nægtir og auðæfi eru í húsi hans, og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu. 112.4 Hann upprennur réttvísum sem ljós í myrkrinu, mildur og meðaumkunarsamur og réttlátur. 112.5 Vel farnast þeim manni, sem er mildur og fús að lána, sem framkvæmir málefni sín með réttvísi, 112.6 því að hann mun eigi haggast að eilífu, hins réttláta mun minnst um eilífð. 112.7 Hann óttast eigi ill tíðindi, hjarta hans er stöðugt og treystir Drottni. 112.8 Hjarta hans er öruggt, hann óttast eigi, og loks fær hann að horfa á fjendur sína auðmýkta. 112.9 Hann hefir miðlað mildilega, gefið fátækum, réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu, horn hans gnæfir hátt í vegsemd. 112.10 Hinn óguðlegi sér það, og honum gremst, nístir tönnum og tortímist. Ósk óguðlegra verður að engu.
113.1 Halelúja. Þjónar Drottins, lofið, lofið nafn Drottins. 113.2 Nafn Drottins sé blessað héðan í frá og að eilífu. 113.3 Frá sólarupprás til sólarlags sé nafn Drottins vegsamað. 113.4 Drottinn er hafinn yfir allar þjóðir og dýrð hans yfir himnana. 113.5 Hver er sem Drottinn, Guð vor? Hann situr hátt 113.6 og horfir djúpt á himni og á jörðu. 113.7 Hann reisir lítilmagnann úr duftinu, lyftir snauðum upp úr saurnum 113.8 og leiðir hann til sætis hjá tignarmönnum, hjá tignarmönnum þjóðar hans. 113.9 Hann lætur óbyrjuna í húsinu búa í næði sem glaða barnamóður. Halelúja.
114.1 Þegar Ísrael fór út af Egyptalandi, Jakobs ætt frá þjóðinni, er mælti á erlenda tungu, 114.2 varð Júda helgidómur hans, Ísrael ríki hans. 114.3 Hafið sá það og flýði, Jórdan hörfaði undan. 114.4 Fjöllin hoppuðu sem hrútar, hæðirnar sem lömb. 114.5 Hvað er þér, haf, er þú flýr, Jórdan, er þú hörfar undan, 114.6 þér fjöll, er þér hoppið sem hrútar, þér hæðir sem lömb? 114.7 Titra þú, jörð, fyrir augliti Drottins, fyrir augliti Jakobs Guðs, 114.8 hans sem gjörir klettinn að vatnstjörn, tinnusteininn að vatnslind.
115.1 Gef eigi oss, Drottinn, eigi oss, heldur þínu nafni dýrðina sakir miskunnar þinnar og trúfesti. 115.2 Hví eiga heiðingjarnir að segja: 'Hvar er Guð þeirra?' 115.3 En vor Guð er í himninum, allt sem honum þóknast, það gjörir hann. 115.4 Skurðgoð þeirra eru silfur og gull, handaverk manna. 115.5 Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki, 115.6 þau hafa eyru, en heyra ekki, nef, en finna engan þef. 115.7 Þau hafa hendur, en þreifa ekki, fætur, en ganga ekki, þau tala eigi með barka sínum. 115.8 Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir er á þau treysta. 115.9 En Ísrael treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur. 115.10 Arons ætt treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur. 115.11 Þeir sem óttast Drottin treysta Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur. 115.12 Drottinn minnist vor, hann mun blessa, hann mun blessa Ísraels ætt, hann mun blessa Arons ætt, 115.13 hann mun blessa þá er óttast Drottin, yngri sem eldri. 115.14 Drottinn mun fjölga yður, sjálfum yður og börnum yðar. 115.15 Þér eruð blessaðir af Drottni, skapara himins og jarðar. 115.16 Himinninn er himinn Drottins, en jörðina hefir hann gefið mannanna börnum. 115.17 Eigi lofa andaðir menn Drottin, né heldur neinn sá, sem hniginn er í dauðaþögn, 115.18 en vér viljum lofa Drottin, héðan í frá og að eilífu. Halelúja.
116.1 Ég elska Drottin, af því að hann heyrir grátbeiðni mína. 116.2 Hann hefir hneigt eyra sitt að mér, og alla ævi vil ég ákalla hann. 116.3 Snörur dauðans umkringdu mig, angist Heljar mætti mér, ég mætti nauðum og harmi. 116.4 Þá ákallaði ég nafn Drottins: 'Ó, Drottinn, bjarga sál minni!' 116.5 Náðugur er Drottinn og réttlátur, og vor Guð er miskunnsamur. 116.6 Drottinn varðveitir varnarlausa, þegar ég var máttvana hjálpaði hann mér. 116.7 Verð þú aftur róleg, sála mín, því að Drottinn gjörir vel til þín. 116.8 Já, þú hreifst sál mína frá dauða, auga mitt frá gráti, fót minn frá hrösun. 116.9 Ég geng frammi fyrir Drottni á landi lifenda. 116.10 Ég trúði, þó ég segði: 'Ég er mjög beygður.' 116.11 Ég sagði í angist minni: 'Allir menn ljúga.' 116.12 Hvað á ég að gjalda Drottni fyrir allar velgjörðir hans við mig? 116.13 Ég lyfti upp bikar hjálpræðisins og ákalla nafn Drottins. 116.14 Ég greiði Drottni heit mín, og það í augsýn alls lýðs hans. 116.15 Dýr er í augum Drottins dauði dýrkenda hans. 116.16 Æ, Drottinn, víst er ég þjónn þinn, ég er þjónn þinn, sonur ambáttar þinnar, þú leystir fjötra mína. 116.17 Þér færi ég þakkarfórn og ákalla nafn Drottins. 116.18 Ég greiði Drottni heit mín, og það í augsýn alls lýðs hans, 116.19 í forgörðum húss Drottins, í þér, Jerúsalem. Halelúja.
117.1 Lofið Drottin, allar þjóðir, vegsamið hann, allir lýðir, 117.2 því að miskunn hans er voldug yfir oss, og trúfesti Drottins varir að eilífu. Halelúja.
118.1 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu. 118.2 Það mæli Ísrael: 'Því að miskunn hans varir að eilífu!' 118.3 Það mæli Arons ætt: 'Því að miskunn hans varir að eilífu!' 118.4 Það mæli þeir sem óttast Drottin: 'Því að miskunn hans varir að eilífu!' 118.5 Í þrengingunni ákallaði ég Drottin, hann bænheyrði mig og rýmkaði um mig. 118.6 Drottinn er með mér, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér? 118.7 Drottinn er með mér með hjálp sína, og ég mun fá að horfa á ófarir hatursmanna minna. 118.8 Betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta mönnum, 118.9 betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta tignarmönnum. 118.10 Allar þjóðir umkringdu mig, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim. 118.11 Þær umkringdu mig á alla vegu, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim. 118.12 Þær umkringdu mig eins og býflugur vax, brunnu sem eldur í þyrnum, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim. 118.13 Mér var hrundið, til þess að ég skyldi falla, en Drottinn veitti mér lið. 118.14 Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mér til hjálpræðis. 118.15 Fagnaðar- og siguróp kveður við í tjöldum réttlátra: Hægri hönd Drottins vinnur stórvirki, 118.16 hægri hönd Drottins upphefur, hægri hönd Drottins vinnur stórvirki. 118.17 Ég mun eigi deyja, heldur lifa og kunngjöra verk Drottins. 118.18 Drottinn hefir hirt mig harðlega, en eigi ofurselt mig dauðanum. 118.19 Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins, að ég megi fara inn um þau og lofa Drottin. 118.20 Þetta er hlið Drottins, réttlátir menn fara inn um það. 118.21 Ég lofa þig, af því að þú bænheyrðir mig og ert orðinn mér hjálpræði. 118.22 Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini. 118.23 Að tilhlutun Drottins er þetta orðið, það er dásamlegt í augum vorum. 118.24 Þetta er dagurinn sem Drottinn hefir gjört, fögnum, verum glaðir á honum. 118.25 Drottinn, hjálpa þú, Drottinn, gef þú gengi! 118.26 Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, frá húsi Drottins blessum vér yður. 118.27 Drottinn er Guð, hann lætur oss skína ljós. Tengið saman dansraðirnar með laufgreinum, allt inn að altarishornunum. 118.28 Þú ert Guð minn, og ég þakka þér, Guð minn, ég vegsama þig. 118.29 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
119.1 Sælir eru þeir sem breyta grandvarlega, þeir er fram ganga í lögmáli Drottins. 119.2 Sælir eru þeir er halda reglur hans, þeir er leita hans af öllu hjarta 119.3 og eigi fremja ranglæti, en ganga á vegum hans. 119.4 Þú hefir gefið skipanir þínar, til þess að menn skuli halda þær vandlega. 119.5 Ó að breytni mín mætti vera staðföst, svo að ég varðveiti lög þín. 119.6 Þá mun ég eigi til skammar verða, er ég gef gaum að öllum boðum þínum. 119.7 Ég skal þakka þér af einlægu hjarta, er ég hefi numið þín réttlátu ákvæði. 119.8 Ég vil gæta laga þinna, þá munt þú alls ekki yfirgefa mig. 119.9 Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum? Með því að gefa gaum að orði þínu. 119.10 Ég leita þín af öllu hjarta, lát mig eigi villast frá boðum þínum. 119.11 Ég geymi orð þín í hjarta mínu, til þess að ég skuli eigi syndga gegn þér. 119.12 Lofaður sért þú, Drottinn, kenn mér lög þín. 119.13 Með vörum mínum tel ég upp öll ákvæði munns þíns. 119.14 Yfir vegi vitnisburða þinna gleðst ég eins og yfir alls konar auði. 119.15 Fyrirmæli þín vil ég íhuga og skoða vegu þína. 119.16 Ég leita unaðar í lögum þínum, gleymi eigi orði þínu. 119.17 Veit þjóni þínum að lifa, að ég megi halda orð þín. 119.18 Ljúk upp augum mínum, að ég megi skoða dásemdirnar í lögmáli þínu. 119.19 Ég er útlendingur á jörðunni, dyl eigi boð þín fyrir mér. 119.20 Sál mín er kvalin af þrá eftir ákvæðum þínum alla tíma. 119.21 Þú hefir ógnað ofstopamönnunum, bölvaðir eru þeir, sem víkja frá boðum þínum. 119.22 Velt þú af mér háðung og skömm, því að ég hefi haldið reglur þínar. 119.23 Þótt þjóðhöfðingjar sitji og taki saman ráð sín gegn mér, þá íhugar þjónn þinn lög þín. 119.24 Og reglur þínar eru unun mín, boð þín eru ráðgjafar mínir. 119.25 Sál mín loðir við duftið, lát mig lífi halda eftir orði þínu. 119.26 Ég hefi talið upp málefni mín, og þú bænheyrðir mig, kenn mér lög þín. 119.27 Lát mig skilja veg fyrirmæla þinna, að ég megi íhuga dásemdir þínar. 119.28 Sál mín tárast af trega, reis mig upp eftir orði þínu. 119.29 Lát veg lyginnar vera fjarri mér og veit mér náðarsamlega lögmál þitt. 119.30 Ég hefi útvalið veg sannleikans, sett mér ákvæði þín fyrir sjónir. 119.31 Ég held fast við reglur þínar, Drottinn, lát mig eigi verða til skammar. 119.32 Ég vil skunda veg boða þinna, því að þú hefir gjört mér létt um hjartað. 119.33 Kenn mér, Drottinn, veg laga þinna, að ég megi halda þau allt til enda. 119.34 Veit mér skyn, að ég megi halda lögmál þitt og varðveita það af öllu hjarta. 119.35 Leið mig götu boða þinna, því að af henni hefi ég yndi. 119.36 Beyg hjarta mitt að reglum þínum, en eigi að ranglátum ávinningi. 119.37 Snú augum mínum frá því að horfa á hégóma, lífga mig á vegum þínum. 119.38 Staðfest fyrirheit þitt fyrir þjóni þínum, sem gefið er þeim er þig óttast. 119.39 Nem burt háðungina, sem ég er hræddur við, því að ákvæði þín eru góð. 119.40 Sjá, ég þrái fyrirmæli þín, lífga mig með réttlæti þínu. 119.41 Lát náð þína koma yfir mig, Drottinn, hjálpræði þitt, samkvæmt fyrirheiti þínu, 119.42 að ég fái andsvör veitt þeim er smána mig, því að þínu orði treysti ég. 119.43 Og tak aldrei sannleikans orð burt úr munni mínum, því að ég bíð dóma þinna. 119.44 Ég vil stöðugt varðveita lögmál þitt, um aldur og ævi, 119.45 þá mun ég ganga um víðlendi, því að ég leita fyrirmæla þinna, 119.46 þá mun ég tala um reglur þínar frammi fyrir konungum, og eigi skammast mín, 119.47 og leita unaðar í boðum þínum, þeim er ég elska, 119.48 og rétta út hendurnar eftir boðum þínum, þeim er ég elska, og íhuga lög þín. 119.49 Minnst þú þess orðs við þjón þinn, sem þú lést mig vona á. 119.50 Þetta er huggun mín í eymd minni, að orð þitt lætur mig lífi halda. 119.51 Ofstopamenn spotta mig ákaflega, en ég vík eigi frá lögmáli þínu. 119.52 Ég minnist dóma þinna frá öndverðu, Drottinn, og læt huggast. 119.53 Heiftarreiði við óguðlega hrífur mig, við þá er yfirgefa lögmál þitt. 119.54 Lög þín eru efni ljóða minna á þessum stað, þar sem ég er gestur. 119.55 Um nætur minnist ég nafns þíns, Drottinn, og geymi laga þinna. 119.56 Þetta er orðin hlutdeild mín, að halda fyrirmæli þín. 119.57 Drottinn er hlutskipti mitt, ég hefi ákveðið að varðveita orð þín. 119.58 Ég hefi leitað hylli þinnar af öllu hjarta, ver mér náðugur samkvæmt fyrirheiti þínu. 119.59 Ég hefi athugað vegu mína og snúið fótum mínum að reglum þínum. 119.60 Ég hefi flýtt mér og eigi tafið að varðveita boð þín. 119.61 Snörur óguðlegra lykja um mig, en lögmáli þínu hefi ég eigi gleymt. 119.62 Um miðnætti rís ég upp til þess að þakka þér þín réttlátu ákvæði. 119.63 Ég er félagi allra þeirra er óttast þig og varðveita fyrirmæli þín. 119.64 Jörðin er full af miskunn þinni, Drottinn, kenn mér lög þín. 119.65 Þú hefir gjört vel til þjóns þíns eftir orði þínu, Drottinn. 119.66 Kenn mér góð hyggindi og þekkingu, því að ég trúi á boð þín. 119.67 Áður en ég var beygður, villtist ég, en nú varðveiti ég orð þitt. 119.68 Þú ert góður og gjörir vel, kenn mér lög þín. 119.69 Ofstopamenn spinna upp lygar gegn mér, en ég held fyrirmæli þín af öllu hjarta. 119.70 Hjarta þeirra er tilfinningarlaust sem mör væri, en ég leita unaðar í lögmáli þínu. 119.71 Það varð mér til góðs, að ég var beygður, til þess að ég mætti læra lög þín. 119.72 Lögmálið af munni þínum er mér mætara en þúsundir af gulli og silfri. 119.73 Hendur þínar hafa gjört mig og skapað, veit mér skyn, að ég megi læra boð þín. 119.74 Þeir er óttast þig sjá mig og gleðjast, því að ég vona á orð þitt. 119.75 Ég veit, Drottinn, að dómar þínir eru réttlátir og að þú hefir lægt mig í trúfesti þinni. 119.76 Lát miskunn þína verða mér til huggunar, eins og þú hefir heitið þjóni þínum. 119.77 Lát miskunn þína koma yfir mig, að ég megi lifa, því að lögmál þitt er unun mín. 119.78 Lát ofstopamennina verða til skammar, af því að þeir kúga mig með rangsleitni, en ég íhuga fyrirmæli þín. 119.79 Til mín snúi sér þeir er óttast þig og þeir er þekkja reglur þínar. 119.80 Hjarta mitt sé grandvart í lögum þínum, svo að ég verði eigi til skammar. 119.81 Sál mín tærist af þrá eftir hjálpræði þínu, ég bíð eftir orði þínu. 119.82 Augu mín tærast af þrá eftir fyrirheiti þínu: Hvenær munt þú hugga mig? 119.83 Því að ég er orðinn eins og belgur í reykhúsi, en lögum þínum hefi ég eigi gleymt. 119.84 Hversu margir eru dagar þjóns þíns? Hvenær munt þú heyja dóm á ofsækjendum mínum? 119.85 Ofstopamenn hafa grafið mér grafir, menn, er eigi hlýða lögmáli þínu. 119.86 Öll boð þín eru trúfesti. Menn ofsækja mig með lygum, veit þú mér lið. 119.87 Nærri lá, að þeir gjörðu út af við mig á jörðunni, og þó hafði ég eigi yfirgefið fyrirmæli þín. 119.88 Lát mig lífi halda sakir miskunnar þinnar, að ég megi varðveita reglurnar af munni þínum. 119.89 Orð þitt, Drottinn, varir að eilífu, það stendur stöðugt á himnum. 119.90 Frá kyni til kyns varir trúfesti þín, þú hefir grundvallað jörðina, og hún stendur. 119.91 Eftir ákvæðum þínum stendur hún enn í dag, því að allt lýtur þér. 119.92 Ef lögmál þitt hefði eigi verið unun mín, þá hefði ég farist í eymd minni. 119.93 Ég skal eigi gleyma fyrirmælum þínum að eilífu, því að með þeim hefir þú látið mig lífi halda. 119.94 Þinn er ég, hjálpa þú mér, því að ég leita fyrirmæla þinna. 119.95 Óguðlegir bíða mín til þess að tortíma mér, en ég gef gætur að reglum þínum. 119.96 Á allri fullkomnun hefi ég séð endi, en þín boð eiga sér engin takmörk. 119.97 Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan liðlangan daginn íhuga ég það. 119.98 Boð þín hafa gjört mig vitrari en óvinir mínir eru, því að þau heyra mér til um eilífð. 119.99 Ég er hyggnari en allir kennarar mínir, því að ég íhuga reglur þínar. 119.100 Ég er skynsamari en öldungar, því að ég held fyrirmæli þín. 119.101 Ég held fæti mínum frá hverjum vondum vegi til þess að gæta orðs þíns. 119.102 Frá ákvæðum þínum hefi ég eigi vikið, því að þú hefir frætt mig. 119.103 Hversu sæt eru fyrirheit þín gómi mínum, hunangi betri munni mínum. 119.104 Af fyrirmælum þínum er ég skynsamur orðinn, fyrir því hata ég sérhvern lygaveg. 119.105 Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum. 119.106 Ég hefi svarið og haldið það að varðveita þín réttlátu ákvæði. 119.107 Ég er mjög beygður, Drottinn, lát mig lífi halda eftir orði þínu. 119.108 Haf þóknun á sjálfviljafórnum munns míns, Drottinn, og kenn mér ákvæði þín. 119.109 Líf mitt er ætíð í hættu, en þínu lögmáli hefi ég eigi gleymt. 119.110 Óguðlegir hafa lagt snöru fyrir mig, en ég hefi eigi villst frá fyrirmælum þínum. 119.111 Reglur þínar eru eign mín um aldur, því að þær eru yndi hjarta míns. 119.112 Ég hneigi hjarta mitt að því að breyta eftir lögum þínum, um aldur og allt til enda. 119.113 Ég hata þá, er haltra til beggja hliða, en lögmál þitt elska ég. 119.114 Þú ert skjól mitt og skjöldur, ég vona á orð þitt. 119.115 Burt frá mér, þér illgjörðamenn, að ég megi halda boð Guðs míns. 119.116 Styð mig samkvæmt fyrirheiti þínu, að ég megi lifa, og lát mig eigi til skammar verða í von minni. 119.117 Styð þú mig, að ég megi frelsast og ætíð líta til laga þinna. 119.118 Þú hafnar öllum þeim, er villast frá lögum þínum, því að svik þeirra eru til einskis. 119.119 Sem sora metur þú alla óguðlega á jörðu, þess vegna elska ég reglur þínar. 119.120 Hold mitt nötrar af hræðslu fyrir þér, og dóma þína óttast ég. 119.121 Ég hefi iðkað rétt og réttlæti, sel mig eigi í hendur kúgurum mínum. 119.122 Gakk í ábyrgð fyrir þjón þinn, honum til heilla, lát eigi ofstopamennina kúga mig. 119.123 Augu mín tærast af þrá eftir hjálpræði þínu og eftir þínu réttláta fyrirheiti. 119.124 Far með þjón þinn eftir miskunn þinni og kenn mér lög þín. 119.125 Ég er þjónn þinn, veit mér skyn, að ég megi þekkja reglur þínar. 119.126 Tími er kominn fyrir Drottin að taka í taumana, þeir hafa rofið lögmál þitt. 119.127 Þess vegna elska ég boð þín framar en gull og skíragull. 119.128 Þess vegna held ég beina leið eftir öllum fyrirmælum þínum, ég hata sérhvern lygaveg. 119.129 Reglur þínar eru dásamlegar, þess vegna heldur sál mín þær. 119.130 Útskýring orðs þíns upplýsir, gjörir fávísa vitra. 119.131 Ég opna munninn af ílöngun, því ég þrái boð þín. 119.132 Snú þér til mín og ver mér náðugur, eins og ákveðið er þeim er elska nafn þitt. 119.133 Gjör skref mín örugg með fyrirheiti þínu og lát ekkert ranglæti drottna yfir mér. 119.134 Leys mig undan kúgun manna, að ég megi varðveita fyrirmæli þín. 119.135 Lát ásjónu þína lýsa yfir þjón þinn og kenn mér lög þín. 119.136 Augu mín fljóta í tárum, af því að menn varðveita eigi lögmál þitt. 119.137 Réttlátur ert þú, Drottinn, og réttvísir dómar þínir. 119.138 Þú hefir skipað fyrir reglur þínar með réttlæti og mikilli trúfesti. 119.139 Ákefð mín eyðir mér, því að fjendur mínir hafa gleymt orðum þínum. 119.140 Orð þitt er mjög hreint, og þjónn þinn elskar það. 119.141 Ég er lítilmótlegur og fyrirlitinn, en fyrirmælum þínum hefi ég eigi gleymt. 119.142 Réttlæti þitt er eilíft réttlæti og lögmál þitt trúfesti. 119.143 Neyð og hörmung hafa mér að höndum borið, en boð þín eru unun mín. 119.144 Reglur þínar eru réttlæti um eilífð, veit mér skyn, að ég megi lifa. 119.145 Ég kalla af öllu hjarta, bænheyr mig, Drottinn, ég vil halda lög þín. 119.146 Ég ákalla þig, hjálpa þú mér, að ég megi varðveita reglur þínar. 119.147 Ég er á ferli fyrir dögun og hrópa og bíð orða þinna. 119.148 Fyrr en vakan hefst eru augu mín vökul til þess að íhuga orð þitt. 119.149 Hlýð á raust mína eftir miskunn þinni, lát mig lífi halda, Drottinn, eftir ákvæðum þínum. 119.150 Þeir eru nærri, er ofsækja mig af fláræði, þeir eru langt burtu frá lögmáli þínu. 119.151 Þú ert nálægur, Drottinn, og öll boð þín eru trúfesti. 119.152 Fyrir löngu hefi ég vitað um reglur þínar, að þú hefir grundvallað þær um eilífð. 119.153 Sjá þú eymd mína og frelsa mig, því að ég hefi eigi gleymt lögmáli þínu. 119.154 Flyt þú mál mitt og leys mig, lát mig lífi halda samkvæmt fyrirheiti þínu. 119.155 Hjálpræðið er fjarri óguðlegum, því að þeir leita eigi fyrirmæla þinna. 119.156 Mikil er miskunn þín, Drottinn, lát mig lífi halda eftir ákvæðum þínum. 119.157 Margir eru ofsækjendur mínir og fjendur, en frá reglum þínum hefi ég eigi vikið. 119.158 Ég sé trúrofana og kenni viðbjóðs, þeir varðveita eigi orð þitt. 119.159 Sjá, hversu ég elska fyrirmæli þín, lát mig lífi halda, Drottinn, eftir miskunn þinni. 119.160 Allt orð þitt samanlagt er trúfesti, og hvert réttlætisákvæði þitt varir að eilífu. 119.161 Höfðingjar ofsækja mig að ástæðulausu, en hjarta mitt óttast orð þín. 119.162 Ég gleðst yfir fyrirheiti þínu eins og sá er fær mikið herfang. 119.163 Ég hata lygi og hefi andstyggð á henni, en þitt lögmál elska ég. 119.164 Sjö sinnum á dag lofa ég þig sakir þinna réttlátu ákvæða. 119.165 Gnótt friðar hafa þeir er elska lögmál þitt, og þeim er við engri hrösun hætt. 119.166 Ég vænti hjálpræðis þíns, Drottinn, og framkvæmi boð þín. 119.167 Sál mín varðveitir reglur þínar, og þær elska ég mjög. 119.168 Ég varðveiti fyrirmæli þín og reglur, allir mínir vegir eru þér augljósir. 119.169 Ó að hróp mitt mætti nálgast auglit þitt, Drottinn, veit mér að skynja í samræmi við orð þitt. 119.170 Ó að grátbeiðni mín mætti koma fyrir auglit þitt, frelsa mig samkvæmt fyrirheiti þínu. 119.171 Lof um þig skal streyma mér af vörum, því að þú kennir mér lög þín. 119.172 Tunga mín skal mæra orð þitt, því að öll boðorð þín eru réttlæti. 119.173 Hönd þín veiti mér lið, því að þín fyrirmæli hefi ég útvalið. 119.174 Ég þrái hjálpræði þitt, Drottinn, og lögmál þitt er unun mín. 119.175 Lát sál mína lifa, að hún megi lofa þig og dómar þínir veiti mér lið. 119.176 Ég villist sem týndur sauður, leita þú þjóns þíns, því að þínum boðum hefi ég eigi gleymt.
120.1 Ég ákalla Drottin í nauðum mínum, og hann bænheyrir mig. 120.2 Drottinn, frelsa sál mína frá ljúgandi vörum, frá tælandi tungu. 120.3 Hversu mun fara fyrir þér nú og síðar, þú tælandi tunga? 120.4 Örvar harðstjórans eru hvesstar með glóandi viðarkolum. 120.5 Vei mér, að ég dvel hjá Mesek, bý hjá tjöldum Kedars. 120.6 Nógu lengi hefir sál mín búið hjá þeim er friðinn hata. 120.7 Þótt ég tali friðlega, vilja þeir ófrið.
121.1 Ég hef augu mín til fjallanna: Hvaðan kemur mér hjálp? 121.2 Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar. 121.3 Hann mun eigi láta fót þinn skriðna, vörður þinn blundar ekki. 121.4 Nei, hann blundar ekki og sefur ekki, hann, vörður Ísraels. 121.5 Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar. 121.6 Um daga mun sólarhitinn eigi vinna þér mein, né heldur tunglið um nætur. 121.7 Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína. 121.8 Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.
122.1 Ég varð glaður, er menn sögðu við mig: 'Göngum í hús Drottins.' 122.2 Fætur vorir standa í hliðum þínum, Jerúsalem. 122.3 Jerúsalem, þú hin endurreista, borgin þar sem öll þjóðin safnast saman, 122.4 þangað sem kynkvíslirnar fara, kynkvíslir Drottins _ það er regla fyrir Ísrael _ til þess að lofa nafn Drottins, 122.5 því að þar standa dómarastólar, stólar fyrir Davíðs ætt. 122.6 Biðjið Jerúsalem friðar, hljóti heill þeir, er elska þig. 122.7 Friður sé kringum múra þína, heill í höllum þínum. 122.8 Sakir bræðra minna og vina óska ég þér friðar. 122.9 Sakir húss Drottins, Guðs vors, vil ég leita þér hamingju.
123.1 Til þín hef ég augu mín, þú sem situr á himnum. 123.2 Eins og augu þjónanna mæna á hönd húsbónda síns, eins og augu ambáttarinnar mæna á hönd húsmóður sinnar, svo mæna augu vor á Drottin, Guð vorn, uns hann líknar oss. 123.3 Líkna oss, Drottinn, líkna oss, því að vér höfum fengið meira en nóg af spotti. 123.4 Sál vor hefir fengið meira en nóg af háði hrokafullra, af spotti dramblátra.
124.1 Hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, _ skal Ísrael segja _ 124.2 hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, þegar menn risu í móti oss, 124.3 þá hefðu þeir gleypt oss lifandi, þegar reiði þeirra bálaðist upp í móti oss. 124.4 Þá hefðu vötnin streymt yfir oss, elfur gengið yfir oss, 124.5 þá hefðu gengið yfir oss hin beljandi vötn. 124.6 Lofaður sé Drottinn, er ekki gaf oss tönnum þeirra að bráð. 124.7 Sál vor slapp burt eins og fugl úr snöru fuglarans. Brast snaran, burt sluppum vér. 124.8 Hjálp vor er í nafni Drottins, skapara himins og jarðar.
125.1 Þeir sem treysta Drottni eru sem Síonfjall, er eigi bifast, sem stendur að eilífu. 125.2 Fjöll eru kringum Jerúsalem, og Drottinn er kringum lýð sinn héðan í frá og að eilífu. 125.3 Því að veldissproti guðleysisins mun eigi hvíla á landi réttlátra, til þess að hinir réttlátu skuli eigi rétta fram hendur sínar til ranglætis. 125.4 Gjör þú góðum vel til, Drottinn, og þeim sem hjartahreinir eru. 125.5 En þá er beygja á krókóttar leiðir mun Drottinn láta hverfa með illgjörðamönnum. Friður sé yfir Ísrael!
126.1 Þegar Drottinn sneri við hag Síonar, þá var sem oss dreymdi. 126.2 Þá fylltist munnur vor hlátri, og tungur vorar fögnuði. Þá sögðu menn meðal þjóðanna: 'Mikla hluti hefir Drottinn gjört við þá.' 126.3 Drottinn hefir gjört mikla hluti við oss, vér vorum glaðir. 126.4 Snú við hag vorum, Drottinn, eins og þú gjörir við lækina í Suðurlandinu. 126.5 Þeir sem sá með tárum, munu uppskera með gleðisöng. 126.6 Grátandi fara menn og bera sæðið til sáningar, með gleðisöng koma þeir aftur og bera kornbindin heim.
127.1 Ef Drottinn byggir ekki húsið, erfiða smiðirnir til ónýtis. Ef Drottinn verndar eigi borgina, vakir vörðurinn til ónýtis. 127.2 Það er til ónýtis fyrir yður, þér sem snemma rísið og gangið seint til hvíldar og etið brauð, sem aflað er með striti: Svo gefur hann ástvinum sínum í svefni! 127.3 Sjá, synir eru gjöf frá Drottni, ávöxtur móðurkviðarins er umbun. 127.4 Eins og örvar í hendi kappans, svo eru synir getnir í æsku. 127.5 Sæll er sá maður, er fyllt hefir örvamæli sinn með þeim, þeir verða eigi til skammar, er þeir tala við óvini sína í borgarhliðinu.
128.1 Sæll er hver sá, er óttast Drottin, er gengur á hans vegum. 128.2 Já, afla handa þinna skalt þú njóta, sæll ert þú, vel farnast þér. 128.3 Kona þín er sem frjósamur vínviður innst í húsi þínu, synir þínir sem teinungar olíutrésins umhverfis borð þitt. 128.4 Sjá, sannarlega hlýtur slíka blessun sá maður, er óttast Drottin. 128.5 Drottinn blessi þig frá Síon, þú munt horfa með unun á hamingju Jerúsalem alla ævidaga þína, 128.6 og sjá sonu sona þinna. Friður sé yfir Ísrael!
129.1 Þeir hafa fjandskapast mjög við mig frá æsku, _ skal Ísrael segja _ 129.2 þeir hafa fjandskapast mjög við mig frá æsku, en þó eigi borið af mér. 129.3 Plógmennirnir hafa plægt um hrygg mér, gjört plógför sín löng, 129.4 en Drottinn hinn réttláti hefir skorið í sundur reipi óguðlegra. 129.5 Sneypast skulu þeir og undan hörfa, allir þeir sem hata Síon. 129.6 Þeir skulu verða sem gras á þekju, er visnar áður en það frævist. 129.7 Sláttumaðurinn skal eigi fylla hönd sína né sá fang sitt sem bindur, 129.8 og þeir sem fram hjá fara skulu ekki segja: 'Blessun Drottins sé með yður.' Vér blessum yður í nafni Drottins!
130.1 Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn, 130.2 Drottinn, heyr þú raust mína, lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína! 130.3 Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist? 130.4 En hjá þér er fyrirgefning, svo að menn óttist þig. 130.5 Ég vona á Drottin, sál mín vonar, og hans orðs bíð ég. 130.6 Meir en vökumenn morgun, vökumenn morgun, þreyr sál mín Drottin. 130.7 Ó Ísrael, bíð þú Drottins, því að hjá Drottni er miskunn, og hjá honum er gnægð lausnar. 130.8 Hann mun leysa Ísrael frá öllum misgjörðum hans.
131.1 Drottinn, hjarta mitt er eigi dramblátt né augu mín hrokafull. Ég fæst eigi við mikil málefni, né þau sem mér eru ofvaxin. 131.2 Sjá, ég hefi sefað sál mína og þaggað niður í henni. Eins og afvanið barn hjá móður sinni, svo er sál mín í mér. 131.3 Vona, Ísrael, á Drottin, héðan í frá og að eilífu.
132.1 Drottinn, mun þú Davíð allar þrautir hans, 132.2 hann sem sór Drottni, gjörði heit hinum volduga Jakobs Guði: 132.3 'Ég vil eigi ganga inn í tjaldhús mitt, eigi stíga í hvílurúm mitt, 132.4 eigi unna augum mínum svefns né augnalokum mínum blunds, 132.5 fyrr en ég hefi fundið stað fyrir Drottin, bústað fyrir hinn volduga Jakobs Guð.' 132.6 Sjá, vér höfum heyrt um hann í Efrata, fundið hann á Jaarmörk. 132.7 Látum oss ganga til bústaðar Guðs, falla fram á fótskör hans. 132.8 Tak þig upp, Drottinn, og far á hvíldarstað þinn, þú og örk máttar þíns. 132.9 Prestar þínir íklæðist réttlæti og dýrkendur þínir fagni. 132.10 Sakir Davíðs þjóns þíns vísa þú þínum smurða eigi frá. 132.11 Drottinn hefir svarið Davíð óbrigðulan eið, er hann eigi mun rjúfa: 'Af ávexti kviðar þíns mun ég setja mann í hásæti þitt. 132.12 Ef synir þínir varðveita sáttmála minn og reglur mínar, þær er ég kenni þeim, þá skulu og þeirra synir um aldur sitja í hásæti þínu.' 132.13 Því að Drottinn hefir útvalið Síon, þráð hana sér til bústaðar: 132.14 'Þetta er hvíldarstaður minn um aldur, hér vil ég búa, því að hann hefi ég þráð. 132.15 Vistir hans vil ég vissulega blessa, og fátæklinga hans vil ég seðja með brauði, 132.16 presta hans vil ég íklæða hjálpræði, hinir guðhræddu er þar búa skulu kveða fagnaðarópi. 132.17 Þar vil ég láta Davíð horn vaxa, þar hefi ég búið lampa mínum smurða. 132.18 Óvini hans vil ég íklæða skömm, en á honum skal kóróna hans ljóma.'
133.1 Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman, 133.2 eins og hin ilmgóða olía á höfðinu, er rennur niður í skeggið, skegg Arons, er fellur niður á kyrtilfald hans, 133.3 eins og dögg af Hermonfjalli, er fellur niður á Síonfjöll. Því að þar hefir Drottinn boðið út blessun, lífi að eilífu.
134.1 Já, lofið Drottin, allir þjónar Drottins, þér er standið í húsi Drottins um nætur. 134.2 Fórnið höndum til helgidómsins og lofið Drottin. 134.3 Drottinn blessi þig frá Síon, hann sem er skapari himins og jarðar.
135.1 Halelúja. Lofið nafn Drottins, lofið hann, þér þjónar Drottins, 135.2 er standið í húsi Drottins, í forgörðum húss Guðs vors. 135.3 Lofið Drottin, því að Drottinn er góður, leikið fyrir nafni hans, því að það er yndislegt. 135.4 Því að Drottinn hefir útvalið sér Jakob, gert Ísrael að eign sinni. 135.5 Já, ég veit, að Drottinn er mikill og að Drottinn vor er öllum guðum æðri. 135.6 Allt, sem Drottni þóknast, það gjörir hann, á himni og jörðu, í hafinu og öllum djúpunum. 135.7 Hann lætur skýin uppstíga frá endimörkum jarðar, gjörir eldingarnar til að búa rás regninu, hleypir vindinum út úr forðabúrum hans. 135.8 Hann laust frumburði Egyptalands, bæði menn og skepnur, 135.9 sendi tákn og undur yfir Egyptaland, gegn Faraó og öllum þjónum hans. 135.10 Hann laust margar þjóðir og deyddi volduga konunga: 135.11 Síhon, Amorítakonung, og Óg, konung í Basan, og öll konungsríki í Kanaan, 135.12 og gaf lönd þeirra að erfð, að erfð Ísrael, lýð sínum. 135.13 Drottinn, nafn þitt varir að eilífu, minning þín, Drottinn, frá kyni til kyns, 135.14 því að Drottinn réttir hlut þjóðar sinnar og aumkast yfir þjóna sína. 135.15 Skurðgoð þjóðanna eru silfur og gull, handaverk manna. 135.16 Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki, 135.17 þau hafa eyru, en heyra ekki, og eigi er heldur neinn andardráttur í munni þeirra. 135.18 Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir, er á þau treysta. 135.19 Ísraels ætt, lofið Drottin, Arons ætt, lofið Drottin! 135.20 Leví ætt, lofið Drottin, þér sem óttist Drottin, lofið hann! 135.21 Lofaður sé Drottinn frá Síon, hann sem býr í Jerúsalem! Halelúja.
136.1 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu. 136.2 Þakkið Guði guðanna, því að miskunn hans varir að eilífu, 136.3 þakkið Drottni drottnanna, því að miskunn hans varir að eilífu, 136.4 honum, sem einn gjörir mikil dásemdarverk, því að miskunn hans varir að eilífu, 136.5 honum, sem skapaði himininn með speki, því að miskunn hans varir að eilífu, 136.6 honum, sem breiddi jörðina út á vötnunum, því að miskunn hans varir að eilífu, 136.7 honum, sem skapaði stóru ljósin, því að miskunn hans varir að eilífu, 136.8 sólina til þess að ráða deginum, því að miskunn hans varir að eilífu, 136.9 tunglið og stjörnurnar til þess að ráða nóttunni, því að miskunn hans varir að eilífu, 136.10 honum, sem laust Egypta með deyðing frumburðanna, því að miskunn hans varir að eilífu, 136.11 og leiddi Ísrael burt frá þeim, því að miskunn hans varir að eilífu, 136.12 með sterkri hendi og útréttum armlegg, því að miskunn hans varir að eilífu, 136.13 honum, sem skipti Rauðahafinu sundur, því að miskunn hans varir að eilífu, 136.14 og lét Ísrael ganga gegnum það, því að miskunn hans varir að eilífu, 136.15 og keyrði Faraó og her hans út í Rauðahafið, því að miskunn hans varir að eilífu, 136.16 honum, sem leiddi lýð sinn gegnum eyðimörkina, því að miskunn hans varir að eilífu, 136.17 honum, sem laust mikla konunga, því að miskunn hans varir að eilífu, 136.18 og deyddi volduga konunga, því að miskunn hans varir að eilífu, 136.19 Síhon Amorítakonung, því að miskunn hans varir að eilífu, 136.20 og Óg konung í Basan, því að miskunn hans varir að eilífu, 136.21 og gaf land þeirra að erfð, því að miskunn hans varir að eilífu, 136.22 að erfð Ísrael þjóni sínum, því að miskunn hans varir að eilífu, 136.23 honum, sem minntist vor í læging vorri, því að miskunn hans varir að eilífu, 136.24 og frelsaði oss frá fjandmönnum vorum, því að miskunn hans varir að eilífu, 136.25 sem gefur fæðu öllu holdi, því að miskunn hans varir að eilífu. 136.26 Þakkið Guði himnanna, því að miskunn hans varir að eilífu.
137.1 Við Babýlons fljót, þar sátum vér og grétum, er vér minntumst Síonar. 137.2 Á pílviðina þar hengdum vér upp gígjur vorar. 137.3 Því að herleiðendur vorir heimtuðu söngljóð af oss og kúgarar vorir kæti: 'Syngið oss Síonarkvæði!' 137.4 Hvernig ættum vér að syngja Drottins ljóð í öðru landi? 137.5 Ef ég gleymi þér, Jerúsalem, þá visni mín hægri hönd. 137.6 Tunga mín loði mér við góm, ef ég man eigi til þín, ef Jerúsalem er eigi allra besta yndið mitt. 137.7 Mun þú Edóms niðjum, Drottinn, óheilladag Jerúsalem, þegar þeir æptu: 'Rífið, rífið allt niður til grunna!' 137.8 Babýlonsdóttir, þú sem tortímir! Heill þeim, er geldur þér fyrir það sem þú hefir gjört oss! 137.9 Heill þeim er þrífur ungbörn þín og slær þeim niður við stein.
138.1 Eftir Davíð. Ég vil lofa þig af öllu hjarta, lofsyngja þér frammi fyrir guðunum. 138.2 Ég vil falla fram fyrir þínu heilaga musteri og lofa nafn þitt sakir miskunnar þinnar og trúfesti, því að þú hefir gjört nafn þitt og orð þitt meira öllu öðru. 138.3 Þegar ég hrópaði, bænheyrðir þú mig, þú veittir mér hugmóð, er ég fann kraft hjá mér. 138.4 Allir konungar á jörðu skulu lofa þig, Drottinn, er þeir heyra orðin af munni þínum. 138.5 Þeir skulu syngja um vegu Drottins, því að mikil er dýrð Drottins. 138.6 Því að Drottinn er hár og sér þó hina lítilmótlegu og þekkir hinn drambláta í fjarska. 138.7 Þótt ég sé staddur í þrengingu, lætur þú mig lífi halda, þú réttir út hönd þína gegn reiði óvina minna, og hægri hönd þín hjálpar mér. 138.8 Drottinn mun koma öllu vel til vegar fyrir mig, Drottinn, miskunn þín varir að eilífu. Yfirgef eigi verk handa þinna.
139.1 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig. 139.2 Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar. 139.3 Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það, og alla vegu mína gjörþekkir þú. 139.4 Því að eigi er það orð á tungu minni, að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls. 139.5 Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefir þú lagt á mig. 139.6 Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn. 139.7 Hvert get ég farið frá anda þínum og hvert flúið frá augliti þínu? 139.8 Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar. 139.9 Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf, 139.10 einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér. 139.11 Og þótt ég segði: 'Myrkrið hylji mig og ljósið í kringum mig verði nótt,' 139.12 þá myndi þó myrkrið eigi verða þér of myrkt og nóttin lýsa eins og dagur, myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér. 139.13 Því að þú hefir myndað nýru mín, ofið mig í móðurlífi. 139.14 Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel. 139.15 Beinin í mér voru þér eigi hulin, þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar. 139.16 Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn. 139.17 En hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, ó Guð, hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar. 139.18 Ef ég vildi telja þær, væru þær fleiri en sandkornin, ég mundi vakna og vera enn með hugann hjá þér. 139.19 Ó að þú, Guð, vildir fella níðingana. Morðingjar! Víkið frá mér. 139.20 Þeir þrjóskast gegn þér með svikum og leggja nafn þitt við hégóma. 139.21 Ætti ég eigi, Drottinn, að hata þá, er hata þig, og hafa viðbjóð á þeim, er rísa gegn þér? 139.22 Ég hata þá fullu hatri, þeir eru orðnir óvinir mínir. 139.23 Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar, 139.24 og sjá þú, hvort ég geng á glötunarvegi, og leið mig hinn eilífa veg.
140.1 Til söngstjórans. Davíðssálmur. 140.2 Frelsa mig, Drottinn, frá illmennum, vernda mig fyrir ofríkismönnum, 140.3 þeim er hyggja á illt í hjarta sínu og vekja ófrið á degi hverjum. 140.4 Þeir gjöra tungur sínar hvassar sem höggormar, nöðrueitur er undir vörum þeirra. [Sela] 140.5 Varðveit mig, Drottinn, fyrir hendi óguðlegra, vernda mig fyrir ofríkismönnum, er hyggja á að bregða fæti fyrir mig. 140.6 Ofstopamenn hafa lagt gildrur í leyni fyrir mig og þanið út snörur eins og net, hjá vegarbrúninni hafa þeir lagt möskva fyrir mig. [Sela] 140.7 Ég sagði við Drottin: Þú ert Guð minn, ljá eyra, Drottinn, grátbeiðni minni. 140.8 Drottinn Guð, mín máttuga hjálp, þú hlífir höfði mínu á orustudeginum. 140.9 Uppfyll eigi, Drottinn, óskir hins óguðlega, lát vélar hans eigi heppnast. [Sela] 140.10 Þeir skulu eigi hefja höfuðið umhverfis mig, ranglæti vara þeirra skal hylja sjálfa þá. 140.11 Lát rigna á þá eldsglóðum, hrind þeim í gryfjur, svo að þeir fái eigi upp staðið. 140.12 Illmáll maður skal eigi fá staðist í landinu, ofríkismanninn skal ógæfan elta með sífelldum höggum. 140.13 Ég veit, að Drottinn flytur mál hrjáðra, rekur réttar snauðra. 140.14 Vissulega skulu hinir réttlátu lofa nafn þitt, hinir hreinskilnu búa fyrir augliti þínu.
141.1 Davíðssálmur. Drottinn, ég ákalla þig, skunda þú til mín, ljá eyra raust minni, er ég ákalla þig. 141.2 Bæn mín sé fram borin sem reykelsisfórn fyrir auglit þitt, upplyfting handa minna sem kvöldfórn. 141.3 Set þú, Drottinn, vörð fyrir munn minn, gæslu fyrir dyr vara minna. 141.4 Lát eigi hjarta mitt hneigjast að neinu illu, að því að fremja óguðleg verk með illvirkjum, og lát mig eigi eta krásir þeirra. 141.5 Þótt réttlátur maður slái mig og trúaður hirti mig, mun ég ekki þiggja sæmd af illum mönnum. Bæn mín stendur gegn illsku þeirra. 141.6 Þegar höfðingjum þeirra verður hrundið niður af kletti, munu menn skilja, að orð mín voru sönn. 141.7 Eins og menn höggva við og kljúfa á jörðu, svo skal beinum þeirra tvístrað við gin Heljar. 141.8 Til þín, Drottinn, mæna augu mín, hjá þér leita ég hælis, sel þú eigi fram líf mitt. 141.9 Varðveit mig fyrir gildru þeirra, er sitja um mig, og fyrir snörum illvirkjanna. 141.10 Hinir óguðlegu falli í sitt eigið net, en ég sleppi heill á húfi.
142.1 Maskíl eftir Davíð, er hann var í hellinum. Bæn. 142.2 Ég hrópa hátt til Drottins, hástöfum grátbæni ég Drottin. 142.3 Ég úthelli kveini mínu fyrir honum, tjái honum neyð mína. 142.4 Þegar andi minn örmagnast í mér, þekkir þú götu mína. Á leið þeirri er ég geng hafa þeir lagt snörur fyrir mig. 142.5 Ég lít til hægri handar og skyggnist um, en enginn kannast við mig. Mér er varnað sérhvers hælis, enginn spyr eftir mér. 142.6 Ég hrópa til þín, Drottinn, ég segi: Þú ert hæli mitt, hlutdeild mín á landi lifenda. 142.7 Veit athygli kveini mínu, því að ég er mjög þjakaður, bjarga mér frá ofsækjendum mínum, því að þeir eru mér yfirsterkari. 142.8 Leið mig út úr dýflissunni, að ég megi lofa nafn þitt, hinir réttlátu skipast í kringum mig, þegar þú gjörir vel til mín.
143.1 Davíðssálmur. Drottinn, heyr þú bæn mína, ljá eyra grátbeiðni minni í trúfesti þinni, bænheyr mig í réttlæti þínu. 143.2 Gakk eigi í dóm við þjón þinn, því að enginn er réttlátur fyrir augliti þínu. 143.3 Óvinurinn eltir sál mína, slær líf mitt til jarðar, lætur mig búa í myrkri eins og þá sem löngu eru dánir. 143.4 Andi minn örmagnast í mér, hjarta mitt er agndofa hið innra í mér. 143.5 Ég minnist fornra daga, íhuga allar gjörðir þínar, ígrunda verk handa þinna. 143.6 Ég breiði út hendurnar í móti þér, sál mín er sem örþrota land fyrir þér. [Sela] 143.7 Flýt þér að bænheyra mig, Drottinn, andi minn örmagnast, byrg eigi auglit þitt fyrir mér, svo að ég verði ekki líkur þeim, er gengnir eru til grafar. 143.8 Lát þú mig heyra miskunn þína að morgni dags, því að þér treysti ég. Gjör mér kunnan þann veg, er ég á að ganga, því að til þín hef ég sál mína. 143.9 Frelsa mig frá óvinum mínum, Drottinn, ég flý á náðir þínar. 143.10 Kenn mér að gjöra vilja þinn, því að þú ert minn Guð. Þinn góði andi leiði mig um slétta braut. 143.11 Veit mér að lifa, Drottinn, sakir nafns þíns, leið mig úr nauðum sakir réttlætis þíns. 143.12 Lát þú óvini mína hverfa sakir trúfesti þinnar, ryð þeim öllum úr vegi, er að mér þrengja, því að ég er þjónn þinn.
144.1 Eftir Davíð. Lofaður sé Drottinn, bjarg mitt, sem æfir hendur mínar til bardaga, fingur mína til orustu. 144.2 Miskunn mín og vígi, háborg mín og hjálpari, skjöldur minn og athvarf, hann leggur þjóðir undir mig. 144.3 Drottinn, hvað er maðurinn þess, að þú þekkir hann, mannsins barn, að þú gefir því gaum. 144.4 Maðurinn er sem vindblær, dagar hans sem hverfandi skuggi. 144.5 Drottinn, sveig þú himin þinn og stíg niður, snertu fjöllin, svo að úr þeim rjúki. 144.6 Lát eldinguna leiftra og tvístra óvinum, skjót örvum þínum og skelf þá. 144.7 Rétt út hönd þína frá hæðum, hríf mig burt og bjarga mér úr hinum miklu vötnum, af hendi útlendinganna. 144.8 Munnur þeirra mælir tál, og hægri hönd þeirra er lyginnar hönd. 144.9 Guð, ég vil syngja þér nýjan söng, ég vil leika fyrir þér á tístrengjaða hörpu. 144.10 Þú veitir konungunum sigur, hrífur Davíð þjón þinn undan hinu illa sverði. 144.11 Hríf mig burt og bjarga mér af hendi útlendinganna. Munnur þeirra mælir tál, og hægri hönd þeirra er lyginnar hönd. 144.12 Synir vorir eru sem þroskaðir teinungar í æsku sinni, dætur vorar sem hornsúlur, úthöggnar í hallarstíl. 144.13 Hlöður vorar eru fullar og veita afurðir af hverri tegund, fénaður vor getur af sér þúsundir, verður tíþúsundfaldur á haglendum vorum, 144.14 uxar vorir klyfjaðir, ekkert skarð og engir hernumdir og ekkert óp á torgum vorum. 144.15 Sæl er sú þjóð, sem svo er ástatt fyrir, sæl er sú þjóð, sem á Drottin að Guði.
145.1 Davíðs-lofsöngur. Ég vil vegsama þig, ó Guð minn, þú konungur, og prísa nafn þitt um aldur og ævi. 145.2 Á hverjum degi vil ég prísa þig og lofa nafn þitt um aldur og ævi. 145.3 Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, mikilleikur hans er órannsakanlegur. 145.4 Ein kynslóðin vegsamar verk þín fyrir annarri og kunngjörir máttarverk þín. 145.5 Þær segja frá tign og dýrð vegsemdar þinnar: 'Ég vil syngja um dásemdir þínar.' 145.6 Og um mátt ógnarverka þinna tala þær: 'Ég vil segja frá stórvirkjum þínum.' 145.7 Þær minna á þína miklu gæsku og fagna yfir réttlæti þínu. 145.8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur. 145.9 Drottinn er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar. 145.10 Öll sköpun þín lofar þig, Drottinn, og dýrkendur þínir prísa þig. 145.11 Þeir tala um dýrð konungdóms þíns, segja frá veldi þínu. 145.12 Þeir kunngjöra mönnum veldi þitt, hina dýrlegu tign konungdóms þíns. 145.13 Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir og ríki þitt stendur frá kyni til kyns. Drottinn er trúfastur í öllum orðum sínum og miskunnsamur í öllum verkum sínum. 145.14 Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga, og reisir upp alla niðurbeygða. 145.15 Allra augu vona á þig, og þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma. 145.16 Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun. 145.17 Drottinn er réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur í öllum sínum verkum. 145.18 Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni. 145.19 Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann, og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim. 145.20 Drottinn varðveitir alla þá er elska hann, en útrýmir öllum níðingum. 145.21 Munnur minn skal mæla orðstír Drottins, allt hold vegsami hans heilaga nafn um aldur og ævi.
146.1 Halelúja. Lofa þú Drottin, sála mín! 146.2 Ég vil lofa Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum, meðan ég er til. 146.3 Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt. 146.4 Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu. 146.5 Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar, sá er setur von sína á Drottin, Guð sinn, 146.6 hann sem skapað hefir himin og jörð, hafið og allt sem í því er, hann sem varðveitir trúfesti sína að eilífu, 146.7 sem rekur réttar kúgaðra og veitir brauð hungruðum. Drottinn leysir hina bundnu, 146.8 Drottinn opnar augu blindra, Drottinn reisir upp niðurbeygða, Drottinn elskar réttláta. 146.9 Drottinn varðveitir útlendingana, hann annast ekkjur og föðurlausa, en óguðlega lætur hann fara villa vegar. 146.10 Drottinn er konungur að eilífu, hann er Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns. Halelúja.
147.1 Halelúja. Það er gott að leika fyrir Guði vorum, því að hann er yndislegur, honum hæfir lofsöngur. 147.2 Drottinn endurreisir Jerúsalem, safnar saman hinum tvístruðu af Ísrael. 147.3 Hann læknar þá, er hafa sundurkramið hjarta, og bindur um benjar þeirra. 147.4 Hann ákveður tölu stjarnanna, kallar þær allar með nafni. 147.5 Mikill er Drottinn vor og ríkur að veldi, speki hans er ómælanleg. 147.6 Drottinn annast hrjáða, en óguðlega lægir hann að jörðu. 147.7 Syngið Drottni með þakklæti, leikið á gígju fyrir Guði vorum. 147.8 Hann hylur himininn skýjum, býr regn handa jörðinni, lætur gras spretta á fjöllunum. 147.9 Hann gefur skepnunum fóður þeirra, hrafnsungunum, þegar þeir kalla. 147.10 Hann hefir eigi mætur á styrkleika hestsins, eigi þóknun á fótleggjum mannsins. 147.11 Drottinn hefir þóknun á þeim er óttast hann, þeim er bíða miskunnar hans. 147.12 Vegsama Drottin, Jerúsalem, lofa þú Guð þinn, Síon, 147.13 því að hann hefir gjört sterka slagbrandana fyrir hliðum þínum, blessað börn þín, sem í þér eru. 147.14 Hann gefur landi þínu frið, seður þig á hinu kjarnbesta hveiti. 147.15 Hann sendir orð sitt til jarðar, boð hans hleypur með hraða. 147.16 Hann gefur snjó eins og ull, stráir út hrími sem ösku. 147.17 Hann sendir hagl sitt sem brauðmola, hver fær staðist frost hans? 147.18 Hann sendir út orð sitt og lætur ísinn þiðna, lætur vind sinn blása, og vötnin renna. 147.19 Hann kunngjörði Jakob orð sitt, Ísrael lög sín og ákvæði. 147.20 Svo hefir hann eigi gjört við neina þjóð, þeim kennir hann ekki ákvæði sín. Halelúja.
148.1 Halelúja. Lofið Drottin af himnum, lofið hann á hæðum. 148.2 Lofið hann, allir englar hans, lofið hann, allir herskarar hans. 148.3 Lofið hann, sól og tungl, lofið hann, allar lýsandi stjörnur. 148.4 Lofið hann, himnar himnanna og vötnin, sem eru yfir himninum. 148.5 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans boði voru þau sköpuð. 148.6 Og hann fékk þeim stað um aldur og ævi, hann gaf þeim lög, sem þau mega eigi brjóta. 148.7 Lofið Drottin af jörðu, þér sjóskrímsl og allir hafstraumar, 148.8 eldur og hagl, snjór og reykur, stormbylurinn, sem framkvæmir orð hans, 148.9 fjöllin og allar hæðir, ávaxtartrén og öll sedrustrén, 148.10 villidýrin og allur fénaður, skriðkvikindin og fleygir fuglar, 148.11 konungar jarðarinnar og allar þjóðir, höfðingjar og allir dómendur jarðar, 148.12 bæði yngismenn og yngismeyjar, öldungar og ungir sveinar! 148.13 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans nafn eitt er hátt upp hafið, tign hans er yfir jörð og himni. 148.14 Hann lyftir upp horni fyrir lýð sinn, lofsöngur hljómi hjá öllum dýrkendum hans, hjá sonum Ísraels, þjóðinni, sem er nálæg honum. Halelúja.
149.1 Halelúja. Syngið Drottni nýjan söng, lofsöngur hans hljómi í söfnuði trúaðra. 149.2 Ísrael gleðjist yfir skapara sínum, synir Síonar fagni yfir konungi sínum. 149.3 Þeir skulu lofa nafn hans með gleðidansi, leika fyrir honum á bumbur og gígjur. 149.4 Því að Drottinn hefir þóknun á lýð sínum, hann skrýðir hrjáða með sigri. 149.5 Hinir trúuðu skulu gleðjast með sæmd, syngja fagnandi í hvílum sínum 149.6 með lofgjörð Guðs á tungu og tvíeggjað sverð í höndum 149.7 til þess að framkvæma hefnd á þjóðunum, hirtingu á lýðunum, 149.8 til þess að binda konunga þeirra með fjötrum, þjóðhöfðingja þeirra með járnhlekkjum, 149.9 til þess að fullnægja á þeim skráðum dómi. Það er til vegsemdar öllum dýrkendum hans. Halelúja.
150.1 Halelúja. Lofið Guð í helgidómi hans, lofið hann í voldugri festingu hans! 150.2 Lofið hann fyrir máttarverk hans, lofið hann eftir mikilleik hátignar hans! 150.3 Lofið hann með lúðurhljómi, lofið hann með hörpu og gígju! 150.4 Lofið hann með bumbum og gleðidansi, lofið hann með strengleik og hjarðpípum! 150.5 Lofið hann með hljómandi skálabumbum, lofið hann með hvellum skálabumbum!
1.1 Orðskviðir Salómons Davíðssonar, Ísraels konungs, 1.2 til þess að menn kynnist visku og aga, læri að skilja skynsamleg orð, 1.3 til þess að menn fái viturlegan aga, réttlæti, réttvísi og ráðvendni, 1.4 til þess að þeir veiti hinum óreyndu hyggindi, unglingum þekking og aðgætni, _ 1.5 hinn vitri hlýðir á og eykur lærdóm sinn, og hinn hyggni nemur hollar lífsreglur _ 1.6 til þess að menn skilji orðskviði og líkingamál, orð spekinganna og gátur þeirra. 1.7 Ótti Drottins er upphaf þekkingar, visku og aga fyrirlíta afglapar einir. 1.8 Hlýð þú, son minn, á áminning föður þíns og hafna eigi viðvörun móður þinnar, 1.9 því að þær eru yndislegur sveigur á höfði þér og men um háls þinn. 1.10 Son minn, þegar skálkar ginna þig, þá gegn þeim eigi. 1.11 Þegar þeir segja: 'Kom með oss! Leggjumst í launsátur til manndrápa, sitjum án saka um saklausan mann, 1.12 gleypum þá lifandi eins og Hel _ með húð og hári, eins og þá sem farnir eru til dánarheima. 1.13 Alls konar dýra muni munum vér eignast, fylla hús vor rændum fjármunum. 1.14 Þú skalt taka jafnan hlut með oss, einn sjóð skulum vér allir hafa' _ 1.15 son minn, þá haf ekki samleið við þá, halt fæti þínum frá stigum þeirra. 1.16 Því að fætur þeirra eru skjótir til ills og fljótir til að úthella blóði. 1.17 Því að til einskis þenja menn út netið í augsýn allra fleygra fugla, 1.18 og slíkir menn sitja um sitt eigið líf, liggja í launsátri fyrir sjálfum sér. 1.19 Þannig fer öllum þeim, sem fíknir eru í rangfenginn gróða: fíknin verður þeim að fjörlesti. 1.20 Spekin kallar hátt á strætunum, lætur rödd sína gjalla á torgunum. 1.21 Hún hrópar á glaummiklum gatnamótum, við borgarhliðin heldur hún tölur sínar: 1.22 Hversu lengi ætlið þér, fávísir, að elska fávísi og hinir háðgjörnu að hafa yndi af háði og heimskingjarnir að hata þekkingu? 1.23 Snúist til umvöndunar minnar, sjá, ég læt anda minn streyma yfir yður, kunngjöri yður orð mín. 1.24 En af því að þér færðust undan, þá er ég kallaði, og enginn gaf því gaum, þótt ég rétti út höndina, 1.25 heldur létuð öll mín ráð sem vind um eyrun þjóta og skeyttuð eigi umvöndun minni, 1.26 þá mun ég hlæja í ógæfu yðar, draga dár að, þegar skelfingin dynur yfir yður, 1.27 þegar skelfingin dynur yfir yður eins og þrumuveður og ógæfa yðar nálgast eins og fellibylur, þegar neyð og angist dynja yfir yður. 1.28 Þá munu þeir kalla á mig, en ég mun ekki svara, þeir munu leita mín, en ekki finna mig. 1.29 Vegna þess að þeir hötuðu þekking og aðhylltust ekki ótta Drottins, 1.30 skeyttu ekki ráðum mínum og smáðu alla umvöndun mína, 1.31 þá skulu þeir fá að neyta ávaxtar breytni sinnar og mettast af sínum eigin vélræðum. 1.32 Því að fráhvarf fávísra drepur þá, og uggleysi heimskingjanna tortímir þeim. 1.33 En sá sem á mig hlýðir, mun búa óhultur, mun vera öruggur og engri óhamingju kvíða.
2.1 Son minn, ef þú veitir orðum mínum viðtöku og geymir boðorð mín hjá þér, 2.2 svo að þú ljáir spekinni athygli þína, hneigir hjarta þitt að hyggindum, 2.3 já, ef þú kallar á skynsemina og hrópar á hyggindin, 2.4 ef þú leitar að þeim sem að silfri og grefst eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum, 2.5 þá munt þú skilja, hvað ótti Drottins er, og öðlast þekking á Guði. 2.6 Því að Drottinn veitir speki, af munni hans kemur þekking og hyggindi. 2.7 Hann geymir hinum ráðvöndu gæfuna, er skjöldur þeirra, sem breyta grandvarlega, 2.8 með því að hann vakir yfir stigum réttarins og varðveitir veg sinna guðhræddu. 2.9 Þá munt þú og skilja, hvað réttlæti er og réttur og ráðvendni, _ í stuttu máli, sérhverja braut hins góða. 2.10 Því að speki mun koma í hjarta þitt, og þekking verða sálu þinni yndisleg. 2.11 Aðgætni mun vernda þig, og hyggindin varðveita þig, 2.12 til þess að frelsa þig frá vegi hins illa, frá þeim mönnum, sem fara með fals, 2.13 sem yfirgefa stigu einlægninnar og ganga á vegum myrkursins 2.14 sem hafa gleði af því að gjöra illt, fagna yfir illsku hrekkjum, 2.15 sem gjöra vegu sína hlykkjótta og komnir eru út á glapstigu í breytni sinni, 2.16 til þess að frelsa þig frá léttúðarkonu, frá blíðmálugri konu sem annar á, 2.17 sem yfirgefið hefir unnusta æsku sinnar og gleymt sáttmála Guðs síns, 2.18 því að hús hennar hnígur í dauðann, og brautir hennar liggja niður til framliðinna, 2.19 þeir sem inn til hennar fara, snúa engir aftur, og aldrei komast þeir á lífsins stigu, _ 2.20 til þess að þú gangir á vegi góðra manna og haldir þig á stigum réttlátra. 2.21 Því að hinir hreinskilnu munu byggja landið, og hinir grandvöru verða eftir í því. 2.22 En hinir óguðlegu munu upprættir verða úr landinu, og hinum svikulu verða útrýmt þaðan.
3.1 Son minn, gleym eigi kenning minni, og hjarta þitt varðveiti boðorð mín, 3.2 því að langa lífdaga og farsæl ár og velgengni munu þau veita þér í ríkum mæli. 3.3 Kærleiki og trúfesti munu aldrei yfirgefa þig. Bind þau um háls þér, rita þau á spjald hjarta þíns, 3.4 þá munt þú ávinna þér hylli og fögur hyggindi, bæði í augum Guðs og manna. 3.5 Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. 3.6 Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta. 3.7 Þú skalt ekki þykjast vitur, óttast Drottin og forðast illt, 3.8 það mun verða heilnæmt fyrir líkama þinn og hressandi fyrir bein þín. 3.9 Tigna Drottin með eigum þínum og með frumgróða allrar uppskeru þinnar, 3.10 þá munu hlöður þínar verða nægtafullar og vínberjalögurinn flóa út af vínlagarþróm þínum. 3.11 Son minn, lítilsvirð eigi ögun Drottins og lát þér eigi gremjast umvöndun hans, 3.12 því að Drottinn agar þann, sem hann elskar, og lætur þann son kenna til, sem hann hefir mætur á. 3.13 Sæll er sá maður, sem öðlast hefir speki, sá maður, sem hyggindi hlotnast. 3.14 Því að betra er að afla sér hennar en að afla silfurs, og arðurinn af henni ágætari en gull. 3.15 Hún er dýrmætari en perlur, og allir dýrgripir þínir jafnast ekki á við hana. 3.16 Langir lífdagar eru í hægri hendi hennar, auður og mannvirðingar í vinstri hendi hennar. 3.17 Vegir hennar eru yndislegir vegir og allar götur hennar velgengni. 3.18 Hún er lífstré þeim, sem grípa hana, og sæll er hver sá, er heldur fast í hana. 3.19 Drottinn grundvallaði jörðina með visku, festi himininn af hyggjuviti. 3.20 Fyrir þekking hans mynduðust hafdjúpin og drýpur döggin úr skýjunum. 3.21 Son minn, varðveit þú visku og gætni, lát þær eigi víkja frá augum þínum, 3.22 þá munu þær verða líf sálu þinni og prýði fyrir háls þinn. 3.23 Þá muntu ganga óhultur veg þinn og eigi drepa við fæti. 3.24 Þegar þú leggst til hvíldar, þarft þú ekki að hræðast, og hvílist þú, mun svefninn verða vær. 3.25 Þú þarft ekki að óttast skyndilega hræðslu, né eyðilegging hinna óguðlegu, þegar hún dynur yfir. 3.26 Því að Drottinn mun vera athvarf þitt og varðveita fót þinn, að hann verði eigi fanginn. 3.27 Synja eigi góðs þeim, er þarfnast þess, ef það er á þínu valdi að gjöra það. 3.28 Seg þú ekki við náunga þinn: 'Far og kom aftur! á morgun skal ég gefa þér' _ ef þú þó átt það til. 3.29 Brugga eigi illt gegn náunga þínum, þegar hann býr öruggur hjá þér. 3.30 Deil ekki við neinn að ástæðulausu, ef hann hefir ekki gjört þér neitt mein. 3.31 Öfunda ekki ofbeldismanninn og haf engar mætur á neinum gjörðum hans. 3.32 Því að andstyggð er sá Drottni, er afvega fer, en ráðvandir menn alúðarvinir hans. 3.33 Bölvun Drottins er yfir húsi hins óguðlega, en bústað réttlátra blessar hann. 3.34 Spottsama spottar hann, en lítillátum veitir hann náð. 3.35 Vitrir menn munu heiður hljóta, en heimskingjar bera smán úr býtum.
4.1 Heyrið, synir, áminning föður yðar og hlýðið til, svo að þér lærið hyggindi! 4.2 Því að góðan lærdóm gef ég yður, hafnið eigi kenning minni! 4.3 Þegar ég var sonur í föðurhúsum, viðkvæmt einkabarn heima hjá móður minni, 4.4 þá kenndi faðir minn mér og sagði við mig: 'Hjarta þitt haldi fast orðum mínum, varðveit þú boðorð mín, og muntu lifa! 4.5 Afla þér visku, afla þér hygginda! Gleym eigi og vík eigi frá orðum munns míns! 4.6 Hafna henni eigi, þá mun hún varðveita þig, elska hana, þá mun hún vernda þig. 4.7 Upphaf viskunnar er: afla þér visku, afla þér hygginda fyrir allar eigur þínar! 4.8 Haf hana í hávegum, þá mun hún hefja þig, hún mun koma þér til vegs, ef þú umfaðmar hana. 4.9 Hún mun setja yndislegan sveig á höfuð þér, sæma þig prýðilegri kórónu.' 4.10 Heyr þú, son minn, og veit viðtöku orðum mínum, þá munu æviár þín mörg verða. 4.11 Ég vísa þér veg spekinnar, leiði þig á brautir ráðvendninnar. 4.12 Gangir þú þær, skal leið þín ekki verða þröng, og hlaupir þú, skalt þú ekki hrasa. 4.13 Haltu fast í agann, slepptu honum ekki, varðveittu hann, því að hann er líf þitt. 4.14 Kom þú eigi á götu óguðlegra og gakk eigi á vegi vondra manna. 4.15 Sneið hjá honum, farðu hann ekki, snú þú frá honum og farðu fram hjá. 4.16 Því að þeir geta ekki sofið, nema þeir hafi gjört illt, og þeim kemur ekki dúr á auga, nema þeir hafi fellt einhvern. 4.17 Því að þeir eta glæpabrauð og drekka ofbeldisvín. 4.18 Gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi, sem verður æ skærari fram á hádegi. 4.19 Vegur óguðlegra er eins og niðamyrkur, þeir vita ekki, um hvað þeir hrasa. 4.20 Son minn, gef gaum að ræðu minni, hneig eyra þitt að orðum mínum. 4.21 Lát þau eigi víkja frá augum þínum, varðveit þau innst í hjarta þínu. 4.22 Því að þau eru líf þeirra, er öðlast þau, og lækning fyrir allan líkama þeirra. 4.23 Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru, því að þar eru uppsprettur lífsins. 4.24 Haltu fláræði munnsins burt frá þér og lát fals varanna vera fjarri þér. 4.25 Augu þín líti beint fram og augnalok þín horfi beint fram undan þér. 4.26 Gjör braut fóta þinna slétta, og allir vegir þínir séu staðfastir. 4.27 Vík hvorki til hægri né vinstri, haltu fæti þínum burt frá illu.
5.1 Son minn, gef gaum að speki minni, hneig eyra þitt að hyggindum mínum, 5.2 til þess að þú megir varðveita mannvit og varir þínar geymi þekkingu. 5.3 Því að hunangsseimur drýpur af vörum lauslátrar konu, og gómur hennar er hálli en olía. 5.4 En að síðustu er hún beiskari en malurt, beitt eins og tvíeggjað sverð. 5.5 Fætur hennar ganga niður til dauðans, spor hennar liggja til Heljar. 5.6 Til þess að hún hitti ekki leið lífsins, eru brautir hennar á reiki, og hún veit ekki hvert hún fer. 5.7 Heyrið mig því, synir, og víkið eigi frá orðum munns míns. 5.8 Legg leið þína langt frá henni og kom þú ekki nálægt húsdyrum hennar, 5.9 svo að þú gefir ekki öðrum æskublóma þinn og ár þín grimmum manni, 5.10 svo að útlendir menn mettist ekki af eigum þínum og aflafé þitt lendi ekki í annarlegu húsi, 5.11 og þú andvarpir að lokum, þá er líkami þinn og hold veslast upp, 5.12 og segir: 'Hversu hefi ég hatað aga og hjarta mitt fyrirlitið umvöndun! 5.13 að ég skyldi ekki hlýða raustu kennara minna og hneigja eyra mitt til þeirra, er fræddu mig! 5.14 Við sjálft lá, að ég hefði ratað í mestu ógæfu á miðju dómþingi safnaðarins.' 5.15 Drekk þú vatn úr vatnsþró þinni og rennandi vatn úr brunni þínum. 5.16 Eiga lindir þínar að flóa út á götuna, lækir þínir út á torgin? 5.17 Þér einum skulu þær tilheyra og engum óviðkomandi með þér. 5.18 Uppspretta þín sé blessuð, og gleð þig yfir festarmey æsku þinnar, 5.19 elsku-hindinni, yndis-gemsunni. Brjóst hennar gjöri þig ætíð drukkinn, og ást hennar fjötri þig ævinlega. 5.20 En hví skyldir þú, son minn, láta léttúðarkonu töfra þig, og faðma barm lauslátrar konu? 5.21 Því að vegir sérhvers manns blasa við Drottni, og allar brautir hans gjörir hann sléttar. 5.22 Misgjörðir hins óguðlega fanga hann, og hann verður veiddur í snörur synda sinna. 5.23 Hann mun deyja vegna skorts á aga og kollsteypast vegna sinnar miklu heimsku.
6.1 Son minn, hafir þú gengið í ábyrgð fyrir náunga þinn, hafir þú gengið til handsala fyrir annan mann, 6.2 hafir þú ánetjað þig með orðum munns þíns, látið veiðast með orðum munns þíns, 6.3 þá gjör þetta, son minn, til að losa þig _ því að þú ert kominn á vald náunga þíns _ far þú, varpa þér niður og legg að náunga þínum. 6.4 Lát þér eigi koma dúr á auga, né blund á brá. 6.5 Losa þig eins og skógargeit úr höndum hans, eins og fugl úr höndum fuglarans. 6.6 Far þú til maursins, letingi! skoða háttu hans og verð hygginn. 6.7 Þótt hann hafi engan höfðingja, engan yfirboðara eða valdsherra, 6.8 þá aflar hann sér samt vista á sumrin og dregur saman fæðu sína um uppskerutímann. 6.9 Hversu lengi ætlar þú, letingi, að hvílast? hvenær ætlar þú að rísa af svefni? 6.10 Sofa ögn enn, blunda ögn enn, leggja saman hendurnar ögn enn til að hvílast! 6.11 Þá kemur fátæktin yfir þig eins og ræningi og skorturinn eins og vopnaður maður. 6.12 Varmenni, illmenni er sá, sem gengur um með fláttskap í munni, 6.13 sem deplar augunum, gefur merki með fótunum, bendir með fingrunum, 6.14 elur fláræði í hjarta sínu, upphugsar ávallt illt, kveikir illdeilur. 6.15 Fyrir því mun ógæfa skyndilega yfir hann koma, snögglega mun hann sundurmolast og engin lækning fást. 6.16 Sex hluti hatar Drottinn og sjö eru sálu hans andstyggð: 6.17 drembileg augu, lygin tunga og hendur sem úthella saklausu blóði, 6.18 hjarta sem bruggar glæpsamleg ráð, fætur sem fráir eru til illverka, 6.19 ljúgvottur sem lygar mælir, og sá er kveikir illdeilur meðal bræðra. 6.20 Varðveit þú, son minn, boðorð föður þíns og hafna eigi viðvörun móður þinnar. 6.21 Fest þau á hjarta þitt stöðuglega, bind þau um háls þinn. 6.22 Þegar þú ert á gangi, þá leiði þau þig, þegar þú hvílist, vaki þau yfir þér, og þegar þú vaknar, þá ræði þau við þig. 6.23 Því að boðorð er lampi og viðvörun ljós og agandi áminningar leið til lífsins, 6.24 með því að þær varðveita þig fyrir vondri konu, fyrir hálli tungu hinnar lauslátu. 6.25 Girnst eigi fríðleik hennar í hjarta þínu og lát hana eigi töfra þig með augnahárum sínum. 6.26 Því að skækja fæst fyrir einn brauðhleif, og hórkona sækist eftir dýru lífi. 6.27 Getur nokkur borið svo eld í barmi sínum, að föt hans sviðni ekki? 6.28 Eða getur nokkur gengið á glóðum án þess að brenna sig á fótunum? 6.29 Svo fer þeim, sem hefir mök við konu náunga síns, enginn sá kemst klakklaust af, sem hana snertir. 6.30 Fyrirlíta menn eigi þjófinn, þó að hann steli til þess að seðja hungur sitt? 6.31 Og náist hann, verður hann að borga sjöfalt, verður að láta allar eigur húss síns. 6.32 En sá sem drýgir hór með giftri konu, er vitstola, sá einn gjörir slíkt, er tortíma vill sjálfum sér. 6.33 Högg og smán mun hann hljóta, og skömm hans mun aldrei afmáð verða. 6.34 Því að afbrýði er karlmanns-reiði, og hann hlífir ekki á hefndarinnar degi. 6.35 Hann lítur ekki við neinum bótum og friðast eigi, þótt þú ryðjir í hann gjöfum.
7.1 Son minn, varðveit þú orð mín og geym þú hjá þér boðorð mín. 7.2 Varðveit þú boðorð mín, og þá munt þú lifa, og áminning mína eins og sjáaldur auga þíns. 7.3 Bind þau á fingur þína, skrifa þau á spjald hjarta þíns. 7.4 Seg við spekina: 'Þú ert systir mín!' og kallaðu skynsemina vinkonu, 7.5 svo að þær varðveiti þig fyrir léttúðarkonu, fyrir blíðmálugri konu sem annar á. 7.6 Út um gluggann á húsi mínu, út um grindurnar skimaði ég 7.7 og sá þar meðal sveinanna ungan og vitstola mann. 7.8 Hann gekk á strætinu nálægt horni einu og fetaði leiðina að húsi hennar, 7.9 í rökkrinu, að kveldi dags, um miðja nótt og í niðdimmu. 7.10 Gekk þá kona í móti honum, búin sem portkona og undirförul í hjarta _ 7.11 hávær er hún og óhemjuleg, fætur hennar tolla aldrei heima, 7.12 hún er ýmist á götunum eða á torgunum, og situr um menn hjá hverju horni _, 7.13 hún þrífur í hann og kyssir hann og segir við hann, ósvífin í bragði: 7.14 'Ég átti að greiða heillafórn, í dag hefi ég goldið heit mitt. 7.15 Fyrir því fór ég út til móts við þig, til þess að leita þín, og hefi nú fundið þig. 7.16 Ég hefi búið rúm mitt ábreiðum, marglitum ábreiðum úr egypsku líni. 7.17 Myrru, alóe og kanel hefi ég stökkt á hvílu mína. 7.18 Kom þú, við skulum drekka okkur ástdrukkin fram á morgun, gamna okkur með blíðuhótum. 7.19 Því að maðurinn minn er ekki heima, hann er farinn í langferð. 7.20 Peningapyngjuna tók hann með sér, hann kemur ekki heim fyrr en í tunglfylling.' 7.21 Hún tældi hann með sínum áköfu fortölum, ginnti hann með kjassmælum sínum. 7.22 Hann fer rakleiðis á eftir henni, eins og naut gengur fram á blóðvöllinn, og eins og hjörtur, sem anar í netið, 7.23 uns örin fer í gegnum lifur hans, eins og fuglinn hraðar sér í snöruna, og veit ekki, að líf hans er í veði. 7.24 Og nú, þér yngismenn, hlýðið á mig og gefið gaum að orðum munns míns. 7.25 Lát eigi hjarta þitt teygjast á vegu hennar, villst eigi inn á stigu hennar. 7.26 Því að margir eru þeir, sem hún hefir sært til ólífis, og mesti grúi allir þeir, sem hún hefir myrt. 7.27 Hús hennar er helvegur, er liggur niður til heimkynna dauðans.
8.1 Heyr, spekin kallar og hyggnin lætur raust sína gjalla. 8.2 Uppi á hæðunum við veginn, þar sem göturnar kvíslast _ stendur hún. 8.3 Við hliðin, þar sem gengið er út úr borginni, þar sem gengið er inn um dyrnar, kallar hún hátt: 8.4 Til yðar, menn, tala ég, og raust mín hljómar til mannanna barna. 8.5 Þér óreyndu, lærið hyggindi, og þér heimskingjar, lærið skynsemi. 8.6 Hlýðið á, því að ég tala það sem göfuglegt er, og varir mínar tjá það sem rétt er. 8.7 Því að sannleika mælir gómur minn og guðleysi er viðbjóður vörum mínum. 8.8 Einlæg eru öll orð munns míns, í þeim er ekkert fals né fláræði. 8.9 Öll eru þau einföld þeim sem skilning hefir, og blátt áfram fyrir þann sem hlotið hefir þekkingu. 8.10 Takið á móti ögun minni fremur en á móti silfri og fræðslu fremur en úrvals gulli. 8.11 Því að viska er betri en perlur, og engir dýrgripir jafnast á við hana. 8.12 Ég, spekin, er handgengin hyggindunum og ræð yfir ráðdeildarsamri þekking. 8.13 Að óttast Drottin er að hata hið illa, drambsemi og ofdramb og illa breytni og fláráðan munn _ það hata ég. 8.14 Mín er ráðspekin og framkvæmdarsemin, ég er hyggnin, minn er krafturinn. 8.15 Fyrir mína hjálp ríkja konungarnir og úrskurða höfðingjarnir réttvíslega. 8.16 Fyrir mína hjálp stjórna stjórnendurnir og tignarmennin _ allir valdsmenn á jörðu. 8.17 Ég elska þá sem mig elska, og þeir sem leita mín, finna mig. 8.18 Auður og heiður eru hjá mér, ævagamlir fjármunir og réttlæti. 8.19 Ávöxtur minn er betri en gull og gimsteinar og eftirtekjan eftir mig betri en úrvals silfur. 8.20 Ég geng á götu réttlætisins, á stigum réttarins miðjum, 8.21 til þess að gefa þeim sanna auðlegð, er elska mig, og fylla forðabúr þeirra. 8.22 Drottinn skóp mig í upphafi vega sinna, á undan öðrum verkum sínum, fyrir alda öðli. 8.23 Frá eilífð var ég sett til valda, frá upphafi, áður en jörðin var til. 8.24 Ég fæddist áður en hafdjúpin urðu til, þá er engar vatnsmiklar lindir voru til. 8.25 Áður en fjöllunum var hleypt niður, á undan hæðunum fæddist ég, 8.26 áður en hann skapaði völl og vengi og fyrstu moldarkekki jarðríkis. 8.27 Þegar hann gjörði himininn, þá var ég þar, þegar hann setti hvelfinguna yfir hafdjúpið, 8.28 þegar hann festi skýin uppi, þegar uppsprettur hafdjúpsins komust í skorður, 8.29 þegar hann setti hafinu takmörk, til þess að vötnin færu eigi lengra en hann bauð, þegar hann festi undirstöður jarðar. 8.30 Þá stóð ég honum við hlið sem verkstýra, og ég var yndi hans dag hvern, leikandi mér fyrir augliti hans alla tíma, 8.31 leikandi mér á jarðarkringlu hans, og hafði yndi mitt af mannanna börnum. 8.32 Og nú, þér yngismenn, hlýðið mér, því að sælir eru þeir, sem varðveita vegu mína. 8.33 Hlýðið á aga, svo að þér verðið vitrir, og látið hann eigi sem vind um eyrun þjóta. 8.34 Sæll er sá maður, sem hlýðir mér, sem vakir daglega við dyr mínar og geymir dyrastafa minna. 8.35 Því að sá sem mig finnur, finnur lífið og hlýtur blessun af Drottni. 8.36 En sá sem missir mín, skaðar sjálfan sig. Allir þeir, sem hata mig, elska dauðann.
9.1 Spekin hefir reist sér hús, höggvið til sjö stólpa sína. 9.2 Hún hefir slátrað sláturfé sínu, byrlað vín sitt, já, hún hefir þegar búið borð sitt. 9.3 Hún hefir sent út þernur sínar, hún kallar á háum stöðum í borginni: 9.4 'Hver, sem óreyndur er, komi hingað!' Við þann, sem óvitur er, segir hún: 9.5 'Komið, etið mat minn og drekkið vínið, sem ég hefi byrlað. 9.6 Látið af heimskunni, þá munuð þér lifa, og fetið veg hyggindanna.' 9.7 Sá sem áminnir spottara, bakar sér smán, og þeim sem ávítar óguðlegan, verður það til vansa. 9.8 Ávíta eigi spottarann, svo að hann hati þig eigi, ávíta hinn vitra, og hann mun elska þig. 9.9 Gef hinum vitra, þá verður hann að vitrari, fræð hinn réttláta, og hann mun auka lærdóm sinn. 9.10 Ótti Drottins er upphaf viskunnar og að þekkja Hinn heilaga eru hyggindi. 9.11 Því að fyrir mitt fulltingi munu dagar þínir verða margir og ár lífs þíns aukast. 9.12 Sért þú vitur, þá ert þú vitur þér til góðs, en sért þú spottari, þá mun það bitna á þér einum. 9.13 Frú Heimska er óhemja, einföld og veit ekkert. 9.14 Hún situr úti fyrir húsdyrum sínum, á stól uppi á háu stöðunum í borginni 9.15 til þess að kalla á þá, sem um veginn fara, þá er ganga beint áfram leið sína: 9.16 'Hver sem óreyndur er, komi hingað!' og við þann sem óvitur er, segir hún: 9.17 'Stolið vatn er sætt, og lostætt er launetið brauð.' 9.18 Og hann veit ekki, að þar eru hinir framliðnu, að þeir sem hún hefir boðið heim, eru í djúpum Heljar.
10.1 Orðskviðir Salómons. Vitur sonur gleður föður sinn, en heimskur sonur er móður sinni til mæðu. 10.2 Rangfenginn auður stoðar ekki, en réttlæti frelsar frá dauða. 10.3 Drottinn lætur ekki réttlátan mann þola hungur, en græðgi guðlausra hrindir hann frá sér. 10.4 Snauður verður sá, er með hangandi hendi vinnur, en auðs aflar iðin hönd. 10.5 Hygginn er sá, er á sumri safnar, en skammarlega fer þeim, er um kornsláttinn sefur. 10.6 Blessun kemur yfir höfuð hins réttláta, en munnur óguðlegra hylmir yfir ofbeldi. 10.7 Minning hins réttláta verður blessuð, en nafn óguðlegra fúnar. 10.8 Sá sem er vitur í hjarta, þýðist boðorðin, en sá sem er afglapi í munninum, steypir sér í glötun. 10.9 Sá sem gengur ráðvandlega, gengur óhultur, en sá sem gjörir vegu sína hlykkjótta, verður uppvís. 10.10 Sá sem deplar með auganu, veldur skapraun, en sá sem finnur að með djörfung, semur frið. 10.11 Munnur hins réttláta er lífslind, en munnur óguðlegra hylmir yfir ofbeldi. 10.12 Hatur vekur illdeilur, en kærleikurinn breiðir yfir alla bresti. 10.13 Viska er á vörum hyggins manns, en á baki hins óvitra hvín vöndurinn. 10.14 Vitrir menn geyma þekking sína, en munnur afglapans er yfirvofandi hrun. 10.15 Auður ríks manns er honum öflugt vígi, en fátækt hinna snauðu verður þeim að falli. 10.16 Afli hins réttláta verður til lífs, gróði hins óguðlega til syndar. 10.17 Sá fer lífsins leið, er varðveitir aga, en sá villist, er hafnar umvöndun. 10.18 Sá er leynir hatri, er lygari, en sá sem ber út óhróður, er heimskingi. 10.19 Málæðinu fylgja yfirsjónir, en sá breytir hyggilega, sem hefir taum á tungu sinni. 10.20 Tunga hins réttláta er úrvals silfur, vit hins óguðlega er lítils virði. 10.21 Varir hins réttláta fæða marga, en afglaparnir deyja úr vitleysu. 10.22 Blessun Drottins, hún auðgar, og erfiði mannsins bætir engu við hana. 10.23 Heimskingjanum er ánægja að fremja svívirðing, en viskan er hyggnum manni gleði. 10.24 Það sem hinn óguðlegi óttast, kemur yfir hann, en réttlátum gefst það, er þeir girnast. 10.25 Þegar vindbylurinn skellur á, er úti um hinn óguðlega, en hinn réttláti stendur á eilífum grundvelli. 10.26 Það sem edik er tönnunum og reykur augunum, það er letinginn þeim, er hann senda. 10.27 Ótti Drottins lengir lífdagana, en æviár óguðlegra verða stytt. 10.28 Eftirvænting réttlátra endar í gleði, en von óguðlegra verður að engu. 10.29 Vegur Drottins er athvarf sakleysisins, en hrun þeim, er aðhafast illt. 10.30 Hinn réttláti bifast ekki að eilífu, en hinir óguðlegu munu ekki byggja landið. 10.31 Munnur hins réttláta framleiðir visku, en fláráð tunga verður upprætt. 10.32 Varir hins réttláta vita, hvað geðfellt er, en munnur óguðlegra er eintóm flærð.
11.1 Svikavog er Drottni andstyggð, en full vog yndi hans. 11.2 Komi hroki, kemur smán, en hjá lítillátum er viska. 11.3 Ráðvendni hreinskilinna leiðir þá, en undirferli svikulla tortímir þeim. 11.4 Auðæfi stoða ekki á degi reiðinnar, en réttlæti frelsar frá dauða. 11.5 Réttlæti hins ráðvanda gjörir veg hans sléttan, en hinn óguðlegi fellur um guðleysi sitt. 11.6 Réttlæti hinna hreinskilnu frelsar þá, en hinir svikulu ánetjast í eigin græðgi. 11.7 Þegar óguðlegur maður deyr, verður von hans að engu, og eftirvænting glæpamannanna er að engu orðin. 11.8 Hinn réttláti frelsast úr nauðum, og hinn óguðlegi kemur í hans stað. 11.9 Með munninum steypir hinn guðlausi náunga sínum í glötun, en hinir réttlátu frelsast fyrir þekkingu. 11.10 Borgin fagnar yfir gæfu réttlátra, og þegar óguðlegir farast, gjalla gleðiópin. 11.11 Borgin hefst fyrir blessun hreinskilinna, en fyrir munn óguðlegra steypist hún. 11.12 Óvitur maður sýnir náunga sínum fyrirlitningu, en hygginn maður þegir. 11.13 Sá er gengur um sem rógberi, lýstur upp leyndarmálum, en sá sem er staðfastur í lund, leynir sökinni. 11.14 Þar sem engin stjórn er, þar fellur þjóðin, en þar sem margir ráðgjafar eru, fer allt vel. 11.15 Hrapallega fer fyrir þeim, er gengur í ábyrgð fyrir annan mann, en sá sem hatar handsöl, er óhultur. 11.16 Yndisleg kona hlýtur sæmd, og hinir sterku hljóta auðæfi. 11.17 Kærleiksríkur maður gjörir sálu sinni gott, en hinn grimmi kvelur sitt eigið hold. 11.18 Hinn óguðlegi aflar sér svikuls ávinnings, en sá er réttlæti sáir, sannra launa. 11.19 Iðki einhver réttlæti, þá leiðir það til lífs, en ef hann eltir hið illa, leiðir það hann til dauða. 11.20 Andstyggð fyrir Drottni eru þeir, sem hafa rangsnúið hjarta, en yndi hans þeir, er breyta ráðvandlega. 11.21 Hér er höndin upp á það: Hinn vondi sleppur ekki óhegndur! en niðjar réttlátra komast undan. 11.22 Eins og gullhringur í svínstrýni, svo er fríð kona, sem enga siðprýði kann. 11.23 Óskir hinna réttlátu leiða aðeins til góðs, en vonir óguðlegra leiða yfir sig reiðidóm. 11.24 Sumir miðla öðrum mildilega, og eignast æ meira, aðrir halda í meira en rétt er, og verða þó fátækari. 11.25 Velgjörðasöm sál mettast ríkulega, og sá sem gefur öðrum að drekka, mun og sjálfur drykk hljóta. 11.26 Fólkið formælir þeim, sem heldur í kornið, en blessun kemur yfir höfuð þess, er selur það. 11.27 Sá sem leitar góðs, stundar það, sem velþóknanlegt er, en sá sem sækist eftir illu, verður fyrir því. 11.28 Sá sem treystir á auð sinn, hann fellur, en hinir réttlátu munu grænka eins og laufið. 11.29 Sá sem kemur ólagi á heimilishag sinn, erfir vind, og afglapinn verður þjónn hins vitra. 11.30 Ávöxtur hins réttláta er lífstré, og hinn vitri hyllir að sér hjörtun. 11.31 Sjá, hinn réttláti fær endurgjald hér á jörðu, hvað þá hinn óguðlegi og syndarinn?
12.1 Sá sem elskar aga, elskar þekking, en sá sem hatar umvöndun, er heimskur. 12.2 Hinn góði hlýtur velþóknun af Drottni, en hrekkvísan mann fyrirdæmir hann. 12.3 Enginn maður nær fótfestu með óguðleika, en rót hinna réttlátu mun eigi bifast. 12.4 Væn kona er kóróna manns síns, en vond kona er sem rotnun í beinum hans. 12.5 Hugsanir réttlátra stefna að rétti, en ráðagjörðir óguðlegra að svikum. 12.6 Orð óguðlegra brugga banaráð, en munnur hreinskilinna frelsar þá. 12.7 Óguðlegir kollsteypast og eru eigi framar til, en hús réttlátra stendur. 12.8 Manninum verður hrósað eftir vitsmunum hans, en sá sem er rangsnúinn í hjarta, verður fyrirlitinn. 12.9 Betra er að láta lítið yfir sér og hafa þjón en að berast mikið á og hafa ekki ofan í sig. 12.10 Hinn réttláti er nærgætinn um þörf skepna sinna, en hjarta óguðlegra er hart. 12.11 Sá sem yrkir land sitt, mettast af brauði, en sá sem sækist eftir hégómlegum hlutum, er óvitur. 12.12 Hinn óguðlegi ágirnist feng hinna vondu, en rót réttlátra er varanleg. 12.13 Yfirsjón varanna er ill snara, en hinn réttláti bjargast úr nauðum. 12.14 Af ávexti munnsins mettast maðurinn gæðum, og það sem hendur hans hafa öðrum gjört, kemur aftur yfir hann. 12.15 Afglapanum finnst sinn vegur réttur, en vitur maður hlýðir á ráð. 12.16 Gremja afglapans kemur þegar í ljós, en kænn maður dylur smán sína. 12.17 Sá sem segir sannleikann hispurslaust, mælir fram það sem rétt er, en falsvotturinn svik. 12.18 Þvaður sumra manna er sem spjótsstungur, en tunga hinna vitru græðir. 12.19 Sannmálar varir munu ávallt standast, en lygin tunga aðeins stutta stund. 12.20 Yfir svikum búa þeir, er illt brugga, en gleði valda þeir, er ráða til friðar. 12.21 Réttlátum manni ber aldrei böl að hendi, en óhamingja hleðst á óguðlega. 12.22 Lygavarir eru Drottni andstyggð, en þeir sem sannleik iðka, eru yndi hans. 12.23 Kænn maður fer dult með þekking sína, en hjarta heimskingjanna fer hátt með flónsku sína. 12.24 Hönd hinna iðnu mun drottna, en hangandi höndin verður vinnuskyld. 12.25 Hugsýki beygir manninn, en vingjarnlegt orð gleður hann. 12.26 Hinum réttláta vegnar betur en öðrum, en vegur óguðlegra leiðir þá í villu. 12.27 Letinginn nær ekki villibráðinni, en iðnin er manninum dýrmætur auður. 12.28 Á vegi réttlætisins er líf, en glæpaleiðin liggur út í dauðann.
13.1 Vitur sonur hlýðir umvöndun föður síns, en spottarinn sinnir engum átölum. 13.2 Maðurinn nýtur góðs af ávexti munnsins, en svikarana þyrstir í ofbeldi. 13.3 Sá sem gætir munns síns, varðveitir líf sitt, en glötun er búin þeim, er ginið glennir. 13.4 Sál letingjans girnist og fær ekki, en sál hinna iðnu mettast ríkulega. 13.5 Réttlátur maður hatar fals, en hinn óguðlegi fremur skömm og svívirðu. 13.6 Réttlætið verndar grandvara breytni, en guðleysið steypir syndaranum. 13.7 Einn þykist ríkur, en á þó ekkert, annar læst vera fátækur, en á þó mikinn auð. 13.8 Auðæfi mannsins eru lausnargjald fyrir líf hans, en hinn fátæki hlýðir ekki á neinar ávítur. 13.9 Ljós réttlátra logar skært, en á lampa óguðlegra slokknar. 13.10 Með hroka vekja menn aðeins þrætur, en hjá ráðþægnum mönnum er viska. 13.11 Skjótfenginn auður minnkar, en sá sem safnar smátt og smátt, verður ríkur. 13.12 Langdregin eftirvænting gjörir hjartað sjúkt, en uppfyllt ósk er lífstré. 13.13 Sá sem fyrirlítur áminningarorð, býr sér glötun, en sá sem óttast boðorðið, hlýtur umbun. 13.14 Kenning hins vitra er lífslind til þess að forðast snöru dauðans. 13.15 Góðir vitsmunir veita hylli, en vegur svikaranna leiðir í glötun. 13.16 Kænn maður gjörir allt með skynsemd, en heimskinginn breiðir út vitleysu. 13.17 Óguðlegur sendiboði steypir í ógæfu, en trúr sendimaður er meinabót. 13.18 Fátækt og smán hlýtur sá, er lætur áminning sem vind um eyrun þjóta, en sá sem tekur umvöndun, verður heiðraður. 13.19 Uppfyllt ósk er sálunni sæt, en að forðast illt er heimskingjunum andstyggð. 13.20 Haf umgengni við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim, sem leggur lag sitt við heimskingja. 13.21 Óhamingjan eltir syndarana, en gæfan nær hinum réttlátu. 13.22 Góður maður lætur eftir sig arf handa barnabörnunum, en eigur syndarans eru geymdar hinum réttláta. 13.23 Nýbrotið land fátæklinganna gefur mikla fæðu, en mörgum er burtu kippt fyrir ranglæti sitt. 13.24 Sá sem sparar vöndinn, hatar son sinn, en sá sem elskar hann, agar hann snemma. 13.25 Hinn réttláti etur nægju sína, en kviður óguðlegra líður skort.
14.1 Viska kvennanna reisir húsið, en fíflskan rífur það niður með höndum sínum. 14.2 Sá sem framgengur í hreinskilni sinni, óttast Drottin, en sá sem fer krókaleiðir, fyrirlítur hann. 14.3 Í munni afglapans er vöndur á hroka hans, en varir hinna vitru varðveita þá. 14.4 Þar sem engin naut eru, þar er jatan tóm, en fyrir kraft uxans fæst mikill ágóði. 14.5 Sannorður vottur lýgur ekki, en falsvottur fer með lygar. 14.6 Spottarinn leitar visku, en finnur ekki, en hyggnum manni er þekkingin auðfengin. 14.7 Gakk þú burt frá heimskum manni, og þú hefir ekki kynnst þekkingar-vörum. 14.8 Viska hins kæna er í því fólgin, að hann skilur veg sinn, en fíflska heimskingjanna er svik. 14.9 Afglaparnir gjöra gys að sektarfórnum, en meðal hreinskilinna er velþóknun. 14.10 Hjartað eitt þekkir kvöl sína, og jafnvel í gleði þess getur enginn annar blandað sér. 14.11 Hús óguðlegra mun eyðileggjast, en tjald hreinskilinna mun blómgast. 14.12 Margur vegurinn virðist greiðfær, en endar þó á helslóðum. 14.13 Jafnvel þótt hlegið sé, kennir hjartað til, og endir gleðinnar er tregi. 14.14 Rangsnúið hjarta mettast af vegum sínum svo og góður maður af verkum sínum. 14.15 Einfaldur maður trúir öllu, en kænn maður athugar fótmál sín. 14.16 Vitur maður óttast hið illa og forðast það, en heimskinginn er framhleypinn og ugglaus. 14.17 Uppstökkur maður fremur fíflsku, en hrekkvís maður verður hataður. 14.18 Einfeldningarnir erfa fíflsku, en vitrir menn krýnast þekkingu. 14.19 Hinir vondu verða að lúta hinum góðu, og hinir óguðlegu að standa við dyr réttlátra. 14.20 Fátæklingurinn verður hvimleiður jafnvel vini sínum, en ríkismanninn elska margir. 14.21 Sá sem fyrirlítur vin sinn, drýgir synd, en sæll er sá, sem miskunnar sig yfir hina voluðu. 14.22 Vissulega villast þeir, er ástunda illt, en ást og trúfesti ávinna þeir sér, er gott stunda. 14.23 Af öllu striti fæst ágóði, en munnfleiprið eitt leiðir aðeins til skorts. 14.24 Vitrum mönnum er auður þeirra kóróna, en fíflska heimskingjanna er og verður fíflska. 14.25 Sannorður vottur frelsar líf, en sá sem fer með lygar, er svikari. 14.26 Í ótta Drottins er öruggt traust, og synir slíks manns munu athvarf eiga. 14.27 Ótti Drottins er lífslind til þess að forðast snörur dauðans. 14.28 Fólksmergðin er prýði konungsins, en mannaskorturinn steypir höfðingjanum. 14.29 Sá sem er seinn til reiði, er ríkur að skynsemd, en hinn bráðlyndi sýnir mikla fíflsku. 14.30 Rósamt hjarta er líf líkamans, en ástríða er eitur í beinum. 14.31 Sá sem kúgar snauðan mann, óvirðir þann er skóp hann, en sá heiðrar hann, er miskunnar sig yfir fátækan. 14.32 Hinn óguðlegi fellur á illsku sinni, en hinum réttláta er ráðvendnin athvarf. 14.33 Í hjarta hyggins manns heldur viskan kyrru fyrir, en á meðal heimskingja gerir hún vart við sig. 14.34 Réttlætið hefur upp lýðinn, en syndin er þjóðanna skömm. 14.35 Vitur þjónn hlýtur hylli konungsins, en sá hefir reiði hans, sem skammarlega breytir.
15.1 Mjúklegt andsvar stöðvar bræði, en meiðandi orð vekur reiði. 15.2 Af tungu hinna vitru drýpur þekking, en munnur heimskingjanna eys úr sér vitleysu. 15.3 Augu Drottins eru alls staðar, vakandi yfir vondum og góðum. 15.4 Hógværð tungunnar er lífstré, en fals hennar veldur hugarkvöl. 15.5 Afglapinn smáir aga föður síns, en sá sem tekur umvöndun, verður hygginn. 15.6 Í húsi hins réttláta er mikill auður, en glundroði er í gróðafé hins óguðlega. 15.7 Varir hinna vitru dreifa út þekkingu, en hjarta heimskingjanna er rangsnúið. 15.8 Fórn óguðlegra er Drottni andstyggð, en bæn hreinskilinna er honum þóknanleg. 15.9 Vegur hins óguðlega er Drottni andstyggilegur, en þann sem stundar réttlæti, elskar hann. 15.10 Slæm hirting bíður þess, sem yfirgefur rétta leið, sá sem hatar umvöndun, hlýtur að deyja. 15.11 Dánarheimur og undirdjúpin eru opin fyrir Drottni, hversu miklu fremur hjörtu mannanna barna! 15.12 Spottaranum er ekki vel við, að vandað sé um við hann, til viturra manna fer hann ekki. 15.13 Glatt hjarta gjörir andlitið hýrlegt, en sé hryggð í hjarta, er hugurinn dapur. 15.14 Hjarta hins vitra leitar að þekking, en munnur heimskingjanna gæðir sér á fíflsku. 15.15 Hinn volaði sér aldrei glaðan dag, en sá sem vel liggur á, er sífellt í veislu. 15.16 Betra er lítið í ótta Drottins en mikill fjársjóður með áhyggjum. 15.17 Betri er einn skammtur kálmetis með kærleika en alinn uxi með hatri. 15.18 Bráðlyndur maður vekur deilur, en sá sem seinn er til reiði, stillir þrætu. 15.19 Vegur letingjans er eins og þyrnigerði, en gata hreinskilinna er brautarvegur. 15.20 Vitur sonur gleður föður sinn, en heimskur maður fyrirlítur móður sína. 15.21 Óvitrum manni er fíflskan gleði, en skynsamur maður gengur beint áfram. 15.22 Áformin verða að engu, þar sem engin er ráðagerðin, en ef margir leggja á ráðin, fá þau framgang. 15.23 Gleði hlýtur maðurinn af svari munns síns, og hversu fagurt er orð í tíma talað! 15.24 Lífsins vegur liggur upp á við fyrir hinn hyggna, til þess að hann lendi ekki niður í Helju. 15.25 Drottinn rífur niður hús dramblátra, en setur föst landamerki ekkjunnar. 15.26 Ill áform eru Drottni andstyggð, en hrein eru vingjarnleg orð. 15.27 Sá kemur ólagi á heimilishag sinn, sem fíkinn er í rangfenginn gróða, en sá sem hatar mútugjafir, mun lifa. 15.28 Hjarta hins réttláta íhugar, hverju svara skuli, en munnur óguðlegra eys úr sér illsku. 15.29 Drottinn er fjarlægur óguðlegum, en bæn réttlátra heyrir hann. 15.30 Vingjarnlegt augnaráð gleður hjartað, góðar fréttir feita beinin. 15.31 Eyra sem hlýðir á holla umvöndun, mun búa meðal hinna vitru. 15.32 Sá sem aga hafnar, fyrirlítur sjálfan sig, en sá sem hlýðir á umvöndun, aflar sér hygginda. 15.33 Ótti Drottins er ögun til visku, og auðmýkt er undanfari virðingar.
16.1 Fyrirætlanir hjartans eru á mannsins valdi, en svar tungunnar kemur frá Drottni. 16.2 Manninum þykja allir sínir vegir hreinir, en Drottinn prófar hugarþelið. 16.3 Fel þú Drottni verk þín, þá mun áformum þínum framgengt verða. 16.4 Allt hefir Drottinn skapað til síns ákveðna marks, svo og guðleysingjann til óheilladagsins. 16.5 Sérhver hrokafullur maður er Drottni andstyggð, hér er höndin upp á það: hann sleppur ekki óhegndur! 16.6 Með elsku og trúfesti er friðþægt fyrir misgjörð, og fyrir ótta Drottins forðast menn hið illa. 16.7 Þegar Drottinn hefir þóknun á breytni einhvers manns, þá sættir hann og óvini hans við hann. 16.8 Betra er lítið með réttu en miklar tekjur með röngu. 16.9 Hjarta mannsins upphugsar veg hans, en Drottinn stýrir gangi hans. 16.10 Goðsvar er á vörum konungsins, í dómi mun munni hans ekki skeika. 16.11 Rétt vog og reisla koma frá Drottni, lóðin á vogarskálunum eru hans verk. 16.12 Að fremja ranglæti er konungum andstyggð, því að hásætið staðfestist fyrir réttlæti. 16.13 Réttlátar varir eru yndi konunga, og þeir elska þann, er talar hreinskilni. 16.14 Konungsreiði er sem sendiboði dauðans, en vitur maður sefar hana. 16.15 Í mildilegu augnaráði konungs er líf, og hylli hans er sem vorregns-ský. 16.16 Hversu miklu betra er að afla sér visku en gulls og ákjósanlegra að afla sér hygginda en silfurs. 16.17 Braut hreinskilinna er að forðast illt, að varðveita sálu sína er að gæta breytni sinnar. 16.18 Drambsemi er undanfari tortímingar, og oflæti veit á fall. 16.19 Betra er að vera lítillátur með auðmjúkum en að skipta herfangi með dramblátum. 16.20 Sá sem gefur gætur að orðinu, hreppir hamingju, og sæll er sá, sem treystir Drottni. 16.21 Sá sem er vitur í hjarta, verður hygginn kallaður, og sætleiki varanna eykur fræðslu. 16.22 Lífslind er hyggnin þeim, sem hana á, en ögun afglapanna er þeirra eigin flónska. 16.23 Hjarta spekingsins gjörir munn hans hygginn og eykur fræðsluna á vörum hans. 16.24 Vingjarnleg orð eru hunangsseimur, sæt fyrir sálina, lækning fyrir beinin. 16.25 Margur vegurinn virðist greiðfær, en endar þó á helslóðum. 16.26 Hungur erfiðismannsins erfiðar með honum, því að munnur hans rekur á eftir honum. 16.27 Varmennið grefur óheillagröf, og á vörum hans er sem brennandi eldur. 16.28 Vélráður maður kveikir illdeilur, og rógberinn veldur vinaskilnaði. 16.29 Ofbeldismaðurinn ginnir náunga sinn og leiðir hann á vondan veg. 16.30 Sá sem lokar augunum, upphugsar vélræði, sá sem kreistir saman varirnar, er albúinn til ills. 16.31 Gráar hærur eru heiðurskóróna, á vegi réttlætis öðlast menn hana. 16.32 Sá sem seinn er til reiði, er betri en kappi, og sá sem stjórnar geði sínu, er meiri en sá sem vinnur borgir. 16.33 Í skikkjufellingum eru teningarnir hristir, en Drottinn ræður, hvað upp kemur.
17.1 Betri er þurr brauðbiti með ró en fullt hús af fórnarkjöti með deilum. 17.2 Hygginn þræll verður drottnari yfir spilltum syni, og hann tekur erfðahlut með bræðrunum. 17.3 Deiglan er fyrir silfrið og bræðsluofninn fyrir gullið, en Drottinn prófar hjörtun. 17.4 Illmennið gefur gaum að fláræðis-vörum, lygin hlýðir á glæpa-tungu. 17.5 Sá sem gjörir gys að fátækum, óvirðir þann er skóp hann, og sá sem gleðst yfir ógæfu, sleppur ekki óhegndur. 17.6 Barnabörnin eru kóróna öldunganna, og feðurnir eru heiður barnanna. 17.7 Ekki hæfa heimskum manni stóryrði, hve miklu síður göfgum manni lygavarir. 17.8 Mútan er gimsteinn í augum þess er hana fær, hvert sem maður snýr sér með hana, kemur hann sínu fram. 17.9 Sá sem breiðir yfir bresti, eflir kærleika, en sá sem ýfir upp sök, veldur vinaskilnaði. 17.10 Ávítur fá meira á hygginn mann en hundrað högg á heimskingja. 17.11 Uppreisnarmaðurinn hyggur á illt eitt, en grimmur sendiboði mun sendur verða móti honum. 17.12 Betra er fyrir mann að mæta birnu, sem rænd er húnum sínum, heldur en heimskingja í flónsku hans. 17.13 Sá sem launar gott með illu, frá hans húsi víkur ógæfan eigi. 17.14 Þegar deila byrjar, er sem tekin sé úr stífla, lát því af þrætunni, áður en rifrildi hefst. 17.15 Sá sem sekan sýknar, og sá sem saklausan sakfellir, þeir eru báðir Drottni andstyggð. 17.16 Hvað stoða peningar í hendi heimskingjans til þess að kaupa speki, þar sem vitið er ekkert? 17.17 Vinur elskar ætíð og í nauðum er hann sem bróðir. 17.18 Óvitur maður er sá, er til handsala gengur, sá sem gengur í ábyrgð fyrir náunga sinn. 17.19 Sá elskar yfirsjón, sem þrætu elskar, sá sem háar gjörir dyr sínar, sækist eftir hruni. 17.20 Rangsnúið hjarta öðlast enga gæfu, og sá sem hefir fláráða tungu, hrapar í ógæfu. 17.21 Sá sem getur af sér heimskingja, honum verður það til mæðu, og faðir glópsins fagnar ekki. 17.22 Glatt hjarta veitir góða heilsubót, en dapurt geð skrælir beinin. 17.23 Hinn óguðlegi þiggur mútur á laun til þess að beygja leiðir réttvísinnar. 17.24 Hygginn maður hefir viskuna fyrir framan sig, en augu heimskingjans eru úti á heimsenda. 17.25 Heimskur sonur er föður sínum til sorgar og þeirri til angurs, er ól hann. 17.26 Það eitt að sekta saklausan er ekki gott, en að berja tignarmenni tekur þó út yfir. 17.27 Fámálugur maður er hygginn, og geðrór maður er skynsamur. 17.28 Afglapinn getur jafnvel álitist vitur, ef hann þegir, hygginn, ef hann lokar vörunum.
18.1 Sérlyndur maður fer að sínum munum, hann illskast við öllu, sem hyggilegt er. 18.2 Heimskinginn hefir engar mætur á hyggindum, heldur á því að gjöra kunnar hugsanir sínar. 18.3 Þar sem hinn óguðlegi kemur, þar kemur og fyrirlitning, og með smáninni kemur skömm. 18.4 Djúp vötn eru orð af manns munni, lind viskunnar er sem rennandi lækur. 18.5 Það er ekki rétt að draga taum hins óguðlega, að halla rétti hins saklausa í dómi. 18.6 Varir heimskingjans valda deilum, og munnur hans kallar á högg. 18.7 Munnur heimskingjans verður honum að tjóni, og varir hans eru snara fyrir líf hans. 18.8 Orð rógberans eru eins og sælgæti, og þau læsa sig inn í innstu fylgsni hjartans. 18.9 Sá sem tómlátur er í verki sínu, er skilgetinn bróðir eyðsluseggsins. 18.10 Nafn Drottins er sterkur turn, þangað hleypur hinn réttláti og er þar óhultur. 18.11 Auður ríks manns er honum öflugt vígi og ókleifur múrveggur í sjálfs hans ímyndun. 18.12 Ofmetnaður hjartans er undanfari falls, en auðmýkt er undanfari virðingar. 18.13 Svari einhver áður en hann heyrir, þá er honum það flónska og skömm. 18.14 Hugrekki mannsins heldur honum uppi í sjúkdómi hans, en dapurt geð, hver fær borið það? 18.15 Hjarta hins hyggna aflar sér þekkingar, og eyra hinna vitru leitar þekkingar. 18.16 Gjöf sem maður gefur, rýmir til fyrir honum og leiðir hann fram fyrir stórmenni. 18.17 Hinn fyrri sýnist hafa á réttu að standa í þrætumáli sínu, en síðan kemur mótpartur hans og rannsakar röksemdir hans. 18.18 Hlutkestið gjörir enda á deilum og sker úr milli sterkra. 18.19 Erfiðara er að ávinna svikinn bróður en að vinna rammbyggða borg, og deilur slíkra manna eru sem slagbrandar fyrir hallardyrum. 18.20 Kviður mannsins mettast af ávexti munns hans, af gróðri varanna mettast hann. 18.21 Dauði og líf eru á tungunnar valdi, og sá sem hefir taum á henni, mun eta ávöxt hennar. 18.22 Sá sem eignast konu, eignast gersemi, og hlýtur náðargjöf af Drottni. 18.23 Hinn fátæki mælir bljúgum bænarorðum, en hinn ríki svarar með hörku. 18.24 Að vera allra vinur er til tjóns, en til er ástvinur, sem er tryggari en bróðir.
19.1 Betri er fátækur maður, sem framgengur í ráðvendni sinni, heldur en lævís lygari og heimskur að auki. 19.2 Kapp er best með forsjá, og sá sem hraðar sér, misstígur sig. 19.3 Flónska mannsins steypir fyrirtækjum hans, en hjarta hans illskast við Drottin. 19.4 Auður fjölgar vinum, en fátækur maður verður vinum horfinn. 19.5 Falsvottur sleppur ekki óhegndur, og sá sem fer með lygar, kemst ekki undan. 19.6 Margir reyna að koma sér í mjúkinn hjá tignarmanninum, og allir eru vinir þess, sem gjafir gefur. 19.7 Allir bræður hins snauða hata hann, hversu miklu fremur firrast þá vinir hans hann. 19.8 Sá sem aflar sér hygginda, elskar líf sitt, sá sem varðveitir skynsemi, mun gæfu hljóta. 19.9 Falsvottur sleppur ekki óhegndur, og sá sem fer með lygar, tortímist. 19.10 Sællífi hæfir eigi heimskum manni, hvað þá þræli að drottna yfir höfðingjum. 19.11 Hyggni mannsins gjörir hann seinan til reiði, og það er honum til frægðar að ganga fram hjá mótgjörðum. 19.12 Konungsreiði er eins og ljónsöskur, en hylli hans sem dögg á grasi. 19.13 Heimskur sonur er föður sínum sönn óhamingja, og konuþras er sífelldur þakleki. 19.14 Hús og auður er arfur frá feðrunum, en skynsöm kona er gjöf frá Drottni. 19.15 Letin svæfir þungum svefni, og iðjulaus maður mun hungur þola. 19.16 Sá sem varðveitir boðorðið, varðveitir líf sitt, en sá deyr, sem ekki hefir gát á vegum sínum. 19.17 Sá lánar Drottni, er líknar fátækum, og hann mun launa honum góðverk hans. 19.18 Aga þú son þinn, því að enn er von, en farðu eigi svo langt, að þú deyðir hann. 19.19 Sá sem illa reiðist, verður að greiða sekt, því að ætlir þú að bjarga, gjörir þú illt verra. 19.20 Hlýð þú ráðum og tak umvöndun, til þess að þú verðir vitur eftirleiðis. 19.21 Mörg eru áformin í mannshjartanu, en ráðsályktun Drottins stendur. 19.22 Unun mannsins er kærleiksverk hans, og betri er fátækur maður en lygari. 19.23 Ótti Drottins leiðir til lífs, þá hvílist maðurinn mettur, verður ekki fyrir neinni ógæfu. 19.24 Latur maður dýfir hendinni ofan í skálina, en ekki nennir hann að bera hana aftur upp að munninum. 19.25 Sláir þú spottarann, verður hinn einfaldi hygginn, og sé vandað um við skynsaman mann, lærir hann hyggindi. 19.26 Sá sem misþyrmir föður sínum og rekur burt móður sína, slíkur sonur fremur smán og svívirðing. 19.27 Hættu, son minn, að hlýða á umvöndun, ef það er til þess eins, að þú brjótir á móti skynsamlegum orðum. 19.28 Samviskulaus vottur gjörir gys að réttinum, og munnur óguðlegra gleypir rangindi. 19.29 Refsidómar eru búnir spotturunum og högg baki heimskingjanna.
20.1 Vínið er spottari, sterkur drykkur glaumsamur, og hver sá, er drukkinn reikar, er óvitur. 20.2 Konungsreiði er eins og ljónsöskur, sá sem egnir hann á móti sér, fyrirgjörir lífi sínu. 20.3 Það er manni sómi að halda sér frá þrætu, en hver afglapinn ygglir sig. 20.4 Letinginn plægir ekki á haustin, fyrir því leitar hann um uppskerutímann og grípur í tómt. 20.5 Ráðin í hjarta mannsins eru sem djúp vötn, og hygginn maður eys þar af. 20.6 Margir menn eru kallaðir kærleiksríkir, en tryggan vin, hver finnur hann? 20.7 Réttlátur maður gengur fram í ráðvendni sinni, sæl eru því börn hans eftir hann. 20.8 Þegar konungur situr á dómstóli, þá skilur hann allt illt úr með augnaráði sínu. 20.9 Hver getur sagt: 'Ég hefi haldið hjarta mínu hreinu, ég er hreinn af synd?' 20.10 Tvenns konar vog og tvenns konar mál, það er hvort tveggja Drottni andstyggð. 20.11 Sveinninn þekkist þegar á verkum sínum, hvort athafnir hans eru hreinar og einlægar. 20.12 Eyrað sem heyrir, og augað sem sér, hvort tveggja hefir Drottinn skapað. 20.13 Elskaðu ekki svefninn, svo að þú verðir ekki fátækur, opnaðu augun, þá muntu mettast af brauði. 20.14 'Slæmt! Slæmt!' segir kaupandinn, en þegar hann gengur burt, hælist hann um. 20.15 Til er gull og gnægð af perlum, en hið dýrmætasta þing eru vitrar varir. 20.16 Tak þú skikkjuna af þeim manni, sem hefir gengið í ábyrgð fyrir ókunnugan, tak veð af þeim manni, sem hefir gengið í ábyrgð fyrir útlendinga. 20.17 Sætt er svikabrauðið, en eftir á fyllist munnurinn möl. 20.18 Vel ráðin áform fá framgang, haf því holl ráð, er þú heyr stríð. 20.19 Sá sem ljóstar upp leyndarmálum, gengur um sem rógberi, haf því engin mök við málugan mann. 20.20 Sá sem formælir föður og móður, á hans lampa slokknar í niðamyrkri. 20.21 Arfur, sem í upphafi var skjótfenginn, blessast eigi að lokum. 20.22 Seg þú ekki: 'Ég vil endurgjalda illt!' Bíð þú Drottins, og hann mun hjálpa þér. 20.23 Tvenns konar vog er Drottni andstyggð, og svikavog er ekki góð. 20.24 Spor mannsins eru ákveðin af Drottni, en maðurinn _ hvernig fær hann skynjað veg sinn? 20.25 Það er manninum snara að hrópa í fljótfærni: 'Helgað!' og hyggja fyrst að, þegar heitin eru gjörð. 20.26 Vitur konungur skilur úr hina óguðlegu og lætur síðan hjólið yfir þá ganga. 20.27 Andi mannsins er lampi frá Drottni, sem rannsakar hvern afkima hjartans. 20.28 Kærleiki og trúfesti varðveita konunginn, og hann styður hásæti sitt með kærleika. 20.29 Krafturinn er ágæti ungra manna, en hærurnar prýði öldunganna. 20.30 Blóðugar skrámur hreinsa illmennið og högg, sem duglega svíða.
21.1 Hjarta konungsins er eins og vatnslækir í hendi Drottins, hann beygir það til hvers, er honum þóknast. 21.2 Manninum þykja allir sínir vegir réttir, en Drottinn vegur hjörtun. 21.3 Að iðka réttlæti og rétt er Drottni þóknanlegra en sláturfórn. 21.4 Drembileg augu og hrokafullt hjarta eru lampi óguðlegra, _ allt er það synd. 21.5 Fyrirætlanir iðjumannsins reynast fésamar vel, en öll flasfærni lendir í fjárskorti. 21.6 Fjársjóðir, sem aflað er með lygatungu, eru sem þjótandi vindblær, snörur dauðans. 21.7 Ofríki hinna óguðlegu dregur þá á eftir sér, því að þeir færast undan að gjöra það, sem rétt er. 21.8 Boginn er vegur þess manns, sem synd er hlaðinn, en verk hins hreina eru ráðvandleg. 21.9 Betri er vist í horni á húsþaki en sambúð við þrasgjarna konu. 21.10 Sál hins óguðlega girnist illt, náungi hans finnur enga miskunn hjá honum. 21.11 Sé spottaranum refsað, verður hinn einfaldi hygginn, og sé vitur maður fræddur, lærir hann hyggindi. 21.12 Gætur gefur réttlátur að húsi hins óguðlega, steypir óguðlegum í ógæfu. 21.13 Sá sem byrgir eyrun fyrir kveini hins fátæka, hann mun sjálfur kalla og eigi fá bænheyrslu. 21.14 Gjöf á laun sefar reiði og múta í barmi ákafa heift. 21.15 Réttlátum manni er gleði að gjöra það, sem rétt er, en illgjörðamönnum er það skelfing. 21.16 Sá maður, sem villist af vegi skynseminnar, mun brátt hvílast í söfnuði framliðinna. 21.17 Öreigi verður sá, er sólginn er í skemmtanir, sá sem sólginn er í vín og olíu, verður ekki ríkur. 21.18 Hinn óguðlegi er lausnargjald fyrir hinn réttláta, og svikarinn kemur í stað hinna hreinskilnu. 21.19 Betra er að búa í eyðimerkur-landi en með þrasgjarnri og geðillri konu. 21.20 Dýrmætur fjársjóður og olía er í heimkynnum hins vitra, en heimskur maður sólundar því. 21.21 Sá sem ástundar réttlæti og kærleika, hann öðlast líf, réttlæti og heiður. 21.22 Vitur maður vinnur borg kappanna og rífur niður vígið, sem hún treysti á. 21.23 Sá sem varðveitir munn sinn og tungu, hann varðveitir sálu sína frá nauðum. 21.24 Sá sem er hrokafullur, dramblátur, hann heitir spottari, sá sem gjörir allt af taumlausum hroka. 21.25 Óskir letingjans drepa hann, því að hendur hans vilja ekki vinna. 21.26 Ávallt er letinginn að óska sér, en hinn réttláti gefur og er ekki naumur. 21.27 Sláturfórn óguðlegra er Drottni andstyggð, hvað þá, sé hún framborin fyrir óhæfuverk. 21.28 Falsvottur mun tortímast, en maður, sem heyrt hefir, má ávallt tala. 21.29 Óguðlegur maður setur upp öruggan svip, en hinn hreinskilni gjörir veg sinn öruggan. 21.30 Engin viska er til og engin hyggni, né heldur ráð gegn Drottni. 21.31 Hesturinn er hafður viðbúinn til orustudagsins, en sigurinn er í hendi Drottins.
22.1 Gott mannorð er dýrmætara en mikill auður, vinsæld er betri en silfur og gull. 22.2 Ríkur og fátækur hittast, Drottinn skóp þá alla saman. 22.3 Vitur maður sér ógæfuna og felur sig, en einfeldningarnir halda áfram og fá að kenna á því. 22.4 Laun auðmýktar, ótta Drottins, eru auður, heiður og líf. 22.5 Þyrnar, snörur, eru á vegi hins undirförula, sá sem varðveitir líf sitt, kemur ekki nærri þeim. 22.6 Fræð þú sveininn um veginn, sem hann á að halda, og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja. 22.7 Ríkur maður drottnar yfir fátækum, og lánþeginn verður þræll lánsalans. 22.8 Sá sem ranglæti sáir, uppsker óhamingju, og sproti heiftar hans verður að engu. 22.9 Sá sem er góðgjarn, verður blessaður, því að hann gefur hinum fátæka af brauði sínu. 22.10 Rek þú spottarann burt, þá fer deilan burt, og þá linnir þrætu og smán. 22.11 Drottinn elskar hjartahreinan, konungurinn er vinur þess, sem hefir yndisþokka á vörum sér. 22.12 Augu Drottins varðveita þekkinguna, en orðum svikarans kollvarpar hann. 22.13 Letinginn segir: 'Ljón er úti fyrir, ég kynni að verða drepinn úti á götunni.' 22.14 Djúp gröf er munnur léttúðarkvenna, sá sem verður fyrir reiði Drottins, fellur í hana. 22.15 Ef fíflska situr föst í hjarta sveinsins, þá mun vöndur agans koma henni burt þaðan. 22.16 Að kúga fátækan eykur efni hans, að gefa ríkum manni verður til þess eins að gjöra hann snauðan. 22.17 Hneig eyra þitt og heyr orð hinna vitru, og snú athygli þinni að kenning minni, 22.18 því að það er fagurt, ef þú geymir þau í brjósti þér, ef þau eru öll til taks á vörum þínum. 22.19 Til þess að traust þitt sé á Drottni, fræði ég þig í dag, já þig. 22.20 Vissulega skrifa ég kjarnyrði handa þér, með heilræðum og fræðslu, 22.21 til þess að ég kunngjöri þér sannleika, áreiðanleg orð, svo að þú flytjir þeim áreiðanleg orð, er senda þig. 22.22 Ræn eigi hinn lítilmótlega, af því að hann er lítilmótlegur, og knosa eigi hinn volaða í borgarhliðinu, 22.23 því að Drottinn mun flytja mál þeirra og ræna þá lífinu, er þá ræna. 22.24 Legg eigi lag þitt við reiðigjarnan mann og haf eigi umgengni við fauta, 22.25 til þess að þú venjist eigi á háttsemi hans og sækir snöru fyrir líf þitt. 22.26 Ver þú ekki meðal þeirra, er ganga til handsala, meðal þeirra, er ganga í ábyrgð fyrir skuldum, 22.27 því þegar þú ekkert hefir að borga með, viltu þá láta taka sængina undan þér? 22.28 Fær þú eigi úr stað hin fornu landamerki, þau er feður þínir hafa sett. 22.29 Sjáir þú mann vel færan í verki sínu, hann getur boðið konungum þjónustu sína, eigi mun hann bjóða sig ótignum mönnum.
23.1 Þegar þú situr til borðs með valdsherra, þá gæt þess vel, hvern þú hefir fyrir framan þig, 23.2 og set þér hníf á barka, ef þú ert matmaður. 23.3 Lát þig ekki langa í kræsingar hans, því að þær eru svikul fæða. 23.4 Streist þú ekki við að verða ríkur, hættu að verja viti þínu til þess. 23.5 Hvort skulu augu þín hvarfla til auðsins, sem er svo stopull? Því að sannlega gjörir hann sér vængi eins og örn, sem flýgur til himins. 23.6 Et eigi brauð hjá nískum manni og lát þig ekki langa í kræsingar hans, 23.7 því að hann er eins og maður, sem reiknar með sjálfum sér. 'Et og drekk!' segir hann við þig, en hjarta hans er eigi með þér. 23.8 Bitanum, sem þú hefir etið, verður þú að æla upp aftur, og blíðmælum þínum hefir þú á glæ kastað. 23.9 Tala þú eigi fyrir eyrum heimskingjans, því að hann fyrirlítur hyggindi ræðu þinnar. 23.10 Fær þú eigi úr stað landamerki ekkjunnar og gakk þú eigi inn á akra munaðarleysingjanna, 23.11 því að lausnari þeirra er sterkur _ hann mun flytja mál þeirra gegn þér. 23.12 Snú þú hjarta þínu að umvöndun og eyrum þínum að vísdómsorðum. 23.13 Spara eigi aga við sveininn, því ekki deyr hann, þótt þú sláir hann með vendinum. 23.14 Þú slær hann að sönnu með vendinum, en þú frelsar líf hans frá Helju. 23.15 Son minn, þegar hjarta þitt verður viturt, þá gleðst ég líka í hjarta mínu, 23.16 og nýru mín fagna, er varir þínar mæla það sem rétt er. 23.17 Lát eigi hjarta þitt öfunda syndara, heldur ástunda guðsótta á degi hverjum, 23.18 því að vissulega er enn framtíð fyrir hendi, og von þín mun eigi að engu verða. 23.19 Heyr þú, son minn, og ver vitur og stýr hjarta þínu rétta leið. 23.20 Ver þú ekki með drykkjurútum, með þeim, sem hvoma í sig kjöt, 23.21 því að drykkjurútar og mathákar verða snauðir, og svefnmók klæðir í tötra. 23.22 Hlýð þú föður þínum, sem hefir getið þig, og fyrirlít ekki móður þína, þótt hún sé orðin gömul. 23.23 Kaup þú sannleika, og sel hann ekki, visku, aga og hyggindi. 23.24 Faðir réttláts manns fagnar, og sá sem gat vitran son, gleðst af honum. 23.25 Gleðjist faðir þinn og móðir þín og fagni hún, sem fæddi þig. 23.26 Son minn, gef mér hjarta þitt, og lát vegu mína vera þér geðfellda. 23.27 Því að skækja er djúp gröf og léttúðardrós þröngur pyttur. 23.28 Já, hún liggur í leyni eins og ræningi og fjölgar hinum ótrúu meðal mannanna. 23.29 Hver æjar? hver veinar? hver á í deilum? hver kvartar? hver fær sár að þarflausu? hver rauð augu? 23.30 Þeir sem sitja við vín fram á nætur, þeir sem koma saman til að bergja á krydduðum drykkjum. 23.31 Horf þú ekki á vínið, hve rautt það er, hversu það glóir í bikarnum og rennur ljúflega niður. 23.32 Að síðustu bítur það sem höggormur og spýtir eitri sem naðra. 23.33 Augu þín munu sjá kynlega hluti, og hjarta þitt mun mæla fláræði. 23.34 Og þú munt vera eins og sá, sem liggur úti í miðju hafi, já, eins og sá, er liggur efst uppi á siglutré. 23.35 'Þeir hafa slegið mig, ég kenndi ekkert til, þeir hafa barið mig, ég varð þess ekki var. Hvenær mun ég vakna? Ég vil meira vín!'
24.1 Öfunda ekki vonda menn og lát þig ekki langa til að vera með þeim, 24.2 því að hjarta þeirra býr yfir ofríkisverkum, og varir þeirra mæla ógæfu. 24.3 Fyrir speki verður hús reist, og fyrir hyggni verður það staðfast, 24.4 fyrir þekking fyllast forðabúrin alls konar dýrum og yndislegum fjármunum. 24.5 Vitur maður er betri en sterkur og fróður maður betri en aflmikill, 24.6 því að holl ráð skalt þú hafa, er þú heyr stríð, og þar sem margir ráðgjafar eru, fer allt vel. 24.7 Viskan er afglapanum ofviða, í borgarhliðinu lýkur hann ekki upp munni sínum. 24.8 Þann sem leggur stund á að gjöra illt, kalla menn varmenni. 24.9 Syndin er fíflslegt fyrirtæki, og spottarinn er mönnum andstyggð. 24.10 Látir þú hugfallast á neyðarinnar degi, þá er máttur þinn lítill. 24.11 Frelsaðu þá, sem leiddir eru fram til lífláts, og þyrm þeim, sem ganga skjögrandi að höggstokknum. 24.12 Segir þú: 'Vér vissum það eigi,' _ sá sem vegur hjörtun, hann verður sannarlega var við það, og sá sem vakir yfir sálu þinni, hann veit það og mun gjalda manninum eftir verkum hans. 24.13 Et þú hunang, son minn, því að það er gott, og hunangsseimur er gómi þínum sætur. 24.14 Nem á sama hátt speki fyrir sálu þína, finnir þú hana, er framtíð fyrir hendi, og von þín mun eigi að engu verða. 24.15 Sit eigi, þú hinn óguðlegi, um bústað hins réttláta og eyðilegg ekki heimkynni hans, 24.16 því að sjö sinnum fellur hinn réttláti og stendur aftur upp, en óguðlegir steypast í ógæfu. 24.17 Gleð þig eigi yfir falli óvinar þíns, og hjarta þitt fagni eigi yfir því að hann steypist, 24.18 svo að Drottinn sjái það ekki og honum mislíki, og hann snúi reiði sinni frá honum til þín. 24.19 Reiðst ekki vegna illgjörðamanna, öfunda eigi óguðlega, 24.20 því að vondur maður á enga framtíð fyrir höndum, á lampa óguðlegra slokknar. 24.21 Son minn, óttastu Drottin og konunginn, samlaga þig ekki óróaseggjum, 24.22 því að ógæfa þeirra ríður að þegar minnst varir, og ófarir beggja _ hver veit um þær? 24.23 Þessir orðskviðir eru líka eftir spekinga. Hlutdrægni í dómi er ljót. 24.24 Þeim sem segir við hinn seka: 'Þú hefir rétt fyrir þér!' honum formæla menn, honum bölvar fólk. 24.25 En þeim sem hegna eins og ber, mun vel vegna, yfir þá kemur ríkuleg blessun. 24.26 Sá kyssir á varirnar, sem veitir rétt svör. 24.27 Annastu verk þitt utan húss og ljúk því á akrinum, síðan getur þú byggt hús þitt. 24.28 Vertu eigi vottur gegn náunga þínum að ástæðulausu, eða mundir þú vilja svíkja með vörum þínum? 24.29 Seg þú ekki: 'Eins og hann gjörði mér, eins ætla ég honum að gjöra, ég ætla að endurgjalda manninum eftir verkum hans!' 24.30 Mér varð gengið fram hjá akri letingja nokkurs og fram hjá víngarði óviturs manns. 24.31 Og sjá, hann var allur vaxinn klungrum, hann var alþakinn netlum, og steingarðurinn umhverfis hann var hruninn. 24.32 En ég varð þess var, veitti því athygli, sá það og lét mér það að kenningu verða: 24.33 Sofa ögn enn, blunda ögn enn, leggja saman hendurnar ögn enn til að hvílast, 24.34 þá kemur fátæktin yfir þig eins og ræningi og skorturinn eins og vopnaður maður.
25.1 Þetta eru líka orðskviðir Salómons, er menn Hiskía Júdakonungs hafa safnað. 25.2 Guði er það heiður að dylja mál, en konungum heiður að rannsaka mál. 25.3 Eins og hæð himins og dýpt jarðar, svo eru konungahjörtun órannsakanleg. 25.4 Sé sorinn tekinn úr silfrinu, þá fær smiðurinn ker úr því. 25.5 Séu hinir óguðlegu teknir burt frá augliti konungsins, þá mun hásæti hans staðfestast fyrir réttlæti. 25.6 Stær þig eigi frammi fyrir konunginum og ryðst eigi í rúm stórmenna, 25.7 því að betra er að menn segi við þig: 'Fær þig hingað upp!' heldur en að menn gjöri þér læging frammi fyrir tignarmanni. Hvað sem augu þín kunna að hafa séð, 25.8 þá ver eigi skjótur til málsóknar, því að hvað ætlar þú síðan að gjöra, þá er náungi þinn gjörir þér sneypu? 25.9 Rek þú mál þitt gegn náunga þínum, en ljósta eigi upp leyndarmáli annars manns, 25.10 til þess að sá sem heyrir það, smáni þig ekki og þú losnir aldrei við illan orðróm. 25.11 Gullepli í skrautlegum silfurskálum _ svo eru orð í tíma töluð. 25.12 Eins og gullhringur og skartgripur af skíru gulli, svo er vitur áminnandi heyranda eyra. 25.13 Eins og snjósvali um uppskerutímann, svo er áreiðanlegur sendimaður þeim er sendir hann, því að hann hressir sál húsbónda síns. 25.14 Ský og vindur, og þó engin rigning _ svo er sá, sem hrósar sér af gjafmildi, en gefur þó ekkert. 25.15 Með þolinmæði verður höfðingja talið hughvarf, og mjúk tunga mylur bein. 25.16 Finnir þú hunang, þá et sem þér nægir, svo að þú verðir ekki ofsaddur af því og ælir því upp aftur. 25.17 Stíg sjaldan fæti þínum í hús náunga þíns, svo að hann verði ekki leiður á þér og hati þig. 25.18 Hamar og sverð og hvöss ör _ svo er maður, sem ber falsvitni gegn náunga sínum. 25.19 Molnandi tönn og hrasandi fótur _ svo er traust á svikara á neyðarinnar degi. 25.20 Að fara úr fötum í kalsaveðri _ að hella ediki út í saltpétur _ eins er að syngja skapvondum ljóð. 25.21 Ef óvin þinn hungrar, þá gef honum að eta, og ef hann þyrstir, þá gef honum að drekka, 25.22 því að þú safnar glóðum elds yfir höfuð honum, og Drottinn mun endurgjalda þér það. 25.23 Norðanvindurinn leiðir fram regn og launskraf reiðileg andlit. 25.24 Betri er vist í horni á húsþaki en sambúð við þrasgjarna konu. 25.25 Eins og kalt vatn er dauðþyrstum manni, svo er góð fregn af fjarlægu landi. 25.26 Eins og grugguð lind og skemmdur brunnur, svo er réttlátur maður, sem titrar frammi fyrir óguðlegum manni. 25.27 Það er ekki gott að eta of mikið hunang, ver því spar á hólið. 25.28 Eins og borg, sem múrarnir hafa verið brotnir utan af, eins er sá maður, sem eigi hefir stjórn á skapsmunum sínum.
26.1 Eins og snjór um sumar og eins og regn um uppskeru, eins illa á sæmd við heimskan mann. 26.2 Eins og spörfugl flögrar, eins og svala flýgur, eins er um óverðskuldaða formæling _ hún verður eigi að áhrínsorðum. 26.3 Svipan hæfir hestinum og taumurinn asnanum _ en vöndurinn baki heimskingjanna. 26.4 Svara þú ekki heimskingjanum eftir fíflsku hans, svo að þú verðir ekki honum jafn. 26.5 Svara þú heimskingjanum eftir fíflsku hans, svo að hann haldi ekki, að hann sé vitur. 26.6 Sá höggur af sér fæturna og fær að súpa á ranglæti, sem sendir orð með heimskingja. 26.7 Eins og lærleggir hins lama hanga máttlausir, svo er spakmæli í munni heimskingjanna. 26.8 Sá sem sýnir heimskum manni sæmd, honum fer eins og þeim, er bindur stein í slöngvu. 26.9 Eins og þyrnir, sem stingst upp í höndina á drukknum manni, svo er spakmæli í munni heimskingjanna. 26.10 Eins og skytta, sem hæfir allt, svo er sá sem leigir heimskingja, og sá er leigir vegfarendur. 26.11 Eins og hundur, sem snýr aftur til spýju sinnar, svo er heimskingi, sem endurtekur fíflsku sína. 26.12 Sjáir þú mann, sem þykist vitur, þá er meiri von um heimskingja en hann. 26.13 Letinginn segir: 'Óargadýr er á veginum, ljón á götunum.' 26.14 Hurðin snýst á hjörunum og letinginn í hvílu sinni. 26.15 Latur maður dýfir hendinni ofan í skálina, en honum verður þungt um að bera hana aftur upp að munninum. 26.16 Latur maður þykist vitrari en sjö, sem svara hyggilega. 26.17 Sá, sem kemst í æsing út af deilu, sem honum kemur ekki við, hann er eins og sá, sem tekur um eyrun á hundi, er hleypur fram hjá. 26.18 Eins og óður maður, sem kastar tundurörvum, banvænum skeytum, 26.19 eins er sá maður, er svikið hefir náunga sinn og segir síðan: 'Ég er bara að gjöra að gamni mínu.' 26.20 Þegar eldsneytið þrýtur, slokknar eldurinn, og þegar enginn er rógberinn, stöðvast deilurnar. 26.21 Eins og kol þarf til glóða og við til elds, svo þarf þrætugjarnan mann til að kveikja deilur. 26.22 Orð rógberans eru eins og sælgæti, og þau læsa sig inn í innstu fylgsni hjartans. 26.23 Eldheitir kossar og illt hjarta, það er sem sorasilfur utan af leirbroti. 26.24 Með vörum sínum gjörir hatursmaðurinn sér upp vinalæti, en í hjarta sínu hyggur hann á svik. 26.25 Þegar hann mælir fagurt, þá trú þú honum ekki, því að sjö andstyggðir eru í hjarta hans. 26.26 Þótt hatrið hylji sig hræsni, þá verður þó illska þess opinber á dómþinginu. 26.27 Sá sem grefur gröf, fellur í hana, og steinninn fellur aftur í fang þeim, er veltir honum. 26.28 Lygin tunga hatar þá, er hún hefir sundur marið, og smjaðrandi munnur veldur glötun.
27.1 Vertu ekki hróðugur af morgundeginum, því að þú veist ekki, hvað dagurinn ber í skauti sínu. 27.2 Lát aðra hrósa þér og ekki þinn eigin munn, óviðkomandi menn, en ekki þínar eigin varir. 27.3 Steinar eru þungir, og sandurinn sígur í, en gremja afglapans er þyngri en hvort tveggja. 27.4 Heiftin er grimm, og reiðin er svæsin, en hver fær staðist öfundina? 27.5 Betri er opinber ofanígjöf en elska sem leynt er. 27.6 Vel meint eru vinar sárin, en viðbjóðslegir kossar hatursmannsins. 27.7 Saddur maður treður hunangsseim undir fótum, en hungruðum manni þykir allt beiskt sætt. 27.8 Eins og fugl, sem floginn er burt úr hreiðri sínu, svo er maður, sem flúinn er burt af heimili sínu. 27.9 Ilmolía og reykelsi gleðja hjartað, en indælli er vinur en ilmandi viður. 27.10 Yfirgef eigi vin þinn né vin föður þíns og gakk eigi í hús bróður þíns á óheilladegi þínum. Betri er nábúi í nánd en bróðir í fjarlægð. 27.11 Vertu vitur, sonur minn, og gleð hjarta mitt, svo að ég geti svarað þeim orði, sem smána mig. 27.12 Vitur maður sér ógæfuna og felur sig, en einfeldningarnir halda áfram og fá að kenna á því. 27.13 Tak þú skikkjuna af þeim manni, sem hefir gengið í ábyrgð fyrir ókunnugan, tak veð af þeim manni, sem hefir gengið í ábyrgð fyrir útlending. 27.14 Hver sem blessar náunga sinn snemma morguns með hárri raustu, það skal metið við hann sem formæling. 27.15 Sífelldur þakleki í rigningatíð og þrasgjörn kona _ er hvað öðru líkt. 27.16 Sá er hana stöðvaði, gæti stöðvað vindinn og haldið olíu í hægri hendi sinni. 27.17 Járn brýnir járn, og maður brýnir mann. 27.18 Sá sem gætir fíkjutrés, mun eta ávöxt þess, og sá sem þjónar húsbónda sínum með virktum, mun heiður hljóta. 27.19 Eins og andlit horfir við andliti í vatni, svo er hjarta eins manns gagnvart öðrum. 27.20 Dánarheimar og undirdjúpin eru óseðjandi, svo eru og augu mannsins óseðjandi. 27.21 Deiglan er fyrir silfrið og bræðsluofninn fyrir gullið, og maðurinn er dæmdur eftir orðstír hans. 27.22 Þótt þú steyttir afglapann í mortéli með stauti innan um grjón, þá mundi fíflska hans ekki við hann skilja. 27.23 Haf nákvæmar gætur á útliti sauða þinna og veit hjörðunum athygli þína. 27.24 Því að auður varir ekki eilíflega, né heldur kóróna frá kyni til kyns. 27.25 Sé heyið komið undan og grængresi komið í ljós, og hafi jurtir fjallanna verið hirtar, 27.26 þá átt þú lömb þér til klæðnaðar og geithafra til þess að kaupa fyrir akur 27.27 og nóga geitamjólk þér til fæðslu, til fæðslu heimili þínu, og til viðurlífis þernum þínum.
28.1 Hinir óguðlegu flýja, þótt enginn elti þá, en hinir réttlátu eru öruggir eins og ungt ljón. 28.2 Þegar land gengur undan drottnara sínum, gjörast þar margir höfðingjar, en meðal skynsamra og hygginna manna mun góð skipan lengi standa. 28.3 Maður sem er fátækur og kúgar snauða, er eins og regn, sem skolar burt korninu, en veitir ekkert brauð. 28.4 Þeir sem yfirgefa lögmálið, hrósa óguðlegum, en þeir sem varðveita lögmálið, eru æfir út af þeim. 28.5 Illmenni skilja ekki hvað rétt er, en þeir sem leita Drottins, skilja allt. 28.6 Betri er fátækur maður, sem framgengur í ráðvendni sinni, heldur en sá, sem beitir undirferli og er þó ríkur. 28.7 Sá sem varðveitir lögmálið, er hygginn sonur, en sá sem leggur lag sitt við óhófsmenn, gjörir föður sínum smán. 28.8 Sá sem eykur auð sinn með fjárleigu og okri, safnar honum handa þeim, sem líknsamur er við fátæka. 28.9 Sá sem snýr eyra sínu frá til þess að heyra ekki lögmálið, _ jafnvel bæn hans er andstyggð. 28.10 Sá sem tælir falslausa menn út á vonda leið, hann fellur sjálfur í gröf sína, en ráðvandir munu hljóta góða arfleifð. 28.11 Ríkur maður þykist vitur, en snauður maður, sem er hygginn, sér við honum. 28.12 Þegar hinir réttlátu fagna, er mikið um dýrðir, en þegar óguðlegir komast upp, fela menn sig. 28.13 Sá sem dylur yfirsjónir sínar, verður ekki lángefinn, en sá sem játar þær og lætur af þeim, mun miskunn hljóta. 28.14 Sæll er sá maður, sem ávallt er var um sig, en sá sem herðir hjarta sitt, fellur í ógæfu. 28.15 Eins og grenjandi ljón og gráðugur björn, svo er óguðlegur drottnari yfir lítilsigldum lýð. 28.16 Höfðingi, sem hefir litlar tekjur, er ríkur að kúgun, sá sem hatar rangfenginn ávinning, mun langlífur verða. 28.17 Sá maður, sem blóðsök hvílir þungt á, er á flótta fram á grafarbarminn; enginn dvelji hann. 28.18 Sá sem breytir ráðvandlega, mun frelsast, en sá sem beitir undirferli, fellur í gryfju. 28.19 Sá sem yrkir land sitt, mettast af brauði, en sá sem sækist eftir hégómlegum hlutum, mettast af fátækt. 28.20 Áreiðanlegur maður blessast ríkulega, en sá sem fljótt vill verða ríkur, sleppur ekki við refsingu. 28.21 Hlutdrægni er ljót, en þó fremja menn ranglæti fyrir einn brauðbita. 28.22 Öfundsjúkur maður flýtir sér að safna auði og veit ekki að örbirgð muni yfir hann koma. 28.23 Sá sem ávítar mann, mun á síðan öðlast meiri hylli heldur er tungumjúkur smjaðrari. 28.24 Sá sem rænir foreldra sína og segir: 'Það er engin synd!' hann er stallbróðir eyðandans. 28.25 Ágjarn maður vekur deilur, en sá sem treystir Drottni, mettast ríkulega. 28.26 Sá sem treystir eigin hyggjuviti, er heimskingi, en sá sem breytir viturlega, mun undan komast. 28.27 Sá sem gefur fátækum, líður engan skort, en þeim sem byrgir augu sín, koma margar óbænir. 28.28 Þegar hinir óguðlegu komast upp, fela menn sig, en þegar þeir tortímast, fjölgar réttlátum.
29.1 Sá sem oftlega hefir ávítaður verið, en þverskallast þó, mun skyndilega knosaður verða, og engin lækning fást. 29.2 Þegar réttlátum fjölgar, gleðst þjóðin, en þegar óguðlegir drottna, andvarpar þjóðin. 29.3 Sá sem elskar visku, gleður föður sinn, en sá sem leggur lag sitt við skækjur, glatar eigum sínum. 29.4 Konungurinn eflir landið með rétti, en sá sem þiggur mútur, eyðir það. 29.5 Sá maður, sem smjaðrar fyrir náunga sínum, hann leggur net fyrir fætur hans. 29.6 Í misgjörð vonds manns er fólgin snara, en réttlátur maður fagnar og gleðst. 29.7 Réttlátur maður kynnir sér málefni hinna lítilmótlegu, en óguðlegur maður hirðir ekkert um að kynna sér það. 29.8 Spottarar æsa upp borgina, en vitrir menn lægja reiðina. 29.9 Þegar vitur maður á í þrætumáli við afglapa, þá reiðist hann og hlær, en hvíld fæst engin. 29.10 Blóðvargarnir hata hinn ráðvanda, en réttvísir menn láta sér annt um líf hans. 29.11 Heimskinginn úthellir allri reiði sinni, en vitur maður sefar hana að lokum. 29.12 Þegar drottnarinn hlýðir á lygaorð, verða allir þjónar hans bófar. 29.13 Fátæklingurinn og kúgarinn mætast, Drottinn ljær ljós augum beggja. 29.14 Sá konungur, sem dæmir hina lítilmótlegu með réttvísi, hásæti hans mun stöðugt standa að eilífu. 29.15 Vöndur og umvöndun veita speki, en agalaus sveinn gjörir móður sinni skömm. 29.16 Þegar óguðlegum fjölgar, fjölgar og misgjörðum, en réttlátir munu horfa á fall þeirra. 29.17 Aga þú son þinn, þá mun hann láta þig hafa ró og veita unað sálu þinni. 29.18 Þar sem engar vitranir eru, kemst fólkið á glapstigu, en sá sem varðveitir lögmálið, er sæll. 29.19 Þræll verður eigi agaður með orðum, því að hann skilur þau að vísu, en fer ekki eftir þeim. 29.20 Sjáir þú mann, sem er fljótfær í orðum, þá er meiri von um heimskingja en hann. 29.21 Dekri maður við þræl sinn frá barnæsku, vill hann að lokum verða ungherra. 29.22 Reiðigjarn maður vekur deilur, og bráðlyndur maður drýgir marga synd. 29.23 Hroki mannsins lægir hann, en hinn lítilláti mun virðing hljóta. 29.24 Þjófsnauturinn hatar líf sitt, hann hlýðir á bölvunina, en segir þó ekki frá. 29.25 Ótti við menn leiðir í snöru, en þeim er borgið, sem treystir Drottni. 29.26 Margir leita hylli drottnarans, en réttur mannsins kemur frá Drottni. 29.27 Andstyggð réttlátra er sá, sem ranglæti fremur, og andstyggð óguðlegra sá, sem ráðvandlega breytir.
30.1 Orð Agúrs Jakesonar. Guðmælið. Maðurinn segir: Ég hefi streitst, ó Guð, ég hefi streitst, ó Guð, og er að þrotum kominn. 30.2 Því að ég er of heimskur til að geta talist maður, og ég hefi eigi mannsvit, 30.3 ég hefi eigi lært speki, svo að ég hafi þekking á Hinum heilaga. 30.4 Hver hefir stigið upp til himna og komið niður? Hver hefir safnað vindinum í greipar sínar? Hver hefir bundið vatnið í skikkju sína? Hver hefir reist öll endimörk jarðar? Hvað heitir hann og hvað heitir sonur hans _ fyrst þú veist það? 30.5 Sérhvert orð Guðs er hreint, hann er skjöldur þeim, er leita hælis hjá honum. 30.6 Bæt engu við orð hans, til þess að hann ávíti þig eigi og þú standir sem lygari. 30.7 Um tvennt bið ég þig, synja mér þess eigi, áður en ég dey: 30.8 Lát fals og lygaorð vera fjarri mér, gef mér hvorki fátækt né auðæfi, en veit mér minn deildan verð. 30.9 Ég kynni annars að verða of saddur og afneita og segja: 'Hver er Drottinn?' eða ef ég yrði fátækur, kynni ég að stela og misbjóða nafni Guðs míns. 30.10 Ræg eigi þjóninn við húsbónda hans, svo að hann biðji þér ekki óbæna og þú verðir að gjalda. 30.11 Til er það kyn, sem bölvar föður sínum og blessar ekki móður sína, 30.12 kyn, sem þykist vera hreint og hefir þó eigi þvegið af sér saurinn 30.13 kyn, sem lyftir hátt augunum og sperrir upp augnahárin, 30.14 kyn, sem hefir sverð að tönnum og hnífa að jöxlum til þess að uppeta hina voluðu úr landinu og hina fátæku burt frá mönnunum. 30.15 Blóðsugan á tvær dætur, sem heita Gefðu! Gefðu! Þrennt er til, sem er óseðjandi, fernt, sem aldrei segir: 'Það er nóg!' _ 30.16 Helja og móðurlíf óbyrjunnar, jörðin, sem aldrei seðst af vatni, og eldurinn, sem aldrei segir: 'Það er nóg!' 30.17 Það auga, sem gjörir gys að föður sínum og fyrirlítur hlýðni við móður sína, mega hrafnarnir við lækinn kroppa út og arnarungarnir eta. 30.18 Þrennt er, sem mér virðist undursamlegt, og fernt, sem ég skil eigi: 30.19 vegur arnarins um loftið, vegur höggormsins yfir klettinn, vegur skipsins um reginhaf og vegur manns hjá konu. 30.20 Þannig er atferli hórkonunnar: Hún neytir, þurrkar sér um munninn og segir: 'Ég hefi ekkert rangt gjört.' 30.21 Undan þrennu nötrar jörðin, og undir fernu getur hún ekki risið: 30.22 undir þræli, þegar hann verður konungur, og guðlausum manni, þegar hann mettast brauði, 30.23 undir smáðri konu, þegar hún giftist, og þernu, þegar hún bolar burt húsmóður sinni. 30.24 Fjórir eru smáir á jörðinni, og þó eru þeir vitrir spekingar: 30.25 Maurarnir eru kraftlítil þjóð, og þó afla þeir sér fæðunnar á sumrin. 30.26 Stökkhérarnir eru þróttlítil þjóð, og þó gjöra þeir sér híbýli í klettunum. 30.27 Engispretturnar hafa engan konung, og þó fer allur hópurinn út í röð og reglu. 30.28 Ferfætlunni getur þú náð með tómum höndunum, og þó er hún í konungahöllum. 30.29 Þrír eru þeir, sem tigulegir eru á velli, og fjórir, sem tigulegir eru í gangi: 30.30 ljónið, hetjan meðal dýranna, er eigi hopar fyrir neinni skepnu, 30.31 lendgyrtur hesturinn og geithafurinn og konungur, er enginn fær móti staðið. 30.32 Hafir þú heimskast til að upphefja sjálfan þig, eða hafir þú gjört það af ásettu ráði, þá legg höndina á munninn! 30.33 Því að þrýstingur á mjólk framleiðir smjör, og þrýstingur á nasir framleiðir blóð, og þrýstingur á reiði framleiðir deilu.
31.1 Orð Lemúels konungs í Massa, er móðir hans kenndi honum. 31.2 Hvað á ég að segja þér, sonur minn? og hvað, sonur kviðar míns? og hvað, sonur áheita minna? 31.3 Gef ekki konum kraft þinn, né ástarhót þín þeim er spilla konungum. 31.4 Ekki sæmir konungum, Lemúel, ekki sæmir konungum að drekka vín, né höfðingjum áfengur drykkur. 31.5 Þeir kynnu að drekka og gleyma lögunum og rangfæra málefni allra aumra manna. 31.6 Gefið áfengan drykk þeim, sem kominn er í örþrot, og vín þeim, sem sorgbitnir eru. 31.7 Drekki hann og gleymi fátækt sinni og minnist ekki framar mæðu sinnar. 31.8 Ljúk þú upp munni þínum fyrir hinn mállausa, fyrir málefni allra þeirra manna, sem eru að örmagnast. 31.9 Ljúk þú upp munni þínum, dæm með réttvísi og rétt þú hlut hinna voluðu og snauðu. 31.10 Væna konu, hver hlýtur hana? hún er miklu meira virði en perlur. 31.11 Hjarta manns hennar treystir henni, og ekki vantar að honum fénist. 31.12 Hún gjörir honum gott og ekkert illt alla ævidaga sína. 31.13 Hún sér um ull og hör og vinnur fúslega með höndum sínum. 31.14 Hún er eins og kaupförin, sækir björgina langt að. 31.15 Hún fer á fætur fyrir dag, skammtar heimilisfólki sínu og segir þernum sínum fyrir verkum. 31.16 Hún hefir augastað á akri og kaupir hann, af ávexti handa sinna plantar hún víngarð. 31.17 Hún gyrðir lendar sínar krafti og tekur sterklega til armleggjunum. 31.18 Hún finnur, að atvinna hennar er arðsöm, á lampa hennar slokknar eigi um nætur. 31.19 Hún réttir út hendurnar eftir rokknum, og fingur hennar grípa snælduna. 31.20 Hún breiðir út lófann móti hinum bágstadda og réttir út hendurnar móti hinum snauða. 31.21 Hún er ekki hrædd um heimilisfólk sitt, þótt snjói, því að allt heimilisfólk hennar er klætt skarlati. 31.22 Hún býr sér til ábreiður, klæðnaður hennar er úr baðmull og purpura. 31.23 Maður hennar er mikils metinn í borgarhliðunum, þá er hann situr með öldungum landsins. 31.24 Hún býr til skyrtur og selur þær, og kaupmanninum fær hún belti. 31.25 Kraftur og tign er klæðnaður hennar, og hún hlær að komandi degi. 31.26 Hún opnar munninn með speki, og ástúðleg fræðsla er á tungu hennar. 31.27 Hún vakir yfir því, sem fram fer á heimili hennar, og etur ekki letinnar brauð. 31.28 Synir hennar ganga fram og segja hana sæla, maður hennar gengur fram og hrósar henni: 31.29 'Margar konur hafa sýnt dugnað, en þú tekur þeim öllum fram!' 31.30 Yndisþokkinn er svikull og fríðleikinn hverfull, en sú kona, sem óttast Drottin, á hrós skilið.
1.1 Orð prédikarans, sonar Davíðs, konungs í Jerúsalem. 1.2 Aumasti hégómi, segir prédikarinn, aumasti hégómi, allt er hégómi! 1.3 Hvaða ávinning hefir maðurinn af öllu striti sínu, er hann streitist við undir sólinni? 1.4 Ein kynslóðin fer og önnur kemur, en jörðin stendur að eilífu. 1.5 Og sólin rennur upp, og sólin gengur undir og hraðar sér til samastaðar síns, þar sem hún rennur upp. 1.6 Vindurinn gengur til suðurs og snýr sér til norðurs, hann snýr sér og snýr sér og fer aftur að hringsnúast á nýjan leik. 1.7 Allar ár renna í sjóinn, en sjórinn verður aldrei fullur, þangað sem árnar renna, þangað halda þær ávallt áfram að renna. 1.8 Allt er sístritandi, enginn maður fær því með orðum lýst, augað verður aldrei satt af að sjá, og eyrað verður aldrei mett af að heyra. 1.9 Það sem hefir verið, það mun verða, og það sem gjörst hefir, það mun gjörast, og ekkert er nýtt undir sólinni. 1.10 Sé nokkuð til, er um verði sagt: sjá, þetta er nýtt _ þá hefir það orðið fyrir löngu, á tímum sem á undan oss voru. 1.11 Forfeðranna minnast menn eigi, og ekki verður heldur eftirkomendanna, sem síðar verða uppi, minnst meðal þeirra, sem síðar verða. 1.12 Ég, prédikarinn, var konungur yfir Ísrael í Jerúsalem. 1.13 Ég lagði allan hug á að rannsaka og kynna mér með hyggni allt það, er gjörist undir himninum: Það er leiða þrautin, sem Guð hefir fengið mönnunum að þreyta sig á. 1.14 Ég hefi séð öll verk, sem gjörast undir sólinni, og sjá: Allt var hégómi og eftirsókn eftir vindi. 1.15 Hið bogna getur ekki orðið beint, og það sem skortir verður eigi talið. 1.16 Ég hugsaði með sjálfum mér: Sjá, ég hefi aflað mér meiri og víðtækari speki en allir þeir, er ríkt hafa yfir Jerúsalem á undan mér, og hjarta mitt hefir litið speki og þekkingu í ríkum mæli. 1.17 Og er ég lagði allan hug á að þekkja speki og að þekkja flónsku og heimsku, þá komst ég að raun um, að einnig það var að sækjast eftir vindi. 1.18 Því að mikilli speki er samfara mikil gremja, og sá sem eykur þekking sína, eykur kvöl sína.
2.1 Ég sagði við sjálfan mig: Jæja þá, reyndu gleðina og njóttu gæða lífsins! En sjá, einnig það er hégómi. 2.2 Um hláturinn sagði ég: hann er vitlaus! og um gleðina: hverju fær hún til vegar komið? 2.3 Mér kom til hugar að gæða líkama mínum á víni _ en hjarta mitt skyldi stjórna öllu viturlega _ og að halda fast við heimskuna, uns ég sæi, hvað gott væri fyrir mennina að gjöra undir himninum alla ævidaga þeirra. 2.4 Ég gjörði stórvirki: Ég reisti mér hús, ég plantaði mér víngarða, 2.5 ég gjörði mér jurtagarða og aldingarða og gróðursetti þar alls konar aldintré, 2.6 ég bjó mér til vatnstjarnir til þess að vökva með vaxandi viðarskóg, 2.7 ég keypti þræla og ambáttir, og ég átti heimafædd hjú. Ég átti og meiri hjarðir nauta og sauða en allir þeir, sem verið höfðu á undan mér í Jerúsalem. 2.8 Ég safnaði mér og silfri og gulli og fjársjóðum frá konungum og löndum, ég fékk mér söngmenn og söngkonur og það sem er yndi karlmannanna: fjölda kvenna. 2.9 Og ég varð mikill og meiri öllum þeim, er verið höfðu í Jerúsalem á undan mér. Einnig speki mín var kyrr hjá mér. 2.10 Og allt það sem augu mín girntust, það lét ég eftir þeim. Ég neitaði ekki hjarta mínu um nokkra gleði, því að hjarta mitt hafði ánægju af allri fyrirhöfn minni, og þetta var hlutdeild mín af allri fyrirhöfn minni. 2.11 En er ég leit á öll verk mín, þau er hendur mínar höfðu unnið, og á þá fyrirhöfn, er ég hafði haft fyrir að gjöra þau, þá sá ég, að allt var hégómi og eftirsókn eftir vindi, og að enginn ávinningur er til undir sólinni. 2.12 Ég sneri mér að því að virða fyrir mér speki og flónsku og heimsku, _ því að hvað mun sá maður gjöra, er kemur eftir konunginn? Hann gjörir það sem menn hafa gjört fyrir löngu. _ 2.13 Þá sá ég, að spekin hefir yfirburði yfir heimskuna eins og ljósið hefir yfirburði yfir myrkrið. 2.14 Vitur maður hefir augun í höfðinu, en heimskinginn gengur í myrkri. Jafnframt tók ég eftir því, að eitt og hið sama kemur fram við alla. 2.15 Og ég sagði við sjálfan mig: Hið sama sem kemur fram við heimskingjann, það kemur og fram við mig, og til hvers hefi ég þá orðið svo frábærlega vitur? Þá hugsaði ég í hjarta mínu, að einnig það væri hégómi. 2.16 Því að menn minnast ekki hins vitra að eilífu, frekar en heimskingjans, því að allir verða þeir löngu gleymdir á komandi tímum, og deyr ekki jafnt vitur sem heimskur? 2.17 Þá varð mér illa við lífið, því að mér mislíkaði það, er gjörist undir sólinni, því að allt er hégómi og eftirsókn eftir vindi. 2.18 Og mér varð illa við allt mitt strit, er ég streittist við undir sólinni, með því að ég verð að eftirskilja það þeim manni, er kemur eftir mig. 2.19 Og hver veit, hvort hann verður spekingur eða heimskingi? Og þó á hann að ráða yfir öllu striti mínu, er ég hefi streitst við og viturlega með farið undir sólinni _ einnig það er hégómi. 2.20 Þá hvarf ég að því að láta hjarta mitt örvænta yfir allri þeirri mæðu, er ég hafði átt í undir sólinni. 2.21 Því að hafi einhver unnið starf sitt með hyggindum, þekking og dugnaði, verður hann að selja það öðrum í hendur til eignar, sem ekkert hefir fyrir því haft. Einnig það er hégómi og mikið böl. 2.22 Hvað fær þá maðurinn fyrir allt strit sitt og ástundun hjarta síns, er hann mæðist í undir sólinni? 2.23 Því að allir dagar hans eru kvöl, og starf hans er armæða. Jafnvel á næturnar fær hjarta hans eigi hvíld. Einnig þetta er hégómi. 2.24 Það er ekkert betra til með mönnum en að eta og drekka og láta sálu sína njóta fagnaðar af striti sínu. En það hefi ég séð, að einnig þetta kemur af Guðs hendi. 2.25 Því að hver má eta eða neyta nokkurs án hans? 2.26 Því að þeim manni, sem honum geðjast, gefur hann visku, þekking og gleði, en syndaranum fær hann það starf að safna og hrúga saman til þess að selja það þeim í hendur, er Guði geðjast. Einnig það er hégómi og eftirsókn eftir vindi.
3.1 Öllu er afmörkuð stund, og sérhver hlutur undir himninum hefir sinn tíma. 3.2 Að fæðast hefir sinn tíma og að deyja hefir sinn tíma, að gróðursetja hefir sinn tíma og að rífa það upp, sem gróðursett hefir verið, hefir sinn tíma, 3.3 að deyða hefir sinn tíma og að lækna hefir sinn tíma, að rífa niður hefir sinn tíma og að byggja upp hefir sinn tíma, 3.4 að gráta hefir sinn tíma og að hlæja hefir sinn tíma, að kveina hefir sinn tíma og að dansa hefir sinn tíma, 3.5 að kasta steinum hefir sinn tíma og að tína saman steina hefir sinn tíma, að faðmast hefir sinn tíma og að halda sér frá faðmlögum hefir sinn tíma, 3.6 að leita hefir sinn tíma og að týna hefir sinn tíma, að geyma hefir sinn tíma og að fleygja hefir sinn tíma, 3.7 að rífa sundur hefir sinn tíma og að sauma saman hefir sinn tíma, að þegja hefir sinn tíma og að tala hefir sinn tíma, 3.8 að elska hefir sinn tíma og að hata hefir sinn tíma, ófriður hefir sinn tíma, og friður hefir sinn tíma. 3.9 Hvern ávinning hefir starfandinn af öllu striti sínu? 3.10 Ég virti fyrir mér þá þraut, sem Guð hefir fengið mönnunum að þreyta sig á. 3.11 Allt hefir hann gjört hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefir hann lagt í brjóst þeirra, aðeins fær maðurinn ekki skilið það verk, sem Guð gjörir, frá upphafi til enda. 3.12 Ég komst að raun um, að ekkert er betra með þeim en að vera glaður og gæða sér meðan ævin endist. 3.13 En það, að maður etur og drekkur og nýtur fagnaðar af öllu striti sínu, einnig það er Guðs gjöf. 3.14 Ég komst að raun um, að allt, sem Guð gjörir, stendur að eilífu, við það er engu að bæta, og af því verður ekkert tekið. Guð hefir gjört það svo, til þess að menn óttuðust hann. 3.15 Það sem er, var fyrir löngu, og það sem mun verða, hefir verið fyrir löngu, og Guð leitar aftur hins liðna. 3.16 Og enn fremur sá ég undir sólinni: Þar sem rétturinn átti að vera, þar var ranglæti, og þar sem réttlætið átti að vera, þar var ranglæti. 3.17 Ég sagði við sjálfan mig: Hinn ráðvanda og hinn óguðlega mun Guð dæma, því að hann hefir sett tíma öllum hlutum og öllum gjörðum. 3.18 Ég sagði við sjálfan mig: Það er mannanna vegna, til þess að Guð geti reynt þá, og til þess að þeir sjái, að þeir eru sjálfir ekki annað en skepnur. 3.19 Því að örlög mannanna og örlög skepnunnar _ örlög þeirra eru hin sömu: Eins og skepnan deyr, svo deyr og maðurinn, og allt hefir sama andann, og yfirburði hefir maðurinn enga fram yfir skepnuna, því að allt er hégómi. 3.20 Allt fer sömu leiðina: Allt er af moldu komið, og allt hverfur aftur til moldar. 3.21 Hver veit, hvort andi mannanna fer upp á við, en andi skepnunnar niður á við til jarðar? 3.22 Þannig sá ég, að ekkert betra er til en að maðurinn gleðji sig við verk sín, því að það er hlutdeild hans. Því að hver kemur honum svo langt, að hann sjái það sem verður eftir hans dag?
4.1 Og enn sá ég alla þá kúgun, sem viðgengst undir sólinni: Þarna streyma tár hinna undirokuðu, en enginn huggar þá. Af hendi kúgara sinna sæta þeir ofbeldi, en enginn huggar þá. 4.2 Þá taldi ég hina framliðnu sæla, þá er fyrir löngu eru dánir, í samanburði við hina lifandi, þá er enn eru á lífi, 4.3 en sælli en þessa hvora tveggja þann, sem enn er ekki til orðinn og ekki hefir séð þau vondu verk, sem framin eru undir sólinni. 4.4 Og ég sá, að allt strit og dugnaður í framkvæmdum er ekki annað en öfund eins við annan. Einnig það er hégómi og eftirsókn eftir vindi. 4.5 Heimskinginn spennir greipar og etur sitt eigið hold. 4.6 Betri er hnefafylli af ró en báðar hendur fullar af striti og eftirsókn eftir vindi. 4.7 Og enn sá ég hégóma undir sólinni: 4.8 Maður stendur einn og enginn annar með honum, hann á hvorki son né bróður, og þó er enginn endir á öllu striti hans, og augu hans mettast ekki á auðlegð. En fyrir hvern er ég þá að stritast og fyrir hvern læt ég þá sál mína fara góðs á mis? Einnig þetta er hégómi og leið þraut. 4.9 Betri eru tveir en einn, með því að þeir hafa góð laun fyrir strit sitt. 4.10 Því að falli annar þeirra, þá getur hinn reist félaga sinn á fætur, en vei einstæðingnum, sem fellur og enginn annar er til að reisa á fætur. 4.11 Sömuleiðis ef tveir sofa saman, þá er þeim heitt, en sá sem er einn, hvernig getur honum hitnað? 4.12 Og ef einhver ræðst á þann sem er einn, þá munu tveir geta veitt honum mótstöðu, og þrefaldan þráð er eigi auðvelt að slíta. 4.13 Betri er fátækur unglingur, sé hann vitur, heldur en gamall konungur, sé hann heimskur og þýðist eigi framar viðvaranir. 4.14 Því að hann gekk út úr dýflissunni og varð konungur, þótt hann hefði fæðst snauður í ríki annars. 4.15 Ég sá alla lifandi menn, þá er gengu undir sólinni, vera á bandi unglingsins, hins annars, þess er koma átti í hins stað. 4.16 Enginn endir var á öllu því fólki, á öllum þeim, er hann var fyrir. Þó glöddust eftirkomendurnir ekki yfir honum. Því að einnig það er hégómi og eftirsókn eftir vindi. 4.17 Haf gát á fæti þínum þegar þú gengur í Guðs hús, því að það er betra að koma þangað til þess að heyra, heldur en að heimskingjar færi sláturfórn; því að þeir vita ekkert og gjöra það sem illt er.
5.1 Vertu ekki of munnhvatur, og hjarta þitt hraði sér ekki að mæla orð frammi fyrir Guði, því að Guð er á himnum, en þú á jörðu, ver því eigi margorður. 5.2 Því að draumar koma, þar sem áhyggjurnar eru miklar, og heimskutal, þar sem mörg orð eru viðhöfð. 5.3 Þegar þú gjörir Guði heit, þá fresta þú eigi að efna það, því að hann hefir eigi velþóknun á heimskingjum. Efn það er þú heitir. 5.4 Betra er að þú heitir engu en að þú heitir og efnir ekki. 5.5 Leyf eigi munni þínum að baka líkama þínum sekt og seg eigi við sendiboðann: Það var fljótfærni! Hvers vegna á Guð að reiðast tali þínu og skemma verk handa þinna? 5.6 Því að þar sem mikið er um drauma og orð, þar er og mikill hégómi. Óttastu heldur Guð! 5.7 Sjáir þú hinn snauða undirokaðan og að rétti og réttlæti er rænt í héraðinu, þá furða þú þig ekki á því athæfi, því að hár vakir yfir háum og hinn hæsti yfir þeim öllum. 5.8 Konungur, sem gefinn er fyrir jarðyrkju, er í alla staði ávinningur fyrir land. 5.9 Sá sem elskar peninga, verður aldrei saddur af peningum, og sá sem elskar auðinn, hefir ekki gagn af honum. Einnig það er hégómi. 5.10 Þar sem eigurnar vaxa, þar fjölgar og þeim er eyða þeim, og hvaða ábata hefir eigandinn af þeim annan en að horfa á þær? 5.11 Sætur er svefninn þeim sem erfiðar, hvort sem hann etur lítið eða mikið, en offylli hins auðuga lætur hann eigi hafa frið til að sofa. 5.12 Til er slæmt böl, sem ég hefi séð undir sólinni: auður sem eigandinn varðveitir sjálfum sér til ógæfu. 5.13 Missist þessi auður fyrir slys, og hafi eigandinn eignast son, þá verður ekkert til handa honum. 5.14 Eins og hann kom af móðurlífi, svo mun hann nakinn fara burt aftur eins og hann kom, og hann mun ekkert á burt hafa fyrir strit sitt, það er hann taki með sér í hendi sér. 5.15 Einnig það er slæmt böl: Með öllu svo sem hann kom mun hann aftur fara, og hvaða ávinning hefir hann af því, að hann stritar út í veður og vind? 5.16 Auk þess elur hann allan aldur sinn í myrkri og við sorg og mikla gremju og þjáning og reiði. 5.17 Sjá, það sem ég hefi séð, að er gott og fagurt, það er, að maðurinn eti og drekki og njóti fagnaðar af öllu striti sínu, því er hann streitist við undir sólinni alla ævidaga sína, þá er Guð gefur honum, því að það er hlutdeild hans. 5.18 Og þegar Guð gefur einhverjum manni ríkidæmi og auðæfi og gjörir hann færan um að njóta þess og taka hlutdeild sína og að gleðjast yfir starfi sínu, þá er og það Guðs gjöf. 5.19 Því að slíkur maður hugsar ekki mikið um ævidaga lífs síns, meðan Guð lætur hann hafa nóg að sýsla við fögnuð hjarta síns.
6.1 Til er böl, sem ég hefi séð undir sólinni, og það liggur þungt á mönnunum: 6.2 Þegar Guð gefur einhverjum manni ríkidæmi, auðæfi og heiður, svo að hann skortir ekkert af því er hann girnist, en Guð gjörir hann ekki færan um að njóta þess, heldur nýtur annar maður þess _ það er hégómi og vond þjáning. 6.3 Þótt einhver eignaðist hundrað börn og lifði mörg ár, og ævidagar hans yrðu margir, en sál hans mettaðist ekki af gæðum og hann fengi heldur enga greftrun, þá segi ég: Ótímaburðurinn er sælli en hann. 6.4 Því að hann er kominn í hégóma og fer burt í myrkur, og nafn hans er myrkri hulið. 6.5 Hann hefir ekki heldur séð sólina né þekkt hana, hann hefir meiri ró en hinn. 6.6 Og þótt hann lifi tvenn þúsund ár, en njóti einskis fagnaðar, fer ekki allt sömu leiðina? 6.7 Allt strit mannsins er fyrir munn hans, og þó seðst girndin aldrei. 6.8 Því að hvaða yfirburði hefir spekingurinn fram yfir heimskingjann? hvaða yfirburði hinn snauði, er kann að ganga frammi fyrir þeim sem lifa? 6.9 Betri er sjón augnanna en reik girndarinnar. Einnig það er hégómi og eftirsókn eftir vindi. 6.10 Það sem við ber, hefir fyrir löngu hlotið nafn sitt, og það er ákveðið, hvað menn eiga að verða, og maðurinn getur ekki deilt við þann sem honum er máttkari. 6.11 Og þótt til séu mörg orð, sem auka hégómann _ hvað er maðurinn að bættari? 6.12 Því að hver veit, hvað gott er fyrir manninn í lífinu, alla daga hans fánýta lífs, er hann lifir sem skuggi? Því að hver segir manninum, hvað bera muni við eftir hans dag undir sólinni?
7.1 Betra er gott mannorð en góð ilmsmyrsl og dauðadagur betri en fæðingardagur. 7.2 Betra er að ganga í sorgarhús en að ganga í veislusal, því að það eru endalok sérhvers manns, og sá sem lifir, hugfestir það. 7.3 Betri er hryggð en hlátur, því að þegar andlitið er dapurt, líður hjartanu vel. 7.4 Hjarta spekinganna er í sorgarhúsi, en hjarta heimskingjanna í gleðihúsi. 7.5 Betra er að hlýða á ávítur viturs manns en á söng heimskra manna. 7.6 Því að hlátur heimskingjans er eins og þegar snarkar í þyrnum undir potti. Einnig það er hégómi. 7.7 Kúgun gjörir vitran mann að heimskingja, og mútur spilla hjartanu. 7.8 Betri er endir máls en upphaf, betri er þolinmóður maður en þóttafullur. 7.9 Ver þú eigi fljótur til að láta þér gremjast, því að gremja hvílir í brjósti heimskra manna. 7.10 Seg ekki: Hvernig stendur á því, að hinir fyrri dagar voru betri en þessir? Því að eigi er það af skynsemi, að þú spyr um það. 7.11 Speki er eins góð og óðal, og ávinningur fyrir þá sem sólina líta. 7.12 Því að spekin veitir forsælu eins og silfrið veitir forsælu, en yfirburðir þekkingarinnar eru þeir, að spekin heldur lífinu í þeim sem hana á. 7.13 Skoða þú verk Guðs. Hver getur gjört það beint, er hann hefir gjört bogið? 7.14 Ver þú í góðu skapi á hinum góða degi, og hugleið þetta á hinum vonda degi: Guð hefir gjört þennan alveg eins og hinn, til þess að maðurinn verði einskis vísari um það sem síðar kemur. 7.15 Allt hefi ég séð á mínum fánýtu ævidögum: Margur réttlátur maður ferst í réttlæti sínu, og margur guðlaus maður lifir lengi í illsku sinni. 7.16 Ver þú ekki of réttlátur og sýn þig ekki frábærlega vitran _ hví vilt þú tortíma sjálfum þér? 7.17 Breyttu eigi of óguðlega og ver þú eigi heimskingi _ hví vilt þú deyja áður en þinn tími er kominn? 7.18 Það er gott, að þú sért fastheldinn við þetta, en sleppir þó ekki hendinni af hinu, því að sá sem óttast Guð, kemst hjá því öllu. 7.19 Spekin veitir vitrum manni meiri kraft en tíu valdhafar, sem eru í borginni. 7.20 Enginn réttlátur maður er til á jörðinni, er gjört hafi gott eitt og aldrei syndgað. 7.21 Gef þú heldur ekki gaum öllum þeim orðum sem töluð eru, til þess að þú heyrir eigi þjón þinn bölva þér. 7.22 Því að þú ert þér þess meðvitandi, að þú hefir og sjálfur oftsinnis bölvað öðrum. 7.23 Allt þetta hefi ég rannsakað með speki. Ég hugsaði: Ég vil verða vitur, en spekin er fjarlæg mér. 7.24 Fjarlægt er það, sem er, og djúpt, já djúpt. Hver getur fundið það? 7.25 Ég sneri mér og beindi huga mínum að því að þekkja og rannsaka og leita visku og hygginda og að gera mér ljóst, að guðleysi er heimska og heimska vitleysa. 7.26 Og ég fann að konan er bitrari en dauðinn, því að hún er net og hjarta hennar snara, hendur hennar fjötrar. Sá sem Guði þóknast, kemst undan henni, en syndarinn verður fanginn af henni. 7.27 Sjá, þetta hefi ég fundið, segir prédikarinn, með því að leggja eitt við annað til þess að komast að hyggindum. 7.28 Það sem ég hefi stöðugt leitað að, en ekki fundið, það er þetta: Einn mann af þúsundi hefi ég fundið, en konu á meðal allra þessara hefi ég ekki fundið. 7.29 Sjá, þetta eitt hefi ég fundið, að Guð hefir skapað manninn beinan, en þeir leita margra bragða.
8.1 Hver er sem spekingurinn og hver skilur þýðingu hlutanna? Speki mannsins hýrgar andlit hans, og harkan í svipnum breytist. 8.2 Ég segi: Varðveit þú boð konungsins, og það vegna eiðsins við Guð. 8.3 Ver þú eigi fljótur til að ganga burt frá honum, gef þig eigi við illu málefni. Því að hann gjörir allt, sem hann vill, 8.4 af því að konungsorð er máttugt, og hver segir við hann: Hvað gjörir þú? 8.5 Sá sem varðveitir skipunina, mun ekki kenna á neinu illu, og hjarta viturs manns þekkir tíma og dóm. 8.6 Því að sérhvert fyrirtæki á sinn tíma og dóm, því að böl mannsins hvílir þungt á honum. 8.7 Hann veit ekki, hvað verða muni, því að hver segir honum, hvernig það muni verða? 8.8 Enginn maður ræður yfir vindinum, svo að hann geti stöðvað vindinn, og enginn maður hefir vald yfir dauðadeginum, og enginn fær sig lausan úr bardaganum, og óhæfan bjargar ekki þeim, er hana fremur. 8.9 Allt þetta hefi ég séð, og það með því að ég veitti athygli öllu því, sem gjörist undir sólinni, þegar einn maðurinn drottnar yfir öðrum honum til ógæfu. 8.10 Þá hefi ég séð óguðlega menn jarðaða, en þeir er gjört höfðu það sem rétt var, máttu fara burt frá hinum heilaga stað og gleymdust í borginni. Einnig það er hégómi. 8.11 Af því að dómi yfir verkum illskunnar er ekki fullnægt þegar í stað, þá svellur mönnum móður til þess að gjöra það sem illt er. 8.12 Syndarinn gjörir það sem illt er hundrað sinnum og verður samt gamall, þótt ég hins vegar viti, að guðhræddum mönnum, er óttast Guð, muni vel vegna. 8.13 En hinum guðlausa mun ekki vel vegna, og hann mun ekki verða langlífur fremur en skugginn, af því að hann óttast ekki Guð. 8.14 Það er hégómi, sem gjörist á jörðinni, að til eru réttlátir menn, sem verða fyrir því, er óguðlegir eiga skilið, og til eru óguðlegir menn, sem verða fyrir því, er réttlátir eiga skilið. Ég sagði: Einnig það er hégómi. 8.15 Fyrir því lofaði ég gleðina, því að ekkert betra er til fyrir manninn undir sólinni en að eta og drekka og vera glaður. Og það fylgi honum í striti hans um ævidagana, sem Guð hefir gefið honum undir sólinni. 8.16 Þegar ég lagði allan hug á að kynna mér speki og að sjá það starf, sem framið er á jörðinni _ því að hvorki dag né nótt kemur manni blundur á auga _ 8.17 þá sá ég, að maðurinn getur ekki skilið til fulls allt Guðs verk, það verk sem gjörist undir sólinni, því að hversu mjög sem maðurinn gjörir sér far um að leita, fær hann þó ekki skilið það til fulls, og enda þótt spekingurinn hyggist að þekkja það, þá fær hann eigi skilið það til fulls.
9.1 Öllu þessu veitti ég athygli, og allt þetta reyndi ég að rannsaka: Að hinir réttlátu og vitru og verk þeirra eru í hendi Guðs. Hvorki elsku né hatur veit maðurinn fyrir, allt liggur fram undan þeim. 9.2 Allt getur alla hent, sömu örlög mæta réttlátum og óguðlegum, góðum og hreinum og óhreinum, þeim er fórnfærir og þeim er ekki fórnfærir. Hinum góða farnast eins og syndaranum, og þeim er sver eins og þeim er óttast svardaga. 9.3 Það er ókostur við allt, sem við ber undir sólinni, að sömu örlög mæta öllum, og því fyllist hjarta mannanna illsku, og heimska ríkir í hjörtum þeirra alla ævi þeirra, og síðan liggur leiðin til hinna dauðu. 9.4 Því að meðan maður er sameinaður öllum sem lifa, á meðan er von, því að lifandi hundur er betri en dautt ljón. 9.5 Því að þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt og hljóta engin laun framar, því að minning þeirra gleymist. 9.6 Bæði elska þeirra og hatur og öfund, það er fyrir löngu farið, og þeir eiga aldrei framar hlutdeild í neinu því, sem við ber undir sólinni. 9.7 Far því og et brauð þitt með ánægju og drekk vín þitt með glöðu hjarta, því að Guð hefir þegar lengi haft velþóknun á verkum þínum. 9.8 Klæði þín séu ætíð hvít og höfuð þitt skorti aldrei ilmsmyrsl. 9.9 Njót þú lífsins með þeirri konu, sem þú elskar, alla daga þíns fánýta lífs, sem hann hefir gefið þér undir sólinni, alla þína fánýtu daga, því að það er hlutdeild þín í lífinu og það sem þú fær fyrir strit þitt, sem þú streitist við undir sólinni. 9.10 Allt, sem hönd þín megnar að gjöra með kröftum þínum, gjör þú það, því að í dánarheimum, þangað sem þú fer, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska. 9.11 Enn sá ég undir sólinni, að hinir fljótu ráða ekki yfir hlaupinu, né kapparnir yfir stríðinu, né heldur spekingarnir yfir brauðinu, né hinir hyggnu yfir auðnum, né vitsmunamennirnir yfir vinsældinni, því að tími og tilviljun mætir þeim öllum. 9.12 Því að maðurinn þekkir ekki einu sinni sinn tíma: Eins og fiskarnir festast í hinu háskalega neti og eins og fuglarnir festast í snörunni _ á líkan hátt verða mennirnir fangnir á óheillatíð, þá er hún kemur skyndilega yfir þá. 9.13 Þetta sá ég einnig sem speki undir sólinni, og fannst mér mikið um: 9.14 Einu sinni var lítil borg og fáir menn í henni. Voldugur konungur fór í móti henni og settist um hana og reisti mikil hervirki gegn henni. 9.15 En í borginni var fátækur maður, en vitur, og hann bjargaði borginni með viturleik sínum. En enginn maður minntist þessa fátæka manns. 9.16 Þá hugsaði ég: Viska er betri en afl, en viska fátæks manns er fyrirlitin, og orðum hans er eigi gaumur gefinn. 9.17 Orð viturra manna, sem hlustað er á í ró, eru betri en óp valdhafans meðal heimskingjanna. 9.18 Viska er betri en hervopn, en einn syndari spillir mörgu góðu.
10.1 Dauðar flugur valda ódaun með því að hleypa ólgu í olíu smyrslarans. Ofurlítill aulaskapur er þyngri á metunum heldur en viska, heldur en sómi. 10.2 Hjarta viturs manns stefnir á heillabraut, en hjarta heimskingjans leiðir hann í ógæfu. 10.3 Og þegar aulinn er kominn út á veginn, brestur og á vitið, og hann segir við hvern mann, að hann sé auli. 10.4 Ef reiði drottnarans rís í gegn þér, þá yfirgef ekki stöðu þína, því að stilling afstýrir stórum glappaskotum. 10.5 Til er böl, sem ég hefi séð undir sólinni, nokkurs konar yfirsjón af hálfu valdhafans: 10.6 Heimskan er sett í háu stöðurnar, en göfugmennin sitja í niðurlægingu. 10.7 Ég sá þræla ríðandi hestum og höfðingja fótgangandi eins og þræla. 10.8 Sá sem grefur gröf, getur fallið í hana, og þann sem rífur niður vegg, getur höggormur bitið. 10.9 Sá sem sprengir steina, getur meitt sig á þeim, sá sem klýfur við, getur með því stofnað sér í hættu. 10.10 Ef öxin er orðin sljó og eggin er ekki brýnd, þá verður maðurinn að neyta því meiri orku. Það er ávinningur að undirbúa sérhvað með hagsýni. 10.11 Ef höggormurinn bítur, af því að særingar hafa verið vanræktar, þá kemur særingamaðurinn að engu liði. 10.12 Orð af munni viturs manns eru yndisleg, en varir heimskingjans vinna honum tjón. 10.13 Fyrstu orðin fram úr honum eru heimska, og endir ræðu hans er ill flónska. 10.14 Heimskinginn talar mörg orð. Og þó veit maðurinn ekki, hvað verða muni. Og hvað verða muni eftir hans dag _ hver segir honum það? 10.15 Amstur heimskingjans þreytir hann, hann ratar ekki veginn inn í borgina. 10.16 Vei þér, land, sem hefir dreng að konungi og höfðingjar þínir setjast að áti að morgni dags! 10.17 Sælt ert þú, land, sem hefir eðalborinn mann að konungi og höfðingjar þínir eta á réttum tíma, sér til styrkingar, en ekki til þess að verða drukknir. 10.18 Fyrir leti síga bjálkarnir niður, og vegna iðjulausra handa lekur húsið. 10.19 Til gleðskapar búa menn máltíðir, og vín gjörir lífið skemmtilegt og peningarnir veita allt. 10.20 Formæl ekki konunginum, jafnvel ekki í huga þínum, og formæl ekki ríkum manni í svefnherbergjum þínum, því að fuglar loftsins kynnu að bera burt hljóðið og hinir vængjuðu að hafa orðin eftir.
11.1 Varpa þú brauði þínu út á vatnið, því þegar margir dagar eru um liðnir, munt þú finna það aftur. 11.2 Skiptu hlutanum sundur í sjö eða jafnvel átta, því að þú veist ekki, hvaða ógæfa muni koma yfir landið. 11.3 Þegar skýin eru orðin full af vatni, hella þau regni yfir jörðina. Og þegar tré fellur til suðurs eða norðurs _ á þeim stað, þar sem tréð fellur, þar liggur það kyrrt. 11.4 Sá sem sífellt gáir að vindinum, sáir ekki, og sá sem sífellt horfir á skýin, uppsker ekki. 11.5 Eins og þú veist ekki, hvaða veg vindurinn fer og hvernig beinin myndast í móðurkviði þungaðrar konu, eins þekkir þú heldur ekki verk Guðs, sem allt gjörir. 11.6 Sá sæði þínu að morgni og lát hendur þínar eigi hvílast að kveldi, því að þú veist ekki, hvað muni heppnast, þetta eða hitt, eða hvort tveggja verði gott. 11.7 Indælt er ljósið, og ljúft er fyrir augun að horfa á sólina. 11.8 Því lifi maðurinn mörg ár, þá á hann að vera glaður öll þau ár og minnast þess, að dagar myrkursins verða margir. Allt sem á eftir kemur er hégómi. 11.9 Gleð þig, ungi maður, í æsku þinni, og lát liggja vel á þér unglingsár þín, og breyt þú eins og hjartað leiðir þig og eins og augun girnast, en vit, að fyrir allt þetta leiðir Guð þig fyrir dóm. 11.10 Og hrind gremju burt frá hjarta þínu og lát eigi böl koma nærri líkama þínum, því að æska og morgunroði lífsins eru hverful.
12.1 Og mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum, áður en vondu dagarnir koma og þau árin nálgast, er þú segir um: 'Mér líka þau ekki' _ 12.2 áður en sólin myrkvast og ljósið og tunglið og stjörnurnar, og áður en skýin koma aftur eftir regnið _ 12.3 þá er þeir skjálfa, sem hússins geyma, og sterku mennirnir verða bognir og kvarnarstúlkurnar hafast ekki að, af því að þær eru orðnar fáar, og dimmt er orðið hjá þeim, sem líta út um gluggana, 12.4 og dyrunum út að götunni er lokað, og hávaðinn í kvörninni minnkar, og menn fara á fætur við fuglskvak, en allir söngvarnir verða lágværir, 12.5 þá menn eru hræddir við hæðir og sjá skelfingar á veginum, og þegar möndlutréð stendur í blóma og engispretturnar dragast áfram og kaper-ber hrífa ekki lengur, því að maðurinn fer burt til síns eilífðar-húss og grátendurnir ganga um strætið _ 12.6 áður en silfurþráðurinn slitnar og gullskálin brotnar og skjólan mölvast við lindina og hjólið brotnar við brunninn 12.7 og moldin hverfur aftur til jarðarinnar, þar sem hún áður var, og andinn til Guðs, sem gaf hann. 12.8 Aumasti hégómi, segir prédikarinn, allt er hégómi! 12.9 En auk þess sem prédikarinn var spekingur, miðlaði hann og mönnum þekkingu og rannsakaði og kynnti sér og samdi mörg spakmæli. 12.10 Prédikarinn leitaðist við að finna fögur orð, og það sem hann hefir skrifað í einlægni, eru sannleiksorð. 12.11 Orð spekinganna eru eins og broddar og kjarnyrðin eins og fastreknir naglar _ þau eru gefin af einum hirði. 12.12 Og enn fremur, sonur minn, þýðstu viðvaranir. Að taka saman margar bækur, á því er enginn endir, og mikil bókiðn þreytir líkamann. 12.13 Vér skulum hlýða á niðurlagsorðið í því öllu: Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.
1.1 Ljóðaljóðin, eftir Salómon. 1.2 Hann kyssi mig kossi munns síns, því að ást þín er betri en vín. 1.3 Yndislegur ilmur er af smyrslum þínum, nafn þitt eins og úthellt olía, þess vegna elska meyjarnar þig. 1.4 Drag mig á eftir þér! Við skulum flýta okkur! Konungurinn leiði mig í herbergi sín! Fögnum og gleðjumst yfir þér, vegsömum ást þína meir en vín _ með réttu elska þær þig! 1.5 Svört er ég, og þó yndisleg, þér Jerúsalemdætur, sem tjöld Kedars, sem tjalddúkar Salómons. 1.6 Takið ekki til þess, að ég er svartleit, því að sólin hefir brennt mig. Synir móður minnar reiddust mér, þeir settu mig til að gæta víngarða _ míns eigin víngarðs hefi ég eigi gætt. 1.7 Seg mér, þú sem sál mín elskar, hvar heldur þú hjörð þinni til haga, hvar bælir þú um hádegið? Því að hví skal ég vera eins og villuráfandi hjá hjörðum félaga þinna? 1.8 Ef þú veist það eigi, þú hin fegursta meðal kvenna, þá far þú og rek för hjarðarinnar og hald kiðum þínum til haga hjá kofum hirðanna. 1.9 Við hryssurnar fyrir vagni Faraós líki ég þér, vina mín. 1.10 Yndislegar eru kinnar þínar fléttum prýddar, háls þinn undir perluböndum. 1.11 Gullfestar viljum vér gjöra þér, settar silfurhnöppum. 1.12 Meðan konungurinn hvíldi á legubekk sínum, lagði ilminn af nardussmyrslum mínum. 1.13 Unnusti minn er sem myrrubelgur, sem hvílist milli brjósta mér. 1.14 Kypur-ber er unnusti minn mér, úr víngörðunum í Engedí. 1.15 Hversu fögur ertu, vina mín, hversu fögur ertu! Augu þín eru dúfuaugu. 1.16 Hversu fagur ertu, unnusti minn, já indæll. Já, iðgræn er hvíla okkar. 1.17 Bjálkarnir í húsi okkar eru sedrusviðir, þiljur okkar kýprestré.
2.1 Ég er narsissa á Saronvöllum, lilja í dölunum. 2.2 Eins og lilja meðal þyrna, svo er vina mín meðal meyjanna. 2.3 Eins og apaldur meðal skógartrjánna, svo er unnusti minn meðal sveinanna. Í skugga hans þrái ég að sitja, og ávextir hans eru mér gómsætir. 2.4 Hann leiddi mig í vínhúsið og merki hans yfir mér var elska. 2.5 Endurnærið mig með rúsínukökum, hressið mig á eplum, því að ég er sjúk af ást. 2.6 Vinstri hönd hans sé undir höfði mér, en hin hægri umfaðmi mig! 2.7 Ég særi yður, Jerúsalemdætur, við skógargeiturnar, eða við hindirnar í haganum: Vekið ekki, vekið ekki elskuna, fyrr en hún sjálf vill. 2.8 Heyr, það er unnusti minn! Sjá, þar kemur hann, stökkvandi yfir fjöllin, hlaupandi yfir hæðirnar. 2.9 Unnusti minn er líkur skógargeit eða hindarkálfi. Hann stendur þegar bak við húsvegginn, horfir inn um gluggann, gægist inn um grindurnar. 2.10 Unnusti minn tekur til máls og segir við mig: 'Stattu upp, vina mín, fríða mín, æ kom þú! 2.11 Því sjá, veturinn er liðinn, rigningarnar um garð gengnar, _ á enda. 2.12 Blómin eru farin að sjást á jörðinni, tíminn til að sniðla vínviðinn er kominn, og kurr turtildúfunnar heyrist í landi voru. 2.13 Ávextir fíkjutrésins eru þegar farnir að þroskast, og ilminn leggur af blómstrandi vínviðnum. Stattu upp, vina mín, fríða mín, æ kom þú! 2.14 Dúfan mín í klettaskorunum, í fylgsni fjallhnúksins, lát mig sjá auglit þitt, lát mig heyra rödd þína! Því að rödd þín er sæt og auglit þitt yndislegt. 2.15 Náið fyrir oss refunum, yrðlingunum, sem skemma víngarðana, því að víngarðar vorir standa í blóma.' 2.16 Unnusti minn er minn, og ég er hans, hans, sem heldur hjörð sinni til haga meðal liljanna. 2.17 Þangað til dagurinn verður svalur og skuggarnir flýja, snú þú aftur, unnusti minn, og líkst þú skógargeitinni eða hindarkálfi á anganfjöllum.
3.1 Í hvílu minni um nótt leitaði ég hans sem sál mín elskar, ég leitaði hans, en fann hann ekki. 3.2 Ég skal fara á fætur og ganga um borgina, um strætin og torgin. Ég skal leita hans, sem sál mín elskar! Ég leitaði hans, en fann hann ekki. 3.3 Verðirnir, sem ganga um borgina, hittu mig. 'Hafið þér séð þann sem sál mín elskar?' 3.4 Óðara en ég var frá þeim gengin, fann ég þann sem sál mín elskar. Ég þreif í hann og sleppi honum ekki, fyrr en ég hefi leitt hann í hús móður minnar og í herbergi hennar er mig ól. 3.5 Ég særi yður, Jerúsalemdætur, við skógargeiturnar eða við hindirnar í haganum: Vekið ekki, vekið ekki elskuna, fyrr en hún sjálf vill. 3.6 Hvað er það, sem kemur úr heiðinni eins og reykjarsúlur, angandi af myrru og reykelsi, af alls konar kaupmannskryddi? 3.7 Það er burðarrekkja Salómons, sextíu kappar kringum hana af köppum Ísraels. 3.8 Allir með sverð í hendi, vanir hernaði, hver og einn með sverð við lend vegna næturóttans. 3.9 Burðarstól lét Salómon konungur gjöra sér úr viði frá Líbanon. 3.10 Stólpa hans lét hann gjöra af silfri, bakið úr gulli, sætið úr purpuradúk, lagt hægindum að innan af elsku Jerúsalemdætra. 3.11 Gangið út, Síonardætur, og horfið á Salómon konung, á sveiginn sem móðir hans hefir krýnt hann á brúðkaupsdegi hans og á gleðidegi hjarta hans.
4.1 Já, fögur ertu, vina mín, já, fögur ertu. Augu þín eru dúfuaugu fyrir innan skýluraufina. Hár þitt er eins og geitahjörð, sem rennur niður Gíleaðfjall. 4.2 Tennur þínar eru eins og hópur af nýklipptum ám, sem koma af sundi, sem allar eru tvílembdar og engin lamblaus meðal þeirra. 4.3 Varir þínar eru eins og skarlatsband og munnur þinn yndislegur. Vangi þinn er eins og kinn á granatepli út um skýluraufina. 4.4 Háls þinn er eins og Davíðsturn, reistur fyrir hernumin vopn. Þúsund skildir hanga á honum, allar törgur kappanna. 4.5 Brjóst þín eru eins og tveir rádýrskálfar, skóggeitar-tvíburar, sem eru á beit meðal liljanna. 4.6 Þar til kular af degi og skuggarnir flýja, vil ég ganga til myrruhólsins og til reykelsishæðarinnar. 4.7 Öll ertu fögur, vina mín, og á þér eru engin lýti. 4.8 Með mér frá Líbanon, brúður, með mér skaltu koma frá Líbanon! Lít niður frá Amanatindi, frá Senír- og Hermontindi, frá bælum ljónanna, frá fjöllum pardusdýranna. 4.9 Þú hefir rænt hjarta mínu, systir mín, brúður, þú hefir rænt hjarta mínu með einu augnatilliti þínu, með einni festi af hálsskarti þínu. 4.10 Hversu ljúf er ást þín, systir mín, brúður, hversu miklu dýrmætari er ást þín en vín og angan smyrsla þinna heldur en öll ilmföng. 4.11 Hunangsseimur drýpur af vörum þínum, brúður, hunang og mjólk er undir tungu þinni, og ilmur klæða þinna er eins og Líbanonsilmur. 4.12 Lokaður garður er systir mín, brúður, lokuð lind, innsigluð uppspretta. 4.13 Frjóangar þínir eru lystirunnur af granateplatrjám með dýrum ávöxtum, kypurblóm og nardusgrös, 4.14 nardus og krókus, kalamus og kanel, ásamt alls konar reykelsisrunnum, myrra og alóe, ásamt alls konar ágætis ilmföngum. 4.15 Þú ert garðuppspretta, brunnur lifandi vatns og bunulækur ofan af Líbanon. 4.16 Vakna þú, norðanvindur, og kom þú, sunnanblær, blás þú um garð minn, svo að ilmur hans dreifist. Unnusti minn komi í garð sinn og neyti hinna dýru ávaxta hans.
5.1 Ég kom í garð minn, systir mín, brúður, ég tíndi myrru mína og balsam. Ég át hunangsköku mína og hunangsseim, ég drakk vín mitt og mjólk. Etið, vinir, drekkið, gjörist ástdrukknir. 5.2 Ég sef, en hjarta mitt vakir, heyr, unnusti minn drepur á dyr! 'Ljúk upp fyrir mér, systir mín, vina mín, dúfan mín, ljúfan mín! Því að höfuð mitt er alvott af dögg, hárlokkar mínir af dropum næturinnar.' 5.3 'Ég er komin úr kyrtlinum, hvernig ætti ég að fara í hann aftur? Ég hefi laugað fæturna, hvernig ætti ég að óhreinka þá aftur?' 5.4 Unnusti minn rétti höndina inn um gluggann, og hjarta mitt svall honum á móti. 5.5 Ég reis á fætur til þess að ljúka upp fyrir unnusta mínum, og myrra draup af höndum mínum og fljótandi myrra af fingrum mínum á handfang slárinnar. 5.6 Ég lauk upp fyrir unnusta mínum, en unnusti minn var farinn, horfinn. Ég stóð á öndinni meðan hann talaði. Ég leitaði hans, en fann hann ekki, ég kallaði á hann, en hann svaraði ekki. 5.7 Verðirnir sem ganga um borgina, hittu mig, þeir slógu mig, þeir særðu mig, verðir múranna sviptu slæðunum af mér. 5.8 Ég særi yður, Jerúsalemdætur: Þegar þér finnið unnusta minn, hvað ætlið þér þá að segja honum? Að ég sé sjúk af ást! 5.9 Hvað hefir unnusti þinn fram yfir aðra unnusta, þú hin fegursta meðal kvenna? Hvað hefir unnusti þinn fram yfir aðra unnusta, úr því þú særir oss svo? 5.10 Unnusti minn er mjallahvítur og rauður, hann ber af tíu þúsundum. 5.11 Höfuð hans er skíragull, hinir hrynjandi hárlokkar hans hrafnsvartir, 5.12 augu hans eins og dúfur við vatnslæki, baðandi sig í mjólk, sett í umgjörð, 5.13 kinnar hans eins og balsambeð, er í vaxa kryddjurtir. Varir hans eru liljur, drjúpandi af fljótandi myrru. 5.14 Hendur hans eru gullkefli, sett krýsolítsteinum, kviður hans listaverk af fílabeini, lagt safírum. 5.15 Fótleggir hans eru marmarasúlur, sem hvíla á undirstöðum úr skíragulli, ásýndar er hann sem Líbanon, frábær eins og sedrustré. 5.16 Gómur hans er sætleikur, og allur er hann yndislegur. Þetta er unnusti minn og þetta er vinur minn, þér Jerúsalemdætur.
6.1 Hvert er unnusti þinn genginn, þú hin fegursta meðal kvenna? Hvert hefir unnusti þinn farið, að vér megum leita hans með þér? 6.2 Unnusti minn gekk ofan í garð sinn, að balsambeðunum, til þess að skemmta sér í görðunum og til að tína liljur. 6.3 Ég heyri unnusta mínum, og unnusti minn heyrir mér, hann sem skemmtir sér meðal liljanna. 6.4 Fögur ertu, vina mín, eins og Tirsa, yndisleg eins og Jerúsalem, ægileg sem herflokkar. 6.5 Snú frá mér augum þínum, því að þau hræða mig. Hár þitt er eins og geitahjörð, sem rennur niður Gíleaðfjall. 6.6 Tennur þínar eru eins og hópur af ám, sem koma af sundi, sem allar eru tvílembdar og engin lamblaus meðal þeirra. 6.7 Vangi þinn er eins og kinn á granatepli út um skýluraufina. 6.8 Sextíu eru drottningarnar og áttatíu hjákonurnar og óteljandi ungfrúr. 6.9 En ein er dúfan mín, ljúfan mín, einkabarn móður sinnar, augasteinn þeirrar er ól hana. Meyjarnar sáu hana og sögðu hana sæla, og drottningar og hjákonur víðfrægðu hana. 6.10 Hver er sú sem horfir niður eins og morgunroðinn, fögur sem máninn, hrein sem sólin, ægileg sem herflokkar? 6.11 Ég hafði gengið ofan í hnotgarðinn til þess að skoða gróðurinn í dalnum, til þess að skoða, hvort vínviðurinn væri farinn að bruma, hvort granateplatrén væru farin að blómgast. 6.12 Áður en ég vissi af, hafði löngun mín leitt mig að vögnum manna höfðingja nokkurs. 6.13 Snú þér við, snú þér við, Súlamít, snú þér við, snú þér við, svo að vér fáum séð þig! Hvað viljið þér sjá á Súlamít? Er það dansinn í tvíflokknum?
7.1 Hversu fagrir eru fætur þínir í ilskónum, þú höfðingjadóttir! Ávali mjaðma þinna er eins og hálsmen, handaverk listasmiðs, 7.2 skaut þitt kringlótt skál, er eigi má skorta vínblönduna, kviður þinn hveitibingur, kringsettur liljum, 7.3 brjóst þín eins og tveir rádýrskálfar, skóggeitar-tvíburar. 7.4 Háls þinn er eins og fílabeinsturn, augu þín sem tjarnir hjá Hesbon, við hlið Batrabbím, nef þitt eins og Líbanonsturninn, sem veit að Damaskus. 7.5 Höfuðið á þér er eins og Karmel og höfuðhár þitt sem purpuri, konungurinn er fjötraður af lokkunum. 7.6 Hversu fögur ertu og hversu yndisleg ertu, ástin mín, í yndisnautnunum. 7.7 Vöxtur þinn líkist pálmavið og brjóst þín vínberjum. 7.8 Ég hugsa: Ég verð að fara upp í pálmann, grípa í greinar hans. Ó, að brjóst þín mættu líkjast berjum vínviðarins og ilmurinn úr nefi þínu eplum, 7.9 og gómur þinn góðu víni, sem unnusta mínum rennur liðugt niður, líðandi yfir varir og tennur. 7.10 Ég heyri unnusta mínum, og til mín er löngun hans. 7.11 Kom, unnusti minn, við skulum fara út á víðan vang, hafast við meðal kypurblómanna. 7.12 Við skulum fara snemma upp í víngarðana, sjá, hvort vínviðurinn er farinn að bruma, hvort blómin eru farin að ljúkast upp, hvort granateplatrén eru farin að blómgast. Þar vil ég gefa þér ást mína. 7.13 Ástareplin anga og yfir dyrum okkar eru alls konar dýrir ávextir, nýir og gamlir, unnusti minn, ég hefi geymt þér þá.
8.1 Ó, að þú værir mér sem bróðir, er sogið hefði brjóst móður minnar. Hitti ég þig úti, mundi ég kyssa þig, og menn mundu þó ekki fyrirlíta mig. 8.2 Ég mundi leiða þig, fara með þig í hús móður minnar, í herbergi hennar er mig ól. Ég mundi gefa þér kryddvín að drekka, kjarneplalög minn. 8.3 Vinstri hönd hans sé undir höfði mér, en hin hægri umfaðmi mig. 8.4 Ég særi yður, Jerúsalemdætur: Ó, vekið ekki, vekið ekki elskuna, fyrr en hún sjálf vill. 8.5 Hver er sú, sem kemur þarna úr heiðinni og styðst við unnusta sinn? Undir eplatrénu vakti ég þig, þar fæddi móðir þín þig með kvöl, þar fæddi með kvöl sú er þig ól. 8.6 Legg mig sem innsiglishring við hjarta þér, sem innsiglishring við armlegg þinn. Því að elskan er sterk eins og dauðinn, ástríðan hörð eins og Hel. Blossar hennar eru eldblossar, logi hennar brennandi. 8.7 Mikið vatn getur ekki slökkt elskuna og árstraumar ekki drekkt henni. Þótt einhver vildi gefa öll auðæfi húss síns fyrir elskuna, þá mundu menn ekki gjöra annað en fyrirlíta hann. 8.8 Við eigum unga systur, sem enn er brjóstalaus. Hvað eigum við að gjöra við systur okkar, þá er einhver kemur að biðja hennar? 8.9 Ef hún er múrveggur, þá reisum við á honum silfurtind, en ef hún er hurð, þá lokum við henni með sedrusbjálka. 8.10 Ég er múrveggur, og brjóst mín eru eins og turnar. Ég varð í augum hans eins og sú er fann hamingjuna. 8.11 Salómon átti víngarð í Baal Hamón. Hann fékk víngarðinn varðmönnum, hver átti að greiða þúsund sikla silfurs fyrir sinn hlut ávaxtanna. 8.12 Víngarðurinn minn, sem ég á, er fyrir mig. Eig þú þúsundin, Salómon, og þeir sem gæta ávaxtar hans, tvö hundruð. 8.13 Þú sem býr í görðunum, vinir hlusta á rödd þína, lát mig heyra hana.
1.1 Vitrun Jesaja Amozsonar, er hann fékk um Júda og Jerúsalem á dögum Ússía, Jótams, Akasar og Hiskía, konunga í Júda. 1.2 Heyrið, þér himnar, og hlusta þú, jörð, því að Drottinn talar: Ég hefi fóstrað börn og fætt þau upp, og þau hafa risið í gegn mér. 1.3 Uxinn þekkir eiganda sinn og asninn jötu húsbónda síns, en Ísrael þekkir ekki, mitt fólk skilur ekki. 1.4 Vei hinni syndugu þjóð, þeim lýð, sem misgjörðum er hlaðinn, afsprengi illræðismannanna, spilltum sonum! Þeir hafa yfirgefið Drottin, smáð Hinn heilaga í Ísrael og snúið baki við honum. 1.5 Hvar ætlið þér að láta ljósta yður framvegis, fyrst þér haldið áfram að þverskallast? Höfuðið er allt í sárum og hjartað allt sjúkt. 1.6 Frá hvirfli til ilja er ekkert heilt, tómar undir, skrámur og nýjar benjar, sem hvorki er kreist úr né um bundið og þær eigi mýktar með olíu. 1.7 Land yðar er auðn, borgir yðar í eldi brenndar, útlendir menn eta upp akurland yðar fyrir augum yðar, slík eyðing sem þá er land kemst í óvina hendur. 1.8 Dóttirin Síon er ein eftir eins og varðskáli í víngarði, eins og vökukofi í melónugarði, eins og umsetin borg. 1.9 Ef Drottinn allsherjar hefði eigi látið oss eftir leifar, mundum vér brátt hafa orðið sem Sódóma, _ líkst Gómorru! 1.10 Heyrið orð Drottins, dómarar í Sódómu! Hlusta þú á kenning Guðs vors, Gómorru-lýður! 1.11 Hvað skulu mér yðar mörgu sláturfórnir? _ segir Drottinn. Ég er orðinn saddur á hrútabrennifórnum og alikálfafeiti, og í uxa-, lamba- og hafrablóð langar mig ekki. 1.12 Þegar þér komið til þess að líta auglit mitt, hver hefir þá beðið yður að traðka forgarða mína? 1.13 Berið eigi lengur fram fánýtar matfórnir; þær eru mér andstyggilegur fórnarreykur! Tunglkomur, hvíldardagar, hátíðastefnur, _ ég fæ eigi þolað að saman fari ranglæti og hátíðaþröng. 1.14 Sál mín hatar tunglkomur yðar og hátíðir, þær eru orðnar mér byrði, ég er þreyttur orðinn að bera þær. 1.15 Er þér fórnið upp höndum, byrgi ég augu mín fyrir yður, og þótt þér biðjið mörgum bænum, þá heyri ég ekki. Hendur yðar eru alblóðugar. 1.16 Þvoið yður, hreinsið yður. Takið illskubreytni yðar í burt frá augum mínum. Látið af að gjöra illt, 1.17 lærið gott að gjöra! Leitið þess, sem rétt er. Hjálpið þeim, sem fyrir ofríki verður. Rekið réttar hins munaðarlausa. Verjið málefni ekkjunnar. 1.18 Komið, eigumst lög við! _ segir Drottinn. Þó að syndir yðar séu sem skarlat, skulu þær verða hvítar sem mjöll. Þó að þær séu rauðar sem purpuri, skulu þær verða sem ull. 1.19 Ef þér eruð auðsveipir og hlýðnir, þá skuluð þér njóta landsins gæða, 1.20 en ef þér færist undan því og þverskallist, þá skuluð þér verða sverði bitnir. Munnur Drottins hefir talað það. 1.21 Hvernig stendur á því, að hún er orðin að skækju _ borgin trúfasta? Hún var full réttinda, og réttlætið hafði þar bólfestu, en nú manndrápsmenn. 1.22 Silfur þitt er orðið að sora, vín þitt vatni blandað. 1.23 Höfðingjar þínir eru uppreistarmenn og leggja lag sitt við þjófa. Allir elska þeir mútu og sækjast ólmir eftir fégjöfum. Þeir reka eigi réttar hins munaðarlausa, og málefni ekkjunnar fær eigi að koma fyrir þá. 1.24 Fyrir því segir hinn alvaldi Drottinn allsherjar, hinn voldugi Ísraels Guð: Vei, ég skal ná rétti mínum gagnvart mótstöðumönnum mínum og hefna mín á óvinum mínum. 1.25 Og ég skal rétta út hönd mína til þín og hreinsa sorann úr þér, eins og með lútösku, og skilja frá allt blýið. 1.26 Ég skal fá þér aftur slíka dómendur sem í öndverðu og aðra eins ráðgjafa og í upphafi. Upp frá því skalt þú kallast bær réttvísinnar, borgin trúfasta. 1.27 Síon skal endurleyst fyrir réttan dóm, og þeir, sem taka sinnaskiptum, munu frelsaðir verða fyrir réttlæti. 1.28 En tortíming kemur yfir alla illræðismenn og syndara, og þeir, sem yfirgefa Drottin, skulu fyrirfarast. 1.29 Þér munuð blygðast yðar fyrir eikurnar, sem þér höfðuð mætur á, og þér munuð skammast yðar fyrir lundana, sem voru yndi yðar. 1.30 Því að þér munuð verða sem eik með visnuðu laufi og eins og vatnslaus lundur. 1.31 Og hinn voldugi skal verða að strýi og verk hans að eldsneista, og hvort tveggja mun uppbrenna hvað með öðru og enginn slökkva.
2.1 Orðið, sem Jesaja Amozsyni vitraðist um Júda og Jerúsalem. 2.2 Það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús Drottins stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar, og þangað munu allir lýðirnir streyma. 2.3 Og margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: 'Komið, förum upp á fjall Drottins, til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum,' því að frá Síon mun kenning út ganga og orð Drottins frá Jerúsalem. 2.4 Og hann mun dæma meðal lýðanna og skera úr málum margra þjóða. Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar. 2.5 Ættmenn Jakobs, komið, göngum í ljósi Drottins. 2.6 Þú hefir hafnað þjóð þinni, ættmönnum Jakobs, því að þeir eru allir í austurlenskum göldrum og spáförum, eins og Filistar, og fylla landið útlendum mönnum. 2.7 Land þeirra er fullt af silfri og gulli, og fjársjóðir þeirra eru óþrjótandi. Land þeirra er fullt af stríðshestum, og vagnar þeirra eru óteljandi. 2.8 Land þeirra er fullt af falsguðum, þeir falla fram fyrir eigin handaverkum sínum, fram fyrir því, sem fingur þeirra hafa gjört. 2.9 En mannkind skal beygjast og maðurinn lægjast, og eigi munt þú fyrirgefa þeim. 2.10 Gakk þú inn í bergið og fel þig í jörðu fyrir ógnum Drottins og ljóma hátignar hans. 2.11 Hin drembilegu augu mannsins skulu lægjast og hroki mannanna beygjast, og Drottinn einn skal á þeim degi háleitur vera. 2.12 Sannarlega mun dagur Drottins allsherjar upp renna. Hann kemur yfir allt það, sem dramblátt er og hrokafullt, og yfir allt, er hátt gnæfir, _ það skal lægjast _ 2.13 og yfir öll hin hávöxnu og gnæfandi sedrustré á Líbanon, og yfir allar Basanseikur, 2.14 og yfir öll há fjöll og allar gnæfandi hæðir, 2.15 og yfir alla háreista turna og yfir alla ókleifa múrveggi, 2.16 og yfir alla Tarsisknörru og yfir allt ginnandi glys. 2.17 Og dramblæti mannsins skal lægjast og hroki mannanna beygjast, og Drottinn einn skal á þeim degi háleitur vera. 2.18 Og falsguðirnir _ það er með öllu úti um þá. 2.19 Þá munu menn smjúga inn í bjarghella og jarðholur fyrir ógnum Drottins og fyrir ljóma hátignar hans, þegar hann rís upp til þess að skelfa jörðina. 2.20 Á þeim degi munu menn kasta fyrir moldvörpur og leðurblökur silfurgoðum sínum og gullgoðum, er þeir hafa gjört sér til að falla fram fyrir, 2.21 en skreiðast sjálfir inn í klettagjár og hamarskorur fyrir ógnum Drottins og fyrir ljóma hátignar hans, þegar hann rís upp til þess að skelfa jörðina. 2.22 Hættið að treysta mönnum, hverfulan lífsanda hafa þeir í nösum sér. Hvers virði eru þeir?
3.1 Sjá, hinn alvaldi, Drottinn allsherjar sviptir Jerúsalem og Júda hverri stoð og styttu, allri stoð brauðs og allri stoð vatns, 3.2 hetjum og hermönnum, dómendum og spámönnum, spásagnamönnum og öldungum, 3.3 höfuðsmönnum, virðingamönnum, ráðgjöfum, hugvitsmönnum og kunnáttumönnum. 3.4 Ég vil fá þeim ungmenni fyrir höfðingja, og smásveinar skulu drottna yfir þeim. 3.5 Á meðal fólksins skal maður manni þrengja. Ungmennið mun hrokast upp í móti öldungnum og skrílmennið upp í móti tignarmanninum. 3.6 Þegar einhver þrífur í bróður sinn í húsi föður síns og segir: 'Þú átt yfirhöfn, ver þú stjórnari vor, og þetta fallandi ríki skal vera undir þinni hendi,' 3.7 þá mun hann á þeim degi hefja upp raust sína og segja: 'Ég vil ekki vera sáralæknir, og í húsi mínu er hvorki til brauð né klæði. Gjörið mig ekki að þjóðstjóra.' 3.8 Jerúsalem er að hruni komin og Júda er að falla, af því að tunga þeirra og athæfi var gegn Drottni til þess að storka dýrðaraugum hans. 3.9 Andlitssvipur þeirra vitnar í gegn þeim, og þeir gjöra syndir sínar heyrinkunnar, eins og Sódóma, og leyna þeim ekki. Vei þeim, því að þeir hafa bakað sjálfum sér ógæfu. 3.10 Heill hinum réttlátu, því að þeim mun vel vegna, því að þeir munu njóta ávaxtar verka sinna. 3.11 Vei hinum óguðlega, honum mun illa vegna, því að honum mun goldið verða eftir tilgjörðum hans. 3.12 Harðstjóri þjóðar minnar er drengur, og konur drottna yfir henni. Þjóð mín, leiðtogar þínir leiða þig afleiðis og villa fyrir þér veginn. 3.13 Drottinn gengur fram til að sækja sökina, hann stendur frammi til að dæma þjóðirnar. 3.14 Drottinn gengur fram til dóms í gegn öldungum lýðs síns og höfðingjum hans: 'Það eruð þér, sem hafið etið upp víngarðinn. Rændir fjármunir fátæklinganna eru í húsum yðar. 3.15 Hvernig getið þér fengið af yður að fótum troða lýð minn og merja sundur andlit hinna snauðu,' _ segir hinn alvaldi, Drottinn allsherjar. 3.16 Drottinn sagði: Sökum þess að dætur Síonar eru drembilátar og ganga hnakkakerrtar, gjóta út undan sér augunum og tifa í göngunni og láta glamra í ökklaspennunum, 3.17 þá mun Drottinn gjöra kláðugan hvirfil Síonar dætra og gjöra bera blygðan þeirra. 3.18 Á þeim degi mun Drottinn burt nema skart þeirra: ökklaspennurnar, ennisböndin, hálstinglin, 3.19 eyrnaperlurnar, armhringana, andlitsskýlurnar, 3.20 motrana, ökklafestarnar, beltin, ilmbaukana, töfraþingin, 3.21 fingurgullin, nefhringana, 3.22 glitklæðin, nærklæðin, möttlana og pyngjurnar, 3.23 speglana, líndúkana, vefjarhettina og slæðurnar. 3.24 Koma mun ódaunn fyrir ilm, reiptagl fyrir belti, skalli fyrir hárfléttur, aðstrengdur hærusekkur í stað skrautskikkju, brennimerki í stað fegurðar. 3.25 Menn þínir munu fyrir sverði falla og kappar þínir í orustu. 3.26 Hlið borgarinnar munu kveina og harma, og hún sjálf mun sitja einmana á jörðinni.
4.1 Á þeim degi munu sjö konur þrífa í sama manninn og segja: 'Vér skulum sjálfar fæða oss og klæða, lát þú oss aðeins nefnast eftir nafni þínu, nem burt smán vora.' 4.2 Á þeim degi mun kvistur Drottins prýðilegur og veglegur verða, og ávöxtur landsins hár og fagur fyrir þá af Ísrael, sem undan komast. 4.3 Þeir sem af lifa í Síon og eftir verða í Jerúsalem, skulu kallast heilagir, allir þeir, sem skráðir eru meðal hinna lifandi í Jerúsalem. 4.4 Þá er Drottinn hefir afþvegið óhreinindi Síonardætra og hreinsað blóð Jerúsalemborgar af henni með refsidómsanda og hreinsunaranda, 4.5 mun hann skapa ský um daga og reyk og skínandi eldsloga um nætur yfir öllum helgidóminum á Síonarfjalli og samkomunum þar, því að yfir öllu því, sem dýrlegt er, skal verndarhlíf vera. 4.6 Og laufskáli skal vera þar til forsælu fyrir hitanum á daginn og til hælis og skýlis fyrir steypiregni og skúrum.
5.1 Ég vil kveða kvæði um ástvin minn, ástarkvæði um víngarð hans. Ástvinur minn átti víngarð á frjósamri hæð. 5.2 Hann stakk upp garðinn og tíndi grjótið úr honum, hann gróðursetti gæðavínvið í honum, reisti turn í honum miðjum og hjó þar einnig út vínlagarþró, og hann vonaði að garðurinn mundi bera vínber, en hann bar muðlinga. 5.3 Dæmið nú, þér Jerúsalembúar og Júdamenn, milli mín og víngarðs míns! 5.4 Hvað varð meira að gjört við víngarð minn en ég hafði gjört við hann? Hví bar hann muðlinga, þegar ég vonaði að hann mundi bera vínber? 5.5 En nú vil ég kunngjöra yður, hvað ég ætla að gjöra við víngarð minn: Rífa þyrnigerðið, svo að hann verði etinn upp, brjóta niður múrvegginn, svo að hann verði troðinn niður. 5.6 Og ég vil gjöra hann að auðn, hann skal ekki verða sniðlaður og ekki stunginn upp, þar skulu vaxa þyrnar og þistlar, og skýjunum vil ég um bjóða, að þau láti enga regnskúr yfir hann drjúpa. 5.7 Víngarður Drottins allsherjar er Ísraels hús, og Júdamenn ástkær plantan hans. Hann vonaðist eftir rétti, en sjá, manndráp; eftir réttvísi, en sjá, neyðarkvein. 5.8 Vei þeim, sem bæta húsi við hús og leggja akur við akur, uns ekkert landrými er eftir og þér búið einir í landi. 5.9 Drottinn allsherjar mælir í eyra mér: Í sannleika skulu mörg hús verða að auðn, mikil og fögur hús verða mannlaus. 5.10 Því að tíu plóglönd í víngarði skulu gefa af sér eina skjólu og ein tunna sæðis eina skeppu. 5.11 Vei þeim, sem rísa árla morguns til þess að sækjast eftir áfengum drykk, sem sitja fram á nótt eldrauðir af víni. 5.12 Gígjur, hörpur, bumbur og hljóðpípur kveða við, og vínið flóir við samdrykkjur þeirra, en gjörðum Drottins gefa þeir eigi gaum, og það, sem hann hefir með höndum, sjá þeir ekki. 5.13 Fyrir því mun lýður minn fyrr en af veit fara í útlegð, og tignarmennirnir kveljast af hungri og svallararnir vanmegnast af þorsta. 5.14 Fyrir því vex græðgi Heljar og hún glennir ginið sem mest hún má, og skrautmenni landsins og svallarar, hávaðamennirnir og gleðimennirnir steypast niður þangað. 5.15 Og mannkind skal beygjast og maðurinn lægjast og augu dramblátra verða niðurlút. 5.16 En Drottinn allsherjar mun háleitur verða í dóminum og hinn heilagi Guð sýna heilagleik í réttvísi. 5.17 Lömb munu ganga þar á beit eins og á afrétti, og hinar auðu lendur ríkismannanna munu geitur upp eta. 5.18 Vei þeim, sem draga refsinguna í böndum ranglætisins og syndagjöldin eins og í aktaugum, 5.19 þeim er segja: 'Flýti hann sér og hraði verki sínu, svo að vér megum sjá það, komi nú ráðagjörð Hins heilaga í Ísrael fram og rætist, svo að vér megum verða varir við.' 5.20 Vei þeim, sem kalla hið illa gott og hið góða illt, sem gjöra myrkur að ljósi og ljós að myrkri, sem gjöra beiskt að sætu og sætt að beisku. 5.21 Vei þeim, sem vitrir eru í augum sjálfra sín og hyggnir að eigin áliti. 5.22 Vei þeim, sem kappar eru í víndrykkju og öflugar hetjur í því að byrla áfengan drykk, 5.23 þeim sem sýkna hinn seka fyrir mútur og svipta hina réttlátu rétti þeirra. 5.24 Fyrir því, eins og eldsloginn eyðir stráinu og heyið hnígur í bálið, svo skal rót þeirra fúna og blóm þeirra feykjast sem ryk, af því að þeir hafa hafnað lögmáli Drottins allsherjar og fyrirlitið orð Hins heilaga í Ísrael. 5.25 Þess vegna bálaðist reiði Drottins í gegn lýð hans, og hann rétti út hönd sína móti honum og laust hann, og fjöllin skulfu og líkin lágu sem sorp á strætum. Allt fyrir það linnir ekki reiði hans og hönd hans er enn þá útrétt. 5.26 Drottinn reisir hermerki fyrir fjarlæga þjóð og blístrar á hana frá ystu landsálfu, og sjá, hún kemur fljót og frá. 5.27 Enginn er þar móður og engum skrikar fótur, enginn blundar né tekur á sig náðir, engum þeirra losnar belti frá lendum, og ekki slitnar skóþvengur nokkurs þeirra. 5.28 Örvar þeirra eru hvesstar og allir bogar þeirra bentir. Hófarnir á hestum þeirra eru sem tinna og vagnhjól þeirra sem vindbylur. 5.29 Öskur þeirra er sem ljónsöskur, þeir öskra sem ung ljón. Þeir grenja, grípa herfangið og hafa það á burt, og enginn fær bjargað. 5.30 Á þeim degi munu þeir koma grenjandi í móti þjóðinni eins og ólgandi brim. Ef horft er yfir landið, er þar skelfilegt myrkur, og dagsbirtan er myrkvuð af dimmum skýjum.
6.1 Árið sem Ússía konungur andaðist sá ég Drottin sitjandi á háum og gnæfandi veldistóli, og slóði skikkju hans fyllti helgidóminn. 6.2 Umhverfis hann stóðu serafar. Hafði hver þeirra sex vængi. Með tveimur huldu þeir ásjónur sínar, með tveimur huldu þeir fætur sína og með tveimur flugu þeir. 6.3 Og þeir kölluðu hver til annars og sögðu: 'Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn allsherjar, öll jörðin er full af hans dýrð.' 6.4 Við raust þeirra, er þeir kölluðu, skulfu undirstöður þröskuldanna og húsið varð fullt af reyk. 6.5 Þá sagði ég: 'Vei mér, það er úti um mig! Því að ég er maður, sem hefi óhreinar varir og bý meðal fólks, sem hefir óhreinar varir, því að augu mín hafa séð konunginn, Drottin allsherjar.' 6.6 Einn serafanna flaug þá til mín. Hann hélt á glóandi koli, sem hann hafði tekið af altarinu með töng, 6.7 og hann snart munn minn með kolinu og sagði: 'Sjá, þetta hefir snortið varir þínar. Misgjörð þín er burt tekin og friðþægt er fyrir synd þína.' 6.8 Þá heyrði ég raust Drottins. Hann sagði: 'Hvern skal ég senda? Hver vill vera erindreki vor?' Og ég sagði: 'Hér er ég, send þú mig!' 6.9 Og hann sagði: 'Far og seg þessu fólki: Hlýðið grandgæfilega til, þér skuluð þó ekkert skilja, horfið á vandlega, þér skuluð þó einskis vísir verða! 6.10 Gjör þú hjarta þessa fólks tilfinningarlaust og eyru þess daufheyrð og afturloka augum þess, svo að þeir sjái ekki með augum sínum, heyri ekki með eyrum sínum og skilji ekki með hjarta sínu, að þeir mættu snúa sér og læknast.' 6.11 Og ég sagði: 'Hversu lengi, Drottinn?' Hann svaraði: 'Þar til er borgirnar standa í eyði óbyggðar og húsin mannlaus og landið verður gjöreytt.' 6.12 Drottinn mun reka fólkið langt í burt og eyðistaðirnir verða margir í landinu. 6.13 Og þótt enn sé tíundi hluti eftir í því, skal hann og verða eyddur. En eins og rótarstúfur verður eftir af terpentíntrénu og eikinni, þá er þau eru felld, svo skal og stúfur þess verða heilagt sæði.
7.1 Svo bar til á dögum Akasar, konungs í Júda, Jótamssonar, Ússíasonar, að Resín Sýrlandskonungur og Peka Remaljason, konungur í Ísrael, fóru upp til Jerúsalem til að herja á hana, en fengu ekki unnið hana. 7.2 Þá kom húsi Davíðs þessi fregn: Sýrland hefir gjört bandalag við Efraím. Skalf þá hjarta konungs og hjarta þjóðar hans, eins og skógartré skjálfa fyrir vindi. 7.3 Þá sagði Drottinn við Jesaja: 'Gakk þú og Sear Jasúb, sonur þinn, til móts við Akas, að enda vatnstokksins úr efri tjörninni, við veginn út á bleikivöllinn, 7.4 og seg við hann: Gæt þín og haf kyrrt um þig. Óttast þú eigi og lát eigi hugfallast fyrir þessum tveimur rjúkandi brandabrotum, fyrir brennandi reiði þeirra Resíns, Sýrlendinga og Remaljasonar. 7.5 Sökum þess að Sýrland, Efraím og Remaljasonur hafa haft ill ráð með höndum gegn þér og sagt: 7.6 ,Vér skulum fara herferð á hendur Júda og skjóta mönnum skelk í bringu, taka landið herskildi og setja Tabelsson þar til konungs,` _ 7.7 sökum þess segir hinn alvaldi Drottinn: Það skal eigi takast og það skal eigi verða. 7.8 Damaskus er höfuð Sýrlands og Resín höfuð Damaskus. Og áður en liðin eru sextíu og fimm ár skal Efraím gjöreytt verða og eigi verða þjóð upp frá því. _ 7.9 Og Samaría er höfuð Efraíms og Remaljasonur höfuð Samaríu. Ef þér trúið eigi, munuð þér eigi fá staðist.' 7.10 Og enn talaði Drottinn við Akas og sagði: 7.11 'Bið þér tákns af Drottni, Guði þínum, hvort sem þú vilt heldur beiðast þess neðan úr undirheimum eða ofan að frá hæðum.' 7.12 En Akas sagði: 'Ég vil einskis biðja og eigi freista Drottins.' 7.13 Þá sagði Jesaja: 'Heyrið, þér niðjar Davíðs, nægir yður það eigi að þreyta menn, úr því að þér þreytið einnig Guð minn? 7.14 Fyrir því mun Drottinn gefa yður tákn sjálfur: Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son og lætur hann heita Immanúel. 7.15 Við súrmjólk og hunang skal hann alast, þá er hann fer að hafa vit á að hafna hinu illa og velja hið góða. 7.16 Áður en sveinninn hefir vit á að hafna hinu illa og velja hið góða, skal mannauðn verða í landi þeirra tveggja konunga, sem nú skelfa þig. 7.17 Drottinn mun láta yfir þig og yfir þjóð þína og yfir hús föður þíns þá daga koma, að ekki hafa slíkir yfir liðið síðan Efraím skildist frá Júda _ Assýríukonung.' 7.18 Á þeim degi mun Drottinn blístra á flugurnar, sem eru við mynnið á Níl-kvíslunum á Egyptalandi, og á býflugurnar, sem eru í Assýríu, 7.19 og þær munu allar koma og setjast í dalverpin og bergskorurnar, í alla þyrnirunna og í öll vatnsból. 7.20 Á þeim degi mun Drottinn með rakhnífi, leigðum fyrir handan fljót _ með Assýríukonungi _ raka höfuðið og kviðhárin, og skeggið mun hann einnig nema burt. 7.21 Á þeim degi mun maður hafa kvígu og tvær ær, 7.22 og vegna þess, hve vel þær mjólka, mun hann hafa súrmjólk til matar. Á súrmjólk og hunangi skal hver maður lifa, sem eftir verður í landinu. 7.23 Og á þeim degi mun svo fara, að alls staðar þar sem áður stóðu þúsund vínviðir, þúsund sikla virði, þar skulu vaxa þyrnar og þistlar. 7.24 Menn skulu ekki fara þar um, nema þeir hafi með sér örvar og boga, því að landið skal ekki annað vera en þyrnar og þistlar. 7.25 Og öll fellin, sem nú eru stungin upp með skóflu _ þangað skal enginn maður koma af hræðslu við þyrna og þistla. Nautpeningi verður hleypt þangað og sauðfénaður látinn traðka þau niður.
8.1 Drottinn sagði við mig: 'Tak þér stórt spjald og rita þú á það með algengu letri: Hraðfengi Skyndirán. 8.2 Og tak mér skilríka votta, prestinn Úría og Sakaría Jeberekíason.' 8.3 Og ég nálgaðist spákonuna, og hún varð þunguð og ól son. Þá sagði Drottinn við mig: 'Lát þú hann heita Hraðfengi Skyndirán. 8.4 Því að áður en sveinninn lærir að kalla ,faðir minn` og ,móðir mín,` skal auður Damaskus og herfang Samaríu burt flutt verða fram fyrir Assýríukonung.' 8.5 Og Drottinn talaði enn við mig og sagði: 8.6 Af því að þessi lýður fyrirlítur hin straumhægu Sílóa-vötn, en fagnar Resín og Remaljasyni, 8.7 sjá, fyrir því mun Drottinn láta yfir þá koma hin stríðu og miklu vötn fljótsins _ Assýríukonung og allt hans einvalalið. Skal það ganga upp yfir alla farvegu sína og flóa yfir alla bakka. 8.8 Og það skal brjótast inn í Júda, flæða þar yfir og geysast áfram, þar til manni tekur undir höku, og breiða vængi sína yfir allt þitt land, eins og það er vítt til, Immanúel! 8.9 Vitið það, lýðir, og hlustið á, allar fjarlægar landsálfur! Herklæðist, þér skuluð samt láta hugfallast! Herklæðist, þér skuluð samt láta hugfallast! 8.10 Takið saman ráð yðar, þau skulu að engu verða. Mælið málum yðar, þau skulu engan framgang fá, því að Guð er með oss! 8.11 Svo mælti Drottinn við mig, þá er hönd hans hreif mig og hann varaði mig við því að ganga sama veg og þetta fólk gengur: 8.12 Þér skuluð ekki kalla allt það ,samsæri`, sem þetta fólk kallar ,samsæri`, og ekki óttast það, sem það óttast, og eigi skelfast. 8.13 Drottinn allsherjar, hann skuluð þér telja heilagan, hann sé yður ótti, hann sé yður skelfing. 8.14 Og hann skal verða helgidómur og ásteytingarsteinn og hrösunarhella fyrir báðar ættþjóðir Ísraels og snara og gildra fyrir Jerúsalembúa. 8.15 Og margir af þeim munu hrasa, falla og meiðast, festast í snörunni og verða veiddir. 8.16 Ég bind saman vitnisburðinn og innsigla kenninguna hjá lærisveinum mínum. 8.17 Ég treysti Drottni, þótt hann byrgi nú auglit sitt fyrir Jakobs niðjum, og ég bíð hans. 8.18 Sjá, ég og synirnir, sem Drottinn hefir gefið mér, vér erum til tákns og jarteikna í Ísrael frá Drottni allsherjar, sem býr á Síonfjalli. 8.19 Ef þeir segja við yður: 'Leitið til andasæringarmanna og spásagnarmanna, sem hvískra og umla! _ Á ekki fólk að leita frétta hjá guðum sínum og leita til hinna dauðu vegna hinna lifandi?' _ 8.20 þá svarið þeim: 'Til kenningarinnar og vitnisburðarins!' Ef menn tala ekki samkvæmt þessu orði, hafa þeir engan morgunroða 8.21 og munu ráfa hrjáðir og hungraðir. Og er þá hungrar munu þeir fyllast bræði og formæla konungi sínum og Guði sínum. Hvort sem horft er til himins 8.22 eða litið til jarðar, sjá, þar er neyð og myrkur. Í angistarsorta og niðdimmu eru þeir útreknir.
9.1 Eigi skal myrkur vera í landi því, sem nú er í nauðum statt. Fyrrum lét hann vansæmd koma yfir Sebúlonsland og Naftalíland, en síðar meir mun hann varpa frægð yfir leiðina til hafsins, landið hinumegin Jórdanar og Galíleu heiðingjanna. 9.2 Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós. Yfir þá, sem búa í landi náttmyrkranna, skín ljós. 9.3 Þú eykur stórum fögnuðinn, þú gjörir gleðina mikla. Menn gleðja sig fyrir þínu augliti, eins og þegar menn gleðjast á kornskurðartímanum, eins og menn leika af fögnuði þegar herfangi er skipt. 9.4 Því að hið þunga ok hennar, stafinn, sem reið að herðum hennar, brodd rekstrarmannsins, hefir þú í sundur brotið, eins og á degi Midíans. 9.5 Öll harkmikil hermannastígvél og allar blóðstokknar skikkjur skulu brenndar og verða eldsmatur. 9.6 Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla. Nafn hans skal kallað Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi. 9.7 Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka á hásæti Davíðs og í ríki hans. Hann mun reisa það og efla með réttvísi og réttlæti héðan í frá og að eilífu. Vandlæting Drottins allsherjar mun þessu til vegar koma. 9.8 Drottinn hefir sent orð gegn Jakob, og því lýstur niður í Ísrael. 9.9 Og öll þjóðin skal verða þess áskynja, bæði Efraím og Samaríubúar, sem af metnaði og stærilæti hjartans segja: 9.10 'Tigulsteinarnir eru hrundir, en vér skulum byggja upp aftur af höggnu grjóti, mórberjatrén eru felld, en vér skulum setja sedrustré í staðinn.' 9.11 Þess vegna mun Drottinn efla mótstöðumenn Resíns á hendur þeim og vopna óvini þeirra, 9.12 Sýrlendinga að austan og Filista að vestan, og þeir skulu svelgja Ísrael með gapandi gini. Allt fyrir það linnti ekki reiði hans, og hönd hans er enn þá útrétt. 9.13 En þjóðin sneri sér ekki til hans, sem laust hana, og Drottins allsherjar leituðu þeir ekki. 9.14 Þess vegna mun Drottinn höggva höfuð og hala af Ísrael, pálmakvistinn og sefstráið á sama degi. 9.15 Öldungarnir og virðingamennirnir eru höfuðið, spámenn þeir, er kenna lygar, eru halinn. 9.16 Því að leiðtogar þessa fólks leiða það afleiðis, og þeir, sem láta leiða sig, tortímast. 9.17 Fyrir því hefir Drottinn enga gleði af æskumönnum þess og enga meðaumkun með munaðarleysingjum þess og ekkjum, því að allir eru þeir guðleysingjar og illvirkjar, og hver munnur mælir heimsku. Allt fyrir þetta linnti ekki reiði hans, og hönd hans er enn þá útrétt. 9.18 Því að hið óguðlega athæfi brennur eins og eldur, eyðir þyrnum og þistlum og kveikir í þykkum skógarrunnum, svo að þeir hvirflast upp í reykjarmökk. 9.19 Vegna reiði Drottins allsherjar stendur landið í björtu báli og fólkið verður sem eldsmatur; enginn þyrmir öðrum. 9.20 Menn rífa í sig til hægri handar og eru þó hungraðir. Þeir eta til vinstri handar og verða þó eigi saddir. Hver etur holdið af sínum eigin armlegg: 9.21 Manasse Efraím og Efraím Manasse, og báðir saman ráða þeir á Júda. Allt fyrir þetta linnir ekki reiði hans, og hönd hans er enn þá útrétt.
10.1 Vei þeim, sem veita ranga úrskurði og færa skaðsemdarákvæði í letur 10.2 til þess að halla rétti fátækra og ræna lögum hina nauðstöddu á meðal fólks míns, til þess að ekkjurnar verði þeim að herfangi og þeir fái féflett munaðarleysingjana. 10.3 Hvað ætlið þér að gjöra á degi hegningarinnar og þegar eyðingin kemur úr fjarska? Til hvers viljið þér þá flýja um ásjá? Og hvar viljið þér geyma auðæfi yðar? 10.4 Er nokkuð annað fyrir hendi en að falla á kné meðal hinna fjötruðu eða hníga meðal hinna vegnu? Allt fyrir þetta linnir ekki reiði hans, og hönd hans er enn þá útrétt. 10.5 Vei Assúr, vendinum reiði minnar! Heift mín er stafurinn í höndum þeirra. 10.6 Ég sendi hann móti guðlausri þjóð, ég býð honum að fara á móti lýðnum, sem ég er reiður, til þess að ræna og rupla og troða hann fótum sem saur á strætum. 10.7 En hann skilur það eigi svo, og hjarta hans hugsar eigi svo, heldur girnist hann að eyða og uppræta margar þjóðir. 10.8 Hann segir: 'Eru ekki höfðingjar mínir allir saman konungar? 10.9 Fór ekki fyrir Kalne eins og fyrir Karkemis, fyrir Hamat eins og fyrir Arpad, fyrir Samaríu eins og fyrir Damaskus? 10.10 Eins og hönd mín náði til konungsríkja guðanna, og voru þó líkneskjur þeirra fleiri en Jerúsalem og Samaríu, 10.11 já, eins og ég hefi farið með Samaríu og guði hennar, svo mun ég fara með Jerúsalem og guðalíkneski hennar!' 10.12 En þegar Drottinn hefir lokið öllu starfi sínu á Síon-fjalli og í Jerúsalem, mun hann vitja ávaxtarins af ofmetnaðinum í hjarta Assýríukonungs og hins hrokafulla drembilætis augna hans, 10.13 því að hann hefir sagt: 'Með styrk handar minnar hefi ég þessu til leiðar komið og með hyggindum mínum, því að ég er vitsmunamaður. Ég hefi fært úr stað landamerki þjóðanna, rænt fjárhlutum þeirra og sem alvaldur steypt af stóli drottnendum þeirra. 10.14 Hönd mín náði í fjárafla þjóðanna, sem fuglshreiður væri. Eins og menn safna eggjum, sem fuglinn er floginn af, svo hefi ég safnað saman öllum löndum, og hefir enginn blakað vængjum, lokið upp nefinu né tíst.' 10.15 Hvort má öxin dramba í gegn þeim, sem heggur með henni, eða sögin miklast í gegn þeim, sem sagar með henni? Allt eins og sprotinn ætlaði að sveifla þeim, er reiðir hann, eða stafurinn færa á loft þann, sem ekki er af tré. 10.16 Fyrir því mun hinn alvaldi, Drottinn allsherjar, senda megrun í hetjulið hans, og undir dýrð hans mun eldur blossa upp sem brennandi bál. 10.17 Og ljós Ísraels mun verða að eldi og Hinn heilagi í Ísrael að loga, og sá logi skal á einum degi upp brenna og eyða þyrnum hans og þistlum 10.18 og afmá að fullu og öllu hina dýrlegu skóga hans og aldingarða. Hann skal verða eins og sjúklingur, sem veslast upp. 10.19 Og leifarnar af skógartrjám hans munu verða teljandi, og smásveinn mun geta skrifað þau upp. 10.20 Á þeim degi skulu leifarnar af Ísrael og þeir af Jakobs húsi, sem af komast, eigi framar reiða sig á þann sem sló þá, heldur munu þeir með trúfesti reiða sig á Drottin, Hinn heilaga í Ísrael. 10.21 Leifar munu aftur hverfa, leifarnar af Jakob, til hins máttuga Guðs. 10.22 Því að þótt fólksfjöldi þinn, Ísrael, væri sem sjávarsandur, skulu þó aðeins leifar af honum aftur hverfa. Eyðing er fastráðin, framveltandi flóð réttlætis. 10.23 Því að eyðingu, og hana fastráðna, mun hinn alvaldi, Drottinn allsherjar framkvæma á jörðinni miðri. 10.24 Svo segir hinn alvaldi, Drottinn allsherjar: Þú þjóð mín, sem býr á Síon, óttast þú eigi Assúr, er hann slær þig með sprota og reiðir að þér staf sinn, eins og Egyptar gjörðu. 10.25 Því að eftir skamma hríð er reiðin á enda, og þá beinist heift mín að eyðing þeirra. 10.26 Þá reiðir Drottinn allsherjar svipuna að þeim, eins og þegar hann laust Midíansmenn hjá Óreb-kletti. Stafur hans er útréttur yfir hafið, og hann færir hann á loft, eins og gegn Egyptum forðum. 10.27 Á þeim degi skal byrði sú, sem hann hefir á þig lagt, falla af herðum þér og ok hans af hálsi þínum, og okið skal brotna fyrir ofurfitu. 10.28 Óvinurinn heldur til Ajat, fer um Mígron og lætur eftir farangur sinn í Mikmas. 10.29 Þeir fara yfir skarðið, þeir hafa náttból í Geba. Rama skelfist, íbúar Gíbeu Sáls leggja á flótta. 10.30 Hljóða þú upp, Gallímdóttir! Hlustaðu á, Lejsa! Taktu undir, Anatót! 10.31 Madmena flýr, íbúar Gebím forða sér undan. 10.32 Þennan sama dag æir hann í Nób. Hann réttir út hönd sína móti fjalli Síonardóttur, móti hæð Jerúsalemborgar. 10.33 Sjá, hinn alvaldi, Drottinn allsherjar afsníður laufkrónuna voveiflega. Hin hávöxnu trén eru höggvin og hin gnæfandi hníga til jarðar. 10.34 Hann ryður skógarrunnana með öxi, og Líbanon fellur fyrir Hinum volduga.
11.1 Af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta og angi upp vaxa af rótum hans. 11.2 Yfir honum mun hvíla andi Drottins: Andi vísdóms og skilnings, andi ráðspeki og kraftar, andi þekkingar og ótta Drottins. 11.3 Unun hans mun vera að óttast Drottin. Hann mun ekki dæma eftir því, sem augu hans sjá, og ekki skera úr málum eftir því, sem eyru hans heyra. 11.4 Með réttvísi mun hann dæma hina fátæku og skera með réttlæti úr málum hinna nauðstöddu í landinu. Hann mun ljósta ofbeldismanninn með sprota munns síns og deyða hinn óguðlega með anda vara sinna. 11.5 Réttlæti mun vera beltið um lendar hans og trúfesti beltið um mjaðmir hans. 11.6 Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og smásveinn gæta þeirra. 11.7 Kýr og birna munu vera á beit saman og kálfar og húnar liggja hvorir hjá öðrum, og ljónið mun hey eta sem naut. 11.8 Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holudyr nöðrunnar, og barnið nývanið af brjósti stinga hendi sinni inn í bæli hornormsins. 11.9 Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á Drottni, eins og djúp sjávarins er vötnum hulið. 11.10 Á þeim degi mun rótarkvistur Ísaí standa sem hermerki fyrir þjóðirnar og lýðirnir leita til hans, og bústaður hans mun dýrlegur verða. 11.11 Á þeim degi mun Drottinn útrétta hönd sína í annað sinn til þess að endurkaupa þær leifar fólks síns, sem eftir eru í Assýríu, Norður-Egyptalandi, Suður-Egyptalandi, Blálandi, Elam, Babýloníu, Hamat og á eyjum hafsins. 11.12 Og hann mun reisa merki fyrir þjóðirnar, heimta saman hina brottreknu menn úr Ísrael og safna saman hinum tvístruðu konum úr Júda frá fjórum höfuðáttum heimsins. 11.13 Þá mun öfund Efraíms hverfa og fjandskapur Júda líða undir lok. Efraím mun ekki öfundast við Júda og Júda ekki fjandskapast við Efraím. 11.14 Þeir munu steypa sér niður á síðu Filista gegn vestri og ræna í sameiningu austurbyggja. Edóm og Móab munu þeir hremma og Ammónítar verða þeim lýðskyldir. 11.15 Og Drottinn mun þurrka upp voga Egyptahafs og bregða hendi sinni yfir fljótið í stríðum stormi og skipta því í sjö kvíslir, svo að yfir má ganga með skó á fótum. 11.16 Og það skal verða brautarvegur fyrir þær leifar fólks hans, sem enn eru eftir í Assýríu, eins og var fyrir Ísrael, þá er hann fór af Egyptalandi.
12.1 Á þeim degi skaltu segja: 'Ég vegsama þig, Drottinn, því þótt þú værir mér reiður, þá er þó horfin reiði þín og þú huggaðir mig. 12.2 Sjá, Guð er mitt hjálpræði, ég er öruggur og óttast eigi, því að Drottinn Guð er minn styrkur og minn lofsöngur, hann er orðinn mér hjálpræði.' 12.3 Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins. 12.4 Og á þeim degi munuð þér segja: 'Lofið Drottin, ákallið nafn hans. Gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna, hafið í minnum, að háleitt er nafn hans. 12.5 Lofsyngið Drottni, því að dásemdarverk hefir hann gjört. Þetta skal kunnugt verða um alla jörðina. 12.6 Lát óma gleðihljóm og kveða við fagnaðaróp, þú sem býr á Síon, því að mikill er Hinn heilagi í Ísrael meðal þín.'
13.1 Spádómur um Babýlon, er vitraðist Jesaja Amozsyni. 13.2 Reisið merki á skóglausri hæð! Kallið hárri röddu til þeirra! Bendið þeim með hendinni, að þeir fari inn um hlið harðstjóranna! 13.3 Ég er sá, sem boðið hefi út vígðum liðsmönnum mínum og kallað á kappa mína til að framkvæma reiðidóm minn, þessa hreyknu og hróðugu menn mína. 13.4 Heyr þysinn á fjöllunum, eins og af mannmergð, heyr gnýinn af hinum samansöfnuðu þjóðum. Drottinn allsherjar er að kanna liðið. 13.5 Þeir koma frá fjarlægu landi, frá himins enda, Drottinn með verkfæri reiði sinnar, til þess að leggja í eyði gjörvalla jörðina. 13.6 Kveinið, því að dagur Drottins er nálægur; hann kemur sem eyðing frá hinum Almáttka. 13.7 Þess vegna verða allar hendur lémagna og sérhvert mannshjarta bráðnar. 13.8 Þeir skelfast, harmkvæli og þrautir gagntaka þá, þeir hafa hríðir eins og jóðsjúk kona. Angistarfullir stara þeir hver á annan, andlit þeirra eru sem eldslogi. 13.9 Sjá, dagur Drottins kemur, grimmilegur, með heift og brennandi reiði, til að gjöra jörðina að auðn og afmá syndarana af henni. 13.10 Stjörnur himinsins og stjörnumerkin láta eigi ljós sitt skína, sólin er myrk í uppgöngu sinni og tunglið ber eigi birtu sína. 13.11 Ég vil hegna jarðríki fyrir illsku þess og hinum óguðlegu fyrir misgjörðir þeirra, ég vil niðurkefja ofdramb hinna ríkilátu og lægja hroka ofbeldismannanna. 13.12 Ég vil láta menn verða sjaldgæfari en skíragull og mannfólkið torgætara en Ófír-gull. 13.13 Þess vegna vil ég hrista himininn, og jörðin skal hrærast úr stöðvum sínum fyrir heift Drottins allsherjar og á degi hans brennandi reiði. 13.14 Eins og fældar skógargeitur og eins og smalalaus hjörð skulu þeir hverfa aftur, hver til sinnar þjóðar, og flýja hver heim í sitt land. 13.15 Hver sem fundinn verður, mun lagður verða í gegn, og hver sem gripinn verður, mun fyrir sverði falla. 13.16 Ungbörn þeirra munu knosuð verða fyrir augum þeirra, hús þeirra verða rænd og konur þeirra smánaðar. 13.17 Sjá, ég æsi upp Medíumenn gegn þeim. Þeir meta einskis silfrið og þá langar ekki í gullið. 13.18 Bogar þeirra rota unga menn til dauða. Þeir þyrma ekki lífsafkvæmum, og líta ekki miskunnaraugum til ungbarna. 13.19 Svo skal fara fyrir Babýlon, þessari prýði konungsríkjanna og drembidjásni Kaldea, sem þá er Guð umturnaði Sódómu og Gómorru. 13.20 Hún skal aldrei framar af mönnum byggð vera, kynslóð eftir kynslóð skal þar enginn búa. Enginn Arabi skal slá þar tjöldum sínum og engir hjarðmenn bæla þar fénað sinn. 13.21 Urðarkettir skulu liggja þar og húsin fyllast af uglum. Strútsfuglar skulu halda þar til og skógartröll stökkva þar um. 13.22 Sjakalar skulu kallast á í höllunum og úlfar í bílífis-sölunum. Tími hennar nálægist og dagar hennar munu eigi undan dragast.
14.1 Drottinn mun miskunna Jakob og enn útvelja Ísrael. Hann mun gefa þeim bólfestu í landi þeirra, og útlendir menn munu sameinast þeim og gjöra félagsskap við Jakobs hús. 14.2 Og þjóðirnar munu taka þá og flytja þá til átthaga þeirra, en Ísraelsniðjar munu eignast þær að þrælum og ambáttum í landi Drottins. Þeir munu hertaka hertakendur sína og drottna yfir kúgurum sínum. 14.3 Þegar Drottinn veitir þér hvíld af þrautum þínum og ónæði og af hinni hörðu ánauð, sem á þig var lögð, 14.4 þá muntu kyrja upp háðkvæði þetta um konunginn í Babýlon og segja: Hversu hljóður er harðstjórinn nú orðinn, hve hljótt í kvalastaðnum! 14.5 Drottinn hefir sundurbrotið staf hinna óguðlegu, sprota yfirdrottnaranna, 14.6 sem laust þjóðflokkana í bræði högg á högg ofan, og kúgaði þjóðirnar í reiði með vægðarlausri kúgan. 14.7 Öll jörðin nýtur nú hvíldar og friðar, fagnaðarópin kveða við. 14.8 Jafnvel kýprestrén gleðjast yfir þér og sedrustrén á Líbanon: 'Fyrst þú ert lagstur lágt, mun enginn upp stíga til þess að fella oss.' 14.9 Hjá Helju niðri er allt í uppnámi þín vegna til þess að taka á móti þér. Vegna þín rekur hún hina dauðu á fætur, alla foringja jarðarinnar. Af hásætum sínum lætur hún upp standa alla þjóðkonunga. 14.10 Þeir taka allir til máls og segja við þig: 'Þú ert þá einnig orðinn máttvana sem vér, orðinn jafningi vor! 14.11 Ofmetnaðar-skrauti þínu er niður varpað til Heljar, hreimnum harpna þinna! Ormar eru breiddir undir þig, og ábreiðan þín eru maðkar.' 14.12 Hversu ertu hröpuð af himni, þú árborna morgunstjarna! Hversu ert þú að velli lagður, undirokari þjóðanna! 14.13 Þú, sem sagðir í hjarta þínu: 'Ég vil upp stíga til himins! Ofar stjörnum Guðs vil ég reisa veldistól minn! Á þingfjalli guðanna vil ég setjast að, yst í norðri. 14.14 Ég vil upp stíga ofar skýjaborgum, gjörast líkur Hinum hæsta!' 14.15 Já, til Heljar var þér niður varpað, í neðstu fylgsni grafarinnar. 14.16 Þeim sem sjá þig, verður starsýnt á þig, þeir virða þig fyrir sér: 'Er þetta maðurinn, sem skók jörðina og skelfdi konungsríkin, 14.17 gjörði jarðkringluna að eyðimörk, eyddi borgir hennar og gaf eigi bandingjum sínum heimfararleyfi?' 14.18 Allir konungar þjóðanna liggja virðulega grafnir, hver í sínu húsi, 14.19 en þér er fleygt út, langt frá gröf þinni, eins og auvirðilegum kvisti. Þú ert þakinn dauðra manna búkum, þeirra er lagðir voru sverði, eins og fótum troðið hræ. 14.20 Við þá, sem stíga niður í steinlagðar grafir, hefir þú eigi samneyti, því að land þitt hefir þú eytt, myrt þjóð þína. Eigi skal nefnt verða að eilífu afsprengi illvirkjanna. 14.21 Búið nú sonum hans rauðan serk sakir misgjörða feðra þeirra. Eigi skulu þeir fá risið á legg og lagt undir sig jörðina né fyllt jarðkringluna rústum! 14.22 Ég vil rísa upp í gegn þeim, segir Drottinn allsherjar, og afmá nafn og leifar Babýlonsborgar, ætt og afkomendur _ segir Drottinn. 14.23 Ég vil gefa hana stjörnuhegrum til eignar og láta hana verða að vatnsmýri. Ég vil sópa henni burt með sópi eyðingarinnar, segir Drottinn allsherjar. 14.24 Drottinn allsherjar hefir svarið og sagt: Sannlega, það, sem ég hefi fyrirhugað, skal verða og það, sem ég hefi ályktað, skal framgang fá. 14.25 Ég mun sundurmola Assýríu í landi mínu og fótum troða hana á fjöllum mínum. Skal þá ok hennar af þeim tekið og byrði hennar tekin af herðum þeirra. 14.26 Þetta er sú ráðstöfun, sem áformuð er um alla jörðina, og þetta er sú hönd, sem út er rétt gegn öllum þjóðum. 14.27 Drottinn allsherjar hefir ályktað þetta; hver má ónýta það? Það er hans hönd, sem út er rétt. Hver má kippa henni aftur? 14.28 Þessi spádómur var birtur árið, sem Akas konungur andaðist. 14.29 Gleðst þú eigi, gjörvöll Filistea, af því að stafurinn, sem sló þig, er í sundur brotinn, því að út af rót höggormsins mun naðra koma og ávöxtur hennar verða flugdreki. 14.30 Hinir allralítilmótlegustu skulu hafa viðurværi, og hinir fátæku hvílast óhultir, en rót þína vil ég með hungri deyða, og leifarnar af þér munu drepnar verða. 14.31 Kveina, þú hlið! Hljóða þú, borg! Gnötra þú, gjörvöll Filistea! því að mökkur kemur úr norðurátt, í fylkingum hans dregst enginn aftur úr. 14.32 Og hverju skal þá svara sendimönnum hinnar heiðnu þjóðar? Að Drottinn hafi grundvallað Síon, og að hinir þjáðu meðal þjóðar hans leiti sér hælis í henni.
15.1 Spádómur um Móab. Já, á náttarþeli verður Ar í Móab unnin og gjöreydd! Já, á náttarþeli verður Kír í Móab unnin og gjöreydd! 15.2 Íbúar Díbon stíga upp á hæðirnar til að gráta. Móab kveinar á Nebó og í Medeba. Hvert höfuð er sköllótt, allt skegg af rakað. 15.3 Á strætunum eru þeir gyrtir hærusekk. Uppi á þökunum og á torgunum kveina þeir allir, fljótandi í tárum. 15.4 Íbúar Hesbon og Eleale hljóða svo hátt, að það heyrist til Jahas. Þess vegna æpa hermennirnir í Móab, þeim er horfinn hugur. 15.5 Hjarta mitt kveinar yfir Móab, flóttamenn þeirra flýja til Sóar, til Eglat Selisía. Grátandi ganga þeir upp stíginn hjá Lúkít. Á veginum til Hórónaím hefja þeir neyðarkvein tortímingarinnar. 15.6 Nimrímvötn eru orðin að öræfum, því að grasið skrælnar, jurtirnar eyðast, allt grængresi hverfur. 15.7 Fyrir því bera þeir það, sem þeir hafa dregið saman, og það, sem þeir hafa geymt, yfir Pílviðará. 15.8 Neyðarkveinið gengur yfir gjörvallt Móabsland. Hljóðin berast allt til Eglaím, hljóðin berast allt til Beer Elím. 15.9 Vötn Dímonar eru full af blóði. Já, enn vil ég leggja meira á Dímon: Ljón fyrir þá, sem undan komast frá Móab, og fyrir þá, sem eftir verða í landinu.
16.1 Sendið landshöfðingjanum sauðaskattinn úr klettagjánum gegnum eyðimörkina til fjalls Síondóttur. 16.2 Eins og flöktandi fuglar, eins og ungar, fældir úr hreiðri, skulu Móabsdætur verða við vöðin á Arnon. 16.3 'Legg nú ráð, veit hjálp, gjör skugga þinn um hábjartan dag sem nótt. Fel hina burtreknu, seg ekki til flóttamannanna. 16.4 Ljá hinum burtreknu úr Móab dvöl hjá þér. Ver þeim verndarskjól fyrir eyðandanum. Þegar kúgarinn er horfinn burt, eyðingunni linnir og undirokararnir eru farnir úr landinu, 16.5 þá mun veldisstóll reistur verða með miskunnsemi og á honum sitja með trúfesti í tjaldi Davíðs dómari, sem leitar réttinda og temur sér réttlæti.' 16.6 Vér höfum heyrt drambsemi Móabs _ hann er mjög hrokafullur _ ofmetnað hans, drambsemi og ofsa, og hin marklausu stóryrði hans. 16.7 Þess vegna kveina nú Móabítar yfir Móab, allir kveina þeir. Yfir rúsínukökum Kír Hareset munu þeir andvarpa harla hnuggnir. 16.8 Því að akurlönd Hesbon eru fölnuð og víntré Síbma. Vín þeirra varpaði höfðingjum þjóðanna til jarðar. Vínviðarteinungarnir náðu til Jaser, villtust út um eyðimörkina. Greinar þeirra breiddu sig út, fóru yfir hafið. 16.9 Fyrir því græt ég með Jaser yfir víntrjám Síbma. Ég vökva þig með tárum mínum, Hesbon og Eleale! því að fagnaðarópum óvinanna laust yfir sumargróða þinn og vínberjatekju. 16.10 Fögnuður og kæti eru horfin úr aldingörðunum, og í víngörðunum heyrast engir gleðisöngvar né fagnaðarhljóð. Troðslumenn troða ekki vínber í vínþröngunum, ég hefi látið fagnaðaróp þeirra þagna. 16.11 Fyrir því titrar hjarta mitt sem gígjustrengur sökum Móabs og brjóst mitt sökum Kír Hares. 16.12 Og þó að Móab sýni sig á blóthæðinni og streitist við og fari inn í helgidóm sinn til að biðjast fyrir, þá mun hann samt engu til leiðar koma. 16.13 Þetta er það orð, sem Drottinn talaði um Móab fyrrum. 16.14 En nú talar Drottinn á þessa leið: Áður en þrjú ár eru liðin, slík sem ár kaupamanna eru talin, skal vegsemd Móabs með öllum hinum mikla mannfjölda fyrirlitin verða, en leifar munu eftir verða, lítilfenglegar, eigi teljandi.
17.1 Spádómur um Damaskus. Sjá, Damaskus skal verða afmáð og ekki vera borg framar, hún skal verða að rústum. 17.2 Borgir Aróer skulu verða yfirgefnar, hjörðum skulu þær verða til beitar, þar skulu þær liggja og enginn styggja þær. 17.3 Varnarvirki Efraíms líður undir lok og konungdómurinn hverfur frá Damaskus. Fyrir leifum Sýrlands skal fara eins og fyrir vegsemd Ísraelsmanna _ segir Drottinn allsherjar. 17.4 Á þeim degi mun vegsemd Jakobs verða lítilfengleg og fitan á holdi hans rýrna. 17.5 Þá mun fara líkt og þegar kornskurðarmaður safnar kornstöngum og armleggur hans afsníður öxin, og eins og þegar öx eru tínd í Refaím-dal. 17.6 Eftirtíningur skal eftir verða af þeim, eins og þegar olíuviður er skekinn, tvö eða þrjú ber efst í laufinu, fjögur eða fimm á greinum aldintrésins _ segir Drottinn, Ísraels Guð. 17.7 Á þeim degi mun maðurinn mæna til skapara síns og augu hans líta til Hins heilaga í Ísrael. 17.8 Eigi mun hann þá mæna á ölturun, handaverk sín, né líta til þess, er fingur hans hafa gjört, hvorki til aséranna né sólsúlnanna. 17.9 Á þeim degi munu hinar víggirtu borgir hans verða sem yfirgefnir staðir Amoríta og Hevíta, er þeir fyrirlétu, þá er þeir hrukku undan Ísraelsmönnum, og landið skal verða að auðn, 17.10 því að þú hefir gleymt Guði hjálpræðis þíns og eigi minnst þess hellubjargsins, sem er hæli þitt. Vegna þess að þú plantar yndislega garða og setur þar niður útlenda gróðurkvistu, 17.11 ræktar garð þinn á daginn og lætur á morgnana útsæði þitt blómgast, skal uppskeran bregðast á degi hins banvæna sárs og hinna ólæknandi kvala. 17.12 Heyr gný margra þjóða _ þær gnýja sem gnýr hafsins. Heyr dyn þjóðflokkanna _ þeir dynja eins og dynur mikilla vatnsfalla. 17.13 Þjóðflokkarnir dynja eins og dynur margra vatnsfalla. En Drottinn hastar á þá, og þá flýja þeir langt burt. Þeir tvístrast eins og sáðir á hólum fyrir vindi, eins og rykmökkur fyrir stormi. 17.14 Að kveldi er þar skelfing, áður en morgnar eru þeir allir á burt. Þetta er hlutskipti þeirra, er oss ræna, og örlög þeirra, er frá oss rupla.
18.1 Vei landi vængjaþytsins, hinumegin Blálands fljóta, 18.2 er gjörir út sendimenn yfir hafið og í reyrbátum yfir vötnin. Farið, þér hröðu sendiboðar, til hinna hávöxnu og gljáandi þjóðar, til lýðsins, sem hræðilegur var þegar frá upphafi vega sinna, til hinnar afar sterku þjóðar, sem allt treður undir fótum sér, um hverrar land fljótin renna: 18.3 Allir þér, sem heimskringluna byggið og á jörðu búið, skuluð sjá, þegar merkið er reist á fjöllunum, og hlusta, þegar blásið er í lúðurinn. 18.4 Því að svo hefir Drottinn sagt við mig: Ég vil halda kyrru fyrir og horfa á frá bústað mínum, meðan loftið er glóandi í sólskininu, meðan döggin er mikil í breiskjuhita kornskurðartímans. 18.5 Áður en uppskeran kemur, þegar blómgunin er á enda og blómið verður að fullvöxnu vínberi, heggur hann vínviðargreinarnar af með sniðlinum, og frjóangana stýfir hann, sníður þá af. 18.6 Allir saman skulu þeir gefnir verða ránfuglum fjallanna og dýrum jarðarinnar. Ránfuglarnir skulu sitja á þeim sumarlangt og öll dýr jarðarinnar halda sig þar þegar vetrar. 18.7 Á þeim tíma skulu gjafir verða færðar Drottni allsherjar frá hinum hávaxna og gljáandi lýð, frá lýðnum, sem hræðilegur var þegar frá upphafi vega sinna, frá hinni afar sterku þjóð, sem allt treður undir fótum sér, um hverrar land fljótin renna, _ til þess staðar, þar sem nafn Drottins hersveitanna er, til Síonfjalls.
19.1 Spádómur um Egyptaland. Sjá, Drottinn ekur á léttfæru skýi og kemur til Egyptalands. Þá skjálfa goð Egyptalands fyrir honum og hjörtu Egypta bráðna í brjóstum þeirra. 19.2 Ég æsi Egypta í gegn Egyptum, svo að bróðir skal berjast við bróður, vinur við vin, borg við borg og ríki við ríki. 19.3 Hyggindi Egypta munu þá verða örþrota, og ráðagjörðir þeirra ónýti ég. Þeir munu leita frétta hjá goðum sínum, hjá galdramönnum, þjónustuöndum og spásagnaröndum. 19.4 Ég vil selja Egypta harðráðum drottnara á vald, og grimmur konungur skal ríkja yfir þeim _ segir hinn alvaldi, Drottinn allsherjar. 19.5 Vötnin í sjónum munu þverra og fljótið grynnast og þorna upp. 19.6 Árkvíslarnar munu fúlna, fljót Egyptalands þverra og þorna, reyr og sef visna. 19.7 Engjarnar fram með Níl, á sjálfum Nílarbökkunum, og öll sáðlönd við Níl þorna upp, eyðast og hverfa. 19.8 Þá munu fiskimennirnir andvarpa og allir þeir sýta, sem öngli renna í Níl, og þeir, sem leggja net í vötn, munu örvilnast. 19.9 Þeir, sem vinna hörinn, munu standa ráðþrota, kembingarkonurnar og vefararnir blikna. 19.10 Stoðir landsins skulu brotnar verða sundur, allir þeir, sem vinna fyrir kaup, verða hugdaprir. 19.11 Höfðingjarnir í Sóan eru tómir heimskingjar, ráðspekin hjá hinum vitrustu ráðgjöfum Faraós orðin að flónsku. Hvernig dirfist þér að segja við Faraó: 'Ég er sonur vitringanna og kominn af fornkonungunum'? 19.12 Hvar eru nú vitringar þínir? Þeir ættu nú að segja þér, og mega vita, hverja fyrirætlan Drottinn allsherjar hefir með Egyptaland. 19.13 Höfðingjarnir í Sóan standa eins og afglapar, höfðingjarnir í Nóf eru á tálar dregnir. Þeir sem eru hyrningarsteinar ættkvísla Egyptalands, hafa leitt það á glapstigu. 19.14 Drottinn hefir byrlað þeim sundlunaranda, svo að þeir valda því, að Egyptaland er á reiki í öllum fyrirtækjum sínum, eins og drukkinn maður reikar innan um spýju sína. 19.15 Ekkert heppnast Egyptalandi, hvorki það sem höfuð eða hali, pálmakvistur eða sefstrá taka sér fyrir að gjöra. 19.16 Á þeim degi munu Egyptar verða sem konur, þeir munu skelfast og hræðast reidda hönd Drottins allsherjar, er hann reiðir gegn þeim. 19.17 Þá skal Egyptalandi standa ótti af Júdalandi. Í hvert sinn sem á það er minnst við þá munu þeir skelfast, vegna ráðs þess, er Drottinn allsherjar hefir ráðið gegn þeim. 19.18 Á þeim degi munu fimm borgir í Egyptalandi mæla á kanverska tungu og sverja hlýðni Drottni allsherjar. Skal ein þeirra kallast Bær réttvísinnar. 19.19 Á þeim degi mun vera altari handa Drottni í miðju Egyptalandi og merkissteinn handa Drottni við landamærin. 19.20 Það skal vera til merkis og vitnisburðar um Drottin allsherjar í Egyptalandi. Þegar þeir hrópa til Drottins undan kúgurunum, mun hann senda þeim fulltingjara og forvígismann, er frelsar þá. 19.21 Drottinn mun kunnur verða Egyptalandi, og Egyptar munu þekkja Drottin á þeim degi. Þeir munu dýrka hann með sláturfórnum og matfórnum og vinna Drottni heit og efna þau. 19.22 Og Drottinn mun slá Egyptaland, slá og græða, og þeir munu snúa sér til Drottins, og hann mun bænheyra þá og græða þá. 19.23 Á þeim degi skal vera brautarvegur frá Egyptalandi til Assýríu, og Assýringar skulu koma til Egyptalands og Egyptar til Assýríu, og Egyptar munu tilbiðja ásamt Assýringum. 19.24 Á þeim degi munu þessir þrír taka saman, Ísrael, Egyptaland og Assýría, og vera blessun á jörðinni miðri. 19.25 Drottinn allsherjar blessar þá og segir: Blessuð sé þjóð mín Egyptar, verkið handa minna Assýría og arfleifð mín Ísrael!
20.1 Árið sem yfirhershöfðinginn kom til Asdód, sendur af Sargon Assýríukonungi, og herjaði á Asdód og vann hana, _ 20.2 í það mund talaði Drottinn fyrir munn Jesaja Amozsonar á þessa leið: Far og leys hærusekkinn af lendum þér og drag skó þína af fótum þér. Og hann gjörði svo og gekk fáklæddur og berfættur. 20.3 Og Drottinn mælti: Eins og Jesaja þjónn minn hefir gengið fáklæddur og berfættur í þrjú ár sem tákn og fyrirburður um Egyptaland og Bláland, 20.4 svo skal Assýríukonungur færa burt bandingjana frá Egyptalandi og útlagana frá Blálandi, bæði unga og gamla, fáklædda og berfætta, með bera bakhlutina, Egyptum til smánar. 20.5 Þá munu þeir skelfast og skammast sín vegna Blálands, er þeir reiddu sig á, og Egyptalands, er þeir stærðu sig af. Og þeir, sem búa á þessari strönd, munu segja á þeim degi: 'Svo er þá komið fyrir þeim, er vér reiddum oss á og flýðum til í von um hjálp til þess að frelsast undan Assýríukonungi! Hversu megum vér þá sjálfir komast undan?'
21.1 Spádómur um öræfin við hafið. Eins og fellibyljir í suðurlandinu geysist það áfram, það kemur úr öræfunum, úr hinu hræðilega landi. 21.2 Hörð tíðindi hafa mér birt verið: 'Ránsmenn ræna, hermenn herja! Áfram, Elamítar! Gjörið umsát, Medíumenn! Ég gjöri enda á öllum andvörpum.' 21.3 Þess vegna skjálfa lendar mínar, þess vegna hremma sárir verkir mig, eins og hríðir jóðsjúka konu. Ég engist saman, svo að ég heyri ekkert, ég er svo agndofa, að ég sé ekkert. 21.4 Hjarta mitt er ringlað, skelfing er skyndilega yfir mig komin. Nú er nóttin, sem ég jafnan hefi þráð, orðin mér að skelfingu. 21.5 Borðin eru sett fram og ábreiðurnar breiddar á hvílubekkina, etið er og drukkið. 'Rísið upp, þjóðhöfðingjar! Smyrjið skjölduna!' 21.6 Svo sagði Drottinn við mig: 'Far þú og nem staðar á sjónarhólnum og seg, hvað þú sér. 21.7 Og sjáir þú menn á reið, tvo reiðmenn, annan ríðandi á asna, hinn á úlfalda, þá legg þú hlustirnar við.' 21.8 En ég kallaði: 'Æ, Drottinn, á ég að standa allan daginn á sjónarhól og vera á varðbergi nótt eftir nótt?' 21.9 En sjá, þá komu menn ríðandi, tveir reiðmenn. Og þeir tóku til orða og sögðu: 'Fallin, fallin er Babýlon, og allar goðalíkneskjur hennar liggja sundur brotnar á jörðinni.' 21.10 Kramda og þreskta þjóðin mín, það sem ég hefi heyrt af Drottni allsherjar, Guði Ísraels, það hefi ég kunngjört yður. 21.11 Spádómur um Dúma. Það er kallað til mín frá Seír: 'Vökumaður, hvað líður nóttinni? Vökumaður, hvað líður nóttinni?' 21.12 Vökumaðurinn svarar: 'Morgunninn kemur, og þó er nótt. Ef þér viljið spyrja, þá komið aftur og spyrjið.' 21.13 Spádómur um Arabíu. Takið náttstað í kjarrinu að kveldi, þér kaupmannalestir Dedansmanna! 21.14 Komið út með vatn á móti hinum þyrstu, þér sem búið í Temalandi! Færið brauð flóttamönnunum! 21.15 Því þeir flýja undan sverðunum, undan brugðnu sverði, undan bendum boga, undan þunga ófriðarins. 21.16 Því að svo hefir Drottinn sagt við mig: Áður en eitt ár er liðið, eins og ár kaupamanna eru talin, skal öll vegsemd Kedars að engu verða, 21.17 og leifarnar, sem eftir verða af bogum Kedarínga kappa, munu verða teljandi, því að Drottinn, Ísraels Guð, hefir sagt það.
22.1 Spádómur um Sjóna-dalinn. Hvað kemur að þér, að allt fólk þitt skuli vera stigið upp á húsþökin, 22.2 þú ofkætisfulli, hávaðasami bær, þú glaummikla borg? Menn þínir, sem fallnir eru, hafa ekki fallið fyrir sverði né beðið bana í orustum. 22.3 Höfðingjar þínir lögðu allir saman á flótta, voru handteknir án þess skotið væri af boga. Allir menn þínir, er náðust, voru handteknir hver með öðrum, þótt þeir hefðu flúið langt burt. 22.4 Þess vegna segi ég: 'Látið mig einan, ég vil gráta beisklega. Gjörið mér eigi ónæði með því að hugga mig yfir eyðingu dóttur þjóðar minnar.' 22.5 Því að dagur skelfingar, undirokunar og úrræðaleysis var kominn frá hinum alvalda, Drottni allsherjar, í Sjóna-dalnum. Múrar voru brotnir niður, óhljóðin heyrðust til fjalla. 22.6 Elam tók örvamælinn, ásamt mönnuðum vögnum og hestum, og Kír tók hlífar af skjöldum. 22.7 Þínir fegurstu dalir fylltust hervögnum, og riddarar tóku sér stöðu fyrir borgarhliðunum. 22.8 Og hann tók skýluna burt frá Júda. Á þeim degi skyggndist þú um eftir herbúnaðinum í Skógarhúsinu, 22.9 og þér sáuð, að veggskörðin voru mörg í Davíðsborg. Og þér söfnuðuð vatninu í neðri tjörninni, 22.10 tölduð húsin í Jerúsalem og rifuð húsin til þess að treysta með múrvegginn. 22.11 Og þér bjugguð til vatnstæðu milli múrveggjanna tveggja fyrir vatnið úr gömlu tjörninni. En að honum, sem þessu veldur, gáfuð þér eigi gætur, og til hans, sem hagaði þessu svo fyrir löngu, lituð þér ekki. 22.12 Á þeim degi kallaði hinn alvaldi, Drottinn allsherjar, menn til að gráta og kveina, til að reyta hár sitt og gyrðast hærusekk. 22.13 En sjá, hér er gleði og glaumur, naut drepin, sauðum slátrað, kjöt etið, vín drukkið: 'Etum og drekkum, því á morgun deyjum vér!' 22.14 Opinberun Drottins allsherjar hljómar í eyrum mínum: 'Sannlega skuluð þér eigi fá afplánað þessa misgjörð áður en þér deyið'_ segir hinn alvaldi, Drottinn allsherjar. 22.15 Svo mælti hinn alvaldi, Drottinn allsherjar: Far þú og gakk til þessa dróttseta, hans Sébna, er forstöðu veitir húsi konungsins: 22.16 Hvað hefir þú hér að gjöra? Og hvern átt þú hér, er þú lætur höggva þér hér gröf? Þú sem höggva lætur gröf handa þér á háum stað og lætur grafa handa þér legstað í berginu. 22.17 Sjá, Drottinn varpar þér burt, maður! Hann þrífur fast í þig, 22.18 vefur þig saman í böggul og þeytir þér sem sopp út á víðan vang. Þar skalt þú deyja og þar skulu þínir dýrlegu vagnar vera, þú sem ert húsi Drottins þíns til svívirðu! 22.19 Ég hrindi þér úr stöðu þinni, og úr embætti þínu skal þér steypt verða. 22.20 En á þeim degi mun ég kalla þjón minn, Eljakím Hilkíason. 22.21 Ég færi hann í kyrtil þinn og gyrði hann belti þínu og fæ honum í hendur vald þitt. Hann skal verða faðir Jerúsalembúa og Júdaniðja. 22.22 Og lykilinn að húsi Davíðs legg ég á herðar honum. Þegar hann lýkur upp, skal enginn læsa; þegar hann læsir, skal enginn upp ljúka. 22.23 Ég rek hann eins og nagla á haldgóðan stað, og hann skal verða veglegt hásæti fyrir hús föður síns. 22.24 En hengi allur þungi föðurættar hans sig á hann með niðjum sínum og skyldmennum, öll smákerin, eigi aðeins skálarnar, heldur og öll leirkerin, 22.25 þá mun naglinn _ það eru orð Drottins allsherjar, _ sem rekinn var á haldgóðum stað, jafnskjótt láta undan, brotna og detta niður, og byrðin, sem á honum hékk, skal sundur molast, því að Drottinn hefir talað það.
23.1 Spádómar um Týrus. Kveinið, þér Tarsisknerrir, því að hún er í eyði lögð! Ekkert hús þar framar, ekkert til að fara inn í! Frá Kýpur berst þeim sú fregn. 23.2 Verið hljóðir, þér íbúar eyborgarinnar, sem full var af kaupmönnum frá Sídon, er yfir hafið fara, 23.3 og dró að sér Síkor-sáð og Nílarkorn yfir hin miklu höf og var kauptún þjóðanna! 23.4 Fyrirverð þig, sæborgin Sídon, því særinn segir: 'Eigi hefi ég verið jóðsjúkur og eigi fætt, og eigi hefi ég fóstrað yngismenn né uppalið meyjar.' 23.5 Þegar fregnin kemur til Egyptalands, munu þeir skelfast af fregninni um Týrus. 23.6 Farið yfir til Tarsis og kveinið, þér íbúar eyborgarinnar. 23.7 Er þetta glaummikla borgin yðar, sem rekur uppruna sinn fram til fornaldar daga og stikað hefir langar leiðir til þess að taka sér bólfestu? 23.8 Hver hefir ályktað svo um Týrus, um hana, sem ber höfuðdjásnið, þar sem kaupmennirnir voru höfðingjar og verslunarmennirnir tignustu menn á jörðu? 23.9 Drottinn allsherjar hefir ályktað þetta til þess að ósæma allt hið dýrlega skraut og lægja alla hina tignustu menn á jörðu. 23.10 Flæð yfir land þitt eins og Nílfljótið, Tarsisdóttir, engir flóðgarðar eru framar til. 23.11 Drottinn rétti hönd sína út yfir hafið, skelfdi konungsríki. Hann bauð að gjöreyða varnarvirki Kanaans. 23.12 Hann sagði: Þú skalt aldrei framar leika af kæti, þú spjallaða mey, Sídondóttir. Statt upp og far yfir til Kýprus; þú skalt ekki heldur finna þar hvíld. 23.13 Sjá land Kaldea, það er þjóðin, sem orðin er að engu. Assýringar hafa fengið það urðarköttum. Þeir reistu vígturna sína, rifu niður hallirnar, gjörðu landið að rústum. 23.14 Kveinið, þér Tarsis-knerrir, því að varnarvirki yðar er lagt í eyði. 23.15 Á þeim dögum skal Týrus gleymast í sjötíu ár, eins og um daga eins konungs. En að liðnum sjötíu árum mun fara fyrir Týrus eins og segir í skækjukvæðinu: 23.16 Tak gígjuna, far um alla borgina, þú gleymda skækja! Leik fagurlega, syng hátt, svo að eftir þér verði munað! 23.17 Að liðnum þeim sjötíu árum mun Drottinn vitja Týrusar. Mun hún þá aftur fá skækjulaun sín og hórast með öllum konungsríkjum veraldarinnar, þeim sem á jörðinni eru; 23.18 en aflafé hennar og skækjulaun skulu helguð verða Drottni. Það skal ekki verða lagt í sjóð eða geymt, því að þeir, sem búa frammi fyrir augliti Drottins, skulu fá aflafé hennar sér til fæðslu og saðningar og sæmilegs klæðnaðar.
24.1 Sjá, Drottinn tæmir jörðina og eyðir hana, hann umhverfir ásjónu hennar og tvístrar íbúum hennar. 24.2 Eitt gengur yfir prest og alþýðu, yfir húsbónda og þjón, yfir húsfreyju og þernu, yfir seljanda og kaupanda, yfir lánsala og lánþega, yfir okrarann og skuldunaut hans. 24.3 Jörðin skal verða altæmd og gjörsamlega rænd, því að Drottinn hefir talað þetta. 24.4 Jörðin viknar og kiknar, heimur bliknar og kiknar, tignarmenni lýðsins á jörðu blikna. 24.5 Jörðin vanhelgast undir fótum þeirra, er á henni búa, því að þeir hafa brotið lögin, brjálað boðorðunum og rofið sáttmálann eilífa. 24.6 Þess vegna eyðir bölvun jörðinni og íbúar hennar gjalda fyrir það. Þess vegna farast íbúar jarðarinnar af hita, svo að fátt manna er eftir orðið. 24.7 Vínberjalögurinn sýtir, vínviðurinn visnar, nú andvarpa allir þeir sem áður voru af hjarta glaðir. 24.8 Gleðihljóð bumbnanna er þagnað, hávaði hinna glaðværu hættur, gleðiómur gígjunnar þagnaður. 24.9 Menn sitja ekki syngjandi að víndrykkju, þeim sem drekka áfengan drykk, finnst hann beiskur. 24.10 Borgirnar eru lagðar í eyði, öll hús lokuð, svo að ekki verður inn komist. 24.11 Á strætunum er harmakvein af vínskortinum, öll gleði er horfin, fögnuður landsins flúinn. 24.12 Auðnin ein er eftir í borginni, borgarhliðin eru mölbrotin. 24.13 Því að á jörðinni miðri, á meðal þjóðanna, skal svo fara sem þá er olíuviður er skekinn, sem við eftirtíning að loknum vínberjalestri. 24.14 Þeir hefja upp raust sína og fagna. Yfir hátign Drottins gjalla gleðiópin í vestri. 24.15 Vegsamið þess vegna Drottin á austurvegum, nafn Drottins, Ísraels Guðs, á ströndum hafsins! 24.16 Frá ysta jaðri jarðarinnar heyrðum vér lofsöngva: 'Dýrð sé hinum réttláta!' En ég sagði: 'Æ, mig auman! Æ, mig auman! Vei mér!' Ránsmenn ræna, ránum ránsmenn ræna. 24.17 Geigur, gröf og gildra koma yfir þig, jarðarbúi. 24.18 Sá sem flýr undan hinum geigvæna gný, fellur í gröfina, og sá sem kemst upp úr gröfinni, festist í gildrunni, því að flóðgáttirnar á hæðum ljúkast upp og grundvöllur jarðarinnar skelfur. 24.19 Jörðin brestur og gnestur, jörðin rofnar og klofnar, jörðin riðar og iðar. 24.20 Jörðin skjögrar eins og drukkinn maður, henni svipar til og frá eins og vökuskýli. Misgjörð hennar liggur þungt á henni, hún hnígur og fær eigi risið upp framar. 24.21 Á þeim degi mun Drottinn vitja hers hæðanna á hæðum og konunga jarðarinnar á jörðu. 24.22 Þeim skal varpað verða í gryfju, eins og fjötruðum bandingjum, og þeir skulu byrgðir verða í dýflissu. Eftir langa stund skal þeim hegnt verða. 24.23 Þá mun máninn fyrirverða sig og sólin blygðast sín, því að Drottinn allsherjar sest að völdum á Síonfjalli og í Jerúsalem, og fyrir augliti öldunga hans mun dýrð ljóma.
25.1 Drottinn, þú ert minn Guð! Ég vil vegsama þig, lofa nafn þitt! Þú hefir framkvæmt furðuverk, löngu ráðin ráð, trúfesti og sannleika. 25.2 Þú hefir gjört bæi að grjóthrúgu, víggirtar borgir að hruninni rúst. Hallir óvinanna eru eigi framar bæir, þær skulu aldrei verða reistar aftur. 25.3 Þess vegna munu harðsnúnar þjóðir heiðra þig og borgir ofríkisfullra þjóða óttast þig. 25.4 Þú varst vörn lítilmagnans, vörn hins vesala í nauðum hans, skjól í skúrunum, hlíf í hitanum. Þótt andgustur ofríkismannanna sé eins og kuldaskúrir, 25.5 glaumkæti óvinanna eins og sólarbreiskja í ofþurrki, þá sefar þú sólarbreiskjuna með skugganum af skýinu, og sigursöngur ofríkismannanna hljóðnar. 25.6 Drottinn allsherjar mun á þessu fjalli búa öllum þjóðum veislu með krásum, veislu með dreggjavíni, mergjuðum krásum og skírðu dreggjavíni. 25.7 Og hann mun afmá á þessu fjalli skýlu þá, sem hylur alla lýði, og þann hjúp, sem breiddur er yfir allar þjóðir. 25.8 Hann mun afmá dauðann að eilífu, og hinn alvaldi Drottinn mun þerra tárin af hverri ásjónu, og svívirðu síns lýðs mun hann burt nema af allri jörðinni, því að Drottinn hefir talað það. 25.9 Á þeim degi mun sagt verða: 'Sjá, þessi er vor Guð, vér vonuðum á hann, að hann mundi frelsa oss. Þessi er Drottinn, vér vonuðum á hann. Fögnum og gleðjumst yfir hjálpræði hans!' 25.10 Hönd Drottins mun hvíla yfir þessu fjalli, en Móab verða fótum troðinn þar sem hann er, eins og hálmur er troðinn niður í haugpolli. 25.11 Og hann mun breiða út hendur sínar niðri í pollinum, eins og sundmaður gjörir til þess að taka sundtökin. En hann mun lægja dramb hans þrátt fyrir brögð handa hans. 25.12 Vígi þinna háu múra mun hann að velli leggja, steypa því niður og varpa til jarðar, ofan í duftið.
26.1 Á þeim degi mun þetta kvæði sungið verða í Júdalandi: Vér eigum rammgerva borg. Hjálpræði sitt gjörir hann að múrum og varnarvirki. 26.2 Látið upp hliðin, svo að réttlátur lýður megi inn ganga, sá er trúnaðinn varðveitir 26.3 og hefir stöðugt hugarfar. Þú veitir ævarandi frið, því að þeir treysta á þig. 26.4 Treystið Drottni æ og ætíð, því að Drottinn, Drottinn er eilíft bjarg. 26.5 Hann niðurlægir þá, sem byggja á hæðum. Háreistu borginni steypir hann niður, hann steypir henni til jarðar og leggur hana í duftið. 26.6 Fætur troða hana niður, fætur fátækra, iljar umkomulausra. 26.7 Vegur hins réttláta er sléttur, götu hins réttláta ryður þú. 26.8 Já, á vegi dóma þinna, Drottinn, væntum vér þín; þitt nafn og þína minning þráir sála vor. 26.9 Af hjarta þrái ég þig á næturnar, já, með andanum í brjósti mínu skima ég eftir þér. Þegar dómar þínir birtast á jörðu, þá læra byggjendur jarðríkis réttlæti. 26.10 Sé hinum óguðlegu sýnd vægð, læra þeir eigi réttlæti. Þá fremja þeir órétt í því landi, þar sem réttlæti skal ríkja, og gefa ekki gætur að hátign Drottins. 26.11 Drottinn, hönd þín er á lofti, en þeir sjá það ekki. Lát þá sjá vandlæti þitt lýðsins vegna og blygðast sín, já, eldur eyði óvinum þínum. 26.12 Drottinn, veit þú oss frið, því að þú hefir látið oss gjalda allra vorra verka. 26.13 Drottinn, Guð vor, aðrir drottnar en þú höfðu fengið yfirráð yfir oss, en nú viljum vér eingöngu lofa þitt nafn. 26.14 Dauðir lifna ekki, vofur rísa ekki upp. Þú vitjaðir þeirra og eyddir þeim og afmáðir alla minningu um þá. 26.15 Þú hefir gjört þjóðina stóra, Drottinn, þú hefir gjört þjóðina stóra, þú hefir gjört þig dýrlegan, þú hefir fært út öll takmörk landsins. 26.16 Drottinn, í neyðinni leituðu þeir þín, þeir stundu upp andvörpum, er þú hirtir þá. 26.17 Eins og þunguð kona, sem komin er að því að fæða, hefir hríðir og hljóðar í harmkvælum sínum, eins vorum vér fyrir þínu augliti, Drottinn! 26.18 Vér vorum þungaðir, vér höfðum hríðir en þegar vér fæddum, var það vindur. Vér höfum eigi aflað landinu frelsis, og heimsbúar hafa eigi fæðst. 26.19 Menn þínir, sem dánir eru, skulu lifna, lík þeirra rísa upp. Vaknið og hefjið fagnaðarsöng, þér sem búið í duftinu, því að döggin þín er dögg ljóssins, og jörðin skal fæða þá, sem dauðir eru. 26.20 Gakk þú, þjóð mín, inn í herbergi þitt og lyk aftur dyrunum á eftir þér. Fel þig skamma hríð, uns reiðin er liðin hjá. 26.21 Því sjá, Drottinn gengur út frá aðseturstað sínum til þess að hegna íbúum jarðarinnar fyrir misgjörðir þeirra. Jörðin mun birtast láta blóðið, sem á henni hefir verið úthellt, og hún mun ekki lengur hylja þá, sem á henni hafa myrtir verið.
27.1 Á þeim degi mun Drottinn með hinu harða, mikla og sterka sverði sínu hegna Levjatan, hinum flughraða dreka, Levjatan, hinum bugðótta dreka, og bana sjóskrímslinu. 27.2 Á þeim degi skuluð þér kveða um hinn yndislega víngarð: 27.3 Ég, Drottinn, er vörður hans, ég vökva hann á hverri stundu. Ég gæti hans nótt og dag, til þess að enginn vinni þar spell. 27.4 Mér er ekki reiði í hug, en finni ég þyrna og þistla ræðst ég á þá og brenni þá til ösku _ 27.5 nema menn leiti hælis hjá mér og gjöri frið við mig, gjöri frið við mig. 27.6 Á komandi tímum mun Jakob festa rætur, Ísrael blómgast og frjóvgast, og þeir munu fylla jarðarkringluna með ávöxtum. 27.7 Hefir Drottinn lostið lýðinn annað eins högg og það, er hann lýstur þá, sem lustu hann? Eða hefir Ísrael myrtur verið, eins og banamenn hans eru myrtir? 27.8 Með því að reka lýðinn frá þér, með því að láta hann frá þér, hegnir þú honum. Hann hreif hann burt með hinum hvassa vindi sínum, þegar austanstormurinn geisaði. 27.9 Þess vegna verður misgjörð Jakobs með því afplánuð og með því er synd hans algjörlega burt numin, að hann lætur alla altarissteinana verða sem brotna kalksteina, svo að asérurnar og sólsúlurnar rísa ekki upp framar. 27.10 Hin víggirta borg er komin í eyði, eins og mannauður og yfirgefinn áfangastaður í eyðimörkinni. Kálfar ganga þar á beit og liggja þar og bíta þar kvisti. 27.11 Þegar greinarnar þorna, eru þær brotnar, konur koma og kveikja eld við þær. Því að hún var óvitur þjóð, fyrir því getur hann, sem skóp hana, ekki verið henni miskunnsamur, og hann, sem myndaði hana, ekki verið henni líknsamur. 27.12 Á þeim degi mun Drottinn slá kornið úr axinu, allt í frá straumi Efrats til Egyptalandsár, og þér munuð saman tíndir verða einn og einn, Ísraelsmenn! 27.13 Á þeim degi mun blásið verða í mikinn lúður, og þá munu þeir koma, hinir töpuðu í Assýríu og hinir burtreknu í Egyptalandi, og þeir munu tilbiðja Drottin á fjallinu helga í Jerúsalem.
28.1 Vei hinum drembilega höfuðsveig drykkjurútanna í Efraím, hinu bliknandi blómi, hinni dýrlegu prýði, sem stendur á hæðinni í frjósama dalnum hinna víndrukknu. 28.2 Sjá, sterk og voldug hetja kemur frá Drottni. Eins og haglskúr, fárviðri, eins og dynjandi, streymandi regn í helliskúr varpar hann honum til jarðar með hendi sinni. 28.3 Fótum troðinn skal hann verða, hinn drembilegi höfuðsveigur drykkjurútanna í Efraím. 28.4 Og fyrir hinu bliknandi blómi, hinni dýrlegu prýði, sem stendur á hæðinni í frjósama dalnum, skal fara eins og árfíkju, er þroskast fyrir uppskeru: Einhver kemur auga á hana og gleypir hana óðara en hann hefir náð henni. 28.5 Á þeim degi mun Drottinn allsherjar vera dýrlegur höfuðsveigur og prýðilegt höfuðdjásn fyrir leifar þjóðar sinnar 28.6 og réttlætisandi þeim, er í dómum sitja, og styrkleikur þeim, er bægja burt ófriðnum að borghliðum óvinanna. 28.7 En einnig hérna reika menn af víni og skjögra af áfengum drykkjum. Prestar og spámenn reika af áfengum drykkjum, eru ruglaðir af víni, skjögra af áfengum drykkjum. Þá svimar í vitrunum sínum og allt hringsnýst fyrir þeim í úrskurðum þeirra. 28.8 Því að öll borð eru full af viðbjóðslegri spýju, enginn blettur hreinn eftir. 28.9 'Hverjum þykist spámaðurinn vera að kenna visku og hvern ætlar hann að fræða með boðskap sínum? Erum vér nývandir af mjólkinni og nýteknir af brjóstunum? 28.10 Alltaf að skipa og skipa, skipa og skipa _ skamma og skamma, skamma og skamma _ ýmist þetta, ýmist hitt.' 28.11 Já, með stamandi vörum og annarlegri tungu mun hann láta tala til þessarar þjóðar, 28.12 hann sem sagði við þá: 'Þetta er hvíldin _ ljáið hinum þreytta hvíld! _ Hér er hvíldarstaður.' En þeir vildu ekki heyra. 28.13 Fyrir því mun orð Drottins láta svo í eyrum þeirra: 'Skipa og skipa, skipa og skipa _ skamma og skamma, skamma og skamma _ ýmist þetta, ýmist hitt,' að þeir steypist aftur á bak og beinbrotni, festist í snörunni og verði teknir. 28.14 Heyrið því orð Drottins, þér spottsamir menn, þér sem drottnið yfir fólki því, sem býr í Jerúsalem. 28.15 Þér segið: 'Vér höfum gjört sáttmála við dauðann og samning við Hel. Þó að hin dynjandi svipa ríði yfir, þá mun hún eigi til vor koma, því að vér höfum gjört lygi að hæli voru og falið oss í skjóli svikanna.' 28.16 Fyrir því segir hinn alvaldi Drottinn svo: Sjá, ég legg undirstöðustein á Síon, traustan stein, óbifanlegan, ágætan hornstein. Sá sem trúir, er eigi óðlátur. 28.17 Ég gjöri réttinn að mælivað og réttlætið að mælilóði. Og haglhríð skal feykja burt hæli lyginnar og vatnsflóð skola burt skjólinu. 28.18 Sáttmáli yðar við dauðann skal rofinn verða og samningur yðar við Hel eigi standa. Þá er hin dynjandi svipa ríður yfir, skuluð þér sundurmarðir verða af henni. 28.19 Í hvert sinn, sem hún ríður yfir, skal hún hremma yður, því að á hverjum morgni ríður hún yfir, nótt sem nýtan dag. Og það skal verða skelfingin ein að skilja boðskapinn. 28.20 Hvílan mun verða of stutt til þess að maður fái rétt úr sér, og ábreiðan of mjó til þess að maður fái skýlt sér með henni. 28.21 Drottinn mun standa upp, eins og á Perasímfjalli, hann mun reiðast, eins og í dalnum hjá Gíbeon. Hann mun vinna verk sitt, hið undarlega verk sitt, og framkvæma starf sitt, hið óvanalega starf sitt. 28.22 Látið nú af spottinu, svo að fjötrar yðar verði ekki enn harðari, því að ég hefi heyrt af hinum alvalda, Drottni allsherjar, að fastráðið sé, að eyðing komi yfir land allt. 28.23 Hlustið á og heyrið mál mitt! Hyggið að og heyrið orð mín! 28.24 Hvort plægir plógmaðurinn í sífellu til sáningar, ristir upp og herfar akurland sitt? 28.25 Hvort mun hann eigi, þegar hann hefir jafnað moldina að ofan, sælda þar kryddi og sá kúmeni, setja hveiti niður í raðir, bygg á tilteknum stað og speldi í útjaðarinn? 28.26 Guð hans kennir honum hina réttu aðferð og leiðbeinir honum. 28.27 Eigi er krydd þreskt með þreskisleða né vagnhjóli velt yfir kúmen, heldur er kryddblómið barið af með þúst og kúmen með staf. 28.28 Mun neyslukorn mulið sundur? Nei, menn halda ekki stöðugt áfram að þreskja það og keyra eigi vagnhjól sín né hesta yfir það, menn mylja það eigi sundur. 28.29 Einnig þetta kemur frá Drottni allsherjar. Hann er undursamlegur í ráðum og mikill í vísdómi.
29.1 Æ, Aríel, Aríel, þú borg, þar sem Davíð sló herbúðum! Bætið ári við þetta ár, lát hátíðirnar fara sinn hring, 29.2 þá þrengi ég að Aríel, og hún skal verða hryggð og harmur, og hún skal verða mér sem Aríel. 29.3 Ég vil setja herbúðir allt í kringum þig, umlykja þig með varðmönnum og reisa hervirki í móti þér. 29.4 Þú skalt tala lágri röddu upp úr jörðinni, og orð þín hljóma dimmum rómi úr duftinu. Rödd þín skal vera sem draugsrödd úr jörðinni og orð þín hljóma sem hvískur úr duftinu. 29.5 En mergð fjandmanna þinna skal verða sem moldryk og mergð ofbeldismannanna sem fjúkandi sáðir. Það skal verða skyndilega, á einu augabragði. 29.6 Hennar skal verða vitjað af Drottni allsherjar með reiðarþrumu, landskjálfta og miklum gný, fellibyljum, stormviðri og eyðandi eldsloga. 29.7 Eins og í draumsýn um nótt, þannig mun fara fyrir mergð allra þeirra þjóða, sem herja á Aríel, og öllum þeim, sem herja á hana og hervirki hennar og þrengja að henni. 29.8 Og eins og þegar hungraðan mann dreymir að hann eti, en vaknar svo jafnhungraður, og eins og þegar þyrstan mann dreymir að hann drekki, en vaknar svo örmagna og sárþyrstur, svo skal fara fyrir mergð allra þeirra þjóða, er herja á Síonfjall. 29.9 Fallið í stafi og undrist, gjörið yður sjónlausa og verið blindir! Gjörist drukknir, og þó ekki af víni, reikið, og þó ekki af áfengum drykk. 29.10 Því að Drottinn hefir úthellt yfir yður svefnsemi-anda og aftur lukt augu yðar _ spámennina _ og brugðið hulu yfir höfuð yðar _ þá sem vitranir fá. 29.11 Öll opinberun er yður sem orðin í innsiglaðri bók. Sé hún fengin þeim, sem kann að lesa, og sagt: 'Les þú þetta,' þá segir hann: 'Ég get það ekki, því að hún er innsigluð.' 29.12 En sé bókin fengin þeim, sem eigi kann að lesa, og sagt: 'Les þú þetta,' þá segir hann: 'Ég er ekki læs.' 29.13 Drottinn sagði: Með því að þessi lýður nálgast mig með munni sínum og heiðrar mig með vörum sínum, en fjarlægir hjarta sitt langt í burt frá mér, og með því að ótti þeirra fyrir mér er manna boðorð, lærð utan bókar, 29.14 sjá, fyrir því mun ég enn fara undursamlega með þennan lýð, undursamlega og undarlega. Speki spekinganna skal komast í þrot og hyggindi hyggindamannanna fara í felur. 29.15 Vei þeim, sem leggjast djúpt til þess að dylja áform sín fyrir Drottni og fremja verk sín í myrkrinu og segja: 'Hver sér oss? Hver veit af oss?' 29.16 Hvílík fásinna! Eða skal meta að jöfnu leirinn og smiðinn, svo að verkið geti sagt um meistarann: 'Hann hefir eigi búið mig til,' og smíðin geti sagt um smiðinn: 'Hann kann ekki neitt?' 29.17 Eftir skamma hríð skal Líbanonskógur verða að aldingarði og aldingarður talinn verða kjarrskógur. 29.18 Á þeim degi skulu hinir daufu heyra rituð orð, og augu hinna blindu skulu sjá út úr dimmunni og myrkrinu. 29.19 Þá mun aukast gleði hinna auðmjúku yfir Drottni, og hinir fátækustu meðal manna munu fagna yfir Hinum heilaga í Ísrael. 29.20 Því að ofbeldismenn eru ekki framar til og spottarar undir lok liðnir, og allir þeir upprættir, er ranglæti iðka, 29.21 þeir er sakfella menn fyrir rétti og leggja snörur fyrir þá, er vanda um á þingum, og blekkja hina saklausu með hégóma. 29.22 Fyrir því segir Drottinn, hann er frelsaði Abraham, svo um Jakobs hús: Jakob skal eigi framar þurfa að blygðast sín og ásjóna hans eigi framar blikna. 29.23 Því að þegar niðjar hans sjá verk handa minna á meðal sín, munu þeir helga nafn mitt, þeir munu helga Hinn heilaga, Jakobs Guð, og óttast Ísraels Guð. 29.24 Þá munu hinir andlega villtu átta sig og hinir þverúðarfullu láta sér segjast.
30.1 Vei hinum þverúðugu börnum _ segir Drottinn. Þau taka saman ráð, er eigi koma frá mér, og gjöra bandalag, án þess að minn andi sé með í verki, til að hlaða synd á synd ofan. 30.2 Þau gjöra sér ferð suður til Egyptalands án þess að leita minna atkvæða, til að leita sér hælis hjá Faraó og fá sér skjól í skugga Egyptalands. 30.3 En hælið hjá Faraó skal verða yður til skammar og skjólið í skugga Egyptalands til smánar! 30.4 Látum höfðingja lýðsins vera í Sóan og sendimenn hans komast alla leið til Hanes! 30.5 Þeir munu allir skammast sín fyrir þá þjóð, sem eigi hjálpar þeim, er að engu liði verður og til engrar hjálpar, heldur eingöngu til skammar og háðungar. 30.6 Spádómur um dýr Suðurlandsins. Um torfæruland og angistar, þar sem ljónynjur og ljón, eiturormar og flugdrekar hafast við, flytja þeir auðæfi sín á asnabökum og fjársjóðu sína á úlfaldakryppum til þeirrar þjóðar, sem eigi hjálpar þeim. 30.7 Liðveisla Egyptalands er fánýt og einskis virði. Fyrir því kalla ég það: Stórgortarinn, er eigi hefst að. 30.8 Far nú og rita það á spjald hjá þeim og letra það í bók, svo að það á komandi tímum verði til vitnisburðar ævinlega. 30.9 Því að þetta er þrjóskur lýður, lygin börn, börn sem eigi vilja heyra kenningu Drottins. 30.10 Þau segja við sjáendur: 'Þér skuluð eigi sjá sýnir,' og við vitranamenn: 'Þér skuluð eigi birta oss sannleikann. Sláið oss heldur gullhamra og birtið oss blekkingar. 30.11 Farið út af veginum, beygið út af brautinni, komið Hinum heilaga í Ísrael burt frá augliti voru.' 30.12 Fyrir því segir Hinn heilagi í Ísrael svo: Sökum þess að þér hafnið þessu orði, en reiðið yður á ofríki og andhælisskap og styðjist við það, 30.13 fyrir því skal þessi misgjörð verða yður eins og veggjarkafli, sem bungar út á háum múrvegg og kominn er að hruni. Skyndilega og að óvörum hrynur hann. 30.14 Og hann brotnar sundur, eins og þegar leirker er brotið, vægðarlaust mölvað, svo að af molunum fæst eigi svo mikið sem leirbrot til að taka með eld af arni eða til að ausa með vatni úr þró. 30.15 Svo hefir hinn alvaldi Drottinn, Hinn heilagi í Ísrael, sagt: Fyrir afturhvarf og rósemi skuluð þér frelsaðir verða, í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera. En þér vilduð það ekki 30.16 og sögðuð: 'Nei, á hestum skulum vér þjóta' _ fyrir því skuluð þér flýja! _ 'og á léttum reiðskjótum skulum vér ríða' _ fyrir því skulu þeir vera léttir á sér, sem elta yður! 30.17 Eitt þúsund skal flýja fyrir ógnunum eins manns, fyrir ógnunum fimm manna skuluð þér flýja, uns eftirleifar yðar verða sem vitastöng á fjallstindi og sem hermerki á hól. 30.18 En Drottinn bíður þess að geta miskunnað yður og heldur kyrru fyrir, uns hann getur líknað yður. Því að Drottinn er Guð réttlætis. Sælir eru allir þeir, sem á hann vona. 30.19 Já, þú lýður í Síon, þú sem býr í Jerúsalem, grát þú eigi án afláts. Hann mun vissulega miskunna þér, þegar þú kallar í neyðinni, hann mun bænheyra þig, þegar hann heyrir til þín. 30.20 Drottinn mun gefa yður neyðarbrauð og þrengingarvatn. En hann, sem kennir þér, mun þá eigi framar fela sig, heldur munu augu þín líta hann, 30.21 og eyru þín munu heyra þessi orð kölluð á eftir þér, þá er þér víkið til hægri handar eða vinstri: 'Hér er vegurinn! Farið hann!' 30.22 Þá munuð þér óhrein telja hin silfurlögðu skurðgoð yðar og hin gullbúnu líkneski yðar. Þú munt burt snara þeim eins og einhverri viðurstyggð, þú munt segja við þau: 'Burt héðan.' 30.23 Þá mun hann regn gefa sæði því, er þú sáir í akurland þitt, og brauð af gróðri akurlandsins; kjarngott og kostmikið mun það vera; fénaður þinn mun á þeim degi ganga í víðlendum grashaga. 30.24 Uxarnir og asnarnir, sem akurinn erja, skulu eta saltan fóðurblending, sem hreinsaður hefir verið með varpskóflu og varpkvísl. 30.25 Á hverju háu fjalli og á hverri gnæfandi hæð munu vatnslækir fram fljóta á hinum mikla mannfallsdegi, þegar turnarnir hrynja. 30.26 Þá mun tunglsljósið verða sem sólarljós, og sólarljósið sjöfaldast, eins og sjö daga ljós, þann dag er Drottinn bindur um sár þjóðar sinnar og græðir hennar krömdu undir. 30.27 Sjá, nafn Drottins kemur úr fjarlægð. Reiði hans bálar og þykkan reykjarmökk leggur upp af. Heiftin freyðir um varir hans og tunga hans er sem eyðandi eldur. 30.28 Andgustur hans er sem ólgandi vatnsfall, það er tekur manni í háls. Hann mun drifta þjóðirnar í sáldi eyðingarinnar og leggja þjóðunum í munn bitil þann, er leiðir þær afvega. 30.29 Þá munuð þér syngja ljóð, eins og aðfaranótt hátíðar, og hjartans gleði á yður vera, eins og þegar gengið er með hljóðpípum upp á fjall Drottins til hellubjargs Ísraels. 30.30 Þá mun Drottinn heyra láta hina hátignarlegu raust sína og láta sjá til sín, þegar hann reiðir ofan armlegg sinn í brennandi reiði, með eyðandi eldslogum, með helliskúrum, steypihríðum og hagléljum. 30.31 Já, fyrir raustu Drottins mun Assýría skelfast, er hann lýstur hana með sprota sínum. 30.32 Og í hvert sinn sem refsivölur sá, er Drottinn reiðir á lofti uppi yfir henni, kemur niður, mun heyrast bumbuhljóð og gígjusláttur, og með því að sveifla hendinni mun hann berjast gegn þeim. 30.33 Brennslugróf er þegar fyrir löngu undirbúin, hún er og gjörð handa konunginum. Hann hefir gjört eldstæðið í henni djúpt og vítt, hann ber að mikinn eld og við. Andgustur Drottins kveikir í því, eins og brennisteinsflóð.
31.1 Vei þeim, sem fara suður til Egyptalands í liðsbón, sem reiða sig á hesta og treysta á vagna, af því að þeir séu margir, og á riddara, af því að fjöldinn sé mikill, en líta ekki til Hins heilaga í Ísrael og leita ekki Drottins. 31.2 En hann er líka ráðspakur og lætur ógæfuna yfir koma og tekur ekki orð sín aftur. Hann rís upp í móti húsi illvirkjanna og í móti hjálparliði misgjörðamannanna. 31.3 Egyptar eru menn, en enginn Guð, hestar þeirra eru hold, en eigi andi. Þegar Drottinn réttir út hönd sína, hrasar liðveitandinn og liðþeginn fellur, svo að þeir farast allir hver með öðrum. 31.4 Svo hefir Drottinn við mig sagt: Eins og ljónið eða ljónskálfurinn urrar yfir bráð sinni, þegar hjarðmannahóp er stefnt saman á móti honum, og hann hræðist ekki köll þeirra og lætur ekki hugfallast við háreysti þeirra, eins mun Drottinn allsherjar ofan stíga til þess að herja á Síonfjall og hæð þess. 31.5 Eins og fuglar á flökti, eins mun Drottinn allsherjar vernda Jerúsalem, vernda hana og frelsa, vægja henni og bjarga. 31.6 Hverfið aftur, þér Ísraelsmenn, til hans, sem þér eruð horfnir svo langt í burtu frá. 31.7 Því að á þeim degi munu þeir hver og einn hafna silfurgoðum sínum og gullgoðum, er sekar hendur yðar hafa gjört handa yður. 31.8 Assýría skal fyrir sverði falla, en ekki fyrir manna sverði. Sverð skal verða henni að bana, en ekkert mannssverð. Hún mun undan sverði flýja og æskumenn hennar verða ánauðugir. 31.9 Og bjarg hennar mun farast af ótta og höfðingjar hennar flýja í ofboði undan merkinu. Svo segir Drottinn, sem hefir eld sinn á Síon og arin sinn í Jerúsalem.
32.1 Þegar konungurinn ríkir með réttlæti og höfðingjarnir stjórna með réttvísi, 32.2 þá verður hver þeirra sem hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum, sem vatnslækir í öræfum, sem skuggi af stórum hamri í vatnslausu landi. 32.3 Þá eru augu hinna sjáandi eigi afturlukt, og þá hlusta eyru þeirra, sem heyrandi eru. 32.4 Hjörtu hinna gálausu munu læra hyggindi og tunga hinna mállausu tala liðugt og skýrt. 32.5 Þá verður heimskinginn eigi framar kallaður göfugmenni og hinn undirföruli eigi sagður veglyndur. 32.6 Heimskinginn talar heimsku og hjarta hans býr mönnum ógæfu, með því að hann breytir óguðlega og talar villu gegn Drottni, lætur hinn hungraða vera svangan og gefur eigi þyrstum manni vatnsdrykk. 32.7 Vopn hins undirförula eru skaðvænleg. Hann hugsar upp pretti til þess að koma hinum umkomulausa á kné með lygaræðum, og það jafnvel þótt hinn fátæki sanni rétt sinn. 32.8 En göfugmennið hefir göfugleg áform og stendur stöðugur í því, sem göfuglegt er. 32.9 Þér áhyggjulausu konur, standið upp og heyrið raust mína! Þér ugglausu dætur, gefið gaum að ræðu minni: 32.10 Eftir ár og daga skuluð þér hinar ugglausu skelfast, því að vínberjatekjan bregst og aldintekja verður engin. 32.11 Hræðist, þér hinar áhyggjulausu! Skelfist, þér hinar ugglausu! Farið af klæðum og verið naktar, gyrðið hærusekk um lendar yðar, 32.12 berið yður hörmulega vegna akranna, vegna hinna yndislegu akra, vegna hins frjósama vínviðar, 32.13 vegna akurlendis þjóðar minnar þar sem vaxa munu þyrnar og þistlar, já vegna allra glaðværðarhúsanna í hinni glaummiklu borg! 32.14 Því að hallirnar munu verða mannauðar og hávaði borgarinnar hverfa. Borgarhæðin og varðturninn verða hellar um aldur og ævi, skógarösnum til skemmtunar og hjörðum til hagbeitar _ 32.15 uns úthellt verður yfir oss anda af hæðum. Þá skal eyðimörkin verða að aldingarði og aldingarður talinn verða kjarrskógur, 32.16 réttvísin festa byggð í eyðimörkinni og réttlætið taka sér bólfestu í aldingarðinum. 32.17 Og ávöxtur réttlætisins skal vera friður, og árangur réttlætisins rósemi og öruggleiki að eilífu. 32.18 Þá skal þjóð mín búa í heimkynni friðarins, í híbýlum öruggleikans og í rósömum bústöðum. 32.19 En hegla mun þegar skógurinn hrynur og borgin steypist. 32.20 Sælir eruð þér, sem alls staðar sáið við vötn og látið uxa og asna ganga sjálfala.
33.1 Vei þér, sem eyðir, og hefir þó sjálfur eigi fyrir eyðingu orðið, sem rænir, og hefir þó eigi rændur verið! Þegar þú hefir lokið eyðingunni, skalt þú fyrir eyðingu verða, þegar þú ert hættur að ræna, skalt þú rændur verða. 33.2 Drottinn, ver þú oss líknsamur! Vér vonum á þig. Ver þú styrkur vor á hverjum morgni og hjálpræði vort á neyðarinnar tíma. 33.3 Fyrir hinum dynjandi gný flýja þjóðirnar. Þegar þú rís upp, tvístrast heiðingjarnir. 33.4 Þá mun herfangi verða safnað, eins og þegar engisprettur eru að tína, menn munu stökkva á það, eins og þegar jarðvargar stökkva. 33.5 Hár er Drottinn, því að hann býr á hæðum, hann fyllir Síon réttindum og réttlæti. 33.6 Örugga tíma skalt þú hljóta, gæfufjársjóð átt þú í visku og þekkingu. Ótti Drottins er auður lýðsins. 33.7 Sjá, kapparnir kveina úti fyrir, friðarboðarnir gráta beisklega. 33.8 Þjóðvegirnir eru eyðilagðir, mannaferðir hættar. Menn rjúfa sáttmálann, fyrirlíta vitnin og virða náungann vettugi. 33.9 Landið sýtir og visnar, Líbanon blygðast sín og skrælnar, Saronsléttan er orðin eins og eyðimörk, Basan og Karmel fella laufið. 33.10 Nú vil ég upp rísa, segir Drottinn, nú vil ég láta til mín taka, nú vil ég hefjast handa. 33.11 Þér gangið með hey og alið hálm, andgustur yðar er eldur, sem eyða mun sjálfum yður. 33.12 Þjóðirnar munu brenndar verða að kalki, þær munu verða sem upphöggnir þyrnar, sem brenndir eru í eldi. 33.13 Heyrið, þér sem fjarlægir eruð, hvað ég hefi gjört, og sjáið, þér sem nálægir eruð, kraft minn! 33.14 Syndararnir í Síon eru hræddir, skelfing hefir gagntekið guðleysingjana: 'Hver af oss má búa við eyðandi eld, hver af oss má búa við eilíft bál?' 33.15 Sá sem fram gengur réttvíslega og talar af hreinskilni, sá sem hafnar þeim ávinningi, sem fenginn er með ofríki, sá sem hristir mútugjafir af höndum sér, sá sem byrgir fyrir eyru sín til þess að heyra eigi morð ráðin, sá sem afturlykur augum sínum til þess að horfa eigi á það, sem illt er, 33.16 hann skal búa uppi á hæðunum. Hamraborgirnar skulu vera vígi hans, brauðið skal verða fært honum og vatnið handa honum skal eigi þverra. 33.17 Augu þín skulu sjá konunginn í ljóma sínum, þau skulu horfa á víðáttumikið land. 33.18 Hjarta þitt mun hugsa til skelfingartímans: Hvar er nú sá, er silfrið taldi? Hvar er sá, er vó það? Hvar er sá, sem taldi turnana? 33.19 Þú skalt ekki framar sjá hina ofstopafullu þjóð, sem talar svo óglöggt mál, að ekki verður numið, og svo óskilmerkilega tungu, að enginn fær skilið. 33.20 Lít þú á Síon, borg samfunda vorra! Augu þín skulu horfa á Jerúsalem, bústaðinn örugga, tjaldið, sem eigi er flutt úr stað, hælum þess eigi kippt upp og ekkert af stögum þess slitið. 33.21 Nei, hinn máttki, Drottinn, er þar oss til varnar, eins og fljót og breið vatnsföll, þar sem engin róðrarskip geta gengið og engin tignarleg langskip um farið. 33.22 Drottinn er vor dómari, Drottinn er vor löggjafi, Drottinn er vor konungur, hann mun frelsa oss. 33.23 Stögin eru slök hjá þér, þau halda ekki siglunni í skorðum og geta eigi þanið út seglið. Þá skal mikilli bráð og herfangi skipt verða, jafnvel haltir menn skulu ræna. 33.24 Og enginn borgarbúi mun segja: 'Ég er sjúkur.' Fólkið, sem þar býr, hefir fengið fyrirgefning misgjörða sinna.
34.1 Gangið nær, þér þjóðir, að þér megið heyra! Hlýðið til, þér lýðir! Heyri það jörðin og allt, sem á henni er, jarðarkringlan og allt, sem á henni vex! 34.2 Drottinn er reiður öllum þjóðunum og gramur öllum þeirra her. Hann hefir vígt þær dauðanum og ofurselt þær til slátrunar. 34.3 Vegnum mönnum þeirra er burt kastað, og hrævadaunn stígur upp af líkum þeirra, og fjöllin renna sundur af blóði þeirra. 34.4 Allur himinsins her hjaðnar, og himinninn vefst saman eins og bókfell. Allur hans her hrynur niður, eins og laufið fellur af vínviði og visin blöð af fíkjutré. 34.5 Sverð mitt hefir drukkið sig drukkið á himnum, nú lýstur því niður til dóms yfir Edóm, þá þjóð, sem ég hefi vígt dauðanum. 34.6 Sverð Drottins er alblóðugt, löðrandi af feiti, af blóði lamba og kjarnhafra, af nýrnamör úr hrútum, því að Drottinn heldur fórnarveislu í Bosra og slátrun mikla í Edómlandi. 34.7 Villinautin hníga með þeim, og ungneytin með uxunum. Land þeirra flýtur í blóði, og jarðvegurinn er löðrandi af feiti. 34.8 Því að nú er hefndardagur Drottins, endurgjaldsárið, til að reka réttar Síonar. 34.9 Lækirnir skulu verða að biki og jarðvegurinn að brennisteini, landið skal verða að brennandi biki. 34.10 Það skal eigi slokkna nætur né daga, reykurinn af því skal upp stíga um aldur og ævi. Það skal liggja í eyði frá einni kynslóð til annarrar, enginn maður skal þar um fara að eilífu. 34.11 Pelíkanar og stjörnuhegrar skulu fá það til eignar, náttuglur og hrafnar búa þar. Hann mun draga yfir það mælivað auðnarinnar og mælilóð aleyðingarinnar. 34.12 Tignarmenn landsins kveðja þar eigi til konungskosningar, og allir höfðingjarnir verða að engu. 34.13 Í höllunum munu þyrnar upp vaxa og klungrar og þistlar í víggirtum borgunum. Það mun verða sjakalabæli og strútsfuglagerði. 34.14 Urðarkettir og sjakalar skulu koma þar saman og skógartröll mæla sér þar mót. Næturgrýlan ein skal hvílast þar og finna sér þar hæli. 34.15 Stökkormurinn skal búa sér þar hreiður og klekja þar út, verpa þar eggjum og unga þeim út í skugganum. Gleður einar skulu flykkjast þar hver til annarrar. 34.16 Leitið í bók Drottins og lesið: Ekkert af þessum dýrum vantar, ekkert þeirra saknar annars. Því að munnur Drottins hefir svo um boðið, og það er andi hans, sem hefir stefnt þeim saman. 34.17 Hann hefir sjálfur kastað hlutum fyrir þau, og hönd hans hefir skipt landinu milli þeirra með mælivað. Þau munu eiga það um aldur og ævi og búa þar frá einni kynslóð til annarrar.
35.1 Eyðimörkin og hið þurra landið skulu gleðjast, öræfin skulu fagna og blómgast sem lilja. 35.2 Þau skulu blómgast ríkulega og fagna af unaði og gleði. Vegsemd Líbanons skal veitast þeim, prýði Karmels og Sarons. Þau skulu fá að sjá vegsemd Drottins og prýði Guðs vors. 35.3 Stælið hinar máttvana hendur, styrkið hin skjögrandi kné! 35.4 Segið hinum ístöðulausu: 'Verið hughraustir, óttist eigi! Sjá, hér er Guð yðar! Hefndin kemur, endurgjald frá Guði! Hann kemur sjálfur og frelsar yður.' 35.5 Þá munu augu hinna blindu upp lúkast og opnast eyru hinna daufu. 35.6 Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi, því að vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni og lækir á öræfunum. 35.7 Sólbrunnar auðnir skulu verða að tjörnum og þurrar lendur að uppsprettum. Þar sem sjakalar höfðust áður við, í bælum þeirra, skal verða gróðrarreitur fyrir sef og reyr. 35.8 Þar skal verða braut og vegur. Sú braut skal kallast brautin helga. Enginn sem óhreinn er, skal hana ganga. Hún er fyrir þá eina. Enginn sem hana fer, mun villast, jafnvel ekki fáráðlingar. 35.9 Þar skal ekkert ljón vera, og ekkert glefsandi dýr skal þar um fara, eigi hittast þar. En hinir endurleystu skulu ganga þar. 35.10 Hinir endurkeyptu Drottins skulu aftur hverfa. Þeir koma með fögnuði til Síonar, og eilíf gleði skal leika yfir höfði þeim. Fögnuður og gleði skal fylgja þeim, en hryggð og andvarpan flýja.
36.1 Svo bar til á fjórtánda ríkisári Hiskía konungs, að Sanheríb Assýríukonungur fór herför gegn öllum víggirtum borgum í Júda og vann þær. 36.2 Þá sendi Assýríukonungur marskálk sinn með miklu liði frá Lakís til Jerúsalem á fund Hiskía konungs. Hann nam staðar hjá vatnstokknum úr efri tjörninni, við veginn út á bleikivöllinn. 36.3 Þá gengu þeir út til hans Eljakím Hilkíason dróttseti, Sébna kanslari og Jóak Asafsson ríkisritari. 36.4 Og marskálkurinn mælti til þeirra: 'Segið Hiskía: Svo segir hinn mikli konungur, Assýríukonungur: Hvert er það athvarf er þú treystir á? 36.5 Er þú ráðgjörir hernað og hyggur þig fullstyrkan til, þá er það munnfleipur eitt. Á hvern treystir þú þá svo, að þú skulir hafa gjört uppreisn í gegn mér? 36.6 Sjá, þú treystir á þennan brotna reyrstaf, á Egyptaland, en hann stingst upp í höndina á hverjum þeim, er við hann styðst, og fer í gegnum hana. Slíkur er Faraó Egyptalandskonungur öllum þeim, er á hann treysta. 36.7 Og segir þú við mig: ,Vér treystum á Drottin, Guð vorn,` eru það þá ekki fórnarhæðir hans og ölturu, sem Hiskía nam burt, er hann sagði við Júda og Jerúsalem: ,Fyrir þessu eina altari skuluð þér fram falla?` 36.8 Kom til og veðja við herra minn, Assýríukonunginn: Ég skal fá þér tvö þúsund hesta, ef þú getur sett riddara á þá. 36.9 Hvernig munt þú þá fá rekið af höndum þér einn höfuðsmann meðal hinna minnstu þjóna herra míns? Og þó treystir þú á Egyptaland vegna hervagnanna og riddaranna! 36.10 Og hvort mun ég nú hafa farið til þessa lands án vilja Drottins til þess að eyða það? Drottinn sagði við mig: ,Far þú inn í þetta land og eyð það.'` 36.11 Þá sögðu þeir Eljakím, Sébna og Jóak við marskálk konungs: 'Tala þú við þjóna þína á arameísku, því að vér skiljum hana, en tala eigi við oss á Júda tungu í áheyrn fólksins, sem uppi er á borgarveggnum.' 36.12 En marskálkurinn sagði: 'Hefir herra minn sent mig til herra þíns eða til þín til þess að flytja þetta erindi? Hefir hann ekki sent mig til þeirra manna, sem þar sitja uppi á borgarveggnum og eiga þann kost fyrir höndum ásamt með yður að eta sinn eigin saur og drekka þvag sitt?' 36.13 Þá gekk marskálkurinn fram og kallaði hárri röddu á Júda tungu og mælti: 'Heyrið orð hins mikla konungs, Assýríukonungs! 36.14 Svo segir konungurinn: Látið eigi Hiskía tæla yður, því að hann fær ekki frelsað yður. 36.15 Og látið eigi Hiskía koma yður til að treysta á Drottin með því að segja: ,Drottinn mun vissulega frelsa oss; þessi borg skal ekki verða Assýríukonungi í hendur seld.` 36.16 Hlustið eigi á Hiskía! Því að svo segir Assýríukonungur: Gjörið frið við mig og gangið mér á hönd, þá skal hver yðar mega eta af sínum vínviði og sínu fíkjutré og hver yðar drekka vatn úr sínum brunni, 36.17 þar til er ég kem og flyt yður í annað eins land og yðar land, í kornland og aldinlagar, í brauðland og víngarða. 36.18 Látið eigi Hiskía ginna yður, er hann segir: ,Drottinn mun frelsa oss.` Hefir nokkur af guðum þjóðanna frelsað land sitt undan hendi Assýríukonungs? 36.19 Hvar eru guðir Hamatborgar og Arpadborgar? Hvar eru guðir Sefarvaím? Hafa þeir frelsað Samaríu undan minni hendi? 36.20 Hverjir eru þeir af öllum guðum þessara landa, er frelsað hafi lönd sín undan minni hendi, svo að Drottinn skyldi fá frelsað Jerúsalem undan minni hendi?' 36.21 En menn þögðu og svöruðu honum engu orði, því að skipun konungs var þessi: 'Svarið honum eigi.' 36.22 En þeir Eljakím Hilkíason dróttseti, Sébna kanslari og Jóak Asafsson ríkisritari gengu á fund Hiskía með sundurrifnum klæðum og fluttu honum orð marskálksins.
37.1 Og er Hiskía konungur heyrði þetta, reif hann klæði sín, huldi sig hærusekk og gekk í hús Drottins. 37.2 En Eljakím dróttseta og Sébna kanslara og prestaöldungana sendi hann klædda hærusekk til Jesaja Amozsonar spámanns, 37.3 og skyldu þeir segja við hann: 'Svo segir Hiskía: Þessi dagur er neyðar-, hirtingar- og háðungardagur, því að barnið er komið í burðarliðinn, en krafturinn er enginn til að fæða. 37.4 Vera má, að Drottinn, Guð þinn, heyri orð marskálksins, er sendur er af Assýríukonungi, herra sínum, til að spotta hinn lifandi Guð, og láti hegnt verða þeirra orða, er Drottinn Guð þinn hefir heyrt. En bið þú fyrir leifunum, sem enn eru eftir.' 37.5 En er þjónar Hiskía konungs komu til Jesaja, 37.6 þá sagði Jesaja við þá: 'Segið svo herra yðar: Svo segir Drottinn: Óttast þú eigi smánaryrði þau, er þú hefir heyrt sveina Assýríukonungs láta sér um munn fara í gegn mér. 37.7 Sjá, ég læt hann verða þess hugar, að þegar hann spyr tíðindi, skal hann hverfa aftur heim í land sitt, og þá skal ég láta hann fyrir sverði falla í sínu eigin landi.' 37.8 Síðan sneri marskálkurinn aftur og hitti Assýríukonung þar sem hann sat um Líbna, því að hann hafði frétt, að hann væri farinn burt frá Lakís. 37.9 Þar kom honum svolátandi fregn af Tírhaka Blálandskonungi: 'Hann er lagður af stað til þess að berjast við þig.' Og er hann heyrði það, gjörði hann sendimenn til Hiskía með þessari orðsending: 37.10 'Segið svo Hiskía Júdakonungi: Lát eigi Guð þinn, er þú treystir á, tæla þig, er þú hugsar: ,Jerúsalem verður eigi seld í hendur Assýríukonungi.` 37.11 Sjá, þú hefir sjálfur heyrt, hverju Assýríukonungar hafa fram farið við öll lönd, hversu þeir hafa gjöreytt þau, og munt þú þá frelsaður verða? 37.12 Hvort hafa guðir þjóðanna, er feður mínir hafa að velli lagt, frelsað þær _ Gósan og Haran og Resef og Edenmenn, sem voru í Telassar? 37.13 Hvar er nú konungurinn í Hamat og konungurinn í Arpad og konungurinn í Sefarvaímborg, Hena og Íva?' 37.14 Hiskía tók við bréfinu af sendimönnunum og las það. Síðan gekk hann upp í hús Drottins og rakti það sundur frammi fyrir Drottni. 37.15 Og Hiskía bað til Drottins og sagði: 37.16 'Drottinn allsherjar, Guð Ísraels, þú sem situr uppi yfir kerúbunum, þú einn ert Guð yfir öllum konungsríkjum jarðar, þú hefir gjört himin og jörð. 37.17 Hneig, Drottinn, eyra þitt og heyr! Opna, Drottinn, auga þitt og sjá! Heyr þú öll orð Sanheríbs, er hann hefir sent til að smána með hinn lifandi Guð. 37.18 Satt er það, Drottinn, að Assýríukonungar hafa gjöreytt öllum þjóðum og löndum þeirra, 37.19 og kastað guðum þeirra á eld, því að þeir voru ekki guðir, heldur handaverk manna, stokkar og steinar, svo að þeir gátu gjört þá að engu. 37.20 En Drottinn, Guð vor, frelsa oss nú af hans hendi, svo að öll konungsríki jarðar megi við kannast, að þú, Drottinn, einn ert Guð.' 37.21 Þá sendi Jesaja Amozson til Hiskía og lét segja honum: 'Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Þar sem þú hefir beðið til mín um hjálp gegn Sanheríb Assýríukonungi, 37.22 þá er þetta orðið, er Drottinn hefir um hann sagt: Mærin, dóttirin Síon, fyrirlítur þig og gjörir gys að þér, dóttirin Jerúsalem skekur höfuðið á eftir þér. 37.23 Hvern hefir þú smánað og spottað? Og gegn hverjum hefir þú hafið upp raustina og lyft augum þínum í hæðirnar? Gegn Hinum heilaga í Ísrael! 37.24 Þú hefir látið þjóna þína smána Drottin og sagt: ,Með fjölda hervagna minna steig ég upp á hæðir fjallanna, efst upp á Líbanonfjall. Ég hjó hin hávöxnu sedrustré þess og hin ágætu kýprestré þess. Ég braust upp á efsta tind þess, inn í aldinskóginn, þar sem hann var þéttastur. 37.25 Ég gróf til vatns og drakk, og með iljum fóta minna þurrkaði ég upp öll vatnsföll Egyptalands.` 37.26 Hefir þú þá ekki tekið eftir því, að ég hefi ráðstafað þessu svo fyrir löngu og hagað því svo frá öndverðu? Og nú hefi ég látið það koma fram, svo að þú mættir leggja víggirtar borgir í eyði og gjöra þær að eyðilegum grjóthrúgum. 37.27 En íbúar þeirra voru aflvana og skelfdust því og urðu sér til minnkunar. Jurtir vallarins og grængresið varð sem gras á þekjum og í hlaðvarpa. 37.28 Ég sé þig, þegar þú stendur og þegar þú situr, og ég veit af því, þegar þú fer og kemur, svo og um ofsa þinn gegn mér. 37.29 Sökum ofsa þíns í gegn mér og af því að ofmetnaður þinn er kominn mér til eyrna, þá vil ég setja hring minn í nasir þínar og bitil minn í munn þér og færa þig aftur sama veg og þú komst. 37.30 Þetta skaltu til marks hafa: Þetta árið munuð þér eta sjálfsáið korn, annað árið sjálfvaxið korn, en þriðja árið munuð þér sá og uppskera, planta víngarða og eta ávöxtu þeirra. 37.31 Og leifarnar af Júda húsi, sem komist hafa undan, skulu að nýju festa rætur að neðan og bera ávöxtu að ofan. 37.32 Því að frá Jerúsalem munu leifar út ganga og þeir, er undan komust, frá Síonfjalli. Vandlæti Drottins allsherjar mun þessu til vegar koma. 37.33 Já, svo segir Drottinn um Assýríukonung: Eigi skal hann inn komast í þessa borg, engri ör þangað inn skjóta, engan herskjöld að henni bera og engan virkisvegg hlaða gegn henni. 37.34 Hann skal aftur snúa sömu leiðina, sem hann kom, og inn í þessa borg skal hann ekki koma _ segir Drottinn. 37.35 Ég vil vernda þessa borg og frelsa hana, mín vegna og vegna Davíðs þjóns míns.' 37.36 Þá fór engill Drottins og laust hundrað áttatíu og fimm þúsundir manns í herbúðum Assýringa. Og er menn risu morguninn eftir, sjá, þá voru þeir allir liðin lík. 37.37 Þá tók Sanheríb Assýríukonungur sig upp, hélt af stað og sneri heim aftur og sat um kyrrt í Níníve. 37.38 En er hann eitt sinn baðst fyrir í hofi Nísroks, guðs síns, unnu synir hans, Adrammelek og Sareser, á honum með sverði. Þeir komust undan á flótta til Araratlands, en Asarhaddon sonur hans tók ríki eftir hann.
38.1 Um þær mundir tók Hiskía sótt og var að dauða kominn. Þá kom Jesaja Amozson spámaður til hans og sagði við hann: 'Svo segir Drottinn: Ráðstafa húsi þínu, því að þú munt deyja og eigi lifa.' 38.2 Þá sneri Hiskía andliti sínu til veggjar, bað til Drottins 38.3 og mælti: 'Æ, Drottinn, minnstu þess, að ég hefi gengið fyrir augliti þínu með trúmennsku og einlægu hjarta og gjört það, sem þér er þóknanlegt!' Og hann grét sáran. 38.4 Þá kom orð Drottins, til Jesaja, svolátandi: 38.5 'Far og seg Hiskía: Svo segir Drottinn, Guð Davíðs, forföður þíns: Ég hefi heyrt bæn þína og séð tár þín. Sjá, ég vil enn leggja fimmtán ár við aldur þinn. 38.6 Og ég vil frelsa þig og þessa borg af hendi Assýríukonungs, og ég mun vernda þessa borg. 38.7 Og þetta skalt þú til marks hafa af Drottni, að Drottinn muni efna það, sem hann hefir heitið: 38.8 Sjá, ég færi aftur stigskuggann, er með sólinni hefir færst niður á sólskífu Akasar, um tíu stig.' Og sólin færðist aftur á bak þau tíu stig á sólskífunni, er hún hafði gengið niður. 38.9 Sálmur eftir Hiskía konung í Júda, þá er hann hafði verið sjúkur, en var heill orðinn af sjúkleik sínum. 38.10 Ég sagði: Á hádegi ævi minnar stend ég við dauðans dyr. Það sem eftir er ára minna er ég ofurseldur hliðum Heljar. 38.11 Ég sagði: Ég fæ eigi framar að sjá Drottin á landi lifenda, ég fæ eigi framar menn að líta meðal þeirra sem heiminn byggja. 38.12 Bústað mínum er kippt upp og svipt burt frá mér eins og hjarðmannatjaldi. Ég hefi undið upp líf mitt eins og vefari. Hann sker mig frá uppistöðunni. Þú þjáir mig frá því að dagar og þar til nóttin kemur. 38.13 Ég þreyði til morguns. Öll mín bein voru kramin eins og af ljónshrammi. Þú þjáir mig frá því að dagar og þar til nóttin kemur. 38.14 Ég tísti sem svala og kurra sem dúfa. Augu mín mæna til himins. Drottinn, ég er í nauðum, líkna þú mér. 38.15 Hvað á ég að segja? Hann talaði til mín og efndi sín orð. Í auðmýkt vil ég ganga alla mína lífdaga, því minni sálarangist er létt. 38.16 Drottinn, af þessu lifa menn, og í öllu þessu er líf anda míns fólgið, þú gafst mér heilsuna aftur og lést mig lifna við. 38.17 Sjá, til blessunar varð mér hin sára kvöl. Þú forðaðir lífi mínu frá gröf eyðingarinnar, því að þú varpaðir að baki þér öllum syndum mínum. 38.18 Hel vegsamar þig eigi, dauðinn lofar þig eigi. Þeir sem niður eru stignir í gröfina vona eigi á trúfesti þína. 38.19 En sá einn lofar þig, sem lifir, eins og ég í dag. Feður kunngjöra börnum sínum trúfesti þína. 38.20 Drottinn er mitt hjálpræði. Í húsi Drottins skulum vér því hreyfa strengina alla vora lífdaga. 38.21 Og Jesaja bauð að taka skyldi fíkjudeig og leggja á kýlið, og mundi honum þá batna. 38.22 En Hiskía sagði: 'Hvað skal ég hafa til marks um það, að ég megi aftur ganga upp í hús Drottins?'
39.1 Um þær mundir sendi Meródak Baladan Baladansson, konungur í Babýlon, bréf og gjafir til Hiskía, því að hann hafði frétt, að hann hefði verið sjúkur, en væri nú aftur heill orðinn. 39.2 Hiskía fagnaði komu þeirra og sýndi þeim féhirslu sína, silfrið og gullið, ilmjurtirnar og hina dýru olíu og allt vopnabúr sitt og allt, sem til var í fjársjóðum hans. Var enginn sá hlutur í höll Hiskía eða nokkurs staðar í ríki hans, að eigi sýndi hann þeim. 39.3 Þá kom Jesaja spámaður til Hiskía konungs og sagði við hann: 'Hvert var erindi þessara manna, og hvaðan eru þeir til þín komnir?' Hiskía svaraði: 'Af fjarlægu landi eru þeir til mín komnir, frá Babýlon.' 39.4 Þá sagði hann: 'Hvað sáu þeir í höll þinni?' Hiskía svaraði: 'Allt, sem í höll minni er, hafa þeir séð. Enginn er sá hlutur í fjársjóðum mínum, að eigi hafi ég sýnt þeim.' 39.5 Þá sagði Jesaja við Hiskía: 'Heyr þú orð Drottins allsherjar. 39.6 Sjá, þeir dagar munu koma, að allt, sem er í höll þinni, og það, sem feður þínir hafa saman dregið allt til þessa dags, mun flutt verða til Babýlon. Ekkert skal eftir verða _ segir Drottinn. 39.7 Og nokkrir af sonum þínum, sem af þér munu koma og þú munt geta, munu teknir verða og gjörðir að hirðsveinum í höll konungsins í Babýlon.' 39.8 En Hiskía sagði við Jesaja: 'Gott er það orð Drottins, er þú hefir talað.' Því að hann hugsaði: 'Farsæld og friður helst þó meðan ég lifi.'
40.1 Huggið, huggið lýð minn! segir Guð yðar. 40.2 Hughreystið Jerúsalem og boðið henni, að áþján hennar sé á enda, að sekt hennar sé goldin, að hún hafi fengið tvöfalt af hendi Drottins fyrir allar syndir sínar! 40.3 Heyr, kallað er: 'Greiðið götu Drottins í eyðimörkinni, ryðjið Guði vorum veg í óbyggðinni! 40.4 Sérhver dalur skal hækka, hvert fjall og háls lækka. Hólarnir skulu verða að jafnsléttu og hamrarnir að dalagrundum! 40.5 Dýrð Drottins mun birtast, og allt hold mun sjá það, því að munnur Drottins hefir talað það!' 40.6 Heyr, einhver segir: 'Kalla þú!' Og ég svara: 'Hvað skal ég kalla?' 'Allt hold er gras og allur yndisleikur þess sem blóm vallarins. 40.7 Grasið visnar, blómin fölna, þegar Drottinn andar á þau. Sannlega, mennirnir eru gras. 40.8 Grasið visnar, blómin fölna, en orð Guðs vors stendur stöðugt eilíflega.' 40.9 Stíg upp á hátt fjall, þú Síon fagnaðarboði! Hef upp raust þína kröftuglega, þú Jerúsalem fagnaðarboði! Hef upp raustina, óttast eigi, seg borgunum í Júda: 'Sjá, Guð yðar kemur!' 40.10 Sjá, hinn alvaldi Drottinn kemur sem hetja, og armleggur hans aflar honum yfirráða. Sjá, endurgjald hans fylgir honum, og fengur hans fer á undan honum. 40.11 Eins og hirðir mun hann halda hjörð sinni til haga, taka unglömbin í faðm sér og bera þau í fangi sínu, en leiða mæðurnar. 40.12 Hver hefir mælt vötnin í lófa sínum og stikað himininn með spönn sinni, innilukt duft jarðarinnar í mælikeri og vegið fjöllin á reislu og hálsana á metaskálum? 40.13 Hver hefir leiðbeint anda Drottins, hver hefir verið ráðgjafi hans og frætt hann? 40.14 Hvern hefir hann sótt að ráðum, þann er gæfi honum skilning og kenndi honum leið réttvísinnar, uppfræddi hann í þekkingu og vísaði honum veg viskunnar? 40.15 Sjá, þjóðirnar eru sem dropi í vatnskjólu og metnar sem ryk á vogarskálum. Sjá, eylöndunum lyftir hann upp eins og duftkorni. 40.16 Og Líbanon-skógur hrekkur ekki til eldsneytis og dýrin í honum ekki til brennifórnar. 40.17 Allar þjóðir eru sem ekkert fyrir honum, þær eru minna en ekki neitt og hégómi í hans augum. 40.18 Við hvern viljið þér þá samlíkja Guði, og hvað viljið þér taka til jafns við hann? 40.19 Líkneskið steypir smiðurinn, og gullsmiðurinn býr það slegnu gulli og setur á silfurfestar, 40.20 en sá, sem eigi á fyrir slíkri fórnargjöf, velur sér þann við, er ekki fúni, og leitar að góðum smið, er reist geti svo líkneski, að ekki haggist! 40.21 Vitið þér ekkert? Heyrið þér ekki? Hefir yður eigi verið kunngjört það frá upphafi? Hafið þér engan skilning hlotið frá grundvöllun jarðar? 40.22 Það er hann, sem situr hátt yfir jarðarkringlunni, og þeir, sem á henni búa, eru sem engisprettur. Það er hann, sem þenur út himininn eins og þunna voð og slær honum sundur eins og tjaldi til þess að búa í. 40.23 Það er hann, sem lætur höfðingjana verða að engu og gjörir drottna jarðarinnar að hégóma. 40.24 Varla eru þeir gróðursettir, varla niðursánir, varla hefir stofn þeirra náð að festa rætur í jörðinni fyrr en hann andar á þá, og þá skrælna þeir upp og stormbylurinn feykir þeim burt eins og hálmleggjum. 40.25 Við hvern viljið þér samlíkja mér, að ég sé honum jafn? segir Hinn heilagi. 40.26 Hefjið upp augu yðar til hæða og litist um: Hver hefir skapað stjörnurnar? Hann, sem leiðir út her þeirra með tölu og kallar þær allar með nafni. Sökum mikilleiks kraftar hans og af því að hann er voldugur að afli verður einskis þeirra vant. 40.27 Hví segir þú þá svo, Jakobsætt, og hví mælir þú þá svo, Ísrael: 'Hagur minn er hulinn fyrir Drottni, og réttur minn er genginn úr höndum Guði mínum?' 40.28 Veistu þá ekki? Hefir þú ekki heyrt? Drottinn er eilífur Guð, er skapað hefir endimörk jarðarinnar. Hann þreytist ekki, hann lýist ekki, speki hans er órannsakanleg. 40.29 Hann veitir kraft hinum þreytta og gnógan styrk hinum þróttlausa. 40.30 Ungir menn þreytast og lýjast, og æskumenn hníga, 40.31 en þeir, sem vona á Drottin, fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir. Þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki.
41.1 Verið hljóð og hlustið á mig, þér eylönd. Safni þjóðirnar nýjum kröftum, gangi svo nær og tali máli sínu. Vér skulum eigast lög við. 41.2 Hver hefir vakið upp manninn í austrinu, sem réttlætið kveður til fylgdar? Hver leggur þjóðir undir vald hans og lætur hann drottna yfir konungum? Hver gjörir sverð þeirra að moldarryki og boga þeirra sem fjúkandi hálmleggi, 41.3 svo að hann veitir þeim eftirför og fer ósakaður þann veg, er hann aldrei hefir stigið á fæti sínum? 41.4 Hver hefir gjört það og framkvæmt? _ Hann sem kallaði fram kynþáttu mannanna í öndverðu, ég, Drottinn, sem er hinn fyrsti, og með hinum síðustu enn hinn sami. 41.5 Eylöndin sáu það og urðu hrædd, endimörk jarðarinnar skulfu. Þeir þyrptust saman og komu. 41.6 Hver hjálpar öðrum og segir við félaga sinn: 'Vertu hughraustur!' 41.7 Trésmiðurinn hughreystir gullsmiðinn, koparsmiðurinn járnsmiðinn og segir: 'Kveikingin er góð!' Síðan festir hann goðalíkneskið með nöglum, til þess að það haggist ekki. 41.8 En þú Ísrael, þjónn minn, Jakob, sem ég hefi útvalið, þú afsprengi Abrahams ástvinar míns. 41.9 Þú, sem ég þreif frá endimörkum jarðarinnar og kallaði þig frá ystu landsálfum hennar og sagði við þig: 'Þú ert þjónn minn, ég hefi útvalið þig og eigi hafnað þér!' 41.10 Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Lát eigi hugfallast, því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með hægri hendi réttlætis míns. 41.11 Sjá, allir fjandmenn þínir skulu verða til skammar og háðungar. Sökudólgar þínir skulu verða að engu og tortímast. 41.12 Þó að þú leitir að þrætudólgum þínum, skalt þú ekki finna þá. Þeir sem á þig herja, skulu hverfa og að engu verða. 41.13 Því að ég, Drottinn, Guð þinn, held í hægri hönd þína og segi við þig: 'Óttast þú eigi, ég hjálpa þér!' 41.14 Óttast þú eigi, maðkurinn þinn Jakob, þú fámenni hópur Ísrael! Ég hjálpa þér, segir Drottinn, og frelsari þinn er Hinn heilagi í Ísrael. 41.15 Sjá, ég gjöri þig að nýhvesstum þreskisleða, sem alsettur er göddum. Þú skalt þreskja sundur fjöllin og mylja þau í smátt og gjöra hálsana sem sáðir. 41.16 Þú skalt sáldra þeim, og vindurinn mun feykja þeim og stormbylurinn tvístra þeim. En sjálfur skalt þú fagna yfir Drottni og miklast af Hinum heilaga í Ísrael. 41.17 Hinir fátæku og voluðu leita vatns, en finna ekki, tunga þeirra verður þurr af þorsta. Ég, Drottinn, mun bænheyra þá, ég, Ísraels Guð, mun ekki yfirgefa þá. 41.18 Ég læt ár spretta upp á gróðurlausum hæðum og vatnslindir í dölunum miðjum. Ég gjöri eyðimörkina að vatnstjörnum og þurrlendið að uppsprettum. 41.19 Ég læt sedrustré, akasíutré, myrtustré og olíutré vaxa í eyðimörkinni, og kýpresviður, álmviður og sortulyngsviður spretta hver með öðrum á sléttunum, 41.20 svo að þeir allir sjái og viti, skynji og skilji, að hönd Drottins hefir gjört þetta og Hinn heilagi í Ísrael hefir því til vegar komið. 41.21 Berið nú fram málefni yðar, segir Drottinn. Færið fram varnir yðar, segir konungur Jakobsættar. 41.22 Látum þá koma með málefni sín og kunngjöra oss, hvað verða muni. Gjörið kunnugt það sem áður var, svo að vér getum hugleitt það! Látið oss heyra, hvað koma á, svo að vér vitum, hvað í vændum er! 41.23 Gjörið kunnugt, hvað hér eftir muni fram koma, svo að vér megum sjá, að þér eruð guðir! Gjörið annaðhvort af yður gott eða illt, svo að við fáum reynt með okkur og sjón verði sögu ríkari. 41.24 Sjá, þér eruð ekkert og verk yðar ekki neitt! Andstyggilegur er sá, sem yður kýs! 41.25 Ég vakti upp mann í norðri, og hann kom. Frá upprás sólar kallaði ég þann, er ákallar nafn mitt. Hann gengur yfir landstjóra sem leir, eins og leirkerasmiður treður deigulmó. 41.26 Hver hefir kunngjört það frá öndverðu, svo að vér vissum það, eða fyrirfram, svo að vér gætum sagt: 'Hann hefir rétt fyrir sér'? Nei, enginn hefir kunngjört það, enginn látið til sín heyra, enginn hefir heyrt yður segja neitt. 41.27 Ég var hinn fyrsti, sem sagði við Síon: 'Sjá, þar kemur það fram!' og hinn fyrsti, er sendi Jerúsalem fagnaðarboða. 41.28 Ég litast um, en þar er enginn, og á meðal þeirra er ekki neinn, er úrskurð veiti, svo að ég geti spurt þá og þeir svarað mér. 41.29 Sjá, þeir eru allir hégómi og verk þeirra ekki neitt, líkneski þeirra vindur og hjóm.
42.1 Sjá þjón minn, sem ég leiði mér við hönd, minn útvalda, sem ég hefi þóknun á. Ég legg anda minn yfir hann, hann mun boða þjóðunum rétt. 42.2 Hann kallar ekki og hefir ekki háreysti og lætur ekki heyra raust sína á strætunum. 42.3 Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur, og dapran hörkveik slökkur hann ekki. Hann boðar réttinn með trúfesti. 42.4 Hann daprast eigi og gefst eigi upp, uns hann fær komið inn rétti á jörðu, og fjarlægar landsálfur bíða eftir boðskap hans. 42.5 Svo segir Drottinn Guð, sá er skóp himininn og þandi hann út, sá er breiddi út jörðina með öllu því, sem á henni vex, sá er andardrátt gaf mannfólkinu á jörðinni og lífsanda þeim, er á henni ganga: 42.6 Ég, Drottinn, hefi kallað þig til réttlætis og held í hönd þína. Ég mun varðveita þig og gjöra þig að sáttmála fyrir lýðinn og að ljósi fyrir þjóðirnar 42.7 til að opna hin blindu augun, til að leiða út úr varðhaldinu þá, er bundnir eru, og úr dýflissunni þá, er í myrkri sitja. 42.8 Ég er Drottinn, það er nafn mitt, og dýrð mína gef ég eigi öðrum né lof mitt úthöggnum líkneskjum. 42.9 Sjá, hinir fyrri hlutir eru fram komnir, en nú boða ég nýja hluti og læt yður heyra þá áður en fyrir þeim vottar. 42.10 Syngið Drottni nýjan söng, syngið lof hans til endimarka jarðarinnar, þér sjófarendur og allt sem í hafinu er, þér fjarlægar landsálfur og þeir sem þær byggja! 42.11 Eyðimörkin og borgir hennar og þorpin, þar sem Kedar býr, skulu hefja upp raustina. Fjallabúarnir skulu fagna, æpa af gleði ofan af fjallatindunum! 42.12 Þeir skulu gefa Drottni dýrðina og kunngjöra lof hans í fjarlægum landsálfum! 42.13 Drottinn leggur af stað sem hetja, elur á hugmóð sínum eins og bardagamaður. Hann kallar, hann lýstur upp herópi, sýnir hetjuskap á óvinum sínum: 42.14 Ég hefi þagað langan tíma, verið hljóður og stillt mig. Nú mun ég hljóða sem jóðsjúk kona, stynja og standa á öndinni í sama bili. 42.15 Ég mun svíða fjöllin og hálsana og skrælna láta allar jurtir, er þar vaxa. Ég mun gjöra ár að eyjum og þurrka upp tjarnirnar. 42.16 Ég mun leiða blinda menn um veg, er þeir ekki rata, færa þá um stigu, sem þeir ekki þekkja. Ég vil gjöra myrkrið fram undan þeim að ljósi og hólótt landið að jafnsléttu. Þessa hluti mun ég gjöra, og ég hætti eigi við þá. 42.17 Þeir sem treysta skurðgoðunum, hörfa aftur á bak og verða sér til skammar, þeir sem segja við steypt líkneski: 'Þér eruð guðir vorir.' 42.18 Heyrið, þér hinir daufu! Lítið upp, þér hinir blindu, að þér megið sjá! 42.19 Hver er svo blindur sem þjónn minn og svo daufur sem sendiboði minn, er ég hefi sent? Hver er svo blindur sem trúnaðarmaðurinn og svo blindur sem þjónn Drottins? 42.20 Þú hefir séð margt, en athugar það ekki, eyrun eru opin, en þú heyrir þó ekki. 42.21 Fyrir sakir réttlætis síns hefir Drottni þóknast að gjöra kenninguna háleita og vegsamlega. 42.22 Og þó er þetta rændur og ruplaður lýður, þeir eru allir fjötraðir í gryfjum og byrgðir í myrkvastofum. Þeir eru orðnir að herfangi, og enginn frelsar þá, orðnir að ránsfeng, og enginn segir: 'Skilið þeim aftur!' 42.23 Hver af yður vill hlýða á þetta, gefa því gaum og veita því athygli framvegis? 42.24 Hver hefir framselt Jakob til ráns og fengið Ísrael ræningjum í hendur? Er það ekki Drottinn, hann, sem vér höfum syndgað á móti? Á hans vegum vildu þeir ekki ganga, og hans lögmáli hlýddu þeir ekki. 42.25 Fyrir því jós hann yfir þá brennandi reiði sinni og styrjaldarofsa. Hún bálaðist umhverfis þá, en þeir skildu það eigi, hún brenndi þá, en þeir hugfestu það eigi.
43.1 En nú segir Drottinn svo, sá er skóp þig, Jakobsætt, og myndaði þig, Ísrael: Óttast þú eigi, því að ég frelsa þig. Ég kalla á þig með nafni, þú ert minn. 43.2 Gangir þú gegnum vötnin, þá er ég með þér, gegnum vatnsföllin, þá skulu þau ekki flæða yfir þig. Gangir þú gegnum eld, skalt þú eigi brenna þig, og loginn skal eigi granda þér. 43.3 Því að ég, Drottinn, er Guð þinn, Hinn heilagi í Ísrael frelsari þinn. Ég gef Egyptaland í lausnargjald fyrir þig, læt Bláland og Seba í stað þín. 43.4 Sökum þess að þú ert dýrmætur í mínum augum og mikils metinn, og af því að ég elska þig, þá legg ég menn í sölurnar fyrir þig og þjóðir fyrir líf þitt. 43.5 Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Ég kem með niðja þína úr austri og safna þér saman úr vestri. 43.6 Ég segi við norðrið: 'Lát fram!' og við suðrið: 'Haltu þeim eigi! Flyt þú sonu mína úr fjarlægð og dætur mínar frá endimörkum jarðarinnar: 43.7 sérhvern þann, sem við nafn mitt er kenndur og ég hefi skapað mér til dýrðar, sérhvern þann, er ég hefi myndað og gjört!' 43.8 Lát nú koma fram lýð þann, sem blindur er, þótt hann hafi augu, og þá menn, sem daufir eru, þótt þeir hafi eyru. 43.9 Lát alla heiðingjana safnast í einn hóp og þjóðirnar koma saman. Hver af þeim getur kunngjört slíkt og látið oss heyra það, er áður er fram komið? Leiði þeir fram votta sína og færi sönnur á mál sitt, svo að menn segi, er þeir heyra það: 'Það er satt!' 43.10 En þér eruð mínir vottar, segir Drottinn, og minn þjónn, sem ég hefi útvalið, til þess að þér skylduð kannast við og trúa mér og skilja, að það er ég einn. Á undan mér hefir enginn guð verið búinn til, og eftir mig mun enginn verða til. 43.11 Ég, ég er Drottinn, og enginn frelsari er til nema ég. 43.12 Það var ég, sem boðaði og hjálpaði og kunngjörði, en enginn annar yðar á meðal, og þér eruð vottar mínir _ segir Drottinn. Ég er Guð. 43.13 Já, enn í dag er ég hinn sami. Enginn getur frelsað af minni hendi. Hver vill gjöra það ógjört, sem ég framkvæmi? 43.14 Svo segir Drottinn, frelsari yðar, Hinn heilagi í Ísrael: Yðar vegna sendi ég til Babýlon og brýt niður slagbranda hennar. Og gleðilæti Kaldeanna munu snúast í sorgarsöng. 43.15 Ég, Drottinn, er yðar Heilagi, skapari Ísraels, konungur yðar. 43.16 Svo segir Drottinn, hann sem lagði veg yfir hafið og braut yfir hin ströngu vötn, 43.17 hann sem leiddi út vagna og hesta, herafla og fyrirliða. Þeir liggja þar hver með öðrum og fá eigi risið á fætur, þeir slokknuðu, kulnuðu út sem hörkveikur: 43.18 Rennið eigi huga til hins umliðna og gefið eigi gætur að því er áður var. 43.19 Sjá, nú hefi ég nýtt fyrir stafni, það tekur þegar að votta fyrir því _ sjáið þér það ekki? Ég gjöri veg um eyðimörkina og leiði ár um öræfin. 43.20 Dýr merkurinnar, sjakalar og strútsfuglar skulu vegsama mig, því að ég leiði vatn um eyðimörkina og ár um öræfin til þess að svala lýð mínum, mínum útvalda. 43.21 Sá lýður, sem ég hefi skapað mér til handa, skal víðfrægja lof mitt. 43.22 Eigi hefir þú ákallað mig, Jakobsætt, né lagt þig í líma fyrir mig, Ísrael. 43.23 Þú hefir ekki fært mér sauðkindur þínar í brennifórnir og eigi tignað mig með sláturfórnum þínum. Ég hefi eigi mætt þig með matfórnum né þreytt þig með reykelsi. 43.24 Þú hefir ekki keypt ilmreyr fyrir silfur mér til handa, og þú hefir ekki satt mig á feiti sláturfórna þinna, heldur hefir þú mætt mig með syndum þínum og þreytt mig með misgjörðum þínum. 43.25 Ég, ég einn afmái afbrot þín sjálfs mín vegna og minnist ekki synda þinna. 43.26 Minn mig á, við skulum eigast lög við. Tel þú upp, svo að þú fáir réttlætt þig. 43.27 Hinn fyrsti forfaðir þinn syndgaði og talsmenn þínir brutu á móti mér. 43.28 Þess vegna vanhelgaði ég hina heilögu höfðingja og ofurseldi Jakobsætt bannfæringunni og Ísrael háðunginni.
44.1 Heyr þú nú, Jakob, þjónn minn, og Ísrael, sem ég hefi útvalið. 44.2 Svo segir Drottinn, sá er þig hefir skapað og þig hefir myndað frá móðurkviði, hann sem hjálpar þér: Óttast þú eigi, þjónn minn Jakob, og þú Jesjúrún, sem ég hefi útvalið. 44.3 Því að ég mun ausa vatni yfir hið þyrsta og veita árstraumum yfir þurrlendið. Ég mun úthella anda mínum yfir niðja þína og blessan minni yfir afsprengi þitt. 44.4 Þeir skulu spretta upp, eins og gras milli vatna, eins og pílviðir á lækjarbökkum. 44.5 Einn mun segja: 'Ég heyri Drottni,' annar mun kalla sig nafni Jakobs, og enn annar rita á hönd sína 'Helgaður Drottni' og kenna sig við Ísrael. 44.6 Svo segir Drottinn, konungur Ísraels og frelsari, Drottinn allsherjar: Ég er hinn fyrsti og ég er hinn síðasti, og enginn Guð er til nema ég. 44.7 Hver er sem ég _ hann segi frá því og sanni mér það _ frá því er ég hóf hina örgömlu þjóð? Látum þá kunngjöra hið ókomna og það sem verða mun! 44.8 Skelfist eigi og látið eigi hugfallast. Hefi ég ekki þegar fyrir löngu sagt þér það og boðað það? Þér eruð vottar mínir: Er nokkur Guð til nema ég? Nei, ekkert annað hellubjarg er til, ég veit af engu öðru. 44.9 Þeir sem búa til goðalíkneski, eru hver með öðrum hégóminn einber, og dýrindissmíðar þeirra eru að engu liði. Vottar slíkra guða sjá eigi og vita eigi, til þess að þeir verði sér til skammar. 44.10 Hver hefir myndað guð og steypt líkneski, til þess að það verði að engu liði? 44.11 Sjá, allir dýrkendur þess munu til skammar verða. Og smiðirnir, þeir eru þó ekki nema menn, _ látum þá alla safnast saman og ganga fram, þeir skulu skelfast og til skammar verða hver með öðrum. 44.12 Járnsmiðurinn myndar egg á öxina, tekur hana fram við glóð og lagar hana með hömrunum. Hann býr hana til með hinum sterka armlegg sínum. En svelti hann, þá vanmegnast hann, fái hann ekki vatn að drekka, lýist hann. 44.13 Trésmiðurinn strengir mæliþráð sinn og markar fyrir með alnum, telgir tréð með hnífum og afmarkar það með sirkli. Og hann býr til úr því mannlíkan, fríðan mann, til þess að búa í húsi. 44.14 Hann heggur sér sedrustré, tekur steineik eða eik og velur um meðal skógartrjánna. Hann gróðursetur furutré, og regnskúrirnar koma vexti í þau. 44.15 Og maðurinn hefir tréð til eldiviðar, hann tekur nokkuð af því og vermir sig við, hann kveikir eld við það og bakar brauð, en auk þess býr hann til guð úr því og fellur fram fyrir honum. Hann smíðar úr því skurðgoð og knékrýpur því. 44.16 Helmingnum af trénu brennir hann í eldi. Við þann helminginn steikir hann kjöt, etur steik og verður saddur; hann vermir sig og segir: 'Æ, nú hitnar mér, ég sé eldinn.' 44.17 En úr afganginum býr hann til guð, skurðgoð handa sér. Hann knékrýpur því, fellur fram og gjörir bæn sína til þess og segir: 'Frelsaðu mig, því að þú ert minn guð!' 44.18 Þeir hafa hvorki skyn né skilning, augu þeirra eru lokuð, svo að þeir sjá ekki, og hjörtu þeirra, svo að þeir skynja ekki. 44.19 Og þeir hugleiða það eigi, þeir hafa eigi vitsmuni og skilning til að hugsa með sér: 'Helmingnum af því brenndi ég í eldi, ég bakaði brauð við glæðurnar, steikti kjöt og át; og svo ætti ég að fara að búa til andstyggilegt líkneski af því, sem afgangs er, og falla á kné fyrir trédrumbi!' 44.20 Þann mann, er sækist eftir ösku, hefir táldregið hjarta leitt afvega, svo að hann fær eigi borgið lífi sínu. Hann segir ekki við sjálfan sig: 'Er það ekki svikatál, sem ég held á í hægri hendi minni?' 44.21 Minnstu þess, Jakob, og þú Ísrael, því að þú ert þjónn minn. Ég hefi skapað þig til að vera þjón minn, þú, Ísrael, munt mér aldrei úr minni líða! 44.22 Ég hefi feykt burt misgjörðum þínum eins og þoku og syndum þínum eins og skýi. Hverf aftur til mín, því að ég frelsa þig. 44.23 Fagnið, þér himnar, því að Drottinn hefir því til vegar komið, látið gleðilátum, þér undirdjúp jarðarinnar. Hefjið fagnaðarsöng, þér fjöll, skógurinn og öll tré, sem í honum eru, því að Drottinn frelsar Jakob og sýnir vegsemd sína á Ísrael. 44.24 Svo segir Drottinn, frelsari þinn, sá er þig hefir myndað frá móðurkviði: Ég er Drottinn, sem allt hefi skapað, sem útþandi himininn aleinn og útbreiddi jörðina hjálparlaust, 44.25 sá sem ónýtir tákn lygaranna og gjörir spásagnamennina að fíflum, sem gjörir vitringana afturreka og þekking þeirra að heimsku, 44.26 sem staðfestir orð þjóns síns og framkvæmir ráð sendiboða sinna. Ég er sá sem segi um Jerúsalem: 'Verði hún aftur byggð!' og um borgirnar í Júda: 'Verði þær endurreistar, og rústir þeirra reisi ég við!' 44.27 Ég er sá sem segi við djúpið: 'Þorna þú upp, og ár þínar þurrka ég upp!' 44.28 Ég er sá sem segi um Kýrus: 'Hann er hirðir minn, og hann skal framkvæma allan vilja minn og segja um Jerúsalem: Hún skal endurreist verða og musterið grundvallað að nýju!'
45.1 Svo segir Drottinn við sinn smurða, við Kýrus, sem ég held í hægri höndina á, til þess að leggja að velli þjóðir fyrir augliti hans og spretta belti af lendum konunganna, til þess að opna fyrir honum dyrnar og til þess að borgarhliðin verði eigi lokuð: 45.2 Ég mun ganga á undan þér og jafna hólana, ég mun brjóta eirhliðin og mölva járnslárnar. 45.3 Ég mun gefa þér hina huldu fjársjóðu og hina fólgnu dýrgripi, svo að þú kannist við, að það er ég, Drottinn, sem kalla þig með nafni þínu, ég Ísraels Guð. 45.4 Vegna þjóns míns Jakobs og vegna Ísraels, míns útvalda, kallaði ég þig með nafni þínu, nefndi þig sæmdarnafni, þó að þú þekktir mig ekki. 45.5 Ég er Drottinn og enginn annar. Enginn Guð er til nema ég. Ég hertygjaði þig, þó að þú þekktir mig ekki, 45.6 svo að menn skyldu kannast við það bæði í austri og vestri, að enginn er til nema ég. Ég er Drottinn og enginn annar. 45.7 Ég tilbý ljósið og framleiði myrkrið, ég veiti heill og veld óhamingju. Ég er Drottinn, sem gjöri allt þetta. 45.8 Drjúpið, þér himnar, að ofan, og láti skýin réttlæti niður streyma. Jörðin opnist og láti hjálpræði fram spretta og réttlæti blómgast jafnframt. Ég, Drottinn, kem því til vegar. 45.9 Vei þeim, sem þráttar við skapara sinn, sjálfur leirbrot innan um önnur leirbrot jarðar! Hvort má leirinn segja við leirmyndarann: 'Hvað getur þú?' eða handaverk hans: 'Hann hefir engar hendur.' 45.10 Vei þeim, sem segir við föður sinn: 'Hvað munt þú fá getið!' eða við konuna: 'Hvað ætli þú getir fætt!' 45.11 Svo segir Drottinn, Hinn heilagi í Ísrael og sá er hann hefir myndað: Spyrjið mig um hið ókomna og felið mér að annast sonu mína og verk handa minna! 45.12 Ég hefi til búið jörðina og skapað mennina á henni. Mínar hendur hafa þanið út himininn og ég hefi kallað fram allan hans her. 45.13 Ég hefi vakið hann upp í réttlæti og ég mun greiða alla hans vegu. Hann skal byggja upp borg mína og gefa útlögum mínum heimfararleyfi, og það án endurgjalds og án fégjafa, _ segir Drottinn allsherjar. 45.14 Svo segir Drottinn: Auður Egyptalands og verslunargróði Blálands og Sebainga, hinna hávöxnu manna, skal ganga til þín og verða þín eign. Þeir skulu fylgja þér, í fjötrum skulu þeir koma, og þeir skulu falla fram fyrir þér og grátbæna þig og segja: 'Guð er hjá þér einum, enginn annar er til, enginn annar guð.' 45.15 Sannlega ert þú Guð, sem hylur þig, Ísraels Guð, frelsari. 45.16 Skurðgoðasmiðirnir verða sér til skammar, já, til háðungar allir saman, þeir ganga allir sneyptir. 45.17 En Ísrael frelsast fyrir Drottin eilífri frelsun. Þér skuluð eigi verða til skammar né háðungar að eilífu. 45.18 Já, svo segir Drottinn, sá er himininn hefir skapað _ hann einn er Guð, sá er jörðina hefir myndað og hana til búið, hann, sem hefir grundvallað hana og hefir eigi skapað hana til þess, að hún væri auðn, heldur myndað hana svo, að hún væri byggileg: Ég er Drottinn, og enginn annar. 45.19 Ég hefi ekki talað í leynum, einhvers staðar í landi myrkranna. Ég hefi eigi sagt við Jakobsniðja: 'Leitið mín út í bláinn!' Ég, Drottinn, tala það sem rétt er og kunngjöri sannmæli. 45.20 Safnist saman og komið, nálægið yður, allir þér af þjóðunum, sem undan hafið komist: Skynlausir eru þeir, sem burðast með trélíkneski sitt og biðja til guðs, er eigi getur hjálpað. 45.21 Gjörið kunnugt og segið til! Já, ráðfæri þeir sig hver við annan! Hver hefir boðað þetta frá öndverðu og kunngjört það fyrir löngu? Hefi ég, Drottinn, ekki gjört það? Enginn Guð er til nema ég. Fyrir utan mig er enginn sannur Guð og hjálpari til. 45.22 Snúið yður til mín og látið frelsast, þér gjörvöll endimörk jarðarinnar, því að ég er Guð og enginn annar. 45.23 Ég hefi svarið við sjálfan mig, af munni mínum er sannleikur út genginn, orð, er eigi mun bregðast: Fyrir mér skal sérhvert kné beygja sig, sérhver tunga sverja mér trúnað. 45.24 'Hjá Drottni einum,' mun um mig sagt verða, 'er réttlæti og vald.' Allir fjendur hans skulu til hans koma og blygðast sín. 45.25 Allir Ísraelsniðjar skulu réttlætast fyrir Drottin og miklast af honum.
46.1 Bel er hokinn, Nebó er boginn. Líkneski þeirra eru fengin eykjum og gripum, goðalíkneskin, sem þér áður báruð um kring, eru nú látin upp á þreyttan eyk, eins og önnur byrði. 46.2 Þeir eru bæði bognir og hoknir. Þeir megna ekki að frelsa byrðina, og sjálfir hljóta þeir að fara í útlegð. 46.3 Hlýðið á mig, þér kynsmenn Jakobs, og allir þér, sem eftir eruð af kyni Ísraels, þér sem eruð mér á herðar lagðir allt í frá móðurkviði og ég hefi borið allt í frá móðurlífi: 46.4 Allt til elliára er ég hinn sami, og ég vil bera yður, þar til er þér verðið gráir fyrir hærum. Ég hefi gjört yður, og ég skal bera yður, ég skal bera yður og frelsa. 46.5 Við hvern viljið þér samlíkja mér og jafna mér? Saman við hvern viljið þér bera mig sem jafningja minn? 46.6 Þeir sem steypa gullinu úr sjóðnum og vega silfrið á vogarskálum, leigja sér gullsmið til að smíða úr því guð, síðan knékrjúpa þeir og falla fram. 46.7 Þeir lyfta honum á axlir sér, bera hann og setja hann á sinn stað, og þar stendur hann og víkur ekki úr stað. Og þótt einhver ákalli hann, þá svarar hann ekki, hann frelsar eigi úr nauðum. 46.8 Minnist þessa og látið yður segjast, leggið það á hjarta, þér trúrofar. 46.9 Minnist þess hins fyrra frá upphafi, að ég er Guð og enginn annar, hinn sanni Guð og enginn minn líki. 46.10 Ég kunngjörði endalokin frá öndverðu og sagði fyrir fram það, sem eigi var enn fram komið. Ég segi: Mín ráðsályktun stendur stöðug, og allt, sem mér vel líkar, framkvæmi ég. 46.11 Ég kalla örninn úr austurátt, úr fjarlægu landi mann þann, er framkvæmir ráðsályktun mína. Það sem ég tala, það læt ég einnig fram koma, það sem ég áset mér, það gjöri ég einnig. 46.12 Hlýðið á mig, þér harðsvíruðu, sem eruð fjarlægir réttlætinu! 46.13 Ég nálægi mitt réttlæti, það er ekki langt í burtu, og hjálp mín skal ekki dvelja. Ég veiti hjálp í Síon og vegsemd mína Ísrael.
47.1 Stíg niður og sest í duftið, þú mærin Babeldóttir! Sest þú á jörðina hásætislaus, þú Kaldeadóttir! því þú munt eigi framar kölluð verða hin lystilega og látprúða. 47.2 Tak kvörnina og mala mjöl! Bregð burt skýlu þinni, tak upp um þig klæðin, gjör beran fótlegg þinn og vað yfir fljótin! 47.3 Ber verði blygðan þín og svívirða þín augsýnileg. Ég vil hefna mín og hlífi engum, 47.4 segir lausnari vor; Drottinn allsherjar er nafn hans, Hinn heilagi í Ísrael. 47.5 Sit hljóð og gakk inn í myrkrið, þú Kaldeadóttir, því þú munt eigi framar kölluð verða drottning konungsríkjanna. 47.6 Ég var reiður lýð mínum og lét eign mína verða fyrir vansæmd og seldi hana í hendur þér. En þú sýndir þeim enga miskunnsemi. Jafnvel á gamalmennin lagðir þú þitt afar þunga ok. 47.7 Og þú sagðir: 'Ég skal verða drottning um aldur og ævi.' Þú hugfestir þetta eigi og hugsaðir eigi um, hver endalokin mundu verða. 47.8 En heyr nú þetta, þú hin sællífa, er situr andvaralaus og segir í hjarta þínu: 'Ég og engin önnur. Í ekkjudómi skal ég aldrei sitja og eigi reyna, hvað það er að vera barnalaus.' 47.9 En hvort tveggja þetta skal þér að hendi bera skyndilega, á einum degi. Þú skalt bæði verða barnalaus og ekkja. Í fullum mæli mun það yfir þig koma, þrátt fyrir þína margvíslegu töfra og þínar miklu særingar. 47.10 Þú þóttist örugg í vonsku þinni og sagðir: 'Enginn sér til mín.' Viska þín og kunnátta hefir leitt þig afvega, svo að þú sagðir í hjarta þínu: 'Ég og engin önnur!' 47.11 Þess vegna skal ógæfa yfir þig koma, sem þú skalt ekki geta keypt þig undan. Ólán skal yfir þig dynja, er þú eigi fær afstýrt með fégjöfum. Skyndilega skal eyðing yfir þig koma, þegar þig varir minnst. 47.12 Kom þú nú með særingar þínar og með hina margvíslegu töfra þína, sem þú hefir stundað með allri elju í frá barnæsku þinni. Má vera, að þú getir eitthvað áunnið, má vera, þú fáir fælt það burt. 47.13 Þú ert orðin þreytt á hinum mörgu fyrirætlunum þínum. Lát því himinfræðingana og stjörnuskoðarana koma og hjálpa þér, þá er á mánuði hverjum boða þér, hvað yfir þig á að koma. 47.14 Sjá, þeir eru sem hálmleggir, eldurinn eyðir þeim. Þeir geta ekki bjargað lífi sjálfra sín úr loganum, því það verður ekki glóð til að orna sér við eða eldur til að sitja við. 47.15 Svo munu þeir reynast þér, er þú hefir mæðst fyrir, þeir er keypt hafa við þig frá æskuárum þínum: Þeir þjóta í sína áttina hver, og enginn verður til að hjálpa þér.
48.1 Heyrið þetta, þér Jakobs niðjar, þér sem nefndir eruð eftir Ísrael og runnir eruð úr Júda lindum, þér sem sverjið við nafn Drottins og tignið Ísraels Guð, þótt eigi sé í sannleika og réttlæti, 48.2 því að þeir kenna sig við hina helgu borg og leita trausts hjá Ísraels Guði: Nafn hans er Drottinn allsherjar. 48.3 Það sem nú er fram komið, hefi ég kunngjört fyrir löngu, það er útgengið af mínum munni, og ég hefi gjört það heyrinkunnugt. Skyndilega færði ég það til vegar, og það kom fram. 48.4 Af því að ég vissi, að þú ert þrjóskur og háls þinn seigur sem járnseymi og enni þitt hart sem kopar, 48.5 fyrir því kunngjörði ég þér það löngu fyrir og lét þig vita það áður en það kom fram, til þess að þú skyldir ekki segja: 'Goð mitt hefir komið því til leiðar, og skurðgoð mitt og hið steypta líkneski mitt hefir ráðstafað því.' 48.6 Þú hefir heyrt það, sjá, nú er það allt komið fram! Og þér, hljótið þér ekki að játa það? Nú boða ég þér nýja hluti og hulda, sem þú ekkert veist um. 48.7 Þeir eru nú að skapast, en eigi fyrr, fyrr en í dag hefir þú ekkert um þá heyrt, svo að þú skyldir ekki geta sagt: 'Sjá, ég vissi það!' 48.8 Þú hefir hvorki heyrt það né vitað það, né heldur hefir eyra þitt verið opið fyrir löngu, því að ég vissi, að þú ert mjög ótrúr og að þú hefir kallaður verið 'trúrofi' frá móðurlífi. 48.9 Fyrir sakir nafns míns sefa ég reiði mína og vegna lofs míns hefti ég hana þér í vil, svo að ég uppræti þig eigi. 48.10 Sjá, ég hefi hreinsað þig, þó eigi sem silfur, ég hefi reynt þig í bræðsluofni hörmungarinnar. 48.11 Mín vegna, sjálfs mín vegna gjöri ég það, og dýrð mína gef ég eigi öðrum, því að hversu mjög yrði nafn mitt vanhelgað! 48.12 Heyr mig, Jakob, og þú Ísrael, sem ég hefi kallað: Ég er hann, ég er hinn fyrsti, ég er einnig hinn síðasti. 48.13 Hönd mín hefir grundvallað jörðina, og hægri hönd mín hefir þanið út himininn. Þegar ég kalla á þau, koma þau. 48.14 Safnist allir saman og heyrið: Hver á meðal þeirra hefir kunngjört þetta: Sá er Drottinn elskar, skal framkvæma vilja hans á Babýlon og vera armleggur hans meðal Kaldea? 48.15 Það er ég, það er ég, sem hefi talað það, ég hefi og kallað hann. Ég hefi leitt hann fram og veitt honum sigurgengi. 48.16 Komið til mín og heyrið þetta: Frá upphafi hefi ég eigi talað í leyndum; þegar kominn var sá tími, að það skyldi verða, kom ég. Nú hefir hinn alvaldi Drottinn sent mig með sinn anda. 48.17 Svo segir Drottinn, frelsari þinn, Hinn heilagi í Ísrael: Ég, Drottinn Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga. 48.18 Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins. 48.19 Niðjar þínir mundu þá verða sem fjörusandur og lífsafkvæmi þín sem sandkorn. Nafn hans mun aldrei afmáð verða og aldrei hverfa burt frá mínu augliti. 48.20 Gangið út úr Babýlon, skundið burt frá Kaldeum með fagnaðarópi, boðið þetta og birtið það, útbreiðið það til endimarka jarðarinnar: Drottinn hefir frelsað þjón sinn Jakob! 48.21 Og þá þyrsti ekki, þegar hann leiddi þá um öræfin. Hann lét vatn spretta upp úr kletti handa þeim, og hann klauf klettinn, svo að vatnið vall þar upp. 48.22 Hinum óguðlegu, segir Drottinn, er enginn friður búinn.
49.1 Heyrið mig, þér eylönd, og hyggið að, þér fjarlægar þjóðir! Drottinn hefir kallað mig allt í frá móðurlífi, nefnt nafn mitt frá því ég var í kviði móður minnar. 49.2 Hann hefir gjört munn minn sem beitt sverð og hulið mig í skugga handar sinnar. Hann hefir gjört mig að fágaðri ör og falið mig í örvamæli sínum. 49.3 Hann sagði við mig: 'Þú ert þjónn minn, Ísrael, sá er ég mun sýna á vegsemd mína.' 49.4 En ég sagði: 'Ég hefi þreytt mig til einskis, eytt krafti mínum til ónýtis og árangurslaust. Samt sem áður er réttur minn hjá Drottni og laun mín hjá Guði mínum.' 49.5 En nú segir Drottinn, hann sem myndaði mig allt í frá móðurlífi til að vera þjón sinn, til þess að ég sneri Jakob aftur til hans og til þess að Ísrael yrði safnað saman til hans, _ og ég er dýrmætur í augum Drottins og Guð minn varð minn styrkur _ 49.6 nú segir hann: 'Það er of lítið fyrir þig að vera þjónn minn, til þess að endurreisa ættkvíslir Jakobs og leiða heim aftur þá, er varðveitst hafa af Ísrael. Fyrir því gjöri ég þig að ljósi fyrir þjóðirnar, svo að þú sért mitt hjálpræði til endimarka jarðarinnar.' 49.7 Svo segir Drottinn, frelsari og heilagur Guð Ísraels, við þann, sem af mönnum er fyrirlitinn, við þann, sem fólk hefir andstyggð á, við þjón harðstjóranna: Konungar munu sjá það og standa upp, þjóðhöfðingjar munu sjá það og falla fram, vegna Drottins, sem reynist trúr, vegna Hins heilaga í Ísrael, sem þig hefir útvalið. 49.8 Svo segir Drottinn: Á tíma náðarinnar bænheyri ég þig, og á degi hjálpræðisins hjálpa ég þér. Ég varðveiti þig og gjöri þig að sáttmála fyrir lýðinn, til þess að reisa við landið, til þess að úthluta erfðahlutum, sem komnir eru í auðn, 49.9 til þess að segja hinum fjötruðu: 'Gangið út,' og þeim sem í myrkrunum eru: 'Komið fram í dagsbirtuna.' Fram með vegunum skulu þeir vera á beit, og á öllum gróðurlausum hæðum skal vera beitiland fyrir þá. 49.10 Þá skal ekki hungra og ekki þyrsta, og eigi skal breiskjuloftið og sólarhitinn vinna þeim mein, því að miskunnari þeirra vísar þeim veg og leiðir þá að uppsprettulindum. 49.11 Ég gjöri öll mín fjöll að vegi, og brautir mínar skulu hækka. 49.12 Sjá, sumir koma langt að, sumir frá norðri og vestri, aðrir frá Syene. 49.13 Lofsyngið, þér himnar, og fagna þú, jörð! Hefjið gleðisöng, þér fjöll, því að Drottinn veitir huggun sínum lýð og auðsýnir miskunn sínum þjáðu. 49.14 Síon segir: 'Drottinn hefir yfirgefið mig, hinn alvaldi hefir gleymt mér!' 49.15 Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu, að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt, þá gleymi ég þér samt ekki. 49.16 Sjá, ég hefi rist þig á lófa mína, múrar þínir standa jafnan fyrir augum mér. 49.17 Byggjendur þínir koma með flýti, en þeir, sem brutu þig niður og lögðu þig í rústir, víkja burt frá þér. 49.18 Hef upp augu þín og litast um: Þeir safnast allir saman og koma til þín. Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn, skalt þú íklæðast þeim öllum sem skarti og belta þig með þeim sem brúður. 49.19 Því að rústir þínar, eyðistaðir þínir og umturnað land þitt _ já, nú verður þú of þröng fyrir íbúana og eyðendur þínir munu vera langt í burtu. 49.20 Enn munu börnin frá árunum, er þú varst barnalaus, segja í eyru þér: 'Hér er of þröngt um mig. Færðu þig, svo að ég fái bústað!' 49.21 Þá muntu segja í hjarta þínu: 'Hver hefir alið mér þessi börn? Ég var barnlaus og óbyrja, útlæg og brottrekin. Og hver hefir fóstrað þessi börn? Sjá, ég var ein eftir skilin, hvernig stendur þá á börnum þessum?' 49.22 Svo segir hinn alvaldi Drottinn: Sjá, ég mun banda hendi minni til þjóðanna og reisa upp merki mitt fyrir lýðina, og munu þeir þá færa hingað sonu þína í fangi sér, og dætur þínar bornar verða hingað á öxlinni. 49.23 Konungar skulu verða barnfóstrar þínir og drottningar þeirra barnfóstrur þínar. Þeir munu falla til jarðar fram á ásjónur sínar fyrir þér og sleikja duft fóta þinna. Þá munt þú komast að raun um, að ég er Drottinn og að þeir verða ekki til skammar, sem á mig vona. 49.24 Hvort mun herfangið verða tekið af hinum sterka? Og munu bandingjar ofbeldismannsins fá komist undan? 49.25 Já, svo segir Drottinn: Bandingjarnir skulu teknir verða af hinum sterka og herfang ofbeldismannsins komast undan. Ég skal verja sök þína gegn sökunautum þínum, og sonu þína mun ég frelsa. 49.26 Ég mun láta kúgara þína eta eigið hold, og þeir skulu verða drukknir af eigin blóði, eins og af vínberjalegi. Allt hold mun þá komast að raun um, að ég, Drottinn, er frelsari þinn, og hinn voldugi Jakobs Guð, lausnari þinn.
50.1 Svo segir Drottinn: Hvar er sú skilnaðarskrá móður yðar, er ég á að hafa rekið hana burt með? Eða hverjum af lánardrottnum mínum hefi ég selt yður? Sjá, sökum misgjörða yðar hafið þér seldir verið og vegna afbrota yðar hefir móðir yðar verið burt rekin. 50.2 Hvers vegna var enginn fyrir, þegar ég kom, hví gegndi enginn, þegar ég kallaði? Er hönd mín þá svo stutt orðin, að hún geti eigi frelsað, eða vantar mig mátt til að bjarga? Sjá, með hótun minni þurrka ég upp hafið, gjöri fljótin að eyðimörk, svo að fiskarnir í þeim úldna af vatnsleysi og deyja af þorsta. 50.3 Ég færi himininn í svartan hjúp og sveipa hann í sorgarbúning. 50.4 Hinn alvaldi Drottinn hefir gefið mér lærisveina tungu, svo að ég hefði vit á að styrkja hina mæddu með orðum mínum. Hann vekur á hverjum morgni, á hverjum morgni vekur hann eyra mitt, svo að ég taki eftir, eins og lærisveinar gjöra. 50.5 Hinn alvaldi Drottinn opnaði eyra mitt, og ég þverskallaðist eigi, færðist ekki undan. 50.6 Ég bauð bak mitt þeim, sem börðu mig, og kinnar mínar þeim, sem reyttu mig. Ég byrgði eigi ásjónu mína fyrir háðungum og hrákum. 50.7 Drottinn hinn alvaldi hjálpar mér, því lét ég ekki háðungarnar á mér festa. Fyrir því gjörði ég andlit mitt að tinnusteini, því að ég veit, að ég verð ekki til skammar. 50.8 Nálægur er sá er mig réttlætir. Hver vill deila við mig? Við skulum báðir ganga fram! Hver hefir sök að kæra á hendur mér? Komi hann til mín! 50.9 Sjá, hinn alvaldi Drottinn hjálpar mér. Hver er sá er geti gjört mig sekan? Sjá, þeir munu allir detta sundur eins og gamalt fat, mölur skal eyða þeim. 50.10 Hver sá meðal yðar, sem óttast Drottin, hlýði raustu þjóns hans. Sá sem í myrkrunum gengur og enga skímu sér, hann treysti á nafn Drottins og reiði sig á Guð sinn. 50.11 Sjá, allir þér, sem kveikið eld og gyrðið yður eldlegum skeytum, gangið þér út í þann eld, sem þér hafið kveikt, og sláið umhverfis yður þeim slagbröndum, sem þér hafið tendrað! Frá minni hendi kemur þetta yfir yður, þér skuluð liggja í kvölum.
51.1 Hlýðið á mig, þér sem leggið stund á réttlæti, þér sem leitið Drottins! Lítið á hellubjargið, sem þér eruð af höggnir, og á brunnholuna, sem þér eruð úr grafnir! 51.2 Lítið á Abraham, föður yðar, og á Söru, sem ól yður! Því að barnlausan kallaði ég hann, en ég blessaði hann og jók kyn hans. 51.3 Já, Drottinn huggar Síon, huggar allar rústir hennar. Hann gjörir auðn hennar sem Eden og heiði hennar sem aldingarð Drottins. Fögnuður og gleði mun finnast í henni, þakkargjörð og lofsöngur. 51.4 Hlýð þú á mig, þú lýður minn, hlusta á mig, þú þjóð mín, því frá mér mun kenning út ganga og minn réttur sem ljós fyrir þjóðirnar. 51.5 Skyndilega nálgast réttlæti mitt, hjálpræði mitt er á leiðinni. Armleggir mínir munu færa þjóðunum réttlæti. Fjarlægar landsálfur vænta mín og bíða eftir mínum armlegg. 51.6 Hefjið augu yðar til himins og lítið á jörðina hér neðra. Himinninn mun leysast sundur sem reykur og jörðin fyrnast sem fat og þeir, sem á henni búa, deyja sem mý. En mitt hjálpræði varir eilíflega, og mínu réttlæti mun eigi linna. 51.7 Hlýðið á mig, þér sem þekkið réttlætið, þú lýður, sem ber lögmál mitt í hjarta þínu. Óttist eigi spott manna og hræðist eigi smánaryrði þeirra, 51.8 því að mölur mun eta þá eins og klæði og maur eta þá eins og ull. En réttlæti mitt varir eilíflega og hjálpræði mitt frá kyni til kyns. 51.9 Vakna þú, vakna þú, íklæð þig styrkleika, armleggur Drottins! Vakna þú, eins og fyrr á tíðum, eins og í árdaga! Varst það eigi þú, sem banaðir skrímslinu og lagðir í gegn drekann? 51.10 Varst það eigi þú, sem þurrkaðir upp hafið, vötn hins mikla djúps, sem gjörðir sjávardjúpin að vegi, svo að hinir endurleystu gætu komist yfir? 51.11 Hinir endurkeyptu Drottins skulu aftur hverfa og koma með fögnuði til Síonar, og eilíf gleði skal leika yfir höfði þeim. Fögnuður og gleði skal fylgja þeim, en hryggð og andvarpan flýja. 51.12 Ég, ég er sá sem huggar yður. Hver ert þú, að þú skulir hrædd vera við mennina, sem eiga að deyja, og mannanna börn, sem felld verða eins og grasið, 51.13 en gleymir Drottni, skapara þínum, sem útþandi himininn og grundvallaði jörðina, að þú óttast stöðugt liðlangan daginn heift kúgarans? Þegar hann býr sig til að gjöreyða, hvar er þá heift kúgarans? 51.14 Brátt skulu þeir, er fjötraðir eru, leystir verða, og þeir skulu eigi deyja og fara í gröfina, né heldur skal þá skorta brauð _ 51.15 svo sannarlega sem ég er Drottinn, Guð þinn, sá er æsir hafið, svo að bylgjurnar gnýja. Drottinn allsherjar er nafn hans. 51.16 Ég hefi lagt mín orð í munn þér og skýlt þér undir skugga handar minnar, ég, sem gróðursetti himininn og grundvallaði jörðina og segi við Síon: 'Þú ert minn lýður!' 51.17 Hresstu þig upp, hresstu þig upp, rístu upp, Jerúsalem, þú sem drukkið hefir reiðibikar Drottins, er hönd hans rétti að þér. Vímubikarinn hefir þú drukkið í botn! 51.18 Af öllum þeim sonum, sem hún hafði alið, var ekki nokkur einn, sem leiddi hana. Af öllum þeim sonum, sem hún hafði upp fætt, var enginn, sem tæki í hönd hennar. 51.19 Þetta tvennt henti þig _ hver aumkar þig? _ eyðing og umturnun, hungur og sverð _ hver huggar þig? 51.20 Synir þínir liðu í ómegin og lágu á öllum strætamótum, eins og antílópur í veiðigröf, fullir af reiði Drottins, af hirtingarorðum Guðs þíns. 51.21 Fyrir því heyr þú þetta, þú hin vesala, þú sem drukkin ert, og þó ekki af víni: 51.22 Svo segir Drottinn þinn alvaldur og Guð þinn, sem réttir hlut lýðs síns: Sjá, ég tek úr hendi þinni vímubikarinn, skál reiði minnar, þú skalt ekki framar á henni bergja. 51.23 Ég fæ hana í hendur þeim, sem angra þig, þeim er sögðu við þig: 'Varpa þér niður, svo að vér getum gengið á þér!' Og þú varðst að gjöra hrygg þinn sem gólf og að götu fyrir vegfarendur.
52.1 Vakna þú, vakna þú, íklæð þig styrk þínum, Síon! Klæð þig skartklæðum þínum, Jerúsalem, þú hin heilaga borg! því að enginn óumskorinn eða óhreinn skal framar inn í þig ganga. 52.2 Hrist af þér rykið, rís upp og sest í sæti þitt, Jerúsalem! Losa þú af þér hálsfjötra þína, þú hin hertekna, dóttirin Síon! 52.3 Svo segir Drottinn: Þér voruð seldir fyrir ekkert, þér skuluð og án silfurs leystir verða. 52.4 Svo segir hinn alvaldi Drottinn: Til Egyptalands fór lýður minn forðum til þess að dveljast þar um hríð, og Assýringar kúguðu hann heimildarlaust. 52.5 Og nú, hvað hefi ég hér að gjöra _ segir Drottinn _ þar sem lýður minn hefir verið burt numinn fyrir ekkert? Yfirdrottnarar hans dramba _ segir Drottinn _ og stöðugt er nafn mitt smáð liðlangan daginn. 52.6 Fyrir því skal lýður minn fá að þekkja nafn mitt, fá að reyna það á þeim degi, að það er ég, sem segi: 'Sjá, hér er ég!' 52.7 Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans, sem friðinn kunngjörir, gleðitíðindin flytur, hjálpræðið boðar og segir við Síon: 'Guð þinn er setstur að völdum!' 52.8 Varðmenn þínir hefja upp raustina allir í einu, þeir æpa fagnaðaróp, því að með eigin augum sjá þeir Drottin hverfa aftur til Síonar. 52.9 Hefjið gleðisöng, æpið fagnaðaróp allar í einu, þér eyðirústir Jerúsalem, því að Drottinn huggar lýð sinn, leysir Jerúsalem. 52.10 Drottinn hefir beran gjört heilagan armlegg sinn í augsýn allra þjóða, og öll endimörk jarðarinnar skulu sjá hjálpræði Guðs vors. 52.11 Farið burt, farið burt, gangið út þaðan! Snertið ekkert óhreint! Gangið burt þaðan, hreinsið yður, þér sem berið ker Drottins! 52.12 Því að eigi skuluð þér í flýti brott ganga né fara með skyndingu, því að Drottinn fer fyrir yður í fararbroddi og Guð Ísraels gengur aftastur í flokki yðar. 52.13 Sjá, þjónn minn mun giftusamur verða, hann mun verða mikill og veglegur og mjög hátt upp hafinn. 52.14 Eins og margir urðu agndofa af skelfingu yfir honum _ svo afskræmd var ásýnd hans framar en nokkurs manns og mynd hans framar en nokkurs af mannanna sonum _ 52.15 eins mun hann vekja undrun margra þjóða, og konungar munu afturlykja munni sínum fyrir honum. Því að þeir munu sjá það, sem þeim hefir aldrei verið frá sagt, og verða þess áskynja, er þeir hafa aldrei heyrt.
53.1 Hver trúði því, sem oss var boðað, og hverjum varð armleggur Drottins opinber? 53.2 Hann rann upp eins og viðarteinungur fyrir augliti hans og sem rótarkvistur úr þurri jörð. Hann var hvorki fagur né glæsilegur, svo að oss gæfi á að líta, né álitlegur, svo að oss fyndist til um hann. 53.3 Hann var fyrirlitinn, og menn forðuðust hann, harmkvælamaður og kunnugur þjáningum, líkur manni, er menn byrgja fyrir andlit sín, fyrirlitinn og vér mátum hann einskis. 53.4 En vorar þjáningar voru það, sem hann bar, og vor harmkvæli, er hann á sig lagði. Vér álitum hann refsaðan, sleginn af Guði og lítillættan, 53.5 en hann var særður vegna vorra synda og kraminn vegna vorra misgjörða. Hegningin, sem vér höfðum til unnið, kom niður á honum, og fyrir hans benjar urðum vér heilbrigðir. 53.6 Vér fórum allir villir vega sem sauðir, stefndum hver sína leið, en Drottinn lét misgjörð vor allra koma niður á honum. 53.7 Hann var hrjáður, en hann lítillætti sig og lauk eigi upp munni sínum. Eins og lamb, sem leitt er til slátrunar, og eins og sauður þegir fyrir þeim, er klippa hann, lauk hann eigi upp munni sínum. 53.8 Með þrenging og dómi var hann burt numinn, og hver af samtíðarmönnum hans hugsaði um það? Hann var hrifinn burt af landi lifenda, fyrir sakir syndar míns lýðs var hann lostinn til dauða. 53.9 Og menn bjuggu honum gröf meðal illræðismanna, legstað með ríkum, þótt hann hefði eigi ranglæti framið og svik væru ekki í munni hans. 53.10 En Drottni þóknaðist að kremja hann með harmkvælum: Þar sem hann fórnaði sjálfum sér í sektarfórn, skyldi hann fá að líta afsprengi og lifa langa ævi og áformi Drottins fyrir hans hönd framgengt verða. 53.11 Vegna þeirra hörmunga, er sál hans þoldi, mun hann sjá ljós og seðjast. Þá menn læra að þekkja hann, mun hann, hinn réttláti, þjónn minn, gjöra marga réttláta, og hann mun bera misgjörðir þeirra. 53.12 Fyrir því gef ég honum hina mörgu að hlutskipti, og hann mun öðlast hina voldugu að herfangi, fyrir það, að hann gaf líf sitt í dauðann og var með illræðismönnum talinn. En hann bar syndir margra og bað fyrir illræðismönnum.
54.1 Fagna, þú óbyrja, sem ekki hefir fætt! Hef upp gleðisöng, lát við kveða fagnaðaróp, þú sem eigi hefir haft fæðingarhríðir! Því að börn hinnar yfirgefnu munu fleiri verða en giftu konunnar, _ segir Drottinn. 54.2 Víkka þú út tjald þitt, og lát þá þenja út tjalddúka búðar þinnar, meina þeim það ekki, gjör tjaldstög þín löng og rek fast hælana. 54.3 Því að þú munt útbreiðast til hægri og vinstri, og niðjar þínir munu eignast lönd þjóðanna og byggja eyddar borgir. 54.4 Óttast eigi, því að þú skalt eigi til skammar verða, lát eigi háðungina á þér festa, því að þú skalt eigi þurfa að fyrirverða þig. Því að þú skalt gleyma vanvirðu æsku þinnar og eigi framar minnast svívirðingar ekkjudóms þíns. 54.5 Því að hann, sem skóp þig, er eiginmaður þinn, Drottinn allsherjar er nafn hans. Og Hinn heilagi í Ísrael er frelsari þinn, Guð gjörvallrar jarðarinnar heitir hann. 54.6 Drottinn kallar þig sem yfirgefna konu og harmþrungna, og æskunnar brúður, sem verið hefir ein látin, _ segir Guð þinn. 54.7 Skamma stund yfirgaf ég þig, en með mikilli miskunnsemi tek ég þig að mér. 54.8 Í ofurreiði minni byrgði ég auglit mitt fyrir þér um stund, en með eilífri líkn miskunna ég þér, _ segir endurlausnari þinn, Drottinn. 54.9 Það fer eins fyrir mér með þetta og með Nóaflóð: Svo sem ég sór þá, að Nóaflóð skyldi ekki framar ganga yfir jörðina, eins sver ég nú að reiðast þér ekki né ávíta þig. 54.10 Því þótt fjöllin færist úr stað og hálsarnir riði skal mín miskunnsemi við þig ekki færast úr stað og minn friðarsáttmáli ekki raskast, _ segir miskunnari þinn, Drottinn. 54.11 Þú hin vesala, hrakta, huggunarlausa! Sjá, ég legg rúbína sem steina í bygging þína og hleð grunnmúra þína af safírsteinum. 54.12 Ég gjöri múrtinda þína af jaspis og hlið þín af roðasteinum og allan ummerkjagarð þinn af dýrindissteinum. 54.13 Allir synir þínir eru lærisveinar Drottins og njóta mikils friðar. 54.14 Fyrir réttlæti munt þú stöðug standa. Álít þig fjarlæga ofríki, því að þú þarft ekki að óttast, og fjarlæga skelfingu, því að hún skal ekki koma nærri þér. 54.15 Ef nokkur áreitir þig, þá er það ekki að mínum vilja. Hver sem áreitir þig, skal falla fyrir þér. 54.16 Sjá, ég skapa smiðinn, sem blæs að kolaeldinum og framleiðir vopnið til sinnar notkunar, og ég skapa eyðandann til þess að leggja í eyði. 54.17 Engin vopn, sem smíðuð verða móti þér, skulu verða sigurvænleg, og allar tungur, sem upp rísa gegn þér til málaferla, skalt þú kveða niður. Þetta er hlutskipti þjóna Drottins og það réttlæti, er þeir fá hjá mér _ segir Drottinn.
55.1 Heyrið, allir þér sem þyrstir eruð, komið hingað til vatnsins, og þér sem ekkert silfur eigið, komið, kaupið korn og etið! Komið, kaupið korn án silfurs og endurgjaldslaust bæði vín og mjólk! 55.2 Hví reiðið þér silfur fyrir það, sem ekki er brauð, og gróða yðar fyrir það, sem ekki er til saðnings? Hlýðið á mig, þá skuluð þér fá gott að eta og sálir yðar gæða sér á feiti! 55.3 Hneigið eyru yðar og komið til mín, heyrið, svo að sálir yðar megi lifna við! Ég vil gjöra við yður eilífan sáttmála, Davíðs órjúfanlega náðarsáttmála. 55.4 Sjá, ég hefi gjört hann að vitni fyrir þjóðirnar, að höfðingja og stjórnara þjóðanna. 55.5 Sjá, þú munt kalla til þín þjóð, er þú þekkir ekki, og fólk, sem ekki þekkir þig, mun hraða sér til þín, sakir Drottins Guðs þíns og vegna Hins heilaga í Ísrael, af því að hann hefir gjört þig vegsamlegan. 55.6 Leitið Drottins, meðan hann er að finna, kallið á hann, meðan hann er nálægur! 55.7 Hinn óguðlegi láti af breytni sinni og illvirkinn af vélráðum sínum og snúi sér til Drottins, þá mun hann miskunna honum, til Guðs vors, því að hann fyrirgefur ríkulega. 55.8 Já, mínar hugsanir eru ekki yðar hugsanir, og yðar vegir ekki mínir vegir _ segir Drottinn. 55.9 Heldur svo miklu sem himinninn er hærri en jörðin, svo miklu hærri eru mínir vegir yðar vegum og mínar hugsanir yðar hugsunum. 55.10 Því eins og regn og snjór fellur af himni ofan og hverfur eigi þangað aftur, fyrr en það hefir vökvað jörðina, gjört hana frjósama og gróandi og gefið sáðmanninum sæði og brauð þeim er eta, 55.11 eins er því farið með mitt orð, það er útgengur af mínum munni: Það hverfur ekki aftur til mín við svo búið, eigi fyrr en það hefir framkvæmt það, sem mér vel líkar, og komið því til vegar, er ég fól því að framkvæma. 55.12 Já, með gleði skuluð þér út fara, og í friði burt leiddir verða. Fjöll og hálsar skulu hefja upp fagnaðarsöng fyrir yður, og öll tré merkurinnar klappa lof í lófa. 55.13 Þar sem áður voru þyrnirunnar, mun kýpresviður vaxa, og þar sem áður var lyng, mun mýrtusviður vaxa. Þetta mun verða Drottni til lofs og eilífs minningarmarks, sem aldrei mun afmáð verða.
56.1 Svo segir Drottinn: Varðveitið réttinn og gjörið það, sem rétt er, því að hjálpræði mitt er í nánd og réttlæti mitt birtist bráðlega. 56.2 Sæll er sá maður, sem gjörir þetta, og það mannsbarn, sem heldur fast við það, sá sem gætir þess að vanhelga ekki hvíldardaginn og varðveitir hönd sína frá því að gjöra nokkuð illt. 56.3 Eigi má útlendingurinn, er gengið hefir Drottni á hönd, segja: 'Drottinn mun skilja mig frá lýð sínum!' Og eigi má geldingurinn segja: 'Ég er visið tré!' 56.4 Því að svo segir Drottinn: Geldingunum, sem halda hvíldardaga mína og kjósa það, sem mér vel líkar, og halda fast við sáttmála minn, 56.5 þeim vil ég gefa minningarmark og nafn í húsi mínu og á múrveggjum mínum, sem er betra en synir og dætur. Eilíft nafn vil ég gefa þeim, það er aldrei mun afmáð verða. 56.6 Og útlendinga, sem gengið hafa Drottni á hönd til þess að þjóna honum og til þess að elska nafn Drottins, til þess að verða þjónar hans _ alla þá, sem gæta þess að vanhelga ekki hvíldardaginn og halda fast við minn sáttmála, 56.7 þá mun ég leiða til míns heilaga fjalls og gleðja þá í bænahúsi mínu. Brennifórnir þeirra og sláturfórnir skulu vera mér þóknanlegar á altari mínu. Því að hús mitt skal nefnast bænahús fyrir allar þjóðir. 56.8 Hinn alvaldi Drottinn segir: Þegar ég safna saman hinum burtreknu af Ísrael, mun ég og safna mörgum auk þeirra! 56.9 Safnist saman, öll dýr merkurinnar, komið til að eta, öll dýr skógarins! 56.10 Varðmenn Ísraels eru allir blindir, vita ekki neitt, þeir eru allir hljóðlausir hundar, sem ekki geta gelt. Þeir liggja í draummóki, þeim þykir gott að lúra. 56.11 Og hundarnir eru gráðsoltnir, fá aldrei fylli sína. Og hirðarnir sjálfir hafa ekki vit á að taka eftir, þeir fara hver sinna ferða, líta allir á eigin hag: 56.12 'Komið, ég ætla að sækja vín, vér skulum drekka ósleitulega! Og morgundagurinn skal verða sem þessi, dýrlegur næsta mjög!'
57.1 Hinir réttlátu líða undir lok, og enginn leggur það á hjarta. Hinum guðhræddu er burt svipt, og enginn veitir því athygli. Hinir réttlátu verða burt numdir frá ógæfunni, 57.2 þeir ganga inn til friðar. Þeir, sem ganga beina braut, munu hvíla í legurúmum sínum. 57.3 Komið þér hingað, þér seiðkonusynir, þú afsprengi hórkarls og skækju! 57.4 Að hverjum skopist þér? Framan í hvern eruð þér að bretta yður og reka út úr yður tunguna? Eruð þér ekki syndarinnar börn og lyginnar afsprengi? 57.5 Þér brunnuð af girndarbruna hjá eikitrjánum, undir hverju grænu tré, þér slátruðuð börnum í dölunum, niðri í klettagjánum. 57.6 Á sleipum steinum í árfarvegi skriðnar þér fótur. Þú úthelltir drykkjarfórn handa þeim, færðir þeim matfórn. Átti ég að una slíku? 57.7 Á háu og gnæfandi fjalli settir þú hvílurúm þitt, þú fórst og upp þangað til þess að færa fórnir. 57.8 Á bak við hurð og dyrastafi settir þú minningarmark þitt. Já, fráhverf mér flettir þú ofan af hvílu þinni, steigst upp í hana og rýmkaðir til í henni og gjörðir samning við þá. Þér voru kær hvílubrögð þeirra, þú sást blygðan þeirra. 57.9 Þú fórst til konungsins með olíu og hafðir með þér mikil smyrsl, og þú sendir sendiboða þína langar leiðir og steigst niður allt til Heljar. 57.10 Þú varðst þreytt af hinu langa ferðalagi þínu, en þó sagðir þú ekki: 'Ég gefst upp!' Þú fannst nýjan lífsþrótt í hendi þinni, fyrir því örmagnaðist þú ekki. 57.11 Hvern hræddist og óttaðist þú þá, að þú skyldir bregða svo trúnaði þínum, að þú skyldir ekki muna til mín, ekkert um mig hirða? Er eigi svo: Ég hefi þagað, og það frá eilífð, mig óttaðist þú því ekki? 57.12 En ég skal gjöra réttlæti þitt kunnugt, og verkin þín _ þau munu þér að engu liði verða. 57.13 Lát skurðgoðin, sem þú hefir saman safnað, bjarga þér, er þú kallar á hjálp! Vindurinn mun svipta þeim öllum í burt, gusturinn taka þau. En sá, sem leitar hælis hjá mér, mun erfa landið og eignast mitt heilaga fjall. 57.14 Sagt mun verða: 'Leggið braut, leggið braut, greiðið veginn, ryðjið hverjum ásteytingarsteini úr vegi þjóðar minnar!' 57.15 Já, svo segir hinn hái og háleiti, hann sem ríkir eilíflega og heitir Heilagur: Ég bý á háum og helgum stað, en einnig hjá þeim, sem hafa sundurkraminn og auðmjúkan anda, til þess að lífga anda hinna lítillátu og til þess að lífga hjörtu hinna sundurkrömdu. 57.16 Því að ég þreyti ekki deilur eilíflega og reiðist ekki ævinlega, ella mundi andi mannsins vanmegnast fyrir mér og sálirnar, sem ég hefi skapað. 57.17 Sökum hinnar syndsamlegu ágirndar hans reiddist ég og laust hann, ég byrgði andlit mitt og var reiður. Þrjóskufullur hélt hann þá leið, er hann lysti. 57.18 Ég sá vegu hans og ég vil lækna hann, ég vil leiða hann og veita honum hugsvölun. Öllum þeim, sem hryggir eru hjá honum, 57.19 vil ég gefa ávöxt varanna _ segir Drottinn. Friður, friður fyrir fjarlæga og fyrir nálæga. Ég lækna hann! 57.20 En hinir óguðlegu eru sem ólgusjór, því að hann getur ekki verið kyrr og bylgjur hans róta upp aur og leðju. 57.21 Hinum óguðlegu, segir Guð minn, er enginn friður búinn.
58.1 Kalla þú af megni og drag ekki af! Hef upp raust þína sem lúður og kunngjör lýð mínum misgjörð þeirra og húsi Jakobs syndir þeirra! 58.2 Þeir leita mín dag frá degi og girnast að þekkja mína vegu. Þeir heimta af mér réttláta dóma og girnast það, að Guð komi til, eins og væru þeir þjóð, sem iðkar réttlæti og eigi víkur frá skipunum Guðs síns. 58.3 'Hví föstum vér, og þú sér það ekki? Hví þjáum vér oss, og þú skeytir því ekki?' Sjá, daginn sem þér fastið fáist þér við störf yðar og þrælkið öll hjú yðar. 58.4 Sjá, þér fastið til þess að vekja deilur og þrætur og til þess að ljósta með ósvífnum hnefa. En þér fastið eigi í dag til þess að láta rödd yðar heyrast upp í hæðirnar. 58.5 Mun slíkt vera sú fasta, er mér líkar, sá dagur, er menn þjá sig? Að hengja niður höfuðið sem sef og breiða undir sig sekk og ösku, kallar þú slíkt föstu og dag velþóknunar fyrir Drottni? 58.6 Nei, sú fasta, sem mér líkar, er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok, 58.7 það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn, og ef þú sér klæðlausan mann, að þú þá klæðir hann og firrist eigi þann, sem er hold þitt og blóð. 58.8 Þá skal ljós þitt bruna fram sem morgunroði og sár þitt gróa bráðlega, þá mun réttlæti þitt fara fyrir þér, dýrð Drottins fylgja á eftir þér. 58.9 Þá munt þú kalla á Drottin, og hann mun svara, þú munt hrópa á hjálp og hann segja: 'Hér er ég!' Ef þú hættir allri undirokun, hæðnisbendingum og illmælum, 58.10 ef þú réttir hinum hungraða brauð þitt og seður þann, sem bágt á, þá mun ljós þitt renna upp í myrkrinu og niðdimman í kringum þig verða sem hábjartur dagur. 58.11 Þá mun Drottinn stöðugt leiða þig og seðja þig, þótt þú sért staddur á vatnslausum stöðum, og styrkja bein þín, og þá munt þú verða sem vökvaður aldingarður og sem uppsprettulind, er aldrei þrýtur. 58.12 Þá munu afkomendur þínir byggja upp hinar fornu borgarrústir, og þú munt reisa að nýju múrveggina, er legið hafa við velli marga mannsaldra, og þá munt þú nefndur verða múrskarða-fyllir, farbrauta-bætir. 58.13 Ef þú varast að vanhelga hvíldardaginn, varast að gegna störfum þínum á helgum degi mínum, ef þú kallar hvíldardaginn feginsdag, hinn helga dag Drottins heiðursdag og virðir hann svo, að þú framkvæmir ekki fyrirætlanir þínar, annast ekki störf þín né talar hégómaorð, 58.14 þá munt þú gleðjast yfir Drottni og þá mun ég láta þig fram bruna á hæðum landsins og láta þig njóta arfleifðar Jakobs föður þíns, því að munnur Drottins hefir talað það.
59.1 Sjá, hönd Drottins er eigi svo stutt, að hann geti ekki hjálpað, og eyra hans er ekki svo þykkt, að hann heyri ekki. 59.2 Það eru misgjörðir yðar, sem skilnað hafa gjört milli yðar og Guðs yðar, og syndir yðar, sem byrgt hafa auglit hans fyrir yður, svo að hann heyrir ekki. 59.3 Hendur yðar eru blóði ataðar og fingur yðar misgjörðum, varir yðar tala lygi og tunga yðar fer með illsku. 59.4 Enginn stefnir fyrir dóm af því, að honum gangi réttlæti til, og enginn á í málaferlum sannleikans vegna. Menn reiða sig á hégóma og tala lygi, þeir ganga með ranglæti og ala illgjörðir. 59.5 Þeir klekja út hornormseggjum og vefa köngulóarvefi. Hverjum sem etur af eggjum þeirra er dauðinn vís, og verði eitthvert þeirra troðið sundur, skríður úr því eiturormur. 59.6 Vefnaður þeirra er ónýtur til klæða, og það sem þeir vinna verður eigi haft til skjóls: Athafnir þeirra eru illvirki, og ofbeldisverk liggja í lófum þeirra. 59.7 Fætur þeirra eru skjótir til ills, og fljótir til að úthella saklausu blóði. Ráðagjörðir þeirra eru skaðræðisráðagjörðir, eyðing og tortíming er á vegum þeirra. 59.8 Veg friðarins þekkja þeir ekki, og ekkert réttlæti er á þeirra stigum. Þeir hafa gjört vegu sína hlykkjótta, hver sá, er þá gengur, hefir ekki af friði að segja. 59.9 Fyrir því er rétturinn fjarlægur oss og réttlætið kemur ekki nálægt oss. Vér væntum ljóss, en það er myrkur, væntum dagsbirtu, en göngum í niðdimmu. 59.10 Vér þreifum fyrir oss, eins og blindir menn með vegg, fálmum eins og þeir, sem misst hafa sjónina. Oss verður fótaskortur um hábjartan daginn eins og í rökkri, í blóma lífsins erum vér sem dauðir menn. 59.11 Vér rymjum allir sem birnir, kurrum eins og dúfur. Vér væntum réttar, en hann fæst ekki, væntum hjálpræðis, en það er langt í burtu frá oss. 59.12 Afbrot vor eru mörg frammi fyrir þér og syndir vorar vitna í gegn oss, því að afbrot vor eru oss kunn og misgjörðir vorar þekkjum vér. 59.13 Vér höfum horfið frá Drottni og afneitað honum og vikið burt frá Guði vorum. Vér höfum látið oss ofríki og fráhvarf um munn fara, vér höfum upphugsað og mælt fram af hjarta voru lygaorð. 59.14 Og rétturinn er hrakinn á hæl, og réttlætið stendur langt í burtu, því að sannleikurinn hrasaði á strætunum og hreinskilnin kemst ekki að. 59.15 Sannleikurinn er horfinn, og sá sem firrist það, sem illt er, verður öðrum að herfangi. Og Drottinn sá það, og honum mislíkaði réttleysið. 59.16 Og hann sá að þar var enginn, og hann undraðist, að enginn vildi í skerast. En þá hjálpaði honum armleggur hans, og réttlæti hans studdi hann. 59.17 Hann íklæddist réttlætinu sem pansara og setti hjálm hjálpræðisins á höfuð sér. Hann klæddist klæðum hefndarinnar sem fati og hjúpaði sig vandlætinu eins og skikkju. 59.18 Eins og menn hafa unnið til, svo mun hann gjalda: mótstöðumönnum sínum heift og óvinum sínum hefnd, fjarlægum landsálfum endurgeldur hann. 59.19 Menn munu óttast nafn Drottins í frá niðurgöngu sólar og dýrð hans í frá upprás sólar. Já, hann brýst fram eins og á í gljúfrum, er andgustur Drottins knýr áfram. 59.20 En til Síonar kemur hann sem frelsari, til þeirra í Jakob, sem snúið hafa sér frá syndum _ segir Drottinn. 59.21 Þessi er sáttmálinn, sem ég gjöri við þá _ segir Drottinn: Andi minn, sem er yfir þér, og orð mín, sem ég hefi lagt í munn þér, þau skulu ekki víkja frá munni þínum, né frá munni niðja þinna, né frá munni niðja niðja þinna, _ segir Drottinn, _ héðan í frá og að eilífu.
60.1 Statt upp, skín þú, því að ljós þitt kemur og dýrð Drottins rennur upp yfir þér! 60.2 Sjá, myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum. En yfir þér upp rennur Drottinn, og dýrð hans birtist yfir þér. 60.3 Þjóðirnar stefna á ljós þitt og konungar á ljómann, sem upp rennur yfir þér. 60.4 Hef upp augu þín og litast um: Þeir safnast allir saman og koma til þín. Synir þínir koma af fjarlægum löndum, og dætur þínar eru bornar á mjöðminni. 60.5 Við þá sýn muntu gleðjast, hjarta þitt mun titra og svella, því að auðlegð hafsins hverfur til þín og fjárafli þjóðanna kemur undir þig. 60.6 Mergð úlfalda hylur þig, ungir úlfaldar frá Midían og Efa. Þeir koma allir frá Saba, gull og reykelsi færa þeir, og þeir kunngjöra lof Drottins. 60.7 Allar hjarðir Kedars safnast til þín, hrútar Nebajóts þjóna þér: Þeir stíga upp á altari mitt mér til þóknunar, og hús dýrðar minnar gjöri ég dýrlegt. 60.8 Hverjir eru þessir, sem koma fljúgandi eins og ský og sem dúfur til búra sinna? 60.9 Mín bíða eylöndin, og Tarsis-knerrir fara fremstir til þess að flytja sonu þína heim af fjarlægum löndum, og þeir hafa með sér silfur sitt og gull sitt _ vegna nafns Drottins Guðs þíns og vegna Hins heilaga í Ísrael, af því að hann hefir gjört þig vegsamlega. 60.10 Útlendir menn munu hlaða upp múra þína og konungar þeirra þjóna þér, því að í reiði minni sló ég þig, en af náð minni miskunna ég þér. 60.11 Hlið þín munu ávallt opin standa, þeim er hvorki lokað dag né nótt, til þess að menn geti fært þér fjárafla þjóðanna og konunga þeirra sem bandingja. 60.12 Því að hver sú þjóð og hvert það konungsríki, sem eigi vill lúta þér, skal undir lok líða, og þær þjóðir munu gjöreyddar verða. 60.13 Prýði Líbanons mun til þín koma: kýpresviður, álmviður og sortulyngsviður, hver með öðrum til þess að prýða helgan stað minn og gjöra vegsamlegan stað fóta minna. 60.14 Og synir þeirra, sem kúguðu þig, munu koma til þín niðurlútir, og allir þeir, sem smánuðu þig, munu fleygja sér flötum fyrir fætur þér. Þeir munu kalla þig borg Drottins, Síon Hins heilaga í Ísrael. 60.15 Í stað þess, að þú áður varst yfirgefin, hötuð og enginn fór um hjá þér, gjöri ég þig að eilífri vegsemd, að fögnuði margra kynslóða. 60.16 Og þú munt drekka mjólk þjóðanna og sjúga brjóst konunganna, og þá skalt þú reyna það, að ég, Drottinn, er frelsari þinn, og Jakobs voldugi Guð, lausnari þinn. 60.17 Ég mun færa þér gull í stað eirs og silfur í stað járns, eir í stað trjáviðar og járn í stað grjóts. Ég gjöri friðinn að valdstjórn þinni og réttlætið að valdsmanni þínum. 60.18 Eigi skal framar heyrast getið um ofríki í landi þínu, né um tjón og tortíming innan landamerkja þinna. Þú skalt kalla Hjálpræði múra þína og Sigurfrægð hlið þín. 60.19 Þú skalt ekki framar hafa sólina til að lýsa þér um daga, og tunglið skal ekki skína til að gefa þér birtu, heldur skal Drottinn vera þér eilíft ljós og Guð þinn vera þér geislandi röðull. 60.20 Þá mun sól þín ekki framar ganga undir og tungl þitt ekki minnka, því að Drottinn mun vera þér eilíft ljós og hörmungardagar þínir skulu þá vera á enda. 60.21 Og lýður þinn _ þeir eru allir réttlátir, þeir munu eiga landið eilíflega: þeir eru kvisturinn, sem ég hefi gróðursett, verk handa minna, er ég gjöri mig vegsamlegan með. 60.22 Hinn minnsti skal verða að þúsund og hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð. Ég, Drottinn, mun hraða því, þegar að því kemur.
61.1 Andi Drottins er yfir mér, af því að Drottinn hefir smurt mig. Hann hefir sent mig til að flytja nauðstöddum gleðilegan boðskap og til að græða þá, sem hafa sundurmarið hjarta, til að boða herteknum frelsi og fjötruðum lausn, 61.2 til að boða náðarár Drottins og hefndardag Guðs vors, til að hugga alla hrellda, 61.3 til að láta hinum hrelldu í Síon í té, _ gefa þeim höfuðdjásn í stað ösku, fagnaðarolíu í stað hryggðar, skartklæði í stað hugarvíls. Þeir munu kallaðir verða réttlætis-eikur, plantan Drottins honum til vegsemdar. 61.4 Þeir munu byggja upp hinar fornu rústir, reisa að nýju tóttir fyrri tíða, koma upp aftur eyddum borgum, sem legið hafa við velli í marga mannsaldra. 61.5 Útlendingar munu standa yfir hjörðum yðar og halda þeim til haga, og aðkomnir menn vera akurmenn og víngarðsmenn hjá yður, 61.6 en sjálfir munuð þér kallaðir verða prestar Drottins og nefndir verða þjónar Guðs vors. Þér munuð njóta fjárafla þjóðanna og stæra yður af auðlegð þeirra. 61.7 Fyrir þá smán, er þér þolduð, skuluð þér fá tvöfalt. Í stað háðungar skulu þeir fagna yfir hlutskipti sínu. Fyrir því skulu þeir eignast tvöföld óðul í landi sínu, og eilíf gleði skal falla þeim í skaut. 61.8 Því að ég, Drottinn, elska réttlæti, en hata glæpsamlegt rán. Ég geld þeim laun þeirra með trúfesti og gjöri við þá eilífan sáttmála. 61.9 Niðjar þeirra munu kunnir verða meðal þjóðanna og afsprengi þeirra á meðal þjóðflokkanna. Allir sem sjá þá, munu kannast við, að þeir eru sú kynslóð, sem Drottinn hefir blessað. 61.10 Ég gleðst yfir Drottni, sál mín fagnar yfir Guði mínum, því að hann hefir klætt mig klæðum hjálpræðisins, hann hefir sveipað mig í skikkju réttlætisins, eins og þegar brúðgumi lætur á sig höfuðdjásn og brúður býr sig skarti sínu. 61.11 Því eins og jörðin lætur gróður sinn koma upp og eins og aldingarðurinn lætur frækornin upp spretta, svo mun hinn alvaldi Drottinn láta réttlæti og frægð upp spretta í augsýn allra þjóða.
62.1 Sökum Síonar get ég ekki þagað, og sökum Jerúsalem get ég ekki kyrr verið, uns réttlæti hennar rennur upp sem ljómi og hjálpræði hennar sem brennandi blys. 62.2 Þá skulu þjóðirnar sjá réttlæti þitt og allir konungar vegsemd þína, og þú munt nefnd verða nýju nafni, er munnur Drottins mun ákveða. 62.3 Þú munt verða prýðileg kóróna í hendi Drottins og konunglegt höfuðdjásn í hendi Guðs þíns. 62.4 Þú munt ekki framar nefnd verða Yfirgefin, og land þitt ekki framar nefnt verða Auðn, heldur skalt þú kölluð verða Yndið mitt, og land þitt Eiginkona, því að Drottinn ann þér og land þitt mun manni gefið verða. 62.5 Eins og ungur maður fær meyjar, eins munu synir þínir eignast þig, og eins og brúðgumi gleðst yfir brúði, eins mun Guð þinn gleðjast yfir þér. 62.6 Ég hefi skipað varðmenn yfir múra þína, Jerúsalem. Þeir skulu aldrei þegja, hvorki um daga né nætur. Þér sem minnið Drottin á, unnið yður engrar hvíldar! 62.7 Ljáið honum engrar hvíldar, uns hann reisir Jerúsalem og gjörir hana vegsamlega á jörðinni. 62.8 Drottinn hefir svarið við hægri hönd sína og við sinn máttuga armlegg: 'Ég mun aldrei framar gefa óvinum þínum korn þitt að eta, og eigi skulu útlendir menn drekka aldinlög þinn, sem þú hefir erfiði fyrir haft, 62.9 heldur skulu þeir, sem hirt hafa kornið, eta það sjálfir og lofa Drottin fyrir, og þeir, sem safnað hafa aldinleginum, skulu drekka hann í forgörðum helgidóms míns.' 62.10 Gangið út, gangið út um borgarhliðin! Greiðið götu lýðsins! Leggið, leggið braut! Ryðjið burt grjótinu! Reisið merki fyrir þjóðirnar! 62.11 Sjá, Drottinn gjörir það kunnugt til endimarka jarðarinnar: Segið dótturinni Síon: 'Sjá, hjálpræði þitt kemur! Sjá, endurgjald hans fylgir honum, og fengur hans fer á undan honum!' 62.12 Og þeir munu kallaðir verða hinn heilagi lýður, hinir endurleystu Drottins, og þú munt kölluð verða hin fjölsótta, borgin, sem eigi var yfirgefin.
63.1 Hver er þessi, sem kemur frá Edóm, í hárauðum klæðum frá Bosra? Þessi hinn tigulega búni, sem gengur fram hnarreistur í mikilleik máttar síns? _ Það er ég, sá er mæli réttlæti og mátt hefi til að frelsa. 63.2 Hví er rauð skikkja þín, og klæði þín eins og þess, er treður ber í vínþröng? 63.3 _ Vínlagarþró hefi ég troðið, aleinn, af þjóðunum hjálpaði mér enginn. Ég fótum tróð þá í reiði minni, marði þá sundur í heift minni. Þá hraut lögur þeirra á klæði mín, og skikkju mína ataði ég alla. 63.4 Hefndardagur var mér í hug, og lausnarár mitt er komið. 63.5 Ég litaðist um, en enginn var til að hjálpa, mig undraði, að enginn skyldi aðstoða mig. En þá hjálpaði mér armleggur minn, og heift mín aðstoðaði mig. 63.6 Ég tróð þjóðirnar í reiði minni og marði þær sundur í heift minni og lét löginn úr þeim renna á jörðina. 63.7 Ég vil víðfrægja hinar mildilegu velgjörðir Drottins, syngja honum lof fyrir allt það, sem hann hefir við oss gjört, og hina miklu gæsku hans við Ísraels hús, er hann hefir auðsýnt þeim af miskunn sinni og mikilli mildi. 63.8 Hann sagði: 'Vissulega eru þeir minn lýður, börn, sem ekki munu bregðast!' Og hann varð þeim frelsari. 63.9 Ávallt þegar þeir voru í nauðum staddir, kenndi hann nauða, og engill auglitis hans frelsaði þá. Af elsku sinni og vægðarsemi endurleysti hann þá, hann tók þá upp og bar þá alla daga hinna fyrri tíða. 63.10 En þeir gjörðust mótsnúnir og hryggðu heilagan anda hans. Gjörðist hann þá óvinur þeirra og barðist sjálfur í móti þeim. 63.11 Þá minntist lýður hans hinna fyrri tíða, þá er Móse var á dögum: Hvar er hann, sem leiddi þá upp úr hafinu ásamt hirði hjarðar sinnar? Hvar er hann, sem lét heilagan anda sinn búa mitt á meðal þeirra? 63.12 Hann sem lét dýrðarsamlegan armlegg sinn ganga Móse til hægri handar, hann sem klauf vötnin fyrir þeim til þess að afreka sér eilíft nafn, 63.13 hann sem lét þá ganga um djúpin, eins og hestur gengur um eyðimörk, og þeir hrösuðu ekki? 63.14 Eins og búféð, sem fer ofan í dalinn, færði andi Drottins þá til hvíldar. Þannig hefir þú leitt lýð þinn til þess að afreka þér dýrðarsamlegt nafn. 63.15 Horf þú af himni ofan og lít niður frá hinum heilaga og dýrðarsamlega bústað þínum! Hvar er nú vandlæti þitt og máttarverk þín? Þín viðkvæma elska og miskunnsemi við mig hefir dregið sig í hlé! 63.16 Sannlega ert þú faðir vor, því að Abraham þekkir oss ekki og Ísrael kannast ekki við oss. Þú, Drottinn, ert faðir vor, 'Frelsari vor frá alda öðli' er nafn þitt. 63.17 Hví lést þú oss, Drottinn, villast af vegum þínum, hví lést þú hjarta vort forherða sig, svo að það óttaðist þig ekki? Hverf aftur fyrir sakir þjóna þinna, fyrir sakir ættkvísla arfleifðar þinnar! 63.18 Um skamma stund fékk fólk þitt hið heilaga fjall þitt til eignar, en nú hafa óvinir vorir fótum troðið helgidóm þinn. 63.19 Vér erum orðnir sem þeir, er þú um langan aldur hefir ekki drottnað yfir, og eins og þeir, er aldrei hafa nefndir verið eftir nafni þínu.
64.1 Ó, að þú sundurrifir himininn og færir ofan, svo að fjöllin nötruðu fyrir augliti þínu _ eins og þegar eldur kveikir í þurru limi eða þegar eldur kemur vatni til að vella, _ til þess að gjöra óvinum þínum kunnugt nafn þitt, svo að þjóðirnar mættu skjálfa fyrir augliti þínu, 64.2 er þú framkvæmdir hræðilega hluti, sem vér gátum eigi vænst eftir. Þú fórst ofan, fjöllin nötruðu fyrir augliti þínu. 64.3 Frá alda öðli hefir enginn haft spurn af eða heyrt, né auga séð nokkurn Guð nema þig, þann er gjöri slíkt fyrir þá, er á hann vona. 64.4 Þú kemur í móti þeim er gjöra með gleði það, sem rétt er, þeim er minnast þín á vegum þínum. Sjá, þú reiddist, og vér urðum brotlegir, _ yfir tryggðrofi voru, og vér urðum sakfallnir. 64.5 Vér urðum allir sem óhreinn maður, allar dyggðir vorar sem saurgað klæði. Vér visnuðum allir sem laufblað, og misgjörðir vorar feyktu oss burt eins og vindur. 64.6 Enginn ákallar nafn þitt, enginn herðir sig upp til þess að halda fast við þig, því að þú hefir byrgt auglit þitt fyrir oss og gefið oss á vald misgjörðum vorum. 64.7 En nú, Drottinn! Þú ert faðir vor! Vér erum leirinn, og þú ert sá, er myndar oss, og handaverk þín erum vér allir! 64.8 Reiðst eigi, Drottinn, svo stórlega, og minnstu eigi misgjörða vorra eilíflega. Æ, lít þú á: Vér erum allir þitt fólk. 64.9 Þínar heilögu borgir eru orðnar að eyðimörk. Síon er orðin að eyðimörk, Jerúsalem komin í auðn. 64.10 Hið heilaga og veglega musteri vort, þar sem feður vorir vegsömuðu þig, er brunnið upp til kaldra kola, og allt það, sem oss var dýrmætt, er orðið að rústum. 64.11 Hvort fær þú, Drottinn, leitt slíkt hjá þér? Getur þú þagað og þjáð oss svo stórlega?
65.1 Ég var fús að veita þeim áheyrn, sem eigi spurðu eftir mér, ég gaf þeim kost á að finna mig, sem eigi leituðu mín. Ég sagði: 'Hér er ég, hér er ég,' við þá þjóð, er eigi ákallaði nafn mitt. 65.2 Ég hefi rétt út hendur mínar allan daginn í móti þrjóskum lýð, í móti þeim, sem ganga á illum vegum, eftir eigin hugþótta sínum, 65.3 í móti fólki, sem reitir mig stöðuglega til reiði upp í opin augun, sem fórnar í lundunum og brennir reykelsi á tigulsteinunum, 65.4 sem lætur fyrirberast í gröfunum og er um nætur í hellunum, etur svínakjöt og hefir viðbjóðslega súpu í ílátum sínum, 65.5 sem segir: 'Far þú burt, kom ekki nærri mér, ég er þér heilagur!' _ Slíkir menn eru reykur í nösum mér, eldur, sem brennur liðlangan daginn. 65.6 Sjá, það stendur skrifað frammi fyrir mér: Ég mun ekki þagna fyrr en ég hefi goldið, já, ég mun gjalda þeim í skaut, 65.7 bæði fyrir misgjörðir þeirra og fyrir misgjörðir feðra þeirra _ segir Drottinn. Þeir brenndu reykelsi á fjöllunum og smánuðu mig á hæðunum! Ég vil mæla þeim í skaut laun þeirra. 65.8 Svo segir Drottinn: Eins og menn segja, þegar lögur finnst í vínberi: 'Ónýt það eigi, því að blessun er í því!' eins vil ég gjöra fyrir sakir þjóna minna, svo að ég tortími þeim ekki öllum. 65.9 Ég vil láta afsprengi æxlast út af Jakob og út af Júda erfingja að fjöllum mínum. Mínir útvöldu skulu erfa þau og þjónar mínir búa þar. 65.10 Saron skal verða að beitilandi fyrir hjarðir og Akordalur að nautastöðli fyrir þá af þjóð minni, sem leita mín. 65.11 En þér, sem yfirgefið Drottin, sem gleymið mínu heilaga fjalli, sem setjið borð fyrir heilladísina og hellið á kryddvíni fyrir örlaganornina, 65.12 yður ætla ég undir sverðið, og allir skuluð þér leggjast niður til slátrunar, af því að þér gegnduð ekki, þegar ég kallaði, og heyrðuð ekki, þegar ég talaði, heldur aðhöfðust það, sem illt var í mínum augum, og höfðuð mætur á því, sem mér mislíkaði. 65.13 Fyrir því segir hinn alvaldi Drottinn svo: Sjá, þjónar mínir munu eta, en yður mun hungra, sjá, þjónar mínir munu drekka, en yður mun þyrsta, sjá, þjónar mínir munu gleðjast, en þér munuð glúpna, 65.14 sjá, þjónar mínir munu fagna af hjartans gleði, en þér munuð kveina af hjartasorg og æpa af hugarkvöl. 65.15 Og þér munuð leifa mínum útvöldu nafn yðar sem formæling, en hinn alvaldi Drottinn mun deyða yður. En sína þjóna mun hann nefna öðru nafni. 65.16 Hver sá er óskar sér blessunar í landinu, hann óski sér blessunar í nafni hins trúfasta Guðs, og hver sem eið vinnur í landinu, hann vinni eið við hinn trúfasta Guð, af því að hinar fyrri þrautir eru þá gleymdar og af því að þær eru huldar fyrir augum mínum. 65.17 Sjá, ég skapa nýjan himin og nýja jörð, og hins fyrra skal ekki minnst verða, og það skal engum í hug koma. 65.18 Gleðjist og fagnið ævinlega yfir því, sem ég skapa, því sjá, ég gjöri Jerúsalem að fögnuði og fólkið í henni að gleði. 65.19 Ég vil fagna yfir Jerúsalem og gleðjast yfir fólki mínu, og eigi skal framar heyrast þar gráthljóð eða kveinstafir. 65.20 Eigi skal þar framar vera nokkurt ungbarn, er aðeins lifi fáa daga, né nokkurt gamalmenni, sem ekki nái fullum aldri, því að sá er þar ungur maður, sem deyr tíræður, og sá sem ekki nær tíræðisaldri skal álítast einskis verður. 65.21 Þeir munu reisa hús og búa í þeim, og þeir munu planta víngarða og eta ávöxtu þeirra. 65.22 Eigi munu þeir reisa og aðrir í búa, eigi munu þeir planta og aðrir eta, því að aldur fólks míns mun vera sem aldur trjánna, og mínir útvöldu skulu sjálfir njóta handaverka sinna. 65.23 Eigi munu þeir erfiða til ónýtis og eigi börn geta til skammlífis, því að þeir eru kynslóð manna, er Drottinn hefir blessað, og niðjar þeirra verða hjá þeim. 65.24 Áður en þeir kalla, mun ég svara, og áður en þeir hafa orðinu sleppt, mun ég bænheyra. 65.25 Úlfur og lamb munu vera saman á beit, og ljónið mun hey eta sem naut, en moldin skal vera fæða höggormsins. Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra _ segir Drottinn.
66.1 Svo segir Drottinn: Himinninn er hásæti mitt og jörðin er fótskör mín. Hvaða hús munuð þér geta reist mér, og hvar er sá staður, sem verið geti bústaður minn? 66.2 Hönd mín hefir gjört allt þetta og þannig er það allt til orðið _ segir Drottinn. Þeir sem ég lít til, eru hinir þjáðu og þeir er hafa sundurmarinn anda og skjálfa fyrir orði mínu. 66.3 Sá sem slátrar uxa, er ekki mætari en manndrápari, sá sem fórnar sauð, er ekki mætari en sá sem hengir hund, sá sem færir fórnargjöf, ekki mætari en sá sem ber fram svínablóð, sá sem brennir reykelsi, ekki mætari en sá sem blessar skurðgoð. Eins og þeir hafa valið sína vegu og eins og sál þeirra hefir mætur á hinum viðurstyggilegu goðum þeirra, 66.4 eins mun ég láta mér vel líka að hrjá þá og láta yfir þá koma það, er þeir hræðast. Því að enginn gegndi, þegar ég kallaði, og þeir heyrðu ekki, þegar ég talaði, heldur aðhöfðust það, sem illt var í mínum augum, og höfðu mætur á því, sem mér mislíkaði. 66.5 Heyrið orð Drottins, þér sem skjálfið fyrir orði hans! Bræður yðar, er hata yður og reka yður burt frá sér fyrir sakir nafns míns, þeir segja: 'Gjöri Drottinn sig dýrlegan, svo að vér megum sjá gleði yðar!' En þeir skulu til skammar verða. 66.6 Heyr gnýinn frá borginni, heyr óminn frá musterinu! Heyr, Drottinn geldur óvinum sínum fyrir tilverknað þeirra! 66.7 Hún fæðir, áður en hún kennir sín, hún er orðin léttari að sveinbarni, áður en hún tekur jóðsóttina. 66.8 Hver hefir heyrt slíkt? Hver hefir séð slíka hluti? Er nokkurt land í heiminn borið á einum degi, eða fæðist nokkur þjóð allt í einu? Því að óðara en Síon hefir kennt sóttar, hefir hún alið börn sín. 66.9 Skyldi ég láta barnið komast í burðarliðinn og ekki láta það fæðast? _ segir Drottinn. Eða skyldi ég, sem læt barnið fæðast, loka móðurkviðnum? _ segir Guð þinn. 66.10 Gleðjist með Jerúsalem og fagnið yfir henni, allir þér sem elskið hana! Kætist með henni, allir þér sem nú hryggist yfir henni, 66.11 svo að þér megið sjúga og saddir verða við hugsvalandi brjóst hennar, svo að þér megið teyga og gæða yður við dýrðargnótt hennar. 66.12 Því að svo segir Drottinn: Sjá, ég veiti velsæld til hennar eins og fljóti, og auðæfum þjóðanna eins og bakkafullum læk. Þér skuluð liggja á brjóstum hennar og skuluð bornir verða á mjöðminni og yður skal hossað verða á hnjánum. 66.13 Eins og móðir huggar son sinn, eins mun ég hugga yður. Í Jerúsalem skuluð þér huggaðir verða. 66.14 Þér munuð sjá það, og hjarta yðar mun fagna og bein yðar blómgast sem grængresi. Hönd Drottins mun kunn verða á þjónum hans, og hann mun láta óvini sína kenna á reiði sinni. 66.15 Því sjá, Drottinn kemur í eldi, og vagnar hans eru sem vindbylur, til þess að gjalda reiði sína í heift og hótun sína í eldslogum. 66.16 Því að Drottinn mun dóm heyja með eldi, og með sverði sínu yfir öllu holdi, og þeir munu margir verða, er Drottinn fellir. 66.17 Þeir sem helga sig og hreinsa sig til þess að fara inn í fórnarlundana, bak við einhvern, sem fyrir miðju er, sem eta svínakjöt, viðurstyggileg skriðdýr og mýs _ þeir skulu allir undir lok líða _ segir Drottinn. 66.18 En ég þekki athafnir þeirra og hugsanir. Sá tími kemur, að ég mun saman safna öllum þjóðum og tungum, og þær skulu koma og sjá mína dýrð. 66.19 Og ég mun gjöra tákn á þeim og senda flóttamenn frá þeim til þjóðanna, til Tarsis, Pút og Lúd, sem benda boga, til Túbal og Javan, til hinna fjarlægu eylanda, sem ekki hafa neina fregn af mér og ekki hafa séð dýrð mína, og þeir skulu kunngjöra dýrð mína meðal þjóðanna. 66.20 Þeir munu flytja alla bræður yðar heim frá öllum þjóðum sem fórnargjöf Drottni til handa, á hestum og á vögnum, í burðarstólum, á múlum og úlföldum, til míns heilaga fjalls, til Jerúsalem _ segir Drottinn _ eins og þegar Ísraelsmenn færa fórnargjafir í hreinum kerum til húss Drottins. 66.21 Og af þeim mun ég einnig taka presta og levíta _ segir Drottinn. 66.22 Já, eins og hinn nýi himinn og hin nýja jörð, sem ég skapa, munu standa stöðug fyrir mínu augliti _ segir Drottinn _ eins mun afsprengi yðar og nafn standa stöðugt. 66.23 Og á mánuði hverjum, tunglkomudaginn, og á viku hverri, hvíldardaginn, skal allt hold koma til þess að falla fram fyrir mér _ segir Drottinn.
1.1 Ræður Jeremía Hilkíasonar, er var einn af prestunum í Anatót í Benjamínslandi, 1.2 en til hans kom orð Drottins á dögum Jósía Amónssonar, konungs í Júda, á þrettánda ríkisári hans. 1.3 Og það kom enn fremur á dögum Jójakíms Jósíasonar, konungs í Júda, allt til ársloka hins ellefta árs Sedekía Jósíasonar, konungs í Júda, allt til herleiðingar Jerúsalembúa í fimmta mánuðinum. 1.4 Orð Drottins kom til mín: 1.5 Áður en ég myndaði þig í móðurlífi, útvaldi ég þig, og áður en þú komst af móðurkviði, helgaði ég þig. Ég hefi ákvarðað þig til að vera spámann þjóðanna! 1.6 Þá sagði ég: Æ, herra Drottinn! Sjá, ég kann ekki að tala, því að ég er enn svo ungur. 1.7 En Drottinn sagði við mig: Seg ekki: 'Ég er enn svo ungur!' heldur skalt þú fara til allra, sem ég sendi þig til, og tala allt það, er ég býð þér. 1.8 Þú skalt ekki óttast þá, því að ég er með þér til þess að frelsa þig! _ segir Drottinn. 1.9 Því næst rétti Drottinn út hönd sína og snart munn minn. Og Drottinn sagði við mig: Sjá, ég legg orð mín þér í munn. 1.10 Sjá þú, ég set þig í dag yfir þjóðirnar og yfir konungsríkin til þess að uppræta og umturna, eyða og rífa niður, byggja og gróðursetja! 1.11 Orð Drottins kom til mín: Hvað sér þú, Jeremía? Ég svaraði: Ég sé möndluviðargrein. 1.12 En Drottinn sagði við mig: Þú hefir séð rétt, því að ég vaki yfir orði mínu til þess að framkvæma það. 1.13 Þá kom orð Drottins til mín annað sinn: Hvað sér þú? Ég svaraði: Ég sé sjóðandi pott, og snýr hann framhliðinni að oss úr norðri. 1.14 Þá sagði Drottinn við mig: Úr norðri mun ógæfan koma sjóðandi yfir alla íbúa landsins. 1.15 Því sjá, ég kalla allar ættkvíslir ríkjanna í norðri _ Drottinn segir það _, til þess að þeir komi og reisi hver og einn upp hásæti sitt úti fyrir hliðum Jerúsalem og gegn öllum múrum hennar hringinn í kring og gegn öllum borgum í Júda. 1.16 Og ég mun kveða upp dóma mína yfir þeim, vegna allrar illsku þeirra, að þeir hafa yfirgefið mig og fært öðrum guðum reykelsisfórnir og fallið fram fyrir handaverkum sínum. 1.17 En gyrð þú lendar þínar, statt upp og tala til þeirra allt, sem ég býð þér. Vertu ekki hræddur við þá, til þess að ég gjöri þig ekki hræddan frammi fyrir þeim. 1.18 Sjá, ég gjöri þig í dag að rammbyggðri borg og að járnsúlu og að eirveggjum gegn öllu landinu, gegn Júdakonungunum, gegn höfðingjum þess, gegn prestum þess og gegn öllum landslýðnum, 1.19 og þótt þeir berjist gegn þér, þá munu þeir eigi fá yfirstigið þig, því að ég er með þér til þess að frelsa þig _ Drottinn segir það.
2.1 Orð Drottins kom til mín: 2.2 Far og kunngjör Jerúsalem þetta: Svo segir Drottinn: Ég man eftir kærleika æsku þinnar, elsku festartíma þíns, hversu þú fylgdir mér í eyðimörkinni, í ófrjóu landi. 2.3 Ísrael var helgaður Drottni, frumgróði uppskeru hans, allir þeir, sem vildu eta hann, urðu sekir, ógæfa kom yfir þá _ segir Drottinn. 2.4 Heyrið orð Drottins, Jakobs hús og allar þér ættkvíslir Ísraels húss! 2.5 Svo segir Drottinn: Hver rangindi hafa feður yðar fundið hjá mér, að þeir hurfu frá mér og eltu fánýt goð og breyttu heimskulega, 2.6 og sögðu ekki: 'Hvar er Drottinn, sem flutti oss burt af Egyptalandi, sem leiddi oss um eyðimörkina, um heiða- og gjótulandið, um þurra og niðdimma landið, um landið, sem enginn fer um og enginn maður býr í?' 2.7 Ég leiddi yður inn í aldingarðslandið, til þess að þér nytuð ávaxta þess og gæða, en þegar þér voruð komnir þangað, saurguðuð þér land mitt og gjörðuð óðal mitt að viðurstyggð. 2.8 Prestarnir sögðu ekki: 'Hvar er Drottinn?' og þeir, er við lögmálið fengust, þekktu mig ekki. Hirðarnir rufu trúnað við mig, og spámennirnir spáðu í nafni Baals og eltu þá, sem ekki geta hjálpað. 2.9 Fyrir því mun ég enn þreyta mál við yður _ segir Drottinn _ og við sonasonu yðar mun ég þreyta mál: 2.10 Farið yfir til stranda Kitta og gangið úr skugga um, og sendið til Kedars og hyggið vandlega að. Gangið úr skugga um, hvort slíkt hafi nokkurn tíma við borið! 2.11 hvort nokkur þjóð hafi skipt um guð _ og það þótt þeir væru ekki guðir! En mín þjóð hefir látið vegsemd sína fyrir það, sem ekki getur hjálpað. 2.12 Furðið yður, himnar, á þessu og skelfist og verið agndofa _ segir Drottinn. 2.13 Því að tvennt illt hefir þjóð mín aðhafst: Þeir hafa yfirgefið mig, uppsprettu hins lifandi vatns, til þess að grafa sér brunna, brunna með sprungum, sem ekki halda vatni. 2.14 Er Ísrael þræll, eða er hann heimafætt þý? Hví er hann orðinn að herfangi? 2.15 Ljón grenjuðu móti honum, hófu upp öskur sitt og gjörðu land hans að auðn. Borgir hans voru brenndar, urðu mannauðar. 2.16 Nóf-menn og Takpanes-menn reyttu á þér skallann. 2.17 Hefir þú ekki bakað þér þetta með því að yfirgefa Drottin, Guð þinn, þá er hann leiddi þig á veginum? 2.18 Og nú, hvað þarft þú að fara til Egyptalands? Til þess að drekka vatn úr Níl? Og hvað þarft þú að fara til Assýríu? Til þess að drekka vatn úr Efrat? 2.19 Vonska þín mun aga þig og fráhvarf þitt refsa þér. Þú skalt fá að kenna á því og reyna það, hve illt og beiskt það er, að þú yfirgafst Drottin, Guð þinn. Þú hafðir ekki ótta fyrir mér _ segir herrann, Drottinn allsherjar. 2.20 Fyrir löngu hefir þú sundurbrotið ok þitt, slitið böndin og sagt: 'Ég vil ekki þjóna!' Því að á hverjum háum hól og undir hverju grænu tré lagðist þú niður og hóraðist. 2.21 En ég hafði gróðursett þig sem gæðavínvið, eintómt úrvalssæði, hvernig gastu breytst fyrir mér í villivínviðarteinunga. 2.22 Já, þótt þú þvægir þér með lút og brúkaðir mikla sápu á þig, þá verður samt misgjörð þín óhrein fyrir mér _ herrann Drottinn segir það. 2.23 Hvernig getur þú sagt: 'Ég hefi ekki saurgað mig, ég hefi ekki elt Baalana'? Hygg að athæfi þínu í dalnum, sjá, hvað þú hefir gjört, léttfætta úlfaldahryssa, sem hleypur til og frá. 2.24 Eins og villiasna, sem vön er eyðimörkinni, stendur hún á öndinni í girndarbruna sínum, _ hver fær aftrað losta hennar? Þeir sem hennar leita, þurfa engir að þreyta sig, þeir finna hana í mánuði hennar. 2.25 Varðveit þú fót þinn, svo að skórinn fari ekki af honum, og háls þinn, svo að hann verði ekki þurr! En þú segir: 'Það er til einskis! Nei! Ég elska hina útlendu og þá vil ég elta!' 2.26 Eins og þjófurinn má skammast sín, þegar hann er staðinn að verkinu, svo má Ísraels hús skammast sín: Þeir, konungar þeirra, höfðingjar þeirra, prestar þeirra og spámenn þeirra, 2.27 segja við trédrumb: 'Þú ert faðir minn!' og við stein: 'Þú hefir fætt mig!' Þeir hafa snúið við mér bakinu, en ekki andlitinu, en þegar þeir eru í nauðum staddir, þá hrópa þeir: 'Rís upp og hjálpa oss!' 2.28 En hvar eru guðir þínir, sem þú hefir gjört þér? Þeir verða að rísa upp, ef þeir geta hjálpað þér, þegar þú ert í nauðum staddur! Því að guðir þínir, Júda, eru orðnir eins margir og borgir þínar. 2.29 Hví þráttið þér við mig? Þér hafið allir rofið trúnað við mig _ segir Drottinn. 2.30 Til einskis hefi ég slegið sonu yðar, aga þýddust þér ekki, sverð yðar tortímdi spámönnum yðar, eins og eyðandi ljón. 2.31 Þú kynslóð, gef gaum orði Drottins! Hefi ég verið eyðimörk fyrir Ísrael eða niðdimmt land? Hví segir þá þjóð mín: 'Vér erum lausir, vér munum ekki koma aftur til þín!' 2.32 Mun mær gleyma skarti sínu, brúður belti sínu? Og þó hefir þjóð mín gleymt mér afar langan tíma. 2.33 Hversu haganlega fer þú að ráði þínu, til þess að leita þér ástar! Til þess hefir þú jafnvel vanið þig á glæpa-atferli. 2.34 Jafnvel á faldi klæða þinna sést blóð saklausra aumingja. Þú stóðst þá eigi að innbroti. 2.35 Þrátt fyrir allt þetta segir þú: 'Ég er saklaus, vissulega hefir reiði hans snúist frá mér.' Sjá, nú dreg ég þig fyrir dóm, af því að þú segir: 'Ég hefi ekki syndgað.' 2.36 Hví flýtir þú þér svo mjög burt til þess að halda aðra leið? Vonir þínar um Egyptaland munu og bregðast, eins og vonir þínar um Assýríu brugðust. 2.37 Einnig þaðan munt þú koma, sláandi höndum saman yfir höfði þér, því að Drottinn hefir hafnað þeim, er þú treystir á, og þér mun ekkert lánast með þá.
3.1 Þegar maður rekur frá sér konu sína, og hún fer frá honum og giftist öðrum manni, getur hann þá horfið til hennar aftur? Mundi landið ekki vanhelgast af því? En þú hefir drýgt hór með mörgum friðlum og ættir þó að snúa aftur til mín! _ segir Drottinn. 3.2 Renn augum þínum upp á skóglausu hæðirnar og gæt að: Hvar hefir þú eigi hórast? Við vegina situr þú um friðla eins og Arabi í eyðimörkinni og vanhelgar landið með lauslæti þínu og vonsku þinni. 3.3 Og þótt skúrunum væri haldið aftur og ekkert vorregn kæmi, þá varst þú með hórusvip, þú vildir ekki skammast þín. 3.4 En nú kallar þú til mín: 'Faðir minn! Þú ert unnusti æsku minnar!' 3.5 Þú hugsar: 'Mun hann verða reiður eilíflega, alltaf erfa það?' Sjá, þannig talar þú, en fremur illt og getur fengið það af þér. 3.6 Drottinn sagði við mig á dögum Jósía konungs: Hefir þú séð, hvað hin fráhverfa Ísrael hefir aðhafst? Hún fór upp á hverja háa hæð og inn undir hvert grænt tré og hóraðist þar. 3.7 Ég hugsaði raunar: Eftir að hún hefir aðhafst allt þetta, mun hún snúa aftur til mín. En hún sneri ekki aftur. Það sá hin ótrúa systir hennar, Júda, 3.8 og þótt hún sæi, að einmitt vegna þess, að hin fráhverfa Ísrael hafði drýgt hór, hafði ég rekið hana burt og gefið henni skilnaðarskrá, þá óttaðist ekki hin ótrúa systir hennar, Júda, heldur fór og drýgði líka hór, 3.9 og með hinu léttúðarfulla lauslæti sínu vanhelgaði hún landið og drýgði hór með steini og trédrumbi. 3.10 En þrátt fyrir allt þetta hefir hin ótrúa systir hennar, Júda, eigi snúið sér til mín af öllu hjarta, heldur með hræsni _ segir Drottinn. 3.11 Drottinn sagði við mig: Hin fráhverfa Ísrael er saklaus í samanburði við hina ótrúu Júda. 3.12 Far þú og kalla þessi orð í norðurátt og seg: Hverf aftur, þú hin fráhverfa Ísrael _ segir Drottinn _, ég vil ekki lengur líta reiðulega til þín, því að ég er miskunnsamur _ segir Drottinn _, ég er ekki eilíflega reiður. 3.13 Kannastu aðeins við ávirðing þína, að þú hefir rofið trúnað við Drottin, Guð þinn, og hlaupið ýmsar leiðir til þess að gefa þig á vald útlendum guðum undir hverju grænu tré, en minni raust hafið þér ekki hlýtt _ segir Drottinn. 3.14 Hverfið aftur, þér fráhorfnu synir _ segir Drottinn _, því að ég er herra yðar. Og ég vil taka yður, einn úr hverri borg og tvo af hverjum kynstofni, og flytja yður til Síonar, 3.15 og ég vil gefa yður hirða eftir mínu hjarta, og þeir munu gæta yðar með greind og hyggindum. 3.16 Á þeim dögum, þegar yður fjölgar og þér verðið frjósamir í landinu _ segir Drottinn _, þá munu menn eigi framar segja: 'Sáttmálsörk Drottins!' Hún mun engum í hug koma, og þeir munu ekki minnast hennar né sakna hennar, né heldur munu menn framar búa aðra til. 3.17 Þá munu menn kalla Jerúsalem 'hásæti Drottins' og allar þjóðir munu safnast þangað vegna nafns Drottins og eigi framar fara eftir þrjósku síns vonda hjarta. 3.18 Á þeim dögum mun Júda hús ganga til Ísraels húss, og þeir munu halda saman úr landinu norður frá inn í landið, sem ég gaf feðrum yðar til eignar. 3.19 Ég hafði hugsað: Hversu hátt vil ég setja þig meðal barnanna og gefa þér unaðslegt land, hina dýrlegustu arfleifð meðal allra þjóða! Og enn fremur hugsaði ég: Þér skuluð nefna mig föður og eigi láta af að fylgja mér. 3.20 En eins og kona verður ótrú elskhuga sínum, eins urðuð þér ótrúir mér, Ísraels hús _ segir Drottinn. 3.21 Hljóð heyrist á skóglausu hæðunum: grátbiðjandi kvein Ísraelsmanna, af því að þeir hafa breytt illa og gleymt Drottni Guði sínum. 3.22 'Hverfið aftur, þér fráhorfnu synir, ég vil lækna fráhvarfssyndir yðar!' 'Hér erum vér, vér komum til þín, því að þú ert Drottinn Guð vor.' 3.23 Vissulega er hávaðinn á hæðunum svikull. Vissulega er hjálp Ísraels hjá Drottni, Guði vorum. 3.24 Falsguðinn hefir eytt afla feðra vorra allt frá æsku vorri, sauðum þeirra og nautum, sonum þeirra og dætrum. 3.25 Vér skulum leggjast niður í smán vorri, og skömm vor hylji oss, því að á móti Drottni Guði vorum höfum vér syndgað, bæði vér og feður vorir, frá æsku vorri og allt fram á þennan dag, og höfum eigi hlýtt raustu Drottins Guðs vors.
4.1 Þegar þú hverfur aftur, Ísrael _ segir Drottinn _ skalt þú hverfa aftur til mín. Ef þú flytur viðurstyggðir þínar burt frá augliti mínu og ert ekki framar á sveimi 4.2 og vinnur eiðinn 'svo sannarlega sem Drottinn lifir' í sannleika, réttvísi og einlægni, munu þjóðir óska sér hans blessunar og hrósa sér af honum. 4.3 Já, svo segir Drottinn við Júdamenn og við Jerúsalem: Takið nýtt land til yrkingar og sáið ekki ofan í þyrna! 4.4 Umskerið yður fyrir Drottni og takið burt yfirhúð hjarta yðar, þér Júdamenn og Jerúsalembúar, svo að heiftarreiði mín brjótist ekki út, eins og eldur, og brenni svo, að eigi verði slökkt, sakir vonskuverka yðar. 4.5 Kunngjörið í Júda og boðið í Jerúsalem og segið: Þeytið lúður í landinu! Kallið fullum rómi og segið: Safnist saman, og förum inn í víggirtu borgirnar! 4.6 Reisið upp hermerki í áttina til Síonar, flýið undan, standið eigi við! Því að ég kem með ógæfu úr norðri og mikla eyðing. 4.7 Ljón er risið upp úr runni sínum, þjóða-eyðir lagður af stað, farinn að heiman til þess að gjöra land þitt að auðn, borgir þínar verða gjöreyddar, mannlausar. 4.8 Gyrðið yður því hærusekk, harmið og kveinið, því að hin brennandi reiði Drottins hefir ekki snúið sér frá oss. 4.9 En á þeim degi _ segir Drottinn _ munu konungurinn og höfðingjarnir standa ráðalausir, prestarnir verða agndofa og spámennirnir skelfast. 4.10 Þá mælti ég: 'Æ, herra Drottinn! Vissulega hefir þú illa svikið þessa þjóð og Jerúsalem, þá er þú sagðir: ,Yður mun heill hlotnast!` þar sem sverðið gengur nú mjög nærri þeim.' 4.11 Þá mun sagt verða um þessa þjóð og um Jerúsalem: Glóandi vindur af skóglausum hæðum í eyðimörkinni kemur gegn þjóð minni, hvorki verður sáldrað né hreinsað! 4.12 Ákafur vindur kemur í móti mér, en nú vil ég einnig kveða upp dóma gegn þeim. 4.13 Sjá, eins og ský þýtur hann áfram, og vagnar hans eru eins og vindbylur, hestar hans eru fljótari en ernir. Vei oss, það er úti um oss! 4.14 Þvo illskuna af hjarta þínu, Jerúsalem, til þess að þú frelsist. Hversu lengi eiga þínar syndsamlegu hugsanir að búa í brjósti þér? 4.15 Því heyr, menn segja tíðindi frá Dan og boða ógæfu frá Efraímfjöllum. 4.16 Segið þjóðunum frá því, kallið á þær gegn Jerúsalem! Umsátursmenn koma úr fjarlægu landi og hefja óp gegn Júdaborgum. 4.17 Eins og akurverðir sitja þeir hringinn í kringum hana, af því að hún hefir þrjóskast í gegn mér _ segir Drottinn. 4.18 Atferli þitt og gjörðir þínar hafa bakað þér þetta, þetta hefir þú fyrir illsku þína. Já, beiskt er það, það gengur mjög nærri þér. 4.19 Iður mín, iður mín! Ég engist sundur og saman! Ó, veggir hjarta míns! Hjartað berst ákaft í brjósti mér, ég get ekki þagað! Því að önd mín heyrir lúðurhljóminn, bardagaópið. 4.20 Hrun á hrun ofan er boðað, já allt landið er eytt. Skyndilega eru tjöld mín eydd, tjalddúkar mínir tættir sundur allt í einu. 4.21 Hversu lengi á ég að sjá gunnfána, hversu lengi á ég að heyra lúðurhljóm? 4.22 Já, fíflsk er þjóð mín, mig þekkja þeir ekki. Heimskir synir eru þeir, og vanhyggnir eru þeir. Vitmenn eru þeir illt að fremja, en gott að gjöra kunna þeir ekki. 4.23 Ég leit jörðina, og sjá, hún var auð og tóm; ég horfði til himins, og ljós hans var slokknað. 4.24 Ég leit á fjöllin, og sjá, þau nötruðu, og allar hæðirnar, þær bifuðust. 4.25 Ég litaðist um, og sjá, þar var enginn maður, og allir fuglar himinsins voru flúnir. 4.26 Ég litaðist um, og sjá, aldingarðurinn var orðinn að eyðimörk og allar borgir hans gjöreyddar af völdum Drottins, af völdum hans brennandi reiði. 4.27 Svo segir Drottinn: Auðn skal allt landið verða, en aleyðing á því vil ég ekki gjöra. 4.28 Vegna þessa syrgir jörðin og himinninn uppi er dimmur, af því að ég hefi sagt það, og mig iðrar þess eigi, hefi ákveðið það og hætti ekki við það. 4.29 Fyrir harki riddaranna og bogmannanna er hver borg á flótta. Menn skríða inn í runna og stíga upp á kletta. Allar borgir eru yfirgefnar og enginn maður býr framar í þeim. 4.30 En þú, eyðingunni ofurseld, hvað ætlar þú að gjöra? Þótt þú klæðist skarlati, þótt þú skreytir þig með gullskarti, þótt þú smyrjir augu þín blýlit _, til einskis gjörir þú þig fagra. Friðlarnir hafna þér, þeir sitja um líf þitt. 4.31 Já, hljóð heyri ég, eins og í jóðsjúkri konu, angistaróp, eins og í konu, sem er að ala fyrsta barnið, óp dótturinnar Síonar, sem stendur á öndinni af kvölum og breiðir út hendurnar: 'Ó, vei mér, því að örmagna hnígur sál mín fyrir morðingjum.'
5.1 Gangið fram og aftur um stræti Jerúsalem, litist um og rannsakið og leitið á torgunum, hvort þér finnið nokkurn mann, hvort þar sé nokkur, sem gjörir það sem rétt er og leitast við að sýna trúmennsku, og mun ég fyrirgefa henni. 5.2 Og þótt þeir segi: 'svo sannarlega sem Drottinn lifir,' sverja þeir engu að síður meinsæri. 5.3 En, Drottinn, líta ekki augu þín á trúfesti? Þú laust þá, en þeir kenndu ekkert til, þú eyddir þeim, en þeir vildu ekki taka aga. Þeir gjörðu andlit sín harðari en stein, þeir vildu ekki snúa við. 5.4 En ég hugsaði: 'Það eru aðeins hinir lítilmótlegu, sem breyta heimskulega, af því að þeir þekkja ekki veg Drottins, réttindi Guðs síns. 5.5 Ég ætla að fara til stórmennanna og tala við þá, því að þeir þekkja veg Drottins, réttindi Guðs síns.' En einmitt þeir höfðu allir saman brotið sundur okið og slitið af sér böndin. 5.6 Fyrir því drepur þá ljón úr skóginum, fyrir því eyðir þeim úlfurinn, sem hefst við á heiðunum. Pardusdýrið situr um borgir þeirra, svo að hver sá, er út úr þeim fer, verður rifinn sundur, því að afbrot þeirra eru mörg, fráhvarfssyndir þeirra miklar. 5.7 Hví skyldi ég fyrirgefa þér? Börn þín hafa yfirgefið mig og svarið við þá, sem ekki eru guðir, og þótt ég mettaði þá, tóku þeir fram hjá og þyrptust að hóruhúsinu. 5.8 Eins og sællegir stóðhestar hlaupa þeir til og frá og hvía hver að annars konu. 5.9 Ætti ég ekki að hegna slíkum mönnum? _ segir Drottinn _, eða hefna mín á annarri eins þjóð og þessari? 5.10 Stígið upp á víngarðshjalla þjóðar minnar og rífið niður, en gjörið þó ekki aleyðing, takið burt vínviðargreinar hennar, því að þær heyra ekki Drottni. 5.11 Því að Ísraels hús og Júda hús hafa breytt mjög sviksamlega gegn mér _ segir Drottinn. 5.12 Þeir hafa afneitað Drottni og sagt: 'Það er ekki hann, og engin ógæfa mun yfir oss koma, sverð og hungur munum vér ekki sjá. 5.13 Spámennirnir munu verða að vindi, því að orð Guðs býr ekki í þeim.' 5.14 Fyrir því mælir Drottinn, Guð allsherjar, svo: Af því að þeir hafa mælt slíkum orðum, fer svo fyrir þeim sjálfum! Ég gjöri orð mín í munni þínum að eldi og þessa þjóð að eldiviði, til þess að hann eyði henni. 5.15 Sjá, ég læt þjóð koma yfir yður úr fjarlægu landi, Ísraels hús _ segir Drottinn. Það er óbilug þjóð, það er afar gömul þjóð, tungu þeirrar þjóðar þekkir þú ekki, og skilur ekki, hvað hún segir. 5.16 Örvamælir hennar er sem opin gröf, allir eru þeir kappar. 5.17 Hún mun eta uppskeru þína og neyslukorn þitt, þeir munu eta sonu þína og dætur. Hún mun eta sauði þína og naut, hún mun eta víntré þín og fíkjutré, hún mun brjóta niður með sverði hinar víggirtu borgir þínar, er þú reiðir þig á. 5.18 En á þeim dögum _ segir Drottinn _ mun ég samt ekki gjöra aleyðing á yður. 5.19 En ef þér þá segið: 'Fyrir hvað gjörir Drottinn, Guð vor, oss allt þetta?' þá skalt þú segja við þá: 'Eins og þér hafið yfirgefið mig og þjónað öðrum guðum í yðar landi, svo skuluð þér verða annarra þrælar í landi, sem ekki er yðar land.' 5.20 Kunngjörið það í húsi Jakobs og boðið það í Júda: 5.21 Heyr þetta, þú heimski og skilningslausi lýður, þér sem hafið augu, en sjáið ekki, þér sem hafið eyru, en heyrið ekki! 5.22 Mig viljið þér ekki óttast _ segir Drottinn _ eða skjálfa fyrir mínu augliti? fyrir mér, sem hefi sett hafinu fjörusandinn að takmarki, ævarandi girðingu, sem það kemst ekki yfir. Og þótt öldur þess komi æðandi, þá vinna þær ekki á, og þótt þær gnýi, þá komast þær ekki yfir hana. 5.23 En lýður þessi er þverúðarfullur og þrjóskur í hjarta. Þeir hafa vikið af leið og horfið burt, 5.24 en sögðu ekki í hjarta sínu: 'Óttumst Drottin, Guð vorn, sem gefur regnið, haustregnið og vorregnið, í réttan tíma og viðheldur handa oss ákveðnum uppskeruvikum.' 5.25 Misgjörðir yðar hafa fært allt þetta úr skorðum, og syndir yðar hafa hrundið blessuninni burt frá yður. 5.26 Meðal lýðs míns eru óguðlegir menn. Þeir liggja í fyrirsát, eins og þegar fuglarar húka, þeir leggja snörur til þess að veiða menn. 5.27 Eins og fuglabúr fullt af fuglum, svo eru hús þeirra full af svikum; á þann hátt eru þeir orðnir miklir og auðugir. 5.28 Þeir eru orðnir feitir, það stirnir á þá. Þeir eru og fleytifullir af illskutali, málefni munaðarleysingjans taka þeir ekki að sér til þess að bera það fram til sigurs, og þeir reka ekki réttar fátæklinganna. 5.29 Ætti ég ekki að hegna slíkum mönnum? _ segir Drottinn _ eða hefna mín á annarri eins þjóð og þessari? 5.30 Óttalegt og hryllilegt er það, sem við ber í landinu! 5.31 Spámennirnir kenna lygar og prestarnir drottna eftir tilsögn þeirra, og þjóð minni þykir fara vel á því. En hvað ætlið þér að gjöra, þegar að skuldadögunum kemur?
6.1 Flýið, Benjamínítar, út úr Jerúsalem! Þeytið lúður í Tekóa og reisið upp merki í Betkerem, því að ógæfa vofir yfir úr norðurátt og mikil eyðing. 6.2 Dóttirin Síon, hin fagra og fínláta, er þögul. 6.3 Til hennar koma hirðar með hjarðir sínar, slá tjöldum hringinn í kringum hana, hver beitir sitt svæði. 6.4 'Vígið yður til bardaga móti henni! Standið upp og gjörum áhlaup um hádegið!' Vei oss, því að degi hallar og kveldskuggarnir lengjast. 6.5 'Standið upp og gjörum áhlaup að næturþeli og rífum niður hallir hennar!' 6.6 Svo segir Drottinn allsherjar: Fellið tré hennar og hlaðið virkisvegg gegn Jerúsalem. Það er borgin, sem hegna á. Undirokun ríkir alls staðar í henni. 6.7 Því eins og vatnsþróin heldur vatninu fersku, þannig heldur hún illsku sinni ferskri. Ofbeldi og kúgun heyrist í henni, frammi fyrir augliti mínu er stöðuglega þjáning og misþyrming. 6.8 Lát þér segjast, Jerúsalem, til þess að sál mín slíti sig ekki frá þér, til þess að ég gjöri þig ekki að auðn, að óbyggðu landi. 6.9 Svo segir Drottinn allsherjar: Menn munu gjöra nákvæma eftirleit á leifum Ísraels, eins og gjört er á vínviði með því að rétta æ að nýju höndina upp að vínviðargreinunum, eins og vínlestursmaðurinn gjörir. 6.10 Við hvern á ég að tala og hvern á ég að gjöra varan við, svo að þeir heyri? Sjá, eyra þeirra er óumskorið, svo að þeir geta ekki tekið eftir. Já, orð Drottins er orðið þeim að háði, þeir hafa engar mætur á því. 6.11 En ég er fullur af heiftarreiði Drottins, ég er orðinn uppgefinn að halda henni niðri í mér. 'Helltu henni þá út yfir börnin á götunni og út yfir allan unglingahópinn, því að karl sem kona munu hertekin verða, aldraðir jafnt sem háaldraðir. 6.12 En hús þeirra munu verða annarra eign, akrar og konur hvað með öðru, því að ég rétti hönd mína út gegn íbúum landsins' _ segir Drottinn. 6.13 Bæði ungir og gamlir, allir eru þeir fíknir í rangfenginn gróða, og bæði spámenn og prestar, allir hafa þeir svik í frammi. 6.14 Þeir hyggjast að lækna áfall þjóðar minnar með hægu móti, segjandi: 'Heill, heill!' þar sem engin heill er. 6.15 Þeir munu hljóta að skammast sín fyrir að hafa framið svívirðing! En þeir skammast sín ekki og vita ekki hvað það er, að blygðast sín. Fyrir því munu þeir falla meðal þeirra, sem falla. Þegar minn tími kemur að hegna þeim, munu þeir steypast _ segir Drottinn. 6.16 Svo mælti Drottinn: Nemið staðar við vegina og litist um og spyrjið um gömlu göturnar, hver sé hamingjuleiðin, og farið hana, svo að þér finnið sálum yðar hvíld. En þeir sögðu: 'Vér viljum ekki fara hana.' 6.17 Þá setti ég varðmenn gegn yður: 'Takið eftir lúðurhljóminum!' En þeir sögðu: 'Vér viljum ekki taka eftir honum.' 6.18 Heyrið því, þjóðir! Sjá þú, söfnuður, hvað í þeim býr! 6.19 Heyr það, jörð! Sjá, ég leiði ógæfu yfir þessa þjóð! Það er ávöxturinn af ráðabruggi þeirra, því að orðum mínum hafa þeir engan gaum gefið og leiðbeining minni hafa þeir hafnað. 6.20 Hvað skal mér reykelsi, sem kemur frá Saba, og hinn dýri reyr úr fjarlægu landi? Brennifórnir yðar eru mér eigi þóknanlegar og sláturfórnir yðar geðjast mér eigi. 6.21 Fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég legg fótakefli fyrir þessa þjóð, til þess að um þau hrasi bæði feður og synir, hver nábúinn farist með öðrum. 6.22 Svo segir Drottinn: Sjá, lýður kemur úr landi í norðurátt og mikil þjóð rís upp á útkjálkum jarðar. 6.23 Þeir bera boga og skotspjót, þeir eru grimmir og sýna enga miskunn. Háreysti þeirra er sem hafgnýr, og þeir ríða hestum, búnir sem hermenn til bardaga gegn þér, dóttirin Síon. 6.24 Vér höfum fengið fregnir af honum, hendur vorar eru magnlausar. Angist hefir gripið oss, kvalir eins og jóðsjúka konu. 6.25 Farið ekki út á bersvæði og gangið ekki um veginn, því að óvinurinn hefir sverð _ skelfing allt um kring. 6.26 Þjóð mín, gyrð þig hærusekk og velt þér í ösku, stofna til sorgarhalds, eins og eftir einkason væri, beisklegs harmakveins, því að skyndilega mun eyðandinn yfir oss koma. 6.27 Ég hefi gjört þig að rannsakara hjá þjóð minni, til þess að þú kynnir þér atferli þeirra og rannsakir það. 6.28 Allir eru þeir svæsnir uppreisnarmenn, rógberendur, tómur eir og járn, allir eru þeir spillingarmenn. 6.29 Smiðjubelgurinn másaði, blýið átti að eyðast í eldinum, til einskis hafa menn verið að bræða og bræða, hinir illu urðu ekki skildir frá. 6.30 Ógilt silfur nefna menn þá, því að Drottinn hefir fellt þá úr gildi.
7.1 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni: 7.2 Nem staðar við hlið musteris Drottins og boða þar þessi orð og seg: Heyrið orð Drottins, allir Júdamenn, þér sem gangið inn um þetta hlið til þess að falla fram fyrir Drottni. 7.3 Svo segir Drottinn allsherjar, Guð Ísraels: Bætið breytni yðar og gjörðir, þá mun ég láta yður búa á þessum stað. 7.4 Reiðið yður ekki á lygatal, er menn segja: 'Þetta er musteri Drottins, musteri Drottins, musteri Drottins.' 7.5 En ef þér bætið breytni yðar og gjörðir alvarlega, ef þér iðkið réttlæti í þrætum manna á milli, 7.6 undirokið ekki útlendinga, munaðarleysingja og ekkjur, og úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað, og eltið ekki aðra guði, yður til tjóns, 7.7 þá vil ég láta yður búa á þessum stað, í landinu, sem ég gaf feðrum yðar, frá eilífð til eilífðar. 7.8 Sjá, þér reiðið yður á lygaræður, sem ekki eru til nokkurs gagns. 7.9 Er ekki svo: Stela, myrða, drýgja hór, sverja meinsæri, færa Baal reykelsisfórnir og elta aðra guði, er þér ekki þekkið, 7.10 og síðan komið þér og gangið fram fyrir mig í þessu húsi, sem kennt er við nafn mitt, og segið: 'Oss er borgið!' og fremjið síðan að nýju allar þessar svívirðingar. 7.11 Er þá hús þetta, sem kennt er við nafn mitt, orðið að ræningjabæli í augum yðar? Já, ég lít svo á _ segir Drottinn. 7.12 Farið til bústaðar míns í Síló, þar sem ég forðum daga lét nafn mitt búa, og sjáið, hvernig ég hefi farið með hann fyrir sakir illsku lýðs míns Ísraels. 7.13 Og þar eð þér nú hafið framið öll þessi verk _ segir Drottinn _ og eigi hlýtt, þótt ég hafi talað til yðar seint og snemma, og eigi svarað, þótt ég hafi kallað á yður, 7.14 þá ætla ég að fara með húsið, sem kennt er við nafn mitt og þér treystið á, og staðinn, sem ég hefi gefið yður og feðrum yðar, eins og ég fór með Síló, 7.15 og útskúfa yður frá augliti mínu, eins og ég útskúfaði bræðrum yðar, öllum niðjum Efraíms. 7.16 Þú skalt ekki biðja fyrir þessum lýð og ekki hefja þeirra vegna grátbeiðni né fyrirbón, og legg ekki að mér, því að ég heyri þig ekki. 7.17 Sér þú ekki hvað þeir hafast að í Júdaborgum og á strætum Jerúsalem? 7.18 Börnin tína saman eldivið og feðurnir kveikja eldinn, en konurnar hnoða deig til þess að gjöra af fórnarkökur handa himnadrottningunni, og færa öðrum guðum dreypifórnir til þess að skaprauna mér. 7.19 En skaprauna þeir mér _ segir Drottinn _, hvort ekki miklu fremur sjálfum sér, til þess að þeir verði sér herfilega til skammar? 7.20 Fyrir því segir herrann Drottinn svo: Reiði minni og heift mun úthellt verða yfir þennan stað, yfir menn og skepnur, yfir tré merkurinnar og yfir ávexti akurlendisins, _ og hún skal brenna og eigi slokkna. 7.21 Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Bætið brennifórnum yðar við sláturfórnir yðar og etið kjöt! 7.22 Því að ég hefi ekkert talað til feðra yðar né boðið þeim nokkuð um brennifórnir og sláturfórnir, þá er ég leiddi þá burt af Egyptalandi. 7.23 En þetta hefi ég boðið þeim: Hlýðið minni raustu, þá skal ég vera yðar Guð og þér skuluð vera mín þjóð, og gangið jafnan á þeim vegi, sem ég býð yður, til þess að yður vegni vel. 7.24 En þeir heyrðu ekki og lögðu ekki við eyrun, en fóru eftir vélráðum síns illa hjarta og sneru við mér bakinu, en ekki andlitinu. 7.25 Frá þeim degi, er feður yðar fóru burt af Egyptalandi, og fram á þennan dag, hefi ég stöðugt dag eftir dag sent þjóna mína, spámennina, til yðar. 7.26 En þeir heyrðu mig ekki og lögðu ekki við eyrun, heldur gjörðust harðsvíraðir og breyttu enn verr en feður þeirra. 7.27 Og þótt þú talir öll þessi orð til þeirra, munu þeir ekki hlýða á þig, og þótt þú kallir til þeirra, munu þeir ekki svara þér. 7.28 Seg því við þá: Þetta er þjóðin, sem eigi hlýðir raustu Drottins, Guðs síns, og engri umvöndun tekur. Horfin er trúfestin, já, upprætt úr munni þeirra. 7.29 Sker af þér höfuðprýði þína og varpa henni frá þér og hef upp harmakvein á skóglausu hæðunum, því að Drottinn hefir hafnað og útskúfað þeirri kynslóð, sem hann reiddist. 7.30 Júdamenn hafa gjört það, sem illt er í mínum augum _ segir Drottinn _, þeir hafa reist upp viðurstyggðir sínar í húsi því, sem kennt er við nafn mitt, og saurgað það 7.31 og byggt Tófet-fórnarhæðir í Hinnomssonar-dal til þess að brenna sonu sína og dætur í eldi, sem ég hefi ekki boðið og mér hefir ekki í hug komið! 7.32 Sjá, fyrir því munu þeir dagar koma _ segir Drottinn _, að eigi mun framar verða talað um 'Tófet' og 'Hinnomssonar-dal,' heldur um 'Drápsdal,' og menn munu jarða í Tófet vegna rúmleysis. 7.33 Lík þessa lýðs munu verða æti fyrir fugla himinsins og dýr jarðarinnar, og enginn mun fæla þau burt. 7.34 Þá mun ég láta öll ánægju- og gleðihljóð, öll fagnaðarlæti brúðguma og brúðar hverfa burt úr Júdaborgum og af strætum Jerúsalem, því að landið skal verða auðn.
8.1 Þá munu menn _ segir Drottinn _ taka bein Júdakonunga og bein Júdahöfðingja og bein prestanna og bein spámannanna og bein Jerúsalembúa úr gröfum þeirra, 8.2 og breiða þau út á móti sólinni og tunglinu og öllum her himinsins, er þeir elskuðu og þjónuðu og eltu og gengu til frétta við og féllu fram fyrir. Þeim verður ekki safnað saman og þau verða ekki grafin, þau skulu verða að áburði á akrinum. 8.3 Og allar leifarnar, þeir er eftir verða af þessari vondu kynslóð á öllum þeim stöðum, þangað sem ég hefi rekið þá, munu heldur kjósa dauða en líf _ segir Drottinn allsherjar. 8.4 Seg því við þá: Svo segir Drottinn: Hvort falla menn og standa ekki upp aftur? Eða hverfa menn burt án þess að koma aftur? 8.5 Hvers vegna hefir þessi lýður horfið burt til ævarandi fráhvarfs? Þeir halda fast við svikin og vilja ekki hverfa aftur. 8.6 Ég tók eftir og heyrði: Þeir tala ósannindi, enginn iðrast illsku sinnar, svo að hann segi: 'Hvað hefi ég gjört?' Allir hafa þeir gjörst fráhverfir í rásinni, eins og hestur, sem ryðst áfram í orustu. 8.7 Jafnvel storkurinn í loftinu þekkir sínar ákveðnu tíðir, og turtildúfan og svalan og tranan gefa gætur að tíma endurkomu sinnar, en lýður minn þekkir ekki rétt Drottins. 8.8 Hvernig getið þér sagt: 'Vér erum vitrir og lögmál Drottins er hjá oss'? Víst er svo, en lygapenni fræðimannanna hefir gjört það að lygi. 8.9 Hinir vitru verða til skammar, þeir skelfast og verða gripnir, sjá, þeir hafa hafnað orði Drottins, hvaða visku hafa þeir þá? 8.10 Fyrir því mun ég selja konur þeirra öðrum á vald og sigurvegurunum lönd þeirra, því að bæði ungir og gamlir, allir eru þeir fíknir í rangfenginn gróða, bæði spámenn og prestar, allir hafa þeir svik í frammi. 8.11 Þeir hyggjast að lækna áfall þjóðar minnar með hægu móti, segjandi: 'Heill, heill!' þar sem engin heill er. 8.12 Þeir munu hljóta að skammast sín fyrir að hafa framið svívirðing! En þeir skammast sín ekki og vita ekki hvað það er að blygðast sín. Fyrir því munu þeir falla meðal þeirra, sem falla. Þegar minn tími kemur að hegna þeim, munu þeir steypast _ segir Drottinn. 8.13 Ég vil safna þeim saman eins og um uppskeru _ segir Drottinn _ en engin vínber eru á vínviðinum og engar fíkjur á fíkjutrénu, og laufið er fölnað. Vil ég því selja þá þeim á vald, er þá munu upp eta. 8.14 Til hvers sitjum vér hér kyrrir? Safnist saman og höldum inn í víggirtu borgirnar og förumst þar, því að Drottinn, Guð vor, lætur oss farast og drykkjar oss með eiturvatni, af því að vér höfum syndgað á móti Drottni. 8.15 Menn vænta hamingju, en ekkert gott kemur, vænta lækningartíma, og sjá, skelfing! 8.16 Frá Dan heyrist frýsið í fákum hans, og af hneggi hesta hans nötrar allt landið, og þeir koma og eta upp landið og það, sem í því er, borgina og íbúa hennar. 8.17 Sjá, ég sendi meðal yðar höggorma, nöðrur, sem særingar vinna ekki á, og þeir skulu bíta yður _ segir Drottinn. 8.18 Ó hvað má hugsvala mér í harminum! Hjartað er sjúkt í mér. 8.19 Heyr, kvein þjóðar minnar hljómar úr fjarlægu landi. Er Drottinn ekki í Síon, eða er konungur hennar ekki í henni? 'Hví egndu þeir mig til reiði með skurðmyndum sínum, með fánýtum, útlendum goðum?' 8.20 Uppskeran er liðin, aldinskurðurinn á enda, en vér höfum eigi hlotið hjálp. 8.21 Ég er helsærður af helsári þjóðar minnar, ég geng í sorgarbúningi, skelfing hefir gripið mig. 8.22 Eru þá engin smyrsl í Gíleað, eða er þar enginn læknir? Hví er engin hyldgan komin á sár þjóðar minnar?
9.1 Ó að höfuð mitt væri vatn og augu mín táralind, þá skyldi ég gráta daga og nætur þá, er fallið hafa af þjóð minni. 9.2 Ó að ég hefði sæluhús í eyðimörkinni, þá skyldi ég yfirgefa þjóð mína og fara burt frá þeim, því að allir eru þeir hórdómsmenn, flokkur svikara. 9.3 Þeir spenna tungu sína eins og boga sinn, með lygi, en eigi með sannleika, hafa þeir náð völdum í landinu, því að frá einni vonskunni ganga þeir til annarrar, en mig þekkja þeir ekki _ segir Drottinn. 9.4 Varið yður hver á öðrum og treystið engum bróður, því að sérhver bróðir beitir undirferli og sérhver vinur gengur með róg. 9.5 Þeir blekkja hver annan og sannleika tala þeir ekki. Þeir venja tungu sína á að tala lygi, kosta kapps um að gjöra rangt. 9.6 Þú býr mitt á meðal svikara. Vegna svika vilja þeir ekki þekkja mig _ segir Drottinn. 9.7 Fyrir því segir Drottinn allsherjar svo: Sjá, ég vil hreinsa þá og reyna þá, því að hvernig ætti ég að fara öðruvísi að andspænis illsku þjóðar minnar? 9.8 Tunga þeirra er deyðandi ör, svik tala þeir, með munninum tala þeir vingjarnlega við náunga sinn, en í hjarta sínu sitja þeir á svikráðum við hann. 9.9 Ætti ég ekki að hegna slíkum mönnum _ segir Drottinn _ eða hefna mín á annarri eins þjóð og þessari? 9.10 Á fjöllunum vil ég hefja grát og harmakvein, og sorgarljóð á beitilöndunum í öræfunum, því að þau eru sviðin, svo að enginn fer þar um framar og menn heyra eigi framar baul hjarðanna. Bæði fuglar himinsins og villidýrin eru flúin, farin. 9.11 Og ég vil gjöra Jerúsalem að grjóthrúgum, að sjakalabæli, og Júdaborgir vil ég gjöra að auðn, þar sem enginn býr. 9.12 Hver er svo vitur maður, að hann skilji þetta? Hver er sá, er munnur Drottins hafi talað við, að hann megi kunngjöra hvers vegna landið er gjöreytt, sviðið eins og eyðimörk, sem enginn fer um? 9.13 En Drottinn sagði: Af því að þeir hafa yfirgefið lögmál mitt, sem ég setti þeim, og ekki hlýtt minni raustu og ekki farið eftir henni, 9.14 heldur farið eftir þverúð hjarta síns og elt Baalana, er feður þeirra höfðu kennt þeim að dýrka, 9.15 þess vegna _ svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð _ vil ég gefa þeim, þessum lýð, malurt að eta og eiturvatn að drekka, 9.16 og tvístra þeim meðal þjóða, sem hvorki þeir né feður þeirra hafa þekkt, og senda sverðið á eftir þeim, þar til er ég hefi gjöreytt þeim. 9.17 Takið eftir og kallið til harmkonur, að þær komi, og sendið til hinna vitru kvenna, að þær komi 9.18 og hraði sér að hefja harmakvein yfir oss, til þess að augu vor fljóti í tárum og vatnið streymi af hvörmunum. 9.19 Hátt harmakvein heyrist frá Síon: Hversu erum vér eyðilagðir, mjög til skammar orðnir, því að vér höfum orðið að yfirgefa landið, af því að þeir hafa brotið niður bústaði vora. 9.20 Já, heyrið, þér konur, orð Drottins, og eyra yðar nemi orð hans munns. Kennið dætrum yðar harmljóð og hver annarri sorgarkvæði! 9.21 Því að dauðinn er stiginn upp í glugga vora, kominn inn í hallir vorar, hann hrífur börnin af götunum, unglingana af torgunum. 9.22 Og líkin af mönnunum liggja eins og hlöss á velli og eins og kornbundin að baki kornskurðarmanninum, sem enginn tekur saman. 9.23 Svo segir Drottinn: Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni og hinn sterki hrósi sér ekki af styrkleika sínum og hinn auðugi hrósi sér ekki af auði sínum. 9.24 Hver sá er vill hrósa sér, hrósi sér af því, að hann sé hygginn og þekki mig, að það er ég, Drottinn, sem auðsýni miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni, því að á slíku hefi ég velþóknun _ segir Drottinn. 9.25 Sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _, að ég mun hegna öllum umskornum, sem þó eru óumskornir: 9.26 Egyptalandi, Júda, Edóm, Ammónítum, Móab og öllum, sem skera hár sitt við vangann, þeim er búa í eyðimörkinni, _ því að allir heiðingjar eru óumskornir og allt Ísraels hús er óumskorið á hjarta.
10.1 Heyrið orðið, sem Drottinn talar til yðar, Ísraels hús! 10.2 Svo segir Drottinn: Venjið yður ekki á sið heiðingjanna og hræðist ekki himintáknin, þótt heiðingjarnir hræðist þau. 10.3 Siðir þjóðanna eru hégómi. Menn höggva tré í skógi, og trésmiðurinn lagar það til með öxinni, 10.4 hann prýðir það silfri og gulli, hann festir það með nöglum og hömrum, svo að það riði ekki. 10.5 Skurðgoðin eru eins og hræða í melónugarði og geta ekki talað, bera verður þau, því að gengið geta þau ekki. Óttist þau því ekki, því að þau geta ekki gjört mein, en þau eru ekki heldur þess umkomin að gjöra gott. 10.6 Enginn er þinn líki, Drottinn! Mikill ert þú og mikið er nafn þitt sakir máttar þíns. 10.7 Hver skyldi eigi óttast þig, konungur þjóðanna? Já, þú ert þess maklegur, því að meðal allra spekinga þjóðanna og í öllu ríki þeirra er enginn þinn líki. 10.8 Allir saman eru þeir óskynsamir og fávísir, þeir þiggja fræðslu hinna fánýtu guða, sem eru úr tré. 10.9 Silfurplötur eru fluttar frá Tarsis, og gull frá Úfas, þeir eru verk trésmiðsins og gullsmiðsins. Klæðnaður þeirra er gjörður af bláum og rauðum purpura, verk hagleiksmanna eru þeir allir. 10.10 En Drottinn er sannur Guð. Hann er lifandi Guð og eilífur konungur. Fyrir reiði hans nötrar jörðin, og þjóðirnar fá eigi þolað gremi hans. 10.11 Þannig skuluð þér mæla til þeirra: Þeir guðir, sem ekki hafa skapað himin og jörð, munu hverfa af jörðinni og undan himninum. 10.12 Hann sem gjört hefir jörðina með krafti sínum, skapað heiminn af speki sinni og þanið út himininn af hyggjuviti sínu, 10.13 þegar hann þrumar, svarar vatnagnýr í himninum, og hann lætur ský upp stíga frá endimörkum jarðar. Hann gjörir leiftur til þess að búa rás regninu og hleypir vindinum út úr forðabúrum hans. 10.14 Sérhver maður stendur undrandi og skilur þetta ekki, sérhver gullsmiður hlýtur að skammast sín fyrir líkneski sitt, því að hin steyptu líkneski hans eru tál og í þeim er enginn andi. 10.15 Hégómi eru þau, háðungar-smíði. Þegar hegningartími þeirra kemur er úti um þau. 10.16 En sá Guð, sem er hlutdeild Jakobs, er ekki þeim líkur, heldur er hann skapari alls, og Ísrael er hans eignarkynkvísl. Drottinn allsherjar er nafn hans. 10.17 Tak böggul þinn upp af jörðinni, þú sem situr umsetin. 10.18 Því að svo segir Drottinn: Sjá, ég mun burt snara íbúum landsins í þetta sinn og þrengja að þeim til þess að þeir fái að kenna á því. 10.19 Vei mér vegna sárs míns, áverki minn er ólæknandi. Og þó hugsaði ég: Ef þetta er öll þjáningin, þá ber ég hana! 10.20 Tjald mitt er eyðilagt, öll tjaldstög mín slitin, synir mínir eru frá mér farnir og eru ekki framar til. Enginn er sá til, er reisi aftur tjald mitt og festi aftur upp tjalddúka mína. 10.21 Já, óskynsamir voru hirðarnir og Drottins leituðu þeir ekki. Fyrir því lánaðist þeim ekkert, og allri hjörð þeirra var tvístrað. 10.22 Heyr! Hávaði! Sjá, það færist nær, ógurlegt hark úr landinu norður frá til þess að gjöra Júdaborgir að auðn, að sjakalabæli. 10.23 Ég veit, Drottinn, að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum. 10.24 Refsa oss, Drottinn, en þó í hófi, ekki í reiði þinni, til þess að þú gjörir ekki út af við oss. 10.25 Úthell heift þinni yfir heiðnu þjóðirnar, sem ekki þekkja þig, og yfir þær kynkvíslir, sem ekki ákalla nafn þitt, því að þær hafa etið Jakob, já, þær hafa etið hann og svelgt hann upp, og beitiland hans hafa þær eytt.
11.1 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni: 11.2 Heyrið orð þessa sáttmála. Tala þú til Júdamanna og Jerúsalembúa 11.3 og seg við þá: Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Bölvaður sé sá maður, sem ekki hlýðir á orð þessa sáttmála, 11.4 er ég bauð feðrum yðar að halda, þá er ég leiddi þá burt af Egyptalandi, út úr járnbræðsluofninum og sagði: 'Hlýðið skipunum mínum og breytið eftir þeim, með öllu svo sem ég býð yður. Þá skuluð þér vera mín þjóð og ég skal vera yðar Guð, 11.5 til þess að ég fái haldið þann eið, er ég sór feðrum yðar, að gefa þeim land, sem flýtur í mjólk og hunangi, landið, sem þér eigið enn í dag.' Og ég svaraði og sagði: Veri það svo, Drottinn! 11.6 Þá sagði Drottinn við mig: Boða þú öll þessi orð í Júdaborgum og á Jerúsalemstrætum og seg: Hlýðið á orð þessa sáttmála og breytið eftir þeim. 11.7 Því að alvarlega hefi ég varað feður yðar við, þegar ég leiddi þá út af Egyptalandi og allt fram á þennan dag, iðulega og alvarlega, og sagt: 'Hlýðið skipun minni!' 11.8 En þeir hlýddu ekki og lögðu ekki við eyrun, heldur fóru hver og einn eftir þverúð síns vonda hjarta, og fyrir því lét ég fram á þeim koma öll orð þessa sáttmála, er ég hafði boðið þeim að halda, en þeir héldu ekki. 11.9 Þá sagði Drottinn við mig: 'Það er samsæri milli Júdamanna og Jerúsalembúa. 11.10 Þeir eru horfnir aftur til misgjörða forfeðra sinna, sem eigi vildu hlýða orðum mínum, og þeir elta aðra guði, til þess að þjóna þeim. Ísraels hús og Júda hús hafa rofið minn sáttmála, þann er ég gjörði við feður þeirra. 11.11 Fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég leiði yfir þá ógæfu, er þeir ekki skulu fá undan komist, og er þeir þá hrópa til mín, mun ég ekki heyra þá. 11.12 En fari Júdaborgir og Jerúsalembúar og hrópi til þeirra guða, er þeir færa reykelsisfórnir, þá munu þeir vissulega heldur ekki hjálpa þeim á ógæfutíma þeirra. 11.13 Því að guðir þínir, Júda, eru orðnir eins margir og borgir þínar, og þér hafið reist eins mörg ölturu, til þess að fórna Baal á reykelsisfórnum, eins og stræti eru í Jerúsalem. 11.14 En þú skalt ekki biðja fyrir þessum lýð og ekki hefja þeirra vegna grátbeiðni né fyrirbón, því að ég mun alls eigi heyra, þegar þeir kalla til mín á ógæfutíma þeirra.' 11.15 Hvert erindi á mín ástkæra í hús mitt? Atferli hennar er lymskufullt. Munu bænahróp og heilagt fórnarkjöt nema illsku þína burt frá þér, svo að þú síðan megir fagna? 11.16 Fagurgrænt olíutré, prýtt dýrlegum ávöxtum, nefndi Drottinn þig eitt sinn, en í hvínandi ofviðri kveikir hann eld kringum það, og greinar þess brotna. 11.17 Drottinn allsherjar, sem gróðursetti þig, hefir hótað þér illu vegna illsku Ísraels húss og Júda húss, er þeir frömdu til þess að egna mig til reiði, þá er þeir færðu Baal reykelsisfórnir. 11.18 Drottinn gjörði mér það kunnugt og ég fékk að vita og sjá gjörðir þeirra. 11.19 Ég var sjálfur eins og vanið lamb, sem leitt er til slátrunar, og vissi ekki, að þeir voru að brugga ráð gegn mér: 'Vér skulum eyða tréð í blóma þess og uppræta hann af landi lifenda, svo að nafns hans verði ekki minnst framar!' 11.20 En, Drottinn allsherjar, þú er réttlátlega dæmir og rannsakar nýrun og hjartað, lát mig sjá hefnd þína á þeim, því að þér fel ég málefni mitt! 11.21 Fyrir því segir Drottinn svo um Anatótmenn, þá er sitja um líf þitt og segja: 'Þú skalt ekki spá í nafni Drottins, ella skalt þú deyja fyrir hendi vorri.' 11.22 Fyrir því mælir Drottinn allsherjar svo: Sjá, ég mun refsa þeim. Æskumennirnir skulu falla fyrir sverði, synir þeirra og dætur skulu deyja af hungri. 11.23 Og leifar munu þeim engar eftir verða, því að ég leiði óhamingju yfir Anatótmenn, árið sem þeim verður refsað.
12.1 Þú, Drottinn, ert réttlátari en svo, að ég megi þrátta við þig! Þó verð ég að deila á þig: Hví lánast athæfi hinna óguðlegu, hví eru allir þeir óhultir, er sviksamlega breyta? 12.2 Þú gróðursetur þá, og þeir festa rætur, dafna og bera ávöxt. Þeir hafa þig ávallt á vörunum, en hjarta þeirra er langt frá þér. 12.3 En þú, Drottinn, þekkir mig, sér mig, og þú hefir reynt hugarþel mitt til þín. Skil þá úr, eins og sauði til slátrunar, og helgaðu þá drápsdeginum. 12.4 Hversu lengi á landið að syrgja og jurtir vallarins alls staðar að skrælna? Sakir illsku þeirra, er í því búa, farast skepnur og fuglar, þar eð þeir segja: 'Hann sér eigi afdrif vor.' 12.5 Ef þú mæðist af því að hlaupa með fótgangandi mönnum, hvernig ætlar þú þá að þreyta kapphlaup við hesta? Og ef þú ert aðeins öruggur í friðuðu landi, hvernig ætlar þú þá að fara að í kjarrinu á Jórdanbökkum? 12.6 Jafnvel bræður þínir og skyldulið föður þíns _ einnig þeir eru þér ótrúir, einnig þeir hafa kallað fullum rómi á eftir þér. Treystu þeim ekki, þótt þeir tali vinsamlega til þín. 12.7 Yfirgefið hefi ég hús mitt, hafnað eign minni. Ég hefi gefið það, sem sál minni var kærast, óvinum hennar á vald. 12.8 Eign mín varð mér eins og ljón í skógi, hún öskraði í móti mér, fyrir því hata ég hana. 12.9 Er eign mín orðin mér eins og marglitur ránfugl? Ránfuglar sækja að henni öllumegin. Komið, safnið saman öllum dýrum merkurinnar, komið með þau til að eta. 12.10 Margir hirðar hafa eytt víngarð minn, fótum troðið óðal mitt, hafa gjört hið unaðslega óðal mitt að eyðilegri heiði. 12.11 Menn hafa gjört það að auðn, í eyði drúpir það fyrir mér, allt landið er í eyði lagt, af því að enginn leggur það á hjarta. 12.12 Eyðandi ræningjar hafa steypt sér yfir allar skóglausar hæðir í eyðimörkinni. Sverð Drottins eyðir landið af enda og á, enginn er óhultur. 12.13 Þeir sáðu hveiti, en uppskáru þyrna, þeir þreyttu sig, en varð ekki gagn að. Verðið því til skammar fyrir afrakstur yðar vegna hinnar brennandi reiði Drottins. 12.14 Svo segir Drottinn: Allir hinir vondu nágrannar mínir, þeir er áreitt hafa eignina, er ég gaf lýð mínum Ísrael, sjá, ég slít þá upp úr landi þeirra, og Júda hús vil ég upp slíta, svo að það sé eigi meðal þeirra. 12.15 En eftir að ég hefi slitið þá upp, mun ég aftur miskunna mig yfir þá og flytja þá heim aftur, hvern til síns óðals og hvern til síns lands. 12.16 Og ef þeir þá læra siðu þjóðar minnar og sverja við mitt nafn: 'Svo sannarlega sem Drottinn lifir!' eins og þeir hafa kennt þjóð minni að sverja við Baal, _ þá skulu þeir þrífast meðal þjóðar minnar. 12.17 En ef einhver þjóð vill ekki heyra, þá slít ég þá þjóð upp og tortími henni _ segir Drottinn.
13.1 Svo mælti Drottinn við mig: Far og kaup þér línbelti og legg það um lendar þér, en lát það ekki koma í vatn. 13.2 Og ég keypti beltið eftir orði Drottins og lagði um lendar mér. 13.3 Og orð Drottins kom til mín annað sinn, svohljóðandi: 13.4 Tak beltið, sem þú keyptir og um lendar þínar er, og legg af stað og far austur að Efrat og fel það þar í bergskoru. 13.5 Og ég fór og fal það hjá Efrat, eins og Drottinn hafði boðið mér. 13.6 En er alllangur tími var um liðinn, sagði Drottinn við mig: Legg af stað og far austur að Efrat og tak þar beltið, sem ég bauð þér að fela þar. 13.7 Og ég fór austur að Efrat, gróf og tók beltið á þeim stað, sem ég hafði falið það. En sjá, beltið var orðið skemmt, til einskis nýtt framar. 13.8 Og orð Drottins kom til mín, svo hljóðandi: 13.9 Svo segir Drottinn: Þannig vil ég skemma hroka Júda og hroka Jerúsalem, þann hinn mikla. 13.10 Þessir vondu menn, sem ekki vilja hlýða orðum mínum, sem fara eftir þverúð hjarta síns og elta aðra guði til þess að þjóna þeim og falla fram fyrir þeim _ þeir skulu verða eins og þetta belti, sem til einskis er nýtt framar. 13.11 Því að eins og beltið fellir sig að lendum manns, eins hafði ég látið allt Ísraels hús og allt Júda hús fella sig að mér _ segir Drottinn _ til þess að það skyldi vera minn lýður og mér til frægðar, lofstírs og prýði, en þeir hlýddu ekki. 13.12 Mæl til þeirra þetta orð: Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: 'Sérhver krukka verður fyllt víni.' En segi þeir þá við þig: 'Vitum vér þá ekki, að sérhver krukka verður fyllt víni?' 13.13 þá seg við þá: 'Svo segir Drottinn: Sjá, ég fylli alla íbúa þessa lands og konungana, sem sitja í hásæti Davíðs, og prestana og spámennina og alla Jerúsalembúa, svo að þeir verði drukknir, 13.14 og mola þá sundur hvern við annan, feður og sonu alla saman _ segir Drottinn. Ég tortími þeim hlífðarlaust, án nokkurrar vægðar og miskunnar.' 13.15 Heyrið og takið eftir! Verið ekki dramblátir, því að Drottinn hefir talað! 13.16 Gefið Drottni, Guði yðar, dýrðina, áður en dimmir, áður en fætur yðar steyta á rökkurfjöllum. Þér væntið ljóss, en hann mun breyta því í niðdimmu og gjöra það að svartamyrkri. 13.17 En ef þér hlýðið því ekki, þá mun ég í leyni gráta vegna hrokans og sífellt tárast, já augu mín munu fljóta í tárum, af því að hjörð Drottins verður flutt burt hertekin. 13.18 Seg við konung og við konungsmóður: 'Setjist lágt, því að fallin er af höfðum yðar dýrlega kórónan! 13.19 Borgir Suðurlandsins eru lokaðar, og enginn opnar, Júdalýður hefur verið burt fluttur allur saman, burt fluttur með tölu.' 13.20 Hef upp augu þín og sjá, þeir koma að norðan! Hvar er hjörðin, sem þér var fengin, þínir ágætu sauðir? 13.21 Hvað munt þú segja, þegar þeir setja þá menn höfðingja yfir þig, sem þú hefir sjálf kennt að vera á móti þér? Munu ekki hviður að þér koma, eins og að jóðsjúkri konu, 13.22 er þú segir í hjarta þínu: ,Hví ber mér slíkt að höndum?` Sakir þinnar miklu misgjörðar er klæðafaldi þínum upp flett, hælar þínir með valdi berir gjörðir. 13.23 Getur blámaður breytt hörundslit sínum eða pardusdýrið flekkjum sínum? Ef svo væri munduð þér og megna að breyta vel, þér sem vanist hafið að gjöra illt. 13.24 Ég vil tvístra þeim eins og hálmleggjum, sem berast fyrir eyðimerkurvindi. 13.25 Þetta er hlutur þinn, afmældur skammtur þinn frá minni hendi _ segir Drottinn _ af því að þú hefir gleymt mér og treystir á lygi. 13.26 Fyrir því kippi ég og klæðafaldi þínum upp að framan, svo að blygðan þín verði ber. 13.27 Hórdóm þinn og losta-hví, hið svívirðilega fúllífi þitt _ á fórnarhæðunum úti á víðavangi hefi ég séð viðurstyggðir þínar. Vei þér, Jerúsalem, þú munt ekki hrein verða _ hve langt mun enn þangað til?
14.1 Orð Drottins, sem kom til Jeremía út af þurrkunum. 14.2 Júda drúpir, og þeir, sem sitja í borgarhliðum landsins, örmagnast, þeir sitja harmandi á jörðinni, og harmakvein Jerúsalem stígur upp. 14.3 Tignarmenni þeirra senda undirmenn sína eftir vatni, þeir koma að vatnsþrónum, en finna ekkert vatn, þeir snúa aftur með tóm ílátin, þeir eru sneyptir og blygðast sín og hylja höfuð sín. 14.4 Vegna akurlendisins, sem er agndofa af skelfingu, af því að ekkert regn fellur í landinu, eru akurmennirnir sneypulegir og hylja höfuð sín. 14.5 Já, jafnvel hindin í haganum ber og yfirgefur kálfinn, því að gróður er enginn, 14.6 og villiasnarnir standa á skóglausu hæðunum og taka öndina á lofti, eins og sjakalarnir. Augu þeirra daprast, því að hvergi er gras. 14.7 Þegar misgjörðir vorar vitna í gegn oss, Drottinn, þá lát til þín taka vegna nafns þíns, því að fráhvarfssyndir vorar eru margar, gegn þér höfum vér syndgað. 14.8 Ó Ísraels von, hjálpari hans á neyðartíma, hví ert þú sem útlendingur í landinu og sem ferðamaður, er tjaldar til einnar nætur? 14.9 Hví ert þú eins og skelkaður maður, eins og hetja, sem ekki megnar að hjálpa? Og þó ert þú mitt á meðal vor, Drottinn, og vér erum nefndir eftir nafni þínu. Yfirgef oss eigi! 14.10 Svo segir Drottinn um þennan lýð: Þannig var þeim ljúft að reika um, þeir öftruðu ekki fótum sínum, en Drottinn hafði enga þóknun á þeim. Nú minnist hann misgjörðar þeirra og vitjar synda þeirra. 14.11 Og Drottinn sagði við mig: 'Þú skalt eigi biðja þessum lýð góðs. 14.12 Þegar þeir fasta, þá hlýði ég eigi á grátbeiðni þeirra, og þegar þeir bera fram brennifórn og matfórn, þá hefi ég eigi þóknun á þeim, heldur vil ég gjöreyða þeim með sverði, hungri og drepsótt.' 14.13 Þá sagði ég: 'Æ, herra Drottinn, sjá, spámennirnir segja við þá: Þér munuð ekki sjá sverð, og hungri munuð þér ekki verða fyrir, heldur mun ég láta yður hljóta stöðuga heill á þessum stað!' 14.14 En Drottinn sagði við mig: 'Spámennirnir boða lygar í mínu nafni. Ég hefi ekki sent þá og ég hefi ekki skipað þeim og ég hefi ekki við þá talað, þeir boða yður lognar sýnir, fánýtar spár og tál, sem þeir sjálfir hafa spunnið upp. 14.15 Fyrir því segir Drottinn svo: Spámennirnir, sem spá í mínu nafni og segja, þótt ég hafi ekki sent þá: Hvorki mun sverð né hungur ganga yfir þetta land! _ fyrir sverði og hungri skulu þeir farast, þessir spámenn. 14.16 En lýðurinn, sem þeir boða spár sínar, skal liggja dauður á Jerúsalem-strætum af hungri og fyrir sverði, og enginn jarða þá, _ þeir sjálfir, konur þeirra, synir þeirra og dætur þeirra _ og ég vil úthella vonsku þeirra yfir þá.' 14.17 Þú skalt tala til þeirra þessi orð: Augu mín skulu fljóta í tárum nótt og dag, og tárin eigi stöðvast, því að mærin, dóttir þjóðar minnar, hefir orðið fyrir ógurlegu áfalli, hefir særð verið al-ólæknandi sári. 14.18 Gangi ég út á völlinn, þá liggja þar þeir, er fallið hafa fyrir sverði, og gangi ég inn í borgina, þá sé ég þar menn dána úr hungri. Já, spámenn og prestar fara um landið og bera ekki kennsl á það. 14.19 Hefir þú þá hafnað Júda algjörlega, eða ert þú orðinn leiður á Síon? Hví hefir þú lostið oss svo, að vér verðum eigi læknaðir? Menn vænta hamingju, en ekkert gott kemur, vænta lækningartíma, og sjá, skelfing! 14.20 Vér þekkjum, Drottinn, yfirsjón vora, misgjörð feðra vorra, að vér höfum syndgað gegn þér. 14.21 Fyrirlít eigi, vegna nafns þíns, _ óvirð eigi hásæti dýrðar þinnar, minnstu sáttmála þíns við oss og rjúf hann eigi. 14.22 Eru nokkrir regngjafar meðal hinna fánýtu guða heiðingjanna, eða úthellir himinninn skúrum sjálfkrafa? Ert það ekki þú, Drottinn, Guð vor, svo að vér verðum að vona á þig? Því að þú hefir gjört allt þetta.
15.1 Þá sagði Drottinn við mig: Þó að Móse og Samúel gengju fram fyrir mig, mundi sál mín ekki hneigjast að þessum lýð framar. Rek þá frá augliti mínu, svo að þeir fari burt. 15.2 Og ef þeir segja við þig: 'Hvert eigum vér að fara?' þá seg við þá: Svo segir Drottinn: Til drepsóttar sá, sem drepsótt er ætlaður, til sverðs sá, sem sverði er ætlaður, til hungurs sá, sem hungri er ætlaður, til herleiðingar sá, sem til herleiðingar er ætlaður. 15.3 Ég býð ferns konar kyni út í móti þeim _ segir Drottinn _: Sverðinu til þess að myrða þá, hundunum til þess að draga þá burt, fuglum himinsins og dýrum jarðarinnar til þess að eta þá og eyða þeim. 15.4 Ég gjöri þá að grýlu fyrir öll konungsríki jarðar, sökum Manasse Hiskíasonar, Júdakonungs, fyrir það sem hann aðhafðist í Jerúsalem. 15.5 Hver mun kenna í brjósti um þig, Jerúsalem, og hver mun sýna þér hluttekning og hver mun koma við til þess að spyrja um, hvernig þér líði? 15.6 Það ert þú, sem hefir útskúfað mér _ segir Drottinn. Þú hörfaðir frá. Fyrir því rétti ég höndina út á móti þér og eyddi þig, ég er orðinn þreyttur á að miskunna. 15.7 Fyrir því sáldraði ég þeim með varpkvísl við borgarhlið landsins, gjörði menn barnlausa, eyddi þjóð mína, frá sínum vondu vegum sneru þeir ekki aftur. 15.8 Ekkjur þeirra urðu fleiri en sandkorn á sjávarströnd. Ég leiddi yfir mæður unglinga þeirra eyðanda um hábjartan dag, lét skyndilega yfir þær koma angist og skelfing. 15.9 Sjö barna móðirin mornaði og þornaði, hún gaf upp öndina. Sól hennar gekk undir áður dagur var á enda, hún varð til smánar og fyrirvarð sig. Og það, sem eftir er af þeim, ofursel ég sverðinu, þá er þeir flýja fyrir óvinum sínum _ segir Drottinn. 15.10 Vei mér, móðir mín, að þú skyldir fæða mig, mig sem allir menn í landinu deila og þrátta við. Ekkert hefi ég öðrum lánað og ekkert hafa aðrir lánað mér, og þó formæla þeir mér allir. 15.11 Drottinn sagði: Vissulega mun ég frelsa þig, ég mun vissulega láta óvininn grátbæna þig, þegar óhamingjuna og neyðina ber að höndum. 15.12 Verður járn brotið sundur, járn að norðan, og eir? 15.13 Eigur þínar og fjársjóðu ofursel ég að herfangi, ekki fyrir verð, heldur fyrir allar syndir þínar, og það fyrir þær syndir, er þú hefir drýgt í öllum héruðum þínum. 15.14 Og ég læt þig þjóna óvinum þínum í landi, sem þú þekkir ekki, því að reiði mín er eldur brennandi, gegn yður logar hann. 15.15 Þú veist það, Drottinn, minnstu mín og vitjaðu mín og hefn mín á ofsóknurum mínum. Hríf mig ekki burt í þolinmæði þinni við þá, mundu það, að ég þoli smán þín vegna. 15.16 Kæmu orð frá þér, gleypti ég við þeim, og orð þín voru mér unun og fögnuður hjarta míns, því að ég er nefndur eftir nafni þínu, Drottinn, Guð allsherjar. 15.17 Ég sat ekki í hóp hlæjandi manna til þess að skemmta mér. Gripinn af þinni hendi sat ég einsamall, af því að þú fylltir mig helgri reiði. 15.18 Hví er kvöl mín orðin ævarandi og sár mitt svo illkynjað, að það verður ekki grætt? Þú ert mér sem svikull lækur, eins og vatn, sem ekki er unnt að reiða sig á. 15.19 Þessu svaraði Drottinn svo: Ef þú lætur af þessu víli þínu, mun ég aftur láta þig ganga fram fyrir mig. Og ef þú framleiðir aðeins dýrmæta hluti, en enga lélega, þá skalt þú aftur vera mér munnur. Þeir skulu snúa við til þín, en þú skalt ekki snúa við til þeirra. 15.20 Og ég gjöri þig gagnvart þessum lýð að rammbyggðum eirvegg, og þótt þeir berjist við þig, skulu þeir eigi fá yfirstigið þig, því að ég er með þér til þess að hjálpa þér og frelsa þig _ segir Drottinn. 15.21 Ég frelsa þig undan valdi vondra manna og losa þig úr höndum ofbeldismanna.
16.1 Orð Drottins kom til mín: 16.2 Þú skalt ekki taka þér konu, og þú skalt enga sonu né dætur eignast á þessum stað. 16.3 Því að svo segir Drottinn um þá sonu og dætur, sem fæðast á þessum stað, og um mæðurnar, sem börnin ala, og um feðurna, sem geta þau í þessu landi: 16.4 Af banvænum sjúkdómum munu þau deyja, menn munu eigi harma þau né jarða, þau munu verða að áburði á akrinum. Fyrir sverði og hungri skulu þau farast, og líkamir þeirra munu verða fuglum himinsins og dýrum jarðarinnar að æti. 16.5 Já, svo segir Drottinn: Þú skalt ekki ganga í sorgarhúsið og eigi fara til þess að harma, né heldur sýna þeim hluttekning, því að ég hefi tekið minn frið frá þessum lýð _ segir Drottinn _ náðina og miskunnsemina, 16.6 og stórir og smáir skulu deyja í þessu landi. Þeir verða ekki jarðaðir, og ekki munu menn harma þá né þeirra vegna rista á sig skinnsprettur né gjöra sér skalla. 16.7 Og ekki munu menn brjóta sorgarbrauð þeirra vegna, til huggunar eftir látinn mann, né láta þá drekka huggunarbikar vegna föður síns og móður sinnar. 16.8 Eigi skalt þú heldur ganga í veisluhús, til þess að setjast með þeim til að eta og drekka. 16.9 Því að svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Sjá, ég mun láta öll ánægju- og gleðihljóð, öll fagnaðarlæti brúðguma og brúðar hverfa burt úr þessum stað fyrir augum yðar og á yðar dögum. 16.10 Þegar þú nú kunngjörir þessum lýð öll þessi orð og menn segja við þig: 'Hvers vegna hefir Drottinn hótað oss allri þessari miklu ógæfu, og hver er misgjörð vor og hver er synd vor, sem vér höfum drýgt gegn Drottni, Guði vorum?' 16.11 þá seg við þá: 'Vegna þess að feður yðar yfirgáfu mig _ segir Drottinn _ og eltu aðra guði og þjónuðu þeim og féllu fram fyrir þeim, en mig yfirgáfu þeir og héldu ekki lögmál mitt. 16.12 Og þér breytið enn verr en feður yðar, þar sem þér farið hver og einn eftir þverúð síns vonda hjarta og hlýðið mér ekki. 16.13 Fyrir því vil ég varpa yður burt úr þessu landi til þess lands, sem þér hafið ekki þekkt, hvorki þér né feður yðar, og þar skuluð þér þjóna öðrum guðum dag og nótt, þar eð ég sýni yður enga miskunn.' 16.14 Sjá, fyrir því munu þeir dagar koma _ segir Drottinn _ að ekki mun framar sagt verða: 'Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er leiddi Ísraelsmenn út af Egyptalandi,' 16.15 heldur: 'Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er leiddi Ísraelsmenn út úr landinu norður frá og úr öllum þeim löndum, þangað sem hann hafði rekið þá.' Og ég mun flytja þá aftur til lands þeirra, sem ég gaf feðrum þeirra. 16.16 Sjá, ég mun senda út marga fiskimenn _ segir Drottinn _ og þeir munu fiska þá, og eftir það mun ég senda marga veiðimenn, og þeir munu veiða þá á hverju fjalli, á hverri hæð og í bergskorunum. 16.17 Því að augu mín horfa á alla þeirra vegu, þeir eru ekki huldir fyrir mér og misgjörð þeirra er eigi falin fyrir augum mér. 16.18 En fyrst vil ég gjalda þeim tvöfalt misgjörð þeirra og synd, af því að þeir hafa vanhelgað land mitt með hræi viðurstyggða sinna og fyllt óðal mitt andstyggðum sínum. 16.19 Drottinn, styrkur minn, vígi mitt og hæli mitt á neyðardegi, til þín munu þjóðir koma frá endimörkum jarðar og segja: Lygar einar hafa feður vorir hlotið að eign, fánýta guði, og enginn þeirra er að neinu gagni. 16.20 Getur maðurinn gjört sér guði? Slíkt eru engir guðir! 16.21 Fyrir því vil ég í þetta sinn kenna þeim. Ég vil láta þá kannast við kraft minn og styrkleika, og þeir skulu viðurkenna, að nafn mitt er Drottinn.
17.1 Synd Júda er rituð með járnstíl. Með demantsoddi er hún rist á spjöld hjartna þeirra og á altarishorn þeirra 17.2 þeim til áminningar. Ölturu þeirra og fórnarsúlur standa hjá grænu trjánum, á háu hæðunum, 17.3 í fjöllunum á hálendinu. Eigur þínar, alla fjársjóðu þína ofursel ég að herfangi vegna syndar, sem drýgð hefir verið í öllum héruðum þínum. 17.4 Þá munt þú verða að sleppa hendinni af óðali þínu, því er ég gaf þér, og ég mun láta þig þjóna óvinum þínum í landi, sem þú þekkir ekki, því að reiði mín er eldur brennandi, sem loga mun eilíflega. 17.5 Svo segir Drottinn: Bölvaður er sá maður, sem reiðir sig á menn og gjörir hold að styrkleik sínum, en hjarta hans víkur frá Drottni. 17.6 Hann er eins og einirunnur á saltsléttunni og hann lifir ekki það, að neitt gott komi. Hann býr á skrælnuðum stöðum í eyðimörkinni, á óbyggilegu saltlendi. 17.7 Blessaður er sá maður, sem reiðir sig á Drottin og lætur Drottin vera athvarf sitt. 17.8 Hann er sem tré, sem gróðursett er við vatn og teygir rætur sínar út að læknum, _ sem hræðist ekki, þótt hitinn komi, og er með sígrænu laufi, sem jafnvel í þurrka-ári er áhyggjulaust og lætur ekki af að bera ávöxt. 17.9 Svikult er hjartað fremur öllu öðru, og spillt er það. Hver þekkir það? 17.10 Ég, Drottinn, er sá, sem rannsaka hjartað, prófa nýrun, og það til þess að gjalda sérhverjum eftir breytni hans, eftir ávexti verka hans. 17.11 Sá, sem aflar auðs og eigi með réttu, er eins og akurhæna, sem liggur á eggjum, er hún eigi hefir orpið. Á miðri ævinni verður hann að yfirgefa auðinn og við ævilokin stendur hann sem heimskingi. 17.12 Hásæti dýrðarinnar, hátt upp hafið frá upphafi, er staður helgidóms vors. 17.13 Þú von Ísraels _ Drottinn! Allir þeir, sem yfirgefa þig, skulu til skammar verða. Já, þeir sem vikið hafa frá mér, verða skrifaðir í duftið, því að þeir hafa yfirgefið lind hins lifandi vatns, Drottin. 17.14 Lækna mig, Drottinn, að ég megi heill verða; hjálpa mér, svo að mér verði hjálpað, því að þú ert minn lofstír. 17.15 Sjá, þeir segja við mig: 'Hvar er orð Drottins? Rætist það þá!' 17.16 Ég hefi ekki skotið mér undan því að vera hirðir eftir þinni bendingu, og óheilladagsins hefi ég ekki óskað _ það veist þú! Það, sem fram gengið hefir af vörum mínum, liggur bert fyrir augliti þínu. 17.17 Vertu mér ekki skelfing, þú athvarf mitt á ógæfunnar degi! 17.18 Lát ofsóknarmenn mína verða til skammar, en lát mig ekki verða til skammar. Lát þá skelfast, en lát mig ekki skelfast. Lát ógæfudag koma yfir þá og sundurmola þá tvöfaldri sundurmolan! 17.19 Svo mælti Drottinn við mig: Far og nem staðar í þjóðhliðinu, sem Júdakonungar ganga inn og út um, og í öllum hliðum Jerúsalem, 17.20 og seg við þá: Heyrið orð Drottins, þér Júdakonungar og allir Júdamenn og allir Jerúsalembúar, þér sem gangið inn um hlið þessi! 17.21 Svo segir Drottinn: Gætið yðar _ líf yðar liggur við _ og berið eigi byrðar á hvíldardegi, svo að þér komið með þær inn um hlið Jerúsalem. 17.22 Berið og engar byrðar út úr húsum yðar á hvíldardegi og vinnið ekkert verk, svo að þér haldið hvíldardaginn heilagan, eins og ég hefi boðið feðrum yðar. 17.23 En þeir hlýddu ekki og lögðu ekki við eyrun, heldur voru harðsvíraðir, svo að þeir hlýddu ekki, né þýddust aga. 17.24 En ef þér nú hlýðið mér _ segir Drottinn _ svo að þér komið ekki með neinar byrðar inn í hlið þessarar borgar á hvíldardegi, heldur haldið hvíldardaginn heilagan, svo að þér vinnið ekkert verk á honum, 17.25 þá munu fara inn um hlið þessarar borgar konungar, sem sitja í hásæti Davíðs, akandi í vögnum og ríðandi hestum, þeir og höfðingjar þeirra, Júdamenn og Jerúsalembúar, og borg þessi mun eilíflega byggð verða. 17.26 Og menn munu koma úr Júdaborgum og úr umhverfi Jerúsalem og úr Benjamínslandi og af láglendinu og úr fjöllunum og úr Suðurlandinu, þeir er færa brennifórn og sláturfórn og matfórn og reykelsi og þeir er færa þakkarfórn í musteri Drottins. 17.27 En ef þér hlýðið mér eigi, að halda helgan hvíldardaginn og bera enga byrði og ganga eigi inn um hlið Jerúsalem á hvíldardegi, þá mun ég leggja eld í hlið hennar, sem eyða mun höllum Jerúsalem og eigi slökktur verða.
18.1 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni: 18.2 Statt upp og gakk ofan í hús leirkerasmiðsins. Þar vil ég láta þig heyra orð mín! 18.3 Og ég gekk ofan í hús leirkerasmiðsins, og var hann að verki sínu við hjólið. 18.4 Mistækist kerið, sem hann var að búa til, þá bjó hann aftur til úr því annað ker, eins og leirkerasmiðinum leist að gjöra. 18.5 Þá kom orð Drottins til mín: 18.6 Get ég ekki farið með yður eins og þessi leirkerasmiður, þú Ísraels hús? _ segir Drottinn. Sjá, eins og leirinn í hendi leirkerasmiðsins, svo eruð þér í minni hendi, Ísraels hús. 18.7 Stundum hóta ég þjóð og konungsríki að uppræta það, umturna því og eyða því, 18.8 en snúi þjóðin, er ég hefi hótað þessu, sér frá vonsku sinni, þá iðrar mig hins illa, er ég hugði að gjöra henni. 18.9 En stundum heiti ég þjóð og konungsríki að byggja það og gróðursetja það, 18.10 en ef það gjörir það, sem illt er í mínum augum, svo að það hlýðir ekki minni raustu, þá iðrar mig þess góða, er ég hafði heitið að veita því. 18.11 Seg þú nú við Júdamenn og Jerúsalembúa á þessa leið: Svo segir Drottinn: Sjá, ég bý yður ógæfu og brugga ráð gegn yður. Snúið yður hver og einn frá sinni vondu breytni og temjið yður góða breytni og góð verk! 18.12 En þeir munu segja: 'Það er til einskis! Vér förum eftir vorum hugsunum og breytum hver og einn eftir þverúð síns vonda hjarta.' 18.13 Svo segir Drottinn: Spyrjið meðal þjóðanna: Hefir nokkur heyrt slíkt? Mjög hryllilega hluti hefir mærin Ísrael í frammi haft. 18.14 Hvort hverfur snjór Líbanons af gnæfandi klettinum? Eða þrýtur uppvellandi vatnið, hið svala og niðandi? 18.15 Þjóð mín hefir gleymt mér. Fánýtum goðunum færa þeir reykelsisfórnir, og þeir hafa leitt þá í hrösun á vegum þeirra, gömlu götunum, svo að þeir ganga stigu, ólagðan veg. 18.16 Þeir gjöra land sitt að skelfingu, að eilífu háði, svo að hver sá, er þar fer um, skelfist og hristir höfuðið. 18.17 Eins og fyrir austanvindi mun ég tvístra þeim fyrir óvinunum, ég mun sýna þeim bakið, en ekki andlitið á þeirra glötunardegi. 18.18 Þeir sögðu: 'Komið, bruggum ráð gegn Jeremía, því að eigi mun prestana skorta kenning, spekingana ráð, né spámennina opinberun. Komið, vér skulum drepa hann með tungunni og engan gaum gefa orðum hans.' 18.19 Gef mér gaum, Drottinn, og heyr tal andstæðinga minna. 18.20 Á að launa gott með illu, þar sem þeir hafa grafið mér gröf? Minnstu þess, hversu ég hefi staðið frammi fyrir þér til þess að tala máli þeirra, til þess að snúa þinni heiftarreiði frá þeim. 18.21 Ofursel því sonu þeirra hungrinu og fá þá sverðinu á vald, svo að konur þeirra verði barnlausar og ekkjur, og menn þeirra farist af drepsótt og æskumenn þeirra falli fyrir sverði í bardaga. 18.22 Lát neyðarkvein heyrast úr húsum þeirra, þegar þú lætur morðflokka skyndilega yfir þá koma, því að þeir hafa grafið gröf til að veiða mig í, og lagt snörur fyrir fætur mína. 18.23 En þú, Drottinn, þekkir öll fjörráð þeirra gegn mér. Fyrirgef eigi misgjörð þeirra og afmá ekki synd þeirra fyrir augliti þínu. Lát þá steypast fyrir þér, framkvæm það á þeim, þegar reiði þín brýst út.
19.1 Svo sagði Drottinn: Far og kaup krús eftir leirkerasmið, tak því næst með þér nokkra af helstu mönnum þjóðarinnar og nokkra af helstu prestunum 19.2 og gakk út í Hinnomssonar-dal, sem er fyrir utan Leirbrotahlið, og kunngjör þar þau orð, sem ég mun tala til þín, 19.3 og seg: Heyrið orð Drottins, þér Júdakonungar og Jerúsalembúar! Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Sjá, ég mun leiða ógæfu yfir þennan stað, svo að óma mun fyrir báðum eyrum allra þeirra, er það heyra. 19.4 Af því að þeir yfirgáfu mig og óvirtu þennan stað og færðu á honum reykelsisfórnir öðrum guðum, sem þeir ekki þekktu, hvorki þeir né feður þeirra né Júdakonungar, og fylltu þennan stað blóði saklausra manna 19.5 og byggðu Baals-fórnarhæðir til þess að brenna sonu sína í eldi sem brennifórn Baal til handa, sem ég hefi hvorki skipað né mælt svo fyrir og mér hefir aldrei til hugar komið. 19.6 Sjá, fyrir því munu þeir dagar koma _ segir Drottinn _ að þessi staður mun ekki framar nefndur verða 'Tófet' og 'Hinnomssonar-dalur', heldur 'Drápsdalur'. 19.7 Þá mun ég ónýta ráð Júda og Jerúsalem á þessum stað og láta þá falla fyrir sverði, er þeir flýja undan óvinum sínum, og fyrir hendi þeirra, er sitja um líf þeirra, en lík þeirra mun ég gefa fuglum himinsins og dýrum jarðarinnar að æti, 19.8 og ég mun gjöra þessa borg að skelfingu og háði: Hver sá, er hér fer um, mun skelfast og hæðast að öllum áföllunum, sem hún hefir orðið fyrir. 19.9 Og ég mun láta þá eta hold sona sinna og hold dætra sinna, og þeir munu eta hver annars hold í neyð þeirri og þrenging, er óvinir þeirra og þeir, er sitja um líf þeirra, munu koma þeim í. 19.10 Og þú skalt brjóta krúsina fyrir augum þeirra manna, sem með þér hafa farið, 19.11 og segja við þá: Svo segir Drottinn allsherjar: Svo mun ég brjóta þessa þjóð og þessa borg, eins og menn brjóta leirker, sem ekki verður gjört heilt aftur, og í Tófet mun verða jarðað, með því að ekkert pláss er til að jarða í. 19.12 Þannig mun ég fara með þennan stað _ segir Drottinn _ og þá, er hér búa, svo að ég gjöri þessa borg að Tófet. 19.13 Þá skulu hús Jerúsalem og hús Júdakonunga verða óhrein, eins og Tófet-staðurinn, öll þau hús, þar sem menn hafa fært öllum himinsins her reykelsisfórnir á þökunum og öðrum guðum dreypifórnir. 19.14 En er Jeremía kom frá Tófet, þangað sem Drottinn hafði sent hann til þess að spá, nam hann staðar í forgarði musteris Drottins og sagði við allan lýðinn: 19.15 Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Sjá, ég leiði yfir þessa borg og allar borgir, er henni tilheyra, alla þá ógæfu, er ég hefi hótað henni, af því að þeir hafa verið harðsvíraðir og ekki hlýtt orðum mínum.
20.1 En er Pashúr prestur Immersson, yfirumsjónarmaður í musteri Drottins, heyrði Jeremía boða þessi orð, 20.2 þá lét Pashúr húðstrýkja Jeremía spámann og setti hann í stokkinn, sem var í efra Benjamínshliði, hjá musteri Drottins. 20.3 En daginn eftir losaði Pashúr Jeremía úr stokknum. Þá sagði Jeremía við hann: 'Drottinn kallar þig ekki ,Pashúr`, heldur ,Skelfing allt um kring.` 20.4 Því að svo segir Drottinn: Sjá, ég gjöri þig að skelfingu fyrir sjálfan þig og fyrir alla vini þína, og þeir skulu falla fyrir sverði óvina sinna og þú horfa upp á það, og allan Júdalýð sel ég Babelkonungi á vald, og hann mun herleiða þá til Babýlon og drepa þá með sverði. 20.5 Og ég framsel allan auð þessarar borgar og allar eigur hennar og öll dýrindi hennar, og alla fjársjóðu Júdakonunga sel ég óvinum þeirra á vald. Þeir skulu ræna þeim, taka þá og flytja þá til Babýlon. 20.6 En þú, Pashúr, og allir þeir, sem búa í húsi þínu, skuluð herleiddir verða, og þú skalt komast til Babýlon og þar skalt þú deyja og þar skalt þú greftraður verða _ þú og allir vinir þínir, þeir er þú spáðir lygum.' 20.7 Þú hefir tælt mig, Drottinn, og ég lét tælast! Þú tókst mig tökum og barst hærra hlut. Ég er orðinn að stöðugu athlægi, allir gjöra gys að mér. 20.8 Já, í hvert sinn er ég tala, verð ég að kvarta undan ofbeldi og kúgun, því að orð Drottins hefir orðið mér til stöðugrar háðungar og spotts. 20.9 Ef ég hugsaði: 'Ég skal ekki minnast hans og eigi framar tala í hans nafni,' þá var sem eldur brynni í hjarta mínu, er byrgður væri inni í beinum mínum. Ég reyndi að þola það, en ég gat það ekki. 20.10 Já, ég hefi heyrt illyrði margra _ skelfing allt um kring: 'Kærið hann!' og 'Vér skulum kæra hann!' Jafnvel allir þeir, sem ég hefi verið í vináttu við, vaka yfir því, að ég hrasi: 'Ef til vill lætur hann ginnast, svo að vér fáum yfirstigið hann og hefnt vor á honum.' 20.11 En Drottinn er með mér eins og voldug hetja. Fyrir því munu ofsóknarmenn mínir steypast og engu áorka. Þeir skulu verða herfilega til skammar, af því að þeir hafa ekki farið viturlega að ráði sínu _ til eilífrar, ógleymanlegrar smánar. 20.12 Drottinn allsherjar, þú sem prófar hinn réttláta, þú sem sér nýrun og hjartað, lát mig sjá hefnd þína á þeim, því að þér fel ég málefni mitt. 20.13 Lofsyngið Drottni! Vegsamið Drottin, því að hann frelsar líf hins fátæka undan valdi illgjörðamanna. 20.14 Bölvaður sé dagurinn, sem ég fæddist. Dagurinn, sem móðir mín ól mig, sé ekki blessaður! 20.15 Bölvaður sé maðurinn, sem flutti föður mínum gleðitíðindin: 'Þér er fæddur sonur!' og gladdi hann stórlega með því. 20.16 Fyrir þeim manni fari eins og fyrir borgum, sem Drottinn hefir umturnað vægðarlaust, og hann heyri óp á morgnana og hergný um hádegið, 20.17 af því að hann lét mig ekki deyja í móðurlífi, svo að móðir mín hefði orðið gröf mín og móðurlíf hennar hefði eilíflega verið þungað. 20.18 Hví kom ég af móðurlífi til þess að þola strit og mæðu og til þess að eyða ævinni í skömm?
21.1 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni, þegar Sedekía konungur sendi þá Pashúr Malkíason og Sefanía prest Maasejason til hans með þessa orðsendingu: 21.2 'Nebúkadresar Babelkonungur herjar á oss. Gakk til frétta við Drottin fyrir oss, hvort Drottinn muni við oss gjöra samkvæmt öllum sínum dásemdarverkum, svo að hann fari burt frá oss aftur.' 21.3 Þá sagði Jeremía við þá: 'Segið svo Sedekía: 21.4 Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Sjá, ég sný við hervopnunum í höndum yðar, sem þér berjist með við Babelkonung og við Kaldea, sem að yður kreppa fyrir utan borgarmúrinn. Ég safna þeim saman inni í þessari borg, 21.5 og ég mun sjálfur berjast við yður með útréttri hendi og sterkum armlegg og með reiði, heift og mikilli gremi. 21.6 Ég mun ljósta íbúa þessarar borgar, bæði menn og skepnur, þeir skulu deyja af mikilli drepsótt. 21.7 En eftir það _ segir Drottinn _ mun ég selja Sedekía Júdakonung og þjóna hans og lýðinn, þá er eftir verða í þessari borg eftir drepsóttina, sverðið og hungrið, í hendur Nebúkadresars Babelkonungs og í hendur óvina þeirra og í hendur þeirra, er sækjast eftir lífi þeirra, og hann mun drepa þá með sverðseggjum hlífðarlaust, vægðarlaust og miskunnarlaust.' 21.8 En við lýð þennan skalt þú segja: Svo segir Drottinn: Sjá, ég legg fyrir yður veg lífsins og veg dauðans. 21.9 Þeir sem verða kyrrir í þessari borg, munu deyja fyrir sverði, af hungri og af drepsótt, en þeir sem fara út og ganga á vald Kaldeum, sem að yður kreppa, þeir munu lífi halda og hljóta líf sitt að herfangi. 21.10 Því að ég hefi snúið andliti mínu gegn þessari borg, til óheilla og ekki til heilla _ segir Drottinn. Hún skal ofurseld verða Babelkonungi, og hann skal brenna hana í eldi. 21.11 Um hús konungsins í Júda. Heyrið orð Drottins! Davíðs hús, 21.12 svo segir Drottinn: Haldið rétt að morgni dags og frelsið hinn rænda af hendi kúgarans, til þess að heiftarreiði mín brjótist ekki út eins og eldur og brenni, svo að enginn fái slökkt sakir illverka yðar! 21.13 Sjá, ég skal finna þig, þú sem býr í dalnum, kletturinn á sléttunni _ segir Drottinn _ yður sem segið: 'Hver skyldi koma ofan gegn oss og hver skyldi brjótast inn í bústaði vora?' 21.14 Og ég skal vitja yðar samkvæmt ávöxtum verka yðar _ segir Drottinn _ og leggja eld í skóg yðar, og hann skal eyða öllu, sem umhverfis hana er.
22.1 Svo mælti Drottinn: Gakk þú ofan að höll Júdakonungs og flyt þar þessi orð 22.2 og seg: Heyr orð Drottins, konungur í Júda, þú sem situr í hásæti Davíðs, þú og þjónar þínir og lýður þinn, þeir sem ganga inn um þessi hlið! 22.3 Svo segir Drottinn: Iðkið rétt og réttlæti og frelsið hinn rænda af hendi kúgarans. Undirokið ekki útlendinga, munaðarleysingja og ekkjur, og hafið ekki órétt í frammi, og úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað. 22.4 Því ef þér gjörið þetta, munu inn um hlið þessa húss fara konungar, er sitja í hásæti Davíðs sem eftirmenn hans, akandi í vögnum og ríðandi á hestum _ konungurinn sjálfur, þjónar hans og lýður hans. 22.5 En ef þér hlýðið ekki þessum orðum, þá sver ég við sjálfan mig _ segir Drottinn _ að höll þessi skal verða að eyðirúst. 22.6 Svo segir Drottinn um höll Júdakonungs: Þú ert mér sem Gíleað, sem Líbanonstindur. Vissulega vil ég gjöra þig að eyðimörk, eins og óbyggðar borgir, 22.7 og vígja spillvirkja í móti þér, hvern með sín vopn, til þess að þeir höggvi þín ágætu sedrustré og varpi þeim á eldinn. 22.8 Margar þjóðir skulu ganga fram hjá þessari borg og menn segja hver við annan: 'Hvers vegna hefir Drottinn farið svo með þessa miklu borg?' 22.9 Og þá munu menn svara: 'Af því að þeir yfirgáfu sáttmála Drottins, Guðs síns, og féllu fram fyrir öðrum guðum og þjónuðu þeim.' 22.10 Grátið ekki þann, sem dauður er, og harmið hann ekki. Grátið miklu heldur þann, sem burt er farinn, því að hann mun aldrei koma heim aftur og sjá ættland sitt. 22.11 Því að svo segir Drottinn um Sallúm Jósíason, konung í Júda, sem ríki tók eftir Jósía föður sinn og burt er farinn úr þessum stað: Hann mun aldrei framar koma hingað aftur, 22.12 heldur mun hann deyja á þeim stað, þangað sem þeir hafa flutt hann hertekinn, en þetta land mun hann aldrei framar líta. 22.13 Vei þeim, sem byggir hús sitt með ranglæti og veggsvalir sínar með rangindum, sem lætur náunga sinn vinna fyrir ekki neitt og greiðir honum ekki kaup hans, 22.14 sem segir: 'Ég vil reisa mér rúmgott hús og loftgóðar svalir!' og heggur sér glugga, þiljar með sedrusviði og málar fagurrautt! 22.15 Ert þú konungur, þótt þú keppir við aðra með húsagjörð úr sedrusviði? Át ekki faðir þinn og drakk? En hann iðkaði rétt og réttlæti, þá vegnaði honum vel. 22.16 Hann rak réttar hinna aumu og fátæku, þá gekk allt vel. Er slíkt ekki að þekkja mig? _ segir Drottinn. 22.17 En augu þín og hjarta stefna eingöngu að eigin ávinning og að því að úthella saklausu blóði og beita kúgun og undirokun. 22.18 Fyrir því segir Drottinn svo um Jójakím Jósíason, Júdakonung: Menn munu ekki harma hann og segja: 'Æ, bróðir minn! Æ, systir!' Menn munu ekki harma hann og segja: 'Æ, herra! Æ, vegsemd hans!' 22.19 Hann skal verða jarðaður eins og asni er jarðaður: dreginn burt og varpað langt út fyrir hlið Jerúsalem. 22.20 Stíg þú upp á Líbanon og hljóða! Lát raust þína gjalla í Basan og hljóða þú frá Abarím, því að allir ástmenn þínir eru sundurmolaðir. 22.21 Ég talaði við þig í velgengni þinni, en þú sagðir: 'Ég vil ekki heyra!' Þannig var breytni þín frá æsku, að þú hlýddir ekki minni raustu. 22.22 Nú mun stormurinn hirða alla hirða þína, og ástmenn þínir munu herleiddir verða. Já, þá munt þú verða til skammar og smánar vegna allrar vonsku þinnar. 22.23 Þú sem býr á Líbanon og hreiðrar þig í sedrustrjám, hversu munt þú stynja, þegar hríðirnar koma yfir þig, kvalir eins og yfir jóðsjúka konu. 22.24 Svo sannarlega sem ég lifi _ segir Drottinn _ þótt Konja Jójakímsson, konungur í Júda, væri innsiglishringur á hægri hendi minni, þá mundi ég rífa hann þaðan. 22.25 Og ég sel þig í hendur þeirra, sem sitja um líf þitt, og í hendur þeirra, sem þú hræðist, og í hendur Nebúkadresars Babelkonungs og í hendur Kaldea. 22.26 Og ég varpa þér og móður þinni, sem ól þig, burt til annars lands, þar sem þið ekki eruð fædd, og þar skuluð þið deyja, 22.27 en í landið, sem þeir þrá að komast til aftur, þangað skulu þeir aldrei aftur komast. 22.28 Er þá þessi Konja fyrirlitlegt ílát, sem ekki er til annars en að brjóta sundur, eða ker, sem engum manni geðjast að? Hví var honum og niðjum hans þá kastað burt og varpað til lands, sem þeir þekktu ekki? 22.29 Ó land, land, land, heyr orð Drottins! 22.30 Svo segir Drottinn: Skrásetjið þennan mann barnlausan, mann, sem ekki mun verða lángefinn um dagana, því að engum af niðjum hans mun auðnast að sitja í hásæti Davíðs og ríkja framar yfir Júda.
23.1 Vei hirðunum, sem eyða og tvístra gæsluhjörð minni! segir Drottinn. 23.2 Fyrir því segir Drottinn, Ísraels Guð, svo um hirðana, sem gæta þjóðar minnar: Þér hafið tvístrað sauðum mínum og sundrað þeim og ekki litið eftir þeim. Sjá, ég skal vitja vonskuverka yðar á yður _ segir Drottinn. 23.3 En ég vil sjálfur safna leifum hjarðar minnar saman úr öllum löndum, þangað sem ég hefi rekið þá, og leiða þá aftur í haglendi þeirra, og þeir skulu frjóvgast og þeim fjölga. 23.4 Og ég vil setja hirða yfir þá, og þeir skulu gæta þeirra, og þeir skulu eigi framar hræðast né skelfast og einskis þeirra skal saknað verða _ segir Drottinn. 23.5 Sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _ að ég mun uppvekja fyrir Davíð réttan kvist, er ríkja skal sem konungur og breyta viturlega og iðka rétt og réttlæti í landinu. 23.6 Á hans dögum mun Júda hólpinn verða og Ísrael búa óhultur, og þetta mun verða nafn hans, það er menn nefna hann með: 'Drottinn er vort réttlæti!' 23.7 Sjá, fyrir því munu þeir dagar koma _ segir Drottinn _ að menn munu eigi framar segja: 'Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er leiddi Ísraelsmenn út af Egyptalandi!' 23.8 heldur: 'Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er leiddi og flutti heim niðja Ísraels húss úr landinu norður frá og úr öllum þeim löndum, þangað sem ég hafði rekið þá, svo að þeir mættu búa í landi sínu!' 23.9 Um spámennina: Hjartað í brjósti mér er sundurmarið, öll bein mín skjálfa. Ég er eins og drukkinn maður, eins og maður sem vínið hefir bugað, vegna Drottins og vegna hans heilögu orða. 23.10 Landið er fullt af hórkörlum, já, vegna bölvunarinnar syrgir landið, og beitilöndin í öræfunum eru skrælnuð. Þeir hlaupa á eftir vonsku og styrkur þeirra er ósannsögli. 23.11 Bæði spámenn og prestar eru guðlausir, jafnvel í húsi mínu hefi ég rekið mig á vonsku þeirra _ segir Drottinn. 23.12 Fyrir því mun vegur þeirra verða þeim eins og sleipir staðir í myrkri. Þeim skal verða hrundið, svo að þeir detti á honum, því að ég leiði óhamingju yfir þá árið sem þeim verður refsað _ segir Drottinn. 23.13 Hjá spámönnum Samaríu sá ég hneykslanlegt athæfi: Þeir spáðu í nafni Baals og leiddu lýð minn Ísrael afvega. 23.14 En hjá spámönnum Jerúsalem sá ég hryllilegt athæfi: Þeir drýgja hór og fara með lygar og veita illgjörðarmönnum liðveislu, svo að enginn þeirra snýr sér frá illsku sinni. Þeir eru allir orðnir mér eins og Sódóma og íbúar hennar eins og Gómorra. 23.15 Fyrir því segir Drottinn allsherjar svo um spámennina: Sjá, ég vil gefa þeim malurt að eta og eiturvatn að drekka, því að frá spámönnum Jerúsalem hefir guðleysi breiðst út um allt landið. 23.16 Svo segir Drottinn allsherjar: Hlýðið ekki á orð spámannanna, sem spá yður; þeir draga yður á tálar. Þeir boða vitranir, sem þeir sjálfir hafa spunnið upp, en ekki fengið frá Drottni. 23.17 Sífelldlega segja þeir við þá, er hafa hafnað orði Drottins: 'Yður mun heill hlotnast!' Og við alla sem fara eftir þverúð hjarta síns, segja þeir: 'Engin ógæfa mun yfir yður koma!' 23.18 Já, hver stendur í ráði Drottins? Hver sér og heyrir orð hans? Hver gefur gaum að orðum mínum og kunngjörir þau? 23.19 Sjá, stormur Drottins brýst fram _ reiði og hvirfilbylur _ hann steypist yfir höfuð hinna óguðlegu. 23.20 Reiði Drottins léttir ekki fyrr en hann hefir framkvæmt og leitt til lykta fyrirætlanir hjarta síns. Síðar meir munuð þér skilja það greinilega. 23.21 Ég hefi ekki sent spámennina, og þó hlupu þeir. Ég hefi eigi talað til þeirra, og þó spáðu þeir. 23.22 Hefðu þeir staðið í mínu ráði, þá mundu þeir kunngjöra þjóð minni mín orð og snúa þeim frá þeirra vonda vegi og frá þeirra vondu verkum. 23.23 Er ég þá aðeins Guð í nánd _ segir Drottinn _ og ekki Guð í fjarlægð? 23.24 Getur nokkur falið sig í fylgsnum, svo að ég sjái hann ekki? _ segir Drottinn. Uppfylli ég ekki himin og jörð? _ segir Drottinn. 23.25 Ég heyri hvað spámennirnir segja, þeir sem boða lygar í mínu nafni. Þeir segja: 'Mig dreymdi, mig dreymdi!' 23.26 Hversu lengi á þetta svo að ganga? Ætla spámennirnir, þeir er boða lygar og flytja tál, er þeir sjálfir hafa upp spunnið _ 23.27 hvort hyggjast þeir að koma þjóð minni til að gleyma nafni mínu, með draumum sínum, er þeir segja hver öðrum, eins og feður þeirra gleymdu nafni mínu vegna Baals? 23.28 Sá spámaður, sem dreymir draum, segi drauminn, og sá, sem hefir mitt orð, flytji hann mitt orð í sannleika. Hvað er sameiginlegt hálmstrái og korni? _ segir Drottinn. 23.29 Er ekki orð mitt eins og eldur _ segir Drottinn _ og eins og hamar, sem sundurmolar klettana? 23.30 Sjá, þess vegna skal ég finna spámennina _ segir Drottinn _ sem stela orðum mínum hver frá öðrum. 23.31 Ég skal finna spámennina _ segir Drottinn _ sem taka til sinnar eigin tungu til þess að umla guðmæli. 23.32 Ég skal finna spámennina, sem kunngjöra lygadrauma _ segir Drottinn _ og segja frá þeim og leiða þjóð mína afvega með lygum sínum og gorti, og þó hefi ég ekki sent þá og ekkert umboð gefið þeim, og þeir gjöra þessari þjóð alls ekkert gagn _ segir Drottinn. 23.33 Þegar þessi lýður spyr þig, eða einhver spámaðurinn eða einhver presturinn, og segir: 'Hver er byrði Drottins?' þá skalt þú segja við þá: Þér eruð byrðin, og ég mun varpa yður af mér _ segir Drottinn. 23.34 En sá spámaður og sá prestur og sá lýður, sem talar um 'byrði Drottins' _ slíks manns vil ég vitja og húss hans. 23.35 Svo skuluð þér segja hver við annan og einn við annan: 'Hverju hefir Drottinn svarað?' eða 'Hvað hefir Drottinn sagt?' 23.36 En 'byrði Drottins' skuluð þér ekki framar nefna, því að hverjum manni munu þau orð hans verða 'byrði', þar sem þér hafið rangfært orð hins lifanda Guðs, Drottins allsherjar, vors Guðs. 23.37 Svo skulu menn segja við spámanninn: 'Hverju hefir Drottinn svarað þér?' eða 'Hvað hefir Drottinn sagt?' 23.38 En ef þér talið um 'byrði' Drottins _ þá segir Drottinn svo: Af því að þér viðhafið þetta orð 'byrði Drottins', þótt ég gjörði yður þá orðsending: Þér skuluð ekki tala um 'byrði Drottins' _ 23.39 sjá, fyrir því vil ég hefja yður upp og varpa yður og borginni, sem ég gaf yður og feðrum yðar, burt frá mínu augliti. 23.40 Og ég legg á yður eilífa smán og eilífa skömm, sem aldrei mun gleymast.
24.1 Drottinn lét mig sjá: Tvær karfir fullar af fíkjum voru settar fyrir framan musteri Drottins, eftir að Nebúkadresar Babelkonungur hafði herleitt Jekonja Jójakímsson, Júdakonung, og höfðingjana í Júda og trésmiðina og járnsmiðina burt frá Jerúsalem og flutt þá til Babýlon. 24.2 Í annarri körfinni voru mjög góðar fíkjur, líkar árfíkjum, en í hinni körfinni voru mjög vondar fíkjur, sem voru svo vondar, að þær voru óætar. 24.3 Þá sagði Drottinn við mig: Hvað sér þú, Jeremía? Og ég svaraði: Fíkjur! Góðu fíkjurnar eru mjög góðar, en þær vondu eru mjög vondar, já svo vondar, að þær eru óætar. 24.4 Þá kom orð Drottins til mín: 24.5 Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Eins og á þessar góðu fíkjur, svo lít ég á hina herleiddu úr Júda, sem ég hefi sent héðan til Kaldealands, þeim til heilla. 24.6 Ég beini augum mínum á þá þeim til heilla og flyt þá aftur inn í þetta land, svo að ég megi byggja þá upp og ekki rífa þá niður aftur og gróðursetja þá og ekki uppræta þá aftur. 24.7 Og ég gef þeim hjarta til að þekkja mig, að ég er Drottinn, og þeir skulu vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð, þegar þeir snúa sér til mín af öllu hjarta. 24.8 Og eins og vondu fíkjurnar, sem eru svo vondar, að þær eru óætar _ já, svo segir Drottinn _, þannig vil ég fara með Sedekía konung í Júda og höfðingja hans og leifarnar af Jerúsalem, þá sem eftir eru í þessu landi og þá sem setst hafa að í Egyptalandi. 24.9 Ég mun gjöra þá að grýlu, að andstyggð öllum konungsríkjum jarðar, að háðung, orðskvið, spotti og formæling á öllum þeim stöðum, þangað sem ég rek þá. 24.10 Og ég sendi sverð, hungur og drepsótt í móti þeim, þar til er þeir eru gjöreyddir úr landinu, sem ég gaf þeim og feðrum þeirra.
25.1 Orðið sem kom til Jeremía um alla Júdamenn á fjórða ríkisári Jójakíms Jósíasonar, konungs í Júda _ það var fyrsta ríkisár Nebúkadresars Babelkonungs _, 25.2 orðið, sem Jeremía spámaður talað til alls Júdalýðs og til allra Jerúsalembúa: 25.3 Frá þrettánda ríkisári Jósía Amónssonar, Júdakonungs, og fram á þennan dag, nú í tuttugu og þrjú ár, hefir orð Drottins komið til mín og ég hefi talað til yðar seint og snemma, en þér hafið ekki heyrt. 25.4 Og Drottinn hefir sent til yðar alla þjóna sína, spámennina, bæði seint og snemma, en þér hafið ekki heyrt, né heldur lagt við eyrun til þess að heyra. 25.5 Hann sagði: 'Snúið yður, hver og einn frá sínum vonda vegi og frá yðar vondu verkum, þá skuluð þér búa kyrrir í landinu, sem Drottinn gaf yður og feðrum yðar, frá eilífð til eilífðar. 25.6 En eltið ekki aðra guði til þess að þjóna þeim og falla fram fyrir þeim, og egnið mig ekki til reiði með handaverkum yðar, svo að ég láti yður ekkert böl að höndum bera.' 25.7 En þér hlýdduð ekki á mig _ segir Drottinn _ heldur egnduð mig til reiði með handaverkum yðar, yður sjálfum til ills. 25.8 Fyrir því segir Drottinn allsherjar svo: Af því að þér hlýdduð ekki orðum mínum, 25.9 þá vil ég láta sækja allar kynkvíslir norðursins _ segir Drottinn _ og Nebúkadresar Babelkonung, þjón minn, og láta þá brjótast inn yfir þetta land og inn á íbúa þess og inn á allar þessar þjóðir hér umhverfis, og ég vil helga þá banni og gjöra þá að skelfing og spotti og eilífri háðung, 25.10 og ég vil láta gjörsamlega hverfa meðal þeirra öll ánægju- og gleðihljóð, öll fagnaðarlæti brúðguma og brúðar, öll kvarnarhljóð og lampaljós. 25.11 Og allt þetta land skal verða að rúst, að auðn, og þessar þjóðir skulu þjóna Babelkonungi í sjötíu ár. 25.12 En þegar sjötíu ár eru liðin, mun ég refsa Babelkonungi og þessari þjóð _ segir Drottinn _ fyrir misgjörð þeirra, og gjöra land Kaldea að eilífri auðn. 25.13 Og ég mun láta fram koma á þessu landi öll þau hótunarorð, er ég hefi talað gegn því, allt það sem ritað er í þessari bók, það sem Jeremía hefir spáð um allar þjóðir. 25.14 Því að voldugar þjóðir og miklir konungar munu og gjöra þá að þrælum, og ég mun gjalda þeim eftir athæfi þeirra og eftir handaverkum þeirra. 25.15 Svo sagði Drottinn, Ísraels Guð, við mig: Tak við þessum bikar reiðivínsins af hendi mér og lát allar þjóðirnar drekka af honum, þær er ég sendi þig til, 25.16 svo að þær drekki og reiki og verði vitskertar af sverðinu, er ég sendi meðal þeirra. 25.17 Þá tók ég við bikarnum af hendi Drottins og lét allar þær þjóðir drekka, sem Drottinn hafði sent mig til: 25.18 Jerúsalem og borgirnar í Júda, konunga hennar og höfðingja, til að gjöra þá að rúst, að skelfing, að spotti og formæling, eins og nú er fram komið, 25.19 Faraó, Egyptalandskonung, og þjóna hans og höfðingja, alla þjóð hans og allan þjóðblending, 25.20 alla konunga í Ús-landi, alla konunga í Filistalandi, sem sé Askalon, Gasa, Ekron og leifarnar af Asdód, 25.21 Edóm og Móab og Ammóníta, 25.22 alla konunga í Týrus og alla konunga í Sídon og konungana á ströndunum, hinum megin hafsins, 25.23 Dedan og Tema og Bús og alla sem skera hár sitt við vangann, 25.24 alla konunga Arabíu og alla konunga þjóðblendinganna, sem búa í eyðimörkinni, 25.25 alla konungana í Simrí og alla konungana í Elam og alla konungana í Medíu, 25.26 alla konungana norður frá, hvort sem þeir búa nálægt hver öðrum eða langt hver frá öðrum, í stuttu máli öll konungsríki á jörðinni. En konungurinn í Sesak skal drekka á eftir þeim. 25.27 En þú skalt segja við þá: Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Drekkið, til þess að þér verðið drukknir, spúið og dettið og standið ekki upp aftur, af sverðinu, sem ég sendi meðal yðar. 25.28 En færist þeir undan að taka við bikarnum af hendi þinni til þess að drekka, þá seg við þá: Svo segir Drottinn allsherjar: Drekka skuluð þér! 25.29 Því sjá, hjá borginni, sem nefnd er eftir nafni mínu, læt ég ógæfuna fyrst ríða yfir, _ og þér skylduð sleppa óhegndir? Þér skuluð ekki sleppa óhegndir, því að sverði býð ég út gegn öllum íbúum jarðarinnar _ segir Drottinn allsherjar. 25.30 Þú skalt kunngjöra þeim öll þessi orð og segja við þá: Af hæðum kveða við reiðarþrumur Drottins. Hann lætur rödd sína gjalla frá sínum heilaga bústað. Hann þrumar hátt út yfir haglendi sitt, raust hans gellur, eins og hróp þeirra, sem vínber troða. 25.31 Dynurinn berst öllum þeim sem á jörðu búa, út á enda jarðar, því að Drottinn þreytir deilu við þjóðirnar, hann gengur í dóm við allt hold. Hina óguðlegu ofurselur hann sverðinu! _ segir Drottinn. 25.32 Svo segir Drottinn allsherjar: Sjá, ógæfa fer frá einni þjóð til annarrar, og ákafur stormur rís á útjaðri jarðar. 25.33 Þeir sem Drottinn hefir fellt, munu á þeim degi liggja dauðir frá einum enda jarðarinnar til annars. Þeir munu eigi verða harmaðir, eigi safnað saman og eigi jarðaðir, þeir skulu verða að áburði á akrinum. 25.34 Æpið, hirðar, og kveinið! Veltið yður í duftinu, þér leiðtogar hjarðarinnar! Því að yðar tími er kominn, að yður verði slátrað og yður tvístrað, og þér skuluð detta niður eins og verðmætt ker. 25.35 Þá er ekkert athvarf lengur fyrir hirðana og engin undankoma fyrir leiðtoga hjarðarinnar. 25.36 Heyr kvein hirðanna og óp leiðtoga hjarðarinnar, af því að Drottinn eyðir haglendi þeirra, 25.37 og hin friðsælu beitilönd eru gjöreydd orðin fyrir hinni brennandi reiði Drottins. 25.38 Hann hefir yfirgefið skógarrunn sinn, eins og ljónið, já, að auðn varð land þeirra fyrir hinu vígfreka sverði og fyrir hans brennandi reiði.
26.1 Í byrjun ríkisstjórnar Jójakíms Jósíasonar, konungs í Júda, kom þetta orð frá Drottni: 26.2 Svo segir Drottinn: Gakk í forgarð musteris Drottins, og tala til allra þeirra manna úr Júdaborgum, sem komnir eru til þess að falla fram í musteri Drottins, öll þau orð, sem ég hefi boðið þér að tala til þeirra. Þú skalt ekki draga neitt orð undan. 26.3 Ef til vill hlýða þeir og snúa sér, hver og einn frá sínum vonda vegi. Mun mig þá iðra þeirrar óhamingju, sem ég hygg að leiða yfir þá sakir illra verka þeirra. 26.4 Og þú skalt segja þeim: Svo segir Drottinn: Ef þér hlýðið mér ekki, svo að þér breytið eftir lögmáli mínu, sem ég hefi fyrir yður lagt, 26.5 svo að þér hlýðið orðum þjóna minna, spámannanna, er ég hefi sent til yðar æ að nýju óaflátanlega, _ en þér hafið ekki hlýtt þeim _, 26.6 þá vil ég fara með þetta hús eins og húsið í Síló, og gjöra þessa borg að formæling fyrir allar þjóðir jarðarinnar. 26.7 En er prestarnir og spámennirnir og allur lýðurinn heyrði Jeremía flytja þessi orð í musteri Drottins, 26.8 og Jeremía hafði lokið að tala allt það, sem Drottinn hafði boðið honum að tala til alls lýðsins, þá tóku prestarnir og spámennirnir og allur lýðurinn hann höndum og sögðu: 'Þú skalt vissulega deyja! 26.9 Hví hefir þú spáð í nafni Drottins og sagt: Þetta hús skal verða eins og húsið í Síló, og þessi borg skal í eyði lögð og mannlaus verða!' Og allur lýðurinn safnaðist gegn Jeremía í musteri Drottins. 26.10 En er höfðingjarnir í Júda fréttu þetta, fóru þeir úr konungshöllinni upp til musteris Drottins og settust úti fyrir Hinu nýja hliði musterisins. 26.11 Og prestarnir og spámennirnir töluðu til höfðingjanna og alls lýðsins og sögðu: 'Þessi maður er dauða sekur, því að hann hefir spáð gegn þessari borg, eins og þér hafið heyrt með eigin eyrum.' 26.12 Jeremía mælti til allra höfðingjanna og alls lýðsins á þessa leið: 'Drottinn hefir sent mig til þess að boða öll þessi orð, sem þér hafið heyrt, gegn þessu húsi og þessari borg. 26.13 Og bætið nú framferði yðar og athafnir og hlýðið raustu Drottins, Guðs yðar, svo að Drottin megi iðra þeirrar óhamingju, er hann hefir hótað yður. 26.14 En að því er til sjálfs mín kemur, þá er ég á yðar valdi. Gjörið við mig það, sem yður þykir gott og rétt. 26.15 En það skuluð þér vita, að ef þér deyðið mig, þá leiðið þér saklaust blóð yfir yður og yfir þessa borg og yfir íbúa hennar, því að Drottinn hefir sannlega sent mig til yðar til þess að flytja yður öll þessi orð.' 26.16 Þá sögðu höfðingjarnir og allur lýðurinn við prestana og spámennina: 'Þessi maður er ekki dauða sekur, því að hann hefir talað til vor í nafni Drottins, Guðs vors.' 26.17 Þá gengu nokkrir af öldungum landsins fram og mæltu til alls mannsafnaðarins á þessa leið: 26.18 'Míka frá Móreset kom fram sem spámaður á dögum Hiskía konungs í Júda og mælti til alls Júdalýðs á þessa leið: ,Svo segir Drottinn allsherjar: Síon mun plægð verða sem akur og Jerúsalem mun verða að rústum og musterisfjallið að skógarhæðum.` 26.19 Hvort deyddi Hiskía Júdakonungur og allur Júdalýður hann? Óttaðist hann ekki Drottin og blíðkaði Drottin, svo að Drottin iðraði þeirrar óhamingju, er hann hafði hótað þeim? En vér erum rétt að því komnir að baka oss mikla óhamingju!' 26.20 Annar maður var og, sem spáði í nafni Drottins, Úría Semajason frá Kirjat-Jearím. Hann spáði og gegn þessari borg og þessu landi, alveg á sama hátt og Jeremía. 26.21 En er Jójakím konungur og allir kappar hans og allir höfðingjarnir spurðu orð hans, leitaðist konungur við að láta drepa hann. En er Úría frétti það, varð hann hræddur, flýði burt og fór til Egyptalands. 26.22 En Jójakím konungur gjörði menn til Egyptalands, Elnatan Akbórsson og menn með honum. 26.23 Og þeir sóttu Úría til Egyptalands og fóru með hann til Jójakíms konungs, og hann lét drepa hann með sverði og kasta líkinu á grafir múgamanna. 26.24 En Ahíkam Safansson verndaði Jeremía, svo að hann var eigi framseldur í hendur lýðsins til lífláts.
27.1 Í upphafi ríkisstjórnar Sedekía Jósíasonar, konungs í Júda, kom þetta orð til Jeremía frá Drottni: 27.2 Svo sagði Drottinn við mig: Gjör þér bönd og ok og legg um háls þér 27.3 og gjör konunginum í Edóm og konunginum í Móab og konungi Ammóníta og konunginum í Týrus og konunginum í Sídon orðsending með sendimönnunum, sem komnir eru til Jerúsalem til Sedekía Júdakonungs, 27.4 og bjóð þeim að mæla svo til herra sinna: 'Svo sagði Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Svo skuluð þér segja við herra yðar: 27.5 Ég hefi gjört jörðina og mennina og skepnurnar, sem á jörðinni eru, með mínum mikla mætti og útrétta armlegg, og ég gef þetta þeim, er mér þóknast. 27.6 Og nú gef ég öll þessi lönd á vald Nebúkadnesars Babelkonungs, þjóns míns. Jafnvel dýr merkurinnar gef ég honum, til þess að þau þjóni honum. 27.7 Og allar þjóðir skulu þjóna honum og syni hans og sonarsyni hans, þar til er einnig tími hans lands kemur og voldugar þjóðir og miklir konungar gjöra hann að þræl sínum. 27.8 Og sú þjóð og það konungsríki, sem ekki vill þjóna honum, Nebúkadnesar Babelkonungi, og ekki beygja háls sinn undir ok Babelkonungs, þeirrar þjóðar mun ég vitja með sverði, hungri og drepsótt _ segir Drottinn _ uns ég hefi gjöreytt þeim fyrir hans hendi. 27.9 Hlýðið ekki á spámenn yðar né spásagnarmenn, né drauma yðar, né á galdramenn yðar né töframenn, þá er þeir mæla til yðar á þessa leið: ,Þér munuð ekki þjóna Babelkonungi.` 27.10 Því að þeir boða yður lygar til þess að flæma yður úr landi yðar, svo að ég reki yður burt og þér farist. 27.11 En þá þjóð, sem beygir háls sinn undir ok Babelkonungs og þjónar honum, hana vil ég láta vera kyrra í landi sínu _ segir Drottinn _ til þess að hún yrki það og byggi.' 27.12 Og við Sedekía Júdakonung talaði ég öldungis á sama hátt: 'Sveigið háls yðar undir ok Babelkonungs og þjónið honum og þjóð hans, þá munuð þér lífi halda. 27.13 Hví viljið þér, þú og þjóð þín, deyja fyrir sverði, af hungri og drepsótt, eins og Drottinn hefir hótað þeim þjóðum, er eigi vilja þjóna Babelkonungi? 27.14 Hlýðið eigi á orð spámannanna, er segja við yður: ,Þér munuð eigi þjóna Babelkonungi!` Því að þeir boða yður lygar. 27.15 Því að ég hefi ekki sent þá _ segir Drottinn _ heldur spá þeir ranglega í mínu nafni, til þess að ég reki yður burt og þér farist, ásamt spámönnunum, er yður hafa spáð.' 27.16 Við prestana og allan þennan lýð hefi ég og talað á þessa leið: 'Svo segir Drottinn: Hlýðið eigi á orð spámanna yðar, er spá yður og segja: ,Sjá, áhöldin úr musteri Drottins munu bráðlega verða flutt heim aftur frá Babýlon!` _ því að þeir boða yður lygar. 27.17 Hlýðið eigi á þá. Þjónið heldur Babelkonungi, þá munuð þér lífi halda! Hví á þessi borg að verða að rúst? 27.18 En séu þeir spámenn og sé orð Drottins hjá þeim, þá biðja þeir Drottin allsherjar, að áhöld þau, sem enn eru eftir í musteri Drottins og í höll Júdakonungs og í Jerúsalem, fari eigi líka til Babýlon. 27.19 Því að svo segir Drottinn allsherjar um súlurnar, um hafið og um undirstöðupallana og um hin önnur áhöld, sem eftir eru í þessari borg, 27.20 þau er Nebúkadnesar Babelkonungur ekki tók, þá er hann herleiddi Jekonja Jójakímsson, Júdakonung, frá Jerúsalem til Babýlon, ásamt öllum tignarmönnum Júda og Jerúsalem, 27.21 já, svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, um áhöldin, sem eftir eru í musteri Drottins og höll Júdakonungs og í Jerúsalem: 27.22 Til Babýlon skulu þau flutt verða og þar skulu þau vera, allt til þess dags, er ég vitja þeirra _ segir Drottinn _ og sæki þau og flyt þau aftur á þennan stað.
28.1 Þetta ár _ í upphafi ríkisstjórnar Sedekía konungs í Júda, fjórða árið, í fimmta mánuðinum _ sagði Hananja spámaður Assúrsson frá Gíbeon við mig í musteri Drottins í viðurvist prestanna og alls lýðsins: 28.2 'Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Ég brýt sundur ok Babelkonungs! 28.3 Áður en tvö ár eru liðin, flyt ég aftur á þennan stað öll áhöldin úr musteri Drottins, þau er Nebúkadnesar Babelkonungur tók á þessum stað og flutti til Babýlon. 28.4 Jekonja Jójakímsson, Júdakonung, og alla hina herleiddu úr Júda, þá er komnir eru til Babýlon, flyt ég og aftur á þennan stað _ segir Drottinn _ því að ég brýt sundur ok Babelkonungs!' 28.5 Þá talaði Jeremía spámaður til Hananja spámanns í viðurvist prestanna og alls lýðsins, sem stóð í musteri Drottins, 28.6 og Jeremía spámaður mælti: 'Verði svo! Drottinn gjöri það! Drottinn láti orð þín, er þú hefir spáð, rætast, svo að hann flytji aftur frá Babýlon á þennan stað áhöldin úr musteri Drottins og alla hina herleiddu! 28.7 En heyr þessi orð, sem ég kunngjöri þér og öllum lýðnum: 28.8 Þeir spámenn, sem komið hafa fram á undan mér og á undan þér frá alda öðli, þeir spáðu voldugum löndum og stórum konungsríkjum ófriði, óhamingju og drepsótt. 28.9 En sá spámaður, sem spáir heill, _ ef orð hans rætast, þá þekkist á því sá spámaður, er Drottinn hefir sannarlega sent.' 28.10 Þá tók Hananja spámaður okið af hálsi Jeremía spámanns og braut það sundur. 28.11 Síðan mælti Hananja í viðurvist alls lýðsins á þessa leið: 'Svo segir Drottinn: Eins skal ég sundurbrjóta ok Nebúkadnesars Babelkonungs áður tvö ár eru liðin af hálsi allra þjóða!' En Jeremía spámaður fór leiðar sinnar. 28.12 En orð Drottins kom til Jeremía, eftir að Hananja spámaður hafði sundurbrotið okið af hálsi Jeremía spámanns: 28.13 Far og seg við Hananja: Svo segir Drottinn: Tré-ok hefir þú sundurbrotið, en ég vil í þess stað gjöra járn-ok! 28.14 Því að svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Járnok legg ég á háls allra þessara þjóða, til þess að þær verði þegnskyldar Nebúkadnesar Babelkonungi og þjóni honum, já, jafnvel dýr merkurinnar gef ég honum. 28.15 Þá sagði Jeremía spámaður við Hananja spámann: 'Heyr þú, Hananja! Drottinn hefir ekki sent þig, og þó hefir þú ginnt lýð þennan til að reiða sig á lygar! 28.16 Fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég kippi þér burt af jörðinni. Á þessu ári skalt þú deyja, því að þú hefir prédikað fráhvarf frá Drottni.' 28.17 Og Hananja spámaður dó þetta ár, í sjöunda mánuðinum.
29.1 Þessi eru orð bréfsins, sem Jeremía spámaður sendi frá Jerúsalem til öldunga hinna herleiddu og til prestanna og til spámannanna og til alls lýðsins, sem Nebúkadnesar hafði herleitt frá Jerúsalem til Babýlon 29.2 (eftir að Jekonja konungur og konungsmóðir og hirðmennirnir, höfðingjar Júda og Jerúsalem, og trésmiðirnir og járnsmiðirnir voru farnir burt úr Jerúsalem), 29.3 með Elasa Safanssyni og Gemaría Hilkíasyni, sem Sedekía Júdakonungur sendi til Nebúkadnesars Babelkonungs til Babýlon: 29.4 'Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, öllum hinum herleiddu, þeim er ég herleiddi frá Jerúsalem til Babýlon: 29.5 Reisið hús og búið í þeim, plantið garða og etið ávöxtu þeirra. 29.6 Takið yður konur og getið sonu og dætur, og takið sonum yðar konur og giftið dætur yðar, til þess að þær megi fæða sonu og dætur og yður fjölgi þar, en fækki ekki. 29.7 Látið yður umhugað um heill borgarinnar, sem ég herleiddi yður til, og biðjið til Drottins fyrir henni, því að heill hennar er heill sjálfra yðar. 29.8 Því að svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Látið eigi spámenn yðar, sem meðal yðar eru, né spásagnamenn yðar tæla yður, og trúið ekki á drauma yðar, sem yður dreymir. 29.9 Því að þeir spá yður ranglega í mínu nafni, ég hefi ekki sent þá! _ segir Drottinn. 29.10 Svo segir Drottinn: Þegar sjötíu ár eru umliðin fyrir Babýlon, mun ég vitja yðar og efna við yður fyrirheit mitt að flytja yður aftur á þennan stað. 29.11 Því að ég þekki þær fyrirætlanir, sem ég hefi í hyggju með yður _ segir Drottinn _ fyrirætlanir til heilla, en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð. 29.12 Þá munuð þér ákalla mig og fara og biðja til mín, og ég mun bænheyra yður. 29.13 Og þér munuð leita mín og finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta, 29.14 vil ég láta yður finna mig _ segir Drottinn _ og snúa við högum yðar og safna yður saman frá öllum þjóðum og úr öllum þeim stöðum, þangað sem ég hefi rekið yður _ segir Drottinn _ og flytja yður aftur á þann stað, þaðan sem ég herleiddi yður. 29.15 Þér segið: ,Drottinn hefir vakið oss upp spámenn í Babýlon.` 29.16 Svo segir Drottinn um konunginn, sem situr í hásæti Davíðs, og um allan lýðinn, sem býr í þessari borg, bræður yðar, sem ekki voru herleiddir með yður _ 29.17 svo segir Drottinn allsherjar: Sjá, ég sendi yfir þá sverð, hungur og drepsótt og gjöri þá eins og viðbjóðslegar fíkjur, sem eru svo vondar, að þær eru ekki ætar, 29.18 og ég elti þá með sverði, hungri og drepsótt og gjöri þá að grýlu öllum konungsríkjum jarðar, að formæling, að skelfing, að spotti og háðung meðal allra þjóða, þangað sem ég rek þá, 29.19 fyrir það að þeir hlýddu ekki orðum mínum _ segir Drottinn _ er ég hefi óaflátanlega sent þjóna mína, spámennina, með til þeirra, en þér heyrðuð ekki _ segir Drottinn. 29.20 En heyrið þér orð Drottins, allir þér hinir herleiddu, er ég hefi sent frá Jerúsalem til Babýlon. 29.21 Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, um Ahab Kólajason og um Sedekía Maasejason, sem boða yður lygar í mínu nafni: Sjá, ég gef þá Nebúkadresar Babelkonungi á vald, og hann mun láta drepa þá fyrir augum yðar. 29.22 Og þeir munu verða bölbænar-formáli fyrir alla hina herleiddu úr Júda, sem eru í Babýlon, svo að menn kveði svo að orði: ,Drottinn fari með þig eins og Sedekía og Ahab, sem Babelkonungur steikti á eldi.` 29.23 Sök þeirra er, að þeir frömdu óhæfuverk í Ísrael og drýgðu hór með konum vina sinna og töluðu orð í mínu nafni, er ég hafði þeim eigi um boðið, já ég þekki það sjálfur og er vottur að því! _ segir Drottinn.' 29.24 En við Semaja frá Nehalam skalt þú segja á þessa leið: 29.25 Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Þú hefir sent bréf í þínu eigin nafni til alls lýðsins, sem er í Jerúsalem, og til Sefanía Maasejasonar prests og til allra prestanna, þess efnis: 29.26 'Drottinn hefir sett þig prest í stað Jójada prests, til þess að þú hafir nákvæmar gætur í musteri Drottins á öllum óðum mönnum og þeim, er spámannsæði er á, og setjir þá í stokk og hálsjárn! 29.27 Hví hefir þú þá ekki ávítað Jeremía frá Anatót, sem hér iðkar spádóma? 29.28 Þannig hefir hann gjört oss svolátandi orðsending til Babýlon: ,Það verður langvinnt! Reisið hús og búið í þeim og plantið garða og etið ávöxtu þeirra.'` 29.29 En Sefanía prestur las þetta bréf upphátt fyrir Jeremía spámanni. 29.30 Þá kom orð Drottins til Jeremía, svo hljóðandi: 29.31 Gjör öllum hinum herleiddu svo hljóðandi orðsending: Svo segir Drottinn um Semaja frá Nehalam: Sökum þess að Semaja hefir spáð yður án þess að ég hafi sent hann og ginnt yður til þess að reiða yður á lygar, 29.32 fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég mun hefna þess á Semaja frá Nehalam og niðjum hans. Hann skal ekki eiga neinn niðja, sem búi meðal þessarar þjóðar, og hann skal ekki fá litið þau gæði, sem ég bý þjóð minni _ segir Drottinn _ því að hann hefir prédikað fráhvarf frá Drottni.
30.1 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni: 30.2 Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Skrifa þú öll þau orð, er ég hefi til þín talað, í bók. 30.3 Því sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _ að ég mun snúa við hag lýðs míns, Ísraels og Júda _ segir Drottinn _ og láta þá hverfa aftur til þess lands, sem ég gaf feðrum þeirra, og þeir skulu taka það til eignar. 30.4 Þessi eru orðin, sem Drottinn talaði um Ísrael og Júda. 30.5 Svo segir Drottinn: Hræðsluóp heyrum vér, ótti er á ferðum, en engin heill! 30.6 Spyrjið um og gætið að, hvort karlmaður ali barn! Hvers vegna sé ég þá alla menn með hendur á lendum, líkt og jóðsjúk kona væri, og hvers vegna eru öll andlit orðin nábleik? 30.7 Vei, mikill er sá dagur, hann á ekki sinn líka og angistartími er það fyrir Jakob, en hann mun frelsast frá því. 30.8 Á þeim degi _ segir Drottinn allsherjar _ mun ég sundur brjóta okið af hálsi hans og slíta af honum böndin, og útlendir menn skulu ekki lengur halda honum í þrældómi. 30.9 Þeir skulu þjóna Drottni, Guði sínum, og Davíð, konungi sínum, er ég mun uppvekja þeim. 30.10 Óttast þú ekki, þjónn minn Jakob _ segir Drottinn _ og hræðst þú ekki, Ísrael, því að ég frelsa þig úr fjarlægu landi og leysi niðja þína úr landinu, þar sem þeir eru herleiddir, til þess að Jakob hverfi heim aftur og njóti hvíldar og búi óhultur, án þess nokkur hræði hann. 30.11 Ég er með þér _ segir Drottinn _ til þess að frelsa þig. Ég vil gjöreyða öllum þeim þjóðum, sem ég hefi tvístrað þér á meðal. Þér einni vil ég ekki gjöreyða, heldur vil ég hirta þig í hófi, en ég vil ekki láta þér með öllu óhegnt. 30.12 Svo segir Drottinn: Áverki þinn er illkynjaður, sár þitt ólæknandi. 30.13 Enginn tekur að sér málefni þitt, við meininu er engin lækning, engin smyrsl til handa þér. 30.14 Allir ástmenn þínir hafa gleymt þér, þeir spyrja ekki eftir þér, af því að ég hefi lostið þig, eins og óvinur lýstur, með grimmilegri hirting, sakir fjölda misgjörða þinna, sakir þess að syndir þínar eru margar. 30.15 Hví æpir þú af áverka þínum, af þinni ólæknandi kvöl? Sakir fjölda misgjörða þinna, sakir þess að syndir þínar eru margar, hefi ég gjört þér þetta. 30.16 Fyrir því skulu allir þeir, sem þig eta, etnir verða, og allir þeir, sem þér þröngva, herleiddir verða. Og þeir, sem rupla þig, skulu verða öðrum að herfangi, og alla þá, sem þig ræna, mun ég framselja til ráns. 30.17 Ég mun láta koma hyldgan á sár þín og lækna þig af áverkum þínum _ segir Drottinn _ af því að þeir kalla þig 'hina brottreknu,' 'Síon, sem enginn spyr eftir.' 30.18 Svo segir Drottinn: Sjá, ég sný við högum Jakobs tjalda og miskunna mig yfir bústaði hans, til þess að borgin verði aftur reist á hæð sinni og aftur verði búið í höllinni á hennar vanastað. 30.19 Og þaðan skal hljóma þakkargjörð og gleðihljóð, og ég læt þeim fjölga og eigi fækka, og ég gjöri þá vegsamlega, svo að þeir séu ekki lengur lítilsvirtir. 30.20 Synir hans skulu vera mér sem áður, og söfnuður hans skal vera grundvallaður frammi fyrir mér, en allra kúgara hans mun ég vitja. 30.21 Höfðingi hans mun frá honum koma og drottnari hans fram ganga úr flokki hans. Og ég mun láta hann nálgast mig, og hann mun koma til mín, því að hver skyldi af sjálfsdáðum hætta lífi sínu í það að koma til mín? _ segir Drottinn. 30.22 Og þá munuð þér vera mín þjóð, og ég mun vera yðar Guð. 30.23 Sjá, stormur Drottins brýst fram _ reiði og hvirfilbylur _ hann steypist yfir höfuð hinna óguðlegu. 30.24 Hinni brennandi reiði Drottins linnir ekki fyrr en hann hefir framkvæmt fyrirætlanir hjarta síns og komið þeim til vegar. Síðar meir munuð þér skilja það.
31.1 Á þeim tíma mun ég _ segir Drottinn _ vera Guð fyrir allar ættkvíslir Ísraels, og þeir munu vera mín þjóð. 31.2 Svo segir Drottinn: Sá lýður, er undan sverðinu komst, fann náð í óbyggðum, er Ísrael leitaði hvíldar. 31.3 Úr fjarlægð birtist Drottinn mér: 'Með ævarandi elsku hefi ég elskað þig. Fyrir því hefi ég látið náð mína haldast við þig.' 31.4 Enn vil ég endurreisa þig, svo að þú verðir endurreist, mærin Ísrael. Enn munt þú skreyta þig með bjöllum og ganga út í dansi fagnandi manna. 31.5 Þú munt enn planta víngarða á Samaríufjöllum. Þeir, sem hafa gróðursett þá, munu og hafa nytjar þeirra. 31.6 Já, sá dagur mun koma, að varðmennirnir kalla á Efraím-fjöllum: Standið upp, förum upp til Síon, til Drottins, Guðs vors! 31.7 Svo segir Drottinn: Fagnið yfir Jakob með gleði og kætist yfir öndvegisþjóð þjóðanna. Kunngjörið, vegsamið og segið: Frelsa, Drottinn, þjóð þína, leifarnar af Ísrael! 31.8 Sjá, ég flyt þá úr landinu norður frá og safna þeim saman frá útkjálkum jarðar, á meðal þeirra eru bæði blindir og lamir, bæði þungaðar og jóðsjúkar konur, í stórum hóp hverfa þeir hingað aftur. 31.9 Þeir munu koma grátandi, og ég mun fylgja þeim huggandi, leiða þá að vatnslækjum, um sléttan veg, þar sem þeir geta eigi hrasað, því að ég er orðinn Ísrael faðir, og Efraím er frumgetinn sonur minn. 31.10 Heyrið orð Drottins, þér þjóðir, og kunngjörið það á fjarlægu eyjunum og segið: Sá, sem tvístraði Ísrael, safnar honum saman og mun gæta hans, eins og hirðir gætir hjarðar sinnar. 31.11 Drottinn frelsar Jakob og leysir hann undan valdi þess, sem honum var yfirsterkari. 31.12 Þeir skulu koma og fagna á Síonhæð og streyma til gæða Drottins, til kornsins, vínberjalagarins, olíunnar og ungu sauðanna og nautanna, og sál þeirra skal verða eins og vökvaður aldingarður, og þeir skulu eigi framar vanmegnast. 31.13 Þá munu meyjarnar skemmta sér við dans og unglingar og gamalmenni gleðjast saman. Ég mun breyta sorg þeirra í gleði og hugga þá og gleðja eftir harma þeirra. 31.14 Og ég mun endurnæra sál prestanna á feiti, og lýður minn mun seðja sig á gæðum mínum _ segir Drottinn. 31.15 Svo segir Drottinn: Rödd heyrist í Rama, harmakvein, beiskur grátur: Rakel grætur börnin sín. Hún vill ekki huggast láta vegna barna sinna, því að þau eru eigi framar lífs. 31.16 Svo segir Drottinn: Halt raust þinni frá gráti og augum þínum frá tárum, því að enn er til umbun fyrir verk þitt _ segir Drottinn _: Þeir skulu hverfa heim aftur úr landi óvinanna. 31.17 Já, enn er von um framtíð þína _ segir Drottinn _: Börnin skulu hverfa heim aftur í átthaga sína. 31.18 Að sönnu heyri ég Efraím kveina: 'Þú hefir hirt mig, og ég lét hirtast eins og óvaninn kálfur, _ lát mig snúa heim, þá skal ég snúa við, því að þú ert Drottinn, Guð minn! 31.19 Því að eftir að ég hafði snúið mér frá þér, gjörðist ég iðrandi, og eftir að ég vitkaðist, barði ég mér á brjóst. Ég blygðast mín, já, ég er sneyptur, því að ég ber skömm æsku minnar.' 31.20 Er Efraím mér þá svo dýrmætur sonur eða slíkt eftirlætisbarn, að þótt ég hafi oft hótað honum, þá verð ég ávallt að minnast hans að nýju? Fyrir því kemst hjarta mitt við vegna hans, ég hlýt að miskunna mig yfir hann _ segir Drottinn. 31.21 Reis þér vörður! Set þér vegamerki! Haf athygli á brautinni, veginum, sem þú fórst! Hverf heim, mærin Ísrael! Hverf heim til þessara borga þinna! 31.22 Hversu lengi ætlar þú að reika fram og aftur, þú hin fráhverfa dóttir? Því að Drottinn skapar nýtt á jörðu: Kvenmaðurinn verndar karlmanninn. 31.23 Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Enn munu menn mæla þessum orðum í Júda og í borgum hans, þá er ég hefi snúið við högum þeirra: 'Drottinn blessi þig, bústaður réttlætisins, heilaga fjall!' 31.24 Júda og allar borgir hans munu búa þar saman, akuryrkjumenn og þeir, sem fara um með hjarðir, 31.25 því að ég drykkja hinar sárþyrstu sálir og metta sérhverja örmagna sál. 31.26 Við þetta vaknaði ég og litaðist um, og svefninn hafði verið mér þægilegur. 31.27 Sjá, þeir dagar koma _ segir Drottinn _ að ég sái Ísraels hús og Júda hús með mannsáði og fénaðarsáði, 31.28 og eins og ég vakti yfir þeim til þess að uppræta og umturna, rífa niður og eyða og vinna þeim mein, þannig mun ég og vaka yfir þeim til þess að byggja og gróðursetja _ segir Drottinn. 31.29 Á þeim dögum munu menn eigi framar segja: 'Feðurnir átu súr vínber og tennur barnanna urðu sljóar!' 31.30 Heldur mun hver deyja fyrir eigin misgjörð. Hver sá maður, er etur súr vínber, hans tennur munu sljóar verða. 31.31 Sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _ að ég mun gjöra nýjan sáttmála við Ísraels hús og Júda hús, 31.32 ekki eins og þann sáttmála, er ég gjörði við feður þeirra, þá er ég tók í hönd þeirra til þess að leiða þá út af Egyptalandi, sáttmálann sem þeir hafa rofið, þótt ég væri herra þeirra _ segir Drottinn. 31.33 En í þessu skal sáttmálinn fólginn vera, sá er ég gjöri við Ísraels hús eftir þetta _ segir Drottinn: Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra, og ég skal vera þeirra Guð og þeir skulu vera mín þjóð. 31.34 Og þeir skulu ekki framar kenna hver öðrum, né einn bróðirinn öðrum, og segja: 'Lærið að þekkja Drottin,' því að þeir munu allir þekkja mig, bæði smáir og stórir _ segir Drottinn. Því að ég mun fyrirgefa misgjörð þeirra og ekki framar minnast syndar þeirra. 31.35 Svo segir Drottinn, sem sett hefir sólina til að lýsa um daga, tunglið og stjörnurnar til að lýsa um nætur, sá er æsir hafið, svo að bylgjurnar gnýja _ Drottinn allsherjar er nafn hans: 31.36 Svo sannarlega sem þessi fasta skipan mun aldrei breytast fyrir mér _ segir Drottinn _ svo sannarlega munu Ísraels niðjar ekki hætta að vera þjóð fyrir mér alla daga. 31.37 Svo segir Drottinn: Svo sannarlega sem himinninn hið efra verður eigi mældur né undirstöður jarðarinnar hið neðra rannsakaðar, svo sannarlega mun ég ekki hafna öllum Ísraels niðjum sakir alls þess, er þeir hafa gjört _ segir Drottinn. 31.38 Sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _ að borgin verður endurreist Drottni til handa, frá Hananel-turni allt að Hornhliðinu, 31.39 og enn fremur skal mælisnúran ganga beint á Gareb-hæð og beygja þaðan til Góa. 31.40 Og allur hræva- og öskudalurinn og allir vellirnir að Kídronlæk, allt austur að horni Hrossahliðs, skulu vera helgaðir Drottni. Eigi skal þar verða upprætt framar né rifið niður að eilífu.
32.1 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni á tíunda ríkisári Sedekía konungs í Júda, það var átjánda ríkisár Nebúkadresars. 32.2 Þá sat her Babelkonungs um Jerúsalem, en Jeremía spámaður var í varðhaldi í varðgarðinum, sem heyrir til hallar Júdakonungs. 32.3 En Sedekía Júdakonungur hafði látið setja hann inn með þeim ummælum: 'Hví spáir þú og segir: Svo segir Drottinn: Sjá, ég sel þessa borg í hendur Babelkonungi, að hann vinni hana, 32.4 og Sedekía Júdakonungur mun ekki komast undan valdi Kaldea, heldur mun hann áreiðanlega verða seldur á vald Babelkonungi, og hann mun tala við hann munni til munns og sjá hann augliti til auglitis, 32.5 og til Babýlon mun hann flytja Sedekía, og þar mun hann verða, uns ég vitja hans _ segir Drottinn. Þegar þér berjist við Kaldea, munuð þér enga sigurför fara?' 32.6 Jeremía svaraði: 'Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 32.7 Sjá, Hanameel, sonur Sallúms föðurbróður þíns, mun til þín koma og segja: ,Kaup þú akur minn í Anatót, því að þú átt innlausnarréttinn að kaupa hann.` 32.8 Og Hanameel frændi minn kom til mín í varðgarðinn, eins og Drottinn hafði fyrir sagt, og sagði við mig: ,Kaup þú akur minn í Anatót, sem er í Benjamínslandi, því að þú átt erfða- og innlausnarréttinn _ kaup þú hann!` Þá sá ég, að það var orð frá Drottni, 32.9 keypti akurinn í Anatót af Hanameel frænda mínum og vó honum út andvirðið, seytján sikla silfurs. 32.10 Og ég skrifaði það á bréf og innsiglaði það og tók votta að og vó silfrið á vog. 32.11 Síðan tók ég kaupbréfið, hið innsiglaða _ ákvæðin og skilmálana _ og opna bréfið, 32.12 og fékk kaupbréfið Barúk Neríasyni, Mahasejasonar, í viðurvist Hanameels frænda míns og í viðurvist vottanna, er skrifað höfðu undir kaupbréfið, í viðurvist allra þeirra Júdamanna, er sátu í varðgarðinum, 32.13 og lagði svo fyrir Barúk í viðurvist þeirra: 32.14 ,Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Tak þessi bréf, þetta innsiglaða kaupbréf og þetta opna kaupbréf, og legg þau í leirker, til þess að þau varðveitist lengi. 32.15 Því að svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Enn skulu hús keypt verða og akrar og víngarðar í þessu landi.` 32.16 Og er ég hafði fengið Barúk Neríasyni kaupbréfið, bað ég til Drottins á þessa leið: 32.17 ,Æ, herra Drottinn, sjá, þú hefir með þínum mikla mætti og útrétta armlegg gjört himin og jörð. Þér er enginn hlutur um megn! 32.18 Þú sem auðsýnir miskunn þúsundum og geldur misgjörð feðranna í skaut sonum þeirra eftir þá, _ þú mikli, voldugi Guð, er nefnist Drottinn allsherjar, 32.19 mikill í ráðum og máttugur í athöfnum, þú hvers augu standa opin yfir öllum vegum mannanna barna til þess að gjalda sérhverjum eftir breytni hans og eftir ávexti verka hans, 32.20 þú sem hefir gjört tákn og undur á Egyptalandi og allt fram á þennan dag, bæði á Ísrael og á öðrum mönnum, og afrekað þér mikið nafn fram á þennan dag. 32.21 Þú fluttir þjóð þína Ísrael af Egyptalandi með táknum og undrum og með sterkri hendi og útréttum armlegg og mikilli skelfingu 32.22 og gafst þeim þetta land, er þú sórst feðrum þeirra að gefa þeim, land, sem flýtur í mjólk og hunangi. 32.23 En er þeir voru komnir inn í það og höfðu tekið það til eignar, þá hlýddu þeir ekki þinni raustu, breyttu ekki eftir lögmáli þínu og gjörðu ekki neitt af því, er þú hafðir boðið þeim að gjöra. Þá lést þú alla þessa ógæfu þeim að höndum bera. 32.24 Sjá, sóknarvirkin eru þegar komin að borginni til að vinna hana, og borgin er fyrir sakir sverðs, hungurs og drepsóttar seld á vald Kaldea, sem á hana herja, og það, sem þú hótaðir, er fram komið, og sjá, þú horfir á það. 32.25 Og þó sagðir þú við mig, herra Drottinn: 'Kaup þér akurinn fyrir silfur og tak votta að!' _ þótt borgin sé seld á vald Kaldea.'` 32.26 Þá kom orð Drottins til Jeremía: 32.27 Sjá, ég er Drottinn, Guð alls holds. Er mér nokkur hlutur um megn? 32.28 Fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég sel þessa borg á vald Kaldea og á vald Nebúkadresars Babelkonungs, að hann vinni hana, 32.29 og Kaldear, sem herja á þessa borg, munu brjótast inn í hana, og leggja eld í þessa borg og brenna hana og húsin, þar sem þeir á þökunum færðu Baal reykelsisfórnir og færðu öðrum guðum dreypifórnir til þess að egna mig til reiði. 32.30 Því að Ísraelsmenn og Júdamenn hafa frá æsku sinni verið vanir að gjöra það eitt, sem mér mislíkaði, því að Ísraelsmenn hafa aðeins egnt mig til reiði með handaverkum sínum _ segir Drottinn. 32.31 Já, þessi borg hefir verið mér tilefni til reiði og gremi frá þeim degi, er hún var reist, allt fram á þennan dag, svo að ég verð að taka hana burt frá augliti mínu, 32.32 sökum allrar illsku Ísraelsmanna og Júdamanna, er þeir hafa í frammi haft til þess að egna mig til reiði, _ konungar þeirra, höfðingjar þeirra, prestar þeirra og spámenn þeirra, Júdamenn og Jerúsalembúar. 32.33 Þeir sneru við mér bakinu, en ekki andlitinu, og þótt ég fræddi þá seint og snemma, þá hlýddu þeir ekki, svo að þeir tækju umvöndun. 32.34 Heldur reistu þeir viðurstyggðir sínar upp í húsi því, sem kennt er við nafn mitt, til þess að saurga það. 32.35 Þeir byggðu Baal fórnarhæðir í Hinnomssonar-dal, til þess að láta sonu sína og dætur ganga gegnum eldinn Mólok til handa, _ sem ég hefi ekki boðið þeim og mér hefir ekki í hug komið, að þeir mundu fremja slíka svívirðing, til þess að tæla Júda til syndar. 32.36 Og nú _ fyrir því segir Drottinn, Ísraels Guð, svo um þessa borg, er þér segið að seld sé á vald Babelkonungs með sverði, hungri og drepsótt: 32.37 Sjá, ég safna þeim saman úr öllum þeim löndum, þangað sem ég hefi rekið þá í reiði minni og heift og í mikilli gremi, og læt þá snúa aftur hingað og búa hér óhulta. 32.38 Þá skulu þeir vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð, 32.39 og ég vil gefa þeim eitt hjarta og eina breytni, svo að þeir óttist mig alla daga, þeim sjálfum til heilla og sonum þeirra eftir þá. 32.40 Og ég vil gjöra við þá eilífan sáttmála, að ég muni aldrei snúa frá þeim með velgjörðir mínar, og ég vil leggja ótta fyrir mér í hjörtu þeirra, til þess að þeir víki ekki frá mér. 32.41 Og það skal verða unun mín að gjöra vel við þá, og ég mun gróðursetja þá í þessu landi í trúfesti, af öllu hjarta og af allri sálu. 32.42 Því að svo segir Drottinn: Eins og ég hefi leitt yfir þessa þjóð alla þessa miklu óhamingju, svo leiði ég og yfir þá alla þá hamingju, sem ég heiti þeim. 32.43 Og akrar munu aftur keyptir verða í þessu landi, sem þér segið um: 'Það er auðn, mannlaust og skepnulaust! Það er selt á vald Kaldea!' 32.44 Akra munu menn kaupa fyrir silfur og skrifa kaupbréf og innsigla og taka votta að, bæði í Benjamínslandi og í umhverfi Jerúsalem og í borgum Júda og í fjallborgunum og í borgunum á sléttlendinu og í borgunum í Suðurlandinu, því að ég mun leiða heim aftur hina herleiddu menn þeirra _ segir Drottinn.
33.1 Og orð Drottins kom til Jeremía annað sinn, þá er hann enn var innilokaður í varðgarðinum: 33.2 Svo segir Drottinn, sá er framkvæmir það, Drottinn, sá er upphugsar það, til þess að koma því til vegar _ Drottinn er nafn hans: 33.3 Kalla þú á mig og mun ég svara þér og kunngjöra þér mikla hluti og óskiljanlega, er þú hefir eigi þekkt. 33.4 Já, svo segir Drottinn, Ísraels Guð, um hús þessarar borgar og um hallir Júdakonunga, sem rifin voru niður vegna hervirkjanna og sverðsins: 33.5 Það koma einhverjir til þess að berjast gegn Kaldeum og til þess að fylla húsin líkum þeirra manna, er ég hefi lostið í reiði minni og heift, því ég hefi byrgt auglit mitt fyrir þessari borg sakir allrar illsku þeirra. 33.6 Sjá, ég legg við hana umbúðir og græðslulyf og lækna þá og opna þeim gnægð stöðugrar hamingju, 33.7 og ég leiði heim aftur hina herleiddu frá Júda og hina herleiddu frá Ísrael og byggi þá upp aftur eins og áður. 33.8 Og ég hreinsa þá af allri misgjörð þeirra, er þeir hafa drýgt í móti mér, og fyrirgef þeim allar misgjörðir þeirra, er þeir hafa drýgt í móti mér, og uppreisn þeirra gegn mér, 33.9 til þess að borgin verði mér til frægðar, til ununar, til lofs og dýrðar hjá öllum þjóðum jarðarinnar, sem spyrja munu öll þau gæði, er ég veiti þeim, og skelfast munu og titra vegna allra þeirra gæða og allrar þeirrar hamingju, sem ég veiti henni. 33.10 Svo segir Drottinn: Á þessum stað, er þér segið um: 'Hann er eyddur, mannlaus og skepnulaus!' í borgum Júda og á Jerúsalemstrætum, sem nú eru gjöreydd, mannlaus, íbúalaus og skepnulaus, 33.11 skulu aftur heyrast ánægjuhljóð og gleðihljóð, fagnaðarlæti brúðguma og brúðar, fagnaðarlæti þeirra, er færa þakkarfórn í musteri Drottins og segja: Þakkið Drottni allsherjar, því að Drottinn er góður, því að miskunn hans varir að eilífu! Því að ég mun leiða hið herleidda fólk landsins heim aftur, til þess að þeir séu eins og áður, segir Drottinn. 33.12 Svo segir Drottinn allsherjar: Enn skal á þessum stað, sem nú er eyddur, bæði mannlaus og skepnulaus, og í öllum borgum hans vera haglendi fyrir hjarðmenn, sem bæla þar hjarðir sínar. 33.13 Í fjallborgunum, í borgunum á sléttlendinu og í borgunum í Suðurlandinu og í Benjamínslandi og í umhverfi Jerúsalem og í Júdaborgum munu enn sauðir renna fram hjá þeim, sem telur þá, segir Drottinn. 33.14 Sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _ að ég mun láta rætast fyrirheit það, er ég hefi gefið um Ísraels hús og Júda hús. 33.15 Á þeim dögum og á þeim tíma mun ég Davíð láta upp vaxa réttan kvist, og hann skal iðka rétt og réttlæti í landinu. 33.16 Á þeim dögum mun Júda hólpinn verða og Jerúsalem búa óhult, og þetta mun verða nafnið, er menn nefna hana: 'Drottinn er vort réttlæti.' 33.17 Svo segir Drottinn: Davíð skal aldrei vanta eftirmann, sem sitji í hásæti Ísraels húss. 33.18 Og levítaprestana skal aldrei vanta eftirmann frammi fyrir mér, er framberi brennifórnir, brenni matfórnum og fórni sláturfórnum alla daga. 33.19 Og orð Drottins kom til Jeremía: 33.20 Svo segir Drottinn: Svo sannarlega sem þér getið ekki rofið sáttmála minn við daginn og sáttmála minn við nóttina, svo að dagur og nótt komi ekki á sínum tíma, 33.21 svo sannarlega mun sáttmáli minn við Davíð þjón minn eigi rofinn verða, svo að hann hafi ekki niðja, er ríki í hásæti hans, og við prestalevítana, þjóna mína. 33.22 Eins og himinsins her verður ekki talinn og sjávarsandurinn ekki mældur, svo vil ég margfalda niðja Davíðs þjóns míns og levítana, er mér þjóna. 33.23 Og orð Drottins kom til Jeremía: 33.24 Hefir þú ekki tekið eftir, hvað þessi lýður talar, er hann segir: 'Báðum ættkvíslunum, sem Drottinn útvaldi, hefir hann hafnað!' og að þeir segja fyrirlitlega um lýð minn, að hann sé ekki þjóð framar í þeirra augum? 33.25 Svo segir Drottinn: Ég, sem hefi gjört sáttmála við dag og nótt og sett himni og jörðu föst lög, 33.26 skyldi ég hafna niðjum Jakobs og Davíðs, þjóns míns? Skyldi ég leiða hjá mér að velja af niðjum hans drottnara yfir ætt Abrahams, Ísaks og Jakobs? Nei, ég mun snúa við högum þeirra og miskunna þeim.
34.1 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni, þá er Nebúkadresar Babelkonungur og allur her hans og öll konungsríki jarðarinnar, þau er lutu hans valdi, og allar þjóðirnar herjuðu á Jerúsalem og allar borgir umhverfis hana: 34.2 Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Far og mæl til Sedekía Júdakonungs og seg við hann: Svo segir Drottinn: Sjá, ég sel borg þessa á vald Babelkonungs, til þess að hann brenni hana í eldi, 34.3 og þú munt sjálfur ekki komast undan honum, en áreiðanlega gripinn verða og framseldur á hans vald, og augu þín munu líta augu Babelkonungs og munnur hans tala við þinn munn, og til Babýlon munt þú fara. 34.4 En heyr orð Drottins, Sedekía Júdakonungur: Svo segir Drottinn um þig: Þú skalt ekki deyja fyrir sverði. 34.5 Í friði munt þú deyja, og eins og brennt var ilmreykelsi við jarðarför feðra þinna, hinna fyrri konunga, sem voru á undan þér, eins munu menn brenna þér til heiðurs og harma þig og segja: 'Æ, drottnari!' því að það hefi ég talað _ segir Drottinn. 34.6 Jeremía spámaður talaði öll þessi orð við Sedekía Júdakonung í Jerúsalem, 34.7 þá er her Babelkonungs herjaði á Jerúsalem og allar Júdaborgir, sem enn voru eftir, Lakís og Aseka. Því að þessar einar voru eftir orðnar af borgunum í Júda, af víggirtu borgunum. 34.8 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni, eftir að Sedekía konungur hafði gjört sáttmála við allan lýðinn í Jerúsalem um að boðað skyldi frelsi: 34.9 Hver maður skyldi gefa frjálsan þræl sinn og ambátt sína, ef þau væru hebreskur maður og hebresk kona, svo að enginn Júdamaður hefði ættbræður sína að þrælum. 34.10 Og allir höfðingjarnir hlýddu því og allur lýðurinn, þeir er gengist höfðu undir sáttmálann, að hver skyldi gefa frjálsan þræl sinn og ambátt sína, svo að hann hefði þau eigi framar að þrælum. Þeir hlýddu og gáfu þau frjáls. 34.11 En seinna sóttu þeir aftur þrælana og ambáttirnar, er þeir höfðu gefið frjáls, og gjörðu þau að ánauðugum þrælum og ambáttum. 34.12 Þá kom þetta orð Drottins til Jeremía: 34.13 Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég gjörði svohljóðandi sáttmála við feður yðar, þá er ég flutti þá burt af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu: 34.14 'Að sjö árum liðnum skuluð þér hver og einn gefa lausan hebreskan bróður yðar, sem kann að hafa selt sig þér. Í sex ár skal hann vera þræll þinn, en síðan skalt þú láta hann lausan frá þér fara.' En feður yðar hlýddu mér ekki og lögðu ekki við eyrun. 34.15 En nú tókuð þér sinnaskiptum og gjörðuð það, sem rétt var í mínum augum, með því að boða hver öðrum frelsi, og gjörðuð sáttmála fyrir mínu augliti í musterinu, sem kennt er við nafn mitt. 34.16 En þér hafið snúið yður aftur og vanhelgað nafn mitt, þar sem þér hafið hver og einn sótt aftur þræl sinn og ambátt, er þér höfðuð gefið algjörlega frjáls, og neytt þau til að vera þræla yðar og ambáttir. 34.17 Fyrir því segir Drottinn svo: Þér hafið eigi hlýtt mér um að boða frelsi, hver sínum bróður og hver sínum náunga. Sjá, ég ætla því að boða yður frelsi _ segir Drottinn _ svo að þér verðið ofurseldir sverðinu, drepsóttinni og hungrinu, og ég gjöri yður að grýlu öllum konungsríkjum jarðar. 34.18 Ég framsel þá menn, er brotið hafa sáttmála minn, og eigi hafa haldið orð sáttmálans, er þeir gjörðu fyrir mínu augliti, þá er þeir slátruðu kálfinum, sem þeir skáru í tvennt og gengu á milli hlutanna, _ 34.19 höfðingja Júda og höfðingja Jerúsalem, hirðmennina og prestana og allan landslýðinn, er gengið hafa milli hluta kálfsins. 34.20 Ég sel þá á vald óvina þeirra og á vald þeirra, sem sækjast eftir lífi þeirra, og lík þeirra skulu verða æti fyrir fugla himinsins og dýr jarðarinnar. 34.21 En Sedekía konung í Júda og höfðingja hans sel ég á vald óvinum þeirra og á vald þeim, er sækjast eftir lífi þeirra, og á vald her Babelkonungs, þeim sem nú eru frá yður farnir. 34.22 Sjá, ég mun gefa þeim skipun _ segir Drottinn _ og láta þá koma aftur til þessarar borgar, til þess að þeir herji á hana, vinni hana og brenni hana í eldi, og borgirnar í Júda gjöri ég að auðn, svo að enginn búi í þeim.
35.1 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni á dögum Jójakíms Jósíasonar, Júdakonungs: 35.2 'Gakk til ættflokks Rekabíta og tala við þá og kom með þá í musteri Drottins, inn í eitt herbergið, og gef þeim vín að drekka.' 35.3 Þá sótti ég Jaasanja Jeremíason, Habasinjasonar, og bræður hans og alla sonu hans og allan Rekabíta-ættflokkinn 35.4 og fór með þá í musteri Drottins, inn í herbergi sona Hanans, Jigdaljasonar, guðsmannsins, sem er við hliðina á herbergi höfðingjanna, uppi yfir herbergi Maaseja Sallúmssonar þröskuldsvarðar. 35.5 Og ég setti skálar fullar af víni og bikara fyrir ættmenn Rekabíta-flokksins og sagði við þá: 'Drekkið vín!' 35.6 Þá sögðu þeir: 'Vér drekkum ekki vín, því að Jónadab Rekabsson ættfaðir vor hefir lagt svo fyrir oss: ,Þér skuluð aldrei drekka vín að eilífu, hvorki þér né synir yðar, 35.7 og þér skuluð ekki reisa hús, né sá sæði, né planta víngarða, né eiga nokkuð slíkt, heldur skuluð þér búa í tjöldum alla ævi yðar, til þess að þér lifið langa ævi í því landi, þar er þér dveljið sem útlendingar.` 35.8 Og vér höfum hlýtt skipun Jónadabs Rekabssonar ættföður vors í öllu því, er hann bauð oss, svo að vér drekkum alls ekki vín alla ævi vora, hvorki vér sjálfir, konur vorar, synir vorir né dætur vorar, 35.9 og reisum oss ekki hús til að búa í og eigum hvorki víngarða, akra né sáð. 35.10 Vér höfum því búið í tjöldum og hlýtt og farið eftir öllu því, er Jónadab ættfaðir vor bauð oss. 35.11 En er Nebúkadresar Babelkonungur braust inn í landið, sögðum vér: ,Komið, vér skulum halda inn í Jerúsalem undan her Kaldea og undan her Sýrlendinga!` og settumst að í Jerúsalem.' 35.12 Þá kom orð Drottins til Jeremía: 35.13 'Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Far og seg við Júdamenn og Jerúsalembúa: Viljið þér ekki taka umvöndun, svo að þér hlýðið á orð mín? _ segir Drottinn. 35.14 Orð Jónadabs Rekabssonar eru haldin, þau er hann lagði fyrir sonu sína, að drekka ekki vín. Þeir hafa ekki vín drukkið allt fram á þennan dag, af því að þeir hafa hlýtt skipun ættföður síns. En ég hefi talað til yðar seint og snemma, en þér hafið ekki hlýtt mér. 35.15 Og ég hefi sent til yðar alla þjóna mína, spámennina, seint og snemma, til þess að segja: 'Snúið yður, hver frá sínum vonda vegi, og bætið gjörðir yðar og eltið ekki aðra guði til þess að þjóna þeim, þá skuluð þér búa kyrrir í landinu, sem ég gaf yður og feðrum yðar!' _ en þér lögðuð ekki við eyrun og hlýdduð ekki á mig. 35.16 Já, niðjar Jónadabs Rekabssonar hafa haldið skipun ættföður síns, þá er hann fyrir þá lagði, en þessi lýður hefir ekki hlýtt mér. 35.17 Fyrir því segir Drottinn, Guð allsherjar, Ísraels Guð, svo: Sjá, nú leiði ég yfir Júda og alla Jerúsalembúa alla ógæfuna, er ég hefi hótað þeim, af því að þeir hafa ekki hlýtt, þótt ég hafi talað til þeirra, né svarað, þótt ég hafi kallað til þeirra. 35.18 En við ættflokk Rekabíta sagði Jeremía: 'Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Af því að þér hafið hlýtt skipun Jónadabs ættföður yðar og haldið allar skipanir hans og farið í öllu eftir því, er hann fyrir yður lagði, 35.19 fyrir því segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, svo: Jónadab Rekabsson skal aldrei vanta mann, er standi frammi fyrir mér.'
36.1 Á fjórða ríkisári Jójakíms Jósíasonar, Júdakonungs, kom þetta orð til Jeremía frá Drottni: 36.2 Tak þér bókrollu og rita á hana öll þau orð, sem ég hefi til þín talað um Ísrael og Júda og allar þjóðir, frá þeim degi er ég talaði við þig, frá dögum Jósía, og allt fram á þennan dag; 36.3 vera má að Júda hús hlýði á alla þá ógæfu, sem ég hygg að leiða yfir þá, svo að þeir snúi sér, hver og einn frá sínum vonda vegi, og þá mun ég fyrirgefa þeim misgjörð þeirra og synd. 36.4 Þá kallaði Jeremía á Barúk Neríason, og Barúk ritaði af munni Jeremía á bókrolluna öll orð Drottins, þau er hann hafði til hans talað. 36.5 Og Jeremía skipaði Barúk og mælti: 'Mér er tálmað, ég get ekki farið í musteri Drottins. 36.6 Far þú því og lestu upphátt úr bókrollunni það, er þú hefir ritað af munni mér, orðin Drottins, fyrir lýðnum í musteri Drottins á föstu-degi. Þú skalt og lesa þau upphátt fyrir öllum Júdamönnum, sem komnir eru hingað úr borgum sínum. 36.7 Vera má, að þeir gjöri auðmjúkir bæn sína til Drottins og snúi sér hver og einn frá sínum vonda vegi, því að mikil er reiðin og heiftin, sem Drottinn hefir hótað þessum lýð.' 36.8 Og Barúk Neríason gjörði með öllu svo sem Jeremía spámaður lagði fyrir hann og las orð Drottins upphátt úr bókinni í musteri Drottins. 36.9 En á fimmta ríkisári Jójakíms Jósíasonar, konungs í Júda, í níunda mánuðinum, boðuðu menn allan lýðinn í Jerúsalem og allt það fólk, sem komið var úr Júdaborgum til Jerúsalem, til föstuhalds fyrir Drottni. 36.10 Þá las Barúk upphátt fyrir öllum lýðnum úr bókinni orð Jeremía í musteri Drottins, í herbergi Gemaría Safanssonar kanslara, í efra forgarðinum, við nýja hliðið á musteri Drottins. 36.11 En er Míka Gemaríason, Safanssonar, heyrði öll orð Drottins úr bókinni, 36.12 þá gekk hann ofan í konungshöllina, inn í herbergi kanslarans, og sátu þá allir höfðingjarnir þar: Elísama kanslari, Delaja Semajason, Elnatan Akbórsson, Gemaría Safansson, Sedekía Hananíason og allir hinir höfðingjarnir. 36.13 En Míka skýrði þeim frá öllu því, er hann hafði heyrt, þá er Barúk las upphátt úr bókinni fyrir öllum lýðnum. 36.14 Þá sendu allir höfðingjarnir Júdí Nataníason, Selemíasonar, Kúsísonar, til Barúks með svolátandi orðsending: 'Tak þér í hönd bókrolluna, sem þú last upphátt úr fyrir lýðnum og kom hingað.' Og Barúk Neríason tók bókrolluna sér í hönd og kom til þeirra. 36.15 En þeir sögðu við hann: 'Sestu niður og lestu hana upphátt fyrir oss.' Og Barúk gjörði svo. 36.16 En er þeir höfðu heyrt öll orðin, litu þeir felmtsfullir hver á annan og sögðu við Barúk: 'Vér verðum að segja konungi frá öllu þessu!' 36.17 Jafnframt spurðu þeir Barúk: 'Seg oss, hvernig þú hefir skrifað öll þessi orð?' 36.18 Og Barúk svaraði þeim: 'Hann hafði munnlega upp fyrir mér öll þessi orð, en ég skrifaði þau í bókina með bleki.' 36.19 Þá sögðu höfðingjarnir við Barúk: 'Far og fel þig, ásamt Jeremía, svo að enginn viti, hvar þið eruð.' 36.20 Síðan gengu þeir til konungs inn í afhýsi hans, en létu bókrolluna eftir í herbergi Elísama kanslara, og sögðu konungi frá öllu þessu. 36.21 Þá sendi konungur Júdí til þess að sækja bókrolluna, og hann sótti hana í herbergi Elísama kanslara. Síðan las Júdí hana upphátt fyrir konungi og höfðingjunum, sem umhverfis konung stóðu. 36.22 Konungur bjó í vetrarhöllinni, með því að þetta var í níunda mánuðinum, og eldur brann í glóðarkerinu fyrir framan hann. 36.23 Í hvert sinn, er Júdí hafði lesið þrjú eða fjögur blöð, skar konungur þau sundur með pennahníf og kastaði þeim á eldinn í glóðarkerinu, uns öll bókrollan var brunnin á eldinum í glóðarkerinu. 36.24 En hvorki varð konungur hræddur, né nokkur af þjónum hans, þeim er heyrðu öll þessi orð, né heldur rifu þeir klæði sín, 36.25 og þótt Elnatan, Delaja og Gemaría legðu að konungi að brenna ekki bókrolluna, þá hlýddi hann þeim ekki, 36.26 heldur skipaði hann Jerahmeel konungssyni og Seraja Asríelssyni og Selemja Abdeelssyni að sækja Barúk skrifara og Jeremía spámann, _ en Drottinn fól þá. 36.27 Þá kom orð Drottins til Jeremía, eftir að konungur hafði brennt bókrolluna, sem hafði inni að halda orð þau, er Barúk hafði ritað af munni Jeremía: 36.28 Tak þér aftur aðra bókrollu og rita á hana öll hin fyrri orðin, er voru á fyrri bókrollunni, þeirri sem Jójakím Júdakonungur brenndi. 36.29 En viðvíkjandi Jójakím Júdakonungi skalt þú segja: Svo segir Drottinn: Þú hefir brennt bókrolluna með þeim ummælum: ,Hvers vegna hefir þú skrifað á hana: Babelkonungur mun vissulega koma og eyða þetta land og útrýma úr því mönnum og skepnum!` 36.30 Fyrir því segir Drottinn svo um Jójakím Júdakonung: Hann skal engan niðja eiga, er sitji í hásæti Davíðs, og hræ hans skal liggja úti í hitanum á daginn og kuldanum á nóttinni. 36.31 Og ég vil hegna honum og niðjum hans og þjónum hans fyrir misgjörð þeirra og ég vil láta yfir þá koma og yfir Jerúsalembúa og Júdamenn alla þá ógæfu, er ég hefi hótað þeim, án þess að þeir hlýddu. 36.32 Og Jeremía tók aðra bókrollu og fékk hana Barúk skrifara Neríasyni, og hann skrifaði á hana af munni Jeremía öll orð bókar þeirrar, er Jójakím Júdakonungur hafði brennt í eldi, _ en auk þeirra var enn fremur bætt við mörgum orðum líkum hinum.
37.1 Sedekía Jósíason varð konungur í stað Konja Jójakímssonar, er Nebúkadresar Babelkonungur hafði gjört að konungi í Júda. 37.2 En hvorki hann, né þjónar hans, né landslýðurinn hlýddi orðum Drottins, þeim er hann talaði fyrir munn Jeremía spámanns. 37.3 Og Sedekía konungur sendi Júkal Selemjason og Sefanía prest Maasejason til Jeremía spámanns með svolátandi orðsending: 'Bið þú fyrir oss til Drottins, Guðs vors!' 37.4 En Jeremía gekk þá út og inn meðal lýðsins og þeir höfðu enn ekki sett hann í dýflissuna. 37.5 Her Faraós var og lagður af stað frá Egyptalandi, og er Kaldear, sem sátu um Jerúsalem, spurðu það, héldu þeir burt frá Jerúsalem. 37.6 Þá kom orð Drottins til Jeremía spámanns: 37.7 Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Svo skuluð þér segja við Júdakonung, sem sendi yður til mín, til þess að spyrja mig: Her Faraós, sem lagður er af stað yður til hjálpar, mun snúa aftur til síns lands, til Egyptalands, 37.8 og Kaldear munu og aftur snúa og herja á þessa borg, vinna hana og brenna hana í eldi. 37.9 Svo segir Drottinn: Svíkið ekki sjálfa yður með því að segja: 'Kaldear munu vissulega fara burt frá oss!' því að þeir fara ekki burt. 37.10 Því að þótt þér fellduð allan her Kaldea, er á yður herjar, og ekki væru aðrir orðnir eftir af þeim en sverði lagðir menn, þá mundu þeir rísa upp, hver og einn í sínu tjaldi, og brenna þessa borg í eldi! 37.11 En er her Kaldea fór burt frá Jerúsalem undan her Faraós, 37.12 þá fór Jeremía frá Jerúsalem og hélt til Benjamínslands, til þess að taka þar á móti erfðahlut, mitt á meðal lýðsins. 37.13 En er hann kom í Benjamínshlið, þá var þar fyrir varðmaður, að nafni Jería Selemjason, Hananíasonar. Hann þreif í Jeremía spámann og sagði: 'Þú ætlar að hlaupast burt til Kaldea!' 37.14 En Jeremía sagði: 'Það er lygi! Ég ætla ekki að hlaupast burt til Kaldea!' En Jería hlustaði ekki á Jeremía og tók hann höndum og fór með hann til höfðingjanna. 37.15 Og höfðingjarnir reiddust Jeremía og börðu hann og settu hann í fangelsi í húsi Jónatans kanslara, því að það höfðu þeir gjört að dýflissu. 37.16 Þannig komst Jeremía í prísundina og í hvelfinguna, og þar sat Jeremía alllangan tíma. 37.17 En Sedekía konungur sendi og lét sækja hann, og konungur spurði hann á laun í höll sinni og mælti: 'Hefir nokkurt orð komið frá Drottni?' 'Svo er víst!' mælti Jeremía. 'Þú munt seldur verða á vald Babelkonungs!' 37.18 Því næst sagði Jeremía við Sedekía konung: 'Hvað hefi ég brotið gegn þér og gegn þjónum þínum og gegn þessum lýð, að þér hafið sett mig í dýflissu? 37.19 Og hvar eru nú spámenn yðar, þeir er spáðu yður og sögðu: ,Eigi mun Babelkonungur fara í móti yður og í móti þessu landi`? 37.20 Og heyr nú, minn herra konungur! Virst að heyra auðmjúka bæn mína! Lát eigi flytja mig aftur í hús Jónatans kanslara, svo að ég deyi þar ekki!' 37.21 Síðan var Jeremía settur í varðhald í varðgarðinum að boði Sedekía konungs og honum gefinn brauðhleifur á degi hverjum úr bakarastrætinu, uns allt brauð var uppgengið í borginni. Og þannig sat Jeremía í varðgarðinum.
38.1 Þá fréttu þeir Sefatja Mattansson, Gedalja Pashúrsson, Júkal Selemjason og Pashúr Malkíason þau orð, er Jeremía talaði til alls lýðsins: 38.2 'Svo segir Drottinn: Þeir, sem verða kyrrir í þessari borg, munu deyja fyrir sverði, af hungri og af drepsótt, en þeir, sem fara út til Kaldea, munu lífi halda og hljóta líf sitt að herfangi og lifa. 38.3 Svo segir Drottinn: Þessi borg mun vissulega verða gefin her Babelkonungs á vald og hann mun vinna hana!' 38.4 Þá sögðu höfðingjarnir við konung: 'Lát drepa mann þennan! Því að hann gjörir hermennina, sem eftir eru í þessari borg, huglausa og allan lýðinn með því að tala slík orð til þeirra, því að þessi maður leitar ekki þess, sem þessum lýð er til heilla, heldur þess, sem honum er til ógæfu.' 38.5 En Sedekía konungur svaraði: 'Sjá, hann er á yðar valdi, því að konungurinn megnar ekkert á móti yður.' 38.6 Þá tóku þeir Jeremía og köstuðu honum í gryfju Malkía konungssonar, sem var í varðgarðinum, og létu þeir Jeremía síga niður í böndum, en í gryfjunni var ekkert vatn, heldur leðja, og Jeremía sökk ofan í leðjuna. 38.7 En er Ebed-Melek, blálenskur geldingur, sem var í konungshöllinni, frétti, að þeir hefðu varpað Jeremía í gryfjuna, _ en konungur sat þá í Benjamínshliði _, 38.8 þá gekk Ebed-Melek út úr konungshöllinni og mælti til konungs á þessa leið: 38.9 'Minn herra konungur! Illverk hafa þessir menn framið með öllu því, er þeir hafa gjört við Jeremía spámann, sem þeir köstuðu í gryfjuna, svo að hann hlýtur að deyja þar úr hungri, því að ekkert brauð er framar til í borginni.' 38.10 Þá skipaði konungur Ebed-Melek Blálendingi á þessa leið: 'Tak héðan með þér þrjá menn og drag Jeremía spámann upp úr gryfjunni, áður en hann deyr.' 38.11 Og Ebed-Melek tók mennina með sér og fór inn í konungshöllina, inn undir féhirsluna, og tók þar sundurrifna fataræfla og klæðaslitur og lét síga í böndum niður í gryfjuna til Jeremía. 38.12 Síðan mælti Ebed-Melek Blálendingur til Jeremía: 'Legg rifnu og slitnu fataræflana undir hendur þér undir böndin!' Og Jeremía gjörði svo. 38.13 Og þeir drógu Jeremía upp með böndunum og hófu hann upp úr gryfjunni. Og sat nú Jeremía í varðgarðinum. 38.14 Sedekía konungur sendi menn og lét sækja Jeremía spámann til sín að þriðju dyrunum, sem eru í musteri Drottins, og konungur mælti til Jeremía: 'Ég vil spyrja þig nokkurs, leyn mig engu!' 38.15 En Jeremía mælti til Sedekía: 'Hvort munt þú ekki deyða mig, ef ég segi þér það? Og þótt ég ráðleggi þér eitthvað, þá hlýðir þú mér ekki!' 38.16 Þá vann Sedekía konungur Jeremía eið á laun og mælti: 'Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er skapað hefir í oss þetta líf, skal ég ekki deyða þig né selja þig á vald þessara manna, sem sitja um líf þitt.' 38.17 Þá sagði Jeremía við Sedekía: 'Svo segir Drottinn, Guð allsherjar, Ísraels Guð: Ef þú gengur á vald höfðingjum Babelkonungs, þá munt þú lífi halda og borg þessi eigi verða brennd í eldi, og þú munt lífi halda og fólk þitt. 38.18 En gangir þú ekki á vald höfðingjum Babelkonungs, þá mun borg þessi seld verða á vald Kaldea, og þeir munu brenna hana í eldi, og þú munt ekki heldur komast undan þeim.' 38.19 Þá sagði Sedekía konungur við Jeremía: 'Ég óttast þá Júdamenn, sem þegar hafa hlaupist yfir til Kaldea, að menn kynnu að selja mig þeim á vald og þeir draga dár að mér!' 38.20 En Jeremía sagði: 'Þeir munu eigi framselja þig. Hlýð þú boði Drottins í því, er ég segi þér, þá mun þér vel vegna og þú lífi halda. 38.21 En ef þú færist undan að ganga á vald þeirra, þá hefir Drottinn birt mér þetta: 38.22 Sjá, allar þær konur, sem eftir munu verða í höll Júdakonungs, munu fluttar verða til höfðingja Babelkonungs, og þær munu segja: ,Menn, sem voru í vináttu við þig, hafa ginnt þig og orðið þér yfirsterkari. Þegar fætur þínir sukku í foræðið, hörfuðu þeir aftur á bak!` 38.23 Og allar konur þínar og börn þín munu færð verða Kaldeum, og ekki munt þú heldur komast undan þeim, heldur munt þú gripinn verða og seldur á vald Babelkonungs, og þessi borg mun brennd verða í eldi.' 38.24 Þá sagði Sedekía við Jeremía: 'Enginn maður má vita af þessum viðræðum, ella verður það þinn bani. 38.25 En þegar höfðingjarnir frétta, að ég hafi talað við þig, og þeir koma til þín og segja við þig: ,Seg oss, hvað þú talaðir við konung, _ leyn oss engu, ella drepum vér þig _ og hvað konungur talaði við þig,` 38.26 þá seg við þá: ,Ég bað konung auðmjúklega að láta mig ekki fara aftur í hús Jónatans til þess að deyja þar.'` 38.27 Og allir höfðingjarnir komu til Jeremía og spurðu hann, en hann skýrði þeim með öllu svo frá sem konungur hafði lagt fyrir. Þá gengu þeir rólegir burt frá honum, því að þetta hafði ekki orðið hljóðbært. 38.28 Og Jeremía sat í varðgarðinum allt til þess dags, er Jerúsalem var unnin.
39.1 Á níunda ríkisári Sedekía konungs í Júda, í tíunda mánuðinum, kom Nebúkadresar konungur í Babýlon og allur her hans til Jerúsalem, og settust um hana. 39.2 En á ellefta ríkisári Sedekía, í fjórða mánuðinum, níunda dag mánaðarins, var brotið skarð inn í borgina. 39.3 En er Jerúsalem var unnin, komu allir hershöfðingjar Babelkonungs og settust að í Miðhliðinu, þeir Nergalsareser, höfðingi í Símmagir, Nebúsarsekím hirðstjóri og margir aðrir höfðingjar Babelkonungs. 39.4 En er Sedekía Júdakonungur og allir hermennirnir sáu þetta, flýðu þeir og fóru um nóttina út úr borginni, veginn sem liggur út að konungsgarðinum, gegnum hliðið milli beggja múranna og héldu leiðina til Jórdandalsins. 39.5 En her Kaldea veitti þeim eftirför og náði Sedekía á Jeríkó-völlum. Tóku þeir hann og fluttu hann til Ribla í Hamathéraði til Nebúkadresars Babelkonungs. Hann kvað upp dóm hans. 39.6 Lét Babelkonungur drepa sonu Sedekía í Ribla fyrir augum hans. Sömuleiðis lét Babelkonungur drepa alla tignarmenn í Júda. 39.7 En Sedekía lét hann blinda og binda eirfjötrum til þess að flytja hann til Babýlon. 39.8 Kaldear brenndu konungshöllina og hús lýðsins og rifu niður múra Jerúsalem. 39.9 En leifar lýðsins, þá er eftir voru í borginni, og liðhlaupana, þá er hlaupist höfðu í lið með honum, og leifar lýðsins, þá er eftir voru, herleiddi Nebúsaradan lífvarðarforingi til Babýlon, 39.10 en af almúgamönnum, sem ekkert áttu, lét Nebúsaradan lífvarðarforingi nokkra verða eftir í Júda og gaf þeim þann dag víngarða og akra. 39.11 En um Jeremía gaf Nebúkadresar Babelkonungur út svolátandi skipun fyrir milligöngu Nebúsaradans lífvarðarforingja: 39.12 'Tak hann og annast hann og gjör honum ekkert illt, heldur gjör við hann svo sem hann mælist til við þig!' 39.13 Þá sendu þeir Nebúsaradan lífvarðarforingi og Nebúsasban hirðstjóri og Nergalsareser hershöfðingi og allir yfirmenn Babelkonungs 39.14 menn og létu sækja Jeremía í varðgarðinn og seldu hann í hendur Gedalja Ahíkamssyni, Safanssonar, að hann færi með hann heim. Og þannig varð hann kyrr meðal lýðsins. 39.15 Meðan Jeremía sat innilokaður í varðgarðinum, hafði orð Drottins komið til hans: 39.16 Far og seg við Ebed-Melek Blálending: Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Sjá, ég læt orð mín um ógæfu, en eigi um hamingju, koma fram á þessari borg, og þau skulu rætast fyrir augum þínum á þeim degi. 39.17 En ég skal frelsa þig á þeim degi _ segir Drottinn _ og þú skalt ekki seldur verða á vald mönnum þeim, er þú hræðist, 39.18 heldur skal ég láta þig komast undan og þú skalt ekki falla fyrir sverði, og þú skalt hljóta líf þitt að herfangi, af því að þú hefir treyst mér _ segir Drottinn.
40.1 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni, eftir að Nebúsaradan lífvarðarforingi hafði látið hann lausan í Rama, er hann hafði flutt hann bundinn fjötrum ásamt hinum herteknu frá Jerúsalem og Júda, er flytjast áttu til Babýlon. 40.2 Lífvarðarforinginn lét sækja Jeremía og sagði við hann: 'Drottinn, Guð þinn, hótaði þessum stað þessari ógæfu 40.3 og lét hana fram koma, og Drottinn gjörði eins og hann hafði hótað, því að þér syndguðuð gegn Drottni og hlýdduð eigi hans raustu, og fyrir því hefir yður þetta að höndum borið. 40.4 Og sjá, nú leysi ég fjötrana af höndum þínum. Ef þér þóknast að koma með mér til Babýlon, þá kom þú og ég skal ala önn fyrir þér. En ef þér þóknast ekki að koma með mér til Babýlon, þá lát það ógjört. Sjá þú, allt landið liggur opið fyrir þér. Hvert sem þér líst gott og rétt að fara, þangað mátt þú fara. 40.5 En ef þér þóknast að vera um kyrrt, skalt þú fara til Gedalja Ahíkamssonar, Safanssonar, er Babelkonungur hefir skipað yfir Júdaborgir, og ver með honum meðal lýðsins, eða far hvert sem þér þóknast að fara.' Og lífvarðarforinginn fékk honum uppeldi og gjafir og lét hann í brott fara. 40.6 Og Jeremía fór til Mispa til Gedalja Ahíkamssonar, og var með honum meðal lýðsins, þeirra er eftir voru í landinu. 40.7 Og er allir hershöfðingjarnir, sem enn voru úti, og menn þeirra, fréttu, að Babelkonungur hefði skipað Gedalja Ahíkamsson landstjóra og að hann hefði falið umsjá hans menn og konur og börn og þá af almúga landsins, er eigi voru herleiddir til Babýlon, 40.8 fóru þeir til Mispa á fund Gedalja, þeir Ísmael Netanjason, Jóhanan Kareason, Seraja Tanhúmetsson, synir Efaí frá Netófa, og Jesanja, sonur Maakatítans, og menn þeirra. 40.9 Vann Gedalja Ahíkamsson, Safanssonar, þeim eið og mönnum þeirra og sagði: 'Óttist eigi að vera Kaldeum lýðskyldir. Verið kyrrir í landinu og þjónið Babelkonungi, og mun yður vel vegna. 40.10 Og sjá, ég verð kyrr í Mispa til þess að taka á móti þeim Kaldeum, er til vor kunna að koma, en safnið þér uppskeru af víni, ávöxtum og olíu og látið í ílát yðar og verið kyrrir í borgum yðar, er þér hafið tekið til eignar.' 40.11 Sömuleiðis fréttu allir Júdamenn, sem voru í Móab og hjá Ammónítum og í Edóm og í öllum öðrum löndum, að Babelkonungur hefði skilið leifar eftir af Júda og að hann hefði sett Gedalja Ahíkamsson, Safanssonar, yfir þá. 40.12 Sneru þeir því aftur frá öllum þeim stöðum, þangað sem þeir höfðu hraktir verið, og komu til Júda, til Gedalja í Mispa, og þeir söfnuðu mjög mikilli uppskeru af víni og ávöxtum. 40.13 Jóhanan Kareason og allir hershöfðingjarnir, sem enn voru úti á landi, fóru til Mispa á fund Gedalja 40.14 og sögðu við hann: 'Veist þú að Baalis Ammónítakonungur hefir sent Ísmael Netanjason til þess að ráða þér bana?' En Gedalja Ahíkamsson trúði þeim ekki. 40.15 Og Jóhanan Kareason sagði við Gedalja á laun í Mispa: 'Leyf mér að fara og drepa Ísmael Netanjason, og enginn maður skal verða þess vís! Hví skal hann ráða þér bana og allir Júdamenn tvístrast, þeir er til þín hafa safnast, og leifar Júda verða að engu?' 40.16 En Gedalja Ahíkamsson sagði við Jóhanan Kareason: 'Þú skalt ekki gjöra það, því að þú talar lygar um Ísmael.'
41.1 En á sjöunda mánuði kom Ísmael Netanjason, Elísamasonar, af konungsættinni, og tíu menn með honum til Gedalja Ahíkamssonar í Mispa, og þeir mötuðust þar með honum í Mispa. 41.2 Og Ísmael Netanjason og tíu mennirnir, sem með honum voru, spruttu upp og myrtu Gedalja, er Babelkonungur hafði sett yfir landið, 41.3 svo og alla Júdamenn, er með honum voru í Mispa, og þá Kaldea, er þar voru. 41.4 En á öðrum degi frá því er Gedalja var myrtur og áður en nokkur varð þess vís, 41.5 komu menn frá Sikem, frá Síló og frá Samaríu, áttatíu manns, með skornu skeggi og rifnum klæðum og skinnsprettum á líkamanum. Höfðu þeir með sér matfórnir og reykelsi til þess að bera fram í musteri Drottins. 41.6 Gekk Ísmael Netanjason út í móti þeim frá Mispa, og var hann sígrátandi, er hann gekk. Og er hann mætti þeim, sagði hann við þá: 'Komið inn til Gedalja Ahíkamssonar!' 41.7 En jafnskjótt og þeir voru komnir inn í borgina, brytjaði hann þá niður og kastaði þeim í gryfju. 41.8 En meðal þeirra voru tíu menn, sem sögðu við Ísmael: 'Deyð oss eigi, því að vér eigum niðurgrafnar birgðir úti á akrinum, hveiti og bygg og olíu og hunang.' Þá hætti hann við og drap þá ekki ásamt bræðrum þeirra. 41.9 En gryfjan, sem Ísmael kastaði í öllum líkum þeirra manna, er hann drap, var stóra gryfjan, sem Asa konungur hafði gjöra látið til varnar gegn Basa Ísraelskonungi. Hana fyllti Ísmael Netanjason vegnum mönnum. 41.10 Því næst flutti Ísmael allar leifar lýðsins, sem voru í Mispa, konungsdæturnar og allan lýðinn, sem eftir var í Mispa, sem Nebúsaradan lífvarðarforingi hafði sett Gedalja Ahíkamsson yfir _ þá flutti Ísmael Netanjason burt hertekna og hélt af stað til þess að fara yfir til Ammóníta. 41.11 En er Jóhanan Kareason og allir hershöfðingjarnir, sem með honum voru, fréttu öll þau illvirki, er Ísmael Netanjason hafði framið, 41.12 tóku þeir alla menn sína og lögðu af stað til þess að berjast við Ísmael Netanjason, og varð fundur þeirra við stóru tjörnina hjá Gíbeon. 41.13 En er allur lýðurinn, sem var með Ísmael, sá Jóhanan Kareason og alla hershöfðingjana, sem með honum voru, gladdist hann, 41.14 og allur lýðurinn, sem Ísmael hafði flutt hertekinn frá Mispa, sneri við og hvarf aftur og gekk í lið með Jóhanan Kareasyni. 41.15 En Ísmael Netanjason komst undan Jóhanan við áttunda mann og fór til Ammóníta. 41.16 Því næst tók Jóhanan Kareason og allir hershöfðingjarnir, sem með honum voru, allar leifar lýðsins, er Ísmael Netanjason hafði flutt herteknar frá Mispa, eftir að hann hafði drepið Gedalja Ahíkamsson, menn, konur og börn og geldinga, er hann hafði flutt aftur frá Gíbeon, 41.17 og þeir lögðu af stað og námu staðar í Gerút-Kimham, sem er hjá Betlehem, til þess að halda þaðan áfram ferðinni til Egyptalands, 41.18 til þess að komast undan Kaldeum, sem þeir óttuðust, af því að Ísmael Netanjason hafði drepið Gedalja Ahíkamsson, er Babelkonungur hafði sett yfir landið.
42.1 Þá komu allir hershöfðingjarnir og meðal þeirra Jóhanan Kareason og Asarja Hósajason og allur lýðurinn, bæði smáir og stórir, 42.2 og sögðu við Jeremía spámann: 'Veit oss auðmjúka bæn vora og bið þú til Drottins, Guðs þíns, fyrir oss, fyrir öllum þessum leifum, sem vér erum, því að fáir erum vér eftir orðnir af mörgum, eins og þú sjálfur sér á oss. 42.3 Bið þú þess, að Drottinn, Guð þinn, gjöri oss kunnan þann veg, er vér eigum að fara, og það, sem vér eigum að gjöra.' 42.4 En Jeremía spámaður sagði við þá: 'Gott og vel! Ég skal biðja til Drottins, Guðs yðar, samkvæmt tilmælum yðar, og allt það, er Drottinn svarar yður, það skal ég segja yður. Engu skal ég leyna yður.' 42.5 Og þeir sögðu við Jeremía: 'Drottinn sé sannur og áreiðanlegur vottur gegn oss! Vér munum með öllu fara eftir þeim orðum, er Drottinn, Guð þinn, sendir þig með til vor, 42.6 hvort sem það verður gott eða illt. Skipun Drottins, Guðs vors, sem vér sendum þig til, viljum vér hlýða, til þess að oss megi vel vegna, er vér hlýðum skipun Drottins, Guðs vors.' 42.7 Og að tíu dögum liðnum kom orð Drottins til Jeremía, 42.8 og hann kallaði Jóhanan Kareason og alla hershöfðingjana saman, sem með honum voru, og allan lýðinn, bæði smáa og stóra, 42.9 og sagði við þá: Svo segir Drottinn, Ísraels Guð, er þér senduð mig til, að ég bæri fram fyrir hann auðmjúka bæn yðar: 42.10 Ef þér búið kyrrir í þessu landi, vil ég uppbyggja yður og ekki rífa niður, og ég vil gróðursetja yður og ekki uppræta, því að mig iðrar hins illa, er ég hefi gjört yður. 42.11 Óttist ekki Babelkonung, sem þér nú óttist, óttist hann ekki _ segir Drottinn _ því að ég er með yður til þess að hjálpa yður og til þess að frelsa yður undan hans valdi. 42.12 Og ég vil veita yður þá miskunn, að hann miskunni yður og láti yður snúa aftur heim í land yðar. 42.13 En ef þér segið: 'Vér viljum eigi búa kyrrir í þessu landi!' og hlýðið eigi skipun Drottins, Guðs yðar, 42.14 en segið: 'Nei, heldur viljum vér fara til Egyptalands, svo að vér þurfum ekki að sjá stríð, né heyra lúðurþyt, né hungra eftir brauði, og þar viljum vér setjast að!' _ 42.15 þá heyrið nú þess vegna orð Drottins, þér leifar Júdamanna: Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Ef þér eruð alvarlega að hugsa um að fara til Egyptalands og komist þangað, til þess að dveljast þar sem flóttamenn, 42.16 þá skal sverðið, sem þér nú óttist, ná yður þar, í Egyptalandi, og hungrið, sem þér nú hræðist, skal elta yður til Egyptalands, og þar skuluð þér deyja. 42.17 Og allir þeir menn, sem eru að hugsa um að fara til Egyptalands, til þess að dveljast þar sem flóttamenn, skulu deyja fyrir sverði og af hungri og drepsótt, og enginn þeirra skal sleppa við né komast undan ógæfu þeirri, er ég leiði yfir þá. 42.18 Því að svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Eins og reiði minni og heift var úthellt yfir Jerúsalembúa, svo skal og heift minni úthellt verða yfir yður, er þér farið til Egyptalands, og þér skuluð verða að formæling, að skelfing, að bölbænarformála og að háðung, og eigi framar sjá þennan stað. 42.19 Drottinn hefir svo til yðar talað, þér leifar Júdamanna: Farið eigi til Egyptalands! Vita skuluð þér, að nú hefi ég varað yður við. 42.20 Því að þér dróguð sjálfa yður á tálar, er þér senduð mig til Drottins, Guðs yðar, og sögðuð: 'Bið til Drottins, Guðs vors, fyrir oss og seg oss nákvæmlega svo frá sem Drottinn, Guð vor, mælir, og vér skulum gjöra það!' 42.21 Nú hefi ég sagt yður frá því í dag, en þér hafið ekki hlýtt skipun Drottins, Guðs yðar, viðvíkjandi öllu því, er hann hefir sent mig með til yðar. 42.22 Og vita skuluð þér nú, að þér munuð deyja fyrir sverði, af hungri og drepsótt á þeim stað, þangað sem yður lystir að fara, til þess að dveljast þar sem flóttamenn.
43.1 En er Jeremía hafði lokið að mæla til alls lýðsins öll orð Drottins, Guðs þeirra, öll þau orð, er Drottinn, Guð þeirra, hafði sent hann með til þeirra, 43.2 þá sögðu Asarja Hósajason og Jóhanan Kareason og allir ofstopafullu mennirnir við Jeremía: 'Þú talar lygi! Drottinn, Guð vor, hefir eigi sent þig og sagt: ,Þér skuluð eigi fara til Egyptalands, til þess að dveljast þar sem flóttamenn!` 43.3 heldur egnir Barúk Neríason þig upp á móti oss, til þess að selja oss á vald Kaldeum, að þeir drepi oss eða herleiði oss til Babýlon.' 43.4 Og ekki hlýddu Jóhanan Kareason og allir hershöfðingjarnir og allur lýðurinn skipun Drottins, að vera kyrrir í Júda, 43.5 heldur tóku þeir Jóhanan Kareason og allir hershöfðingjarnir allar leifar Júdamanna, er aftur voru heim komnar frá öllum þeim þjóðum, þangað sem þeir höfðu verið brott reknir, til þess að dveljast í Júda, 43.6 menn og konur og börn og konungsdæturnar og allar þær sálir, sem Nebúsaradan lífvarðarforingi hafði skilið eftir hjá Gedalja Ahíkamssyni, Safanssonar, svo og Jeremía spámann og Barúk Neríason, 43.7 og fóru til Egyptalands, því að þeir hlýddu ekki skipun Drottins. Og þeir fóru til Takpanes. 43.8 Orð Drottins kom til Jeremía í Takpanes: 43.9 Tak þér í hönd stóra steina og graf þá í steinlími niður í steinhlaðið, sem er úti fyrir dyrum hallar Faraós í Takpanes, í viðurvist flóttamannanna frá Júda 43.10 og seg við þá: Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Sjá, ég sendi og læt sækja Nebúkadresar Babelkonung, þjón minn, og reisi hásæti hans yfir þessum steinum, er ég hefi grafið niður, og hann skal breiða hásætisdúk sinn yfir þá. 43.11 Og hann mun koma og ljósta Egyptaland: Hann mun framselja dauðanum þann, sem dauða er ætlaður, herleiðingunni þann, sem herleiðingu er ætlaður, og sverðinu þann, sem sverði er ætlaður! 43.12 Ég mun leggja eld í musteri guða Egyptalands, og hann mun brenna þau til ösku og flytja burt guði þeirra, og hann mun vefja um sig Egyptalandi, eins og hirðir vefur um sig skikkju sinni. Síðan mun hann fara þaðan óáreittur. 43.13 Og hann mun brjóta sundur súlurnar í Betsemes í Egyptalandi og brenna musteri guða Egyptalands í eldi.
44.1 Orðið sem kom til Jeremía um alla Júdamenn, sem bjuggu í Egyptalandi, þá er bjuggu í Migdól, Takpanes, Nóf og í Patróslandi: 44.2 Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Þér hafið séð alla þá óhamingju, sem ég hefi leitt yfir Jerúsalem og yfir allar borgirnar í Júda. Þær eru nú eyðirústir, og enginn maður býr í þeim. 44.3 Er það sakir illsku þeirrar, er þeir höfðu í frammi, að egna mig til reiði með því að fara og færa öðrum guðum reykelsisfórnir, er þeir ekki þekktu, hvorki þeir, né þér, né feður yðar. 44.4 Ég sendi til yðar alla þjóna mína, spámennina, bæði seint og snemma, til þess að segja yður: 'Fremjið eigi slíka svívirðing, sem ég hata!' 44.5 En þeir hlýddu ekki og lögðu ekki við eyrun, að þeir sneru sér frá vonsku sinni, svo að þeir færðu ekki öðrum guðum reykelsisfórnir. 44.6 Þá var heift minni og reiði úthellt, og hún brann í borgum Júda og á Jerúsalem-strætum, svo að þær urðu að rúst, að auðn, eins og þær nú eru. 44.7 Og nú _ svo segir Drottinn, Guð allsherjar, Ísraels Guð _ hví viljið þér gjöra sjálfum yður mikið tjón, með því að uppræta fyrir yður bæði menn og konur, börn og brjóstmylkinga úr Júda, svo að þér látið engar leifar af yður eftir verða, 44.8 þar sem þér egnið mig til reiði með handaverkum yðar, þar sem þér færið öðrum guðum reykelsisfórnir í Egyptalandi, þangað sem þér eruð komnir, til þess að dveljast þar sem flóttamenn, til þess að þér verðið upprættir og til þess að þér verðið að formæling og spotti meðal allra þjóða á jörðu? 44.9 Hafið þér gleymt illgjörðum feðra yðar og illgjörðum Júdakonunga og illgjörðum höfðingja yðar og yðar eigin illgjörðum og illgjörðum kvenna yðar, er framdar hafa verið í Júda og á strætum Jerúsalem? 44.10 Ekki hafa þeir auðmýkt sig enn og ekki hafa þeir óttast né farið eftir lögmáli mínu og setningum, er ég lagði fyrir yður og fyrir feður yðar. 44.11 Fyrir því segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Sjá, ég sný andliti mínu gegn yður til óhamingju, og það til þess að uppræta allan Júda. 44.12 Og ég vil hrífa burt leifar Júdamanna, þá er ásettu sér að fara til Egyptalands, til þess að dveljast þar sem flóttamenn. Allir skulu þeir farast, falla í Egyptalandi, fyrir sverði og af hungri skulu þeir farast, bæði smáir og stórir, fyrir sverði og af hungri skulu þeir deyja. Og þeir skulu verða að bölvun, að skelfing, að formæling og að spotti. 44.13 Og ég mun vitja þeirra, sem búa í Egyptalandi, eins og ég vitjaði Jerúsalem, með sverði, hungri og drepsótt. 44.14 Og af leifum Júdamanna, þeim er komnir eru til Egyptalands, til þess að dveljast þar sem flóttamenn, skal enginn af bjargast eða undan komast, svo að hann geti horfið aftur til Júda, þangað sem þá langar til að hverfa aftur, til þess að búa þar, því að þeir munu eigi hverfa heim aftur, nema fáeinir, sem undan komast. 44.15 Þá svöruðu allir mennirnir, sem vissu að konur þeirra færðu öðrum guðum reykelsisfórnir, og allar konurnar, sem stóðu þar í miklum hóp, og allur lýðurinn, sem bjó í Egyptalandi, í Patrós, Jeremía á þessa leið: 44.16 'Viðvíkjandi því, er þú hefir til vor talað í nafni Drottins, þá ætlum vér ekki að hlýða þér, 44.17 heldur ætlum vér að halda með öllu heit það, er vér höfum gjört, að færa himnadrottningunni reykelsisfórnir og dreypifórnir, eins og vér gjörðum og feður vorir, konungar vorir og höfðingjar vorir í borgum Júda og á Jerúsalem-strætum. Þá höfðum vér nægð brauðs og oss leið vel, og vér litum enga óhamingju. 44.18 En síðan vér hættum að færa himnadrottningunni reykelsisfórnir og dreypifórnir, hefir oss skort allt, og vér höfum farist fyrir sverði og af hungri. 44.19 Og þar sem vér nú færum himnadrottningunni reykelsisfórnir og dreypifórnir, er það án vilja og vitundar manna vorra, að vér gjörum henni kökur, til þess að gjöra þann veg mynd af henni, og færum henni dreypifórnir?' 44.20 Þá mælti Jeremía á þessa leið til alls lýðsins, til karlmannanna og kvennanna og til alls lýðsins, er honum hafði svo svarað: 44.21 'Reykjargjörð sú, er þér gjörðuð í borgum Júda og á Jerúsalem-strætum, þér og feður yðar, konungar yðar og höfðingjar og landslýðurinn, _ hvort minntist Drottinn hennar ekki, hvort kom hún honum ekki í hug? 44.22 Og Drottinn gat ekki lengur þolað vonskuverk yðar og svívirðingar þær, er þér frömduð. Og þannig varð land yðar að auðn og skelfing og formæling, íbúalaust, svo sem það enn er, 44.23 sakir þess að þér færðuð reykelsisfórnir og syndguðuð gegn Drottni og hlýdduð ekki skipun Drottins og fóruð ekki eftir lögmáli hans, setningum og boðorðum. Fyrir því kom þessi ógæfa yfir yður, eins og nú er fram komið.' 44.24 Og Jeremía sagði við allan lýðinn og við allar konurnar: Heyrið orð Drottins, allir þér Júdamenn, sem í Egyptalandi eruð! 44.25 Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Þér konur. Þér hafið talað það með munni yðar og framkvæmt það með höndum yðar, sem þér segið: 'Vér viljum halda heit vor, er vér höfum gjört, að færa himnadrottningunni reykelsisfórnir og dreypifórnir!' Þá efnið heit yðar og haldið heit yðar! 44.26 Heyrið því orð Drottins, allir Júdamenn, þér sem í Egyptalandi búið: Sjá, ég sver við mitt mikla nafn _ segir Drottinn: Nafn mitt skal eigi framar nefnt verða af nokkurs Júdamanns munni í öllu Egyptalandi, að hann segi: 'Svo sannarlega sem herrann Drottinn lifir.' 44.27 Sjá, ég vaki yfir þeim til óhamingju og eigi til hamingju, og allir Júdamenn, sem í Egyptalandi eru, skulu farast fyrir sverði og af hungri, uns þeir eru gjöreyddir. 44.28 En þeir, sem komast undan sverðinu, skulu hverfa aftur frá Egyptalandi til Júda, en aðeins fáir menn. Og allar leifar Júda, þeir er komnir eru til Egyptalands, til þess að dveljast þar sem flóttamenn, skulu komast að raun um, hvers orð rætist, mitt eða þeirra! 44.29 Og hafið þetta til marks _ segir Drottinn _ um að ég mun hegna yður á þessum stað, til þess að þér komist að raun um, að ógnanir mínar til yðar um óhamingju muni rætast: 44.30 Svo segir Drottinn: Sjá, ég sel Hofra Faraó, Egyptalandskonung, á vald óvinum hans og á vald þeirra, sem sækjast eftir lífi hans, eins og ég seldi Sedekía Júdakonung á vald Nebúkadresars Babelkonungs, er var óvinur hans og sóttist eftir lífi hans.
45.1 Orðið sem Jeremía spámaður talaði til Barúks Neríasonar, þá er hann skrifaði þessi orð í bókina eftir forsögn Jeremía á fjórða ríkisári Jójakíms Jósíasonar, konungs í Júda: 45.2 Svo segir Drottinn, Ísraels Guð, um þig, Barúk: 45.3 Þú sagðir: 'Vei mér, því að Drottinn bætir harmi við kvöl mína. Ég er þreyttur orðinn af andvörpum mínum, og hvíld finn ég enga!' 45.4 Svo skalt þú til hans mæla: Svo segir Drottinn: Sjá, það sem ég hefi byggt, ríf ég niður, og það sem ég hefi gróðursett, uppræti ég. 45.5 En þú ætlar þér mikinn hlut! Girnst það eigi! Því að sjá, ég leiði ógæfu yfir allt hold _ segir Drottinn. En þér gef ég líf þitt að herfangi, hvert sem þú fer.
46.1 Þetta birtist Jeremía spámanni sem orð Drottins um þjóðirnar. 46.2 Um Egyptaland. Viðvíkjandi her Faraós, Nekós Egyptalandskonungs. Herinn var við Efratfljót, hjá Karkemis, er Nebúkadresar Babelkonungur vann sigur á honum á fjórða ríkisári Jójakíms Jósíasonar, Júdakonungs: 46.3 Búið út törgu og skjöld og gangið fram til orustu! 46.4 Beitið fyrir hestana og stígið á bak herfákunum og fylkið yður hjálmaðir! Fægið lensurnar! Klæðist pansara! 46.5 Hví sé ég þá skelfda hörfa aftur á bak? Og kappar þeirra eru yfirkomnir af ótta og flýja allt hvað af tekur og líta ekki við _ skelfing allt um kring _ segir Drottinn. 46.6 Eigi mun hinn frái forða sér né kappinn komast undan. Norður frá, á bökkum Efratfljóts, hrasa þeir og falla. 46.7 Hver var það, sem belgdist upp eins og Níl, hvers vötn komu æðandi eins og fljót? 46.8 Egyptaland belgdist upp eins og Níl, og vötn þess komu æðandi eins og fljót, og það sagði: 'Ég vil stíga upp, þekja landið, eyða borgir og íbúa þeirra. 46.9 Komið, hestar, og æðið, vagnar, og kapparnir leggi af stað, Blálendingar og Pút-menn, sem bera skjöld, og Lúdítar, sem benda boga!' 46.10 En sá dagur er hefndardagur herranum, Drottni allsherjar, að hann hefni sín á mótstöðumönnum sínum. Þá mun sverðið eta og seðjast og drekka sig drukkið af blóði þeirra, því að herrann, Drottinn allsherjar, heldur fórnarhátíð í landinu norður frá, við Efratfljót. 46.11 Far upp til Gíleað og sæk smyrsl, þú mærin, dóttirin Egyptaland! Til einskis munt þú viðhafa mörg læknislyf, enginn plástur er til handa þér! 46.12 Þjóðirnar fréttu smán þína, og jörðin er full af harmakveini þínu, því að einn kappinn hrasaði um annan, féllu báðir jafnsaman. 46.13 Orðið sem Drottinn talaði til Jeremía spámanns, um það að Nebúkadresar Babelkonungur mundi vinna sigur á Egyptalandi. 46.14 Kunngjörið í Egyptalandi og boðið í Migdól, já boðið í Nóf og Takpanes, segið: Gakk fram og gjör þig vígbúinn, því að sverðið hefir þegar etið umhverfis þig! 46.15 Hví eru þínir sterku menn að velli lagðir? Þeir fengu eigi staðist, því að Drottinn kollvarpaði þeim. 46.16 Hann lét marga hrasa, og þeir féllu hver um annan þveran, svo að þeir sögðu: 'Á fætur, og hverfum aftur til þjóðar vorrar, til ættlands vors, undan hinu vígfreka sverði!' 46.17 Þeir munu nefna Faraó, Egyptalandskonung: 'Tortíming! _ hann lét hinn hentuga tíma líða hjá.' 46.18 Svo sannarlega sem ég lifi, segir konungurinn, Drottinn allsherjar er nafn hans: Líkur Tabor meðal fjallanna og líkur Karmel við sjóinn mun hann koma. 46.19 Gjör þér áhöld til brottfarar, þú sem þar býr, dóttirin Egyptaland, því að Nóf mun verða að auðn og hún mun verða brennd og verða mannauð. 46.20 Egyptaland er mjög fögur kvíga, kleggjar úr norðri koma yfir hana. 46.21 Jafnvel málaliðið, sem það hefir hjá sér, eins og alikálfa _ já, jafnvel það snýr við, flýr allt saman, fær eigi staðist. Því að glötunardagur þeirra er yfir þá kominn, hegningartími þeirra. 46.22 Rödd þess er orðin eins og þruskið í höggorminum, sem skríður burt, því með herliði bruna þeir áfram og með öxum ryðjast þeir inn á það, eins og viðarhöggsmenn. 46.23 Þeir höggva upp skóg þess _ segir Drottinn _ því að um hann verður ekki farið, því að þeir eru fleiri en engisprettur og á þá verður engri tölu komið. 46.24 Dóttirin Egyptaland varð til skammar, hún var seld á vald þjóð að norðan. 46.25 Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, segir: Sjá, ég vitja Amóns frá Þebu og Faraós og þeirra, sem á hann treysta, 46.26 og sel þá á vald þeirra, er sækjast eftir lífi þeirra, og á vald Nebúkadresars Babelkonungs og á vald þjóna hans. En eftir það skal það byggt vera, eins og fyrri á dögum _ segir Drottinn. 46.27 En óttast þú ekki, þjónn minn Jakob, og hræðst þú ekki, Ísrael, því að ég frelsa þig úr fjarlægu landi og niðja þína úr landinu, þar sem þeir eru herleiddir, til þess að Jakob hverfi heim aftur og njóti hvíldar og búi óhultur, án þess nokkur hræði hann. 46.28 Óttast þú ekki, þjónn minn Jakob _ segir Drottinn _ því að ég er með þér! Því að ég vil gjöreyða öllum þeim þjóðum, er ég hefi rekið þig til, en þér vil ég ekki gjöreyða, heldur vil ég hirta þig í hófi; en ég vil ekki láta þér með öllu óhegnt.
47.1 Þetta birtist Jeremía spámanni sem orð Drottins um Filista, áður en Faraó vann Gasa: 47.2 Svo segir Drottinn: Sjá, vatn kemur streymandi úr norðri og verður að á, sem flæðir yfir. Það flóir yfir landið og það, sem í því er, yfir borgir og íbúa þeirra, svo að menn æpa hátt og allir íbúar landsins hljóða 47.3 vegna dynsins af hófastappi hesta hans, vegna skröltsins í vögnum hans og glymsins í hjólum hans. Feðurnir líta ekki við til barna sinna af því að hendur þeirra eru orðnar lémagna 47.4 vegna dagsins, sem kominn er til að eyða öllum Filistum, til að uppræta fyrir Týrus og Sídon sérhvern hjálparmann sem enn er eftir. Því að Drottinn mun eyða Filistum, leifum Kaftór strandar. 47.5 Gasa er orðin sköllótt, Askalon í eyði lögð; þér leifar Anakíta, hversu lengi ætlið þér að rista á yður skinnsprettur? 47.6 Æ, sverð Drottins, hve lengi ætlar þú að vera hvíldarlaust? Drag þig aftur í slíðrar þínar, still þig og hljóðna! 47.7 Hvernig ætti það að hvílast, þar sem Drottinn hefir gefið því skipun? Til Askalon og til strandar hafsins, _ þangað hefir hann ætlað því för.
48.1 Um Móab. Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Vei yfir Nebó, því að hún er eydd, orðin til skammar, Kirjataím er unnin, háborgin er orðin til skammar og skelfd. 48.2 Frægð Móabs er farin. Í Hesbon brugga menn ill ráð gegn borginni: 'Komið, vér skulum uppræta hana, svo að hún sé eigi framar þjóð!' Einnig þú, Madmen, munt gjöreydd verða, sverðið eltir þig! 48.3 Neyðarkvein heyrist frá Hórónaím: 'Eyðing og ógurleg tortíming!' 48.4 Móab er í eyði lagður, þeir láta neyðarkvein heyrast allt til Sóar, 48.5 því að grátandi ganga þeir upp stíginn hjá Lúkít, já, í hlíðinni hjá Hórónaím heyra menn neyðarkvein tortímingarinnar. 48.6 Flýið, forðið lífi yðar, og verðið eins og einirunnur í eyðimörkinni! 48.7 Af því að þú reiddir þig á káksmíðar þínar og fjársjóðu þína, verður þú og unnin, og Kamos verður að fara í útlegð, prestar hans og höfðingjar hver með öðrum. 48.8 Eyðandinn kemur yfir hverja borg, engin borg kemst undan. Dalurinn ferst og sléttlendið eyðileggst, eins og Drottinn hefir sagt. 48.9 Fáið Móab vængi, því að á flugferð skal hann brott fara, og borgir hans skulu verða að auðn og enginn í þeim búa. 48.10 Bölvaður sé sá, sem slælega framkvæmir verk Drottins, og bölvaður sé sá, sem synjar sverði sínu um blóð! 48.11 Móab hefir lifað í friði frá æsku og legið í náðum á dreggjum sínum. Honum hefir ekki verið hellt úr einu kerinu í annað, og aldrei hefir hann farið í útlegð. Fyrir því hefir bragðið af honum haldist og ilmurinn af honum eigi breytst. 48.12 Sjá, þeir dagar munu því koma, segir Drottinn, að ég sendi honum tæmendur, sem tæma hann. Þeir skulu hella úr kerum hans og mölva sundur krúsir hans. 48.13 Þá mun Móab verða til skammar vegna Kamoss, eins og Ísraels hús varð til skammar vegna Betel, er það treysti á. 48.14 Hvernig getið þér sagt: 'Vér erum hetjur og öflugir hermenn?' 48.15 Eyðandi Móabs og borga hans kemur þegar, og úrval æskumanna hans hnígur niður til slátrunar _ segir konungurinn. Drottinn allsherjar er nafn hans. 48.16 Eyðilegging Móabs er komin nærri og óhamingja hans hraðar sér mjög. 48.17 Vottið honum hluttekning, allir þér nábúar hans, og allir þér, sem þekkið nafn hans. Segið: 'Hvernig brotnaði stafurinn sterki, sprotinn dýrlegi!' 48.18 Stíg niður úr vegsemdinni og sest í duftið, þú sem þar býr, dóttirin Díbon, því að eyðandi Móabs kemur í móti þér, eyðir vígi þín. 48.19 Gakk út á veginn og skyggnst um, þú sem býr í Aróer, spyr flóttamanninn og þá konu, er undan hefir komist, og seg: 'Hvað hefir til borið?' 48.20 Móab varð til skammar, já skelfdist. Hljóðið og kveinið! Kunngjörið hjá Arnon, að Móab sé eyddur. 48.21 Dómur er genginn yfir sléttulandið, yfir Hólon og Jahsa og Mefaat, 48.22 yfir Díbon, Nebó og Bet-Díblataím, 48.23 yfir Kirjataím, Bet-Gamúl og Bet-Meon, 48.24 yfir Keríót, Bosra, og allar borgir Móabslands, fjær og nær. 48.25 Horn Móabs er afhöggvið og armur hans brotinn _ segir Drottinn. 48.26 Gjörið hann drukkinn _ því að gegn Drottni hefir hann miklast _, til þess að Móab skelli ofan í spýju sína og verði líka að athlægi. 48.27 Eða var Ísrael þér eigi hlátursefni? Var hann gripinn með þjófum, þar sem þú hristir höfuðið í hvert sinn sem þú talar um hann? 48.28 Yfirgefið borgirnar og setjist að í klettaskorum, þér íbúar Móabs, og verið eins og dúfan, sem hreiðrar sig hinum megin á gjárbarminum. 48.29 Heyrt höfum vér um drambsemi Móabs _ hann er mjög hrokafullur _ um hroka hans, drambsemi, ofmetnað og yfirlæti hans. 48.30 Já, ég þekki _ segir Drottinn _ ofsa hans: Svo marklaus eru stóryrði hans, svo marklaust það, er þeir gjöra. 48.31 Fyrir því kveina ég yfir Móab og hljóða yfir Móab öllum, yfir mönnunum frá Kír-Heres mun andvarpað verða. 48.32 Meir en grátið verður yfir Jaser, græt ég yfir þér, vínviður Síbma. Greinar þínar fóru yfir hafið, komust til Jaser, á sumargróða þinn og vínberjatekju hefir eyðandinn ráðist. 48.33 Fögnuður og kæti er horfin úr aldingörðunum og úr Móabslandi. Vínið læt ég þverra í vínþröngunum, troðslumaðurinn mun eigi framar troða, fagnaðarópið er ekkert fagnaðaróp. 48.34 Frá hinni kveinandi Hesbon allt til Eleale, allt til Jahas láta þeir raust sína glymja, frá Sóar allt til Hórónaím, allt til Eglat-Selisía, því að einnig Nimrímvötn verða að öræfum. 48.35 Og ég eyði úr Móab _ segir Drottinn _ sérhverjum þeim, sem stígur upp á fórnarhæð og færir guði sínum reykelsi. 48.36 Fyrir því kveinar hjarta mitt yfir Móab eins og hljóðpípur og hjarta mitt kveinar yfir mönnunum frá Kír-Heres eins og hljóðpípur, fyrir því misstu þeir það, er þeir höfðu dregið saman. 48.37 Því að hvert höfuð er sköllótt orðið og allt skegg af rakað, á öllum handleggjum eru skinnsprettur, og hærusekkur um mjaðmir. 48.38 Uppi á öllum þökum í Móab og á torgunum heyrist ekki annað en harmakvein, því að ég hefi brotið Móab eins og ker, sem engum manni geðjast að, _ segir Drottinn. 48.39 Hversu er hann skelfdur! Hljóðið! Hversu hefir Móab snúið baki við! Fyrirverð þig! Og Móab skal verða til athlægis og skelfingar öllum nágrönnum sínum. 48.40 Svo segir Drottinn: Sjá, hann kemur fljúgandi eins og örn og breiðir vængi sína út yfir Móab. 48.41 Borgirnar eru teknar og vígin unnin, og hjarta Móabs kappa mun á þeim degi verða eins og hjarta konu, sem er í barnsnauð. 48.42 En Móab mun afmáður verða, svo að hann verði eigi þjóð framar, því að hann hefir miklast gegn Drottni. 48.43 Geigur, gröf og gildra koma yfir þig, Móabsbúi _ segir Drottinn. 48.44 Sá, sem flýr undan geignum, fellur í gröfina, og sá, sem kemst upp úr gröfinni, festist í gildrunni. Því að þetta leiði ég yfir Móab árið, sem þeim verður hegnt _ segir Drottinn. 48.45 Í skugga Hesbon nema flóttamenn staðar magnlausir, en eldur brýst út úr Hesbon og logi úr höll Síhons, hann eyðir þunnvanganum á Móab og hvirflinum á hávaðamönnum. 48.46 Vei þér, Móab! Það er úti um lýð Kamoss! Því að synir þínir munu verða fluttir burt til herleiðingar og dætur þínar hernumdar. 48.47 En ég mun snúa við högum Móabs, þá er fram líða stundir _ segir Drottinn. Hér lýkur dómsorðunum yfir Móab.
49.1 Um Ammóníta. Svo segir Drottinn: Á þá Ísrael enga sonu, eða á hann engan erfingja? Hví hefir Milkóm erft Gað og hví hefir lýður hans setst að í borgum hans? 49.2 Sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _ að ég læt heróp heyrast til Rabba, borgar Ammóníta, og hún skal verða að grjóthrúgu og dæturnar eyðast í eldi, og þá skal Ísrael erfa aftur erfingja sína _ segir Drottinn. 49.3 Hljóða þú, Hesbon, yfir því að borgin er unnin! Kveinið Rabbadætur! Gyrðist hærusekk, harmið og reikið um innan fjárgirðinganna, því að Milkóm verður að fara í útlegð, prestar hans og höfðingjar hverjir með öðrum. 49.4 Hví stærir þú þig af dölunum, af frjósemi dals þíns, fráhverfa dóttir, sem reiðir sig á fjársjóðu sína og segir: 'Hver skyldi ráða á mig?' 49.5 Sjá, ég læt skelfingu koma yfir þig _ segir herrann, Drottinn allsherjar _ úr öllum áttum í kringum þig, og þér skuluð verða reknir brott, hver það sem horfir, og enginn safnar þeim saman, er flýja. 49.6 En síðar meir mun ég leiða heim aftur hina herleiddu af Ammónítum _ segir Drottinn. 49.7 Um Edóm. Svo segir Drottinn allsherjar: Er þá engin viska framar í Teman? Eru góð ráð horfin hinum hyggnu, er viska þeirra þrotin? 49.8 Flýið, hverfið brott, felið yður djúpt niðri, þér íbúar Dedans! Því að Esaús glötun læt ég yfir hann koma, þá er ég hegni honum. 49.9 Ef vínlestursmenn ráðast á þig, þá skilja þeir ekki neinn eftirtíning eftir. Ef þjófar koma að þér á náttarþeli, þá skemma þeir, þar til er þeim nægir. 49.10 En af því að ég sjálfur afhjúpa Esaú, gjöri ber fylgsni hans, svo að hann getur ekki falið sig, þá verða niðjar hans unnir og frændþjóðir hans og nábúar, og úti er um hann. 49.11 Yfirgef munaðarleysingja þína, _ ég mun halda lífinu í þeim, og ekkjur þínar mega reiða sig á mig! 49.12 Svo segir Drottinn: Sjá, þeim sem eigi bar að drekka bikarinn, þeir urðu að drekka hann _ og þú ættir að sleppa óhegndur? Þú munt ekki sleppa óhegndur, heldur skalt þú drekka. 49.13 Því að ég sver við sjálfan mig _ segir Drottinn _, að Bosra skal verða að skelfing, háðung, undrun og formæling, og allar borgir hennar skulu verða að eilífum rústum. 49.14 Ég hefi fengið vitneskju frá Drottni, og boðberi er sendur meðal þjóðanna! Safnist saman og farið gegn borginni og búist til bardaga! 49.15 Sjá, ég vil gjöra þig litla meðal þjóðanna, fyrirlitna meðal mannanna. 49.16 Skelfingin, sem þú skaust öðrum í brjóst, og hroki hjarta þíns hafa dregið þig á tálar, þú sem átt byggð í klettaskorum, situr á háa hnúknum. Þó að þú byggðir hreiður þitt hátt, eins og örninn, þá steypi ég þér þaðan niður _ segir Drottinn. 49.17 Edóm skal verða að skelfingu, hver sem fer þar um mun skelfast og hæðast að öllum áföllunum, er hann hefir orðið fyrir. 49.18 Eins og Sódómu og Gómorru og nágrannaborgunum var umturnað, segir Drottinn, svo skal og enginn maður búa þar, né nokkurt mannsbarn hafast þar við. 49.19 Sjá, eins og ljón, sem kemur út úr kjarrinu á Jórdanbökkum og stígur upp á sígrænt engið, svo mun ég skyndilega reka hann burt þaðan, og hvern þann, sem útvalinn er, mun ég setja yfir hana. Því að hver er minn líki? Hver vill stefna mér? Hver er sá hirðir, er fái staðist fyrir mér? 49.20 Heyrið því ráðsályktun Drottins, er hann hefir gjört viðvíkjandi Edóm, og þær fyrirætlanir, er hann hefir í huga viðvíkjandi Teman-búum: Sannarlega munu þeir draga hina lítilmótlegustu úr hjörðinni burt. Sannarlega skal haglendi þeirra verða agndofa yfir þeim. 49.21 Af dyn falls þeirra nötrar jörðin, neyðarkveinið _ ómurinn af því heyrist við Rauðahafið. 49.22 Sjá, sem örn stígur hann upp og flýgur hingað og breiðir út vængi sína yfir Bosra, og hjarta Edóms kappa mun á þeim degi verða eins og hjarta konu, sem er í barnsnauð. 49.23 Um Damaskus. Hamat og Arpad eru agndofa, því að þær hafa spurt ill tíðindi, þær eru hræddar, fullar af óró, eins og hafið, sem getur ekki verið kyrrt. 49.24 Damaskus er orðin huglaus, hefir snúist á flótta, og ótti hefir gripið hana, angist og kvalir hafa altekið hana, eins og jóðsjúka konu. 49.25 Hví var hún ekki yfirgefin, hin vegsamaða borg, ununar-borgin mín? 49.26 Fyrir því verða nú æskumenn hennar að falla á torgunum og allir hermenn hennar að farast á þeim degi _ segir Drottinn allsherjar. 49.27 Og ég kveiki eld við múra Damaskus, til þess að hann eyði höllum Benhadads. 49.28 Um Kedar og konungsríki Hasórs, er Nebúkadresar Babelkonungur vann. Svo segir Drottinn: Standið upp, farið á móti Kedar og herjið á austurbyggja. 49.29 Tjöld þeirra og sauði munu þeir taka, og tjalddúka þeirra og öll áhöld og úlfalda þeirra munu þeir flytja burt frá þeim. Þá munu menn hrópa yfir þeim: 'Skelfing allt um kring!' 49.30 Leggið á flótta, flýið sem hraðast, felið yður djúpt niðri, þér íbúar Hasórs _ segir Drottinn, því að Nebúkadresar Babelkonungur hefir gjört ráðsályktun gegn yður og hefir í huga ráðagjörð gegn yður. 49.31 Af stað! Farið á móti meinlausri þjóð, sem býr örugg _ segir Drottinn _, og hvorki hefir hurðir né slagbranda. Þeir búa einir sér. 49.32 Úlfaldar þeirra skulu verða að ránsfeng og mergð nautahjarða þeirra að herfangi, og ég mun dreifa þeim fyrir öllum vindum, þeim sem skera hár sitt við vangann, og láta ógæfu hvaðanæva yfir þá koma _ segir Drottinn. 49.33 Hasór skal verða að sjakalabæli, að auðn um eilífð. Enginn maður mun framar búa þar og ekkert mannsbarn hafast þar við. 49.34 Þetta birtist Jeremía spámanni sem orð Drottins um Elam í upphafi ríkisstjórnar Sedekía Júdakonungs: 49.35 Svo segir Drottinn allsherjar: Sjá, ég brýt sundur boga Elamíta, meginstyrk þeirra. 49.36 Og ég hleypi á Elamíta fjórum vindum úr fjórum áttum himins og tvístra þeim fyrir öllum þessum vindum, og engin skal sú þjóð til vera, að þangað komi ekki flóttamenn frá Elam. 49.37 Ég læt Elamíta skelfast fyrir óvinum þeirra og fyrir þeim, er sækjast eftir lífi þeirra, og leiði yfir þá óhamingju, mína brennandi reiði _ segir Drottinn _ og sendi sverðið á eftir þeim, uns ég hefi gjöreytt þeim. 49.38 Ég reisi hásæti mitt í Elam og eyði þaðan konungi og höfðingjum _ segir Drottinn. 49.39 En þá er fram líða stundir mun ég snúa við högum Elams _ segir Drottinn.
50.1 Orðið sem Drottinn talaði um Babýlon, um land Kaldea, fyrir munn Jeremía spámanns. 50.2 Kunngjörið það meðal þjóðanna, boðið það og setjið upp merki! Boðið það, dyljið það ekki! Segið: 'Babýlon er unnin! Bel er orðin til skammar! Mardúk niður brotinn! Líkneskin eru orðin til skammar, skurðgoðin niður brotin!' 50.3 Þjóð kemur á móti henni úr norðurátt, hún gjörir land hennar að auðn, svo að enginn maður býr þar framar, bæði menn og skepnur flýja, fara burt. 50.4 Á þeim dögum og á þeim tíma _ segir Drottinn _ munu Ísraelsmenn koma, ásamt Júdamönnum. Grátandi munu þeir ganga og leita Drottins, Guðs síns. 50.5 Þeir spyrja eftir Síon, þangað stefna þeir. Þeir koma og ganga Drottni á hönd með eilífum sáttmála, sem ekki mun gleymast. 50.6 Þjóð mín var sem týndir sauðir, hirðar þeirra leiddu þá afvega, tældu þá upp í fjöll, þeir reikuðu af hálsi á hæð, gleymdu bóli sínu. 50.7 Allir, sem hittu þá, átu þá, og mótstöðumenn þeirra sögðu: 'Vér bökum oss enga sekt, vegna þess að þeir syndguðu gegn Drottni, haglendi réttlætisins og von feðra þeirra, Drottni.' 50.8 Flýið burt úr Babýlon og farið burt úr landi Kaldea og verið sem hafrar á undan hjörðinni. 50.9 Sjá, ég læt upp rísa safn mikilla þjóða frá norðlægum löndum, er fer á móti Babýlon. Þær munu skipa sér móti henni. Þaðan mun hún unnin verða. Örvar þeirra eru eins og giftusöm hetja, er ekki hverfur aftur við svo búið. 50.10 Kaldea skal verða að herfangi, allir, sem hana ræna, fá nægju sína _ segir Drottinn. 50.11 Gleðjist, já fagnið, þér ránsmenn eignar minnar, já stökkvið eins og þreskjandi kvíga og hvíið eins og stóðhestar. 50.12 Móðir yðar verður mjög til skammar, hún, sem ól yður, má fyrirverða sig. Sjá, hún er hin síðasta meðal þjóðanna, eyðimörk, þurrt land, heiði! 50.13 Vegna reiði Drottins mun hún verða óbyggð og verða algjörlega að auðn. Hvern, sem fer fram hjá Babýlon, mun hrylla við, og hann mun hæðast að öllum áföllunum, sem hún hefir orðið fyrir. 50.14 Skipið yður niður kringum Babýlon, allir þér bogmenn! Skjótið á hana, sparið ekki örvarnar, því að gegn Drottni hefir hún syndgað. 50.15 Ljóstið upp ópi hringinn í kringum hana: Hún hefir gefist upp, stoðir hennar eru fallnar, múrar hennar niður rifnir, það er hefnd Drottins. Hefnið yðar á henni. Gjörið við hana eins og hún hefir til gjört. 50.16 Afmáið í Babýlon sáðmanninn og þann, er sigðina ber um uppskerutímann. Fyrir hinu vígfreka sverði munu þeir hver og einn hverfa til sinnar þjóðar og flýja hver og einn til síns lands. 50.17 Ísrael er sem burtflæmdur sauður, er ljón hafa elt: Fyrst át Assýríukonungur hann og nú síðast hefir Nebúkadresar Babelkonungur nagað bein hans. 50.18 Fyrir því segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, svo: Sjá, ég vitja Babelkonungs og lands hans, eins og ég vitjaði Assýríukonungs. 50.19 Ég leiði Ísrael aftur heim í haglendi sitt, og hann skal vera á beit á Karmel og í Basan og seðja hungur sitt á Efraím-fjöllum og í Gíleað. 50.20 Á þeim dögum og á þeim tíma _ segir Drottinn _ mun leitað verða að sekt Ísraels, en hún er ekki framar til, og að syndum Júda, en þær finnast ekki, því að ég mun fyrirgefa þeim, sem ég læt eftir verða. 50.21 Far móti Maratajím-héraði og gegn íbúum Pekod. Eyð þeim og helga þá banni _ segir Drottinn _ og gjör með öllu svo sem ég hefi fyrir þig lagt. 50.22 Heyr! Stríð í landinu og mikil eyðilegging! 50.23 Hversu er hamarinn, sem laust alla jörðina, höggvinn af skafti og sundurbrotinn! Hversu er Babýlon orðin að skelfingu meðal þjóðanna! 50.24 Ég lagði snöru fyrir þig _ Babýlon, og þú festist og vissir ekki af. Þú náðist og þú varst gripin, því að þú hafðir dirfst að berjast gegn Drottni. 50.25 Drottinn hefir lokið upp vopnabúri sínu og tekið út vopn reiði sinnar, því að herrann, Drottinn allsherjar, hefir verk með höndum í landi Kaldea. 50.26 Komið móti henni úr öllum áttum, ljúkið upp hlöðum hennar, kastið henni eins og bundinum í bing og helgið hana banni! Látið engar leifar af henni eftir verða! 50.27 Drepið alla uxa hennar, þeir skulu hníga niður til slátrunar. Vei þeim, því að dagur þeirra er kominn, hegningartími þeirra. 50.28 Heyr! Hér eru menn, sem flúið hafa og komist undan frá Babýlon til þess að boða í Síon að Drottinn, Guð vor, hefnir, hefnir fyrir musteri sitt. 50.29 Bjóðið skyttum út gegn Babýlon, öllum þeim sem benda boga! Setjið herbúðir allt í kringum hana! Látið engan komast undan! Gjaldið henni eftir verkum hennar! Gjörið við hana að öllu svo sem hún hefir til gjört, því að hún hefir ofmetnast gegn Drottni, gegn Hinum heilaga í Ísrael. 50.30 Fyrir því skulu æskumenn hennar falla á torgunum og allir hermenn hennar farast á þeim degi _ segir Drottinn. 50.31 Sjá, ég ætla að finna þig, Drambsemi _ segir herrann, Drottinn allsherjar _ því að dagur þinn er kominn, hegningartími þinn. 50.32 Nú skal Drambsemi hrasa og falla, og enginn skal reisa hana á fætur, og ég mun leggja eld í borgir hennar, og hann skal eyða öllu því, sem umhverfis hana er. 50.33 Svo segir Drottinn allsherjar: Kúgaðir eru Ísraelsmenn og Júdamenn allir saman. Allir þeir, er þá hafa herleitt, halda þeim föstum, vilja ekki láta þá lausa. 50.34 En lausnari þeirra er sterkur, _ Drottinn allsherjar heitir hann. Hann mun reka mál þeirra með dugnaði, til þess að hann speki jörðina, en óspeki Babýlonsbúa. 50.35 Sverð komi yfir Kaldea _ segir Drottinn _ og yfir Babýlonsbúa og yfir höfðingja hennar og vitringa! 50.36 Sverð komi yfir þvaðrarana, svo að þeir standi eins og afglapar! Sverð komi yfir kappa hennar, svo að þeir verði huglausir! 50.37 Sverð komi yfir hesta hennar og vagna og yfir allan þjóðblendinginn, sem í henni er, svo að þeir verði að konum! Sverð komi yfir fjársjóðu hennar, svo að þeim verði rænt! 50.38 Sverð komi yfir vötn hennar, svo að þau þorni! Því að skurðgoðaland er það, og þeir láta sem vitfirringar með skelfingar-líkneskin. 50.39 Fyrir því munu urðarkettir búa hjá sjökulum, og strútsfuglar búa í henni, og hún skal ekki framar byggð vera að eilífu, né þar verða búið frá kyni til kyns. 50.40 Eins og Guð umturnaði Sódómu og Gómorru og nágrannaborgunum _ segir Drottinn _ svo skal og enginn maður búa þar né nokkurt mannsbarn hafast við í henni. 50.41 Sjá, lýður kemur úr norðurátt og mikil þjóð og voldugir konungar rísa upp á útkjálkum jarðar. 50.42 Þeir bera boga og skotspjót, þeir eru grimmir og sýna enga miskunn, háreysti þeirra er sem hafgnýr, og þeir ríða hestum, búnir sem hermenn til bardaga gegn þér, dóttirin Babýlon. 50.43 Babelkonungur hefir fengið fregnir af þeim, hendur hans eru magnlausar, angist hefir gripið hann, kvalir, eins og jóðsjúka konu. 50.44 Sjá, eins og ljón, sem kemur út úr kjarrinu á Jórdanbökkum og stígur upp á sígrænt engið, svo mun ég skyndilega reka þá burt þaðan, og hvern þann, sem útvalinn er, mun ég setja yfir hana. Því að hver er minn líki? Hver vill stefna mér? Hver er sá hirðir, er fái staðist fyrir mér? 50.45 Heyrið því ráðsályktun Drottins, er hann hefir gjört viðvíkjandi Babýlon, og þær fyrirætlanir, er hann hefir í huga viðvíkjandi landi Kaldea: Sannarlega munu þeir draga þá burt, hina lítilmótlegustu úr hjörðinni. Sannarlega skal haglendið verða agndofa yfir þeim. 50.46 Af ópinu: 'Babýlon er unnin' nötrar jörðin, og neyðarkvein heyrist meðal þjóðanna.
51.1 Svo segir Drottinn: Sjá, ég vek upp eyðandi storm gegn Babýlon og gegn íbúum Kaldeu. 51.2 Ég sendi vinsara gegn Babýlon, að þeir vinsi hana og tæmi land hennar. Þegar þeir umkringja hana á óheilladegi, 51.3 skal enginn benda boga sinn né reigja sig í pansara sínum. Hlífið ekki æskumönnum hennar, helgið banni allan her hennar, 51.4 svo að vegnir menn falli í landi Kaldea og sverði lagðir hnígi á strætum hennar, 51.5 af því að land þeirra er fullt af sekt gegn Hinum heilaga í Ísrael. En Ísrael og Júda eru ekki yfirgefin af Guði sínum, Drottni allsherjar. 51.6 Flýið út úr Babýlon og hver og einn forði lífi sínu. Látið eigi tortíma yður vegna misgjörða hennar. Því að það er hefndartími Drottins, hann endurgeldur henni eins og hún hefir til unnið. 51.7 Babýlon var gullbikar í hendi Drottins, er gjörði alla jörðina drukkna. Af víni hennar drukku þjóðirnar, fyrir því létu þjóðirnar sem þær væru óðar. 51.8 Sviplega er Babýlon fallin og sundurmoluð. Kveinið yfir henni! Sækið smyrsl við kvölum hennar, má vera að hún verði læknuð. 51.9 'Vér ætluðum að lækna Babýlon, en hún var ólæknandi. Yfirgefið hana, og förum hver til síns lands, því að refsidómur sá, er yfir hana gengur, nær til himins og gnæfir við ský.' 51.10 Drottinn hefir leitt í ljós vort réttláta málefni, komið, vér skulum kunngjöra í Síon verk Drottins, Guðs vors! 51.11 Fægið örvarnar, takið á yður skjölduna! Drottinn hefir vakið hugmóð Medíukonunga, því að fyrirætlan hans er miðuð gegn Babýlon til þess að eyða hana. Því að það er hefnd Drottins, hefnd fyrir musteri hans. 51.12 Reisið merki gegn Babýlonsmúrum! Aukið vörðinn! Skipið verði! Setjið launsátur! Því að Drottinn hefir ákveðið og framkvæmir það, er hann hefir hótað Babýlonsbúum. 51.13 Þú, sem býr við hin miklu vötn, auðug að fjársjóðum, endadægur þitt er komið, lífdagar þínir taldir. 51.14 Drottinn allsherjar sver við sjálfan sig: Þótt ég hefði fyllt þig mönnum, eins og engisprettum, munu menn þó hefja siguróp yfir þér. 51.15 Hann, sem gjört hefir jörðina með krafti sínum, skapað heiminn af speki sinni og þanið út himininn af hyggjuviti sínu, _ 51.16 þegar hann þrumar, svarar vatnagnýr í himninum, _ þegar hann lætur ský upp stíga frá endimörkum jarðar og gjörir leiftur til þess að búa rás regninu og hleypir vindinum út úr forðabúrum hans, 51.17 þá stendur sérhver maður undrandi og skilur þetta ekki, og sérhver gullsmiður skammast sín fyrir líkneski sitt, því að hin steyptu líkneski hans eru tál, og í þeim er enginn andi. 51.18 Hégómi eru þau, háðungar-smíði, þegar hegningartími þeirra kemur, er úti um þau. 51.19 En hlutdeild Jakobs er ekki þeim lík, heldur er hann skapari alls, og Ísrael er hans eignarkynkvísl. Drottinn allsherjar er nafn hans. 51.20 Þú varst mér hamar, hervopn, að ég gæti molað sundur með þér þjóðir og eytt með þér konungsríki, 51.21 að ég gæti molað sundur með þér hesta og reiðmenn, að ég gæti molað sundur með þér vagna og þá, sem í þeim óku, 51.22 að ég gæti molað sundur með þér karla og konur, að ég gæti molað sundur með þér gamla og unga, að ég gæti molað sundur með þér æskumenn og meyjar, 51.23 að ég gæti molað sundur með þér hirða og hjarðir, að ég gæti molað sundur með þér akurmenn og sameyki þeirra, að ég gæti molað sundur með þér jarla og landstjóra! 51.24 Ég endurgeld Babel og öllum íbúum Kaldeu allt það illt, er þeir hafa gjört Síon að yður áhorfandi _ segir Drottinn. 51.25 Sjá, ég ætla að finna þig, þú Skaðræðisfjall _ segir Drottinn _ þú sem skaðræði vannst allri jörðinni, og ég útrétti hönd mína gegn þér og velti þér ofan af hömrunum og gjöri þig að brenndu fjalli. 51.26 Úr þér skulu menn ekki sækja hornsteina, né undirstöðusteina, heldur skalt þú verða að eilífri auðn _ segir Drottinn. 51.27 Reisið merki á jörðinni! Þeytið lúðurinn meðal þjóðanna! Vígið þjóðir móti henni! Kallið móti henni konungsríki Ararats, Minní og Askenas! Skipið herforingja móti henni! Færið fram hesta, líka byrstum engisprettum! 51.28 Vígið þjóðir móti henni, konunga Medíu, jarla hennar og landstjóra og allt land ríkis þeirra. 51.29 Þá nötrar jörðin og bifast, því að fyrirætlanir Drottins gegn Babýlon rætast, með því að hann gjörir Babýlon að auðn, svo að enginn býr þar. 51.30 Kappar Babýlons hætta við að berjast, þeir halda kyrru fyrir í virkjunum, hreysti þeirra er þorrin, þeir eru orðnir að konum. Menn hafa lagt eld í híbýli hennar, slagbrandar hennar eru brotnir. 51.31 Hlaupasveinn hleypur móti hlaupasveini og sendiboði móti sendiboða til þess að boða Babelkonungi að borg hans sé unnin öllumegin, 51.32 brýrnar teknar, sefmýrarnar brenndar í eldi og hermennirnir skelfdir. 51.33 Já, svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Dóttirin Babýlon líkist láfa á þeim tíma, þá er hann er troðinn. Innan skamms kemur og uppskerutími fyrir hana. 51.34 'Nebúkadresar Babelkonungur hefir etið oss, hefir eytt oss, hann gjörði úr oss tómt ílát. Hann svalg oss eins og dreki, kýldi vömb sína og rak oss burt úr unaðslandi voru!' 51.35 'Það ofbeldi og sú misþyrming, sem ég hefi orðið fyrir, komi yfir Babýlon,' segi Síonbúar, og 'blóð mitt komi yfir íbúa Kaldeu,' segi Jerúsalem. 51.36 Fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég tek að mér málefni þitt og læt þig ná rétti þínum. Ég þurrka upp vatn Babýlons og læt uppsprettu hennar þorna. 51.37 Og hún skal verða að grjóthrúgu, að sjakalabæli, að skelfing og háði, enginn skal þar búa. 51.38 Þeir öskra allir eins og ung ljón, gnöllra eins og ljónshvolpar. 51.39 En þegar græðgihitinn er kominn í þá, vil ég búa þeim veislu og gjöra þá drukkna, til þess að þeir verði kátir. Því næst skulu þeir sofna eilífum svefni og ekki vakna framar! _ segir Drottinn. 51.40 Ég læt þá hníga sem lömb til slátrunar, sem hrúta ásamt höfrum. 51.41 Hversu varð Sesak unnin og tekin, hún er fræg var um víða veröld! Hversu er Babýlon orðin að skelfingu meðal þjóðanna! 51.42 Sjórinn gekk yfir Babýlon, hún huldist gnýjandi bylgjum hans. 51.43 Borgir hennar urðu að auðn, að þurru landi og heiði. Enginn maður mun framar búa þar né nokkurt mannsbarn fara þar um. 51.44 Ég vitja Bels í Babýlon og tek út úr munni hans það, er hann hefir gleypt, og eigi skulu þjóðir framar streyma til hans. Babýlonsmúr hrynur einnig. 51.45 Far út úr henni, lýður minn, og hver og einn forði lífi sínu undan hinni brennandi reiði Drottins. 51.46 Látið ekki hugfallast og verðið ekki hræddir við tíðindin, sem heyrast í landinu. Þessi tíðindi koma þetta árið og því næst önnur tíðindi annað árið: ofbeldi er framið í landinu, og drottnari rís mót drottnara. 51.47 Fyrir því, sjá, þeir dagar koma, að ég vitja skurðgoða Babýlons, og þá mun allt land hennar verða til skammar og allir vegnir menn hennar falla inni í henni. 51.48 Þá mun himinn og jörð og allt, sem í þeim er, hlakka yfir Babýlon, því að úr norðri brjótast eyðendurnir inn yfir hana _ segir Drottinn. 51.49 Babýlon verður að falla vegna hinna vegnu manna af Ísrael, eins og vegnir menn hafa orðið að falla um alla jörðina vegna Babýlon. 51.50 Þér, sem undan sverðinu hafið komist, haldið þér áfram, standið ekki við. Minnist Drottins í fjarlægð og hafið Jerúsalem í huga. 51.51 Vér erum orðnir til skammar, því að vér urðum varir við fyrirlitningu, blygðun hylur auglit vor, því að útlendir menn hafa brotist inn yfir helgidóma musteris Drottins. 51.52 Fyrir því, sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _ að ég vitja skurðgoða hennar, og sverði lagðir menn skulu stynja í öllu landi hennar. 51.53 Þó að Babýlon hefji sig til himins og þó að hún gjöri vígi sitt svo hátt, að það verði ókleift, þá munu þó frá mér koma eyðendur yfir hana _ segir Drottinn. 51.54 Heyr! Neyðarkvein frá Babýlon og mikil eyðilegging úr landi Kaldea! 51.55 Já, Drottinn eyðir Babýlon og upprætir úr henni hinn mikla hávaða. Bylgjur þeirra gnýja eins og stór vötn, gjallandi kveður við óp þeirra. 51.56 Því að eyðandi kemur yfir hana, yfir Babýlon, og kappar hennar verða teknir höndum og bogar þeirra brotnir, því að Drottinn er Guð endurgjaldsins, hann endurgeldur áreiðanlega. 51.57 Ég gjöri drukkna höfðingja hennar og vitringa, jarla hennar og landstjóra og kappa hennar. Þeir skulu sofna eilífum svefni og eigi vakna framar _ segir konungurinn. Drottinn allsherjar er nafn hans. 51.58 Svo segir Drottinn allsherjar: Hinn víði Babýlonsmúr skal rifinn verða til grunna og hin háu borgarhlið hennar brennd í eldi, _ já, lýðir vinna fyrir gýg og þjóðir leggja á sig erfiði fyrir eldinn! 51.59 Skipunin sem Jeremía spámaður lagði fyrir Seraja Neríason, Mahasejasonar, þá er hann fór í erindum Sedekía Júdakonungs til Babýlon, á fjórða ári ríkisstjórnar hans. En Seraja var herbúðastjóri. 51.60 En Jeremía skrifaði alla þá ógæfu, er koma mundi yfir Babýlon, í eina bók _ allar þessar ræður, sem ritaðar eru um Babýlon. 51.61 Jeremía sagði við Seraja: 'Þá er þú kemur til Babýlon, þá sjá til, að þú lesir upp öll þessi orð, 51.62 og seg: ,Drottinn, þú hefir sjálfur hótað þessum stað að afmá hann, svo að enginn byggi framar í honum, hvorki menn né skepnur, því að eilífri auðn skal hún verða.` 51.63 Og þegar þú hefir lesið bók þessa til enda, þá bind þú við hana stein og kasta þú henni út í Efrat, 51.64 og seg: ,Svo skal Babýlon sökkva og ekki rísa upp aftur, vegna þeirrar ógæfu, er ég læt yfir hana koma!'` Hér lýkur orðum Jeremía.
52.1 Sedekía var tuttugu og eins árs að aldri, þá er hann varð konungur, og ellefu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Hamútal Jeremíadóttir og var frá Líbna. 52.2 Hann gjörði það sem illt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði Jójakím. 52.3 Vegna reiði Drottins fór svo fyrir Jerúsalem og Júda, að hann varpaði þeim burt frá augliti sínu. Sedekía brá trúnaði við Babelkonung, 52.4 og á níunda ríkisári hans, á tíunda degi hins tíunda mánaðar, kom Nebúkadresar Babelkonungur með allan her sinn til Jerúsalem, og þeir settust um hana og reistu hervirki hringinn í kringum hana. 52.5 Varð borgin þannig í umsátri fram á ellefta ríkisár Sedekía konungs. 52.6 Í fjórða mánuðinum, á níunda degi mánaðarins, er hungrið tók að sverfa að borginni og landslýður var orðinn vistalaus, 52.7 þá var brotið skarð inn í borgina. Og konungur og allir hermennirnir flýðu og fóru út úr borginni um nóttina gegnum hliðið milli beggja múranna, sem er hjá konungsgarðinum, þótt Kaldear umkringdu borgina, og héldu leiðina til sléttlendisins. 52.8 Her Kaldea veitti konungi eftirför og náði Sedekía á Jeríkóvöllum, er allur her hans hafði tvístrast burt frá honum. 52.9 Tóku þeir konung höndum og fluttu hann til Ribla í Hamat-héraði til Babelkonungs. Hann kvað upp dóm hans. 52.10 Lét Babelkonungur drepa sonu Sedekía fyrir augum hans. Sömuleiðis lét hann drepa alla höfðingja Júda í Ribla. 52.11 En Sedekía lét hann blinda og binda eirfjötrum. Síðan lét Babelkonungur flytja hann til Babýlon og setja í fangelsi, og var hann þar til dauðadags. 52.12 En í fimmta mánuði, á tíunda degi mánaðarins _ það er á nítjánda ríkisári Nebúkadresars Babelkonungs _ kom Nebúsaradan lífvarðarforingi, vildarþjónn Babelkonungs, til Jerúsalem 52.13 og brenndi musteri Drottins og konungshöllina og öll hús í Jerúsalem, og öll hús stórmennanna brenndi hann í eldi. 52.14 En allur Kaldeaher, sá er var með lífvarðarforingjanum, reif niður alla múrana umhverfis Jerúsalem. 52.15 En leifar lýðsins, þá er eftir voru í borginni, og liðhlaupana, þá er hlaupist höfðu í lið með Babelkonungi, og þá sem eftir voru af iðnaðarmönnum, herleiddi Nebúsaradan lífvarðarforingi til Babýlon. 52.16 En af almúga landsins lét Nebúsaradan lífvarðarforingi nokkra verða eftir sem víngarðsmenn og akurkarla. 52.17 Eirsúlurnar, er voru við musteri Drottins, og undirstöðupallana og eirhafið, er voru í musteri Drottins, brutu Kaldear sundur og fluttu allan eirinn til Babýlon. 52.18 Og katlana, eldspaðana, skarbítana, ádreifingarskálarnar, bollana og öll eiráhöldin, er notuð voru við guðsþjónustuna, tóku þeir. 52.19 Þá tók og lífvarðarforinginn katlana, eldpönnurnar, ádreifingarskálarnar, pottana, ljósastikurnar, bollana, kerin _ allt sem var af gulli og silfri. 52.20 Súlurnar tvær, hafið og undirstöðupallana, er Salómon konungur hafði gjöra látið í musteri Drottins _ eirinn úr öllum þessum áhöldum varð eigi veginn. 52.21 En hvað súlurnar snertir, þá var önnur súlan átján álnir á hæð, og tólf álna langan þráð þurfti til að ná utan um hana, en hún var fjögra fingra þykk, hol að innan. 52.22 En ofan á henni var súlnahöfuð af eiri og var það fimm álnir á hæð. Riðið net og granatepli voru umhverfis höfuðið, allt af eiri, og eins var á hinni súlunni. 52.23 En granateplin voru níutíu og sex, þau er út sneru. Öll granateplin voru hundrað á riðna netinu allt um kring. 52.24 Og lífvarðarforinginn tók Seraja höfuðprest og Sefanía annan prest og þröskuldsverðina þrjá. 52.25 Og úr borginni tók hann hirðmann einn, er skipaður var yfir hermennina, og sjö menn af þeim, er daglega litu auglit konungs, er fundust í borginni, og ritara hershöfðingjans, þess er bauð út landslýðnum, og sextíu manns af sveitafólki, því er fannst í borginni. 52.26 Þessa menn tók Nebúsaradan lífvarðarforingi og flutti þá til Ribla til Babelkonungs. 52.27 En Babelkonungur lét drepa þá í Ribla í Hamat-héraði. Þannig var Júda herleiddur úr landi sínu. 52.28 Þetta var mannfólkið, sem Nebúkadresar herleiddi: Sjöunda árið 3023 Júdabúa, 52.29 átjánda ríkisár Nebúkadresars 832 sálir úr Jerúsalem. 52.30 Tuttugasta og þriðja ríkisár Nebúkadresars herleiddi Nebúsaradan lífvarðarforingi 745 sálir af Júdabúum. Alls voru það 4600 sálir. 52.31 Og á þrítugasta og sjöunda útlegðarári Jójakíns Júdakonungs, í tólfta mánuðinum, tuttugasta og fimmta dag mánaðarins, náðaði Evíl-Meródak Babelkonungur _ árið sem hann kom til ríkis _ Jójakín Júdakonung og tók hann út úr dýflissunni. 52.32 Og hann talaði vingjarnlega við hann og setti stól hans ofar stólum hinna konunganna, sem hjá honum voru í Babýlon. 52.33 Og hann fór úr bandingjafötum sínum og borðaði stöðuglega með honum, meðan hann lifði.
1.1 Æ, hversu einmana er nú borgin, sú er áður var svo fjölbyggð, orðin eins og ekkja, sú er voldug var meðal þjóðanna, furstafrúin meðal héraðanna orðin kvaðarkona. 1.2 Hún grætur sáran um nætur, og tárin streyma ofan vanga hennar. Enginn er sá er huggi hana af öllum ástmönnum hennar. Allir vinir hennar hafa brugðist henni, þeir eru orðnir óvinir hennar. 1.3 Júda hefir flúið land fyrir eymd og fyrir mikilli ánauð. Hann býr meðal heiðingjanna, finnur engan hvíldarstað. Allir ofsækjendur hans náðu honum í þrengslunum. 1.4 Vegirnir til Síonar syrgja, af því að engir koma til hátíðahalds. Öll hlið hennar eru eydd, prestar hennar andvarpa, meyjar hennar eru sorgbitnar, og sjálf er hún hrygg í hjarta. 1.5 Fjendur hennar eru orðnir ofan á, óvinir hennar lifa ánægðir. Því að Drottinn hefir hrellt hana vegna hennar mörgu synda, börn hennar fóru burt herleidd fyrir kúgaranum. 1.6 Þannig fór burt frá Síonarborg allt skraut hennar. Höfðingjar hennar eru orðnir eins og hrútar, sem ekkert haglendi finna, og þeir fóru magnþrota burt fyrir ofsóknaranum. 1.7 Jerúsalem minnist á eymdardögum sínum og mæðudögum allra kjörgripa sinna, er hún átti forðum daga. Þegar lýður hennar féll í hendur kúgarans, hjálpaði enginn henni. Kúgararnir horfðu á það, hlógu að hrakförum hennar. 1.8 Jerúsalem hefir syndgað stórlega, fyrir því varð hún að viðurstyggð. Allir þeir er dáðu hana, fyrirlíta hana, af því að þeir hafa séð blygðan hennar, og hún andvarpar sjálf og snýr sér undan. 1.9 Saurugleiki hennar loðir við klæðafald hennar, hún hugsaði ekki um endalokin. Hún féll undradjúpt, enginn verður til að hugga hana. Lít, Drottinn, á eymd mína, því að óvinirnir hrósa sigri. 1.10 Kúgarinn rétti út hönd sína eftir öllum dýrgripum hennar. Já, hún sá, hversu heiðingjarnir gengu inn í helgidóm hennar, sem þú hefir um boðið: 'Þeir skulu ekki koma í söfnuð þinn.' 1.11 Allur lýður hennar andvarpar, leitar sér viðurværis, gefur dýrgripi sína fyrir matbjörg til þess að draga fram lífið. Sjá þú, Drottinn, og lít á, hversu ég er fyrirlitin. 1.12 Komið til mín allir þér, sem um veginn farið, sjáið og skoðið, hvort til sé önnur eins kvöl og mín, sú er mér hefir verið gjörð, mér, sem Drottinn hrelldi á degi sinnar brennandi reiði. 1.13 Af hæðum sendi hann eld og lét hann fara niður í bein mín, lagði net fyrir fætur mér, rak mig aftur, gjörði mig auða, sífelldlega sjúka. 1.14 Ok synda minna er þungt orðið fyrir hendi hans. Þær eru bundnar saman, lagðar mér á háls, hann hefir lamað þrótt minn. Drottinn hefir selt mig í hendur þeirra, er ég fæ eigi staðist í móti. 1.15 Drottinn hefir hafnað hetjum mínum, öllum þeim, er í mér voru, hann hefir boðað hátíð gegn mér til þess að knosa æskumenn mína. Drottinn hefir troðið vínlagarþró meynni Júda-dóttur. 1.16 Yfir þessu græt ég, augu mín fljóta í tárum. Því að huggarinn er langt í burtu frá mér, sá er hressti sál mína. Börn mín eru komin í örbirgð, því að óvinirnir báru hærri hlut. 1.17 Síon réttir út hendur sínar, enginn verður til að hugga hana. Drottinn bauð út á móti Jakob fjendum hans allt í kring. Jerúsalem er orðin að viðurstyggð meðal þeirra. 1.18 Drottinn er réttlátur, því að ég þrjóskaðist gegn boði hans. Ó, heyrið það, allir lýðir, og sjáið kvöl mína. Meyjar mínar og yngismenn fóru burt herleidd. 1.19 Ég kallaði á ástmenn mína, þeir sviku mig. Prestar mínir og öldungar önduðust í borginni, þá er þeir leituðu sér bjargar til þess að draga fram lífið. 1.20 Sjá, Drottinn, hve ég er hrædd, hve iður mín ólga. Hjartað berst í brjósti mér, því að ég var svo þverúðarfull. Sverðið svipti mig börnunum úti fyrir, drepsóttin í húsum inni. 1.21 Þeir heyrðu, hversu ég andvarpaði, enginn varð til að hugga mig. Allir óvinir mínir spurðu óhamingju mína, glöddust, af því að þú hefir gjört þetta. Þú lætur þann dag koma, er þú hefir boðað, þá verða þeir jafningjar mínir. 1.22 Lát alla illsku þeirra koma fyrir auglit þitt, og gjör við þá, eins og þú hefir gjört við mig vegna allra synda minna. Því að andvörp mín eru mörg, og hjarta mitt er sjúkt.
2.1 Æ, hversu hylur Drottinn í reiði sinni dótturina Síon skýi. Frá himni varpaði hann til jarðar vegsemd Ísraels og minntist ekki fótskarar sinnar á degi reiði sinnar. 2.2 Vægðarlaust eyddi Drottinn öll beitilönd Jakobs, reif niður í bræði sinni vígi Júda-dóttur, varpaði til jarðar, vanhelgaði ríkið og höfðingja þess, 2.3 hjó af í brennandi reiði öll horn Ísraels, dró að sér hægri hönd sína frammi fyrir óvinunum og brenndi Jakob eins og eldslogi, sem eyðir öllu umhverfis. 2.4 Hann benti boga sinn eins og óvinur, hægri hönd hans stóð föst eins og mótstöðumaður og myrti allt sem auganu var yndi í tjaldi dótturinnar Síon, jós út heift sinni eins og eldi. 2.5 Drottinn kom fram sem óvinur, eyddi Ísrael, eyddi allar hallir hans, umturnaði virkjum hans og hrúgaði upp í Júda-dóttur hryggð og harmi. 2.6 Hann hefir rifið niður skála sinn eins og garð, umturnað hátíðastað sínum. Drottinn lét gleymast í Síon hátíðir og hvíldardaga og útskúfaði í sinni áköfu reiði konungi og prestum. 2.7 Drottinn hefir hafnað altari sínu, smáð helgidóm sinn, ofurselt í óvina hendur hallarmúra hennar. Þeir létu óp glymja í musteri Drottins eins og á hátíðardegi. 2.8 Drottinn hafði ásett sér að eyða múr dótturinnar Síon. Hann útþandi mælivaðinn, aftraði eigi hendi sinni að eyða og steypti sorg yfir varnarvirki og múr, þau harma bæði saman. 2.9 Hlið hennar eru sokkin í jörðu, hann ónýtti og braut slagbranda hennar. Konungur hennar og höfðingjar eru meðal heiðingjanna, lögmálslausir, spámenn hennar fá ekki heldur framar vitranir frá Drottni. 2.10 Þeir sitja þegjandi á jörðinni, öldungar dótturinnar Síon, þeir hafa ausið mold yfir höfuð sín, gyrst hærusekk, höfuð létu hníga að jörðu Jerúsalem-meyjar. 2.11 Augu mín daprast af gráti, iður mín ólga, hjarta mitt ætlar að springa yfir tortíming dóttur þjóðar minnar, er börn og brjóstmylkingar hníga magnþrota á strætum borgarinnar. 2.12 Þau segja við mæður sínar: 'Hvar er korn og vín?' er þau hníga magnþrota eins og dauðsærðir menn á strætum borgarinnar, er þau gefa upp öndina í faðmi mæðra sinna. 2.13 Hvað á ég að taka til dæmis um þig, við hvað líkja þér, þú dóttirin Jerúsalem? Hverju á ég að jafna við þig til að hugga þig, þú mærin, dóttirin Síon? Já, sár þitt er stórt eins og hafið, hver gæti læknað þig? 2.14 Spámenn þínir birtu þér tálsýnir og hégóma, en drógu ekki skýluna af misgjörð þinni til þess að snúa við högum þínum, heldur birtu þér spár til táls og ginninga. 2.15 Yfir þér skelltu lófum saman allir þeir er um veginn fóru, blístruðu og skóku höfuðið yfir dótturinni Jerúsalem: 'Er þetta borgin, hin alfagra, unun allrar jarðarinnar?' 2.16 Yfir þér glenntu upp ginið allir óvinir þínir, blístruðu og nístu tönnum, sögðu: 'Vér höfum gjöreytt hana! Já, eftir þessum degi höfum vér beðið, vér höfum lifað hann, vér höfum séð hann!' 2.17 Drottinn hefir framkvæmt það, er hann hafði ákveðið, efnt orð sín, þau er hann hefir boðið frá því forðum daga, hefir rifið niður vægðarlaust og látið óvinina fagna yfir þér, hann hóf horn fjenda þinna. 2.18 Hrópa þú hátt til Drottins, þú mærin, dóttirin Síon. Lát tárin renna eins og læk dag og nótt, unn þér engrar hvíldar, auga þitt láti ekki hlé á verða. 2.19 Á fætur! Kveina um nætur, í byrjun hverrar næturvöku, úthell hjarta þínu eins og vatni frammi fyrir augliti Drottins, fórnaðu höndum til hans fyrir lífi barna þinna, sem hníga magnþrota af hungri á öllum strætamótum. 2.20 Sjá, Drottinn, og lít á, hverjum þú hefir gjört slíkt! Eiga konur að eta lífsafkvæmi sín, börnin sem þær bera á örmum? Eiga myrtir að verða í helgidómi Drottins prestar og spámenn? 2.21 Vegnir liggja á strætunum sveinar og öldungar. Meyjar mínar og æskumenn féllu fyrir sverði, þú myrtir á degi reiði þinnar, slátraðir vægðarlaust. 2.22 Þú stefnir eins og á hátíðardegi skelfingum að mér úr öllum áttum. Á reiðidegi Drottins var enginn, er af kæmist og eftir yrði. Þá sem ég hefi fóstrað og uppalið, þá hefir óvinur minn afmáð.
3.1 Ég er maðurinn, sem eymd hefi reynt undir sprota reiði hans. 3.2 Mig hefir hann rekið og fært út í myrkur og niðdimmu. 3.3 Já, gegn mér snýr hann æ að nýju hendi sinni allan daginn. 3.4 Hann hefir tálgað af mér hold mitt og hörund, brotið sundur bein mín, 3.5 hlaðið hringinn í kringum mig fári og mæðu, 3.6 hneppt mig í myrkur eins og þá sem dánir eru fyrir löngu. 3.7 Hann hefir girt fyrir mig, svo að ég kemst ekki út, gjört fjötra mína þunga. 3.8 Þótt ég hrópi og kalli, hnekkir hann bæn minni. 3.9 Hann girti fyrir vegu mína með höggnum steinum, gjörði stigu mína ófæra. 3.10 Hann var mér eins og björn, sem situr um bráð, eins og ljón í launsátri. 3.11 Hann hefir leitt mig afleiðis og tætt mig sundur, hann hefir látið mig eyddan, 3.12 hann hefir bent boga sinn og reist mig að skotspæni fyrir örina, 3.13 hefir sent í nýru mín sonu örvamælis síns. 3.14 Ég varð öllum þjóðum að athlægi, þeim að háðkvæði liðlangan daginn. 3.15 Hann mettaði mig á beiskum jurtum, drykkjaði mig á malurt 3.16 og lét tennur mínar myljast sundur á malarsteinum, lét mig velta mér í ösku. 3.17 Þú sviptir sálu mína friði, ég gleymdi því góða 3.18 og sagði: 'Horfinn er lífskraftur minn, von mín fjarri Drottni.' 3.19 Minnstu eymdar minnar og mæðu, malurtarinnar og eitursins. 3.20 Sál mín hugsar stöðugt um þetta og er döpur í brjósti mér. 3.21 Þetta vil ég hugfesta, þess vegna vil ég vona: 3.22 Náð Drottins er ekki þrotin, miskunn hans ekki á enda, 3.23 hún er ný á hverjum morgni, mikil er trúfesti þín! 3.24 Drottinn er hlutdeild mín, segir sál mín, þess vegna vil ég vona á hann. 3.25 Góður er Drottinn þeim er á hann vona, og þeirri sál er til hans leitar. 3.26 Gott er að bíða hljóður eftir hjálp Drottins. 3.27 Gott er fyrir manninn að bera ok í æsku. 3.28 Hann sitji einmana og hljóður, af því að Hann hefir lagt það á hann. 3.29 Hann beygi munninn ofan að jörðu, vera má að enn sé von, 3.30 hann bjóði þeim kinnina sem slær hann, láti metta sig með smán. 3.31 Því að ekki útskúfar Drottinn um alla eilífð, 3.32 heldur miskunnar hann aftur, þegar hann hrellir, eftir sinni miklu náð. 3.33 Því að ekki langar hann til að þjá né hrella mannanna börn. 3.34 Að menn troða undir fótum alla bandingja landsins, 3.35 að menn halla rétti manns fyrir augliti hins Hæsta, 3.36 að menn beita mann ranglæti í máli hans, _ skyldi Drottinn ekki sjá það? 3.37 Hver er sá er talaði, og það varð, án þess að Drottinn hafi boðið það? 3.38 Fram gengur ekki af munni hins Hæsta bæði hamingja og óhamingja? 3.39 Hví andvarpar maðurinn alla ævi? Hver andvarpi yfir eigin syndum! 3.40 Rannsökum breytni vora og prófum og snúum oss til Drottins. 3.41 Fórnum hjarta voru og höndum til Guðs í himninum. 3.42 Vér höfum syndgað og verið óhlýðnir, þú hefir ekki fyrirgefið, 3.43 þú hefir hulið þig í reiði og ofsótt oss, myrt vægðarlaust, 3.44 þú hefir hulið þig í skýi, svo að engin bæn kemst í gegn. 3.45 Þú gjörðir oss að afhraki og viðbjóð mitt á meðal þjóðanna. 3.46 Yfir oss glenntu upp ginið allir óvinir vorir. 3.47 Geigur og gildra urðu hlutskipti vort, eyðing og tortíming. 3.48 Táralækir streyma af augum mér út af tortíming þjóðar minnar. 3.49 Hvíldarlaust fljóta augu mín í tárum, án þess að hlé verði á, 3.50 uns niður lítur og á horfir Drottinn af himnum. 3.51 Auga mitt veldur sál minni kvöl, vegna allra dætra borgar minnar. 3.52 Með ákefð eltu mig, eins og fugl, þeir er voru óvinir mínir án saka. 3.53 Þeir gjörðu því nær út af við mig í gryfju og köstuðu steinum á mig. 3.54 Vatn flóði yfir höfuð mitt, ég hugsaði: 'Ég er frá.' 3.55 Ég hrópaði á nafn þitt, Drottinn, úr hyldýpi gryfjunnar. 3.56 Þú heyrðir hróp mitt: 'Byrg ekki eyra þitt, kom mér til fróunar, kom mér til hjálpar.' 3.57 Þú varst nálægur, þá er ég hrópaði til þín, sagðir: 'Óttastu ekki!' 3.58 Þú varðir, Drottinn, mál mitt, leystir líf mitt. 3.59 Þú hefir, Drottinn, séð undirokun mína, rétt þú hluta minn! 3.60 Þú hefir séð alla hefnigirni þeirra, allt ráðabrugg þeirra gegn mér, 3.61 þú hefir heyrt smánanir þeirra, Drottinn, allt ráðabrugg þeirra í gegn mér, 3.62 skraf mótstöðumanna minna og hinar stöðugu ráðagjörðir þeirra gegn mér. 3.63 Lít þú á, hvort sem þeir sitja eða standa, þá er ég háðkvæði þeirra. 3.64 Þú munt endurgjalda þeim, Drottinn, eins og þeir hafa til unnið. 3.65 Þú munt leggja hulu yfir hjarta þeirra, bölvan þín komi yfir þá. 3.66 Þú munt ofsækja þá í reiði og afmá þá undan himni Drottins.
4.1 Æ, hversu blakkt er gullið orðið, umbreyttur málmurinn dýri, æ, hversu var helgum steinum fleygt út á öllum strætamótum. 4.2 Síon-búar hinir dýrmætu, jafnvægir skíragulli, hversu voru þeir metnir jafnt og leirker, jafnt og smíð úr pottara höndum. 4.3 Jafnvel sjakalarnir bjóða júgrið og gefa hvolpum sínum að sjúga, en dóttir þjóðar minnar er orðin harðbrjósta, eins og strútsfuglarnir í eyðimörkinni. 4.4 Tunga brjóstmylkingsins loddi við góminn af þorsta, börnin báðu um brauð, en enginn miðlaði þeim neinu. 4.5 Þeir sem vanir hafa verið að eta krásir, örmagnast nú á strætunum, þeir sem bornir voru á purpura, faðma nú mykjuhauga. 4.6 Því að misgjörð dóttur þjóðar minnar var meiri en synd Sódómu, sem umturnað var svo að segja á augabragði, án þess að manna hendur kæmu þar nærri. 4.7 Höfðingjar hennar voru hreinni en mjöll, hvítari en mjólk, líkami þeirra rauðari en kórallar, ásýnd þeirra eins og safír. 4.8 Útlit þeirra er orðið blakkara en sót, þeir þekkjast ekki á strætunum. Skinnið á þeim er skorpið að beinum, það er þornað eins og tré. 4.9 Sælli voru þeir er féllu fyrir sverði heldur en þeir er féllu fyrir hungri, þeir er hnigu hungurmorða, af því að enginn var akurgróðinn. 4.10 Viðkvæmar konur suðu með eigin höndum börnin sín, þau voru þeim til næringar, þá er dóttir þjóðar minnar var eydd. 4.11 Drottinn tæmdi heift sína, úthellti sinni brennandi reiði og kveikti eld í Síon, er eyddi henni til grunna. 4.12 Konungar jarðarinnar hefðu ekki trúað því, né neinn af íbúum jarðríkis, að fjendur og óvinir mundu inn fara um hlið Jerúsalem. 4.13 Vegna synda spámanna hennar, misgjörða presta hennar, er úthelltu inni í henni blóði réttlátra, 4.14 reika þeir eins og blindir menn um strætin, ataðir blóði, svo að eigi mættu menn snerta klæði þeirra. 4.15 'Víkið úr vegi! Óhreinn maður!' kölluðu menn á undan þeim, 'víkið úr vegi, víkið úr vegi, snertið hann eigi!' Þegar þeir skjögruðu, sögðu menn meðal heiðingjanna: 'Þeir skulu eigi dveljast hér lengur.' 4.16 Reiðitillit Drottins hefir tvístrað þeim, hann lítur eigi framar við þeim. Hann virti prestana að vettugi og miskunnaði sig ekki yfir gamalmennin. 4.17 Hversu lengi störðu augu vor sig þreytt eftir hjálp sem ekki kom. Af sjónarhól vorum mændum vér eftir þjóð sem ekki hjálpar. 4.18 Menn röktu slóðir vorar, svo að vér gátum ekki gengið á götum vorum. Endalok vor nálguðust, dagar vorir fullnuðust, já, endalok vor komu. 4.19 Ofsækjendur vorir voru léttfærari en ernirnir í loftinu, þeir eltu oss yfir fjöllin, sátu um oss í eyðimörkinni. 4.20 Andi nasa vorra, Drottins smurði, varð fanginn í gryfjum þeirra _ hann sem vér sögðum um: 'Í skjóli hans skulum vér lifa meðal þjóðanna!' 4.21 Fagna þú og ver glöð, dóttirin Edóm, þú sem býr í Ús-landi: Til þín mun og bikarinn koma, þú munt verða drukkin og bera blygðan þína! 4.22 Sekt þín er á enda, dóttirin Síon, hann mun eigi framar gjöra þig landræka. Hann vitjar misgjörðar þinnar, dóttirin Edóm, dregur skýluna af syndum þínum.
5.1 Minnstu þess, Drottinn, hvað yfir oss hefir gengið, lít þú á og sjá háðung vora. 5.2 Arfleifð vor er komin í hendur annarra, hús vor í hendur útlendinga. 5.3 Vér erum orðnir munaðarleysingjar, föðurlausir, mæður vorar orðnar sem ekkjur. 5.4 Vatnið sem vér drekkum, verðum vér að kaupa, viðinn fáum vér aðeins gegn borgun. 5.5 Ofsækjendur vorir sitja á hálsi vorum, þótt vér séum þreyttir, fáum vér enga hvíld. 5.6 Til Egyptalands réttum vér út höndina, til Assýríu, til þess að seðjast af mat. 5.7 Feður vorir syndguðu, þeir eru eigi framar til, og vér berum misgjörð þeirra. 5.8 Þrælar drottna yfir oss, enginn hrífur oss úr höndum þeirra. 5.9 Með lífsháska sækjum vér matbjörg vora í eyðimörkinni, þar sem sverðið vofir yfir oss. 5.10 Hörund vort er orðið svart eins og ofn af hungurbruna. 5.11 Konur hafa þeir svívirt í Síon, meyjar í Júda-borgum. 5.12 Höfðingja hengdu þeir, öldungnum sýndu þeir enga virðingu. 5.13 Æskumennirnir urðu að þræla við kvörnina, og sveinarnir duttu undir viðarbyrðunum. 5.14 Öldungarnir eru horfnir úr borgarhliðunum, æskumennirnir frá strengleikum. 5.15 Fögnuður hjarta vors er þrotinn, gleðidans vor snúinn í sorg. 5.16 Kórónan er fallin af höfði voru, vei oss, því að vér höfum syndgað. 5.17 Af því er hjarta vort sjúkt orðið, vegna þess eru augu vor döpur, 5.18 vegna Síonarfjalls, sem er í eyði og refir nú hlaupa um. 5.19 Þú, Drottinn, ríkir að eilífu, þitt hásæti stendur frá kyni til kyns. 5.20 Hví vilt þú gleyma oss eilíflega, yfirgefa oss um langan aldur? 5.21 Snú þú oss til þín, Drottinn, þá snúum vér við, lát þú daga vora aftur verða eins og forðum!
1.1 Á þrítugasta árinu, í fjórða mánuðinum, hinn fimmta dag mánaðarins, þá er ég var á meðal hinna herleiddu við Kebarfljótið, opnaðist himinninn og ég sá guðlegar sýnir. 1.2 Fimmta dag mánaðarins, það var fimmta árið eftir að Jójakín konungur var burt fluttur, 1.3 þá kom orð Drottins til Esekíels Búsísonar prests í Kaldealandi við Kebarfljótið, og hönd Drottins kom þar yfir hann. 1.4 Ég sá, og sjá: Stormvindur kom úr norðri og ský mikið og eldur, sem hnyklaðist saman, og stóð af því bjarmi umhverfis, og út úr honum sást eitthvað, sem glóði eins og lýsigull. 1.5 Út úr honum sáust myndir af fjórum verum. Og þetta var útlit þeirra: Mannsmynd var á þeim. 1.6 Hver þeirra hafði fjórar ásjónur og hver þeirra hafði fjóra vængi. 1.7 Fætur þeirra voru keipréttir og iljarnar sterklegar eins og kálfsiljar, og þeir blikuðu eins og skyggður eir. 1.8 Og undir vængjum þeirra á hliðunum fjórum voru mannshendur. 1.9 Vængir þeirra lágu hver upp að öðrum, og ásjónur þeirra fjögurra sneru sér ekki við, er þær gengu, heldur gekk hver beint af augum fram. 1.10 Ásjónur þeirra litu svo út: Mannsandlit að framan, ljónsandlit hægra megin á þeim fjórum, nautsandlit vinstra megin á þeim fjórum og arnarandlit á þeim fjórum aftanvert. 1.11 Og vængir þeirra voru þandir upp á við. Hver þeirra hafði tvo vængi, sem voru tengdir saman, og tvo vængi, sem huldu líkami þeirra. 1.12 Og þær gengu hver fyrir sig beint af augum fram, þær gengu þangað, sem andinn vildi fara, þær snerust eigi við í göngunni. 1.13 Milli veranna var að sjá sem eldsglæður brynnu. Það var eins og blys færu aftur og fram milli veranna, og bjarma lagði af eldinum og út frá eldinum gengu leiftur. 1.14 Og verurnar hlupu fram og aftur eins og glampi af leiftri. 1.15 Enn fremur sá ég, og sjá: Eitt hjól stóð á jörðinni hjá hverri af verunum fjórum. 1.16 Og hjólin voru á að líta eins og þegar blikar á krýsolít, og öll fjögur voru þau samlík og þannig gjörð, sem eitt hjólið væri innan í öðru hjóli. 1.17 Þau gengu til allra fjögurra hliða, þau snerust eigi, er þau gengu. 1.18 Og hjólbaugar þeirra _ þeir voru háir og ógurlegir _ hjólbaugar þeirra voru alsettir augum allt umhverfis á þeim fjórum. 1.19 Og þegar verurnar gengu, þá gengu og hjólin við hliðina á þeim, og þegar verurnar hófu sig frá jörðu, þá hófu og hjólin sig. 1.20 Þangað sem andinn vildi fara, þangað gengu þær, og hjólin hófust upp samtímis þeim, því að andi veranna var í hjólunum. 1.21 Þegar þær gengu, gengu þau einnig, þegar þær stóðu kyrrar, stóðu þau og kyrr, og þegar þær hófust frá jörðu, hófust og hjólin samtímis þeim, því að andi verunnar var í hjólunum. 1.22 Uppi yfir höfðum veranna var því líkast sem hvelfing væri, blikandi sem kristall. Þandist hún út uppi yfir höfðum þeirra. 1.23 Og undir hvelfingunni voru vængir þeirra út þandir hver á móti öðrum, og hver þeirra hafði tvo vængi, sem huldu líkami þeirra. 1.24 Ég heyrði vængjaþyt þeirra, eins og nið mikilla vatna, sem þrumu hins Almáttka, er þær gengu, gnýrinn og hávaðinn var sem gnýr í herbúðum. Þegar þær stóðu kyrrar, létu þær vængina síga. 1.25 En þytur var uppi yfir hvelfingunni, sem var yfir höfðum þeirra, þegar þær stóðu kyrrar, létu þær vængina síga. 1.26 En uppi yfir hvelfingunni, sem var yfir höfðum þeirra, var að sjá sem safírsteinn væri, í lögun sem hásæti, og þar uppi á hásætinu, sem svo sýndist, var mynd nokkur í mannslíki. 1.27 Sú mynd þótti mér því líkust sem glóandi lýsigull væri þar neðan frá, sem mér þótti mittið vera og upp eftir, en ofan frá því, sem mér þótti mittið vera, og niður eftir þótti mér hún álits sem eldur, og umhverfis hana var bjarmi. 1.28 Bjarminn umhverfis var tilsýndar líkur boga þeim, sem í skýjum stendur, þegar rignir. Þannig var ímynd dýrðar Drottins á að líta. Og er ég sá hana, féll ég fram á ásjónu mína, og ég heyrði rödd einhvers, sem talaði.
2.1 Hann sagði við mig: 'Þú mannsson, statt á fætur, að ég megi tala við þig.' 2.2 Þá kom andi í mig, er hann talaði þannig til mín, sem reisti mig á fætur, og ég heyrði til þess, er við mig talaði. 2.3 Og hann sagði við mig: 'Þú mannsson, ég ætla að senda þig til Ísraelsmanna, til hinna fráhorfnu, þeirra er mér hafa gjörst fráhverfir. Þeir og feður þeirra hafa rofið trúna við mig allt fram á þennan dag. 2.4 Ég sendi þig til þeirra, sem eru þrjóskir á svip og harðir í hjarta, og þú skalt segja við þá: ,Svo segir Drottinn Guð!` 2.5 Og hvort sem þeir hlýða á það eða gefa því engan gaum _ því að þeir eru þverúðug kynslóð _ þá skulu þeir vita, að spámaður er á meðal þeirra. 2.6 En þú, mannsson, skalt ekki hræðast þá og ekki óttast orð þeirra, þótt netlur og þyrnar séu hjá þér og þótt þú búir meðal sporðdreka. Orð þeirra skalt þú ekki óttast og ekki skelfast fyrir augliti þeirra, því að þeir eru þverúðug kynslóð. 2.7 Heldur skalt þú tala orð mín til þeirra, hvort sem þeir hlýða á þau eða gefa þeim engan gaum, því að þeir eru þverúðin einber. 2.8 En þú, mannsson, heyr þú það, er ég tala til þín! Ver þú eigi einber þverúð, eins og hin þverúðuga kynslóð. Lúk upp munni þínum og et það, er ég fæ þér.' 2.9 Ég sá þá, að hönd var út rétt móti mér. Í henni var bókrolla. 2.10 Og hann rakti hana sundur fyrir mér, og var hún rituð bæði utan og innan, og voru á hana rituð harmljóð, andvörp og kveinstafir.
3.1 Og hann sagði við mig: 'Mannsson, et bókrollu þessa, far síðan og tala til Ísraelsmanna!' 3.2 Þá upplauk ég munni mínum, en hann fékk mér bókrolluna að eta 3.3 og sagði við mig: 'Þú mannsson, þú skalt renna henni niður í magann og fylla kvið þinn með bókrollu þeirri, er ég fæ þér.' Og ég át hana og var hún í munni mér sæt sem hunang. 3.4 Þá sagði hann við mig: 'Þú mannsson, far nú til Ísraelsmanna og tala mínum orðum til þeirra. 3.5 Því að þú ert ekki sendur til fólks, er mæli á torskilda tungu, 3.6 eigi til margra þjóða, er þú skilur eigi, heldur hefi ég sent þig til Ísraelsmanna. Þeir geta skilið þig. 3.7 En Ísraelsmenn munu eigi vilja hlýða á þig, því að þeir vilja eigi hlýða á mig, því að allir Ísraelsmenn hafa hörð enni og þverúðarfull hjörtu. 3.8 Sjá, ég gjöri andlit þitt hart, eins og andlit þeirra, og enni þitt hart, eins og enni þeirra, 3.9 ég gjöri enni þitt sem demant, harðara en klett. Þú skalt eigi óttast þá, né skelfast fyrir augliti þeirra, því að þeir eru þverúðug kynslóð.' 3.10 Og hann sagði við mig: 'Þú mannsson, hugfest þér öll orð mín, þau er ég til þín tala, og lát þau þér í eyrum loða. 3.11 Far síðan til hinna herleiddu, til samlanda þinna, og tala til þeirra og seg við þá: ,Svo segir Drottinn Guð!` hvort sem þeir svo hlýða á það eða gefa því engan gaum.' 3.12 Þá hóf andinn mig upp, en að baki mér heyrði ég dunur af miklum landskjálfta, er dýrð Drottins hófst upp af stað sínum, 3.13 svo og þyt af vængjum veranna, er snertu hver aðra, og hark frá hjólunum samtímis og dunur af miklum landskjálfta. 3.14 Og andinn hóf mig upp og hreif mig burt, og ég hélt af stað hryggur og í mikilli geðshræring, og hönd Drottins lá þungt á mér. 3.15 Og ég kom til hinna herleiddu í Tel Abíb við Kebarfljótið, þar er þeir bjuggu, og ég sat þar sjö daga utan við mig meðal þeirra. 3.16 Að liðnum sjö dögum kom orð Drottins til mín, svohljóðandi: 3.17 'Mannsson, ég hefi skipað þig varðmann yfir Ísrael. Þegar þú heyrir orð af mínum munni, skalt þú vara þá við í mínu nafni. 3.18 Ef ég segi við hinn óguðlega: ,Þú skalt deyja!` og þú varar hann ekki við og segir ekkert til þess að vara hinn óguðlega við óguðlegri breytni hans, til þess að bjarga lífi hans, þá mun hinn óguðlegi að vísu deyja fyrir misgjörð sína, en blóðs hans mun ég krefja af þinni hendi. 3.19 En varir þú hinn óguðlega við og snúi hann sér þó ekki frá guðleysi sínu og óguðlegri breytni sinni, þá mun hann deyja fyrir misgjörð sína, en þá hefir þú frelsað sál þína. 3.20 Ef hins vegar ráðvandur maður snýr sér frá ráðvendni sinni og fremur ranglæti, og ég legg fótakefli fyrir hann, svo að hann deyr, hafir þú þá eigi varað hann við, þá mun hann deyja fyrir synd sína, og ráðvendni sú, er hann hafði sýnt, eigi til álita koma, en blóðs hans mun ég krefja af þinni hendi. 3.21 En varir þú hinn ráðvanda við syndinni, og hann, hinn ráðvandi, syndgar þá ekki, þá mun hann lífi halda, af því að hann var varaður við, og hefir þú þá frelsað sál þína.' 3.22 Hönd Drottins kom þar yfir mig, og hann sagði við mig: 'Statt upp, gakk ofan í dalinn, þar vil ég tala við þig.' 3.23 Þá stóð ég upp og gekk niður í dalinn, og sjá, þar stóð dýrð Drottins, sú hin sama, er ég hafði séð við Kebarfljótið. Þá féll ég fram á ásjónu mína. 3.24 Og í mig kom andi, sem reisti mig á fætur, og hann talaði til mín og sagði við mig: 'Far og loka þig inni í húsi þínu. 3.25 Og sjá, þú mannsson, menn munu leggja bönd á þig og fjötra þig með þeim, til þess að þú getir eigi gengið út og inn meðal þeirra. 3.26 Og tungu þína mun ég láta loða við góm þér, svo að þú verðir orðlaus og náir ekki að hirta þá með aðfinningum, því að þeir eru þverúðug kynslóð. 3.27 En þegar ég tala við þig, mun ég ljúka upp munni þínum, og þú skalt segja við þá: ,Svo segir Drottinn Guð!` Hver sem heyra vill, hann heyri, og hver sem ekki vill gefa því gaum, hann leiði það hjá sér, því að þeir eru þverúðug kynslóð.'
4.1 Þú mannsson, tak þér tigulstein, legg hann fyrir framan þig og drag þar upp borg, sem sé Jerúsalem. 4.2 Og reis þú hervirki gegn henni og hlað víggarð gegn henni. Hleyp upp jarðhrygg gegn henni, skipa hersetuliði um hana og set víghrúta umhverfis hana. 4.3 Og tak þér járnplötu og set hana sem járnvegg milli þín og borgarinnar. Snú því næst andliti þínu gegn henni, svo að hún komist undir hersetu og þú sitjir um hana. Þetta skal vera Ísraelsmönnum tákn. 4.4 En legg þú þig á vinstri hliðina og tak á þig misgjörð Ísraels húss. Alla þá daga, er þú liggur á henni, skalt þú bera misgjörð þeirra. 4.5 Og tel ég þér misgjörðarár þeirra til jafnmargra daga, _ þrjú hundruð og níutíu daga _, og þannig skalt þú bera misgjörð Ísraels húss. 4.6 Og þegar þú hefir fullnað þessa daga, þá skalt þú leggjast á hægri hliðina hið annað sinn og bera misgjörð Júda húss, fjörutíu daga. Tel ég þér dag fyrir ár hvert. 4.7 Og þú skalt snúa andliti þínu og nöktum armlegg þínum gegn umsátri Jerúsalem, og þú skalt spá í gegn henni. 4.8 Og sjá, ég legg bönd á þig, svo að þú skalt ekki ná að snúa þér af einni hlið á aðra, uns þú hefir af lokið umsátursdögum þínum. 4.9 En tak þér hveiti, bygg, baunir, linsubaunir, hirsi og speldi. Lát það allt í eitt ker og gjör þér brauð af. Skalt þú hafa það til matar allan þann tíma, er þú liggur á hliðinni. 4.10 Og vega skal þér mat þinn, þann er þú neytir, tuttugu sikla á dag. Skalt þú neyta hans á ákveðnum tíma einu sinni á dag. 4.11 Mæla skal þér og vatn að drekka, sjöttung hínar í hvert sinn. Skalt þú drekka það á ákveðnum tíma einu sinni á dag. 4.12 Skalt þú eta það sem byggkökur, og þær skaltu baka við mannaþrekk fyrir augum þeirra. 4.13 Og Drottinn sagði: 'Svo munu Ísraelsmenn eta brauð sitt óhreint hjá þjóðum þeim, er ég rek þá til.' 4.14 Þá sagði ég: 'Æ, Drottinn Guð! Sjá, ég hefi aldrei saurgað mig, og allt í frá barnæsku minni og fram á þennan dag hefi ég aldrei etið það, er sjálfdautt væri eða dýrrifið, og óhreint kjöt hefi ég aldrei lagt mér til munns.' 4.15 Þá sagði hann við mig: 'Sjá þú, ég leyfi þér að hafa nautatað í stað mannaþrekks. Við það skalt þú gjöra brauð þitt.' 4.16 Og hann sagði við mig: 'Þú mannsson, sjá, ég brýt sundur staf brauðsins í Jerúsalem, og þeir skulu eta brauðið eftir skammti og með angist, og vatnið skulu þeir drekka eftir mæli og með skelfingu, 4.17 til þess að þá skorti brauð og vatn og þeir skelfist hver með öðrum og veslist upp vegna misgjörðar sinnar.'
5.1 Þú, mannsson, tak þér hvasst sverð. Skalt þú hafa það fyrir rakhníf og lát það ganga um höfuð þitt og vanga. Tak síðan vog og skipt hárinu í sundur. 5.2 Einn þriðjunginn skalt þú í eldi brenna í miðri borginni, þá er umsátursdagarnir eru liðnir, annan þriðjunginn skalt þú taka og slá með sverði hringinn í kringum hann, og síðasta þriðjungnum skalt þú dreifa út í vindinn, og ég mun vera á hælum þeim með brugðnu sverði. 5.3 Því næst skalt þú taka fáein hár og binda þau í skikkjulaf þitt. 5.4 Og af þeim skalt þú enn taka nokkur og kasta þeim á eld og brenna þau á eldi. Þaðan mun eldur koma yfir allt Ísraels hús. Og seg við allt Ísraels hús: 5.5 'Svo segir Drottinn Guð: Þetta er Jerúsalem, sem ég hefi sett mitt á meðal þjóðanna og lönd umhverfis hana. 5.6 En hún hefir sett sig upp á móti lögum mínum með meira guðleysi en heiðnu þjóðirnar og móti boðorðum mínum meir en löndin, sem umhverfis hana eru, því að þeir hafa hafnað lögum mínum og eigi breytt eftir boðorðum mínum. 5.7 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Af því að þér hafið verið þrjóskari en heiðnu þjóðirnar, sem umhverfis yður búa, eigi breytt eftir boðorðum mínum, né haldið lög mín, og jafnvel ekki farið eftir lögum heiðnu þjóðanna, sem umhverfis yður eru, 5.8 fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, nú vil ég rísa gegn þér og framkvæma dóma í þér miðri í augsýn þjóðanna. 5.9 Og ég vil gjöra þér það, sem ég aldrei hefi áður gjört og mun ekki hér eftir gjöra, vegna svívirðinga þinna. 5.10 Þess vegna skulu í þér feður eta börn sín og börnin feður sína, og ég vil framkvæma dóma á þér og dreifa leifum þínum í allar áttir. 5.11 Fyrir því, svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð: Af því að þú hefir saurgað helgidóm minn með öllum viðurstyggðum þínum og öllum svívirðingum þínum, þá vil ég einnig útskúfa þér, ekki líta þig vægðarauga og ekki sýna neina meðaumkun. 5.12 Einn þriðjungurinn af þér skal deyja af drepsótt og verða hungurmorða í þér miðri, annar þriðjungurinn skal fyrir sverði falla umhverfis þig, og síðasta þriðjungnum skal ég tvístra í allar áttir, og ég mun vera á hælum þeim með brugðnu sverði. 5.13 Og ég skal úthella allri reiði minni og láta heift mína hvíla yfir þeim, og ég skal hefna mín. Þeir skulu þá sanna, að ég, Drottinn, hefi talað þetta í afbrýði minni, þá er ég næ að úthella heift minni yfir þá. 5.14 Og ég skal gjöra þig að auðn og að háðung meðal þjóðanna, sem umhverfis þig búa, já, í augum allra, sem fram hjá ganga. 5.15 Og þú skalt verða að háðung og spotti, til viðvörunar og skelfingar þjóðunum, sem umhverfis þig búa, þá er ég í reiði og heift læt dóma yfir þig ganga og með áköfum refsingum. Ég, Drottinn, hefi talað það. 5.16 Þegar ég hleypi á þá hungursins skæðu og eyðileggjandi örvum, þær er ég mun senda yður til að tortíma yður, og ég magna hungrið meðal yðar, þá mun ég sundurbrjóta staf brauðsins fyrir yður 5.17 og senda í móti yður hungur og óargadýr til þess að gjöra yður barnlausa, og drepsótt og blóðsúthelling skal geisa hjá þér, og ég skal hafa sverðið á lofti yfir þér. Ég, Drottinn, hefi talað það.'
6.1 Orð Drottins kom til mín svohljóðandi: 6.2 'Þú mannsson, snú þú augliti þínu gegn Ísraels fjöllum og spá í móti þeim 6.3 og seg: Þér Ísraels fjöll, heyrið orð Drottins Guðs! Svo talar Drottinn Guð til fjallanna og hæðanna, til hvammanna og dalanna: Sjá, ég læt sverðið koma yfir yður og eyði fórnarhæðum yðar. 6.4 Ölturu yðar skulu í eyði lögð verða og sólsúlur yðar brotnar, og vegnum mönnum yðar mun ég kasta niður fyrir framan skurðgoð yðar, 6.5 og ég mun varpa hræjum Ísraelsmanna fyrir skurðgoð þeirra og dreifa beinum yðar umhverfis ölturu yðar. 6.6 Svo langt sem byggð yðar nær, skulu borgirnar í eyði liggja og fórnarhæðirnar standa gjöreyddar, til þess að ölturu yðar séu niður brotin og í rústum, skurðgoð yðar sundurbrotin og að engu gjörð, sólsúlur yðar mölvaðar og handaverk yðar afmáð. 6.7 Og menn skulu vegnir í val falla yðar á meðal, til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn. 6.8 En ég læt nokkra yðar komast undan sverðinu til annarra þjóða, og þegar yður hefur verið dreift um löndin, 6.9 munu þeir, sem undan komust, minnast mín meðal þjóðanna, þangað sem þeir voru herleiddir, þegar ég hefi beygt þeirra blótfíknu hjörtu, sem gjörðust mér fráhverf, og þeirra blótfúsu augu, sem mæna eftir skurðgoðunum, og þá mun þeim bjóða við sjálfum sér vegna illverka þeirra, er þeir hafa framið með öllum svívirðingum sínum. 6.10 Og þá munu þeir við kannast, að ég, Drottinn, hefi ekki talað þar um neinum hégómaorðum, að láta þá rata í þessa ógæfu.' 6.11 Svo segir Drottinn Guð: 'Slá þú saman höndum þínum, stappa niður fæti þínum og kalla ,vei` yfir öllum svívirðingum Ísraels húss, því að þeir munu falla fyrir sverði, hungri og drepsótt. 6.12 Sá sem fjær er, skal af drepsótt deyja, og sá sem nær er, fyrir sverði falla, og sá sem eftir er og bjargast hefir, skal deyja af hungri, og ég vil úthella allri heift minni yfir þá. 6.13 Og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar valkestirnir liggja mitt á meðal skurðgoðanna, kringum ölturu þeirra á hverri hárri hæð, á öllum fjallhnjúkum, undir hverju grænu tré og undir hverri laufgaðri eik, þar er þeir færðu öllum skurðgoðum sínum þægilegan ilm. 6.14 Og ég vil rétta út hönd mína í móti þeim og gjöra landið að auðn og öræfum frá eyðimörkinni allt norður að Ribla, alls staðar þar sem þeir búa, og þeir skulu viðurkenna, að ég er Drottinn.'
7.1 Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 7.2 'En þú, mannsson, seg: Svo talar Drottinn Guð til Ísraelslands: Endir kemur, endirinn kemur yfir fjórar álfur landsins. 7.3 Nú kemur endirinn yfir þig, og ég sendi reiði mína móti þér og dæmi þig eftir hegðun þinni og læt allar svívirðingar þínar niður á þér koma. 7.4 Og ég skal ekki líta þig vægðarauga og enga meðaumkun sýna, heldur láta hegðun þína koma niður á þér, og svívirðingar þínar skulu vera mitt á meðal þín, og þannig skuluð þér viðurkenna, að ég er Drottinn. 7.5 Svo segir Drottinn Guð: Ógæfa, já ógæfa kemur! 7.6 Endir kemur, endirinn kemur, hann er að vakna gegn þér, sjá, hann kemur! 7.7 Örlögin koma yfir þig, íbúi landsins, tíminn kemur, dagurinn er nálægur, dagur skelfingar, en ekki fagnaðarláta á fjöllunum. 7.8 Nú úthelli ég bráðum heift minni yfir þig og læt alla reiði mína yfir þig dynja, ég dæmi þig eftir hegðun þinni og læt allar svívirðingar þínar niður á þér koma. 7.9 Og ég skal ekki líta þig vægðarauga og enga meðaumkun sýna, heldur láta hegðun þína koma niður á þér, og svívirðingar þínar skulu vera mitt á meðal þín, og þannig skuluð þér viðurkenna, að ég, Drottinn, er sá sem tyftar. 7.10 Sjá, þarna er dagurinn, sjá, hann kemur. Kórónan sprettur fram, sprotinn blómgast, drambsemin þróast. 7.11 Ofbeldið rís upp sem vöndur á ranglætið. Ekkert verður eftir af þeim, ekkert af skrauti þeirra og ekkert af auðæfum þeirra, dýrð þeirra er öll úti. 7.12 Tíminn kemur, dagurinn nálgast. Kaupandinn fagni ekki og seljandinn syrgi ekki, því að reiði mín er upptendruð gegn öllu skrauti landsins. 7.13 Því að seljandinn mun ekki aftur að seldu komast og kaupandinn mun ekki halda hinu keypta. 7.14 Menn blása í hornið og búa allt út, en enginn fer í orustuna, því að reiði mín er upptendruð gegn öllum auðæfum hennar. 7.15 Sverðið úti, og hungrið og drepsóttin inni. Sá sem er á akri skal fyrir sverði falla og þeim, sem innan borgar er, skal hungur og drepsótt eyða. 7.16 Komist nokkrir af þeim undan, munu þeir vera á fjöllunum, eins og daladúfurnar, sem allar kurra, _ hver og einn vegna misgjörðar sinnar. 7.17 Allar hendur munu verða lémagna og öll kné leysast sundur og verða að vatni. 7.18 Og þeir munu gyrðast hærusekk, og skelfing mun hylja þá. Skömm mun sitja á hverju andliti, og hvert höfuð vera sköllótt. 7.19 Silfri sínu munu þeir varpa út á strætin, og gull þeirra mun vera þeim sem saur. Silfur þeirra og gull fær eigi frelsað þá á reiðidegi Drottins. Þeir munu eigi seðja með því hungur sitt né fylla með því kvið sinn, því að það varð þeim fótakefli til hrösunar. 7.20 Sínu dýrlega skrauti varði þjóðin til dramblætis, og þeir gjörðu af því svívirðilegar líkneskjur, viðurstyggðir sínar. Fyrir því gjöri ég það í augum þeirra sem saur. 7.21 Og ég skal selja það útlendingum í hendur að herfangi og hinum óguðlegustu mönnum á jörðunni að ránsfeng, og þeir skulu vanhelga það. 7.22 Og ég skal snúa augliti mínu frá þeim, og þá munu menn vanhelga kjörgrip minn, og ræningjar skulu brjótast inn í hann og vanhelga hann. 7.23 Bú þú til fjötur, því að landið er fullt af blóðskuld og borgin er full af ofbeldisverkum. 7.24 Og ég mun stefna hingað hinum verstu heiðingjum. Þeir skulu kasta eign sinni á hús þeirra, og ég mun gjöra enda á hinu ofmetnaðarfulla valdi þeirra, og helgidómar þeirra skulu verða vanhelgaðir. 7.25 Angist kemur, og þeir munu hjálpar leita, en enga fá. 7.26 Eitt óhappið fylgir öðru, og hver ótíðindin koma á fætur öðrum. Þá munu þeir beiðast vitrunar af spámanni, og þá mun leiðbeiningin vera horfin frá prestunum og ráðin frá öldungunum. 7.27 Konungurinn mun syrgja og landshöfðinginn klæðast skelfingu og hendur landslýðsins verða magnþrota af hræðslu. Eftir breytni þeirra mun ég með þá fara og dæma þá eftir verðleikum þeirra, og þeir skulu viðurkenna, að ég er Drottinn.'
8.1 Það var á sjötta ári, fimmta dag hins sjötta mánaðar, þá er ég sat í húsi mínu, og öldungar Júda sátu frammi fyrir mér, að hönd Drottins Guðs kom þar yfir mig. 8.2 Og ég sá, og sjá, þar var mynd, ásýndum sem maður. Þar í frá, sem mér þóttu lendar hans vera, og niður eftir, var eins og eldur, en frá lendum hans og upp eftir var að sjá sem bjarma, eins og ljómaði af lýsigulli. 8.3 Og hann rétti út líkast sem hönd væri og tók í höfuðhár mitt, og andinn hóf mig upp milli himins og jarðar og flutti mig til Jerúsalem í guðlegri sýn, að dyrum innra hliðsins, er snýr mót norðri, þar er líkansúlan stóð, sú er vakti afbrýði Drottins. 8.4 Og sjá, þar var dýrð Ísraels Guðs, alveg eins og í sýn þeirri, er ég hafði séð í dalnum. 8.5 Hann sagði við mig: 'Mannsson, hef upp augu þín og lít í norðurátt!' Og ég hóf upp augu mín og leit í norðurátt. Stóð þá þessi líkansúla, sem afbrýði vakti, norðan megin við altarishliðið, rétt þar sem inn er gengið. 8.6 Og hann sagði við mig: 'Mannsson, sér þú, hvað þeir eru að gjöra? Miklar svívirðingar eru það, sem Ísraelsmenn hafa hér í frammi, svo að ég verð að vera fjarri helgidómi mínum, en þú munt enn sjá miklar svívirðingar.' 8.7 Hann leiddi mig að dyrum forgarðsins. Og er ég leit á, var þar gat eitt á veggnum. 8.8 Og hann sagði við mig: 'Mannsson, brjót þú gat í gegnum vegginn.' Og er ég braut gat í gegnum vegginn, þá voru þar dyr. 8.9 Og hann sagði við mig: 'Gakk inn og sjá hinar vondu svívirðingar, sem þeir hafa hér í frammi.' 8.10 Ég gekk inn og litaðist um. Voru þar ristar allt umhverfis á vegginn alls konar myndir viðbjóðslegra orma og skepna og öll skurðgoð Ísraelsmanna. 8.11 Og þar voru sjötíu menn af öldungum Ísraels húss og Jaasanja Safansson mitt á meðal þeirra svo sem forstjóri þeirra, og hélt hver þeirra á reykelsiskeri í hendi sér og sté þar upp af ilmandi reykelsismökkur. 8.12 Og hann sagði við mig: 'Hefir þú séð, mannsson, hvað öldungar Ísraels húss hafast að í myrkrinu, hver í sínum myndaherbergjum? Því að þeir hugsa: ,Drottinn sér oss ekki, Drottinn hefir yfirgefið landið.'` 8.13 Því næst sagði hann við mig: 'Þú munt enn sjá miklar svívirðingar, er þeir hafa í frammi.' 8.14 Hann leiddi mig að dyrunum á norðurhliði musteris Drottins. Þar sátu konurnar, þær er grétu Tammús. 8.15 Og hann sagði við mig: 'Sér þú það, mannsson? Þú munt enn sjá svívirðingar, sem meiri eru en þessar.' 8.16 Hann leiddi mig inn í innra forgarð húss Drottins, og voru þá þar fyrir dyrum musteris Drottins, milli forsalsins og altarisins, um tuttugu og fimm menn. Sneru þeir bökum við musteri Drottins, en ásjónum sínum í austur, og tilbáðu sólina í austri. 8.17 Og hann sagði við mig: 'Sér þú það, mannsson? Nægir Júdamönnum það eigi að hafa í frammi þær svívirðingar, sem þeir hér fremja, þó að þeir ekki þar á ofan fylli landið með glæp og reiti mig hvað eftir annað til reiði? Sjá, hversu þeir halda vöndlinum upp að nösum sér. 8.18 Fyrir því vil ég og fara mínu fram í reiði: Ég vil ekki líta þá vægðarauga og enga meðaumkun sýna. Og þótt þeir þá kalli hárri röddu í eyru mín, þá mun ég ekki heyra þá.'
9.1 Þessu næst kallaði hann hárri röddu í eyru mín: 'Refsingar borgarinnar nálgast!' 9.2 Þá komu sex menn frá efra hliðinu, sem snýr í norður, og hafði hver þeirra eyðingarverkfæri í hendi sér, og meðal þeirra var einn maður, sem var líni klæddur og hafði skriffæri við síðu sér. Þeir komu og námu staðar hjá eiraltarinu. 9.3 Dýrð Ísraels Guðs hafði hafið sig frá kerúbunum, þar sem hún hafði verið, yfir að þröskuldi hússins. Og hann kallaði á línklædda manninn, sem hafði skriffærin við síðu sér. 9.4 Og Drottinn sagði við hann: 'Gakk þú mitt í gegnum borgina, mitt í gegnum Jerúsalem, og set merki á enni þeirra manna, sem andvarpa og kveina yfir öllum þeim svívirðingum, sem framdar eru inni í henni.' 9.5 En til hinna mælti hann að mér áheyrandi: 'Farið á eftir honum um borgina og höggvið niður, lítið engan vægðarauga og sýnið enga meðaumkun. 9.6 Öldunga og æskumenn, meyjar og börn og konur skuluð þér brytja niður, en engan mann skuluð þér snerta, sem merkið er á. Og takið fyrst til hjá helgidómi mínum!' Og þeir tóku fyrst til á öldungum þeim, sem voru fyrir framan musterið. 9.7 Og hann sagði við þá: 'Horfið ekki í að saurga musterið og fyllið strætin vegnum mönnum. Gangið nú út!' Þeir gengu þá út og hjuggu niður mannfólkið í borginni. 9.8 Meðan þeir brytjuðu niður, féll ég fram á ásjónu mína, kallaði og sagði: 'Æ, Drottinn Guð, ætlar þú að gjöreyða öllum eftirleifum Ísraels, þar sem þú eys út reiði þinni yfir Jerúsalem?' 9.9 Þá sagði hann við mig: 'Misgjörð Ísraelsmanna og Júdamanna er afskaplega mikil, og landið er fullt af blóðugu ranglæti og borgin er full af ofbeldisverkum, því að þeir segja: ,Drottinn hefir yfirgefið landið` og ,Drottinn sér það ekki.` 9.10 Fyrir því skal ég heldur ekki líta þá vægðarauga og enga meðaumkun sýna. Ég læt athæfi þeirra þeim sjálfum í koll koma.' 9.11 Þá kom línklæddi maðurinn, sem hafði skriffærin við síðu sér, aftur og sagði: 'Ég hefi gjört eins og þú bauðst mér.'
10.1 Ég sá, og sjá: Á festingunni, er var yfir höfði kerúbanna, var því líkast sem safírsteinn væri. Eitthvað, sem tilsýndar var sem hásæti í laginu, sást uppi yfir þeim. 10.2 Þá sagði hann við línklædda manninn: 'Gakk inn á millum hjólanna undir kerúbunum, tak handfylli þína af glóðum milli kerúbanna og dreif þeim út yfir borgina.' Og hann gekk þar inn að mér ásjáandi. 10.3 En kerúbarnir stóðu hægra megin við musterið, þegar maðurinn gekk inn, og fyllti skýið innra forgarðinn. 10.4 En dýrð Drottins hóf sig frá kerúbunum yfir á þröskuld musterisins. Varð musterið þá fullt af skýmekki, en forgarðurinn fylltist ljóma af dýrð Drottins. 10.5 Og vængjaþytur kerúbanna heyrðist allt til hins ytra forgarðs, eins og rödd Guðs almáttugs, þá er hann talar. 10.6 Nú er hann hafði boðið línklædda manninum og sagt: 'Tak eld á millum hjólanna, á millum kerúbanna!' _ þá gekk hann til og staðnæmdist hjá einu hjólinu. 10.7 Þá rétti einn kerúbinn hönd sína út milli kerúbanna að eldinum, sem var á milli kerúbanna, tók þar af og fékk í hendur línklædda manninum. Hann tók við og gekk burt. 10.8 En á kerúbunum sást eitthvað, sem líktist mannshendi, undir vængjum þeirra. 10.9 Ég leit til, og voru þá fjögur hjól hjá kerúbunum, sitt hjól hjá hverjum kerúb, og hjólin voru á að líta eins og þegar blikar á krýsolítstein. 10.10 Og að því er gerð þeirra snertir, þá voru þau öll fjögur samlík, eins og eitt hjólið væri innan í öðru hjóli. 10.11 Þegar þau gengu, gengu þau til allra fjögurra hliða. Þau snerust eigi við í göngunni, heldur gengu þau í þá átt, sem höfuðið sneri, þau snerust eigi við í göngunni. 10.12 Og allur líkami þeirra og bak þeirra, hendur og vængir voru alsett augum allt umhverfis á þeim fjórum. 10.13 En hjólin voru í mín eyru nefnd 'hvirfilbylur'. 10.14 Og hver hafði fjögur andlit. Andlit eins var nautsandlit, andlit hins annars mannsandlit, hinn þriðji hafði ljónsandlit og hinn fjórði arnarandlit. 10.15 Og kerúbarnir hófu sig upp. Það voru sömu verurnar, sem ég hafði séð við Kebarfljótið. 10.16 Og þegar kerúbarnir gengu, þá gengu og hjólin við hliðina á þeim, og þegar kerúbarnir hófu upp vængi sína til þess að lyfta sér frá jörðinni, þá snerust hjólin ekki burt frá þeim. 10.17 Þegar þeir stóðu kyrrir, stóðu þau og kyrr, og þegar þeir hófust upp, hófust þau og upp með þeim, því að andi verunnar var í þeim. 10.18 Dýrð Drottins fór nú burt af þröskuldi musterisins og nam staðar uppi á kerúbunum. 10.19 Þá hófu kerúbarnir upp vængi sína og lyftu sér frá jörðinni að mér ásjáandi, er þeir fóru burt, og hjólin samtímis þeim. Og þeir námu staðar úti fyrir austurhliði musteris Drottins, en dýrð Ísraels Guðs var uppi yfir þeim. 10.20 Það voru sömu verurnar, sem ég hafði séð undir Ísraels Guði við Kebarfljótið, og ég þekkti, að það voru kerúbar. 10.21 Þeir höfðu fjögur andlit og fjóra vængi hver, og undir vængjum sér eitthvað, sem líktist mannshöndum. 10.22 Og hvað andlitsskapnaðinn snerti, þá voru það sömu andlitin, sem ég hafði séð við Kebarfljótið; þeir gengu hver fyrir sig beint af augum fram.
11.1 Og andinn hóf mig upp og flutti mig að austurhliði musteris Drottins, sem horfir mót austri. Þar stóðu fyrir dyrum hliðsins tuttugu og fimm menn, og á meðal þeirra sá ég Jaasanja Assúrsson og Pelatja Benajason, foringja lýðsins. 11.2 Þá sagði hann við mig: 'Mannsson, það eru þessir menn, sem hafa illt í huga og ráða mönnum óheilt í þessari borg. 11.3 Þeir segja: ,Hafa ekki húsin nýlega verið endurreist? Borgin er potturinn, en vér erum kjötið.` 11.4 Spá þú þess vegna móti þeim, spá þú, mannsson!' 11.5 Þá kom andi Drottins yfir mig og sagði við mig: 'Seg þú: Svo segir Drottinn: Svo segið þér, Ísraelsmenn, og ég þekki hugrenningar yðar. 11.6 Marga menn yðar hafið þér drepið í þessari borg og þér hafið fyllt stræti hennar vegnum mönnum. 11.7 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Þeir menn, sem þér hafið lagt að velli í borginni, þeir eru kjötið og borgin er potturinn. En þér munuð fluttir verða burt úr henni. 11.8 Við sverðið eruð þér hræddir, og sverðið skal ég láta yfir yður koma, segir Drottinn Guð. 11.9 Og ég skal færa yður burt úr borginni og selja yður útlendum mönnum í hendur og framkvæma dóma meðal yðar. 11.10 Fyrir sverði skuluð þér falla, í Ísraelslandi skal ég dæma yður, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn. 11.11 Borgin skal ekki verða yður að potti og þér skuluð ekki verða kjöt í henni, í Ísraelslandi skal ég dæma yður. 11.12 Þá skuluð þér viðurkenna, að ég er Drottinn. En mínum boðorðum hafið þér ekki hlýtt og mína setninga hafið þér ekki haldið, heldur hafið þér breytt eftir setningum heiðnu þjóðanna, sem umhverfis yður eru.' 11.13 Meðan ég spáði þannig, féll Pelatja Benajason dauður niður. Þá féll ég fram á ásjónu mína, kallaði upp hárri röddu og sagði: 'Æ, Drottinn Guð, ætlar þú að gjöreyða öllum eftirleifum Ísraels?' 11.14 Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 11.15 'Mannsson, um bræður þína, bræður þína, þá menn, er með þér voru herleiddir, og gjörvallan Ísraels lýð, segja Jerúsalembúar: ,Þeir eru langt í burtu frá Drottni, oss er landið gefið til eignar!` 11.16 Fyrir því skalt þú segja: Svo segir Drottinn Guð: Já, ég hefi rekið þá langt burt til heiðinna þjóða og dreift þeim út um löndin, og ég varð þeim skamma hríð að helgidómi í löndum þeim, sem þeir eru komnir til. 11.17 Fyrir því skalt þú segja: Svo segir Drottinn Guð: Ég vil safna yður saman frá þjóðunum og stefna yður saman frá löndunum, þangað sem yður var dreift, og gefa yður Ísraelsland. 11.18 Þangað munu þeir komast og útrýma þaðan öllum viðurstyggðum þess og öllum svívirðingum þess. 11.19 Og ég mun gefa þeim nýtt hjarta og leggja þeim nýjan anda í brjóst. Ég mun taka steinhjartað úr líkama þeirra og gefa þeim hjarta af holdi, 11.20 til þess að þeir hlýði boðorðum mínum og varðveiti setninga mína og breyti eftir þeim. Og þá skulu þeir vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð. 11.21 En þessir _ hjarta þeirra eltir viðurstyggðir þeirra og andstyggðir. Ég skal láta athæfi þeirra koma þeim í koll, segir Drottinn Guð.' 11.22 Nú hófu kerúbarnir vængi sína og hjólin færðust til samtímis þeim, en dýrð Ísraels Guðs var uppi yfir þeim. 11.23 Og dýrð Drottins hóf sig upp frá borginni og staðnæmdist á fjallinu, sem er fyrir austan borgina. 11.24 Og andinn hóf mig upp og flutti mig í sýninni, fyrir Guðs anda, til hinna herleiddu í Kaldealandi. Og sýnin, sem ég hafði séð, leið upp frá mér. 11.25 Því næst flutti ég hinum herleiddu öll orð Drottins, þau er hann hafði birt mér.
12.1 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 12.2 'Mannsson, þú býr á meðal þverúðugs lýðs, meðal manna, sem hafa augu til að sjá með, en sjá þó ekki, eyru til að heyra með, en heyra þó ekki, því að þverúðugur lýður eru þeir. 12.3 En þú, mannsson, haf til ferðatæki þín og legg af stað um hádag í augsýn þeirra, og þú skalt fara burt þaðan, sem þú nú býr, á annan stað, að þeim ásjáandi, ef vera mætti að augu þeirra lykjust upp, því að þeir eru þverúðugur lýður. 12.4 Þú skalt færa út föng þín svo sem önnur ferðatæki um hádag í augsýn þeirra, en sjálfur skalt þú út fara að kveldi að þeim ásjáandi, eins og þegar útlegðarmenn fara burt. 12.5 Brjót þú gat á vegginn í augsýn þeirra og gakk þar út um. 12.6 Þú skalt bera föng þín á öxlinni í augsýn þeirra, þú skalt fara út í myrkri og hylja ásjónu þína og ekki sjá landið. Því að ég gjöri þig að tákni fyrir Ísraels lýð.' 12.7 Ég gjörði sem mér var boðið: Ég færði föng mín út svo sem önnur ferðatæki um hádag, og að kveldi braut ég með hendinni gat á vegginn. Ég fór út í myrkri og bar þau á öxlinni í augsýn þeirra. 12.8 En morguninn eftir kom orð Drottins til mín, svohljóðandi: 12.9 'Þú mannsson, hafa þeir ekki sagt við þig, Ísraelsmenn, hinn þverúðugi lýður: ,Hvað ertu að gjöra?` 12.10 Seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: Þetta guðmæli á við höfðingjann í Jerúsalem og alla Ísraelsmenn, þá sem eru meðal yðar. 12.11 Seg: Ég er yður tákn. Eins og ég hefi gjört, svo mun með þá farið verða: Þeir munu fara í útlegð, herleiddir verða. 12.12 Og höfðinginn, sem meðal þeirra er, mun taka föng sín á öxl sér og fara út í myrkri. Hann mun brjóta gat á vegginn til þess að fara þar út um, hann mun hylja ásjónu sína, til þess að hann sjái ekki landið. 12.13 Og ég mun kasta yfir hann neti mínu, og hann mun veiddur verða í veiðarfæri mín, og ég mun flytja hann til Babýlon, til Kaldealands. Það land skal hann ekki sjá, og þó mun hann þar deyja. 12.14 Og öllu því, sem umhverfis hann er, fulltingjurum hans og gjörvöllum herflokkum hans, mun ég tvístra í allar áttir og vera á hælum þeim með brugðið sverð. 12.15 Og þá skulu þeir kannast við, að ég er Drottinn, er ég dreifi þeim meðal heiðnu þjóðanna og tvístra þeim út um löndin. 12.16 Og ég læt aðeins fáeina menn af þeim komast undan sverðinu, hungrinu og drepsóttinni, til þess að þeir segi frá öllum svívirðingum sínum meðal þjóðanna, sem þeir koma til, og þeir skulu kannast við, að ég er Drottinn.' 12.17 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 12.18 'Mannsson, et brauð þitt með hræðslu og drekk vatn þitt með skjálfta og angist 12.19 og seg við landslýðinn: Svo segir Drottinn Guð um þá, sem búa í Jerúsalem í Ísraelslandi! Þeir munu eta brauð sitt með angist og drekka vatn sitt með skelfingu, til þess að land hennar leggist í auðn og verði svipt gæðum sínum, sakir glæps þess, er allir íbúar þess í frammi hafa. 12.20 Byggðar borgir skulu í eyði leggjast og landið verða að öræfum, og þá skuluð þér kannast við, að ég er Drottinn.' 12.21 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 12.22 'Mannsson, hvaða orðtak er þetta, sem þér hafið í Ísraelslandi, er þér segið: ,Tíminn dregst, og allar vitranir reynast marklausar`? 12.23 Seg því við þá: Svo segir Drottinn Guð: Ég mun gjöra enda á þessu orðtaki, og menn munu eigi framar nota það í Ísrael. Seg þeim þar í móti: ,Tíminn er nálægur og allar vitranir rætast.` 12.24 Því að hér eftir skal engin hégómasýn eða hræsnispádómur stað hafa meðal Ísraelsmanna, 12.25 því að ég, Drottinn, mun tala það orð, er ég vil tala, og það mun koma fram. Það mun ekki dragast lengur, því að á yðar dögum, þverúðuga kynslóð, mun ég tala orð og framkvæma það' _ segir Drottinn Guð. 12.26 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 12.27 'Mannsson, sjá, Ísraelsmenn segja: ,Sýnin, sem hann sér, á sér langan aldur, og hann spáir langt fram í ókomnar tíðir.` 12.28 Seg því við þá: Svo segir Drottinn Guð: Á engu mínu orði mun framar frestur verða. Því orði, er ég tala, mun framgengt verða _ segir herrann Drottinn.'
13.1 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 13.2 'Mannsson, spá þú gegn spámönnum Ísraels, þeim er spá, og seg við spámennina, sem spá frá eigin brjósti: Heyrið orð Drottins! 13.3 Svo segir Drottinn Guð: Vei hinum heimsku spámönnum, sem fara eftir hugarburði sjálfra sín og því, er þeir hafa ekki séð. 13.4 Spámenn þínir, Ísrael, eru sem refir í rústabrotum. 13.5 Þér hafið ekki gengið fram í vígskörðin og þér hafið engan virkisgarð hlaðið í kringum Ísraels hús, til þess að standast í stríðinu á degi Drottins. 13.6 Þeir sáu hégómasýnir og fóru með lygispádóma, þeir er sögðu: ,Drottinn segir,` þótt Drottinn hefði ekki sent þá, og væntu síðan að orðin mundu rætast. 13.7 Eru það ekki hégómasýnir, sem þér hafið séð, og lygispádómar, sem þér hafið farið með og segið þó: ,Drottinn segir,` þótt ég hafi eigi talað? 13.8 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Með því að þér talið hégóma og sjáið lygar, þá skal ég láta yður kenna á því _ segir Drottinn Guð. 13.9 Og hönd mín skal vera upp í móti þeim spámönnum, sem sjá hégómasýnir og fara með lygispádóma. Þeir skulu eigi vera í félagi þjóðar minnar og eigi vera ritaðir á skrá Ísraels húss, og inn í Ísraelsland skulu þeir ekki koma, og þannig skuluð þér kannast við, að ég er Drottinn. 13.10 Fyrir þá sök og vegna þess að þeir hafa leitt lýð minn í villu með því að segja: ,Heill!` þar sem engin heill var, og þegar þeir hlóðu vegg, riðu þeir kalki á hann, 13.11 þá seg þú kölkurunum, _ því hann skal hrynja: Sjá, ég mun láta koma steypiregn, sem skolar honum burt, haglsteinar skulu niður falla og stormbylur á skella. 13.12 Þá hrynur veggurinn. Mun þá ekki verða við yður sagt: ,Hvar er nú kalkið, er þér riðuð á vegginn?` 13.13 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Í heift minni skal ég láta stormbyl á skella, og dynjandi steypiregn skal á koma vegna reiði minnar, og haglsteinar vegna heiftar minnar til algjörðrar tortímingar. 13.14 Ég skal brjóta niður vegginn, sem þér hafið kalkað, og bylta honum til jarðar, svo að undirstaða hans komi í ljós. Og hann mun hrynja, og þér munuð verða á milli og viðurkenna, að ég er Drottinn. 13.15 Og ég vil úthella allri reiði minni yfir vegginn og yfir þá, sem riðu kalki á hann, og ég mun segja við yður: Horfinn er veggurinn og horfnir eru þeir, sem riðu hann kalki, 13.16 spámenn Ísraels, sem spá fyrir Jerúsalem og þykjast sjá heillasýnir henni til handa, þar sem þó engin heill er _ segir Drottinn Guð. 13.17 En þú, mannsson, snú nú augliti þínu gegn dætrum þjóðar þinnar, þeim er spá eftir eigin hugboði, og spá þú móti þeim 13.18 og seg: Svo segir Drottinn Guð: Vei þeim, sem sauma bindi fyrir alla úlnliði og búa til skýlur fyrir höfuð manna, hvers vaxtar sem er, til þess að veiða sálir. Hvort ætlið þér að veiða sálir hjá þjóð minni og halda lífinu í sálum yður til handa? 13.19 Þér vanhelgið mig hjá þjóð minni fyrir nokkra hnefa af byggi og nokkra brauðbita til þess að deyða sálir, sem ekki eiga að deyja, og halda lífinu í sálum, sem ekki eiga að lifa, með því að ljúga að þjóð minni, sem hlustar á lygar. 13.20 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, ég skal hafa hendur á bindum yðar, þeim er þér veiðið með sálir, og ég skal slíta þau af armleggjum yðar og láta lausar sálir þær, er þér veiðið, sem væru þær fuglar. 13.21 Og ég skal slíta sundur skýlur yðar og frelsa lýð minn úr yðar höndum, svo að þeir séu ekki lengur veiðifang í yðar höndum, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn. 13.22 Vegna þess að þér hrellið hjarta hins ráðvanda með lygum, þar sem ég vildi þó eigi hafa hrellt hann, og af því að þér styrkið hendur hins óguðlega, til þess að hann snúi sér ekki frá sinni vondu breytni og forði lífi sínu, 13.23 þess vegna skuluð þér ekki framar sjá hégómasýnir og ekki framar fara með lygispádóma. Ég vil frelsa lýð minn af yðar höndum, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn.'
14.1 En til mín komu nokkrir af öldungum Ísraels og settust niður frammi fyrir mér. 14.2 Þá kom orð Drottins til mín, svohljóðandi: 14.3 'Mannsson, þessir menn hafa skipað skurðgoðum sínum til hásætis í hjarta sínu og sett ásteytingarstein misgjörðar sinnar upp fyrir framan sig. Ætti ég þá að láta þá ganga til frétta við mig? 14.4 Fyrir því tala þú til þeirra og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: Hver sá af Ísraelsmönnum, sem skipar skurðgoðum sínum til hásætis í hjarta sínu og setur ásteytingarstein misgjörðar sinnar upp fyrir framan sig og fer þó til spámanns, honum skal ég, Drottinn, sjálfur svör gefa, þrátt fyrir hans mörgu skurðgoð, 14.5 til þess að taka um hjartað í Ísraelsmönnum, er gjörst hafa mér ókunnugir fyrir öll skurðgoð sín. 14.6 Seg því við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð: Snúið við og snúið yður frá skurðgoðum yðar og snúið augliti yðar burt frá öllum svívirðingum yðar. 14.7 Því að sérhver sá af Ísraelsmönnum og af útlendingum þeim, er dveljast meðal Ísraelsmanna, er gjörist mér fráhverfur og skipar skurðgoðum sínum til hásætis í hjarta sínu og setur ásteytingarstein misgjörðar sinnar upp fyrir framan sig og fer þó til spámanns til þess að láta hann spyrja mig fyrir sig, honum skal ég, Drottinn, sjálfur svör gefa. 14.8 Ég vil snúa augliti mínu gegn slíkum manni og gjöra hann að tákni og orðtaki og uppræta hann úr þjóð minni, til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn. 14.9 En láti spámaðurinn tæla sig og flytji hann spámæli, þá hefi ég, Drottinn, tælt þann spámann, og ég mun rétta út hönd mína móti honum og afmá hann úr þjóð minni Ísrael. 14.10 Og þeir skulu báðir bera sekt sína: Þeir skulu vera jafnsekir hvor um sig, sá er til frétta gengur og spámaðurinn, 14.11 til þess að Ísraelsmenn villist ekki framar frá mér og saurgi sig ekki framar á alls konar glæpum, heldur skulu þeir vera mín þjóð, og ég skal vera þeirra Guð _ segir Drottinn Guð.' 14.12 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 14.13 'Mannsson, ef land syndgar móti mér, með því að bregða trúnaði, og ég rétti út hönd mína gegn því og brýt sundur staf brauðsins fyrir því og sendi hungur í það og eyði þar mönnum og fénaði, 14.14 og þótt í því væru þessir þrír menn: Nói, Daníel og Job, þá mundu þeir þó aðeins fá bjargað sjálfum sér fyrir ráðvendni sína _ segir Drottinn Guð. 14.15 Ef ég léti óargadýr fara yfir landið og þau eyddu það að mönnum, svo að það yrði auðn, sem enginn færi um vegna dýranna, 14.16 og þessir þrír menn væru í því, _ svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, skyldu þeir hvorki fá bjargað sonum né dætrum. Þeir mundu aðeins fá bjargað sjálfum sér, en landið skyldi verða auðn. 14.17 Eða ef ég léti sverð geisa yfir þetta land og segði: Sverðið skal fara yfir landið! og eyddi í því mönnum og skepnum, 14.18 og þessir þrír menn væru í því, _ svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, hvorki mundu þeir fá bjargað sonum né dætrum, heldur mundu þeir aðeins fá bjargað sjálfum sér. 14.19 Eða ef ég sendi drepsótt inn í þetta land og jysi yfir það blóðugri heift minni, til þess að eyða í því mönnum og skepnum, 14.20 og Nói, Daníel og Job væru í því, _ svo sannarlega sem Drottinn Guð lifir, skyldu þeir hvorki fá bjargað syni né dóttur. Þeir mundu aðeins fá bjargað sjálfum sér fyrir ráðvendni sína. 14.21 Þó segir Drottinn Guð svo: Jafnvel þótt ég sendi fjóra mína vondu refsidóma, sverð, hungur, óargadýr og drepsótt, yfir Jerúsalem til þess að eyða í henni mönnum og skepnum, 14.22 þá skal þó hópur eftir verða, sem af kemst, þeir er fara út með sonu og dætur. Þeir munu koma út til yðar, og þér munuð sjá breytni þeirra og gjörðir þeirra og huggast yfir ógæfu þeirri, er ég hefi látið koma yfir Jerúsalem, yfir öllu því, er ég hefi látið koma yfir hana. 14.23 Og þeir munu hugga yður, er þér sjáið breytni þeirra og gjörðir þeirra, og þér munuð sjá, að ég hefi ekkert gjört án orsaka af öllu því, er ég hefi í henni gjört _ segir Drottinn Guð.'
15.1 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 15.2 'Mannsson, hvað hefir vínviðurinn fram yfir allan annan við, teinungurinn, sem er á meðal skógartrjánna? 15.3 Verður af honum tekinn efniviður til smíða, eða fæst úr honum snagi, til þess að hengja á alls konar verkfæri? 15.4 Nei, hann er hafður til eldsneytis. Þegar eldurinn hefir brennt báða enda hans, og sé miðjan sviðnuð, hvert gagn er þá að honum til efniviðar? 15.5 Meðan hann enn er heill, verður ekkert úr honum smíðað, því síður að nú verði nokkuð úr honum gjört, þegar eldurinn hefir brennt hann og hann er sviðnaður. 15.6 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Eins og vínviðinn meðal skógartrjánna, sem ég hefi ætlað til eldsneytis, svo vil ég fara með Jerúsalembúa. 15.7 Ég skal snúa augliti mínu gegn þeim: Þeir hafa komist úr eldinum, og eldurinn skal eyða þeim, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar ég sný augliti mínu gegn þeim. 15.8 Og ég gjöri landið að auðn, af því að þeir hafa brugðið trúnaði við mig _ segir Drottinn Guð.'
16.1 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 16.2 'Mannsson, leið Jerúsalem fyrir sjónir svívirðingar hennar 16.3 og seg: Svo segir Drottinn Guð við Jerúsalem: Að uppruna og ætterni ert þú frá Kanaanlandi. Faðir þinn var Amoríti og móðir þín Hetíti. 16.4 Og það er að segja af fæðing þinni, að þann dag, sem þú fæddist, var hvorki skorið á naflastreng þinn né þú lauguð í vatni, ekki núin salti og ekki reifum vafin. 16.5 Enginn renndi til þín meðaumkunarauga til þess að veita þér nokkurt eitt af þessu og aumkast yfir þig, heldur var þér kastað út á víðavang _ svo lítils var líf þitt metið daginn sem þú fæddist. 16.6 Þá gekk ég fram á þig og sá þig vera að brölta í blóði þínu og sagði við þig: ,Þú, sem liggur þarna í blóði þínu, halt þú lífi!` 16.7 Og þú óxt eins og grös vallarins, og þú stækkaðir og varðst mikil vexti og hin fríðasta sýnum. Brjóstin voru orðin stinn og hár þitt óx mjög, en þó varstu ber og nakin. 16.8 Þá varð mér gengið fram á þig og ég sá þig, og var þá þinn tími ástarinnar tími. Ég breiddi yfir þig ábreiðu mína og huldi nekt þína, ég trúlofaðist þér og gjörði við þig sáttmála _ segir Drottinn Guð _ og þú varðst mín. 16.9 Og ég laugaði þig í vatni, þvoði af þér blóðið og smurði þig með olífuolíu. 16.10 Og ég færði þig í glitklæði og fékk þér skó af höfrungaskinni, faldaði þér með hvítu líni og huldi þig silkiblæju. 16.11 Ég skreytti þig skarti, spennti armbaugum um handleggi þína og festi um háls þinn. 16.12 Ég lét á þig nefhring og eyrnagull og veglega kórónu á höfuð þér. 16.13 Þú varst prýdd gulli og silfri, og klæðnaður þinn var úr hvítu líni, silki og glitvefnaði. Þú neyttir hveitimjöls, hunangs og olífuolíu, og þú varðst frábærlega fríð og komst jafnvel í konunglega tign. 16.14 Og nú fór orð af þér til heiðinna þjóða sökum fegurðar þinnar, því að hún var fullkomin fyrir skart það, er ég hafði á þig látið _ segir Drottinn Guð. 16.15 En þú reiddir þig á fegurð þína og hóraðist upp á frægð þína, og þú jóst hórdómi þínum út yfir hvern, sem fram hjá gekk. 16.16 Og þú tókst nokkuð af fötum þínum og gjörðir þér mislitar fórnarhæðir, og þú drýgðir hórdóm á þeim. 16.17 Og þú tókst skartgripina af gulli því og silfri, er ég hafði gefið þér, og gjörðir þér karlmannslíkneski af og drýgðir hórdóm með þeim. 16.18 Og þú tókst glitklæði þín og lagðir yfir þau, og olíu mína og reykelsi settir þú fyrir þau. 16.19 Og brauð mitt, það er ég hafði gefið þér, hveitimjölið, olíuna og hunangið, er ég hafði gefið þér að eta, það settir þú fyrir þau til þægilegs fórnarilms _ segir Drottinn Guð. 16.20 Og þú tókst sonu þína og dætur, sem þú hafðir alið mér, og blótaðir þeim til fæðslu fyrir skurðgoðin. Var ekki hórdómur þinn nógur, 16.21 þó að þú slátraðir ekki börnum mínum og gæfir þau skurðgoðum, með því að brenna þau þeim til heiðurs. 16.22 Og í öllum svívirðingum þínum og hórdómi minntist þú ekki bernskudaga þinna, þá er þú varst ber og nakin og bröltir í blóði þínu. 16.23 Og ofan á alla illsku þína, _ vei, vei þér! segir Drottinn Guð _, 16.24 þá reistir þú þér hörga og hlóðst þér upp blótstalla á öllum torgum. 16.25 Á öllum gatnamótum reistir þú þér blótstalla og ósæmdir fríðleik þinn og glenntir sundur fætur þína framan í hvern, sem fram hjá gekk. Og þú drýgðir enn meiri hórdóm: 16.26 Þú drýgðir hórdóm með Egyptum, hinum hreðurmiklu nábúum þínum, og þú drýgðir enn meiri hórdóm, til þess að reita mig til reiði. 16.27 Þá rétti ég út hönd mína á móti þér og minnkaði skammt þinn og ofurseldi þig græðgi fjandkvenna þinna, dætra Filista, sem fyrirurðu sig fyrir saurlífisathæfi þitt. 16.28 Og þú drýgðir hórdóm með Assýríumönnum, án þess að fá nægju þína, þú hóraðist með þeim og fékkst þó ekki nægju þína. 16.29 Og þú útbreiddir hóranir þínar til Kaldealands, og enn nægði þér ekki. 16.30 Hversu brann hjarta þitt af girnd _ segir Drottinn Guð _ er þú framdir allt þetta, sem erkihóra mundi fremja, 16.31 þá er þú reistir þér hörga á öllum gatnamótum og gjörðir þér blótstalla á öllum torgum. Og þó varst þú ekki eins og skækja, að þú hrúgaðir saman hvílutollum. 16.32 Hórkona tekur aðra menn undir bónda sinn. 16.33 Öllum skækjum er vant að greiða gjald, en þú þar á móti galtst öllum ástmönnum þínum kaup og ginntir þá með gjöfum til að koma til þín úr öllum áttum og fremja hórdóm með þér. 16.34 Saurlifnaður þinn var með öðrum hætti en annarra kvenna. Menn hlupu ekki eftir þér til fylgilags, heldur greiddir þú friðilslaun, en þér voru engin laun goldin. Svo gagnstætt var þitt háttalag annarra kvenna. 16.35 Heyr því orð Drottins, skækja! 16.36 Svo segir Drottinn Guð: Af því að fúllífi þitt varð svo óstjórnlegt og blygðan þín var ber gjörð við saurlifnað þinn frammi fyrir friðlum þínum og frammi fyrir öllum hinum andstyggilegu skurðgoðum þínum og vegna blóðs barna þinna, er þú blótaðir þeim, _ 16.37 fyrir því skal ég saman safna öllum friðlum þínum, þeim er þú varst geðþekk, og það öllum þeim, er þú elskaðir, ásamt öllum þeim, er þér geðjast ekki að. Þeim skal ég safna saman að þér úr öllum áttum og bera gjöra blygðan þína frammi fyrir þeim, svo að þeir sjái blygðan þína eins og hún er. 16.38 Og ég mun láta sama dóm yfir þig ganga sem yfir hórkonur og þær, sem úthella blóði, og ég mun sýna þér heift og afbrýði. 16.39 Og ég mun selja þig þeim í hendur og þeir munu rífa niður hörga þína og brjóta niður blótstalla þína og færa þig af klæðum þínum og taka af þér skartgripi þína og skilja þig eftir nakta og bera. 16.40 Og þeir munu gjöra að þér mannsöfnuð, lemja þig grjóti og höggva þig sundur með sverðum sínum. 16.41 Og þeir munu brenna hús þín í eldi og framkvæma refsingardóm á þér í augsýn margra kvenna, og þannig mun ég gjöra enda á hórdómi þínum, og þú munt eigi framar greiða nein friðilslaun. 16.42 En ég mun stilla heift mína, og afbrýði mín við þig skal hverfa, og ég mun halda kyrru fyrir og ekki framar gremja geð mitt. 16.43 Af því að þú minntist ekki bernskudaga þinna og reittir mig til reiði með öllu þessu, lét ég athæfi þitt þér í koll koma _ segir Drottinn Guð. Hefir þú ekki og framið þennan glæp ofan á allar svívirðingar þínar? 16.44 Sjá, hver sá, er málsháttu tíðkar, mun um þig hafa málsháttinn: ,Mær er jafnan móður lík!` 16.45 Þú ert dóttir móður þinnar, sem rak burt bónda sinn og börn sín, og þú ert systir systra þinna, sem ráku burt bændur sína og börn sín. Móðir yðar var Hetíti og faðir yðar Amoríti. 16.46 Og eldri systir þín er Samaría og dætur hennar, hún býr þér til vinstri handar, og yngri systir þín, sú er býr þér til hægri handar, er Sódóma og dætur hennar. 16.47 Að vísu gekkst þú ekki í fyrstu á þeirra vegum og framdir ekki aðrar eins svívirðingar og þær, en brátt gjörðist þú enn spilltari en þær í allri breytni þinni. 16.48 Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð: Sódóma systir þín og dætur hennar hafa ekki aðhafst slíkt sem þú og dætur þínar hafa aðhafst. 16.49 Sjá, synd Sódómu systur þinnar var ofdramb. Hún og dætur hennar höfðu gnótt matar og lifðu góðu lífi í makindum, en réttu þó ekki hinum voluðu og fátæku hjálparhönd. 16.50 Þær urðu drambsfullar og frömdu svívirðingar fyrir augum mér. Þá svipti ég þeim í burt, er ég sá það. 16.51 Samaría hefir ekki drýgt helminginn af þínum syndum. Þú hefir framið miklu meiri svívirðingar en þær, og þann veg sýnt með öllum þeim svívirðingum, er þú hefir framið, að systur þínar eru betri en þú. 16.52 Ber þú nú og sjálf smán þína. Þú sem hefir flutt málsvörn fyrir systur þínar með syndum þínum, er voru andstyggilegri en þeirra, svo að þær eru hátíð hjá þér. Skammastu þín því og berðu smán þína fyrir það, að þú hefir sýnt að systur þínar eru betri en þú. 16.53 Ég mun snúa við högum þeirra, högum Sódómu og dætra hennar og högum Samaríu og dætra hennar, og ég mun og snúa við högum þínum meðal þeirra, 16.54 til þess að þú berir smán þína og skammist þín fyrir allt það, sem þú hefir gjört og með því orðið þeim til hugfróunar. 16.55 Og systur þínar, Sódóma og dætur hennar, skulu aftur komast í sitt fyrra gengi, og Samaría og dætur hennar skulu og aftur komast í sitt fyrra gengi, og þú og dætur þínar skuluð aftur komast í yðar fyrra gengi. 16.56 Og þó tókst þú ekki nafn Sódómu systur þinnar þér í munn á þínum ofdrambsdögum, 16.57 þá er vonska þín var enn ekki ber orðin, eins og í þann tíð, er dætur Edóms smánuðu þig og allar dætur Filista, sem óvirtu þig úr öllum áttum. 16.58 Fyrir saurlifnað þinn og svívirðingar, fyrir þær hefir þú gjöld tekið _ segir Drottinn. 16.59 Svo segir Drottinn Guð: Ég gjöri við þig, eins og þú hefir gjört, þar sem þú hafðir eiðinn að engu og raufst sáttmálann. 16.60 En þó vil ég minnast sáttmála míns, þess er ég við þig gjörði á dögum æsku þinnar, og binda við þig eilífan sáttmála. 16.61 Þá munt þú minnast breytni þinnar og blygðast þín, er ég tek eldri systur þínar og yngri og gef þér þær svo sem dætur, en ekki vegna sáttmála þíns. 16.62 Og ég vil binda við þig sáttmála, og þú skalt viðurkenna, að ég er Drottinn, 16.63 til þess að þú minnist þess og skammist þín og ljúkir eigi framar upp munni þínum sakir blygðunar, er ég fyrirgef þér allt það, sem þú hefir gjört _ segir Drottinn Guð.'
17.1 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 17.2 'Mannsson, ber upp gátu og seg Ísraelsmönnum líking 17.3 og mæl: Svo segir Drottinn Guð: Örninn sá hinn mikli með stóru vængina og löngu flugfjaðrirnar, með þykka og marglita fjaðurhaminn, fór upp á Líbanon og tók toppinn af sedrustrénu. 17.4 Hann braut af efstu brumkvistina og flutti þá til verslunarlandsins. Í kaupmanna borg setti hann þá. 17.5 Síðan tók hann af gróðri landsins og setti það í sáðland, hann setti það þar sem nóg vatn var, eins og pílvið. 17.6 Og það óx og varð að vínvið, sem breiddist út lágvaxinn, svo að greinar hans sveigðust aftur að honum og rætur hans héldust undir honum. Og er það var orðið að vínviði, fékk það kvisti og skaut greinum. 17.7 En það var annar mikill örn með stóra vængi og mikinn fjaðurham, og sjá, vínviður þessi teygði rætur sínar að honum og rétti greinar sínar í móti honum, til þess að hann skyldi vökva hann, en ekki reitinn, sem hann var gróðursettur í, 17.8 og þó var hann gróðursettur í góðri jörð, þar sem nóg vatn var, til þess að skjóta greinum og bera ávöxtu og verða dýrlegur vínviður. 17.9 Seg þú: Svo segir Drottinn Guð: Mun það vel gefast? Mun hinn örninn ekki slíta upp rætur hans og afsníða ávöxtu hans, og öll hans nýsprottnu blöð visna? Og eigi mun þurfa mikilla krafta að neyta eða mannafla við að hafa til þess að kippa honum upp með rótum. 17.10 Nú er hann gróðursettur, en mun það vel gefast? Mun hann ekki skrælna, þegar austanvindurinn fer að leika um hann, mun hann ekki skrælna í reitnum, þar sem hann óx?' 17.11 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 17.12 'Seg við hina þverúðugu kynslóð: Skiljið þér eigi, hvað þetta á að þýða? Seg þú: Sjá, konungurinn í Babýlon kom til Jerúsalem og tók konung hennar og höfðingja og fór með þá heim til sín, til Babýlon. 17.13 Og hann tók einn af konungsættinni og gjörði sáttmála við hann og tók eið af honum, en leiðtoga landsins hafði hann flutt á burt, 17.14 til þess að konungsvaldið skyldi vera lítið og eigi geta hafið sig aftur, til þess að hann skyldi halda sáttmála þann, er hann hafði gengist undir, og sáttmálinn standa. 17.15 En hann hóf uppreisn gegn honum og gjörði sendimenn til Egyptalands eftir hestum og miklu liði. Mun það vel gefast? Mun sá, er slíkt gjörir, klakklaust af komast? Mun sá, er rýfur sáttmála, klakklaust af komast? 17.16 Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, í aðseturstað þess konungs, er hóf hann til konungdóms, hvers sáttmála hann hefir rofið og að engu haft þann eið, er hann vann honum, hjá honum skal hann deyja í Babýlon. 17.17 En Faraó mun ekki hjálpa honum í stríðinu með miklum herafla og fjölmennu liði, þá er jarðhryggjum verður hleypt upp og víggarðar hlaðnir, til þess að bana mörgum mönnum. 17.18 Því að hann hefir eiðinn að engu haft með því að rjúfa sáttmálann. Já, hann seldi til þess hönd sína og gjörði þó allt þetta. Hann skal ekki klakklaust af komast. 17.19 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Svo sannarlega sem ég lifi, eiðinn, sem hann hefir unnið mér, en þó að engu haft, og sáttmálann, sem hann hefir gjört við mig, en þó rofið, mun ég láta honum í koll koma. 17.20 Og ég mun kasta neti mínu yfir hann, og hann mun veiddur verða í veiðarfæri mín, og ég mun flytja hann til Babýlon og ganga þar í dóm við hann um tryggðrofin, er hann hefir í frammi við mig haft. 17.21 Og allt úrvalalið hans meðal allra herflokka hans mun fyrir sverði falla, og þeir, sem eftir verða, munu tvístrast í allar áttir og þér viðurkenna, að ég, Drottinn, hefi talað það. 17.22 Svo segir Drottinn Guð: Ég mun taka nokkuð af topplimi hins hávaxna sedrustrés og planta því. Af efstu brumkvistum þess mun ég brjóta einn grannan og gróðursetja hann á háu og gnæfandi fjalli. 17.23 Á hæðarhnjúki Ísraels mun ég gróðursetja hann, og hann mun fá greinar og bera ávöxtu og verða dýrlegur sedrusviður, og alls konar vængjaðir fuglar munu undir honum búa, í forsælunni af greinum hans munu þeir búa. 17.24 Og öll tré merkurinnar skulu sjá, að ég, Drottinn, niðurlægi hið háa tré og upphef hið lága, læt hið græna tré þorna og hið þurra blómgast. Ég, Drottinn, hefi sagt það og gjört það.'
18.1 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 18.2 'Hvað kemur til, að þér hafið þetta orðtak um Ísraelsland: ,Feðurnir átu súr vínber, og tennur barnanna urðu sljóar`? 18.3 Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, skuluð þér ekki framar hafa þetta orðtak í Ísrael. 18.4 Sjá, mínar eru sálirnar allar, sál föðurins eins og sál sonarins, mínar eru þær. Sú sálin, sem syndgar, hún skal deyja. 18.5 Hver sá maður, sem er ráðvandur og iðkar rétt og réttlæti, 18.6 sem etur ekki fórnarkjöt á fjöllunum og hefur ekki augu sín til skurðgoða Ísraelsmanna, flekkar ekki konu náunga síns og kemur ekki nærri konu meðan hún hefir klæðaföll, 18.7 sem engan undirokar og skilar aftur skuldaveði sínu, tekur ekki neitt frá öðrum með ofbeldi, sem gefur brauð sitt hungruðum og skýlir nakinn mann klæðum, 18.8 sem lánar ekki fé gegn leigu og tekur ekki vexti af lánsfé, sem heldur hendi sinni frá því, sem rangt er, og dæmir rétt í deilumálum manna, 18.9 sem breytir eftir boðorðum mínum og varðveitir skipanir mínar, með því að gjöra það sem rétt er, _ hann er ráðvandur og skal vissulega lifa, segir Drottinn Guð. 18.10 En eignist hann ofbeldisfullan son, sem úthellir blóði og fremur ranglæti, 18.11 sem ekki fetar í fótspor síns ráðvanda föður, heldur etur fórnarkjöt á fjöllunum og flekkar konu náunga síns, 18.12 undirokar volaða og snauða, tekur frá öðrum með ofbeldi, skilar ekki aftur veði og hefur augu sín til skurðgoða, fremur svívirðingar, 18.13 lánar fé gegn leigu og tekur vexti af lánsfé, _ ætti hann að halda lífi? Hann skal ekki lífi halda! Af því að hann hefir framið allar þessar svívirðingar, skal hann vissulega deyja. Blóð hans komi yfir hann! 18.14 En eignist hann son, sem sér allar þær syndir, sem faðir hans drýgði, og óttast og breytir ekki eftir þeim, 18.15 etur ekki fórnarkjöt á fjöllunum og hefur ekki augu sín til skurðgoða Ísraelsmanna, flekkar ekki konu náunga síns 18.16 og undirokar engan, tekur ekkert veð og tekur ekkert frá öðrum með ofbeldi, gefur brauð sitt hungruðum og skýlir nakinn mann klæðum, 18.17 heldur hendi sinni frá því, sem rangt er, tekur ekki vexti né fjárleigu, heldur skipanir mínar og breytir eftir boðorðum mínum, _ sá skal ekki deyja sakir misgjörða föður síns, heldur skal hann vissulega lífi halda. 18.18 En af því að faðir hans hefir beitt kúgun og tekið frá öðrum með ofbeldi og gjört það, sem ekki var gott, meðal þjóðar sinnar, þá hlýtur hann að deyja fyrir misgjörð sína. 18.19 Og þá segið þér: ,Hví geldur sonurinn ekki misgjörðar föður síns?` Þar sem þó sonurinn iðkaði rétt og réttlæti, varðveitti öll boðorð mín og breytti eftir þeim, skal hann vissulega lífi halda. 18.20 Sá maður, sem syndgar, hann skal deyja. Sonur skal eigi gjalda misgjörðar föður síns og faðir skal eigi gjalda misgjörðar sonar síns. Ráðvendni hins ráðvanda skal koma niður á honum og óguðleiki hins óguðlega skal koma niður á honum. 18.21 Ef hinn óguðlegi hverfur frá öllum syndum sínum, sem hann hefir drýgt, og heldur öll mín boðorð og iðkar rétt og réttlæti, þá skal hann vissulega lífi halda og ekki deyja. 18.22 Öll hans afbrot, sem hann hefir drýgt, skulu honum þá eigi tilreiknuð verða. Vegna ráðvendninnar, sem hann hefir iðkað, skal hann lífi halda. 18.23 Ætli ég hafi þóknun á dauða hins óguðlega _ segir Drottinn Guð _ og ekki miklu fremur á því, að hann hverfi frá sinni illu breytni og haldi lífi? 18.24 En hverfi hinn ráðvandi frá ráðvendni sinni og fremji það, sem rangt er, í líkingu við allar þær svívirðingar, er hinn óguðlegi hefir framið, þá skal öll sú ráðvendni, er hann hefir iðkað, ekki til álita koma. Fyrir það tryggðrof, sem hann hefir sýnt, og þá synd, sem hann hefir drýgt, fyrir þær skal hann deyja. 18.25 En er þér segið: ,Atferli Drottins er ekki rétt!` _ þá heyrið, þér Ísraelsmenn: Ætli það sé mitt atferli, sem ekki er rétt? Ætli það sé ekki fremur yðar atferli, sem ekki er rétt? 18.26 Ef ráðvandur maður hverfur frá ráðvendni sinni og gjörir það, sem rangt er, þá hlýtur hann að deyja vegna þess. Vegna glæps þess, er hann hefir framið, hlýtur hann að deyja. 18.27 En þegar óguðlegur maður hverfur frá óguðleik sínum, sem hann hefir í frammi haft, og iðkar rétt og réttlæti, þá mun hann bjarga lífi sínu. 18.28 Því að hann sneri sér frá öllum syndum sínum, er hann hafði framið, fyrir því mun hann vissulega lífi halda og ekki deyja. 18.29 Og þegar Ísraelsmenn segja: ,Atferli Drottins er ekki rétt!` _ ætli það sé atferli mitt, sem ekki er rétt, þér Ísraelsmenn? Ætli það sé ekki fremur atferli yðar, sem ekki er rétt? 18.30 Fyrir því mun ég dæma sérhvern yðar eftir breytni hans, þér Ísraelsmenn, segir Drottinn Guð. Snúið yður og látið af öllum syndum yðar, til þess að þær verði yður ekki fótakefli til hrösunar. 18.31 Varpið frá yður öllum syndum yðar, er þér hafið drýgt í gegn mér, og fáið yður nýtt hjarta og nýjan anda. Því að hvers vegna viljið þér deyja, Ísraelsmenn? 18.32 Því að ég hefi eigi velþóknun á dauða nokkurs manns, _ segir Drottinn Guð. Látið því af, svo að þér megið lifa.'
19.1 Kyrja þú upp harmljóð yfir höfðingjum Ísraels 19.2 og seg: Hvílík ljónynja var móðir þín meðal ljóna. Hún lá meðal ungra ljóna, ól upp ljónshvolpa sína. 19.3 Og hún kom upp einum af hvolpum sínum, hann varð ungljón. Hann lærði að ná sér í bráð, hann át menn. 19.4 Þá höfðu þjóðirnar útboð í móti honum, hann var veiddur í gröf þeirra, og þeir teymdu hann á nasahring til Egyptalands. 19.5 En er hún sá, að hún hafði breytt heimskulega, að von hennar var horfin, tók hún annan af hvolpum sínum og gjörði hann að ungljóni. 19.6 Og hann gekk meðal ljóna og varð ungljón. Hann lærði að ná sér í bráð, hann át menn. 19.7 Og hann gjörði margar meðal þeirra að ekkjum og eyddi borgir þeirra, svo að landið fylltist skelfingu og allt, sem í því var, vegna öskurs hans. 19.8 Þá settu þjóðir sig móti honum, úr héruðunum umhverfis, og köstuðu neti sínu yfir hann, í gröf þeirra varð hann veiddur. 19.9 Og þeir drógu hann á nasahring í búr og fluttu hann til Babelkonungs og settu hann í dýflissu, til þess að rödd hans heyrðist ekki framar á Ísraels fjöllum. 19.10 Móðir þín var eins og vínviður, sem gróðursettur var hjá vatni. Hann varð ávaxtarsamur og fjölgreinóttur af vatnsgnóttinni. 19.11 Þá spratt fram sterk grein og varð veldissproti og óx hátt upp í milli þéttra greina og var frábær fyrir hæðar sakir, því að angar hennar voru svo margir. 19.12 Þá var vínviðinum rykkt upp í heift og varpað til jarðar, og austanvindurinn skrældi ávöxt hans. Hin sterka grein hans skrælnaði, eldur eyddi henni. 19.13 Og nú er hann gróðursettur í eyðimörk, í þurru og vatnslausu landi. 19.14 Og eldur braust út frá grein hans, sem eyddi öngum hans, og engin sterk grein var framar á honum, enginn veldissproti. Þetta eru harmljóð og voru sungin sem harmljóð.
20.1 Á sjöunda árinu, tíunda dag hins fimmta mánaðar, komu nokkrir af öldungum Ísraels til þess að ganga til frétta við Drottin, og settust niður frammi fyrir mér. 20.2 Þá kom orð Drottins til mín, svohljóðandi: 'Mannsson, tala þú til öldunga Ísraels og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: 20.3 Þér eruð komnir til þess að ganga til frétta við mig? Svo sannarlega sem ég lifi vil ég eigi láta yður ganga til frétta við mig, _ segir Drottinn Guð. 20.4 En viljir þú dæma þá, viljir þú dæma, mannsson, þá leið þeim fyrir sjónir svívirðingar feðra þeirra og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: 20.5 Þegar ég útvaldi Ísrael, vann ég niðjum Jakobs húss eið og gjörði mig þeim kunnan á Egyptalandi. Þá vann ég þeim eið og sagði: Ég er Drottinn, Guð yðar! 20.6 Þann dag vann ég þeim eið að því að leiða þá burt af Egyptalandi til þess lands, er ég hafði kannað fyrir þá, er flyti í mjólk og hunangi, _ það er prýði meðal landanna. 20.7 Og ég sagði við þá: Sérhver yðar varpi burt þeim viðurstyggðum, er þér hafið fyrir augum, og saurgið yður ekki á skurðgoðum Egyptalands. Ég er Drottinn, Guð yðar. 20.8 En þeir voru mér mótsnúnir og vildu eigi hlýða mér. Þeir vörpuðu eigi burt viðurstyggðum þeim, er þeir höfðu fyrir augum, og þeir yfirgáfu eigi skurðgoð Egyptalands. Þá hugði ég að úthella reiði minni yfir þá, að svala heift minni á þeim í Egyptalandi. 20.9 En ég gjörði það samt ekki, fyrir nafns míns sakir, svo að það skyldi eigi vanhelgað verða í augum heiðingja þeirra, er þeir bjuggu meðal, því að í augsýn þeirra hafði ég gjört mig þeim kunnan, til þess að flytja þá burt af Egyptalandi. 20.10 Og ég flutti þá burt af Egyptalandi og leiddi þá inn í eyðimörkina. 20.11 Og ég gaf þeim setningar mínar og kunngjörði þeim lög mín, þau er maðurinn skal halda, til þess að hann megi lifa. 20.12 Ég gaf þeim og hvíldardaga mína, að þeir væru sambandstákn milli mín og þeirra, til þess að menn skyldu viðurkenna, að ég, Drottinn, er sá, sem helgar þá. 20.13 En Ísraelsmenn voru mér mótsnúnir í eyðimörkinni. Þeir breyttu eigi eftir setningum mínum og höfnuðu lögum mínum, þeim er maðurinn skal halda, til þess að hann megi lifa, og hvíldardaga mína vanhelguðu þeir stórum. Þá hugði ég að úthella reiði yfir þá í eyðimörkinni til þess að gjöreyða þeim. 20.14 En ég gjörði það samt ekki, fyrir nafns míns sakir, svo að það skyldi eigi vanhelgað verða í augum heiðingja þeirra, er horft höfðu á að ég flutti þá burt. 20.15 Þó sór ég þeim í eyðimörkinni, að ég skyldi ekki leiða þá inn í landið, sem ég hafði gefið þeim og flýtur í mjólk og hunangi, _ það er prýði meðal landanna _, 20.16 af því að þeir höfnuðu lögum mínum og breyttu ekki eftir boðorðum mínum og vanhelguðu hvíldardaga mína, því að hjarta þeirra elti skurðgoð þeirra. 20.17 En ég kenndi í brjósti um þá meir en svo að ég vildi tortíma þeim, og gjörði því ekki út af við þá í eyðimörkinni. 20.18 Og ég sagði við sonu þeirra í eyðimörkinni: ,Breytið ekki eftir siðvenjum feðra yðar og haldið eigi lög þeirra og saurgið yður ekki á skurðgoðum þeirra. 20.19 Ég er Drottinn, Guð yðar, lifið eftir boðorðum mínum og haldið lög mín og breytið eftir þeim. 20.20 Og haldið helga hvíldardaga mína, og séu þeir sambandstákn milli mín og yðar, til þess að menn viðurkenni, að ég er Drottinn, Guð yðar.` 20.21 En synirnir voru mér mótsnúnir: Þeir lifðu ekki eftir boðorðum mínum og héldu ekki lög mín, svo að þeir breyttu eftir þeim, sem maðurinn þó á að halda, til þess að hann megi lifa; hvíldardaga mína vanhelguðu þeir. Þá hugði ég að úthella reiði minni yfir þá, að svala heift minni á þeim í eyðimörkinni. 20.22 En ég dró höndina aftur að mér og gjörði það ekki, fyrir nafns míns sakir, svo að það skyldi eigi vanhelgað verða í augum heiðingja þeirra, er horft höfðu á, að ég flutti þá burt. 20.23 Þó sór ég þeim í eyðimörkinni, að ég skyldi tvístra þeim meðal þjóðanna og dreifa þeim út um löndin, 20.24 af því að þeir héldu ekki lög mín og höfnuðu boðorðum mínum og vanhelguðu hvíldardaga mína og höfðu ekki augun af skurðgoðum feðra sinna. 20.25 Ég gaf þeim þá og boðorð, sem ekki voru holl, og lög, er þeim eigi voru til lífs lagin. 20.26 Ég lét þá saurga sig á fórnargjöfum sínum, á því að brenna í eldi alla frumburði, til þess að þeim skyldi ofbjóða, svo að þeir yrðu að kannast við, að ég er Drottinn. 20.27 Tala þú þess vegna til Ísraelsmanna, mannsson, og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: Enn fremur hafa feður yðar smánað mig með þessu, að þeir rufu trúnað við mig. 20.28 Þegar ég hafði flutt þá inn í landið, sem ég hafði heitið þeim með eiði að gefa þeim, og þeir komu einhvers staðar auga á háa hæð og þéttlaufgað tré, þá slátruðu þeir þar fórnum sínum og báru þar fram hinar andstyggilegu gjafir sínar og létu þar þægilegan ilm sinn upp stíga og dreyptu þar dreypifórnum sínum. 20.29 Þá sagði ég við þá: ,Hvaða blóthæð er þetta, sem þér farið upp á?` Fyrir því er hún kölluð ,hæð` allt til þessa dags. 20.30 Seg því við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð: Viljið þér saurga yður á sama hátt og feður yðar og drýgja hór með viðurstyggðum þeirra? 20.31 Já, með því að bera fram fórnargjafir yðar, með því að láta sonu yðar ganga gegnum eld, saurgið þér yður á öllum skurðgoðum yðar allt til þessa dags, og ég ætti að láta yður ganga til frétta við mig, þér Ísraelsmenn? Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, vil ég ekki láta yður ganga til frétta við mig. 20.32 Ekki skal það heldur verða, sem yður hefir til hugar komið. Þér hugsið: ,Vér viljum vera sem aðrar þjóðir, sem kynslóðir heiðnu landanna, og tilbiðja stokka og steina.` 20.33 Svo sannarlega sem ég lifi, _ segir Drottinn Guð _ skal ég ríkja yfir yður með sterkri hendi, útréttum armlegg og fossandi heift. 20.34 Og ég mun flytja yður frá þjóðunum og safna yður úr löndunum, þangað sem yður var tvístrað, með sterkri hendi, útréttum armlegg og fossandi heift, 20.35 og leiða yður inn í eyðimörkina milli þjóðanna og ganga þar í dóm við yður augliti til auglitis. 20.36 Eins og ég gekk í dóm við feður yðar í Egyptalands eyðimörk, svo mun ég og ganga í dóm við yður, _ segir Drottinn Guð. 20.37 Ég mun láta yður renna fram hjá mér undir stafnum og láta yður gangast undir skyldukvöð sáttmálans. 20.38 Og ég skil þá frá yður, er gjörðust mér mótsnúnir og rufu trúnað við mig. Ég vil flytja þá burt úr því landi, þar sem þeir dvöldust sem útlendingar, en inn í Ísraelsland skulu þeir ekki koma, svo að þér viðurkennið, að ég er Drottinn. 20.39 En þér, Ísraelsmenn, _ svo segir Drottinn Guð: Fari hver yðar og þjóni skurðgoðum sínum. En eftir þetta skuluð þér vissulega hlýða á mig og eigi framar vanhelga mitt heilaga nafn með fórnargjöfum yðar og skurðgoðum. 20.40 Því að á mínu heilaga fjalli, á fjallhnjúki Ísraels, segir Drottinn Guð, munu allir Ísraelsmenn, eins og þeir eru margir til, þjóna mér. Þar mun ég taka þeim náðarsamlega, og þar mun ég girnast fórnargjafir yðar og frumgróðafórnir ásamt öllu, sem þér helgið. 20.41 Ég mun taka yður náðarsamlega sem þægilegum ilm, þegar ég flyt yður frá þjóðunum og safna yður úr löndunum, þangað sem yður var tvístrað, og þá skal ég sýna mig heilagan á yður í augsýn þjóðanna. 20.42 Og þá skuluð þér viðurkenna, að ég er Drottinn, er ég leiði yður inn í Ísraelsland, inn í landið, sem ég sór að gefa feðrum yðar. 20.43 Þar munuð þér þá minnast breytni yðar og allra verka yðar, er þér saurguðuð yður á, og yður mun bjóða við sjálfum yður sökum allra þeirra illverka, er þér hafið framið. 20.44 Og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn, er ég fer svo með yður vegna nafns míns, en fer ekki með yður eftir yðar vondu breytni og yðar glæpsamlegu verkum, Ísraelsmenn, _ segir Drottinn Guð.' 20.45 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 20.46 'Mannsson, horf þú í suðurátt og lát orð þín streyma mót hádegisstað og spá móti skóginum í Suðurlandinu, 20.47 og seg við skóginn í Suðurlandinu: Heyr orð Drottins! Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég kveiki eld í þér, sem eyða skal hverju grænu tré og hverjum þurrum viði, sem í þér er. Eldsloginn skal ekki slokkna, og öll andlit skulu sviðna af honum frá suðri til norðurs. 20.48 Og allir menn skulu sjá, að ég, Drottinn, hefi kveikt hann, hann skal ekki slokkna.' 20.49 Þá sagði ég: 'Æ, Drottinn Guð! Þeir segja um mig: ,Talar hann ekki ávallt í ráðgátum?'`
21.1 Þá kom orð Drottins til mín, svohljóðandi: 21.2 'Mannsson, snú þér í móti Jerúsalem og lát orð þín streyma mót helgidóminum og spá gegn Ísraelslandi 21.3 og seg við Ísraelsland: Svo segir Drottinn: Sjá, ég skal finna þig og mun draga sverð mitt úr slíðrum og afmá hjá þér ráðvanda og óguðlega. 21.4 Af því að ég ætla að afmá hjá þér ráðvanda og óguðlega, fyrir því mun sverð mitt hlaupa úr slíðrum á alla menn frá suðri til norðurs. 21.5 Og allir menn skulu viðurkenna, að ég, Drottinn, hefi dregið sverð mitt úr slíðrum, það skal ekki framar þangað aftur hverfa. 21.6 En þú, mannsson, styn þungan. Mjaðmir þínar engist saman, og styn af sárri kvöl í augsýn þeirra. 21.7 Og er þeir þá segja við þig: ,Af hverju stynur þú?` þá seg: ,Yfir fregn nokkurri, sem svo er, að þegar hún kemur mun hvert hjarta bráðna, allar hendur verða lémagna, allur dugur dofna og öll kné leysast sundur og verða að vatni. Sjá, hún kemur og hún reynist sönn, _ segir Drottinn Guð.'` 21.8 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 21.9 'Mannsson, spá þú og seg: Svo segir Drottinn: Seg þú: Sverð, sverð er hvesst og fægt. 21.10 Það er hvesst til þess að drepa menn unnvörpum, það er fægt, til þess að það bliki sem elding . . . 21.11 Og það var látið burt til fægingar, til þess að það yrði hnefað. Það var hvesst, sverðið, og það var fægt, til þess að það yrði selt vegandanum í hendur. 21.12 Hljóða þú og æp, mannsson, því að það er ætlað til höfuðs þjóð minni, til höfuðs öllum höfðingjum Ísraels. Undir sverðið eru þeir seldir, ásamt þjóð minni, fyrir því skalt þú slá þér á brjóst. 21.13 Því það er prófraun. Og hvað, ef jafnvel sprotinn, sem virðir vettugi, verður eigi framar til? _ segir Drottinn Guð. 21.14 En þú, mannsson, spá og klappa lófum saman, tvisvar, já þrisvar skal sverðið sveiflast. Það er sverð hinna vegnu, sverð hins mikla manndráps, er svífur í kringum þá. 21.15 Til þess að hjörtu skjálfi og hinir föllnu verði margir, hefi ég sett sverð manndrápsins við öll hlið þeirra. Sverðið er gjört til þess að leiftra, hvesst til þess að brytja. 21.16 Sníð þú til hægri, bein þér til vinstri, hvert sem egg þinni er snúið. 21.17 Þá skal ég og klappa lófum saman og svala heift minni. Ég, Drottinn, hefi talað.' 21.18 Þá kom orð Drottins til mín, svohljóðandi: 21.19 'En þú, mannsson, tak til tvo vegu, er sverð Babelkonungs skal fara. Þeir skulu báðir liggja frá sama landi. Og set leiðarvísi þar sem vegurinn hefst heim að hvorri borg, 21.20 til þess að sverðið komi yfir Rabba, höfuðborg Ammóníta, og yfir Júdaland og Jerúsalem í því miðju. 21.21 Því að Babelkonungur stendur á vegamótum, þar sem báðir vegirnir hefjast, til þess að leita véfréttar. Hann hristir örvarnar, spyr húsgoðin, skoðar lifrina. 21.22 Í hægri hendi hans er hlutur Jerúsalem: ,Hann skal reisa víghrúta, opna munninn með ópum, láta heróp gjalla, reisa víghrúta gegn hliðunum, hleypa upp jarðhrygg, hlaða víggarða.` 21.23 Og þeim virðist það lygavéfrétt; þeir hafa unnið hina helgustu eiða, _ en hann minnir á misgjörð þeirra, til þess að þeir verði teknir höndum. 21.24 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Með því að hann minnti á misgjörð yðar, er trúrof yðar varð opinbert, svo að syndir yðar urðu berar í öllu athæfi yðar, _ með því að hann minnti á yður, skuluð þér verða teknir höndum þeirra vegna. 21.25 En þú, dauðadæmdi guðleysingi, höfðingi Ísraels, hvers dagur er kominn, þá er tími endasektarinnar rennur upp, 21.26 svo segir Drottinn Guð: Burt með höfuðdjásnið, niður með kórónuna! Þetta skal ekki lengur vera svo. Upp með hið lága, niður með hið háa! 21.27 Að rústum, rústum, rústum vil ég gjöra allt. Þetta ríki skal ekki heldur vera til, uns sá kemur, sem hefir réttinn, er ég hefi gefið honum. 21.28 En þú, mannsson, spá þú og seg: Svo segir Drottinn Guð um Ammóníta og smánan þeirra: Sverð, sverð er dregið úr slíðrum, fægt til að brytja niður, til þess að láta eldingar leiftra, 21.29 en þér boðuðu menn hégómasýnir og fluttu þér lygispádóma, til þess að setja það á háls hinna dauðadæmdu guðleysingja, hverra dagur er kominn, þá er tími endasektarinnar rennur upp. 21.30 Slíðra það aftur. Ég skal dæma þig á þeim stað, þar sem þú varst skapaður, í því landi, þar sem þú ert upp runninn, 21.31 og ég skal úthella yfir þig reiði minni og blása á þig mínum heiftarloga og selja þig í hendur dýrslegra manna, glötunarsmiða. 21.32 Eldsmatur skalt þú verða, blóði þínu skal úthellt inni í landinu. Þín skal eigi framar minnst verða. Ég, Drottinn, hefi talað þetta.'
22.1 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 22.2 'Þú mannsson, vilt þú dæma, vilt þú dæma hina blóðseku borg? Leið henni þá fyrir sjónir allar svívirðingar hennar 22.3 og seg: Svo segir Drottinn Guð: Ó borg, sem úthellti blóði innan borgarveggja sinna, til þess að tími hennar kæmi, og gjörði sér skurðgoð til þess að saurga sig. 22.4 Fyrir blóðið, sem þú hefir úthellt, ert þú sek orðin, og fyrir skurðgoðin, sem þú gjörðir, ert þú óhrein orðin. Þú hefir flýtt fyrir degi þínum, og ævilok þín eru komin. Þess vegna gjöri ég þig að háðung meðal þjóðanna og að athlægi allra landa. 22.5 Þeir sem eru nálægt þér og þeir sem eru langt frá þér munu hæða þig, þú borg með flekkað mannorð, full af róstum. 22.6 Sjá, höfðingjar Ísraels, sem í þér búa, úthella blóði, hver sem betur getur. 22.7 Hjá þér eru faðir og móðir fyrirlitin, við útlendinga beita menn kúgun í þér, munaðarleysingja og ekkjur undiroka menn hjá þér. 22.8 Þú fyrirlítur helgidóma mína og vanhelgar hvíldardaga mína. 22.9 Hjá þér eru bakmælgismenn, sem koma manndrápum til leiðar, hjá þér eta menn fórnarkjöt á fjöllunum, menn fremja saurlifnað í þér miðri. 22.10 Hjá þér bera menn blygðan föður síns, hjá þér nauðga menn konum, sem óhreinar eru vegna tíða. 22.11 Einn fremur svívirðu með konu náunga síns, annar flekkar tengdadóttur sína með saurlifnaði og enn annar nauðgar hjá þér systur sinni, dóttur föður síns. 22.12 Menn þiggja mútur hjá þér til þess að úthella blóði. Þú hefir tekið fjárleigu og vexti og haft af náunga þínum með ofríki, en mér hefir þú gleymt, _ segir Drottinn Guð. 22.13 En sjá: Ég slæ höndum saman yfir því rangfengna fé, sem þú hefir dregið þér, og yfir blóðskuld þeirri, sem í þér er. 22.14 Mun kjarkur þinn standast og hendur þínar haldast styrkar, þegar þeir dagarnir koma, er ég tek þig fyrir? Ég, Drottinn, tala það og mun framkvæma það. 22.15 Og ég mun tvístra þér meðal þjóðanna og dreifa þér út um löndin og gjörsamlega uppræta óhreinleik þinn úr þér, 22.16 og þú skalt vanhelguð verða í augsýn heiðingjanna, og þá skalt þú viðurkenna, að ég er Drottinn.' 22.17 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 22.18 'Mannsson, Ísraelsmenn eru orðnir fyrir mér eins og sori. Þeir eru allir eins og eir og tin og járn og blý í bræðsluofni, þeir eru orðnir sorasilfur. 22.19 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Af því að þér eruð allir orðnir að sora, þá vil ég safna yður saman í Jerúsalem. 22.20 Eins og silfur og eir og járn og blý og tin er látið saman inn í bræðsluofn til þess að blása eldi að því og bræða það, þannig mun ég safna yður saman í reiði minni og gremi, láta yður þar inn og bræða yður. 22.21 Og ég mun stefna yður saman og blása að yður eldi gremi minnar, svo að þér skuluð bráðna þar. 22.22 Eins og silfrið er brætt í bræðsluofninum, svo skuluð þér bráðna í borginni og þá munuð þér viðurkenna, að ég, Drottinn, hefi úthellt reiði minni yfir yður.' 22.23 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 22.24 'Þú mannsson, seg við hana: Þú ert eins og land, sem ekki rigndi á, sem eigi var vökvað á degi reiðinnar, 22.25 en þjóðhöfðingjar þess voru í því sem öskrandi ljón, er rífur sundur bráð sína. Mannslífum hafa þeir eytt, eignir og dýrgripi hafa þeir tekið og fjölgað ekkjum í landinu. 22.26 Prestar hennar hafa brjálað lögmáli mínu og vanhelgað helgidóma mína. Þeir hafa engan mun gjört á því, sem heilagt er og óheilagt, og eigi frætt menn um muninn á óhreinu og hreinu, og þeir hafa lokað augum sínum fyrir hvíldardögum mínum, svo að ég vanhelgaðist meðal þeirra. 22.27 Yfirmenn hennar voru í henni eins og sundurrífandi vargar og hugsuðu ekki um annað en að úthella blóði og eyða mannslífum til þess að afla sér rangfengins gróða. 22.28 En spámenn hennar riðu á kalki fyrir þá með því að boða þeim hégómasýnir og flytja þeim lygispádóma og segja: ,Svo segir Drottinn Guð!` þótt Drottinn hafi ekki talað. 22.29 Landslýðurinn hefir haft kúgun og rán í frammi, þeir hafa undirokað volaða og snauða og kúgað útlendinga án nokkurs réttar. 22.30 Og ég leitaði að einhverjum meðal þeirra, er hlaða vildi garð eða skipa sér í skarðið móti mér, landinu til varnar, til þess að ég legði það ekki í eyði, en ég fann engan. 22.31 Þá úthellti ég reiði minni yfir þá, gjöreyddi þeim með eldi gremi minnar, ég lét athæfi þeirra þeim í koll koma, _ segir Drottinn Guð.'
23.1 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 23.2 'Mannsson, konur voru tvær, dætur sömu móður. 23.3 Þær frömdu hórdóm á Egyptalandi, þær hóruðust í æsku. Þar létu þær þukla um brjóst sér og þar fóru menn höndum um meyjarbarm þeirra. 23.4 Hin eldri hét Ohola og systir hennar Oholíba. Og ég eignaðist þær báðar, og þær ólu sonu og dætur. Og Ohola hét síðar Samaría og Oholíba Jerúsalem. 23.5 En Ohola tók fram hjá mér og brann af girnd til friðla sinna, til Assýringa, hinna nafntoguðu, 23.6 sem klæddir voru bláum purpura, jarlar og landstjórar, allt saman fríðir æskumenn, riddarar ríðandi hestum. 23.7 Og hún helgaði þeim hóranir sínar, öllum úrvalsmönnum Assýringa, og hún saurgaði sig á skurðgoðum allra þeirra, er hún brann af girnd til. 23.8 Þó lét hún ekki af hórunum sínum frá Egyptalandi, því að þeir höfðu legið með henni í ungdæmi hennar og farið höndum um meyjarbarm hennar og hellt yfir hana hóran sinni. 23.9 Fyrir því seldi ég hana í hendur friðla sinna, í hendur Assýringa, er hún brann af girnd til. 23.10 Þeir beruðu blygðan hennar, tóku burt sonu hennar og dætur og vógu hana sjálfa með sverði, svo að hún varð öðrum konum til viðvörunar, og framkvæmdu þannig refsingardóminn á henni. 23.11 En þótt systir hennar Oholíba sæi það, þá varð hún þó enn frekari í lostanum og drýgði enn meiri saurlifnað en systir hennar. 23.12 Hún brann af girnd til Assýringa, nafntogaðra jarla og landstjóra, sem voru frábærlega prúðbúnir, til riddara, sem riðu hestum, allt saman fríðir æskumenn. 23.13 Og ég sá, hversu hún saurgaði sig. Eitt og hið sama var háttalag beggja þeirra systra. 23.14 En hún hélt áfram að drýgja hórdóm, og er hún sá menn dregna á vegg, myndir af Kaldeum, málaða með menju, 23.15 gyrta belti um lendarnar, með vefjarhöttu um höfuðin, alla saman hina hermannlegustu, mynd af Babýloníumönnum, en ættland þeirra er Kaldea, 23.16 _ þá brann hún af girnd til þeirra, er hún leit þá augum, og gjörði sendimenn til þeirra til Kaldeu. 23.17 Og Babýloníumenn gengu inn til hennar, til ástasamlags við hana, og flekkuðu hana með saurlifnaði sínum, og hún saurgaði sig á þeim. Þá sneri sál hennar sér frá þeim. 23.18 Og er hún framdi saurlifnað sinn berlega og beraði blygðan sína, þá sneri sál mín sér frá henni, eins og sál mín hafði snúið sér frá systur hennar. 23.19 En hún varð enn frekari í hórdómi sínum, með því að hún minntist æskudaga sinna, þá er hún framdi saurlifnað á Egyptalandi. 23.20 Og hún brann af girnd til friðla þeirra, sem voru eins hreðurmiklir og asnar og gusan úr þeim sem úr stóðhestum. 23.21 Og þú saknaðir saurlifnaðar æsku þinnar, þá er Egyptar fóru höndum um barm þinn og þukluðu um meyjarbrjóst þín. 23.22 Fyrir því, Oholíba, svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég mun egna friðla þína upp í móti þér, þá er sál þín hefir snúið sér frá, og láta þá veitast að þér úr öllum áttum: 23.23 Babýloníumenn og alla Kaldea, Pekód, Sjóa og Kóa og alla Assýringa með þeim, allt saman fríða æskumenn, jarla og landstjóra, tóma liðsforingja og nafntogaða menn, ríðandi hestum. 23.24 Og þeir munu koma í móti þér úr norðri með vögnum og hjólum og liðsafnaði margra þjóða. Törgu, skjöld og hjálm munu þeir setja upp í móti þér hringinn í kring, og ég mun leggja fyrir þá málið, og þeir skulu dæma þig eftir sínum lögum. 23.25 Og ég mun snúa vandlæting minni gegn þér, og þeir munu fara grimmdarlega með þig. Þeir munu skera af þér nef og eyru, og það, sem eftir verður af þér, skal fyrir sverði falla. Sonu þína og dætur munu þeir hafa á burt, og það, sem eftir verður af þér, mun eyðast af eldi. 23.26 Og þeir munu færa þig af klæðum og taka af þér skartgripi þína. 23.27 Og ég vil gjöra enda á saurlifnaði þínum og hórdómi þínum frá Egyptalandi, svo að þú hefjir eigi framar augu þín til þeirra og hugsir eigi framar um Egyptaland. 23.28 Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég mun selja þig á vald þeirra, er þú hatar, á vald þeirra, er sál þín hefir snúið sér frá. 23.29 Og þeir munu fara haturslega með þig og hafa á burt allan afla þinn og láta þig eftir nakta og bera, og þá mun verða flett ofan af hinni hórgjörnu blygðan þinni, lauslæti þínu og saurlifnaði þínum. 23.30 Svo mun með þig farið, af því að þú eltir þjóðirnar, fyrir þá sök að þú saurgaðir þig á skurðgoðum þeirra. 23.31 Þú hefir gengið götu systur þinnar, þess vegna rétti ég að þér bikar hennar. 23.32 Svo segir Drottinn Guð: Þú skalt drekka bikar systur þinnar, hinn djúpa og víða, sem tekur svo mikið, _ 23.33 vímu og hörmung skalt þú fyllast _, bikar hryllings og skelfingar, bikar Samaríu systur þinnar. 23.34 Og þú skalt drekka hann og tæma og sötra dreggjarnar og sundurrífa brjóst þín, því að ég hefi talað það, segir Drottinn Guð. 23.35 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sökum þess að þú hefir gleymt mér og varpað mér aftur fyrir bak þér, þá skalt þú nú og gjöld taka fyrir lauslæti þitt og saurlifnað.' 23.36 Og Drottinn sagði við mig: 'Mannsson, vilt þú dæma Oholu og Oholíbu? Leið þeim þá fyrir sjónir svívirðingar þeirra, 23.37 hversu þær hafa hórdóm drýgt og flekkað hendur sínar með blóði, og hversu þær hafa drýgt hórdóm með skurðgoðum sínum og jafnvel látið sonu sína, er þær fæddu mér, ganga gegnum eld þeim til fæðslu. 23.38 Enn fremur gjörðu þær mér þetta: Þær saurguðu sama daginn helgidóm minn og vanhelguðu hvíldardaga mína. 23.39 Og þegar þær slátruðu sonum sínum skurðgoðunum til fórnar, gengu þær sama daginn inn í helgidóm minn til þess að vanhelga hann. Já, slíkt höfðust þær að í mínu eigin musteri. 23.40 Þær sendu jafnvel eftir mönnum, er komu af fjarlægum löndum, og er sendimaður hafði verið gjörður til þeirra, komu þeir. Þeirra vegna laugaðir þú þig, barst lit í augu þér og bjóst þig í skart. 23.41 Síðan settist þú á veglegan hvílubekk, fyrir framan hann stóð uppbúið borð, og á það lagðir þú reykelsi mitt og olífuolíu mína. 23.42 Og með háværum söng hvíldu þeir á bekknum, og auk mannanna úr mannfjöldanum var komið með Sabea úr eyðimörkinni. Þeir spenntu armbaugum um handleggi kvennanna og settu dýrlega kórónu á höfuð þeirra. 23.43 Þá sagði ég: ,Mun hin útslitna enn drýgja hórdóm? Munu menn enn hórast með henni?` 23.44 Og menn gengu inn til hennar, eins og gengið er inn til hórkonu, þannig gengu þeir inn til Oholu og Oholíbu, saurlífiskvennanna. 23.45 En réttlátir menn munu dæma þær sama dómi og hórkonur eru dæmdar og þær konur, er úthella blóði, því að hórkonur eru þær, og hendur þeirra eru blóði flekkaðar. 23.46 Svo segir Drottinn Guð: Mannsafnaður sé gjörður að þeim og þær framseldar til misþyrmingar og rána. 23.47 Og mannsafnaðurinn skal lemja þær grjóti og höggva þær sundur með sverðum sínum. Sonu þeirra og dætur skulu menn drepa og brenna hús þeirra í eldi. 23.48 Þannig vil ég útrýma saurlifnaðinum úr landinu, til þess að allar konur láti sér að kenningu verða og breyti eigi eftir saurlifnaðar-dæmi yðar. 23.49 Og menn munu láta saurlifnað yðar koma niður á yður, og þér skuluð gjalda þeirra synda, er þér hafið framið með skurðgoðum yðar, til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn Guð.'
24.1 Og orð Drottins kom til mín níunda árið, tíunda dag hins tíunda mánaðar, svohljóðandi: 24.2 'Mannsson, skrifa þú upp hjá þér þennan dag, _ einmitt þennan dag. Einmitt í dag hefir Babelkonungur ráðist á Jerúsalem. 24.3 Flyt því hinni þverúðugu kynslóð líking og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: Set þú upp pottinn, set hann upp, og hell vatni í hann. 24.4 Lát kjötstykkin í hann, öll bestu stykkin, lærin og bógana, fyll hann úrvalsbeinbitum. 24.5 Tak þau af úrvalskindum og legg einnig skíð undir pottinn. Lát sjóða á kjötstykkjunum, beinbitarnir soðna þegar í honum. 24.6 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Vei hinni blóðseku borg, pottinum með ryðflekkjunum, sem ryðflekkirnir gengu ekki af. Allt hefir verið fært upp úr honum, hvert stykkið eftir annað, án þess að varpa hlutum um þau. 24.7 Því að blóðið, sem hún hefir úthellt, er enn í henni. Hún hefir látið það renna á bera klettana, ekki hellt því á jörðina til þess að hylja það moldu. 24.8 Til þess að sýna heift og koma fram hefnd, hefi ég látið blóðið, sem hún hefir úthellt, renna á bera klettana, til þess að það skuli eigi hulið verða. 24.9 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Vei hinni blóðseku borg! Já, ég vil gjöra eldgrófina stóra. 24.10 Drag saman mikinn við, kveik upp eldinn, sjóð kjötið vandlega, lát súpuna sjóða, svo að beinin brenni. 24.11 Set síðan tóman pottinn á glæðurnar, til þess að hann hitni og eirinn í honum verði glóandi og óhreinindin, sem í honum eru, renni af og ryð hans eyðist. 24.12 Alla fyrirhöfn hefir hann að engu gjört, því að hið mikla ryð gekk ekki af honum í eldinum, 24.13 sökum lauslætissaurugleika þíns. Af því að ég hefi reynt að hreinsa þig, en þú varðst eigi hrein af saurugleik þínum, þá skalt þú ekki framar verða hrein, uns ég hefi svalað heift minni á þér. 24.14 Ég, Drottinn, hefi talað það. Það kemur, og ég framkvæmi það, ég læt ekki undan draga, ég vægi ekki og ég læt mig einskis iðra. Eftir breytni þinni og eftir gjörðum þínum dæma menn þig, _ segir Drottinn Guð.' 24.15 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 24.16 'Mannsson, ég mun taka yndi augna þinna frá þér með skyndilegum dauða, en þú skalt ekki kveina né gráta, og eigi skulu þér tár á augu koma. 24.17 Andvarpa þú í hljóði, viðhaf ekkert dánarkvein. Set vefjarhött þinn á þig og lát skó þína á fætur þér. Þú skalt ekki hylja kamp þinn og ekki neyta sorgarbrauðs.' 24.18 Og ég talaði til lýðsins um morguninn, en um kveldið dó kona mín, og ég gjörði morguninn eftir eins og mér hafði verið skipað. 24.19 Þá sagði fólkið við mig: 'Vilt þú ekki segja oss, hvað þetta á að þýða, að þú hagar þér svo?' 24.20 Ég svaraði þeim: 'Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 24.21 Seg við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég mun vanhelga helgidóm minn, yðar mikla ofdrambsefni, yndi augna yðar og þrá sálar yðar, og synir yðar og dætur, er þér hafið skilið þar eftir, munu falla fyrir sverði. 24.22 Þá munuð þér gjöra eins og ég hefi gjört: Þér munuð ekki hylja kamp yðar og ekki neyta sorgarbrauðs. 24.23 Þér munuð hafa vefjarhöttinn á höfðinu og skóna á fótunum. Þér munuð ekki kveina né gráta, heldur veslast upp vegna misgjörða yðar og andvarpa hver með öðrum. 24.24 Þannig mun Esekíel verða yður til tákns. Með öllu svo sem hann hefir gjört, munuð þér og gjöra, er það ber að höndum, og þá munuð þér viðurkenna, að ég er Drottinn Guð. 24.25 En þú, mannsson _ vissulega mun þann dag, er ég tek frá þeim varnarvirki þeirra, hinn dýrlega unað þeirra, yndi augna þeirra og þrá sálar þeirra, sonu þeirra og dætur, _ 24.26 þann dag mun flóttamaður til þín koma, til þess að gjöra það heyrinkunnugt. 24.27 Á þeim degi mun munnur þinn upp ljúkast, um leið og munnur flóttamannsins, og þá munt þú tala og ekki framar þegja, og þú munt vera þeim til tákns, og þeir munu viðurkenna, að ég er Drottinn.'
25.1 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 25.2 'Mannsson, snú þér að Ammónítum og spá gegn þeim 25.3 og seg við Ammóníta: Heyrið orð Drottins Guðs! Svo segir Drottinn Guð: Af því að þú hlakkaðir yfir því, að helgidómur minn var vanhelgaður og yfir því að Ísraelsland var í eyði lagt og yfir því að Júdamenn urðu að fara í útlegð, 25.4 sjá, fyrir því gef ég þig austurbyggjum til eignar, að þeir setji tjöld sín í þér og reisi búðir sínar í þér. Þeir munu eta ávöxtu þína og þeir munu drekka mjólk þína. 25.5 Og ég vil gjöra Rabba að beitilandi fyrir úlfalda og land Ammóníta að fjárbóli, til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn. 25.6 Því að svo segir Drottinn Guð: Af því að þú klappaðir lof í lófa og stappaðir með fætinum og fagnaðir með fullri fyrirlitning í hjarta yfir Ísraelslandi, 25.7 sjá, fyrir því rétti ég út hönd mína í móti þér og læt þig verða heiðingjum að herfangi og afmái þig úr tölu þjóðanna og týni þér úr tölu landanna. Ég vil tortíma þér, til þess að þú viðurkennir, að ég er Drottinn. 25.8 Svo segir Drottinn Guð: Af því að Móab segir: Sjá, Júdalýður er eins og allar aðrar þjóðir! 25.9 Sjá, fyrir því opna ég hlíðar Móabs, til þess að landið verði borgalaust, missi borgir sínar allt til hinnar ystu: prýði landsins, Bet Jesímót, Baal Meon og Kirjataím. 25.10 Austurbyggjum gef ég það til eignar, í viðbót við land Ammóníta, til þess að Ammóníta verði eigi framar minnst meðal þjóðanna. 25.11 Og ég mun framkvæma refsidóma á Móab, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn. 25.12 Svo segir Drottinn Guð: Af því að Edóm hefir breytt við Júdamenn af mikilli hefndargirni og misgjört stórlega með því að hefna sín á þeim, 25.13 fyrir því segir Drottinn Guð svo: Ég vil rétta út hönd mína gegn Edóm og eyða þar mönnum og fénaði og gjöra landið að auðn. Frá Teman allt til Dedan skulu þeir fyrir sverði falla. 25.14 Og ég fel lýð mínum Ísrael að framkvæma hefnd mína á Edóm, svo að þeir fari með Edóm samkvæmt reiði minni og heift, og hann fái að kenna á hefnd minni, _ segir Drottinn Guð. 25.15 Svo segir Drottinn Guð: Af því að Filistar sýndu af sér hefnigirni og hefndu sín með fyrirlitning í hjarta, hyggjandi á tortíming með ævarandi fjandskap, 25.16 fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, ég mun rétta út hönd mína gegn Filistum og útrýma Kretum og eyða þeim, sem eftir eru á sjávarströndinni. 25.17 Og ég mun koma miklum hefndum fram á þeim með grimmilegum hirtingum, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn, þá er ég læt hefnd mína koma fram á þeim.'
26.1 En á ellefta árinu, hinn fyrsta dag mánaðarins, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi: 26.2 'Mannsson, af því að Týrus hlakkaði yfir Jerúsalem og sagði: ,Nú er þjóðahliðið brotið upp, hefir opnast að mér, nú vil ég fylla mig, er hún er komin í auðn!` _ 26.3 fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, ég skal finna þig, Týrus, ég skal leiða í móti þér margar þjóðir, eins og þegar hafið lætur öldur sínar að streyma. 26.4 Þær skulu brjóta múra Týrusar og rífa niður turna hennar, og ég mun sjálfur sópa burt öllum jarðveg af henni og gjöra hana að berum kletti. 26.5 Hún skal verða að þerrireit fyrir fiskinet úti í hafinu, því að ég hefi talað það, _ segir Drottinn Guð, _ og hún skal verða þjóðunum að herfangi. 26.6 En dætur hennar, sem eru á landi, skulu drepnar verða með sverði, til þess að þær viðurkenni, að ég er Drottinn. 26.7 Því að svo segir Drottinn Guð: Sjá ég leiði Nebúkadresar konung í Babýlon, konung konunganna, gegn Týrus úr norðri, með hestum, vögnum, riddurum og mannsöfnuði margra þjóða. 26.8 Hann mun drepa dætur þínar á landi með sverði, hlaða víggarða gegn þér, hleypa upp jarðhrygg gegn þér og reisa skjöldu í móti þér. 26.9 Og hann mun hleypa víghrút sínum á múra þína og rífa niður turna þína með járntólum sínum. 26.10 Af mergð hesta hans munt þú hulin verða jóreyk, og múrar þínir munu gnötra af gný riddaranna, hjólanna og vagnanna, þegar hann fer inn um borgarhlið þín, eins og þegar farið er inn í hertekna borg. 26.11 Með hófum hesta sinna mun hann troða sundur öll stræti þín. Lýð þinn mun hann brytja niður með sverði, og þínar voldugu súlur munu hrapa til jarðar. 26.12 Og þeir munu ræna auð þínum og hrifsa burt kaupeyri þinn, brjóta niður borgarveggi þína, rífa niður þín dýrlegu hús og varpa á sjó út húsagrjótinu, viðunum og rofinu. 26.13 Ég skal lægja klið ljóða þinna, og hljómur harpna þinna skal ekki framar heyrast. 26.14 Og ég skal gjöra þig að berum kletti: Þú skalt verða að þerrireit fyrir fiskinet, þú skalt aldrei framar endurreist verða, því að ég, Drottinn, hefi talað það, _ segir Drottinn Guð. 26.15 Svo segir Drottinn Guð um Týrus: Munu ekki eyjarnar gnötra við dynkinn af hruni þínu, þá er hinir vegnu stynja, þá er sverðið brytjar fólkið niður í þér? 26.16 Og allir þjóðhöfðingjar við hafið munu stíga niður af hásætum sínum og leggja af sér skikkjur sínar og fara úr litklæðum sínum. Þeir munu íklæðast skelfingu, þeir munu setjast á jörðina, þeir munu vera síhræddir og sem agndofa þín vegna. 26.17 Og þeir munu hefja upp harmljóð yfir þér og segja um þig: Hversu ert þú eydd, horfin frá hafinu, þú vegsamaða borg, sem voldug varst á hafinu, hún og íbúar hennar, sem skutu skelk í bringu öllum nábúum sínum. 26.18 Nú nötra sælöndin á degi falls þíns og eyjarnar í hafinu eru skelfdar yfir afdrifum þínum. 26.19 Því að svo segir Drottinn Guð: Þegar ég gjöri þig að eyddri borg, eins og þær borgir, sem óbyggðar eru, þegar ég læt hafsjóinn streyma yfir þig, svo að hin miklu vötn hylji þig, 26.20 þá steypi ég þér niður til þeirra, sem ofan eru farnir í gröfina, til manna frá fyrri tíðum, og bý þér stað í undirheimum, eins og ævagömlum rústum, hjá þeim sem ofan eru farnir í gröfina, til þess að þú verðir ekki byggð framar og standir ekki framar á landi lifandi manna. 26.21 Ég sel þig á vald voveiflegri glötun, og þú munt farast. Þín mun verða leitað, en þú munt aldrei finnast til eilífðar, _ segir Drottinn Guð.'
27.1 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 27.2 'Þú mannsson, hef upp harmljóð um Týrus 27.3 og seg við Týrus, sem liggur við víkurnar og rekur verslun við þjóðirnar til margra eylanda: Svo segir Drottinn Guð: Týrus, þú hugsaðir: ,Ég er algjör að fegurð!` 27.4 Landsvæði þitt er úti í hafinu, þeir, er reistu þig, hafa gjört þig aðdáanlega fagra. 27.5 Af kýprestrjám frá Senír gjörðu þeir alla innviði þína, þeir tóku sedrusvið frá Líbanon til þess að gjöra af siglutré þitt. 27.6 Árar þínar gjörðu þeir úr eikitrjám frá Basan, þiljurnar gjörðu þeir úr buksviði frá eyjum Kitta og greyptu inn í þær fílsbein. 27.7 Glitofið lín frá Egyptalandi var það, sem þú breiddir út, til þess að hafa það að veifu. Tjöld þín voru úr bláum og rauðum purpura frá Elísaströndum. 27.8 Sídoningar og Arvadbúar voru hásetar hjá þér, hinir kænstu menn, sem til voru hjá þér, Týrus, voru stýrimenn þínir. 27.9 Fyrirmenn frá Gebal og listkænir menn þaðan voru þeir, sem gjörðu við lekann á þér, öll hafskip og áhöfn þeirra kom til þín til þess að kaupa varning þinn. 27.10 Menn frá Paras, Lúd og Pút voru í her þínum sem hermenn þínir, skjöld og hjálm festu þeir upp hjá þér, þeir gjörðu þig veglega. 27.11 Arvadmenn og her þeirra voru umhverfis á múrum þínum og Gammadar í turnum þínum. Þeir festu skjöldu sína upp á múra þína hringinn í kring, þeir gjörðu þig aðdáanlega fagra. 27.12 Tarsis átti kaupskap við þig, af því að þú áttir gnótt alls konar kaupeyris. Silfur, járn, tin og blý fluttu þeir á kauptorg þitt. 27.13 Javan, Túbal og Mesek keyptu við þig, mansmenn og eirílát fluttu þeir til kaupstefnu þinnar. 27.14 Tógarmamenn fluttu áburðarhesta, reiðhesta og múlasna á kauptorg þitt. 27.15 Ródusmenn keyptu við þig, margar eyjar voru þínir kaupunautar, fílsbein og íbenvið greiddu þeir þér í skatt. 27.16 Aram átti kaupskap við þig, sökum þess að þú áttir gnótt iðnaðarvarnings. Karbunkulrauðan purpura, glitvefnað, býssus, kóralla og jaspis fluttu þeir á kauptorg þitt. 27.17 Júda og Ísraelsland keyptu við þig. Hveiti frá Minnít, vax, hunang, olíu og balsam fluttu þeir til kaupstefnu þinnar. 27.18 Damaskus átti kaupskap við þig um þinn margháttaða iðnaðarvarning, af því að þú áttir gnótt alls konar kaupeyris, um vín frá Helbón og ull frá Sahar. 27.19 Og vín frá Úsal fluttu þeir á kauptorg þitt, smíðað járn, kanelviður og ilmreyr kom til kaupstefnu þinnar. 27.20 Dedan verslaði við þig með söðuláklæði til að ríða á. 27.21 Arabar og allir höfðingjar Kedars voru kaupunautar þínir, þeir seldu þér lömb, hrúta og hafra. 27.22 Kaupmenn frá Saba og Raema keyptu við þig. Hinar bestu kryddjurtir, alls konar dýrindis steina og gull fluttu þeir á kauptorg þitt. 27.23 Haran, Kanne og Eden voru kaupunautar þínir, og Assýría og öll Medía keyptu við þig. 27.24 Þeir versluðu við þig með skartklæði, með skikkjur úr bláum purpura og glitofnar, og með ofnar ábreiður marglitar, og með snúnar og fast undnar snúrur á sölutorgi þínu. 27.25 Tarsis-knerrir fluttu vörur þínar, og þannig fylltir þú þig og varðst mjög hlaðin úti á hafinu. 27.26 Þeir, er reru þér, fluttu þig út á rúmsjó. Austanvindurinn braut þig í spón úti á miðju hafi. 27.27 Auðæfi þín, kaupeyrir þinn og vörur þínar, hásetar þínir og stýrimenn, þeir sem gjörðu við lekann á þér og þeir sem seldu vörur þínar og allir hermenn þínir, sem í þér eru, og allur mannfjöldinn, sem í þér er, munu sökkva í hafið þann dag, er þú ferst. 27.28 Af hljóðum stýrimanna þinna munu öldudjúpin skjálfa. 27.29 Þá munu allir þeir, er á árum halda, stíga af skipum sínum, hásetarnir, allir stýrimenn á sjónum munu ganga á land. 27.30 Og þeir munu æpa hástöfum yfir þér og hljóða sáran og ausa moldu yfir höfuð sér, velta sér í ösku. 27.31 Þeir munu raka á sig skalla þín vegna og gyrðast hærusekk og gráta yfir þér kvíðafullir í sárri hryggð. 27.32 Og þeir munu hefja upp harmljóð um þig og harma þig: ,Hver var sem Týrus, er nú er í eyði lögð úti í hafinu!` 27.33 Þegar varningur þinn kom af sjónum, mettaðir þú margar þjóðir, með gnótt auðlegðar þinnar og kaupeyris þíns auðgaðir þú konunga jarðarinnar. 27.34 Nú liggur þú brotin á hafinu, í djúpum hafsins, varningur þinn sökk og allur mannfjöldinn, sem í þér var. 27.35 Allir þeir, sem strandlendin byggja, eru agndofa yfir þér, og konungum þeirra blöskrar svo, að ásjónur þeirra blikna. 27.36 Verslunarmenn þjóðanna blístra að þér, þú fórst voveiflega og ert eilíflega horfin.'
28.1 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 28.2 'Mannsson, seg tignarmönnunum í Týrus: Svo segir Drottinn Guð: Af því að hjarta þitt var hrokafullt, svo að þú sagðir: ,Ég er guð, ég sit í guðasæti mitt úti í hafi!` _ þar sem þú ert þó maður og enginn guð, en leist á þig eins og guð, _ 28.3 já, þú varst vitrari en Daníel, ekkert hulið var þér of myrkt, 28.4 með speki þinni og hyggindum aflaðir þú þér auðæfa og safnaðir gulli og silfri í féhirslur þínar . . . 28.5 Með viskugnótt þinni, með verslun þinni jókst þú auðæfi þín, og hjarta þitt varð hrokafullt af auðæfunum _ 28.6 fyrir því segir Drottinn Guð svo: Af því að þú leist á sjálfa þig eins og guð, 28.7 sjá, fyrir því læt ég útlenda menn yfir þig koma, hinar grimmustu þjóðir, þeir skulu bregða sverðum sínum gegn snilldarfegurð þinni og vanhelga prýði þína. 28.8 Þeir munu steypa sér niður í gröfina og þú munt deyja dauða hins vopnbitna úti í hafi. 28.9 Hvort munt þú þá segja: ,Ég er guð!` frammi fyrir banamanni þínum, þar sem þú ert þó maður og enginn guð á valdi veganda þíns? 28.10 Þú skalt deyja dauða óumskorinna manna fyrir hendi útlendinga, því að ég hefi talað það, _ segir Drottinn Guð.' 28.11 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 28.12 'Mannsson, hef upp harmljóð yfir konunginum í Týrus og seg við hann: Svo segir Drottinn Guð: Þú varst ímynd innsiglishrings, fullur af speki og fullkominn að fegurð! 28.13 Þú varst í Eden, aldingarði Guðs, þú varst þakinn alls konar dýrum steinum: karneól, tópas, jaspis, krýsolít, sjóam, onýx, safír, karbunkul, smaragð, og umgjörðir þínar og útflúr var gjört af gulli. Daginn, sem þú varst skapaður, var það búið til. 28.14 Ég hafði skipað þig verndar-kerúb, þú varst á hinu heilaga goðafjalli, þú gekkst innan um glóandi steina. 28.15 Þú varst óaðfinnanlegur í breytni þinni frá þeim degi, er þú varst skapaður, þar til er yfirsjón fannst hjá þér. 28.16 Fyrir þína miklu verslun fylltir þú þig hið innra ofríki og syndgaðir. Þá óhelgaði ég þig og rak þig burt af goðafjallinu og tortímdi þér, þú verndar-kerúb, burt frá hinum glóandi steinum. 28.17 Hjarta þitt varð hrokafullt af fegurð þinni, þú gjörðir speki þína að engu vegna viðhafnarljóma þíns. Ég varpaði þér til jarðar, ofurseldi þig konungum, svo að þeir mættu horfa nægju sína á þig. 28.18 Með hinum mörgu misgjörðum þínum, með hinni óráðvöndu kaupverslun þinni vanhelgaðir þú helgidóma þína. Þá lét ég eld brjótast út frá þér, hann eyddi þér, og ég gjörði þig að ösku á jörðinni í augsýn allra, er sáu þig. 28.19 Allir þeir meðal þjóðanna, er þekktu þig, voru agndofa yfir þér, þú fórst voveiflega og ert eilíflega horfinn.' 28.20 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 28.21 'Mannsson, snú þér að Sídon og spá gegn henni 28.22 og seg: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég skal finna þig, Sídon, og gjöra mig vegsamlegan í þér miðri, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn, er ég framkvæmi refsidóma í henni og auglýsi heilagleik minn á henni. 28.23 Og ég mun senda drepsótt í hana og blóðsúthelling á stræti hennar, og menn skulu í henni falla helsærðir fyrir sverði, er alla vega skal yfir hana ganga, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn. 28.24 En fyrir Ísraelsmenn mun eigi framar vera til neinn kveljandi þyrnir né stingandi þistill af öllum þeim, sem umhverfis þá eru, þeim er óvirtu þá, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn Guð þeirra. 28.25 Svo segir Drottinn Guð: Þegar ég safna Ísraelsmönnum saman frá þjóðunum, þangað sem þeim var tvístrað, þá skal ég auglýsa heilagleik minn á þeim í augsýn þjóðanna, og þeir skulu búa í landi sínu, því er ég gaf þjóni mínum Jakob. 28.26 Og þeir munu búa þar óhultir og reisa hús og planta víngarða og búa óhultir, með því að ég læt refsidóma ganga yfir alla nágranna þeirra, er þá hafa óvirt, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn, Guð þeirra.'
29.1 Á tíunda árinu, tólfta dag hins tíunda mánaðar, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi: 29.2 'Mannsson, snú þér að Faraó, Egyptalandskonungi, og spá gegn honum og gegn öllu Egyptalandi. 29.3 Tala og seg: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég skal finna þig, Faraó, Egyptalandskonungur, þú mikli krókódíll, sem liggur milli árkvíslanna og segir: ,Fljótið er mitt, ég hefi sjálfur búið það til!` 29.4 Og ég skal setja króka í kjálka þína og láta fiskana í fljótum þínum loða á hreistri þínu og draga þig upp úr fljótum þínum, ásamt öllum fiskunum í fljótum þínum, þeim er loða á hreistri þínu. 29.5 Og ég skal varpa þér út á eyðimörk, þér og öllum fiskunum í fljótum þínum. Þú skalt falla úti á bersvæði, þú munt ekki verða tekinn upp né jarðaður. Ég gef þig dýrum jarðarinnar og fuglum himinsins til fæðslu. 29.6 Þá skulu allir íbúar Egyptalands viðurkenna, að ég er Drottinn, af því að þú ert Ísraelsmönnum ekki annað en stafur úr sefreyr. 29.7 Þegar þeir grípa um þig með hendinni, þá brotnar þú og fleiðrar alla höndina á þeim, og þegar þeir styðjast við þig, þá brestur þú í sundur og linar þá í öllum mjöðmunum. 29.8 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, ég skal láta sverðið koma yfir þig og gjöreyða hjá þér mönnum og fénaði. 29.9 Og Egyptaland skal verða að auðn og öræfum, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn. Af því að þú hefir sagt: ,Fljótið er mitt og ég hefi búið það til!` 29.10 sjá, fyrir því skal ég finna þig og árkvíslar þínar og gjöra Egyptaland að öræfum, að eyðiöræfum frá Migdól til Sýene og allt að landamerkjum Blálands. 29.11 Enginn maður skal stíga þar fæti sínum og engin skepna skal stíga þar fæti sínum, og það skal vera óbyggt í fjörutíu ár. 29.12 Og ég skal gjöra Egyptaland að auðn innan um eyðilönd, og borgir þess skulu liggja í eyði innan um borgir, sem liggja í rústum, í fjörutíu ár, og ég mun tvístra Egyptum meðal þjóðanna og dreifa þeim út um löndin. 29.13 Svo segir Drottinn Guð: Þegar fjörutíu ár eru liðin, mun ég saman safna Egyptum frá þeim þjóðum, þangað sem þeim var tvístrað, 29.14 og ég mun snúa við högum Egyptalands og flytja þá aftur inn í landið Patrós, landið þar sem þeir eru upprunnir, og þar munu þeir vera lítilfjörlegt ríki. 29.15 Það mun verða lítilfjörlegra en hin ríkin og ekki framar hefja sig upp yfir þjóðirnar, og ég gjöri þá fámenna, til þess að þeir geti ekki drottnað yfir þjóðunum. 29.16 Þá mun Egyptaland ekki framar vera Ísraelsmönnum traust, er minni á misgjörð þeirra, er þeir leita bandalags við það, og þeir munu viðurkenna, að ég er Drottinn Guð.' 29.17 En á tuttugasta og sjöunda árinu, hinn fyrsta dag hins fyrsta mánaðar, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi: 29.18 'Mannsson, Nebúkadresar konungur í Babýlon hefir látið herlið sitt vinna mikið verk á Týrus. Höfuð allra manna hans eru orðin hárlaus og axlir þeirra gnúnar, og þó hefir hvorki hann né herlið hans fengið nein laun frá Týrus fyrir það verk, er hann hefir á henni unnið. 29.19 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, ég gef Nebúkadresar Babelkonungi Egyptaland. Hann skal flytja burt auðæfi þess og fara þar með rán og rifs, það skulu vera launin handa herliði hans. 29.20 Sem endurgjald handa því, er það hefir unnið fyrir, gef ég því Egyptaland, _ segir Drottinn Guð. 29.21 Á þeim degi vil ég láta Ísraels húsi horn vaxa, og þá mun ég gefa þér að upp ljúka munni þínum meðal þeirra, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn.'
30.1 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 30.2 'Mannsson, spá og seg: Svo segir Drottinn Guð: Æpið vei yfir deginum! 30.3 Því að dagur er nálægur, já, dagur Drottins er nálægur, dagur skýþykknis, endadægur þjóðanna mun það verða. 30.4 Og sverð mun koma til Egyptalands, og Bláland mun skelfast, þá er menn hníga helsærðir á Egyptalandi, og auðæfi þess verða burt flutt og undirstöðum þess rótað upp. 30.5 Blálendingar, Pútítar, Lúdítar og allur þjóðblendingurinn og Líbýumenn og Kretar munu fyrir sverði falla ásamt þeim. 30.6 Svo segir Drottinn: Þá munu stoðir Egyptalands falla og hið dýrlega skraut þess hníga. Frá Migdól og allt til Sýene skulu menn fyrir sverði falla í því, _ segir Drottinn Guð. 30.7 Og það mun verða að auðn innan um eyðilönd, og borgir þess munu liggja innan um borgir, sem eru í rústum. 30.8 Og þeir munu viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar ég legg eld í Egyptaland og allir liðveislumenn þess verða muldir sundur. 30.9 Á þeim degi munu sendiboðar fara frá mér á skipum, til þess að færa hinum ugglausu Blálendingum hin hræðilegu tíðindi, og þeir munu skelfast vegna ógæfudags Egyptalands, því að sjá, hann kemur. 30.10 Svo segir Drottinn Guð: Þannig mun ég láta Nebúkadresar konung í Babýlon enda gjöra á mikillæti Egyptalands. 30.11 Hann mun verða sóttur og lið hans með honum, hinar grimmustu þjóðir, til þess að herja landið, og þeir munu bregða sverðum sínum gegn Egyptalandi og fylla landið vegnum mönnum. 30.12 Og ég mun þurrka upp árkvíslarnar og selja Egyptaland í hendur illmenna og láta útlenda menn eyða landið og öllu, sem í því er. Ég, Drottinn, hefi talað það. 30.13 Svo segir Drottinn Guð: Ég gjöri skurðgoðin að engu og uppræti falsguðina úr Nóf og höfðingjana af Egyptalandi, svo að engir skulu þar framar til vera, og ég mun skelfa Egyptaland. 30.14 Og ég eyði Patrós og legg eld í Sóan og framkvæmi refsidóma á Nó. 30.15 Og ég úthelli heift minni yfir Sín, varnarvirki Egyptalands, og tortími hinum ysmikla múg í Nó. 30.16 Ég legg eld í Egyptaland, Sín mun nötra og skarð mun brotið verða inn í Nó og múrar hennar niður rifnir. 30.17 Æskumennirnir í Ón og Píbeset munu fyrir sverði falla og íbúar annarra borga fara í útlegð. 30.18 Í Takpanes mun dagurinn myrkvast, er ég sundurbrýt þar veldissprota Egyptalands og hið dýrlega skraut þess verður að engu gjört. Skýþykkni mun hylja hana, og dætur hennar munu fara í útlegð. 30.19 Þannig mun ég láta refsidóma koma yfir Egyptaland, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn.' 30.20 En á ellefta árinu, sjöunda dag hins fyrsta mánaðar, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi: 30.21 'Mannsson, ég hefi brotið armlegg Faraós, Egyptalandskonungs, og sjá, það skal eigi verða um hann bundið, til þess að gjöra hann heilan, með því að setja á hann sáraumbúðir, til þess að hann styrktist aftur og fengi gripið sverðið. 30.22 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, ég skal finna Faraó, Egyptalandskonung, ég skal brjóta armleggi hans, hinn heila og hinn brotna, og slá sverðið úr hendi hans. 30.23 Og ég skal tvístra Egyptum meðal þjóðanna og dreifa þeim út um löndin. 30.24 Og ég skal styrkja armleggi konungsins í Babýlon og fá honum sverð mitt í hönd, en armleggi Faraós skal ég brjóta, svo að hann skal liggja stynjandi fyrir fótum hans, eins og helstunginn maður. 30.25 Ég skal styrkja armleggi konungsins í Babýlon, en armleggir Faraós skulu niður síga, og menn skulu viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar ég fæ Babelkonungi sverð mitt í hönd, og hann reiðir það að Egyptalandi. 30.26 Og ég skal tvístra Egyptum meðal þjóðanna og dreifa þeim út um löndin, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn.'
31.1 Og á ellefta árinu, hinn fyrsta dag hins þriðja mánaðar, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi: 31.2 'Mannsson, seg við Faraó, Egyptalandskonung, og við glæsilið hans: Hverjum ertu líkur að mikilleik? 31.3 Sjá, sedrusviður óx á Líbanon. Greinar hans voru fagrar og laufið veitti mikla forsælu, hann var hávaxinn og náði topplimið upp í skýin. 31.4 Vatnsgnóttin hafði gjört hann stóran og flóðið hávaxinn, það leiddi strauma sína umhverfis gróðurreit hans og veitti vatnsrásum sínum til allra skógartrjánna. 31.5 Fyrir því var hann hávaxnari en öll skógartrén, greinum hans fjölgaði og limar hans lengdust af hinni miklu vatnsgnótt. 31.6 Alls konar fuglar himinsins hreiðruðu sig í greinum hans og alls konar dýr merkurinnar lögðu ungum sínum undir limar hans, og allar hinar mörgu þjóðir bjuggu í forsælu hans. 31.7 Og hann var fagur sökum mikilleiks síns og vegna þess, hve greinar hans voru langar, því að rætur hans lágu við mikla vatnsgnótt. 31.8 Sedrustrén jöfnuðust ekki á við hann í aldingarði Guðs, kýprestrén höfðu ekki jafnmiklar greinar og hann, og hlynirnir höfðu ekki eins fallegar limar og hann. Ekkert tré í aldingarði Guðs var honum jafnt að fegurð. 31.9 Ég hafði prýtt hann með fjölda af greinum, og öll Edentré, sem voru í aldingarði Guðs, öfunduðu hann. 31.10 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Af því að hann varð hávaxinn og teygði topplimið upp í skýin og ofmetnaðist í hjarta af hæð sinni, 31.11 þá seldi ég hann í hendur afarmenni meðal þjóðanna, er fara skyldi með hann samkvæmt illsku sinni, uns ég hefði rekið hann burt. 31.12 Og útlendir menn, hinar grimmustu þjóðir, felldu hann og fleygðu honum. Greinar hans féllu niður á fjöllin og ofan í alla dali, og limar hans lágu sundur brotnar í öllum giljum landsins, og allar þjóðir jarðarinnar viku burt úr forsælu hans og létu hann eiga sig. 31.13 Allir fuglar himinsins sátu nú á hans fallna stofni og öll dýr merkurinnar lágu á limum hans, 31.14 til þess að engin tré við vatn skyldu verða hávaxin og eigi teygja topplim sitt upp í skýin, og til þess að stórhöfðingjar þeirra stæðu eigi hreyknir af hæð sinni, allir þeir er á vatni vökvast. Því að allir eru þeir dauðanum ofurseldir, svo að þeir verða að fara niður til undirheima, mitt á meðal mannanna, til þeirra, sem niður stignir eru í gröfina. 31.15 Svo segir Drottinn Guð: Daginn, sem hann steig niður til Heljar, lét ég flóðið sýta missi hans og hélt aftur straumum hans og hin miklu vötn hættu að renna. Ég klæddi Líbanon sorgarbúningi hans vegna og öll tré merkurinnar liðu í ómegin yfir láti hans. 31.16 Ég skelfdi þjóðirnar með þeim gný, sem varð af falli hans, er ég steypti honum niður til Heljar, til þeirra, sem eru niður stignir í gröfina. Og þá hugguðust í undirheimum öll Edentré, ágætustu og bestu tré Líbanons, öll þau er á vatni höfðu vökvast. 31.17 Þau fóru líka með honum niður til Heljar til hinna vopnbitnu, er búið höfðu í forsælu hans, mitt á meðal þjóðanna. 31.18 Við hvert á meðal Edentrjánna er unnt að jafna þér að skrauti og stærð? En þér mun verða steypt niður í undirheima með Edentrjánum, meðal óumskorinna munt þú liggja hjá hinum vopnbitnu. Þetta er Faraó og glæsilið hans, _ segir Drottinn Guð.'
32.1 Á tólfta árinu, fyrsta dag hins tólfta mánaðar, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi: 32.2 'Mannsson, hef upp harmljóð yfir Faraó, Egyptalandskonungi, og seg við hann: Þú ungljón meðal þjóðanna, það er úti um þig! Og þó varst þú eins og krókódíll í sjónum, gusaðir með nösum þínum, gruggaðir upp vatnið með fótum þínum og rótaðir upp bylgjum þess. 32.3 Svo segir Drottinn Guð: Ég vil breiða net mitt yfir þig í söfnuði margra þjóða, til þess að þeir dragi þig upp í neti mínu. 32.4 Og ég skal varpa þér upp á land, fleygja þér út á bersvæði, og ég skal láta alla fugla himinsins sitja á þér og seðja dýr allrar jarðarinnar á þér. 32.5 Og ég skal færa hold þitt út á fjöllin og fylla dalina hræi þínu. 32.6 Og ég skal vökva landið með útrennsli þínu, af blóði þínu á fjöllunum, og árfarvegirnir skulu verða fullir af þér. 32.7 Þegar þú slokknar út, skal ég byrgja himininn og myrkva stjörnur hans. Sólina skal ég hylja í skýjum, og tunglið skal ekki láta ljós sitt skína. 32.8 Öll ljós á himninum skal ég láta verða myrk þín vegna og færa dimmu yfir land þitt, _ segir Drottinn Guð. 32.9 Og ég mun hrella hjörtu margra þjóða, er ég leiði hertekna menn þína út á meðal þjóðanna, til landa, sem þú þekkir ekki. 32.10 Og ég mun gjöra margar þjóðir felmtsfullar út af þér, og hryllingur mun fara um konunga þeirra þín vegna, þegar ég sveifla sverði mínu frammi fyrir þeim, og þeir skulu skjálfa án afláts af hræðslu um líf sitt, daginn sem þú fellur. 32.11 Svo segir Drottinn Guð: Sverð Babelkonungs skal koma yfir þig. 32.12 Ég skal láta glæsilið þitt falla fyrir kappa sverðum. Það eru allt saman hinar grimmustu þjóðir. Þeir skulu eyða skrauti Egyptalands, og allt viðhafnarprjál þess skal að engu gjört. 32.13 Og ég skal gjöreyða öllum skepnum þess og hrífa þær burt frá hinum miklu vötnum. Enginn mannsfótur skal framar grugga þau, né heldur skulu klaufir nokkurrar skepnu grugga þau. 32.14 Þá skal ég láta vötn þeirra setjast og leiða ár þeirra burt eins og olíu, _ segir Drottinn Guð _ 32.15 þegar ég gjöri Egyptaland að auðn og það er eytt orðið og svipt gnægtum sínum, er ég lýst alla þá, sem í því búa, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn.' 32.16 Þetta eru harmljóð og skulu menn syngja þau. Dætur þjóðanna skulu syngja þau, þær skulu syngja þau yfir Egyptalandi og yfir öllu glæsiliði þess, _ segir Drottinn Guð! 32.17 Á tólfta árinu, hinn fimmtánda dag mánaðarins, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi: 32.18 'Mannsson, kveina þú og dætur þjóðanna yfir glæsiliði Egyptalands. Tignarmenn munu sökkva niður í undirheima til þeirra, sem niður eru stignir í gröfina. 32.19 Af hverjum ber þú að yndisleik? Stíg ofan og leggst til hvíldar meðal hinna óumskornu. 32.20 Þeir munu falla meðal vopnbitinna manna. Egyptaland er sverðinu ofurselt, menn hrífa það burt og allt þess skraut. 32.21 Þá munu hinar hraustu hetjur hrópa til Faraós í Helju, til hans og liðveislumanna hans: Niður stignir eru hinir vopnbitnu. 32.22 Þarna er Assýría og allur liðsafnaður hennar, og eru grafir þeirra umhverfis, _ allt saman vegnir menn, er fallið hafa fyrir sverði, _ 32.23 grafir þeirra eru innst inni í grafhellinum. Og sveit hennar er umhverfis gröf hennar, allt saman vegnir menn, er fallið hafa fyrir sverði og eitt sinn létu standa ógn af sér á landi lifandi manna. 32.24 Þarna er Elam, og allt glæsilið hans liggur umhverfis gröf hans. Þeir eru allir saman vegnir menn, er fallið hafa fyrir sverði, er farið hafa óumskornir ofan í undirheima og eitt sinn létu standa ógn af sér á landi lifandi manna. Og nú bera þeir vanvirðu sína með þeim, sem niður stignir eru í gröfina. 32.25 Mitt á meðal veginna manna bjuggu þeir honum hvílurúm, ásamt öllu glæsiliði hans, og eru grafir þeirra umhverfis hann, allt saman óumskornir menn, er lagðir hafa verið sverði, _ því að eitt sinn stóð ógn af þeim á landi lifandi manna. Og nú bera þeir vanvirðu sína með þeim, sem niður stignir eru í gröfina. Meðal veginna manna voru þeir lagðir. 32.26 Þarna er Mesek, Túbal og allur mannfjöldi þeirra, og eru grafir þeirra umhverfis hann, allt saman óumskornir menn, sverði lagðir, er eitt sinn létu ógn af sér standa á landi lifandi manna. 32.27 Þeir liggja ekki hjá hetjunum, þeim er féllu í fyrndinni, þeim er fóru til Heljar í hervopnum sínum, hverra sverð voru lögð undir höfuð þeirra og skildir þeirra lágu ofan á beinum þeirra, því að ótti stóð af hetjunum á landi lifandi manna. 32.28 Þú skalt og sundur molaður verða meðal óumskorinna og liggja hjá sverðbitnum mönnum. 32.29 Þar er Edóm, konungar hans og allir höfðingjar, sem þrátt fyrir hreysti sína voru lagðir hjá vopnbitnum mönnum. Þeir liggja hjá óumskornum mönnum og hjá þeim, sem niður eru stignir í gröfina. 32.30 Þar eru stórhöfðingjar norðursins allir saman og allir Sídoningar, er niður stigu helsærðir. Þrátt fyrir óttann, sem stóð af hreysti þeirra, eru þeir orðnir til skammar. Óumskornir liggja þeir hjá vopnbitnum mönnum og bera vanvirðu sína með þeim, er niður stignir eru í gröfina. 32.31 Faraó mun sjá þá og huggast yfir öllu glæsiliði sínu. Vopnbitinn er Faraó og allur hans her, _ segir Drottinn Guð. 32.32 Hann lét eitt sinn standa ógn af sér á landi lifandi manna, þess vegna skal hann lagður verða meðal óumskorinna, hjá vopnbitnum mönnum, Faraó og allt hans glæsilið, _ segir Drottinn Guð.'
33.1 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 33.2 'Mannsson, tala þú til samlanda þinna og seg við þá: Þegar ég læt sverð koma yfir eitthvert land, og landsmenn taka mann úr sínum hóp og gjöra hann að varðmanni sínum, 33.3 og hann sér sverðið koma yfir landið og blæs í lúðurinn og gjörir fólkið vart við, _ 33.4 ef þá sá, er heyrir lúðurþytinn, vill ekki vara sig, og sverðið kemur og sviptir honum í burt, þá mun blóð hans vera á höfði honum sjálfum. 33.5 Hann heyrði lúðurþytinn, en varaði sig þó ekki; blóð hans hvíli á honum. En hinn hefir gjört viðvart og frelsað líf sitt. 33.6 En sjái varðmaðurinn sverðið koma, og blæs þó ekki í lúðurinn, svo að fólki er ekki gjört vart við, og sverðið kemur og sviptir einhverjum af þeim burt, þá verður þeim hinum sama burt svipt fyrir sjálfs hans misgjörð, en blóðs hans vil ég krefja af hendi varðmannsins. 33.7 Þig, mannsson, hefi ég skipað varðmann fyrir Ísraels hús, til þess að þú varir þá við fyrir mína hönd, er þú heyrir orð af munni mínum. 33.8 Þegar ég segi við hinn óguðlega: ,Þú hinn óguðlegi skalt deyja!` og þú segir ekkert til þess að vara hinn óguðlega við breytni hans, þá skal að vísu hinn óguðlegi deyja fyrir misgjörð sína, en blóðs hans vil ég krefja af þinni hendi. 33.9 En hafir þú varað hinn óguðlega við breytni hans, að hann skuli láta af henni, en hann lætur samt ekki af breytni sinni, þá skal hann deyja fyrir misgjörð sína, en þú hefir frelsað líf þitt. 33.10 Mannsson, seg þú við Ísraelsmenn: Þér hafið kveðið svo að orði: ,Afbrot vor og syndir vorar hvíla á oss, og þeirra vegna veslumst vér upp, og hvernig ættum vér þá að geta haldið lífi?` 33.11 Seg við þá: Svo sannarlega sem ég lifi, _ segir Drottinn Guð _ hefi ég ekki þóknun á dauða hins óguðlega, heldur að hinn óguðlegi hverfi frá breytni sinni og haldi lífi. Snúið yður, snúið yður frá yðar vondu breytni! Hví viljið þér deyja, Ísraelsmenn? 33.12 En þú, mannsson, seg við samlanda þína: Ráðvendni hins ráðvanda skal ekki frelsa hann á þeim degi, er hann misgjörir, og guðleysi hins óguðlega skal ekki fella hann á þeim degi, er hann hverfur frá guðleysi sínu, og hinn ráðvandi skal ekki heldur fá lífi haldið fyrir ráðvendni sína á þeim degi, er hann syndgar. 33.13 Þegar ég segi við hinn ráðvanda: ,Þú skalt vissulega lífi halda!` og hann reiðir sig á ráðvendni sína og fremur glæp, þá skulu ráðvendniverk hans eigi til álita koma, heldur skal hann deyja fyrir glæpinn, sem hann hefir drýgt. 33.14 Og þegar ég segi við hinn óguðlega: ,Þú skalt vissulega deyja!` og hann lætur af synd sinni og iðkar rétt og réttlæti, 33.15 skilar aftur veði, endurgreiðir það, er hann hefir rænt, breytir eftir þeim boðorðum, er leiða til lífsins, svo að hann fremur engan glæp, þá skal hann lífi halda og ekki deyja. 33.16 Allar þær syndir, er hann hefir áður drýgt, skulu honum ekki tilreiknaðar verða. Hann hefir iðkað rétt og réttlæti, hann skal lífi halda! 33.17 Og samt segja samlandar þínir: ,Atferli Drottins er ekki rétt!` Og það er þó atferli þeirra, sem ekki er rétt. 33.18 Ef ráðvandur maður hverfur frá ráðvendni sinni og fremur glæp, þá skal hann deyja fyrir það. 33.19 Og ef óguðlegur maður hverfur frá guðleysi sínu og iðkar rétt og réttlæti, þá skal hann lífi halda fyrir það. 33.20 Og samt segið þér: ,Atferli Drottins er ekki rétt!` Sérhvern yðar mun ég dæma eftir breytni hans, þér Ísraelsmenn!' 33.21 Á tólfta árinu eftir að vér vorum herleiddir, fimmta dag hins tíunda mánaðar kom til mín flóttamaður frá Jerúsalem með þau tíðindi: 'Borgin er unnin!' 33.22 En hönd Drottins hafði komið yfir mig kveldið áður en flóttamaðurinn kom, og Guð hafði lokið upp munni mínum áður en hinn kom til mín um morguninn. Munnur minn var upp lokinn, og ég þagði eigi lengur. 33.23 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 33.24 'Mannsson, þeir sem búa í þessum borgarrústum í Ísraelslandi segja: ,Abraham var ekki nema einn og þó fékk hann landið til eignar, en vér erum margir, oss var landið gefið til eignar.` 33.25 Seg því við þá: Svo segir Drottinn Guð: Þér etið fórnarkjöt á fjöllunum og hefjið augu yðar til skurðgoðanna og úthellið blóði, og þér viljið eiga landið! 33.26 Þér reiðið yður á sverð yðar, þér hafið svívirðing í frammi, þér smánið hver annars konu, og þér viljið eiga landið! 33.27 Þú skalt mæla þannig til þeirra: Svo segir Drottinn Guð: Svo sannarlega sem ég lifi, þeir sem hafast við í rústunum, skulu falla fyrir sverði, þá sem eru úti á bersvæði, gef ég villidýrunum að fæðslu, og þeir sem hafast við í klettavígjum og hellum, skulu deyja af drepsótt. 33.28 Og ég skal gjöra landið að auðn og öræfum, og úti er um þess dýrlega skraut, og Ísraels fjöll skulu í eyði liggja, svo að enginn fer þar um. 33.29 Og þeir munu viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar ég gjöri landið að auðn og öræfum vegna allra þeirra svívirðinga, er þeir hafa framið. 33.30 Mannsson, samlandar þínir tala sín á milli um þig hjá veggjunum og við húsdyrnar, og segja hver við annan: ,Komið og heyrið, hvaða orð kemur frá Drottni!` 33.31 Og þeir koma til þín í hópum og sitja frammi fyrir þér, en þegar þeir hafa heyrt orð þín, þá breyta þeir ekki eftir þeim. Því að lygi er í munni þeirra, en hjarta þeirra eltir fégróðann. 33.32 Og sjá, þú ert þeim eins og ástarkvæði, eins og sá, er hefir fagra söngrödd og vel leikur á strengina: Þeir hlusta á orð þín, en breyta ekki eftir þeim. 33.33 En þegar það kemur fram, og það kemur vissulega fram, þá munu þeir viðurkenna, að spámaður var meðal þeirra.'
34.1 Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 34.2 'Mannsson, spá þú um Ísraels hirða, spá þú og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: Vei hirðum Ísraels, er héldu sjálfum sér til haga. Eiga ekki hirðarnir að halda sauðunum til haga? 34.3 Mjólkurinnar neyttuð þér, klædduð yður af ullinni, slátruðuð alifénu, en sauðunum hafið þér eigi haldið til haga. 34.4 Þér komuð ekki þrótti í veiku skepnurnar og læknuðuð ekki hið sjúka, bunduð ekki um hið limlesta, sóttuð ekki það, er hrakist hafði, og leituðuð ekki hins týnda, heldur drottnuðuð þér yfir þeim með hörku og grimmd. 34.5 Og fyrir því tvístruðust þeir, af því að enginn var hirðirinn, og urðu öllum dýrum merkurinnar að bráð. 34.6 Sauðir mínir ráfuðu um öll fjöll og allar háar hæðir, sauðir mínir voru tvístraðir um allt landið, og enginn skeytti um þá og enginn leitaði þeirra. 34.7 Heyrið því orð Drottins, þér hirðar! 34.8 Svo sannarlega sem ég lifi, _ segir Drottinn Guð: Vissulega, af því að sauðir mínir urðu að herfangi og af því að sauðir mínir urðu öllum dýrum merkurinnar að bráð, með því að enginn var hirðirinn og með því að hirðar mínir skeyttu eigi um sauði mína, _ því að hirðarnir héldu sjálfum sér til haga, en sauðum mínum héldu þeir ekki til haga _ 34.9 fyrir því heyrið orð Drottins, þér hirðar! 34.10 Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég skal finna hirðana og ég skal krefja sauða minna af hendi þeirra og gjöra enda á fjárgæslu þeirra. Og hirðarnir skulu ekki lengur halda sjálfum sér til haga, heldur skal ég hrífa sauði mína úr munni þeirra, svo að þeir verði þeim eigi framar að bráð. 34.11 Svo segir Drottinn Guð: Hér er ég sjálfur og mun leita sauða minna og annast þá. 34.12 Eins og hirðir annast hjörð sína þann dag, sem hann er á meðal hinna tvístruðu sauða sinna, þannig mun ég annast sauði mína og heimta þá úr öllum þeim stöðum, þangað sem þeir hröktust í þokunni og dimmviðrinu. 34.13 Og ég mun sækja þá til þjóðanna og saman safna þeim úr löndunum og leiða þá inn í land þeirra og halda þeim til haga á Ísraels fjöllum, í dölunum og á öllum byggðum bólum í landinu. 34.14 Ég mun halda þeim í góðu haglendi, og beitiland þeirra mun vera á háfjöllum Ísraels. Þar munu þeir liggja í góðu beitilandi og ganga í feitu haglendi á Ísraels fjöllum. 34.15 Ég mun sjálfur halda sauðum mínum til haga og sjálfur bæla þá, segir Drottinn Guð. 34.16 Ég mun leita að hinu týnda og sækja hið hrakta, binda um hið limlesta og koma þrótti í hið veika, en varðveita hið feita og sterka. Ég mun halda þeim til haga, eins og vera ber. 34.17 En þér, sauðir mínir, _ svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég dæmi milli kindar og kindar, milli hrúta og hafra. 34.18 Nægir yður ekki að ganga í hinu besta haglendi, nema þér fótum troðið það, sem eftir er af haglendi yðar? Nægir yður ekki að drekka tæra vatnið, nema þér gruggið upp það, sem eftir er, með fótum yðar? 34.19 Og svo verða sauðir mínir að bíta það, sem þér hafið troðið með fótum yðar, og drekka það, sem þér hafið gruggað upp með fótum yðar. 34.20 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, hér er ég sjálfur og dæmi milli hinnar feitu og hinnar mögru kindar. 34.21 Af því að þér hrunduð öllum veiku skepnunum með síðum og öxlum og stönguðuð þær með hornum yðar, uns þér fenguð hrakið þær út, 34.22 þá vil ég nú hjálpa sauðum mínum, svo að þeir verði eigi framar að herfangi, og ég mun dæma milli kindar og kindar. 34.23 Og ég mun skipa yfir þá einkahirði, hann mun halda þeim til haga, þjón minn Davíð. Hann mun halda þeim til haga og hann mun vera þeim hirðir. 34.24 Og ég Drottinn, mun vera Guð þeirra, og þjónn minn Davíð mun vera höfðingi meðal þeirra. Ég, Drottinn, hefi talað það. 34.25 Og ég mun gjöra friðarsáttmála við þá og reka öll illdýri úr landinu, svo að þeir skulu óhultir búa mega í eyðimörkinni og sofa í skógunum. 34.26 Og ég mun gjöra þá og landið umhverfis hæð mína að blessun, og ég mun láta steypiregnið niður falla á sínum tíma, það skulu verða blessunarskúrir. 34.27 Og tré merkurinnar munu bera sinn ávöxt, og jörðin mun bera sinn gróða, og þeir munu búa óhultir á sinni jörð og viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar ég sundurbrýt oktré þeirra og frelsa þá undan valdi þeirra, er þá hafa þrælkað. 34.28 Og þeir skulu ekki framar verða þjóðunum að herfangi, né heldur skulu villidýrin rífa þá í sig, en þeir skulu búa óhultir og enginn skelfa þá. 34.29 Og ég mun láta til verða handa þeim vel ræktaðan gróðurreit og alls engir munu framar farast af hungri í landinu, og þeir skulu ekki framar liggja undir ámæli þjóðanna. 34.30 Og þeir skulu viðurkenna, að ég, Drottinn, Guð þeirra, er með þeim, og að þeir, Ísraelsmenn, eru mín þjóð, _ segir Drottinn Guð. 34.31 En þér eruð mínir sauðir. Mín gæsluhjörð eruð þér. Ég er yðar Guð, _ segir Drottinn Guð.'
35.1 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 35.2 'Mannsson, snú þér gegn Seír-fjalllendi og spá gegn því 35.3 og seg við það: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég skal finna þig, Seír-fjalllendi, og ég skal rétta hönd mína út í móti þér og gjöra þig að auðn og öræfum. 35.4 Borgir þínar gjöri ég að rústum, og þú skalt sjálft verða að auðn, svo að þú viðurkennir, að ég er Drottinn. 35.5 Af því að þú bjóst yfir eilífum fjandskap og seldir Ísraelsmenn undir sverðseggjar á ógæfutíma þeirra, þá er tími endasektarinnar rann upp, 35.6 fyrir því, svo sannarlega sem ég lifi, _ segir Drottinn Guð _ blóðskuld hefir þú bakað þér, og blóð skal ofsækja þig. 35.7 Og ég gjöri Seír-fjalllendi að auðn og öræfum og læt þar alla umferð af leggjast. 35.8 Og ég fylli fjöll þess vegnum mönnum. Á hæðum þínum, í dölum þínum og í öllum hvömmum þínum munu vopnbitnir menn falla. 35.9 Og ég vil gjöra þig að ævinlegri auðn, og borgir þínar skulu vera óbyggðar, til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn. 35.10 Af því að þú sagðir: ,Báðar þjóðirnar og bæði löndin skulu vera mín, og vér skulum taka þau til eignar,` enda þótt Drottinn væri þar, 35.11 fyrir því, svo sannarlega sem ég lifi, _ segir Drottinn Guð _ mun ég fara með þig samkvæmt þeirri ástríðufullu reiði, er þú hefir á þeim sýnt vegna haturs þíns, og ég mun láta þig kenna á mér, þá er ég dæmi þig, 35.12 til þess að þú viðurkennir, að ég er Drottinn. Ég hefi heyrt öll lastmæli þín, þau er þú hefir talað gegn Ísraels fjöllum, er þú sagðir: ,Þau eru í eyði lögð! Oss eru þau gefin til afneyslu!` 35.13 Og þér töluðuð stóryrði í gegn mér og höfðuð orðmælgi við mig, ég hefi heyrt það. 35.14 Svo segir Drottinn Guð: Eins og þú fagnaðir yfir landi mínu, að það lá í eyði, svo mun ég láta hið sama fram við þig koma. 35.15 Eins og þú fagnaðir yfir arfleifð Ísraels húss, að hún var í eyði lögð, svo mun ég við þig gjöra. Að auðn skalt þú verða, Seír-fjalllendi, og allt Edómland, eins og það er sig til, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn.
36.1 En þú mannsson, spá þú um Ísraels fjöll og seg: Þér Ísraels fjöll, heyrið orð Drottins! 36.2 Svo segir Drottinn Guð: Af því að óvinirnir hafa hrópað yfir yður: ,Hæ! Eilíf auðn! Það er orðið vor eign!` 36.3 fyrir því spá þú og seg: Svo segir Drottinn Guð: Fyrir þá sök, vegna þess að menn eyddu yður og ágirntust yður alla vega, að þér yrðuð eign hinna þjóðanna, og af því að þér komust í orðræðu manna og urðuð fyrir ámæli fólks, _ 36.4 fyrir því heyrið orð Drottins Guðs, þér Ísraels fjöll! Svo segir Drottinn Guð við fjöllin og hæðirnar, við hvammana og dalina, við eyðirústirnar og við yfirgefnu borgirnar, sem orðnar eru að herfangi og að spotti fyrir hinar þjóðirnar, sem umhverfis yður eru, _ 36.5 fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sannlega tala ég í minni brennandi afbrýði til hinna þjóðanna og alls Edóms, sem hafa ætlað sér land mitt til eignar, með alls hugar fögnuði og innilegri fyrirlitning, til þess að þeir gætu rekið íbúana burt og rænt það. 36.6 Spá þú þess vegna um Ísraelsland og seg við fjöllin og hæðirnar, við hvammana og dalina: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég hefi talað í ástríðufullri heift, af því að þér hafið orðið að þola háðungar þjóðanna. 36.7 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Ég hef upp hönd mína og sver: Þjóðirnar, sem umhverfis yður eru, skulu vissulega verða að þola háðung sína. 36.8 En þér, Ísraels fjöll, skjótið greinum yðar og berið ávöxt yðar handa lýð mínum Ísrael, því að bráðum munu þeir koma heim. 36.9 Því að sjá, ég mun koma til yðar og snúa mér að yður, og þér munuð verða yrkt og sáin. 36.10 Og ég mun fjölga fólkinu á yður, gjörvöllum Ísraelslýð, og borgirnar verða byggðar og rústirnar reistar að nýju. 36.11 Og ég vil fjölga mönnum og skepnum á yður, og það skal margfaldast og verða frjósamt. Og ég mun láta yður verða byggð, eins og þér voruð í fyrri daga, og auðsýna yður enn meira gott en áður fyrr, til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn. 36.12 Og ég mun láta menn á yður ganga, lýð minn Ísrael. Þeir skulu taka þig til eignar, svo að þú verðir arfleifð þeirra, og þú munt ekki framar gjöra þá barnlausa. 36.13 Svo segir Drottinn Guð: Af því að menn sögðu við yður: ,Þú varst mannæta og varst vön að gjöra þjóð þína barnlausa`, 36.14 fyrir því skalt þú ekki framar mönnum farga og ekki framar gjöra þjóð þína barnlausa, _ segir Drottinn Guð. 36.15 Og ég skal ekki framar láta þig heyra háðungar heiðingjanna og þú skalt ekki framar þurfa að þola smánanir þjóðanna og þú skalt ekki framar gjöra þjóð þína barnlausa, _ segir Drottinn Guð.' 36.16 Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 36.17 'Mannsson, þegar Ísraelsmenn bjuggu í landi sínu, þá saurguðu þeir það með breytni sinni og verkum sínum. Breytni þeirra var fyrir mér eins og óhreinleiki konu, sem hefir tíðir. 36.18 Og ég úthellti reiði minni yfir þá, sökum þess blóðs, er þeir höfðu úthellt í landinu, og af því að þeir höfðu saurgað það með skurðgoðum sínum. 36.19 Og ég tvístraði þeim meðal þjóðanna, og þeir dreifðust út um löndin. Eftir breytni þeirra og verkum þeirra dæmdi ég þá. 36.20 Og þeir komu til hinna heiðnu þjóða. Hvar sem þeir komu, þar vanhelguðu þeir mitt heilaga nafn, með því að mönnum fórust svo orð um þá: ,Þetta er lýður Drottins, og þó urðu þeir að fara burt úr landi sínu!` 36.21 Og mig tók það sárt, að Ísraelsmenn skyldu svo vanhelga heilagt nafn mitt meðal þjóðanna, hvar sem þeir komu. 36.22 Seg því við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð: Eigi er það yðar vegna, Ísraelsmenn, að ég læt til mín taka, heldur vegna míns heilaga nafns, sem þér hafið vanhelgað meðal þjóðanna, hvar sem þér komuð. 36.23 Og ég mun helga mitt hið mikla nafn, sem vanhelgað var meðal þjóðanna, það er þér vanhelguðuð meðal þeirra, til þess að þjóðirnar viðurkenni, að ég er Drottinn, _ segir Drottinn Guð _ þá er ég auglýsi heilagleik minn á yður í augsýn þeirra. 36.24 Ég mun sækja yður til þjóðanna og saman safna yður úr öllum löndum og flytja yður inn í yðar land. 36.25 Ég mun stökkva hreinu vatni á yður, svo að þér verðið hreinir, ég mun hreinsa yður af öllum óhreinindum yðar og skurðgoðum. 36.26 Og ég mun gefa yður nýtt hjarta og leggja yður nýjan anda í brjóst, og ég mun taka steinhjartað úr líkama yðar og gefa yður hjarta af holdi. 36.27 Og ég mun leggja yður anda minn í brjóst og koma því til vegar, að þér hlýðið boðorðum mínum og varðveitið setninga mína og breytið eftir þeim. 36.28 Og þér skuluð búa í landinu, sem ég gaf feðrum yðar, og þér skuluð vera mín þjóð og ég skal vera yðar Guð. 36.29 Ég mun frelsa yður frá öllum óhreinindum yðar, og ég mun kalla á kornið og margfalda það, og ekkert hallæri mun ég láta yfir yður koma. 36.30 Og ég mun margfalda ávöxtu trjánna og gróða vallarins, til þess að þér þurfið ekki að þola brigsl meðal heiðnu þjóðanna fyrir hallæri. 36.31 Þá munuð þér minnast yðar vondu breytni og verka yðar, sem ekki voru góð, og yður mun bjóða við sjálfum yður sökum misgjörða yðar og viðurstyggða. 36.32 Eigi er það yðar vegna, að ég læt til mín taka, segir Drottinn Guð, það skuluð þér vita! Blygðist og skammist yðar fyrir breytni yðar, þér Ísraelsmenn! 36.33 Svo segir Drottinn Guð: Á þeim degi, er ég hreinsa yður af öllum misgjörðum yðar, þá mun ég aftur láta borgirnar verða byggðar, og þá skulu fallin húsin rísa úr rústum. 36.34 Og hið eydda land mun yrkt verða, í stað þess að það áður var eins og auðn í augum allra umfarenda. 36.35 Þá mun sagt verða: ,Þetta land, sem komið var í auðn, er orðið eins og Edens garður, og borgirnar, sem orðnar voru að rústum, sem eyddar voru og umturnaðar, eru nú víggirtar og byggðar.` 36.36 Þá munu þær þjóðir, sem eftir eru orðnar kringum yður, viðurkenna, að ég, Drottinn, hefi reist af nýju það, sem umturnað var, og gróðursett það, sem var í eyði lagt. Ég, Drottinn, hefi talað það og mun framkvæma það. 36.37 Svo segir Drottinn Guð: Þá bón skal ég enn veita Ísraelsmönnum: Ég skal gjöra þá svo mannmarga sem hjörð er að sauðum. 36.38 Eins og helgidómurinn fyllist af sauðum, eins og Jerúsalem fyllist af sauðum á hátíðunum, svo munu eyðiborgirnar fyllast af mannahjörðum, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn.'
37.1 Hönd Drottins kom yfir mig, og hann flutti mig burt fyrir anda sinn og lét mig nema staðar í dalnum miðjum, en hann var fullur af beinum. 37.2 Og hann leiddi mig umhverfis þau á alla vegu, og sjá, það lá aragrúi af þeim þar í dalnum, og sjá, þau voru mjög skinin. 37.3 Og hann sagði við mig: 'Mannsson, hvort munu bein þessi lifna við aftur?' Ég svaraði: 'Drottinn Guð, þú veist það!' 37.4 Þá sagði hann við mig: 'Tala þú af guðmóði yfir beinum þessum og seg við þau: Þér skinin bein, heyrið orð Drottins! 37.5 Svo segir Drottinn Guð við þessi bein: Sjá, ég læt lífsanda í yður koma, og þér skuluð lifna við. 37.6 Og ég set sinar á yður og læt hold utan um yður og dreg þar hörund yfir og læt lífsanda í yður, og þér skuluð lifna við, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn.' 37.7 Þá talaði ég af guðmóði, eins og mér var boðið. Og er ég mælti af guðmóði, kom þytur og skrjáf heyrðist, og beinin færðust saman, hvert að öðru. 37.8 Og ég sá, hversu sinar komu á beinin og hold óx á og hörund dróst þar yfir, en enginn lífsandi var í þeim. 37.9 Þá sagði hann við mig: 'Mæl þú í guðmóði til lífsandans, mæl þú í guðmóði, mannsson, og seg við lífsandann: Svo segir Drottinn Guð: Kom þú, lífsandi, úr áttunum fjórum og anda á þennan val, að þeir megi lifna við.' 37.10 Ég talaði nú í guðmóði, eins og hann hafði skipað mér. Kom þá lífsandi í þá, svo að þeir lifnuðu við og risu á fætur. Var það afar mikill fjöldi. 37.11 Og hann sagði við mig: 'Mannsson, þessi bein eru allir Ísraelsmenn. Sjá, þeir segja: ,Bein vor eru skinin, von vor þrotin, úti er um oss!` 37.12 Mæl því í guðmóði og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég vil opna grafir yðar, og láta yður rísa upp úr gröfum yðar, þjóð mín, og flytja yður inn í Ísraelsland, 37.13 til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn, þegar ég opna grafir yðar og læt yður rísa upp úr gröfum yðar, þjóð mín. 37.14 Og ég vil láta anda minn í yður, til þess að þér lifnið við aftur, og ég skal koma yður inn í yðar land, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn. Ég hefi talað það og mun framkvæma það, segir Drottinn.' 37.15 Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 'Þú mannsson, tak þér staf og rita á hann: 37.16 ,Júda og Ísraelsmenn, sem eru í bandalagi við hann.` Tak því næst annan staf og rita á hann: ,Jósef, stafur Efraíms, og allir Ísraelsmenn, sem eru í bandalagi við hann.` 37.17 Teng þá síðan hvorn við annan í einn staf, svo að þeir verði að einum í hendi þinni. 37.18 Og er samlandar þínir tala til þín og segja: ,Vilt þú ekki segja oss, hvað þetta á að þýða?` 37.19 þá seg þeim: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég tek staf Jósefs, sem er í hendi Efraíms og þeirra ættkvísla Ísraels, sem eru í bandalagi við hann, og gjöri þá að staf Júda, svo að þeir verði einn stafur í hendi Júda. 37.20 Og stafirnir, sem þú skrifar á, skulu vera í hendi þinni fyrir augum þeirra. 37.21 Og mæl til þeirra: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég sæki Ísraelsmenn til þjóðanna, þangað sem þeir fóru, og saman safna þeim úr öllum áttum og leiði þá aftur inn í land þeirra. 37.22 Og ég vil gjöra þá að einni þjóð í landinu, á Ísraels fjöllum, og einn konungur skal vera konungur yfir þeim öllum, og þeir skulu eigi framar vera tvær þjóðir og eigi framar vera skiptir í tvö konungsríki. 37.23 Og þeir skulu eigi framar saurga sig á skurðgoðum sínum og viðurstyggðum, eða með öllum tryggðrofssyndum sínum, og ég vil frelsa þá frá öllum fráhvarfssyndum þeirra, sem þeir hafa drýgt, og hreinsa þá, og þeir skulu verða mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð. 37.24 Og þjónn minn Davíð skal vera konungur yfir þeim, og þeir skulu allir hafa einn hirði og lifa eftir setningum mínum og varðveita boðorð mín og breyta eftir þeim. 37.25 Og þeir skulu búa í landinu, sem ég gaf þjóni mínum Jakob og feður yðar bjuggu í. Í því skulu þeir og búa og börn þeirra og barnabörn til eilífðar, og þjónn minn Davíð skal vera höfðingi þeirra eilíflega. 37.26 Og ég mun gjöra við þá friðarsáttmála, það skal vera eilífur sáttmáli við þá, og ég mun láta þá búa að staðaldri í landinu og fjölga þeim og setja helgidóm minn meðal þeirra að eilífu. 37.27 Og bústaður minn skal vera hjá þeim, og ég skal vera þeirra Guð og þeir skulu vera mín þjóð. 37.28 Og þjóðirnar skulu viðurkenna, að ég er Drottinn, sem helga Ísrael, þegar helgidómur minn verður meðal þeirra eilíflega.'
38.1 Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 38.2 'Mannsson, snú þér gegn Góg í Magóglandi, höfðingja yfir Rós, Mesek og Túbal, spá gegn honum 38.3 og seg: Svo segir Drottinn Guð: Ég skal finna þig, Góg höfðingi yfir Rós, Mesek og Túbal, 38.4 og ég skal setja króka í kjálka þína og leiða þig út, ásamt öllu herliði þínu, hestum og riddurum, öllum með alvæpni, mikinn manngrúa, með skjöld og törgu, alla með sverð í höndum. 38.5 Persar, Blálendingar og Pútmenn eru í för með þeim, allir með törgu og hjálm, 38.6 Gómer og allir herflokkar hans, Tógarma-lýður, hin ysta norðurþjóð, og allir herflokkar hans _ margar þjóðir eru í för með þér. 38.7 Bú þig út og ver viðbúinn, þú og allar hersveitirnar, sem safnast hafa til þín, og ver þú yfirmaður þeirra. 38.8 Eftir langan tíma munt þú útboðsskipun hljóta. Á síðustu árunum munt þú koma inn í það land, sem aftur er unnið undan sverðinu, til þjóðar, sem safnað hefir verið saman frá mörgum þjóðum á Ísraels fjöll, sem stöðuglega hafa í eyði legið, já, frá þjóðunum var hún flutt, og nú búa allir öruggir. 38.9 Þá munt þú brjótast fram sem þrumuveður, koma sem óveðursský til þess að hylja landið, þú og allir herflokkar þínir og margar þjóðir með þér. 38.10 Svo segir Drottinn Guð: Á þeim degi munu illar hugsanir koma upp í hjarta þínu og þú munt hafa illar fyrirætlanir með höndum 38.11 og segja: ,Ég vil fara í móti bændabýlalandi, ráða á friðsama menn, sem búa óhultir, þeir búa allir múrveggjalausir og hafa hvorki slagbranda né hlið,` 38.12 til þess að fara með rán og rifs, til þess að leggja hönd þína á borgarrústir, sem aftur eru byggðar orðnar, og á þjóð, sem saman söfnuð er frá heiðingjunum, sem aflar sér búfjár og fjármuna, á menn, sem búa á nafla jarðarinnar. 38.13 Seba og Dedan og verslunarmenn frá Tarsis og kaupmenn hennar segja við þig: ,Kemur þú til þess að ræna? Hefir þú dregið saman liðsveitir þínar til þess að rupla, til þess að hafa á burt silfur og gull, flytja burt búfé og fjármuni, til þess að afla mikils herfangs?` 38.14 Fyrir því spá þú, mannsson, og seg við Góg: Svo segir Drottinn Guð: Munt þú ekki á þeim degi, er lýður minn Ísrael býr óhultur, leggja af stað 38.15 og koma frá stöðvum þínum, lengst úr norðri, þú og margar þjóðir með þér, allir ríðandi hestum, mikill liðsafnaður, fjölmennur her, 38.16 og fara í móti lýð mínum Ísrael eins og óveðursský til þess að hylja landið? Á hinum síðustu dögum mun ég leiða þig móti landi mínu, til þess að þjóðirnar læri að þekkja mig, þegar ég auglýsi heilagleik minn á þér, Góg, fyrir augum þeirra. 38.17 Svo segir Drottinn Guð: Ert þú sá, er ég talaði um í fyrri daga fyrir munn þjóna minna, spámanna Ísraels, er spáðu í þá daga árum saman, að ég mundi leiða þig móti þeim? 38.18 En þann dag, daginn sem Góg fer móti Ísraelslandi, _ segir Drottinn Guð _ mun reiðin blossa í nösum mér. 38.19 Í ákefð minni, í minni brennandi heift, tala ég það: Vissulega, á þeim degi skal mikill jarðskjálfti verða á Ísraelslandi. 38.20 Þá skulu fiskar sjávarins skjálfa fyrir mér og fuglar himinsins, dýr merkurinnar og öll skriðkvikindi, sem skríða á jörðinni, og allir menn, sem eru á jörðinni, og fjöllin skulu kollvarpast og hamrarnir hrynja og hver múrveggur til jarðar falla. 38.21 Og á öllum fjöllum mínum vil ég kalla á sverðin í móti honum _ segir Drottinn Guð. Eins sverð skal vera í móti öðrum. 38.22 Og ég vil ganga í dóm við hann með drepsótt og blóðsúthelling, með dynjandi steypiregni og haglsteinum. Eldi og brennisteini vil ég rigna láta yfir hann og yfir hersveitir hans og yfir margar þjóðir, sem með honum eru. 38.23 Og ég vil auglýsa mig dýrlegan og heilagan og gjöra mig kunnan í augsýn margra þjóða, til þess að þær viðurkenni, að ég er Drottinn.
39.1 Og þú, mannsson, spá þú gegn Góg og seg: Svo segir Drottinn Guð: Ég skal finna þig, Góg, höfðingi yfir Rós, Mesek og Túbal, 39.2 og snúa þér við og fara með þig og láta þig koma lengst úr norðri og leiða þig upp á Ísraels fjöll. 39.3 Og ég skal slá bogann úr vinstri hendi þinni og láta örvarnar detta úr hægri hendi þinni. 39.4 Á Ísraels fjöllum skalt þú falla, þú og allar hersveitir þínar og þær þjóðir, sem eru í för með þér. Alls konar ránfuglum og dýrum merkurinnar gef ég þig til fæðslu. 39.5 Úti á víðavangi skalt þú falla, því að ég hefi talað það, segir Drottinn Guð. 39.6 Og ég vil steypa eldi yfir Magóg og yfir þá, sem ugglausir búa í strandbyggðunum, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn. 39.7 En ég vil gjöra mitt heilaga nafn kunnugt meðal lýðs míns Ísraels og ekki framar láta vanhelga mitt heilaga nafn, til þess að þjóðirnar viðurkenni, að ég er Drottinn, heilagur í Ísrael. 39.8 Sjá, það kemur fram og verður, _ segir Drottinn Guð. Það er dagurinn, sem ég hefi talað um. 39.9 Þá munu íbúar Ísraels borga út ganga og eld kveikja og kynda með vopnum, törgum og skjöldum, með bogum og örvum, kylfum og lensum. Í sjö ár skulu þeir elda þessu. 39.10 Þeir munu ekki sækja við í mörkina né höggva neitt í skógunum, heldur munu þeir kynda eld með vopnum. Og þeir munu fletta þá, sem þá flettu, og ræna þá, sem þá rændu _ segir Drottinn Guð. 39.11 En á þeim degi mun ég ákveða Góg samastað, legstað í Ísrael, Abarímdal, fyrir austan Dauðahafið. Menn munu girða fyrir Abarímdal. Þar munu þeir grafa Góg og allan liðmúg hans og nefna hann Gógsmúgadal. 39.12 Og Ísraelsmenn munu vera að jarða þá í sjö mánuði til þess að hreinsa landið. 39.13 Og allur landslýðurinn skal starfa að þeim grefti, og það skal verða þeim til frægðar þann dag, er ég gjöri mig dýrlegan _ segir Drottinn Guð. 39.14 Og þeir munu útvelja menn til þess stöðuga starfa að fara um landið og jarða þá, sem enn liggja eftir ofan jarðar, til þess að hreinsa landið. Að liðnum sjö mánuðum skulu þeir enn kanna það. 39.15 Og þegar þeir fara um landið og einhver sér mannsbein, þá skal hann hlaða þar vörðu hjá, uns graftarmennirnir hafa grafið þau í Gógsmúgadal. 39.16 Og þannig skulu þeir grafa þar allan liðmúg sinn og hreinsa þannig landið. 39.17 En þú, mannsson, svo segir Drottinn Guð: Seg þú við alls konar fugla og við öll dýr merkurinnar: Safnist saman og komið, þyrpist saman úr öllum áttum til fórnarveislu minnar, sem ég held yður, til mikillar fórnarveislu á Ísraels fjöllum, þar sem þér skuluð eta kjöt og drekka blóð. 39.18 Þér skuluð eta kjöt af köppum og drekka blóð úr þjóðhöfðingjum jarðarinnar: hrúta, lömb og hafra, uxa, _ allt saman alifé frá Basan. 39.19 Og þér skuluð eta feitt kjöt, uns þér eruð saddir orðnir, og þér skuluð drekka blóð, uns þér eruð drukknir orðnir, í fórnarveislu minni, sem ég held yður. 39.20 Og þér skuluð seðja yður við mitt borð á reiðskjótum og vagnhestum, á köppum og alls konar stríðsmönnum _ segir Drottinn Guð. 39.21 Ég vil auglýsa dýrð mína meðal þjóðanna, og allar þjóðir skulu sjá refsidóm minn, þann er ég hefi framkvæmt, og hönd mína, er ég hefi á þá lagt. 39.22 En Ísraelsmenn skulu viðurkenna, að ég, Drottinn, er Guð þeirra, upp frá þeim degi og framvegis. 39.23 Þjóðirnar skulu viðurkenna, að Ísraelsmenn urðu að fara úr landi eingöngu vegna misgjörðar sinnar, fyrir þá sök að þeir höfðu rofið trúnað við mig, svo að ég byrgði auglit mitt fyrir þeim og seldi þá í hendur óvina þeirra, og féllu þeir þá allir fyrir sverðseggjum. 39.24 Ég breytti við þá eins og þeir höfðu til unnið með saurugleik sínum og fráhvarfi, og byrgði auglit mitt fyrir þeim. 39.25 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Nú mun ég snúa við högum Jakobs og miskunna mig yfir allan Ísraelslýð og vera sómakær um mitt heilaga nafn. 39.26 Og þeir skulu gleyma vanvirðu sinni og allri þeirri ótryggð, er þeir hafa í frammi haft við mig, þegar þeir búa aftur óhultir í landi sínu og enginn skelfir þá. 39.27 Þegar ég leiði þá heim aftur frá þjóðunum og safna þeim saman úr löndum óvina þeirra, þá skal ég auglýsa heilagleik minn á þeim í augsýn margra þjóða. 39.28 Og þá skulu þeir viðurkenna, að ég, Drottinn, er Guð þeirra, með því að ég herleiddi þá til þjóðanna, en safna þeim nú saman inn í þeirra eigið land og læt engan þeirra framar verða þar eftir. 39.29 Og ég vil ekki framar byrgja auglit mitt fyrir þeim, með því að ég hefi úthellt anda mínum yfir Ísraelslýð, segir Drottinn Guð.'
40.1 Á tuttugasta og fimmta ári eftir að vér vorum herleiddir, í byrjun ársins, tíunda dag mánaðarins, fjórtán árum eftir að borgin var tekin, einmitt þann dag kom hönd Drottins yfir mig og flutti mig þangað. 40.2 Í guðlegri sýn flutti hann mig til Ísraelslands og setti mig niður á mjög hátt fjall, og á því var gagnvart mér sem endurreist borg. 40.3 Er hann hafði flutt mig þangað, birtist maður nokkur, og var hann ásýndum sem af eiri væri. Hann hélt á línstreng og mælistöng og stóð við hliðið. 40.4 Og maðurinn sagði við mig: 'Mannsson, lít á með augum þínum, hlýð á með eyrum þínum og hugfest þér allt, er ég sýni þér, því að þú ert til þess hingað fluttur, að þér verði sýnt þetta. Kunngjör þú Ísraelslýð allt það, sem þú sér.' 40.5 Sjá, múrveggur lá utan um musterið hringinn í kring, og maðurinn hélt á mælistöng í hendinni. Hún var sex álna löng, alinin talin þverhönd lengri en almenn alin. Og hann mældi þykkt múrsins, og var hún ein mælistöng, og hæðin var ein mælistöng. 40.6 Því næst gekk hann inn í hliðið, er vissi til austurs. Gekk hann upp tröppurnar, sem lágu upp að því, og mældi þröskuld hliðsins, og var hann ein mælistöng á breidd. 40.7 Hvert varðherbergi ein mælistöng á lengd og ein mælistöng á breidd og súlan milli varðherbergjanna fimm álnir, og þröskuldur hliðsins innan við forsal hliðsins ein mælistöng. 40.8 Og hann mældi forsal hliðsins, 40.9 og var hann átta álnir og súlur tvær álnir, en forsalur hliðsins vissi að musterinu. 40.10 Varðherbergin í hliðinu voru hvert gegnt öðru, sín þrjú hvorumegin, öll þrjú voru þau jöfn að máli. Súlurnar beggja vegna voru og jafnar að máli. 40.11 Þá mældi maðurinn dyravídd hliðsins, og var hún tíu álnir, en lengd hliðsins þrettán álnir. 40.12 Fyrir framan varðherbergin voru grindur, ein alin hvorumegin, en hvert varðherbergi var sex álnir á hvorn veg. 40.13 Og hann mældi hliðið frá þaki eins varðherbergis yfir á þak annars, og var breiddin tuttugu og fimm álnir. Dyrnar stóðust á beggja vegna. 40.14 . . . 40.15 Og frá framhlið ytra hliðsins inn að framhliðinni á forsal innra hliðsins voru fimmtíu álnir. 40.16 Hringinn í kring á hliðhúsinu voru gluggar, sem lágu inn í varðherbergin í gegnum súlurnar og smávíkkuðu inn á við, og sömuleiðis voru gluggar á forsalnum allt um kring inn á við, og á súlunum voru höggnir pálmar. 40.17 Nú leiddi hann mig inn í ytri forgarðinn. Þar voru herbergi, og steinlagt gólf var í forgarðinum allt um kring. Þrjátíu herbergi lágu við steingólfið. 40.18 Steingólfið var fram með hliðarvegg hliðanna, jafnlangt lengd hliðanna. Það var lægra steingólfið. 40.19 Og hann mældi breidd forgarðsins frá innri framhlið neðra hliðsins að úthlið innri forgarðsins, og voru það hundrað álnir. 40.20 Hliðið á ytri forgarðinum, er vissi í norðurátt, lengd og breidd þess mældi hann einnig. 40.21 Og í því voru þrjú varðherbergi hvorumegin, og súlur þess og forsalur voru jöfn að máli við fyrsta hliðið, lengd þess var fimmtíu álnir og breiddin tuttugu og fimm álnir. 40.22 Og gluggar þess, forsalur og pálmar voru jafnir að máli við það, sem var í hliðinu, er vissi í austurátt. Var gengið upp að því um sjö þrep, og forsalur þess lá innan til. 40.23 Og hlið inn að innri forgarðinum var gegnt norðurhliðinu, eins og við austurhliðið, og hann mældi hundrað álnir frá einu hliðinu til annars. 40.24 Því næst lét hann mig ganga í suðurátt. Þar var hlið, sem vissi í suðurátt. Og hann mældi súlur þess og forsal, og voru þau jöfn hinum að máli. 40.25 Á því voru gluggar, svo og á forsal þess, hringinn í kring, eins og hinir gluggarnir voru. Lengd þess var fimmtíu álnir og breiddin tuttugu og fimm álnir. 40.26 Var gengið upp að því um sjö þrep, og forsalur þess lá innan til, og voru pálmar á honum, hvor sínum megin, á súlum hans. 40.27 Og hlið var á innri forgarðinum, er vissi í suður, og hann mældi hundrað álnir frá einu hliðinu til annars í suðurátt. 40.28 Þessu næst leiddi hann mig um suðurhliðið inn í innri forgarðinn og mældi suðurhliðið, var það jafnt hinum fyrri að máli, 40.29 - 40.30 sömuleiðis varðherbergi þess, súlur og forsal, og voru þau jöfn hinum fyrri að máli. Á því voru gluggar, svo og á forsal þess, hringinn í kring. Lengd þess var fimmtíu álnir og breiddin tuttugu og fimm álnir. 40.31 Og forsalur þess lá út að ytri forgarðinum, og pálmar voru á súlum þess, og voru þar átta þrep upp að ganga. 40.32 Hann leiddi mig inn í innri forgarðinn að hliðinu, sem vissi í austurátt, og mældi hliðið. Var það að máli jafnt hinum. 40.33 Og varðherbergi þess, súlur og forsalur voru jöfn að máli hinum fyrri, og á því voru gluggar, svo og á forsal þess, hringinn í kring. Það var fimmtíu álnir á lengd og tuttugu og fimm álnir á breidd. 40.34 Og forsalur þess lá út að ytri forgarðinum, og pálmar voru á súlum þess beggja vegna. Voru þar átta þrep upp að ganga. 40.35 - 40.36 Hann leiddi mig nú að norðurhliðinu og mældi varðherbergi þess, súlur og forsal. Var það jafnt að máli hinum fyrri. Á því voru gluggar hringinn í kring. Það var fimmtíu álnir á lengd og tuttugu og fimm álnir á breidd. 40.37 Og forsalur þess lá út að ytri forgarðinum, og pálmar voru á súlum þess beggja vegna. Voru þar átta þrep upp að ganga. 40.38 Þar var herbergi, og var gengið í það úr forsal hliðsins. Þar var brennifórnin þvegin. 40.39 Og í forsal hliðsins stóðu tvö borð annars vegar og önnur tvö borð hins vegar til þess að slátra á þeim brennifórninni, syndafórninni og sektarfórninni. 40.40 Og að utanverðu, við hliðarvegginn á forsal norðurhliðsins, voru tvö borð, og við hinn hliðarvegginn á forsal hliðsins voru önnur tvö borð; 40.41 fjögur borð öðrum megin og fjögur borð hinumegin við hliðarvegg hliðsins, alls átta borð, sem menn slátruðu á. 40.42 Voru fjögur borð til brennifórnar af höggnum steinum. Þau voru hálfrar annarrar álnar löng, hálfrar annarrar álnar breið og álnar há. Á þau skyldi leggja áhöldin, sem höfð voru, þá er brennifórnum og sláturfórnum var slátrað. 40.43 Umhverfis borðin var þverhandarhá rönd, og skyldi fórnarkjötið lagt á borðin, og yfir borðunum voru þök til þess að skýla þeim fyrir regni og hita. 40.44 Hann leiddi mig inn í innri forgarðinn, og sjá, þar voru tvö herbergi í innri forgarðinum, annað við hliðarvegg norðurhliðsins, og vissi framhlið þess í suðurátt; hitt við hliðarvegg suðurhliðsins, og vissi framhlið þess í norðurátt. 40.45 Og hann sagði við mig: 'Þetta herbergi, sem snýr framhlið sinni í suður, er ætlað prestunum, sem gegna þjónustu í musterinu. 40.46 En herbergið, sem snýr framhlið sinni í norður, er ætlað prestunum, sem gegna þjónustu við altarið. Þeir eru niðjar Sadóks, þeir einir af Levísonum mega nálgast Drottin til þess að þjóna honum.' 40.47 Hann mældi forgarðinn. Hann var hundrað álnir á lengd og hundrað álnir á breidd, réttur ferhyrningur, og altarið stóð fyrir framan sjálft musterið. 40.48 Því næst leiddi hann mig að forsal musterisins og mældi súlur forsalarins, fimm álnir hvorumegin, og breidd dyranna var fjórtán álnir og dyraumbúnaðurinn þrjár álnir hvorumegin. 40.49 Forsalurinn var tuttugu álnir á lengd og tólf álnir á breidd, og var um tíu þrep upp að ganga að honum. En við dyrastafina voru súlur, ein hvorumegin.
41.1 Þessu næst leiddi hann mig inn í aðalhúsið og mældi súlurnar, og voru þær sex álnir að þykkt báðumegin. 41.2 Og dyrnar voru tíu álna breiðar og dyraveggurinn fimm álnir hvorumegin. Hann mældi lengd Hins heilaga, og var hún fjörutíu álnir og breiddin tuttugu álnir. 41.3 Síðan gekk hann inn fyrir og mældi dyrastöplana, og voru þeir tveggja álna þykkir og vídd dyranna sex álnir, og dyraveggurinn sjö álnir hvorumegin. 41.4 Og hann mældi lengd hússins, og var hún tuttugu álnir, og breiddin tuttugu álnir frammi við aðalhúsið. Og hann sagði við mig: 'Þetta er Hið allrahelgasta.' 41.5 Þessu næst mældi hann musterisvegginn, og var hann sex álna þykkur og breidd hliðarhússins fjórar álnir allt í kringum musterið. 41.6 Lágu herbergin hvert áfast við annað, þrjátíu herbergi á þremur hæðum. Stallar voru á veggnum, sem var á musterinu fyrir hliðarherbergin allt í kring, til þess að þau hvíldu á honum, en væru eigi fest á musterisvegginn. 41.7 Og þau urðu æ breiðari, því ofar sem þau lágu kringum musterið, því að hliðarherbergin voru alveg upp úr hringinn í kringum musterið. Fyrir því minnkaði breidd hússins upp á við, og mátti ganga af neðsta gólfi hliðarhússins yfir neðra loftið upp á efra loftið. 41.8 Þá sá ég, að á musterishúsinu var pallur hringinn í kring, og grundvöllur hliðarherbergjanna var full sex álna mælistöng. 41.9 Þykkt útveggsins á hliðarhúsinu var fimm álnir, og var autt svæði milli hliðarhússins og musterisins, 41.10 milli herbergjanna, tuttugu álna breitt hringinn í kringum musterið. 41.11 Dyr gengu frá hliðarhúsinu að auðu svæði, aðrar dyrnar til norðurs, hinar til suðurs. Og breidd auða svæðisins var fimm álnir hringinn í kring. 41.12 Hús lá gegnt afgirta svæðinu við vesturhliðina. Var það sjötíu álna breitt og veggur þess fimm álna þykkur hringinn í kring og lengd þess níutíu álnir. 41.13 Þessu næst mældi hann musterishúsið, og var það hundrað álna langt. Afgirta svæðið og húsið með veggjum þess var hundrað álnir á lengd. 41.14 Og framhlið musterishússins og afgirta svæðið austan megin var hundrað álnir á breidd. 41.15 Og hann mældi lengd hússins gegnt afgirta svæðinu vestan við það og súlnagöng þess beggja vegna, og var það hundrað álnir. Aðalhúsið, innhúsið og forsalur þess, 41.16 þröskuldarnir og skáhöllu gluggarnir og súlnagöngin umhverfis, þessi þrjú hús voru þiljuð frá jörðu og upp að gluggum . . . 41.17 Uppi yfir dyrum aðalhússins innan og utan og á öllum veggnum innan og utan hringinn í kring 41.18 voru gjörðir kerúbar og pálmar, og var einn pálmi milli hverra tveggja kerúba. En kerúbinn hafði tvö andlit. 41.19 Annars vegar sneri mannsandlit að pálmanum, en ljónsandlit hins vegar. Svo var á húsinu allt um kring. 41.20 Neðan frá gólfi og upp fyrir dyr voru gjörðir kerúbar og pálmar á veggnum. 41.21 Umgjörðin yfir dyrunum og dyrastafir aðalhússins mynduðu ferhyrning. Fyrir framan helgidóminn var eitthvað, sem líktist 41.22 altari af tré, þriggja álna hátt. Það var tvær álnir á lengd og tvær álnir á breidd, og á því voru horn, og undirstöður þess og hliðveggir voru af tré. Og hann sagði við mig: 'Þetta er borðið, sem stendur frammi fyrir Drottni.' 41.23 Og tvöfaldar hurðir voru á aðalhúsinu og helgidóminum. 41.24 Í hvorum dyrum voru tvær hurðir, er léku á hjörum. 41.25 Og á hurðunum voru kerúbar og pálmar, eins og á veggjunum, og þakskyggni af tré var fram af forsalnum. 41.26 Og skáhallir gluggar og pálmar voru beggja vegna á hliðarveggjum forsalsins . . .
42.1 Því næst fór hann með mig út í ytri forgarðinn, í norðurátt. Og hann leiddi mig að herberginu, sem er gegnt afgirta svæðinu og gegnt húsinu, sem liggur til norðurs. 42.2 Það var hundrað álnir á lengd og fimmtíu álnir á breidd. 42.3 Og gegnt dyrunum, sem lágu inn í innri forgarðinn, og gegnt steingólfi ytri forgarðsins, voru tvenn súlnagöng, hvor fyrir framan önnur, svo að salirnir voru þrír. 42.4 Og fyrir framan herbergin var tíu álna breiður gangur inn að innri forgarðinum, hundrað álna langur, og sneru dyr hans í norður. 42.5 En efstu herbergin voru styttri, því að súlnagöngin námu meira af þeim en af neðstu herbergjunum og miðherbergjunum. 42.6 Því að þau voru þrílyft og höfðu engar slíkar súlur sem þær, er voru í forgörðunum. Fyrir því voru efstu herbergin að sér dregin í hlutfalli við neðstu herbergin og miðherbergin. 42.7 Og múrinn, sem lá með endilöngum herbergjunum út að ytri forgarðinum, fyrir framan herbergin, var fimmtíu álna langur. 42.8 Því að herbergin, sem lágu út að ytri forgarðinum, voru fimmtíu álna löng. Og sjá, meðfram musterishúsinu voru hundrað álnir. 42.9 En neðan undir herbergjum þessum var inngangur að austanverðu, þegar gengið var inn í þau frá ytri forgarðinum. 42.10 Austanverðu við afgirta svæðið og bakhúsið voru og herbergi. 42.11 Og fyrir framan þau var vegur, og þau voru eins á að líta og herbergin, sem lágu norðan til, þau voru jafnlöng og jafnbreið, og allir útgangar þeirra voru með sömu gerð og á hinum og eins og hurðir þeirra. 42.12 Og líkt og dyrnar á herbergjunum, sem lágu sunnan til, svo voru á þeim einar dyr, þar sem vegurinn hófst, sá er liggur til austurs inn í ytri forgarðinn, en um þær voru menn vanir að ganga inn. 42.13 Og hann sagði við mig: 'Norðurherbergin og suðurherbergin, sem liggja fyrir framan afgirta svæðið, það eru heilögu herbergin, þar sem prestarnir, er nálgast mega Drottin, eiga að eta hið háheilaga. Þar skulu þeir láta hið háheilaga og matfórnina, syndafórnina og sektarfórnina, því að staðurinn er heilagur. 42.14 Þegar prestarnir ganga þangað inn, _ en þeir skulu ekki ganga rakleiðis úr helgidóminum inn í ytri forgarðinn _, skulu þeir leggja þar af sér klæði sín, þau er þeir gegna þjónustu í, því að þau eru heilög. Þeir skulu fara í önnur föt og því næst ganga þangað, sem lýðurinn má vera.' 42.15 En er hann hafði mælt allt musterið að innanverðu, fór hann út með mig, í áttina til hliðsins, er veit til austurs, og mældi það að utan hringinn í kring. 42.16 Hann mældi austurhliðina: fimm hundruð álnir með mælistönginni. Og hann sneri við 42.17 og mældi norðurhliðina: fimm hundruð álnir með mælistönginni. Og hann sneri við 42.18 að suðurhliðinni og mældi fimm hundruð álnir með mælistönginni. 42.19 Og hann sneri sér að vesturhliðinni og mældi fimm hundruð álnir með mælistönginni. 42.20 Hann mældi það frá þeim fjórum hliðum: lengdin fimm hundruð álnir og breiddin fimm hundruð álnir. Allt umhverfis það var múrveggur til þess að skilja hið heilaga frá hinu óheilaga.
43.1 Þá leiddi hann mig að hliðinu, sem vissi til austurs, 43.2 og sjá, þá kom dýrð Ísraels Guðs úr austri, og var að heyra sem nið mikilla vatna, og landið var uppljómað af dýrð hans. 43.3 Og sú sýn, sem ég sá, var eins og sýnin, er ég sá, þá er hann kom til þess að eyða borgina, og sem sýnin, er ég sá við Kebarfljótið. Og ég féll fram á ásjónu mína. 43.4 Og dýrð Drottins fór nú inn í musterið um hliðið, sem til austurs vissi. 43.5 Kraftur andans hóf mig upp og færði mig inn í innri forgarðinn, og sjá, musterið var fullt af dýrð Drottins. 43.6 Og ég heyrði einhvern tala til mín úr musterinu, og stóð þó maðurinn enn hjá mér, 43.7 og hann sagði við mig: 'Mannsson, þetta er staður hásætis míns og þetta er skör fóta minna, hér vil ég búa meðal Ísraelsmanna að eilífu. Og Ísraelsmenn skulu eigi framar flekka mitt heilaga nafn, hvorki þeir né konungar þeirra, með hórdómi sínum og líkum konunga sinna, 43.8 með því að þeir settu þröskuld sinn hjá mínum þröskuldi og dyrastafi sína hjá mínum dyrastaf, svo að ekki var nema veggurinn milli mín og þeirra. Og þannig flekkuðu þeir mitt heilaga nafn með svívirðingum sínum, þeim er þeir frömdu, svo að ég tortímdi þeim í reiði minni. 43.9 Nú munu þeir láta hórdóm sinn og lík konunga sinna vera langt í burtu frá mér, og ég mun búa meðal þeirra að eilífu. 43.10 En þú, mannsson, lýs þú musterinu fyrir Ísraelsmönnum, til þess að þeir blygðist sín fyrir misgjörðir sínar. 43.11 Og þegar þeir blygðast sín fyrir allt það, sem þeir hafa framið, þá skalt þú draga upp musterið og skipulag þess, útgangana úr því og inngangana í það og alla lögun þess og kunngjöra þeim allar tilskipanir og lagafyrirmæli um það, og skrifa þú það upp fyrir augum þeirra, til þess að þeir athugi alla lögun þess og öll ákvæði um það og fari eftir þeim. 43.12 Þetta er ákvæðið um musterið: Efst uppi á fjallinu skal allt svæði þess hringinn í kring teljast háheilagt. Sjá, þetta er ákvæðið um musterið.' 43.13 Þetta er mál altarisins að álnatali, alinin talin ein alin og þverhönd: Umgjörðin niður við jörðina skal vera álnar há og álnar breið og brúnin út á röndinni hringinn í kring spannarbreið. Og þetta er hæð altarisins: 43.14 Frá umgjörðinni niður við jörðina upp að neðri stallinum tvær álnir og breiddin ein alin, og frá minni stallinum upp á meiri stallinn fjórar álnir og breiddin ein alin. 43.15 Og eldstæðið var fjórar álnir, og upp af eldstæðinu gengu hornin fjögur. 43.16 Og eldstæðið var tólf álna langt og tólf álna breitt, ferhyrningur með fjórum jöfnum hliðum. 43.17 Og meiri stallurinn var fjórtán álna langur og fjórtán álna breiður á hliðarnar fjórar, og brúnin í kringum hann hálf alin og umgjörðin um hann ein alin hringinn í kring. En þrepin upp að altarinu vissu í austur. 43.18 Og hann sagði við mig: 'Mannsson, svo segir Drottinn Guð: Þetta eru ákvæðin um altarið þann dag, er það er albúið, svo að á því verði fórnað brennifórn og blóði stökkt á það. 43.19 Þá skalt þú fá ungan uxa til syndafórnar levítaprestunum, sem eru af ætt Sadóks og mega nálgast mig, _ segir Drottinn Guð _ til þess að þjóna mér. 43.20 Þú skalt taka nokkuð af blóði hans og ríða því á fjögur horn altarisins, og á fjórar hyrningar stallanna og á umgjörðina hringinn í kring og syndhreinsa það og friðþægja fyrir það. 43.21 Síðan skalt þú taka syndafórnaruxann og láta brenna hann hjá varðhúsi musterisins fyrir utan helgidóminn. 43.22 Annan daginn skalt þú færa gallalausan geithafur í syndafórn, til þess að altarið verði syndhreinsað með honum, eins og það var syndhreinsað með uxanum. 43.23 Þegar þú hefir lokið syndhreinsuninni, skaltu leiða fram ungan uxa, gallalausan, og hrút af hjörðinni gallalausan. 43.24 Skalt þú leiða þá fram fyrir Drottin, og skulu prestarnir dreifa salti á þá og fórna þeim í brennifórn Drottni til handa. 43.25 Sjö daga samfleytt skalt þú daglega fórna hafri í syndafórn, og auk þess skal fórna ungum uxa og hrút af hjörðinni, báðum gallalausum. 43.26 Sjö daga skulu menn þiggja altarið í frið og hreinsa það og vígja það. 43.27 Og er þeir hafa fullnað dagana, þá skulu prestarnir áttunda daginn og þaðan í frá fórna á altarinu brennifórnum yðar og heillafórnum, og ég vil taka yður náðarsamlega, segir Drottinn Guð.'
44.1 Hann leiddi mig nú aftur út að ytra hliði helgidómsins, því er til austurs vissi. Það var lokað. 44.2 Og Drottinn sagði við mig: 'Þetta hlið skal vera lokað og ekki opnað verða. Enginn maður skal inn um það ganga, því að Drottinn, Ísraels Guð, hefir inn um það gengið. Fyrir því skal það lokað vera. 44.3 Þó má landshöfðinginn setjast þar niður til þess að eta fórnarmáltíð frammi fyrir Drottni. Skal hann fara inn um forsal hliðsins og fara út aftur sama veg.' 44.4 Því næst leiddi hann mig að norðurhliðinu fyrir framan framhlið musterisins. Sá ég þá, hversu dýrð Drottins fyllti musteri Drottins, og ég féll fram á ásjónu mína. 44.5 En Drottinn sagði við mig: 'Mannsson, legg þér á hjarta, sjá með augum þínum og hlýð með eyrum þínum á allt það, sem ég segi þér um öll ákvæði viðvíkjandi musteri Drottins og um allar þær tilskipanir, er það snerta, og gæt vandlega að inngöngunni í musterið og öllum útgöngum úr helgidóminum. 44.6 Seg við hina þverúðarfullu, við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð: Nú hafið þér, Ísraelsmenn, nógu lengi framið allar yðar svívirðingar, 44.7 þar sem þér leidduð inn útlenda menn, óumskorna bæði á hjarta og á holdi, að þeir væru í helgidómi mínum, til þess að vanhelga musteri mitt, þegar þér færðuð mér mat minn, mör og blóð, og rufuð þannig sáttmála minn ofan á allar svívirðingar yðar. 44.8 Þér hafið eigi annast þjónustu helgidóma minna, heldur settuð þér þá til þess að annast þjónustuna í helgidómi mínum. 44.9 Svo segir Drottinn Guð: Enginn útlendur maður, óumskorinn bæði á hjarta og holdi, má inn í helgidóm minn koma _ enginn af þeim útlendingum, sem búa meðal Ísraelsmanna. 44.10 Levítarnir fjarlægðu sig frá mér, þá er Ísrael fór villur vegar. Með því að þeir villtust burt frá mér og eltu falsguði sína, skulu þeir gjöld taka fyrir misgjörð sína. 44.11 Þeir skulu gegna þjónustu í helgidómi mínum sem varðflokkar við hlið musterisins og sem musterisþjónar. Þeir skulu slátra brennifórninni og sláturfórninni fyrir lýðinn og standa frammi fyrir þeim til þess að þjóna þeim. 44.12 Af því að þeir þjónuðu þeim frammi fyrir skurðgoðum þeirra og urðu Ísraelsmönnum fótakefli til hrösunar, fyrir því hefi ég hafið hönd mína gegn þeim, _ segir Drottinn Guð _ og þeir skulu taka gjöld fyrir misgjörð sína. 44.13 Þeir skulu ekki nálgast mig til þess að veita mér prestþjónustu og nálgast alla helgidóma mína, hina háheilögu, heldur skulu þeir bera vanvirðu sína og taka gjöld fyrir þær svívirðingar, sem þeir frömdu. 44.14 Ég vil setja þá til þess að gegna þjónustu við musterið, til þess að annast það að öllu leyti og allt, sem þar er að gjöra. 44.15 En levítaprestarnir, niðjar Sadóks, þeir er ræktu þjónustu helgidóms míns, þá er Ísraelsmenn villtust frá mér, þeir skulu nálgast mig til þess að þjóna mér, og þeir skulu ganga fram fyrir mig til þess að færa mér mör og blóð _ segir Drottinn Guð. 44.16 Þeir skulu ganga inn í helgidóm minn og þeir skulu nálgast borð mitt til að þjóna mér, og þeir skulu rækja þjónustu mína. 44.17 Og er þeir ganga inn í hlið innri forgarðsins, skulu þeir klæðast línklæðum. Ekkert ullarfat skulu þeir á sér bera, þá er þeir gegna þjónustu í hliðum innri forgarðsins og þar innar af. 44.18 Þeir skulu hafa ennidúka af líni um höfuð sér og línbrækur um lendar sér. Eigi skulu þeir gyrðast neinu, er svita veldur. 44.19 En þegar þeir ganga út í ytri forgarðinn til lýðsins, skulu þeir fara úr þeim klæðum, er þeir gegna þjónustu í, og leggja þau í herbergi helgidómsins og fara í önnur klæði, svo að þeir helgi ekki lýðinn með klæðum sínum. 44.20 Þeir skulu ekki raka höfuð sín, né láta hárið flaka, heldur hafa stýft hár. 44.21 Vín skal enginn prestur drekka, þegar hann gengur inn í innri forgarðinn. 44.22 Enga ekkju né þá konu, sem við mann er skilin, mega þeir taka sér að eiginkonu, heldur aðeins meyjar af ætt Ísraelsmanna. Þó mega þeir kvongast ekkju, sé hún ekkja eftir prest. 44.23 Þeir skulu kenna lýð mínum að gjöra greinarmun á heilögu og óheilögu og fræða hann um muninn á óhreinu og hreinu. 44.24 Og þeir skulu standa frammi til þess að dæma í deilumálum manna. Eftir mínum lögum skulu þeir dæma þá, og boðorða minna og ákvæða skulu þeir gæta á öllum löghátíðum mínum og halda helga hvíldardaga mína. 44.25 Eigi mega þeir koma nærri líki, svo að þeir saurgist af, nema sé lík föður eða móður, sonar eða dóttur, bróður eða systur, sem ekki hefir verið manni gefin, á því mega þeir saurga sig. 44.26 Og eftir að hann er hreinn orðinn, skulu honum taldir sjö dagar. 44.27 Og daginn sem hann gengur aftur inn í helgidóminn, inn í innri forgarðinn til þess að gegna þjónustu í helgidóminum, skal hann fram bera syndafórn sína _ segir Drottinn Guð. 44.28 Óðal skulu þeir ekkert fá. Ég er óðal þeirra. Og ekki skuluð þér gefa þeim fasteign í Ísrael, ég er fasteign þeirra. 44.29 Þeir skulu hafa uppeldi sitt af matfórnum, syndafórnum og sektarfórnum, og allt, sem er banni helgað í Ísrael, skal tilheyra þeim. 44.30 Og hið besta af öllum frumgróða, hvers kyns sem er, og allar fórnir, hvers kyns sem eru af öllu því, er þér færið að fórnargjöf, skal tilheyra prestunum. Þér skuluð og gefa prestunum hið besta af deigi yðar til þess að leiða blessun niður yfir hús yðar. 44.31 Prestarnir mega ekki eta neitt sjálfdautt né það, sem dýrrifið er, hvort heldur er fugl eða fénaður.
45.1 Þegar þér skiptið landinu með hlutkesti til arfleifðar, skuluð þér gefa Drottni fórnargjöf af því, heilaga landspildu, 25.000 álna á lengd og 20.000 álna á breidd. Skal hún heilög vera innan takmarka sinna í allar áttir. 45.2 (Þar af skal falla undir helgidóminn ferhyrndur flötur, fimm hundruð álna á hvern veg, og fimmtíu álna teigur skal vera kringum hann.) 45.3 Af þessum mælda reit skalt þú mæla spildu 25.000 álna langa og 10.000 álna breiða. Á henni skal helgidómurinn, hinn háheilagi, standa. 45.4 Það er helgigjöf í jarðeign. Skal hún tilheyra prestunum, þeim er gegna þjónustu við helgidóminn og nálgast mega Drottin til að þjóna honum. Skal það vera húsastæði handa þeim og tilheyra helgidóminum sem heilagt svæði. 45.5 Og 25.000 álna löng landspilda og 10.000 álna breið skal falla undir levítana, þá er þjónustu gegna við musterið, sem þeirra land fyrir borgir til þess að búa í. 45.6 Og sem fasteign borgarinnar skuluð þér tiltaka 5.000 álna breiða spildu og 25.000 álna langa, jafnlanga hinni heilögu fórnargjöf. Skal hún vera eign allra Ísraelsmanna. 45.7 En handa landshöfðingjanum skuluð þér tiltaka landshluta beggja vegna við helguðu landspilduna og borgarreitinn, meðfram hinni helguðu landspildu og meðfram borgarreitnum, vestanmegin til vesturs og austanmegin til austurs, og skal hann vera jafnlangur einum erfðahluta ættkvíslanna og ná frá vesturtakmörkum til austurtakmarka landsins. 45.8 Þetta skal vera landeign hans í Ísrael, svo að höfðingjar mínir veiti eigi framar þjóð minni yfirgang, heldur fái Ísraelsmönnum landið eftir ættkvíslum þeirra. 45.9 Svo segir Drottinn Guð: Látið yður nægja þetta, þér Ísraels höfðingjar! Látið af ofríki og yfirgangi, en iðkið rétt og réttlæti! Látið af að reka þjóð mína af eignum hennar! _ segir Drottinn Guð. 45.10 Þér skuluð hafa rétta vog, rétta efu og rétta bat. 45.11 Efa og bat skulu vera jafnar að máli, svo að bat taki tíunda part gómers og sömuleiðis efa tíunda part gómers. Eftir gómer skal hvort tveggja mælast. 45.12 Sikill skal vera tuttugu gerur. Fimm siklar skulu vera réttir fimm og tíu siklar réttir tíu. Fimmtíu siklar skulu vera í mínu. 45.13 Þetta er fórnargjöfin, sem þér skuluð gefa: 1/6 efu af hverjum gómer hveitis og 1/6 efu af hverjum gómer byggs. 45.14 Og ákvæðið um olífuolíuna er þetta: 1/10 úr bat af hverju kór (því að tíu bat eru í einu kór). 45.15 Enn fremur einn sauð af hjörðinni, af hverjum tveim hundruðum, sem fórnargjöf frá öllum kynkvíslum Ísraels til matfórnar, brennifórnar og heillafórnar, til þess að friðþægja fyrir þá _ segir Drottinn Guð. 45.16 Allur landslýðurinn skal vera skyldur til að færa landshöfðingjanum í Ísrael þessa fórnargjöf. 45.17 En landshöfðinginn skal vera skyldur að leggja til brennifórnir, matfórn og dreypifórn á hátíðum, tunglkomum og hvíldardögum við allar hátíðasamkomur Ísraelsmanna. Hann skal láta fram bera syndafórnina og matfórnina og brennifórnina og heillafórnirnar til þess að friðþægja fyrir Ísraelsmenn. 45.18 Svo segir Drottinn Guð: Á fyrsta degi hins fyrsta mánaðar skalt þú taka ungan uxa gallalausan og syndhreinsa helgidóminn. 45.19 Og presturinn skal taka af blóði syndafórnarinnar og ríða á dyrastafi musterisins og á fjóra hyrninga altarisstallanna og á dyrastafi hliðsins að innri forgarðinum. 45.20 Og eins skalt þú gjöra á fyrsta degi hins sjöunda mánaðar vegna þeirra, sem af vangá eða fákænsku kynnu að hafa misgjört eitthvað, og þannig skuluð þér þiggja musterið í frið. 45.21 Á fjórtánda degi hins fyrsta mánaðar skuluð þér halda páskahátíðina, í sjö daga skulu etin ósýrð brauð. 45.22 Og á þeim degi skal landshöfðinginn láta bera fram uxa í syndafórn fyrir sig og allan landslýðinn. 45.23 Og sjö daga hátíðarinnar skal hann láta fram bera sem brennifórn Drottni til handa sjö uxa og sjö hrúta gallalausa, á hverjum degi þessa sjö daga, svo og daglega geithafur í syndafórn. 45.24 Og sem matfórn skal hann láta fram bera efu með hverjum uxa og efu með hverjum hrút, og olíu, hín með hverri efu. 45.25 Á fimmtánda degi hins sjöunda mánaðar, á hátíðinni, skal hann í sjö daga láta fram bera jafnmikið þessu, bæði syndafórn og brennifórn og matfórn og olíu.
46.1 Svo segir Drottinn Guð: Hlið innri forgarðsins, það er snýr í austur, skal lokað vera sex virku dagana, en hvíldardaginn skal opna það og tunglkomudaginn skal opna það. 46.2 Og landshöfðinginn skal koma að utan og ganga inn um forsal hliðsins og nema staðar við dyrastafi hliðsins. Þá skulu prestarnir bera fram brennifórn hans og heillafórn, en hann skal falla fram á þröskuldi hliðsins og ganga síðan út aftur, og hliðinu skal ekki loka til kvelds. 46.3 Og landslýðurinn skal falla fram fyrir auglit Drottins við dyr þessa hliðs á hvíldardögum og tunglkomudögum. 46.4 Brennifórnin, sem landshöfðinginn á að færa Drottni, skal vera: Á hvíldardegi sex sauðkindur gallalausar og einn hrútur gallalaus, 46.5 og auk þess í matfórn ein efa með hverjum hrút, og með sauðkindunum slík matfórn, er hann vill sjálfur gefa, og ein hín af olíu með hverri efu. 46.6 Á tunglkomudögum skal hún vera ungneyti gallalaust og sex sauðkindur og einn hrútur, allt gallalaust. 46.7 Og hann skal láta fram bera efu með uxanum og efu með hrútnum í matfórn og með sauðkindunum svo sem hann má af hendi láta, og hín af olíu með hverri efu. 46.8 Þegar landshöfðinginn gengur inn, skal hann ganga inn um forsal hliðsins og fara sömu leið út aftur. 46.9 Og þegar landslýðurinn gengur fram fyrir Drottin á löghátíðunum, þá skal sá, er inn hefir gengið um norðurhliðið til þess að falla fram, aftur út fara um suðurhliðið, og sá, er inn hefir gengið um suðurhliðið, skal aftur út fara um norðurhliðið. Enginn skal aftur út fara um það hlið, sem hann hefir inn gengið, heldur skal hann út fara um það hlið, sem gegnt honum er. 46.10 Og landshöfðinginn skal ganga inn mitt á meðal þeirra, þegar þeir ganga inn, og fara út, þegar þeir fara út. 46.11 Á hátíðum og löghelgum skal matfórnin vera efa með uxanum og efa með hrútnum, og með sauðkindunum slíkt, er hann vill sjálfur gefa, og hín af olíu með hverri efu. 46.12 Og þegar landshöfðinginn ber fram sjálfviljafórn, brennifórn eða heillafórn sem sjálfviljafórn Drottni til handa, þá skal upp ljúka fyrir honum því hliðinu, sem í austur snýr. Síðan skal hann bera fram brennifórn sína og heillafórn, eins og hann er vanur að gjöra á hvíldardögum, og ganga síðan út, og þegar hann er farinn út, skal loka hliðinu á eftir honum. 46.13 Á degi hverjum skal hann láta fram bera ársgamla sauðkind gallalausa í brennifórn Drottni til handa, á hverjum morgni skal hann fram bera hana. 46.14 Og sem matfórn skal hann fram bera með henni á hverjum morgni 1/6 efu og 1/3 hínar af olíu til þess að væta með mjölið, sem matfórn Drottni til handa. Skal það vera stöðug skyldugreiðsla. 46.15 Og þannig skulu þeir fram bera sauðkindina og matfórnina og olíuna á hverjum morgni sem stöðuga brennifórn. 46.16 Svo segir Drottinn Guð: Ef landshöfðinginn gefur einhverjum sona sinna nokkuð af óðali sínu að gjöf, þá skal það tilheyra sonum hans. Það er erfðaeign þeirra. 46.17 En gefi hann einhverjum þjónustumanna sinna nokkuð af óðali sínu að gjöf, þá skal hann halda því til lausnarársins. Þá skal það hverfa aftur til landshöfðingjans. En óðal sona hans skal haldast í eign þeirra. 46.18 Og ekki má landshöfðinginn taka neitt af óðali lýðsins og veita honum með því yfirgang. Af sinni eigin eign verður hann að veita sonum sínum arfleifð, til þess að enginn af lýð mínum verði flæmdur burt frá eign sinni.' 46.19 Því næst leiddi hann mig gegnum ganginn, sem liggur fast við hliðið, til hinna heilögu herbergja, sem ætluð eru prestunum og vita í norður. En þar var rúm í ysta horni mót vestri. 46.20 Og hann sagði við mig: 'Þetta er staðurinn, þar sem prestarnir skulu sjóða sektarfórnina og syndafórnina, og þar sem þeir skulu baka matfórnina, til þess að þeir þurfi ekki að bera það út í ytri forgarðinn og þann veg helga lýðinn.' 46.21 Og hann leiddi mig út í ytri forgarðinn og lét mig ganga í gegn, út í fjögur horn forgarðsins, og sjá, lítill forgarður var í hverju horni forgarðsins. 46.22 Í fjórum hornum forgarðsins voru aftur minni forgarðar, fjörutíu álnir á lengd og þrjátíu álnir á breidd. Voru þeir allir fjórir jafnir að máli. 46.23 Og í þeim var múrveggur allt í kring, allt í kring í þeim fjórum, og eldstór voru gjörðar neðan til við múrveggina allt í kring. 46.24 Og hann sagði við mig: 'Þetta eru eldhúsin, þar sem þjónustumenn musterisins skulu sjóða sláturfórnir lýðsins.'
47.1 Nú leiddi hann mig aftur að musterisdyrunum. Þá sá ég að vatn spratt upp undan þröskuldi hússins mót austri, því að framhlið musterisins vissi til austurs. Og vatnið rann niður undan suðurhlið musterisins, sunnanvert við altarið. 47.2 Síðan leiddi hann mig út um norðurhliðið og fór með mig í kring að utanverðu að ytra hliðinu, sem snýr í austurátt. Þá sá ég að vatn vall upp undan suðurhliðinni. 47.3 Maðurinn gekk nú í austur með mælivað í hendi sér og mældi þúsund álnir. Og hann lét mig vaða yfir um vatnið, og tók það mér í ökkla. 47.4 Þessu næst mældi hann þúsund álnir og lét mig vaða yfir um vatnið, tók vatnið mér þá til knés. Þá mældi hann enn þúsund álnir og lét mig vaða yfir um, tók vatnið mér þá í mjöðm. 47.5 Þá mældi hann enn þúsund álnir. Var þá vatnið orðið að fljóti, svo að ég mátti ekki yfir það komast, því að vatnið var of djúpt, var orðið sundvatn, óvætt fljót. 47.6 Hann sagði þá við mig: 'Hefir þú séð þetta, mannsson?' Og hann leiddi mig aftur upp á fljótsbakkann. 47.7 Og er ég kom þangað aftur, sá ég mjög mörg tré á fljótsbökkunum beggja vegna. 47.8 Þá sagði hann við mig: 'Þetta vatn rennur út á austurhéraðið og þaðan ofan á sléttlendið, og þegar það fellur í Dauðahafið, í salt vatnið, verður vatnið í því heilnæmt. 47.9 Og allar lifandi skepnur, allt sem hrærist, fær nýtt fjör alls staðar þar sem fljótið kemur, og fiskurinn mun verða mjög mikill, því að þegar þetta vatn kemur þangað, verður vatnið í því heilnæmt, og allt lifnar við, þar sem fljótið kemur. 47.10 Og fiskimenn munu standa við það frá En Gedí alla leið til En Eglaím, og vötn þess munu verða veiðistöðvar, þar sem net verða lögð. Og fiskurinn í því mun verða mjög mikill, eins og í hafinu mikla. 47.11 En pyttirnir og síkin þar hjá munu ekki vera heilnæm, þau eru ætluð til saltfengjar. 47.12 En meðfram fljótinu, á bökkunum beggja vegna, munu upp renna alls konar aldintré. Laufblöð þeirra munu ekki visna og ávextir þeirra ekki dvína. Á hverjum mánuði munu þau bera nýja ávöxtu, af því að vötnin, sem þau lifa við, koma frá helgidóminum. Og ávextir þeirra munu hafðir verða til matar og laufblöð þeirra til lyfja.' 47.13 Svo segir Drottinn Guð: Þetta eru takmörkin, og innan þeirra skuluð þér skipta yður niður á landið eftir tólf ættkvíslum Ísraels, þó skal Jósef fá tvo hluti. 47.14 Þér skuluð fá landið til eignar, einn jafnt sem annar, með því að ég hét eitt sinn með eiði að gefa feðrum yðar það, og því skal land þetta falla yður til erfða. 47.15 Þetta skulu vera takmörk landsins að norðanverðu: Frá hafinu mikla í áttina til Hetlón, þangað er leið liggur til Hamat, 47.16 Sedad, Beróta, Sibraím, sem liggur á milli Damaskuslands og Hamatlands, til Hasar Enón, sem liggur á landamærum Havrans. 47.17 Takmörkin skulu þannig liggja frá hafinu til Hasar Enón, en Damaskusland liggur lengra til norðurs. Þetta er norðurhliðin. 47.18 Og austurhliðin: Frá Hasar Enón, sem liggur milli Havran og Damaskus, allt að eystra hafinu, er Jórdan takmarkalína milli Gíleaðs og Ísraelslands, allt til Tamar. Þetta er austurhliðin. 47.19 Og suðurhliðin gegnt hádegisstað: Frá Tamar alla leið til Meríbótvatna við Kades, að Egyptalandsá og þaðan til hafsins mikla. Þetta er suðurhliðin gegnt hádegisstað. 47.20 Og vesturhliðin: Hafið mikla ræður þar takmörkum allt þangað til komið er þar gegnt, er leið liggur til Hamat. Þetta er vesturhliðin. 47.21 Þér skuluð skipta þessu landi meðal yðar eftir ættkvíslum Ísraels. 47.22 Skuluð þér skipta því með hlutkesti til arfleifðar meðal yðar og þeirra útlendra manna, er búa meðal yðar og getið hafa sonu meðal yðar. Þá skuluð þér álíta innborna Ísraelsmenn, með yður skulu þeir varpa hlutum um arfleifð meðal ættkvísla Ísraels. 47.23 Þér skuluð fá hverjum útlendum manni arfleifð í þeirri ættkvísl, þar sem hann býr _ segir Drottinn Guð.
48.1 Og þetta eru nöfn ættkvíslanna: Yst í norðri, frá hafinu í áttina til Hetlón þangað að, er leið liggur til Hamat, og þaðan til Hasar Enón, _ er þá Damaskusland fyrir norðan, fram með Hamat _, og fær hver land frá austri til vesturs: Dan, einn landshluti. 48.2 Og meðfram Dans landi, frá austri til vesturs: Asser, einn landshluti. 48.3 Og meðfram Assers landi, frá austri til vesturs: Naftalí, einn landshluti. 48.4 Og meðfram Naftalí landi, frá austri til vesturs: Manasse, einn landshluti. 48.5 Og meðfram Manasse landi, frá austri til vesturs: Efraím, einn landshluti. 48.6 Og meðfram Efraíms landi, frá austri til vesturs: Rúben, einn landshluti. 48.7 Og meðfram Rúbens landi, frá austri til vesturs: Júda, einn landshluti. 48.8 Meðfram Júda landi, frá austri til vesturs, skal landið, er þér færið að fórnargjöf, sem þér skuluð láta af hendi, liggja, 25.000 álnir á breidd og jafnt að lengd hlutum ættkvíslanna, frá austri til vesturs, og helgidómurinn skal vera í því miðju. 48.9 En landið, er þér skuluð helga Drottni, er 25.000 álnir á lengd og 20.000 álnir á breidd. 48.10 Og þeim, sem nú skal greina, skal hin heilaga fórnargjöf tilheyra: prestunum landspilda 25.000 álna að norðanverðu, 10.000 álna að vestanverðu, 10.000 álna að austanverðu og 25.000 álna að sunnanverðu. Og helgidómur Drottins skal vera á henni miðri. 48.11 Vígðu prestunum, niðjum Sadóks, þeim er gætt hafa þjónustu minnar, sem eigi gengu afleiðis, þá er aðrir Ísraelsmenn gengu afleiðis, svo sem og levítarnir hafa gengið afleiðis, 48.12 þeim skal það tilheyra sem hluti af fórnargjöf landsins, sem háheilagt land, við hliðina á landi levítanna, 48.13 en levítunum skal tilheyra jafnstórt land og prestanna: 25.000 álnir á lengd og 10.000 álnir á breidd, alls 25.000 álnir á lengd og 20.000 álnir á breidd. 48.14 Af því mega þeir ekkert selja og ekki farga neinu af því í skiptum, né heldur má þessi ágætasti hluti landsins ganga yfir í annarra eigu, því að hann er helgaður Drottni. 48.15 En þær 5.000 álnir, sem eftir eru af breiddinni meðfram 25.000 álnunum, eru óheilagt land handa borginni til ábúðar og beitilands, en borgin skal standa í þeim reit miðjum. 48.16 Og þetta er mál hennar: Norðurhliðin 4.500 álnir og suðurhliðin 4.500 álnir og austurhliðin 4.500 álnir og vesturhliðin 4.500 álnir. 48.17 Og útjörð borgarinnar skal vera 250 álnir til norðurs, 250 til suðurs, 250 til austurs og 250 til vesturs. 48.18 Og það sem eftir er af lengdinni meðfram hinni helgu fórnargjöf, 10.000 álnir til austurs og 10.000 álnir til vesturs, afurðir þess skulu vera íbúum borgarinnar til fæðslu. 48.19 Og hvað íbúa borgarinnar snertir, þá skulu byggja hana menn af öllum ættkvíslum Ísraels. 48.20 Alls skuluð þér láta af hendi sem fórnargjöf 25.000 álnir í ferhyrning: hina heilögu fórnargjöf ásamt landeign borgarinnar. 48.21 Það, sem eftir er, skal tilheyra landshöfðingjanum, beggja vegna við hina heilögu fórnargjöf og landeign borgarinnar, austur á bóginn meðfram 25.000 álnunum að austurtakmörkunum og vestur á bóginn meðfram 25.000 álnunum að vesturtakmörkunum, samsvarandi hlutum ættkvíslanna. Það tilheyrir landshöfðingjanum, og hin heilaga fórnargjöf og helgidómur musterisins skal vera í því miðju. 48.22 Og eignarland levítanna og eignarland borgarinnar skal liggja mitt inni í því, sem landshöfðingjanum tilheyrir. Milli Júda lands og Benjamíns lands skal það land liggja, er landshöfðingjanum tilheyrir. 48.23 En hinar ættkvíslirnar eru, frá austri til vesturs: Benjamín, einn landshluti. 48.24 Og meðfram Benjamínslandi, frá austri til vesturs: Símeon, einn landshluti. 48.25 Og meðfram Símeons landi, frá austri til vesturs: Íssakar, einn landshluti. 48.26 Og meðfram Íssakars landi, frá austri til vesturs: Sebúlon, einn landshluti. 48.27 Og meðfram Sebúlons landi, frá austri til vesturs: Gað, einn landshluti. 48.28 En meðfram Gaðs landi, að sunnanverðu, gegnt hádegisstað, skulu takmörkin liggja frá Tamar yfir Meríba-vötn við Kades til Egyptalandsár og þaðan til hafsins mikla. 48.29 Þetta er landið, sem þér skuluð úthluta ættkvíslum Ísraels til arfleifðar, og þetta eru hlutir þeirra _ segir Drottinn Guð. 48.30 Og þessi eru útgönguhlið borgarinnar, og eru hlið borgarinnar nefnd eftir ættkvíslum Ísraels: Á norðurhliðinni, sem er 4.500 álnir að máli, 48.31 eru þrjú hlið: Rúbenshlið eitt, Júdahlið eitt, Levíhlið eitt. 48.32 Á austurhliðinni, sem er 4.500 álnir, eru þrjú hlið: Jósefshlið eitt, Benjamínshlið eitt, Danshlið eitt. 48.33 Á suðurhliðinni, sem er 4.500 álnir að máli, eru þrjú hlið: Símeonshlið eitt, Íssakarshlið eitt, Sebúlonshlið eitt. 48.34 Og á vesturhliðinni, sem er 4.500 álnir, eru þrjú hlið: Gaðshlið eitt, Assershlið eitt, Naftalíhlið eitt.
1.1 Á þriðja ríkisári Jójakíms konungs í Júda kom Nebúkadnesar konungur í Babýlon til Jerúsalem og settist um hana. 1.2 Og Drottinn gaf Jójakím Júdakonung á vald hans og nokkuð af áhöldum Guðs húss, og hann flutti þau til Sínearlands í musteri guðs síns, og áhöldin flutti hann í fjárhirslu guðs síns. 1.3 Og konungur bauð Aspenasi hirðstjóra að velja meðal Ísraelsmanna, bæði af konungsættinni og af höfðingjunum, 1.4 sveina nokkra, er engin líkamslýti hefðu og væru fríðir sýnum, vel að sér í hvers konar vísindum, fróðir og vel viti bornir og hæfir til að þjóna í konungshöllinni, og kenna þeim bókmenntir og tungu Kaldea. 1.5 Og konungur ákvað þeim daglegan skammt frá konungsborði og af víni því, er hann sjálfur drakk, og bauð að uppala þá í þrjú ár, og að þeim liðnum skyldu þeir þjóna frammi fyrir konunginum. 1.6 Og meðal þeirra voru af Júdamönnum þeir Daníel, Hananja, Mísael og Asarja. 1.7 En hirðstjórinn breytti nöfnum þeirra og kallaði Daníel Beltsasar, Hananja Sadrak, Mísael Mesak og Asarja Abed-Negó. 1.8 En Daníel einsetti sér að saurga sig ekki á matnum frá konungsborði né á víni því, er konungur drakk, og beiddist þess af hirðstjóra, að hann þyrfti ekki að saurga sig. 1.9 Og Guð lét Daníel verða náðar og líknar auðið hjá hirðstjóranum. 1.10 En hirðstjórinn sagði við Daníel: 'Ég er hræddur um að minn herra konungurinn, sem tiltekið hefir mat yðar og drykk, sjái yður fölari í bragði en aðra sveina á yðar aldri, og verðið þér svo þess valdandi, að ég fyrirgjöri lífi mínu við konunginn.' 1.11 Þá sagði Daníel við tilsjónarmanninn, er hirðstjórinn hafði sett yfir þá Daníel, Hananja, Mísael og Asarja: 1.12 'Gjör tilraun við oss þjóna þína í tíu daga og lát gefa oss kálmeti að eta og vatn að drekka. 1.13 Skoða síðan yfirbragð vort og yfirbragð sveina þeirra, er eta við konungsborð, og gjör því næst við oss eftir því, sem þér þá líst á oss.' 1.14 Og hann veitti þeim bón þessa og gjörði tilraun við þá í tíu daga. 1.15 Og að tíu dögum liðnum reyndust þeir fegurri ásýndum og feitari á hold en allir sveinarnir, sem átu við konungsborð. 1.16 Eftir það lét tilsjónarmaðurinn bera burt matinn og vínið, sem þeim hafði verið ætlað, og gaf þeim kálmeti. 1.17 Og þessum fjórum sveinum gaf Guð kunnáttu og skilning á alls konar rit og vísindi, en Daníel kunni og skyn á alls konar vitrunum og draumum. 1.18 Og er liðinn var sá tími, er konungur hafði tiltekið, að þá skyldi leiða á sinn fund, þá leiddi hirðstjórinn þá fyrir Nebúkadnesar. 1.19 Og konungur átti tal við þá, en eigi fannst neinn af þeim öllum slíkur sem þeir Daníel, Hananja, Mísael og Asarja, og gengu þeir í þjónustu konungs. 1.20 Og í öllum hlutum, sem viturleik og skilning þurfti við að hafa og konungur spurði þá um, reyndust þeir tíu sinnum fremri en allir spásagnamenn og særingamenn í öllu ríki hans. 1.21 Og Daníel dvaldist þar allt til fyrsta árs Kýrusar konungs.
2.1 Á öðru ríkisári Nebúkadnesars dreymdi Nebúkadnesar draum, og varð honum órótt í skapi og mátti eigi sofa. 2.2 Þá bauð konungur að kalla til sín spásagnamenn og særingamenn og galdramenn og Kaldea, að þeir segðu konungi, hvað hann hefði dreymt, og þeir komu og gengu fyrir konung. 2.3 Þá sagði konungur við þá: 'Mig hefir dreymt draum og mér er órótt í skapi, uns ég fæ að vita drauminn.' 2.4 Þá sögðu Kaldearnir við konunginn á arameísku: 'Konungurinn lifi eilíflega! Seg þjónum þínum drauminn, og munum vér þá segja þýðing hans.' 2.5 Konungur svaraði og sagði við Kaldea: 'Ásetningur minn er óhagganlegur: Ef þér segið mér ekki drauminn og þýðing hans, skuluð þér verða höggnir sundur og hús yðar gjörð að sorphaug. 2.6 En ef þér segið mér drauminn og þýðing hans, munuð þér af mér þiggja margs konar gjafir og mikla sæmd. Segið mér því drauminn og þýðing hans!' 2.7 Þá svöruðu þeir aftur og sögðu: 'Konungurinn segi þjónum sínum drauminn, og þá skulum vér segja, hvað hann þýðir.' 2.8 Konungur svaraði og sagði: 'Ég veit með vissu, að þér ætlið að leita yður frests, þar eð þér sjáið að ásetningur minn er óhagganlegur. 2.9 En ef þér segið mér ekki drauminn, þá bíður yðar dómur, sem ekki verður nema á einn veg. Þér hafið komið yður saman um að fara með lygatal og skaðsemdar frammi fyrir mér, þar til er tímarnir breytast. Segið mér því drauminn, svo að ég fái skilið, að þér megið einnig segja mér þýðing hans.' 2.10 Kaldearnir svöruðu konungi og sögðu: 'Enginn er sá maður í heimi, er sagt geti það, er konungurinn mælist til, né heldur hefir nokkur mikill og voldugur konungur krafist slíks af nokkrum spásagnamanni, særingamanni eða Kaldea. 2.11 Því að það er torvelt, sem konungurinn heimtar, og enginn getur kunngjört konunginum það nema guðirnir einir, en bústaður þeirra er ekki hjá dauðlegum mönnum.' 2.12 Af þessu varð konungur gramur og mjög reiður og bauð að taka af lífi alla vitringa í Babýlon. 2.13 Gekk þá sú skipun út, að lífláta skyldi vitringana, og var leitað að þeim Daníel og félögum hans til að lífláta þá. 2.14 Þá sneri Daníel sér með viturleik og skynsemd til Arjóks, lífvarðarforingja konungs, sem út var genginn til þess að lífláta vitringana í Babýlon. 2.15 Hann tók til máls og sagði við Arjók valdsmann konungs: 'Hví er skipun konungs svo hörð?' Arjók skýrði þá Daníel frá málavöxtum. 2.16 Og Daníel gekk upp til konungs og bað hann gefa sér frest, að hann mætti kunngjöra konungi þýðinguna. 2.17 Þá gekk Daníel heim til húss síns til þess að segja þeim Hananja, Mísael og Asarja, félögum sínum, frá þessu, 2.18 og til þess að biðja Guð himinsins líknar um leyndardóm þennan, svo að Daníel og félagar hans yrðu ekki líflátnir með hinum vitringunum í Babýlon. 2.19 Þá var leyndardómurinn opinberaður Daníel í nætursýn. Þá lofaði Daníel Guð himnanna. 2.20 Daníel tók til máls og sagði: 'Lofað veri nafn Guðs frá eilífð til eilífðar, því að hans er viskan og mátturinn. 2.21 Hann breytir tímum og tíðum, hann rekur konunga frá völdum og hann setur konunga til valda, hann gefur spekingunum speki og hinum hyggnu hyggindi. 2.22 Hann opinberar hina dýpstu og huldustu leyndardóma, hann veit, hvað í myrkrinu gjörist, og ljósið býr hjá honum. 2.23 Ég þakka þér, Guð feðra minna, og vegsama þig fyrir það, að þú hefir gefið mér visku og mátt og nú látið mig vita það, er vér báðum þig um, því að þú hefir opinberað oss það, er konungur vildi vita.' 2.24 Daníel fór nú til Arjóks, sem konungur hafði falið að lífláta vitringana í Babýlon. Hann fór og mælti til hans á þessa leið: 'Ekki skalt þú lífláta vitringana í Babýlon. Leið mig inn fyrir konung, og mun ég segja konungi þýðinguna.' 2.25 Síðan leiddi Arjók Daníel í skyndi inn fyrir konung og mælti svo til hans: 'Ég hefi fundið mann meðal hinna herleiddu frá Júda, sem ætlar að segja konunginum þýðing draumsins.' 2.26 Konungur svaraði og sagði við Daníel, sem kallaður var Beltsasar: 'Getur þú sagt mér drauminn, sem mig dreymdi, og þýðing hans?' 2.27 Daníel svaraði konungi og sagði: 'Leyndardóm þann, sem konungurinn spyr um, geta hvorki vitringar, særingamenn, spásagnamenn né stjörnuspekingar sagt konunginum. 2.28 En sá Guð er á himnum, sem opinberar leynda hluti, og hann hefir kunngjört Nebúkadnesar konungi það, er verða mun á hinum síðustu dögum. Draumur þinn og vitranir þær, er fyrir þig bar í rekkju þinni, voru þessar: 2.29 Þá er þú hvíldir í rekkju þinni, konungur, stigu upp hugsanir hjá þér um, hvað verða mundi eftir þetta, og hann, sem opinberar leynda hluti, hefir kunngjört þér, hvað verða muni. 2.30 En hvað mig snertir, þá er það ekki fyrir nokkurrar visku sakir, sem ég hafi til að bera umfram alla menn aðra, þá er nú eru uppi, að þessi leyndardómur er mér opinber orðinn, heldur til þess að þýðingin yrði kunngjörð konunginum og þú fengir að vita hugsanir hjarta þíns. 2.31 Þú horfðir fram fyrir þig, konungur, og stóð þar líkneski mikið. Líkneski þetta var stórt og yfirtaks-ljómandi. Það stóð frammi fyrir þér og var ógurlegt ásýndum. 2.32 Höfuð líkneskis þessa var af skíru gulli, brjóstið og armleggirnir af silfri, kviðurinn og lendarnar af eiri, 2.33 leggirnir af járni, fæturnir sums kostar af járni, sums kostar af leir. 2.34 Þú horfðir á það, þar til er steinn nokkur losnaði, án þess að nokkur mannshönd kæmi við hann. Hann lenti á fótum líkneskisins, sem voru af járni og leir, og molaði þá. 2.35 Þá muldist sundur í sama bili járnið, leirinn, eirinn, silfrið og gullið, og varð eins og sáðir á sumarláfa, vindurinn feykti því burt, svo að þess sá engan stað. En steinninn, sem lenti á líkneskinu, varð að stóru fjalli og tók yfir alla jörðina. 2.36 Þetta er draumurinn, og nú viljum vér segja konunginum þýðing hans. 2.37 Þú, konungur, yfirkonungur konunganna, sem Guð himnanna hefir gefið ríkið, valdið, máttinn og tignina, 2.38 þú, sem hann hefir mennina á vald selt, hvar svo sem þeir búa, dýr merkurinnar og fugla himinsins, og sett þig drottnara yfir því öllu, _ þú ert gullhöfuðið. 2.39 En eftir þig mun hefjast annað konungsríki, minni háttar en þitt er, og því næst hið þriðja ríki af eiri, sem drottna mun yfir allri veröldu. 2.40 Þá mun hefjast fjórða ríkið, sterkt sem járn, _ því að járnið sundurbrýtur og mölvar allt _, og eins og járnið molar sundur, eins mun það sundurbrjóta og mola öll hin ríkin. 2.41 En þar er þú sást fæturna og tærnar, að sumt var af pottaraleir, sumt af járni, það merkir að ríkið mun verða skipt. Þó mun það nokkru í sér halda af hörku járnsins, þar sem þú sást járnið blandað saman við deigulmóinn. 2.42 En þar er tærnar á fótunum voru sums kostar af járni og sums kostar af leir, þá mun það ríki að nokkru leyti verða öflugt og að nokkru leyti veikt. 2.43 Og þar er þú sást járnið blandað saman við deigulmóinn, þá munu þeir með kvonföngum saman blandast, og þó ekki samþýðast hvorir öðrum, eins og járnið samlagar sig ekki við leirinn. 2.44 En á dögum þessara konunga mun Guð himnanna hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu, 2.45 þar sem þú sást að steinn nokkur losnaði úr fjallinu, án þess að nokkur mannshönd kæmi við hann, og mölvaði járnið, eirinn, leirinn, silfrið og gullið. Mikill Guð hefir kunngjört konunginum hvað hér eftir muni verða. Draumurinn er sannur og þýðing hans áreiðanleg.' 2.46 Þá féll Nebúkadnesar konungur fram á ásjónu sína og laut Daníel og bauð að fórna honum matfórn og reykelsi. 2.47 Konungur mælti til Daníels og sagði: 'Í sannleika er yðar Guð yfirguð guðanna og herra konunganna og opinberari leyndra hluta, með því að þú máttir þennan leyndardóm auglýsa.' 2.48 Eftir það hóf konungur Daníel til mikilla mannvirðinga og gaf honum miklar og margar gjafir, setti hann höfðingja yfir allt Babel-hérað og gjörði hann að æðsta forstjóra yfir öllum vitringum í Babýlon. 2.49 Og fyrir tilmæli Daníels gjörði konungur þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó að sýslumönnum yfir Babel-héraði, en sjálfur var Daníel við hirð konungs.
3.1 Nebúkadnesar konungur lét gjöra líkneski af gulli, sextíu álna á hæð og sex álna á breidd. Hann lét reisa það í Dúradal í Babel-héraði. 3.2 Og Nebúkadnesar konungur sendi út menn til þess að stefna saman jörlunum, landstjórunum, landshöfðingjunum, ráðherrunum, féhirðunum, dómurunum, lögmönnunum og öllum embættismönnum í skattlöndunum, að þeir skyldu koma til vígslu líkneskisins, sem Nebúkadnesar konungur hafði reisa látið. 3.3 Þá söfnuðust saman jarlarnir, landstjórarnir, landshöfðingjarnir, ráðherrarnir, féhirðarnir, dómararnir, lögmennirnir og allir embættismenn í skattlöndunum til vígslu líkneskisins, sem Nebúkadnesar konungur hafði reisa látið, og námu staðar frammi fyrir líkneskinu, er Nebúkadnesar hafði látið reisa. 3.4 Þá kallaði kallarinn hárri röddu: 'Svo er yður öllum boðið, hverrar þjóðar og hvaða landsmenn sem þér eruð og á hverja tungu sem þér mælið: 3.5 Þegar er þér heyrið hljóð hornanna, pípnanna, gígjanna, harpnanna, saltaranna, symfónanna og alls konar hljóðfæra, þá skuluð þér falla fram og tilbiðja gull-líkneskið, sem Nebúkadnesar konungur hefir reisa látið. 3.6 En hver sá, er eigi fellur fram og tilbiður, honum skal á samri stundu kastað verða inn í brennandi eldsofn.' 3.7 Þess vegna, undireins og allt fólkið heyrði hljóð hornanna, pípnanna, gígjanna, harpnanna, saltaranna og alls konar hljóðfæra, þá féllu allir fram, hverrar þjóðar, hvers lands og hverrar tungu sem voru, og tilbáðu gull-líkneskið, sem Nebúkadnesar konungur hafði reisa látið. 3.8 Fyrir því gengu og fram á sömu stundu kaldverskir menn og ákærðu Gyðingana. 3.9 Þeir tóku svo til máls og sögðu við Nebúkadnesar konung: 'Konungurinn lifi eilíflega! 3.10 Þú hefir, konungur, skipað svo fyrir, að hver maður skuli, þá er hann heyrir hljóð hornanna, pípnanna, gígjanna, harpnanna, saltaranna, symfónanna og alls konar hljóðfæra, falla fram og tilbiðja gull-líkneskið, 3.11 og að hver sá, er eigi fellur fram og tilbiður, honum skuli kastað inn í brennandi eldsofn. 3.12 Nú eru hér nokkrir Gyðingar, er þú hefir gjört að sýslumönnum yfir Babel-héraði, þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó. Þessir menn virða þig að engu, konungur. Þeir dýrka ekki þína guði og tilbiðja ekki gull-líkneskið, sem þú hefir reisa látið.' 3.13 Þá fylltist Nebúkadnesar reiði og heift og bauð að leiða fram þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó, og voru þessir menn leiddir fyrir konunginn. 3.14 Nebúkadnesar tók til máls og sagði við þá: 'Er það af ásettu ráði, Sadrak, Mesak og Abed-Negó, að þér dýrkið ekki minn guð og tilbiðjið ekki gull-líkneskið, sem ég hefi reisa látið? 3.15 Ef þér nú eruð viðbúnir, jafnskjótt og þér heyrið hljóð hornanna, pípnanna, gígjanna, harpnanna, saltaranna, symfónanna og alls konar hljóðfæra, að falla fram og tilbiðja líkneski það, er ég hefi gjöra látið, þá nær það ekki lengra. En ef þér tilbiðjið það ekki, þá skal yður samstundis verða kastað inn í eldsofn brennandi, og hver er sá guð, er yður megi frelsa úr mínum höndum?' 3.16 Þá svöruðu þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó og sögðu við Nebúkadnesar konung: 'Vér þurfum ekki að svara þér einu orði upp á þetta. 3.17 Ef Guð vor, sem vér dýrkum, vill frelsa oss, þá mun hann frelsa oss úr eldsofninum brennandi og af þinni hendi, konungur. 3.18 En þótt hann gjöri það ekki, þá skalt þú samt vita, konungur, að vér munum ekki dýrka þína guði né tilbiðja gull-líkneskið, sem þú hefir reisa látið.' 3.19 Þá fylltist Nebúkadnesar heiftarreiði við þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó, svo að ásjóna hans afmyndaðist, og hann skipaði að kynda ofninn sjöfalt heitara en vanalegt var að kynda hann. 3.20 Og hann bauð rammefldum mönnum, sem voru í her hans, að binda þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó og kasta þeim inn í brennandi eldsofninn. 3.21 Síðan voru þessir menn bundnir í nærfötum sínum, kyrtlum, skikkjum og öðrum klæðnaði sínum og þeim kastað inn í hinn brennandi eldsofn. 3.22 Og sökum þess að skipun konungs var svo strengileg, en ofninn kyntur ákaflega, þá varð eldsloginn að bana mönnunum, sem báru þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó. 3.23 En þeir þrír menn, Sadrak, Mesak og Abed-Negó, féllu bundnir niður í hinn brennandi eldsofn. 3.24 Þá varð Nebúkadnesar konungur forviða og spratt upp skyndilega. Hann tók til máls og sagði við ráðgjafa sína: 'Höfum vér ekki kastað þremur mönnum fjötruðum inn í eldinn?' Þeir svöruðu konunginum og sögðu: 'Jú, vissulega, konungur!' 3.25 Hann svaraði og sagði: 'Ég sé þó fjóra menn ganga lausa inni í eldinum, án þess að nokkuð hafi orðið þeim að grandi, og er ásýnd hins fjórða því líkust sem hann sé sonur guðanna.' 3.26 Þá gekk Nebúkadnesar að dyrum hins brennandi eldsofns, tók til máls og sagði: 'Sadrak, Mesak og Abed-Negó, þjónar hins hæsta Guðs, gangið út og komið hingað!' Þá gengu þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó út úr eldinum. 3.27 Og jarlarnir, landstjórarnir, landshöfðingjarnir og ráðgjafar konungs söfnuðust saman og sáu, að eldurinn hafði ekki unnið á líkama þessara manna og að hárið á höfði þeirra var ekki sviðnað, að ekkert sá á nærfötum þeirra og enginn eldseimur fannst af þeim. 3.28 Þá tók Nebúkadnesar til máls og sagði: 'Lofaður sé Guð þeirra Sadraks, Mesaks og Abed-Negós, sem sendi engil sinn og frelsaði þjóna sína, er treystu honum og óhlýðnuðust boði konungsins, en lögðu líkami sína í sölurnar, til þess að þeir þyrftu ekki að dýrka né tilbiðja neinn annan guð en sinn Guð. 3.29 Nú gef ég út þá skipun, að hver sá, hverrar þjóðar, hvers lands og hverrar tungu sem er, er mælir lastmæli gegn Guði þeirra Sadraks, Mesaks og Abed-Negós, sá skal höggvinn verða sundur og hús hans gjört að sorphaug, því að enginn annar guð er til, sem eins getur frelsað og hann.' 3.30 Síðan hóf konungur þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó til stórra mannvirðinga í Babel-héraði.
4.1 Nebúkadnesar konungur sendir kveðju sína öllum mönnum, sem á jörðinni búa, hverrar þjóðar, hvaða lands og hverrar tungu sem eru: 'Gangi yður allt til gæfu! 4.2 Mér hefir þóknast að kunngjöra þau tákn og furðuverk, sem hinn hæsti Guð hefir gjört við mig. 4.3 Hversu mikil eru tákn hans og hversu máttug eru furðuverk hans! Ríki hans er eilíft ríki og máttarveldi hans varir frá kyni til kyns. 4.4 Ég, Nebúkadnesar, lifði áhyggjulaus í húsi mínu og átti góða daga í höll minni. 4.5 Þá dreymdi mig draum, sem gjörði mig óttasleginn, og hugsanirnar í rekkju minni og sýnirnar, sem fyrir mig bar, skelfdu mig. 4.6 Ég lét því þá skipun út ganga, að leiða skyldi fyrir mig alla vitringa í Babýlon til þess að segja mér þýðing draumsins. 4.7 Þá komu spásagnamennirnir, særingamennirnir, Kaldearnir og stjörnuspekingarnir, og sagði ég þeim drauminn, en þeir gátu ekki sagt mér þýðing hans. 4.8 En loks kom Daníel til mín, sem kallaður er Beltsasar eftir nafni guðs míns. Í honum býr andi hinna heilögu guða, og ég sagði honum drauminn: 4.9 Beltsasar, þú æðsti forstjóri spásagnamannanna! Ég veit að í þér býr andi hinna heilögu guða og að enginn leyndardómur er þér ofvaxinn. Seg mér sýnir draums míns, þær er fyrir mig bar, og hvað þær þýða. 4.10 Sýnir þær, er fyrir mig bar í rekkju minni, voru þessar: Ég horfði, og sjá, tré nokkurt stóð á jörðinni, og var það geysihátt. 4.11 Tréð var mikið og sterkt, og svo hátt að upp tók til himins, og mátti sjá það alla vega frá endimörkum jarðarinnar. 4.12 Limar þess voru fagrar og ávöxturinn mikill, og fæðsla handa öllum var á því. Skógardýrin lágu í forsælu undir því, fuglar himinsins bjuggu á greinum þess, og allar skepnur nærðust af því. 4.13 Ég horfði á í sýnum þeim, sem fyrir mig bar í rekkju minni, og sá heilagan vörð stíga niður af himni. 4.14 Hann kallaði hárri röddu og mælti svo: ,Höggvið upp tréð, sníðið af greinarnar, slítið af því limarnar og dreifið ávöxtunum víðs vegar, svo að dýrin flýi burt undan því og fuglarnir af greinum þess. 4.15 Samt skuluð þér láta stofninn með rótum sínum vera kyrran eftir í jörðinni, bundinn járn- og eirfjötrum, í grænu graslendi. Hann skal vökna af dögg himinsins og taka hlut með dýrunum í grösum jarðarinnar. 4.16 Hjarta hans skal umbreytast, svo að í honum skal ekki mannshjarta vera, heldur skal honum dýrshjarta fengið verða, og sjö tíðir skulu yfir hann líða. 4.17 Skipunin hvílir á ályktun varðanna, og þetta eru fyrirmæli hinna heilögu, til þess að hinir lifandi viðurkenni, að Hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og gefur hann hverjum sem hann vill, og að hann getur upphafið hinn lítilmótlegasta meðal mannanna til konungdóms.` 4.18 Þetta er draumurinn, sem mig, Nebúkadnesar konung, dreymdi, en þú, Beltsasar, seg þýðingu hans, fyrst enginn af vitringunum í ríki mínu getur sagt mér, hvað hann þýðir. En þú getur það, því að í þér býr andi hinna heilögu guða.' 4.19 Þá stóð Daníel, sem kallaður var Beltsasar, agndofa um stund, og hugsanir hans skelfdu hann. En konungur tók til máls og sagði: 'Beltsasar! Lát eigi drauminn né þýðing hans skelfa þig.' Beltsasar svaraði og sagði: 'Ég vildi óska, herra, að draumurinn rættist á óvinum þínum og þýðing hans á mótstöðumönnum þínum. 4.20 Tréð, sem þú sást og bæði var mikið og sterkt og svo hátt að upp tók til himins og séð varð um alla jörðina, 4.21 limar þess fagrar og ávöxturinn mikill og fæðsla á því handa öllum, skógardýrin bjuggu undir því og fuglar himinsins hreiðruðu sig í greinum þess, 4.22 það ert þú, konungur, sem ert orðinn mikill og voldugur og mikilleiki þinn vaxinn svo mjög, að hann nær til himins og veldi þitt til endimarka jarðar. 4.23 En þar er konungurinn sá heilagan vörð stíga niður af himni og segja: ,Höggvið upp tréð og eyðileggið það, en látið samt stofninn með rótum sínum vera kyrran eftir í jörðinni, bundinn járn- og eirfjötrum, í grænu graslendi, hann skal vökna af dögg himinsins og taka hlut með dýrum merkurinnar, uns sjö tíðir eru yfir hann liðnar,` _ 4.24 þá er þýðingin þessi, konungur, og ráðstöfun Hins hæsta er það, sem komið er fram við minn herra, konunginn: 4.25 Þú munt út rekinn verða úr mannafélagi og eiga byggð með dýrum merkurinnar. Þér mun gefið verða gras að eta eins og uxum, og þú munt vökna af dögg himinsins, og sjö tíðir munu yfir þig líða, uns þú viðurkennir, að Hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og getur gefið hann hverjum sem hann vill. 4.26 En þar er sagt var, að stofn trésins með rótum sínum skyldi eftir verða, það merkir, að þú skalt halda ríki þínu, er þú kannast við, að allt valdið er á himnum. 4.27 Lát þér því, konungur, geðjast ráð mitt: Losa þig af syndum þínum með réttlætisverkum og af misgjörðum þínum með líknsemi við aumingja, ef vera mætti, að hamingja þín yrði við það langærri.' 4.28 Allt þetta kom fram við Nebúkadnesar konung. 4.29 Þegar konungur tólf mánuðum síðar einu sinni var á gangi í konungshöllinni í Babýlon, 4.30 tók hann til máls og sagði: 'Er þetta ekki sú hin mikla Babýlon, sem ég hefi reist að konungssetri með veldisstyrk mínum og tign minni til frægðar?' 4.31 Áður en þessi orð voru liðin af vörum konungs, kom raust af himni: 'Þér gjörist hér með vitanlegt, Nebúkadnesar konungur, að konungdómurinn er vikinn frá þér. 4.32 Þú munt út rekinn verða úr mannafélagi og eiga byggð með dýrum merkurinnar. Þér mun gefið verða gras að eta eins og uxum, og sjö tíðir munu yfir þig líða, uns þú viðurkennir, að Hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og getur gefið hann hverjum sem hann vill.' 4.33 Þessi ummæli rættust samstundis á Nebúkadnesar. Hann var út rekinn úr mannafélagi og át gras eins og uxar, og líkami hans vöknaði af dögg himinsins, og um síðir óx hár hans sem arnarfjaðrir og neglur hans sem fuglaklær. 4.34 'Ég, Nebúkadnesar, hóf að liðnum þessum tíma augu mín til himins, og fékk ég þá vit mitt aftur. Og ég lofaði Hinn hæsta og vegsamaði og tignaði þann, sem lifir eilíflega, því að veldi hans er eilíft veldi, og ríki hans varir frá kyni til kyns. 4.35 Allir þeir, sem á jörðinni búa, eru sem ekkert hjá honum, og hann fer með himnanna her og byggjendur jarðarinnar eins og hann sjálfur vill, og enginn er sá, er fái honum tálmun gjört og við hann sagt: ,Hvað gjörir þú?` 4.36 Samstundis fékk ég vit mitt aftur, og til heiðurs fyrir ríki mitt komst ég aftur til tignar og vegsemdar. Ráðgjafar mínir og stórmenni leituðu mín, og ég var aftur skipaður yfir ríki mitt, og mér var gefið enn meira veldi en áður. 4.37 Nú vegsama ég, Nebúkadnesar, göfga og tigna konung himnanna, því að allar gjörðir hans eru sannleikur, vegir hans réttlæti og hann megnar að lægja þá, sem fram ganga í dramblæti.'
5.1 Belsasar konungur hélt veislu mikla þúsund stórmennum sínum og drakk vín í augsýn þeirra þúsund. 5.2 En er menn tóku að gjörast vínhreifir, bauð Belsasar að sækja þau gullker og silfurker, sem Nebúkadnesar faðir hans hafði haft á burt úr musterinu í Jerúsalem, til þess að konungurinn, stórmenni hans, konur hans og hjákonur mættu drekka af þeim. 5.3 Þá voru fram borin gullker þau, sem tekin höfðu verið úr musterinu, húsi Guðs í Jerúsalem, og konungurinn, stórmenni hans, konur hans og hjákonur drukku af þeim. 5.4 Þeir drukku vín og vegsömuðu guði sína úr gulli, silfri, eiri, járni, tré og steini. 5.5 Á sömu stundu komu fram fingur af mannshendi og rituðu á kalkið á veggnum í konungshöllinni, gegnt ljósastikunni, og konungurinn sá fingur handarinnar, sem ritaði. 5.6 Þá gjörðist konungur litverpur, og hugsanir hans skelfdu hann, og var sem mjaðmarliðir hans gengju sundur, og kné hans skulfu. 5.7 Konungur kallaði hástöfum, að sækja skyldi særingamennina, Kaldeana og stjörnuspekingana. Konungur tók til máls og sagði við vitringana í Babýlon: 'Hver sem les þetta letur og segir mér þýðing þess, skal klæddur verða purpura og bera gullfesti á hálsi sér og vera þriðji yfirhöfðingi í ríkinu!' 5.8 Þá komu allir vitringar konungs þangað, en þeir gátu ekki lesið letrið og sagt konungi þýðing þess. 5.9 Þá varð Belsasar konungur mjög felmtsfullur og gjörðist litverpur, en fát mikið kom á stórmenni hans. 5.10 Út af orðræðu konungs og stórmenna hans gekk drottning inn í veislusalinn. Drottning tók til máls og sagði: 'Konungurinn lifi eilíflega! Lát eigi hugsanir þínar skelfa þig og gjörst eigi svo litverpur. 5.11 Sá maður er í ríki þínu, er andi hinna heilögu guða býr í, og á dögum föður þíns fannst með honum skýrleikur, þekking og speki, lík speki guðanna, og Nebúkadnesar konungur, faðir þinn, gjörði hann að yfirhöfðingja spásagnamannanna, særingamannanna, Kaldeanna og stjörnuspekinganna. Þetta gjörði faðir þinn, konungur, 5.12 af því að með Daníel, er konungurinn kallaði Beltsasar, fannst frábær andi og kunnátta og þekking til að þýða drauma, ráða gátur og greiða úr vandamálum. Lát nú kalla Daníel, og mun hann segja, hvað þetta merkir.' 5.13 Þá var Daníel leiddur inn fyrir konung. Konungur tók til máls og sagði við Daníel: 'Ert þú Daníel, einn af þeim herleiddu Gyðingum, sem konungurinn, faðir minn, flutti burt frá Júda? 5.14 Ég hefi um þig heyrt, að andi guðanna búi í þér og að skýrleikur, þekking og frábær speki finnist með þér. 5.15 Nú hefi ég látið leiða inn fyrir mig vitringana og særingamennina til þess að lesa þetta letur og segja mér þýðing þess, en þeir geta ekki sagt, hvað þessi orð þýða. 5.16 En ég hefi heyrt um þig, að þú kunnir þýðingar að finna og úr vandamálum að greiða. Ef þú nú getur lesið þetta letur og sagt mér þýðing þess, þá skalt þú klæddur verða purpura, bera gullfesti á hálsi þér og vera þriðji yfirhöfðingi í ríkinu.' 5.17 Þá tók Daníel til máls og sagði við konung: 'Haltu sjálfur gáfum þínum og gef einhverjum öðrum gjafir þínar, en letrið mun ég lesa fyrir konunginn og segja honum þýðing þess. 5.18 Þú konungur! Guð hinn hæsti veitti Nebúkadnesar föður þínum ríki, vald, vegsemd og tign. 5.19 Og sökum þess veldis, sem hann hafði veitt honum, hræddust hann allir lýðir, þjóðir og tungur, og stóð þeim ótti af honum. Hann tók af lífi hvern sem hann vildi og hann lét lífi halda hvern sem hann vildi, hann hóf hvern er hann vildi og hann lægði hvern er hann vildi. 5.20 En er hjarta hans metnaðist og hugur hans gjörðist ofdrambsfullur, þá var honum hrundið úr konungshásætinu og tignin tekin frá honum. 5.21 Hann var rekinn úr mannafélagi og hjarta hans varð líkt dýrshjarta. Hann átti byggð meðal skógarasna, og honum var gefið gras að eta eins og uxum, og líkami hans vöknaði af dögg himins, þar til er hann kannaðist við, að Guð hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og veitir hann hverjum sem hann vill. 5.22 Og þú, Belsasar, sonur hans, hefir ekki lítillætt hjarta þitt, þótt þú vissir allt þetta, 5.23 heldur hefir þú sett þig upp á móti Drottni himnanna og látið færa þér kerin úr húsi hans, og þú og stórmenni þín, konur þínar og hjákonur hafið drukkið vín af þeim. Og þú hefir vegsamað guði úr silfri, gulli, eiri, járni, tré og steini, sem ekki sjá, ekki heyra og ekkert vita, en þann Guð, sem hefir lífsanda þinn í hendi sér og ráð hefir á öllum högum þínum, hann hefir þú ekki tignað. 5.24 Samstundis voru fingur handarinnar frá honum sendir og þetta letur ritað. 5.25 En letrið, sem ritað er, er þetta: mene, mene, tekel ufarsin. 5.26 Þessi er þýðing orðanna: mene, Guð hefir talið ríkisár þín og leitt þau til enda; 5.27 tekel, þú ert veginn á skálum og léttvægur fundinn; 5.28 peres, ríki þitt er deilt og gefið Medum og Persum.' 5.29 Því næst bauð Belsasar að klæða Daníel purpura og láta gullfesti um háls honum og gjöra heyrinkunnugt, að hann skyldi vera þriðji yfirhöfðingi í ríkinu. 5.30 Á hinni sömu nótt var Belsasar Kaldeakonungur drepinn.
6.1 Daríus frá Medalandi tók við ríkinu og hafði þá tvo vetur um sextugt. 6.2 Daríusi þóknaðist að setja yfir ríkið hundrað og tuttugu jarla, er skipað skyldi niður um allt ríkið, 6.3 og yfir þá þrjá yfirhöfðingja, og var Daníel einn af þeim. Skyldu jarlarnir gjöra þeim skilagrein, svo að konungur biði engan skaða. 6.4 Þá bar Daníel þessi af yfirhöfðingjunum og jörlunum, sökum þess að hann hafði frábæran anda, og hugði konungur að setja hann yfir allt ríkið. 6.5 Þá leituðu yfirhöfðingjarnir og jarlarnir að finna Daníel eitthvað til saka viðvíkjandi ríkisstjórninni, en gátu enga sök eða ávirðing fundið, því að hann var trúr, svo að ekkert tómlæti né ávirðing fannst hjá honum. 6.6 Þá sögðu þessir menn: 'Vér munum ekkert fundið geta Daníel þessum til saka, nema ef vér finnum honum eitthvað að sök í átrúnaði hans.' 6.7 Þá þustu þessir yfirhöfðingjar og jarlar til konungs og sögðu svo við hann: 'Daríus konungur lifi eilíflega! 6.8 Öllum yfirhöfðingjum ríkisins, landstjórum, jörlum, ráðgjöfum og landshöfðingjum hefir komið ásamt um að gefa út þá konungsskipun og staðfesta það forboð, að hver sem í þrjátíu daga gjörir bæn sína til nokkurs guðs eða manns, nema til þín, konungur, honum skuli varpa í ljónagryfju. 6.9 Nú skalt þú, konungur, gefa út forboð þetta og láta það skriflegt út ganga, svo að því verði ekki breytt, eftir órjúfanlegu lögmáli Meda og Persa.' 6.10 Samkvæmt þessu lét konungur gefa skriflega út skipunina og bannið. 6.11 En er Daníel varð þess vísari, að þessi skipun var út gefin, gekk hann inn í hús sitt. Þar hafði hann uppi í loftstofu sinni opna glugga, er sneru móti Jerúsalem, og þrem sinnum á dag kraup hann á kné, bað til Guðs síns og vegsamaði hann, eins og hann hafði áður verið vanur að gjöra. 6.12 Þá þustu þessir menn að og fundu Daníel, þar sem hann var að biðja og ákalla Guð sinn. 6.13 Síðan gengu þeir inn fyrir konung og spurðu hann viðvíkjandi konungsforboðinu: 'Hefir þú eigi gefið út það forboð, að hver sá maður, sem í þrjátíu daga gjörir bæn sína til nokkurs guðs eða manns, nema til þín, konungur, honum skuli varpa í ljónagryfju?' Konungur svaraði og sagði: 'Það stendur fast, eftir órjúfanlegu lögmáli Meda og Persa.' 6.14 Þá svöruðu þeir og sögðu við konung: 'Daníel, einn af hinum herleiddu Gyðingum, skeytir hvorki um þig, konungur, né um það forboð, sem þú hefir út gefið, heldur gjörir bæn sína þrem sinnum á dag.' 6.15 Þegar konungur heyrði þetta, féll honum það næsta þungt, og lagði hann allan hug á að frelsa Daníel, og allt til sólarlags leitaði hann alls við, að hann fengi borgið honum. 6.16 Þá þustu þessir sömu menn til konungs og sögðu við hann: 'Þú veist, konungur, að það eru lög hjá Medum og Persum, að ekki má raska því banni eða boði, sem konungur hefir út gefið.' 6.17 Þá bauð konungur að leiða Daníel fram og kasta honum í ljónagryfjuna. Og konungur tók til máls og sagði við Daníel: 'Guð þinn, sem þú dýrkar án afláts, frelsi þig!' 6.18 Síðan var sóttur steinn og lagður yfir gryfjumunnann, og innsiglaði konungur hann með innsiglishring sínum og með innsiglishringum stórhöfðingja sinna, til þess að sú ráðstöfun, sem gjörð hafði verið við Daníel, skyldi eigi raskast. 6.19 Eftir það gekk konungur heim til hallar sinnar og var þar um nóttina fastandi. Frillur lét hann eigi leiða inn til sín, og eigi kom honum dúr á auga. 6.20 Síðan reis konungur á fætur í dögun, þá er lýsa tók, og skundaði til ljónagryfjunnar. 6.21 Og er hann kom að gryfjunni, kallaði hann á Daníel með sorgfullri raust. Konungur tók til máls og sagði við Daníel: 'Daníel, þú þjónn hins lifanda Guðs, hefir Guð þinn, sá er þú dýrkar án afláts, megnað að frelsa þig frá ljónunum?' 6.22 Þá sagði Daníel við konung: 'Konungurinn lifi eilíflega! 6.23 Guð minn sendi engil sinn og hann lokaði munni ljónanna, svo að þau gjörðu mér ekkert mein, af því að ég er saklaus fundinn frammi fyrir honum, og hefi ekki heldur framið neitt brot gagnvart þér, konungur!' 6.24 Þá varð konungur næsta glaður og bauð að draga Daníel upp úr gryfjunni. Var Daníel þá dreginn upp úr gryfjunni, og fannst ekki að honum hefði neitt að skaða orðið, því að hann hafði treyst Guði sínum. 6.25 En konungur bauð að leiða fram menn þá, er rægt höfðu Daníel, og kasta þeim, börnum þeirra og konum í ljónagryfjuna. Og áður en þeir komust til botns í gryfjunni, hremmdu ljónin þá og muldu sundur öll bein þeirra. 6.26 Síðan ritaði Daríus konungur öllum lýðum, þjóðum og tungum, sem búa á allri jörðinni: 'Gangi yður allt til gæfu! 6.27 Ég læt þá skipun út ganga, að í öllu veldi ríkis míns skulu menn hræðast og óttast Guð Daníels, því að hann er hinn lifandi Guð og varir að eilífu. Ríki hans gengur ekki á grunn og veldi hans varir allt til enda. 6.28 Hann frelsar og bjargar, hann gjörir tákn og furðuverk á himni og jörðu, hann sem frelsaði Daníel undan ljónunum.' 6.29 Og Daníel þessi var í miklu gengi á ríkisstjórnarárum Daríusar og á ríkisstjórnarárum Kýrusar hins persneska.
7.1 Á fyrsta ríkisári Belsasars konungs í Babýlon dreymdi Daníel draum, og sýnir bar fyrir hann í rekkju hans. Síðan skrásetti hann drauminn og sagði frá aðalatriðunum. 7.2 Daníel hóf upp og sagði: Ég sá í sýn minni á næturþeli, hversu þeir fjórir vindar himinsins rótuðu upp hinu mikla hafi. 7.3 Og fjögur stór dýr stigu upp af hafinu, hvert öðru ólíkt. 7.4 Fyrsta dýrið líktist ljóni og hafði arnarvængi. Ég horfði á það, þar til er vængir þess voru reyttir af því, og því var lyft upp frá jörðinni og reist á fæturna eins og maður, og því var fengið mannshjarta. 7.5 Og sjá, þá kom annað dýr, hið annað í röðinni. Það var líkt bjarndýri. Það var risið upp á aðra hliðina og hafði þrjú rif í munni sér milli tannanna. Til þess var mælt: 'Statt upp og et mikið kjöt.' 7.6 Eftir þetta sá ég enn dýr, líkt pardusdýri, og hafði það fjóra fuglsvængi á síðunum. Þetta dýr hafði fjögur höfuð, og því var vald gefið. 7.7 Eftir þetta sá ég í nætursýnum fjórða dýrið. Það var hræðilegt, ógurlegt og yfirtaks öflugt. Það hafði stórar járntennur, át og muldi sundur, og það, sem eftir varð, tróð það sundur með fótunum. Það var ólíkt öllum fyrri dýrunum og hafði tíu horn. 7.8 Ég athugaði hornin og sá þá, hvar annað lítið horn spratt upp milli þeirra, og þrjú af fyrri hornunum voru slitin upp fyrir það. Og sjá, þetta horn hafði augu, eins og mannsaugu, og munn, sem talaði gífuryrði. 7.9 Ég horfði og horfði, þar til er stólar voru settir fram og hinn aldraði settist niður. Klæði hans voru hvít sem snjór og höfuðhár hans sem hrein ull. Hásæti hans var eldslogar og hjólin undir því eldur brennandi. 7.10 Eldstraumur gekk út frá honum, þúsundir þúsunda þjónuðu honum og tíþúsundir tíþúsunda stóðu frammi fyrir honum. Dómendurnir settust niður og bókunum var flett upp. 7.11 Ég horfði og horfði vegna hinna háværu stóryrða, sem hornið talaði, þar til er dýrið var drepið, líkami þess eyðilagður og honum kastað í eld til að brennast. 7.12 Vald hinna dýranna var og frá þeim tekið og þeim afmarkað lífskeið til ákveðins tíma og stundar. 7.13 Ég horfði í nætursýnunum, og sjá, einhver kom í skýjum himins, sem mannssyni líktist. Hann kom þangað, er hinn aldraði var fyrir, og var leiddur fyrir hann. 7.14 Og honum var gefið vald, heiður og ríki, svo að honum skyldu þjóna allir lýðir, þjóðir og tungur. Hans vald er eilíft vald, sem ekki skal undir lok líða, og ríki hans skal aldrei á grunn ganga. 7.15 Út af þessu varð ég, Daníel, sturlaður, og sýnirnar, sem fyrir mig bar, skelfdu mig. 7.16 Ég gekk þá til eins af þeim, er þar stóðu, og bað hann um áreiðanlega skýring á öllu þessu. Hann talaði til mín og sagði mér svofellda þýðing alls þessa: 7.17 Þessi stóru dýr, fjögur að tölu, merkja það, að fjórir konungar munu hefjast á jörðinni, 7.18 en hinir heilögu Hins hæsta munu eignast ríkið, og þeir munu halda ríkinu ævinlega og um aldir alda. 7.19 Þá vildi ég fá áreiðanlega vitneskju um fjórða dýrið, sem var ólíkt öllum hinum dýrunum, ógurlegt mjög, með járntönnum og eirklóm, sem át, knosaði og sundur tróð með fótunum það, sem það leifði, 7.20 svo og um hornin tíu, sem voru á höfði þess, og um hitt hornið, sem þar spratt upp og þrjú hornin féllu fyrir, þetta horn, sem hafði augu og munn, er talaði gífuryrði og meira var ásýndum en hin. 7.21 Ég horfði á, hvernig horn þetta háði stríð við hina heilögu og hafði sigur yfir þeim, 7.22 þar til er hinn aldraði kom og hinir heilögu Hins hæsta fengu náð rétti sínum og sá tími kom, að hinir heilögu settust að völdum. 7.23 Hann sagði svo: Fjórða dýrið merkir, að fjórða konungsríkið mun rísa upp á jörðinni, sem ólíkt mun verða öllum hinum konungsríkjunum, og það mun upp svelgja öll lönd, niður troða þau og sundur merja. 7.24 Og hornin tíu merkja það, að af þessu ríki munu upp koma tíu konungar, og annar konungur mun upp rísa eftir þá, og hann mun verða ólíkur hinum fyrri, og þremur konungum mun hann steypa. 7.25 Hann mun orð mæla gegn Hinum hæsta, kúga hina heilögu Hins hæsta og hafa í hyggju að umbreyta helgitíðum og lögum, og þeir munu honum í hendur seldir verða um eina tíð, tvær tíðir og hálfa tíð. 7.26 En dómurinn mun settur verða og hann sviptur völdum til þess að afmá þau með öllu og að engu gjöra. 7.27 En ríki, vald og máttur allra konungsríkja, sem undir himninum eru, mun gefið verða heilögum lýð Hins hæsta. Ríki hans mun verða eilíft ríki, og öll veldi munu þjóna því og hlýða. 7.28 Hér er það mál á enda. En mig, Daníel, skelfdu hugsanir mínar mjög, svo að ég gjörðist litverpur, og ég geymdi þetta í hjarta mínu.
8.1 Á þriðja ríkisári Belsasars konungs birtist mér, Daníel, sýn, eftir þá, sem áður hafði birst mér. 8.2 Og ég horfði í sýninni, og var þá, er ég horfði, sem ég væri í borginni Súsa, sem er í Elamhéraði, og ég horfði í sýninni og var ég staddur við Úlaífljótið. 8.3 Þá hóf ég upp augu mín og leit hrút nokkurn standa fram við fljótið. Hann var tvíhyrndur, og há hornin, og þó annað hærra en hitt, og spratt hærra hornið síðar upp. 8.4 Ég sá hrútinn stanga hornum mót vestri, norðri og suðri, og engin dýr gátu við honum staðist, og enginn gat frelsað nokkurn undan valdi hans. Hann gjörði sem honum leist og framkvæmdi mikla hluti. 8.5 En er ég gaf nákvæmlega gætur að, sá ég að geithafur nokkur kom vestan. Leið hann yfir alla jörðina án þess að koma við hana, og hafurinn hafði afar stórt horn milli augnanna. 8.6 Hann kom til tvíhyrnda hrútsins, sem ég sá standa fram við fljótið, og rann á hann í heiftaræði. 8.7 Og ég sá hann hitta hrútinn á síðuna, og hann varð mjög illur við hann og laust hrútinn og braut bæði horn hans, svo að hrúturinn hafði ekki mátt til að veita honum viðnám. Og hann fleygði honum til jarðar og tróð hann undir, og mátti enginn frelsa hrútinn undan valdi hans. 8.8 Og geithafurinn framkvæmdi mjög mikla hluti, en er máttur hans var sem mestur, brotnaði hornið mikla, og í þess stað spruttu upp önnur fjögur, gegnt höfuðáttunum fjórum. 8.9 Og út frá einu þeirra spratt annað lítið horn og óx mjög til suðurs og austurs og mót prýði landanna. 8.10 Það óx og móti her himnanna og varpaði til jarðar nokkrum af hernum og af stjörnunum, og tróð þá undir. 8.11 Já, það óx móti höfðingja hersins, og það lét afnema hina daglegu fórn, og hans heilagi bústaður var niður rifinn. 8.12 Og herinn var framseldur ásamt hinni daglegu fórn vegna misgjörðarinnar, og hornið varp sannleikanum til jarðar, já, slíkt gjörði það og var giftudrjúgt. 8.13 Þá heyrði ég einn heilagan tala, og annar heilagur sagði við hinn, sem talaði: 'Hvað á hún sér langan aldur þessi sýn um hina daglegu fórn og um hinn hræðilega glæp, frá því er hann framselur helgidóminn og herinn, svo að hann verði niður troðinn?' 8.14 Og hann sagði við hann: 'Tvö þúsund og þrjú hundruð kveld og morgnar, og þá mun helgidómurinn aftur verða kominn í samt lag.' 8.15 Þegar ég, Daníel, sá þessa sýn og leitaðist við að skilja hana, þá stóð allt í einu einhver frammi fyrir mér, líkur manni ásýndar. 8.16 Og ég heyrði mannsraust milli Úlaí-bakka, sem kallaði og sagði: 'Gabríel, útskýr þú sýnina fyrir þessum manni.' 8.17 Og hann gekk til mín, þar sem ég stóð, en er hann kom, varð ég hræddur og féll fram á ásjónu mína. En hann sagði við mig: 'Gef gætur að, þú mannsson, því að sýnin á við tíð endalokanna.' 8.18 Og meðan hann talaði við mig, leið ég í ómegin til jarðar fram á ásjónu mína, en hann snart mig og reisti mig aftur á fætur, þar er ég hafði staðið. 8.19 Og hann sagði: 'Sjá, ég kunngjöri þér, hvað verða muni, þá er hin guðlega reiði tekur enda, því að sýnin á við tíð endalokanna. 8.20 Tvíhyrndi hrúturinn, sem þú sást, merkir konungana í Medíu og Persíu, 8.21 og hinn loðni geithafur merkir Grikklands konung, og hornið mikla milli augna hans er fyrsti konungurinn. 8.22 Og að það brotnaði og fjögur spruttu aftur upp í þess stað, það merkir, að fjögur konungsríki munu hefjast af þjóðinni, og þó ekki jafnvoldug sem hann var. 8.23 En er ríki þeirra tekur enda, þá er trúrofarnir hafa fyllt mælinn, mun konungur nokkur upp rísa, bæði illúðlegur og hrekkvís. 8.24 Vald hans mun mikið verða, og þó eigi fyrir þrótt sjálfs hans. Hann mun gjöra ótrúlega mikið tjón og verða giftudrjúgur í því, er hann tekur sér fyrir hendur. Hann mun voldugum tjón vinna og hugur hans beinast gegn hinum heilögu. 8.25 Vélræðum mun hann til vegar koma með hendi sinni og hyggja á stórræði og steypa mörgum í glötun, er þeir eiga sér einskis ills von. Já, hann mun rísa gegn höfðingja höfðingjanna, en þó sundur mulinn verða án manna tilverknaðar. 8.26 Og sýnin um ,kveld og morgun`, sem um var talað, hún er sönn, en leyn þú þeirri sýn, því að hún á sér langan aldur.' 8.27 En ég, Daníel, varð sjúkur um hríð. Því næst komst ég á fætur aftur og þjónaði að erindum konungs, og ég var mjög undrandi yfir sýn þessari, en skildi hana eigi.
9.1 Á fyrsta ríkisári Daríusar Ahasverussonar, sem var medískur að ætt og orðinn konungur yfir ríki Kaldea, 9.2 á fyrsta ári ríkisstjórnar hans, hugði ég, Daníel, í ritningunum að áratölu þeirri, er Jerúsalem átti að liggja í rústum, samkvæmt orði Drottins, því er til Jeremía spámanns hafði komið, sem sé sjötíu ár. 9.3 Ég sneri þá ásjónu minni til Drottins Guðs til þess að bera fram bæn mína og grátbeiðni með föstu, í sekk og ösku. 9.4 Ég bað til Drottins, Guðs míns, gjörði játningu mína og sagði: 'Æ, Drottinn, þú mikli og ógurlegi Guð, sem heldur sáttmálann og miskunnsemina við þá, sem elska hann og varðveita boðorð hans. 9.5 Vér höfum syndgað og illa gjört, vér höfum breytt óguðlega og verið þér mótsnúnir og vikið frá boðum þínum og setningum. 9.6 Vér höfum ekki hlýtt þjónum þínum, spámönnunum, sem töluðu í þínu nafni til konunga vorra, höfðingja og feðra og til alls landslýðsins. 9.7 Þú, Drottinn, ert réttlátur, en vér megum blygðast vor, sem vér og gjörum í dag, vér Júdamenn og Jerúsalembúar og allur Ísrael, bæði þeir sem nálægir eru og þeir sem fjarlægir eru í öllum þeim löndum, þangað sem þú hefir rekið þá fyrir tryggðrof þeirra, er þeir hafa í frammi við þig haft. 9.8 Drottinn, vér megum blygðast vor, konungar vorir, höfðingjar vorir og feður vorir, því að vér höfum syndgað móti þér. 9.9 En hjá Drottni, Guði vorum, er miskunnsemi og fyrirgefning, því að vér höfum verið honum mótsnúnir 9.10 og ekki hlýtt raustu Drottins Guðs vors, að breyta eftir boðorðum hans, þeim er hann fyrir oss lagði fyrir munn þjóna sinna, spámannanna. 9.11 Já, allur Ísrael hefir brotið lögmál þitt, hefir vikið frá þér, svo að hann hlýðir eigi framar raustu þinni. Þá var þeirri eiðfestu bölvan úthellt yfir oss, sem skrifuð er í lögmáli Móse, þjóns Guðs, því að vér höfum syndgað móti honum. 9.12 Og hann efndi orð sín, þau er hann hafði talað gegn oss og dómurum vorum, þeim er yfirráð höfðu yfir oss, að hann skyldi láta mikla ógæfu yfir oss koma, svo að hvergi á jarðríki hefir slík ógæfa orðið sem í Jerúsalem. 9.13 Eins og skrifað er í lögmáli Móse um alla þessa ógæfu, svo er hún yfir oss komin. Og vér höfum ekki blíðkað Drottin Guð vorn með því að hverfa frá misgjörðum vorum og gefa gætur að trúfesti þinni. 9.14 Og Drottinn vakti yfir ógæfunni og lét hana yfir oss koma, því að Drottinn Guð vor er réttlátur í öllum verkum sínum, þeim er hann gjörir, en vér höfum eigi hlýtt raustu hans. 9.15 Og nú, Drottinn Guð vor, þú sem útleiddir lýð þinn af Egyptalandi með sterkri hendi og afrekaðir þér mikið nafn fram á þennan dag, vér höfum syndgað, vér höfum breytt óguðlega. 9.16 Drottinn, lát þú samkvæmt réttlæti því, er þú ávallt hefir sýnt, gremi þína og heiftarreiði þína hverfa frá borg þinni Jerúsalem, þínu heilaga fjalli, því að fyrir syndir vorar og misgjörðir feðra vorra er Jerúsalem og lýður þinn orðinn að háðung hjá öllum þeim, sem umhverfis oss búa. 9.17 Heyr nú, Guð vor, bæn þjóns þíns og grátbeiðni hans og lát ásjónu þína lýsa, fyrir sjálfs þín sakir, Drottinn, yfir helgidóm þinn, sem nú er í eyði. 9.18 Hneig, Guð minn, eyra þitt og heyr, ljúk upp augum þínum og sjá eyðing vora og borgina, sem nefnd er eftir nafni þínu, því að ekki framberum vér auðmjúkar bænir fyrir þig í trausti til vors eigin réttlætis, heldur í trausti til þinnar miklu miskunnsemi. 9.19 Drottinn, heyr! Drottinn, fyrirgef! Drottinn, hygg að og framkvæm! Tef eigi, fyrir sjálfs þín sakir, Guð minn, því að eftir þínu nafni er borg þín nefnd og lýður þinn!' 9.20 Meðan ég enn var að tala, baðst fyrir og játaði syndir mínar og syndir lýðs míns, Ísraels, og frambar fyrir Drottin Guð minn auðmjúka bæn fyrir hinu heilaga fjalli Guðs míns, 9.21 já, meðan ég enn var að tala í bæninni, kom að mér um það bil, er kveldfórn er fram borin, maðurinn Gabríel, sem ég hafði áður séð í sýninni, þá er ég hné í ómegin. 9.22 Hann kom og talaði við mig og sagði: 'Daníel, nú er ég út genginn til þess að veita þér glöggan skilning. 9.23 Þegar þú byrjaðir bæn þína, út gekk orð, og er ég hingað kominn til að kunngjöra þér það, því að þú ert ástmögur Guðs. Tak því eftir orðinu og gef gætur að vitraninni. 9.24 Sjötíu sjöundir eru ákveðnar lýð þínum og þinni heilögu borg til þess að drýgja glæpinn til fulls og fylla mæli syndanna og til þess að friðþægja fyrir misgjörðina og leiða fram eilíft réttlæti, til þess að innsigla vitrun og spámann og vígja hið háheilaga. 9.25 Vit því og hygg að: Frá því, er orðið um endurreisn Jerúsalem út gekk, til hins smurða höfðingja, eru sjö sjöundir, og í sextíu og tvær sjöundir skulu torg hennar og stræti endurreist verða, þó að þrengingartímar séu. 9.26 Og eftir þær sextíu og tvær sjöundir mun hinn smurði afmáður verða, og hann mun ekkert eiga, og borgina og helgidóminn mun eyða þjóð höfðingja nokkurs, sem koma á, en hann mun farast í refsidómsflóðinu, og allt til enda mun ófriður haldast við og sú eyðing, sem fastráðin er. 9.27 Og hann mun gjöra fastan sáttmála við marga um eina sjöund, og um miðja sjöundina mun hann afnema sláturfórn og matfórn, og á vængjum viðurstyggðarinnar mun eyðandinn koma, en eftir það mun gjöreyðing, og hún fastráðin, steypast yfir eyðandann.'
10.1 Á þriðja ári Kýrusar Persakonungs fékk Daníel, sem kallaður var Beltsasar, opinberun, og opinberunin er sönn og boðar miklar þrengingar. Og hann gaf gætur að opinberuninni og hugði að sýninni. 10.2 Á þeim dögum var ég, Daníel, harmandi þriggja vikna tíma. 10.3 Ég neytti engrar dýrindisfæðu, kjöt og vín kom ekki inn fyrir varir mínar, og ég smurði mig ekki fyrr en þrjár vikur voru liðnar. 10.4 En tuttugasta og fjórða dag hins fyrsta mánaðar var ég staddur á bakka hins mikla Tígrisfljóts. 10.5 Þá hóf ég upp augu mín og sá mann nokkurn, klæddan línklæðum og gyrtan skíragulli um lendar. 10.6 Líkami hans var sem krýsolít, ásjóna hans sem leiftur, augu hans sem eldblys, armleggir hans og fætur sem skyggður eir og hljómurinn af orðum hans eins og mikill gnýr. 10.7 Ég, Daníel, sá einn sýnina, og mennirnir, sem með mér voru, sáu ekki sýnina, en yfir þá kom mikil hræðsla, og flýðu þeir í felur. 10.8 Ég varð þá einn eftir og sá þessa miklu sýn. En hjá mér var enginn máttur eftir orðinn, og yfirlitur minn var til lýta umbreyttur, og ég hélt engum styrk eftir. 10.9 Og ég heyrði hljóminn af orðum hans, og er ég heyrði hljóminn af orðum hans, hné ég í ómegin á ásjónu mína, með andlitið að jörðinni. 10.10 Og sjá, hönd snart mig og hjálpaði mér óstyrkum upp á knén og hendurnar. 10.11 Og hann sagði við mig: 'Daníel, þú ástmögur Guðs, tak eftir þeim orðum, er ég tala við þig, og statt á fætur, því að ég er nú einmitt til þín sendur.' Og er hann mælti til mín þessum orðum, stóð ég upp skjálfandi. 10.12 Því næst sagði hann við mig: 'Óttast þú ekki, Daníel, því að frá því er þú fyrst hneigðir hug þinn til að öðlast skilning og þú lítillættir þig fyrir Guði þínum, eru orð þín heyrð, og ég er vegna orða þinna hingað kominn. 10.13 En verndarengill Persaríkis stóð í móti mér tuttugu og einn dag, en sjá, Míkael, einn af fremstu verndarenglunum, kom mér til hjálpar, og hann skildi ég eftir þar hjá Persakonungum. 10.14 Og nú er ég kominn til að fræða þig á því, sem fram við þjóð þína mun koma á hinum síðustu tímum, því að enn á sýnin við þá daga.' 10.15 Og er hann talaði þessum orðum til mín, leit ég til jarðar og þagði. 10.16 Og sjá, einhver í mannslíki snart varir mínar, og ég lauk upp munni mínum, talaði og sagði við þann, sem stóð frammi fyrir mér: 'Herra minn, sökum sýnarinnar eru kvalir þessar yfir mig komnar, og kraftur minn er þrotinn. 10.17 Og hvernig ætti ég, þjónn þinn, herra, að geta talað við slíkan mann sem þú ert, herra? Og nú er allur kraftur minn að þrotum kominn, og enginn lífsandi er í mér eftir orðinn.' 10.18 Sá sem í mannslíki var, snart mig þá aftur, styrkti mig 10.19 og sagði: 'Óttast þú ekki, ástmögur, friður sé með þér! Vertu hughraustur, vertu hughraustur!' Og er hann talaði við mig, fann ég að ég styrktist og sagði: 'Tala þú, herra minn, því að þú hefir gjört mig styrkan.' 10.20 Þá sagði hann: 'Veistu, hvers vegna ég er til þín kominn? En nú verð ég að snúa aftur til þess að berjast við verndarengil Persíu, og þegar ég fer af stað, sjá, þá kemur verndarengill Grikklands. 10.21 Þó vil ég gjöra þér kunnugt, hvað skrifað er í bók sannleikans, þótt enginn veiti mér lið móti þeim, nema Míkael, verndarengill yðar.
11.1 Hann stendur mér við hlið til þess að veita mér lið og vernd.' 11.2 Og nú vil ég kunngjöra þér sannleika: Sjá, enn munu þrír konungar koma fram í Persíu, en hinn fjórði mun afla meiri auðs en allir aðrir, og er hann er voldugur orðinn fyrir auð sinn, mun hann bjóða öllu út gegn Grikklands ríki. 11.3 Eftir það mun rísa hraustur konungur og drottna yfir víðlendu ríki og til leiðar koma því, er hann vill. 11.4 En þegar uppgangur hans er sem mestur, þá mun sundrast ríki hans og skiptast eftir fjórum áttum himinsins, en þó ekki til eftirkomenda hans, og ekki með slíku veldi, er hann hafði, því að ríki hans mun eytt verða og fengið öðrum en þeim. 11.5 Og konungurinn suður frá mun öflugur verða, en einn af höfðingjum hans mun verða öflugri en hann, og hann mun ríki ráða. Ríki hans mun verða stórveldi. 11.6 Og að nokkrum árum liðnum munu þeir mægjast hvor við annan. Þá mun dóttir konungsins suður frá koma til konungsins norður frá til þess að koma á sáttum. En sú hjálp mun að engu haldi koma, stuðningur hans mun og eigi standa. Og hún mun framseld verða, hún og þeir, sem hana höfðu flutt þangað, og faðir hennar og sá, er gekk að eiga hana, á sínum tíma. 11.7 Því næst mun í hans stað kvistur upp spretta af rótum hennar. Hann mun fara í móti liðsaflanum og komast inn í virki konungsins norður frá og fara með þá sem honum líkar, og verða voldugur. 11.8 Já, jafnvel guði þeirra, ásamt steyptum líkneskjum þeirra og dýrindiskerum af silfri og gulli, mun hann flytja hernumda til Egyptalands. Þá mun hann í nokkur ár láta konunginn norður frá í friði. 11.9 En hann mun gjöra árás á ríki konungsins suður frá og hverfa þó aftur heim í sitt land. 11.10 Og synir hans munu leggja út í ófrið og draga saman afar mikinn her. Og hann mun koma og vaða yfir og brjótast fram, en hann mun snúa aftur, og þeir munu herja allt að virki hans. 11.11 Þetta mun konunginum suður frá gremjast, og hann mun leggja af stað og berjast við hann, við konunginn norður frá. Hann mun kveðja upp mikinn her, en herinn mun seldur verða hinum á vald. 11.12 Og herinn mun rekinn verða burt. Hjarta hans mun ofmetnast, og hann mun tíþúsundir að velli leggja, og þó ekki reynast öflugur. 11.13 Þá mun konungurinn norður frá enn kveðja upp her, meiri en hinn fyrri, og að liðnum nokkrum árum mun hann koma með fjölmennum liðsafla og miklum útbúnaði. 11.14 Um þær mundir munu margir rísa gegn konunginum suður frá, og ofríkisfullir menn af þjóð þinni munu hefja uppreisn til þess að láta vitrunina rætast, en þeir munu steypast. 11.15 Og konungurinn norður frá mun koma og hlaða virkisvegg og vinna víggirta borg, og herir suðurríkisins munu eigi fá staðist og einvalalið hans mun eigi þrótt hafa til að veita viðnám. 11.16 Og sá sem fer í móti honum, mun gjöra það, er honum þóknast, með því að enginn fær honum viðnám veitt, og hann mun fá fótfestu í prýði landanna, og eyðing er í hendi hans. 11.17 Síðan mun hann ásetja sér að koma með öllum herafla ríkis síns, en hann mun gjöra sátt við hann og gefa honum unga stúlku, landinu til tjóns. En ráðagjörð hans mun eigi framgang fá og eigi takast. 11.18 Og hann mun snúa sér að eyjunum og vinna margar, en hershöfðingi nokkur mun gjöra enda á smánan hans, já, hann mun láta smánan hans koma yfir sjálfan hann. 11.19 Þá mun hann snúa sér að virkjum síns eigin lands, og hann mun hrasa og falla, og hans mun engan stað sjá framar. 11.20 Í hans stað mun annar koma, er senda mun skattheimtumann til þess landsins, sem er prýði ríkisins, en eftir nokkra daga mun hann drepinn verða, þó ekki í reiði né bardaga. 11.21 Í hans stað mun koma fyrirlitlegur maður, er þeir höfðu eigi ætlað konungstignina. Hann mun koma að óvörum og ná undir sig ríkinu með fláttskap. 11.22 Og yfirvaðandi herflokkar munu skolast burt fyrir honum og eyddir verða, svo og sáttmálshöfðinginn. 11.23 Og upp frá því, er menn hafa bundið félagsskap við hann, mun hann beita svikum. Hann mun leggja af stað fáliðaður og bera hærri hlut. 11.24 Að óvörum mun hann brjótast inn í frjósömustu sveitir landsins og gjöra það, sem hvorki feður hans né forfeður hafa gjört: Herfangi, rændu fé og auðæfum mun hann úthluta þeim ríkulega, og gegn virkjum mun hann hafa ráðagjörðir með höndum. Þó mun það aðeins verða um hríð. 11.25 Því næst mun hann beita styrk sínum og hugrekki gegn konunginum suður frá með miklum her, og konungurinn suður frá mun hefja ófrið við hann með miklum her og mjög öflugum, en þó mun hann ekki fá í móti staðið, því að menn brugga ráð í móti honum. 11.26 Þeir sem eta við borð hans, munu fella hann, og her hans skolast burt, og margir særðir í val falla. 11.27 Og báðir konungarnir munu hafa illt í hyggju og tala flærðarsamlega að hinu sama borði, en eigi mun það ná fram að ganga, því að enn er hinn tiltekni tími eigi liðinn á enda. 11.28 Og hann mun hverfa aftur heim í land sitt með miklum fjárhlut og snúa huga sínum í móti hinum heilaga sáttmála, og hann mun koma fram áformi sínu og hverfa síðan aftur heim í land sitt. 11.29 Á ákveðnum tíma mun hann aftur brjótast inn í suðurlandið, og mun síðari förin ekki takast jafnvel og hin fyrri. 11.30 Því að skip Rómverja munu koma í móti honum, og hann mun láta hugfallast og halda heimleiðis og snúa reiði sinni gegn hinum heilaga sáttmála og láta hann kenna á henni. Síðan mun hann hverfa heim aftur og gefa þeim gætur, sem yfirgefa hinn heilaga sáttmála. 11.31 Herflokkar hans munu bera hærri hlut og vanhelga helgidóminn, vígið, afnema hina daglegu fórn og reisa þar viðurstyggð eyðingarinnar. 11.32 Og þá sem syndga gegn sáttmálanum, mun hann með fláttskap tæla til fráhvarfs, en þeir menn, sem þekkja Guð sinn, munu stöðugir standa og drýgja dáð. 11.33 Hinir vitru meðal lýðsins munu kenna mörgum hyggindi, en um hríð munu þeir falla fyrir sverði og báli, fyrir herleiðingum og fjárránum. 11.34 Og þá er þeir falla, mun þeim veitast dálítil hjálp. Þá munu margir fylla flokk þeirra af yfirdrepskap. 11.35 En þar sem nokkrir af hinum vitru falla, þá er það til að skíra, reyna og hreinsa aðra meðal þeirra, allt til endalokanna, því að hinn ákveðni tími er enn ekki liðinn. 11.36 En konungurinn mun fram fara eftir geðþótta sínum. Hann mun hefja sig upp yfir og ofmetnast gegn sérhverjum guði og mæla afaryrði í gegn Guði guðanna. Og hann mun giftudrjúgur verða þar til reiðinni er lokið, því að það, sem ályktað hefir verið, er þá fram komið. 11.37 Og hann mun ekki skeyta guðum feðra sinna, né heldur uppáhaldsgoði kvennanna, já, engum guði mun hann skeyta, heldur hreykja sér yfir allt. 11.38 En guð virkjanna mun hann í stað þess heiðra, guð, sem feður hans þekktu ekki, mun hann heiðra, með gulli og silfri, með dýrum steinum og gersemum, 11.39 og í hin rammgjörðu vígin mun hann afla sér manna, er tilheyra útlendum guði. Þeim sem hann viðurkenna, mun hann veita mikla sæmd og láta þá ríkja yfir mörgum og úthluta þeim landi að verðlaunum. 11.40 Þegar að endalokunum líður, mun konungurinn suður frá heyja stríð við hann, og konungurinn norður frá mun þeysast í móti honum með vögnum, riddurum og mörgum skipum, og brjótast inn í lönd hans og vaða yfir þau og geysast áfram. 11.41 Þá mun hann og brjótast inn í það landið, sem er prýði landanna, og tíþúsundir munu að velli lagðar. En þessir munu bjarga sér undan hendi hans: Edómítar, Móabítar og kjarni Ammóníta. 11.42 Og hann mun rétta hönd sína út yfir löndin, og Egyptaland mun ekki komast undan. 11.43 Hann mun kasta eign sinni á fjársjóðu Egyptalands af gulli og silfri og á allar gersemar þess, og Líbýumenn og Blálendingar munu vera í för með honum. 11.44 En fregnir frá austri og norðri munu skelfa hann. Mun hann þá í mikilli bræði hefja ferð sína til þess að eyða og tortíma mörgum. 11.45 Hann mun slá skrauttjöldum sínum milli hafsins og fjalls hinnar helgu prýði. Þá mun hann undir lok líða og enginn hjálpa honum.
12.1 En á þeim tíma mun Míkael, hinn mikli verndarengill, sá er verndar landa þína, fram ganga. Og það skal verða svo mikil hörmungatíð, að slík mun aldrei verið hafa, frá því er menn urðu fyrst til og allt til þess tíma. Á þeim tíma mun þjóð þín frelsuð verða, allir þeir sem skráðir finnast í bókinni. 12.2 Og margir þeirra, sem sofa í dufti jarðarinnar, munu upp vakna, sumir til eilífs lífs, sumir til smánar, til eilífrar andstyggðar. 12.3 Og hinir vitru munu skína eins og ljómi himinhvelfingarinnar og þeir, sem leitt hafa marga til réttlætis, eins og stjörnurnar um aldur og ævi. 12.4 En þú, Daníel, halt þú þessum orðum leyndum og innsigla bókina, þar til er að endalokunum líður. Margir munu rannsaka hana, og þekkingin mun vaxa.' 12.5 Ég, Daníel, sá og sjá, tveir aðrir englar stóðu þar, á sínum fljótsbakkanum hvor. 12.6 Annar þeirra sagði við manninn í línklæðunum, sem var uppi yfir fljótsvötnunum: 'Hversu langt mun til endisins á þessum undursamlegu hlutum?' 12.7 Þá heyrði ég til mannsins í línklæðunum, sem var uppi yfir fljótsvötnunum. Hann fórnaði hægri og vinstri hendi til himins og sór við þann, sem lifir eilíflega, og sagði: 'Eina tíð, tvær tíðir og hálfa tíð. Og þegar vald hans, sem eyðir hina helgu þjóð, er á enda, mun allt þetta fram koma.' 12.8 Ég heyrði þetta, en skildi það ekki, og sagði því: 'Herra minn, hver mun endir á þessu verða?' 12.9 En hann sagði: 'Far þú, Daníel, því að orðunum er leyndum haldið og þau innsigluð, þar til er endirinn kemur. 12.10 Margir munu verða klárir, hreinir og skírir, en hinir óguðlegu munu breyta óguðlega, og engir óguðlegir munu skilja það, en hinir vitru munu skilja það. 12.11 Og frá þeim tíma, er hin daglega fórn verður afnumin og viðurstyggð eyðingarinnar upp reist, munu vera eitt þúsund tvö hundruð og níutíu dagar. 12.12 Sæll er sá, sem þolugur þreyr og nær eitt þúsund þrjú hundruð þrjátíu og fimm dögum.
1.1 Orð Drottins, sem kom til Hósea Beerísonar á dögum Ússía, Jótams, Akasar og Hiskía, Júdakonunga, og á dögum Jeróbóams Jóassonar, Ísraelskonungs. 1.2 Þá er Drottinn hóf að tala við Hósea, sagði hann við Hósea: 'Far og tak þér hórkonu og eignast hórbörn, því að landið drýgir hór og hefir snúist frá Drottni.' 1.3 Þá fór hann og gekk að eiga Gómer Diblaímsdóttur. Hún varð þunguð og fæddi honum son. 1.4 Og Drottinn sagði við hann: 'Lát hann heita Jesreel, því að innan skamms vitja ég blóðskuldar Jesreels á ætt Jehú og gjöri enda á konungdómi Ísraels húss. 1.5 Á þeim degi sundurbrýt ég boga Ísraels á Jesreel-völlum.' 1.6 Og hún varð aftur þunguð og ól dóttur. Þá sagði Drottinn við Hósea: 'Lát þú hana heita Náðvana, því að ég mun eigi framar auðsýna náð Ísraels húsi, svo að ég fyrirgefi þeim. 1.7 En ég mun auðsýna náð Júda húsi og hjálpa þeim fyrir Drottin, Guð þeirra, en ég mun eigi hjálpa þeim með boga, sverði, bardögum, stríðshestum né riddurum.' 1.8 Og er hún hafði vanið Náðvana af brjósti, varð hún enn þunguð og ól son. 1.9 Þá sagði Drottinn: 'Lát hann heita Ekki-minn-lýður, því að þér eruð ekki minn lýður, og ég er ekki yðar Guð.' 1.10 Tala Ísraelsmanna skal verða sem sandur á sjávarströnd, sem ekki verður mældur og ekki talinn. Og í stað þess, að sagt var við þá: 'Þér eruð ekki minn lýður!' skal við þá sagt verða: 'Synir hins lifanda Guðs!' 1.11 Júdamenn og Ísraelsmenn skulu safnast saman og velja sér einn yfirmann og hefja ferð sína heim úr landinu, því að mikill mun Jesreeldagur verða.
2.1 Segið við bræður yðar: 'Minn lýður!' og við systur yðar: 'Náðþegi!' 2.2 Deilið á móður yðar, deilið á hana, því að hún er eigi mín kona og ég er ekki maður hennar, svo að hún fjarlægi hórdóm sinn frá andliti sínu og hjúskaparbrot sín frá brjóstum sínum. 2.3 Ella mun ég færa hana úr öllu og láta hana standa nakta, eins og þegar hún fæddist, og gjöra hana eins og eyðimörk og láta hana verða eins og þurrt land og láta hana deyja af þorsta. 2.4 Og yfir börn hennar mun ég ekki miskunna mig, því að þau eru hórbörn, 2.5 því að móðir þeirra hefir drýgt hór, hún sem þau gat, hefir framið svívirðu. Því að hún sagði: 'Ég vil elta friðla mína, sem gefa mér brauð mitt og vatn, ull mína og hör, olífuolíu mína og drykki.' 2.6 Fyrir því vil ég girða fyrir veg hennar með þyrnum og hlaða vegg fyrir hana, til þess að hún finni ekki stigu sína. 2.7 Og þegar hún þá eltir friðla sína, skal hún ekki ná þeim, og er hún leitar þeirra, skal hún ekki finna þá, heldur mun hún segja: 'Ég vil fara og snúa aftur til míns fyrra manns, því að þá leið mér betur en nú.' 2.8 Hún veit þá ekki, að það er ég, sem hefi gefið henni kornið og vínberjalöginn og olífuolíuna og veitt henni gnótt silfurs og gulls, en þeir hafa varið því handa Baal. 2.9 Fyrir því vil ég taka aftur korn mitt á korntíðinni og vínberjalög minn, þegar hans ákveðni tími kemur, og nema burt ull mína og hör, er hún skyldi skýla með nekt sinni. 2.10 Og nú vil ég bera gjöra blygðan hennar í augsýn friðla hennar, _ enginn skal fá hrifið hana úr minni hendi _ 2.11 og gjöra enda á alla kæti hennar, á hátíðir hennar, tunglkomudaga og hvíldardaga og á allar löghátíðir hennar, 2.12 og eyða víntré hennar og fíkjutré, er hún sagði um: 'Þau eru hórgjald, sem friðlar mínir hafa gefið mér!' Og ég vil gjöra þau að kjarrskógi, til þess að villidýrin eti þau. 2.13 Ég vil hegna henni fyrir daga Baalanna, þá er hún færði þeim reykelsisfórnir og prýddi sig með nefhringum og hálsmenjum og fylgdi friðlum sínum, en gleymdi mér, _ segir Drottinn. 2.14 Ég vil lokka hana og leiða hana út í eyðimörk og hughreysta hana, 2.15 og ég gef henni þar víngarða sína og gjöri Mæðudal að Vonarhliði, og þá mun hún verða eftirlát eins og á æskudögum sínum og eins og þá er hún fór burt af Egyptalandi. 2.16 Á þeim degi, _ segir Drottinn _ munt þú ávarpa mig 'Maðurinn minn,' en ekki framar kalla til mín 'Baal minn.' 2.17 Og ég vil venja hana af að hafa nöfn Baalanna á vörum sér, svo að þeirra skal eigi verða framar getið með nafni. 2.18 Og á þeim degi gjöri ég fyrir þá sáttmála við dýr merkurinnar og fugla himinsins og skriðkvikindi jarðarinnar, og eyði bogum, sverðum og bardögum úr landinu og læt þá búa örugga. 2.19 Og ég mun festa þig mér eilíflega, ég mun festa þig mér í réttlæti og réttvísi, í kærleika og miskunnsemi, 2.20 ég mun festa þig mér í trúfesti, og þú skalt þekkja Drottin. 2.21 Og á þeim degi mun ég bænheyra, segir Drottinn. Ég mun bænheyra himininn, og hann mun bænheyra jörðina, 2.22 og jörðin mun bænheyra kornið, vínberjalöginn og olíuna, og þau munu bænheyra Jesreel. 2.23 Og ég vil gróðursetja lýð minn í landinu og auðsýna Náðvana náð og segja við Ekki-minn-lýð: 'Þú ert minn lýður!' og hann mun segja: 'Guð minn!'
3.1 Drottinn sagði við mig: 'Far enn og elska konu, sem elskar annan mann og haft hefir fram hjá, eins og Drottinn elskar Ísraelsmenn, þótt þeir hneigist að öðrum guðum og þyki rúsínukökur góðar.' 3.2 Þá keypti ég mér hana fyrir fimmtán sikla silfurs og hálfan annan kómer byggs 3.3 og sagði við hana: 'Langan tíma skalt þú sitja ein án þess að drýgja hór og án þess að heyra nokkrum manni til. Svo skal ég og vera gagnvart þér.' 3.4 Þannig munu Ísraelsmenn langan tíma sitja einir án konungs og án höfðingja, án fórnar og án merkissteins, án hökuls og húsguða. 3.5 Eftir það munu Ísraelsmenn snúa sér og leita Drottins, Guðs síns, og Davíðs, konungs síns, og þeir munu á hinum síðustu dögum flýja til Drottins og til hans blessunar.
4.1 Heyrið orð Drottins, þér Ísraelsmenn! Því að Drottinn hefir mál að kæra gegn íbúum landsins, því að í landinu er engin trúfesti, né kærleikur, né þekking á Guði. 4.2 Þeir sverja og ljúga, myrða og stela og hafa fram hjá. Þeir brjótast inn í hús, og hvert mannvígið tekur við af öðru. 4.3 Fyrir því drúpir landið, og allt visnar sem í því er, jafnvel dýr merkurinnar og fuglar himinsins, og enda fiskarnir í sjónum eru hrifnir burt. 4.4 Þó ávíti enginn og álasi enginn. En á yður deili ég, þér prestar. 4.5 Þér skuluð steypast á degi, og jafnvel spámennirnir skulu steypast með yður á nóttu, og ég vil afmá móður yðar, Ísrael. 4.6 Lýður minn verður afmáður, af því að hann hefir enga þekking. Af því að þér hafið hafnað þekkingunni, þá vil ég hafna yður, svo að þér séuð ekki prestar fyrir mig, og með því að þér hafið gleymt lögmáli Guðs yðar, þá vil ég og gleyma börnum yðar. 4.7 Því voldugri sem þeir urðu, því meir syndguðu þeir gegn mér. Vegsemd sinni skipta þeir fyrir smán. 4.8 Þeir lifa af synd lýðs míns, og þá langar í misgjörð þeirra. 4.9 En fyrir lýðnum skal fara eins og fyrir prestunum: Ég skal hegna honum fyrir athæfi hans og gjalda honum fyrir verk hans. 4.10 Þeir skulu eta, en þó ekki saddir verða, þeir skulu hórast, en engan unað af því hafa, því að þeir hafa yfirgefið Drottin. 4.11 Hór, vín og vínberjalögur tekur vitið burt. 4.12 Lýður minn gengur til frétta við trédrumb sinn, og stafsproti hans veitir honum andsvör. Því að hórdómsandi hefir leitt þá afvega, svo að þeir drýgja hór, ótrúir Guði sínum. 4.13 Efst uppi á fjöllunum fórna þeir sláturfórnum, og á fórnarhæðunum færa þeir reykelsisfórnir, undir eikum, öspum og terebintum, því að skuggi þeirra er ununarfullur. Fyrir því drýgja dætur yðar hór og fyrir því hafa yðar ungu konur fram hjá. 4.14 Ég vil ekki hegna dætrum yðar fyrir það að þær drýgja hór, né yðar ungu konum fyrir það að þær hafa fram hjá, því að þeir ganga sjálfir afsíðis með portkonum og fórna sláturfórnum með hofskækjum, og fávitur lýðurinn steypir sér í glötun. 4.15 Þótt þú, Ísrael, drýgir hór, þá láti Júda sér það ekki á verða. Farið eigi til Gilgal og gangið ekki upp til Betaven og sverjið ekki: 'Svo sannarlega sem Drottinn lifir.' 4.16 Ísrael er orðinn baldinn, eins og baldin kýr. Á Drottinn nú að halda þeim til haga eins og lömbum á víðu haglendi? 4.17 Efraím er orðinn skurðgoða félagi. Lát hann eiga sig. 4.18 Víndrykkja þeirra hefir lent í spilling. Þeir drýgja hór, þeir elska svívirðinguna meir en hann, sem er tign þeirra. 4.19 Vindbylur vefur þá innan í vængi sína, svo að þeir verði til skammar vegna altara sinna.
5.1 Heyrið þetta, þér prestar! Takið eftir, þér Ísraelsmenn! Hlýð þú á, konungs hús! Þér áttuð að framfylgja réttlæti, en eruð orðnir snara fyrir Mispa og útþanið net á Tabor. 5.2 Þeir grófu djúpa gröf fráhvarfsins, en ég mun refsa þeim öllum. 5.3 Ég þekki Efraím, og Ísrael getur ekki dulist fyrir mér. Já, nú hefir þú drýgt hór, Efraím, Ísrael saurgað sig. 5.4 Verk þeirra leyfa þeim eigi að snúa aftur til Guðs þeirra, því að hórdómsandi býr í þeim, og Drottin þekkja þeir ekki. 5.5 En Ísraels tign mun vitna í gegn þeim, og Ísrael og Efraím munu steypast vegna misgjörðar þeirra. Júda mun og steypast með þeim. 5.6 Þegar þeir þá koma með sauði sína og naut til þess að leita Drottins, þá munu þeir ekki finna hann, hann hefir sagt sig lausan við þá. 5.7 Drottni hafa þeir verið ótrúir, því að þeir hafa getið óskilgetin börn. Nú skal tunglkoman eyða þeim og ekrum þeirra. 5.8 Þeytið lúðurinn í Gíbeu og básúnuna í Rama! Æpið heróp í Betaven! Óvinirnir á hælum þér, Benjamín! 5.9 Efraím skal verða að auðn á degi hirtingarinnar. Ísraels ættkvíslum boða ég áreiðanlega hluti. 5.10 Höfðingjar Júda eru líkir þeim, sem færa landamerki úr stað; yfir þá vil ég úthella reiði minni eins og vatni. 5.11 Í Efraím er rétturinn ofríki borinn og fótum troðinn, því að honum þóknaðist að elta fánýt goð. 5.12 Því varð ég sem mölur Efraím og sem nagandi ormur Júda húsi. 5.13 Er Efraím sá sjúkdóm sinn og Júda mein sitt, þá leitaði Efraím til Assýríu og sendi til stórkonungsins. En hann megnar ekki að lækna yður né að græða mein yðar, 5.14 því að ég mun verða eins og dýrið óarga fyrir Efraím og eins og ungt ljón Júda húsi. Ég, ég mun sundurrífa og fara burt, bera burt bráðina, án þess að nokkur bjargi. 5.15 Ég mun fara burt og hverfa aftur á minn stað, uns þeir kannast við afbrot sín og leita míns auglitis. Þegar að þeim þrengir, munu þeir snúa sér til mín.
6.1 'Komið, vér skulum hverfa aftur til Drottins, því að hann hefir sundur rifið og mun lækna oss, hann hefir lostið og mun binda um sár vor. 6.2 Hann mun lífga oss eftir tvo daga og reisa oss upp á þriðja degi, til þess að vér lifum fyrir hans augliti. 6.3 Vér viljum og þekkja, kosta kapps um að þekkja Drottin _ hann mun eins áreiðanlega koma eins og morgunroðinn rennur upp _ svo að hann komi yfir oss eins og regnskúr, eins og vorregn, sem vökvar jörðina.' 6.4 Hvað skal ég við þig gjöra, Efraím, hvað skal ég við þig gjöra, Júda, þar sem elska yðar er eins hvikul og morgunský, eins og döggin, sem snemma hverfur? 6.5 Fyrir því verð ég að vega að þeim fyrir munn spámannanna, bana þeim með orði munns míns, og fyrir því verður dómur minn að birtast eins óbrigðult og dagsljósið rennur upp. 6.6 Því að á miskunnsemi hefi ég þóknun, en ekki á sláturfórn, og á guðsþekking fremur en á brennifórnum. 6.7 Þeir hafa rofið sáttmálann að manna hætti, þar hafa þeir verið mér ótrúir. 6.8 Gíleað er glæpamanna borg, full af blóðferlum, 6.9 og prestaflokkurinn er eins og ræningjar, sem veita mönnum fyrirsát. Þeir myrða á veginum til Síkem, já, svívirðing hafa þeir framið. 6.10 Í Ísraelsríki hefi ég séð hryllilega hluti, þar hefir Efraím drýgt hór, Ísrael saurgað sig. 6.11 Einnig þér, Júda, hefir hann búið uppskeru. Þegar ég sný við högum þjóðar minnar,
7.1 jafnskjótt og ég ætla að lækna Ísrael, koma misgjörðir Efraíms í ljós og illverk Samaríu, því að þeir fremja svik og þjófar brjótast inn í húsin og ræningjasveitir ræna úti fyrir. 7.2 Og þeir hugsa ekki um það, að ég man eftir allri illsku þeirra. Nú umkringja gjörðir þeirra þá, eru komnar fyrir auglit mitt. 7.3 Þeir gamna konunginum með illsku sinni og höfðingjunum með lygum sínum. 7.4 Þeir eru allir hórkarlar, þeir eru eins og glóandi ofn, sem bakarinn aðeins hættir að kynda frá því hann hefir hnoðað deigið, uns það er gagnsýrt. 7.5 Á hátíðardegi konungs vors drekka höfðingjarnir sig sjúka í víni, menn leggja lag sitt við gárunga. 7.6 Því að innan eru þeir eins og ofn, hjarta þeirra brennur í þeim. Alla nóttina sefur reiði þeirra, á morgnana brennur hún eins og logandi eldur. 7.7 Allir eru þeir glóandi eins og ofn, svo að þeir fyrirkoma yfirmönnum sínum. Allir konungar þeirra eru fallnir, enginn ákallar mig á meðal þeirra. 7.8 Efraím hefir blandað sér saman við þjóðirnar, Efraím er orðinn eins og kaka, sem ekki hefir verið snúið. 7.9 Útlendir menn hafa eytt krafti hans, án þess að hann viti af því, já, hærur eru sprottnar í höfði honum, án þess að hann hafi veitt því eftirtekt. 7.10 Þrátt fyrir það, þótt vegsemd Ísraels hafi vitnað í gegn þeim, þá hafa þeir ekki snúið sér til Drottins, Guðs síns, og hafa ekki leitað hans, þrátt fyrir allt þetta. 7.11 En Efraím er orðinn eins og einföld, óskynsöm dúfa: Þeir kalla á Egypta, fara á fund Assýringa. 7.12 Þegar þeir fara þangað, breiði ég net mitt yfir þá, steypi þeim niður eins og fugli í loftinu, tyfta þá, eins og söfnuði þeirra hefir boðað verið. 7.13 Vei þeim, að þeir reika langt í burt frá mér! Eyðing yfir þá, að þeir hafa brugðið trúnaði við mig! Ég hefi leyst þá, og þeir hafa talað lygar gegn mér, 7.14 og hrópuðu ekki til mín af hjarta, heldur kveinuðu í rekkjum sínum. Vegna korns og vínberjalagar ristu þeir á sig skinnsprettur, mér fráhverfir. 7.15 Og þó er það ég, sem hefi frætt þá, sem hefi gjört armleggi þeirra styrka. En gagnvart mér hafa þeir illt í hyggju. 7.16 Þeir snúa sér, en ekki í hæðirnar. Þeir eru eins og svikull bogi. Höfðingjar þeirra munu falla fyrir sverði vegna ósvífni tungu sinnar. Fyrir það munu menn hæða þá á Egyptalandi.
8.1 Set lúðurinn á munn þér! Eins og örn kemur hann yfir hús Drottins. Því að þeir hafa rofið sáttmála minn og vikið frá lögmáli mínu. 8.2 Þeir hrópa til mín: 'Guð minn! Vér Ísraelsmenn þekkjum þig!' 8.3 Ísrael hefir hafnað blessuninni, fyrir því skulu óvinirnir elta hann. 8.4 Þeir hafa tekið sér konunga að mér fornspurðum, hafa valið sér höfðingja án minnar vitundar. Af silfri sínu og gulli hafa þeir gjört sér goðalíkneski, aðeins til þess að þeir tortímdust. 8.5 Andstyggilegur er kálfur þinn, Samaría. Reiði mín er upptendruð gegn þeim. _ Hversu langt mun þangað til þeir verða hreinir? _ 8.6 Því að úr Ísrael er hann, hagleiksmaður hefir smíðað hann, en guð er hann ekki. Nei, kálfur Samaríu skal klofinn í spón. 8.7 Þeir sá vindi, og storm skulu þeir uppskera, útsæði sem ekkert strá sprettur upp af og ekkert korn fæst úr, og ef nokkuð fengist úr því, mundu útlendingar gleypa það. 8.8 Ísrael mun gleyptur verða, hann er nú þegar meðal þjóðanna eins og ker, sem enginn skeytir um. 8.9 Því að þeir hafa farið á fund Assýringa eins og villiasni, sem tekur sig út úr. Efraím falar ástir. 8.10 En þótt þeir fali ástir meðal þjóðanna, þá mun ég nú saman safna þeim, til þess að þeir hætti bráðlega að smyrja konunga og höfðingja. 8.11 Já, Efraím hefir reist mörg ölturu, ölturun urðu honum til syndar. 8.12 Þótt ég riti honum lögmálssetningar þúsundum saman, þá eru þær álitnar sem orð útlendings. 8.13 Þeir fórna sláturfórnum, kjöti og eta það, Drottinn hefir enga velþóknun á þeim. Nú mun hann minnast misgjörðar þeirra og vitja synda þeirra. Þeir skulu hverfa aftur til Egyptalands. 8.14 Ísrael gleymdi skapara sínum og reisti sér hallir, og Júda byggði margar víggirtar borgir, en ég vil skjóta eldi í borgir hans, og eldurinn skal eyða skrauthýsum hans.
9.1 Gleð þig ekki, Ísrael, svo að þú ráðir þér ekki fyrir kæti, eins og heiðnu þjóðirnar, því að þú hefir tekið fram hjá Guði þínum, þú hefir elskað hórgjald á öllum kornláfum. 9.2 En láfi og vínlagarþró munu ekki vilja við þá kannast, og vínberjalögurinn mun bregðast þeim. 9.3 Þeir munu eigi búa kyrrir í landi Drottins, heldur mun Efraím verða að fara aftur til Egyptalands, og þeir munu eta óhreina fæðu í Assýríu. 9.4 Þá munu þeir eigi færa Drottni neitt vín að dreypifórn og eigi bera fram fyrir hann sláturfórnir sínar. Brauð þeirra mun verða eins og sorgarbrauð. Allir sem eta það, munu óhreinir verða. Því að brauð þeirra mun aðeins seðja hungur þeirra, en eigi koma í hús Drottins. 9.5 Hvað viljið þér gjöra á löghelgum og á hátíðardögum Drottins? 9.6 Sjá, þegar þeir eru komnir burt frá eyðingunni, mun Egyptaland samansafna þeim, Memfis veita þeim legstað. Silfurgersemar þeirra munu þistlarnir eignast, þyrnar vaxa í tjöldum þeirra. 9.7 Hegningartíminn kemur, endurgjaldstíminn kemur. Ísrael mun sjá, að spámaðurinn verður af því fífl og andans maður óður, að misgjörð þín er svo mikil og ofsóknin svo mikil. 9.8 Efraím er á verði gegn Guði mínum. Fyrir spámanninn er lögð fuglarasnara á öllum vegum hans, hersporar í húsi Guðs hans. 9.9 Þeir hafa framið mikil óhæfuverk, eins og forðum í Gíbeu. Hann minnist misgjörðar þeirra, hann vitjar synda þeirra. 9.10 Ég fann Ísrael eins og vínber á eyðimörku, sá feður yðar eins og frumfíkju á fíkjutré, þá er það fyrst ber ávöxt. En er þeir komu til Baal Peór, helguðu þeir sig svívirðingunni og urðu andstyggilegir eins og goðið sem þeir elskuðu. 9.11 Fólksfjöldi Efraíms mun burt fljúga eins og fuglar, svo að konur skulu þar ekki framar fæða, ekki þungaðar vera og ekki getnað fá. 9.12 Og þótt þeir ali upp börn sín, þar til er þau verða fulltíða, þá skal ég þó gjöra þá barnlausa, svo að mannskortur verði. Já, vei og sjálfum þeim, þegar ég vík frá þeim. 9.13 Efraím er, eins og ég lít hann allt til Týrus, gróðursettur á engi, og Efraímítar verða að framselja morðingjum sonu sína. 9.14 Gef þeim, Drottinn, _ hvað skaltu gefa? gef þeim ófrjósöm móðurlíf og mjólkurlaus brjóst. 9.15 Öll vonska þeirra kom fram í Gilgal. Já, þar fékk ég hatur á þeim. Vegna hins vonda athæfis þeirra vil ég reka þá burt úr húsi mínu, ég vil eigi elska þá lengur. Allir höfðingjar þeirra eru þvermóðskufullir. 9.16 Efraím mun lostinn verða, rót þeirra skrælnar, þeir munu engan ávöxt bera. Þótt þeir eignist sonu, mun ég deyða hin elskuðu lífsafkvæmi þeirra. 9.17 Guð minn mun hafna þeim, því að þeir hafa ekki hlýtt honum, og þeir munu fara landflótta meðal þjóðanna.
10.1 Ísrael var gróskumikill vínviður, sem bar ávöxt. Því meiri sem ávextir hans urðu, því fleiri ölturu reisti hann. Að sama skapi sem velmegun landsins jókst, prýddu þeir merkissteinana. 10.2 Hjarta þeirra var óheilt, fyrir því skulu þeir nú gjöld taka. Hann mun sjálfur rífa niður ölturu þeirra, brjóta sundur merkissteina þeirra. 10.3 Já, þá munu þeir segja: 'Vér höfum engan konung, því að vér höfum ekki óttast Drottin. Og konungurinn, hvað getur hann gjört fyrir oss?' 10.4 Þeir tala hégómaorð, sverja meinsæri, gjöra sáttmála, til þess að rétturinn vaxi eins og eiturjurt upp úr plógförum á akri. 10.5 Samaríubúar munu verða skelfingu lostnir út af kálfinum í Betaven, já, lýðurinn mun dapur verða út af honum, enn fremur hofgoðarnir, sem hlökkuðu yfir honum, því að dýrð hans er horfin út í buskann. 10.6 Jafnvel sjálfur hann mun fluttur verða til Assýríu sem gjöf handa stórkonunginum. Efraím mun hljóta skömm af og Ísrael fyrirverða sig fyrir ráðagjörð sína. 10.7 Samaría skal í eyði lögð verða, konungur hennar skal verða sem tréflís á vatni. 10.8 Óheillahæðirnar skulu eyddar verða, þar sem Ísrael syndgaði, þyrnar og þistlar skulu upp vaxa á ölturum þeirra. Og þá munu þeir segja við fjöllin: 'Hyljið oss!' og við hálsana: 'Hrynjið yfir oss!' 10.9 Síðan á Gíbeu-dögum hefir þú syndgað, Ísrael! Þarna standa þeir enn! Hvort mun stríðið gegn glæpamönnunum ná þeim í Gíbeu? 10.10 Nú vil ég refsa þeim eftir vild minni. Þjóðir skulu saman safnast móti þeim til þess að refsa þeim fyrir báðar misgjörðir þeirra. 10.11 Efraím er eins og vanin kvíga, sem ljúft er að þreskja. Að vísu hefi ég enn hlíft hinum fagra hálsi hennar, en nú vil ég beita Efraím fyrir, Júda skal plægja, Jakob herfa. 10.12 Sáið niður velgjörðum, þá munuð þér uppskera góðleik. Takið yður nýtt land til yrkingar, þar eð tími er kominn til að leita Drottins, til þess að hann komi og láti réttlætið rigna yður í skaut. 10.13 Þér hafið plægt guðleysi, uppskorið ranglæti, etið ávöxtu lyginnar. Þú reiddir þig á vagna þína og á fjölda kappa þinna, 10.14 því skal og hergnýr rísa gegn mönnum þínum og virki þín skulu öll eydd verða, eins og þegar Salman eyddi Betarbel á ófriðartíma, þá er mæðurnar voru rotaðar ásamt börnunum. 10.15 Eins mun hann með yður fara, Ísraelsmenn, sökum yðar miklu vonsku. Í dögun mun Ísraelskonungur afmáður verða.
11.1 Þegar Ísrael var ungur, fékk ég ást á honum, og frá Egyptalandi kallaði ég son minn. 11.2 Þegar ég kallaði á þá, fóru þeir burt frá mér. Þeir færðu Baölunum sláturfórnir og skurðgoðunum reykelsisfórnir. 11.3 Ég kenndi Efraím að ganga og tók þá á arma mér. En þeir urðu þess ekki varir, að ég læknaði þá. 11.4 Með böndum, slíkum sem þeim er menn nota, dró ég þá að mér, með taugum kærleikans, og fór að þeim eins og sá sem lyftir upp okinu á kjálkunum og rétti þeim fæðu. 11.5 Þeir skulu snúa aftur til Egyptalands, og Assýringar munu drottna yfir þeim, því að þeir vilja ekki taka sinnaskiptum. 11.6 Því skal og sverðið geisa í borgum þeirra og eyðileggja slagbranda þeirra og eyða virkjum þeirra. 11.7 Lýður minn hefir stöðuga tilhneiging til þess að snúa við mér bakinu, og þótt kallað sé til þeirra: 'Upp á við!' þá hefur enginn sig upp. 11.8 Hvernig ætti ég að sleppa hendi af þér, Efraím, ofurselja þig, Ísrael? Ætti ég að fara með þig eins og Adma, útleika þig eins og Sebóím! Hjartað kemst við í brjósti mér, ég kenni brennheitrar meðaumkunar. 11.9 Ég vil ekki framkvæma heiftarreiði mína, ekki aftur eyðileggja Efraím. Því að ég er Guð, en ekki maður. Ég bý á meðal yðar sem heilagur Guð og kem ekki til yðar í bræði. 11.10 Þeir munu fylgja Drottni, sem öskra mun eins og ljón. Já, hann mun öskra, og synir munu koma skjálfandi úr vestri. 11.11 Þeir munu koma skjálfandi frá Egyptalandi, eins og fuglar, og eins og dúfur frá Assýríu. Þá vil ég láta þá búa í húsum sínum _ segir Drottinn.
12.1 Efraím hefir umkringt mig með lygi og Ísraels hús með svikum, og Júda er enn reikull gagnvart Guði og gagnvart Hinum heilaga, sem aldrei breytist. 12.2 Efraím sækist eftir vindi og eltir austangoluna. Á hverjum degi hrúga þeir upp lygum og ofbeldisverkum. Þeir gjöra sáttmála við Assýríu, og olífuolía er flutt til Egyptalands. 12.3 Drottinn mun ganga í dóm við Júda og hegna Jakob eftir breytni hans, endurgjalda honum eftir verkum hans. 12.4 Í móðurkviði lék hann á bróður sinn, og sem fulltíða maður glímdi hann við Guð. 12.5 Hann glímdi við engil og bar hærri hlut, hann grét og bað hann líknar. Hann fann hann í Betel og þar talaði hann við hann. 12.6 Drottinn, Guð allsherjar, Drottinn er nafn hans. 12.7 En þú skalt hverfa aftur með hjálp Guðs þíns. Ástunda miskunnsemi og réttlæti og vona stöðugt á Guð þinn. 12.8 Kanaan _ röng vog er í hendi hans, hann er gjarn á að hafa af öðrum með svikum. 12.9 Og Efraím segir: 'Ég er auðugur orðinn, hefi aflað mér fjár. Við allan gróða minn geta menn ekki fundið neina misgjörð, er sé synd.' 12.10 Ég, Drottinn, er Guð þinn frá því á Egyptalandi, enn get ég látið þig búa í tjöldum eins og á hátíðardögunum. 12.11 Ég hefi talað til spámannanna, og ég hefi látið þá sjá margar sýnir og talað í líkingum fyrir munn spámannanna. 12.12 Ef Gíleað er óguðlegt, þá skulu þeir að engu verða. Af því að þeir fórnuðu nautum í Gilgal, þá skulu og ölturu þeirra verða eins og steinhrúgur hjá plógförum á akri. 12.13 Þegar Jakob flýði til Aramlands, þá gjörðist Ísrael þjónn vegna konu, og vegna konu gætti hann hjarðar. 12.14 Fyrir spámann leiddi Drottinn Ísrael af Egyptalandi, og fyrir spámann varðveittist hann. 12.15 Efraím hefir valdið sárri gremju, fyrir því mun Drottinn hans láta blóðskuld hans yfir hann koma og gjalda honum svívirðing hans.
13.1 Þegar Efraím talaði, sló ótta á menn. Hann var höfðingi í Ísrael. En hann varð sekur fyrir Baalsdýrkunina og dó. 13.2 Og nú halda þeir áfram að syndga, þeir hafa gjört sér steypt líkneski úr silfri sínu, goðalíkneski eftir hugviti sínu, verk hagleiksmanna er það allt saman. Og slíkt ávarpa þeir. Fórnandi menn kyssa kálfa. 13.3 Fyrir því skulu þeir verða eins og ský að morgni dags og sem dögg, er snemma hverfur, eins og sáðir, sem þyrlast burt af láfanum, og sem reykur út um ljóra. 13.4 En ég, Drottinn, er Guð þinn frá því á Egyptalandi. Annan guð en mig þekkir þú ekki og enginn frelsari er til nema ég. 13.5 Það var ég, sem hélt þér til haga í eyðimörkinni, í landi þurrkanna. 13.6 En því meira haglendi sem þeir fengu, því saddari átu þeir sig. En er þeir voru saddir orðnir, metnaðist hjarta þeirra. Þess vegna gleymdu þeir mér. 13.7 Fyrir því er ég þeim eins og ljón, ligg í leyni við veginn eins og pardusdýr, 13.8 ræðst á þá eins og birna, sem rænd er húnum sínum, sundurríf brjóst þeirra. Þar skulu ung ljón eta þá, villidýrin slíta þá sundur. 13.9 Það verður þér að tjóni, Ísrael, að þú ert á móti mér, hjálpara þínum. 13.10 Hvar er nú konungur þinn, að hann frelsi þig, og allir höfðingjar þínir, að þeir rétti hluta þinn? _ þeir er þú sagðir um: 'Gef mér konung og höfðingja!' 13.11 Ég gef þér konung í reiði minni og tek hann aftur í bræði minni. 13.12 Misgjörð Efraíms er saman bundin, synd hans vel geymd. 13.13 Kvalir jóðsjúkrar konu koma yfir hann, en hann er óvitur sonur. Þótt stundin sé komin, kemur hann ekki fram í burðarliðinn. 13.14 Ætti ég að frelsa þá frá Heljar valdi, leysa þá frá dauða? Hvar eru drepsóttir þínar, dauði? Hvar er sýki þín, Hel? Augu mín þekkja enga meðaumkun. 13.15 Því þótt hann beri ávöxt meðal bræðranna, þá kemur þó austanvindurinn, stormur Drottins, sem rís í eyðimörkinni, svo að brunnar hans þorna og lindir hans þrjóta. Hann mun ræna fjársjóð hans öllum dýrmætum gersemum.
14.1 Samaría fær að gjalda þess, að hún hefir sett sig upp á móti Guði sínum. Fyrir sverði skulu þeir falla, ungbörnum þeirra skal slegið verða niður við og þungaðar konur þeirra ristar verða á kvið. 14.2 Snú þú við, Ísrael, til Drottins, Guðs þíns, því að þú steyptist fyrir misgjörð þína. 14.3 Takið orð með yður og hverfið aftur til Drottins. Segið við hann: 'Fyrirgef með öllu misgjörð vora og ver góður, og vér skulum greiða þér ávöxt vara vorra. 14.4 Assýría skal eigi framar hjálpa oss, vér viljum eigi ríða stríðshestum og eigi framar segja ,Guð vor` við verk handa vorra. Því að hjá þér hlýtur hinn munaðarlausi líkn!' 14.5 Ég vil lækna fráhvarf þeirra, elska þá af frjálsum vilja, því að reiði mín hefir snúið sér frá þeim. 14.6 Ég vil verða Ísrael sem döggin, hann skal blómgast sem lilja og skjóta rótum sem Líbanonsskógur. 14.7 Frjóangar hans skulu breiðast út og toppskrúðið verða sem á olíutré og ilmur hans verða sem Líbanonsilmur. 14.8 Þeir sem búa í skugga hans, skulu aftur rækta korn og blómgast eins og vínviður. Þeir skulu verða eins nafntogaðir og vínið frá Líbanon. 14.9 Hvað á Efraím framar saman við skurðgoðin að sælda? Ég hefi bænheyrt hann, ég lít til hans. Ég er sem laufgrænt kýprestré. Það mun í ljós koma, að ávextir þínir eru frá mér komnir.
1.1 Orð Drottins, sem kom til Jóels Petúelssonar. 1.2 Heyrið þetta, þér öldungar, og hlustið, allir íbúar landsins! Hefir slíkt nokkurn tíma til borið á yðar dögum eða á dögum feðra yðar? 1.3 Segið börnum yðar frá því og börn yðar sínum börnum og börn þeirra komandi kynslóð. 1.4 Það sem nagarinn leifði, það át átvargurinn, það sem átvargurinn leifði, upp át flysjarinn, og það sem flysjarinn leifði, upp át jarðvargurinn. 1.5 Vaknið, þér ofdrykkjumenn, og grátið! Kveinið allir þér, sem vín drekkið, yfir því að vínberjaleginum er kippt burt frá munni yðar. 1.6 Því að voldug þjóð og ótöluleg hefir farið yfir land mitt, tennur hennar eru sem ljónstennur og jaxlar hennar sem dýrsins óarga. 1.7 Hún hefir eytt víntré mín og brotið fíkjutré mín, hún hefir flegið allan börk af þeim og varpað þeim um koll, greinar þeirra urðu hvítar. 1.8 Kveina þú eins og mær, sem klæðist sorgarbúningi vegna unnusta æsku sinnar. 1.9 Matfórnir og dreypifórnir eru numdar burt úr húsi Drottins, prestarnir, þjónar Drottins, eru hryggir. 1.10 Vellirnir eru eyddir, akurlendið drúpir, því að kornið er eytt, vínberjalögurinn hefir brugðist og olían er þornuð. 1.11 Akurmennirnir eru sneyptir, vínyrkjumennirnir kveina, vegna hveitisins og byggsins, því að útséð er um nokkra uppskeru af akrinum. 1.12 Vínviðurinn er uppskrælnaður, fíkjutrén fölnuð, granateplatrén, pálmaviðurinn og apaldurinn, öll tré merkurinnar eru uppþornuð, já, öll gleði er horfin frá mannanna börnum. 1.13 Gyrðist hærusekk og harmið, þér prestar! Kveinið, þér altarisþjónar! Komið, verið á næturnar í hærusekk, þér þjónar Guðs míns, því að matfórn og dreypifórn eru burt numdar úr húsi Guðs yðar. 1.14 Stofnið til helgrar föstu, boðið hátíðarstefnu. Kallið saman öldungana, alla íbúa landsins í húsi Drottins, Guðs yðar, og hrópið til Drottins. 1.15 Æ, sá dagur! Því að dagur Drottins er nálægur, og hann kemur sem eyðing frá hinum Almáttka. 1.16 Hefir ekki fæðan verið hrifin burt fyrir augum vorum og er ekki gleði og fögnuður horfinn úr húsi Guðs vors? 1.17 Frækornin liggja skorpnuð undir moldarkökkunum, forðabúrin eru eydd, kornhlöðurnar niðurrifnar, því að kornið er uppskrælnað. 1.18 Ó, hversu skepnurnar stynja, nautahjarðirnar rása ærðar, af því að þær hafa engan haga, sauðahjarðirnar þola og nauð. 1.19 Til þín, Drottinn, kalla ég, því að eldur hefir eytt hagaspildum eyðimerkurinnar og logi sviðið öll tré merkurinnar. 1.20 Jafnvel dýr merkurinnar mæna til þín, því að vatnslækirnir eru uppþornaðir og eldur hefir eytt hagaspildum eyðimerkurinnar.
2.1 Þeytið lúðurinn í Síon og æpið óp á mínu heilaga fjalli, svo að allir íbúar landsins nötri. Því að dagur Drottins kemur, já, hann er í nánd, 2.2 dagur myrkurs og dimmu, dagur skýþykknis og skýsorta. Eins og sorti breiðist yfir fjallahnjúkana mikil og voldug þjóð. Hennar líki hefir ekki verið frá eilífð, og hennar líki mun ekki koma eftir hana allt fram á ár ókominna alda. 2.3 Fyrir henni fer eyðandi eldur og eftir henni logi brennandi. Þótt landið fram undan henni hafi verið eins og Edensgarður, er það á bak henni sem eyðiöræfi. Enginn hlutur komst undan henni. 2.4 Ásýndum eru þeir sem hestar að sjá, og þeir eru fráir sem riddarar. 2.5 Eins og glamrandi vagnar stökkva þeir yfir fjallahnjúkana, eins og eldslogi, sem snarkar í hálmleggjum, eins og voldug þjóð, sem búin er til bardaga. 2.6 Fyrir henni skjálfa þjóðirnar, öll andlit blikna. 2.7 Þeir hlaupa sem hetjur, stíga upp á borgarvegginn sem hermenn, sérhver þeirra gengur sína leið og enginn riðlast á annars braut. 2.8 Enginn þeirra þrengir öðrum, hver gengur sína braut, jafnvel mót skotspjótum þeytast þeir áfram án þess að stöðva ferð sína. 2.9 Þeir ráðast inn í borgina, hlaupa á borgarvegginn, stíga upp í húsin, fara inn um gluggana sem þjófar. 2.10 Fyrir henni nötrar jörðin, himnarnir skjálfa, sól og tungl myrkvast og stjörnurnar missa birtu sína. 2.11 Og Drottinn lætur raust sína þruma fyrir öndverðu liði sínu. Því að herlið hans er afar mikið, því að voldugur er sá, sem framkvæmir hans boð. Já, mikill er dagur Drottins og mjög ógurlegur, hver getur afborið hann? 2.12 En snúið yður nú til mín _ segir Drottinn _ af öllu hjarta, með föstum, gráti og kveini. 2.13 Sundurrífið hjörtu yðar en ekki klæði yðar, og hverfið aftur til Drottins Guðs yðar, því að hann er líknsamur og miskunnsamur, þolinmóður og gæskuríkur og iðrast hins illa. 2.14 Hver veit nema hann iðrist aftur og láti blessun eftir sig: matfórn og dreypifórn handa Drottni, Guði yðar! 2.15 Þeytið lúðurinn í Síon, stofnið til helgrar föstu, boðið hátíðarstefnu. 2.16 Kveðjið saman lýðinn, helgið söfnuðinn, stefnið saman gamalmennum, safnið saman börnum og brjóstmylkingum. Brúðguminn gangi út úr herbergi sínu og brúðurin út úr brúðarsal sínum. 2.17 Milli forsals og altaris skulu prestarnir, þjónar Drottins, gráta og segja: 'Þyrm þjóð þinni, Drottinn, og lát eigi arfleifð þína verða að spotti, svo að heiðingjarnir drottni yfir þeim. Hví skulu menn segja meðal þjóðanna: ,Hvar er Guð þeirra?'` 2.18 Þá varð Drottinn fullur umhyggju vegna lands síns, og hann þyrmdi lýð sínum. 2.19 Drottinn tók til máls og sagði við lýð sinn: Sjá, ég sendi yður korn, vínberjalög og olíu, svo að yður skal nægja til saðnings. Og ég vil eigi láta yður verða framar að spotti meðal heiðingjanna. 2.20 Og óvininn, sem frá norðri kemur, mun ég reka langt burt frá yður og stökkva honum út á auðnir og öræfi. Skal fararbroddur hans lenda í austurhafinu og halaflokkurinn í vesturhafinu, þar skal fýla og illur daunn upp af honum stíga, því að hann hefir unnið stórvirki. 2.21 Óttast eigi, land! Fagna og gleðst, því að Drottinn hefir unnið stórvirki. 2.22 Óttist eigi, þér dýr merkurinnar, því að grashagar eyðimerkurinnar grænka, því að trén bera ávöxt, fíkjutrén og víntrén gefa sinn gróða. 2.23 Og þér Síonbúar, fagnið og gleðjist í Drottni, Guði yðar, því að hann gefur yður regn í réttum mæli og lætur skúrirnar ofan til yðar koma, haustregn og vorregn, eins og áður. 2.24 Láfarnir verða fullir af korni, og vínberjalögurinn og olían flóa út af þrónum. 2.25 Ég bæti yður upp árin, er átvargurinn, flysjarinn, jarðvargurinn og nagarinn átu, _ minn mikli her, er ég sendi móti yður. 2.26 Þér skuluð eta og mettir verða og vegsama nafn Drottins, Guðs yðar, sem dásamlega hefir við yður gjört, og þjóð mín skal aldrei að eilífu til skammar verða. 2.27 Og þér skuluð viðurkenna, að ég er meðal Ísraels og að ég er Drottinn, yðar Guð, og enginn annar. Og þjóð mín skal aldrei að eilífu til skammar verða.
3.1 En síðar meir mun ég úthella anda mínum yfir allt hold. Synir yðar og dætur yðar munu spá, gamalmenni yðar mun drauma dreyma, ungmenni yðar munu sjá sjónir. 3.2 Já, einnig yfir þræla og ambáttir mun ég á þeim dögum úthella anda mínum. 3.3 Og ég mun láta tákn verða á himni og á jörðu: blóð, eld og reykjarstróka. 3.4 Sólin mun snúast í myrkur og tunglið í blóð, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kemur. 3.5 Og hver sem ákallar nafn Drottins, mun frelsast. Því að á Síonfjalli og í Jerúsalem mun frelsun verða, eins og Drottinn hefir sagt, meðal flóttamannanna, sem Drottinn kallar. 3.6 Sjá, á þeim dögum og í þann tíð, er ég sný við högum Júda og Jerúsalem, 3.7 vil ég saman safna öllum þjóðum og færa þær ofan í Jósafatsdal og ganga þar í dóm við þær vegna lýðs míns og arfleifðar minnar Ísraels, af því að þeir hafa dreift henni meðal heiðingjanna og skipt sundur landi mínu. 3.8 Þeir köstuðu hlutum um lýð minn og gáfu svein fyrir skækju og seldu mey fyrir vín og drukku. 3.9 Og hvað viljið þér mér, Týrus og Sídon og öll héruð Filisteu! Ætlið þér að gjalda mér það, sem yður hefir gjört verið, eða ætlið þér að gjöra mér eitthvað? Afar skyndilega mun ég láta gjörðir yðar koma sjálfum yður í koll. 3.10 Þér hafið rænt silfri mínu og gulli og flutt bestu gersemar mínar í musteri yðar. 3.11 Júdamenn og Jerúsalembúa hafið þér selt Íónum til þess að flytja þá langt burt frá átthögum þeirra. 3.12 Sjá, ég mun kalla þá frá þeim stað, þangað sem þér hafið selt þá, og ég mun láta gjörðir yðar koma sjálfum yður í koll. 3.13 Og ég mun selja sonu yðar og dætur Júdamönnum, og þeir munu selja þá Sabamönnum, fjarlægri þjóð, því að Drottinn hefir sagt það. 3.14 Boðið þetta meðal þjóðanna: Búið yður í heilagt stríð! Kveðjið upp kappana! Allir herfærir menn komi fram og fari í leiðangur! 3.15 Smíðið sverð úr plógjárnum yðar og lensur úr sniðlum yðar! Heilsuleysinginn hrópi: 'Ég er hetja!' 3.16 Flýtið yður og komið, allar þjóðir sem umhverfis eruð, og safnist saman. Drottinn, lát kappa þína stíga niður þangað! 3.17 Hreyfing skal koma á þjóðirnar og þær skulu halda upp í Jósafatsdal, því að þar mun ég sitja til þess að dæma allar þjóðirnar, sem umhverfis eru. 3.18 Bregðið sigðinni, því að kornið er fullþroskað, komið og troðið, því að vínlagarþróin er full, það flóir út af lagarkerunum, því að illska þeirra er mikil. 3.19 Flokkarnir þyrpast saman í dómsdalnum, því að dagur Drottins er nálægur í dómsdalnum. 3.20 Sól og tungl eru myrk orðin, og stjörnurnar hafa misst birtu sína. 3.21 En Drottinn þrumar frá Síon og lætur raust sína gjalla frá Jerúsalem, svo að himinn og jörð nötra. En Drottinn er athvarf sínum lýð og vígi Ísraelsmönnum. 3.22 Og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn, Guð yðar, sem bý á Síon, mínu heilaga fjalli. Og Jerúsalem skal vera heilög og útlendingar skulu ekki framar inn í hana koma. 3.23 Á þeim degi munu fjöllin löðra í vínberjalegi og hálsarnir fljóta í mjólk og allir lækir í Júda renna vatnsfullir. Og lind mun fram spretta undan húsi Drottins og vökva dal akasíutrjánna. 3.24 Egyptaland mun verða að öræfum og Edóm að óbyggðri eyðimörk, sökum ofríkis við Júdamenn, af því að þeir úthelltu saklausu blóði í landi þeirra. 3.25 En Júda mun eilíflega byggt verða og Jerúsalem frá kyni til kyns.
1.1 Orð Amosar, sem var einn af fjárhirðunum í Tekóa, það er honum vitraðist um Ísrael á dögum Ússía Júdakonungs og á dögum Jeróbóams Jóassonar, Ísraelskonungs, tveimur árum fyrir jarðskjálftann. 1.2 Hann sagði: Drottinn þrumar frá Síon og lætur raust sína gjalla frá Jerúsalem. Þá munu hagar hjarðmannanna drúpa og Karmeltindur skrælna. 1.3 Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Damaskusborgar vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir þresktu Gíleað með þreskisleðum af járni, 1.4 mun ég senda eld á hús Hasaels, og hann mun eyða höllum Benhadads. 1.5 Ég mun brjóta slagbrand Damaskus og útrýma íbúunum úr Glæpadal og þeim, er ber veldissprotann, frá Yndishúsum, og Sýrlendingar skulu herleiddir verða til Kír, _ segir Drottinn. 1.6 Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Gasa vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir herleiddu heil þorp til þess að selja í hendur Edómítum, 1.7 mun ég senda eld gegn múr Gasa, og hann mun eyða höllum hennar. 1.8 Ég mun útrýma íbúunum úr Asdód og þeim, er ber veldissprotann, frá Askalon og því næst snúa hendi minni gegn Ekron, til þess að þeir, sem eftir eru af Filistum, skuli undir lok líða, _ segir Drottinn Guð. 1.9 Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Týrusar vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir seldu heil þorp í hendur Edómítum og minntust ekki bræðrasáttmálans, 1.10 mun ég senda eld gegn múrum Týrusar, og hann mun eyða höllum hennar. 1.11 Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Edómíta vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir eltu bræðraþjóð sína með sverði og kæfðu alla meðaumkun, svo að hatur þeirra sundurreif endalaust og þeir geymdu stöðuglega heift sína, 1.12 mun ég senda eld gegn Teman, og hann mun eyða höllum Bosra. 1.13 Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Ammóníta vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir ristu á kvið þungaðar konurnar í Gíleað til þess að færa út landamerki sín, 1.14 vil ég kveikja eld í múrum Rabba, og hann skal eyða höllum hennar, þegar æpt verður heróp á orustudeginum, þegar stormurinn geisar á degi fellibyljanna. 1.15 Og konungur þeirra verður að fara í útlegð með hinum, hann og höfðingjar hans, _ segir Drottinn.
2.1 Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Móabíta vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir brenndu bein Edómítakonungs að kalki, 2.2 vil ég senda eld gegn Móab, og hann mun eyða höllum Keríjótborgar. Og Móabítar munu deyja í vopnagný, við heróp og lúðurhljóm. 2.3 Ég vil afmá stjórnandann meðal þeirra og deyða alla höfðingja þeirra með honum, _ segir Drottinn. 2.4 Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Júdamanna vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir hafa hafnað lögmáli Drottins og eigi haldið boðorð hans, heldur látið falsgoð sín villa sig, þau er feður þeirra eltu, 2.5 vil ég senda eld gegn Júda, og hann mun eyða höllum Jerúsalem. 2.6 Svo segir Drottinn: Sökum þriggja, já fjögurra glæpa Ísraelsmanna vil ég eigi snúa aftur með það _ af því að þeir selja saklausan manninn fyrir silfur og fátæklinginn fyrir eina ilskó, 2.7 þeir fíkjast í moldarkornin á höfði hinna snauðu og hrinda aumingjunum í ógæfu, faðir og sonur ganga til kvensniftar til þess að vanhelga mitt heilaga nafn, 2.8 þeir liggja á veðteknum klæðum hjá hverju altari og drekka sektarvín í húsi Guðs síns. 2.9 Og þó ruddi ég Amorítum úr vegi þeirra, er svo voru háir sem sedrustré og svo sterkir sem eikitré. Ég eyddi ávöxtum þeirra að ofanverðu og rótum þeirra að neðan. 2.10 Ég flutti yður út af Egyptalandi og leiddi yður í fjörutíu ár í eyðimörkinni, til þess að þér mættuð eignast land Amoríta. 2.11 Ég uppvakti spámenn meðal sona yðar og Nasírea meðal æskumanna yðar. Er þetta eigi svo, Ísraelsmenn? _ segir Drottinn. 2.12 En þér gáfuð Nasíreunum vín að drekka og bönnuðuð spámönnunum að spá! 2.13 Sjá, ég vil láta jörðina undir yður riða, eins og vagn riðar, sem hlaðinn er kornkerfum. 2.14 Þá skal hinn frái ekki hafa neitt hæli að flýja í og hinn sterki ekki fá neytt krafta sinna og kappinn skal ekki forða mega fjörvi sínu. 2.15 Bogmaðurinn skal eigi fá staðist, hinn frái eigi fá komist undan og riddarinn ekki forða mega fjörvi sínu. 2.16 Og hinn hugdjarfasti meðal kappanna _ nakinn skal hann á þeim degi í burt flýja, _ segir Drottinn.
3.1 Heyrið þetta orð, sem Drottinn hefir talað gegn yður, þér Ísraelsmenn, gegn öllum þeim kynstofni, sem ég leiddi út af Egyptalandi, svolátandi: 3.2 Yður eina læt ég mér annt um fremur öllum kynstofnum jarðarinnar. Þess vegna hegni ég yður fyrir allar misgjörðir yðar. 3.3 Mega tveir menn verða samferða, nema þeir mæli sér mót? 3.4 Mun ljónið öskra í skóginum, ef það hefir enga bráð? Mun ljónshvolpurinn láta til sín heyra í bæli sínu, ef hann hefir engu náð? 3.5 Getur fuglinn komið í gildruna á jörðinni, ef engin snara er þar fyrir hann? Hrökkur gildran upp af jörðinni, nema eitthvað hafi í hana fengist? 3.6 Verður lúðurinn svo þeyttur innan borgar, að fólkið flykkist ekki saman í angist? Vill nokkur ógæfa svo til í borginni, að Drottinn sé ekki valdur að henni? 3.7 Nei, Drottinn Guð gjörir ekkert án þess að hann hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína. 3.8 Hafi ljónið öskrað, hver skyldi þá ekki óttast? Hafi Drottinn Guð talað, hver skyldi þá ekki spá? 3.9 Kallið út yfir hallirnar í Asdód og hallirnar í Egyptalandi og segið: Safnist saman upp á Samaríufjöll og lítið á hina miklu ókyrrð í borginni og ofbeldisverkin inni í henni. 3.10 Þeir kunna ekki rétt að gjöra _ segir Drottinn _, þeir sem hrúga upp ofríki og kúgun í höllum sínum. 3.11 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Fjandmenn munu umkringja landið á alla vegu og rífa niður virki þín, og hallir þínar munu rændar verða. 3.12 Svo segir Drottinn: Eins og hirðirinn bjargar tveimur fótum eða snepli af eyra úr gini ljónsins, svo skulu Ísraelsmenn bjargast, þeir er sitja í Samaríu í legubekkjarhorni og á hvílbeðjarhægindum. 3.13 Heyrið og verið vottar að þessu gegn Jakobs húsi, segir Drottinn alvaldur, Guð allsherjar: 3.14 Þann dag, er ég hegni Ísraelsmönnum fyrir glæpi þeirra, vil ég láta hegninguna koma niður á ölturunum í Betel, til þess að altarishornin verði afhöggin og falli til jarðar. 3.15 Þá vil ég brjóta niður vetrarhallirnar ásamt sumarhöllunum, og fílabeinshallirnar skulu farast og mörg hús eyðileggjast, _ segir Drottinn.
4.1 Heyrið þetta orð, þér Basans kvígur á Samaríufjalli, sem kúgið hina snauðu, misþyrmið hinum fátæku, sem segið við menn yðar: 'Dragið að, svo að vér megum drekka!' 4.2 Drottinn Guð hefir svarið við heilagleik sinn: Sjá, þeir dagar munu yfir yður koma, að þér skuluð verða burt færðar með önglum og hinar síðustu af yður með goggum. 4.3 Þá munuð þér fara út um veggskörðin, hver beint sem horfir, og yður mun verða varpað til Hermon, _ segir Drottinn. 4.4 Farið til Betel og syndgið, til Gilgal og syndgið enn þá meir! Berið fram sláturfórnir yðar að morgni dags, á þriðja degi tíundir yðar! 4.5 Brennið sýrð brauð í þakkarfórn, boðið til sjálfviljafórna, gjörið þær heyrinkunnar! Því að það er yðar yndi, Ísraelsmanna, _ segir Drottinn Guð. 4.6 Ég hefi látið yður halda hreinum tönnum í öllum borgum yðar og látið mat skorta í öllum bústöðum yðar. Og þó hafið þér ekki snúið yður til mín, _ segir Drottinn. 4.7 Ég synjaði yður um regn, þá er þrír mánuðir voru til uppskeru, og ég lét rigna í einni borg, en ekki í annarri. Ein akurspildan vökvaðist af regni, en önnur akurspilda, sem regnið vökvaði ekki, hún skrælnaði. 4.8 Menn ráfuðu úr tveimur, þremur borgum til einnar borgar til að fá sér vatn að drekka, en fengu þó eigi slökkt þorstann. Og þó hafið þér ekki snúið yður til mín, _ segir Drottinn. 4.9 Ég refsaði yður með korndrepi og gulnan. Ég eyddi aldingarða yðar og víngarða, engisprettur upp átu fíkjutré yðar og olíutré. Og þó hafið þér ekki snúið yður til mín, _ segir Drottinn. 4.10 Ég sendi yður drepsótt eins og á Egyptalandi, ég deyddi æskumenn yðar með sverði, auk þess voru hestar yðar fluttir burt hernumdir, og ég lét hrævadauninn úr herbúðum yðar leggja fyrir vit yðar. Og þó hafið þér ekki snúið yður til mín, _ segir Drottinn. 4.11 Ég olli umturnun meðal yðar, eins og þegar Guð umturnaði Sódómu og Gómorru, og þér voruð eins og brandur úr báli dreginn. Og þó hafið þér ekki snúið yður til mín, _ segir Drottinn. 4.12 Fyrir því vil ég svo með þig fara, Ísrael. Af því að ég ætla að fara svo með þig, þá ver viðbúinn að mæta Guði þínum, Ísrael! 4.13 Sjá, hann er sá, sem myndað hefir fjöllin og skapað vindinn, sá sem boðar mönnunum það, er hann hefir í hyggju, sá er gjörir myrkur að morgunroða og gengur eftir hæðum jarðarinnar. Drottinn, Guð allsherjar er nafn hans.
5.1 Heyrið þetta orð, sem ég mæli yfir yður sem harmkvæði, þér Ísraelsmenn! 5.2 Fallin er mærin Ísrael, rís aldrei aftur, flöt liggur hún á sínu eigin landi, enginn reisir hana. 5.3 Svo segir Drottinn Guð: Sú borg, sem sendir frá sér þúsund manns, mun hafa eftir hundrað, og sú sem sendir frá sér hundrað, mun hafa eftir tíu í Ísraelsríki. 5.4 Svo segir Drottinn við Ísraels hús: Leitið mín, til þess að þér megið lífi halda. 5.5 En leitið ekki til Betel! Og til Gilgal skuluð þér ekki fara og yfir til Beerseba skuluð þér ekki halda. Því að Gilgal skal fara í útlegð og Betel verða að auðn. 5.6 Leitið Drottins, til þess að þér megið lífi halda. Ella mun hann ráðast á Jósefs hús eins og eldur og eyða, án þess að nokkur sé í Betel, sem slökkvi. 5.7 Þeir sem umhverfa réttinum í malurt og varpa réttlætinu til jarðar, 5.8 Hann, sem skóp sjöstjörnuna og Óríon, sem gjörir niðmyrkrið að björtum morgni og dag að dimmri nótt, sem kallaði á vötn sjávarins og jós þeim yfir jörðina, Drottinn er nafn hans. 5.9 Hann lætur eyðing leiftra yfir hina sterku, og eyðing kemur yfir vígi. 5.10 þeir hata þann, sem ver réttinn í borgarhliðinu, og hafa viðbjóð á þeim, sem talar satt. 5.11 Sökum þess að þér fótum troðið hina snauðu og takið af þeim gjafir í korni, þá skuluð þér að vísu byggja hús úr höggnu grjóti, en eigi búa í þeim, skuluð planta yndislega víngarða, en ekki drekka vínið, sem úr þeim kemur. 5.12 Því að ég veit, að misgjörðir yðar eru margar og syndir yðar miklar. Þér þröngvið hinum saklausa, þiggið mútur og hallið rétti hinna fátæku í borgarhliðinu. 5.13 Fyrir því þegir hygginn maður á slíkri tíð, því að það er vond tíð. 5.14 Leitið hins góða, en ekki hins illa, til þess að þér megið lífi halda, og þá mun Drottinn, Guð allsherjar vera með yður, eins og þér hafið sagt. 5.15 Hatið hið illa og elskið hið góða, eflið réttinn í borgarhliðinu. Má vera að Drottinn, Guð allsherjar miskunni sig þá yfir leifar Jósefs. 5.16 Fyrir því segir Drottinn, Guð allsherjar, Drottinn: Á öllum torgum skal vera harmakvein, og á öllum strætum skal sagt verða: 'Vei, vei!' Og akurmennirnir skulu kalla þá er kveina kunna, til sorgarathafnar og harmakveins, 5.17 og í öllum víngörðum skal vera harmakvein, þá er ég fer um land þitt, _ segir Drottinn. 5.18 Vei þeim, sem óska þess, að dagur Drottins komi. Hvað skal yður dagur Drottins? Hann er dimmur, en ekki bjartur _ 5.19 eins og ef maður flýði undan ljóni, en yrði á vegi fyrir bjarndýri, kæmist þó heim og styddi hendi sinni við húsvegginn, en þá biti höggormur hann. 5.20 Já, dimmur er dagur Drottins, en ekki bjartur, myrkur og án nokkurrar ljósglætu. 5.21 Ég hata, ég fyrirlít hátíðir yðar og hefi enga unun af hátíðasamkomum yðar. 5.22 Þótt þér færið mér brennifórnir, þá hefi ég enga velþóknun á fórnargjöfum yðar, ég lít ekki við heillafórnum af alikálfum yðar. 5.23 Burt frá mér með glamur ljóða þinna, ég vil ekki heyra hljóm harpna þinna. 5.24 Lát heldur réttinn vella fram sem vatn og réttlætið sem sírennandi læk. 5.25 Færðuð þér mér, Ísraels hús, sláturfórnir og matfórnir í fjörutíu ár á eyðimörkinni? 5.26 En þér skuluð fá að bera Sikkút, konung yðar, og stjörnu Guðs yðar, Kevan, guðalíkneski yðar, er þér hafið gjört yður, 5.27 og ég vil herleiða yður austur fyrir Damaskus, _ segir Drottinn. Guð allsherjar er nafn hans.
6.1 Vei hinum andvaralausu á Síon og hinum öruggu á Samaríufjalli, aðalsmönnum hinnar ágætustu meðal þjóðanna, og þeim, er Ísraels hús streymir til. 6.2 Farið til Kalne og litist um, og haldið þaðan til Hamat hinnar miklu og farið ofan til Gat í Filisteu. Eruð þér betri en þessi konungsríki, eða er land yðar stærra en land þeirra? 6.3 Þeir ímynda sér, að hinn illi dagur sé hvergi nærri, og efla yfirdrottnun ranglætisins. 6.4 Þeir hvíla á legubekkjum af fílsbeini og liggja flatir á hvílbeðjum sínum. Þeir eta lömb af sauðahjörðinni og ungneyti úr alistíunni. 6.5 Þeir raula undir með hörpunni, setja saman ljóð eins og Davíð. 6.6 Þeir drekka vínið úr skálum og smyrja sig með úrvals-olíu _ en eyðing Jósefs rennur þeim ekki til rifja. 6.7 Fyrir því skulu þeir nú herleiddir verða í fararbroddi hinna herleiddu, og þá skal fagnaðaróp flatmagandi sælkeranna þagna. 6.8 Drottinn Guð hefir svarið við sjálfan sig, _ segir Drottinn, Guð allsherjar: Ég hefi viðbjóð á ofmetnaði Jakobs, ég hata hallir hans og framsel borgina og allt, sem í henni er. 6.9 Ef tíu menn eru eftir í einu húsi, skulu þeir deyja, 6.10 og ef frændi hans og líkbrennumaður tekur hann upp til þess að bera beinin út úr húsinu og segir við þann, sem er í innsta afkima hússins: 'Er nokkur eftir hjá þér?' og hinn segir: 'Nei!' þá mun hann segja: 'Þei, þei!' Því að nafn Drottins má ekki nefna. 6.11 Því sjá, Drottinn býður að slá skuli stóru húsin, þar til er þau hrynja, og litlu húsin, þar til er þau rifna. 6.12 Hlaupa hestar yfir kletta, eða erja menn sjóinn með uxum, úr því þér umhverfið réttinum í eitur og ávöxtum réttlætisins í malurt? 6.13 Þér gleðjist yfir Lódebar, þér segið: 'Höfum vér ekki fyrir eigin rammleik unnið Karnaím?' 6.14 Já, sjá, gegn yður, Ísraelsmenn, _ segir Drottinn, Guð allsherjar _ mun ég hefja þjóð, og hún skal kreppa að yður þaðan frá, er leið liggur til Hamat, allt að læknum á sléttlendinu.
7.1 Drottinn Guð lét þessa sýn bera fyrir mig: Það voru komnar engisprettulirfur, þá er háin tók til að spretta eftir konungsslátt. 7.2 En er þær höfðu gjöretið grasið af jörðinni, sagði ég: 'Drottinn Guð, æ fyrirgef! Hversu má Jakob standast? Hann er svo vesall!' 7.3 Þá iðraði Drottin þessa. 'Það skal ekki verða!' sagði Drottinn. 7.4 Drottinn Guð lét þessa sýn bera fyrir mig: Drottinn Guð kom til þess að hegna með eldi, og hann svalg hið mikla djúp og eyddi landið. 7.5 Þá sagði ég: 'Æ, Drottinn Guð, lát af! Hversu má Jakob standast? Hann er svo vesall!' 7.6 Þá iðraði Drottin þessa. 'Þetta skal ekki heldur verða!' sagði Drottinn. 7.7 Hann lét þessa sýn bera fyrir mig: Sjá, Drottinn stóð uppi á lóðréttum múrvegg og hélt á lóði. 7.8 Og Drottinn sagði við mig: 'Hvað sér þú, Amos?' Ég svaraði: 'Lóð.' Þá sagði Drottinn: 'Sjá, ég mun lóð nota mitt á meðal lýðs míns Ísraels, ég vil eigi lengur umbera hann. 7.9 Hæðir Ísaks skulu í eyði lagðar verða og helgidómar Ísraels eyddir verða, og ég vil rísa gegn Jeróbóams ætt með reiddu sverði.' 7.10 Amasía prestur í Betel sendi boð til Jeróbóams Ísraelskonungs og lét segja: 'Amos kveikir uppreisn gegn þér mitt í Ísraelsríki. Landið fær eigi þolað öll orð hans. 7.11 Því að svo hefir Amos sagt: ,Jeróbóam mun fyrir sverði falla og Ísrael mun herleiddur verða burt úr landi sínu.'` 7.12 Síðan sagði Amasía við Amos: 'Haf þig á burt, vitranamaður, flý til Júdalands! Afla þér þar viðurværis og spá þú þar! 7.13 En í Betel mátt þú eigi framar koma fram sem spámaður, því að hér er konunglegur helgidómur og ríkismusteri.' 7.14 Þá svaraði Amos og sagði við Amasía: 'Ég er enginn spámaður, og ég er ekki af spámannaflokki, heldur er ég hjarðmaður og rækta mórber. 7.15 En Drottinn tók mig frá hjarðmennskunni og sagði við mig: ,Far þú og spá þú hjá lýð mínum Ísrael.` 7.16 Og heyr því orð Drottins: Þú segir: ,Þú mátt eigi spá gegn Ísrael né láta orð þín streyma yfir Ísaks niðja.` 7.17 Fyrir því segir Drottinn svo: ,Konan þín skal verða skækja hér í borginni, og synir þínir og dætur skulu fyrir sverði falla. Jörð þinni skal sundur skipt verða með mælivað, og þú sjálfur skalt deyja í óhreinu landi. Og Ísraelsmenn skulu fara herleiddir af landi sínu.'`
8.1 Drottinn Guð lét þessa sýn bera fyrir mig: Ég sá körfu með sumarávöxtum. 8.2 Þá sagði hann: 'Hvað sér þú, Amos?' Ég svaraði: 'Körfu með sumarávöxtum.' Þá sagði Drottinn við mig: 'Endirinn er kominn yfir lýð minn Ísrael, ég vil eigi lengur umbera hann. 8.3 Og musterissöngmeyjarnar skulu kveina á þeim degi _ segir Drottinn Guð. _ Líkin eru mörg. Alls staðar fleygja menn þeim út í kyrrþey!' 8.4 Heyrið þetta, þér sem sundur merjið hina fátæku og ætlið að gjöra út af við alla aumingja í landinu, _ 8.5 sem segið: 'Hvenær mun tunglkomuhátíðin líða, svo að vér megum selja korn, og hvíldardagurinn, svo að vér megum opna kornhlöðurnar?' _ sem minnkið mælinn og hækkið verðið og falsið svikavogina, 8.6 og kaupið hina snauðu fyrir silfur og fátæklinginn fyrir eina ilskó, _ sem segið: 'Vér seljum þeim aðeins úrganginn úr korninu.' 8.7 Drottinn hefir svarið við vegsemd Jakobs: Aldrei skal ég gleyma öllu því, er þeir hafa gjört. 8.8 Hlaut ekki jörðin að nötra af slíku og allir þeir, sem þar búa, að verða sorgbitnir, svo að hún hófst upp alls staðar eins og Níl-fljótið og lækkaði eins og fljótið á Egyptalandi? 8.9 Á þeim degi, _ segir Drottinn Guð _ vil ég láta sólina ganga til viðar um miðjan dag og senda myrkur yfir landið á ljósum degi. 8.10 Ég vil snúa hátíðum yðar í sorg og öllum ljóðum yðar í harmkvæði, klæða allar mjaðmir í sorgarbúning og gjöra öll höfuð sköllótt. Ég læt það verða eins og sorg eftir einkason og endalok þess sem beiskan dag. 8.11 Sjá, þeir dagar munu koma, _ segir Drottinn Guð, _ að ég mun senda hungur inn í landið, ekki hungur eftir brauði né þorsta eftir vatni, heldur eftir því að heyra orð Drottins, 8.12 svo að menn skulu reika frá einu hafinu til annars og renna frá norðri til austurs til þess að leita eftir orði Drottins. En þeir skulu ekki finna það. 8.13 Á þeim degi skulu fríðar meyjar og æskumenn vanmegnast af þorsta. 8.14 Þeir er sverja við vansæmd Samaríu og segja: 'Svo sannarlega sem Guð þinn lifir, Dan!' og: 'Svo sannarlega sem Guð þinn lifir, Beerseba!' _ þeir skulu falla og ekki framar á fætur rísa.
9.1 Ég sá Drottin standa við altarið, og hann sagði: Slá þú á súluhöfuðið, svo að þröskuldarnir skjálfi. Brjót þá sundur og kasta í höfuð þeim öllum. Og síðustu leifar þeirra vil ég deyða með sverði, enginn þeirra skal komast undan á flótta og enginn þeirra bjargast. 9.2 Þótt þeir brjótist niður í undirheima, þá skal hönd mín sækja þá þangað, þótt þeir stígi upp til himins, þá skal ég steypa þeim ofan þaðan. 9.3 Þótt þeir feli sig á Karmeltindi, þá skal ég leita þá þar uppi og sækja þá þangað, og þótt þeir vilji leynast fyrir augum mínum á mararbotni, skal ég þar bjóða höggorminum að bíta þá. 9.4 Og þótt þeir fari á undan óvinum sínum í útlegð, skal ég þar bjóða sverðinu að deyða þá, og ég vil beina augum mínum á þá, þeim til óhamingju, en ekki til hamingju. 9.5 Drottinn, Guð allsherjar, hann sem snertir jörðina, svo að hún riðar, og allir þeir, sem á henni búa, verða sorgbitnir, svo að hún hefst upp alls staðar eins og Níl-fljótið og lækkar eins og fljótið á Egyptalandi, 9.6 hann sem reist hefir á himnum sali sína og grundvallað hvelfing sína á jörðinni, hann sem kallaði á vötn sjávarins og jós þeim yfir jörðina _ Drottinn er nafn hans. 9.7 Eruð þér, Ísraelsmenn, mér mætari en Blálendingar? _ segir Drottinn. Hefi ég eigi flutt Ísrael af Egyptalandi og Filista frá Kaftór og Sýrlendinga frá Kír? 9.8 Sjá, auga Drottins Guðs hvílir á þessu glæpafulla konungsríki. Ég skal afmá það af jörðinni, _ og þó vil ég ekki með öllu afmá Jakobs niðja _ segir Drottinn. 9.9 Nei, ég skal svo um bjóða, að Ísraels hús verði hrist út á meðal allra þjóða, eins og korn er hrist í sáldi, án þess að nokkur steinvala falli til jarðar. 9.10 Allir syndarar þjóðar minnar skulu falla fyrir sverði, þeir sem segja: 'Ógæfan mun eigi ná oss né yfir oss koma!' 9.11 Á þeim degi mun ég endurreisa hina föllnu tjaldbúð Davíðs. Ég mun hlaða upp í veggskörðin og reisa hana úr rústum og gjöra hana upp aftur, eins og hún var fyrr meir, 9.12 til þess að þeir nái undir sig leifum Edóms og öllum þeim þjóðum, sem nafn mitt hefir verið nefnt yfir _ segir Drottinn, sá er þessu mun til vegar koma. 9.13 Sjá, þeir dagar munu koma, _ segir Drottinn _ að erjandinn skal ná kornskurðarmanninum og víntroðslumaðurinn sáðmanninum. Þá munu fjöllin löðra í vínberjalegi og hálsarnir verða í einu flóði. 9.14 Þá mun ég snúa við högum lýðs míns Ísraels. Þeir munu byggja upp hinar eyddu borgir og búa í þeim, planta víngarða og drekka vín úr þeim, búa til aldingarða og eta ávöxtu þeirra.
1.1 Vitrun Óbadía. Svo segir Drottinn Guð um Edóm: Vér höfum fengið vitneskju frá Drottni, og boðberi er sendur meðal þjóðanna: 'Af stað! Vér skulum halda af stað til þess að herja á hann!' 1.2 Sjá, ég vil gjöra þig lítinn meðal þjóðanna, þú munt verða mjög fyrirlitinn. 1.3 Hroki hjarta þíns hefir dregið þig á tálar, þú sem átt byggð í klettaskorum og situr í hæðum uppi, sem segir í hjarta þínu: 'Hver getur steypt mér niður til jarðar?' 1.4 Þótt þú sætir hátt eins og örninn og byggðir hreiður þitt meðal stjarnanna, þá steypi ég þér þaðan niður, _ segir Drottinn. 1.5 Ef þjófar koma að þér eða ræningjar á náttarþeli _ hversu ert þú í eyði lagður _, stela þeir þá ekki, þar til er þeim nægir? Ef vínlestursmenn ráðast á þig, skilja þeir þá ekki eftir neinn eftirtíning? 1.6 En hversu vandlega hefir verið leitað hjá Esaú og leitaðir uppi fólgnir dýrgripir hans. 1.7 Allir sambandsmenn þínir reka þig út á landamærin. Þeir sem lifðu í friði við þig, draga þig á tálar, bera þig ofurliði. Þeir sem átu brauð þitt, leggja fyrir þig snörur, sem eigi er unnt að sjá. 1.8 Já, á þeim degi _ segir Drottinn _ mun ég afmá vitra menn í Edóm og hyggindin á Esaúfjöllum. 1.9 Kappar þínir, Teman, skulu skelfast, til þess að hver maður verði upprættur af Esaúfjöllum í manndrápunum. 1.10 Sökum ofríkis þess, er þú hefir sýnt bróður þínum Jakob, skal smán hylja þig, og þú skalt að eilífu upprættur verða. 1.11 Þann dag, er þú stóðst andspænis honum, þann dag, er aðkomnir menn fluttu burt fjárafla hans hertekinn og útlendingar brutust inn um borgarhlið hans og urpu hlutkesti um Jerúsalem, varst þú sem einn af þeim. 1.12 Horf eigi með ánægju á dag bróður þíns, á ógæfudag hans, og gleð þig eigi yfir Júda sonum á eyðingardegi þeirra og lát þér eigi stóryrði um munn fara á neyðardegi þeirra. 1.13 Ryðst ekki inn um hlið þjóðar minnar á glötunardegi þeirra, horf þú ekki líka með ánægju á óhamingju hennar á glötunardegi hennar og rétt þú ekki út höndina eftir fjárafla hennar á glötunardegi hennar. 1.14 Nem eigi staðar á vegamótum til þess að drepa niður flóttamenn hennar, og framsel eigi menn hennar, þá er undan komast, á degi neyðarinnar. 1.15 Því að dagur Drottins er nálægur fyrir allar þjóðir. Eins og þú hefir öðrum gjört, eins skal þér gjört verða; gjörðir þínar skulu þér í koll koma. 1.16 Því að eins og þér hafið drukkið á mínu heilaga fjalli, svo skulu allar þjóðirnar drekka stöðuglega. Þær skulu drekka og sötra og verða eins og þær aldrei hefðu til verið. 1.17 En á Síonfjalli skal frelsun verða, og það skal heilagt vera, og Jakobs niðjar skulu fá aftur eignir sínar. 1.18 Og Jakobs hús mun verða að eldi og Jósefs hús að loga og Esaú hús að hálmi, og þeir munu kveikja í og eyða honum, svo að ekkert skal eftir verða af Esaúniðjum, því að Drottinn hefir talað það. 1.19 Sunnlendingar skulu taka Esaúfjöll til eignar og Sléttumenn Filisteu. Þeir munu og taka Efraímsland og Samaríuland til eignar, og Benjamín Gíleað. 1.20 Þeir af Ísraelsmönnum, er teknir hafa verið í vígi þessu og fluttir burt hernumdir, munu taka það til eignar, sem Kanaanítar eiga, allt til Sarefta, og þeir sem fluttir hafa verið burt hernumdir frá Jerúsalem, þeir sem eru í Sefarad, munu taka til eignar borgir Suðurlandsins.
1.1 Orð Drottins kom til Jónasar Amittaísonar, svo hljóðandi: 1.2 'Legg af stað og far til Níníve, hinnar miklu borgar, og prédika móti henni, því að vonska þeirra er upp stigin fyrir auglit mitt.' 1.3 En Jónas lagði af stað í því skyni að flýja til Tarsis, burt frá augliti Drottins, og fór hann niður til Jaffa. Þar hitti hann skip, er ætlaði til Tarsis. Greiddi hann fargjald og steig á skip í því skyni að fara með þeim til Tarsis, burt frá augliti Drottins. 1.4 Þá varpaði Drottinn miklum stormi á sjóinn, og gjörði þá svo mikið ofviðri á hafinu, að við sjálft lá, að skipið mundi brotna. 1.5 Skipverjar urðu hræddir og hét hver á sinn guð. Og þeir köstuðu reiða skipsins í sjóinn til þess að létta á skipinu. En Jónas hafði gengið ofan í neðsta rúm í skipinu, lá þar og svaf vært. 1.6 Þá gekk stýrimaður til hans og sagði við hann: 'Hvað kemur til, að þú sefur? Statt upp og ákalla guð þinn. Vera má að sá guð minnist vor, svo að vér förumst eigi.' 1.7 Nú sögðu skipverjar hver við annan: 'Komið, vér skulum kasta hlutum, svo að vér fáum að vita, hverjum það er að kenna, að þessi ógæfa er yfir oss komin.' Þeir köstuðu síðan hlutum, og kom upp hlutur Jónasar. 1.8 Þá sögðu þeir við hann: 'Seg oss, hver er atvinna þín og hvaðan kemur þú? Hvert er föðurland þitt og hverrar þjóðar ertu?' 1.9 Hann sagði við þá: 'Ég er Hebrei og dýrka Drottin, Guð himinsins, þann er gjört hefir hafið og þurrlendið.' 1.10 Þá urðu mennirnir mjög óttaslegnir og sögðu við hann: 'Hvað hefir þú gjört!' Mennirnir vissu sem sé, að hann var að flýja burt frá augliti Drottins, því að hann hafði sagt þeim frá því. 1.11 Því næst sögðu þeir við hann: 'Hvað eigum vér að gjöra við þig, til þess að hafið kyrrist fyrir oss?' _ því að sjórinn æstist æ meir og meir. 1.12 Þá sagði hann við þá: 'Takið mig og kastið mér í sjóinn, mun þá hafið kyrrt verða fyrir yður, því að ég veit, að fyrir mína skuld er þessi mikli stormur yfir yður kominn.' 1.13 Þá lögðust skipverjar á árar og reyndu að komast aftur til lands, en gátu það ekki, því að sjórinn æstist æ meir og meir. 1.14 Þá kölluðu þeir til Drottins og sögðu: 'Æ, Drottinn! Lát oss eigi farast, þótt vér glötum lífi þessa manns, og lát oss ekki gjalda þess, svo sem vér hefðum fyrirkomið saklausum manni, því að þú, Drottinn, hefir gjört það, sem þér þóknaðist.' 1.15 Þeir tóku nú Jónas og köstuðu honum í sjóinn. Varð hafið þá kyrrt og sjávarólguna lægði. 1.16 En skipverjar óttuðust Drottin harla mjög, færðu Drottni sláturfórn og gjörðu heit.
2.1 Þá sendi Drottinn stórfisk til þess að svelgja Jónas. Og Jónas var í kviði fisksins þrjá daga og þrjár nætur. 2.2 Og Jónas bað til Drottins Guðs síns í kviði fisksins 2.3 og sagði: Ég kallaði til Drottins í neyð minni, og hann svaraði mér. Frá skauti Heljar hrópaði ég, og þú heyrðir raust mína. 2.4 Þú varpaðir mér í djúpið, út í mitt hafið, svo að straumurinn umkringdi mig. Allir boðar þínir og bylgjur gengu yfir mig. 2.5 Ég hugsaði: Ég er burt rekinn frá augum þínum. Mun ég nokkurn tíma framar líta þitt heilaga musteri? 2.6 Vötnin luktu um mig og ætluðu að sálga mér, hyldýpið umkringdi mig, höfði mínu var faldað með marhálmi. 2.7 Ég steig niður að grundvöllum fjallanna, slagbrandar jarðarinnar voru lokaðir á eftir mér að eilífu. Þá færðir þú líf mitt upp úr gröfinni, Drottinn, Guð minn! 2.8 Þegar sál mín örmagnaðist í mér, þá minntist ég Drottins, og bæn mín kom til þín, í þitt heilaga musteri. 2.9 Þeir sem dýrka fánýt falsgoð, þeir hafna hjálpræði sínu. 2.10 En ég vil færa þér fórnir með lofgjörðarsöng. Ég vil greiða það er ég hefi heitið. Hjálpin kemur frá Drottni. 2.11 En Drottinn bauð fiskinum að spúa Jónasi upp á þurrt land.
3.1 Og orð Drottins kom til Jónasar annað sinn, svo hljóðandi: 3.2 'Legg af stað og far til Níníve, hinnar miklu borgar, og flyt henni þann boðskap, er ég býð þér.' 3.3 Þá lagði Jónas af stað og fór til Níníve, eins og Drottinn hafði boðið honum. En Níníve var geysimikil borg, þrjár dagleiðir á lengd. 3.4 Og Jónas hóf göngu sína inn í borgina eina dagleið, prédikaði og sagði: 'Að fjörutíu dögum liðnum skal Níníve verða í eyði lögð.' 3.5 En Nínívemenn trúðu Guði og boðuðu föstu og klæddust hærusekk, bæði ungir og gamlir. 3.6 Og er þetta barst til konungsins í Níníve, þá stóð hann upp úr hásæti sínu, lagði af sér skikkju sína, huldi sig hærusekk og settist í ösku. 3.7 Og hann lét gjöra heyrinkunna í Níníve svolátandi skipun: 'Samkvæmt boði konungs og vildarmanna hans er svo fyrir mælt: Hvorki menn né skepnur, hvorki naut né sauðir skulu nokkurs neyta. Þeir skulu hvorki á gras ganga né vatn drekka, 3.8 heldur skulu þeir hylja sig hærusekk, bæði menn og skepnur, og hrópa til Guðs ákaflega og láta hver og einn af sinni vondu breytni og af þeim rangindum, er þeir hafa um hönd haft. 3.9 Hver veit nema Guði kunni að snúast hugur og hann láti sig iðra þessa og láti af sinni brennandi reiði, svo að vér förumst ekki.' 3.10 En er Guð sá gjörðir þeirra, að þeir létu af illri breytni sinni, þá iðraðist Guð þeirrar ógæfu, er hann hafði hótað að láta yfir þá koma, og lét hana ekki fram koma.
4.1 Jónasi mislíkaði þetta mjög, og hann varð reiður. 4.2 Og hann bað til Drottins og sagði: 'Æ, Drottinn! Kemur nú ekki að því sem ég hugsaði, meðan ég enn var heima í mínu landi? Þess vegna ætlaði ég áður fyrr að flýja til Tarsis, því að ég vissi, að þú ert líknsamur og miskunnsamur Guð, þolinmóður og gæskuríkur og lætur þig angra hins vonda. 4.3 Tak nú, Drottinn, önd mína frá mér, því að mér er betra að deyja en lifa.' 4.4 En Drottinn sagði: 'Er það rétt gjört af þér að reiðast svo?' 4.5 Því næst fór Jónas út úr borginni og bjóst um fyrir austan borgina. Þar gjörði hann sér laufskála og settist undir hann í forsælunni og beið þess að hann sæi, hvernig borginni reiddi af. 4.6 Þá lét Drottinn Guð rísínusrunn upp spretta yfir Jónas til þess að bera skugga á höfuð hans og til þess að hafa af honum óhuginn, og varð Jónas stórlega feginn rísínusrunninum. 4.7 En næsta dag, þegar morgunroðinn var á loft kominn, sendi Guð orm, sem stakk rísínusrunninn, svo að hann visnaði. 4.8 Og er sól var upp komin, sendi Guð brennheitan austanvind, og skein sólin svo heitt á höfuð Jónasi, að hann örmagnaðist. Þá óskaði hann sér dauða og sagði: 'Mér er betra að deyja en lifa!' 4.9 Þá sagði Guð við Jónas: 'Er það rétt gjört af þér að reiðast svo vegna rísínusrunnsins?' Hann svaraði: 'Það er rétt að ég reiðist til dauða!' 4.10 En Drottinn sagði: 'Þig tekur sárt til rísínusrunnsins, sem þú hefir ekkert fyrir haft og ekki upp klakið, sem óx á einni nóttu og hvarf á einni nóttu.
1.1 Orð Drottins, sem kom til Míka frá Móreset á dögum Jótams, Akasar og Hiskía, Júdakonunga, það er honum vitraðist um Samaríu og Jerúsalem. 1.2 Heyrið, allir lýðir! Hlusta þú, jörð, og allt sem á þér er! Og Drottinn Guð veri vottur gegn yður, Drottinn frá sínu heilaga musteri. 1.3 Sjá, Drottinn mun út fara frá bústað sínum, mun ofan stíga og ganga eftir hæðum jarðarinnar. 1.4 Fjöllin munu bráðna undan honum og dalirnir klofna sem vax fyrir eldi, sem vatn, er steypist ofan bratta hlíð. 1.5 Og allt þetta sakir misgjörðar Jakobs og sakir syndar Ísraels húss. Hver er þá misgjörð Jakobs? Er það ekki Samaría? Og hver er synd Júda? Er það ekki Jerúsalem? 1.6 Ég gjöri því Samaríu að grjótrúst á víðavangi, að gróðurekru undir víngarða, og velti steinum hennar ofan í dalinn og læt sjást í beran grundvöllinn. 1.7 Öll skurðgoð hennar skulu sundur brotin verða og allar helgigjafir hennar í eldi brenndar, og öll guðalíkneski hennar vil ég framselja til eyðingar, því að hún hefir dregið þær saman úr hórgjöldum, og að hórgjöldum skulu þær aftur verða. 1.8 Vegna þessa vil ég harma og kveina, ganga berfættur og skikkjulaus, telja mér harmatölur eins og sjakalarnir og halda sorgarkvein eins og strútsfuglarnir. 1.9 Því að ólæknandi eru sár hennar. Já, það kemur allt til Júda, nær allt að hliðum þjóðar minnar, allt að Jerúsalem. 1.10 Segið ekki frá því í Gat, grátið ekki hátt! Veltið yður í duftinu í Betleafra! 1.11 Gangið fram smánarlega naktir, þér íbúar Safír! Íbúarnir í Saanan voga sér ekki út, harmakveinið í Bet Haesel aftrar yður frá að staðnæmast þar. 1.12 Því að íbúar Marót eru kvíðandi um sinn hag, já, ógæfa stígur niður frá Drottni allt að hliðum Jerúsalem. 1.13 Beitið gæðingum fyrir vagnana, þér íbúar Lakís! Í þeirri borg kom fyrst upp synd dótturinnar Síon; já, hjá yður fundust misgjörðir Ísraels. 1.14 Fyrir því verður þú að segja skilið við Móreset Gat. Húsin í Aksíb reynast Ísraelskonungum svikul. 1.15 Enn læt ég sigurvegarann yfir yður koma, þér íbúar Maresa. Tignarmenni Ísraels munu komast allt til Adúllam. 1.16 Raka hár þitt og skegg vegna þinna ástfólgnu barna, gjör skalla þinn breiðan sem á gammi, því að þau verða að fara hernumin burt frá þér.
2.1 Vei þeim, sem hugsa upp rangindi og hafa illt með höndum í hvílurúmum sínum og framkvæma það, þegar ljómar af degi, jafnskjótt og þeir megna. 2.2 Langi þá til að eignast akra, þá ræna þeir þeim, eða hús, þá taka þeir þau burt. Þeir beita ofríki gegn húsbóndanum og húsi hans, gegn manninum og óðali hans. 2.3 Fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég bý yfir óhamingju, sem ég mun senda þessari kynslóð, og þér skuluð ekki fá af yður hrundið né gengið hnarreistir undir, því að það munu verða vondir tímar. 2.4 Á þeim degi munu menn háðkvæði um yður kveða og hefja harmatölur á þessa leið: 'Vér erum gjörsamlega eyðilagðir, landeign þjóðar minnar er úthlutað með mæliþræði, og enginn fær mér hana aftur. Ökrum vorum er skipt milli þeirra, er oss hafa hertekið!' 2.5 Fyrir því skalt þú engan hafa, er dragi mæliþráð yfir landskika í söfnuði Drottins. 2.6 'Prédikið ekki,' _ svo prédika þeir. 'Menn eiga ekki að prédika um slíkt! Skömmunum linnir ekki!' 2.7 Hvílíkt tal, Jakobs hús! Er Drottinn óþolinmóður, eða eru gjörðir hans slíkar? Eru ekki orð hans gæskurík við þá, sem breyta ráðvandlega? 2.8 En þjóð mín hefir nú þegar lengi risið upp á móti mér sem óvinur. Utan af kyrtlinum dragið þér yfirhöfnina af þeim, sem ugglausir fara um veginn, sem fráhverfir eru stríði. 2.9 Konur þjóðar minnar rekið þér út úr húsunum, sem hafa verið yndi þeirra, rænið börn þeirra prýði minni að eilífu. 2.10 Af stað og burt með yður! Því að hér er ekki samastaður fyrir yður vegna saurgunarinnar, sem veldur tjóni, og það ólæknandi tjóni. 2.11 Ef einhver, sem færi með hégóma og lygar, hræsnaði fyrir þér og segði: 'Ég skal spá þér víni og áfengum drykk,' það væri spámaður fyrir þessa þjóð! 2.12 Safna, já safna vil ég, Jakob, öllum þínum, færa saman leifar Ísraels eins og sauðfé í rétt, eins og hjörð í haga, og þar skal verða kliður mikill af mannmergðinni. 2.13 Forustusauðurinn fer fyrir þeim, þeir ryðjast fram, fara í gegnum hliðið og halda út um það, og konungur þeirra fer fyrir þeim og Drottinn er í broddi fylkingar þeirra.
3.1 Ég sagði: Heyrið, þér höfðingjar Jakobs og stjórnendur Ísraels húss! Er það ekki yðar að vita, hvað rétt er? 3.2 En þeir hata hið góða og elska hið illa, flá skinnið af mönnum og holdið af beinum þeirra. 3.3 Þeir eta hold þjóðar minnar, þeir flá skinnið af þeim og brjóta bein þeirra, hluta þau sundur eins og steik í potti, eins og kjöt á suðupönnu. 3.4 Þá munu þeir hrópa til Drottins, en hann mun ekki svara þeim, og hann mun byrgja auglit sitt fyrir þeim, þegar sá tími kemur, af því að þeir hafa ill verk í frammi haft. 3.5 Svo mælir Drottinn til spámannanna, sem leitt hafa þjóð mína afvega: Þeir boða hamingju meðan þeir hafa nokkuð tanna milli, en segja þeim stríð á hendur, er ekki stingur neinu upp í þá. 3.6 Fyrir því skal sú nótt koma, að þér sjáið engar sýnir, og það myrkur, að þér skuluð engu spá. Sólin skal ganga undir fyrir spámönnunum og dagurinn myrkvast fyrir þeim. 3.7 Þeir sem sjá sjónir, skulu þá blygðast sín og spásagnamennirnir fyrirverða sig. Þeir munu allir hylja kamp sinn, því að ekkert svar kemur frá Guði. 3.8 Ég þar á móti er fullur af krafti, af anda Drottins, og af rétti og styrkleika, til þess að boða Jakob misgjörð hans og Ísrael synd hans. 3.9 Heyrið þetta, þér höfðingjar Jakobs húss og þér stjórnendur Ísraels húss, þér sem hafið viðbjóð á réttvísinni og gjörið allt bogið, sem beint er, 3.10 þér sem byggið Síon með manndrápum og Jerúsalem með glæpum. 3.11 Höfðingjar hennar dæma fyrir mútur og prestar hennar veita fræðslu fyrir kaup. Spámenn hennar spá fyrir peninga og reiða sig í því efni á Drottin og segja: 'Er ekki Drottinn vor á meðal? Engin ógæfa kemur yfir oss!' 3.12 Fyrir því skal Síon plægð verða að akri yðar vegna og Jerúsalem verða að rúst og musterisfjallið að skógarhæðum.
4.1 Og það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús Drottins stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar, og þangað munu lýðirnir streyma. 4.2 Og margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: 'Komið, förum upp á fjall Drottins og til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum.' Því að frá Síon mun kenning út ganga og orð Drottins frá Jerúsalem. 4.3 Og hann mun dæma meðal margra lýða og skera úr málum voldugra þjóða langt í burtu. Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar. 4.4 Hver mun búa undir sínu víntré og undir sínu fíkjutré og enginn hræða þá. Því að munnur Drottins allsherjar hefir talað það. 4.5 Því að allar þjóðirnar ganga hver í nafni síns guðs, en vér göngum í nafni Drottins, Guðs vors, æ og ævinlega. 4.6 Á þeim degi _ segir Drottinn _ vil ég saman safna því halta og smala saman því tvístraða og þeim er ég hefi tjón unnið, 4.7 og ég vil gjöra hið halta að nýjum kynstofni og hið burtflæmda að voldugri þjóð. Og Drottinn sjálfur mun verða konungur yfir þeim á Síonfjalli héðan í frá og að eilífu. 4.8 En þú, varðturn hjarðmannsins, hæð dótturinnar Síon, til þín mun koma og aftur til þín hverfa hið forna veldi, konungdómur dótturinnar Jerúsalem. 4.9 Nú, hví hljóðar þú svo hástöfum? Hefir þú engan konung, eða er ráðgjafi þinn horfinn, úr því að kvalir grípa þig eins og jóðsjúka konu? 4.10 Fá þú hríðir og hljóða þú, dóttirin Síon, eins og jóðsjúk kona. Því að nú verður þú að fara út úr borginni og búa á víðavangi og fara alla leið til Babýlon. Þar munt þú frelsuð verða, þar mun Drottinn leysa þig undan valdi óvina þinna. 4.11 En nú hafa margar þjóðir safnast í móti þér, þær er segja: 'Verði hún vanhelguð, svo að vér megum horfa hlakkandi á Síon!' 4.12 En þær þekkja ekki hugsanir Drottins og skilja ekki ráðsályktun hans, að hann hefir safnað þeim saman eins og kerfum á kornláfa. 4.13 Rís upp og þresk, dóttirin Síon, því að ég gjöri þér horn af járni og klaufir af eiri, svo að þú skalt sundur merja margar þjóðir. Og þú munt helga Drottni ránsfeng þeirra og fjárafla þeirra honum, sem er Drottinn allrar jarðarinnar. 4.14 Gjör nú skinnsprettur á hold þitt. Hervirki hefir hann gjört í móti oss. Með sprotanum munu þeir ljósta dómara Ísraels á kinnina.
5.1 Og þú, Betlehem Efrata, þótt þú sért einna minnst af héraðsborgunum í Júda, þá skal þó frá þér koma sá, er vera skal drottnari í Ísrael, og ætterni hans vera frá umliðinni öld, frá fortíðar dögum. 5.2 Fyrir því mun Guð yfirgefa þá til þess tíma, er sú hefir fætt, er fæða skal, en þá munu leifar ættbræðra hans hverfa aftur til Ísraelsmanna. 5.3 Þá mun hann standa og halda þeim til haga í krafti Drottins, í hinu tignarlega nafni Drottins Guðs síns, og þeir skulu óhultir búa, því að þá skal hann mikill vera til endimarka jarðar. 5.4 Og þessi mun friðurinn vera: Brjótist Assýringar inn í land vort og stígi þeir fæti á ættjörð vora, þá munum vér senda í móti þeim sjö hirða og átta þjóðhöfðingja, 5.5 og þeir munu herja land Assýringa með sverði og land Nimrods með brugðnum brandi. Og þannig mun hann frelsa oss frá Assýringum, er þeir brjótast inn í land vort og stíga fæti á fold vora. 5.6 Leifar Jakobs meðal heiðingjanna, mitt á meðal margra þjóða, munu vera sem dögg frá Drottni, sem regndropar á grasi, þeir er bíða ekki eftir neinum og vænta ekki neins af mannanna börnum. 5.7 Og leifar Jakobs meðal heiðingjanna, mitt á meðal margra þjóða, munu vera sem ljón meðal skógardýra, sem ljónshvolpur í sauðahjörð, sá er niður treður þar sem hann veður yfir og sundur rífur, án þess að nokkur fái bjargað. 5.8 Armleggur þinn mun hrósa sigri yfir mótstöðumönnum þínum og allir óvinir þínir munu afmáðir verða. 5.9 Á þeim degi _ segir Drottinn _ vil ég eyða öllum þeim víghestum, sem þú átt í landinu, og gjöra að engu hervagna þína, 5.10 ég vil eyða borgum lands þíns og rífa niður öll virki þín, 5.11 ég vil eyða öllum töfrum hjá þér, og spásagnamenn skulu eigi framar hjá þér vera. 5.12 Ég vil eyða skurðmyndum þínum og merkissteinum, þeim er hjá þér eru, og þú skalt ekki framar falla fram fyrir verkum handa þinna. 5.13 Ég vil brjóta niður asérur þínar og eyðileggja guðalíkneski þín, 5.14 og ég vil með reiði og gremi hefnast á þjóðunum, er eigi hafa hlýðnast.
6.1 Heyrið, hvað Drottinn segir: Statt upp og sæk sök fyrir fjöllunum, svo að hæðirnar megi heyra raust þína. 6.2 Heyrið kærumál Drottins, þér fjöll, og hlýðið á, þér undirstöður jarðarinnar. Því að Drottinn hefir mál að kæra við þjóð sína og gengur í dóm við Ísrael: 6.3 _ Þjóð mín, hvað hefi ég gjört þér og með hverju hefi ég þreytt þig? Vitna þú í gegn mér! 6.4 Ég leiddi þig þó út af Egyptalandi og frelsaði þig úr þrælahúsinu og sendi þér Móse, Aron og Mirjam til forystu. 6.5 Þjóð mín, minnst þú þess, hvað Balak Móabskonungur hafði í hyggju og hverju Bíleam Beórsson svaraði honum, minnst þú þess er gjörðist á leiðinni frá Sittím til Gilgal, til þess að þú kannist við velgjörðir Drottins. 6.6 _ Með hvað á ég að koma fram fyrir Drottin, beygja mig fyrir Guði á hæðum? Á ég að koma fram fyrir hann með brennifórnir, með ársgamla kálfa? 6.7 Hefir Drottinn þóknun á þúsundum hrúta, á tíþúsundum olífuolíulækja? Á ég að fórna frumgetnum syni mínum fyrir misgjörð mína, ávexti kviðar míns sem syndafórn sálar minnar? 6.8 _ Hann hefir sagt þér, maður, hvað gott sé! Og hvað heimtar Drottinn annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum? 6.9 Heyr, Drottinn kallar til borgarinnar, og það er viska að óttast nafn hans. Heyrið, kynstofn og saman kominn borgarlýður! 6.10 Á ég að láta sem ég sjái ekki, í húsi hins óguðlega, rangfengin auðæfi og svikinn mæli, sem bölvun er lýst yfir? 6.11 Á ég að láta honum óhegnt, þótt hann hafi ranga vog og svikna vogarsteina í sjóði sínum? 6.12 Ríkismenn hennar eru fullir af ofríki, íbúar hennar tala lygar og tungan fer með svik í munni þeirra. 6.13 Því tek ég og að ljósta þig, að eyða vegna synda þinna. 6.14 Þú skalt eta, en þó ekki saddur verða, heldur skal hungrið haldast við í þér. Þótt þú takir eitthvað frá, þá skalt þú eigi fá bjargað því, og það sem þú bjargar, skal ég ofurselja sverðinu. 6.15 Þótt þú sáir, skalt þú ekkert uppskera. Þótt þú troðir olífurnar, skalt þú eigi smyrja þig með olíu, og þótt þú fáir vínberjalöginn, skalt þú ekki vínið drekka. 6.16 Þú hefir haldið setningum Omrí og öllu athæfi Akabs húss, og þér hafið breytt eftir háttum þeirra, til þess að ég gjöri hana að auðn og láti íbúa hennar verða að spotti. Já, þér skuluð bera háð þjóðanna.
7.1 Vei mér, því að það hefir farið fyrir mér eins og þegar ávöxtum er safnað, eins og við eftirtíning vínberjatekju: ekkert vínber eftir til að eta, engin árfíkja, er mig langaði í. 7.2 Guðhræddir menn eru horfnir úr landinu, og ráðvandir eru ekki til meðal mannanna, þeir sitja allir um að fremja morð og reyna að veiða hver annan í net. 7.3 Til ills eru báðar hendur fram réttar. Höfðinginn heimtar og dómarinn dæmir gegn endurgjaldi. Og stórmennið er bermált um það, sem hjarta hans girnist, og þeir flækja málin. 7.4 Hinn besti meðal þeirra er sem þyrnir og hinn ráðvandasti verri en þyrnigerði. Dagurinn sem varðmenn þínir hafa talað um, hegningardagur þinn, kemur. Þá verða þeir úrræðalausir. 7.5 Trúið eigi kunningja yðar, treystið eigi vini, gæt dyra munns þíns fyrir henni, sem hvílir í faðmi þínum. 7.6 Því að sonurinn fyrirlítur föður sinn, dóttirin setur sig upp á móti móður sinni, tengdadóttirin á móti tengdamóður sinni, heimilismennirnir eru óvinir húsbónda síns. 7.7 Ég vil mæna til Drottins, bíða eftir Guði hjálpræðis míns! Guð minn mun heyra mig! 7.8 Hlakka eigi yfir mér, fjandkona mín, því þótt ég sé fallin, rís ég aftur á fætur, þótt ég sitji í myrkri, þá er Drottinn mitt ljós. 7.9 Reiði Drottins vil ég þola _ því að ég hefi syndgað á móti honum _ þar til er hann sækir sök mína og lætur mig ná rétti mínum. Hann mun leiða mig út til ljóssins, ég mun horfa ánægð á réttlæti hans. 7.10 Fjandkona mín mun sjá það, og smán mun hylja hana, hún sem nú segir við mig: 'Hvar er Drottinn, Guð þinn?' Augu mín munu horfa hlakkandi á hana, þá mun hún verða troðin niður eins og saur á strætum. 7.11 Sá dagur kemur, að múrar þínir verða endurreistir, þann dag munu landamerki þín færast mikið út. 7.12 Á þeim degi munu menn koma til þín frá Assýríu allt til Egyptalands og frá Egyptalandi allt til Efrats, frá hafi til hafs og frá fjalli til fjalls. 7.13 En jörðin mun verða að auðn vegna íbúa hennar, sökum ávaxtarins af gjörðum þeirra. 7.14 Gæt þú þjóðar þinnar með staf þínum, sauða arfleifðar þinnar, þeirra sem byggja einir sér kjarrskóginn innan um aldingarðana. Lát þá ganga í Basanshaglendi og í Gíleað eins og forðum daga. 7.15 Lát hana sjá undur, eins og þegar þú fórst af Egyptalandi. 7.16 Þjóðirnar skulu sjá það og verða til skammar, þrátt fyrir allan styrkleika sinn. Þær munu leggja höndina á munninn, eyru þeirra munu verða heyrnarlaus. 7.17 Þær munu sleikja duft eins og höggormur, eins og kvikindi, sem skríða á jörðinni, skjálfandi skulu þær koma fram úr fylgsnum sínum, líta hræddar til Drottins, Guðs vors, og óttast þig. 7.18 Hver er slíkur Guð sem þú, sá er fyrirgefur leifum arfleifðar sinnar misgjörð þeirra og umber fráhvarf þeirra, _ sem eigi heldur fast við reiði sína eilíflega, heldur hefir unun af að vera miskunnsamur? 7.19 Þú munt aftur miskunna oss, troða niður misgjörðir vorar. Já, þú munt varpa öllum syndum vorum í djúp hafsins.
1.1 Spádómur um Níníve. Bókin um vitrun Nahúms Elkósíta. 1.2 Drottinn er vandlætissamur Guð og hefnari. Drottinn er hefnari og fullur gremi. Drottinn hefnir sín á mótstöðumönnum sínum og er langrækinn við óvini sína. 1.3 Drottinn er seinn til reiði og mikill að krafti, en óhegnt lætur hann ekki. Drottinn brunar áfram í fellibyljum og stormviðri, og skýin eru rykið undir fótum hans. 1.4 Hann hastar á sjóinn og þurrkar hann upp, og hann lætur öll fljót þorna. Þá fölnar Basan og Karmel, þá fölnar jurtagróðurinn á Líbanon. 1.5 Fjöllin skjálfa fyrir honum, og hálsarnir renna sundur. Jörðin gengur skykkjum fyrir honum, heimskringlan og allir sem á henni búa. 1.6 Hver fær staðist gremi hans og hver fær afborið hans brennandi reiði? Heift hans úthellist eins og eldur og björgin bresta sundur fyrir honum. 1.7 Drottinn er góður, athvarf á degi neyðarinnar, og hann þekkir þá sem treysta honum. 1.8 En með yfirgeisandi vatnsflóði mun hann gjörsamlega afmá Níníve, og myrkur mun ofsækja óvini hans. 1.9 Hvað bruggið þér gegn Drottni? Hann eyðir svo, að af tekur _ þrengingin mun ekki koma tvisvar. 1.10 Þótt þeir væru samflæktir sem þyrnar og votir sem vín þeirra, þá munu þeir upp brenndir verða sem skraufþurrir hálmleggir. 1.11 Frá þér, Níníve, út gekk sá, er hafði illt í huga gegn Drottni, sá er hafði skaðsemdar áform með höndum. 1.12 Svo segir Drottinn: Þótt þeir komi allir með tölu og afar fjölmennir, þá skulu þeir allt að einu afmáðir verða og farast. Hafi ég auðmýkt þig, Júda, þá mun ég ekki auðmýkja þig framar. 1.13 Og nú vil ég brjóta ok hans af þér og slíta bönd þín. 1.14 En um þig, Níníve, mun Drottinn skipa svo fyrir: Ekkert afkvæmi skal framar koma út af nafni þínu. Ég vil eyða skurðmyndunum og steyptu líkneskjunum úr hofi guðs þíns, ég vil búa þér gröf, því að þú ert léttvæg fundin.
2.1 Sjá á fjöllunum fætur fagnaðarboðans, þess er friðinn kunngjörir. Hald hátíðir þínar, Júda, gjald heit þín, því að eyðandinn skal ekki framar um hjá þér fara _ hann er með öllu afmáður. 2.2 Ófriðarmaðurinn fer í móti þér, Níníve: Gæt vígisins! Horf njósnaraugum út á veginn, styrk lendarnar, safna öllum styrkleika þínum, 2.3 því að Drottinn reisir aftur við tign Jakobs eins og tign Ísraels, því að ræningjar hafa rænt þá og skemmt gróðurkvistu þeirra. 2.4 Skildir kappa hans eru rauðlitaðir, hermennirnir klæddir skarlatsklæðum. Vagnarnir glóa af stáli þann dag, er hann útbýr þá, og lensunum verður sveiflað. 2.5 Vagnarnir geisa á strætunum, þeytast um torgin, þeir eru til að sjá sem blys, þeir þjóta áfram sem eldingar. 2.6 Konungurinn heitir þá á tignarmenn sína: Þeir hrasa á göngu sinni, þeir flýta sér að múrnum, en þegar er vígþak reist. 2.7 Hliðunum við fljótið er lokið upp og konungshöllin kemst í uppnám. 2.8 Og drottningin verður flett klæðum og flutt burt, og þernur hennar munu andvarpa, líkast því sem dúfur kurri, og berja sér á brjóst. 2.9 Níníve hefir verið sem vatnstjörn frá upphafi vega sinna. En þeir flýja. 'Standið við, standið við!' _ en enginn lítur við. 2.10 Rænið silfri, rænið gulli! Því að hér er óþrjótandi forði, ógrynni af alls konar dýrum munum. 2.11 Auðn, gjörauðn og aleyðing, huglaus hjörtu, riðandi kné og skjálfti í öllum mjöðmum, og allra andlit blikna. 2.12 Hvar er nú bæli ljónanna, átthagar ungljónanna, þar sem ljónið gekk og ljónynjan og ljónshvolpurinn, án þess að nokkur styggði þau? 2.13 Ljónið reif sundur, þar til er hvolpar þess höfðu fengið nægju sína, og drap niður handa ljónynjum sínum, fyllti hella sína bráð og bæli sín ránsfeng. 2.14 Sjá, ég rís í gegn þér _ segir Drottinn allsherjar _ og læt vagna þína bálast upp í reyk, og sverðið skal eta ungljón þín. Og ég eyði herfangi þínu af jörðinni, og raust sendiboða þinna skal ekki framar heyrast.
3.1 Vei hinni blóðseku borg, sem öll er full af lygum og ofríki og aldrei hættir að ræna. 3.2 Heyr, svipusmellir! Heyr, hjólaskrölt! Hestar stökkva, vagnar þjóta! 3.3 Riddarar geisa fram! Blikandi sverð, leiftrandi spjót! Fjöldi valfallinna manna og aragrúi af líkum, mannabúkarnir eru óteljandi, þeir hrasa um búkana. 3.4 Vegna hins mikla lauslætis skækjunnar, hinnar fögru og fjölkunnugu, sem vélaði þjóðir með lauslæti sínu og kynstofna með töfrum sínum, 3.5 _ sjá, ég rís í gegn þér _ segir Drottinn allsherjar _ og ég vil bregða klæðafaldi þínum upp að framan og sýna þjóðunum nekt þína og konungsríkjunum blygðan þína. 3.6 Ég skal kasta á þig saur og svívirða þig og láta þig verða öðrum að varnaðarvíti, 3.7 svo að allir sem sjá þig, skulu flýja frá þér og segja: 'Níníve er í eyði lögð! Hver mun aumka hana?' Hvar á ég að leita þeirra, sem vilji hugga þig? 3.8 Ert þú, Níníve, betri en Nó-Ammon, sem lá við Nílkvíslarnar, umkringd af vötnum, sem hafði fljót að varnarvirki, fljót að múrvegg? 3.9 Blálendingar voru styrkur hennar og óteljandi Egyptar, Pútmenn og Líbýumenn voru hjálparlið hennar. 3.10 Og þó varð hún að fara í útlegð, fara burt hernumin. Ungbörn hennar voru og rotuð til dauða á öllum strætamótum. Hlutum var kastað um hina göfugustu menn í borginni og öll stórmenni hennar voru fjötrum reyrð. 3.11 Einnig þú skalt drukkin verða og þér sortna fyrir augum, þú skalt og leita hælis fyrir óvinunum. 3.12 Öll varnarvirki þín eru sem fíkjutré með árfíkjum. Séu þau skekin, falla fíkjurnar þeim í munn, sem þær vill eta. 3.13 Sjá, hermenn þínir eru orðnir að konum _ landshliðum þínum hefir verið lokið upp fyrir óvinum þínum, eldur eyðir slagbröndum þínum. 3.14 Aus vatni til þess að hafa meðan á umsátinni stendur! Umbæt varnarvirki þín! Gakk út í deigulmóinn og troð leirinn, gríp til tiglmótanna! 3.15 Þar skal eldurinn eyða þér, sverðið uppræta þig. Hann skal eyða þér eins og engisprettur, og það þótt þér fjölgi eins og grasvörgum, þótt þér fjölgi eins og átvörgum. 3.16 Kaupmenn þínir eru fleiri en stjörnurnar á himninum, en grasvargarnir skipta hömum og fljúga burt. 3.17 Höfðingjar þínir eru eins og átvargar, herforingjar þínir eins og sægur af engisprettum, er liggja á akurgerðunum þegar kalt er. Þegar sólin kemur upp, fljúga þær burt, enginn veit hvað af þeim verður. 3.18 Hirðar þínir blunda, Assýríukonungur, tignarmenn þínir sofa. Menn þínir eru á víð og dreif um fjöllin, og enginn safnar þeim saman.
1.1 Spádómur, sem opinberaður var Habakkuk spámanni. 1.2 Hversu lengi hefi ég kallað, Drottinn, og þú heyrir ekki! Hversu lengi hefi ég hrópað til þín: 'Ofríki!' og þú hjálpar ekki! 1.3 Hví lætur þú mig sjá rangindi, hví horfir þú upp á rangsleitni? Eyðing og ofríki standa fyrir augum mér. Af því koma þrætur, og deilur rísa upp. 1.4 Fyrir því verður lögmálið magnlaust og fyrir því kemur rétturinn aldrei fram. Hinir óguðlegu umkringja hina réttlátu, fyrir því kemur rétturinn fram rangsnúinn. 1.5 Lítið upp, þér hinir sviksömu, og litist um! Fallið í stafi og undrist! Því að ég framkvæmi verk á yðar dögum _ þér munduð ekki trúa því, ef sagt væri frá því. 1.6 Sjá, ég reisi upp Kaldea, hina harðgjöru og ofsafullu þjóð, sem fer um víða veröld til þess að leggja undir sig bústaði, sem hún á ekki. 1.7 Ægileg og hræðileg er hún, frá henni sjálfri út gengur réttur hennar og tign. 1.8 Hestar hennar eru frárri en pardusdýr og skjótari en úlfar að kveldi dags. Riddarar hennar þeysa áfram, riddarar hennar koma langt að. Þeir fljúga áfram eins og örn, sem hraðar sér að æti. 1.9 Allir koma þeir til þess að fremja ofbeldisverk, brjótast beint áfram og raka saman herteknum mönnum eins og sandi. 1.10 Þeir gjöra gys að konungum, og höfðingjar eru þeim að hlátri. Þeir hlæja að öllum virkjum, hrúga upp mold og vinna þau. 1.11 Þeir fá nýjan kraft og brjótast áfram og gjörast brotlegir, _ þeir sem trúa á mátt sinn og megin. 1.12 Ert þú, Drottinn, ekki Guð minn frá öndverðu, minn Heilagi, sem aldrei deyr? Drottinn, þú hefir falið þeim að framkvæma dóm. Bjargið mitt, þú hefir sett þá til að refsa. 1.13 Augu þín eru of hrein til þess að líta hið illa, og þú getur ekki horft upp á rangsleitni. Hví horfir þú á svikarana, hví þegir þú, þegar hinn óguðlegi uppsvelgir þann, sem honum er réttlátari? 1.14 Og þannig hefir þú látið mennina verða eins og fiska sjávarins, eins og skriðkvikindin, sem engan drottnara hafa. 1.15 Þeir draga þá alla upp á öngli sínum, hrífa þá í net sitt og safna þeim í vörpu sína. Fyrir því gleðjast þeir og fagna, 1.16 fyrir því færa þeir neti sínu sláturfórn og vörpu sinni reykelsisfórn. Því að þau afla þeim ríkulegs hlutskiptis og ríflegs matar. 1.17 Fyrir því bregða þeir sverði sínu án afláts til þess að drepa þjóðir vægðarlaust.
2.1 Ég ætla að nema staðar á varðbergi mínu og ganga út á virkisvegginn og skyggnast um til þess að sjá, hvað hann talar við mig og hverju hann svarar umkvartan minni. 2.2 Þá svaraði Drottinn mér og sagði: Skrifa þú vitrunina upp og letra svo skýrt á spjöldin, að lesa megi viðstöðulaust. 2.3 Því að enn hefir vitrunin sinn ákveðna tíma, en hún skundar að takmarkinu og bregst ekki. Þótt hún dragist, þá vænt hennar, því að hún mun vissulega fram koma og ekki undan líða. 2.4 Sjá, hann er hrokafullur og ber eigi í brjósti sér ráðvanda sál, en hinn réttláti mun lifa fyrir trúfesti sína. 2.5 Vei ræningjanum, manninum sem girnist og eigi verður saddur, sem glennir sundur gin sitt eins og Hel og er óseðjandi eins og dauðinn, sem safnaði til sín öllum þjóðum og dró að sér alla lýði. 2.6 Munu eigi allir þessir kveða um hann háðkvæði og níð, _ gátur um hann? Menn munu segja: Vei þeim, sem rakar saman annarra fé _ hversu lengi? _ og hleður á sig pantteknum munum. 2.7 Munu eigi lánsalar þínir skyndilega upp rísa og þeir vakna, er að þér munu þrengja? Þá munt þú verða herfang þeirra. 2.8 Því að eins og þú hefir rænt margar þjóðir, svo munu nú allar hinar þjóðirnar ræna þig fyrir manndrápin og fyrir ofríkið, sem landið hefir beitt verið, borgin og allir íbúar hennar. 2.9 Vei þeim, sem sækist eftir illum ávinningi fyrir hús sitt til þess að geta byggt hreiður sitt hátt uppi, til þess að geta bjargað sér undan hendi ógæfunnar. 2.10 Þú tókst upp það ráð, sem varð húsi þínu til smánar, að afmá margar þjóðir, og bakaðir sjálfum þér sekt. 2.11 Því að steinarnir munu hrópa út úr múrveggnum og sperrur úr grindinni svara þeim. 2.12 Vei þeim, sem reisir stað með manndrápum og grundvallar borg með glæpum. 2.13 Kemur slíkt ekki frá Drottni allsherjar? Þjóðir vinna fyrir eldinn, og þjóðflokkar þreyta sig fyrir ekki neitt! 2.14 Því að jörðin mun verða full af þekking á dýrð Drottins, eins og djúp sjávarins vötnum hulið. 2.15 Vei þeim, sem gefur vinum sínum að drekka úr skál heiftar sinnar og gjörir þá jafnvel drukkna til þess að sjá blygðan þeirra. 2.16 Þú hefir mettað þig á smán, en ekki á heiðri. Drekk þú nú einnig og reika! Bikarinn í hægri hendi Drottins kemur nú til þín og vansi ofan á vegsemd þína. 2.17 Því að ofríkið, sem haft hefir verið í frammi við Líbanon, skal á þér bitna og dýradrápið hræða þig _ fyrir manndrápin og fyrir ofríkið, sem landið hefir beitt verið, borgin og allir íbúar hennar. 2.18 Hvað gagnar skurðmynd, að smiðurinn sker hana út, eða steypt líkneski og lygafræðari, að smiðurinn treystir á það, svo að hann býr til mállausa guði? 2.19 Vei þeim, sem segir við trédrumb: 'Vakna þú! Rís upp!' _ við dumban steininn. Mun hann geta frætt? Nei, þótt hann sé búinn gulli og silfri, þá er þó enginn andi í honum. 2.20 En Drottinn er í sínu heilaga musteri, öll jörðin veri hljóð fyrir honum!
3.1 Bæn Habakkuks spámanns. Með strengjaleik. 3.2 Drottinn, ég hefi heyrt boðskap þinn, ég er hræddur. Drottinn, endurnýja verk þitt áður en mörg ár líða, lát það verða kunnugt áður en mörg ár líða. Minnst þú miskunnar í reiðinni. 3.3 Guð kemur frá Teman og Hinn heilagi frá Paranfjöllum. (Sela.) Tign hans þekur himininn, og af dýrð hans er jörðin full. 3.4 Ljómi birtist eins og sólarljós, geislar stafa út frá hendi hans, og þar er hjúpurinn um mátt hans. 3.5 Drepsóttin fer á undan honum, og sýkin fetar í fótspor hans. 3.6 Hann gengur fram, og jörðin nötrar, hann lítur upp, og þjóðirnar hrökkva við. Þá molast hin öldnu fjöll sundur, þá sökkva hinar eilífu hæðir niður, hann gengur sama veginn og forðum daga. 3.7 Ég sé tjöld Kúsans í nauðum stödd, tjalddúkarnir í Midíanslandi bifast til og frá. 3.8 Ert þú, Drottinn, reiður fljótunum, eða beinist bræði þín að þeim? Eða beinist heift þín að hafinu, úr því þú ekur með hesta þína, á sigurvagni þínum? 3.9 Ber og nakinn er bogi þinn, þú fyllir örvamæli þinn skeytum, þú klýfur vatnsföll, svo að land kemur fram. 3.10 Fjöllin sjá þig og skjálfa, steypiregn dynur yfir, hafdjúpið lætur raust sína drynja, réttir hendur sínar hátt upp. 3.11 Sól og tungl bíða kyrr í híbýlum sínum, fyrir ljósi þinna þjótandi örva, fyrir ljóma þíns leiftrandi spjóts. 3.12 Í gremi fetar þú yfir jörðina, í reiði þreskir þú þjóðirnar. 3.13 Þú fer að heiman til þess að frelsa þjóð þína, til þess að hjálpa þínum smurða. Þú brýtur niður mæninn á húsi hins óguðlega, gjörir grundvöllinn beran niður á klöpp. 3.14 Þú rekur lensur gegnum höfuðið á herforingjum hans, er geysast fram til að tvístra mér. Fagnaðaróp þeirra glymja, eins og þeir ætluðu að uppeta hina hrjáðu í leyni. 3.15 Þú fer yfir hafið með hesta þína, yfir svelg mikilla vatna. 3.16 Þegar ég heyrði það, titraði hjarta mitt, varir mínar skulfu við fregnina. Hrollur kom í bein mín, og ég varð skjálfandi á fótum, að ég yrði að bíða hörmungadagsins, uns hann rennur upp þeirri þjóð, er á oss ræðst. 3.17 Þótt fíkjutréð blómgist ekki og víntrén beri engan ávöxt, þótt gróði olíutrésins bregðist og akurlöndin gefi enga fæðu, þótt sauðfé hverfi úr réttinni og engin naut verði eftir í nautahúsunum, 3.18 þá skal ég þó gleðjast í Drottni, fagna yfir Guði hjálpræðis míns.
1.1 Orð Drottins, sem kom til Sefanía Kúsísonar, Gedaljasonar, Amaríasonar, Hiskíasonar, á dögum Jósía Amónssonar Júdakonungs. 1.2 Ég vil gjörsópa öllu burt af jörðunni _ segir Drottinn. 1.3 Ég vil sópa burt mönnum og skepnum, ég vil sópa burt fuglum himinsins og fiskum sjávarins, hneykslunum ásamt hinum óguðlegu, og ég vil afmá mennina af jörðunni _ segir Drottinn. 1.4 Ég mun útrétta hönd mína gegn Júda og gegn öllum Jerúsalembúum og afmá nafn Baals af þessum stað, nafn hofgoðanna ásamt prestunum, 1.5 svo og þá er á þökunum falla fram fyrir her himinsins, og þá sem falla fram fyrir Drottni, en sverja um leið við Milkóm, 1.6 svo og þá sem gjörst hafa Drottni fráhverfir og eigi leita Drottins né spyrja eftir honum. 1.7 Verið hljóðir fyrir Drottni Guði! Því að nálægur er dagur Drottins. Já, Drottinn hefir efnt til fórnar, hann hefir þegar vígt gesti sína. 1.8 Á fórnardegi Drottins mun ég vitja höfðingjanna og konungssonanna, svo og allra þeirra, er klæðast útlenskum klæðnaði. 1.9 Þann dag vitja ég allra, sem stökkva yfir þröskuldinn, þeirra er fylla hús Drottins síns með ofbeldi og svikum. 1.10 Á þeim degi _ segir Drottinn _ mun heyrast neyðaróp frá Fiskhliðinu, kveinan úr öðru borgarhverfi og ógurlegt harmakvein frá hæðunum. 1.11 Kveinið, þér sem búið í Mortélinu, því að allur kaupmannalýðurinn er eyddur, afmáðir allir þeir, er silfur vega. 1.12 Í þann tíma mun ég rannsaka Jerúsalem með skriðljósum og vitja þeirra manna, sem liggja á dreggjum sínum, þeirra er segja í hjarta sínu: 'Drottinn gjörir hvorki gott né illt.' 1.13 Þá munu fjármunir þeirra verða að herfangi og hús þeirra að auðn. Þeir munu byggja hús, en ekki búa í þeim, planta víngarða, en ekki drekka vínið, sem úr þeim kemur. 1.14 Hinn mikli dagur Drottins er nálægur, hann er nálægur og hraðar sér mjög. Heyr! Dagur Drottins! Beisklega kveinar þá kappinn. 1.15 Sá dagur er dagur reiði, dagur neyðar og þrengingar, dagur eyðingar og umturnunar, dagur myrkurs og niðdimmu, dagur skýþykknis og skýsorta, 1.16 dagur lúðra og herblásturs _ gegn víggirtu borgunum og háu múrtindunum. 1.17 Þá mun ég hræða mennina, svo að þeir ráfi eins og blindir menn, af því að þeir hafa syndgað gegn Drottni, og blóði þeirra skal úthellt verða sem dufti og innyflum þeirra sem saur. 1.18 Hvorki silfur þeirra né gull fær frelsað þá á reiðidegi Drottins, heldur skal allt landið eyðast fyrir eldi vandlætingar hans. Því að tortíming, já bráða eyðing býr hann öllum þeim, sem á jörðunni búa.
2.1 Beyg þig og læg þig, þú þjóð, sem eigi blygðast þín, 2.2 áður en þér verðið eins og fjúkandi sáðir, áður en hin brennandi reiði Drottins kemur yfir yður, áður en reiðidagur Drottins kemur yfir yður. 2.3 Leitið Drottins, allir þér hinir auðmjúku í landinu, þér sem breytið eftir hans boðorðum. Ástundið réttlæti, ástundið auðmýkt, vera má að þér verðið faldir á reiðidegi Drottins. 2.4 Gasa mun verða yfirgefin og Askalon verða að auðn. Asdódbúar munu burt reknir verða um hábjartan dag og Ekron í eyði lögð. 2.5 Vei yður, þér sem búið meðfram sjávarsíðunni, þú Kreta þjóð! Orð Drottins beinist gegn yður, Kanaan, land Filista! Já, ég mun eyða þig, svo að þar skal enginn búa. 2.6 Og sjávarsíðan skal verða að beitilandi fyrir hjarðmenn og að fjárbyrgjum fyrir sauðfé. 2.7 Þá mun sjávarsíðan falla til þeirra, sem eftir verða af Júda húsi. Þar skulu þeir vera á beit, í húsum Askalon skulu þeir leggjast fyrir að kveldi. Því að Drottinn, Guð þeirra, mun vitja þeirra og snúa við högum þeirra. 2.8 Ég hefi heyrt svívirðingar Móabs og smánaryrði Ammóníta, er þeir svívirtu með þjóð mína og höfðu hroka í frammi við land þeirra. 2.9 Fyrir því skal, svo sannarlega sem ég lifi _ segir Drottinn allsherjar, Guð Ísraels _ fara fyrir Móab eins og fyrir Sódómu, og fyrir Ammónítum eins og fyrir Gómorru. Þeir skulu verða að gróðrarreit fyrir netlur, að saltgröf og að óbyggðri auðn til eilífrar tíðar. Leifar lýðs míns skulu ræna þá og eftirleifar þjóðar minnar erfa þá. 2.10 Þetta skal þá henda fyrir drambsemi þeirra, að þeir hafa svívirt þjóð Drottins allsherjar og haft hroka í frammi við hana. 2.11 Ógurlegur mun Drottinn verða þeim, því að hann lætur alla guði jarðarinnar dragast upp, svo að öll eylönd heiðingjanna dýrki hann, hver maður á sínum stað. 2.12 Einnig þér, Blálendingar, munuð falla fyrir sverði mínu. 2.13 Og hann mun rétta út hönd sína gegn norðri og afmá Assýríu. Og hann mun leggja Níníve í eyði, gjöra hana þurra sem eyðimörk. 2.14 Mitt í henni skulu hjarðir liggja, alls konar dýr hópum saman. Pelíkanar og stjörnuhegrar munu eiga náttból á súlnahöfðum hennar. Heyr kliðinn í gluggatóttunum! Rofhrúgur á þröskuldunum, því að sedrusviðarþilin hafa verið rifin burt! 2.15 Er þetta glaummikla borgin, er sat andvaralaus og sagði í hjarta sínu: 'Ég og engin önnur'? Hversu er hún orðin að auðn, að bæli fyrir villidýr! Hver sá er þar fer um, blístrar og hristir hönd sína hæðnislega.
3.1 Vei hinni þverúðarfullu og saurguðu, hinni ofríkisfullu borg! 3.2 Hún hlýðir engri áminningu, hún tekur engri hirtingu, hún treystir ekki Drottni og nálægir sig ekki Guði sínum. 3.3 Höfðingjarnir í henni eru sem öskrandi ljón, dómendur hennar sem úlfar að kveldi, þeir leifa engu til morguns. 3.4 Spámenn hennar eru léttúðarmenn, svikaseggir. Prestar hennar vanhelga hið heilaga, misbjóða lögmálinu. 3.5 En Drottinn er réttlátur í henni, hann gjörir ekkert rangt. Á morgni hverjum leiðir hann réttlæti sitt í ljós, það bregst ekki, en hinn rangláti kann ekki að skammast sín. 3.6 Ég hefi afmáð þjóðir, múrtindar þeirra voru brotnir niður. Ég hefi lagt stræti þeirra í eyði, svo að enginn var þar á ferð. Borgir þeirra voru eyddar, urðu mannlausar, svo að þar bjó enginn. 3.7 Ég sagði: 'Óttast þú mig aðeins, tak hirtingu!' þá skal bústaður hennar ekki afmáður verða, eftir allt sem ég hefi fyrirskipað gegn henni. En þeir hafa verið því kostgæfari í því að láta allar gjörðir sínar vera illverk. 3.8 Bíðið mín þess vegna _ segir Drottinn, _ bíðið þess dags, er ég rís upp sem vottur. Því að það er mitt ásett ráð að safna saman þjóðum og stefna saman konungsríkjum til þess að úthella yfir þá heift minni, allri minni brennandi reiði. Því að fyrir eldi vandlætingar minnar skal allt landið verða eytt. 3.9 Já, þá mun ég gefa þjóðunum nýjar, hreinar varir, svo að þær ákalli allar nafn Drottins og þjóni honum einhuga. 3.10 Handan frá Blálands fljótum munu þeir færa mér sláturfórnir, flytja mér matfórnir. 3.11 Á þeim degi þarft þú eigi að skammast þín fyrir öll illverk þín, þau er þú syndgaðir með gegn mér, því að þá mun ég ryðja burt frá þér þeim, er ofkætast drambsamlega í þér, og þú munt ekki framar ofmetnast á mínu heilaga fjalli. 3.12 Og ég mun láta í þér eftir verða auðmjúkan og lítilmótlegan lýð, þeir munu leita sér hælis í nafni Drottins. 3.13 Leifar Ísraels munu engin rangindi fremja, né heldur tala lygar, og í munni þeirra mun ekki finnast sviksöm tunga. Já, þeir munu vera á beit og leggjast, án þess að nokkur styggi þá. 3.14 Fagna þú, dóttirin Síon, lát gleðilátum, þú Ísrael! Ver kát og gleð þig af öllu hjarta, dóttirin Jerúsalem! 3.15 Drottinn hefir afmáð refsidóma þína, rýmt burt óvini þínum. Konungur Ísraels, Drottinn, er hjá þér, þú munt eigi framar á neinu illu kenna. 3.16 Á þeim degi mun sagt verða við Jerúsalem: 'Óttast ekki, Síon, lát ekki hugfallast! 3.17 Drottinn, Guð þinn, er hjá þér, hetjan er sigur veitir. Hann kætist yfir þér með fögnuði, hann þegir í kærleika sínum, hann fagnar yfir þér með gleðisöng.' 3.18 Ég saman safna þeim, sem hryggir eru út af hátíðarsamkomunni, frá þér voru þeir, smán hvílir á þeim. 3.19 Sjá, á þeim tíma skal ég eiga erindi við þá, er þig þjáðu. Þá skal ég frelsa hið halta og smala saman því tvístraða, og ég skal gjöra þá fræga og nafnkunna á allri jörðunni.
1.1 Á öðru ríkisári Daríusar konungs, hinn fyrsta dag hins sjötta mánaðar, kom orð Drottins fyrir munn Haggaí spámanns til Serúbabels Sealtíelssonar, landstjóra í Júda, og til Jósúa Jósadakssonar æðsta prests, svo hljóðandi: 1.2 Svo segir Drottinn allsherjar: Þessi lýður segir: 'Enn er ekki tími kominn til að endurreisa hús Drottins.' 1.3 Þá kom orð Drottins fyrir munn Haggaí spámanns, svo hljóðandi: 1.4 Er þá tími fyrir yður að búa í þiljuðum húsum, meðan þetta hús liggur í rústum? 1.5 Og nú segir Drottinn allsherjar svo: Takið eftir, hvernig fyrir yður fer! 1.6 Þér sáið miklu, en safnið litlu, etið, en verðið eigi saddir, drekkið, en fáið eigi nægju yðar, klæðið yður, en verðið þó ekki varmir, og sá sem vinnur fyrir kaupi, vinnur fyrir því í götótta pyngju. 1.7 Svo segir Drottinn allsherjar: Takið eftir, hvernig fyrir yður fer! 1.8 Farið upp í fjöllin, sækið við og reisið musterið, þá mun ég hafa velþóknun á því og gjöra mig vegsamlegan! _ segir Drottinn. 1.9 Þér búist við miklu, en fáið lítið í aðra hönd, og þó þér flytjið það heim, þá blæs ég það burt. Hvers vegna? segir Drottinn allsherjar. Vegna húss míns, af því að það liggur í rústum, meðan sérhver yðar flýtir sér með sitt hús. 1.10 Fyrir því heldur himinninn uppi yfir yður aftur dögginni og fyrir því heldur jörðin aftur gróðri sínum. 1.11 Ég kallaði þurrk yfir landið og yfir fjöllin, yfir kornið, vínberjalöginn og olíuna og yfir það, sem jörðin af sér gefur, yfir menn og skepnur og yfir allan handafla. 1.12 Þá hlýddi Serúbabel Sealtíelsson og Jósúa Jósadaksson æðsti prestur og allt það, er eftir var orðið lýðsins, röddu Drottins Guðs þeirra og orðum Haggaí spámanns, þeim er Drottinn Guð þeirra hafði sent hann með, og lýðurinn óttaðist Drottin. 1.13 Þá sagði Haggaí, sendiboði Drottins, við lýðinn, samkvæmt boðskap Drottins: Ég er með yður! _ segir Drottinn. 1.14 Og Drottinn vakti hug Serúbabels Sealtíelssonar, landstjóra í Júda, og hug Jósúa Jósadakssonar æðsta prests og hug alls þess, er eftir var orðið lýðsins, svo að þeir komu og hófu að byggja hús Drottins allsherjar, Guðs þeirra, 1.15 á tuttugasta og fjórða degi hins sjötta mánaðar, á öðru ríkisári Daríusar konungs.
2.1 Á tuttugasta og fyrsta degi hins sjöunda mánaðar talaði Drottinn fyrir munn Haggaí spámanns á þessa leið: 2.2 Mæl þú til Serúbabels Sealtíelssonar, landstjóra í Júda, og til Jósúa Jósadakssonar æðsta prests og til þeirra sem eftir eru af lýðnum, á þessa leið: 2.3 Hver er sá af yður eftir orðinn, er séð hefir þetta hús í sinni fyrri vegsemd, og hversu virðist yður það nú? Er það ekki einskisvert í yðar augum? 2.4 En ver samt hughraustur, Serúbabel _ segir Drottinn _ og ver hughraustur, Jósúa Jósadaksson æðsti prestur, og ver hughraustur, allur landslýður _ segir Drottinn _ og haldið áfram verkinu, því að ég er með yður _ segir Drottinn allsherjar _ 2.5 samkvæmt heiti því, er ég gjörði við yður, þá er þér fóruð af Egyptalandi, og andi minn dvelur meðal yðar. Óttist ekki. 2.6 Því að svo segir Drottinn allsherjar: Eftir skamma hríð mun ég hræra himin og jörð, haf og þurrlendi. 2.7 Ég mun hræra allar þjóðir, svo að gersemar allra þjóða skulu hingað koma, og ég mun fylla hús þetta dýrð _ segir Drottinn allsherjar. 2.8 Mitt er silfrið, mitt er gullið _ segir Drottinn allsherjar. 2.9 Hin síðari dýrð þessa musteris mun meiri verða en hin fyrri var _ segir Drottinn allsherjar _ og ég mun veita heill á þessum stað _ segir Drottinn allsherjar. 2.10 Á tuttugasta og fjórða degi hins níunda mánaðar, á öðru ríkisári Daríusar, talaði Drottinn fyrir munn Haggaí spámanns á þessa leið: 2.11 Svo segir Drottinn allsherjar: Leitaðu fræðslu prestanna um þetta: 2.12 'Setjum, að maður beri heilagt kjöt í kyrtilskauti sínu og snerti síðan brauð, einhvern rétt matar, vín, olíu eða eitthvað annað matarkyns með kyrtilskauti sínu, verður það þá heilagt af því?' Prestarnir svöruðu og sögðu: 'Nei!' 2.13 Þá spurði Haggaí: 'Ef maður, sem orðinn er óhreinn, af því að hann hefir snortið lík, kemur við eitthvað af þessu, verður það þá óhreint?' Prestarnir svöruðu og sögðu: 'Já, það verður óhreint.' 2.14 Þá tók Haggaí til máls og sagði: 'Eins er um þennan lýð og þessa þjóð í mínum augum _ segir Drottinn _ svo og um allt verk er þeir vinna, og það sem þeir færa mér þar að fórn, það er óhreint. 2.15 Og rennið nú huganum frá þessum degi aftur í tímann, áður en steinn var lagður á stein ofan í musteri Drottins. 2.16 Hvernig leið yður þá? Kæmi maður að kornbing, sem gjöra skyldi tuttugu skeppur, þá urðu þær tíu. Kæmi maður að vínþröng og ætlaði að ausa fimmtíu könnur úr þrónni, þá urðu þar ekki nema tuttugu. 2.17 Ég hefi refsað yður með korndrepi og gulnan og hagli yfir öll handaverk yðar, og þó snúið þér yður ekki til mín! _ segir Drottinn. 2.18 Rennið nú huganum frá þessum degi lengra aftur í tímann, frá hinum tuttugasta og fjórða degi hins níunda mánaðar, frá þeim degi er lagður var grundvöllur að musteri Drottins. Rennið huganum yfir, 2.19 hvort enn sé korn í forðabúrinu og hvort víntrén og fíkjutrén og granateplatrén og olíutrén beri ekki enn ávöxt. Frá þessum degi vil ég blessun gefa!' 2.20 Orð Drottins kom til Haggaí annað sinn hinn tuttugasta og fjórða sama mánaðar, svo hljóðandi: 2.21 Mæl til Serúbabels, landstjóra í Júda á þessa leið: Ég mun hræra himin og jörð. 2.22 Ég kollvarpa veldisstólum konungsríkjanna og eyðilegg vald hinna heiðnu konungsríkja. Ég kollvarpa vögnum og þeim, sem í þeim aka, og hestarnir skulu hníga dauðir og þeir, sem á þeim sitja, hver fyrir annars sverði.
1.1 Á áttunda mánuði annars ríkisárs Daríusar kom orð Drottins til Sakaría spámanns Berekíasonar, Iddósonar, svo hljóðandi: 1.2 Drottinn var stórreiður feðrum yðar. 1.3 Seg því við þá: Svo segir Drottinn allsherjar: Snúið yður til mín _ segir Drottinn allsherjar _ þá mun ég snúa mér til yðar _ segir Drottinn allsherjar. 1.4 Verið ekki eins og feður yðar, sem hinir fyrri spámenn áminntu með svofelldum orðum: 'Svo segir Drottinn allsherjar: Snúið yður frá yðar vondu breytni og frá yðar vondu verkum!' En þeir hlýddu ekki og gáfu engan gaum að mér _ segir Drottinn. 1.5 Feður yðar _ hvar eru þeir? Og spámennirnir _ geta þeir lifað eilíflega? 1.6 En orð mín og ályktanir, þau er ég bauð þjónum mínum, spámönnunum, að kunngjöra, hafa þau ekki náð feðrum yðar, svo að þeir sneru við og sögðu: 'Eins og Drottinn allsherjar hafði ásett sér að gjöra við oss eftir breytni vorri og verkum vorum, svo hefir hann við oss gjört'? 1.7 Á tuttugasta og fjórða degi hins ellefta mánaðar, það er mánaðarins sebat, á öðru ríkisári Daríusar, kom orð Drottins til Sakaría spámanns Berekíasonar, Iddósonar, svo hljóðandi: 1.8 Ég sá sýn á náttarþeli: mann ríðandi á rauðum hesti, og hafði hann staðnæmst meðal mýrtustrjánna, sem eru í dalverpinu. Að baki honum voru rauðir, jarpir og hvítir hestar. 1.9 Og er ég spurði: 'Hverjir eru þessir, herra minn?' svaraði engillinn mér, sá er við mig talaði: 'Ég skal sýna þér, hverjir þeir eru.' 1.10 Þá tók maðurinn, sem staðnæmst hafði meðal mýrtustrjánna, til máls og sagði: 'Þessir eru þeir, sem Drottinn hefir sent til þess að fara um jörðina.' 1.11 Þá svöruðu þeir engli Drottins, er staðnæmst hafði meðal mýrtustrjánna, og sögðu: 'Vér höfum farið um jörðina, og sjá, öll jörðin er í ró og kyrrð.' 1.12 Þá svaraði engill Drottins og sagði: 'Drottinn allsherjar, hversu lengi á því fram að fara, að þú miskunnir þig ekki yfir Jerúsalem og Júdaborgir, er þú hefir nú reiður verið í sjötíu ár?' 1.13 Þá svaraði Drottinn englinum, er við mig talaði, blíðum orðum og huggunarríkum, 1.14 og engillinn sem við mig talaði, sagði við mig: 'Kunngjör og seg: Svo segir Drottinn allsherjar: Ég brenn af mikilli vandlæting vegna Jerúsalem og Síonar 1.15 og ég er stórreiður hinum andvaralausu heiðingjum, sem juku á bölið, þá er ég var lítið eitt reiður. 1.16 Fyrir því segir Drottinn svo: Ég sný mér aftur að Jerúsalem með miskunnsemi. Hús mitt skal verða endurreist í henni _ segir Drottinn allsherjar _ og mælivaður skal þaninn verða yfir Jerúsalem. 1.17 Kunngjör enn fremur og seg: Svo segir Drottinn allsherjar: Enn skulu borgir mínar fljóta í gæðum, og enn mun Drottinn hugga Síon og enn útvelja Jerúsalem.'
2.1 Og ég hóf upp augu mín og sá, hvar fjögur horn voru. 2.2 Þá spurði ég engilinn, sem við mig talaði: 'Hvað merkja þessi?' Hann svaraði mér: 'Þetta eru hornin, sem tvístrað hafa Júda, Ísrael og Jerúsalem.' 2.3 Því næst lét Drottinn mig sjá fjóra smiði, 2.4 og er ég spurði: 'Hvað ætla þessir að gjöra?' svaraði hann á þessa leið: 'Þetta eru hornin, sem tvístruðu Júda svo, að enginn bar höfuð hátt, en þessir eru komnir til þess að skelfa þau, til þess að varpa niður hornum þeirra þjóða, er hófu horn gegn Júdalandi til þess að tvístra því.' 2.5 Og ég hóf upp augu mín og sá, hvar maður var. Hann hélt á mæliþræði í hendi sér. 2.6 Þá spurði ég: 'Hvert ætlar þú?' Hann svaraði mér: 'Að mæla Jerúsalem til þess að sjá, hve löng og hve breið hún er.' 2.7 Þá gekk engillinn, er við mig talaði, allt í einu fram, og annar engill gekk fram á móti honum. 2.8 Við hann sagði hann: 'Hlaup þú og tala þú svo til þessa unga manns: ,Jerúsalem skal liggja opin og ógirt sökum þess fjölda manna og skepna, sem í henni verða, 2.9 og ég sjálfur skal vera eins og eldveggur kringum hana _ segir Drottinn _ og ég skal sýna mig dýrlegan í henni.'` 2.10 Upp, upp, flýið úr norðurlandinu _ segir Drottinn _ því að ég hefi tvístrað yður í allar áttir _ segir Drottinn. 2.11 Upp, forðið yður til Síonar, þér sem búið í Babýlon! 2.12 Svo segir Drottinn allsherjar, hinn vegsamlegi, sem hefir sent mig til þjóðanna sem rændu yður: Hver sá er snertir yður, snertir augastein minn. 2.13 Því sjá, ég mun veifa hendi minni yfir þeim, og þá skulu þeir verða þrælum sínum að herfangi, og þér skuluð viðurkenna, að Drottinn allsherjar hefir sent mig. 2.14 Fagna þú og gleð þig, dóttirin Síon! Því sjá, ég kem og vil búa mitt í þér _ segir Drottinn. 2.15 Á þeim degi munu margar þjóðir ganga Drottni á hönd og verða hans lýður og búa mitt á meðal þín, og þú munt viðurkenna, að Drottinn allsherjar hefir sent mig til þín. 2.16 Þá mun Drottinn taka Júda til eignar sem arfleifð sína í hinu heilaga landi og enn útvelja Jerúsalem. 2.17 Allt hold veri hljótt fyrir Drottni! Því að hann er risinn upp frá sínum heilaga bústað.
3.1 Því næst lét hann mig sjá Jósúa æðsta prest, þar sem hann stóð frammi fyrir engli Drottins og Satan honum til hægri handar til þess að ákæra hann. 3.2 En Drottinn mælti til Satans: 'Drottinn ávíti þig, Satan! Drottinn, sem útvalið hefir Jerúsalem, ávíti þig! Er ekki þessi eins og brandur úr báli dreginn?' 3.3 Jósúa var í óhreinum klæðum, þar er hann stóð frammi fyrir englinum. 3.4 Þá tók engillinn til máls og mælti til þeirra, er stóðu frammi fyrir honum: 'Færið hann úr hinum óhreinu klæðum!' Síðan sagði hann við hann: 'Sjá, ég hefi burt numið misgjörð þína frá þér og læt nú færa þig í skrúðklæði.' 3.5 Enn fremur sagði hann: 'Látið hreinan ennidúk um höfuð hans!' Þá létu þeir hreinan ennidúk um höfuð hans og færðu hann í klæðin, en engill Drottins stóð hjá. 3.6 Og engill Drottins vitnaði fyrir Jósúa og sagði: 3.7 'Svo segir Drottinn allsherjar: Ef þú gengur á mínum vegum og varðveitir boðorð mín, þá skalt þú og stjórna húsi mínu og gæta forgarða minna, og ég heimila þér að ganga meðal þessara þjóna minna.' 3.8 Heyr, Jósúa æðsti prestur, þú og félagar þínir, sem sitja frammi fyrir þér, eru fyrirboðar þess, að ég læt þjón minn Kvist koma. 3.9 Því sjá, steinninn, sem ég hefi lagt frammi fyrir Jósúa _ sjö augu á einum steini _ sjá, ég gref á hann letur hans _ segir Drottinn allsherjar _ og tek burt á einum degi misgjörð þessa lands. 3.10 Á þeim degi _ segir Drottinn allsherjar _ munuð þér bjóða hver öðrum inn undir víntré og fíkjutré.
4.1 Þá vakti engillinn, er við mig talaði, mig aftur, eins og þegar maður er vakinn af svefni, 4.2 og sagði við mig: 'Hvað sér þú?' Ég svaraði: 'Ég sé ljósastiku, og er öll af gulli. Ofan á henni er olíuskál og á henni eru sjö lampar og sjö pípur fyrir lampana. 4.3 Og hjá ljósastikunni standa tvö olíutré, annað hægra megin við olíuskálina, hitt vinstra megin.' 4.4 Þá tók ég til máls og sagði við engilinn, sem við mig talaði: 'Hvað merkir þetta, herra minn?' 4.5 Og engillinn, sem við mig talaði, svaraði og sagði við mig: 'Veistu ekki, hvað þetta merkir?' Ég svaraði: 'Nei, herra minn!' 4.6 Þá tók hann til máls og sagði við mig: 'Þetta eru orð Drottins til Serúbabels: Ekki með valdi né krafti, heldur fyrir anda minn! _ segir Drottinn allsherjar. 4.7 Hver ert þú, stóra fjall? Fyrir Serúbabel skalt þú verða að sléttu. Og hann mun færa út hornsteininn, og þá munu kveða við fagnaðaróp: Dýrlegur, dýrlegur er hann!' 4.8 Og orð Drottins kom til mín, svo hljóðandi: 4.9 Hendur Serúbabels hafa lagt grundvöll þessa húss, hendur hans munu og fullgjöra það. Og þá skaltu viðurkenna, að Drottinn allsherjar hefir sent mig til yðar. 4.10 Því að allir þeir, sem lítilsvirða þessa litlu byrjun, munu horfa fagnandi á blýlóðið í hendi Serúbabels. Þessir sjö lampar eru augu Drottins, sem líta yfir gjörvalla jörðina. 4.11 Þá tók ég til máls og sagði við hann: 'Hvað merkja þessi tvö olíutré, hægra og vinstra megin ljósastikunnar?' 4.12 Og ég tók annað sinn til máls og sagði við hann: 'Hvað merkja þær tvær olíuviðargreinar, sem eru við hliðina á þeim tveimur gullpípum, sem láta olífuolíu streyma út úr sér?' 4.13 Þá sagði hann við mig: 'Veistu ekki, hvað þær merkja?' Ég svaraði: 'Nei, herra minn!' 4.14 Þá sagði hann: 'Það eru þeir tveir smurðu, er standa frammi fyrir Drottni gjörvallrar jarðarinnar.'
5.1 Ég hóf aftur upp augu mín og sá bókrollu, sem var á flugi. 5.2 Þá sagði hann við mig: 'Hvað sér þú?' Ég svaraði: 'Ég sé bókrollu á flugi, tuttugu álna langa og tíu álna breiða.' 5.3 Þá sagði hann við mig: 'Þetta er bölvunin, sem út gengur yfir gjörvallt landið, því að sérhverjum sem stelur, verður samkvæmt henni sópað héðan, og sérhverjum sem meinsæri fremur, verður samkvæmt henni sópað héðan.' 5.4 Ég hefi látið hana út ganga _ segir Drottinn allsherjar _ til þess að hún komi inn í hús þjófsins og inn í hús þess, sem meinsæri fremur við nafn mitt, og staðnæmist inni í húsi hans og eyði því bæði að viðum og veggjum. 5.5 Þessu næst gekk fram engillinn, er við mig talaði, og sagði við mig: 'Hef upp augu þín og sjá, hvað þar kemur fram!' 5.6 Ég sagði: 'Hvað er þetta?' Þá sagði hann: 'Þetta er efan, sem kemur í ljós.' Þá sagði hann: 'Þetta er misgjörð þeirra í öllu landinu.' 5.7 Þá lyftist allt í einu upp kringlótt blýlok, og sat þar kona ein niðri í efunni. 5.8 Þá sagði hann: 'Þetta er Vonskan!' _ kastaði henni ofan í efuna og kastaði blýlokinu ofan yfir opið. 5.9 Síðan hóf ég upp augu mín og sá allt í einu tvær konur koma fram, og stóð vindur undir vængi þeim _ því að þær höfðu vængi sem storksvængi _ og hófu þær efuna upp milli jarðar og himins. 5.10 Þá sagði ég við engilinn, sem við mig talaði: 'Hvert fara þær með efuna?' 5.11 Hann svaraði mér: 'Þær ætla að reisa henni hús í Sínearlandi, og þegar það er búið, þá setja þær hana þar á sinn stað.'
6.1 Ég hóf aftur upp augu mín og sá, hvar fjórir vagnar komu út á milli tveggja fjalla, en fjöllin voru eirfjöll. 6.2 Fyrir fyrsta vagninum voru rauðir hestar, fyrir öðrum vagninum svartir hestar, 6.3 fyrir þriðja vagninum voru hvítir hestar og fyrir fjórða vagninum rauðskjóttir hestar. 6.4 Þá tók ég til máls og sagði við engilinn, er við mig talaði: 'Hvað merkir þetta, herra minn?' 6.5 Engillinn svaraði og sagði við mig: 'Þetta eru þeir fjórir vindar himinsins. Þeir hafa gengið fyrir Drottin gjörvallrar jarðarinnar og eru nú að fara af stað. 6.6 Vagninn með svörtu hestunum fyrir var að fara til landsins norður frá, og hinir hvítu fóru á eftir þeim, en hinir skjóttu fóru til landsins suður frá.' 6.7 Og hinir rauðu fóru út, og með því að þeir voru ráðnir í að halda af stað til þess að fara um jörðina, sagði hann: 'Farið! Farið um jörðina!' Og þeir fóru um jörðina. 6.8 Þá kallaði hann á mig og sagði við mig: 'Sjá, þeir sem fara til landsins norður frá, svala reiði minni við landið norður frá.' 6.9 Orð Drottins kom til mín, svo hljóðandi: 6.10 Tak þú við gjöfum hinna herleiddu af hendi Heldaí, Tobía og Jedaja, og far þú sjálfur þann sama dag og gakk þú inn í hús Jósía Sefaníasonar, en þangað eru þeir komnir frá Babýlon. 6.11 Þar skalt þú taka silfur og gull og búa til kórónu og setja á höfuð Jósúa Jósadakssonar æðsta prests. 6.12 Og þú skalt mæla þannig til hans: Svo segir Drottinn allsherjar: Sjá, maður heitir Kvistur. Af hans rótum mun spretta, og hann mun byggja musteri Drottins. 6.13 Hann er sá sem byggja mun musteri Drottins, og hann mun tign hljóta, svo að hann mun sitja og drottna í hásæti sínu, og prestur mun vera honum til hægri handar, og friðarþel mun vera milli þeirra beggja. 6.14 En kórónan skal vera þeim Helem, Tobía, Jedaja og Hen Sefaníasyni til minningar í musteri Drottins. 6.15 Og þeir sem búa í fjarlægð, munu koma til að byggja musteri Drottins. Og þá munuð þér viðurkenna, að Drottinn allsherjar hefir sent mig til yðar. Ef þér hlýðið röddu Drottins, Guðs yðar, þá mun þetta verða.
7.1 Á fjórða ríkisári Daríusar konungs kom orð Drottins til Sakaría. Á fjórða degi hins níunda mánaðar, í kislevmánuði, 7.2 sendu Betel Sareser og Regem Melek og menn hans sendimenn til þess að blíðka Drottin. 7.3 Þeir lögðu svolátandi fyrirspurn fyrir prestana, sem þjónuðu í húsi Drottins allsherjar, og fyrir spámennina: 'Á ég að gráta og fasta í fimmta mánuðinum, eins og ég hefi gjört nú í mörg undanfarin ár?' 7.4 Þá kom orð Drottins allsherjar til mín, svo hljóðandi: 7.5 Tala þú til alls landslýðsins og til prestanna á þessa leið: Þar sem þér hafið fastað og kveinað í fimmta og sjöunda mánuðinum nú í sjötíu ár, hvort var það þá mín vegna, að þér föstuðuð? 7.6 Og er þér etið og drekkið, eruð það þá ekki þér, sem etið, og eruð það ekki þér, sem drekkið? 7.7 Eru þetta ekki þau orð, er Drottinn lét kunngjöra fyrir munn hinna fyrri spámanna, þá er Jerúsalem var byggð og naut friðar, ásamt borgunum umhverfis hana, og þá er Suðurlandið og sléttlendið voru byggð? 7.8 Þá kom orð Drottins til Sakaría, svo hljóðandi: 7.9 Svo segir Drottinn allsherjar: Dæmið rétta dóma og auðsýnið hver öðrum kærleika og miskunnsemi. 7.10 Veitið ekki ágang ekkjum og munaðarleysingjum, útlendingum né fátækum mönnum, og enginn yðar hugsi öðrum illt í hjarta sínu. 7.11 En þeir vildu ekki gefa því gaum og þverskölluðust. Þeir gjörðu eyru sín dauf, til þess að þeir skyldu ekki heyra, 7.12 og þeir gjörðu hjörtu sín að demanti, til þess að þeir skyldu ekki heyra fræðsluna og orðin, sem Drottinn allsherjar sendi fyrir anda sinn, fyrir munn hinna fyrri spámanna, og það kom mikil reiði frá Drottni allsherjar. 7.13 Og eins og hann kallaði, en þeir heyrðu ekki, svo skulu þeir nú _ sagði Drottinn allsherjar _ kalla, en ég ekki heyra. 7.14 Og ég feyki þeim burt meðal allra þjóða, er þeir eigi hafa þekkt, og landið skal verða að auðn, þá er þeir eru burt farnir, svo að enginn fer þar um á leið fram eða aftur. Þannig gjörðu þeir unaðslegt land að auðn.
8.1 Orð Drottins allsherjar kom til mín, svo hljóðandi: 8.2 Svo segir Drottinn allsherjar: Ég er gagntekinn af vandlætisfullri elsku til Síonar og er upptendraður af mikilli reiði hennar vegna. 8.3 Svo segir Drottinn: Ég er á afturleið til Síonar og mun taka mér bólfestu í Jerúsalem miðri. Og Jerúsalem mun nefnd verða borgin trúfasta og fjall Drottins allsherjar fjallið helga. 8.4 Svo segir Drottinn allsherjar: Enn munu gamlir menn og gamlar konur sitja á torgum Jerúsalem og hvert þeirra hafa staf í hendi sér fyrir elli sakir. 8.5 Og torg borgarinnar munu full vera af drengjum og stúlkum, sem leika sér þar á torgunum. 8.6 Svo segir Drottinn allsherjar: Þótt það sé furðuverk í augum þeirra, sem eftir verða af þessum lýð á þeim dögum, hvort mun það og vera furðuverk í mínum augum? _ segir Drottinn allsherjar. 8.7 Svo segir Drottinn allsherjar: Sjá, ég mun frelsa lýð minn úr landi sólarupprásarinnar og úr landi sólsetursins, 8.8 og ég mun flytja þá heim og þeir skulu búa í Jerúsalem miðri, og þeir skulu vera minn lýður og ég skal vera þeirra Guð í trúfesti og réttlæti. 8.9 Svo segir Drottinn allsherjar: Verið hughraustir, þér sem á þessum dögum heyrið þessi orð af munni spámannanna, sem uppi voru, er undirstöðusteinninn var lagður til þess að endurreisa hús Drottins allsherjar, musterið. 8.10 Því að fyrir þann tíma varð enginn arður af erfiði mannanna og enginn arður af vinnu skepnanna, og enginn var óhultur fyrir óvinum, hvort heldur hann gekk út eða kom heim, og ég hleypti öllum mönnum upp, hverjum á móti öðrum. 8.11 En nú stend ég öðruvísi gagnvart leifum þessa lýðs en í fyrri daga _ segir Drottinn allsherjar _ 8.12 því að sáðkorn þeirra verða ósködduð. Víntréð ber sinn ávöxt, og jörðin ber sinn gróða. Himinninn veitir dögg sína, og ég læt leifar þessa lýðs taka allt þetta til eignar. 8.13 Og eins og þér, Júda hús og Ísraels hús, hafið verið hafðir að formæling meðal þjóðanna, eins vil ég nú svo hjálpa yður, að þér verðið hafðir að blessunaróskum. Óttist ekki, verið hughraustir. 8.14 Því að svo segir Drottinn allsherjar: Eins og ég ásetti mér að gjöra yður illt, þá er feður yðar reittu mig til reiði _ segir Drottinn allsherjar _ og lét mig ekki iðra þess, 8.15 eins hefi ég nú aftur ásett mér á þessum dögum að gjöra vel við Jerúsalem og Júda hús. Óttist ekki! 8.16 Þetta er það sem yður ber að gjöra: Talið sannleika hver við annan og dæmið ráðvandlega og eftir óskertum rétti í hliðum yðar. 8.17 Enginn yðar hugsi öðrum illt í hjarta sínu og hafið ekki mætur á lyga-svardögum. Því að allt slíkt hata ég _ segir Drottinn. 8.18 Orð Drottins allsherjar kom til mín, svo hljóðandi: 8.19 Svo segir Drottinn allsherjar: Fastan í hinum fjórða mánuði, fastan í hinum fimmta mánuði, fastan í hinum sjöunda mánuði og fastan í hinum tíunda mánuði mun verða Júda húsi til fagnaðar og gleði og að unaðslegum hátíðardögum. En elskið sannleik og frið. 8.20 Svo segir Drottinn allsherjar: Enn munu koma heilar þjóðir og íbúar margra borga. 8.21 Íbúar einnar borgar munu fara til annarrar og segja: 'Vér skulum fara til þess að blíðka Drottin og til þess að leita Drottins allsherjar! Ég fer líka!' 8.22 Og þannig munu fjölmennir þjóðflokkar og voldugar þjóðir koma til þess að leita Drottins allsherjar í Jerúsalem og til þess að blíðka Drottin. 8.23 Svo segir Drottinn allsherjar: Á þeim dögum munu tíu menn af þjóðum ýmissa tungna taka í kyrtilskaut eins Gyðings og segja: 'Vér viljum fara með yður, því að vér höfum heyrt, að Guð sé með yður.'
9.1 Spádómur. Orð Drottins beinist gegn Hadraklandi og það kemur niður í Damaskus, því að Drottinn hefir gætur á mönnunum og á öllum ættkvíslum Ísraels. 9.2 Sömuleiðis í Hamat, sem þar liggur hjá, í Týrus og Sídon, því að þær eru vitrar mjög. 9.3 Týrus reisti sér vígi og hrúgaði saman silfri eins og mold og skíragulli eins og saur á strætum. 9.4 Sjá, Drottinn skal gjöra hana að öreiga og steypa varnarvirki hennar í sjóinn, og sjálf mun hún eydd verða af eldi. 9.5 Askalon skal sjá það og hræðast, og Gasa engjast sundur og saman. Sömuleiðis Ekron, því að von hennar er orðin til skammar. Konungurinn mun hverfa frá Gasa, og Askalon mun verða óbyggð, 9.6 og skríll mun búa í Asdód. Ég gjöri enda á ofdrambi Filista, 9.7 og ég tek blóðið burt úr munni þeirra og viðurstyggðirnar undan tönnum þeirra. Þá munu þeir sem eftir verða, tilheyra Guði vorum, þeir munu verða eins og ætthöfðingjar í Júda og Ekronmenn eins og Jebúsítar. 9.8 Ég sest kringum hús mitt sem varðlið gegn þeim, sem um fara og aftur snúa. Enginn kúgari skal framar vaða yfir þá, því að nú hefi ég séð með eigin augum. 9.9 Fagna þú mjög, dóttirin Síon, lát gleðilátum, dóttirin Jerúsalem! Sjá, konungur þinn kemur til þín. Réttlátur er hann og sigursæll, lítillátur og ríður asna, ungum ösnufola. 9.10 Hann útrýmir hervögnum úr Efraím og víghestum úr Jerúsalem. Öllum herbogum mun og útrýmt verða, og hann mun veita þjóðunum frið með úrskurðum sínum. Veldi hans mun ná frá hafi til hafs og frá Fljótinu til endimarka jarðarinnar. 9.11 Vegna blóðs sáttmála þíns læt ég bandingja þína lausa úr hinni vatnslausu gryfju. 9.12 Snúið aftur til hins trausta vígisins, þér bandingjar, sem væntið lausnar. Einnig í dag er gjört heyrinkunnugt: Ég endurgeld þér tvöfalt. 9.13 Ég hefi bent Júda eins og boga, fyllt Efraím eins og örvamæli, og ég vek sonu þína, Síon, í móti sonum Javans og gjöri þig eins og sverð í hendi kappa. 9.14 Drottinn mun birtast uppi yfir þeim og örvar hans út fara sem eldingar. Drottinn Guð mun þeyta lúðurinn og ganga fram í sunnanstormunum. 9.15 Drottinn allsherjar mun halda hlífiskildi yfir þeim, og þeir munu sigra þá og fótum troða slöngvusteinana. Og þeir munu drekka og reika sem víndrukknir og verða fullir eins og fórnarskálar, dreyrstokknir sem altarishorn. 9.16 Drottinn Guð þeirra mun veita þeim sigur á þeim degi sem hjörð síns lýðs, því að þeir eru gimsteinar í höfuðdjásni, sem gnæfa glitrandi á landi sínu. 9.17 Já, hversu mikil eru gæði þess og hversu dýrleg fegurð þess! Korn lætur æskumenn upp renna og vínberjalögur meyjar.
10.1 Biðjið Drottin um regn. Hann veitir vorregn og haustregn á réttum tíma. Helliskúrir og steypiregn gefur hann þeim, hverri jurt vallarins. 10.2 Húsgoðin veittu fánýt svör, og spásagnamennirnir sáu falssýnir. Þeir kunngjöra aðeins hégómlega drauma og veita einskisverða huggun. Fyrir því héldu þeir áfram eins og hjörð, eru nú nauðulega staddir, af því að enginn er hirðirinn. 10.3 Gegn hirðunum er reiði mín upptendruð og forustusauðanna skal ég vitja. Því að Drottinn allsherjar hefir litið til hjarðar sinnar, Júda húss, og gjört þá að skrauthesti sínum í stríðinu. 10.4 Frá þeim kemur hornsteinninn, frá þeim kemur tjaldhællinn, frá þeim kemur herboginn, frá þeim koma allir saman hershöfðingjarnir. 10.5 Þeir munu í stríðinu verða eins og hetjur, sem troða niður saurinn á strætunum, og þeir munu berjast vasklega, því að Drottinn er með þeim, svo að þeir verða til skammar, sem hestunum ríða. 10.6 Ég gjöri Júda hús sterkt, og Jósefs húsi veiti ég hjálp. Ég leiði þá aftur heim, því að ég aumkast yfir þá, og þeir skulu vera eins og ég hefði aldrei útskúfað þeim. Því að ég er Drottinn, Guð þeirra, og ég vil bænheyra þá. 10.7 Þá munu Efraímsmenn verða eins og hetjur og hjarta þeirra gleðjast eins og af víni. Börn þeirra munu sjá það og gleðjast, hjarta þeirra skal fagna yfir Drottni. 10.8 Ég vil blístra á þá og safna þeim saman, því að ég hefi leyst þá, og þeir skulu verða eins fjölmennir og þeir forðum voru. 10.9 Ég sáði þeim út meðal þjóðanna, en í fjarlægum löndum munu þeir minnast mín og uppala þar börn sín og snúa síðan heim. 10.10 Ég mun leiða þá heim aftur frá Egyptalandi og safna þeim saman frá Assýríu. Ég leiði þá inn í Gíleaðland og inn á Líbanon, og skorta mun landrými fyrir þá. 10.11 Þeir fara yfir Egyptalandshaf, og hann lýstur hið bárótta haf, og allir álar Nílfljótsins þorna. Hroki Assýríu skal niður steypast og veldissprotinn víkja frá Egyptalandi. 10.12 Ég vil gjöra þá sterka í Drottni, og af hans nafni skulu þeir hrósa sér _ segir Drottinn.
11.1 Upp lúk dyrum þínum, Líbanon, til þess að eldur geti eytt sedrustrjám þínum. 11.2 Kveina þú, kýprestré, yfir því að sedrustréð er fallið. Kveinið þér, Basans eikur, yfir því að hinn þykki skógurinn liggur við velli. 11.3 Heyr, hversu hirðarnir kveina, af því að prýði þeirra er eyðilögð. Heyr, hversu ungljónin öskra, af því að vegsemd Jórdanar er eydd. 11.4 Svo sagði Drottinn, Guð minn: Hald til haga skurðarsauðunum, 11.5 er kaupendur þeirra slátra að ósekju, og seljendur þeirra segja: 'Lofaður sé Drottinn, nú er ég orðinn ríkur!' og hirðar þeirra vægja þeim ekki. 11.6 Því að nú vil ég ekki framar vægja íbúum landsins _ segir Drottinn _ heldur framsel ég nú sjálfur mennina, hvern í hendur konungi sínum. Þeir munu eyða landið, og ég mun engan frelsa undan valdi þeirra. 11.7 Þá hélt ég til haga skurðarsauðunum fyrir fjárkaupmennina, og tók ég mér tvo stafi. Kallaði ég annan þeirra Hylli og hinn Sameining. Gætti ég nú fjárins 11.8 og afmáði þrjá hirða á einum mánuði. Varð ég leiður á þeim, og þeir höfðu einnig óbeit á mér. 11.9 Þá sagði ég: 'Ég vil ekki gæta yðar. Deyi það sem deyja vill, farist það sem farast vill, og það sem þá verður eftir, eti hvað annað upp.' 11.10 Síðan tók ég staf minn Hylli og braut í sundur til þess að bregða þeim sáttmála, sem ég hafði gjört við allar þjóðir. 11.11 En er honum var brugðið á þeim degi, þá könnuðust fjárkaupmennirnir við, þeir er gáfu mér gaum, að þetta var orð Drottins. 11.12 Þá sagði ég við þá: 'Ef yður þóknast, þá greiðið mér kaup mitt, en að öðrum kosti látið það vera!' Þá vógu þeir mér þrjátíu sikla silfurs í kaup mitt. 11.13 En Drottinn sagði við mig: 'Kasta þú því til leirkerasmiðsins, hinu dýra verðinu, er þú varst metinn af þeim!' Og ég tók þá þrjátíu sikla silfurs og kastaði þeim til leirkerasmiðsins í musteri Drottins. 11.14 Síðan braut ég sundur hinn stafinn, Sameining, til þess að bregða upp bræðralaginu milli Júda og Ísrael. 11.15 Því næst sagði Drottinn við mig: Tak þér enn verkfæri heimsks hirðis, 11.16 því að sjá, ég ætla sjálfur að láta hirði rísa upp í landinu, sem vitjar ekki þess, sem er að farast, leitar ekki þess, sem villst hefir, græðir ekki hið limlesta, annast ekki hið heilbrigða, heldur etur kjötið af feitu skepnunum og rífur klaufirnar af þeim. 11.17 Vei hinum ónýta hirði, sem yfirgefur sauðina. Glötun komi yfir armlegg hans og yfir hægra auga hans! Armleggur hans visni gjörsamlega, og hægra auga hans verði steinblint.
12.1 Spádómur. Orð Drottins um Ísrael, guðmæli Drottins, sem útþandi himininn, grundvallaði jörðina og myndaði andann í brjósti mannsins: 12.2 Sjá, ég gjöri Jerúsalem að vímuskál fyrir allar þjóðirnar, sem umhverfis hana eru. Jafnvel Júda mun vera með í umsátinni um Jerúsalem. 12.3 Á þeim degi mun ég gjöra Jerúsalem að aflraunasteini fyrir allar þjóðir. Hver sá, er hefur hann upp, mun hrufla sig til blóðs, og allar þjóðir jarðarinnar munu safnast gegn henni. 12.4 Á þeim degi _ segir Drottinn _ mun ég slá felmt á alla víghesta og vitfirring á þá sem ríða þeim. Á Júda húsi vil ég hafa vakandi auga, en slá alla hesta þjóðanna með blindu. 12.5 Þá munu ætthöfðingjar Júda segja með sjálfum sér: 'Styrkur er Jerúsalembúum í Drottni allsherjar, Guði sínum.' 12.6 Á þeim degi mun ég gjöra ætthöfðingja Júda eins og glóðarker í viðarkesti og sem brennandi blys í kerfum, og þeir munu eyða til hægri og til vinstri öllum þjóðum umhverfis, en Jerúsalem mun verða kyrr á sínum stað eins og áður. 12.7 Fyrst mun Drottinn frelsa tjöld Júda, til þess að frægð Davíðs húss og frægð Jerúsalembúa verði ekki meiri en Júda. 12.8 Á þeim degi mun Drottinn halda hlífiskildi yfir Jerúsalembúum, og hinn máttfarni meðal þeirra mun á þeim degi vera eins og Davíð og Davíðs hús eins og Guð, eins og engill Drottins á undan þeim. 12.9 Á þeim degi mun ég leitast við að eyða öllum þjóðunum, er fóru í móti Jerúsalem. 12.10 En yfir Davíðs hús og yfir Jerúsalembúa úthelli ég líknar- og bænaranda, og þeir munu líta til mín, til hans, sem þeir lögðu í gegn, og harma hann eins og menn harma lát einkasonar, og syrgja hann eins og menn syrgja frumgetinn son. 12.11 Á þeim degi mun eins mikið harmakvein verða í Jerúsalem eins og Hadad-Rimmon-harmakveinið í Megiddódal. 12.12 Landið mun kveina, hver kynþáttur fyrir sig: Kynþáttur Davíðs húss fyrir sig og konur þeirra fyrir sig, kynþáttur Natans húss fyrir sig og konur þeirra fyrir sig, 12.13 kynþáttur Leví húss fyrir sig og konur þeirra fyrir sig, kynþáttur Símeíta fyrir sig og konur þeirra fyrir sig, 12.14 og eins allir hinir kynþættirnir, sem eftir eru, hver kynþáttur fyrir sig og konur þeirra fyrir sig.
13.1 Á þeim degi mun Davíðs húsi og Jerúsalembúum standa opin lind til að þvo af sér syndir og saurugleik. 13.2 Á þeim degi _ segir Drottinn allsherjar _ mun ég afmá nöfn skurðgoðanna úr landinu, svo að þeirra skal eigi framar minnst verða, og sömuleiðis vil ég reka burt úr landinu spámennina og óhreinleikans anda. 13.3 En ef nokkur kemur enn fram sem spámaður, þá munu faðir hans og móðir, hans eigin foreldrar, segja við hann: 'Þú skalt eigi lífi halda, því að þú hefir talað lygi í nafni Drottins.' Og faðir hans og móðir, hans eigin foreldrar, munu leggja hann í gegn, þá er hann kemur fram sem spámaður. 13.4 Á þeim degi munu allir spámenn skammast sín fyrir sýnir sínar, þá er þeir eru að spá, og þeir skulu eigi klæðast loðfeldum til þess að blekkja aðra, 13.5 heldur mun hver þeirra segja: 'Ég er enginn spámaður, ég er akurkarl, því á akuryrkju hefi ég lagt stund frá barnæsku.' 13.6 Og segi einhver við hann: 'Hvaða ör eru þetta á brjósti þínu?' þá mun hann svara: 'Það er eftir högg, sem ég fékk í húsi ástvina minna.' 13.7 Hef þig á loft, sverð, gegn hirði mínum og gegn manninum, sem mér er svo nákominn! _ segir Drottinn allsherjar. Slá þú hirðinn, þá mun hjörðin tvístrast, og ég mun snúa hendi minni til hinna smáu. 13.8 Og svo skal fara í gjörvöllu landinu _ segir Drottinn _ að tveir hlutir landsfólksins skulu upprættir verða og gefa upp öndina, en þriðjungur þess eftir verða. 13.9 En þennan þriðjung læt ég í eld og bræði þá, eins og silfur er brætt, og hreinsa þá eins og gull er hreinsað. Hann mun ákalla nafn mitt, og ég mun bænheyra hann og ég mun segja: 'Þetta er minn lýður!' og hann mun segja: 'Drottinn, Guð minn!'
14.1 Sjá, sá dagur kemur frá Drottni, að herfangi þínu verður skipt mitt í sjálfri þér. 14.2 Og ég mun safna öllum þjóðunum til hernaðar móti Jerúsalem, og borgin mun verða tekin, húsin rænd og konurnar smánaðar. Helmingur borgarmanna mun verða herleiddur, en hinn lýðurinn mun ekki upprættur verða úr borginni. 14.3 Og Drottinn mun út fara og berjast við þessar þjóðir, eins og þegar hann barðist forðum á orustudeginum. 14.4 Fætur hans munu á þeim degi standa á Olíufjallinu, sem er austanvert við Jerúsalem, og Olíufjallið mun klofna um þvert frá austri til vesturs, og þar mun verða geysivíður dalur, því að annar hluti fjallsins mun undan síga til norðurs, en hinn til suðurs. 14.5 En þér munuð flýja í fjalldal minn, því að fjalldalurinn nær til Asal. Og þér munuð flýja, eins og þér flýðuð undan landskjálftanum á dögum Ússía Júdakonungs. En Drottinn, Guð minn, mun koma og allir heilagir með honum. 14.6 Á þeim degi mun hvorki verða hiti, kuldi né frost, 14.7 og það mun verða óslitinn dagur _ hann er Drottni kunnur _ hvorki dagur né nótt, og jafnvel um kveldtíma mun vera bjart. 14.8 Á þeim degi munu lifandi vötn út fljóta frá Jerúsalem, og mun annar helmingur þeirra falla í austurhafið, en hinn helmingurinn í vesturhafið. Skal það verða bæði sumar og vetur. 14.9 Drottinn mun þá vera konungur yfir öllu landinu. Á þeim degi mun Drottinn vera einn og nafn hans eitt. 14.10 Allt landið frá Geba til Rimmon fyrir sunnan Jerúsalem mun verða að einni sléttu, en hún mun standa háreist og óhögguð á stöðvum sínum, frá Benjamínshliði þangað að er fyrra hliðið var, allt að hornhliðinu, og frá Hananelturni til konungsvínþrónna. 14.11 Menn munu búa í henni, og bannfæring skal eigi framar til vera, og Jerúsalem skal óhult standa. 14.12 Og þetta mun verða plágan, sem Drottinn mun láta ganga yfir allar þær þjóðir, sem fóru herför gegn Jerúsalem: Hann mun láta hold þeirra upp þorna, meðan þeir enn standa á fótum, augu þeirra munu hjaðna í augnatóttunum og tungan visna í munninum. 14.13 Á þeim degi mun mikill felmtur frá Drottni koma yfir þá, og þeir munu þrífa hver í höndina á öðrum og hver höndin vera uppi á móti annarri. 14.14 Jafnvel Júda mun berjast gegn Jerúsalem. Þá mun auði allra þjóðanna, sem umhverfis eru, safnað verða saman: gulli, silfri og klæðum hrönnum saman. 14.15 Og alveg sama plágan mun koma yfir hesta, múla, úlfalda, asna og yfir allar þær skepnur, sem verða munu í þeim herbúðum. 14.16 En allir þeir, sem eftir verða af öllum þeim þjóðum, sem farið hafa móti Jerúsalem, munu á hverju ári fara upp þangað til þess að falla fram fyrir konunginum, Drottni allsherjar, og til að halda laufskálahátíðina. 14.17 En þeir menn af kynkvíslum jarðarinnar, sem ekki fara upp til Jerúsalem til þess að falla fram fyrir konunginum, Drottni allsherjar, yfir þá mun engin regnskúr koma. 14.18 Og ef kynkvísl Egyptalands fer eigi upp þangað og kemur ekki, þá mun sama plágan koma yfir þá sem Drottinn lætur koma yfir þær þjóðir, er eigi fara upp þangað til að halda laufskálahátíðina. 14.19 Þetta mun verða hegning Egypta og hegning allra þeirra þjóða, sem eigi fara upp þangað, til þess að halda laufskálahátíðina. 14.20 Á þeim degi skal standa á bjöllum hestanna: 'Helgaður Drottni,' og katlarnir í húsi Drottins munu verða eins stórir og fórnarskálarnar fyrir altarinu.
1.1 Spádómur. Orð Drottins til Ísraels fyrir munn Malakí. 1.2 'Ég elska yður,' segir Drottinn. Og ef þér spyrjið: 'Með hverju hefir þú sýnt á oss kærleika þinn?' þá svarar Drottinn: 'Var ekki Esaú bróðir Jakobs? En ég elskaði Jakob 1.3 og hafði óbeit á Esaú, svo að ég gjörði fjallbyggðir hans að auðn og fékk eyðimerkursjakölunum arfleifð hans til eignar.' 1.4 Ef Edómítar segja: 'Vér höfum að vísu orðið fyrir eyðingu, en vér munum byggja upp aftur rofin!' þá segir Drottinn allsherjar svo: 'Byggi þeir, en ég mun rífa niður, svo að menn munu kalla þá Glæpaland og Lýðinn sem Drottinn er eilíflega reiður.' 1.5 Þér munuð sjá það með eigin augum og þér munuð segja: 'Mikill er Drottinn langt út fyrir landamæri Ísraels.' 1.6 Sonurinn skal heiðra föður sinn og þrællinn húsbónda sinn. En sé ég nú faðir, hvar er þá heiðurinn sem mér ber, og sé ég húsbóndi, hvar er þá lotningin sem mér ber? _ segir Drottinn allsherjar við yður, þér prestar, sem óvirðið nafn mitt. Þér spyrjið: 'Með hverju óvirðum vér nafn þitt?' 1.7 Þér berið fram óhreina fæðu á altari mitt. Og enn getið þér spurt: 'Með hverju ósæmum vér þig?' þar sem þér þó segið: 'Borð Drottins er lítils metandi!' 1.8 Og þegar þér færið fram blinda skepnu til fórnar, þá kallið þér það ekki saka, og þegar þér færið fram halta eða sjúka skepnu, þá kallið þér það ekki saka. Fær landstjóra þínum það, vit hvort honum geðjast þá vel að þér eða hvort hann tekur þér vel! _ segir Drottinn allsherjar. 1.9 Og nú, blíðkið Guð, til þess að hann sýni oss líknsemi. Yður er um þetta að kenna. Getur hann þá tekið nokkrum yðar vel? _ segir Drottinn allsherjar. 1.10 Sæmra væri, að einhver yðar lokaði musterisdyrunum, svo að þér tendruðuð ekki eld til ónýtis á altari mínu. Ég hefi enga velþóknun á yður _ segir Drottinn allsherjar, og ég girnist enga fórnargjöf af yðar hendi. 1.11 Frá upprás sólar allt til niðurgöngu hennar er nafn mitt mikið meðal þjóðanna, og alls staðar er nafni mínu fórnað reykelsi og hreinni matfórn, því að nafn mitt er mikið meðal þjóðanna _ segir Drottinn allsherjar. 1.12 En þér vanhelgið það, með því að þér segið: 'Borð Drottins er óhreint, og það sem af því fellur oss til fæðslu, er einskis vert.' 1.13 Og þér segið: 'Sjá, hvílík fyrirhöfn!' og fyrirlítið það, _ segir Drottinn allsherjar _, og þér færið fram það sem rænt er og það sem halt er og það sem sjúkt er og færið það í fórn. Ætti ég að girnast slíkt af yðar hendi? _ segir Drottinn. 1.14 Bölvaðir veri þeir svikarar, er eiga hvatan fénað í hjörð sinni og gjöra heit, en fórna síðan Drottni gölluðu berfé! Því að ég er mikill konungur, _ segir Drottinn allsherjar _, og menn óttast nafn mitt meðal heiðingjanna.
2.1 Og nú út gengur þessi viðvörun til yðar, þér prestar: 2.2 Ef þér hlýðið ekki og látið yður ekki um það hugað að gefa nafni mínu dýrðina _ segir Drottinn allsherjar _, þá sendi ég yfir yður bölvunina og sný blessunum yðar í bölvun, já ég hefi þegar snúið þeim í bölvun, af því að þér látið yður ekki um það hugað. 2.3 Sjá, ég hegg af yður arminn og strái saur framan í yður, saurnum frá hátíðafórnunum, og varpa yður út til hans. 2.4 Og þér munuð viðurkenna, að ég hefi sent yður þessa viðvörun, til þess að sáttmáli minn við Leví mætti haldast _ segir Drottinn allsherjar. 2.5 Sáttmáli minn var við hann, líf og hamingju veitti ég honum, lotningarfullan ótta, svo að hann óttaðist mig og bæri mikla lotningu fyrir nafni mínu. 2.6 Sönn fræðsla var í munni hans og rangindi fundust ekki á vörum hans. Í friði og ráðvendni gekk hann með mér, og mörgum aftraði hann frá misgjörðum. 2.7 Því að varir prestsins eiga að varðveita þekking, og fræðslu leita menn af munni hans, því að hann er sendiboði Drottins allsherjar. 2.8 En þér hafið vikið af veginum og leitt marga í hrösun með fræðslu yðar, þér hafið spillt sáttmála Leví _ segir Drottinn allsherjar. 2.9 Fyrir því hefi ég og komið yður í fyrirlitning og óvirðing hjá gjörvöllum lýðnum, af því að þér gætið ekki minna vega og eruð hlutdrægir við fræðsluna. 2.10 Eigum vér ekki allir hinn sama föður? Hefir ekki einn Guð skapað oss? Hvers vegna breytum vér þá sviksamlega hver við annan og vanhelgum sáttmála feðra vorra? 2.11 Júda hefir gjörst trúrofi og svívirðingar viðgangast í Ísrael og í Jerúsalem, því að Júda hefir vanhelgað helgidóm Drottins, sem hann elskar, og gengið að eiga þær konur, sem trúa á útlenda guði. 2.12 Drottinn afmái fyrir þeim manni, er slíkt gjörir, kæranda og verjanda úr tjöldum Jakobs og þann er framber fórnargjafir fyrir Drottin allsherjar. 2.13 Í öðru lagi gjörið þér þetta: Þér hyljið altari Drottins með tárum, með gráti og andvörpunum, þar sem eigi getur framar komið til mála, að hann líti vingjarnlega á fórnirnar né taki á móti velþóknanlegum gjöfum af yðar hendi. 2.14 Þér segið: 'Hvers vegna?' _ Af því að Drottinn var vottur að sáttmálsgjörðinni milli þín og konu æsku þinnar, er þú hefir nú brugðið trúnaði við, enda þótt hún væri förunautur þinn og eiginkona þín eftir gjörðu sáttmáli. 2.15 Hefir ekki einn og hinn sami gefið oss lífið og viðhaldið því? Og hvað heimtar sá hinn eini? Börn sem heyra Guði til. Gætið yðar því í huga yðar, og bregð eigi trúnaði við eiginkonu æsku þinnar. 2.16 Því að ég hata hjónaskilnað _ segir Drottinn, Ísraels Guð, _ og þann sem hylur klæði sín glæpum _ segir Drottinn allsherjar. Gætið yðar því í huga yðar og bregðið aldrei trúnaði. 2.17 Þér hafið mætt Drottin með orðum yðar og þér segið: 'Með hverju mæðum vér hann?' Með því, að þér segið: 'Sérhver sem illt gjörir, er góður í augum Drottins, og um slíka þykir honum vænt,' eða: 'Hvar er sá Guð, sem dæmir?'
3.1 Sjá, ég sendi sendiboða minn, og hann mun greiða veginn fyrir mér. Og bráðlega mun hann koma til musteris síns, sá Drottinn er þér leitið, og engill sáttmálans, sá er þér þráið. Sjá, hann kemur _ segir Drottinn allsherjar. 3.2 En hver má afbera þann dag, er hann kemur, og hver fær staðist, þegar hann birtist? Því að hann er sem eldur málmbræðslumannsins og sem lútarsalt þvottamannanna. 3.3 Og hann mun sitja og bræða og hreinsa silfrið, og hann mun hreinsa levítana og gjöra þá skíra sem gull og silfur, til þess að Drottinn hafi aftur þá menn, er bera fram fórnir á þann hátt sem rétt er, 3.4 og þá munu fórnir Júdamanna og Jerúsalembúa geðjast Drottni eins og forðum daga og eins og á löngu liðnum árum. 3.5 En ég mun nálægja mig yður til að halda dóm og mun skyndilega fram ganga sem vitni í gegn töframönnum, hórdómsmönnum og meinsærismönnum og í gegn þeim, sem hafa af daglaunamönnum, ekkjum og munaðarleysingjum og halla rétti útlendinga, en óttast mig ekki _ segir Drottinn allsherjar. 3.6 Ég, Drottinn, hefi ekki breytt mér, og þér, Jakobssynir, eruð samir við yður. 3.7 Allt í frá dögum feðra yðar hafið þér vikið frá setningum mínum og ekki gætt þeirra. Snúið yður til mín, þá mun ég snúa mér til yðar _ segir Drottinn allsherjar. En þér spyrjið: 'Að hverju leyti eigum vér að snúa oss?' 3.8 Á maðurinn að pretta Guð, úr því að þér prettið mig? Þér spyrjið: 'Í hverju höfum vér prettað þig?' Í tíund og fórnargjöfum. 3.9 Mikil bölvun hvílir yfir yður, af því að þér prettið mig, öll þjóðin. 3.10 Færið alla tíundina í forðabúrið til þess að fæðsla sé til í húsi mínu, og reynið mig einu sinni á þennan hátt _ segir Drottinn allsherjar _, hvort ég lýk ekki upp fyrir yður flóðgáttum himinsins og úthelli yfir yður yfirgnæfanlegri blessun. 3.11 Og ég mun hasta á átvarginn fyrir yður, til þess að hann spilli ekki fyrir yður gróðri jarðarinnar og víntréð á akrinum verði yður ekki ávaxtarlaust _ segir Drottinn allsherjar. 3.12 Þá munu allar þjóðir telja yður sæla, því að þér munuð vera dýrindisland _ segir Drottinn allsherjar. 3.13 Hörð eru ummæli yðar um mig _ segir Drottinn. Og þér spyrjið: 'Hvað höfum vér þá sagt vor í milli um þig?' 3.14 Þér segið: 'Það er til einskis að þjóna Guði, eða hvaða ávinning höfum vér af því haft, að vér varðveittum boðorð hans og gengum í sorgarbúningi fyrir augliti Drottins allsherjar? 3.15 Fyrir því teljum vér nú hina hrokafullu sæla. Þeir þrifust eigi aðeins vel, þá er þeir höfðu guðleysi í frammi, heldur freistuðu þeir og Guðs, og sluppu óhegndir.' 3.16 Þá mæltu þeir hver við annan, sem óttast Drottin, og Drottinn gaf gætur að því og heyrði það, og frammi fyrir augliti hans var rituð minnisbók fyrir þá, sem óttast Drottin og virða hans nafn. 3.17 Þeir skulu vera mín eign _ segir Drottinn allsherjar _ á þeim degi, sem ég hefst handa, og ég mun vægja þeim, eins og maður vægir syni sínum, sem þjónar honum. 3.18 Þá munuð þér aftur sjá þann mismun, sem er á milli réttláts manns og óguðlegs, á milli þess, sem Guði þjónar, og hins, sem ekki þjónar honum.
4.1 Því sjá, dagurinn kemur, brennandi sem ofn, og allir hrokafullir og allir þeir er guðleysi fremja, munu þá vera sem hálmleggir, og dagurinn sem kemur mun kveikja í þeim _ segir Drottinn allsherjar _ svo að hvorki verði eftir af þeim rót né kvistur. 4.2 En yfir yður, sem óttist nafn mitt, mun réttlætissólin upp renna með græðslu undir vængjum sínum, og þér munuð út koma og leika yður eins og kálfar, sem út er hleypt úr stíu, 4.3 og þér munuð sundur troða hina óguðlegu, því að þeir munu verða aska undir iljum yðar, _ á þeim degi er ég hefst handa _ segir Drottinn allsherjar. 4.4 Munið eftir lögmáli Móse þjóns míns, þess er ég á Hóreb fól setninga og ákvæði fyrir allan Ísrael. 4.5 Sjá, ég sendi yður Elía spámann, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kemur.
The New Testament of our Lord and Saviour Jesus Christ
1.1 Ættartala Jesú Krists, sonar Davíðs, sonar Abrahams. 1.2 Abraham gat Ísak, Ísak gat Jakob, Jakob gat Júda og bræður hans. 1.3 Júda gat Peres og Sara við Tamar, Peres gat Esrom, Esrom gat Ram, 1.4 Ram gat Ammínadab, Ammínadab gat Nakson, Nakson gat Salmon, 1.5 Salmon gat Bóas við Rahab, og Bóas gat Óbeð við Rut. Óbeð gat Ísaí, 1.6 og Ísaí gat Davíð konung. Davíð gat Salómon við konu Úría, 1.7 Salómon gat Róbóam, Róbóam gat Abía, Abía gat Asaf, 1.8 Asaf gat Jósafat, Jósafat gat Jóram, Jóram gat Ússía, 1.9 Ússía gat Jótam, Jótam gat Akas, Akas gat Esekía, 1.10 Esekía gat Manasse, Manasse gat Amos, Amos gat Jósía. 1.11 Jósía gat Jekonja og bræður hans á tíma herleiðingarinnar til Babýlonar. 1.12 Eftir herleiðinguna til Babýlonar gat Jekonja Sealtíel, Sealtíel gat Serúbabel, 1.13 Serúbabel gat Abíúd, Abíúd gat Eljakím, Eljakím gat Asór, 1.14 Asór gat Sadók, Sadók gat Akím, Akím gat Elíúd, 1.15 Elíúd gat Eleasar, Eleasar gat Mattan, Mattan gat Jakob, 1.16 og Jakob gat Jósef, mann Maríu, en hún ól Jesú, sem kallast Kristur. 1.17 Þannig eru alls fjórtán ættliðir frá Abraham til Davíðs, fjórtán ættliðir frá Davíð fram að herleiðingunni til Babýlonar og fjórtán ættliðir frá herleiðingunni til Krists. 1.18 Fæðing Jesú Krists varð með þessum atburðum: María, móðir hans, var föstnuð Jósef. En áður en þau komu saman, reyndist hún þunguð af heilögum anda. 1.19 Jósef, festarmaður hennar, sem var grandvar, vildi ekki gjöra henni opinbera minnkun og hugðist skilja við hana í kyrrþey. 1.20 Hann hafði ráðið þetta með sér, en þá vitraðist honum engill Drottins í draumi og sagði: 'Jósef, sonur Davíðs, óttastu ekki að taka til þín Maríu, heitkonu þína. Barnið, sem hún gengur með, er af heilögum anda. 1.21 Hún mun son ala, og hann skaltu láta heita Jesú, því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum þeirra.' 1.22 Allt varð þetta til þess, að rætast skyldu orð Drottins fyrir munn spámannsins: 1.23 'Sjá, mærin mun þunguð verða og son ala. Nafn hans mun vera Immanúel,' það þýðir: Guð með oss. 1.24 Þegar Jósef vaknaði, gjörði hann eins og engill Drottins hafði boðið honum og tók konu sína til sín. 1.25 Hann kenndi hennar ekki fyrr en hún hafði alið son. Og hann gaf honum nafnið JESÚS.
2.1 Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs, komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem 2.2 og sögðu: 'Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Vér sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu.' 2.3 Þegar Heródes heyrði þetta, varð hann skelkaður og öll Jerúsalem með honum. 2.4 Og hann stefndi saman öllum æðstu prestum og fræðimönnum lýðsins og spurði þá: 'Hvar á Kristur að fæðast?' 2.5 Þeir svöruðu honum: 'Í Betlehem í Júdeu. En þannig er ritað hjá spámanninum: 2.6 Þú Betlehem, í landi Júda, ekki ertu síst meðal hefðarborga Júda. Því að höfðingi mun frá þér koma, sem verður hirðir lýðs míns, Ísraels.' 2.7 Þá kallaði Heródes vitringana til sín á laun og grófst eftir því hjá þeim, nær stjarnan hefði birst. 2.8 Hann sendi þá síðan til Betlehem og sagði: 'Farið og spyrjist vandlega fyrir um barnið, og er þér finnið það látið mig vita, til þess að ég geti einnig komið og veitt því lotningu.' 2.9 Þeir hlýddu á konung og fóru. Og stjarnan, sem þeir sáu austur þar, fór fyrir þeim, uns hana bar þar yfir, sem barnið var. 2.10 Þegar þeir sáu stjörnuna, glöddust þeir harla mjög, 2.11 þeir gengu inn í húsið og sáu barnið og Maríu, móður þess, féllu fram og veittu því lotningu. Síðan luku þeir upp fjárhirslum sínum og færðu því gjafir, gull, reykelsi og myrru. 2.12 En þar sem þeir fengu bendingu í draumi að snúa ekki aftur til Heródesar, fóru þeir aðra leið heim í land sitt. 2.13 Þegar þeir voru farnir, þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: 'Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera, uns ég segi þér, því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því.' 2.14 Hann vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands. 2.15 Þar dvaldist hann þangað til Heródes var allur. Það sem Drottinn sagði fyrir munn spámannsins, skyldi rætast: 'Frá Egyptalandi kallaði ég son minn.' 2.16 Þá sá Heródes, að vitringarnir höfðu gabbað hann, og varð afar reiður, sendi menn og lét myrða öll sveinbörn í Betlehem og nágrenni hennar, tvævetur og yngri, en það svaraði þeim tíma, er hann hafði komist að hjá vitringunum. 2.17 Nú rættist það, sem sagt var fyrir munn Jeremía spámanns: 2.18 Rödd heyrðist í Rama, grátur og kveinstafir miklir, Rakel grætur börnin sín og vill ekki huggast láta, því að þau eru ekki framar lífs. 2.19 Þegar Heródes var dáinn, þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi í Egyptalandi 2.20 og segir: 'Rís upp, tak barnið og móður þess og far til Ísraelslands. Nú eru þeir dánir, sem sátu um líf barnsins.' 2.21 Hann tók sig upp og fór til Ísraelslands með barnið og móður þess. 2.22 En þá er hann heyrði, að Arkelás réð ríkjum í Júdeu í stað Heródesar föður síns, óttaðist hann að fara þangað, og hélt til Galíleubyggða eftir bendingu í draumi. 2.23 Þar settist hann að í borg, sem heitir Nasaret, en það átti að rætast, sem sagt var fyrir munn spámannanna: 'Nasarei skal hann kallast.'
3.1 Á þeim dögum kemur Jóhannes skírari fram og prédikar í óbyggðum Júdeu. 3.2 Hann sagði: 'Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd.' 3.3 Jóhannes er sá sem svo er um mælt hjá Jesaja spámanni: Rödd hrópanda í eyðimörk: Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans. 3.4 Jóhannes bar klæði úr úlfaldahári og leðurbelti um lendar sér og hafði til matar engisprettur og villihunang. 3.5 Menn streymdu til hans frá Jerúsalem, allri Júdeu og Jórdanbyggð, 3.6 létu skírast af honum í ánni Jórdan og játuðu syndir sínar. 3.7 Þegar hann sá, að margir farísear og saddúkear komu til skírnar, sagði hann við þá: 'Þér nöðru kyn, hver kenndi yður að flýja komandi reiði? 3.8 Berið þá ávöxt samboðinn iðruninni! 3.9 Látið yður ekki til hugar koma, að þér getið sagt með sjálfum yður: ,Vér eigum Abraham að föður.` Ég segi yður, að Guð getur vakið Abraham börn af steinum þessum. 3.10 Öxin er þegar lögð að rótum trjánna, og hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað. 3.11 Ég skíri yður með vatni til iðrunar, en sá sem kemur eftir mig, er mér máttugri, og er ég ekki verður að bera skó hans. Hann mun skíra yður með heilögum anda og eldi. 3.12 Hann er með varpskófluna í hendi sér og mun gjörhreinsa láfa sinn og safna hveiti sínu í hlöðu, en hismið mun hann brenna í óslökkvanda eldi.' 3.13 Þá kemur Jesús frá Galíleu að Jórdan til Jóhannesar að taka skírn hjá honum. 3.14 Jóhannes vildi varna honum þess og sagði: 'Mér er þörf að skírast af þér, og þú kemur til mín!' 3.15 Jesús svaraði honum: 'Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.' Og hann lét það eftir honum. 3.16 En þegar Jesús hafði verið skírður, sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir, og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig. 3.17 Og rödd kom af himnum: 'Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.'
4.1 Þá leiddi andinn Jesú út í óbyggðina, að hans yrði freistað af djöflinum. 4.2 Þar fastaði hann fjörutíu daga og fjörutíu nætur og var þá orðinn hungraður. 4.3 Þá kom freistarinn og sagði við hann: 'Ef þú ert sonur Guðs, þá bjóð þú, að steinar þessir verði að brauðum.' 4.4 Jesús svaraði: 'Ritað er: ,Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni.'` 4.5 Þá tekur djöfullinn hann með sér í borgina helgu, setur hann á brún musterisins 4.6 og segir við hann: 'Ef þú ert sonur Guðs, þá kasta þér ofan, því að ritað er: Hann mun fela þig englum sínum, og þeir munu bera þig á höndum sér, að þú steytir ekki fót þinn við steini.' 4.7 Jesús svaraði honum: 'Aftur er ritað: ,Ekki skalt þú freista Drottins, Guðs þíns.'` 4.8 Enn tekur djöfullinn hann með sér upp á ofurhátt fjall, sýnir honum öll ríki heims og dýrð þeirra 4.9 og segir: 'Allt þetta mun ég gefa þér, ef þú fellur fram og tilbiður mig.' 4.10 En Jesús sagði við hann: 'Vík brott, Satan! Ritað er: ,Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.'` 4.11 Þá fór djöfullinn frá Jesú. Og englar komu og þjónuðu honum. 4.12 Þegar hann heyrði, að Jóhannes hefði verið tekinn höndum, hélt hann til Galíleu. 4.13 Hann fór frá Nasaret og settist að í Kapernaum við vatnið í byggðum Sebúlons og Naftalí. 4.14 Þannig rættist það, sem sagt er fyrir munn Jesaja spámanns: 4.15 Sebúlonsland og Naftalíland við vatnið, landið handan Jórdanar, Galílea heiðingjanna. 4.16 Sú þjóð, sem í myrkri sat, sá mikið ljós. Þeim er sátu í skuggalandi dauðans, er ljós upp runnið. 4.17 Upp frá þessu tekur Jesús að prédika og segja: 'Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd.' 4.18 Hann gekk með Galíleuvatni og sá tvo bræður, Símon, sem kallaður var Pétur, og Andrés, bróður hans, vera að kasta neti í vatnið, en þeir voru fiskimenn. 4.19 Hann sagði við þá: 'Komið og fylgið mér, og mun ég láta yður menn veiða.' 4.20 Og þegar í stað yfirgáfu þeir netin og fylgdu honum. 4.21 Hann gekk áfram þaðan og sá tvo aðra bræður, Jakob Sebedeusson og Jóhannes, bróður hans. Þeir voru í bátnum með Sebedeusi, föður sínum, að búa net sín. Jesús kallaði þá, 4.22 og þeir yfirgáfu jafnskjótt bátinn og föður sinn og fylgdu honum. 4.23 Hann fór nú um alla Galíleu, kenndi í samkundum þeirra, prédikaði fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi meðal lýðsins. 4.24 Orðstír hans barst um allt Sýrland, og menn færðu til hans alla, sem þjáðust af ýmsum sjúkdómum og kvölum, voru haldnir illum öndum, tunglsjúka menn og lama. Og hann læknaði þá. 4.25 Mikill mannfjöldi fylgdi honum úr Galíleu, Dekapólis, Jerúsalem, Júdeu og landinu handan Jórdanar.
5.1 Þegar hann sá mannfjöldann, gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann, og lærisveinar hans komu til hans. 5.2 Þá lauk hann upp munni sínum, kenndi þeim og sagði: 5.3 'Sælir eru fátækir í anda, því að þeirra er himnaríki. 5.4 Sælir eru sorgbitnir, því að þeir munu huggaðir verða. 5.5 Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa. 5.6 Sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða. 5.7 Sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða. 5.8 Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá. 5.9 Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða. 5.10 Sælir eru þeir, sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir, því að þeirra er himnaríki. 5.11 Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. 5.12 Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina, sem voru á undan yður. 5.13 Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum. 5.14 Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. 5.15 Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker, heldur á ljósastiku, og þá lýsir það öllum í húsinu. 5.16 Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum. 5.17 Ætlið ekki, að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla. 5.18 Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram. 5.19 Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það, mun kallast minnstur í himnaríki, en sá, sem heldur þau og kennir, mun mikill kallast í himnaríki. 5.20 Ég segi yður: Ef réttlæti yðar ber ekki af réttlæti fræðimanna og farísea, komist þér aldrei í himnaríki. 5.21 Þér hafið heyrt, að sagt var við forfeðurna: ,Þú skalt ekki morð fremja. Sá sem morð fremur, skal svara til saka fyrir dómi.` 5.22 En ég segi yður: Hver sem reiðist bróður sínum, skal svara til saka fyrir dómi. Sá sem hrakyrðir bróður sinn skal svara til saka fyrir ráðinu og hver sem svívirðir hann, hefur unnið til eldsvítis. 5.23 Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar, að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér, 5.24 þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína. 5.25 Vertu skjótur til sátta við andstæðing þinn, meðan þú ert enn á vegi með honum, til þess að hann selji þig ekki dómaranum í hendur og dómarinn þjóninum og þér verði varpað í fangelsi. 5.26 Sannlega segi ég þér: Eigi munt þú komast út þaðan, fyrr en þú hefur borgað síðasta eyri. 5.27 Þér hafið heyrt, að sagt var: ,Þú skalt ekki drýgja hór.` 5.28 En ég segi yður: Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu. 5.29 Ef hægra auga þitt tælir þig til falls, þá ríf það úr og kasta frá þér. Betra er þér, að einn lima þinna glatist, en öllum líkama þínum verði kastað í helvíti. 5.30 Ef hægri hönd þín tælir þig til falls, þá sníð hana af og kasta frá þér. Betra er þér, að einn lima þinna glatist, en allur líkami þinn fari til helvítis. 5.31 Þá var og sagt: ,Sá sem skilur við konu sína, skal gefa henni skilnaðarbréf.` 5.32 En ég segi yður: Hver sem skilur við konu sína, nema fyrir hórsök, verður til þess, að hún drýgir hór. Og sá sem gengur að eiga fráskilda konu, drýgir hór. 5.33 Enn hafið þér heyrt, að sagt var við forfeðurna: ,Þú skalt ekki vinna rangan eið, en halda skaltu eiða þína við Drottin.` 5.34 En ég segi yður, að þér eigið alls ekki að sverja, hvorki við himininn, því hann er hásæti Guðs, 5.35 né við jörðina, því hún er skör fóta hans, né við Jerúsalem, því hún er borg hins mikla konungs. 5.36 Og eigi skaltu sverja við höfuð þitt, því að þú getur ekki gjört eitt hár hvítt eða svart. 5.37 En þegar þér talið, sé já yðar já og nei sé nei. Það sem umfram er, kemur frá hinum vonda. 5.38 Þér hafið heyrt, að sagt var: ,Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn.` 5.39 En ég segi yður: Rísið ekki gegn þeim, sem gerir yður mein. Nei, slái einhver þig á hægri kinn, þá bjóð honum einnig hina. 5.40 Og vilji einhver þreyta lög við þig og hafa af þér kyrtil þinn, gef honum eftir yfirhöfnina líka. 5.41 Og neyði einhver þig með sér eina mílu, þá far með honum tvær. 5.42 Gef þeim, sem biður þig, og snú ekki baki við þeim, sem vill fá lán hjá þér. 5.43 Þér hafið heyrt, að sagt var: ,Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn.` 5.44 En ég segi yður: Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður, 5.45 svo að þér reynist börn föður yðar á himnum, er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta. 5.46 Þótt þér elskið þá, sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gjöra ekki tollheimtumenn hið sama? 5.47 Og hvað er það, þótt þér heilsið bræðrum yðar einum. Gjöra heiðnir menn ekki hið sama? 5.48 Verið þér því fullkomnir, eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.
6.1 Varist að iðka réttlæti yðar fyrir mönnum, þeim til sýnis, annars eigið þér engin laun hjá föður yðar á himnum. 6.2 Þegar þú gefur ölmusu, skaltu ekki láta þeyta lúður fyrir þér, eins og hræsnarar gjöra í samkunduhúsum og á strætum til þess að hljóta lof af mönnum. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín. 6.3 En þegar þú gefur ölmusu, viti vinstri hönd þín ekki, hvað sú hægri gjörir, 6.4 svo að ölmusa þín sé í leynum, og faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér. 6.5 Og þegar þér biðjist fyrir, þá verið ekki eins og hræsnararnir. Þeir vilja helst standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum, til þess að menn sjái þá. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín. 6.6 En nær þú biðst fyrir, skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn, sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér. 6.7 Þegar þér biðjist fyrir, skuluð þér ekki fara með fánýta mælgi að hætti heiðingja. Þeir hyggja, að þeir verði bænheyrðir fyrir mælgi sína. 6.8 Líkist þeim ekki. Faðir yðar veit, hvers þér þurfið, áður en þér biðjið hann. 6.9 En þannig skuluð þér biðja: Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, 6.10 til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni. 6.11 Gef oss í dag vort daglegt brauð. 6.12 Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. 6.13 Og eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. [Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu, amen.] 6.14 Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra, þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður. 6.15 En ef þér fyrirgefið ekki öðrum, mun faðir yðar ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar. 6.16 Þegar þér fastið, þá verið ekki daprir í bragði, eins og hræsnarar. Þeir afmynda andlit sín, svo að engum dyljist, að þeir fasta. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín. 6.17 En nær þú fastar, þá smyr höfuð þitt og þvo andlit þitt, 6.18 svo að menn verði ekki varir við, að þú fastar, heldur faðir þinn, sem er í leynum. Og faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér. 6.19 Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela. 6.20 Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela. 6.21 Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera. 6.22 Augað er lampi líkamans. Sé auga þitt heilt, mun allur líkami þinn bjartur. 6.23 En sé auga þitt spillt, verður allur líkami þinn dimmur. Ef nú ljósið í þér er myrkur, hvílíkt verður þá myrkrið. 6.24 Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón. 6.25 Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? 6.26 Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? 6.27 Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn? 6.28 Og hví eruð þér áhyggjufullir um klæði? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. 6.29 En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. 6.30 Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins, sem í dag stendur, en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlitlir! 6.31 Segið því ekki áhyggjufullir: ,Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast?` 6.32 Allt þetta stunda heiðingjarnir, og yðar himneski faðir veit, að þér þarfnist alls þessa. 6.33 En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. 6.34 Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.
7.1 Dæmið ekki, svo að þér verðið ekki dæmdir. 7.2 Því að með þeim dómi, sem þér dæmið, munuð þér dæmdir, og með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða. 7.3 Hví sér þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu? 7.4 Eða hvernig fær þú sagt við bróður þinn: ,Lát mig draga flísina úr auga þér?` Og þó er bjálki í auga sjálfs þín. 7.5 Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér, og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns. 7.6 Gefið ekki hundum það sem heilagt er, og kastið eigi perlum yðar fyrir svín. Þau mundu troða þær undir fótum, og þeir snúa sér við og rífa yður í sig. 7.7 Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. 7.8 Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða. 7.9 Eða hver er sá maður meðal yðar, sem gefur syni sínum stein, er hann biður um brauð? 7.10 Eða höggorm, þegar hann biður um fisk? 7.11 Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir, sem biðja hann? 7.12 Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Þetta er lögmálið og spámennirnir. 7.13 Gangið inn um þrönga hliðið. Því að vítt er hliðið og vegurinn breiður, sem liggur til glötunar, og margir þeir, sem þar fara inn. 7.14 Hve þröngt er það hlið og mjór sá vegur, er liggur til lífsins, og fáir þeir, sem finna hann. 7.15 Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar. 7.16 Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? 7.17 Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt tré vonda. 7.18 Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. 7.19 Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað. 7.20 Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá. 7.21 Ekki mun hver sá, sem við mig segir: ,Herra, herra,` ganga inn í himnaríki, heldur sá einn, er gjörir vilja föður míns, sem er á himnum. 7.22 Margir munu segja við mig á þeim degi: ,Herra, herra, höfum vér ekki kennt í þínu nafni, rekið út illa anda í þínu nafni og gjört í þínu nafni mörg kraftaverk?` 7.23 Þá mun ég votta þetta: ,Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.` 7.24 Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni, er byggði hús sitt á bjargi. 7.25 Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi, en það féll eigi, því það var grundvallað á bjargi. 7.26 En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni, er byggði hús sitt á sandi. 7.27 Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll, og fall þess var mikið.' 7.28 Þegar Jesús hafði lokið þessari ræðu, undraðist mannfjöldinn mjög kenningu hans, 7.29 því að hann kenndi þeim eins og sá, er vald hefur, og ekki eins og fræðimenn þeirra.
8.1 Nú gekk Jesús niður af fjallinu, og fylgdi honum mikill mannfjöldi. 8.2 Þá kom til hans líkþrár maður, laut honum og sagði: 'Herra, ef þú vilt, getur þú hreinsað mig.' 8.3 Jesús rétti út höndina, snart hann og mælti: 'Ég vil, verð þú hreinn!' Jafnskjótt varð hann hreinn af líkþránni. 8.4 Jesús sagði við hann: 'Gæt þess að segja þetta engum, en far þú, sýn þig prestinum, og færðu þá fórn, sem Móse bauð, þeim til vitnisburðar.' 8.5 Þegar hann kom til Kapernaum, gekk til hans hundraðshöfðingi og bað hann: 8.6 'Herra, sveinn minn liggur heima lami, mjög þungt haldinn.' 8.7 Jesús sagði: 'Ég kem og lækna hann.' 8.8 Þá sagði hundraðshöfðinginn: 'Herra, ég er ekki verður þess, að þú gangir inn undir þak mitt. Mæl þú aðeins eitt orð, og mun sveinn minn heill verða. 8.9 Því að sjálfur er ég maður, sem verð að lúta valdi og ræð yfir hermönnum, og ég segi við einn: ,Far þú,` og hann fer, og við annan: ,Kom þú,` og hann kemur, og við þjón minn: ,Gjör þetta,` og hann gjörir það.' 8.10 Þegar Jesús heyrði þetta, undraðist hann og mælti við þá, sem fylgdu honum: 'Sannlega segi ég yður, þvílíka trú hef ég ekki fundið hjá neinum í Ísrael. 8.11 En ég segi yður: Margir munu koma frá austri og vestri og sitja til borðs með Abraham, Ísak og Jakob í himnaríki, 8.12 en synir ríkisins munu út reknir í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.' 8.13 Þá sagði Jesús við hundraðshöfðingjann: 'Far þú, verði þér sem þú trúir.' Og sveinninn varð heill á þeirri stundu. 8.14 Jesús kom í hús Péturs og sá, að tengdamóðir hans lá með sótthita. 8.15 Hann snart hönd hennar, og sótthitinn fór úr henni. Hún reis á fætur og gekk honum fyrir beina. 8.16 Þegar kvöld var komið, færðu menn til hans marga, er haldnir voru illum öndum. Illu andana rak hann út með orði einu, og alla þá, er sjúkir voru, læknaði hann. 8.17 Það átti að rætast, sem sagt er fyrir munn Jesaja spámanns: 'Hann tók á sig mein vor og bar sjúkdóma vora.' 8.18 En þegar Jesús sá mikinn mannfjölda kringum sig, bauð hann að fara yfir um vatnið. 8.19 Þá kom fræðimaður einn til hans og sagði: 'Meistari, ég vil fylgja þér, hvert sem þú ferð.' 8.20 Jesús sagði við hann: 'Refar eiga greni og fuglar himins hreiður, en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla.' 8.21 Annar, úr hópi lærisveinanna, sagði við hann: 'Herra, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn.' 8.22 Jesús svarar honum: 'Fylg þú mér, en lát hina dauðu jarða sína dauðu.' 8.23 Nú fór hann í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. 8.24 Þá gjörði svo mikið veður á vatninu, að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. 8.25 Þeir fara til, vekja hann og segja: 'Herra, bjarga þú, vér förumst.' 8.26 Hann sagði við þá: 'Hví eruð þér hræddir, þér trúlitlir?' Síðan reis hann upp og hastaði á vindinn og vatnið, og varð stillilogn. 8.27 Mennirnir undruðust og sögðu: 'Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.' 8.28 Þegar hann kom yfir um, í byggð Gadarena, komu á móti honum frá gröfunum tveir menn haldnir illum öndum, svo skæðir, að enginn mátti þann veg fara. 8.29 Þeir æpa: 'Hvað vilt þú okkur, sonur Guðs? Komstu hingað að kvelja okkur fyrir tímann?' 8.30 En langt frá þeim var mikil svínahjörð á beit. 8.31 Illu andarnir báðu hann og sögðu: 'Ef þú rekur okkur út, sendu okkur þá í svínahjörðina.' 8.32 Hann sagði: 'Farið!' Út fóru þeir og í svínin, og öll hjörðin ruddist fram af hamrinum í vatnið og týndist þar. 8.33 En hirðarnir flýðu, komu til borgarinnar og sögðu öll tíðindin, líka frá mönnunum, sem haldnir voru illum öndum. 8.34 Og allir borgarmenn fóru út til móts við Jesú, og þegar þeir sáu hann, báðu þeir hann að fara burt úr héruðum þeirra.
9.1 Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. 9.2 Þar færa menn honum lama mann, sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra, sagði hann við lama manninn: 'Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.' 9.3 Nokkrir fræðimenn sögðu þá með sjálfum sér: 'Hann guðlastar!' 9.4 En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: 'Hví hugsið þér illt í hjörtum yðar? 9.5 Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru fyrirgefnar` eða: ,Statt upp og gakk`? 9.6 En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér' _ og nú talar hann við lama manninn: 'Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín!' 9.7 Og hann stóð upp og fór heim til sín. 9.8 En fólkið, sem horfði á þetta, varð ótta slegið og lofaði Guð, sem gefið hafði mönnum slíkt vald. 9.9 Þá er hann gekk þaðan, sá hann mann sitja hjá tollbúðinni, Matteus að nafni, og hann segir við hann: 'Fylg þú mér!' Og hann stóð upp og fylgdi honum. 9.10 Nú bar svo við, er Jesús sat að borði í húsi hans, að margir tollheimtumenn og bersyndugir komu og settust þar með honum og lærisveinum hans. 9.11 Þegar farísear sáu það, sögðu þeir við lærisveina hans: 'Hvers vegna etur meistari yðar með tollheimtumönnum og bersyndugum?' 9.12 Jesús heyrði þetta og sagði: 'Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru. 9.13 Farið og nemið, hvað þetta merkir: ,Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir.` Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara.' 9.14 Þá koma til hans lærisveinar Jóhannesar og segja: 'Hví föstum vér og farísear, en þínir lærisveinar fasta ekki?' 9.15 Jesús svaraði þeim: 'Hvort geta brúðkaupsgestir verið hryggir, meðan brúðguminn er hjá þeim? En koma munu þeir dagar, er brúðguminn verður frá þeim tekinn. Þá munu þeir fasta. 9.16 Enginn lætur bót af óþæfðum dúk á gamalt fat, því þá rífur bótin út frá sér og verður af verri rifa. 9.17 Ekki láta menn heldur nýtt vín á gamla belgi, því þá springa belgirnir, og vínið fer niður, en belgirnir ónýtast. Menn láta nýtt vín á nýja belgi, og varðveitist þá hvort tveggja.' 9.18 Meðan hann var að segja þetta við þá, kom forstöðumaður einn, laut honum og sagði: 'Dóttir mín var að skilja við, kom og legg hönd þína yfir hana, þá mun hún lifna.' 9.19 Jesús stóð upp og fór með honum og lærisveinar hans. 9.20 Kona, sem hafði haft blóðlát í tólf ár, kom þá að baki honum og snart fald klæða hans. 9.21 Hún hugsaði með sér: 'Ef ég fæ aðeins snert klæði hans, mun ég heil verða.' 9.22 Jesús sneri sér við, og er hann sá hana, sagði hann: 'Vertu hughraust, dóttir, trú þín hefur bjargað þér.' Og konan varð heil frá þeirri stundu. 9.23 Þegar Jesús kom að húsi forstöðumannsins og sá pípuleikara og fólkið í uppnámi, 9.24 sagði hann: 'Farið burt! Stúlkan er ekki dáin, hún sefur.' En þeir hlógu að honum. 9.25 Þegar fólkið hafði verið látið fara, gekk hann inn og tók hönd hennar, og reis þá stúlkan upp. 9.26 Og þessi tíðindi bárust um allt það hérað. 9.27 Þá er Jesús hélt þaðan, fóru tveir blindir menn eftir honum og kölluðu: 'Miskunna þú okkur, sonur Davíðs.' 9.28 Þegar hann kom heim, gengu blindu mennirnir til hans. Jesús spyr þá: 'Trúið þið, að ég geti gjört þetta?' Þeir sögðu: 'Já, herra.' 9.29 Þá snart hann augu þeirra og mælti: 'Verði ykkur að trú ykkar.' 9.30 Og augu þeirra lukust upp. Jesús lagði ríkt á við þá og sagði: 'Gætið þess, að enginn fái að vita þetta.' 9.31 En þeir fóru og víðfrægðu hann í öllu því héraði. 9.32 Þegar þeir voru að fara, var komið til hans með mállausan mann, haldinn illum anda. 9.33 Og er illi andinn var út rekinn, tók málleysinginn að mæla. Mannfjöldinn undraðist og sagði: 'Aldrei hefur þvílíkt sést í Ísrael.' 9.34 En farísearnir sögðu: 'Með fulltingi höfðingja illra anda rekur hann út illu andana.' 9.35 Jesús fór nú um allar borgir og þorp og kenndi í samkundum þeirra. Hann flutti fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi. 9.36 En er hann sá mannfjöldann, kenndi hann í brjósti um þá, því þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa. 9.37 Þá sagði hann við lærisveina sína: 'Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir. 9.38 Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.'
10.1 Og hann kallaði til sín lærisveina sína tólf og gaf þeim vald yfir óhreinum öndum, að þeir gætu rekið þá út og læknað hvers kyns sjúkdóm og veikindi. 10.2 Nöfn postulanna tólf eru þessi: Fyrstur Símon, sem kallast Pétur, og Andrés bróðir hans, þá Jakob Sebedeusson og Jóhannes bróðir hans, 10.3 Filippus og Bartólómeus, Tómas og Matteus tollheimtumaður, Jakob Alfeusson og Taddeus, 10.4 Símon vandlætari og Júdas Ískaríot, sá er sveik hann. 10.5 Þessa tólf sendi Jesús út og mælti svo fyrir: 'Haldið ekki til heiðinna manna og farið ekki í samverska borg. 10.6 Farið heldur til týndra sauða af Ísraelsætt. 10.7 Farið og prédikið: ,Himnaríki er í nánd.` 10.8 Læknið sjúka, vekið upp dauða, hreinsið líkþráa, rekið út illa anda. Gefins hafið þér fengið, gefins skuluð þér láta í té. 10.9 Takið ekki gull, silfur né eir í belti, 10.10 eigi mal til ferðar eða tvo kyrtla og hvorki skó né staf. Verður er verkamaðurinn fæðis síns. 10.11 Hvar sem þér komið í borg eða þorp, spyrjist þá fyrir um, hver þar sé verðugur, og þar sé aðsetur yðar, uns þér leggið upp að nýju. 10.12 Þegar þér komið í hús, þá árnið því góðs, 10.13 og sé það verðugt, skal friður yðar koma yfir það, en sé það ekki verðugt, skal friður yðar aftur hverfa til yðar. 10.14 Og taki einhver ekki við yður né hlýði á orð yðar, farið þá úr því húsi eða þeirri borg og hristið dustið af fótum yðar. 10.15 Sannlega segi ég yður: Bærilegra mun landi Sódómu og Gómorru á dómsdegi en þeirri borg. 10.16 Sjá, ég sendi yður eins og sauði meðal úlfa. Verið því kænir sem höggormar og falslausir sem dúfur. 10.17 Varið yður á mönnunum. Þeir munu draga yður fyrir dómstóla og húðstrýkja yður í samkundum sínum. 10.18 Þér munuð leiddir fyrir landshöfðingja og konunga mín vegna þeim og heiðingjunum til vitnisburðar. 10.19 En þá er menn draga yður fyrir rétt, skuluð þér ekki hafa áhyggjur af því, hvernig eða hvað þér eigið að tala. Yður verður gefið á sömu stundu, hvað segja skal. 10.20 Þér eruð ekki þeir sem tala, heldur andi föður yðar, hann talar í yður. 10.21 Bróðir mun selja bróður í dauða og faðir barn sitt. Börn munu rísa gegn foreldrum og valda þeim dauða. 10.22 Og þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns. En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða. 10.23 Þegar þeir ofsækja yður í einni borg, þá flýið í aðra. Sannlega segi ég yður: Þér munuð ekki hafa náð til allra borga Ísraels, áður en Mannssonurinn kemur. 10.24 Ekki er lærisveinn meistaranum fremri né þjónn herra sínum. 10.25 Nægja má lærisveini að vera sem meistari hans og þjóni sem herra hans. Fyrst þeir kölluðu húsföðurinn Beelsebúl, hvað kalla þeir þá heimamenn hans? 10.26 Óttist þá því eigi. Ekkert er hulið, sem eigi verður opinbert, né leynt, er eigi verður kunnugt. 10.27 Það sem ég segi yður í myrkri, skuluð þér tala í birtu, og það sem þér heyrið hvíslað í eyra, skuluð þér kunngjöra á þökum uppi. 10.28 Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða, en fá ekki deytt sálina. Hræðist heldur þann, sem megnar að tortíma bæði sálu og líkama í helvíti. 10.29 Eru ekki tveir spörvar seldir fyrir smápening? Og ekki fellur einn þeirra til jarðar án vitundar föður yðar. 10.30 Á yður eru jafnvel höfuðhárin öll talin. 10.31 Verið því óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar. 10.32 Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum, mun og ég við kannast fyrir föður mínum á himnum. 10.33 En þeim sem afneitar mér fyrir mönnum, mun og ég afneita fyrir föður mínum á himnum. 10.34 Ætlið ekki, að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið, heldur sverð. 10.35 Ég er kominn að gjöra ,son andvígan föður sínum, dóttur móður sinni og tengdadóttur tengdamóður sinni. 10.36 Og heimamenn manns verða óvinir hans.` 10.37 Sá sem ann föður eða móður meir en mér, er mín ekki verður, og sá sem ann syni eða dóttur meir en mér, er mín ekki verður. 10.38 Hver sem tekur ekki sinn kross og fylgir mér, er mín ekki verður. 10.39 Sá sem ætlar að finna líf sitt, týnir því, og sá sem týnir lífi sínu mín vegna, finnur það. 10.40 Sá sem tekur við yður, tekur við mér, og sá sem tekur við mér, tekur við þeim, er sendi mig. 10.41 Sá sem tekur við spámanni, vegna þess að hann er spámaður, mun fá spámanns laun, og sá sem tekur við réttlátum manni, vegna þess að hann er réttlátur, mun fá laun réttláts manns. 10.42 Og hver sem gefur einum þessara smælingja svaladrykk vegna þess eins, að hann er lærisveinn, sannlega segi ég yður, hann mun alls ekki missa af launum sínum.'
11.1 Þá er Jesús hafði mælt svo fyrir við lærisveina sína tólf, hélt hann þaðan að kenna og prédika í borgum þeirra. 11.2 Jóhannes heyrði í fangelsinu um verk Krists. Þá sendi hann honum orð með lærisveinum sínum og spurði: 11.3 'Ert þú sá, sem koma skal, eða eigum vér að vænta annars?' 11.4 Jesús svaraði þeim: 'Farið og kunngjörið Jóhannesi það, sem þér heyrið og sjáið: 11.5 Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp, og fátækum er flutt fagnaðarerindi. 11.6 Og sæll er sá, sem hneykslast ekki á mér.' 11.7 Þegar þeir voru farnir, tók Jesús að tala til mannfjöldans um Jóhannes: 'Hvað fóruð þér að sjá í óbyggðum? Reyr af vindi skekinn? 11.8 Hvað fóruð þér að sjá? Prúðbúinn mann? Nei, prúðbúna menn er að finna í sölum konunga. 11.9 Til hvers fóruð þér? Að sjá spámann? Já, segi ég yður, og það meira en spámann. 11.10 Hann er sá, sem um er ritað: Sjá, ég sendi sendiboða minn á undan þér, er greiða mun veg þinn fyrir þér. 11.11 Sannlega segi ég yður: Enginn er sá af konu fæddur, sem meiri sé en Jóhannes skírari. En hinn minnsti í himnaríki er honum meiri. 11.12 Frá dögum Jóhannesar skírara og til þessa er ríki himnanna ofríki beitt, og ofríkismenn vilja hremma það. 11.13 Spámennirnir allir og lögmálið, allt fram að Jóhannesi, sögðu fyrir um þetta. 11.14 Og ef þér viljið við því taka, þá er hann Elía sá, sem koma skyldi. 11.15 Hver sem eyru hefur, hann heyri. 11.16 Við hvað á ég að líkja þessari kynslóð? Lík er hún börnum, sem á torgum sitja og kallast á: 11.17 ,Vér lékum fyrir yður á flautu og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð, og ekki vilduð þér syrgja.` 11.18 Jóhannes kom, át hvorki né drakk, og menn segja: ,Hann hefur illan anda.` 11.19 Mannssonurinn kom, át og drakk, og menn segja: ,Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra!` En spekin sannast af verkum sínum.' 11.20 Þá tók hann að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gjört flest kraftaverk sín, fyrir að hafa ekki gjört iðrun. 11.21 'Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gjörst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gjörðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku. 11.22 En ég segi ykkur: Týrus og Sídon mun bærilegra á dómsdegi en ykkur. 11.23 Og þú Kapernaum. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Ef gjörst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gjörðust í þér, þá stæði hún enn í dag. 11.24 En ég segi yður: Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér.' 11.25 Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: 'Ég vegsama þig, faðir, herra himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum, en opinberað það smælingjum. 11.26 Já, faðir, svo var þér þóknanlegt. 11.27 Allt er mér falið af föður mínum, og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann. 11.28 Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. 11.29 Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. 11.30 Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.'
12.1 Um þessar mundir fór Jesús um sáðlönd á hvíldardegi. Lærisveinar hans kenndu hungurs og tóku að tína kornöx og eta. 12.2 Þegar farísear sáu það, sögðu þeir við hann: 'Lít á, lærisveinar þínir gjöra það, sem ekki er leyft að gjöra á hvíldardegi.' 12.3 Hann svaraði þeim: 'Hafið þér eigi lesið, hvað Davíð gjörði, þegar hann hungraði og menn hans? 12.4 Hann fór inn í Guðs hús, og þeir átu skoðunarbrauðin, sem hvorki hann né menn hans og engir nema prestarnir máttu eta. 12.5 Eða hafið þér ekki lesið í lögmálinu, að prestar vanhelga hvíldardaginn í musterinu á hvíldardögum, og eru þó án saka? 12.6 En ég segi yður: Hér er meira en musterið. 12.7 Ef þér hefðuð skilið, hvað felst í orðunum: ,Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir,` munduð þér ekki hafa sakfellt saklausa menn. 12.8 Því að Mannssonurinn er herra hvíldardagsins.' 12.9 Hann fór þaðan og kom í samkundu þeirra. 12.10 Þar var maður með visna hönd. Og þeir spurðu Jesú: 'Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi?' Þeir hugðust kæra hann. 12.11 Hann svarar þeim: 'Nú á einhver yðar eina sauðkind, og hún fellur í gryfju á hvíldardegi. Mundi hann ekki taka hana og draga upp úr? 12.12 Hve miklu er þó maðurinn sauðkindinni fremri! Það er því leyfilegt að gjöra góðverk á hvíldardegi.' 12.13 Síðan segir hann við manninn: 'Réttu fram hönd þína.' Hann rétti fram höndina, og hún varð heil sem hin. 12.14 Þá gengu farísearnir út og tóku saman ráð sín gegn honum, hvernig þeir gætu náð lífi hans. 12.15 Þegar Jesús varð þess vís, fór hann þaðan. Margir fylgdu honum, og alla læknaði hann. 12.16 En hann lagði ríkt á við þá, að þeir gjörðu hann eigi kunnan. 12.17 Þannig rættist það, sem sagt er fyrir munn Jesaja spámanns: 12.18 Sjá þjón minn, sem ég hef útvalið, minn elskaða, sem sál mín hefur þóknun á. Ég mun láta anda minn koma yfir hann, og hann mun boða þjóðunum rétt. 12.19 Eigi mun hann þrátta né hrópa, og eigi mun raust hans heyrast á strætum. 12.20 Brákaðan reyr brýtur hann ekki, og rjúkandi hörkveik mun hann ekki slökkva, uns hann hefur leitt réttinn til sigurs. 12.21 Á nafn hans munu þjóðirnar vona. 12.22 Þá var færður til hans maður haldinn illum anda, blindur og mállaus. Hann læknaði hann, svo að hinn dumbi gat talað og séð. 12.23 Allt fólkið varð furðu lostið og sagði: 'Hann er þó ekki sonur Davíðs?' 12.24 Þegar farísear heyrðu það, sögðu þeir: 'Þessi rekur ekki út illa anda nema með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda.' 12.25 En Jesús vissi hugsanir þeirra og sagði við þá: 'Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hver sú borg eða heimili, sem er sjálfu sér sundurþykkt, fær ekki staðist. 12.26 Ef Satan rekur Satan út, er hann sjálfum sér sundurþykkur. Hvernig fær ríki hans þá staðist? 12.27 Og ef ég rek illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út? Því skulu þeir vera dómarar yðar. 12.28 En ef ég rek illu andana út með Guðs anda, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið. 12.29 Eða hvernig fær nokkur brotist inn í hús hins sterka og rænt föngum hans, nema hann bindi áður hinn sterka, þá getur hann rænt hús hans. 12.30 Hver sem er ekki með mér, er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir. 12.31 Þess vegna segi ég yður: Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin, en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið. 12.32 Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum, verður það fyrirgefið, en þeim sem mælir gegn heilögum anda, verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda. 12.33 Annaðhvort er tréð gott og ávöxturinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur. Því af ávextinum þekkist tréð. 12.34 Þér nöðru kyn, hvernig getið þér, sem eruð vondir, talað gott? Af gnægð hjartans mælir munnurinn. 12.35 Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði, en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði. 12.36 En ég segi yður: Hvert ónytjuorð, sem menn mæla, munu þeir verða að svara fyrir á dómsdegi. 12.37 Því af orðum þínum muntu sýknaður, og af orðum þínum muntu sakfelldur verða.' 12.38 Þá sögðu nokkrir fræðimenn og farísear við hann: 'Meistari, vér viljum sjá þig gjöra tákn.' 12.39 Hann svaraði þeim: 'Vond og ótrú kynslóð heimtar tákn, en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar spámanns. 12.40 Jónas var í kviði stórhvelisins þrjá daga og þrjár nætur, og eins mun Mannssonurinn vera þrjá daga og þrjár nætur í skauti jarðar. 12.41 Nínívemenn munu koma fram í dóminum ásamt kynslóð þessari og sakfella hana, því að þeir gjörðu iðrun við prédikun Jónasar, og hér er meira en Jónas. 12.42 Drottning Suðurlanda mun rísa upp í dóminum ásamt þessari kynslóð og sakfella hana, því að hún kom frá endimörkum jarðar að heyra speki Salómons, og hér er meira en Salómon. 12.43 Þegar óhreinn andi fer út af manni, reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis, en finnur ekki. 12.44 Þá segir hann: ,Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór.` Og er hann kemur og finnur það tómt, sópað og prýtt, 12.45 fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri, og þeir fara inn og setjast þar að, og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður. Eins mun fara fyrir þessari vondu kynslóð.' 12.46 Meðan hann var enn að tala við fólkið kom móðir hans og bræður. Þau stóðu úti og vildu tala við hann. 12.47 Einhver sagði við hann: 'Móðir þín og bræður standa hér úti og vilja tala við þig.' 12.48 Jesús svaraði þeim, er við hann mælti: 'Hver er móðir mín, og hverjir eru bræður mínir?' 12.49 Og hann rétti út höndina yfir lærisveina sína og sagði: 'Hér er móðir mín og bræður mínir. 12.50 Hver sem gjörir vilja föður míns, sem er á himnum, sá er bróðir minn, systir og móðir.'
13.1 Sama dag gekk Jesús að heiman og settist við vatnið. 13.2 Svo mikill mannfjöldi safnaðist að honum, að hann varð að stíga í bát og sitja þar. En allt fólkið stóð á ströndinni. 13.3 Hann talaði margt til þeirra í dæmisögum. Hann sagði: 'Sáðmaður gekk út að sá, 13.4 og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni, og fuglar komu og átu það upp. 13.5 Sumt féll í grýtta jörð, þar sem var lítill jarðvegur, og það rann skjótt upp, því það hafði ekki djúpa jörð. 13.6 Þegar sól hækkaði, visnaði það, og sökum þess að það hafði ekki rætur, skrælnaði það. 13.7 Sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir uxu og kæfðu það. 13.8 En sumt féll í góða jörð og bar ávöxt, sumt hundraðfaldan, sumt sextugfaldan og sumt þrítugfaldan. 13.9 Hver sem eyru hefur, hann heyri.' 13.10 Þá komu lærisveinarnir til hans og spurðu: 'Hvers vegna talar þú til þeirra í dæmisögum?' 13.11 Hann svaraði: 'Yður er gefið að þekkja leynda dóma himnaríkis, hinum er það ekki gefið. 13.12 Því að þeim, sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur. 13.13 Þess vegna tala ég til þeirra í dæmisögum, að sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja. 13.14 Á þeim rætist spádómur Jesaja: Með eyrum munuð þér heyra og alls ekki skilja, og sjáandi munuð þér horfa og ekkert sjá. 13.15 Því að hjarta lýðs þessa er sljótt orðið, og illa heyra þeir með eyrum sínum, og augunum hafa þeir lokað, svo að þeir sjái ekki með augunum né heyri með eyrunum og skilji með hjartanu og snúi sér, og ég lækni þá. 13.16 En sæl eru augu yðar, að þau sjá, og eyru yðar, að þau heyra. 13.17 Sannlega segi ég yður: Margir spámenn og réttlátir þráðu að sjá það, sem þér sjáið, en sáu það ekki, og heyra það, sem þér heyrið, en heyrðu það ekki. 13.18 Heyrið þá hvað dæmisagan um sáðmanninn merkir: 13.19 Þegar einhver heyrir orðið um ríkið og skilur ekki, þá kemur hinn vondi og rænir því, sem sáð var í hjarta hans. Það sem sáð var við götuna, merkir þetta. 13.20 Það sem sáð var í grýtta jörð, merkir þann, sem tekur orðinu með fögnuði, um leið og hann heyrir það, 13.21 en hefur enga rótfestu. Hann er hvikull, og er þrenging verður eða ofsókn vegna orðsins, bregst hann þegar. 13.22 Það er sáð var meðal þyrna, merkir þann, sem heyrir orðið, en áhyggjur heimsins og tál auðæfanna kefja orðið, svo það ber engan ávöxt. 13.23 En það er sáð var í góða jörð, merkir þann, sem heyrir orðið og skilur það. Hann er sá, sem ber ávöxt og gefur af sér hundraðfalt, sextugfalt eða þrítugfalt.' 13.24 Aðra dæmisögu sagði hann þeim: 'Líkt er um himnaríki og mann, er sáði góðu sæði í akur sinn. 13.25 En er menn voru í svefni, kom óvinur hans, sáði illgresi meðal hveitisins og fór síðan. 13.26 Þegar sæðið spratt upp og tók að bera ávöxt, kom illgresið og í ljós. 13.27 Þá komu þjónar húsbóndans til hans og sögðu við hann: ,Herra, sáðir þú ekki góðu sæði í akur þinn? Hvaðan kemur illgresið?` 13.28 Hann svaraði þeim: ,Þetta hefur einhver óvinur gjört.` Þjónarnir sögðu við hann: ,Viltu, að vér förum og tínum það?` 13.29 Hann sagði: ,Nei, með því að tína illgresið, gætuð þér slitið upp hveitið um leið. 13.30 Látið hvort tveggja vaxa saman fram að kornskurði. Þegar komin er kornskurðartíð, mun ég segja við kornskurðarmenn: Safnið fyrst illgresinu og bindið í bundin til að brenna því, en hirðið hveitið í hlöðu mína.'` 13.31 Aðra dæmisögu sagði hann þeim: 'Líkt er himnaríki mustarðskorni, sem maður tók og sáði í akur sinn. 13.32 Smæst er það allra sáðkorna, en nær það vex, er það öllum jurtum meira, það verður tré, og fuglar himins koma og hreiðra sig í greinum þess.' 13.33 Aðra dæmisögu sagði hann þeim: 'Líkt er himnaríki súrdeigi, er kona tók og fól í þrem mælum mjöls, uns það sýrðist allt.' 13.34 Þetta allt talaði Jesús í dæmisögum til fólksins, og án dæmisagna talaði hann ekki til þeirra. 13.35 Það átti að rætast, sem sagt er fyrir munn spámannsins: Ég mun opna munn minn í dæmisögum, mæla fram það, sem hulið var frá grundvöllun heims. 13.36 Þá skildi hann við mannfjöldann og fór inn. Lærisveinar hans komu til hans og sögðu: 'Skýrðu fyrir oss dæmisöguna um illgresið á akrinum.' 13.37 Hann mælti: 'Sá er sáir góða sæðinu, er Mannssonurinn, 13.38 akurinn er heimurinn, góða sæðið merkir börn ríkisins, en illgresið börn hins vonda. 13.39 Óvinurinn, sem sáði því, er djöfullinn. Kornskurðurinn er endir veraldar og kornskurðarmennirnir englar. 13.40 Eins og illgresinu er safnað og brennt í eldi, þannig verður við endi veraldar. 13.41 Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja, 13.42 og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. 13.43 Þá munu réttlátir skína sem sól í ríki föður þeirra. Hver sem eyru hefur, hann heyri. 13.44 Líkt er himnaríki fjársjóði, sem fólginn var í jörðu og maður fann og leyndi. Í fögnuði sínum fór hann, seldi allar eigur sínar og keypti akur þann. 13.45 Enn er himnaríki líkt kaupmanni, sem leitaði að fögrum perlum. 13.46 Og er hann fann eina dýrmæta perlu, fór hann, seldi allt, sem hann átti, og keypti hana. 13.47 Enn er himnaríki líkt neti, sem lagt er í sjó og safnar alls kyns fiski. 13.48 Þegar það er fullt, draga menn það á land, setjast við og safna þeim góðu í ker, en kasta þeim óætu burt. 13.49 Svo mun verða, þegar veröld endar: Englarnir munu fara til, skilja vonda menn frá réttlátum 13.50 og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. 13.51 Hafið þér skilið allt þetta?' 'Já,' svöruðu þeir. 13.52 Hann sagði við þá: 'Þannig er sérhver fræðimaður, sem orðinn er lærisveinn himnaríkis, líkur húsföður, sem ber fram nýtt og gamalt úr forðabúri sínu.' 13.53 Þegar Jesús hafði lokið þessum dæmisögum, hélt hann þaðan. 13.54 Hann kom í ættborg sína og tók að kenna þeim í samkundu þeirra. Þeir undruðust stórum og sögðu: 'Hvaðan kemur honum þessi speki og kraftaverkin? 13.55 Er þetta ekki sonur smiðsins? Heitir ekki móðir hans María og bræður hans Jakob, Jósef, Símon og Júdas? 13.56 Og eru ekki systur hans allar hjá oss? Hvaðan kemur honum þá allt þetta?' 13.57 Og þeir hneyksluðust á honum. En Jesús sagði við þá: 'Hvergi er spámaður minna metinn en í landi sínu og með heimamönnum.' 13.58 Og hann gjörði þar ekki mörg kraftaverk sökum vantrúar þeirra.
14.1 Um þessar mundir spyr Heródes fjórðungsstjóri tíðindin af Jesú. 14.2 Og hann segir við sveina sína: 'Þetta er Jóhannes skírari, hann er risinn frá dauðum, þess vegna eru kraftarnir að verki í honum.' 14.3 En Heródes hafði látið taka Jóhannes höndum, fjötra hann og varpa í fangelsi vegna Heródíasar, konu Filippusar bróður síns, 14.4 því Jóhannes hafði sagt við hann: 'Þú mátt ekki eiga hana.' 14.5 Heródes vildi deyða hann, en óttaðist lýðinn, þar eð menn töldu hann vera spámann. 14.6 En á afmælisdegi Heródesar dansaði dóttir Heródíasar dans frammi fyrir gestunum og hreif Heródes svo, 14.7 að hann sór þess eið að veita henni hvað sem hún bæði um. 14.8 Að undirlagi móður sinnar segir hún: 'Gef mér hér á fati höfuð Jóhannesar skírara.' 14.9 Konungur varð hryggur við, en vegna eiðsins og gesta sinna bauð hann að veita henni þetta. 14.10 Hann sendi í fangelsið og lét hálshöggva Jóhannes þar. 14.11 Höfuð hans var borið inn á fati og fengið stúlkunni, en hún færði móður sinni. 14.12 Lærisveinar hans komu, tóku líkið og greftruðu, fóru síðan og sögðu Jesú. 14.13 Þegar Jesús heyrði þetta, fór hann þaðan á báti á óbyggðan stað og vildi vera einn. En fólkið frétti það og fór gangandi á eftir honum úr borgunum. 14.14 Þegar Jesús steig á land, sá hann þar mikinn mannfjölda, og hann kenndi í brjósti um þá og læknaði þá af þeim, er sjúkir voru. 14.15 Um kvöldið komu lærisveinarnir að máli við hann og sögðu: 'Hér er engin mannabyggð og dagur liðinn. Lát nú fólkið fara, að þeir geti náð til þorpanna og keypt sér vistir.' 14.16 Jesús svaraði þeim: 'Ekki þurfa þeir að fara, gefið þeim sjálfir að eta.' 14.17 Þeir svara honum: 'Vér höfum hér ekki nema fimm brauð og tvo fiska.' 14.18 Hann segir: 'Færið mér það hingað.' 14.19 Og hann bauð fólkinu að setjast í grasið. Þá tók hann brauðin fimm og fiskana tvo, leit upp til himins, þakkaði Guði, braut brauðin og gaf lærisveinunum, en þeir fólkinu. 14.20 Og þeir neyttu allir og urðu mettir. Og þeir tóku saman brauðbitana, er af gengu, tólf körfur fullar. 14.21 En þeir, sem neytt höfðu, voru um fimm þúsund karlmenn, auk kvenna og barna. 14.22 Tafarlaust knúði hann lærisveina sína að fara í bátinn og halda á undan sér yfir um, meðan hann sendi fólkið brott. 14.23 Og er hann hafði látið fólkið fara, gekk hann til fjalls að biðjast fyrir í einrúmi. Þegar kvöld var komið, var hann þar einn. 14.24 En báturinn var þegar kominn langt frá landi og lá undir áföllum, því að vindur var á móti. 14.25 En er langt var liðið nætur kom hann til þeirra, gangandi á vatninu. 14.26 Þegar lærisveinarnir sáu hann ganga á vatninu, varð þeim bilt við. Þeir sögðu: 'Þetta er vofa,' og æptu af hræðslu. 14.27 En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: 'Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir.' 14.28 Pétur svaraði honum: 'Ef það ert þú, herra, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu.' 14.29 Jesús svaraði: 'Kom þú!' Og Pétur sté úr bátnum og gekk á vatninu til hans. 14.30 En sem hann sá rokið, varð hann hræddur og tók að sökkva. Þá kallaði hann: 'Herra, bjarga þú mér!' 14.31 Jesús rétti þegar út höndina, tók í hann og sagði: 'Þú trúlitli, hví efaðist þú?' 14.32 Þeir stigu í bátinn, og þá lægði vindinn. 14.33 En þeir sem í bátnum voru, tilbáðu hann og sögðu: 'Sannarlega ert þú sonur Guðs.' 14.34 Þegar þeir höfðu náð yfir um, komu þeir að landi við Genesaret. 14.35 Fólkið á þeim stað þekkti hann og sendi boð um allt nágrennið, og menn færðu til hans alla þá, er sjúkir voru. 14.36 Þeir báðu hann að mega rétt snerta fald klæða hans, og allir, sem snertu hann, urðu alheilir.
15.1 Nú komu til Jesú farísear og fræðimenn frá Jerúsalem og sögðu: 15.2 'Hvers vegna brjóta lærisveinar þínir erfikenning forfeðranna? Þeir taka ekki handlaugar, áður en þeir neyta matar.' 15.3 Hann svaraði þeim: 'Hvers vegna brjótið þér sjálfir boðorð Guðs sakir erfikenningar yðar? 15.4 Guð hefur sagt: ,Heiðra föður þinn og móður,` og: ,Hver sem formælir föður eða móður, skal dauða deyja.` 15.5 En þér segið: Hver sem segir við föður sinn eða móður: ,Það sem þér hefði getað orðið til styrktar frá mér, er musterisfé,` 15.6 hann á ekki að heiðra föður sinn [eða móður]. Þér ógildið orð Guðs með erfikenning yðar. 15.7 Hræsnarar, sannspár var Jesaja um yður, er hann segir: 15.8 Lýður þessi heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér. 15.9 Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar.' 15.10 Og hann kallaði til sín mannfjöldann og sagði: 'Heyrið og skiljið. 15.11 Ekki saurgar það manninn, sem inn fer í munninn, hitt saurgar manninn, sem út fer af munni.' 15.12 Þá komu lærisveinar hans og sögðu við hann: 'Veistu, að farísearnir hneyksluðust, þegar þeir heyrðu orð þín?' 15.13 Hann svaraði: 'Sérhver jurt, sem faðir minn himneskur hefur eigi gróðursett, mun upprætt verða. 15.14 Látið þá eiga sig! Þeir eru blindir, leiðtogar blindra. Ef blindur leiðir blindan, falla báðir í gryfju.' 15.15 Þá sagði Pétur við hann: 'Skýrðu fyrir oss líkinguna.' 15.16 Hann svaraði: 'Eruð þér líka skilningslausir ennþá? 15.17 Skiljið þér ekki, að allt sem inn kemur í munninn, fer í magann og lendir síðan í safnþrónni? 15.18 En það sem út fer af munni, kemur frá hjartanu. Og slíkt saurgar manninn. 15.19 Því að frá hjartanu koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, ljúgvitni, lastmælgi. 15.20 Þetta er það, sem saurgar manninn. En að eta með óþvegnum höndum saurgar engan mann.' 15.21 Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar. 15.22 Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: 'Miskunna þú mér, herra, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.' 15.23 En hann svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: 'Láttu hana fara, hún eltir oss með hrópum.' 15.24 Hann mælti: 'Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt.' 15.25 Konan kom, laut honum og sagði: 'Herra, hjálpa þú mér!' 15.26 Hann svaraði: 'Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.' 15.27 Hún sagði: 'Satt er það, herra, þó eta hundarnir mola þá, sem falla af borðum húsbænda þeirra.' 15.28 Þá mælti Jesús við hana: 'Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.' Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu. 15.29 Þaðan fór Jesús og kom að Galíleuvatni. Og hann gekk upp á fjall og settist þar. 15.30 Menn komu til hans hópum saman og höfðu með sér halta menn og blinda, fatlaða, mállausa og marga aðra og lögðu þá fyrir fætur hans, og hann læknaði þá. 15.31 Fólkið undraðist, þegar það sá mállausa mæla, fatlaða heila, halta ganga og blinda sjá. Og þeir lofuðu Guð Ísraels. 15.32 Jesús kallaði til sín lærisveina sína og sagði: 'Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Þeir hafa nú hjá mér verið þrjá daga og hafa ekkert til matar. Ég vil ekki láta þá fara fastandi frá mér, þeir gætu örmagnast á leiðinni.' 15.33 Lærisveinarnir sögðu: 'Hvar fáum vér nóg brauð til að metta allt þetta fólk hér í óbyggðum?' 15.34 Jesús spyr: 'Hve mörg brauð hafið þér?' Þeir svara: 'Sjö, og fáeina smáfiska.' 15.35 Þá bauð hann fólkinu að setjast á jörðina, 15.36 tók brauðin sjö og fiskana, gjörði þakkir og braut þau og gaf lærisveinunum, en lærisveinarnir fólkinu. 15.37 Allir neyttu og urðu mettir. Síðan tóku þeir saman leifarnar, sjö körfur fullar. 15.38 En þeir, sem neytt höfðu, voru fjórar þúsundir karlmanna auk kvenna og barna. 15.39 Síðan lét hann fólkið fara, sté í bátinn og kom í Magadanbyggðir.
16.1 Þá komu farísear og saddúkear, vildu freista hans og báðu hann að sýna sér tákn af himni. 16.2 Hann svaraði þeim: 'Að kvöldi segið þér: ,Það verður góðviðri, því að roði er á lofti.` 16.3 Og að morgni: ,Illviðri í dag, himinninn er rauður og þungbúinn.` Útlit loftsins kunnið þér að ráða, en ekki tákn tímanna. 16.4 Vond og ótrú kynslóð heimtar tákn, en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar.' Síðan skildi hann við þá og fór. 16.5 Þegar lærisveinarnir fóru yfir um vatnið, höfðu þeir gleymt að taka með sér brauð. 16.6 Jesús sagði við þá: 'Gætið yðar, varist súrdeig farísea og saddúkea.' 16.7 En þeir ræddu sín á milli, að þeir hefðu ekki tekið brauð. 16.8 Jesús varð þess vís og sagði: 'Hvað eruð þér að tala um það, trúlitlir menn, að þér hafið ekki brauð? 16.9 Skynjið þér ekki enn? Minnist þér ekki brauðanna fimm handa fimm þúsundum og hve margar körfur þér tókuð saman? 16.10 Eða brauðanna sjö handa fjórum þúsundum og hve margar körfur þér tókuð saman? 16.11 Hvernig má það vera, að þér skynjið ekki, að ég var ekki að tala um brauð við yður. Varist súrdeig farísea og saddúkea.' 16.12 Þá skildu þeir, að hann hafði ekki talað um að varast súrdeig í brauði, heldur kenningu farísea og saddúkea. 16.13 Þegar Jesús kom í byggðir Sesareu Filippí, spurði hann lærisveina sína: 'Hvern segja menn Mannssoninn vera?' 16.14 Þeir svöruðu: 'Sumir Jóhannes skírara, aðrir Elía og enn aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum.' 16.15 Hann spyr: 'En þér, hvern segið þér mig vera?' 16.16 Símon Pétur svarar: 'Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.' 16.17 Þá segir Jesús við hann: 'Sæll ert þú, Símon Jónasson! Hold og blóð hefur ekki opinberað þér þetta, heldur faðir minn á himnum. 16.18 Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína, og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. 16.19 Ég mun fá þér lykla himnaríkis, og hvað sem þú bindur á jörðu, mun bundið á himnum, og hvað sem þú leysir á jörðu, mun leyst á himnum.' 16.20 Þá lagði hann ríkt á við lærisveinana að segja engum, að hann væri Kristur. 16.21 Upp frá þessu tók Jesús að sýna lærisveinum sínum fram á, að hann ætti að fara til Jerúsalem, líða þar margt af hendi öldunga, æðstu presta og fræðimanna og verða líflátinn, en rísa upp á þriðja degi. 16.22 En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann: 'Guð náði þig, herra, þetta má aldrei fyrir þig koma.' 16.23 Jesús sneri sér við og mælti til Péturs: 'Vík frá mér, Satan, þú ert mér til ásteytingar, þú hugsar ekki um það, sem Guðs er, heldur það, sem manna er.' 16.24 Þá mælti Jesús við lærisveina sína: 'Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. 16.25 Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, mun finna það. 16.26 Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína? 16.27 Mannssonurinn mun koma í dýrð föður síns með englum sínum, og þá mun hann gjalda sérhverjum eftir breytni hans. 16.28 Sannlega segi ég yður: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Mannssoninn koma í ríki sínu.'
17.1 Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans og fer með þá upp á hátt fjall, að þeir væru einir saman. 17.2 Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól, og klæði hans urðu björt eins og ljós. 17.3 Og Móse og Elía birtust þeim, og voru þeir á tali við hann. 17.4 Pétur tók til máls og sagði við Jesú: 'Herra, gott er, að vér erum hér. Ef þú vilt, skal ég gjöra hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.' 17.5 Meðan hann var enn að tala, skyggði yfir þá bjart ský, og rödd úr skýinu sagði: 'Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!' 17.6 Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta, féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. 17.7 Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: 'Rísið upp, og óttist ekki.' 17.8 En er þeir hófu upp augu sín, sáu þeir engan nema Jesú einan. 17.9 Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim og mælti: 'Segið engum frá sýninni, fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum.' 17.10 Lærisveinarnir spurðu hann: 'Hví segja fræðimennirnir, að Elía eigi fyrst að koma?' 17.11 Hann svaraði: 'Víst kemur Elía og færir allt í lag. 17.12 En ég segi yður: Elía er þegar kominn, og menn þekktu hann ekki, heldur gjörðu honum allt sem þeir vildu. Eins mun og Mannssonurinn píslir þola af hendi þeirra.' 17.13 Þá skildu lærisveinarnir, að hann hafði talað við þá um Jóhannes skírara. 17.14 Þegar þeir komu til fólksins, gekk til hans maður, féll á kné fyrir honum 17.15 og sagði: 'Herra, miskunna þú syni mínum. Hann er tunglsjúkur og illa haldinn. Oft fellur hann á eld og oft í vatn. 17.16 Ég fór með hann til lærisveina þinna, en þeir gátu ekki læknað hann.' 17.17 Jesús svaraði: 'Ó, þú vantrúa og rangsnúna kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður? Hversu lengi á ég að umbera yður? Færið hann hingað til mín.' 17.18 Og Jesús hastaði á hann og illi andinn fór úr honum. Og sveinninn varð heill frá þeirri stundu. 17.19 Þá komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu hann einslega: 'Hvers vegna gátum vér ekki rekið hann út?' 17.20 Hann svaraði þeim: 'Vegna þess að yður skortir trú. Sannlega segi ég yður: Ef þér hafið trú eins og mustarðskorn, getið þér sagt við fjall þetta: Flyt þig héðan og þangað, og það mun flytja sig. Ekkert verður yður um megn. [ 17.21 En þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn og föstu.]' 17.22 Þegar þeir voru saman í Galíleu, sagði Jesús við þá: 'Mannssonurinn verður framseldur í manna hendur, 17.23 og þeir munu lífláta hann, en á þriðja degi mun hann upp rísa.' Þeir urðu mjög hryggir. 17.24 Þá er þeir komu til Kapernaum, gengu menn þeir, sem heimta inn musterisgjaldið, til Péturs og spurðu: 'Geldur meistari yðar eigi musterisgjaldið?' 17.25 Hann kvað svo vera. En er hann kom inn, tók Jesús fyrr til máls og mælti: 'Hvað líst þér, Símon? Af hverjum heimta konungar jarðarinnar toll eða skatt? Af börnum sínum eða vandalausum?' 17.26 'Af vandalausum,' sagði Pétur. Jesús mælti: 'Þá eru börnin frjáls. 17.27 En til þess vér hneykslum þá ekki, skaltu fara niður að vatni og renna öngli, taktu síðan fyrsta fiskinn, sem þú dregur, opna munn hans og muntu finna pening. Tak hann og greið þeim fyrir mig og þig.'
18.1 Á þeirri stundu komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu: 'Hver er mestur í himnaríki?' 18.2 Hann kallaði til sín lítið barn, setti það meðal þeirra 18.3 og sagði: 'Sannlega segi ég yður: Nema þér snúið við og verðið eins og börn, komist þér aldrei í himnaríki. 18.4 Hver sem auðmýkir sjálfan sig eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki. 18.5 Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni, tekur við mér. 18.6 En hverjum þeim, sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem á mig trúa, væri betra að vera sökkt í sjávardjúp með mylnustein hengdan um háls. 18.7 Vei heiminum vegna ginninga hans. Hjá ginningum verður eigi komist, en vei þeim manni, sem veldur. 18.8 Ef hönd þín eða fótur tælir þig til falls, þá sníð hann af og kasta frá þér. Betra er þér handarvana eða höltum inn að ganga til lífsins en hafa báðar hendur og báða fætur og verða kastað í hinn eilífa eld. 18.9 Og ef auga þitt tælir þig til falls, þá ríf það úr og kasta frá þér. Betra er þér eineygðum inn að ganga til lífsins en hafa bæði augu og verða kastað í eldsvítið. 18.10 Varist að forsmá nokkurn þessara smælingja. Ég segi yður, að englar þeirra á himnum sjá jafnan auglit míns himneska föður. [ 18.11 Því að Mannssonurinn er kominn að frelsa hið týnda.] 18.12 Hvað virðist yður? Ef einhver á hundrað sauði og einn þeirra villist frá, skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í fjallinu og fer að leita þess, sem villtur er? 18.13 Og auðnist honum að finna hann, þá segi ég yður með sanni, að hann fagnar meir yfir honum en þeim níutíu og níu, sem villtust ekki frá. 18.14 Þannig er það eigi vilji yðar himneska föður, að nokkur þessara smælingja glatist. 18.15 Ef bróðir þinn syndgar [gegn þér], skaltu fara og tala um fyrir honum, og sé það ykkar einna í milli. Láti hann sér segjast, hefur þú unnið bróður þinn. 18.16 En láti hann sér ekki segjast, skaltu taka með þér einn eða tvo, að ,hvert orð sé staðfest með framburði tveggja eða þriggja vitna.` 18.17 Ef hann skeytir þeim ekki, þá seg það söfnuðinum, og skeyti hann ekki söfnuðinum heldur, þá sé hann þér sem heiðingi eða tollheimtumaður. 18.18 Sannlega segi ég yður: Hvað sem þér bindið á jörðu, mun bundið á himni, og hvað sem þér leysið á jörðu, mun leyst á himni. 18.19 Enn segi ég yður: Hverja þá bæn, sem tveir yðar verða einhuga um á jörðu, mun faðir minn á himnum veita þeim. 18.20 Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra.' 18.21 Þá gekk Pétur til hans og spurði: 'Herra, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum, ef hann misgjörir við mig? Svo sem sjö sinnum?' 18.22 Jesús svaraði: 'Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö. 18.23 Því að líkt er um himnaríki og konung, sem vildi láta þjóna sína gjöra skil. 18.24 Hann hóf reikningsskilin, og var færður til hans maður, er skuldaði tíu þúsund talentur. 18.25 Sá gat ekkert borgað, og bauð konungur þá, að hann skyldi seldur ásamt konu og börnum og öllu, sem hann átti, til lúkningar skuldinni. 18.26 Þá féll þjónninn til fóta honum og sagði: ,Haf biðlund við mig, og ég mun borga þér allt.` 18.27 Og herra þjónsins kenndi í brjósti um hann, lét hann lausan og gaf honum upp skuldina. 18.28 Þegar þjónn þessi kom út, hitti hann einn samþjón sinn, sem skuldaði honum hundrað denara. Hann greip hann, tók fyrir kverkar honum og sagði: ,Borga það, sem þú skuldar!` 18.29 Samþjónn hans féll þá til fóta honum og bað hann: ,Haf biðlund við mig, og ég mun borga þér.` 18.30 En hann vildi ekki, heldur fór og lét varpa honum í fangelsi, uns hann hefði borgað skuldina. 18.31 Þegar samþjónar hans sáu, hvað orðið var, urðu þeir mjög hryggir og sögðu herra sínum allt, sem gjörst hafði. 18.32 Konungurinn kallar þá þjóninn fyrir sig og segir við hann: ,Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp, af því að þú baðst mig. 18.33 Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum, eins og ég miskunnaði þér?` 18.34 Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum, uns hann hefði goldið allt, sem hann skuldaði honum. 18.35 Þannig mun og faðir minn himneskur gjöra við yður, nema hver og einn yðar fyrirgefi af hjarta bróður sínum.'
19.1 Þegar Jesús hafði mælt þessum orðum, fór hann úr Galíleu og hélt til byggða Júdeu handan Jórdanar. 19.2 Fjöldi manna fylgdi honum, og þar læknaði hann þá. 19.3 Þá komu til hans farísear og vildu freista hans. Þeir spurðu: 'Leyfist manni að skilja við konu sína fyrir hvaða sök sem er?' 19.4 Hann svaraði: 'Hafið þér eigi lesið, að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu 19.5 og sagði: ,Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður.` 19.6 Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður. Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.' 19.7 Þeir segja við hann: 'Hvers vegna bauð þá Móse að gefa konu skilnaðarbréf og skilja svo við hana?' 19.8 Hann svarar: 'Vegna harðúðar hjartna yðar leyfði Móse yður að skilja við konur yðar, en frá upphafi var þetta eigi þannig. 19.9 Ég segi yður: Sá sem skilur við konu sína nema sakir hórdóms og kvænist annarri, drýgir hór.' 19.10 Þá sögðu lærisveinar hans: 'Fyrst svo er háttað stöðu karls gagnvart konu, þá er ekki vænlegt að kvænast.' 19.11 Hann svaraði þeim: 'Þetta er ekki á allra færi, heldur þeirra einna, sem það er gefið. 19.12 Sumir eru vanhæfir til hjúskapar frá móðurlífi, sumir eru vanhæfir gjörðir af manna völdum, sumir hafa sjálfir gjört sig vanhæfa vegna himnaríkis. Sá höndli, sem höndlað fær.' 19.13 Þá færðu menn til hans börn, að hann legði hendur yfir þau og bæði fyrir þeim, en lærisveinar hans átöldu þá. 19.14 En Jesús sagði: 'Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er himnaríki.' 19.15 Og hann lagði hendur yfir þau og fór þaðan. 19.16 Þá kom til hans maður og spurði: 'Meistari, hvað gott á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?' 19.17 Jesús sagði við hann: 'Hví spyr þú mig um hið góða? Einn er sá hinn góði. Ef þú vilt inn ganga til lífsins, þá haltu boðorðin.' 19.18 Hann spurði: 'Hver?' Jesús sagði: 'Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, 19.19 heiðra föður þinn og móður, og þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.' 19.20 Þá sagði ungi maðurinn: 'Alls þessa hef ég gætt. Hvers er mér enn vant?' 19.21 Jesús sagði við hann: 'Ef þú vilt vera fullkominn, skaltu fara, selja eigur þínar og gefa fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan, og fylg mér.' 19.22 Þegar ungi maðurinn heyrði þessi orð, fór hann brott hryggur, enda átti hann miklar eignir. 19.23 En Jesús sagði við lærisveina sína: 'Sannlega segi ég yður: Torvelt verður auðmanni inn að ganga í himnaríki. 19.24 Enn segi ég: Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.' 19.25 Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta, urðu þeir steini lostnir og sögðu: 'Hver getur þá orðið hólpinn?' 19.26 Jesús horfði á þá og sagði: 'Fyrir mönnum eru engin ráð til þessa, en Guð megnar allt.' 19.27 Þá sagði Pétur við hann: 'Vér yfirgáfum allt og fylgdum þér. Hvað munum vér hljóta?' 19.28 Jesús sagði við þá: 'Sannlega segi ég yður: Þegar allt er orðið endurfætt og Mannssonurinn situr í dýrðarhásæti sínu, munuð þér, sem fylgið mér, einnig sitja í tólf hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels. 19.29 Og hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá margfalt aftur og öðlast eilíft líf. 19.30 En margir hinir fyrstu munu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir.
20.1 Líkt er um himnaríki og húsbónda einn, sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn. 20.2 Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun og sendi þá í víngarð sinn. 20.3 Síðan gekk hann út um dagmál og sá aðra menn standa á torginu iðjulausa. 20.4 Hann sagði við þá: ,Farið þér einnig í víngarðinn, og ég mun greiða yður sanngjörn laun.` 20.5 Þeir fóru. Aftur gekk hann út um hádegi og nón og gjörði sem fyrr. 20.6 Og síðdegis fór hann enn út og sá menn standa þar. Hann spyr þá: ,Hví hímið þér hér iðjulausir allan daginn?` 20.7 Þeir svara: ,Enginn hefur ráðið oss.` Hann segir við þá: ,Farið þér einnig í víngarðinn.` 20.8 Þegar kvöld var komið, sagði eigandi víngarðsins við verkstjóra sinn: ,Kalla þú á verkamennina og greið þeim kaupið. Þú skalt byrja á þeim síðustu og enda á þeim fyrstu.` 20.9 Nú komu þeir, sem ráðnir voru síðdegis, og fengu hver sinn denar. 20.10 Þegar þeir fyrstu komu, bjuggust þeir við að fá meira, en fengu sinn denarinn hver. 20.11 Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. 20.12 Þeir sögðu: ,Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund, og þú gjörir þá jafna oss, er höfum borið hita og þunga dagsins.` 20.13 Hann sagði þá við einn þeirra: ,Vinur, ekki gjöri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? 20.14 Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. 20.15 Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því, að ég er góðgjarn?` 20.16 Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.' 20.17 Jesús hélt nú upp til Jerúsalem, og á leiðinni tók hann þá tólf afsíðis og sagði við þá: 20.18 'Nú förum vér upp til Jerúsalem. Þar verður Mannssonurinn framseldur æðstu prestum og fræðimönnum. Þeir munu dæma hann til dauða 20.19 og framselja hann heiðingjum, að þeir hæði hann, húðstrýki og krossfesti. En á þriðja degi mun hann upp rísa.' 20.20 Þá kom til hans móðir þeirra Sebedeussona með sonum sínum, laut honum og vildi biðja hann bónar. 20.21 Hann spyr hana: 'Hvað viltu?' Hún segir: 'Lát þú þessa tvo syni mína sitja þér við hlið í ríki þínu, annan til hægri handar þér og hinn til vinstri.' 20.22 Jesús svarar: 'Þið vitið ekki, hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik, sem ég á að drekka?' Þeir segja við hann: 'Það getum við.' 20.23 Hann segir við þá: 'Kaleik minn munuð þið drekka. En mitt er ekki að veita, hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim, sem það er fyrirbúið af föður mínum.' 20.24 Þegar hinir tíu heyrðu þetta, gramdist þeim við bræðurna tvo. 20.25 En Jesús kallaði þá til sín og mælti: 'Þér vitið, að þeir, sem ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu. 20.26 En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar. 20.27 Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé þræll yðar, 20.28 eins og Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.' 20.29 Þegar þeir fóru frá Jeríkó, fylgdi honum mikill mannfjöldi. 20.30 Tveir menn blindir sátu þar við veginn. Þegar þeir heyrðu, að þar færi Jesús, hrópuðu þeir: 'Herra, miskunna þú okkur, sonur Davíðs!' 20.31 Fólkið hastaði á þá, að þeir þegðu, en þeir hrópuðu því meir: 'Herra, miskunna þú okkur, sonur Davíðs!' 20.32 Jesús nam staðar, kallaði á þá og sagði: 'Hvað viljið þið að ég gjöri fyrir ykkur?' 20.33 Þeir mæltu: 'Herra, lát augu okkar opnast.' 20.34 Jesús kenndi í brjósti um þá og snart augu þeirra. Jafnskjótt fengu þeir sjónina og fylgdu honum.
21.1 Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið, sendi Jesús tvo lærisveina 21.2 og sagði við þá: 'Farið í þorpið hér framundan ykkur, og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. 21.3 Ef einhver hefur orð um, þá svarið: ,Herrann þarf þeirra við,` og mun hann jafnskjótt senda þau.' 21.4 Þetta varð, svo að rættist það, sem sagt er fyrir munn spámannsins: 21.5 Segið dótturinni Síon: Sjá, konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna, fola undan áburðargrip. 21.6 Lærisveinarnir fóru og gjörðu sem Jesús hafði boðið þeim, 21.7 komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín, en hann steig á bak. 21.8 Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn, en aðrir hjuggu lim af trjánum og stráðu á veginn. 21.9 Og múgur sá, sem á undan fór og eftir fylgdi, hrópaði: 'Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!' 21.10 Þegar hann kom inn í Jerúsalem, varð öll borgin í uppnámi, og menn spurðu: 'Hver er hann?' 21.11 Fólkið svaraði: 'Það er spámaðurinn Jesús frá Nasaret í Galíleu.' 21.12 Þá gekk Jesús í helgidóminn og rak út alla, sem voru að selja þar og kaupa, hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna 21.13 og mælti við þá: 'Ritað er: ,Hús mitt á að vera bænahús,` en þér gjörið það að ræningjabæli.' 21.14 Blindir og haltir komu til hans í helgidóminum, og hann læknaði þá. 21.15 Æðstu prestarnir og fræðimennirnir sáu dásemdarverkin, sem hann gjörði, og heyrðu börnin hrópa í helgidóminum: 'Hósanna syni Davíðs!' Þeir urðu gramir við 21.16 og sögðu við hann: 'Heyrir þú, hvað þau segja?' Jesús svaraði þeim: 'Já, hafið þér aldrei lesið þetta: ,Af barna munni og brjóstmylkinga býrðu þér lof.'` 21.17 Og hann fór frá þeim og úr borginni til Betaníu og hafði þar náttstað. 21.18 Árla morguns hélt hann aftur til borgarinnar og kenndi hungurs. 21.19 Hann sá fíkjutré eitt við veginn og gekk að því, en fann þar ekkert nema blöðin tóm. Hann segir við það: 'Aldrei framar vaxi ávöxtur á þér að eilífu.' En fíkjutréð visnaði þegar í stað. 21.20 Lærisveinarnir sáu þetta, undruðust og sögðu: 'Hvernig gat fíkjutréð visnað svo fljótt?' 21.21 Jesús svaraði þeim: 'Sannlega segi ég yður: Ef þér eigið trú og efist ekki, getið þér ekki aðeins gjört slíkt sem fram kom við fíkjutréð. Þér gætuð enda sagt við fjall þetta: ,Lyft þér upp, og steyp þér í hafið,` og svo mundi fara. 21.22 Allt sem þér biðjið í bæn yðar, munuð þér öðlast, ef þér trúið.' 21.23 Hann gekk í helgidóminn. Þá komu æðstu prestarnir og öldungar lýðsins til hans, þar sem hann var að kenna, og spurðu: 'Með hvaða valdi gjörir þú þetta? Hver gaf þér þetta vald?' 21.24 Jesús svaraði þeim: 'Ég vil og leggja eina spurningu fyrir yður. Ef þér svarið mér, mun ég segja yður, með hvaða valdi ég gjöri þetta. 21.25 Hvaðan var skírn Jóhannesar? Frá himni eða frá mönnum?' Þeir ráðguðust hver við annan og sögðu: 'Ef vér svörum: ,Frá himni,` spyr hann: ,Hví trúðuð þér honum þá ekki?` 21.26 Ef vér segjum: ,Frá mönnum,` megum vér óttast lýðinn, því að allir telja Jóhannes spámann.' 21.27 Og þeir svöruðu Jesú: 'Vér vitum það ekki.' Hann sagði við þá: 'Ég segi yður þá ekki heldur, með hvaða valdi ég gjöri þetta. 21.28 Hvað virðist yður? Maður nokkur átti tvo sonu. Hann gekk til hins fyrra og sagði: ,Sonur minn, far þú og vinn í dag í víngarði mínum.` 21.29 Hann svaraði: ,Það vil ég ekki.` En eftir á sá hann sig um hönd og fór. 21.30 Þá gekk hann til hins síðara og mælti á sömu leið. Hann svaraði: ,Já, herra,` en fór hvergi. 21.31 Hvor þeirra tveggja gjörði vilja föðurins?' Þeir svara: 'Sá fyrri.' Þá mælti Jesús: 'Sannlega segi ég yður: Tollheimtumenn og skækjur verða á undan yður inn í Guðs ríki. 21.32 Því að Jóhannes kom til yðar og vísaði veg réttlætis, og þér trúðuð honum ekki, en tollheimtumenn og skækjur trúðu honum. Það sáuð þér, en snerust samt ekki síðar og trúðuð honum. 21.33 Heyrið aðra dæmisögu: Landeigandi nokkur plantaði víngarð. Hann hlóð garð um hann, gróf fyrir vínþröng og reisti turn, seldi hann síðan vínyrkjum á leigu og fór úr landi. 21.34 Þegar ávaxtatíminn nálgaðist, sendi hann þjóna sína til vínyrkjanna að fá ávöxt sinn. 21.35 En vínyrkjarnir tóku þjóna hans, börðu einn, drápu annan og grýttu hinn þriðja. 21.36 Aftur sendi hann aðra þjóna, fleiri en þá fyrri, og eins fóru þeir með þá. 21.37 Síðast sendi hann til þeirra son sinn og sagði: 'Þeir munu virða son minn. 21.38 Þegar vínyrkjarnir sáu soninn, sögðu þeir sín á milli: ,Þetta er erfinginn. Förum og drepum hann, og náum arfi hans.` 21.39 Og þeir tóku hann, köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann. 21.40 Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra við vínyrkja þessa, þegar hann kemur?' 21.41 Þeir svara: 'Þeim vondu mönnum mun hann vægðarlaust tortíma og selja víngarðinn öðrum vínyrkjum á leigu, sem gjalda honum ávöxtinn á réttum tíma.' 21.42 Og Jesús segir við þá: 'Hafið þér aldrei lesið í ritningunum: Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn hyrningarsteinn. Þetta er verk Drottins, og undursamlegt er það í augum vorum. 21.43 Þess vegna segi ég yður: Guðs ríki verður frá yður tekið og gefið þeirri þjóð, sem ber ávexti þess. [ 21.44 Sá sem fellur á þennan stein, mun sundur molast, og þann sem hann fellur á, mun hann sundur merja.]' 21.45 Þegar æðstu prestarnir og farísearnir heyrðu dæmisögur hans, skildu þeir, að hann átti við þá. 21.46 Þeir vildu taka hann höndum, en óttuðust fólkið, þar eð menn töldu hann vera spámann.
22.1 Þá tók Jesús enn að tala við þá í dæmisögum og mælti: 22.2 'Líkt er um himnaríki og konung einn, sem gjörði brúðkaup sonar síns. 22.3 Hann sendi þjóna sína að kalla til brúðkaupsins þá, sem boðnir voru, en þeir vildu ekki koma. 22.4 Aftur sendi hann aðra þjóna og mælti: ,Segið þeim, sem boðnir voru: Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað, og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið.` 22.5 En þeir skeyttu því ekki. Einn fór á akur sinn, annar til kaupskapar síns, 22.6 en hinir tóku þjóna hans, misþyrmdu þeim og drápu. 22.7 Konungur reiddist, sendi út her sinn og lét tortíma morðingjum þessum og brenna borg þeirra. 22.8 Síðan segir hann við þjóna sína: ,Brúðkaupsveislan er tilbúin, en hinir boðnu voru ekki verðugir. 22.9 Farið því út á vegamót, og bjóðið í brúðkaupið hverjum þeim sem þér finnið.` 22.10 Þjónarnir fóru út á vegina og söfnuðu öllum, sem þeir fundu, vondum og góðum, svo að brúðkaupssalurinn varð alskipaður gestum. 22.11 Konungur gekk þá inn að sjá gestina og leit þar mann, sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum. 22.12 Hann segir við hann: ,Vinur, hvernig ert þú hér kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum?` Maðurinn gat engu svarað. 22.13 Konungur sagði þá við þjóna sína: ,Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.` 22.14 Því að margir eru kallaðir, en fáir útvaldir.' 22.15 Þá gengu farísearnir burt og tóku saman ráð sín, hvernig þeir gætu flækt hann í orðum. 22.16 Þeir senda til hans lærisveina sína ásamt Heródesarsinnum, og þeir segja: 'Meistari, vér vitum, að þú ert sannorður og kennir Guðs veg í sannleika, þú hirðir ekki um álit neins, enda gjörir þú þér engan mannamun. 22.17 Seg oss því, hvað þér líst? Leyfist að gjalda keisaranum skatt eða ekki?' 22.18 Jesús þekkti illsku þeirra og sagði: 'Hví freistið þér mín, hræsnarar? 22.19 Sýnið mér peninginn, sem goldinn er í skatt.' Þeir fengu honum denar. 22.20 Hann spyr: 'Hvers mynd og yfirskrift er þetta?' 22.21 Þeir svara: 'Keisarans.' Hann segir: 'Gjaldið þá keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er.' 22.22 Þegar þeir heyrðu þetta, undruðust þeir, og þeir yfirgáfu hann og gengu burt. 22.23 Sama dag komu til hans saddúkear, en þeir neita því, að upprisa sé til, og sögðu við hann: 22.24 'Meistari, Móse segir: ,Deyi maður barnlaus, þá skal bróðir hans ganga að eiga konu bróður síns og vekja honum niðja.` 22.25 Hér voru með oss sjö bræður. Sá fyrsti kvæntist og dó. Hann átti engan niðja og eftirlét því bróður sínum konuna. 22.26 Eins varð um næsta og þriðja og þá alla sjö. 22.27 Síðast allra dó konan. 22.28 Kona hvers þeirra sjö verður hún í upprisunni? Allir höfðu þeir átt hana.' 22.29 En Jesús svaraði þeim: 'Þér villist, því að þér þekkið ekki ritningarnar né mátt Guðs. 22.30 Í upprisunni kvænast menn hvorki né giftast. Þeir eru sem englar á himni. 22.31 En um upprisu dauðra hafið þér ekki lesið það sem Guð segir við yður: 22.32 ,Ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.` Ekki er hann Guð dauðra, heldur lifenda.' 22.33 En mannfjöldinn hlýddi á og undraðist mjög kenningu hans. 22.34 Þegar farísear heyrðu, að hann hafði gjört saddúkea orðlausa, komu þeir saman. 22.35 Og einn þeirra, sem var lögvitringur, vildi freista hans og spurði: 22.36 'Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?' 22.37 Hann svaraði honum: ',Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.` 22.38 Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. 22.39 Annað er þessu líkt: ,Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.` 22.40 Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.' 22.41 Meðan farísearnir voru saman komnir, spurði Jesús þá: 22.42 'Hvað virðist yður um Krist? Hvers son er hann?' Þeir svara: 'Davíðs.' 22.43 Hann segir: 'Hvernig getur þá Davíð, innblásinn andanum, kallað hann drottin? Hann segir: 22.44 Drottinn sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar, þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni. 22.45 Fyrst Davíð kallar hann drottin, hvernig getur hann þá verið sonur hans?' 22.46 Enginn gat svarað honum einu orði, og frá þeim degi þorði enginn að spyrja hann neins framar.
23.1 Þá talaði Jesús til mannfjöldans og lærisveina sinna: 23.2 'Á stóli Móse sitja fræðimenn og farísear. 23.3 Því skuluð þér gjöra og halda allt, sem þeir segja yður, en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara, því þeir breyta ekki sem þeir bjóða. 23.4 Þeir binda þungar byrðar og leggja mönnum á herðar, en sjálfir vilja þeir ekki snerta þær einum fingri. 23.5 Öll sín verk gjöra þeir til að sýnast fyrir mönnum, þeir breikka minnisborða sína og stækka skúfana. 23.6 Ljúft er þeim að skipa hefðarsæti í veislum og æðsta bekk í samkundum, 23.7 láta heilsa sér á torgum og kallast meistarar af mönnum. 23.8 En þér skuluð ekki láta kalla yður meistara, því einn er yðar meistari og þér allir bræður. 23.9 Þér skuluð ekki kalla neinn föður yðar á jörðu, því einn er faðir yðar, sá sem er á himnum. 23.10 Þér skuluð ekki heldur láta kalla yður leiðtoga, því einn er leiðtogi yðar, Kristur. 23.11 Sá mesti meðal yðar sé þjónn yðar. 23.12 Hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða. 23.13 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér læsið himnaríki fyrir mönnum. Sjálfir gangið þér ekki þar inn, og þeim, sem inn vilja ganga, leyfið þér eigi inn að komast. [ 23.14 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér etið upp heimili ekkna og flytjið langar bænir að yfirskini. Þér munuð fá því þyngri dóm.] 23.15 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér farið um láð og lög til að snúa einum til yðar trúar, og þegar það tekst, gjörið þér hann hálfu verra vítisbarn en þér sjálfir eruð. 23.16 Vei yður, blindir leiðtogar! Þér segið: ,Ef einhver sver við musterið, þá er það ógilt, en sverji menn við gullið í musterinu, þá er það gildur eiður.` 23.17 Blindu heimskingjar, hvort er meira gullið eða musterið, sem helgar gullið? 23.18 Þér segið: ,Ef einhver sver við altarið, þá er það ógilt, en sverji menn við fórnina, sem á því er, þá er það gildur eiður.` 23.19 Blindu menn, hvort er meira fórnin eða altarið, sem helgar fórnina? 23.20 Sá sem sver við altarið, sver við það og allt, sem á því er. 23.21 Sá sem sver við musterið, sver við það og við þann, sem í því býr. 23.22 Og sá sem sver við himininn, sver við hásæti Guðs og við þann, sem í því situr. 23.23 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér gjaldið tíund af myntu, anís og kúmeni, en hirðið ekki um það, sem mikilvægast er í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti. Þetta ber að gjöra og hitt eigi ógjört að láta. 23.24 Blindu leiðtogar, þér síið mýfluguna, en svelgið úlfaldann! 23.25 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér hreinsið bikarinn og diskinn utan, en innan eru þeir fullir yfirgangs og óhófs. 23.26 Blindi farísei, hreinsaðu fyrst bikarinn innan, að hann verði líka hreinn að utan. 23.27 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér líkist hvítum kölkuðum gröfum, sem sýnast fagrar utan, en innan eru fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra. 23.28 Þannig eruð þér, sýnist hið ytra réttlátir í augum manna, en eruð hið innra fullir hræsni og ranglætis. 23.29 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér hlaðið upp grafir spámannanna og skreytið leiði hinna réttlátu 23.30 og segið: Ef vér hefðum lifað á dögum feðra vorra, hefðum vér ekki átt hlut með þeim í lífláti spámannanna. 23.31 Þannig vitnið þér sjálfir um yður, að þér eruð synir þeirra, sem myrtu spámennina. 23.32 Nú skuluð þér fylla mæli feðra yðar. 23.33 Höggormar og nöðru kyn, hvernig fáið þér umflúið helvítisdóm? 23.34 Þess vegna sendi ég til yðar spámenn, spekinga og fræðimenn. Suma þeirra munuð þér lífláta og krossfesta, aðra húðstrýkja í samkundum yðar og ofsækja borg úr borg. 23.35 Þannig kemur yfir yður allt saklaust blóð, sem úthellt hefur verið á jörðinni, frá blóði Abels hins réttláta til blóðs Sakaría Barakíasonar, sem þér drápuð milli musterisins og altarisins. 23.36 Sannlega segi ég yður: Allt mun þetta koma yfir þessa kynslóð. 23.37 Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi. 23.38 Hús yðar verður í eyði látið. 23.39 Ég segi yður: Héðan af munuð þér eigi sjá mig, fyrr en þér segið: ,Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins.'`
24.1 Jesús gekk út úr helgidóminum og hélt brott. Þá komu lærisveinar hans og vildu sýna honum byggingar helgidómsins. 24.2 Hann sagði við þá: 'Þér sjáið allt þetta? Sannlega segi ég yður, hér mun ekki eftir látinn steinn yfir steini, er eigi sé niður brotinn.' 24.3 Þá er hann sat á Olíufjallinu, gengu lærisveinarnir til hans og spurðu hann einslega: 'Seg þú oss, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?' 24.4 Jesús svaraði þeim: 'Varist að láta nokkurn leiða yður í villu. 24.5 Margir munu koma í mínu nafni og segja: ,Ég er Kristur!` og marga munu þeir leiða í villu. 24.6 Þér munuð spyrja hernað og ófriðartíðindi. Gætið þess, að skelfast ekki. Þetta á að verða, en endirinn er ekki þar með kominn. 24.7 Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verður hungur og landskjálftar á ýmsum stöðum. 24.8 Allt þetta er upphaf fæðingarhríðanna. 24.9 Þá munu menn framselja yður til pyndinga og taka af lífi, og allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns. 24.10 Margir munu þá falla frá og framselja hver annan og hata. 24.11 Fram munu koma margir falsspámenn og leiða marga í villu. 24.12 Og vegna þess að lögleysi magnast, mun kærleikur flestra kólna. 24.13 En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða. 24.14 Og þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma. 24.15 Þegar þér sjáið viðurstyggð eyðingarinnar, sem Daníel spámaður talar um, standa á helgum stað,' _ lesandinn athugi það _ 24.16 'þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla. 24.17 Sá sem er uppi á þaki, fari ekki ofan að sækja neitt í hús sitt. 24.18 Og sá sem er á akri, skal ekki hverfa aftur að taka yfirhöfn sína. 24.19 Vei þeim sem þungaðar eru eða börn hafa á brjósti á þeim dögum. 24.20 Biðjið, að flótti yðar verði ekki um vetur eða á hvíldardegi. 24.21 Þá verður sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða. 24.22 Ef dagar þessir hefðu ekki verið styttir, kæmist enginn maður af. En vegna hinna útvöldu munu þeir dagar styttir verða. 24.23 Ef einhver segir þá við yður: ,Hér er Kristur` eða ,þar`, þá trúið því ekki. 24.24 Því að fram munu koma falskristar og falsspámenn, og þeir munu gjöra stór tákn og undur til að leiða afvega jafnvel hina útvöldu, ef orðið gæti. 24.25 Sjá, ég hef sagt yður það fyrir. 24.26 Ef þeir segja við yður: ,Sjá, hann er í óbyggðum,` þá farið ekki þangað. Ef þeir segja: ,Sjá, hann er í leynum,` þá trúið því ekki. 24.27 Eins og elding sem leiftrar frá austri til vesturs, svo mun verða koma Mannssonarins. 24.28 Þar munu ernirnir safnast, sem hræið er. 24.29 En þegar eftir þrenging þessara daga mun sólin sortna og tunglið hætta að skína. Stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna bifast. 24.30 Þá mun tákn Mannssonarins birtast á himni, og allar kynkvíslir jarðarinnar hefja kveinstafi. Og menn munu sjá Mannssoninn koma á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð. 24.31 Hann mun senda út engla sína með hvellum lúðri, og þeir munu safna hans útvöldu úr áttunum fjórum, himinskauta milli. 24.32 Nemið líkingu af fíkjutrénu. Þegar greinar þess fara að mýkjast og laufið að springa út, þá vitið þér, að sumar er í nánd. 24.33 Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið allt þetta, að hann er í nánd, fyrir dyrum. 24.34 Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram. 24.35 Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða. 24.36 En þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn. 24.37 Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins. 24.38 Dagana fyrir flóðið átu menn og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina. 24.39 Og þeir vissu ekki, fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt. Eins verður við komu Mannssonarins. 24.40 Þá verða tveir á akri, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn. 24.41 Tvær munu mala á kvörn, önnur verður tekin, hin eftir skilin. 24.42 Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur. 24.43 Það skiljið þér, að húsráðandi vekti og léti ekki brjótast inn í hús sitt, ef hann vissi á hvaða stundu nætur þjófurinn kæmi. 24.44 Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi. 24.45 Hver er sá trúi og hyggni þjónn, sem húsbóndinn hefur sett yfir hjú sín að gefa þeim mat á réttum tíma? 24.46 Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur. 24.47 Sannlega segi ég yður: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar. 24.48 En ef illur þjónn segir í hjarta sínu: ,Húsbónda mínum dvelst,` 24.49 og hann tekur að berja samþjóna sína og eta og drekka með svöllurum, 24.50 þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi, sem hann væntir ekki, á þeirri stundu, sem hann veit ekki, 24.51 höggva hann og láta hann fá hlut með hræsnurum. Þar verður grátur og gnístran tanna.
25.1 Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar, sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. 25.2 Fimm þeirra voru fávísar, en fimm hyggnar. 25.3 Þær fávísu tóku lampa sína, en höfðu ekki olíu með sér, 25.4 en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum. 25.5 Nú dvaldist brúðgumanum, og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu. 25.6 Um miðnætti kvað við hróp: ,Sjá, brúðguminn kemur, farið til móts við hann.` 25.7 Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína. 25.8 En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: ,Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum.` 25.9 Þær hyggnu svöruðu: ,Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður.` 25.10 Meðan þær voru að kaupa, kom brúðguminn, og þær sem viðbúnar voru, gengu með honum inn til brúðkaupsins, og dyrum var lokað. 25.11 Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: ,Herra, herra, ljúk upp fyrir oss.` 25.12 En hann svaraði: ,Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.` 25.13 Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina. 25.14 Svo er um himnaríki sem mann, er ætlaði úr landi. Hann kallaði þjóna sína og fól þeim eigur sínar. 25.15 Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi. 25.16 Sá sem fékk fimm talentur, fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm. 25.17 Eins gjörði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær. 25.18 En sá sem fékk eina, fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það. 25.19 Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gjöra skil. 25.20 Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: ,Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm.` 25.21 Húsbóndi hans sagði við hann: ,Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.` 25.22 Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: ,Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær.` 25.23 Og húsbóndi hans sagði við hann: ,Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.` 25.24 Loks kom sá er fékk eina talentu, og sagði: ,Herra, ég vissi, að þú ert maður harður, sem uppsker þar, sem þú sáðir ekki, og safnar þar, sem þú stráðir ekki. 25.25 Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt.` 25.26 Og húsbóndi hans sagði við hann: ,Illi og lati þjónn, þú vissir, að ég uppsker þar, sem ég sáði ekki, og safna þar, sem ég stráði ekki. 25.27 Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum, þegar ég kom heim. 25.28 Takið af honum talentuna, og fáið þeim, sem hefur tíu talenturnar. 25.29 Því að hverjum sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur. 25.30 Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.` 25.31 Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. 25.32 Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. 25.33 Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri. 25.34 Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: ,Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims. 25.35 Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig, 25.36 nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín.` 25.37 Þá munu þeir réttlátu segja: ,Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka? 25.38 Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig? 25.39 Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín?` 25.40 Konungurinn mun þá svara þeim: ,Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.` 25.41 Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: ,Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans. 25.42 Því hungraður var ég, en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég, en þér gáfuð mér ekki að drekka, 25.43 gestur var ég, en þér hýstuð mig ekki, nakinn, en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi, en ekki vitjuðuð þér mín.` 25.44 Þá munu þeir svara: ,Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi, og hjálpuðum þér ekki?` 25.45 Hann mun þá svara þeim: ,Sannlega segi ég yður: Það allt sem þér gjörðuð ekki einum hinna minnstu bræðra minna, það hafið þér ekki heldur gjört mér.` 25.46 Og þeir munu fara til eilífrar refsingar, en hinir réttlátu til eilífs lífs.'
26.1 Þegar Jesús hafði lokið öllum þessum orðum, sagði hann við lærisveina sína: 26.2 'Þér vitið, að eftir tvo daga eru páskar. Þá verður Mannssonurinn framseldur til krossfestingar.' 26.3 Æðstu prestarnir og öldungar lýðsins söfnuðust nú saman í höll æðsta prestsins, er Kaífas hét, 26.4 og réðu með sér að handsama Jesú með svikum og taka hann af lífi. 26.5 En þeir sögðu: 'Ekki á hátíðinni, annars verður uppþot með lýðnum.' 26.6 En Jesús var í Betaníu, í húsi Símonar líkþráa. 26.7 Kom þá til hans kona og hafði alabastursbuðk með dýrum smyrslum og hellti yfir höfuð honum, þar sem hann sat að borði. 26.8 Við þessa sjón urðu lærisveinarnir gramir og sögðu: 'Til hvers er þessi sóun? 26.9 Þetta hefði mátt selja dýru verði og gefa fátækum.' 26.10 Jesús varð þess vís og sagði við þá: 'Hvað eruð þér að angra konuna? Gott verk gjörði hún mér. 26.11 Fátæka hafið þér jafnan hjá yður, en mig hafið þér ekki ávallt. 26.12 Þegar hún hellti þessum smyrslum yfir líkama minn, var hún að búa mig til greftrunar. 26.13 Sannlega segi ég yður: Hvar sem fagnaðarerindi þetta verður flutt, um heim allan, mun þess og getið verða, sem hún gjörði, til minningar um hana.' 26.14 Þá fór einn þeirra tólf, Júdas Ískaríot að nafni, til æðstu prestanna 26.15 og sagði: 'Hvað viljið þér gefa mér fyrir að framselja yður Jesú?' En þeir greiddu honum þrjátíu silfurpeninga. 26.16 Upp frá þessu leitaði hann færis að framselja hann. 26.17 Á fyrsta degi ósýrðu brauðanna komu lærisveinarnir til Jesú og sögðu: 'Hvar vilt þú, að vér búum þér páskamáltíðina?' 26.18 Hann mælti: 'Farið til ákveðins manns í borginni, og segið við hann: ,Meistarinn segir: Minn tími er í nánd, hjá þér vil ég halda páska með lærisveinum mínum.'` 26.19 Lærisveinarnir gjörðu sem Jesús bauð þeim og bjuggu til páskamáltíðar. 26.20 Um kvöldið sat hann til borðs með þeim tólf. 26.21 Og er þeir mötuðust, sagði hann: 'Sannlega segi ég yður: Einn af yður mun svíkja mig.' 26.22 Þeir urðu mjög hryggir og sögðu við hann, einn af öðrum: 'Ekki er það ég, herra?' 26.23 Hann svaraði þeim: 'Sá sem dýfði hendi í fatið með mér, mun svíkja mig. 26.24 Mannssonurinn fer að sönnu héðan, svo sem um hann er ritað, en vei þeim manni, sem því veldur, að Mannssonurinn verður framseldur. Betra væri þeim manni að hafa aldrei fæðst.' 26.25 En Júdas, sem sveik hann, sagði: 'Rabbí, ekki er það ég?' Jesús svaraði: 'Þú sagðir það.' 26.26 Þá er þeir mötuðust, tók Jesús brauð, þakkaði Guði, braut það og gaf lærisveinunum og sagði: 'Takið og etið, þetta er líkami minn.' 26.27 Og hann tók kaleik, gjörði þakkir, gaf þeim og sagði: 'Drekkið allir hér af. 26.28 Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda. 26.29 Ég segi yður: Héðan í frá mun ég eigi drekka af þessum vínviðar ávexti til þess dags, er ég drekk hann nýjan með yður í ríki föður míns.' 26.30 Þegar þeir höfðu sungið lofsönginn, fóru þeir til Olíufjallsins. 26.31 Þá segir Jesús við þá: 'Á þessari nóttu munuð þér allir hneykslast á mér, því að ritað er: ,Ég mun slá hirðinn, og sauðir hjarðarinnar munu tvístrast.` 26.32 En eftir að ég er upp risinn, mun ég fara á undan yður til Galíleu.' 26.33 Þá segir Pétur: 'Þótt allir hneykslist á þér, skal ég aldrei hneykslast.' 26.34 Jesús sagði við hann: 'Sannlega segi ég þér: Á þessari nóttu, áður en hani galar, muntu þrisvar afneita mér.' 26.35 Pétur svarar: 'Þótt ég ætti að deyja með þér, þá mun ég aldrei afneita þér.' Eins töluðu allir lærisveinarnir. 26.36 Þá kemur Jesús með þeim til staðar, er heitir Getsemane, og hann segir við lærisveinana: 'Setjist hér, meðan ég fer og biðst fyrir þarna.' 26.37 Hann tók með sér þá Pétur og báða sonu Sebedeusar. Og nú setti að honum hryggð og angist. 26.38 Hann segir við þá: 'Sál mín er hrygg allt til dauða. Bíðið hér og vakið með mér.' 26.39 Þá gekk hann lítið eitt áfram, féll fram á ásjónu sína, baðst fyrir og sagði: 'Faðir minn, ef verða má, þá fari þessi kaleikur fram hjá mér. Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt.' 26.40 Hann kemur aftur til lærisveinanna og finnur þá sofandi. Þá sagði hann við Pétur: 'Þér gátuð þá ekki vakað með mér eina stund? 26.41 Vakið og biðjið, að þér fallið ekki í freistni. Andinn er reiðubúinn, en holdið veikt.' 26.42 Aftur vék hann brott annað sinn og bað: 'Faðir minn, ef eigi verður hjá því komist, að ég drekki þennan kaleik, þá verði þinn vilji.' 26.43 Þegar hann kom aftur, fann hann þá enn sofandi, því drungi var á augum þeirra. 26.44 Þá fór hann enn frá þeim og baðst fyrir þriðja sinn með sömu orðum og fyrr. 26.45 Og hann kom til lærisveinanna og sagði við þá: 'Sofið þér enn og hvílist? Sjá, stundin er komin og Mannssonurinn er framseldur í hendur syndugra manna. 26.46 Standið upp, förum! Í nánd er sá, er mig svíkur.' 26.47 Meðan hann var enn að tala, kom Júdas, einn þeirra tólf, og með honum mikill flokkur frá æðstu prestunum og öldungum lýðsins, og höfðu þeir sverð og barefli. 26.48 Svikarinn hafði sagt þeim þetta til marks: 'Sá sem ég kyssi, hann er það. Takið hann höndum.' 26.49 Hann gekk beint að Jesú og sagði: 'Heill, rabbí!' og kyssti hann. 26.50 Jesús sagði við hann: 'Vinur, hví ertu hér?' Þá komu hinir, lögðu hendur á Jesú og tóku hann. 26.51 Einn þeirra, sem með Jesú voru, greip til sverðs og brá því, hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum eyrað. 26.52 Jesús sagði við hann: 'Slíðra sverð þitt! Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla. 26.53 Hyggur þú, að ég geti ekki beðið föður minn að senda mér nú meira en tólf sveitir engla? 26.54 Hvernig ættu þá ritningarnar að rætast, sem segja, að þetta eigi svo að verða?' 26.55 Á þeirri stundu sagði Jesús við flokkinn: 'Eruð þér að fara að mér með sverðum og bareflum eins og gegn ræningja til að handtaka mig? Daglega sat ég í helgidóminum og kenndi, og þér tókuð mig ekki höndum. 26.56 En allt verður þetta til þess, að ritningar spámannanna rætist.' Þá yfirgáfu hann lærisveinarnir allir og flýðu. 26.57 Þeir sem tóku Jesú höndum, færðu hann til Kaífasar, æðsta prests, en þar voru saman komnir fræðimennirnir og öldungarnir. 26.58 Pétur fylgdi honum álengdar, allt að garði æðsta prestsins. Þar gekk hann inn og settist hjá þjónunum til að sjá, hver yrði endir á. 26.59 Æðstu prestarnir og allt ráðið leituðu ljúgvitnis gegn Jesú til að geta líflátið hann, 26.60 en fundu ekkert, þótt margir ljúgvottar kæmu. Loks komu tveir 26.61 og sögðu: 'Þessi maður sagði: ,Ég get brotið niður musteri Guðs og reist það aftur á þrem dögum.'` 26.62 Þá stóð æðsti presturinn upp og sagði: 'Svarar þú því engu, sem þessir vitna gegn þér?' 26.63 En Jesús þagði. Þá sagði æðsti presturinn við hann: 'Ég særi þig við lifandi Guð, segðu oss: Ertu Kristur, sonur Guðs?' 26.64 Jesús svarar honum: 'Þú sagðir það. En ég segi yður: Upp frá þessu munuð þér sjá Mannssoninn sitja til hægri handar máttarins og koma á skýjum himins.' 26.65 Þá reif æðsti presturinn klæði sín og sagði: 'Hann guðlastar, hvað þurfum vér nú framar votta við? Þér heyrðuð guðlastið. 26.66 Hvað líst yður?' Þeir svöruðu: 'Hann er dauðasekur.' 26.67 Og þeir hræktu í andlit honum og slógu hann með hnefunum, en aðrir börðu hann með stöfum 26.68 og sögðu: 'Spáðu nú, Kristur, hver var að slá þig?' 26.69 En Pétur sat úti í garðinum. Þar kom að honum þerna ein og sagði: 'Þú varst líka með Jesú frá Galíleu.' 26.70 Því neitaði hann svo allir heyrðu og sagði: 'Ekki veit ég, hvað þú ert að fara.' 26.71 Hann gekk út í fordyrið. Þar sá hann önnur þerna og sagði við þá, sem þar voru: 'Þessi var með Jesú frá Nasaret.' 26.72 En hann neitaði sem áður og sór þess eið, að hann þekkti ekki þann mann. 26.73 Litlu síðar komu þeir, er þar stóðu, og sögðu við Pétur: 'Víst ertu líka einn af þeim, enda segir málfæri þitt til þín.' 26.74 En hann sór og sárt við lagði, að hann þekkti ekki manninn. Um leið gól hani. 26.75 Og Pétur minntist þess, er Jesús hafði mælt: 'Áður en hani galar, muntu þrisvar afneita mér.' Og hann gekk út og grét beisklega.
27.1 Að morgni gjörðu allir æðstu prestarnir og öldungar lýðsins samþykkt gegn Jesú, að hann skyldi af lífi tekinn. 27.2 Þeir létu binda hann og færa brott og framseldu hann Pílatusi landshöfðingja. 27.3 Þegar Júdas, sem sveik hann, sá, að hann var dæmdur sekur, iðraðist hann og skilaði æðstu prestunum og öldungunum silfurpeningunum þrjátíu 27.4 og mælti: 'Ég drýgði synd, ég sveik saklaust blóð.' Þeir sögðu: 'Hvað varðar oss um það? Það er þitt að sjá fyrir því.' 27.5 Hann fleygði þá silfrinu inn í musterið og hélt brott. Síðan fór hann og hengdi sig. 27.6 Æðstu prestarnir tóku silfrið og sögðu: 'Ekki má láta það í guðskistuna, því þetta eru blóðpeningar.' 27.7 Og þeir urðu ásáttir um að kaupa fyrir þá leirkerasmiðs akurinn til grafreits handa útlendingum. 27.8 Þess vegna kallast hann enn í dag Blóðreitur. 27.9 Þá rættist það, sem sagt var fyrir munn Jeremía spámanns: 'Þeir tóku silfurpeningana þrjátíu, það verð, sem sá var metinn á, er til verðs var lagður af Ísraels sonum, 27.10 og keyptu fyrir þá leirkerasmiðs akurinn eins og Drottinn hafði fyrir mig lagt.' 27.11 Jesús kom nú fyrir landshöfðingjann. Landshöfðinginn spurði hann: 'Ert þú konungur Gyðinga?' Jesús svaraði: 'Þú segir það.' 27.12 Æðstu prestarnir og öldungarnir báru á hann sakir, en hann svaraði engu. 27.13 Þá spurði Pílatus hann: 'Heyrir þú ekki, hve mjög þeir vitna gegn þér?' 27.14 En hann svaraði honum ekki, engu orði hans, og undraðist landshöfðinginn mjög. 27.15 Á hátíðinni var landshöfðinginn vanur að gefa lýðnum lausan einn bandingja, þann er þeir vildu. 27.16 Þá var þar alræmdur bandingi í haldi, Barabbas að nafni. 27.17 Sem þeir nú voru saman komnir, sagði Pílatus við þá: 'Hvorn viljið þér, að ég gefi yður lausan, Barabbas eða Jesú, sem kallast Kristur?' 27.18 Hann vissi, að þeir höfðu fyrir öfundar sakir framselt hann. 27.19 Meðan Pílatus sat á dómstólnum, sendi kona hans til hans með þessi orð: 'Láttu þennan réttláta mann vera, þungir hafa draumar mínir verið í nótt hans vegna.' 27.20 En æðstu prestarnir og öldungarnir fengu múginn til að biðja um Barabbas, en að Jesús yrði deyddur. 27.21 Landshöfðinginn spurði: 'Hvorn þeirra tveggja viljið þér, að ég gefi yður lausan?' Þeir sögðu: 'Barabbas.' 27.22 Pílatus spyr: 'Hvað á ég þá að gjöra við Jesú, sem kallast Kristur?' Þeir segja allir: 'Krossfestu hann.' 27.23 Hann spurði: 'Hvað illt hefur hann þá gjört?' En þeir æptu því meir: 'Krossfestu hann!' 27.24 Nú sér Pílatus, að hann fær ekki að gjört, en ólætin aukast. Hann tók vatn, þvoði hendur sínar frammi fyrir fólkinu og mælti: 'Sýkn er ég af blóði þessa manns! Svarið þér sjálfir fyrir!' 27.25 Og allur lýðurinn sagði: 'Komi blóð hans yfir oss og yfir börn vor!' 27.26 Þá gaf hann þeim Barabbas lausan, en lét húðstrýkja Jesú og framseldi hann til krossfestingar. 27.27 Hermenn landshöfðingjans fóru nú með hann inn í höllina og söfnuðu um hann allri hersveitinni. 27.28 Þeir afklæddu hann og færðu hann í skarlatsrauða kápu, 27.29 fléttuðu þyrnikórónu og settu á höfuð honum, en reyrsprota í hægri hönd hans. Síðan féllu þeir á kné fyrir honum og höfðu hann að háði og sögðu: 'Heill þú, konungur Gyðinga!' 27.30 Og þeir hræktu á hann, tóku reyrsprotann og slógu hann í höfuðið. 27.31 Þegar þeir höfðu spottað hann, færðu þeir hann úr kápunni og í hans eigin klæði. Þá leiddu þeir hann út til að krossfesta hann. 27.32 Á leiðinni hittu þeir mann frá Kýrene, er Símon hét. Hann neyddu þeir til að bera kross Jesú. 27.33 Og er þeir komu til þess staðar, er heitir Golgata, það þýðir hauskúpustaður, 27.34 gáfu þeir honum vín að drekka, galli blandað. Hann bragðaði það, en vildi ekki drekka. 27.35 Þá krossfestu þeir hann. Og þeir köstuðu hlutum um klæði hans og skiptu með sér, 27.36 sátu þar svo og gættu hans. 27.37 Yfir höfði hans festu þeir sakargift hans svo skráða: ÞESSI ER JESÚS, KONUNGUR GYÐINGA. 27.38 Þá voru krossfestir með honum tveir ræningjar, annar til hægri, hinn til vinstri. 27.39 Þeir, sem fram hjá gengu, hæddu hann, skóku höfuð sín 27.40 og sögðu: 'Þú sem brýtur niður musterið og reisir það á þrem dögum. Bjarga nú sjálfum þér, ef þú ert sonur Guðs, og stíg niður af krossinum!' 27.41 Eins gjörðu æðstu prestarnir gys að honum og fræðimennirnir og öldungarnir og sögðu: 27.42 'Öðrum bjargaði hann, sjálfum sér getur hann ekki bjargað. Hann er konungur Ísraels, stígi hann nú niður af krossinum, þá skulum vér trúa á hann. 27.43 Hann treystir Guði. Nú ætti Guð að frelsa hann, ef hann hefur mætur á honum. Eða sagði hann ekki: ,Ég er sonur Guðs`?' 27.44 Einnig ræningjarnir, sem með honum voru krossfestir, smánuðu hann á sama hátt. 27.45 En frá hádegi varð myrkur um allt land til nóns. 27.46 Og um nón kallaði Jesús hárri röddu: 'Elí, Elí, lama sabaktaní!' Það þýðir: 'Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?' 27.47 Nokkrir þeirra, er þar stóðu, heyrðu þetta og sögðu: 'Hann kallar á Elía!' 27.48 Jafnskjótt hljóp einn þeirra til, tók njarðarvött og fyllti ediki, stakk á reyrstaf og gaf honum að drekka. 27.49 Hinir sögðu: 'Sjáum til, hvort Elía kemur að bjarga honum.' 27.50 En Jesús hrópaði aftur hárri röddu og gaf upp andann. 27.51 Þá rifnaði fortjald musterisins í tvennt, ofan frá og niður úr, jörðin skalf og björgin klofnuðu, 27.52 grafir opnuðust og margir líkamir helgra látinna manna risu upp. 27.53 Eftir upprisu Jesú gengu þeir úr gröfum sínum og komu í borgina helgu og birtust mörgum. 27.54 Þegar hundraðshöfðinginn og þeir, sem með honum gættu Jesú, sáu landskjálftann og atburði þessa, hræddust þeir mjög og sögðu: 'Sannarlega var þessi maður sonur Guðs.' 27.55 Þar voru og margar konur, sem álengdar horfðu á, þær höfðu fylgt Jesú frá Galíleu og þjónað honum. 27.56 Meðal þeirra var María Magdalena, María, móðir þeirra Jakobs og Jósefs, og móðir Sebedeussona. 27.57 Um kvöldið kom auðugur maður frá Arímaþeu, Jósef að nafni, er sjálfur var orðinn lærisveinn Jesú. 27.58 Hann gekk til Pílatusar og bað hann um líkama Jesú. Pílatus bauð þá að fá Jósef hann. 27.59 Jósef tók líkið, sveipaði það hreinu línklæði 27.60 og lagði í nýja gröf, sem hann átti og hafði látið höggva í klett, velti síðan stórum steini fyrir grafarmunnann og fór burt. 27.61 María Magdalena var þar og María hin, og sátu þær gegnt gröfinni. 27.62 Næsta dag, daginn eftir aðfangadag, gengu æðstu prestarnir og farísearnir saman fyrir Pílatus 27.63 og sögðu: 'Herra, vér minnumst þess, að svikari þessi sagði í lifanda lífi: ,Eftir þrjá daga rís ég upp.` 27.64 Bjóð því, að grafarinnar sé vandlega gætt allt til þriðja dags, ella gætu lærisveinar hans komið og stolið honum og sagt fólkinu: ,Hann er risinn frá dauðum.` Þá verða síðari svikin verri hinum fyrri.' 27.65 Pílatus sagði við þá: 'Hér hafið þér varðmenn, farið og búið svo tryggilega um sem best þér kunnið.' 27.66 Þeir fóru og gengu tryggilega frá gröfinni og innsigluðu steininn með aðstoð varðmannanna.
28.1 Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. 28.2 Þá varð landskjálfti mikill, því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. 28.3 Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. 28.4 Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir. 28.5 En engillinn mælti við konurnar: 'Þér skuluð eigi óttast. Ég veit, að þér leitið að Jesú hinum krossfesta. 28.6 Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn, þar sem hann lá. 28.7 Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: ,Hann er upp risinn frá dauðum, sjá hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann.` Þetta hef ég sagt yður.' 28.8 Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin. 28.9 Og sjá, Jesús kemur á móti þeim og segir: 'Heilar þið!' En þær komu, féllu fram fyrir honum og föðmuðu fætur hans. 28.10 Þá segir Jesús við þær: 'Óttist ekki, farið og segið bræðrum mínum að halda til Galíleu. Þar munu þeir sjá mig.' 28.11 Meðan þær voru á leiðinni komu nokkrir varðmenn til borgarinnar og sögðu æðstu prestunum allt, sem gjörst hafði. 28.12 En þeir kvöddu saman öldungana og tóku það ráð með þeim að bera mikið fé á hermennina og mæltu við þá: 28.13 'Segið þetta: ,Lærisveinar hans komu á næturþeli, meðan vér sváfum, og stálu honum.` 28.14 Og ef þetta berst landshöfðingjanum til eyrna, skulum vér sefa hann, svo að þér getið verið áhyggjulausir.' 28.15 Þeir tóku við fénu og gjörðu sem þeim var sagt. Þessi sögusögn hefur verið borin út meðal Gyðinga allt til þessa dags. 28.16 En lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins, sem Jesús hafði stefnt þeim til. 28.17 Þar sáu þeir hann og veittu honum lotningu. En sumir voru í vafa. 28.18 Og Jesús gekk til þeirra, talaði við þá og sagði: 'Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. 28.19 Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda,
1.1 Upphaf fagnaðarerindisins um Jesú Krist, Guðs son. 1.2 Svo er ritað hjá Jesaja spámanni: Sjá, ég sendi sendiboða minn á undan þér, er greiða mun veg þinn. 1.3 Rödd hrópanda í eyðimörk: Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans. 1.4 Þannig kom Jóhannes skírari fram í óbyggðinni og prédikaði iðrunarskírn til fyrirgefningar synda, 1.5 og menn streymdu til hans frá allri Júdeubyggð og allir Jerúsalembúar og létu skírast af honum í ánni Jórdan og játuðu syndir sínar. 1.6 En Jóhannes var í klæðum úr úlfaldahári, með leðurbelti um lendar sér og át engisprettur og villihunang. 1.7 Hann prédikaði svo: 'Sá kemur eftir mig, sem mér er máttugri, og er ég ekki verður þess að krjúpa niður og leysa skóþveng hans. 1.8 Ég hef skírt yður með vatni, en hann mun skíra yður með heilögum anda.' 1.9 Svo bar við á þeim dögum, að Jesús kom frá Nasaret í Galíleu og var skírður af Jóhannesi í Jórdan. 1.10 Um leið og hann sté upp úr vatninu, sá hann himnana ljúkast upp og andann stíga niður yfir sig eins og dúfu. 1.11 Og rödd kom af himnum: 'Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun.' 1.12 Þá knúði andinn hann út í óbyggðina, 1.13 og hann var í óbyggðinni fjörutíu daga, og Satan freistaði hans. Hann hafðist við meðal villidýra, og englar þjónuðu honum. 1.14 Þegar Jóhannes hafði verið tekinn höndum, kom Jesús til Galíleu og prédikaði fagnaðarerindi Guðs 1.15 og sagði: 'Tíminn er fullnaður og Guðs ríki í nánd. Gjörið iðrun og trúið fagnaðarerindinu.' 1.16 Jesús var á gangi með Galíleuvatni og sá Símon og Andrés, bróður Símonar, vera að kasta netum í vatnið, en þeir voru fiskimenn. 1.17 Jesús sagði við þá: 'Komið og fylgið mér, og mun ég láta yður menn veiða.' 1.18 Og þegar í stað létu þeir eftir netin og fylgdu honum. 1.19 Hann gekk skammt þaðan og sá Jakob Sebedeusson og Jóhannes bróður hans, og voru þeir einnig á báti að búa net. 1.20 Jesús kallaði þá, og þeir yfirgáfu Sebedeus föður sinn hjá daglaunamönnunum í bátnum og fylgdu honum. 1.21 Þeir komu til Kapernaum. Og hvíldardaginn gekk Jesús í samkunduna og kenndi. 1.22 Undruðust menn mjög kenningu hans, því að hann kenndi þeim eins og sá er vald hefur, og ekki eins og fræðimennirnir. 1.23 Þar var í samkundu þeirra maður haldinn óhreinum anda. Hann æpti: 1.24 'Hvað vilt þú oss, Jesús frá Nasaret? Ert þú kominn að tortíma oss? Ég veit, hver þú ert, hinn heilagi Guðs.' 1.25 Jesús hastaði þá á hann og mælti: 'Þegi þú, og far út af honum.' 1.26 Þá teygði óhreini andinn manninn, rak upp hljóð mikið og fór út af honum. 1.27 Sló felmtri á alla, og hver spurði annan: 'Hvað er þetta? Ný kenning með valdi! Hann skipar jafnvel óhreinum öndum og þeir hlýða honum.' 1.28 Og orðstír hans barst þegar um alla Galíleu. 1.29 Úr samkundunni fóru þeir rakleitt í hús Símonar og Andrésar og með þeim Jakob og Jóhannes. 1.30 Tengdamóðir Símonar lá með sótthita, og sögðu þeir Jesú þegar frá henni. 1.31 Hann gekk þá að, tók í hönd henni og reisti hana á fætur. Sótthitinn fór úr henni, og hún gekk þeim fyrir beina. 1.32 Þegar kvöld var komið og sólin setst, færðu menn til hans alla þá, er sjúkir voru og haldnir illum öndum, 1.33 og allur bærinn var saman kominn við dyrnar. 1.34 Hann læknaði marga, er þjáðust af ýmsum sjúkdómum, og rak út marga illa anda, en illu öndunum bannaði hann að tala, því að þeir vissu hver hann var. 1.35 Og árla, löngu fyrir dögun, fór hann á fætur og gekk út, vék burt á óbyggðan stað og baðst þar fyrir. 1.36 Þeir Símon leituðu hann uppi, 1.37 og þegar þeir fundu hann, sögðu þeir við hann: 'Allir eru að leita að þér.' 1.38 Hann sagði við þá: 'Vér skulum fara annað, í þorpin hér í grennd, svo að ég geti einnig prédikað þar, því að til þess er ég kominn.' 1.39 Og hann fór og prédikaði í samkundum þeirra í allri Galíleu og rak út illa anda. 1.40 Maður nokkur líkþrár kom til hans, féll á kné og bað hann: 'Ef þú vilt, getur þú hreinsað mig.' 1.41 Og hann kenndi í brjósti um manninn, rétti út höndina, snart hann og mælti: 'Ég vil, verð þú hreinn!' 1.42 Jafnskjótt hvarf af honum líkþráin, og hann varð hreinn. 1.43 Og Jesús lét hann fara, lagði ríkt á við hann 1.44 og sagði: 'Gæt þess að segja engum neitt, en far þú, sýn þig prestinum og fórna fyrir hreinsun þína því, sem Móse bauð, þeim til vitnisburðar.' 1.45 En maðurinn gekk burt og ræddi margt um þetta og víðfrægði mjög, svo að Jesús gat ekki framar komið opinberlega í neina borg, heldur hafðist við úti á óbyggðum stöðum. En menn komu til hans hvaðanæva.
2.1 Nokkrum dögum síðar kom hann aftur til Kapernaum. Þegar fréttist, að hann væri heima, 2.2 söfnuðust þar svo margir, að hvergi var lengur rúm, ekki einu sinni fyrir dyrum úti. Og hann flutti þeim orðið. 2.3 Þá er komið með lama mann, og báru fjórir. 2.4 Þegar þeir gátu ekki komist með hann til Jesú fyrir fólkinu, rufu þeir þekjuna uppi yfir honum, grófu þar í gegn og létu síga ofan rekkjuna, sem hinn lami lá í. 2.5 Þá er Jesús sér trú þeirra, segir hann við lama manninn: 'Barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.' 2.6 Þar sátu nokkrir fræðimenn og hugsuðu í hjörtum sínum: 2.7 'Hví mælir þessi maður svo? Hann guðlastar. Hver getur fyrirgefið syndir nema Guð einn?' 2.8 Samstundis skynjaði Jesús í anda sínum, að þeir hugsuðu þannig með sér, og hann sagði við þá: 'Hví hugsið þér slíkt í hjörtum yðar? 2.9 Hvort er auðveldara að segja við lama manninn: ,Syndir þínar eru fyrirgefnar,` eða segja: ,Statt upp, tak rekkju þína og gakk?` 2.10 En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald til að fyrirgefa syndir á jörðu, 2.11 þá segi ég þér' _ og nú talar hann við lama manninn: _ 'Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín.' 2.12 Hann stóð upp, tók jafnskjótt rekkjuna og gekk burt í allra augsýn, svo að allir voru furðu lostnir, lofuðu Guð og sögðu: 'Aldrei áður höfum vér þvílíkt séð.' 2.13 Aftur fór hann út og gekk með vatninu, og allur mannfjöldinn kom til hans, og hann kenndi þeim. 2.14 Og er hann gekk þar, sá hann Leví Alfeusson sitja hjá tollbúðinni, og hann segir við hann: 'Fylg þú mér!' Og hann stóð upp og fylgdi honum. 2.15 Svo bar við, að Jesús sat að borði í húsi hans, og margir tollheimtumenn og bersyndugir sátu þar með honum og lærisveinum hans, en margir fylgdu honum. 2.16 Fræðimenn af flokki farísea, sem sáu, að hann samneytti bersyndugum og tollheimtumönnum, sögðu þá við lærisveina hans: 'Hann etur með tollheimtumönnum og bersyndugum.' 2.17 Jesús heyrði þetta og svaraði þeim: 'Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir, sem sjúkir eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara.' 2.18 Lærisveinar Jóhannesar og farísear héldu nú föstu. Þá koma menn til Jesú og spyrja hann: 'Hví fasta lærisveinar Jóhannesar og lærisveinar farísea, en þínir lærisveinar fasta ekki?' 2.19 Jesús svaraði þeim: 'Hvort geta brúðkaupsgestir fastað, meðan brúðguminn er hjá þeim? Alla þá stund, sem brúðguminn er hjá þeim, geta þeir ekki fastað. 2.20 En koma munu þeir dagar, er brúðguminn verður frá þeim tekinn, þá munu þeir fasta, á þeim degi. 2.21 Enginn saumar bót af óþæfðum dúk á gamalt fat, því þá rífur nýja bótin af hinu gamla og verður af verri rifa. 2.22 Og enginn lætur nýtt vín á gamla belgi, því þá sprengir vínið belgina, og vínið ónýtist og belgirnir. Nýtt vín er látið á nýja belgi.' 2.23 Svo bar við, að Jesús fór um sáðlönd á hvíldardegi, og lærisveinar hans tóku að tína kornöx á leiðinni. 2.24 Farísearnir sögðu þá við hann: 'Lít á, hví gjöra þeir það, sem er ekki leyfilegt á hvíldardegi?' 2.25 Hann svaraði þeim: 'Hafið þér aldrei lesið, hvað Davíð gjörði, er honum lá á, þegar hann hungraði og menn hans? 2.26 Hann fór inn í Guðs hús, þegar Abíatar var æðsti prestur, og át skoðunarbrauðin, en þau má enginn eta nema prestarnir, og gaf líka mönnum sínum.' 2.27 Og hann sagði við þá: 'Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins. 2.28 Því er Mannssonurinn einnig herra hvíldardagsins.'
3.1 Öðru sinni gekk hann í samkunduhús. Þar var maður með visna hönd, 3.2 og höfðu þeir nánar gætur á Jesú, hvort hann læknaði hann á hvíldardegi. Þeir hugðust kæra hann. 3.3 Og Jesús segir við manninn með visnu höndina: 'Statt upp og kom hér fram!' 3.4 Síðan spyr hann þá: 'Hvort er heldur leyfilegt að gjöra gott eða gjöra illt á hvíldardegi, bjarga lífi eða deyða?' En þeir þögðu. 3.5 Og hann leit í kring á þá með reiði, sárhryggur yfir harðúð hjartna þeirra, og sagði við manninn: 'Réttu fram hönd þína.' Hann rétti fram höndina, og hún varð heil. 3.6 Þá gengu farísearnir út og tóku þegar með Heródesarsinnum saman ráð sín gegn honum, hvernig þeir gætu náð lífi hans. 3.7 Jesús fór með lærisveinum sínum út að vatninu, og fylgdi mikill fjöldi úr Galíleu og úr Júdeu, 3.8 frá Jerúsalem, Ídúmeu, landinu handan Jórdanar, og úr byggðum Týrusar og Sídonar kom til hans fjöldi manna, er heyrt höfðu, hve mikið hann gjörði. 3.9 Og hann bauð lærisveinum sínum að hafa til bát fyrir sig, svo að mannfjöldinn þrengdi eigi að honum. 3.10 En marga hafði hann læknað, og því þustu að honum allir þeir, sem einhver mein höfðu, til að snerta hann. 3.11 Og hvenær sem óhreinir andar sáu hann, féllu þeir fram fyrir honum og æptu upp: 'Þú ert sonur Guðs.' 3.12 En hann lagði ríkt á við þá, að þeir gjörðu hann eigi kunnan. 3.13 Síðan fór hann til fjalls og kallaði til sín þá er hann sjálfur vildi, og þeir komu til hans. 3.14 Hann skipaði tólf, er skyldu vera með honum og hann gæti sent út að prédika, 3.15 með valdi að reka út illa anda. 3.16 Hann skipaði þá tólf: Símon, er hann gaf nafnið Pétur, 3.17 Jakob Sebedeusson og Jóhannes bróður hans, en þeim gaf hann nafnið Boanerges, sem þýðir þrumusynir, 3.18 og Andrés, Filippus og Bartólómeus, Matteus og Tómas, Jakob Alfeusson, Taddeus og Símon vandlætara 3.19 og Júdas Ískaríot, þann er sveik hann. 3.20 Þegar hann kemur heim, safnast þar aftur mannfjöldi, svo þeir gátu ekki einu sinni matast. 3.21 Hans nánustu fréttu það og fóru út og vildu ná honum, enda sögðu þeir, að hann væri frá sér. 3.22 Og fræðimennirnir, er komnir voru ofan frá Jerúsalem, sögðu: 'Beelsebúl er í honum. Með fulltingi höfðingja illra anda rekur hann út illu andana.' 3.23 En Jesús kallaði þá til sín og mælti við þá í líkingum: 'Hvernig getur Satan rekið Satan út? 3.24 Verði ríki sjálfu sér sundurþykkt, fær það ríki eigi staðist, 3.25 og verði heimili sjálfu sér sundurþykkt, fær það heimili eigi staðist. 3.26 Sé nú Satan risinn gegn sjálfum sér og orðinn sér sundurþykkur, fær hann ekki staðist, þá er úti um hann. 3.27 Enginn getur brotist inn í hús hins sterka og rænt föngum hans, nema hann bindi áður hinn sterka, þá getur hann rænt hús hans. 3.28 Sannlega segi ég yður: Allt verður mannanna börnum fyrirgefið, allar syndir þeirra og lastmælin, hve mjög sem þeir kunna að lastmæla, 3.29 en sá sem lastmælir gegn heilögum anda, fær eigi fyrirgefningu um aldur, hann er sekur um eilífa synd.' 3.30 En þeir höfðu sagt: 'Óhreinn andi er í honum.' 3.31 Nú koma móðir hans og bræður, standa úti og gera honum orð að koma. 3.32 Mikill fjöldi sat í kringum hann, og var honum sagt: 'Móðir þín, bræður og systur eru hér úti og spyrja eftir þér.' 3.33 Hann svarar þeim: 'Hver er móðir mín og bræður?' 3.34 Og hann leit á þá, er kringum hann sátu, og segir: 'Hér er móðir mín og bræður mínir! 3.35 Hver, sem gjörir vilja Guðs, sá er bróðir minn, systir og móðir.'
4.1 Aftur tók hann að kenna við vatnið. Svo mikill mannfjöldi safnaðist að honum, að hann varð að stíga í bát og sitja þar, úti á vatninu. En allt fólkið var á landi við vatnið. 4.2 Hann kenndi þeim margt í dæmisögum og sagði við þá: 4.3 'Hlýðið á! Sáðmaður gekk út að sá, 4.4 og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni, og fuglar komu og átu það upp. 4.5 Sumt féll í grýtta jörð, þar sem var lítill jarðvegur, og það rann skjótt upp, því það hafði ekki djúpa jörð. 4.6 En er sól hækkaði, visnaði það, og sökum þess að það hafði ekki rætur, skrælnaði það. 4.7 Og sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir uxu og kæfðu það, og það bar ekki ávöxt. 4.8 En sumt féll í góða jörð, kom upp, óx og bar ávöxt, það gaf þrítugfaldan, sextugfaldan og hundraðfaldan ávöxt.' 4.9 Og hann sagði: 'Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri!' 4.10 Þegar hann var orðinn einn, spurðu þeir tólf og hinir, sem með honum voru, um dæmisögurnar. 4.11 Hann svaraði þeim: 'Yður er gefinn leyndardómur Guðs ríkis. Hinir, sem fyrir utan eru, fá allt í dæmisögum, 4.12 að sjáandi sjái þeir og skynji ekki, heyrandi heyri þeir og skilji ekki, svo þeir snúi sér eigi og verði fyrirgefið.' 4.13 Og hann segir við þá: 'Þér skiljið eigi þessa dæmisögu. Hvernig fáið þér þá skilið nokkra dæmisögu? 4.14 Sáðmaðurinn sáir orðinu. 4.15 Það hjá götunni, þar sem orðinu er sáð, merkir þá sem heyra, en Satan kemur jafnskjótt og tekur burt orðið, sem í þá var sáð. 4.16 Eins það sem sáð var í grýtta jörð, það merkir þá sem taka orðinu með fögnuði, um leið og þeir heyra það, 4.17 en hafa enga rótfestu. Þeir eru hvikulir og er þrenging verður síðan eða ofsókn vegna orðsins, bregðast þeir þegar. 4.18 Öðru var sáð meðal þyrna. Það merkir þá sem heyra orðið, 4.19 en áhyggjur heimsins, tál auðæfanna og aðrar girndir koma til og kefja orðið, svo það ber engan ávöxt. 4.20 Hitt, sem sáð var í góða jörð, merkir þá sem heyra orðið, taka við því og bera þrítugfaldan, sextugfaldan og hundraðfaldan ávöxt.' 4.21 Og hann sagði við þá: 'Ekki bera menn ljós inn og setja það undir mæliker eða bekk? Er það ekki sett á ljósastiku? 4.22 Því að ekkert er hulið, að það verði eigi gjört opinbert, né leynt, að það komi ekki í ljós. 4.23 Ef einhver hefur eyru að heyra, hann heyri!' 4.24 Enn sagði hann við þá: 'Gætið að, hvað þér heyrið. Með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða og við yður bætt. 4.25 Því að þeim, sem hefur, mun gefið verða, og frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það sem hann hefur.' 4.26 Þá sagði hann: 'Svo er Guðs ríki sem maður sái sæði í jörð. 4.27 Hann sefur síðan og vakir, nætur og daga, en sæðið grær og vex, hann veit ekki með hverjum hætti. 4.28 Sjálfkrafa ber jörðin ávöxt, fyrst stráið, þá axið og síðan fullvaxið hveiti í axinu. 4.29 En þá er ávöxturinn er fullþroska, lætur hann þegar bera út sigðina, því að uppskeran er komin.' 4.30 Og hann sagði: 'Við hvað eigum vér að líkja Guðs ríki? Með hvaða dæmi eigum vér að lýsa því? 4.31 Líkt er það mustarðskorni. Þegar því er sáð í mold, er það smærra hverju sáðkorni á jörðu. 4.32 En eftir að því er sáð tekur það að spretta, það verður öllum jurtum meira og fær svo stórar greinar, að fuglar himins geta hreiðrað sig í skugga þess.' 4.33 Í mörgum slíkum dæmisögum flutti hann þeim orðið, svo sem þeir gátu numið, 4.34 og án dæmisagna talaði hann ekki til þeirra, en fyrir lærisveinum sínum skýrði hann allt, þegar þeir voru einir. 4.35 Að kvöldi sama dags sagði hann við þá: 'Förum yfir um!' 4.36 Þeir skildu þá við mannfjöldann og tóku hann með sér, þar sem hann var, í bátnum, en aðrir bátar voru með honum. 4.37 Þá brast á stormhrina mikil, og féllu öldurnar inn í bátinn, svo við lá, að hann fyllti. 4.38 Jesús var í skutnum og svaf á kodda. Þeir vöktu hann og sögðu við hann: 'Meistari, hirðir þú ekki um, að vér förumst?' 4.39 Hann vaknaði, hastaði á vindinn og sagði við vatnið: 'Þegi þú, haf hljótt um þig!' Þá lægði vindinn og gerði stillilogn. 4.40 Og hann sagði við þá: 'Hví eruð þér hræddir, hafið þér enn enga trú?' 4.41 En þeir urðu miklum ótta lostnir og sögðu hver við annan: 'Hver er þessi? Jafnvel vindur og vatn hlýða honum.'
5.1 Þeir komu nú yfir um vatnið í byggð Gerasena. 5.2 Og um leið og Jesús sté úr bátnum, kom maður á móti honum frá gröfunum, haldinn óhreinum anda. 5.3 Hann hafðist við í gröfunum, og enginn gat lengur bundið hann, ekki einu sinni með hlekkjum. 5.4 Oft hafði hann verið fjötraður á fótum og höndum, en hann braut jafnóðum af sér hlekkina og sleit fjötrana, og gat enginn ráðið við hann. 5.5 Allar nætur og daga var hann í gröfunum eða á fjöllum, æpti og lamdi sig grjóti. 5.6 Þegar hann sá Jesú álengdar, hljóp hann og féll fram fyrir honum 5.7 og æpti hárri röddu: 'Hvað vilt þú mér, Jesús, sonur Guðs hins hæsta? Ég særi þig við Guð, kvel þú mig eigi!' 5.8 Því að Jesús hafði sagt við hann: 'Þú óhreini andi, far út af manninum.' 5.9 Jesús spurði hann þá: 'Hvað heitir þú?' Hinn svaraði: 'Hersing heiti ég, vér erum margir.' 5.10 Og hann bað Jesú ákaft að senda þá ekki brott úr héraðinu. 5.11 En þar í fjallinu var mikil svínahjörð á beit. 5.12 Og þeir báðu hann: 'Send oss í svínin, lát oss fara í þau!' 5.13 Hann leyfði þeim það, og fóru þá óhreinu andarnir út og í svínin, og hjörðin, nær tveim þúsundum, ruddist fram af hamrinum í vatnið og drukknaði þar. 5.14 En hirðarnir flýðu og sögðu tíðindin í borginni og sveitinni. Menn fóru þá að sjá, hvað gjörst hafði, 5.15 komu til Jesú og sáu haldna manninn, sem hersingin hafði verið í, sitja þar klæddan og heilvita. Og þeir urðu hræddir. 5.16 En sjónarvottar sögðu þeim, hvað fram hafði farið við haldna manninn, og frá svínunum. 5.17 Og þeir tóku að biðja Jesú að fara burt úr héruðum þeirra. 5.18 Þá er hann sté í bátinn, bað sá, er haldinn hafði verið, að fá að vera með honum. 5.19 En Jesús leyfði honum það eigi, heldur sagði: 'Far heim til þín og þinna, og seg þeim, hve mikið Drottinn hefur gjört fyrir þig og verið þér miskunnsamur.' 5.20 Hann fór og tók að kunngjöra í Dekapólis, hve mikið Jesús hafði fyrir hann gjört, og undruðust það allir. 5.21 Þegar Jesús kom aftur yfir um á bátnum, safnaðist að honum mikill mannfjöldi, þar sem hann var við vatnið. 5.22 Þar kom og einn af samkundustjórunum, Jaírus að nafni, og er hann sá Jesú, féll hann til fóta honum, 5.23 bað hann ákaft og sagði: 'Dóttir mín litla er að dauða komin. Kom og legg hendur yfir hana, að hún læknist og lifi.' 5.24 Jesús fór með honum. Og mikill mannfjöldi fylgdi honum, og var þröng um hann. 5.25 Þar var kona, sem hafði haft blóðlát í tólf ár. 5.26 Hún hafði orðið margt að þola hjá mörgum læknum, kostað til aleigu sinni, en engan bata fengið, öllu heldur versnað. 5.27 Hún heyrði um Jesú og kom nú í mannþrönginni að baki honum og snart klæði hans. 5.28 Hún hugsaði: 'Ef ég fæ aðeins snert klæði hans, mun ég heil verða.' 5.29 Jafnskjótt þvarr blóðlát hennar, og hún fann það á sér, að hún var heil af meini sínu. 5.30 Jesús fann þegar á sjálfum sér, að kraftur hafði farið út frá honum, og hann sneri sér við í mannþrönginni og sagði: 'Hver snart klæði mín?' 5.31 Lærisveinar hans sögðu við hann: 'Þú sérð, að mannfjöldinn þrengir að þér, og spyrð þó: Hver snart mig?' 5.32 Hann litaðist um til að sjá, hver þetta hefði gjört, 5.33 en konan, sem vissi, hvað fram við sig hafði farið, kom hrædd og skjálfandi, féll til fóta honum og sagði honum allan sannleikann. 5.34 Jesús sagði við hana: 'Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði, og ver heil meina þinna.' 5.35 Meðan hann var að segja þetta, koma menn heiman frá samkundustjóranum og segja: 'Dóttir þín er látin, hví ómakar þú meistarann lengur?' 5.36 Jesús heyrði, hvað þeir sögðu, en gaf ekki um, heldur sagði við samkundustjórann: 'Óttast ekki, trú þú aðeins.' 5.37 Og nú leyfði hann engum að fylgja sér nema Pétri og þeim bræðrum Jakobi og Jóhannesi. 5.38 Þeir koma að húsi samkundustjórans. Þar sér hann, að allt er í uppnámi, grátur mikill og kveinan. 5.39 Hann gengur inn og segir við þá: 'Hví hafið þér svo hátt og grátið? Barnið er ekki dáið, það sefur.' 5.40 En þeir hlógu að honum. Þá lét hann alla fara út og tók með sér föður barnsins og móður og þá sem með honum voru, og gekk þar inn, sem barnið var. 5.41 Og hann tók hönd barnsins og sagði: 'Talíþa kúm!' Það þýðir: 'Stúlka litla, ég segi þér, rís upp!' 5.42 Jafnskjótt reis stúlkan upp og fór að ganga um, en hún var tólf ára. Og menn urðu frá sér numdir af undrun. 5.43 En hann lagði ríkt á við þá að láta engan vita þetta og bauð að gefa henni að eta.
6.1 Þaðan fór Jesús og kom í ættborg sína, og lærisveinar hans fylgdu honum. 6.2 Þegar hvíldardagur var kominn, tók hann að kenna í samkundunni, og þeir mörgu, sem á hlýddu, undruðust stórum. Þeir sögðu: 'Hvaðan kemur honum þetta? Hver er sú speki, sem honum er gefin, og þau kraftaverk, sem gjörast fyrir hendur hans? 6.3 Er þetta ekki smiðurinn, sonur Maríu, bróðir þeirra Jakobs, Jóse, Júdasar og Símonar? Og eru ekki systur hans hér hjá oss?' Og þeir hneyksluðust á honum. 6.4 Þá sagði Jesús: 'Hvergi er spámaður minna metinn en í landi sínu, með frændum og heimamönnum.' 6.5 Og hann gat ekki gjört þar neitt kraftaverk, nema hann lagði hendur yfir nokkra sjúka og læknaði þá. 6.6 Og hann undraðist vantrú þeirra. Hann fór nú um þorpin þar í kring og kenndi. 6.7 Og hann kallaði þá tólf til sín, tók að senda þá út, tvo og tvo, og gaf þeim vald yfir óhreinum öndum. 6.8 Hann bauð þeim að taka ekkert til ferðarinnar annað en staf, ekki brauð, mal né peninga í belti. 6.9 Þeir skyldu hafa skó á fótum, en ekki tvo kyrtla. 6.10 Og hann sagði við þá: 'Hvar sem þér fáið inni, þar sé aðsetur yðar, uns þér leggið upp að nýju. 6.11 En hvar sem ekki er tekið við yður né á yður hlýtt, þaðan skuluð þér fara og hrista dustið af fótum yðar þeim til vitnisburðar.' 6.12 Þeir lögðu af stað og prédikuðu, að menn skyldu gjöra iðrun, 6.13 ráku út marga illa anda og smurðu marga sjúka með olíu og læknuðu þá. 6.14 Heródes konungur frétti þetta, enda var nafn Jesú orðið víðfrægt. Sögðu sumir: 'Jóhannes skírari er risinn upp frá dauðum, þess vegna eru kraftarnir að verki í honum.' 6.15 Aðrir sögðu: 'Hann er Elía,' enn aðrir: 'Hann er spámaður eins og spámennirnir fornu.' 6.16 Þegar Heródes heyrði þetta, sagði hann: 'Jóhannes, sem ég lét hálshöggva, hann er upp risinn.' 6.17 En Heródes hafði sent menn að taka Jóhannes höndum, fjötra hann og varpa í fangelsi vegna Heródíasar, konu Filippusar, bróður síns. Hann hafði gengið að eiga hana, 6.18 en Jóhannes hafði sagt við Heródes: 'Þú mátt ekki eiga konu bróður þíns.' 6.19 Þess vegna lagði Heródías fæð á Jóhannes og vildi deyða hann, en gat ekki, 6.20 því að Heródes hafði beyg af honum og verndaði hann, þar eð hann vissi, að hann var maður réttlátur og heilagur. Hann komst í mikinn vanda, þegar hann hlýddi á mál hans, en þó var honum ljúft að hlusta á hann. 6.21 En nú kom hentugur dagur; á afmæli sínu gjörði Heródes veislu gæðingum sínum, hershöfðingjum og fyrirmönnum Galíleu. 6.22 Dóttir Heródíasar gekk þar inn og sté dans. Hún hreif Heródes og gesti hans, og konungur sagði við stúlkuna: 'Bið mig hvers þú vilt, og mun ég veita þér.' 6.23 Og hann sór henni: 'Hvað sem þú biður um, það mun ég veita þér, allt að helmingi ríkis míns.' 6.24 Hún gekk þá út og spurði móður sína: 'Um hvað á ég að biðja?' Hún svaraði: 'Höfuð Jóhannesar skírara.' 6.25 Jafnskjótt skundaði hún til konungs og bað hann: 'Gef mér þegar á fati höfuð Jóhannesar skírara.' 6.26 Konungur varð hryggur við, en vegna eiðsins og gesta sinna vildi hann ekki synja henni þessa, 6.27 heldur sendi þegar varðmann og bauð að færa sér höfuð Jóhannesar. Hann fór og hjó af höfuð Jóhannesar í fangelsinu, 6.28 kom með höfuð hans á fati og færði stúlkunni, en stúlkan móður sinni. 6.29 Þegar lærisveinar hans fréttu þetta, komu þeir, tóku lík hans og lögðu í gröf. 6.30 Postularnir komu nú aftur til Jesú og sögðu honum frá öllu því, er þeir höfðu gjört og kennt. 6.31 Hann sagði við þá: 'Komið þér nú á óbyggðan stað, svo að vér séum einir saman, og hvílist um stund.' En fjöldi fólks var stöðugt að koma og fara, svo að þeir höfðu ekki einu sinni næði til að matast. 6.32 Og þeir fóru á bátnum einir saman á óbyggðan stað. 6.33 Menn sáu þá fara, og margir þekktu þá, og nú streymdi fólk þangað gangandi úr öllum borgunum og varð á undan þeim. 6.34 Þegar Jesús steig á land, sá hann þar mikinn mannfjölda, og hann kenndi í brjósti um þá, því að þeir voru sem sauðir, er engan hirði hafa. Og hann kenndi þeim margt. 6.35 Þá er mjög var áliðið dags, komu lærisveinar hans að máli við hann og sögðu: 'Hér er engin mannabyggð og langt á daginn liðið. 6.36 Lát þá fara, að þeir geti náð til býla og þorpa hér í kring og keypt sér eitthvað til matar.' 6.37 En hann svaraði þeim: 'Gefið þeim sjálfir að eta.' Þeir svara honum: 'Eigum vér að fara og kaupa brauð fyrir tvö hundruð denara og gefa þeim að eta?' 6.38 Jesús spyr þá: 'Hve mörg brauð hafið þér? Farið og gætið að.' Þeir hugðu að og svöruðu: 'Fimm brauð og tvo fiska.' 6.39 Þá bauð hann þeim að láta alla setjast í grængresið og skipta sér í hópa. 6.40 Þeir settust niður í flokkum, hundrað í sumum, en fimmtíu í öðrum. 6.41 Og hann tók brauðin fimm og fiskana tvo, leit upp til himins, þakkaði Guði, braut brauðin og gaf lærisveinunum til að bera fram fyrir mannfjöldann. Fiskunum tveim skipti hann og meðal allra. 6.42 Og þeir neyttu allir og urðu mettir. 6.43 Þeir tóku saman brauðbitana, er fylltu tólf körfur, svo og fiskleifarnar. 6.44 En þeir, sem brauðanna neyttu, voru fimm þúsund karlmenn. 6.45 Tafarlaust knúði hann lærisveina sína að fara í bátinn og halda á undan yfir til Betsaídu, meðan hann sendi fólkið brott. 6.46 Og þá er hann hafði kvatt það, fór hann til fjalls að biðjast fyrir. 6.47 Þegar kvöld var komið, var báturinn á miðju vatni, en hann einn á landi. 6.48 Hann sá, að þeim var þungur róðurinn, því að vindur var á móti þeim, og er langt var liðið nætur kemur hann til þeirra, gangandi á vatninu, og ætlar fram hjá þeim. 6.49 Þegar þeir sáu hann ganga á vatninu, hugðu þeir, að þar færi vofa, og æptu upp yfir sig. 6.50 Því að allir sáu þeir hann og varð þeim bilt við. En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: 'Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir.' 6.51 Og hann sté í bátinn til þeirra og lægði þá vindinn. Og þeir urðu öldungis agndofa, 6.52 enda höfðu þeir ekki skilið það, sem gjörst hafði með brauðin, hjörtu þeirra voru blind. 6.53 Þegar þeir höfðu náð yfir um, komu þeir að landi við Genesaret og lögðu þar að. 6.54 Um leið og þeir stigu úr bátnum, þekktu menn hann. 6.55 Og fólk tók að streyma fram og aftur um allt það hérað og bera sjúklinga í burðarrekkjum hvert þangað, sem þeir heyrðu, að hann væri. 6.56 Og hvar sem hann kom í þorp, borgir eða á bæi, lögðu menn sjúka á torgin og báðu hann, að þeir fengju rétt að snerta fald klæða hans, og allir þeir, sem snertu hann, urðu heilir.
7.1 Nú safnast að honum farísear og nokkrir fræðimenn, komnir frá Jerúsalem. 7.2 Þeir sáu, að sumir lærisveina hans neyttu matar með vanhelgum, það er óþvegnum höndum. 7.3 En farísear, og reyndar Gyðingar allir, eta ekki nema þeir taki áður handlaugar, og fylgja þeir svo erfðavenju forfeðra sinna. 7.4 Og ekki neyta þeir matar, þegar þeir koma frá torgi, nema þeir hreinsi sig áður. Margt annað hafa þeir gengist undir að rækja, svo sem að hreinsa bikara, könnur og eirkatla. 7.5 Farísearnir og fræðimennirnir spyrja hann: 'Hvers vegna fylgja lærisveinar þínir ekki erfðavenju forfeðranna, heldur neyta matar með vanhelgum höndum?' 7.6 Jesús svarar þeim: 'Sannspár var Jesaja um yður hræsnara, þar sem ritað er: Þessi lýður heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér. 7.7 Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar. 7.8 Þér hafnið boðum Guðs, en haldið erfikenning manna.' 7.9 Enn sagði hann við þá: 'Listavel gjörið þér að engu boð Guðs, svo þér getið rækt erfikenning yðar. 7.10 Móse sagði: ,Heiðra föður þinn og móður þína.` og ,Hver sem formælir föður eða móður, skal dauða deyja.` 7.11 En þér segið: Ef maður segir við föður sinn eða móður: ,Það, sem þér hefði getað orðið til styrktar frá mér, er korban,` það er musterisfé, 7.12 þá leyfið þér honum ekki framar að gjöra neitt fyrir föður sinn eða móður. 7.13 Þannig látið þér erfikenning yðar, sem þér fylgið fram, ógilda orð Guðs. Og margt annað gjörið þér þessu líkt.' 7.14 Aftur kallaði hann til sín mannfjöldann og sagði: 'Heyrið mig allir, og skiljið. 7.15 Ekkert er það utan mannsins, er saurgi hann, þótt inn í hann fari. Hitt saurgar manninn, sem út frá honum fer.' [ 7.16 Ef einhver hefur eyru að heyra, hann heyri!] 7.17 Þegar hann var kominn inn frá fólkinu, spurðu lærisveinar hans hann um líkinguna. 7.18 Og hann segir við þá: 'Eruð þér einnig svo skilningslausir? Skiljið þér eigi, að ekkert, sem fer inn í manninn utan frá, getur saurgað hann? 7.19 Því að ekki fer það inn í hjarta hans, heldur maga og út síðan í safnþróna.' Þannig lýsti hann alla fæðu hreina. 7.20 Og hann sagði: 'Það sem fer út frá manninum, það saurgar manninn. 7.21 Því að innan frá, úr hjarta mannsins, koma hinar illu hugsanir, saurlifnaður, þjófnaður, manndráp, 7.22 hórdómur, ágirnd, illmennska, sviksemi, taumleysi, öfund, lastmælgi, hroki, heimska. 7.23 Allt þetta illa kemur innan að og saurgar manninn.' 7.24 Hann tók sig upp þaðan og hélt til byggða Týrusar. Þar fór hann inn í hús og vildi engan láta vita. En eigi fékk hann dulist. 7.25 Kona ein frétti þegar af honum og kom og féll honum til fóta, en dóttir hennar hafði óhreinan anda. 7.26 Konan var heiðin, ættuð úr Fönikíu sýrlensku. Hún bað hann að reka illa andann út af dóttur sinni. 7.27 Hann sagði við hana: 'Lofaðu börnunum að seðjast fyrst, ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.' 7.28 Hún svaraði honum: 'Satt er það, herra, þó eta hundarnir undir borðinu af molum barnanna.' 7.29 Og hann sagði við hana: 'Vegna þessara orða skaltu heim snúa, illi andinn er farinn úr dóttur þinni.' 7.30 Hún fór heim, fann barnið liggjandi á rúminu, og illi andinn var farinn. 7.31 Síðan hélt hann úr Týrusarbyggðum, um Sídon og yfir Dekapólisbyggðir miðjar til Galíleuvatns. 7.32 Þá færa þeir til hans mann, daufan og málhaltan, og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann. 7.33 Jesús leiddi hann afsíðis frá fólkinu, stakk fingrum sínum í eyru honum og vætti tungu hans með munnvatni sínu. 7.34 Þá leit hann upp til himins, andvarpaði og sagði við hann: 'Effaþa,' það er: Opnist þú. 7.35 Og eyru hans opnuðust, og haft tungu hans losnaði, og hann talaði skýrt. 7.36 Jesús bannaði þeim að segja þetta neinum, en svo mjög sem hann bannaði þeim, því frekar sögðu þeir frá því. 7.37 Menn undruðust næsta mjög og sögðu: 'Allt gjörir hann vel, daufa lætur hann heyra og mállausa mæla.'
8.1 Um þessar mundir bar enn svo við, að mikill mannfjöldi var saman kominn og hafði ekkert til matar. Jesús kallar þá til sín lærisveinana og segir við þá: 8.2 'Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Þeir hafa nú hjá mér verið þrjá daga og hafa ekkert til matar. 8.3 Láti ég þá fara fastandi heim til sín, örmagnast þeir á leiðinni, en sumir þeirra eru langt að.' 8.4 Þá svöruðu lærisveinarnir: 'Hvar er hægt að fá brauð til að metta þetta fólk hér í óbyggðum?' 8.5 Hann spurði þá: 'Hve mörg brauð hafið þér?' Þeir sögðu: 'Sjö.' 8.6 Þá bauð hann fólkinu að setjast á jörðina, tók brauðin sjö, gjörði þakkir og braut þau og gaf lærisveinum sínum, að þeir bæru þau fram. En þeir báru þau fram fyrir fólkið. 8.7 Þeir höfðu og fáeina smáfiska. Hann þakkaði Guði og bauð, að einnig þeir skyldu fram bornir. 8.8 Menn neyttu og urðu mettir. Síðan tóku þeir saman leifarnar, sjö körfur. 8.9 En þeir voru um fjórar þúsundir. Síðan lét hann þá fara. 8.10 Og hann sté þegar í bátinn með lærisveinum sínum og kom í Dalmanútabyggðir. 8.11 Þangað komu farísear og tóku að þrátta við hann, þeir vildu freista hans og kröfðu hann um tákn af himni. 8.12 Hann andvarpaði þungan innra með sér og mælti: 'Hví heimtar þessi kynslóð tákn? Sannlega segi ég yður: Tákn verður alls ekki gefið þessari kynslóð.' 8.13 Hann skildi síðan við þá, sté aftur í bátinn og fór yfir um. 8.14 Þeir höfðu gleymt að taka brauð, höfðu ekki nema eitt brauð með sér í bátnum. 8.15 Jesús áminnti þá og sagði: 'Gætið yðar, varist súrdeig farísea og súrdeig Heródesar.' 8.16 En þeir ræddu sín á milli, að þeir hefðu ekki brauð. 8.17 Hann varð þess vís og segir við þá: 'Hvað eruð þér að tala um, að þér hafið ekki brauð? Skynjið þér ekki enn né skiljið? Eru hjörtu yðar forhert? 8.18 Þér hafið augu, sjáið þér ekki? Þér hafið eyru, heyrið þér ekki? Eða munið þér ekki? 8.19 Þegar ég braut brauðin fimm handa fimm þúsundum, hve margar körfur fullar af brauðbitum tókuð þér saman?' Þeir svara honum: 'Tólf.' 8.20 'Eða brauðin sjö handa fjórum þúsundunum, hve margar körfur fullar af brauðbitum tókuð þér þá saman?' Þeir svara: 'Sjö.' 8.21 Og hann sagði við þá: 'Skiljið þér ekki enn?' 8.22 Þeir koma nú til Betsaídu. Þar færa menn til Jesú blindan mann og biðja, að hann snerti hann. 8.23 Hann tók í hönd hins blinda, leiddi hann út úr þorpinu, skyrpti í augu hans, lagði hendur yfir hann og spurði: 'Sér þú nokkuð?' 8.24 Hann leit upp og mælti: 'Ég sé menn, ég greini þá líkt og tré, þeir ganga.' 8.25 Þá lagði hann aftur hendur yfir augu hans, og nú sá hann skýrt, varð albata og heilskyggn á allt. 8.26 Jesús sendi hann síðan heim til sín og sagði: 'Inn í þorpið máttu ekki fara.' 8.27 Jesús fór nú ásamt lærisveinum sínum til þorpanna hjá Sesareu Filippí. Á leiðinni spurði hann lærisveina sína: 'Hvern segja menn mig vera?' 8.28 Þeir svöruðu honum: 'Jóhannes skírara, aðrir Elía og aðrir einn af spámönnunum.' 8.29 Og hann spurði þá: 'En þér, hvern segið þér mig vera?' Pétur svaraði honum: 'Þú ert Kristur.' 8.30 Og hann lagði ríkt á við þá að segja engum frá sér. 8.31 Þá tók hann að kenna þeim: 'Mannssonurinn á margt að líða, honum mun útskúfað verða af öldungum, æðstu prestum og fræðimönnum, hann mun líflátinn, en upp rísa eftir þrjá daga.' 8.32 Þetta sagði hann berum orðum. En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann. 8.33 Jesús sneri sér við, leit til lærisveina sinna, ávítaði Pétur og sagði: 'Vík frá mér, Satan, eigi hugsar þú um það, sem Guðs er, heldur það, sem manna er.' 8.34 Og hann kallaði til sín mannfjöldann ásamt lærisveinum sínum og sagði við þá: 'Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. 8.35 Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu vegna mín og fagnaðarerindisins, mun bjarga því. 8.36 Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn, en fyrirgjöra sálu sinni? 8.37 Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína? 8.38 En þann sem blygðast sín fyrir mig og mín orð hjá þessari ótrúu, syndugu kynslóð, mun Mannssonurinn blygðast sín fyrir, er hann kemur í dýrð föður síns með heilögum englum.'
9.1 Og hann sagði við þá: 'Sannlega segi ég yður: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Guðs ríki komið með krafti.' 9.2 Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes og fer með þá upp á hátt fjall, að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, 9.3 og klæði hans urðu fannhvít og skínandi, og fær enginn bleikir á jörðu svo hvítt gjört. 9.4 Og þeim birtist Elía ásamt Móse, og voru þeir á tali við Jesú. 9.5 Þá tekur Pétur til máls og segir við Jesú: 'Rabbí, gott er, að vér erum hér. Gjörum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.' 9.6 Hann vissi ekki, hvað hann átti að segja, enda urðu þeir mjög skelfdir. 9.7 Þá kom ský og skyggði yfir þá, og rödd kom úr skýinu: 'Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!' 9.8 Og snögglega, þegar þeir litu í kring, sáu þeir engan framar hjá sér nema Jesú einan. 9.9 Á leiðinni ofan fjallið bannaði hann þeim að segja nokkrum frá því, er þeir höfðu séð, fyrr en Mannssonurinn væri risinn upp frá dauðum. 9.10 Þeir festu orðin í minni og ræddu um, hvað væri að rísa upp frá dauðum. 9.11 Og þeir spurðu hann: 'Hví segja fræðimennirnir, að Elía eigi fyrst að koma?' 9.12 Hann svaraði þeim: 'Víst kemur Elía fyrst og færir allt í lag. En hvernig er ritað um Mannssoninn? Á hann ekki margt að líða og smáður verða? 9.13 En ég segi yður: Elía er kominn, og þeir gjörðu honum allt, sem þeir vildu, eins og ritað er um hann.' 9.14 Þegar þeir komu til lærisveinanna, sáu þeir mannfjölda mikinn kringum þá og fræðimenn að þrátta við þá. 9.15 En um leið og fólkið sá hann, sló þegar felmtri á alla, og þeir hlupu til og heilsuðu honum. 9.16 Hann spurði þá: 'Um hvað eruð þér að þrátta við þá?' 9.17 En einn úr mannfjöldanum svaraði honum: 'Meistari, ég færði til þín son minn, sem málleysis andi er í. 9.18 Hvar sem andinn grípur hann, slengir hann honum flötum, og hann froðufellir, gnístir tönnum og stirðnar upp. Ég bað lærisveina þína að reka hann út, en þeir gátu það ekki.' 9.19 Jesús svarar þeim: 'Ó, þú vantrúa kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður? Hversu lengi á ég að umbera yður? Færið hann til mín.' 9.20 Þeir færðu hann þá til Jesú, en um leið og andinn sá hann, teygði hann drenginn ákaflega, hann féll til jarðar, veltist um og froðufelldi. 9.21 Jesús spurði þá föður hans: 'Hve lengi hefur honum liðið svo?' Hann sagði: 'Frá bernsku. 9.22 Og oft hefur hann kastað honum bæði í eld og vatn til að fyrirfara honum. En ef þú getur nokkuð, þá sjá aumur á okkur og hjálpa okkur.' 9.23 Jesús sagði við hann: 'Ef þú getur! Sá getur allt sem trúir.' 9.24 Jafnskjótt hrópaði faðir sveinsins: 'Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.' 9.25 Nú sér Jesús, að mannfjöldi þyrpist að. Þá hastar hann á óhreina andann og segir: 'Þú dumbi, daufi andi, ég býð þér, far út af honum, og kom aldrei framar í hann.' 9.26 Þá æpti andinn, teygði hann mjög og fór, en sveinninn varð sem nár, svo að flestir sögðu: 'Hann er dáinn.' 9.27 En Jesús tók í hönd honum og reisti hann upp, og hann stóð á fætur. 9.28 Þegar Jesús var kominn inn og orðinn einn með lærisveinum sínum, spurðu þeir hann: 'Hví gátum vér ekki rekið hann út?' 9.29 Hann mælti: 'Þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn.' 9.30 Þeir héldu nú brott þaðan og fóru um Galíleu, en hann vildi ekki, að neinn vissi það, 9.31 því að hann var að kenna lærisveinum sínum. Hann sagði þeim: 'Mannssonurinn verður framseldur í manna hendur, og þeir munu lífláta hann, en þá er hann hefur líflátinn verið, mun hann upp rísa eftir þrjá daga.' 9.32 En þeir skildu ekki það sem hann sagði og þorðu ekki að spyrja hann. 9.33 Þeir komu til Kapernaum. Þegar hann var kominn inn, spurði hann þá: 'Hvað voruð þér að ræða á leiðinni?' 9.34 En þeir þögðu. Þeir höfðu verið að ræða það sín á milli á leiðinni, hver væri mestur. 9.35 Hann settist niður, kallaði á þá tólf og sagði við þá: 'Hver sem vill vera fremstur, sé síðastur allra og þjónn allra.' 9.36 Og hann tók lítið barn, setti það meðal þeirra, tók það sér í faðm og sagði við þá: 9.37 'Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni, tekur við mér, og hver sem tekur við mér, tekur ekki aðeins við mér, heldur og við þeim er sendi mig.' 9.38 Jóhannes sagði við hann: 'Meistari, vér sáum mann reka út illa anda í þínu nafni, og vildum vér varna honum þess, af því að hann fylgdi oss ekki.' 9.39 Jesús sagði: 'Varnið honum þess ekki, því að enginn er sá, að hann gjöri kraftaverk í mínu nafni og geti þegar á eftir talað illa um mig. 9.40 Sá sem er ekki á móti oss, er með oss. 9.41 Hver sem gefur yður bikar vatns að drekka, vegna þess að þér eruð Krists, sannlega segi ég yður, hann mun alls ekki missa af launum sínum. 9.42 Hverjum þeim, sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem trúa, væri betra að vera varpað í hafið með mylnustein um hálsinn. 9.43 Ef hönd þín tælir þig til falls, þá sníð hana af. Betra er þér handarvana inn að ganga til lífsins en hafa báðar hendur og fara til helvítis, í hinn óslökkvanda eld. [ 9.44 Þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki.] 9.45 Ef fótur þinn tælir þig til falls, þá sníð hann af. Betra er þér höltum inn að ganga til lífsins en hafa báða fætur og verða kastað í helvíti. [ 9.46 Þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki.] 9.47 Og ef auga þitt tælir þig til falls, þá ríf það úr. Betra er þér eineygðum inn að ganga í Guðs ríki en hafa bæði augu og verða kastað í helvíti, 9.48 þar sem ormarnir deyja ekki og eldurinn slokknar ekki. 9.49 Sérhver mun eldi saltast. 9.50 Saltið er gott, en ef saltið missir seltuna, með hverju viljið þér þá krydda það? Hafið salt í sjálfum yður, og haldið frið yðar á milli.'
10.1 Hann tók sig upp þaðan og hélt til byggða Júdeu og yfir um Jórdan. Fjöldi fólks safnast enn til hans, og hann kenndi þeim, eins og hann var vanur. 10.2 Farísear komu og spurðu hann, hvort maður mætti skilja við konu sína. Þeir vildu freista hans. 10.3 Hann svaraði þeim: 'Hvað hefur Móse boðið yður?' 10.4 Þeir sögðu: 'Móse leyfði að ,rita skilnaðarbréf og skilja við hana.'` 10.5 Jesús mælti þá til þeirra: 'Vegna harðúðar hjartna yðar ritaði hann yður þetta boðorð, 10.6 en frá upphafi sköpunar ,gjörði Guð þau karl og konu. 10.7 Fyrir því skal maður yfirgefa föður sinn og móður og bindast konu sinni, 10.8 og þau tvö skulu verða einn maður.` Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður. 10.9 Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.' 10.10 Þegar lærisveinarnir voru komnir inn, spurðu þeir hann aftur um þetta. 10.11 En hann sagði við þá: 'Sá sem skilur við konu sína og kvænist annarri, drýgir hór gegn henni. 10.12 Og ef kona skilur við mann sinn og giftist öðrum, drýgir hún hór.' 10.13 Menn færðu börn til hans, að hann snerti þau, en lærisveinarnir átöldu þá. 10.14 Þegar Jesús sá það, sárnaði honum, og hann mælti við þá: 'Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki. 10.15 Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma.' 10.16 Og hann tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau. 10.17 Þegar hann var að leggja af stað, kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: 'Góði meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?' 10.18 Jesús sagði við hann: 'Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. 10.19 Þú kannt boðorðin: ,Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.'` 10.20 Hinn svaraði honum: 'Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku.' 10.21 Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: 'Eins er þér vant. Far þú, sel allt, sem þú átt, og gef fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan, og fylg mér.' 10.22 En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur, enda átti hann miklar eignir. 10.23 Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: 'Hve torvelt verður þeim, sem auðinn hafa, að ganga inn í Guðs ríki.' 10.24 Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú, en hann sagði aftur við þá: 'Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. 10.25 Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.' 10.26 En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: 'Hver getur þá orðið hólpinn?' 10.27 Jesús horfði á þá og sagði: 'Fyrir mönnum eru engin ráð til þessa, en fyrir Guði. Guð megnar allt.' 10.28 Þá sagði Pétur við hann: 'Vér yfirgáfum allt og fylgdum þér.' 10.29 Jesús sagði: 'Sannlega segi ég yður, að enginn hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, móður eða föður, börn eða akra vegna mín og fagnaðarerindisins, 10.30 án þess að hann fái hundraðfalt aftur, nú á þessum tíma heimili, bræður og systur, mæður, börn og akra, jafnframt ofsóknum, og í hinum komandi heimi eilíft líf. 10.31 En margir hinir fyrstu munu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir.' 10.32 Þeir voru nú á leið upp til Jerúsalem. Jesús gekk á undan þeim, en þeir voru skelfdir, og þeir sem eftir fylgdu voru hræddir. Og enn tók hann til sín þá tólf og fór að segja þeim, hvað fram við sig ætti að koma. 10.33 'Nú förum vér upp til Jerúsalem. Þar verður Mannssonurinn framseldur æðstu prestum og fræðimönnum. Þeir munu dæma hann til dauða og framselja hann heiðingjum. 10.34 Og þeir munu hæða hann, hrækja á hann, húðstrýkja og lífláta, en eftir þrjá daga mun hann upp rísa.' 10.35 Þá komu til hans Jakob og Jóhannes, synir Sebedeusar, og sögðu við hann: 'Meistari, okkur langar, að þú gjörir fyrir okkur það sem við ætlum að biðja þig.' 10.36 Hann spurði þá: 'Hvað viljið þið, að ég gjöri fyrir ykkur?' 10.37 Þeir svöruðu: 'Veit okkur, að við fáum að sitja þér við hlið í dýrð þinni, annar til hægri handar þér og hinn til vinstri.' 10.38 Jesús sagði við þá: 'Þið vitið ekki, hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik, sem ég drekk, eða skírst þeirri skírn, sem ég skírist?' 10.39 Þeir sögðu við hann: 'Það getum við.' Jesús mælti: 'Þann kaleik, sem ég drekk, munuð þið drekka, og þið munuð skírast þeirri skírn, sem ég skírist. 10.40 En mitt er ekki að veita, hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim, sem það er fyrirbúið.' 10.41 Þegar hinir tíu heyrðu þetta, gramdist þeim við þá Jakob og Jóhannes. 10.42 En Jesús kallaði þá til sín og mælti: 'Þér vitið, að þeir, sem teljast ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu. 10.43 En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar. 10.44 Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé allra þræll. 10.45 Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.' 10.46 Þeir komu til Jeríkó. Og þegar hann fór út úr borginni ásamt lærisveinum sínum og miklum mannfjölda, sat þar við veginn Bartímeus, sonur Tímeusar, blindur beiningamaður. 10.47 Þegar hann heyrði, að þar færi Jesús frá Nasaret, tók hann að hrópa: 'Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!' 10.48 Margir höstuðu á hann, að hann þegði, en hann hrópaði því meir: 'Sonur Davíðs, miskunna þú mér!' 10.49 Jesús nam staðar og sagði: 'Kallið á hann.' Þeir kalla á blinda manninn og segja við hann: 'Vertu hughraustur, statt upp, hann kallar á þig.' 10.50 Hann kastaði frá sér yfirhöfn sinni, spratt á fætur og kom til Jesú. 10.51 Jesús spurði hann: 'Hvað vilt þú, að ég gjöri fyrir þig?' Blindi maðurinn svaraði honum: 'Rabbúní, að ég fái aftur sjón.' 10.52 Jesús sagði við hann: 'Far þú, trú þín hefur bjargað þér.' Jafnskjótt fékk hann sjónina og fylgdi honum á ferðinni.
11.1 Þegar þeir nálgast Jerúsalem og koma til Betfage og Betaníu við Olíufjallið, sendir hann tvo lærisveina sína 11.2 og segir við þá: 'Farið í þorpið hér framundan ykkur. Um leið og þið komið þangað, munuð þið finna fola bundinn, sem enginn hefur enn komið á bak. Leysið hann, og komið með hann. 11.3 Ef einhver spyr ykkur: ,Hvers vegna gjörið þið þetta?` Þá svarið: ,Herrann þarf hans við, hann sendir hann jafnskjótt aftur hingað.'` 11.4 Þeir fóru og fundu folann bundinn við dyr úti á strætinu og leystu hann. 11.5 Nokkrir sem stóðu þar, sögðu við þá: 'Hvers vegna eruð þið að leysa folann?' 11.6 Þeir svöruðu eins og Jesús hafði sagt, og þeir létu þá fara. 11.7 Síðan færðu þeir Jesú folann og lögðu á hann klæði sín, en hann settist á bak. 11.8 Og margir breiddu klæði sín á veginn, en aðrir lim, sem þeir höfðu skorið á völlunum. 11.9 Þeir sem á undan fóru og eftir fylgdu, hrópuðu: 'Hósanna! Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins! 11.10 Blessað sé hið komandi ríki föður vors Davíðs! Hósanna í hæstum hæðum!' 11.11 Hann fór inn í Jerúsalem og í helgidóminn. Þar leit hann yfir allt, en þar sem komið var kvöld, fór hann til Betaníu með þeim tólf. 11.12 Á leiðinni frá Betaníu morguninn eftir kenndi hann hungurs. 11.13 Þá sá hann álengdar laufgað fíkjutré og fór að gá, hvort hann fyndi nokkuð á því. En þegar hann kom að því, fann hann ekkert nema blöð, enda var ekki fíknatíð. 11.14 Hann sagði þá við tréð: 'Enginn neyti framar ávaxtar af þér að eilífu!' Þetta heyrðu lærisveinar hans. 11.15 Þeir komu til Jerúsalem, og hann gekk í helgidóminn og tók að reka út þá, sem voru að selja þar og kaupa, og hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna. 11.16 Og engum leyfði hann að bera neitt um helgidóminn. 11.17 Og hann kenndi þeim og sagði: 'Er ekki ritað: ,Hús mitt á að vera bænahús fyrir allar þjóðir?` En þér hafið gjört það að ræningjabæli.' 11.18 Æðstu prestarnir og fræðimennirnir heyrðu þetta og leituðu fyrir sér, hvernig þeir gætu ráðið hann af dögum. Þeim stóð ótti af honum, því að allur lýðurinn hreifst mjög af kenningu hans. 11.19 Þegar leið að kvöldi, fóru þeir úr borginni. 11.20 Árla morguns fóru þeir hjá fíkjutrénu og sáu, að það var visnað frá rótum. 11.21 Pétur minntist þess, sem gerst hafði, og segir við hann: 'Rabbí, sjáðu! fíkjutréð, sem þú formæltir, er visnað.' 11.22 Jesús svaraði þeim: 'Trúið á Guð. 11.23 Sannlega segi ég yður: Hver sem segir við fjall þetta: ,Lyft þér upp, og steyp þér í hafið,` og efar ekki í hjarta sínu, heldur trúir, að svo fari sem hann mælir, honum mun verða að því. 11.24 Fyrir því segi ég yður: Hvers sem þér biðjið í bæn yðar, þá trúið, að þér hafið öðlast það, og yður mun það veitast. 11.25 Og þegar þér eruð að biðja, þá fyrirgefið, ef yður þykir nokkuð við einhvern, til þess að faðir yðar á himnum fyrirgefi einnig yður misgjörðir yðar. [ 11.26 Ef þér fyrirgefið ekki, mun faðir yðar á himnum ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar. ]' 11.27 Þeir koma aftur til Jerúsalem, og þegar hann var á gangi í helgidóminum, koma til hans æðstu prestarnir, fræðimennirnir og öldungarnir 11.28 og segja við hann: 'Með hvaða valdi gjörir þú þetta? Hver gaf þér það vald, að þú gjörir þetta?' 11.29 Jesús sagði við þá: 'Ég vil leggja eina spurningu fyrir yður. Svarið henni, og ég mun segja yður, með hvaða valdi ég gjöri þetta. 11.30 Var skírn Jóhannesar frá himni eða frá mönnum? Svarið mér!' 11.31 Þeir ráðguðust hver við annan um þetta og sögðu: 'Ef vér svörum: Frá himni, spyr hann: Hví trúðuð þér honum þá ekki? 11.32 Eða ættum vér að svara: Frá mönnum?' _ það þorðu þeir ekki fyrir lýðnum, því allir töldu, að Jóhannes hefði verið sannur spámaður. 11.33 Þeir svöruðu Jesú: 'Vér vitum það ekki.' Jesús sagði við þá: 'Ég segi yður þá ekki heldur, með hvaða valdi ég gjöri þetta.'
12.1 Og hann tók að tala til þeirra í dæmisögum: 'Maður plantaði víngarð. Hann hlóð garð um hann, gróf fyrir vínþröng og reisti turn, seldi hann síðan vínyrkjum á leigu og fór úr landi. 12.2 Á settum tíma sendi hann þjón til vínyrkjanna að fá hjá þeim hlut af ávexti víngarðsins. 12.3 En þeir tóku hann og börðu og sendu burt tómhentan. 12.4 Aftur sendi hann til þeirra annan þjón. Hann lömdu þeir í höfuðið og svívirtu. 12.5 Enn sendi hann annan, og hann drápu þeir, og marga fleiri ýmist börðu þeir eða drápu. 12.6 Einn átti hann eftir enn, elskaðan son. Hann sendi hann síðastan til þeirra og sagði: ,Þeir munu virða son minn.` 12.7 En vínyrkjar þessir sögðu sín á milli: ,Þetta er erfinginn. Förum og drepum hann, þá fáum vér arfinn.` 12.8 Og þeir tóku hann og drápu og köstuðu honum út fyrir víngarðinn. 12.9 Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra? Hann mun koma, tortíma vínyrkjunum og fá öðrum víngarðinn. 12.10 Hafið þér eigi lesið þessa ritningu: Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn hyrningarsteinn. 12.11 Þetta er verk Drottins, og undursamlegt er það í augum vorum.' 12.12 Þeir vildu taka hann höndum, en óttuðust fólkið. Þeir skildu, að hann átti við þá með dæmisögunni. Og þeir yfirgáfu hann og gengu burt. 12.13 Þá sendu þeir til hans nokkra farísea og Heródesarsinna, og skyldu þeir veiða hann í orðum. 12.14 Þeir koma og segja við hann: 'Meistari, vér vitum, að þú ert sannorður og hirðir ekki um álit neins, enda gjörir þú þér engan mannamun, heldur kennir Guðs veg í sannleika. Leyfist að gjalda keisaranum skatt eða ekki? Eigum vér að gjalda eða ekki gjalda?' 12.15 En hann sá hræsni þeirra og sagði við þá: 'Hví freistið þér mín? Fáið mér denar, látið mig sjá.' 12.16 Þeir fengu honum pening. Hann spyr: 'Hvers mynd og yfirskrift er þetta?' Þeir svöruðu: 'Keisarans.' 12.17 En Jesús sagði við þá: 'Gjaldið keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er.' Og þá furðaði stórlega á honum. 12.18 Saddúkear komu til hans, en þeir neita því, að upprisa sé til, og sögðu við hann: 12.19 'Meistari, Móse segir oss í ritningunum, ,að deyi maður barnlaus, en láti eftir sig konu, skuli bróðir hans ganga að eiga ekkjuna og vekja honum niðja.` 12.20 Nú voru sjö bræður. Sá fyrsti tók sér konu, en dó barnlaus. 12.21 Annar bróðirinn gekk að eiga hana og dó barnlaus. Eins hinn þriðji, 12.22 og allir sjö urðu barnlausir. Síðast allra dó konan. 12.23 Í upprisunni, þegar menn rísa upp, kona hvers þeirra verður hún þá? Allir sjö höfðu átt hana.' 12.24 Jesús svaraði þeim: 'Er það ekki þetta, sem veldur því, að þér villist: Þér þekkið ekki ritningarnar né mátt Guðs? 12.25 Þegar menn rísa upp frá dauðum, kvænast þeir hvorki né giftast. Þeir eru sem englar á himnum. 12.26 En um þá dauðu, að þeir rísa upp, hafið þér ekki lesið það í bók Móse, í sögunni um þyrnirunninn? Guð segir við Móse: ,Ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.` 12.27 Ekki er hann Guð dauðra heldur lifenda. Þér villist stórlega.' 12.28 Þá kom til hans fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann, að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: 'Hvert er æðst allra boðorða?' 12.29 Jesús svaraði: 'Æðst er þetta: ,Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. 12.30 Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.` 12.31 Annað er þetta: ,Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.` Ekkert boðorð annað er þessum meira.' 12.32 Fræðimaðurinn sagði þá við hann: 'Rétt er það, meistari, satt sagðir þú, að einn er hann og enginn er annar en hann. 12.33 Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.' 12.34 Jesús sá, að hann svaraði viturlega, og sagði við hann: 'Þú ert ekki fjarri Guðs ríki.' Og enginn þorði framar að spyrja hann. 12.35 Þegar Jesús var að kenna í helgidóminum, sagði hann: 'Hvernig geta fræðimennirnir sagt, að Kristur sé sonur Davíðs? 12.36 Sjálfur mælti Davíð af heilögum anda: Drottinn sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar, þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni. 12.37 Davíð kallar hann sjálfur drottin. Hvernig getur hann þá verið sonur hans?' Og hinn mikli mannfjöldi hlýddi fúslega á hann. 12.38 Í kenningu sinni sagði hann: 'Varist fræðimennina, sem fýsir að ganga í síðskikkjum og láta heilsa sér á torgum, 12.39 vilja skipa æðsta bekk í samkundum og hefðarsæti í veislum. 12.40 Þeir eta upp heimili ekkna og flytja langar bænir að yfirskini. Þeir munu fá því þyngri dóm.' 12.41 Jesús settist gegnt fjárhirslunni og horfði á fólkið leggja peninga í hana. Margir auðmenn lögðu þar mikið. 12.42 Þá kom ekkja ein fátæk og lét þar tvo smápeninga, eins eyris virði. 12.43 Og hann kallaði til sín lærisveina sína og sagði við þá: 'Sannlega segi ég yður, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir, er lögðu í fjárhirsluna. 12.44 Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína.'
13.1 Þegar Jesús gekk út úr helgidóminum, segir einn lærisveina hans við hann: 'Meistari, lít á, hvílíkir steinar, hvílíkar byggingar!' 13.2 Jesús svaraði honum: 'Sérðu þessar miklu byggingar? Ekki mun eftir látinn steinn yfir steini, er eigi sé niður brotinn.' 13.3 Þá er hann sat á Olíufjallinu gegnt helgidóminum, spurðu hann einslega þeir Pétur, Jakob, Jóhannes og Andrés: 13.4 'Seg þú oss, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn þess, að allt þetta sé að koma fram?' 13.5 En Jesús tók að segja þeim: 'Varist að láta nokkurn leiða yður í villu. 13.6 Margir munu koma í mínu nafni og segja: ,Það er ég!` og marga munu þeir leiða í villu. 13.7 En þegar þér spyrjið hernað og ófriðartíðindi, þá skelfist ekki. Þetta á að verða, en endirinn er ekki þar með kominn. 13.8 Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verða landskjálftar á ýmsum stöðum og hungur. Þetta er upphaf fæðingarhríðanna. 13.9 Gætið að sjálfum yður. Menn munu draga yður fyrir dómstóla, í samkundum verðið þér húðstrýktir, og þér munuð leiddir fyrir landshöfðingja og konunga mín vegna, þeim til vitnisburðar. 13.10 En fyrst á að prédika öllum þjóðum fagnaðarerindið. 13.11 Þegar menn taka yður og draga fyrir rétt, hafið þá ekki fyrirfram áhyggjur af því, hvað þér eigið að segja, heldur talið það, sem yður verður gefið á þeirri stundu. Þér eruð ekki þeir sem tala, heldur heilagur andi. 13.12 Þá mun bróðir selja bróður í dauða og faðir barn sitt. Börn munu rísa gegn foreldrum og valda þeim dauða. 13.13 Og þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns. En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða. 13.14 En þegar þér sjáið viðurstyggð eyðingarinnar standa þar, er ekki skyldi _ lesandinn athugi það _ þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla. 13.15 Sá sem er uppi á þaki, fari ekki ofan og inn í húsið að sækja neitt. 13.16 Og sá sem er á akri, skal ekki hverfa aftur að taka yfirhöfn sína. 13.17 Vei þeim sem þungaðar eru eða börn hafa á brjósti á þeim dögum. 13.18 Biðjið, að það verði ekki um vetur. 13.19 Á þeim dögum verður sú þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi sköpunar, er Guð skapaði, allt til þessa, og mun aldrei verða. 13.20 Ef Drottinn hefði ekki stytt þessa daga, kæmist enginn maður af. En hann hefur stytt þá vegna þeirra, sem hann hefur útvalið. 13.21 Og ef einhver segir þá við yður: ,Hér er Kristur,` eða: ,Þar,` þá trúið því ekki. 13.22 Því að fram munu koma falskristar og falsspámenn, og þeir munu gjöra tákn og undur til að leiða afvega hina útvöldu ef orðið gæti. 13.23 Verið varir um yður. Ég hef sagt yður allt fyrir. 13.24 En á þeim dögum, eftir þrenging þessa, mun sólin sortna og tunglið hætta að skína. 13.25 Stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna bifast. 13.26 Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýjum með miklum mætti og dýrð. 13.27 Og hann mun senda út englana og safna sínum útvöldu úr áttunum fjórum, frá skautum jarðar til himinskauta. 13.28 Nemið líkingu af fíkjutrénu. Þegar greinar þess fara að mýkjast og laufið að springa út, þá vitið þér, að sumar er í nánd. 13.29 Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að hann er í nánd, fyrir dyrum. 13.30 Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram. 13.31 Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða. 13.32 En þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn. 13.33 Verið varir um yður, vakið! Þér vitið ekki, nær tíminn er kominn. 13.34 Svo er þetta sem maður fari úr landi, skilji við hús sitt og feli þjónum sínum umráðin, hverjum sitt verk. Dyraverðinum býður hann að vaka. 13.35 Vakið því, þér vitið ekki, nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun. 13.36 Látið hann ekki finna yður sofandi, þegar hann kemur allt í einu. 13.37 Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!'
14.1 Nú voru tveir dagar til páska og hátíðar ósýrðu brauðanna. Og æðstu prestarnir og fræðimennirnir leituðu fyrir sér, hvernig þeir gætu handsamað Jesú með svikum og tekið hann af lífi. 14.2 En þeir sögðu: 'Ekki á hátíðinni, þá gæti orðið uppþot með lýðnum.' 14.3 Hann var í Betaníu, í húsi Símonar líkþráa, og sat að borði. Þá kom þar kona og hafði alabastursbuðk með ómenguðum, dýrum nardussmyrslum. Hún braut buðkinn og hellti yfir höfuð honum. 14.4 En þar voru nokkrir, er gramdist þetta, og þeir sögðu sín á milli: 'Til hvers er þessi sóun á smyrslum? 14.5 Þessi smyrsl hefði mátt selja fyrir meira en þrjú hundruð denara og gefa fátækum.' Og þeir atyrtu hana. 14.6 En Jesús sagði: 'Látið hana í friði! Hvað eruð þér að angra hana? Gott verk gjörði hún mér. 14.7 Fátæka hafið þér jafnan hjá yður og getið gjört þeim gott, nær þér viljið, en mig hafið þér ekki ávallt. 14.8 Hún gjörði það, sem í hennar valdi stóð. Hún hefur fyrirfram smurt líkama minn til greftrunar. 14.9 Sannlega segi ég yður: Hvar sem fagnaðarerindið verður flutt, um heim allan, mun og getið verða þess, sem hún gjörði, til minningar um hana.' 14.10 Júdas Ískaríot, einn þeirra tólf, fór þá til æðstu prestanna að framselja þeim hann. 14.11 Þegar þeir heyrðu það, urðu þeir glaðir við og hétu honum fé fyrir. En hann leitaði færis að framselja hann. 14.12 Á fyrsta degi ósýrðu brauðanna, þegar menn slátruðu páskalambinu, sögðu lærisveinar hans við hann: 'Hvert vilt þú, að vér förum og búum þér páskamáltíðina?' 14.13 Þá sendi hann tvo lærisveina sína og sagði við þá: 'Farið inn í borgina, og ykkur mun mæta maður, sem ber vatnsker. Fylgið honum, 14.14 og þar sem hann fer inn, skuluð þið segja við húsráðandann: ,Meistarinn spyr: Hvar er herbergið, þar sem ég get neytt páskamáltíðarinnar með lærisveinum mínum?` 14.15 Hann mun þá sýna ykkur loftsal mikinn, búinn hægindum og til reiðu. Hafið þar viðbúnað fyrir oss.' 14.16 Lærisveinarnir fóru, komu inn í borgina og fundu allt eins og hann hafði sagt og bjuggu til páskamáltíðar. 14.17 Um kvöldið kom hann með þeim tólf. 14.18 Þegar þeir sátu að borði og mötuðust sagði Jesús: 'Sannlega segi ég yður: Einn af yður mun svíkja mig, einn sem með mér etur.' 14.19 Þeir urðu hryggir við og sögðu við hann, einn af öðrum: 'Ekki er það ég?' 14.20 Hann svaraði þeim: 'Það er einn þeirra tólf. Hann dýfir í sama fat og ég. 14.21 Mannssonurinn fer að sönnu héðan, svo sem um hann er ritað, en vei þeim manni, sem því veldur, að Mannssonurinn verður framseldur. Betra væri þeim manni að hafa aldrei fæðst.' 14.22 Þá er þeir mötuðust, tók hann brauð, þakkaði Guði, braut það og gaf þeim og sagði: 'Takið, þetta er líkami minn.' 14.23 Og hann tók kaleik, gjörði þakkir og gaf þeim, og þeir drukku af honum allir. 14.24 Og hann sagði við þá: 'Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga. 14.25 Sannlega segi ég yður: Héðan í frá mun ég eigi drekka af ávexti vínviðarins til þess dags, er ég drekk hann nýjan í Guðs ríki.' 14.26 Þegar þeir höfðu sungið lofsönginn, fóru þeir til Olíufjallsins. 14.27 Og Jesús sagði við þá: 'Þér munuð allir hneykslast, því að ritað er: Ég mun slá hirðinn, og sauðirnir munu tvístrast. 14.28 En eftir að ég er upp risinn, mun ég fara á undan yður til Galíleu.' 14.29 Þá sagði Pétur: 'Þótt allir hneykslist, geri ég það aldrei.' 14.30 Jesús sagði við hann: 'Sannlega segi ég þér: Nú í nótt, áður en hani galar tvisvar, muntu þrisvar afneita mér.' 14.31 En Pétur kvað enn fastar að: 'Þó að ég ætti að deyja með þér, þá mun ég aldrei afneita þér.' Eins töluðu þeir allir. 14.32 Þeir koma til staðar, er heitir Getsemane, og Jesús segir við lærisveina sína: 'Setjist hér, meðan ég biðst fyrir.' 14.33 Hann tók með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes. Og nú setti að honum ógn og angist. 14.34 Hann segir við þá: 'Sál mín er hrygg allt til dauða. Bíðið hér og vakið.' 14.35 Þá gekk hann lítið eitt áfram, féll til jarðar og bað, að sú stund færi fram hjá sér, ef verða mætti. 14.36 Hann sagði: 'Abba, faðir! allt megnar þú. Tak þennan kaleik frá mér! Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt.' 14.37 Hann kemur aftur og finnur þá sofandi. Þá sagði hann við Pétur: 'Símon, sefur þú? Gastu ekki vakað eina stund? 14.38 Vakið og biðjið, að þér fallið ekki í freistni. Andinn er reiðubúinn, en holdið veikt.' 14.39 Aftur vék hann brott og baðst fyrir með sömu orðum. 14.40 Þegar hann kom aftur, fann hann þá enn sofandi, því drungi var á augum þeirra. Og ekki vissu þeir, hvað þeir ættu að segja við hann. 14.41 Í þriðja sinn kom hann og sagði við þá: 'Sofið þér enn og hvílist? Nú er nóg. Stundin er komin. Mannssonurinn er framseldur í hendur syndugra manna. 14.42 Standið upp, förum! Sá er í nánd, er mig svíkur.' 14.43 Um leið, meðan hann var enn að tala, kemur Júdas, einn þeirra tólf, og með honum flokkur manna frá æðstu prestunum, fræðimönnunum og öldungunum, og höfðu þeir sverð og barefli. 14.44 Svikarinn hafði sagt þeim þetta til marks: 'Sá sem ég kyssi, hann er það. Takið hann höndum og færið brott í tryggri vörslu.' 14.45 Hann kemur, gengur beint að Jesú og segir: 'Rabbí!' og kyssti hann. 14.46 En hinir lögðu hendur á hann og tóku hann. 14.47 Einn þeirra, er hjá stóðu, brá sverði, hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum eyrað. 14.48 Þá sagði Jesús við þá: 'Eruð þér að fara að mér með sverðum og bareflum eins og gegn ræningja til að handtaka mig? 14.49 Daglega var ég hjá yður í helgidóminum og kenndi, og þér tókuð mig ekki höndum. En ritningarnar hljóta að rætast.' 14.50 Þá yfirgáfu hann allir lærisveinar hans og flýðu. 14.51 En maður nokkur ungur fylgdist með honum. Hann hafði línklæði eitt á berum sér. Þeir vildu taka hann, 14.52 en hann lét eftir línklæðið og flýði nakinn. 14.53 Nú færðu þeir Jesú til æðsta prestsins. Þar komu saman allir æðstu prestarnir, öldungarnir og fræðimennirnir. 14.54 Pétur fylgdi honum álengdar, allt inn í garð æðsta prestsins. Þar sat hann hjá þjónunum og vermdi sig við eldinn. 14.55 Æðstu prestarnir og allt ráðið leituðu vitnis gegn Jesú til að geta líflátið hann, en fundu eigi. 14.56 Margir báru þó ljúgvitni gegn honum, en framburði þeirra bar ekki saman. 14.57 Þá stóðu nokkrir upp og báru ljúgvitni gegn honum og sögðu: 14.58 'Vér heyrðum hann segja: ,Ég mun brjóta niður musteri þetta, sem með höndum er gjört, og reisa annað á þrem dögum, sem ekki er með höndum gjört.` ' 14.59 En ekki bar þeim heldur saman um þetta. 14.60 Þá stóð æðsti presturinn upp og spurði Jesú: 'Svarar þú því engu, sem þessir vitna gegn þér?' 14.61 En hann þagði og svaraði engu. Enn spurði æðsti presturinn hann: 'Ertu Kristur, sonur hins blessaða?' 14.62 Jesús sagði: 'Ég er sá, og þér munuð sjá Mannssoninn sitja til hægri handar máttarins og koma í skýjum himins.' 14.63 Þá reif æðsti presturinn klæði sín og sagði: 'Hvað þurfum vér nú framar votta við? 14.64 Þér heyrðuð guðlastið. Hvað líst yður?' Og þeir dæmdu hann allir sekan og dauða verðan. 14.65 Þá tóku sumir að hrækja á hann, þeir huldu andlit hans, slógu hann með hnefunum og sögðu við hann: 'Spáðu!' Eins börðu þjónarnir hann. 14.66 Pétur var niðri í garðinum. Þar kom ein af þernum æðsta prestsins 14.67 og sá, hvar Pétur var að orna sér. Hún horfir á hann og segir: 'Þú varst líka með manninum frá Nasaret, þessum Jesú.' 14.68 Því neitaði hann og sagði: 'Ekki veit ég né skil, hvað þú ert að fara.' Og hann gekk út í forgarðinn, [en þá gól hani.] 14.69 Þar sá þernan hann og fór enn að segja við þá, sem hjá stóðu: 'Þessi er einn af þeim.' 14.70 En hann neitaði sem áður. Litlu síðar sögðu þeir, er hjá stóðu enn við Pétur: 'Víst ertu einn af þeim, enda ertu Galíleumaður.' 14.71 En hann sór og sárt við lagði: 'Ég þekki ekki þennan mann, sem þér talið um.' 14.72 Um leið gól hani annað sinn, og Pétur minntist þess, er Jesús hafði mælt við hann: 'Áður en hani galar tvisvar muntu þrisvar afneita mér.' Þá fór hann að gráta.
15.1 Þegar að morgni gjörðu æðstu prestarnir samþykkt með öldungunum, fræðimönnunum og öllu ráðinu. Þeir létu binda Jesú og færa brott og framseldu hann Pílatusi. 15.2 Pílatus spurði hann: 'Ert þú konungur Gyðinga?' Hann svaraði: 'Þú segir það.' 15.3 En æðstu prestarnir báru á hann margar sakir. 15.4 Pílatus spurði hann aftur: 'Svarar þú engu? Þú heyrir, hve þungar sakir þeir bera á þig.' 15.5 En Jesús svaraði engu framar, og undraðist Pílatus það. 15.6 En á hátíðinni var hann vanur að gefa þeim lausan einn bandingja, þann er þeir báðu um. 15.7 Maður að nafni Barabbas var þá í böndum ásamt upphlaupsmönnum. Höfðu þeir framið manndráp í upphlaupinu. 15.8 Nú kom mannfjöldinn og tók að biðja, að Pílatus veitti þeim hið sama og hann væri vanur. 15.9 Pílatus svaraði þeim: 'Viljið þér, að ég gefi yður lausan konung Gyðinga?' 15.10 Hann vissi, að æðstu prestarnir höfðu fyrir öfundar sakir framselt hann. 15.11 En æðstu prestarnir æstu múginn til að heimta, að hann gæfi þeim heldur Barabbas lausan. 15.12 Pílatus tók enn til máls og sagði við þá: 'Hvað á ég þá að gjöra við þann, sem þér kallið konung Gyðinga?' 15.13 En þeir æptu á móti: 'Krossfestu hann!' 15.14 Pílatus spurði: 'Hvað illt hefur hann þá gjört?' En þeir æptu því meir: 'Krossfestu hann!' 15.15 En með því að Pílatus vildi gjöra fólkinu til hæfis, gaf hann þeim Barabbas lausan. Hann lét húðstrýkja Jesú og framseldi hann til krossfestingar. 15.16 Hermennirnir fóru með hann inn í höllina, aðsetur landshöfðingjans, og kölluðu saman alla hersveitina. 15.17 Þeir færa hann í purpuraskikkju, flétta þyrnikórónu og setja á höfuð honum. 15.18 Þá tóku þeir að heilsa honum: 'Heill þú, konungur Gyðinga!' 15.19 Og þeir slógu höfuð hans með reyrsprota og hræktu á hann, féllu á kné og hylltu hann. 15.20 Þegar þeir höfðu spottað hann, færðu þeir hann úr purpuraskikkjunni og í hans eigin klæði. Þá leiddu þeir hann út til að krossfesta hann. 15.21 En maður nokkur átti leið þar hjá og var að koma utan úr sveit. Hann neyða þeir til að bera kross Jesú. Það var Símon frá Kýrene, faðir þeirra Alexanders og Rúfusar. 15.22 Þeir fara með hann til þess staðar, er heitir Golgata, það þýðir 'hauskúpustaður.' 15.23 Þeir báru honum vín, blandað myrru, en hann þáði ekki. 15.24 Þá krossfestu þeir hann. Og þeir skiptu með sér klæðum hans og köstuðu hlutum um, hvað hver skyldi fá. 15.25 En það var um dagmál, er þeir krossfestu hann. 15.26 Og yfirskriftin um sakargift hans var svo skráð: KONUNGUR GYÐINGA. 15.27 Með honum krossfestu þeir tvo ræningja, annan til hægri handar honum, en hinn til vinstri. [ 15.28 Þá rættist sú ritning, er segir: Með illvirkjum var hann talinn.] 15.29 Þeir, sem fram hjá gengu, hæddu hann, skóku höfuð sín og sögðu: 'Svei, þú, sem brýtur niður musterið og reisir það á þrem dögum! 15.30 Bjarga nú sjálfum þér, og stíg niður af krossinum.' 15.31 Eins gjörðu æðstu prestarnir gys að honum og fræðimennirnir og sögðu hver við annan: 'Öðrum bjargaði hann, sjálfum sér getur hann ekki bjargað. 15.32 Stígi nú Kristur, konungur Ísraels, niður af krossinum, svo að vér getum séð og trúað.' Einnig smánuðu hann þeir, sem með honum voru krossfestir. 15.33 Á hádegi varð myrkur um allt land til nóns. 15.34 Og á nóni kallaði Jesús hárri röddu: 'Elóí, Elóí, lama sabaktaní!' Það þýðir: Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig? 15.35 Nokkrir þeirra, er hjá stóðu, heyrðu þetta og sögðu: 'Heyrið, hann kallar á Elía!' 15.36 Hljóp þá einn til, fyllti njarðarvött ediki, stakk á reyrstaf og gaf honum að drekka. Hann mælti: 'Látum sjá, hvort Elía kemur að taka hann ofan.' 15.37 En Jesús kallaði hárri röddu og gaf upp andann. 15.38 Og fortjald musterisins rifnaði í tvennt, ofan frá allt niður úr. 15.39 Þegar hundraðshöfðinginn, sem stóð gegnt honum, sá hann gefa upp andann á þennan hátt, sagði hann: 'Sannarlega var þessi maður sonur Guðs.' 15.40 Þar voru og konur álengdar og horfðu á, meðal þeirra María Magdalena, María, móðir þeirra Jakobs yngra og Jóse, og Salóme. 15.41 Þær höfðu fylgt honum og þjónað, er hann var í Galíleu. Þar voru margar aðrar konur, sem höfðu farið með honum upp til Jerúsalem. 15.42 Nú var komið kvöld. Þá var aðfangadagur, það er dagurinn fyrir hvíldardag. 15.43 Þá kom Jósef frá Arímaþeu, göfugur ráðsherra, er sjálfur vænti Guðs ríkis. Hann dirfðist að fara inn til Pílatusar og biðja um líkama Jesú. 15.44 Pílatus furðaði á, að hann skyldi þegar vera andaður. Hann kallaði til sín hundraðshöfðingjann og spurði, hvort hann væri þegar látinn. 15.45 Og er hann varð þess vís hjá hundraðshöfðingjanum, gaf hann Jósef líkið. 15.46 En hann keypti línklæði, tók hann ofan, sveipaði hann línklæðinu og lagði í gröf, höggna í klett, og velti steini fyrir grafarmunnann. 15.47 María Magdalena og María móðir Jóse sáu, hvar hann var lagður.
16.1 Þá er hvíldardagurinn var liðinn, keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. 16.2 Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. 16.3 Þær sögðu sín á milli: 'Hver mun velta fyrir oss steininum frá grafarmunnanum?' 16.4 En þegar þær líta upp, sjá þær, að steininum hafði verið velt frá, en hann var mjög stór. 16.5 Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju og þær skelfdust. 16.6 En hann sagði við þær: 'Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjá, þarna er staðurinn, þar sem þeir lögðu hann. 16.7 En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: ,Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann, eins og hann sagði yður`.' 16.8 Þær fóru út og flýðu frá gröfinni, því ótti og ofboð var yfir þær komið. Þær sögðu engum frá neinu, því þær voru hræddar. 16.9 Þegar hann var upp risinn árla hinn fyrsta dag vikunnar, birtist hann fyrst Maríu Magdalenu, en út af henni hafði hann rekið sjö illa anda. 16.10 Hún fór og kunngjörði þetta þeim, er með honum höfðu verið og hörmuðu nú og grétu. 16.11 Þá er þeir heyrðu, að hann væri lifandi og hún hefði séð hann, trúðu þeir ekki. 16.12 Eftir þetta birtist hann í annarri mynd tveimur þeirra, þar sem þeir voru á göngu á leið út í sveit. 16.13 Þeir sneru við og kunngjörðu hinum, en þeir trúðu þeim ekki heldur. 16.14 Seinna birtist hann þeim ellefu, þegar þeir sátu til borðs, og ávítaði þá fyrir vantrú þeirra og harðúð hjartans, að þeir hefðu ekki trúað þeim, er sáu hann upp risinn. 16.15 Hann sagði við þá: 'Farið út um allan heim, og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni. 16.16 Sá sem trúir og skírist, mun hólpinn verða, en sá sem trúir ekki, mun fyrirdæmdur verða. 16.17 En þessi tákn munu fylgja þeim, er trúa: Í mínu nafni munu þeir reka út illa anda, tala nýjum tungum, 16.18 taka upp höggorma, og þó að þeir drekki eitthvað banvænt, mun þeim ekki verða meint af. Yfir sjúka munu þeir leggja hendur, og þeir verða heilir.' 16.19 Þegar nú Drottinn Jesús hafði talað við þá, var hann upp numinn til himins og settist til hægri handar Guði.
1.1 Margir hafa tekið sér fyrir hendur að rekja sögu þeirra viðburða, er gjörst hafa meðal vor, 1.2 samkvæmt því, sem oss hafa flutt þeir menn, er frá öndverðu voru sjónarvottar og þjónar orðsins. 1.3 Nú hef ég athugað kostgæfilega allt þetta frá upphafi og réð því einnig af að rita samfellda sögu fyrir þig, göfugi Þeófílus, 1.4 svo að þú megir ganga úr skugga um sannindi þeirra frásagna, sem þú hefur fræðst um. 1.5 Á dögum Heródesar, konungs í Júdeu, var uppi prestur nokkur að nafni Sakaría, af sveit Abía. Kona hans var og af ætt Arons og hét Elísabet. 1.6 Þau voru bæði réttlát fyrir Guði og lifðu vammlaus eftir öllum boðum og ákvæðum Drottins. 1.7 En þau áttu ekki barn, því að Elísabet var óbyrja, og bæði voru þau hnigin að aldri. 1.8 En svo bar við, er röðin kom að sveit hans og hann var að gegna þjónustu fyrir Guði, 1.9 að það féll í hans hlut, samkvæmt venju prestdómsins, að ganga inn í musteri Drottins og fórna reykelsi. 1.10 En allur fólksfjöldinn var fyrir utan á bæn, meðan reykelsisfórnin var færð. 1.11 Birtist honum þá engill Drottins, sem stóð hægra megin við reykelsisaltarið. 1.12 Sakaría varð hverft við sýn þessa, og ótta sló á hann. 1.13 En engillinn sagði við hann: 'Óttast þú eigi, Sakaría, því bæn þín er heyrð. Elísabet kona þín mun fæða þér son, og þú skalt láta hann heita Jóhannes. 1.14 Og þér mun veitast gleði og fögnuður, og margir munu gleðjast vegna fæðingar hans. 1.15 Því að hann mun verða mikill í augliti Drottins. Aldrei mun hann drekka vín né áfengan drykk, en fyllast heilögum anda þegar frá móðurlífi. 1.16 Og mörgum af Ísraels sonum mun hann snúa til Drottins, Guðs þeirra. 1.17 Og hann mun ganga fyrir honum í anda og krafti Elía til að snúa hjörtum feðra til barna og óhlýðnum til hugarfars réttlátra og búa Drottni altygjaðan lýð.' 1.18 Sakaría sagði við engilinn: 'Af hverju get ég vitað þetta? Ég er gamall og kona mín hnigin að aldri.' 1.19 En engillinn svaraði honum: 'Ég er Gabríel, sem stend frammi fyrir Guði, ég var sendur til að tala við þig og flytja þér þessa gleðifregn. 1.20 Og þú munt verða mállaus og ekki geta talað til þess dags, er þetta kemur fram, vegna þess að þú trúðir ekki orðum mínum, en þau munu rætast á sínum tíma.' 1.21 Og fólkið beið eftir Sakaría og undraðist, hve honum dvaldist í musterinu. 1.22 En er hann kom út, gat hann ekki talað við þá, og skildu þeir, að hann hafði séð sýn í musterinu. Hann gaf þeim bendingar og var mállaus áfram. 1.23 Og er þjónustudagar hans voru liðnir, fór hann heim til sín. 1.24 En eftir þessa daga varð Elísabet kona hans þunguð, og hún leyndi sér í fimm mánuði og sagði: 1.25 'Þannig hefur Drottinn gjört við mig, er hann leit til mín að afmá hneisu mína í augum manna.' 1.26 En á sjötta mánuði var Gabríel engill sendur frá Guði til borgar í Galíleu, sem heitir Nasaret, 1.27 til meyjar, er var föstnuð manni, sem Jósef hét, af ætt Davíðs, en mærin hét María. 1.28 Og engillinn kom inn til hennar og sagði: 'Heil vert þú, sem nýtur náðar Guðs! Drottinn er með þér.' 1.29 En hún varð hrædd við þessi orð og hugleiddi, hvílík þessi kveðja væri. 1.30 Og engillinn sagði við hana: 'Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. 1.31 Þú munt þunguð verða og son ala, og þú skalt láta hann heita JESÚ. 1.32 Hann mun verða mikill og kallaður sonur hins hæsta. Drottinn Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans, 1.33 og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu, og á ríki hans mun enginn endir verða.' 1.34 Þá sagði María við engilinn: 'Hvernig má þetta verða, þar eð ég hef ekki karlmanns kennt?' 1.35 Og engillinn sagði við hana: 'Heilagur andi mun koma yfir þig og kraftur hins hæsta mun yfirskyggja þig. Fyrir því mun og barnið verða kallað heilagt, sonur Guðs. 1.36 Elísabet, frændkona þín, er einnig orðin þunguð að syni í elli sinni, og þetta er sjötti mánuður hennar, sem kölluð var óbyrja, 1.37 en Guði er enginn hlutur um megn.' 1.38 Þá sagði María: 'Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum.' Og engillinn fór burt frá henni. 1.39 En á þeim dögum tók María sig upp og fór með flýti til borgar nokkurrar í fjallbyggðum Júda. 1.40 Hún kom inn í hús Sakaría og heilsaði Elísabetu. 1.41 Þá varð það, þegar Elísabet heyrði kveðju Maríu, að barnið tók viðbragð í lífi hennar, og Elísabet fylltist heilögum anda 1.42 og hrópaði hárri röddu: 'Blessuð ert þú meðal kvenna og blessaður ávöxtur lífs þíns. 1.43 Hvaðan kemur mér þetta, að móðir Drottins míns kemur til mín? 1.44 Þegar kveðja þín hljómaði í eyrum mér, tók barnið viðbragð af gleði í lífi mínu. 1.45 Sæl er hún, sem trúði því, að rætast mundi það, sem sagt var við hana frá Drottni.' 1.46 Og María sagði: Önd mín miklar Drottin, 1.47 og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum. 1.48 Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar, héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja. 1.49 Því að mikla hluti hefur hinn voldugi við mig gjört, og heilagt er nafn hans. 1.50 Miskunn hans við þá, er óttast hann, varir frá kyni til kyns. 1.51 Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað. 1.52 Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja, 1.53 hungraða hefur hann fyllt gæðum, en látið ríka tómhenta frá sér fara. 1.54 Hann hefur minnst miskunnar sinnar og tekið að sér Ísrael, þjón sinn, 1.55 eins og hann talaði til feðra vorra, við Abraham og niðja hans ævinlega. 1.56 En María dvaldist hjá henni hér um bil þrjá mánuði og sneri síðan heim til sín. 1.57 Nú kom sá tími, að Elísabet skyldi verða léttari, og ól hún son. 1.58 Og nágrannar hennar og ættmenn heyrðu, hversu mikla miskunn Drottinn hafði auðsýnt henni, og samfögnuðu henni. 1.59 Á áttunda degi komu þeir að umskera sveininn, og vildu þeir láta hann heita Sakaría í höfuðið á föður sínum. 1.60 Þá mælti móðir hans: 'Eigi skal hann svo heita, heldur Jóhannes.' 1.61 En þeir sögðu við hana: 'Enginn er í ætt þinni, sem heitir því nafni.' 1.62 Bentu þeir þá föður hans, að hann léti þá vita, hvað sveinninn skyldi heita. 1.63 Hann bað um spjald og reit: 'Jóhannes er nafn hans,' og urðu þeir allir undrandi. 1.64 Jafnskjótt laukst upp munnur hans og tunga, og hann fór að tala og lofaði Guð. 1.65 En ótta sló á alla nágranna þeirra og þótti þessi atburður miklum tíðindum sæta í allri fjallbyggð Júdeu. 1.66 Og allir, sem þetta heyrðu, festu það í huga sér og sögðu: 'Hvað mun barn þetta verða?' Því að hönd Drottins var með honum. 1.67 En Sakaría faðir hans fylltist heilögum anda og mælti af spámannlegri andagift: 1.68 Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, því að hann hefur vitjað lýðs síns og búið honum lausn. 1.69 Hann hefur reist oss horn hjálpræðis í húsi Davíðs þjóns síns, 1.70 eins og hann talaði fyrir munn sinna heilögu spámanna frá öndverðu, 1.71 frelsun frá óvinum vorum og úr höndum allra, er hata oss. 1.72 Hann hefur auðsýnt feðrum vorum miskunn og minnst síns heilaga sáttmála, 1.73 þess eiðs, er hann sór Abraham föður vorum 1.74 að hrífa oss úr höndum óvina og veita oss að þjóna sér óttalaust 1.75 í heilagleik og réttlæti fyrir augum hans alla daga vora. 1.76 Og þú, sveinn! munt nefndur verða spámaður hins hæsta, því að þú munt ganga fyrir Drottni að greiða vegu hans 1.77 og veita lýð hans þekkingu á hjálpræðinu, sem er fyrirgefning synda þeirra. 1.78 Þessu veldur hjartans miskunn Guðs vors. Hún lætur upp renna sól af hæðum að vitja vor 1.79 og lýsa þeim, sem sitja í myrkri og skugga dauðans, og beina fótum vorum á friðar veg. 1.80 En sveinninn óx og varð þróttmikill í anda. Hann dvaldist í óbyggðum til þess dags, er hann skyldi koma fram fyrir Ísrael.
2.1 En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. 2.2 Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. 2.3 Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. 2.4 Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, 2.5 að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð. 2.6 En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari. 2.7 Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi. 2.8 En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. 2.9 Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir, 2.10 en engillinn sagði við þá: 'Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: 2.11 Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. 2.12 Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu.' 2.13 Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu: 2.14 Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á. 2.15 Þegar englarnir voru farnir frá þeim til himins, sögðu hirðarnir sín á milli: 'Förum beint til Betlehem að sjá það, sem gjörst hefur og Drottinn hefur kunngjört oss.' 2.16 Og þeir fóru með skyndi og fundu Maríu og Jósef og ungbarnið, sem lá í jötu. 2.17 Þegar þeir sáu það, skýrðu þeir frá því, er þeim hafði verið sagt um barn þetta. 2.18 Og allir, sem heyrðu, undruðust það, er hirðarnir sögðu þeim. 2.19 En María geymdi allt þetta í hjarta sér og hugleiddi það. 2.20 Og hirðarnir sneru aftur og vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það, sem þeir höfðu heyrt og séð, en allt var það eins og þeim hafði verið sagt. 2.21 Þegar átta dagar voru liðnir, skyldi umskera hann, og var hann látinn heita Jesús, eins og engillinn nefndi hann, áður en hann var getinn í móðurlífi. 2.22 En er hreinsunardagar þeirra voru úti eftir lögmáli Móse, fóru þau með hann upp til Jerúsalem til að færa hann Drottni, _ 2.23 en svo er ritað í lögmáli Drottins: 'Allt karlkyns, er fyrst fæðist af móðurlífi, skal helgað Drottni,' _ 2.24 og til að færa fórn eins og segir í lögmáli Drottins, 'tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur.' 2.25 Þá var í Jerúsalem maður, er Símeon hét. Hann var réttlátur og guðrækinn og vænti huggunar Ísraels, og yfir honum var heilagur andi. 2.26 Honum hafði heilagur andi vitrað, að hann skyldi ekki dauðann sjá, fyrr en hann hefði séð Krist Drottins. 2.27 Hann kom að tillaðan andans í helgidóminn. Og er foreldrarnir færðu þangað sveininn Jesú til að fara með hann eftir venju lögmálsins, 2.28 tók Símeon hann í fangið, lofaði Guð og sagði: 2.29 'Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara, eins og þú hefur heitið mér, 2.30 því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt, 2.31 sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða, 2.32 ljós til opinberunar heiðingjum og til vegsemdar lýð þínum Ísrael.' 2.33 Faðir hans og móðir undruðust það, er sagt var um hann. 2.34 En Símeon blessaði þau og sagði við Maríu móður hans: 'Þessi sveinn er settur til falls og til viðreisnar mörgum í Ísrael og til tákns, sem móti verður mælt, 2.35 og sjálf munt þú sverði níst í sálu þinni. Þannig munu hugsanir margra hjartna verða augljósar.' 2.36 Og þar var Anna spákona Fanúelsdóttir af ætt Assers, kona háöldruð. Hafði hún lifað sjö ár með manni sínum frá því hún var mær 2.37 og síðan verið ekkja fram á áttatíu og fjögra ára aldur. Hún vék eigi úr helgidóminum, en þjónaði Guði nótt og dag með föstum og bænahaldi. 2.38 Hún kom að á sömu stundu og lofaði Guð. Og hún talaði um barnið við alla, sem væntu lausnar Jerúsalem. 2.39 Og er þau höfðu lokið öllu eftir lögmáli Drottins, sneru þau aftur til Galíleu, til borgar sinnar Nasaret. 2.40 En sveinninn óx og styrktist, fylltur visku, og náð Guðs var yfir honum. 2.41 Foreldrar hans ferðuðust ár hvert til Jerúsalem á páskahátíðinni. 2.42 Og þegar hann var tólf ára gamall, fóru þau upp þangað eins og siður var á hátíðinni. 2.43 Þau voru þar út hátíðisdagana. En þegar þau sneru heimleiðis, varð sveinninn Jesús eftir í Jerúsalem, og vissu foreldrar hans það eigi. 2.44 Þau hugðu, að hann væri með samferðafólkinu, og fóru eina dagleið og leituðu hans meðal frænda og kunningja. 2.45 En þau fundu hann ekki og sneru þá aftur til Jerúsalem og leituðu hans. 2.46 Eftir þrjá daga fundu þau hann í helgidóminum. Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá. 2.47 En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum. 2.48 Og er þau sáu hann þar, brá þeim mjög, og móðir hans sagði við hann: 'Barn, hví gjörðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin.' 2.49 Og hann sagði við þau: 'Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki, að mér ber að vera í húsi föður míns?' 2.50 En þau skildu ekki það er hann talaði við þau. 2.51 Og hann fór heim með þeim og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn. En móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér. 2.52 Og Jesús þroskaðist að visku og vexti, og náð hjá Guði og mönnum.
3.1 Á fimmtánda stjórnarári Tíberíusar keisara, þegar Pontíus Pílatus var landstjóri í Júdeu, en Heródes fjórðungsstjóri í Galíleu, Filippus bróðir hans í Ítúreu og Trakónítishéraði og Lýsanías í Abílene, 3.2 í æðstapreststíð Annasar og Kaífasar, kom orð Guðs til Jóhannesar Sakaríasonar í óbyggðinni. 3.3 Og hann fór um alla Jórdanbyggð og prédikaði iðrunarskírn til fyrirgefningar synda, 3.4 eins og ritað er í bók Jesaja spámanns: Rödd hrópanda í eyðimörk: Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans. 3.5 Öll gil skulu fyllast, öll fell og hálsar lægjast. Krókar skulu verða beinir og óvegir sléttar götur. 3.6 Og allir menn munu sjá hjálpræði Guðs. 3.7 Við mannfjöldann, sem fór út til að skírast af honum, sagði hann: 'Þér nöðru kyn, hver kenndi yður að flýja komandi reiði? 3.8 Berið þá ávexti samboðna iðruninni, og farið ekki að segja með sjálfum yður: ,Vér eigum Abraham að föður.` Ég segi yður, að Guð getur vakið Abraham börn af steinum þessum. 3.9 Öxin er þegar lögð að rótum trjánna og hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað.' 3.10 Mannfjöldinn spurði hann: 'Hvað eigum vér þá að gjöra?' 3.11 En hann svaraði þeim: 'Sá sem á tvo kyrtla, gefi þeim, er engan á, og eins gjöri sá er matföng hefur.' 3.12 Þá komu og tollheimtumenn til að skírast. Þeir sögðu við hann: 'Meistari, hvað eigum vér að gjöra?' 3.13 En hann sagði við þá: 'Heimtið ekki meira en fyrir yður er lagt.' 3.14 Hermenn spurðu hann einnig: 'En hvað eigum vér að gjöra?' Hann sagði við þá: 'Hafið ekki fé af neinum, hvorki með ofríki né svikum. Látið yður nægja mála yðar.' 3.15 Nú var eftirvænting vakin hjá lýðnum, og allir voru að hugsa með sjálfum sér, hvort Jóhannes kynni að vera Kristur. 3.16 En Jóhannes svaraði öllum og sagði: 'Ég skíri yður með vatni, en sá kemur, sem mér er máttugri, og er ég ekki verður að leysa skóþveng hans. Hann mun skíra yður með heilögum anda og eldi. 3.17 Hann er með varpskófluna í hendi sér til þess að gjörhreinsa láfa sinn og safna hveitinu í hlöðu sína, en hismið mun hann brenna í óslökkvanda eldi.' 3.18 Með mörgu öðru áminnti hann og flutti lýðnum fagnaðarboðin. 3.19 Hann vítti Heródes fjórðungsstjóra vegna Heródíasar, konu bróður hans, og fyrir allt hið illa, sem hann hafði gjört. 3.20 Þá bætti Heródes einnig því ofan á allt annað, að hann varpaði Jóhannesi í fangelsi. 3.21 Er allur lýðurinn lét skírast, var Jesús einnig skírður. Þá bar svo við, er hann gjörði bæn sína, að himinninn opnaðist, 3.22 og heilagur andi steig niður yfir hann í líkamlegri mynd, eins og dúfa, og rödd kom af himni: 'Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun.' 3.23 En Jesús var um þrítugt, er hann hóf starf sitt. Var hann, eftir því sem haldið var, sonur Jósefs, sonar Elí, 3.24 sonar Mattats, sonar Leví, sonar Melkí, sonar Jannaí, sonar Jósefs, 3.25 sonar Mattatíass, sonar Amoss, sonar Naúms, sonar Eslí, sonar Naggaí, 3.26 sonar Maats, sonar Mattatíass, sonar Semeíns, sonar Jóseks, sonar Jóda, 3.27 sonar Jóhanans, sonar Hresa, sonar Serúbabels, sonar Sealtíels, sonar Nerí, 3.28 sonar Melkí, sonar Addí, sonar Kósams, sonar Elmadams, sonar Ers, 3.29 sonar Jesú, sonar Elíesers, sonar Jóríms, sonar Mattats, sonar Leví, 3.30 sonar Símeons, sonar Júda, sonar Jósefs, sonar Jónams, sonar Eljakíms, 3.31 sonar Melea, sonar Menna, sonar Mattata, sonar Natans, sonar Davíðs, 3.32 sonar Ísaí, sonar Óbeðs, sonar Bóasar, sonar Salmons, sonar Naksons, 3.33 sonar Ammínadabs, sonar Admíns, sonar Arní, sonar Esroms, sonar Peres, sonar Júda, 3.34 sonar Jakobs, sonar Ísaks, sonar Abrahams, sonar Tara, sonar Nakórs, 3.35 sonar Serúgs, sonar Reú, sonar Pelegs, sonar Ebers, sonar Sela, 3.36 sonar Kenans, sonar Arpaksads, sonar Sems, sonar Nóa, sonar Lameks, 3.37 sonar Metúsala, sonar Enoks, sonar Jareds, sonar Mahalalels, sonar Kenans, 3.38 sonar Enoss, sonar Sets, sonar Adams, sonar Guðs.
4.1 En Jesús sneri aftur frá Jórdan, fullur af heilögum anda. Leiddi andinn hann um óbyggðina 4.2 fjörutíu daga, en djöfullinn freistaði hans. Ekki neytti hann neins þá daga, og er þeir voru liðnir, var hann hungraður. 4.3 En djöfullinn sagði við hann: 'Ef þú ert sonur Guðs, þá bjóð þú steini þessum, að hann verði að brauði.' 4.4 Og Jesús svaraði honum: 'Ritað er: ,Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði.'` 4.5 Þá fór hann með hann upp og sýndi honum á augabragði öll ríki veraldar. 4.6 Og djöfullinn sagði við hann: 'Þér mun ég gefa allt þetta veldi og dýrð þess, því að mér er það í hendur fengið, og ég get gefið það hverjum sem ég vil. 4.7 Ef þú fellur fram og tilbiður mig, skal það allt verða þitt.' 4.8 Jesús svaraði honum: 'Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.' 4.9 Þá fór hann með hann til Jerúsalem, setti hann á brún musterisins og sagði við hann: 'Ef þú ert sonur Guðs, þá kasta þér hér ofan, 4.10 því að ritað er: Hann mun fela englum sínum að gæta þín 4.11 og: þeir munu bera þig á höndum sér, að þú steytir ekki fót þinn við steini.' 4.12 Jesús svaraði honum: 'Sagt hefur verið: ,Ekki skalt þú freista Drottins, Guðs þíns.'` 4.13 Og er djöfullinn hafði lokið allri freistni, vék hann frá honum að sinni. 4.14 En Jesús sneri aftur til Galíleu í krafti andans, og fóru fregnir af honum um allt nágrennið. 4.15 Hann kenndi í samkundum þeirra, og lofuðu hann allir. 4.16 Hann kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa. 4.17 Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn, þar sem ritað er: 4.18 Andi Drottins er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa 4.19 og kunngjöra náðarár Drottins. 4.20 Síðan lukti hann aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður, en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. 4.21 Hann tók þá að tala til þeirra: 'Í dag hefur rætst þessi ritning í áheyrn yðar.' 4.22 Og allir lofuðu hann og undruðust þau hugnæmu orð, sem fram gengu af munni hans, og sögðu: 'Er hann ekki sonur Jósefs?' 4.23 En hann sagði við þá: 'Eflaust munuð þér minna mig á orðtakið: ,Læknir, lækna sjálfan þig!` Vér höfum heyrt um allt, sem gjörst hefur í Kapernaum. Gjör nú hið sama hér í ættborg þinni.' 4.24 Enn sagði hann: 'Sannlega segi ég yður, engum spámanni er vel tekið í landi sínu. 4.25 En satt segi ég yður, að margar voru ekkjur í Ísrael á dögum Elía, þegar himinninn var luktur í þrjú ár og sex mánuði, og mikið hungur í öllu landinu, 4.26 og þó var Elía til engrar þeirra sendur, heldur aðeins til ekkju í Sarepta í Sídonlandi. 4.27 Og margir voru líkþráir í Ísrael á dögum Elísa spámanns, og enginn þeirra var hreinsaður, heldur aðeins Naaman Sýrlendingur.' 4.28 Allir í samkunduhúsinu fylltust reiði, er þeir heyrðu þetta, 4.29 spruttu upp, hröktu hann út úr borginni og fóru með hann fram á brún fjalls þess, sem borg þeirra var reist á, til þess að hrinda honum þar ofan. 4.30 En hann gekk gegnum miðja mannþröngina og fór leiðar sinnar. 4.31 Hann kom nú ofan til Kapernaum, borgar í Galíleu, og kenndi þeim á hvíldardegi. 4.32 Undruðust menn mjög kenningu hans, því að vald fylgdi orðum hans. 4.33 Í samkunduhúsinu var maður nokkur, er haldinn var óhreinum, illum anda. Hann æpti hárri röddu: 4.34 'Æ, hvað vilt þú oss, Jesús frá Nasaret? Ert þú kominn að tortíma oss? Ég veit, hver þú ert, hinn heilagi Guðs.' 4.35 Jesús hastaði þá á hann og mælti: 'Þegi þú, og far út af honum.' En illi andinn slengdi honum fram fyrir þá og fór út af honum, en varð honum ekki að meini. 4.36 Felmtri sló á alla, og sögðu þeir hver við annan: 'Hvaða orð er þetta? Með valdi og krafti skipar hann óhreinum öndum, og þeir fara.' 4.37 Og orðstír hans barst út til allra staða þar í grennd. 4.38 Úr samkundunni fór hann í hús Símonar. En tengdamóðir Símonar var altekin sótthita, og báðu þeir hann að hjálpa henni. 4.39 Hann gekk að, laut yfir hana og hastaði á sótthitann, og fór hann úr henni. En hún reis jafnskjótt á fætur og gekk þeim fyrir beina. 4.40 Um sólsetur komu allir þeir, er höfðu á sínum vegum sjúklinga haldna ýmsum sjúkdómum, og færðu þá til hans. En hann lagði hendur yfir hvern þeirra og læknaði þá. 4.41 Þá fóru og illir andar út af mörgum og æptu: 'Þú ert sonur Guðs.' En hann hastaði á þá og bannaði þeim að tala, því að þeir vissu, að hann var Kristur. 4.42 Þegar dagur rann, gekk hann burt á óbyggðan stað, en mannfjöldinn leitaði hans. Þeir fundu hann og vildu aftra því, að hann færi frá þeim. 4.43 En hann sagði við þá: 'Mér ber og að flytja hinum borgunum fagnaðarerindið um Guðs ríki, því að til þess var ég sendur.' 4.44 Og hann prédikaði í samkundunum í Júdeu.
5.1 Nú bar svo til, að hann stóð við Genesaretvatn og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð. 5.2 Þá sá hann tvo báta við vatnið, en fiskimennirnir voru farnir í land og þvoðu net sín. 5.3 Hann fór út í þann bátinn, er Símon átti, og bað hann að leggja lítið eitt frá landi, settist og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum. 5.4 Þegar hann hafði lokið ræðu sinni, sagði hann við Símon: 'Legg þú út á djúpið, og leggið net yðar til fiskjar.' 5.5 Símon svaraði: 'Meistari, vér höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið, en fyrst þú segir það, skal ég leggja netin.' 5.6 Nú gjörðu þeir svo, og fengu þeir þá mikinn fjölda fiska, en net þeirra tóku að rifna. 5.7 Bentu þeir þá félögum sínum á hinum bátnum að koma og hjálpa sér. Þeir komu og hlóðu báða bátana, svo að nær voru sokknir. 5.8 Þegar Símon Pétur sá þetta, féll hann fyrir kné Jesú og sagði: 'Far þú frá mér, herra, því að ég er syndugur maður.' 5.9 En felmtur kom á hann og alla þá, sem með honum voru, vegna fiskaflans, er þeir höfðu fengið. 5.10 Eins var um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar. Jesús sagði þá við Símon: 'Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða.' 5.11 Og þeir lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum. 5.12 Svo bar við, er hann var í einni borginni, að þar var maður altekinn líkþrá. Hann sá Jesú, féll fram á ásjónu sína og bað hann: 'Herra, ef þú vilt, getur þú hreinsað mig.' 5.13 Jesús rétti út höndina, snart hann og mælti: 'Ég vil, verð þú hreinn!' Jafnskjótt hvarf af honum líkþráin. 5.14 Og hann bauð honum að segja þetta engum. 'En far þú,' sagði hann, 'sýn þig prestinum, og fórna fyrir hreinsun þína, eins og Móse bauð, þeim til vitnisburðar.' 5.15 En fregnin um hann breiddist út því meir, og menn komu hópum saman til að hlýða á hann og læknast af meinum sínum. 5.16 En hann dró sig einatt í hlé til óbyggðra staða og var þar á bæn. 5.17 Dag nokkurn var hann að kenna. Þar sátu farísear og lögmálskennendur, komnir úr hverju þorpi í Galíleu og Júdeu og frá Jerúsalem, og kraftur Drottins var með honum til þess að lækna. 5.18 Komu þá menn með lama mann í rekkju og reyndu að bera hann inn og leggja hann fyrir framan Jesú. 5.19 En vegna mannfjöldans sáu þeir engin ráð til að komast inn með hann og fóru því upp á þak og létu hann síga í rekkjunni niður um helluþekjuna beint fram fyrir Jesú. 5.20 Og er hann sá trú þeirra, sagði hann: 'Maður, syndir þínar eru þér fyrirgefnar.' 5.21 Þá tóku fræðimennirnir og farísearnir að hugsa með sér: 'Hver er sá, er fer með slíka guðlöstun? Hver getur fyrirgefið syndir nema Guð einn?' 5.22 En Jesús skynjaði gjörla hugsanir þeirra og sagði við þá: 'Hvað hugsið þér í hjörtum yðar? 5.23 Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru þér fyrirgefnar,` eða segja: ,Statt upp og gakk`? 5.24 En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu til að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér:' _ og nú talar hann við lama manninn _ 'Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín.' 5.25 Jafnskjótt stóð hann upp frammi fyrir þeim, tók það, sem hann hafði legið á, fór heim til sín og lofaði Guð. 5.26 En allir voru furðu lostnir og lofuðu Guð. Og þeir urðu ótta slegnir og sögðu: 'Óskiljanlegt er það, sem vér höfum séð í dag.' 5.27 Eftir þetta fór hann út. Þá sá hann tollheimtumann, Leví að nafni, sitja hjá tollbúðinni og sagði við hann: 'Fylg þú mér!' 5.28 Og hann stóð upp, yfirgaf allt og fylgdi honum. 5.29 Leví bjó honum veislu mikla í húsi sínu, og þar sat að borði með þeim mikill fjöldi tollheimtumanna og annarra. 5.30 En farísearnir og fræðimenn þeirra vönduðu um við lærisveina hans og sögðu: 'Hvers vegna etið þér og drekkið með tollheimtumönnum og bersyndugum?' 5.31 Og Jesús svaraði þeim: 'Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru. 5.32 Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara til iðrunar.' 5.33 En þeir sögðu við hann: 'Lærisveinar Jóhannesar fasta oft og fara með bænir og eins lærisveinar farísea, en þínir eta og drekka.' 5.34 Jesús sagði við þá: 'Hvort getið þér ætlað brúðkaupsgestum að fasta, meðan brúðguminn er hjá þeim? 5.35 En koma munu þeir dagar, er brúðguminn verður frá þeim tekinn, þá munu þeir fasta á þeim dögum.' 5.36 Hann sagði þeim einnig líkingu: 'Enginn rífur bót af nýju fati og lætur á gamalt fat, því að bæði rífur hann þá nýja fatið og bótin af því hæfir ekki hinu gamla. 5.37 Og enginn lætur nýtt vín á gamla belgi, því þá sprengir nýja vínið belgina og fer niður, en belgirnir ónýtast. 5.38 Nýtt vín ber að láta á nýja belgi. 5.39 Og enginn, sem drukkið hefur gamalt vín, vill nýtt, því að hann segir: ,Hið gamla er gott.'`
6.1 En svo bar við á hvíldardegi, að hann fór um sáðlönd, og tíndu lærisveinar hans kornöx, neru milli handanna og átu. 6.2 Þá sögðu farísear nokkrir: 'Hví gjörið þér það, sem er ekki leyfilegt á hvíldardegi?' 6.3 Og Jesús svaraði þeim: 'Hafið þér þá ekki lesið, hvað Davíð gjörði, er hann hungraði og menn hans? 6.4 Hann fór inn í Guðs hús, tók skoðunarbrauðin og át og gaf mönnum sínum, en þau má enginn eta nema prestarnir einir.' 6.5 Og hann sagði við þá: 'Mannssonurinn er herra hvíldardagsins.' 6.6 Annan hvíldardag gekk hann í samkunduna og kenndi. Þar var maður nokkur með visna hægri hönd. 6.7 En fræðimenn og farísear höfðu nánar gætur á Jesú, hvort hann læknaði á hvíldardegi, svo að þeir fengju tilefni að kæra hann. 6.8 En hann vissi hugsanir þeirra og sagði við manninn með visnu höndina: 'Statt upp, og kom hér fram.' Og hann stóð upp og kom. 6.9 Jesús sagði við þá: 'Ég spyr yður, hvort er heldur leyfilegt að gjöra gott eða gjöra illt á hvíldardegi, bjarga lífi eða granda því?' 6.10 Hann leit í kring á þá alla og sagði við manninn: 'Réttu fram hönd þína.' Hann gjörði svo, og hönd hans varð heil. 6.11 En þeir urðu æfir við og ræddu sín á milli, hvað þeir gætu gjört Jesú. 6.12 En svo bar við um þessar mundir, að hann fór til fjalls að biðjast fyrir og var alla nóttina á bæn til Guðs. 6.13 Og er dagur rann, kallaði hann til sín lærisveina sína, valdi tólf úr þeirra hópi og nefndi þá postula. 6.14 Þeir voru: Símon, sem hann nefndi Pétur, Andrés bróðir hans, Jakob og Jóhannes, Filippus og Bartólómeus, 6.15 Matteus og Tómas, Jakob Alfeusson og Símon, kallaður vandlætari, 6.16 og Júdas Jakobsson og Júdas Ískaríot, sem varð svikari. 6.17 Hann gekk ofan með þeim og nam staðar á sléttri flöt. Þar var stór hópur lærisveina hans og mikill fjöldi fólks úr allri Júdeu, frá Jerúsalem og sjávarbyggðum Týrusar og Sídonar, 6.18 er komið hafði til að hlýða á hann og fá lækning meina sinna. Einnig voru þeir læknaðir, er þjáðir voru af óhreinum öndum. 6.19 Allt fólkið reyndi að snerta hann, því að frá honum kom kraftur, er læknaði alla. 6.20 Þá hóf hann upp augu sín, leit á lærisveina sína og sagði: 'Sælir eruð þér, fátækir, því að yðar er Guðs ríki. 6.21 Sælir eruð þér, sem nú hungrar, því að þér munuð saddir verða. Sælir eruð þér, sem nú grátið, því að þér munuð hlæja. 6.22 Sælir eruð þér, þá er menn hata yður, þá er þeir útskúfa yður og smána og bera út óhróður um yður vegna Mannssonarins. 6.23 Fagnið á þeim degi og leikið af gleði, því laun yðar eru mikil á himni, og á sama veg fóru feður þeirra með spámennina. 6.24 En vei yður, þér auðmenn, því að þér hafið tekið út huggun yðar. 6.25 Vei yður, sem nú eruð saddir, því að yður mun hungra. Vei yður, sem nú hlæið, því að þér munuð sýta og gráta. 6.26 Vei yður, þá er allir menn tala vel um yður, því að á sama veg fórst feðrum þeirra við falsspámennina. 6.27 En ég segi yður, er á mig hlýðið: Elskið óvini yðar, gjörið þeim gott, sem hata yður, 6.28 blessið þá, sem bölva yður, og biðjið fyrir þeim, er misþyrma yður. 6.29 Slái þig einhver á kinnina, skaltu og bjóða hina, og taki einhver yfirhöfn þína, skaltu ekki varna honum að taka kyrtilinn líka. 6.30 Gef þú hverjum sem biður þig, og þann, sem tekur þitt frá þér, skaltu eigi krefja. 6.31 Og svo sem þér viljið, að aðrir menn gjöri við yður, svo skuluð þér og þeim gjöra. 6.32 Og þótt þér elskið þá, sem yður elska, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar elska þá líka, sem þá elska. 6.33 Og þótt þér gjörið þeim gott, sem yður gjöra gott, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar gjöra og hið sama. 6.34 Og þótt þér lánið þeim, sem þér vonið að muni borga, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar lána einnig syndurum til þess að fá allt aftur. 6.35 Nei, elskið óvini yðar, og gjörið gott og lánið án þess að vænta nokkurs í staðinn, og laun yðar munu verða mikil, og þér verða börn hins hæsta, því að hann er góður við vanþakkláta og vonda. 6.36 Verið miskunnsamir, eins og faðir yðar er miskunnsamur. 6.37 Dæmið ekki, og þér munuð eigi dæmdir verða. Sakfellið eigi, og þér munuð eigi sakfelldir verða. Sýknið, og þér munuð sýknaðir verða. 6.38 Gefið, og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.' 6.39 Þá sagði hann þeim og líkingu: 'Hvort fær blindur leitt blindan? Munu ekki báðir falla í gryfju? 6.40 Ekki er lærisveinn meistaranum fremri, en hver sem er fullnuma, verður eins og meistari hans. 6.41 Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga sjálfs þín? 6.42 Hvernig fær þú sagt við bróður þinn: ,Bróðir, lát mig draga flísina úr auga þér,` en sérð þó eigi sjálfur bjálkann í þínu auga? Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér, og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns. 6.43 Því að ekki er til gott tré, er beri slæman ávöxt, né heldur slæmt tré, er beri góðan ávöxt. 6.44 En hvert tré þekkist af ávexti sínum, enda lesa menn ekki fíkjur af þistlum né vínber af þyrnirunni. 6.45 Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði hjarta síns, en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði. Af gnægð hjartans mælir munnur hans. 6.46 En hví kallið þér mig herra, herra, og gjörið ekki það, sem ég segi? 6.47 Ég skal sýna yður, hverjum sá er líkur, sem kemur til mín, heyrir orð mín og breytir eftir þeim. 6.48 Hann er líkur manni, er byggði hús, gróf djúpt fyrir og grundvallaði það á bjargi. Nú kom flóð og flaumurinn skall á því húsi, en fékk hvergi hrært það, vegna þess að það var vel byggt. 6.49 Hinn, er heyrir og gjörir ekki, er líkur manni, sem byggði hús á jörðinni án undirstöðu. Flaumurinn skall á því, og það hús féll þegar, og fall þess varð mikið.'
7.1 Þá er hann hafði lokið máli sínu í áheyrn lýðsins, fór hann til Kapernaum. 7.2 Hundraðshöfðingi nokkur hafði þjón, sem hann mat mikils. Þjónninn var sjúkur og dauðvona. 7.3 Þegar hundraðshöfðinginn heyrði um Jesú, sendi hann til hans öldunga Gyðinga og bað hann koma og bjarga lífi þjóns síns. 7.4 Þeir komu til Jesú, báðu hann ákaft og sögðu: 'Verður er hann þess, að þú veitir honum þetta, 7.5 því að hann elskar þjóð vora, og hann hefur reist samkunduna handa oss.' 7.6 Jesús fór með þeim. Þegar hann átti skammt til hússins, sendi hundraðshöfðinginn vini sína til hans og lét segja við hann: 'Ómaka þig ekki, herra, því að ég er ekki verður þess, að þú gangir inn undir þak mitt. 7.7 Þess vegna hef ég ekki heldur talið sjálfan mig verðan þess að koma til þín. En mæl þú eitt orð, og mun sveinn minn heill verða. 7.8 Því að sjálfur er ég maður, sem verð að lúta valdi og ræð yfir hermönnum, og ég segi við einn: ,Far þú,` og hann fer, og við annan: ,Kom þú,` og hann kemur, og við þjón minn: ,Gjör þetta,` og hann gjörir það.' 7.9 Þegar Jesús heyrði þetta, furðaði hann sig á honum, sneri sér að mannfjöldanum, sem fylgdi honum, og mælti: 'Ég segi yður, ekki einu sinni í Ísrael hef ég fundið þvílíka trú.' 7.10 Sendimenn sneru þá aftur heim og fundu þjóninn heilan heilsu. 7.11 Skömmu síðar bar svo við, að Jesús hélt til borgar, sem heitir Nain, og lærisveinar hans fóru með honum og mikill mannfjöldi. 7.12 Þegar hann nálgaðist borgarhliðið, þá var verið að bera út látinn mann, einkason móður sinnar, sem var ekkja, og mikill fjöldi úr borginni var með henni. 7.13 Og er Drottinn sá hana, kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: 'Grát þú eigi!' 7.14 Og hann gekk að og snart líkbörurnar, en þeir, sem báru, námu staðar. Þá sagði hann: 'Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!' 7.15 Hinn látni settist þá upp og tók að mæla, og Jesús gaf hann móður hans. 7.16 En ótti greip alla, og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: 'Spámaður mikill er risinn upp meðal vor,' og 'Guð hefur vitjað lýðs síns.' 7.17 Og þessi fregn um hann barst út um alla Júdeu og allt nágrennið. 7.18 Lærisveinar Jóhannesar sögðu honum frá öllu þessu. Hann kallaði þá til sín tvo lærisveina sína, 7.19 sendi þá til Drottins og lét spyrja: 'Ert þú sá sem koma skal, eða eigum vér að vænta annars?' 7.20 Mennirnir fóru til hans og sögðu: 'Jóhannes skírari sendi okkur til þín og spyr: ,Ert þú sá sem koma skal, eða eigum vér að vænta annars?'` 7.21 Á þeirri stundu læknaði hann marga af sjúkdómum, meinum og illum öndum og gaf mörgum blindum sýn. 7.22 Og hann svaraði þeim: 'Farið og kunngjörið Jóhannesi það, sem þið hafið séð og heyrt: Blindir fá sýn, haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi. 7.23 Og sæll er sá, sem hneykslast ekki á mér.' 7.24 Þá er sendimenn Jóhannesar voru burt farnir, tók hann að tala til mannfjöldans um Jóhannes: 'Hvað fóruð þér að sjá í óbyggðum? Reyr af vindi skekinn? 7.25 Hvað fóruð þér að sjá? Prúðbúinn mann? Nei, í konungssölum er þá að finna, sem skartklæðin bera og lifa í sællífi. 7.26 Hvað fóruð þér þá að sjá? Spámann? Já, segi ég yður, og það meira en spámann. 7.27 Hann er sá sem um er ritað: Sjá, ég sendi sendiboða minn á undan þér, er greiða mun veg þinn fyrir þér. 7.28 Ég segi yður: Enginn er sá af konu fæddur, sem meiri sé en Jóhannes. En hinn minnsti í Guðs ríki er honum meiri.' 7.29 Og allur lýðurinn, sem á hlýddi, og enda tollheimtumenn, viðurkenndu réttlæti Guðs og létu skírast af Jóhannesi. 7.30 En farísear og lögvitringar gjörðu að engu áform Guðs um þá og létu ekki skírast af honum. 7.31 'Við hvað á ég þá að líkja mönnum þessarar kynslóðar? Hverju eru þeir líkir? 7.32 Líkir eru þeir börnum, sem á torgi sitja og kallast á: ,Vér lékum fyrir yður á flautu, og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð, og ekki vilduð þér gráta.` 7.33 Nú kom Jóhannes skírari, át ekki brauð né drakk vín, og þér segið: ,Hann hefur illan anda.` 7.34 Og Mannssonurinn er kominn, etur og drekkur, og þér segið: ,Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra!` 7.35 En spekin hefur rétt fyrir sér, það staðfesta öll börn hennar.' 7.36 Farísei nokkur bauð honum að eta hjá sér, og hann fór inn í hús faríseans og settist til borðs. 7.37 En kona ein í bænum, sem var bersyndug, varð þess vís, að hann sat að borði í húsi faríseans. Kom hún þá með alabastursbuðk með smyrslum, 7.38 nam staðar að baki honum til fóta hans grátandi, tók að væta fætur hans með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu, kyssti þá og smurði með smyrslunum. 7.39 Þegar faríseinn, sem honum hafði boðið, sá þetta, sagði hann við sjálfan sig: 'Væri þetta spámaður, mundi hann vita, hver og hvílík sú kona er, sem snertir hann, að hún er bersyndug.' 7.40 Jesús sagði þá við hann: 'Símon, ég hef nokkuð að segja þér.' Hann svaraði: 'Seg þú það, meistari.' 7.41 'Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum. Annar skuldaði honum fimm hundruð denara, en hinn fimmtíu. 7.42 Nú gátu þeir ekkert borgað, og þá gaf hann báðum upp. Hvor þeirra skyldi nú elska hann meira?' 7.43 Símon svaraði: 'Sá, hygg ég, sem hann gaf meira upp.' Jesús sagði við hann: 'Þú ályktaðir rétt.' 7.44 Síðan sneri hann sér að konunni og sagði við Símon: 'Sér þú konu þessa? Ég kom í hús þitt, og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína, en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði með hári sínu. 7.45 Ekki gafst þú mér koss, en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína, allt frá því ég kom. 7.46 Ekki smurðir þú höfuð mitt olíu, en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum. 7.47 Þess vegna segi ég þér: Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar, enda elskar hún mikið, en sá elskar lítið, sem lítið er fyrirgefið.' 7.48 Síðan sagði hann við hana: 'Syndir þínar eru fyrirgefnar.' 7.49 Þá tóku þeir, sem til borðs sátu með honum, að segja með sjálfum sér: 'Hver er sá, er fyrirgefur syndir?' 7.50 En hann sagði við konuna: 'Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði.'
8.1 Eftir þetta fór hann um, borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki. Með honum voru þeir tólf 8.2 og konur nokkrar, er læknaðar höfðu verið af illum öndum og sjúkdómum. Það voru þær María, kölluð Magdalena, er sjö illir andar höfðu farið úr, 8.3 Jóhanna, kona Kúsa, ráðsmanns Heródesar, Súsanna og margar aðrar. Þær hjálpuðu þeim með fjármunum sínum. 8.4 Nú var mikill fjöldi saman kominn, og menn komu til hans úr hverri borg af annarri. Þá sagði hann þessa dæmisögu: 8.5 'Sáðmaður gekk út að sá sæði sínu. Og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni og varð fótum troðið, og fuglar himins átu það upp. 8.6 Sumt féll á klöpp. Það spratt, en skrælnaði, af því að það hafði ekki raka. 8.7 Og sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir spruttu einnig og kæfðu það. 8.8 En sumt féll í góða jörð, óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt.' Að svo mæltu hrópaði hann: 'Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri.' 8.9 En lærisveinar hans spurðu hann, hvað þessi dæmisaga þýddi. 8.10 Hann sagði: 'Yður er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum, ,að sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi skilji þeir ekki.` 8.11 En dæmisagan þýðir þetta: Sæðið er Guðs orð. 8.12 Það er féll hjá götunni, merkir þá, sem heyra orðið, en síðan kemur djöfullinn og tekur það burt úr hjarta þeirra, til þess að þeir trúi ekki og verði hólpnir. 8.13 Það er féll á klöppina, merkir þá, sem taka orðinu með fögnuði, er þeir heyra það, en hafa enga rótfestu. Þeir trúa um stund, en falla frá á reynslutíma. 8.14 Það er féll meðal þyrna, merkir þá er heyra, en kafna síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og bera ekki þroskaðan ávöxt. 8.15 En það er féll í góða jörð, merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi. 8.16 Enginn kveikir ljós og byrgir það með keri eða setur undir bekk, heldur láta menn það á ljósastiku, að þeir, sem inn koma, sjái ljósið. 8.17 Því að ekkert er hulið, sem eigi verður opinbert, né leynt, að eigi verði það kunnugt og komi í ljós. 8.18 Gætið því að, hvernig þér heyrið. Því að þeim sem hefur, mun gefið verða, og frá þeim sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann ætlar sig hafa.' 8.19 Móðir hans og bræður komu til hans, en gátu ekki náð fundi hans vegna mannfjöldans. 8.20 Var honum sagt: 'Móðir þín og bræður standa úti og vilja finna þig.' 8.21 En hann svaraði þeim: 'Móðir mín og bræður eru þeir, sem heyra Guðs orð og breyta eftir því.' 8.22 Dag einn fór hann út í bát og lærisveinar hans. Hann sagði við þá: 'Förum yfir um vatnið.' Og þeir létu frá landi. 8.23 En sem þeir sigldu, sofnaði hann. Þá skall stormhrina á vatnið, svo að nær fyllti bátinn og voru þeir hætt komnir. 8.24 Þeir fóru þá til hans, vöktu hann og sögðu: 'Meistari, meistari, vér förumst!' En hann vaknaði og hastaði á vindinn og öldurótið og slotaði þegar og gerði logn. 8.25 Og hann sagði við þá: 'Hvar er trú yðar?' En þeir urðu hræddir og undruðust og sögðu hver við annan: 'Hver er þessi? Hann skipar bæði vindum og vatni og hvort tveggja hlýðir honum.' 8.26 Þeir tóku land í byggð Gerasena, sem er gegnt Galíleu. 8.27 Er hann sté á land, kom á móti honum maður nokkur úr borginni, sem haldinn var illum öndum. Langan tíma hafði hann ekki farið í föt né dvalist í húsi, heldur í gröfunum. 8.28 Þegar hann sá Jesú, æpti hann, féll fram fyrir honum og hrópaði hárri röddu: 'Hvað vilt þú mér, Jesús, sonur Guðs hins hæsta? Ég bið þig, kvel þú mig eigi!' 8.29 Því að hann hafði boðið óhreina andanum að fara út af manninum. En margsinnis hafði hann gripið hann, og höfðu menn fjötrað hann á höndum og fótum og haft í gæslu, en hann hafði slitið böndin og illi andinn hrakið hann út í óbyggðir. 8.30 Jesús spurði hann: 'Hvað heitir þú?' En hann sagði: 'Hersing', því að margir illir andar höfðu farið í hann. 8.31 Og þeir báðu Jesú að skipa sér ekki að fara í undirdjúpið. 8.32 En þar var stór svínahjörð á beit í fjallinu. Þeir báðu hann að leyfa sér að fara í þau, og hann leyfði þeim það. 8.33 Illu andarnir fóru þá úr manninum og í svínin, og hjörðin ruddist fram af hamrinum í vatnið og drukknaði. 8.34 En er hirðarnir sáu, hvað orðið var, flýðu þeir og sögðu tíðindin í borginni og sveitinni. 8.35 Menn fóru þá að sjá, hvað gjörst hafði, komu til Jesú og fundu manninn, sem illu andarnir höfðu farið úr, sitja klæddan og heilvita við fætur Jesú. Og þeir urðu hræddir. 8.36 Sjónarvottar sögðu þeim frá, hvernig sá, sem haldinn var illum öndum, hafði orðið heill. 8.37 Allt fólk í héruðum Gerasena bað hann þá fara burt frá sér, því menn voru slegnir miklum ótta. Og hann sté í bátinn og sneri aftur. 8.38 Maðurinn, sem illu andarnir höfðu farið úr, bað hann að mega vera með honum, en Jesús lét hann fara og mælti: 8.39 'Far aftur heim til þín, og seg þú frá, hve mikið Guð hefur fyrir þig gjört.' Hann fór og kunngjörði um alla borgina, hve mikið Jesús hafði fyrir hann gjört. 8.40 En er Jesús kom aftur, fagnaði mannfjöldinn honum, því að allir væntu hans. 8.41 Þá kom þar maður, Jaírus að nafni, forstöðumaður samkundunnar. Hann féll til fóta Jesú og bað hann koma heim til sín. 8.42 Því hann átti einkadóttur, um tólf ára að aldri, og hún lá fyrir dauðanum. Þegar Jesús var á leiðinni, þrengdi mannfjöldinn að honum. 8.43 Þar var kona, sem hafði haft blóðlát í tólf ár. Hún hafði leitað lækna og varið til aleigu sinni, en enginn getað læknað hana. 8.44 Hún kom að baki honum og snart fald klæða hans, og jafnskjótt stöðvaðist blóðlát hennar. 8.45 Jesús sagði: 'Hver var það, sem snart mig?' En er allir synjuðu fyrir það, sagði Pétur: 'Meistari, mannfjöldinn treðst að þér og þrýstir á.' 8.46 En Jesús sagði: 'Einhver snart mig, því að ég fann, að kraftur fór út frá mér.' 8.47 En er konan sá, að hún fékk eigi dulist, kom hún skjálfandi, féll til fóta honum og skýrði frá því í áheyrn alls lýðsins, hvers vegna hún snart hann, og hvernig hún hafði jafnskjótt læknast. 8.48 Hann sagði þá við hana: 'Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði.' 8.49 Meðan hann var að segja þetta, kemur maður heiman frá samkundustjóranum og segir: 'Dóttir þín er látin, ómaka þú ekki meistarann lengur.' 8.50 En er Jesús heyrði þetta, sagði hann við hann: 'Óttast ekki, trú þú aðeins, og mun hún heil verða.' 8.51 Þegar hann kom að húsinu, leyfði hann engum að fara inn með sér nema Pétri, Jóhannesi og Jakobi og föður stúlkunnar og móður. 8.52 Og allir grétu og syrgðu hana. Hann sagði: 'Grátið ekki, hún er ekki dáin, hún sefur.' 8.53 En þeir hlógu að honum, þar eð þeir vissu að hún var dáin. 8.54 Hann tók þá hönd hennar og kallaði: 'Stúlka, rís upp!' 8.55 Og andi hennar kom aftur, og hún reis þegar upp, en hann bauð að gefa henni að eta. 8.56 Foreldrar hennar urðu frá sér numdir, en hann bauð þeim að segja engum frá þessum atburði.
9.1 Hann kallaði saman þá tólf og gaf þeim mátt og vald yfir öllum illum öndum og til að lækna sjúkdóma. 9.2 Hann sendi þá að boða Guðs ríki og græða sjúka 9.3 og sagði við þá: 'Takið ekkert til ferðarinnar, hvorki staf né mal, brauð né silfur, og enginn hafi tvo kyrtla. 9.4 Og hvar sem þér fáið inni, þar sé aðsetur yðar og þaðan skuluð þér leggja upp að nýju. 9.5 En taki menn ekki við yður, þá farið úr borg þeirra og hristið dustið af fótum yðar til vitnisburðar gegn þeim.' 9.6 Þeir lögðu af stað og fóru um þorpin, fluttu fagnaðarerindið og læknuðu hvarvetna. 9.7 En Heródes fjórðungsstjóri frétti allt, sem gjörst hafði, og vissi ekki, hvað hann átti að halda, því sumir sögðu, að Jóhannes væri risinn upp frá dauðum, 9.8 aðrir, að Elía væri kominn fram, enn aðrir, að einn hinna fornu spámanna væri risinn upp. 9.9 Heródes sagði: 'Jóhannes lét ég hálshöggva, en hver er þessi, er ég heyri þvílíkt um?' Og hann leitaði færis að sjá hann. 9.10 Postularnir komu aftur og skýrðu Jesú frá öllu því, er þeir höfðu gjört, en hann tók þá með sér og vék brott til bæjar, sem heitir Betsaída, að þeir væru einir saman. 9.11 Mannfjöldinn varð þess var og fór á eftir honum. Hann tók þeim vel og talaði við þá um Guðs ríki og læknaði þá, er lækningar þurftu. 9.12 Nú tók degi að halla. Komu þá þeir tólf að máli við hann og sögðu: 'Lát þú mannfjöldann fara, að þeir geti náð til þorpa og býla hér í kring og náttað sig og fengið mat, því að hér erum vér á óbyggðum stað.' 9.13 En hann sagði við þá: 'Gefið þeim sjálfir að eta.' Þeir svöruðu: 'Vér eigum ekki meira en fimm brauð og tvo fiska, nema þá vér förum og kaupum vistir handa öllu þessu fólki.' 9.14 En þar voru um fimm þúsund karlmenn. Hann sagði þá við lærisveina sína: 'Látið þá setjast í hópa, um fimmtíu í hverjum.' 9.15 Þeir gjörðu svo og létu alla setjast. 9.16 En hann tók brauðin fimm og fiskana tvo, leit upp til himins, þakkaði Guði fyrir þau og braut og gaf lærisveinunum að bera fram fyrir mannfjöldann. 9.17 Og þeir neyttu allir og urðu mettir. En leifarnar eftir þá voru teknar saman, tólf körfur brauðbita. 9.18 Svo bar við, að hann var einn á bæn og lærisveinarnir hjá honum. Þá spurði hann þá: 'Hvern segir fólkið mig vera?' 9.19 Þeir svöruðu: 'Jóhannes skírara, aðrir Elía og aðrir, að einn hinna fornu spámanna sé risinn upp.' 9.20 Og hann sagði við þá: 'En þér, hvern segið þér mig vera?' Pétur svaraði: 'Krist Guðs.' 9.21 Hann lagði ríkt á við þá að segja þetta engum 9.22 og mælti: 'Mannssonurinn á margt að líða, honum mun útskúfað verða af öldungum, æðstu prestum og fræðimönnum, hann mun líflátinn, en upp rísa á þriðja degi.' 9.23 Og hann sagði við alla: 'Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér. 9.24 Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, hann mun bjarga því. 9.25 Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn, en týna eða fyrirgjöra sjálfum sér? 9.26 En þann sem blygðast sín fyrir mig og mín orð, mun Mannssonurinn blygðast sín fyrir, er hann kemur í dýrð sinni og föðurins og heilagra engla. 9.27 En ég segi yður með sanni: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Guðs ríki.' 9.28 Svo bar við um átta dögum eftir ræðu þessa, að hann tók með sér þá Pétur, Jóhannes og Jakob og gekk upp á fjallið að biðjast fyrir. 9.29 Og er hann var að biðjast fyrir, varð yfirlit ásjónu hans annað, og klæði hans urðu hvít og skínandi. 9.30 Og tveir menn voru á tali við hann. Það voru þeir Móse og Elía. 9.31 Þeir birtust í dýrð og ræddu um brottför hans, er hann skyldi fullna í Jerúsalem. 9.32 Þá Pétur og félaga hans sótti mjög svefn, en nú vöknuðu þeir og sáu dýrð hans og mennina tvo, er stóðu hjá honum. 9.33 Þegar þeir voru að skilja við Jesú, mælti Pétur við hann: 'Meistari, gott er, að vér erum hér. Gjörum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.' Ekki vissi hann, hvað hann sagði. 9.34 Um leið og hann mælti þetta, kom ský og skyggði yfir þá, og urðu þeir hræddir, er þeir komu inn í skýið. 9.35 Og rödd kom úr skýinu og sagði: 'Þessi er sonur minn, útvalinn, hlýðið á hann!' 9.36 Er röddin hafði talað, var Jesús einn. Og þeir þögðu og sögðu á þeim dögum engum frá neinu því, sem þeir höfðu séð. 9.37 Daginn eftir, er þeir fóru ofan af fjallinu, kom mikill mannfjöldi á móti honum. 9.38 Og maður nokkur úr mannfjöldanum hrópar: 'Meistari, ég bið þig að líta á son minn, því að hann er einkabarnið mitt. 9.39 Það er andi, sem grípur hann, og þá æpir hann skyndilega. Hann teygir hann svo að hann froðufellir, og víkur varla frá honum og er að gjöra út af við hann. 9.40 Ég bað lærisveina þína að reka hann út, en þeir gátu það ekki.' 9.41 Jesús svaraði: 'Ó, þú vantrúa og rangsnúna kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður og umbera yður? Fær þú hingað son þinn.' 9.42 Þegar hann var að koma, slengdi illi andinn honum flötum og teygði hann ákaflega. En Jesús hastaði á óhreina andann, læknaði sveininn og gaf hann aftur föður hans. 9.43 Og allir undruðust stórum veldi Guðs. Þá er allir dáðu allt það, er hann gjörði, sagði hann við lærisveina sína: 9.44 'Festið þessi orð í huga: ,Mannssonurinn verður framseldur í manna hendur.'` 9.45 En þeir skildu ekki þessi orð, og þetta var þeim hulið, svo að þeir skynjuðu það ekki. Og þeir þorðu ekki að spyrja hann um þetta. 9.46 Sú spurning kom fram meðal þeirra, hver þeirra væri mestur. 9.47 Jesús vissi, hvað þeir hugsuðu í hjörtum sínum, og tók lítið barn, setti það hjá sér 9.48 og sagði við þá: 'Hver sem tekur við þessu barni í mínu nafni, tekur við mér, og hver sem tekur við mér, tekur við þeim, er sendi mig. Því að sá sem minnstur er meðal yðar allra, hann er mestur.' 9.49 Jóhannes tók til máls: 'Meistari, vér sáum mann reka út illa anda í þínu nafni, og vildum vér varna honum þess, af því að hann fylgir oss ekki.' 9.50 En Jesús sagði við hann: 'Varnið þess ekki. Sá sem er ekki á móti yður, er með yður.' 9.51 Nú fullnaðist brátt sá tími, er hann skyldi upp numinn verða. Beindi hann þá augum til Jerúsalem, einráðinn að fara þangað. 9.52 Og hann lét sendiboða fara á undan sér. Þeir fóru og komu í Samverjaþorp nokkurt til að búa honum gistingu. 9.53 En þeir tóku ekki við honum, því hann var á leið til Jerúsalem. 9.54 Þegar lærisveinar hans, þeir Jakob og Jóhannes, sáu það, sögðu þeir: 'Herra, eigum vér að bjóða, að eldur falli af himni og tortími þeim?' 9.55 En hann sneri sér við og ávítaði þá [og sagði: 'Ekki vitið þið, hvers anda þið eruð. 9.56 Mannssonurinn er ekki kominn til að tortíma mannslífum, heldur til að frelsa.'] Og þeir fóru í annað þorp. 9.57 Þegar þeir voru á ferð á veginum, sagði maður nokkur við hann: 'Ég vil fylgja þér, hvert sem þú ferð.' 9.58 Jesús sagði við hann: 'Refar eiga greni og fuglar himins hreiður, en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla.' 9.59 Við annan sagði hann: 'Fylg þú mér!' Sá mælti: 'Herra, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn.' 9.60 Jesús svaraði: 'Lát hina dauðu jarða sína dauðu, en far þú og boða Guðs ríki.' 9.61 Enn annar sagði: 'Ég vil fylgja þér, herra, en leyf mér fyrst að kveðja fólk mitt heima.' 9.62 En Jesús sagði við hann: 'Enginn, sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur, er hæfur í Guðs ríki.'
10.1 Eftir þetta kvaddi Drottinn til aðra, sjötíu og tvo að tölu, og sendi þá á undan sér, tvo og tvo, í hverja þá borg og stað, sem hann ætlaði sjálfur að koma til. 10.2 Og hann sagði við þá: 'Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir. Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar. 10.3 Farið! Ég sendi yður eins og lömb meðal úlfa. 10.4 Hafið ekki pyngju, ekki mal né skó, og heilsið engum á leiðinni. 10.5 Hvar sem þér komið í hús, þá segið fyrst: ,Friður sé með þessu húsi.` 10.6 Og sé þar friðar sonur, mun friður yðar hvíla yfir honum, ella hverfa aftur til yðar. 10.7 Verið um kyrrt í sama húsi, neytið þess, sem þar er fram boðið í mat og drykk. Verður er verkamaðurinn launa sinna. Eigi skuluð þér flytjast hús úr húsi. 10.8 Og hvar sem þér komið í borg og tekið er við yður, þá neytið þess, sem fyrir yður er sett. 10.9 Læknið þá, sem þar eru sjúkir, og segið þeim: ,Guðs ríki er komið í nánd við yður.` 10.10 En hvar sem þér komið í borg og eigi er við yður tekið, þá farið út á strætin og segið: 10.11 ,Jafnvel það dust, sem loðir við fætur vora úr borg yðar, þurrkum vér af oss handa yður. Vitið samt þetta, að Guðs ríki er komið í nánd.` 10.12 Ég segi yður: Bærilegra mun Sódómu á þeim degi en þeirri borg. 10.13 Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gjörst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gjörðust í ykkur, hefðu þeir löngu iðrast og setið í sekk og ösku. 10.14 En Týrus og Sídon mun bærilegra í dóminum en ykkur. 10.15 Og þú Kapernaum! Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. 10.16 Sá sem á yður hlýðir, hlýðir á mig, og sá sem yður hafnar, hafnar mér. En sá sem hafnar mér, hafnar þeim er sendi mig.' 10.17 Nú komu þeir sjötíu og tveir aftur með fögnuði og sögðu: 'Herra, jafnvel illir andar eru oss undirgefnir í þínu nafni.' 10.18 En hann mælti við þá: 'Ég sá Satan hrapa af himni sem eldingu. 10.19 Ég hef gefið yður vald að stíga á höggorma og sporðdreka og yfir öllu óvinarins veldi. Alls ekkert mun yður mein gjöra. 10.20 Gleðjist samt ekki af því, að andarnir eru yður undirgefnir, gleðjist öllu heldur af hinu, að nöfn yðar eru skráð í himnunum.' 10.21 Á sömu stundu varð hann glaður í heilögum anda og sagði: 'Ég vegsama þig, faðir, herra himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum, en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt. 10.22 Allt er mér falið af föður mínum, og enginn veit, hver sonurinn er, nema faðirinn, né hver faðirinn er, nema sonurinn og sá sem sonurinn vill opinbera hann.' 10.23 Og hann sneri sér að lærisveinum sínum og sagði við þá einslega: 'Sæl eru þau augu, sem sjá það sem þér sjáið. 10.24 Því að ég segi yður: Margir spámenn og konungar vildu sjá það sem þér sjáið, en sáu það ekki, og heyra það sem þér heyrið, en heyrðu það ekki.' 10.25 Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista hans og mælti: 'Meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?' 10.26 Jesús sagði við hann: 'Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?' 10.27 Hann svaraði: 'Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum, og náunga þinn eins og sjálfan þig.' 10.28 Jesús sagði við hann: 'Þú svaraðir rétt. Gjör þú þetta, og þú munt lifa.' 10.29 En hann vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: 'Hver er þá náungi minn?' 10.30 Því svaraði Jesús svo: 'Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. 10.31 Svo vildi til, að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn, en sveigði fram hjá. 10.32 Eins kom og levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. 10.33 En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum, og er hann sá hann, kenndi hann í brjósti um hann, 10.34 gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. 10.35 Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: ,Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér, þegar ég kem aftur.` 10.36 Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni, sem féll í hendur ræningjum?' 10.37 Hann mælti: 'Sá sem miskunnarverkið gjörði á honum.' Jesús sagði þá við hann: 'Far þú og gjör hið sama.' 10.38 Á ferð þeirra kom Jesús í þorp nokkurt, og kona að nafni Marta bauð honum heim. 10.39 Hún átti systur, er María hét, og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans. 10.40 En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: 'Herra, hirðir þú eigi um það, að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér.' 10.41 En Drottinn svaraði henni: 'Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu, 10.42 en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.'
11.1 Svo bar við, er Jesús var á stað einum að biðjast fyrir, að einn lærisveina hans sagði við hann, þá er hann lauk bæn sinni: 'Herra, kenn þú oss að biðja, eins og Jóhannes kenndi lærisveinum sínum.' 11.2 En hann sagði við þá: 'Þegar þér biðjist fyrir, þá segið: Faðir, helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, 11.3 gef oss hvern dag vort daglegt brauð. 11.4 Fyrirgef oss vorar syndir, enda fyrirgefum vér öllum vorum skuldunautum. Og eigi leið þú oss í freistni.' 11.5 Og hann sagði við þá: 'Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: ,Vinur, lánaðu mér þrjú brauð, 11.6 því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann.` 11.7 Mundi hinn þá svara inni: ,Gjör mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum og börn mín og ég komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur að fá þér brauð`? 11.8 Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf. 11.9 Og ég segi yður: Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. 11.10 Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða. 11.11 Er nokkur sá faðir yðar á meðal, að hann gefi syni sínum, er biður um fisk, höggorm í staðinn, 11.12 eða sporðdreka, ef hann biður um egg? 11.13 Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann.' 11.14 Jesús var að reka út illan anda, og var sá mállaus. Þegar illi andinn var út farinn, tók málleysinginn að mæla, og undraðist mannfjöldinn. 11.15 En sumir þeirra sögðu: 'Með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda, rekur hann út illu andana.' 11.16 En aðrir vildu freista hans og kröfðu hann um tákn af himni. 11.17 En hann vissi hugrenningar þeirra og sagði við þá: 'Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hús fellur á hús. 11.18 Sé nú Satan sjálfum sér sundurþykkur, hvernig fær ríki hans þá staðist _ fyrst þér segið, að ég reki illu andana út með fulltingi Beelsebúls? 11.19 En reki ég illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út? Því skulu þeir vera dómarar yðar. 11.20 En ef ég rek illu andana út með fingri Guðs, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið. 11.21 Þegar sterkur maður, alvopnaður, varðveitir hús sitt, þá er allt í friði, sem hann á, 11.22 en ráðist annar honum sterkari á hann og sigri hann, tekur sá alvæpni hans, er hann treysti á, og skiptir herfanginu. 11.23 Hver sem er ekki með mér, er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir. 11.24 Þegar óhreinn andi fer út af manni, reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis. Og er hann finnur það ekki, segir hann: ,Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór.` 11.25 Og er hann kemur og finnur það sópað og prýtt, 11.26 fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri, og þeir fara inn og setjast þar að, og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður.' 11.27 Er hann mælti þetta, hóf kona ein í mannfjöldanum upp rödd sína og sagði við hann: 'Sæll er sá kviður, er þig bar, og þau brjóst, er þú mylktir.' 11.28 Hann sagði: 'Já, því sælir eru þeir, sem heyra Guðs orð og varðveita það.' 11.29 Þegar fólkið þyrptist þar að, tók hann svo til orða: 'Þessi kynslóð er vond kynslóð. Hún heimtar tákn, en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar. 11.30 Því Jónas varð Ninívemönnum tákn, og eins mun Mannssonurinn verða þessari kynslóð. 11.31 Drottning Suðurlanda mun rísa upp í dóminum ásamt mönnum þessarar kynslóðar og sakfella þá, því að hún kom frá endimörkum jarðar að heyra speki Salómons, og hér er meira en Salómon. 11.32 Ninívemenn munu koma fram í dóminum ásamt kynslóð þessari og sakfella hana, því að þeir gjörðu iðrun við prédikun Jónasar, og hér er meira en Jónas. 11.33 Enginn kveikir ljós og setur það í felur né undir mæliker, heldur á ljósastiku, svo að þeir, sem inn koma, sjái ljósið. 11.34 Auga þitt er lampi líkamans. Þegar auga þitt er heilt, þá er og allur líkami þinn bjartur, en sé það spillt, þá er og líkami þinn dimmur. 11.35 Gæt því þess, að ljósið í þér sé ekki myrkur. 11.36 Sé því líkami þinn allur bjartur og hvergi myrkur í honum, verður hann allur í birtu, eins og þegar lampi lýsir á þig með loga sínum.' 11.37 Þá er hann hafði þetta mælt, bauð farísei nokkur honum til dagverðar hjá sér. Hann kom og settist til borðs. 11.38 Faríseinn sá, að hann tók ekki handlaugar á undan máltíðinni, og furðaði hann á því. 11.39 Drottinn sagði þá við hann: 'Þér farísear, þér hreinsið bikarinn og fatið utan, en hið innra eruð þér fullir yfirgangs og illsku. 11.40 Þér heimskingjar, hefur sá, sem gjörði hið ytra, ekki einnig gjört hið innra? 11.41 En gefið fátækum það, sem í er látið, og þá er allt yður hreint. 11.42 En vei yður, þér farísear! Þér gjaldið tíund af myntu og rúðu og alls kyns matjurtum, en hirðið ekki um réttlæti og kærleika Guðs. Þetta ber að gjöra og hitt eigi ógjört að láta. 11.43 Vei yður, þér farísear! Yður er ljúft að skipa æðsta bekk í samkundum og láta heilsa yður á torgum. 11.44 Vei yður, því þér eruð eins og duldar grafir, sem menn ganga yfir án þess að vita.' 11.45 Þá tók lögvitringur einn til orða: 'Meistari, þú meiðir oss líka með því, sem þú segir.' 11.46 En Jesús mælti: 'Vei yður líka, þér lögvitringar! Þér leggið á menn lítt bærar byrðar, og sjálfir snertið þér ekki byrðarnar einum fingri. 11.47 Vei yður! Þér hlaðið upp grafir spámannanna, sem feður yðar líflétu. 11.48 Þannig berið þér vitni um athafnir feðra yðar og samþykkið þær. Þeir líflétu þá, en þér hlaðið upp grafirnar. 11.49 Þess vegna hefur og speki Guðs sagt: ,Ég mun senda þeim spámenn og postula, og suma þeirra munu þeir lífláta og ofsækja.` 11.50 Þannig verður kynslóð þessi krafin um blóð allra spámannanna, er úthellt hefur verið frá grundvöllun heims, 11.51 frá blóði Abels til blóðs Sakaría, sem drepinn var milli altarisins og musterisins. Já, segi ég yður, þess mun krafist verða af þessari kynslóð. 11.52 Vei yður, þér lögvitringar! Þér hafið tekið brott lykil þekkingarinnar. Sjálfir hafið þér ekki gengið inn, og þeim hafið þér varnað, sem inn vildu ganga.' 11.53 Og er hann var farinn út þaðan, tóku fræðimenn og farísear að ganga hart að honum og spyrja hann í þaula um margt 11.54 og sitja um að veiða eitthvað af vörum hans.
12.1 Fólk hafði nú flykkst að í tugum þúsunda, svo að nærri tróð hver annan undir. Jesús tók þá að tala, fyrst til lærisveina sinna: 'Varist súrdeig farísea, sem er hræsnin. 12.2 Ekkert er hulið, sem eigi verður opinbert, né leynt, er eigi verður kunnugt. 12.3 Því mun allt það, sem þér hafið talað í myrkri, heyrast í birtu, og það, sem þér hafið hvíslað í herbergjum, mun kunngjört á þökum uppi. 12.4 Það segi ég yður, vinir mínir: Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða og fá að því búnu ekki meira að gjört. 12.5 Ég skal sýna yður, hvern þér eigið að hræðast. Hræðist þann, er hefur vald að deyða og að því búnu varpa í helvíti. Já, ég segi yður, hræðist hann. 12.6 Eru ekki fimm spörvar seldir fyrir tvo smápeninga? Og þó er ekki einn þeirra gleymdur Guði. 12.7 Hárin á höfði yðar eru jafnvel öll talin. Verið óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar. 12.8 En ég segi yður: Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum, mun og Mannssonurinn kannast við fyrir englum Guðs. 12.9 En þeim sem afneitar mér fyrir mönnum, mun afneitað verða fyrir englum Guðs. 12.10 Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum, verður það fyrirgefið, en þeim sem lastmælir gegn heilögum anda, verður ekki fyrirgefið. 12.11 Og þegar þeir leiða yður fyrir samkundur, höfðingja og yfirvöld, hafið þá ekki áhyggjur af því, hvernig eða með hverju þér eigið að verja yður eða hvað þér eigið að segja. 12.12 Því að heilagur andi mun kenna yður á þeirri stundu, hvað segja ber.' 12.13 Einn úr mannfjöldanum sagði við hann: 'Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.' 12.14 Hann svaraði honum: 'Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?' 12.15 Og hann sagði við þá: 'Gætið yðar, og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé.' 12.16 Þá sagði hann þeim dæmisögu þessa: 'Maður nokkur ríkur átti land, er hafði borið mikinn ávöxt. 12.17 Hann hugsaði með sér: ,Hvað á ég að gjöra? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum.` 12.18 Og hann sagði: ,Þetta gjöri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri, og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. 12.19 Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.` 12.20 En Guð sagði við hann: ,Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð, og hver fær þá það, sem þú hefur aflað?` 12.21 Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði.' 12.22 Og hann sagði við lærisveina sína: 'Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. 12.23 Lífið er meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin. 12.24 Hyggið að hröfnunum. Hvorki sá þeir né uppskera, eigi hafa þeir forðabúr eða hlöðu, og Guð fæðir þá. Hve miklum mun eruð þér fremri fuglunum! 12.25 Og hver yðar getur með áhyggjum aukið spönn við aldur sinn? 12.26 Fyrst þér nú orkið ekki svo litlu, hví látið þér allt hitt valda yður áhyggjum? 12.27 Hyggið að liljunum, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. 12.28 Fyrst Guð skrýðir svo grasið á vellinum, sem í dag stendur, en á morgun verður í ofn kastað, hve miklu fremur mun hann þá klæða yður, þér trúlitlir! 12.29 Hafið ekki hugann við, hvað þér eigið að eta og hvað að drekka, og kvíðið engu. 12.30 Allt þetta stunda heiðingjar heimsins, en faðir yðar veit, að þér þarfnist þessa. 12.31 Leitið heldur ríkis hans, og þá mun þetta veitast yður að auki. 12.32 Vertu ekki hrædd, litla hjörð, því að föður yðar hefur þóknast að gefa yður ríkið. 12.33 Seljið eigur yðar og gefið ölmusu, fáið yður pyngjur, er fyrnast ekki, fjársjóð á himnum, er þrýtur ekki, þar sem þjófur fær eigi í nánd komist né mölur spillt. 12.34 Því hvar sem fjársjóður yðar er, þar mun og hjarta yðar vera. 12.35 Verið gyrtir um lendar, og látið ljós yðar loga, 12.36 og verið líkir þjónum, er bíða þess, að húsbóndi þeirra komi úr brúðkaupi og þeir geti lokið upp fyrir honum um leið og hann kemur og knýr dyra. 12.37 Sælir eru þeir þjónar, sem húsbóndinn finnur vakandi, er hann kemur. Sannlega segi ég yður, hann mun gyrða sig belti, láta þá setjast að borði og koma og þjóna þeim. 12.38 Og komi hann um miðnætti eða síðar og finni þá vakandi, sælir eru þeir þá. 12.39 Það skiljið þér, að húsráðandi léti ekki brjótast inn í hús sitt, ef hann vissi, á hvaða stundu þjófurinn kæmi. 12.40 Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi.' 12.41 Þá spurði Pétur: 'Herra, mælir þú þessa líkingu til vor eða til allra?' 12.42 Drottinn mælti: 'Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður, sem húsbóndinn setur yfir hjú sín að gefa þeim skammtinn á réttum tíma? 12.43 Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur. 12.44 Ég segi yður með sanni: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar. 12.45 En ef sá þjónn segir í hjarta sínu: ,Það dregst, að húsbóndi minn komi,` og tekur að berja þjóna og þernur, eta og drekka og verða ölvaður, 12.46 þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi, er hann væntir ekki, á þeirri stundu, er hann veit ekki, höggva hann og láta hann fá hlut með ótrúum. 12.47 Sá þjónn, sem veit vilja húsbónda síns og hefur ekki viðbúnað né gjörir vilja hans, mun barinn mörg högg. 12.48 En hinn, sem veit hann ekki, en vinnur til refsingar, mun barinn fá högg. Hver sem mikið er gefið, verður mikils krafinn, og af þeim verður meira heimtað, sem meira er léð. 12.49 Ég er kominn að varpa eldi á jörðu. Hversu vildi ég, að hann væri þegar kveiktur! 12.50 Skírn á ég að skírast. Hversu þungt er mér, uns hún er fullnuð. 12.51 Ætlið þér, að ég sé kominn að færa frið á jörðu? Nei, segi ég yður, heldur sundurþykki. 12.52 Upp frá þessu verða fimm í sama húsi sundurþykkir, þrír við tvo og tveir við þrjá, 12.53 faðir við son og sonur við föður, móðir við dóttur og dóttir við móður, tengdamóðir við tengdadóttur sína og tengdadóttir við tengdamóður.' 12.54 Hann sagði og við fólkið: 'Þá er þér sjáið ský draga upp í vestri, segið þér jafnskjótt: ,Nú fer að rigna.` Og svo verður. 12.55 Og þegar vindur blæs af suðri, segið þér: ,Nú kemur hiti.` Og svo fer. 12.56 Hræsnarar, útlit lofts og jarðar kunnið þér að ráða, en hvernig er því farið, að þér kunnið ekki að meta þennan tíma? 12.57 Hví dæmið þér ekki af sjálfum yður, hvað rétt sé? 12.58 Þegar þú ferð með andstæðingi þínum fyrir yfirvald, þá kostaðu kapps um það á leiðinni að ná sáttum við hann, til þess að hann dragi þig ekki fyrir dómarann, dómarinn afhendi þig böðlinum, og böðullinn varpi þér í fangelsi. 12.59 Ég segi þér, eigi munt þú komast út þaðan, fyrr en þú hefur borgað síðasta eyri.'
13.1 Í sama mund komu einhverjir og sögðu honum frá Galíleumönnunum, að Pílatus hefði blandað blóði þeirra í fórnir þeirra. 13.2 Jesús mælti við þá: 'Haldið þér, að þessir Galíleumenn hafi verið meiri syndarar en allir aðrir Galíleumenn, fyrst þeir urðu að þola þetta? 13.3 Nei, segi ég yður, en ef þér gjörið ekki iðrun, munuð þér allir farast eins. 13.4 Eða þeir átján, sem turninn féll yfir í Sílóam og varð að bana, haldið þér, að þeir hafi verið sekari en allir þeir menn, sem í Jerúsalem búa? 13.5 Nei, segi ég yður, en ef þér gjörið ekki iðrun, munuð þér allir farast eins.' 13.6 En hann sagði þessa dæmisögu: 'Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. 13.7 Hann sagði þá við víngarðsmanninn: ,Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að spilla jörðinni?` 13.8 En hann svaraði honum: ,Herra, lát það standa enn þetta ár, þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. 13.9 Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.'` 13.10 Jesús var að kenna á hvíldardegi í samkundu einni. 13.11 Þar var þá kona nokkur. Í átján ár hafði hún verið haldin sjúkleiks anda og var kreppt og alls ófær að rétta sig upp. 13.12 Jesús sá hana og kallaði hana til sín og sagði við hana: 'Kona, þú ert laus við sjúkleik þinn!' 13.13 Þá lagði hann hendur yfir hana, og jafnskjótt réttist hún og lofaði Guð. 13.14 En samkundustjórinn reiddist því, að Jesús læknaði á hvíldardegi, og mælti til fólksins: 'Sex daga skal vinna, komið þá og látið lækna yður og ekki á hvíldardegi.' 13.15 Drottinn svaraði honum: 'Hræsnarar, leysir ekki hver yðar á hvíldardegi naut sitt eða asna af stalli og leiðir til vatns? 13.16 En þessi kona, sem er dóttir Abrahams og Satan hefur fjötrað full átján ár, mátti hún ekki leyst verða úr fjötrum þessum á hvíldardegi?' 13.17 Við þessi orð hans urðu allir mótstöðumenn hans sneyptir, en allur lýður fagnaði yfir öllum þeim dýrðarverkum, er hann gjörði. 13.18 Hann sagði nú: 'Hverju er Guðs ríki líkt? Við hvað á ég að líkja því? 13.19 Líkt er það mustarðskorni, sem maður tók og sáði í jurtagarð sinn. Það óx og varð tré og fuglar himins hreiðruðu sig í greinum þess.' 13.20 Og aftur sagði hann: 'Við hvað á ég að líkja Guðs ríki? 13.21 Líkt er það súrdeigi, er kona tók og fól í þrem mælum mjöls, uns það sýrðist allt.' 13.22 Og hann hélt áfram til Jerúsalem, fór um borgir og þorp og kenndi. 13.23 Einhver sagði við hann: 'Herra, eru þeir fáir, sem hólpnir verða?' Hann sagði við þá: 13.24 'Kostið kapps um að komast inn um þröngu dyrnar, því margir, segi ég yður, munu reyna að komast inn og ekki geta. 13.25 Þegar húsbóndinn stendur upp og lokar dyrum og þér takið þá að standa fyrir utan og knýja á dyr og segja: ,Herra, ljúk þú upp fyrir oss!` mun hann svara yður: ,Ég veit ekki, hvaðan þér eruð.` 13.26 Þá munuð þér segja: ,Vér höfum þó etið og drukkið með þér, og þú kenndir á götum vorum.` 13.27 Og hann mun svara: ,Ég segi yður, ég veit ekki, hvaðan þér eruð, farið frá mér allir illgjörðamenn!` 13.28 Þar verður grátur og gnístran tanna, er þér sjáið Abraham, Ísak og Jakob og alla spámennina í Guðs ríki, en yður út rekna. 13.29 Þá munu menn koma frá austri og vestri, frá norðri og suðri og sitja til borðs í Guðs ríki. 13.30 En til eru síðastir, er verða munu fyrstir, og til eru fyrstir, er verða munu síðastir.' 13.31 Á þeirri stundu komu nokkrir farísear og sögðu við hann: 'Far þú og hald á brott héðan, því að Heródes vill drepa þig.' 13.32 Og hann sagði við þá: 'Farið og segið ref þeim: ,Í dag og á morgun rek ég út illa anda og lækna og á þriðja degi mun ég marki ná.` 13.33 En mér ber að halda áfram ferð minni í dag og á morgun og næsta dag, því að eigi hæfir, að spámaður bíði dauða annars staðar en í Jerúsalem. 13.34 Jerúsalem, Jerúsalem! Þú, sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum eins og hænan ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi. 13.35 Hús yðar verður í eyði látið. Ég segi yður: Þér munuð eigi sjá mig, fyrr en þar er komið, að þér segið: ,Blessaður sé sá er kemur, í nafni Drottins!'`
14.1 Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar, og höfðu þeir gætur á honum. 14.2 Þá var þar frammi fyrir honum maður einn vatnssjúkur. 14.3 Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana: 'Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?' 14.4 Þeir þögðu við. En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara. 14.5 Og Jesús mælti við þá: 'Nú á einhver yðar asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp, þótt hvíldardagur sé?' 14.6 Þeir gátu engu svarað þessu. 14.7 Jesús gaf því gætur, hvernig þeir, sem boðnir voru, völdu sér hefðarsætin, tók dæmi og sagði við þá: 14.8 'Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið, að manni þér fremri að virðingu sé boðið, 14.9 og sá komi, er ykkur bauð, og segi við þig: ,Þoka fyrir manni þessum.` Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti. 14.10 Far þú heldur, er þér er boðið, og set þig í ysta sæti, svo að sá sem bauð þér segi við þig, þegar hann kemur: ,Vinur, flyt þig hærra upp!` Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum, er sitja til borðs með þér. 14.11 Því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.' 14.12 Þá sagði hann við gestgjafa sinn: 'Þegar þú heldur miðdegisverð eða kvöldverð, bjóð þá hvorki vinum þínum né bræðrum, ættingjum né ríkum nágrönnum. Þeir bjóða þér aftur, og þú færð endurgjald. 14.13 Þegar þú gjörir veislu, þá bjóð þú fátækum og örkumla, höltum og blindum, 14.14 og munt þú sæll verða, því þeir geta ekki endurgoldið þér, en þú færð það endurgoldið í upprisu réttlátra.' 14.15 Þegar einn þeirra, er að borði sátu, heyrði þetta, sagði hann við Jesú: 'Sæll er sá, sem neytir brauðs í Guðs ríki.' 14.16 Jesús sagði við hann: 'Maður nokkur gjörði mikla kvöldmáltíð og bauð mörgum. 14.17 Er stundin kom, að veislan skyldi vera, sendi hann þjón sinn að segja þeim, er boðnir voru: ,Komið, nú er allt tilbúið.` 14.18 En þeir tóku allir að afsaka sig einum munni. Hinn fyrsti sagði við hann: ,Ég hef keypt akur og verð að fara og líta á hann. Ég bið þig, haf mig afsakaðan.` 14.19 Annar sagði: ,Ég hef keypt fimm tvenndir akneyta og er á förum að reyna þau. Ég bið þig, haf mig afsakaðan.` 14.20 Og enn annar sagði: ,Konu hef ég eignast, ekki get ég komið.` 14.21 Þjónninn kom og tjáði herra sínum þetta. Þá reiddist húsbóndinn og sagði við þjón sinn: ,Far þú fljótt út á stræti og götur borgarinnar, og leið inn hingað fátæka, örkumla, blinda og halta.` 14.22 Og þjónninn sagði: ,Herra, það er gjört, sem þú bauðst, og enn er rúm.` 14.23 Þá sagði húsbóndinn við þjóninn: ,Far þú út um brautir og gerði og þrýstu þeim að koma inn, svo að hús mitt fyllist. 14.24 Því ég segi yður, að enginn þeirra manna, er boðnir voru, mun smakka kvöldmáltíð mína.'` 14.25 Mikill fjöldi fólks var honum samferða. Hann sneri sér við og sagði við þá: 14.26 'Ef einhver kemur til mín og hatar ekki föður sinn og móður, konu og börn, bræður og systur og enda sitt eigið líf, sá getur ekki verið lærisveinn minn. 14.27 Hver sem ber ekki sinn kross og fylgir mér, getur ekki verið lærisveinn minn. 14.28 Hver yðar sest ekki fyrst við, ef hann ætlar að reisa turn, og reiknar kostnaðinn, hvort hann eigi nóg til að ljúka verkinu? 14.29 Ella má svo fara, að hann leggi undirstöðu, en fái ekki við lokið, og allir, sem það sjá, taki að spotta hann 14.30 og segja: ,Þessi maður fór að byggja, en gat ekki lokið.` 14.31 Eða hvaða konungur fer með hernaði gegn öðrum konungi og sest ekki fyrst við og ráðgast um, hvort honum sé fært að mæta með tíu þúsundum þeim er fer á móti honum með tuttugu þúsundir? 14.32 Sé svo ekki, gerir hann menn á fund hans, meðan hann er enn langt undan, og spyr um friðarkosti. 14.33 Þannig getur enginn yðar verið lærisveinn minn, nema hann segi skilið við allt sem hann á. 14.34 Saltið er gott, en ef saltið sjálft dofnar, með hverju á þá að krydda það? 14.35 Hvorki er það hæft á tún né taðhaug. Því er fleygt. Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri.'
15.1 Allir tollheimtumenn og bersyndugir komu til Jesú að hlýða á hann, 15.2 en farísear og fræðimenn ömuðust við því og sögðu: 'Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim.' 15.3 En hann sagði þeim þessa dæmisögu: 15.4 'Nú á einhver yðar hundrað sauði og týnir einum þeirra. Skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í óbyggðinni og fer eftir þeim, sem týndur er, þar til hann finnur hann? 15.5 Og glaður leggur hann sauðinn á herðar sér, er hann finnur hann. 15.6 Þegar hann kemur heim, kallar hann saman vini sína og nágranna og segir við þá: ,Samgleðjist mér, því að ég hef fundið sauðinn minn, sem týndur var.` 15.7 Ég segi yður, þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem gjörir iðrun, en yfir níutíu og níu réttlátum, sem ekki hafa iðrunar þörf. 15.8 Eða kona, sem á tíu drökmur og týnir einni drökmu, kveikir hún þá ekki á lampa, sópar húsið og leitar vandlega, uns hún finnur hana? 15.9 Og er hún hefur fundið hana, kallar hún saman vinkonur sínar og grannkonur og segir: ,Samgleðjist mér, því að ég hef fundið drökmuna, sem ég týndi.` 15.10 Ég segi yður: Þannig verður fögnuður með englum Guðs yfir einum syndara, sem gjörir iðrun.' 15.11 Enn sagði hann: 'Maður nokkur átti tvo sonu. 15.12 Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: ,Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna, sem mér ber.` Og hann skipti með þeim eigum sínum. 15.13 Fáum dögum síðar tók yngri sonurinn allt fé sitt og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann eigum sínum í óhófsömum lifnaði. 15.14 En er hann hafði öllu eytt, varð mikið hungur í því landi, og hann tók að líða skort. 15.15 Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína. 15.16 Þá langaði hann að seðja sig á drafinu, er svínin átu, en enginn gaf honum. 15.17 En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: ,Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar, en ég ferst hér úr hungri! 15.18 Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. 15.19 Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.` 15.20 Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu, sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann. 15.21 En sonurinn sagði við hann: ,Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn.` 15.22 Þá sagði faðir hans við þjóna sína: ,Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. 15.23 Sækið og alikálfinn og slátrið, vér skulum eta og gjöra oss glaðan dag. 15.24 Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn.` Tóku menn nú að gjöra sér glaðan dag. 15.25 En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið, heyrði hann hljóðfæraslátt og dans. 15.26 Hann kallaði á einn piltanna og spurði, hvað um væri að vera. 15.27 Hann svaraði: ,Bróðir þinn er kominn, og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum, af því að hann heimti hann heilan heim.` 15.28 Þá reiddist hann og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma. 15.29 En hann svaraði föður sínum: ,Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum, og mér hefur þú aldrei gefið kiðling, að ég gæti glatt mig með vinum mínum. 15.30 En þegar hann kemur, þessi sonur þinn, sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann.` 15.31 Hann sagði þá við hann: ,Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér, og allt mitt er þitt. 15.32 En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.'`
16.1 Enn sagði hann við lærisveina sína: 'Maður nokkur ríkur hafði ráðsmann, og var sá sakaður við hann um það, að hann sóaði eigum hans. 16.2 Hann kallaði hann fyrir sig og sagði við hann: ,Hvað er þetta, er ég heyri um þig? Gjör reikningsskil ráðsmennsku þinnar, því þú getur ekki verið ráðsmaður lengur.` 16.3 Ráðsmaðurinn sagði þá við sjálfan sig: ,Hvað á ég að gjöra, fyrst húsbóndi minn sviptir mig ráðsmennskunni? Ekki orka ég að grafa og skömm þykir mér að betla. 16.4 Nú sé ég, hvað ég gjöri, til þess að menn taki við mér í hús sín, þegar ég verð sviptur ráðsmennskunni.` 16.5 Hann kallaði nú á skuldunauta húsbónda síns, hvern og einn. Við þann fyrsta sagði hann: ,Hve mikið skuldar þú húsbónda mínum?` 16.6 Hann svaraði: ,Hundrað kvartil viðsmjörs.` Hann mælti þá við hann: ,Tak skuldabréf þitt, set þig niður og skrifa sem skjótast fimmtíu.` 16.7 Síðan sagði hann við annan: ,En hvað skuldar þú?` Hann svaraði: ,Hundrað tunnur hveitis.` Og hann sagði honum: ,Tak þú skuldabréf þitt og skrifa áttatíu.` 16.8 Og húsbóndinn hrósaði rangláta ráðsmanninum fyrir að hafa breytt kænlega. Því að börn þessa heims eru kænni í skiptum við sína kynslóð en börn ljóssins. 16.9 Og ég segi yður: Aflið yður vina með hinum rangláta mammón, svo að þeir taki við yður í eilífar tjaldbúðir, þegar honum sleppir. 16.10 Sá sem er trúr í því smæsta, er einnig trúr í miklu, og sá sem er ótrúr í því smæsta, er og ótrúr í miklu. 16.11 Ef þér reynist ekki trúir í hinum rangláta mammón, hver trúir yður þá fyrir sönnum auði? 16.12 Og ef þér reynist ekki trúir í því sem annars er, hver gefur yður þá það, sem yðar er? 16.13 Enginn þjónn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.' 16.14 En farísearnir, sem voru menn fégjarnir, heyrðu þetta og gjörðu gys að honum. 16.15 En hann sagði við þá: 'Þér eruð þeir, sem réttlætið sjálfa yður í augum manna, en Guð þekkir hjörtu yðar. Því það, sem hátt er að dómi manna, er viðurstyggð í augum Guðs. 16.16 Lögmálið og spámennirnir ná fram til Jóhannesar. Þaðan í frá er flutt fagnaðarerindi Guðs ríkis, og hver maður vill ryðjast þar inn. 16.17 En það er auðveldara, að himinn og jörð líði undir lok, en einn stafkrókur lögmálsins falli úr gildi. 16.18 Hver sem skilur við konu sína og gengur að eiga aðra, drýgir hór, og hver sem gengur að eiga konu, sem skilin er við mann, drýgir hór. 16.19 Einu sinni var maður nokkur ríkur, er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði. 16.20 En fátækur maður, hlaðinn kaunum, lá fyrir dyrum hans og hét sá Lasarus. 16.21 Feginn vildi hann seðja sig á því, er féll af borði ríka mannsins, og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans. 16.22 En nú gjörðist það, að fátæki maðurinn dó, og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn. 16.23 Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans. 16.24 Þá kallaði hann: ,Faðir Abraham, miskunna þú mér, og send Lasarus, að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína, því ég kvelst í þessum loga.` 16.25 Abraham sagði: ,Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði, meðan þú lifðir, og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður, en þú kvelst. 16.26 Auk alls þessa er mikið djúp staðfest milli vor og yðar, svo að þeir, er héðan vildu fara yfir til yðar, geti það ekki, og eigi verði heldur komist þaðan yfir til vor.` 16.27 En hann sagði: ,Þá bið ég þig, faðir, að þú sendir hann í hús föður míns, 16.28 en ég á fimm bræður, til þess að vara þá við, svo þeir komi ekki líka í þennan kvalastað.` 16.29 En Abraham segir: ,Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir þeim.` 16.30 Hinn svaraði: ,Nei, faðir Abraham, en ef einhver kæmi til þeirra frá hinum dauðu, mundu þeir gjöra iðrun.` 16.31 En Abraham sagði við hann: ,Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum, láta þeir ekki heldur sannfærast, þótt einhver rísi upp frá dauðum.'`
17.1 Hann sagði við lærisveina sína: 'Eigi verður umflúið, að til ginninga komi, en vei þeim er veldur. 17.2 Betra væri honum að hafa mylnustein um hálsinn og vera varpað í hafið en að tæla einn af þessum smælingjum til falls. 17.3 Hafið gát á sjálfum yður. Ef bróðir þinn syndgar, þá ávíta hann, og ef hann iðrast, þá fyrirgef honum. 17.4 Og þótt hann misgjöri við þig sjö sinnum á dag og snúi sjö sinnum aftur til þín og segi: ,Ég iðrast,` þá skalt þú fyrirgefa honum.' 17.5 Postularnir sögðu við Drottin: 'Auk oss trú!' 17.6 En Drottinn sagði: 'Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn, gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: ,Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum,` og það mundi hlýða yður. 17.7 Hafi einhver yðar þjón, er plægir eða hirðir fénað, segir hann þá við hann, þegar hann kemur inn af akri: ,Kom þegar og set þig til borðs`? 17.8 Segir hann ekki fremur við hann: ,Bú þú mér kvöldverð, gyrð þig og þjóna mér, meðan ég et og drekk, síðan getur þú etið og drukkið.` 17.9 Og er hann þakklátur þjóni sínum fyrir að gjöra það, sem boðið var? 17.10 Eins skuluð þér segja, þá er þér hafið gjört allt, sem yður var boðið: ,Ónýtir þjónar erum vér, vér höfum gjört það eitt, sem vér vorum skyldir að gjöra.'` 17.11 Svo bar við á ferð hans til Jerúsalem, að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu. 17.12 Og er hann kom inn í þorp nokkurt, mættu honum tíu menn líkþráir. Þeir stóðu álengdar, 17.13 hófu upp raust sína og kölluðu: 'Jesús, meistari, miskunna þú oss!' 17.14 Er hann leit þá, sagði hann við þá: 'Farið og sýnið yður prestunum.' Þeir héldu af stað og nú brá svo við, að þeir urðu hreinir. 17.15 En einn þeirra sneri aftur, er hann sá, að hann var heill orðinn, og lofaði Guð hárri raustu. 17.16 Hann féll fram á ásjónu sína að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji. 17.17 Jesús sagði: 'Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? 17.18 Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?' 17.19 Síðan mælti Jesús við hann: 'Statt upp, og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér.' 17.20 Farísear spurðu hann, hvenær Guðs ríki kæmi. Hann svaraði þeim: 'Guðs ríki kemur ekki þannig, að á því beri. 17.21 Ekki munu menn segja: Sjá, þar er það eða hér er það, því Guðs ríki er innra með yður.' 17.22 Og hann sagði við lærisveinana: 'Þeir dagar munu koma, að þér þráið að sjá einn dag Mannssonarins og munuð eigi sjá. 17.23 Menn munu segja við yður: Sjá hér, sjá þar. En farið ekki og hlaupið eftir því. 17.24 Eins og elding, sem leiftrar og lýsir frá einu skauti himins til annars, svo mun Mannssonurinn verða á degi sínum. 17.25 En fyrst á hann margt að líða og útskúfaður verða af þessari kynslóð. 17.26 Eins og var á dögum Nóa, svo mun og verða á dögum Mannssonarins: 17.27 Menn átu og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina, og flóðið kom og tortímdi öllum. 17.28 Eins var og á dögum Lots: Menn átu og drukku, keyptu og seldu, gróðursettu og byggðu. 17.29 En daginn, sem Lot fór úr Sódómu, rigndi eldi og brennisteini af himni og tortímdi öllum. 17.30 Eins mun verða á þeim degi, er Mannssonurinn opinberast. 17.31 Sá sem þann dag er á þaki uppi og á muni sína í húsinu, fari ekki ofan að sækja þá. Og sá sem er á akri, skal ekki heldur hverfa aftur. 17.32 Minnist konu Lots. 17.33 Sá sem vill sjá lífi sínu borgið, mun týna því, en sá sem týnir því, mun öðlast líf. 17.34 Ég segi yður: Á þeirri nóttu verða tveir í einni hvílu, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn. 17.35 Tvær munu mala á sömu kvörn, önnur verður tekin, hin eftir skilin. [ 17.36 Tveir verða á akri, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn.]' 17.37 Þeir spurðu hann þá: 'Hvar, herra?' En hann sagði við þá: 'Þar munu ernirnir safnast, sem hræið er.'
18.1 Þá sagði hann þeim dæmisögu um það, hvernig þeir skyldu stöðugt biðja og eigi þreytast: 18.2 'Í borg einni var dómari, sem hvorki óttaðist Guð né skeytti um nokkurn mann. 18.3 Í sömu borg var ekkja, sem kom einlægt til hans og sagði: ,Lát þú mig ná rétti á mótstöðumanni mínum.` 18.4 Það vildi hann ekki lengi vel. En að lokum sagði hann við sjálfan sig: ,Ekki óttast ég Guð að sönnu né skeyti um nokkurn mann. 18.5 En þessi ekkja lætur mig aldrei í friði. Því vil ég rétta hlut hennar, áður en hún gjörir út af við mig með nauði sínu.'` 18.6 Og Drottinn mælti: 'Heyrið, hvað rangláti dómarinn segir. 18.7 Mun Guð þá ekki rétta hlut sinna útvöldu, sem hrópa til hans dag og nótt? Mun hann draga að hjálpa þeim? 18.8 Ég segi yður: Hann mun skjótt rétta hlut þeirra. En mun Mannssonurinn finna trúna á jörðu, þegar hann kemur?' 18.9 Hann sagði líka dæmisögu þessa við nokkra þá er treystu því, að sjálfir væru þeir réttlátir, en fyrirlitu aðra: 18.10 'Tveir menn fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. Annar var farísei, hinn tollheimtumaður. 18.11 Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir með sjálfum sér: ,Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður. 18.12 Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu, sem ég eignast.` 18.13 En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins, heldur barði sér á brjóst og sagði: ,Guð, vertu mér syndugum líknsamur!` 18.14 Ég segi yður: Þessi maður fór réttlættur heim til sín, en hinn ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.' 18.15 Menn færðu og til hans ungbörnin, að hann snerti þau. Lærisveinarnir sáu það og átöldu þá. 18.16 En Jesús kallaði þau til sín og mælti: 'Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki. 18.17 Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma.' 18.18 Höfðingi nokkur spurði hann: 'Góði meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?' 18.19 Jesús sagði við hann: 'Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. 18.20 Þú kannt boðorðin: ,Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, heiðra föður þinn og móður.'` 18.21 Hann sagði: 'Alls þessa hef ég gætt frá æsku.' 18.22 Þegar Jesús heyrði þetta, sagði hann við hann: 'Enn er þér eins vant: Sel allt, sem þú átt, og skipt meðal fátækra, og munt þú fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan og fylg mér.' 18.23 En er hann heyrði þetta, varð hann hryggur við, enda auðugur mjög. 18.24 Jesús sá það og sagði: 'Hve torvelt er þeim, sem auðinn hafa, að ganga inn í Guðs ríki. 18.25 Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.' 18.26 En þeir, sem á hlýddu, spurðu: 'Hver getur þá orðið hólpinn?' 18.27 Hann mælti: 'Það sem mönnum er um megn, það megnar Guð.' 18.28 Þá sagði Pétur: 'Vér yfirgáfum allt, sem vér áttum, og fylgdum þér.' 18.29 Jesús sagði við þá: 'Sannlega segi ég yður, að enginn hefur yfirgefið heimili, konu, bræður, foreldra eða börn Guðs ríkis vegna 18.30 án þess að hann fái margfalt aftur á þessum tíma og í hinum komandi heimi eilíft líf.' 18.31 Hann tók þá tólf til sín og sagði við þá: 'Nú förum vér upp til Jerúsalem, og mun allt það koma fram við Mannssoninn, sem skrifað er hjá spámönnunum. 18.32 Hann verður framseldur heiðingjum, menn munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. 18.33 Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta, en á þriðja degi mun hann upp rísa.' 18.34 En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin, og þeir skynjuðu ekki það, sem sagt var. 18.35 Svo bar við, er hann nálgaðist Jeríkó, að blindur maður sat þar við veginn og betlaði. 18.36 Hann heyrði, að mannfjöldi gekk hjá, og spurði, hvað um væri að vera. 18.37 Var honum sagt, að Jesús frá Nasaret færi hjá. 18.38 Þá hrópaði hann: 'Jesús, sonur Davíðs, miskunna þú mér!' 18.39 En þeir sem á undan fóru, höstuðu á hann, að hann þegði. En hann hrópaði því meir: 'Sonur Davíðs, miskunna þú mér!' 18.40 Jesús nam staðar og bauð að leiða hann til sín. Er hann kom nær, spurði Jesús hann: 18.41 'Hvað vilt þú, að ég gjöri fyrir þig?' Hinn svaraði: 'Herra, að ég fái aftur sjón.' 18.42 Jesús sagði við hann: 'Fá þú aftur sjónina. Trú þín hefur bjargað þér.' 18.43 Jafnskjótt fékk hann sjónina. Og hann fylgdi honum og lofaði Guð. En allt fólkið, er sá þetta, vegsamaði Guð.
19.1 Jesús kom til Jeríkó og gekk gegnum borgina. 19.2 En þar var maður, er Sakkeus hét. Hann var yfirtollheimtumaður og auðugur. 19.3 Langaði hann að sjá, hver Jesús væri, en tókst það ekki fyrir mannfjöldanum, því hann var lítill vexti. 19.4 Hann hljóp þá á undan og klifraði upp í mórberjatré til að sjá Jesú, en leið hans lá þar hjá. 19.5 Og er Jesús kom þar að, leit hann upp og sagði við hann: 'Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu.' 19.6 Hann flýtti sér ofan og tók á móti honum glaður. 19.7 Þeir er sáu þetta, létu allir illa við og sögðu: 'Hann fer til að gista hjá bersyndugum manni.' 19.8 En Sakkeus sté fram og sagði við Drottin: 'Herra, helming eigna minna gef ég fátækum, og hafi ég haft nokkuð af nokkrum, gef ég honum ferfalt aftur.' 19.9 Jesús sagði þá við hann: 'Í dag hefur hjálpræði hlotnast húsi þessu, enda er þessi maður líka Abrahams sonur. 19.10 Því að Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það.' 19.11 Meðan þeir hlýddu á, bætti hann við dæmisögu, því að hann var í nánd við Jerúsalem, og þeir ætluðu, að Guðs ríki mundi þegar birtast. 19.12 Hann sagði: 'Maður nokkur tiginborinn fór í fjarlægt land til þess að taka við konungdómi og koma síðan aftur. 19.13 Hann kallaði tíu þjóna sína, seldi þeim í hendur tíu pund og sagði við þá: ,Verslið með þetta, þangað til ég kem.` 19.14 En landar hans hötuðu hann og gerðu sendimann á eftir honum til að segja: ,Vér viljum ekki, að þessi maður verði konungur yfir oss.` 19.15 Nú kom hann aftur og hafði tekið konungdóm. Þá lét hann kalla fyrir sig þjóna þá er hann hafði selt féð í hendur, til þess að vita, hvað hver hefði grætt. 19.16 Hinn fyrsti kom og sagði: ,Herra, pund þitt hefur ávaxtast um tíu pund.` 19.17 Konungur sagði við hann: ,Gott, þú góði þjónn, þú varst trúr í mjög litlu og því skaltu ráða fyrir tíu borgum.` 19.18 Annar kom og sagði: ,Pund þitt, herra, hefur gefið af sér fimm pund.` 19.19 Hann sagði eins við hann: ,Þú skalt og vera yfir fimm borgum.` 19.20 Enn kom einn og sagði: ,Herra, hér er pund þitt. Ég hef haft það geymt í dúki, 19.21 því að ég var hræddur við þig, en þú ert maður strangur og tekur það út, sem þú lagðir ekki inn, og uppsker það, sem þú sáðir ekki.` 19.22 Hann segir við hann: ,Illi þjónn, eftir orðum þínum dæmi ég þig. Þú vissir, að ég er maður strangur, sem tek það út, sem ég lagði ekki inn, og uppsker það, sem ég sáði ekki. 19.23 Hvers vegna léstu þá ekki fé mitt í banka? Þá hefði ég fengið það með vöxtum, er ég kom heim.` 19.24 Og hann sagði við þá er hjá voru: ,Takið af honum pundið, og fáið þeim, sem hefur tíu pundin.` 19.25 En þeir sögðu við hann: ,Herra, hann hefur tíu pund.` 19.26 Ég segi yður: Hverjum sem hefur, mun gefið verða, og frá þeim sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur. 19.27 En þessa óvini mína, sem vildu ekki að ég yrði konungur yfir sér, færið þá hingað og höggvið þá frammi fyrir mér.' 19.28 Þá er Jesús hafði þetta mælt, hélt hann á undan áfram upp til Jerúsalem. 19.29 Þegar hann nálgaðist Betfage og Betaníu við Olíufjallið, sem svo er nefnt, sendi hann tvo lærisveina sína 19.30 og mælti: 'Farið í þorpið hér fram undan. Þegar þið komið þangað, munuð þið finna fola bundinn, sem enginn hefur enn komið á bak. Leysið hann og komið með hann. 19.31 Ef einhver spyr ykkur: ,Hvers vegna leysið þið hann?` þá svarið svo: ,Herrann þarf hans við`.' 19.32 Þeir sem sendir voru, fóru og fundu svo sem hann hafði sagt þeim. 19.33 Og er þeir leystu folann, sögðu eigendur hans við þá: 'Hvers vegna leysið þið folann?' 19.34 Þeir svöruðu: 'Herrann þarf hans við,' 19.35 og fóru síðan með hann til Jesú. Þeir lögðu klæði sín á folann og settu Jesú á bak. 19.36 En þar sem hann fór, breiddu menn klæði sín á veginn. 19.37 Þegar hann var að koma þar að, sem farið er ofan af Olíufjallinu, hóf allur flokkur lærisveina hans að lofa Guð fagnandi hárri raustu fyrir öll þau kraftaverk, er þeir höfðu séð, 19.38 og segja: 'Blessaður sé sá sem kemur, konungurinn, í nafni Drottins. Friður á himni og dýrð í upphæðum!' 19.39 Nokkrir farísear í mannfjöldanum sögðu við hann: 'Meistari, hasta þú á lærisveina þína.' 19.40 Hann svaraði: 'Ég segi yður, ef þeir þegja, munu steinarnir hrópa.' 19.41 Og er hann kom nær og sá borgina, grét hann yfir henni 19.42 og sagði: 'Ef þú hefðir aðeins vitað á þessum degi, hvað til friðar heyrir! En nú er það hulið sjónum þínum. 19.43 Því að þeir dagar munu koma yfir þig, að óvinir þínir munu gjöra virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu. 19.44 Þeir munu leggja þig að velli og börn þín, sem í þér eru, og ekki láta standa stein yfir steini í þér, vegna þess að þú þekktir ekki þinn vitjunartíma.' 19.45 Þá gekk hann inn í helgidóminn og tók að reka út þá er voru að selja 19.46 og mælti við þá: 'Ritað er: Hús mitt á að vera bænahús, en þér hafið gjört það að ræningjabæli.' 19.47 Daglega var hann að kenna í helgidóminum, en æðstu prestarnir og fræðimennirnir svo og fyrirmenn þjóðarinnar leituðust við að ráða hann af dögum, 19.48 en fundu eigi, hvað gjöra skyldi, því að allur lýðurinn vildi ákaft hlýða á hann.
20.1 Svo bar við einn dag, er hann var að kenna lýðnum í helgidóminum og flutti fagnaðarerindið, að æðstu prestarnir og fræðimennirnir ásamt öldungunum gengu til hans 20.2 og sögðu: 'Seg þú oss, með hvaða valdi gjörir þú þetta? Hver hefur gefið þér þetta vald?' 20.3 Hann svaraði þeim: 'Ég vil og leggja spurningu fyrir yður. Segið mér: 20.4 Var skírn Jóhannesar frá himni eða frá mönnum?' 20.5 Þeir ráðguðust hver við annan um þetta og sögðu: 'Ef vér svörum: Frá himni, spyr hann: Hví trúðuð þér honum þá ekki? 20.6 Ef vér svörum: Frá mönnum, mun allur lýðurinn grýta oss, því að hann er sannfærður um, að Jóhannes sé spámaður.' 20.7 Þeir kváðust því ekki vita, hvaðan hún væri. 20.8 Jesús sagði við þá: 'Ég segi yður þá ekki heldur, með hvaða valdi ég gjöri þetta.' 20.9 Og hann tók að segja lýðnum dæmisögu þessa: 'Maður nokkur plantaði víngarð og seldi hann vínyrkjum á leigu, fór síðan úr landi til langdvala. 20.10 Á settum tíma sendi hann þjón til vínyrkjanna, að þeir fengju honum hlut af ávexti víngarðsins, en vínyrkjarnir börðu hann og sendu burt tómhentan. 20.11 Aftur sendi hann annan þjón. Þeir börðu hann einnig og svívirtu og sendu burt tómhentan. 20.12 Og enn sendi hann hinn þriðja, en þeir veittu honum einnig áverka og köstuðu honum út. 20.13 Þá sagði eigandi víngarðsins: ,Hvað á ég að gjöra? Ég sendi son minn elskaðan. Má vera, þeir virði hann.` 20.14 En er vínyrkjarnir sáu hann, báru þeir saman ráð sín og sögðu: ,Þetta er erfinginn. Drepum hann, þá fáum vér arfinn.` 20.15 Og þeir köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann. Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra við þá? 20.16 Hann mun koma, tortíma vínyrkjum þessum og fá öðrum víngarðinn.' Þegar þeir heyrðu þetta, sögðu þeir: 'Verði það aldrei.' 20.17 Jesús horfði á þá og mælti: 'Hvað merkir þá ritning þessi: Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn hyrningarsteinn? 20.18 Hver sem fellur á þennan stein, mun sundur molast, og þann sem hann fellur á, mun hann sundur merja.' 20.19 Fræðimennirnir og æðstu prestarnir vildu leggja hendur á hann á sömu stundu, en óttuðust lýðinn. Þeir skildu, að hann átti við þá með dæmisögu þessari. 20.20 Þeir höfðu gætur á honum og sendu njósnarmenn, er létust vera einlægir. Þeir áttu að hafa á orðum hans, svo að þeir mættu framselja hann í hendur og á vald landstjórans. 20.21 Þeir spurðu hann: 'Meistari, vér vitum, að þú talar og kennir rétt og gjörir þér engan mannamun, heldur kennir Guðs veg í sannleika. 20.22 Leyfist oss að gjalda keisaranum skatt eða ekki?' 20.23 En hann merkti flærð þeirra og sagði við þá: 20.24 'Sýnið mér denar. Hvers mynd og yfirskrift er á honum?' Þeir sögðu: 'Keisarans.' 20.25 En hann sagði við þá: 'Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.' 20.26 Og þeir gátu ekki haft neitt á orðum hans í viðurvist lýðsins, en undruðust svar hans og þögðu. 20.27 Þá komu nokkrir saddúkear, en þeir neita því, að upprisa sé til, og sögðu við hann: 20.28 'Meistari, Móse segir oss í ritningunum, að deyi maður kvæntur, en barnlaus, skuli bróðir hans ganga að eiga ekkjuna og vekja honum niðja. 20.29 Nú voru sjö bræður. Sá fyrsti tók sér konu og dó barnlaus. 20.30 Gekk þá annar bróðirinn 20.31 og síðan hinn þriðji að eiga hana og eins allir sjö, og létu þeir engin börn eftir sig, er þeir dóu. 20.32 Síðast dó og konan. 20.33 Kona hvers þeirra verður hún í upprisunni? Allir sjö höfðu þeir átt hana.' 20.34 Jesús svaraði þeim: 'Börn þessarar aldar kvænast og giftast, 20.35 en þeir sem verðir þykja að fá hlutdeild í komandi veröld og upprisunni frá dauðum, kvænast hvorki né giftast. 20.36 Þeir geta ekki heldur dáið framar, þeir eru englum jafnir og börn Guðs, enda börn upprisunnar. 20.37 En að dauðir rísi upp, það hefur jafnvel Móse sýnt í sögunni um þyrnirunninn, er hann kallar ,Drottin Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.` 20.38 Ekki er hann Guð dauðra, heldur lifenda, því að honum lifa allir.' 20.39 Þá sögðu nokkrir fræðimannanna: 'Vel mælt, meistari.' 20.40 En þeir þorðu ekki framar að spyrja hann neins. 20.41 Hann sagði við þá: 'Hvernig geta menn sagt, að Kristur sé sonur Davíðs? 20.42 Davíð segir sjálfur í sálmunum: Drottinn sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar, 20.43 þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni. 20.44 Davíð kallar hann drottin, hvernig getur hann þá verið sonur hans?' 20.45 Í áheyrn alls lýðsins sagði hann við lærisveina sína: 20.46 'Varist fræðimennina, sem fýsir að ganga í síðskikkjum og er ljúft að láta heilsa sér á torgum, vilja skipa æðsta bekk í samkundum og hefðarsæti í veislum. 20.47 Þeir eta upp heimili ekkna og flytja langar bænir að yfirskini. Þeir munu fá því þyngri dóm.'
21.1 Þá leit hann upp og sá auðmenn leggja gjafir sínar í fjárhirsluna. 21.2 Hann sá og ekkju eina fátæka leggja þar tvo smápeninga. 21.3 Þá sagði hann: 'Ég segi yður með sanni, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir. 21.4 Hinir allir lögðu í sjóðinn af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum, alla björg sína.' 21.5 Einhverjir höfðu orð á, að helgidómurinn væri prýddur fögrum steinum og heitgjöfum. Þá sagði Jesús: 21.6 'Þér horfið á þetta, en þeir dagar munu koma, að hér stendur ekki eftir steinn yfir steini, er eigi sé niður brotinn.' 21.7 En þeir spurðu hann: 'Meistari, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn þess, að það sé að koma fram?' 21.8 Hann svaraði: 'Varist að láta leiða yður í villu. Margir munu koma í mínu nafni og segja: ,Það er ég!` og ,Tíminn er í nánd!` Fylgið þeim ekki. 21.9 En þegar þér spyrjið hernað og upphlaup, þá skelfist ekki. Þetta á undan að fara, en endirinn kemur ekki samstundis.' 21.10 Síðan sagði hann við þá: 'Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, 21.11 þá verða landskjálftar miklir og drepsóttir og hungur á ýmsum stöðum, en ógnir og tákn mikil á himni. 21.12 En á undan öllu þessu munu menn leggja hendur á yður, ofsækja yður, færa yður fyrir samkundur og í fangelsi og draga yður fyrir konunga og landshöfðingja sakir nafns míns. 21.13 Þetta veitir yður tækifæri til vitnisburðar. 21.14 En festið það vel í huga að vera ekki fyrirfram að hugsa um, hvernig þér eigið að verjast, 21.15 því ég mun gefa yður orð og visku, sem engir mótstöðumenn yðar fá staðið í gegn né hrakið. 21.16 Jafnvel foreldrar og bræður, frændur og vinir munu framselja yður, og sumir yðar munu líflátnir. 21.17 Og þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns, 21.18 en ekki mun týnast eitt hár á höfði yðar. 21.19 Verið þrautseigir og þér munuð ávinna sálir yðar. 21.20 En þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið, að eyðing hennar er í nánd. 21.21 Þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla, þeir sem í borginni eru, flytjist burt, og þeir sem eru á ekrum úti, fari ekki inn í hana. 21.22 Því þetta eru refsingardagar, þá er allt það rætist, sem ritað er. 21.23 Vei þeim, sem þungaðar eru, og þeim sem börn hafa á brjósti á þeim dögum, því að mikil neyð mun þá verða í landinu og reiði yfir lýð þessum. 21.24 Þeir munu falla fyrir sverðseggjum og herleiddir verða til allra þjóða, og Jerúsalem verður fótum troðin af heiðingjum, þar til tímar heiðingjanna eru liðnir. 21.25 Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. 21.26 Menn munu gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, er koma mun yfir heimsbyggðina, því að kraftar himnanna munu bifast. 21.27 Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð. 21.28 En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd.' 21.29 Hann sagði þeim og líkingu: 'Gætið að fíkjutrénu og öðrum trjám. 21.30 Þegar þér sjáið þau farin að bruma, þá vitið þér af sjálfum yður, að sumarið er í nánd. 21.31 Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd. 21.32 Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt er komið fram. 21.33 Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða. 21.34 Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki við svall og drykkju né áhyggjur þessa lífs og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður 21.35 eins og snara. En koma mun hann yfir alla menn, sem byggja gjörvalla jörð. 21.36 Vakið því allar stundir og biðjið, svo að þér megið umflýja allt þetta, sem koma á, og standast frammi fyrir Mannssyninum.' 21.37 Á daginn var hann að kenna í helgidóminum, en fór og dvaldist um nætur á Olíufjallinu, sem svo er nefnt. 21.38 Og allt fólkið kom árla á morgnana til hans í helgidóminn að hlýða á hann.
22.1 Nú fór í hönd hátíð ósýrðu brauðanna, sú er nefnist páskar. 22.2 Og æðstu prestarnir og fræðimennirnir leituðu fyrir sér, hvernig þeir gætu ráðið hann af dögum, því að þeir voru hræddir við lýðinn. 22.3 Þá fór Satan í Júdas, sem kallaður var Ískaríot og var í tölu þeirra tólf. 22.4 Hann fór og ræddi við æðstu prestana og varðforingjana um það, hvernig hann skyldi framselja þeim Jesú. 22.5 Þeir urðu glaðir við og hétu honum fé fyrir. 22.6 Hann gekk að því og leitaði færis að framselja hann þeim, þegar fólkið væri fjarri. 22.7 Þegar sá dagur ósýrðu brauðanna kom, er slátra skyldi páskalambinu, 22.8 sendi Jesús þá Pétur og Jóhannes og sagði: 'Farið og búið til páskamáltíðar fyrir oss.' 22.9 Þeir sögðu við hann: 'Hvar vilt þú, að við búum hana?' 22.10 En hann sagði við þá: 'Þegar þið komið inn í borgina, mætir ykkur maður, sem ber vatnsker. Fylgið honum inn þangað sem hann fer, 22.11 og segið við húsráðandann: ,Meistarinn spyr þig: Hvar er herbergið, þar sem ég get neytt páskamáltíðarinnar með lærisveinum mínum?` 22.12 Hann mun þá sýna ykkur loftsal mikinn, búinn hægindum. Hafið þar viðbúnað.' 22.13 Þeir fóru og fundu allt eins og hann hafði sagt og bjuggu til páskamáltíðar. 22.14 Og er stundin var komin, gekk hann til borðs og postularnir með honum. 22.15 Og hann sagði við þá: 'Hjartanlega hef ég þráð að neyta þessarar páskamáltíðar með yður, áður en ég líð. 22.16 Því ég segi yður: Eigi mun ég framar neyta hennar, fyrr en hún fullkomnast í Guðs ríki.' 22.17 Þá tók hann kaleik, gjörði þakkir og sagði: 'Takið þetta og skiptið með yður. 22.18 Því ég segi yður: Héðan í frá mun ég eigi drekka af ávexti vínviðarins, fyrr en Guðs ríki kemur.' 22.19 Og hann tók brauð, gjörði þakkir, braut það, gaf þeim og sagði: 'Þetta er líkami minn, sem fyrir yður er gefinn. Gjörið þetta í mína minningu.' 22.20 Eins tók hann kaleikinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: 'Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði, sem fyrir yður er úthellt. 22.21 En sjá, hönd þess, er mig svíkur, er á borðinu hjá mér. 22.22 Mannssonurinn fer að sönnu þá leið, sem ákveðin er, en vei þeim manni, sem því veldur, að hann verður framseldur.' 22.23 Og þeir tóku að spyrjast á um það, hver þeirra mundi verða til þess að gjöra þetta. 22.24 Og þeir fóru að metast um, hver þeirra væri talinn mestur. 22.25 En Jesús sagði við þá: 'Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn. 22.26 En eigi sé yður svo farið, heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn. 22.27 Því hvort er sá meiri, sem situr til borðs, eða hinn, sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn. 22.28 En þér eruð þeir sem hafið verið stöðugir með mér í freistingum mínum. 22.29 Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér, 22.30 að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels. 22.31 Símon, Símon, Satan krafðist yðar að sælda yður eins og hveiti. 22.32 En ég hef beðið fyrir þér, að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú bræður þína, þegar þú ert snúinn við.' 22.33 En Símon sagði við hann: 'Herra, reiðubúinn er ég að fylgja þér bæði í fangelsi og dauða.' 22.34 Jesús mælti: 'Ég segi þér, Pétur: Áður en hani galar í dag, munt þú þrisvar hafa neitað því, að þú þekkir mig.' 22.35 Og hann sagði við þá: 'Þegar ég sendi yður út án pyngju og mals og skólausa, brast yður þá nokkuð?' Þeir svöruðu: 'Nei, ekkert.' 22.36 Þá sagði hann við þá: 'En nú skal sá, er pyngju hefur, taka hana með sér og eins sá, er mal hefur, og hinn, sem ekkert á, selji yfirhöfn sína og kaupi sverð. 22.37 Því ég segi yður, að þessi ritning á að rætast á mér: ,með illvirkjum var hann talinn.` Og nú er að fullnast það sem um mig er ritað.' 22.38 En þeir sögðu: 'Herra, hér eru tvö sverð.' Og hann sagði við þá: 'Það er nóg.' 22.39 Síðan fór hann út og gekk, eins og hann var vanur, til Olíufjallsins. Og lærisveinarnir fylgdu honum. 22.40 Þegar hann kom á staðinn, sagði hann við þá: 'Biðjið, að þér fallið ekki í freistni.' 22.41 Og hann vék frá þeim svo sem steinsnar, féll á kné, baðst fyrir og sagði: 22.42 'Faðir, ef þú vilt, þá tak þennan kaleik frá mér! En verði þó ekki minn heldur þinn vilji.' [ 22.43 Þá birtist honum engill af himni, sem styrkti hann. 22.44 Og hann komst í dauðans angist og baðst enn ákafar fyrir, en sveiti hans varð eins og blóðdropar, er féllu á jörðina.] 22.45 Hann stóð upp frá bæn sinni, kom til lærisveinanna og fann þá sofandi, örmagna af hryggð. 22.46 Og hann sagði við þá: 'Hví sofið þér? Rísið upp og biðjið, að þér fallið ekki í freistni.' 22.47 Meðan hann var enn að tala, kom flokkur manna, og fremstur fór einn hinna tólf, Júdas, áður nefndur. Hann gekk að Jesú til að kyssa hann. 22.48 Jesús sagði við hann: 'Júdas, svíkur þú Mannssoninn með kossi?' 22.49 Þeir sem með honum voru, sáu að hverju fór og sögðu: 'Herra, eigum vér ekki að bregða sverði?' 22.50 Og einn þeirra hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum hægra eyrað. 22.51 Þá sagði Jesús: 'Hér skal staðar nema.' Og hann snart eyrað og læknaði hann. 22.52 Þá sagði Jesús við æðstu prestana, varðforingja helgidómsins og öldungana, sem komnir voru á móti honum: 'Eruð þér að fara að mér með sverðum og bareflum eins og gegn ræningja? 22.53 Daglega var ég með yður í helgidóminum, og þér lögðuð ekki hendur á mig. En þetta er yðar tími og máttur myrkranna.' 22.54 En þeir tóku hann höndum og leiddu brott og fóru með hann í hús æðsta prestsins. Pétur fylgdi eftir álengdar. 22.55 Menn höfðu kveikt eld í miðjum garðinum og sátu við hann, og Pétur settist meðal þeirra. 22.56 En þerna nokkur sá hann sitja í bjarmanum, hvessti á hann augun og sagði: 'Þessi maður var líka með honum.' 22.57 Því neitaði hann og sagði: 'Kona, ég þekki hann ekki.' 22.58 Litlu síðar sá hann annar maður og sagði: 'Þú ert líka einn af þeim.' En Pétur svaraði: 'Nei, maður minn, það er ég ekki.' 22.59 Og að liðinni um það bil einni stund fullyrti enn annar þetta og sagði: 'Víst var þessi líka með honum, enda Galíleumaður.' 22.60 Pétur mælti: 'Ekki skil ég, hvað þú átt við, maður.' Og jafnskjótt sem hann sagði þetta, gól hani. 22.61 Og Drottinn vék sér við og leit til Péturs. Þá minntist Pétur orða Drottins, er hann mælti við hann: 'Áður en hani galar í dag, muntu þrisvar afneita mér.' 22.62 Og hann gekk út og grét beisklega. 22.63 En þeir menn, sem gættu Jesú, hæddu hann og börðu, 22.64 huldu andlit hans og sögðu: 'Spáðu nú, hver það var, sem sló þig?' 22.65 Og marga aðra svívirðu sögðu þeir við hann. 22.66 Þegar dagur rann, kom öldungaráð lýðsins saman, bæði æðstu prestar og fræðimenn, og létu færa hann fyrir ráðsfund sinn. 22.67 Þeir sögðu: 'Ef þú ert Kristur, þá seg oss það.' En hann sagði við þá: 'Þótt ég segi yður það, munuð þér ekki trúa, 22.68 og ef ég spyr yður, svarið þér ekki. 22.69 En upp frá þessu mun Mannssonurinn sitja til hægri handar Guðs kraftar.' 22.70 Þá spurðu þeir allir: 'Ert þú þá sonur Guðs?' Og hann sagði við þá: 'Þér segið, að ég sé sá.' 22.71 En þeir sögðu: 'Hvað þurfum vér nú framar vitnis við? Vér höfum sjálfir heyrt það af munni hans.'
23.1 Þá stóð upp allur skarinn og færði hann fyrir Pílatus. 23.2 Þeir tóku að ákæra hann og sögðu: 'Vér höfum komist að raun um, að þessi maður leiðir þjóð vora afvega, hann bannar að gjalda keisaranum skatt og segist sjálfur vera Kristur, konungur.' 23.3 Pílatus spurði hann þá: 'Ert þú konungur Gyðinga?' Jesús svaraði: 'Þú segir það.' 23.4 Pílatus sagði við æðstu prestana og fólkið: 'Enga sök finn ég hjá þessum manni.' 23.5 En þeir urðu því ákafari og sögðu: 'Hann æsir upp lýðinn með því, sem hann kennir í allri Júdeu, hann byrjaði í Galíleu og er nú kominn hingað.' 23.6 Þegar Pílatus heyrði þetta, spurði hann, hvort maðurinn væri Galílei. 23.7 Og er hann varð þess vís, að hann var úr umdæmi Heródesar, sendi hann hann til Heródesar, er þá var og í Jerúsalem á þeim dögum. 23.8 En Heródes varð næsta glaður, er hann sá Jesú, því hann hafði lengi langað að sjá hann, þar eð hann hafði heyrt frá honum sagt. Vænti hann nú að sjá hann gjöra eitthvert tákn. 23.9 Hann spurði Jesú á marga vegu, en hann svaraði honum engu. 23.10 Æðstu prestarnir og fræðimennirnir stóðu þar og ákærðu hann harðlega. 23.11 En Heródes óvirti hann og spottaði ásamt hermönnum sínum, lagði yfir hann skínandi klæði og sendi hann aftur til Pílatusar. 23.12 Á þeim degi urðu þeir Heródes og Pílatus vinir, en áður var fjandskapur með þeim. 23.13 Pílatus kallaði nú saman æðstu prestana, höfðingjana og fólkið 23.14 og mælti við þá: 'Þér hafið fært mér þennan mann og sagt hann leiða fólkið afvega. Nú hef ég yfirheyrt manninn í yðar viðurvist, en enga þá sök fundið hjá honum, er þér ákærið hann um. 23.15 Ekki heldur Heródes, því hann sendi hann aftur til vor. Ljóst er, að hann hefur ekkert það drýgt, er dauða sé vert. 23.16 Ætla ég því að hirta hann og láta lausan.' [ 23.17 En skylt var honum að gefa þeim lausan einn bandingja á hverri hátíð.] 23.18 En þeir æptu allir: 'Burt með hann, gef oss Barabbas lausan!' 23.19 En honum hafði verið varpað í fangelsi fyrir upphlaup nokkurt, sem varð í borginni, og manndráp. 23.20 Pílatus talaði enn til þeirra og vildi láta Jesú lausan. 23.21 En þeir æptu á móti: 'Krossfestu, krossfestu hann!' 23.22 Í þriðja sinn sagði Pílatus við þá: 'Hvað illt hefur þá þessi maður gjört? Enga dauðasök hef ég fundið hjá honum. Ætla ég því að hirta hann og láta hann lausan.' 23.23 En þeir sóttu á með ópi miklu og heimtuðu, að hann yrði krossfestur. Og hróp þeirra tóku yfir. 23.24 Þá ákvað Pílatus, að kröfu þeirra skyldi fullnægt. 23.25 Hann gaf lausan þann, er þeir báðu um og varpað hafði verið í fangelsi fyrir upphlaup og manndráp, en Jesú framseldi hann, að þeir færu með hann sem þeir vildu. 23.26 Þegar þeir leiddu hann út, tóku þeir Símon nokkurn frá Kýrene, er kom utan úr sveit, og lögðu krossinn á hann, að hann bæri hann eftir Jesú. 23.27 En honum fylgdi mikill fjöldi fólks og kvenna, er hörmuðu hann og grétu. 23.28 Jesús sneri sér að þeim og mælti: 'Jerúsalemsdætur, grátið ekki yfir mér, en grátið yfir sjálfum yður og börnum yðar. 23.29 Því þeir dagar koma, er menn munu segja: Sælar eru óbyrjur og þau móðurlíf, er aldrei fæddu, og þau brjóst, sem engan nærðu. 23.30 Þá munu menn segja við fjöllin: Hrynjið yfir oss! og við hálsana: Hyljið oss! 23.31 Því að sé þetta gjört við hið græna tréð, hvað mun þá verða um hið visna?' 23.32 Með honum voru og færðir til lífláts aðrir tveir, sem voru illvirkjar. 23.33 Og er þeir komu til þess staðar, sem heitir Hauskúpa, krossfestu þeir hann þar og illvirkjana, annan til hægri handar, hinn til vinstri. 23.34 Þá sagði Jesús: 'Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra.' En þeir köstuðu hlutum um klæði hans og skiptu með sér. 23.35 Fólkið stóð og horfði á, og höfðingjarnir gjörðu gys að honum og sögðu: 'Öðrum bjargaði hann, bjargi hann nú sjálfum sér, ef hann er Kristur Guðs, hinn útvaldi.' 23.36 Eins hæddu hann hermennirnir, komu og báru honum edik 23.37 og sögðu: 'Ef þú ert konungur Gyðinga, þá bjargaðu sjálfum þér.' 23.38 Yfirskrift var yfir honum: ÞESSI ER KONUNGUR GYÐINGA. 23.39 Annar þeirra illvirkja, sem upp voru festir, hæddi hann og sagði: 'Ert þú ekki Kristur? Bjargaðu sjálfum þér og okkur!' 23.40 En hinn ávítaði hann og sagði: 'Hræðist þú ekki einu sinni Guð, og ert þó undir sama dómi? 23.41 Við erum það með réttu og fáum makleg gjöld fyrir gjörðir okkar, en þessi hefur ekkert illt aðhafst.' 23.42 Þá sagði hann: 'Jesús, minnst þú mín, þegar þú kemur í ríki þitt!' 23.43 Og Jesús sagði við hann: 'Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís.' 23.44 Og nú var nær hádegi og myrkur varð um allt land til nóns, 23.45 því sólin missti birtu sinnar. En fortjald musterisins rifnaði sundur í miðju. 23.46 Þá kallaði Jesús hárri röddu: 'Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn!' Og er hann hafði þetta mælt, gaf hann upp andann. 23.47 Þegar hundraðshöfðinginn sá það, er við bar, vegsamaði hann Guð og sagði: 'Sannarlega var þessi maður réttlátur.' 23.48 Og fólkið allt, sem komið hafði saman að horfa á, sá nú, hvað gjörðist, og barði sér á brjóst og hvarf frá. 23.49 En vinir hans allir sem og konurnar, er fylgdu honum frá Galíleu, stóðu álengdar og horfðu á þetta. 23.50 Maður er nefndur Jósef. Hann var ráðsherra, góður maður og réttvís 23.51 og hafði ekki samþykkt ráð þeirra né athæfi. Hann var frá Arímaþeu, borg í Júdeu, og vænti Guðs ríkis. 23.52 Hann gekk til Pílatusar og bað hann um líkama Jesú, 23.53 tók hann síðan ofan, sveipaði línklæði og lagði í gröf, höggna í klett, og hafði þar enginn verið áður lagður. 23.54 Það var aðfangadagur og hvíldardagurinn fór í hönd. 23.55 Konur þær, er komið höfðu með Jesú frá Galíleu, fylgdu eftir og sáu gröfina og hvernig líkami hans var lagður. 23.56 Þær sneru aftur og bjuggu ilmjurtir og smyrsl. Hvíldardaginn héldu þær kyrru fyrir samkvæmt boðorðinu.
24.1 En í afturelding fyrsta dag vikunnar komu þær til grafarinnar með ilmsmyrslin, sem þær höfðu búið. 24.2 Þær sáu þá, að steininum hafði verið velt frá gröfinni, 24.3 og þegar þær stigu inn, fundu þær ekki líkama Drottins Jesú. 24.4 Þær skildu ekkert í þessu, en þá brá svo við, að hjá þeim stóðu tveir menn í leiftrandi klæðum. 24.5 Þær urðu mjög hræddar og hneigðu andlit til jarðar. En þeir sögðu við þær: 'Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra? 24.6 Hann er ekki hér, hann er upp risinn. Minnist þess, hvernig hann talaði við yður, meðan hann var enn í Galíleu. 24.7 Hann sagði, að Mannssonurinn skyldi framseldur verða í hendur syndugra manna og krossfestur, en rísa upp á þriðja degi.' 24.8 Og þær minntust orða hans, 24.9 sneru frá gröfinni og kunngjörðu allt þetta þeim ellefu og öllum hinum. 24.10 Þessar konur voru þær María Magdalena, Jóhanna og María móðir Jakobs og hinar, sem voru með þeim. Þær sögðu postulunum frá þessu. 24.11 En þeir töldu orð þeirra markleysu eina og trúðu þeim ekki. 24.12 Pétur stóð þó upp og hljóp til grafarinnar, skyggndist inn og sá þar líkklæðin ein. Fór hann heim síðan og undraðist það, sem við hafði borið. 24.13 Tveir þeirra fóru þann sama dag til þorps nokkurs, sem er um sextíu skeiðrúm frá Jerúsalem og heitir Emmaus. 24.14 Þeir ræddu sín á milli um allt þetta, sem gjörst hafði. 24.15 Þá bar svo við, er þeir voru að tala saman og ræða þetta, að Jesús sjálfur nálgaðist þá og slóst í för með þeim. 24.16 En augu þeirra voru svo haldin, að þeir þekktu hann ekki. 24.17 Og hann sagði við þá: 'Hvað er það, sem þið ræðið svo mjög á göngu ykkar?' Þeir námu staðar, daprir í bragði, 24.18 og annar þeirra, Kleófas að nafni, sagði við hann: 'Þú ert víst sá eini aðkomumaður í Jerúsalem, sem veist ekki, hvað þar hefur gjörst þessa dagana.' 24.19 Hann spurði: 'Hvað þá?' Þeir svöruðu: 'Þetta um Jesú frá Nasaret, sem var spámaður, máttugur í verki og orði fyrir Guði og öllum lýð, 24.20 hvernig æðstu prestar og höfðingjar vorir framseldu hann til dauðadóms og krossfestu hann. 24.21 Vér vonuðum, að hann væri sá, er leysa mundi Ísrael. En nú er þriðji dagur síðan þetta bar við. 24.22 Þá hafa og konur nokkrar úr vorum hóp gjört oss forviða. Þær fóru árla til grafarinnar, 24.23 en fundu ekki líkama hans og komu og sögðust enda hafa séð engla í sýn, er sögðu hann lifa. 24.24 Nokkrir þeirra, sem með oss voru, fóru til grafarinnar og fundu allt eins og konurnar höfðu sagt, en hann sáu þeir ekki.' 24.25 Þá sagði hann við þá: 'Ó, þér heimskir og tregir í hjarta til þess að trúa öllu því, sem spámennirnir hafa talað! 24.26 Átti ekki Kristur að líða þetta og ganga svo inn í dýrð sína?' 24.27 Og hann byrjaði á Móse og öllum spámönnunum og útlagði fyrir þeim það, sem um hann er í öllum ritningunum. 24.28 Þeir nálguðust nú þorpið, sem þeir ætluðu til, en hann lét sem hann vildi halda lengra. 24.29 Þeir lögðu þá fast að honum og sögðu: 'Vertu hjá oss, því að kvölda tekur og degi hallar.' Og hann fór inn til að vera hjá þeim. 24.30 Og svo bar við, er hann sat til borðs með þeim, að hann tók brauðið, þakkaði Guði, braut það og fékk þeim. 24.31 Þá opnuðust augu þeirra, og þeir þekktu hann, en hann hvarf þeim sjónum. 24.32 Og þeir sögðu hvor við annan: 'Brann ekki hjartað í okkur, meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum?' 24.33 Þeir stóðu samstundis upp og fóru aftur til Jerúsalem. Þar fundu þeir þá ellefu og þá, er með þeim voru, saman komna, 24.34 og sögðu þeir: 'Sannarlega er Drottinn upp risinn og hefur birst Símoni.' 24.35 Hinir sögðu þá frá því, sem við hafði borið á veginum, og hvernig þeir höfðu þekkt hann, þegar hann braut brauðið. 24.36 Nú voru þeir að tala um þetta, og þá stendur hann sjálfur meðal þeirra og segir við þá: 'Friður sé með yður!' 24.37 En þeir skelfdust og urðu hræddir og hugðust sjá anda. 24.38 Hann sagði við þá: 'Hví eruð þér óttaslegnir og hvers vegna vakna efasemdir í hjarta yðar? 24.39 Lítið á hendur mínar og fætur, að það er ég sjálfur. Þreifið á mér, og gætið að. Ekki hefur andi hold og bein eins og þér sjáið að ég hef.' 24.40 Þegar hann hafði þetta mælt, sýndi hann þeim hendur sínar og fætur. 24.41 Enn gátu þeir ekki trúað fyrir fögnuði og voru furðu lostnir. Þá sagði hann við þá: 'Hafið þér hér nokkuð til matar?' 24.42 Þeir fengu honum stykki af steiktum fiski, 24.43 og hann tók það og neytti þess frammi fyrir þeim. 24.44 Og hann sagði við þá: 'Þessi er merking orða minna, sem ég talaði við yður, meðan ég var enn meðal yðar, að rætast ætti allt það, sem um mig er ritað í lögmáli Móse, spámönnunum og sálmunum.' 24.45 Síðan lauk hann upp huga þeirra, að þeir skildu ritningarnar. 24.46 Og hann sagði við þá: 'Svo er skrifað, að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi, 24.47 og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum iðrun til fyrirgefningar synda og byrja í Jerúsalem. 24.48 Þér eruð vottar þessa. 24.49 Sjá, ég sendi fyrirheit föður míns yfir yður, en verið þér kyrrir í borginni, uns þér íklæðist krafti frá hæðum.' 24.50 Síðan fór hann með þá út í nánd við Betaníu, hóf upp hendur sínar og blessaði þá. 24.51 En það varð, meðan hann var að blessa þá, að hann skildist frá þeim og var upp numinn til himins. 24.52 En þeir féllu fram og tilbáðu hann og sneru aftur til Jerúsalem með miklum fögnuði.
1.1 Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð. 1.2 Hann var í upphafi hjá Guði. 1.3 Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er. 1.4 Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna. 1.5 Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því. 1.6 Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. 1.7 Hann kom til vitnisburðar, til að vitna um ljósið, svo að allir skyldu trúa fyrir hann. 1.8 Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið. 1.9 Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. 1.10 Hann var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki. 1.11 Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum. 1.12 En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans. 1.13 Þeir eru ekki af blóði bornir, ekki að holds vild né manns vilja, heldur af Guði fæddir. 1.14 Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum. 1.15 Jóhannes vitnar um hann og hrópar: 'Þetta er sá sem ég átti við, þegar ég sagði: Sá sem kemur eftir mig, var á undan mér, enda fyrri en ég.' 1.16 Af gnægð hans höfum vér allir þegið, náð á náð ofan. 1.17 Lögmálið var gefið fyrir Móse, en náðin og sannleikurinn kom fyrir Jesú Krist. 1.18 Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Sonurinn eini, Guð, sem er í faðmi föðurins, hann hefur birt hann. 1.19 Þessi er vitnisburður Jóhannesar, þegar Gyðingar sendu til hans presta og levíta frá Jerúsalem að spyrja hann: 'Hver ert þú?' 1.20 Hann svaraði ótvírætt og játaði: 'Ekki er ég Kristur.' 1.21 Þeir spurðu hann: 'Hvað þá? Ertu Elía?' Hann svarar: 'Ekki er ég hann.' 'Ertu spámaðurinn?' Hann kvað nei við. 1.22 Þá sögðu þeir við hann: 'Hver ertu? Vér verðum að svara þeim, er sendu oss. Hvað segir þú um sjálfan þig?' 1.23 Hann sagði: 'Ég er rödd hrópanda í eyðimörk: Gjörið beinan veg Drottins, eins og Jesaja spámaður segir.' 1.24 Sendir voru menn af flokki farísea. 1.25 Þeir spurðu hann: 'Hvers vegna skírir þú, fyrst þú ert hvorki Kristur, Elía né spámaðurinn?' 1.26 Jóhannes svaraði: 'Ég skíri með vatni. Mitt á meðal yðar stendur sá, sem þér þekkið ekki, 1.27 hann, sem kemur eftir mig, og skóþveng hans er ég ekki verður að leysa.' 1.28 Þetta bar við í Betaníu, handan Jórdanar, þar sem Jóhannes var að skíra. 1.29 Daginn eftir sér hann Jesú koma til sín og segir: 'Sjá, Guðs lamb, sem ber synd heimsins. 1.30 Þar er sá er ég sagði um: ,Eftir mig kemur maður, sem var á undan mér, því hann er fyrri en ég.` 1.31 Sjálfur þekkti ég hann ekki. En til þess kom ég og skíri með vatni, að hann opinberist Ísrael.' 1.32 Og Jóhannes vitnaði: 'Ég sá andann koma af himni ofan eins og dúfu, og hann nam staðar yfir honum. 1.33 Sjálfur þekkti ég hann ekki, en sá er sendi mig að skíra með vatni, sagði mér: ,Sá sem þú sérð andann koma yfir og nema staðar á, hann er sá sem skírir með heilögum anda.` 1.34 Þetta sá ég, og ég vitna, að hann er sonur Guðs.' 1.35 Daginn eftir var Jóhannes þar aftur staddur og tveir lærisveinar hans. 1.36 Hann sér Jesú á gangi og segir: 'Sjá, Guðs lamb.' 1.37 Lærisveinar hans tveir heyrðu orð hans og fóru á eftir Jesú. 1.38 Jesús sneri sér við, sá þá koma á eftir sér og sagði við þá: 'Hvers leitið þið?' Þeir svara: 'Rabbí (það þýðir meistari), hvar dvelst þú?' 1.39 Hann segir: 'Komið og sjáið.' Þeir komu og sáu, hvar hann dvaldist, og voru hjá honum þann dag. Þetta var síðdegis. 1.40 Annar þessara tveggja, sem heyrðu orð Jóhannesar og fóru á eftir Jesú, var Andrés, bróðir Símonar Péturs. 1.41 Hann finnur fyrst bróður sinn, Símon, og segir við hann: 'Við höfum fundið Messías!' (Messías þýðir Kristur, Hinn smurði.) 1.42 Hann fór með hann til Jesú. Jesús horfði á hann og sagði: 'Þú ert Símon Jóhannesson, þú skalt heita Kefas' (Pétur, það þýðir klettur). 1.43 Næsta dag hugðist Jesús fara til Galíleu. Hann hitti þá Filippus og sagði við hann: 'Fylg þú mér!' 1.44 Filippus var frá Betsaídu, sömu borg og Andrés og Pétur. 1.45 Filippus fann Natanael og sagði við hann: 'Vér höfum fundið þann, sem Móse skrifar um í lögmálinu og spámennirnir, Jesú frá Nasaret, son Jósefs.' 1.46 Natanael sagði: 'Getur nokkuð gott komið frá Nasaret?' Filippus svaraði: 'Kom þú og sjá.' 1.47 Jesús sá Natanael koma til sín og sagði við hann: 'Hér er sannur Ísraelíti, sem engin svik eru í.' 1.48 Natanael spyr: 'Hvaðan þekkir þú mig?' Jesús svarar: 'Ég sá þig undir fíkjutrénu, áður en Filippus kallaði á þig.' 1.49 Þá segir Natanael: 'Rabbí, þú ert sonur Guðs, þú ert konungur Ísraels.' 1.50 Jesús spyr hann: 'Trúir þú, af því að ég sagði við þig: ,Ég sá þig undir fíkjutrénu`? Þú munt sjá það, sem þessu er meira.' 1.51 Og hann segir við hann: 'Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð sjá himininn opinn og engla Guðs stíga upp og stíga niður yfir Mannssoninn.'
2.1 Á þriðja degi var brúðkaup í Kana í Galíleu. Móðir Jesú var þar. 2.2 Jesú var og boðið til brúðkaupsins og lærisveinum hans. 2.3 En er vín þraut segir móðir Jesú við hann: 'Þeir hafa ekki vín.' 2.4 Jesús svarar: 'Hvað varðar það mig og þig, kona? Minn tími er ekki enn kominn.' 2.5 Móðir hans sagði þá við þjónana: 'Gjörið það, sem hann kann að segja yður.' 2.6 Nú voru þar sex vatnsker úr steini samkvæmt reglum Gyðinga um hreinsun, og tók hvert þeirra tvo mæla eða þrjá. 2.7 Jesús segir við þá: 'Fyllið kerin vatni.' Þeir fylltu þau á barma. 2.8 Síðan segir hann: 'Ausið nú af og færið veislustjóra.' Þeir gjörðu svo. 2.9 Veislustjóri bragðaði vatnið, sem var orðið vín, og vissi ekki, hvaðan það var, en þjónarnir, sem vatnið höfðu ausið, vissu það. Þá kallaði veislustjóri á brúðgumann 2.10 og sagði: 'Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara, er menn gjörast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú.' 2.11 Þetta fyrsta tákn sitt gjörði Jesús í Kana í Galíleu og opinberaði dýrð sína, og lærisveinar hans trúðu á hann. 2.12 Eftir þetta fór hann ofan til Kapernaum ásamt móður sinni, bræðrum og lærisveinum. Þar voru þau nokkra daga. 2.13 Nú fóru páskar Gyðinga í hönd, og Jesús hélt upp til Jerúsalem. 2.14 Þar sá hann í helgidóminum þá, er seldu naut, sauði og dúfur, og víxlarana, sem sátu þar. 2.15 Þá gjörði hann sér svipu úr köðlum og rak alla út úr helgidóminum, líka sauðina og nautin. Hann steypti niður peningum víxlaranna og hratt um borðum þeirra, 2.16 og við dúfnasalana sagði hann: 'Burt með þetta héðan. Gjörið ekki hús föður míns að sölubúð.' 2.17 Lærisveinum hans kom í hug, að ritað er: 'Vandlæting vegna húss þíns mun tæra mig upp.' 2.18 Gyðingar sögðu þá við hann: 'Hvaða tákn getur þú sýnt oss um það, að þú megir gjöra þetta?' 2.19 Jesús svaraði þeim: 'Brjótið þetta musteri, og ég skal reisa það á þrem dögum.' 2.20 Þá sögðu Gyðingar: 'Þetta musteri hefur verið fjörutíu og sex ár í smíðum, og þú ætlar að reisa það á þrem dögum!' 2.21 En hann var að tala um musteri líkama síns. 2.22 Þegar hann var risinn upp frá dauðum, minntust lærisveinar hans, að hann hafði sagt þetta, og trúðu ritningunni og orðinu, sem Jesús hafði talað. 2.23 Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni, fóru margir að trúa á nafn hans, því þeir sáu þau tákn, sem hann gjörði. 2.24 En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn, því hann þekkti alla. 2.25 Hann þurfti þess ekki, að neinn bæri öðrum manni vitni; hann vissi sjálfur, hvað í manni býr.
3.1 Maður hét Nikódemus, af flokki farísea, ráðsherra meðal Gyðinga. 3.2 Hann kom til Jesú um nótt og sagði við hann: 'Rabbí, vér vitum, að þú ert lærifaðir kominn frá Guði. Enginn getur gjört þessi tákn, sem þú gjörir, nema Guð sé með honum.' 3.3 Jesús svaraði honum: 'Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur séð Guðs ríki, nema hann fæðist að nýju.' 3.4 Nikódemus segir við hann: 'Hvernig getur maður fæðst, þegar hann er orðinn gamall? Skyldi hann geta komist aftur í líf móður sinnar og fæðst?' 3.5 Jesús svaraði: 'Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda. 3.6 Það sem af holdinu fæðist, er hold, en það sem af andanum fæðist, er andi. 3.7 Undrast eigi, að ég segi við þig: Yður ber að fæðast að nýju. 3.8 Vindurinn blæs þar sem hann vill, og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki, hvaðan hann kemur né hvert hann fer. Svo er um þann, sem af andanum er fæddur.' 3.9 Þá spurði Nikódemus: 'Hvernig má þetta verða?' 3.10 Jesús svaraði honum: 'Þú ert lærifaðir í Ísrael og veist ekki þetta? 3.11 Sannlega, sannlega segi ég þér: Vér tölum um það, sem vér þekkjum, og vitnum um það, sem vér höfum séð, en þér takið ekki á móti vitnisburði vorum. 3.12 Ef þér trúið eigi, þegar ég ræði við yður jarðnesk efni, hvernig skylduð þér þá trúa, er ég ræði við yður um hin himnesku? 3.13 Enginn hefur stigið upp til himins, nema sá er steig niður frá himni, Mannssonurinn. 3.14 Og eins og Móse hóf upp höggorminn í eyðimörkinni, þannig á Mannssonurinn að verða upp hafinn, 3.15 svo að hver sem trúir hafi eilíft líf í honum. 3.16 Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. 3.17 Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn, heldur að heimurinn skyldi frelsast fyrir hann. 3.18 Sá sem trúir á hann, dæmist ekki. Sá sem trúir ekki, er þegar dæmdur, því að hann hefur ekki trúað á nafn Guðs sonarins eina. 3.19 En þessi er dómurinn: Ljósið er komið í heiminn, en menn elskuðu myrkrið fremur en ljósið, því að verk þeirra voru vond. 3.20 Hver sem illt gjörir hatar ljósið og kemur ekki til ljóssins, svo að verk hans verði ekki uppvís. 3.21 En sá sem iðkar sannleikann kemur til ljóssins, svo að augljóst verði, að verk hans eru í Guði gjörð.' 3.22 Eftir þetta fór Jesús og lærisveinar hans út í Júdeuhérað. Þar dvaldist hann með þeim og skírði. 3.23 Jóhannes var líka að skíra í Aínon nálægt Salím, en þar var mikið vatn. Menn komu þangað og létu skírast. 3.24 Þá var ekki enn búið að varpa Jóhannesi í fangelsi. 3.25 Nú varð deila um hreinsun milli lærisveina Jóhannesar og Gyðings eins. 3.26 Þeir komu til Jóhannesar og sögðu við hann: 'Rabbí, sá sem var hjá þér handan við Jórdan og þú barst vitni um, hann er að skíra, og allir koma til hans.' 3.27 Jóhannes svaraði þeim: 'Enginn getur tekið neitt, nema honum sé gefið það af himni. 3.28 Þér getið sjálfir vitnað um, að ég sagði: ,Ég er ekki Kristur, heldur er ég sendur á undan honum.` 3.29 Sá er brúðguminn, sem á brúðina, en vinur brúðgumans, sem stendur hjá og hlýðir á hann, gleðst mjög við rödd hans. Þessi gleði er nú mín að fullu. 3.30 Hann á að vaxa, en ég að minnka. 3.31 Sá sem kemur að ofan, er yfir öllum. Sá sem er af jörðu, hann er af jörðu og talar af jörðu. Sá sem kemur af himni, er yfir öllum 3.32 og vitnar um það, sem hann hefur séð og heyrt, og enginn tekur á móti vitnisburði hans. 3.33 En sá sem hefur tekið á móti vitnisburði hans, hefur staðfest, að Guð sé sannorður. 3.34 Sá sem Guð sendi, talar Guðs orð, því ómælt gefur Guð andann. 3.35 Faðirinn elskar soninn og hefur lagt allt í hönd honum. 3.36 Sá sem trúir á soninn, hefur eilíft líf, en sá sem óhlýðnast syninum, mun ekki sjá líf, heldur varir reiði Guðs yfir honum.'
4.1 Er Jesús varð þess vís, að farísear hefðu heyrt, að hann fengi fleiri lærisveina og skírði fleiri en Jóhannes, 4.2 _ reyndar skírði Jesús ekki sjálfur, heldur lærisveinar hans _ 4.3 þá hvarf hann brott úr Júdeu og hélt aftur til Galíleu. 4.4 Hann varð að fara um Samaríu. 4.5 Nú kemur hann til borgar í Samaríu, er Síkar heitir, nálægt þeirri landspildu, sem Jakob gaf Jósef syni sínum. 4.6 Þar var Jakobsbrunnur. Jesús var vegmóður, og settist hann þarna við brunninn. Þetta var um hádegisbil. 4.7 Samversk kona kemur að sækja vatn. Jesús segir við hana: 'Gef mér að drekka.' 4.8 En lærisveinar hans höfðu farið inn í borgina að kaupa vistir. 4.9 Þá segir samverska konan við hann: 'Hverju sætir, að þú, sem ert Gyðingur, biður mig um að drekka, samverska konu?' [En Gyðingar hafa ekki samneyti við Samverja.] 4.10 Jesús svaraði henni: 'Ef þú þekktir gjöf Guðs og vissir, hver sá er, sem segir við þig: ,Gef mér að drekka,` þá mundir þú biðja hann, og hann gæfi þér lifandi vatn.' 4.11 Hún segir við hann: 'Herra, þú hefur enga skjólu að ausa með, og brunnurinn er djúpur. Hvaðan hefur þú þetta lifandi vatn? 4.12 Ertu meiri en Jakob forfaðir vor, sem gaf oss brunninn og drakk sjálfur úr honum og synir hans og fénaður?' 4.13 Jesús svaraði: 'Hvern sem drekkur af þessu vatni mun aftur þyrsta, 4.14 en hvern sem drekkur af vatninu, er ég gef honum, mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind, sem streymir fram til eilífs lífs.' 4.15 Þá segir konan við hann: 'Herra, gef mér þetta vatn, svo að mig þyrsti ekki og ég þurfi ekki að fara hingað að ausa.' 4.16 Hann segir við hana: 'Farðu, kallaðu á manninn þinn, og komdu hingað.' 4.17 Konan svaraði: 'Ég á engan mann.' Jesús segir við hana: 'Rétt er það, að þú eigir engan mann, 4.18 því þú hefur átt fimm menn, og sá sem þú átt nú, er ekki þinn maður. Þetta sagðir þú satt.' 4.19 Konan segir við hann: 'Herra, nú sé ég, að þú ert spámaður. 4.20 Feður vorir hafa tilbeðið Guð á þessu fjalli, en þér segið, að í Jerúsalem sé sá staður, þar sem tilbiðja skuli.' 4.21 Jesús segir við hana: 'Trú þú mér, kona. Sú stund kemur, að þér munuð hvorki tilbiðja föðurinn á þessu fjalli né í Jerúsalem. 4.22 Þér tilbiðjið það, sem þér þekkið ekki. Vér tilbiðjum það, sem vér þekkjum, því hjálpræðið kemur frá Gyðingum. 4.23 En sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra, er þannig tilbiðja hann. 4.24 Guð er andi, og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika.' 4.25 Konan segir við hann: 'Ég veit, að Messías kemur _ það er Kristur. Þegar hann kemur, mun hann kunngjöra oss allt.' 4.26 Jesús segir við hana: 'Ég er hann, ég sem við þig tala.' 4.27 Í sama bili komu lærisveinar hans og furðuðu sig á því, að hann var að tala við konu. Þó sagði enginn: 'Hvað viltu?' eða: 'Hvað ertu að tala við hana?' 4.28 Nú skildi konan eftir skjólu sína, fór inn í borgina og sagði við menn: 4.29 'Komið og sjáið mann, er sagði mér allt, sem ég hef gjört. Skyldi hann vera Kristur?' 4.30 Þeir fóru úr borginni og komu til hans. 4.31 Meðan þessu fór fram, báðu lærisveinarnir hann: 'Rabbí, fá þér að eta.' 4.32 Hann svaraði þeim: 'Ég hef mat að eta, sem þér vitið ekki um.' 4.33 Þá sögðu lærisveinarnir sín á milli: 'Skyldi nokkur hafa fært honum að eta?' 4.34 Jesús sagði við þá: 'Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans. 4.35 Segið þér ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi yður: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru hvítir til uppskeru. 4.36 Sá sem upp sker, tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs, svo að sá gleðjist, er sáir, og með honum hinn, sem upp sker. 4.37 Hér sannast orðtakið: Einn sáir, og annar sker upp. 4.38 Ég sendi yður að skera upp það sem þér hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað, en þér eruð gengnir inn í erfiði þeirra.' 4.39 Margir Samverjar úr þessari borg trúðu á hann vegna orða konunnar, sem vitnaði um það, að hann hefði sagt henni allt, sem hún hafði gjört. 4.40 Þegar því Samverjarnir komu til hans, báðu þeir hann að staldra við hjá sér. Var hann þar um kyrrt tvo daga. 4.41 Og miklu fleiri tóku trú, þegar þeir heyrðu hann sjálfan. 4.42 Þeir sögðu við konuna: 'Það er ekki lengur sakir orða þinna, að vér trúum, því að vér höfum sjálfir heyrt hann og vitum, að hann er sannarlega frelsari heimsins.' 4.43 Eftir þessa tvo daga fór hann þaðan til Galíleu. 4.44 En sjálfur hafði Jesús sagt, að spámaður væri ekki metinn í föðurlandi sínu. 4.45 Þegar hann kom nú til Galíleu, tóku Galíleumenn honum vel, þar eð þeir höfðu séð allt sem hann gjörði á hátíðinni í Jerúsalem, enda höfðu þeir sjálfir sótt hátíðina. 4.46 Nú kom hann aftur til Kana í Galíleu, þar sem hann hafði gjört vatn að víni. Í Kapernaum var konungsmaður nokkur, sem átti sjúkan son. 4.47 Þegar hann frétti, að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu, fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona. 4.48 Þá sagði Jesús við hann: 'Þér trúið ekki, nema þér sjáið tákn og stórmerki.' 4.49 Konungsmaður bað hann: 'Herra, kom þú áður en barnið mitt andast.' 4.50 Jesús svaraði: 'Far þú, sonur þinn lifir.' Maðurinn trúði því orði, sem Jesús mælti til hans, og fór af stað. 4.51 En meðan hann var á leiðinni ofan eftir, mættu honum þjónar hans og sögðu, að sonur hans væri á lífi. 4.52 Hann spurði þá, hvenær honum hefði farið að létta, og þeir svöruðu: 'Í gær upp úr hádegi fór hitinn úr honum.' 4.53 Þá sá faðirinn, að það var á þeirri stundu, þegar Jesús hafði sagt við hann: 'Sonur þinn lifir.' Og hann tók trú og allt hans heimafólk. 4.54 Þetta var annað táknið, sem Jesús gjörði, þegar hann kom frá Júdeu til Galíleu.
5.1 Þessu næst var hátíð Gyðinga. Þá fór Jesús upp til Jerúsalem. 5.2 Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug, sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng. 5.3 Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins. 5.4 En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins, varð heill, hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.] 5.5 Þarna var maður nokkur, sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár. 5.6 Jesús sá hann, þar sem hann lá, og vissi, að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: 'Viltu verða heill?' 5.7 Hinn sjúki svaraði honum: 'Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina, þegar vatnið hrærist, og meðan ég er að komast, fer annar ofan í á undan mér.' 5.8 Jesús segir við hann: 'Statt upp, tak rekkju þína og gakk!' 5.9 Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk. En þessi dagur var hvíldardagur, 5.10 og Gyðingarnir sögðu við hinn læknaða: 'Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna.' 5.11 Hann svaraði þeim: 'Sá sem læknaði mig, sagði við mig: ,Tak rekkju þína og gakk!'` 5.12 Þeir spurðu hann: 'Hver er sá maður, sem sagði þér: ,Tak hana og gakk`?' 5.13 En læknaði maðurinn vissi ekki, hver hann var, því að Jesús hafði leynst brott, enda var þröng á staðnum. 5.14 Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: 'Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar, svo að eigi hendi þig annað verra.' 5.15 Maðurinn fór og sagði Gyðingum, að Jesús væri sá sem læknaði hann. 5.16 Nú tóku Gyðingar að ofsækja Jesú fyrir það, að hann gjörði þetta á hvíldardegi. 5.17 En hann svaraði þeim: 'Faðir minn starfar til þessarar stundar, og ég starfa einnig.' 5.18 Nú sóttu Gyðingar enn fastar að taka hann af lífi, þar sem hann braut ekki aðeins hvíldardagshelgina, heldur kallaði líka Guð sinn eigin föður og gjörði sjálfan sig þannig Guði jafnan. 5.19 Þessu svaraði Jesús og sagði við þá: 'Sannlega, sannlega segi ég yður: Ekkert getur sonurinn gjört af sjálfum sér, nema það sem hann sér föðurinn gjöra. Því hvað sem hann gjörir, það gjörir sonurinn einnig. 5.20 Faðirinn elskar soninn og sýnir honum allt, sem hann gjörir sjálfur. Hann mun sýna honum meiri verk en þessi, svo að þér verðið furðu lostnir. 5.21 Eins og faðirinn vekur upp dauða og lífgar, þannig lífgar og sonurinn þá, sem hann vill. 5.22 Enda dæmir faðirinn engan, heldur hefur hann falið syninum allan dóm, 5.23 svo að allir heiðri soninn eins og þeir heiðra föðurinn. Sá sem heiðrar ekki soninn, heiðrar ekki föðurinn, sem sendi hann. 5.24 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim, sem sendi mig, hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms, heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins. 5.25 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sú stund kemur og er þegar komin, að hinir dauðu munu heyra raust Guðs sonarins, og þeir, sem heyra, munu lifa. 5.26 Eins og faðirinn hefur líf í sjálfum sér, þannig hefur hann og veitt syninum að hafa líf í sjálfum sér. 5.27 Og hann hefur veitt honum vald til að halda dóm, því að hann er Mannssonur. 5.28 Undrist þetta ekki. Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans 5.29 og ganga fram, þeir, sem gjört hafa hið góða, munu rísa upp til lífsins, en þeir, sem drýgt hafa hið illa, til dómsins. 5.30 Ég megna eigi að gjöra neitt af sjálfum mér. Ég dæmi samkvæmt því, sem ég heyri, og dómur minn er réttvís, því að ég leita ekki míns vilja, heldur vilja þess, sem sendi mig. 5.31 Ef ég vitna sjálfur um mig, er vitnisburður minn ekki gildur. 5.32 Annar er sá sem vitnar um mig, og ég veit, að sá vitnisburður er sannur, sem hann ber mér. 5.33 Þér hafið sent til Jóhannesar. Hann bar sannleikanum vitni. 5.34 Ekki þarf ég vitnisburð manns, en ég segi þetta til þess, að þér megið frelsast. 5.35 Hann var logandi og skínandi lampi. Þér vilduð um stund gleðjast við ljós hans. 5.36 Ég hef þann vitnisburð, sem er meiri en Jóhannesar, því verkin, sem faðir minn fékk mér að fullna, verkin, sem ég vinn, bera mér það vitni, að faðirinn hefur sent mig. 5.37 Faðirinn, sem sendi mig, hann hefur sjálfur vitnað um mig. Þér hafið aldrei heyrt rödd hans né séð ásýnd hans. 5.38 Og orð hans býr ekki í yður, því að þér trúið ekki þeim, sem hann sendi. 5.39 Þér rannsakið ritningarnar, því í þeim hyggist þér eiga eilíft líf. Og það eru þær, sem vitna um mig, 5.40 en þér viljið ekki koma til mín og öðlast lífið. 5.41 Ég þigg ekki heiður af mönnum, 5.42 en ég þekki yður að þér hafið ekki í yður kærleika Guðs. 5.43 Ég er kominn í nafni föður míns, og þér takið ekki við mér. Ef annar kæmi í sínu eigin nafni, tækjuð þér við honum. 5.44 Hvernig getið þér trúað, þegar þér þiggið heiður hver af öðrum, en leitið ekki þess heiðurs, sem er frá einum Guði? 5.45 Ætlið eigi, að ég muni ákæra yður fyrir föðurnum. Sá sem ákærir yður, er Móse, og á hann vonið þér. 5.46 Ef þér tryðuð Móse, munduð þér líka trúa mér, því um mig hefur hann ritað. 5.47 Fyrst þér trúið ekki því, sem hann skrifaði, hvernig getið þér þá trúað orðum mínum?'
6.1 Eftir þetta fór Jesús yfir um Galíleuvatn eða Tíberíasvatn. 6.2 Mikill fjöldi manna fylgdi honum, því þeir sáu þau tákn, er hann gjörði á sjúku fólki. 6.3 Þá fór Jesús upp á fjallið og settist þar niður með lærisveinum sínum. 6.4 Þetta var laust fyrir páska, hátíð Gyðinga. 6.5 Jesús leit upp og sá, að mikill mannfjöldi kom til hans. Hann segir þá við Filippus: 'Hvar eigum vér að kaupa brauð, að þessir menn fái að eta?' 6.6 En þetta sagði hann til að reyna hann, því hann vissi sjálfur, hvað hann ætlaði að gjöra. 6.7 Filippus svaraði honum: 'Brauð fyrir tvö hundruð denara nægðu þeim ekki, svo að hver fengi lítið eitt.' 6.8 Annar lærisveinn hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, segir þá við hann: 6.9 'Hér er piltur, sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska, en hvað er það handa svo mörgum?' 6.10 Jesús sagði: 'Látið fólkið setjast niður.' Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu. 6.11 Nú tók Jesús brauðin, gjörði þakkir og skipti þeim út til þeirra, sem þar sátu, og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu. 6.12 Þegar þeir voru mettir, segir hann við lærisveina sína: 'Safnið saman leifunum, svo ekkert spillist.' 6.13 Þeir söfnuðu þeim saman og fylltu tólf körfur með leifum byggbrauðanna fimm, sem af gengu hjá þeim, er neytt höfðu. 6.14 Þegar menn sáu táknið, sem hann gjörði, sögðu þeir: 'Þessi maður er sannarlega spámaðurinn, sem koma skal í heiminn.' 6.15 Jesús vissi nú, að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gjöra hann að konungi, og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs. 6.16 Þegar kvöld var komið, fóru lærisveinar hans niður að vatninu, 6.17 stigu út í bát og lögðu af stað yfir um vatnið til Kapernaum. Myrkur var skollið á, og Jesús var ekki enn kominn til þeirra. 6.18 Vind gerði hvassan, og tók vatnið að æsast. 6.19 Þegar þeir höfðu róið hér um bil tuttugu og fimm eða þrjátíu skeiðrúm, sáu þeir Jesú gangandi á vatninu og nálgast bátinn. Þeir urðu hræddir, 6.20 en hann sagði við þá: 'Það er ég, óttist eigi.' 6.21 Þeir vildu þá taka hann í bátinn, en í sömu svifum rann báturinn að landi, þar sem þeir ætluðu að lenda. 6.22 Daginn eftir sá fólkið, sem eftir var handan vatnsins, að þar hafði ekki verið nema einn bátur og að Jesús hafði ekki stigið í bátinn með lærisveinum sínum, heldur höfðu þeir farið burt einir saman. 6.23 Aðrir bátar komu frá Tíberías í nánd við staðinn, þar sem þeir höfðu etið brauðið, þegar Drottinn gjörði þakkir. 6.24 Nú sáu menn, að Jesús var ekki þarna fremur en lærisveinar hans. Þeir stigu því í bátana og komu til Kapernaum í leit að Jesú. 6.25 Þeir fundu hann hinum megin við vatnið og spurðu hann: 'Rabbí, nær komstu hingað?' 6.26 Jesús svaraði þeim: 'Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér leitið mín ekki af því, að þér sáuð tákn, heldur af því, að þér átuð af brauðunum og urðuð mettir. 6.27 Aflið yður eigi þeirrar fæðu, sem eyðist, heldur þeirrar fæðu, sem varir til eilífs lífs og Mannssonurinn mun gefa yður. Því á hann hefur faðirinn, Guð sjálfur, sett innsigli sitt.' 6.28 Þá sögðu þeir við hann: 'Hvað eigum vér að gjöra, svo að vér vinnum verk Guðs?' 6.29 Jesús svaraði þeim: 'Þetta er verk Guðs, að þér trúið á þann, sem hann sendi.' 6.30 Þeir spurðu hann þá: 'Hvaða tákn gjörir þú, svo að vér sjáum og trúum þér? Hvað afrekar þú? 6.31 Feður vorir átu manna í eyðimörkinni, eins og ritað er: ,Brauð af himni gaf hann þeim að eta.'` 6.32 Jesús sagði við þá: 'Sannlega, sannlega segi ég yður: Móse gaf yður ekki brauðið af himni, heldur gefur faðir minn yður hið sanna brauð af himni. 6.33 Brauð Guðs er sá, sem stígur niður af himni og gefur heiminum líf.' 6.34 Þá sögðu þeir við hann: 'Herra, gef oss ætíð þetta brauð.' 6.35 Jesús sagði þeim: 'Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra, sem til mín kemur, og þann aldrei þyrsta, sem á mig trúir. 6.36 En ég hef sagt við yður: Þér hafið séð mig og trúið þó ekki. 6.37 Allt sem faðirinn gefur mér, mun koma til mín, og þann sem kemur til mín, mun ég alls eigi brott reka. 6.38 Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gjöra vilja minn, heldur vilja þess, er sendi mig. 6.39 En sá er vilji þess, sem sendi mig, að ég glati engu af öllu því, sem hann hefur gefið mér, heldur reisi það upp á efsta degi. 6.40 Því sá er vilji föður míns, að hver sem sér soninn og trúir á hann, hafi eilíft líf, og ég mun reisa hann upp á efsta degi.' 6.41 Nú kom upp kurr meðal Gyðinga út af því, að hann sagði: 'Ég er brauðið, sem niður steig af himni,' 6.42 og þeir sögðu: 'Er þetta ekki hann Jesús, sonur Jósefs? Vér þekkjum bæði föður hans og móður. Hvernig getur hann sagt, að hann sé stiginn niður af himni?' 6.43 Jesús svaraði þeim: 'Verið ekki með kurr yðar á meðal. 6.44 Enginn getur komið til mín, nema faðirinn, sem sendi mig, dragi hann, og ég mun reisa hann upp á efsta degi. 6.45 Hjá spámönnunum er skrifað: ,Þeir munu allir verða af Guði fræddir.` Hver sem hlýðir á föðurinn og lærir af honum, kemur til mín. 6.46 Ekki er það svo, að nokkur hafi séð föðurinn. Sá einn, sem er frá Guði, hefur séð föðurinn. 6.47 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir, hefur eilíft líf. 6.48 Ég er brauð lífsins. 6.49 Feður yðar átu manna í eyðimörkinni, en þeir dóu. 6.50 Þetta er brauðið, sem niður stígur af himni. Sá sem etur af því, deyr ekki. 6.51 Ég er hið lifandi brauð, sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði, mun lifa að eilífu. Og brauðið, sem ég mun gefa, er hold mitt, heiminum til lífs.' 6.52 Nú deildu Gyðingar sín á milli og sögðu: 'Hvernig getur þessi maður gefið oss hold sitt að eta?' 6.53 Þá sagði Jesús við þá: 'Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og drekkið blóð hans, hafið þér ekki lífið í yður. 6.54 Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, hefur eilíft líf, og ég reisi hann upp á efsta degi. 6.55 Hold mitt er sönn fæða, og blóð mitt er sannur drykkur. 6.56 Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, er í mér og ég í honum. 6.57 Eins og hinn lifandi faðir sendi mig og ég lifi fyrir föðurinn, svo mun sá lifa fyrir mig, sem mig etur. 6.58 Þetta er það brauð, sem niður steig af himni. Það er ekki eins og brauðið, sem feðurnir átu og dóu. Sá sem etur þetta brauð, mun lifa að eilífu.' 6.59 Þetta sagði hann, þegar hann var að kenna í samkundunni í Kapernaum. 6.60 Margir af lærisveinum hans, er á hlýddu, sögðu: 'Þung er þessi ræða. Hver getur hlustað á hana?' 6.61 Jesús vissi með sjálfum sér, að kurr var með lærisveinum hans út af þessu, og sagði við þá: 'Hneykslar þetta yður? 6.62 En ef þér sæjuð Mannssoninn stíga upp þangað, sem hann áður var? 6.63 Það er andinn, sem lífgar, holdið megnar ekkert. Orðin, sem ég hef talað til yðar, þau eru andi og þau eru líf. 6.64 En meðal yðar eru nokkrir, sem ekki trúa.' Jesús vissi frá upphafi, hverjir þeir voru, sem trúðu ekki, og hver sá var, sem mundi svíkja hann. 6.65 Og hann bætti við: 'Vegna þess sagði ég við yður: Enginn getur komið til mín, nema faðirinn veiti honum það.' 6.66 Upp úr þessu hurfu margir af lærisveinum hans frá og voru ekki framar með honum. 6.67 Þá sagði Jesús við þá tólf: 'Ætlið þér að fara líka?' 6.68 Símon Pétur svaraði honum: 'Herra, til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs, 6.69 og vér trúum og vitum, að þú ert hinn heilagi Guðs.' 6.70 Jesús svaraði þeim: 'Hef ég eigi sjálfur útvalið yður tólf? Þó er einn yðar djöfull.' 6.71 En hann átti við Júdas Símonarson Ískaríots, sem varð til að svíkja hann, einn þeirra tólf.
7.1 Eftir þetta fór Jesús um Galíleu. Hann vildi ekki fara um Júdeu, sökum þess að Gyðingar sátu um líf hans. 7.2 Nú fór að hátíð Gyðinga, laufskálahátíðin. 7.3 Þá sögðu bræður hans við hann: 'Flyt þig héðan og farðu til Júdeu, til þess að lærisveinar þínir sjái líka verkin þín, sem þú gjörir. 7.4 Því enginn starfar í leynum, ef hann vill verða alkunnur. Fyrst þú vinnur slík verk, þá opinbera sjálfan þig heiminum.' 7.5 Því jafnvel bræður hans trúðu ekki á hann. 7.6 Jesús sagði við þá: 'Minn tími er ekki enn kominn, en yður hentar allur tími. 7.7 Heimurinn getur ekki hatað yður. Mig hatar hann, af því ég vitna um hann, að verk hans eru vond. 7.8 Þér skuluð fara upp eftir á hátíðina. Ég fer ekki til þessarar hátíðar, því minn tími er ekki enn kominn.' 7.9 Þetta sagði hann þeim og var kyrr í Galíleu. 7.10 Þegar bræður hans voru farnir upp eftir til hátíðarinnar, fór hann samt líka upp eftir, ekki svo menn vissu, heldur nánast á laun. 7.11 Gyðingar voru að leita að honum á hátíðinni og spurðu, hvar hann væri. 7.12 Manna á meðal var margt um hann talað. Sumir sögðu: 'Hann er góður,' en aðrir sögðu: 'Nei, hann leiðir fjöldann í villu.' 7.13 Þó talaði enginn opinskátt um hann af ótta við Gyðinga. 7.14 Er hátíðin var þegar hálfnuð, fór Jesús upp í helgidóminn og tók að kenna. 7.15 Gyðingar urðu forviða og sögðu: 'Hvernig hefur þessi maður orðið lærður og hefur þó ekki fræðslu notið?' 7.16 Jesús svaraði þeim: 'Kenning mín er ekki mín, heldur hans, er sendi mig. 7.17 Sá sem vill gjöra vilja hans, mun komast að raun um, hvort kenningin er frá Guði eða ég tala af sjálfum mér. 7.18 Sá sem talar af sjálfum sér, leitar eigin heiðurs, en sá sem leitar heiðurs þess, er sendi hann, er sannorður og í honum ekkert ranglæti. 7.19 Gaf Móse yður ekki lögmálið? Samt heldur enginn yðar lögmálið. Hví sitjið þér um líf mitt?' 7.20 Fólkið ansaði: 'Þú ert haldinn illum anda. Hver situr um líf þitt?' 7.21 Jesús svaraði þeim: 'Eitt verk gjörði ég, og þér undrist það allir. 7.22 Móse gaf yður umskurnina _ hún er að vísu ekki frá Móse, heldur feðrunum _ og þér umskerið mann jafnvel á hvíldardegi. 7.23 Fyrst maður er umskorinn á hvíldardegi, til þess að lögmál Móse verði ekki brotið, hví reiðist þér mér, að ég gjörði manninn allan heilan á hvíldardegi? 7.24 Dæmið ekki eftir útliti, dæmið réttlátan dóm.' 7.25 Þá sögðu nokkrir Jerúsalembúar: 'Er þetta ekki sá, sem þeir sitja um að lífláta? 7.26 Og nú er hann að tala á almannafæri, og þeir segja ekkert við hann. Skyldu nú höfðingjarnir hafa komist að raun um, að hann sé Kristur? 7.27 Nei, vér vitum, hvaðan þessi maður er. Þegar Kristur kemur, veit enginn, hvaðan hann er.' 7.28 Jesús var að kenna í helgidóminum, og nú kallaði hann: 'Bæði þekkið þér mig og vitið hvaðan ég er. Þó er ég ekki kominn af sjálfum mér. En sá er sannur, sem sendi mig, og hann þekkið þér ekki. 7.29 Ég þekki hann, því ég er frá honum og hann sendi mig.' 7.30 Nú ætluðu þeir að grípa hann, en enginn lagði hendur á hann, því stund hans var enn ekki komin. 7.31 En af alþýðu manna tóku margir að trúa á hann og sögðu: 'Mun Kristur gjöra fleiri tákn, þegar hann kemur, en þessi maður hefur gjört?' 7.32 Farísear heyrðu, að fólk var að skrafa þetta um hann, og æðstu prestar og farísear sendu þjóna að taka hann höndum. 7.33 Þá sagði Jesús: 'Enn verð ég hjá yður skamma stund, og þá fer ég aftur til þess, sem sendi mig. 7.34 Þér munuð leita mín og eigi finna. Þér getið ekki komist þangað sem ég er.' 7.35 Þá sögðu Gyðingar sín á milli: 'Hvert skyldi hann ætla að fara, svo að vér finnum hann ekki? Hann ætlar þó ekki að fara til Gyðinga, sem dreifðir eru meðal Grikkja og kenna Grikkjum? 7.36 Hvað var hann að segja: ,Þér munuð leita mín og eigi finna, og þér getið ekki komist þangað sem ég er`?' 7.37 Síðasta daginn, hátíðardaginn mikla, stóð Jesús þar og kallaði: 'Ef nokkurn þyrstir, þá komi hann til mín og drekki. 7.38 Sá sem trúir á mig, _ frá hjarta hans munu renna lækir lifandi vatns, eins og ritningin segir.' 7.39 Þarna átti hann við andann, er þeir skyldu hljóta, sem á hann trúa. Því enn var andinn ekki gefinn, þar eð Jesús var ekki enn dýrlegur orðinn. 7.40 Þá sögðu nokkrir úr mannfjöldanum, sem hlýddu á þessi orð: 'Þessi er sannarlega spámaðurinn.' 7.41 Aðrir mæltu: 'Hann er Kristur.' En sumir sögðu: 'Mundi Kristur þá koma frá Galíleu? 7.42 Hefur ekki ritningin sagt, að Kristur komi af kyni Davíðs og frá Betlehem, þorpinu þar sem Davíð var?' 7.43 Þannig greindi menn á um hann. 7.44 Nokkrir þeirra vildu grípa hann, en þó lagði enginn hendur á hann. 7.45 Nú komu þjónarnir til æðstu prestanna og faríseanna, sem sögðu við þá: 'Hvers vegna komuð þér ekki með hann?' 7.46 Þjónarnir svöruðu: 'Aldrei hefur nokkur maður talað þannig.' 7.47 Þá sögðu farísearnir: 'Létuð þér þá einnig leiðast afvega? 7.48 Ætli nokkur af höfðingjunum hafi farið að trúa á hann, eða þá af faríseum? 7.49 Þessi almúgi, sem veit ekkert í lögmálinu, hann er bölvaður!' 7.50 Nikódemus, sem kom til hans fyrrum og var einn af þeim, segir við þá: 7.51 'Mundi lögmál vort dæma mann, nema hann sé yfirheyrður áður og að því komist, hvað hann hefur aðhafst?' 7.52 Þeir svöruðu honum: 'Ert þú nú líka frá Galíleu? Gáðu að og sjáðu, að enginn spámaður kemur úr Galíleu.' 7.53 [Nú fór hver heim til sín.
8.1 En Jesús fór til Olíufjallsins. 8.2 Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn, og allur lýður kom til hans, en hann settist og tók að kenna þeim. 8.3 Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra 8.4 og sögðu við hann: 'Meistari, kona þessi var staðin að verki, þar sem hún var að drýgja hór. 8.5 Móse bauð oss í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú?' 8.6 Þetta sögðu þeir til að reyna hann, svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina. 8.7 Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann, rétti hann sig upp og sagði við þá: 'Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana.' 8.8 Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. 8.9 Þegar þeir heyrðu þetta, fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir, og konan stóð í sömu sporum. 8.10 Hann rétti sig upp og sagði við hana: 'Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?' 8.11 En hún sagði: 'Enginn, herra.' Jesús mælti: 'Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar.'] 8.12 Nú talaði Jesús aftur til þeirra og sagði: 'Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.' 8.13 Þá sögðu farísear við hann: 'Þú vitnar um sjálfan þig. Vitnisburður þinn er ekki gildur.' 8.14 Jesús svaraði þeim: 'Enda þótt ég vitni um sjálfan mig, er vitnisburður minn gildur, því ég veit hvaðan ég kom og hvert ég fer. En þér vitið ekki, hvaðan ég kem né hvert ég fer. 8.15 Þér dæmið að hætti manna. Ég dæmi engan. 8.16 En ef ég dæmi, er dómur minn réttur, því ég er ekki einn, með mér er faðirinn, sem sendi mig. 8.17 Og í lögmáli yðar er ritað, að vitnisburður tveggja manna sé gildur. 8.18 Ég er sá, sem vitna um sjálfan mig, og faðirinn, sem sendi mig, vitnar um mig.' 8.19 Þeir sögðu við hann: 'Hvar er faðir þinn?' Jesús svaraði: 'Hvorki þekkið þér mig né föður minn. Ef þér þekktuð mig, þá þekktuð þér líka föður minn.' 8.20 Þessi orð mælti Jesús hjá fjárhirslunni, þegar hann var að kenna í helgidóminum. Enginn lagði hendur á hann, því stund hans var ekki enn komin. 8.21 Enn sagði hann við þá: 'Ég fer burt, og þér munuð leita mín, en þér munuð deyja í synd yðar. Þangað sem ég fer, getið þér ekki komist.' 8.22 Nú sögðu Gyðingar: 'Mun hann ætla að fyrirfara sér, fyrst hann segir: ,Þangað sem ég fer, getið þér ekki komist`?' 8.23 En hann sagði við þá: 'Þér eruð neðan að, ég er ofan að. Þér eruð af þessum heimi, ég er ekki af þessum heimi. 8.24 Þess vegna sagði ég yður, að þér munduð deyja í syndum yðar. Því ef þér trúið ekki, að ég sé sá sem ég er, munuð þér deyja í syndum yðar.' 8.25 Þeir spurðu hann þá: 'Hver ert þú?' Jesús svaraði þeim: 'Sá sem ég hef sagt yður frá upphafi. 8.26 Margt hef ég um yður að tala og fyrir margt að dæma. En sá sem sendi mig, er sannur, og það sem ég heyrði hjá honum, það tala ég til heimsins.' 8.27 Þeir skildu ekki, að hann var að tala við þá um föðurinn. 8.28 Því sagði Jesús: 'Þegar þér hefjið upp Mannssoninn, munuð þér skilja, að ég er sá sem ég er, og að ég gjöri ekkert af sjálfum mér, heldur tala ég það eitt, sem faðirinn hefur kennt mér. 8.29 Og sá sem sendi mig, er með mér. Hann hefur ekki látið mig einan, því ég gjöri ætíð það sem honum þóknast.' 8.30 Þegar hann mælti þetta, fóru margir að trúa á hann. 8.31 Þá sagði Jesús við Gyðingana, sem tekið höfðu trú á hann: 'Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir 8.32 og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.' 8.33 Þeir svöruðu honum: 'Vér erum niðjar Abrahams og höfum aldrei verið nokkurs manns þrælar. Hvernig getur þú þá sagt: ,Þér munuð verða frjálsir`?' 8.34 Jesús svaraði þeim: 'Sannlega, sannlega segi ég yður: Hver sem syndina drýgir, er þræll syndarinnar. 8.35 En þrællinn dvelst ekki um aldur í húsinu, sonurinn dvelst þar um aldur og ævi. 8.36 Ef sonurinn gjörir yður frjálsa, munuð þér sannarlega verða frjálsir. 8.37 Ég veit, að þér eruð niðjar Abrahams. Þó leitist þér við að lífláta mig, því að orð mitt fær ekki rúm hjá yður. 8.38 Ég tala það, sem ég hef séð hjá föður mínum, og þér gjörið það, sem þér hafið heyrt hjá föður yðar.' 8.39 Þeir svöruðu honum: 'Faðir vor er Abraham.' Jesús segir við þá: 'Ef þér væruð börn Abrahams, munduð þér vinna verk Abrahams. 8.40 En nú leitist þér við að lífláta mig, mann sem hefur sagt yður sannleikann, sem ég heyrði hjá Guði. Slíkt gjörði Abraham aldrei. 8.41 Þér vinnið verk föður yðar.' Þeir sögðu við hann: 'Vér erum ekki hórgetnir. Einn föður eigum vér, Guð.' 8.42 Jesús svaraði: 'Ef Guð væri faðir yðar, munduð þér elska mig, því frá Guði er ég út genginn og kominn. Ekki er ég sendur af sjálfum mér. Það er hann, sem sendi mig. 8.43 Hví skiljið þér ekki mál mitt? Af því að þér getið ekki hlustað á orð mitt. 8.44 Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og aldrei í sannleikanum, því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu, því hann er lygari og lyginnar faðir. 8.45 En af því að ég segi sannleikann, trúið þér mér ekki. 8.46 Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki? 8.47 Sá sem er af Guði, heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki, vegna þess að þér eruð ekki af Guði.' 8.48 Gyðingar svöruðu honum: 'Er það ekki rétt, sem vér segjum, að þú sért Samverji og hafir illan anda?' 8.49 Jesús ansaði: 'Ekki hef ég illan anda. Ég heiðra föður minn, en þér smánið mig. 8.50 Ég leita ekki míns heiðurs. Sá er til, sem leitar hans og dæmir. 8.51 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð, skal aldrei að eilífu deyja.' 8.52 Þá sögðu Gyðingar við hann: 'Nú vitum vér, að þú hefur illan anda. Abraham dó og spámennirnir, og þú segir, að sá sem varðveitir orð þitt, skuli aldrei að eilífu deyja. 8.53 Ert þú meiri en faðir vor, Abraham? Hann dó, og spámennirnir dóu. Hver þykist þú vera?' 8.54 Jesús svaraði: 'Ef ég vegsama sjálfan mig, er vegsemd mín engin. Faðir minn er sá, sem vegsamar mig, hann sem þér segið vera Guð yðar. 8.55 Og þér þekkið hann ekki, en ég þekki hann. Ef ég segðist ekki þekkja hann, væri ég lygari eins og þér. En ég þekki hann og varðveiti orð hans. 8.56 Abraham faðir yðar vænti þess með fögnuði að sjá dag minn, og hann sá hann og gladdist.' 8.57 Nú sögðu Gyðingar við hann: 'Þú ert ekki enn orðinn fimmtugur, og hefur séð Abraham!' 8.58 Jesús sagði við þá: 'Sannlega, sannlega segi ég yður: Áður en Abraham fæddist, er ég.' 8.59 Þá tóku þeir upp steina til að grýta Jesú. En hann duldist og fór út úr helgidóminum.
9.1 Á leið sinni sá hann mann, sem var blindur frá fæðingu. 9.2 Lærisveinar hans spurðu hann: 'Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans, fyrst hann fæddist blindur?' 9.3 Jesús svaraði: 'Hvorki er það af því, að hann hafi syndgað eða foreldrar hans, heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum. 9.4 Oss ber að vinna verk þess, er sendi mig, meðan dagur er. Það kemur nótt, þegar enginn getur unnið. 9.5 Meðan ég er í heiminum, er ég ljós heimsins.' 9.6 Að svo mæltu skyrpti hann á jörðina, gjörði leðju úr munnvatninu, strauk leðju á augu hans 9.7 og sagði við hann: 'Farðu og þvoðu þér í lauginni Sílóam.' (Sílóam þýðir sendur.) Hann fór og þvoði sér og kom sjáandi. 9.8 Nágrannar hans og þeir, sem höfðu áður séð hann ölmusumann, sögðu þá: 'Er þetta ekki sá, er setið hefur og beðið sér ölmusu?' 9.9 Sumir sögðu: 'Sá er maðurinn,' en aðrir sögðu: 'Nei, en líkur er hann honum.' Sjálfur sagði hann: 'Ég er sá.' 9.10 Þá sögðu þeir við hann: 'Hvernig opnuðust augu þín?' 9.11 Hann svaraði: 'Maður að nafni Jesús gjörði leðju og smurði á augu mín og sagði mér að fara til Sílóam og þvo mér. Ég fór og fékk sjónina, þegar ég var búinn að þvo mér.' 9.12 Þeir sögðu við hann: 'Hvar er hann?' Hann svaraði: 'Það veit ég ekki.' 9.13 Þeir fara til faríseanna með manninn, sem áður var blindur. 9.14 En þá var hvíldardagur, þegar Jesús bjó til leðjuna og opnaði augu hans. 9.15 Farísearnir spurðu hann nú líka, hvernig hann hefði fengið sjónina. Hann svaraði þeim: 'Hann lagði leðju á augu mín, ég þvoði mér, og nú sé ég.' 9.16 Þá sögðu nokkrir farísear: 'Þessi maður er ekki frá Guði, fyrst hann heldur ekki hvíldardaginn.' Aðrir sögðu: 'Hvernig getur syndugur maður gjört þvílík tákn?' Og ágreiningur varð með þeim. 9.17 Þá segja þeir aftur við hinn blinda: 'Hvað segir þú um hann, fyrst hann opnaði augu þín?' Hann sagði: 'Hann er spámaður.' 9.18 Gyðingar trúðu því ekki, að hann, sem sjónina fékk, hefði verið blindur, og kölluðu fyrst á foreldra hans 9.19 og spurðu þá: 'Er þetta sonur ykkar, sem þið segið að hafi fæðst blindur? Hvernig er hann þá orðinn sjáandi?' 9.20 Foreldrar hans svöruðu: 'Við vitum, að þessi maður er sonur okkar og að hann fæddist blindur. 9.21 En hvernig hann er nú orðinn sjáandi, vitum við ekki, né heldur vitum við, hver opnaði augu hans. Spyrjið hann sjálfan. Hann hefur aldur til. Hann getur svarað fyrir sig.' 9.22 Þetta sögðu foreldrar hans af ótta við Gyðinga. Því Gyðingar höfðu þegar samþykkt, að ef nokkur játaði, að Jesús væri Kristur, skyldi hann samkundurækur. 9.23 Vegna þessa sögðu foreldrar hans: 'Hann hefur aldur til, spyrjið hann sjálfan.' 9.24 Nú kölluðu þeir í annað sinn á manninn, sem blindur hafði verið, og sögðu við hann: 'Gef þú Guði dýrðina. Vér vitum, að þessi maður er syndari.' 9.25 Hann svaraði: 'Ekki veit ég, hvort hann er syndari. En eitt veit ég, að ég, sem var blindur, er nú sjáandi.' 9.26 Þá sögðu þeir við hann: 'Hvað gjörði hann við þig? Hvernig opnaði hann augu þín?' 9.27 Hann svaraði þeim: 'Ég er búinn að segja yður það, og þér hlustuðuð ekki á það. Hví viljið þér heyra það aftur? Viljið þér líka verða lærisveinar hans?' 9.28 Þeir atyrtu hann og sögðu: 'Þú ert lærisveinn hans, vér erum lærisveinar Móse. 9.29 Vér vitum, að Guð talaði við Móse, en um þennan vitum vér ekki, hvaðan hann er.' 9.30 Maðurinn svaraði þeim: 'Þetta er furðulegt, að þér vitið ekki, hvaðan hann er, og þó opnaði hann augu mín. 9.31 Vér vitum, að Guð heyrir ekki syndara. En ef einhver er guðrækinn og gjörir vilja hans, þann heyrir hann. 9.32 Frá alda öðli hefur ekki heyrst, að nokkur hafi opnað augu þess, sem blindur var borinn. 9.33 Ef þessi maður væri ekki frá Guði, gæti hann ekkert gjört.' 9.34 Þeir svöruðu honum: 'Þú ert syndum vafinn frá fæðingu og ætlar að kenna oss!' Og þeir ráku hann út. 9.35 Jesús heyrði, að þeir hefðu rekið hann út. Hann fann hann og sagði við hann: 'Trúir þú á Mannssoninn?' 9.36 Hinn svaraði: 'Herra, hver er sá, að ég megi trúa á hann?' 9.37 Jesús sagði við hann: 'Þú hefur séð hann, hann er sá sem er nú að tala við þig.' 9.38 En hann sagði: 'Ég trúi, herra,' og féll fram fyrir honum. 9.39 Jesús sagði: 'Til dóms er ég kominn í þennan heim, svo að blindir sjái og hinir sjáandi verði blindir.' 9.40 Þetta heyrðu þeir farísear, sem með honum voru, og spurðu: 'Erum vér þá líka blindir?' 9.41 Jesús sagði við þá: 'Ef þér væruð blindir, væruð þér án sakar. En nú segist þér vera sjáandi, því varir sök yðar.'
10.1 'Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem kemur ekki um dyrnar inn í sauðabyrgið, heldur fer yfir annars staðar, hann er þjófur og ræningi, 10.2 en sá sem kemur inn um dyrnar, er hirðir sauðanna. 10.3 Dyravörðurinn lýkur upp fyrir honum, og sauðirnir heyra raust hans, og hann kallar á sína sauði með nafni og leiðir þá út. 10.4 Þegar hann hefur látið út alla sauði sína, fer hann á undan þeim, og þeir fylgja honum, af því að þeir þekkja raust hans. 10.5 En ókunnugum fylgja þeir ekki, heldur flýja frá honum, því þeir þekkja ekki raust ókunnugra.' 10.6 Þessa líkingu sagði Jesús þeim. En þeir skildu ekki hvað það þýddi, sem hann var að tala við þá. 10.7 Því sagði Jesús aftur: 'Sannlega, sannlega segi ég yður: Ég er dyr sauðanna. 10.8 Allir þeir, sem á undan mér komu, eru þjófar og ræningjar, enda hlýddu sauðirnir þeim ekki. 10.9 Ég er dyrnar. Sá sem kemur inn um mig, mun frelsast, og hann mun ganga inn og út og finna haga. 10.10 Þjófurinn kemur ekki nema til að stela og slátra og eyða. Ég er kominn til þess, að þeir hafi líf, líf í fullri gnægð. 10.11 Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. 10.12 Leiguliðinn, sem hvorki er hirðir né sjálfur á sauðina, sér úlfinn koma og yfirgefur sauðina og flýr, og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim. 10.13 Enda er hann leiguliði og lætur sér ekki annt um sauðina. 10.14 Ég er góði hirðirinn og þekki mína, og mínir þekkja mig, 10.15 eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina. 10.16 Ég á líka aðra sauði, sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir. 10.17 Fyrir því elskar faðirinn mig, að ég legg líf mitt í sölurnar, svo að ég fái það aftur. 10.18 Enginn tekur það frá mér, heldur legg ég það sjálfur í sölurnar. Ég hef vald til að leggja það í sölurnar og vald til að taka það aftur. Þessa skipan fékk ég frá föður mínum.' 10.19 Aftur varð ágreiningur með Gyðingum út af þessum orðum. 10.20 Margir þeirra sögðu: 'Hann hefur illan anda og er genginn af vitinu. Hvað eruð þér að hlusta á hann?' 10.21 Aðrir sögðu: 'Þessi orð mælir enginn sá, sem hefur illan anda. Mundi illur andi geta opnað augu blindra?' 10.22 Nú var vígsluhátíðin í Jerúsalem og kominn vetur. 10.23 Jesús gekk um í súlnagöngum Salómons í helgidóminum. 10.24 Þá söfnuðust Gyðingar um hann og sögðu við hann: 'Hve lengi lætur þú oss í óvissu? Ef þú ert Kristur, þá seg oss það berum orðum.' 10.25 Jesús svaraði þeim: 'Ég hef sagt yður það, en þér trúið ekki. Verkin, sem ég gjöri í nafni föður míns, þau vitna um mig, 10.26 en þér trúið ekki, því að þér eruð ekki úr hópi sauða minna. 10.27 Mínir sauðir heyra raust mína, og ég þekki þá, og þeir fylgja mér. 10.28 Ég gef þeim eilíft líf, og þeir skulu aldrei að eilífu glatast, og enginn skal slíta þá úr hendi minni. 10.29 Faðir minn, sem hefur gefið mér þá, er meiri en allir, og enginn getur slitið þá úr hendi föðurins. 10.30 Ég og faðirinn erum eitt.' 10.31 Gyðingar tóku aftur upp steina til að grýta hann. 10.32 Jesús mælti við þá: 'Ég hef sýnt yður mörg góð verk frá föður mínum. Fyrir hvert þeirra verka viljið þér grýta mig?' 10.33 Gyðingar svöruðu honum: 'Vér grýtum þig ekki fyrir góð verk, heldur fyrir guðlast, að þú, sem ert maður, gjörir sjálfan þig að Guði.' 10.34 Jesús svaraði þeim: 'Er ekki skrifað í lögmáli yðar: ,Ég hef sagt: Þér eruð guðir`? 10.35 Ef það nefnir þá guði, sem Guðs orð kom til, _ og ritningin verður ekki felld úr gildi, _ 10.36 segið þér þá við mig, sem faðirinn helgaði og sendi í heiminn, að ég guðlasti, af því ég sagði: ,Ég er sonur Guðs`? 10.37 Ef ég vinn ekki verk föður míns, trúið mér þá ekki, 10.38 en ef ég vinn þau, þá trúið verkunum, þótt þér trúið mér ekki, svo að þér skiljið og vitið, að faðirinn er í mér og ég í föðurnum.' 10.39 Nú reyndu þeir aftur að grípa hann, en hann gekk úr greipum þeirra. 10.40 Hann fór aftur burt yfir um Jórdan, þangað sem Jóhannes hafði fyrrum verið að skíra, og var þar um kyrrt. 10.41 Margir komu til hans. Þeir sögðu: 'Víst gjörði Jóhannes ekkert tákn, en allt er það satt, sem hann sagði um þennan mann.' 10.42 Og þarna tóku margir trú á hann.
11.1 Maður sá var sjúkur, er Lasarus hét, frá Betaníu, þorpi Maríu og Mörtu, systur hennar. 11.2 En María var sú er smurði Drottin smyrslum og þerraði fætur hans með hári sínu. Bróðir hennar, Lasarus, var sjúkur. 11.3 Nú gjörðu systurnar Jesú orðsending: 'Herra, sá sem þú elskar, er sjúkur.' 11.4 Þegar hann heyrði það, mælti hann: 'Þessi sótt er ekki banvæn, heldur Guði til dýrðar, að Guðs sonur vegsamist hennar vegna.' 11.5 Jesús elskaði þau Mörtu og systur hennar og Lasarus. 11.6 Þegar hann frétti, að hann væri veikur, var hann samt um kyrrt á sama stað í tvo daga. 11.7 Að þeim liðnum sagði hann við lærisveina sína: 'Förum aftur til Júdeu.' 11.8 Lærisveinarnir sögðu við hann: 'Rabbí, nýlega voru Gyðingar að því komnir að grýta þig, og þú ætlar þangað aftur?' 11.9 Jesús svaraði: 'Eru ekki stundir dagsins tólf? Sá sem gengur um að degi, hrasar ekki, því hann sér ljós þessa heims. 11.10 En sá sem gengur um að nóttu, hrasar, því hann hefur ekki ljósið í sér.' 11.11 Þetta mælti hann, og sagði síðan við þá: 'Lasarus, vinur vor, er sofnaður. En nú fer ég að vekja hann.' 11.12 Þá sögðu lærisveinar hans: 'Herra, ef hann er sofnaður, batnar honum.' 11.13 En Jesús talaði um dauða hans. Þeir héldu hins vegar, að hann ætti við venjulegan svefn. 11.14 Þá sagði Jesús þeim berum orðum: 'Lasarus er dáinn, 11.15 og yðar vegna fagna ég því, að ég var þar ekki, til þess að þér skuluð trúa. En förum nú til hans.' 11.16 Tómas, sem nefndist tvíburi, sagði þá við hina lærisveinana: 'Vér skulum fara líka til að deyja með honum.' 11.17 Þegar Jesús kom, varð hann þess vís, að Lasarus hafði verið fjóra daga í gröfinni. 11.18 Betanía var nálægt Jerúsalem, hér um bil fimmtán skeiðrúm þaðan. 11.19 Margir Gyðingar voru komnir til Mörtu og Maríu að hugga þær eftir bróðurmissinn. 11.20 Þegar Marta frétti, að Jesús væri að koma, fór hún á móti honum, en María sat heima. 11.21 Marta sagði við Jesú: 'Herra, ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn. 11.22 En einnig nú veit ég, að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um.' 11.23 Jesús segir við hana: 'Bróðir þinn mun upp rísa.' 11.24 Marta segir: 'Ég veit, að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.' 11.25 Jesús mælti: 'Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi. 11.26 Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?' 11.27 Hún segir við hann: 'Já, herra. Ég trúi, að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.' 11.28 Að svo mæltu fór hún, kallaði á Maríu systur sína og sagði í hljóði: 'Meistarinn er hér og vill finna þig.' 11.29 Þegar María heyrði þetta, reis hún skjótt á fætur og fór til hans. 11.30 En Jesús var ekki enn kominn til þorpsins, heldur var hann enn á þeim stað, þar sem Marta hafði mætt honum. 11.31 Gyðingarnir, sem voru heima hjá Maríu að hugga hana, sáu, að hún stóð upp í skyndi og gekk út, og fóru þeir á eftir henni. Þeir hugðu, að hún hefði farið til grafarinnar að gráta þar. 11.32 María kom þangað, sem Jesús var, og er hún sá hann, féll hún honum til fóta og sagði við hann: 'Herra, ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn.' 11.33 Þegar Jesús sá hana gráta og Gyðingana gráta, sem með henni komu, komst hann við í anda og varð hrærður mjög 11.34 og sagði: 'Hvar hafið þér lagt hann?' Þeir sögðu: 'Herra, kom þú og sjá.' 11.35 Þá grét Jesús. 11.36 Gyðingar sögðu: 'Sjá, hversu hann hefur elskað hann!' 11.37 En nokkrir þeirra sögðu: 'Gat ekki sá maður, sem opnaði augu hins blinda, einnig varnað því, að þessi maður dæi?' 11.38 Jesús varð aftur hrærður mjög og fór til grafarinnar. Hún var hellir og steinn fyrir. 11.39 Jesús segir: 'Takið steininn frá!' Marta, systir hins dána, segir við hann: 'Herra, það er komin nálykt af honum, það er komið á fjórða dag.' 11.40 Jesús segir við hana: 'Sagði ég þér ekki: ,Ef þú trúir, munt þú sjá dýrð Guðs`?' 11.41 Nú var steinninn tekinn frá. En Jesús hóf upp augu sín og mælti: 'Faðir, ég þakka þér, að þú hefur bænheyrt mig. 11.42 Ég vissi að sönnu, að þú heyrir mig ávallt, en ég sagði þetta vegna mannfjöldans, sem stendur hér umhverfis, til þess að þeir trúi, að þú hafir sent mig.' 11.43 Að svo mæltu hrópaði hann hárri röddu: 'Lasarus, kom út!' 11.44 Hinn dáni kom út vafinn líkblæjum á fótum og höndum og með sveitadúk bundinn um andlitið. Jesús segir við þá: 'Leysið hann og látið hann fara.' 11.45 Margir Gyðingar, sem komnir voru til Maríu og sáu það, sem Jesús gjörði, tóku nú að trúa á hann. 11.46 En nokkrir þeirra fóru til farísea og sögðu þeim, hvað hann hafði gjört. 11.47 Æðstu prestarnir og farísearnir kölluðu þá saman ráðið og sögðu: 'Hvað eigum vér að gjöra? Þessi maður gjörir mörg tákn. 11.48 Ef vér leyfum honum að halda svo áfram, munu allir trúa á hann, og þá koma Rómverjar og taka bæði helgidóm vorn og þjóð.' 11.49 En einn þeirra, Kaífas, sem það ár var æðsti prestur, sagði við þá: 'Þér vitið ekkert 11.50 og hugsið ekkert um það, að yður er betra, að einn maður deyi fyrir lýðinn, en að öll þjóðin tortímist.' 11.51 Þetta sagði hann ekki af sjálfum sér, en þar sem hann var æðsti prestur það ár, gat hann spáð því, að Jesús mundi deyja fyrir þjóðina, 11.52 og ekki fyrir þjóðina eina, heldur og til að safna saman í eitt dreifðum börnum Guðs. 11.53 Upp frá þeim degi voru þeir ráðnir í að taka hann af lífi. 11.54 Jesús gekk því ekki lengur um meðal Gyðinga á almannafæri, heldur fór hann þaðan til staðar í grennd við eyðimörkina, í þorp sem heitir Efraím, og þar dvaldist hann með lærisveinum sínum. 11.55 Nú nálguðust páskar Gyðinga, og margir fóru úr sveitinni upp til Jerúsalem fyrir páskana til að hreinsa sig. 11.56 Menn leituðu að Jesú og sögðu sín á milli í helgidóminum: 'Hvað haldið þér? Skyldi hann ekki koma til hátíðarinnar?' 11.57 En æðstu prestar og farísear höfðu gefið út skipun um það, að ef nokkur vissi hvar hann væri, skyldi hann segja til, svo að þeir gætu tekið hann.
12.1 Sex dögum fyrir páska kom Jesús til Betaníu, þar sem Lasarus var, sá er hann vakti frá dauðum. 12.2 Þar var honum búinn kvöldverður, og Marta gekk um beina, en Lasarus var einn þeirra, sem að borði sátu með honum. 12.3 Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans. En húsið fylltist ilmi smyrslanna. 12.4 Segir þá Júdas Ískaríot, einn lærisveina hans, sá er mundi svíkja hann: 12.5 'Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara og gefin fátækum?' 12.6 Ekki sagði hann þetta af því, að hann léti sér annt um fátæka, heldur af því, að hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók það, sem í hana var látið. 12.7 Þá sagði Jesús: 'Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns. 12.8 Fátæka hafið þér ætíð hjá yður, en mig hafið þér ekki ávallt.' 12.9 Nú komst allur fjöldi Gyðinga að því, að Jesús væri þarna, og þeir komu þangað, ekki aðeins hans vegna, heldur og til að sjá Lasarus, sem hann hafði vakið frá dauðum. 12.10 Þá réðu æðstu prestarnir af að taka einnig Lasarus af lífi, 12.11 því vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú. 12.12 Sá mikli mannfjöldi, sem kominn var til hátíðarinnar, frétti degi síðar, að Jesús væri að koma til Jerúsalem. 12.13 Þeir tóku þá pálmagreinar, fóru út á móti honum og hrópuðu: 'Hósanna! Blessaður sé sá, sem kemur, í nafni Drottins, konungur Ísraels!' 12.14 Jesús fann ungan asna og settist á bak honum, eins og skrifað er: 12.15 Óttast ekki, dóttir Síon. Sjá, konungur þinn kemur, ríðandi á ösnufola. 12.16 Lærisveinar hans skildu þetta ekki í fyrstu, en þegar Jesús var dýrlegur orðinn, minntust þeir þess, að þetta var ritað um hann og að þeir höfðu gjört þetta fyrir hann. 12.17 Nú vitnaði fólkið, sem með honum var, þegar hann kallaði Lasarus út úr gröfinni og vakti hann frá dauðum. 12.18 Vegna þess fór einnig mannfjöldinn á móti honum, því menn höfðu heyrt, að hann hefði gjört þetta tákn. 12.19 Því sögðu farísear sín á milli: 'Þér sjáið, að þér ráðið ekki við neitt. Allur heimurinn eltir hann.' 12.20 Grikkir nokkrir voru meðal þeirra, sem fóru upp eftir til að biðjast fyrir á hátíðinni. 12.21 Þeir komu til Filippusar frá Betsaídu í Galíleu, báðu hann og sögðu: 'Herra, oss langar að sjá Jesú.' 12.22 Filippus kemur og segir það Andrési. Andrés og Filippus fara og segja Jesú. 12.23 Jesús svaraði þeim: 'Stundin er komin, að Mannssonurinn verði gjörður dýrlegur. 12.24 Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr, verður það áfram eitt. En ef það deyr, ber það mikinn ávöxt. 12.25 Sá sem elskar líf sitt, glatar því, en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi, mun varðveita það til eilífs lífs. 12.26 Sá sem þjónar mér, fylgi mér eftir, og hvar sem ég er, þar mun og þjónn minn vera. Þann sem þjónar mér, mun faðirinn heiðra. 12.27 Nú er sál mín skelfd, og hvað á ég að segja? Faðir, frelsa mig frá þessari stundu? Nei, til þessa er ég kominn að þessari stundu: 12.28 Faðir, gjör nafn þitt dýrlegt!' Þá kom rödd af himni: 'Ég hef gjört það dýrlegt og mun enn gjöra það dýrlegt.' 12.29 Mannfjöldinn, sem hjá stóð og hlýddi á, sagði, að þruma hefði riðið yfir. En aðrir sögðu: 'Engill var að tala við hann.' 12.30 Jesús svaraði þeim: 'Þessi rödd kom ekki mín vegna, heldur yðar vegna. 12.31 Nú gengur dómur yfir þennan heim. Nú skal höfðingja þessa heims út kastað. 12.32 Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu, mun ég draga alla til mín.' 12.33 Þetta sagði hann til að gefa til kynna, með hvaða hætti hann átti að deyja. 12.34 Mannfjöldinn svaraði honum: 'Lögmálið segir oss, að Kristur muni verða til eilífðar. Hvernig getur þú sagt, að Mannssonurinn eigi að verða upp hafinn? Hver er þessi Mannssonur?' 12.35 Þá sagði Jesús við þá: 'Skamma stund er ljósið enn á meðal yðar. Gangið, meðan þér hafið ljósið, svo að myrkrið hremmi yður ekki. Sá sem gengur í myrkri, veit ekki, hvert hann fer. 12.36 Trúið á ljósið, meðan þér hafið ljósið, svo að þér verðið börn ljóssins.' Þetta mælti Jesús og fór burt og duldist þeim. 12.37 Þótt hann hefði gjört svo mörg tákn fyrir augum þeirra, trúðu þeir ekki á hann, 12.38 svo að rættist orð Jesaja spámanns, er hann mælti: Drottinn, hver trúði boðun vorri, og hverjum varð armur Drottins opinber? 12.39 Þess vegna gátu þeir ekki trúað, enda segir Jesaja á öðrum stað: 12.40 Hann hefur blindað augu þeirra og forhert hjarta þeirra, að þeir sjái ekki með augunum né skilji með hjartanu og snúi sér og ég lækni þá. 12.41 Jesaja sagði þetta af því að hann sá dýrð hans og talaði um hann. 12.42 Samt trúðu margir á hann, jafnvel höfðingjar, en gengust ekki við því vegna faríseanna, svo að þeir yrðu ekki samkundurækir. 12.43 Þeir kusu heldur heiður manna en heiður frá Guði. 12.44 En Jesús hrópaði: 'Sá sem trúir á mig, trúir ekki á mig, heldur þann sem sendi mig, 12.45 og sá sem sér mig, sér þann er sendi mig. 12.46 Ég er ljós í heiminn komið, svo að enginn, sem á mig trúir, sé áfram í myrkri. 12.47 Ef nokkur heyrir orð mín og gætir þeirra ekki, þá dæmi ég hann ekki. Ég er ekki kominn til að dæma heiminn, heldur til að frelsa heiminn. 12.48 Sá sem hafnar mér og tekur ekki við orðum mínum, hefur sinn dómara: Orðið, sem ég hef talað, verður dómari hans á efsta degi. 12.49 Því ég hef ekki talað af sjálfum mér, heldur hefur faðirinn, sem sendi mig, boðið mér, hvað ég skuli segja og hvað ég skuli tala. 12.50 Og ég veit, að boðorð hans er eilíft líf. Það sem ég tala, það tala ég því eins og faðirinn hefur sagt mér.'
13.1 Hátíð páskanna var að ganga í garð. Jesús vissi, að stund hans var kominn og að hann færi burt úr þessum heimi til föðurins. Hann hafði elskað sína, þá sem í heiminum voru. Hann elskaði þá, uns yfir lauk. 13.2 Kvöldmáltíð stóð yfir. Djöfullinn hafði þegar blásið því í brjóst Júdasi Símonarsyni Ískaríots að svíkja Jesú. 13.3 Jesús vissi, að faðirinn hafði lagt allt í hendur honum, að hann var frá Guði kominn og var að fara til Guðs. 13.4 Hann stóð upp frá máltíðinni, lagði af sér yfirhöfnina, tók líndúk og batt um sig. 13.5 Síðan hellti hann vatni í mundlaug og tók að þvo fætur lærisveinanna og þerra með líndúknum, sem hann hafði um sig. 13.6 Hann kemur þá að Símoni Pétri, sem segir við hann: 'Herra, ætlar þú að þvo mér um fæturna?' 13.7 Jesús svaraði: 'Nú skilur þú ekki, hvað ég er að gjöra, en seinna muntu skilja það.' 13.8 Pétur segir við hann: 'Aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína.' Jesús svaraði: 'Ef ég þvæ þér ekki, áttu enga samleið með mér.' 13.9 Símon Pétur segir við hann: 'Herra, ekki aðeins fætur mína, líka hendurnar og höfuðið.' 13.10 Jesús segir við hann: 'Sá sem laugast hefur, þarf ekki að þvost nema um fætur. Hann er allur hreinn. Og þér eruð hreinir, þó ekki allir.' 13.11 Hann vissi, hver mundi svíkja hann, og því sagði hann: 'Þér eruð ekki allir hreinir.' 13.12 Þegar hann hafði þvegið fætur þeirra, tekið yfirhöfn sína og setst aftur niður, sagði hann við þá: 'Skiljið þér, hvað ég hef gjört við yður? 13.13 Þér kallið mig meistara og herra, og þér mælið rétt, því það er ég. 13.14 Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur. 13.15 Ég hef gefið yður eftirdæmi, að þér breytið eins og ég breytti við yður. 13.16 Sannlega, sannlega segi ég yður: Þjónn er ekki meiri en herra hans né sendiboði meiri þeim, er sendi hann. 13.17 Þér vitið þetta, og þér eruð sælir, ef þér breytið eftir því. 13.18 Ég tala ekki um yður alla. Ég veit, hverja ég hef útvalið. En ritningin verður að rætast: ,Sá sem etur brauð mitt, lyftir hæli sínum móti mér.` 13.19 Ég segi yður þetta núna, áður en það verður, svo að þér trúið, þegar það er orðið, að ég er sá sem ég er. 13.20 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem tekur við þeim, sem ég sendi, hann tekur við mér, og sá sem tekur við mér, tekur við þeim er sendi mig.' 13.21 Þegar Jesús hafði sagt þetta, varð honum mjög þungt um hjarta og hann sagði beinum orðum: 'Sannlega, sannlega segi ég yður: Einn af yður mun svíkja mig.' 13.22 Lærisveinarnir litu hver á annan og skildu ekki, við hvern hann ætti. 13.23 Sá lærisveinn Jesú, sem hann elskaði, sat næstur honum. 13.24 Símon Pétur benti honum og bað hann spyrja, hver sá væri, sem Jesús talaði um. 13.25 Hann laut þá að Jesú og spurði: 'Herra, hver er það?' 13.26 Jesús svaraði: 'Það er sá sem ég fæ bita þann, er ég dýfi nú í.' Þá dýfði hann í bitanum, tók hann og fékk Júdasi Símonarsyni Ískaríots. 13.27 Og eftir þann bita fór Satan inn í hann. Jesús segir við hann: 'Það sem þú gjörir, það gjör þú skjótt!' 13.28 En enginn þeirra, sem sátu til borðs, vissi til hvers hann sagði þetta við hann. 13.29 En af því að Júdas hafði pyngjuna, héldu sumir þeirra, að Jesús hefði sagt við hann: 'Kauptu það, sem vér þurfum til hátíðarinnar,' _ eða að hann skyldi gefa eitthvað fátækum. 13.30 Þá er hann hafði tekið við bitanum, gekk hann jafnskjótt út. Þá var nótt. 13.31 Þegar hann var farinn út, sagði Jesús: 'Nú er Mannssonurinn dýrlegur orðinn, og Guð er orðinn dýrlegur í honum. 13.32 Fyrst Guð er orðinn dýrlegur í honum, mun Guð og gjöra hann dýrlegan í sér, og skjótt mun hann gjöra hann dýrlegan. 13.33 Börnin mín, stutta stund verð ég enn með yður. Þér munuð leita mín, og eins og ég sagði Gyðingum, segi ég yður nú: Þangað sem ég fer, getið þér ekki komist. 13.34 Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan. 13.35 Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.' 13.36 Símon Pétur segir við hann: 'Herra, hvert ferðu?' Jesús svaraði: 'Þú getur ekki fylgt mér nú þangað sem ég fer, en síðar muntu fylgja mér.' 13.37 Pétur segir við hann: 'Herra, hví get ég ekki fylgt þér nú? Ég vil leggja líf mitt í sölurnar fyrir þig.' 13.38 Jesús svaraði: 'Viltu leggja líf þitt í sölurnar fyrir mig? Sannlega, sannlega segi ég þér: Ekki mun hani gala fyrr en þú hefur afneitað mér þrisvar.'
14.1 'Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. 14.2 Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo, hefði ég þá sagt yður, að ég færi burt að búa yður stað? 14.3 Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað, kem ég aftur og tek yður til mín, svo að þér séuð einnig þar sem ég er. 14.4 Veginn þangað, sem ég fer, þekkið þér.' 14.5 Tómas segir við hann: 'Herra, vér vitum ekki, hvert þú ferð, hvernig getum vér þá þekkt veginn?' 14.6 Jesús segir við hann: 'Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig. 14.7 Ef þér hafið þekkt mig, munuð þér og þekkja föður minn. Héðan af þekkið þér hann og hafið séð hann.' 14.8 Filippus segir við hann: 'Herra, sýn þú oss föðurinn. Það nægir oss.' 14.9 Jesús svaraði: 'Ég hef verið með yður allan þennan tíma, og þú þekkir mig ekki, Filippus? Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn. Hvernig segir þú þá: ,Sýn þú oss föðurinn`? 14.10 Trúir þú ekki, að ég er í föðurnum og faðirinn í mér? Orðin, sem ég segi við yður, tala ég ekki af sjálfum mér. Faðirinn, sem í mér er, vinnur sín verk. 14.11 Trúið mér, að ég er í föðurnum og faðirinn í mér. Ef þér gerið það ekki, trúið þá vegna sjálfra verkanna. 14.12 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir á mig, mun einnig gjöra þau verk, sem ég gjöri. Og hann mun gjöra meiri verk en þau, því ég fer til föðurins. 14.13 Og hvers sem þér biðjið í mínu nafni, það mun ég gjöra, svo að faðirinn vegsamist í syninum. 14.14 Ef þér biðjið mig einhvers í mínu nafni, mun ég gjöra það. 14.15 Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín. 14.16 Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu, 14.17 anda sannleikans, sem heimurinn getur ekki tekið á móti, því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann, því hann er hjá yður og verður í yður. 14.18 Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa. Ég kem til yðar. 14.19 Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig, því ég lifi og þér munuð lifa. 14.20 Á þeim degi munuð þér skilja, að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður. 14.21 Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig.' 14.22 Júdas _ ekki Ískaríot _ sagði við hann: 'Herra, hverju sætir það, að þú vilt birtast oss, en eigi heiminum?' 14.23 Jesús svaraði: 'Sá sem elskar mig, varðveitir mitt orð, og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gjöra okkur bústað hjá honum. 14.24 Sá sem elskar mig ekki, varðveitir ekki mín orð. Orðið, sem þér heyrið, er ekki mitt, heldur föðurins, sem sendi mig. 14.25 Þetta hef ég talað til yðar, meðan ég var hjá yður. 14.26 En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt og minna yður á allt það, sem ég hef sagt yður. 14.27 Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist. 14.28 Þér heyrðuð, að ég sagði við yður: ,Ég fer burt og kem til yðar.` Ef þér elskuðuð mig, yrðuð þér glaðir af því, að ég fer til föðurins, því faðirinn er mér meiri. 14.29 Nú hef ég sagt yður það, áður en það verður, svo að þér trúið, þegar það gerist. 14.30 Ég mun ekki framar tala margt við yður, því höfðingi heimsins kemur. Í mér á hann ekki neitt. 14.31 En heimurinn á að sjá, að ég elska föðurinn og gjöri eins og faðirinn hefur boðið mér. Standið upp, vér skulum fara héðan.'
15.1 'Ég er hinn sanni vínviður, og faðir minn er vínyrkinn. 15.2 Hverja þá grein á mér, sem ber ekki ávöxt, sníður hann af, og hverja þá, sem ávöxt ber, hreinsar hann, svo að hún beri meiri ávöxt. 15.3 Þér eruð þegar hreinir vegna orðsins, sem ég hef talað til yðar. 15.4 Verið í mér, þá verð ég í yður. Eins og greinin getur ekki borið ávöxt af sjálfri sér, nema hún sé á vínviðnum, eins getið þér ekki heldur borið ávöxt, nema þér séuð í mér. 15.5 Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar. Sá ber mikinn ávöxt, sem er í mér og ég í honum, en án mín getið þér alls ekkert gjört. 15.6 Hverjum sem er ekki í mér, verður varpað út eins og greinunum, og hann visnar. Þeim er safnað saman og varpað á eld og brennt. 15.7 Ef þér eruð í mér og orð mín eru í yður, þá biðjið um hvað sem þér viljið, og yður mun veitast það. 15.8 Með því vegsamast faðir minn, að þér berið mikinn ávöxt, og verðið lærisveinar mínir. 15.9 Ég hef elskað yður, eins og faðirinn hefur elskað mig. Verið stöðugir í elsku minni. 15.10 Ef þér haldið boðorð mín, verðið þér stöðugir í elsku minni, eins og ég hef haldið boðorð föður míns og er stöðugur í elsku hans. 15.11 Þetta hef ég talað til yðar, til þess að fögnuður minn sé í yður og fögnuður yðar sé fullkominn. 15.12 Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður. 15.13 Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. 15.14 Þér eruð vinir mínir, ef þér gjörið það, sem ég býð yður. 15.15 Ég kalla yður ekki framar þjóna, því þjónninn veit ekki, hvað herra hans gjörir. En ég kalla yður vini, því ég hef kunngjört yður allt, sem ég heyrði af föður mínum. 15.16 Þér hafið ekki útvalið mig, heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt, sem varir, svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. 15.17 Þetta býð ég yður, að þér elskið hver annan. 15.18 Ef heimurinn hatar yður, þá vitið, að hann hefur hatað mig fyrr en yður. 15.19 Væruð þér af heiminum, mundi heimurinn elska sitt eigið. Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum, heldur hef ég útvalið yður úr heiminum. 15.20 Minnist orðanna, sem ég sagði við yður: Þjónn er ekki meiri en herra hans. Hafi þeir ofsótt mig, þá munu þeir líka ofsækja yður. Hafi þeir varðveitt orð mitt, munu þeir líka varðveita yðar. 15.21 En allt þetta munu þeir yður gjöra vegna nafns míns, af því að þeir þekkja eigi þann, sem sendi mig. 15.22 Hefði ég ekki komið og talað til þeirra, væru þeir ekki sekir um synd. En nú hafa þeir ekkert til afsökunar synd sinni. 15.23 Sá sem hatar mig, hatar og föður minn. 15.24 Hefði ég ekki unnið meðal þeirra þau verk, sem enginn annar hefur gjört, væru þeir ekki sekir um synd. En nú hafa þeir séð þau og hata þó bæði mig og föður minn. 15.25 Svo hlaut að rætast orðið, sem ritað er í lögmáli þeirra: ,Þeir hötuðu mig án saka.` 15.26 Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig. 15.27 Þér skuluð einnig vitni bera, því þér hafið verið með mér frá upphafi.
16.1 Þetta hef ég talað til yðar, svo að þér fallið ekki frá. 16.2 Þeir munu gjöra yður samkunduræka. Já, sú stund kemur, að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu. 16.3 Þetta munu þeir gjöra, af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig. 16.4 Þetta hef ég talað til yðar, til þess að þérminnist þess, að ég sagði yður það, þegar stund þeirra kemur. Ég hefekki sagt yður þetta frá öndverðu, af því ég var með yður. 16.5 En nú fer ég til hans, sem sendi mig, og enginn yðar spyr mig: ,Hvert fer þú?` 16.6 En hryggð hefur fyllt hjarta yðar, af því að ég sagði yður þetta. 16.7 En ég segi yður sannleikann: Það er yður tilgóðs, að ég fari burt, því ef ég fer ekki, kemur hjálparinn ekki tilyðar. En ef ég fer, sendi ég hann til yðar. 16.8 Þegar hann kemur, mun hann sanna heiminum, hvað er synd og réttlæti og dómur, _ 16.9 syndin er, að þeir trúðu ekki á mig, 16.10 réttlætið, að ég fer til föðurins, og þér sjáið mig ekki lengur, 16.11 og dómurinn, að höfðingi þessa heims er dæmdur. 16.12 Enn hef ég margt að segja yður, en þér getið ekki borið það nú. 16.13 En þegar hann kemur, andi sannleikans, mun hannleiða yður í allan sannleikann. Hann mun ekki mæla af sjálfum sér,heldur mun hann tala það, sem hann heyrir, og kunngjöra yður það, semkoma á. 16.14 Hann mun gjöra mig dýrlegan, því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður. 16.15 Allt sem faðirinn á, er mitt. Því sagði ég, að hann tæki af mínu og kunngjörði yður. 16.16 Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.' 16.17 Þá sögðu nokkrir lærisveina hans sín á milli: 'Hvað er hann að segja við oss: 'Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig,' og: 'Ég fer til föðurins'?' 16.18 Þeir spurðu: 'Hvað merkir þetta: ,Innan skamms`? Vér vitum ekki, hvað hann er að fara.' 16.19 Jesús vissi, að þeir vildu spyrja hann, og sagði við þá: 'Eruð þér að spyrjast á um það, að ég sagði: ,Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig`? 16.20 Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuðgráta og kveina, en heimurinn mun fagna. Þér munuð verða hryggir, enhryggð yðar mun snúast í fögnuð. 16.21 Þegar konan fæðir, er hún í nauð, því stundhennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið, minnist hún ekki framarþrauta sinna af fögnuði yfir því, að maður er í heiminn borinn. 16.22 Eins eruð þér nú hryggir, en ég mun sjá yður aftur, og hjarta yðar mun fagna, og enginn tekur fögnuð yðar frá yður. 16.23 Á þeim degi munuð þér ekki spyrja mig neins.Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínunafni, mun hann veita yður. 16.24 Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið, og þér munuð öðlast, svo að fögnuður yðar verði fullkominn. 16.25 Þetta hef ég sagt yður í líkingum. Sú stundkemur, að ég tala ekki framar við yður í líkingum, heldur mun ég berumorðum segja yður frá föðurnum. 16.26 Á þeim degi munuð þér biðja í mínu nafni. Ég segi yður ekki, að ég muni biðja föðurinn fyrir yður, 16.27 því sjálfur elskar faðirinn yður, þar eð þér hafið elskað mig og trúað, að ég sé frá Guði út genginn. 16.28 Ég er út genginn frá föðurnum og kominn í heiminn. Ég yfirgef heiminn aftur og fer til föðurins.' 16.29 Lærisveinar hans sögðu: 'Nú talar þú berum orðum og mælir enga líking. 16.30 Nú vitum vér, að þú veist allt og þarft eigi, að nokkur spyrji þig. Þess vegna trúum vér, að þú sért út genginn frá Guði.' 16.31 Jesús svaraði þeim: 'Trúið þér nú? 16.32 Sjá, sú stund kemur og er komin, að þértvístrist hver til sín og skiljið mig einan eftir. Þó er ég ekki einn,því faðirinn er með mér. 16.33 Þetta hef ég talað við yður, svo að þér eigiðfrið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hefsigrað heiminn.'
17.1 Þetta hef ég talað til yðar, svo að þér fallið ekki frá. 17.2 Þeir munu gjöra yður samkunduræka. Já, sú stund kemur, að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu. 17.3 Þetta munu þeir gjöra, af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig. 17.4 Þetta hef ég talað til yðar, til þess að þér minnist þess, að ég sagði yður það, þegar stund þeirra kemur. Ég hef ekki sagt yður þetta frá öndverðu, af því ég var með yður. 17.5 En nú fer ég til hans, sem sendi mig, og enginn yðar spyr mig: ,Hvert fer þú?` 17.6 En hryggð hefur fyllt hjarta yðar, af því að ég sagði yður þetta. 17.7 En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs, að ég fari burt, því ef ég fer ekki, kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer, sendi ég hann til yðar. 17.8 Þegar hann kemur, mun hann sanna heiminum, hvað er synd og réttlæti og dómur, _ 17.9 syndin er, að þeir trúðu ekki á mig, 17.10 réttlætið, að ég fer til föðurins, og þér sjáið mig ekki lengur, 17.11 og dómurinn, að höfðingi þessa heims er dæmdur. 17.12 Enn hef ég margt að segja yður, en þér getið ekki borið það nú. 17.13 En þegar hann kemur, andi sannleikans, mun hann leiða yður í allan sannleikann. Hann mun ekki mæla af sjálfum sér, heldur mun hann tala það, sem hann heyrir, og kunngjöra yður það, sem koma á. 17.14 Hann mun gjöra mig dýrlegan, því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður. 17.15 Allt sem faðirinn á, er mitt. Því sagði ég, að hann tæki af mínu og kunngjörði yður. 17.16 Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.' 17.17 Þá sögðu nokkrir lærisveina hans sín á milli: 'Hvað er hann að segja við oss: ,Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig,` og: ,Ég fer til föðurins`?' 17.18 Þeir spurðu: 'Hvað merkir þetta: ,Innan skamms`? Vér vitum ekki, hvað hann er að fara.' 17.19 Jesús vissi, að þeir vildu spyrja hann, og sagði við þá: 'Eruð þér að spyrjast á um það, að ég sagði: ,Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig`? 17.20 Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð gráta og kveina, en heimurinn mun fagna. Þér munuð verða hryggir, en hryggð yðar mun snúast í fögnuð. 17.21 Þegar konan fæðir, er hún í nauð, því stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið, minnist hún ekki framar þrauta sinna af fögnuði yfir því, að maður er í heiminn borinn. 17.22 Eins eruð þér nú hryggir, en ég mun sjá yður aftur, og hjarta yðar mun fagna, og enginn tekur fögnuð yðar frá yður. 17.23 Á þeim degi munuð þér ekki spyrja mig neins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni, mun hann veita yður. 17.24 Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið, og þér munuð öðlast, svo að fögnuður yðar verði fullkominn. 17.25 Þetta hef ég sagt yður í líkingum. Sú stund kemur, að ég tala ekki framar við yður í líkingum, heldur mun ég berum orðum segja yður frá föðurnum. 17.26 Á þeim degi munuð þér biðja í mínu nafni. Ég segi yður ekki, að ég muni biðja föðurinn fyrir yður, 17.27 því sjálfur elskar faðirinn yður, þar eð þér hafið elskað mig og trúað, að ég sé frá Guði út genginn. 17.28 Ég er út genginn frá föðurnum og kominn í heiminn. Ég yfirgef heiminn aftur og fer til föðurins.' 17.29 Lærisveinar hans sögðu: 'Nú talar þú berum orðum og mælir enga líking. 17.30 Nú vitum vér, að þú veist allt og þarft eigi, að nokkur spyrji þig. Þess vegna trúum vér, að þú sért út genginn frá Guði.' 17.31 Jesús svaraði þeim: 'Trúið þér nú? 17.32 Sjá, sú stund kemur og er komin, að þér tvístrist hver til sín og skiljið mig einan eftir. Þó er ég ekki einn, því faðirinn er með mér. 17.33 Þetta hef ég talað við yður, svo að þér eigið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.'
18.1 Þetta talaði Jesús, hóf augu sín til himins og sagði: 'Faðir, stundin er komin. Gjör son þinn dýrlegan, til þess að sonurinn gjöri þig dýrlegan. 18.2 Þú gafst honum vald yfir öllum mönnum, að hann gefi eilíft líf öllum þeim, sem þú hefur gefið honum. 18.3 En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist. 18.4 Ég hef gjört þig dýrlegan á jörðu með því að fullkomna það verk, sem þú fékkst mér að vinna. 18.5 Faðir, gjör mig nú dýrlegan hjá þér með þeirri dýrð, sem ég hafði hjá þér, áður en heimur var til. 18.6 Ég hef opinberað nafn þitt þeim mönnum, sem þú gafst mér úr heiminum. Þeir voru þínir, og þú gafst mér þá, og þeir hafa varðveitt þitt orð. 18.7 Þeir vita nú, að allt, sem þú hefur gefið mér, er frá þér, 18.8 því ég hef flutt þeim þau orð, sem þú gafst mér. Þeir tóku við þeim og vita með sanni, að ég er frá þér út genginn, og trúa því, að þú hafir sent mig. 18.9 Ég bið fyrir þeim. Ég bið ekki fyrir heiminum, heldur fyrir þeim sem þú hefur gefið mér, því að þeir eru þínir, 18.10 og allt mitt er þitt og þitt er mitt. Í þeim er ég dýrlegur orðinn. 18.11 Ég er ekki lengur í heiminum. Þeir eru í heiminum, en ég kem til þín. Heilagi faðir, varðveit þá í þínu nafni, því nafni, sem þú hefur gefið mér, svo að þeir verði eitt eins og við. 18.12 Meðan ég var hjá þeim, varðveitti ég þá í nafni þínu, sem þú hefur gefið mér, og gætti þeirra, og enginn þeirra glataðist nema sonur glötunarinnar, svo að ritningin rættist. 18.13 Nú kem ég til þín. Þetta tala ég í heiminum, til þess að þeir eigi í sjálfum sér fögnuð minn fullkominn. 18.14 Ég hef gefið þeim orð þitt, og heimurinn hataði þá, af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. 18.15 Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa. 18.16 Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. 18.17 Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur. 18.18 Ég hef sent þá í heiminn, eins og þú sendir mig í heiminn. 18.19 Ég helga mig fyrir þá, svo að þeir séu einnig helgaðir í sannleika. 18.20 Ég bið ekki einungis fyrir þessum, heldur og fyrir þeim, sem á mig trúa fyrir orð þeirra, 18.21 að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur, til þess að heimurinn trúi, að þú hefur sent mig. 18.22 Og ég hef gefið þeim þá dýrð, sem þú gafst mér, svo að þeir séu eitt, eins og við erum eitt, 18.23 ég í þeim og þú í mér, svo að þeir verði fullkomlega eitt, til þess að heimurinn viti, að þú hefur sent mig og að þú hefur elskað þá, eins og þú hefur elskað mig. 18.24 Faðir, ég vil að þeir, sem þú gafst mér, séu hjá mér, þar sem ég er, svo að þeir sjái dýrð mína, sem þú hefur gefið mér, af því að þú elskaðir mig fyrir grundvöllun heims. 18.25 Réttláti faðir, heimurinn þekkir þig ekki, en ég þekki þig, og þessir vita, að þú sendir mig. 18.26 Ég hef kunngjört þeim nafn þitt og mun kunngjöra, svo að kærleikur þinn, sem þú hefur auðsýnt mér, sé í þeim og ég sé í þeim.'
19.1 Þegar Jesús hafði þetta mælt, fór hann út með lærisveinum sínum og yfir um lækinn Kedron. Þar var grasgarður, sem Jesús gekk inn í og lærisveinar hans. 19.2 Júdas, sem sveik hann, þekkti líka þennan stað, því Jesús og lærisveinar hans höfðu oft komið þar saman. 19.3 Júdas tók með sér flokk hermanna og verði frá æðstu prestum og faríseum. Þeir koma þar með blysum, lömpum og vopnum. 19.4 Jesús vissi allt, sem yfir hann mundi koma, gekk fram og sagði við þá: 'Að hverjum leitið þér?' 19.5 Þeir svöruðu honum: 'Að Jesú frá Nasaret.' Hann segir við þá: 'Ég er hann.' En Júdas, sem sveik hann, stóð líka hjá þeim. 19.6 Þegar Jesús sagði við þá: 'Ég er hann,' hopuðu þeir á hæl og féllu til jarðar. 19.7 Þá spurði hann þá aftur: 'Að hverjum leitið þér?' Þeir svöruðu: 'Að Jesú frá Nasaret.' 19.8 Jesús mælti: 'Ég sagði yður, að ég væri hann. Ef þér leitið mín, þá lofið þessum að fara.' 19.9 Þannig rættist orð hans, er hann hafði mælt: 'Engum glataði ég af þeim, sem þú gafst mér.' 19.10 Símon Pétur hafði sverð, brá því og hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum hægra eyrað. Þjónninn hét Malkus. 19.11 Þá sagði Jesús við Pétur: 'Sting sverðinu í slíðrin. Á ég ekki að drekka kaleikinn, sem faðirinn hefur fengið mér?' 19.12 Hermennirnir, foringinn og varðmenn Gyðinga tóku nú Jesú höndum og bundu hann 19.13 og færðu hann fyrst til Annasar. Hann var tengdafaðir Kaífasar, sem var æðsti prestur það ár. 19.14 En Kaífas var sá sem gefið hafði Gyðingum það ráð, að betra væri, að einn maður dæi fyrir lýðinn. 19.15 Símon Pétur fylgdi Jesú og annar lærisveinn. Sá lærisveinn var kunnugur æðsta prestinum og fór með Jesú inn í hallargarð æðsta prestsins. 19.16 En Pétur stóð utan dyra. Hinn lærisveinninn, sem var kunnugur æðsta prestinum, kom út aftur, talaði við þernuna, sem dyra gætti, og fór inn með Pétur. 19.17 Þernan við dyrnar sagði þá við Pétur: 'Ert þú ekki líka einn af lærisveinum þessa manns?' Hann sagði: 'Ekki er ég það.' 19.18 Þjónarnir og varðmennirnir höfðu kveikt kolaeld, því kalt var, og stóðu við hann og vermdu sig. Pétur stóð hjá þeim og ornaði sér. 19.19 Nú spurði æðsti presturinn Jesú um lærisveina hans og kenningu hans. 19.20 Jesús svaraði honum: 'Ég hef talað opinskátt í áheyrn heimsins. Ég hef ætíð kennt í samkundunni og í helgidóminum, þar sem allir Gyðingar safnast saman, en í leynum hef ég ekkert talað. 19.21 Hví spyr þú mig? Spyrðu þá, sem heyrt hafa, hvað ég hef við þá talað. Þeir vita hvað ég hef sagt.' 19.22 Þegar Jesús sagði þetta, rak einn varðmaður, sem þar stóð, honum löðrung og sagði: 'Svarar þú æðsta prestinum svona?' 19.23 Jesús svaraði honum: 'Hafi ég illa mælt, þá sanna þú, að svo hafi verið, en hafi ég rétt að mæla, hví slær þú mig?' 19.24 Þá sendi Annas hann bundinn til Kaífasar æðsta prests. 19.25 En Símon Pétur stóð og vermdi sig. Hann var þá spurður: 'Ert þú ekki líka einn af lærisveinum hans?' Hann neitaði því og sagði: 'Ekki er ég það.' 19.26 Þá sagði einn af þjónum æðsta prestsins, frændi þess, sem Pétur sneið af eyrað: 'Sá ég þig ekki í grasgarðinum með honum?' 19.27 Aftur neitaði Pétur, og um leið gól hani. 19.28 Nú var Jesús fluttur frá Kaífasi til hallar landshöfðingjans. Það var snemma morguns. Gyðingar fóru ekki sjálfir inn í höllina, svo að þeir saurguðust ekki, heldur mættu neyta páskamáltíðar. 19.29 Pílatus kom út til þeirra og sagði: 'Hvaða ákæru berið þér fram gegn þessum manni?' 19.30 Þeir svöruðu: 'Ef þetta væri ekki illvirki, hefðum vér ekki selt hann þér í hendur.' 19.31 Pílatus segir við þá: 'Takið þér hann, og dæmið hann eftir yðar lögum.' Gyðingar svöruðu: 'Oss leyfist ekki að taka neinn af lífi.' 19.32 Þannig rættist orð Jesú, þegar hann gaf til kynna, með hvaða hætti hann átti að deyja. 19.33 Pílatus gekk þá aftur inn í höllina, kallaði Jesú fyrir sig og sagði við hann: 'Ert þú konungur Gyðinga?' 19.34 Jesús svaraði: 'Mælir þú þetta af sjálfum þér, eða hafa aðrir sagt þér frá mér?' 19.35 Pílatus svaraði: 'Er ég þá Gyðingur? Þjóð þín og æðstu prestarnir hafa selt þig mér í hendur. Hvað hefur þú gjört?' 19.36 Jesús svaraði: 'Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi, hefðu þjónar mínir barist, svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan.' 19.37 Þá segir Pílatus við hann: 'Þú ert þá konungur?' Jesús svaraði: 'Rétt segir þú. Ég er konungur. Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni. Hver sem er af sannleikanum, heyrir mína rödd.' 19.38 Pílatus segir við hann: 'Hvað er sannleikur?' Að svo mæltu gekk hann aftur út til Gyðinga og sagði við þá: 'Ég finn enga sök hjá honum. 19.39 Þér eruð vanir því, að ég gefi yður einn mann lausan á páskunum. Viljið þér nú, að ég gefi yður lausan konung Gyðinga?' 19.40 Þeir hrópuðu á móti: 'Ekki hann, heldur Barabbas.' En Barabbas var ræningi.
20.1 Þá lét Pílatus taka Jesú og húðstrýkja hann. 20.2 Hermennirnir fléttuðu kórónu úr þyrnum og settu á höfuð honum og lögðu yfir hann purpurakápu. 20.3 Þeir gengu hver af öðrum fyrir hann og sögðu: 'Sæll þú, konungur Gyðinga,' og slógu hann í andlitið. 20.4 Pílatus gekk aftur út fyrir og sagði við þá: 'Nú leiði ég hann út til yðar, svo að þér skiljið, að ég finn enga sök hjá honum.' 20.5 Jesús kom þá út fyrir með þyrnikórónuna og í purpurakápunni. Pílatus segir við þá: 'Sjáið manninn!' 20.6 Þegar æðstu prestarnir og verðirnir sáu hann, æptu þeir: 'Krossfestu, krossfestu!' Pílatus sagði við þá: 'Takið þér hann og krossfestið. Ég finn enga sök hjá honum.' 20.7 Gyðingar svöruðu: 'Vér höfum lögmál, og samkvæmt lögmálinu á hann að deyja, því hann hefur gjört sjálfan sig að Guðs syni.' 20.8 Þegar Pílatus heyrði þessi orð, varð hann enn hræddari. 20.9 Hann fór aftur inn í höllina og segir við Jesú: 'Hvaðan ertu?' En Jesús veitti honum ekkert svar. 20.10 Pílatus segir þá við hann: 'Viltu ekki tala við mig? Veistu ekki, að ég hef vald til að láta þig lausan, og ég hef vald til að krossfesta þig?' 20.11 Jesús svaraði: 'Þú hefðir ekkert vald yfir mér, ef þér væri ekki gefið það að ofan. Fyrir því ber sá þyngri sök, sem hefur selt mig þér í hendur.' 20.12 Eftir þetta reyndi Pílatus enn að láta hann lausan. En Gyðingar æptu: 'Ef þú lætur hann lausan, ert þú ekki vinur keisarans. Hver sem gjörir sjálfan sig að konungi, rís á móti keisaranum.' 20.13 Þegar Pílatus heyrði þessi orð, leiddi hann Jesú út og settist í dómstólinn á stað þeim, sem nefnist Steinhlað, á hebresku Gabbata. 20.14 Þá var aðfangadagur páska, um hádegi. Hann sagði við Gyðinga: 'Sjáið þar konung yðar!' 20.15 Þá æptu þeir: 'Burt með hann! Burt með hann! Krossfestu hann!' Pílatus segir við þá: 'Á ég að krossfesta konung yðar?' Æðstu prestarnir svöruðu: 'Vér höfum engan konung nema keisarann.' 20.16 Þá seldi hann þeim hann í hendur, að hann yrði krossfestur. Þeir tóku þá við Jesú. 20.17 Og hann bar kross sinn og fór út til staðar, sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata. 20.18 Þar krossfestu þeir hann og með honum tvo aðra sinn til hvorrar handar; Jesús í miðið. 20.19 Pílatus hafði ritað yfirskrift og sett hana á krossinn. Þar stóð skrifað: JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA. 20.20 Margir Gyðingar lásu þessa yfirskrift, því staðurinn, þar sem Jesús var krossfestur, var nærri borginni, og þetta var ritað á hebresku, latínu og grísku. 20.21 Þá sögðu æðstu prestar Gyðinga við Pílatus: 'Skrifaðu ekki ,konungur Gyðinga`, heldur að hann hafi sagt: ,Ég er konungur Gyðinga`.' 20.22 Pílatus svaraði: 'Það sem ég hef skrifað, það hef ég skrifað.' 20.23 Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú, tóku þeir klæði hans og skiptu í fjóra hluti, og fékk hver sinn hlut. Þeir tóku og kyrtilinn, en hann var saumlaus, ofinn í eitt ofan frá og niður úr. 20.24 Þeir sögðu því hver við annan: 'Rífum hann ekki sundur, köstum heldur hlut um, hver skuli fá hann.' Svo rættist ritningin: Þeir skiptu með sér klæðum mínum og köstuðu hlut um kyrtil minn. Þetta gjörðu hermennirnir. 20.25 En hjá krossi Jesú stóðu móðir hans og móðursystir, María, kona Klópa, og María Magdalena. 20.26 Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: 'Kona, nú er hann sonur þinn.' 20.27 Síðan sagði hann við lærisveininn: 'Nú er hún móðir þín.' Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín. 20.28 Jesús vissi, að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann, til þess að ritningin rættist: 'Mig þyrstir.' 20.29 Þar stóð ker fullt af ediki. Þeir settu njarðarvött fylltan ediki á ísópslegg og báru að munni honum. 20.30 Þegar Jesús hafði fengið edikið, sagði hann: 'Það er fullkomnað.' Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann. 20.31 Nú var aðfangadagur, og til þess að líkin væru ekki á krossunum hvíldardaginn, báðu Gyðingar Pílatus að láta brjóta fótleggi þeirra og taka líkin ofan, enda var mikil helgi þess hvíldardags. 20.32 Hermenn komu því og brutu fótleggi þeirra, sem með honum voru krossfestir, fyrst annars, svo hins. 20.33 Þegar þeir komu að Jesú og sáu, að hann var þegar dáinn, brutu þeir ekki fótleggi hans. 20.34 En einn af hermönnunum stakk spjóti sínu í síðu hans, og rann jafnskjótt út blóð og vatn. 20.35 Sá er séð hefur, vitnar þetta, svo að þér trúið líka og vitnisburður hans er sannur. Og hann veit, að hann segir satt. 20.36 Þetta varð til þess, að ritningin rættist: 'Ekkert bein hans skal brotið.' 20.37 Og enn segir önnur ritning: 'Þeir munu horfa til hans, sem þeir stungu.' 20.38 Jósef frá Arímaþeu, sem var lærisveinn Jesú, en á laun af ótta við Gyðinga, bað síðan Pílatus að mega taka ofan líkama Jesú. Pílatus leyfði það. Hann kom þá og tók ofan líkama hans. 20.39 Þar kom líka Nikódemus, er fyrrum hafði komið til hans um nótt, og hafði með sér blöndu af myrru og alóe, nær hundrað pundum. 20.40 Þeir tóku nú líkama Jesú og sveipuðu hann línblæjum með ilmjurtunum, eins og Gyðingar búa lík til greftrunar. 20.41 En á staðnum, þar sem hann var krossfestur, var grasgarður og í garðinum ný gröf, sem enginn hafði enn verið lagður í. 20.42 Þar lögðu þeir Jesú, því það var aðfangadagur Gyðinga, og gröfin var nærri.
21.1 Fyrsta dag vikunnar kemur María Magdalena til grafarinnar svo snemma, að enn var myrkur, og sér steininn tekinn frá gröfinni. 21.2 Hún hleypur því og kemur til Símonar Péturs og hins lærisveinsins, sem Jesús elskaði, og segir við þá: 'Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni, og vér vitum ekki, hvar þeir hafa lagt hann.' 21.3 Pétur fór þá út og hinn lærisveinninn, og þeir komu til grafarinnar. 21.4 Þeir hlupu báðir saman. En hinn lærisveinninn hljóp hraðar, fram úr Pétri, og kom á undan að gröfinni. 21.5 Hann laut inn og sá línblæjurnar liggjandi, en fór samt ekki inn. 21.6 Nú kom líka Símon Pétur á eftir honum og fór inn í gröfina. Hann sá línblæjurnar liggja þar 21.7 og sveitadúkinn, sem verið hafði um höfuð hans. Hann lá ekki með línblæjunum, heldur sér samanvafinn á öðrum stað. 21.8 Þá gekk einnig inn hinn lærisveinninn, sem komið hafði fyrr til grafarinnar. Hann sá og trúði. 21.9 Þeir höfðu ekki enn skilið ritninguna, að hann ætti að rísa upp frá dauðum. 21.10 Síðan fóru lærisveinarnir aftur heim til sín. 21.11 En María stóð úti fyrir gröfinni og grét. Grátandi laut hún inn í gröfina 21.12 og sá tvo engla í hvítum klæðum sitja þar sem líkami Jesú hafði legið, annan til höfða og hinn til fóta. 21.13 Þeir segja við hana: 'Kona, hví grætur þú?' Hún svaraði: 'Þeir hafa tekið brott Drottin minn, og ég veit ekki, hvar þeir hafa lagt hann.' 21.14 Að svo mæltu snýr hún sér við og sér Jesú standa þar. En hún vissi ekki, að það var Jesús. 21.15 Jesús segir við hana: 'Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú?' Hún hélt, að hann væri grasgarðsvörðurinn, og sagði við hann: 'Herra, ef þú hefur borið hann burt, þá segðu mér, hvar þú hefur lagt hann, svo að ég geti sótt hann.' 21.16 Jesús segir við hana: 'María!' Hún snýr sér að honum og segir á hebresku: 'Rabbúní!' (Rabbúní þýðir meistari.) 21.17 Jesús segir við hana: 'Snertu mig ekki! Ég er ekki enn stiginn upp til föður míns. En farðu til bræðra minna og seg þeim: ,Ég stíg upp til föður míns og föður yðar, til Guðs míns og Guðs yðar.'` 21.18 María Magdalena kemur og boðar lærisveinunum: 'Ég hef séð Drottin.' Og hún flutti þeim það, sem hann hafði sagt henni. 21.19 Um kvöldið þennan fyrsta dag vikunnar voru lærisveinarnir saman og höfðu læst dyrum af ótta við Gyðinga. Þá kom Jesús, stóð mitt á meðal þeirra og sagði við þá: 'Friður sé með yður!' 21.20 Þegar hann hafði þetta mælt, sýndi hann þeim hendur sínar og síðu. Lærisveinarnir urðu glaðir, er þeir sáu Drottin. 21.21 Þá sagði Jesús aftur við þá: 'Friður sé með yður. Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður.' 21.22 Og er hann hafði sagt þetta, andaði hann á þá og sagði: 'Meðtakið heilagan anda. 21.23 Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar, eru þær fyrirgefnar. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar, er þeim synjað.' 21.24 En einn af þeim tólf, Tómas, nefndur tvíburi, var ekki með þeim, þegar Jesús kom. 21.25 Hinir lærisveinarnir sögðu honum: 'Vér höfum séð Drottin.' En hann svaraði: 'Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa.' 21.26 Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: 'Friður sé með yður!' 21.27 Síðan segir hann við Tómas: 'Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar, og kom með hönd þína og legg í síðu mína, og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður.' 21.28 Tómas svaraði: 'Drottinn minn og Guð minn!' 21.29 Jesús segir við hann: 'Þú trúir, af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir, sem hafa ekki séð og trúa þó.' 21.30 Jesús gjörði einnig mörg önnur tákn í augsýn lærisveina sinna, sem eigi eru skráð á þessa bók. 21.31 En þetta er ritað til þess að þér trúið, að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þér í trúnni eigið líf í hans nafni.
1.1 Fyrri sögu mína, Þeófílus, samdi ég um allt, sem Jesús gjörði og kenndi frá upphafi, 1.2 allt til þess dags, er hann gaf postulunum, sem hann hafði valið, fyrirmæli sín fyrir heilagan anda og varð upp numinn. 1.3 Þeim birti hann sig lifandi eftir písl sína með mörgum órækum kennimerkjum, lét þá sjá sig í fjörutíu daga og talaði um Guðs ríki. 1.4 Er hann var með þeim, bauð hann þeim að fara ekki burt úr Jerúsalem, heldur bíða eftir fyrirheiti föðurins, 'sem þér,' sagði hann, 'hafið heyrt mig tala um. 1.5 Því að Jóhannes skírði með vatni, en þér skuluð skírðir verða með heilögum anda, nú innan fárra daga.' 1.6 Meðan þeir voru saman, spurðu þeir hann: 'Herra, ætlar þú á þessum tíma að endurreisa ríkið handa Ísrael?' 1.7 Hann svaraði: 'Ekki er það yðar að vita tíma eða tíðir, sem faðirinn setti af sjálfs sín valdi. 1.8 En þér munuð öðlast kraft, er heilagur andi kemur yfir yður, og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.' 1.9 Þegar hann hafði þetta mælt, varð hann upp numinn að þeim ásjáandi, og ský huldi hann sjónum þeirra. 1.10 Er þeir störðu til himins á eftir honum, þegar hann hvarf, þá stóðu hjá þeim allt í einu tveir menn í hvítum klæðum 1.11 og sögðu: 'Galíleumenn, hví standið þér og horfið til himins? Þessi Jesús, sem varð upp numinn frá yður til himins, mun koma á sama hátt og þér sáuð hann fara til himins.' 1.12 Þá sneru þeir aftur til Jerúsalem frá Olíufjallinu, sem svo er nefnt og er í nánd við Jerúsalem, hvíldardagsleið þaðan. 1.13 Er þeir komu þangað, fóru þeir upp í loftstofuna, þar sem þeir dvöldust: Pétur og Jóhannes, Jakob og Andrés, Filippus, Tómas, Bartólómeus, Matteus, Jakob Alfeusson, Símon vandlætari og Júdas Jakobsson. 1.14 Allir þessir voru með einum huga stöðugir í bæninni ásamt konunum. María, móðir Jesú, var líka með þeim og bræður hans. 1.15 Á þessum dögum stóð Pétur upp meðal bræðranna. Þar var saman kominn flokkur manna, um eitt hundrað og tuttugu að tölu. Hann mælti: 1.16 'Bræður, rætast hlaut ritning sú, er heilagur andi sagði fyrir munn Davíðs um Júdas, sem vísaði leið þeim, er tóku Jesú höndum. 1.17 Hann var í vorum hópi, og honum var falin sama þjónusta. 1.18 Hann keypti reit fyrir laun ódæðis síns, steyptist á höfuðið og brast sundur í miðju, svo að iðrin öll féllu út. 1.19 Þetta varð kunnugt öllum Jerúsalembúum, og er reitur sá kallaður á tungu þeirra Akeldamak, það er Blóðreitur. 1.20 Ritað er í Sálmunum: Bústaður hans skal í eyði verða, enginn skal í honum búa, og: Annar taki embætti hans. 1.21 Einhver þeirra manna, sem með oss voru alla tíð, meðan Drottinn Jesús gekk inn og út vor á meðal, 1.22 allt frá skírn Jóhannesar til þess dags, er hann varð upp numinn frá oss, verður nú að gjörast vottur upprisu hans ásamt oss.' 1.23 Og þeir tóku tvo til, Jósef, kallaðan Barsabbas, öðru nafni Jústus, og Mattías, 1.24 báðust fyrir og sögðu: 'Drottinn, þú sem þekkir hjörtu allra. Sýn þú, hvorn þessara þú hefur valið 1.25 til að taka þessa þjónustu og postuladóm, sem Júdas vék frá til að fara til síns eigin staðar.' 1.26 Þeir hlutuðu um þá, og kom upp hlutur Mattíasar. Var hann tekinn í tölu postulanna með þeim ellefu.
2.1 Þá er upp var runninn hvítasunnudagur, voru þeir allir saman komnir. 2.2 Varð þá skyndilega gnýr af himni eins og aðdynjanda sterkviðris og fyllti allt húsið, þar sem þeir voru. 2.3 Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvern og einn þeirra. 2.4 Þeir fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla. 2.5 Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum. 2.6 Er þetta hljóð heyrðist, dreif að fjölda manns. Þeim brá mjög við, því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu. 2.7 Þeir voru frá sér af undrun og sögðu: 'Eru þetta ekki allt Galíleumenn, sem hér eru að tala? 2.8 Hvernig má það vera, að vér, hver og einn, heyrum þá tala vort eigið móðurmál? 2.9 Vér erum Partar, Medar og Elamítar, vér erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu, 2.10 frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene, og vér, sem hingað erum fluttir frá Róm. 2.11 Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Vér heyrum þá tala á vorum tungum um stórmerki Guðs.' 2.12 Þeir voru allir furðu lostnir og ráðalausir og sögðu hver við annan: 'Hvað getur þetta verið?' 2.13 En aðrir höfðu að spotti og sögðu: 'Þeir eru drukknir af sætu víni.' 2.14 Þá steig Pétur fram og þeir ellefu, og hann hóf upp rödd sína og mælti til þeirra: 'Gyðingar og allir þér Jerúsalembúar! Þetta skuluð þér vita. Ljáið eyru orðum mínum. 2.15 Eigi eru þessir menn drukknir, eins og þér ætlið, enda aðeins komin dagmál. 2.16 Hér er að rætast það, sem spámaðurinn Jóel segir: 2.17 Það mun verða á efstu dögum, segir Guð, að ég mun úthella anda mínum yfir alla menn. Synir yðar og dætur munu spá, ungmenni yðar munu sjá sýnir og gamalmenni yðar mun drauma dreyma. 2.18 Jafnvel yfir þræla mína og ambáttir mínar mun ég á þeim dögum úthella anda mínum, og þau munu spá. 2.19 Og ég mun láta undur verða á himnum uppi og tákn á jörðu niðri, blóð og eld og reykjarmökk. 2.20 Sólin mun snúast í myrkur og tunglið í blóð, áður dagur Drottins kemur, hinn mikli og dýrlegi. 2.21 En hver sá, sem ákallar nafn Drottins, mun frelsast. 2.22 Ísraelsmenn, heyrið þessi orð: Jesús frá Nasaret var maður, sem Guð sannaði yður með kraftaverkum, undrum og táknum, er Guð lét hann gjöra meðal yðar, eins og þér sjálfir vitið. 2.23 Hann var framseldur að fyrirhuguðu ráði Guðs og fyrirvitund, og þér létuð heiðna menn negla hann á kross og tókuð hann af lífi. 2.24 En Guð leysti hann úr nauðum dauðans og reisti hann upp, enda gat það aldrei orðið, að dauðinn fengi haldið honum, 2.25 því að Davíð segir um hann: Ávallt hafði ég Drottin fyrir augum mér, því að hann er mér til hægri hliðar, til þess að ég bifist ekki. 2.26 Fyrir því gladdist hjarta mitt, og tunga mín fagnaði. Meira að segja mun líkami minn hvílast í von. 2.27 Því að ekki munt þú skilja sálu mína eftir í helju og eigi láta þinn heilaga verða rotnun að bráð. 2.28 Kunna gjörðir þú mér lífsins vegu. Þú munt mig fögnuði fylla fyrir þínu augliti. 2.29 Bræður, óhikað get ég við yður talað um ættföðurinn Davíð. Hann dó og var grafinn, og leiði hans er til hér allt til þessa dags. 2.30 En hann var spámaður og vissi, að Guð hafði með eiði heitið honum að setja í hásæti hans einhvern niðja hans. 2.31 Því sá hann fyrir upprisu Krists og sagði: Ekki varð hann eftir skilinn í helju, og ekki varð líkami hans rotnun að bráð. 2.32 Þennan Jesú reisti Guð upp, og erum vér allir vottar þess. 2.33 Nú er hann upp hafinn til Guðs hægri handar og hefur af föðurnum tekið við heilögum anda, sem fyrirheitið var, og úthellt honum, eins og þér sjáið og heyrið. 2.34 Ekki steig Davíð upp til himna, en hann segir: Drottinn sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar, 2.35 þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni. 2.36 Með öruggri vissu viti þá öll Ísraels ætt, að þennan Jesú, sem þér krossfestuð, hefur Guð gjört bæði að Drottni og Kristi.' 2.37 Er þeir heyrðu þetta, var sem stungið væri í hjörtu þeirra, og þeir sögðu við Pétur og hina postulana: 'Hvað eigum vér að gjöra, bræður?' 2.38 Pétur sagði við þá: 'Gjörið iðrun og látið skírast hver og einn í nafni Jesú Krists til fyrirgefningar synda yðar; þá munuð þér öðlast að gjöf heilagan anda. 2.39 Því að yður er ætlað fyrirheitið, börnum yðar og öllum þeim, sem í fjarlægð eru, öllum þeim, sem Drottinn Guð vor kallar til sín.' 2.40 Og með öðrum fleiri orðum vitnaði hann, áminnti þá og sagði: 'Látið frelsast frá þessari rangsnúnu kynslóð.' 2.41 En þeir, sem veittu orði hans viðtöku, voru skírðir, og þann dag bættust við um þrjú þúsund sálir. 2.42 Þeir ræktu trúlega uppfræðslu postulanna og samfélagið, brotning brauðsins og bænirnar. 2.43 Ótta setti að hverjum manni, en mörg undur og tákn gjörðust fyrir hendur postulanna. 2.44 Allir þeir sem trúðu héldu hópinn og höfðu allt sameiginlegt. 2.45 Þeir seldu eignir sínar og fjármuni og skiptu meðal allra eftir því sem hver hafði þörf á. 2.46 Daglega komu þeir saman með einum huga í helgidóminum, þeir brutu brauð í heimahúsum, neyttu fæðu saman í fögnuði og einlægni hjartans. 2.47 Þeir lofuðu Guð og höfðu vinsældir af öllum. En Drottinn bætti daglega við í hópinn þeim, er frelsast létu.
3.1 Pétur og Jóhannes gengu upp í helgidóminn til síðdegisbæna. 3.2 Þá var þangað borinn maður, lami frá móðurlífi, er dag hvern var settur við þær dyr helgidómsins, sem nefndar eru Fögrudyr, til að beiðast ölmusu hjá þeim, er inn gengu í helgidóminn. 3.3 Er hann sá þá Pétur og Jóhannes á leið inn í helgidóminn, baðst hann ölmusu. 3.4 Þeir horfðu fast á hann, og Pétur sagði: 'Lít þú á okkur.' 3.5 Hann starði á þá í von um að fá eitthvað hjá þeim. 3.6 Pétur sagði: 'Silfur og gull á ég ekki, en það sem ég hef, það gef ég þér: Í nafni Jesú Krists frá Nasaret, statt upp og gakk!' 3.7 Og hann tók í hægri hönd honum og reisti hann upp. Jafnskjótt urðu fætur hans og ökklar styrkir, 3.8 hann spratt upp, stóð í fætur og tók að ganga. Hann fór inn með þeim í helgidóminn, gekk um og stökk og lofaði Guð. 3.9 Allt fólkið sá hann ganga um og lofa Guð. 3.10 Þeir þekktu, að hann var sá er hafði setið fyrir Fögrudyrum helgidómsins til að beiðast ölmusu. Urðu þeir furðu lostnir og frá sér numdir af því, sem fram við hann hafði komið. 3.11 Hann hélt sér að Pétri og Jóhannesi, og þá flykktist allt fólkið furðu lostið til þeirra í súlnagöngin, sem kennd eru við Salómon. 3.12 Þegar Pétur sá það, ávarpaði hann fólkið: 'Ísraelsmenn, hví furðar yður á þessu eða hví starið þér á okkur, eins og við hefðum af eigin mætti eða guðrækni komið því til leiðar, að þessi maður gengur? 3.13 Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs, Guð feðra vorra hefur dýrlegan gjört þjón sinn, Jesú, sem þér framselduð og afneituðuð frammi fyrir Pílatusi, er hann hafði ályktað að láta hann lausan. 3.14 Þér afneituðuð hinum heilaga og réttláta, en beiddust að manndrápari yrði gefinn yður. 3.15 Þér líflétuð höfðingja lífsins, en Guð uppvakti hann frá dauðum, og að því erum vér vottar. 3.16 Trúin á nafn Jesú gjörði þennan mann, sem þér sjáið og þekkið, styrkan. Nafnið hans og trúin, sem hann gefur, veitti honum þennan albata fyrir augum yðar allra. 3.17 Nú veit ég, bræður, að þér gjörðuð það af vanþekkingu, sem og höfðingjar yðar. 3.18 En Guð lét þannig rætast það, sem hann hafði boðað fyrirfram fyrir munn allra spámannanna, að Kristur hans skyldi líða. 3.19 Gjörið því iðrun og snúið yður, að syndir yðar verði afmáðar. 3.20 Þá munu koma endurlífgunartímar frá augliti Drottins, og hann mun senda Krist, sem yður er fyrirhugaður, sem er Jesús. 3.21 Hann á að vera í himninum allt til þess tíma, þegar Guð endurreisir alla hluti, eins og hann hefur sagt fyrir munn sinna heilögu spámanna frá alda öðli. 3.22 Móse sagði: ,Spámann mun Drottinn, Guð yðar, uppvekja yður af bræðrum yðar eins og mig. Á hann skuluð þér hlýða í öllu, er hann talar til yðar. 3.23 Og sérhver sá, sem hlýðir ekki á þennan spámann, skal upprættur verða úr lýðnum.` 3.24 Allir spámennirnir, Samúel og þeir sem á eftir komu, allir þeir sem talað hafa, boðuðu og þessa daga. 3.25 Þér eruð börn spámannanna og eigið hlut í sáttmálanum, sem Guð gjörði við feður yðar, er hann sagði við Abraham: ,Af þínu afkvæmi skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta.` 3.26 Guð hefur reist upp þjón sinn og sent hann yður fyrst til að blessa yður og snúa hverjum yðar frá vondri breytni sinni.'
4.1 Meðan þeir voru að tala til fólksins, komu að þeim prestarnir, varðforingi helgidómsins og saddúkearnir. 4.2 Þeir voru æfir af því að postularnir voru að kenna fólkinu og boða upprisu dauðra í Jesú. 4.3 Lögðu þeir hendur á þá og settu þá í varðhald til næsta morguns, því að kvöld var komið. 4.4 En margir þeirra, er heyrt höfðu orðið, tóku trú, og tala karlmanna varð um fimm þúsundir. 4.5 Næsta morgun komu höfðingjarnir, öldungarnir og fræðimennirnir saman í Jerúsalem. 4.6 Þar voru Annas, æðsti prestur, Kaífas, Jóhannes, Alexander og allir, sem voru af æðsta prests ættum. 4.7 Þeir létu leiða postulana fram og spurðu þá: 'Með hvaða krafti eða í hvers nafni gjörðuð þið þetta?' 4.8 Þá sagði Pétur við þá, fylltur heilögum anda: 'Þér höfðingjar lýðsins og öldungar, 4.9 með því að við eigum í dag að svara til saka vegna góðverks við sjúkan mann og gera grein fyrir því, hvernig hann sé heill orðinn, 4.10 þá sé yður öllum kunnugt og öllum Ísraelslýð, að í nafni Jesú Krists frá Nasaret, þess er þér krossfestuð, en Guð uppvakti frá dauðum, í hans nafni stendur þessi maður heilbrigður fyrir augum yðar. 4.11 Jesús er steinninn, sem þér, húsasmiðirnir, virtuð einskis, hann er orðinn hyrningarsteinn. 4.12 Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss.' 4.13 Þegar þeir sáu djörfung Péturs og Jóhannesar og skildu, að þeir voru ólærðir leikmenn, undruðust þeir. Þeir könnuðust og við, að þeir höfðu verið með Jesú. 4.14 Og er þeir sáu manninn, sem læknaður hafði verið, standa hjá þeim, máttu þeir ekki í móti mæla. 4.15 Þeir skipuðu þeim að ganga út frá ráðinu, tóku saman ráð sín og sögðu: 4.16 'Hvað eigum vér að gjöra við þessa menn? Því að augljóst er öllum Jerúsalembúum, að ótvírætt tákn er orðið af þeirra völdum. Vér getum ekki neitað því. 4.17 Þetta má ekki berast frekar út meðal lýðsins. Vér skulum því hóta þeim hörðu, að þeir tali aldrei framar í þessu nafni við nokkurn mann.' 4.18 Síðan kölluðu þeir þá fyrir sig og skipuðu þeim að hætta með öllu að tala eða kenna í Jesú nafni. 4.19 Pétur og Jóhannes svöruðu: 'Dæmið sjálfir, hvort það sé rétt í augum Guðs að hlýðnast yður fremur en honum. 4.20 Vér getum ekki annað en talað það, sem vér höfum séð og heyrt.' 4.21 En þeir ógnuðu þeim enn frekar og slepptu þeim síðan, þar sem þeir sáu enga leið vegna fólksins að hegna þeim, því allir lofuðu Guð fyrir þennan atburð. 4.22 En maðurinn, sem læknast hafði með þessu tákni, var yfir fertugt. 4.23 Er þeim hafði verið sleppt, fóru þeir til félaga sinna og greindu þeim frá öllu því, sem æðstu prestarnir og öldungarnir höfðu við þá talað. 4.24 Þegar þeir heyrðu það, hófu þeir einum huga raust sína til Guðs og sögðu: 'Herra, þú sem gjörðir himin, jörð og haf og allt, sem í þeim er, 4.25 þú, sem lést heilagan anda mæla af munni Davíðs, föður vors, þjóns þíns: Hví geisuðu heiðingjarnir, og hví hugðu lýðirnir á hégómleg ráð? 4.26 Konungar jarðarinnar risu upp, og höfðingjarnir söfnuðust saman gegn Drottni og gegn hans Smurða. 4.27 Því að sannarlega söfnuðust saman í borg þessari gegn hinum heilaga þjóni þínum, Jesú, er þú smurðir, þeir Heródes og Pontíus Pílatus ásamt heiðingjunum og lýðum Ísraels 4.28 til að gjöra allt það, er hönd þín og ráð hafði fyrirhugað, að verða skyldi. 4.29 Og nú, Drottinn, lít á hótanir þeirra og veit þjónum þínum fulla djörfung að tala orð þitt. 4.30 Rétt þú út hönd þína til að lækna og lát tákn og undur verða fyrir nafn þíns heilaga þjóns, Jesú.' 4.31 Þegar þeir höfðu beðist fyrir, hrærðist staðurinn, þar sem þeir voru saman komnir, og þeir fylltust allir heilögum anda og töluðu orð Guðs af djörfung. 4.32 En í þeim fjölda, sem trú hafði tekið, var eitt hjarta og ein sál, og enginn þeirra taldi neitt vera sitt, er hann átti, heldur höfðu þeir allt sameiginlegt. 4.33 Postularnir báru vitni um upprisu Drottins Jesú með miklum krafti, og mikil náð var yfir þeim öllum. 4.34 Eigi var heldur neinn þurfandi meðal þeirra, því að allir landeigendur og húseigendur seldu eign sína, komu með andvirðið 4.35 og lögðu fyrir fætur postulanna. Og sérhverjum var úthlutað eftir því sem hann hafði þörf til. 4.36 Jósef levíti, frá Kýpur, sem postularnir kölluðu Barnabas, það þýðir huggunar sonur, 4.37 átti sáðland og seldi, kom með verðið og lagði fyrir fætur postulanna.
5.1 En maður nokkur, Ananías að nafni, seldi ásamt Saffíru, konu sinni, eign 5.2 og dró undan af verðinu með vitund konu sinnar, en kom með nokkuð af því og lagði fyrir fætur postulanna. 5.3 En Pétur mælti: 'Ananías, hví fyllti Satan hjarta þitt, svo að þú laugst að heilögum anda og dróst undan af verði lands þíns? 5.4 Var landið ekki þitt, meðan þú áttir það, og var ekki andvirði þess á þínu valdi? Hvernig gastu þá látið þér hugkvæmast slíkt tiltæki? Ekki hefur þú logið að mönnum, heldur Guði.' 5.5 Þegar Ananías heyrði þetta, féll hann niður og gaf upp öndina, og miklum ótta sló á alla þá, sem heyrðu. 5.6 En ungu mennirnir stóðu upp og bjuggu um hann, báru hann út og jörðuðu. 5.7 Að liðnum svo sem þrem stundum kom kona hans inn og vissi ekki, hvað við hafði borið. 5.8 Þá spurði Pétur hana: 'Seg mér, selduð þið jörðina fyrir þetta verð?' En hún svaraði: 'Já, fyrir þetta verð.' 5.9 Pétur mælti þá við hana: 'Hvernig gátuð þið orðið samþykk um að freista anda Drottins? Þú heyrir við dyrnar fótatak þeirra, sem greftruðu mann þinn. Þeir munu bera þig út.' 5.10 Jafnskjótt féll hún niður við fætur hans og gaf upp öndina. Ungu mennirnir komu inn, fundu hana dauða, báru út og jörðuðu hjá manni hennar. 5.11 Og miklum ótta sló á allan söfnuðinn og alla, sem heyrðu þetta. 5.12 Fyrir hendur postulanna gjörðust mörg tákn og undur meðal lýðsins. Allur söfnuðurinn kom einum huga saman í Súlnagöngum Salómons. 5.13 Engir aðrir þorðu að samlagast þeim, en fólk virti þá mikils. 5.14 Og enn fleiri urðu þeir, sem trúðu á Drottin, fjöldi karla og kvenna. 5.15 Menn báru jafnvel sjúka út á strætin og lögðu þá á rekkjur og börur, ef verða mætti, er Pétur gengi hjá, að alltént skugginn af honum félli á einhvern þeirra. 5.16 Einnig kom fjöldi fólks frá borgunum umhverfis Jerúsalem og flutti með sér sjúka menn og þjáða af óhreinum öndum. Þeir læknuðust allir. 5.17 Þá hófst æðsti presturinn handa og allur sá flokkur, sem fylgdi honum, saddúkearnir. Fullir ofsa 5.18 létu þeir taka postulana höndum og varpa í fangelsið. 5.19 En engill Drottins opnaði um nóttina dyr fangelsisins, leiddi þá út og sagði: 5.20 'Farið og gangið fram í helgidóminum og talið til lýðsins öll þessi lífsins orð.' 5.21 Þeir hlýddu og fóru í dögun í helgidóminn og kenndu. Nú kom æðsti presturinn og hans menn, kölluðu saman ráðið, alla öldunga Ísraels, og sendu þjóna til fangelsisins að sækja postulana. 5.22 Þeir komu í fangelsið og fundu þá ekki, sneru aftur og skýrðu svo frá: 5.23 'Fangelsið fundum vér að öllu tryggilega læst, og varðmennirnir stóðu fyrir dyrum, en er vér lukum upp, fundum vér engan inni.' 5.24 Þegar varðforingi helgidómsins og æðstu prestarnir heyrðu þetta, urðu þeir ráðþrota og spurðu, hvar þetta ætlaði að lenda. 5.25 En þá kom maður og bar þeim þessa frétt: 'Mennirnir, sem þér settuð í fangelsið, standa í helgidóminum og eru að kenna lýðnum.' 5.26 Þá fór varðforinginn með þjónunum og sótti þá. Beittu þeir samt ekki ofbeldi, því þeir óttuðust, að fólkið grýtti þá. 5.27 Þegar þeir voru komnir með þá, leiddu þeir þá fram fyrir ráðið, og æðsti presturinn tók að yfirheyra þá og sagði: 5.28 'Stranglega bönnuðum vér yður að kenna í þessu nafni, og nú hafið þér fyllt Jerúsalem með kenningu yðar og viljið steypa yfir oss blóði þessa manns.' 5.29 En Pétur og hinir postularnir svöruðu: 'Framar ber að hlýða Guði en mönnum. 5.30 Guð feðra vorra hefur upp vakið Jesú, sem þér hengduð á tré og tókuð af lífi. 5.31 Hann hefur Guð hafið sér til hægri handar og gjört hann að foringja og frelsara til að veita Ísrael afturhvarf og fyrirgefningu synda sinna. 5.32 Vér erum vottar alls þessa, og heilagur andi, sem Guð hefur gefið þeim, er honum hlýða.' 5.33 Þegar þeir heyrðu þetta, fylltust þeir bræði og hugðust deyða þá. 5.34 Reis þá upp í ráðinu farísei nokkur, Gamalíel að nafni, kennari í lögmálinu, virtur af öllum lýð. Hann bauð, að mennirnir væru látnir fara út stundarkorn. 5.35 Síðan sagði hann: 'Ísraelsmenn, athugið vel, hvað þér gjörið við þessa menn. 5.36 Ekki alls fyrir löngu kom Þevdas fram og þóttist vera eitthvað. Hann aðhylltust um fjögur hundruð manns. En hann var drepinn, og allir þeir, sem fylgdu honum, tvístruðust og hurfu. 5.37 Eftir hann kom fram Júdas frá Galíleu á dögum skrásetningarinnar og sneri fólki til fylgis við sig. Hann fórst líka, og þeir dreifðust allir, sem fylgdu honum. 5.38 Og nú segi ég yður: Látið þessa menn eiga sig og sleppið þeim. Sé þetta ráð eða verk frá mönnum, verður það að engu, 5.39 en sé það frá Guði, þá megnið þér ekki að yfirbuga þá. Eigi má það verða, að þér berjist við sjálfan Guð.' 5.40 Þeir féllust á mál hans, kölluðu á postulana, húðstrýktu þá, fyrirbuðu þeim að tala í Jesú nafni og létu þá síðan lausa. 5.41 Þeir fóru burt frá ráðinu, glaðir yfir því, að þeir höfðu verið virtir þess að þola háðung vegna nafns Jesú. 5.42 Létu þeir eigi af að kenna dag hvern í helgidóminum og í heimahúsum og boða fagnaðarerindið um, að Jesús sé Kristur.
6.1 Á þessum dögum, er lærisveinum fjölgaði, fóru grískumælandi menn að kvarta út af því, að hebreskir settu ekkjur þeirra hjá við daglega úthlutun. 6.2 Hinir tólf kölluðu þá lærisveinahópinn saman og sögðu: 'Ekki hæfir, að vér hverfum frá boðun Guðs orðs til að þjóna fyrir borðum. 6.3 Finnið því, bræður, sjö vel kynnta menn úr yðar hópi, sem fullir eru anda og visku. Munum vér setja þá yfir þetta starf. 6.4 En vér munum helga oss bæninni og þjónustu orðsins.' 6.5 Öll samkoman gerði góðan róm að máli þeirra, og kusu þeir Stefán, mann fullan af trú og heilögum anda, Filippus, Prókorus, Níkanor, Tímon, Parmenas og Nikolás frá Antíokkíu, sem tekið hafði gyðingatrú. 6.6 Þeir leiddu þá fram fyrir postulana, sem báðust fyrir og lögðu hendur yfir þá. 6.7 Orð Guðs breiddist út, og tala lærisveinanna í Jerúsalem fór stórum vaxandi, einnig snerist mikill fjöldi presta til hlýðni við trúna. 6.8 Stefán var fullur af náð og krafti og gjörði undur og tákn mikil meðal fólksins. 6.9 Þá komu til nokkrir menn úr svonefndri Leysingjasamkundu. Þeir voru frá Kýrene og Alexandríu, en aðrir frá Kilikíu og Asíu, og tóku að þrátta við Stefán. 6.10 En þeir gátu ekki staðið gegn visku þeirri og anda, sem hann talaði af. 6.11 Þá fengu þeir menn nokkra til að segja: 'Vér höfum heyrt hann tala lastmæli gegn Móse og Guði.' 6.12 Þeir æstu upp fólkið, öldungana og fræðimennina, og þeir veittust að honum, gripu hann og færðu hann fyrir ráðið. 6.13 Þá leiddu þeir fram ljúgvotta, er sögðu: 'Þessi maður er alltaf að tala gegn þessum heilaga stað og lögmálinu. 6.14 Vér höfum heyrt hann segja, að þessi Jesús frá Nasaret muni brjóta niður musterið og breyta þeim siðum, sem Móse hefur sett oss.' 6.15 Allir sem í ráðinu sátu, störðu á hann og sáu, að ásjóna hans var sem engils ásjóna.
7.1 Þá spurði æðsti presturinn: 'Er þessu svo farið?' 7.2 Stefán svaraði: 'Heyrið mig, bræður og feður. Guð dýrðarinnar birtist föður vorum, Abraham, er hann var enn í Mesópótamíu, áður en hann settist að í Haran, 7.3 og sagði við hann: ,Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu til landsins, sem ég mun vísa þér á.` 7.4 Þá fór hann burt úr Kaldealandi og settist að í Haran. En eftir lát föður hans leiddi Guð hann þaðan til þessa lands, sem þér nú byggið. 7.5 Ekki gaf hann honum óðal hér, ekki eitt fótmál. En hann hét honum að gefa honum landið til eignar og niðjum hans eftir hann, þótt hann væri enn barnlaus. 7.6 Guð sagði, að niðjar hans mundu búa sem útlendingar í ókunnu landi og verða þjáðir og þrælkaðir í fjögur hundruð ár. 7.7 ,En þjóðina, sem þrælkar þá, mun ég dæma,` sagði Guð, ,og eftir það munu þeir fara þaðan og þjóna mér á þessum stað.` 7.8 Þá gaf hann honum sáttmála umskurnarinnar. Síðan gat Abraham Ísak og umskar hann á áttunda degi, og Ísak gat Jakob og Jakob ættfeðurna tólf. 7.9 Og ættfeðurnir öfunduðu Jósef og seldu hann til Egyptalands. En Guð var með honum, 7.10 frelsaði hann úr öllum þrengingum hans og veitti honum hylli og visku í augum Faraós, Egyptalandskonungs, svo að hann skipaði hann höfðingja yfir Egyptaland og yfir allt sitt hús. 7.11 Nú kom hallæri á öllu Egyptalandi og Kanaan og mikil þrenging, og feður vorir höfðu ekki lífsbjörg. 7.12 En er Jakob heyrði, að korn væri til á Egyptalandi, sendi hann feður vora þangað hið fyrra sinn. 7.13 Og í síðara skiptið gaf Jósef sig fram við bræður sína, og Faraó varð kunn ætt Jósefs. 7.14 En Jósef sendi eftir Jakobi föður sínum og öllu ættfólki sínu, sjötíu og fimm manns, 7.15 og Jakob fór suður til Egyptalands. Þar andaðist hann og feður vorir. 7.16 Þeir voru fluttir til Síkem og lagðir í grafreitinn, er Abraham hafði keypt fyrir silfur af sonum Hemors í Síkem. 7.17 Nú tók að nálgast sá tími, er rætast skyldi fyrirheitið, sem Guð hafði gefið Abraham. Fólkið hafði vaxið og margfaldast í Egyptalandi. 7.18 ,Þá hófst til ríkis þar annar konungur, er eigi vissi skyn á Jósef.` 7.19 Hann beitti kyn vort slægð og lék feður vora illa. Hann lét þá bera út ungbörn sín, til þess að þjóðin skyldi eigi lífi halda. 7.20 Um þessar mundir fæddist Móse og var forkunnar fríður. Þrjá mánuði var hann fóstraður í húsi föður síns. 7.21 En er hann var út borinn, tók dóttir Faraós hann og fóstraði sem sinn son. 7.22 Móse var fræddur í allri speki Egypta, og hann var máttugur í orðum sínum og verkum. 7.23 Þegar hann var fertugur að aldri, kom honum í hug að vitja bræðra sinna, Ísraelsmanna. 7.24 Hann sá einn þeirra verða fyrir ójöfnuði, og rétti hann hlut hans, hefndi þess, sem meingjörðina þoldi, og drap Egyptann. 7.25 Hann hugði, að bræður hans mundu skilja, að Guð ætlaði að nota hann til að bjarga þeim, en þeir skildu það ekki. 7.26 Næsta dag kom hann að tveim þeirra, sem slógust. Hann reyndi að stilla til friðar með þeim og sagði: ,Góðir menn, þið eruð bræður, hví eigist þið illt við?` 7.27 En sá sem beitti náunga sinn órétti, hratt honum frá sér og sagði: ,Hver skipaði þig höfðingja og dómara yfir okkur? 7.28 Þú munt þó ekki vilja drepa mig, eins og þú drapst Egyptann í gær?` 7.29 Við þessi orð flýði Móse og settist að sem útlendingur í Midíanslandi. Þar gat hann tvo sonu. 7.30 Að fjörutíu árum liðnum ,birtist honum engill í eyðimörk Sínaífjalls í logandi þyrnirunna.` 7.31 Móse undraðist sýnina, gekk nær og vildi hyggja að. Þá hljómaði rödd Drottins: 7.32 ,Ég er Guð feðra þinna, Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs.` En Móse skelfdist og þorði ekki að hyggja frekar að. 7.33 En Drottinn sagði við hann: ,Leys af þér skó þína, því að staðurinn, sem þú stendur á, er heilög jörð. 7.34 Ég hef sannlega séð áþján lýðs míns á Egyptalandi og heyrt andvörp þeirra og er ofan kominn að frelsa þá. Kom nú, ég vil senda þig til Egyptalands.` 7.35 Þennan Móse, er þeir afneituðu með því að segja: ,Hver skipaði þig höfðingja og dómara?` hann sendi Guð sem höfðingja og lausnara með fulltingi engilsins, er honum birtist í þyrnirunnanum. 7.36 Það var Móse, sem leiddi þá út og gjörði undur og tákn á Egyptalandi, í Rauðahafinu og á eyðimörkinni í fjörutíu ár. 7.37 Þessi er sá Móse, sem sagði við Ísraelsmenn: ,Spámann eins og mig mun Guð upp vekja yður, einn af bræðrum yðar.` 7.38 Hann er sá, sem var í söfnuðinum í eyðimörkinni, með englinum, er við hann talaði á Sínaífjalli, og með feðrum vorum. Hann tók á móti lifandi orðum að gefa oss. 7.39 Eigi vildu feður vorir hlýðnast honum, heldur hrundu honum frá sér og þráðu í hjörtum sínum Egyptaland. 7.40 Þeir sögðu við Aron: ,Gjör oss guði, er fyrir oss fari, því að ekki vitum vér, hvað orðið er af Móse þeim, sem leiddi oss brott af Egyptalandi.` 7.41 Og á þeim dögum smíðuðu þeir kálf, færðu skurðgoðinu fórn og kættust af verki handa sinna. 7.42 En Guð sneri sér frá þeim og lét þeim eftir að dýrka her himinsins, eins og ritað er í spámannabókinni: Hvort færðuð þér mér, Ísraels ætt, sláturdýr og fórnir árin fjörutíu í eyðimörkinni? 7.43 Nei, þér báruð búð Móloks og stjörnu guðsins Refans, myndirnar, sem þér smíðuðuð til þess að tilbiðja þær. Ég mun herleiða yður austur fyrir Babýlon. 7.44 Vitnisburðartjaldbúðina höfðu feður vorir í eyðimörkinni. Hún var gjörð eins og sá bauð, er við Móse mælti, eftir þeirri fyrirmynd, sem Móse sá. 7.45 Við henni tóku og feður vorir, fluttu hana með Jósúa inn í landið, sem þeir tóku til eignar af heiðingjunum, er Guð rak brott undan þeim. Stóð svo allt til daga Davíðs. 7.46 Hann fann náð hjá Guði og bað, að hann mætti finna bústað fyrir Jakobs Guð. 7.47 En Salómon reisti honum hús. 7.48 En eigi býr hinn hæsti í því, sem með höndum er gjört. Spámaðurinn segir: 7.49 Himinninn er hásæti mitt og jörðin skör fóta minna. Hvaða hús munuð þér reisa mér, segir Drottinn, eða hver er hvíldarstaður minn? 7.50 Hefur ekki hönd mín skapað allt þetta? 7.51 Þér harðsvíraðir og óumskornir í hjörtum og á eyrum, þér standið ávallt gegn heilögum anda, þér eins og feður yðar. 7.52 Hver var sá spámaður, sem feður yðar ofsóttu eigi? Þeir drápu þá, er boðuðu fyrirfram komu hins réttláta, og nú hafið þér svikið hann og myrt. 7.53 Þér sem lögmálið fenguð fyrir umsýslan engla, en hafið þó eigi haldið það.' 7.54 Þegar þeir heyrðu þetta, trylltust þeir og gnístu tönnum gegn honum. 7.55 En hann horfði til himins, fullur af heilögum anda og leit dýrð Guðs og Jesú standa til hægri handar Guði 7.56 og sagði: 'Ég sé himnana opna og Mannssoninn standa til hægri handar Guði.' 7.57 Þá æptu þeir hástöfum, héldu fyrir eyrun og réðust að honum, allir sem einn maður. 7.58 Þeir hröktu hann út úr borginni og tóku að grýta hann. En vottarnir lögðu yfirhafnir sínar að fótum ungum manni, er Sál hét. 7.59 Þannig grýttu þeir Stefán. En hann ákallaði Drottin og sagði: 'Drottinn Jesús, meðtak þú anda minn.' 7.60 Síðan féll hann á kné og hrópaði hárri röddu: 'Drottinn, lát þá ekki gjalda þessarar syndar.' Þegar hann hafði þetta mælt, sofnaði hann.
8.1 Sál lét sér vel líka líflát hans. Á þeim degi hófst mikil ofsókn gegn söfnuðinum í Jerúsalem. Allir dreifðust út um byggðir Júdeu og Samaríu nema postularnir. 8.2 Guðræknir menn greftruðu Stefán og höfðu sorgarathöfn mikla. 8.3 En Sál gjörði sér allt far um að uppræta söfnuðinn. Hann óð inn í hvert hús, dró þaðan bæði karla og konur og lét setja í varðhald. 8.4 Þeir sem dreifst höfðu, fóru víðs vegar og fluttu fagnaðarerindið. 8.5 Filippus fór norður til höfuðborgar Samaríu og prédikaði Krist þar. 8.6 Menn hlýddu með athygli á orð Filippusar, þegar þeir heyrðu hann tala og sáu táknin, sem hann gjörði. 8.7 Margir höfðu óhreina anda, og fóru þeir út af þeim með ópi miklu. Og margir lama menn og haltir voru læknaðir. 8.8 Mikill fögnuður varð í þeirri borg. 8.9 Maður nokkur, Símon að nafni, var fyrir í borginni. Hann lagði stund á töfra og vakti hrifningu fólksins í Samaríu. Hann þóttist vera næsta mikill. 8.10 Allir flykktust til hans, háir og lágir, og sögðu: 'Þessi maður er kraftur Guðs, sá hinn mikli.' 8.11 En því flykktust menn um hann, að hann hafði lengi heillað þá með töfrum. 8.12 Nú trúðu menn Filippusi, þegar hann flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki og nafn Jesú Krists, og létu skírast, bæði karlar og konur. 8.13 Meira að segja Símon tók trú. Hann var skírður og gjörðist mjög fylgisamur Filippusi. Og er hann sá tákn og mikil kraftaverk gjörast, var hann frá sér numinn. 8.14 Þegar postularnir í Jerúsalem heyrðu, að Samaría hefði tekið við orði Guðs, sendu þeir til þeirra þá Pétur og Jóhannes. 8.15 Þeir fóru norður þangað og báðu fyrir þeim, að þeir mættu öðlast heilagan anda, 8.16 því að enn var hann ekki kominn yfir neinn þeirra. Þeir voru aðeins skírðir til nafns Drottins Jesú. 8.17 Nú lögðu þeir hendur yfir þá, og fengu þeir heilagan anda. 8.18 En er Símon sá, að heilagur andi veittist fyrir handayfirlagning postulanna, bauð hann þeim fé og sagði: 8.19 'Gefið einnig mér þetta vald, að hver sá, er ég legg hendur yfir, fái heilagan anda.' 8.20 En Pétur svaraði: 'Þrífist aldrei silfur þitt né sjálfur þú, fyrst þú hugðist eignast gjöf Guðs fyrir fé. 8.21 Eigi átt þú skerf né hlut í þessu, því að hjarta þitt er ekki einlægt gagnvart Guði. 8.22 Snú því huga þínum frá þessari illsku þinni og bið Drottin, að þér mætti fyrirgefast hugsun hjarta þíns, 8.23 því ég sé, að þú ert fullur gallbeiskju og í fjötrum ranglætis.' 8.24 Símon sagði: 'Biðjið þér fyrir mér til Drottins, að ekkert komi það yfir mig, sem þér hafið mælt.' 8.25 Er þeir höfðu nú vitnað og talað orð Drottins, sneru þeir aftur áleiðis til Jerúsalem og boðuðu fagnaðarerindið í mörgum þorpum Samverja. 8.26 En engill Drottins mælti til Filippusar: 'Statt upp og gakk suður á veginn, sem liggur ofan frá Jerúsalem til Gasa.' Þar er óbyggð. 8.27 Hann hlýddi og fór. Þá bar að mann frá Eþíópíu. Hann var hirðmaður og höfðingi hjá Kandake, drottningu Eþíópa, og settur yfir alla fjárhirslu hennar. Hann hafði farið til Jerúsalem til að biðjast fyrir 8.28 og var á heimleið, sat í vagni sínum og las Jesaja spámann. 8.29 Andinn sagði þá við Filippus: 'Gakk að þessum vagni og vertu sem næst honum.' 8.30 Filippus skundaði þangað og heyrði manninn vera að lesa Jesaja spámann. Hann spurði: 'Hvort skilur þú það, sem þú ert að lesa?' 8.31 Hinn svaraði: 'Hvernig ætti ég að geta það, ef enginn leiðbeinir mér?' Og hann bað Filippus stíga upp í og setjast hjá sér. 8.32 En orð þeirrar ritningar, sem hann var að lesa, voru þessi: Eins og sauður til slátrunar leiddur, og sem lamb þegir hjá þeim, er klippir það, svo lauk hann ekki upp munni sínum. 8.33 Í niðurlægingunni var hann sviptur rétti. Hver getur sagt frá ætt hans? Því að líf hans var hrifið burt af jörðinni. 8.34 Hirðmaðurinn mælti þá við Filippus: 'Seg þú mér: Um hvern segir spámaðurinn þetta, sjálfan sig eða einhvern annan?' 8.35 Filippus tók þá til orða, hóf máls á ritningu þessari og boðaði honum fagnaðarerindið um Jesú. 8.36 Þegar þeir fóru áfram veginn, komu þeir að vatni nokkru. Þá mælti hirðmaðurinn: 'Hér er vatn, hvað hamlar mér að skírast?' 8.37 Hann lét stöðva vagninn, og stigu báðir niður í vatnið, Filippus og hirðmaðurinn, og Filippus skírði hann. 8.38 En er þeir stigu upp úr vatninu, hreif andi Drottins Filippus burt. Hirðmaðurinn sá hann ekki framar og fór fagnandi leiðar sinnar. 8.39 En Filippus kom fram í Asdód, fór um og flutti fagnaðarerindið í hverri borg, uns hann kom til Sesareu.
9.1 En Sál blés enn ógnum og manndrápum gegn lærisveinum Drottins. Gekk hann til æðsta prestsins 9.2 og beiddist bréfa af honum til samkundanna í Damaskus, að hann mætti flytja í böndum til Jerúsalem þá, er hann kynni að finna og væru þessa vegar, hvort heldur karla eða konur. 9.3 En þegar hann var á ferð sinni kominn í nánd við Damaskus, leiftraði skyndilega um hann ljós af himni. 9.4 Hann féll til jarðar og heyrði rödd segja við sig: 'Sál, Sál, hví ofsækir þú mig?' 9.5 En hann sagði: 'Hver ert þú, herra?' Þá var svarað: 'Ég er Jesús, sem þú ofsækir. 9.6 En statt upp og gakk inn í borgina, og þér mun verða sagt, hvað þú átt að gjöra.' 9.7 Förunautar hans stóðu orðlausir. Þeir heyrðu að vísu raustina, en sáu engan. 9.8 Sál reis á fætur, en þegar hann lauk upp augunum, sá hann ekkert. Þeir leiddu hann við hönd sér inn í Damaskus. 9.9 Þrjá daga var hann sjónlaus og át hvorki né drakk. 9.10 Í Damaskus var lærisveinn nokkur, sem hét Ananías. Við hann sagði Drottinn í sýn: 'Ananías.' Hann svaraði: 'Hér er ég, Drottinn.' 9.11 Drottinn sagði við hann: 'Far þegar í stræti það, sem kallað er Hið beina, og í húsi Júdasar skaltu spyrja eftir manni frá Tarsus, er heitir Sál. Hann er að biðja. 9.12 Og hann hefur í sýn séð mann, Ananías að nafni, koma inn og leggja hendur yfir sig, til þess að hann fái aftur sjón.' 9.13 Ananías svaraði: 'Drottinn, heyrt hef ég marga segja frá manni þessum, hve mikið illt hann hefur gjört þínum heilögu í Jerúsalem. 9.14 Og hér fer hann með vald frá æðstu prestunum að færa í bönd alla þá, sem ákalla nafn þitt.' 9.15 Drottinn sagði við hann: 'Far þú, því að þennan mann hef ég valið mér að verkfæri til þess að bera nafn mitt fram fyrir heiðingja, konunga og börn Ísraels, 9.16 og ég mun sýna honum, hversu mikið hann verður að þola vegna nafns míns.' 9.17 Þá fór Ananías af stað, gekk inn í húsið og lagði hendur yfir hann og mælti: 'Sál, bróðir, Drottinn hefur sent mig, Jesús, sá er birtist þér á leið þinni hingað. Þú átt að fá aftur sjón þína og fyllast heilögum anda.' 9.18 Jafnskjótt var sem hreistur félli af augum hans, hann fékk aftur sjónina og lét þegar skírast. 9.19 Síðan neytti hann matar og styrktist. Sál var nokkra daga hjá lærisveinunum í Damaskus 9.20 og tók þegar að prédika í samkunduhúsunum, að Jesús væri sonur Guðs. 9.21 Allir þeir, sem heyrðu það, undruðust stórum og sögðu: 'Er þetta ekki maðurinn, sem í Jerúsalem hugðist eyða þeim, er ákölluðu þetta nafn? Kom hann ekki hingað til að fara með þá í böndum til æðstu prestanna?' 9.22 En Sál efldist æ meir og gjörði þá Gyðinga, sem bjuggu í Damaskus, rökþrota, er hann sannaði, að Jesús væri Kristur. 9.23 Að allmörgum dögum liðnum réðu Gyðingar með sér að taka hann af lífi. 9.24 En Sál fékk vitneskju um ráðagjörð þeirra. Þeir gættu borgarhliðanna nótt og dag til að ná lífi hans. 9.25 En lærisveinarnir tóku hann um nótt og komu honum út fyrir borgarmúrinn með því að láta hann síga ofan í körfu. 9.26 Þá er hann kom til Jerúsalem, reyndi hann að samlaga sig lærisveinunum, en þeir hræddust hann allir og trúðu ekki, að hann væri lærisveinn. 9.27 En Barnabas tók hann að sér, fór með hann til postulanna og skýrði þeim frá, hvernig hann hefði séð Drottin á veginum, hvað hann hefði sagt við hann og hversu einarðlega hann hefði talað í Jesú nafni í Damaskus. 9.28 Dvaldist hann nú með þeim í Jerúsalem, gekk þar út og inn og talaði einarðlega í nafni Drottins. 9.29 Hann talaði og háði kappræður við grískumælandi Gyðinga, en þeir leituðust við að ráða hann af dögum. 9.30 Þegar bræðurnir urðu þessa vísir, fóru þeir með hann til Sesareu og sendu hann áfram til Tarsus. 9.31 Nú hafði kirkjan frið um alla Júdeu, Galíleu og Samaríu. Hún byggðist upp og gekk fram í ótta Drottins og óx við styrkingu heilags anda. 9.32 Svo bar við, er Pétur var að ferðast um og vitja allra, að hann kom og til hinna heilögu, sem áttu heima í Lýddu. 9.33 Þar fann hann mann nokkurn, Eneas að nafni, er í átta ár hafði legið rúmfastur. Hann var lami. 9.34 Pétur sagði við hann: 'Eneas, Jesús Kristur læknar þig, statt upp og bú um þig.' Jafnskjótt stóð hann upp. 9.35 Allir þeir, sem áttu heima í Lýddu og Saron, sáu hann, og þeir sneru sér til Drottins. 9.36 Í Joppe var lærisveinn, kona að nafni Tabíþa, á grísku Dorkas. Hún var mjög góðgerðasöm og örlát við snauða. 9.37 En á þeim dögum tók hún sótt og andaðist. Var hún lauguð og lögð í loftstofu. 9.38 Nú er Lýdda í grennd við Joppe, og höfðu lærisveinarnir heyrt, að Pétur væri þar. Sendu þeir tvo menn til hans og báðu hann: 'Kom án tafar til vor.' 9.39 Pétur brá við og fór með þeim. Þegar þangað kom, fóru þeir með hann upp í loftstofuna, og allar ekkjurnar komu til hans grátandi og sýndu honum kyrtla og yfirhafnir, sem Dorkas hafði gjört, meðan hún var hjá þeim. 9.40 En Pétur lét alla fara út, féll á kné og baðst fyrir. Síðan sneri hann sér að líkinu og sagði: 'Tabíþa, rís upp.' En hún opnaði augun, sá Pétur og settist upp. 9.41 Og hann rétti henni höndina og reisti hana á fætur, kallaði síðan á hina heilögu og ekkjurnar og leiddi hana fram lifandi. 9.42 Þetta varð hljóðbært um alla Joppe, og margir tóku trú á Drottin. 9.43 Var Pétur um kyrrt í Joppe allmarga daga hjá Símoni nokkrum sútara.
10.1 Maður nokkur var í Sesareu, Kornelíus að nafni, hundraðshöfðingi í ítölsku hersveitinni. 10.2 Hann var trúmaður og dýrkaði Guð og heimafólk hans allt. Gaf hann lýðnum miklar ölmusur og var jafnan á bæn til Guðs. 10.3 Dag einn um nón sá hann berlega í sýn engil Guðs koma inn til sín, er sagði við hann: 'Kornelíus!' 10.4 Hann starði á hann, varð óttasleginn og sagði: 'Hvað er það, herra?' Engillinn svaraði: 'Bænir þínar og ölmusur eru stignar upp til Guðs, og hann minnist þeirra. 10.5 Send þú nú menn til Joppe og lát sækja Símon nokkurn, er kallast Pétur. 10.6 Hann gistir hjá Símoni nokkrum sútara, sem á hús við sjóinn.' 10.7 Þegar engillinn, sem talaði við hann, var farinn, kallaði hann á tvo heimamenn sína og guðrækinn hermann, einn þeirra, er honum voru handgengnir, 10.8 sagði þeim frá öllu og sendi þá til Joppe. 10.9 Daginn eftir, er þeir voru á leiðinni og nálguðust bæinn, gekk Pétur upp á húsþakið um hádegi til að biðjast fyrir. 10.10 Kenndi hann þá hungurs og vildi matast. En meðan verið var að matreiða, varð hann frá sér numinn, 10.11 sá himininn opinn og hlut nokkurn koma niður, líkan stórum dúki. Var hann látinn síga til jarðar á fjórum skautum. 10.12 Þar voru á alls kyns ferfætt dýr, skriðdýr jarðar, svo og fuglar himins. 10.13 Og honum barst rödd: 'Slátra nú, Pétur, og et!' 10.14 Pétur sagði: 'Nei, Drottinn, engan veginn, aldrei hef ég etið neitt vanheilagt né óhreint.' 10.15 Aftur barst honum rödd: 'Eigi skalt þú kalla það vanheilagt, sem Guð hefur lýst hreint!' 10.16 Þetta gjörðist þrem sinnum, og jafnskjótt var hluturinn upp numinn til himins. 10.17 Meðan Pétur var að reyna að ráða í, hvað þessi sýn ætti að merkja, höfðu sendimenn Kornelíusar spurt uppi hús Símonar. Nú stóðu þeir fyrir dyrum úti 10.18 og kölluðu: 'Er Símon sá, er nefnist Pétur, gestur hér?' 10.19 Pétur var enn að hugsa um sýnina, þegar andinn sagði við hann: 'Menn eru að leita þín. 10.20 Flýt þér nú ofan og far hiklaust með þeim, því að ég hef sent þá.' 10.21 Pétur gekk þá niður til mannanna og sagði: 'Ég er sá sem þér leitið að. Hvers vegna eruð þér komnir hér?' 10.22 Þeir sögðu: 'Kornelíus hundraðshöfðingi, réttlátur maður og guðhræddur og orðsæll af allri Gyðinga þjóð, fékk bendingu frá heilögum engli að senda eftir þér og fá þig heim til sín og heyra, hvað þú hefðir að flytja.' 10.23 Þá bauð hann þeim inn og lét þá gista. Daginn eftir tók hann sig upp og fór með þeim og nokkrir bræður frá Joppe með honum. 10.24 Næsta dag komu þeir til Sesareu. Kornelíus bjóst við þeim og hafði boðið til sín frændum og virktavinum. 10.25 Þegar Pétur kom, fór Kornelíus á móti honum, féll til fóta honum og veitti honum lotningu. 10.26 Pétur reisti hann upp og sagði: 'Statt upp, ég er maður sem þú.' 10.27 Og hann ræddi við hann og gekk inn og fann þar marga menn saman komna. 10.28 Hann sagði við þá: 'Þér vitið, að Gyðingi er bannað að eiga samneyti við annarrar þjóðar mann eða koma til hans. En Guð hefur sýnt mér, að ég á engan að kalla vanheilagan eða óhreinan. 10.29 Fyrir því kom ég mótmælalaust, er eftir mér var sent. Nú spyr ég, hvers vegna þér senduð eftir mér.' 10.30 Kornelíus mælti: 'Í þetta mund fyrir fjórum dögum var ég að biðjast fyrir að nóni í húsi mínu. Þá stóð maður frammi fyrir mér í skínandi klæðum 10.31 og mælti: ,Kornelíus, bæn þín er heyrð, og Guð hefur minnst ölmusugjörða þinna. 10.32 Nú skalt þú senda til Joppe eftir Símoni, er kallast Pétur. Hann gistir í húsi Símonar sútara við sjóinn.` 10.33 Því sendi ég jafnskjótt til þín, og vel gjörðir þú að koma. Nú erum vér hér allir fyrir augsýn Guðs til að heyra allt, sem Drottinn hefur boðið þér.' 10.34 Þá tók Pétur til máls og sagði: 'Sannlega skil ég nú, að Guð fer ekki í manngreinarálit. 10.35 Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er. 10.36 Orðið, sem hann sendi börnum Ísraels, þá er hann flutti fagnaðarboðin um frið fyrir Jesú Krist, sem er Drottinn allra, þekkið þér. 10.37 Þér vitið, hvað gjörst hefur um alla Júdeu, en hófst í Galíleu eftir skírnina, sem Jóhannes prédikaði. 10.38 Það er sagan um Jesú frá Nasaret, hvernig Guð smurði hann heilögum anda og krafti. Hann gekk um, gjörði gott og græddi alla, sem af djöflinum voru undirokaðir, því Guð var með honum. 10.39 Vér erum vottar alls þess, er hann gjörði, bæði í landi Gyðinga og í Jerúsalem. Og hann hengdu þeir upp á tré og tóku af lífi. 10.40 En Guð uppvakti hann á þriðja degi og lét hann birtast, 10.41 ekki öllum lýðnum, heldur þeim vottum, sem Guð hafði áður kjörið, oss, sem átum og drukkum með honum, eftir að hann var risinn upp frá dauðum. 10.42 Og hann bauð oss að prédika fyrir lýðnum og vitna, að hann er sá dómari lifenda og dauðra, sem Guð hefur fyrirhugað. 10.43 Honum bera allir spámennirnir vitni, að sérhver, sem á hann trúir, fái fyrir hans nafn fyrirgefningu syndanna.' 10.44 Meðan Pétur var enn að mæla þessi orð, kom heilagur andi yfir alla þá, er orðið heyrðu. 10.45 Hinir trúuðu Gyðingar, sem komið höfðu með Pétri, urðu furðu lostnir, að heilögum anda, gjöf Guðs, skyldi einnig úthellt yfir heiðingjana, 10.46 því þeir heyrðu þá tala tungum og mikla Guð. 10.47 Þá mælti Pétur: 'Hver getur varnað þess, að þeir verði skírðir í vatni? Þeir hafa fengið heilagan anda sem vér.' 10.48 Og hann bauð, að þeir skyldu skírðir verða í nafni Jesú Krists. Síðan báðu þeir hann að standa við í nokkra daga.
11.1 En postularnir og bræðurnir í Júdeu heyrðu, að heiðingjarnir hefðu einnig tekið við orði Guðs. 11.2 Þegar Pétur kom upp til Jerúsalem, deildu umskurnarmennirnir á hann og sögðu: 11.3 'Þú hefur farið inn til óumskorinna manna og etið með þeim.' 11.4 En Pétur sagði þeim þá alla söguna frá rótum og mælti: 11.5 'Ég var að biðjast fyrir í borginni Joppe og sá, frá mér numinn, sýn, hlut nokkurn koma niður, eins og stór dúkur væri látinn síga á fjórum skautum frá himni, og hann kom til mín. 11.6 Ég starði á hann og hugði að og sá þá ferfætt dýr jarðar, villidýr, skriðdýr og fugla himins, 11.7 og ég heyrði rödd segja við mig: ,Slátra nú, Pétur, og et!` 11.8 En ég sagði: ,Nei, Drottinn, engan veginn, því að aldrei hefur neitt vanheilagt né óhreint komið mér í munn.` 11.9 Í annað sinn sagði rödd af himni: ,Eigi skalt þú kalla það vanheilagt, sem Guð hefur lýst hreint!` 11.10 Þetta gjörðist þrem sinnum, og aftur var allt dregið upp til himins. 11.11 Samstundis stóðu þrír menn við húsið, sem ég var í, sendir til mín frá Sesareu. 11.12 Og andinn sagði mér að fara með þeim hiklaust. Þessir sex bræður urðu mér einnig samferða, og vér gengum inn í hús mannsins. 11.13 Hann sagði oss, hvernig hann hefði séð engil standa í húsi sínu, er sagði: ,Send þú til Joppe og lát sækja Símon, er kallast Pétur. 11.14 Hann mun orð til þín mæla, og fyrir þau munt þú hólpinn verða og allt heimili þitt.` 11.15 En þegar ég var farinn að tala, kom heilagur andi yfir þá, eins og yfir oss í upphafi. 11.16 Ég minntist þá orða Drottins, er hann sagði: ,Jóhannes skírði með vatni, en þér skuluð skírðir verða með heilögum anda.` 11.17 Fyrst Guð gaf þeim nú sömu gjöf og oss, er vér tókum trú á Drottin Jesú Krist, hvernig var ég þá þess umkominn að standa gegn Guði?' 11.18 Þegar þeir heyrðu þetta, stilltust þeir, og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: 'Guð hefur þá einnig gefið heiðingjunum afturhvarf til lífs.' 11.19 Þeir, sem dreifst höfðu vegna ofsóknarinnar, sem varð út af Stefáni, fóru allt til Fönikíu, Kýpur og Antíokkíu. En Gyðingum einum fluttu þeir orðið. 11.20 Nokkrir þeirra voru frá Kýpur og Kýrene, og er þeir komu til Antíokkíu, tóku þeir einnig að tala til Grikkja og boða þeim fagnaðarerindið um Drottin Jesú. 11.21 Og hönd Drottins var með þeim, og mikill fjöldi tók trú og sneri sér til Drottins. 11.22 Og fregnin um þá barst til eyrna safnaðarins í Jerúsalem, og þeir sendu Barnabas til Antíokkíu. 11.23 Þegar hann kom og sá verk Guðs náðar, gladdist hann, og hann áminnti alla um að halda sér fast við Drottin af öllu hjarta. 11.24 Því hann var góður maður, fullur af heilögum anda og trú. Og mikill fjöldi manna gafst Drottni. 11.25 Þá fór hann til Tarsus að leita Sál uppi. 11.26 Þegar hann hafði fundið hann, fór hann með hann til Antíokkíu. Þeir voru síðan saman heilt ár í söfnuðinum og kenndu fjölda fólks. Í Antíokkíu voru lærisveinarnir fyrst kallaðir kristnir. 11.27 Á þessum dögum komu spámenn frá Jerúsalem til Antíokkíu. 11.28 Einn þeirra, Agabus að nafni, steig fram, og af gift andans sagði hann fyrir, að mikil hungursneyð mundi koma yfir alla heimsbyggðina. Kom það fram á dögum Kládíusar. 11.29 En lærisveinarnir samþykktu þá, að hver þeirra skyldi eftir efnum senda nokkuð til hjálpar bræðrunum, sem bjuggu í Júdeu. 11.30 Þetta gjörðu þeir og sendu það til öldunganna með þeim Barnabasi og Sál.
12.1 Um þessar mundir lét Heródes konungur leggja hendur á nokkra úr söfnuðinum og misþyrma þeim. 12.2 Hann lét höggva Jakob bróður Jóhannesar með sverði. 12.3 Og er hann sá, að Gyðingum líkaði vel, lét hann einnig taka Pétur. Þá voru dagar ósýrðu brauðanna. 12.4 Þegar hann hafði handtekið hann, lét hann setja hann í fangelsi og fól fjórum fjögurra hermanna varðflokkum að gæta hans. Ætlaði hann eftir páska að leiða hann fram fyrir lýðinn. 12.5 Sat nú Pétur í fangelsinu, en söfnuðurinn bað heitt til Guðs fyrir honum. 12.6 Nóttina áður en Heródes ætlaði að leiða hann fram svaf Pétur milli tveggja hermanna, bundinn tveim fjötrum, og varðmenn fyrir dyrum úti gættu fangelsisins. 12.7 Allt í einu stóð engill Drottins hjá honum og ljós skein í klefanum. Laust hann á síðu Pétri, vakti hann og mælti: 'Rís upp skjótt!' Og fjötrarnir féllu af höndum hans. 12.8 Þá sagði engillinn við hann: 'Gyrð þig og bind á þig skóna!' Hann gjörði svo. Síðan segir engillinn: 'Far þú í yfirhöfn þína og fylg mér!' 12.9 Hann gekk út og fylgdi honum. En ekki vissi hann, að það var raunverulegt, sem gjörst hafði við komu engilsins, hann hélt sig sjá sýn. 12.10 Þeir gengu nú fram hjá innri og ytri verðinum og komu að járnhliðinu, sem farið er um til borgarinnar. Laukst það upp af sjálfu sér fyrir þeim. Þeir fóru út um það og gengu eitt stræti, en þá hvarf engillinn allt í einu frá honum. 12.11 Þegar Pétur kom til sjálfs sín, sagði hann: 'Nú veit ég sannlega, að Drottinn hefur sent engil sinn og bjargað mér úr hendi Heródesar og frá allri ætlan Gyðingalýðs.' 12.12 Og er hann hafði áttað sig, gekk hann að húsi Maríu, móður Jóhannesar, er kallast Markús. Þar höfðu margir safnast saman og voru á bæn. 12.13 Hann knúði hurð fordyrisins, og stúlka að nafni Róde gekk til dyra. 12.14 Þegar hún þekkti málróm Péturs, gáði hún eigi fyrir fögnuði að ljúka upp fordyrinu, heldur hljóp inn og sagði, að Pétur stæði fyrir dyrum úti. 12.15 Þeir sögðu við hana: 'Þú ert frávita.' En hún stóð fast á því, að svo væri sem hún sagði. 'Það er þá engill hans,' sögðu þeir. 12.16 En Pétur hélt áfram að berja, og þegar þeir luku upp, sáu þeir hann og urðu furðu lostnir. 12.17 Hann benti þeim með hendinni að vera hljóðir, skýrði þeim frá, hvernig Drottinn hafði leitt hann út úr fangelsinu, og bað þá segja Jakobi og bræðrunum frá þessu. Síðan gekk hann út og fór í annan stað. 12.18 Þegar dagur rann, kom ekki lítið fát á hermennina út af því, hvað af Pétri væri orðið. 12.19 Heródes lét leita hans, en fann hann ekki. Hann lét þá yfirheyra varðmennina og bauð síðan að taka þá af lífi. Síðan fór hann úr Júdeu niður til Sesareu og sat þar um kyrrt. 12.20 Heródes hafði verið harla gramur Týrverjum og Sídóningum. Komu þeir saman á fund hans, fengu Blastus, stallara konungs, til fylgis við sig og báðust friðar, en land þeirra var háð landi konungs um vistaföng. 12.21 Á tilsettum degi klæddist Heródes konungsskrúða, settist í hásæti og flutti þeim ræðu. 12.22 En lýðurinn kallaði: 'Guðs rödd er þetta, en eigi manns.' 12.23 Jafnskjótt laust engill Drottins hann, sökum þess að hann gaf ekki Guði dýrðina. Hann varð ormétinn og dó. 12.24 En orð Guðs efldist og breiddist út. 12.25 Barnabas og Sál sneru aftur frá Jerúsalem að loknu erindi sínu og tóku með sér Jóhannes, öðru nafni Markús.
13.1 Í söfnuðinum í Antíokkíu voru spámenn og kennarar. Þar voru þeir Barnabas, Símeon, nefndur Níger, Lúkíus frá Kýrene, Manaen, samfóstri Heródesar fjórðungsstjóra, og Sál. 13.2 Eitt sinn er þeir voru að þjóna Drottni og föstuðu sagði heilagur andi: 'Skiljið frá mér til handa þá Barnabas og Sál til þess verks, sem ég hef kallað þá til.' 13.3 Síðan föstuðu þeir og báðust fyrir, lögðu hendur yfir þá og létu þá fara. 13.4 Þeir fóru nú, sendir af heilögum anda, til Selevkíu og sigldu þaðan til Kýpur. 13.5 Þegar þeir voru komnir til Salamis, boðuðu þeir orð Guðs í samkunduhúsum Gyðinga. Höfðu þeir og Jóhannes til aðstoðar. 13.6 Þeir fóru um alla eyna, allt til Pafos. Þar fundu þeir töframann nokkurn og falsspámann, Gyðing, er hét Barjesús. 13.7 Hann var hjá landstjóranum Sergíusi Páli, hyggnum manni, sem hafði boðað þá Barnabas og Sál á fund sinn og fýsti að heyra Guðs orð. 13.8 Gegn þeim stóð Elýmas, töframaðurinn, en svo er nafn hans útlagt. Reyndi hann að gjöra landstjórann fráhverfan trúnni. 13.9 En Sál, sem og er nefndur Páll, hvessti á hann augun og sagði, fylltur heilögum anda: 13.10 'Þú djöfuls sonur, fullur allra véla og flærðar, óvinur alls réttlætis, ætlar þú aldrei að hætta að rangsnúa réttum vegum Drottins? 13.11 Nú er hönd Drottins reidd gegn þér, og þú munt verða blindur og ekki sjá sól um tíma.' Jafnskjótt féll yfir hann þoka og myrkur, og hann reikaði um og leitaði einhvers til að leiða sig. 13.12 Þegar landstjórinn sá þennan atburð, varð hann gagntekinn af kenningu Drottins og tók trú. 13.13 Þeir Páll lögðu út frá Pafos og komu til Perge í Pamfýlíu, en Jóhannes skildi við þá og sneri aftur til Jerúsalem. 13.14 Sjálfir héldu þeir áfram frá Perge og komu til Antíokkíu í Pisidíu, gengu á hvíldardegi inn í samkunduhúsið og settust. 13.15 En eftir upplestur úr lögmálinu og spámönnunum sendu samkundustjórarnir til þeirra og sögðu: 'Bræður, ef þér hafið einhver hvatningarorð til fólksins, takið þá til máls.' 13.16 Þá stóð Páll upp, benti til hljóðs með hendinni og sagði: 'Ísraelsmenn og aðrir þér, sem óttist Guð, hlýðið á. 13.17 Guð lýðs þessa, Ísraels, útvaldi feður vora og hóf upp lýðinn í útlegðinni í Egyptalandi. Með upplyftum armi leiddi hann þá út þaðan. 13.18 Og um fjörutíu ára skeið fóstraði hann þá í eyðimörkinni. 13.19 Hann stökkti burt sjö þjóðum úr Kanaanslandi og gaf þeim land þeirra til eignar. 13.20 Svo stóð um fjögur hundruð og fimmtíu ára skeið. Eftir þetta gaf hann þeim dómara allt til Samúels spámanns. 13.21 Síðan báðu þeir um konung, og Guð gaf þeim Sál Kísson, mann af Benjamíns ætt. Hann ríkti í fjörutíu ár. 13.22 Þegar Guð hafði sett hann af, hóf hann Davíð til konungs yfir þeim. Um hann vitnaði hann: ,Ég hef fundið Davíð, son Ísaí, mann eftir mínu hjarta, er gjöra mun allan vilja minn.` 13.23 Af kyni hans sendi Guð Ísrael frelsara, Jesú, samkvæmt fyrirheiti. 13.24 En áður en hann kom fram, boðaði Jóhannes öllum Ísraelslýð iðrunarskírn. 13.25 Þegar Jóhannes var að enda skeið sitt, sagði hann: ,Hvern hyggið þér mig vera? Ekki er ég hann. Annar kemur eftir mig, og er ég eigi verður þess að leysa skó af fótum honum.` 13.26 Bræður, niðjar Abrahams, og aðrir yðar á meðal, sem óttist Guð, oss er sent orð þessa hjálpræðis. 13.27 Þeir, sem í Jerúsalem búa, og höfðingjar þeirra þekktu hann eigi né skildu orð spámannanna, sem upp eru lesin hvern hvíldardag, en uppfylltu þau með því að dæma hann. 13.28 Þótt þeir fyndu enga dauðasök hjá honum, báðu þeir Pílatus að láta lífláta hann. 13.29 En er þeir höfðu fullnað allt, sem um hann var ritað, tóku þeir hann ofan af krossinum og lögðu í gröf. 13.30 En Guð vakti hann frá dauðum. 13.31 Marga daga birtist hann þeim, sem með honum fóru frá Galíleu upp til Jerúsalem, og eru þeir nú vottar hans hjá fólkinu. 13.32 Og vér flytjum yður þau gleðiboð, 13.33 að fyrirheitið, sem Guð gaf feðrum vorum, hefur hann efnt við oss börn þeirra með því að reisa Jesú upp. Svo er ritað í öðrum sálminum: Þú ert sonur minn, í dag hef ég fætt þig. 13.34 En um það, að hann reisti hann frá dauðum, svo að hann hverfur aldrei aftur í greipar dauðans, hefur hann talað þannig: Yður mun ég veita heilögu, óbrigðulu fyrirheitin, sem Davíð voru gefin. 13.35 Á öðrum stað segir: Eigi munt þú láta þinn heilaga verða rotnun að bráð. 13.36 Davíð þjónaði sinni kynslóð að Guðs ráði. Síðan sofnaði hann, safnaðist til feðra sinna og varð rotnun að bráð. 13.37 En sá, sem Guð uppvakti, varð ekki rotnun að bráð. 13.38 Það skuluð þér því vita, bræður, að yður er fyrir hann boðuð fyrirgefning syndanna 13.39 og að sérhver, er trúir, réttlætist í honum af öllu því, er lögmál Móse gat ekki réttlætt yður af. 13.40 Gætið nú þess, að eigi komi það yfir yður, sem sagt er hjá spámönnunum: 13.41 Sjáið, þér spottarar, undrist, og verðið að engu, því að verk vinn ég á dögum yðar, verk, sem þér alls ekki munduð trúa, þótt einhver segði yður frá því.' 13.42 Þegar þeir gengu út, báðu menn um, að mál þetta yrði rætt við þá aftur næsta hvíldardag. 13.43 Og er samkomunni var slitið, fylgdu margir Gyðingar og guðræknir menn, sem tekið höfðu trú Gyðinga, þeim Páli og Barnabasi. En þeir töluðu við þá og brýndu fyrir þeim að halda sér fast við náð Guðs. 13.44 Næsta hvíldardag komu nálega allir bæjarmenn saman til að heyra orð Drottins. 13.45 En er Gyðingar litu mannfjöldann, fylltust þeir ofstæki og mæltu gegn orðum Páls með guðlasti. 13.46 Páll og Barnabas svöruðu þá einarðlega: 'Svo hlaut að vera, að orð Guðs væri fyrst flutt yður. Þar sem þér nú vísið því á bug og metið sjálfa yður ekki verða eilífs lífs, þá snúum vér oss nú til heiðingjanna. 13.47 Því að svo hefur Drottinn boðið oss: Ég hef sett þig til að vera ljós heiðinna þjóða, að þú sért hjálpræði allt til endimarka jarðar.' 13.48 En er heiðingjar heyrðu þetta, glöddust þeir og vegsömuðu orð Guðs, og allir þeir, sem ætlaðir voru til eilífs lífs, tóku trú. 13.49 Og orð Drottins breiddist út um allt héraðið. 13.50 En Gyðingar æstu upp guðræknar hefðarkonur og fyrirmenn borgarinnar og vöktu ofsókn gegn Páli og Barnabasi og ráku þá burt úr byggðum sínum. 13.51 En þeir hristu dustið af fótum sér móti þeim og fóru til Íkóníum. 13.52 En lærisveinarnir voru fylltir fögnuði og heilögum anda.
14.1 Í Íkóníum gengu þeir á sama hátt inn í samkundu Gyðinga og töluðu þannig, að mikill fjöldi Gyðinga og Grikkja tók trú. 14.2 En vantrúa Gyðingar vöktu æsing með heiðingjum og illan hug gegn bræðrunum. 14.3 Dvöldust þeir þar alllangan tíma og töluðu djarflega í trausti til Drottins, sem staðfesti orð náðar sinnar með því að láta tákn og undur gerast fyrir hendur þeirra. 14.4 Skiptust nú borgarbúar í tvo flokka, og voru sumir með Gyðingum, aðrir með postulunum. 14.5 Heiðingjar og Gyðingar gjörðu ásamt yfirvöldum sínum samblástur um að misþyrma þeim og grýta þá. 14.6 Þeir komust að þessu og flýðu til borganna Lýstru og Derbe í Lýkaóníu og héraðsins umhverfis. 14.7 Þar héldu þeir áfram að flytja fagnaðarerindið. 14.8 Í Lýstru var maður nokkur máttvana í fótum, lami frá móðurlífi, og hafði aldrei getað gengið. 14.9 Maður þessi heyrði á mál Páls, en Páll horfði á hann og sá, að hann hafði trú til þess að verða heill, 14.10 og sagði hárri raustu: 'Rís upp og stattu í fæturna!' Hann spratt upp og tók að ganga. 14.11 Múgurinn sá, hvað Páll hafði gjört, og tók að hrópa á lýkaónsku: 'Guðirnir eru í manna líki stignir niður til vor.' 14.12 Kölluðu þeir Barnabas Seif, en Pál Hermes, því að hann hafði orð fyrir þeim. 14.13 En prestur í hofi Seifs utan borgar kom með naut og kransa að borgarhliðunum og vildi færa fórnir ásamt fólkinu. 14.14 Þegar postularnir, Barnabas og Páll, heyrðu þetta, rifu þeir klæði sín, stukku inn í mannþröngina og hrópuðu: 14.15 'Menn, hví gjörið þér þetta? Menn erum vér sem þér, yðar líkar, og flytjum yður þau fagnaðarboð, að þér skuluð hverfa frá þessum fánýtu goðum til lifanda Guðs, sem skapaði himin, jörð og haf og allt, sem í þeim er. 14.16 Hann hefur um liðnar aldir leyft, að sérhver þjóð gengi sína vegu. 14.17 En þó hefur hann vitnað um sjálfan sig með velgjörðum sínum. Hann hefur gefið yður regn af himni og uppskerutíðir. Hann hefur veitt yður fæðu og fyllt hjörtu yðar gleði.' 14.18 Með þessum orðum fengu þeir með naumindum fólkið ofan af því að færa þeim fórnir. 14.19 Þá komu Gyðingar frá Antíokkíu og Íkóníum. Töldu þeir fólkið á sitt mál, og menn grýttu Pál, drógu hann út úr borginni og hugðu hann dáinn. 14.20 En lærisveinarnir slógu hring um hann, og reis hann þá upp og gekk inn í borgina. Daginn eftir fór hann þaðan með Barnabasi til Derbe. 14.21 Þegar þeir höfðu boðað fagnaðarerindið í þeirri borg og gjört marga að lærisveinum, sneru þeir aftur til Lýstru, Íkóníum og Antíokkíu, 14.22 styrktu lærisveinana og hvöttu þá til að vera staðfastir í trúnni. Þeir sögðu: 'Vér verðum að ganga inn í Guðs ríki gegnum margar þrengingar.' 14.23 Þeir völdu þeim öldunga í hverjum söfnuði, fólu þá síðan með föstum og bænahaldi Drottni, sem þeir höfðu fest trú á. 14.24 Þá fóru þeir um Pisidíu og komu til Pamfýlíu. 14.25 Þeir fluttu orðið í Perge, fóru til Attalíu 14.26 og sigldu þaðan til Antíokkíu, en þar höfðu þeir verið faldir náð Guðs til þess verks, sem þeir höfðu nú fullnað. 14.27 Þegar þeir voru þangað komnir, stefndu þeir saman söfnuðinum og greindu frá, hversu mikið Guð hafði látið þá gjöra og að hann hefði upp lokið dyrum trúarinnar fyrir heiðingjum. 14.28 Dvöldust þeir nú alllengi hjá lærisveinunum.
15.1 Þá komu menn sunnan frá Júdeu og kenndu bræðrunum svo: 'Eigi getið þér hólpnir orðið, nema þér látið umskerast að sið Móse.' 15.2 Varð mikil misklíð og þræta milli þeirra og Páls og Barnabasar, og réðu menn af, að Páll og Barnabas og nokkrir þeirra aðrir færu á fund postulanna og öldunganna upp til Jerúsalem vegna þessa ágreinings. 15.3 Söfnuðurinn bjó síðan ferð þeirra, og fóru þeir um Fönikíu og Samaríu og sögðu frá afturhvarfi heiðingjanna og vöktu mikinn fögnuð meðal allra bræðranna. 15.4 Þegar þeir komu til Jerúsalem, tók söfnuðurinn á móti þeim og postularnir og öldungarnir, og skýrðu þeir frá, hversu mikið Guð hefði látið þá gjöra. 15.5 Þá risu upp nokkrir úr flokki farísea, er trú höfðu tekið, og sögðu: 'Þá ber að umskera og bjóða þeim að halda lögmál Móse.' 15.6 Postularnir og öldungarnir komu nú saman til að líta á þetta mál. 15.7 Eftir mikla umræðu reis Pétur upp og sagði við þá: 'Bræður, þér vitið, að Guð kaus sér það fyrir löngu yðar á meðal, að heiðingjarnir skyldu fyrir munn minn heyra orð fagnaðarerindisins og taka trú. 15.8 Og Guð, sem hjörtun þekkir, bar þeim vitni, er hann gaf þeim heilagan anda eins og oss. 15.9 Engan mun gjörði hann á oss og þeim, er hann hreinsaði hjörtu þeirra með trúnni. 15.10 Hví freistið þér nú Guðs með því að leggja ok á háls lærisveinanna, er hvorki feður vorir né vér megnuðum að bera? 15.11 Vér trúum þó því, að vér verðum hólpnir fyrir náð Drottins Jesú á sama hátt og þeir.' 15.12 Þá sló þögn á allan hópinn, og menn hlýddu á Barnabas og Pál, er þeir sögðu frá, hve mörg tákn og undur Guð hafði látið þá gjöra meðal heiðingjanna. 15.13 Þegar þeir höfðu lokið máli sínu, sagði Jakob: 'Bræður, hlýðið á mig. 15.14 Símon hefur skýrt frá, hvernig Guð sá til þess í fyrstu, að hann eignaðist lýð meðal heiðinna þjóða, er bæri nafn hans. 15.15 Í samræmi við þetta eru orð spámannanna, svo sem ritað er: 15.16 Eftir þetta mun ég aftur koma og endurreisa hina föllnu tjaldbúð Davíðs. Ég mun reisa hana úr rústum og gjöra hana upp aftur, 15.17 svo að mennirnir, sem eftir eru, leiti Drottins, allir heiðingjarnir, sem nafn mitt hefur verið nefnt yfir, segir Drottinn, sem gjörir þetta 15.18 kunnugt frá eilífð. 15.19 Ég lít því svo á, að eigi skuli íþyngja heiðingjum þeim, er snúa sér til Guðs, 15.20 heldur rita þeim, að þeir haldi sér frá öllu, sem flekkað er af skurðgoðum, frá saurlifnaði, frá kjöti af köfnuðum dýrum og frá blóði. 15.21 Frá fornu fari hafa menn prédikað Móse í öllum borgum. Hann er lesinn upp í samkundunum hvern hvíldardag.' 15.22 Postularnir og öldungarnir, ásamt öllum söfnuðinum, samþykktu þá að kjósa menn úr sínum hópi og senda með Páli og Barnabasi til Antíokkíu þá Júdas, er kallaður var Barsabbas, og Sílas, forystumenn meðal bræðranna. 15.23 Þeir rituðu með þeim: 'Postularnir og öldungarnir, bræður yðar, senda bræðrunum í Antíokkíu, Sýrlandi og Kilikíu, er áður voru heiðnir, kveðju sína. 15.24 Vér höfum heyrt, að nokkrir frá oss hafi óróað yður með orðum sínum og komið róti á hugi yðar, án þess vér hefðum þeim neitt um boðið. 15.25 Því höfum vér einróma ályktað að kjósa menn og senda til yðar með vorum elskuðu Barnabasi og Páli, 15.26 mönnum, er lagt hafa líf sitt í hættu vegna nafns Drottins vors Jesú Krists. 15.27 Vér sendum því Júdas og Sílas, og boða þeir yður munnlega hið sama. 15.28 Það er ályktun heilags anda og vor að leggja ekki frekari byrðar á yður en þetta, sem nauðsynlegt er, 15.29 að þér haldið yður frá kjöti fórnuðu skurðgoðum, blóði, kjöti af köfnuðum dýrum og saurlifnaði. Ef þér varist þetta, gjörið þér vel. Verið sælir.' 15.30 Þeir voru nú sendir af stað og komu norður til Antíokkíu, kölluðu saman söfnuðinn og skiluðu bréfinu. 15.31 En er menn lásu það, urðu þeir glaðir yfir þessari uppörvun. 15.32 Júdas og Sílas, sem sjálfir voru spámenn, hvöttu bræðurna með mörgum orðum og styrktu þá. 15.33 Þegar þeir höfðu dvalist þar um hríð, kvöddu þeir bræðurna og báðu þeim friðar og héldu aftur til þeirra, sem höfðu sent þá. 15.34 --- 15.35 En Páll og Barnabas héldu kyrru fyrir í Antíokkíu, kenndu og boðuðu ásamt mörgum öðrum orð Drottins. 15.36 Eftir nokkra daga sagði Páll við Barnabas: 'Förum nú aftur og vitjum bræðranna í hverri borg, þar sem vér höfum boðað orð Drottins, og sjáum, hvað þeim líður.' 15.37 Barnabas vildi þá líka taka með Jóhannes, er kallaður var Markús. 15.38 En Páli þótti eigi rétt að taka með þann mann, er skilið hafði við þá í Pamfýlíu og ekki gengið að verki með þeim. 15.39 Varð þeim mjög sundurorða, og skildi þar með þeim. Tók Barnabas Markús með sér og sigldi til Kýpur. 15.40 En Páll kaus sér Sílas og fór af stað, og fólu bræðurnir hann náð Drottins. 15.41 Fór hann um Sýrland og Kilikíu og styrkti söfnuðina.
16.1 Hann kom til Derbe og Lýstru. Þar var lærisveinn nokkur, Tímóteus að nafni, sonur trúaðrar konu af Gyðinga ætt, en faðir hans var grískur. 16.2 Bræðurnir í Lýstru og Íkóníum báru honum gott orð. 16.3 Páll vildi hafa hann með sér og umskar hann sökum Gyðinga, er voru í þeim byggðum, því að allir vissu þeir, að faðir hans var grískur. 16.4 Þeir fóru nú um borgirnar, fluttu mönnum þær ályktanir, sem postularnir og öldungarnir í Jerúsalem höfðu samþykkt, og buðu að varðveita þær. 16.5 En söfnuðirnir styrktust í trúnni og urðu fjölmennari dag frá degi. 16.6 Þeir fóru um Frýgíu og Galataland, því heilagur andi varnaði þeim að boða orðið í Asíu. 16.7 Og sem þeir voru komnir að Mýsíu, reyndu þeir að fara til Biþýníu, en andi Jesú leyfði það eigi. 16.8 Þeir fóru þá um Mýsíu og komu niður til Tróas. 16.9 Um nóttina birtist Páli sýn: Maður nokkur makedónskur stóð hjá honum og bað hann: 'Kom yfir til Makedóníu og hjálpa oss!' 16.10 En jafnskjótt og hann hafði séð þessa sýn, leituðum vér færis að komast til Makedóníu, þar sem vér skildum, að Guð hafði kallað oss til þess að flytja þeim fagnaðarerindið. 16.11 Nú lögðum vér út frá Tróas og sigldum beint til Samóþrake, en næsta dag til Neapólis 16.12 og þaðan til Filippí. Hún er helsta borg í þessum hluta Makedóníu, rómversk nýlenda. Í þeirri borg dvöldumst vér nokkra daga. 16.13 Hvíldardaginn gengum vér út fyrir hliðið að á einni, en þar hugðum vér vera bænastað. Settumst vér niður og töluðum við konurnar, sem voru þar saman komnar. 16.14 Kona nokkur guðrækin úr Þýatíruborg, Lýdía að nafni, er verslaði með purpura, hlýddi á. Opnaði Drottinn hjarta hennar, og hún tók við því, sem Páll sagði. 16.15 Hún var skírð og heimili hennar og hún bað oss: 'Gangið inn í hús mitt og dveljist þar, fyrst þér teljið mig trúa á Drottin.' Þessu fylgdi hún fast fram. 16.16 Eitt sinn, er vér gengum til bænastaðarins, mætti oss ambátt nokkur, sem hafði spásagnaranda og aflaði húsbændum sínum mikils gróða með því að spá. 16.17 Hún elti Pál og oss og hrópaði: 'Menn þessir eru þjónar Guðs hins hæsta, og boða þeir yður veg til hjálpræðis!' 16.18 Þetta gjörði hún dögum saman. Páli féll það illa. Loks sneri hann sér við og sagði við andann: 'Ég býð þér í nafni Jesú Krists að fara út af henni.' Og hann fór út á samri stundu. 16.19 Nú sem húsbændur hennar sáu, að þar fór ábatavon þeirra, gripu þeir Pál og Sílas og drógu þá á torgið fyrir valdsmennina. 16.20 Þeir færðu þá til höfuðsmannanna og sögðu: 'Menn þessir gjöra mestu óspektir í borg vorri. Þeir eru Gyðingar 16.21 og boða siði, sem oss, rómverskum mönnum, leyfist hvorki að þýðast né fylgja.' 16.22 Múgurinn réðst og gegn þeim, og höfuðsmennirnir létu fletta þá klæðum og skipuðu að húðstrýkja þá. 16.23 Og er þeir höfðu lostið þá mörg högg, vörpuðu þeir þeim í fangelsi og buðu fangaverðinum að gæta þeirra vandlega. 16.24 Þegar hann hafði fengið slíka skipun, varpaði hann þeim í innsta fangelsið og felldi stokk á fætur þeim. 16.25 Um miðnætti báðust þeir Páll og Sílas fyrir og lofsungu Guði, en bandingjarnir hlustuðu á þá. 16.26 Þá varð skyndilega landskjálfti mikill, svo að grunnur fangelsisins riðaði. Jafnskjótt opnuðust allar dyr, og fjötrarnir féllu af öllum. 16.27 Fangavörðurinn vaknaði við, og er hann sá fangelsisdyrnar opnar, dró hann sverð sitt og vildi fyrirfara sér, þar eð hann hugði fangana flúna. 16.28 Þá kallaði Páll hárri raustu: 'Gjör þú sjálfum þér ekkert mein, vér erum hér allir!' 16.29 En hann bað um ljós, stökk inn og féll óttasleginn til fóta Páli og Sílasi. 16.30 Síðan leiddi hann þá út og sagði: 'Herrar mínir, hvað á ég að gjöra til að verða hólpinn?' 16.31 En þeir sögðu: 'Trú þú á Drottin Jesú, og þú munt verða hólpinn og heimili þitt.' 16.32 Og þeir fluttu honum orð Drottins og öllum á heimili hans. 16.33 Á þessari sömu næturstund tók hann þá með sér og laugaði meiðsli þeirra eftir höggin, og var hann þegar skírður og allt hans fólk. 16.34 Síðan fór hann með þá upp í hús sitt, bar þeim mat, og var hann og allt heimafólk hans fagnandi yfir því að hafa tekið trú á Guð. 16.35 Þegar dagur rann, sendu höfuðsmennirnir vandsveina og sögðu: 'Lát þú menn þessa lausa.' 16.36 Fangavörðurinn flutti Páli þessi orð: 'Höfuðsmennirnir hafa sent boð um, að þið skuluð látnir lausir. Gangið nú út og farið í friði.' 16.37 En Páll sagði við þá: 'Þeir hafa opinberlega látið húðstrýkja okkur, rómverska menn, án dóms og laga og varpa í fangelsi, og nú ætla þeir leynilega að hleypa okkur út. Ég held nú síður. Þeir skulu koma sjálfir og leiða okkur út.' 16.38 Vandsveinarnir fluttu höfuðsmönnunum þessi orð. En þeir urðu hræddir, er þeir heyrðu, að þeir væru rómverskir, 16.39 og komu og friðmæltust við þá, leiddu þá út og báðu þá að fara burt úr borginni. 16.40 Þegar þeir voru komnir út úr fangelsinu, fóru þeir heim til Lýdíu, fundu bræðurna og hughreystu þá. Síðan héldu þeir af stað.
17.1 Þeir fóru nú um Amfípólis og Apollóníu og komu til Þessaloníku. Þar áttu Gyðingar samkundu. 17.2 Eftir venju sinni gekk Páll inn til þeirra, og þrjá hvíldardaga ræddi hann við þá og lagði út af ritningunum, 17.3 lauk þeim upp fyrir þeim og setti þeim fyrir sjónir, að Kristur átti að líða og rísa upp frá dauðum. Hann sagði: 'Jesús, sem ég boða yður, hann er Kristur.' 17.4 Nokkrir þeirra létu sannfærast og gengu til fylgis við Pál og Sílas, auk þess mikill fjöldi guðrækinna Grikkja og mikilsháttar konur eigi allfáar. 17.5 En Gyðingar fylltust afbrýði og fengu með sér götuskríl, æstu til uppþota og hleyptu borginni í uppnám. Þustu þeir að húsi Jasonar og vildu færa þá fyrir lýðinn. 17.6 En þegar þeir fundu þá ekki, drógu þeir Jason og nokkra bræður fyrir borgarstjórana og hrópuðu: 'Mennirnir, sem komið hafa allri heimsbyggðinni í uppnám, þeir eru nú komnir hingað, 17.7 og Jason hefur tekið á móti þeim. Allir þessir breyta gegn boðum keisarans, því þeir segja, að annar sé konungur og það sé Jesús.' 17.8 Og þeir vöktu óhug með fólkinu og einnig borgarstjórunum með þessum orðum. 17.9 Slepptu þeir ekki þeim Jasoni fyrr en þeir höfðu látið þá setja tryggingu. 17.10 En bræðurnir sendu þá Pál og Sílas þegar um nóttina til Beroju. Þegar þeir komu þangað, gengu þeir inn í samkunduhús Gyðinga. 17.11 Þeir voru veglyndari þar en í Þessaloníku. Þeir tóku við orðinu með allri góðfýsi og rannsökuðu daglega ritningarnar, hvort þessu væri þannig farið. 17.12 Margir þeirra tóku trú og einnig Grikkir ekki allfáir, tignar konur og karlar. 17.13 En er Gyðingar í Þessaloníku fréttu, að Páll hefði einnig boðað orð Guðs í Beroju, komu þeir og hleyptu líka ólgu og æsingu í múginn þar. 17.14 Þá sendu bræðurnir jafnskjótt með Pál af stað til sjávar, en Sílas og Tímóteus urðu eftir. 17.15 Leiðsögumenn Páls fylgdu honum allt til Aþenu og sneru aftur með boð til Sílasar og Tímóteusar að koma hið bráðasta til hans. 17.16 Meðan Páll beið þeirra í Aþenu, var honum mikil skapraun að sjá, að borgin var full af skurðgoðum. 17.17 Hann ræddi þá í samkundunni við Gyðinga og guðrækna menn, og hvern dag á torginu við þá, sem urðu á vegi hans. 17.18 En nokkrir heimspekingar, Epíkúringar og Stóumenn, áttu og í orðakasti við hann. Sögðu sumir: 'Hvað mun skraffinnur sá hafa að flytja?' Aðrir sögðu: 'Hann virðist boða ókennda guði,' _ því að hann flutti fagnaðarerindið um Jesú og upprisuna. 17.19 Og þeir tóku hann og fóru með hann á Aresarhæð og sögðu: 'Getum vér fengið að vita, hver þessi nýja kenning er, sem þú ferð með? 17.20 Því að eitthvað nýstárlegt flytur þú oss til eyrna, og oss fýsir að vita, hvað þetta er.' 17.21 En allir Aþeningar og aðkomumenn þar gáfu sér ekki tóm til annars fremur en að segja eða heyra einhver nýmæli. 17.22 Þá sté Páll fram á miðri Aresarhæð og tók til máls: 'Aþeningar, þér komið mér svo fyrir sjónir, að þér séuð í öllum greinum miklir trúmenn, 17.23 því að ég gekk hér um og hugði að helgidómum yðar og fann þá meðal annars altari, sem á er ritað: ,Ókunnum guði`. Þetta, sem þér nú dýrkið og þekkið ekki, það boða ég yður. 17.24 Guð, sem skóp heiminn og allt, sem í honum er, hann, sem er herra himins og jarðar, býr ekki í musterum, sem með höndum eru gjörð. 17.25 Ekki verður honum heldur þjónað með höndum manna, eins og hann þyrfti nokkurs við, þar sem hann sjálfur gefur öllum líf og anda og alla hluti. 17.26 Hann skóp og af einum allar þjóðir manna og lét þær byggja allt yfirborð jarðar, er hann hafði ákveðið setta tíma og mörk bólstaða þeirra. 17.27 Hann vildi, að þær leituðu Guðs, ef verða mætti þær þreifuðu sig til hans og fyndu hann. En eigi er hann langt frá neinum af oss. 17.28 Í honum lifum, hrærumst og erum vér. Svo hafa og sum skáld yðar sagt: ,Því að vér erum líka hans ættar.` 17.29 Fyrst vér erum nú Guðs ættar, megum vér eigi ætla, að guðdómurinn sé líkur smíði af gulli, silfri eða steini, gjörðri með hagleik og hugviti manna. 17.30 Guð, sem hefur umborið tíðir vanviskunnar, boðar nú mönnunum, að þeir skuli allir hvarvetna taka sinnaskiptum, 17.31 því að hann hefur sett dag, er hann mun láta mann, sem hann hefur fyrirhugað, dæma heimsbyggðina með réttvísi. Þetta hefur hann sannað öllum mönnum með því að reisa hann frá dauðum.' 17.32 Þegar þeir heyrðu nefnda upprisu dauðra, gjörðu sumir gys að, en aðrir sögðu: 'Vér munum hlusta á þetta hjá þér öðru sinni.' 17.33 Þannig skildi Páll við þá. 17.34 En nokkrir menn slógust í fylgd hans. Þeir tóku trú. Meðal þeirra var Díónýsíus, einn úr Areopagus-dóminum, og kona nokkur, Damaris að nafni, og aðrir fleiri.
18.1 Eftir þetta fór Páll frá Aþenu og kom til Korintu. 18.2 Þar hitti hann Gyðing nokkurn, Akvílas að nafni, ættaðan frá Pontus, nýkominn frá Ítalíu, og Priskillu konu hans, en Kládíus hafði skipað svo fyrir, að allir Gyðingar skyldu fara burt úr Róm. Páll fór til þeirra, 18.3 og af því hann stundaði sömu iðn, settist hann að hjá þeim og vann með þeim. Þeir voru tjaldgjörðarmenn að iðn. 18.4 Hann ræddi við menn í samkunduhúsinu hvern hvíldardag og reyndi að sannfæra bæði Gyðinga og Grikki. 18.5 Þegar þeir Sílas og Tímóteus komu norðan frá Makedóníu, gaf Páll sig allan að boðun orðsins og vitnaði fyrir Gyðingum, að Jesús væri Kristur. 18.6 En er þeir stóðu í gegn og lastmæltu, hristi hann dustið af klæðum sínum og sagði við þá: 'Blóð yðar komi yfir höfuð yðar. Ekki er mér um að kenna. Upp frá þessu fer ég til heiðingjanna.' 18.7 Og hann fór þaðan og kom í hús manns nokkurs, er hét Títus Jústus og dýrkaði Guð. Hús hans var hjá samkunduhúsinu. 18.8 Krispus samkundustjóri tók trú á Drottin og allt heimili hans, og margir Korintumenn, sem á hlýddu, tóku trú og létu skírast. 18.9 En Drottinn sagði við Pál um nótt í sýn: 'Óttast þú eigi, heldur tala þú og þagna ekki, 18.10 ég er með þér. Enginn skal ráðast að þér og vinna þér mein, því að ég á margt fólk í þessari borg.' 18.11 Hann var þar um kyrrt þrjú misseri og kenndi þeim orð Guðs. 18.12 En þegar Gallíón var landstjóri í Akkeu, bundust Gyðingar samtökum gegn Páli, drógu hann fyrir dómstólinn 18.13 og sögðu: 'Maður þessi tælir menn til að dýrka Guð gagnstætt lögmálinu.' 18.14 Páll bjóst til að svara, og þá sagði Gallíón við Gyðingana: 'Væri hér um einhver lögbrot eða illvirki að ræða, bæri mér að sinna yður, Gyðingar. 18.15 En fyrst það eru þrætur um orð og nöfn og lögmál yðar, þá ráðið sjálfir fram úr því. Dómari í þeim sökum vil ég ekki vera.' 18.16 Og hann rak þá burt frá dómstólnum. 18.17 Þá tóku þeir allir Sósþenes samkundustjóra og fóru að berja hann fyrir framan dómstólinn, og lét Gallíón sig það engu skipta. 18.18 Páll var þar enn um kyrrt allmarga daga, kvaddi síðan bræðurna og sigldi til Sýrlands og með honum Priskilla og Akvílas. Lét hann áður skera hár sitt í Kenkreu, því að heit hafði hvílt á honum. 18.19 Þeir komu til Efesus. Þar skildi hann við þá, en gekk sjálfur inn í samkunduhúsið og ræddi við Gyðinga. 18.20 Þeir báðu hann að standa lengur við, en hann varð ekki við því, 18.21 heldur kvaddi þá og sagði: 'Ég skal koma aftur til yðar, ef Guð lofar.' Síðan lét hann í haf frá Efesus, 18.22 lenti í Sesareu, fór upp eftir til Jerúsalem og heilsaði söfnuðinum. Síðan hélt hann norður til Antíokkíu. 18.23 Þegar hann hafði dvalist þar um hríð, hélt hann af stað og fór eins og leið liggur um Galataland og Frýgíu og styrkti alla lærisveinana. 18.24 En Gyðingur nokkur, Apollós að nafni, ættaður frá Alexandríu, kom til Efesus. Hann var maður vel máli farinn og fær í ritningunum. 18.25 Hann hafði verið fræddur um veg Drottins, og brennandi í andanum talaði hann og kenndi kostgæfilega um Jesú. Þó þekkti hann aðeins skírn Jóhannesar. 18.26 Þessi maður tók nú að tala djarflega í samkunduhúsinu. Priskilla og Akvílas heyrðu til hans, tóku hann að sér og skýrðu nánar fyrir honum Guðs veg. 18.27 Hann fýsti að fara yfir til Akkeu. Bræðurnir hvöttu hann til þess og rituðu lærisveinunum þar að taka honum vel. Hann kom þangað og varð til mikillar hjálpar þeim, sem fyrir Guðs náð höfðu tekið trú, 18.28 því hann hrakti skarplega rök Gyðinga í allra áheyrn og sannaði af ritningunum, að Jesús væri Kristur.
19.1 Meðan Apollós var í Korintu, fór Páll um upplöndin og kom til Efesus. Þar hitti hann fyrir nokkra lærisveina. 19.2 Hann sagði við þá: 'Fenguð þér heilagan anda, er þér tókuð trú?' Þeir svöruðu: 'Nei, vér höfum ekki einu sinni heyrt, að heilagur andi sé til.' 19.3 Hann sagði: 'Upp á hvað eruð þér þá skírðir?' Þeir sögðu: 'Skírn Jóhannesar.' 19.4 Þá mælti Páll: 'Jóhannes skírði iðrunarskírn og sagði lýðnum að trúa á þann, sem eftir sig kæmi, það er á Jesú.' 19.5 Þegar þeir heyrðu þetta, létu þeir skírast til nafns Drottins Jesú. 19.6 Er Páll hafði lagt hendur yfir þá, kom heilagur andi yfir þá, og þeir töluðu tungum og spáðu. 19.7 Þessir menn voru alls um tólf. 19.8 Páll sótti nú samkunduna í þrjá mánuði og talaði þar djarflega og reyndi að sannfæra menn um Guðs ríki. 19.9 En nokkrir brynjuðu sig og vildu ekki trúa. Þegar þeir tóku að illmæla veginum í áheyrn fólksins, sagði Páll skilið við þá, greindi lærisveinana frá þeim, og síðan talaði hann daglega í skóla Týrannusar. 19.10 Þessu fór fram í tvö ár, svo að allir þeir, sem í Asíu bjuggu, heyrðu orð Drottins, bæði Gyðingar og Grikkir. 19.11 Guð gjörði óvenjuleg kraftaverk fyrir hendur Páls. 19.12 Það bar við, að menn lögðu dúka og flíkur af Páli á sjúka, og hurfu þá veikindi þeirra, og illir andar fóru út af þeim. 19.13 En nokkrir Gyðingar, er fóru um og frömdu andasæringar, tóku og fyrir að nefna nafn Drottins Jesú yfir þeim, er höfðu illa anda. Þeir sögðu: 'Ég særi yður við Jesú þann, sem Páll prédikar.' 19.14 Þeir er þetta frömdu, voru sjö synir Gyðings nokkurs, Skeva æðsta prests. 19.15 En illi andinn sagði við þá: 'Jesú þekki ég, og Pál kannast ég við, en hverjir eruð þér?' 19.16 Og maðurinn, sem illi andinn var í, flaug á þá, keyrði þá alla undir sig og lék þá svo hart, að þeir flýðu naktir og særðir úr húsinu. 19.17 Þetta varð kunnugt öllum Efesusbúum, bæði Gyðingum og Grikkjum, og ótta sló á þá alla, og nafn Drottins Jesú varð miklað. 19.18 Margir þeirra, sem trú höfðu tekið, komu, gjörðu játningu og sögðu frá athæfi sínu. 19.19 Og allmargir er farið höfðu með kukl, komu með bækur sínar og brenndu þær að öllum ásjáandi. Þær voru samtals virtar á fimmtíu þúsundir silfurpeninga. 19.20 Þannig breiddist orð Drottins út og efldist í krafti hans. 19.21 Þá er þetta var um garð gengið, tók Páll þá ákvörðun að ferðast um Makedóníu og Akkeu og fara síðan til Jerúsalem. Hann sagði: 'Þegar ég hef verið þar, ber mér líka að sjá Róm.' 19.22 Hann sendi tvo aðstoðarmenn sína, þá Tímóteus og Erastus, til Makedóníu, en dvaldist sjálfur um tíma í Asíu. 19.23 Í þann tíma urðu miklar æsingar út af veginum. 19.24 Demetríus hét maður og var silfursmiður. Bjó hann til Artemisar-musteri úr silfri og veitti smiðum eigi litla atvinnu. 19.25 Hann stefndi þeim saman og öðrum, sem að slíku unnu, og sagði: 'Góðir menn, þér vitið, að velmegun vor hvílir á þessari atvinnu. 19.26 Og þér sjáið og heyrið, að Páll þessi hefur með fortölum sínum snúið fjölda fólks, ekki einungis í Efesus, heldur nær um gjörvalla Asíu. Hann segir, að eigi séu það neinir guðir, sem með höndum eru gjörðir. 19.27 Nú horfir þetta ekki einungis iðn vorri til smánar, heldur einnig til þess, að helgidómur hinnar miklu gyðju, Artemisar, verði einskis virtur og að hún, sem öll Asía og heimsbyggðin dýrkar, verði svipt tign sinni.' 19.28 Er þeir heyrðu þetta, urðu þeir afar reiðir og æptu: 'Mikil er Artemis Efesusmanna!' 19.29 Og öll borgin komst í uppnám, menn þustu hver um annan til leikvangsins og þrifu með sér þá Gajus og Aristarkus, förunauta Páls úr Makedóníu. 19.30 En er Páll vildi ganga inn í mannþröngina, leyfðu lærisveinarnir honum það ekki. 19.31 Nokkrir höfðingjar skattlandsins, sem voru vinir hans, sendu einnig til hans og báðu hann að hætta sér ekki inn á leikvanginn. 19.32 Menn hrópuðu nú sitt hver, því að mannsöfnuðurinn var í uppnámi, og vissu fæstir, hvers vegna þeir voru saman komnir. 19.33 Nokkrir í mannþrönginni töldu það vera vegna Alexanders, því að Gyðingar ýttu honum fram, en Alexander benti til hljóðs með hendinni og vildi verja mál sitt fyrir fólkinu. 19.34 Þegar menn urðu þess vísir, að hann var Gyðingur, lustu allir upp einu ópi og hrópuðu í nærfellt tvær stundir: 'Mikil er Artemis Efesusmanna!' 19.35 En borgarritarinn gat sefað fólkið og mælti: 'Efesusmenn, hver er sá maður, að hann viti ekki, að borg Efesusmanna geymir musteri hinnar miklu Artemisar og steininn helga af himni? 19.36 Þar sem enginn má gegn því mæla, ber yður að vera stilltir og hrapa ekki að neinu. 19.37 Þér hafið dregið þessa menn hingað, þótt þeir hafi hvorki framið helgispjöll né lastmælt gyðju vorri. 19.38 Eigi nú Demetríus og smiðirnir, sem honum fylgja, sök við nokkurn, þá eru þingdagar haldnir, og til eru landstjórar. Eigist þeir lög við. 19.39 En ef þér hafið annars að krefja, má gjöra út um það á löglegu þingi. 19.40 Vér eigum á hættu að verða sakaðir um uppreisn fyrir þetta í dag og getum ekki bent á neitt tilefni, sem gæti afsakað slík ólæti.' Að svo mæltu lét hann mannsöfnuðinn fara.
20.1 Þegar þessum látum linnti, sendi Páll eftir lærisveinunum, uppörvaði þá og kvaddi síðan og lagði af stað til Makedóníu. 20.2 Hann fór nú um þau héruð og uppörvaði menn með mörgum orðum. Síðan hélt hann til Grikklands. 20.3 Dvaldist hann þar þrjá mánuði. Þá bjóst hann til að sigla til Sýrlands, en þar eð Gyðingar brugguðu honum launráð, tók hann til bragðs að hverfa aftur um Makedóníu. 20.4 Í för með honum voru þeir Sópater Pýrrusson frá Beroju, Aristarkus og Sekúndus frá Þessaloníku, Gajus frá Derbe, Tímóteus og Asíumennirnir Týkíkus og Trófímus. 20.5 Þeir fóru á undan og biðu vor í Tróas. 20.6 En vér sigldum eftir daga ósýrðu brauðanna frá Filippí og komum til þeirra í Tróas á fimmta degi. Þar stóðum vér við í sjö daga. 20.7 Fyrsta dag vikunnar, er vér vorum saman komnir til að brjóta brauðið, talaði Páll til þeirra. Hann var á förum daginn eftir. Entist ræða hans allt til miðnættis. 20.8 Mörg ljós voru í loftstofunni, þar sem vér vorum saman komnir. 20.9 Ungmenni eitt, Evtýkus að nafni, sat í glugganum. Seig á hann svefnhöfgi, er Páll ræddi svo lengi, og féll hann sofandi ofan af þriðja lofti. Hann var liðinn, þegar hann var tekinn upp. 20.10 Páll gekk ofan, varpaði sér yfir hann, tók utan um hann og sagði: 'Verið stilltir, það er líf með honum.' 20.11 Fór hann síðan upp, braut brauðið og neytti og talaði enn lengi, allt fram í dögun. Að svo búnu hélt hann brott. 20.12 En þeir fóru með sveininn lifandi og hugguðust mikillega. 20.13 Vér fórum á undan til skips og sigldum til Assus. Þar ætluðum vér að taka Pál. Svo hafði hann fyrir lagt, því hann vildi fara landveg. 20.14 Þegar hann hafði hitt oss í Assus, tókum vér hann á skip og héldum til Mitýlene. 20.15 Þaðan sigldum vér daginn eftir og komumst til móts við Kíos. Á öðrum degi fórum vér til Samos og komum næsta dag til Míletus. 20.16 En Páll hafði sett sér að sigla fram hjá Efesus, svo að hann tefðist ekki í Asíu. Hann hraðaði ferð sinni, ef verða mætti, að hann kæmist til Jerúsalem á hvítasunnudag. 20.17 Frá Míletus sendi hann til Efesus og boðaði til sín öldunga safnaðarins. 20.18 Þegar þeir komu til hans, sagði hann við þá: 'Þér vitið, hvernig ég hef hagað mér hjá yður alla tíð frá þeim degi, er ég kom fyrst til Asíu. 20.19 Ég þjónaði Drottni í allri auðmýkt, með tárum og í raunum, sem að mér hafa steðjað af launráðum Gyðinga. 20.20 Þér vitið, að ég dró ekkert undan, sem yður mátti að gagni verða, heldur boðaði yður það og kenndi opinberlega og í heimahúsum 20.21 og vitnaði bæði fyrir Gyðingum og Grikkjum um afturhvarf til Guðs og trú á Drottin vorn Jesú. 20.22 Og nú er ég á leið til Jerúsalem, knúinn af andanum. Ekki veit ég, hvað þar mætir mér, 20.23 nema að heilagur andi birtir mér í hverri borg, að fjötrar og þrengingar bíði mín. 20.24 En mér er líf mitt einskis virði, fái ég aðeins að fullna skeið mitt og þá þjónustu, sem Drottinn Jesús fól mér: Að bera vitni fagnaðarerindinu um Guðs náð. 20.25 Nú veit ég, að þér munuð ekki framar sjá mig, engir þér, sem ég hef komið til og boðað ríkið. 20.26 Þess vegna vitna ég fyrir yður nú í dag, að ekki er mig um að saka, þótt einhver glatist, 20.27 því að ég hef boðað yður allt Guðs ráð og ekkert dregið undan. 20.28 Hafið gát á sjálfum yður og allri hjörðinni, sem heilagur andi fól yður til umsjónar. Verið hirðar Guðs kirkju, sem hann hefur unnið sér með sínu eigin blóði. 20.29 Ég veit, að skæðir vargar munu koma inn á yður, þegar ég er farinn, og eigi þyrma hjörðinni. 20.30 Og úr hópi sjálfra yðar munu koma fram menn, sem flytja rangsnúna kenningu til að tæla lærisveinana á eftir sér. 20.31 Vakið því og verið þess minnugir, að ég áminnti stöðugt sérhvern yðar með tárum dag og nótt í þrjú ár. 20.32 Og nú fel ég yður Guði og orði náðar hans, sem máttugt er að uppbyggja yður og gefa yður arfleifð með öllum þeim, sem helgaðir eru. 20.33 Eigi girntist ég silfur né gull né klæði nokkurs manns. 20.34 Sjálfir vitið þér, að þessar hendur unnu fyrir öllu því, er ég þurfti með og þeir, er með mér voru. 20.35 Í öllu sýndi ég yður, að með því að vinna þannig ber oss að annast óstyrka og minnast orða Drottins Jesú, að hann sjálfur sagði: ,Sælla er að gefa en þiggja.'` 20.36 Þegar hann hafði þetta mælt, féll hann á kné og baðst fyrir ásamt þeim öllum. 20.37 Allir tóku að gráta sáran, féllu um háls Páli og kysstu hann. 20.38 Mest varð þeim um þau orð hans, að þeir mundu aldrei framar sjá hann. Síðan fylgdu þeir honum til skips.
21.1 Þegar vér höfðum slitið oss frá þeim, létum vér í haf og héldum beina leið til Kós, næsta dag til Ródus og þaðan til Patara. 21.2 Þar hittum vér á skip, er fara átti til Fönikíu. Stigum vér á það og létum í haf. 21.3 Vér höfðum landsýn af Kýpur, létum hana á bakborða og sigldum til Sýrlands og tókum höfn í Týrus. Þar átti skipið að leggja upp farminn. 21.4 Vér fundum lærisveinana og dvöldumst þar sjö daga. Þeir sögðu Páli af gift andans, að hann skyldi ekki halda áfram til Jerúsalem. 21.5 Að þessum dögum liðnum lögðum vér af stað. Fylgdu þeir oss allir á veg með konum og börnum út fyrir borgina. Vér féllum á kné í fjörunni og báðumst fyrir. 21.6 Þar kvöddumst vér. Vér stigum á skip, en hinir sneru aftur heim til sín. 21.7 Vér komum til Ptólemais frá Týrus og lukum þar sjóferðinni. Vér heilsuðum bræðrunum og dvöldumst hjá þeim einn dag. 21.8 Daginn eftir fórum vér þaðan og komum til Sesareu, gengum inn í hús Filippusar trúboða, sem var einn af þeim sjö, og dvöldumst hjá honum. 21.9 Hann átti fjórar ógiftar dætur, gæddar spádómsgáfu. 21.10 Þegar vér höfðum dvalist þar nokkra daga, kom spámaður einn ofan frá Júdeu, Agabus að nafni. 21.11 Hann kom til vor, tók belti Páls, batt fætur sína og hendur og mælti: 'Svo segir heilagur andi: ,Þannig munu Gyðingar í Jerúsalem binda þann mann, sem þetta belti á, og selja hann í hendur heiðingjum.'` 21.12 Þegar vér heyrðum þetta, lögðum vér og heimamenn að Páli að fara ekki upp til Jerúsalem. 21.13 En hann sagði: 'Hví grátið þér og hrellið hjarta mitt? Ég er eigi aðeins reiðubúinn að láta binda mig, heldur og að deyja í Jerúsalem fyrir nafn Drottins Jesú.' 21.14 Honum varð eigi talið hughvarf. Þá létum vér kyrrt og sögðum: 'Verði Drottins vilji.' 21.15 Að þessum dögum liðnum bjuggumst vér til ferðar og héldum upp til Jerúsalem. 21.16 Nokkrir lærisveinar frá Sesareu urðu oss samferða. Þeir fóru með oss til Mnasons nokkurs frá Kýpur, lærisveins frá elstu tíð, og skyldum vér gista hjá honum. 21.17 Þegar vér komum til Jerúsalem, tóku bræðurnir oss feginsamlega. 21.18 Næsta dag gekk Páll með oss til Jakobs, og allir öldungarnir komu þangað. 21.19 Páll heilsaði þeim og lýsti síðan nákvæmlega öllu, sem Guð hafði gjört meðal heiðingjanna með þjónustu hans. 21.20 Þeir vegsömuðu Guð fyrir það, sem þeir heyrðu, og sögðu við hann: 'Þú sérð, bróðir hve margir tugir þúsunda það eru meðal Gyðinga, sem trú hafa tekið, og allir eru þeir vandlátir um lögmálið. 21.21 En þeim hefur verið sagt, að þú kennir öllum Gyðingum, sem eru meðal heiðingja, að hverfa frá Móse og segir, að þeir skuli hvorki umskera börn sín né fylgja siðum vorum. 21.22 Hvað á nú að gjöra? Víst mun það spyrjast, að þú ert kominn. 21.23 Gjör því þetta, sem vér nú segjum þér. Hjá oss eru fjórir menn, sem heit hvílir á. 21.24 Tak þá með þér, lát hreinsast með þeim og ber kostnaðinn fyrir þá, að þeir geti látið raka höfuð sín. Þá mega allir sjá, að ekkert er hæft í því, sem þeim hefur verið sagt um þig, heldur gætir þú lögmálsins sjálfur í breytni þinni. 21.25 En um heiðingja, sem trú hafa tekið, höfum vér gefið út bréf og ályktað, að þeir skuli varast kjöt fórnað skurðgoðum, blóð, kjöt af köfnuðum dýrum og saurlifnað.' 21.26 Páll tók að sér mennina og lét hreinsast með þeim daginn eftir. Síðan gekk hann inn í helgidóminn og gjörði kunnugt, hvenær hreinsunardagarnir væru á enda og fórnin fyrir hvern þeirra skyldi fram borin. 21.27 Þegar dagarnir sjö voru nær liðnir, sáu Gyðingar frá Asíu Pál í helgidóminum. Þeir komu öllu fólkinu í uppnám, lögðu hendur á hann 21.28 og hrópuðu: 'Ísraelsmenn, veitið nú lið. Þetta er maðurinn, sem alls staðar kennir öllum það, sem er andstætt lýðnum, lögmálinu og þessum stað. Og nú hefur hann auk heldur farið með Grikki inn í helgidóminn og saurgað þennan heilaga stað.' 21.29 En þeir höfðu áður séð Trófímus frá Efesus með honum í borginni og hugðu, að Páll hefði farið með hann inn í helgidóminn. 21.30 Öll borgin varð uppvæg, fólk þusti að, þeir tóku Pál og drógu hann út úr helgidóminum. Jafnskjótt var dyrunum læst. 21.31 Þeir ætluðu að lífláta hann, en hersveitarforingjanum var tjáð, að öll Jerúsalem væri í uppnámi. 21.32 Hann brá við og tók með sér hermenn og hundraðshöfðingja og hljóp niður til þeirra. Þegar þeir sáu hersveitarforingjann og hermennina, hættu þeir að berja Pál. 21.33 Hersveitarforinginn kom þá að, tók hann og skipaði að binda hann tvennum fjötrum og spurði, hver hann væri og hvað hann hefði gjört. 21.34 En sitt kallaði hver í mannfjöldanum. Þegar hann gat ekki orðið neins vísari sökum óróans, bauð hann að fara með hann upp í kastalann. 21.35 Þegar komið var að þrepunum, urðu hermennirnir að bera hann vegna ofsans í fólkinu, 21.36 en múgur manns fylgdi eftir og æpti: 'Burt með hann!' 21.37 Um leið og fara átti með Pál inn í kastalann, segir hann við hersveitarforingjann: 'Leyfist mér að tala nokkur orð við þig?' Hann svaraði: 'Kannt þú grísku? 21.38 Ekki ert þú þá Egyptinn, sem æsti til uppreisnar á dögunum og fór með morðvargana fjögur þúsund út í óbyggðir.' 21.39 Páll sagði: 'Ég er Gyðingur, frá Tarsus í Kilikíu, borgari í ekki ómerkum bæ. Ég bið þig, leyf mér að tala til fólksins.' 21.40 Hann leyfði það. Páll bandaði hendi til fólksins, þar sem hann stóð á þrepunum. Þegar hann hafði fengið gott hljóð, mælti hann til þeirra á hebreska tungu:
22.1 'Bræður og feður, hlustið á það, sem ég ætla að flytja yður mér til varnar.' 22.2 En er þeir heyrðu hann ávarpa sig á hebresku, urðu þeir enn hljóðari. Hann heldur áfram: 22.3 'Ég er Gyðingur, fæddur í Tarsus í Kilikíu, en alinn upp í þessari borg. Við fætur Gamalíels hlaut ég fyllstu uppfræðslu í lögmáli feðra vorra. Guðs stríðsmaður vildi ég vera ekki síður en þér allir í dag. 22.4 Ég ofsótti þá, sem voru þessa vegar, og sparði ekki líf þeirra, færði í fjötra og hneppti í fangelsi karla og konur. 22.5 Æðsti presturinn og allt öldungaráðið geta borið mér vitni um þetta. Hjá þeim fékk ég bréf til bræðranna í Damaskus og fór þangað til að flytja einnig þá, er þar voru, í böndum til Jerúsalem, að þeim yrði refsað. 22.6 En á leiðinni, er ég nálgaðist Damaskus, bar svo við um hádegisbil, að ljós mikið af himni leiftraði skyndilega um mig. 22.7 Ég féll til jarðar og heyrði raust, er sagði við mig: ,Sál, Sál, hví ofsækir þú mig?` 22.8 Ég svaraði: ,Hver ert þú, herra?` Og hann sagði við mig: ,Ég er Jesús frá Nasaret, sem þú ofsækir.` 22.9 Þeir, sem með mér voru, sáu ljósið, en raust þess, er við mig talaði, heyrðu þeir ekki. 22.10 Þá sagði ég: ,Hvað á ég að gjöra, herra?` En Drottinn sagði við mig: ,Rís upp og far til Damaskus. Þar mun þér verða sagt allt, sem þér er ætlað að gjöra.` 22.11 En með því að ég var blindaður af ljóma þessa ljóss, urðu förunautar mínir að leiða mig, og þannig komst ég til Damaskus. 22.12 En Ananías nokkur, maður guðrækinn eftir lögmálinu og í góðum metum hjá öllum Gyðingum, er þar bjuggu, 22.13 kom til mín, nam staðar hjá mér og sagði: ,Sál, bróðir, fá þú aftur sjón þína!` Á sömu stundu fékk ég sjónina og sá hann. 22.14 En hann sagði: ,Guð feðra vorra hefur útvalið þig til að þekkja vilja sinn, að sjá hinn réttláta og heyra raustina af munni hans. 22.15 Því að þú skalt honum vottur vera hjá öllum mönnum um það, sem þú hefur séð og heyrt. 22.16 Hvað dvelur þig nú? Rís upp, ákalla nafn hans og lát skírast og laugast af syndum þínum.` 22.17 En þegar ég var kominn aftur til Jerúsalem og baðst fyrir í helgidóminum, varð ég frá mér numinn 22.18 og sá hann, og hann sagði við mig: ,Flýt þér og far sem skjótast burt úr Jerúsalem, því að þeir munu ekki veita viðtöku vitnisburði þínum um mig.` 22.19 Ég sagði: ,Drottinn, þeir vita, að ég hef verið að hneppa í fangelsi þá, sem trúðu á þig, og láta húðstrýkja þá í samkunduhúsunum. 22.20 Og þegar úthellt var blóði Stefáns, vottar þíns, stóð ég sjálfur þar hjá og lét mér vel líka og varðveitti klæði þeirra, sem tóku hann af lífi.` 22.21 Hann sagði við mig: ,Far þú, því að ég mun senda þig til heiðingja langt í burtu.'` 22.22 Allt að þessu orði hlýddu þeir á hann, en nú hófu þeir upp raust sína og hrópuðu: 'Burt með slíkan mann af jörðinni! Eigi hæfir, að hann lifi!' 22.23 Nú sem þeir æptu og vingsuðu klæðum sínum og þyrluðu ryki í loft upp, 22.24 skipaði hersveitarforinginn að fara með hann inn í kastalann og hýða hann og kúga hann með því til sagna, svo að hann kæmist að því, fyrir hverja sök þeir gjörðu slík óp að honum. 22.25 En þá er þeir strengdu hann undir höggin, sagði Páll við hundraðshöfðingjann, er hjá stóð: 'Leyfist yður að húðstrýkja rómverskan mann og það án dóms og laga?' 22.26 Þegar hundraðshöfðinginn heyrði þetta, fór hann til hersveitarforingjans, skýrði honum frá og sagði: 'Hvað ert þú að gjöra? Maður þessi er rómverskur.' 22.27 Hersveitarforinginn kom þá og sagði við Pál: 'Seg mér, ert þú rómverskur borgari?' Páll sagði: 'Já.' 22.28 Hersveitarforinginn sagði: 'Fyrir ærið fé keypti ég þennan þegnrétt.' En Páll sagði: 'Ég er meira að segja með honum fæddur.' 22.29 Þeir, sem áttu að kúga hann til sagna, viku nú jafnskjótt frá honum. Og hersveitarforinginn varð hræddur, er hann varð þess vís, að það var rómverskur maður, sem hann hafði látið binda. 22.30 Daginn eftir vildi hann ganga úr skugga um, fyrir hvað Gyðingar kærðu hann, lét leysa hann og bauð, að æðstu prestarnir og allt ráðið kæmi saman. Síðan kom hann ofan með Pál og leiddi hann fram fyrir þá.
23.1 En Páll hvessti augun á ráðið og mælti: 'Bræður, ég hef í öllu breytt með góðri samvisku fyrir Guði fram á þennan dag.' 23.2 En Ananías æðsti prestur skipaði þeim, er hjá stóðu, að ljósta hann á munninn. 23.3 Þá sagði Páll við hann: 'Guð mun ljósta þig, kalkaði veggur. Hér situr þú til að dæma mig samkvæmt lögmálinu og skipar þó þvert ofan í lögmálið að slá mig.' 23.4 Þeir, sem hjá stóðu sögðu: 'Smánar þú æðsta prest Guðs?' 23.5 Páll svaraði: 'Ekki vissi ég, bræður, að hann væri æðsti prestur, því ritað er: ,Þú skalt ekki illmæla höfðingja lýðs þíns.'` 23.6 Nú vissi Páll, að sumir þeirra voru saddúkear, en aðrir farísear, og hann hrópaði upp í ráðinu: 'Bræður, ég er farísei, af faríseum kominn. Ég er lögsóttur fyrir vonina um upprisu dauðra.' 23.7 Þegar hann sagði þetta, varð deila milli farísea og saddúkea, og þingheimur skiptist í flokka. 23.8 Því saddúkear segja, að ekki sé til upprisa, englar né andar, en farísear játa allt þetta. 23.9 Nú varð hróp mikið, og nokkrir fræðimenn af flokki farísea risu upp og fullyrtu: 'Vér sjáum ekki, að þessi maður hafi brotið af sér. Gæti ekki hugsast, að andi hafi talað við hann eða engill?' 23.10 Deilan harðnaði og hersveitarforinginn fór að óttast, að þeir ætluðu að rífa Pál í sundur. Því skipaði hann herliðinu að koma ofan, taka hann af þeim og færa hann inn í kastalann. 23.11 Nóttina eftir kom Drottinn til hans og sagði: 'Vertu hughraustur! Svo sem þú hefur vitnað um mig í Jerúsalem eins ber þér og að vitna í Róm.' 23.12 Þegar dagur rann, bundust Gyðingar samtökum og sóru þess eið að eta hvorki né drekka, fyrr en þeir hefðu ráðið Pál af dögum. 23.13 Voru þeir fleiri en fjörutíu, sem þetta samsæri gjörðu. 23.14 Þeir fóru til æðstu prestanna og öldunganna og sögðu: 'Vér höfum svarið þess dýran eið að neyta einskis, fyrr en vér höfum ráðið Pál af dögum. 23.15 Nú skuluð þér og ráðið leggja til við hersveitarforingjann, að hann láti senda hann niður til yðar, svo sem vilduð þér kynna yður mál hans rækilegar. En vér erum við því búnir að vega hann, áður en hann kemst alla leið.' 23.16 En systursonur Páls heyrði um fyrirsátina. Hann gekk inn í kastalann og sagði Páli frá. 23.17 Páll kallaði til sín einn hundraðshöfðingjann og mælti: 'Far þú með þennan unga mann til hersveitarforingjans, því að hann hefur nokkuð að segja honum.' 23.18 Hundraðshöfðinginn tók hann með sér, fór með hann til hersveitarforingjans og sagði: 'Fanginn Páll kallaði mig til sín og bað mig fara til þín með þennan unga mann. Hann hefur eitthvað að segja þér.' 23.19 Hersveitarforinginn tók í hönd honum, leiddi hann afsíðis og spurði: 'Hvað er það, sem þú hefur að segja mér?' 23.20 Hinn svaraði: 'Gyðingar hafa komið sér saman um að biðja þig að senda Pál niður í ráðið á morgun, þar eð þeir ætli að rannsaka mál hans rækilegar. 23.21 En lát þú ekki að vilja þeirra, því að menn þeirra, fleiri en fjörutíu, sitja fyrir honum og hafa svarið þess eið að eta hvorki né drekka fyrr en þeir hafi vegið hann. Nú eru þeir viðbúnir og bíða eftir, að svarið komi frá þér.' 23.22 Hersveitarforinginn lét piltinn fara og bauð honum: 'Þú mátt engum segja, að þú hafir gjört mér viðvart um þetta.' 23.23 Hann kallaði fyrir sig tvo hundraðshöfðingja og sagði: 'Látið tvö hundruð hermenn vera tilbúna að fara til Sesareu eftir náttmál, auk þess sjötíu riddara og tvö hundruð léttliða. 23.24 Hafið og til fararskjóta handa Páli, svo að þér komið honum heilum til Felixar landstjóra.' 23.25 Og hann ritaði bréf, svo hljóðandi: 23.26 'Kládíus Lýsías sendir kveðju hinum göfuga Felix landstjóra. 23.27 Mann þennan höfðu Gyðingar tekið höndum og voru í þann veginn að taka af lífi, er ég kom að með hermönnum. Ég komst að því, að hann var rómverskur, og bjargaði honum. 23.28 En ég vildi vita, fyrir hverja sök þeir ákærðu hann, og fór með hann niður í ráð þeirra. 23.29 Komst ég þá að raun um, að hann var kærður vegna ágreinings um lögmál þeirra, en engin sök var honum gefin, er sætir dauða eða fangelsi. 23.30 En þar sem ég hef fengið bendingu um, að setið sé um líf mannsins, sendi ég hann tafarlaust til þín. Ég hef jafnframt boðið ákærendum hans að flytja mál sitt gegn honum fyrir þér.' 23.31 Hermennirnir tóku þá Pál, eins og þeim var boðið, og fóru með hann um nótt til Antípatris. 23.32 Daginn eftir sneru þeir aftur til kastalans, en létu riddarana fara með honum. 23.33 Þeir fóru inn í Sesareu, skiluðu bréfinu til landstjórans og færðu Pál fyrir hann. 23.34 Hann las bréfið og spurði, úr hvaða skattlandi hann væri. Var honum tjáð, að hann væri frá Kilikíu. 23.35 Þá mælti hann: 'Ég mun rannsaka mál þitt, þegar kærendur þínir koma.' Og hann bauð að geyma hann í höll Heródesar.
24.1 Fimm dögum síðar fór Ananías æðsti prestur ofan þangað og með honum nokkrir öldungar og Tertúllus nokkur málafærslumaður. Þeir báru sakir á Pál fyrir landstjóranum. 24.2 Hann var nú kallaður fyrir, en Tertúllus hóf málsóknina og sagði: 'Fyrir þitt tilstilli, göfugi Felix, sitjum vér í góðum friði, og þjóð vor hefur sakir þinnar forsjár öðlast umbætur í öllum greinum og alls staðar. 24.3 Þetta viðurkennum vér mjög þakksamlega. 24.4 En svo að ég tefji þig sem minnst, bið ég, að þú af mildi þinni viljir heyra oss litla hríð. 24.5 Vér höfum komist að raun um, að maður þessi er skaðræði, kveikir ófrið með öllum Gyðingum um víða veröld og er forsprakki villuflokks Nasarea. 24.6 Hann reyndi meira að segja að vanhelga musterið, og þá tókum vér hann höndum. 24.7 --- 24.8 Með því að yfirheyra hann mátt þú sjálfur ganga úr skugga um öll sakarefni vor gegn honum.' 24.9 Gyðingarnir tóku undir sakargiftirnar og kváðu þetta rétt vera. 24.10 Landstjórinn benti þá Páli að taka til máls. Hann sagði: 'Kunnugt er mér um, að þú hefur verið dómari þessarar þjóðar í mörg ár. Mun ég því ótrauður verja mál mitt. 24.11 Þú getur og gengið úr skugga um, að ekki eru nema tólf dagar síðan ég kom upp til Jerúsalem að biðjast fyrir. 24.12 Og enginn hefur staðið mig að því að vera að stæla við neinn eða æsa fólk til óspekta, hvorki í samkunduhúsunum né neins staðar í borginni. 24.13 Þeir geta ekki heldur sannað þér það, sem þeir eru nú að kæra mig um. 24.14 En hitt skal ég játa þér, að ég þjóna Guði feðra vorra samkvæmt veginum, sem þeir kalla villu, og trúi öllu því, sem skrifað stendur í lögmálinu og spámönnunum. 24.15 Og þá von hef ég til Guðs, sem þeir og sjálfir hafa, að upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir. 24.16 Því tem ég mér og sjálfur að hafa jafnan hreina samvisku fyrir Guði og mönnum. 24.17 Eftir margra ára fjarveru kom ég til að færa fólki mínu ölmusugjafir og til að fórna. 24.18 Þetta var ég að gjöra í helgidóminum og hafði látið hreinsast, og enginn var þá mannsöfnuður né uppþot, þegar menn komu að mér. 24.19 Þar voru Gyðingar nokkrir frá Asíu. Þeir hefðu átt að koma fyrir þig og bera fram kæru, hefðu þeir fundið mér eitthvað til saka. 24.20 Annars skulu þessir, sem hér eru, segja til, hvað saknæmt þeir fundu, þegar ég stóð fyrir ráðinu. 24.21 Nema það sé þetta eina, sem ég hrópaði, þegar ég stóð meðal þeirra: ,Fyrir upprisu dauðra er ég lögsóttur í dag frammi fyrir yður.'` 24.22 Felix, sem var vel kunnugt um veginn, frestaði nú málinu, og mælti: 'Þegar Lýsías hersveitarforingi kemur ofan hingað, skal ég skera úr máli yðar.' 24.23 Hann bauð hundraðshöfðingjanum að hafa Pál í vægu varðhaldi og varna engum félaga hans að vitja um hann. 24.24 Nokkrum dögum seinna kom Felix með eiginkonu sinni, Drúsillu. Hún var Gyðingur. Hann lét sækja Pál og hlýddi á mál hans um trúna á Krist Jesú. 24.25 En er hann ræddi um réttlæti, sjálfsögun og komandi dóm, varð Felix skelkaður og mælti: 'Far burt að sinni. Ég læt kalla þig, þegar ég fæ tóm til.' 24.26 Meðfram gjörði hann sér von um, að Páll mundi gefa sér fé. Því var það, að hann lét alloft sækja hann og átti tal við hann. 24.27 Þegar tvö ár voru liðin, tók Porkíus Festus við landstjórn af Felix. Felix vildi koma sér vel við Gyðinga og lét því Pál eftir í haldi.
25.1 Þrem dögum eftir að Festus hafði tekið við umdæmi sínu, fór hann frá Sesareu upp til Jerúsalem. 25.2 Æðstu prestarnir og fyrirmenn Gyðinga báru þá sakir á Pál fyrir honum og báðu hann 25.3 að veita sér að málum gegn honum og gera sér þann greiða að senda hann til Jerúsalem. En þeir hugðust búa honum fyrirsát og vega hann á leiðinni. 25.4 Festus svaraði, að Páll væri í varðhaldi í Sesareu, en sjálfur mundi hann bráðlega fara þangað. 25.5 'Látið því,' sagði hann, 'ráðamenn yðar verða mér samferða ofan eftir og lögsækja manninn, ef hann er um eitthvað sekur.' 25.6 Festus dvaldist þar ekki lengur en í átta daga eða tíu. Síðan fór hann ofan til Sesareu. Daginn eftir settist hann á dómstólinn og bauð að leiða Pál fram. 25.7 Þegar hann kom, umkringdu hann Gyðingar þeir, sem komnir voru ofan frá Jerúsalem, og báru á hann margar þungar sakir, sem þeir gátu ekki sannað. 25.8 En Páll varði sig og sagði: 'Ekkert hef ég brotið, hvorki gegn lögmáli Gyðinga, helgidóminum né keisaranum.' 25.9 Festus vildi koma sér vel við Gyðinga og mælti við Pál: 'Vilt þú fara upp til Jerúsalem og hlíta þar dómi mínum í máli þessu?' 25.10 Páll svaraði: 'Ég stend nú fyrir dómstóli keisarans, og hér á ég að dæmast. Gyðingum hef ég ekkert rangt gjört, það veistu fullvel. 25.11 Sé ég sekur og hafi framið eitthvað, sem dauða sé vert, mæli ég mig ekki undan því að deyja. En ef ekkert er hæft í því, sem þessir menn kæra mig um, á enginn með að selja mig þeim á vald. Ég skýt máli mínu til keisarans.' 25.12 Festus ræddi þá við ráðunauta sína og mælti síðan: 'Til keisarans hefur þú skotið máli þínu, til keisarans skaltu fara.' 25.13 Eftir nokkra daga komu Agrippa konungur og Berníke til Sesareu að bjóða Festus velkominn. 25.14 Þegar þau höfðu dvalist þar nokkra daga, lagði Festus mál Páls fyrir konung og sagði: 'Hér er fangi nokkur, sem Felix skildi eftir. 25.15 Þegar ég kom til Jerúsalem, báru æðstu prestar og öldungar Gyðinga á hann sakir og heimtuðu hann dæmdan. 25.16 Ég svaraði þeim, að það væri ekki venja Rómverja að selja fram nokkurn sakborning fyrr en hann hefði verið leiddur fyrir ákærendur sína og átt þess kost að bera fram vörn gegn sakargiftinni. 25.17 Þeir urðu nú samferða hingað, og lét ég engan drátt á verða, heldur settist daginn eftir á dómstólinn og bauð að leiða fram manninn. 25.18 Þegar ákærendurnir komu fram, báru þeir ekki á hann sakir fyrir nein þau illræði, sem ég hafði búist við, 25.19 heldur áttu þeir í einhverjum deilum við hann um átrúnað sjálfra þeirra og um Jesú nokkurn, látinn mann, sem Páll segir lifa. 25.20 Fannst mér vandi fyrir mig að fást við þetta og spurði Pál, hvort hann vildi fara til Jerúsalem og láta dæma málið þar. 25.21 En hann skaut máli sínu til keisarans og krafðist þess að vera hafður í haldi, þar til hans hátign hefði skorið úr. Því bauð ég að hafa hann í haldi, þangað til ég gæti sent hann til keisarans.' 25.22 Agrippa sagði þá við Festus: 'Ég vildi sjálfur fá að heyra manninn.' Hinn svaraði: 'Á morgun skalt þú hlusta á hann.' 25.23 Daginn eftir komu Agrippa og Berníke með mikilli viðhöfn og gengu ásamt hersveitarforingjum og æðstu mönnum borgarinnar inn í málstofuna. Var þá Páll leiddur inn að boði Festusar. 25.24 Festus mælti: 'Agrippa konungur og þér menn allir, sem hjá oss eruð staddir. Þarna sjáið þér mann, sem veldur því, að allir Gyðingar, bæði í Jerúsalem og hér, hafa leitað til mín. Þeir heimta hástöfum, að hann sé tekinn af lífi. 25.25 Mér varð ljóst, að hann hefur ekkert það framið, er dauða sé vert, en sjálfur skaut hann máli sínu til hans hátignar, og þá ákvað ég að senda hann þangað. 25.26 Nú hef ég ekkert áreiðanlegt að skrifa herra vorum um hann. Þess vegna hef ég leitt hann fram fyrir yður og einkum fyrir þig, Agrippa konungur, svo að ég hafi eitthvað að skrifa að lokinni yfirheyrslu. 25.27 Því það líst mér fráleitt að senda fanga og tjá eigi um leið sakargiftir gegn honum.'
26.1 En Agrippa sagði við Pál: 'Nú er þér leyft að tala þínu máli.' Páll rétti þá út höndina og bar fram vörn sína: 26.2 'Lánsamur þykist ég, Agrippa konungur, að eiga í dag í þinni áheyrn að verja mig gegn öllu því, sem Gyðingar saka mig um, 26.3 því heldur sem þú þekkir alla siðu Gyðinga og ágreiningsmál. Því bið ég þig að hlýða þolinmóður á mig. 26.4 Allir Gyðingar þekkja líf mitt frá upphafi, hvernig ég hef lifað með þjóð minni, fyrst í æsku og síðan í Jerúsalem. 26.5 Það vita þeir um mig, vilji þeir unna mér sannmælis, að ég var farísei frá fyrstu tíð, fylgdi strangasta flokki trúarbragða vorra. 26.6 Og hér stend ég nú lögsóttur vegna vonarinnar um fyrirheitið, sem Guð gaf feðrum vorum 26.7 og vorar tólf kynkvíslir vona að öðlast með því að dýrka Guð án afláts nótt sem dag. Fyrir þessa von er ég nú ákærður, konungur, og það af Gyðingum. 26.8 Hvers vegna teljið þér það ótrúlegt, að Guð veki upp dauða? 26.9 Sjálfur taldi ég mér skylt að vinna af öllu megni gegn nafni Jesú frá Nasaret. 26.10 Það gjörði ég og í Jerúsalem, hneppti marga hinna heilögu í fangelsi með valdi frá æðstu prestunum og galt því jákvæði, að þeir væru teknir af lífi. 26.11 Og í öllum samkundunum reyndi ég þrásinnis með pyndingum að neyða þá til að afneita trú sinni. Svo freklega æddi ég gegn þeim, að ég fór til borga erlendis að ofsækja þá. 26.12 Þá er ég var á leið til Damaskus slíkra erinda með vald og umboð frá æðstu prestunum, 26.13 sá ég, konungur, á veginum um miðjan dag ljós af himni sólu bjartara leiftra um mig og þá, sem mér voru samferða. 26.14 Vér féllum allir til jarðar, og ég heyrði rödd, er sagði við mig á hebresku: ,Sál, Sál, hví ofsækir þú mig? Erfitt verður þér að spyrna móti broddunum.` 26.15 En ég sagði: ,Hver ert þú, herra?` Og Drottinn sagði: ,Ég er Jesús, sem þú ofsækir. 26.16 Rís nú upp og statt á fætur þína. Til þess birtist ég þér, að ég vel þig til þess að vera þjónn minn og vitni þess, að þú hefur séð mig bæði nú og síðar, er ég mun birtast þér. 26.17 Ég mun frelsa þig frá lýðnum og frá heiðingjunum, og til þeirra sendi ég þig 26.18 að opna augu þeirra og snúa þeim frá myrkri til ljóss, frá Satans valdi til Guðs, svo að þeir öðlist fyrir trú á mig fyrirgefningu syndanna og arf með þeim, sem helgaðir eru.` 26.19 Fyrir því gjörðist ég, Agrippa konungur, eigi óhlýðinn hinni himnesku vitrun, 26.20 heldur boðaði ég fyrst þeim í Damaskus og í Jerúsalem, síðan um alla Júdeubyggð og heiðingjunum að iðrast og snúa sér til Guðs og vinna verk samboðin iðruninni. 26.21 Sakir þessa gripu Gyðingar mig í helgidóminum og reyndu að ráða mér bana. 26.22 En Guð hefur hjálpað mér, og því stend ég allt til þessa dags og vitna bæði fyrir háum og lágum. Mæli ég ekki annað en það, sem bæði spámennirnir og Móse hafa sagt að verða mundi, 26.23 að Kristur ætti að líða og fyrstur rísa upp frá dauðum og boða bæði lýðnum og heiðingjunum ljósið.' 26.24 Þegar Páll var hér kominn í vörn sinni, segir Festus hárri raustu: 'Óður ert þú, Páll. Þitt mikla bókvit gjörir þig óðan.' 26.25 Páll svaraði: 'Ekki er ég óður, göfugi Festus, heldur mæli ég sannleiks orð af fullu viti. 26.26 Konungur kann skil á þessu, og við hann tala ég djarflega. Eigi ætla ég, að honum hafi dulist neitt af þessu, enda hefur það ekki gjörst í neinum afkima. 26.27 Trúir þú, Agrippa konungur, spámönnunum? Ég veit, að þú gjörir það.' 26.28 Þá sagði Agrippa við Pál: 'Þú þykist ekki vera lengi að gjöra mig kristinn.' 26.29 En Páll sagði: 'Þess bið ég Guð, hvort sem lengur dregst eða skemur, að ekki einungis þú, heldur og allir, sem til mín heyra í dag, verði slíkir sem ég er, að frátöldum fjötrum mínum.' 26.30 Þá stóð konungur upp og landstjórinn, svo og Berníke og þeir, er þar sátu með þeim. 26.31 Þegar þau voru farin, sögðu þau sín á milli: 'Þessi maður fremur ekkert, sem varðar dauða eða fangelsi.' 26.32 En Agrippa sagði við Festus: 'Þennan mann hefði mátt láta lausan, ef hann hefði ekki skotið máli sínu til keisarans.'
27.1 Þegar ákveðið var, að vér skyldum sigla til Ítalíu, voru Páll og nokkrir bandingjar aðrir seldir í hendur hundraðshöfðingja, er Júlíus hét, úr hersveit keisarans. 27.2 Vér stigum á skip frá Adramýttíum, sem átti að sigla til hafna í Asíu, og létum í haf. Aristarkus, makedónskur maður frá Þessaloníku, var oss samferða. 27.3 Á öðrum degi lentum vér í Sídon. Júlíus sýndi Páli þá mannúð að leyfa honum að fara á fund vina sinna og þiggja umönnun þeirra. 27.4 Þaðan létum vér í haf og sigldum undir Kýpur, því að vindar voru andstæðir. 27.5 Þá sigldum vér yfir hafið undan Kilikíu og Pamfýlíu og komum til Mýru í Lýkíu. 27.6 Þar fann hundraðshöfðinginn skip frá Alexandríu, er sigla átti til Ítalíu, og kom oss á það. 27.7 Siglingin gekk tregt allmarga daga. Komumst vér með herkjum móts við Knídus, en þar bægði vindur oss. Þá sigldum vér undir Krít við Salmóne. 27.8 Vér beittum þar hjá með naumindum og komumst á stað einn, sem kallast Góðhafnir, í grennd við borgina Laseu. 27.9 Enn leið drjúgur tími, og sjóferðir voru orðnar hættulegar, enda komið fram yfir föstu. Páll vildi því vara þá við 27.10 og sagði við þá: 'Það sé ég, góðir menn, að sjóferðin muni kosta hrakninga og mikið tjón, ekki einungis á farmi og skipi, heldur og á lífi voru.' 27.11 En hundraðshöfðinginn treysti betur skipstjóra og skipseiganda en því, er Páll sagði. 27.12 Höfnin var óhentug til vetrarlegu. Því var það flestra ráð að halda þaðan, ef þeir mættu ná Fönix og hafa þar vetrarlegu. Sú höfn er á Krít og veit til útsuðurs og útnorðurs. 27.13 Nú rann á hægur sunnanvindur. Hugðust þeir þá hafa ráð þetta í hendi sér, léttu akkerum og sigldu fram með Krít nærri landi. 27.14 En áður en langt leið, skall á af landi ofan fárviðri, hinn illræmdi landnyrðingur. 27.15 Skipið hrakti, og varð ekki beitt upp í vindinn. Slógum vér undan og létum reka. 27.16 Vér hleyptum undir litla ey, sem nefnist Káda. Þar gátum vér með naumindum bjargað skipsbátnum. 27.17 Þeir náðu honum upp og gripu til þeirra ráða, sem helst máttu til bjargar verða, og reyrðu skipið köðlum. Þeir óttuðust, að þá mundi bera inn í Syrtuflóa; því felldu þeir segl og létu reka. 27.18 Daginn eftir hrakti oss mjög undan ofviðrinu. Þá tóku þeir að ryðja skipið. 27.19 Og á þriðja degi vörpuðu þeir út með eigin höndum búnaði skipsins. 27.20 Dögum saman sá hvorki til sólar né stjarna, og ekkert lát varð á ofviðrinu. Tók þá að þrjóta öll von um það, að vér kæmumst af. 27.21 Nú höfðu menn lengi einskis matar neytt. Þá stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: 'Góðir menn, þér hefðuð átt að hlíta mínu ráði og leggja ekki út frá Krít. Þá hefðuð þér komist hjá hrakningum þessum og tjóni. 27.22 En nú hvet ég yður að vera vonglaðir, því enginn yðar mun lífi týna, en skipið mun farast. 27.23 Því að á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs, sem ég heyri til og þjóna, og mælti: 27.24 ,Óttast þú eigi, Páll, fyrir keisarann átt þú að koma. Og sjá, Guð hefur gefið þér alla þá, sem þér eru samskipa.` 27.25 Verið því vonglaðir, góðir menn. Ég treysti Guði, að svo muni fara sem við mig hefur verið mælt. 27.26 Oss mun bera upp á einhverja eyju.' 27.27 Á miðnætti, þegar vér höfðum hrakist um Adríahaf í hálfan mánuð, þóttust skipverjar verða þess varir, að land væri í nánd. 27.28 Þeir vörpuðu grunnsökku, og reyndist dýpið tuttugu faðmar. Aftur vörpuðu þeir grunnsökku litlu síðar, og reyndist dýpið þá fimmtán faðmar. 27.29 Þeir óttuðust, að oss kynni að bera upp í kletta, og köstuðu því fjórum akkerum úr skutnum og þráðu nú mest, að dagur rynni. 27.30 En hásetarnir reyndu að strjúka úr skipinu. Þeir settu bátinn útbyrðis og þóttust vera að færa út akkeri úr framstafni. 27.31 Þá sagði Páll við hundraðshöfðingjann og hermennina: 'Ef þessir menn eru ekki kyrrir í skipinu, getið þér ekki bjargast.' 27.32 Hermennirnir hjuggu þá festar bátsins og létu hann fara. 27.33 Undir dögun hvatti Páll alla að neyta matar og sagði: 'Þér hafið nú þraukað hálfan mánuð fastandi og engu nærst. 27.34 Það er nú mitt ráð, að þér fáið yður mat. Þess þurfið þér, ef þér ætlið að bjargast. En enginn yðar mun einu hári týna af höfði sér.' 27.35 Að svo mæltu tók hann brauð, gjörði Guði þakkir í allra augsýn, braut það og tók að eta. 27.36 Urðu nú allir hressari og fóru líka að matast. 27.37 Alls vorum vér á skipinu tvö hundruð sjötíu og sex manns. 27.38 Þá er þeir höfðu etið sig metta, léttu þeir á skipinu með því að kasta kornfarminum í sjóinn. 27.39 Þegar dagur rann, kenndu þeir ekki landið, en greindu vík eina með sandfjöru. Varð það ráð þeirra að reyna að hleypa þar upp skipinu. 27.40 Þeir losuðu akkerin og létu þau eftir í sjónum, leystu um leið stýrisböndin, undu upp framseglið og létu berast undan vindi til strandar. 27.41 Þeir lentu á rifi, skipið strandaði, stefnið festist og hrærðist hvergi, en skuturinn tók að liðast sundur í hafrótinu. 27.42 Hermennirnir ætluðu að drepa bandingjana, svo að enginn þeirra kæmist undan á sundi. 27.43 En hundraðshöfðinginn vildi forða Páli og kom í veg fyrir ráðagjörð þeirra. Bauð hann, að þeir, sem syndir væru, skyldu fyrstir varpa sér út og leita til lands, 27.44 en hinir síðan ýmist á plönkum eða braki úr skipinu. Þannig komust allir heilir til lands.
28.1 Nú sem vér vorum heilir á land komnir, fengum vér að vita, að eyjan hét Malta. 28.2 Eyjarskeggjar sýndu oss einstaka góðmennsku. Þeir kyntu bál og hlynntu að oss öllum, en kalt var í veðri og farið að rigna. 28.3 Páll tók saman hrísvöndul og lagði á eldinn. Skreið þá út naðra undan hitanum og festi sig á hönd hans. 28.4 Þegar eyjarskeggjar sáu kvikindið hanga á hendi hans, sögðu þeir hver við annan: 'Það er víst, að þessi maður er manndrápari, fyrst refsinornin lofar honum ekki að lifa, þótt hann hafi bjargast úr sjónum.' 28.5 En hann hristi kvikindið af sér í eldinn og sakaði ekki. 28.6 Þeir bjuggust við, að hann mundi bólgna upp eða detta sviplega dauður niður. En þá er þeir höfðu beðið þess lengi og sáu, að honum varð ekkert meint af, skiptu þeir um og sögðu hann guð vera. 28.7 Í grennd við stað þennan átti búgarð æðsti maður á eynni, Públíus að nafni. Hann tók við oss og hélt oss í góðu yfirlæti þrjá daga. 28.8 Svo vildi til, að faðir Públíusar lá sjúkur með hitaköstum og blóðsótt. Páll gekk inn til hans, baðst fyrir, lagði hendur yfir hann og læknaði hann. 28.9 Eftir þetta komu aðrir þeir, er sjúkir voru á eynni, og voru læknaðir. 28.10 Höfðu þeir oss í hávegum, og er vér skyldum sigla, gáfu þeir oss allt, sem vér þurftum til fararinnar. 28.11 Að liðnum þrem mánuðum lögðum vér til hafs á skipi frá Alexandríu, sem legið hafði við eyna um veturinn og bar merki Tvíburanna. 28.12 Vér tókum höfn í Sýrakúsu og dvöldumst þar þrjá daga. 28.13 Þaðan sigldum vér í sveig og komum til Regíum. Að degi liðnum fengum vér sunnanvind og komum á öðrum degi til Púteólí. 28.14 Þar hittum vér bræður, og báðu þeir oss að dveljast hjá sér í viku. Síðan héldum vér til Rómar. 28.15 Bræðurnir þar fréttu um oss og komu til móts við oss allt til Appíusartorgs og Þríbúða. Þegar Páll sá þá, gjörði hann Guði þakkir og hresstist í huga. 28.16 Er vér vorum komnir til Rómar, var Páli leyft að búa út af fyrir sig með hermanni þeim, sem gætti hans. 28.17 Eftir þrjá daga stefndi hann saman helstu mönnum Gyðinga. Þegar þeir voru saman komnir, sagði hann við þá: 'Bræður, ekkert hef ég brotið gegn lýðnum eða siðum feðranna, en samt er ég fangi, framseldur Rómverjum í Jerúsalem. 28.18 Þeir yfirheyrðu mig og vildu láta mig lausan, af því á mér hvíldi engin dauðasök. 28.19 En Gyðingar mæltu á móti, og neyddist ég til að skjóta máli mínu til keisarans, þó eigi svo að skilja, að ég sé að kæra þjóð mína. 28.20 Sakir þessa hef ég kallað yður hingað, að ég mætti sjá yður og tala við yður, því vegna vonar Ísraels ber ég þessa hlekki.' 28.21 Þeir svöruðu: 'Vér höfum ekki fengið bréf um þig frá Júdeu, og eigi hefur heldur neinn bræðranna komið hingað og birt eða talað nokkuð illt um þig. 28.22 Rétt þykir oss að heyra hjá þér, hvað þér býr í huga, en það er oss kunnugt um flokk þennan, að honum er alls staðar mótmælt.' 28.23 Þeir tóku til dag við hann, og komu þá mjög margir til hans í herbergi hans. Frá morgni til kvölds skýrði hann og vitnaði fyrir þeim um Guðs ríki og reyndi að sannfæra þá um Jesú, bæði eftir lögmáli Móse og spámönnunum. 28.24 Sumir létu sannfærast af orðum hans, en aðrir trúðu ekki. 28.25 Fóru þeir burt, ósamþykkir sín í milli, en Páll sagði þetta eitt: 'Rétt er það, sem heilagur andi mælti við feður yðar fyrir munn Jesaja spámanns: 28.26 Far til lýðs þessa og seg þú: Með eyrum munuð þér heyra og alls eigi skilja, og sjáandi munuð þér horfa og ekkert sjá. 28.27 Því að hjarta lýðs þessa er sljótt orðið, og illa heyra þeir með eyrum sínum, og augunum hafa þeir lokað, svo að þeir sjái ekki með augunum né heyri með eyrunum og skynji með hjartanu og snúi sér, og ég lækni þá. 28.28 Nú skuluð þér vita, að þetta hjálpræði Guðs hefur verið sent heiðingjunum, og þeir munu hlusta.' 28.29 --- 28.30 Full tvö ár var Páll þar í húsnæði, sem hann hafði leigt sér, og tók á móti öllum þeim, sem komu til hans.
1.1 Páll heilsar yður, þjónn Jesú Krists, kallaður til postula, kjörinn til að boða fagnaðarerindi Guðs, 1.2 sem hann gaf áður fyrirheit um fyrir munn spámanna sinna í helgum ritningum, 1.3 fagnaðarerindið um son hans, Jesú Krist, Drottin vorn, sem að holdinu er fæddur af kyni Davíðs, 1.4 en að anda heilagleikans með krafti auglýstur að vera sonur Guðs fyrir upprisu frá dauðum. 1.5 Fyrir hann hef ég öðlast náð og postuladóm til að vekja hlýðni við trúna meðal allra heiðingjanna, vegna nafns hans. 1.6 Meðal þeirra eruð þér einnig, þér sem Jesús Kristur hefur kallað sér til eignar. 1.7 Ég heilsa öllum Guðs elskuðu í Róm, sem heilagir eru samkvæmt köllun. Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. 1.8 Fyrst þakka ég Guði mínum sakir Jesú Krists fyrir yður alla, af því að orð fer af trú yðar í öllum heiminum. 1.9 Guð, sem ég þjóna í anda mínum með fagnaðarerindinu um son hans, er mér vottur þess, hve óaflátanlega ég minnist yðar 1.10 í bænum mínum. Ég bið stöðugt um það, að mér mætti loks einhvern tíma auðnast, ef Guð vildi svo verða láta, að koma til yðar. 1.11 Því að ég þrái að sjá yður, til þess að ég fái veitt yður hlutdeild í andlegri náðargjöf, svo að þér styrkist, 1.12 eða réttara sagt: Svo að vér getum uppörvast saman fyrir hina sameiginlegu trú, yðar og mína. 1.13 Ég vil ekki, bræður, að yður sé ókunnugt um, að ég hef oftsinnis ásett mér að koma til yðar, en hef verið hindraður allt til þessa. Ég vildi fá einhvern ávöxt einnig á meðal yðar, eins og með öðrum heiðnum þjóðum. 1.14 Ég er í skuld bæði við Grikki og útlendinga, vitra og fávísa. 1.15 Svo er ég og fyrir mitt leyti fús til að boða fagnaðarerindið, einnig yður, sem eruð í Róm. 1.16 Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið. Það er kraftur Guðs til hjálpræðis hverjum þeim sem trúir, Gyðingum fyrst, en einnig Grikkjum. 1.17 Því að réttlæti Guðs opinberast í því fyrir trú til trúar, eins og ritað er: 'Hinn réttláti mun lifa fyrir trú.' 1.18 Reiði Guðs opinberast af himni yfir öllu guðleysi og rangsleitni þeirra manna, er kefja sannleikann með rangsleitni, 1.19 með því að það, er vitað verður um Guð, er augljóst á meðal þeirra. Guð hefur birt þeim það. 1.20 Því að hið ósýnilega eðli hans, bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans. Mennirnir eru því án afsökunar. 1.21 Þeir þekktu Guð, en hafa samt ekki vegsamað hann eins og Guð né þakkað honum, heldur hafa þeir gjörst hégómlegir í hugsunum sínum, og hið skynlausa hjarta þeirra hefur hjúpast myrkri. 1.22 Þeir þóttust vera vitrir, en urðu heimskingjar. 1.23 Þeir skiptu á vegsemd hins ódauðlega Guðs og myndum, sem líktust dauðlegum manni, fuglum, ferfætlingum og skriðkvikindum. 1.24 Þess vegna hefur Guð ofurselt þá fýsnum hjartna þeirra til saurlifnaðar, til þess að þeir svívirtu líkami sína hver með öðrum. 1.25 Þeir hafa skipt á sannleika Guðs og lyginni og göfgað og dýrkað hið skapaða í stað skaparans, hans sem er blessaður að eilífu. Amen. 1.26 Þess vegna hefur Guð ofurselt þá svívirðilegum girndum. Bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg, 1.27 og eins hafa líka karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars, karlmenn frömdu skömm með karlmönnum og tóku út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar. 1.28 Þar eð þeir hirtu ekki um að varðveita þekkinguna á Guði, ofurseldi Guð þá ósæmilegu hugarfari, svo að þeir gjörðu það sem ekki er tilhlýðilegt, 1.29 fylltir alls konar rangsleitni, vonsku, ágirnd, illsku, fullir öfundar, manndrápa, deilu, sviksemi, illmennsku. Þeir eru rógberar, 1.30 bakmálugir, guðshatarar, smánarar, hrokafullir, gortarar, hrekkvísir, foreldrum óhlýðnir, 1.31 óskynsamir, óáreiðanlegir, kærleikslausir, miskunnarlausir, 1.32 þeir eru menn, sem þekkja réttdæmi Guðs og vita að þeir er slíkt fremja eru dauðasekir. Samt fremja þeir þetta og gjöra að auki góðan róm að slíkri breytni hjá öðrum.
2.1 Fyrir því hefur þú, maður, sem dæmir, hver sem þú ert, enga afsökun. Um leið og þú dæmir annan, dæmir þú sjálfan þig, því að þú, sem dæmir, fremur hið sama. 2.2 Vér vitum, að dómur Guðs er sannarlega yfir þeim er slíkt fremja. 2.3 En hugsar þú það, maður, þú sem dæmir þá er slíkt fremja og gjörir sjálfur hið sama, að þú fáir umflúið dóm Guðs? 2.4 Eða lítilsvirðir þú ríkdóm gæsku hans og umburðarlyndis og langlyndis? Veist þú ekki, að gæska Guðs vill leiða þig til iðrunar? 2.5 Með harðúð þinni og iðrunarlausa hjarta safnar þú sjálfum þér reiði á reiðidegi, er réttlátur dómur Guðs verður opinber. 2.6 Hann mun gjalda sérhverjum eftir verkum hans: 2.7 Þeim eilíft líf, sem með staðfestu í góðu verki leita vegsemdar, heiðurs og ódauðleika, 2.8 en þeim reiði og óvild, sem leiðast af eigingirni og óhlýðnast sannleikanum, en hlýðnast ranglætinu. 2.9 Þrenging og angist kemur yfir sérhverja mannssál, er illt fremur, yfir Gyðinginn fyrst, en einnig hinn gríska. 2.10 En vegsemd, heiður og frið hlýtur sérhver sá er gjörir hið góða, Gyðingurinn fyrst, en einnig hinn gríski. 2.11 Því að Guð fer ekki í manngreinarálit. 2.12 Allir þeir, sem syndgað hafa án lögmáls, munu og án lögmáls tortímast, og allir þeir, sem syndgað hafa undir lögmáli, munu dæmast af lögmáli. 2.13 Og ekki eru heyrendur lögmálsins réttlátir fyrir Guði, heldur munu gjörendur lögmálsins réttlættir verða. 2.14 Þegar heiðingjar, sem hafa ekki lögmál, gjöra að eðlisboði það sem lögmálið býður, þá eru þeir, þótt þeir hafi ekki neitt lögmál, sjálfum sér lögmál. 2.15 Þeir sýna, að krafa lögmálsins er rituð í hjörtum þeirra, með því að samviska þeirra ber þessu vitni og hugrenningar þeirra, sem ýmist ásaka þá eða afsaka. 2.16 Það verður á þeim degi, er Guð, samkvæmt fagnaðarerindi mínu, er ég fékk fyrir Jesú Krist, dæmir hið dulda hjá mönnunum. 2.17 En nú ert þú Gyðingur að nafni og styðst við lögmál og ert hreykinn af Guði. 2.18 Þú þekkir vilja hans og kannt að meta rétt það, sem máli skiptir, þar eð lögmálið fræðir þig. 2.19 Þú treystir sjálfum þér til að vera leiðtogi blindra, ljós þeirra sem eru í myrkri, 2.20 kennari fávísra, fræðari óvita, þar sem þú hefur þekkinguna og sannleikann skýrum stöfum í lögmálinu. 2.21 Þú sem þannig fræðir aðra, hví fræðir þú ekki sjálfan þig? Prédikar þú, að ekki skuli stela, og stelur þó? 2.22 Segir þú, að ekki skuli drýgja hór, og drýgir þó hór? Hefur þú andstyggð á skurðgoðum og rænir þó helgidóma? 2.23 Hrósar þú þér af lögmáli, og óvirðir þó Guð með því að brjóta lögmálið? 2.24 Svo er sem ritað er: 'Nafn Guðs verður yðar vegna fyrir lasti meðal heiðingjanna.' 2.25 Umskurn er gagnleg ef þú heldur lögmálið, en ef þú brýtur lögmálið, er umskurn þín orðin að engu. 2.26 Ef því óumskorinn maður fer eftir kröfum lögmálsins, mun hann þá ekki metinn sem umskorinn væri? 2.27 Og mun þá ekki sá, sem er óumskorinn og heldur lögmálið, dæma þig, sem þrátt fyrir bókstaf og umskurn brýtur lögmálið? 2.28 Ekki er sá Gyðingur, sem er það hið ytra, og ekki það umskurn, sem er það hið ytra á holdinu. 2.29 En sá er Gyðingur, sem er það hið innra, og umskurnin er umskurn hjartans í anda, en ekki í bókstaf. Lofstír hans er ekki af mönnum, heldur frá Guði.
3.1 Hvað hefur þá Gyðingurinn fram yfir? Eða hvert er gagn umskurnarinnar? 3.2 Mikið á allan hátt. Fyrst er þá það, að þeim hefur verið trúað fyrir orðum Guðs. 3.3 Hvað um það, þótt nokkrir hafi reynst ótrúir? Mundi ótrúmennska þeirra að engu gjöra trúfesti Guðs? 3.4 Fjarri fer því. Guð skal reynast sannorður, þótt hver maður reyndist lygari, eins og ritað er: 'Til þess að þú reynist réttlátur í orðum þínum og vinnir, þegar þú átt mál að verja.' 3.5 En ef ranglæti vort sannar réttlæti Guðs, hvað eigum vér þá að segja? Hvort mundi Guð vera ranglátur, er hann lætur reiðina yfir dynja? _ Ég tala á mannlegan hátt. _ 3.6 Fjarri fer því. Hvernig ætti Guð þá að dæma heiminn? 3.7 En verði sannleiki Guðs fyrir lygi mína skýrari honum til dýrðar, hvers vegna dæmist ég þá enn sem syndari? 3.8 Eigum vér þá ekki að gjöra hið illa, til þess að hið góða komi fram? Sumir bera oss þeim óhróðri að vér kennum þetta. Þeir munu fá verðskuldaðan dóm. 3.9 Hvað þá? Höfum vér þá nokkuð fram yfir? Nei, alls ekki. Vér höfum áður gefið bæði Gyðingum og Grikkjum að sök, að þeir væru allir undir synd. 3.10 Eins og ritað er: Ekki er neinn réttlátur, ekki einn. 3.11 Ekki er neinn vitur, ekki neinn sem leitar Guðs. 3.12 Allir eru þeir fallnir frá, allir saman ófærir orðnir. Ekki er neinn sem auðsýnir gæsku, ekki einn einasti. 3.13 Opin gröf er barki þeirra, með tungum sínum draga þeir á tálar. Höggorma eitur er innan vara þeirra, 3.14 munnur þeirra er fullur bölvunar og beiskju. 3.15 Hvatir eru þeir í spori að úthella blóði. 3.16 Tortíming og eymd er í slóð þeirra, 3.17 og veg friðarins þekkja þeir ekki. 3.18 Fyrir augum þeirra er enginn guðsótti. 3.19 Vér vitum, að allt sem lögmálið segir, það talar það til þeirra sem eru undir lögmálinu, til þess að sérhver munnur þagni og allur heimurinn verði sekur fyrir Guði, 3.20 með því að enginn lifandi maður réttlætist fyrir honum af lögmálsverkum. En fyrir lögmál kemur þekking syndar. 3.21 En nú hefur réttlæti Guðs, sem lögmálið og spámennirnir vitna um, verið opinberað án lögmáls. 3.22 Það er: Réttlæti Guðs fyrir trú á Jesú Krist öllum þeim til handa, sem trúa. Hér er enginn greinarmunur: 3.23 Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð, 3.24 og þeir réttlætast án verðskuldunar af náð hans fyrir endurlausnina, sem er í Kristi Jesú. 3.25 Guð setti hann fram, að hann með blóði sínu væri sáttarfórn þeim sem trúa. Þannig sýndi Guð réttlæti sitt, því að hann hafði í umburðarlyndi sínu umborið hinar áður drýgðu syndir, 3.26 til þess að auglýsa réttlæti sitt á yfirstandandi tíma, að hann sé sjálfur réttlátur og réttlæti þann, sem trúir á Jesú. 3.27 Hvar er þá hrósunin? Hún er úti lokuð. Með hvaða lögmáli? Verkanna? Nei, heldur með lögmáli trúar. 3.28 Vér ályktum því, að maðurinn réttlætist af trú án lögmálsverka. 3.29 Eða er Guð einungis Guð Gyðinga? Ekki líka heiðingja? Jú, líka heiðingja; 3.30 svo sannarlega sem Guð er einn, sem mun réttlæta umskorna menn af trú og óumskorna fyrir trúna. 3.31 Gjörum vér þá lögmálið að engu með trúnni? Fjarri fer því. Vér staðfestum lögmálið.
4.1 Hvað eigum vér þá að segja um Abraham, forföður vorn, hvað ávann hann? 4.2 Ef hann réttlættist af verkum, þá hefur hann hrósunarefni, en ekki fyrir Guði. 4.3 Því hvað segir ritningin: 'Abraham trúði Guði, og það var reiknað honum til réttlætis.' 4.4 Þeim sem vinnur verða launin ekki reiknuð af náð, heldur eftir verðleika. 4.5 Hinum aftur á móti, sem ekki vinnur, en trúir á hann sem réttlætir óguðlegan, er trú hans reiknuð til réttlætis. 4.6 Eins og líka Davíð lýsir þann mann sælan, sem Guð tilreiknar réttlæti án tillits til verka: 4.7 Sælir eru þeir, sem afbrotin eru fyrirgefin og syndir þeirra huldar. 4.8 Sæll er sá maður, sem Drottinn tilreiknar ekki synd. 4.9 Nær þá sæluboðun þessi aðeins til umskorinna manna? Eða líka til óumskorinna? Vér segjum: 'Trúin var Abraham til réttlætis reiknuð.' 4.10 Hvernig var hún þá tilreiknuð honum? Umskornum eða óumskornum? Hann var ekki umskorinn, heldur óumskorinn. 4.11 Og hann fékk tákn umskurnarinnar sem staðfestingu þess réttlætis af trú, sem hann átti óumskorinn. Þannig skyldi hann vera faðir allra þeirra, sem trúa óumskornir, til þess að réttlætið tilreiknist þeim, 4.12 og eins faðir þeirra umskornu manna, sem eru ekki aðeins umskornir heldur feta veg þeirrar trúar, er faðir vor Abraham hafði óumskorinn. 4.13 Ekki var Abraham eða niðjum hans fyrir lögmál gefið fyrirheitið, að hann skyldi verða erfingi heimsins, heldur fyrir trúar-réttlæti. 4.14 Ef lögmálsmennirnir eru erfingjar, er trúin ónýtt og fyrirheitið að engu gjört. 4.15 Því að lögmálið vekur reiði. En þar sem ekki er lögmál, þar eru ekki heldur lögmálsbrot. 4.16 Því er fyrirheitið byggt á trú, til þess að það sé af náð, og megi stöðugt standa fyrir alla niðja hans, ekki fyrir þá eina, sem hafa lögmálið, heldur og fyrir þá, sem eiga trú Abrahams. Hann er faðir vor allra, 4.17 eins og skrifað stendur: 'Föður margra þjóða hef ég sett þig.' Og það er hann frammi fyrir Guði, sem hann trúði á, honum sem lífgar dauða og kallar fram það, sem ekki er til eins og það væri til. 4.18 Abraham trúði með von, gegn von, að hann skyldi verða faðir margra þjóða, samkvæmt því sem sagt hafði verið: 'Svo skal afkvæmi þitt verða.' 4.19 Og ekki veiklaðist hann í trúnni þótt hann minntist þess, að hann var kominn að fótum fram _ hann var nálega tíræður, _ og að Sara gat ekki orðið barnshafandi sakir elli. 4.20 Um fyrirheit Guðs efaðist hann ekki með vantrú, heldur gjörðist styrkur í trúnni. Hann gaf Guði dýrðina, 4.21 og var þess fullviss, að hann er máttugur að efna það, sem hann hefur lofað. 4.22 'Fyrir því var það honum og til réttlætis reiknað.' 4.23 En að það var honum tilreiknað, það var ekki ritað hans vegna einungis, 4.24 heldur líka vor vegna. Oss mun það tilreiknað verða, sem trúum á hann, sem uppvakti Jesú, Drottin vorn, frá dauðum, 4.25 hann sem var framseldur vegna misgjörða vorra og vegna réttlætingar vorrar uppvakinn.
5.1 Réttlættir af trú höfum vér því frið við Guð fyrir Drottin vorn Jesú Krist. 5.2 Fyrir hann höfum vér aðgang að þeirri náð, sem vér lifum í, og vér fögnum í von um dýrð Guðs. 5.3 En ekki það eitt: Vér fögnum líka í þrengingunum, með því að vér vitum, að þrengingin veitir þolgæði, 5.4 en þolgæðið fullreynd, en fullreyndin von. 5.5 En vonin bregst oss ekki, því að kærleika Guðs er úthellt í hjörtum vorum fyrir heilagan anda, sem oss er gefinn. 5.6 Meðan vér enn vorum óstyrkir, dó Kristur á settum tíma fyrir óguðlega. 5.7 Annars gengur varla nokkur í dauðann fyrir réttlátan mann, _ fyrir góðan mann kynni ef til vill einhver að vilja deyja. _ 5.8 En Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum. 5.9 Þar sem vér nú erum réttlættir fyrir blóð hans, því fremur mun hann frelsa oss frá reiðinni. 5.10 Því að ef vér vorum óvinir Guðs og urðum sættir við hann með dauða sonar hans, því fremur munum vér frelsaðir verða með lífi sonar hans, nú er vér erum í sátt teknir. 5.11 Og ekki það eitt, heldur fögnum vér í Guði fyrir Drottin vorn Jesú Krist, sem vér nú höfum öðlast sáttargjörðina fyrir. 5.12 Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað. 5.13 Því að allt fram að lögmálinu var synd í heiminum, en synd tilreiknast ekki meðan ekki er lögmál. 5.14 Samt sem áður hefur dauðinn ríkt frá Adam til Móse einnig yfir þeim, sem ekki höfðu syndgað á sömu lund og Adam braut, en Adam vísar til hans sem koma átti. 5.15 En náðargjöfinni og misgjörðinni verður ekki jafnað saman. Því að hafi hinir mörgu dáið sakir þess að einn féll, því fremur hefur náð Guðs og gjöf streymt ríkulega til hinna mörgu í hinum eina manni Jesú Kristi, sem er náðargjöf Guðs. 5.16 Og ekki verður gjöfinni jafnað til þess, sem leiddi af synd hins eina manns. Því að dómurinn vegna þess, sem hinn eini hafði gjört, varð til sakfellingar, en náðargjöfin vegna misgjörða margra til sýknunar. 5.17 Ef misgjörð hins eina manns hafði í för með sér, að dauðinn tók völd með þeim eina manni, því fremur munu þá þeir, sem þiggja gnóttir náðarinnar og gjafar réttlætisins, lifa og ríkja vegna hins eina Jesú Krists. 5.18 Eins og af misgjörð eins leiddi sakfellingu fyrir alla menn, þannig leiðir og af réttlætisverki eins sýknun og líf fyrir alla menn. 5.19 Eins og hinir mörgu urðu að syndurum fyrir óhlýðni hins eina manns, þannig mun hlýðni hins eina réttlæta hina mörgu. 5.20 En hér við bættist svo lögmálið, til þess að misgjörðin yrði meiri. En þar sem syndin jókst, þar flóði náðin yfir enn meir. 5.21 Og eins og syndin ríkti í dauðanum, svo skyldi og náðin ríkja fyrir réttlæti til eilífs lífs í Jesú Kristi, Drottni vorum.
6.1 Hvað eigum vér þá að segja? Eigum vér að halda áfram í syndinni til þess að náðin aukist? 6.2 Fjarri fer því. Vér sem dóum syndinni, hvernig ættum vér framar að lifa í henni? 6.3 Eða vitið þér ekki, að allir vér, sem skírðir erum til Krists Jesú, erum skírðir til dauða hans? 6.4 Vér erum því dánir og greftraðir með honum í skírninni, til þess að lifa nýju lífi, eins og Kristur var upp vakinn frá dauðum fyrir dýrð föðurins. 6.5 Því að ef vér erum orðnir samgrónir honum í líkingu dauða hans, munum vér einnig vera það í líkingu upprisu hans. 6.6 Vér vitum, að vor gamli maður er með honum krossfestur, til þess að líkami syndarinnar skuli að engu verða og vér ekki framar þjóna syndinni. 6.7 Því að sá, sem dauður er, er leystur frá syndinni. 6.8 Ef vér erum með Kristi dánir, trúum vér því, að vér og munum með honum lifa. 6.9 Vér vitum að Kristur, upp vakinn frá dauðum, deyr ekki framar. Dauðinn drottnar ekki lengur yfir honum. 6.10 Með dauða sínum dó hann syndinni í eitt skipti fyrir öll, en með lífi sínu lifir hann Guði. 6.11 Þannig skuluð þér líka álíta yður sjálfa vera dauða syndinni, en lifandi Guði í Kristi Jesú. 6.12 Látið því ekki syndina ríkja í dauðlegum líkama yðar, svo að þér hlýðnist girndum hans. 6.13 Ljáið ekki heldur syndinni limi yðar að ranglætisvopnum, heldur bjóðið sjálfa yður Guði sem lifnaða frá dauðum og limi yðar Guði sem réttlætisvopn. 6.14 Synd skal ekki drottna yfir yður, því að ekki eruð þér undir lögmáli, heldur undir náð. 6.15 Hvað þá? Eigum vér að syndga, af því að vér erum ekki undir lögmáli, heldur undir náð? Fjarri fer því. 6.16 Vitið þér ekki, að ef þér bjóðið öðrum sjálfa yður fyrir þjóna og hlýðið honum, þá eruð þér þjónar þess, sem þér hlýðið, hvort heldur er syndar til dauða eða hlýðni til réttlætis? 6.17 En þökk sé Guði! Þér voruð þjónar syndarinnar, en urðuð af hjarta hlýðnir þeirri kenningu, sem þér voruð á vald gefnir. 6.18 Og þér gjörðust þjónar réttlætisins eftir að hafa verið leystir frá syndinni. 6.19 Ég tala á mannlegan hátt, sökum veikleika yðar. Því að eins og þér hafið boðið limi yðar óhreinleikanum og ranglætinu fyrir þjóna til ranglætis, svo skuluð þér nú bjóða limi yðar réttlætinu fyrir þjóna til helgunar. 6.20 Þegar þér voruð þjónar syndarinnar, þá voruð þér lausir við réttlætið. 6.21 Hvaða ávöxtu höfðuð þér þá? Þá sem þér nú blygðist yðar fyrir, því að þeir leiða að lokum til dauða. 6.22 En nú, með því að þér eruð leystir frá syndinni, en eruð orðnir þjónar Guðs, þá hafið þér ávöxt yðar til helgunar og eilíft líf að lokum. 6.23 Laun syndarinnar er dauði, en náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum.
7.1 Vitið þér ekki, bræður, _ ég er hér að tala til þeirra, sem lögmál þekkja, _ að lögmálið drottnar yfir manninum svo lengi sem hann lifir. 7.2 Gift kona er að lögum bundin manni sínum, meðan hann lifir. En deyi maðurinn, er hún leyst undan lögmálinu, sem bindur hana við manninn. 7.3 Því mun hún hórkona teljast, ef hún, að manninum lifandi, verður annars manns. En deyi maðurinn er hún laus undan lögmálinu, svo að hún er ekki hórkona, þótt hún verði annars manns. 7.4 Eins er um yður, bræður mínir. Þér eruð dánir lögmálinu fyrir líkama Krists, til þess að verða öðrum gefnir, honum sem var upp vakinn frá dauðum, svo að vér mættum bera Guði ávöxt. 7.5 Þegar vér lifðum að holdsins hætti, störfuðu ástríður syndanna, sem lögmálið hafði vakið, í limum vorum, svo að vér bærum dauðanum ávöxt. 7.6 En nú erum vér leystir undan lögmálinu, þar sem vér erum dánir því, sem áður hélt oss bundnum, og þjónum í nýjung anda, en ekki í fyrnsku bókstafs. 7.7 Hvað eigum vér þá að segja? Er lögmálið synd? Fjarri fer því. En satt er það: Ég þekkti ekki syndina nema fyrir lögmálið. Ég hefði ekki vitað um girndina, hefði ekki lögmálið sagt: 'Þú skalt ekki girnast.' 7.8 En syndin sætti lagi og vakti í mér alls kyns girnd með boðorðinu. Án lögmáls er syndin dauð. 7.9 Ég lifði einu sinni án lögmáls, en er boðorðið kom lifnaði syndin við, 7.10 en ég dó. Og boðorðið, sem átti að verða til lífs, það reyndist mér vera til dauða. 7.11 Því að syndin sætti lagi, dró mig á tálar með boðorðinu og deyddi mig með því. 7.12 Þannig er þá lögmálið heilagt og boðorðið heilagt, réttlátt og gott. 7.13 Varð þá hið góða mér til dauða? Fjarri fer því! Nei, það var syndin. Til þess að hún birtist sem synd, olli hún mér dauða með því, sem gott er. Þannig skyldi syndin verða yfir sig syndug fyrir boðorðið. 7.14 Vér vitum, að lögmálið er andlegt, en ég er holdlegur, seldur undir syndina. 7.15 Því að ég veit ekki, hvað ég aðhefst. Það sem ég vil, það gjöri ég ekki, en það sem ég hata, það gjöri ég. 7.16 En ef ég nú gjöri einmitt það, sem ég vil ekki, þá er ég samþykkur lögmálinu, að það sé gott. 7.17 En nú er það ekki framar ég sjálfur, sem gjöri þetta, heldur syndin, sem í mér býr. 7.18 Ég veit, að ekki býr neitt gott í mér, það er, í holdi mínu. Að vilja veitist mér auðvelt, en ekki að framkvæma hið góða. 7.19 Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég. 7.20 En ef ég gjöri það, sem ég vil ekki, þá er það ekki lengur ég sjálfur, sem framkvæmi það, heldur syndin, sem í mér býr. 7.21 Þannig reynist mér það þá regla fyrir mig, sem vil gjöra hið góða, að hið illa er mér tamast. 7.22 Innra með mér hef ég mætur á lögmáli Guðs, 7.23 en ég sé annað lögmál í limum mínum, sem berst á móti lögmáli hugar míns og hertekur mig undir lögmál syndarinnar í limum mínum. 7.24 Ég aumur maður! Hver mun frelsa mig frá þessum dauðans líkama? 7.25 Ég þakka Guði fyrir Jesú Krist, Drottin vorn. Svo þjóna ég þá sjálfur lögmáli Guðs með huga mínum, en lögmáli syndarinnar með holdinu.
8.1 Nú er því engin fordæming fyrir þá, sem tilheyra Kristi Jesú. 8.2 Lögmál lífsins anda hefur í Kristi Jesú frelsað þig frá lögmáli syndarinnar og dauðans. 8.3 Það sem lögmálinu var ógerlegt, að því leyti sem það mátti sín einskis fyrir holdinu, það gjörði Guð. Með því að senda sinn eigin son í líkingu syndugs manns gegn syndinni, dæmdi Guð syndina í manninum. 8.4 Þannig varð réttlætiskröfu lögmálsins fullnægt hjá oss, sem lifum ekki eftir holdi, heldur eftir anda. 8.5 Því að þeir sem láta stjórnast af holdinu, hyggja á það sem holdsins er, en þeir, sem láta stjórnast af andanum, hyggja á það sem andans er. 8.6 Hyggja holdsins er dauði, en hyggja andans líf og friður. 8.7 Hyggja holdsins er fjandskapur gegn Guði, með því að hún lýtur ekki lögmáli Guðs, enda getur hún það ekki. 8.8 Þeir, sem eru holdsins menn, geta ekki þóknast Guði. 8.9 En þér eruð ekki holdsins menn, heldur andans menn, þar sem andi Guðs býr í yður. En hafi einhver ekki anda Krists, þá er sá ekki hans. 8.10 Ef Kristur er í yður, þá er líkaminn að sönnu dauður vegna syndarinnar, en andinn veitir líf vegna réttlætisins. 8.11 Ef andi hans, sem vakti Jesú frá dauðum, býr í yður, þá mun hann, sem vakti Krist frá dauðum, einnig gjöra dauðlega líkami yðar lifandi með anda sínum, sem í yður býr. 8.12 Þannig erum vér, bræður, í skuld, ekki við holdið að lifa að hætti holdsins. 8.13 Því að ef þér lifið að hætti holdsins, munuð þér deyja, en ef þér deyðið með andanum gjörðir líkamans, munuð þér lifa. 8.14 Því að allir þeir, sem leiðast af anda Guðs, þeir eru Guðs börn. 8.15 En þér hafið ekki fengið anda, sem gjörir yður að þrælum að lifa aftur í hræðslu, heldur hafið þér fengið anda, sem gefur yður barnarétt. Í þeim anda köllum vér: 'Abba, faðir!' 8.16 Sjálfur andinn vitnar með vorum anda, að vér erum Guðs börn. 8.17 En ef vér erum börn, þá erum vér líka erfingjar, og það erfingjar Guðs, en samarfar Krists, því að vér líðum með honum, til þess að vér einnig verðum vegsamlegir með honum. 8.18 Ég lít svo á, að ekki séu þjáningar þessa tíma neitt í samanburði við þá dýrð, sem á oss mun opinberast. 8.19 Því að sköpunin þráir, að Guðs börn verði opinber. 8.20 Sköpunin var undirorpin fallvaltleikanum, ekki sjálfviljug, heldur vegna hans, sem varp henni undir hann, 8.21 í von um að jafnvel sjálf sköpunin muni verða leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna. 8.22 Vér vitum, að öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa. 8.23 En ekki einungis hún, heldur og vér, sem höfum frumgróða andans, jafnvel vér stynjum með sjálfum oss meðan vér bíðum þess, að Guð gefi oss barnarétt og endurleysi líkami vora. 8.24 Því að í voninni erum vér hólpnir orðnir. Von, er sést, er ekki von, því að hver vonar það, sem hann sér? 8.25 En ef vér vonum það, sem vér sjáum ekki, þá bíðum vér þess með þolinmæði. 8.26 Þannig hjálpar og andinn oss í veikleika vorum. Vér vitum ekki, hvers vér eigum að biðja eins og ber, en sjálfur andinn biður fyrir oss með andvörpum, sem ekki verður orðum að komið. 8.27 En hann, sem hjörtun rannsakar, veit hver er hyggja andans, að hann biður fyrir heilögum eftir vilja Guðs. 8.28 Vér vitum, að þeim, sem Guð elska, samverkar allt til góðs, þeim sem kallaðir eru samkvæmt ákvörðun Guðs. 8.29 Því að þá, sem hann þekkti fyrirfram, hefur hann og fyrirhugað til þess að líkjast mynd sonar síns, svo að hann sé frumburður meðal margra bræðra. 8.30 Þá sem hann fyrirhugaði, þá hefur hann og kallað, og þá sem hann kallaði, hefur hann og réttlætt, en þá sem hann réttlætti, hefur hann einnig vegsamlega gjört. 8.31 Hvað eigum vér þá að segja við þessu? Ef Guð er með oss, hver er þá á móti oss? 8.32 Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni, heldur framseldi hann fyrir oss alla, hví skyldi hann ekki líka gefa oss allt með honum? 8.33 Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Guð sýknar. 8.34 Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá, sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir oss. 8.35 Hver mun gjöra oss viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? 8.36 Það er eins og ritað er: Þín vegna erum vér deyddir allan daginn, erum metnir sem sláturfé. 8.37 Nei, í öllu þessu vinnum vér fullan sigur fyrir fulltingi hans, sem elskaði oss. 8.38 Því að ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, 8.39 hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum.
9.1 Ég tala sannleika í Kristi, ég lýg ekki. Samviska mín vitnar það með mér, upplýst af heilögum anda, 9.2 að ég hef hryggð mikla og sífellda kvöl í hjarta mínu. 9.3 Ég gæti óskað, að mér væri sjálfum útskúfað frá Kristi, ef það yrði til heilla fyrir bræður mína og ættmenn, 9.4 Ísraelsmenn. Þeir fengu sonarréttinn, dýrðina, sáttmálana, löggjöfina, helgihaldið og fyrirheitin. 9.5 Þeim tilheyra og feðurnir, og af þeim er Kristur kominn sem maður, hann sem er yfir öllu, Guð, blessaður um aldir. Amen. 9.6 Það er ekki svo sem Guðs orð hafi brugðist. Því að ekki eru allir þeir Ísraelsmenn, sem af Ísrael eru komnir. 9.7 Ekki eru heldur allir börn Abrahams, þótt þeir séu niðjar hans, heldur: 'Afkomendur Ísaks munu taldir verða niðjar þínir.' 9.8 Það merkir: Ekki eru líkamlegir afkomendur hans Guðs börn, heldur teljast fyrirheitsbörnin sannir niðjar. 9.9 Því að þetta orð er fyrirheit: 'Í þetta mund mun ég aftur koma, og þá skal Sara hafa son alið.' 9.10 Og ekki nóg með það. Því var líka svo farið með Rebekku. Hún var þunguð að tveim sveinum af eins manns völdum, Ísaks föður vors. 9.11 Nú, til þess að það stæði stöðugt, að ákvörðun Guðs um útvalningu væri óháð verkunum og öll komin undir vilja þess, er kallar, 9.12 þá var henni sagt, áður en sveinarnir voru fæddir og áður en þeir höfðu aðhafst gott eða illt: 'Hinn eldri skal þjóna hinum yngri.' 9.13 Eins og ritað er: 'Jakob elskaði ég, en Esaú hataði ég.' 9.14 Hvað eigum vér þá að segja? Er Guð óréttvís? Fjarri fer því. 9.15 Því hann segir við Móse: 'Ég mun miskunna þeim, sem ég vil miskunna, og líkna þeim, sem ég vil líkna.' 9.16 Það er því ekki komið undir vilja mannsins né áreynslu, heldur Guði, sem miskunnar. 9.17 Því er í Ritningunni sagt við Faraó: 'Einmitt til þess hóf ég þig, að ég fengi sýnt mátt minn á þér og nafn mitt yrði boðað um alla jörðina.' 9.18 Svo miskunnar hann þá þeim, sem hann vill, en forherðir þann, sem hann vill. 9.19 Þú munt nú vilja segja við mig: 'Hvað er hann þá að ásaka oss framar? Hver fær staðið gegn vilja hans?' 9.20 Hver ert þú, maður, að þú skulir deila á Guð? Hvort mundi smíðisgripurinn segja við smiðinn: 'Hví gjörðir þú mig svona?' 9.21 Eða hefur ekki leirkerasmiðurinn leirinn á valdi sínu, svo að hann megi gjöra úr sama deiginu ker til sæmdar og annað til vansæmdar? 9.22 En ef nú Guð, sem vildi sýna reiði sína og auglýsa mátt sinn, hefur með miklu langlyndi umborið ker reiðinnar, sem búin eru til glötunar, 9.23 og ef hann hefur gjört það til þess að auglýsa ríkdóm dýrðar sinnar á kerum miskunnarinnar, sem hann hafði fyrirfram búið til dýrðar? 9.24 Slík ker erum vér, sem hann hefur kallað, ekki aðeins úr flokki Gyðinga, heldur og úr flokki heiðingja. 9.25 Eins og hann líka segir hjá Hósea: Lýð, sem ekki var minn, mun ég kalla minn, og þá elskaða, sem ekki var elskuð, 9.26 og á þeim stað, þar sem við þá var sagt: þér eruð ekki minn lýður, þar munu þeir verða kallaðir synir Guðs lifanda. 9.27 En Jesaja hrópar yfir Ísrael: 'Þótt tala Ísraels sona væri eins og sandur sjávarins, þá skulu leifar einar frelsaðar verða. 9.28 Drottinn mun gjöra upp reikning sinn á jörðunni, binda enda á hann og ljúka við hann í skyndi,' 9.29 og eins hefur Jesaja sagt: 'Ef Drottinn hersveitanna hefði ekki látið oss eftir niðja, værum vér orðnir eins og Sódóma, vér værum líkir Gómorru.' 9.30 Hvað eigum vér þá að segja? Heiðingjarnir, sem ekki sóttust eftir réttlæti, hafa öðlast réttlæti, _ réttlæti, sem er af trú. 9.31 En Ísrael, sem vildi halda lögmál er veitt gæti réttlæti, náði því ekki. 9.32 Hvers vegna? Af því að þeir ætluðu sér að réttlætast með verkum, ekki af trú. Þeir hnutu um ásteytingarsteininn, 9.33 eins og ritað er: Sjá ég set í Síon ásteytingarstein og hrösunarhellu. Sérhver, sem á hann trúir, mun ekki verða til skammar.
10.1 Bræður, það er hjartans ósk mín og bæn til Guðs, að þeir megi hólpnir verða. 10.2 Það ber ég þeim, að þeir eru kappsfullir Guðs vegna, en ekki með réttum skilningi. 10.3 Með því þeir þekkja ekki réttlæti Guðs og leitast við að koma til vegar eigin réttlæti, hafa þeir ekki gefið sig undir réttlæti Guðs. 10.4 En Kristur er endalok lögmálsins, svo að nú réttlætist sérhver sá, sem trúir. 10.5 Því að Móse ritar um réttlætið, sem lögmálið veitir: 'Sá maður, sem breytir eftir lögmálinu, mun lifa fyrir það.' 10.6 En réttlætið af trúnni mælir þannig: 'Seg þú ekki í hjarta þínu: Hver mun fara upp í himininn?' _ það er: til að sækja Krist ofan, _ 10.7 eða: 'Hver mun stíga niður í undirdjúpið?' _ það er: til að sækja Krist upp frá dauðum. 10.8 Hvað segir það svo? 'Nálægt þér er orðið, í munni þínum og í hjarta þínu.' Það er: Orð trúarinnar, sem vér prédikum. 10.9 Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn _ og trúir í hjarta þínu, að Guð hafi uppvakið hann frá dauðum, muntu hólpinn verða. 10.10 Með hjartanu er trúað til réttlætis, en með munninum játað til hjálpræðis. 10.11 Ritningin segir: 'Hver sem trúir á hann, mun ekki til skammar verða.' 10.12 Ekki er munur á Gyðingi og grískum manni, því að hinn sami er Drottinn allra, fullríkur fyrir alla þá sem ákalla hann; 10.13 því að 'hver sem ákallar nafn Drottins, mun hólpinn verða.' 10.14 En hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki? 10.15 Og hver getur prédikað, nema hann sé sendur? Svo er og ritað: 'Hversu fagurt er fótatak þeirra, sem færa fagnaðarboðin góðu.' 10.16 En þeir hlýddu ekki allir fagnaðarerindinu. Jesaja segir: 'Drottinn, hver trúði því, sem vér boðuðum?' 10.17 Svo kemur þá trúin af boðuninni, en boðunin byggist á orði Krists. 10.18 En ég spyr: Hafa þeir ekki heyrt? Jú, vissulega, 'raust þeirra hefur borist út um alla jörðina og orð þeirra til endimarka heimsbyggðarinnar.' 10.19 Og ég spyr: Hvort skildi Ísrael það ekki? Fyrst segir Móse: 'Vekja vil ég yður til afbrýði gegn þjóð, sem ekki er þjóð, egna vil ég yður til reiði gegn óviturri þjóð.' 10.20 Og Jesaja er svo djarfmáll að segja: 'Ég hef látið þá finna mig, sem leituðu mín ekki. Ég er orðinn augljós þeim, sem spurðu ekki að mér.' 10.21 En við Ísrael segir hann: 'Allan daginn breiddi ég út hendur mínar móti óhlýðnum og þverbrotnum lýð.'
11.1 Ég spyr nú: Hefur Guð útskúfað lýð sínum? Fjarri fer því. Sjálfur er ég Ísraelsmaður, af kyni Abrahams, ættkvísl Benjamíns. 11.2 Guð hefur ekki útskúfað lýð sínum, sem hann þekkti fyrirfram. Eða vitið þér ekki, hvað Ritningin segir í kaflanum um Elía, hvernig hann kemur fram fyrir Guð með kæru á hendur Ísrael: 11.3 'Drottinn, spámenn þína hafa þeir drepið og rifið niður ölturu þín og ég er einn skilinn eftir, og þeir sitja um líf mitt.' 11.4 En hvaða svar fær hann hjá Guði? 'Sjálfum mér hef ég eftir skilið sjö þúsundir manna, sem hafa ekki beygt kné fyrir Baal.' 11.5 Svo eru þá líka á vorum tíma leifar orðnar eftir, sem Guð hefur útvalið af náð. 11.6 En ef það er af náð, þá er það ekki framar af verkum, annars væri náðin ekki framar náð. 11.7 Hvað þá? Það sem Ísrael sækist eftir, það hlotnaðist honum ekki, en hinum útvöldu hlotnaðist það. Hinir urðu forhertir, 11.8 eins og ritað er: Guð gaf þeim sljóan anda, augu sem sjá ekki, eyru sem heyra ekki, allt fram á þennan dag. 11.9 Og Davíð segir: Verði borðhald þeirra snara og gildra, til falls og til hegningar þeim! 11.10 Blindist augu þeirra, til þess að þeir sjái ekki, og gjör bak þeirra bogið um aldur. 11.11 Þá spyr ég: Hvort hrösuðu þeir til þess að þeir skyldu farast? Fjarri fer því, heldur hlotnaðist heiðingjunum hjálpræðið af falli þeirra, til þess að það skyldi vekja þá til afbrýði. 11.12 En ef fall þeirra er heiminum auður og tjón þeirra heiðingjum auður, hve miklu fremur þá ef þeir koma allir? 11.13 En við yður, þér heiðingjar, segi ég: Að því leyti sem ég er postuli heiðingja, vegsama ég þjónustu mína. 11.14 Ég gæti ef til vill vakið afbrýði hjá ættmönnum mínum og frelsað einhverja þeirra. 11.15 Því ef það varð sáttargjörð fyrir heiminn, að þeim var hafnað, hvað verður þá upptaka þeirra annað en líf af dauðum? 11.16 Ef frumgróðinn er heilagur, þá er einnig deigið það. Og ef rótin er heilög, þá eru einnig greinarnar það. 11.17 En þótt nokkrar af greinunum hafi verið brotnar af, og hafir þú, sem ert villiolíuviður, verið græddur inn á meðal þeirra og sért orðinn hluttakandi með þeim í rótarsafa olíuviðarins, 11.18 þá stær þig ekki gegn greinunum. Ef þú stærir þig, þá vit, að þú berð ekki rótina, heldur rótin þig. 11.19 Þú munt þá segja: 'Greinarnar voru brotnar af, til þess að ég yrði græddur við.' 11.20 Rétt er það. Fyrir sakir vantrúarinnar voru þær brotnar af, en vegna trúarinnar stendur þú. Hreyktu þér ekki upp, heldur óttast þú. 11.21 Því að hafi Guð ekki þyrmt hinum náttúrlegu greinum, þá mun hann ekki heldur þyrma þér. 11.22 Sjá því gæsku Guðs og strangleika, _ strangleika við þá, sem fallnir eru, en gæsku Guðs við þig, ef þú stendur stöðugur í gæskunni; annars verður þú einnig af höggvinn. 11.23 En hinir munu og verða græddir við, ef þeir halda ekki áfram í vantrúnni, því að megnugur er Guð þess að græða þá aftur við. 11.24 Þú varst höggvinn af þeim olíuviði, sem eftir eðli sínu var villiviður, og ert gegn eðli náttúrunnar græddur við ræktaðan olíuvið. Hve miklu fremur munu þá þessar náttúrlegu greinar verða græddar við eigin olíuvið? 11.25 Ég vil ekki, bræður mínir, að yður sé ókunnugt um þennan leyndardóm, til þess að þér skuluð ekki með sjálfum yður ætla yður hyggna. Forherðing er komin yfir nokkurn hluta af Ísrael og varir þangað til heiðingjarnir eru allir komnir inn. 11.26 Og þannig mun allur Ísrael frelsaður verða, eins og ritað er: Frá Síon mun frelsarinn koma og útrýma guðleysi frá Jakob. 11.27 Og þetta er sáttmáli minn við þá, þegar ég tek burt syndir þeirra. 11.28 Í ljósi fagnaðarerindisins eru þeir óvinir Guðs vegna yðar, en í ljósi útvalningarinnar elskaðir sakir feðranna. 11.29 Guð iðrar ekki náðargjafa sinna og köllunar. 11.30 Þér voruð fyrrum óhlýðnir Guði, en hafið nú hlotið miskunn vegna óhlýðni þeirra. 11.31 Þannig hafa þeir nú líka orðið óhlýðnir, til þess að einnig þeim mætti miskunnað verða fyrir miskunn þá, sem yður er veitt. 11.32 Guð hefur gefið alla óhlýðninni á vald, til þess að hann geti miskunnað öllum. 11.33 Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans og órekjandi vegir hans! 11.34 Hver hefur þekkt huga Drottins? Eða hver hefur verið ráðgjafi hans? 11.35 Hver hefur að fyrra bragði gefið honum, svo að það eigi að verða honum endurgoldið? 11.36 Því að frá honum og fyrir hann og til hans eru allir hlutir. Honum sé dýrð um aldir alda! Amen.
12.1 Því brýni ég yður, bræður, að þér, vegna miskunnar Guðs, bjóðið fram sjálfa yður að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn og rétt guðsdýrkun af yðar hendi. 12.2 Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna. 12.3 Fyrir þá náð, sem mér er gefin, segi ég yður hverjum og einum að hugsa ekki hærra um sig en hugsa ber, heldur í réttu hófi, og halda sér hver og einn við þann mæli trúar, sem Guð hefur úthlutað honum. 12.4 Vér höfum á einum líkama marga limi, en limirnir hafa ekki allir sama starfa. 12.5 Eins erum vér, þótt margir séum, einn líkami í Kristi, en hver um sig annars limir. 12.6 Vér höfum margvíslegar náðargjafir, eftir þeirri náð, sem oss er gefin. Sé það spádómsgáfa, þá notum hana í hlutfalli við trúna. 12.7 Sé það þjónusta, skulum vér þjóna. Sá sem kennir, hann kenni, 12.8 sá sem áminnir, hann áminni. Sá sem útbýtir gjöfum, gjöri það í einlægni. Sá sem veitir forstöðu, sé kostgæfinn og sá sem iðkar miskunnsemi, gjöri það með gleði. 12.9 Elskan sé flærðarlaus. Hafið andstyggð á hinu vonda, en haldið fast við hið góða. 12.10 Sýnið hver öðrum bróðurkærleika og ástúð, og verið hver yðar fyrri til að veita öðrum virðing. 12.11 Verið ekki hálfvolgir í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið Drottni. 12.12 Verið glaðir í voninni, þolinmóðir í þjáningunni og staðfastir í bæninni. 12.13 Takið þátt í þörfum heilagra, stundið gestrisni. 12.14 Blessið þá, er ofsækja yður, blessið þá, en bölvið þeim ekki. 12.15 Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum. 12.16 Berið sama hug til allra, hreykið yður ekki, en haldið yður að hinum lítilmótlegu. Ætlið yður ekki hyggna með sjálfum yður. 12.17 Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna. 12.18 Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi. 12.19 Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því að ritað er: 'Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn.' 12.20 En 'ef óvin þinn hungrar, þá gef honum að eta, ef hann þyrstir, þá gef honum að drekka. Með því að gjöra þetta, safnar þú glóðum elds á höfuð honum.' 12.21 Lát ekki hið vonda yfirbuga þig, heldur sigra þú illt með góðu.
13.1 Sérhver maður hlýði þeim yfirvöldum, sem hann er undirgefinn. Því ekki er neitt yfirvald til nema frá Guði, og þau sem til eru, þau eru skipuð af Guði. 13.2 Sá sem veitir yfirvöldunum mótstöðu, hann veitir Guðs tilskipun mótstöðu, og þeir sem veita mótstöðu munu fá dóm sinn. 13.3 Sá sem vinnur góð verk þarf ekki að óttast valdsmennina, heldur sá sem vinnur vond verk. En viljir þú eigi þurfa að óttast yfirvöldin, þá gjör það sem gott er, og muntu fá lofstír af þeim. 13.4 Því að þau eru þjónn Guðs þér til góðs. En ef þú gjörir það sem illt er, þá skaltu óttast. Yfirvöldin bera ekki sverðið ófyrirsynju, þau eru Guðs þjónn, hegnari til refsingar þeim er aðhefst hið illa. 13.5 Þess vegna er nauðsynlegt að hlýðnast, ekki einungis vegna hegningarinnar, heldur og vegna samviskunnar. 13.6 Einmitt þess vegna gjaldið þér og skatta, því að valdsmennirnir eru Guðs þjónar, sem annast þetta. 13.7 Gjaldið öllum það sem skylt er: Þeim skatt, sem skattur ber, þeim toll, sem tollur ber, þeim ótta, sem ótti ber, þeim virðing, sem virðing ber. 13.8 Skuldið ekki neinum neitt, nema það eitt að elska hver annan, því að sá, sem elskar náunga sinn, hefur uppfyllt lögmálið. 13.9 Boðorðin: 'Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki girnast,' og hvert annað boðorð er innifalið í þessari grein: 'Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.' 13.10 Kærleikurinn gjörir ekki náunganum mein. Þess vegna er kærleikurinn fylling lögmálsins. 13.11 Gjörið þetta því heldur sem þér þekkið tímann, að yður er mál að rísa af svefni, því að nú er oss hjálpræðið nær en þá er vér tókum trú. 13.12 Liðið er á nóttina og dagurinn í nánd. Leggjum því af verk myrkursins og klæðumst hertygjum ljóssins. 13.13 Framgöngum sómasamlega eins og á degi, ekki í ofáti né ofdrykkju, ekki í saurlífi né svalli, ekki í þrætu né öfund. 13.14 Íklæðist heldur Drottni Jesú Kristi, og alið ekki önn fyrir holdinu, svo að það verði til að æsa girndir.
14.1 Takið að yður hina óstyrku í trúnni, án þess að leggja dóm á skoðanir þeirra. 14.2 Einn er þeirrar trúar, að alls megi neyta en hinn óstyrki neytir einungis jurtafæðu. 14.3 Sá, sem neytir kjöts, fyrirlíti ekki hinn, sem lætur þess óneytt, og sá, sem lætur þess óneytt, dæmi ekki þann, sem neytir þess, því að Guð hefur tekið hann að sér. 14.4 Hver ert þú, sem dæmir annars þjón? Hann stendur og fellur herra sínum. Og hann mun standa, því að megnugur er Drottinn þess að láta hann standa. 14.5 Einn gjörir mun á dögum, en annar metur alla daga jafna. Sérhver hafi örugga sannfæringu í huga sínum. 14.6 Sá, sem tekur tillit til daga, gjörir það vegna Drottins. Og sá, sem neytir kjöts, gerir það vegna Drottins, því að hann gjörir Guði þakkir. Sá, sem lætur óneytt, hann lætur óneytt vegna Drottins og gjörir Guði þakkir. 14.7 Því að enginn af oss lifir sjálfum sér og enginn deyr sjálfum sér. 14.8 Ef vér lifum, lifum vér Drottni, og ef vér deyjum, deyjum vér Drottni. Hvort sem vér þess vegna lifum eða deyjum, þá erum vér Drottins. 14.9 Því að til þess dó Kristur og varð aftur lifandi, að hann skyldi drottna bæði yfir dauðum og lifandi. 14.10 En þú, hví dæmir þú bróður þinn? Eða þá þú, hví fyrirlítur þú bróður þinn? Allir munum vér verða að koma fram fyrir dómstól Guðs. 14.11 Því að ritað er: 'Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn, fyrir mér skulu öll kné beygja sig og sérhver tunga vegsama Guð.' 14.12 Því skal þá sérhver af oss lúka Guði reikning fyrir sjálfan sig. 14.13 Dæmum því ekki framar hver annan. Ásetjið yður öllu heldur að verða bróður yðar ekki til ásteytingar eða falls. 14.14 Ég veit það og er þess fullviss, af því að ég lifi í samfélagi við Drottin Jesú, að ekkert er vanheilagt í sjálfu sér, nema þá þeim, sem heldur eitthvað vanheilagt, honum er það vanheilagt. 14.15 Ef bróðir þinn hryggist sökum þess, sem þú etur, þá ertu kominn af kærleikans braut. Hrind ekki með mat þínum í glötun þeim manni, sem Kristur dó fyrir. 14.16 Látið því ekki hið góða, sem þér eigið, verða fyrir lasti. 14.17 Því að ekki er Guðs ríki matur og drykkur, heldur réttlæti, friður og fögnuður í heilögum anda. 14.18 Hver sem þjónar Kristi á þann hátt, hann er Guði velþóknanlegur og vel metinn manna á meðal. 14.19 Keppum þess vegna eftir því, sem til friðarins heyrir og til hinnar sameiginlegu uppbyggingar. 14.20 Brjóttu ekki niður verk Guðs vegna matar! Allt er að sönnu hreint, en það er þó illt þeim manni, sem etur öðrum til ásteytingar. 14.21 Það er rétt að eta hvorki kjöt né drekka vín né gjöra neitt, sem bróðir þinn steytir sig á. 14.22 Halt þú þeirri trú, sem þú hefur með sjálfum þér fyrir Guði. Sæll er sá, sem þarf ekki að áfella sig fyrir það, sem hann velur. 14.23 En sá sem er efablandinn og etur þó, hann er dæmdur af því að hann etur ekki af trú. Allt sem ekki er af trú er synd.
15.1 Skylt er oss, hinum styrku, að bera veikleika hinna óstyrku og hugsa ekki um sjálfa oss. 15.2 Sérhver af oss hugsi um náungann og það sem honum er gott og til uppbyggingar. 15.3 Kristur hugsaði ekki um sjálfan sig, heldur eins og ritað er: 'Lastyrði þeirra, sem löstuðu þig, lentu á mér.' 15.4 Allt það, sem áður er ritað, er ritað oss til uppfræðingar, til þess að vér fyrir þolgæði og huggun ritninganna héldum von vorri. 15.5 En Guð, sem veitir þolgæðið og huggunina, gefi yður að vera samhuga að vilja Krists Jesú, 15.6 til þess að þér allir saman einum munni vegsamið Guð og föður Drottins vors Jesú Krists. 15.7 Takið því hver annan að yður, eins og Kristur tók yður að sér, Guði til dýrðar. 15.8 Ég segi, að Kristur sé orðinn þjónn hinna umskornu til að sýna orðheldni Guðs, til þess að staðfesta fyrirheitin, sem feðrunum voru gefin, 15.9 en heiðingjarnir vegsami Guð sakir miskunnar hans, eins og ritað er: 'Þess vegna skal ég játa þig meðal heiðingja og lofsyngja þínu nafni.' 15.10 Og enn segir: 'Fagnið, þér heiðingjar, með lýð hans,' 15.11 og enn: 'Lofið Drottin, allar þjóðir, og vegsami hann allir lýðir,' 15.12 og enn segir Jesaja: 'Koma mun rótarkvistur Ísaí og sá, er rís upp til að stjórna þjóðum, á hann munu þjóðir vona.' 15.13 Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni, svo að þér séuð auðugir að voninni í krafti heilags anda. 15.14 En ég er líka sjálfur sannfærður um yður, bræður mínir, að þér og sjálfir eruð fullir góðgirni, auðgaðir alls konar þekkingu og færir um að áminna hver annan. 15.15 En ég hef sums staðar ritað yður full djarflega, til þess að minna yður á sitthvað. Ég hef gjört það vegna þess að Guð hefur gefið mér þá náð 15.16 að vera helgiþjónn Krists Jesú hjá heiðingjunum og inna af hendi prestþjónustu við fagnaðarerindi Guðs, til þess að heiðingjarnir mættu verða Guði velþóknanleg fórn, helguð af heilögum anda. 15.17 Ég hef þá fyrir samfélag mitt við Krist Jesú það, sem ég get hrósað mér af: Starf mitt í þjónustu Guðs. 15.18 Ekki mun ég dirfast að tala um neitt annað en það, sem Kristur hefur látið mig framkvæma, til að leiða heiðingjana til hlýðni, með orði og verki, 15.19 með krafti tákna og undra, með krafti heilags anda. Þannig hef ég lokið við að flytja fagnaðarerindið um Krist frá Jerúsalem og allt í kring til Illyríu. 15.20 Það hefur þannig verið metnaður minn að láta fagnaðarerindið óboðað þar sem Kristur hafði áður nefndur verið, til þess að ég byggði ekki ofan á grundvelli annars, 15.21 alveg eins og ritað er: 'Þeir skulu sjá, sem ekkert var um hann sagt, og þeir, sem ekki hafa heyrt, skulu skilja.' 15.22 Því er það, að mér hefur hvað eftir annað verið meinað að koma til yðar. 15.23 En nú á ég ekki lengur neitt ógjört á þessum slóðum, og mig hefur auk þess í mörg ár langað til að koma til yðar, 15.24 þegar ég færi til Spánar. Ég vona, að ég fái að sjá yður, er ég fer um hjá yður, og að þér búið ferð mína þangað, er ég fyrst hef nokkurn veginn fengið nægju mína hjá yður. 15.25 En nú fer ég á leið til Jerúsalem til að flytja hinum heilögu hjálp. 15.26 Því að Makedónía og Akkea hafa ákveðið að gangast fyrir samskotum handa fátæklingum meðal hinna heilögu í Jerúsalem. 15.27 Sjálfir ákváðu þeir það, enda eru þeir í skuld við þá. Fyrst heiðingjarnir hafa fengið hlutdeild í andlegum gæðum þeirra, þá er þeim og skylt að fulltingja þeim í líkamlegum efnum. 15.28 En þegar ég hef lokið þessu og tryggilega afhent þeim þennan ávöxt, mun ég fara um hjá yður til Spánar. 15.29 En ég veit, að þegar ég kem til yðar, mun ég koma með blessun Krists í fullum mæli. 15.30 En mikillega bið ég yður, bræður, fyrir sakir Drottins vors Jesú Krists og fyrir sakir kærleika andans, að þér stríðið með mér með því að biðja til Guðs fyrir mér, 15.31 til þess að ég frelsist frá hinum vantrúuðu í Júdeu, og hjálpin, sem ég fer með til Jerúsalem, verði vel þegin af hinum heilögu. 15.32 Þá get ég, ef Guð lofar, komið til yðar með fögnuði og endurhresstst ásamt yður. 15.33 Guð friðarins sé með yður öllum. Amen.
16.1 Ég fel yður á hendur Föbe, systur vora, sem er þjónn safnaðarins í Kenkreu. 16.2 Veitið henni viðtöku í Drottni eins og heilögum hæfir og liðsinnið henni í hverju því, sem hún þarf yðar við, því að hún hefur verið bjargvættur margra og mín sjálfs. 16.3 Heilsið Prisku og Akvílasi, samverkamönnum mínum í Kristi Jesú. 16.4 Þau hafa stofnað lífi sínu í hættu fyrir mig, og fyrir það votta ég þeim ekki einn þakkir, heldur og allir söfnuðir meðal heiðingjanna. 16.5 Heilsið einnig söfnuðinum, sem kemur saman í húsi þeirra. Heilsið Epænetusi, mínum elskaða, sem er frumgróði Asíu Kristi til handa. 16.6 Heilsið Maríu, sem mikið hefur erfiðað fyrir yður. 16.7 Heilsið Andróníkusi og Júníasi, ættmönnum mínum og sambandingjum. Þeir skara fram úr meðal postulanna og hafa á undan mér gengið Kristi á hönd. 16.8 Heilsið Amplíatusi, mínum elskaða í Drottni. 16.9 Heilsið Úrbanusi, samverkamanni vorum í Kristi, og Stakkýsi, mínum elskaða. 16.10 Heilsið Apellesi, sem hefur reynst hæfur í þjónustu Krists. Heilsið heimilismönnum Aristóbúls. 16.11 Heilsið Heródíon, ættingja mínum. Heilsið þeim á heimili Narkissusar, sem tilheyra Drottni. 16.12 Heilsið Trýfænu og Trýfósu, sem hafa lagt hart á sig fyrir Drottin. Heilsið Persis, hinni elskuðu, sem mikið hefur starfað fyrir Drottin. 16.13 Heilsið Rúfusi, hinum útvalda í Drottni, og móður hans, sem er mér einnig móðir. 16.14 Heilsið Asýnkritusi, Flegon, Hermes, Patróbasi, Hermasi og bræðrunum, sem hjá þeim eru. 16.15 Heilsið Fílólógusi og Júlíu, Nerevs og systur hans og Ólympasi og öllum heilögum, sem með þeim eru. 16.16 Heilsið hver öðrum með heilögum kossi. Allir söfnuðir Krists senda yður kveðju. 16.17 Ég áminni yður um, bræður, að hafa gát á þeim, er vekja sundurþykkju og tæla frá þeirri kenningu, sem þér hafið numið. Sneiðið hjá þeim. 16.18 Því að slíkir menn þjóna ekki Drottni vorum Kristi, heldur eigin maga, og með blíðmælum og fagurgala blekkja þeir hjörtu hrekklausra manna. 16.19 Hlýðni yðar er alkunn orðin. Því gleðst ég yfir yður og ég vil, að þér séuð vitrir í því, sem gott er, en einfaldir í því, sem illt er. 16.20 Guð friðarins mun bráðlega sundurmola Satan undir fótum yðar. Náðin Drottins vors Jesú Krist sé með yður. 16.21 Tímóteus, samverkamaður minn, Lúkíus, Jason og Sósípater, ættmenn mínir, biðja að heilsa yður. 16.22 Ég, Tertíus, sem hef ritað bréfið, bið að heilsa yður í Drottni. 16.23 Gajus, sem ljær mér og öllum söfnuðinum hús, biður að heilsa yður; Erastus, gjaldkeri borgarinnar, og bróðir Kvartus biðja að heilsa yður. 16.24 --- 16.25 Honum, sem megnar að styrkja yður með fagnaðarerindinu, sem ég boða, og í prédikuninni um Jesú Krist samkvæmt opinberun þess leyndardóms, sem frá eilífum tíðum hefur verið dulinn, 16.26 en nú er opinberaður og fyrir spámannlegar ritningar, eftir skipun hins eilífa Guðs, kunngjörður öllum þjóðum til að vekja hlýðni við trúna,
1.1 Páll, kallaður að Guðs vilja til að vera postuli Jesú Krists, og Sósþenes, bróðir vor, heilsa 1.2 söfnuði Guðs í Korintu, þeim sem helgaðir eru í Kristi Jesú, heilagir að köllun til, ásamt öllum þeim, sem alls staðar ákalla nafn Drottins vors Jesú Krists, sem er þeirra Drottinn og vor. 1.3 Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. 1.4 Ávallt þakka ég Guði mínum yðar vegna fyrir þá náð, sem hann hefur gefið yður í Kristi Jesú. 1.5 Í honum eruð þér auðgaðir orðnir í öllu, í hvers konar ræðu og hvers konar þekkingu. 1.6 Vitnisburðurinn um Krist er líka staðfestur orðinn á meðal yðar, 1.7 svo að yður brestur ekki neina náðargjöf meðan þér væntið opinberunar Drottins vors Jesú Krists. 1.8 Hann mun og gjöra yður staðfasta allt til enda, óásakanlega á degi Drottins vors Jesú Krists. 1.9 Trúr er Guð, sem yður hefur kallað til samfélags sonar síns Jesú Krists, Drottins vors. 1.10 En ég áminni yður, bræður, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að þér séuð allir samhuga og ekki séu flokkadrættir á meðal yðar, heldur að þér séuð fullkomlega sameinaðir í sama hugarfari og í sömu skoðun. 1.11 Því að mér hefur verið tjáð um yður, bræður mínir, af heimilismönnum Klóe, að þrætur eigi sér stað á meðal yðar. 1.12 Ég á við þetta, að sumir yðar segja: 'Ég er Páls,' og aðrir: 'Ég er Apollóss,' eða: 'Ég er Kefasar,' eða: 'Ég er Krists.' 1.13 Er þá Kristi skipt í sundur? Mun Páll hafa verið krossfestur fyrir yður? Eða eruð þér skírðir til nafns Páls? 1.14 Ég þakka Guði fyrir, að ég hef engan yðar skírt nema Krispus og Gajus, 1.15 til þess að enginn skuli segja, að þér séuð skírðir til nafns míns. 1.16 Jú, ég skírði líka Stefanas og heimamenn hans. Annars veit ég ekki til, að ég hafi skírt neinn annan. 1.17 Ekki sendi Kristur mig til að skíra, heldur til að boða fagnaðarerindið, _ og ekki með orðspeki, til þess að kross Krists missti ekki gildi sitt. 1.18 Því að orð krossins er heimska þeim er glatast, en oss, sem hólpnir verðum, er það kraftur Guðs. 1.19 Ritað er: Ég mun eyða speki spekinganna, og hyggindi hyggindamannanna mun ég að engu gjöra. 1.20 Hvar er vitringur? Hvar fræðimaður? Hvar orðkappi þessarar aldar? Hefur Guð ekki gjört speki heimsins að heimsku? 1.21 Því þar eð heimurinn með speki sinni þekkti ekki Guð í speki hans, þóknaðist Guði að frelsa þá, er trúa, með heimsku prédikunarinnar. 1.22 Gyðingar heimta tákn, og Grikkir leita að speki, 1.23 en vér prédikum Krist krossfestan, Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimsku, 1.24 en hinum kölluðu, bæði Gyðingum og Grikkjum, Krist, kraft Guðs og speki Guðs. 1.25 Því að heimska Guðs er mönnum vitrari og veikleiki Guðs mönnum sterkari. 1.26 Bræður, hyggið að köllun yðar: Þér voruð ekki margir vitrir að manna dómi, ekki margir máttugir, ekki margir stórættaðir. 1.27 En Guð hefur útvalið það, sem heimurinn telur heimsku, til að gjöra hinum vitru kinnroða, og Guð hefur útvalið það, sem heimurinn telur veikleika til að gjöra hinu volduga kinnroða. 1.28 Og hið ógöfuga í heiminum og hið fyrirlitna hefur Guð útvalið, það sem ekkert er, til þess að gjöra að engu það, sem eitthvað er, 1.29 til þess að enginn maður skuli hrósa sér fyrir Guði. 1.30 Honum er það að þakka að þér eruð í samfélagi við Krist Jesú. Hann er orðinn oss vísdómur frá Guði, bæði réttlæti, helgun og endurlausn. 1.31 Eins og ritað er: 'Sá, sem hrósar sér, hrósi sér í Drottni.'
2.1 Er ég kom til yðar, bræður, og boðaði yður leyndardóm Guðs, kom ég ekki með frábærri mælskusnilld eða speki. 2.2 Ég ásetti mér að vita ekkert á meðal yðar, nema Jesú Krist og hann krossfestan. 2.3 Og ég dvaldist á meðal yðar í veikleika, ótta og mikilli angist. 2.4 Orðræða mín og prédikun studdist ekki við sannfærandi vísdómsorð, heldur við sönnun anda og kraftar, 2.5 til þess að trú yðar væri eigi byggð á vísdómi manna, heldur á krafti Guðs. 2.6 Speki tölum vér meðal hinna fullkomnu, þó ekki speki þessarar aldar eða höfðingja þessarar aldar, sem að engu verða, 2.7 heldur tölum vér leynda speki Guðs, sem hulin hefur verið, en Guð hefur frá eilífð fyrirhugað oss til dýrðar. 2.8 Enginn af höfðingjum þessarar aldar þekkti hana, því að ef þeir hefðu þekkt hana, hefðu þeir ekki krossfest Drottin dýrðarinnar. 2.9 En það er eins og ritað er: Það sem auga sá ekki og eyra heyrði ekki og ekki kom upp í hjarta nokkurs manns, allt það sem Guð fyrirbjó þeim, er elska hann. 2.10 En oss hefur Guð opinberað hana fyrir andann, því að andinn rannsakar allt, jafnvel djúp Guðs. 2.11 Hver meðal manna veit hvað mannsins er, nema andi mannsins, sem í honum er? Þannig hefur heldur enginn komist að raun um, hvað Guðs er, nema Guðs andi. 2.12 En vér höfum ekki hlotið anda heimsins, heldur andann, sem er frá Guði, til þess að vér skulum vita, hvað oss er af Guði gefið. 2.13 Enda tölum vér það ekki með orðum, sem mannlegur vísdómur kennir, heldur með orðum, sem andinn kennir, og útlistum andleg efni á andlegan hátt. 2.14 Maðurinn án anda veitir ekki viðtöku því, sem Guðs anda er, því að honum er það heimska og hann getur ekki skilið það, af því að það dæmist andlega. 2.15 En hinn andlegi dæmir um allt, en um hann sjálfan verður ekki dæmt af neinum. 2.16 Því að hver hefur þekkt huga Drottins, að hann geti frætt hann? En vér höfum huga Krists.
3.1 Ég gat ekki, bræður, talað við yður eins og við andlega menn, heldur eins og við holdlega, eins og við ómálga í Kristi. 3.2 Mjólk gaf ég yður að drekka, ekki fasta fæðu, því að enn þolduð þér það ekki. Og þér þolið það jafnvel ekki enn, 3.3 því að enn þá eruð þér holdlegir menn. Fyrst metingur og þráttan er á meðal yðar, eruð þér þá eigi holdlegir og hegðið yður á manna hátt? 3.4 Þegar einn segir: 'Ég er Páls,' en annar: 'Ég er Apollóss,' eruð þér þá ekki eins og hverjir aðrir menn? 3.5 Hvað er þá Apollós? Já, hvað er þá Páll? Þjónar, sem hafa leitt yður til trúar, og það eins og Drottinn hefur gefið hvorum um sig. 3.6 Ég gróðursetti, Apollós vökvaði, en Guð gaf vöxtinn. 3.7 Þannig er þá hvorki sá neitt, er gróðursetur, né sá, er vökvar, heldur Guð, sem vöxtinn gefur. 3.8 Sá, sem gróðursetur, og sá, sem vökvar, eru eitt. En sérhver mun fá laun eftir sínu erfiði. 3.9 Því að samverkamenn Guðs erum vér, og þér eruð Guðs akurlendi, Guðs hús. 3.10 Eftir þeirri náð, sem Guð hefur veitt mér, hef ég eins og vitur húsameistari lagt grundvöll, er annar byggir ofan á. En sérhver athugi, hvernig hann byggir. 3.11 Annan grundvöll getur enginn lagt en þann, sem lagður er, sem er Jesús Kristur. 3.12 En ef einhver byggir ofan á grundvöllinn gull, silfur, dýra steina, tré, hey eða hálm, 3.13 þá mun verk hvers um sig verða augljóst. Dagurinn mun leiða það í ljós, af því að hann opinberast með eldi og eldurinn mun prófa hvílíkt verk hvers og eins er. 3.14 Ef nú verk einhvers fær staðist, það er hann byggði ofan á, mun hann taka laun. 3.15 Ef verk einhvers brennur upp, mun hann bíða tjón. Sjálfur mun hann frelsaður verða, en þó eins og úr eldi. 3.16 Vitið þér eigi, að þér eruð musteri Guðs og að andi Guðs býr í yður? 3.17 Ef nokkur eyðir musteri Guðs, mun Guð eyða honum, því að musteri Guðs er heilagt, og þér eruð það musteri. 3.18 Enginn dragi sjálfan sig á tálar. Ef nokkur þykist vitur yðar á meðal í þessum heimi, verði hann fyrst heimskur til þess að hann verði vitur. 3.19 Því að speki þessa heims er heimska hjá Guði. Ritað er: Hann er sá, sem grípur hina vitru í slægð þeirra. 3.20 Og aftur: Drottinn þekkir hugsanir vitringanna, að þær eru hégómlegar. 3.21 Fyrir því stæri enginn sig af mönnum. Því að allt er yðar, 3.22 hvort heldur er Páll, Apollós eða Kefas, heimurinn, líf eða dauði, hið yfirstandandi eða hið komandi, allt er yðar. 3.23 En þér eruð Krists og Kristur Guðs.
4.1 Þannig líti menn á oss svo sem þjóna Krists og ráðsmenn yfir leyndardómum Guðs. 4.2 Nú er þess krafist af ráðsmönnum, að sérhver reynist trúr. 4.3 En mér er það fyrir minnstu að verða dæmdur af yður eða af mannlegu dómþingi. Ég dæmi mig ekki einu sinni sjálfur. 4.4 Ég er mér ekki neins ills meðvitandi, en með því er ég þó ekki sýknaður. Drottinn er sá sem dæmir mig. 4.5 Dæmið því ekki fyrir tímann, áður en Drottinn kemur. Hann mun leiða það í ljós, sem í myrkrinu er hulið, og opinbera ráð hjartnanna. Og þá mun hver um sig hljóta þann lofstír af Guði, sem hann á skilið. 4.6 En þetta hef ég yðar vegna, bræður, heimfært til sjálfs mín og Apollóss, til þess að þér af okkar dæmi mættuð læra regluna: 'Farið ekki lengra en ritað er,' _ og til þess að enginn yðar hroki sér upp einum í vil, öðrum til niðrunar. 4.7 Því að hver gefur þér yfirburði? Og hvað hefur þú, sem þú hefur ekki þegið? En hafir þú nú þegið það, hví stærir þú þig þá eins og þú hefðir ekki fengið það að gjöf? 4.8 Þér eruð þegar orðnir mettir, þér eruð þegar orðnir auðugir, án vor eruð þér orðnir konungar. Og ég vildi óska, að þér væruð orðnir konungar, til þess að einnig vér mættum vera konungar með yður! 4.9 Mér virðist Guð hafa sett oss postulana sísta allra, eins og dauðadæmda á leiksviði, frammi fyrir öllum heiminum, bæði englum og mönnum. 4.10 Vér erum heimskir sökum Krists, en þér vitrir fyrir samfélag yðar við Krist! Vér erum veikir, en þér sterkir, þér eruð í hávegum hafðir, en vér óvirtir. 4.11 Allt til þessarar stundar þolum vér hungur, þorsta og klæðleysi, oss er misþyrmt, vér höfum engan samastað, 4.12 og vér stöndum í erfiði og verðum að vinna með eigin höndum. 4.13 Hrakyrtir blessum vér, ofsóttir umberum vér, lastaðir áminnum vér. Vér erum orðnir eins og sorp heimsins, afhrak allra allt til þessa. 4.14 Ekki rita ég þetta til þess að gjöra yður kinnroða, heldur til að áminna yður eins og elskuleg börn mín. 4.15 Enda þótt þér hefðuð tíu þúsund fræðara í Kristi, þá hafið þér þó eigi marga feður. Ég hef í Kristi Jesú fætt yður með því að flytja yður fagnaðarerindið. 4.16 Ég bið yður: Verið eftirbreytendur mínir. 4.17 Þess vegna sendi ég Tímóteus til yðar, sem er elskað og trútt barn mitt í Drottni. Hann mun minna yður á vegu mína í Kristi, eins og ég kenni alls staðar í hverjum söfnuði. 4.18 En nokkrir hafa gjörst hrokafullir, rétt eins og ég ætlaði ekki að koma til yðar, 4.19 en ég mun brátt koma til yðar, ef Drottinn vill, og mun ég þá kynna mér, ekki orð hinna stærilátu, heldur kraft þeirra. 4.20 Því að Guðs ríki er ekki fólgið í orðum, heldur í krafti. 4.21 Hvað viljið þér? Á ég að koma til yðar með hirtingarvönd eða í kærleika og hógværðar anda?
5.1 Það er mér sagt að saurlifnaður eigi sér stað á meðal yðar, og það slíkur saurlifnaður, sem jafnvel gerist ekki meðal heiðingja, að maður heldur við konu föður síns. 5.2 Og svo eruð þér stærilátir, í stað þess að hryggjast og gjöra gangskör að því, að manninum, sem þetta hefur drýgt, yrði útrýmt úr félagi yðar! 5.3 Ég fyrir mitt leyti, fjarlægur að líkamanum til, en nálægur að andanum, hef þegar, eins og ég væri nálægur, kveðið upp dóm í nafni Drottins vors Jesú yfir manni þeim, sem þetta hefur drýgt: 5.4 Þegar þér og minn andi eruð saman komnir með krafti Drottins vors Jesú, 5.5 skal selja slíkan mann Satan á vald til tortímingar holdinu, til þess að andinn megi hólpinn verða á degi Drottins Jesú. 5.6 Ekki hafið þér ástæðu til að stæra yður! Vitið þér ekki, að lítið súrdeig sýrir allt deigið? 5.7 Hreinsið burt gamla súrdeigið, til þess að þér séuð nýtt deig, enda eruð þér ósýrðir. Því að páskalambi voru er slátrað, sem er Kristur. 5.8 Höldum því hátíð, ekki með gömlu súrdeigi né með súrdeigi illsku og vonsku, heldur með ósýrðum brauðum hreinleikans og sannleikans. 5.9 Ég ritaði yður í bréfinu, að þér skylduð ekki umgangast saurlífismenn. 5.10 Átti ég þar ekki við saurlífismenn þessa heims yfirleitt, ásælna og ræningja eða hjáguðadýrkendur, því að þá hefðuð þér orðið að fara út úr heiminum. 5.11 En nú rita ég yður, að þér skuluð ekki umgangast nokkurn þann, er nefnir sig bróður, en er saurlífismaður eða ásælinn, skurðgoðadýrkari eða lastmáll, ofdrykkjumaður eða ræningi. Þér skuluð jafnvel ekki sitja að borði með slíkum manni. 5.12 Hvað skyldi ég vera að dæma þá, sem fyrir utan eru? Dæmið þér ekki þá, sem fyrir innan eru? 5.13 Og mun ekki Guð dæma þá, sem fyrir utan eru? 'Útrýmið hinum vonda úr yðar hópi.'
6.1 Getur nokkur yðar, sem hefur sök móti öðrum, fengið af sér að leggja málið undir dóm heiðinna manna, en ekki hinna heilögu? 6.2 Eða vitið þér ekki, að hinir heilögu eiga að dæma heiminn? Og ef þér eigið að dæma heiminn, eruð þér þá óverðugir að dæma í hinum minnstu málum? 6.3 Vitið þér eigi, að vér eigum að dæma engla? Hvað þá heldur tímanleg efni! 6.4 Þegar þér eigið að dæma um tímanleg efni, þá kveðjið þér að dómurum menn, sem að engu eru hafðir í söfnuðinum. 6.5 Ég segi það yður til blygðunar. Er þá enginn vitur til á meðal yðar, sem skorið geti úr málum milli bræðra? 6.6 Í stað þess á bróðir í máli við bróður og það fyrir vantrúuðum! 6.7 Annars er það nú yfirleitt galli á yður, að þér eigið í málaferlum hver við annan. Hví líðið þér ekki heldur órétt? Hví látið þér ekki heldur hafa af yður? 6.8 Í stað þess hafið þér rangsleitni í frammi og hafið af öðrum og það af bræðrum! 6.9 Vitið þér ekki, að ranglátir munu ekki Guðs ríki erfa? Villist ekki! Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar, 6.10 þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa. 6.11 Og þetta voruð þér, sumir yðar. En þér létuð laugast, þér eruð helgaðir, þér eruð réttlættir fyrir nafn Drottins Jesú Krists og fyrir anda vors Guðs. 6.12 Allt er mér leyfilegt, en ekki er allt gagnlegt. Allt er mér leyfilegt, en ég má ekki láta neitt fá vald yfir mér. 6.13 Maturinn er fyrir magann og maginn fyrir matinn, en Guð mun hvort tveggja að engu gjöra. En líkaminn er ekki fyrir saurlífi, heldur fyrir Drottin og Drottinn fyrir líkamann. 6.14 Guð hefur uppvakið Drottin og mun uppvekja oss fyrir kraft sinn. 6.15 Vitið þér ekki, að líkamir yðar eru limir Krists? Á ég þá að taka limi Krists og gjöra þá að skækjulimum? Fjarri fer því. 6.16 Vitið þér ekki, að sá er samlagar sig skækjunni verður ásamt henni einn líkami? Því að sagt er: 'Þau tvö munu verða eitt hold.' 6.17 En sá er samlagar sig Drottni er einn andi ásamt honum. 6.18 Flýið saurlifnaðinn! Sérhver önnur synd, sem maðurinn drýgir, er fyrir utan líkama hans. En saurlífismaðurinn syndgar á móti eigin líkama. 6.19 Vitið þér ekki, að líkami yðar er musteri heilags anda, sem í yður er og þér hafið frá Guði? Og ekki eruð þér yðar eigin. 6.20 Þér eruð verði keyptir. Vegsamið því Guð með líkama yðar.
7.1 En svo að ég minnist á það, sem þér hafið ritað um, þá er það gott fyrir mann að snerta ekki konu. 7.2 En vegna saurlifnaðarins hafi hver og einn sína eiginkonu og hver og ein hafi sinn eiginmann. 7.3 Maðurinn gæti skyldu sinnar gagnvart konunni og sömuleiðis konan gagnvart manninum. 7.4 Ekki hefur konan vald yfir eigin líkama, heldur maðurinn. Sömuleiðis hefur og maðurinn ekki heldur vald yfir eigin líkama, heldur konan. 7.5 Haldið yður eigi hvort frá öðru, nema þá eftir samkomulagi um stundarsakir, til þess að þér getið haft næði til bænahalds, og takið svo saman aftur, til þess að Satan freisti yðar ekki vegna ístöðuleysis yðar. 7.6 Þetta segi ég í tilhliðrunarskyni, ekki sem skipun. 7.7 En þess óska ég, að allir menn væru eins og ég er sjálfur, en hver hefur sína náðargjöf frá Guði, einn þessa og annar hina. 7.8 Hinum ókvæntu og ekkjunum segi ég, að þeim er best að halda áfram að vera ein eins og ég. 7.9 En hafi þau ekki taumhald á sjálfum sér, þá gangi þau í hjónaband, því að betra er að ganga í hjónaband en að brenna af girnd. 7.10 Þeim, sem gengið hafa í hjónaband, býð ég, þó ekki ég, heldur Drottinn, að konan skuli ekki skilja við mann sinn, _ 7.11 en hafi hún skilið við hann, þá sé hún áfram ógift eða sættist við manninn _, og að maðurinn skuli ekki heldur skilja við konuna. 7.12 En við hina segi ég, ekki Drottinn: Ef bróðir nokkur á vantrúaða konu og hún lætur sér það vel líka að búa saman við hann, þá skilji hann ekki við hana. 7.13 Og kona, sem á vantrúaðan mann og hann lætur sér vel líka að búa saman við hana, skilji ekki við manninn. 7.14 Því að vantrúaði maðurinn er helgaður í konunni og vantrúaða konan er helguð í bróðurnum. Annars væru börn yðar óhrein, en nú eru þau heilög. 7.15 En ef hinn vantrúaði vill skilja, þá fái hann skilnað. Hvorki bróðir né systir eru þrælbundin í slíkum efnum. Guð hefur kallað yður að lifa í friði. 7.16 Því að hvað veist þú, kona, hvort þú munir geta frelsað manninn þinn? Eða hvað veist þú, maður, hvort þú munir geta frelsað konuna þína? 7.17 Þó skal hver og einn vera í þeirri stöðu, sem Drottinn hefur úthlutað honum, eins og hann var, þegar Guð kallaði hann. Þannig skipa ég fyrir í öllum söfnuðunum. 7.18 Sá sem var umskorinn, þegar hann var kallaður, breyti því ekki. Sá sem var óumskorinn, láti ekki umskera sig. 7.19 Umskurnin er ekkert og yfirhúðin ekkert, heldur það að halda boðorð Guðs. 7.20 Hver og einn sé kyrr í þeirri stöðu, sem hann var kallaður í. 7.21 Varst þú þræll, er þú varst kallaður? Set það ekki fyrir þig, en gjör þér gott úr því, en ef þú getur orðið frjáls, þá kjós það heldur. 7.22 Því að sá þræll, sem kallaður er í Drottni, er frelsingi Drottins. Á sama hátt er sá, sem kallaður er sem frjáls, þræll Krists. 7.23 Þér eruð verði keyptir, verðið ekki þrælar manna. 7.24 Bræður, sérhver verði frammi fyrir Guði kyrr í þeirri stétt, sem hann var kallaður í. 7.25 Um meyjarnar hef ég enga skipun frá Drottni. En álit mitt læt ég í ljós eins og sá, er hlotið hefur þá náð af Drottni að vera trúr. 7.26 Mín skoðun er, að vegna yfirstandandi neyðar sé það gott fyrir mann að vera þannig. 7.27 Ertu við konu bundinn? Leitast þá ekki við að verða laus. Ertu laus orðinn við konu? Leita þá ekki kvonfangs. 7.28 En þótt þú kvongist, syndgar þú ekki, og ef mærin giftist, syndgar hún ekki. En þrenging munu slíkir hljóta hér á jörð, en ég vildi hlífa yður. 7.29 En það segi ég, bræður, tíminn er orðinn stuttur. Hér eftir skulu jafnvel þeir, sem kvæntir eru, vera eins og þeir væru það ekki, 7.30 þeir sem gráta, eins og þeir grétu ekki, þeir sem fagna, eins og þeir fögnuðu ekki, þeir sem kaupa, eins og þeir héldu ekki því, sem þeir kaupa, 7.31 og þeir sem nota heiminn, eins og þeir færðu sér hann ekki í nyt. Því að heimurinn í núverandi mynd líður undir lok. 7.32 En ég vil, að þér séuð áhyggjulausir. Hinn ókvænti ber fyrir brjósti það, sem Drottins er, hversu hann megi Drottni þóknast. 7.33 En hinn kvænti ber fyrir brjósti það, sem heimsins er, hversu hann megi þóknast konunni, 7.34 og er tvískiptur. Hin ógifta kona og mærin ber fyrir brjósti það, sem Drottins er, til þess að hún megi vera heilög, bæði að líkama og anda. En hin gifta kona ber fyrir brjósti það, sem heimsins er, hversu hún megi þóknast manninum. 7.35 Þetta segi ég sjálfum yður til gagns, ekki til þess að varpa snöru yfir yður, heldur til þess að efla velsæmi og óbifanlega fastheldni við Drottin. 7.36 Ef einhver telur sig ekki geta vansalaust búið með heitmey sinni, enda á manndómsskeiði, þá gjöri hann sem hann vill, ef ekki verður hjá því komist. Hann syndgar ekki. Giftist þau. 7.37 Sá þar á móti, sem er staðfastur í hjarta sínu og óþvingaður, en hefur fullt vald á vilja sínum og hefur afráðið í hjarta sínu að hún verði áfram mey, gjörir vel. 7.38 Þannig gjöra þá báðir vel, sá sem kvænist mey sinni, og hinn, sem kvænist henni ekki, hann gjörir betur. 7.39 Konan er bundin, meðan maður hennar er á lífi. En ef maðurinn deyr, er henni frjálst að giftast hverjum sem hún vill, aðeins að það sé í Drottni. 7.40 Þó er hún sælli, ef hún heldur áfram að vera eins og hún er, það er mín skoðun. En ég þykist og hafa anda Guðs.
8.1 Þá er að minnast á kjötið, sem fórnað hefur verið skurðgoðum. Vér vitum, að þekking höfum vér allir. Þekkingin blæs menn upp, en kærleikurinn byggir upp. 8.2 Ef einhver þykist hafa öðlast þekkingu á einhverju, þá þekkir hann enn ekki eins og þekkja ber. 8.3 En ef einhver elskar Guð, þá er hann þekktur af honum. 8.4 En hvað varðar neyslu kjöts, sem fórnað hefur verið skurðgoðum, þá vitum vér, að skurðgoð er ekkert í heiminum og að enginn er Guð nema einn. 8.5 Því að enda þótt til séu svo nefndir guðir, hvort heldur er á himni eða á jörðu, _ enda eru margir guðir og margir herrar _, 8.6 þá höfum vér ekki nema einn Guð, föðurinn, sem allir hlutir eru frá og líf vort stefnir til, og einn Drottin, Jesú Krist, sem allir hlutir eru til orðnir fyrir og vér fyrir hann. 8.7 En ekki hafa allir þessa þekkingu. Af gömlum vana eta nokkrir kjötið allt til þessa sem fórnarkjöt, og þá saurgast samviska þeirra, sem er óstyrk. 8.8 En matur mun ekki gjöra oss þóknanlega Guði. Hvorki missum vér neins, þótt vér etum það ekki, né ávinnum vér neitt, þótt vér etum. 8.9 En gætið þess, að þetta frelsi yðar verði ekki hinum óstyrku að falli. 8.10 Því sjái einhver þig, sem hefur þekkingu á þessu, sitja til borðs í goðahofi, mundi það ekki stæla samvisku þess, sem óstyrkur er, til að neyta fórnarkjöts? 8.11 Hinn óstyrki glatast þá vegna þekkingar þinnar, bróðirinn, sem Kristur dó fyrir. 8.12 Þegar þér þannig syndgið gegn bræðrunum og særið óstyrka samvisku þeirra, þá syndgið þér á móti Kristi. 8.13 Þess vegna mun ég, ef matur verður bróður mínum til falls, um aldur og ævi ekki kjöts neyta, til þess að ég verði bróður mínum ekki til falls.
9.1 Er ég ekki frjáls? Er ég ekki postuli? Hef ég ekki séð Jesú, Drottin vorn? Eruð þér ekki verk mitt, sem ég hef unnið fyrir Drottin? 9.2 Þótt ekki væri ég postuli fyrir aðra, þá er ég það fyrir yður. Þér eruð staðfesting Drottins á postuladómi mínum. 9.3 Þetta er vörn mín gagnvart þeim, sem dæma um mig. 9.4 Höfum vér ekki rétt til að eta og drekka? 9.5 Höfum vér ekki rétt til að ferðast um með kristna eiginkonu, alveg eins og hinir postularnir og bræður Drottins og Kefas? 9.6 Eða erum við Barnabas þeir einu, sem eru ekki undanþegnir því að vinna? 9.7 Hver tekst nokkurn tíma herþjónustu á hendur á sjálfs sín mála? Hver plantar víngarð og neytir ekki ávaxtar hans? Hver gætir hjarðar og neytir ekki af mjólk hjarðarinnar? 9.8 Tala ég þetta á mannlegan hátt, eða segir ekki einnig lögmálið það? 9.9 Ritað er í lögmáli Móse: 'Þú skalt ekki múlbinda uxann, er hann þreskir.' Hvort lætur Guð sér annt um uxana? 9.10 Eða segir hann það ekki að öllu leyti vor vegna? Jú, vor vegna stendur skrifað, að sá sem plægir og sá sem þreskir eigi að gjöra það með von um hlutdeild í uppskerunni. 9.11 Ef vér nú höfum sáð hjá yður því, sem andlegt er, er það þá of mikið að vér uppskerum hjá yður það, sem líkamlegt er? 9.12 Ef aðrir hafa þennan rétt hjá yður, höfum vér hann þá ekki miklu fremur? En vér höfum ekki hagnýtt oss þennan rétt, heldur sættum oss við allt, til þess að tálma ekki fagnaðarerindinu um Krist. 9.13 Vitið þér ekki, að þeir, sem vinna við helgidóminn, lifa af því, sem kemur úr helgidóminum, og þeir, sem starfa við altarið, taka hlut með altarinu? 9.14 Þannig hefur Drottinn einnig fyrirskipað að þeir, sem prédika fagnaðarerindið, skuli lifa af fagnaðarerindinu. 9.15 En ég hef ekki hagnýtt mér neitt af þessu og ég skrifa þetta ekki heldur til þess, að svo verði við mig gjört. Mér væri betra að deyja, _ enginn skal ónýta það, sem ég hrósa mér af. 9.16 Þótt ég sé að boða fagnaðarerindið, þá er það mér ekki neitt hrósunarefni, því að skyldukvöð hvílir á mér. Já, vei mér, ef ég boðaði ekki fagnaðarerindið. 9.17 Því að gjöri ég þetta af frjálsum vilja, þá fæ ég laun, en gjöri ég það tilknúður, þá hefur mér verið trúað fyrir ráðsmennsku. 9.18 Hver eru þá laun mín? Að ég boða fagnaðarerindið án endurgjalds og hagnýti mér ekki það, sem ég á rétt á. 9.19 Þótt ég sé öllum óháður, hef ég gjört sjálfan mig að þræli allra, til þess að ávinna sem flesta. 9.20 Ég hef verið Gyðingunum sem Gyðingur, til þess að ávinna Gyðinga. Þeim, sem eru undir lögmálinu, hef ég verið eins og sá, sem er undir lögmálinu, enda þótt ég sjálfur sé ekki undir lögmálinu, til þess að ávinna þá, sem eru undir lögmálinu. 9.21 Hinum lögmálslausu hef ég verið sem lögmálslaus, þótt ég sé ekki laus við lögmál Guðs, heldur bundinn lögmáli Krists, til þess að ávinna hina lögmálslausu. 9.22 Hinum óstyrku hef ég verið óstyrkur til þess að ávinna hina óstyrku. Ég hef verið öllum allt, til þess að ég geti að minnsta kosti frelsað nokkra. 9.23 Ég gjöri allt vegna fagnaðarerindisins, til þess að ég fái hlutdeild með því. 9.24 Vitið þér ekki, að þeir, sem keppa á íþróttavelli, hlaupa að sönnu allir, en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig, að þér hljótið þau. 9.25 Sérhver, sem tekur þátt í kappleikjum, neitar sér um allt. Þeir sem keppa gjöra það til þess að hljóta forgengilegan sigursveig, en vér óforgengilegan. 9.26 Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust. Ég berst eins og hnefaleikamaður, sem engin vindhögg slær. 9.27 Ég leik líkama minn hart og gjöri hann að þræli mínum, til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki sjálfur verða gjörður rækur.
10.1 Ég vil ekki, bræður, að yður skuli vera ókunnugt um það, að feður vorir voru allir undir skýinu og fóru allir yfir um hafið. 10.2 Allir voru skírðir til Móse í skýinu og hafinu. 10.3 Allir neyttu hinnar sömu andlegu fæðu 10.4 og drukku allir hinn sama andlega drykk. Þeir drukku af hinum andlega kletti, sem fylgdi þeim. Kletturinn var Kristur. 10.5 En samt hafði Guð enga velþóknun á flestum þeirra og þeir féllu í eyðimörkinni. 10.6 Þessir hlutir hafa gjörst sem fyrirboðar fyrir oss, til þess að vér verðum ekki sólgnir í það, sem illt er, eins og þeir urðu sólgnir í það. 10.7 Verðið ekki skurðgoðadýrkendur, eins og nokkrir þeirra. Ritað er: 'Lýðurinn settist niður til að eta og drekka, og þeir stóðu upp til að leika.' 10.8 Drýgjum ekki heldur hórdóm, eins og nokkrir þeirra drýgðu hórdóm, og tuttugu og þrjár þúsundir féllu á einum degi. 10.9 Freistum ekki heldur Drottins, eins og nokkrir þeirra freistuðu hans, þeir biðu bana af höggormum. 10.10 Möglið ekki heldur eins og nokkrir þeirra mögluðu, þeir fórust fyrir eyðandanum. 10.11 Allt þetta kom yfir þá sem fyrirboði, og það er ritað til viðvörunar oss, sem endir aldanna er kominn yfir. 10.12 Sá, er hyggst standa, gæti því vel að sér, að hann falli ekki. 10.13 Þér hafið ekki reynt nema mannlega freistingu. Guð er trúr og lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um, að þér fáið staðist. 10.14 Fyrir því, mínir elskuðu, flýið skurðgoðadýrkunina. 10.15 Ég tala til yðar sem skynsamra manna. Dæmið þér um það, sem ég segi. 10.16 Sá bikar blessunarinnar, sem vér blessum, er hann ekki samfélag um blóð Krists? Og brauðið, sem vér brjótum, er það ekki samfélag um líkama Krists? 10.17 Af því að brauðið er eitt, erum vér hinir mörgu einn líkami, því að vér höfum allir hlutdeild í hinu eina brauði. 10.18 Lítið á Ísraelsþjóðina. Eiga þeir, sem fórnirnar eta, ekki hlut í altarinu? 10.19 Hvað segi ég þá? Að kjöt fórnað skurðgoðum sé nokkuð? Eða skurðgoð sé nokkuð? 10.20 Nei, heldur að það sem heiðingjarnir blóta, það blóta þeir illum öndum, en ekki Guði. En ég vil ekki, að þér hafið samfélag við illa anda. 10.21 Ekki getið þér drukkið bikar Drottins og bikar illra anda. Ekki getið þér tekið þátt í borðhaldi Drottins og borðhaldi illra anda. 10.22 Eða eigum vér að reita Drottin til reiði? Munum vér vera máttugri en hann? 10.23 Allt er leyfilegt, en ekki er allt gagnlegt. Allt er leyfilegt, en ekki byggir allt upp. 10.24 Enginn hyggi að eigin hag, heldur hag annarra. 10.25 Allt það, sem selt er á kjöttorginu, getið þér etið án nokkurra eftirgrennslana vegna samviskunnar. 10.26 Því að jörðin er Drottins og allt, sem á henni er. 10.27 Ef einhver hinna vantrúuðu býður yður og ef þér viljið fara, þá etið af öllu því, sem fyrir yður er borið, án eftirgrennslana vegna samviskunnar. 10.28 En ef einhver segir við yður: 'Þetta er fórnarkjöt!' þá etið ekki, vegna þess, er gjörði viðvart, og vegna samviskunnar. 10.29 Samviskunnar, segi ég, ekki eigin samvisku, heldur samvisku hins. En hvers vegna skyldi frelsi mitt eiga að dæmast af samvisku annars? 10.30 Ef ég neyti fæðunnar með þakklæti, hvers vegna skyldi ég sæta lasti fyrir það, sem ég þakka fyrir? 10.31 Hvort sem þér því etið eða drekkið eða hvað sem þér gjörið, þá gjörið það allt Guði til dýrðar. 10.32 Verið hvorki Gyðingum né Grikkjum né kirkju Guðs til ásteytingar. 10.33 Ég fyrir mitt leyti reyni í öllu að þóknast öllum og hygg ekki að eigin hag, heldur hag hinna mörgu, til þess að þeir verði hólpnir.
11.1 Verið eftirbreytendur mínir eins og ég er eftirbreytandi Krists. 11.2 Ég hrósa yður fyrir það, að þér í öllu minnist mín og haldið fast við kenningarnar, eins og ég flutti yður þær. 11.3 En ég vil, að þér vitið, að Kristur er höfuð sérhvers manns, maðurinn er höfuð konunnar og Guð höfuð Krists. 11.4 Sérhver sá maður, sem biðst fyrir eða flytur spádóma Guðs og hefur á höfðinu, hann óvirðir höfuð sitt. 11.5 En sérhver kona, sem biðst fyrir eða flytur spádóma Guðs berhöfðuð, óvirðir höfuð sitt. Það er hið sama sem hún hefði látið krúnuraka sig. 11.6 Ef konan því vill ekki hylja höfuð sitt, þá láti hún klippa sig. En ef það er óvirðing fyrir konuna að láta klippa eða raka hár sitt, þá hafi hún á höfðinu. 11.7 Karlmaður á ekki að hylja höfuð sitt, því að hann er ímynd og vegsemd Guðs, en konan er vegsemd mannsins. 11.8 Því ekki er maðurinn af konunni kominn, heldur konan af manninum, 11.9 og ekki var heldur maðurinn skapaður vegna konunnar, heldur konan vegna mannsins. 11.10 Þess vegna á konan vegna englanna að bera tákn um yfirráð mannsins á höfði sér. 11.11 Þó er hvorki konan óháð manninum né maðurinn konunni í samfélaginu við Drottin, 11.12 því að eins og konan er komin af manninum, svo er og maðurinn fæddur af konunni, en allt er frá Guði. 11.13 Dæmið sjálfir: Sæmir það konu að biðja til Guðs berhöfðuð? 11.14 Kennir ekki sjálf náttúran yður, að ef karlmaður ber sítt hár, þá er það honum vansæmd, 11.15 en ef kona ber sítt hár, þá er það henni sæmd? Því að síða hárið er gefið henni í höfuðblæju stað. 11.16 En ætli nú einhver sér að gjöra þetta að kappsmáli, þá viti sá, að annað er ekki venja vor eða safnaða Guðs. 11.17 En um leið og ég áminni um þetta, get ég ekki hrósað yður fyrir samkomur yðar, sem eru fremur til ills en góðs. 11.18 Í fyrsta lagi heyri ég, að flokkadráttur eigi sér stað á meðal yðar, er þér komið saman á safnaðarsamkomum, og því trúi ég að nokkru leyti. 11.19 Víst verður að vera flokkaskipting á meðal yðar, til þess að þeir yðar þekkist úr, sem hæfir eru. 11.20 Þegar þér komið saman er það ekki til þess að neyta máltíðar Drottins, 11.21 því að við borðhaldið hrifsar hver sína máltíð, svo einn er hungraður, en annar drekkur sig ölvaðan. 11.22 Hafið þér þá ekki hús til að eta og drekka í? Eða fyrirlítið þér söfnuð Guðs og gjörið þeim kinnroða, sem ekkert eiga? Hvað á ég að segja við yður? Á ég að hæla yður fyrir þetta? Nei, ég hæli yður ekki. 11.23 Því að ég hef meðtekið frá Drottni það, sem ég hef kennt yður: Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn, tók hann brauð, 11.24 gjörði þakkir, braut það og sagði: 'Þetta er minn líkami, sem er fyrir yður. Gjörið þetta í mína minningu.' 11.25 Sömuleiðis tók hann og bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: 'Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði. Gjörið þetta, svo oft sem þér drekkið, í mína minningu.' 11.26 Svo oft sem þér etið þetta brauð og drekkið af bikarnum, boðið þér dauða Drottins, þangað til hann kemur. 11.27 Hver sem etur brauðið eða drekkur bikar Drottins óverðuglega, verður þess vegna sekur við líkama og blóð Drottins. 11.28 Hver maður prófi sjálfan sig og eti síðan af brauðinu og drekki af bikarnum. 11.29 Því að sá sem etur og drekkur án þess að dæma rétt um líkamann, hann etur og drekkur sjálfum sér til dóms. 11.30 Fyrir því eru svo margir sjúkir og krankir á meðal yðar, og allmargir deyja. 11.31 Ef vér dæmdum um sjálfa oss, yrðum vér ekki dæmdir. 11.32 En fyrst Drottinn dæmir oss, þá er hann að aga oss til þess að vér verðum ekki dæmdir sekir ásamt heiminum. 11.33 Fyrir því skuluð þér bíða hver eftir öðrum, bræður mínir, þegar þér komið saman til að matast. 11.34 Ef nokkur er hungraður, þá eti hann heima, til þess að samkomur yðar verði yður ekki til dóms. Annað mun ég segja til um, þegar ég kem.
12.1 En svo ég minnist á gáfur andans, bræður, þá vil ég ekki að þér séuð fáfróðir um þær. 12.2 Þér vitið, að þegar þér voruð heiðingjar, þá létuð þér leiða yður til mállausra skurðgoðanna, rétt eins og verkast vildi. 12.3 Fyrir því læt ég yður vita, að enginn, sem talar af Guðs anda, segir: 'Bölvaður sé Jesús!' og enginn getur sagt: 'Jesús er Drottinn!' nema af heilögum anda. 12.4 Mismunur er á náðargáfum, en andinn er hinn sami, 12.5 og mismunur er á embættum, en Drottinn hinn sami, 12.6 og mismunur er á hæfileikum að framkvæma, en Guð hinn sami, sem öllu kemur til leiðar í öllum. 12.7 Andinn opinberast í sérhverjum til þess, sem gagnlegt er. 12.8 Einum er fyrir andann gefið að mæla af speki, öðrum að mæla af þekkingu í krafti sama anda. 12.9 Hinn sami andi veitir einum trú, öðrum lækningagáfu 12.10 og öðrum kraft til að framkvæma undur. Einn fær spádómsgáfu, annar hæfileika að greina anda, einn að tala tungum og annar að útleggja tungutal. 12.11 En öllu þessu kemur til leiðar eini og sami andinn, og hann útbýtir hverjum einum eftir vild sinni. 12.12 Því að eins og líkaminn er einn og hefur marga limi, en allir limir líkamans, þótt margir séu, eru einn líkami, þannig er og Kristur. 12.13 Í einum anda vorum vér allir skírðir til að vera einn líkami, hvort sem vér erum Gyðingar eða Grikkir, þrælar eða frjálsir, og allir fengum vér einn anda að drekka. 12.14 Því að líkaminn er ekki einn limur, heldur margir. 12.15 Ef fóturinn segði: 'Fyrst ég er ekki hönd, heyri ég ekki líkamanum til,' þá er hann ekki fyrir það líkamanum óháður. 12.16 Og ef eyrað segði: 'Fyrst ég er ekki auga, heyri ég ekki líkamanum til,' þá er það ekki þar fyrir líkamanum óháð. 12.17 Ef allur líkaminn væri auga, hvar væri þá heyrnin? Ef hann væri allur heyrn, hvar væri þá ilmanin? 12.18 En nú hefur Guð sett hvern einstakan lim á líkamann eins og honum þóknaðist. 12.19 Ef allir limirnir væru einn limur, hvar væri þá líkaminn? 12.20 En nú eru limirnir margir, en líkaminn einn. 12.21 Augað getur ekki sagt við höndina: 'Ég þarfnast þín ekki!' né heldur höfuðið við fæturna: 'Ég þarfnast ykkar ekki!' 12.22 Nei, miklu fremur eru þeir limir á líkamanum nauðsynlegir, sem virðast vera í veikbyggðara lagi. 12.23 Og þeim, sem oss virðast vera í óvirðulegra lagi á líkamanum, þeim veitum vér því meiri sæmd, og þeim, sem vér blygðumst vor fyrir, sýnum vér því meiri blygðunarsemi. 12.24 Þess þarfnast hinir ásjálegu limir vorir ekki. En Guð setti líkamann svo saman, að hann gaf þeim, sem síðri var, því meiri sæmd, 12.25 til þess að ekki yrði ágreiningur í líkamanum, heldur skyldu limirnir bera sameiginlega umhyggju hver fyrir öðrum. 12.26 Og hvort heldur einn limur þjáist, þá þjást allir limirnir með honum, eða einn limur er í hávegum hafður, samgleðjast allir limirnir honum. 12.27 Þér eruð líkami Krists og limir hans hver um sig. 12.28 Guð hefur sett nokkra í kirkjunni, fyrst postula, í öðru lagi spámenn, í þriðja lagi fræðara, sumum hefur hann veitt gáfu að gjöra kraftaverk, lækna, vinna líknarstörf, stjórna og tala tungum. 12.29 Hvort eru allir postular? Hvort eru allir spámenn? Hvort eru allir fræðarar? Hvort eru allir kraftaverkamenn? 12.30 Hvort hafa allir hlotið lækningagáfu? Hvort tala allir tungum? Hvort útlista allir tungutal? 12.31 Nei, sækist heldur eftir náðargáfunum, þeim hinum meiri. Og nú bendi ég yður á enn þá miklu ágætari leið.
13.1 Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. 13.2 Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt. 13.3 Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum, og þótt ég framseldi líkama minn, til þess að verða brenndur, en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari. 13.4 Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. 13.5 Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. 13.6 Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum. 13.7 Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. 13.8 Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. En spádómsgáfur, þær munu líða undir lok, og tungur, þær munu þagna, og þekking, hún mun líða undir lok. 13.9 Því að þekking vor er í molum og spádómur vor er í molum. 13.10 En þegar hið fullkomna kemur, þá líður það undir lok, sem er í molum. 13.11 Þegar ég var barn, talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða maður, lagði ég niður barnaskapinn. 13.12 Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu, en þá munum vér sjá augliti til auglitis. Nú er þekking mín í molum, en þá mun ég gjörþekkja, eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn. 13.13 En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.
14.1 Keppið eftir kærleikanum. Sækist eftir gáfum andans, en einkum eftir spádómsgáfu. 14.2 Því að sá, sem talar tungum, talar ekki við menn, heldur við Guð. Enginn skilur hann, í anda talar hann leyndardóma. 14.3 En spámaðurinn talar til manna, þeim til uppbyggingar, áminningar og huggunar. 14.4 Sá, sem talar tungum, byggir upp sjálfan sig, en spámaðurinn byggir upp söfnuðinn. 14.5 Ég vildi að þér töluðuð allir tungum, en þó enn meir, að þér hefðuð spádómsgáfu. Það er meira vert en að tala tungum, nema það sé útlagt, til þess að söfnuðurinn hljóti uppbygging. 14.6 Hvað mundi ég gagna yður, bræður, ef ég nú kæmi til yðar og talaði tungum, en flytti yður ekki opinberun eða þekkingu eða spádóm eða kenningu? 14.7 Jafnvel hinir dauðu hlutir, sem gefa hljóð frá sér, hvort heldur er pípa eða harpa, _ ef þær gefa ekki mismunandi hljóð frá sér, hvernig ætti þá að skiljast það, sem leikið er á pípuna eða hörpuna? 14.8 Gefi lúðurinn óskilmerkilegt hljóð, hver býr sig þá til bardaga? 14.9 Svo er og um yður: Ef þér mælið ekki með tungu yðar fram skilmerkileg orð, hvernig verður það þá skilið, sem talað er? Því að þér talið þá út í bláinn. 14.10 Hversu margar tegundir tungumála, sem kunna að vera til í heiminum, ekkert þeirra er þó málleysa. 14.11 Ef ég nú þekki ekki merkingu málsins, verð ég sem útlendingur fyrir þeim, sem talar, og hann útlendingur fyrir mér. 14.12 Eins er um yður. Fyrst þér sækist eftir gáfum andans, leitist þá við að vera auðugir að þeim, söfnuðinum til uppbyggingar. 14.13 Biðji því sá, er talar tungum, um að geta útlagt. 14.14 Því að ef ég biðst fyrir með tungum, þá biður andi minn, en skilningur minn ber engan ávöxt. 14.15 Hvernig er því þá farið? Ég vil biðja með anda, en ég vil einnig biðja með skilningi. Ég vil lofsyngja með anda, en ég vil einnig lofsyngja með skilningi. 14.16 Því ef þú vegsamar með anda, hvernig á þá sá, er skipar sess hins fáfróða, að segja amen við þakkargjörð þinni, þar sem hann veit ekki, hvað þú ert að segja? 14.17 Að vísu getur þakkargjörð þín verið fögur, en hinn uppbyggist ekki. 14.18 Ég þakka Guði, að ég tala tungum öllum yður fremur, 14.19 en á safnaðarsamkomu vil ég heldur tala fimm orð með skilningi mínum, til þess að ég geti frætt aðra, en tíu þúsund orð með tungum. 14.20 Bræður, verið ekki börn í dómgreind, heldur sem ungbörn í illskunni, en fullorðnir í dómgreind. 14.21 Í lögmálinu er ritað: Með annarlegu tungutaki og annarlegum vörum mun ég tala til lýðs þessa, og eigi að heldur munu þeir heyra mig, segir Drottinn. 14.22 Þannig er þá tungutalið til tákns, ekki þeim sem trúa, heldur hinum vantrúuðu. En spámannlega gáfan er ekki til tákns fyrir hina vantrúuðu, heldur þá sem trúa. 14.23 Ef nú allur söfnuðurinn kæmi saman og allir töluðu tungum, og inn kæmu fáfróðir menn eða vantrúaðir, mundu þeir þá ekki segja: 'Þér eruð óðir'? 14.24 En ef allir töluðu af spámannlegri gáfu, og inn kæmi einhver vantrúaður eða fáfróður þá sannfærðist hann og dæmdist af öllum. 14.25 Leyndardómar hjarta hans verða opinberir, og hann fellur fram á ásjónu sína og tilbiður Guð og lýsir því yfir, að Guð er sannarlega hjá yður. 14.26 Hvernig er það þá, bræður? Þegar þér komið saman, þá hefur hver sitt fram að færa: Sálm, kenningu, opinberun, tungutal, útlistun. Allt skal miða til uppbyggingar. 14.27 Séu einhverjir, sem tala tungum, mega þeir vera tveir eða í mesta lagi þrír, hver á eftir öðrum, og einn útlisti. 14.28 En ef ekki er neinn til að útlista, þá þegi sá á safnaðarsamkomunni, sem talar tungum, en tali við sjálfan sig og við Guð. 14.29 En spámenn tali tveir eða þrír og hinir skulu dæma um. 14.30 Fái einhver annar, sem þar situr, opinberun, þá þagni hinn fyrri. 14.31 Því að þér getið allir, hver á eftir öðrum, talað af spámannlegri andagift, til þess að allir hljóti fræðslu og uppörvun. 14.32 Andar spámanna eru spámönnum undirgefnir, 14.33 því að Guð er ekki Guð truflunarinnar, heldur friðarins. Eins og í öllum söfnuðum hinna heilögu 14.34 skulu konur þegja á safnaðarsamkomunum, því að ekki er þeim leyft að tala, heldur skulu þær vera undirgefnar, eins og líka lögmálið segir. 14.35 En ef þær vilja fræðast um eitthvað, þá skulu þær spyrja eiginmenn sína heima. Því að það er ósæmilegt fyrir konu að tala á safnaðarsamkomu. 14.36 Eða er Guðs orð frá yður komið? Eða er það komið til yðar einna? 14.37 Ef nokkur þykist spámaður vera eða gæddur gáfum andans, hann skynji, að það, sem ég skrifa yður, er boðorð Drottins. 14.38 Vilji einhver ekki við það kannast, þá verður ekki við hann kannast. 14.39 Þess vegna, bræður mínir, sækist eftir spádómsgáfunni og aftrið því ekki, að talað sé tungum. 14.40 En allt fari sómasamlega fram og með reglu.
15.1 Ég minni yður, bræður, á fagnaðarerindi það, sem ég boðaði yður, sem þér og veittuð viðtöku og þér einnig standið stöðugir í. 15.2 Fyrir það verðið þér og hólpnir ef þér haldið fast við orðið, fagnaðarerindið, sem ég boðaði yður, og hafið ekki ófyrirsynju trúna tekið. 15.3 Því það kenndi ég yður fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna vorra synda samkvæmt ritningunum, 15.4 að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum 15.5 og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf. 15.6 Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu, sem flestir eru á lífi allt til þessa, en nokkrir eru sofnaðir. 15.7 Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum. 15.8 En síðast allra birtist hann einnig mér, eins og ótímaburði. 15.9 Því ég er sístur postulanna og er ekki þess verður að kallast postuli, með því að ég ofsótti söfnuð Guðs. 15.10 En af Guðs náð er ég það sem ég er, og náð hans við mig hefur ekki orðið til ónýtis, heldur hef ég erfiðað meira en þeir allir, þó ekki ég, heldur náð Guðs, sem með mér er. 15.11 Hvort sem það því er ég eða þeir, þá prédikum vér þannig, og þannig hafið þér trúna tekið. 15.12 En ef nú er prédikað, að Kristur sé upprisinn frá dauðum, hvernig geta þá nokkrir yðar sagt, að dauðir rísi ekki upp? 15.13 Ef ekki er til upprisa dauðra, þá er Kristur ekki heldur upprisinn. 15.14 En ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun vor, ónýt líka trú yðar. 15.15 Vér reynumst þá vera ljúgvottar um Guð, þar eð vér höfum vitnað um Guð, að hann hafi uppvakið Krist, sem hann hefur ekki uppvakið, svo framarlega sem dauðir rísa ekki upp. 15.16 Því að ef dauðir rísa ekki upp, er Kristur ekki heldur upprisinn. 15.17 En ef Kristur er ekki upprisinn, er trú yðar fánýt, þér eruð þá enn í syndum yðar, 15.18 og þá eru einnig þeir, sem sofnaðir eru í trú á Krist, glataðir. 15.19 Ef von vor til Krists nær aðeins til þessa lífs, þá erum vér aumkunarverðastir allra manna. 15.20 En nú er Kristur upprisinn frá dauðum sem frumgróði þeirra, sem sofnaðir eru. 15.21 Því að þar eð dauðinn kom fyrir mann, kemur og upprisa dauðra fyrir mann. 15.22 Því að eins og allir deyja fyrir samband sitt við Adam, svo munu allir lífgaðir verða fyrir samfélag sitt við Krist. 15.23 En sérhver í sinni röð: Kristur sem frumgróðinn, því næst, við komu hans, þeir sem honum tilheyra. 15.24 Síðan kemur endirinn, er hann selur ríkið Guði föður í hendur, er hann hefur að engu gjört sérhverja tign, sérhvert veldi og kraft. 15.25 Því að honum ber að ríkja, uns hann leggur alla fjendurna undir fætur hans. 15.26 Dauðinn er síðasti óvinurinn, sem verður að engu gjörður. 15.27 'Allt hefur hann lagt undir fætur honum.' Þegar stendur, að allt hafi verið lagt undir hann, er augljóst, að sá er undan skilinn, sem lagði allt undir hann. 15.28 En þegar allt hefur verið lagt undir hann, þá mun og sonurinn sjálfur leggja sig undir þann, er lagði alla hluti undir hann, til þess að Guð sé allt í öllu. 15.29 Til hvers eru menn annars að láta skírast fyrir hina dánu? Ef dauðir menn rísa alls ekki upp, hvers vegna láta menn þá skíra sig fyrir þá? 15.30 Hvers vegna erum vér líka að stofna oss í hættu hverja stund? 15.31 Svo sannarlega, bræður, sem ég get hrósað mér af yður í Kristi Jesú, Drottni vorum: Á degi hverjum vofir dauðinn yfir mér. 15.32 Hafi ég eingöngu að hætti manna barist við villidýr í Efesus, hvaða gagn hefði ég þá af því? Ef dauðir rísa ekki upp, etum þá og drekkum, því að á morgun deyjum vér! 15.33 Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum. 15.34 Vaknið fyrir alvöru og syndgið ekki. Nokkrir hafa enga þekkingu á Guði. Yður til blygðunar segi ég það. 15.35 En nú kynni einhver að segja: 'Hvernig rísa dauðir upp? Hvaða líkama hafa þeir, þegar þeir koma?' 15.36 Þú óvitri maður! Það sem þú sáir lifnar ekki aftur nema það deyi. 15.37 Og er þú sáir, þá er það ekki sú jurt, er vex upp síðar, sem þú sáir, heldur bert frækornið, hvort sem það nú heldur er hveitikorn eða annað fræ. 15.38 En Guð gefur því líkama eftir vild sinni og hverri sæðistegund sinn líkama. 15.39 Ekki eru allir líkamir eins, heldur hafa mennirnir einn, kvikféð annan, fuglarnir einn og fiskarnir annan. 15.40 Til eru himneskir líkamir og jarðneskir líkamir. En vegsemd hinna himnesku er eitt og hinna jarðnesku annað. 15.41 Eitt er ljómi sólarinnar og annað ljómi tunglsins og annað ljómi stjarnanna, því að stjarna ber af stjörnu í ljóma. 15.42 Þannig er og um upprisu dauðra. Sáð er forgengilegu, en upp rís óforgengilegt. 15.43 Sáð er í vansæmd, en upp rís í vegsemd. Sáð er í veikleika, en upp rís í styrkleika. 15.44 Sáð er jarðneskum líkama, en upp rís andlegur líkami. Ef jarðneskur líkami er til, þá er og til andlegur líkami. 15.45 Þannig er og ritað: 'Hinn fyrsti maður, Adam, varð að lifandi sál,' hinn síðari Adam að lífgandi anda. 15.46 En hið andlega kemur ekki fyrst, heldur hið jarðneska, því næst hið andlega. 15.47 Hinn fyrsti maður er frá jörðu, jarðneskur, hinn annar maður er frá himni. 15.48 Eins og hinn jarðneski var, þannig eru og hinir jarðnesku og eins og hinn himneski, þannig eru og hinir himnesku. 15.49 Og eins og vér höfum borið mynd hins jarðneska, munum vér einnig bera mynd hins himneska. 15.50 En það segi ég, bræður, að hold og blóð getur eigi erft Guðs ríki, eigi erfir heldur hið forgengilega óforgengileikann. 15.51 Sjá, ég segi yður leyndardóm: Vér munum ekki allir sofna, en allir munum vér umbreytast 15.52 í einni svipan, á einu augabragði, við hinn síðasta lúður. Því lúðurinn mun gjalla og þá munu hinir dauðu upp rísa óforgengilegir, og vér munum umbreytast. 15.53 Þetta forgengilega á að íklæðast óforgengileikanum og þetta dauðlega að íklæðast ódauðleikanum. 15.54 En þegar hið forgengilega íklæðist óforgengileikanum og hið dauðlega ódauðleikanum, þá mun rætast orð það, sem ritað er: Dauðinn er uppsvelgdur í sigur. 15.55 Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði, hvar er broddur þinn? 15.56 En syndin er broddur dauðans og lögmálið afl syndarinnar. 15.57 Guði séu þakkir, sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist! 15.58 Þess vegna, mínir elskuðu bræður, verið staðfastir, óbifanlegir, síauðugir í verki Drottins. Þér vitið að erfiði yðar er ekki árangurslaust í Drottni.
16.1 En hvað snertir samskotin til hinna heilögu, þá skuluð einnig þér fara með þau eins og ég hef fyrirskipað söfnuðunum í Galatíu. 16.2 Hvern fyrsta dag vikunnar skal hver yðar leggja í sjóð heima hjá sér það, sem efni leyfa, til þess að ekki verði fyrst farið að efna til samskota, þegar ég kem. 16.3 En þegar ég svo kem, mun ég senda þá, sem þér teljið hæfa, með líknargjöf yðar til Jerúsalem, og skrifa með þeim. 16.4 En ef betra þykir að ég fari líka, þá geta þeir orðið mér samferða. 16.5 Ég mun koma til yðar, er ég hef farið um Makedóníu, því að um Makedóníu legg ég leið mína. 16.6 Ég mun ef til vill staldra við hjá yður, eða jafnvel dveljast vetrarlangt, til þess að þér getið búið ferð mína, hvert sem ég þá kann að fara. 16.7 Því að nú vil ég ekki sjá yður rétt í svip. Ég vona sem sé, ef Drottinn lofar, að standa við hjá yður nokkra stund. 16.8 Ég stend við í Efesus allt til hvítasunnu, 16.9 því að mér hafa opnast þar víðar dyr og verkmiklar og andstæðingarnir eru margir. 16.10 Ef Tímóteus kemur, þá sjáið til þess, að hann geti óttalaust hjá yður verið, því að hann starfar að verki Drottins eins og ég. 16.11 Þess vegna lítilsvirði enginn hann, greiðið heldur ferð hans í friði, til þess að hann geti komist til mín. Því að ég vænti hans með bræðrunum. 16.12 En hvað snertir bróður Apollós, þá hef ég mikillega hvatt hann til að verða bræðrunum samferða til yðar. En hann var alls ófáanlegur til að fara nú, en koma mun hann, er hentugleikar hans leyfa. 16.13 Vakið, standið stöðugir í trúnni, verið karlmannlegir og styrkir. 16.14 Allt sé hjá yður í kærleika gjört. 16.15 Um eitt bið ég yður, bræður. Þér vitið að Stefanas og heimili hans er frumgróði Akkeu og að þeir hafa helgað sig þjónustu heilagra. 16.16 Sýnið slíkum mönnum undirgefni og hverjum þeim er starfar með og leggur á sig erfiði. 16.17 Ég gleðst yfir návist þeirra Stefanasar, Fortúnatusar og Akkaíkusar, af því að þeir hafa bætt mér upp fjarvist yðar. 16.18 Þeir hafa bæði glatt mig og yður. Hafið mætur á slíkum mönnum. 16.19 Söfnuðirnir í Asíu biðja að heilsa yður. Akvílas og Priska ásamt söfnuðinum í húsi þeirra biðja kærlega að heilsa yður í Drottins nafni. 16.20 Allir bræðurnir biðja að heilsa yður. Heilsið hver öðrum með heilögum kossi. 16.21 Kveðjan er með eigin hendi minni, Páls. 16.22 Ef einhver elskar ekki Drottin, hann sé bölvaður. Marana ta! 16.23 Náðin Drottins Jesú sé með yður.
1.1 Páll, að Guðs vilja postuli Krists Jesú, og Tímóteus, bróðir vor, heilsa söfnuði Guðs, sem er í Korintu, ásamt öllum heilögum, í gjörvallri Akkeu. 1.2 Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. 1.3 Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar, 1.4 sem huggar oss í sérhverri þrenging vorri, svo að vér getum huggað alla aðra í þrengingum þeirra með þeirri huggun, sem vér höfum sjálfir af Guði hlotið. 1.5 Því að eins og þjáningar Krists koma í ríkum mæli yfir oss, þannig hljótum vér og huggun í ríkum mæli fyrir Krist. 1.6 En ef vér sætum þrengingum, þá er það yður til huggunar og hjálpræðis, og ef vér hljótum huggun, þá er það til þess að þér hljótið huggun og kraft til að standast þær þjáningar, sem vér einnig líðum. 1.7 Von vor um yður er staðföst. Vér vitum, að þér eigið hlut í huggun vorri eins og þér eigið hlut í þjáningum vorum. 1.8 Vér viljum ekki, bræður mínir, að yður sé ókunnugt um þrenging þá, sem vér urðum fyrir í Asíu. Vér vorum aðþrengdir langt um megn fram, svo að vér jafnvel örvæntum um lífið. 1.9 Já, oss sýndist sjálfum, að vér hefðum þegar fengið vorn dauðadóm. Því að oss átti að lærast það að treysta ekki sjálfum oss, heldur Guði, sem uppvekur hina dauðu. 1.10 Úr slíkri dauðans hættu frelsaði hann oss og mun frelsa oss. Til hans höfum vér sett von vora, að hann muni enn frelsa oss. 1.11 Til þess getið þér og hjálpað með því að biðja fyrir oss. Þá munu margir þakka þá náðargjöf, sem oss er veitt að fyrirbæn margra. 1.12 Þetta er hrósun vor: Samviska vor vitnar um, að vér höfum lifað í heiminum, og sérstaklega hjá yður, í heilagleika og hreinleika, sem kemur frá Guði, ekki látið stjórnast af mannlegri speki, heldur af náð Guðs. 1.13 Vér skrifum yður ekki annað en það, sem þér getið lesið og skilið. Ég vona, að þér munið til fulls skilja það, 1.14 sem yður er að nokkru ljóst, að þér getið miklast af oss eins og vér af yður á degi Drottins vors Jesú. 1.15 Í þessu trausti var það ásetningur minn að koma fyrst til yðar, til þess að þér skylduð verða tvöfaldrar gleði aðnjótandi. 1.16 Ég hugðist bæði koma við hjá yður á leiðinni til Makedóníu og aftur á leiðinni þaðan og láta yður búa ferð mína til Júdeu. 1.17 Var það nú svo mikið hverflyndi af mér, er ég afréð þetta? Eða ræð ég ráðum mínum að hætti heimsins, svo að hjá mér sé 'já, já' sama og 'nei, nei'? 1.18 Svo sannarlega sem Guð er trúr: Það, sem vér segjum yður, er ekki bæði já og nei. 1.19 Sonur Guðs, Jesús Kristur, sem vér höfum prédikað á meðal yðar, ég, Silvanus og Tímóteus, var ekki bæði 'já' og 'nei', heldur er allt í honum 'já'. 1.20 Því að svo mörg sem fyrirheit Guðs eru, þá er játun þeirra í honum. Þess vegna segjum vér og fyrir hann amen Guði til dýrðar. 1.21 Það er Guð, sem gjörir oss ásamt yður staðfasta í Kristi og hefur smurt oss. 1.22 Hann hefur sett innsigli sitt á oss og gefið oss anda sinn sem pant í hjörtum vorum. 1.23 Ég kalla Guð til vitnis og legg líf mitt við, að það er af hlífð við yður, að ég hef enn þá ekki komið til Korintu. 1.24 Ekki svo að skilja, að vér viljum drottna yfir trú yðar, heldur erum vér samverkamenn að gleði yðar. Því að í trúnni standið þér.
2.1 En það ásetti ég mér, að koma ekki aftur til yðar með hryggð. 2.2 Ef ég hryggi yður, hver er þá sá sem gleður mig? Sá sem ég er að hryggja? 2.3 Ég skrifaði einmitt þetta til þess að þeir, sem áttu að gleðja mig, skyldu ekki hryggja mig, er ég kæmi. Ég hef það traust til yðar allra, að gleði mín sé gleði yðar allra. 2.4 Af mikilli þrengingu og hjartans trega skrifaði ég yður með mörgum tárum, ekki til þess að þér skylduð hryggjast, heldur til þess að þér skylduð komast að raun um þann kærleika, sem ég ber til yðar í svo ríkum mæli. 2.5 En ef nokkur hefur orðið til þess að valda hryggð, þá hefur hann ekki hryggt mig, heldur að vissu leyti _ að ég gjöri ekki enn meira úr því _ hryggt yður alla. 2.6 Nægileg er þeim manni refsing sú, sem hann hefur hlotið af yður allflestum. 2.7 Því ættuð þér nú öllu heldur að fyrirgefa honum og hugga hann til þess að hann sökkvi ekki niður í allt of mikla hryggð. 2.8 Þess vegna bið ég yður að sýna honum kærleika í reynd. 2.9 Því að í þeim tilgangi skrifaði ég yður, til þess að komast að raun um staðfestu yðar, hvort þér væruð hlýðnir í öllu. 2.10 En hverjum sem þér fyrirgefið, honum fyrirgef ég líka. Og það sem ég hef fyrirgefið, hafi ég þurft að fyrirgefa nokkuð, þá hefur það verið vegna yðar fyrir augliti Krists, 2.11 til þess að vér yrðum ekki vélaðir af Satan, því að ekki er oss ókunnugt um vélráð hans. 2.12 En er ég kom til Tróas til að boða fagnaðarerindið um Krist og mér stóðu þar opnar dyr í þjónustu Drottins, 2.13 þá hafði ég enga eirð í mér, af því að ég hitti ekki Títus, bróður minn, svo að ég kvaddi þá og fór til Makedóníu. 2.14 En Guði séu þakkir, sem fer með oss í óslitinni sigurför Krists og lætur oss útbreiða ilm þekkingarinnar á honum á hverjum stað. 2.15 Því að vér erum góðilmur Krists fyrir Guði meðal þeirra, er hólpnir verða, og meðal þeirra, sem glatast; 2.16 þeim síðarnefndu ilmur af dauða til dauða, en hinum ilmur af lífi til lífs. Og hver er til þessa hæfur? 2.17 Ekki erum vér eins og hinir mörgu, er pranga með Guðs orð, heldur flytjum vér það af hreinum huga frá Guði frammi fyrir augliti Guðs, með því að vér erum í Kristi.
3.1 Erum vér nú aftur teknir að mæla með sjálfum oss? Eða mundum vér þurfa, eins og sumir, meðmælabréf til yðar eða frá yður? 3.2 Þér eruð vort bréf, ritað á hjörtu vor, þekkt og lesið af öllum mönnum. 3.3 Þér sýnið ljóslega, að þér eruð bréf Krists, sem vér höfum unnið að, ekki skrifað með bleki, heldur með anda lifanda Guðs, ekki á steinspjöld, heldur á hjartaspjöld úr holdi. 3.4 En þetta traust höfum vér til Guðs fyrir Krist. 3.5 Ekki svo, að vér séum sjálfir hæfir og eitthvað komi frá oss sjálfum, heldur er hæfileiki vor frá Guði, 3.6 sem hefur gjört oss hæfa til að vera þjóna nýs sáttmála, ekki bókstafs, heldur anda. Því að bókstafurinn deyðir, en andinn lífgar. 3.7 En ef þjónusta dauðans, sem letruð var og höggvin á steina, kom fram í dýrð, svo að Ísraelsmenn gátu ekki horft framan í Móse vegna ljómans af ásýnd hans, sem þó varð að engu, 3.8 hversu miklu fremur mun þá þjónusta andans koma fram í dýrð? 3.9 Ef þjónustan, sem sakfellir, var dýrleg, þá er þjónustan, sem réttlætir, enn þá miklu auðugri að dýrð. 3.10 Í þessu efni verður jafnvel það, sem áður var dýrlegt, ekki dýrlegt í samanburði við hina yfirgnæfandi dýrð. 3.11 Því að ef það, sem að engu verður, kom fram með dýrð, þá hlýtur miklu fremur hið varanlega að koma fram í dýrð. 3.12 Þar eð vér nú höfum slíka von, þá komum vér fram með mikilli djörfung 3.13 og gjörum ekki eins og Móse, sem setti skýlu fyrir andlit sér, til þess að Ísraelsmenn skyldu ekki horfa á endalok ljóma þess, sem var að hverfa. 3.14 En hugur þeirra varð forhertur. Því allt til þessa dags hvílir sama skýlan yfir upplestri hins gamla sáttmála og henni hefur ekki verið svipt burt, því að aðeins í Kristi hverfur hún. 3.15 Já, allt til þessa dags hvílir skýla yfir hjörtum þeirra, hvenær sem Móse er lesinn. 3.16 En 'þegar einhver snýr sér til Drottins, verður skýlan burtu tekin.' 3.17 Drottinn er andinn, og þar sem andi Drottins er, þar er frelsi. 3.18 En allir vér, sem með óhjúpuðu andliti endurspeglum dýrð Drottins, ummyndumst til hinnar sömu myndar, frá dýrð til dýrðar. Þetta gjörir andi Drottins.
4.1 Með því að vér höfum þessa þjónustu á hendi fyrir miskunn Guðs, þá látum vér ekki hugfallast. 4.2 Vér höfnum allri skammarlegri launung, vér framgöngum ekki með fláttskap né fölsum Guðs orð, heldur birtum vér sannleikann, og fyrir augliti Guðs skírskotum vér til samvisku hvers manns um sjálfa oss. 4.3 En ef fagnaðarerindi vort er hulið, þá er það hulið þeim, sem glatast. 4.4 Því guð þessarar aldar hefur blindað huga hinna vantrúuðu, til þess að þeir sjái ekki ljósið frá fagnaðarerindinu um dýrð Krists, hans, sem er ímynd Guðs. 4.5 Ekki prédikum vér sjálfa oss, heldur Krist Jesú sem Drottin, en sjálfa oss sem þjóna yðar vegna Jesú. 4.6 Því að Guð, sem sagði: 'Ljós skal skína fram úr myrkri!' _ hann lét það skína í hjörtu vor, til þess að birtu legði af þekkingunni á dýrð Guðs, eins og hún skín frá ásjónu Jesú Krists. 4.7 En þennan fjársjóð höfum vér í leirkerum, til þess að ofurmagn kraftarins sé Guðs, en ekki frá oss. 4.8 Á allar hliðar erum vér aðþrengdir, en þó ekki ofþrengdir, vér erum efablandnir, en örvæntum þó ekki, 4.9 ofsóttir, en þó ekki yfirgefnir, felldir til jarðar, en tortímumst þó ekki. 4.10 Jafnan berum vér með oss á líkamanum dauða Jesú, til þess að einnig líf Jesú verði opinbert í líkama vorum. 4.11 Því að vér, sem lifum, erum jafnan framseldir til dauða vegna Jesú, til þess að líf Jesú verði opinbert í dauðlegu holdi voru. 4.12 Þannig er dauðinn að verki í oss, en lífið í yður. 4.13 Vér höfum sama anda trúarinnar sem skrifað er um í ritningunni: 'Ég trúði, þess vegna talaði ég.' Vér trúum líka og þess vegna tölum vér. 4.14 Vér vitum, að hann, sem vakti upp Drottin Jesú, mun einnig uppvekja oss ásamt Jesú og leiða oss fram ásamt yður. 4.15 Allt er þetta yðar vegna, til þess að náðin verði sem mest og láti sem flesta flytja þakkargjörð Guði til dýrðar. 4.16 Fyrir því látum vér ekki hugfallast. Jafnvel þótt vor ytri maður hrörni, þá endurnýjast dag frá degi vor innri maður. 4.17 Þrenging vor er skammvinn og léttbær og aflar oss eilífrar dýrðar sem stórum yfirgnæfir allt. 4.18 Vér horfum ekki á hið sýnilega, heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt, en hið ósýnilega eilíft.
5.1 Vér vitum, að þótt vor jarðneska tjaldbúð verði rifin niður, þá höfum vér hús frá Guði, eilíft hús á himnum, sem eigi er með höndum gjört. 5.2 Á meðan andvörpum vér og þráum að íklæðast húsi voru frá himnum. 5.3 Þegar vér íklæðumst því, munum vér ekki standa uppi naktir. 5.4 En á meðan vér erum í tjaldbúðinni, stynjum vér mæddir, af því að vér viljum ekki afklæðast, heldur íklæðast, til þess að hið dauðlega uppsvelgist af lífinu. 5.5 En sá, sem hefur gjört oss færa einmitt til þessa, er Guð, sem hefur gefið oss anda sinn sem pant. 5.6 Vér erum því ávallt hughraustir, þótt vér vitum, að meðan vér eigum heima í líkamanum erum vér að heiman frá Drottni, 5.7 því að vér lifum í trú, en sjáum ekki. 5.8 Já, vér erum hughraustir og langar öllu fremur til að hverfa burt úr líkamanum og vera heima hjá Drottni. 5.9 Þess vegna kostum vér kapps um, hvort sem vér erum heima eða að heiman, að vera honum þóknanlegir. 5.10 Því að öllum oss ber að birtast fyrir dómstóli Krists, til þess að sérhver fái það endurgoldið, sem hann hefur aðhafst í líkamanum, hvort sem það er gott eða illt. 5.11 Með því að vér nú vitum, hvað það er að óttast Drottin, leitumst vér við að sannfæra menn. En Guði erum vér kunnir orðnir, já, ég vona, að vér séum einnig kunnir orðnir yður í hjörtum yðar. 5.12 Ekki erum vér enn að mæla með sjálfum oss við yður, heldur gefum vér yður tilefni til að miklast af oss, til þess að þér hafið eitthvað gagnvart þeim, er miklast af hinu ytra, en ekki af hjartaþelinu. 5.13 Því að hvort sem vér höfum orðið frávita, þá var það vegna Guðs, eða vér erum með sjálfum oss, þá er það vegna yðar. 5.14 Kærleiki Krists knýr oss, 5.15 því að vér höfum ályktað svo: Ef einn er dáinn fyrir alla, þá eru þeir allir dánir. Og hann er dáinn fyrir alla, til þess að þeir, sem lifa, lifi ekki framar sjálfum sér, heldur honum, sem fyrir þá er dáinn og upprisinn. 5.16 Þannig metum vér héðan í frá engan að mannlegum hætti. Þótt vér og höfum þekkt Krist að mannlegum hætti, þekkjum vér hann nú ekki framar þannig. 5.17 Ef einhver er í Kristi, er hann skapaður á ný, hið gamla varð að engu, sjá, nýtt er orðið til. 5.18 Allt er frá Guði, sem sætti oss við sig fyrir Krist og gaf oss þjónustu sáttargjörðarinnar. 5.19 Því að það var Guð, sem í Kristi sætti heiminn við sig, er hann tilreiknaði þeim ekki afbrot þeirra og fól oss að boða orð sáttargjörðarinnar. 5.20 Vér erum því erindrekar Krists, eins og það væri Guð, sem áminnti, þegar vér áminnum. Vér biðjum í Krists stað: Látið sættast við Guð. 5.21 Þann sem þekkti ekki synd, gjörði hann að synd vor vegna, til þess að vér skyldum verða réttlæti Guðs í honum.
6.1 Sem samverkamenn hans áminnum vér yður einnig, að þér látið ekki náð Guðs, sem þér hafið þegið, verða til einskis. 6.2 Hann segir: Á hagkvæmri tíð bænheyrði ég þig, og á hjálpræðis degi hjálpaði ég þér. Nú er hagkvæm tíð, nú er hjálpræðis dagur. 6.3 Í engu viljum vér vera neinum til ásteytingar, til þess að þjónustan verði ekki fyrir lasti. 6.4 Á allan hátt sýnum vér, að vér erum þjónar Guðs, með miklu þolgæði í þrengingum, í nauðum, í angist, 6.5 undir höggum, í fangelsi, í upphlaupum, í erfiði, í vökum, í föstum, 6.6 með grandvarleik, með þekkingu, með langlyndi, með góðvild, með heilögum anda, með falslausum kærleika, 6.7 með sannleiksorði, með krafti Guðs, með vopnum réttlætisins til sóknar og varnar, 6.8 í heiðri og vanheiðri, í lasti og lofi. Vér erum álitnir afvegaleiðendur, en erum sannorðir, 6.9 óþekktir, en þó alþekktir, komnir í dauðann og samt lifum vér, tyftaðir og þó ekki deyddir, 6.10 hryggir, en þó ávallt glaðir, fátækir, en auðgum þó marga, öreigar, en eigum þó allt. 6.11 Frjálslega tölum vér við yður, Korintumenn. Rúmt er um yður í hjarta voru. 6.12 Ekki er þröngt um yður hjá oss, en í hjörtum yðar er þröngt. 6.13 En svo að sama komi á móti, _ ég tala eins og við börn mín _, þá látið þér líka verða rúmgott hjá yður. 6.14 Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum. Hvað er sameiginlegt með réttlæti og ranglæti? Hvaða samfélag hefur ljós við myrkur? 6.15 Hver er samhljóðan Krists við Belíar? Hver hlutdeild er trúuðum með vantrúuðum? 6.16 Hvernig má sætta musteri Guðs við skurðgoð? Vér erum musteri lifanda Guðs, eins og Guð hefur sagt: Ég mun búa hjá þeim og ganga um meðal þeirra, og ég mun vera Guð þeirra, og þeir munu vera lýður minn. 6.17 Þess vegna segir Drottinn: Farið burt frá þeim, og skiljið yður frá þeim. Snertið ekki neitt óhreint, og ég mun taka yður að mér 6.18 og ég mun vera yður faðir, og þér munuð vera mér synir og dætur, segir Drottinn alvaldur.
7.1 Þar eð vér því höfum þessi fyrirheit, elskaðir, þá hreinsum oss af allri saurgun á líkama og sál og fullkomnum helgun vora í guðsótta. 7.2 Gefið oss rúm í hjörtum yðar. Engum höfum vér gjört rangt til, engan skaðað, engan féflett. 7.3 Ég segi það ekki til að áfellast yður. Ég hef áður sagt, að þér eruð í hjörtum vorum, og vér deyjum saman og lifum saman. 7.4 Mikla djörfung hef ég gagnvart yður, mikillega get ég hrósað mér af yður. Ég er fullur af huggun, ég er stórríkur af gleði í allri þrenging vorri. 7.5 Því var og það, er vér komum til Makedóníu, að vér höfðum enga eirð, heldur vorum vér á alla vegu aðþrengdir, barátta hið ytra, ótti hið innra. 7.6 En Guð, sem huggar hina beygðu, hann huggaði oss með komu Títusar, 7.7 já, ekki aðeins með komu hans, heldur og með þeirri huggun, sem hann hafði fengið hjá yður. Hann skýrði oss frá þrá yðar, gráti yðar, áhuga yðar mín vegna, svo að ég gladdist við það enn frekar. 7.8 Að vísu hef ég hryggt yður með bréfinu, en ég iðrast þess ekki nú, þótt ég iðraðist þess áður, þar sem ég sá að þetta bréf hafði hryggt yður, þótt ekki væri nema um stund. 7.9 Nú er ég glaður, ekki yfir því, að þér urðuð hryggir, heldur yfir því, að þér urðuð hryggir til iðrunar. Þér urðuð hryggir Guði að skapi og biðuð því ekki í neinu tjón af oss. 7.10 Sú hryggð, sem er Guði að skapi, vekur afturhvarf til hjálpræðis, sem engan iðrar, en hryggð heimsins veldur dauða. 7.11 Einmitt þetta, að þér hryggðust Guði að skapi, _ hvílíka alvöru vakti það hjá yður, já, hvílíkar afsakanir, hvílíka gremju, hvílíkan ótta, hvílíka þrá, hvílíkt kapp, hvílíka refsingu! Í öllu hafið þér nú sannað, að þér voruð vítalausir um þetta. 7.12 Þótt ég því hafi skrifað yður, þá var það ekki vegna hans, sem óréttinn gjörði, ekki heldur vegna hans, sem fyrir óréttinum varð, heldur til þess að yður yrði ljóst fyrir augliti Guðs hversu heilshugar þér standið með oss. 7.13 Þess vegna höfum vér huggun hlotið. En auk huggunar vorrar gladdi það oss allra mest, hve Títus varð glaður. Þér hafið allir róað huga hans. 7.14 Því að hafi ég í nokkru hrósað mér af yður við hann, þá hef ég ekki þurft að blygðast mín. Já, eins og allt var sannleika samkvæmt, sem vér höfum talað við yður, þannig hefur og hrós vort um yður við Títus reynst sannleikur. 7.15 Og hjartaþel hans til yðar er því hlýrra sem hann minnist hlýðni yðar allra, hversu þér tókuð á móti honum með ugg og ótta. 7.16 Það gleður mig, að ég get í öllu borið traust til yðar.
8.1 En svo viljum vér, bræður, skýra yður frá þeirri náð, sem Guð hefur sýnt söfnuðunum í Makedóníu. 8.2 Þrátt fyrir þær miklu þrengingar, sem þeir hafa orðið að reyna, hefur ríkdómur gleði þeirra og hin djúpa fátækt leitt í ljós gnægð örlætis hjá þeim. 8.3 Ég get vottað það, hversu þeir hafa gefið eftir megni, já, um megn fram. Af eigin hvötum 8.4 lögðu þeir fast að oss og báðu um að mega vera í félagi við oss um samskotin til hinna heilögu. 8.5 Og þeir gjörðu betur en vér höfðum vonað, þeir gáfu sjálfa sig, fyrst og fremst Drottni, og síðan oss, að vilja Guðs. 8.6 Það varð til þess, að vér báðum Títus, að hann skyldi og leiða til lykta hjá yður þessa líknarþjónustu, eins og hann hefur byrjað. 8.7 Þér eruð auðugir í öllu, í trú, í orði og þekkingu, í allri alúð og í elsku yðar sem vér höfum vakið. Þannig skuluð þér og vera auðugir í þessari líknarþjónustu. 8.8 Ég segi þetta ekki sem skipun, heldur bendi ég á áhuga annarra til þess að reyna, hvort kærleiki yðar er einnig einlægur. 8.9 Þér þekkið náð Drottins vors Jesú Krists. Hann gjörðist fátækur yðar vegna, þótt ríkur væri, til þess að þér auðguðust af fátækt hans. 8.10 Og ráð vil ég gefa í þessu máli, því að þetta er yður til gagns, yður sem í fyrra voruð á undan öðrum, ekki aðeins í verkinu, heldur og í viljanum. 8.11 En fullgjörið nú og verkið. Þér voruð fúsir að hefjast handa, fullgjörið það nú eftir því sem efnin leyfa. 8.12 Því að ef viljinn er góður, þá er hver þóknanlegur með það, sem hann á til, og ekki farið fram á það, sem hann á ekki til. 8.13 Ekki svo að skilja, að öðrum sé hlíft, en þrengt sé að yður, heldur er það til þess að jöfnuður verði. Nú sem stendur bætir gnægð yðar úr skorti hinna, 8.14 til þess að einnig gnægð hinna geti bætt úr skorti yðar og þannig verði jöfnuður, 8.15 eins og skrifað er: Sá, sem miklu safnaði, hafði ekki afgangs, og þann skorti ekki, sem litlu safnaði. 8.16 En þökk sé Guði, sem vakti í hjarta Títusar þessa sömu umhyggju fyrir yður. 8.17 Reyndar fékk hann áskorun frá mér, en áhugi hans var svo mikill, að hann fór til yðar af eigin hvötum. 8.18 En með honum sendum vér þann bróður, sem orð fer af í öllum söfnuðunum fyrir starf hans í þjónustu fagnaðarerindisins. 8.19 Og ekki það eitt, heldur er hann og af söfnuðunum kjörinn samferðamaður vor með líknargjöf þessa, sem vér höfum unnið að, Drottni til dýrðar og til að sýna fúsleika vorn. 8.20 Vér höfum gjört þessa ráðstöfun til þess að enginn geti lastað meðferð vora á hinni miklu gjöf, sem vér höfum gengist fyrir. 8.21 Því að vér ástundum það sem gott er, ekki aðeins fyrir Drottni, heldur og fyrir mönnum. 8.22 Með þeim sendum vér annan bróður vorn, sem vér oftsinnis og í mörgu höfum reynt kostgæfinn, en nú miklu fremur en ella vegna hans mikla trausts til yðar. 8.23 Títus er félagi minn og starfsbróðir hjá yður, og bræður vorir eru sendiboðar safnaðanna og Kristi til vegsemdar. 8.24 Sýnið því söfnuðunum merki elsku yðar, svo að það verði þeim ljóst, að það var ekki að ástæðulausu, að vér hrósuðum yður við þá.
9.1 Um hjálpina til hinna heilögu er sem sé óþarft fyrir mig að skrifa yður, 9.2 því að ég þekki góðan vilja yðar og hrósa mér af yður meðal Makedóna og segi, að Akkea hefur verið reiðubúin síðan í fyrra. Áhugi yðar hefur verið hvatning fyrir fjöldamarga. 9.3 En bræðurna hef ég sent, til þess að hrós vort um yður skyldi ekki reynast fánýtt í þessu efni og til þess að þér, eins og ég sagði, mættuð vera reiðubúnir. 9.4 Annars gæti svo farið, að vér, _ að vér ekki segjum þér _, þyrftum að bera kinnroða fyrir þetta traust, ef Makedónar skyldu koma með mér og finna yður óviðbúna. 9.5 Vér töldum því nauðsynlegt að biðja bræðurna að fara á undan til yðar og undirbúa þá gjöf yðar, sem heitin var áður, svo að hún mætti vera á reiðum höndum eins og blessun, en ekki nauðung. 9.6 En þetta segi ég: Sá sem sáir sparlega mun og sparlega uppskera, og sá sem sáir ríflega mun og ríflega uppskera. 9.7 Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara. 9.8 Guð er þess megnugur að veita yður allar góðar gjafir ríkulega, til þess að þér í öllu og ávallt hafið allt sem þér þarfnist og getið sjálfir veitt ríkulega til sérhvers góðs verks. 9.9 Eins og ritað er: Hann miðlaði mildilega, gaf hinum snauðu, réttlæti hans varir að eilífu. 9.10 Sá sem gefur sáðmanninum sæði og brauð til fæðu, hann mun og gefa yður sáð og margfalda það og auka ávexti réttlætis yðar. 9.11 Þér verðið í öllu auðugir og getið jafnan sýnt örlæti sem kemur til leiðar þakklæti við Guð fyrir vort tilstilli. 9.12 Því að þessi þjónusta, sem þér innið af hendi, bætir ekki aðeins úr skorti hinna heilögu, heldur ber hún og ríkulega ávexti við að margir menn þakka Guði. 9.13 Þegar menn sjá, hvers eðlis þessi þjónusta er, munu þeir lofa Guð fyrir að þér haldið játningu yðar við fagnaðarerindi Krists og gefið með yður af örlæti, bæði þeim og öllum. 9.14 Og þeir munu biðja fyrir yður og þrá yður vegna yfirgnæfanlegrar náðar Guðs við yður. 9.15 Þökk sé Guði fyrir sína óumræðilegu gjöf!
10.1 Nú áminni ég sjálfur, Páll, yður með hógværð og mildi Krists, ég, sem í návist yðar á að vera auðmjúkur, en fjarverandi djarfmáll við yður. 10.2 Ég bið yður þess, að láta mig ekki þurfa að vera djarfmálan, þegar ég kem, og beita þeim myndugleika, sem ég ætla mér að beita gagnvart nokkrum, er álíta, að vér látum stjórnast af mannlegum hvötum. 10.3 Þótt vér lifum jarðnesku lífi, þá berjumst vér ekki á jarðneskan hátt, _ 10.4 því að vopnin, sem vér berjumst með, eru ekki jarðnesk, heldur máttug vopn Guðs til að brjóta niður vígi. 10.5 Vér brjótum niður hugsmíðar og allt, sem hreykir sér gegn þekkingunni á Guði, og hertökum hverja hugsun til hlýðni við Krist. 10.6 Og vér erum þess albúnir að refsa sérhverri óhlýðni, þegar hlýðni yðar er fullkomin orðin. 10.7 Þér horfið á hið ytra. Ef einhver treystir því, að hann sé Krists, þá hyggi hann betur að og sjái, að eins og hann er Krists, þannig erum vér það einnig. 10.8 Jafnvel þótt ég vildi hrósa mér í frekara lagi af valdi voru, sem Drottinn hefur gefið til að uppbyggja, en ekki til að niðurbrjóta yður, þá yrði ég mér ekki til skammar. 10.9 Ekki má líta svo út sem ég vilji hræða yður með bréfunum. 10.10 'Bréfin,' segja menn, 'eru þung og ströng, en sjálfur er hann lítill fyrir mann að sjá og enginn tekur mark á ræðu hans.' 10.11 Sá, sem slíkt segir, festi það í huga sér, að eins og vér fjarstaddir tölum til yðar í bréfunum, þannig munum vér koma fram, þegar vér erum hjá yður. 10.12 Ekki dirfumst vér að telja oss til þeirra eða bera oss saman við suma af þeim, er mæla með sjálfum sér. Þeir mæla sig við sjálfa sig og bera sig saman við sjálfa sig og eru óskynsamir. 10.13 En vér viljum ekki hrósa oss án viðmiðunar, heldur samkvæmt þeirri mælistiku, sem Guð hefur úthlutað oss: Að ná alla leið til yðar. 10.14 Því að vér teygjum oss ekki of langt fram, ella hefðum vér ekki komist til yðar. En vér vorum fyrstir til yðar með fagnaðarerindið um Krist. 10.15 Vér höfum vora viðmiðun og stærum oss ekki af erfiði annarra. Vér höfum þá von, að eftir því sem trú yðar vex, verðum vér miklir á meðal yðar, já, stórmiklir samkvæmt mælistiku vorri. 10.16 Þá getum vér boðað fagnaðarerindið í löndum handan við yður án þess að nota annarra mælistikur eða stæra oss af því, sem þegar er gjört. 10.17 En 'sá sem hrósar sér, hann hrósi sér í Drottni.' 10.18 Því að fullgildur er ekki sá, er mælir með sjálfum sér, heldur sá, er Drottinn mælir með.
11.1 Ó að þér vilduð umbera dálitla fávisku hjá mér! Jú, vissulega umberið þér mig. 11.2 Ég vakti yfir yður með afbrýði Guðs, því að ég hef fastnað yður einum manni, Kristi, og vil leiða fram fyrir hann hreina mey. 11.3 En ég er hræddur um, að eins og höggormurinn tældi Evu með flærð sinni, svo kunni og hugsanir yðar að spillast og leiðast burt frá einlægri og hreinni tryggð við Krist. 11.4 Því að ef einhver kemur og prédikar annan Jesú en vér höfum prédikað, eða þér fáið annan anda en þér hafið fengið, eða annað fagnaðarerindi en þér hafið tekið á móti, þá umberið þér það mætavel. 11.5 Ég álít mig þó ekki í neinu standa hinum stórmiklu postulum að baki. 11.6 Þótt mig bresti mælsku, brestur mig samt ekki þekkingu og vér höfum á allan hátt birt yður hana í öllum greinum. 11.7 Eða drýgði ég synd, er ég lítillækkaði sjálfan mig til þess að þér mættuð upphafnir verða og boðaði yður ókeypis fagnaðarerindi Guðs? 11.8 Aðra söfnuði rúði ég og tók mála af þeim til þess að geta þjónað yður, og er ég var hjá yður og leið þröng, varð ég þó ekki neinum til byrði, 11.9 því að úr skorti mínum bættu bræðurnir, er komu frá Makedóníu. Og í öllu varaðist ég að verða yður til þyngsla og mun varast. 11.10 Svo sannarlega sem sannleiki Krists er í mér, skal þessi hrósun um mig ekki verða þögguð niður í héruðum Akkeu. 11.11 Hvers vegna? Er það af því að ég elska yður ekki? Nei, Guð veit að ég gjöri það. 11.12 En það, sem ég gjöri, mun ég og gjöra til þess að svipta þá tækifærinu, sem færis leita til þess að vera jafnokar vorir í því, sem þeir stæra sig af. 11.13 Því að slíkir menn eru falspostular, svikulir verkamenn, er taka á sig mynd postula Krists. 11.14 Og ekki er það undur, því að Satan sjálfur tekur á sig ljósengilsmynd. 11.15 Það er því ekki mikið, þótt þjónar hans taki á sig mynd réttlætisþjóna. Afdrif þeirra munu verða samkvæmt verkum þeirra. 11.16 Enn segi ég: Ekki álíti neinn mig fávísan. En þó svo væri, þá takið samt við mér sem fávísum, til þess að ég geti líka hrósað mér dálítið. 11.17 Það sem ég tala nú, þegar ég tek upp á að hrósa mér, tala ég ekki að hætti Drottins, heldur eins og í heimsku. 11.18 Með því að margir hrósa sér af sínum mannlegu afrekum, vil ég einnig hrósa mér svo, 11.19 því að fúslega umberið þér hina fávísu, svo vitrir sem þér eruð. 11.20 Þér umberið það, þótt einhver hneppi yður í ánauð, þótt einhver eti yður upp, þótt einhver hremmi yður, þótt einhver lítilsvirði yður, þótt einhver slái yður í andlitið. 11.21 Ég segi það mér til minnkunar, að í þessu höfum vér sýnt oss veika. En þar sem aðrir láta drýgindalega, _ ég tala fávíslega _, þar gjöri ég það líka. 11.22 Eru þeir Hebrear? Ég líka. Eru þeir Ísraelítar? Ég líka. Eru þeir Abrahams niðjar? Ég líka. 11.23 Eru þeir þjónar Krists? _ Nú tala ég eins og vitfirringur! _ Ég fremur. Meira hef ég unnið, oftar verið í fangelsi, fleiri högg þolað og oft dauðans hættu. 11.24 Af Gyðingum hef ég fimm sinnum fengið höggin þrjátíu og níu, 11.25 þrisvar verið húðstrýktur, einu sinni verið grýttur, þrisvar beðið skipbrot, verið sólarhring í sjó. 11.26 Ég hef verið á sífelldum ferðalögum, komist í hann krappan í ám, lent í háska af völdum ræningja, í háska af völdum samlanda og af völdum heiðingja, í háska í borgum og í óbyggðum, á sjó og meðal falsbræðra. 11.27 Ég hef stritað og erfiðað, átt margar svefnlausar nætur, verið hungraður og þyrstur og iðulega fastað, og ég hef verið kaldur og klæðlaus. 11.28 Og ofan á allt annað bætist það, sem mæðir á mér hvern dag, áhyggjan fyrir öllum söfnuðunum. 11.29 Hver er sjúkur, án þess að ég sé sjúkur? Hver hrasar, án þess að ég líði? 11.30 Ef ég á að hrósa mér, vil ég hrósa mér af veikleika mínum. 11.31 Guð og faðir Drottins Jesú, hann sem blessaður er að eilífu, veit að ég lýg ekki. 11.32 Í Damaskus setti landshöfðingi Areta konungs vörð um borgina til þess að handtaka mig. 11.33 En gegnum glugga var ég látinn síga út fyrir múrinn í körfu og slapp þannig úr höndum hans.
12.1 Hrósa mér verð ég, þótt gagnlegt sé það ekki. En ég mun nú snúa mér að vitrunum og opinberunum Drottins. 12.2 Mér er kunnugt um mann, hann tilheyrir Kristi, sem fyrir fjórtán árum, _ hvort það var í líkamanum eða utan líkamans, veit ég ekki, Guð veit það _, var hrifinn burt allt til þriðja himins. 12.3 Og mér er kunnugt um þennan mann, _ hvort það var í líkamanum eða án líkamans, veit ég ekki, Guð veit það _, 12.4 að hann var hrifinn upp í Paradís og heyrði ósegjanleg orð, sem engum manni er leyft að mæla. 12.5 Af slíku vil ég hrósa mér, en af sjálfum mér vil ég ekki hrósa mér, nema þá af veikleika mínum. 12.6 Þótt ég vildi hrósa mér, væri ég ekki frávita, því að ég mundi segja sannleika. En ég veigra mér við því, til þess að enginn skuli ætla mig meiri en hann sér mig eða heyrir. 12.7 Og til þess að ég skuli ekki hrokast upp af hinum miklu opinberunum, er mér gefinn fleinn í holdið, Satans engill, sem slær mig, til þess að ég skuli ekki hrokast upp. 12.8 Þrisvar hef ég beðið Drottin þess að láta hann fara frá mér. 12.9 Og hann hefur svarað mér: 'Náð mín nægir þér; því að mátturinn fullkomnast í veikleika.' Því vil ég helst hrósa mér af veikleika mínum, til þess að kraftur Krists megi taka sér bústað í mér. 12.10 Þess vegna uni ég mér vel í veikleika, í misþyrmingum, í nauðum, í ofsóknum, í þrengingum vegna Krists. Þegar ég er veikur, þá er ég máttugur. 12.11 Ég hef gjörst frávita. Þér hafið neytt mig til þess. Ég átti heimtingu á að hljóta meðmæli af yður. Því að í engu stóð ég hinum stórmiklu postulum að baki, enda þótt ég sé ekki neitt. 12.12 Postulatákn voru gjörð á meðal yðar af mikilli þrautseigju, tákn, undur og kraftaverk. 12.13 Í hverju voruð þér settir lægra en hinir söfnuðirnir, nema ef vera skyldi í því, að ég sjálfur hef ekki verið yður til byrði? Fyrirgefið mér þennan órétt. 12.14 Þetta er nú í þriðja sinn, að ég er ferðbúinn að koma til yðar, og ætla ég ekki að verða yður til byrði. Ég sækist ekki eftir eigum yðar, heldur yður sjálfum. Því að ekki eiga börnin að safna fé handa foreldrunum, heldur foreldrarnir handa börnunum. 12.15 Ég er fús til að verja því, sem ég á, já, leggja sjálfan mig í sölurnar fyrir yður. Ef ég elska yður heitar, verð ég þá elskaður minna? 12.16 En látum svo vera, að ég hafi ekki verið yður til byrði, en hafi verið slægur og veitt yður með brögðum. 12.17 Hef ég notað nokkurn þeirra, sem ég hef sent til yðar, til þess að hafa eitthvað af yður? 12.18 Ég bað Títus að fara og sendi bróðurinn með honum. Hefur þá Títus haft eitthvað af yður? Komum við ekki fram í einum og sama anda? Fetuðum við ekki í sömu fótsporin? 12.19 Fyrir löngu eruð þér farnir að halda, að vér séum að verja oss gagnvart yður. Nei, vér tölum fyrir augliti Guðs, eins og þeir, sem tilheyra Kristi. Allt er það yður til uppbyggingar, mínir elskuðu. 12.20 Ég er hræddur um, að mér muni þykja þér öðruvísi en ég óska, er ég kem, og að yður muni þykja ég öðruvísi en þér óskið og á meðal yðar kunni að vera deilur, öfund, reiði, eigingirni, bakmælgi, rógburður, hroki og óeirðir. 12.21 Ég er hræddur um, að Guð minn muni auðmýkja mig hjá yður, þegar ég kem aftur, og að ég muni hryggjast yfir mörgum þeirra, sem áður hafa syndgað og ekki hafa snúið sér frá saurlífi, frillulífi og ólifnaði, sem þeir hafa drýgt.
13.1 Þetta er nú í þriðja sinn, sem ég kem til yðar. Því 'aðeins skal framburður gildur vera, að tveir eða þrír beri.' 13.2 Það sem ég sagði yður við aðra komu mína, það segi ég yður nú aftur fjarstaddur, bæði þeim, sem hafa brotlegir orðið, og öðrum: Næsta sinn, sem ég kem, mun ég ekki hlífa neinum, 13.3 enda krefjist þér sönnunar þess, að Kristur tali í mér. Hann er ekki veikur gagnvart yður, heldur máttugur á meðal yðar. 13.4 Hann var krossfestur í veikleika, en hann lifir fyrir Guðs kraft. Og einnig vér erum veikir í honum, en munum þó lifa með honum fyrir Guðs kraft, sem hann sýnir yður. 13.5 Reynið yður sjálfa, hvort þér eruð í trúnni, prófið yður sjálfa. Gjörið þér yður ekki grein fyrir, að Jesús Kristur er í yður? Það skyldi vera, að þér stæðust ekki prófið. 13.6 En ég vona, að þér komist að raun um, að vér höfum staðist prófið. 13.7 Vér biðjum til Guðs, að þér gjörið ekki neitt illt, ekki til þess að það sýni ágæti vort, heldur til þess að þér gjörið hið góða. Vér gætum eins sýnst óhæfir. 13.8 Því að ekki megnum vér neitt gegn sannleikanum, heldur fyrir sannleikann. 13.9 Vér gleðjumst, þegar vér erum veikir, en þér eruð styrkir. Það, sem vér biðjum um, er að þér verðið fullkomnir. 13.10 Þess vegna rita ég þetta fjarverandi, til þess að ég þurfi ekki, þegar ég er kominn, að beita hörku, samkvæmt því valdi, sem Drottinn hefur gefið mér. Það er til uppbyggingar, en ekki til niðurbrots. 13.11 Að öðru leyti, bræður, verið glaðir. Verið fullkomnir, áminnið hver annan, verið samhuga, verið friðsamir. Þá mun Guð kærleikans og friðarins vera með yður. 13.12 Heilsið hver öðrum með heilögum kossi. Allir heilagir biðja að heilsa yður.
1.1 Páll postuli _ ekki sendur af mönnum né að tilhlutun manns, heldur að tilhlutun Jesú Krists og Guðs föður, sem uppvakti hann frá dauðum _ 1.2 og allir bræðurnir, sem með mér eru, heilsa söfnuðunum í Galatalandi. 1.3 Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi, 1.4 sem gaf sjálfan sig fyrir syndir vorar, til þess að frelsa oss frá hinni yfirstandandi vondu öld, samkvæmt vilja Guðs vors og föður. 1.5 Honum sé dýrð um aldir alda, amen. 1.6 Mig furðar, að þér svo fljótt látið snúast frá honum, sem kallaði yður í náð Krists, til annars konar fagnaðarerindis, 1.7 sem þó er ekki til; heldur eru einhverjir að trufla yður og vilja umhverfa fagnaðarerindinu um Krist. 1.8 En þótt jafnvel vér eða engill frá himni færi að boða yður annað fagnaðarerindi en það, sem vér höfum boðað yður, þá sé hann bölvaður. 1.9 Eins og vér höfum áður sagt, eins segi ég nú aftur: Ef nokkur boðar yður annað fagnaðarerindi en það, sem þér hafið veitt viðtöku, þá sé hann bölvaður. 1.10 Er ég nú að reyna að sannfæra menn eða Guð? Er ég að leitast við að þóknast mönnum? Ef ég væri enn að þóknast mönnum, þá væri ég ekki þjónn Krists. 1.11 Það læt ég yður vita, bræður, að fagnaðarerindið, sem ég hef boðað, er ekki mannaverk. 1.12 Ekki hef ég tekið við því af manni né látið kenna mér það, heldur fengið það fyrir opinberun Jesú Krists. 1.13 Þér hafið heyrt um háttsemi mína áður fyrri í Gyðingdóminum, hversu ákaflega ég ofsótti söfnuð Guðs og vildi eyða honum. 1.14 Ég fór lengra í Gyðingdóminum en margir jafnaldrar mínir meðal þjóðar minnar og var miklu vandlætingasamari um erfikenningu forfeðra minna. 1.15 En þegar Guði, sem hafði útvalið mig frá móðurlífi og af náð sinni kallað, 1.16 þóknaðist að opinbera mér son sinn, til þess að ég boðaði fagnaðarerindið um hann meðal heiðingjanna, þá ráðgaðist ég eigi við neinn mann, 1.17 ekki fór ég heldur upp til Jerúsalem til þeirra, sem voru postular á undan mér, heldur fór ég jafnskjótt til Arabíu og sneri svo aftur til Damaskus. 1.18 Síðan fór ég eftir þrjú ár upp til Jerúsalem til að kynnast Kefasi og dvaldist hjá honum hálfan mánuð. 1.19 Engan af hinum postulunum sá ég, heldur aðeins Jakob, bróður Drottins. 1.20 Guð veit, að ég lýg því ekki, sem ég skrifa yður. 1.21 Síðan kom ég í héruð Sýrlands og Kilikíu. 1.22 Ég var persónulega ókunnur kristnu söfnuðunum í Júdeu. 1.23 Þeir höfðu einungis heyrt sagt: 'Sá sem áður ofsótti oss, boðar nú trúna, sem hann áður vildi eyða.' 1.24 Og þeir vegsömuðu Guð vegna mín.
2.1 Síðan fór ég að fjórtán árum liðnum aftur upp til Jerúsalem ásamt Barnabasi og tók líka Títus með mér. 2.2 Ég fór þangað eftir opinberun og lagði fram fyrir þá fagnaðarerindið, sem ég prédika meðal heiðingjanna. Ég lagði það einslega fyrir þá, sem í áliti voru; það mátti eigi henda, að ég hlypi og hefði hlaupið til einskis. 2.3 En ekki var einu sinni Títus, sem með mér var og var grískur maður, neyddur til að láta umskerast. 2.4 Það hefði þá verið fyrir tilverknað falsbræðranna, er illu heilli hafði verið hleypt inn og laumast höfðu inn til að njósna um frelsi vort, það er vér höfum í Kristi Jesú, til þess að þeir gætu hneppt oss í þrældóm. 2.5 Undan þeim létum vér ekki einu sinni eitt andartak, til þess að sannleiki fagnaðarerindisins skyldi haldast við hjá yður. 2.6 Og þeir, sem í áliti voru, _ hvað þeir einu sinni voru, skiptir mig engu, Guð fer ekki í manngreinarálit, _ þeir, sem í áliti voru, lögðu ekkert frekara fyrir mig. 2.7 Þvert á móti, þeir sáu, að mér var trúað fyrir fagnaðarerindinu til óumskorinna manna, eins og Pétri til umskorinna, 2.8 því að sá, sem hefur eflt Pétur til postuladóms meðal hinna umskornu, hefur einnig eflt mig til postuladóms meðal heiðingjanna. 2.9 Og er þeir höfðu komist að raun um, hvílík náð mér var veitt, þá réttu þeir Jakob, Kefas og Jóhannes, sem álitnir voru máttarstólparnir, mér og Barnabasi hönd sína til bræðralags: Við skyldum fara til heiðingjanna, en þeir til hinna umskornu. 2.10 Það eitt var til skilið, að við skyldum minnast hinna fátæku, og einmitt þetta hef ég líka kappkostað að gjöra. 2.11 En þegar Kefas kom til Antíokkíu, andmælti ég honum upp í opið geðið, því hann var sannur að sök. 2.12 Áður en menn nokkrir komu frá Jakob, hafði hann setið að borði með heiðingjunum, en er þeir komu, dró hann sig í hlé og tók sig út úr af ótta við þá, sem héldu fram umskurninni. 2.13 Hinir Gyðingarnir tóku einnig að hræsna með honum, svo að jafnvel Barnabas lét dragast með af hræsni þeirra. 2.14 En þegar ég sá, að þeir gengu ekki beint eftir sannleika fagnaðarerindisins, sagði ég við Kefas í allra áheyrn: 'Úr því að þú, sem ert Gyðingur, lifir að heiðingja siðum, en eigi Gyðinga, hvernig ferst þér þá að neyða heiðingja til að lifa að Gyðinga siðum?' 2.15 Vér erum fæddir Gyðingar, ekki syndarar af heiðnu bergi brotnir. 2.16 En vér vitum, að maðurinn réttlætist ekki af lögmálsverkum, heldur fyrir trú á Jesú Krist. Og vér tókum trú á Krist Jesú, til þess að vér réttlættumst af trú á Krist, en ekki af lögmálsverkum. Enda réttlætist enginn lifandi maður af lögmálsverkum. 2.17 En ef vér nú sjálfir reynumst syndarar þegar vér leitumst við að réttlætast í Kristi, er þá Kristur orðinn þjónn syndarinnar? Fjarri fer því. 2.18 Fari ég að byggja upp aftur það, sem ég braut niður, þá sýni ég og sanna, að ég er sjálfur brotlegur. 2.19 Því að af völdum lögmálsins er ég dáinn lögmálinu til þess að lifa Guði. 2.20 Ég er krossfestur með Kristi. Sjálfur lifi ég ekki framar, heldur lifir Kristur í mér. Lífinu, sem ég lifi nú hér á jörð, lifi ég í trúnni á Guðs son, sem elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig. 2.21 Ég ónýti ekki náð Guðs. Ef réttlæting fæst fyrir lögmál, þá hefur Kristur dáið til einskis.
3.1 Þér óskynsömu Galatar! Hver hefur töfrað yður? Þér hafið þó fengið skýra mynd af Jesú Kristi á krossinum, málaða fyrir augum yðar. 3.2 Um þetta eitt vil ég fræðast af yður: Öðluðust þér andann fyrir lögmálsverk eða við að hlýða á fagnaðarerindið og trúa? 3.3 Eruð þér svo óskynsamir? Þér sem byrjuðuð í anda, ætlið þér nú að enda í holdi? 3.4 Hafið þér til einskis reynt svo mikið? _ ef það þá er til einskis! 3.5 Hvað um það, _ sá sem veitir yður andann og framkvæmir máttarverk meðal yðar, gjörir hann það vegna lögmálsverka yðar eða vegna þess að þér heyrið og trúið? 3.6 Svo var og um Abraham, 'hann trúði Guði, og það var honum til réttlætis reiknað.' 3.7 Þér sjáið þá, að þeir sem byggja á trúnni, þeir eru einmitt synir Abrahams. 3.8 Ritningin sá það fyrir, að Guð mundi réttlæta heiðingjana fyrir trú, og því boðaði hún Abraham fyrirfram þann fagnaðarboðskap: 'Af þér skulu allar þjóðir blessun hljóta.' 3.9 Þannig hljóta þeir, sem byggja á trúnni, blessun ásamt hinum trúaða Abraham. 3.10 En bölvun hvílir á öllum þeim, sem byggja á lögmálsverkum, því að ritað er: 'Bölvaður er sá, sem ekki heldur fast við allt það, sem í lögmálsbókinni er ritað, og breytir eftir því.' 3.11 En það er augljóst að fyrir Guði réttlætist enginn með lögmáli, því að 'hinn réttláti mun lifa fyrir trú.' 3.12 En lögmálið spyr ekki um trú. Það segir: 'Sá, sem breytir eftir boðum þess, mun lifa fyrir þau.' 3.13 Kristur keypti oss undan bölvun lögmálsins með því að verða bölvun fyrir oss, því að ritað er: 'Bölvaður er hver sá, sem á tré hangir.' 3.14 Þannig skyldi heiðingjunum hlotnast blessun Abrahams í Kristi Jesú, og vér öðlast fyrir trúna andann, sem fyrirheitið var. 3.15 Bræður, ég tek dæmi úr mannlegu lífi: Enginn ónýtir eða eykur við staðfesta arfleiðsluskrá, enda þótt hún sé aðeins af manni gjörð. 3.16 Nú voru fyrirheitin gefin Abraham og afkvæmi hans, _ þar stendur ekki 'og afkvæmum', eins og margir ættu í hlut, heldur 'og afkvæmi þínu', eins og þegar um einn er að ræða, og það er Kristur. 3.17 Með þessu vildi ég sagt hafa: Sáttmála, sem áður var staðfestur af Guði, getur lögmálið, sem kom fjögur hundruð og þrjátíu árum síðar, ekki ónýtt, svo að það felli fyrirheitið úr gildi. 3.18 Sé því þá svo farið, að arfurinn fáist með lögmáli, þá fæst hann ekki framar með fyrirheiti, en Guð veitti Abraham náð sína með fyrirheiti. 3.19 Hvað er þá lögmálið? Vegna afbrotanna var því bætt við, þangað til afkvæmið kæmi, sem fyrirheitið hljóðaði um. Fyrir umsýslan engla er það til orðið, fyrir tilstilli meðalgangara. 3.20 En meðalgangara gjörist ekki þörf þar sem einn á í hlut, en Guð er einn. 3.21 Er þá lögmálið gegn fyrirheitum Guðs? Fjarri fer því. Ef vér hefðum fengið lögmál, sem veitt gæti líf, þá fengist réttlætið vissulega með lögmáli. 3.22 En ritningin segir, að allt sé hneppt undir vald syndarinnar, til þess að fyrirheitið veitist þeim, sem trúa, fyrir trú á Jesú Krist. 3.23 Áður en trúin kom, vorum vér í gæslu lögmálsins innilokaðir, þangað til trúin, sem í vændum var, opinberaðist. 3.24 Þannig hefur lögmálið orðið tyftari vor, þangað til Kristur kom, til þess að vér réttlættumst af trú. 3.25 En nú, eftir að trúin er komin, erum vér ekki lengur undir tyftara. 3.26 Þér eruð allir Guðs börn fyrir trúna á Krist Jesú. 3.27 Allir þér, sem eruð skírðir til samfélags við Krist, þér hafið íklæðst Kristi. 3.28 Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú. 3.29 En ef þér tilheyrið Kristi, þá eruð þér niðjar Abrahams, erfingjar eftir fyrirheitinu.
4.1 Með öðrum orðum: Alla þá stund, sem erfinginn er ófullveðja, er enginn munur á honum og þræli, þótt hann eigi allt. 4.2 Hann er undir fjárhaldsmönnum og ráðsmönnum til þess tíma, er faðirinn hefur ákveðið. 4.3 Þannig vorum vér einnig, er vér vorum ófullveðja, þrælbundnir undir heimsvættirnar. 4.4 En þegar fylling tímans kom, sendi Guð son sinn, fæddan af konu, fæddan undir lögmáli, _ 4.5 til þess að hann keypti lausa þá, sem voru undir lögmáli, _ og vér fengjum barnaréttinn. 4.6 En þar eð þér eruð börn, þá hefur Guð sent anda sonar síns í hjörtu vor, sem hrópar: 'Abba, faðir!' 4.7 Þú ert þá ekki framar þræll, heldur sonur. En ef þú ert sonur, þá ert þú líka erfingi að ráði Guðs. 4.8 Forðum, er þér þekktuð ekki Guð, þá voruð þér þrælar þeirra, sem í eðli sínu eru ekki guðir. 4.9 En nú, eftir að þér þekkið Guð, eða réttara sagt, eftir að Guð þekkir yður, hvernig getið þér snúið aftur til hinna veiku og fátæklegu vætta? Viljið þér þræla undir þeim að nýju? 4.10 Þér hafið gætur á dögum og mánuðum, vissum tíðum og árum. 4.11 Ég er hræddur um yður, að ég kunni að hafa haft erfiði fyrir yður til ónýtis. 4.12 Ég bið yður, bræður: Verðið eins og ég, því að ég er orðinn eins og þér. Í engu hafið þér gjört á hluta minn. 4.13 Þér vitið, að sjúkleiki minn varð tilefni til þess, að ég fyrst boðaði yður fagnaðarerindið. 4.14 En þér létuð ekki líkamsásigkomulag mitt verða yður til ásteytingar og óvirtuð mig ekki né sýnduð mér óbeit, heldur tókuð þér á móti mér eins og engli Guðs, eins og Kristi Jesú sjálfum. 4.15 Hvað er nú orðið úr blessunarbænum yðar? Það vitni ber ég yður, að augun hefðuð þér stungið úr yður og gefið mér, ef auðið hefði verið. 4.16 Er ég þá orðinn óvinur yðar, vegna þess að ég segi yður sannleikann? 4.17 Þeir láta sér annt um yður, en það er eigi af góðu, heldur vilja þeir einangra yður, til þess að þér látið yður annt um þá. 4.18 Það er ávallt gott að láta sér annt um það, sem gott er, og ekki aðeins meðan ég er hjá yður, 4.19 börn mín, sem ég að nýju el með harmkvælum, þangað til Kristur er myndaður í yður! 4.20 Ég vildi ég væri nú hjá yður og gæti talað nýjum rómi, því að ég er ráðalaus með yður. 4.21 Segið mér, þér sem viljið vera undir lögmáli, heyrið þér ekki hvað lögmálið segir? 4.22 Ritað er, að Abraham átti tvo sonu, annan við ambáttinni, en hinn við frjálsu konunni. 4.23 Sonurinn við ambáttinni var fæddur á náttúrlegan hátt, en sonurinn við frjálsu konunni var fæddur samkvæmt fyrirheiti. 4.24 Þetta hefur óeiginlega merkingu: Konurnar merkja tvo sáttmála: Annar er sá frá Sínaífjalli og elur börn til ánauðar, það er Hagar; 4.25 en Hagar merkir Sínaífjall í Arabíu og samsvarar hinni núverandi Jerúsalem, því að hún er í ánauð ásamt börnum sínum. 4.26 En Jerúsalem, sem í hæðum er, er frjáls, og hún er móðir vor, 4.27 því að ritað er: Ver glöð, óbyrja, sem ekkert barn hefur átt! Hrópa og kalla hátt, þú sem ekki hefur jóðsjúk orðið! Því að börn hinnar yfirgefnu eru fleiri en hinnar, sem manninn á. 4.28 En þér, bræður, eruð fyrirheits börn eins og Ísak. 4.29 En eins og sá, sem fæddur var á náttúrlegan hátt, ofsótti forðum þann, sem fæddur var á undursamlegan hátt, svo er það og nú. 4.30 En hvað segir ritningin? 'Rek burt ambáttina og son hennar, því að ekki skal ambáttarsonurinn taka arf með syni frjálsu konunnar.' 4.31 Þess vegna, bræður, erum vér ekki ambáttar börn, heldur börn frjálsu konunnar.
5.1 Til frelsis frelsaði Kristur oss. Standið því stöðugir og látið ekki aftur leggja á yður ánauðarok. 5.2 Takið eftir því, sem ég, Páll, segi yður: Ef þér látið umskerast, þá gagnar Kristur yður ekkert. 5.3 Og enn vitna ég fyrir hverjum manni, sem lætur umskerast: Hann er skyldur til að halda allt lögmálið. 5.4 Þér eruð orðnir viðskila við Krist, þér sem ætlið að réttlætast með lögmáli. Þér eruð fallnir úr náðinni. 5.5 En vér væntum í andanum að öðlast af trúnni réttlætinguna, sem er von vor. 5.6 Í Kristi Jesú er ekkert komið undir umskurn né yfirhúð, heldur undir trú, sem starfar í kærleika. 5.7 Þér hlupuð vel. Hver hefur hindrað yður í að hlýða sannleikanum? 5.8 Þær fortölur voru ekki frá honum, sem kallaði yður. 5.9 Lítið súrdeig sýrir allt deigið. 5.10 Ég hef það traust til yðar í Drottni, að þér verðið sama sinnis og ég. Sá sem truflar yður mun bera sinn dóm, hver sem hann svo er. 5.11 En hvað mig snertir, bræður, ef ég er enn þá að prédika umskurn, hví er þá enn verið að ofsækja mig? Þá væri hneyksli krossins tekið burt. 5.12 Vel mættu þeir, sem koma yður í uppnám, aflima sig. 5.13 Þér voruð, bræður, kallaðir til frelsis. Notið aðeins ekki frelsið til færis fyrir holdið, heldur þjónið hver öðrum í kærleika. 5.14 Allt lögmálið er uppfyllt með þessu eina boðorði: 'Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.' 5.15 En ef þér bítist og etið hver annan upp, þá gætið þess, að þér tortímist ekki hver fyrir öðrum. 5.16 En ég segi: Lifið í andanum, og þá fullnægið þér alls ekki girnd holdsins. 5.17 Holdið girnist gegn andanum, og andinn gegn holdinu. Þau standa hvort gegn öðru, til þess að þér gjörið ekki það, sem þér viljið. 5.18 En ef þér leiðist af andanum, þá eruð þér ekki undir lögmáli. 5.19 Holdsins verk eru augljós: Frillulífi, óhreinleiki, saurlífi, 5.20 skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur, 5.21 öfund, ofdrykkja, svall og annað þessu líkt. Og það segi ég yður fyrir, eins og ég hef áður sagt, að þeir, sem slíkt gjöra, munu ekki erfa Guðs ríki. 5.22 En ávöxtur andans er: Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, 5.23 hógværð og bindindi. Gegn slíku er lögmálið ekki. 5.24 En þeir, sem tilheyra Kristi Jesú, hafa krossfest holdið með ástríðum þess og girndum. 5.25 Fyrst andinn er líf vort skulum vér lifa í andanum! 5.26 Verum ekki hégómagjarnir, svo að vér áreitum hver annan og öfundum hver annan.
6.1 Bræður! Ef einhver misgjörð kann að henda mann, þá leiðréttið þér, sem andlegir eruð, þann mann með hógværð. Og haf gát á sjálfum þér, að þú freistist ekki líka. 6.2 Berið hver annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists. 6.3 Sá sem þykist vera nokkuð, en er þó ekkert, dregur sjálfan sig á tálar. 6.4 En sérhver rannsaki breytni sjálfs sín og þá mun hann hafa hrósunarefni í samanburði við sjálfan sig, en ekki miðað við aðra, 6.5 því að sérhver mun verða að bera sína byrði. 6.6 En sá, sem uppfræðist í orðinu, veiti þeim, sem uppfræðir, hlutdeild með sér í öllum gæðum. 6.7 Villist ekki! Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera. 6.8 Sá sem sáir í hold sjálfs sín, mun af holdinu uppskera glötun, en sá sem sáir í andann, mun af andanum uppskera eilíft líf. 6.9 Þreytumst ekki að gjöra það sem gott er, því að á sínum tíma munum vér uppskera, ef vér gefumst ekki upp. 6.10 Þess vegna skulum vér, meðan tími er til, gjöra öllum gott og einkum trúbræðrum vorum. 6.11 Sjáið, með hversu stórum stöfum ég skrifa yður með eigin hendi. 6.12 Allir þeir, sem vilja líta vel út að holdinu til, það eru þeir, sem eru að þröngva yður til að láta umskerast, einungis til þess að þeir verði eigi ofsóttir vegna kross Krists. 6.13 Því að ekki halda einu sinni sjálfir umskurnarmennirnir lögmálið, heldur vilja þeir að þér látið umskerast, til þess að þeir geti stært sig af holdi yðar. 6.14 En það sé fjarri mér að hrósa mér af öðru en krossi Drottins vors Jesú Krists. Sakir hans er ég krossfestur heiminum og heimurinn mér. 6.15 Umskurn eða yfirhúð skipta engu, heldur að vera ný sköpun. 6.16 Og yfir öllum þeim, sem þessari reglu fylgja, sé friður og miskunn, og yfir Ísrael Guðs. 6.17 Enginn mæði mig héðan í frá, því að ég ber merki Jesú á líkama mínum.
1.1 Páll, að vilja Guðs postuli Krists Jesú, heilsar hinum heilögu, sem eru í Efesus, þeim sem trúa á Krist Jesú. 1.2 Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. 1.3 Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, sem í Kristi hefur blessað oss með hvers konar andlegri blessun í himinhæðum. 1.4 Áður en heimurinn var grundvallaður hefur hann útvalið oss í Kristi, til þess að vér værum heilagir og lýtalausir fyrir honum. Í kærleika sínum 1.5 ákvað hann fyrirfram að veita oss sonarrétt í Jesú Kristi. Sá var vilji hans og velþóknun 1.6 til vegsemdar dýrð hans og náð, sem hann lét oss í té í sínum elskaða syni. 1.7 Í honum, fyrir hans blóð eigum vér endurlausnina og fyrirgefningu afbrota vorra. 1.8 Svo auðug er náð hans, sem hann gaf oss ríkulega með hvers konar vísdómi og skilningi. 1.9 Og hann kunngjörði oss leyndardóm vilja síns, þá ákvörðun, 1.10 sem hann hafði með sjálfum sér ákveðið að framkvæma, er fylling tímans kæmi: Hann ætlaði að safna öllu því, sem er á himnum, og því, sem er á jörðu, undir eitt höfuð í Kristi. 1.11 Í honum höfum vér þá líka öðlast arfleifðina, eins og oss var fyrirhugað samkvæmt fyrirætlun hans, er framkvæmir allt eftir ályktun vilja síns, 1.12 til þess að vér, sem áður höfum sett von vora til Krists, skyldum vera dýrð hans til vegsemdar. 1.13 Í honum eruð og þér, eftir að hafa heyrt orð sannleikans, fagnaðarerindið um sáluhjálp yðar og tekið trú á hann og verið merktir innsigli heilags anda, sem yður var fyrirheitið. 1.14 Hann er pantur arfleifðar vorrar, að vér verðum endurleystir Guði til eignar, dýrð hans til vegsemdar. 1.15 Eftir að hafa heyrt um trú yðar á Drottin Jesú og um kærleika yðar til allra heilagra, 1.16 hef ég þess vegna ekki heldur látið af að þakka fyrir yður, er ég minnist yðar í bænum mínum. 1.17 Ég bið Guð Drottins vors Jesú Krists, föður dýrðarinnar, að gefa yður anda speki og opinberunar, svo að þér fáið þekkt hann. 1.18 Ég bið hann að upplýsa sálarsjón yðar, svo að þér skiljið, hver sú von er, sem hann hefur kallað oss til, hver ríkdómur hans dýrlegu arfleifðar er, sem hann ætlar oss meðal hinna heilögu, 1.19 og hver hinn yfirgnæfandi máttur hans við oss, sem trúum. En þetta er sami áhrifamikli, kröftugi mátturinn, 1.20 sem hann lét koma fram í Kristi, er hann vakti hann frá dauðum og lét hann setjast sér til hægri handar í himinhæðum, 1.21 ofar hverri tign og valdi og mætti, ofar öllum herradómi og sérhverju nafni, sem nefnt er, ekki aðeins í þessari veröld, heldur og í hinni komandi. 1.22 Allt hefur hann lagt undir fætur honum og gefið hann kirkjunni sem höfuðið yfir öllu. 1.23 En kirkjan er líkami hans og fyllist af honum, sem sjálfur fyllir allt í öllu.
2.1 Þér voruð eitt sinn dauðir vegna afbrota yðar og synda, 2.2 sem þér lifðuð í samkvæmt aldarhætti þessa heims, að vilja valdhafans í loftinu, anda þess, sem nú starfar í þeim, sem ekki trúa. 2.3 Vér lifðum fyrrum allir eins og þeir í mannlegum girndum vorum. Þá lutum vér vilja holdsins og hugsana vorra og vorum að eðli til reiðinnar börn alveg eins og hinir. 2.4 En Guð er auðugur að miskunn. Af mikilli elsku sinni, sem hann gaf oss, 2.5 hefur hann endurlífgað oss með Kristi, þegar vér vorum dauðir vegna misgjörða vorra. Af náð eruð þér hólpnir orðnir. 2.6 Guð hefur uppvakið oss í Kristi Jesú og búið oss stað í himinhæðum með honum. 2.7 Þannig vildi hann á komandi öldum sýna hinn yfirgnæfandi ríkdóm náðar sinnar með gæsku sinni við oss í Kristi Jesú. 2.8 Því að af náð eruð þér hólpnir orðnir fyrir trú. Þetta er ekki yður að þakka. Það er Guðs gjöf. 2.9 Ekki byggt á verkum, enginn skal geta miklast af því. 2.10 Vér erum smíð Guðs, skapaðir í Kristi Jesú til góðra verka, sem hann hefur áður fyrirbúið, til þess að vér skyldum leggja stund á þau. 2.11 Þér skuluð því minnast þessa: Þér voruð forðum fæddir heiðingjar og kallaðir óumskornir af mönnum, sem kalla sig umskorna og eru umskornir á holdi með höndum manna. 2.12 Sú var tíðin, er þér voruð án Krists, lokaðir úti frá þegnrétti Ísraelsmanna. Þér stóðuð fyrir utan sáttmálana og fyrirheit Guðs, vonlausir og guðvana í heiminum. 2.13 Nú þar á móti eruð þér, sem eitt sinn voruð fjarlægir, orðnir nálægir í Kristi, fyrir blóð hans. 2.14 Því að hann er vor friður. Hann gjörði báða að einum og reif niður vegginn, sem skildi þá að, fjandskapinn milli þeirra. Með líkama sínum 2.15 afmáði hann lögmálið með boðorðum þess og skipunum til þess að setja frið og skapa í sér einn nýjan mann úr báðum. 2.16 Í einum líkama sætti hann þá báða við Guð á krossinum, þar sem hann deyddi fjandskapinn. 2.17 Og hann kom og boðaði frið yður, sem fjarlægir voruð, og frið hinum, sem nálægir voru. 2.18 Því að fyrir hann eigum vér hvorir tveggja aðgang til föðurins í einum anda. 2.19 Þess vegna eruð þér ekki framar gestir og útlendingar, heldur eruð þér samþegnar hinna heilögu og heimamenn Guðs. 2.20 Þér eruð bygging, sem hefur að grundvelli postulana og spámennina, en Krist Jesú sjálfan að hyrningarsteini. 2.21 Í honum er öll byggingin samantengd og vex svo, að hún verður heilagt musteri í Drottni. 2.22 Í honum verðið þér líka bústaður handa Guði fyrir anda hans.
3.1 Þess vegna er það, að ég, Páll, bandingi Krists Jesú vegna yðar, heiðinna manna, beygi kné mín. 3.2 Víst hafið þér heyrt um þá ráðstöfun Guðs náðar, sem hann fól mér hjá yður: 3.3 Að birta mér með opinberun leyndardóminn. Ég hef stuttlega skrifað um það áður. 3.4 Þegar þér lesið það, getið þér skynjað, hvað ég veit um leyndardóm Krists. 3.5 Hann var ekki birtur mannanna sonum fyrr á tímum. Nú hefur hann verið opinberaður heilögum postulum hans og spámönnum í andanum: 3.6 Heiðingjarnir eru í Kristi Jesú fyrir fagnaðarerindið orðnir erfingjar með oss, einn líkami með oss, og eiga hlut í sama fyrirheiti og vér. 3.7 Ég varð þjónn þessa fagnaðarerindis, af því að Guð gaf mér gjöf náðar sinnar með krafti máttar síns. 3.8 Mér, sem minnstur er allra heilagra, var veitt sú náð að boða heiðingjunum fagnaðarerindið um hinn órannsakanlega ríkdóm Krists 3.9 og að upplýsa alla um það, hvernig Guð hefur ráðstafað þessum leyndardómi. Hann hefur frá eilífð verið hulinn í Guði, sem allt hefur skapað. 3.10 Nú skyldi kirkjan látin kunngjöra tignunum og völdunum í himinhæðum, hve margháttuð speki Guðs er. 3.11 Þetta er Guðs eilífa fyrirætlun, sem hann hefur framkvæmt í Kristi Jesú, Drottni vorum. 3.12 Á honum byggist djörfung vor. Í trúnni á hann eigum vér öruggan aðgang að Guði. 3.13 Fyrir því bið ég, að þér látið eigi hugfallast út af þrengingum mínum yðar vegna. Þær eru yður til vegsemdar. 3.14 Þess vegna beygi ég kné mín fyrir föðurnum, 3.15 sem hvert faðerni fær nafn af á himni og jörðu. 3.16 Megi hann gefa yður af ríkdómi dýrðar sinnar að styrkjast fyrir anda sinn að krafti hið innra með yður, 3.17 til þess að Kristur megi fyrir trúna búa í hjörtum yðar og þér verða rótfestir og grundvallaðir í kærleika. 3.18 Þá fáið þér ásamt öllum heilögum skilið, hve kærleikur Krists er víður og langur, hár og djúpur, og komist að raun um hann, 3.19 sem gnæfir yfir alla þekkingu, og náið að fyllast allri Guðs fyllingu. 3.20 En honum, sem í oss verkar með krafti sínum og megnar að gjöra langt fram yfir allt það, sem vér biðjum eða skynjum, 3.21 honum sé dýrð í kirkjunni og í Kristi Jesú um öll æviskeið, öld eftir öld. Amen.
4.1 Ég, bandinginn vegna Drottins, áminni yður þess vegna um að hegða yður svo sem samboðið er þeirri köllun, sem þér hafið hlotið. 4.2 Verið í hvívetna lítillátir og hógværir. Verið þolinmóðir, langlyndir og umberið hver annan í kærleika. 4.3 Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins. 4.4 Einn er líkaminn og einn andinn, eins og þér líka voruð kallaðir til einnar vonar. 4.5 Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn, 4.6 einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum. 4.7 Sérhverjum af oss var náðin veitt eftir því, sem Kristur úthlutaði honum. 4.8 Því segir ritningin: 'Hann steig upp til hæða, hertók fanga og gaf mönnunum gjafir.' ( 4.9 En 'steig upp', hvað merkir það annað en að hann hefur einnig stigið niður í djúp jarðarinnar? 4.10 Sá, sem steig niður, er og sá, sem upp sté, upp yfir alla himna til þess að fylla allt.) 4.11 Og frá honum er sú gjöf komin, að sumir eru postular, sumir spámenn, sumir trúboðar, sumir hirðar og kennarar. 4.12 Þeir eiga að fullkomna hina heilögu og láta þeim þjónustu í té, líkama Krists til uppbyggingar, 4.13 þangað til vér verðum allir einhuga í trúnni og þekkingunni á syni Guðs, verðum fullþroska og náum vaxtartakmarki Krists fyllingar. 4.14 Vér eigum ekki að halda áfram að vera börn, sem hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi, tæld af slægum mönnum með vélabrögðum villunnar. 4.15 Vér eigum heldur að ástunda sannleikann í kærleika og vaxa í öllu upp til hans, sem er höfuðið, _ Kristur. 4.16 Hann tengir líkamann saman og heldur honum saman með því að láta sérhverja taug inna sína þjónustu af hendi, allt eftir þeim krafti, sem hann úthlutar hverri þeirra. Þannig lætur hann líkamann vaxa og byggjast upp í kærleika. 4.17 Þetta segi ég þá og vitna í nafni Drottins: Þér megið ekki framar hegða yður eins og heiðingjarnir hegða sér. Hugsun þeirra er allslaus, 4.18 skilningur þeirra blindaður og þeir eru fjarlægir lífi Guðs vegna vanþekkingarinnar, sem þeir lifa í, og síns harða hjarta. 4.19 Þeir eru tilfinningalausir og hafa ofurselt sig lostalífi, svo að þeir fremja alls konar siðleysi af græðgi. 4.20 En svo hafið þér ekki lært að þekkja Krist. 4.21 Því að ég veit, að þér hafið heyrt um hann og hafið verið um hann fræddir eins og sannleikurinn er í Jesú: 4.22 Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum, 4.23 en endurnýjast í anda og hugsun og 4.24 íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans. 4.25 Leggið nú af lygina og talið sannleika hver við sinn náunga, því að vér erum hver annars limir. 4.26 Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar. 4.27 Gefið djöflinum ekkert færi. 4.28 Hinn stelvísi hætti að stela, en leggi hart að sér og gjöri það sem gagnlegt er með höndum sínum, svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim, sem þurfandi er. 4.29 Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra. 4.30 Hryggið ekki Guðs heilaga anda, sem þér eruð innsiglaðir með til endurlausnardagsins. 4.31 Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt. 4.32 Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.
5.1 Verðið því eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans. 5.2 Lifið í kærleika, eins og Kristur elskaði oss og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir oss svo sem fórnargjöf, Guði til þægilegs ilms. 5.3 En frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal yðar. Svo hæfir heilögum. 5.4 Ekki heldur svívirðilegt hjal eða ósæmandi spé. Þess í stað komi miklu fremur þakkargjörð. 5.5 Því að það skuluð þér vita og festa yður í minni, að enginn frillulífismaður eða saurugur eða ágjarn, _ sem er sama og að dýrka hjáguði _, á sér arfsvon í ríki Krists og Guðs. 5.6 Enginn tæli yður með marklausum orðum, því að vegna þessa kemur reiði Guðs yfir þá, sem hlýða honum ekki. 5.7 Verðið þess vegna ekki lagsmenn þeirra. 5.8 Eitt sinn voruð þér myrkur, en nú eruð þér ljós í Drottni. Hegðið yður eins og börn ljóssins. _ 5.9 Því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur. _ 5.10 Metið rétt, hvað Drottni þóknast. 5.11 Eigið engan hlut í verkum myrkursins, sem ekkert gott hlýst af, heldur flettið miklu fremur ofan af þeim. 5.12 Því að það, sem slíkir menn fremja í leyndum, er jafnvel svívirðilegt um að tala. 5.13 En allt það, sem ljósið flettir ofan af, verður augljóst. Því að allt, sem er augljóst, er ljós. 5.14 Því segir svo: Vakna þú, sem sefur, og rís upp frá dauðum, og þá mun Kristur lýsa þér. 5.15 Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir. 5.16 Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir. 5.17 Verið því ekki óskynsamir, heldur reynið að skilja, hver sé vilji Drottins. 5.18 Drekkið yður ekki drukkna af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum, 5.19 og ávarpið hver annan með sálmum, lofsöngum og andlegum ljóðum. Syngið og leikið fyrir Drottin í hjörtum yðar, 5.20 og þakkið jafnan Guði, föðurnum, fyrir alla hluti í nafni Drottins vors Jesú Krists. 5.21 Verið hver öðrum undirgefnir í ótta Krists: 5.22 Konurnar eiginmönnum sínum eins og það væri Drottinn. 5.23 Því að maðurinn er höfuð konunnar, eins og Kristur er höfuð kirkjunnar, hann er frelsari líkama síns. 5.24 En eins og kirkjan er undirgefin Kristi, þannig séu og konurnar mönnum sínum undirgefnar í öllu. 5.25 Þér menn, elskið konur yðar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana, 5.26 til þess að helga hana og hreinsa í laug vatnsins með orði. 5.27 Hann vildi leiða hana fram fyrir sig í dýrð án þess hún hefði blett eða hrukku né neitt þess háttar. Heilög skyldi hún og lýtalaus. 5.28 Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eigin líkami. Sá, sem elskar konu sína, elskar sjálfan sig. 5.29 Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold, heldur elur hann það og annast, eins og Kristur kirkjuna, 5.30 því vér erum limir á líkama hans. 5.31 'Þess vegna skal maður yfirgefa föður og móður og búa við eiginkonu sína, og munu þau tvö verða einn maður.' 5.32 Þetta er mikill leyndardómur. Ég hef í huga Krist og kirkjuna. 5.33 En sem sagt, þér skuluð hver og einn elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig, en konan beri lotningu fyrir manni sínum.
6.1 Þér börn, hlýðið foreldrum yðar vegna Drottins, því að það er rétt. 6.2 'Heiðra föður þinn og móður,' _ það er hið fyrsta boðorð með fyrirheiti: 6.3 'til þess að þér vegni vel og þú verðir langlífur á jörðinni.' 6.4 Og þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði, heldur alið þau upp með aga og umvöndun Drottins. 6.5 Þér þrælar, hlýðið yðar jarðnesku herrum með lotningu og ótta, í einlægni hjartans, eins og það væri Kristur. 6.6 Ekki með augnaþjónustu, eins og þeir er mönnum vilja þóknast, heldur eins og þjónar Krists, er gjöra vilja Guðs af heilum huga. 6.7 Veitið þjónustu yðar af fúsu geði, eins og Drottinn ætti í hlut og ekki menn. 6.8 Þér vitið og sjálfir, að sérhver mun fá aftur af Drottni það góða, sem hann gjörir, hvort sem hann er þræll eða frjáls maður. 6.9 Og þér, sem eigið þræla, breytið eins við þá. Hættið að ógna þeim. Þér vitið, að þeir eiga í himnunum sama Drottin og þér og hjá honum er ekkert manngreinarálit. 6.10 Að lokum: Styrkist nú í Drottni og í krafti máttar hans. 6.11 Klæðist alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins. 6.12 Því að baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum. 6.13 Takið því alvæpni Guðs, til þess að þér getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli, þegar þér hafið sigrað allt. 6.14 Standið því gyrtir sannleika um lendar yðar og klæddir brynju réttlætisins 6.15 og skóaðir á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðskap friðarins. 6.16 Takið umfram allt skjöld trúarinnar, sem þér getið slökkt með öll hin eldlegu skeyti hins vonda. 6.17 Takið við hjálmi hjálpræðisins og sverði andans, sem er Guðs orð. 6.18 Gjörið það með bæn og beiðni og biðjið á hverri tíð í anda. Verið því árvakrir og staðfastir í bæn fyrir öllum heilögum. 6.19 Biðjið fyrir mér, að mér verði gefin orð að mæla, þá er ég lýk upp munni mínum, til þess að ég kunngjöri með djörfung leyndardóm fagnaðarerindisins. 6.20 Þess boðberi er ég í fjötrum mínum. Biðjið, að ég geti flutt það með djörfung, eins og mér ber að tala. 6.21 En til þess að þér fáið einnig að vita um hagi mína, hvernig mér líður, þá mun Týkíkus, minn elskaði bróðir og trúi aðstoðarmaður í þjónustu Drottins, skýra yður frá öllu. 6.22 Ég sendi hann til yðar einkum í því skyni, að þér fáið að vita, hvernig oss líður, og til þess að hann uppörvi yður. 6.23 Friður sé með bræðrunum og kærleikur, samfara trú frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.
1.1 Páll og Tímóteus, þjónar Krists Jesú, heilsa öllum heilögum í Filippí, sem eru í Kristi Jesú, ásamt biskupum þeirra og djáknum. 1.2 Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. 1.3 Ég þakka Guði mínum í hvert skipti, sem ég hugsa til yðar, 1.4 og gjöri ávallt í öllum bænum mínum með gleði bæn fyrir yður öllum, 1.5 vegna samfélags yðar um fagnaðarerindið frá hinum fyrsta degi til þessa. 1.6 Og ég fulltreysti einmitt því, að hann, sem byrjaði í yður góða verkið, muni fullkomna það allt til dags Jesú Krists. 1.7 Víst er það rétt fyrir mig að bera þennan hug til yðar allra. Ég hef yður í hjarta mínu, og þér eigið allir hlutdeild með mér í náðinni, bæði í fjötrum mínum og þegar ég er að verja fagnaðarerindið og staðfesta það. 1.8 Guð er mér þess vitni, hvernig ég þrái yður alla með ástúð Krists Jesú. 1.9 Og þetta bið ég um, að elska yðar aukist enn þá meir og meir að þekkingu og allri dómgreind, 1.10 svo að þér getið metið þá hluti rétt, sem máli skipta, og séuð hreinir og ámælislausir til dags Krists, 1.11 auðugir að réttlætis ávexti þeim, er fæst fyrir Jesú Krist til dýrðar og lofs Guði. 1.12 En ég vil, bræður, að þér vitið, að það, sem fram við mig hefur komið, hefur í raun orðið fagnaðarerindinu til eflingar. 1.13 Því að það er augljóst orðið í allri lífvarðarhöllinni og fyrir öllum öðrum, að ég er í fjötrum vegna Krists, 1.14 og flestir af bræðrunum hafa öðlast meira traust á Drottni við fjötra mína og fengið meiri djörfung til að tala orð Guðs óttalaust. 1.15 Sumir prédika að sönnu Krist af öfund og þrætugirni, en sumir gjöra það líka af góðum hug. 1.16 Þeir gjöra það af kærleika, vegna þess að þeir vita, að ég er settur fagnaðarerindinu til varnar. 1.17 Hinir prédika Krist af eigingirni og ekki af hreinum hug, heldur í þeim tilgangi að bæta þrengingu ofan á fjötra mína. 1.18 En hvað um það! Kristur er allt að einu boðaður, hvort sem það heldur er af uppgerð eða heilum hug. Og þetta gleður mig. Já, það mun áfram gleðja mig. 1.19 Því að ég veit, að þetta verður mér til frelsunar fyrir bænir yðar og hjálpina, sem andi Jesú Krists veitir mér. 1.20 Og það er einlæg löngun mín og von, að ég í engu megi til skammar verða, heldur að Kristur megi í allra augum, nú eins og ávallt, vegsamlegur verða í mér, hvort sem það verður með lífi mínu eða dauða. 1.21 Því að lífið er mér Kristur og dauðinn ávinningur. 1.22 En eigi ég áfram að lifa á jörðinni, þá verður meiri árangur af starfi mínu. Veit ég eigi hvort ég á heldur að kjósa. 1.23 Ég á úr tvennu vöndu að ráða: Mig langar til að fara héðan og vera með Kristi, því að það væri miklu betra. 1.24 En yðar vegna er það nauðsynlegra, að ég haldi áfram að lifa hér á jörðu. 1.25 Og í trausti þess veit ég, að ég mun lifa og halda áfram að vera hjá yður öllum, yður til framfara og gleði í trúnni. 1.26 Þegar ég kem aftur til yðar, getið þér vegna mín enn framar hrósað yður í Kristi Jesú. 1.27 En hvað sem öðru líður, þá hegðið yður eins og samboðið er fagnaðarerindinu um Krist. Hvort sem ég kem og heimsæki yður eða ég er fjarverandi, skal ég fá að heyra um yður, að þér standið stöðugir í einum anda og berjist saman með einni sál fyrir trúnni á fagnaðarerindið 1.28 og látið í engu skelfast af mótstöðumönnunum. Fyrir þá er það merki frá Guði um glötun þeirra, en um hjálpræði yðar. 1.29 Því að yður er veitt sú náð fyrir Krists sakir, ekki einungis að trúa á hann, heldur og að þola þjáningar hans vegna. 1.30 Nú eigið þér í sömu baráttu sem þér sáuð mig heyja og heyrið enn um mig.
2.1 Ef nokkurs má sín upphvatning í nafni Krists, ef kærleiksávarp, ef samfélag andans, ef ástúð og meðaumkun má sín nokkurs, 2.2 þá gjörið gleði mína fullkomna með því að vera samhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál. 2.3 Gjörið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillátir og metið aðra meira en sjálfa yður. 2.4 Lítið ekki aðeins á eigin hag, heldur einnig annarra. 2.5 Verið með sama hugarfari sem Jesús Kristur var. 2.6 Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. 2.7 Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. 2.8 Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi. 2.9 Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra, 2.10 til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu 2.11 og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn. 2.12 Þess vegna, mínir elskuðu, þér sem ætíð hafið verið hlýðnir, vinnið nú að sáluhjálp yðar með ugg og ótta eins og þegar ég var hjá yður, því fremur nú, þegar ég er fjarri. 2.13 Því að það er Guð, sem verkar í yður bæði að vilja og framkvæma sér til velþóknunar. 2.14 Gjörið allt án þess að mögla og hika, 2.15 til þess að þér verðið óaðfinnanlegir og hreinir, flekklaus Guðs börn meðal rangsnúinnar og gjörspilltrar kynslóðar. Þér skínið hjá þeim eins og ljós í heiminum. 2.16 Haldið fast við orð lífsins, mér til hróss á degi Krists. Þá hef ég ekki hlaupið til einskis né erfiðað til ónýtis. 2.17 Og enda þótt blóði mínu verði úthellt við fórnarþjónustu mína, þegar ég ber trú yðar fram fyrir Guð, þá gleðst ég og samgleðst yður öllum. 2.18 Af hinu sama skuluð þér einnig gleðjast og samgleðjast mér. 2.19 En ég hef þá von til Drottins Jesú, að ég muni bráðum geta sent Tímóteus til yðar, til þess að mér verði einnig hughægra, þá er ég fæ að vita um hagi yðar. 2.20 Ég hef engan honum líkan, sem lætur sér eins einlæglega annt um hagi yðar. _ 2.21 Allir leita þess, sem sjálfra þeirra er, en ekki þess, sem Krists Jesú er. _ 2.22 En þér vitið, hvernig hann hefur reynst, að hann hefur þjónað að boðun fagnaðarerindisins með mér eins og barn með föður sínum. 2.23 Hann vona ég þá að geta sent, jafnskjótt og ég sé, hvað um mig verður. 2.24 En ég ber það traust til Drottins, að ég muni og bráðum koma sjálfur. 2.25 Ég taldi það og nauðsynlegt að senda til yðar Epafrodítus, bróður minn, samverkamann og samherja, en sendimann yðar og erindreka í því að bæta úr þörf minni. 2.26 Hann hefur þráð yður alla og liðið illa út af því, að þér höfðuð heyrt, að hann hefði orðið sjúkur. 2.27 Því sjúkur varð hann, að dauða kominn, en Guð miskunnaði honum og ekki einungis honum, heldur og mér, til þess að ég skyldi eigi hafa hryggð á hryggð ofan. 2.28 Fyrir því læt ég mér enn annara um að senda hann heim, til þess að þér verðið aftur glaðir, er þér sjáið hann, og mér verði hughægra. 2.29 Takið því á móti honum í nafni Drottins með öllum fögnuði, og hafið slíka menn í heiðri. 2.30 Hann var að vinna fyrir Krist. Þess vegna var hann að dauða kominn. Hann lagði líf sitt í hættu til þess að bæta upp það, sem brast á hjálp yðar mér til handa.
3.1 Að endingu, bræður mínir, verið glaðir í Drottni. Ég tel ekki eftir mér að endurtaka það, sem ég hef skrifað, en yður er það til öryggis. 3.2 Gefið gætur að hundunum, gefið gætur að hinum vondu verkamönnum, gefið gætur að hinum sundurskornu. 3.3 Vér erum hinir umskornu, vér sem dýrkum Guð í anda hans og miklumst af Kristi Jesú og treystum ekki ytri yfirburðum, 3.4 jafnvel þótt ég hafi einnig þá ytri yfirburði, sem ég gæti treyst. Ef einhver annar þykist geta treyst ytri yfirburðum, þá get ég það fremur. 3.5 Ég var umskorinn á áttunda degi, af kyni Ísraels, ættkvísl Benjamíns, Hebrei af Hebreum, farísei í afstöðunni til lögmálsins, 3.6 svo ákafur, að ég ofsótti kirkjuna. Ef litið er á réttlætið, sem fæst með lögmálinu, var ég vammlaus. 3.7 En það, sem var mér ávinningur, met ég nú vera tjón sakir Krists. 3.8 Já, meira að segja met ég allt vera tjón hjá þeim yfirburðum að þekkja Krist Jesú, Drottin minn. Sakir hans hef ég misst allt og met það sem sorp, til þess að ég geti áunnið Krist 3.9 og reynst vera í honum. Nú á ég ekki eigið réttlæti, það er fæst af lögmáli, heldur það er fæst fyrir trú á Krist, réttlætið frá Guði með trúnni. _ 3.10 Ég vil þekkja Krist og kraft upprisu hans og samfélag písla hans með því að mótast eftir honum í dauða hans. 3.11 Mætti mér auðnast að ná til upprisunnar frá dauðum. 3.12 Ekki er svo, að ég hafi þegar náð því eða sé þegar fullkominn. En ég keppi eftir því, ef ég skyldi geta höndlað það, með því að ég er höndlaður af Kristi Jesú. 3.13 Bræður, ekki tel ég sjálfan mig enn hafa höndlað það. 3.14 En eitt gjöri ég. Ég gleymi því, sem að baki er, en seilist eftir því, sem framundan er, og keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur kallað oss til fyrir Krist Jesú. 3.15 Þetta hugarfar skulum vér því allir hafa, sem fullkomnir erum. Og ef þér hugsið í nokkru öðruvísi, þá mun Guð einnig opinbera yður þetta. 3.16 Fyrir alla muni skulum vér ganga þá götu, sem vér höfum komist á. 3.17 Bræður, breytið allir eftir mér og festið sjónir yðar á þeim, sem breyta eftir þeirri fyrirmynd, er vér höfum yður gefið. 3.18 Margir breyta, _ ég hef oft sagt yður það og nú segi ég það jafnvel grátandi _, eins og óvinir kross Krists. 3.19 Afdrif þeirra eru glötun. Guð þeirra er maginn, þeim þykir sómi að skömminni og þeir hafa hugann á jarðneskum munum. 3.20 En föðurland vort er á himni og frá himni væntum vér frelsarans, Drottins Jesú Krists. 3.21 Hann mun breyta veikum og forgengilegum líkama vorum og gjöra hann líkan dýrðarlíkama sínum. Því hann hefur kraftinn til að leggja allt undir sig.
4.1 Þess vegna, mínir elskuðu og þráðu bræður, gleði mín og kóróna, standið þá stöðugir í Drottni, þér elskuðu. 4.2 Evodíu áminni ég og Sýntýke áminni ég um að vera samlyndar vegna Drottins. 4.3 Já, ég bið einnig þig, trúlyndi samþjónn, hjálpa þú þeim, því að þær börðust með mér við boðun fagnaðarerindisins, ásamt Klemens og öðrum samverkamönnum mínum, og standa nöfn þeirra í lífsins bók. 4.4 Verið ávallt glaðir í Drottni. Ég segi aftur: Verið glaðir. 4.5 Ljúflyndi yðar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. 4.6 Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. 4.7 Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú. 4.8 Að endingu, bræður, allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það. 4.9 Þetta, sem þér hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín, það skuluð þér gjöra. Og Guð friðarins mun vera með yður. 4.10 Ég varð mjög glaður í Drottni yfir því, að hagur yðar hefur loks batnað svo aftur, að þér gátuð hugsað til mín. Að sönnu hafið þér hugsað til mín, en gátuð ekki sýnt það. 4.11 Ekki segi ég þetta vegna þess, að ég hafi liðið skort, því að ég hef lært að láta mér nægja það, sem fyrir hendi er. 4.12 Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir. Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort. 4.13 Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir. 4.14 Engu að síður gjörðuð þér vel í því, að taka þátt með mér í þrengingu minni. 4.15 Þér vitið og, Filippímenn, að þegar ég í upphafi boðaði yður fagnaðarerindið og var farinn burt úr Makedóníu, hafði enginn söfnuður nema þér einir reikning hjá mér yfir gefið og þegið. 4.16 Meira að segja, þegar ég var í Þessaloníku, senduð þér mér oftar en einu sinni til nauðsynja minna. 4.17 Ekki að mér væri svo umhugað um gjöfina sem um ábata þann, sem ríkulega rennur í yðar reikning. 4.18 En nú hef ég fengið allt og hef meira en nóg síðan ég af hendi Epafrodítusar tók við sendingunni frá yður, þægilegum ilm, þekkri fórn, Guði velþóknanlegri. 4.19 En Guð minn mun af auðlegð dýrðar sinnar í Kristi Jesú uppfylla sérhverja þörf yðar. 4.20 Guði og föður vorum sé dýrðin um aldir alda. Amen. 4.21 Heilsið öllum heilögum í Kristi Jesú. 4.22 Bræðurnir, sem hjá mér eru, biðja að heilsa yður. Allir hinir heilögu biðja að heilsa yður, en einkanlega þeir, sem eru í þjónustu keisarans.
1.1 Páll, að vilja Guðs postuli Krists Jesú og Tímóteus, bróðir vor, heilsa 1.2 hinum heilögu og trúuðu bræðrum í Kólossu, sem eru í Kristi. Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum. 1.3 Vér þökkum Guði, föður Drottins vors Jesú Krists, ávallt er vér biðjum fyrir yður. 1.4 Því að vér höfum heyrt um trú yðar á Krist Jesú og um kærleikann, sem þér berið til allra heilagra, 1.5 vegna vonar þeirrar, sem yður er geymd í himnunum. Um þá von hafið þér áður heyrt í orði sannleikans, fagnaðarerindinu, 1.6 sem til yðar er komið, eins og það einnig ber ávöxt og vex í öllum heiminum. Það hefur það líka gjört hjá yður frá þeim degi, er þér heyrðuð það og lærðuð að þekkja náð Guðs í sannleika. 1.7 Hið sama hafið þér og numið af Epafrasi, vorum elskaða samþjóni, sem er trúr þjónn Krists í vorn stað. 1.8 Hann hefur og sagt oss frá kærleika yðar, sem andinn hefur vakið með yður. 1.9 Frá þeim degi, er vér heyrðum þetta, höfum vér því ekki látið af að biðja fyrir yður. Vér biðjum þess, að þér mættuð fyllast þekkingu á vilja Guðs með allri speki og skilningi andans, 1.10 svo að þér hegðið yður eins og Drottni er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt, og fáið borið ávöxt í öllu góðu verki og vaxið að þekkingu á Guði. 1.11 Mætti hann styrkja yður á allan hátt með dýrðarmætti sínum, svo að þér fyllist þolgæði í hvívetna og umburðarlyndi og getið með gleði 1.12 þakkað föðurnum, sem hefur gjört yður hæfa til að fá hlutdeild í arfleifð heilagra í ljósinu. 1.13 Hann hefur frelsað oss frá valdi myrkursins og flutt oss inn í ríki síns elskaða sonar. 1.14 Í honum eigum vér endurlausnina, fyrirgefningu synda vorra. 1.15 Hann er ímynd hins ósýnilega Guðs, frumburður allrar sköpunar. 1.16 Enda var allt skapað í honum í himnunum og á jörðinni, hið sýnilega og hið ósýnilega, hásæti og herradómar, tignir og völd. Allt er skapað fyrir hann og til hans. 1.17 Hann er fyrri en allt, og allt á tilveru sína í honum. 1.18 Og hann er höfuð líkamans, kirkjunnar, hann sem er upphafið, frumburðurinn frá hinum dauðu. Þannig skyldi hann verða fremstur í öllu. 1.19 Því að í honum þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa 1.20 og láta hann koma öllu í sátt við sig, öllu bæði á jörðu og himnum, með því að semja frið með blóði sínu úthelltu á krossi. 1.21 Og yður, sem áður fyrri voruð fráhverfir Guði og óvinveittir honum í huga yðar og vondum verkum, 1.22 yður hefur hann nú sátta gjört við sig með dauða Krists í jarðneskum líkama. Hann vildi láta yður koma fram fyrir sig heilaga og lýtalausa og óaðfinnanlega. 1.23 Standið aðeins stöðugir í trúnni, grundvallaðir og fastir fyrir og hvikið ekki frá von fagnaðarerindisins, sem þér hafið heyrt og prédikað hefur verið fyrir öllu, sem skapað er undir himninum, og er ég, Páll, orðinn þjónn þess. 1.24 Nú er ég glaður í þjáningum mínum yðar vegna. Það, sem enn vantar á þjáningar Krists, uppfylli ég með líkamlegum þjáningum mínum til heilla fyrir líkama hans, sem er kirkjan. 1.25 En hans þjónn er ég orðinn samkvæmt því hlutverki, sem Guð hefur mér á hendur falið yðar vegna: Að flytja Guðs orð óskorað, 1.26 leyndardóminn, sem hefur verið hulinn frá upphafi tíða og kynslóða, en nú hefur hann verið opinberaður Guðs heilögu. 1.27 Guð vildi kunngjöra þeim, hvílíkan dýrðar ríkdóm heiðnu þjóðirnar eiga í þessum leyndardómi, sem er Kristur meðal yðar, von dýrðarinnar. 1.28 Hann boðum vér, er vér áminnum sérhvern mann og fræðum með allri speki, til þess að vér getum leitt hvern mann fram fullkominn í Kristi. 1.29 Að þessu strita ég og stríði með þeim mætti, sem kröftuglega verkar í mér.
2.1 Ég vil að þér vitið, hversu hörð er barátta mín vegna yðar og þeirra í Laódíkeu og allra þeirra, sem ekki hafa séð mig sjálfan. 2.2 Mig langar, að þeir uppörvist í hjörtum sínum, sameinist í kærleika og öðlist gjörvalla auðlegð þeirrar sannfæringar og skilnings, sem veitir þekkinguna á leyndardómi Guðs, Kristi. 2.3 En í honum eru allir fjársjóðir spekinnar og þekkingarinnar fólgnir. 2.4 Þetta segi ég til þess að enginn tæli yður með áróðurstali, 2.5 því að ég er hjá yður í andanum, þótt ég sé líkamlega fjarlægur, og ég horfi með fögnuði á góða skipan hjá yður og festu yðar í trúnni á Krist. 2.6 Þér hafið tekið á móti Kristi, Drottni Jesú. Lifið því í honum. 2.7 Verið rótfestir í honum og byggðir á honum, staðfastir í trúnni, eins og yður hefur verið kennt, og auðugir að þakklátsemi. 2.8 Gætið þess, að enginn verði til að hertaka yður með heimspeki og hégómavillu, sem byggist á mannasetningum, er runnið frá heimsvættunum, en ekki frá Kristi. 2.9 Því að í honum býr öll fylling guðdómsins líkamlega. 2.10 Og í honum, sem er höfuð hvers konar tignar og valds, hafið þér öðlast hlutdeild í þessari fyllingu. 2.11 Í honum eruð þér einnig umskornir þeirri umskurn, sem ekki er með höndum gjörð, heldur með umskurn Krists, við að afklæðast hinum synduga líkama, 2.12 þegar þér voruð greftraðir með Kristi í skírninni. Í skírninni voruð þér einnig með honum uppvaktir fyrir trúna á mátt Guðs, er vakti hann upp frá dauðum. 2.13 Þér voruð dauðir sökum afbrota yðar og umskurnarleysis. En Guð lífgaði yður ásamt honum, þegar hann fyrirgaf oss öll afbrotin. 2.14 Hann afmáði skuldabréfið, sem þjakaði oss með ákvæðum sínum. Hann tók það burt með því að negla það á krossinn. 2.15 Hann fletti vopnum tignirnar og völdin, leiddi þau opinberlega fram til háðungar og hrósaði sigri yfir þeim í Kristi. 2.16 Enginn skyldi því dæma yður fyrir mat eða drykk eða það sem snertir hátíðir, tunglkomur eða hvíldardaga. 2.17 Þetta er aðeins skuggi þess, sem koma átti, en líkaminn er Krists. 2.18 Látið þá ekki taka af yður hnossið, sem þykjast af auðmýkt sinni og engladýrkun og státa af sýnum sínum. Þeir hrokast upp af engu í hyggju holds síns 2.19 og halda sér ekki við hann, sem er höfuðið og styrkir allan líkamann og samantengir taugum og böndum, svo að hann þróast guðlegum þroska. 2.20 Ef þér eruð dánir með Kristi undan valdi heimsvættanna, hvers vegna hagið þér yður þá eins og þér lifðuð í heiminum og látið leggja fyrir yður boð eins og þessi: 2.21 'Snertu ekki, bragðaðu ekki, taktu ekki á'? _ 2.22 Allt þetta er þó ætlað til að eyðast við notkunina! _ mannaboðorð og mannalærdómar! 2.23 Þetta hefur að sönnu orð á sér um speki, slík sjálfvalin dýrkun og auðmýking og harðneskja við líkamann, en hefur ekkert gildi, heldur er til þess eins að fullnægja holdinu.
3.1 Fyrst þér því eruð uppvaktir með Kristi, þá keppist eftir því, sem er hið efra, þar sem Kristur situr við hægri hönd Guðs. 3.2 Hugsið um það, sem er hið efra, en ekki um það, sem á jörðinni er. 3.3 Því að þér eruð dánir og líf yðar er fólgið með Kristi í Guði. 3.4 Þegar Kristur, sem er líf yðar, opinberast, þá munuð þér og ásamt honum opinberast í dýrð. 3.5 Deyðið því hið jarðneska í fari yðar: Hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd, sem ekki er annað en skurðgoðadýrkun. 3.6 Af þessu kemur reiði Guðs [yfir þá, sem hlýða honum ekki]. 3.7 Meðal þeirra voruð og þér áður, þegar þér lifðuð í þessum syndum. 3.8 En nú skuluð þér segja skilið við allt þetta: Reiði, bræði, vonsku, lastmæli, svívirðilegt orðbragð. 3.9 Ljúgið ekki hver að öðrum, því þér hafið afklæðst hinum gamla manni með gjörðum hans 3.10 og íklæðst hinum nýja, sem endurnýjast til fullkominnar þekkingar og verður þannig mynd skapara síns. 3.11 Þar er ekki grískur maður eða Gyðingur, umskorinn eða óumskorinn, útlendingur, Skýti, þræll eða frjáls maður, þar er Kristur allt og í öllum. 3.12 Íklæðist því eins og Guðs útvaldir, heilagir og elskaðir, hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. 3.13 Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra. 3.14 En íklæðist yfir allt þetta elskunni, sem er band algjörleikans. 3.15 Látið frið Krists ríkja í hjörtum yðar, því að til friðar voruð þér kallaðir sem limir í einum líkama. Verðið þakklátir. 3.16 Látið orð Krists búa ríkulega hjá yður með allri speki. Fræðið og áminnið hver annan með sálmum, lofsöngum og andlegum ljóðum og syngið Guði sætlega lof í hjörtum yðar. 3.17 Hvað sem þér gjörið í orði eða verki, gjörið það allt í nafni Drottins Jesú og þakkið Guði föður fyrir hann. 3.18 Þér konur, verið undirgefnar mönnum yðar, eins og sómir þeim, er Drottni heyra til. 3.19 Þér menn, elskið eiginkonur yðar og verið ekki beiskir við þær. 3.20 Þér börn, verið hlýðin foreldrum yðar í öllu, því að það fer þeim vel, sem Drottni heyra til. 3.21 Þér feður, verið ekki vondir við börn yðar, svo að þau verði ekki ístöðulaus. 3.22 Þér þrælar, verið hlýðnir í öllu jarðneskum drottnum yðar, ekki með augnaþjónustu, eins og þeir er mönnum vilja þóknast, heldur í einlægni hjartans og í ótta Drottins. 3.23 Hvað sem þér gjörið, þá vinnið af heilum huga, eins og Drottinn ætti í hlut, en ekki menn. 3.24 Þér vitið og sjálfir, að Drottinn mun veita yður arfleifðina að launum. Þér þjónið Drottni Kristi. 3.25 Sá, sem rangt gjörir, skal fá það endurgoldið, sem hann gjörði rangt, og þar er ekki manngreinarálit.
4.1 Þér sem eigið þræla, veitið þeim það sem rétt er og sanngjarnt og vitið, að einnig þér eigið Drottin á himni. 4.2 Verið staðfastir í bæninni. Vakið og biðjið með þakkargjörð. 4.3 Biðjið jafnframt fyrir oss, að Guð opni oss dyr fyrir orðið og vér getum boðað leyndardóm Krists. Hans vegna er ég nú bundinn. 4.4 Biðjið, að ég megi birta hann eins og mér ber að tala. 4.5 Umgangist viturlega þá, sem fyrir utan eru, og notið hverja stundina. 4.6 Mál yðar sé ætíð ljúflegt, en salti kryddað, til þess að þér vitið, hvernig þér eigið að svara hverjum manni. 4.7 Týkíkus, minn elskaði bróðir og trúi aðstoðarmaður og samverkamaður í þjónustu Drottins, mun láta yður vita allt um mína hagi. 4.8 Ég sendi hann til yðar gagngjört til þess að þér fáið að vita, hvernig oss líður, og til þess að hann uppörvi yður. 4.9 Með honum fer Onesímus, minn trúi og elskaði bróðir, sem er einn úr yðar hópi. Þeir munu láta yður vita allt, sem hér gjörist. 4.10 Aristarkus, sambandingi minn, biður að heilsa yður. Svo og Markús, frændi Barnabasar, sem þér hafið fengið orð um. Ef hann kemur til yðar, þá takið vel á móti honum. 4.11 Ennfremur biður Jesús, að viðurnefni Jústus, að heilsa yður. Þeir eru nú sem stendur einu umskornu samverkamenn mínir fyrir Guðs ríki, og hafa þeir verið mér til huggunar. 4.12 Einnig biður Epafras að heilsa yður, sem er einn úr yðar hópi. Hann er þjónn Krists Jesú og berst jafnan fyrir yður í bænum sínum, til þess að þér megið standa stöðugir, fullkomnir og fullvissir í öllu því, sem er vilji Guðs. 4.13 Þann vitnisburð gef ég honum, að hann leggur mikið á sig fyrir yður og þá sem eru í Laódíkeu og í Híerapólis. 4.14 Þá biður hann Lúkas að heilsa yður, læknirinn elskaði, og Demas. 4.15 Berið kveðju bræðrunum í Laódíkeu. Einnig Nýmfu og söfnuðinum sem kemur saman í húsi hennar. 4.16 Og þegar búið er að lesa þetta bréf upp hjá yður, þá látið líka lesa það í söfnuði Laódíkeumanna. Lesið þér og bréfið frá Laódíkeu. 4.17 Segið Arkippusi: 'Gættu embættisins, sem þú hefur tekið að þér í Drottni, og ræktu það vel.'
1.1 Páll, Silvanus og Tímóteus heilsa söfnuði Þessaloníkumanna, sem er í Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Náð sé með yður og friður. 1.2 Vér þökkum ávallt Guði fyrir yður alla, er vér minnumst yðar í bænum vorum. 1.3 Fyrir augsýn Guðs og föður vors erum vér sífellt minnugir starfs yðar í trúnni, erfiðis yðar í kærleikanum og stöðuglyndis yðar í voninni á Drottin vorn Jesú Krist. 1.4 Guð elskar yður, bræður, og vér vitum, að hann hefur útvalið yður. 1.5 Fagnaðarerindi vort kom eigi til yðar í orðum einum, heldur einnig í krafti og í heilögum anda og með fullkominni sannfæringu. Þér vitið, hvernig vér komum fram hjá yður, yðar vegna. 1.6 Og þér hafið gjörst eftirbreytendur vorir og Drottins, er þér tókuð á móti orðinu með fögnuði heilags anda, þrátt fyrir mikla þrengingu. 1.7 Þannig eruð þér orðnir fyrirmynd öllum trúuðum í Makedóníu og í Akkeu. 1.8 Frá yður hefur orð Drottins hljómað, ekki einungis í Makedóníu og Akkeu, heldur er trú yðar á Guð kunn orðin alls staðar. Vér þurfum ekkert um það að tala, 1.9 því að þeir segja sjálfir, á hvern hátt vér komum til yðar og hvernig þér sneruð yður til Guðs frá skurðgoðunum, til þess að þjóna lifandi og sönnum Guði, 1.10 og væntið nú sonar hans frá himnum, sem hann vakti upp frá dauðum, Jesú, er frelsar oss frá hinni komandi reiði.
2.1 Sjálfir vitið þér, bræður, að koma vor til yðar varð ekki árangurslaus. 2.2 Yður er kunnugt, að vér höfðum áður þolað illt og verið misþyrmt í Filippí, en Guð gaf oss djörfung til að tala til yðar fagnaðarerindi Guðs, þótt baráttan væri mikil. 2.3 Boðun vor er ekki sprottin af villu né af óhreinum hvötum og vér reynum ekki að blekkja neinn. 2.4 En Guð hefur talið oss maklega þess að trúa oss fyrir fagnaðarerindinu. Því er það, að vér tölum ekki eins og þeir, er þóknast vilja mönnum, heldur Guði, sem rannsakar hjörtu vor. 2.5 Aldrei höfðum vér nein smjaðuryrði á vörum, það vitið þér. Og ekki bjó þar ásælni að baki, _ Guð er vottur þess. 2.6 Ekki leituðum vér vegsemdar af mönnum, hvorki yður né öðrum, þótt vér hefðum getað beitt myndugleika sem postular Krists. 2.7 Nei, vér vorum mildir yðar á meðal, eins og móðir, sem hlúir að börnum sínum. 2.8 Slíkt kærleiksþel bárum vér til yðar, að vér vildum glaðir gefa yður ekki einungis fagnaðarerindi Guðs, heldur og vort eigið líf því að þér voruð orðnir oss ástfólgnir. 2.9 Þér munið, bræður, eftir erfiði voru og striti: Vér unnum nótt og dag, til þess að vera ekki neinum yðar til þyngsla, um leið og vér prédikuðum fyrir yður fagnaðarerindi Guðs. 2.10 Þér og Guð, eruð vottar þess, hversu heilaglega, réttvíslega og óaðfinnanlega vér hegðuðum oss hjá yður, sem trúið. 2.11 Þér vitið, hvernig vér áminntum og hvöttum og grátbændum hvern og einn yðar, eins og faðir börn sín, 2.12 til þess að þér skylduð breyta eins og samboðið er Guði, er kallar yður til ríkis síns og dýrðar. 2.13 Og þess vegna þökkum vér líka Guði án afláts, því að þegar þér veittuð viðtöku því orði Guðs, sem vér boðuðum, þá tókuð þér ekki við því sem manna orði, heldur sem Guðs orði, _ eins og það í sannleika er. Og það sýnir kraft sinn í yður, sem trúið. 2.14 Þér hafið, bræður, tekið yður til fyrirmyndar söfnuði Guðs í Júdeu, sem eru í Kristi Jesú. Því að þér hafið þolað hið sama af löndum yðar sem þeir urðu að þola af Gyðingum, 2.15 er bæði líflétu Drottin Jesú og spámennina og hafa ofsótt oss. Þeir eru Guði eigi þóknanlegir og öllum mönnum mótsnúnir. 2.16 Þeir vilja meina oss að tala til heiðingjanna, til þess að þeir megi verða hólpnir. Þannig fylla þeir stöðugt mæli synda sinna. En reiðin er þá líka yfir þá komin um síðir. 2.17 En vér, bræður, sem um stundarsakir höfum verið skildir frá yður að líkamanum til en ekki huganum, höfum þráð yður mjög og gjört oss allt far um að fá að sjá yður aftur. 2.18 Þess vegna ætluðum vér að koma til yðar, ég, Páll, oftar en einu sinni, en Satan hefur hamlað því. 2.19 Hver er von vor eða gleði vor eða sigursveigurinn, sem vér hrósum oss af? Eruð það ekki einmitt þér, frammi fyrir Drottni vorum Jesú við komu hans? 2.20 Jú, þér eruð vegsemd vor og gleði.
3.1 Þar kom, að vér þoldum ekki lengur við og réðum þá af að verða einir eftir í Aþenu, 3.2 en sendum Tímóteus, bróður vorn og aðstoðarmann Guðs við fagnaðarerindið um Krist, til að styrkja yður og áminna í trú yðar, 3.3 svo að enginn láti bifast í þrengingum þessum. Þér vitið sjálfir, að þetta er oss ætlað. 3.4 Þegar vér vorum hjá yður, þá sögðum vér yður fyrir, að vér mundum verða að þola þrengingar. Það kom líka fram, eins og þér vitið. 3.5 Því þoldi ég ekki lengur við og sendi Tímóteus til að fá að vita um trú yðar, hvort freistarinn kynni að hafa freistað yðar og erfiði vort orðið til einskis. 3.6 En nú er hann aftur kominn til vor frá yður og hefur borið oss gleðifregn um trú yðar og kærleika, að þér ávallt munið eftir oss með hlýjum hug og yður langi til að sjá oss, eins og oss líka til að sjá yður. 3.7 Sökum þessa höfum vér, bræður, huggun hlotið vegna trúar yðar þrátt fyrir alla neyð og þrengingu. 3.8 Nú lifum vér, ef þér standið stöðugir í Drottni. 3.9 Hvernig getum vér nógsamlega þakkað Guði fyrir alla þá gleði, er vér höfum af yður frammi fyrir Guði vorum? 3.10 Og vér biðjum nótt og dag, heitt og af hjarta, að fá að sjá yður og bæta úr því, sem trú yðar er áfátt. 3.11 Sjálfur Guð og faðir vor og Drottinn vor Jesús greiði veg vorn til yðar. 3.12 En Drottinn efli yður og auðgi að kærleika hvern til annars og til allra, eins og vér berum kærleika til yðar. 3.13 Þannig styrkir hann hjörtu yðar, svo að þér verðið óaðfinnanlegir og heilagir frammi fyrir Guði, föður vorum, við komu Drottins vors Jesú ásamt öllum hans heilögu.
4.1 Að endingu biðjum vér yður, bræður, og áminnum í Drottni Jesú. Þér hafið numið af oss, hvernig yður ber að breyta og þóknast Guði, og þannig breytið þér líka. En takið enn meiri framförum. 4.2 Þér vitið, hver boðorð vér gáfum yður frá Drottni Jesú. 4.3 Það er vilji Guðs, að þér verðið heilagir. Hann vill, að þér haldið yður frá frillulífi, 4.4 að sérhver yðar hafi vit á að halda líkama sínum í helgun og heiðri, 4.5 en ekki í losta, eins og heiðingjarnir, er ekki þekkja Guð. 4.6 Og enginn skyldi gjöra bróður sínum rangt til né blekkja hann í slíkum sökum. Því að Drottinn hegnir fyrir allt þvílíkt, eins og vér höfum áður sagt yður og brýnt fyrir yður. 4.7 Ekki kallaði Guð oss til saurlifnaðar, heldur helgunar. 4.8 Sá, sem fyrirlítur þetta, fyrirlítur þess vegna ekki mann, heldur Guð, sem hefur gefið yður sinn heilaga anda. 4.9 En ekki hafið þér þess þörf, að ég skrifi yður um bróðurkærleikann, því Guð hefur sjálfur kennt yður að elska hver annan. 4.10 Það gjörið þér einnig öllum bræðrum í allri Makedóníu. En vér áminnum yður, bræður, að taka enn meiri framförum. 4.11 Leitið sæmdar í því að lifa kyrrlátu lífi og stunda hver sitt starf og vinna með höndum yðar, eins og vér höfum boðið yður. 4.12 Þannig hegðið þér yður með sóma gagnvart þeim, sem fyrir utan eru, og eruð upp á engan komnir. 4.13 Ekki viljum vér, bræður, láta yður vera ókunnugt um þá, sem sofnaðir eru, til þess að þér séuð ekki hryggir eins og hinir, sem ekki hafa von. 4.14 Því að ef vér trúum því að Jesús sé dáinn og upprisinn, þá mun Guð fyrir Jesú leiða ásamt honum fram þá, sem sofnaðir eru. 4.15 Því að það segjum vér yður, og það er orð Drottins, að vér, sem verðum eftir á lífi við komu Drottins, munum alls ekki fyrri verða en hinir sofnuðu. 4.16 Því að sjálfur Drottinn mun stíga niður af himni með kalli, með höfuðengils raust og með básúnu Guðs, og þeir, sem dánir eru í trú á Krist, munu fyrst upp rísa. 4.17 Síðan munum vér, sem eftir lifum, verða ásamt þeim hrifnir burt í skýjum til fundar við Drottin í loftinu. Og síðan munum vér vera með Drottni alla tíma. 4.18 Uppörvið því hver annan með þessum orðum.
5.1 En um tíma og tíðir hafið þér, bræður, ekki þörf á að yður sé skrifað. 5.2 Þér vitið það sjálfir gjörla, að dagur Drottins kemur sem þjófur á nóttu. 5.3 Þegar menn segja: 'Friður og engin hætta', þá kemur snögglega tortíming yfir þá, eins og jóðsótt yfir þungaða konu. Og þeir munu alls ekki undan komast. 5.4 En þér, bræður, eruð ekki í myrkri, svo að dagurinn geti komið yfir yður sem þjófur. 5.5 Þér eruð allir synir ljóssins og synir dagsins. Vér heyrum ekki nóttunni til né myrkrinu. 5.6 Vér skulum þess vegna ekki sofa eins og aðrir, heldur vökum og verum algáðir. 5.7 Þeir, sem sofa, sofa á nóttunni og þeir, sem drekka sig drukkna, drekka á nóttunni. 5.8 En vér, sem heyrum deginum til, skulum vera algáðir, klæddir brynju trúar og kærleika og von hjálpræðis sem hjálmi. 5.9 Guð hefur ekki ætlað oss til að verða reiðinni að bráð, heldur til að öðlast sáluhjálp fyrir Drottin vorn Jesú Krist, 5.10 sem dó fyrir oss, til þess að vér mættum lifa með honum, hvort sem vér vökum eða sofum. 5.11 Áminnið því hver annan og uppbyggið hver annan, eins og þér og gjörið. 5.12 Vér biðjum yður, bræður, að sýna þeim viðurkenningu, sem erfiða á meðal yðar og veita yður forstöðu í Drottni og áminna yður. 5.13 Auðsýnið þeim sérstaka virðingu og kærleika fyrir verk þeirra. Lifið í friði yðar á milli. 5.14 Vér áminnum yður, bræður: Vandið um við þá, sem óreglusamir eru, hughreystið ístöðulitla, takið að yður þá, sem óstyrkir eru, verið langlyndir við alla. 5.15 Gætið þess, að enginn gjaldi neinum illt með illu, en keppið ávallt eftir hinu góða, bæði hver við annan og við alla aðra. 5.16 Verið ætíð glaðir. 5.17 Biðjið án afláts. 5.18 Þakkið alla hluti, því að það er vilji Guðs með yður í Kristi Jesú. 5.19 Slökkvið ekki andann. 5.20 Fyrirlítið ekki spádómsorð. 5.21 Prófið allt, haldið því, sem gott er. 5.22 En forðist allt illt, í hvaða mynd sem er. 5.23 En sjálfur friðarins Guð helgi yður algjörlega og andi yðar, sál og líkami varðveitist alheil og vammlaus við komu Drottins vors Jesú Krists. 5.24 Trúr er sá, er yður kallar, hann mun koma þessu til leiðar. 5.25 Bræður, biðjið fyrir oss! 5.26 Heilsið öllum bræðrunum með heilögum kossi. 5.27 Ég bið og brýni yður í Drottins nafni, að þér látið lesa bréf þetta upp fyrir öllum bræðrunum.
1.1 Páll, Silvanus og Tímóteus heilsa söfnuði Þessaloníkumanna, sem lifa í Guði, föður vorum, og Drottni Jesú Kristi. 1.2 Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. 1.3 Skylt er oss, bræður, og maklegt að þakka Guði ætíð fyrir yður, því að trú yðar eykst stórum og kærleiki yðar allra hvers til annars fer vaxandi. 1.4 Því getum vér hrósað oss af yður í söfnuðum Guðs fyrir þolgæði yðar og trú í öllum ofsóknum yðar og þrengingum þeim, er þér þolið. 1.5 Þær eru augljóst merki þess, að Guð dæmir rétt og mun álíta yður maklega Guðs ríkis, sem þér nú líðið illt fyrir. 1.6 Guð er réttlátur, hann endurgeldur þeim þrengingu, sem að yður þrengja. 1.7 En yður, sem þrengingu líðið, veitir hann hvíld ásamt oss, þegar Drottinn Jesús opinberast af himni með englum máttar síns. 1.8 Hann kemur í logandi eldi og lætur hegningu koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú. 1.9 Þeir munu sæta hegningu, eilífri glötun, fjarri augliti Drottins og fjarri dýrð hans og mætti, 1.10 á þeim degi, er hann kemur til að vegsamast meðal sinna heilögu og hljóta lof meðal allra, sem trú hafa tekið. Og þér hafið trúað þeim vitnisburði, sem vér fluttum yður. 1.11 Þess vegna biðjum vér og alla tíma fyrir yður, að Guð vor álíti yður maklega köllunarinnar og fullkomni allt hið góða, sem þér viljið og vinnið í trú og með krafti Guðs, 1.12 svo að nafn Drottins vors Jesú verði dýrlegt í yður og þér í honum fyrir náð Guðs vors og Drottins Jesú Krists.
2.1 En að því er snertir komu Drottins vors Jesú Krists og það, að vér söfnumst til hans, biðjum vér yður, bræður, 2.2 að þér séuð ekki fljótir til að komast í uppnám eða láta hræða yður, hvorki af nokkrum anda né við orð eða bréf, sem væri það frá oss, eins og dagur Drottins væri þegar fyrir höndum. 2.3 Látið engan villa yður á nokkurn hátt. Því að ekki kemur dagurinn nema fráhvarfið komi fyrst og maður syndarinnar birtist. Hann er sonur glötunarinnar, 2.4 sem setur sig á móti Guði og rís gegn öllu því, sem kallast Guð eða helgur dómur. Hann sest í musteri Guðs og gjörir sjálfan sig að Guði. 2.5 Minnist þér ekki þess, að ég sagði yður þetta, meðan ég enn þá var hjá yður? 2.6 Og þér vitið, hvað aftrar honum nú, til þess að hann opinberist á sínum tíma. 2.7 Því að lögleysið er þegar farið að starfa í leyndum og stendur ekki á öðru en að þeim verði burt rýmt, sem nú heldur aftur af. 2.8 Þá mun lögleysinginn opinberast, _ og honum mun Drottinn Jesús tortíma með anda munns síns og að engu gjöra þegar hann birtist við endurkomu sína. 2.9 Lögleysinginn kemur fyrir tilverknað Satans með miklum krafti, lygatáknum og undrum 2.10 og með alls konar ranglætisvélum, sem blekkja þá, sem glatast, af því að þeir veittu ekki viðtöku og elskuðu ekki sannleikann, svo að þeir mættu verða hólpnir. 2.11 Þess vegna sendir Guð þeim megna villu, til þess að þeir trúi lyginni. 2.12 Þannig munu allir þeir verða dæmdir, sem hafa ekki trúað sannleikanum, en haft velþóknun á ranglætinu. 2.13 En alltaf hljótum vér að þakka Guði fyrir yður, bræður, sem Drottinn elskar. Guð hefur frá upphafi útvalið yður til frelsunar í helgun andans og trú á sannleikann. 2.14 Til þess kallaði hann yður fyrir fagnaðarboðskap vorn, að þér skylduð öðlast dýrð Drottins vors Jesú Krists. 2.15 Bræður, standið því stöðugir og haldið fast við þær kenningar, er vér höfum flutt yður munnlega eða með bréfi. 2.16 En sjálfur Drottinn vor Jesús Kristur og Guð, faðir vor, sem elskaði oss og gaf oss í náð eilífa huggun og góða von, 2.17 huggi hjörtu yðar og styrki í sérhverju góðu verki og orði.
3.1 Að endingu, bræður: Biðjið fyrir oss, að orð Drottins megi hafa framgang og vegsamast eins og hjá yður, 3.2 og að vér mættum frelsast frá spilltum og vondum mönnum. Því að ekki er trúin allra. 3.3 En trúr er Drottinn og hann mun styrkja yður og vernda fyrir hinum vonda. 3.4 En vér höfum það traust til yðar vegna Drottins, að þér bæði gjörið og munuð gjöra það, sem vér leggjum fyrir yður. 3.5 En Drottinn leiði hjörtu yðar til kærleika Guðs og þolgæðis Krists. 3.6 En vér bjóðum yður, bræður, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að þér sneiðið hjá hverjum þeim bróður, er lifir óreglulega og ekki eftir þeirri kenningu, sem þeir hafa numið af oss. 3.7 Því að sjálfir vitið þér, hvernig á að breyta eftir oss. Ekki hegðuðum vér oss óreglulega hjá yður, 3.8 neyttum ekki heldur brauðs hjá neinum fyrir ekkert, heldur unnum vér með erfiði og striti nótt og dag, til þess að vera ekki neinum yðar til þyngsla. 3.9 Ekki af því að vér höfum ekki rétt til þess, heldur til þess að vér gæfum yður sjálfa oss sem fyrirmynd til eftirbreytni. 3.10 Því var og það, að þegar vér vorum hjá yður, buðum vér yður: Ef einhver vill ekki vinna, þá á hann heldur ekki mat að fá. 3.11 Vér heyrum, að nokkrir meðal yðar lifi óreglulega, vinni ekkert, heldur gefi sig alla að því, sem þeim kemur eigi við. 3.12 Slíkum mönnum bjóðum vér og áminnum þá vegna Drottins Jesú Krists, að vinna kyrrlátlega og eta eigið brauð. 3.13 En þér, bræður, þreytist ekki gott að gjöra. 3.14 En ef einhver hlýðir ekki orðum vorum í bréfi þessu, þá merkið yður þann mann. Hafið ekkert samfélag við hann, til þess að hann blygðist sín. 3.15 En álítið hann þó ekki óvin, heldur áminnið hann sem bróður. 3.16 En sjálfur Drottinn friðarins gefi yður friðinn, ætíð á allan hátt. Drottinn sé með yður öllum. 3.17 Kveðjan er með minni, Páls, eigin hendi, og það er merki á hverju bréfi. Þannig skrifa ég.
1.1 Páll, postuli Krists Jesú, að boði Guðs frelsara vors og Krists Jesú, vonar vorrar, heilsar 1.2 Tímóteusi, skilgetnum syni sínum í trúnni. Náð, miskunn og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, Drottni vorum. 1.3 Þegar ég var á förum til Makedóníu, hvatti ég þig að halda kyrru fyrir í Efesus. Þú áttir að bjóða sumum mönnum að fara ekki með annarlegar kenningar 1.4 og gefa sig ekki að ævintýrum og endalausum ættartölum, er fremur efla þrætur en trúarskilning á ráðstöfun Guðs. 1.5 Markmið þessarar hvatningar er kærleikur af hreinu hjarta, góðri samvisku og hræsnislausri trú. 1.6 Sumir eru viknir frá þessu og hafa snúið sér til hégómamáls. 1.7 Þeir vilja vera lögmálskennendur, þó að hvorki skilji þeir, hvað þeir sjálfir segja, né hvað þeir eru að fullyrða. 1.8 Vér vitum, að lögmálið er gott, noti maðurinn það réttilega 1.9 og viti að það er ekki ætlað réttlátum, heldur lögleysingjum og þverbrotnum, óguðlegum og syndurum, vanheilögum og óhreinum, föðurmorðingjum og móðurmorðingjum, manndrápurum, 1.10 frillulífismönnum, mannhórum, mannaþjófum, lygurum, meinsærismönnum, og hvað sem það er nú annað, sem gagnstætt er hinni heilnæmu kenningu. 1.11 Þetta er samkvæmt fagnaðarerindinu um dýrð hins blessaða Guðs, sem mér var trúað fyrir. 1.12 Ég þakka honum, sem mig styrkan gjörði, Kristi Jesú, Drottni vorum, fyrir það að hann sýndi mér það traust að fela mér þjónustu, 1.13 mér, sem fyrrum var lastmælandi, ofsóknari og smánari. En mér var miskunnað, sökum þess að ég gjörði það í vantrú, án þess að vita, hvað ég gjörði. 1.14 Og náðin Drottins vors varð stórlega rík með trúnni og kærleikanum, sem veitist í Kristi Jesú. 1.15 Það orð er satt, og í alla staði þess vert, að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn, og er ég þeirra fremstur. 1.16 En fyrir þá sök var mér miskunnað, að Kristur Jesús skyldi sýna á mér fyrstum gjörvallt langlyndi sitt, þeim til dæmis, er á hann munu trúa til eilífs lífs. 1.17 Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen. 1.18 Þetta er það, sem ég minni þig á, barnið mitt, Tímóteus, með þau spádómsorð í huga, sem áður voru yfir þér töluð. Samkvæmt þeim skalt þú berjast hinni góðu baráttu, 1.19 í trú og með góðri samvisku. Henni hafa sumir frá sér varpað og liðið skipbrot á trú sinni. 1.20 Í tölu þeirra eru þeir Hýmeneus og Alexander, sem ég hef selt Satan á vald, til þess að hirtingin kenni þeim að hætta að guðlasta.
2.1 Fyrst af öllu áminni ég um að bera fram ákall, bænir, fyrirbænir og þakkargjörðir fyrir öllum mönnum, 2.2 fyrir konungum og öllum þeim, sem hátt eru settir, til þess að vér fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í allri guðhræðslu og siðprýði. 2.3 Þetta er gott og þóknanlegt fyrir frelsara vorum Guði, 2.4 sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum. 2.5 Einn er Guð. Einn er og meðalgangarinn milli Guðs og manna, maðurinn Kristur Jesús, 2.6 sem gaf sig sjálfan til lausnargjalds fyrir alla. Það var vitnisburður hans á settum tíma. 2.7 Til að boða hann er ég skipaður prédikari og postuli, _ ég tala sannleika, lýg ekki _, kennari heiðingja í trú og sannleika. 2.8 Ég vil, að karlmenn biðjist hvarvetna fyrir, með upplyftum heilögum höndum, án reiði og þrætu. 2.9 Sömuleiðis vil ég, að konur skrýði sig sæmandi búningi, með blygð og hóglæti, ekki með fléttum og gulli eða perlum og skartklæðum, 2.10 heldur með góðum verkum, eins og sómir konum, er Guð vilja dýrka. 2.11 Konan á að læra í kyrrþey, í allri undirgefni. 2.12 Ekki leyfi ég konu að kenna eða taka sér vald yfir manninum, heldur á hún að vera kyrrlát. 2.13 Því að Adam var fyrst myndaður, síðan Eva. 2.14 Adam lét ekki tælast, heldur lét konan tælast og gjörðist brotleg. 2.15 En hún mun hólpin verða, sakir barnburðarins, ef hún stendur stöðug í trú, kærleika og helgun, samfara hóglæti.
3.1 Það orð er satt, að sækist einhver eftir biskupsstarfi, þá girnist hann fagurt hlutverk. 3.2 Biskup á að vera óaðfinnanlegur, einkvæntur, bindindissamur, hóglátur, háttprúður, gestrisinn, góður fræðari. 3.3 Ekki drykkfelldur, ekki ofsafenginn, heldur gæfur, ekki deilugjarn, ekki fégjarn. 3.4 Hann á að vera maður, sem veitir góða forstöðu heimili sínu og heldur börnum sínum í hlýðni með allri siðprýði. 3.5 Hvernig má sá, sem ekki hefur vit á að veita heimili sínu forstöðu, veita söfnuði Guðs umsjón? 3.6 Hann á ekki að vera nýr í trúnni, til þess að hann ofmetnist ekki og verði fyrir sama dómi og djöfullinn. 3.7 Hann á líka að hafa góðan orðstír hjá þeim, sem standa fyrir utan, til þess að hann verði eigi fyrir álasi og lendi í tálsnöru djöfulsins. 3.8 Svo eiga og djáknar að vera heiðvirðir, ekki tvímælismenn, ekki sólgnir í vín, ekki gefnir fyrir ljótan gróða. 3.9 Þeir skulu varðveita leyndardóm trúarinnar í hreinni samvisku. 3.10 Einnig þessir menn séu fyrst reyndir, síðan takist þeir þjónustuna á hendur, ef þeir eru óaðfinnanlegir. 3.11 Svo eiga og konur að vera heiðvirðar, ekki rógberar, heldur bindindissamar, trúar í öllu. 3.12 Djáknar séu einkvæntir, og hafi góða stjórn á börnum sínum og heimilum. 3.13 Því að þeir, sem vel hafa staðið í djáknastöðu, koma sér vel í veg og öðlast mikla djörfung í trúnni á Krist Jesú. 3.14 Þetta rita ég þér, þó að ég voni að koma bráðum til þín, 3.15 til þess að þú skulir vita, ef mér seinkar, hvernig á að haga sér í Guðs húsi, sem er söfnuður lifanda Guðs, stólpi og grundvöllur sannleikans. 3.16 Og víst er leyndardómur guðhræðslunnar mikill: Hann opinberaðist í holdi, var réttlættur í anda, birtist englum, var boðaður með þjóðum, var trúað í heimi, var hafinn upp í dýrð.
4.1 Andinn segir berlega, að á síðari tímum muni sumir ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda. 4.2 Þessu valda hræsnisfullir lygarar, sem eru brennimerktir á samvisku sinni. 4.3 Það eru þeir, sem meina hjúskap og bjóða mönnum að halda sér frá þeirri fæðu, er Guð hefur skapað til þess að við henni sé tekið með þakkargjörð af trúuðum mönnum, er þekkja sannleikann. 4.4 Allt sem Guð hefur skapað er gott, og engu ber frá sér að kasta, sé það þegið með þakkargjörð. 4.5 Það helgast af orði Guðs og bæn. 4.6 Með því að brýna þetta fyrir bræðrunum, munt þú verða góður þjónn Krists Jesú, nærður af orði trúarinnar og góðu kenningarinnar, sem þú hefur fylgt. 4.7 En hafna þú vanheilögum kerlingaævintýrum, og æf sjálfan þig í guðhræðslu. 4.8 Líkamleg æfing er nytsamleg í sumu, en guðhræðslan er til allra hluta nytsamleg og hefur fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda. 4.9 Það orð er satt og í alla staði þess vert, að við því sé tekið. 4.10 Þess vegna leggjum vér á oss erfiði og þreytum stríð, því að vér höfum fest von vora á lifanda Guði, sem er frelsari allra manna, einkum trúaðra. 4.11 Bjóð þú þetta og kenn það. 4.12 Lát engan líta smáum augum á æsku þína, en ver fyrirmynd trúaðra, í orði, í hegðun, í kærleika, í trú, í hreinleika. 4.13 Ver þú, þangað til ég kem, kostgæfinn að lesa úr Ritningunni, áminna og kenna. 4.14 Vanræktu ekki náðargjöfina þína, sem var gefin þér að tilvísan spámanna og með handayfirlagningu öldunganna. 4.15 Stunda þetta, ver allur í þessu, til þess að framför þín sé öllum augljós. 4.16 Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni. Ver stöðugur við þetta. Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.
5.1 Ávíta þú ekki aldraðan mann harðlega, heldur áminn hann sem föður, yngri menn sem bræður, 5.2 aldraðar konur sem mæður, ungar konur sem systur í öllum hreinleika. 5.3 Heiðra ekkjur, sem í raun og veru eru ekkjur. 5.4 En ef einhver ekkja á börn eða barnabörn, þá læri þau fyrst og fremst að sýna rækt eigin heimili og endurgjalda foreldrum sínum, því að það er þóknanlegt fyrir augliti Guðs. 5.5 Sú sem er í raun og veru ekkja og er orðin munaðarlaus, festir von sína á Guði og er stöðug í ákalli og bænum nótt og dag. 5.6 En hin bílífa er dauð, þó að hún lifi. 5.7 Brýn þetta fyrir þeim, til þess að þær séu óaðfinnanlegar. 5.8 En ef einhver sér eigi fyrir sínum, sérstaklega heimilismönnum, þá hefur hann afneitað trúnni og er verri en vantrúaður. 5.9 Ekkja sé ekki tekin á skrá yfir ekkjur nema hún sé orðin fullra sextíu ára, eingift 5.10 og lofsamlega kunn að góðum verkum. Hún verður að hafa fóstrað börn, sýnt gestrisni, þvegið fætur heilagra, hjálpað bágstöddum og lagt stund á hvert gott verk. 5.11 En tak ekki við ungum ekkjum. Þegar þær verða gjálífar afrækja þær Krist, vilja giftast 5.12 og gerast þá sekar um að brjóta sitt fyrra heit. 5.13 Og jafnframt temja þær sér iðjuleysi, rápandi hús úr húsi, ekki einungis iðjulausar, heldur einnig málugar og hlutsamar og tala það, sem eigi ber að tala. 5.14 Ég vil því að ungar ekkjur giftist, ali börn, stjórni heimili og gefi mótstöðumanninum ekkert tilefni til illmælis. 5.15 Nokkrar hafa þegar horfið frá til fylgis við Satan. 5.16 Ef trúuð kona á fyrir ekkjum að sjá, skal hún sjá fyrir þeim, og eigi hafi söfnuðurinn þyngsli af, til þess að hann geti veitt hjálpina þeim, sem ekkjur eru og einstæðar. 5.17 Öldungar þeir, sem veita góða forstöðu, séu hafðir í tvöföldum metum, allra helst þeir sem erfiða í orðinu og í kennslu. 5.18 Því að ritningin segir: 'Þú skalt ekki múlbinda uxann, er hann þreskir' og 'verður er verkamaðurinn launa sinna.' 5.19 Tak þú ekki við kæru gegn öldungi, nema tveir eða þrír vottar beri. 5.20 Ávíta brotlega í viðurvist allra, til þess að hinir megi hafa ótta. 5.21 Ég heiti á þig fyrir augliti Guðs og Krists Jesú og hinna útvöldu engla, að þú gætir þessa án nokkurs fordóms og gjörir ekkert af vilfylgi. 5.22 Eigi skalt þú fljótráðið leggja hendur yfir nokkurn mann. Tak eigi heldur þátt í annarra syndum, varðveit sjálfan þig hreinan. 5.23 Ver þú ekki lengur að drekka vatn, heldur skalt þú neyta lítils eins af víni vegna magans og veikinda þinna, sem eru svo tíð. 5.24 Syndirnar hjá sumum mönnum eru í augum uppi og eru komnar á undan, þegar dæma skal. En hjá sumum koma þær líka á eftir. 5.25 Á sama hátt eru góðverkin augljós, og þau, sem eru það ekki, munu ekki geta dulist.
6.1 Allir þeir, sem eru ánauðugir þrælar, skulu sýna húsbændum sínum allan skyldugan heiður, til þess að ekki verði lastmælt nafni Guðs og kenningunni. 6.2 En þeir, sem trúaða húsbændur eiga, skulu ekki lítilsvirða þá, vegna þess að þeir eru bræður, heldur þjóni þeim því betur sem þeir eru trúaðir og elskaðir og kappkosta að gjöra góðverk. Kenn þú þetta og áminn um það. 6.3 Ef einhver fer með annarlegar kenningar og fylgir ekki hinum heilnæmu orðum Drottins vors Jesú Krists og því, sem guðrækni vor kennir, þá hefur hann ofmetnast og veit ekki neitt. 6.4 Hann er sótttekinn af þrætum og orðastælum. Af þessu fæðist öfund, deilur, lastmæli, vondar hugsanir, 6.5 þjark og þras hugspilltra manna, sem eru sneyddir sannleikanum, en skoða guðhræðsluna sem gróðaveg. 6.6 Já, guðhræðslan samfara nægjusemi er mikill gróðavegur. 6.7 Því að ekkert höfum vér inn í heiminn flutt og ekki getum vér heldur flutt neitt út þaðan. 6.8 Ef vér höfum fæði og klæði, þá látum oss það nægja. 6.9 En þeir, sem ríkir vilja verða, falla í freistni og snöru og alls kyns óviturlegar og skaðlegar fýsnir, er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun. 6.10 Fégirndin er rót alls þess, sem illt er. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum. 6.11 En þú, Guðs maður, forðast þú þetta, en stunda réttlæti, guðhræðslu, trú, kærleika, stöðuglyndi og hógværð. 6.12 Berstu trúarinnar góðu baráttu, höndla þú eilífa lífið, sem þú varst kallaður til og þú játaðist með góðu játningunni í viðurvist margra votta. 6.13 Ég býð þér fyrir augliti Guðs, sem veitir öllu líf, og fyrir augliti Krists Jesú, er gjörði góðu játninguna frammi fyrir Pontíusi Pílatusi: 6.14 Gæt þú boðorðsins lýtalaust, óaðfinnanlega allt til endurkomu Drottins vors Jesú Krists, 6.15 sem hinn blessaði og eini alvaldur mun á sínum tíma birtast láta, konungur konunganna og Drottinn drottnanna. 6.16 Hann einn hefur ódauðleika, hann býr í ljósi, sem enginn fær til komist, hann sem enginn maður leit né litið getur. Honum sé heiður og eilífur máttur. Amen. 6.17 Bjóð ríkismönnum þessarar aldar að hreykja sér ekki né treysta fallvöltum auði, heldur Guði, sem lætur oss allt ríkulega í té til nautnar. 6.18 Bjóð þeim að gjöra gott, vera ríkir af góðum verkum, örlátir, fúsir að miðla öðrum, 6.19 með því safna þeir handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna, og munu geta höndlað hið sanna líf. 6.20 Þú Tímóteus, varðveit það, sem þér er trúað fyrir, og forðast hinar vanheilögu hégómaræður og mótsagnir hinnar rangnefndu þekkingar,
1.1 Páll, að vilja Guðs postuli Krists Jesú til að flytja fyrirheitið um lífið í Kristi Jesú, heilsar 1.2 Tímóteusi, elskuðum syni sínum. Náð, miskunn og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, Drottni vorum. 1.3 Þakkir gjöri ég Guði, sem ég þjóna, eins og forfeður mínir, með hreinni samvisku, því að án afláts, nótt og dag, minnist ég þín í bænum mínum. 1.4 Ég þrái að sjá þig, minnugur tára þinna, til þess að ég fyllist gleði 1.5 er ég rifja upp fyrir mér hina hræsnislausu trú þína. Sú trú bjó fyrst í henni Lóis ömmu þinni og í henni Evnike móður þinni, og ég er sannfærður um, að hún býr líka í þér. 1.6 Fyrir þá sök minni ég þig á að glæða hjá þér þá náðargjöf, sem Guð gaf þér við yfirlagningu handa minna. 1.7 Því að ekki gaf Guð oss anda hugleysis, heldur anda máttar og kærleiks og stillingar. 1.8 Fyrirverð þig því ekki fyrir vitnisburðinn um Drottin vorn, né fyrir mig, bandingja hans, heldur skalt þú með mér illt þola vegna fagnaðarerindisins, svo sem Guð gefur máttinn til. 1.9 Hann hefur frelsað oss og kallað heilagri köllun, ekki eftir verkum vorum, heldur eftir eigin ákvörðun og náð, sem oss var gefin fyrir Krist Jesú frá eilífum tímum, 1.10 en hefur nú birst við komu frelsara vors Krists Jesú. Hann afmáði dauðann, en leiddi í ljós líf og óforgengileika með fagnaðarerindinu. 1.11 Og til að boða það er ég settur prédikari, postuli og kennari. 1.12 Fyrir þá sök líð ég og þetta. En eigi fyrirverð ég mig, því að ég veit á hvern ég trúi. Og ég er sannfærður um, að hann er þess megnugur að varðveita það, sem mér er trúað fyrir, þar til dagurinn kemur. 1.13 Haf þér til fyrirmyndar heilnæmu orðin, sem þú heyrðir mig flytja. Stattu stöðugur í þeirri trú og þeim kærleika, sem veitist í Kristi Jesú. 1.14 Varðveittu hið góða, sem þér er trúað fyrir, með hjálp heilags anda, sem í oss býr. 1.15 Þú veist þetta, að allir Asíumenn sneru við mér bakinu. Í þeirra flokki eru þeir Fýgelus og Hermogenes. 1.16 Drottinn veiti miskunn heimili Ónesífórusar, því að oft hressti hann mig og fyrirvarð sig ekki fyrir fjötur minn, 1.17 heldur lét sér annt um að leita mín, þegar hann kom til Rómar og fann mig. 1.18 Gefi Drottinn honum miskunn að finna hjá Drottni Guði á þeim degi! Og þú þekkir manna best, hve mikla þjónustu hann innti af hendi í Efesus.
2.1 Styrkst þú þá, sonur minn, í náðinni, sem fæst fyrir Krist Jesú. 2.2 Og það sem þú heyrðir mig tala í margra votta viðurvist, það skalt þú fá í hendur trúum mönnum, sem líka munu færir um að kenna öðrum. 2.3 Þú skalt og að þínu leyti illt þola, eins og góður hermaður Krists Jesú. 2.4 Enginn hermaður bendlar sig við atvinnustörf. Þá þóknast hann ekki þeim, sem hefur tekið hann á mála. 2.5 Og sá sem keppir í íþróttum fær ekki sigursveiginn, nema hann keppi löglega. 2.6 Bóndinn, sem erfiðar, á fyrstur að fá sinn hlut af ávöxtunum. 2.7 Tak eftir því, sem ég segi. Drottinn mun gefa þér skilning á öllu. 2.8 Minnst þú Jesú Krists, hans sem risinn er upp frá dauðum, af kyni Davíðs, eins og boðað er í fagnaðarerindi mínu. 2.9 Fyrir það líð ég illt og það jafnvel að vera í fjötrum eins og illvirki. En orð Guðs verður ekki fjötrað. 2.10 Fyrir því þoli ég allt sakir hinna útvöldu, til þess að þeir einnig hljóti hjálpræðið, í Kristi Jesú með eilífri dýrð. 2.11 Það orð er satt: Ef vér höfum dáið með honum, þá munum vér og lifa með honum. 2.12 Ef vér stöndum stöðugir, þá munum vér og með honum ríkja. Ef vér afneitum honum, þá mun hann og afneita oss. 2.13 Þótt vér séum ótrúir, þá verður hann samt trúr, því að ekki getur hann afneitað sjálfum sér. 2.14 Minn á þetta og heit á þá fyrir augliti Guðs að eiga ekki í orðastælum til einskis gagns, áheyrendum til falls. 2.15 Legg kapp á að reynast hæfur fyrir Guði sem verkamaður, er ekki þarf að skammast sín og fer rétt með orð sannleikans. 2.16 Forðast þú hinar vanheilögu hégómaræður, því að þeim, er leggja stund á þær, skilar lengra áfram í guðleysi, 2.17 og lærdómur þeirra etur um sig eins og helbruni. Í hópi þeirra eru þeir Hýmeneus og Fíletus. 2.18 Þeir hinir sömu hafa villst frá sannleikanum, þar sem þeir segja upprisuna þegar um garð gengna og umhverfa trú sumra manna. 2.19 En Guðs styrki grundvöllur stendur. Hann hefur þetta innsigli: 'Drottinn þekkir sína' og 'hver sá, sem nefnir nafn Drottins, haldi sér frá ranglæti.' 2.20 Á stóru heimili eru ekki einungis gullker og silfurker, heldur og tréker og leirker. Sum eru til viðhafnar, önnur til óþriflegri nota. 2.21 Sá sem fær sig hreinan gjört af slíku, mun verða ker til viðhafnar, helgað og hagfellt húsbóndanum, hæfilegt til sérhvers góðs verks. 2.22 Flý þú æskunnar girndir, en stunda réttlæti, trú, kærleika og frið við þá, sem ákalla Drottin af hreinu hjarta. 2.23 En hafna þú heimskulegum og óskynsamlegum þrætum. Þú veist, að þær leiða af sér ófrið. 2.24 Þjónn Drottins á ekki að eiga í ófriði, heldur á hann að vera ljúfur við alla, góður fræðari, þolinn í þrautum, 2.25 hógvær er hann agar þá, sem skipast í móti. Guð kynni að gefa þeim sinnaskipti, sem leiddi þá til þekkingar á sannleikanum, 2.26 þá gætu þeir endurvitkast og losnað úr snöru djöfulsins, sem hefur veitt þá til að gjöra hans vilja.
3.1 Vita skalt þú þetta, að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. 3.2 Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir, 3.3 kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, 3.4 sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð. 3.5 Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar. Snú þér burt frá slíkum! 3.6 Úr hópi þeirra eru mennirnir, sem smeygja sér inn á heimilin og ná á band sitt kvensniftum, sem syndum eru hlaðnar og leiðast af margvíslegum fýsnum. 3.7 Þær eru alltaf að reyna að læra, en geta aldrei komist til þekkingar á sannleikanum. 3.8 Eins og þeir Jannes og Jambres stóðu í gegn Móse, þannig standa og þessir menn í gegn sannleikanum. Þeir eru menn hugspilltir og óhæfir í trúnni. 3.9 En þeim mun ekki verða ágengt, því að heimska þeirra mun verða hverjum manni augljós, eins og líka heimska hinna varð. 3.10 Þú hefur breytt eftir mér í kenningu, hegðun, ásetningi, trú, langlyndi, kærleika, þolgæði, 3.11 í ofsóknum og þjáningum, slíkum sem fyrir mig komu í Antíokkíu, í Íkóníum og í Lýstru. Slíkar ofsóknir þoldi ég, og Drottinn frelsaði mig úr þeim öllum. 3.12 Já, allir, sem lifa vilja guðrækilega í samfélagi við Krist Jesú, munu ofsóttir verða. 3.13 En vondir menn og svikarar munu magnast í vonskunni, villandi aðra og villuráfandi sjálfir. 3.14 En halt þú stöðuglega við það, sem þú hefur numið og hefur fest trú á, þar eð þú veist af hverjum þú hefur numið það. 3.15 Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar. Þær geta veitt þér speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist Jesú. 3.16 Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, 3.17 til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.
4.1 Fyrir augliti Guðs og Krists Jesú, sem dæma mun lifendur og dauða, með endurkomu hans fyrir augum og ríki hans heiti ég á þig: 4.2 Prédika þú orðið, gef þig að því í tíma og ótíma. Vanda um, ávíta, áminn með öllu langlyndi og fræðslu. 4.3 Því að þann tíma mun að bera, er menn þola ekki hina heilnæmu kenning, heldur hópa þeir að sér kennurum eftir eigin fýsnum sínum til þess að heyra það, sem kitlar eyrun. 4.4 Þeir munu snúa eyrum sínum burt frá sannleikanum og hverfa að ævintýrum. 4.5 En ver þú algáður í öllu, þol illt, gjör verk trúboða, fullna þjónustu þína. 4.6 Nú er svo komið, að mér verður fórnfært, og tíminn er kominn, að ég taki mig upp. 4.7 Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna. 4.8 Og nú er mér geymdur sveigur réttlætisins, sem Drottinn, hinn réttláti dómari, mun gefa mér á þeim degi. Og ekki einungis mér, heldur og öllum, sem þráð hafa endurkomu hans. 4.9 Reyndu að koma sem fyrst til mín, 4.10 því að Demas hefur yfirgefið mig vegna þess að hann elskaði þennan heim. Hann er farinn til Þessaloníku. Kreskes er farinn til Galatíu og Títus til Dalmatíu. 4.11 Lúkas er einn hjá mér. Tak þú Markús og lát hann koma með þér, því að hann er mér þarfur til þjónustu. 4.12 Týkíkus hef ég sent til Efesus. 4.13 Fær þú mér, þegar þú kemur, möttulinn, sem ég skildi eftir í Tróas hjá Karpusi, og bækurnar, einkanlega skinnbækurnar. 4.14 Alexander koparsmiður gjörði mér margt illt. Drottinn mun gjalda honum eftir verkum hans. 4.15 Gæt þín líka fyrir honum, því að mjög stóð hann í gegn orðum vorum. 4.16 Í fyrstu málsvörn minni kom enginn mér til aðstoðar, heldur yfirgáfu mig allir. Verði þeim það ekki tilreiknað! 4.17 En Drottinn stóð með mér og veitti mér kraft, til þess að ég yrði til að fullna prédikunina og allar þjóðir fengju að heyra. Og ég varð frelsaður úr gini ljónsins. 4.18 Drottinn mun frelsa mig frá öllu illu og mig hólpinn leiða inn í sitt himneska ríki. Honum sé dýrð um aldir alda! Amen. 4.19 Heilsa þú Prisku og Akvílasi og heimili Ónesífórusar. 4.20 Erastus varð eftir í Korintu, en Trófímus skildi ég eftir sjúkan í Míletus. 4.21 Flýt þér að koma fyrir vetur. Evbúlus sendir þér kveðju og Púdes og Línus og Kládía og allir bræðurnir.
1.1 Frá Páli, þjóni Guðs, en postula Jesú Krists til að efla trú Guðs útvöldu og þekkingu á sannleikanum, sem leiðir til guðhræðslu 1.2 í von um eilíft líf. Því hefur Guð, sá er ekki lýgur, heitið frá eilífum tíðum, 1.3 en opinberað á settum tíma. Þetta orð hans var mér trúað fyrir að prédika eftir skipun Guðs, frelsara vors. 1.4 Til Títusar, skilgetins sonar míns í sameiginlegri trú. Náð og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, frelsara vorum. 1.5 Ég lét þig eftir á Krít, til þess að þú færðir í lag það, sem ógjört var, og skipaðir öldunga í hverri borg, svo sem ég lagði fyrir þig. 1.6 Öldungur á að vera óaðfinnanlegur, einkvæntur, á að eiga trúuð börn, sem eigi eru sökuð um gjálífi eða óhlýðni. 1.7 Því að biskup á að vera óaðfinnanlegur, þar sem hann er ráðsmaður Guðs. Hann á ekki að vera sjálfbirgingur, ekki bráður, ekki drykkfelldur, ekki ofsafenginn, ekki sólginn í ljótan gróða. 1.8 Hann sé gestrisinn, góðgjarn, hóglátur, réttlátur, heilagur og hafi stjórn á sjálfum sér. 1.9 Hann á að vera maður fastheldinn við hið áreiðanlega orð, sem samkvæmt er kenningunni, til þess að hann sé fær um bæði að áminna með hinni heilnæmu kenningu og hrekja þá, sem móti mæla. 1.10 Því að margir eru þverbrotnir og fara með hégómamál og leiða í villu, allra helst eru það þeir sem halda fram umskurn, 1.11 og verður að þagga niður í þeim. Það eru mennirnir, sem kollvarpa heilum heimilum, er þeir kenna það, sem eigi á að kenna, fyrir svívirðilegs gróða sakir. 1.12 Einhver af þeim, eigin spámaður þeirra, hefur svo að orði komist: 'Krítarmenn eru síljúgandi, óargadýr og letimagar.' 1.13 Þessi vitnisburður er sannur. Fyrir þá sök skalt þú vanda harðlega um við þá, til þess að þeir verði heilbrigðir í trúnni, 1.14 og gefi sig ekki að gyðingaævintýrum og boðum manna, sem fráhverfir eru sannleikanum. 1.15 Allir hlutir eru hreinum hreinir, en flekkuðum og vantrúuðum er ekkert hreint, heldur er bæði hugur þeirra flekkaður og samviska. 1.16 Þeir segjast þekkja Guð, en afneita honum með verkum sínum. Þeir eru viðbjóðslegir og óhlýðnir, óhæfir til hvers góðs verks.
2.1 En tala þú það, sem sæmir hinni heilnæmu kenningu. 2.2 Aldraðir menn skulu vera bindindissamir, heiðvirðir, hóglátir, heilbrigðir í trúnni, kærleikanum og þolgæðinu. 2.3 Svo eiga og aldraðar konur að vera í háttalagi sínu eins og heilögum sæmir. Þær skulu ekki vera rógberar og ekki heldur í ánauð ofdrykkjunnar, heldur kenni þær gott frá sér, 2.4 til þess að þær laði hinar ungu til að elska menn sína og börn, 2.5 vera hóglátar, skírlífar, heimilisræknar, góðlátar og eiginmönnum sínum undirgefnar, til þess að orði Guðs verði ekki lastmælt. 2.6 Svo skalt þú og áminna hina yngri menn að vera hóglátir. 2.7 Sýn þig sjálfan í öllum greinum sem fyrirmynd í góðum verkum. Vertu grandvar í fræðslu þinni og heilhuga, svo hún verði 2.8 heilnæm og óaðfinnanleg og andstæðingurinn fyrirverði sig, þegar hann hefur ekkert illt um oss að segja. 2.9 Áminn þræla, að þeir séu undirgefnir húsbændum sínum og í öllu geðþekkir, ekki svörulir, 2.10 ekki hnuplsamir, heldur skulu þeir auðsýna hvers konar góða trúmennsku, til þess að þeir prýði kenningu Guðs frelsara vors í öllum greinum. 2.11 Því að náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum. 2.12 Hún kennir oss að afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum, 2.13 í eftirvæntingu vorrar sælu vonar, að hinn mikli Guð og frelsari vor Jesús Kristur opinberist í dýrð sinni. 2.14 Hann gaf sjálfan sig fyrir oss, til þess að hann leysti oss frá öllu ranglæti og hreinsaði sjálfum sér til handa eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka. 2.15 Tala þú þetta og áminn og vanda um með allri röggsemi. Lát engan lítilsvirða þig.
3.1 Minn þá á að vera undirgefnir höfðingjum og yfirvöldum, hlýðnir og reiðubúnir til sérhvers góðs verks, 3.2 lastmæla engum, vera ódeilugjarnir, sanngjarnir og sýna hvers konar hógværð við alla menn. 3.3 Því að þeir voru tímarnir, að vér vorum einnig óskynsamir, óhlýðnir, villuráfandi, í ánauð hvers konar fýsna og lostasemda. Vér ólum aldur vorn í illsku og öfund, vorum andstyggilegir, hötuðum hver annan. 3.4 En er gæska Guðs frelsara vors birtist og elska hans til mannanna, 3.5 þá frelsaði hann oss, ekki vegna réttlætisverkanna, sem vér höfðum unnið, heldur samkvæmt miskunn sinni í þeirri laug, þar sem vér endurfæðumst og heilagur andi gjörir oss nýja. 3.6 Hann úthellti anda sínum yfir oss ríkulega fyrir Jesú Krist, frelsara vorn, 3.7 til þess að vér, réttlættir fyrir náð hans, yrðum í voninni erfingjar eilífs lífs. 3.8 Það orð er satt, og á þetta vil ég að þú leggir alla áherslu, til þess að þeir, sem fest hafa trú á Guð, láti sér umhugað um að stunda góð verk. Þetta er gott og mönnum nytsamlegt. 3.9 En forðast þú heimskulegar þrætur og ættartölur, deilur og lögmálsstælur. Þær eru gagnslausar og til einskis. 3.10 Þrætumanni skalt þú sneiða hjá, er þú hefur einu sinni og tvisvar áminnt hann. 3.11 Þú veist að slíkur maður er rangsnúinn og syndugur. Hann er sjálfdæmdur. 3.12 Þegar ég sendi Artemas til þín eða Týkíkus, kom þá sem fyrst til mín í Nikópólis, því þar hef ég ásett mér að hafa vetrarvist. 3.13 Greið sem best för þeirra Senasar lögvitrings og Apollóss, til þess að þá bresti ekkert. 3.14 En vorir menn eiga og að læra að stunda góð verk til nauðsynjaþarfa, til þess að þeir séu ekki ávaxtalausir.
1.1 Páll, bandingi Krists Jesú, og Tímóteus bróðir vor, heilsa elskuðum vini okkar og samverkamanni Fílemon, 1.2 svo og Appíu systur okkar og Arkippusi samherja okkar og söfnuðinum, sem kemur saman í húsi þínu. 1.3 Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. 1.4 Ég þakka Guði mínum ávallt, er ég minnist þín í bænum mínum. 1.5 Því að ég heyri um trúna, sem þú hefur á Drottni Jesú, og um kærleika þinn til hinna heilögu. 1.6 Ég bið þess, að trú þín, sem þú átt með oss, verði mikilvirk í þekkingunni á öllu því góða, sem tilheyrir Kristi. 1.7 Ég hlaut mikla gleði og huggun af kærleika þínum, þar eð þú, bróðir, hefur endurnært hjörtu hinna heilögu. 1.8 Því er það, að þótt ég gæti með fullri djörfung í Kristi boðið þér að gera það, sem skylt er, 1.9 þá fer ég þó heldur bónarveg vegna kærleika þíns, þar sem ég er eins og ég er, hann Páll gamli, og nú líka bandingi Krists Jesú. 1.10 Ég bið þig þá fyrir barnið mitt, sem ég hef getið í fjötrum mínum, hann Onesímus. 1.11 Hann var þér áður óþarfur, en er nú þarfur bæði þér og mér. 1.12 Ég sendi hann til þín aftur, og er hann þó sem hjartað í brjósti mér. 1.13 Feginn vildi ég hafa haldið honum hjá mér, til þess að hann í þinn stað veitti mér þjónustu í fjötrum mínum vegna fagnaðarerindisins. 1.14 En án þíns samþykkis vildi ég ekkert gjöra, til þess að velgjörð þín skyldi ekki koma eins og af nauðung, heldur af fúsum vilja. 1.15 Vísast hefur hann þess vegna orðið viðskila við þig um stundarsakir, að þú síðan skyldir fá að halda honum eilíflega, 1.16 ekki lengur eins og þræli, heldur þræli fremri, eins og elskuðum bróður. Mér er hann kær bróðir. Hve miklu fremur þó þér, bæði sem maður og kristinn. 1.17 Ef þú því telur mig félaga þinn, þá tak þú á móti honum, eins og væri það ég sjálfur. 1.18 En hafi hann eitthvað gjört á hluta þinn, eða sé hann í skuld við þig, þá fær þú það mér til reiknings. 1.19 Ég, Páll, rita með eigin hendi: Ég mun gjalda. Að ég ekki nefni við þig, að þú ert jafnvel í skuld við mig um sjálfan þig. 1.20 Já, bróðir, unn mér gagns af þér vegna Drottins, endurnær hjarta mitt sakir Krists. 1.21 Í fullu trausti til hlýðni þinnar rita ég til þín og veit, að þú munt gjöra jafnvel fram yfir það, sem ég mælist til. 1.22 En hafðu líka til gestaherbergi handa mér, því að ég vona, að ég vegna bæna yðar muni verða gefinn yður. 1.23 Epafras, sambandingi minn vegna Krists Jesú, biður að heilsa þér. Sömuleiðis 1.24 Markús, Aristarkus, Demas og Lúkas, samverkamenn mínir.
1.1 Guð talaði fyrrum oftsinnis og með mörgu móti til feðranna fyrir munn spámannanna. 1.2 En nú í lok þessara daga hefur hann til vor talað í syni sínum, sem hann setti erfingja allra hluta. Fyrir hann hefur hann líka heimana gjört. 1.3 Hann, sem er ljómi dýrðar hans og ímynd veru hans og ber allt með orði máttar síns, hreinsaði oss af syndum vorum og settist til hægri handar hátigninni á hæðum. 1.4 Hann er orðinn englunum þeim mun meiri sem hann hefur að erfðum tekið ágætara nafn en þeir. 1.5 Því við hvern af englunum hefur hann nokkru sinni sagt: Þú ert sonur minn, í dag hef ég fætt þig. Eða: Ég vil vera honum faðir, og hann skal vera mér sonur! 1.6 Og aftur er hann leiðir hinn frumgetna inn í heimsbyggðina segir hann: Og allir englar Guðs skulu tilbiðja hann. 1.7 Og um englana segir hann: Hann sem gjörir engla sína að vindum og þjóna sína að eldslogum. 1.8 En um soninn: Hásæti þitt, ó Guð, er um aldir alda, og sproti réttvísinnar er sproti ríkis þíns. 1.9 Þú hefur elskað réttlæti og hatað ranglæti. Því hefur Guð, þinn Guð, smurt þig gleðinnar olíu fram yfir þína jafningja. 1.10 Og: Þú, Drottinn, hefur í upphafi grundvallað jörðina, og himnarnir eru verk handa þinna. 1.11 Þeir munu farast, en þú varir. Allir munu þeir fyrnast sem fat, 1.12 og þú munt þá saman vefja eins og möttul, um þá verður skipt sem klæði. En þú ert hinn sami, og þín ár taka aldrei enda. 1.13 En við hvern af englunum hefur hann nokkru sinni sagt: Set þig mér til hægri handar, uns ég gjöri óvini þína að fótskör þinni? 1.14 Eru þeir ekki allir þjónustubundnir andar, útsendir í þeirra þarfir, sem hjálpræðið eiga að erfa?
2.1 Þess vegna ber oss að gefa því enn betur gaum, er vér höfum heyrt, svo að eigi berumst vér afleiðis. 2.2 Því að hafi orðið af englum talað reynst stöðugt og hvert afbrot og óhlýðni hlotið réttlátt endurgjald, 2.3 hvernig fáum vér þá undan komist, ef vér vanrækjum slíkt hjálpræði sem Drottinn flutti fyrst og var staðfest fyrir oss af þeim, er heyrðu? 2.4 Guð bar jafnframt vitni með þeim með táknum og undrum og margs konar kraftaverkum og gjöfum heilags anda, sem hann útbýtti að vild sinni. 2.5 Því ekki lagði hann undir engla hinn komandi heim, sem vér tölum um. 2.6 Einhvers staðar er vitnað: Hvað er maður, að þú minnist hans? Eða mannssonur, að þú vitjir hans? 2.7 Skamma stund gjörðir þú hann englunum lægri. Þú hefur krýnt hann vegsemd og heiðri. Og þú hefur skipað hann yfir verk handa þinna. 2.8 Allt hefur þú lagt undir fætur hans. Með því að leggja allt undir hann, þá hefur hann ekkert það eftir skilið, er ekki sé undir hann lagt. Ennþá sjáum vér ekki, að allir hlutir séu undir hann lagðir. 2.9 En vér sjáum, að Jesús, sem 'skamma stund var gjörður englunum lægri,' er 'krýndur vegsemd og heiðri' vegna dauðans sem hann þoldi. Af Guðs náð skyldi hann deyja fyrir alla. 2.10 Allt er til vegna Guðs og fyrir Guð. Því varð hann, er hann leiðir marga syni til dýrðar, að fullkomna með þjáningum þann, er leiðir þá til hjálpræðis. 2.11 Því að sá sem helgar og þeir sem helgaðir verða eru allir frá einum komnir. Þess vegna telur hann sér eigi vanvirðu að kalla þá bræður, 2.12 er hann segir: Ég mun kunnugt gjöra nafn þitt bræðrum mínum, ég mun syngja þér lof mitt í söfnuðinum. 2.13 Og aftur: Ég mun treysta á hann. Og enn fremur: Sjá, hér er ég og börnin, er Guð gaf mér. 2.14 Þar sem nú börnin eru af holdi og blóði, þá hefur hann og sjálfur fengið hlutdeild í mannlegu eðli á sama hátt, til þess að hann með dauða sínum gæti að engu gjört þann, sem hefur mátt dauðans, það er að segja djöfulinn, 2.15 og frelsað alla þá, sem af ótta við dauðann voru undir þrælkun seldir alla sína ævi. 2.16 Því að víst er um það, að ekki tekur hann að sér englana, en hann tekur að sér afsprengi Abrahams. 2.17 Því var það, að hann í öllum greinum átti að verða líkur bræðrum sínum, svo að hann yrði miskunnsamur og trúr æðsti prestur í þjónustu fyrir Guði, til þess að friðþægja fyrir syndir lýðsins. 2.18 Sjálfur hefur hann þjáðst og hans verið freistað. Þess vegna er hann fær um að hjálpa þeim, er verða fyrir freistingu.
3.1 Bræður heilagir! Þér eruð hluttakar himneskrar köllunar. Gefið því gætur að Jesú, postula og æðsta presti játningar vorrar. 3.2 Hann var trúr þeim, er hafði skipað hann, eins og Móse var það líka í öllu hans húsi. 3.3 En hann er verður meiri dýrðar en Móse, eins og sá, er húsið gjörði, á meiri heiður en húsið sjálft. 3.4 Sérhvert hús er gjört af einhverjum, en Guð er sá, sem allt hefur gjört. 3.5 Móse var að sönnu trúr í öllu hans húsi, eins og þjónn, til vitnisburðar um það, sem átti að verða talað, 3.6 en Kristur eins og sonur yfir húsi hans. Og hans hús erum vér, ef vér höldum djörfunginni og voninni, sem vér miklumst af. 3.7 Því er það, eins og heilagur andi segir: Ef þér heyrið raust hans í dag, 3.8 þá forherðið ekki hjörtu yðar, eins og í uppreisninni á degi freistingarinnar á eyðimörkinni; 3.9 þar sem feður yðar freistuðu mín og reyndu mig, þótt þeir fengju að sjá verkin mín í fjörutíu ár. 3.10 Þess vegna varð ég gramur kynslóð þessari og sagði: Án afláts villast þeir í hjörtum sínum. Þeir þekktu ekki vegu mína. 3.11 Og ég sór í bræði minni: Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar. 3.12 Gætið þess, bræður, að enginn yðar búi yfir vondu vantrúar hjarta og falli frá lifanda Guði. 3.13 Áminnið heldur hver annan hvern dag, á meðan enn heitir 'í dag', til þess að enginn yðar forherðist af táli syndarinnar. 3.14 Því að vér erum orðnir hluttakar Krists, svo framarlega sem vér höldum staðfastlega allt til enda trausti voru, eins og það var að upphafi. 3.15 Sagt er: 'Ef þér heyrið raust hans í dag, þá forherðið ekki hjörtu yðar eins og í uppreisninni' _ 3.16 Hverjir voru þá þeir, sem heyrt höfðu og gjörðu þó uppreisn? Voru það ekki einmitt allir þeir, sem út höfðu farið af Egyptalandi fyrir tilstilli Móse? 3.17 Og hverjum 'var hann gramur í fjörutíu ár'? Var það ekki þeim, sem syndgað höfðu og báru beinin á eyðimörkinni? 3.18 Og hverjum 'sór hann, að eigi skyldu þeir ganga inn til hvíldar hans,' nema hinum óhlýðnu? 3.19 Vér sjáum, að sakir vantrúar fengu þeir eigi gengið inn.
4.1 Fyrirheitið um það að ganga inn til hvíldar hans stendur enn, vörumst því að nokkur yðar verði til þess að dragast aftur úr. 4.2 Fagnaðarerindið var oss boðað eigi síður en þeim. En orðið, sem þeir heyrðu, kom þeim eigi að haldi vegna þess, að þeir tóku ekki við því í trú. 4.3 En vér, sem trú höfum tekið, göngum inn til hvíldarinnar eins og hann hefur sagt: 'Og ég sór í bræði minni: Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar.' Þó voru verk Guðs fullgjör frá grundvöllun heims. 4.4 Því að einhvers staðar er svo að orði kveðið um hinn sjöunda dag: 'Og Guð hvíldist hinn sjöunda dag eftir öll verk sín.' 4.5 Og aftur á þessum stað: 'Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar.' 4.6 Enn stendur því til boða, að nokkrir gangi inn til hvíldar Guðs. Þeir, sem fagnaðarerindið var fyrr boðað, gengu ekki inn sakir óhlýðni. 4.7 Því ákveður Guð aftur dag einn, er hann segir löngu síðar fyrir munn Davíðs: 'Í dag.' Eins og fyrr hefur sagt verið: 'Ef þér heyrið raust hans í dag, þá forherðið ekki hjörtu yðar.' 4.8 Hefði Jósúa leitt þá til hvíldar, þá hefði Guð ekki síðar meir talað um annan dag. 4.9 Enn stendur þá til boða sabbatshvíld fyrir lýð Guðs. 4.10 Því að sá, sem gengur inn til hvíldar hans, fær hvíld frá verkum sínum, eins og Guð hvíldist eftir sín verk. 4.11 Kostum því kapps um að ganga inn til þessarar hvíldar, til þess að enginn óhlýðnist eins og þeir og falli. 4.12 Því að orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans. 4.13 Enginn skapaður hlutur er honum hulinn, allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum vér reikningsskil að gjöra. 4.14 Er vér þá höfum mikinn æðsta prest, sem farið hefur í gegnum himnana, Jesú Guðs son, skulum vér halda fast við játninguna. 4.15 Ekki höfum vér þann æðsta prest, er eigi geti séð aumur á veikleika vorum, heldur þann, sem freistað var á allan hátt eins og vor, en án syndar. 4.16 Göngum því með djörfung að hásæti náðarinnar, til þess að vér öðlumst miskunn og hljótum náð til hjálpar á hagkvæmum tíma.
5.1 Svo er um hvern æðsta prest, sem úr flokki manna er tekinn, að hann er settur fyrir menn til þjónustu frammi fyrir Guði, til þess að bera fram gáfur og fórnir fyrir syndir. 5.2 Hann getur verið mildur við fáfróða og villuráfandi, þar sem hann sjálfur er veikleika vafinn. 5.3 Og sökum þess á hann að bera fram syndafórn, eigi síður fyrir sjálfan sig en fyrir lýðinn. 5.4 Enginn tekur sér sjálfum þennan heiður, heldur er hann kallaður af Guði, eins og Aron. 5.5 Svo var það og um Krist. Ekki tók hann sér sjálfur þá vegsemd að gjörast æðsti prestur. Hann fékk hana af Guði, er hann sagði við hann: Þú ert sonur minn í dag hef ég fætt þig. 5.6 Og á öðrum stað: Þú ert prestur að eilífu að hætti Melkísedeks. 5.7 Á jarðvistardögum sínum bar hann fram með sárum kveinstöfum og táraföllum bænir og auðmjúk andvörp fyrir þann, sem megnaði að frelsa hann frá dauða, og fékk bænheyrslu vegna guðhræðslu sinnar. 5.8 Og þótt hann sonur væri, lærði hann hlýðni af því, sem hann leið. 5.9 Þegar hann var orðinn fullkominn, gjörðist hann öllum þeim, er honum hlýða, höfundur eilífs hjálpræðis, 5.10 af Guði nefndur æðsti prestur að hætti Melkísedeks. 5.11 Um þetta höfum vér langt mál að segja og torskilið, af því að þér hafið gjörst heyrnarsljóir. 5.12 Þó að þér tímans vegna ættuð að vera kennarar, þá hafið þér þess enn á ný þörf, að einhver kenni yður undirstöðuatriði Guðs orða. Svo er komið fyrir yður, að þér hafið þörf á mjólk, en ekki fastri fæðu. 5.13 En hver sem á mjólk nærist er barn og skilur ekki boðskap réttlætisins. 5.14 Fasta fæðan er fyrir fullorðna, fyrir þá, sem jafnt og þétt hafa tamið skilningarvitin til að greina gott frá illu.
6.1 Þess vegna skulum vér sleppa byrjunar-kenningunum um Krist og sækja fram til fullkomleikans. 6.2 Vér förum ekki að byrja aftur á undirstöðuatriðum eins og afturhvarfi frá dauðum verkum og trú á Guð, kenningunni um skírnir og handayfirlagningar, upprisu dauðra og eilífan dóm. 6.3 Og þetta munum vér gjöra, ef Guð lofar. 6.4 Ef menn eru eitt sinn orðnir upplýstir og hafa smakkað hina himnesku gjöf, fengið hlutdeild í heilögum anda 6.5 og reynt Guðs góða orð og krafta komandi aldar, 6.6 en hafa síðan fallið frá, þá er ógerlegt að endurnýja þá til afturhvarfs. Þeir eru að krossfesta Guðs son að nýju og smána hann. 6.7 Jörð sú, er drukkið hefur í sig regnið, sem á hana fellur hvað eftir annað, og ber gróður til gagns fyrir þá, sem yrkja hana, fær blessun frá Guði. 6.8 En beri hún þyrna og þistla, er hún ónýt. Yfir henni vofir bölvun og hennar bíður að lokum að verða brennd. 6.9 En hvað yður snertir, þér elskaðir, þá erum vér sannfærðir um að yður er betur farið og þér nær hjálpræðinu, þó að vér mælum svo. 6.10 Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans, er þér veittuð hinum heilögu þjónustu og veitið enn. 6.11 Vér óskum, að sérhver yðar sýni sömu ástundan allt til enda, þar til von yðar fullkomnast. 6.12 Gjörist ekki sljóir. Breytið heldur eftir þeim, sem vegna trúar og stöðuglyndis erfa fyrirheitin. 6.13 Þegar Guð gaf Abraham fyrirheitið, þá 'sór hann við sjálfan sig,' þar sem hann hafði við engan æðri að sverja, og sagði: 6.14 'Sannlega mun ég ríkulega blessa þig og stórum margfalda kyn þitt.' 6.15 Og Abraham öðlaðist það, sem Guð hafði heitið honum er hann hafði beðið þess með stöðuglyndi. 6.16 Menn sverja eið við þann, sem æðri er, eiðurinn er þeim staðfesting og bindur enda á öll andmæli. 6.17 Með því nú að Guð vildi sýna erfingjum fyrirheitsins enn skýrar, hve ráð sitt væri óraskanlegt, þá ábyrgðist hann heit sitt með eiði. 6.18 Í þessum tveim óraskanlegu athöfnum Guðs, þar sem óhugsandi er að hann fari með lygi, eigum vér sterka uppörvun, vér sem höfum leitað hælis í þeirri sælu von, sem vér eigum. 6.19 Hún er eins og akkeri sálarinnar, traust og öruggt, og nær alla leið inn fyrir fortjaldið, 6.20 þangað sem Jesús gekk inn, fyrirrennari vor vegna, þegar hann varð æðsti prestur að eilífu að hætti Melkísedeks.
7.1 Melkísedek þessi var konungur í Salem og prestur Guðs hins hæsta. Hann gekk á móti Abraham og blessaði hann, þegar hann sneri heimleiðis eftir að hafa unnið sigur á konungunum. 7.2 Og honum lét Abraham í té tíund af öllu. Fyrst þýðir nafn hans 'réttlætis konungur', en hann heitir enn fremur Salem-konungur, það er 'friðar konungur'. 7.3 Hann er föðurlaus, móðurlaus, ekki ættfærður, og hefur hvorki upphaf daga né endi lífs. Hann er líkur syni Guðs, hann heldur áfram að vera prestur um aldur. 7.4 Virðið nú fyrir yður, hvílíkur maður það var, sem Abraham, sjálfur forfaðirinn, gaf valda tíund af herfanginu. 7.5 Og víst er um það, að þeim Levísonum, er prestþjónustuna fá, er boðið að taka tíund af lýðnum eftir lögmálinu, það er að segja af bræðrum sínum, enda þótt þeir séu komnir af Abraham. 7.6 En sá, er eigi var ættfærður til þeirra, tók tíund af Abraham og blessaði þann, er fyrirheitin hafði. 7.7 En með öllu er það ómótmælanlegt, að sá sem er meiri blessar þann sem minni er. 7.8 Hér taka dauðlegir menn tíund, en þar tók sá er um var vitnað, að hann lifi áfram. 7.9 Og svo má að orði kveða, að enda Leví, hann sem tíund tekur, hafi greitt tíund, þar sem Abraham gjörði það, 7.10 því að enn þá var hann í lend forföður síns, þegar Melkísedek gekk á móti honum. 7.11 Hefði nú fullkomnun fengist með levíska prestdóminum, _ en hann var grundvöllur lögmálsins, sem lýðurinn fékk _, hver var þá framar þörf þess að segja að koma skyldi annars konar prestur að hætti Melkísedeks, en ekki að hætti Arons? 7.12 Þegar prestdómurinn breytist, þá verður og breyting á lögmálinu. 7.13 Sá sem þetta er sagt um var af annarri ætt, og af þeirri ætt hefur enginn innt þjónustu af hendi við altarið. 7.14 Því að alkunnugt er, að Drottinn vor er af Júda upp runninn, en Móse hefur ekkert um presta talað, að því er varðar þá ættkvísl. 7.15 Þetta er enn miklu bersýnilegra á því, að upp er kominn annar prestur, líkur Melkísedek. 7.16 Hann varð ekki prestur eftir mannlegum lögmálsboðum, heldur í krafti óhagganlegs lífs. 7.17 Því að um hann er vitnað: 'Þú ert prestur að eilífu að hætti Melkísedeks.' 7.18 Hið fyrra boðorð er þar með ógilt, af því að það var vanmáttugt og gagnslaust. 7.19 Lögmálið gjörði ekkert fullkomið. En jafnframt er leidd inn betri von. Fyrir hana nálgumst vér Guð. 7.20 Þetta varð ekki án eiðs. Hinir urðu prestar án eiðs, 7.21 en hann með eiði, þegar Guð sagði við hann: 'Drottinn sór, og ekki mun hann iðra þess: Þú ert prestur að eilífu.' 7.22 Þessi samanburður sýnir, að Jesús er orðinn ábyrgðarmaður betri sáttmála. 7.23 Enn fremur urðu hinir prestarnir margir af því að dauðinn meinaði þeim að vera áfram. 7.24 En hann er að eilífu og hefur prestdóm þar sem ekki verða mannaskipti. 7.25 Þess vegna getur hann og til fulls frelsað þá, sem fyrir hann ganga fram fyrir Guð, þar sem hann ávallt lifir til að biðja fyrir þeim. 7.26 Slíks æðsta prests höfðum vér þörf, sem er heilagur, svikalaus, óflekkaður, greindur frá syndurum og orðinn himnunum hærri. 7.27 Hann þarf ekki daglega, eins og hinir æðstu prestarnir, fyrst að bera fram fórnir fyrir eigin syndir, síðan fyrir syndir lýðsins. Það gjörði hann í eitt skipti fyrir öll, er hann fórnfærði sjálfum sér. 7.28 Lögmálið skipar menn æðstu presta, sem eru veikleika háðir, en eiðurinn, er kom á eftir lögmálinu, skipar son, fullkominn gjörðan að eilífu.
8.1 Höfuðinntak þess, sem sagt hefur verið, er þetta: Vér höfum þann æðsta prest, er settist til hægri handar við hásæti hátignarinnar á himnum. 8.2 Hann er helgiþjónn helgidómsins og tjaldbúðarinnar, hinnar sönnu, sem Drottinn reisti, en eigi maður. 8.3 Sérhver æðsti prestur er skipaður til þess að bera fram bæði gjafir og fórnir. Þess vegna er nauðsynlegt, að þessi æðsti prestur hafi líka eitthvað fram að bera. 8.4 Væri hann nú á jörðu, mundi hann alls ekki vera prestur, þar sem þeir eru fyrir, sem samkvæmt lögmálinu bera fram gjafirnar. 8.5 En þeir þjóna eftirmynd og skugga hins himneska, eins og Móse fékk bendingu um frá Guði, er hann var að koma upp tjaldbúðinni: 'Gæt þess,' segir hann, 'að þú gjörir allt eftir þeirri fyrirmynd, sem þér var sýnd á fjallinu.' 8.6 En nú hefur Jesús fengið þeim mun ágætari helgiþjónustu sem hann er meðalgangari betri sáttmála, sem byggist á betri fyrirheitum. 8.7 Hefði hinn fyrri sáttmáli verið óaðfinnanlegur, þá hefði ekki verið þörf fyrir annan. 8.8 En nú ávítar Guð þá og segir: Sjá, dagar koma, segir Drottinn, er ég mun gjöra nýjan sáttmála við hús Ísraels og við hús Júda, 8.9 ekki eins og sáttmálann, er ég gjörði við feður þeirra á þeim degi, er ég tók í hönd þeirra til að leiða þá út af Egyptalandi, því að þeir héldu ekki minn sáttmála, og ég hirti eigi um þá, segir Drottinn. 8.10 Þetta er sáttmálinn, sem ég mun gjöra við hús Ísraels eftir þá daga, segir Drottinn: Ég mun leggja lög mín í hugskot þeirra og rita þau á hjörtu þeirra. Ég mun vera Guð þeirra, og þeir munu vera lýður minn. 8.11 Og enginn mun þá kenna landa sínum og enginn bróður sínum og segja: 'Þekktu Drottin!' Allir munu þeir þekkja mig, jafnt smáir sem stórir. 8.12 Því að ég mun vera vægur við misgjörðir þeirra og ég mun ekki framar minnast synda þeirra. 8.13 Þar sem hann nú kallar þetta nýjan sáttmála, þá hefur hann lýst hinn fyrri úreltan. En það, sem er að úreldast og fyrnast, er að því komið að verða að engu.
9.1 Nú hafði fyrri sáttmálinn líka fyrirskipanir um þjónustuna og jarðneskan helgidóm. 9.2 Tjaldbúð var gjörð, hin fremri, og í henni voru bæði ljósastikan, borðið og skoðunarbrauðin, og heitir hún 'hið heilaga'. 9.3 En bak við annað fortjaldið var tjaldbúð, sem hét 'hið allrahelgasta'. 9.4 Þar var reykelsisaltari úr gulli og sáttmálsörkin, sem öll var gulli búin. Í henni var gullkerið með manna í, stafur Arons, sem laufgast hafði, og sáttmálsspjöldin. 9.5 En yfir henni voru kerúbar dýrðarinnar og breiddu vængina yfir náðarstólinn. En um þetta hvað fyrir sig á nú ekki að ræða. 9.6 Þessu er þannig komið fyrir. Prestarnir ganga stöðugt inn í fremri tjaldbúðina og annast þjónustu sína. 9.7 Inn í hina innri gengur æðsti presturinn einn, einu sinni á ári, ekki án blóðs. Það ber hann fram vegna sjálfs sín og fyrir syndir lýðsins, sem drýgðar hafa verið af vangá. 9.8 Með því sýnir heilagur andi, að vegurinn til hins heilaga er enn eigi kunnur orðinn, á meðan fremri tjaldbúðin enn stendur. 9.9 Hún er ímynd þess tíma, sem nú er. Hér eru fram bornar gjafir og fórnir, sem megna ekki að færa þeim, sem innir þjónustuna af hendi, vissu um að vera fullkominn. 9.10 Þetta eru aðeins ytri fyrirmæli, ásamt reglum um mat og drykk og ýmiss konar þvotta, sem mönnum eru á herðar lagðar allt til tíma viðreisnarinnar. 9.11 En Kristur er kominn sem æðsti prestur hinna komandi gæða. Hann gekk inn í gegnum hina stærri og fullkomnari tjaldbúð, sem ekki er með höndum gjörð, það er að segja er ekki af þessari sköpun. 9.12 Ekki fór hann með blóð hafra og kálfa, heldur með eigið blóð, inn í hið heilaga í eitt skipti fyrir öll og aflaði eilífrar lausnar. 9.13 Ef blóð hafra og nauta og askan af kvígu, stráð á menn, er óhreinir hafa gjörst, helgar til ytri hreinleika, 9.14 hve miklu fremur mun þá blóð Krists hreinsa samvisku vora frá dauðum verkum, til að þjóna Guði lifanda, þar sem Kristur fyrir eilífan anda bar fram sjálfan sig sem lýtalausa fórn fyrir Guði. 9.15 Þess vegna er hann meðalgangari nýs sáttmála. Hann dó og bætti að fullu fyrir afbrotin undir fyrri sáttmálanum, til þess að hinir kölluðu mættu öðlast hina eilífu arfleifð, sem heitið var. 9.16 Arfleiðsluskrá tekur ekki gildi fyrr en sá er dáinn, er hana gjörði. 9.17 Hún er óhagganleg, þegar um látna er að ræða, en er í engu gildi meðan arfleiðandi lifir. 9.18 Þess vegna var ekki heldur hinn fyrri sáttmáli vígður án blóðs. 9.19 Þegar Móse hafði kunngjört gjörvöllum lýðnum öll boðorð lögmálsins, þá tók hann blóð kálfanna og hafranna ásamt vatni og skarlatsrauðri ull og ísópi og stökkti bæði á sjálfa bókina og allan lýðinn 9.20 og mælti: 'Þetta er blóð sáttmálans, sem Guð lét gjöra við yður.' 9.21 Sömuleiðis stökkti hann blóðinu á tjaldbúðina og öll áhöldin við helgiþjónustuna. 9.22 Og samkvæmt lögmálinu er það nálega allt, sem hreinsast með blóði, og eigi fæst fyrirgefning án úthellingar blóðs. 9.23 Það var því óhjákvæmilegt, að eftirmyndir þeirra hluta, sem á himnum eru, yrðu hreinsaðar með slíku. En sjálft hið himneska krefst betri fórna en þessara. 9.24 Því að Kristur gekk ekki inn í helgidóm höndum gjörðan, eftirmynd hins sanna helgidóms, heldur inn í sjálfan himininn, til þess nú að birtast fyrir augliti Guðs vor vegna. 9.25 Og ekki gjörði hann það til þess að frambera sjálfan sig margsinnis, eins og æðsti presturinn gengur inn í hið heilaga á ári hverju með annarra blóð. 9.26 Þá hefði hann oft þurft að líða frá grundvöllun heims. En nú hefur hann birst í eitt skipti fyrir öll við endi aldanna til að afmá syndina með fórn sinni. 9.27 Og eins og það liggur fyrir mönnunum eitt sinn að deyja og eftir það að fá sinn dóm, 9.28 þannig var Kristi fórnfært í eitt skipti til þess að bera syndir margra, og í annað sinn mun hann birtast, ekki sem syndafórn, heldur til hjálpræðis þeim, er hans bíða.
10.1 Lögmálið geymir aðeins skugga hins góða, sem er í vændum, ekki skýra mynd þess. Ár eftir ár eru bornar fram sömu fórnir, sem geta aldrei gjört þá fullkomna til frambúðar, sem ganga fram fyrir Guð. 10.2 Annars hefðu þeir hætt að bera þær fram. Dýrkendurnir hefðu þá ekki framar verið sér meðvitandi um synd, ef þeir hefðu í eitt skipti fyrir öll orðið hreinir. 10.3 En með þessum fórnum er minnt á syndirnar ár hvert. 10.4 Því að blóð nauta og hafra getur með engu móti numið burt syndir. 10.5 Því er það, að Kristur segir, þegar hann kemur í heiminn: Fórn og gjafir hefur þú eigi viljað, en líkama hefur þú búið mér. 10.6 Brennifórnir og syndafórnir geðjuðust þér ekki. 10.7 Þá sagði ég: 'Sjá, ég er kominn _ í bókinni er það ritað um mig _ ég er kominn til að gjöra þinn vilja, Guð minn!' 10.8 Fyrst segir hann: 'Fórnir og gjafir og brennifórnir og syndafórnir hefur þú eigi viljað, og eigi geðjaðist þér að þeim.' En það eru einmitt þær, sem fram eru bornar samkvæmt lögmálinu. 10.9 Síðan segir hann: 'Sjá, ég er kominn til að gjöra vilja þinn.' Hann tekur burt hið fyrra til þess að staðfesta hið síðara. 10.10 Og samkvæmt þessum vilja erum vér helgaðir með því, að líkama Jesú Krists var fórnað í eitt skipti fyrir öll. 10.11 Og svo er því farið um hvern prest, að hann er dag hvern bundinn við helgiþjónustu sína og ber fram margsinnis hinar sömu fórnir, þær sem þó geta aldrei afmáð syndir. 10.12 En Jesús bar fram eina fórn fyrir syndirnar og settist um aldur við hægri hönd Guðs 10.13 og bíður þess síðan, að óvinir hans verði gjörðir að fótskör hans. 10.14 Því að með einni fórn hefur hann um aldur fullkomnað þá, er helgaðir verða. 10.15 Og einnig heilagur andi vitnar fyrir oss. Fyrst segir hann: 10.16 Þetta er sáttmálinn, er ég mun gjöra við þá eftir þá daga, segir Drottinn. Lög mín vil ég leggja í hjörtu þeirra, og í hugskot þeirra vil ég rita þau. 10.17 Síðan segir hann: Ég mun aldrei framar minnast synda þeirra eða lögmálsbrota. 10.18 En þar sem syndirnar eru fyrirgefnar, þar þarf ekki framar fórn fyrir synd. 10.19 Vér megum nú, bræður, fyrir Jesú blóð með djörfung ganga inn í hið heilaga, 10.20 þangað sem hann vígði oss veginn, nýjan veg og lifandi inn í gegnum fortjaldið, það er að segja líkama sinn. 10.21 Vér höfum mikinn prest yfir húsi Guðs. 10.22 Látum oss því ganga fram fyrir Guð með einlægum hjörtum, í öruggu trúartrausti, með hjörtum, sem hreinsuð hafa verið og eru laus við meðvitund um synd, og með líkömum, sem laugaðir hafa verið í hreinu vatni. 10.23 Höldum fast við játningu vonar vorrar án þess að hvika, því að trúr er sá, sem fyrirheitið hefur gefið. 10.24 Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. 10.25 Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær. 10.26 Því að ef vér syndgum af ásettu ráði, eftir að vér höfum öðlast þekkingu sannleikans, þá er úr því enga fórn að fá fyrir syndirnar, 10.27 heldur er það óttaleg bið eftir dómi og grimmilegur eldur, sem eyða mun andstæðingum Guðs. 10.28 Sá, er að engu hefur lögmál Móse, verður vægðarlaust líflátinn, ef tveir eða þrír vottar bera. 10.29 Hve miklu þyngri hegning ætlið þér þá ekki að sá muni vera talinn verðskulda, er fótum treður son Guðs og vanhelgar blóð sáttmálans, er hann var helgaður í, og smánar anda náðarinnar? 10.30 Vér þekkjum þann, er sagt hefur: 'Mín er hefndin, ég mun endurgjalda.' Og á öðrum stað: 'Drottinn mun dæma lýð sinn.' 10.31 Óttalegt er að falla í hendur lifanda Guðs. 10.32 Minnist fyrri daga, er þér höfðuð tekið á móti ljósinu, hvernig þér urðuð að þola mikla raun þjáninga. 10.33 Það var ýmist, að þér sjálfir, smánaðir og aðþrengdir, voruð hafðir að augnagamni, eða þá hitt, að þér tókuð þátt í kjörum þeirra, er áttu slíku að sæta. 10.34 Þér þjáðust með bandingjum, og tókuð því með gleði, er þér voruð rændir eignum yðar, því að þér vissuð, að þér áttuð sjálfir betri eign og varanlega. 10.35 Varpið því eigi frá yður djörfung yðar. Hún mun hljóta mikla umbun. 10.36 Þolgæðis hafið þér þörf, til þess að þér gjörið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið. 10.37 Því að: Innan harla skamms tíma mun sá koma, sem koma á, og ekki dvelst honum. 10.38 Minn réttláti mun lifa fyrir trúna, en skjóti hann sér undan, þá hefur sála mín ekki velþóknun á honum. 10.39 En vér skjótum oss ekki undan og glötumst, heldur trúum vér og frelsumst.
11.1 Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá. 11.2 Fyrir hana fengu mennirnir fyrr á tíðum góðan vitnisburð. 11.3 Fyrir trú skiljum vér, að heimarnir eru gjörðir með orði Guðs og að hið sýnilega hefur ekki orðið til af því, er séð varð. 11.4 Fyrir trú bar Abel fram fyrir Guð betri fórn en Kain, og fyrir trú fékk hann þann vitnisburð, að hann væri réttlátur, er Guð bar vitni um fórn hans. Með trú sinni talar hann enn, þótt dauður sé. 11.5 Fyrir trú var Enok burt numinn, að eigi skyldi hann dauðann líta. 'Ekki var hann framar að finna, af því að Guð hafði numið hann burt.' Áður en hann var burt numinn, hafði hann fengið þann vitnisburð, 'að hann hefði verið Guði þóknanlegur.' 11.6 En án trúar er ógerlegt að þóknast honum, því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita. 11.7 Fyrir trú fékk Nói bendingu um það, sem enn þá var ekki auðið að sjá. Hann óttaðist Guð og smíðaði örk til björgunar heimilisfólki sínu. Með trú sinni dæmdi hann heiminn og varð erfingi réttlætisins af trúnni. 11.8 Fyrir trú hlýddi Abraham, er hann var kallaður, og fór burt til staðar, sem hann átti að fá til eignar. Hann fór burt og vissi ekki hvert leiðin lá. 11.9 Fyrir trú settist hann að í hinu fyrirheitna landi eins og útlendingur og hafðist við í tjöldum, ásamt Ísak og Jakob, er voru samerfingjar með honum að hinu sama fyrirheiti. 11.10 Því að hann vænti þeirrar borgar, sem hefur traustan grunn, þeirrar, sem Guð er smiður að og byggingarmeistari. 11.11 Fyrir trú öðlaðist Abraham kraft til að eignast son, og þó var Sara óbyrja og hann kominn yfir aldur. Hann treysti þeim, sem fyrirheitið hafði gefið. 11.12 Þess vegna kom út af honum, einum manni, og það mjög ellihrumum, slík niðja mergð sem stjörnur eru á himni og sandkorn á sjávarströnd, er ekki verður tölu á komið. 11.13 Allir þessir menn dóu í trú, án þess að hafa öðlast fyrirheitin. Þeir sáu þau álengdar og fögnuðu þeim og játuðu, að þeir væru gestir og útlendingar á jörðinni. 11.14 Þeir, sem slíkt mæla, sýna með því, að þeir eru að leita eigin ættjarðar. 11.15 Hefðu þeir nú átt við ættjörðina, sem þeir fóru frá, þá hefðu þeir haft tíma til að snúa þangað aftur. 11.16 En nú þráðu þeir betri ættjörð, það er að segja himneska. Þess vegna blygðast Guð sín ekki fyrir þá, að kallast Guð þeirra, því að borg bjó hann þeim. 11.17 Fyrir trú fórnfærði Abraham Ísak, er hann var reyndur. Og Abraham, sem fengið hafði fyrirheitin, var reiðubúinn að fórnfæra einkasyni sínum. 11.18 Við hann hafði Guð mælt: 'Afkomendur Ísaks munu taldir verða niðjar þínir.' 11.19 Hann hugði, að Guð væri þess jafnvel megnugur að vekja upp frá dauðum. Þess vegna má svo að orði kveða, að hann heimti hann aftur úr helju. 11.20 Fyrir trú blessaði Ísak þá Jakob og Esaú einnig um ókomna tíma. 11.21 Fyrir trú blessaði Jakob báða sonu Jósefs, er hann var að dauða kominn og 'laut fram á stafshúninn og baðst fyrir'. 11.22 Fyrir trú minntist Jósef við ævilokin á brottför Ísraelssona og gjörði ráðstöfun fyrir beinum sínum. 11.23 Fyrir trú leyndu foreldrar Móse honum í þrjá mánuði eftir fæðingu hans, af því að þau sáu, að sveinninn var fríður, og þau létu eigi skelfast af skipun konungsins. 11.24 Fyrir trú hafnaði Móse því, er hann var orðinn fulltíða maður, að vera talinn dóttursonur Faraós, 11.25 og kaus fremur illt að þola með lýð Guðs en njóta skammvinns unaðar af syndinni. 11.26 Hann taldi vanvirðu Krists meiri auð en fjársjóðu Egyptalands, því að hann horfði fram til launanna. 11.27 Fyrir trú yfirgaf hann Egyptaland og óttaðist ekki reiði konungsins, en var öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega. 11.28 Fyrir trú hélt hann páska og lét rjóða blóðinu á húsin, til þess að eyðandi frumburðanna skyldi ekki snerta þá. 11.29 Fyrir trú gengu þeir gegnum Rauðahafið sem um þurrt land, og er Egyptar freistuðu þess, drukknuðu þeir. 11.30 Fyrir trú hrundu múrar Jeríkóborgar, er menn höfðu gengið í kringum þá í sjö daga. 11.31 Fyrir trú var það, að skækjan Rahab fórst ekki ásamt hinum óhlýðnu, þar sem hún hafði tekið vinsamlega móti njósnarmönnunum. 11.32 Hvað á ég að orðlengja framar um þetta? Mig mundi skorta tíma, ef ég færi að segja frá Gídeon, Barak, Samson og Jefta, og af Davíð, Samúel og spámönnunum. 11.33 Fyrir trú unnu þeir sigur á konungsríkjum, iðkuðu réttlæti, öðluðust fyrirheit. Þeir byrgðu gin ljóna, 11.34 slökktu eldsbál, komust undan sverðseggjum. Þeir urðu styrkir, þótt áður væru þeir veikir, gjörðust öflugir í stríði og stökktu fylkingum óvina á flótta. 11.35 Konur heimtu aftur sína framliðnu upprisna. Aðrir voru pyndaðir og þágu ekki lausn til þess að þeir öðluðust betri upprisu. 11.36 Aðrir urðu að sæta háðsyrðum og húðstrokum og þar á ofan fjötrum og fangelsi. 11.37 Þeir voru grýttir, sagaðir í sundur, höggnir með sverði. Þeir ráfuðu í gærum og geitskinnum, alls vana, aðþrengdir og illa haldnir. 11.38 Og ekki átti heimurinn slíka menn skilið. Þeir reikuðu um óbyggðir og fjöll og héldust við í hellum og gjótum. 11.39 En þó að allir þessir menn fengju góðan vitnisburð fyrir trú sína, hlutu þeir þó eigi fyrirheitið. 11.40 Guð hafði séð oss fyrir því sem betra var: Án vor skyldu þeir ekki fullkomnir verða.
12.1 Fyrst vér erum umkringdir slíkum fjölda votta, léttum þá af oss allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan. 12.2 Beinum sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi, mat smán einskis og hefur nú setst til hægri handar hásæti Guðs. 12.3 Virðið hann fyrir yður, sem þolað hefur slíkan fjandskap gegn sér af syndurum, til þess að þér þreytist ekki og látið hugfallast. 12.4 Í baráttu yðar við syndina hafið þér ekki enn þá staðið í gegn, svo að blóð hafi runnið. 12.5 Og þér hafið gleymt áminningunni, sem ávarpar yður eins og syni: Sonur minn, lítilsvirð ekki hirtingu Drottins, og lát ekki heldur hugfallast er hann tyftar þig. 12.6 Því að Drottinn agar þann, sem hann elskar, og hirtir harðlega hvern þann son, er hann að sér tekur. 12.7 Þolið aga. Guð fer með yður eins og syni. Hver er sá sonur, sem faðirinn ekki agar? 12.8 En séuð þér án aga, sem allir hafa fyrir orðið, þá eruð þér þrælbornir og ekki synir. 12.9 Enn er það, að vér bjuggum við aga jarðneskra feðra og bárum virðingu fyrir þeim. Skyldum vér þá ekki miklu fremur vera undirgefnir föður andanna og lifa? 12.10 Feður vorir öguðu oss um fáa daga, eftir því sem þeim leist, en oss til gagns agar hann oss, svo að vér fáum hlutdeild í heilagleika hans. 12.11 Í bili virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni, heldur hryggðar, en eftir á gefur hann þeim, er við hann hafa tamist, ávöxt friðar og réttlætis. 12.12 Réttið því úr máttvana höndum og magnþrota knjám. 12.13 Látið fætur yðar feta beinar brautir, til þess að hið fatlaða vindist ekki úr liði, en verði heilt. 12.14 Stundið frið við alla menn og helgun, því að án hennar fær enginn Drottin litið. 12.15 Hafið gát á, að enginn missi af Guðs náð, að engin beiskjurót renni upp, sem truflun valdi, og margir saurgist af. 12.16 Gætið þess, að eigi sé neinn hórkarl eða vanheilagur, eins og Esaú, sem fyrir einn málsverð lét af hendi frumburðarrétt sinn. 12.17 Þér vitið, að það fór líka svo fyrir honum, að hann var rækur gjör, þegar hann síðar vildi öðlast blessunina, þó að hann grátbændi um hana. Hann fékk ekki færi á að iðrast. 12.18 Þér eruð ekki komnir til fjalls, sem á verður þreifað, ekki til brennandi elds og sorta, myrkurs, ofviðris 12.19 og básúnuhljóms og raustar sem talaði svo að þeir, sem hana heyrðu, báðust undan því að meira væri til sín talað. 12.20 Því að þeir þoldu ekki það, sem fyrir var skipað: 'Þó að það sé ekki nema skepna, sem kemur við fjallið, skal hún grýtt verða.' 12.21 Svo ógurlegt var það, sem fyrir augu bar, að Móse sagði: 'Ég er mjög hræddur og skelfdur.' 12.22 Nei, þér eruð komnir til Síonfjalls og borgar Guðs lifanda, hinnar himnesku Jerúsalem, til tugþúsunda engla, 12.23 til hátíðarsamkomu og safnaðar frumgetinna, sem á himnum eru skráðir, til Guðs, dómara allra, og til anda réttlátra, sem fullkomnir eru orðnir, 12.24 og til Jesú, meðalgangara nýs sáttmála, og til blóðsins, sem hreinsar og talar kröftuglegar en blóð Abels. 12.25 Gætið þess, að þér hafnið ekki þeim sem talar. Þeir, sem höfnuðu þeim er gaf guðlega bendingu á jörðu, komust ekki undan. Miklu síður munum vér undan komast, ef vér gjörumst fráhverfir honum, er guðlega bendingu gefur frá himnum. 12.26 Raust hans lét jörðina bifast fyrrum. En nú hefur hann lofað: 'Enn einu sinni mun ég hræra jörðina og ekki hana eina, heldur og himininn.' 12.27 Orðin: 'Enn einu sinni', sýna, að það, sem bifast, er skapað og hverfur, til þess að það standi stöðugt, sem eigi bifast. 12.28 Þar sem vér því fáum ríki, sem ekki getur bifast, skulum vér þakka það og þjóna Guði, svo sem honum þóknast, með lotningu og ótta. 12.29 Því að vor Guð er eyðandi eldur.
13.1 Bróðurkærleikurinn haldist. 13.2 Gleymið ekki gestrisninni, því að vegna hennar hafa sumir hýst engla án þess að vita. 13.3 Minnist bandingjanna, sem væruð þér sambandingjar þeirra. Minnist þeirra er illt líða, þar sem þér sjálfir eruð einnig með líkama. 13.4 Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð, því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma. 13.5 Sýnið enga fégirni í hegðun yðar, en látið yður nægja það, sem þér hafið. Guð hefur sjálfur sagt: 'Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.' 13.6 Því getum vér öruggir sagt: Drottinn er minn hjálpari, eigi mun ég óttast. Hvað geta mennirnir gjört mér? 13.7 Verið minnugir leiðtoga yðar, sem Guðs orð hafa til yðar talað. Virðið fyrir yður, hvernig ævi þeirra lauk, og líkið eftir trú þeirra. 13.8 Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir. 13.9 Látið ekki afvegaleiða yður af ýmislegum framandi kenningum. Það er gott að hjartað styrkist við náð, ekki mataræði. Þeir, sem sinntu slíku, höfðu eigi happ af því. 13.10 Vér höfum altari, og hafa þeir, er tjaldbúðinni þjóna, ekki leyfi til að eta af því. 13.11 Því að brennd eru fyrir utan herbúðirnar hræ þeirra dýra, sem æðsti presturinn ber blóðið úr inn í helgidóminn til syndafórnar. 13.12 Þess vegna leið og Jesús fyrir utan hliðið, til þess að hann helgaði lýðinn með blóði sínu. 13.13 Göngum því til hans út fyrir herbúðirnar og berum vanvirðu hans. 13.14 Því að hér höfum vér ekki borg er stendur, heldur leitum vér hinnar komandi. 13.15 Fyrir hann skulum vér því án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans. 13.16 En gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni, því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar. 13.17 Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir. Þeir vaka yfir sálum yðar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Verið þeim eftirlátir til þess að þeir geti gjört það með gleði, ekki andvarpandi. Það væri yður til ógagns. 13.18 Biðjið fyrir oss, því að vér erum þess fullvissir, að vér höfum góða samvisku og viljum í öllum greinum breyta vel. 13.19 Ég bið yður enn rækilegar um að gjöra þetta, til þess að þér fáið mig brátt aftur heimtan. 13.20 En Guð friðarins, er leiddi hinn mikla hirði sauðanna, Drottin vorn Jesú, upp frá dauðum með blóði eilífs sáttmála, 13.21 hann fullkomni yður í öllu góðu til að gjöra vilja hans og komi því til leiðar í oss, sem þóknanlegt er í hans augum, fyrir Jesú Krist. Honum sé dýrð um aldir alda. Amen. 13.22 Ég bið yður, bræður, að þér takið vel þessum áminningarorðum. Fáort hef ég ritað yður. 13.23 Vita skuluð þér, að bróðir vor Tímóteus hefur verið látinn laus og ásamt honum mun ég heimsækja yður, komi hann bráðum. 13.24 Berið kveðju öllum leiðtogum yðar og öllum heilögum. Mennirnir frá Ítalíu senda yður kveðju.
1.1 Jakob, þjónn Guðs og Drottins Jesú Krists, heilsar þeim tólf kynkvíslum í dreifingunni. 1.2 Álítið það, bræður mínir, eintómt gleðiefni, er þér ratið í ýmiss konar raunir. 1.3 Þér vitið, að trúarstaðfesta yðar vekur þolgæði, 1.4 en þolgæðið á að birtast í fullkomnu verki, til þess að þér séuð fullkomnir og algjörir og yður sé í engu ábótavant. 1.5 Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast. 1.6 En hann biðji í trú, án þess að efast. Sá sem efast er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi. 1.7 Sá maður, tvílyndur og reikull á öllum vegum sínum, má eigi ætla, 1.8 að hann fái nokkuð hjá Drottni. 1.9 Lágt settur bróðir hrósi sér af upphefð sinni, 1.10 en auðugur af lægingu sinni, því hann mun líða undir lok eins og blóm á engi. 1.11 Sólin kemur upp með steikjandi hita og brennir grasið, og blóm þess dettur af og fegurð þess verður að engu. Þannig mun og hinn auðugi maður visna upp á vegum sínum. 1.12 Sæll er sá maður, sem stenst freistingu, því að þegar hann hefur reynst hæfur mun hann öðlast kórónu lífsins, sem Guð hefur heitið þeim er elska hann. 1.13 Enginn má segja, er hann verður fyrir freistingu: 'Guð freistar mín.' Guð getur eigi orðið fyrir freistingu af hinu illa, enda freistar hann sjálfur einskis manns. 1.14 Það er eigin girnd, sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. 1.15 Þegar girndin síðan er orðin þunguð, elur hún synd, og þegar syndin er orðin fullþroskuð, fæðir hún dauða. 1.16 Villist ekki, bræður mínir elskaðir! 1.17 Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að og kemur niður frá föður ljósanna. Hjá honum er engin umbreyting né skuggar, sem koma og fara. 1.18 Eftir ráðsályktun sinni fæddi hann oss með orði sannleikans, til þess að vér skyldum vera frumgróði sköpunar hans. 1.19 Vitið, bræður mínir elskaðir: Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði. 1.20 Því að reiði manns ávinnur ekki það, sem rétt er fyrir Guði. 1.21 Leggið því af hvers konar saurugleik og alla vonsku og takið með hógværð á móti hinu gróðursetta orði, er frelsað getur sálir yðar. 1.22 Verðið gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess, ella svíkið þér sjálfa yður. 1.23 Því að ef einhver er heyrandi orðsins og ekki gjörandi, þá er hann líkur manni, er skoðar andlit sitt í spegli. 1.24 Hann skoðar sjálfan sig, fer burt og gleymir jafnskjótt, hvernig hann var. 1.25 En sá sem skyggnist inn í hið fullkomna lögmál frelsisins og heldur sér við það og gleymir ekki því, sem hann heyrir, heldur framkvæmir það, hann mun sæll verða í verkum sínum. 1.26 Sá sem þykist vera guðrækinn, en hefur ekki taumhald á tungu sinni, blekkir sjálfan sig og guðrækni hans er fánýt. 1.27 Hrein og flekklaus guðrækni fyrir Guði og föður er þetta, að vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingu þeirra og varðveita sjálfan sig óflekkaðan af heiminum.
2.1 Bræður mínir, farið ekki í manngreinarálit, þér sem trúið á dýrðardrottin vorn Jesú Krist. 2.2 Nú kemur maður inn í samkundu yðar með gullhring á hendi og í skartlegum klæðum, og jafnframt kemur inn fátækur maður í óhreinum fötum, 2.3 ef öll athygli yðar beinist að þeim, sem skartklæðin ber, og þér segið: 'Settu þig hérna í gott sæti!' en segið við fátæka manninn: 'Stattu þarna, eða settu þig á gólfið við fótskör mína!' 2.4 hafið þér þá ekki mismunað mönnum og orðið dómarar með vondum hugsunum? 2.5 Heyrið, bræður mínir elskaðir! Hefur Guð ekki útvalið þá, sem fátækir eru í augum heimsins, til þess að þeir verði auðugir í trú og erfingjar þess ríkis, er hann hefur heitið þeim, sem elska hann? 2.6 En þér hafið óvirt hinn fátæka. Eru það þó ekki hinir ríku, sem undiroka yður og draga yður fyrir dómstóla? 2.7 Eru það ekki þeir, sem lastmæla hinu góða nafni, sem nefnt var yfir yður? 2.8 Ef þér uppfyllið hið konunglega boðorð Ritningarinnar: 'Þú skalt elska náunga þinn sem sjálfan þig', þá gjörið þér vel. 2.9 En ef þér farið í manngreinarálit, þá drýgið þér synd og lögmálið sannar upp á yður að þér séuð brotamenn. 2.10 Þótt einhver héldi allt lögmálið, en hrasaði í einu atriði, þá er hann orðinn sekur við öll boðorð þess. 2.11 Því sá sem sagði: 'Þú skalt ekki hórdóm drýgja', hann sagði líka: 'Þú skalt ekki morð fremja.' En þó að þú drýgir ekki hór, en fremur morð, þá ertu búinn að brjóta lögmálið. 2.12 Talið því og breytið eins og þeir, er dæmast eiga eftir lögmáli frelsisins. 2.13 Því að dómurinn verður miskunnarlaus þeim, sem ekki auðsýndi miskunn, en miskunnsemin gengur sigri hrósandi að dómi. 2.14 Hvað stoðar það, bræður mínir, þótt einhver segist hafa trú, en hefur eigi verk? Mun trúin geta frelsað hann? 2.15 Ef bróðir eða systir eru nakin og vantar daglegt viðurværi 2.16 og einhver yðar segði við þau: 'Farið í friði, vermið yður og mettið!' en þér gefið þeim ekki það, sem líkaminn þarfnast, hvað stoðar það? 2.17 Eins er líka trúin dauð í sjálfri sér, vanti hana verkin. 2.18 En nú segir einhver: 'Einn hefur trú, annar verk.' Sýn mér þá trú þína án verkanna, og ég skal sýna þér trúna af verkum mínum. 2.19 Þú trúir, að Guð sé einn. Þú gjörir vel. En illu andarnir trúa því líka og skelfast. 2.20 Fávísi maður! Vilt þú láta þér skiljast, að trúin er ónýt án verkanna? 2.21 Réttlættist ekki Abraham faðir vor af verkum, er hann lagði son sinn Ísak á altarið? 2.22 Þú sérð, að trúin var samtaka verkum hans og að trúin fullkomnaðist með verkunum. 2.23 Og ritningin rættist, sem segir: 'Abraham trúði Guði, og það var honum til réttlætis reiknað,' og hann var kallaður Guðs vinur. 2.24 Þér sjáið, að maðurinn réttlætist af verkum og ekki af trú einni saman. 2.25 Svo var og um skækjuna Rahab. Réttlættist hún ekki af verkum, er hún tók við sendimönnunum og lét þá fara burt aðra leið? 2.26 Eins og líkaminn er dauður án anda, eins er og trúin dauð án verka.
3.1 Verðið eigi margir kennarar, bræður mínir. Þér vitið, að vér munum fá þyngri dóm. 3.2 Allir hrösum vér margvíslega. Hrasi einhver ekki í orði, þá er hann maður fullkominn, fær um að hafa stjórn á öllum líkama sínum. 3.3 Ef vér leggjum hestunum beisli í munn, til þess að þeir hlýði oss, þá getum vér stýrt öllum líkama þeirra. 3.4 Sjá einnig skipin, svo stór sem þau eru og rekin af hörðum vindum. Þeim verður stýrt með mjög litlu stýri, hvert sem stýrimaðurinn vill. 3.5 Þannig er einnig tungan lítill limur, en lætur mikið yfir sér. Sjá hversu lítill neisti getur kveikt í miklum skógi. 3.6 Tungan er líka eldur. Tungan er ranglætisheimur meðal lima vorra. Hún flekkar allan líkamann og kveikir í hjóli tilverunnar, en er sjálf tendruð af helvíti. 3.7 Allar tegundir dýra og fugla, skriðkvikindi og sjávardýr má temja og hafa mennirnir tamið, 3.8 en tunguna getur enginn maður tamið, þessa óhemju, sem er full af banvænu eitri. 3.9 Með henni vegsömum vér Drottin vorn og föður og með henni formælum vér mönnum, sem skapaðir eru í líkingu Guðs. 3.10 Af sama munni gengur fram blessun og bölvun. Þetta má ekki svo vera, bræður mínir. 3.11 Gefur lindin úr sama uppsprettuauga bæði ferskt og beiskt vatn? 3.12 Mun fíkjutré, bræður mínir, geta af sér gefið olífur eða vínviður fíkjur? Eigi getur heldur saltur brunnur gefið ferskt vatn. 3.13 Hver er vitur og skynsamur yðar á meðal? Hann láti með góðri hegðun verk sín lýsa hóglátri speki. 3.14 En ef þér hafið beiskan ofsa og eigingirni í hjarta yðar, þá stærið yður ekki og ljúgið ekki gegn sannleikanum. 3.15 Sú speki kemur ekki að ofan, heldur er hún jarðnesk, andlaus, djöfulleg. 3.16 Því hvar sem ofsi og eigingirni er, þar er óstjórn og hvers kyns böl. 3.17 En sú speki, sem að ofan er, hún er í fyrsta lagi hrein, því næst friðsöm, ljúfleg, sáttgjörn, full miskunnar og góðra ávaxta, óhlutdræg, hræsnislaus. 3.18 En ávexti réttlætisins verður sáð í friði þeim til handa, er frið semja.
4.1 Af hverju koma stríð og af hverju sennur meðal yðar? Af hverju öðru en girndum yðar, sem heyja stríð í limum yðar? 4.2 Þér girnist og fáið ekki, þér drepið og öfundið og getið þó ekki öðlast. Þér berjist og stríðið. Þér eigið ekki, af því að þér biðjið ekki. 4.3 Þér biðjið og öðlist ekki af því að þér biðjið illa, þér viljið sóa því í munaði! 4.4 Þér ótrúu, vitið þér ekki, að vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði? Hver sem því vill vera vinur heimsins, hann gjörir sig að óvini Guðs. 4.5 Eða haldið þér að ritningin fari með hégóma, sem segir: 'Þráir Guð ekki með afbrýði andann, sem hann gaf bústað í oss?' 4.6 En því meiri er náðin, sem hann gefur. Þess vegna segir ritningin: 'Guð stendur í gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð.' 4.7 Gefið yður því Guði á vald, standið gegn djöflinum, og þá mun hann flýja yður. 4.8 Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður. Hreinsið hendur yðar, þér syndarar, og gjörið hjörtun flekklaus, þér tvílyndu. 4.9 Berið yður illa, syrgið og grátið. Breytið hlátri yðar í sorg og gleðinni í hryggð. 4.10 Auðmýkið yður fyrir Drottni og hann mun upphefja yður. 4.11 Talið ekki illa hver um annan, bræður. Sá sem talar illa um bróður sinn eða dæmir bróður sinn, talar illa um lögmálið og dæmir lögmálið. En ef þú dæmir lögmálið, þá ert þú ekki gjörandi lögmálsins, heldur dómari. 4.12 Einn er löggjafinn og dómarinn, sá sem getur frelsað og tortímt. En hver ert þú, sem dæmir náungann? 4.13 Heyrið, þér sem segið: 'Í dag eða á morgun skulum vér fara til þeirrar eða þeirrar borgar, dveljast þar eitt ár og versla þar og græða!' _ 4.14 Þér vitið ekki hvernig líf yðar mun verða á morgun. Því að þér eruð gufa, sem sést um stutta stund en hverfur síðan. 4.15 Í stað þess ættuð þér að segja: 'Ef Drottinn vill, þá bæði lifum vér og þá munum vér gjöra þetta eða annað.' 4.16 En nú stærið þér yður í oflátungsskap. Allt slíkt stærilæti er vont. 4.17 Hver sem því hefur vit á gott að gjöra, en gjörir það ekki, hann drýgir synd.
5.1 Hlustið á, þér auðmenn, grátið og kveinið yfir þeim bágindum, sem yfir yður munu koma. 5.2 Auður yðar er orðinn fúinn og klæði yðar eru orðin möletin, 5.3 gull yðar og silfur er orðið ryðbrunnið og ryðið á því mun verða yður til vitnis og eta hold yðar eins og eldur. Þér hafið fjársjóðum safnað á síðustu dögunum. 5.4 Launin hrópa, þau sem þér hafið haft af verkamönnunum, sem slógu lönd yðar, og köll kornskurðarmannanna eru komin til eyrna Drottins hersveitanna. 5.5 Þér hafið lifað í sællífi á jörðinni og í óhófi. Þér hafið alið hjörtu yðar á slátrunardegi. 5.6 Þér hafið sakfellt og drepið hinn réttláta. Hann veitir yður ekki viðnám. 5.7 Þreyið því, bræður, þangað til Drottinn kemur. Sjáið akuryrkjumanninn, hann bíður eftir hinum dýrmæta ávexti jarðarinnar og þreyir eftir honum, þangað til hann hefur fengið haustregn og vorregn. 5.8 Þreyið og þér, styrkið hjörtu yðar, því að koma Drottins er í nánd. 5.9 Kvartið ekki hver yfir öðrum, bræður, svo að þér verðið ekki dæmdir. Dómarinn stendur fyrir dyrum. 5.10 Bræður, takið spámennina til fyrirmyndar, sem talað hafa í nafni Drottins og liðið illt með þolinmæði. 5.11 Því vér teljum þá sæla, sem þolgóðir hafa verið. Þér hafið heyrt um þolgæði Jobs og vitið, hvaða lyktir Drottinn gjörði á högum hans. Drottinn er mjög miskunnsamur og líknsamur. 5.12 En umfram allt, bræður mínir, sverjið ekki, hvorki við himininn né við jörðina né nokkurn annan eið. En já yðar sé já, nei yðar sé nei, til þess að þér fallið ekki undir dóm. 5.13 Líði nokkrum illa yðar á meðal, þá biðji hann. Liggi vel á einhverjum, þá syngi hann lofsöng. 5.14 Sé einhver sjúkur yðar á meðal, þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins og þeir skulu smyrja hann með olíu í nafni Drottins og biðjast fyrir yfir honum. 5.15 Trúarbænin mun gjöra hinn sjúka heilan, og Drottinn mun reisa hann á fætur. Þær syndir, sem hann kann að hafa drýgt, munu honum verða fyrirgefnar. 5.16 Játið því hver fyrir öðrum syndir yðar og biðjið hver fyrir öðrum, til þess að þér verðið heilbrigðir. Kröftug bæn réttláts manns megnar mikið. 5.17 Elía var maður sama eðlis og vér, og hann bað þess heitt, að ekki skyldi rigna, og það rigndi ekki yfir landið í þrjú ár og sex mánuði. 5.18 Og hann bað aftur, og himinninn gaf regn og jörðin bar sinn ávöxt. 5.19 Bræður mínir, ef einhver meðal yðar villist frá sannleikanum og einhver snýr honum aftur,
1.1 Pétur postuli Jesú Krists heilsar hinum útvöldu, sem eru dreifðir sem útlendingar í Pontus, Galatíu, Kappadókíu, Asíu og Biþýníu, 1.2 en útvaldir samkvæmt fyrirvitund Guðs föður og helgaðir af anda hans til að hlýðnast Jesú Kristi og verða hreinsaðir með blóði hans. Náð og friður margfaldist með yður. 1.3 Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum, 1.4 til óforgengilegrar, flekklausrar og ófölnandi arfleifðar, sem yður er geymd á himnum. 1.5 Kraftur Guðs varðveitir yður fyrir trúna til þess að þér getið öðlast hjálpræðið, sem er þess albúið að opinberast á síðasta tíma. 1.6 Fagnið því, þótt þér nú um skamma stund hafið orðið að hryggjast í margs konar raunum. 1.7 Það er til þess að trúarstaðfesta yðar, langtum dýrmætari en forgengilegt gull, sem þó stenst eldraunina, geti orðið yður til lofs og dýrðar og heiðurs við opinberun Jesú Krists. 1.8 Þér hafið ekki séð hann, en elskið hann þó. Þér hafið hann ekki nú fyrir augum yðar, en trúið samt á hann og fagnið með óumræðilegri og dýrlegri gleði, 1.9 þegar þér eruð að ná takmarki trúar yðar, frelsun sálna yðar. 1.10 Þessa frelsun könnuðu spámennirnir og rannsökuðu vandlega þegar þeir töluðu um þá náð, sem yður mundi hlotnast. 1.11 Þeir rannsökuðu, til hvers eða hvílíks tíma andi Krists, sem í þeim bjó, benti, þá er hann vitnaði fyrirfram um píslir Krists og dýrðina þar á eftir. 1.12 En þeim var opinberað, að eigi væri það fyrir sjálfa þá, heldur fyrir yður, að þeir þjónuðu að þessu, sem yður er nú kunngjört af þeim, sem boðuðu yður fagnaðarerindið í heilögum anda, sem er sendur frá himni. Inn í þetta fýsir jafnvel englana að skyggnast. 1.13 Gjörið því hugi yðar viðbúna og vakið. Setjið alla von yðar til þeirrar náðar, sem yður mun veitast við opinberun Jesú Krists. 1.14 Verið eins og hlýðin börn og látið eigi framar lifnað yðar mótast af þeim girndum, er þér áður létuð stjórnast af í vanvisku yðar. 1.15 Verðið heldur sjálfir heilagir í allri hegðun, eins og sá er heilagur, sem yður hefur kallað. 1.16 Ritað er: 'Verið heilagir, því ég er heilagur.' 1.17 Fyrst þér ákallið þann sem föður, er dæmir án manngreinarálits eftir verkum hvers eins, þá gangið fram í guðsótta útlegðartíma yðar. 1.18 Þér vitið, að þér voruð eigi leystir með hverfulum hlutum, silfri eða gulli, frá fánýtri hegðun yðar, er þér höfðuð að erfðum tekið frá feðrum yðar, 1.19 heldur með blóði hins lýtalausa og óflekkaða lambs, með dýrmætu blóði Krists. 1.20 Hann var útvalinn, áður en veröldin var grundvölluð, en var opinberaður í lok tímanna vegna yðar. 1.21 Fyrir hann trúið þér á Guð, er vakti hann upp frá dauðum og gaf honum dýrð, svo að trú yðar skyldi jafnframt vera von til Guðs. 1.22 Þér hafið hreinsað yður með því að hlýða sannleikanum og berið hræsnislausa bróðurelsku í brjósti. Elskið því hver annan af heilu hjarta. 1.23 Þér eruð endurfæddir, ekki af forgengilegu sæði, heldur óforgengilegu, fyrir orð Guðs, sem lifir og varir. 1.24 Því að: Allt hold er sem gras og öll vegsemd þess sem blóm á grasi; grasið skrælnar og blómið fellur. 1.25 En orð Drottins varir að eilífu. Og þetta orð er fagnaðarerindið, sem yður hefur verið boðað.
2.1 Leggið því af alla vonsku og alla pretti, hræsni og öfund og allt baktal. 2.2 Sækist eins og nýfædd börn eftir hinni andlegu, ósviknu mjólk, til þess að þér af henni getið dafnað til hjálpræðis, 2.3 enda 'hafið þér smakkað, hvað Drottinn er góður.' 2.4 Komið til hans, hins lifanda steins, sem hafnað var af mönnum, en er hjá Guði útvalinn og dýrmætur, 2.5 og látið sjálfir uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús, til heilags prestafélags, til að bera fram andlegar fórnir, Guði velþóknanlegar fyrir Jesú Krist. 2.6 Því svo stendur í Ritningunni: Sjá, ég set hornstein í Síon, valinn og dýrmætan. Sá sem trúir á hann mun alls eigi verða til skammar. 2.7 Yður sem trúið er hann dýrmætur, en hinum vantrúuðu er steinninn, sem smiðirnir höfnuðu, orðinn að hyrningarsteini 2.8 og: ásteytingarsteini og hrösunarhellu. Þeir steyta sig á honum, af því að þeir óhlýðnast boðskapnum. Það var þeim ætlað. 2.9 En þér eruð 'útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þér skuluð víðfrægja dáðir hans,' sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss. 2.10 Þér sem áður voruð ekki lýður eruð nú orðnir 'Guðs lýður'. Þér, sem 'ekki nutuð miskunnar', hafið nú 'miskunn hlotið'. 2.11 Þér elskuðu, ég áminni yður sem gesti og útlendinga að halda yður frá holdlegum girndum, sem heyja stríð gegn sálunni. 2.12 Hegðið yður vel meðal heiðingjanna, til þess að þeir, er nú hallmæla yður sem illgjörðamönnum, sjái góðverk yðar og vegsami Guð á tíma vitjunarinnar. 2.13 Verið Drottins vegna undirgefnir allri mannlegri skipan, bæði keisara, hinum æðsta, 2.14 og landshöfðingjum, sem hann sendir til að refsa illgjörðamönnum og þeim til lofs er breyta vel. 2.15 Því að það er vilji Guðs, að þér skuluð með því að breyta vel þagga niður vanþekkingu heimskra manna. 2.16 Þér eruð frjálsir menn, hafið ekki frelsið fyrir hjúp yfir vonskuna, breytið heldur sem þjónar Guðs. 2.17 Virðið alla menn, elskið bræðrafélagið, óttist Guð, heiðrið keisarann. 2.18 Þér þjónar, verið undirgefnir húsbændum yðar með allri lotningu, ekki einungis hinum góðu og sanngjörnu, heldur einnig hinum ósanngjörnu. 2.19 Ef einhver þolir móðganir og líður saklaus vegna meðvitundar um Guð, þá er það þakkar vert. 2.20 Því að hvaða verðleiki er það, að þér sýnið þolgæði, er þér verðið fyrir höggum vegna misgjörða? En ef þér sýnið þolgæði, er þér líðið illt, þótt þér hafið breytt vel, það aflar velþóknunar hjá Guði. 2.21 Til þessa eruð þér kallaðir. Því að Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor. 2.22 'Hann drýgði ekki synd, og svik voru ekki fundin í munni hans.' 2.23 Hann illmælti eigi aftur, er honum var illmælt, og hótaði eigi, er hann leið, heldur gaf það í hans vald, sem réttvíslega dæmir. 2.24 Hann bar sjálfur syndir vorar á líkama sínum upp á tréð, til þess að vér skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þér læknaðir. 2.25 Þér voruð sem villuráfandi sauðir, en nú hafið þér snúið yður til hans, sem er hirðir og biskup sálna yðar.
3.1 Eins skuluð þér, eiginkonur, vera undirgefnar eiginmönnum yðar, til þess að jafnvel þeir, sem vilja ekki hlýða orðinu, geti unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna, 3.2 þegar þeir sjá yðar grandvöru og skírlífu hegðun. 3.3 Skart yðar sé ekki ytra skart, hárgreiðslur, gullskraut og viðhafnarbúningur, 3.4 heldur sé það hinn huldi maður hjartans í óforgengilegum búningi hógværs og kyrrláts anda. Það er dýrmætt í augum Guðs. 3.5 Þannig skreyttu sig einnig forðum hinar helgu konur, er settu von sína til Guðs. Þær voru eiginmönnum sínum undirgefnar, 3.6 eins og Sara hlýddi Abraham og kallaði hann herra. Og börn hennar eruð þér orðnar, er þér hegðið yður vel og látið ekkert skelfa yður. 3.7 Og þér eiginmenn, búið með skynsemi saman við konur yðar sem veikari ker og veitið þeim virðingu, því að þær munu erfa með yður náðina og lífið. Þá hindrast bænir yðar ekki. 3.8 Að lokum, verið allir samhuga, hluttekningarsamir, bróðurelskir, miskunnsamir, auðmjúkir. 3.9 Gjaldið ekki illt fyrir illt eða illmæli fyrir illmæli, heldur þvert á móti blessið, því að þér eruð til þess kallaðir að erfa blessunina. 3.10 Sá sem vill elska lífið og sjá góða daga, haldi tungu sinni frá vondu og vörum sínum frá að mæla svik. 3.11 Hann sneiði hjá illu og gjöri gott, ástundi frið og keppi eftir honum. 3.12 Því að augu Drottins eru yfir hinum réttlátu og eyru hans hneigjast að bænum þeirra. En auglit Drottins er gegn þeim, sem illt gjöra. 3.13 Hver er sá, er mun gjöra yður illt, ef þér kappkostið það sem gott er? 3.14 En þótt þér skylduð líða illt fyrir réttlætis sakir, þá eruð þér sælir. Hræðist eigi og skelfist eigi fyrir neinum. 3.15 En helgið Krist sem Drottin í hjörtum yðar. Verið ætíð reiðubúnir að svara hverjum manni sem krefst raka hjá yður fyrir voninni, sem í yður er. 3.16 En gjörið það með hógværð og virðingu, og hafið góða samvisku, til þess að þeir, sem lasta góða hegðun yðar sem kristinna manna, verði sér til skammar í því, sem þeir mæla gegn yður. 3.17 Því að það er betra, ef Guð vill svo vera láta, að þér líðið fyrir að breyta vel, heldur en fyrir að breyta illa. 3.18 Kristur dó í eitt skipti fyrir öll fyrir syndir, réttlátur fyrir rangláta, til þess að hann gæti leitt yður til Guðs. Hann var deyddur að líkamanum til, en lifandi gjörður í anda. 3.19 Í andanum fór hann einnig og prédikaði fyrir öndunum í varðhaldi. 3.20 Þeir höfðu óhlýðnast fyrrum, þegar Guð sýndi langlyndi og beið á dögum Nóa meðan örkin var í smíðum. Í henni frelsuðust fáeinar _ það er átta _ sálir í vatni. 3.21 Með því var skírnin fyrirmynduð, sem nú einnig frelsar yður, hún sem ekki er hreinsun óhreininda á líkamanum, heldur bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists, 3.22 sem uppstiginn til himna, situr Guði á hægri hönd, en englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.
4.1 Eins og því Kristur leið líkamlega, svo skuluð þér og herklæðast sama hugarfari. Sá sem hefur liðið líkamlega, er skilinn við synd, 4.2 hann lifir ekki framar í mannlegum fýsnum, heldur lifir hann tímann, sem eftir er, að vilja Guðs. 4.3 Nógu lengi hafið þér gjört vilja heiðingjanna og lifað í saurlifnaði, girndum, ofdrykkju, óhófi, samdrykkjum og svívirðilegri skurðgoðadýrkun. 4.4 Nú furðar þá, að þér hlaupið ekki með þeim út í hið sama spillingardíki; og þeir hallmæla yður. 4.5 En þeir munu verða að gjöra reikningsskil þeim, sem reiðubúinn er að dæma lifendur og dauða. 4.6 Því að til þess var og dauðum boðað fagnaðarerindið, að þeir, þótt dæmdir væru líkamlega með mönnum, mættu lifa í andanum með Guði. 4.7 En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætnir og algáðir til bæna. 4.8 Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars, því að kærleikur hylur fjölda synda. 4.9 Verið gestrisnir hver við annan án möglunar. 4.10 Þjónið hver öðrum með þeirri náðargáfu, sem yður hefur verið gefin, sem góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs. 4.11 Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónustu hefur skal þjóna eftir þeim mætti, sem Guð gefur, til þess að Guð vegsamist í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen. 4.12 Þér elskaðir, látið yður eigi undra eldraunina, sem yfir yður er komin yður til reynslu, eins og yður hendi eitthvað kynlegt. 4.13 Gleðjist heldur er þér takið þátt í píslum Krists, til þess að þér einnig megið gleðjast miklum fögnuði við opinberun dýrðar hans. 4.14 Sælir eruð þér, er þér eruð smánaðir vegna nafns Krists, því að andi dýrðarinnar, andi Guðs hvílir þá yfir yður. 4.15 Enginn yðar líði sem manndrápari, þjófur eða illvirki eða fyrir að hlutast til um það, er öðrum kemur við. 4.16 En ef hann líður sem kristinn maður, þá fyrirverði hann sig ekki, heldur gjöri Guð vegsamlegan með þessu nafni. 4.17 Því að nú er tíminn kominn, að dómurinn byrji á húsi Guðs. En ef hann byrjar á oss, hver munu þá verða afdrif þeirra, sem ekki hlýðnast fagnaðarerindi Guðs? 4.18 Ef hinn réttláti naumlega frelsast, hvar mun þá hinn óguðlegi og syndarinn lenda? 4.19 Þess vegna skulu þeir, sem líða eftir vilja Guðs, fela sálir sínar á hendur hinum trúa skapara og halda áfram að gjöra hið góða.
5.1 Öldungana yðar á meðal áminni ég, sem einnig er öldungur og vottur písla Krists og einnig mun fá hlutdeild í þeirri dýrð, sem opinberuð mun verða: 5.2 Verið hirðar þeirrar hjarðar, sem Guð hefur falið yður. Gætið hennar ekki af nauðung, heldur af fúsu geði, að Guðs vilja, ekki sakir vansæmilegs ávinnings, heldur af áhuga. 5.3 Þér skuluð eigi drottna yfir söfnuðunum, heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar. 5.4 Þá munuð þér, þegar hinn æðsti hirðir birtist, öðlast þann dýrðarsveig, sem aldrei fölnar. 5.5 Og þér, yngri menn, verið öldungunum undirgefnir og skrýðist allir lítillætinu hver gagnvart öðrum, því að 'Guð stendur gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð'. 5.6 Auðmýkið yður því undir Guðs voldugu hönd, til þess að hann á sínum tíma upphefji yður. 5.7 Varpið allri áhyggju yðar á hann, því að hann ber umhyggju fyrir yður. 5.8 Verið algáðir, vakið. Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt. 5.9 Standið gegn honum, stöðugir í trúnni, og vitið, að bræður yðar um allan heim verða fyrir sömu þjáningum. 5.10 En Guð allrar náðar, sem hefur kallað yður í Kristi til sinnar eilífu dýrðar, mun sjálfur, er þér hafið þjáðst um lítinn tíma, fullkomna yður, styrkja og öfluga gjöra. 5.11 Hans er mátturinn um aldir alda. Amen. 5.12 Með hjálp Silvanusar, hins trúa bróður, í mínum augum, hef ég stuttlega ritað yður þetta til þess að minna á og vitna hátíðlega, að þetta er hin sanna náð Guðs. Standið stöðugir í henni. 5.13 Yður heilsar söfnuðurinn í Babýlon, útvalinn ásamt yður, og Markús sonur minn.
1.1 Símon Pétur, þjónn og postuli Jesú Krists, heilsar þeim, sem hlotið hafa hina sömu dýrmætu trú og vér fyrir réttlæti Guðs vors og frelsara vors Jesú Krists. 1.2 Náð og friður margfaldist yður til handa með þekkingu á Guði og Jesú, Drottni vorum. 1.3 Hans guðdómlegi máttur hefur veitt oss allt, sem leiðir til lífs og guðrækni með þekkingunni á honum, sem kallaði oss með sinni eigin dýrð og dáð. 1.4 Með því hefur hann veitt oss hin dýrmætu og háleitu fyrirheit, til þess að þér fyrir þau skylduð verða hluttakendur í guðlegu eðli, er þér hafið komist undan spillingunni í heiminum, sem girndin veldur. 1.5 Leggið þess vegna alla stund á að auðsýna í trú yðar dyggð, í dyggðinni þekkingu, 1.6 í þekkingunni sjálfsögun, í sjálfsöguninni þolgæði, í þolgæðinu guðrækni, 1.7 í guðrækninni bróðurelsku og í bróðurelskunni kærleika. 1.8 Því ef þér hafið þetta til að bera og farið vaxandi í því, munuð þér ekki verða iðjulausir né ávaxtalausir í þekkingunni á Drottni vorum Jesú Kristi. 1.9 En sá, sem ekki hefur þetta til að bera, er blindur í skammsýni sinni og hefur gleymt hreinsun fyrri synda sinna. 1.10 Kostið þess vegna því fremur kapps um, bræður, að gjöra köllun yðar og útvalning vissa. Ef þér gjörið þetta, munuð þér aldrei hrasa. 1.11 Á þann hátt mun yður ríkulega veitast inngangur í hið eilífa ríki Drottins vors og frelsara Jesú Krists. 1.12 Þess vegna ætla ég mér ávallt að minna yður á þetta, enda þótt þér vitið það og séuð staðfastir orðnir í þeim sannleika, sem þér nú hafið öðlast. 1.13 Ég álít mér líka skylt, á meðan ég er í þessari tjaldbúð, að halda yður vakandi með því að rifja þetta upp fyrir yður. 1.14 Ég veit, að þess mun skammt að bíða, að tjaldbúð minni verði svipt. Það hefur Drottinn vor Jesús Kristur birt mér. 1.15 Og ég vil einnig leggja kapp á, að þér ætíð eftir burtför mína getið minnst þessa. 1.16 Ekki fylgdum vér uppspunnum skröksögum, er vér kunngjörðum yður mátt og komu Drottins vors Jesú Krists, heldur vorum vér sjónarvottar að hátign hans. 1.17 Því að hann meðtók af Guði föður heiður og dýrð, þá er raust barst honum frá hinni dýrlegu hátign: 'Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.' 1.18 Þessa raust heyrðum vér sjálfir, koma frá himni, þá er vér vorum með honum á fjallinu helga. 1.19 Enn þá áreiðanlegra er oss því nú hið spámannlega orð. Og það er rétt af yður að gefa gaum að því eins og ljósi, sem skín á myrkum stað, þangað til dagur ljómar og morgunstjarna rennur upp í hjörtum yðar. 1.20 Vitið það umfram allt, að enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér. 1.21 Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns, heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.
2.1 En falsspámenn komu einnig upp meðal lýðsins. Eins munu falskennendur líka verða á meðal yðar, er smeygja munu inn háskalegum villukenningum og jafnvel afneita herra sínum, sem keypti þá, og leiða yfir sig sjálfa bráða glötun. 2.2 Margir munu fylgja ólifnaði þeirra, og sakir þeirra mun vegi sannleikans verða hallmælt. 2.3 Af ágirnd munu þeir með uppspunnum orðum hafa yður að féþúfu. En dómurinn yfir þeim er löngu felldur og fyrnist ekki og glötun þeirra blundar ekki. 2.4 Ekki þyrmdi Guð englunum, er þeir syndguðu. Hann steypti þeim niður í undirdjúpin og setti þá í myrkrahella, þar sem þeir eru geymdir til dómsins. 2.5 Ekki þyrmdi hann hinum forna heimi, en varðveitti Nóa, prédikara réttlætisins, við áttunda mann, er hann lét vatnsflóð koma yfir heim hinna óguðlegu. 2.6 Hann brenndi borgirnar Sódómu og Gómorru til ösku og dæmdi þær til eyðingar og setti þær til viðvörunar þeim, er síðar lifðu óguðlega. 2.7 En hann frelsaði Lot, hinn réttláta mann, er mæddist af svívirðilegum lifnaði hinna guðlausu. 2.8 Sá réttláti maður bjó á meðal þeirra og mæddist í sinni réttlátu sálu dag frá degi af þeim ólöglegu verkum, er hann sá og heyrði. 2.9 Þannig veit Drottinn, hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr freistingu, en refsa hinum ranglátu og geyma þá til dómsdags, 2.10 einkum þá, sem í breytni sinni stjórnast af saurlífisfýsn og fyrirlíta drottinvald. Þessir fífldjörfu sjálfbirgingar skirrast ekki við að lastmæla tignum. 2.11 Jafnvel englarnir, sem eru þeim meiri að mætti og valdi, fara ekki með guðlast, þegar þeir ákæra þá hjá Drottni. 2.12 Þessir menn eru eins og skynlausar skepnur, sem eru fæddar til að veiðast og tortímast. Þeir lastmæla því, sem þeir þekkja ekki, og munu þess vegna í spillingu sinni undir lok líða 2.13 og bera þannig úr býtum laun ranglætis. Þeir hafa yndi af að svalla um miðjan dag. Þeir eru skömm og smán, þegar þeir neyta máltíða með yður og svalla. 2.14 Augu þeirra eru full hórdóms, og þeim verður ekki frá syndinni haldið. Þeir fleka óstyrkar sálir, hjarta þeirra hefur tamið sér ágirnd. Það er bölvun yfir þeim. 2.15 Þeir hafa farið af rétta veginum og lent í villu. Þeir fara sömu leið og Bíleam, sonur Bósors, sem elskaði ranglætislaun. 2.16 En hann fékk ádrepu fyrir glæp sinn. Mállaus eykurinn talaði mannamál og aftraði fásinnu spámannsins. 2.17 Vatnslausir brunnar eru þessir menn, þoka hrakin af hvassviðri, þeirra bíður dýpsta myrkur. 2.18 Þeir láta klingja drembileg hégómaorð og tæla með holdlegum girndum og svívirðilegum lifnaði þá, sem fyrir skömmu hafa sloppið frá þeim, sem ganga í villu. 2.19 Þeir heita þeim frelsi, þótt þeir séu sjálfir þrælar spillingarinnar, því að sérhver verður þræll þess, sem hann hefur beðið ósigur fyrir. 2.20 Ef þeir, sem fyrir þekkingu á Drottni vorum og frelsara Jesú Kristi voru sloppnir frá saurgun heimsins, flækja sig í honum að nýju og bíða ósigur, þá er hið síðara orðið þeim verra en hið fyrra. 2.21 Því að betra hefði þeim verið að hafa ekki þekkt veg réttlætisins en að hafa þekkt hann og snúa síðan aftur frá hinu heilaga boðorði, sem þeim hafði verið gefið. 2.22 Fram á þeim hefur komið þetta sannmæli: 'Hundur snýr aftur til spýju sinnar,' og: 'Þvegið svín veltir sér í sama saur.'
3.1 Þetta er nú annað bréfið, sem ég skrifa yður, þér elskaðir, og í þeim báðum hef ég reynt að halda hinu hreina hugarfari vakandi hjá yður. 3.2 Það reyni ég með því að rifja upp fyrir yður þau orð, sem hinir heilögu spámenn hafa áður talað, og boðorð Drottins vors og frelsara, er postular yðar hafa flutt. 3.3 Þetta skuluð þér þá fyrst vita, að á hinum síðustu dögum munu koma spottarar er stjórnast af eigin girndum 3.4 og segja með spotti: 'Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans? Því að frá því feðurnir sofnuðu stendur allt við sama eins og frá upphafi veraldar.' 3.5 Viljandi gleyma þeir því, að himnar voru til forðum og jörð til orðin af vatni og upp úr vatni fyrir orð Guðs. 3.6 Þess vegna gekk vatnsflóðið yfir þann heim, sem þá var, svo að hann fórst. 3.7 En þeir himnar, sem nú eru ásamt jörðinni, geymast eldinum fyrir hið sama orð og varðveitast til þess dags, er óguðlegir menn munu dæmdir verða og tortímast. 3.8 En þetta eitt má yður ekki gleymast, þér elskuðu, að einn dagur er hjá Drottni sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur. 3.9 Ekki er Drottinn seinn á sér með fyrirheitið, þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við yður, þar eð hann vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar. 3.10 En dagur Drottins mun koma sem þjófur, og þá munu himnarnir með miklum gný líða undir lok, frumefnin sundurleysast í brennandi hita og jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp brenna. 3.11 Þar eð allt þetta ferst þannig, hversu ber yður þá ekki að ganga fram í heilagri breytni og guðrækni, 3.12 þannig að þér væntið eftir og flýtið fyrir komu Guðs dags, en vegna hans munu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita. 3.13 En eftir fyrirheiti hans væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr. 3.14 Með því að þér nú, þér elskuðu, væntið slíkra hluta, þá kappkostið að vera flekklausir og lýtalausir frammi fyrir honum í friði. 3.15 Álítið langlyndi Drottins vors vera hjálpræði. Þetta er það, sem hinn elskaði bróðir vor, Páll, hefur ritað yður, eftir þeirri speki, sem honum er gefin. 3.16 Það gjörir hann líka í öllum bréfum sínum, hann talar í þeim um þetta. En í þeim er sumt þungskilið, er fáfróðir og staðfestulausir menn rangsnúa, eins og öðrum ritum, sjálfum sér til tortímingar. 3.17 Með því að þér vitið þetta fyrirfram, þér elskaðir, þá hafið gát á yður, að þér látið eigi dragast með af villu þverbrotinna manna og fallið frá staðfestu yðar.
1.1 Efni vort er það sem var frá upphafi, það sem vér höfum heyrt, það sem vér höfum séð með augum vorum, það sem vér horfðum á og hendur vorar þreifuðu á, það er orð lífsins. 1.2 Og lífið var opinberað, og vér höfum séð það og vottum um það og boðum yður lífið eilífa, sem var hjá föðurnum og var opinberað oss. 1.3 Já, það sem vér höfum séð og heyrt, það boðum vér yður einnig, til þess að þér getið líka haft samfélag við oss. Og samfélag vort er við föðurinn og við son hans Jesú Krist. 1.4 Þetta skrifum vér til þess að fögnuður vor verði fullkominn. 1.5 Og þetta er boðskapurinn, sem vér höfum heyrt af honum og boðum yður: 'Guð er ljós, og myrkur er alls ekki í honum.' 1.6 Ef vér segjum: 'Vér höfum samfélag við hann,' og göngum þó í myrkrinu, þá ljúgum vér og iðkum ekki sannleikann. 1.7 En ef vér göngum í ljósinu, eins og hann er sjálfur í ljósinu, þá höfum vér samfélag hver við annan og blóð Jesú, sonar hans, hreinsar oss af allri synd. 1.8 Ef vér segjum: 'Vér höfum ekki synd,' þá svíkjum vér sjálfa oss og sannleikurinn er ekki í oss. 1.9 Ef vér játum syndir vorar, þá er hann trúr og réttlátur, svo að hann fyrirgefur oss syndirnar og hreinsar oss af öllu ranglæti. 1.10 Ef vér segjum: 'Vér höfum ekki syndgað,' þá gjörum vér hann að lygara og orð hans er ekki í oss.
2.1 Börnin mín! Þetta skrifa ég yður til þess að þér skuluð ekki syndga. En ef einhver syndgar, þá höfum vér árnaðarmann hjá föðurnum, Jesú Krist, hinn réttláta. 2.2 Hann er friðþæging fyrir syndir vorar og ekki einungis fyrir vorar syndir, heldur líka fyrir syndir alls heimsins. 2.3 Og á því vitum vér, að vér þekkjum hann, ef vér höldum boðorð hans. 2.4 Sá sem segir: 'Ég þekki hann,' og heldur ekki boðorð hans, er lygari og sannleikurinn er ekki í honum. 2.5 En hver sem varðveitir orð hans, í honum er sannarlega kærleikur til Guðs orðinn fullkominn. Af því þekkjum vér, að vér erum í honum. 2.6 Þeim sem segist vera stöðugur í honum, honum ber sjálfum að breyta eins og hann breytti. 2.7 Þér elskaðir, það er ekki nýtt boðorð, sem ég rita yður, heldur gamalt boðorð, sem þér hafið haft frá upphafi. Hið gamla boðorð er orðið, sem þér heyrðuð. 2.8 Engu að síður er það nýtt boðorð, er ég rita yður, sem er augljóst í honum og í yður, því að myrkrið er að hverfa og hið sanna ljós er þegar farið að skína. 2.9 Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er enn þá í myrkrinu. 2.10 Sá sem elskar bróður sinn, hann er stöðugur í ljósinu og í honum er ekkert, er leitt geti hann til falls. 2.11 En sá sem hatar bróður sinn, hann er í myrkrinu og lifir í myrkrinu og veit ekki hvert hann fer, því að myrkrið hefur blindað augu hans. 2.12 Ég rita yður, börnin mín, af því að syndir yðar eru yður fyrirgefnar fyrir sakir nafns hans. 2.13 Ég rita yður, þér feður, af því að þér þekkið hann, sem er frá upphafi. Ég rita yður, þér ungu menn, af því að þér hafið sigrað hinn vonda. 2.14 Ég hef ritað yður, börn, af því að þér þekkið föðurinn. Ég hef ritað yður, feður, af því að þér þekkið hann, sem er frá upphafi. Ég hef ritað yður, ungu menn, af því að þér eruð styrkir og Guðs orð er stöðugt í yður og þér hafið sigrað hinn vonda. 2.15 Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti, sem í heiminum eru. Sá sem elskar heiminn, á ekki í sér kærleika til föðurins. 2.16 Því að allt það, sem í heiminum er, fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti, það er ekki frá föðurnum, heldur er það frá heiminum. 2.17 Og heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu. 2.18 Börn mín, það er hin síðasta stund. Þér hafið heyrt að andkristur kemur, og nú eru líka margir andkristar komnir fram. Af því vitum vér, að það er hin síðasta stund. 2.19 Þeir komu úr vorum hópi, en heyrðu oss ekki til. Ef þeir hefðu heyrt oss til, þá hefðu þeir áfram verið með oss. En þetta varð til þess að augljóst yrði, að enginn þeirra heyrði oss til. 2.20 En þér hafið smurning frá hinum heilaga og vitið þetta allir. 2.21 Ég hef ekki skrifað yður vegna þess, að þér þekkið ekki sannleikann, heldur af því að þér þekkið hann og af því að engin lygi getur komið frá sannleikanum. 2.22 Hver er lygari, ef ekki sá sem neitar, að Jesús sé Kristur? Sá er andkristurinn, sem afneitar föðurnum og syninum. 2.23 Hver sem afneitar syninum hefur ekki heldur fundið föðurinn. Sá sem játar soninn hefur og fundið föðurinn. 2.24 En þér, látið það vera stöðugt í yður, sem þér hafið heyrt frá upphafi. Ef það er stöðugt í yður, sem þér frá upphafi hafið heyrt, þá munuð þér einnig vera stöðugir í syninum og í föðurnum. 2.25 Og þetta er fyrirheitið, sem hann gaf oss: Hið eilífa líf. 2.26 Þetta hef ég skrifað yður um þá, sem eru að leiða yður afvega. 2.27 Og sú smurning, sem þér fenguð af honum, hún er stöðug í yður, og þér þurfið þess ekki, að neinn kenni yður, því smurning hans fræðir yður um allt, hún er sannleiki, en engin lygi. Verið stöðugir í honum, eins og hún kenndi yður. 2.28 Og nú, börnin mín, verið stöðug í honum, til þess að vér getum, þegar hann birtist, átt djörfung og blygðumst vor ekki fyrir honum, þegar hann kemur. 2.29 Þér vitið, að hann er réttlátur. Þá skiljið þér einnig, að hver sem iðkar réttlætið, er fæddur af honum.
3.1 Sjáið hvílíkan kærleika faðirinn hefur auðsýnt oss, að vér skulum kallast Guðs börn. Og það erum vér. Heimurinn þekkir oss ekki, vegna þess að hann þekkti hann ekki. 3.2 Þér elskaðir, nú þegar erum vér Guðs börn, og það er enn þá ekki orðið bert, hvað vér munum verða. Vér vitum, að þegar hann birtist, þá munum vér verða honum líkir, því að vér munum sjá hann eins og hann er. 3.3 Hver sem hefur þessa von til hans hreinsar sjálfan sig, eins og Kristur er hreinn. 3.4 Hver sem synd drýgir fremur og lögmálsbrot. Syndin er lögmálsbrot. 3.5 Þér vitið, að Kristur birtist til þess að taka burt syndir. Í honum er engin synd. 3.6 Hver sem er stöðugur í honum syndgar ekki, hver sem syndgar hefur ekki séð hann og þekkir hann ekki heldur. 3.7 Börnin mín, látið engan villa yður. Sá sem iðkar réttlætið er réttlátur, eins og Kristur er réttlátur. 3.8 Hver sem synd drýgir heyrir djöflinum til, því að djöfullinn syndgar frá upphafi. Til þess birtist Guðs sonur, að hann skyldi brjóta niður verk djöfulsins. 3.9 Hver sem af Guði er fæddur drýgir ekki synd, því að það, sem Guð hefur í hann sáð, varir í honum. Hann getur ekki syndgað, af því að hann er fæddur af Guði. 3.10 Af þessu eru augljós börn Guðs og börn djöfulsins. Sá sem iðkar ekki réttlætið og elskar ekki bróður sinn heyrir ekki Guði til. 3.11 Því að þetta er sá boðskapur, sem þér hafið heyrt frá upphafi: Vér eigum að elska hver annan. 3.12 Ekki vera eins og Kain, sem heyrði hinum vonda til og myrti bróður sinn. Og af hverju myrti hann hann? Af því að verk hans voru vond, en verk bróður hans réttlát. 3.13 Undrist ekki, bræður, þótt heimurinn hati yður. 3.14 Vér vitum, að vér erum komnir yfir frá dauðanum til lífsins, af því að vér elskum bræður vora. Sá sem ekki elskar er áfram í dauðanum. 3.15 Hver sem hatar bróður sinn er manndrápari og þér vitið, að enginn manndrápari hefur eilíft líf í sér. 3.16 Af því þekkjum vér kærleikann, að Jesús lét lífið fyrir oss. Svo eigum vér og að láta lífið fyrir bræðurna. 3.17 Ef sá, sem hefur heimsins gæði, horfir á bróður sinn vera þurfandi og lýkur aftur hjarta sínu fyrir honum, hvernig getur kærleikur til Guðs verið stöðugur í honum? 3.18 Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum, heldur í verki og sannleika. 3.19 Af þessu munum vér þekkja, að vér erum sannleikans megin og munum geta friðað hjörtu vor frammi fyrir honum, 3.20 hvað sem hjarta vort kann að dæma oss fyrir. Því að Guð er meiri en hjarta vort og þekkir alla hluti. 3.21 Þér elskaðir, ef hjartað dæmir oss ekki, þá höfum vér djörfung til Guðs. 3.22 Og hvað sem vér biðjum um fáum vér hjá honum, af því að vér höldum boðorð hans og gjörum það, sem honum er þóknanlegt. 3.23 Og þetta er hans boðorð, að vér skulum trúa á nafn sonar hans Jesú Krists og elska hver annan, samkvæmt því sem hann hefur gefið oss boðorð um. 3.24 Sá sem heldur boðorð Guðs er stöðugur í Guði og Guð í honum. Að hann er stöðugur í oss þekkjum vér af andanum, sem hann hefur gefið oss.
4.1 Þér elskaðir, trúið ekki sérhverjum anda, heldur reynið andana, hvort þeir séu frá Guði. Því margir falsspámenn eru farnir út í heiminn. 4.2 Af þessu getið þér þekkt anda Guðs: Sérhver andi, sem játar, að Jesús sé Kristur kominn í holdi, er frá Guði. 4.3 En sérhver andi, sem ekki játar Jesú, er ekki frá Guði. Hann er andkristsins andi, sem þér hafið heyrt um að komi, og nú þegar er hann í heiminum. 4.4 Þér börnin mín, heyrið Guði til og hafið sigrað falsspámennina, því að sá er meiri, sem í yður er, en sá, sem er í heiminum. 4.5 Falsspámennirnir heyra heiminum til. Þess vegna tala þeir eins og heimurinn talar, og heimurinn hlýðir á þá. 4.6 Vér heyrum Guði til. Hver sem þekkir Guð hlýðir á oss. Sá sem ekki heyrir Guði til hlýðir ekki á oss. Af þessu þekkjum vér sundur anda sannleikans og anda villunnar. 4.7 Þér elskaðir, elskum hver annan, því að kærleikurinn er frá Guði kominn, og hver sem elskar er af Guði fæddur og þekkir Guð. 4.8 Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð, því að Guð er kærleikur. 4.9 Í því birtist kærleikur Guðs meðal vor, að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að vér skyldum lifa fyrir hann. 4.10 Þetta er kærleikurinn: Ekki að vér elskuðum Guð, heldur að hann elskaði oss og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir vorar. 4.11 Þér elskaðir, fyrst Guð hefur svo elskað oss, þá ber einnig oss að elska hver annan. 4.12 Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Ef vér elskum hver annan, þá er Guð stöðugur í oss og kærleikur hans er fullkomnaður í oss. 4.13 Vér þekkjum, að vér erum stöðugir í honum og hann í oss, af því að hann hefur gefið oss af sínum anda. 4.14 Vér höfum séð og vitnum, að faðirinn hefur sent soninn til að vera frelsari heimsins. 4.15 Hver sem játar, að Jesús sé Guðs sonur, í honum er Guð stöðugur og hann í Guði. 4.16 Vér þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á oss, og trúum á hann. Guð er kærleikur, og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum. 4.17 Með því er kærleikurinn orðinn fullkominn hjá oss, að vér höfum djörfung á degi dómsins, því að vér erum í þessum heimi eins og hann er. 4.18 Ótti er ekki í elskunni. Fullkomin elska rekur út óttann. Því að óttinn felur í sér hegningu, en sá sem óttast er ekki fullkominn í elskunni. 4.19 Vér elskum, því að hann elskaði oss að fyrra bragði. 4.20 Ef einhver segir: 'Ég elska Guð,' og hatar bróður sinn, sá er lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð. 4.21 Og þetta boðorð höfum vér frá honum, að sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn.
5.1 Hver sem trúir, að Jesús sé Kristur, er af Guði fæddur, og hver sem elskar föðurinn elskar einnig barn hans. 5.2 Að vér elskum Guðs börn þekkjum vér af því, að vér elskum Guð og breytum eftir boðorðum hans. 5.3 Því að í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung, 5.4 því að allt, sem af Guði er fætt, sigrar heiminn, og trú vor, hún er sigurinn, hún hefur sigrað heiminn. 5.5 Hver er sá, sem sigrar heiminn, nema sá sem trúir, að Jesús sé sonur Guðs? 5.6 Hann er sá sem kom með vatni og blóði, Jesús Kristur. Ekki með vatninu einungis, heldur með vatninu og með blóðinu. Og andinn er sá sem vitnar, því að andinn er sannleikurinn. 5.7 Því að þrír eru þeir sem vitna [í himninum: Faðirinn, orðið og heilagur andi, og þessir þrír eru eitt. Og þeir eru þrír sem vitna á jörðunni:] 5.8 Andinn og vatnið og blóðið, og þeim þremur ber saman. 5.9 Vér tökum manna vitnisburð gildan, en vitnisburður Guðs er meiri. Þetta er vitnisburður Guðs, hann hefur vitnað um son sinn. 5.10 Sá sem trúir á Guðs son hefur vitnisburðinn í sjálfum sér. Sá sem ekki trúir Guði hefur gjört hann að lygara, af því að hann hefur ekki trúað á þann vitnisburð, sem Guð hefur vitnað um son sinn. 5.11 Og þetta er vitnisburðurinn, að Guð hefur gefið oss eilíft líf og þetta líf er í syni hans. 5.12 Sá sem hefur soninn á lífið, sá sem ekki hefur Guðs son á ekki lífið. 5.13 Þetta hef ég skrifað yður, sem trúið á nafn Guðs sonar, til þess að þér vitið, að þér hafið eilíft líf. 5.14 Og þetta er sú djörfung, sem vér höfum til hans: Ef vér biðjum um eitthvað eftir hans vilja, þá heyrir hann oss. 5.15 Og ef vér vitum, að hann heyrir oss, um hvað sem vér biðjum, þá vitum vér, að oss eru veittar þær bænir, sem vér höfum beðið hann um. 5.16 Ef einhver sér bróður sinn drýgja synd, sem er ekki til dauða, þá skal hann biðja, og Guð mun gefa honum líf, þeim sem ekki syndgar til dauða. Til er synd til dauða. Fyrir henni segi ég ekki að hann skuli biðja. 5.17 Allt ranglæti er synd, en til er synd, sem ekki er til dauða. 5.18 Vér vitum, að hver sem af Guði er fæddur syndgar ekki, sá sem af Guði er fæddur varðveitir hann og hinn vondi snertir hann ekki. 5.19 Vér vitum, að vér tilheyrum Guði og allur heimurinn er á valdi hins vonda. 5.20 Vér vitum, að Guðs sonur er kominn og hefur gefið oss skilning, til þess að vér þekkjum sannan Guð. Vér erum í hinum sanna Guði fyrir samfélag vort við son hans Jesú Krist. Hann er hinn sanni Guð og eilífa lífið.
1.1 Öldungurinn heilsar hinni útvöldu frú og börnum hennar, sem ég elska í sannleika. Og ekki ég einn, heldur einnig allir, sem þekkja sannleikann. 1.2 Vér gjörum það sakir sannleikans, sem er stöðugur í oss og mun vera hjá oss til eilífðar. 1.3 Náð, miskunn og friður frá Guði föður og frá Jesú Kristi, syni föðurins, mun vera með oss í sannleika og kærleika. 1.4 Það hefur glatt mig mjög, að ég hef fundið nokkur af börnum þínum, er ganga fram í sannleika, samkvæmt því boðorði, sem vér tókum við af föðurnum. 1.5 Og nú bið ég þig, frú mín góð, og er þá ekki að skrifa þér nýtt boðorð, heldur það, er vér höfðum frá upphafi: Vér skulum elska hver annan. 1.6 Og í þessu birtist elskan, að vér lifum eftir boðorðum hans. Þetta er boðorðið, eins og þér heyrðuð það frá upphafi, til þess að þér skylduð lifa í því. 1.7 Því að margir afvegaleiðendur eru farnir út í heiminn, sem ekki játa, að Jesús sé Kristur, kominn í holdi. Þetta er afvegaleiðandinn og andkristurinn. 1.8 Hafið gætur á sjálfum yður að þér missið ekki það, sem vér höfum áunnið, heldur megið fá full laun. 1.9 Sérhver sem fer of langt og er ekki stöðugur í kenningu Krists, hefur ekki Guð. Sá sem er stöðugur í kenningunni, hann hefur bæði föðurinn og soninn. 1.10 Ef einhver kemur til yðar og er ekki með þessa kenningu, þá takið hann ekki á heimili yðar og biðjið hann ekki vera velkominn. 1.11 Því að sá, sem biður hann vera velkominn, verður hluttakandi í hans vondu verkum. 1.12 Þótt ég hafi margt að rita yður, vildi ég ekki gjöra það með pappír og bleki, en ég vona að koma til yðar og tala munnlega við yður, til þess að gleði vor verði fullkomin.
1.1 Öldungurinn heilsar elskuðum Gajusi, sem ég ann í sannleika. 1.2 Ég bið þess, minn elskaði, að þér vegni vel í öllum hlutum og að þú sért heill heilsu, eins og sálu þinni vegnar vel. 1.3 Ég varð mjög glaður, þegar bræður komu og báru vitni um tryggð þína við sannleikann, hversu þú lifir í sannleika. 1.4 Ég hef enga meiri gleði en þá að heyra, að börnin mín lifi í sannleikanum. 1.5 Þú breytir dyggilega, minn elskaði, í öllu sem þú vinnur fyrir bræðurna og jafnvel ókunna menn. 1.6 Þeir hafa vitnað fyrir söfnuðinum um kærleika þinn. Þú gjörir vel, er þú greiðir för þeirra eins og verðugt er fyrir Guði. 1.7 Því að sakir nafnsins lögðu þeir af stað og þiggja ekki neitt af heiðnum mönnum. 1.8 Þess vegna ber oss að taka þvílíka menn að oss, til þess að vér verðum samverkamenn sannleikans. 1.9 Ég hef ritað nokkuð til safnaðarins, en Díótrefes, sem vill vera fremstur meðal þeirra, tekur eigi við oss. 1.10 Þess vegna ætla ég, ef ég kem, að minna á verk þau er hann vinnur. Hann lætur sér ekki nægja að ófrægja oss með vondum orðum, heldur tekur hann ekki sjálfur á móti bræðrunum og hindrar þá, er það vilja gjöra, og rekur þá úr söfnuðinum. 1.11 Breyttu ekki eftir því, sem illt er, minn elskaði, heldur eftir því, sem gott er. Sá sem gott gjörir heyrir Guði til, en sá sem illt gjörir hefur ekki séð Guð. 1.12 Demetríusi er borið gott vitni af öllum og af sannleikanum sjálfum. Það gjörum vér líka, og þú veist að vitnisburður vor er sannur. 1.13 Ég hef margt að rita þér, en vil ekki rita þér með bleki og penna. 1.14 En ég vona að sjá þig bráðum og munum við þá talast við munnlega.
1.1 Júdas, þjónn Jesú Krists, bróðir Jakobs, heilsar hinum kölluðu, sem eru elskaðir af Guði föður og varðveittir Jesú Kristi. 1.2 Miskunn, friður og kærleiki margfaldist yður til handa. 1.3 Þér elskaðir, mér var það ríkt í huga að rita yður um sameiginlegt hjálpræði vort. En nú kemst ég ekki hjá því að skrifa og hvetja yður til að berjast fyrir þeirri trú, sem heilögum hefur í eitt skipti fyrir öll verið í hendur seld. 1.4 Því að inn hafa læðst nokkrir menn, sem fyrir löngu var ritað um að þessi dómur biði þeirra. Þeir eru óguðlegir menn, sem misnota náð Guðs vors til taumleysis og afneita vorum einasta lávarði og Drottni, Jesú Kristi. 1.5 Ég vil minna yður á, þótt þér nú einu sinni vitið það allt, að Drottinn frelsaði lýðinn úr Egyptalandi, en tortímdi samt síðar þeim, sem ekki trúðu. 1.6 Og englana, sem ekki gættu tignar sinnar, heldur yfirgáfu eigin bústað, hefur hann í myrkri geymt í ævarandi fjötrum til dóms hins mikla dags. 1.7 Eins og Sódóma og Gómorra og borgirnar umhverfis þær, sem drýgt höfðu saurlifnað á líkan hátt og þeir og stunduðu óleyfilegar lystisemdir, þær liggja fyrir sem dæmi, líðandi hegningu eilífs elds. 1.8 Á sama hátt saurga og þessir draumvilltu menn líkamann, meta að engu drottinvald og lastmæla tignum. 1.9 Eigi dirfðist einu sinni höfuðengillinn Míkael að leggja lastmælisdóm á djöfulinn, er hann átti í orðadeilu við hann um líkama Móse, heldur sagði: 'Drottinn refsi þér!' 1.10 En þessir menn lastmæla öllu því, sem þeir þekkja ekki, en spilla sér á því sem þeir skilja af eðlisávísun eins og skynlausar skepnur. 1.11 Vei þeim, því að þeir hafa gengið á vegi Kains og hrapað í villu Bíleams fyrir ávinnings sakir og tortímst í þverúð Kóra. 1.12 Þessir menn eru blindsker við kærleiksmáltíðir yðar, er þeir sitja að veislum með yður og háma í sig blygðunarlaust. Þeir eru vatnslaus ský, sem rekast fyrir vindum, tré, sem bera ekki ávöxt að hausti, tvisvar dauð og rifin upp með rótum. 1.13 Þeir eru ofsalegar hafsbylgjur, sem freyða eigin skömmum, reikandi stjörnur, sem eiga dýpsta myrkur í vændum til eilífðar. 1.14 Um þessa menn spáði líka Enok, sjöundi maður frá Adam, er hann segir: 'Sjá, Drottinn er kominn með sínum þúsundum heilagra 1.15 til að halda dóm yfir öllum og til að sanna alla óguðlega menn seka um öll þau óguðlegu verk, sem þeir hafa drýgt, og um öll þau hörðu orð, sem óguðlegir syndarar hafa talað gegn honum.' 1.16 Þessir menn eru möglarar, umkvörtunarsamir og lifa eftir girndum sínum. Munnur þeirra mælir ofstopaorð og þeir meta menn eftir hagnaði. 1.17 En, þér elskaðir, minnist þeirra orða, sem áður hafa töluð verið af postulum Drottins vors Jesú Krists. 1.18 Þeir sögðu við yður: 'Á síðasta tíma munu koma spottarar, sem stjórnast af sínum eigin óguðlegu girndum.' 1.19 Þessir menn eru þeir, sem valda sundrungu, holdlegir menn, sem eigi hafa andann. 1.20 En þér, elskaðir, byggið yður sjálfa upp í yðar helgustu trú. Biðjið í heilögum anda. 1.21 Varðveitið sjálfa yður í kærleika Guðs, og bíðið eftir náð Drottins vors Jesú Krists til eilífs lífs. 1.22 Verið mildir við suma, þá sem eru efablandnir, 1.23 suma skuluð þér frelsa, með því að hrífa þá út úr eldinum. Og suma skuluð þér vera mildir við með ótta, og hatið jafnvel kyrtilinn, sem flekkaður er af holdinu. 1.24 En honum, sem megnar að varðveita yður frá hrösun og láta yður koma fram fyrir dýrð sína, lýtalausa í fögnuði,
1.1 Opinberun Jesú Krists, sem Guð gaf honum til að sýna þjónum sínum það sem verða á innan skamms. Hann sendi engil sinn og lét hann kynna það Jóhannesi, þjóni sínum, 1.2 sem bar vitni um orð Guðs og vitnisburð Jesú Krists, um allt það er hann sá. 1.3 Sæll er sá, er les þessi spádómsorð, og þeir, sem heyra þau og varðveita það, sem í þeim er ritað, því að tíminn er í nánd. 1.4 Frá Jóhannesi til safnaðanna sjö, sem í Asíu eru. Náð sé með yður og friður frá honum, sem er og var og kemur, og frá öndunum sjö, sem eru frammi fyrir hásæti hans, 1.5 og frá Jesú Kristi, sem er votturinn trúi, frumburður dauðra, höfðinginn yfir konungum jarðarinnar. Hann elskar oss og leysti oss frá syndum vorum með blóði sínu. 1.6 Og hann gjörði oss að konungsríki og prestum, Guði sínum og föður til handa. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen. 1.7 Sjá, hann kemur í skýjunum og hvert auga mun sjá hann, jafnvel þeir, sem stungu hann, og allar kynkvíslir jarðarinnar munu kveina yfir honum. Vissulega, amen. 1.8 Ég er Alfa og Ómega, segir Drottinn Guð, hann sem er og var og kemur, hinn alvaldi. 1.9 Ég, Jóhannes, bróðir yðar, sem í Jesú á hlutdeild með yður í þrengingunni, ríkinu og þolgæðinu, var á eynni Patmos fyrir sakir Guðs orðs og vitnisburðar Jesú. 1.10 Ég var hrifinn í anda á Drottins degi og heyrði að baki mér raust mikla, sem lúður gylli, 1.11 er sagði: 'Rita þú í bók það sem þú sérð og send það söfnuðunum sjö, í Efesus, Smýrnu, Pergamos, Þýatíru, Sardes, Fíladelfíu og Laódíkeu.' 1.12 Ég sneri mér við til að sjá, hvers raust það væri, sem við mig talaði. Og er ég sneri mér við, sá ég sjö gullljósastikur, 1.13 og milli ljósastikanna einhvern, líkan mannssyni, klæddan síðkyrtli og gullbelti var spennt um bringu hans. 1.14 Höfuð hans og hár var hvítt, eins og hvít ull, eins og mjöll, og augu hans eins og eldslogi. 1.15 Og fætur hans voru líkir málmi glóandi í deiglu og raust hans sem niður margra vatna. 1.16 Hann hafði í hægri hendi sér sjö stjörnur og af munni hans gekk út tvíeggjað sverð biturt, og ásjóna hans var sem sólin skínandi í mætti sínum. 1.17 Þegar ég sá hann, féll ég fyrir fætur honum sem dauður væri. Og hann lagði hægri hönd sína yfir mig og sagði: 'Vertu ekki hræddur, ég er hinn fyrsti og hinn síðasti 1.18 og hinn lifandi.' Ég dó, en sjá, lifandi er ég um aldir alda, og ég hef lykla dauðans og Heljar. 1.19 Rita þú nú það er þú hefur séð, bæði það sem er og það sem verða mun eftir þetta. 1.20 Þessi er leyndardómurinn um stjörnurnar sjö, sem þú hefur séð í hægri hendi minni, og um gullstikurnar sjö. Stjörnurnar sjö eru englar þeirra sjö safnaða, og ljósastikurnar sjö eru söfnuðirnir sjö.
2.1 Engli safnaðarins í Efesus skalt þú rita: Þetta segir sá sem heldur á stjörnunum sjö í hægri hendi sér, sá sem gengur á milli gullstikanna sjö: 2.2 Ég þekki verkin þín og erfiðið og þolgæði þitt og veit, að eigi getur þú sætt þig við vonda menn. Þú hefur reynt þá, sem segja sjálfa sig vera postula, en eru það ekki, og þú hefur komist að því, að þeir eru lygarar. 2.3 Þú ert þolgóður og byrðar hefur þú borið fyrir sakir nafns míns og ekki þreytst. 2.4 En það hef ég á móti þér, að þú hefur afrækt þinn fyrri kærleika. 2.5 Minnst þú því, úr hvaða hæð þú hefur hrapað, og gjör iðrun og breyttu eins og fyrrum. Að öðrum kosti kem ég til þín og færi ljósastiku þína úr stað, ef þú gjörir ekki iðrun. 2.6 En það mátt þú eiga, að þú hatar verk Nikólaítanna, sem ég sjálfur hata. 2.7 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar, honum mun ég gefa að eta af lífsins tré, sem er í Paradís Guðs. 2.8 Og engli safnaðarins í Smýrnu skalt þú rita: Þetta segir sá fyrsti og síðasti, sá sem dó og varð aftur lifandi: 2.9 Ég þekki þrengingu þína og fátækt _ en þú ert samt auðugur. Ég veit hvernig þú ert hrakyrtur af þeim, sem segja sjálfa sig vera Gyðinga, en eru það ekki, heldur samkunda Satans. 2.10 Kvíð þú ekki því, sem þú átt að líða. Sjá, djöfullinn mun varpa nokkrum yðar í fangelsi, til þess að yðar verði freistað, og þér munuð þrenging hafa í tíu daga. Vertu trúr allt til dauða, og ég mun gefa þér kórónu lífsins. 2.11 Hver sem eyra hefur, hann heyri, hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar mun sá annar dauði ekki granda. 2.12 Og engli safnaðarins í Pergamos skalt þú rita: Þetta segir sá sem hefur sverðið tvíeggjaða og bitra: 2.13 Ég veit hvar þú býrð, þar sem hásæti Satans er. Þú heldur stöðugt við nafn mitt og afneitar ekki trúnni á mig, jafnvel ekki á dögum Antípasar, míns trúa vottar, sem deyddur var hjá yður, þar sem Satan býr. 2.14 En þó hef ég nokkuð á móti þér. Þú hefur hjá þér menn, sem halda fast við kenningu Bíleams, þess er kenndi Balak að tæla Ísraelsmenn, svo að þeir neyttu kjöts, sem helgað var skurðgoðum, og drýgðu hór. 2.15 Þannig hefur þú líka hjá þér menn, sem halda fast við kenningu Nikólaíta. 2.16 Gjör því iðrun! Að öðrum kosti kem ég skjótt til þín og mun berjast við þá með sverði munns míns. 2.17 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar mun ég gefa af hinu hulda 'manna', og ég mun gefa honum hvítan stein, og á steininn ritað nýtt nafn, sem enginn þekkir nema sá, er við tekur. 2.18 Og engli safnaðarins í Þýatíru skalt þú rita: Þetta segir sonur Guðs, sem augun hefur eins og eldsloga og fætur hans eru líkir glómálmi: 2.19 Ég þekki verkin þín og kærleikann, trúna, þjónustuna og þolgæði þitt og veit, að verk þín hin síðari eru meiri en hin fyrri. 2.20 En það hef ég á móti þér, að þú líður Jessabel, konuna, sem segir sjálfa sig vera spákonu og kennir þjónum mínum og afvegaleiðir þá til að drýgja hór og eta kjöt helgað skurðgoðum. 2.21 Ég hef gefið henni frest til þess að hún gjöri iðrun, en hún vill ekki gjöra iðrun og láta af hórdómi sínum. 2.22 Nú mun ég varpa henni á sjúkrabeð og þeim í mikla þrengingu, sem hórast með henni, ef þeir gjöra ekki iðrun og láta af verkum hennar. 2.23 Og börn hennar mun ég deyða og allir söfnuðirnir skulu vita, að ég er sá, sem rannsakar nýrun og hjörtun, og ég mun gjalda yður, hverjum og einum, eftir verkum yðar. 2.24 En yður segi ég, hinum sem eruð í Þýatíru, öllum þeim sem hafa ekki kenningu þessa, þar sem þeir hafa ekki kannað djúp Satans, sem þeir svo kalla: Aðra byrði legg ég eigi á yður, 2.25 nema það að þér haldið því, sem þér hafið, þangað til ég kem. 2.26 Þeim er sigrar og varðveitir allt til enda verk mín mun ég gefa vald yfir heiðingjunum. 2.27 Og hann mun stjórna þeim með járnsprota, eins og leirker eru moluð. Það vald hef ég fengið frá föður mínum. 2.28 Og ég mun gefa honum morgunstjörnuna. 2.29 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.
3.1 Og engli safnaðarins í Sardes skalt þú rita: Þetta segir sá sem hefur þá sjö anda Guðs og stjörnurnar sjö. Ég þekki verkin þín, að þú lifir að nafninu, en ert dauður. 3.2 Vakna þú og styrk það sem eftir er og að dauða komið. Því margt hef ég fundið í fari þínu, sem ekki stenst fyrir Guði mínum. 3.3 Minnst þú því, hvernig þú tókst á móti og heyrðir, og varðveit það og gjör iðrun. Ef þú vakir ekki, mun ég koma eins og þjófur, og þú munt alls ekki vita, á hverri stundu ég kem yfir þig. 3.4 En þú átt fáein nöfn í Sardes, sem ekki hafa saurgað klæði sín, og þeir munu ganga með mér í hvítum klæðum, því að þeir eru maklegir. 3.5 Sá er sigrar, hann skal þá skrýðast hvítum klæðum, og eigi mun ég afmá nafn hans úr bók lífsins. Ég mun kannast við nafn hans fyrir föður mínum og fyrir englum hans. 3.6 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. 3.7 Og engli safnaðarins í Fíladelfíu skalt þú rita: Þetta segir sá heilagi, sá sanni, sem hefur lykil Davíðs, hann sem lýkur upp, svo að enginn læsir, og læsir, svo að enginn lýkur upp. 3.8 Ég þekki verkin þín. Sjá, ég hef látið dyr standa opnar fyrir þér, sem enginn getur lokað. Þú hefur lítinn mátt, en hefur varðveitt orð mitt og ekki afneitað nafni mínu. 3.9 Ég skal láta nokkra af samkundu Satans, er segja sjálfa sig vera Gyðinga, en eru það ekki, heldur ljúga, _ ég skal láta þá koma og kasta sér fyrir fætur þér og láta þá vita, að ég elska þig. 3.10 Af því að þú hefur varðveitt orðið um þolgæði mitt mun ég og varðveita þig frá reynslustundinni, sem koma mun yfir alla heimsbyggðina, til að reyna þá sem á jörðunni búa. 3.11 Ég kem skjótt. Haltu fast því, sem þú hefur, til þess að enginn taki kórónu þína. 3.12 Þann er sigrar mun ég gjöra að stólpa í musteri Guðs míns, og hann skal aldrei þaðan út fara. Á hann mun ég rita nafn Guðs míns og nafn borgar Guðs míns, hinnar nýju Jerúsalem, er kemur af himni ofan frá Guði mínum, og nafnið mitt hið nýja. 3.13 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. 3.14 Og engli safnaðarins í Laódíkeu skalt þú rita: Þetta segir hann, sem er amen, votturinn trúi og sanni, upphaf sköpunar Guðs: 3.15 Ég þekki verkin þín, að þú ert hvorki kaldur né heitur. Betur að þú værir kaldur eða heitur. 3.16 En af því að þú ert hálfvolgur og hvorki heitur né kaldur, mun ég skyrpa þér út af munni mínum. 3.17 Þú segir: 'Ég er ríkur og orðinn auðugur og þarfnast einskis.' Og þú veist ekki, að þú ert vesalingur og aumingi og fátækur og blindur og nakinn. 3.18 Ég ræð þér, að þú kaupir af mér gull, skírt í eldi, til þess að þú verðir auðugur, og hvít klæði til að skýla þér með, að eigi komi í ljós vanvirða nektar þinnar, og smyrsl að smyrja með augu þín, til þess að þú verðir sjáandi. 3.19 Alla þá, sem ég elska, tyfta ég og aga. Ver því heilhuga og gjör iðrun. 3.20 Sjá, ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum, þá mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér. 3.21 Þann er sigrar mun ég láta sitja hjá mér í hásæti mínu, eins og ég sjálfur sigraði og settist hjá föður mínum í hásæti hans. 3.22 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.
4.1 Eftir þetta sá ég sýn: Opnar dyr á himninum og raustin hin fyrri, er ég heyrði sem lúður gylli, talaði við mig og sagði: 'Stíg upp hingað, og ég mun sýna þér það, sem verða á eftir þetta.' 4.2 Jafnskjótt var ég hrifinn í anda. Og sjá: Hásæti stóð á himni og einhver sat í hásætinu. 4.3 Sá, er þar sat, sýndist líkur jaspissteini og sardissteini og regnbogi var kringum hásætið á að sjá sem smaragður. 4.4 Umhverfis hásætið voru tuttugu og fjögur hásæti, og í þeim hásætum sá ég sitja tuttugu og fjóra öldunga, skrýdda hvítum klæðum og á höfðum þeirra gullkórónur. 4.5 Út frá hásætinu gengu eldingar, dunur og þrumur, og sjö eldblys brunnu frammi fyrir hásætinu. Það eru þeir sjö andar Guðs. 4.6 Og frammi fyrir hásætinu var sem glerhaf, líkt kristalli. Fyrir miðju hásætinu og umhverfis hásætið voru fjórar verur alsettar augum í bak og fyrir. 4.7 Fyrsta veran var lík ljóni, önnur veran lík uxa, þriðja veran hafði ásjónu sem maður og fjórða veran var lík fljúgandi erni. 4.8 Verurnar fjórar höfðu hver um sig sex vængi og voru alsettar augum, allt um kring og að innanverðu. Og eigi láta þær af, dag og nótt, að segja: Heilagur, heilagur, heilagur, Drottinn Guð, hinn alvaldi, hann sem var og er og kemur. 4.9 Og þegar verurnar gjalda honum, sem í hásætinu situr, dýrð og heiður og þökk, honum sem lifir um aldir alda, 4.10 þá falla öldungarnir tuttugu og fjórir niður frammi fyrir honum, sem í hásætinu situr, og tilbiðja hann, sem lifir um aldir alda, og varpa kórónum sínum niður fyrir hásætinu og segja: 4.11 Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.
5.1 Í hægri hendi hans, er í hásætinu sat, sá ég bók, skrifaða innan og utan, innsiglaða sjö innsiglum. 5.2 Og ég sá sterkan engil, sem kallaði hárri röddu: 'Hver er maklegur að ljúka upp bókinni og leysa innsigli hennar?' 5.3 En enginn var sá á himni eða jörðu eða undir jörðunni, sem lokið gæti upp bókinni og litið í hana. 5.4 Og ég grét stórum af því að enginn reyndist maklegur að ljúka upp bókinni og líta í hana. 5.5 En einn af öldungunum segir við mig: 'Grát þú eigi! Sjá, sigrað hefur ljónið af Júda ættkvísl, rótarkvistur Davíðs, hann getur lokið upp bókinni og innsiglum hennar sjö.' 5.6 Þá sá ég fyrir miðju hásætinu og fyrir verunum fjórum og öldungunum lamb standa, sem slátrað væri. Það hafði sjö horn og sjö augu, og eru það sjö andar Guðs, sendir út um alla jörðina. 5.7 Og það kom og tók við bókinni úr hægri hendi hans, er í hásætinu sat. 5.8 Þegar það hafði tekið við henni, féllu verurnar fjórar og öldungarnir tuttugu og fjórir niður frammi fyrir lambinu. Þeir höfðu hver um sig hörpu og gullskálar, fullar af reykelsi, það eru bænir hinna heilögu. 5.9 Og þeir syngja nýjan söng: Verður ert þú að taka við bókinni og ljúka upp innsiglum hennar, því að þér var slátrað og þú keyptir menn Guði til handa með blóði þínu af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð. 5.10 Og þú gjörðir þá, Guði vorum til handa, að konungsríki og prestum. Og þeir munu ríkja á jörðunni. 5.11 Þá sá ég og heyrði raust margra engla, sem stóðu hringinn í kringum hásætið og verurnar og öldungana, og tala þeirra var tíu þúsundir tíu þúsunda og þúsundir þúsunda. 5.12 Þeir sögðu með hárri röddu: Maklegt er lambið hið slátraða að fá máttinn og ríkdóminn, visku og kraft, heiður og dýrð og lofgjörð. 5.13 Og allt skapað, sem er á himni og jörðu og undir jörðunni og á hafinu, allt sem í þeim er, heyrði ég segja: Honum, sem í hásætinu situr, og lambinu, sé lofgjörðin og heiðurinn, dýrðin og krafturinn um aldir alda. 5.14 Og verurnar fjórar sögðu: 'Amen.' Og öldungarnir féllu fram og veittu lotningu.
6.1 Og ég sá, er lambið lauk upp einu af innsiglunum sjö, og ég heyrði eina af verunum fjórum segja eins og með þrumuraust: 'Kom!' 6.2 Og ég sá, og sjá: Hvítur hestur, og sá sem á honum sat hafði boga, og honum var fengin kóróna og hann fór út sigrandi og til þess að sigra. 6.3 Þegar lambið lauk upp öðru innsiglinu, heyrði ég aðra veruna segja: 'Kom!' 6.4 Og út gekk annar hestur, rauður, og þeim sem á honum sat var gefið vald að taka burt friðinn af jörðunni, svo að menn brytjuðu hverjir aðra niður. Og honum var fengið sverð mikið. 6.5 Þegar lambið lauk upp þriðja innsiglinu, heyrði ég þriðju veruna segja: 'Kom!' Og ég sá, og sjá: Svartur hestur, og sá er á honum sat hafði vog í hendi sér. 6.6 Og mitt á meðal veranna fjögurra heyrði ég eins konar rödd er sagði: 'Mælir hveitis fyrir daglaun og þrír mælar byggs fyrir daglaun, en eigi skalt þú spilla olíunni og víninu.' 6.7 Þegar lambið lauk upp fjórða innsiglinu, heyrði ég rödd fjórðu verunnar, er sagði: 'Kom!' 6.8 Og ég sá, og sjá: Bleikur hestur, og sá er á honum sat, hann hét Dauði, og Hel var í för með honum. Þeim var gefið vald yfir fjórða hluta jarðarinnar, til þess að deyða með sverði, með hungri og drepsótt og láta menn farast fyrir villidýrum jarðarinnar. 6.9 Þegar lambið lauk upp fimmta innsiglinu, sá ég undir altarinu sálir þeirra manna, sem drepnir höfðu verið fyrir sakir Guðs orðs og fyrir sakir vitnisburðarins, sem þeir höfðu. 6.10 Og þeir hrópuðu hárri röddu og sögðu: 'Hversu lengi ætlar þú, Herra, þú heilagi og sanni, að draga það að dæma og hefna blóðs vors á byggjendum jarðarinnar?' 6.11 Og þeim var fengin, hverjum og einum, hvít skikkja. Og þeim var sagt, að þeir skyldu enn hvílast litla hríð, þangað til samþjónar þeirra og bræður þeirra, sem áttu að deyðast eins og sjálfir þeir, einnig fylltu töluna. 6.12 Og ég sá, er lambið lauk upp sjötta innsiglinu. Og mikill landskjálfti varð, og sólin varð svört sem hærusekkur, og allt tunglið varð sem blóð. 6.13 Og stjörnur himinsins hröpuðu niður á jörðina eins og þegar fíkjutré, skekið af stormvindi, fellir haustaldin sín. 6.14 Og himinninn sviptist burt eins og þegar bókfell vefst saman, og hvert fjall og ey færðist úr stað sínum. 6.15 Og konungar jarðarinnar og höfðingjarnir og herforingjarnir og auðmennirnir, mektarmennirnir og hver þræll og þegn fólu sig í hellum og í hömrum fjalla. 6.16 Og þeir segja við fjöllin og hamrana: 'Hrynjið yfir oss og felið oss fyrir ásjónu hans, sem í hásætinu situr, og fyrir reiði lambsins; 6.17 því að kominn er dagurinn, hinn mikli dagur reiði þeirra, og hver mun geta staðist?'
7.1 Eftir þetta sá ég fjóra engla, er stóðu á fjórum skautum jarðarinnar. Þeir héldu fjórum vindum jarðarinnar, til þess að eigi skyldi vindur blása yfir jörðina né hafið né yfir nokkurt tré. 7.2 Og ég sá annan engil stíga upp í austri. Hann hélt á innsigli lifanda Guðs og hrópaði hárri röddu til englanna fjögurra, sem gefið var vald til að granda jörðinni og hafinu, 7.3 og sagði: 'Vinnið ekki jörðinni grand og ekki heldur hafinu né trjánum, þar til er vér höfum sett innsigli á enni þjóna Guðs vors.' 7.4 Og ég heyrði tölu þeirra, sem merktir voru innsigli, hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir af öllum ættkvíslum Ísraelssona voru merktar innsigli. 7.5 Af Júda ættkvísl voru tólf þúsund merkt innsigli, af Rúbens ættkvísl tólf þúsund, af Gaðs ættkvísl tólf þúsund, 7.6 af Assers ættkvísl tólf þúsund, af Naftalí ættkvísl tólf þúsund, af Manasse ættkvísl tólf þúsund, 7.7 af Símeons ættkvísl tólf þúsund, af Leví ættkvísl tólf þúsund, af Íssakars ættkvísl tólf þúsund, 7.8 af Sebúlons ættkvísl tólf þúsund, af Jósefs ættkvísl tólf þúsund, af Benjamíns ættkvísl tólf þúsund menn merktir innsigli. 7.9 Eftir þetta sá ég, og sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu, skrýddir hvítum skikkjum, og höfðu pálmagreinar í höndum. 7.10 Og þeir hrópa hárri röddu: Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu. 7.11 Allir englarnir stóðu kringum hásætið og öldungana og verurnar fjórar. Og þeir féllu fram fyrir hásætinu á ásjónur sínar, tilbáðu Guð 7.12 og sögðu: Amen, lofgjörðin og dýrðin, viskan og þakkargjörðin, heiðurinn og mátturinn og krafturinn sé Guði vorum um aldir alda. Amen. 7.13 Einn af öldungunum tók þá til máls og sagði við mig: 'Þessir, sem skrýddir eru hvítu skikkjunum, hverjir eru þeir og hvaðan eru þeir komnir?' 7.14 Og ég sagði við hann: 'Herra minn, þú veist það.' Hann sagði við mig: 'Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins. 7.15 Þess vegna eru þeir frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans, og sá, sem í hásætinu situr, mun tjalda yfir þá. 7.16 Eigi mun þá framar hungra og eigi heldur framar þyrsta og eigi mun heldur sól brenna þá né nokkur hiti. 7.17 Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.'
8.1 Þegar lambið lauk upp sjöunda innsiglinu, varð þögn á himni hér um bil hálfa stund. 8.2 Og ég sá englana sjö, sem stóðu frammi fyrir Guði, og þeim voru fengnar sjö básúnur. 8.3 Og annar engill kom og nam staðar við altarið. Hann hélt á reykelsiskeri úr gulli. Honum var fengið mikið reykelsi til þess að hann skyldi leggja það við bænir allra hinna heilögu á gullaltarið frammi fyrir hásætinu. 8.4 Og reykurinn af reykelsinu steig upp með bænum hinna heilögu úr hendi engilsins frammi fyrir Guði. 8.5 Þá tók engillinn reykelsiskerið og fyllti það eldi af altarinu og varpaði ofan á jörðina. Og þrumur komu og dunur og eldingar og landskjálfti. 8.6 Og englarnir sjö, sem héldu á básúnunum sjö, bjuggu sig til að blása. 8.7 Hinn fyrsti básúnaði. Þá kom hagl og eldur, blóði blandað, og því var varpað ofan á jörðina. Og þriðjungur jarðarinnar eyddist í loga, og þriðjungur trjánna eyddist í loga, og allt grængresi eyddist í loga. 8.8 Annar engillinn básúnaði. Þá var sem miklu fjalli, logandi af eldi, væri varpað í hafið. Þriðjungur hafsins varð blóð, 8.9 og þriðjungurinn dó af lífverum þeim, sem eru í hafinu, og þriðjungur skipanna fórst. 8.10 Þriðji engillinn básúnaði. Þá féll stór stjarna af himni, logandi sem blys, og hún féll ofan á þriðjung fljótanna og á lindir vatnanna. 8.11 Nafn stjörnunnar er Remma. Þriðjungur vatnanna varð að remmu og margir menn biðu bana af vötnunum, af því að þau voru beisk orðin. 8.12 Fjórði engillinn básúnaði. Þá varð þriðjungur sólarinnar lostinn og þriðjungur tunglsins og þriðjungur stjarnanna, svo að þriðjungur þeirra yrði myrkur. Og dagurinn missti þriðjung birtu sinnar og nóttin hið sama. 8.13 Þá sá ég og heyrði örn einn fljúga um háhvolf himins. Hann kallaði hárri röddu: 'Vei, vei, vei þeim, sem á jörðu búa, vegna lúðurhljóma englanna þriggja, sem eiga eftir að básúna.'
9.1 Og fimmti engillinn básúnaði. Þá sá ég stjörnu, er fallið hafði af himni ofan á jörðina, og henni var fenginn lykillinn að brunni undirdjúpsins. 9.2 Og hún lauk upp brunni undirdjúpsins, og reyk lagði upp af brunninum eins og reyk frá stórum ofni. Og sólin myrkvaðist og loftið af reyknum úr brunninum. 9.3 Út úr reyknum komu engisprettur á jörðina og þær fengu sama mátt og sporðdrekar jarðarinnar. 9.4 Og sagt var við þær, að eigi skyldu þær granda grasi jarðarinnar né nokkrum grænum gróðri né nokkru tré, engu nema mönnunum, þeim er eigi hafa innsigli Guðs á ennum sér. 9.5 Og þeim var svo um boðið, að þær skyldu eigi deyða þá, heldur skyldu þeir kvaldir verða í fimm mánuði. Undan þeim svíður eins og undan sporðdreka, er hann stingur mann. 9.6 Á þeim dögum munu mennirnir leita dauðans og ekki finna hann. Menn munu æskja sér að deyja, en dauðinn flýr þá. 9.7 Og ásýndum voru engispretturnar svipaðar hestum, búnum til bardaga, og á höfðum þeirra voru eins og kórónur úr gulli, og ásjónur þeirra voru sem ásjónur manna. 9.8 Þær höfðu hár sem hár kvenna, og tennur þeirra voru eins og ljónstennur. 9.9 Þær höfðu brjósthlífar eins og járnbrynjur, og vængjaþyturinn frá þeim var eins og vagnagnýr, þegar margir hestar bruna fram til bardaga. 9.10 Þær hafa hala og brodda eins og sporðdrekar. Og í hölum þeirra er máttur þeirra til að skaða menn í fimm mánuði. 9.11 Konung hafa þær yfir sér, engil undirdjúpsins. Nafn hans er á hebresku Abaddón og á grísku heitir hann Apollýón. 9.12 Veiið hið fyrsta er liðið hjá. Sjá, enn koma tvö vei eftir þetta. 9.13 Og sjötti engillinn básúnaði. Þá heyrði ég rödd eina frá hornunum á gullaltarinu, sem er frammi fyrir Guði. 9.14 Og röddin sagði við sjötta engilinn, sem hélt á básúnunni: 'Leys þú englana fjóra, sem bundnir eru við fljótið mikla, Efrat.' 9.15 Og englarnir fjórir voru leystir, sem búnir stóðu til stundar þessarar, dags þessa, mánaðar þessa og árs þessa, til þess að deyða þriðjung mannanna. 9.16 Og talan á herfylkingum riddaraliðsins var tveim sinnum tíu þúsundir tíu þúsunda. Ég heyrði tölu þeirra. 9.17 Og með þessum hætti sá ég hestana í sýninni og þá sem á þeim sátu: Þeir höfðu eldrauðar, svartbláar og brennisteinsgular brynjur, og höfuð hestanna voru eins og höfuð ljóna. Af munnum þeirra gekk út eldur, reykur og brennisteinn. 9.18 Í þessum þremur plágum varð þriðji hluti mannanna deyddur, af eldinum, reyknum og brennisteininum, sem út gekk af munnum þeirra. 9.19 Því að vald hestanna er í munni þeirra og í töglum þeirra, því að tögl þeirra eru lík höggormum. Eru höfuð á, og með þeim granda þeir. 9.20 Og hinir mennirnir, sem ekki voru deyddir í þessum plágum, gjörðu eigi iðrun og sneru sér eigi frá handaverkum sínum og vildu ekki hætta að tilbiðja illu andana og skurðgoðin úr gulli, silfri, eiri, steini og tré, sem hvorki geta séð, heyrt né gengið. 9.21 Og eigi gjörðu þeir iðrun né létu af manndrápum sínum og töfrum, frillulífi sínu og þjófnaði.
10.1 Og ég sá annan sterkan engil stíga af himni ofan, hjúpaðan skýi. Regnboginn var yfir höfði honum og ásjóna hans var sem sólin og fætur hans sem eldstólpar. 10.2 Hann hafði í hendi sér litla bók opna. Hægra fæti stóð hann á hafinu, en vinstra fæti á jörðinni. 10.3 Hann kallaði hárri röddu, eins og þegar ljón öskrar. Er hann hafði kallað, töluðu þrumurnar sjö sínum raustum. 10.4 Og er þrumurnar sjö höfðu talað, ætlaði ég að fara að rita. Þá heyrði ég rödd af himni, sem sagði: 'Innsigla þú það, sem þrumurnar sjö töluðu, og rita það ekki.' 10.5 Og engillinn, sem ég sá standa á hafinu og á jörðinni, hóf upp hægri hönd sína til himins 10.6 og sór við þann, sem lifir um aldir alda, hann sem himininn skóp og það sem í honum er, jörðina og það sem á henni er, og hafið og það sem í því er: Enginn frestur skal lengur gefinn verða, 10.7 en þegar kemur að rödd sjöunda engilsins og hann fer að básúna, mun fram koma leyndardómur Guðs, eins og hann hafði boðað þjónum sínum, spámönnunum. 10.8 Og röddina, sem ég heyrði af himni, heyrði ég aftur tala við mig. Hún sagði: 'Far og tak opnu bókina úr hendi engilsins, sem stendur á hafinu og á jörðunni.' 10.9 Ég fór til engilsins og bað hann að fá mér litlu bókina. Og hann segir við mig: 'Tak og et hana eins og hún er, hún mun verða beisk í kviði þínum, en í munni þínum mun hún verða sæt sem hunang.' 10.10 Ég tók litlu bókina úr hendi engilsins og át hana upp, og í munni mér var hún sæt sem hunang. En er ég hafði etið hana, fann ég til beiskju í kviði mínum. 10.11 Þá segja þeir við mig: 'Enn átt þú að spá um marga lýði og þjóðir og tungur og konunga.'
11.1 Mér var fenginn reyrleggur, líkur staf, og sagt var: 'Rís upp og mæl musteri Guðs og altarið og teldu þá, sem þar tilbiðja. 11.2 Og láttu forgarðinn, sem er fyrir utan musterið, vera fyrir utan og mæl hann ekki, því að hann er fenginn heiðingjunum, og þeir munu fótum troða borgina helgu í fjörutíu og tvo mánuði. 11.3 Vottana mína tvo mun ég láta flytja spádómsorð í eitt þúsund tvö hundruð og sextíu daga, sekkjum klædda.' 11.4 Þetta eru olíuviðirnir tveir og ljósastikurnar tvær, sem standa frammi fyrir Drottni jarðarinnar. 11.5 Og ef einhver vill granda þeim, gengur eldur út úr munni þeirra og eyðir óvinum þeirra. Ef einhver skyldi vilja granda þeim, skal hann með sama hætti deyddur verða. 11.6 Þeir hafa vald til að loka himninum, til þess að eigi rigni um spádómsdaga þeirra. Og þeir hafa vald yfir vötnunum, að breyta þeim í blóð og slá jörðina með hvers kyns plágu, svo oft sem þeir vilja. 11.7 Og er þeir hafa lokið vitnisburði sínum, mun dýrið, sem upp stígur úr undirdjúpinu, heyja stríð við þá og mun sigra þá og deyða þá. 11.8 Og lík þeirra munu liggja á strætum borgarinnar miklu, sem andlega heitir Sódóma og Egyptaland, þar sem og Drottinn þeirra var krossfestur. 11.9 Menn af ýmsum lýðum, kynkvíslum, tungum og þjóðum sjá lík þeirra þrjá og hálfan dag og leyfa ekki að þau verði lögð í gröf. 11.10 Og þeir, sem á jörðunni búa, gleðjast yfir þeim og fagna og senda hver öðrum gjafir, því að þessir tveir spámenn kvöldu þá, sem á jörðunni búa. 11.11 Og eftir dagana þrjá og hálfan fór lífsandi frá Guði í þá, og þeir risu á fætur. Og ótti mikill féll yfir þá, sem sáu þá. 11.12 Og þeir heyrðu rödd mikla af himni, sem sagði við þá: 'Stígið upp hingað.' Og þeir stigu upp til himins í skýi og óvinir þeirra horfðu á þá. 11.13 Á þeirri stundu varð landskjálfti mikill, og tíundi hluti borgarinnar hrundi og í landskjálftanum deyddust sjö þúsundir manna. Og þeir, sem eftir voru, urðu ótta slegnir og gáfu Guði himinsins dýrðina. 11.14 Veiið hið annað er liðið hjá. Sjá, veiið hið þriðja kemur brátt. 11.15 Og sjöundi engillinn básúnaði. Þá heyrðust raddir miklar á himni er sögðu: 'Drottinn og Kristur hans hafa fengið vald yfir heiminum og hann mun ríkja um aldir alda.' 11.16 Og öldungarnir tuttugu og fjórir, þeir er sitja frammi fyrir Guði í hásætum sínum, féllu fram á ásjónur sínar, tilbáðu Guð 11.17 og sögðu: Vér þökkum þér, Drottinn Guð, þú alvaldi, þú sem ert og þú sem varst, að þú hefur tekið valdið þitt hið mikla og gjörst konungur. 11.18 Heiðingjarnir reiddust, en reiði þín kom, sá tími, er dauðir skulu dæmdir verða, og tíminn til að gefa laun þjónum þínum, spámönnunum og hinum heilögu og þeim, sem óttast nafn þitt, smáum og stórum, og til að eyða þeim, sem jörðina eyða. 11.19 Og musteri Guðs opnaðist, það sem á himni er, og sáttmálsörk hans birtist í musteri hans. Og eldingar komu og dunur og þrumur og landskjálfti og hagl mikið.
12.1 Og tákn mikið birtist á himni: Kona klædd sólinni og tunglið var undir fótum hennar, og á höfði hennar var kóróna af tólf stjörnum. 12.2 Hún var þunguð, og hljóðaði í jóðsótt með hörðum hríðum. 12.3 Annað tákn birtist á himni: Mikill dreki rauður, er hafði sjö höfuð og tíu horn og á höfðunum sjö ennisdjásn. 12.4 Með halanum dró hann þriðja hlutann af stjörnum himinsins og varpaði þeim ofan á jörðina. Drekinn stóð frammi fyrir konunni, sem komin var að því að fæða, til þess að gleypa barn hennar, þá er hún hefði fætt. 12.5 Hún fæddi son, sveinbarn, sem stjórna mun öllum þjóðum með járnsprota. Og barn hennar var hrifið til Guðs, til hásætis hans. 12.6 En konan flýði út á eyðimörkina, þar sem Guð hefur búið henni stað og þar sem séð verður fyrir þörfum hennar í eitt þúsund og tvö hundruð og sextíu daga. 12.7 Þá hófst stríð á himni: Míkael og englar hans fóru að berjast við drekann. Drekinn barðist og englar hans, 12.8 en þeir fengu eigi staðist og eigi héldust þeir heldur lengur við á himni. 12.9 Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina, og englum hans var varpað niður með honum. 12.10 Og ég heyrði mikla rödd á himni segja: 'Nú er komið hjálpræðið og mátturinn og ríki Guðs vors, og veldi hans Smurða. Því að niður hefur verið varpað kæranda bræðra vorra, honum sem þá kærir fyrir Guði vorum dag og nótt. 12.11 Og þeir hafa sigrað hann fyrir blóð lambsins og fyrir orð vitnisburðar síns, og eigi var þeim lífið svo kært, að þeim ægði dauði. 12.12 Fagnið því himnar og þér sem í þeim búið. Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.' 12.13 Og er drekinn sá að honum var varpað niður á jörðina, ofsótti hann konuna, sem alið hafði sveinbarnið. 12.14 Og konunni voru gefnir vængirnir tveir af erninum mikla, til þess að hún skyldi fljúga á eyðimörkina til síns staðar, þar sem séð verður fyrir þörfum hennar þrjú og hálft ár, fjarri augsýn höggormsins. 12.15 Og höggormurinn spjó vatni úr munni sér á eftir konunni, eins og flóði, til þess að hún bærist burt af straumnum. 12.16 En jörðin kom konunni til hjálpar, og jörðin opnaði munn sinn og svalg vatnsflóðið, sem drekinn spjó úr munni sér. 12.17 Þá reiddist drekinn konunni og fór burt til þess að heyja stríð við aðra afkomendur hennar, þá er varðveita boð Guðs og hafa vitnisburð Jesú. 12.18 Og hann nam staðar á sandinum við sjóinn.
13.1 Þá sá ég dýr stíga upp af hafinu. Það hafði tíu horn og sjö höfuð, og á hornum þess voru tíu ennisdjásn og á höfðum þess voru guðlöstunar nöfn. 13.2 Dýrið, sem ég sá, var líkt pardusdýri, fætur þess voru sem bjarnarfætur og munnur þess eins og ljónsmunnur. Drekinn gaf því mátt sinn og hásæti sitt og vald mikið. 13.3 Eitt af höfðum þess virtist sært til ólífis, en banasár þess varð heilt. Öll jörðin fylgdi dýrinu með undrun, 13.4 og þeir tilbáðu drekann, af því að hann hafði gefið dýrinu vald sitt. Og þeir tilbáðu dýrið og sögðu: 'Hver jafnast við dýrið og hver getur barist við það?' 13.5 Og því var gefinn munnur, er talaði stóryrði og guðlastanir, og lofað að fara því fram í fjörutíu og tvo mánuði. 13.6 Og það lauk upp munni sínum til lastmæla gegn Guði, til að lastmæla nafni hans og tjaldbúð hans og þeim, sem á himni búa. 13.7 Og því var leyft að heyja stríð við hina heilögu og sigra þá, og því var gefið vald yfir sérhverri kynkvísl og lýð, tungu og þjóð. 13.8 Og allir þeir, sem á jörðunni búa, munu tilbiðja það, hver og einn sá er eigi á nafn sitt ritað frá grundvöllun veraldar í lífsins bók lambsins, sem slátrað var. 13.9 Sá sem hefur eyra, hann heyri. 13.10 Sá sem ætlaður er til herleiðingar verður herleiddur. Sá sem sverði er ætlaður verður deyddur með sverði. Hér reynir á þolgæði og trú hinna heilögu. 13.11 Og ég sá annað dýr stíga upp af jörðinni og það hafði tvö horn lík lambshornum, en það talaði eins og dreki. 13.12 Það fer með allt vald fyrra dýrsins fyrir augsýn þess og það lætur jörðina og þá, sem á henni búa, tilbiðja fyrra dýrið, sem varð heilt af banasári sínu. 13.13 Og það gjörir tákn mikil, svo að það lætur jafnvel eld falla af himni ofan á jörðina fyrir augum mannanna. 13.14 Og það leiðir afvega þá, sem á jörðunni búa, með táknunum, sem því er lofað að gjöra í augsýn dýrsins. Það segir þeim, sem á jörðunni búa, að þeir skuli gjöra líkneski af dýrinu, sem sárið fékk undan sverðinu, en lifnaði við. 13.15 Og því var leyft að gefa líkneski dýrsins anda, til þess að líkneski dýrsins gæti einnig talað og komið því til leiðar, að allir yrðu þeir deyddir, sem ekki vildu tilbiðja líkneski dýrsins. 13.16 Og það lætur alla, smáa og stóra, auðuga og fátæka og frjálsa og ófrjálsa, setja merki á hægri hönd sér eða á enni sín 13.17 og kemur því til leiðar, að enginn geti keypt eða selt, nema hann hafi merkið, nafn dýrsins, eða tölu nafns þess. 13.18 Hér reynir á speki. Sá sem skilning hefur reikni tölu dýrsins, því að tala manns er það, og tala hans er sex hundruð sextíu og sex.
14.1 Enn sá ég sýn: Lambið stóð á Síonfjalli og með því hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir, sem höfðu nafn þess og nafn föður þess skrifað á ennum sér. 14.2 Og ég heyrði rödd af himni sem nið margra vatna og sem gný mikillar þrumu, og röddin, sem ég heyrði, var eins og hörpuhljómur hörpuleikara, sem slá hörpur sínar. 14.3 Og þeir syngja nýjan söng frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir verunum fjórum og öldungunum. Og enginn gat numið sönginn nema þær hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir, þeir sem út eru leystir frá jörðunni. 14.4 Þetta eru þeir, sem ekki hafa saurgast með konum, því að þeir eru sem meyjar. Þeir fylgja lambinu hvert sem það fer. Þeir voru leystir út úr hóp mannanna, frumgróði handa Guði og handa lambinu. 14.5 Og í munni þeirra var enga lygi að finna, þeir eru lýtalausir. 14.6 Og ég sá annan engil fljúga um háhvolf himins. Hann hélt á eilífum fagnaðarboðskap, til að boða þeim, sem á jörðunni búa, og sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð, 14.7 og sagði hárri röddu: 'Óttist Guð og gefið honum dýrð, því að komin er stund dóms hans. Tilbiðjið þann, sem gjört hefur himininn og jörðina og hafið og uppsprettur vatnanna.' 14.8 Og enn annar engill kom á eftir og sagði: 'Fallin er, fallin er Babýlon hin mikla, sem byrlað hefur öllum þjóðum af reiði-víni saurlifnaðar síns.' 14.9 Á eftir þeim kom hinn þriðji engill og sagði hárri röddu: 'Ef einhver tilbiður dýrið og líkneski þess og fær merki á enni sitt eða hönd sína, 14.10 þá skal sá hinn sami drekka af reiði-víni Guðs, sem byrlað er óblandað í reiðibikar hans, og hann mun kvalinn verða í eldi og brennisteini í augsýn heilagra engla og í augsýn lambsins. 14.11 Og reykurinn frá kvalastað þeirra stígur upp um aldir alda, og eigi hafa þeir hvíld dag eða nótt, þeir sem dýrið tilbiðja og líkneski þess, hver sá sem ber merki nafns þess.' 14.12 Hér reynir á þolgæði hinna heilögu, þeirra er varðveita boð Guðs og trúna á Jesú. 14.13 Og ég heyrði rödd af himni, sem sagði: 'Rita þú: Sælir eru dánir, þeir sem í Drottni deyja upp frá þessu. Já, segir andinn, þeir skulu fá hvíld frá erfiði sínu, því að verk þeirra fylgja þeim.' 14.14 Og ég sá, og sjá: Hvítt ský, og einhvern sá ég sitja á skýinu, líkan mannssyni. Hann hafði gullkórónu á höfðinu og í hendi sér bitra sigð. 14.15 Og annar engill kom út úr musterinu. Hann kallaði hárri röddu til þess sem á skýinu sat: 'Ber þú út sigð þína og sker upp, því að komin er stundin til að uppskera, sáðland jarðarinnar er fullþroskað.' 14.16 Og sá, sem á skýinu sat, brá sigð sinni á jörðina og upp var skorið á jörðinni. 14.17 Og annar engill gekk út úr musterinu, sem er á himni, og hann hafði líka bitra sigð. 14.18 Og annar engill gekk út frá altarinu, hann hafði vald yfir eldinum. Hann kallaði hárri röddu til þess, sem hafði bitru sigðina: 'Ber þú út bitru sigðina þína, og sker þrúgurnar af vínviði jarðarinnar, því að vínberin á honum eru orðin þroskuð.' 14.19 Og engillinn brá sigð sinni á jörðina, skar af vínvið jarðarinnar og kastaði honum í reiði-vínþröng Guðs hina miklu. 14.20 Og vínþröngin var troðin fyrir utan borgina og gekk blóð út af vínþrönginni, svo að tók upp undir beisli hestanna, eitt þúsund og sex hundruð skeiðrúm þar frá.
15.1 Og ég sá annað tákn á himni, mikið og undursamlegt: Sjö engla, sem höfðu sjö síðustu plágurnar, því að með þeim fullnaðist reiði Guðs. 15.2 Og ég leit sem glerhaf eldi blandið, og ég sá þá, sem unnið höfðu sigur á dýrinu og líkneski þess og á tölu nafns þess, standa við glerhafið og halda á hörpum Guðs. 15.3 Og þeir syngja söng Móse, Guðs þjóns, og söng lambsins og segja: Mikil og dásamleg eru verkin þín, Drottinn Guð, þú alvaldi, réttlátir og sannir eru vegir þínir, þú konungur aldanna. 15.4 Hver skyldi ekki óttast, Drottinn, og vegsama nafn þitt? Því að þú einn ert heilagur, allar þjóðir munu koma og tilbiðja frammi fyrir þér, því að réttlátir dómar þínir eru opinberir orðnir. 15.5 Og eftir þetta sá ég, að upp var lokið musterinu á himni, tjaldbúð vitnisburðarins. 15.6 Og út gengu úr musterinu englarnir sjö, sem höfðu plágurnar sjö, klæddir hreinu, skínandi líni og gyrtir gullbeltum um brjóst. 15.7 Og englunum sjö fékk ein af verunum fjórum sjö gullskálar, fullar reiði Guðs, hans sem lifir um aldir alda. 15.8 Og musterið fylltist af reyknum af dýrð Guðs og mætti hans, og enginn mátti inn ganga í musterið, uns fullnaðar væru þær sjö plágur englanna sjö.
16.1 Og ég heyrði raust mikla frá musterinu segja við englana sjö: 'Farið og hellið úr þeim sjö skálum Guðs reiði yfir jörðina.' 16.2 Og hinn fyrsti fór og hellti úr sinni skál á jörðina. Og vond og illkynjuð kaun komu á mennina, sem höfðu merki dýrsins og tilbáðu líkneski þess. 16.3 Og hinn annar hellti úr sinni skál í hafið, og það varð að blóði eins og blóð úr dauðum manni, og sérhver lifandi sál dó, sú er í hafinu var. 16.4 Og hinn þriðji hellti úr sinni skál í fljótin og uppsprettur vatnanna og það varð að blóði. 16.5 Og ég heyrði engil vatnanna segja: 'Réttlátur ert þú, að þú hefur dæmt þannig, þú sem ert og þú sem varst, þú hinn heilagi. 16.6 Þeir hafa úthellt blóði heilagra og spámanna, og því hefur þú gefið þeim blóð að drekka. Maklegir eru þeir þess.' 16.7 Og ég heyrði altarið segja: 'Já, Drottinn Guð, þú alvaldi, sannir og réttlátir eru dómar þínir.' 16.8 Og hinn fjórði hellti úr sinni skál yfir sólina. Og sólinni var gefið vald til að brenna mennina í eldi. 16.9 Og mennirnir stiknuðu í ofurhita og lastmæltu nafni Guðs, sem valdið hefur yfir plágum þessum. Og ekki gjörðu þeir iðrun, svo að þeir gæfu honum dýrðina. 16.10 Og hinn fimmti hellti úr sinni skál yfir hásæti dýrsins. Og ríki þess myrkvaðist, og menn bitu í tungur sínar af kvöl. 16.11 Og menn lastmæltu Guði himinsins fyrir kvalirnar og fyrir kaun sín og eigi gjörðu þeir iðrun og létu af verkum sínum. 16.12 Og hinn sjötti hellti úr sinni skál yfir fljótið mikla, Efrat. Og vatnið í því þornaði upp, svo að vegur yrði búinn fyrir konungana, þá er koma úr austri. 16.13 Og ég sá koma út af munni drekans og munni dýrsins og munni falsspámannsins þrjá óhreina anda, sem froskar væru, 16.14 því að þeir eru djöfla andar, sem gjöra tákn. Þeir ganga út til konunga allrar heimsbyggðarinnar til að safna þeim saman til stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins alvalda. 16.15 'Sjá, ég kem eins og þjófur. Sæll er sá sem vakir og varðveitir klæði sín, til þess að hann gangi ekki nakinn um og menn sjái blygðun hans.' 16.16 Og þeir söfnuðu þeim saman á þann stað, sem á hebresku kallast Harmagedón. 16.17 Og hinn sjöundi hellti úr sinni skál yfir loftið og raust mikil kom út úr musterinu, frá hásætinu og sagði: 'Það er fram komið.' 16.18 Og eldingar komu og brestir og þrumur og mikill landskjálfti, svo að slíkur hefur eigi komið frá því menn urðu til á jörðunni. Svo mikill var sá jarðskjálfti. 16.19 Og borgin mikla fór í þrjá hluta, og borgir þjóðanna hrundu. Og Guð gleymdi ekki hinni miklu Babýlon og gaf henni vínbikar heiftarreiði sinnar. 16.20 Og allar eyjar hurfu og fjöllin voru ekki lengur til. 16.21 Og stór högl, vættarþung, féllu niður af himni yfir mennina. Og mennirnir lastmæltu Guði fyrir haglpláguna, því að sú plága var mikil.
17.1 Og einn af englunum sjö, sem halda á skálunum sjö, kom til mín og sagði: 'Kom hingað, og ég mun sýna þér dóminn yfir skækjunni miklu, sem er við vötnin mörgu. 17.2 Konungar jarðarinnar hafa drýgt saurlifnað með henni, og þeir, sem á jörðinni búa, hafa orðið drukknir af saurlifnaðar víni hennar.' 17.3 Og hann leiddi mig burt í anda á eyðimörk. Og ég sá konu sitja á skarlatsrauðu dýri, alsettu guðlöstunar nöfnum, og hafði það sjö höfuð og tíu horn. 17.4 Og konan var skrýdd purpura og skarlati, og var búin gulli og gimsteinum og perlum. Hún hafði í hendi sér gullbikar, fullan viðurstyggðar, og var það óhreinleikur saurlifnaðar hennar. 17.5 Og á enni hennar var ritað nafn, sem er leyndardómur: Babýlon hin mikla, móðir hórkvenna og viðurstyggða jarðarinnar. 17.6 Og ég sá að konan var drukkin af blóði hinna heilögu og af blóði Jesú votta. Og ég undraðist stórlega, er ég leit hana. 17.7 Og engillinn sagði við mig: 'Hví ertu forviða? Ég mun segja þér leyndardóm konunnar og dýrsins, sem hana ber, þess er hefur höfuðin sjö og hornin tíu: 17.8 Dýrið, sem þú sást, var, en er ekki, og það mun stíga upp frá undirdjúpinu og fara til glötunar. Og þeir, sem á jörðu búa, þeir, sem eiga ekki nöfn sín skrifuð í lífsins bók frá grundvöllun veraldar, munu undrast, er þeir sjá dýrið sem var og er ekki og kemur aftur. 17.9 Hér reynir á skilning og speki. Höfuðin sjö eru sjö fjöll, sem konan situr á. Það eru líka sjö konungar. 17.10 Fimm eru fallnir, einn er nú uppi, annar er ókominn og er hann kemur á hann að vera stutt. 17.11 Og dýrið, sem var, en er ekki, er einmitt hinn áttundi, og er af þeim sjö, og fer til glötunar. 17.12 Og hornin tíu, sem þú sást, eru tíu konungar, sem enn hafa eigi tekið konungdóm, heldur fá vald sem konungar eina stund ásamt dýrinu. 17.13 Þessir hafa allir eitt ráð, og máttinn og vald sitt gefa þeir dýrinu. 17.14 Þessir munu heyja stríð við lambið. Og lambið og þeir, sem með því eru, hinir kölluðu og útvöldu og trúu, munu sigra þá, _ því að lambið er Drottinn drottna og konungur konunga.' 17.15 Og hann segir við mig: 'Vötnin, sem þú sást, þar sem skækjan situr, eru lýðir og fólk, þjóðir og tungur. 17.16 Og hornin tíu, sem þú sást, og dýrið, munu hata skækjuna og gjöra hana einmana og nakta, eta hold hennar og brenna hana í eldi, 17.17 því að Guð hefur lagt þeim í brjóst að gjöra vilja sinn og vera samráða og gefa ríki þeirra dýrinu, allt til þess er orð Guðs koma fram. 17.18 Og konan, sem þú sást, er borgin mikla, sem heldur ríki yfir konungum jarðarinnar.'
18.1 Eftir þetta sá ég annan engil stíga ofan af himni, og hafði hann mikið vald og jörðin ljómaði af dýrð hans. 18.2 Og hann hrópaði með sterkri röddu og sagði: 'Fallin er, fallin er Babýlon hin mikla og orðin að djöfla heimkynni og fangelsi alls konar óhreinna anda og fangelsi alls konar óhreinna og viðbjóðslegra fugla. 18.3 Því að hún hefur byrlað öllum þjóðum af reiði-víni saurlifnaðar síns, og konungar jarðarinnar drýgðu saurlifnað með henni og kaupmenn jarðarinnar auðguðust af gnóttum munaðar hennar.' 18.4 Og ég heyrði aðra rödd af himni, sem sagði: 'Gangið út, mitt fólk, út úr henni, svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar og hreppið ekki plágur hennar. 18.5 Því að syndir hennar hlóðust allt upp til himins og Guð minntist ranglætis hennar. 18.6 Gjaldið henni eins og hún hefur goldið og tvígjaldið henni eftir verkum hennar, byrlið henni tvöfalt í bikarinn, sem hún hefur byrlað. 18.7 Veitið henni eins mikla kvöl og sorg og hennar stærilæti og óhóf hefur verið. Hún segir í hjarta sínu: ,Hér sit ég og er drottning, ekkja er ég eigi, sorg mun ég aldrei sjá.` 18.8 Fyrir því munu plágur hennar koma á einum degi: Dauði, sorg og hungur, og í eldi mun hún verða brennd, því að máttugur er Drottinn Guð, sem hana dæmdi.' 18.9 Og konungar jarðarinnar, sem með henni drýgðu saurlifnað og lifðu í munaði, munu gráta og kveina yfir henni er þeir sjá reykinn af brennu hennar. 18.10 Af ótta fyrir kvöl hennar munu þeir standa langt frá og segja: 'Vei, vei, borgin mikla, Babýlon, borgin volduga, á einni stundu kom dómur þinn.' 18.11 Og kaupmenn jarðarinnar gráta og harma yfir henni, því að enginn kaupir nú framar vörur þeirra, 18.12 farma af gulli og silfri, gimsteinum og perlum, dýru líni og purpura, silki og skarlati og alls konar ilmvið og alls konar muni af fílabeini og alls konar muni af hinum dýrasta viði og af eiri og járni og marmara, 18.13 og kanelbörk og balsam, ilmjurtir og smyrsl, reykelsi, vín og olíu og fínt mjöl, og hveiti og eyki og sauði og hesta og vagna og man og mannasálir. 18.14 Og ávöxturinn, sem sála þín girnist, hefur brugðist þér, öll sæld og glys þér horfið og enginn mun framar örmul af því finna. 18.15 Seljendur þessara hluta, sem auðgast hafa á henni, munu standa álengdar af ótta yfir kvöl hennar, grátandi og harmandi 18.16 og segja: 'Vei, vei, borgin mikla, sem klæddist dýru líni, purpura og skarlati og var gulli roðin og gimsteinum og perlum. 18.17 Á einni stundu eyddist allur þessi auður.' Og allir skipstjórar, allir farmenn og hásetar og allir þeir, sem atvinnu reka á sjónum, stóðu álengdar 18.18 og hrópuðu, er þeir sáu reykinn af brennu hennar, og sögðu: 'Hvaða borg jafnast við borgina miklu?' 18.19 Og þeir jusu mold yfir höfuð sér og hrópuðu grátandi og harmandi: 'Vei, vei, borgin mikla, sem allir þeir, er skip eiga á sjónum, auðguðust á vegna auðæfa hennar. Á einni stundu var hún í eyði lögð.' 18.20 Fagna yfir henni, þú himinn og þér heilögu og þér postular og spámenn, því að Guð hefur rekið réttar yðar á henni. 18.21 Og einn sterkur engill tók upp stein, eins og mikinn kvarnarstein, og kastaði í hafið og sagði: 'Svo voveiflega mun Babýlon kollvarpast, borgin mikla, svo að engar menjar skulu eftir verða. 18.22 Og hörpusláttur og sönglist, pípuhljómur og lúðurþytur skal ekki framar heyrast í þér og engir iðnaðarmenn og iðnir skulu framar í þér finnast og kvarnarhljóð skal eigi framar í þér heyrast. 18.23 Lampaljós skal eigi framar í þér lýsa og raust brúðguma og brúðar skal eigi framar heyrast í þér. Kaupmenn þínir voru höfðingjar jarðarinnar, af því að allar þjóðir leiddust í villu af töfrum þínum. 18.24 Og í henni fannst blóð spámanna og heilagra og allra þeirra, sem hafa drepnir verið á jörðinni.'
19.1 Eftir þetta heyrði ég sem sterkan ym mikils fjölda á himni. Þeir sögðu: 'Hallelúja! Hjálpræðið og dýrðin og mátturinn er Guðs vors. 19.2 Sannir og réttlátir eru dómar hans. Hann hefur dæmt skækjuna miklu, sem jörðunni spillti með saurlifnaði sínum, og hann hefur látið hana sæta hefnd fyrir blóð þjóna sinna.' 19.3 Og aftur var sagt: 'Hallelúja! Reykurinn frá henni stígur upp um aldir alda.' 19.4 Og öldungarnir tuttugu og fjórir og verurnar fjórar féllu fram og tilbáðu Guð, sem í hásætinu situr, og sögðu: 'Amen, hallelúja!' 19.5 Og frá hásætinu barst rödd, er sagði: 'Lofsyngið Guði vorum, allir þér þjónar hans, þér sem hann óttist, smáir og stórir.' 19.6 Þá heyrði ég raddir sem frá miklum mannfjölda og sem nið margra vatna og sem gný frá sterkum þrumum. Þær sögðu: 'Hallelúja, Drottinn Guð vor, hinn alvaldi, er konungur orðinn. 19.7 Gleðjumst og fögnum og gefum honum dýrðina, því að komið er að brúðkaupi lambsins og brúður hans hefur búið sig. 19.8 Henni var fengið skínandi og hreint lín til að skrýðast í. Línið er réttlætisverk heilagra.' 19.9 Og hann segir við mig: 'Rita þú: Sælir eru þeir, sem boðnir eru í brúðkaupsveislu lambsins.' Og hann segir við mig: 'Þetta eru hin sönnu orð Guðs.' 19.10 Og ég féll fram fyrir fætur honum til að tilbiðja hann og hann segir við mig: 'Varastu þetta! Ég er samþjónn þinn og bræðra þinna, sem hafa vitnisburð Jesú. Tilbið þú Guð. Vitnisburður Jesú er andi spádómsgáfunnar.' 19.11 Þá sá ég himininn opinn, og sjá: Hvítur hestur. Sá, sem á honum sat, heitir Trúr og Sannur, hann dæmir og berst með réttvísi. 19.12 Augu hans eru sem eldslogi og á höfði hans eru mörg ennisdjásn. Og hann ber nafn ritað, sem enginn þekkir nema hann sjálfur. 19.13 Hann er skrýddur skikkju, blóði drifinni, og nafn hans er: Orðið Guðs. 19.14 Og hersveitirnar, sem á himni eru, fylgdu honum á hvítum hestum, klæddar hvítu og hreinu líni. 19.15 Og af munni hans gengur út biturt sverð að slá þjóðirnar með, og hann stjórnar þeim með járnsprota. Og hann treður vínþröng heiftarreiði Guðs hins alvalda. 19.16 Og á skikkju sinni og lend sinni hefur hann ritað nafn: 'Konungur konunga og Drottinn drottna.' 19.17 Og ég sá einn engil, sem stóð á sólunni. Hann hrópaði hárri röddu til allra fuglanna, sem flugu um himinhvolfið: 'Komið, safnist saman til hinnar miklu máltíðar Guðs 19.18 til þess að eta hold konunga og hold herforingja og hold kappa og hold hesta og þeirra, sem á þeim sitja, og hold allra, bæði frjálsra og ófrjálsra, smárra og stórra.' 19.19 Og ég sá dýrið og konunga jarðarinnar og hersveitir þeirra safnaðar saman til að heyja stríð við þann, sem á hestinum sat, og við herlið hans. 19.20 Og dýrið var handtekið og ásamt því falsspámaðurinn, sem táknin gjörði í augsýn þess, en með þeim leiddi hann afvega þá, sem tekið höfðu við merki dýrsins, og þá, sem tilbeðið höfðu líkneski þess. Báðum þeim var kastað lifandi í eldsdíkið, sem logar af brennisteini. 19.21 Og hinir voru drepnir með sverði þess, er á hestinum sat, sverðinu, sem út gekk af munni hans, og allir fuglarnir söddust af hræjum þeirra.
20.1 Nú sá ég engil stíga niður af himni. Hann hélt á lykli undirdjúpsins og stórum fjötri í hendi sér. 20.2 Og hann tók drekann, þann gamla höggorm, sem er djöfull og Satan, og batt hann um þúsund ár. 20.3 Hann kastaði honum í undirdjúpið og læsti og setti innsigli yfir, svo að hann leiddi ekki framar þjóðirnar afvega, allt til þess er fullnuðust þúsund árin. Eftir það á hann að vera leystur um stuttan tíma. 20.4 Og ég sá hásæti og menn settust í þau og dómsvald var þeim fengið, og ég sá sálir þeirra, sem hálshöggnir höfðu verið sakir vitnisburðar Jesú og sakir orðs Guðs. Það voru þeir hinir sömu sem höfðu ekki tilbeðið dýrið né líkneski þess og ekki fengið merki á enni sér og hönd. Og þeir lifnuðu og ríktu með Kristi um þúsund ár. 20.5 En aðrir dauðir lifnuðu ekki fyrr en þúsund árin voru liðin. Þetta er fyrri upprisan. 20.6 Sæll og heilagur er sá, sem á hlut í fyrri upprisunni. Yfir þeim hefur hinn annar dauði ekki vald, heldur munu þeir vera prestar Guðs og Krists og þeir munu ríkja með honum um þúsund ár. 20.7 Þegar þúsund árin eru liðin, mun Satan verða leystur úr fangelsi sínu. 20.8 Og hann mun út ganga til að leiða þjóðirnar afvega, þær sem eru á fjórum skautum jarðarinnar, Góg og Magóg, og safna þeim saman til stríðs, og tala þeirra er sem sandur sjávarins. 20.9 Og þeir stigu upp á víðan völl jarðar og umkringdu herbúðir heilagra og borgina elskuðu. En eldur féll af himni ofan og eyddi þeim. 20.10 Og djöflinum, sem leiðir þá afvega, var kastað í díkið elds og brennisteins, þar sem bæði dýrið er og falsspámaðurinn. Og þeir munu kvaldir verða dag og nótt um aldir alda. 20.11 Og ég sá mikið hvítt hásæti og þann, sem í því sat. Og fyrir ásjónu hans hvarf himinn og jörð og þeirra sá engan stað. 20.12 Og ég sá þá dauðu, stóra og smáa, standa frammi fyrir hásætinu, og bókum var lokið upp. Og annarri bók var lokið upp og það er lífsins bók. Og hinir dauðu voru dæmdir, eftir því sem ritað var í bókunum, samkvæmt verkum þeirra. 20.13 Og hafið skilaði hinum dauðu, þeim sem í því voru, og dauðinn og Hel skiluðu þeim dauðu, sem í þeim voru, og sérhver var dæmdur eftir verkum sínum. 20.14 Og dauðanum og Helju var kastað í eldsdíkið. Þetta er hinn annar dauði, eldsdíkið. 20.15 Og ef einhver fannst ekki skráður í lífsins bók, var honum kastað í eldsdíkið.
21.1 Og ég sá nýjan himin og nýja jörð, því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin og hafið er ekki framar til. 21.2 Og ég sá borgina helgu, nýja Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði, er skartar fyrir manni sínum. 21.3 Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu, er sagði: 'Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. 21.4 Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.' 21.5 Og sá, sem í hásætinu sat, sagði: 'Sjá, ég gjöri alla hluti nýja,' og hann segir: 'Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu.' 21.6 Og hann sagði við mig: 'Það er fram komið. Ég er Alfa og Ómega, upphafið og endirinn. Ég mun gefa þeim ókeypis, sem þyrstur er, af lind lífsins vatns. 21.7 Sá er sigrar mun erfa þetta, og ég mun vera hans Guð og hann mun vera minn sonur. 21.8 En fyrir hugdeiga og vantrúaða og viðurstyggilega og manndrápara og frillulífismenn og töframenn, skurðgoðadýrkendur og alla lygara er staður búinn í díkinu, sem logar af eldi og brennisteini. Það er hinn annar dauði.' 21.9 Nú kom einn af englunum sjö, sem héldu á skálunum sjö, sem fullar voru af síðustu plágunum sjö, og talaði við mig og sagði: 'Kom hingað, og ég mun sýna þér brúðina, eiginkonu lambsins.' 21.10 Og hann flutti mig í anda upp á mikið og hátt fjall og sýndi mér borgina helgu, Jerúsalem, sem niður steig af himni frá Guði. 21.11 Hún hafði dýrð Guðs. Ljómi hennar var líkur dýrasta steini, sem jaspissteinn kristalskær. 21.12 Hún hafði mikinn og háan múr og tólf hlið og við hliðin stóðu tólf englar og nöfn þeirra tólf kynkvísla Ísraelssona voru rituð á hliðin tólf. 21.13 Móti austri voru þrjú hlið, móti norðri þrjú hlið, móti suðri þrjú hlið og móti vestri þrjú hlið. 21.14 Og múr borgarinnar hafði tólf undirstöðusteina og á þeim nöfn hinna tólf postula lambsins. 21.15 Og sá, sem við mig talaði, hélt á kvarða, gullstaf, til að mæla borgina og hlið hennar og múr hennar. 21.16 Borgin liggur í ferhyrning, jöfn á lengd og breidd. Og hann mældi borgina með stafnum, tólf þúsund skeið. Lengd hennar og breidd og hæð eru jafnar. 21.17 Og hann mældi múr hennar, hundrað fjörutíu og fjórar álnir, eftir kvarða manns, sem er einnig mál engils. 21.18 Múr hennar var byggður af jaspis og borgin af skíra gulli sem skært gler væri. 21.19 Undirstöðusteinar borgarmúrsins voru skreyttir alls konar gimsteinum. Fyrsti undirstöðusteinninn var jaspis, annar safír, þriðji kalsedón, fjórði smaragð, 21.20 fimmti sardónyx, sjötti sardis, sjöundi krýsólít, áttundi beryll, níundi tópas, tíundi krýsópras, ellefti hýasint, tólfti ametýst. 21.21 Og hliðin tólf voru tólf perlur, og hvert hlið úr einni perlu. Og stræti borgarinnar var af skíru gulli sem gagnsætt gler. 21.22 Og musteri sá ég ekki í henni, því að Drottinn Guð, hinn alvaldi, er musteri hennar og lambið. 21.23 Og borgin þarf ekki heldur sólar við eða tungls til að lýsa sér, því að dýrð Guðs skín á hana og lambið er lampi hennar. 21.24 Og þjóðirnar munu ganga í ljósi hennar og konungar jarðarinnar færa henni dýrð sína. 21.25 Og hliðum hennar verður aldrei lokað um daga _ því að nótt verður þar ekki. 21.26 Og menn munu færa henni dýrð og vegsemd þjóðanna. 21.27 Og alls ekkert óhreint skal inn í hana ganga né sá sem fremur viðurstyggð eða iðkar lygi, engir nema þeir einir, sem ritaðir eru í lífsins bók lambsins.
22.1 Og hann sýndi mér móðu lífsvatnsins, skínandi sem kristall. Hún rann frá hásæti Guðs og lambsins. 22.2 Á miðju stræti borgarinnar, beggja vegna móðunnar, var lífsins tré, sem ber tólf sinnum ávöxt. Á mánuði hverjum gefur það ávöxt sinn, og blöð trésins eru til lækningar þjóðunum. 22.3 Og engin bölvun mun framar til vera. Og hásæti Guðs og lambsins mun í borginni vera og þjónar hans munu honum þjóna. 22.4 Þeir munu sjá ásjónu hans og nafn hans mun vera á ennum þeirra. 22.5 Og nótt mun ekki framar til vera og þeir þurfa ekki lampaljós né sólarljós, því að Drottinn Guð skín á þá og þeir munu ríkja um aldir alda. 22.6 Og hann sagði við mig: 'Þessi orð eru trú og sönn. Og Drottinn, Guð anda spámannanna, sendi engil sinn til að sýna þjónum sínum það, sem verða á innan skamms. 22.7 Sjá, ég kem skjótt. Sæll er sá, sem varðveitir spádómsorð þessarar bókar.' 22.8 Og ég, Jóhannes, er sá sem heyrði og sá þetta. Og er ég hafði heyrt það og séð, féll ég niður til að tilbiðja fyrir fótum engilsins, sem sýndi mér þetta. 22.9 Og hann segir við mig: 'Varastu þetta! Ég er samþjónn þinn og bræðra þinna, spámannanna, og þeirra, sem varðveita orð þessarar bókar. Tilbið þú Guð.' 22.10 Og hann segir við mig: 'Innsigla þú ekki spádómsorð þessarar bókar, því að tíminn er í nánd. 22.11 Hinn rangláti haldi áfram að fremja ranglæti og hinn saurugi saurgi sig áfram og hinn réttláti stundi áfram réttlæti og hinn heilagi helgist áfram. 22.12 Sjá, ég kem skjótt, og launin hef ég með mér, til að gjalda hverjum og einum eins og verk hans er. 22.13 Ég er Alfa og Ómega, hinn fyrsti og hinn síðasti, upphafið og endirinn. 22.14 Sælir eru þeir, sem þvo skikkjur sínar. Þeir fá aðgang að lífsins tré og mega ganga um hliðin inn í borgina. 22.15 Úti gista hundarnir og töframennirnir og frillulífismennirnir og manndrápararnir og skurðgoðadýrkendurnir og hver sem elskar og iðkar lygi. 22.16 Ég, Jesús, hef sent engil minn til að votta fyrir yður þessa hluti í söfnuðunum. Ég er rótarkvistur af kyni Davíðs, stjarnan skínandi, morgunstjarnan.' 22.17 Og andinn og brúðurin segja: 'Kom þú!' Og sá sem heyrir segi: 'Kom þú!' Og sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill, hann fær ókeypis lífsins vatn. 22.18 Ég votta fyrir hverjum þeim manni, sem heyrir spádómsorð þessarar bókar, að leggi nokkur við þau, mun Guð á hann leggja þær plágur, sem um er ritað í þessari bók. 22.19 Og taki nokkur burt nokkuð af orðum spádómsbókar þessarar, þá mun Guð burt taka hlut hans í tré lífsins og í borginni helgu, sem um er ritað í þessari bók. 22.20 Sá sem þetta vottar segir: 'Já, ég kem skjótt.' Amen. Kom þú, Drottinn Jesús!